ÞRIÐJA  BRÉF  JÓHANNESARKveðja

1Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi, sem ég ann í sannleika.

2Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllum hlutum og að þú sért heill heilsu, eins og sálu þinni vegnar vel. 3Ég varð mjög glaður, þegar bræður komu og báru vitni um tryggð þína við sannleikann, hversu þú lifir í sannleika. 4Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra, að börnin mín lifi í sannleikanum.


Samverkamenn sannleikans

5Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn. 6Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn. Þú gjörir vel, er þú greiðir för þeirra eins og verðugt er fyrir Guði. 7Því að sakir nafnsins lögðu þeir af stað og þiggja ekki neitt af heiðnum mönnum. 8Þess vegna ber oss að taka þvílíka menn að oss, til þess að vér verðum samverkamenn sannleikans.


Díótrefes og Demetríus

9Ég hef ritað nokkuð til safnaðarins, en Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra, tekur eigi við oss. 10Þess vegna ætla ég, ef ég kem, að minna á verk þau er hann vinnur. Hann lætur sér ekki nægja að ófrægja oss með vondum orðum, heldur tekur hann ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.

11Breyttu ekki eftir því, sem illt er, minn elskaði, heldur eftir því, sem gott er. Sá sem gott gjörir heyrir Guði til, en sá sem illt gjörir hefur ekki séð Guð.

12Demetríusi er borið gott vitni af öllum og af sannleikanum sjálfum. Það gjörum vér líka, og þú veist að vitnisburður vor er sannur.


Lokaorð

13Ég hef margt að rita þér, en vil ekki rita þér með bleki og penna. 14En ég vona að sjá þig bráðum og munum við þá talast við munnlega.

15Friður sé með þér. Vinirnir biðja að heilsa þér. Heilsa þú vinunum hverjum fyrir sig.Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997