SAGAN  AF  ÖFUNDARMANNINUM  OG  HINUM  ÖFUNDAÐA
Í einni mikils háttar borg bjuggu tveir menn og stóðu hús þeirra hvort hjá öðru; hafði annar þeirra beiska öfund á hinum. Voru svo mikil brögð að því, að sá, sem fyrir öfundinni varð, réði það af að flytja burt, því hann þóttist sannfærður um, að nábúi hans hefði ekki orðið hatursmaður hans af öðru en því, að þeir bjuggu svo nálægt hvor öðrum, því hann hafði tekið eftir því, að hvað mikinn og margfaldan greiða, sem hann gerði honum, þá dró það ekkert úr úlfúð hans.

Öfundaði maðurinn seldi nú hús sitt og eigur, sem ekki voru miklar, og fluttist til höfuðborgar landsins, sem var ekki allfjarri þaðan, og keypti sér lítinn garð, sem lá eitthvað eina bæjarleið frá borginni. Fékk hann þannig hentugt íveruhús, fagran laukagarð og síðan forgarð, en í honum var djúp vatnsþró, sem nú var þornuð og gagnslaus.

Þegar hinn góði maður hafði fengið eign þessa, tók hann upp munkabúning; lét hann gera margar kompur í húsi sínu og safnaði að sér mörgum munkum. Fór nú brátt mikill orðstír af honum, og komu menn til hans úr öllum áttum og af öllum stéttum, sem höfðu öruggt traust á heilagleik hans og fólu sig honum á hendur til fyrirbæna. Hver, sem frá honum kom, kvaðst hafa hlotið náð og hjálpráð af guðs miskunn fyrir hans árnaðarorð.

Barst frægð hans einnig til borgar þeirrar, sem hann áður hafði dvalið í, og heyrði hinn öfundsjúki nábúi hans líka um þetta getið. Varð honum svo gramt í geði út af þessu, að hann fór frá heimili sínu og störfum, til þess að reyna að fyrirkoma honum.

Fór hann til hins nýja munklífis, og tók hinn fyrrverandi nábúi hans við honum með mestu vinahótum. Sagði öfundarmaðurinn honum þá, að hann væri kominn til þess að segja honum frá mikilsvarðandi máli, en gæti það ekki nema einslega.

"Við skulum ganga fram og aftur í forgarðinum yðar," mælti hann, "svo að enginn geti hlerað eftir því, sem við tölum, og ef yður svo lízt, þá ættuð þér að segja munkunum að ganga til herbergja sinna, því nótt er fyrir hendi."

Forstöðumaður munklífisins gerði sem hann bað, og þegar öfundarmaðurinn sá, að þeir voru tveir einir, tók hann að tala við hann um hitt og þetta, og gekk með honum fram og aftur um garðinn. En er þeir gengu á þróarbarminum, sætti hann lagi og hratt honum ofan í, og sá enginn maður þetta níðingsverk. Að því búnu hafði hann sig undir eins í burt og er hann var heim kominn, þóttist hann hafa farið góða ferð og var viss um, að nú væri sá af dögum ráðinn, er hann öfundaði svo mjög. En í þessu skjátlaðist honum"....


66. nótt

Dínarsade var ekki sein á sér þegar hún vaknaði, að spyrja systur sína, hvort hinn góði munkur hefði sloppið heill upp úr þrónni.

"Það skalt þú undir eins fá að heyra," anzaði drottning, "því nú segi ég framhald sögu hins annars förumunks." Það gerði hún á þessa leið:

"Í hinni gömlu vatnsþró bjuggu álfkonur og andar; tóku þau við munkinum er hann féll ofan og studdu hann, svo að hann kom ómeiddur niður. Sá hann nú að þetta var ekki einleikið, að slík bylta varð honum eigi að bana, en ekkert sá hann og einskis varð hann var, þó hann þreifaði fyrir sér.

En í sama vetfangi heyrði hann rödd, er spurði: "Vitið þið, hver maður sá er, sem vér létum falla á hendur vorar?" og er hinar raddirnar höfðu kveðið nei við, mælti hin fyrsta: "Það skal ég segja ykkur. Þessi öðlingur flýði borgina, sem hann bjó í, í bezta tilgangi og tók sér bólfestu hér, því hann vonaði fastlega, að hann fengi þannig útrýmt hatri eins af nábúum sínum. Hafði hann hér aflað sér svo almennrar virðingar, að öfundarmaðurinn hafði ekki viðþol, og gerði sér ferð hingað til að taka hann af lífi.

Mundi honum hafa tekizt það, ef vér ekki hefðum veitt þessu valmenni vort fulltingi. Er álit hans svo mikið, að á morgun mun einn af konungum nágranna landanna vitja á hans fund, til þess að láta hann biðja fyrir dóttur sinni."

Þá spurði ein röddin, hvers vegna kóngsdóttir væri komin upp á bænir munksins, og svaraði sú hin fyrsta: "Veiztu ekki, að hún er óð af völdum andans Maimúns Dimdims sonar, sem hefur ást á henni. Veit ég, hvernig hinn góði munkur gæti læknað hana fyrirhafnarlítið, og skal ég segja ykkur það.

