KAUPMAÐURINN  OG  ANDINN
1. nótt

Herra! einu sinni var kaupmaður vellauðugur bæði af fasteignum, varningi og peningum; hafði hann fjölda af undirkaupmönnum, búðarsveinum og þrælum. Samt varð hann öðru hverju sjálfur að taka sér ferð á hendur, til að ráðgast við skiptavini sína og svo bar því til einhverju sinni, að hann varð að fara langferð í áríðandi erindi. Reið hann því af stað og lét dálítið nesti í mal sinn, brauð og döðlur, því leið hans lá um eyðimörk, en þar er allt viðurværi ófáanlegt. Komst hann stórslysalaust þangað sem ferðinni var heitið, og er hann hafði aflokið erindi sínu, reið hann af stað heimleiðis.

Á fjórða degi ferðarinnar varð honum svo óhægt, því veður var heitt af sól og vegurinn brennheitur, að hann beygði út af veginum til að svala sér í forsælunni undir trjám nokkrum. Fann hann þar undir hnottré einu tæra uppsprettulind, fór af baki og batt hest sinn við grein, tók síðan brauð og nokkrar döðlur upp úr mal sínum, settist hjá lindinni og fór að snæða, og fleygði döðlusteinunum í ýmsar áttir. En er hann hafði lokið þessari einföldu máltíð, þvoði hann sér úr lindinni um andlit, hendur og fætur eftir sið sanntrúaðra Mahómetsmanna og gerði bæn sína.

En rétt í því hann var að ljúka við bænagjörðina, liggjandi á knjánum, sá hann anda, afskaplega stóran og snjóhvítan fyrir hærum; óð hann að kaupmanninum með brugðið sverð og sagði með ógurlegri rödd: "Stattu upp, að ég drepi þig, eins og þú drapst son minn."

Bæði grenjaði ófreskjan hræðilega og var hryllileg að sjá, svo að kaupmaðurinn varð dauðhræddur og svaraði titrandi: "Voldugi herra! hvernig á ég að hafa misgert svo við yður, að ég sé dauða verður?"

"Ég skal drepa þig eins og þú drapst son minn," mælti andinn.

"Guð hjálpi mér," segir kaupmaðurinn, "hvernig á ég að hafa drepið son þinn, sem ég þekki ekki og hef aldrei séð?"

"Hefurðu ekki setið hérna síðan þú komst," mælti andinn, "hefurðu ekki etið döðlurnar hérna og þeytt steinunum sínum í hverja áttina?"

"Það hef ég gert," svarar kaupmaður, "ekki get ég borið á móti því."

"Sé svo," segir andinn, "þá skaltu vita, að þú ert sonarbani minn. Hann sonur minn gekk hérna fram hjá, þegar þú fleygðir steinunum; einn kom í augað á honum, og þá datt hann niður dauður. Fyrir þá sök skal ég drepa þig."

"Æ, væg mér, góði herra," æpti kaupmaður.

"Enga vægð," segir andinn, "enga miskunnsemi; er ekki rétt að sá sé drepinn, sem drepið hefur?"

"Það er meira en satt," anzaði kaupmaður, "en ég segi það satt, ég hef ekki drepið son þinn, en ef svo er, þá hef ég gert það í grandleysi. Ég bið þig því á knjám mínum, fyrirgef mér og gef mér líf."

"Nei, nei," svaraði andinn, og var ekki minnsta lát á honum; "ég verð að drepa þig, eins og þú hefur drepið son minn."

Því næst þreif hann í handlegginn á kaupmanninum, slengdi honum til jarðar með andlitið á grúfu og reiddi upp sverðið til að höggva af honum höfuðið. En kaupmaður flóði allur í tárum og margsór sig um, að hann væri saklaus, barmaði sér sáran út af konu og börnum og talaði mjög hjartnæmlega. Andinn hafði svo mikla þolinmæði, að hann beið með sverðið reitt til höggs þangað til aumingja maðurinn hafði komið upp öllum kveinstöfum sínum, en alls ekki komst hann við.

"Allar þessar harmatölur eru til einskis," sagði hann; "þó þú grétir blóðugum tárum, það aftraði mér ekki frá því að drepa þig, eins og þú hefur drepið son minn."

