Atli Harðarson


AÐ BERA ÁBYRGÐ Á NÁMI SÍNU1. HVAÐ ER ÁBYRGÐ?

Í skólamálaumræðu undanfarinna ára hafa flogið fyrir orð í þá veru að nemendur eigi að bera ábyrgð á eigin námi. Þetta hefur valdið mér nokkrum heilabrotum, meðal annars vegna þess að mér er engan veginn vel ljóst hvað fólk meinar með þessu orðalagi.

Lítum á dæmi um venjulega notkun á orðinu "ábyrgð":

* Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi og velferð barna sinna;

* Húsvörður ber ábyrgð á að ofnarnir séu rétt stilltir;

Í þessum venjulegu dæmum um setningar á forminu:

* A ber ábyrgð á x

er átt við að A sé skyldugur til að sjá um að x sé í lagi, eða sé rétt gert, og verði að taka á sig skaða, skammir eða kárínur ef svo er ekki.

Þegar menn segja eitthvað á borð við:

* Ég skal bera ábyrgð á að pakkinn komist til skila

þá eru þeir að taka á sig skyldu eða kvöð. Og þegar talað er um að menn eigi að taka á sig ábyrgð, eða axla ábyrgð, á einhverju er ýmist um það að ræða að þeir eigi að taka á sig einhverjar skyldur eða að þeir eigi að rækja skyldur sem þeir hafa.

Ábyrgð og ákvörðunarvald eða ráðstöfunarréttur fara oft saman. Ábyrgð foreldra á uppeldi og velferð barna sinna fylgir til dæmis vald til að ráða því að nokkru leyti hvernig þau eru alin upp. En ábyrgð felur alls ekki alltaf í sér réttindi, vald eða frelsi. Til dæmis getur vel farið saman að húsvörður beri ábyrgð á að ofnar séu rétt stilltir og hann sé bundinn í báða skó af reglum og tilskipunum og ráði því engu um hvernig þeir eru stilltir.

Við höfum nú áttað okkur dálítið á því hvað ábyrgð er. Hún afmarkast yfirleitt af skyldu, viðurlögum við að bregðast henni og því hvort, og þá hvers konar, frelsi, réttur eða vald fylgir. Fjórða atriðið sem ábyrgð getur afmarkast af er hvernig hún dreifist. Þetta fjórða atriði þarf ef til vill að skýra nánar.

Það að ég beri fulla ábyrgð á einhverju útilokar ekki að aðrir beri líka fulla ábyrgð á því. Að þessu leyti er ábyrgð eins og sekt. Ef tveir menn taka sig saman um að fremja morð þá verður hvor þeirra ekki hálfsekur heldur jafnsekur og hann væri ef hann hefði staðið einn að ódæðinu. Ef tveir sundlaugarverðir sitja aðgerðalausir á bakkanum og horfa á ósyndan krakka fara sér að voða í djúpu lauginni þá bera þeir báðir fulla ábyrgð ef illa fer, en ekki hálfa ábyrgð hvor. Og þótt verðirnir beri báðir fulla ábyrgð þá útlokar það ekki að gestir sem eru nærstaddir fyrir tilviljun beri líka nokkra ábyrgð á öryggi ósyndra barna sem eru að fíflast í djúpu lauginni. Það eru allir skyldugir til að skerast í leikinn ef þeir sjá börn fara sér að voða.

Þótt ábyrgð dreifist oft með þeim hætti að fleiri en einn fái fullan skerf nokkrir í viðbót hálfan þá er hitt líka til að einn maður beri alla ábyrgð og aðrir séu "stikkfrí". Í dæminu af húsverðinum er þetta ef til vill svona. Hann á að sjá um ofnana en aðrir eiga að láta þá vera, jafnvel þótt hitinn í húsinu sé kominn niður undir frostmark.

Þótt mikið vanti á að ég hafi afmarkað ábyrgðarhugtakið af fullkominni nákvæmni þá held ég að þessi drög að skilgreiningu dugi til að gera grein fyrir því hvað menn geta meint þegar þeir tala um ábyrgð nemenda á eigin námi.

Samkvæmt orðanna hljóðan má ætla að setningin:

* Siggi ber ábyrgð á eigin námi

þýði að Siggi sé skyldugur til að læra og verði að taka á sig skaða, skammir eða kárínur ef hann gerir það ekki. Ef tal um ábyrgð nemenda á eigin námi merkir ekki annað en þetta þá hef ég ekkert út á það að setja. Auðvitað eiga krakkar að læra og þola skammir ef þeir slá slöku við eða trassa námið. En ætli menn eigi bara við þetta þegar þeir segja að nemendur beri ábyrgð á eigin námi? Ég held ekki. Ég held að menn meini oftast nær eitthvað annað og meira.


2. SJÁLFRÆÐI EÐA SAMÁBYRGÐ

Án þess að ég vilji gera neinum upp skoðanir ætla ég að greina sundur tvenns konar hugmyndir sem legið geta að baki tali um ábyrgð nemenda á eigin námi. Aðra hugmyndina kenni ég við sjálfræði, hina við samábyrgð.

