Atli Harðarson


BIBLÍAN OG HÓMER - VALÁFANGI Í BÓKMENNTUM


Nokkrar hugmyndir um bókmenntakennslu

Ég er ekki móðurmálskennari. Á síðasta skólaári átti ég þess samt kost að kenna einn íslenskuáfanga við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þessi áfangi heitir ÍSL 362. Hann er ekki skylda á neinni braut og innihald hans er óbundið.

Ég bað um að fá að kenna þennan áfanga vegna þess að ég vildi reyna nokkrar hugmyndir sem ég hafði um bókmenntakennslu og markmið hennar.

Ég taldi að meginmarkmið bókmenntakennslu ættu að vera að:

   1.   nemendur lesi sem mest af góðum bókmenntum og njóti þeirra
   2.   og noti bókmenntir til að þroska gildismat sitt og skilning á mannlífinu.

Ég vildi haga kennslunni þannig að nemendur læsu sem mest án þess að miða lesturinn við próf og skrifleg verkefni og þeir ræddu efni bókmenntatextanna án þess umræðunar snerust um það eitt að ljúka einhverjum tilteknum verkefnum og fá sem hæsta einkunn fyrir.

Ég vildi ennfremur sleppa allri tæknilegri bókmenntagreiningu. Þetta ber ekki að skilja svo að ég hafi neitt á móti því að fræðileg hugtök séu notuð til að fjalla um bókmenntir. Eiginleg bókmenntafræði kemst auðvitað ekki af án þeirra. En markmið þessa áfanga átti alls ekki að vera að kenna bókmenntafræði:

Bókmenntir eru ekki til þess að efla skilning fólks á eiginleikum frásagna og myndmáls. Þær eru heldur ekki til þess að sýna hvernig nota má sjaldgæf orð eða merkileg stílbrigði. Þótt bókmenntafræði sé ágæt vísindagrein eru bókmenntirnar ekki til fyrir hana neitt frekar en maturinn er til í þágu matvælafræðinnar. Hafi bókmenntir einhvern tilgang þá er hann sá að þroska gildismat fólks og skilning á mannlífinu. Ég vildi skipuleggja áfangann með þeim hætti að þessi tilgangur bókmenntanna sjálfra næði fram að ganga.

Markmið og mat
--------------
Þessar hugmyndir um markmið bókmenntakennslu höfðu verið á rölti um kollinn á mér nokkurn tíma áður en ég áræddi að fara þess á leit að fá að kenna bókmenntaáfanga. En þegar áfanginn sá arna var kominn inn í stundatöfluna mína varð ég að vinna úr hugmyndunum, velja lesefni, ákveða hvernig námsmati skyldi háttað, semja kennsluáætlun, búa til verkefni o.s.fr.

Ég hef ímugust á prófum svo ég ákvað strax að áfanginn skyldi vera próflaus. Þá lá beinast við að láta nemendur vinna verkefni og gefa einkunnir fyrir þau. Ég áttaði mig þó í tæka tíð, áður en kennsla hófst, á því að erfitt yrði að nota verkefni sem tæki til að mæla hversu vel nemendur næðu ofangreindum markmiðum. En hvernig átti þá að gefa þeim einkunn?

Auðveldasta leiðin til að meta nemendur hefði sjálfsagt verið að mæla eitthvað allt annað en það hversu vel þeir næðu markmiðum áfangans: Til dæmis var hægt að láta þá skrifa ritgerðir og gefa einkunn fyrir efnistök, stíl og stafsetningu; Það var hægt að leggja fyrir þá spurningar úr textunum og gefa einkunn eftir því hve vel þeir myndu einhver tiltekin (smá)atriði; og svo var hægt að labba með þá út í sundlaug og gefa einkunn fyrir hversu hratt þeir syntu 200 metrana. Í öllum tilvikum hefðu nemendur verið metnir eftir frammistöðu í einhverju allt öðru en því sem þeir áttu að gera og um leið hefði markmiðum áfangans verið breytt. Það breytir nefnilega litlu hvaða markmið áfangi hefur í orði kveðnu. Þau markmið sem nemendur keppa að eru yfirleitt þau sem þarf að ná til þess að fá góða einkunn.

Vildi ég í raun og veru halda mig við þau markmið að:

   1.   nemendur lesi sem mest af góðum bókmenntum og njóti þeirra
   2.   og noti bókmenntir til að þroska gildismat sitt og skilning á mannlífinu

þá varð ég að finna upp einhvers konar námsmat sem hvetti þá til að keppa að þessum markmiðum. Þetta kostaði töluverðar pælingar.

Ég er ekki sá draumóramaður að ég haldi að einkunnir séu óþarfar. Reynsla mín af kennslu bendir til þess að einkunnir hvetji nemendur til dáða og þeir verði yfirleitt því iðnari því meiri vonir sem þeir hafa um að fá háa einkunn í laun fyrir iðjusemina.

Lausnin sem ég fann á þessum vanda var sú að láta nemendur safna stigum með lestri, skrift og þátttöku í hópvinnu og umræðum. Fyrir að skrifa ritgerð eða sögu fengust til dæmis 10 stig. Fyrir að lesa bók fengust frá 2 upp í 20 stig, eftir lengd bókarinnar. Fyrir þátttöku í hópvinnu og umræðum fengust líka stig. Með því að lesa nógu margar bækur, mæta í nógu marga tíma og skrifa nógu margar ritgerðir eða sögur gat hver sem er fengið 100 stig og 10 í einkunn.

Þar sem ég gerði ráð fyrir því að von um háa einkunn hvetti nemendur til að vinna vel þótti mér rétt að gefa öllum góða von um að ná 10 með nægilegri ástundun.

