SÍÐARI  BÓK  KONUNGANNAElía og Ahasía

1
1Eftir dauða Akabs braust Móab undan Ísrael.

2Ahasía féll ofan um grindurnar á loftsal sínum í Samaríu og varð sjúkur. Þá gjörði hann út sendimenn og sagði við þá: "Farið og gangið til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron, hvort ég muni heill verða af þessum sjúkdómi." 3En engill Drottins sagði við Elía Tisbíta: "Tak þig upp og far á móti sendimönnum konungsins í Samaríu og seg við þá: ,Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þér farið til þess að ganga til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron? 4Fyrir því segir Drottinn svo: Úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, skalt þú ekki rísa, heldur skalt þú deyja.'" Síðan fór Elía burt.

5Þá er sendimennirnir komu aftur til konungs, sagði hann við þá: "Hví eruð þér komnir aftur?"

6Þeir svöruðu honum: "Maður kom á móti oss og sagði við oss: ,Farið og snúið aftur heim til konungsins, er yður sendi, og segið við hann: Svo segir Drottinn: Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þú sendir til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron. Fyrir því skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja.'"

7Þá mælti konungur við þá: "Hvernig var sá maður í hátt, sem kom á móti yður og talaði þessi orð við yður?"

8Þeir svöruðu honum: "Hann var í skinnfeldi og gyrður leðurbelti um lendar sér."

Þá mælti hann: "Það hefir verið Elía frá Tisbe."

9Þá sendi konungur fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum til Elía. Fór hann þá upp til hans - en hann sat efst uppi á fjalli - og sagði við hann: "Þú guðsmaður! Konungur segir: Kom þú ofan!"

10Elía svaraði og sagði við fimmtíumannaforingjann: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.

11Og konungur sendi aftur til hans annan fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum. Fór hann upp og sagði við hann: "Þú guðsmaður, svo segir konungur: Kom sem skjótast ofan!"

12En Elía svaraði og sagði við þá: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur Guðs af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.

13Þá sendi konungur enn þriðja fimmtíumannaforingjann og fimmtíu menn hans með honum. Og fimmtíumannaforinginn þriðji fór upp, og er hann kom þangað, féll hann á kné fyrir Elía, grátbændi hann og mælti til hans: "Þú guðsmaður, þyrm nú lífi mínu og lífi þessara fimmtíu þjóna þinna. 14Sjá, eldur er fallinn af himni og hefir eytt báðum fyrri fimmtíumannaforingjunum og fimmtíu mönnum þeirra. En þyrm þú lífi mínu." 15Þá sagði engill Drottins við Elía: "Far þú ofan með honum og ver óhræddur við hann." Stóð hann þá upp og fór ofan með honum til konungs 16og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Af því að þú gjörðir út sendimenn til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, - það er víst enginn guð til í Ísrael, er leita megi frétta hjá - þá skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja." 17Og hann dó eftir orði Drottins, því er Elía hafði talað. Og Jóram bróðir hans tók ríki eftir hann á öðru ríkisári Jórams Jósafatssonar, konungs í Júda, því að hann átti engan son.

18En það sem meira er að segja um Ahasía, hvað hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.Elísa spámaður


Elía uppnuminn.
Elísa hlýtur spámannlegt vald

2
1Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal. 2Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel."

En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.

3Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?"

Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

4Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó."

Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.

5Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?"

Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

6Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar."

Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman. 7En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan. 8Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.

9En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér."

Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."

10Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."

11En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri. 12Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar.

Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti. 13Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka, 14tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: "Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?" En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um.

15Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: "Andi Elía hvílir yfir Elísa." Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum 16og sögðu við hann: "Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn."

En Elísa mælti: "Eigi skuluð þér senda þá." 17En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: "Sendið þér þá." Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki. 18Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: "Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?"


Jarteikn Elísa

19Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."

20Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo. 21Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði." 22Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.

23Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" 24Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. 25Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.


Jóram Ísraelskonungur fer í stríð

3
1Jóram, sonur Akabs, varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á átjánda ríkisári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár. 2Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir hans, því að hann tók burt Baalsmerkissteinana, sem faðir hans hafði gjöra látið. 3En við syndir Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, hélt hann fast og lét ekki af þeim.

4Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum. 5En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi. 6Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael. 7Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: "Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?"

"Fara mun ég," svaraði hann, "ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar." 8Og hann sagði: "Hvaða leið eigum við að fara?"

Jóram svaraði: "Leiðina um Edómheiðar." 9Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér. 10Þá sagði Ísraelskonungur: "Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."

11En Jósafat mælti: "Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?"

Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: "Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía."

12Jósafat sagði: "Hjá honum er orð Drottins!" Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans.

13En Elísa sagði við Ísraelskonung: "Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar."

Ísraelskonungur svaraði honum: "Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."

14Þá mælti Elísa: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits. 15En sækið þér nú hörpuleikara."

Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa. 16Og hann mælti: "Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum, 17því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur. 18En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar. 19Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti."

20Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni.

21En er allir Móabítar heyrðu, að konungarnir væru komnir til þess að herja á þá, var öllum boðið út, er vopnum máttu valda, og námu þeir staðar á landamærunum. 22En er þeir risu um morguninn og sólin skein á vatnið, sýndist Móabítum álengdar vatnið vera rautt sem blóð. 23Þá sögðu þeir: "Þetta er blóð! Konungunum hlýtur að hafa lent saman og þeir hafa unnið hvor á öðrum, og nú er að hirða herfangið, Móabítar!" 24En er þeir komu að herbúðum Ísraels, þustu Ísraelsmenn út og börðu á Móabítum, svo að þeir flýðu fyrir þeim. Síðan brutust þeir inn í landið og unnu nýjan sigur á Móabítum. 25En borgirnar brutu þeir niður, og á alla góða akra vörpuðu þeir sínum steininum hver og fylltu þá grjóti, og allar vatnslindir stemmdu þeir og öll aldintré felldu þeir, uns eigi var annað eftir en steinmúrarnir í Kír Hareset. Umkringdu slöngvumennirnir hana og köstuðu á hana.

26En er Móabskonungur sá, að hann mundi fara halloka í orustunni, tók hann með sér sjö hundruð manna, er sverð báru, til þess að brjótast út þar sem Edómkonungur var fyrir, en þeir gátu það ekki. 27Þá tók hann frumgetinn son sinn, er taka átti ríki eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á múrnum. Kom þá mikil hryggð yfir Ísrael, og héldu þeir burt þaðan og hurfu aftur heim í land sitt.


Elísa hjálpar ekkju spámannssveins

4
1Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: "Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum."

2En Elísa sagði við hana: "Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima."

Hún svaraði: "Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu."

3Þá mælti hann: "Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri. 4Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast."

5Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í. 6En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: "Fær mér enn ílát."

Hann sagði við hana: "Það er ekkert ílát eftir." Þá hætti olífuolían að renna.

7Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: "Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður."


Sonur konunnar í Súnem

8Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast. 9Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur. 10Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."

11Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns. 12Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann. 13Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?'"

Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."

14Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?"

Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."

15Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum. 16Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son."

En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni." 17En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.

18Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna. 19Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar." 20Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann. 21Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt. 22Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."

23En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur."

Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!" 24Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér." 25Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli.

En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem! 26Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?'"

Hún svaraði: "Okkur líður vel."

27En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."

28Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?'"

29Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."

30En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.

31Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"

32Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans. 33Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins. 34Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins. 35Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum. 36Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!" 37Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.


Mettunarjarteikn Elísa

38Elísa kom aftur til Gilgal meðan hallæri var í landinu. Og er spámannasveinarnir sátu frammi fyrir honum, sagði hann við svein sinn: "Settu upp stóra pottinn og sjóð rétt matar handa spámannasveinunum." 39Þá gekk einn út í hagann að tína jurtir og fann villivafteinung og tíndi á honum yfirhöfn sína fulla af villi-agúrkum, fór síðan heim og brytjaði þær í matarpottinn, því að þeir þekktu þær ekki. 40Síðan helltu þeir upp fyrir mennina til að eta. En er þeir brögðuðu á matnum, hljóðuðu þeir upp yfir sig og sögðu: "Dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður!" og þeir gátu ekki etið það. 41En hann mælti: "Komið með mjöl!" Og hann kastaði því í pottinn. Síðan sagði hann: "Hell nú upp fyrir fólkið, að það megi eta." Þá var ekkert skaðvænt í pottinum.

42Maður kom frá Baal Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð, tuttugu byggbrauð og mulið korn í mal sínum. Og Elísa sagði: "Gefðu fólkinu það að eta."

43En þjónn hans mælti: "Hvernig get ég borið þetta hundrað mönnum?"

Hann svaraði: "Gefðu fólkinu það að eta. Því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa." 44Þá lagði hann það fyrir þá, en þeir neyttu og gengu frá leifðu, eins og Drottinn hafði sagt.


Naaman hinn sýrlenski læknaður

5
1Naaman, hershöfðingi Sýrlandskonungs, var í miklum metum hjá herra sínum og í hávegum hafður, því að undir forustu hans hafði Drottinn veitt Sýrlendingum sigur. Var maðurinn hinn mesti kappi, en líkþrár.

2Sýrlendingar höfðu farið herför í smáflokkum og haft burt af Ísraelslandi unga stúlku. Þjónaði hún konu Naamans. 3Hún sagði við húsmóður sína: "Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi losa hann við líkþrána." 4Þá fór Naaman og sagði herra sínum frá á þessa leið: "Svo og svo hefir stúlkan frá Ísraelslandi talað." 5Þá mælti Sýrlandskonungur: "Far þú, ég skal senda Ísraelskonungi bréf."

Lagði Naaman þá af stað og tók með sér tíu talentur silfurs, sex þúsund sikla gulls og tíu alklæðnaði. 6Hann færði Ísraelskonungi bréfið, er var á þessa leið: "Þegar bréf þetta kemur þér í hendur, þá skalt þú vita, að ég hefi sent til þín Naaman þjón minn, og skalt þú losa hann við líkþrá hans."

7En er Ísraelskonungur hafði lesið bréfið, reif hann klæði sín og mælti: "Er ég þá Guð, er deytt geti og lífgað, fyrst hann gjörir mér orð um að losa mann við líkþrá hans? Megið þér þar sjá og skynja, að hann leitar saka við mig."

8En er Elísa, guðsmaðurinn, frétti, að Ísraelskonungur hefði rifið klæði sín, sendi hann til konungs og lét segja honum: "Hví rífur þú klæði þín? Komi hann til mín, þá skal hann komast að raun um, að til er spámaður í Ísrael."

9Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar úti fyrir húsdyrum Elísa. 10Þá sendi Elísa mann til hans og lét segja honum: "Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!" 11Þá varð Naaman reiður og gekk burt og mælti: "Ég hugði þó, að hann mundi koma út til mín og ganga að mér og ákalla nafn Drottins, Guðs síns, veifa hendinni í áttina til helgistaðarins og koma þannig líkþránni burt. 12Eru ekki Abana og Farfar, fljótin hjá Damaskus, betri en allar ár í Ísrael? Gæti ég ekki laugað mig í þeim og orðið hreinn?" Sneri hann sér þá við og hélt burt í reiði.

13Þá gengu þjónar hans til hans, töluðu til hans og sögðu: "Ef spámaðurinn hefði skipað þér eitthvað erfitt, mundir þú þá ekki hafa gjört það? Hve miklu fremur þá, er hann hefir sagt þér: ,Lauga þig og munt þú hreinn verða'?" 14Þá fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan, eins og guðsmaðurinn hafði sagt. Varð þá hold hans aftur sem hold á ungum sveini, og hann varð hreinn.

