SAGAN  AF  FYRSTA  KARLINUM  OG  HINDINNI
"Ég skal þá byrja á sögu minni," tók karlinn til máls, "og takið nú vel eftir. Hindin þarna er ekki það, sem hún sýnist vera; hún er frænka mín og þess utan kona mín. Hún var tólf ára, þegar ég gekk að eiga hana og er mér því óhætt að segja, að hún mátti kalla mig föður fullt eins vel og frænda sinn eða bónda. Við vorum þrjátíu ár saman barnlaus og lét ég hana ekki gjalda þess, að hún var óbyrja, heldur var ég henni góður og hollur.

Var það af engu öðru en því, að mig langaði til að eignast afkvæmi, að ég fékk mér ambátt til samlags; átti ég við henni einn son, sem líkur var að fríðleik fullu tungli, eygur vel og brúnafríður og fallega limaður. Út af því varð kona mín afbrýðisfull og fékk andstyggð, bæði á móðurinni og barninu, en leyndi svo hugarþeli sínu, að ég komst ekki að því fyrr en allt var um seinan.

Óx nú sonur minn upp og var orðinn eitthvað tíu ára; þurfti ég þá að taka mér nauðsynlega ferð á hendur. En áður en ég færi, fól ég barnið og ambáttina konu minni á hendur, því ég tortryggði hana alls ekki; bað ég hana að annast þau meðan ég væri burtu, en það var í heilt ár. En hún hagnýtti þann tíma til þess að stunda fjölkynngi, og er hún hafði svo mikið numið af þessari helvízku íþrótt, sem henni nægði til illræðis þess, er hún hafði fyrir stafni, þá leiddi hún son minn á einn afvikinn stað. Þar breytti hún honum í kálf með særingum sínum og fékk hann því næst leiguliða mínum til fóðurs, og kvaðst hafa keypt hann. En svo var hún hefndargjörn, að illvirki þetta var henni ekki nóg, heldur töfraði hún ambáttina líka og gerði hana að kú, og fékk hana einnig leiguliða mínum.

Þegar ég nú kom heim og spurði eftir móðurinni og barninu, sagði hún: "Ambáttin er dáin, en son þinn hef ég ekki séð í tvo mánuði, og veit ég ekki, hvað orðið er af honum."

Féll mér það nærri að ambáttin var dáin, en sonur minn hélt ég væri að eins horfinn og mundi fljótt finnast aftur. En svo liðu átta mánuðir, að hann kom ekki, og ekkert spurðist til hans.

Var nú komið að stóra Bairam eða fórnarhátíðinni; bauð ég þá leiguliða mínum að koma með einhverja feitustu kúna til fórnfæringar. Hann gerði svo, en kýrin sem hann kom með, var aumingja ambáttin, móðir sonar míns. Batt ég hana þá, en er ég myndaði mig til að slátra henni, rak hún upp aumkvunarlegt baul, og sá ég að tárin runnu úr augum henni. Brá mér kynlega við þetta og hrærðist ég ósjálfrátt til meðaumkvunar, svo ég gat ekki fengið af mér að slátra henni, og sagði leiguliðanum að sækja aðra.

Kona mín, sem var viðstödd, espaðist af þessum brjóstgæðum og stóð í gegn skipan minni, sem lét illsku hennar til skammar verða; "hvað ertu að hugsa, heillin mín?" segir hún, "offraðu þessari kú, leiguliðinn þinn á enga, er fallegri sé eða betur til þess fallin."

Ætlaði ég því að gera þetta konu minni til þægðar, gekk að kúnni og reyndi að bæla niður meðaumkvun þá, er áður hafði gagntekið mig, en í því ég ætlaði að bregða hnífnum á barkann, þá grét hún og baulaði hálfu meira en áður, svo að mér féllust hendur í annað sinn.

Rétti ég því hnífinn að leiguliðanum og sagði: "Taktu þarna við og offraðu henni sjálfur; baulið í henni og tárin ætla að slíta sundur í mér hjartað.

Leiguliðinn var ekki eins brjóstgóður og banaði hann kúnni, en er við gerðum hana til, sáum við að hún var ekki annað en skinnið og beinin, þó okkur sýndist hún feit áður.

Sárnaði mér það og sagði ég því við leiguliða minn: "Eigðu hana sjálfur, ég læt þér hana eftir; gefðu þeim ölmusugjafir af slátrinu, sem þér lízt, en hafirðu fyrir hendi vel feitan kálf, þá færðu mér hann í staðinn.