Þessi aðferð við námsmat tryggir auðvitað ekki að nemendur nái markmiðum áfangans. En hún hvetur þá til að gera allt sem gera þarf til að ná þessum markmiðum, nefnilega að lesa bókmenntir, velta þeim fyrir sér og ræða efni þeirra. Þetta þykir flestum heldur skemmtilegt og sé skemmtuninni ekki spillt með kröfum um að menn finni föflur og fléttur eftir pöntun, stafsetji ritgerðir eftir kúnstarinnar reglum og taki lýtalaus heljarstökk afturábak hvenær sem kennarinn vill þá þarf ekkert meira til að markmiðin náist að svo miklu leyti sem guð lofar.

Nánari útfærsla
---------------
Þegar ég hafði áttað mig á þessum staðreyndum um námsmat reyndist auðvelt að móta áfangann. Ég ákvað að taka fyrir valda kafla úr Gamla Testamentinu og forngrískum bókmenntum. Lesefnislistinn varð svona:

Úr Gamla Testamentinu:
	Fyrsta bók Móse
	Dómarabókin 13.-16. og 19.-21. kafli
	Fyrri Samúelsbók 16.-20. kafli
	Síðari Samúelsbók 1.-13. kafli
	Davíðssálmar númer 8, 19, 23 og 137
	Ljóðaljóðin

Úr forngrískum ritum: Hómer: Odysseifskviða 6.-10. kafli Saffó: Nokkur ljóð Sófókles: Antígóna

Fyrir að lesa þessar bækur og mæta í tíma og ræða efni þeirra, og taka þátt í hópvinnu gátu nemendur fengið allt að 40 stigum. Sá sem mætti í yfir 90% tíma, las allar þessar bækur og tók virkan þátt í hópvinnu fékk fyrir það 40 stig. Sá sem vann helminginn af þessu, las aðeins helming bókanna og mætti aðeins í helming kennslustunda fékk 20 stig o.s.fr. Til þess að komast að því hvort nemendur lásu það sem sett var fyrir spurði ég þá hvort þeir væru búnir að lesa heima.

Auk þessa lista yfir rit sem allir skyldu lesa og fjallað yrði um í tímum fengu nemendur lista yfir kjörbækur. Á þeim lista voru fleiri rit úr Gamla Testamentinu og fleiri forngrísk bókmenntaverk. Hverjum titli á listanum fylgdi tala sem sagði hve mörg stig fengjust fyrir að lesa það rit. Til dæmis voru gefin 2 stig fyrir að lesa Jónasarbók, 5 stig fyrir Jobsbók, 10 fyrir að lesa Söguna af Dafnis og Klói og 20 fyrir að lesa Odysseifskviðu alla. Með því að lesa bækur af þessum lista gátu nemendur safnað allt að 40 stigum.

Þegar nemandi hafði lokið við eina bók af listanum lét hann mig vita og ég lagði þá fyrir hann nokkrar léttar spurningar til þess að ganga úr skugga um að hann kannaðist við efni hennar. Þessar spurningar voru vitaskuld tómt formsatriði því engum nemanda hefði dottið í hug að ljúga til um lestur sinn.

Með því að lesa bækur og mæta í tíma gátu nemendur þannig safnað allt að 80 stigum og fengið allt að 8 í einkunn. Til að ná þeim 20 stigum sem á vantar til að fá 10 í einkunn þurftu þeir að skrifa. Fyrir stutta (4 - 6 bls.) ritgerð eða sögu fengust 10 stig og nemendur máttu skila eins miklu og þeir vildu. Sá sem skrifaði 4 smásögur fékk þannig 40 stig fyrir skriftir og þurfti því ekki að fá nema 60 fyrir lestur til að ná 10 í einkunn.

Ég gaf ekki einkunn fyrir texta sem nemendur skiluðu. Annað hvort dæmdi ég textann nógu góðan og gaf 10 stig fyrir eða ég bað höfund að lagfæra hann og skila aftur. Ég setti þau skilyrði að textarnir sem nemendur skrifuðu tengdust lesefninu á einhvern hátt og að þeir fengju annan úr hópnum til að lesa yfir og leiðrétta uppkast fyrir sig. Sem dæmi um efni má nefna: Snúa kafla úr Odysseifskviðu yfir á bundið mál undir bragarhætti frumtextans; Endursegja söguna um sonarfórnina (Gen. 22) í stíl Hómers; Segja söguna af Davíð og Batsebu í fyrstu persónu og láta annað þeirra vera sögumann; Endursegja söguna um Adam og Evu fyrir börn á forskólaaldri.

Hvernig gekk?
-------------
Nemendur í ÍSL 362 voru fáir og áhugasamir eins og gengur í valáföngum. Það er því erfitt að meta af neinu öryggi hvaða árangurs má vænta af þeim aðferðum við námsmat sem hér hefur verið lýst. Þessir fáu áhugasömu nemendur hefðu sjálfsagt staðið sig vel hvað sem ég hefði gert. En alltént varð þetta skemmtilegur áfangi og ég held að þessi gerð námsmats hafi hvatt nemendur til að lesa meira og betur en þeir hefðu gert fyrir próf. Ég held ennfremur að þegar mestu skiptir að glæða áhuga nemenda, hvetja þá til vinnu eða efla með þeim einhverja kosti sem verða trauðla mældir, hljóti námsmat af þessu tagi, þar sem stig eru gefin fyrir lestur eða aðra vinnu, að vera heppilegra en hefðbundin einkunnagjöf.

Atli Harðarson - 1990


Netútgáfan - janúar 1997