15Þá hvarf hann aftur til guðsmannsins og allt hans föruneyti, og er hann kom þangað, gekk hann fyrir hann og mælti: "Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael, og þigg nú gjöf af þjóni þínum."

16En Elísa mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er ég þjóna: Ég tek ekki við neinu!"

Og þótt hann legði að honum að taka við því, þá færðist hann undan. 17Þá mælti Naaman: "Ef ekki, þá lát þó gefa þjóni þínum mold á tvo múla, því að þjónn þinn mun eigi framar færa brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Drottni. 18Það eitt verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum: Þegar herra minn gengur í musteri Rimmons til þess að biðjast þar fyrir, og hann þá styðst við hönd mína, svo að ég fell fram í musteri Rimmons, þegar hann fellur fram í musteri Rimmons, - það verður Drottinn að fyrirgefa þjóni þínum." 19En Elísa mælti til hans: "Far þú í friði."

En er Naaman var kominn spölkorn frá honum, 20þá sagði Gehasí, sveinn Elísa, guðsmannsins, við sjálfan sig: "Sjá, herra minn hefir hlíft Naaman þessum sýrlenska og ekki þegið af honum það, sem hann kom með. Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal ég hlaupa á eftir honum og þiggja eitthvað af honum." 21Hélt Gehasí nú á eftir Naaman. En er Naaman sá mann koma hlaupandi á eftir sér, stökk hann af vagninum, gekk í móti honum og mælti: "Er nokkuð að?"

22Gehasí svaraði: "Nei, en herra minn sendir mig og lætur segja þér: ,Rétt í þessu komu til mín frá Efraímfjöllum tveir sveinar af spámannasveinunum. Gef mér handa þeim talentu silfurs og tvo alklæðnaði.'"

23Naaman svaraði: "Gjör þú mér þann greiða að taka við tveimur talentum!" Og hann lagði að honum og batt tvær talentur silfurs í tvo sjóðu, svo og tvo alklæðnaði og fékk tveimur sveinum sínum, og báru þeir það fyrir honum. 24En er þeir komu á hæðina, þá tók Gehasí við því af þeim, geymdi það í húsinu og lét mennina fara burt, og fóru þeir leiðar sinnar. 25Síðan fór hann inn og gekk fyrir herra sinn. En Elísa sagði við hann: "Hvaðan kemur þú, Gehasí?"

Hann svaraði: "Þjónn þinn hefir alls ekkert farið."

26Og Elísa sagði við hann: "Ég fylgdi þér í anda, þegar maðurinn sneri frá vagni sínum í móti þér. Nú hefir þú fengið silfur og munt fá klæði, olíutré, víngarða, sauði og naut, þræla og ambáttir. 27En líkþrá Naamans mun ávallt loða við þig og niðja þína." Gekk hann þá burt frá honum hvítur sem snjór af líkþrá.


Elísa lætur öxi fljóta

6
1Spámannasveinarnir sögðu við Elísa: "Húsrýmið, þar sem vér búum hjá þér, er of lítið fyrir oss. 2Leyf oss að fara ofan að Jórdan og taka þar sinn bjálkann hver, til þess að vér getum gjört oss bústað." Hann mælti: "Farið þér!"

3En einn af þeim mælti: "Gjör oss þann greiða að fara með þjónum þínum." Hann mælti: "Ég skal fara." 4Síðan fór hann með þeim.

Þegar þeir komu að Jórdan, tóku þeir að höggva tré. 5En er einn þeirra var að fella bjálka, hraut öxin af skafti út á ána. Hljóðaði hann þá upp yfir sig og mælti: "Æ, herra minn - og það var lánsöxi!"

6Þá sagði guðsmaðurinn: "Hvar datt hún?" Og er hann sýndi honum staðinn, sneið hann af viðargrein, skaut henni þar ofan í ána og lét járnið fljóta. 7Síðan sagði hann: "Náðu henni nú upp!" Þá rétti hann út höndina og náði henni.


Elísa villir her Sýrlendinga

8Þegar Sýrlandskonungur átti í ófriði við Ísrael, ráðgaðist hann um við menn sína og mælti: "Á þeim og þeim stað skuluð þér leggjast í launsátur."

9En guðsmaðurinn sendi til Ísraelskonungs og lét segja honum: "Varast þú að fara fram hjá þessum stað, því að Sýrlendingar liggja þar í launsátri." 10Þá sendi Ísraelskonungur á þann stað, sem guðsmaðurinn hafði nefnt við hann. Varaði hann konung þannig við í hvert sinn, og gætti hann sín þar, og það oftar en einu sinni eða tvisvar.

11Út af þessu varð Sýrlandskonungur órór í skapi, kallaði á menn sína og sagði við þá: "Getið þér ekki sagt mér, hver af vorum mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum vorum við Ísraelskonung?"

12Þá sagði einn af þjónum hans: "Því er eigi svo farið, minn herra konungur, heldur flytur Elísa spámaður, sem er í Ísrael, Ísraelskonungi þau orð, sem þú talar í svefnherbergi þínu."

13Þá sagði hann: "Farið og vitið, hvar hann er, svo að ég geti sent menn og látið sækja hann." Var honum þá sagt, að hann væri í Dótan. 14Þá sendi hann þangað hesta og vagna og mikinn her. Komu þeir þangað um nótt og slógu hring um borgina.

15Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: "Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?"

16Hann svaraði: "Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru." 17Og Elísa gjörði bæn sína og mælti: "Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái." Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.

18Fóru Sýrlendingar nú niður í móti honum, en Elísa gjörði bæn sína til Drottins og mælti: "Slá fólk þetta með blindu." Þá sló hann það með blindu eftir beiðni Elísa. 19Síðan sagði Elísa við þá: "Þetta er ekki vegurinn og þetta er ekki borgin. Komið með mér, ég skal fylgja yður til mannsins, sem þér leitið að." Og hann fór með þá til Samaríu.

20En er þeir komu til Samaríu, mælti Elísa: "Drottinn, opna þú nú augu þeirra, svo að þeir sjái." Þá opnaði Drottinn augu þeirra, og þeir sáu, að þeir voru komnir inn í miðja Samaríu.

21En er Ísraelskonungur sá þá, sagði hann við Elísa: "Faðir minn, á ég að höggva þá niður?"

22En hann svaraði: "Eigi skalt þú höggva þá niður. Ert þú vanur að höggva þá niður, er þú hertekur með sverði þínu og boga? Set fyrir þá brauð og vatn, svo að þeir megi eta og drekka. Síðan geta þeir farið heim til herra síns." 23Þá bjó hann þeim mikla máltíð, og þeir átu og drukku. Síðan lét hann þá í burt fara, og fóru þeir heim til herra síns. Upp frá þessu komu ránsflokkar Sýrlendinga eigi framar inn í land Ísraels.


Hungursneyð í Samaríu

24Eftir þetta bar svo til, að Benhadad Sýrlandskonungur dró saman allan her sinn og fór og settist um Samaríu. 25Þá varð hungur svo mikið í Samaríu, er þeir sátu um hana, að asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadrit fimm sikla silfurs.

26Þegar Ísraelskonungur var á gangi uppi á borgarveggnum, kallaði kona nokkur til hans og mælti: "Hjálpa þú, herra konungur!"

27Hann mælti: "Ef Drottinn hjálpar þér ekki, hvaðan á ég þá að taka hjálp handa þér? Úr láfanum eða úr vínþrönginni?" 28Og konungur sagði við hana: "Hvað viltu þá?"

Hún svaraði: "Konan þarna sagði við mig: ,Sel fram son þinn og skulum við eta hann í dag, en á morgun skulum við eta minn son.' 29Suðum við síðan minn son og átum hann. En er ég sagði við hana daginn eftir: ,Sel þú fram son þinn og skulum við eta hann,' þá fal hún son sinn."

30Er konungur heyrði þessi ummæli konunnar, reif hann klæði sín þar sem hann stóð á múrnum. Sá þá lýðurinn, að hann hafði hærusekk á líkama sínum innstan klæða. 31Þá sagði hann: "Guð gjöri mér hvað sem hann vill nú og síðar, ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni til kvölds."

32En Elísa sat í húsi sínu, og öldungarnir sátu hjá honum. Sendi þá konungur mann á undan sér, en áður en sendimaðurinn kom til hans, sagði Elísa við öldungana: "Vitið þér, að þessi morðhundur hefir sent hingað til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum, þegar sendimaðurinn kemur, og standið fyrir hurðinni, svo að hann komist ekki inn. Heyrist ekki þegar fótatak húsbónda hans á eftir honum?"

33Meðan hann var að segja þetta við þá, kom konungur þegar ofan til hans og mælti: "Sjá, hvílíka ógæfu Drottinn lætur yfir dynja. Hví skyldi ég lengur vona á Drottin?"


7
1En Elísa mælti: "Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Á morgun í þetta mund mun ein sea af fínu mjöli kosta einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil í borgarhliði Samaríu." 2Riddari sá, er konungur studdist við, svaraði þá guðsmanninum og mælti: "Þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti þetta verða?"

Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta."


Sýrlendingar flýja

3Fjórir menn líkþráir voru úti fyrir borgarhliði Samaríu. Sögðu þeir hver við annan: "Hví eigum vér að sitja hér, þangað til vér deyjum? 4Ef vér segjum: ,Vér skulum fara inn í borgina,' þá er hungur í borginni og þá munum vér deyja þar, og ef vér sitjum hér kyrrir, munum vér og deyja. Skulum vér því fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. Ef þeir láta oss lífi halda, þá lifum vér, en drepi þeir oss, þá deyjum vér." 5Stóðu þeir síðan upp í rökkrinu til þess að fara yfir í herbúðir Sýrlendinga. En er þeir komu út að herbúðum Sýrlendinga, þá var þar enginn maður. 6Drottinn hafði látið heyrast í herbúðir Sýrlendinga vagnagný og jódyn, gný af miklu herliði, svo að þeir sögðu hver við annan: "Sjá, Ísraelskonungur hefir leigt gegn oss konunga Hetíta og konunga Egyptalands til þess að ráðast á oss." 7Þá hlupu þeir upp í rökkrinu og flýðu og létu eftir tjöld sín og hesta og asna - herbúðirnar eins og þær voru - og flýðu til þess að forða lífinu. 8En er hinir líkþráu menn komu út að herbúðunum, gengu þeir inn í eitt tjaldið, átu og drukku, höfðu þaðan silfur, gull og klæði og gengu burt og fólu það. Síðan komu þeir aftur, gengu inn í annað tjald, höfðu og nokkuð þaðan, gengu burt og fólu.

9Því næst sögðu þeir hver við annan: "Þetta er ekki rétt gjört af oss. Þessi dagur er dagur fagnaðartíðinda. En ef vér þegjum og bíðum þangað til í býti á morgun, þá mun það oss í koll koma. Vér skulum því fara og flytja tíðindin í konungshöllina." 10Síðan fóru þeir, kölluðu til hliðvarða borgarinnar og sögðu þeim svo frá: "Vér komum í herbúðir Sýrlendinga. Þar var þá enginn maður, og engin mannsraust heyrðist, en hestar og asnar stóðu þar bundnir og tjöldin eins og þau voru." 11Þá kölluðu hliðverðirnir og menn sögðu frá því inni í konungshöllinni.

12Þá reis konungur upp um nóttina og sagði við menn sína: "Ég skal segja yður, hvað Sýrlendingar ætla nú að gjöra oss. Þeir vita, að vér sveltum. Hafa þeir því farið burt úr herbúðunum til þess að fela sig úti á mörkinni, með því að þeir hugsa: Þegar þeir fara út úr borginni, skulum vér taka þá höndum lifandi og brjótast inn í borgina."

