SAGAN  AF  HINUM  FJÖRUTÍU  VEZÍRUM  OG  DROTTNINGUNNI
Einhver hinn voldugasti af drottnum Persíu í fornöld var Sindbað konungur, því að öll austurálfa heims var honum undirgefin. Hann var hinn auðugasti og voldugasti konungur í veröld, og hraustur að því skapi. Hefði hann verið svo metnaðargjarn, að hann hefði viljað brjóta undir sig alla veröldina, mundi hann hafa getað það. En hann lét sér nægja að drottna yfir stóru og blómlegu ríki, og kom honum ekki til hugar að kasta eign sinni á nágrannalöndin. Hann hafði velferð þegna sinna fyrir aðal mark og mið, og blessuðu þeir stjórn hans á degi hverjum. Öfunduðu allar aðrar þjóðir þá að slíku láni og óskuðu sér einskis betra.

Þessi nafnkunni konungur átti son, er hver maður dáðist að, sem hann sá; hann hét Núrgehan, það merkir: ljós heimsins. Auk þess að kóngsson var tígulegur í vexti og gæddur himneskri fegurð, hafði hann aðrar gáfur til að bera, svo að þessara fyrirtaks kosta gætti enn meira. Kunni hann vel að rita mörg mál og var afbragðs bogmaður. Að öllu samtöldu var varla sú fræði til, sem hann var ekki heima í, eða að minnsta kosti hefði fullkomna hugmynd um. Hann var lifandi eftirmynd móður sinnar, drottningarinnar; jafnaðist hún að fríðleik við hinar orðlögðu konur í Kasmir, og elskaði Sindbað konungur hana heitt.

Sýndi hann þess einlægan vott með sorg sinni, þegar drottning andaðist eftir þunga legu, svo sem henni var fyrirhugað af forlögunum. Hryggðist hann svo ákaft, að því verður ekki með orðum lýst. En tímalengdin græddi sár þetta, sem oftast mun verða; konungur lét huggast og fékk sér aðra konu, svo að hann gleymdi hinni fyrri. Gekk hann að eiga dóttur eins konungs í nágrenninu; hún hét Kansade og var forkunnar fríð og vel viti borin, en kunni ekkert hóf á girndum sínum og tilhneigingum.

Óðara en drottning þessi sá Núrgehan, kóngsson, fékk hún brennandi ást á honum, og var því fjarri, að hún reyndi að þagga niður ástríðu þessa, heldur gaf henni miklu fremur lausan tauminn. Ætlaði hún því að játa kóngssyni ástarhug sinn, svo fljótt sem tækifæri gæfist.

Hann sökkti sér um þessar mundir niður í vísindi og iðkaði stjörnuspár; tók hann beztu framförum í þeim. Hann hafði fyrir meistara hinn djúplærða Abúmasjar, sem var fróðasti stjörnuspámaður í Austurálfu. Það var einn dag að fræðimaður þessi hafði stillt stjörnumátið lærisveini sínum viðvíkjandi, sá hann þá af óyggjandi merkjum, að hann átti ógurlega hættu yfir höfði.

Segir hann því við kóngsson: "Ég hef spurt stjörnurnar um ókomna ævi þína, og hafa þær ekki verið hagstæðar. Fyrir þér liggur hryggilegt hlutskipti, og fær það mér mikillar sorgar, eins og þú mátt sjá á mér."

Kóngsson setti bleikan við orð þessi, en lærifaðir hans hughreysti hann svofelldum orðum: "Þú skalt samt ekki halda, að elska mín þér til handa né íþrótt mín kviki eða hörfi undan hinum hræðilegu forlögum, sem vofa yfir þér. Að vísu stendur glötun þín skrifuð í stjörnunum, en það er ekki ómögulegt að koma í veg fyrir hana; ég hef fundið ráð til þess í bókum mínum. Þú mátt ekki tala orð í fjörutíu daga. Hvernig sem yrt verður á þig, skaltu ekki anza og varast að brigða þögninni, hvað sem að höndum ber, því líf þitt liggur við."

Lofaði þá Núrgehan, að þegja eins og steinn í fjörutíu daga. Síðan skrifaði fræðari hans nokkur helgra manna nöfn á bókfell, og hengdi það um háls honum. Að því búnu fór hann niður í jarðhús, sem enginn vissi af, nema hann einn; faldi hann sig þar, svo að hann yrði ekki neyddur til að segja konungi það, sem hann vildi þegja yfir.

