JOBSBÓKJob reyndur fyrra sinni

1
1Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. 2Hann átti sjö sonu og þrjár dætur, 3og aflafé hans var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og mjög mörg hjú, og var maður sá meiri öllum austurbyggjum.

4Synir hans voru vanir að fara og búa veislu heima hjá sér, hver sinn dag, og þeir buðu systrum sínum þremur að eta og drekka með sér. 5En er veisludagar voru liðnir, sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Reis hann árla morguns og fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: "Vera má að börn mín hafi syndgað og formælt Guði í hjarta sínu." Svo gjörði Job alla daga.

6Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. 7Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?"

Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."

8Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar."

9Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? 10Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. 11En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið."

12Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína." Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins.

13Nú bar svo til einn dag, er synir hans og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns, 14að sendimaður kom til Jobs og sagði: "Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim. 15Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

16En áður en hann hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

17En áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Kaldear fylktu þremur flokkum, gjörðu áhlaup á úlfaldana og tóku þá, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

18Áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns. 19Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir sveinana, og þeir dóu. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."

20Þá stóð Job upp og reif skikkju sína og skar af sér hárið, og féll til jarðar, tilbað 21og sagði:

Nakinn kom ég af móðurskauti
og nakinn mun ég aftur þangað fara.
Drottinn gaf og Drottinn tók,
lofað veri nafn Drottins.

22Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.


Job reyndur öðru sinni

2
1Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra. 2Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?"

Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."

3Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka."

4Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. 5En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið."

6Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans."

7Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja. 8Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni. 9Þá sagði kona hans við hann: "Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!" 10En hann sagði við hana: "Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?"

Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.


Þrír vinir Jobs

11Þegar vinir Jobs þrír fréttu, að öll þessi ógæfa væri yfir hann komin, þá komu þeir hver frá sínum stað, þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti, og töluðu sig saman um að fara og votta honum samhryggð sína og hugga hann. 12En er þeir hófu upp augu sín álengdar, þekktu þeir hann ekki. Tóku þeir þá að gráta hástöfum, rifu skikkjur sínar og jusu mold yfir höfuð sér hátt í loft upp. 13Og þannig sátu þeir hjá honum á jörðu sjö daga og sjö nætur, og enginn þeirra yrti á hann, því að þeir sáu, hversu mikil kvöl hans var.Fyrsti ræðukafli


Angurljóð Jobs

3
1Loks lauk Job upp munni sínum og bölvaði fæðingardegi sínum. 2Hann tók til máls og sagði:

3 Farist sá dagur, sem ég fæddist á,
og nóttin, sem sagði: Sveinbarn er getið!
4 Sá dagur verði að myrkri,
Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum,
engin dagsbirta ljómi yfir honum.
5 Myrkur og niðdimma heimti hann aftur,
skýflókar leggist um hann,
dagmyrkvar skelfi hann.
6 Sú nótt - myrkrið hremmi hana,
hún gleðji sig eigi meðal ársins daga,
hún komi eigi í tölu mánaðanna.
7 Sjá, sú nótt verði ófrjó,
ekkert fagnaðaróp heyrist á henni.
8 Þeir sem bölva deginum, formæli henni,
- þeir sem leiknir eru í að egna Levjatan.
9 Myrkvist stjörnur aftureldingar hennar,
vænti hún ljóss, en það komi ekki,
og brágeisla morgunroðans fái hún aldrei litið,
10 af því að hún lokaði eigi fyrir mér dyrum móðurlífsins
og byrgði ei ógæfuna fyrir augum mínum.

11 Hví dó ég ekki í móðurkviði,
- andaðist jafnskjótt og ég var kominn af móðurlífi?
12 Hvers vegna tóku kné á móti mér
og hví voru brjóst til handa mér að sjúga?
13 Því þá lægi ég nú og hvíldist,
væri sofnaður og hefði frið
14 hjá konungum og ráðherrum jarðarinnar,
þeim er reistu sér hallir úr rústum,
15 eða hjá höfðingjum, sem áttu gull,
þeim er fylltu hús sín silfri.
16 Eða ég væri ekki til eins og falinn ótímaburður,
eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið.
17 Í gröfinni hætta hinir óguðlegu hávaðanum,
og þar hvílast hinir örmagna.
18 Bandingjarnir hafa þar allir ró,
heyra þar eigi köll verkstjórans.
19 Smár og stór eru þar jafnir,
og þrællinn er þar laus við húsbónda sinn.

20 Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu
og líf hinum sorgbitnu?
21 þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki,
sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum,
22 þeim sem mundu gleðjast svo, að þeir réðu sér ekki fyrir kæti,
fagna, ef þeir fyndu gröfina;
23 - þeim manni, sem enga götu sér
og Guð hefir girt inni?
24 Því að andvörp eru orðin mitt daglegt brauð,
og kvein mitt úthellist sem vatn.
25 Því að óttaðist ég eitthvað, þá hitti það mig,
og það sem ég hræddist, kom yfir mig.
26 Ég mátti eigi næðis njóta, eigi friðar, eigi hvíldar, þá
kom ný mæða.


Elífas álasar Job

4
1Þá svaraði Elífas frá Teman og mælti:

2 Munt þú taka því illa, þótt maður dirfist að yrða á þig?
Og þó, hver fær orða bundist?
3 Sjá, þú hefir áminnt marga,
og magnþrota hendur hefir þú styrkt.
4 Þann sem hrasaði, reistu orð þín á fætur,
og hnígandi hnén gjörðir þú stöðug.
5 En nú, þegar það kemur yfir þig, gefst þú upp,
þegar það nær þér sjálfum, missir þú móðinn.
6 Er ekki guðhræðsla þín athvarf þitt
og þitt grandvara líferni von þín?
7 Hugsaðu þig um: Hver er sá, er farist hafi saklaus,
og hvar hefir hinum réttvísu verið tortímt?
8 Að því, er ég hefi séð: Þeir sem plægðu rangindi
og sáðu óhamingju, þeir einir hafa uppskorið það.
9 Fyrir andgusti Guðs fórust þeir,
fyrir reiðiblæstri hans urðu þeir að engu.

10 Öskur ljónsins og rödd óargadýrsins,
- tennur ljónshvolpanna eru brotnar sundur.
11 Ljónið ferst, af því að það vantar bráð,
og hvolpar ljónynjunnar tvístrast.

12 En til mín laumaðist orð,
og eyra mitt nam óminn af því -
13 í heilabrotunum, sem nætursýnirnar valda,
þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina.
14 Ótti kom yfir mig og hræðsla,
svo að öll bein mín nötruðu.
15 Og vindgustur straukst fram hjá andliti mínu,
hárin risu á líkama mínum.
16 Þarna stóð það - útlitið þekkti ég ekki -,
einhver mynd fyrir augum mínum,
ég heyrði ymjandi rödd:
17 "Er maðurinn réttlátur fyrir Guði,
nokkur mannkind hrein fyrir skapara sínum?
18 Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki,
og hjá englum sínum finnur hann galla,
19 hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum,
þeim sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar,
sem marðir eru sundur sem mölur væri.
20 Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur,
án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega.
21 Tjaldstaginu er kippt upp,
þeir deyja, og það í vanhyggju sinni."

5
1 Kalla þú bara! Ætli nokkur svari þér?
og til hvers af hinum heilögu viltu snúa þér?
2 Því að gremjan drepur heimskingjann,
og öfundin deyðir einfeldninginn.
3 Ég hefi að vísu séð heimskingjann festa djúpar rætur,
en varð þó skyndilega að formæla bústað hans.
4 Börn hans eru fjarlæg hjálpinni,
þau eru troðin niður í hliðinu, og enginn bjargar.
5 Uppskeru hans etur hinn hungraði,
já, jafnvel inn í þyrna sækir hann hana,
og hinir þyrstu þrá eigur hans.
6 Því að óhamingjan vex ekki upp úr moldinni,
og mæðan sprettur ekki upp úr jarðveginum.
7 Nei, maðurinn fæðist til mæðu,
eins og neistarnir fljúga upp í loftið.

8 En ég mundi snúa mér til hins Almáttka
og bera málefni mitt upp fyrir Guði,
9 honum, sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega,
dásemdarverk, sem eigi verða talin,
10 sem gefur regn á jörðina
og sendir vatn yfir vellina
11 til þess að hefja hina lítilmótlegu hátt upp,
og til þess að hinir sorgbitnu öðlist mikla sælu;
12 honum, sem gjörir að engu áform hinna lævísu,
svo að hendur þeirra koma engu varanlegu til leiðar,
13 sem veiðir vitringana í slægð þeirra,
svo að ráð hinna slungnu kollsteypast.
14 Á daginn reka þeir sig á myrkur,
og sem um nótt þreifa þeir fyrir sér um hádegið.
15 Þannig frelsar hann munaðarleysingjann úr gini þeirra
og fátæklinginn undan valdi hins sterka.
16 Þannig er von fyrir hinn vesala,
og illskan lokar munni sínum.

17 Sjá, sæll er sá maður, er Guð hirtir,
lítilsvirð því eigi ögun hins Almáttka.
18 Því að hann særir, en bindur og um,
hann slær, og hendur hans græða.
19 Úr sex nauðum frelsar hann þig,
og í hinni sjöundu snertir þig ekkert illt.
20 Í hallærinu frelsar hann þig frá dauða
og í orustunni undan valdi sverðsins.
21 Fyrir svipu tungunnar ert þú falinn
og þarft ekkert að óttast, er eyðingin kemur.
22 Að eyðing og hungri getur þú hlegið,
og villidýrin þarft þú ekki að óttast.
23 Því að þú ert í bandalagi við steina akurlendisins,
og dýr merkurinnar eru í sátt við þig.
24 Og þú munt komast að raun um, að tjald þitt er heilt,
þú kannar bústað þinn og saknar einskis.
25 Og þú munt komast að raun um, að niðjar þínir eru margir
og afsprengi þitt sem gras á jörðu.
26 Í hárri elli munt þú ganga inn í gröfina,
eins og kornbundinið er látið í hlöðuna á sínum tíma.
27 Sjá, þetta höfum vér útgrundað, þannig er það.
Heyr þú það og set það vel á þig!


Svar Jobs

6
1Þá svaraði Job og sagði:

2 Ó að gremja mín væri vegin
og ógæfa mín lögð á vogarskálar!
3 Hún er þyngri en sandur hafsins,
fyrir því hefi ég eigi taumhald á tungu minni.
4 Því að örvar hins Almáttka sitja fastar í mér,
og andi minn drekkur í sig eitur þeirra.
Ógnir Guðs steðja að mér.

5 Rymur skógarasninn yfir grængresinu,
eða öskrar nautið yfir fóðri sínu?
6 Verður hið bragðlausa etið saltlaust,
eða er gott bragð að hvítunni í egginu?
7 Matur minn fær mér ógleði,
mig velgir við að snerta hann.

8 Ó að ósk mín uppfylltist,
og Guð léti von mína rætast!
9 Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur,
rétta út höndina og skera lífsþráð minn sundur!
10 Þá væri það þó enn huggun mín
- og ég skyldi hoppa af gleði í vægðarlausri kvölinni -
að ég hefi aldrei afneitað orðum hins Heilaga.
11 Hver er kraftur minn, að ég skyldi þreyja,
og hver verða endalok mín, að ég skyldi vera þolinmóður?
12 Er þá kraftur minn kletta kraftur,
eða er líkami minn af eiri?
13 Er ég ekki með öllu hjálparvana
og öll frelsun frá mér hrakin?
14 Hrelldur maður á heimting á meðaumkun hjá vini sínum,
enda þótt hann hætti að óttast hinn Almáttka.
15 Bræður mínir brugðust eins og lækur,
eins og farvegur lækja, sem flóa yfir,
16 sem gruggugir eru af ís
og snjórinn hverfur ofan í.
17 Jafnskjótt og þeir bakast af sólinni, þorna þeir upp,
þegar hitnar, hverfa þeir burt af stað sínum.
18 Kaupmannalestirnar beygja af leið sinni,
halda upp í eyðimörkina og farast.
19 Kaupmannalestir frá Tema skyggndust eftir þeim,
ferðamannahópar frá Saba reiddu sig á þá.
20 Þeir urðu sér til skammar fyrir vonina,
þeir komu þangað og urðu sneyptir.
21 Þannig eruð þér nú orðnir fyrir mér,
þér sáuð skelfing og skelfdust.
22 Hefi ég sagt: "Færið mér eitthvað
og borgið af eigum yðar fyrir mig,
23 frelsið mig úr höndum óvinarins
og leysið mig undan valdi kúgarans"?
24 Fræðið mig, og ég skal þegja,
og sýnið mér, í hverju mér hefir á orðið.
25 Hversu áhrifamikil eru einlægninnar orð,
en hvað sanna átölur yðar?
26 Hafið þér í hyggju að ásaka orð?
Ummæli örvilnaðs manns hverfa út í vindinn.
27 Þér munduð jafnvel hluta um föðurleysingjann
og selja vin yðar.
28 Og nú - ó að yður mætti þóknast að líta á mig,
ég mun vissulega ekki ljúga upp í opið geðið á yður.
29 Snúið við, fremjið eigi ranglæti,
já, snúið við, enn þá hefi ég rétt fyrir mér.
30 Er ranglæti á minni tungu,
eða ætli gómur minn greini ekki hvað illt er?