13Þá tók einn af mönnum hans til máls og sagði: "Taki menn fimm af hestunum, sem eftir eru. Fyrir þeim, sem hér eru eftir skildir, fer eins og fyrir öllum fjölda Ísraels, sem þegar er farinn veg allrar veraldar. Skulum vér senda þá til þess að vita, hvað um er að vera."

14Tóku þeir þá tvo vagna með hestum fyrir. Sendi konungur þá á eftir her Sýrlendinga og sagði: "Farið og gætið að!" 15Fóru þeir þá á eftir þeim alla leið til Jórdanar, og var allur vegurinn þakinn klæðum og vopnum, sem Sýrlendingar höfðu varpað frá sér, er þeir flýðu í ofboði. Sneru sendimennirnir þá við og fluttu konungi tíðindin. 16Þá gekk lýðurinn út og rændi herbúðir Sýrlendinga, og fór þá svo, að ein sea af fínu mjöli kostaði einn sikil og tvær seur af byggi einn sikil, eins og Drottinn hafði sagt. 17En konungur setti riddarann, er hann hafði stuðst við, til að gæta hliðsins, og tróð lýðurinn hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana samkvæmt því orði guðsmannsins, er hann hafði talað, þá er konungur fór ofan til hans. 18Því að þegar guðsmaðurinn sagði við konunginn: "Í þetta mund á morgun munu tvær seur af byggi kosta einn sikil og ein sea af fínu mjöli einn sikil í Samaríuhliði," 19þá svaraði riddarinn guðsmanninum og sagði: "Sjá, þótt Drottinn gjörði raufar á himininn, hvernig mætti slíkt verða?" En Elísa svaraði: "Þú munt sjá það með eigin augum, en einskis af því neyta." 20Og svo fór fyrir honum. Lýðurinn tróð hann undir í hliðinu, svo að hann beið bana.


Konan frá Súnem segir frá

8
1Elísa talaði við konuna, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, á þessa leið: "Tak þig upp og far burt með fólk þitt og sest þú að einhvers staðar erlendis, því að Drottinn kallar sjö ára hallæri yfir landið, og er það þegar komið." 2Þá tók konan sig upp og gjörði eins og guðsmaðurinn sagði, fór burt með fólk sitt og dvaldist sjö ár í Filistalandi.

3Að sjö árunum liðnum kom konan aftur heim frá Filistalandi og lagði af stað til þess að biðja konung ásjár um hús sitt og akra. 4Konungur var þá að tala við Gehasí, þjón guðsmannsins, og sagði: "Seg mér af öllum stórmerkjunum, sem Elísa hefir gjört." 5Og er hann var að segja konungi, hvernig hann hefði lífgað hinn dána, þá kom konan, er soninn átti, sem hann hafði lífgað, og bað konung ásjár um hús sitt og akra. Þá sagði Gehasí: "Minn herra konungur! Þetta er konan, og þetta er sonur hennar, sá er Elísa lífgaði." 6Konungur spurði konuna, og sagði hún honum frá. Fékk konungur henni einn af hirðmönnunum og sagði við hann: "Sjá þú um, að hún fái aftur allt, sem hún á, svo og allan afrakstur akranna frá þeim degi, er hún fór úr landi, allt til þessa dags."


Elísa sér fyrir ógnir styrjalda

7Elísa kom til Damaskus. Þá lá Benhadad Sýrlandskonungur sjúkur. Og er honum var sagt: "Guðsmaðurinn er kominn hingað," 8þá sagði konungur við Hasael: "Tak með þér gjöf nokkra og far til fundar við guðsmanninn og lát hann ganga til frétta við Drottin, hvort ég muni aftur heill verða af sjúkleik þessum." 9Hasael fór þá til fundar við hann og tók með sér gjöf nokkra, alls konar gersemar úr Damaskus, klyfjar á fjörutíu úlfalda. Og er hann kom, gekk hann fyrir hann og mælti: "Sonur þinn, Benhadad Sýrlandskonungur, sendir mig til þín og lætur spyrja: ,Mun ég aftur heill verða af sjúkleik þessum?'"

10Elísa svaraði honum: "Far og seg honum: ,Víst munt þú heill verða,' þótt Drottinn hafi birt mér, að hann muni deyja." 11Og guðsmaðurinn starði fram fyrir sig og skelfdist harla mjög og grét.

12Þá sagði Hasael: "Hví grætur þú, herra minn?"

Hann svaraði: "Af því að ég veit, hvílíkt böl þú munir búa Ísraelsmönnum. Þú munt leggja eld í víggirtar borgir þeirra, drepa æskumenn þeirra með sverði, slá ungbörnum þeirra niður við og rista á kvið þungaðar konur þeirra."

13Hasael svaraði: "Hvað er þjónn þinn, hundurinn sá, að hann megi vinna slík stórvirki?"

Þá mælti Elísa: "Drottinn hefir sýnt mér þig svo sem konung yfir Sýrlandi."

14Síðan fór Hasael burt frá Elísa, og er hann kom til herra síns, sagði konungur við hann: "Hvað sagði Elísa við þig?"

Hann svaraði: "Hann sagði mér að þú mundir áreiðanlega heill verða." 15En daginn eftir tók Hasael ábreiðu, dýfði henni í vatn og breiddi hana yfir andlit honum, svo að hann kafnaði. Og Hasael tók ríki eftir hann.


Jóram konungur í Júda

16Á fimmta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs varð Jóram Jósafatsson konungur í Júda. 17Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. 18Hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabs ætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins. 19En Drottinn vildi ekki afmá Júda, vegna Davíðs þjóns síns, samkvæmt því, er hann hafði heitið honum, að gefa honum ávallt lampa fyrir augliti hans.

20Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig. 21Þá fór Jóram með öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins, og flýði liðið til heimkynna sinna. 22Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda, og er svo enn í dag. Þá braust og Líbna undan um sama leyti.

23Það sem meira er að segja um Jóram og allt sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 24Og Jóram lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs. Og Ahasía sonur hans tók ríki eftir hann.


Ahasía konungur í Júda

25Á tólfta ríkisári Jórams Akabssonar Ísraelskonungs tók ríki Ahasía, Jóramsson Júdakonungs. 26Ahasía var tuttugu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og ríkti hann eitt ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí Ísraelskonungs. 27Hann fetaði í fótspor Akabs ættar og gjörði það sem illt var í augum Drottins, eins og ætt Akabs, því að hann var í mægðum við ætt Akabs.

28Ahasía fór herför með Jóram Akabssyni í móti Hasael Sýrlandskonungi til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram. 29Þá sneri Jóram konungur aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann var sjúkur.


Jehú smurður til konungs

9
1Elísa spámaður kallaði einn af spámannasveinunum og sagði við hann: "Gyrð þú lendar þínar, tak þessa flösku af olífuolíu með þér og far til Ramót í Gíleað. 2Og er þú ert þangað kominn, skalt þú svipast þar um eftir Jehú Jósafatssyni, Nimsísonar. Gakk síðan til hans og bið hann standa upp frá félögum sínum og far með hann inn í innsta herbergið. 3Því næst skalt þú hella olífuolíunni yfir höfuð honum og segja: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.' Opna þú síðan dyrnar og flýt þér burt og dvel eigi." 4Fór þá sveinninn, sveinn spámannsins, til Ramót í Gíleað. 5En er hann kom þangað, sátu herforingjarnir þar saman. Og hann mælti: "Ég á erindi við þig, herforingi!"

Jehú svaraði: "Við hvern af oss?"

Hann svaraði: "Við þig, herforingi!" 6Þá stóð hann upp og gekk inn í húsið. Og hann hellti olíu yfir höfuð honum og sagði við hann: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég smyr þig til konungs yfir lýð Drottins, yfir Ísrael. 7Þú skalt útrýma ætt Akabs, herra þíns, svo að ég fái þann veg komið fram hefndum á Jesebel fyrir blóð þjóna minna, spámannanna, og fyrir blóð allra þjóna Drottins. 8Já, öll ætt Akabs skal fyrirfarast, og ég mun uppræta fyrir Akabsætt hvern karlmann, bæði þræl og frelsingja í Ísrael. 9Og ég mun fara með ætt Akabs eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar. 10En Jesebel skulu hundar eta í landareign Jesreelborgar, og enginn skal jarða hana." Síðan lauk hann upp hurðinni og flýtti sér burt.

11En er Jehú kom út til þjóna herra síns, sögðu þeir við hann: "Er nokkuð að? Hvers vegna er þessi vitfirringur til þín kominn?"

Hann svaraði þeim: "Þér þekkið manninn og tal hans."

12Þá sögðu þeir: "Það er ósatt mál! Seg oss það."

Þá sagði hann: "Svo og svo hefir hann við mig talað og sagt: ,Svo segir Drottinn: Ég smyr þig til konungs yfir Ísrael.'" 13Þá tóku þeir í skyndi hver sína yfirhöfn og lögðu fyrir fætur honum á sjálfar tröppurnar, þeyttu lúðurinn og hrópuðu: "Jehú er konungur orðinn!"


Jehú vegur Jóram og Ahasía

14Þannig hóf Jehú Jósafatsson, Nimsísonar, samsæri gegn Jóram, en Jóram og allur Ísrael hafði varið Ramót í Gíleað fyrir Hasael Sýrlandskonungi. 15En síðan hafði Jóram konungur snúið aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er Sýrlendingar höfðu veitt honum, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung.

Jehú mælti: "Ef þér viljið fylgja mér, þá látið engan undan komast út úr borginni til þess að segja tíðindin í Jesreel." 16Síðan steig Jehú á vagn sinn og hélt til Jesreel, því að þar lá Jóram, og Ahasía Júdakonungur var kominn þangað til að vitja um Jóram.

17Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: "Ég sé flokk manna."

Þá mælti Jóram: "Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði."

18Riddarinn fór í móti honum og sagði: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði."

Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."

Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur."

19Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði."

Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."

20Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður."

21Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta. 22En er Jóram sá Jehú, sagði hann: "Fer þú með friði, Jehú?"

Hann svaraði: "Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?"

23Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: "Svik, Ahasía!" 24En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum. 25Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: "Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum: 26,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.' Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins."

27Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: "Hann líka! Skjótið hann í vagninum!" Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar. 28Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs. 29En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar.


Jesebel deyr

30Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann. 31Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: "Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?"

32En hann leit upp í gluggann og mælti: "Hver er með mér, hver?" Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans, 33sagði hann: "Kastið henni ofan!" Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum. 34En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: "Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún." 35Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur. 36Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: "Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar, 37og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel.'"


Jehú útrýmir óvinum sínum

10
1Í Samaríu voru sjötíu synir Akabs. Og Jehú skrifaði bréf og sendi þau til Samaríu til höfðingja borgarinnar og til öldunganna og þeirra, sem fóstruðu sonu Akabs. Þau voru á þessa leið:

2"Þá er þér fáið þetta bréf, þér sem hafið hjá yður sonu herra yðar og hafið yfir að ráða vögnum og hestum, víggirtum borgum og hervopnum, 3þá veljið hinn besta og hæfasta af sonum herra yðar og setjið hann í hásæti föður síns og berjist fyrir ætt herra yðar."

4Þeir urðu mjög hræddir og sögðu: "Sjá, tveir konungar fengu eigi reist rönd við honum, hvernig skyldum vér þá fá staðist?" 5Þá sendu þeir dróttseti, borgarstjóri, öldungarnir og fóstrarnir til Jehú og létu segja honum: "Vér erum þínir þjónar, og vér viljum gjöra allt, sem þú býður oss. Vér munum engan til konungs taka. Gjör sem þér vel líkar."

