ESEKÍELKerúbarnir fjórir og hásætið

1
1Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir. 2Fimmta dag mánaðarins, það var fimmta árið eftir að Jójakín konungur var burt fluttur, 3þá kom orð Drottins til Esekíels Búsísonar prests í Kaldealandi við Kebarfljótið, og hönd Drottins kom þar yfir hann. 4Ég sá, og sjá: Stormvindur kom úr norðri og ský mikið og eldur, sem hnyklaðist saman, og stóð af því bjarmi umhverfis, og út úr honum sást eitthvað, sem glóði eins og lýsigull. 5Út úr honum sáust myndir af fjórum verum. Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim. 6Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi. 7Fætur þeirra voru keipréttir og iljarnar sterklegar eins og kálfsiljar, og þeir blikuðu eins og skyggður eir. 8Og undir vængjum þeirra á hliðunum fjórum voru mannshendur. 9Vængir þeirra lágu hver upp að öðrum, og ásjónur þeirra fjögurra sneru sér ekki við, er þær gengu, heldur gekk hver beint af augum fram.

10Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert. 11Og vængir þeirra voru þandir upp á við. Hver þeirra hafði tvo vængi, sem voru tengdir saman, og tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 12Og þær gengu hver fyrir sig beint af augum fram, þær gengu þangað, sem andinn vildi fara, þær snerust eigi við í göngunni.

13Milli veranna var að sjá sem eldsglæður brynnu. Það var eins og blys færu aftur og fram milli veranna, og bjarma lagði af eldinum og út frá eldinum gengu leiftur. 14Og verurnar hlupu fram og aftur eins og glampi af leiftri.

15Enn fremur sá ég, og sjá: Eitt hjól stóð á jörðinni hjá hverri af verunum fjórum. 16Og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolít, og öll fjögur voru þau samlík og þannig gjörð, sem eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. 17Þau gengu til allra fjögurra hliða, þau snerust eigi, er þau gengu. 18Og hjólbaugar þeirra - þeir voru háir og ógurlegir - hjólbaugar þeirra voru alsettir augum allt umhverfis á þeim fjórum. 19Og þegar verurnar gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar verurnar hófu sig frá jörðu, þá hófu og hjólin sig. 20Þangað sem andinn vildi fara, þangað gengu þær, og hjólin hófust upp samtímis þeim, því að andi veranna var í hjólunum. 21Þegar þær gengu, gengu þau einnig, þegar þær stóðu kyrrar, stóðu þau og kyrr, og þegar þær hófust frá jörðu, hófust og hjólin samtímis þeim, því að andi verunnar var í hjólunum.

22Uppi yfir höfðum veranna var því líkast sem hvelfing væri, blikandi sem kristall. Þandist hún út uppi yfir höfðum þeirra. 23Og undir hvelfingunni voru vængir þeirra út þandir hver á móti öðrum, og hver þeirra hafði tvo vængi, sem huldu líkami þeirra. 24Ég heyrði vængjaþyt þeirra, eins og nið mikilla vatna, sem þrumu hins Almáttka, er þær gengu, gnýrinn og hávaðinn var sem gnýr í herbúðum. Þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga. 25En þytur var uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, þegar þær stóðu kyrrar, létu þær vængina síga.

26En uppi yfir hvelfingunni, sem var yfir höfðum þeirra, var að sjá sem safírsteinn væri, í lögun sem hásæti, og þar uppi á hásætinu, sem svo sýndist, var mynd nokkur í mannslíki. 27Sú mynd þótti mér því líkust sem glóandi lýsigull væri þar neðan frá, sem mér þótti mittið vera og upp eftir, en ofan frá því, sem mér þótti mittið vera, og niður eftir þótti mér hún álits sem eldur, og umhverfis hana var bjarmi. 28Bjarminn umhverfis var tilsýndar líkur boga þeim, sem í skýjum stendur, þegar rignir.

Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta. Og er ég sá hana, féll ég fram á ásjónu mína, og ég heyrði rödd einhvers, sem talaði.


Köllun Esekíels

2
1Hann sagði við mig: "Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig." 2Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði. 3Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag. 4Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!' 5Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum - því að þeir eru þverúðug kynslóð - þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.

6En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð. 7Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber.

8En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér."

9Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla. 10Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.


3
1Og hann sagði við mig: "Mannsson, et bókrollu þessa, far síðan og tala til Ísraelsmanna!" 2Þá upplauk ég munni mínum, en hann fékk mér bókrolluna að eta 3og sagði við mig: "Þú mannsson, þú skalt renna henni niður í magann og fylla kvið þinn með bókrollu þeirri, er ég fæ þér." Og ég át hana og var hún í munni mér sæt sem hunang.

4Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra. 5Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu, 6eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig. 7En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.

8Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra, 9ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."

10Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða. 11Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!' hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."

12Þá hóf andinn mig upp, en að baki mér heyrði ég dunur af miklum landskjálfta, er dýrð Drottins hófst upp af stað sínum, 13svo og þyt af vængjum veranna, er snertu hver aðra, og hark frá hjólunum samtímis og dunur af miklum landskjálfta. 14Og andinn hóf mig upp og hreif mig burt, og ég hélt af stað hryggur og í mikilli geðshræring, og hönd Drottins lá þungt á mér. 15Og ég kom til hinna herleiddu í Tel Abíb við Kebarfljótið, þar er þeir bjuggu, og ég sat þar sjö daga utan við mig meðal þeirra.


Varðmaður yfir Ísrael

16Að liðnum sjö dögum kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 17"Mannsson, ég hefi skipað þig varðmann yfir Ísrael. Þegar þú heyrir orð af mínum munni, skalt þú vara þá við í mínu nafni.

18Ef ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt deyja!' og þú varar hann ekki við og segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans, til þess að bjarga lífi hans, þá mun hinn óguðlegi að vísu deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi. 19En varir þú hinn óguðlega við og snúi hann sér þó ekki frá guðleysi sínu og óguðlegri breytni sinni, þá mun hann deyja fyrir misgjörð sína, en þá hefir þú frelsað sál þína.

20Ef hins vegar ráðvandur maður snýr sér frá ráðvendni sinni og fremur ranglæti, og ég legg fótakefli fyrir hann, svo að hann deyr, hafir þú þá eigi varað hann við, þá mun hann deyja fyrir synd sína, og ráðvendni sú, er hann hafði sýnt, eigi til álita koma, en blóðs hans mun ég krefja af þinni hendi. 21En varir þú hinn ráðvanda við syndinni, og hann, hinn ráðvandi, syndgar þá ekki, þá mun hann lífi halda, af því að hann var varaður við, og hefir þú þá frelsað sál þína."


Þögn spámannsins

22Hönd Drottins kom þar yfir mig, og hann sagði við mig: "Statt upp, gakk ofan í dalinn, þar vil ég tala við þig." 23Þá stóð ég upp og gekk niður í dalinn, og sjá, þar stóð dýrð Drottins, sú hin sama, er ég hafði séð við Kebarfljótið. Þá féll ég fram á ásjónu mína.

24Og í mig kom andi, sem reisti mig á fætur, og hann talaði til mín og sagði við mig: "Far og loka þig inni í húsi þínu. 25Og sjá, þú mannsson, menn munu leggja bönd á þig og fjötra þig með þeim, til þess að þú getir eigi gengið út og inn meðal þeirra. 26Og tungu þína mun ég láta loða við góm þér, svo að þú verðir orðlaus og náir ekki að hirta þá með aðfinningum, því að þeir eru þverúðug kynslóð. 27En þegar ég tala við þig, mun ég ljúka upp munni þínum, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!' Hver sem heyra vill, hann heyri, og hver sem ekki vill gefa því gaum, hann leiði það hjá sér, því að þeir eru þverúðug kynslóð."


Tákn um hersetu Jerúsalem

4
1Þú mannsson, tak þér tigulstein, legg hann fyrir framan þig og drag þar upp borg, sem sé Jerúsalem. 2Og reis þú hervirki gegn henni og hlað víggarð gegn henni. Hleyp upp jarðhrygg gegn henni, skipa hersetuliði um hana og set víghrúta umhverfis hana. 3Og tak þér járnplötu og set hana sem járnvegg milli þín og borgarinnar. Snú því næst andliti þínu gegn henni, svo að hún komist undir hersetu og þú sitjir um hana. Þetta skal vera Ísraelsmönnum tákn.

4En legg þú þig á vinstri hliðina og tak á þig misgjörð Ísraels húss. Alla þá daga, er þú liggur á henni, skalt þú bera misgjörð þeirra. 5Og tel ég þér misgjörðarár þeirra til jafnmargra daga, - þrjúhundruð og níutíu daga -, og þannig skalt þú bera misgjörð Ísraels húss. 6Og þegar þú hefir fullnað þessa daga, þá skalt þú leggjast á hægri hliðina hið annað sinn og bera misgjörð Júda húss, fjörutíu daga. Tel ég þér dag fyrir ár hvert. 7Og þú skalt snúa andliti þínu og nöktum armlegg þínum gegn umsátri Jerúsalem, og þú skalt spá í gegn henni. 8Og sjá, ég legg bönd á þig, svo að þú skalt ekki ná að snúa þér af einni hlið á aðra, uns þú hefir af lokið umsátursdögum þínum.

9En tak þér hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi. Lát það allt í eitt ker og gjör þér brauð af. Skalt þú hafa það til matar allan þann tíma, er þú liggur á hliðinni. 10Og vega skal þér mat þinn, þann er þú neytir, tuttugu sikla á dag. Skalt þú neyta hans á ákveðnum tíma einu sinni á dag. 11Mæla skal þér og vatn að drekka, sjöttung hínar í hvert sinn. Skalt þú drekka það á ákveðnum tíma einu sinni á dag. 12Skalt þú eta það sem byggkökur, og þær skaltu baka við mannaþrekk fyrir augum þeirra. 13Og Drottinn sagði: "Svo munu Ísraelsmenn eta brauð sitt óhreint hjá þjóðum þeim, er ég rek þá til." 14Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Sjá, ég hefi aldrei saurgað mig, og allt í frá barnæsku minni og fram á þennan dag hefi ég aldrei etið það, er sjálfdautt væri eða dýrrifið, og óhreint kjöt hefi ég aldrei lagt mér til munns." 15Þá sagði hann við mig: "Sjá þú, ég leyfi þér að hafa nautatað í stað mannaþrekks. Við það skalt þú gjöra brauð þitt." 16Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, sjá, ég brýt sundur staf brauðsins í Jerúsalem, og þeir skulu eta brauðið eftir skammti og með angist, og vatnið skulu þeir drekka eftir mæli og með skelfingu, 17til þess að þá skorti brauð og vatn og þeir skelfist hver með öðrum og veslist upp vegna misgjörðar sinnar."


Tákn um hungur og drepsótt

5
1Þú, mannsson, tak þér hvasst sverð. Skalt þú hafa það fyrir rakhníf og lát það ganga um höfuð þitt og vanga. Tak síðan vog og skipt hárinu í sundur. 2Einn þriðjunginn skalt þú í eldi brenna í miðri borginni, þá er umsátursdagarnir eru liðnir, annan þriðjunginn skalt þú taka og slá með sverði hringinn í kringum hann, og síðasta þriðjungnum skalt þú dreifa út í vindinn, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði. 3Því næst skalt þú taka fáein hár og binda þau í skikkjulaf þitt. 4Og af þeim skalt þú enn taka nokkur og kasta þeim á eld og brenna þau á eldi. Þaðan mun eldur koma yfir allt Ísraels hús.

Og seg við allt Ísraels hús: 5"Svo segir Drottinn Guð: Þetta er Jerúsalem, sem ég hefi sett mitt á meðal þjóðanna og lönd umhverfis hana. 6En hún hefir sett sig upp á móti lögum mínum með meira guðleysi en heiðnu þjóðirnar og móti boðorðum mínum meir en löndin, sem umhverfis hana eru, því að þeir hafa hafnað lögum mínum og eigi breytt eftir boðorðum mínum. 7Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér hafið verið þrjóskari en heiðnu þjóðirnar, sem umhverfis yður búa, eigi breytt eftir boðorðum mínum, né haldið lög mín, og jafnvel ekki farið eftir lögum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru, 8fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, nú vil ég rísa gegn þér og framkvæma dóma í þér miðri í augsýn þjóðanna. 9Og ég vil gjöra þér það, sem ég aldrei hefi áður gjört og mun ekki hér eftir gjöra, vegna svívirðinga þinna. 10Þess vegna skulu í þér feður eta börn sín og börnin feður sína, og ég vil framkvæma dóma á þér og dreifa leifum þínum í allar áttir. 11Fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Af því að þú hefir saurgað helgidóm minn með öllum viðurstyggðum þínum og öllum svívirðingum þínum, þá vil ég einnig útskúfa þér, ekki líta þig vægðarauga og ekki sýna neina meðaumkun. 12Einn þriðjungurinn af þér skal deyja af drepsótt og verða hungurmorða í þér miðri, annar þriðjungurinn skal fyrir sverði falla umhverfis þig, og síðasta þriðjungnum skal ég tvístra í allar áttir, og ég mun vera á hælum þeim með brugðnu sverði. 13Og ég skal úthella allri reiði minni og láta heift mína hvíla yfir þeim, og ég skal hefna mín. Þeir skulu þá sanna, að ég, Drottinn, hefi talað þetta í afbrýði minni, þá er ég næ að úthella heift minni yfir þá. 14Og ég skal gjöra þig að auðn og að háðung meðal þjóðanna, sem umhverfis þig búa, já, í augum allra, sem fram hjá ganga. 15Og þú skalt verða að háðung og spotti, til viðvörunar og skelfingar þjóðunum, sem umhverfis þig búa, þá er ég í reiði og heift læt dóma yfir þig ganga og með áköfum refsingum. Ég, Drottinn, hefi talað það. 16Þegar ég hleypi á þá hungursins skæðu og eyðileggjandi örvum, þær er ég mun senda yður til að tortíma yður, og ég magna hungrið meðal yðar, þá mun ég sundurbrjóta staf brauðsins fyrir yður 17og senda í móti yður hungur og óargadýr til þess að gjöra yður barnlausa, og drepsótt og blóðsúthelling skal geisa hjá þér, og ég skal hafa sverðið á lofti yfir þér. Ég, Drottinn, hefi talað það."


Gegn blótstöðum á fjöllunum í Júda

6
1Orð Drottins kom til mín svohljóðandi: 2"Þú mannsson, snú þú augliti þínu gegn Ísraels fjöllum og spá í móti þeim 3og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins Guðs! Svo talar Drottinn Guð til fjallanna og hæðanna, til hvammanna og dalanna:

Sjá, ég læt sverðið koma yfir yður og eyði fórnarhæðum yðar. 4Ölturu yðar skulu í eyði lögð verða og sólsúlur yðar brotnar, og vegnum mönnum yðar mun ég kasta niður fyrir framan skurðgoð yðar, 5og ég mun varpa hræjum Ísraelsmanna fyrir skurðgoð þeirra og dreifa beinum yðar umhverfis ölturu yðar. 6Svo langt sem byggð yðar nær, skulu borgirnar í eyði liggja og fórnarhæðirnar standa gjöreyddar, til þess að ölturu yðar séu niður brotin og í rústum, skurðgoð yðar sundurbrotin og að engu gjörð, sólsúlur yðar mölvaðar og handaverk yðar afmáð. 7Og menn skulu vegnir í val falla yðar á meðal, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

8En ég læt nokkra yðar komast undan sverðinu til annarra þjóða, og þegar yður hefur verið dreift um löndin, 9munu þeir, sem undan komust, minnast mín meðal þjóðanna, þangað sem þeir voru herleiddir, þegar ég hefi beygt þeirra blótfíknu hjörtu, sem gjörðust mér fráhverf, og þeirra blótfúsu augu, sem mæna eftir skurðgoðunum, og þá mun þeim bjóða við sjálfum sér vegna illverka þeirra, er þeir hafa framið með öllum svívirðingum sínum. 10Og þá munu þeir við kannast, að ég, Drottinn, hefi ekki talað þar um neinum hégómaorðum, að láta þá rata í þessa ógæfu."

11Svo segir Drottinn Guð:

"Slá þú saman höndum þínum, stappa niður fæti þínum og kalla ,vei' yfir öllum svívirðingum Ísraels húss, því að þeir munu falla fyrir sverði, hungri og drepsótt. 12Sá sem fjær er, skal af drepsótt deyja, og sá sem nær er, fyrir sverði falla, og sá sem eftir er og bjargast hefir, skal deyja af hungri, og ég vil úthella allri heift minni yfir þá. 13Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar valkestirnir liggja mitt á meðal skurðgoðanna, kringum ölturu þeirra á hverri hárri hæð, á öllum fjallhnjúkum, undir hverju grænu tré og undir hverri laufgaðri eik, þar er þeir færðu öllum skurðgoðum sínum þægilegan ilm. 14Og ég vil rétta út hönd mína í móti þeim og gjöra landið að auðn og öræfum frá eyðimörkinni allt norður að Ribla, alls staðar þar sem þeir búa, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."


Endirinn kemur

7
1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

2"En þú, mannsson, seg: Svo talar Drottinn Guð til Ísraelslands:

Endir kemur, endirinn kemur yfir fjórar álfur landsins. 3Nú kemur endirinn yfir þig, og ég sendi reiði mína móti þér og dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 4Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn.

5Svo segir Drottinn Guð:

Ógæfa, já ógæfa kemur! 6Endir kemur, endirinn kemur, hann er að vakna gegn þér, sjá, hann kemur! 7Örlögin koma yfir þig, íbúi landsins, tíminn kemur, dagurinn er nálægur, dagur skelfingar, en ekki fagnaðarláta á fjöllunum.

8Nú úthelli ég bráðum heift minni yfir þig og læt alla reiði mína yfir þig dynja, ég dæmi þig eftir hegðun þinni og læt allar svívirðingar þínar niður á þér koma. 9Og ég skal ekki líta þig vægðarauga og enga meðaumkun sýna, heldur láta hegðun þína koma niður á þér, og svívirðingar þínar skulu vera mitt á meðal þín, og þannig skuluð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá sem tyftar.

10Sjá, þarna er dagurinn, sjá, hann kemur. Kórónan sprettur fram, sprotinn blómgast, drambsemin þróast.

11Ofbeldið rís upp sem vöndur á ranglætið. Ekkert verður eftir af þeim, ekkert af skrauti þeirra og ekkert af auðæfum þeirra, dýrð þeirra er öll úti.

12Tíminn kemur, dagurinn nálgast. Kaupandinn fagni ekki og seljandinn syrgi ekki, því að reiði mín er upptendruð gegn öllu skrauti landsins. 13Því að seljandinn mun ekki aftur að seldu komast og kaupandinn mun ekki halda hinu keypta.

14Menn blása í hornið og búa allt út, en enginn fer í orustuna, því að reiði mín er upptendruð gegn öllum auðæfum hennar.

15Sverðið úti, og hungrið og drepsóttin inni. Sá sem er á akri skal fyrir sverði falla og þeim, sem innan borgar er, skal hungur og drepsótt eyða. 16Komist nokkrir af þeim undan, munu þeir vera á fjöllunum, eins og daladúfurnar, sem allar kurra, - hver og einn vegna misgjörðar sinnar.

17Allar hendur munu verða lémagna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. 18Og þeir munu gyrðast hærusekk, og skelfing mun hylja þá. Skömm mun sitja á hverju andliti, og hvert höfuð vera sköllótt.

19Silfri sínu munu þeir varpa út á strætin, og gull þeirra mun vera þeim sem saur. Silfur þeirra og gull fær eigi frelsað þá á reiðidegi Drottins. Þeir munu eigi seðja með því hungur sitt né fylla með því kvið sinn, því að það varð þeim fótakefli til hrösunar.

20Sínu dýrlega skrauti varði þjóðin til dramblætis, og þeir gjörðu af því svívirðilegar líkneskjur, viðurstyggðir sínar. Fyrir því gjöri ég það í augum þeirra sem saur. 21Og ég skal selja það útlendingum í hendur að herfangi og hinum óguðlegustu mönnum á jörðunni að ránsfeng, og þeir skulu vanhelga það. 22Og ég skal snúa augliti mínu frá þeim, og þá munu menn vanhelga kjörgrip minn, og ræningjar skulu brjótast inn í hann og vanhelga hann.

23Bú þú til fjötur, því að landið er fullt af blóðskuld og borgin er full af ofbeldisverkum. 24Og ég mun stefna hingað hinum verstu heiðingjum. Þeir skulu kasta eign sinni á hús þeirra, og ég mun gjöra enda á hinu ofmetnaðarfulla valdi þeirra, og helgidómar þeirra skulu verða vanhelgaðir.

25Angist kemur, og þeir munu hjálpar leita, en enga fá. 26Eitt óhappið fylgir öðru, og hver ótíðindin koma á fætur öðrum. Þá munu þeir beiðast vitrunar af spámanni, og þá mun leiðbeiningin vera horfin frá prestunum og ráðin frá öldungunum. 27Konungurinn mun syrgja og landshöfðinginn klæðast skelfingu og hendur landslýðsins verða magnþrota af hræðslu.

Eftir breytni þeirra mun ég með þá fara og dæma þá eftir verðleikum þeirra, og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn."Sýnin í musterinu


Andinn flytur spámanninn til Jerúsalem

8
1Það var á sjötta ári, fimmta dag hins sjötta mánaðar, þá er ég sat í húsi mínu, og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, að hönd Drottins Guðs kom þar yfir mig.

2Og ég sá, og sjá, þar var mynd, ásýndum sem maður. Þar í frá, sem mér þóttu lendar hans vera, og niður eftir, var eins og eldur, en frá lendum hans og upp eftir var að sjá sem bjarma, eins og ljómaði af lýsigulli.

3Og hann rétti út líkast sem hönd væri og tók í höfuðhár mitt, og andinn hóf mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegri sýn, að dyrum innra hliðsins, er snýr mót norðri, þar er líkansúlan stóð, sú er vakti afbrýði Drottins.

4Og sjá, þar var dýrð Ísraels Guðs, alveg eins og í sýn þeirri, er ég hafði séð í dalnum.

5Hann sagði við mig: "Mannsson, hef upp augu þín og lít í norðurátt!" Og ég hóf upp augu mín og leit í norðurátt. Stóð þá þessi líkansúla, sem afbrýði vakti, norðan megin við altarishliðið, rétt þar sem inn er gengið. 6Og hann sagði við mig: "Mannsson, sér þú, hvað þeir eru að gjöra? Miklar svívirðingar eru það, sem Ísraelsmenn hafa hér í frammi, svo að ég verð að vera fjarri helgidómi mínum, en þú munt enn sjá miklar svívirðingar."

7Hann leiddi mig að dyrum forgarðsins. Og er ég leit á, var þar gat eitt á veggnum. 8Og hann sagði við mig: "Mannsson, brjót þú gat í gegnum vegginn." Og er ég braut gat í gegnum vegginn, þá voru þar dyr. 9Og hann sagði við mig: "Gakk inn og sjá hinar vondu svívirðingar, sem þeir hafa hér í frammi." 10Ég gekk inn og litaðist um. Voru þar ristar allt umhverfis á vegginn alls konar myndir viðbjóðslegra orma og skepna og öll skurðgoð Ísraelsmanna. 11Og þar voru sjötíu menn af öldungum Ísraels húss og Jaasanja Safansson mitt á meðal þeirra svo sem forstjóri þeirra, og hélt hver þeirra á reykelsiskeri í hendi sér og sté þar upp af ilmandi reykelsismökkur. 12Og hann sagði við mig: "Hefir þú séð, mannsson, hvað öldungar Ísraels húss hafast að í myrkrinu, hver í sínum myndaherbergjum? Því að þeir hugsa: ,Drottinn sér oss ekki, Drottinn hefir yfirgefið landið.'" 13Því næst sagði hann við mig: "Þú munt enn sjá miklar svívirðingar, er þeir hafa í frammi."

14Hann leiddi mig að dyrunum á norðurhliði musteris Drottins. Þar sátu konurnar, þær er grétu Tammús.

15Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Þú munt enn sjá svívirðingar, sem meiri eru en þessar."

16Hann leiddi mig inn í innra forgarð húss Drottins, og voru þá þar fyrir dyrum musteris Drottins, milli forsalsins og altarisins, um tuttugu og fimm menn. Sneru þeir bökum við musteri Drottins, en ásjónum sínum í austur, og tilbáðu sólina í austri. 17Og hann sagði við mig: "Sér þú það, mannsson? Nægir Júdamönnum það eigi að hafa í frammi þær svívirðingar, sem þeir hér fremja, þó að þeir ekki þar á ofan fylli landið með glæp og reiti mig hvað eftir annað til reiði? Sjá, hversu þeir halda vöndlinum upp að nösum sér. 18Fyrir því vil ég og fara mínu fram í reiði: Ég vil ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Og þótt þeir þá kalli hárri röddu í eyru mín, þá mun ég ekki heyra þá."