Sjálfræðishugmyndin gerir ráð fyrir því að ábyrgð nemandans fylgi fullt frelsi eða sjálfræði um hvernig hann hagar námi sínu; Nemandinn hafi ekki skyldur við aðra en sjálfan sig; Viðurlögin sem hann má þola ef hann bregst þessum skyldum séu menntunarleysi og skertir afkomumöguleikar sem því fylgja; en aðrir beri enga ábyrgð á námsgengi hans.

Þeir sem aðhyllast hugmyndir í þessum dúr gera væntanlega ráð fyrir því að það sé skylda skólans að bjóða upp á fjölbreytilegt nám, svo hver og einn geti fundið eitthvað við sitt hæfi, og persónulega ráðgjöf (eins og bankarnir og ferðaskrifstofurnar hafa) til að hjálpa hverjum nemanda að velja þá þjónustu sem best hæfir áhugamálum hans, hagsmunum, áformum, óskum eða duttlungum.

Þetta er óvenjuleg notkun á ábyrgðarhugtakinu. Í henni felst allt að því öfgafull einstaklingshyggja og sú ábyrgð sem um ræðir er hálf óraunveruleg því menn eiga það aðeins við sjálfa sig hvort þeir taka hana alvarlega. Svona sjálfræðishugmynd um ábyrgð nemenda á eigin námi samrýmist illa eða ekki hugmyndum um mannlega samábyrgð. Hún minnir einna helst á krambúðarmóral kaupahéðna sem segja við fólk: "Þið berið sjálf ábyrgð á eigin velferð, hún er ekki okkar mál - við förum ekki fram á annað en að þið borgið. Ef þið viljið kaupa fisk og kartöflur þá skuluð gera það og við skulum leggja til góð ráð svo þið finnið nú fisk og kartöflur sem ykkur líkar við. Ef þið viljið hins vegar lifa á brjóstsykri og karamellum þá skuluð þið gera það og við skulum hjálpa ykkur að finna besta kruðiríið."

Getur hugsast að svona krambúðarmórall sé í sókn innan skólakerfisins? Getur hugsast að sumir sem tala um ábyrgð nemenda á eigin námi meini að nemandinn einn beri alla ábyrgð á námsgengi sínu og kennarar hans séu "stikkfrí"? Ég vona ekki. Ég vona að þeir sem tala mest um að nemendur verði að bera ábyrgð á eigin námi hafi einhverja aðra hugmynd um ábyrgð en þessa sem ég kenni við sjálfræði. Að mínu viti er þessi hugmynd afar varhugaverð bæði vegna þess að það er svo auðvelt að nota hana til að afsaka ábyrgðarleysi kennara og skólayfirvalda og vegna þess að hún fær fólk til að líta á skóla sem þjónustufyrirtæki fremur en mennta- og uppeldisstofnun. (Í þessari fullyrðingu felst engin andúð á þjónustufyrirtækjum, aðeins sú skoðun að uppeldis- og menntastofnanir verði að bera meiri ábyrgð á skjólstæðingum sínum en fyrirtæki á borð við banka, ferðaskrifstofur eða veitingahús.)

Þetta var um sjálfræðishugmyndina. Nú sný ég mér að hinni hugmyndinni. Ég kenni hana við samábyrgð, því hún gerir ráð fyrir að þótt nemandinn beri ábyrgð á eigin námi þá beri skólinn líka ábyrgð á námi hans, enda útilokar ábyrgð eins ekki ábyrgð annars. Skólinn veitir nemandanum menntun með því skilyrði að hann axli ábyrgð, taki á sig þá skyldu að læra. Þetta er ekki bara skylda nemandans við sjálfan sig heldur líka við skólann og viðurlögin sem nemandi má þola ef hann bregst þessari skyldu eru ekki bara menntunarleysi heldur líka kárínur af hálfu skólans.

Samábyrgð nemanda og skóla útilokar að nemandinn hafi óskorað sjálfræði um hvernig hann hagar námi sínu. Skóli getur ekki frekar en nokkur annar borið ábyrgð á því sem er algerlega háð duttlungum annarra. Ef skóli á að bera einhverja ábyrgð á námi nemenda sinna þá verður hann að krefjast þess að þeir læri og vísa þeim burt ef þeir gera það ekki, alveg eins og sundlaugarvörður sem ber ábyrgð á öryggi gesta verður að krefjast þess að þeir virði öryggisreglur og vísa þeim burt ef þeir gera það ekki. Hann getur ekki hugsað sem svo að þeir sem endilega vilja geti bara drekkt sér, það sé þeirra mál, því um leið og hann gerir það varpar hann af sér allri ábyrgð. Það getur vel farið saman að nemendur beri ábyrgð á eigin námi og skólinn beri ábyrgð á uppfræðslu nemenda sinna. En það getur ekki farið saman að skólinn beri þessa ábyrgð og nemendur hafi óskorað sjálfræði um hvernig þeir haga námi sínu. Eigi skóli að taka einhverja ábyrgð verður hann að setja nemendum reglur um hvað þeir eiga að læra eða semja um það við þá og vera tilbúinn til að setja þeim stólinn fyrir dyrnar ef þeir uppfylla ekki þau skilyrði sem kveðið er á um.


