Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Snerpa Snerpa | 7. janúar 2002

„Siðgæðisvörður“ ráðinn

Snerpa hefur nú ráðið tímabundið starfsmann sérstaklega til þess að sjá um vinnu við uppfærslur og viðhald á INfilter vefgæsluhugbúnaðinum. INfilter vefgæslan er hönnuð og skrifuð hjá Snerpu og er Snerpa fyrsta netþjónustan á landinu sem býður notendum sínum aðgang að vefgæslu.

Notendur þurfa ekki að setja upp neinn hugbúnað á eigin tölvu, einungis að fara á vefslóðina http://val.snerpa.is/ og merkja við þá innihaldsflokka á vefnum sem þeir vilja hindra aðgang að á heimili eða vinnustað sínum. Vefgæslan er í boði á þennan hátt á öllum upphringitengingum og ADSL-samböndum en óska þarf sérstaklega eftir stillingum á fastlínu- og SDSL-samböndum.

Nýi starfsmaðurinn heitir Albertína Elíasdóttir og hefur hún verið ráðin til að skrá vefþjóna sem vefgæslan á að geta hindrað.

Með sérstökum starfsmanni er hægt að auka töluvert gæði þjónustunnar, en skráningum er einnig safnað með sjálfvirkum leitartólum. Aðallega er um að ræða klámefni en einnig eru aðrir flokkar sem hægt er að stjórna aðgangi á þótt um mun færri skráningar sé að ræða. Þar eru t.d. skráningar á vefþjónum sem geyma bandvíddarfrekt efni, t.d. kvikmyndir og tónlist og þykir t.d. ekki við hæfi að slíkt efni sé sótt á vinnustöðum. Vefgæslan hóf göngu sína haustið 1998 í grunnskólum Ísafjarðarbæjar og eru nokkrir aðrir skólar farnir að notfæra sér þjónustuna, t.d. á Suður- og Vesturlandi og raunar vestur í Bandaríkjunum líka. Stærri fyrirtæki eins og Baugur og Samskip hafa einnig tekið vefgæsluna í notkun við góða reynslu og fyrir dyrum standa uppsetningar víðar.

INfilter vefgæslan nýtist bæði heimilum og fyrirtækjum. Á heimilum er nú mun minni hætta á að yngri meðlimir fjölskyldunnar lendi á villigötum á vefnum og fyrir fyrirtæki og stofnanir hefur sýnst sig að auk þess sem starfsmenn eyða ekki óþarfa tíma í persónulegum erindum á vefnum að bandvíddarsparnaður er nokkur og síður þörf á að stækka sambönd eftir því sem notkun eykst.

Ekkert aukagjald er fyrir þessa þjónustu hjá notendum í netþjónustu Snerpu.


Til baka