Eyðingin

9
1Þessu næst kallaði hann hárri röddu í eyru mín: "Refsingar borgarinnar nálgast!" 2Þá komu sex menn frá efra hliðinu, sem snýr í norður, og hafði hver þeirra eyðingarverkfæri í hendi sér, og meðal þeirra var einn maður, sem var líni klæddur og hafði skriffæri við síðu sér. Þeir komu og námu staðar hjá eiraltarinu.

3Dýrð Ísraels Guðs hafði hafið sig frá kerúbunum, þar sem hún hafði verið, yfir að þröskuldi hússins. Og hann kallaði á línklædda manninn, sem hafði skriffærin við síðu sér. 4Og Drottinn sagði við hann: "Gakk þú mitt í gegnum borgina, mitt í gegnum Jerúsalem, og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni." 5En til hinna mælti hann að mér áheyrandi: "Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, lítið engan vægðarauga og sýnið enga meðaumkun. 6Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á. Og takið fyrst til hjá helgidómi mínum!" Og þeir tóku fyrst til á öldungum þeim, sem voru fyrir framan musterið. 7Og hann sagði við þá: "Horfið ekki í að saurga musterið og fyllið strætin vegnum mönnum. Gangið nú út!" Þeir gengu þá út og hjuggu niður mannfólkið í borginni.

8Meðan þeir brytjuðu niður, féll ég fram á ásjónu mína, kallaði og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels, þar sem þú eys út reiði þinni yfir Jerúsalem?" 9Þá sagði hann við mig: "Misgjörð Ísraelsmanna og Júdamanna er afskaplega mikil, og landið er fullt af blóðugu ranglæti og borgin er full af ofbeldisverkum, því að þeir segja: ,Drottinn hefir yfirgefið landið' og ,Drottinn sér það ekki.' 10Fyrir því skal ég heldur ekki líta þá vægðarauga og enga meðaumkun sýna. Ég læt athæfi þeirra þeim sjálfum í koll koma." 11Þá kom línklæddi maðurinn, sem hafði skriffærin við síðu sér, aftur og sagði: "Ég hefi gjört eins og þú bauðst mér."


Ísraels Guð yfirgefur helgidóminn

10
1Ég sá, og sjá: Á festingunni, er var yfir höfði kerúbanna, var því líkast sem safírsteinn væri. Eitthvað, sem tilsýndar var sem hásæti í laginu, sást uppi yfir þeim. 2Þá sagði hann við línklædda manninn: "Gakk inn á millum hjólanna undir kerúbunum, tak handfylli þína af glóðum milli kerúbanna og dreif þeim út yfir borgina." Og hann gekk þar inn að mér ásjáandi.

3En kerúbarnir stóðu hægra megin við musterið, þegar maðurinn gekk inn, og fyllti skýið innra forgarðinn. 4En dýrð Drottins hóf sig frá kerúbunum yfir á þröskuld musterisins. Varð musterið þá fullt af skýmekki, en forgarðurinn fylltist ljóma af dýrð Drottins. 5Og vængjaþytur kerúbanna heyrðist allt til hins ytra forgarðs, eins og rödd Guðs almáttugs, þá er hann talar. 6Nú er hann hafði boðið línklædda manninum og sagt: "Tak eld á millum hjólanna, á millum kerúbanna!" - þá gekk hann til og staðnæmdist hjá einu hjólinu.

7Þá rétti einn kerúbinn hönd sína út milli kerúbanna að eldinum, sem var á milli kerúbanna, tók þar af og fékk í hendur línklædda manninum. Hann tók við og gekk burt. 8En á kerúbunum sást eitthvað, sem líktist mannshendi, undir vængjum þeirra.

9Ég leit til, og voru þá fjögur hjól hjá kerúbunum, sitt hjól hjá hverjum kerúb, og hjólin voru á að líta eins og þegar blikar á krýsolítstein. 10Og að því er gerð þeirra snertir, þá voru þau öll fjögur samlík, eins og eitt hjólið væri innan í öðru hjóli. 11Þegar þau gengu, gengu þau til allra fjögurra hliða. Þau snerust eigi við í göngunni, heldur gengu þau í þá átt, sem höfuðið sneri, þau snerust eigi við í göngunni. 12Og allur líkami þeirra og bak þeirra, hendur og vængir voru alsett augum allt umhverfis á þeim fjórum. 13En hjólin voru í mín eyru nefnd "hvirfilbylur".

14Og hver hafði fjögur andlit. Andlit eins var nautsandlit, andlit hins annars mannsandlit, hinn þriðji hafði ljónsandlit og hinn fjórði arnarandlit. 15Og kerúbarnir hófu sig upp. Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð við Kebarfljótið. 16Og þegar kerúbarnir gengu, þá gengu og hjólin við hliðina á þeim, og þegar kerúbarnir hófu upp vængi sína til þess að lyfta sér frá jörðinni, þá snerust hjólin ekki burt frá þeim. 17Þegar þeir stóðu kyrrir, stóðu þau og kyrr, og þegar þeir hófust upp, hófust þau og upp með þeim, því að andi verunnar var í þeim.

18Dýrð Drottins fór nú burt af þröskuldi musterisins og nam staðar uppi á kerúbunum. 19Þá hófu kerúbarnir upp vængi sína og lyftu sér frá jörðinni að mér ásjáandi, er þeir fóru burt, og hjólin samtímis þeim. Og þeir námu staðar úti fyrir austurhliði musteris Drottins, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim. 20Það voru sömu verurnar, sem ég hafði séð undir Ísraels Guði við Kebarfljótið, og ég þekkti, að það voru kerúbar. 21Þeir höfðu fjögur andlit og fjóra vængi hver, og undir vængjum sér eitthvað, sem líktist mannshöndum. 22Og hvað andlitsskapnaðinn snerti, þá voru það sömu andlitin, sem ég hafði séð við Kebarfljótið; þeir gengu hver fyrir sig beint af augum fram.


Dómsorð í orðtaki

11
1Og andinn hóf mig upp og flutti mig að austurhliði musteris Drottins, sem horfir mót austri. Þar stóðu fyrir dyrum hliðsins tuttugu og fimm menn, og á meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason, foringja lýðsins.

2Þá sagði hann við mig: "Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg. 3Þeir segja: ,Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist? Borgin er potturinn, en vér erum kjötið.' 4Spá þú þess vegna móti þeim, spá þú, mannsson!"

5Þá kom andi Drottins yfir mig og sagði við mig: "Seg þú: Svo segir Drottinn: Svo segið þér, Ísraelsmenn, og ég þekki hugrenningar yðar. 6Marga menn yðar hafið þér drepið í þessari borg og þér hafið fyllt stræti hennar vegnum mönnum. 7Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Þeir menn, sem þér hafið lagt að velli í borginni, þeir eru kjötið og borgin er potturinn. En þér munuð fluttir verða burt úr henni. 8Við sverðið eruð þér hræddir, og sverðið skal ég láta yfir yður koma, segir Drottinn Guð. 9Og ég skal færa yður burt úr borginni og selja yður útlendum mönnum í hendur og framkvæma dóma meðal yðar. 10Fyrir sverði skuluð þér falla, í Ísraelslandi skal ég dæma yður, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. 11Borgin skal ekki verða yður að potti og þér skuluð ekki verða kjöt í henni, í Ísraelslandi skal ég dæma yður. 12Þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. En mínum boðorðum hafið þér ekki hlýtt og mína setninga hafið þér ekki haldið, heldur hafið þér breytt eftir setningum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru."

13Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður. Þá féll ég fram á ásjónu mína, kallaði upp hárri röddu og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels?"


Hinum herleiddu flutt fyrirheit

14Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 15"Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!'

16Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til.

17Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.

18Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.

19Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi, 20til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. 21En þessir - hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð."


Andinn flytur spámanninn heim til Babýloníu

22Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim. 23Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina. 24Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér. 25Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.Gegn Jerúsalem


Látbragðstákn um herleiðingu

12
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, þú býr á meðal þverúðugs lýðs, meðal manna, sem hafa augu til að sjá með, en sjá þó ekki, eyru til að heyra með, en heyra þó ekki, því að þverúðugur lýður eru þeir. 3En þú, mannsson, haf til ferðatæki þín og legg af stað um hádag í augsýn þeirra, og þú skalt fara burt þaðan, sem þú nú býr, á annan stað, að þeim ásjáandi, ef vera mætti að augu þeirra lykjust upp, því að þeir eru þverúðugur lýður.

4Þú skalt færa út föng þín svo sem önnur ferðatæki um hádag í augsýn þeirra, en sjálfur skalt þú út fara að kveldi að þeim ásjáandi, eins og þegar útlegðarmenn fara burt. 5Brjót þú gat á vegginn í augsýn þeirra og gakk þar út um. 6Þú skalt bera föng þín á öxlinni í augsýn þeirra, þú skalt fara út í myrkri og hylja ásjónu þína og ekki sjá landið. Því að ég gjöri þig að tákni fyrir Ísraels lýð."

7Ég gjörði sem mér var boðið: Ég færði föng mín út svo sem önnur ferðatæki um hádag, og að kveldi braut ég með hendinni gat á vegginn. Ég fór út í myrkri og bar þau á öxlinni í augsýn þeirra.

8En morguninn eftir kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 9"Þú mannsson, hafa þeir ekki sagt við þig, Ísraelsmenn, hinn þverúðugi lýður: ,Hvað ertu að gjöra?' 10Seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þetta guðmæli á við höfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn, þá sem eru meðal yðar. 11Seg: Ég er yður tákn. Eins og ég hefi gjört, svo mun með þá farið verða: Þeir munu fara í útlegð, herleiddir verða. 12Og höfðinginn, sem meðal þeirra er, mun taka föng sín á öxl sér og fara út í myrkri. Hann mun brjóta gat á vegginn til þess að fara þar út um, hann mun hylja ásjónu sína, til þess að hann sjái ekki landið. 13Og ég mun kasta yfir hann neti mínu, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon, til Kaldealands. Það land skal hann ekki sjá, og þó mun hann þar deyja. 14Og öllu því, sem umhverfis hann er, fulltingjurum hans og gjörvöllum herflokkum hans, mun ég tvístra í allar áttir og vera á hælum þeim með brugðið sverð. 15Og þá skulu þeir kannast við, að ég er Drottinn, er ég dreifi þeim meðal heiðnu þjóðanna og tvístra þeim út um löndin. 16Og ég læt aðeins fáeina menn af þeim komast undan sverðinu, hungrinu og drepsóttinni, til þess að þeir segi frá öllum svívirðingum sínum meðal þjóðanna, sem þeir koma til, og þeir skulu kannast við, að ég er Drottinn."

17Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 18"Mannsson, et brauð þitt með hræðslu og drekk vatn þitt með skjálfta og angist 19og seg við landslýðinn: Svo segir Drottinn Guð um þá, sem búa í Jerúsalem í Ísraelslandi! Þeir munu eta brauð sitt með angist og drekka vatn sitt með skelfingu, til þess að land hennar leggist í auðn og verði svipt gæðum sínum, sakir glæps þess, er allir íbúar þess í frammi hafa. 20Byggðar borgir skulu í eyði leggjast og landið verða að öræfum, og þá skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn."


Gegn orðtaki um haldleysi kenninganna

21Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

22"Mannsson, hvaða orðtak er þetta, sem þér hafið í Ísraelslandi, er þér segið: ,Tíminn dregst, og allar vitranir reynast marklausar'? 23Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Ég mun gjöra enda á þessu orðtaki, og menn munu eigi framar nota það í Ísrael. Seg þeim þar í móti: ,Tíminn er nálægur og allar vitranir rætast.' 24Því að hér eftir skal engin hégómasýn eða hræsnispádómur stað hafa meðal Ísraelsmanna, 25því að ég, Drottinn, mun tala það orð, er ég vil tala, og það mun koma fram. Það mun ekki dragast lengur, því að á yðar dögum, þverúðuga kynslóð, mun ég tala orð og framkvæma það" - segir Drottinn Guð.

26Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

27"Mannsson, sjá, Ísraelsmenn segja: ,Sýnin, sem hann sér, á sér langan aldur, og hann spáir langt fram í ókomnar tíðir.' 28Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Á engu mínu orði mun framar frestur verða. Því orði, er ég tala, mun framgengt verða - segir herrann Drottinn."


Orð falsspámanna sem veggur að hruni kominn

13
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, spá þú gegn spámönnum Ísraels, þeim er spá, og seg við spámennina, sem spá frá eigin brjósti: Heyrið orð Drottins! 3Svo segir Drottinn Guð:

Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð. 4Spámenn þínir, Ísrael, eru sem refir í rústabrotum. 5Þér hafið ekki gengið fram í vígskörðin og þér hafið engan virkisgarð hlaðið í kringum Ísraels hús, til þess að standast í stríðinu á degi Drottins. 6Þeir sáu hégómasýnir og fóru með lygispádóma, þeir er sögðu: ,Drottinn segir,' þótt Drottinn hefði ekki sent þá, og væntu síðan að orðin mundu rætast. 7Eru það ekki hégómasýnir, sem þér hafið séð, og lygispádómar, sem þér hafið farið með og segið þó: ,Drottinn segir,' þótt ég hafi eigi talað?

8Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Með því að þér talið hégóma og sjáið lygar, þá skal ég láta yður kenna á því - segir Drottinn Guð. 9Og hönd mín skal vera upp í móti þeim spámönnum, sem sjá hégómasýnir og fara með lygispádóma. Þeir skulu eigi vera í félagi þjóðar minnar og eigi vera ritaðir á skrá Ísraels húss, og inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, og þannig skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn. 10Fyrir þá sök og vegna þess að þeir hafa leitt lýð minn í villu með því að segja: ,Heill!' þar sem engin heill var, og þegar þeir hlóðu vegg, riðu þeir kalki á hann, 11þá seg þú kölkurunum, - því hann skal hrynja: Sjá, ég mun láta koma steypiregn, sem skolar honum burt, haglsteinar skulu niður falla og stormbylur á skella. 12Þá hrynur veggurinn. Mun þá ekki verða við yður sagt: ,Hvar er nú kalkið, er þér riðuð á vegginn?'

13Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Í heift minni skal ég láta stormbyl á skella, og dynjandi steypiregn skal á koma vegna reiði minnar, og haglsteinar vegna heiftar minnar til algjörðrar tortímingar. 14Ég skal brjóta niður vegginn, sem þér hafið kalkað, og bylta honum til jarðar, svo að undirstaða hans komi í ljós. Og hann mun hrynja, og þér munuð verða á milli og viðurkenna, að ég er Drottinn. 15Og ég vil úthella allri reiði minni yfir vegginn og yfir þá, sem riðu kalki á hann, og ég mun segja við yður: Horfinn er veggurinn og horfnir eru þeir, sem riðu hann kalki, 16spámenn Ísraels, sem spá fyrir Jerúsalem og þykjast sjá heillasýnir henni til handa, þar sem þó engin heill er - segir Drottinn Guð.


Ádeila á spákonur

17En þú, mannsson, snú nú augliti þínu gegn dætrum þjóðar þinnar, þeim er spá eftir eigin hugboði, og spá þú móti þeim 18og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Vei þeim, sem sauma bindi fyrir alla úlnliði og búa til skýlur fyrir höfuð manna, hvers vaxtar sem er, til þess að veiða sálir. Hvort ætlið þér að veiða sálir hjá þjóð minni og halda lífinu í sálum yður til handa? 19Þér vanhelgið mig hjá þjóð minni fyrir nokkra hnefa af byggi og nokkra brauðbita til þess að deyða sálir, sem ekki eiga að deyja, og halda lífinu í sálum, sem ekki eiga að lifa, með því að ljúga að þjóð minni, sem hlustar á lygar.

20Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Sjá, ég skal hafa hendur á bindum yðar, þeim er þér veiðið með sálir, og ég skal slíta þau af armleggjum yðar og láta lausar sálir þær, er þér veiðið, sem væru þær fuglar. 21Og ég skal slíta sundur skýlur yðar og frelsa lýð minn úr yðar höndum, svo að þeir séu ekki lengur veiðifang í yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. 22Vegna þess að þér hrellið hjarta hins ráðvanda með lygum, þar sem ég vildi þó eigi hafa hrellt hann, og af því að þér styrkið hendur hins óguðlega, til þess að hann snúi sér ekki frá sinni vondu breytni og forði lífi sínu, 23þess vegna skuluð þér ekki framar sjá hégómasýnir og ekki framar fara með lygispádóma. Ég vil frelsa lýð minn af yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."


Skurðgoð gera menn ókunnuga Guði

14
1En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér. 2Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

3"Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig? 4Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð, 5til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín. 6Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð:

Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar. 7Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa. 8Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 9En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael. 10Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn, 11til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð - segir Drottinn Guð."


Hver maður ábyrgur gerða sinna

12Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

13"Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði, 14og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína - segir Drottinn Guð.

15Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna, 16og þessir þrír menn væru í því, - svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn.

17Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum, 18og þessir þrír menn væru í því, - svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér.

19Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum, 20og Nói, Daníel og Job væru í því, - svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína.

21Þó segir Drottinn Guð svo:

Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum, 22þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana. 23Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört - segir Drottinn Guð."


Líking um vínviðinn

15
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, hvað hefir vínviðurinn fram yfir allan annan við, teinungurinn, sem er á meðal skógartrjánna? 3Verður af honum tekinn efniviður til smíða, eða fæst úr honum snagi, til þess að hengja á alls konar verkfæri? 4Nei, hann er hafður til eldsneytis. Þegar eldurinn hefir brennt báða enda hans, og sé miðjan sviðnuð, hvert gagn er þá að honum til efniviðar? 5Meðan hann enn er heill, verður ekkert úr honum smíðað, því síður að nú verði nokkuð úr honum gjört, þegar eldurinn hefir brennt hann og hann er sviðnaður.

6Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Eins og vínviðinn meðal skógartrjánna, sem ég hefi ætlað til eldsneytis, svo vil ég fara með Jerúsalembúa. 7Ég skal snúa augliti mínu gegn þeim: Þeir hafa komist úr eldinum, og eldurinn skal eyða þeim, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sný augliti mínu gegn þeim. 8Og ég gjöri landið að auðn, af því að þeir hafa brugðið trúnaði við mig - segir Drottinn Guð."


Dæmisaga um ást Guðs og trúrof manna

16
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, leið Jerúsalem fyrir sjónir svívirðingar hennar 3og seg: Svo segir Drottinn Guð við Jerúsalem:

Að uppruna og ætterni ert þú frá Kanaanlandi. Faðir þinn var Amoríti og móðir þín Hetíti. 4Og það er að segja af fæðing þinni, að þann dag, sem þú fæddist, var hvorki skorið á naflastreng þinn né þú lauguð í vatni, ekki núin salti og ekki reifum vafin. 5Enginn renndi til þín meðaumkunarauga til þess að veita þér nokkurt eitt af þessu og aumkast yfir þig, heldur var þér kastað út á víðavang - svo lítils var líf þitt metið daginn sem þú fæddist.

6Þá gekk ég fram á þig og sá þig vera að brölta í blóði þínu og sagði við þig: ,Þú, sem liggur þarna í blóði þínu, halt þú lífi!' 9Og ég laugaði þig í vatni, þvoði af þér blóðið og smurði þig með olífuolíu. 7Og þú óxt eins og grös vallarins, og þú stækkaðir og varðst mikil vexti og hin fríðasta sýnum. Brjóstin voru orðin stinn og hár þitt óx mjög, en þó varstu ber og nakin.

8Þá varð mér gengið fram á þig og ég sá þig, og var þá þinn tími ástarinnar tími. Ég breiddi yfir þig ábreiðu mína og huldi nekt þína, ég trúlofaðist þér og gjörði við þig sáttmála - segir Drottinn Guð - og þú varðst mín. 10Og ég færði þig í glitklæði og fékk þér skó af höfrungaskinni, faldaði þér með hvítu líni og huldi þig silkiblæju. 11Ég skreytti þig skarti, spennti armbaugum um handleggi þína og festi um háls þinn. 12Ég lét á þig nefhring og eyrnagull og veglega kórónu á höfuð þér. 13Þú varst prýdd gulli og silfri, og klæðnaður þinn var úr hvítu líni, silki og glitvefnaði. Þú neyttir hveitimjöls, hunangs og olífuolíu, og þú varðst frábærlega fríð og komst jafnvel í konunglega tign. 14Og nú fór orð af þér til heiðinna þjóða sökum fegurðar þinnar, því að hún var fullkomin fyrir skart það, er ég hafði á þig látið - segir Drottinn Guð.

15En þú reiddir þig á fegurð þína og hóraðist upp á frægð þína, og þú jóst hórdómi þínum út yfir hvern, sem fram hjá gekk. 16Og þú tókst nokkuð af fötum þínum og gjörðir þér mislitar fórnarhæðir, og þú drýgðir hórdóm á þeim. 17Og þú tókst skartgripina af gulli því og silfri, er ég hafði gefið þér, og gjörðir þér karlmannslíkneski af og drýgðir hórdóm með þeim. 18Og þú tókst glitklæði þín og lagðir yfir þau, og olíu mína og reykelsi settir þú fyrir þau. 19Og brauð mitt, það er ég hafði gefið þér, hveitimjölið, olíuna og hunangið, er ég hafði gefið þér að eta, það settir þú fyrir þau til þægilegs fórnarilms - segir Drottinn Guð. 20Og þú tókst sonu þína og dætur, sem þú hafðir alið mér, og blótaðir þeim til fæðslu fyrir skurðgoðin. Var ekki hórdómur þinn nógur, 21þó að þú slátraðir ekki börnum mínum og gæfir þau skurðgoðum, með því að brenna þau þeim til heiðurs. 22Og í öllum svívirðingum þínum og hórdómi minntist þú ekki bernskudaga þinna, þá er þú varst ber og nakin og bröltir í blóði þínu.

23Og ofan á alla illsku þína, - vei, vei þér! segir Drottinn Guð -, 24þá reistir þú þér hörga og hlóðst þér upp blótstalla á öllum torgum. 25Á öllum gatnamótum reistir þú þér blótstalla og ósæmdir fríðleik þinn og glenntir sundur fætur þína framan í hvern, sem fram hjá gekk. Og þú drýgðir enn meiri hórdóm: 26Þú drýgðir hórdóm með Egyptum, hinum hreðurmiklu nábúum þínum, og þú drýgðir enn meiri hórdóm, til þess að reita mig til reiði.

27Þá rétti ég út hönd mína á móti þér og minnkaði skammt þinn og ofurseldi þig græðgi fjandkvenna þinna, dætra Filista, sem fyrirurðu sig fyrir saurlífisathæfi þitt.

28Og þú drýgðir hórdóm með Assýríumönnum, án þess að fá nægju þína, þú hóraðist með þeim og fékkst þó ekki nægju þína. 29Og þú útbreiddir hóranir þínar til Kaldealands, og enn nægði þér ekki. 30Hversu brann hjarta þitt af girnd - segir Drottinn Guð - er þú framdir allt þetta, sem erkihóra mundi fremja, 31þá er þú reistir þér hörga á öllum gatnamótum og gjörðir þér blótstalla á öllum torgum. Og þó varst þú ekki eins og skækja, að þú hrúgaðir saman hvílutollum. 32Hórkona tekur aðra menn undir bónda sinn. 33Öllum skækjum er vant að greiða gjald, en þú þar á móti galtst öllum ástmönnum þínum kaup og ginntir þá með gjöfum til að koma til þín úr öllum áttum og fremja hórdóm með þér. 34Saurlifnaður þinn var með öðrum hætti en annarra kvenna. Menn hlupu ekki eftir þér til fylgilags, heldur greiddir þú friðilslaun, en þér voru engin laun goldin. Svo gagnstætt var þitt háttalag annarra kvenna.

35Heyr því orð Drottins, skækja! 36Svo segir Drottinn Guð: Af því að fúllífi þitt varð svo óstjórnlegt og blygðan þín var ber gjörð við saurlifnað þinn frammi fyrir friðlum þínum og frammi fyrir öllum hinum andstyggilegu skurðgoðum þínum og vegna blóðs barna þinna, er þú blótaðir þeim, - 37fyrir því skal ég saman safna öllum friðlum þínum, þeim er þú varst geðþekk, og það öllum þeim, er þú elskaðir, ásamt öllum þeim, er þér geðjast ekki að. Þeim skal ég safna saman að þér úr öllum áttum og bera gjöra blygðan þína frammi fyrir þeim, svo að þeir sjái blygðan þína eins og hún er. 38Og ég mun láta sama dóm yfir þig ganga sem yfir hórkonur og þær, sem úthella blóði, og ég mun sýna þér heift og afbrýði. 39Og ég mun selja þig þeim í hendur og þeir munu rífa niður hörga þína og brjóta niður blótstalla þína og færa þig af klæðum þínum og taka af þér skartgripi þína og skilja þig eftir nakta og bera. 40Og þeir munu gjöra að þér mannsöfnuð, lemja þig grjóti og höggva þig sundur með sverðum sínum. 41Og þeir munu brenna hús þín í eldi og framkvæma refsingardóm á þér í augsýn margra kvenna, og þannig mun ég gjöra enda á hórdómi þínum, og þú munt eigi framar greiða nein friðilslaun.