6Þá skrifaði hann þeim annað bréf á þessa leið: "Ef þér viljið fylgja mér og hlýða skipun minni, þá takið höfuðin af sonum herra yðar og komið til mín í þetta mund á morgun til Jesreel." En synir konungsins, sjötíu manns, voru hjá stórmennum borgarinnar, er ólu þá upp. 7En er bréfið kom til þeirra, tóku þeir konungssonu og slátruðu þeim, sjötíu manns, og lögðu höfuð þeirra í körfur og sendu honum til Jesreel.

8Og er sendimaður kom og sagði Jehú, að þeir væru komnir með höfuð konungssona, þá sagði hann: "Leggið þau í tvær hrúgur úti fyrir borgarhliðinu til morguns." 9En um morguninn fór hann út þangað, gekk fram og mælti til alls lýðsins: "Þér eruð saklausir. Sjá, ég hefi hafið samsæri í gegn herra mínum og drepið hann, en hver hefir unnið á öllum þessum? 10Kannist þá við, að ekkert af orðum Drottins hefir fallið til jarðar, þau er hann talaði gegn ætt Akabs. Drottinn hefir framkvæmt það, er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía." 11Og Jehú drap alla þá, er eftir voru af ætt Akabs í Jesreel, svo og alla höfðingja hans, vildarmenn og presta, svo að enginn varð eftir, sá er undan kæmist.

12Síðan tók Jehú sig upp og fór til Samaríu. Og er hann kom til Bet Eked Haróím við veginn, 13þá mætti hann bræðrum Ahasía Júdakonungs og sagði: "Hverjir eruð þér?"

Þeir svöruðu: "Vér erum bræður Ahasía og ætlum að heimsækja konungssonu og sonu konungsmóður."

14Þá sagði hann: "Takið þá höndum lifandi." Og þeir tóku þá höndum lifandi og slátruðu þeim og fleygðu þeim í gryfjuna hjá Bet Eked, fjörutíu og tveimur mönnum, og var enginn af þeim eftir skilinn.

15Og er hann fór þaðan, hitti hann Jónadab Rekabsson, er kom í móti honum. Hann heilsaði honum og sagði við hann: "Ert þú einlægur við mig, eins og ég er við þig?"

Jónadab svaraði: "Svo er víst."

Þá mælti Jehú: "Ef svo er, þá rétt mér hönd þína." Þá rétti hann honum hönd sína, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín 16og mælti: "Kom með mér, þá skalt þú fá að sjá, hversu ég vandlæti vegna Drottins." Síðan lét hann hann fara með sér á vagni sínum. 17Og er hann var kominn til Samaríu, drap hann alla, er eftir voru af Akabsætt í Samaríu, uns hann hafði gjöreytt þeim, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað til Elía.

18Því næst stefndi Jehú saman öllum lýðnum og sagði við þá: "Akab dýrkaði Baal slælega, Jehú mun dýrka hann betur. 19Kallið því til mín alla spámenn Baals, alla dýrkendur hans og alla presta hans. Engan má vanta, því að ég ætla að halda blótveislu mikla fyrir Baal. Skal enginn sá lífi halda, er lætur sig vanta." En þar beitti Jehú brögðum til þess að tortíma dýrkendum Baals. 20Og Jehú sagði: "Boðið hátíðasamkomu fyrir Baal." Þeir gjörðu svo. 21Og Jehú sendi um allan Ísrael. Þá komu allir dýrkendur Baals, svo að enginn var eftir, sá er eigi kæmi. Og þeir gengu í musteri Baals, og musteri Baals varð fullt enda á milli. 22Síðan sagði hann við umsjónarmann fatabúrsins: "Tak út klæði handa öllum dýrkendum Baals." Og hann tók út klæði handa þeim. 23Síðan gekk Jehú og Jónadab Rekabsson með honum í musteri Baals, og hann sagði við dýrkendur Baals: "Gætið að og lítið eftir, að eigi sé hér meðal yðar neinn af þjónum Drottins, heldur dýrkendur Baals einir."

24Síðan gekk hann inn til þess að færa sláturfórnir og brennifórnir. En Jehú hafði sett áttatíu manns fyrir utan dyrnar og sagt: "Hver sá er lætur nokkurn af mönnum þeim, er ég fæ yður í hendur, sleppa undan, hann skal láta sitt líf fyrir hans líf."

25Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina, sagði hann við varðliðsmennina og riddarana: "Gangið inn og brytjið þá niður, enginn má út komast." Og þeir brytjuðu þá niður með sverði og köstuðu þeim út. Og varðliðsmennirnir og riddararnir ruddust alla leið inn í innhús Baalsmusterisins 26og tóku asérurnar út úr musteri Baals og brenndu þær. 27Og þeir rifu niður merkisstein Baals, rifu síðan musteri Baals og gjörðu úr því náðhús, og er svo enn í dag.

28Þannig útrýmdi Jehú allri Baalsdýrkun í Ísrael. 29En af syndum Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, af þeim lét Jehú ekki - dýrkun gullkálfanna í Betel og í Dan. 30Og Drottinn sagði við Jehú: "Með því að þú hefir leyst vel af hendi það, er rétt var í mínum augum, og farið alveg mér að skapi með ætt Akabs, þá skulu niðjar þínir í fjórða lið sitja í hásæti Ísraels." 31En Jehú hirti eigi um að breyta eftir lögmáli Drottins, Ísraels Guðs, af öllu hjarta sínu. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.


Dauði Jehús

32Um þessar mundir byrjaði Drottinn að sneiða af Ísrael. Hasael vann sigur á þeim á öllum landamærum Ísraels. 33Frá Jórdan austur á bóginn lagði hann undir sig allt Gíleaðland, Gaðíta, Rúbeníta og Manassíta, frá Aróer, sem er við Arnoná, bæði Gíleað og Basan.

34En það sem meira er að segja um Jehú og allt, sem hann gjörði, og öll hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 35Og Jehú lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var hann grafinn í Samaríu. Og Jóahas sonur hans tók ríki eftir hann. 36En sá tími, er Jehú ríkti yfir Ísrael í Samaríu, voru tuttugu og átta ár.


Atalía kóngamóðir ríkir í Júda

11
1Þá er Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsættina. 2Þá tók Jóseba, dóttir Jórams konungs, systir Ahasía, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig leyndi hún honum fyrir Atalíu, svo að hann var ekki drepinn. 3Og hann var hjá henni á laun sex ár í musteri Drottins, meðan Atalía ríkti yfir landinu.


Jóas tekinn til konungs í Júda

4En á sjöunda ári sendi Jójada prestur menn og lét sækja hundraðshöfðingja lífvarðarins og varðliðsins og lét þá koma til sín í musteri Drottins. Og hann gjörði við þá sáttmála og lét þá vinna eið í musteri Drottins. Síðan sýndi hann þeim konungsson 5og lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð halda vörð í konungshöllinni. 6Skal einn þriðjungurinn vera í Súrhliði, annar í hliðinu bak við varðliðsmennina, svo að þér haldið vörð í konungshöllinni. 7Og báðir hinir þriðjungsflokkar yðar, allir þeir, er fara út hvíldardaginn til þess að halda vörð í musteri Drottins hjá konunginum, 8þér skuluð fylkja yður um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast gegnum raðirnar, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann fer út og þegar hann kemur heim."

9Hundraðshöfðingjarnir fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn og komu til Jójada prests. 10Og presturinn fékk hundraðshöfðingjunum spjótin og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Drottins. 11Og varðliðsmennirnir námu staðar, allir með vopn í hendi, allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið þess, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu. 12Þá leiddi hann konungsson fram og setti á hann kórónuna og hringana. Tóku þeir hann til konungs og smurðu hann, klöppuðu lófum saman og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

13En er Atalía heyrði ópið í varðliðsmönnunum og lýðnum, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins. 14Sá hún þá, að konungur stóð við súluna, svo sem siður var til, og hún sá höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana. Þá reif Atalía klæði sín og kallaði: "Samsæri, samsæri!"

15En Jójada prestur bauð hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna og drepið með sverði hvern, sem fer á eftir henni." Því að prestur hafði sagt: ,Eigi skal hana drepa í musteri Drottins.' 16Síðan lögðu þeir hendur á hana, og er hún var komin inn í konungshöllina um hrossahliðið, var hún drepin þar.

17Jójada gjörði sáttmála milli Drottins og konungs og lýðsins, að þeir skyldu vera lýður Drottins, svo og milli konungs og lýðsins. 18Síðan fór allur landslýður inn í musteri Baals og reif það. Ölturu hans og líkneskjur molbrutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum.

Síðan setti prestur varðflokka við musteri Drottins, 19og hann tók hundraðshöfðingjana, lífvörðinn og varðliðsmennina og allan landslýðinn, og fóru þeir með konung ofan frá musteri Drottins og gengu um varðliðshliðið inn í konungshöllina, og hann settist í konungshásætið. 20Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði í konungshöllinni.


Jóas skerðir völd presta

21Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur.


12
1Á sjöunda ríkisári Jehú varð Jóas konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba. 2Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins alla ævi sína, af því að Jójada prestur hafði kennt honum. 3Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

4Og Jóas sagði við prestana: "Allt fé, sem borið er í musteri Drottins sem helgigjafir, fé, sem lagt er á einhvern eftir mati - fé, sem menn eru metnir eftir - svo og allt það fé, sem einhver af eigin hvötum ber í musteri Drottins, 5skulu prestarnir taka til sín, hver af sínum ráðunaut. En þeir skulu og með því gjöra við skemmdir á musterinu, allar skemmdir, sem á því finnast."

6En á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar konungs höfðu prestarnir enn ekki gjört við skemmdir á musterinu. 7Þá lét Jóas konungur kalla Jójada yfirprest og hina prestana og mælti til þeirra: "Hvers vegna gjörið þér ekki við skemmdir á musterinu? Nú skuluð þér eigi framar taka við neinu fé af ráðunautum yðar, heldur skuluð þér láta það af hendi fyrir skemmdum á musterinu." 8Og prestarnir gengu að þeim kostum að taka ekki við fé af lýðnum, en vera og eigi skyldir að gjöra við skemmdir á musterinu.

9Síðan tók Jójada prestur kistu nokkra, boraði gat á lokið og setti hana hjá altarinu, hægra megin, þegar gengið er inn í musteri Drottins, og létu prestarnir, þeir er geymdu inngöngudyra, í hana allt það fé, er borið var í musteri Drottins. 10Og er þeir sáu, að mikið fé var komið í kistuna, kom kanslari konungs þangað og æðsti presturinn, og bundu þeir saman allt fé, sem fannst í musteri Drottins, og töldu það. 11Fengu þeir síðan féð, er vegið hafði verið, verkstjórunum í hendur, þeim er höfðu umsjón með musteri Drottins, en þeir greiddu það trésmiðunum og byggingamönnunum, er störfuðu við musteri Drottins, 12svo og múrurunum og steinsmiðunum og til þess að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við skemmdir á musteri Drottins, og til alls sem borga þurfti fyrir viðgjörð á musterinu. 13Þó voru eigi gjörðir neinir silfurkatlar, skarbítar, fórnarskálar, lúðrar né nokkurs konar áhöld úr gulli eða silfri í musteri Drottins, af fé því, sem borið var í musteri Drottins, 14heldur fengu menn það verkamönnunum, til þess að þeir fyrir það gjörðu við musteri Drottins. 15En ekki héldu menn reikning við menn þá, er þeir fengu féð í hendur, til þess að þeir greiddu það verkamönnunum, heldur gjörðu þeir það upp á æru og trú. 16En sektarfórnarféð og syndafórnarféð var eigi borið í musteri Drottins. Það áttu prestarnir.

