OPINBERUN  JÓHANNESARInngangur

1
1Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, 2sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá. 3Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.

4Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru.

Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans, 5og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar.

Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu. 6Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.

7Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.

8Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.


Mannssonurinn birtist

9Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú. 10Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli, 11er sagði: "Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu."

12Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur, 13og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans. 14Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi. 15Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna. 16Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.

17Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: "Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti 18og hinn lifandi." Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar. 19Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta. 20Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.


Til Efesus

2
1Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita:

Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö: 2Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar. 3Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst. 4En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika. 5Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun. 6En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.

7Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.


Til Smýrnu

8Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita:

Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: 9Ég þekki þrengingu þína og fátækt - en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans. 10Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

11Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.


Til Pergamos

12Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita:

Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra: 13Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr. 14En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór. 15Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta. 16Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.


Til Þýatíru

18Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita:

Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi: 19Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri. 20En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum. 21Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum. 22Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar. 23Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar. 24En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður, 25nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem. 26Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum. 27Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum. 28Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.

29Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.


Til Sardes

3
1Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita:

Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður. 2Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum. 3Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig. 4En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir. 5Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.

6Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.


Til Fíladelfíu

7Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita:

Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp. 8Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu. 9Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, - ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig. 10Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa. 11Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína. 12Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.

13Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.


Til Laódíkeu

14Og engli safnaðarins í Laódíkeu skalt þú rita:

Þetta segir hann, sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs: 15Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. 16En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum. 17Þú segir: "Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis." Og þú veist ekki, að þú ert vesalingur og aumingi og fátækur og blindur og nakinn. 18Ég ræð þér, að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til að skýla þér með, að eigi komi í ljós vanvirða nektar þinnar, og smyrsl að smyrja með augu þín, til þess að þú verðir sjáandi. 19Alla þá, sem ég elska, tyfta ég og aga. Ver því heilhuga og gjör iðrun. 20Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. 21Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.

22Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.


Tilbeiðsla á himnum

4
1Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta." 2Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu. 3Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður. 4Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur. 5Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs. 6Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli.

Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir. 7Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. 8Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja:

Heilagur, heilagur, heilagur,
Drottinn Guð, hinn alvaldi,
hann sem var og er og kemur.

9Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda, 10þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:

11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð,
að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn,
því að þú hefur skapað alla hluti,
og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.


Bókin og lambið

5
1Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum. 2Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?" 3En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana. 4Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana. 5En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."

6Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina. 7Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat. 8Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu. 9Og þeir syngja nýjan söng:

Verður ert þú að taka við bókinni
og ljúka upp innsiglum hennar,
því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu
af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.
10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum.
Og þeir munu ríkja á jörðunni.

11Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda. 12Þeir sögðu með hárri röddu:

Maklegt er lambið hið slátraða
að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft,
heiður og dýrð og lofgjörð.

13Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja:

Honum, sem í hásætinu situr,
og lambinu,
sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin
og krafturinn um aldir alda.

14Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.


Innsiglum lokið upp

6
1Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: "Kom!" 2Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

3Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: "Kom!" 4Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.

5Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér. 6Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: "Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu."

7Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!" 8Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

9Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu. 10Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: "Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?" 11Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.

12Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð. 13Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín. 14Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum. 15Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla. 16Og þeir segja við fjöllin og hamrana: "Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; 17því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?"


Þjónar Guðs merktir innsigli

7
1Eftir þetta sá ég fjóra engla, er stóðu á fjórum skautum jarðarinnar. Þeir héldu fjórum vindum jarðarinnar, til þess að eigi skyldi vindur blása yfir jörðina né hafið né yfir nokkurt tré. 2Og ég sá annan engil stíga upp í austri. Hann hélt á innsigli lifanda Guðs og hrópaði hárri röddu til englanna fjögurra, sem gefið var vald til að granda jörðinni og hafinu, 3og sagði:

"Vinnið ekki jörðinni grand og ekki heldur hafinu né trjánum, þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors." 4Og ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir af öllum ættkvíslum Ísraelssona voru merktar innsigli.

5Af Júda ættkvísl voru tólf þúsund merkt innsigli,
af Rúbens ættkvísl tólf þúsund,
af Gaðs ættkvísl tólf þúsund,
6af Assers ættkvísl tólf þúsund,
af Naftalí ættkvísl tólf þúsund,
af Manasse ættkvísl tólf þúsund,
7af Símeons ættkvísl tólf þúsund,
af Leví ættkvísl tólf þúsund,
af Íssakars ættkvísl tólf þúsund,
8af Sebúlons ættkvísl tólf þúsund,
af Jósefs ættkvísl tólf þúsund,
af Benjamíns ættkvísl tólf þúsund menn merktir innsigli.