42En ég mun stilla heift mína, og afbrýði mín við þig skal hverfa, og ég mun halda kyrru fyrir og ekki framar gremja geð mitt. 43Af því að þú minntist ekki bernskudaga þinna og reittir mig til reiði með öllu þessu, lét ég athæfi þitt þér í koll koma - segir Drottinn Guð. Hefir þú ekki og framið þennan glæp ofan á allar svívirðingar þínar?

44Sjá, hver sá, er málsháttu tíðkar, mun um þig hafa málsháttinn: ,Mær er jafnan móður lík!' 45Þú ert dóttir móður þinnar, sem rak burt bónda sinn og börn sín, og þú ert systir systra þinna, sem ráku burt bændur sína og börn sín. Móðir yðar var Hetíti og faðir yðar Amoríti. 46Og eldri systir þín er Samaría og dætur hennar, hún býr þér til vinstri handar, og yngri systir þín, sú er býr þér til hægri handar, er Sódóma og dætur hennar. 47Að vísu gekkst þú ekki í fyrstu á þeirra vegum og framdir ekki aðrar eins svívirðingar og þær, en brátt gjörðist þú enn spilltari en þær í allri breytni þinni. 48Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð: Sódóma systir þín og dætur hennar hafa ekki aðhafst slíkt sem þú og dætur þínar hafa aðhafst. 49Sjá, synd Sódómu systur þinnar var ofdramb. Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd. 50Þær urðu drambsfullar og frömdu svívirðingar fyrir augum mér. Þá svipti ég þeim í burt, er ég sá það. 51Samaría hefir ekki drýgt helminginn af þínum syndum.

Þú hefir framið miklu meiri svívirðingar en þær, og þann veg sýnt með öllum þeim svívirðingum, er þú hefir framið, að systur þínar eru betri en þú. 52Ber þú nú og sjálf smán þína. Þú sem hefir flutt málsvörn fyrir systur þínar með syndum þínum, er voru andstyggilegri en þeirra, svo að þær eru hátíð hjá þér. Skammastu þín því og berðu smán þína fyrir það, að þú hefir sýnt að systur þínar eru betri en þú.

53Ég mun snúa við högum þeirra, högum Sódómu og dætra hennar og högum Samaríu og dætra hennar, og ég mun og snúa við högum þínum meðal þeirra, 54til þess að þú berir smán þína og skammist þín fyrir allt það, sem þú hefir gjört og með því orðið þeim til hugfróunar. 55Og systur þínar, Sódóma og dætur hennar, skulu aftur komast í sitt fyrra gengi, og Samaría og dætur hennar skulu og aftur komast í sitt fyrra gengi, og þú og dætur þínar skuluð aftur komast í yðar fyrra gengi. 56Og þó tókst þú ekki nafn Sódómu systur þinnar þér í munn á þínum ofdrambsdögum, 57þá er vonska þín var enn ekki ber orðin, eins og í þann tíð, er dætur Edóms smánuðu þig og allar dætur Filista, sem óvirtu þig úr öllum áttum. 58Fyrir saurlifnað þinn og svívirðingar, fyrir þær hefir þú gjöld tekið - segir Drottinn.

59Svo segir Drottinn Guð: Ég gjöri við þig, eins og þú hefir gjört, þar sem þú hafðir eiðinn að engu og raufst sáttmálann. 60En þó vil ég minnast sáttmála míns, þess er ég við þig gjörði á dögum æsku þinnar, og binda við þig eilífan sáttmála. 61Þá munt þú minnast breytni þinnar og blygðast þín, er ég tek eldri systur þínar og yngri og gef þér þær svo sem dætur, en ekki vegna sáttmála þíns. 62Og ég vil binda við þig sáttmála, og þú skalt viðurkenna, að ég er Drottinn, 63til þess að þú minnist þess og skammist þín og ljúkir eigi framar upp munni þínum sakir blygðunar, er ég fyrirgef þér allt það, sem þú hefir gjört - segir Drottinn Guð."


Gáta um örninn

17
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, ber upp gátu og seg Ísraelsmönnum líking 3og mæl: Svo segir Drottinn Guð:

Örninn sá hinn mikli með stóru vængina og löngu flugfjaðrirnar, með þykka og marglita fjaðurhaminn, fór upp á Líbanon og tók toppinn af sedrustrénu. 4Hann braut af efstu brumkvistina og flutti þá til verslunarlandsins. Í kaupmanna borg setti hann þá. 5Síðan tók hann af gróðri landsins og setti það í sáðland, hann setti það þar sem nóg vatn var, eins og pílvið. 6Og það óx og varð að vínvið, sem breiddist út lágvaxinn, svo að greinar hans sveigðust aftur að honum og rætur hans héldust undir honum. Og er það var orðið að vínviði, fékk það kvisti og skaut greinum. 7En það var annar mikill örn með stóra vængi og mikinn fjaðurham, og sjá, vínviður þessi teygði rætur sínar að honum og rétti greinar sínar í móti honum, til þess að hann skyldi vökva hann, en ekki reitinn, sem hann var gróðursettur í, 8og þó var hann gróðursettur í góðri jörð, þar sem nóg vatn var, til þess að skjóta greinum og bera ávöxtu og verða dýrlegur vínviður.

9Seg þú: Svo segir Drottinn Guð:

Mun það vel gefast? Mun hinn örninn ekki slíta upp rætur hans og afsníða ávöxtu hans, og öll hans nýsprottnu blöð visna? Og eigi mun þurfa mikilla krafta að neyta eða mannafla við að hafa til þess að kippa honum upp með rótum. 10Nú er hann gróðursettur, en mun það vel gefast? Mun hann ekki skrælna, þegar austanvindurinn fer að leika um hann, mun hann ekki skrælna í reitnum, þar sem hann óx?"


Ráðning gátunnar

11Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12"Seg við hina þverúðugu kynslóð:

Skiljið þér eigi, hvað þetta á að þýða?

Seg þú: Sjá, konungurinn í Babýlon kom til Jerúsalem og tók konung hennar og höfðingja og fór með þá heim til sín, til Babýlon. 13Og hann tók einn af konungsættinni og gjörði sáttmála við hann og tók eið af honum, en leiðtoga landsins hafði hann flutt á burt, 14til þess að konungsvaldið skyldi vera lítið og eigi geta hafið sig aftur, til þess að hann skyldi halda sáttmála þann, er hann hafði gengist undir, og sáttmálinn standa. 15En hann hóf uppreisn gegn honum og gjörði sendimenn til Egyptalands eftir hestum og miklu liði. Mun það vel gefast? Mun sá, er slíkt gjörir, klakklaust af komast? Mun sá, er rýfur sáttmála, klakklaust af komast? 16Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, í aðseturstað þess konungs, er hóf hann til konungdóms, hvers sáttmála hann hefir rofið og að engu haft þann eið, er hann vann honum, hjá honum skal hann deyja í Babýlon. 17En Faraó mun ekki hjálpa honum í stríðinu með miklum herafla og fjölmennu liði, þá er jarðhryggjum verður hleypt upp og víggarðar hlaðnir, til þess að bana mörgum mönnum. 18Því að hann hefir eiðinn að engu haft með því að rjúfa sáttmálann. Já, hann seldi til þess hönd sína og gjörði þó allt þetta. Hann skal ekki klakklaust af komast.

19Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Svo sannarlega sem ég lifi, eiðinn, sem hann hefir unnið mér, en þó að engu haft, og sáttmálann, sem hann hefir gjört við mig, en þó rofið, mun ég láta honum í koll koma. 20Og ég mun kasta neti mínu yfir hann, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon og ganga þar í dóm við hann um tryggðrofin, er hann hefir í frammi við mig haft. 21Og allt úrvalalið hans meðal allra herflokka hans mun fyrir sverði falla, og þeir, sem eftir verða, munu tvístrast í allar áttir og þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi talað það.

22Svo segir Drottinn Guð: Ég mun taka nokkuð af topplimi hins hávaxna sedrustrés og planta því. Af efstu brumkvistum þess mun ég brjóta einn grannan og gróðursetja hann á háu og gnæfandi fjalli. 23Á hæðarhnjúki Ísraels mun ég gróðursetja hann, og hann mun fá greinar og bera ávöxtu og verða dýrlegur sedrusviður, og alls konar vængjaðir fuglar munu undir honum búa, í forsælunni af greinum hans munu þeir búa. 24Og öll tré merkurinnar skulu sjá, að ég, Drottinn, niðurlægi hið háa tré og upphef hið lága, læt hið græna tré þorna og hið þurra blómgast. Ég, Drottinn, hefi sagt það og gjört það."


Syndir feðranna koma ekki niður á börnunum

18
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Hvað kemur til, að þér hafið þetta orðtak um Ísraelsland:

,Feðurnir átu súr vínber, og tennur barnanna urðu sljóar'?

3Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skuluð þér ekki framar hafa þetta orðtak í Ísrael. 4Sjá, mínar eru sálirnar allar, sál föðurins eins og sál sonarins, mínar eru þær. Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.

5Hver sá maður, sem er ráðvandur og iðkar rétt og réttlæti, 6sem etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns og kemur ekki nærri konu meðan hún hefir klæðaföll, 7sem engan undirokar og skilar aftur skuldaveði sínu, tekur ekki neitt frá öðrum með ofbeldi, sem gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum, 8sem lánar ekki fé gegn leigu og tekur ekki vexti af lánsfé, sem heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, og dæmir rétt í deilumálum manna, 9sem breytir eftir boðorðum mínum og varðveitir skipanir mínar, með því að gjöra það sem rétt er, - hann er ráðvandur og skal vissulega lifa, segir Drottinn Guð.

10En eignist hann ofbeldisfullan son, sem úthellir blóði og fremur ranglæti, 11sem ekki fetar í fótspor síns ráðvanda föður, heldur etur fórnarkjöt á fjöllunum og flekkar konu náunga síns, 12undirokar volaða og snauða, tekur frá öðrum með ofbeldi, skilar ekki aftur veði og hefur augu sín til skurðgoða, fremur svívirðingar, 13lánar fé gegn leigu og tekur vexti af lánsfé, - ætti hann að halda lífi? Hann skal ekki lífi halda! Af því að hann hefir framið allar þessar svívirðingar, skal hann vissulega deyja. Blóð hans komi yfir hann!

14En eignist hann son, sem sér allar þær syndir, sem faðir hans drýgði, og óttast og breytir ekki eftir þeim, 15etur ekki fórnarkjöt á fjöllunum og hefur ekki augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, flekkar ekki konu náunga síns 16og undirokar engan, tekur ekkert veð og tekur ekkert frá öðrum með ofbeldi, gefur brauð sitt hungruðum og skýlir nakinn mann klæðum, 17heldur hendi sinni frá því, sem rangt er, tekur ekki vexti né fjárleigu, heldur skipanir mínar og breytir eftir boðorðum mínum, - sá skal ekki deyja sakir misgjörða föður síns, heldur skal hann vissulega lífi halda. 18En af því að faðir hans hefir beitt kúgun og tekið frá öðrum með ofbeldi og gjört það, sem ekki var gott, meðal þjóðar sinnar, þá hlýtur hann að deyja fyrir misgjörð sína.

19Og þá segið þér: ,Hví geldur sonurinn ekki misgjörðar föður síns?' Þar sem þó sonurinn iðkaði rétt og réttlæti, varðveitti öll boðorð mín og breytti eftir þeim, skal hann vissulega lífi halda. 20Sá maður, sem syndgar, hann skal deyja. Sonur skal eigi gjalda misgjörðar föður síns og faðir skal eigi gjalda misgjörðar sonar síns. Ráðvendni hins ráðvanda skal koma niður á honum og óguðleiki hins óguðlega skal koma niður á honum.


Sá bjargar lífi sínu, sem hverfur frá syndum sínum

21Ef hinn óguðlegi hverfur frá öllum syndum sínum, sem hann hefir drýgt, og heldur öll mín boðorð og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann vissulega lífi halda og ekki deyja. 22Öll hans afbrot, sem hann hefir drýgt, skulu honum þá eigi tilreiknuð verða. Vegna ráðvendninnar, sem hann hefir iðkað, skal hann lífi halda.

23Ætli ég hafi þóknun á dauða hins óguðlega - segir Drottinn Guð - og ekki miklu fremur á því, að hann hverfi frá sinni illu breytni og haldi lífi?

24En hverfi hinn ráðvandi frá ráðvendni sinni og fremji það, sem rangt er, í líkingu við allar þær svívirðingar, er hinn óguðlegi hefir framið, þá skal öll sú ráðvendni, er hann hefir iðkað, ekki til álita koma. Fyrir það tryggðrof, sem hann hefir sýnt, og þá synd, sem hann hefir drýgt, fyrir þær skal hann deyja. 25En er þér segið: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' - þá heyrið, þér Ísraelsmenn: Ætli það sé mitt atferli, sem ekki er rétt? Ætli það sé ekki fremur yðar atferli, sem ekki er rétt? 26Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og gjörir það, sem rangt er, þá hlýtur hann að deyja vegna þess. Vegna glæps þess, er hann hefir framið, hlýtur hann að deyja. 27En þegar óguðlegur maður hverfur frá óguðleik sínum, sem hann hefir í frammi haft, og iðkar rétt og réttlæti, þá mun hann bjarga lífi sínu. 28Því að hann sneri sér frá öllum syndum sínum, er hann hafði framið, fyrir því mun hann vissulega lífi halda og ekki deyja. 29Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' - ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? 30Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. 31Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? 32Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, - segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa."


Angurljóð um ungljón og vínvið

19
1Kyrja þú upp harmljóð yfir höfðingjum Ísraels 2og seg: Hvílík ljónynja var móðir þín meðal ljóna. Hún lá meðal ungra ljóna, ól upp ljónshvolpa sína.

3Og hún kom upp einum af hvolpum sínum, hann varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

4Þá höfðu þjóðirnar útboð í móti honum, hann var veiddur í gröf þeirra, og þeir teymdu hann á nasahring til Egyptalands.

5En er hún sá, að hún hafði breytt heimskulega, að von hennar var horfin, tók hún annan af hvolpum sínum og gjörði hann að ungljóni.

6Og hann gekk meðal ljóna og varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn. 7Og hann gjörði margar meðal þeirra að ekkjum og eyddi borgir þeirra, svo að landið fylltist skelfingu og allt, sem í því var, vegna öskurs hans.

8Þá settu þjóðir sig móti honum, úr héruðunum umhverfis, og köstuðu neti sínu yfir hann, í gröf þeirra varð hann veiddur.

9Og þeir drógu hann á nasahring í búr og fluttu hann til Babelkonungs og settu hann í dýflissu, til þess að rödd hans heyrðist ekki framar á Ísraels fjöllum.

10Móðir þín var eins og vínviður, sem gróðursettur var hjá vatni. Hann varð ávaxtarsamur og fjölgreinóttur af vatnsgnóttinni.

11Þá spratt fram sterk grein og varð veldissproti og óx hátt upp í milli þéttra greina og var frábær fyrir hæðar sakir, því að angar hennar voru svo margir.

12Þá var vínviðinum rykkt upp í heift og varpað til jarðar, og austanvindurinn skrældi ávöxt hans. Hin sterka grein hans skrælnaði, eldur eyddi henni.

13Og nú er hann gróðursettur í eyðimörk, í þurru og vatnslausu landi. 14Og eldur braust út frá grein hans, sem eyddi öngum hans, og engin sterk grein var framar á honum, enginn veldissproti.

Þetta eru harmljóð og voru sungin sem harmljóð.


Prédikun um sögu Guðs lýðs

20
1Á sjöunda árinu, tíunda dag hins fimmta mánaðar, komu nokkrir af öldungum Ísraels til þess að ganga til frétta við Drottin, og settust niður frammi fyrir mér. 2Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: "Mannsson, tala þú til öldunga Ísraels og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

3Þér eruð komnir til þess að ganga til frétta við mig? Svo sannarlega sem ég lifi vil ég eigi láta yður ganga til frétta við mig, - segir Drottinn Guð. 4En viljir þú dæma þá, viljir þú dæma, mannsson, þá leið þeim fyrir sjónir svívirðingar feðra þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

5Þegar ég útvaldi Ísrael, vann ég niðjum Jakobs húss eið og gjörði mig þeim kunnan á Egyptalandi. Þá vann ég þeim eið og sagði: Ég er Drottinn, Guð yðar! 6Þann dag vann ég þeim eið að því að leiða þá burt af Egyptalandi til þess lands, er ég hafði kannað fyrir þá, er flyti í mjólk og hunangi, - það er prýði meðal landanna. 7Og ég sagði við þá: Sérhver yðar varpi burt þeim viðurstyggðum, er þér hafið fyrir augum, og saurgið yður ekki á skurðgoðum Egyptalands. Ég er Drottinn, Guð yðar.

8En þeir voru mér mótsnúnir og vildu eigi hlýða mér. Þeir vörpuðu eigi burt viðurstyggðum þeim, er þeir höfðu fyrir augum, og þeir yfirgáfu eigi skurðgoð Egyptalands. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í Egyptalandi. 9En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er þeir bjuggu meðal, því að í augsýn þeirra hafði ég gjört mig þeim kunnan, til þess að flytja þá burt af Egyptalandi.

10Og ég flutti þá burt af Egyptalandi og leiddi þá inn í eyðimörkina. 11Og ég gaf þeim setningar mínar og kunngjörði þeim lög mín, þau er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa. 12Ég gaf þeim og hvíldardaga mína, að þeir væru sambandstákn milli mín og þeirra, til þess að menn skyldu viðurkenna, að ég, Drottinn, er sá, sem helgar þá. 13En Ísraelsmenn voru mér mótsnúnir í eyðimörkinni. Þeir breyttu eigi eftir setningum mínum og höfnuðu lögum mínum, þeim er maðurinn skal halda, til þess að hann megi lifa, og hvíldardaga mína vanhelguðu þeir stórum. Þá hugði ég að úthella reiði yfir þá í eyðimörkinni til þess að gjöreyða þeim. 14En ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á að ég flutti þá burt.

15Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi ekki leiða þá inn í landið, sem ég hafði gefið þeim og flýtur í mjólk og hunangi, - það er prýði meðal landanna -, 16af því að þeir höfnuðu lögum mínum og breyttu ekki eftir boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína, því að hjarta þeirra elti skurðgoð þeirra. 17En ég kenndi í brjósti um þá meir en svo að ég vildi tortíma þeim, og gjörði því ekki út af við þá í eyðimörkinni.

18Og ég sagði við sonu þeirra í eyðimörkinni: ,Breytið ekki eftir siðvenjum feðra yðar og haldið eigi lög þeirra og saurgið yður ekki á skurðgoðum þeirra. 19Ég er Drottinn, Guð yðar, lifið eftir boðorðum mínum og haldið lög mín og breytið eftir þeim. 20Og haldið helga hvíldardaga mína, og séu þeir sambandstákn milli mín og yðar, til þess að menn viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð yðar.'

21En synirnir voru mér mótsnúnir: Þeir lifðu ekki eftir boðorðum mínum og héldu ekki lög mín, svo að þeir breyttu eftir þeim, sem maðurinn þó á að halda, til þess að hann megi lifa; hvíldardaga mína vanhelguðu þeir. Þá hugði ég að úthella reiði minni yfir þá, að svala heift minni á þeim í eyðimörkinni. 22En ég dró höndina aftur að mér og gjörði það ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja þeirra, er horft höfðu á, að ég flutti þá burt.

23Þó sór ég þeim í eyðimörkinni, að ég skyldi tvístra þeim meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, 24af því að þeir héldu ekki lög mín og höfnuðu boðorðum mínum og vanhelguðu hvíldardaga mína og höfðu ekki augun af skurðgoðum feðra sinna. 25Ég gaf þeim þá og boðorð, sem ekki voru holl, og lög, er þeim eigi voru til lífs lagin. 26Ég lét þá saurga sig á fórnargjöfum sínum, á því að brenna í eldi alla frumburði, til þess að þeim skyldi ofbjóða, svo að þeir yrðu að kannast við, að ég er Drottinn. 27Tala þú þess vegna til Ísraelsmanna, mannsson, og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Enn fremur hafa feður yðar smánað mig með þessu, að þeir rufu trúnað við mig. 28Þegar ég hafði flutt þá inn í landið, sem ég hafði heitið þeim með eiði að gefa þeim, og þeir komu einhvers staðar auga á háa hæð og þéttlaufgað tré, þá slátruðu þeir þar fórnum sínum og báru þar fram hinar andstyggilegu gjafir sínar og létu þar þægilegan ilm sinn upp stíga og dreyptu þar dreypifórnum sínum. 29Þá sagði ég við þá: ,Hvaða blóthæð er þetta, sem þér farið upp á?' Fyrir því er hún kölluð ,hæð' allt til þessa dags.

30Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Viljið þér saurga yður á sama hátt og feður yðar og drýgja hór með viðurstyggðum þeirra? 31Já, með því að bera fram fórnargjafir yðar, með því að láta sonu yðar ganga gegnum eld, saurgið þér yður á öllum skurðgoðum yðar allt til þessa dags, og ég ætti að láta yður ganga til frétta við mig, þér Ísraelsmenn? Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, vil ég ekki láta yður ganga til frétta við mig.

32Ekki skal það heldur verða, sem yður hefir til hugar komið. Þér hugsið: ,Vér viljum vera sem aðrar þjóðir, sem kynslóðir heiðnu landanna, og tilbiðja stokka og steina.' 33Svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - skal ég ríkja yfir yður með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift. 34Og ég mun flytja yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, með sterkri hendi, útréttum armlegg og fossandi heift, 35og leiða yður inn í eyðimörkina milli þjóðanna og ganga þar í dóm við yður augliti til auglitis. 36Eins og ég gekk í dóm við feður yðar í Egyptalands eyðimörk, svo mun ég og ganga í dóm við yður, - segir Drottinn Guð. 37Ég mun láta yður renna fram hjá mér undir stafnum og láta yður gangast undir skyldukvöð sáttmálans. 38Og ég skil þá frá yður, er gjörðust mér mótsnúnir og rufu trúnað við mig. Ég vil flytja þá burt úr því landi, þar sem þeir dvöldust sem útlendingar, en inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, svo að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

39En þér, Ísraelsmenn, - svo segir Drottinn Guð: Fari hver yðar og þjóni skurðgoðum sínum. En eftir þetta skuluð þér vissulega hlýða á mig og eigi framar vanhelga mitt heilaga nafn með fórnargjöfum yðar og skurðgoðum. 40Því að á mínu heilaga fjalli, á fjallhnjúki Ísraels, segir Drottinn Guð, munu allir Ísraelsmenn, eins og þeir eru margir til, þjóna mér. Þar mun ég taka þeim náðarsamlega, og þar mun ég girnast fórnargjafir yðar og frumgróðafórnir ásamt öllu, sem þér helgið. 41Ég mun taka yður náðarsamlega sem þægilegum ilm, þegar ég flyt yður frá þjóðunum og safna yður úr löndunum, þangað sem yður var tvístrað, og þá skal ég sýna mig heilagan á yður í augsýn þjóðanna. 42Og þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég leiði yður inn í Ísraelsland, inn í landið, sem ég sór að gefa feðrum yðar. 43Þar munuð þér þá minnast breytni yðar og allra verka yðar, er þér saurguðuð yður á, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum allra þeirra illverka, er þér hafið framið. 44Og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, er ég fer svo með yður vegna nafns míns, en fer ekki með yður eftir yðar vondu breytni og yðar glæpsamlegu verkum, Ísraelsmenn, - segir Drottinn Guð."


Eldur og sverð ógna Jerúsalem

45Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

46"Mannsson, horf þú í suðurátt og lát orð þín streyma mót hádegisstað og spá móti skóginum í Suðurlandinu, 47og seg við skóginn í Suðurlandinu: Heyr orð Drottins! Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég kveiki eld í þér, sem eyða skal hverju grænu tré og hverjum þurrum viði, sem í þér er. Eldsloginn skal ekki slokkna, og öll andlit skulu sviðna af honum frá suðri til norðurs. 48Og allir menn skulu sjá, að ég, Drottinn, hefi kveikt hann, hann skal ekki slokkna." 49Þá sagði ég: "Æ, Drottinn Guð! Þeir segja um mig: ,Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?'"


