SÁLMARNIR

Fyrsta bók


1

Sæll er sá maður,
er eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur á vegi syndaranna
og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum,
er ber ávöxt sinn á réttum tíma,
og blöð þess visna ekki.
Allt er hann gjörir lánast honum.

4 Svo fer eigi hinum óguðlega,
heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum
og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra,
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.


2

Hví geisa heiðingjarnir
og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram,
og höfðingjarnir bera ráð sín saman
gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra,
vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

4 Hann sem situr á himni hlær.
Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni,
skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn
á Síon, fjallið mitt helga."

7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins:
Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn.
Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig,
og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð
og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota,
mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar,
látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta
og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi
og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans.
Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.


3   Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir,
margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig:
"Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn,
þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

5 Þá er ég hrópa til Drottins,
svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna,
ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa,
er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn,
því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest,
brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin,
blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]


4   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

2 Svara mér, er ég hrópa,
þú Guð réttlætis míns!
Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig,
ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán?
Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um,
að Drottinn sýnir mér dásamlega náð,
að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki.
Hugsið yður um í hvílum yðar
og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir
og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?"
Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði
en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna,
því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.


5   Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

2 Heyr orð mín, Drottinn,
gef gaum að andvörpum mínum.
3 Hlýð þú á kveinstafi mína,
konungur minn og Guð minn,
því að til þín bið ég.
4 Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína,
á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig,
og ég bíð þín.

5 Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki,
hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.
6 Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér,
þú hatar alla er illt gjöra.
7 Þú tortímir þeim, sem lygar mæla,
á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

8 En ég fæ að ganga í hús þitt
fyrir mikla miskunn þína,
fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri
í ótta frammi fyrir þér.
9 Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu
sakir óvina minna,
gjör sléttan veg þinn fyrir mér.
10 Einlægni er ekki til í munni þeirra,
hjarta þeirra er glötunardjúp.
Kok þeirra er opin gröf,
með tungu sinni hræsna þeir.
11 Dæm þá seka, Guð,
falli þeir sakir ráðagjörða sinna,
hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra,
því að þeir storka þér.
12 Allir kætast, er treysta þér,
þeir fagna að eilífu,
því að þú verndar þá.
Þeir sem elska nafn þitt
gleðjast yfir þér.
13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta,
hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.


6   Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni
og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast,
lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.
4 Sál mín er óttaslegin,
en þú, ó Drottinn - hversu lengi?

5 Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína,
hjálpa mér sakir elsku þinnar.
6 Því að enginn minnist þín í dánarheimum,
hver skyldi lofa þig hjá Helju?

7 Ég er þreyttur af andvörpum mínum,
ég lauga rekkju mína í tárum,
læt hvílu mína flóa hverja nótt.
8 Augu mín eru döpruð af harmi,
orðin sljó sakir allra óvina minna.

9 Farið frá mér, allir illgjörðamenn,
því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.
10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína,
Drottinn tekur á móti bæn minni.
11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög,
hraða sér sneyptir burt.


7   Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis,
hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón,
tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta:
sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig,
eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér,
troði líf mitt til jarðar
og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni,
hef þig gegn ofsa fjandmanna minna
og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig,
og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar,
lát mig ná rétti mínum, Drottinn,
samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra,
en styrk hina réttlátu,
þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun,
réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér,
hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari,
hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt,
bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn,
skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku,
er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa,
en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll,
og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans
og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.


8   Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi
til varnar gegn óvinum þínum,
til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans,
og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð,
með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa,
og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins,
allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!


9   Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta,
segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér,
lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

4 Óvinir mínir hörfuðu undan,
hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt,
setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu,
afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok
- rústir að eilífu -
og borgirnar hefir þú brotið,
minning þeirra er horfin.

8 En Drottinn ríkir að eilífu,
hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi,
heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu,
vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér,
því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon,
gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra,
hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn,
sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér,
þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum,
fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu,
fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm,
hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört.
[Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar,
allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt,
von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari,
lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn!
Lát þá komast að raun um, að þeir
eru dauðlegir menn. [Sela]


10  

Hví stendur þú fjarri, Drottinn,
hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum,
þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist,
og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!"
"Guð er ekki til" - svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð,
dómar þínir fara hátt yfir höfði hans,
alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum,
frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi,
undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum,
í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa,
augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni;
hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða,
hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður,
hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því,
hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð!
Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu,
segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli
til þess að taka það í hönd þína.
Hinn bágstaddi felur þér það;
þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega,
og er þú leitar að guðleysi hins vonda,
finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi,
heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn,
þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum.
Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.