3. "SEINFÆRIR" NEMENDUR

"Ábyrgð nemenda á eigin námi" er ekki eina klisjan í skólamálaumræðu síðust ára. Það er víst líka í tísku, að minnsta kosti í framhaldsskólum, að tala um "seinfæra" nemendur. Hér er átt við fólk sem gengur illa í námi af einhverjum ástæðum. Meirihluti þessa fólks hefur eðlilegar gáfur en hefur dregist aftur úr vegna lélegrar ástundunar. Hvers konar ábyrgð viljum við að þessir nemendur beri á eigin námi? Viljum við að þeir axli einir og hjálparlaust ábyrgð á því að velja milli þeirra kosta sem skólinn býður upp á og sjái sjálfir um að halda sér að vinnu eða viljum við að skólinn taki þá í læri og beri ábyrgð á að mennta þá?

Hvað ætli framhaldsskólar sem aðhyllast sjálfræðisútgáfuna af ábyrgð geri við nemanda sem vill ekki leggja sig fram, vinnur lítið og nær litlum árangri? Hvað geta þeir gert annað en boðið honum upp á nám sem gerir litlar kröfur? Varla mikið. Ekki geta þeir farið að stjórna nemandanum, eða láta hann vinna því til þess verða þeir að skerða sjálfræði hans og taka að nokkru á sig ábyrgð á árangrinum. Það er nefnilega ekki hægt að stjórna fólki, eða láta það gera neitt, án þess að taka á sig ábyrgð á því hvernig til tekst. Rökrétt afleiðing af þessari sjálfræðishugmyndafræði er skóli sem gerir litlar kröfur og ber enga ábyrgð og nemendur sem vita ekki hvað þeir eiga af sér að gera því þeir hafa engar skyldur við aðra en sjálfa sig, eða öllu heldur við eigin framtíð sem hlýtur að standa þeim næsta óljós fyrir hugskotssjónum.

Getur hugsast að skólar líði nemendum sínum að slugsa og slæpast vegna einhverra svona sjálfræðishugmynda um ábyrgð þeirra á eigin námi? Er nemendum fengið meira sjálfræði en þeir hafa gott af til þess að skólarnir sjálfir geti firrt sig ábyrgð?

Þeir sem leggja áherslu á mannlega samábyrgð og vilja axla ábyrgð á uppeldi og menntun næstu kynslóðar hljóta að velta þessum spurningum fyrir sér. Þeir geta tæpast litið á það sem sjálfsagðan hlut að fólk fái að ganga í skóla án þess að leggja sig fram um að læra.

Hvað eiga talsmenn samábyrgðar að gera við ungling sem vill ekki leggja sig fram, vinnur lítið og nær þess vegna litlum árangri? Þeir hljóta að setja honum úrslitakosti, segja honum að vinna verk sín undanbragðalaust og vísa honum úr skóla ef hann lætur sér ekki segjast. Kennarar geta ekki bæði sagst ábyrgjast að nemendur menntist og liðið að sumir þeirra þrjóskist við að læra. Rökrétt afleiðing af hugmyndinni um samábyrgð nemanda og skóla er skóli sem gerir kröfur og nemandi sem veit og finnur hver skylda hans er.

Ég hef nú reynt eftir föngum að gera mér grein fyrir því hvað fólk getur verið að meina þegar það segir að nemendur eigi að bera ábyrgð á eigin námi, bent á tvær ólíkar meiningar eða hugmyndir sem geta legið að baki þessum orðum og rökstutt að þær kalli á gerólíka stefnu í málum svokallaðra "seinfærra" nemenda.

Mig grunar að ýmsir þeir sem tala um ábyrgð nemenda á námi sínu hvarfli á milli þessara tveggja meininga og viti jafnvel ekki gerla hvað þeir eru að fara. Slíkt er ætíð varhugavert. Ef menn skilja ekki sjálfir það sem þeir segja þá er hætt við að þeim vefjist tunga um höfuð.

Þegar menn tala um ábyrgð nemanda á eigin námi ættu þeir að spyrja sig: "Hvaða skyldu er ég að tala um? Hvaða viðurlög eru við að bregðast henni? Fylgir þessari ábyrgð frelsi, vald eða réttur af einhverju tagi? Hverjir bera hana með nemandanum?" Geti menn ekki svarað þessum spurningum þá vita þeir ekki hvað þeir eru að tala um og ættu því að fullyrða sem minnst.

Atli Harðarson - 1993


Netútgáfan - mars 1998