21
1Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, snú þér í móti Jerúsalem og lát orð þín streyma mót helgidóminum og spá gegn Ísraelslandi 3og seg við Ísraelsland: Svo segir Drottinn:

Sjá, ég skal finna þig og mun draga sverð mitt úr slíðrum og afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega. 4Af því að ég ætla að afmá hjá þér ráðvanda og óguðlega, fyrir því mun sverð mitt hlaupa úr slíðrum á alla menn frá suðri til norðurs. 5Og allir menn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi dregið sverð mitt úr slíðrum, það skal ekki framar þangað aftur hverfa. 6En þú, mannsson, styn þungan. Mjaðmir þínar engist saman, og styn af sárri kvöl í augsýn þeirra. 7Og er þeir þá segja við þig: ,Af hverju stynur þú?' þá seg: ,Yfir fregn nokkurri, sem svo er, að þegar hún kemur mun hvert hjarta bráðna, allar hendur verða lémagna, allur dugur dofna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. Sjá, hún kemur og hún reynist sönn, - segir Drottinn Guð.'"


Ljóð um sverð Babýlons

8Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 9"Mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn: Seg þú:

Sverð, sverð er hvesst og fægt. 10Það er hvesst til þess að drepa menn unnvörpum, það er fægt, til þess að það bliki sem elding . . .

11Og það var látið burt til fægingar, til þess að það yrði hnefað. Það var hvesst, sverðið, og það var fægt, til þess að það yrði selt vegandanum í hendur.

12Hljóða þú og æp, mannsson, því að það er ætlað til höfuðs þjóð minni, til höfuðs öllum höfðingjum Ísraels. Undir sverðið eru þeir seldir, ásamt þjóð minni, fyrir því skalt þú slá þér á brjóst. 13Því það er prófraun. Og hvað, ef jafnvel sprotinn, sem virðir vettugi, verður eigi framar til? - segir Drottinn Guð.

14En þú, mannsson, spá og klappa lófum saman, tvisvar, já þrisvar skal sverðið sveiflast. Það er sverð hinna vegnu, sverð hins mikla manndráps, er svífur í kringum þá.

15Til þess að hjörtu skjálfi og hinir föllnu verði margir, hefi ég sett sverð manndrápsins við öll hlið þeirra.

Sverðið er gjört til þess að leiftra, hvesst til þess að brytja.

16Sníð þú til hægri, bein þér til vinstri, hvert sem egg þinni er snúið.

17Þá skal ég og klappa lófum saman og svala heift minni. Ég, Drottinn, hefi talað."


Konungur Babýlons á vegamótum

18Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

19"En þú, mannsson, tak til tvo vegu, er sverð Babelkonungs skal fara. Þeir skulu báðir liggja frá sama landi. Og set leiðarvísi þar sem vegurinn hefst heim að hvorri borg, 20til þess að sverðið komi yfir Rabba, höfuðborg Ammóníta, og yfir Júdaland og Jerúsalem í því miðju. 21Því að Babelkonungur stendur á vegamótum, þar sem báðir vegirnir hefjast, til þess að leita véfréttar. Hann hristir örvarnar, spyr húsgoðin, skoðar lifrina. 22Í hægri hendi hans er hlutur Jerúsalem: ,Hann skal reisa víghrúta, opna munninn með ópum, láta heróp gjalla, reisa víghrúta gegn hliðunum, hleypa upp jarðhrygg, hlaða víggarða.' 23Og þeim virðist það lygavéfrétt; þeir hafa unnið hina helgustu eiða, - en hann minnir á misgjörð þeirra, til þess að þeir verði teknir höndum.

24Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að hann minnti á misgjörð yðar, er trúrof yðar varð opinbert, svo að syndir yðar urðu berar í öllu athæfi yðar, - með því að hann minnti á yður, skuluð þér verða teknir höndum þeirra vegna.

25En þú, dauðadæmdi guðleysingi, höfðingi Ísraels, hvers dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp, 26svo segir Drottinn Guð:

Burt með höfuðdjásnið, niður með kórónuna! Þetta skal ekki lengur vera svo. Upp með hið lága, niður með hið háa! 27Að rústum, rústum, rústum vil ég gjöra allt. Þetta ríki skal ekki heldur vera til, uns sá kemur, sem hefir réttinn, er ég hefi gefið honum.


Sverð Babýlons gegn Ammónítum

28En þú, mannsson, spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð um Ammóníta og smánan þeirra:

Sverð, sverð er dregið úr slíðrum, fægt til að brytja niður, til þess að láta eldingar leiftra, 29en þér boðuðu menn hégómasýnir og fluttu þér lygispádóma, til þess að setja það á háls hinna dauðadæmdu guðleysingja, hverra dagur er kominn, þá er tími endasektarinnar rennur upp. 30Slíðra það aftur. Ég skal dæma þig á þeim stað, þar sem þú varst skapaður, í því landi, þar sem þú ert upp runninn, 31og ég skal úthella yfir þig reiði minni og blása á þig mínum heiftarloga og selja þig í hendur dýrslegra manna, glötunarsmiða. 32Eldsmatur skalt þú verða, blóði þínu skal úthellt inni í landinu. Þín skal eigi framar minnst verða. Ég, Drottinn, hefi talað þetta."


Jerúsalem, hin blóðseka borg

22
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Þú mannsson, vilt þú dæma, vilt þú dæma hina blóðseku borg? Leið henni þá fyrir sjónir allar svívirðingar hennar 3og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Ó borg, sem úthellti blóði innan borgarveggja sinna, til þess að tími hennar kæmi, og gjörði sér skurðgoð til þess að saurga sig. 4Fyrir blóðið, sem þú hefir úthellt, ert þú sek orðin, og fyrir skurðgoðin, sem þú gjörðir, ert þú óhrein orðin. Þú hefir flýtt fyrir degi þínum, og ævilok þín eru komin. Þess vegna gjöri ég þig að háðung meðal þjóðanna og að athlægi allra landa. 5Þeir sem eru nálægt þér og þeir sem eru langt frá þér munu hæða þig, þú borg með flekkað mannorð, full af róstum.

6Sjá, höfðingjar Ísraels, sem í þér búa, úthella blóði, hver sem betur getur. 7Hjá þér eru faðir og móðir fyrirlitin, við útlendinga beita menn kúgun í þér, munaðarleysingja og ekkjur undiroka menn hjá þér. 8Þú fyrirlítur helgidóma mína og vanhelgar hvíldardaga mína. 9Hjá þér eru bakmælgismenn, sem koma manndrápum til leiðar, hjá þér eta menn fórnarkjöt á fjöllunum, menn fremja saurlifnað í þér miðri. 10Hjá þér bera menn blygðan föður síns, hjá þér nauðga menn konum, sem óhreinar eru vegna tíða. 11Einn fremur svívirðu með konu náunga síns, annar flekkar tengdadóttur sína með saurlifnaði og enn annar nauðgar hjá þér systur sinni, dóttur föður síns. 12Menn þiggja mútur hjá þér til þess að úthella blóði. Þú hefir tekið fjárleigu og vexti og haft af náunga þínum með ofríki, en mér hefir þú gleymt, - segir Drottinn Guð.

13En sjá: Ég slæ höndum saman yfir því rangfengna fé, sem þú hefir dregið þér, og yfir blóðskuld þeirri, sem í þér er. 14Mun kjarkur þinn standast og hendur þínar haldast styrkar, þegar þeir dagarnir koma, er ég tek þig fyrir? Ég, Drottinn, tala það og mun framkvæma það.

15Og ég mun tvístra þér meðal þjóðanna og dreifa þér út um löndin og gjörsamlega uppræta óhreinleik þinn úr þér, 16og þú skalt vanhelguð verða í augsýn heiðingjanna, og þá skalt þú viðurkenna, að ég er Drottinn."


Bræðsluofninn

17Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

18"Mannsson, Ísraelsmenn eru orðnir fyrir mér eins og sori. Þeir eru allir eins og eir og tin og járn og blý í bræðsluofni, þeir eru orðnir sorasilfur. 19Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að þér eruð allir orðnir að sora, þá vil ég safna yður saman í Jerúsalem. 20Eins og silfur og eir og járn og blý og tin er látið saman inn í bræðsluofn til þess að blása eldi að því og bræða það, þannig mun ég safna yður saman í reiði minni og gremi, láta yður þar inn og bræða yður. 21Og ég mun stefna yður saman og blása að yður eldi gremi minnar, svo að þér skuluð bráðna þar. 22Eins og silfrið er brætt í bræðsluofninum, svo skuluð þér bráðna í borginni og þá munuð þér viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi úthellt reiði minni yfir yður."

23Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

24"Þú mannsson, seg við hana: Þú ert eins og land, sem ekki rigndi á, sem eigi var vökvað á degi reiðinnar, 25en þjóðhöfðingjar þess voru í því sem öskrandi ljón, er rífur sundur bráð sína. Mannslífum hafa þeir eytt, eignir og dýrgripi hafa þeir tekið og fjölgað ekkjum í landinu. 26Prestar hennar hafa brjálað lögmáli mínu og vanhelgað helgidóma mína. Þeir hafa engan mun gjört á því, sem heilagt er og óheilagt, og eigi frætt menn um muninn á óhreinu og hreinu, og þeir hafa lokað augum sínum fyrir hvíldardögum mínum, svo að ég vanhelgaðist meðal þeirra. 27Yfirmenn hennar voru í henni eins og sundurrífandi vargar og hugsuðu ekki um annað en að úthella blóði og eyða mannslífum til þess að afla sér rangfengins gróða. 28En spámenn hennar riðu á kalki fyrir þá með því að boða þeim hégómasýnir og flytja þeim lygispádóma og segja: ,Svo segir Drottinn Guð!' þótt Drottinn hafi ekki talað. 29Landslýðurinn hefir haft kúgun og rán í frammi, þeir hafa undirokað volaða og snauða og kúgað útlendinga án nokkurs réttar. 30Og ég leitaði að einhverjum meðal þeirra, er hlaða vildi garð eða skipa sér í skarðið móti mér, landinu til varnar, til þess að ég legði það ekki í eyði, en ég fann engan. 31Þá úthellti ég reiði minni yfir þá, gjöreyddi þeim með eldi gremi minnar, ég lét athæfi þeirra þeim í koll koma, - segir Drottinn Guð."


Dæmisaga um Samaríu og Jerúsalem

23
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, konur voru tvær, dætur sömu móður. 3Þær frömdu hórdóm á Egyptalandi, þær hóruðust í æsku. Þar létu þær þukla um brjóst sér og þar fóru menn höndum um meyjarbarm þeirra. 4Hin eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Og ég eignaðist þær báðar, og þær ólu sonu og dætur. Og Ohola hét síðar Samaría og Oholíba Jerúsalem.

5En Ohola tók fram hjá mér og brann af girnd til friðla sinna, til Assýringa, hinna nafntoguðu, 6sem klæddir voru bláum purpura, jarlar og landstjórar, allt saman fríðir æskumenn, riddarar ríðandi hestum. 7Og hún helgaði þeim hóranir sínar, öllum úrvalsmönnum Assýringa, og hún saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra, er hún brann af girnd til. 8Þó lét hún ekki af hórunum sínum frá Egyptalandi, því að þeir höfðu legið með henni í ungdæmi hennar og farið höndum um meyjarbarm hennar og hellt yfir hana hóran sinni. 9Fyrir því seldi ég hana í hendur friðla sinna, í hendur Assýringa, er hún brann af girnd til. 10Þeir beruðu blygðan hennar, tóku burt sonu hennar og dætur og vógu hana sjálfa með sverði, svo að hún varð öðrum konum til viðvörunar, og framkvæmdu þannig refsingardóminn á henni.

11En þótt systir hennar Oholíba sæi það, þá varð hún þó enn frekari í lostanum og drýgði enn meiri saurlifnað en systir hennar. 12Hún brann af girnd til Assýringa, nafntogaðra jarla og landstjóra, sem voru frábærlega prúðbúnir, til riddara, sem riðu hestum, allt saman fríðir æskumenn. 13Og ég sá, hversu hún saurgaði sig. Eitt og hið sama var háttalag beggja þeirra systra. 14En hún hélt áfram að drýgja hórdóm, og er hún sá menn dregna á vegg, myndir af Kaldeum, málaða með menju, 15gyrta belti um lendarnar, með vefjarhöttu um höfuðin, alla saman hina hermannlegustu, mynd af Babýloníumönnum, en ættland þeirra er Kaldea, 16- þá brann hún af girnd til þeirra, er hún leit þá augum, og gjörði sendimenn til þeirra til Kaldeu. 17Og Babýloníumenn gengu inn til hennar, til ástasamlags við hana, og flekkuðu hana með saurlifnaði sínum, og hún saurgaði sig á þeim. Þá sneri sál hennar sér frá þeim. 18Og er hún framdi saurlifnað sinn berlega og beraði blygðan sína, þá sneri sál mín sér frá henni, eins og sál mín hafði snúið sér frá systur hennar.

19En hún varð enn frekari í hórdómi sínum, með því að hún minntist æskudaga sinna, þá er hún framdi saurlifnað á Egyptalandi. 20Og hún brann af girnd til friðla þeirra, sem voru eins hreðurmiklir og asnar og gusan úr þeim sem úr stóðhestum. 21Og þú saknaðir saurlifnaðar æsku þinnar, þá er Egyptar fóru höndum um barm þinn og þukluðu um meyjarbrjóst þín.

22Fyrir því, Oholíba, svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun egna friðla þína upp í móti þér, þá er sál þín hefir snúið sér frá, og láta þá veitast að þér úr öllum áttum: 23Babýloníumenn og alla Kaldea, Pekód, Sjóa og Kóa og alla Assýringa með þeim, allt saman fríða æskumenn, jarla og landstjóra, tóma liðsforingja og nafntogaða menn, ríðandi hestum. 24Og þeir munu koma í móti þér úr norðri með vögnum og hjólum og liðsafnaði margra þjóða. Törgu, skjöld og hjálm munu þeir setja upp í móti þér hringinn í kring, og ég mun leggja fyrir þá málið, og þeir skulu dæma þig eftir sínum lögum. 25Og ég mun snúa vandlæting minni gegn þér, og þeir munu fara grimmdarlega með þig. Þeir munu skera af þér nef og eyru, og það, sem eftir verður af þér, skal fyrir sverði falla. Sonu þína og dætur munu þeir hafa á burt, og það, sem eftir verður af þér, mun eyðast af eldi. 26Og þeir munu færa þig af klæðum og taka af þér skartgripi þína. 27Og ég vil gjöra enda á saurlifnaði þínum og hórdómi þínum frá Egyptalandi, svo að þú hefjir eigi framar augu þín til þeirra og hugsir eigi framar um Egyptaland.

28Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun selja þig á vald þeirra, er þú hatar, á vald þeirra, er sál þín hefir snúið sér frá. 29Og þeir munu fara haturslega með þig og hafa á burt allan afla þinn og láta þig eftir nakta og bera, og þá mun verða flett ofan af hinni hórgjörnu blygðan þinni, lauslæti þínu og saurlifnaði þínum. 30Svo mun með þig farið, af því að þú eltir þjóðirnar, fyrir þá sök að þú saurgaðir þig á skurðgoðum þeirra.

31Þú hefir gengið götu systur þinnar, þess vegna rétti ég að þér bikar hennar. 32Svo segir Drottinn Guð:

Þú skalt drekka bikar systur þinnar, hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið, - 33vímu og hörmung skalt þú fyllast -, bikar hryllings og skelfingar, bikar Samaríu systur þinnar. 34Og þú skalt drekka hann og tæma og sötra dreggjarnar og sundurrífa brjóst þín, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.

35Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sökum þess að þú hefir gleymt mér og varpað mér aftur fyrir bak þér, þá skalt þú nú og gjöld taka fyrir lauslæti þitt og saurlifnað."

36Og Drottinn sagði við mig: "Mannsson, vilt þú dæma Oholu og Oholíbu? Leið þeim þá fyrir sjónir svívirðingar þeirra, 37hversu þær hafa hórdóm drýgt og flekkað hendur sínar með blóði, og hversu þær hafa drýgt hórdóm með skurðgoðum sínum og jafnvel látið sonu sína, er þær fæddu mér, ganga gegnum eld þeim til fæðslu. 38Enn fremur gjörðu þær mér þetta: Þær saurguðu sama daginn helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína. 39Og þegar þær slátruðu sonum sínum skurðgoðunum til fórnar, gengu þær sama daginn inn í helgidóm minn til þess að vanhelga hann. Já, slíkt höfðust þær að í mínu eigin musteri. 40Þær sendu jafnvel eftir mönnum, er komu af fjarlægum löndum, og er sendimaður hafði verið gjörður til þeirra, komu þeir. Þeirra vegna laugaðir þú þig, barst lit í augu þér og bjóst þig í skart. 41Síðan settist þú á veglegan hvílubekk, fyrir framan hann stóð uppbúið borð, og á það lagðir þú reykelsi mitt og olífuolíu mína. 42Og með háværum söng hvíldu þeir á bekknum, og auk mannanna úr mannfjöldanum var komið með Sabea úr eyðimörkinni. Þeir spenntu armbaugum um handleggi kvennanna og settu dýrlega kórónu á höfuð þeirra. 43Þá sagði ég: ,Mun hin útslitna enn drýgja hórdóm? Munu menn enn hórast með henni?' 44Og menn gengu inn til hennar, eins og gengið er inn til hórkonu, þannig gengu þeir inn til Oholu og Oholíbu, saurlífiskvennanna. 45En réttlátir menn munu dæma þær sama dómi og hórkonur eru dæmdar og þær konur, er úthella blóði, því að hórkonur eru þær, og hendur þeirra eru blóði flekkaðar.

46Svo segir Drottinn Guð: Mannsafnaður sé gjörður að þeim og þær framseldar til misþyrmingar og rána. 47Og mannsafnaðurinn skal lemja þær grjóti og höggva þær sundur með sverðum sínum. Sonu þeirra og dætur skulu menn drepa og brenna hús þeirra í eldi. 48Þannig vil ég útrýma saurlifnaðinum úr landinu, til þess að allar konur láti sér að kenningu verða og breyti eigi eftir saurlifnaðar-dæmi yðar. 49Og menn munu láta saurlifnað yðar koma niður á yður, og þér skuluð gjalda þeirra synda, er þér hafið framið með skurðgoðum yðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn Guð."


Líking um umsátur Jerúsalem

24
1Og orð Drottins kom til mín níunda árið, tíunda dag hins tíunda mánaðar, svohljóðandi:

2"Mannsson, skrifa þú upp hjá þér þennan dag, - einmitt þennan dag. Einmitt í dag hefir Babelkonungur ráðist á Jerúsalem. 3Flyt því hinni þverúðugu kynslóð líking og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Set þú upp pottinn, set hann upp, og hell vatni í hann. 4Lát kjötstykkin í hann, öll bestu stykkin, lærin og bógana, fyll hann úrvalsbeinbitum. 5Tak þau af úrvalskindum og legg einnig skíð undir pottinn. Lát sjóða á kjötstykkjunum, beinbitarnir soðna þegar í honum.

6Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg, pottinum með ryðflekkjunum, sem ryðflekkirnir gengu ekki af. Allt hefir verið fært upp úr honum, hvert stykkið eftir annað, án þess að varpa hlutum um þau. 7Því að blóðið, sem hún hefir úthellt, er enn í henni. Hún hefir látið það renna á bera klettana, ekki hellt því á jörðina til þess að hylja það moldu. 8Til þess að sýna heift og koma fram hefnd, hefi ég látið blóðið, sem hún hefir úthellt, renna á bera klettana, til þess að það skuli eigi hulið verða.

9Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Vei hinni blóðseku borg! Já, ég vil gjöra eldgrófina stóra. 10Drag saman mikinn við, kveik upp eldinn, sjóð kjötið vandlega, lát súpuna sjóða, svo að beinin brenni. 11Set síðan tóman pottinn á glæðurnar, til þess að hann hitni og eirinn í honum verði glóandi og óhreinindin, sem í honum eru, renni af og ryð hans eyðist.

12Alla fyrirhöfn hefir hann að engu gjört, því að hið mikla ryð gekk ekki af honum í eldinum, 13sökum lauslætissaurugleika þíns. Af því að ég hefi reynt að hreinsa þig, en þú varðst eigi hrein af saurugleik þínum, þá skalt þú ekki framar verða hrein, uns ég hefi svalað heift minni á þér. 14Ég, Drottinn, hefi talað það. Það kemur, og ég framkvæmi það, ég læt ekki undan draga, ég vægi ekki og ég læt mig einskis iðra. Eftir breytni þinni og eftir gjörðum þínum dæma menn þig, - segir Drottinn Guð."


Raunir spámannsins eru tákn

15Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

16"Mannsson, ég mun taka yndi augna þinna frá þér með skyndilegum dauða, en þú skalt ekki kveina né gráta, og eigi skulu þér tár á augu koma. 17Andvarpa þú í hljóði, viðhaf ekkert dánarkvein. Set vefjarhött þinn á þig og lát skó þína á fætur þér. Þú skalt ekki hylja kamp þinn og ekki neyta sorgarbrauðs."

18Og ég talaði til lýðsins um morguninn, en um kveldið dó kona mín, og ég gjörði morguninn eftir eins og mér hafði verið skipað. 19Þá sagði fólkið við mig: "Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða, að þú hagar þér svo?" 20Ég svaraði þeim: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 21Seg við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég mun vanhelga helgidóm minn, yðar mikla ofdrambsefni, yndi augna yðar og þrá sálar yðar, og synir yðar og dætur, er þér hafið skilið þar eftir, munu falla fyrir sverði. 22Þá munuð þér gjöra eins og ég hefi gjört: Þér munuð ekki hylja kamp yðar og ekki neyta sorgarbrauðs. 23Þér munuð hafa vefjarhöttinn á höfðinu og skóna á fótunum. Þér munuð ekki kveina né gráta, heldur veslast upp vegna misgjörða yðar og andvarpa hver með öðrum.

24Þannig mun Esekíel verða yður til tákns. Með öllu svo sem hann hefir gjört, munuð þér og gjöra, er það ber að höndum, og þá munuð þér viðurkenna, að ég er Drottinn Guð.

25En þú, mannsson - vissulega mun þann dag, er ég tek frá þeim varnarvirki þeirra, hinn dýrlega unað þeirra, yndi augna þeirra og þrá sálar þeirra, sonu þeirra og dætur, - 26þann dag mun flóttamaður til þín koma, til þess að gjöra það heyrinkunnugt. 27Á þeim degi mun munnur þinn upp ljúkast, um leið og munnur flóttamannsins, og þá munt þú tala og ekki framar þegja, og þú munt vera þeim til tákns, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn."Gegn öðrum þjóðum


Gegn Ammónítum

25
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, snú þér að Ammónítum og spá gegn þeim 3og seg við Ammóníta: Heyrið orð Drottins Guðs! Svo segir Drottinn Guð:

Af því að þú hlakkaðir yfir því, að helgidómur minn var vanhelgaður og yfir því að Ísraelsland var í eyði lagt og yfir því að Júdamenn urðu að fara í útlegð, 4sjá, fyrir því gef ég þig austurbyggjum til eignar, að þeir setji tjöld sín í þér og reisi búðir sínar í þér. Þeir munu eta ávöxtu þína og þeir munu drekka mjólk þína. 5Og ég vil gjöra Rabba að beitilandi fyrir úlfalda og land Ammóníta að fjárbóli, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 6Því að svo segir Drottinn Guð:

Af því að þú klappaðir lof í lófa og stappaðir með fætinum og fagnaðir með fullri fyrirlitning í hjarta yfir Ísraelslandi, 7sjá, fyrir því rétti ég út hönd mína í móti þér og læt þig verða heiðingjum að herfangi og afmái þig úr tölu þjóðanna og týni þér úr tölu landanna. Ég vil tortíma þér, til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.


Gegn Móabítum

8Svo segir Drottinn Guð:

Af því að Móab segir: Sjá, Júdalýður er eins og allar aðrar þjóðir! 9Sjá, fyrir því opna ég hlíðar Móabs, til þess að landið verði borgalaust, missi borgir sínar allt til hinnar ystu: prýði landsins, Bet Jesímót, Baal Meon og Kirjataím. 10Austurbyggjum gef ég það til eignar, í viðbót við land Ammóníta, til þess að Ammóníta verði eigi framar minnst meðal þjóðanna. 11Og ég mun framkvæma refsidóma á Móab, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.


Gegn Edómítum

12Svo segir Drottinn Guð:

Af því að Edóm hefir breytt við Júdamenn af mikilli hefndargirni og misgjört stórlega með því að hefna sín á þeim, 13fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég vil rétta út hönd mína gegn Edóm og eyða þar mönnum og fénaði og gjöra landið að auðn. Frá Teman allt til Dedan skulu þeir fyrir sverði falla. 14Og ég fel lýð mínum Ísrael að framkvæma hefnd mína á Edóm, svo að þeir fari með Edóm samkvæmt reiði minni og heift, og hann fái að kenna á hefnd minni, - segir Drottinn Guð.