11   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá Drottni leita ég hælis.
Hvernig getið þér sagt við mig:
"Fljúg sem fugl til fjallanna!"
2 Því að nú benda hinir óguðlegu bogann,
leggja örvar sínar á streng
til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.
3 Þegar stoðirnar eru rifnar niður,
hvað megna þá hinir réttlátu?

4 Drottinn er í sínu heilaga musteri,
hásæti Drottins er á himnum,
augu hans sjá,
sjónir hans rannsaka mennina.
5 Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega,
og þann er elskar ofríki, hatar hann.

6 Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum,
eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.
7 Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum.
Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.


12   Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu,
hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan,
með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum,
öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra,
varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku
vil ég nú rísa upp," segir Drottinn.
"Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

7 Orð Drottins eru hrein orð,
skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss,
varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi,
og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.


13   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu?
Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál,
harm í hjarta dag frá degi?
Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn,
hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!"
að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína;
hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni.

Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.


14   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heimskinginn segir í hjarta sínu:
"Guð er ekki til."
Ill og andstyggileg er breytni þeirra,
enginn gjörir það sem gott er.

2 Drottinn lítur af himni
niður á mennina
til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn,
nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir,
enginn gjörir það sem gott er - ekki einn.

4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir,
þeir er eta lýð minn sem brauð væri
og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir,
því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða,
því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon!
Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns,
skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.


15   Davíðssálmur

Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu,
hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti
og talar sannleik af hjarta,
3 sá er eigi talar róg með tungu sinni,
eigi gjörir öðrum mein
og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;
4 sem fyrirlítur þá er illa breyta,
en heiðrar þá er óttast Drottin,
sá er sver sér í mein og bregður eigi af,
5 sá er eigi lánar fé sitt með okri
og eigi þiggur mútur gegn saklausum -
sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.


16   Davíðs-miktam.

Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.
2 Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn,
ég á engin gæði nema þig."
3 Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu -
á þeim hefi ég alla mína velþóknun.
4 Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð.
Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum
og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

5 Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar;
þú heldur uppi hlut mínum.
6 Mér féllu að erfðahlut indælir staðir,
og arfleifð mín líkar mér vel.
7 Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið,
jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.
8 Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum,
þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

9 Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst,
og líkami minn hvílist í friði,
10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt,
leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.
11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins,
gleðignótt er fyrir augliti þínu,
yndi í hægri hendi þinni að eilífu.


17   Bæn Davíðs.

Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni,
hlýð á hróp mitt,
ljá eyra bæn minni,
er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu,
augu þín sjá hvað rétt er.

3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur,
reynir mig í eldi,
þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér,
munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna
forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum,
mér skriðnaði ekki fótur.

6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð,
hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis
við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

8 Varðveit mig sem sjáaldur augans,
fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi,
fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað,
með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig,
þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð,
ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður,
frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn,
undan mönnum heimsins,
sem hafa hlutskipti sitt í lífinu
og þú kviðfyllir gæðum þínum.
Þeir eru ríkir að sonum
og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt,
þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.


18   Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls. 2 Hann mælti:

Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn,
Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég,
og ég frelsast frá óvinum mínum.

5 Brimöldur dauðans umkringdu mig,
elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig,
möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin,
og til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum,
og óp mitt barst til eyrna honum.

8 Jörðin bifaðist og nötraði,
undirstöður fjallanna skulfu,
þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans
og eyðandi eldur af munni hans,
glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður,
og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað
og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu,
regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust
hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum,
og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum,
lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn,
og undirstöður jarðarinnar urðu berar
fyrir ógnun þinni, Drottinn,
fyrir andgustinum úr nösum þínum.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig,
dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum,
frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi,
en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi,
frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu,
eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins
og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum,
og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum
og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu,
eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur,
gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn,
en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð,
en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína,
Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra,
fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er hreint,
skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.

32 Hver er Guð nema Drottinn,
og hver er hellubjarg utan vor Guð?
33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika
og gjörir veg minn sléttan,
34 sem gjörir fætur mína sem hindanna
og veitir mér fótfestu á hæðunum,
35 sem æfir hendur mínar til hernaðar,
svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns,
og hægri hönd þín studdi mig,
og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum,
og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim
og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa,
þeir hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins,
beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna,
og fjendum mínum eyddi ég.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar,
þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð,
tróð þá fótum sem saur á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum,
gjörðir mig að höfðingja þjóðanna,
lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér,
útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp
og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg,
og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir
og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna.
Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig,
frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna
og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp
og auðsýnir miskunn sínum smurða,
Davíð og niðjum hans að eilífu.