Hinn mikli múgur

9Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum. 10Og þeir hrópa hárri röddu:

Hjálpræðið heyrir til Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.

11Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 12og sögðu:

Amen, lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

13Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: "Þessir, sem skrýddir eru hvítu skikkjunum, hverjir eru þeir og hvaðan eru þeir komnir?"

14Og ég sagði við hann: "Herra minn, þú veist það."

Hann sagði við mig: "Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins. 15Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá. 16Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti. 17Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra."


Sjöunda innsiglið

8
1Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund. 2Og ég sá englana sjö, sem stóðu frammi fyrir Guði, og þeim voru fengnar sjö básúnur.

3Og annar engill kom og nam staðar við altarið. Hann hélt á reykelsiskeri úr gulli. Honum var fengið mikið reykelsi til þess að hann skyldi leggja það við bænir allra hinna heilögu á gullaltarið frammi fyrir hásætinu. 4Og reykurinn af reykelsinu steig upp með bænum hinna heilögu úr hendi engilsins frammi fyrir Guði. 5Þá tók engillinn reykelsiskerið og fyllti það eldi af altarinu og varpaði ofan á jörðina. Og þrumur komu og dunur og eldingar og landskjálfti.


Básúnur

6Og englarnir sjö, sem héldu á básúnunum sjö, bjuggu sig til að blása.

7Hinn fyrsti básúnaði. Þá kom hagl og eldur, blóði blandað, og því var varpað ofan á jörðina. Og þriðjungur jarðarinnar eyddist í loga, og þriðjungur trjánna eyddist í loga, og allt grængresi eyddist í loga.

8Annar engillinn básúnaði. Þá var sem miklu fjalli, logandi af eldi, væri varpað í hafið. Þriðjungur hafsins varð blóð, 9og þriðjungurinn dó af lífverum þeim, sem eru í hafinu, og þriðjungur skipanna fórst.

10Þriðji engillinn básúnaði. Þá féll stór stjarna af himni, logandi sem blys, og hún féll ofan á þriðjung fljótanna og á lindir vatnanna. 11Nafn stjörnunnar er Remma. Þriðjungur vatnanna varð að remmu og margir menn biðu bana af vötnunum, af því að þau voru beisk orðin.

12Fjórði engillinn básúnaði. Þá varð þriðjungur sólarinnar lostinn og þriðjungur tunglsins og þriðjungur stjarnanna, svo að þriðjungur þeirra yrði myrkur. Og dagurinn missti þriðjung birtu sinnar og nóttin hið sama.

13Þá sá ég og heyrði örn einn fljúga um háhvolf himins. Hann kallaði hárri röddu: "Vei, vei, vei þeim, sem á jörðu búa, vegna lúðurhljóma englanna þriggja, sem eiga eftir að básúna."


9
1Og fimmti engillinn básúnaði. Þá sá ég stjörnu, er fallið hafði af himni ofan á jörðina, og henni var fenginn lykillinn að brunni undirdjúpsins. 2Og hún lauk upp brunni undirdjúpsins, og reyk lagði upp af brunninum eins og reyk frá stórum ofni. Og sólin myrkvaðist og loftið af reyknum úr brunninum. 3Út úr reyknum komu engisprettur á jörðina og þær fengu sama mátt og sporðdrekar jarðarinnar. 4Og sagt var við þær, að eigi skyldu þær granda grasi jarðarinnar né nokkrum grænum gróðri né nokkru tré, engu nema mönnunum, þeim er eigi hafa innsigli Guðs á ennum sér. 5Og þeim var svo um boðið, að þær skyldu eigi deyða þá, heldur skyldu þeir kvaldir verða í fimm mánuði. Undan þeim svíður eins og undan sporðdreka, er hann stingur mann. 6Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu æskja sér að deyja, en dauðinn flýr þá. 7Og ásýndum voru engispretturnar svipaðar hestum, búnum til bardaga, og á höfðum þeirra voru eins og kórónur úr gulli, og ásjónur þeirra voru sem ásjónur manna. 8Þær höfðu hár sem hár kvenna, og tennur þeirra voru eins og ljónstennur. 9Þær höfðu brjósthlífar eins og járnbrynjur, og vængjaþyturinn frá þeim var eins og vagnagnýr, þegar margir hestar bruna fram til bardaga. 10Þær hafa hala og brodda eins og sporðdrekar. Og í hölum þeirra er máttur þeirra til að skaða menn í fimm mánuði. 11Konung hafa þær yfir sér, engil undirdjúpsins. Nafn hans er á hebresku Abaddón og á grísku heitir hann Apollýón.

