Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is

Hver er nethraðinn minn?

Afköst netsambanda takmarkast við mestu afkastagetu á þeim búnaði sem minnst afköst hefur eftir endilöngu sambandi frá notanda að þeim stað sem hann sendir eða sækir efni á. Þannig geta verið mjög margir þættir sem hafa áhrif á afköstin.

Snerpa tilgreinir tengihraða á þeim tengingum sem eru seldar til notanda. Slíkur tengihraði markar hámark mögulegrar afkastagetu notandans á Internetið. Á xDSL-tengingum er þessi hraði að jafnaði ekki hærri en 70 Mbps þegar koparlína er tengd við búnað Snerpu og 50 Mbps ef línan er tengd við búnað Mílu. Ljósleiðaratengingar Snerpu til heimila eru að jafnaði með 100 Mbps hraða.

Algengustu tengingar hjá Snerpu eru með búnaði (ljósbreytu) sem er fyrir 100 Mbps afköst. Þetta þýðir þó ekki að ein tiltekin tölva á slíkri tengingu nái 100 Mbps afköstum. Ástæðan er að yfirleitt eru fleiri en eitt tæki á sömu tengingunni og deila þau þá með sér afkastagetunni. Dæmi um slíkt er t.d. myndlykill sem tekur þá upp tiltekinn hluta hraðans (bandvíddar) á tengingunni.

Til að mæla afköst tengingarinnar þarf að hafa í huga að Snerpa getur ekki ábyrgst afköst utan eigin nets. Því þarf slík mæling að eiga sér stað innan netsins. Snerpa rekur sérstakan mælipunkt á slóðinni http://snerpa.speedtest.net til að auðvelda notendum slíkar mælingar. Einnig þarf að hafa í huga að fyrir kemur að algengt er að veikasti hlekkurinn er þráðlaust net og þarf þvi að útiloka þann þátt með því að tengjast netbeini með kapli. Ef afköst eru verulega mismunandi annarsvegar með kapli og hinsvegar með þráðlausu (WiFi) sambandi borgar sig líklega að koma fyrir auka þráðlausum búnaði sem ræður vel við að dreifa netsambandnu innanhúss.

Fyrir utan nethraða sem er yfirleitt mældur er í Mbps (miljónum bita á sekúndu) er einnig hægt að mæla svartíma sem er mældur sem sá tími sem tekur netpakka að ferðast fram og til baka milli endapunkta. Svartíminn er mældur í millisekúndum (ms) oghluti svarstíma skýrist af því hve langan tíma tekur netbúnað að vinna úr og beina netpakka rétta leið og hluti skýrist af fjarlægð sem netpakkinn þarf að ferðast. Þannig getur pakki sem þarf að ferast milli Ísafjarðar og Reykjavíkur verið 3 ms. á þeirri leið og 3 ms. til viðbótar í vinnslu í netbeinum en 40-50 ms á leiðinni Ísafjörður-London. Til New York er eðlilegt að svartími sé ríflega 100 ms. Til að lækka svartíma, sem getur skipt máli t.d. í netleikjum, er þjónustumiðlurum (serverum) oft komið fyrr dreift um heiminn til þess að ekki sé of langt í næsta miðlara. Þá skiptir oft máli hvaða öðrum netveitum þín netþjónusta er beintengd. Snerpa tengist t.d. við umheiminn eftir a.m.k. fjórum mismunandi leiðum, þar af þremur erlendis.