17Um þær mundir kom Hasael Sýrlandskonungur, herjaði á Gat og vann hana. En er Hasael ætlaði að fara til Jerúsalem, 18þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafir þær, er þeir Jósafat, Jóram og Ahasía forfeður hans, Júdakonungar, höfðu helgað, svo og helgigjafir sínar og allt gullið, er til var í fjárhirslum musteris Drottins og konungshallarinnar, og sendi það Hasael Sýrlandskonungi. Hætti hann þá við að fara til Jerúsalem.

19En það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

20Þjónar Jóasar hófust handa, gjörðu samsæri og drápu Jóas í Milló-húsi, þar sem gatan liggur niður til Silla. 21Þeir Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, þjónar hans, unnu á honum, og hann var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.


Jóahas konungur í Ísrael

13
1Á tuttugasta og þriðja ríkisári Jóasar Ahasíasonar Júdakonungs varð Jóahas Jehúson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti seytján ár. 2Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði sömu syndirnar og Jeróbóam Nebatsson, þær er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann lét ekki af þeim. 3Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá í hendur Hasael Sýrlandskonungi og Benhadad syni Hasaels allan þann tíma. 4En Jóahas blíðkaði Drottin, og Drottinn bænheyrði hann, því að hann sá ánauð Ísraels, hversu Sýrlandskonungur kúgaði þá. 5Og Drottinn sendi Ísrael hjálparmann, svo að þeir losnuðu undan valdi Sýrlendinga, og Ísraelsmenn bjuggu í tjöldum sínum sem áður. 6Þó létu þeir eigi af syndum Jeróbóams ættar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Þeir héldu áfram að drýgja þær. Aséran stóð og kyrr í Samaríu. 7Jóahas átti ekkert lið eftir nema fimmtíu riddara, tíu vagna og tíu þúsund fótgönguliða, því að Sýrlandskonungur hafði gjöreytt þeim og gjört þá sem ryk við þreskingu.

8Það sem meira er að segja um Jóahas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 9Og Jóahas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og hann var grafinn í Samaríu. Og Jóas sonur hans tók ríki eftir hann.


Jóas konungur í Ísrael

10Á þrítugasta og sjöunda ríkisári Jóasar Júdakonungs varð Jóas Jóahasson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sextán ár. 11Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. Hann hélt áfram að drýgja þær.

12Það sem meira er að segja um Jóas og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann háði ófrið við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 13Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jeróbóam settist í hásæti hans. Og Jóas var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum.


Elísa deyr

14Elísa tók sótt, er leiddi hann til bana. Fór þá Jóas konungur í Ísrael ofan til hans, grét yfir honum og sagði: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!"

15En Elísa sagði við hann: "Tak boga og örvar." Og hann færði honum boga og örvar. 16Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Legg hönd þína á bogann." Hann gjörði svo. Þá lagði Elísa hendur sínar ofan á hendur konungs. 17Síðan mælti hann: "Opna þú gluggann gegnt austri." Og hann gjörði svo. Þá sagði Elísa: "Skjót!" Og hann skaut. Og Elísa mælti: "Sigurör frá Drottni! Já, sigurör yfir Sýrlendingum! Þú munt vinna sigur á Sýrlendingum í Afek, uns þeir eru gjöreyddir." 18Síðan sagði hann: "Tak örvarnar." Og hann tók þær. Þá sagði hann við Ísraelskonunginn: "Slá þú á jörðina." Og hann sló þrisvar sinnum, en hætti síðan. 19Þá gramdist guðsmanninum við hann og sagði: "Þú hefðir átt að slá fimm eða sex sinnum, þá mundir þú hafa unnið sigur á Sýrlendingum, uns þeir hefðu verið gjöreyddir, en nú munt þú aðeins vinna þrisvar sinnum sigur á Sýrlendingum."

20Elísa dó og var grafinn. En ræningjaflokkar frá Móab brutust þá inn í landið á ári hverju. 21Og svo bar við, er verið var að grafa mann nokkurn, að menn komu allt í einu auga á ræningjaflokk. Fleygðu þeir þá manninum í gröf Elísa og höfðu sig á brott. En er maðurinn snart bein Elísa, þá lifnaði hann og reis á fætur.

22Hasael Sýrlandskonungur kreppti að Ísrael alla ævi Jóahasar. 23En Drottinn miskunnaði þeim og sá aumur á þeim og sneri sér til þeirra sakir sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. Vildi hann eigi, að þeir skyldu tortímast, hafði og eigi útskúfað þeim frá augliti sínu til þessa. 24Og er Hasael Sýrlandskonungur var dáinn og Benhadad sonur hans hafði tekið ríki eftir hann, 25þá tók Jóas Jóahasson borgirnar aftur frá Benhadad Hasaelssyni, þær er Hasael hafði tekið frá Jóahas föður hans í ófriði. Vann Jóas þrisvar sinnum sigur á honum og náði aftur borgum Ísraels.Konungsríkin tvö fram að falli Norðurríkisins


Amasía konungur í Júda

14
1Á öðru ríkisári Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs varð Amasía Jóasson konungur í Júda. 2Hann var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem. 3Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, þó eigi eins og Davíð forfaðir hans. Hann breytti í alla staði eins og Jóas faðir hans hafði breytt. 4Aðeins voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

5En er Amasía var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans. 6En börn morðingjanna lét hann ekki af lífi taka, samkvæmt því, sem skrifað er í lögmálsbók Móse, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: ,Feður skulu ekki líflátnir verða ásamt börnunum, og börn skulu ekki líflátin verða ásamt feðrunum, heldur skal hver líflátinn verða fyrir sína eigin synd.' 7Það var hann, sem vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tíu þúsundum manns, og tók Sela herskildi og nefndi hana Jokteel, og heitir hún svo enn í dag.

8Þá gjörði Amasía sendimenn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar Ísraelskonungs með svolátandi orðsending: "Nú skulum við reyna með okkur." 9Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: "Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: ,Gef þú syni mínum dóttur þína að konu.' En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur. 10Af því að þú vannst mikinn sigur á Edómítum, hefir þú fyllst ofmetnaði. Njót þú frægðarinnar og sit kyrr heima. Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?"

11En Amasía gaf þessu engan gaum. Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er tilheyrir Júda. 12Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima. 13En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Ahasíasonar, í Bet Semes og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir. 14Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Drottins og í fjárhirslum konungshallarinnar, svo og gísla, og sneri síðan aftur heim til Samaríu.

15Það sem meira er að segja um Jóas, það sem hann gjörði og hreystiverk hans og hversu hann barðist við Amasía Júdakonung, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16Og Jóas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Jeróbóam sonur hans tók ríki eftir hann.

17En Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs. 18En það sem meira er að segja um Amasía, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

19Og menn gjörðu samsæri gegn Amasía í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís. En þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar. 20Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn í Jerúsalem hjá feðrum sínum í Davíðsborg. 21Þá tók allur Júdalýður Asaría, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans. 22Hann víggirti Elat og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum.


Jeróbóam II konungur í Ísrael

23Á fimmtánda ríkisári Amasía Jóassonar Júdakonungs varð Jeróbóam, sonur Jóasar Ísraelskonungs, konungur í Samaríu og ríkti fjörutíu og eitt ár. 24Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins. Lét hann eigi af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 25Hann vann aftur Ísraelsland, þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að vatninu á sléttlendinu, samkvæmt orði Drottins, Ísraels Guðs, því er hann hafði talað fyrir munn þjóns síns, Jónasar spámanns Amíttaísonar frá Gat Hefer.

26Drottinn hafði séð, að eymd Ísraels var mjög beisk. Þrælar og frelsingjar voru horfnir, og enginn var sá, er hjálpaði Ísrael. 27En þó hafði Drottinn ekki sagt, að hann mundi afmá nafn Ísraels af jörðinni, enda frelsaði hann þá fyrir Jeróbóam Jóasson.

28Það sem meira er að segja um Jeróbóam og allt, sem hann gjörði, og hreystiverk hans, hversu hann herjaði og hversu hann vann aftur Damaskus og Hamat, er fyrrum tilheyrði Júda, undir Ísrael, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 29Og Jeróbóam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í Samaríu hjá Ísraelskonungum. Og Sakaría sonur hans tók ríki eftir hann.


Asaría (Ússía) konungur í Júda

15
1Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Jeróbóams Ísraelskonungs tók ríki Asaría sonur Amasía Júdakonungs. 2Hann var sextán vetra gamall, er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem. 3Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans. 4Þó voru fórnarhæðirnar eigi afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. 5Og Drottinn sló konung, svo að hann varð líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni, einn sér, en Jótam konungsson veitti forstöðu höllinni og dæmdi mál landsmanna.

6Það sem meira er að segja um Asaría og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 7Og Asaría lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.


Sakaría konungur í Ísrael

8Á þrítugasta og áttunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sex mánuði. 9Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört höfðu forfeður hans. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 10Sallúm Jabesson hóf samsæri gegn honum og drap hann í Jibleam og tók ríki eftir hann.

11Það sem meira er að segja um Sakaría, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 12Rættist þannig orð Drottins, það er hann hafði talað til Jehú: ,Niðjar þínir í fjórða lið skulu sitja í hásæti Ísraels.' Og það varð svo.


Sallúm konungur í Ísrael

13Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda ríkisári Ússía Júdakonungs og ríkti mánaðartíma í Samaríu. 14Þá fór Menahem Gadíson frá Tirsa, kom til Samaríu og drap Sallúm Jabesson í Samaríu og tók ríki eftir hann.

15Það sem meira er að segja um Sallúm og samsærið, sem hann hóf, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 16Þá eyddi Menahem Tappúa og öllu, sem í henni var, og allt landið umhverfis hana frá Tirsa, af því að menn höfðu eigi lokið borgarhliðum upp fyrir honum, og allar þungaðar konur í borginni lét hann rista á kvið.


Menahem konungur í Ísrael

17Á þrítugasta og níunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael og ríkti tíu ár í Samaríu. 18Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 19Á hans dögum réðst Púl Assýríukonungur inn í landið, og Menahem gaf Púl þúsund talentur silfurs til liðsinnis við sig og til þess að tryggja konungdóm sinn. 20Bauð Menahem öllum Ísrael, öllum auðmönnum, að greiða Assýríukonungi féð: fimmtíu sikla silfurs hverjum. Sneri þá Assýríukonungur heim aftur og hafði eigi lengri dvöl þar í landi.

21Það sem meira er að segja um Menahem og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga. 22Og Menahem lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Pekaja sonur hans tók ríki eftir hann.


Pekaja konungur í Ísrael

23Á fimmtugasta ríkisári Asaría Júdakonungs varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tvö ár. 24Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja. 25Peka Remaljason riddari hans hóf samsæri gegn honum og drap hann í Samaríu, í vígi konungshalllarinnar, ásamt Argób og Arje, og voru fimmtíu manns af Gíleaðítum með honum. Og er hann hafði stytt honum aldur, tók hann ríki eftir hann.

26Það sem meira er að segja um Pekaja og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.


Peka konungur í Ísrael

27Á fimmtugasta og öðru ríkisári Asaría Júdakonungs varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tuttugu ár. 28Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

29Á dögum Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kedes, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og herleiddi íbúana til Assýríu. 30Þá hóf Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og tók ríki eftir hann, á tuttugasta ríkisári Jótams Ússíasonar.

31Það sem meira er að segja um Peka og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.