12Veiið hið fyrsta er liðið hjá. Sjá, enn koma tvö vei eftir þetta.

13Og sjötti engillinn básúnaði. Þá heyrði ég rödd eina frá hornunum á gullaltarinu, sem er frammi fyrir Guði. 14Og röddin sagði við sjötta engilinn, sem hélt á básúnunni: "Leys þú englana fjóra, sem bundnir eru við fljótið mikla, Efrat." 15Og englarnir fjórir voru leystir, sem búnir stóðu til stundar þessarar, dags þessa, mánaðar þessa og árs þessa, til þess að deyða þriðjung mannanna. 16Og talan á herfylkingum riddaraliðsins var tveim sinnum tíu þúsundir tíu þúsunda. Ég heyrði tölu þeirra. 17Og með þessum hætti sá ég hestana í sýninni og þá sem á þeim sátu: Þeir höfðu eldrauðar, svartbláar og brennisteinsgular brynjur, og höfuð hestanna voru eins og höfuð ljóna. Af munnum þeirra gekk út eldur, reykur og brennisteinn. 18Í þessum þremur plágum varð þriðji hluti mannanna deyddur, af eldinum, reyknum og brennisteininum, sem út gekk af munnum þeirra. 19Því að vald hestanna er í munni þeirra og í töglum þeirra, því að tögl þeirra eru lík höggormum. Eru höfuð á, og með þeim granda þeir.

20Og hinir mennirnir, sem ekki voru deyddir í þessum plágum, gjörðu eigi iðrun og sneru sér eigi frá handaverkum sínum og vildu ekki hætta að tilbiðja illu andana og skurðgoðin úr gulli, silfri, eiri, steini og tré, sem hvorki geta séð, heyrt né gengið. 21Og eigi gjörðu þeir iðrun né létu af manndrápum sínum og töfrum, frillulífi sínu og þjófnaði.


Engill með litla bók

10
1Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar. 2Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni. 3Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum. 4Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."

5Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins 6og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða, 7en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

8Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."

9Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."

10Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum. 11Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."


Vottarnir tveir

11
1Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: "Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja. 2Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði. 3Vottana mína tvo mun ég láta flytja spádómsorð í eitt þúsund tvö hundruð og sextíu daga, sekkjum klædda."

4Þetta eru olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær, sem standa frammi fyrir Drottni jarðarinnar. 5Og ef einhver vill granda þeim, gengur eldur út úr munni þeirra og eyðir óvinum þeirra. Ef einhver skyldi vilja granda þeim, skal hann með sama hætti deyddur verða. 6Þeir hafa vald til að loka himninum, til þess að eigi rigni um spádómsdaga þeirra. Og þeir hafa vald yfir vötnunum, að breyta þeim í blóð og slá jörðina með hvers kyns plágu, svo oft sem þeir vilja.

7Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá. 8Og lík þeirra munu liggja á strætum borgarinnar miklu, sem andlega heitir Sódóma og Egyptaland, þar sem og Drottinn þeirra var krossfestur. 9Menn af ýmsum lýðum, kynkvíslum, tungum og þjóðum sjá lík þeirra þrjá og hálfan dag og leyfa ekki að þau verði lögð í gröf. 10Og þeir, sem á jörðunni búa, gleðjast yfir þeim og fagna og senda hver öðrum gjafir, því að þessir tveir spámenn kvöldu þá, sem á jörðunni búa. 11Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá. 12Og þeir heyrðu rödd mikla af himni, sem sagði við þá: "Stígið upp hingað." Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá. 13Á þeirri stundu varð landskjálfti mikill, og tíundi hluti borgarinnar hrundi og í landskjálftanum deyddust sjö þúsundir manna. Og þeir, sem eftir voru, urðu ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.

14Veiið hið annað er liðið hjá. Sjá, veiið hið þriðja kemur brátt.


Sjöunda básúnan

15Og sjöundi engillinn básúnaði. Þá heyrðust raddir miklar á himni er sögðu: "Drottinn og Kristur hans hafa fengið vald yfir heiminum og hann mun ríkja um aldir alda." 16Og öldungarnir tuttugu og fjórir, þeir er sitja frammi fyrir Guði í hásætum sínum, féllu fram á ásjónur sínar, tilbáðu Guð 17og sögðu:

Vér þökkum þér, Drottinn Guð, þú alvaldi,
þú sem ert og þú sem varst,
að þú hefur tekið valdið þitt hið mikla
og gjörst konungur.
18 Heiðingjarnir reiddust,
en reiði þín kom,
sá tími, er dauðir skulu dæmdir verða,
og tíminn til að gefa laun þjónum þínum,
spámönnunum og hinum heilögu
og þeim, sem óttast nafn þitt, smáum og stórum,
og til að eyða þeim, sem jörðina eyða.

19Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið.


Konan og drekinn

12
1Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum. 2Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.

3Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. 4Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt. 5Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans. 6En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.

7Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, 8en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. 9Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.

10Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt. 11Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði. 12Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."

13Og er drekinn sá að honum var varpað niður á jörðina, ofsótti hann konuna, sem alið hafði sveinbarnið. 14Og konunni voru gefnir vængirnir tveir af erninum mikla, til þess að hún skyldi fljúga á eyðimörkina til síns staðar, þar sem séð verður fyrir þörfum hennar þrjú og hálft ár, fjarri augsýn höggormsins. 15Og höggormurinn spjó vatni úr munni sér á eftir konunni, eins og flóði, til þess að hún bærist burt af straumnum. 16En jörðin kom konunni til hjálpar, og jörðin opnaði munn sinn og svalg vatnsflóðið, sem drekinn spjó úr munni sér. 17Þá reiddist drekinn konunni og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur hennar, þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú. 18Og hann nam staðar á sandinum við sjóinn.


Dýrin tvö

13
1Þá sá ég dýr stíga upp af hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð, og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfðum þess voru guðlöstunar nöfn. 2Dýrið, sem ég sá, var líkt pardusdýri, fætur þess voru sem bjarnarfætur og munnur þess eins og ljónsmunnur. Drekinn gaf því mátt sinn og hásæti sitt og vald mikið. 3Eitt af höfðum þess virtist sært til ólífis, en banasár þess varð heilt. Öll jörðin fylgdi dýrinu með undrun, 4og þeir tilbáðu drekann, af því að hann hafði gefið dýrinu vald sitt. Og þeir tilbáðu dýrið og sögðu: "Hver jafnast við dýrið og hver getur barist við það?"

5Og því var gefinn munnur, er talaði stóryrði og guðlastanir, og lofað að fara því fram í fjörutíu og tvo mánuði. 6Og það lauk upp munni sínum til lastmæla gegn Guði, til að lastmæla nafni hans og tjaldbúð hans og þeim, sem á himni búa. 7Og því var leyft að heyja stríð við hina heilögu og sigra þá, og því var gefið vald yfir sérhverri kynkvísl og lýð, tungu og þjóð. 8Og allir þeir, sem á jörðunni búa, munu tilbiðja það, hver og einn sá er eigi á nafn sitt ritað frá grundvöllun veraldar í lífsins bók lambsins, sem slátrað var. 9Sá sem hefur eyra, hann heyri.

10Sá sem ætlaður er til herleiðingar verður herleiddur. Sá sem sverði er ætlaður verður deyddur með sverði. Hér reynir á þolgæði og trú hinna heilögu.

11Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni og það hafði tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki. 12Það fer með allt vald fyrra dýrsins fyrir augsýn þess og það lætur jörðina og þá, sem á henni búa, tilbiðja fyrra dýrið, sem varð heilt af banasári sínu. 13Og það gjörir tákn mikil, svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna. 14Og það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa, með táknunum, sem því er lofað að gjöra í augsýn dýrsins. Það segir þeim, sem á jörðunni búa, að þeir skuli gjöra líkneski af dýrinu, sem sárið fékk undan sverðinu, en lifnaði við. 15Og því var leyft að gefa líkneski dýrsins anda, til þess að líkneski dýrsins gæti einnig talað og komið því til leiðar, að allir yrðu þeir deyddir, sem ekki vildu tilbiðja líkneski dýrsins. 16Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín 17og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess. 18Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.


Á Síonfjalli

14
1Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér. 2Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar. 3Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni. 4Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu. 5Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.


Komin er stund dómsins

6Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð, 7og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."

8Og enn annar engill kom á eftir og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns."

9Á eftir þeim kom hinn þriðji engill og sagði hárri röddu: "Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína, 10þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs, sem byrlað er óblandað í reiðibikar hans, og hann mun kvalinn verða í eldi og brennisteini í augsýn heilagra engla og í augsýn lambsins. 11Og reykurinn frá kvalastað þeirra stígur upp um aldir alda, og eigi hafa þeir hvíld dag eða nótt, þeir sem dýrið tilbiðja og líkneski þess, hver sá sem ber merki nafns þess."

12Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.

13Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."


Uppskerutími

14Og ég sá, og sjá: Hvítt ský, og einhvern sá ég sitja á skýinu, líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfðinu og í hendi sér bitra sigð. 15Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: "Ber þú út sigð þína og sker upp, því að komin er stundin til að uppskera, sáðland jarðarinnar er fullþroskað." 16Og sá, sem á skýinu sat, brá sigð sinni á jörðina og upp var skorið á jörðinni.

17Og annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka bitra sigð.

18Og annar engill gekk út frá altarinu, hann hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess, sem hafði bitru sigðina: "Ber þú út bitru sigðina þína, og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð." 19Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínvið jarðarinnar og kastaði honum í reiði-vínþröng Guðs hina miklu. 20Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af vínþrönginni, svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.


Síðustu plágurnar

15
1Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

2Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs. 3Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja:

Mikil og dásamleg eru verkin þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
4 Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér,
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

5Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins. 6Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst. 7Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda. 8Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.


Skálar reiðinnar

16
1Og ég heyrði raust mikla frá musterinu segja við englana sjö: "Farið og hellið úr þeim sjö skálum Guðs reiði yfir jörðina."

2Og hinn fyrsti fór og hellti úr sinni skál á jörðina. Og vond og illkynjuð kaun komu á mennina, sem höfðu merki dýrsins og tilbáðu líkneski þess.

3Og hinn annar hellti úr sinni skál í hafið, og það varð að blóði eins og blóð úr dauðum manni, og sérhver lifandi sál dó, sú er í hafinu var.

4Og hinn þriðji hellti úr sinni skál í fljótin og uppsprettur vatnanna og það varð að blóði. 5Og ég heyrði engil vatnanna segja: "Réttlátur ert þú, að þú hefur dæmt þannig, þú sem ert og þú sem varst, þú hinn heilagi. 6Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna, og því hefur þú gefið þeim blóð að drekka. Maklegir eru þeir þess." 7Og ég heyrði altarið segja: "Já, Drottinn Guð, þú alvaldi, sannir og réttlátir eru dómar þínir."

8Og hinn fjórði hellti úr sinni skál yfir sólina. Og sólinni var gefið vald til að brenna mennina í eldi. 9Og mennirnir stiknuðu í ofurhita og lastmæltu nafni Guðs, sem valdið hefur yfir plágum þessum. Og ekki gjörðu þeir iðrun, svo að þeir gæfu honum dýrðina.

10Og hinn fimmti hellti úr sinni skál yfir hásæti dýrsins. Og ríki þess myrkvaðist, og menn bitu í tungur sínar af kvöl. 11Og menn lastmæltu Guði himinsins fyrir kvalirnar og fyrir kaun sín og eigi gjörðu þeir iðrun og létu af verkum sínum.

12Og hinn sjötti hellti úr sinni skál yfir fljótið mikla, Efrat. Og vatnið í því þornaði upp, svo að vegur yrði búinn fyrir konungana, þá er koma úr austri. 13Og ég sá koma út af munni drekans og munni dýrsins og munni falsspámannsins þrjá óhreina anda, sem froskar væru, 14því að þeir eru djöfla andar, sem gjöra tákn. Þeir ganga út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.

15"Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans."

16Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.

17Og hinn sjöundi hellti úr sinni skál yfir loftið og raust mikil kom út úr musterinu, frá hásætinu og sagði: "Það er fram komið." 18Og eldingar komu og brestir og þrumur og mikill landskjálfti, svo að slíkur hefur eigi komið frá því menn urðu til á jörðunni. Svo mikill var sá jarðskjálfti. 19Og borgin mikla fór í þrjá hluta, og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð gleymdi ekki hinni miklu Babýlon og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar. 20Og allar eyjar hurfu og fjöllin voru ekki lengur til. 21Og stór högl, vættarþung, féllu niður af himni yfir mennina. Og mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna, því að sú plága var mikil.


Skækjan mikla

17
1Og einn af englunum sjö, sem halda á skálunum sjö, kom til mín og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér dóminn yfir skækjunni miklu, sem er við vötnin mörgu. 2Konungar jarðarinnar hafa drýgt saurlifnað með henni, og þeir, sem á jörðinni búa, hafa orðið drukknir af saurlifnaðar víni hennar."

