ASNINN,  UXINN  OG  BÓNDINN
"Einusinni var ríkur kaupmaður, sem átti fjölda jarða og hafði þar ógrynni af alls konar kvikfénaði. Flutti hann á eina af jörðum þessum með konu og börnum og ætlaði að standa þar fyrir búsýslu sjálfur. Hann skildi dýramál, en sá meinbugur var á gáfu þessari, að hann mátti engan láta vita af því, og lá líf hans við. Mátti hann því ekki segja frá neinu, sem hann komst að á þenna hátt.

Hann hafði á heimili sínu einn uxa og einn asna og stóðu þeir saman. Það var einn dag að hann var staddur nærri þeim og skemmti sér við að horfa á leik barna sinna; heyrir hann þá að uxinn segir við stallbróður sinn:

"Mikil lánsskepna ert þú, að eiga svona náðugt og hafa svo lítið að gera. Einn maður er útgefinn við að stunda þig; hann þvær þig, færir þér sáldaða hafra og tærasta uppsprettuvatn. Þú reynir það mest á þig, að bera hann húsbónda okkar, þegar hann þarf að bregða sér bæjarleið; annars þyrftirðu aldrei að gera neitt. En ég er látinn erja og sveitast, strita og streitast, og ég á eins illt og þú átt gott. Óðara en miðnætti kemur, er mér beitt fyrir plóginn; verð ég að draga hann liðlangan daginn og rista jarðveginn, og er það þvílíkt strit, að ég verð stundum alveg uppgefinn og magnþrota. Þar á ofan er bóndinn jafnt og stöðugt á eftir mér, lýr og lemur mig. Svírinn á mér er drepmeiddur og skinnlaus af eilífum plógdrætti. Þegar ég nú er búinn að þræla frá morgni til kvölds, þá snara þeir í mig skráþurru baunarusli og hafa ekki einu sinni svo mikið við, að vinza úr því sandinn, eða þeir gefa mér eitthvert fóður, sem ekki er betra. Þegar ég hef fengið fylli mína af þessu hrakfóðri, þá verð ég að liggja í mykjunni á næturnar, og er það yfirtak hörmunganna. Nú sérðu sjálfur hvort ég hef ekki ástæðu til að öfunda þig."

Asninn hlýddi á með spekt, meðan uxinn lét dæluna ganga, en er hann var þagnaður, tók hann svo til orða: "Það er hvorttveggja að þú ert heimskur kallaður, enda kafnarðu ekki undir nafni. Þú ert allt of einfaldur, lætur þá fara með þig eins og þeim líkar og getur aldrei tekið neitt hyggilegt til bragðs. Hvað hefur þú gott af svívirðingunni, sem þú þolir? Þú brýtur þig í mola fyrir mennina, þeim til hægðarleika, gagns og skemmtunar og þeir kunna þér engar þakkir fyrir. Þeir færu ekki svona með þig, ef þú hefðir áræði að því skapi, sem þú hefur burði. Því verðu þeim ekki að binda þig við jötuna? Því stangarðu ekki með hornunum? Því stapparðu ekki með klaufunum og sýnir af þér reiði? Því hræðirðu þá ekki með ógurlegu öskri? Náttúran hefur útbúið þig með öllum tækjum til að afla þér virðingar og þú notar þér það ekki. Gefi þeir þér vondar baunir og slæmt hey, þá fýldu grön yfir því. Ef þú fer að mínum ráðum, muntu sjá að vel bregður við, og muntu þakka mér fyrir heilræðin."

Uxinn tók ráðum asnans feginshendi og kvað hann hafa gert sér mikinn greiða. "Ég ætla", segir hann, "að gera allt, sem þú hefur sagt, og skaltu nú sjá, hvernig mér tekst."

Því næst þögnuðu þeir báðir, en kaupmaðurinn hafði heyrt hvert orð, sem þeir töluðu saman.

Daginn eftir kom bóndinn, leiddi uxann út úr húsi og beitti honum fyrir plóginn eins og vant var. Uxinn hafði ekki gleymt ráði asnans og var þenna dag fjarska óþekkur. En um kvöldið, þegar bóndinn kom með hann að jötunni og ætlaði að binda hann eftir vanda, þá otaði hann hornunum, reis upp á afturfæturna, gekk aftur á bak og gerði sig líklegan til að reka bóndann undir, í fám orðum, hann fór í öllu að ráðum asnans.