Uppi í klaustrinu er svartur köttur með hvítan díl á rófunni, ekki stærri en lítill silfurpeningur. Þarf ekki annað en að slíta úr honum sjö hvít hár, svíða þau og láta reykinn leggja yfir höfuð kóngsdóttur. Mun hún þá samstundis verða alheil og laus við Maimún Dimdims son, svo að honum mun aldrei til hugar koma, að verða henni svo nærgöngull í annað sinn."

Munkurinn heyrði hvert orð, sem andarnir og álfkonurnar töluðu, en nú steinþögðu þau það sem eftir var nætur. En er ljómaði af degi og hann kunni að sjá deili á því, er í kringum hann var, sem var enn hægra fyrir það, að þróin var víða hrunin og gengin í sundur, fann hann skarð eitt og klifraðist upp úr því.

Voru munkarnir þá farnir að leita hans og urðu stórglaðir, er þeir sáu hann. Sagði hann þeim í stuttu máli frá illsku gests þess, er hann hafði svo vel fagnað daginn áður, og gekk hann því næst til herbergis síns. Leið eigi á löngu áður svarti kötturinn kom, sem andarnir og álfkonurnar höfðu á minnzt, og flaðraði upp á hann eins og hann var vanur. En hann tók köttinn, sleit sjö hár úr hvíta dílnum á rófunni og geymdi þau vandlega.

Skömmu eftir sólarlag kom konungurinn að dyrum munklífisins, því hann vildi af engu verða, sem hann hélt, að dóttir hans gæti læknazt af. Skipaði hann lífvörðum sínum að bíða, en fór sjálfur inn með helztu embættismönnum sínum.

Tóku munkarnir á móti honum með djúpri lotningu og tók konungur forstöðumann munklífisins afsíðis og mælti: "Kæri vitringur! Þú munt þegar vita, hverra erinda ég er kominn?"

Svaraði munkurinn kurteislega: "Já, konungur, ef ég get rétt, veldur sjúkleikur dóttur þinnar, að ég hlýt þessa óverðskulduðu sæmd."

"Svo er í sannleika," anzaði konungur, "og þætti mér, sem þú gæfir mér líf mitt, ef dóttir mín mætti verða heil heilsu fyrir árnaðarorð þín."

"Ef yðar hátign léti hana koma hingað," anzaði munkurinn, "er ég vongóður um, að hún gæti farið héðan alheil fyrir guðs hjálpráð og miskunnsemi."

Varð konungur næsta glaður og lét jafnskjótt sækja dóttur sína; kom hún brátt með fjölmennu föruneyti kvenna og geldinga og hafði svo þétta blæju, að andlit hennar var ósjáanlegt með öllu. Lét munkurinn halda reykelsiskeri yfir höfði hennar og óðar en hann hafði sviðið sjö kattarhárinu á hinum glóandi kolum, rak andinn Maimún Dimdims son upp ógurlegt öskur og lét kóngsdóttur lausa, en ekkert sást.

Hún brá þá blæjunni frá andliti sínu, til þess að litast um, hvar hún væri og kallaði upp: "Hvar er ég? Hver hefur flutt mig hingað?"

Þá réði konungurinn, faðir hennar, sér ekki fyrir óumræðilegum fögnuði; hann faðmaði dóttur sína að sér og kyssti á henni augun; hann kyssti á hönd munksins og spurði þá, er með honum voru: "Segið mér, hvað yður lízt, hver laun á sá skilið, er svo hefur læknað dóttur mína?"

Gullu allir við í einu hljóði og sögðu, að hann væri þess verður, að eiga dóttur hans, og gaf konungur honum hana og mælti: "Hið sama bjó mér í skapi og héðan af er hann tengdasonur minn."

Skömmu síðar dó vezír konungsins; lét hann þá munkinn taka við embættinu eftir hann, og er konugur andaðist sjálfur og lét engan erfingja eftir sig í karllegg, tók herliðið og klerkastéttin hinn öfundsæla mann til konungs í einu hljóði.


67. nótt

Hinn góði munkur var nú setztur í hásæti tengdaföður síns. Þá var það einn dag, að hann fór um borgina og fylgdi honum öll hirðsveit hans; sá hann þá öfundarmann sinn í fólksgrúa þeim, er saman flykktist.

Hann benti þá undir eins vezír sínum og sagði við hann í hálfum hljóðum: "Farðu og leiddu manninn þarna fram fyrir mig, en varastu að gera hann hræddan."

Hlýddi vezírinn, og er öfundarmaðurinn kom, tók konungur til máls: "Vinur minn! Mikil gleði er mér að sjá þig."

Því næst sneri hann sér að einum af embættismönnum sínum og mælti: "Tel þú manni þessum undir eins þúsund gullpeninga úr féhirzlu minni. Skal hann þar að auki hafa tuttugu hesta klyfjaða hinum dýrustu vörum úr forðabúrum mínum, og skulu heiðursverðir fara með honum til húsa hans."

Að því mæltu kvaddi konungur öfundarmanninn og fór leiðar sinnar.