Gegn Filistum

15Svo segir Drottinn Guð:

Af því að Filistar sýndu af sér hefnigirni og hefndu sín með fyrirlitning í hjarta, hyggjandi á tortíming með ævarandi fjandskap, 16fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég mun rétta út hönd mína gegn Filistum og útrýma Kretum og eyða þeim, sem eftir eru á sjávarströndinni. 17Og ég mun koma miklum hefndum fram á þeim með grimmilegum hirtingum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, þá er ég læt hefnd mína koma fram á þeim."


Gegn Týrusborg

26
1En á ellefta árinu, hinn fyrsta dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, af því að Týrus hlakkaði yfir Jerúsalem og sagði: ,Nú er þjóðahliðið brotið upp, hefir opnast að mér, nú vil ég fylla mig, er hún er komin í auðn!' - 3fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Sjá, ég skal finna þig, Týrus, ég skal leiða í móti þér margar þjóðir, eins og þegar hafið lætur öldur sínar að streyma. 4Þær skulu brjóta múra Týrusar og rífa niður turna hennar, og ég mun sjálfur sópa burt öllum jarðveg af henni og gjöra hana að berum kletti. 5Hún skal verða að þerrireit fyrir fiskinet úti í hafinu, því að ég hefi talað það, - segir Drottinn Guð, - og hún skal verða þjóðunum að herfangi. 6En dætur hennar, sem eru á landi, skulu drepnar verða með sverði, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

7Því að svo segir Drottinn Guð: Sjá ég leiði Nebúkadresar konung í Babýlon, konung konunganna, gegn Týrus úr norðri, með hestum, vögnum, riddurum og mannsöfnuði margra þjóða.

8Hann mun drepa dætur þínar á landi með sverði, hlaða víggarða gegn þér, hleypa upp jarðhrygg gegn þér og reisa skjöldu í móti þér. 9Og hann mun hleypa víghrút sínum á múra þína og rífa niður turna þína með járntólum sínum. 10Af mergð hesta hans munt þú hulin verða jóreyk, og múrar þínir munu gnötra af gný riddaranna, hjólanna og vagnanna, þegar hann fer inn um borgarhlið þín, eins og þegar farið er inn í hertekna borg. 11Með hófum hesta sinna mun hann troða sundur öll stræti þín. Lýð þinn mun hann brytja niður með sverði, og þínar voldugu súlur munu hrapa til jarðar. 12Og þeir munu ræna auð þínum og hrifsa burt kaupeyri þinn, brjóta niður borgarveggi þína, rífa niður þín dýrlegu hús og varpa á sjó út húsagrjótinu, viðunum og rofinu.

13Ég skal lægja klið ljóða þinna, og hljómur harpna þinna skal ekki framar heyrast. 14Og ég skal gjöra þig að berum kletti: Þú skalt verða að þerrireit fyrir fiskinet, þú skalt aldrei framar endurreist verða, því að ég, Drottinn, hefi talað það, - segir Drottinn Guð.

15Svo segir Drottinn Guð um Týrus: Munu ekki eyjarnar gnötra við dynkinn af hruni þínu, þá er hinir vegnu stynja, þá er sverðið brytjar fólkið niður í þér? 16Og allir þjóðhöfðingjar við hafið munu stíga niður af hásætum sínum og leggja af sér skikkjur sínar og fara úr litklæðum sínum. Þeir munu íklæðast skelfingu, þeir munu setjast á jörðina, þeir munu vera síhræddir og sem agndofa þín vegna.

17Og þeir munu hefja upp harmljóð yfir þér og segja um þig:

Hversu ert þú eydd, horfin frá hafinu, þú vegsamaða borg, sem voldug varst á hafinu, hún og íbúar hennar, sem skutu skelk í bringu öllum nábúum sínum.

18Nú nötra sælöndin á degi falls þíns og eyjarnar í hafinu eru skelfdar yfir afdrifum þínum.

19Því að svo segir Drottinn Guð: Þegar ég gjöri þig að eyddri borg, eins og þær borgir, sem óbyggðar eru, þegar ég læt hafsjóinn streyma yfir þig, svo að hin miklu vötn hylji þig, 20þá steypi ég þér niður til þeirra, sem ofan eru farnir í gröfina, til manna frá fyrri tíðum, og bý þér stað í undirheimum, eins og ævagömlum rústum, hjá þeim sem ofan eru farnir í gröfina, til þess að þú verðir ekki byggð framar og standir ekki framar á landi lifandi manna. 21Ég sel þig á vald voveiflegri glötun, og þú munt farast. Þín mun verða leitað, en þú munt aldrei finnast til eilífðar, - segir Drottinn Guð."


Angurljóð um eyðingu Týrusborgar

27
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

2"Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus 3og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð:

Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!' 4Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra. 5Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt. 6Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein. 7Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum.

8Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir. 9Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn. 10Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega. 11Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra.

12Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt. 13Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar. 14Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt. 15Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt. 16Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt. 17Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar. 18Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar. 19Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar. 20Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á. 21Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra. 22Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt. 23Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig. 24Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu.

25Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu. 26Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi.

27Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst.

28Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa. 29Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land. 30Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku. 31Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð. 32Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!'

33Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar. 34Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var.

35Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna. 36Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin."


Gegn konungi Týrusborgar

28
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, seg tignarmönnunum í Týrus: Svo segir Drottinn Guð:

Af því að hjarta þitt var hrokafullt, svo að þú sagðir: ,Ég er guð, ég sit í guðasæti mitt úti í hafi!' - þar sem þú ert þó maður og enginn guð, en leist á þig eins og guð, - 3já, þú varst vitrari en Daníel, ekkert hulið var þér of myrkt, 4með speki þinni og hyggindum aflaðir þú þér auðæfa og safnaðir gulli og silfri í féhirslur þínar . . . 5Með viskugnótt þinni, með verslun þinni jókst þú auðæfi þín, og hjarta þitt varð hrokafullt af auðæfunum - 6fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Af því að þú leist á sjálfa þig eins og guð, 7sjá, fyrir því læt ég útlenda menn yfir þig koma, hinar grimmustu þjóðir, þeir skulu bregða sverðum sínum gegn snilldarfegurð þinni og vanhelga prýði þína. 8Þeir munu steypa sér niður í gröfina og þú munt deyja dauða hins vopnbitna úti í hafi. 9Hvort munt þú þá segja: ,Ég er guð!' frammi fyrir banamanni þínum, þar sem þú ert þó maður og enginn guð á valdi veganda þíns? 10Þú skalt deyja dauða óumskorinna manna fyrir hendi útlendinga, því að ég hefi talað það, - segir Drottinn Guð."

11Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 12"Mannsson, hef upp harmljóð yfir konunginum í Týrus og seg við hann: Svo segir Drottinn Guð:

Þú varst ímynd innsiglishrings, fullur af speki og fullkominn að fegurð! 13Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum: karneól, tópas, jaspis, krýsolít, sjóam, onýx, safír, karbunkul, smaragð, og umgjörðir þínar og útflúr var gjört af gulli. Daginn, sem þú varst skapaður, var það búið til.

14Ég hafði skipað þig verndar-kerúb, þú varst á hinu heilaga goðafjalli, þú gekkst innan um glóandi steina.

15Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér.

16Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. Þá óhelgaði ég þig og rak þig burt af goðafjallinu og tortímdi þér, þú verndar-kerúb, burt frá hinum glóandi steinum.

17Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns. Ég varpaði þér til jarðar, ofurseldi þig konungum, svo að þeir mættu horfa nægju sína á þig.

18Með hinum mörgu misgjörðum þínum, með hinni óráðvöndu kaupverslun þinni vanhelgaðir þú helgidóma þína.

Þá lét ég eld brjótast út frá þér, hann eyddi þér, og ég gjörði þig að ösku á jörðinni í augsýn allra, er sáu þig.

19Allir þeir meðal þjóðanna, er þekktu þig, voru agndofa yfir þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfinn."


Gegn Sídon

20Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

21"Mannsson, snú þér að Sídon og spá gegn henni 22og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég skal finna þig, Sídon, og gjöra mig vegsamlegan í þér miðri, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, er ég framkvæmi refsidóma í henni og auglýsi heilagleik minn á henni. 23Og ég mun senda drepsótt í hana og blóðsúthelling á stræti hennar, og menn skulu í henni falla helsærðir fyrir sverði, er alla vega skal yfir hana ganga, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. 24En fyrir Ísraelsmenn mun eigi framar vera til neinn kveljandi þyrnir né stingandi þistill af öllum þeim, sem umhverfis þá eru, þeim er óvirtu þá, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn Guð þeirra.

25Svo segir Drottinn Guð:

Þegar ég safna Ísraelsmönnum saman frá þjóðunum, þangað sem þeim var tvístrað, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn þjóðanna, og þeir skulu búa í landi sínu, því er ég gaf þjóni mínum Jakob. 26Og þeir munu búa þar óhultir og reisa hús og planta víngarða og búa óhultir, með því að ég læt refsidóma ganga yfir alla nágranna þeirra, er þá hafa óvirt, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn, Guð þeirra."


Gegn Faraó

29
1Á tíunda árinu, tólfta dag hins tíunda mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, snú þér að Faraó, Egyptalandskonungi, og spá gegn honum og gegn öllu Egyptalandi. 3Tala og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég skal finna þig, Faraó, Egyptalandskonungur, þú mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna og segir: ,Fljótið er mitt, ég hefi sjálfur búið það til!' 4Og ég skal setja króka í kjálka þína og láta fiskana í fljótum þínum loða á hreistri þínu og draga þig upp úr fljótum þínum, ásamt öllum fiskunum í fljótum þínum, þeim er loða á hreistri þínu. 5Og ég skal varpa þér út á eyðimörk, þér og öllum fiskunum í fljótum þínum. Þú skalt falla úti á bersvæði, þú munt ekki verða tekinn upp né jarðaður. Ég gef þig dýrum jarðarinnar og fuglum himinsins til fæðslu. 6Þá skulu allir íbúar Egyptalands viðurkenna, að ég er Drottinn, af því að þú ert Ísraelsmönnum ekki annað en stafur úr sefreyr. 7Þegar þeir grípa um þig með hendinni, þá brotnar þú og fleiðrar alla höndina á þeim, og þegar þeir styðjast við þig, þá brestur þú í sundur og linar þá í öllum mjöðmunum.

8Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal láta sverðið koma yfir þig og gjöreyða hjá þér mönnum og fénaði. 9Og Egyptaland skal verða að auðn og öræfum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. Af því að þú hefir sagt: ,Fljótið er mitt og ég hefi búið það til!' 10sjá, fyrir því skal ég finna þig og árkvíslar þínar og gjöra Egyptaland að öræfum, að eyðiöræfum frá Migdól til Sýene og allt að landamerkjum Blálands. 11Enginn maður skal stíga þar fæti sínum og engin skepna skal stíga þar fæti sínum, og það skal vera óbyggt í fjörutíu ár. 12Og ég skal gjöra Egyptaland að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess skulu liggja í eyði innan um borgir, sem liggja í rústum, í fjörutíu ár, og ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.

13Svo segir Drottinn Guð: Þegar fjörutíu ár eru liðin, mun ég saman safna Egyptum frá þeim þjóðum, þangað sem þeim var tvístrað, 14og ég mun snúa við högum Egyptalands og flytja þá aftur inn í landið Patrós, landið þar sem þeir eru upprunnir, og þar munu þeir vera lítilfjörlegt ríki. 15Það mun verða lítilfjörlegra en hin ríkin og ekki framar hefja sig upp yfir þjóðirnar, og ég gjöri þá fámenna, til þess að þeir geti ekki drottnað yfir þjóðunum. 16Þá mun Egyptaland ekki framar vera Ísraelsmönnum traust, er minni á misgjörð þeirra, er þeir leita bandalags við það, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn Guð."


Babýloníumenn munu taka Egyptaland

17En á tuttugasta og sjöunda árinu, hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18"Mannsson, Nebúkadresar konungur í Babýlon hefir látið herlið sitt vinna mikið verk á Týrus. Höfuð allra manna hans eru orðin hárlaus og axlir þeirra gnúnar, og þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus fyrir það verk, er hann hefir á henni unnið. 19Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég gef Nebúkadresar Babelkonungi Egyptaland. Hann skal flytja burt auðæfi þess og fara þar með rán og rifs, það skulu vera launin handa herliði hans. 20Sem endurgjald handa því, er það hefir unnið fyrir, gef ég því Egyptaland, - segir Drottinn Guð.

21Á þeim degi vil ég láta Ísraels húsi horn vaxa, og þá mun ég gefa þér að upp ljúka munni þínum meðal þeirra, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."


Dagur skelfingar yfir Egyptaland

30
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, spá og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Æpið vei yfir deginum! 3Því að dagur er nálægur, já, dagur Drottins er nálægur, dagur skýþykknis, endadægur þjóðanna mun það verða.

4Og sverð mun koma til Egyptalands, og Bláland mun skelfast, þá er menn hníga helsærðir á Egyptalandi, og auðæfi þess verða burt flutt og undirstöðum þess rótað upp.

5Blálendingar, Pútítar, Lúdítar og allur þjóðblendingurinn og Líbýumenn og Kretar munu fyrir sverði falla ásamt þeim.

6Svo segir Drottinn:

Þá munu stoðir Egyptalands falla og hið dýrlega skraut þess hníga. Frá Migdól og allt til Sýene skulu menn fyrir sverði falla í því, - segir Drottinn Guð. 7Og það mun verða að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess munu liggja innan um borgir, sem eru í rústum. 8Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég legg eld í Egyptaland og allir liðveislumenn þess verða muldir sundur.

9Á þeim degi munu sendiboðar fara frá mér á skipum, til þess að færa hinum ugglausu Blálendingum hin hræðilegu tíðindi, og þeir munu skelfast vegna ógæfudags Egyptalands, því að sjá, hann kemur.

10Svo segir Drottinn Guð: Þannig mun ég láta Nebúkadresar konung í Babýlon enda gjöra á mikillæti Egyptalands. 11Hann mun verða sóttur og lið hans með honum, hinar grimmustu þjóðir, til þess að herja landið, og þeir munu bregða sverðum sínum gegn Egyptalandi og fylla landið vegnum mönnum. 12Og ég mun þurrka upp árkvíslarnar og selja Egyptaland í hendur illmenna og láta útlenda menn eyða landið og öllu, sem í því er. Ég, Drottinn, hefi talað það.

13Svo segir Drottinn Guð:

Ég gjöri skurðgoðin að engu og uppræti falsguðina úr Nóf og höfðingjana af Egyptalandi, svo að engir skulu þar framar til vera, og ég mun skelfa Egyptaland.

14Og ég eyði Patrós og legg eld í Sóan og framkvæmi refsidóma á Nó.

15Og ég úthelli heift minni yfir Sín, varnarvirki Egyptalands, og tortími hinum ysmikla múg í Nó. 16Ég legg eld í Egyptaland, Sín mun nötra og skarð mun brotið verða inn í Nó og múrar hennar niður rifnir.

17Æskumennirnir í Ón og Píbeset munu fyrir sverði falla og íbúar annarra borga fara í útlegð. 18Í Takpanes mun dagurinn myrkvast, er ég sundurbrýt þar veldissprota Egyptalands og hið dýrlega skraut þess verður að engu gjört. Skýþykkni mun hylja hana, og dætur hennar munu fara í útlegð.

19Þannig mun ég láta refsidóma koma yfir Egyptaland, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."


Babýloníukonungur erindreki Guðs

20En á ellefta árinu, sjöunda dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

21"Mannsson, ég hefi brotið armlegg Faraós, Egyptalandskonungs, og sjá, það skal eigi verða um hann bundið, til þess að gjöra hann heilan, með því að setja á hann sáraumbúðir, til þess að hann styrktist aftur og fengi gripið sverðið.

22Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Sjá, ég skal finna Faraó, Egyptalandskonung, ég skal brjóta armleggi hans, hinn heila og hinn brotna, og slá sverðið úr hendi hans. 23Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin. 24Og ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon og fá honum sverð mitt í hönd, en armleggi Faraós skal ég brjóta, svo að hann skal liggja stynjandi fyrir fótum hans, eins og helstunginn maður. 25Ég skal styrkja armleggi konungsins í Babýlon, en armleggir Faraós skulu niður síga, og menn skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég fæ Babelkonungi sverð mitt í hönd, og hann reiðir það að Egyptalandi. 26Og ég skal tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."


Faraó líkt við sedrusvið í Paradís

31
1Og á ellefta árinu, hinn fyrsta dag hins þriðja mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, seg við Faraó, Egyptalandskonung, og við glæsilið hans:

Hverjum ertu líkur að mikilleik?

3Sjá, sedrusviður óx á Líbanon. Greinar hans voru fagrar og laufið veitti mikla forsælu, hann var hávaxinn og náði topplimið upp í skýin.

4Vatnsgnóttin hafði gjört hann stóran og flóðið hávaxinn, það leiddi strauma sína umhverfis gróðurreit hans og veitti vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna.

5Fyrir því var hann hávaxnari en öll skógartrén, greinum hans fjölgaði og limar hans lengdust af hinni miklu vatnsgnótt.

6Alls konar fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum hans og alls konar dýr merkurinnar lögðu ungum sínum undir limar hans, og allar hinar mörgu þjóðir bjuggu í forsælu hans.

7Og hann var fagur sökum mikilleiks síns og vegna þess, hve greinar hans voru langar, því að rætur hans lágu við mikla vatnsgnótt.

8Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs, kýprestrén höfðu ekki jafnmiklar greinar og hann, og hlynirnir höfðu ekki eins fallegar limar og hann. Ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð.

9Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann.

10Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni, 11þá seldi ég hann í hendur afarmenni meðal þjóðanna, er fara skyldi með hann samkvæmt illsku sinni, uns ég hefði rekið hann burt. 12Og útlendir menn, hinar grimmustu þjóðir, felldu hann og fleygðu honum. Greinar hans féllu niður á fjöllin og ofan í alla dali, og limar hans lágu sundur brotnar í öllum giljum landsins, og allar þjóðir jarðarinnar viku burt úr forsælu hans og létu hann eiga sig.

13Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni og öll dýr merkurinnar lágu á limum hans, 14til þess að engin tré við vatn skyldu verða hávaxin og eigi teygja topplim sitt upp í skýin, og til þess að stórhöfðingjar þeirra stæðu eigi hreyknir af hæð sinni, allir þeir er á vatni vökvast. Því að allir eru þeir dauðanum ofurseldir, svo að þeir verða að fara niður til undirheima, mitt á meðal mannanna, til þeirra, sem niður stignir eru í gröfina.

15Svo segir Drottinn Guð:

Daginn, sem hann steig niður til Heljar, lét ég flóðið sýta missi hans og hélt aftur straumum hans og hin miklu vötn hættu að renna. Ég klæddi Líbanon sorgarbúningi hans vegna og öll tré merkurinnar liðu í ómegin yfir láti hans. 16Ég skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af falli hans, er ég steypti honum niður til Heljar, til þeirra, sem eru niður stignir í gröfina. Og þá hugguðust í undirheimum öll Edentré, ágætustu og bestu tré Líbanons, öll þau er á vatni höfðu vökvast. 17Þau fóru líka með honum niður til Heljar til hinna vopnbitnu, er búið höfðu í forsælu hans, mitt á meðal þjóðanna.

18Við hvert á meðal Edentrjánna er unnt að jafna þér að skrauti og stærð? En þér mun verða steypt niður í undirheima með Edentrjánum, meðal óumskorinna munt þú liggja hjá hinum vopnbitnu. Þetta er Faraó og glæsilið hans, - segir Drottinn Guð."


Faraó líkt við krókódíl

32
1Á tólfta árinu, fyrsta dag hins tólfta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, hef upp harmljóð yfir Faraó, Egyptalandskonungi, og seg við hann:

Þú ungljón meðal þjóðanna, það er úti um þig!

Og þó varst þú eins og krókódíll í sjónum, gusaðir með nösum þínum, gruggaðir upp vatnið með fótum þínum og rótaðir upp bylgjum þess.

3Svo segir Drottinn Guð:

Ég vil breiða net mitt yfir þig í söfnuði margra þjóða, til þess að þeir dragi þig upp í neti mínu. 4Og ég skal varpa þér upp á land, fleygja þér út á bersvæði, og ég skal láta alla fugla himinsins sitja á þér og seðja dýr allrar jarðarinnar á þér. 5Og ég skal færa hold þitt út á fjöllin og fylla dalina hræi þínu. 6Og ég skal vökva landið með útrennsli þínu, af blóði þínu á fjöllunum, og árfarvegirnir skulu verða fullir af þér. 7Þegar þú slokknar út, skal ég byrgja himininn og myrkva stjörnur hans. Sólina skal ég hylja í skýjum, og tunglið skal ekki láta ljós sitt skína. 8Öll ljós á himninum skal ég láta verða myrk þín vegna og færa dimmu yfir land þitt, - segir Drottinn Guð. 9Og ég mun hrella hjörtu margra þjóða, er ég leiði hertekna menn þína út á meðal þjóðanna, til landa, sem þú þekkir ekki. 10Og ég mun gjöra margar þjóðir felmtsfullar út af þér, og hryllingur mun fara um konunga þeirra þín vegna, þegar ég sveifla sverði mínu frammi fyrir þeim, og þeir skulu skjálfa án afláts af hræðslu um líf sitt, daginn sem þú fellur.

11Svo segir Drottinn Guð: Sverð Babelkonungs skal koma yfir þig. 12Ég skal láta glæsilið þitt falla fyrir kappa sverðum. Það eru allt saman hinar grimmustu þjóðir. Þeir skulu eyða skrauti Egyptalands, og allt viðhafnarprjál þess skal að engu gjört. 13Og ég skal gjöreyða öllum skepnum þess og hrífa þær burt frá hinum miklu vötnum. Enginn mannsfótur skal framar grugga þau, né heldur skulu klaufir nokkurrar skepnu grugga þau. 14Þá skal ég láta vötn þeirra setjast og leiða ár þeirra burt eins og olíu, - segir Drottinn Guð - 15þegar ég gjöri Egyptaland að auðn og það er eytt orðið og svipt gnægtum sínum, er ég lýst alla þá, sem í því búa, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."

16Þetta eru harmljóð og skulu menn syngja þau. Dætur þjóðanna skulu syngja þau, þær skulu syngja þau yfir Egyptalandi og yfir öllu glæsiliði þess, - segir Drottinn Guð!


Angurljóð um för Faraós til undirheima

17Á tólfta árinu, hinn fimmtánda dag mánaðarins, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

18"Mannsson, kveina þú og dætur þjóðanna yfir glæsiliði Egyptalands.

Tignarmenn munu sökkva niður í undirheima til þeirra, sem niður eru stignir í gröfina.

19Af hverjum ber þú að yndisleik? Stíg ofan og leggst til hvíldar meðal hinna óumskornu.

20Þeir munu falla meðal vopnbitinna manna. Egyptaland er sverðinu ofurselt, menn hrífa það burt og allt þess skraut.

21Þá munu hinar hraustu hetjur hrópa til Faraós í Helju, til hans og liðveislumanna hans:

Niður stignir eru hinir vopnbitnu. 22Þarna er Assýría og allur liðsafnaður hennar, og eru grafir þeirra umhverfis, - allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, - 23grafir þeirra eru innst inni í grafhellinum. Og sveit hennar er umhverfis gröf hennar, allt saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna.

24Þarna er Elam, og allt glæsilið hans liggur umhverfis gröf hans. Þeir eru allir saman vegnir menn, er fallið hafa fyrir sverði, er farið hafa óumskornir ofan í undirheima og eitt sinn létu standa ógn af sér á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. 25Mitt á meðal veginna manna bjuggu þeir honum hvílurúm, ásamt öllu glæsiliði hans, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, er lagðir hafa verið sverði, - því að eitt sinn stóð ógn af þeim á landi lifandi manna. Og nú bera þeir vanvirðu sína með þeim, sem niður stignir eru í gröfina. Meðal veginna manna voru þeir lagðir.

26Þarna er Mesek, Túbal og allur mannfjöldi þeirra, og eru grafir þeirra umhverfis hann, allt saman óumskornir menn, sverði lagðir, er eitt sinn létu ógn af sér standa á landi lifandi manna. 27Þeir liggja ekki hjá hetjunum, þeim er féllu í fyrndinni, þeim er fóru til Heljar í hervopnum sínum, hverra sverð voru lögð undir höfuð þeirra og skildir þeirra lágu ofan á beinum þeirra, því að ótti stóð af hetjunum á landi lifandi manna. 28Þú skalt og sundur molaður verða meðal óumskorinna og liggja hjá sverðbitnum mönnum.

29Þar er Edóm, konungar hans og allir höfðingjar, sem þrátt fyrir hreysti sína voru lagðir hjá vopnbitnum mönnum. Þeir liggja hjá óumskornum mönnum og hjá þeim, sem niður eru stignir í gröfina.

