Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Snerpa Snerpa | 22. júlí 2004

Heitur reitur á Ísafirði

Tölvuþjónustan Snerpa á Ísafirði hefur sett upp til reynslu fyrsta heita reitinn á Ísafirði og er hann á veitingahúsinu Langa Manga. Heitur reitur (hot spot á ensku) heitir það fyrirbæri þar sem fartölvueigendur geta komist í þráðlaust netsamband. Hefur þetta fyrirkomulag rutt sér mjög til rúms að undanförnu og eins og oft áður er það Snerpa sem er fyrst til að kynna þessa nýjung fyrir íbúum Vestfjarða. Gefst nú viðskiptavinum Langa Manga kostur á að vafra um veraldarvefinn endurgjaldslaust. Eina sem til þarf er að opna fartölvuna og eiga viðskiptavinir þá að geta tengst án nokkurrar fyrirhafnar að því tilskyldu að þeir hafi þráðlausan búnað í tölvum sínum, sem er innbyggður í flestar nýjar fartölvur í dag.

Í athugun er að fleiri heitir reitir bætist við á næstunni.

Ísafjörður hefur að undanförnu verið mjög heitur reitur á landakortinu, þökk sé almættinu. Nú hefur hins vegar bæst við heitur reitur á tæknisviðinu, þökk sé þeim Snerpumönnum og vertinum á Langa Manga. Ekki er það amalegt að geta setið yfir krús og kruðeríi á Langa og vafrað að vild um óravíddir netheima.


Til baka