3Og hann leiddi mig burt í anda á eyðimörk. Og ég sá konu sitja á skarlatsrauðu dýri, alsettu guðlöstunar nöfnum, og hafði það sjö höfuð og tíu horn. 4Og konan var skrýdd purpura og skarlati, og var búin gulli og gimsteinum og perlum. Hún hafði í hendi sér gullbikar, fullan viðurstyggðar, og var það óhreinleikur saurlifnaðar hennar. 5Og á enni hennar var ritað nafn, sem er leyndardómur: Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar. 6Og ég sá að konan var drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta. Og ég undraðist stórlega, er ég leit hana.

7Og engillinn sagði við mig: "Hví ertu forviða? Ég mun segja þér leyndardóm konunnar og dýrsins, sem hana ber, þess er hefur höfuðin sjö og hornin tíu: 8Dýrið, sem þú sást, var, en er ekki, og það mun stíga upp frá undirdjúpinu og fara til glötunar. Og þeir, sem á jörðu búa, þeir, sem eiga ekki nöfn sín skrifuð í lífsins bók frá grundvöllun veraldar, munu undrast, er þeir sjá dýrið sem var og er ekki og kemur aftur.

9Hér reynir á skilning og speki. Höfuðin sjö eru sjö fjöll, sem konan situr á. Það eru líka sjö konungar. 10Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt. 11Og dýrið, sem var, en er ekki, er einmitt hinn áttundi, og er af þeim sjö, og fer til glötunar.

12Og hornin tíu, sem þú sást, eru tíu konungar, sem enn hafa eigi tekið konungdóm, heldur fá vald sem konungar eina stund ásamt dýrinu. 13Þessir hafa allir eitt ráð, og máttinn og vald sitt gefa þeir dýrinu. 14Þessir munu heyja stríð við lambið. Og lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, - því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga."

15Og hann segir við mig: "Vötnin, sem þú sást, þar sem skækjan situr, eru lýðir og fólk, þjóðir og tungur. 16Og hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi, 17því að Guð hefur lagt þeim í brjóst að gjöra vilja sinn og vera samráða og gefa ríki þeirra dýrinu, allt til þess er orð Guðs koma fram. 18Og konan, sem þú sást, er borgin mikla, sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar."


Fallin er Babýlon

18
1Eftir þetta sá ég annan engil stíga ofan af himni, og hafði hann mikið vald og jörðin ljómaði af dýrð hans. 2Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: "Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla. 3Því að hún hefur byrlað öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns, og konungar jarðarinnar drýgðu saurlifnað með henni og kaupmenn jarðarinnar auðguðust af gnóttum munaðar hennar."

4Og ég heyrði aðra rödd af himni, sem sagði: "Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. 5Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar. 6Gjaldið henni eins og hún hefur goldið og tvígjaldið henni eftir verkum hennar, byrlið henni tvöfalt í bikarinn, sem hún hefur byrlað. 7Veitið henni eins mikla kvöl og sorg og hennar stærilæti og óhóf hefur verið. Hún segir í hjarta sínu: ,Hér sit ég og er drottning, ekkja er ég eigi, sorg mun ég aldrei sjá.' 8Fyrir því munu plágur hennar koma á einum degi: Dauði, sorg og hungur, og í eldi mun hún verða brennd, því að máttugur er Drottinn Guð, sem hana dæmdi."

9Og konungar jarðarinnar, sem með henni drýgðu saurlifnað og lifðu í munaði, munu gráta og kveina yfir henni er þeir sjá reykinn af brennu hennar. 10Af ótta fyrir kvöl hennar munu þeir standa langt frá og segja: "Vei, vei, borgin mikla, Babýlon, borgin volduga, á einni stundu kom dómur þinn."

11Og kaupmenn jarðarinnar gráta og harma yfir henni, því að enginn kaupir nú framar vörur þeirra, 12farma af gulli og silfri, gimsteinum og perlum, dýru líni og purpura, silki og skarlati og alls konar ilmvið og alls konar muni af fílabeini og alls konar muni af hinum dýrasta viði og af eiri og járni og marmara, 13og kanelbörk og balsam, ilmjurtir og smyrsl, reykelsi, vín og olíu og fínt mjöl, og hveiti og eyki og sauði og hesta og vagna og man og mannasálir. 14Og ávöxturinn, sem sála þín girnist, hefur brugðist þér, öll sæld og glys þér horfið og enginn mun framar örmul af því finna. 15Seljendur þessara hluta, sem auðgast hafa á henni, munu standa álengdar af ótta yfir kvöl hennar, grátandi og harmandi 16og segja: "Vei, vei, borgin mikla, sem klæddist dýru líni, purpura og skarlati og var gulli roðin og gimsteinum og perlum. 17Á einni stundu eyddist allur þessi auður." Og allir skipstjórar, allir farmenn og hásetar og allir þeir, sem atvinnu reka á sjónum, stóðu álengdar 18og hrópuðu, er þeir sáu reykinn af brennu hennar, og sögðu: "Hvaða borg jafnast við borgina miklu?" 19Og þeir jusu mold yfir höfuð sér og hrópuðu grátandi og harmandi: "Vei, vei, borgin mikla, sem allir þeir, er skip eiga á sjónum, auðguðust á vegna auðæfa hennar. Á einni stundu var hún í eyði lögð." 20Fagna yfir henni, þú himinn og þér heilögu og þér postular og spámenn, því að Guð hefur rekið réttar yðar á henni.