7

1 Er ekki líf mannsins á jörðinni herþjónusta
og dagar hans sem dagar daglaunamanns?
2 Eins og þræll, sem þráir forsælu,
og eins og daglaunamaður, sem bíður eftir kaupi sínu,
3 svo hafa mér hlotnast mæðumánuðir
og kvalanætur orðið hlutskipti mitt.
4 Þegar ég leggst til hvíldar, hugsa ég:
"Nær mun ég rísa á fætur?"
Og kveldið er langt,
og ég fæ mig fullsaddan á að bylta mér uns aftur eldir.
5 Líkami minn er þakinn ormum og moldarskánum,
húð mín skorpnar og rifnar upp aftur.
6 Dagar mínir eru hraðfleygari en vefjarskyttan,
og þeir hverfa án vonar.
7 Minnstu þess, Guð, að líf mitt er andgustur!
Aldrei framar mun auga mitt gæfu líta.
8 Það auga, sem nú sér mig, mun eigi líta mig framar,
augu þín leita mín, en ég er horfinn.
9 Eins og skýið eyðist og hverfur,
svo kemur og sá eigi aftur, er niður stígur til Heljar.
10 Hann hverfur aldrei aftur til húss síns,
og heimili hans þekkir hann eigi framar.
11 Ég ætla þá ekki heldur að hafa taum á tungu minni,
ég ætla að tala í hugarangist minni,
ég ætla að kveina í sálarkvöl minni.

12 Er ég haf eða sjóskrímsl,
svo að þú þurfir að setja vörð yfir mig?
13 Þegar ég hugsa með sjálfum mér: "Rúmið mitt skal hugga mig,
hvílan mín létta mér hörmung mína"
14 þá hræðir þú mig með draumum
og skelfir mig með sýnum,
15 svo að ég kýs heldur að kafna,
heldur að deyja en að vera slík beinagrind.
16 Ég er leiður á þessu - ekki lifi ég eilíflega -,
slepptu mér, því að dagar mínir eru andartak.
17 Hvað er maðurinn, að þú metir hann svo mikils
og að þú snúir huga þínum til hans?
18 að þú heimsækir hann á hverjum morgni
og reynir hann á hverri stundu?
19 Hvenær ætlar þú loks að líta af mér,
loks að sleppa mér, meðan ég renni niður munnvatninu?
20 Hafi ég syndgað - hvað get ég gert þér, þú vörður manna?
Hvers vegna hefir þú mig þér að skotspæni,
svo að ég er sjálfum mér byrði? 21 Og hví fyrirgefur þú mér eigi synd mína
og nemur burt sekt mína?
Því að nú leggst ég til hvíldar í moldu,
og leitir þú mín, þá er ég eigi framar til.


Átölur Bildads

8
1Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

2 Hversu lengi ætlar þú slíkt að mæla
og orðin í munni þínum að vera hvass vindur?
3 Hallar þá Guð réttinum,
eða hallar hinn Almáttki réttlætinu?
4 Hafi börn þín syndgað móti honum,
þá hefir hann selt þau misgjörð þeirra á vald.
5 En ef þú leitar Guðs
og biður hinn Almáttka miskunnar -
6 ef þú ert hreinn og einlægur -
já, þá mun hann þegar vakna til að sinna þér
og endurreisa bústað þíns réttlætis.
7 Þá mun þinn fyrri hagur virðast lítilfjörlegur,
en framtíðarhagur þinn vaxa stórum.

8 Spyr þú hina fyrri kynslóð
og gef þú gaum að reynslu feðranna.
9 Vér erum síðan í gær og vitum ekkert,
því að skuggi eru dagar vorir á jörðunni.
10 En þeir munu fræða þig, segja þér það
og bera fram orð úr sjóði hjarta síns:
11 "Sprettur pappírssefið þar sem engin mýri er?
vex störin nema í vatni?
12 Enn stendur hún í blóma og verður eigi slegin,
en hún skrælnar fyrr en nokkurt annað gras."
13 Svo fer fyrir hverjum þeim, sem gleymir Guði,
og von hins guðlausa verður að engu.
14 Athvarf hans brestur sundur,
og köngullóarvefur er það, sem hann treystir.
15 Hann styðst við hús sitt, en það stendur ekki,
hann heldur sér fast í það, en það stenst ekki.
16 Hann er safarík skríðandi flétta í sólskini,
sem teygir jarðstöngla sína um garðinn
17 og vefur rótum sínum um grjóthrúgur
og læsir sig milli steinanna.
18 En ef hann er upprættur frá stað sínum,
þá afneitar staðurinn honum og segir: "Ég hefi aldrei séð þig!"
19 Sjá, þetta er öll gleði hans,
og aðrir spretta í staðinn upp úr moldinni.

20 Sjá, Guð hafnar ekki hinum ráðvanda
og heldur ekki í hönd illgjörðamanna.
21 Enn mun hann fylla munn þinn hlátri
og varir þínar fagnaðarópi.
22 Þeir sem hata þig, munu skömminni klæðast,
og tjald hinna óguðlegu mun horfið vera.


Andmæli Jobs

9
1Þá svaraði Job og sagði:

2 Vissulega, ég veit að það er svo,
og hvernig ætti maðurinn að hafa rétt fyrir sér gagnvart Guði?
3 Þóknist honum að deila við hann,
getur hann ekki svarað einni spurningu af þúsund.
4 Hann er vitur í hjarta og máttkur að afli
- hver þrjóskaðist gegn honum og sakaði eigi? -
5 Hann sem flytur fjöll, svo að þau vita ekki af,
hann sem kollvarpar þeim í reiði sinni,
6 hann sem hrærir jörðina úr stað,
svo að stoðir hennar leika á reiðiskjálfi,
7 hann sem býður sólinni, og hún rennur ekki upp,
og setur innsigli fyrir stjörnurnar,
8 hann sem þenur út himininn aleinn,
og gengur á háöldum sjávarins,
9 hann sem skóp Vagnstirnið og Óríon,
Sjöstjörnuna og forðabúr sunnanvindsins,
10 hann sem gjörir mikla hluti og órannsakanlega
og dásemdarverk, er eigi verða talin,
11 sjá, hann gengur fram hjá mér, en ég sé hann ekki,
hann strýkst fram hjá, en ég verð hans ekki var.
12 Þegar hann þrífur til, hver vill þá aftra honum,
hver vill segja við hann: "Hvað gjörir þú?"
13 Guð heldur ekki aftur reiði sinni,
bandamenn hafdrekans beygðu sig undir hann.
14 Hversu miklu síður mundi ég þá geta svarað honum,
geta valið orð mín gagnvart honum,
15 ég sem ekki mætti svara, þótt ég hefði rétt fyrir mér,
heldur verð að beiðast miskunnar af dómara mínum.
16 Þótt ég kallaði og hann svaraði mér,
þá mundi ég ekki trúa, að hann hlustaði á mig.
17 Miklu fremur mundi hann hvæsa á mig í stormviðri
og margfalda sár mín án saka,
18 aldrei leyfa mér að draga andann,
heldur metta mig beiskri kvöl.
19 Sé um kraft að ræða, er mátturinn hans,
sé um rétt að ræða, hver vill þá stefna honum?
20 Þótt ég hefði rétt fyrir mér, þá mundi munnur minn sakfella mig,
þótt ég væri saklaus, mundi hann koma á mig sektinni.
21 Saklaus er ég,
ég hirði ekkert um líf mitt,
ég virði að vettugi tilveru mína!
22 Mér stendur á sama um það. Fyrir því segi ég:
hann tortímir jafnt saklausum sem óguðlegum.
23 Þegar svipan deyðir snögglega,
þá gjörir hann gys að örvænting hinna saklausu.
24 Jörðin er gefin í vald hinna óguðlegu,
hann byrgir fyrir andlitið á dómendum hennar.
Sé það ekki hann - hver þá?

25 Dagar mínir voru skjótari en hraðboði,
liðu svo hjá, að þeir litu enga hamingju.
26 Þeir brunuðu áfram eins og reyrbátar,
eins og örn, sem steypir sér niður á æti.
27 Ef ég segi: Ég ætla að gleyma volæði mínu,
ég ætla að breyta andlitssvip mínum og vera kátur, -
28 þá hryllir mig við öllum þjáningum mínum,
því ég veit þú sýknar mig ekki.
29 Ég á nú að vera sekur,
hví skyldi ég þá vera að mæðast til ónýtis?
30 Þótt ég þvægi mér úr snjó
og hreinsaði hendur mínar í lút,
31 þá mundir þú dýfa mér ofan í forarvilpu,
svo að klæðum mínum byði við mér.
32 Guð er ekki maður eins og ég, að ég geti svarað honum,
að við getum gengið saman fyrir réttinn.
33 Enginn er sá, er úr skeri okkar í milli,
er lagt geti hönd sína á okkur báða.
34 Hann taki vönd sinn frá mér
og láti ekki skelfing sína hræða mig,
35 þá vil ég tala og eigi óttast hann,
því að svo er mér eigi farið hið innra.

10

1 Mér býður við lífi mínu,
ég ætla því að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn,
ætla að tala í sálarkvöl minni.
2 Ég segi við Guð: Sakfell mig ekki!
lát mig vita, hvers vegna þú deilir við mig.
3 Er það ávinningur fyrir þig, að þú undirokar,
að þú hafnar verki handa þinna,
en lætur ljós skína yfir ráðagerð hinna óguðlegu?
4 Hefir þú holdleg augu,
eða sér þú eins og menn sjá?
5 Eru dagar þínir eins og dagar mannanna,
eru ár þín eins og mannsævi,
6 er þú leitar að misgjörð minni
og grennslast eftir synd minni,
7 þótt þú vitir, að ég er ekki sekur,
og að enginn frelsar af þinni hendi?

8 Hendur þínar hafa skapað mig og myndað mig,
allan í krók og kring, og samt ætlar þú að tortíma mér?
9 Minnstu þó þess, að þú myndaðir mig sem leir,
og nú vilt þú aftur gjöra mig að dufti.
10 Hefir þú ekki hellt mér sem mjólk
og hleypt mig sem ost?
11 Hörundi og holdi klæddir þú mig
og ófst mig saman úr beinum og sinum.
12 Líf og náð veittir þú mér,
og umsjá þín varðveitti andardrátt minn.
13 En þetta falst þú í hjarta þínu,
ég veit þú hafðir slíkt í hyggju.
14 Ef ég syndgaði, þá ætlaðir þú að hafa gætur á mér
og eigi sýkna mig af misgjörð minni.
15 Væri ég sekur, þá vei mér!
Og þótt ég væri réttlátur, þá mundi ég samt ekki bera höfuð mitt hátt,
mettur af smán og þjakaður af eymd.
16 Og ef ég reisti mig upp, þá mundir þú elta mig sem ljón,
og ávallt að nýju sýna á mér undramátt þinn.
17 Þú mundir leiða fram ný vitni á móti mér
og herða á gremju þinni gegn mér,
senda nýjan og nýjan kvalaher á hendur mér.

18 Hvers vegna útleiddir þú mig þá af móðurlífi?
Ég hefði átt að deyja, áður en nokkurt auga leit mig!
19 Ég hefði átt að verða eins og ég hefði aldrei verið til,
verið borinn frá móðurkviði til grafar!
20 Eru ekki dagar mínir fáir?
Slepptu mér, svo að ég megi gleðjast lítið eitt,
21 áður en ég fer burt og kem aldrei aftur,
fer í land myrkurs og niðdimmu,
22 land svartamyrkurs sem um hánótt,
land niðdimmu og skipuleysis,
þar sem birtan sjálf er sem svartnætti.


Ræða Sófars

11
1Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:

2 Á ekki að svara orðagjálfrinu,
og á málskrafsmaðurinn að hafa rétt fyrir sér?
3 Ættu stóryrði þín að koma mönnum til að þegja,
og ættir þú að spotta og enginn sneypa þig,
4 þar sem þú segir: "Kenning mín er rétt,
og ég er hreinn í augum Guðs"?
5 En - ó að Guð vildi tala
og ljúka upp vörum sínum í móti þér
6 og kunngjöra þér leyndardóma spekinnar,
að í þeim felast margföld hyggindi,
þá mundir þú kannast við, að Guð hegnir ekki til fulls misgjörð þinni.

7 Getur þú náð til botns í Guði
eða komist til ystu takmarka hins Almáttka?
8 Himinhá er speki hans - hvað fær þú gjört?
dýpri en undirheimar - hvað fær þú vitað?
9 Hún er lengri en jörðin að víðáttu
og breiðari en hafið.
10 Ef hann ryðst fram og hneppir í varðhald
og stefnir dómþing - hver aftrar honum?
11 Því að hann þekkir varmennin
og sér ranglætið, þótt hann sé ekki að veita því athygli.
12 Verður óvitur maður hygginn?
og fæðist skógarösnu-folald sem maður?
13 Ef þú undirbýr hjarta þitt
og breiðir út lófa þína til hans,
14 - ef misgjörð er í hendi þinni, þá fjarlæg hana,
og lát eigi órétt búa í tjöldum þínum -
15 já, þá munt þú flekklaus hefja höfuð þitt,
munt standa fastur og eigi þurfa að óttast.
16 Já, þá munt þú gleyma mæðu þinni,
þú munt minnast hennar sem vatns, er runnið er fram hjá.
17 Og lífið mun renna upp bjartara en hádegið,
þótt dimmi, þá mun það verða sem morgunn.
18 Og þú munt vera öruggur, því að enn er von,
og skyggnist þú um, getur þú lagst óhultur til hvíldar.
19 Og þú hvílist, og enginn hræðir þig,
og margir munu reyna að koma sér í mjúkinn hjá þér.
20 En augu hinna óguðlegu daprast,
fyrir þá er fokið í öll skjól,
og þeirra eina von er að gefa upp andann.