Ég spurði aldrei frekar um það, hvað hann gerði við kúna, en undir eins og hann hafði fært hana burt, kom hann aftur með spikfeitan kálf. Þó ég vissi þá ekki, að þessi kálfur var sonur minn í álögum, komst ég samt einhvern veginn við, er ég sá hann; en jafnskjótt og hann sá mig, brauzt hann svo fast um, til þess að komast til mín, að hann sleit sundur taugina, sem leiguliðinn leiddi hann í. Hann fleygði sér niður fyrir fætur mína, með hausinn á grúfu, eins og hann vildi hræra mig til miskunnar og særa mig, að vera ekki svo grimmur að drepa sig.

Þetta gekk nú meira yfir mig og fékk meira á mig en gráturinn í kúnni. Mér rann sáran til rifja, eða öllu heldur, mér rann blóðið til skyldunnar. Sagði ég því við leiguliðann: "Farðu burt með kálfinn aftur og gættu hans vandlega, en komdu undir eins með annan í staðinn."

Þegar kona mín heyrði mig tala svona, var hún ekki sein til að segja: "Hvað ertu að hugsa, elskan mín! Láttu að orðum mínum og offraðu engum kálfi öðrum en þessum."

"Það geri ég ekki, hjartað mitt!" anzaði ég, "ég ætla að gefa honum líf og biðja þig að ybbast ekki á móti því."

En flagðið gerði ekki sem ég beiddi; hún hafði meira hatur á syni mínum en svo, að hún leyfði mér að gefa honum líf; gekk hún svo fast eftir fórninni við mig, að ég neyddist til að láta eftir henni. Batt ég þá kálfinn og tók sláturshnífinn....


5. nótt

"Herra!" mælti Sjerasade og byrjaði þar á sögunni, sem hún hafði hætt við nóttina áður, - "karlinn með hindina hélt þannig áfram sögunni í viðurvist andans, beggja hinna karlanna og kaupmannsins:

"Ég greip þá hnífinn og ætlaði að skera son minn á háls, en í því leit hann til mín slíkum bænaraugum, fljótandi í tárum, og hrærði svo hjarta mitt, að ég var ekki maður til að fórna honum. Fleygði ég þá hnífnum og sagði við konu mína, að það væri ekki að hugsa til, að ég slátraði þessum kálfi, heldur tæki ég einhvern annan.

Hún hafði sig alla við að telja mig af fyrirtekt minni, en ég lét hvergi þokazt, nema hvað ég lofaði henni að offra kálfinum næsta ár á Bairamshátíðinni, og gerði ég það einungis til að þagga niður í henni ofsann.

Morguninn eftir beiddist leiguliði minn, að tala við mig einslega. "Ég kem," mælti hann, "til þess að segja þér nokkuð, sem þú munt kunna mér þakkir fyrir. Svo er mál með vexti, að ég á dóttur, sem ber nokkurt skyn á töfra. Í gærdag, þegar ég kom aftur með kálfinn, sem þú ætlaðir að fórna, tók ég eftir því, að hún hló þegar hún sá hann, en fór í sömu andránni að gráta. Spurði ég hana þá, því hún gerði tvennt svo ólíkt í einu.

"Faðir minn," segir hún, "kálfurinn, sem þú kemur þarna með aftur, er sonur hans húsbónda okkar. Ég hló af fögnuði að sjá hann lifandi ennþá, og grét þegar ég hugsaði til hennar móður hans, sem slátrað var í gær, því henni hafði verið breytt í kú með töfrum. Hvorumtveggja álögunum veldur konan hans húsbónda okkar, því hún hataði jafnt móðurina og barnið."

Þetta hefur dóttir mín sagt mér, og hingað fór ég til að segja þér þessi tíðindi."

"Andi góður!" sagði karlinn með hindina enn fremur, "þú getur því bezt nærri, hvað mér brá í brún við þessi orð. Fór ég að vörmu spori með leiguliðanum, til að tala við dóttur hans sjálfur. En er ég var kominn heim til hans, gekk ég fyrst út í fjósið, þar sem sonur minn var. Gat hann að vísu ekki tekið faðmlögum mínum, en svo varð honum við þau, að ég sannfærðist algjörlega um það, að hann væri sonur minn.

Dóttir leiguliðans kom þar að okkur, og sagði ég við hana: "Barnið gott, getur þú breytt syni mínum í sína sönnu mynd?"

Hún kvað já við, og ég sagði enn fremur: "Ef þér heppnast það, skaltu ráða yfir helming eigna minna."