19   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum,
hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð,
ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina,
og orð þeirra ná til endimarka heims.
Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu,
hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp,
og hringferð hans nær til enda himins,
og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans.

8 Lögmál Drottins er lýtalaust,
hressir sálina,
vitnisburður Drottins er áreiðanlegur,
gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt,
gleðja hjartað.
Boðorð Drottins eru skír,
hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn,
varir að eilífu.
Ákvæði Drottins eru sannleikur,
eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull,
já, gnóttir af skíru gulli,
og sætari en hunang,
já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega,
að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar?
Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum,
lát þá eigi drottna yfir mér.
Þá verð ég lýtalaus
og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg
og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt,
þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!


20   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar,
nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum,
styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna
og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir,
og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum
og veifa fánanum í nafni Guðs vors.
Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða,
svarar honum frá sínum helga himni,
í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum,
en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla,
en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum
og bænheyr oss, er vér hrópum.


21   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn,
hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði,
um það sem varir hans báðu,
neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum,
setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum,
fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp,
vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu,
þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni,
og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

9 Hönd þín nær til allra óvina þinna,
hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn,
er þú lítur á þá.
Drottinn tortímir þeim í reiði sinni,
og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni
og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér,
búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta,
miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu!
Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!


22   Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?
Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki,
og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi,
sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir,
þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað,
þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

7 En ég er maðkur og eigi maður,
til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér,
bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum!
hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi,
lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti,
frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér,
því að neyðin er nærri,
og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig,
Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér
sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni,
og öll bein mín eru gliðnuð sundur;
hjarta mitt er sem vax,
bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir,
og tungan loðir föst í munni mér.
Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig,
hópur illvirkja slær hring um mig,
hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein -
þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum
og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri!
þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu
og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins,
frá hornum vísundarins.

Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt,
í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann!
Tignið hann, allir niðjar Jakobs!
Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða
og eigi hulið auglit sitt fyrir honum,
heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði,
heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir,
þeir er leita Drottins munu lofa hann.
Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins
og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni,
og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram,
fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið.
En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum.
Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans,
að hann hefir framkvæmt það.


23   Davíðssálmur.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.

5 Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég
langa ævi.


24   Davíðssálmur.

Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,
heimurinn og þeir sem í honum búa.
2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu
og fest hana á vötnunum.

3 - Hver fær að stíga upp á fjall Drottins,
hver fær að dveljast á hans helga stað?
4 - Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta,
eigi sækist eftir hégóma
og eigi vinnur rangan eið.
5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni
og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.
6 - Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins,
stundar eftir augliti þínu,
þú Jakobs Guð. [Sela]

7 - Þér hlið, lyftið höfðum yðar,
hefjið yður, þér öldnu dyr,
að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
8 - Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
- Það er Drottinn, hin volduga hetja,
Drottinn, bardagahetjan.
9 - Þér hlið, lyftið höfðum yðar,
hefjið yður, þér öldnu dyr,
að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
10 - Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
- Drottinn hersveitanna,
hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]


25   Davíðssálmur.

2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína,
Guð minn, þér treysti ég.
Lát mig eigi verða til skammar,
lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar,
þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

4 Vísa mér vegu þína, Drottinn,
kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér,
því að þú ert Guð hjálpræðis míns,
allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka,
því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota,
minnst mín eftir elsku þinni
sakir gæsku þinnar, Drottinn.

8 Góður og réttlátur er Drottinn,
þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu
og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti
fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn,
fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin,
mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju,
og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann,
og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins,
því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér,
því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt,
leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu
og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru,
með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig,
lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín,
því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð,
úr öllum nauðum hans.


26   Davíðssálmur.

Lát mig ná rétti mínum, Drottinn,
því að ég geng fram í grandvarleik
og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig,
prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum,
og ég geng í sannleika þínum.

4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum
og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna,
sit eigi meðal óguðlegra.

6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi
og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma
og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns
og staðinn þar sem dýrð þín býr.

9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum
né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér
og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik,
frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund,
í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.


27   Davíðssálmur.

Drottinn er ljós mitt og fulltingi,
hvern ætti ég að óttast?
Drottinn er vígi lífs míns,
hvern ætti ég að hræðast?

2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig
til þess að fella mig,
þá verða það andstæðingar mínir og óvinir,
sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig,
óttast hjarta mitt eigi,
þegar ófriður hefst í gegn mér,
er ég samt öruggur.