Var það soldáni jafnan mikil ánægja að hafa son sinn hjá sér, og hafði því gert boð eftir honum; spurði hann son sinn að mörgu og svaraði hann engu. Varð konungur hlessa á þessu og mælti: "Sonur minn! ertu búinn að missa málið? hvað hefur þér verið gert? hvað hefur þig hent? Talaðu og láttu mig ekki kveljast af áhyggjum út af þögn þinni."

En spurningar þessar og fortölur urðu árangurslausar sem fyrri. Kóngsson horfði harmþrunginn á föður sinn, leit síðan til jarðar, og talaði ekki orð.

Veik þá konungur sér að siðameistara sonar síns og mælti: "Sonur minn hlýtur að búa yfir einhverri nagandi sorg, sem hann vill engan láta af vita. Farðu með hann til drottningarinnar, stjúpmóður hans; hver veit nema hann birti henni hugarþel sitt?"

Siðameistari gerði eins og konungur bauð, og leiddi kóngsson inn í herbergi Kansade drottningar. "Lafði mín!" segir hann við drottningu, "svo virðist sem kóngsson hafi misst málið, og eitthvert hörmulegt hrygglyndi læst sig í hjarta hans, sem ómögulegt er að fá hann til að gera uppskátt um, hver orsök sé til. Sendir konungur hann til yðar, af því hann vonar, að hann slái frá sér ólundinni í návist yðar."

Þegar drottning heyrði þetta, kom yfir hana gleðiblandin óró; hún hugsaði með sér: "Nú má ég ekki sjá mig úr færi, fyrst svona vel ber í veiði; ég á ekkert á hættu, þó ég játi fyrir honum ást mína. Hafi Núrgehan týnt málinu, þá getur hann ekki borið það í konung, sem ég segi við hann. En sé hann svo ófyrirleitinn, að ljóstra upp ást minni, þá ber ég því í vænginn, að ég hafi talað svona við hann, einungis til þess að fá úr honum orð."

Þótti Kansade sem sér mundi aldrei bjóðast betra færi til að ná áformi sínu; bauð hún því öllum, sem viðstaddir voru, að fara burt úr herbergi sínu, svo að þau yrðu tvö ein, hún og kóngsson.

Faðmaði hún hann að sér með brennandi fjöri og mælti: "Kóngsson minn elskulegur! hvað veldur hugsýki þinni? leyndu mig því ekki, ég sem elska þig heitar en þó þú værir sannborinn sonur minn."

Komst kóngsson við af því, að stjúpa hans skyldi samhryggjast honum svo hjartanlega, og leitaðist við að gera henni skiljanlegt með augnaráði sínu og bendingum, hvað sér sárnaði að geta ekki talað við hana.

En drottningin rangskildi augnaráð hans og látbragð, og ímyndaði sér að hann brynni af sömu munaðarlífs girnd og hún sjálf; að honum hefði verið ómögulegt annað en að elska hana, að sínu leyti eins og hún gat ekki staðið af sér, og hefði ekkert aftrað honum frá að játa ást sína, annað en lotning sú, sem hann bar fyrir föður sínum. Þetta var henni ljúf villa og lét hún hana því hlaupa með sig í gönur, eins langt og konur geta frekast villzt, þegar þær missa sjónar á dyggðinni og skynseminni.

"Ó, þú konungur minn og líf mitt," tók hún til orða, "láttu af þessari grimmu þögn, sem er báðum okkur til kvalar. Þú veizt að allt vald konungsins er mér innan handar. Viljirðu leggjast á eitt með mér og fallast á mín ráð, muntu innan skamms öðlast allt það, sem þú framast óskar. Við erum bæði ung, kóngsson minn! ég ætti betur geð við þig en hann, sem skapar mér hörmulega og leiðindafulla lífdaga með elli sinni. Þú þarft ekki annað en segja til. Skyldaðu þig með óbrigðanlegum svardaga til þess að taka mig til löglegrar eiginkonu, og þá lofa ég þér því, að þú skalt undir eins verða konungur, með þeim hætti, að ég flýti fyrir dauða öldungsins, hans Sindbaðs. Ég sver þér við hinn mikla guð, skapara himins og jarðar, að engin svik búa undir orðum mínum. Viltu nú vinna mér líkan eið og lofa mér statt og stöðugt, að leggja þína hönd í þá hönd, sem setur á þig kórónuna?"