30Þar eru stórhöfðingjar norðursins allir saman og allir Sídoningar, er niður stigu helsærðir. Þrátt fyrir óttann, sem stóð af hreysti þeirra, eru þeir orðnir til skammar. Óumskornir liggja þeir hjá vopnbitnum mönnum og bera vanvirðu sína með þeim, er niður stignir eru í gröfina.

31Faraó mun sjá þá og huggast yfir öllu glæsiliði sínu. Vopnbitinn er Faraó og allur hans her, - segir Drottinn Guð. 32Hann lét eitt sinn standa ógn af sér á landi lifandi manna, þess vegna skal hann lagður verða meðal óumskorinna, hjá vopnbitnum mönnum, Faraó og allt hans glæsilið, - segir Drottinn Guð."Endurreisn og endurnýjun Ísraels


Varðmaður yfir Ísrael

33
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, tala þú til samlanda þinna og seg við þá:

Þegar ég læt sverð koma yfir eitthvert land, og landsmenn taka mann úr sínum hóp og gjöra hann að varðmanni sínum, 3og hann sér sverðið koma yfir landið og blæs í lúðurinn og gjörir fólkið vart við, - 4ef þá sá, er heyrir lúðurþytinn, vill ekki vara sig, og sverðið kemur og sviptir honum í burt, þá mun blóð hans vera á höfði honum sjálfum. 5Hann heyrði lúðurþytinn, en varaði sig þó ekki; blóð hans hvíli á honum. En hinn hefir gjört viðvart og frelsað líf sitt. 6En sjái varðmaðurinn sverðið koma, og blæs þó ekki í lúðurinn, svo að fólki er ekki gjört vart við, og sverðið kemur og sviptir einhverjum af þeim burt, þá verður þeim hinum sama burt svipt fyrir sjálfs hans misgjörð, en blóðs hans vil ég krefja af hendi varðmannsins.

7Þig, mannsson, hefi ég skipað varðmann fyrir Ísraels hús, til þess að þú varir þá við fyrir mína hönd, er þú heyrir orð af munni mínum. 8Þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú hinn óguðlegi skalt deyja!' og þú segir ekkert til þess að vara hinn óguðlega við breytni hans, þá skal að vísu hinn óguðlegi deyja fyrir misgjörð sína, en blóðs hans vil ég krefja af þinni hendi. 9En hafir þú varað hinn óguðlega við breytni hans, að hann skuli láta af henni, en hann lætur samt ekki af breytni sinni, þá skal hann deyja fyrir misgjörð sína, en þú hefir frelsað líf þitt.


Ný kenning

10Mannsson, seg þú við Ísraelsmenn:

Þér hafið kveðið svo að orði: ,Afbrot vor og syndir vorar hvíla á oss, og þeirra vegna veslumst vér upp, og hvernig ættum vér þá að geta haldið lífi?' 11Seg við þá: Svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - hefi ég ekki þóknun á dauða hins óguðlega, heldur að hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi. Snúið yður, snúið yður frá yðar vondu breytni! Hví viljið þér deyja, Ísraelsmenn?

12En þú, mannsson, seg við samlanda þína: Ráðvendni hins ráðvanda skal ekki frelsa hann á þeim degi, er hann misgjörir, og guðleysi hins óguðlega skal ekki fella hann á þeim degi, er hann hverfur frá guðleysi sínu, og hinn ráðvandi skal ekki heldur fá lífi haldið fyrir ráðvendni sína á þeim degi, er hann syndgar.

13Þegar ég segi við hinn ráðvanda: ,Þú skalt vissulega lífi halda!' og hann reiðir sig á ráðvendni sína og fremur glæp, þá skulu ráðvendniverk hans eigi til álita koma, heldur skal hann deyja fyrir glæpinn, sem hann hefir drýgt. 14Og þegar ég segi við hinn óguðlega: ,Þú skalt vissulega deyja!' og hann lætur af synd sinni og iðkar rétt og réttlæti, 15skilar aftur veði, endurgreiðir það, er hann hefir rænt, breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins, svo að hann fremur engan glæp, þá skal hann lífi halda og ekki deyja. 16Allar þær syndir, er hann hefir áður drýgt, skulu honum ekki tilreiknaðar verða. Hann hefir iðkað rétt og réttlæti, hann skal lífi halda!

17Og samt segja samlandar þínir: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' Og það er þó atferli þeirra, sem ekki er rétt.

18Ef ráðvandur maður hverfur frá ráðvendni sinni og fremur glæp, þá skal hann deyja fyrir það. 19Og ef óguðlegur maður hverfur frá guðleysi sínu og iðkar rétt og réttlæti, þá skal hann lífi halda fyrir það. 20Og samt segið þér: ,Atferli Drottins er ekki rétt!' Sérhvern yðar mun ég dæma eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn!"


Fregnin um falla Jerúsalem

21Á tólfta árinu eftir að vér vorum herleiddir, fimmta dag hins tíunda mánaðar kom til mín flóttamaður frá Jerúsalem með þau tíðindi: "Borgin er unnin!" 22En hönd Drottins hafði komið yfir mig kveldið áður en flóttamaðurinn kom, og Guð hafði lokið upp munni mínum áður en hinn kom til mín um morguninn. Munnur minn var upp lokinn, og ég þagði eigi lengur.


Trúrofar erfa ekki landið

23Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 24"Mannsson, þeir sem búa í þessum borgarrústum í Ísraelslandi segja: ,Abraham var ekki nema einn og þó fékk hann landið til eignar, en vér erum margir, oss var landið gefið til eignar.' 25Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þér etið fórnarkjöt á fjöllunum og hefjið augu yðar til skurðgoðanna og úthellið blóði, og þér viljið eiga landið! 26Þér reiðið yður á sverð yðar, þér hafið svívirðing í frammi, þér smánið hver annars konu, og þér viljið eiga landið! 27Þú skalt mæla þannig til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Svo sannarlega sem ég lifi, þeir sem hafast við í rústunum, skulu falla fyrir sverði, þá sem eru úti á bersvæði, gef ég villidýrunum að fæðslu, og þeir sem hafast við í klettavígjum og hellum, skulu deyja af drepsótt. 28Og ég skal gjöra landið að auðn og öræfum, og úti er um þess dýrlega skraut, og Ísraels fjöll skulu í eyði liggja, svo að enginn fer þar um. 29Og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég gjöri landið að auðn og öræfum vegna allra þeirra svívirðinga, er þeir hafa framið.

30Mannsson, samlandar þínir tala sín á milli um þig hjá veggjunum og við húsdyrnar, og segja hver við annan: ,Komið og heyrið, hvaða orð kemur frá Drottni!' 31Og þeir koma til þín í hópum og sitja frammi fyrir þér, en þegar þeir hafa heyrt orð þín, þá breyta þeir ekki eftir þeim. Því að lygi er í munni þeirra, en hjarta þeirra eltir fégróðann. 32Og sjá, þú ert þeim eins og ástarkvæði, eins og sá, er hefir fagra söngrödd og vel leikur á strengina: Þeir hlusta á orð þín, en breyta ekki eftir þeim. 33En þegar það kemur fram, og það kemur vissulega fram, þá munu þeir viðurkenna, að spámaður var meðal þeirra."


Góði hirðirinn
(34. kap.)
Ádeila á leiðtoga Ísraels

34
1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

2"Mannsson, spá þú um Ísraels hirða, spá þú og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð:

Vei hirðum Ísraels, er héldu sjálfum sér til haga. Eiga ekki hirðarnir að halda sauðunum til haga? 3Mjólkurinnar neyttuð þér, klædduð yður af ullinni, slátruðuð alifénu, en sauðunum hafið þér eigi haldið til haga.

4Þér komuð ekki þrótti í veiku skepnurnar og læknuðuð ekki hið sjúka, bunduð ekki um hið limlesta, sóttuð ekki það, er hrakist hafði, og leituðuð ekki hins týnda, heldur drottnuðuð þér yfir þeim með hörku og grimmd. 5Og fyrir því tvístruðust þeir, af því að enginn var hirðirinn, og urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð. 6Sauðir mínir ráfuðu um öll fjöll og allar háar hæðir, sauðir mínir voru tvístraðir um allt landið, og enginn skeytti um þá og enginn leitaði þeirra.

7Heyrið því orð Drottins, þér hirðar! 8Svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð:

Vissulega, af því að sauðir mínir urðu að herfangi og af því að sauðir mínir urðu öllum dýrum merkurinnar að bráð, með því að enginn var hirðirinn og með því að hirðar mínir skeyttu eigi um sauði mína, - því að hirðarnir héldu sjálfum sér til haga, en sauðum mínum héldu þeir ekki til haga - 9fyrir því heyrið orð Drottins, þér hirðar! 10Svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég skal finna hirðana og ég skal krefja sauða minna af hendi þeirra og gjöra enda á fjárgæslu þeirra. Og hirðarnir skulu ekki lengur halda sjálfum sér til haga, heldur skal ég hrífa sauði mína úr munni þeirra, svo að þeir verði þeim eigi framar að bráð.


Góði hirðirinn

11Svo segir Drottinn Guð:

Hér er ég sjálfur og mun leita sauða minna og annast þá. 12Eins og hirðir annast hjörð sína þann dag, sem hann er á meðal hinna tvístruðu sauða sinna, þannig mun ég annast sauði mína og heimta þá úr öllum þeim stöðum, þangað sem þeir hröktust í þokunni og dimmviðrinu. 13Og ég mun sækja þá til þjóðanna og saman safna þeim úr löndunum og leiða þá inn í land þeirra og halda þeim til haga á Ísraels fjöllum, í dölunum og á öllum byggðum bólum í landinu. 14Ég mun halda þeim í góðu haglendi, og beitiland þeirra mun vera á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir liggja í góðu beitilandi og ganga í feitu haglendi á Ísraels fjöllum. 15Ég mun sjálfur halda sauðum mínum til haga og sjálfur bæla þá, segir Drottinn Guð. 16Ég mun leita að hinu týnda og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í hið veika, en varðveita hið feita og sterka. Ég mun halda þeim til haga, eins og vera ber.


Friðarríkið

17En þér, sauðir mínir, - svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég dæmi milli kindar og kindar, milli hrúta og hafra. 18Nægir yður ekki að ganga í hinu besta haglendi, nema þér fótum troðið það, sem eftir er af haglendi yðar? Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar? 19Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar. 20Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Sjá, hér er ég sjálfur og dæmi milli hinnar feitu og hinnar mögru kindar. 21Af því að þér hrunduð öllum veiku skepnunum með síðum og öxlum og stönguðuð þær með hornum yðar, uns þér fenguð hrakið þær út, 22þá vil ég nú hjálpa sauðum mínum, svo að þeir verði eigi framar að herfangi, og ég mun dæma milli kindar og kindar.

23Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir. 24Og ég Drottinn, mun vera Guð þeirra, og þjónn minn Davíð mun vera höfðingi meðal þeirra. Ég, Drottinn, hefi talað það.

25Og ég mun gjöra friðarsáttmála við þá og reka öll illdýri úr landinu, svo að þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum. 26Og ég mun gjöra þá og landið umhverfis hæð mína að blessun, og ég mun láta steypiregnið niður falla á sínum tíma, það skulu verða blessunarskúrir. 27Og tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð og viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sundurbrýt oktré þeirra og frelsa þá undan valdi þeirra, er þá hafa þrælkað. 28Og þeir skulu ekki framar verða þjóðunum að herfangi, né heldur skulu villidýrin rífa þá í sig, en þeir skulu búa óhultir og enginn skelfa þá. 29Og ég mun láta til verða handa þeim vel ræktaðan gróðurreit og alls engir munu framar farast af hungri í landinu, og þeir skulu ekki framar liggja undir ámæli þjóðanna. 30Og þeir skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, Guð þeirra, er með þeim, og að þeir, Ísraelsmenn, eru mín þjóð, - segir Drottinn Guð.

31En þér eruð mínir sauðir. Mín gæsluhjörð eruð þér. Ég er yðar Guð, - segir Drottinn Guð."


Gegn fjöllum Edómíta

35
1Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, snú þér gegn Seír-fjalllendi og spá gegn því 3og seg við það: Svo segir Drottinn Guð:

Sjá, ég skal finna þig, Seír-fjalllendi, og ég skal rétta hönd mína út í móti þér og gjöra þig að auðn og öræfum. 4Borgir þínar gjöri ég að rústum, og þú skalt sjálft verða að auðn, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.

5Af því að þú bjóst yfir eilífum fjandskap og seldir Ísraelsmenn undir sverðseggjar á ógæfutíma þeirra, þá er tími endasektarinnar rann upp, 6fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - blóðskuld hefir þú bakað þér, og blóð skal ofsækja þig. 7Og ég gjöri Seír-fjalllendi að auðn og öræfum og læt þar alla umferð af leggjast. 8Og ég fylli fjöll þess vegnum mönnum. Á hæðum þínum, í dölum þínum og í öllum hvömmum þínum munu vopnbitnir menn falla. 9Og ég vil gjöra þig að ævinlegri auðn, og borgir þínar skulu vera óbyggðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

10Af því að þú sagðir: ,Báðar þjóðirnar og bæði löndin skulu vera mín, og vér skulum taka þau til eignar,' enda þótt Drottinn væri þar, 11fyrir því, svo sannarlega sem ég lifi, - segir Drottinn Guð - mun ég fara með þig samkvæmt þeirri ástríðufullu reiði, er þú hefir á þeim sýnt vegna haturs þíns, og ég mun láta þig kenna á mér, þá er ég dæmi þig, 12til þess að þú viðurkennir, að ég er Drottinn.

Ég hefi heyrt öll lastmæli þín, þau er þú hefir talað gegn Ísraels fjöllum, er þú sagðir: ,Þau eru í eyði lögð! Oss eru þau gefin til afneyslu!' 13Og þér töluðuð stóryrði í gegn mér og höfðuð orðmælgi við mig, ég hefi heyrt það. 14Svo segir Drottinn Guð: Eins og þú fagnaðir yfir landi mínu, að það lá í eyði, svo mun ég láta hið sama fram við þig koma. 15Eins og þú fagnaðir yfir arfleifð Ísraels húss, að hún var í eyði lögð, svo mun ég við þig gjöra. Að auðn skalt þú verða, Seír-fjalllendi, og allt Edómland, eins og það er sig til, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.


Ísraels fjöll munu blómgast

36
1En þú mannsson, spá þú um Ísraels fjöll og seg: Þér Ísraels fjöll, heyrið orð Drottins! 2Svo segir Drottinn Guð:

Af því að óvinirnir hafa hrópað yfir yður: ,Hæ! Eilíf auðn! Það er orðið vor eign!' 3fyrir því spá þú og seg: Svo segir Drottinn Guð: Fyrir þá sök, vegna þess að menn eyddu yður og ágirntust yður alla vega, að þér yrðuð eign hinna þjóðanna, og af því að þér komust í orðræðu manna og urðuð fyrir ámæli fólks, - 4fyrir því heyrið orð Drottins Guðs, þér Ísraels fjöll! Svo segir Drottinn Guð við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina, við eyðirústirnar og við yfirgefnu borgirnar, sem orðnar eru að herfangi og að spotti fyrir hinar þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, - 5fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Sannlega tala ég í minni brennandi afbrýði til hinna þjóðanna og alls Edóms, sem hafa ætlað sér land mitt til eignar, með alls hugar fögnuði og innilegri fyrirlitning, til þess að þeir gætu rekið íbúana burt og rænt það. 6Spá þú þess vegna um Ísraelsland og seg við fjöllin og hæðirnar, við hvammana og dalina: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég hefi talað í ástríðufullri heift, af því að þér hafið orðið að þola háðungar þjóðanna. 7Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Ég hef upp hönd mína og sver: Þjóðirnar, sem umhverfis yður eru, skulu vissulega verða að þola háðung sína. 8En þér, Ísraels fjöll, skjótið greinum yðar og berið ávöxt yðar handa lýð mínum Ísrael, því að bráðum munu þeir koma heim. 9Því að sjá, ég mun koma til yðar og snúa mér að yður, og þér munuð verða yrkt og sáin. 10Og ég mun fjölga fólkinu á yður, gjörvöllum Ísraelslýð, og borgirnar verða byggðar og rústirnar reistar að nýju. 11Og ég vil fjölga mönnum og skepnum á yður, og það skal margfaldast og verða frjósamt. Og ég mun láta yður verða byggð, eins og þér voruð í fyrri daga, og auðsýna yður enn meira gott en áður fyrr, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn. 12Og ég mun láta menn á yður ganga, lýð minn Ísrael. Þeir skulu taka þig til eignar, svo að þú verðir arfleifð þeirra, og þú munt ekki framar gjöra þá barnlausa.

13Svo segir Drottinn Guð: Af því að menn sögðu við yður: ,Þú varst mannæta og varst vön að gjöra þjóð þína barnlausa', 14fyrir því skalt þú ekki framar mönnum farga og ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, - segir Drottinn Guð. 15Og ég skal ekki framar láta þig heyra háðungar heiðingjanna og þú skalt ekki framar þurfa að þola smánanir þjóðanna og þú skalt ekki framar gjöra þjóð þína barnlausa, - segir Drottinn Guð."


Endurreisn þjóðar og safnaðar

16Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

17"Mannsson, þegar Ísraelsmenn bjuggu í landi sínu, þá saurguðu þeir það með breytni sinni og verkum sínum. Breytni þeirra var fyrir mér eins og óhreinleiki konu, sem hefir tíðir. 18Og ég úthellti reiði minni yfir þá, sökum þess blóðs, er þeir höfðu úthellt í landinu, og af því að þeir höfðu saurgað það með skurðgoðum sínum. 19Og ég tvístraði þeim meðal þjóðanna, og þeir dreifðust út um löndin. Eftir breytni þeirra og verkum þeirra dæmdi ég þá. 20Og þeir komu til hinna heiðnu þjóða. Hvar sem þeir komu, þar vanhelguðu þeir mitt heilaga nafn, með því að mönnum fórust svo orð um þá: ,Þetta er lýður Drottins, og þó urðu þeir að fara burt úr landi sínu!' 21Og mig tók það sárt, að Ísraelsmenn skyldu svo vanhelga heilagt nafn mitt meðal þjóðanna, hvar sem þeir komu.

22Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna, hvar sem þér komuð. 23Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, það er þér vanhelguðuð meðal þeirra, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, - segir Drottinn Guð - þá er ég auglýsi heilagleik minn á yður í augsýn þeirra.

24Ég mun sækja yður til þjóðanna og saman safna yður úr öllum löndum og flytja yður inn í yðar land.

25Ég mun stökkva hreinu vatni á yður, svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum. 26Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi. 27Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim. 28Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð.

29Ég mun frelsa yður frá öllum óhreinindum yðar, og ég mun kalla á kornið og margfalda það, og ekkert hallæri mun ég láta yfir yður koma. 30Og ég mun margfalda ávöxtu trjánna og gróða vallarins, til þess að þér þurfið ekki að þola brigsl meðal heiðnu þjóðanna fyrir hallæri. 31Þá munuð þér minnast yðar vondu breytni og verka yðar, sem ekki voru góð, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum misgjörða yðar og viðurstyggða. 32Eigi er það yðar vegna, að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þér vita! Blygðist og skammist yðar fyrir breytni yðar, þér Ísraelsmenn!

33Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi, er ég hreinsa yður af öllum misgjörðum yðar, þá mun ég aftur láta borgirnar verða byggðar, og þá skulu fallin húsin rísa úr rústum. 34Og hið eydda land mun yrkt verða, í stað þess að það áður var eins og auðn í augum allra umfarenda. 35Þá mun sagt verða: ,Þetta land, sem komið var í auðn, er orðið eins og Edens garður, og borgirnar, sem orðnar voru að rústum, sem eyddar voru og umturnaðar, eru nú víggirtar og byggðar.' 36Þá munu þær þjóðir, sem eftir eru orðnar kringum yður, viðurkenna, að ég, Drottinn, hefi reist af nýju það, sem umturnað var, og gróðursett það, sem var í eyði lagt. Ég, Drottinn, hefi talað það og mun framkvæma það.

37Svo segir Drottinn Guð: Þá bón skal ég enn veita Ísraelsmönnum: Ég skal gjöra þá svo mannmarga sem hjörð er að sauðum. 38Eins og helgidómurinn fyllist af sauðum, eins og Jerúsalem fyllist af sauðum á hátíðunum, svo munu eyðiborgirnar fyllast af mannahjörðum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn."


Beinin í dalnum

37
1Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum. 2Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin. 3Og hann sagði við mig: "Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?" Ég svaraði: "Drottinn Guð, þú veist það!" 4Þá sagði hann við mig: "Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins! 5Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við. 6Og ég set sinar á yður og læt hold utan um yður og dreg þar hörund yfir og læt lífsanda í yður, og þér skuluð lifna við, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

7Þá talaði ég af guðmóði, eins og mér var boðið. Og er ég mælti af guðmóði, kom þytur og skrjáf heyrðist, og beinin færðust saman, hvert að öðru. 8Og ég sá, hversu sinar komu á beinin og hold óx á og hörund dróst þar yfir, en enginn lífsandi var í þeim. 9Þá sagði hann við mig: "Mæl þú í guðmóði til lífsandans, mæl þú í guðmóði, mannsson, og seg við lífsandann: Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við." 10Ég talaði nú í guðmóði, eins og hann hafði skipað mér. Kom þá lífsandi í þá, svo að þeir lifnuðu við og risu á fætur. Var það afar mikill fjöldi.

11Og hann sagði við mig: "Mannsson, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Sjá, þeir segja: ,Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!' 12Mæl því í guðmóði og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég vil opna grafir yðar, og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland, 13til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn, þegar ég opna grafir yðar og læt yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín. 14Og ég vil láta anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. Ég hefi talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn."


Júda og Ísrael sameinuð í eitt ríki

15Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann: 16,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.' Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.' 17Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni. 18Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?' 19þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda. 20Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra. 21Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra. 22Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.

23Og þeir skulu eigi framar saurga sig á skurðgoðum sínum og viðurstyggðum, eða með öllum tryggðrofssyndum sínum, og ég vil frelsa þá frá öllum fráhvarfssyndum þeirra, sem þeir hafa drýgt, og hreinsa þá, og þeir skulu verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. 24Og þjónn minn Davíð skal vera konungur yfir þeim, og þeir skulu allir hafa einn hirði og lifa eftir setningum mínum og varðveita boðorð mín og breyta eftir þeim. 25Og þeir skulu búa í landinu, sem ég gaf þjóni mínum Jakob og feður yðar bjuggu í. Í því skulu þeir og búa og börn þeirra og barnabörn til eilífðar, og þjónn minn Davíð skal vera höfðingi þeirra eilíflega. 26Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu. 27Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. 28Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega."


Góg og Magóg

38
1Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: 2"Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum 3og seg: Svo segir Drottinn Guð:

Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, 4og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum. 5Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm, 6Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans - margar þjóðir eru í för með þér. 7Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra. 8Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir. 9Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér.

10Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum 11og segja: ,Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,' 12til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.

13Seba og Dedan og verslunarmenn frá Tarsis og kaupmenn hennar segja við þig: ,Kemur þú til þess að ræna? Hefir þú dregið saman liðsveitir þínar til þess að rupla, til þess að hafa á burt silfur og gull, flytja burt búfé og fjármuni, til þess að afla mikils herfangs?'

14Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir Drottinn Guð:

Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn Ísrael býr óhultur, leggja af stað 15og koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi hestum, mikill liðssafnaður, fjölmennur her, 16og fara í móti lýð mínum Ísrael eins og óveðursský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra.

17Svo segir Drottinn Guð: Ert þú sá, er ég talaði um í fyrri daga fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, er spáðu í þá daga árum saman, að ég mundi leiða þig móti þeim? 18En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, - segir Drottinn Guð - mun reiðin blossa í nösum mér. 19Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það: Vissulega, á þeim degi skal mikill jarðskjálfti verða á Ísraelslandi. 20Þá skulu fiskar sjávarins skjálfa fyrir mér og fuglar himinsins, dýr merkurinnar og öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, og allir menn, sem eru á jörðinni, og fjöllin skulu kollvarpast og hamrarnir hrynja og hver múrveggur til jarðar falla. 21Og á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum - segir Drottinn Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum. 22Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru. 23Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.


39
1Og þú, mannsson, spá þú gegn Góg og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg, höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal, 2og snúa þér við og fara með þig og láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll. 3Og ég skal slá bogann úr vinstri hendi þinni og láta örvarnar detta úr hægri hendi þinni. 4Á Ísraels fjöllum skalt þú falla, þú og allar hersveitir þínar og þær þjóðir, sem eru í för með þér. Alls konar ránfuglum og dýrum merkurinnar gef ég þig til fæðslu. 5Úti á víðavangi skalt þú falla, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.