Vörn Jobs

12
1Þá svaraði Job og sagði:

2 Já, vissulega, miklir menn eruð þér,
og með yður mun spekin deyja út!
3 En ég hefi vit eins og þér,
ekki stend ég yður að baki,
og hver er sá, er eigi viti slíkt!
4 Athlægi vinar síns - það má ég vera,
ég sem kallaði til Guðs, og hann svaraði mér,
- ég, hinn réttláti, hreinlyndi, er að athlægi!
5 "Ógæfan er fyrirlitleg" - segir hinn öruggi,
"hún hæfir þeim, sem skrikar fótur."
6 Tjöld spellvirkjanna standa ósködduð,
og þeir lifa áhyggjulausir, sem egna Guð til reiði,
og sá sem þykist bera Guð í hendi sér.

7 En spyr þú skepnurnar, og þær munu kenna þér,
fugla loftsins, og þeir munu fræða þig,
8 eða villidýrin, og þau munu kenna þér,
og fiskar hafsins munu kunngjöra þér.
9 Hver þeirra veit ekki
að hönd Drottins hefir gjört þetta?
10 Í hans hendi er líf alls hins lifanda
og andi sérhvers mannslíkama.
11 Prófar eyrað ekki orðin,
eins og gómurinn smakkar matinn?
12 Hjá öldruðum mönnum er speki,
og langir lífdagar veita hyggindi.
13 Hjá Guði er speki og máttur,
hans eru ráð og hyggindi.
14 Þegar hann rífur niður, þá verður eigi byggt upp aftur,
þegar hann setur einhvern í fangelsi, þá verður ekki lokið upp.
15 Þegar hann stíflar vötnin, þá þorna þau upp,
þegar hann hleypir þeim, þá umturna þau jörðinni.

16 Hjá honum er máttur og viska,
á valdi hans er sá er villist, og sá er í villu leiðir.
17 Hann leiðir ráðherra burt nakta
og gjörir dómara að fíflum.
18 Hann leysir fjötra konunganna
og bindur reipi um lendar sjálfra þeirra.
19 Hann leiðir presta burt nakta
og steypir þeim, sem sitja fastir í sessi.
20 Hann rænir reynda menn málinu
og sviptir öldungana dómgreind.
21 Hann hellir fyrirlitning yfir tignarmennin
og gjörir slakt belti hinna sterku.
22 Hann grefur hið hulda fram úr myrkrinu
og dregur niðdimmuna fram í birtuna.
23 Hann veitir þjóðunum vöxt og eyðir þeim,
útbreiðir þjóðirnar og leiðir þær burt.
24 Hann firrir þjóðhöfðingja landsins viti
og lætur þá villast um veglaus öræfi.
25 Þeir fálma í ljóslausu myrkri,
og hann lætur þá skjögra eins og drukkinn mann.

13
1 Sjá, allt þetta hefir auga mitt séð
og eyra mitt heyrt og sett það á sig.
2 Það sem þér vitið, það veit ég líka,
ekki stend ég yður að baki.
3 En ég vil tala til hins Almáttka
og mig langar til að þreyta málsókn við Guð.
4 Því að sannlega samtvinnið þér lygar
og eruð gagnslausir gutlarar allir saman.
5 Ó að þér vilduð steinþegja,
þá mætti meta yður það til mannvits.
6 Heyrið átölur mínar
og hlustið á ásakanir vara minna.
7 Viljið þér mæla það, sem rangt er, Guði til varnar,
og honum til varnar mæla svik?
8 Viljið þér draga taum hans,
eða viljið þér taka málstað Guðs?
9 Ætli það fari vel, þegar hann rannsakar yður,
eða ætlið þér að leika á hann, eins og leikið er á menn?
10 Nei, hegna, hegna mun hann yður,
ef þér eruð hlutdrægir í leyni.
11 Hátign hans mun skelfa yður,
og ógn hans mun falla yfir yður.
12 Spakmæli yðar eru ösku-orðskviðir,
vígi yðar eru leirvígi.

13 Þegið og látið mig í friði, þá mun ég mæla,
og komi yfir mig hvað sem vill.
14 Ég stofna sjálfum mér í hættu
og legg lífið undir.
15 Sjá, hann mun deyða mig - ég bíð hans,
aðeins vil ég verja breytni mína fyrir augliti hans.
16 Það skal og verða mér til sigurs,
því að guðlaus maður kemur ekki fyrir auglit hans.
17 Hlýðið því gaumgæfilega á ræðu mína,
og vörn mín gangi yður í eyru.
18 Sjá, ég hefi undirbúið málið,
ég veit, að ég verð dæmdur sýkn.
19 Hver er sá, er deila vilji við mig?
þá skyldi ég þegja og gefa upp andann.

20 Tvennt mátt þú, Guð, ekki við mig gjöra,
þá skal ég ekki fela mig fyrir augliti þínu.
21 Tak hönd þína burt frá mér,
og lát ekki skelfing þína hræða mig.
22 Kalla því næst, og mun ég svara,
eða ég skal tala, og veit þú mér andsvör í móti.
23 Hversu margar eru þá misgjörðir mínar og syndir?
Kunngjör mér afbrot mín og synd mína!
24 Hvers vegna byrgir þú auglit þitt
og ætlar, að ég sé óvinur þinn?
25 Ætlar þú að skelfa vindþyrlað laufblað
og ofsækja þurrt hálmstrá,
26 er þú dæmir mér beiskar kvalir
og lætur mig erfa misgjörðir æsku minnar,
27 er þú setur fætur mína í stokk
og aðgætir alla vegu mína
og markar hring kringum iljar mínar?
28 - Þessi maður dettur þó sundur eins og maðksmoginn viður,
eins og möletið fat.

14

1 Maðurinn, af konu fæddur,
lifir stutta stund og mettast órósemi.
2 Hann rennur upp og fölnar eins og blóm,
flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám.
3 Og yfir slíkum heldur þú opnum augum þínum
og dregur mig fyrir dóm hjá þér!
4 Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum?
Ekki einn!
5 Ef dagar hans eru ákvarðaðir,
tala mánaða hans tiltekin hjá þér,
hafir þú ákveðið takmark hans, er hann fær eigi yfir komist,
6 þá lít þú af honum, til þess að hann fái hvíld,
svo að hann megi fagna yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

7 Því að tréð hefir von,
sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum,
og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.
8 Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni,
og stofn þess deyi í moldinni,
9 þá brumar það við ilminn af vatninu,
og á það koma greinar eins og unga hríslu.
10 En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur,
og gefi manneskjan upp andann - hvar er hún þá?
11 Eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu
og fljótið grynnist og þornar upp,
12 þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur.
Hann rumskar ekki, meðan himnarnir standa
og vaknar ekki af svefninum.
13 Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum,
fela mig, uns reiði þinni linnir,
setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!
14 Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?
þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar,
þar til er lausnartíð mín kæmi.
15 Þú mundir kalla, og ég - ég mundi svara þér,
þú mundir þrá verk handa þinna.
16 Því að þá mundir þú telja spor mín,
eigi vaka yfir synd minni.
17 Afbrot mín lægju innsigluð í böggli,
og á misgjörð mína drægir þú hvítan lit.

18 En eins og fjallið molnar sundur, er það hrynur,
og kletturinn færist úr stað sínum,
19 eins og vatnið holar steinana
og vatnsflóðin skola burt jarðarleirnum,
svo hefir þú gjört von mannsins að engu.
20 Þú ber hann ofurliði að eilífu, og hann fer burt,
þú afmyndar ásjónu hans og rekur hann á brott.
21 Komist börn hans til virðingar, þá veit hann það ekki,
séu þau lítilsvirt, verður hann þess ekki var.
22 Aðeins kennir líkami hans eigin sársauka,
og sál hans hryggist yfir sjálfum honum.Annar ræðukafli


Elífas vill fræða Job

15
1Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:

2 Skyldi vitur maður svara með vindkenndri visku
og fylla brjóst sitt austanstormi -
3 sanna mál sitt með orðum, sem ekkert gagna,
og ræðum, sem engu fá áorkað?
4 Auk þess rífur þú niður guðsóttann
og veikir lotninguna, sem Guði ber.
5 Því að misgjörð þín leggur þér orð í munn
og þú velur þér lævísra tungu.
6 Þinn eigin munnur sakfellir þig, ekki ég,
og varir þínar vitna í gegn þér.
7 Fæddist þú fyrstur manna
og ert þú í heiminn borinn fyrr en hæðirnar?
8 Hefir þú hlustað í ráði Guðs
og hrifsað til þín spekina?
9 Hvað veist þú, er vér eigi vissum,
hvað skilur þú, er oss væri ókunnugt?
10 Til eru og öldungar, gráhærðir menn, vor á meðal,
auðgari að ævidögum en faðir þinn.
11 Er huggun Guðs þér lítils virði
og mildileg orðin sem þú heyrir?
12 Hvers vegna hrífur gremjan þig
og hví ranghvolfast augu þín,
13 er þú snýr reiði þinni gegn Guði
og lætur þér slík orð um munn fara?
14 Hvað er maðurinn, að hann geti verið hreinn,
og sá verið réttlátur, sem af konu er fæddur?
15 Sjá, sínum heilögu treystir Hann ekki,
og himinninn er ekki hreinn í augum hans,
16 hvað þá hinn andstyggilegi og spillti,
maðurinn, sem drekkur ranglætið eins og vatn.

17 Ég vil fræða þig, heyr þú mig,
og það sem ég hefi séð, frá því vil ég segja,
18 því er vitringarnir kunngjörðu
- og duldu ekki - svo sem arfsögn frá feðrum sínum,
19 en þeim einum var landið gefið,
og enginn útlendingur hafði enn farið um meðal þeirra.
20 Alla ævi sína kvelst hinn óguðlegi
og öll þau ár, sem geymd eru ofbeldismanninum.
21 Skelfingarhljóð óma í eyrum honum,
á friðartímum ræðst eyðandinn á hann.
22 Hann trúir því ekki, að hann komist út úr myrkrinu,
og hann er kjörinn undir sverðið.
23 Hann reikar um til þess að leita sér brauðs - hvar er það? -
hann veit að ógæfudagurinn bíður hans.
24 Neyð og angist skelfa hann,
hún ber hann ofurliði eins og konungur, sem búinn er til atlögu,
25 af því hann útrétti hönd sína gegn Guði
og reis þrjóskur í móti hinum Almáttka,
26 rann í móti honum illvígur
undir þykkum bungum skjalda sinna.
27 Hann þakti andlit sitt spiki
og safnaði fitu á lendar sér,
28 settist að í eyddum borgum,
í húsum, er enginn átti í að búa
og ákveðið var, að verða skyldu að rústum.
29 Hann verður ekki ríkur, og eigur hans haldast ekki við,
og kornöx hans svigna ekki til jarðar.
30 Hann kemst eigi undan myrkrinu,
frjóanga hans mun loginn svíða,
og fyrir reiðiblæstri hans ferst hann.
31 Hann skyldi ekki reiða sig á hégóma; hann villist,
því að hégómi verður umbun hans.
32 Það rætist fyrir skapadægur hans,
og pálmagrein hans grænkar eigi.
33 Hann hristir af sér súr berin eins og vínviðurinn
og varpar af sér blómunum eins og olíutréð.
34 Því að sveit hinna óguðlegu er ófrjó,
og eldur eyðir tjöldum mútugjafanna.
35 Þeir ganga þungaðir með mæðu og ala ógæfu,
og kviður þeirra undirbýr svik.


Svar Jobs

16
1Þá svaraði Job og sagði:

2 Ég hefi heyrt nóg af slíku,
hvimleiðir huggarar eruð þér allir saman.
3 Er orðavindurinn nú á enda?
eða hvað knýr þig til andsvara?
4 Ég gæti líka talað eins og þér,
ef þér væruð í mínum sporum,
gæti spunnið saman ræður gegn yður
og hrist yfir yður höfuðið,
5 ég gæti styrkt yður með munni mínum,
og meðaumkun vara minna mundi lina þjáning yðar.
6 Þótt ég tali, þá linar ekki kvöl mína,
og gjöri ég það ekki, hvaða létti fæ ég þá?
7 Miklu fremur hefir Guð nú örþreytt mig,
- þú hefir eytt öllu ættliði mínu,
8 hefir hremmt mig, og það er vitni í móti mér.
Sjúkdómur minn rís í gegn mér,
ákærir mig upp í opið geðið.
9 Reiði hans slítur mig sundur og ofsækir mig,
hann nístir tönnum í móti mér,
andstæðingur minn hvessir á mig augun.
10 Þeir glenna upp ginið í móti mér,
löðrunga mig til háðungar,
allir saman gjöra þeir samtök í móti mér.
11 Guð gefur mig á vald ranglátra
og varpar mér í hendur óguðlegra.
12 Ég lifði áhyggjulaus, þá braut hann mig sundur,
hann þreif í hnakkann á mér og molaði mig sundur
og reisti mig upp sér að skotspæni.
13 Skeyti hans fljúga kringum mig,
vægðarlaust sker hann sundur nýru mín,
hellir galli mínu á jörðu.
14 Hann brýtur í mig skarð á skarð ofan
og gjörir áhlaup á mig eins og hetja.
15 Ég hefi saumað sekk um hörund mitt
og stungið horni mínu ofan í moldina.
16 Andlit mitt er þrútið af gráti,
og svartamyrkur hvílir yfir hvörmum mínum,
17 þótt ekkert ranglæti sé í hendi minni
og bæn mín sé hrein.