Núrgehan svaraði ekki einu orði, og af því að auðséð var, að hann skildi ekki í þessu, lét drottningin dæluna ganga. "Ég sé það vel, kóngsson, að uppástunga mín kemur flatt upp á þig. Þú efar, að ég geti komið því til leiðar; en nú skal ég segja þér, hvernig ég mun ráða konunginn af dögum. Í féhirzluhúsi ríkisins er alls konar eitur, sumt drepur á mánuði, sumt tveimur mánuðum, og sumt enn þá lengri tíma eftir að það er drukkið. Nú munum við kjósa það, sem seinvirkast er. Sýkist þá konungur og bíður sitt skapadægur, þannig að engin grunsemd fellur á okkur. Síðan stígur þú í hásætið, allt ríkið sér drottinn sinn og herra, þar sem þú ert, og allt herliðið hlýðir boðum þínum."

Þó að nú konungsson hefði viljað tala, hefði honum verið það ómögulegt, svo forviða varð hann að heyra þessi hryllilegu fádæmi.


15. nótt

Þegar Kansade drottning gat ekki togað orð úr Núrgehan, og það var eins og hann sæti í þungum hugsunum, byrjaði hún á ný: "Ef þú ekki sér út úr þeim vandræðum, hvernig þú eigir að fá ekkju föður þíns, þá skaltu senda mig heim aftur til föðurlands míns, en skipa einhverjum af höfuðsmönnum þínum að veita mér eftirför með nokkrum hermönnum, ráðast á mig, eins og þeir væru ræningjar, og strjúka burt með mig. Mun þá koma upp sá kvittur, að ég hafi verið drepin á leiðinni, og nokkrum dögum seinna kaupir þú mig af höfuðsmanninum, eins og tízka er að kaupa ambáttir. Svona getur þú orðið maðurinn minn, og við búið saman í mestu kærleikum og blíðu."

Að svo mæltu þagnaði drottning, svo að kóngsson kæmist að, til að rjúfa loksins þögnina. En er þar var steinhljóð sem fyrri, gleymdi hún öllu hófi og þrýsti honum upp að sér með blíðubrögðum og brennandi kossum.

Þá varð Núrgehan uppvægur út af ósvífni stjúpu sinnar, sleit sig af henni og laust hana svo hart í andlitið, að blæddi úr vörunum.

Á augabragði kom hatrið í stað ástarinnar í hjarta drottningar; nú skein ekki ástin úr augum hennar, heldur brann úr þeim heiptar eldur, og kallaði hún þá upp: "Þú hinn armi! svona ferðu með drottningu þá, er ann þér af öllum hug, misbauð ég þínu siðlausa vandlæti, að ég gerði þér kost á að stíga í hásæti föður þíns, þrælmennið þitt? Þó ég yrði viðbjóðsleg í augum þínum, þegar ég hafði gert þér þetta uppskátt, gaztu samt ekki vorkennt konu, sem er blekkt og blinduð af óviturlegri ást? Ég hefði verið þess maklegri, að þú sæir aumur á mér, en að þú gerðir svo svívirðilega til mín. En þér er það ekki of gott mannhrakið þitt, beittu allri þinni grimmd við mig, margfaldaðu hatur þitt á mér, það kemst samt ekki í hálfkvisti við það hatur, sem ég ber til þín. Snáfaðu burt og komdu aldrei fyrir mín augu, en hræðast skaltu reiði þeirrar konu, sem bauð þér eftirlæti sitt, en þú forsmáðir."

Kóngsson hafði farið undir eins, þegar hann hafði rekið drottningunni löðrunginn og ekki einu sinni beðið eftir því að Kansade vísaði honum burt, heyrði hann því ekki meira en helminginn af brigzlunum og heitununum.

Drottningu brunnu nasir af vonzkunni, og ásetti hún sér að fyrirkoma Núrgehan. Í því skyni reif hún sundur klæði sín, flækti á sér hárið, og reið á andlitið blóðinu, sem lagði úr munninum, hljóðaði upp yfir sig og bar sig aumlega.

Kom þá Sindbað skömmu á eftir og ætlaði að vita, hvort málleysið hefði farið af syni sínum. En skyldi honum ekki hafa orðið illt við, þegar hann sá drottninguna með strúað hárið og blóðugt andlitið í legubekknum? Unni hann drottningu mjög og varð því æfareiður og harmsfullur.

"Ó þú sætasta ljós augna minna," mælti hann, "hvað er þetta, sem ég sé? Hver hefur vogað að fara svona með þig? segðu mér það undir eins, og skaltu ekki bíða hefndanna."

Við þetta setti drottning upp hálfu meiri grát en áður: "Ó þú konungur! Óláns faðir! En, hvað ég skuli ekki mega dylja þig þess, sem þú vilt vita! Undristu yfir því, að sjá mig svona útleikna, þá held ég þér megi bregða við að heyra, að þetta eru handaverk sonar þíns."