21Og einn sterkur engill tók upp stein, eins og mikinn kvarnarstein, og kastaði í hafið og sagði: "Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða. 22Og hörpusláttur og sönglist, pípuhljómur og lúðurþytur skal ekki framar heyrast í þér og engir iðnaðarmenn og iðnir skulu framar í þér finnast og kvarnarhljóð skal eigi framar í þér heyrast. 23Lampaljós skal eigi framar í þér lýsa og raust brúðguma og brúðar skal eigi framar heyrast í þér. Kaupmenn þínir voru höfðingjar jarðarinnar, af því að allar þjóðir leiddust í villu af töfrum þínum. 24Og í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni."


19
1Eftir þetta heyrði ég sem sterkan ym mikils fjölda á himni. Þeir sögðu: "Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. 2Sannir og réttlátir eru dómar hans. Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna." 3Og aftur var sagt: "Hallelúja! Reykurinn frá henni stígur upp um aldir alda." 4Og öldungarnir tuttugu og fjórir og verurnar fjórar féllu fram og tilbáðu Guð, sem í hásætinu situr, og sögðu: "Amen, hallelúja!"


Brúðkaup lambsins

5Og frá hásætinu barst rödd, er sagði: "Lofsyngið Guði vorum, allir þér þjónar hans, þér sem hann óttist, smáir og stórir." 6Þá heyrði ég raddir sem frá miklum mannfjölda og sem nið margra vatna og sem gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: "Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. 7Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. 8Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra."

9Og hann segir við mig: "Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins." Og hann segir við mig: "Þetta eru hin sönnu orð Guðs." 10Og ég féll fram fyrir fætur honum til að tilbiðja hann og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, sem hafa vitnisburð Jesú. Tilbið þú Guð. Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar."


Sigurvegarinn á hvítum hesti

11Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. 12Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur. 13Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs. 14Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. 15Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda. 16Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: "Konungur konunga og Drottinn drottna."

17Og ég sá einn engil, sem stóð á sólunni. Hann hrópaði hárri röddu til allra fuglanna, sem flugu um himinhvolfið: "Komið, safnist saman til hinnar miklu máltíðar Guðs 18til þess að eta hold konunga og hold herforingja og hold kappa og hold hesta og þeirra, sem á þeim sitja, og hold allra, bæði frjálsra og ófrjálsra, smárra og stórra."

19Og ég sá dýrið og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann, sem á hestinum sat, og við herlið hans. 20Og dýrið var handtekið og ásamt því falsspámaðurinn, sem táknin gjörði í augsýn þess, en með þeim leiddi hann afvega þá, sem tekið höfðu við merki dýrsins, og þá, sem tilbeðið höfðu líkneski þess. Báðum þeim var kastað lifandi í eldsdíkið, sem logar af brennisteini. 21Og hinir voru drepnir með sverði þess, er á hestinum sat, sverðinu, sem út gekk af munni hans, og allir fuglarnir söddust af hræjum þeirra.


Árin þúsund

20
1Nú sá ég engil stíga niður af himni. Hann hélt á lykli undirdjúpsins og stórum fjötri í hendi sér. 2Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. 3Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin. Eftir það á hann að vera leystur um stuttan tíma.

4Og ég sá hásæti og menn settust í þau og dómsvald var þeim fengið, og ég sá sálir þeirra, sem hálshöggnir höfðu verið sakir vitnisburðar Jesú og sakir orðs Guðs. Það voru þeir hinir sömu sem höfðu ekki tilbeðið dýrið né líkneski þess og ekki fengið merki á enni sér og hönd. Og þeir lifnuðu og ríktu með Kristi um þúsund ár. 5En aðrir dauðir lifnuðu ekki fyrr en þúsund árin voru liðin. Þetta er fyrri upprisan. 6Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.