Þegar bóndinn kom morguninn eftir og ætlaði að beita honum fyrir plóginn, lágu baunirnar ósnertar í jötunni og hálmurinn, sem hann hafði hrist þar niður kvöldið áður, en uxinn lá á gólfinu og blés mæðilega, svo bóndinn hugði hann fárveikan. Hann kenndi í brjósti um uxann og þóttist sjá, að ekki mundi til neins að þröngva honum til vinnu, fór því til kaupmannsins og sagði honum, hvernig ástatt var.

Skildi kaupmaðurinn, að hér voru komin fram ráð asnans og vildi því refsa honum sem maklegt var; skipaði hann bóndanum að hafa nú asnann í stað uxans og gefa honum ekkert. Bóndinn gerði svo og varð asninn að draga plóginn daglangt; féll honum það því þyngra sem hann var slíku óvanur, og varð hann svo lúinn og lémagna, að hann varla gat staðið á löppunum; þegar heim kom.

En uxinn átti beztu daga á meðan; hann hafði lokið úr jötunni og hvílt sig allan daginn. Var hann ákaflega glaður yfir því, að hann skildi hafa farið að ráðum asnans, margblessaði hann fyrir lán það, er hann hafði hjálpað honum til að öðlast og þakkaði honum fyrir, er hann kom heim.

Var þá asnanum svo gramt í geði út af meðferðinni á sér, að hann anzaði engu. "Þetta ólán á ég upp á sjálfan mig," hugsaði hann með sér, "ég átti svo gott og allt gekk mér að óskum. Ég hef sjálfur komið mér í þetta hörmulega ástand og mér er dauðinn vís, ef ég ekki tek eitthvað til bragðs, sem dugar." Var hann þá svo yfirkominn af þreytu, að hann hné hálfdauður niður fyrir framan jötuna.

"Þú fer að eins og asninn sá arna", segir vezírinn við Sjerasade, "þú stofnar þér í glötunina af ofviti þínu. Hlýddu mér og vertu kyrr. Sækstu ekki eftir dauða þínum yfir forlög fram."

"Faðir minn!" mælti Sjerasade, "dæmisagan, sem þú sagðir mér, aftrar alls ekki ásetningi mínum. Ég læt aldrei af að særa þig, þangað til þú lætur eftir mér, að fara með mig til soldánsins, að ég verði eiginkona hans."

Þegar vezírinn sá að hún stóð svo fast á bæn sinni, mælti hann: "Fyrst þú þverskallast svona með þrái þínu og einþykkni, þá neyðist ég til að fara með þig eins og kaupmaðurinn, sem ég var að tala um, fór eftir á með konuna sína. Því þegar hann komst að því, að asninn var aumlega útleikinn, varð honum forvitni á að heyra, hvernig orð færu milli hans og uxans. Gekk hann því eftir kvöldverð út með konu sinni í tunglskininu og settist niður rétt hjá þeim.

Þegar hann kom, segir asninn við uxann: "Heyrðu, bróðir! hvað ætlarðu að gera í fyrra málið, þegar bóndinn kemur með gjöfina?"

Uxinn svaraði: "Þá ætla ég að fara öldungis eins að og þú kenndir mér ráð til. Ég ætla að ganga aftur á bak, bjóða honum hornin eins og í gær, gera mér upp veiki og láta sem ég sé í andarslitrunum."

"Slepptu því," segir asninn, "það færi alveg með þig. Þegar ég kom heim í kvöld, heyrði ég kaupmanninn, húsbónda okkar, segja nokkuð, sem gerði mig dauðhræddan um þig."

"Hvað heyrðirðu?" spurði uxinn áfjáður, "leyndu mig engu, asni minn góður!"

"Heyrðu þá", segir asninn, "húsbóndi okkar sagði við bóndann: "Fyrst uxinn étur ekki og kemst ekki úr sporunum, þá skal slátra honum á morgun. Kjötið af honum gefum við aumingjum í guðs þakka skyni, en á húðinni þurfum við sjálfir að halda og skaltu fara með hana til sútarans. Gleymdu nú ekki að segja slátraranum að koma."