18 Jörð, hyl þú eigi blóð mitt,
og kvein mitt finni engan hvíldarstað!
19 En sjá, á himnum er vottur minn
og vitni mitt á hæðum.
20 Vinir mínir gjöra gys að mér
- til Guðs lítur auga mitt grátandi,
21 að hann láti manninn ná rétti sínum gagnvart Guði
og skeri úr milli mannsins og vinar hans. 22 Því að senn eru þessi fáu ár á enda, og ég fer burt þá leiðina, sem ég aldrei sný aftur.

17

1 Andi minn er bugaður, dagar
mínir þrotnir,
gröfin bíður mín.
2 Vissulega eru þeir enn að gjöra gys að mér!
Auga mitt verður að horfa upp á móðganir þeirra!
3 Set veð, gakk í ábyrgð fyrir mig hjá þér, Guð,
hver mun annars taka í hönd mér?
4 Því að hjörtum þeirra hefir þú varnað vits,
fyrir því munt þú ekki láta þá sigri hrósa.
5 Hver sem með svikum framselur vini sína að herfangi,
- augu barna hans munu daprast.
6 Hann hefir gjört mig að orðskviði meðal manna,
og ég verð að láta hrækja í andlit mitt.
7 Fyrir því dapraðist auga mitt af harmi,
og limir mínir eru allir orðnir sem skuggi.
8 Réttvísir menn skelfast yfir því,
og hinn saklausi fárast yfir hinum óguðlega.
9 En hinn réttláti heldur fast við sína leið,
og sá sem hefir hreinar hendur, verður enn styrkari.
10 En komið þér allir hingað aftur,
og ég mun ekki finna neinn vitran mann meðal yðar.

11 Dagar mínir eru liðnir, fyrirætlanir mínar sundurtættar,
- hin dýrasta eign hjarta míns.
12 Nóttina gjöra þeir að degi,
ljósið á að vera nær mér en myrkrið.
13 Þegar ég vonast eftir að dánarheimar verði híbýli mitt,
bý mér hvílu í myrkrinu,
14 þegar ég kalla gröfina "föður minn",
ormana "móður mína og systur" -
15 hvar er þá von mín,
já, von mín - hver eygir hana?
16 Að slagbröndum Heljar stígur hún niður,
þá er ég um leið fæ hvíld í moldu.


Bildad flytur kenningu um örlög hins óguðlega

18
1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

2 Hversu lengi ætlið þér að halda áfram þessu orðaskaki?
Látið yður segjast, og því næst skulum vér talast við.
3 Hvers vegna erum vér metnir sem skepnur,
orðnir heimskir í yðar augum?
4 Þú, sem tætir sjálfan þig sundur í reiði þinni,
- á jörðin þín vegna að fara í auðn
og bjargið að færast úr stað sínum?

5 Ljós hins óguðlega slokknar,
og logi elds hans skín ekki.
6 Ljósið myrkvast í tjaldi hans,
og það slokknar á lampanum yfir honum.
7 Hans öflugu skref verða stutt,
og ráðagjörð sjálfs hans steypir honum,
8 því að hann rekst í netið með fætur sína,
og hann gengur í möskvunum.
9 Möskvi festist um hæl hans,
lykkjan herðist að honum.
10 Snaran liggur falin á jörðinni,
og gildran liggur fyrir honum á stígnum.
11 Skelfingar hræða hann allt um kring
og hrekja hann áfram, hvar sem hann gengur.
12 Ógæfu hans tekur að svengja,
og glötunin bíður búin eftir falli hans.
13 Hún tærir húð hans,
og frumburður dauðans etur limu hans.
14 Hann er hrifinn burt úr tjaldi sínu, er hann treysti á,
og það lætur hann ganga til konungs skelfinganna.
15 Í tjaldi hans býr það, sem eigi er hans,
brennisteini er stráð yfir bústað hans.
16 Að neðan þorna rætur hans,
að ofan visna greinar hans.
17 Minning hans hverfur af jörðunni,
og nafn hans er ekki nefnt á völlunum.
18 Menn hrinda honum frá ljósinu út í myrkrið
og reka hann burt af jarðríki.
19 Hann mun hvorki eiga börn né buru meðal þjóðar sinnar,
og enginn, sem undan hefir komist, er í híbýlum hans.
20 Yfir skapadægri hans skelfast eftirkomendurnir,
og hrylling grípur þá, er fyrr voru uppi.
21 Já, svo fer um bústaði hins rangláta
og svo um samastað þess manns, sem eigi þekkir Guð.


Vörn Jobs: Guð réttlætir

19
1 Þá svaraði Job og sagði:

2 Hversu lengi ætlið þér að angra sál mína
og mylja mig sundur með orðum?
3 Þér hafið þegar smánað mig tíu sinnum,
þér skammist yðar ekki fyrir að misþyrma mér.
4 Og hafi mér í raun og veru orðið á,
þá varðar það mig einan.
5 Ef þér í raun og veru ætlið að hrokast upp yfir mig,
þá sannið mér svívirðing mína.
6 Kannist þó við, að Guð hafi hallað rétti mínum
og umkringt mig með neti sínu.
7 Sjá, ég kalla: Ofbeldi! og fæ ekkert svar,
ég kalla á hjálp, en engan rétt er að fá.
8 Guð hefir girt fyrir veg minn, svo að ég kemst ekki áfram,
og stigu mína hylur hann myrkri.
9 Heiðri mínum hefir hann afklætt mig
og tekið kórónuna af höfði mér.
10 Hann brýtur mig niður á allar hliðar, svo að ég fari burt,
og slítur upp von mína eins og tré.
11 Hann lætur reiði sína bálast gegn mér
og telur mig óvin sinn.
12 Skarar hans koma allir saman
og leggja braut sína gegn mér
og setja herbúðir sínar kringum tjald mitt.
13 Bræður mína hefir hann gjört mér fráhverfa,
og vinir mínir vilja eigi framar við mér líta.
14 Skyldmenni mín láta ekki sjá sig,
og kunningjar mínir hafa gleymt mér.
15 Skjólstæðingar húss míns og þernur mínar álíta mig aðkomumann,
og ég er orðinn útlendingur í augum þeirra.
16 Kalli ég á þjón minn, svarar hann ekki,
ég verð að sárbæna hann með munni mínum.
17 Andi minn er konu minni framandlegur,
og bræður mínir forðast mig.
18 Jafnvel börnin fyrirlíta mig,
standi ég upp, spotta þau mig.
19 Alla mína alúðarvini stuggar við mér,
og þeir sem ég elskaði, hafa snúist á móti mér.
20 Bein mín límast við hörund mitt og hold,
og ég hefi sloppið með tannholdið eitt.
21 Aumkið mig, aumkið mig, vinir mínir,
því að hönd Guðs hefir lostið mig.
22 Hví ofsækið þér mig eins og Guð
og verðið eigi saddir á holdi mínu?

23 Ó að orð mín væru skrifuð upp,
ó að þau væru skráð í bók
24 með járnstíl og blýi,
að eilífu höggvin í klett!
25 Ég veit, að lausnari minn lifir,
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
26 Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.
27 Ég mun líta hann mér til góðs,
já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing,
- hjartað brennur af þrá í brjósti mér!
28 Þegar þér segið: "Vér skulum ofsækja hann,
rót ógæfunnar er hjá honum sjálfum að finna!"
29 þá hræðist ógn sverðsins,
því að sverðið er refsing syndar.
Þá munuð þér komast að raun um, að til er dómur.


Sófar: Guð er réttlátur er hann refsar

20
1 Þá svaraði Sófar frá Naama og sagði:

2 Fyrir því veita hugsanir mínar mér andsvör
og af því að það sýður í mér:
3 Ég verð að hlusta á háðulegar ávítur,
en andi minn gefur mér skilning að svara.
4 Veist þú, að svo hefir það verið frá eilífð,
frá því er menn voru settir á jörðina,
5 að fögnuður óguðlegra er skammær
og að gleði hins guðlausa varir örskotsstund?
6 Þó að sjálfbirgingskapur hans nemi við himin
og höfuð hans nái upp í skýin,
7 þá verður hann þó eilíflega að engu eins og hans eigin saur,
þeir, sem sáu hann, segja: Hvar er hann?
8 Hann líður burt eins og draumur, svo að hann finnst ekki,
og hverfur eins og nætursýn.
9 Augað, sem á hann horfði, sér hann eigi aftur,
og bústaður hans lítur hann aldrei framar.
10 Börn hans sníkja á snauða menn,
og hendur þeirra skila aftur eigum hans.
11 Þótt bein hans séu full af æskuþrótti,
leggjast þau samt með honum í moldu.

12 Þótt hið illa sé honum sætt í munni,
þótt hann feli það undir tungu sinni,
13 þótt hann treini sér það og vilji ekki sleppa því
og haldi því eftir í miðjum gómnum,
14 þá breytist þó fæðan í innýflum hans,
- í nöðrugall í kviði honum.
15 Auð gleypti hann - hann verður að æla honum aftur,
Guð keyrir hann úr kviði hans.
16 Nöðrueitur saug hann,
tunga eiturormsins deyðir hann.
17 Hann má ekki gleðjast yfir lækjum,
yfir rennandi ám hunangs og rjóma.
18 Hann lætur af hendi aflaféð og gleypir það eigi,
auðurinn sem hann græddi, veitir honum eigi eftirvænta gleði.
19 Því að hann kúgaði snauða og lét þá eftir hjálparlausa,
sölsaði undir sig hús, en byggði ekki.
20 Því að hann þekkti enga ró í maga sínum,
þó fær hann eigi forðað því, sem honum er dýrmætast.
21 Ekkert komst undan græðgi hans,
fyrir því er velsæld hans eigi varanleg.
22 Þótt hann hafi allsnægtir, kemst hann í nauðir,
allt magn mæðunnar kemur yfir hann.
23 Þá verður það: Til þess að fylla kvið hans
sendir Guð í hann sína brennandi reiði
og lætur mat sínum rigna yfir hann.
24 Flýi hann fyrir járnvopnunum,
þá borar eirboginn hann í gegn.
25 Hann dregur örina út, þá kemur hún út um bakið,
og hinn blikandi oddur kemur út úr galli hans
- skelfing grípur hann.
26 Allur ófarnaður er geymdur auðæfum hans,
eldur, sem enginn blæs að, eyðir honum,
hann etur það, sem eftir er í tjaldi hans.
27 Himinninn afhjúpar misgjörð hans,
og jörðin gjörir uppreisn í móti honum.
28 Gróði húss hans fer í útlegð,
rennur burt í allar áttir á degi reiðinnar.

29 Þetta er óguðlegs manns hlutskipti frá Guði
og arfleifð sú, sem honum er úthlutuð af hinum Almáttka.


Andmæli Jobs: Líf óguðlegra lánast

21
1 Þá svaraði Job og sagði:

2 Hlustið gaumgæfilega á mál mitt,
og látið það vera huggun af yðar hendi.
3 Unnið mér þess, að ég tali,
og þegar ég hefi talað út, þá mátt þú hæða.
4 Er ég þá að kvarta yfir mönnum?
eða hví skyldi ég ekki vera óþolinmóður?
5 Lítið til mín og undrist
og leggið hönd á munn!
6 Já, þegar ég hugsa um það, skelfist ég,
og hryllingur fer um mig allan.

7 Hvers vegna lifa hinir óguðlegu,
verða gamlir, já, magnast að krafti?
8 Niðjar þeirra dafna fyrir augliti þeirra hjá þeim
og afsprengi þeirra fyrir augum þeirra.
9 Hús þeirra eru óhult og óttalaus,
og hirtingarvöndur Guðs kemur ekki niður á þeim.
10 Boli þeirra kelfir og kemur að gagni,
kýr þeirra ber og lætur ekki kálfi.
11 Þeir hleypa út börnum sínum eins og lambahjörð,
og smásveinar þeirra hoppa og leika sér.
12 Þeir syngja hátt undir með bumbum og gígjum
og gleðjast við hljóm hjarðpípunnar.
13 Þeir eyða dögum sínum í velgengni
og fara til Heljar í friði,
14 og þó sögðu þeir við Guð: "Vík frá oss
- að þekkja þína vegu girnumst vér eigi.
15 Hvað er hinn Almáttki, að vér skyldum dýrka hann,
og hvað skyldi það stoða oss að leita hans í bæn?"
16 Sjá, gæfa þeirra er ekki á þeirra valdi,
- ráðlag óguðlegra er fjarri mér.

