Atli Harðarson


HUGLEIÐING UM MENNTUN FRAMHALDSSKÓLAKENNARA OG LÖGVERNDUN Á STARFSRÉTTINDUM ÞEIRRALög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara, grunnskólakennara og skólastjóra tóku gildi í maí 1986. Í 7. grein laga þessara segir:

"Til þess að vera skipaður, settur eða ráðinn kennari við framhaldsskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari skv. 1. gr."

Í fyrstu grein laganna er kveðið á um hverjum má veita leyfi til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Í stuttu máli eru ákvæðin á þá leið að slíkt leyfi megi aðeins veita þeim sem lokið hafa B.A. eða B.S. námi eða námi í einhverri viðurkenndri fagrein eða sérgrein og eins árs námi í uppeldis- og kennslufræði að auki.

Í upphafi bundu kennarar vonir við að lögin yrðu til þess að starf þeirra yrði betur launað. Þær vonir hafa brugðist. Einnig vonuðu margir að lög þessi mundu efla kennarastéttina, auka faglegan metnað hennar og stuðla að betra skólastarfi. Þessar vonir hafa heldur ekki ræst.

Áður en við veltum því fyrir okkur hvers vegna þessar vonir hafa brugðist ættum við að hugleiða hvort lögverndun á starfsréttindum eigi yfirleitt einhvern rétt á sér. Þetta álitamál varðar kennara ekkert sérstaklega. Það eru sömu rök sem mæla með og á móti lögverndun á starfsréttindum þeirra og annarra stétta, t.d. iðnaðarmanna og lækna.

Um þetta efni segir Jón Torfi Jónasson á einum stað:

"Það verður að gera ráð fyrir því að í þessu viðamikla kerfi [skólakerfinu] eins og öllum öðrum sambærilegum kerfum starfi saman fólk sem hefur margvíslegan bakgrunn. Sumir geta t.d. haft uppeldisfræðilega menntun, aðrir ekki, sbr. tækni- og listafólk. Til þess verður að bjóða upp á fjölbreytt nám auk þess að leyfa að fólk komi úr mörgum áttum til starfans. Á lögverndun starfs kennara verður að líta sem nauðvörn í kjarabaráttu, en þeim tilgangi sem almennt á að ná með lögverndun verður að leitast við að ná með öðrum hætti í því þjóðfélagi sem nú blasir við. Það er ekki lengur framtíðarspá að benda á að viðhorf og tækni í fjölmörgum störfum breytist svo skjótt að sífelld endurnýjun sé bæði eðlileg og nauðsynleg - óumflýjanleg. Það gengur ekki að á sama tíma og slíkt gerist reyni sífellt fleiri stéttir að ná fram einhvers konar einkarétti á störfum eftir að hafa gengið einhverja tiltekna námsbraut, e.t.v. í örfá ár einhvern tíma fyrir upphaf síns starfsferils. Það verður æ erfiðara að réttlæta baráttu fyrir einkarétti með faglegum rökum. (Jón Torfi Jónasson 1988, bls. 88 - 89.) "

Mér virðist augljóst að það sé töluvert vit í þessum orðum Jóns Torfa. Með hverju ári sem líður verður fráleitara að hugsa sér að nokkurra ára skólaganga ráði úrslitum um hvort menn eru færir um að gegna starfi sem breytist ár frá ári. Lögverndun á störfum byggist á því að ofmeta gildi slíkrar skólagöngu og vanmeta gildi símenntunar, reynslu og sveigjanleika á vinnumarkaði. Hún leggur líka óréttlátar hömlur á atvinnufrelsi fólks.

Öll þessi rök vega þungt. En á móti þeim vega þau rök að lögverndun á starfsréttindum getur komið í veg fyrir að algerir skussar séu ráðnir til starfa. Þar sem samkeppni ríkir og atvinnurekendur eiga á hættu að verða undir ef þeir ráða lélega vinnumenn er kannski ekki mikil hætta á þessu. En þar sem vinnuveitandinn þarf ekki að óttast samkeppni og tapar sjálfur engu þótt hann ráði óhæfan starfskraft þar er þessi hætta raunveruleg. Þetta kann að mæla með lögverndun á starfsréttindum kennara. Að mínu viti eru þessi rök þó fremur veik og því miður er ég hræddur um að helstu rökin fyrir lögverndun á störfum kennara séu þau að laun þeirra séu svo lág að erfitt sé að laða dugandi menn að starfinu.