"Bítur þá enginn skapaður hlutur á þig?" byrjaði kaupmaðurinn á ný, "ætlarðu að drepa mig, saklausan aumingjann? Ég fel þá sök mína guði á hendur." Því næst tók hann í hugarangist sinni að mæla fram vísur þessar:

"Deild í tvenna daga er tíð,
dimma og birturíka;
eins í sælu og eymdar stríð
ævin skiptist líka.

Hermdu þeim, sem hæðist að
harmakjörum bágum;
eins er bölið ákvarðað
aumum jafnt sem háum.

Sérðu ei morið ofan á
ægisgeimi sveima,
en dýrstar perlur djúpt und sjá
duldar eiga heima?

Önnur klappar aldar mund,
ei skal hinni trúa;
lukkan kossa lengir stund,
lánið burt að sjúga.

Meiri sæg en sand í mar
sérðu um uppheims bólin,
og samt myrkvast aldrei þar
annað en tungl og sólin.

Græn og þurr, sem gróa á rein,
greinast trén að vera,
en steinum þeytt er á þau ein,
sem ávextina bera."

Þegar kaupmaður hafði mælt fram vísur þessar til enda, segir andinn: "Til einskis er þulið; ekki er nú annað fyrir en dauðinn."

Í því hann sagði þetta....

Þá sá Sjerasade að dagur var á lofti; vissi hún að soldán fór snemma á fætur til að biðjast fyrir og starfa með ráðgjöfum sínum; sagði hún því ekki söguna lengur.

"Guð veit það, systir mín, segir Dínarsade, "að þetta er undarleg saga."

"Ennþá undarlegra er samt framhaldið," anzaði Sjerasade, "og leggst þú því líklega á eitt með mér, að biðja soldáninn að lofa mér að lifa í dag og segja svo söguna áfram í nótt er kemur."

Sjarjar hafði verið skemmt undir sögu Sjerasade og hugsaði hann með sér: "Það skal bíða til morguns, en deyja skal hún, þegar ég er búinn að heyra, hvernig sagan fer."

Réð hann því af, að drepa ekki Sjerasade þann dag; reis nú á fætur til að biðjast fyrir og fara á fund ráðsins.

Meðan á þessu stóð, hafði stórvezírinn verið alveg frá sér af angist og kvíða. Honum kom ekki dúr á auga, því hann var alla nóttina að kveina og barma sér yfir grimmd forlaganna, að hann skyldi vera böðull dóttur sinnar. En hafi hann kviðið fyrir að sjá soldán, þegar hann átti von á slíkri hörmung, þá má nærri geta, hvort honum hefur ekki brugðið vel við, þegar lánardrottinn hans kom á ráðstefnu og skipaði honum ekki að vinna grimmdarverkið.

Varði soldán þeim degi öllum til stjórnarstarfa, eins og hann var vanur, en er náttaði, fór hann aftur til Sjerasade. En morguninn eftir fyrir birtingu gleymdi Dínarsade ekki að biðja systur sína að segja sér það, sem eftir væri af sögunni, sem hún byrjaði á nóttina fyrir.

Soldán beið þess ekki, að Sjerasade beiddi leyfis, heldur sagði hann: "Vel á minnzt, ljúktu við söguna um andann og kaupmanninn, ég er bráðsólginn í endirinn."

Sagði þá Sjerasade söguna áfram á þessa leið:


2. nótt

Herra! þegar kaupmaðurinn sá að andinn ætlaði að höggva af honum höfuðið, hljóðaði hann upp yfir sig og sagði: "Bíddu við, lofaðu mér að segja rétt eitt orð, gerðu það fyrir mig, vægðu mér og gefðu mér frest. Gefðu mér tíma til að kveðja konu mína og börn og ráðstafa arfskiptunum eftir mig með erfðaskrá, svo að þau flækist ekki í málaferli að mér látnum. En þegar ég hef annazt það, skal ég óðara koma hingað aftur og gefa mig undir þinn vilja í öllu."

Þá mælti andinn: "Ég er hræddur um að þú komir aldrei, ef ég gef þér frestinn."

"Viljir þú leggja trúnað á eið minn," anzaði kaupmaður, "þá sver ég við guð himins og jarðar, að ég áreiðanlega skal vitja þín hérna aftur."

"Og hvað langan frest viltu fá?" spyr andinn.