"Sonar míns? Mikli guð!" greip Sindbað fram í, "gat það verið, að hann sleppti sér svo í hatrinu á stjúpu sinni, að hann svívirti þig svona? Og hann lét ekki þá lotningu aftra sér, sem hann er mér um skyldugur?"

"Herra!" anzaði Kansade, "hann er miklu sekari en þú heldur. Æ, hver kona ætli að hefði tortryggt það skin dyggðarinnar, er skein svo skírt og skýlaust af yfirbragði hans. Ég sat í legubekk þessum, þegar hann kom inn. Bauð ég þá öllum, sem við voru, að fara burt, svo að hann mætti því frjálslegar skýra frá þögn sinni. En þessi útskýring varð heldur áþreifanleg.

Jafnskjótt sem hann sá að við vorum tvö ein, settist hann niður hjá mér og tók þannig til orða: "Drottning, ég verð að brigða þeirri þögn, sem ég hef tekið fyrir mig, og sem enginn veldur nema þú. Ég elska þig út af lífinu, og af því að ég örvænti um, að geta talað við þig einslega, kom í mig hugsýki, svo að lá við sjálft, að ég veslaðist upp. Hvílíkt lán er það, að fá þetta tækifæri til að standa frammi fyrir þér vottalaust! Ef þú tekur elsku minni, þá er ég staðráðinn í því, að drepa föður minn og ganga að eiga þig. Ég held að þegnunum sé farin að leiðast stjórnin hans, ekki síður en mér."

Þú mátt nú ekki misvirða, þó ég segi þér það, sem hann talaði orð fyrir orð; það er yfir mér skjálfti og hryllingur af því enn. Þér er nóg að vita, að þú átt verstan son allra konunga í veröld. En er hann varð þess áskynja, að mér ofbauð uppástunga hans, ætlaði hann að taka mig nauðuga. Ég varði mig, hann reif sundur klæði mín, lamdi mig og mundi hafa drepið mig, og gefið mér dauðri sök á því, sem ég nú kæri. En hann var hræddur um að þjónustukonur mínar mundu koma að sér, þegar ég hljóðaði upp, flýði hann því burt, þegar hann var búinn að fara svona með mig."

Allt þetta bar Kansade svo náttúrlega fram, að Sindbað konungur trúði henni fullkomlega. Svo sem hann unni syni sínum, lét hann sér samt svo mikið um finnast, að undir eins og hann var skilinn við drottningu, gerði hann boð eftir böðlinum. Bauð hann honum, að hafa allt á reiðum höndum til aftöku Núrgehans.

Spurðu nú vezírarnir fljótt þetta grimmdarboð konungs, og undruðust, að hann skyldi láta taka son sinn af lífi og ekki hafa þá í ráðum. Komu þeir því saman og gengu allir fyrir hinn reiða konung; hafði einn orð fyrir þeim og mælti: "Ó, þú konungur veraldarinnar, vér biðjum þig einungis að gefa okkur líf sonar þíns þenna dag, og segja oss, hvern stórglæp hann hefur unnið slíkan, að hönd föður hans hefur snúizt upp í móti honum; skyldu feður fara varlega að refsa börnum sínum."

Síðan sagði konungur þeim allt, sem drottning hafði kært fyrir honum. En er hann hafði talað út, mælti elzti vezírinn: "Gáðu að þér, herra, að láta eftir þeirri reiði, sem kona hefur í brjósti sínu, og varastu að brjóta móti guðs boðum og réttlætis lögmáli spámannsins. Drottningin hefur ákært son þinn og hefur engin vitni móti honum; hún krefst þess, að hann sé drepinn af því hann elski hana, og hafi viljað svala girnd sinni með ofbeldi. En hvaðan kom konum það, að hafa skírlífi sitt svo í hávegum, að þær óski þeim mönnum dauða, sem leggja hendur á þær? Það játa ég, að sumar eru svo hreinlífar, að þær stökkva upp á nef sér, ef lagt er að þeim með ófeilnar bænir; en það sem skírlífi þeirra sakfellir, það afsakar hégómagirndin undir eins, og fyrirgefa þær fúslega þau afbrot, sem fríðleikur þeirra veldur. Varist því yðar hátign, að framselja son yðar fyrir rógs sakir, og ef til vill í hefndarhendur þær, sem vilja steypa honum í glötun, af því hann lét ekki leiða sig afvega. Hugsið eftir því, hvað konur eru slungnar; sagan af spekingnum Sjabeddín er ljós vottur um hvað illska þeirra er viðsjárverð."

Sindbað konungur kvaðst vilja heyra sögu þessa.
Netútgáfan - desember 2000