17 Hversu oft slokknar þá á lampa hinna óguðlegu,
og hversu oft kemur ógæfa þeirra yfir þá?
Hversu oft deilir Guð þeim hlutskiptum í reiði sinni?
18 Hversu oft verða þeir sem strá fyrir vindi
og sem sáðir, er stormurinn feykir burt?
19 "Guð geymir börnum hans óhamingju hans."
Endurgjaldi hann honum sjálfum, svo að hann fái að kenna á því!
20 Sjái augu sjálfs hans glötun hans,
og drekki hann sjálfur af reiði hins Almáttka!
21 Því að hvað hirðir hann um hús sitt eftir dauðann,
þegar tala mánaða hans er fullnuð?
22 Ætla menn að kenna Guði visku
eða dæma hinn hæsta?
23 Einn deyr í mestu velgengni,
fullkomlega áhyggjulaus og ánægður,
24 trog hans eru full af mjólk,
og mergurinn í beinum hans er safamikill.
25 Og annar deyr með beiskju í huga
og hefir aldrei notið hamingjunnar.
26 Þeir hvíla báðir í duftinu,
og maðkarnir hylja þá.

27 Sjá, ég þekki hugsanir yðar
og fyrirætlanir, að beita mig ofbeldi.
28 Þegar þér segið: "Hvar er hús harðstjórans
og hvar er tjaldið, sem hinir óguðlegu bjuggu í?"
29 hafið þér þá ekki spurt vegfarendur,
- og sönnunum þeirra munuð þér ekki hafna -
30 að á degi glötunarinnar er hinum vonda þyrmt,
á reiðinnar degi er þeim skotið undan.
31 Hver setur honum breytni hans fyrir sjónir?
Og þegar hann gjörir eitthvað, hver endurgeldur honum?
32 Og til grafar er hann borinn
og vakað er yfir legstaðnum.
33 Moldarhnausar dalsins liggja mjúklega ofan á honum,
og eftir honum flykkjast allir menn,
eins og óteljandi eru á undan honum farnir.
34 Og hvernig megið þér þá hugga mig með hégóma,
og andsvör yðar - sviksemin ein er eftir!Þriðji ræðukafli


Ræða Elífasar: Játaðu syndir þínar

22
1Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:

2 Vinnur maðurinn Guði gagn?
Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn.
3 Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur,
eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi?
4 Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér,
að hann dregur þig fyrir dóm?
5 Er ekki vonska þín mikil
og misgjörðir þínar óþrjótandi?
6 Því að þú tókst veð af bræðrum þínum að ástæðulausu
og færðir fáklædda menn úr flíkum þeirra.
7 Þú gafst ekki hinum örmagna vatn að drekka,
og hinum hungraða synjaðir þú brauðs.
8 En hinn voldugi átti landið,
og virðingarmaðurinn bjó í því.
9 Ekkjur lést þú fara burt tómhentar,
og armleggir munaðarleysingjanna voru brotnir sundur.
10 Fyrir því eru snörur allt í kringum þig,
og fyrir því skelfir ótti þig skyndilega!
11 Eða sér þú ekki myrkrið
og vatnaflauminn, sem hylur þig?

12 Er ekki Guð himinhár?
og lít þú á hvirfil stjarnanna, hve hátt þær gnæfa!
13 Og þú segir: "Hvað veit Guð?
Getur hann dæmt gegnum skýsortann?
14 Skýin skyggja á hann, svo að hann sér ekki,
og hann gengur á himinhvelfingunni."
15 Ætlar þú að halda fortíðar leið,
þá er ranglátir menn hafa farið?
16 Þeir er kippt var burt fyrir tímann
og grundvöllur þeirra skolaðist burt sem straumur,
17 þeir er sögðu við Guð: "Vík frá oss!
og hvað gæti hinn Almáttki gjört fyrir oss?"
18 og það þó hann fyllti hús þeirra blessun.
- Hugarfar óguðlegra sé fjarri mér!
19 Hinir réttlátu sjá það og gleðjast,
og hinn saklausi gjörir gys að þeim:
20 "Vissulega er andstæðingur vor að engu orðinn,
og eldurinn hefir eytt leifum þeirra."

21 Vingast þú við Guð, þá muntu vera í friði,
við það mun blessun yfir þig koma.
22 Tak á móti kenning af munni hans,
og fest þér orð hans í hjarta.
23 Ef þú snýr þér til hins Almáttka, auðmýkir þig,
ef þú rekur ranglætið langt burt frá tjaldi þínu -
24 já, varpaðu gullinu í duftið
og skíragullinu ofan í lækjamölina! -
25 þá skal hinn Almáttki vera gull þitt,
vera þér hið skærasta silfur.
26 Já, þá munt þú hafa yndi af hinum Almáttka
og lyfta augliti þínu til Guðs.
27 Biðjir þú til hans, bænheyrir hann þig,
og heit þín munt þú greiða.
28 Og áformir þú eitthvað, mun þér heppnast það,
og birta skína yfir vegu þína.
29 Þegar þeir liggja niður á við, þá kallar þú "Upp á við!" og
hinum auðmjúka hjálpar hann.
30 Hann bjargar jafnvel þeim, sem ekki er saklaus,
já, hann bjargast fyrir hreinleik handa þinna.


Svar Jobs: Ég er saklaus

23
1 Þá svaraði Job og sagði:

2 Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn,
hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.
3 Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann,
hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!
4 Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum
og fylla munn minn sönnunum.
5 Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér,
og heyra hvað hann segði við mig.
6 Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns?
Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.
7 Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann,
og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.

8 En fari ég í austur, þá er hann þar ekki,
og í vestur, þar verð ég hans eigi var.
9 Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki,
og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann.
10 En hann veit, hvernig breytni mín hefir verið,
ef hann prófaði mig, mundi ég reynast sem gull.
11 Fótur minn hefir þrætt spor hans,
ég hefi haldið veg hans og eigi hneigt af leið.
12 Frá skipun vara hans hefi ég ekki vikið,
hefi varðveitt í brjósti mér orð munns hans.

13 En hann er samur við sig - hver aftrar honum?
Ef hann girnist eitthvað, gjörir hann það.
14 Já, hann framkvæmir það, er hann hefir ætlað mér,
og mörgu slíku býr hann yfir.
15 Þess vegna skelfist ég auglit hans.
Hugleiði ég það, hræðist ég hann.
16 Já, Guð hefir gjört mig hugdeigan,
og hinn Almáttki skotið mér skelk í bringu.
17 Því að það er ekki vegna ógæfunnar, að ég stend örþrota,
né vegna sjálfs mín, þótt niðdimman hylji mig.

24

1 Hvers vegna eru ekki hegningartímar geymdir af hinum Almáttka,
2 og hví sjá þeir ekki daga hans, sem á hann trúa?
Menn færa landamerki úr stað,
ræna hjörðum og halda þeim á beit.
3 Asna munaðarleysingjanna reka menn burt
og taka uxa ekkjunnar að veði.
4 Þeir hrinda hinum fátæku út af veginum,
hinir bágstöddu í landinu verða allir að fela sig.
5 Já, sem skógarasnar á öræfum
ganga þeir út til starfa sinna, leitandi að fæðu,
eyðimörkin veitir þeim brauð handa börnunum.
6 Á akrinum uppskera þeir fóður sitt
og fara í eftirleit í víngarði hins óguðlega.
7 Naktir liggja þeir um nætur, klæðlausir,
og hafa enga ábreiðu í kuldanum.
8 Þeir eru gagndrepa af fjallaskúrunum,
og hælislausir faðma þeir klettinn.
9 Menn slíta föðurleysingjana af brjóstinu
og taka veð af hinum bágstöddu.
10 Naktir ganga þeir, klæðlausir,
og hungraðir bera þeir kornbundin.
11 Í olífugörðum annarra pressa þeir olíu,
troða vínlagarþrór og kveljast af þorsta.
12 Úr borgunum heyrast stunur deyjandi manna,
sálir hinna drepnu hrópa á hefnd,
en Guð gefur ekki gaum að óhæfunni.

13 Slíkir menn eru ljósfjendur orðnir,
þeir þekkja ekki vegu hans
og halda sig ekki á stigum hans.
14 Með morgunsárinu fer morðinginn á fætur
og drepur hinn volaða og snauða,
og á nóttunni læðist þjófurinn.
15 Og auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu,
og hann segir: "Ekkert auga sér mig,"
og dregur skýlu fyrir andlitið.
16 Í myrkrinu brjótast þeir inn í hús,
á daginn loka þeir sig inni,
þeir þekkja ekki ljósið.
17 Því að öllum er þeim niðamyrkrið morgunn,
því að þeir eru nákunnugir skelfingum niðamyrkursins.

18 Fljótt berst hann burt með straumnum,
bölvaður verður erfðahluti hans í landinu,
hann snýr eigi framar á leið til víngarðanna.
19 Þurrkur og hiti hrífa snjóvatnið burt,
Hel þann, er svo hefir syndgað.
20 Móðurskautið gleymir honum,
ormarnir gæða sér á honum.
Hans er eigi framar minnst,
og ranglætið verður brotið sundur eins og tré,
21 hann sem rændi óbyrjuna, er ekki fæddi,
og enga velgjörð sýndi ekkjunni.
22 En Guð heldur samt hinum volduga við með mætti sínum,
slíkur maður rís aftur upp, þótt hann væri tekinn að örvænta um lífið.
23 Guð veitir honum að lifa óhultur, og hann er studdur,
og augu hans vaka yfir vegum hans.
24 Hátt standa þeir, en eftir stundarkorn eru þeir horfnir.
Þeir hníga, þeir eru hrifnir burt eins og allir aðrir
og sviðnir af eins og höfuð kornaxins.
25 Og ef það er eigi svo, - hver vill þá sanna, að ég sé lygari,
og gjöra ræðu mína að engu?


Þriðja ræða Bildads

25
1 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

2 Hans er drottinvald og ótti,
hans sem lætur frið ríkja í hæðum sínum.
3 Verður tölu komið á hersveitir hans,
og yfir hverjum rennur ekki upp ljós hans?
4 Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði,
og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur?
5 Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart,
og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans,
6 hvað þá maðurinn, maðkurinn,
og mannssonurinn, ormurinn!


Job hæðir Bildad og lofar Guð

26
1 Þá svaraði Job og sagði:

2 En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa,
stutt hinn máttvana armlegg!
3 En hvað þú hefir ráðið hinum óvitra
og kunngjört mikla speki!
4 Fyrir hverjum hefir þú flutt ræðu þína,
og hvers andi var það, sem gekk fram úr þér?
5 Andar hinna framliðnu í undirdjúpunum skelfast
ásamt vötnunum og íbúum þeirra.
6 Naktir liggja undirheimar fyrir Guði
og undirdjúpin skýlulaus.
7 Hann þenur norðrið út yfir auðninni
og lætur jörðina svífa í tómum geimnum,
8 hann bindur vatnið saman í skýjum sínum,
og þó brestur skýflókinn ekki undir því,
9 hann byrgir fyrir ásjónu hásætis síns
með því að breiða ský sitt yfir hana.
10 Marklínu hefir hann dregið hringinn í kring á haffletinum,
þar sem mætast ljós og myrkur.
11 Stoðir himinsins nötra
og hræðast ógnun hans.
12 Með mætti sínum æsir hann hafið,
og með hyggindum sínum sundurmolar hann hafdrekann.
13 Fyrir andgusti hans verður himinninn heiður,
hönd hans leggur í gegn hinn flughraða dreka.
14 Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans,
og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum!
En þrumu máttarverka hans - hver skilur hana?


Lokaræða Jobs um réttlæti hans

27
1 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

2 Svo sannarlega sem Guð lifir, sá er svipt hefir mig rétti mínum,
og hinn Almáttki, er hryggt hefir sálu mína:
3 meðan lífsönd er í mér
og andi Guðs í nösum mínum,
4 skulu varir mínar ekki tala ranglæti
og tunga mín ekki mæla svik.
5 Fjarri sé mér að játa, að þér hafið rétt að mæla.
Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.
6 Ég held fast í réttlæti mitt og sleppi því ekki,
hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn daga minna.
7 Fyrir óvini mínum fari eins og hinum óguðlega
og fyrir mótstöðumanni mínum eins og hinum rangláta.
8 Því að hvaða von hefir guðlaus maður, þegar skorið er á þráðinn,
þá er Guð hrífur burt líf hans?
9 Ætli Guð heyri óp hans,
þá er neyð kemur yfir hann?
10 Eða getur hann haft yndi af hinum Almáttka,
hrópað til Guðs, hvenær sem vera skal?

11 Ég vil fræða yður um hönd Guðs,
eigi leyna því, er hinn Almáttki hefir í hyggju.
12 Sjá, þér hafið allir séð það sjálfir,
hví farið þér þá með slíka heimsku?
13 Þetta er hlutskipti óguðlegs manns hjá Guði,
arfleifð ofbeldismanns, sú er hann fær frá hinum Almáttka:
14 Eignist hann mörg börn, þá er það handa sverðinu,
og afkvæmi hans mettast eigi af brauði.
15 Þeir af fólki hans er af komast, verða jarðaðir af drepsóttinni,
og ekkjur þeirra halda engan harmagrát.
16 Þegar hann hrúgar saman silfri eins og sandi
og hleður saman klæðum sem leir,
17 þá hleður hann þeim saman, en hinn réttláti klæðist þeim,
og silfrinu deilir hinn saklausi.
18 Hann hefir byggt hús sitt eins og köngulló
og svo sem skála, er varðmaður reisir sér.
19 Ríkur leggst hann til hvíldar - hann gjörir það eigi oftar,
hann lýkur upp augunum, og þá er allt farið.
20 Skelfingar ná honum eins og vatnaflaumur,
um nótt hrífur stormurinn hann burt.
21 Austanvindurinn hefur hann á loft, svo að hann þýtur áfram,
og feykir honum burt af stað hans.
22 Vægðarlaust sendir hann skeyti sín á hann,
fyrir hendi hans flýr hann í skyndi -
23 þá skella menn saman lófum yfir honum
og blístra hann burt frá bústað hans.