4 Eins hefi ég beðið Drottin,
það eitt þrái ég:
Að ég fái að dveljast í húsi Drottins
alla ævidaga mína
til þess að fá að skoða yndisleik Drottins,
sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli
á óheilladeginum,
hann felur mig í fylgsnum tjalds síns,
lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt
yfir óvini mína umhverfis mig,
að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans,
syngja og leika Drottni.

7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!"
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,
vísa þjóni þínum eigi frá í reiði.
Þú hefir verið fulltingi mitt,
hrind mér eigi burt
og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig,
tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn,
leið mig um slétta braut
sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna,
því að falsvitni rísa í gegn mér
og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins
á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur,
já, vona á Drottin.


28   Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hrópa ég,
þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér.
Ef þú þegir við mér,
verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína,
er ég hrópa til þín,
er ég lyfti höndum mínum
til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum
og með illgjörðamönnum,
þeim er tala vinsamlega við náunga sinn,
en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra,
eftir þeirra illu breytni,
launa þeim eftir verkum handa þeirra,
endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins
né handaverk hans,
hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

6 Lofaður sé Drottinn,
því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur,
honum treysti hjarta mitt.
Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt,
og með ljóðum mínum lofa ég hann.

8 Drottinn er vígi lýð sínum
og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína,
gæt þeirra og ber þá að eilífu.


29   Davíðssálmur.

Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir,
tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir,
fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum,
Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja,
Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti,
raust Drottins hljómar með tign.

5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré,
Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa
og Hermonfjall eins og ungan vísund.

7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa,
Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann
og gjörir skógana nakta,
og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu,
Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik,
Drottinn blessar lýð sinn með friði.


30   Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér
og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn,
ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju,
lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans,
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur,
en gleðisöngur að morgni.

7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði:
"Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt,
en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég,
og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum,
í því að ég gangi til grafar?
Getur duftið lofað þig,
kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér,
ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans,
leystir af mér hærusekkinn
og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér
og eigi þagna.
Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.


31   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,
lát mig aldrei verða til skammar.
Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín,
frelsa mig í skyndi,
ver mér verndarbjarg,
vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi,
og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig,
því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn,
þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð,
en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni,
því að þú hefir litið á eymd mína,
gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum,
en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur,
döpruð af harmi eru augu mín,
sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi
og líf mitt í andvörpum,
mér förlast kraftur sakir sektar minnar,
og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum,
til háðungar nábúum mínum
og skelfing kunningjum mínum:
þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra,
ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra,
- skelfing er allt um kring -
þeir bera ráð sín saman móti mér,
hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn,
ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar,
frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn,
hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar,
því að ég ákalla þig.
Lát hina guðlausu verða til skammar,
hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna,
þær er mæla drambyrði gegn réttlátum
með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín,
er þú hefir geymt þeim er óttast þig,
og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér
frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns
fyrir svikráðum manna,
felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn,
því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni:
"Ég er burtrekinn frá augum þínum."
En samt heyrðir þú grátraust mína,
er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu,
Drottinn verndar trúfasta,
en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir,
allir þér er vonið á Drottin.


32   Davíðsmaskíl.

Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin,
synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð,
sá er eigi geymir svik í anda.

3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín,
allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér,
lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér
og fól eigi misgjörð mína.
Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni,"
og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður,
meðan þig er að finna.
Þótt vatnsflóðið komi,
nær það honum eigi.

7 Þú ert skjól mitt,
þú leysir mig úr nauðum,
með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga,
ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar;
með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra,
annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns,
en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir,
kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!


33  

Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni!
Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum,
leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng,
knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.

4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt,
og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti,
jörðin er full af miskunn Drottins.

6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir
og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg,
lét straumana í forðabúr.

8 Öll jörðin óttist Drottin,
allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði - og það varð,
hann bauð - þá stóð það þar.

10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna,
gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur,
áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði,
sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.

13 Drottinn lítur niður af himni,
sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér
alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra
og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.

16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns,
eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs,
með ofurafli sínu bjargar hann ekki.

18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann,
á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða
og heldur lífinu í þeim í hallæri.

20 Sálir vorar vona á Drottin,
hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort,
hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss,
svo sem vér vonum á þig.


34   Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

2 Ég vil vegsama Drottin alla tíma,
ætíð sé lof hans mér í munni.
3 Sál mín hrósar sér af Drottni,
hinir hógværu skulu heyra það og fagna.
4 Miklið Drottin ásamt mér,
tignum í sameiningu nafn hans.