"Þegar ég hafði sagt andanum sögu þessa," mælti enn fremur hinn annar förumunkur, "heimfærði ég hana þannig upp á hann: "Andi! Af þessu sér þú, að hinn góðviljaði konungur erfði það ekki við öfundarmann sinn, að hann reyndi að fyrirkoma honum, heldur gaf honum gjafir þar á ofan og lét hann fara heim til sín við mikla sæmd."

Í stuttu máli, ég tók á allri málsnilld minni til að særa hann til þess, að breyta eftir svo fagurri fyrirmynd og vitnaði ég einnig til vísna þessara:

Tak þú mjúklega
á mínum sökum,
sem drenglyndum
drottnum sæmir;
lát mér, lávarður
líknar auðið
hafi ég stórt brotið
stórmannlega.

Hver, sem vorkunnar
vænta þorir
sér máttkari manna,
sá skal gumi
af góðum hug
sér veslari vægja.

En andinn komst ekki við, heldur sagði hann: "Engin óþarfa orð! Ég get ekki gert meira fyrir þig en gefið þér líf. Gleddu þig ekki í voninni, að þú sleppir hegningarlaust; þú skalt kenna á mætti fjölkynngi minnar."

Að því mæltu hvarf hann með mig gegnum hallarhvelfingu, er laukst upp undir jörðinni, svo hátt í loft upp, að mér þótti jörðin sem lítið ský. Í sama bili steyptist hann ofan eins og elding og þusti niður á háan fjallshnúk.

Þar tók hann upp handfylli sína af mold og tautaði yfir einhver orð, sem ég ekki skildi, stráði síðan yfir mig og mælti: "Legg þú niður mannsmynd þína og bregztu í apa líki!"

Því næst hvarf hann og var ég nú orðinn að apa, yfirkominn af harmi, einmana í ókunnu landi, og vissi eigi hversu fjarkominn ég var ríki föður míns. Grét ég yfir hinum hvimleiðu hambrigðum, er ég hafði fyrir orðið, en ásetti mér samt að bera grimmd forlaganna með þolinmæði, því að ég vissi, að enginn sætir henni eilíflega.

Ég klifraðist nú ofan af fjallinu og kom niður á sléttlendi, og er ég hafði gengið heilan mánuð, kom ég að sjávarströnd. Meðan ég staðnæmdist þar og litaðist um, sá ég skip á uppsigling í hagstæðum vindi.

Vildi ég ekki sitja af mér svo gott tækifæri, braut því grein af eik nokkurri, dró hana á eftir mér út í sjó, settist síðan upp á hana klofvega og reri með tveimur hríslum, sinni í hvorri hendi. En er ég kom að skipinu, þótti skipverjum skringilegt að sjá mig og horfðu á mig með undrun. Greip ég nú í kaðal og klifraði upp á þilfar. Flykktust ferðamenn og sjómenn í kringum mig og var ég nú í mesta háska og vandræðum, því ég gat ekki talað.

Kaupmenn voru hjátrúarfullir og hræddir og héldu að ólán stæði af mér, ef ég væri liðinn innanborðs, og einn þeirra sagði: "Fleygið þessari illsvitandi ókind útbyrðis."

Sumir sögðu: "Ég rota það með kylfu, ég rek það í gegn með spjóti - ég hegg það sundur með sverði."

Mundi hótunum þessum hafa orðið framgengt, hefði ég ekki flúið á náðir skipstjórnarmanns; varpaði ég mér fyrir fætur honum og tók um fald klæða hans með bænarsvip. Hrærðist hann svo til meðaumkvunar af látbragði mínu og tárum þeim, er ég úthellti, að hann tók mig undir vernd sína og sagði hátt, að hver, sem gerði mér mein, ætti eftirmál við sig. Hann kjassaði mig og í orða stað lét ég þakklátsemi mína í ljósi með bendingum. Fór hann ávallt síðan vel með mig, enda gerði ég allt, sem hann skipaði mér, eins og þjónn, því ég skildi allt, er hann sagði.

Þegar vér höfðum farið leiðar vorrar fimmtíu daga í hagstæðum byr, sigldum vér farsællega inn á höfn fagurrar og fjölmennrar verzlunarborgar; kvað því meira að henni, sem hún var höfuðborg mikils ríkis. Vörpuðum vér akkeri og að lítilli stundu liðinni flykktust bátar kringum skip vort; voru þar komnir menn, er fögnuðu vinum sínum, er heim komu á skipinu, eða spurðu eftir kunningjum sínum þar sem skipið hafði að borið, en mörgum gekk ekki annað til en forvitni, að sjá svo langt að komið skip.

Komu og með þeim nokkrir Mamelúkar og kváðust vilja tala við hina aðkomnu kaupmenn í nafni soldáns, er sat þar í borginni. Samfögnuðu þeir þeim, að hafa farið svo góða ferð og tók einn af þeim til orða: "Soldán, herra vor, lætur boða fögnuð sinn yfir tilkomu yðvarri, og beiðist þess, að hver og einn riti nokkrar línur á pappírslengju þessa, eins og sýnishorn rithandar sinnar.