"Þú ert húsbóndi okkar," anzaði hún og brosti við, "og veit ég vel, um hvað ég er þér skyldug. En það segi ég þér samt, að ekki breyti ég syni þínum í sína sönnu mynd, nema með tveimur skilmálum. Hinn fyrri er sá, að þú lofir mér að eiga hann, en hinn annar, að þú leyfir mér að refsa þeirri, sem hefur breytt honum í kálf."

Svaraði ég því um, að ég gengi fúslega að fyrri skilmálanum, og sagði: "Ég lofa þér þar á ofan að gefa þér töluverðar eignir auk þess, sem ég ætla syni mínum. Í stuttu máli, þú skalt komast að raun um, hvort ég ekki virði við þig þenna mikla velgjörning, sem ég vænti mér af þér. Hinum skilmálanum, konu minni viðvíkjandi, tek ég líka. Hver, sem getur haft sig til annars eins ódæðis, á refsingu skilið. Gerðu við hana hvað þér líkar, en eins bið ég þig, lofaðu henni að lifa."

"Ég ætla að gera til hennar," anzaði stúlkan, "eins og hún gerði til sonar þíns."

"Það læt ég mér lynda," segi ég, "en gefðu mér son minn aftur um fram alla hluti."

Tók nú stúlkan ker, sem fullt var af vatni, og þuldi yfir því einhver orð, sem ég skildi ekki, því næst veik hún sér að kálfinum og mælti: "Kálfur! hafi einn guð almáttugur, konungur veraldarinnar, skapað þig í þeirri mynd, sem þú nú hefur, þá hafðu hana framvegis, en sért þú maður, töfraður í kálfslíki með fjölkynngi, taktu þá aftur á þig þína náttúrlegu mynd og líkingu, ef hinum allsvaldanda skapara þóknast svo."

Svo mælti hún og jós yfir hann vatninu, og breyttist hann samstundis í sína upphaflegu mynd.

"Sonur minn! ástkæri sonur minn!" hrópaði ég undir eins, og faðmaði hann upp að mér með slíkri geðshræringu, að ég varla réði mér, "guð hefur sent okkur þessa mey til þess að svipta af þér hinum skelfilegu álögum, sem þú varst í, og til þess að hefna illsku þeirrar, sem þú og móðir þín höfðuð fyrir orðið. Ég efa því ekki, að þú munir ganga að eiga stúlkuna, eins og ég hef lofað henni."

Þessu tók hann fegins hugar, en áður en brúðkaup þeirra var haldið, breytti mærin konu minni í hind, og í því líki sjáið þið hana hérna. Var það fyrir minn bænastað, að hún hlaut þessi hamskipti heldur en önnur ljótari, svo okkur væri minni viðbjóður að hafa hana kringum okkur.

Síðan er sonur minn orðinn ekkjumaður og hefur farið í langferðir. Hef ég ekkert frétt til hans í nokkur ár, og er því lagður af stað sjálfur, til að vita, hvort ég ekki kynni að verða einhvers vísari um hann. Trúði ég engum fyrir að varðveita konu mína, meðan ég væri burtu, til að komast fyrir þetta, og leizt mér ráðlegast að hafa hana með mér hvarvetna. Og lýk ég nú að segja af mér og hindinni; er það ekki einhver hin einstakasta saga?"

"Því játa ég," segir andinn, og hennar vegna gef ég þér þriðjung af lífi þessa kaupmanns."

"Þegar fyrsti karlinn," þannig hélt Sjerasade sögunni áfram, "hafði lokið við sína sögu, sagði annar karlinn með tvo svörtu hundana við andann: "Ég ætla líka að segja þér, hvað mér og hundunum þeim arna hefur viljað til; er ég sannfærður um, að þér mun þykja mín saga undarlegri en sú, sem þú nú heyrðir. En viltu þá gefa mér annan þriðjunginn af því, sem þú átt í lífi þessa kaupmanns?"

"Já," sagði andinn, "með því móti, að hún taki fram sögunni af hindinni."

Þegar hann hafði lofað þessu, byrjaði annar karlinn þannig....


6. nótt

Undir lok hinnar sjöttu nætur, sem soldán og Sjerasade hvíldu saman, vakti Dínarsade systur sína, eins og vant var; en Sjarjar varð fyrstur til að vekja máls og segir: "Ég vil heyra söguna af öðrum karlinum og báðum svörtu hundunum."

"Forvitni þína, konungur!," segir Sjerasade, "skal ég fljótt seðja; annar karlinn byrjaði sögu sína á þessa leið:
Netútgáfan - desember 2000