Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Björn Davíðsson Björn Davíðsson | 19. mars 2018

Flugufregnir í gangi?

Okkur hjá Snerpu bárust nýlega til eyrna þær flugufregnir að Snerpa standi enn í vegi fyrir uppbyggingu Mílu og Símans á Ísafirði. Staðreyndin er að Snerpa hefur aldrei staðið í vegi fyrir einhverju sem Míla var að gera, heldur var um að ræða ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar. Ákvörðunina tók Póst- og fjarskiptastofnun í kjölfar þess að Míla brást rangt við þegar Snerpu var neitað um aðgang að koparheimtaugum í Holtahverfi haustið 2013.

Ákvörðun PFS snérist um að Mílu væri óheimilt að gangsetja búnað í fjórum götuskápum á Ísafirði þar til Míla gæti veitt Snerpu aðgang að þeim á sambærilegum forsendum og Snerpa væri að reka búnað í þessum sömu skápum.  Míla gangsetti síðan búnað sinn í kjölfar þess að aðgangurinn var í boði á síðasta ári en þá kom í ljós að til að geta nýtt sér þjónustuna myndi Snerpa þurfa að greiða Mílu á fimmtu milljón króna til að taka hana í notkun auk um 35% hækkunar á rekstrarkostnaði við hvern notanda mv. eigin búnað.

Snerpa veitir eftir sem áður þjónustu yfir koparheimtaugar Mílu þar sem enn er í gildi eldri samningur um aðgang. Sá samningur gefur kost á að veita netþjónustu um allt land og hefur verið í boði frá því áður en ríkið seldi Símann (og rekstur Mílu) til einkaaðila.

Jákvæða hliðin er þó að í kjölfar þess að Míla hafnaði aðgangi að hluta koparheimtauga í Holtahverfinu tókum við hjá Snerpu þá ákvörðun að hefja fyrir alvöru ljósleiðaravæðingu til heimila hér fyrir vestan og nú eiga því 449 heimili á svæðinu frá Þingeyri til Bolungarvíkur á ljósleiðaratengingu Snerpu. Vel á annað hundrað tengingar til viðbótar eru í undirbúningi.

Við viljum nota þetta tækifæri til að hvetja Vestfirðinga til að notfæra sér netþjónustu í heimabyggð. Sérstaklega ef hún er ódýrari en hjá keppinautunum. Sem dæmi er nú í boði s.k. heimilispakki bæði hjá Símanum og Snerpu. Heimilispakki Símans kostar 17.200 kr. Heimilispakki Snerpu kostar 9.990 kr. auk þess sem myndlykill Vodafone kostar 1.690 kr. svo samtals er þá kostnaðurinn í heimilispakka Snerpu 11.680 kr. Mismunurinn er 5.520 kr. sparnaður við að kaupa netþjónustu í heimabyggð. Ekki er síðra ef hægt er að kaupa tenginguna yfir ljósleiðara.


Til baka