Hafðu samband: 520 4000 snerpa@snerpa.is
Björn Davíðsson Björn Davíðsson | 7. júlí 2010

Um útboð Fjarskiptasjóðs

Nokkuð hefur verið fjallað um kæru Vodafone á hendur Símanum og Fjarskiptasjóði að undanförnu. Snerpa vill hér koma á framfæri sinni hlið á málinu - Vodafone er ekki eini aðilinn sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna útboðsins.

Verkefni Fjarskiptasjóðs  snérist um að koma á sítengdu Internetsambandi við smærri þéttbýliskjarna, lögbýli í dreifbýli og vinnustaði með heilsársrekstur. Hvað Vestfirði varðar hafði mjög stór hluti dreifbýlis þá þegar sítengingu við Netið sem boðið var af Snerpu, svokallað þráðlaust  (WiFi) net og reyndar einnig í öllum þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum sem ekki áttu kost á ADSL-tengingu.

Þegar ljóst var að af þessu útboði yrði, kom einnig fram að þeir staðir sem þegar væru með sítengingu, eins og t.d. WiFi-net Snerpu, ættu einnig möguleika að fá tengingu skv. útboðinu, en einungis ef þjónustuveitendur, Snerpa í þessu tilfelli, ,,gæfu eftir svæðið sitt" þ.e. samþykktu ríkisstyrkt útboð fyrirfram.

Miðað við þær upplýsingar sem kynntar voru af Ríkiskaupum vegna útboðsins í maí 2007 ákvað Snerpa að halda ekki þjónustusvæðum fyrir sig heldur samþykkja útboðið. Var þetta fyrst og fremst gert vegna þess að útboðið gaf tilefni til að ætla að þjónusta skv. því yrði veitt með nýrri og þ.a.l. betri búnaði sem myndi þýða bætta þjónustu fyrir íbúa á svæðinu og einnig vegna þess að skv. útboðsskilmálum yrði veittur sk. opinn aðgangur (heildsöluaðgangur) að þjónustunni sem þýðir að Snerpa gæti haldið áfram að selja sínum viðskiptavinum þjónustu yfir hinn nýja búnað.

Hvað aðgang um ADSL varðar hefur opinn aðgangur verið í boði, en hinsvegar hafa neytendum ítrekað verið veittar villandi upplýsingar þannig að þeir hafa staðið eftir í þeim skilningi að þeir ættu ekki möguleika á að kaupa netþjónustu af öðrum en Símanum. Þegar kvartað hefur verið undan þessari villandi upplýsingagjöf við Símann hefur því jafnan verið borið við að um misskilning hjá sölumönnum væri að ræða og lofað að leiðrétta hann en þó gerist þetta ítrekað.

Opinn aðgangur um 3G dreifikerfið sem reist var í tengslum við útboðið hefur hinsvegar ekki fengist þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og fyrirspurnir þar um. Bæði hefur verið leitað til Símans og Fjarskiptasjóðs um þennan aðgang sem skilyrtur er í útboðsgögnum, síðast 25. júní sl. Síminn virðist hafa lagt á það mikla áherslu að hann verði eina netþjónustan sem býður netþjónustu um 3G kerfið sem byggt var upp með þeirri ríkisaðstoð sem útboðið er óumdeilanlega. Aðilar eins og Snerpa hafa bent á leiðir til að útfæra heildsöluaðganginn tæknilega en Síminn ber fyrir sig að slíkt sé ekki hægt, án þess þó að hrekja ábendingar Snerpu. Fjarskiptasjóður sem rekinn er af Samgönguráðuneytinu segist vera að ,,fara yfir þessi heildsölumál [...] og kanna leiðir til  að koma á móts við þá sem eru ósáttir". Hvort og hvenær af því verður er óljóst.

Vegna þessara samkeppnishindrana hefur viðskiptavinum Snerpu á áhrifasvæði útboðsins óhjákvæmilega fækkað nokkuð - beinlínis vegna þess að verulega hefur skort á að framkvæmd útboðsins hafi verið eftir útboðslýsingu. Eins og aðrir keppinautar Símans hafa greinilega einnig reynt.


Til baka