Jótam konungur í Júda

32Á öðru ríkisári Peka Remaljasonar Ísraelskonungs tók ríki Jótam, sonur Ússía Júdakonungs. 33Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir. 34Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans. 35Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins.

36Það sem meira er að segja um Jótam og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

37Um þær mundir tók Drottinn að hleypa þeim Resín Sýrlandskonungi og Peka Remaljasyni á Júda. 38Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.


Akas gerist lýðskyldur Assýríukonungi

16
1Á seytjánda ríkisári Peka Remaljasonar tók ríki Akas, sonur Jótams Júdakonungs. 2Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans, 3heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 4Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.

5Í þann tíma fóru þeir Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til þess að herja á hana. Settust þeir um Akas, en fengu eigi unnið hann.

6Um þær mundir vann Resín Sýrlandskonungur Elat aftur undir Edóm og rak Júdamenn burt frá Elat, en Edómítar komu til Elat og hafa búið þar fram á þennan dag.

7Akas gjörði sendimenn á fund Tíglat Pílesers Assýríukonungs og lét segja honum: "Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig." 8Og Akas tók silfrið og gullið, sem var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi Assýríukonungi að gjöf.

9Assýríukonungur tók vel máli hans. Síðan fór Assýríukonungur herför til Damaskus, tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka.


Akas tekur upp assýríska trúarsiði

10Akas konungur fór nú til Damaskus til fundar við Tíglat Píleser Assýríukonung og sá þá altarið, er var í Damaskus. Sendi þá Akas konungur Úría presti uppdrátt og fyrirmynd af altarinu, er var alveg eins og það. 11Og Úría prestur reisti altarið. Gjörði Úría prestur með öllu svo sem Akas konungur hafði sent boð um frá Damaskus, áður en hann kom frá Damaskus.

12Þá er konungur kom frá Damaskus og leit altarið, þá gekk hann að altarinu og 13fórnaði á því brennifórn sinni og matfórn, dreypti dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórna sinna á altarið. 14En eiraltarið, er stóð frammi fyrir Drottni, færði hann þaðan sem það var fyrir framan musterið, milli nýja altarisins og musteris Drottins, og setti það að norðanverðu við altarið. 15Og Akas konungur lagði svo fyrir Úría prest: "Á stóra altarinu skalt þú fórna morgunbrennifórninni og kvöldmatfórninni, brennifórn konungs og matfórn hans, brennifórnum allrar alþýðu í landinu og matfórnum hennar og dreypifórnum. Og öllu blóði brennifórnanna og öllu blóði sláturfórnanna skalt þú stökkva á það. En um eiraltarið ætla ég að skoða huga minn." 16Og Úría prestur gjörði allt svo sem Akas konungur hafði boðið.

17Akas konungur lét og brjóta speldin af vögnum kerlauganna og tók kerin ofan af þeim. Þá lét hann og taka hafið ofan af eirnautunum, er undir því stóðu, og setja á steingólfið. 18Og hvíldardagsganginn, er tjaldaður var, og þeir höfðu gjört í musterinu, og ytri konungsganginn tók hann burt úr musteri Drottins til þess að þóknast Assýríukonungi.

19Það sem meira er að segja um Akas og það, er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 20Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.


Ísraelsríki líður undir lok

17
1Á tólfta ríkisári Akasar Júdakonungs varð Hósea Elason konungur í Samaríu yfir Ísrael og ríkti níu ár. 2Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og Ísraelskonungar þeir, er verið höfðu á undan honum.

3Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt. 4En er Assýríukonungur varð þess var, að Hósea bjó yfir svikum við hann, þar sem hann gjörði menn á fund Só Egyptalandskonungs og greiddi Assýríukonungi eigi framar árlega skattinn, eins og verið hafði, þá tók Assýríukonungur hann höndum og lét fjötra hann í dýflissu. 5Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár. 6En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda.

7Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði. 8Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett. 9Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum. 10Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré 11og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði. 12Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.'

13Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.' 14En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum. 15Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim. 16Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal. 17Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði. 18Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein.

19Júdamenn héldu ekki heldur boðorð Drottins, Guðs síns. Þeir fóru að siðum Ísraelsmanna, er þeir sjálfir höfðu sett. 20Fyrir því hafnaði Drottinn öllu Ísraels kyni og auðmýkti þá og gaf þá í hendur ræningjum, þar til er hann útskúfaði þeim frá augliti sínu.

21Þegar Drottinn hafði slitið Ísrael frá ætt Davíðs og þeir höfðu tekið Jeróbóam Nebatsson til konungs, þá tældi Jeróbóam Ísrael til að snúa sér frá Drottni og kom þeim til að drýgja mikla synd. 22Og Ísraelsmenn drýgðu allar sömu syndirnar, sem Jeróbóam hafði drýgt. Þeir létu eigi af þeim, 23þar til er Drottinn rak Ísrael burt frá augliti sínu, eins og hann hafði sagt fyrir munn allra þjóna sinna, spámannanna. Þannig var Ísrael herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu og hefir verið þar fram á þennan dag.


Ísraelsmenn herleiddir og framandi þjóðir fluttar í þeirra stað

24Assýríukonungur flutti inn fólk frá Babýloníu, frá Kúta, frá Ava, frá Hamat og frá Sefarvaím og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Tóku þeir Samaríu til eignar og settust að í borgum hennar. 25En með því að þeir dýrkuðu ekki Drottin, fyrst eftir að þeir voru sestir þar að, þá sendi Drottinn ljón meðal þeirra. Ollu þau manntjóni meðal þeirra. 26Þá sögðu menn svo við Assýríukonung: "Þjóðirnar, er þú fluttir burt og lést setjast að í borgum Samaríu, vita eigi, hver dýrkun landsguðnum ber. Fyrir því hefir hann sent ljón meðal þeirra, og sjá, þau deyða þá, af því að þeir vita ekki, hvað landsguðnum ber." 27Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: "Látið einn af prestunum fara þangað, þeim er ég flutti burt þaðan, að hann fari og setjist þar að og kenni þeim, hver dýrkun landsguðnum ber." 28Þá kom einn af prestunum, þeim er þeir höfðu flutt burt úr Samaríu, og settist að í Betel. Hann kenndi þeim, hvernig þeir ættu að dýrka Drottin.


Samverjar og átrúnaður þeirra

29Samverjar gjörðu sér sína guði, hver þjóðflokkur út af fyrir sig, og settu þá í hæðahofin, er þeir höfðu reist, hver þjóðflokkur út af fyrir sig í sínum borgum, þeim er þeir bjuggu í. 30Babýloníumenn gjörðu líkneski af Súkkót Benót, Kútmenn gjörðu líkneski af Nergal, Hamatmenn gjörðu líkneski af Asíma, 31Avítar gjörðu líkneski af Nibkas og Tartak, en Sefarvítar brenndu börn sín til handa Adrammelek og Anammelek, Sefarvaím-guðum. 32Þeir dýrkuðu einnig Drottin og gjörðu menn úr sínum hóp að hæðaprestum. Báru þeir fram fórnir fyrir þá í hæðahofunum. 33Þannig dýrkuðu þeir Drottin, en þjónuðu einnig sínum guðum að sið þeirra þjóða, er þeir höfðu verið fluttir frá. 34Fram á þennan dag fara þeir að fornum siðum.

Þeir dýrka ekki Drottin og breyta ekki eftir lögum hans og ákvæðum og lögmáli því og boðorði, er Drottinn lagði fyrir sonu Jakobs, þess er hann gaf nafnið Ísrael. 35En Drottinn hafði gjört sáttmála við þá og boðið þeim á þessa leið: ,Þér skuluð eigi dýrka neina aðra guði, eigi falla fram fyrir þeim, eigi þjóna þeim né færa þeim fórnir, 36en Drottin, sem leiddi yður af Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armlegg - hann skuluð þér dýrka, fyrir honum skuluð þér falla fram og honum skuluð þér fórnir færa. 37En lög þau og ákvæði, lögmál og boðorð, er hann hefir ritað handa yður, skuluð þér varðveita, svo að þér haldið þau alla daga, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði. 38Og sáttmálanum, er ég hefi við yður gjört, skuluð þér ekki gleyma, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði, 39en Drottin, Guð yðar, skuluð þér dýrka, og mun hann þá frelsa yður af hendi allra óvina yðar.' 40Samt hlýddu þeir ekki, heldur fóru þeir að fornum siðum.

41Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu.Konungsríkið Júda fram að herleiðingu


Hiskía konungur í Júda

18
1Á þriðja ríkisári Hósea Elasonar Ísraelskonungs tók ríki Hiskía Akasson Júdakonungs. 2Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Abía Sakaríadóttir. 3Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, að öllu svo sem gjört hafði Davíð forfaðir hans.

4Hann afnam fórnarhæðirnar, braut merkissteinana, hjó í sundur aséruna og mölvaði eirorminn, þann er Móse hafði gjöra látið, því að allt til þess tíma höfðu Ísraelsmenn fært honum reykelsisfórnir, og var hann nefndur Nehústan.

5Hiskía treysti Drottni, Ísraels Guði, svo að eftir hann var enginn honum líkur meðal allra Júdakonunga og eigi heldur neinn þeirra, er á undan honum höfðu verið. 6Hann hélt sér fast við Drottin, veik eigi frá honum og varðveitti boðorð hans, þau er Drottinn hafði lagt fyrir Móse. 7Og Drottinn var með honum. Í öllu því, er hann tók sér fyrir hendur, var hann lánsamur. Hann braust undan Assýríukonungi og var ekki lengur lýðskyldur honum. 8Hann vann og sigur á Filistum alla leið til Gasa og eyddi landið umhverfis hana, jafnt varðmannaturna sem víggirtar borgir.

9En á fjórða ríkisári Hiskía konungs - það er á sjöunda ríkisári Hósea Elasonar Ísraelskonungs - fór Salmaneser Assýríukonungur herför gegn Samaríu og settist um hana. 10Unnu þeir hana eftir þrjú ár. Á sjötta ríkisári Hiskía - það er á níunda ríkisári Hósea Ísraelskonungs - var Samaría unnin. 11Og Assýríukonungur herleiddi Ísrael til Assýríu og lét þá setjast að í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda, 12af því að þeir höfðu ekki hlýtt raustu Drottins, Guðs þeirra, heldur rofið sáttmála hans, allt það er Móse, þjónn Drottins, hafði boðið. Þeir höfðu hvorki hlýtt því né breytt eftir því.


Herför Sanheríbs til Jerúsalem

13Á fjórtánda ríkisári Hiskía konungs fór Sanheríb Assýríukonungur herför gegn öllum víggirtum borgum í Júda og vann þær. 14Þá sendi Hiskía Júdakonungur boð til Assýríukonungs til Lakís og lét segja honum: "Ég hefi syndgað, far aftur burt frá mér. Mun ég greiða þér slíkt gjald, er þú á mig leggur." Þá lagði Assýríukonungur þrjú hundruð talentur silfurs og þrjátíu talentur gulls á Hiskía Júdakonung. 15Greiddi þá Hiskía allt silfur, er til var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar. 16Um þær mundir tók Hiskía gullið af dyrunum á musteri Drottins og af dyrastöfunum, er Hiskía Júdakonungur hafði lagt þá með, og fékk Assýríukonungi.

17Þá sendi Assýríukonungur yfirhershöfðingja sinn, höfuðsmann og marskálk með miklu liði frá Lakís til Jerúsalem á fund Hiskía konungs. Fóru þeir af stað og komu til Jerúsalem og námu staðar hjá vatnsstokknum úr efri tjörninni, sem er við veginn út á bleikivöllinn. 18Og er þeir komu á fund konungs, þá gengu þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari út til þeirra.