Kvæði um spekina

28

1 Að sönnu á silfrið upptökustað
og gullið, sem menn hreinsa, fundarstað.
2 Járn er tekið úr jörðu,
og steinn er bræddur að eiri.
3 Maðurinn hefir gjört enda á myrkrinu,
og til ystu takmarka rannsakar hann
steinana, sem faldir eru í kolniðamyrkri.
4 Hann brýtur námugöng fjarri þeim, sem í dagsbirtunni búa,
gleymdur mannafótum,
fjarlægur mönnum hangir hann, svífur hann.
5 Upp úr jörðinni sprettur brauð,
en niðri í henni er öllu umturnað eins og af eldi.
6 Safírinn finnst í grjóti jarðarinnar,
og gullkorn fær sá er grefur.
7 Örninn þekkir eigi veginn þangað,
og valsaugað sér hann ekki,
8 hin drembnu rándýr ganga hann eigi,
ekkert ljón fer hann.
9 Á tinnusteinana leggur maðurinn hönd sína,
umturnar fjöllunum frá rótum.
10 Hann heggur göng í björgin,
og auga hans sér alls konar dýrindi.
11 Hann bindur fyrir vatnsæðarnar, til þess að þær tárist ekki,
og leiðir leynda hluti fram í dagsbirtuna.

12 En spekin, hvar er hana að finna,
og hvar á viskan heima?
13 Enginn maður þekkir veginn til hennar,
og hana er ekki að finna á landi lifenda.
14 Undirdjúpið segir: "Í mér er hún ekki!"
og hafið segir: "Ekki er hún hjá mér!"
15 Hún fæst ekki fyrir skíragull,
og ekki verður silfur reitt sem andvirði hennar.
16 Eigi verður hún Ófírgulli goldin
né dýrum sjóam- og safírsteinum.
17 Gull og gler kemst ekki til jafns við hana,
og hún fæst ekki í skiptum fyrir ker af skíragulli.
18 Kóralla og krystalla er ekki að nefna,
og að eiga spekina er meira um vert en perlur.
19 Tópasar Blálands komast ekki til jafns við hana,
hún verður ekki goldin með hreinasta gulli.

20 Já spekin, hvaðan kemur hún,
og hvar á viskan heima?
21 Hún er falin augum allra þeirra er lifa,
og fuglum loftsins er hún hulin.
22 Undirdjúpin og dauðinn segja:
"Með eyrum vorum höfum vér heyrt hennar getið."

23 Guð veit veginn til hennar,
og hann þekkir heimkynni hennar.
24 Því að hann sér til endimarka jarðar,
lítur allt, sem undir himninum er.
25 Þá er hann ákvað þunga vindarins
og ákvarðaði takmörk vatnsins,
26 þá er hann setti regninu lög
og veg eldingunum,
27 þá sá hann hana og kunngjörði hana,
fékk henni stað og rannsakaði hana einnig.
28 Og við manninn sagði hann:
"Sjá, að óttast Drottin - það er speki,
og að forðast illt - það er viska."


Job ræðir um hið liðna

29
1 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

2 Ó að mér liði eins og forðum daga,
eins og þá er Guð varðveitti mig,
3 þá er lampi hans skein yfir höfði mér,
og ég gekk við ljós hans í myrkrinu,
4 eins og þá er ég var á sumri ævi minnar,
þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu,
5 þá er hinn Almáttki var enn með mér
og börn mín hringinn í kringum mig,
6 þá er ég óð í rjóma,
og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér,
7 þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina,
bjó mér sæti á torginu.
8 Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig,
og öldungarnir risu úr sæti og stóðu.
9 Höfðingjarnir hættu að tala
og lögðu hönd á munn sér.
10 Rödd tignarmannanna þagnaði,
og tunga þeirra loddi við góminn.
11 Því að ef eyra heyrði, taldi það mig sælan,
og ef auga sá, bar það mér vitni.
12 Því að ég bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp,
og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu.
13 Blessunarósk aumingjans kom yfir mig,
og hjarta ekkjunnar fyllti ég fögnuði.
14 Ég íklæddist réttlætinu, og það íklæddist mér,
ráðvendni mín var mér sem skikkja og vefjarhöttur.
15 Ég var auga hins blinda
og fótur hins halta.
16 Ég var faðir hinna snauðu,
og málefni þess, sem ég eigi þekkti, rannsakaði ég.
17 Ég braut jaxlana í hinum rangláta
og reif bráðina úr tönnum hans.
18 Þá hugsaði ég: "Í hreiðri mínu mun ég gefa upp andann
og lifa langa ævi, eins og Fönix-fuglinn.
19 Rót mín er opin fyrir vatninu,
og döggin hefir náttstað á greinum mínum.
20 Heiður minn er æ nýr hjá mér,
og bogi minn yngist upp í hendi minni."
21 Þeir hlustuðu á mig og biðu
og hlýddu þegjandi á tillögu mína.
22 Þá er ég hafði talað, tóku þeir eigi aftur til máls,
og ræða mín draup niður á þá.
23 Þeir biðu mín eins og regns,
og opnuðu munn sinn, eins og von væri á vorskúr.
24 Ég brosti til þeirra, þegar þeim féllst hugur,
og ljós auglitis míns gjörðu þeir aldrei dapurt.
25 Fús lagði ég leið til þeirra og sat þar efstur,
sat þar sem konungur umkringdur af hersveit sinni,
eins og huggari harmþrunginna.


Job lýsir breyttum hag

30

1 En nú hlæja þeir að mér, sem yngri eru en ég,
mundi ég þó ekki hafa virt feður þeirra þess
að setja þá hjá fjárhundum mínum.
2 Hvað hefði og kraftur handa þeirra stoðað mig,
þar sem þeir aldrei verða fullþroska?
3 Þeir eru örmagna af skorti og hungri,
naga þurrt landið, sem í gær var auðn og eyðimörk.
4 Þeir reyta hrímblöðku hjá runnunum,
og gýfilrætur er fæða þeirra.
5 Þeir eru flæmdir úr félagi manna,
menn æpa að þeim eins og að þjóf,
6 svo að þeir verða að hafast við í hræðilegum gjám,
í jarðholum og berghellum.
7 Milli runnanna rymja þeir,
og undir netlunum safnast þeir saman,
8 guðlaust og ærulaust kyn,
útreknir úr landinu.
9 Og nú er ég orðinn þeim að háðkvæði
og orðinn umtalsefni þeirra.
10 Þeir hafa andstyggð á mér, koma ekki nærri mér
og hlífast jafnvel ekki við að hrækja framan í mig.
11 Þar sem Guð hefir leyst streng sinn og beygt mig,
þá sleppa þeir og beislinu fram af sér gagnvart mér.
12 Mér til hægri handar vex hyski þeirra upp,
fótum mínum hrinda þeir frá sér
og leggja glötunarbrautir sínar gegn mér.
13 Þeir hafa rifið upp stig minn,
að falli mínu styðja þeir, sem engan hjálparmann eiga.
14 Þeir koma sem inn um vítt múrskarð,
velta sér áfram innan um rústir.
15 Skelfingar hafa snúist móti mér,
tign mín er ofsótt eins og af stormi,
og gæfa mín er horfin eins og ský.
16 Og nú rennur sála mín sundur í tárum,
eymdardagar halda mér föstum.
17 Nóttin nístir bein mín, svo að þau losna frá mér,
og hinar nagandi kvalir mínar hvílast ekki.
18 Fyrir mikilleik máttar hans er klæðnaður minn aflagaður,
hann lykur fast um mig, eins og hálsmál kyrtils míns.
19 Guð hefir kastað mér ofan í saurinn,
svo að ég er orðinn eins og mold og aska.
20 Ég hrópa til þín, en þú svarar ekki,
ég stend þarna, en þú starir á mig.
21 Þú ert orðinn grimmur við mig,
með krafti handar þinnar ofsækir þú mig.
22 Þú lyftir mér upp á vindinn, lætur mig þeytast áfram,
og þú lætur mig farast í stormgný.
23 Því að ég veit, að þú vilt leiða mig til Heljar,
í samkomustað allra þeirra er lifa.
24 En - rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur?
eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast?
25 Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga,
og hryggðist ekki sál mín vegna fátæklingsins?
26 Já, ég bjóst við góðu, en þá kom illt,
vænti ljóss, en þá kom myrkur.
27 Það sýður í innýflum mínum án afláts,
eymdardagar eru yfir mig komnir.
28 Svartur geng ég um, þó ekki af sólarhita,
ég stend upp, í söfnuðinum hrópa ég á hjálp.
29 Ég er orðinn bróðir sjakalanna
og félagi strútsfuglanna.
30 Hörund mitt er orðið svart og flagnar af mér,
og bein mín eru brunnin af hita.
31 Og fyrir því varð gígja mín að gráti
og hjarðpípa mín að harmakveini.


Job höfðar til réttlætis Guðs

31

1 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín;
hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?
2 Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan
og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum?
3 Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn
og ógæfa fyrir þá, er illt fremja?
4 Sér hann ekki vegu mína,
og telur hann ekki öll mín spor?

5 Hafi ég gengið með lyginni
og fótur minn hraðað sér til svika -
6 vegi Guð mig á rétta vog,
til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! -
7 hafi spor mín vikið af leið,
hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna
og flekkur loðað við hendur mínar,
8 þá eti annar það, sem ég sái,
og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum.

9 Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu,
og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns,
10 þá mali kona mín fyrir annan,
og aðrir menn leggist með henni.
11 Því að slíkt væri óhæfa
og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir,
12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin
og hlyti að uppræta allar eigur mínar.

13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar,
þá er þau áttu í deilu við mig,
14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp,
og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði?
15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi,
og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði?

16 Hafi ég synjað fátækum bónar
og látið augu ekkjunnar daprast,
17 hafi ég etið bitann minn einn;
og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum -
18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður
og frá móðurlífi hefi ég leitt hann -
19 hafi ég séð aumingja klæðlausan
og snauðan mann ábreiðulausan,
20 hafi lendar hans ekki blessað mig
og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum;
21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum,
af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu,
22 þá detti axlir mínar frá herðunum
og handleggur minn brotni úr axlarliðnum.
23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg,
og gegn hátign hans megna ég ekkert.

24 Hafi ég gjört gullið að athvarfi mínu
og nefnt skíragullið fulltrúa minn,
25 hafi ég glaðst yfir því, að auður minn var mikill
og að hönd mín aflaði svo ríkulega,
26 hafi ég horft á sólina, hversu hún skein,
og á tunglið, hversu dýrlega það óð áfram,
27 og hafi hjarta mitt þá látið tælast í leynum,
svo að ég bæri hönd að munni og kyssti hana,
28 það hefði líka verið hegningarverð synd,
því að þá hefði ég afneitað Guði á hæðum.

29 Hafi ég glaðst yfir óförum fjandmanns míns
og hlakkað yfir því, að ógæfa kom yfir hann -
30 nei, aldrei hefi ég leyft munni mínum svo að syndga
að ég með formælingum óskaði dauða hans.
31 Hafa ekki heimilismenn mínir sagt:
"Hvenær hefir nokkur farið ósaddur frá borði hans?"
32 ég lét ekki aðkomumann nátta á bersvæði,
heldur opnaði ég dyr mínar fyrir ferðamanninum.
33 Hafi ég hulið yfirsjónir mínar, eins og menn gjöra,
og falið misgjörð mína í brjósti mínu,
34 af því að ég hræddist mannfjöldann,
og af því að fyrirlitning ættanna fældi mig,
svo að ég hafði hægt um mig og fór ekki út fyrir dyr,
38 hafi akurland mitt hrópað undan mér
og öll plógför þess grátið,
39 hafi ég etið gróður þess endurgjaldslaust
og slökkt líf eiganda þess,
40 þá spretti þyrnar upp í stað hveitis
og illgresi í stað byggs.

35 Ó að ég hefði þann, er hlusta vildi á mig!
Hér er undirskrift mín - hinn Almáttki svari mér!
Sá sem mig ákærir, skrifi sitt ákæruskjal!
36 Vissulega skyldi ég bera það á öxlinni,
binda það sem höfuðsveig um ennið,
37 ég skyldi segja Guði frá hverju spori mínu
og ganga sem höfðingi fram fyrir hann!

Hér enda ræður Jobs.Ræður Elíhú


Elíhú kemur til sögunnar

32
1Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur. 2Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði. 3Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa. 4En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann. 5En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.


Fyrsta ræða

6 Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði:

Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar,
þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því
að kunngjöra yður það, sem ég veit.
7 Ég hugsaði: Aldurinn tali,
og árafjöldinn kunngjöri speki!
8 En - það er andinn í manninum
og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.
9 Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir,
og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.
10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig,
nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.
11 Sjá, ég beið eftir ræðum yðar,
hlustaði á röksemdir yðar,
uns þér fynduð orðin, sem við ættu.
12 Og að yður gaf ég gaum,
en sjá, enginn sannfærði Job,
enginn yðar hrakti orð hans.
13 Segið ekki: "Vér höfum hitt fyrir speki,
Guð einn fær sigrað hann, en enginn maður!"
14 Gegn mér hefir hann ekki sett fram neinar sannanir,
og með yðar orðum ætla ég ekki að svara honum.