Satan sigraður

7Þegar þúsund árin eru liðin, mun Satan verða leystur úr fangelsi sínu. 8Og hann mun út ganga til að leiða þjóðirnar afvega, þær sem eru á fjórum skautum jarðarinnar, Góg og Magóg, og safna þeim saman til stríðs, og tala þeirra er sem sandur sjávarins. 9Og þeir stigu upp á víðan völl jarðar og umkringdu herbúðir heilagra og borgina elskuðu. En eldur féll af himni ofan og eyddi þeim. 10Og djöflinum, sem leiðir þá afvega, var kastað í díkið elds og brennisteins, þar sem bæði dýrið er og falsspámaðurinn. Og þeir munu kvaldir verða dag og nótt um aldir alda.


Dómurinn

11Og ég sá mikið hvítt hásæti og þann, sem í því sat. Og fyrir ásjónu hans hvarf himinn og jörð og þeirra sá engan stað. 12Og ég sá þá dauðu, stóra og smáa, standa frammi fyrir hásætinu, og bókum var lokið upp. Og annarri bók var lokið upp og það er lífsins bók. Og hinir dauðu voru dæmdir, eftir því sem ritað var í bókunum, samkvæmt verkum þeirra. 13Og hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. 14Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið. 15Og ef einhver fannst ekki skráður í lífsins bók, var honum kastað í eldsdíkið.


Nýr himinn, ný jörð

21
1Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. 2Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. 3Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: "Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. 4Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið."

5Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: "Sjá, ég gjöri alla hluti nýja," og hann segir: "Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu." 6Og hann sagði við mig: "Það er fram komið. Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn. Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns. 7Sá er sigrar mun erfa þetta, og ég mun vera hans Guð og hann mun vera minn sonur. 8En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn, skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði."


Ný Jerúsalem

9Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: "Kom hingað, og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins." 10Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem niður steig af himni frá Guði. 11Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær. 12Hún hafði mikinn og háan múr og tólf hlið og við hliðin stóðu tólf englar og nöfn þeirra tólf kynkvísla Ísraelssona voru rituð á hliðin tólf. 13Móti austri voru þrjú hlið, móti norðri þrjú hlið, móti suðri þrjú hlið og móti vestri þrjú hlið. 14Og múr borgarinnar hafði tólf undirstöðusteina og á þeim nöfn hinna tólf postula lambsins.

15Og sá, sem við mig talaði, hélt á kvarða, gullstaf, til að mæla borgina og hlið hennar og múr hennar. 16Borgin liggur í ferhyrning, jöfn á lengd og breidd. Og hann mældi borgina með stafnum, tólf þúsund skeið. Lengd hennar og breidd og hæð eru jafnar. 17Og hann mældi múr hennar, hundrað fjörutíu og fjórar álnir, eftir kvarða manns, sem er einnig mál engils. 18Múr hennar var byggður af jaspis og borgin af skíra gulli sem skært gler væri. 19Undirstöðusteinar borgarmúrsins voru skreyttir alls konar gimsteinum. Fyrsti undirstöðusteinninn var jaspis, annar safír, þriðji kalsedón, fjórði smaragð, 20fimmti sardónyx, sjötti sardis, sjöundi krýsólít, áttundi beryll, níundi tópas, tíundi krýsópras, ellefti hýasint, tólfti ametýst. 21Og hliðin tólf voru tólf perlur, og hvert hlið úr einni perlu. Og stræti borgarinnar var af skíru gulli sem gagnsætt gler.

22Og musteri sá ég ekki í henni, því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið. 23Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. 24Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína. 25Og hliðum hennar verður aldrei lokað um daga - því að nótt verður þar ekki. 26Og menn munu færa henni dýrð og vegsemd þjóðanna. 27Og alls ekkert óhreint skal inn í hana ganga né sá sem fremur viðurstyggð eða iðkar lygi, engir nema þeir einir, sem ritaðir eru í lífsins bók lambsins.


22
1Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins. 2Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum. 3Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna. 4Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra. 5Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.


Kom þú, Jesús

6Og hann sagði við mig: "Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms. 7Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar."

8Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta. 9Og hann segir við mig: "Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð."

10Og hann segir við mig: "Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd. 11Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram.

12Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. 13Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. 14Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina. 15Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.

16Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan."

17Og andinn og brúðurin segja: "Kom þú!" Og sá sem heyrir segi: "Kom þú!" Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.


Lokaorð

18Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók. 19Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.

20Sá sem þetta vottar segir: "Já, ég kem skjótt." Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!

21Náðin Drottins Jesú sé með öllum.Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997