En svo þér vitið, í hverju skyni hann beiðist þessa, þá skal ég skýra yður frá því. Hans hátign hafði stórvezír þann, er leikinn var í öllum stjórnarstörfum og ritaði óumræðilega fagra hönd. Andaðist vezír þessi fyrir fáum dögum og liggur því sárilla á soldáni. Hafði hann aldrei séð skrift hans svo, að hann eigi dáðist að, og hefur því unnið þess dýran eið, að skipa aldrei hið auða sæti öðrum en þeim, er jafnfagra hönd skrifi. Hefur til þessa enginn fundizt í ríki hans, er verður sé að taka við tign hins framliðna vezírs."

Síðan skrifuðu kaupmennirnir, hver eftir annan, þeir, er þóttust skrifa svo vel, að þeir væru vaxnir hinu háa embætti.

Þegar þeir voru búnir, gekk ég til og tók pappírslengjuna af þeim, er seinast skrifaði. Varð nú mikill ys og háreysti, því allir, sem nærstaddir voru, og einkum kaupmennirnir, vissu ekki annað en að ég mundi rífa lengjuna í sundur og kasta henni í sjóinn. En þeir stilltu sig, þegar þeir sáu, að ég fór vel með hana og gerði þeim skiljanlegt með bendingum, að ég ætlaði líka að skrifa nokkuð.

Snerist nú kvíði þeirra í undrun. En með því þeir höfðu aldrei heyrt getið um apa, er skrifandi væri, og engin von var til, að þeir héldu, að ég væri betur að mér en aðrir apar, vildu þeir taka af mér lengjuna.

Kom þá skipstjórnarmaður mér til hjálpar og mælti. "Lofið þið honum það, látið hann skrifa. Óhreinki hann pappírinn, þá lofa ég ykkur, að hann skal hitta sjálfan sig fyrir, en skrifi hann vel, sem ég vona - því aldrei á ævi minni hef ég séð skynugri né fimari apa - mun ég taka mér hann í sonar stað. Ég átti einu sinni son og vantaði á, að hann hefði gáfurnar apans þess arna."

Nú meinaði mér enginn að sýna list mína, tók ég því pennann og lagði hann eigi frá mér fyrr en ég hafði skrifað sýnishorn af sex arabiskum leturtegundum; voru í hverju sýnishorni tvær eða fjórar línur, sem ég ritaði upp úr mér; var sumt hól um soldán, svo sem þetta:

"Orðstírinn hefur ritað lofsverk göfgra manna, en þín lofsverk getur enginn maður fært í letur. Ó, að guð svipti mannkynið aldrei slíkum föður, því að þú ert uppspretta alls ágætis. Skrifarinn deyr, en það, sem hönd hans hefur ritað, helzt við lýði; skrifaðu því aldrei annað en það, sem þú getur staðið við á dómsdegi."

Rithönd mín bar langt af skrift kaupmannanna og þori ég að ábyrgjast, að aldrei hefur jafnfögur hönd sézt þar á landi. Þegar ég var búinn að skrifa, fékk ég Mamelúkunum pappírslengjuna og fóru þeir aftur með hana til soldáns, herra síns.


68. nótt

Soldáni þótti á enga skrift horfandi, nema mína; líkaði honum hún svo vel, að hann sagði við menn sína: "Takið hinn fríðasta og fagurbitlaðasta gæðing úr hesthúsi mínu og einhvern hinn skrautlegasta klæðnað handa þeim, er skrifað hefur þessi sex sýnishorn, og látið hann koma á minn fund."

Við þessi orð soldáns ráku hirðmennirnir upp skellihlátur, en hann brást reiður við og var að honum komið að refsa þeim.

Þá sögðu þeir: "Herra! Vér biðjum yðar hátign forláts, en þessi skrift er ekki eftir mann, hún er eftir apa."

"Hvað er þetta?" kallaði soldán upp, "hefur ekki maður skrifað þessa gullfallegu stafi."

"Nei, yðar hátign!" svöruðu Mamelúkarnir, "við getum svarið, að þeir eru eftir apa; hann skrifaði þá að okkur ásjáandi."

Soldáni þótti tilfelli þetta merkilegra en svo, að honum væri forvitnislaust að sjá mig. Sagði hann því við hirðmenn sína: "Gerið sem ég hef skipað, og komið til mín með þenna sjaldgæfa apa."

Fóru þeir þá aftur út á skip vort, sögðu skipstjórnarmanni, hvað fyrir þá hefði verið lagt og svaraði hann: "Soldán á yfir mér að segja."

Færðu þeir mig þá í skrautlegan klæðnað, fluttu mig til lands, létu mig á bak hesti soldáns og fóru með mig til hallarinnar. Beið soldán mín þar og stóð í kringum hann fjöldi hirðmanna, er saman hafði verið stefnt mér til sæmdar. Þegar vér nú fórum um höfnina, torgin og strætin, úði og grúði hvívetna af fólki, körlum og konum; sást varla í glugga eða húsþök fyrir mannfjölda, því allt, sem vettlingi gat valdið, hljóp til handa og fóta úr öllum áttum borgarinnar, til þess að sjá mig.

Hafði fregn sú flogið um allt eins og elding, að soldán hefði gert apa að stórvezír. En er borgarlýðurinn hafði haft þetta sjaldfengna augnagaman af mér, sem heyra mátti af sífelldu ópi, kom ég til hallar soldáns. Sat konungur þessi í hásæti og höfðingjar ríkisins umhverfis hann; hneigði ég mig þrisvar sinnum djúpt fyrir honum, og fleygði mér síðan fram fyrir fætur honum og kyssti gólfið. Síðan settist ég fyrir framan hann eins og öpum er títt.