6Og ég vil steypa eldi yfir Magóg og yfir þá, sem ugglausir búa í strandbyggðunum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. 7En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Ísraels og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, heilagur í Ísrael.

8Sjá, það kemur fram og verður, - segir Drottinn Guð. Það er dagurinn, sem ég hefi talað um.

9Þá munu íbúar Ísraels borga út ganga og eld kveikja og kynda með vopnum, törgum og skjöldum, með bogum og örvum, kylfum og lensum. Í sjö ár skulu þeir elda þessu. 10Þeir munu ekki sækja við í mörkina né höggva neitt í skógunum, heldur munu þeir kynda eld með vopnum. Og þeir munu fletta þá, sem þá flettu, og ræna þá, sem þá rændu - segir Drottinn Guð.

11En á þeim degi mun ég ákveða Góg samastað, legstað í Ísrael, Abarímdal, fyrir austan Dauðahafið. Menn munu girða fyrir Abarímdal.

Þar munu þeir grafa Góg og allan liðmúg hans og nefna hann Gógsmúgadal. 12Og Ísraelsmenn munu vera að jarða þá í sjö mánuði til þess að hreinsa landið. 13Og allur landslýðurinn skal starfa að þeim grefti, og það skal verða þeim til frægðar þann dag, er ég gjöri mig dýrlegan - segir Drottinn Guð. 14Og þeir munu útvelja menn til þess stöðuga starfa að fara um landið og jarða þá, sem enn liggja eftir ofan jarðar, til þess að hreinsa landið. Að liðnum sjö mánuðum skulu þeir enn kanna það. 15Og þegar þeir fara um landið og einhver sér mannsbein, þá skal hann hlaða þar vörðu hjá, uns graftarmennirnir hafa grafið þau í Gógsmúgadal. 16Og þannig skulu þeir grafa þar allan liðmúg sinn og hreinsa þannig landið.

17En þú, mannsson, svo segir Drottinn Guð: Seg þú við alls konar fugla og við öll dýr merkurinnar: Safnist saman og komið, þyrpist saman úr öllum áttum til fórnarveislu minnar, sem ég held yður, til mikillar fórnarveislu á Ísraels fjöllum, þar sem þér skuluð eta kjöt og drekka blóð. 18Þér skuluð eta kjöt af köppum og drekka blóð úr þjóðhöfðingjum jarðarinnar: hrúta, lömb og hafra, uxa, - allt saman alifé frá Basan. 19Og þér skuluð eta feitt kjöt, uns þér eruð saddir orðnir, og þér skuluð drekka blóð, uns þér eruð drukknir orðnir, í fórnarveislu minni, sem ég held yður. 20Og þér skuluð seðja yður við mitt borð á reiðskjótum og vagnhestum, á köppum og alls konar stríðsmönnum - segir Drottinn Guð.

21Ég vil auglýsa dýrð mína meðal þjóðanna, og allar þjóðir skulu sjá refsidóm minn, þann er ég hefi framkvæmt, og hönd mína, er ég hefi á þá lagt. 22En Ísraelsmenn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, upp frá þeim degi og framvegis.

23Þjóðirnar skulu viðurkenna, að Ísraelsmenn urðu að fara úr landi eingöngu vegna misgjörðar sinnar, fyrir þá sök að þeir höfðu rofið trúnað við mig, svo að ég byrgði auglit mitt fyrir þeim og seldi þá í hendur óvina þeirra, og féllu þeir þá allir fyrir sverðseggjum. 24Ég breytti við þá eins og þeir höfðu til unnið með saurugleik sínum og fráhvarfi, og byrgði auglit mitt fyrir þeim.

25Fyrir því segir Drottinn Guð svo:

Nú mun ég snúa við högum Jakobs og miskunna mig yfir allan Ísraelslýð og vera sómakær um mitt heilaga nafn. 26Og þeir skulu gleyma vanvirðu sinni og allri þeirri ótryggð, er þeir hafa í frammi haft við mig, þegar þeir búa aftur óhultir í landi sínu og enginn skelfir þá. 27Þegar ég leiði þá heim aftur frá þjóðunum og safna þeim saman úr löndum óvina þeirra, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn margra þjóða. 28Og þá skulu þeir viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, með því að ég herleiddi þá til þjóðanna, en safna þeim nú saman inn í þeirra eigið land og læt engan þeirra framar verða þar eftir. 29Og ég vil ekki framar byrgja auglit mitt fyrir þeim, með því að ég hefi úthellt anda mínum yfir Ísraelslýð, segir Drottinn Guð."Sýn um nýtt musteri á efstu dögum


Andinn flytur spámanninn til Jerúsalem

40
1Á tuttugasta og fimmta ári eftir að vér vorum herleiddir, í byrjun ársins, tíunda dag mánaðarins, fjórtán árum eftir að borgin var tekin, einmitt þann dag kom hönd Drottins yfir mig og flutti mig þangað. 2Í guðlegri sýn flutti hann mig til Ísraelslands og setti mig niður á mjög hátt fjall, og á því var gagnvart mér sem endurreist borg.

3Er hann hafði flutt mig þangað, birtist maður nokkur, og var hann ásýndum sem af eiri væri. Hann hélt á línstreng og mælistöng og stóð við hliðið. 4Og maðurinn sagði við mig: "Mannsson, lít á með augum þínum, hlýð á með eyrum þínum og hugfest þér allt, er ég sýni þér, því að þú ert til þess hingað fluttur, að þér verði sýnt þetta. Kunngjör þú Ísraelslýð allt það, sem þú sér."


Austurhliðið

5Sjá, múrveggur lá utan um musterið hringinn í kring, og maðurinn hélt á mælistöng í hendinni. Hún var sex álna löng, alinin talin þverhönd lengri en almenn alin. Og hann mældi þykkt múrsins, og var hún ein mælistöng, og hæðin var ein mælistöng.

6Því næst gekk hann inn í hliðið, er vissi til austurs. Gekk hann upp tröppurnar, sem lágu upp að því, og mældi þröskuld hliðsins, og var hann ein mælistöng á breidd. 7Hvert varðherbergi ein mælistöng á lengd og ein mælistöng á breidd og súlan milli varðherbergjanna fimm álnir, og þröskuldur hliðsins innan við forsal hliðsins ein mælistöng. 8Og hann mældi forsal hliðsins, 9og var hann átta álnir og súlur tvær álnir, en forsalur hliðsins vissi að musterinu.

10Varðherbergin í hliðinu voru hvert gegnt öðru, sín þrjú hvorumegin, öll þrjú voru þau jöfn að máli. Súlurnar beggja vegna voru og jafnar að máli.

11Þá mældi maðurinn dyravídd hliðsins, og var hún tíu álnir, en lengd hliðsins þrettán álnir. 12Fyrir framan varðherbergin voru grindur, ein alin hvorumegin, en hvert varðherbergi var sex álnir á hvorn veg. 13Og hann mældi hliðið frá þaki eins varðherbergis yfir á þak annars, og var breiddin tuttugu og fimm álnir. Dyrnar stóðust á beggja vegna. 14. . . 15Og frá framhlið ytra hliðsins inn að framhliðinni á forsal innra hliðsins voru fimmtíu álnir.

16Hringinn í kring á hliðhúsinu voru gluggar, sem lágu inn í varðherbergin í gegnum súlurnar og smávíkkuðu inn á við, og sömuleiðis voru gluggar á forsalnum allt um kring inn á við, og á súlunum voru höggnir pálmar.


Ytri forgarðurinn

17Nú leiddi hann mig inn í ytri forgarðinn. Þar voru herbergi, og steinlagt gólf var í forgarðinum allt um kring. Þrjátíu herbergi lágu við steingólfið. 18Steingólfið var fram með hliðarvegg hliðanna, jafnlangt lengd hliðanna. Það var lægra steingólfið. 19Og hann mældi breidd forgarðsins frá innri framhlið neðra hliðsins að úthlið innri forgarðsins, og voru það hundrað álnir.


Norðurhliðið

20Hliðið á ytri forgarðinum, er vissi í norðurátt, lengd og breidd þess mældi hann einnig. 21Og í því voru þrjú varðherbergi hvorumegin, og súlur þess og forsalur voru jöfn að máli við fyrsta hliðið, lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 22Og gluggar þess, forsalur og pálmar voru jafnir að máli við það, sem var í hliðinu, er vissi í austurátt. Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til. 23Og hlið inn að innri forgarðinum var gegnt norðurhliðinu, eins og við austurhliðið, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars.


Suðurhliðið

24Því næst lét hann mig ganga í suðurátt. Þar var hlið, sem vissi í suðurátt. Og hann mældi súlur þess og forsal, og voru þau jöfn hinum að máli. 25Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring, eins og hinir gluggarnir voru. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 26Var gengið upp að því um sjö þrep, og forsalur þess lá innan til, og voru pálmar á honum, hvor sínum megin, á súlum hans. 27Og hlið var á innri forgarðinum, er vissi í suður, og hann mældi hundrað álnir frá einu hliðinu til annars í suðurátt.


Innri forgarðurinn

28Þessu næst leiddi hann mig um suðurhliðið inn í innri forgarðinn og mældi suðurhliðið, var það jafnt hinum fyrri að máli, 29-30sömuleiðis varðherbergi þess, súlur og forsal, og voru þau jöfn hinum fyrri að máli. Á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Lengd þess var fimmtíu álnir og breiddin tuttugu og fimm álnir. 31Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess, og voru þar átta þrep upp að ganga.

32Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn að hliðinu, sem vissi í austurátt, og mældi hliðið. Var það að máli jafnt hinum. 33Og varðherbergi þess, súlur og forsalur voru jöfn að máli hinum fyrri, og á því voru gluggar, svo og á forsal þess, hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd. 34Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga.

35-36Hann leiddi mig nú að norðurhliðinu og mældi varðherbergi þess, súlur og forsal. Var það jafnt að máli hinum fyrri. Á því voru gluggar hringinn í kring. Það var fimmtíu álnir á lengd og tuttugu og fimm álnir á breidd. 37Og forsalur þess lá út að ytri forgarðinum, og pálmar voru á súlum þess beggja vegna. Voru þar átta þrep upp að ganga.


Helgur búnaður við norðurhliðið

38Þar var herbergi, og var gengið í það úr forsal hliðsins. Þar var brennifórnin þvegin. 39Og í forsal hliðsins stóðu tvö borð annars vegar og önnur tvö borð hins vegar til þess að slátra á þeim brennifórninni, syndafórninni og sektarfórninni. 40Og að utanverðu, við hliðarvegginn á forsal norðurhliðsins, voru tvö borð, og við hinn hliðarvegginn á forsal hliðsins voru önnur tvö borð; 41fjögur borð öðrum megin og fjögur borð hinumegin við hliðarvegg hliðsins, alls átta borð, sem menn slátruðu á. 42Voru fjögur borð til brennifórnar af höggnum steinum. Þau voru hálfrar annarrar álnar löng, hálfrar annarrar álnar breið og álnar há. Á þau skyldi leggja áhöldin, sem höfð voru, þá er brennifórnum og sláturfórnum var slátrað. 43Umhverfis borðin var þverhandarhá rönd, og skyldi fórnarkjötið lagt á borðin, og yfir borðunum voru þök til þess að skýla þeim fyrir regni og hita.


Herbergi prestanna

44Hann leiddi mig inn í innri forgarðinn, og sjá, þar voru tvö herbergi í innri forgarðinum, annað við hliðarvegg norðurhliðsins, og vissi framhlið þess í suðurátt; hitt við hliðarvegg suðurhliðsins, og vissi framhlið þess í norðurátt. 45Og hann sagði við mig: "Þetta herbergi, sem snýr framhlið sinni í suður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu í musterinu. 46En herbergið, sem snýr framhlið sinni í norður, er ætlað prestunum, sem gegna þjónustu við altarið. Þeir eru niðjar Sadóks, þeir einir af Levísonum mega nálgast Drottin til þess að þjóna honum."


Innri forgarðurinn og musterið

47Hann mældi forgarðinn. Hann var hundrað álnir á lengd og hundrað álnir á breidd, réttur ferhyrningur, og altarið stóð fyrir framan sjálft musterið.

48Því næst leiddi hann mig að forsal musterisins og mældi súlur forsalarins, fimm álnir hvorumegin, og breidd dyranna var fjórtán álnir og dyraumbúnaðurinn þrjár álnir hvorumegin. 49Forsalurinn var tuttugu álnir á lengd og tólf álnir á breidd, og var um tíu þrep upp að ganga að honum. En við dyrastafina voru súlur, ein hvorumegin.


Inn í Hið heilaga og Hið allra helgasta

41
1Þessu næst leiddi hann mig inn í aðalhúsið og mældi súlurnar, og voru þær sex álnir að þykkt báðumegin. 2Og dyrnar voru tíu álna breiðar og dyraveggurinn fimm álnir hvorumegin. Hann mældi lengd Hins heilaga, og var hún fjörutíu álnir og breiddin tuttugu álnir.

3Síðan gekk hann inn fyrir og mældi dyrastöplana, og voru þeir tveggja álna þykkir og vídd dyranna sex álnir, og dyraveggurinn sjö álnir hvorumegin. 4Og hann mældi lengd hússins, og var hún tuttugu álnir, og breiddin tuttugu álnir frammi við aðalhúsið. Og hann sagði við mig: "Þetta er Hið allrahelgasta."


Hliðarhús við musterisvegginn

5Þessu næst mældi hann musterisvegginn, og var hann sex álna þykkur og breidd hliðarhússins fjórar álnir allt í kringum musterið. 6Lágu herbergin hvert áfast við annað, þrjátíu herbergi á þremur hæðum. Stallar voru á veggnum, sem var á musterinu fyrir hliðarherbergin allt í kring, til þess að þau hvíldu á honum, en væru eigi fest á musterisvegginn. 7Og þau urðu æ breiðari, því ofar sem þau lágu kringum musterið, því að hliðarherbergin voru alveg upp úr hringinn í kringum musterið. Fyrir því minnkaði breidd hússins upp á við, og mátti ganga af neðsta gólfi hliðarhússins yfir neðra loftið upp á efra loftið.

8Þá sá ég, að á musterishúsinu var pallur hringinn í kring, og grundvöllur hliðarherbergjanna var full sex álna mælistöng. 9Þykkt útveggsins á hliðarhúsinu var fimm álnir, og var autt svæði milli hliðarhússins og musterisins, 10milli herbergjanna, tuttugu álna breitt hringinn í kringum musterið. 11Dyr gengu frá hliðarhúsinu að auðu svæði, aðrar dyrnar til norðurs, hinar til suðurs. Og breidd auða svæðisins var fimm álnir hringinn í kring.

12Hús lá gegnt afgirta svæðinu við vesturhliðina. Var það sjötíu álna breitt og veggur þess fimm álna þykkur hringinn í kring og lengd þess níutíu álnir.


Heildarmæling musterisins

13Þessu næst mældi hann musterishúsið, og var það hundrað álna langt. Afgirta svæðið og húsið með veggjum þess var hundrað álnir á lengd. 14Og framhlið musterishússins og afgirta svæðið austan megin var hundrað álnir á breidd. 15Og hann mældi lengd hússins gegnt afgirta svæðinu vestan við það og súlnagöng þess beggja vegna, og var það hundrað álnir.


Húsið að innan

Aðalhúsið, innhúsið og forsalur þess, 16þröskuldarnir og skáhöllu gluggarnir og súlnagöngin umhverfis, þessi þrjú hús voru þiljuð frá jörðu og upp að gluggum . . . 17Uppi yfir dyrum aðalhússins innan og utan og á öllum veggnum innan og utan hringinn í kring 18voru gjörðir kerúbar og pálmar, og var einn pálmi milli hverra tveggja kerúba. En kerúbinn hafði tvö andlit. 19Annars vegar sneri mannsandlit að pálmanum, en ljónsandlit hins vegar. Svo var á húsinu allt um kring. 20Neðan frá gólfi og upp fyrir dyr voru gjörðir kerúbar og pálmar á veggnum. 21Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafir aðalhússins mynduðu ferhyrning.


Borð skoðunarbrauðanna

Fyrir framan helgidóminn var eitthvað, sem líktist 22altari af tré, þriggja álna hátt. Það var tvær álnir á lengd og tvær álnir á breidd, og á því voru horn, og undirstöður þess og hliðveggir voru af tré. Og hann sagði við mig: "Þetta er borðið, sem stendur frammi fyrir Drottni."

23Og tvöfaldar hurðir voru á aðalhúsinu og helgidóminum. 24Í hvorum dyrum voru tvær hurðir, er léku á hjörum. 25Og á hurðunum voru kerúbar og pálmar, eins og á veggjunum, og þakskyggni af tré var fram af forsalnum. 26Og skáhallir gluggar og pálmar voru beggja vegna á hliðarveggjum forsalsins . . .


Prestahús við musterið

42
1Því næst fór hann með mig út í ytri forgarðinn, í norðurátt. Og hann leiddi mig að herberginu, sem er gegnt afgirta svæðinu og gegnt húsinu, sem liggur til norðurs. 2Það var hundrað álnir á lengd og fimmtíu álnir á breidd. 3Og gegnt dyrunum, sem lágu inn í innri forgarðinn, og gegnt steingólfi ytri forgarðsins, voru tvenn súlnagöng, hvor fyrir framan önnur, svo að salirnir voru þrír. 4Og fyrir framan herbergin var tíu álna breiður gangur inn að innri forgarðinum, hundrað álna langur, og sneru dyr hans í norður. 5En efstu herbergin voru styttri, því að súlnagöngin námu meira af þeim en af neðstu herbergjunum og miðherbergjunum. 6Því að þau voru þrílyft og höfðu engar slíkar súlur sem þær, er voru í forgörðunum. Fyrir því voru efstu herbergin að sér dregin í hlutfalli við neðstu herbergin og miðherbergin. 7Og múrinn, sem lá með endilöngum herbergjunum út að ytri forgarðinum, fyrir framan herbergin, var fimmtíu álna langur. 8Því að herbergin, sem lágu út að ytri forgarðinum, voru fimmtíu álna löng. Og sjá, meðfram musterishúsinu voru hundrað álnir. 9En neðan undir herbergjum þessum var inngangur að austanverðu, þegar gengið var inn í þau frá ytri forgarðinum. 10Austanverðu við afgirta svæðið og bakhúsið voru og herbergi. 11Og fyrir framan þau var vegur, og þau voru eins á að líta og herbergin, sem lágu norðan til, þau voru jafnlöng og jafnbreið, og allir útgangar þeirra voru með sömu gerð og á hinum og eins og hurðir þeirra. 12Og líkt og dyrnar á herbergjunum, sem lágu sunnan til, svo voru á þeim einar dyr, þar sem vegurinn hófst, sá er liggur til austurs inn í ytri forgarðinn, en um þær voru menn vanir að ganga inn. 13Og hann sagði við mig: "Norðurherbergin og suðurherbergin, sem liggja fyrir framan afgirta svæðið, það eru heilögu herbergin, þar sem prestarnir, er nálgast mega Drottin, eiga að eta hið háheilaga. Þar skulu þeir láta hið háheilaga og matfórnina, syndafórnina og sektarfórnina, því að staðurinn er heilagur. 14Þegar prestarnir ganga þangað inn, - en þeir skulu ekki ganga rakleiðis úr helgidóminum inn í ytri forgarðinn -, skulu þeir leggja þar af sér klæði sín, þau er þeir gegna þjónustu í, því að þau eru heilög. Þeir skulu fara í önnur föt og því næst ganga þangað, sem lýðurinn má vera."


Heildarmæling musterissvæðisins

15En er hann hafði mælt allt musterið að innanverðu, fór hann út með mig, í áttina til hliðsins, er veit til austurs, og mældi það að utan hringinn í kring. 16Hann mældi austurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 17og mældi norðurhliðina: fimm hundruð álnir með mælistönginni. Og hann sneri við 18að suðurhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 19Og hann sneri sér að vesturhliðinni og mældi fimm hundruð álnir með mælistönginni. 20Hann mældi það frá þeim fjórum hliðum: lengdin fimm hundruð álnir og breiddin fimm hundruð álnir. Allt umhverfis það var múrveggur til þess að skilja hið heilaga frá hinu óheilaga.


Dýrð Guðs birtist

43
1Þá leiddi hann mig að hliðinu, sem vissi til austurs, 2og sjá, þá kom dýrð Ísraels Guðs úr austri, og var að heyra sem nið mikilla vatna, og landið var uppljómað af dýrð hans. 3Og sú sýn, sem ég sá, var eins og sýnin, er ég sá, þá er hann kom til þess að eyða borgina, og sem sýnin, er ég sá við Kebarfljótið. Og ég féll fram á ásjónu mína. 4Og dýrð Drottins fór nú inn í musterið um hliðið, sem til austurs vissi.

5Kraftur andans hóf mig upp og færði mig inn í innri forgarðinn, og sjá, musterið var fullt af dýrð Drottins. 6Og ég heyrði einhvern tala til mín úr musterinu, og stóð þó maðurinn enn hjá mér, 7og hann sagði við mig: "Mannsson, þetta er staður hásætis míns og þetta er skör fóta minna, hér vil ég búa meðal Ísraelsmanna að eilífu. Og Ísraelsmenn skulu eigi framar flekka mitt heilaga nafn, hvorki þeir né konungar þeirra, með hórdómi sínum og líkum konunga sinna, 8með því að þeir settu þröskuld sinn hjá mínum þröskuldi og dyrastafi sína hjá mínum dyrastaf, svo að ekki var nema veggurinn milli mín og þeirra. Og þannig flekkuðu þeir mitt heilaga nafn með svívirðingum sínum, þeim er þeir frömdu, svo að ég tortímdi þeim í reiði minni. 9Nú munu þeir láta hórdóm sinn og lík konunga sinna vera langt í burtu frá mér, og ég mun búa meðal þeirra að eilífu.

10En þú, mannsson, lýs þú musterinu fyrir Ísraelsmönnum, til þess að þeir blygðist sín fyrir misgjörðir sínar. 11Og þegar þeir blygðast sín fyrir allt það, sem þeir hafa framið, þá skalt þú draga upp musterið og skipulag þess, útgangana úr því og inngangana í það og alla lögun þess og kunngjöra þeim allar tilskipanir og lagafyrirmæli um það, og skrifa þú það upp fyrir augum þeirra, til þess að þeir athugi alla lögun þess og öll ákvæði um það og fari eftir þeim. 12Þetta er ákvæðið um musterið: Efst uppi á fjallinu skal allt svæði þess hringinn í kring teljast háheilagt. Sjá, þetta er ákvæðið um musterið."


Mál altarisins

13Þetta er mál altarisins að álnatali, alinin talin ein alin og þverhönd: Umgjörðin niður við jörðina skal vera álnar há og álnar breið og brúnin út á röndinni hringinn í kring spannarbreið. Og þetta er hæð altarisins: 14Frá umgjörðinni niður við jörðina upp að neðri stallinum tvær álnir og breiddin ein alin, og frá minni stallinum upp á meiri stallinn fjórar álnir og breiddin ein alin. 15Og eldstæðið var fjórar álnir, og upp af eldstæðinu gengu hornin fjögur. 16Og eldstæðið var tólf álna langt og tólf álna breitt, ferhyrningur með fjórum jöfnum hliðum. 17Og meiri stallurinn var fjórtán álna langur og fjórtán álna breiður á hliðarnar fjórar, og brúnin í kringum hann hálf alin og umgjörðin um hann ein alin hringinn í kring. En þrepin upp að altarinu vissu í austur.


Ákvæði um altarisvígslu

18Og hann sagði við mig: "Mannsson, svo segir Drottinn Guð:

Þetta eru ákvæðin um altarið þann dag, er það er albúið, svo að á því verði fórnað brennifórn og blóði stökkt á það. 19Þá skalt þú fá ungan uxa til syndafórnar levítaprestunum, sem eru af ætt Sadóks og mega nálgast mig, - segir Drottinn Guð - til þess að þjóna mér. 20Þú skalt taka nokkuð af blóði hans og ríða því á fjögur horn altarisins, og á fjórar hyrningar stallanna og á umgjörðina hringinn í kring og syndhreinsa það og friðþægja fyrir það. 21Síðan skalt þú taka syndafórnaruxann og láta brenna hann hjá varðhúsi musterisins fyrir utan helgidóminn. 22Annan daginn skalt þú færa gallalausan geithafur í syndafórn, til þess að altarið verði syndhreinsað með honum, eins og það var syndhreinsað með uxanum. 23Þegar þú hefir lokið syndhreinsuninni, skaltu leiða fram ungan uxa, gallalausan, og hrút af hjörðinni gallalausan. 24Skalt þú leiða þá fram fyrir Drottin, og skulu prestarnir dreifa salti á þá og fórna þeim í brennifórn Drottni til handa. 25Sjö daga samfleytt skalt þú daglega fórna hafri í syndafórn, og auk þess skal fórna ungum uxa og hrút af hjörðinni, báðum gallalausum. 26Sjö daga skulu menn þiggja altarið í frið og hreinsa það og vígja það. 27Og er þeir hafa fullnað dagana, þá skulu prestarnir áttunda daginn og þaðan í frá fórna á altarinu brennifórnum yðar og heillafórnum, og ég vil taka yður náðarsamlega, segir Drottinn Guð."