Mér er sjálfum annt um að þú lifir, og við erum svo góðir vinir, að það væri ekki meira en skylt, að ég gerði þig varan við og gæfi þér nýtt ráð. Þegar þeir færa þér baunirnar og muslið, skaltu spretta upp og rífa það í þig með græðgi; þá ræður húsbóndinn af því, að þér sé batnað og mun þá vafalaust taka dauðadóminn aftur; gerirðu ekki þetta, þá ertu frá."

Asninn hafði allt sitt fram með fortölum þessum; uxinn varð dauðhræddur og baulaði af angist. En kaupmaður, sem hlýtt hafði með athygli á allt samtalið, rak upp skellihlátur, svo konan hans vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið.

Hún spurði, hvernig á hlátrinum stæði, til þess að hún gæti tekið undir með manni sínum, en kaupmaður lét hana skilja, að hún yrði að láta það vera sér nóg, að heyra hann hlæja.

"Nei, nei," sagði hún, "ég vil vita, að hverju þú hlær."

"Ég má ekki láta það eftir þér", sagði kaupmaður, "en svo mikið skal ég þó segja þér, að ég hlæ að því, sem asninn okkar sagði við uxann; hitt er launungarmál, sem ég má ekki gera þér uppskátt."

"Og því ætli þú megir það ekki?" segir konan.

"Því líf mitt liggur við, ef ég geri það", anzar kaupmaðurinn.

"Þú ert að gera gabb að mér," mælti konan; "það getur engin hæfa verið í því, sem þú ert að telja mér trú um. Ef þú ekki lætur uppi þegar í stað, að hverju þú hlóst, og skorast undan að segja mér, hvað asninn og uxinn töluðu saman, þá viti það guð almáttugur á himnum, að ég segi allri sambúð slitið við þig."

Að svo mæltu fór hún inn, hnipraði sig saman út í horni og var hágrátandi alla nóttina.

Svaf nú maðurinn einn, en er hann sá um morguninn að hún var óhuggandi, sagði hann: "Þú gerir illa við mig, að hryggjast svona; það er ekki þess vert og það er eins lítilsvarðandi fyrir þig að vita, eins og það er mikilsvarðandi fyrir mig að leyna því. Ég bið þig fyrir hvern mun: gleymdu því."

En konan svaraði: "Því fer svo fjarri, að ég geti gleymt því, að ég skal aldrei hætta að gráta fyrr en þú seður forvitni mína."

En kaupmaðurinn sór og sárt við lagði: "Ég segi þér það satt: líf mitt liggur við, ef ég læt undan áfergjuskapnum í þér."

"Hljótist af því hvað sem guð vill", sagði hún, "ég fer aldrei ofan af því."

"Ég sé það," mælti kaupmaður, "að engin leið er að því að koma fyrir þig vitinu; ég sé það fyrir, að þú vilt drepa þig með þrákelkni þinni; vil ég því kalla á börn þín, að þau hafi þá hugfró að sjá þig einu sinni áður en þú deyr."

Kallaði hann þá á börnin og frændur og foreldra konu sinnar. En er allir voru komnir og hann hafði sagt þeim frá öllum málavöxtum, lögðu þeir sig til að tala sem snjallast, svo konunni skildist, að hún gerði rangt, að láta ekki af einþykkni sinni. En hún daufheyrðist við öllu og kvaðst heldur vilja deyja en láta undan manni sínum í þessu. Stoðaði það ekkert að foreldrar hennar töldu um fyrir henni og sögðu að þetta stæði henni á engu, sem hún vildi vita; hún vildi hvorki heyra það, né hlýða. Þegar börnin sáu að hún þverskallaðist við öllum skynsamlegum fortölum, tóku þau að gráta beisklega.

Og sjálfur kaupmaðurinn var eins og milli heims og helju. Hann settist einsamall fram í húsdyrnar og fór að velta fyrir sér, hvort hann ætti ekki að fórna sínu eigin lífi til að frelsa konu sína. Og sannarlega ætlaði hann að senda eftir "kadi" (dómara) og vottum til að semja erfðaskrá sína, segja síðan konu sinni leyndarmálið og deyja, því hann unni henni harðla mjög.