Gláptu allir, sem viðstaddir voru, á mig, og gátu sízt skilið, að ég vissi svo vel, hverja lotning bæri að sýna soldáni. En enginn var eins hlessa á þessu og soldán sjálfur. Vantaði ekkert á, að allt færi fram sem skyldi í áheyrnarsalnum annað en það, að ég gæti talað, en það hefur engum apa látið, og var mér ekki tungan tiltækari fyrir það, að ég áður hafði verið maður.

Loksins bauð soldán hirðmönnum sínum, að ganga út, og varð enginn eftir nema ég og höfuðsmaður geldinganna, lítill og unglegur þræll. Fór soldán síðan með oss til herbergis síns og skipaði að bera á borð.

Þegar hann var setztur til borðs, benti hann mér, að ég skyldi koma nær og borða með honum. Kyssti ég þá gólfið frammi fyrir fótum hans til merkis um hlýðni mína, færði mig síðan nær, settist til borðs og át með tærilæti og hæversku.

En áður borið væri af borði, hafði ég komið auga á skriffæri og lét ég skilja á mér með bendingum, að ég vildi að mér væru færð þau. En er það var gert, ritaði ég á stórt persneskt epli vísu eina, er ég sjálfur hafði ort. Síðan rétti ég soldáni eplið og féll hann í stafi, er hann las áskriftina.

Þegar borð voru upptekin, var honum færður drykkur, sem var hans aukageta; lét hann og rétta mér eitt staup af honum. Drakk ég það út og ritaði því næst vísu þessa:

Vildu mál mér
af munni toga,
og mér urpu
í eld heitan;
þrautir ég þoldi,
þeigi mælti:
því ber mig nú
þjóð á höndum,
því minnist ég
við meyja varir.

Þvínæst reis ég upp og settist á utanverðan legubekkinn, en soldán furðaði sig á ný, er hann las það, sem ég hafði skrifað og mælti: "Getur apa verið svo liðugt um orðfæri, getur hann skrifað slíka afbragðs hönd? Það er undur allra undra."

Þá færðu menn soldáni taflborð og spurði hann mig með bendingum, hvort ég kynni skáktafl og vildi tefla við hann. Kyssti ég á gólfið og lagði annan framhreifann upp á kollinn til merkis um að ég væri allfús til slíkrar sæmdar. Fyrsta taflinu tapaði ég, en vann hið annað og þriðja, en þegar ég sá, að honum líkaði miður, ritaði ég á skákborðið:

"Tvö herlið börðust liðlangan dag af ákafa, en undir nóttu gerðist friður og sváfu hvorir tveggja vært á vígvellinum."

Soldán las þetta, undraðist og mælti: "Væri maður fær um slíkt, mundi hann taka hinum mestu mönnum fram."

Nú átti soldán dóttur eina, er kölluð var "Fríða". Langaði hann til, að hún sæi mig leika nokkrar afbragðs listir mínar og skipaði því höfuðsmanni geldinganna, sem viðstaddur var: "Far þú til dóttur minnar og seg henni í mínu nafni, að hún skuli koma hingað; þykir mér vænt um, ef hún hefur aðra eins skemmtun og ég af þessum sjaldgæfa apa."

Fór þá höfuðsmaður geldinganna og kom skjótt aftur með kóngsdóttur; gekk hún inn og hafði enga blæju fyrir andliti.

En óðar en hún var inn komin huldi hún sig blæjunni og mælti við soldán, föður sinn: "Það undrast ég, að yðar hátign hefur gert boð eftir mér, þar sem ókunnugur maður er hér staddur."

En soldán varð hissa og anzaði: "Hvað er þetta, barnið gott! Ég sé engan nema litla þrælinn, höfuðsmann geldinganna og þig; er oss öllum heimilt að sjá andlit þitt. Og þó hylurðu þig blæju og veitir mér átölur fyrir að ég sendi eftir þér."

"Faðir minn!" anzaði kóngsdóttir, "þú munt játa, að ég hef rétt fyrir mér, því þó api þessi sé dýr að öllu sköpulagi, er hann í raun réttri konungborinn yngissveinn og sonur voldugs konungs. Honum hefur verið breytt í apa með töfrum. Það hefur gert andinn Dsjarsjaris Íblisson og hafði hann áður drepið dóttur Epítímarusar, konungs í Svartviðareyjum með ógurlegri grimmd."

Undraðist soldán mikillega, er dóttir hans sagði þetta; veik hann sér að mér og sagði, því nú talaði hann ekki lengur með bendingum: "Er þetta satt, sem hún segir um þig?"

Jánkaði ég með því að banda höfðinu, og tárfelldi; spurði soldán dóttur sína, hvernig hún vissi, að mér hefði verið breytt í apa.

"Það man víst yðar hátign," anzaði hún, "að gömul kona þjónaði mér, þegar ég var komin af barnsaldri. Hún bar gott skynbragð á töfra og kenndi mér töfralist. Kann ég hundrað og sjötíu töfrareglur utanbókar og með hinni lítilfjörlegustu get ég flutt borg þessa mitt út í meginhafið eða handan fyrir Kákasusfjöll.