15 Þeir eru skelkaðir, svara eigi framar,
þeir standa uppi orðlausir.
16 Og ætti ég að bíða, þar sem þeir þegja,
þar sem þeir standa og svara eigi framar?
17 Ég vil og svara af minni hálfu,
ég vil og kunngjöra það, sem ég veit.
18 Því að ég er fullur af orðum,
andinn í brjósti mínu knýr mig.
19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás,
ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.
20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér,
ætla að opna varir mínar og svara.
21 Ég ætla ekki að draga taum neins,
og ég ætla engan að skjalla.
22 Því að ég kann ekki að skjalla,
ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.

33
1 En heyr þú, Job, ræðu mína,

og hlýð þú á öll orð mín.
2 Sjá, ég opna munn minn,
og tunga mín talar í gómi mínum.
3 Orð mín eru hjartans hreinskilni,
og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni.
4 Andi Guðs hefir skapað mig,
og andblástur hins Almáttka gefur mér líf.
5 Ef þú getur, þá svara þú mér,
bú þig út í móti mér og gakk fram.
6 Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði,
ég er og myndaður af leiri.
7 Sjá, hræðsla við mig þarf eigi að skelfa þig
og þungi minn eigi þrýsta þér niður.
8 En þú hefir sagt í eyru mér,
og ég heyrði hljóm orðanna:
9 "Hreinn er ég, laus við afbrot,
saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð.
10 En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig
og ætlar að ég sé óvinur hans.
11 Hann setur fætur mína í stokk
og aðgætir alla vegu mína."

12 Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér, svara ég þér,
því að Guð er meiri en maður.
13 Hví hefir þú þráttað við hann,
að hann svaraði engu öllum orðum þínum?
14 Því að vissulega talar Guð einu sinni,
já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum.
15 Í draumi, í nætursýn,
þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina,
í blundi á hvílubeði,
16 opnar hann eyru mannanna
og innsiglar viðvörunina til þeirra
17 til þess að fá manninn til þess að láta af gjörðum sínum
og forða manninum við drambsemi.
18 Hann hlífir sálu hans við gröfinni
og lífi hans frá því að farast fyrir skotvopni.

19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni,
og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans.
20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu
og sál hans á uppáhaldsfæðunni.
21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt,
og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber,
22 svo að sál hans nálgast gröfina
og líf hans engla dauðans.
23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill,
talsmaður, einn af þúsund
til þess að boða manninum skyldu hans,
24 og miskunni hann sig yfir hann og segi:
"Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina,
ég hefi fundið lausnargjaldið,"
25 þá svellur hold hans af æskuþrótti,
hann snýr aftur til æskudaga sinna.
26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum,
lætur hann líta auglit sitt með fögnuði
og veitir manninum aftur réttlæti hans.
27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir:
"Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið,
og þó var mér ekki goldið líku líkt.
28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina,
og líf mitt gleður sig við ljósið."

29 Sjá, allt þetta gjörir Guð
tvisvar eða þrisvar við manninn
30 til þess að hrífa sál hans frá gröfinni,
til þess að lífsins ljós megi leika um hann.
31 Hlýð á, Job, heyr þú mig,
ver þú hljóður og lát mig tala.
32 Hafir þú eitthvað að segja, þá svara mér,
tala þú, því að gjarnan vildi ég, að þú reyndist réttlátur.
32 Ef svo er eigi þá heyr þú mig,
ver hljóður, að ég megi kenna þér speki.


Elíhú ákærir Job

34
1 Og Elíhú tók aftur til máls og sagði:

2 Heyrið, þér vitrir menn, orð mín,
og þér fróðir menn, hlustið á mig.
3 Því að eyrað prófar orðin,
eins og gómurinn smakkar matinn.
4 Vér skulum rannsaka, hvað rétt er,
komast að því hver með öðrum, hvað gott er.
5 Því að Job hefir sagt: "Ég er saklaus,
en Guð hefir svipt mig rétti mínum.
6 Þótt ég hafi rétt fyrir mér, stend ég sem lygari,
banvæn ör hefir hitt mig, þótt ég hafi í engu brotið."
7 Hvaða maður er eins og Job,
sem drekkur guðlast eins og vatn
8 og gefur sig í félagsskap við þá, sem illt fremja,
og er í fylgi við óguðlega menn?
9 Því að hann hefir sagt: "Maðurinn hefir ekkert gagn af því
að vera í vinfengi við Guð."

10 Fyrir því, skynsamir menn, heyrið mig!
Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt
og hinn Almáttki fremji ranglæti.
11 Nei, hann geldur manninum verk hans
og lætur manninum farnast eftir breytni hans.
12 Já, vissulega fremur Guð ekki ranglæti,
og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.
13 Hver hefir fengið honum jörðina til varðveislu,
og hver hefir grundvallað allan heiminn?
14 Ef hann hugsaði aðeins um sjálfan sig,
ef hann drægi til sín anda sinn og andardrátt,
15 þá mundi allt hold gefa upp andann
og maðurinn aftur verða að dufti.

16 Hafir þú vit, þá heyr þú þetta,
hlusta þú á hljóm orða minna.
17 Getur sá stjórnað, sem hatar réttinn?
Eða vilt þú dæma hinn réttláta, volduga?
18 þann sem segir við konunginn: "Þú varmenni!"
við tignarmanninn: "Þú níðingur!"
19 sem ekki dregur taum höfðingjanna
og gjörir ekki ríkum hærra undir höfði en fátækum,
því að handaverk hans eru þeir allir.
20 Skyndilega deyja þeir, og það um miðja nótt,
fólkið verður skelkað, og þeir hverfa,
og hinn sterki er hrifinn burt, en eigi af manns hendi.
21 Því að augu Guðs hvíla yfir vegum hvers manns,
og hann sér öll spor hans.
22 Ekkert það myrkur er til eða sú niðdimma,
að illgjörðamenn geti falið sig þar.
23 Því að Guð þarf ekki fyrst að gefa manni gaum,
til þess að hann komi fyrir dóm hans.
24 Hann brýtur hina voldugu sundur rannsóknarlaust
og setur aðra í þeirra stað.
25 Þannig þekkir hann verk þeirra
og steypir þeim um nótt, og þeir verða marðir sundur.
26 Hann hirtir þá sem misgjörðamenn
í augsýn allra manna,
27 vegna þess að þeir hafa frá honum vikið
og vanrækt alla vegu hans
28 og látið kvein hins fátæka berast til hans,
en hann heyrði kvein hinna voluðu.
29 Haldi hann kyrru fyrir, hver vill þá sakfella hann?
og byrgi hann auglitið, hver fær þá séð hann?
Þó vakir hann yfir þjóð og einstaklingi,
30 til þess að guðlausir menn skuli ekki drottna,
til þess að þeir séu ekki snörur lýðsins.

31 Því að segir nokkur við Guð:
"Mér hefir verið hegnt og breyti þó ekki illa.
32 Kenn þú mér það, sem ég sé ekki.
Hafi ég framið ranglæti, skal ég eigi gjöra það framar"?
33 Á hann að endurgjalda eftir geðþótta þínum, af því að þú hafnar?
því að þú átt að velja, en ekki ég.
Og seg nú fram það, er þú veist!

34 Skynsamir menn munu segja við mig,
og vitur maður, sem á mig hlýðir:
35 "Job talar ekki hyggilega,
og orð hans eru ekki skynsamleg."
36 Ó að Job mætti reyndur verða æ að nýju,
af því að hann svarar eins og illir menn svara.
37 Því að hann bætir misgjörð ofan á synd sína,
hann klappar saman höndunum framan í oss
og heldur langar ræður móti Guði.


Mikilleiki Guðs

35
1 Og Elíhú tók enn til máls og sagði:

2 Hyggur þú það vera rétt,
kallar þú það "réttlæti mitt fyrir Guði,"
3 að þú spyr, hvað það stoði þig?
"Hvaða gagn hefi ég af því, fremur en ef ég syndgaði?"
4 Ég ætla að veita þér andsvör í móti
og vinum þínum með þér.
5 Horf þú á himininn og sjá,
virtu fyrir þér skýin, sem eru hátt yfir þér.
6 Syndgir þú, hvað getur þú gjört honum?
Og séu afbrot þín mörg, hvaða skaða gjörir þú honum?
7 Sért þú ráðvandur, hvað gefur þú honum,
eða hvað þiggur hann af þinni hendi?
8 Mann, eins og þig, varðar misgjörð þín
og mannsins barn ráðvendni þín.
9 Menn æpa að sönnu undan hinni margvíslegu kúgan,
kveina undan armlegg hinna voldugu,
10 en enginn þeirra segir: "Hvar er Guð, skapari minn,
sá er leiðir fram lofsöngva um nótt,
11 sem fræðir oss meira en dýr merkurinnar
og gjörir oss vitrari en fugla loftsins?"
12 Þá æpa menn - en hann svarar ekki -
undan drambsemi hinna vondu.
13 Nei, hégómamál heyrir Guð eigi,
og hinn Almáttki gefur því engan gaum,
14 hvað þá, er þú segir, að þú sjáir hann ekki.
Málið er lagt fram fyrir hann, og þú átt að bíða eftir honum.
15 En nú, af því að reiði hans hefir eigi refsað,
á hann alls eigi að hafa vitað neitt um yfirsjónina!
16 En Job opnar munninn til að mæla hégóma,
heldur langar ræður í vanhyggju sinni.


Furður Guðs

36
1 Og Elíhú hélt áfram og sagði:

2 Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig,
því að enn má margt segja Guði til varnar.
3 Ég ætla að sækja þekking mína langar leiðir
og sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa.
4 Því að vissulega fer ég eigi með ósannindi,
maður með fullkominni þekking stendur frammi fyrir þér.

5 Sjá, Guð er voldugur, þó fyrirlítur hann engan,
voldugur að andans krafti.
6 Hann viðheldur ekki lífi hins óguðlega,
en veitir hinum voluðu rétt þeirra.
7 Hann hefir ekki augun af hinum réttláta,
og hjá konungum í hásætinu
lætur hann þá sitja að eilífu,
til þess að þeir séu hátt upp hafnir.
8 Og þótt þeir verði viðjum reyrðir,
veiddir í snörur eymdarinnar,
9 og hann setur þeim fyrir sjónir gjörðir þeirra
og afbrot þeirra að þeir breyttu drambsamlega,
10 og hann opnar eyru þeirra fyrir umvönduninni
og segir að þeir skuli snúa sér frá ranglæti, -
11 ef þeir þá hlýða og þjóna honum,
þá eyða þeir dögum sínum í velgengni
og árum sínum í unaði.
12 En hlýði þeir ekki, þá farast þeir fyrir skotvopnum,
gefa upp andann í vanhyggju sinni.
13 Því að vonskufullir í hjarta ala þeir með sér reiði,
hrópa eigi á hjálp, þegar hann fjötrar þá.
14 Önd þeirra deyr í æskublóma
og líf þeirra eins og hórsveina.
15 En hann frelsar hinn bágstadda með bágindum hans
og opnar eyru þeirra með þrengingunni.
16 Einnig þig ginnir hann út úr gini neyðarinnar
út á víðlendi, þar sem engin þrengsli eru,
og það sem kemur á borð þitt, er fullt af feiti.
17 En ef þú vinnur til dóms hins óguðlega,
þá munu dómur og réttur hremma þig.
18 Lát því eigi reiðina ginna þig til spotts,
og lát eigi stærð lausnargjaldsins tæla þig.
19 Mun hróp þitt koma þér úr nauðunum
eða nokkur áreynsla krafta þinna?
20 Þráðu eigi nóttina,
þá er þjóðir sópast burt af stöðvum sínum.
21 Gæt þín, snú þér eigi að ranglæti,
því að það kýst þú heldur en að líða.

22 Sjá, Guð er háleitur í framkvæmdum máttar síns,
hver er slíkur kennari sem hann?
23 Hver hefir fyrirskipað honum veg hans,
og hver dirfist að segja: "Þú hefir gjört rangt"?
24 Minnstu þess, að þú vegsamir verk hans,
það er mennirnir syngja um lofkvæði.
25 Allir menn horfa með fögnuði á það,
dauðlegur maðurinn lítur það úr fjarska.
26 Já, Guð er mikill og vér þekkjum hann ekki,
tala ára hans órannsakanleg.
27 Því að hann dregur upp vatnsdropana
og lætur ýra úr þoku sinni,
28 regnið, sem skýin láta niður streyma,
drjúpa yfir marga menn.
29 Og hver skilur útbreiðslu skýjanna
og dunurnar í tjaldi hans?
30 Sjá, hann breiðir ljós sitt út kringum sig
og hylur djúp hafsins.
31 Því að með því dæmir hann þjóðirnar,
með því veitir hann fæðu í ríkum mæli.
32 Hendur sínar hylur hann ljósi
og býður því út gegn fjandmanni sínum.
33 Þruma hans boðar komu hans,
hans sem lætur reiði sína geisa gegn ranglætinu.