5 Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér,
frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.
6 Lítið til hans og gleðjist,
og andlit yðar skulu eigi blygðast.
7 Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann
og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.
8 Engill Drottins setur vörð
kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

9 Finnið og sjáið, að Drottinn er góður,
sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.
10 Óttist Drottin, þér hans heilögu,
því að þeir er óttast hann líða engan skort.
11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta,
en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig,
ég vil kenna yður ótta Drottins.
13 Ef einhver óskar lífs,
þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,
14 þá varðveit tungu þína frá illu
og varir þínar frá svikatali,
15 forðast illt og gjörðu gott,
leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum,
og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.
17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta,
til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.
18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn,
úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.
19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta,
þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns,
en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.
21 Hann gætir allra beina hans,
ekki eitt af þeim skal brotið.
22 Ógæfa drepur óguðlegan mann,
þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.
23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna,
enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.


35   Davíðssálmur.

Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig,
berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu
og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi
til þess að mæta ofsækjendum mínum,
seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt
hljóta smán og svívirðing,
lát þá hverfa aftur með skömm,
er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi,
þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan,
þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig,
að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst,
lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá,
lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

9 En sál mín skal kætast yfir Drottni,
gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja:
"Drottinn, hver er sem þú,
er frelsar hinn umkomulausa
frá þeim sem er honum yfirsterkari,
hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp,
þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu,
einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk,
þjáði mig með föstu
og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi,
sem vinur eða bróðir ætti í hlut,
var beygður
eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman,
útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér,
mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána,
nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á?
Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra,
mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði,
vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér,
lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi,
og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér,
segja: "Hæ, hæ!
Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður,
Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum,
Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn,
og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu:
"Hæ! Ósk vor er uppfyllt!"
lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða,
er hlakka yfir ógæfu minni,
lát þá íklæðast skömm og svívirðing,
er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast,
er unna mér réttar,
lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn,
hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt,
lofstír þinn liðlangan daginn.


36   Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans,
enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans
og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik,
hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál,
hann fetar vonda vegu,
forðast eigi hið illa.

6 Drottinn, til himna nær miskunn þín,
til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs,
dómar þínir sem reginhaf.
Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð,
mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns,
og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins,
í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig,
og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér
né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir,
þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.


37   Davíðssálmur.

Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna,
öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið,
visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott,
bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni,
og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína
og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós
og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann.
Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur,
vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni,
ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir,
en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar,
þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar,
gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum,
nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum,
því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu
og benda boga sína
til þess að fella hinn hrjáða og snauða,
til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum,
og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns
en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn,
en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra,
og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar,
á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast,
og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins:
þeir hverfa - sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi,
en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar,
en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa,
þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur,
því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn,
en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn
né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar,
og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott,
þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti
og yfirgefur ekki sína trúuðu.
Þeir verða eilíflega varðveittir,
en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar
og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki
og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans,
eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta
og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki
og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans,
þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið,
og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum
og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar,
ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna,
því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt,
framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni,
hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim,
bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim,
af því að þeir leituðu hælis hjá honum.


38   Davíðssálmur. Minningarljóð.

2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni
og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér,
og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum
sakir reiði þinnar,
ekkert heilt í beinum mínum
sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð,
sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim
sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður,
ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna,
og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög,
kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn
og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn,
jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni,
og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig,
þeir er leita mér meins, mæla skaðræði
og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki,
og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir
og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég,
þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér,
eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn,
og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína,
harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir,
fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu,
sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn,
Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig,
Drottinn, þú hjálp mín.


39   Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum,
að ég drýgi eigi synd með tungunni,
ég vil leggja haft á munn minn,
meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði,
en kvöl mín ýfðist.

4 Hjartað brann í brjósti mér,
við andvörp mín logaði eldurinn upp,
ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín
og hvað mér er útmælt af dögum,
lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína,
og ævi mín er sem ekkert fyrir þér.
Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um,
gjörir háreysti um hégómann einan,
hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

8 Hvers vona ég þá, Drottinn?
Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum,
lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn,
því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér,
ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans,
lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri.
Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt,
ver eigi hljóður við tárum mínum,
því að ég er aðkomandi hjá þér,
útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér,
áður en ég fer burt og er eigi til framar.


40   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin,
og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr hinni botnlausu leðju,
og veitti mér fótfestu á kletti,
gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng um Guð vorn.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.