Fyrir þessa kunnáttu get ég á augabragði þekkt alla töfraða menn; veit ég hverjir þeir eru og hver hefur töfrað þá. Því skal þér ekki kynlegt þykja, þó ég þekki kóngsson þenna, sem er í álögum, svo að honum er meinað að birtast í sinni náttúrlegu mynd."

"Á ég að trúa því, dóttir mín," tók soldán til máls, "að þú kunnir svo fágæta hluti og létir mig ekki vita af því."

"Faðir minn!" anzaði kóngsdóttir, "þetta eru undarlegir hlutir og er gott að vera fróður um slíkt; en ekki vildi ég segja mér það til ágætis."

"Ef svo er," mælti soldán, "muntu geta leyst kóngssoninn úr álögum."

"Svo er víst, yðar hátign!" anzaði kóngsdóttir, "ég get gefið honum aftur sína fyrri mynd."

"Þá særi ég þig fyrir nafn drottins, að gera það," mælti soldán. "Þú getur ekki veitt mér meira gleðiefni, því hann skal verða stórvezír minn og þú skalt verða konan hans."

Kóngsdóttir kvaðst vera boðin og búin að hlýða, hvað sem soldán skipaði."


69. nótt

"Fríða gekk burt," sagði hinn annar förumunkur, "og sótti hníf til herbergis síns; voru grafin ebresk orð á blaðið; því næst fór hún með soldán, höfuðsmann geldinganna, litla þrælinn og mig inn í leynigarð einn í höllinni. Lét hún okkur bíða undir loftsvölunum, sem voru þar allt umhverfis, en sjálf gekk hún út í miðjan garðinn, dró þar víðan hring og ritaði innan í hann mörg orð með arabisku og ýmsu fornu letri og stöfum þeim, er Kleópötru stafir nefnast.

En er hún hafði myndað hringinn þannig, sem hún ætlaði, settist hún í hann miðjan og las særingarþulur og ljóðmæli úr kóraninum. Þá tók að slá myrkri yfir loft, sem nótt væri komin, eða heimsslit væru fyrir hendi. Kom yfir okkur dauðans ótti og bar þó bráðum enn meiri ógn að höndum, því að allt í einu kom upp andinn, dóttursonur Íblis í skelfilegri mynd. Hendur hans voru eins og ógurlegir forkar, fætur hans eins og siglutré, og augun sem brennandi blys, og hryllti oss við að sjá hann.

Kallaði kóngsdóttir upp: "Kom þú aldrei heill!" og breyttist þá andinn jafnskjótt í líki ógurlega mikils ljóns.

Mælti þá kóngsdóttir: "Ertu svo djarfur, hundgrey, að koma í svo hræðilegri mynd og reyna að hræða mig, í stað þess að skríða fyrir fætur mér?"

Þá svaraði ljónið: "Og þú svífist ekki, að bregða sáttmáli því, sem við höfum samið og staðfest milli okkar með hátíðlegum svardaga, að við skyldurn hvorugt öðru mein gera?"

"Fyrir það einmitt," anzaði kóngsdóttir, "áttu brigzlyrði skilið af mér, þú hinn bölvaði andi!"

Þá öskraði ljónið og sagði: "Þú skalt gjalda þrauta þeirra, sem ég hef orðið að leggja á mig til að komast hingað."

Síðan glennti það upp hið ógurlega gin og óð að henni til þess að gleypa hana í sig. En kóngsdóttir vissi á hverju var von, stökk aftur á bak og fékk að eins tíma til að slíta eitt hár úr höfði sér, mælti hún þá nokkur orð og á augabragði varð úr hárinu biturlegt sverð og hjó hún með því ljónið sundur í miðju.

Hurfu báðir hlutirnir nema höfuðið, en það breyttist í digran sporðdreka. Þá brást kóngsdóttir jafnskjótt í höggorms líki og átti snarpar sviptingar við drekann, en er hann ætlaði að fara halloka, breytti hann sér í arnar líki og flaug burt. En höggormurinn breyttist í annan örn svartan og enn meiri og elti hinn; misstum vér þá sjónar á þeim báðum.

En nokkru á eftir klofnaði jörðin fyrir fótum vorum og kom upp svartflekkóttur köttur með úfið hár og emjaði ofboðslega. Elti hann svartur úlfur og kvaldi hann án afláts; breytti þá kötturinn sér í orm. Át ormurinn sig á augabragði inn í granatepli, sem lá þar á jörð fallið úr apaldri, er stóð á bakka rennu nokkurrar, djúprar, en eigi mjög breiðrar. Þrútnaði eplið og varð geysimikið um sig; síðan stökk það upp á pallþakið, veltist þar fram og aftur og datt loksins ofan í garðinn og hraut sundur í marga parta.

En á meðan var úlfurinn orðinn að hana, og fleygði hann sér yfir epliskjarnana og gleypti í sig hvern af öðrum; en svo vildu forlögin, að einn duldist honum yzt á rennubakkanum.

En er hann sá ekki fleiri, galaði hann; barði vængjunum og kom upp til okkar, var auðséð á látum hans, að hann spurði einhvers, en vér skildum hann ekki.