19Marskálkur konungs mælti til þeirra: "Segið Hiskía: Svo segir hinn mikli konungur, Assýríukonungur: Hvert er það athvarf, er þú treystir á? 20Þú hyggur víst, að munnfleiprið eitt sé næg ráðagerð og liðstyrkur til hernaðar. Á hvern treystir þú þá svo, að þú skulir hafa gjört uppreisn í gegn mér? 21Nú, þú treystir þá á þennan brotna eirstaf, á Egyptaland! Hann stingst upp í höndina á hverjum þeim, er við hann styðst, og fer í gegnum hana. Slíkur er Faraó Egyptalandskonungur öllum þeim, er á hann treysta. 22Og ef þér segið við mig: ,Vér treystum á Drottin, Guð vorn,' eru það þá ekki fórnarhæðir hans og ölturu, sem Hiskía hefir numið burt, er hann sagði við Júdamenn og Jerúsalembúa: ,Fyrir þessu altari skuluð þér fram falla í Jerúsalem?' 23Kom til og veðja við herra minn, Assýríukonunginn: Ég skal fá þér tvö þúsund hesta, ef þú getur sett riddara á þá. 24Hvernig munt þú fá rekið af höndum þér einn höfuðsmann meðal hinna minnstu þjóna herra míns? Og þó treystir þú á Egyptaland vegna hervagnanna og riddaranna! 25Hvort mun ég nú hafa farið til þessa staðar án vilja Drottins til þess að eyða hann? Drottinn sagði við mig: ,Far þú inn í þetta land og eyð það.'"

26Þá sögðu þeir Eljakím Hilkíason, Sébna og Jóak við marskálk konungs: "Tala þú við þjóna þína á arameísku, því að vér skiljum hana, en tala eigi við oss á Júda tungu í áheyrn fólksins, sem uppi er á borgarveggnum."

27En marskálkurinn sagði við þá: "Hefir herra minn sent mig til herra þíns eða til þín til þess að flytja þetta erindi? Hefir hann ekki sent mig til þeirra manna, sem þar sitja uppi á borgarveggnum og eiga þann kost fyrir höndum ásamt yður að eta sinn eigin saur og drekka þvag sitt?"

28Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu, tók til máls og sagði: "Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs! 29Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður af hans hendi. 30Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss, og þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.' 31Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni, 32þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða, í olíuviðarland og hunangs, svo að þér megið lifa og eigi deyja. Hlustið því eigi á Hiskía! Því að hann ginnir yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.' 33Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs? 34Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím, Hena og Íva? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi? 35Hverjir eru þeir af öllum guðum landanna, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?"

36En lýðurinn þagði og svaraði honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: "Svarið honum eigi." 37En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.


Hiskía leitar til Jesaja spámanns

19
1Þegar Hiskía konungur heyrði þetta, reif hann klæði sín, huldi sig hærusekk og gekk í hús Drottins. 2En Eljakím dróttseta og Sébna kanslara og prestaöldungana sendi hann klædda hærusekk til Jesaja spámanns Amozsonar, 3og skyldu þeir segja við hann: "Svo segir Hiskía: Þessi dagur er neyðar-, hirtingar- og háðungardagur, því að barnið er komið í burðarliðinn, en krafturinn er enginn til að fæða. 4Vera má, að Drottinn Guð þinn heyri öll orð marskálksins, er sendur er af Assýríukonungi herra sínum til að spotta hinn lifandi Guð, og láti hegnt verða þeirra orða, er Drottinn Guð þinn hefir heyrt. En bið þú fyrir leifunum, sem enn eru eftir."

5Þegar þjónar Hiskía konungs komu til Jesaja, 6sagði Jesaja við þá: "Segið svo herra yðar: Svo segir Drottinn: Óttast þú eigi smánaryrði þau, er þú hefir heyrt sveina Assýríukonungs láta sér um munn fara í gegn mér. 7Sjá, ég læt hann verða þess hugar, að þegar hann spyr tíðindi, skal hann hverfa aftur heim í land sitt, og þá skal ég láta hann fyrir sverði falla í sínu eigin landi."

8Síðan sneri marskálkurinn aftur og hitti Assýríukonung, þar sem hann sat um Líbna, því að hann hafði frétt, að hann væri farinn burt frá Lakís. 9Þar kom honum svolátandi fregn af Tírhaka Blálandskonungi: "Hann er lagður af stað til þess að berjast við þig."

Gjörði Assýríukonungur þá aftur sendimenn til Hiskía með þessari orðsending: 10"Segið svo Hiskía Júdakonungi: Lát eigi Guð þinn, er þú treystir á, tæla þig, er þú hugsar: ,Jerúsalem verður eigi seld í hendur Assýríukonungi.' 11Sjá, þú hefir sjálfur heyrt, hverju Assýríukonungar hafa fram farið við öll lönd, hversu þeir hafa gjöreytt þau, og munt þú þá frelsaður verða? 12Hvort hafa guðir þjóðanna, er feður mínir hafa að velli lagt, frelsað þær - Gósan, Haran og Resef og Edenmenn, sem voru í Telessar? 13Hvar er nú konungurinn í Hamat og konungurinn í Arpad og konungurinn í Sefarvaímborg, Hena og Íva?"

14Hiskía tók við bréfinu af sendimönnunum og las það. Síðan gekk hann upp í hús Drottins og rakti það sundur frammi fyrir Drottni. 15Og Hiskía gjörði bæn sína frammi fyrir Drottni og sagði: "Drottinn, Ísraels Guð, þú sem situr uppi yfir kerúbunum, þú einn ert Guð yfir öllum konungsríkjum jarðar, þú hefir gjört himin og jörð. 16Hneig, Drottinn, eyra þitt og heyr. Opna, Drottinn, auga þitt og sjá! Heyr þú orð Sanheríbs, er hann hefir sent til að smána með hinn lifandi Guð. 17Satt er það, Drottinn, að Assýríukonungar hafa gjöreytt öllum þjóðum og löndum þeirra 18og kastað guðum þeirra á eld, því að þeir voru ekki guðir, heldur handaverk manna, stokkar og steinar, svo að þeir gátu gjört þá að engu. 19En Drottinn, Guð vor, frelsa oss nú af hans hendi, svo að öll konungsríki jarðar megi við kannast, að þú, Drottinn, einn ert Guð!"


Jesaja svarar Hiskía

20Þá sendi Jesaja Amozson til Hiskía og lét segja honum: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Þar sem þú hefir beðið til mín um hjálp gegn Sanheríb Assýríukonungi, þá hefi ég heyrt það. 21Þetta er orðið, er Drottinn hefir um hann sagt: Mærin, dóttirin Síon, fyrirlítur þig og gjörir gys að þér. Dóttirin Jerúsalem skekur höfuðið á eftir þér. 22Hvern hefir þú smánað og spottað og gegn hverjum hefir þú hafið upp raustina og lyft augum þínum í hæðirnar? Gegn Hinum Heilaga í Ísrael!

23Þú hefir látið sendimenn þína smána Drottin og sagt: ,Með fjölda hervagna minna steig ég upp á hæðir fjallanna, efst upp á Líbanonfjall. Ég hjó hin hávöxnu sedrustré þess og hin ágætu kýprestré þess. Ég braust upp í efsta herbergi þess, inn í aldinskóginn, þar sem hann var þéttastur. 24Ég gróf til vatns og drakk útlent vatn, og með iljum fóta minna þurrkaði ég upp öll vatnsföll Egyptalands.'

25Hefir þú þá ekki tekið eftir því, að ég hefi ráðstafað þessu svo fyrir löngu og hagað því svo frá öndverðu? Og nú hefi ég látið það koma fram, svo að þú mættir leggja víggirtar borgir í eyði og gjöra þær að eyðilegum grjóthrúgum. 26En íbúar þeirra voru aflvana og skelfdust því og urðu sér til minnkunar. Jurtir vallarins og grængresið varð sem gras á þekjum og í hlaðvarpa.

27Ég sé þig þegar þú stendur og þegar þú situr, og ég veit af því, þegar þú fer og kemur, svo og um ofsa þinn gegn mér. 28Sökum ofsa þíns í gegn mér og af því að ofmetnaður þinn er kominn mér til eyrna, þá vil ég setja hring minn í nasir þínar og bitil minn í munn þér og færa þig aftur sama veg og þú komst.

29Og þetta skalt þú til marks hafa: Þetta árið munuð þér eta sjálfsáið korn, annað árið sjálfvaxið korn, en þriðja árið munuð þér sá og uppskera, planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. 30Og leifarnar af Júda húsi, sem komist hafa undan, skulu að nýju festa rætur að neðan og bera ávöxt að ofan. 31Því að frá Jerúsalem munu leifar út ganga og þeir, er undan komust, frá Síonfjalli. Vandlæti Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma. 32Já, svo segir Drottinn um Assýríukonung: Eigi skal hann inn komast í þessa borg, engri ör þangað inn skjóta, engan herskjöld að henni bera og engan virkisvegg hlaða gegn henni. 33Hann skal aftur snúa sömu leiðina sem hann kom, og inn í þessa borg skal hann ekki koma - segir Drottinn. 34Og ég vil vernda þessa borg og frelsa hana, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."

35En þessa sömu nótt fór engill Drottins og laust hundrað áttatíu og fimm þúsundir manns í herbúðum Assýringa. Og er menn risu morguninn eftir, sjá, þá voru þeir allir liðin lík.

36Þá tók Sanheríb Assýríukonungur sig upp, hélt af stað og sneri heim aftur og sat um kyrrt í Níníve. 37En er hann eitt sinn baðst fyrir í hofi Nísroks, guðs síns, unnu synir hans, Adrammelek og Sareser, á honum með sverði. Þeir komust undan á flótta til Araratlands, en Asarhaddon sonur hans tók ríki eftir hann.


Jesaja læknar Hiskía

20
1Um þær mundir tók Hiskía sótt og var að dauða kominn. Þá kom Jesaja Amozson spámaður til hans og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Ráðstafa húsi þínu, því að þú munt deyja og eigi lifa."

2Þá sneri Hiskía andliti sínu til veggjar, bað til Drottins og mælti: 3"Æ, Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta og gjört það, sem þér er þóknanlegt." Og hann grét sáran.

4En áður en Jesaja var kominn út úr miðforgarði hallarinnar, kom orð Drottins til hans, svolátandi: 5"Snú aftur og seg Hiskía, höfðingja lýðs míns: Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég mun lækna þig. Á þriðja degi munt þú ganga upp í hús Drottins. 6Og ég mun enn leggja fimmtán ár við aldur þinn, og ég mun frelsa þig og þessa borg af hendi Assýríukonungs, og ég mun vernda þessa borg, mín vegna og vegna Davíðs þjóns míns."

7Þá bauð Jesaja: "Komið með fíkjudeig." Sóttu þeir það og lögðu á kýlið. Þá batnaði honum.

8En Hiskía sagði við Jesaja: "Hvað skal ég hafa til marks um, að Drottinn muni lækna mig og að ég megi aftur ganga upp í hús Drottins á þriðja degi?"

9Þá svaraði Jesaja: "Þetta skalt þú til marks hafa af Drottni, að hann muni efna það, sem hann hefir heitið: Á skugginn að færast tíu stig fram, eða á hann að færast aftur um tíu stig?"

10Hiskía svaraði: "Það er hægðarleikur fyrir skuggann að færast niður um tíu stig - nei, skugginn skal færast aftur um tíu stig." 11Þá hrópaði Jesaja spámaður til Drottins, og hann lét skuggann á stigunum, sem færst hafði niður á sólskífu Akasar, færast aftur um tíu stig.


