Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Snerpa Snerpa | 31. júlí 2001

Snerpa og Síminn gera með sér samstarfssamning

Tölvu- og netfyrirtækið Snerpa á Ísafirði verður umboðssöluaðili þjónustu frá Landssímanum samkvæmt samningum sem undirritaðir voru milli fyrirtækjanna í dag. Um er að ræða þrjá aðskilda samninga, sem fela m.a. í sér að Snerpa selur símaáskriftir sem og ISDN grunn- og stofntengingar ásamt ADSL-tengingum frá Símanum. Síminn hefur undanfarið gengið til samninga við fyrirtæki sem selja tæknibúnað í því augnamiði að fjölga möguleikum viðskiptavina sinna og hefur Snerpa nú bæst í hópinn.,,Við höfum áður átt samstarf við Símann t.d. í sölu ISDN-sambanda en þessir samningar eru mun víðtækari og tekur einnig til að mynda til ADSL-sambanda, svo og hinna ýmsu gagnaflutningsleiða fyrir fyrirtæki og stofnanir. Með þessum samningum munum við nú geta boðið viðskiptavinum okkar heildstæða ráðgjöf og sölu í tölvu- og samskiptamálum þar sem lausnir bæði Símans og Snerpu eru lagðar til grundvallar." segir Björn Davíðsson hjá Snerpu.

Elías Guðmundsson hjá Símanum á Ísafirði segir reynsluna á fjarskiptamarkaðinum sýna að þróunin sé mjög ör og þörf viðskiptavina fyrir aukna þjónustu sé síst minni en áður. Því sé það gott skref fram á við að fá önnur fyrirtæki til samstarfs við Símann við að koma á framfæri þeim möguleikum sem bjóðast. ,,Þeir tímar sem eru nú á fjarskiptamarkaðnum eru spennandi og Síminn vill tryggja sem besta þjónustu við viðskiptavini sína og teljum við Snerpu góðan kost til samstarfs um sölu á gagnaflutningsþjónustu Símans sem og annarri þjónustu. Þjónustumiðstöð Símans á Ísafirði mun samt sem áður ekki hætta sölu á gagnaflutningstengingum og munu jafnt starfsmenn Símans og Snerpu vera til taks fyrir viðskiptavini í því efni." sagði Elías jafnframt.


Til baka