Þá gól hann svo ógurlega, að vér héldum að höllin mundi hrynja niður; sneri hann sér síðan við og kom auga á hinn síðasta kjarna eplisins. Flaug hann þangað í sama vetfangi, en í því hann ætlaði að gleypa hann með nefinu, hrökk kjarninn niður í vatnsrennuna og varð að litlum fiski....


70. nótt

Þegar skorað hafði verið á drottningu að segja framhald sögunnar, tók hún þannig til máls:

"Herra!" Hinn annar förumunkur sagði söguna þannig áfram: "Haninn steyptist ofan í rennuna og snerist í geddu líki og elti hinn litla fisk, sem skapaðist úr hinum síðasta epliskjarna. Voru báðir fiskarnir stundarkorn niðri og vissum vér ekki, hvað orðið var af þeim.

Loksins heyrðum vér hræðilegt öskur, svo að oss varð felmt, og samstundis komu andinn og kóngsdóttirin í augsýn, brennandi í ljósum loga. Hvæstu þau eldblástrum, hvort á annað og flugust loksins á, varð þá eldgangurinn enn meiri og veltist upp kafþykk reykjarsvæla með neistaflugi. Urðum vér hræddir um, að höllin öll mundi loga ofan og lá oss við, að steypa oss í rennuna, svo vér eigi brynnum upp.

En þá bar enn meira hræðsluefni að höndum. Andinn sleit sig af kóngsdóttur, flutti sig upp á pallana, þar sem vér stóðum og fnæsti yfir oss eldstrokum. Hefðum vér týnzt þar, ef kóngsdóttir hefði ekki óðar komið til vor og neytt hann til að sleppa oss og eigast við sig.

En eigi fékk hún við því gert, að neistar ruku á okkur af eldi þeim, er stóð bæði af henni og andanum. Þeir neistar, er af henni flugu, voru ósaknæmir, en hinir, sem komu frá andanum, sviðu skegg soldáns og andlit hans og drápu höfuðsmann geldinganna. Kom einn neisti í hægra auga mitt og hef ég síðan verið einsýnn.

Urðum við soldán þá afhuga allri lífsvon; en í því heyrðist hrópað: "Guð er hinn hæsti! Hann hefur hjálpað oss, sigrað og afmáð þann, er afneitaði Mahómet, höfði alls mannkyns."

Var það kóngsdóttir, er kallaði svo, og birtist hún allt í einu í sinni náttúrlegu mynd, og hafði hún brennt andann upp, svo að öskuhrúga ein var eftir. Kom hún til okkar og beiddi um fulla vatnsskál.

Færði henni skálina ungur þræll, sem ekki hafði farizt af eldinum; mælti hún nokkur orð yfir skálinni, stökkti á mig vatninu og mælti: "Sért þú fyrir töfra orðinn að apa, þá skiptu líkjum og taktu á þig mannsmynd þína, er þú áður barst."

Óðar en hún hafði úttalað, var ég aftur maður, eins og á undan álögunum, nema hvað hægra augað vantaði. Ætlaði ég þá að bera upp þakklæti mitt fyrir kóngsdóttur, en hún gaf mér engan tíma til þess, heldur veik sér að föður sínum, svo mælandi:

"Andann hef ég sigrað, faðir, sem yðar hátign getur séð, en sigur þessi varð mér dýrkeyptur. Ég á fá augnablik eftir ólifað, og ekki verður þér þeirrar gleði auðið, að gera brúðkaup mitt, sem þú ætlaðir. Hefur eldurinn læst sig um mig alla í þessum ógurlega bardaga og finn ég hversu hann eyðir mér. Mundi ekki hafa farið svo, hefði ég komið auga á hinn síðasta epliskjarna, þegar ég var í líki hanans, og gleypt hann eins og hina.

Andinn hafði flúið í hann eins og hið síðasta hæli, og undir kjarna þessum voru málalokin komin, og hefði mér ekki þurft að verða hætt né hamingju vant. En af vangæzlu þessari hlaut ég að neyta eldsins og berjast með þessu volduga vopni milli himins og jarðar, svo sem þú hefur séð. Hef ég að vísu sýnt andanum fram á það, svo hræðileg sem íþrótt hans er og reynsla, að ég var þó honum fjölkunnugri, en dauðann fæ ég eigi umflúið, er nú kallar að."


71. nótt

"Soldán lét Fríðu, dóttur sína, segja sér, hvernig bardaginn hafði farið, en er hún hafði lokið sögu sinni, svaraði hann kjökrandi, því hann var yfirkominn af áköfum harmi: "Dóttir mín! Þú sér, hvernig faðir þinn er á sig kominn. Ég skil ekki, að ég skuli enn vera á lífi. Höfuðsmaður geldinganna, siðameistari þinn, er dauður og kóngssonur sá orðinn eineygður, er þú leystir úr álögum."

Kom soldán ekki meiru upp fyrir gráti, ekka og andköfum, og sárkenndum við í brjósti um hann, dóttir hans og ég, svo að við tárfelldum með honum.

En meðan við börmuðum okkur þar, hvort í kapp við annað, tók kóngsdóttir að æpa: "Ég brenn, ég brenn!"