"Ég bið um eins árs frest," svarar kaupmaðurinn, "mér er ómögulegt að ráðstafa öllum mínum efnum á skemmri tíma, og búa sjálfan mig svo undir, að ég geti tregalaust skilið við þessa lífs fögnuð. Skal ég þegar ár er liðið frá þessum degi vera kominn hingað aftur undir þessi tré og gefa mig þá orðalaust undir vald þitt og vilja."

"Viltu kalla guð til vitnis að þessu heiti þínu?" spurði andinn.

"Já, ég kalla hann enn á ný til vitnis og máttu treysta eið mínum," svaraði kaupmaðurinn.

Í sama bili hvarf andinn og kaupmaðurinn sat einn eftir hjá lindinni.

Þegar hann var búinn að jafna sig eftir hræðsluna, sté hann á bak aftur og fór leiðar sinnar. Var hann nú að einu leytinu glaður, að vera sloppinn úr svo gífurlegum háska, en hinsvegar fylltist hann dauðans kvíða, er hann hugsaði til hins ógurlega svardaga, sem hann hafði unnið.

Þegar hann kom heim, fögnuðu honum konan og börnin af öllu hjarta, en hann tók ekki faðmlögum þeirra, heldur fór hann að gráta beisklega, svo að þau máttu vel skilja, að honum hefði viljað eitthvað sérlegt til.

"Við gleðjumst af heimkomu þinni," tók kona hans til orða, "en þú gerir okkur hrædd, að láta okkur sjá þig svona á þig kominn. Ég ætla að biðja þig að segja okkur, hvað veldur harmi þínum."

"Æ, hvernig á ég að vera í öðru skapi," anzaði kaupmaður, "þegar ég á ekki nema eitt ár eftir ólifað?"

Því næst sagði hann henni frá viðskiptum sínum og andans og að hann hefði skuldbundið sig til að koma aftur að eins árs fresti til þess að láta lífið fyrir hendi andans.

Við þessi harmatíðindi fóru þau öll að kveina. Konan hljóðaði upp yfir sig, lauzt sig í andlitið og hárreitti sig; börnin flóðu í tárum og ætluðu að rífa húsið með hljóðunum og faðirinn grét þegjandi með þeim. Það var einhver sú hryggilegasta sjón, sem hugsazt gat.

Þegar á hinum næsta degi og stöðugt upp frá því, hugsaði kaupmaðurinn um ekkert annað en að ráðstafa málefnum sínum og umfram allt að borga skuldirnar. Hann gaf vinum sínum gjafir og fátæklingum stórar ölmusur. Þrælum sínum og ambáttum gaf hann frelsi, skipti eigum sínum milli barnanna og setti þeim fjárhaldsmenn, sem ekki voru fullveðja. Konu sinni seldi hann allt það í hendur, sem henni bar eftir kaupmálanum og dró alla þá hagsmuni undir hana, sem lög leyfðu.

Nú var liðið árið og varð hann að fara. Hann lét niður í ferðatöskuna sína og tók með sér náklæði sitt, og enginn getur grátlegra séð en skilnaður hans var við konu og börn. Það var eins og þau tryðu ekki, að þau ættu að missa hann, og vildu því fylgja honum öll saman, til þess að deyja með honum.

Hann varð því að neyta allrar hörku sinnar til þess að skiljast við slíkt ástríki, og mælti: "Börnin góð, ég skil við ykkur af hlýðni við guðs boð. Lærið af mér að lúta þessari nauðsyn með hugprýði og minnist þess, að eitt sinn skal hver deyja."

Að svo mæltu sleit hann sig af þeim, grátandi og harmandi, fór af stað og náði að ákveðnum degi þangað, sem andinn hafði vitrazt honum. Fór hann undir eins af baki og beið andans með slíkri hryggð, sem nærri má geta.

Meðan stóð á þessari kvalafullu bið, sá hann koma til sín vingjarnlegan karl, sem teymdi hind í bandi. En er þeir höfðu heilsazt, tók öldungurinn til máls: "Mætti ég spyrja þig, bróðir, hvað þú ert að gera á þessa eyðistaði, þar sem ekki er annað neitt en vondir andar og hvergi er óhætt; mætti ráða það af þessum fögru trjám, að hér væri mannabyggð, en það er sönn eyðimörk og háski að vera hér til lengdar."