5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu
og snýr sér eigi til hinna dramblátu
né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín
og áform þín oss til handa,
ekkert kemst í samjöfnuð við þig.
Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra,
eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun,
- þú hefir gefið mér opin eyru -
brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem,
í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi,
og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði,
ég hefi eigi haldið vörunum aftur,
það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér,
ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði
og dró eigi dul á náð þína og tryggð
í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn,
lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig,
misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá,
þær eru fleiri en hárin á höfði mér,
mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig,
skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða,
er sitja um líf mitt,
lát þá hverfa aftur með skömm,
er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni,
er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín
skulu gleðjast og fagna yfir þér,
þeir er unna hjálpræði þínu
skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður,
en Drottinn ber umhyggju fyrir mér.
Þú ert fulltingi mitt og frelsari,
tef eigi, Guð minn!


41   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum,
á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann
og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu.
Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni,
þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn,
lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna:
"Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál.
Hjarta hans safnar að sér illsku,
hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig,
þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt,
hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti,
sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur,
að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér,
að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi
og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu.

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
frá eilífð til eilífðar.
Amen. Amen.Önnur bók


42   Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir,
þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði,
hinum lifanda Guði.
Hvenær mun ég fá að koma
og birtast fyrir augliti Guðs?

4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt,
af því menn segja við mig allan daginn:
"Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa
og úthella sál minni, sem í mér er,
hversu ég gekk fram í mannþrönginni,
leiddi þá til Guðs húss
með fagnaðarópi og lofsöng,
með hátíðaglaumi.

6 Hví ert þú beygð, sál mín,
og ólgar í mér?
Vona á Guð,
því að enn mun ég fá að lofa hann,
hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

7 Guð minn, sál mín er beygð í mér,
fyrir því vil ég minnast þín
frá Jórdan- og Hermonlandi,
frá litla fjallinu.

8 Eitt flóðið kallar á annað,
þegar fossar þínir duna,
allir boðar þínir og bylgjur
ganga yfir mig.

9 Um daga býður Drottinn út náð sinni,
og um nætur syng ég honum ljóð,
bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér?
hví verð ég að ganga harmandi,
kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna
er sem rotnun í beinum mínum,
er þeir segja við mig allan daginn:
"Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín,
og ólgar í mér?
Vona á Guð,
því að enn mun ég fá að lofa hann,
hjálpræði auglitis míns og Guð minn.


43  

Lát mig ná rétti mínum, Guð,
berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð,
bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi,
hví hefir þú útskúfað mér?
hví verð ég að ganga um harmandi,
kúgaður af óvinum?

3 Send ljós þitt og trúfesti þína,
þau skulu leiða mig,
þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga,
til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs,
til Guðs minnar fagnandi gleði,
og lofa þig með gígjuhljómi,
ó Guð, þú Guð minn.

5 Hví ert þú beygð, sál mín,
og ólgar í mér?
Vona á Guð,
því að enn mun ég fá að lofa hann,
hjálpræði auglitis míns og Guð minn.


44   Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt,
feður vorir hafa sagt oss
frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra,
frá því, er þú gjörðir forðum daga.
3 Þú stökktir burt þjóðum,
en gróðursettir þá,
þú lékst lýði harðlega,
en útbreiddir þá.
4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum,
og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim,
heldur hægri hönd þín og armleggur þinn
og ljós auglitis þíns,
því að þú hafðir þóknun á þeim.

5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð,
bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.
6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir,
og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.
7 Ég treysti eigi boga mínum,
og sverð mitt veitir mér eigi sigur,
8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum
og lætur hatursmenn vora verða til skammar.
9 Af Guði hrósum vér oss ætíð
og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar
og fer eigi út með hersveitum vorum.
11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum,
og hatursmenn vorir taka herfang.
12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar
og tvístrar oss meðal þjóðanna.
13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð,
tekur ekkert verð fyrir hann.
14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum,
til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna,
lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum,
og skömm hylur auglit mitt,
17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli
og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss,
og þó höfum vér eigi gleymt þér
og eigi rofið sáttmála þinn.
19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér
né skref vor beygt út af vegi þínum,
20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna
og hulið oss niðdimmu.
21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors
og fórnað höndum til útlendra guða,
22 mundi Guð eigi verða þess áskynja,
hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir,
erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn?
Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!
25 Hví hylur þú auglit þitt,
gleymir eymd vorri og kúgun?
26 Sál vor er beygð í duftið,
líkami vor loðir við jörðina.
27 Rís upp, veit oss lið
og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.


45   Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum,
ég flyt konungi kvæði mitt,
tunga mín er sem penni hraðritarans.