Hún fann hversu eldur sá, er eyddi henni, heltók líkama hennar og æpti hún án afláts: "Ég brenn," þangað til dauðinn sleit hinum óbærilegu harmkvælum. En svo var eldur þessi yfirtaks magnaður, að hún á svipstundu varð að ösku eins og andinn.

Vil ég ekki fara neinum orðum um það, hvað mér féll nærri að sjá þessa grátlegu sjón. Ég hefði heldur kosið að vera hundur eða api alla ævi mína en að hún, sem var lífgjafi minn, léti líf sitt svo hörmulega.

En hryggð soldáns keyrði fram úr öllu hófi; hann hljóðaði upp yfir sig aumkvunarlega, lamdi í andlit sér, sleit það, sem eftir var af skegginu, og reif klæði sín í sundur, þangað til hann varð magnþrota af örvæntingu og hné í ómegin, svo vér hugðum honum ekki lífvænt. Hlupu geldingar hans og þjónar á hljóðin og gátu nauðuglega komið honum til sjálfs sín. Sagði hann þeim frá viðureign Fríðu dóttur sinnar og andans, og hryllti þá við, að sjá leifar þeirra, báðar öskuhrúgurnar.

Undir eins og fregnin um þenna hryllilega atburð varð kunnug í höllinni og borginni, hörmuðu allir ólán Fríðu kóngsdóttur og tóku einlæga hlutdeild í harmi þessum. Konur og ambáttir kveinuðu hástöfum og var sorgarhátíð haldin í sjö daga samfleytt með mestu viðhöfn. Var ösku kóngsdóttur safnað saman og var hún látin í dýrindis byðnu, en þar sem viðburður þessi hafði orðið, var reistur dýrðlegur legstaður eftir boði soldáns og dóttir hans greftruð þar. En aska andans var ofurseld bölvun hins hæsta, og dreift víðsvegar, til þess að vindar feyktu henni í allar áttir.

Soldáni féllst svo mjög um missi dóttur sinnar, að hann tók sótt og var rúmfastur í mánuð. En áður en hann varð albata, gerði hann boð eftir mér og sagði: "Kóngsson! Heyr skipun mína, er ég legg fyrir þig; líf þitt er í veði, ef þú hlýðir ekki."

Ég sór og sárt við lagði, að ég skyldi hlýða samvizkusamlega, og mælti hann þá enn fremur: "Vér áttum óraskaðri fullsælu að hrósa, þangað til þú komst, því þá snerist oss allt til hamingjuleysis. Ó, að við hefðum aldrei séð þig og þína hvimleiðu mynd, er mér hefur orðið til svo mikils tjóns. Dóttir mín er dauð, og vildi ég heldur hafa látið hundrað menn og hún lifði, þar á ofan er ég stórum örkumlaður af bruna, og höfuðsmaður geldinganna dauður.

Þú einn veldur öllum þessum slysum, en það stóð ekki í þínu valdi að afstýra þeim, og far því héðan í friði. En haf þig tafarlaust á burt, því mér er sjálfum glötunin vís, ef þú dvelur hér lengur; ég er handviss um, að af þér stendur hin mesta óhamingja. Þetta var erindi mitt við þig; far nú og varast að stíga fæti á mitt land framar, því ég mun allt til vinna, að þú iðrist þeirrar farar."

Ég ætlaði að svara elnhverju, en hann þaggaði niður í mér með fáryrðum, og hlaut ég að fara burt úr höllinni. Svona var ég útskúfaður og hrakinn, yfirgefinn af veröldinni og vissi ekki, hvað af mér átti að verða; gekk ég til baðhúss nokkurs áður en ég lagði af stað úr borginni. Þar lét ég raka skegg mitt og augabrúnir og gerðist förumunkur. Fór ég því næst af stað og harmaði síður ólán mitt en dauða hinnar fögru kóngsdóttur, sem hlotizt hafði af mér.

Hef ég flakkað um mörg lönd og farið um margar borgir, en engum látið uppskátt, hver ég væri; ásetti ég mér loksins, að fara pílagrímsferð til Bagdad, sem er heimkynni friðarins, í þeirri von, að konungur rétttrúaðra manna mundi mér áheyrn veita og hrærast til meðaumkvunar, þegar ég segði honum frá fádæmum þeim, er drifið hafa á mína daga. Eg kom hingað fyrst í kvöld og mætti ég fyrstum manna förumunkinum, bróður vorum, er sagði sögu sína nú á undan mér. En hið annað vitið þér, lafði mín, og það einnig, hvernig mér varð þeirrar sæmdar auðið, að dvelja undir húsþaki yðar."

Þegar hinn annar förumunkur hafði lokið sögu sinni á þessa leið, mælti Sobeide við hann: "Látum það gott heita, far þú nú leiðar þinnar, þangað sem þér lízt; hefur þú mitt leyfi til þess."

En í stað þess að fara beiddist hann sömu náðar og hinn fyrsti förumunkur og tyllti sér síðan niður hjá honum.


72. nótt

Undir eins og hinn þriðji förumunkur sá, að hann átti að taka við, sneri hann sér að Sobeide eins og hinir og hóf sögu sína.
Netútgáfan - apríl 2001