Ef launin væru svo há að margir sæktu um hverja stöðu sem losnar og ef skólastjórnendur sem velja úr hópi umsækjenda væru yfir það hafnir að láta annarleg sjónarmið ráða vali sínu þá veldust hæfir menn í starfið þótt engra svona laga nyti við. En meðan launin eru lág og faglegur metnaður sumra skólastjórnenda ef til vill ekki nógu mikill þarf einhvers konar öryggisnet til þess að koma í veg fyrir að óhæfur umsækjandi sé ráðinn til frambúðar.

Hvers vegna brugðust vonir kennara um að í kjölfar laganna frá 1986 kæmu hærri laun, efling stéttarinnar og bætt skólastarf?

Hugum fyrst að þessu með launin. Hvers vegna datt mönnum í hug að lögvernd á starfsheiti framhaldsskólakennara mundi auðvelda þeim baráttuna fyrir bættum launum? Vegna þess að lögmálið um framboð og eftirspurn gildir um vinnu eins og annað sem menn kaupa og selja. Sé framboð minna en eftirspurn hækkar verðið. Ef sá hópur sem hægt er að ráða til kennslu verður of lítill til að allir sem vilja kaupa kennslu geti fengið hana þá ætti verðið, þ.e.a.s. laun kennara að hækka. Þótt þetta lögmál gildi almennt og yfirleitt í viðskiptum gildir það ekki um íslenska kennara. Ástæður þessa eru m.a. að það er aðeins einn kaupandi (nefnilega ríkið). Ef kaupendurnir væru fleiri og stæðu í samkeppni sín á milli þyrftu þeir að bítast um færustu kennarana og mundu reyna að laða þá til sín með yfirborgunum.

Að vísu má hugsa sér að ríkið bregðist við kennaraskorti með því að hækka launin svo mikið að kennarar sem hafa snúið til annarra starfa komi aftur til kennslu. Líklega vonuðu menn að eitthvað þessu líkt gerðist. En það varð ekki sumpart vegna þess að það hefur ekki orðið svo mikill skortur á kennurum því ríkið hefur mannað lausar stöður með leiðbeinendum.

Þetta var óhjákvæmilegt meðal annars vegna þess að það var ekki hægt að manna skólana með tómu réttindafólki strax og lögin tóku gildi svo það varð að leyfa þeim að ráða leiðbeinendur. Öllum var ljóst frá upphafi að margir þessara leiðbeinenda eru ágætir kennarar og skólastjórnendur reyndu víða að halda hlífiskildi yfir þeim. Þetta varð til þess að draga úr virðingu kennara og skólastjórnenda fyrir lögunum. Skólamenn stóðu því engan veginn eins dyggan vörð um þau og þurfti til að ríkið færi að finna fyrir kennaraskorti.

Lögverndunarlögin hefðu ef til vill virkað til að hækka laun kennara ef fólk hefði almennt trúað að réttindamenn hafi afgerandi yfirburði yfir leiðbeinendur. En það gerði nánast ekki nokkur maður, enda var og er munurinn á dæmigerðum réttindamanni og dæmigerðum leiðbeinanda sá helstur að réttindamaðurinn hefur lokið 30 eininga námi í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda en leiðbeinandinn ekki. Engir, ekki einu sinni hörðustu talsmenn laganna frá 1986, trúðu því að eins árs nám í uppeldis- og kennslufræðum gæfi réttindakennurum neina afgerandi yfirburði yfir leiðbeinendur.

Það er auðvelt að vera vitur eftir á og nú getum við séð og skilið að lögin frá 1986 voru aldrei líkleg til að bæta kjör okkar kennara og hvað þá að bæta skólastarf svo neinu nemi.