Babýloníukonungur sendir boð

12Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn. 13Og Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim alla féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og vopnabúr sitt og allt sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.

14Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna og hvaðan eru þeir til þín komnir?"

Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir komnir, frá Babýlon."

15Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?"

Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."

16Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins: 17Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða - segir Drottinn. 18Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."

19En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."

20Það sem meira er að segja um Hiskía og öll hreystiverk hans, hversu hann bjó til tjörnina og vatnsstokkinn og leiddi vatnið inn í borgina, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 21Og Hiskía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum. Og Manasse sonur hans tók ríki eftir hann.


Manasse konungur í Júda

21
1Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hefsíba. 2Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. 3Hann byggði að nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði afmáð, reisti Baal ölturu og lét gjöra aséru, eins og Akab Ísraelskonungur hafði gjöra látið, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim. 4Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem vil ég láta nafn mitt búa." 5Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins. 6Hann lét og son sinn ganga gegnum eldinn, fór með spár og fjölkynngi og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt er í augum Drottins, og egndi hann til reiði.

7Hann setti asérulíkneskið, er hann hafði gjöra látið, í musterið, er Drottinn hafði sagt um við Davíð og Salómon, son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu. 8Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því, er Móse þjónn minn fyrir þá lagði." 9En þeir hlýddu eigi, og Manasse leiddi þá afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.

10Þá talaði Drottinn fyrir munn þjóna sinna, spámannanna, á þessa leið: 11"Sakir þess að Manasse Júdakonungur hefir drýgt þessar svívirðingar, sem verri eru en allt það, sem Amorítar aðhöfðust, þeir er á undan honum voru, og einnig komið Júda til að syndga með skurðgoðum sínum - 12fyrir því mælir Drottinn, Ísraels Guð, svo: Ég mun leiða ógæfu yfir Jerúsalem og Júda, svo að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra. 13Ég mun draga mælivað yfir Jerúsalem, eins og fyrrum yfir Samaríu, og mælilóð, eins og yfir Akabsætt, og þurrka Jerúsalem burt, eins og þegar þurrkað er af skál og skálinni síðan hvolft, þegar þurrkað hefir verið af henni. 14Og ég mun útskúfa leifum arfleifðar minnar og gefa þá í hendur óvinum þeirra, svo að þeir verði öllum óvinum sínum að bráð og herfangi, 15vegna þess að þeir hafa gjört það, sem illt er í augum mínum, og egnt mig til reiði frá þeim degi, er feður þeirra fóru burt af Egyptalandi, allt fram á þennan dag."

16Manasse úthellti og mjög miklu saklausu blóði, þar til er hann hafði fyllt Jerúsalem með því enda á milli, auk þeirrar syndar sinnar, að hann kom Júda til að gjöra það sem illt var í augum Drottins.

17Það sem meira er að segja um Manasse og allt, sem hann gjörði, og synd hans, þá er hann drýgði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 18Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.


Amón konungur í Júda

19Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Mesúllemet Harúsdóttir og var frá Jotba. 20Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, 21og fetaði algjörlega í fótspor föður síns og þjónaði skurðgoðunum, sem faðir hans hafði þjónað, og féll fram fyrir þeim. 22Hann yfirgaf Drottin, Guð feðra sinna, og gekk eigi á vegum hans.

23Þjónar Amóns gjörðu samsæri gegn honum og drápu konung í höll hans. 24En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.

25Það sem meira er að segja um Amón, það er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 26Og hann var grafinn í gröf sinni í garði Ússa. Og Jósía sonur hans tók ríki eftir hann.


Jósía konungur í Júda

22
1Jósía var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjátíu og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jedída Adajadóttir og var frá Boskat. 2Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, og fetaði algjörlega í fótspor Davíðs forföður síns og veik hvorki af til hægri né vinstri.


Fundin lögbókin

3Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði: 4"Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum, 5og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu, 6trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið. 7Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."

8Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana. 9Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins." 10Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.

11En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín. 12Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið: 13"Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."

14Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.

15Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín: 16Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið, 17fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna. 18En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: 19Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig - segir Drottinn. 20Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað."

Fluttu þeir konungi svarið.


Siðbót Jósía

23
1Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem. 2Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins. 3Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.

4Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.

5Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.

6Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna.

7Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.

8Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.

9Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna.

10Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa. 11Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi. 12Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal.

13Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta. 14Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum.

15Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga - einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra.

16En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti. 17Síðan sagði hann: "Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?" Og borgarmenn svöruðu honum: "Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel." 18Þá mælti hann: "Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!" Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði.

19Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel. 20Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.


Haldnir páskar

21Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari." 22Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga, 23en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem.

24Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins. 25Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.

26Þó lét Drottinn eigi af sinni brennandi heiftarreiði, af því að reiði hans var upptendruð gegn Júda vegna allrar þeirrar móðgunar, er Manasse hafði egnt hann með. 27Og Drottinn mælti: "Ég vil einnig afmá Júda frá augliti mínu eins og ég hefi afmáð Ísrael, og ég vil hafna þessari borg, er ég hefi útvalið, Jerúsalem, og musterinu, er ég sagði um, að nafn mitt skyldi vera þar."


Dauði Jósía

28Það sem meira er að segja um Jósía og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

29Á hans dögum fór Faraó Nekó Egyptalandskonungur herför móti Assýríukonungi austur að Efratfljóti. Þá fór Jósía konungur í móti honum, en Nekó drap hann í Megiddó, þegar er hann sá hann. 30Óku menn hans honum dauðum frá Megiddó, fluttu hann til Jerúsalem og grófu hann í gröf hans. En landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og smurði hann og tók hann til konungs í stað föður hans.


Jóahas konungur í Júda

31Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 32Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans. 33Faraó Nekó lét fjötra hann í Ribla í Hamathéraði, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.

34Og Faraó Nekó gjörði Eljakím Jósíason að konungi í stað Jósía föður hans og breytti nafni hans í Jójakím, en tók Jóahas með sér, og fór hann til Egyptalands og dó þar.


Jójakím konungur í Júda

35Jójakím greiddi Faraó silfur og gull. Hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta goldið fé það, er Faraó krafðist. Heimti hann silfrið og gullið saman af landslýðnum, eftir því sem jafnað hafði verið niður á hvern og einn, til þess að geta greitt Faraó Nekó það.

36Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir og var frá Rúma. 37Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.


24
1Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann.

2Þá sendi Drottinn í móti Jójakím ránsflokka Kaldea, ránsflokka Sýrlendinga, ránsflokka Móabíta og ránsflokka Ammóníta. Hann sendi þá gegn Júda til þess að eyða landið samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna. 3Að boði Drottins fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört, 4svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði - það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.

5Það sem meira er að segja um Jójakím og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga. 6Og Jójakím lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.

7En Egyptalandskonungur fór enga herför framar úr landi sínu, því að konungurinn í Babýlon hafði unnið land allt frá Egyptalandsá að Efratfljóti, það er legið hafði undir Egyptalandskonung.


Jójakín konungur í Júda.
Fyrri herleiðingin til Babýlon

8Jójakín var átján ára gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir og var frá Jerúsalem. 9Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði faðir hans.

10Um þær mundir fóru þjónar Nebúkadnesars, konungs í Babýlon, herför til Jerúsalem, og varð borgin í umsátri. 11Og Nebúkadnesar Babelkonungur kom sjálfur til borgarinnar, þá er þjónar hans sátu um hana. 12Gekk þá Jójakín Júdakonungur út á móti Babelkonungi ásamt móður sinni, þjónum sínum, herforingjum og hirðmönnum, og Babelkonungur tók hann höndum á áttunda ríkisstjórnarári hans. 13Og hann flutti þaðan alla fjársjóðu musteris Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri Drottins, eins og Drottinn hafði sagt.

14Og Nebúkadnesar herleiddi alla Jerúsalem og alla höfðingja og alla vopnfæra menn, tíu þúsund að tölu, svo og alla trésmiði og járnsmiði. Ekkert var eftir skilið nema almúgafólk landsins. 15Og hann herleiddi Jójakín til Babýlon. Og konungsmóður og konur konungsins og hirðmenn hans og höfðingja landsins herleiddi hann og frá Jerúsalem til Babýlon. 16Svo og alla vopnfæra menn, sjö þúsund að tölu, og trésmiði og járnsmiði, þúsund að tölu, er allir voru hraustir hermenn, - þá herleiddi Nebúkadnesar til Babýlon. 17Og konungurinn í Babýlon skipaði Mattanja föðurbróður Jójakíns konung í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía.


Sedekía konungur í Júda

18Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna. 19Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím. 20Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, uns hann hafði burtsnarað þeim frá augliti sínu.

En Sedekía brá trúnaði við Babelkonung.


Jerúsalem fellur

25
1Á níunda ríkisári Sedekía, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadnesar Babelkonungur með allan sinn her til Jerúsalem og settist um hana, og þeir reistu hervirki hringinn í kringum hana. 2Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.

3Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus, 4þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina.

Konungur hélt leiðina til sléttlendisins, 5en her Kaldea veitti honum eftirför og náði honum á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum. 6Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans. 7Drápu þeir sonu Sedekía fyrir augum hans, en Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan fluttu þeir hann til Babýlon.


Musterið eyðilagt

8Í fimmta mánuði, á sjöunda degi mánaðarins - það er á nítjánda ríkisári Nebúkadnesars Babelkonungs - kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem 9og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi. 10En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður múrana umhverfis Jerúsalem. 11En leifar lýðsins - þá er eftir voru í borginni - og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon. 12En af almúga landsins lét lífvarðarforinginn nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.

13Eirsúlurnar, er voru hjá musteri Drottins, og vagna kerlauganna og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu eirinn til Babýlon. 14Og katlana, eldspaðana, skarbítana, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir. 15Þá tók og lífvarðarforinginn eldpönnurnar og fórnarskálarnar - allt sem var af gulli og silfri.

16Súlurnar tvær, hafið og vagnana, er Salómon hafði gjöra látið í musteri Drottins - eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn. 17Önnur súlan var átján álnir á hæð, og eirhöfuð var ofan á henni, og höfuðið var fimm álnir á hæð, og riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á riðna netinu á hinni súlunni.


Júdamenn herleiddir til Babýlon

18Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og dyraverðina þrjá. 19Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og fimm menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni - 20þá tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs. 21En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamathéraði.

Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.


Gedalja landstjóri í Júda

22Yfir lýðinn, sem eftir varð í Júda, þann er Nebúkadnesar Babelkonungur lét þar eftir verða, yfir þá setti hann Gedalja, son Ahíkams Safanssonar. 23Og er allir hershöfðingjarnir og menn þeirra fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja landstjóra, fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka ásamt mönnum sínum. 24Vann Gedalja þeim eið og mönnum þeirra og sagði við þá: "Óttist eigi Kaldea. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna."

25En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum, og drápu Gedalja og þá Júdamenn og Kaldea, sem hjá honum voru í Mispa. 26Þá tók allur lýðurinn sig upp, bæði smáir og stórir, og hershöfðingjarnir og fóru til Egyptalands, því að þeir voru hræddir við Kaldea.


Jójakín leystur úr fangelsi

27Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og sjöunda dag mánaðarins, náðaði Evíl Meródak Babelkonungur, árið sem hann kom til ríkis, Jójakín Júdakonung og tók hann úr dýflissunni. 28Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon. 29Og Jójakín fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með konungi meðan hann lifði. 30En uppeldi hans - hið stöðuga uppeldi - var honum veitt af konungi, það er hann þurfti á degi hverjum, alla ævi hans.Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997