Nú átti kaupmaður þessi líka fimmtíu hænur, einn hana og einn árvakran hund. Meðan hann sat þarna í dyrunum hugsandi, sá hann hundinn hlaupa til hanans, sem setzt hafði upp á eina hænuna, og heyrði að hann sagði við hann:

"Hani minn! ég held þú sért feigur: skammastu þín ekki að vera að gamna þér í dag?"

Haninn réttist allur upp, snerist að hundinum og sagði: "Því skyldi mér ekki vera það eins heimilt í dag og endranær?"

"Þá skaltu vita," segir hundurinn, "ef þú veizt það ekki áður, að húsbóndi okkar er í mestu vandræðum. Konan hans heimtar, að hann segi sér eitt leyndarmál; geri hann það, verður það hans bani. Því er, satt að segja, helzt kvíðandi, að hann hafi ekki nógan stöðugleika móti þrái hennar, því hann elskar hana og viknar af tárunum, sem hún úthellir án afláts. Það fer með hann á endanum, og við erum öll kvíðafull á heimilinu; þú einn ósæmir okkar sorg og ert svo blygðunarlaus að vera að leika dátt við hænurnar þínar."

"Guð veit, að húsbóndi okkar er meira en meðalheimskur", þannig svaraði haninn átölum hundsins, "hann hefur einungis eina konu og ræður ekki við hana, en ég hef fimmtíu, og gerir engin annað en minn vilja. Hann ætti nú að hugsa sig um, þá mundi hann fljótt finna ráð til að komast úr þessum bobba."

"Hvað lízt þér hann eigi að gera?" spurði hundurinn.

"Hann ætti", segir haninn, "að binda sér hrísvönd og fara inn í herbergi konu sinnar, loka að sér og lemja hana þangað til hún drepst, eða lætur undan. Hún mun ekki upp frá því pína hann til að segja sér það, sem hann á að leyna."

Varla hafði kaupmaðurinn heyrt hvað haninn sagði fyrr en hann þaut upp, tók stafprik og gekk inn til konu sinnar, sem alltaf var að gráta. Hann lokaði að þeim og lúbarði hana þangað til hún kallaði upp og sagði:

"Það er nóg, elskan mín! það er nóg, vertu nú góður, ég skal aldrei framar spyrja þig um neitt."

Þegar hann heyrði að hún iðraðist eftir hina ofsalegu forvitni, hætti hann að lemja hana og lauk upp. Kom þá allt skyldfólkið inn og gladdist yfir því að konunni var bötnuð einþykknin og samfagnaði kaupmanninum, að hann hafði tekið upp á slíku heillaráði, til að koma henni til sannleikans viðurkenningar.

En þú, dóttir mín, ættir skilið, að ég færi með þig eins og kaupmaðurinn fór með konuna sína."

"Fyrirgefðu mér, faðir minn," sagði Sjerasade, "fyrirgefðu mér og vertu ekki vondur, þó ég sé fastráðin í fyrirætlun minni? Mér hefur ekki snúizt hugur af sögunni, sem þú sagðir mér um konuna. Ég gæti sagt þér margar aftur, svo að þú sannfærðist um, að þú átt ekki að vera áformi mínu mótfallinn. Það segi ég þér líka - og bið þig fyrirgefa - að þér er til einskis, að standa á móti því, því synjirðu mér um bæn mína af föðurlegri elsku, þá mun ég sjálf framselja mig í hendur soldánsins."

Vezírnum var nauðugur einn kostur að láta undan stöðugleika dóttur sinnar. Þó honum dauðsárnaði, að geta ekki talið hana af þessu óttalega áformi, þá fór hann samt að vörmu spori til Sjarjars og sagði honum, að hann ætlaði að færa honum Sjerasade til næstu nætur.

Varð soldán forviða, að stórvezír sinn skyldi færa sér slíka fórn og sagði: "Hvernig gaztu fengið þér geð til að færa mér þína eigin dóttur?"