3 Fegurri ert þú en mannanna börn,
yndisleik er úthellt yfir varir þínar,
fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja,
ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll
sakir tryggðar og réttlætis,
hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar,
þjóðir falla að fótum þér,
fjandmenn konungs eru horfnir.

7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi,
sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti,
fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig
með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði,
frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna,
konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt!
Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar,
því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir,
auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin,
perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung,
meyjar fylgja henni,
vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði,
þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir,
þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum,
þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.


46   Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

2 Guð er oss hæli og styrkur,
örugg hjálp í nauðum.
3 Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist
og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.
4 Látum vötnin gnýja og freyða,
látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

5 Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg,
heilagan bústað Hins hæsta.
6 Guð býr í henni, eigi mun hún bifast,
Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.
7 Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu,
raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
8 Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

9 Komið, skoðið dáðir Drottins,
hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.
10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar,
brýtur bogann, slær af oddinn,
brennir skjöldu í eldi.
11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð,
hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."
12 Drottinn hersveitanna er með oss,
Jakobs Guð vort vígi. [Sela]


47   Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

2 Klappið saman lófum, allar þjóðir,
fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur,
voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði
og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort,
fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi,
með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið,
syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni,
syngið Guði lofsöng!

9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum,
Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman
ásamt lýð Abrahams Guðs.
Því að Guðs eru skildir jarðarinnar,
hann er mjög hátt upphafinn.


48   Ljóð. Kóraítasálmur.

2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur
í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins,
Síonarhæð, yst í norðri,
borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar
kunngjört sig sem vígi.

5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu,
héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa,
skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis,
angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú
Tarsis-knörru.

9 Eins og vér höfum heyrt,
svo höfum vér séð
í borg Drottins hersveitanna,
í borg vors Guðs.
Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína
inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð,
svo hljómi lofgjörð þín
til endimarka jarðar.
Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst,
Júdadætur fagna
vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon,
gangið umhverfis hana,
teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar,
skoðið hallir hennar,
til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor.
Um aldur og ævi mun hann leiða oss.


49   Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

2 Heyrið þetta, allar þjóðir,
hlustið á, allir heimsbúar,
3 bæði lágir og háir,
jafnt ríkir sem fátækir!
4 Munnur minn talar speki,
og ígrundun hjarta míns er hyggindi.
5 Ég hneigi eyra mitt að spakmæli,
ræð gátu mína við gígjuhljóm.

6 Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum,
þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,
7 þeir sem reiða sig á auðæfi sín
og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

8 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan
né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.
9 Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt,
svo að hann yrði að hætta við það að fullu,
10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega
og líta ekki í gröfina.
11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja,
að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum
og láta öðrum eftir auðæfi sín.
12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu,
bústaðir þeirra frá kyni til kyns,
jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.
13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki,
hann verður jafn skepnunum sem farast.
14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir,
og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]
15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð,
dauðinn heldur þeim á beit,
og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar,
og mynd þeirra eyðist,
Hel verður bústaður þeirra.
16 En mína sál mun Guð endurleysa,
því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur,
þegar dýrð húss hans verður mikil,
18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr,
auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.
19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir:
"Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."
20 - Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna,
sem aldrei að eilífu sjá ljósið.
21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus,
verður jafn skepnunum sem farast.


50   Asafs-sálmur.

Drottinn er alvaldur Guð,
hann talar og kallar á jörðina
frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar,
birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki.
Eyðandi eldur fer fyrir honum,
og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi
og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum,
þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans,
því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala,
Ísrael, og lát mig áminna þig,
ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig,
brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu
né geithafra úr stíu þinni,
10 því að mín eru öll skógardýrin
og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.
11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum,
og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.
12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því,
því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13 Et ég nauta kjöt,
eða drekk ég hafra blóð?
14 Fær Guði þakkargjörð að fórn
og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.
15 Ákalla mig á degi neyðarinnar,
og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð:
"Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín
og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga
og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann,
og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku,
og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum
og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja?
Þú heldur, að ég sé líkur þér!
Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði,
til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig,
og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."


51   Til söngstjórans. Sálmur Davíðs, 2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni,
hreinsa mig af synd minni,
5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín,
og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

6 Gegn þér einum hefi ég syndgað
og gjört það sem illt er í augum þínum.
Því ert þú réttlátur, er þú talar,
hreinn, er þú dæmir.
7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til,
syndugur, er móðir mín fæddi mig.
8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra,
og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn,
þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
10 Lát mig heyra fögnuð og gleði,
lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.
11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum
og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.
13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiks anda,
15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína
og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns,
lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.
17 Drottinn, opna varir mínar,
svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum - annars mundi ég láta þær í té -
og að brennifórnum er þér ekkert yndi.
19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi,
sundurmarið og sundurkramið hjarta
munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar,
reis múra Jerúsalem!
21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum,
á brennifórn og alfórn,
þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.