Kaupmaður leysti úr spurningum karlsins og sagði honum frá ævintýrinu, sem skyldaði hann til að vera á þessum stað; en hinn heyrði og undraðist og mælti síðan:

"Þetta er einhver hinn kynjalegasti viðburður og þig bindur hinn órjúfanlegasti svardagi. Ég fer ekki héðan úr sporunum fyrr en ég sé, hvernig fer á milli þín og andans."

Svo mælti hann og settist niður hjá kaupmanninum, en meðan þeir voru að tala saman....

"En ég sé það er kominn dagur," mælti Sjerasade og felldi niður frásögnina, "en það sem bezt er í sögu minni, kemur ekki fyrr en seinna." Hafði soldán ásett sér að heyra endirinn og lét því Sjerasade lifa þenna dag.


3. nótt

En er hallaði út hinni þriðju nótt, beiddi Dínarsade systur sína eins og að undanförnu að segja sér einhverja af fallegu sögunum, sem hún kynni, ef hún væri vakandi. En soldán heimtaði sjálfur framhald sögunnar af kaupmanninum og andanum; hjelt því Sjerasade henni áfram.

Herra! Meðan kaupmaðurinn og karlinn, sem teymdi hindina, voru þarna að tala saman, sáu þeir, hvar enn kom annar karl, og fylgdu honum tveir svartir hundar. Hann kom rétt að þeim, kastaði á þá kveðju og spurði, hvað þeir væru að gera á þessum stað.

Karlinn með hindina sagði honum þá frá viðskiptum kaupmannsins og andans og svardaganum, og að fresturinn væri á enda með þessum degi; kvaðst hann ennfremur ætla að bíða þarna og sjá, hvernig færi. Hinum karlinum þótti það líka tilvinnandi og ásetti sér að gera eins; settist hann því niður hjá hinum og gaf sig á tal við þá, en í því kom þriðji karlinn og hafði hann múldýr meðferðis. Hann spurði báða hina fyrri, hvers vegna kaupmaðurinn þarna hjá þeim væri svo sorgbitinn í yfirbragði, og sögðu þeir honum, hvernig á því stæði. Þótti honum eins og hinum þetta tilfelli svo einstakt, að hann vildi líka vera við, þegar þeir hittust, kaupmaðurinn og andinn.

Leið ekki langt um áður þeir sáu allfjarri þykkan rykmökk, sem þyrlaðist upp eins og fyrir vindi. Hann kom alla leið til þeirra og klofnaði í skyndi; sást þá andinn og heilsaði hann þeim ekki, heldur óð hann að kaupmanninum með sverð í hendi, greip hann í handlegginn og mælti: "Stattu upp, að ég drepi þig eins og þú hefur drepið son minn."

Kaupmaðurinn og karlarnir þrír fóru að gráta og hljóðuðu hástöfum upp yfir sig....

Þá sá Sjerasade að dagur var kominn og hætti hún við söguna, sem hafði æst forvitni soldáns svo mjög, að hann frestaði lífláti Sjerasade ennþá einn dag; svo hugleikið var honum að heyra endirinn.

Stórvezírinn varð því fegnari en frá megi segja, að soldán skipaði ekki heldur á þessum morgni að lífláta Sjerasade. Allir furðuðu sig á því, heimafólk hans, hirðin öll og hver maður út í frá.


4. nótt

Undir lok hinnar næstu nætur tók Sjerasade þannig til máls með leyfi soldáns: "Herra! Þegar karlinn með hindina sá að andinn hafði tekið kaupmanninn og ætlaði að drepa hann miskunnarlaust, féll hann fram fyrir óvættinn, kyssti á honum fæturna og mælti: "Anda drottinn, ég bið þig með auðmýkt að stilla bræði þína; sýndu mér þá náð, að taka eftir því, sem ég segi. Ég ætla að segja þér söguna af mér og hindinni þeirri arna. Skyldi þér þykja hún undarlegri og kynjalegri en ævintýrið kaupmannsins þarna, sem þú ætlar að drepa, mætti ég þá ekki vona, að þú gæfir upp þessum veslings aumingja þriðjung þess, sem hann hefur misgert?"

Andinn hugsaði sig um nokkra stund, og loksins svaraði hann: "Hana þá, látum oss heyra, ég læt það svo vera."
Netútgáfan - desember 2000