"Herra!" svaraði vezírinn, "það er vilji hennar sjálfrar; hin hryggilegu afdrif, sem hún á yfir höfði sér, hafa ekki hrætt hana frá því, og betri þykir henni sú sæmd en lífið sjálft, að vera eiginkona yðar hátignar, þó ekki sé nema eina nótt."

"En huggaðu þig bara ekki við neina svikula von, vezír!" mælti soldán; "þegar ég fæ þér Sjerasade aftur á morgun, heimta ég, að þú líflátir hana. Gerirðu það ekki, þá sver ég að láta drepa þig sjálfan."

"Herra!" svaraði vezírinn, "blæða mun hjarta mínu, þegar ég á að hlýðnast skipun þinni, en hvað sem náttúran möglar í móti, þá máttu samt treysta þessum höndum, þó föðurhendur séu."

Sjarjar tók boði ráðgjafa síns og skipaði honum að færa sér dóttur sína hið bráðasta. Fór vezírinn heim aftur með þessi tíðindi til Sjerasade, en hún tók þeim svo glaðlega, sem væru þetta hin mestu gleðitíðindi. Þakkaði hún föður sínum, að honum hefði svo vel farizt; var hann yfirkominn af harmi, en hún huggaði hann með því, að hann þyrfti ekki að iðrast þess, að hún yrði drottning soldáns og væri honum nær að fagna því alla ævi.

Hugsaði hún nú ekki um annað en að búast á fund soldáns; en áður hún færi af stað, tók hún Dínarsade, systur sína á eintal og mælti: "Elsku systir, mér liggur lífið á fulltingi þínu og ætla ég að biðja þig að synja mér þess ekki. Faðir minn færir mig soldáni til eiginkonu; láttu samt ekki hugfallast af þessari frétt, heldur heyrðu mig með stillingu. Þegar ég er komin til soldánsins, mun ég biðja hann leyfis, að þú sofir í hvílusal okkar, svo ég megi hafa skemmtun af þér þessa nótt. Verði mér þessi miskunn sýnd, sem ég vona, vektu mig þá snemma morguns, einni stundu fyrir birting og segðu: "Elsku systir! ef þú ert vakandi, þá ætla ég að biðja þig að segja mér einhverja af fallegu sögunum, sem þú kannt, þangað til dagur er. Mun ég þá undir eins gera það, og er ég vongóð um, að mér takist með þessu móti að létta á þjóðinni þeirri angist, sem nú er yfir henni."

Dínarsade kvaðst fús til hvers, sem vera skyldi.

En að ákveðinni stund um kvöldið fór stórvezírinn með Sjerasade til hallarinnar, leiddi hana í herbergi soldáns og gekk síðan burt. En er hún og soldán voru tvö ein, bauð hann henni að taka blæjuna frá andlitinu; þótti honum hún þá svo fríð, að hann varð öldungis frá sér numinn; það sá hann líka, að hún grét, og spurði, hvað að henni gengi.

"Herra!" svaraði Sjerasade, "ég á eina systur og ann ég henni hugástum, sem hún mér. Nú sárlangar mig til, að hún væri hérna í herberginu þessa nótt, svo ég sjái hana og megi kveðja hana einu sinni enn þá. Leyfið þetta mér til huggunar, svo ég geti sýnt henni þenna síðasta vott elsku minnar."

Þessu játti Sjarjar og var sent eftir Dínarsade; kom hún þá þegar.

Þau soldán og Sjerasade háttuðu uppi á háum palli, eins og er siður konunga í Austurlöndum, en Dínarsade var búin rekkja til fóta þeim.

Vaknaði hún einni stundu fyrir dag og mælti eins og Sjerasade hafði undir lagt við hana: "Elsku systir! ef þú ert vakandi, þá ætla ég að biðja þig að segja mjer einhverja af fallegu sögunum, sem þú kannt; það er svo í síðasta skipti, sem ég hef þessa skemmtun."

Í stað þess að anza systur sinni veik Sjerasade sér að soldáni og mælti: "Þóknast yðar hátign mildilegast að leyfa mér að láta eftir ósk systur minnar?"

"Gjarnan", segir hann; beiddi þá Sjerasade systur sína að taka eftir, og hóf þannig söguna.
Netútgáfan - desember 2000