En hvað um eflingu stéttarinnar. Á seinni árum hefur framvarðasveit kennara haldið á lofti hugmyndum um fagmennsku og minnt okkur á að kennarar eru fagmenn og þeir mynda fagstétt á líkan hátt og læknar eða ýmsar stéttir iðnaðarmanna. Talsmenn uppeldis- og kennslufræða halda því fram að það séu þessi fræði sem gera kennara að fagmönnum. Nám í þeim breyti efnafræðingum, málfræðingum, sagnfræðingum, leikurum, trésmiðum og heimspekingum í fagmenn á sviði kennslu. Mér finnst þetta ákaflega hæpin skoðun og trúi því raunar alls ekki að eins árs inngangur að félagsvísindum og smá æfingar í einhverri tækni (eins og glærugerð) geti breytt neinum í fagmann. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands. Það nám sem þar er boðið upp á er vel samboðið hvaða háskóla sem er. En það er samt jafnmikil blekking að halda að það breyti fólki með B.A. og B.S. próf í fagmenn á sviði kennslu eins og að halda að árs nám í líffræði trjáplantna, arkitektúr og félagsfræði byggingariðnaðarins geti breytt þessu sama fólki í húsasmíðameistara.

Ranghugmyndir um að uppeldis- og kennslufræðinám geri kannara að fagmönnum hafa spillt fyrir stéttinni. Menn hafa séð að þetta nám gefur mönnum enga verulega yfirburði (þótt vissulega sé það langt frá því að vera gagnslaust) og að það veitir aðeins yfirborðsþekkingu í greinum eins og þroskasálarfræði, próffræði, félagsfræði menntunar og námsskrárfræðum. Og kennarar hafa spurt sig: Hvernig getur yfirborðsþekking í nokkrum greinum sem við höfum aðeins takmörkuð not fyrir í starfi gert okkur að fagmönnum? Og svarið hefur gefið sumum þeirra tilefni til að efast um að þeir séu yfirleitt neinir alvöru fagmenn.

Þessar ranghugmyndir eru reyndar hluti af villutrú sem hefur afvegaleitt ýmsa aðra en kennara. Ein kennisetning þessarar villutrúar er sú að öll fagmennska hljóti að vera afrakstur formlegrar skólagöngu. Önnur kennisetning hennar er sú að maður sé ekkert nema hann eigi bréf upp á það.

Nú hef ég ekki tiltæka neina tæmandi greinargerð fyrir því hvaða munur er á fagstéttum og öðrum stéttum eða hvað það er sem gerir menn að fagmönnum. Ég þykist þó vita að til að starfsmenn í einhverri grein geti talist fagmenn þurfa þeir meðal annars að hafa sameiginlega vitund um skyldur sínar við starfið og þær hugsjónir sem í því felast og vera stoltir af því að rækja þessar skyldur. Þetta má orða svo að fagmenn beri virðingu fyrir starfi sínu.

Það er sama hvaða starf menn stunda, þeir hafa skyldur við vinnuveitendur sína og/eða viðskiptavini. En vilji menn teljast fagmenn verða þeir líka að bera virðingu fyrir starfinu og rækja skyldur sínar við greinina. Iðnaðarmaður sem tekur fagmannshlutverkið alvarlega skilar til dæmis ekki lélegu verki, ekki einu sinni þótt viðskiptavinur hans biðji hann um það - segi kannski eitthvað á borð við: "Æ, klastraðu þessu bara saman, þetta verður hvort sem er rifið næsta sumar." Virðing hans fyrir starfinu útilokar að hann sætti sig við að klastra hlutunum saman.

Fagmennska sem einkennist af svona virðingu fyrir starfinu er til mikils menningarauka og vonandi mun hún blómstra meðal kennara. En mér virðist að sú regla að menn skuli bæta árs námi í uppeldis- og kennslufræði við BA eða BS próf sé ekki sérlega vel til þess fallin að efla hana. Raunar held ég að ekkert nám sem er skipulagt af utanaðkomandi aðilum geti eflt vitund stéttarinnar um faglegar skyldur og gert hana stolta af hlutverki sínu. Fagstétt verður að bera ábyrgð á sjálfri sér og þar með á uppeldi nýliða. (Í þessu sambandi er umhugsunarefni hvort sumir hópar iðnaðarmanna séu að glata fagmennskunni vegna þess að menntun þeirra er í auknum mæli stjórnað af fólki utan stéttarinnar.)