Austurhliðið

44
1Hann leiddi mig nú aftur út að ytra hliði helgidómsins, því er til austurs vissi. Það var lokað. 2Og Drottinn sagði við mig: "Þetta hlið skal vera lokað og ekki opnað verða. Enginn maður skal inn um það ganga, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir inn um það gengið. Fyrir því skal það lokað vera. 3Þó má landshöfðinginn setjast þar niður til þess að eta fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni. Skal hann fara inn um forsal hliðsins og fara út aftur sama veg."


Hverjir mega inn ganga

4Því næst leiddi hann mig að norðurhliðinu fyrir framan framhlið musterisins. Sá ég þá, hversu dýrð Drottins fyllti musteri Drottins, og ég féll fram á ásjónu mína. 5En Drottinn sagði við mig: "Mannsson, legg þér á hjarta, sjá með augum þínum og hlýð með eyrum þínum á allt það, sem ég segi þér um öll ákvæði viðvíkjandi musteri Drottins og um allar þær tilskipanir, er það snerta, og gæt vandlega að inngöngunni í musterið og öllum útgöngum úr helgidóminum.

6Seg við hina þverúðarfullu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú hafið þér, Ísraelsmenn, nógu lengi framið allar yðar svívirðingar, 7þar sem þér leidduð inn útlenda menn, óumskorna bæði á hjarta og á holdi, að þeir væru í helgidómi mínum, til þess að vanhelga musteri mitt, þegar þér færðuð mér mat minn, mör og blóð, og rufuð þannig sáttmála minn ofan á allar svívirðingar yðar. 8Þér hafið eigi annast þjónustu helgidóma minna, heldur settuð þér þá til þess að annast þjónustuna í helgidómi mínum.

9Svo segir Drottinn Guð: Enginn útlendur maður, óumskorinn bæði á hjarta og holdi, má inn í helgidóm minn koma - enginn af þeim útlendingum, sem búa meðal Ísraelsmanna.


Levítar skulu vera musterisþjónar

10Levítarnir fjarlægðu sig frá mér, þá er Ísrael fór villur vegar. Með því að þeir villtust burt frá mér og eltu falsguði sína, skulu þeir gjöld taka fyrir misgjörð sína. 11Þeir skulu gegna þjónustu í helgidómi mínum sem varðflokkar við hlið musterisins og sem musterisþjónar. Þeir skulu slátra brennifórninni og sláturfórninni fyrir lýðinn og standa frammi fyrir þeim til þess að þjóna þeim. 12Af því að þeir þjónuðu þeim frammi fyrir skurðgoðum þeirra og urðu Ísraelsmönnum fótakefli til hrösunar, fyrir því hefi ég hafið hönd mína gegn þeim, - segir Drottinn Guð - og þeir skulu taka gjöld fyrir misgjörð sína. 13Þeir skulu ekki nálgast mig til þess að veita mér prestþjónustu og nálgast alla helgidóma mína, hina háheilögu, heldur skulu þeir bera vanvirðu sína og taka gjöld fyrir þær svívirðingar, sem þeir frömdu. 14Ég vil setja þá til þess að gegna þjónustu við musterið, til þess að annast það að öllu leyti og allt, sem þar er að gjöra.


Um levítapresta af ætt Sadóks

15En levítaprestarnir, niðjar Sadóks, þeir er ræktu þjónustu helgidóms míns, þá er Ísraelsmenn villtust frá mér, þeir skulu nálgast mig til þess að þjóna mér, og þeir skulu ganga fram fyrir mig til þess að færa mér mör og blóð - segir Drottinn Guð. 16Þeir skulu ganga inn í helgidóm minn og þeir skulu nálgast borð mitt til að þjóna mér, og þeir skulu rækja þjónustu mína. 17Og er þeir ganga inn í hlið innri forgarðsins, skulu þeir klæðast línklæðum. Ekkert ullarfat skulu þeir á sér bera, þá er þeir gegna þjónustu í hliðum innri forgarðsins og þar innar af. 18Þeir skulu hafa ennidúka af líni um höfuð sér og línbrækur um lendar sér. Eigi skulu þeir gyrðast neinu, er svita veldur. 19En þegar þeir ganga út í ytri forgarðinn til lýðsins, skulu þeir fara úr þeim klæðum, er þeir gegna þjónustu í, og leggja þau í herbergi helgidómsins og fara í önnur klæði, svo að þeir helgi ekki lýðinn með klæðum sínum.

20Þeir skulu ekki raka höfuð sín, né láta hárið flaka, heldur hafa stýft hár.

21Vín skal enginn prestur drekka, þegar hann gengur inn í innri forgarðinn.

22Enga ekkju né þá konu, sem við mann er skilin, mega þeir taka sér að eiginkonu, heldur aðeins meyjar af ætt Ísraelsmanna. Þó mega þeir kvongast ekkju, sé hún ekkja eftir prest.

23Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu. 24Og þeir skulu standa frammi til þess að dæma í deilumálum manna. Eftir mínum lögum skulu þeir dæma þá, og boðorða minna og ákvæða skulu þeir gæta á öllum löghátíðum mínum og halda helga hvíldardaga mína.

25Eigi mega þeir koma nærri líki, svo að þeir saurgist af, nema sé lík föður eða móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur, sem ekki hefir verið manni gefin, á því mega þeir saurga sig. 26Og eftir að hann er hreinn orðinn, skulu honum taldir sjö dagar. 27Og daginn sem hann gengur aftur inn í helgidóminn, inn í innri forgarðinn til þess að gegna þjónustu í helgidóminum, skal hann fram bera syndafórn sína - segir Drottinn Guð.

28Óðal skulu þeir ekkert fá. Ég er óðal þeirra. Og ekki skuluð þér gefa þeim fasteign í Ísrael, ég er fasteign þeirra. 29Þeir skulu hafa uppeldi sitt af matfórnum, syndafórnum og sektarfórnum, og allt, sem er banni helgað í Ísrael, skal tilheyra þeim. 30Og hið besta af öllum frumgróða, hvers kyns sem er, og allar fórnir, hvers kyns sem eru af öllu því, er þér færið að fórnargjöf, skal tilheyra prestunum. Þér skuluð og gefa prestunum hið besta af deigi yðar til þess að leiða blessun niður yfir hús yðar.

31Prestarnir mega ekki eta neitt sjálfdautt né það, sem dýrrifið er, hvort heldur er fugl eða fénaður.


Heilög landspilda tekin frá

45
1Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir. 3Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa. 4Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði. 2(Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.) 5Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í. 6Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna.

7En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins. 8Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra.


Ákvæði um landshöfðingjann

9Svo segir Drottinn Guð:

Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! - segir Drottinn Guð. 10Þér skuluð hafa rétta vog, rétta efu og rétta bat.

11Efa og bat skulu vera jafnar að máli, svo að bat taki tíunda part gómers og sömuleiðis efa tíunda part gómers. Eftir gómer skal hvort tveggja mælast.

12Sikill skal vera tuttugu gerur. Fimm siklar skulu vera réttir fimm og tíu siklar réttir tíu. Fimmtíu siklar skulu vera í mínu.

13Þetta er fórnargjöfin, sem þér skuluð gefa: 1/6 efu af hverjum gómer hveitis og 1/6 efu af hverjum gómer byggs.

14Og ákvæðið um olífuolíuna er þetta: 1/10 úr bat af hverju kór (því að tíu bat eru í einu kór). 15Enn fremur einn sauð af hjörðinni, af hverjum tveim hundruðum, sem fórnargjöf frá öllum kynkvíslum Ísraels til matfórnar, brennifórnar og heillafórnar, til þess að friðþægja fyrir þá - segir Drottinn Guð.

16Allur landslýðurinn skal vera skyldur til að færa landshöfðingjanum í Ísrael þessa fórnargjöf. 17En landshöfðinginn skal vera skyldur að leggja til brennifórnir, matfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum við allar hátíðasamkomur Ísraelsmanna. Hann skal láta fram bera syndafórnina og matfórnina og brennifórnina og heillafórnirnar til þess að friðþægja fyrir Ísraelsmenn.


Hátíðirnar

18Svo segir Drottinn Guð:

Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú taka ungan uxa gallalausan og syndhreinsa helgidóminn. 19Og presturinn skal taka af blóði syndafórnarinnar og ríða á dyrastafi musterisins og á fjóra hyrninga altarisstallanna og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum. 20Og eins skalt þú gjöra á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar vegna þeirra, sem af vangá eða fákænsku kynnu að hafa misgjört eitthvað, og þannig skuluð þér þiggja musterið í frið.

21Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páskahátíðina, í sjö daga skulu etin ósýrð brauð. 22Og á þeim degi skal landshöfðinginn láta bera fram uxa í syndafórn fyrir sig og allan landslýðinn. 23Og sjö daga hátíðarinnar skal hann láta fram bera sem brennifórn Drottni til handa sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, á hverjum degi þessa sjö daga, svo og daglega geithafur í syndafórn. 24Og sem matfórn skal hann láta fram bera efu með hverjum uxa og efu með hverjum hrút, og olíu, hín með hverri efu.

25Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, á hátíðinni, skal hann í sjö daga láta fram bera jafnmikið þessu, bæði syndafórn og brennifórn og matfórn og olíu.


Skyldur landshöfðingjans

46
1Svo segir Drottinn Guð:

Hlið innri forgarðsins, það er snýr í austur, skal lokað vera sex virku dagana, en hvíldardaginn skal opna það og tunglkomudaginn skal opna það. 2Og landshöfðinginn skal koma að utan og ganga inn um forsal hliðsins og nema staðar við dyrastafi hliðsins. Þá skulu prestarnir bera fram brennifórn hans og heillafórn, en hann skal falla fram á þröskuldi hliðsins og ganga síðan út aftur, og hliðinu skal ekki loka til kvelds. 3Og landslýðurinn skal falla fram fyrir auglit Drottins við dyr þessa hliðs á hvíldardögum og tunglkomudögum.

4Brennifórnin, sem landshöfðinginn á að færa Drottni, skal vera: Á hvíldardegi sex sauðkindur gallalausar og einn hrútur gallalaus, 5og auk þess í matfórn ein efa með hverjum hrút, og með sauðkindunum slík matfórn, er hann vill sjálfur gefa, og ein hín af olíu með hverri efu. 6Á tunglkomudögum skal hún vera ungneyti gallalaust og sex sauðkindur og einn hrútur, allt gallalaust. 7Og hann skal láta fram bera efu með uxanum og efu með hrútnum í matfórn og með sauðkindunum svo sem hann má af hendi láta, og hín af olíu með hverri efu.

8Þegar landshöfðinginn gengur inn, skal hann ganga inn um forsal hliðsins og fara sömu leið út aftur. 9Og þegar landslýðurinn gengur fram fyrir Drottin á löghátíðunum, þá skal sá, er inn hefir gengið um norðurhliðið til þess að falla fram, aftur út fara um suðurhliðið, og sá, er inn hefir gengið um suðurhliðið, skal aftur út fara um norðurhliðið. Enginn skal aftur út fara um það hlið, sem hann hefir inn gengið, heldur skal hann út fara um það hlið, sem gegnt honum er. 10Og landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.

11Á hátíðum og löghelgum skal matfórnin vera efa með uxanum og efa með hrútnum, og með sauðkindunum slíkt, er hann vill sjálfur gefa, og hín af olíu með hverri efu. 12Og þegar landshöfðinginn ber fram sjálfviljafórn, brennifórn eða heillafórn sem sjálfviljafórn Drottni til handa, þá skal upp ljúka fyrir honum því hliðinu, sem í austur snýr. Síðan skal hann bera fram brennifórn sína og heillafórn, eins og hann er vanur að gjöra á hvíldardögum, og ganga síðan út, og þegar hann er farinn út, skal loka hliðinu á eftir honum.

13Á degi hverjum skal hann láta fram bera ársgamla sauðkind gallalausa í brennifórn Drottni til handa, á hverjum morgni skal hann fram bera hana. 14Og sem matfórn skal hann fram bera með henni á hverjum morgni 1/6 efu og 1/3 hínar af olíu til þess að væta með mjölið, sem matfórn Drottni til handa. Skal það vera stöðug skyldugreiðsla. 15Og þannig skulu þeir fram bera sauðkindina og matfórnina og olíuna á hverjum morgni sem stöðuga brennifórn.

16Svo segir Drottinn Guð:

Ef landshöfðinginn gefur einhverjum sona sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal það tilheyra sonum hans. Það er erfðaeign þeirra. 17En gefi hann einhverjum þjónustumanna sinna nokkuð af óðali sínu að gjöf, þá skal hann halda því til lausnarársins. Þá skal það hverfa aftur til landshöfðingjans. En óðal sona hans skal haldast í eign þeirra. 18Og ekki má landshöfðinginn taka neitt af óðali lýðsins og veita honum með því yfirgang. Af sinni eigin eign verður hann að veita sonum sínum arfleifð, til þess að enginn af lýð mínum verði flæmdur burt frá eign sinni."


Eldhúsin

19Því næst leiddi hann mig gegnum ganginn, sem liggur fast við hliðið, til hinna heilögu herbergja, sem ætluð eru prestunum og vita í norður. En þar var rúm í ysta horni mót vestri. 20Og hann sagði við mig: "Þetta er staðurinn, þar sem prestarnir skulu sjóða sektarfórnina og syndafórnina, og þar sem þeir skulu baka matfórnina, til þess að þeir þurfi ekki að bera það út í ytri forgarðinn og þann veg helga lýðinn."

21Og hann leiddi mig út í ytri forgarðinn og lét mig ganga í gegn, út í fjögur horn forgarðsins, og sjá, lítill forgarður var í hverju horni forgarðsins. 22Í fjórum hornum forgarðsins voru aftur minni forgarðar, fjörutíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd. Voru þeir allir fjórir jafnir að máli. 23Og í þeim var múrveggur allt í kring, allt í kring í þeim fjórum, og eldstór voru gjörðar neðan til við múrveggina allt í kring. 24Og hann sagði við mig: "Þetta eru eldhúsin, þar sem þjónustumenn musterisins skulu sjóða sláturfórnir lýðsins."


Heilsusamlegt vatn rennur frá helgidómnum

47
1Nú leiddi hann mig aftur að musterisdyrunum. Þá sá ég að vatn spratt upp undan þröskuldi hússins mót austri, því að framhlið musterisins vissi til austurs. Og vatnið rann niður undan suðurhlið musterisins, sunnanvert við altarið.

2Síðan leiddi hann mig út um norðurhliðið og fór með mig í kring að utanverðu að ytra hliðinu, sem snýr í austurátt. Þá sá ég að vatn vall upp undan suðurhliðinni.

3Maðurinn gekk nú í austur með mælivað í hendi sér og mældi þúsund álnir. Og hann lét mig vaða yfir um vatnið, og tók það mér í ökkla. 4Þessu næst mældi hann þúsund álnir og lét mig vaða yfir um vatnið, tók vatnið mér þá til knés. Þá mældi hann enn þúsund álnir og lét mig vaða yfir um, tók vatnið mér þá í mjöðm. 5Þá mældi hann enn þúsund álnir. Var þá vatnið orðið að fljóti, svo að ég mátti ekki yfir það komast, því að vatnið var of djúpt, var orðið sundvatn, óvætt fljót. 6Hann sagði þá við mig: "Hefir þú séð þetta, mannsson?"

Og hann leiddi mig aftur upp á fljótsbakkann. 7Og er ég kom þangað aftur, sá ég mjög mörg tré á fljótsbökkunum beggja vegna. 8Þá sagði hann við mig: "Þetta vatn rennur út á austurhéraðið og þaðan ofan á sléttlendið, og þegar það fellur í Dauðahafið, í salt vatnið, verður vatnið í því heilnæmt. 9Og allar lifandi skepnur, allt sem hrærist, fær nýtt fjör alls staðar þar sem fljótið kemur, og fiskurinn mun verða mjög mikill, því að þegar þetta vatn kemur þangað, verður vatnið í því heilnæmt, og allt lifnar við, þar sem fljótið kemur.

10Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar, þar sem net verða lögð. Og fiskurinn í því mun verða mjög mikill, eins og í hafinu mikla. 11En pyttirnir og síkin þar hjá munu ekki vera heilnæm, þau eru ætluð til saltfengjar.

12En meðfram fljótinu, á bökkunum beggja vegna, munu upp renna alls konar aldintré. Laufblöð þeirra munu ekki visna og ávextir þeirra ekki dvína. Á hverjum mánuði munu þau bera nýja ávöxtu, af því að vötnin, sem þau lifa við, koma frá helgidóminum. Og ávextir þeirra munu hafðir verða til matar og laufblöð þeirra til lyfja."


Skipting landsins

13Svo segir Drottinn Guð:

Þetta eru takmörkin, og innan þeirra skuluð þér skipta yður niður á landið eftir tólf ættkvíslum Ísraels, þó skal Jósef fá tvo hluti. 14Þér skuluð fá landið til eignar, einn jafnt sem annar, með því að ég hét eitt sinn með eiði að gefa feðrum yðar það, og því skal land þetta falla yður til erfða.

15Þetta skulu vera takmörk landsins að norðanverðu:

Frá hafinu mikla í áttina til Hetlón, þangað er leið liggur til Hamat, 16Sedad, Beróta, Sibraím, sem liggur á milli Damaskuslands og Hamatlands, til Hasar Enón, sem liggur á landamærum Havrans. 17Takmörkin skulu þannig liggja frá hafinu til Hasar Enón, en Damaskusland liggur lengra til norðurs. Þetta er norðurhliðin.

18Og austurhliðin:

Frá Hasar Enón, sem liggur milli Havran og Damaskus, allt að eystra hafinu, er Jórdan takmarkalína milli Gíleaðs og Ísraelslands, allt til Tamar. Þetta er austurhliðin.

19Og suðurhliðin gegnt hádegisstað:

Frá Tamar alla leið til Meríbótvatna við Kades, að Egyptalandsá og þaðan til hafsins mikla. Þetta er suðurhliðin gegnt hádegisstað.

20Og vesturhliðin:

Hafið mikla ræður þar takmörkum allt þangað til komið er þar gegnt, er leið liggur til Hamat. Þetta er vesturhliðin.

21Þér skuluð skipta þessu landi meðal yðar eftir ættkvíslum Ísraels. 22Skuluð þér skipta því með hlutkesti til arfleifðar meðal yðar og þeirra útlendra manna, er búa meðal yðar og getið hafa sonu meðal yðar. Þá skuluð þér álíta innborna Ísraelsmenn, með yður skulu þeir varpa hlutum um arfleifð meðal ættkvísla Ísraels. 23Þér skuluð fá hverjum útlendum manni arfleifð í þeirri ættkvísl, þar sem hann býr - segir Drottinn Guð.


48
1Og þetta eru nöfn ættkvíslanna: Yst í norðri, frá hafinu í áttina til Hetlón þangað að, er leið liggur til Hamat, og þaðan til Hasar Enón, - er þá Damaskusland fyrir norðan, fram með Hamat -, og fær hver land frá austri til vesturs:

Dan, einn landshluti. 2Og meðfram Dans landi, frá austri til vesturs:

Asser, einn landshluti. 3Og meðfram Assers landi, frá austri til vesturs:

Naftalí, einn landshluti. 4Og meðfram Naftalí landi, frá austri til vesturs:

Manasse, einn landshluti. 5Og meðfram Manasse landi, frá austri til vesturs:

Efraím, einn landshluti. 6Og meðfram Efraíms landi, frá austri til vesturs:

Rúben, einn landshluti. 7Og meðfram Rúbens landi, frá austri til vesturs:

Júda, einn landshluti.

8Meðfram Júda landi, frá austri til vesturs, skal landið, er þér færið að fórnargjöf, sem þér skuluð láta af hendi, liggja, 25.000 álnir á breidd og jafnt að lengd hlutum ættkvíslanna, frá austri til vesturs, og helgidómurinn skal vera í því miðju. 9En landið, er þér skuluð helga Drottni, er 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd. 10Og þeim, sem nú skal greina, skal hin heilaga fórnargjöf tilheyra: prestunum landspilda 25.000 álna að norðanverðu, 10.000 álna að vestanverðu, 10.000 álna að austanverðu og 25.000 álna að sunnanverðu. Og helgidómur Drottins skal vera á henni miðri. 11Vígðu prestunum, niðjum Sadóks, þeim er gætt hafa þjónustu minnar, sem eigi gengu afleiðis, þá er aðrir Ísraelsmenn gengu afleiðis, svo sem og levítarnir hafa gengið afleiðis, 12þeim skal það tilheyra sem hluti af fórnargjöf landsins, sem háheilagt land, við hliðina á landi levítanna, 13en levítunum skal tilheyra jafn stórt land og prestanna: 25.000 álnir á lengd og 10.000 álnir á breidd, alls 25.000 álnir á lengd og 20.000 álnir á breidd. 14Af því mega þeir ekkert selja og ekki farga neinu af því í skiptum, né heldur má þessi ágætasti hluti landsins ganga yfir í annarra eigu, því að hann er helgaður Drottni. 15En þær 5.000 álnir, sem eftir eru af breiddinni meðfram 25.000 álnunum, eru óheilagt land handa borginni til ábúðar og beitilands, en borgin skal standa í þeim reit miðjum. 16Og þetta er mál hennar: Norðurhliðin 4.500 álnir og suðurhliðin 4.500 álnir og austurhliðin 4.500 álnir og vesturhliðin 4.500 álnir. 17Og útjörð borgarinnar skal vera 250 álnir til norðurs, 250 til suðurs, 250 til austurs og 250 til vesturs. 18Og það sem eftir er af lengdinni meðfram hinni helgu fórnargjöf, 10.000 álnir til austurs og 10.000 álnir til vesturs, afurðir þess skulu vera íbúum borgarinnar til fæðslu. 19Og hvað íbúa borgarinnar snertir, þá skulu byggja hana menn af öllum ættkvíslum Ísraels. 20Alls skuluð þér láta af hendi sem fórnargjöf 25.000 álnir í ferhyrning: hina heilögu fórnargjöf ásamt landeign borgarinnar. 21Það, sem eftir er, skal tilheyra landshöfðingjanum, beggja vegna við hina heilögu fórnargjöf og landeign borgarinnar, austur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að austurtakmörkunum og vestur á bóginn meðfram 25.000 álnunum að vesturtakmörkunum, samsvarandi hlutum ættkvíslanna. Það tilheyrir landshöfðingjanum, og hin heilaga fórnargjöf og helgidómur musterisins skal vera í því miðju. 22Og eignarland levítanna og eignarland borgarinnar skal liggja mitt inni í því, sem landshöfðingjanum tilheyrir. Milli Júda lands og Benjamíns lands skal það land liggja, er landshöfðingjanum tilheyrir. 23En hinar ættkvíslirnar eru, frá austri til vesturs:

Benjamín, einn landshluti. 24Og meðfram Benjamínslandi, frá austri til vesturs:

Símeon, einn landshluti. 25Og meðfram Símeons landi, frá austri til vesturs:

Íssakar, einn landshluti. 26Og meðfram Íssakars landi, frá austri til vesturs:

Sebúlon, einn landshluti. 27Og meðfram Sebúlons landi, frá austri til vesturs:

Gað, einn landshluti. 28En meðfram Gaðs landi, að sunnanverðu, gegnt hádegisstað, skulu takmörkin liggja frá Tamar yfir Meríba-vötn við Kades til Egyptalandsár og þaðan til hafsins mikla. 29Þetta er landið, sem þér skuluð úthluta ættkvíslum Ísraels til arfleifðar, og þetta eru hlutir þeirra - segir Drottinn Guð.

30Og þessi eru útgönguhlið borgarinnar, og eru hlið borgarinnar nefnd eftir ættkvíslum Ísraels: Á norðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, 31eru þrjú hlið: Rúbenshlið eitt, Júdahlið eitt, Levíhlið eitt. 32Á austurhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Jósefshlið eitt, Benjamínshlið eitt, Danshlið eitt. 33Á suðurhliðinni, sem er 4.500 álnir að máli, eru þrjú hlið: Símeonshlið eitt, Íssakarshlið eitt, Sebúlonshlið eitt. 34Og á vesturhliðinni, sem er 4.500 álnir, eru þrjú hlið: Gaðshlið eitt, Assershlið eitt, Naftalíhlið eitt. 35Ummálið er 18.000 álnir.

Og borgin mun upp frá því heita: ,Drottinn er hér.'Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997