37

1 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt
og hrökkur upp úr stað sínum.
2 Heyrið, heyrið drunur raddar hans
og hvininn, sem út fer af munni hans.
3 Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta
og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar.
4 Á eftir því kemur öskrandi skrugga,
hann þrumar með sinni tignarlegu raust
og heldur eldingunum ekki aftur,
þá er raust hans lætur til sín heyra.
5 Guð þrumar undursamlega með raust sinni,
hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.
6 Því að hann segir við snjóinn: "Fall þú á jörðina,"
og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir.
7 Hann innsiglar hönd sérhvers manns,
til þess að allir menn viðurkenni verk hans.
8 Þá fara villidýrin í fylgsni sín
og hvílast í bælum sínum.
9 Stormurinn kemur úr forðabúrinu
og kuldinn af norðanvindunum.
10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til,
og víð vötnin eru lögð í læðing.
11 Hann hleður skýin vætu,
tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar.
12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það,
til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því,
á yfirborði allrar jarðarinnar.
13 Hann lætur því ljósta niður,
hvort sem það er til hirtingar
eða til að vökva jörðina
eða til að blessa hana.

14 Hlýð þú á þetta, Job,
stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.
15 Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra
og lætur leiftur skýja sinna skína?
16 Skilur þú, hvernig skýin svífa,
dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi,
17 þú, sem fötin hitna á,
þá er jörðin mókir í sunnanmollu?
18 Þenur þú út með honum heiðhimininn,
sem fastur er eins og steyptur spegill?
19 Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann!
Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri.
20 Á að segja honum, að ég ætli að tala?
Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur?
21 Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið,
sem skín skært að skýjabaki,
en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt.
22 Gullið kemur úr norðri,
um Guð lykur ógurlegur ljómi.
23 Vér náum eigi til hins Almáttka,
til hans, sem er mikill að mætti.
En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki.
24 Fyrir því óttast mennirnir hann,
en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.Samtal Guðs og Jobs


Guð ávarpar Job úr stormviðrinu

38
1Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

2 Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs
með óskynsamlegum orðum?
3 Gyrð lendar þínar eins og maður,
þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

4 Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina?
Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.
5 Hver ákvað mál hennar - þú veist það! -
eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?
6 Á hvað var stólpum hennar hleypt niður,
eða hver lagði hornstein hennar,
7 þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman
og allir guðssynir fögnuðu?
8 Og hver byrgði hafið inni með hurðum,
þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði,
9 þá er ég fékk því skýin að klæðnaði
og svartaþykknið að reifum?
10 þá er ég braut því takmörk
og setti slagbranda fyrir og hurðir
11 og mælti: "Hingað skaltu komast og ekki lengra,
hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!"
12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum,
vísað morgunroðanum á stað hans,
13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar
og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni?
14 Hún breytist eins og leir undir signeti,
og allt kemur fram eins og á klæði.
15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu
og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn.

16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins
og gengið á botni undirdjúpsins?
17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér
og hefir þú séð hlið svartamyrkursins?
18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar?
Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.

19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr,
og myrkrið - hvar á það heima,
20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess
og þekktir göturnar heim að húsi þess?
21 Þú veist það, því að þá fæddist þú,
og tala daga þinna er há!

22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins
og séð forðabúr haglsins,
23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar,
til orustu- og ófriðardagsins?
24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist
og austanvindurinn dreifist yfir jörðina?

25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið
og veg fyrir eldingarnar
26 til þess að láta rigna yfir mannautt land,
yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr,
27 til þess að metta auðnir og eyðilönd
og láta grængresi spretta?
28 Á regnið föður
eða hver hefir getið daggardropana?
29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn,
og hrím himinsins - hver fæddi það?
30 Vötnin þéttast eins og steinn,
og yfirborð fljótsins verður samfrosta.

31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin
eða fær þú leyst fjötra Óríons?
32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma
og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?
33 Þekkir þú lög himinsins
eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?
34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins,
svo að vatnaflaumurinn hylji þig?
35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari
og segi við þig: "Hér erum vér!"

36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský
eða hver hefir gefið loftsjónunum vit?
37 Hver telur skýin með visku,
og vatnsbelgir himinsins - hver hellir úr þeim,
38 þegar moldin rennur saman í kökk
og hnausarnir loða hver við annan?
39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna,
og seður þú græðgi ungljónanna,
40 þá er þau kúra í bæli sínu
og vaka yfir veiði í þéttum runni?
41 Hver býr hrafninum fæðu hans,
þá er ungar hans hrópa til Guðs,
flögra til og frá ætislausir?

39

1 Veist þú tímann, nær steingeiturnar bera?
Gefur þú gaum að fæðingarhríðum hindanna?
2 Telur þú mánuðina, sem þær ganga með,
og veist þú tímann, nær þær bera?
3 Þær leggjast á knén, fæða kálfa sína,
þær losna fljótt við kvalir sínar.
4 Kálfar þeirra verða sterkir, vaxa í haganum,
fara burt og koma ekki aftur til þeirra.

5 Hver hefir látið skógarasnann ganga lausan
og hver hefir leyst fjötra villiasnans,
6 sem ég hefi gefið eyðivelli að bústað
og saltsléttu að heimkynni?
7 Hann hlær að hávaða borgarinnar,
hann heyrir ekki köll rekstrarmannsins.
8 Það sem hann leitar uppi á fjöllunum, er haglendi hans,
og öllu því sem grænt er, sækist hann eftir.

9 Mun vísundurinn vera fús til að þjóna þér
eða mun hann standa um nætur við stall þinn?
10 Getur þú bundið vísundinn með bandinu við plógfarið
eða mun hann herfa dalgrundirnar á eftir þér?
11 Reiðir þú þig á hann, af því að kraftur hans er mikill,
og trúir þú honum fyrir arði þínum?
12 Treystir þú honum til að flytja sáð þitt heim
og til að safna því á þreskivöll þinn?
13 Strúthænan baðar glaðlega vængjunum,
en er nokkurt ástríki í þeim vængjum og flugfjöðrum?
14 Nei, hún fær jörðinni egg sín
og lætur þau hitna í moldinni
15 og gleymir, að fótur getur brotið þau
og dýr merkurinnar troðið þau sundur.
16 Hún er hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki,
þótt fyrirhöfn hennar sé árangurslaus, þá er hún laus við ótta,
17 því að Guð synjaði henni um visku
og veitti henni enga hlutdeild í hyggindum.
18 En þegar hún sveiflar sér í loft upp,
þá hlær hún að hestinum og þeim sem á honum situr.

19 Gefur þú hestinum styrkleika,
klæðir þú makka hans flaksandi faxi?
20 Lætur þú hann stökkva eins og engisprettu?
Fagurlega frýsar hann, en hræðilega!
21 Hann krafsar upp grundina og kætist af styrkleikanum,
hann fer út á móti hertygjunum.
22 Hann hlær að hræðslunni og skelfist ekki
og hopar ekki fyrir sverðinu.
23 Á baki hans glamrar í örvamælinum,
spjót og lensa leiftra.
24 Með hávaða og harki hendist hann yfir jörðina
og eigi verður honum haldið, þá er lúðurinn gellur.
25 Í hvert sinn er lúðurinn gellur, hvíar hann,
og langar leiðir nasar hann bardagann,
þrumurödd fyrirliðanna og herópið.

26 Er það fyrir þín hyggindi að haukurinn lyftir flugfjöðrunum,
breiðir út vængi sína í suðurátt?
27 Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt
og byggir hreiður sitt hátt uppi?
28 Á klettunum á hann sér býli og ból,
á klettasnösum og fjallatindum.
29 Þaðan skyggnist hann að æti,
augu hans sjá langar leiðir.
30 Og ungar hans svelgja blóð,
og hvar sem vegnir menn liggja, þar er hann.


Guð krefur Job svars

40
1 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði:

2 Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka?
Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu!


Svar Jobs

3 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

4 Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér?
Ég legg hönd mína á munninn.
5 Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi,
- tvisvar, og gjöri það ekki oftar.


Önnur ræða Guðs

6Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

7 Gyrð lendar þínar eins og maður.
Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.
8 Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu,
dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?
9 Hefir þú þá armlegg eins og Guð,
og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann?
10 Skrýð þig vegsemd og tign,
íklæð þig dýrð og ljóma!
11 Lát úthellast strauma reiði þinnar
og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum.
12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti,
og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa.
13 Byrg þú þá í moldu alla saman,
loka andlit þeirra inni í myrkri,
14 þá skal ég líka lofa þig,
fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi.

15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig,
hann etur gras eins og naut.
16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans
og afl hans í kviðvöðvunum.
17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré,
lærsinar hans eru ofnar saman.
18 Leggir hans eru eirpípur,
beinin eins og járnstafur.
19 Hann er frumgróði Guðs verka,
sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.
20 Fjöllin láta honum grasbeit í té,
og þar leika sér dýr merkurinnar.
21 Hann liggur undir lótusrunnum
í skjóli við reyr og sef.
22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann,
lækjarpílviðirnir lykja um hann.
23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki,
hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.
24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum,
getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?

41

1 Getur þú veitt krókódílinn á öngul,
getur þú heft tungu hans með snæri?
2 Dregur þú seftaug gegnum nasir hans
og rekur þú krók gegnum kjálka honum?
3 Ætli hann beri fram fyrir þig margar auðmjúkar bænir
eða mæli til þín blíðum orðum?
4 Mun hann gjöra við þig sáttmála,
svo að þú takir hann að ævinlegum þræli?
5 Munt þú leika þér að honum eins og litlum fugli
og getur þú bundið hann fastan fyrir smámeyjar þínar?
6 Manga fiskveiðafélagar um hann,
skipta þeir honum meðal kaupmanna?
7 Getur þú fyllt húð hans broddum
og haus hans skutlum?
8 Legg hönd þína á hann -
hugsaðu þér, hvílík viðureign! Þú gjörir það ekki aftur.
9 Já, von mannsins bregst,
hann fellur þegar flatur fyrir sjóninni einni saman.
10 Enginn er svo fífldjarfur, að hann þori að egna hann,
- og hver er þá sá, er þori að ganga fram fyrir mitt auglit?
11 Hver hefir að fyrra bragði gefið mér,
svo að ég ætti að endurgjalda?
Allt sem undir himninum er, það er mitt!
12 Ég vil ekki þegja um limu hans,
né um styrkleik og fegurð vaxtar hans.
13 Hver hefir flett upp skjaldkápu hans að framan,
hver fer inn undir tvöfaldan tanngarð hans?
14 Hver hefir opnað hliðin að gini hans?
Ógn er kringum tennur hans.
15 Tignarprýði eru skjaldaraðirnar,
lokaðar með traustu innsigli.
16 Hver skjöldurinn liggur fast að öðrum,
ekkert loft kemst á milli þeirra.
17 Þeir eru fastir hver við annan,
eru svo samfelldir, að þeir verða eigi skildir sundur.
18 Þegar hann hnerrar, standa ljósgeislar úr nösum hans,
og augu hans eru sem brágeislar morgunroðans.
19 Úr gini hans standa blys,
eldneistar ganga fram úr honum.
20 Úr nösum hans stendur eimur,
eins og upp úr sjóðandi potti, sem kynt er undir með sefgrasi.
21 Andi hans kveikir í kolum,
og logi stendur úr gini hans.
22 Kraftur situr á hálsi hans,
og angist stökkur á undan honum.
23 Vöðvar holds hans loða fastir við,
eru steyptir á hann og hreyfast ekki.
24 Hjarta hans er hart sem steinn,
já, hart sem neðri kvarnarsteinn.
25 Þegar hann stökkur upp, skelfast kapparnir,
þeir verða ringlaðir af hræðslu.
26 Ráðist einhver að honum með sverði, þá vinnur það eigi á,
eigi heldur lensa, skotspjót eða ör.
27 Hann metur járnið sem strá,
eirinn sem maðksmoginn við.
28 Eigi rekur örin hann á flótta,
slöngusteinarnir verða hálmur fyrir honum.
29 Kylfur metur hann sem hálmstrá,
og að hvin spjótsins hlær hann.
30 Neðan á honum eru oddhvöss brot,
hann markar för í aurinn sem för eftir þreskisleða.
31 Hann lætur vella í djúpinu sem í potti,
gjörir hafið eins og smyrslaketil.
32 Aftur undan honum er ljósrák,
ætla mætti, að sjórinn væri silfurhærur.
33 Enginn er hans maki á jörðu,
hans sem skapaður er til þess að kunna ekki að hræðast.
34 Hann lítur niður á allt hátt,
hann er konungur yfir öllum drembnum dýrum.


Lokasvar Jobs

42
1 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

2 Ég veit, að þú megnar allt,
og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.
3 "Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?"
Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja,
um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.
4 "Hlusta þú, ég ætla að tala.
Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig."
5 Ég þekkti þig af afspurn,
en nú hefir auga mitt litið þig!
6 Fyrir því tek ég orð mín aftur
og iðrast í dufti og ösku.


Niðurlag

7Eftir að Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs, sagði Drottinn við Elífas Temaníta: "Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job. 8Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því aðeins vegna hans mun ég ekki láta yður gjalda heimsku yðar, með því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job."

9Þá fóru þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim. Og Drottinn lét að bæn Jobs.

10Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur. 11Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.

12En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur. 13Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur. 14Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk. 15Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.

16Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði. 17Og Job dó gamall og saddur lífdaga.Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997