Hvað er til ráða? Ég held að það sé hægt að laga lögin frá 1986 þannig að þau stuðli að bættum kjörum og eflingu faglegrar vitundar meðal kennara og þar með að bættu skólastarfi.

Til þessa þarf menntun framhaldsskólakennara að verða samstarfsverkefni skólanna sjálfra, kennarafélaganna (HÍK og KÍ) og menntastofnana á háskólastigi. Það má til dæmis hugsa sér að þegar réttindalaus maður sækir um starf við framhaldsskóla þá geti skólinn tekið hann í læri, að því tilskildu að hann hafi kunnáttu eða hæfileika í einhverjum greinum og réttindamaður sæki ekki um á móti honum. Hann yrði þá með minna en fulla kennslu í eins og tvö ár, nyti leiðsagnar reyndra kennara og yrði sendur á námskeið og/eða látinn stunda einhvers konar fjarnám í þeim greinum sem ekki er heppilegt að kenna á staðnum. Námið yrði að langmestu leyti verklegt, enda ekki nauðsynlegt að allir kennarar læri þann inngang að sálfræði og félagsfræði sem kenndur er í UK námi við Háskólann þótt gagnlegt sé að þessi þekking sé fyrir hendi við flesta skóla og síist inn í daglegt starf.

Mér finnst sjálfsagt að bjóða áfram upp á réttindanám við Háskólann. Það er ekkert að því að menn geti aflað sér kennararéttinda á nokkra mismunandi vegu. Sumir geta farið í uppeldis- og kennslufræðinám eftir B.A. eða B.S. próf, aðrir geta gerst lærlingar einhvers skóla. En ef uppeldis- og kennslufræðinám á ekki bara að upplýsa kennara um fræðileg viðhorf til kennslu og uppeldis heldur líka að efla fagvitund þeirra verða kennarar sjálfir að hafa yfirumsjón með því.

Þessu verður að fylgja að skólar hætti að ráða leiðbeinendur, þeir geti bara ráðið réttindamenn eða lærlinga. Það verður líka að borga reyndum kennurum nógu hátt kaup fyrir að sinna lærlingum til að það verði dýrara fyrir ríkið að ráða lærling heldur en réttindakennara. Þetta mundi hvetja ríkið til að hækka laun réttindakennara nóg til þess að halda þeim í skólunum svo ekki þurfi að ráða marga lærlinga. Þetta mundi líka efla vitund kennara um skyldur sínar við fagið og gera þá í ríkari mæli að fagmönnum.

Voru lögin frá 1986 þá ekki til neins góðs? Voru þau skref sem þá voru stigin þvert á rétta stefnu? Nei, ekki er það nú svo slæmt. Þau voru einhvern veginn skáhallt á rétta stefnu. Nú er mál til komið að stíga næstu skref og stefna beint fram á veginn. Til að ekkert fari nú á milli mála hver ég tel að þessi skref eigi að vera þá legg ég til að kennarar berjist fyrir því að:

- Laun þeirra hækki nóg til þess að lögverndun á starfsréttindum verði óþörf. (Aðalvandamál skólanna er ekki tilvera leiðbeinenda, ekki brot á lögunum frá 1986 og ekki lítil menntun í uppeldis- og kennslufræðum heldur lág laun og óhóflegt vinnuálag kennara.)

- Þeir sjálfir sjái um að mennta nýtt fólk til starfsins. (Ímyndið ykkur fagmennsku lækna ef þeir sem hefðu umsjón með námi í læknadeild væru ekki læknar heldur líffræðingar.)

- Lögunum frá 1986 verði breytt þannig að engar undanþágur verði leyfðar heldur verði skólunum þess í stað leyft að ráða lærlinga. (Þegar launin verða orðin nógu há má svo slaka á banni við undanþágum.)


Heimildir:

Jón Torfi Jónasson: Menntun og skólastarf á Íslandi í 25 ár 1985 - 2010. Reykjavík 1988.

Lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum framhaldsskólakennara, grunnskólakennara og skólastjóra nr. 48 frá 1986.

Atli Harðarson - 1994


Netútgáfan - mars 1998