52   Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð, 2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri?
Miskunn Guðs varir alla daga!
4 Tunga þín býr yfir skaðræði,
eins og beittur rakhnífur,
þú svikaforkur!
5 Þú elskar illt meir en gott,
lygi fremur en sannsögli. [Sela]
6 Þú elskar hvert skaðræðisorð,
þú fláráða tunga!
7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt,
hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu
og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast,
og þeir munu hlæja að honum:
9 "Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni,
heldur treysti á hin miklu auðæfi sín
og þrjóskaðist í illsku sinni."
10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs,
treysti á Guðs náð um aldur og ævi.
11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið,
kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.


53   Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

2 Heimskinginn segir í hjarta sínu:
"Enginn Guð er til!"
Ill og andstyggileg er breytni þeirra,
enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni
niður á mennina
til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn,
nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið,
allir spilltir,
enginn gjörir það sem gott er,
ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir,
þeir er eta lýð minn sem brauð væri
og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir,
þar sem ekkert er að óttast,
því að Guð tvístrar beinum þeirra,
er setja herbúðir móti þér.
Þú lætur þá verða til skammar,
því að Guð hefir hafnað þeim.

7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon!
Þegar Guð snýr við hag lýðs síns,
skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.


54   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð, 2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?

3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu,
rétt hlut minn með mætti þínum.
4 Guð, heyr þú bæn mína,
ljá eyra orðum munns míns.
5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér
og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu,
eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]

6 Sjá, Guð er mér hjálpari,
það er Drottinn er styður mig.
7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma,
lát þá hverfa af trúfesti þinni.
8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir,
lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð,
og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.


55   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína,
fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér.
Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins,
sakir hróps hins óguðlega,
því að þeir steypa yfir mig ógæfu
og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér,
ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin,
og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan,
þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt,
ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis
fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra,
því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar,
en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni,
ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig
- það gæti ég þolað,
og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig
- fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn,
vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir,
sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá;
stígi þeir lifandi niður til Heljar,
því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs,
og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag
harma ég og styn,
og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið,
svo að þeir geta eigi nálgast mig,
því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra,
og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela]
Þeir breytast ekki
og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann,
hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans,
en ófriður er í hjarta hans,
mýkri en olía eru orð hans,
og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin,
hann mun bera umhyggju fyrir þér,
hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið.
Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri,
en ég treysti þér.


56   Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

2 Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig,
liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.
3 Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn,
því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.
4 Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.
5 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans,
Guði treysti ég, ég óttast eigi.
Hvað getur hold gjört mér?
6 Þeir spilla málefnum mínum án afláts,
allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.
7 Þeir áreita mig, þeir sitja um mig,
þeir gefa gætur að ferðum mínum,
eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.
8 Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið,
steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

9 Þú hefir talið hrakninga mína,
tárum mínum er safnað í sjóð þinn,
já, rituð í bók þína.
10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa,
það veit ég, að Guð liðsinnir mér.
11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans,
með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.
12 Guði treysti ég, ég óttast eigi,
hvað geta menn gjört mér?
13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig,
ég vil gjalda þér þakkarfórnir,
14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða
og fætur mína frá hrösun,
svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.


57   Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

2 Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur!
Því að hjá þér leitar sál mín hælis,
og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita,
uns voðinn er liðinn hjá.
3 Ég hrópa til Guðs, hins hæsta,
þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.
4 Hann sendir af himni og hjálpar mér,
þegar sá er kremur mig spottar. [Sela]
Guð sendir náð sína og trúfesti.
5 Ég verð að liggja meðal ljóna,
er eldi fnæsa.
Tennur þeirra eru spjót og örvar,
og tungur þeirra eru bitur sverð.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð,
dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!
7 Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína,
sál mín er beygð.
Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig,
sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

8 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð,
hjarta mitt er stöðugt,
ég vil syngja og leika.
9 Vakna þú, sál mín,
vakna þú, harpa og gígja,
ég vil vekja morgunroðann.
10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn,
vegsama þig meðal þjóðanna,
11 því að miskunn þín nær til himna
og trúfesti þín til skýjanna.
12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð,
dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.


58   Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.

2 Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir?
Dæmið þér mennina með sanngirni?
3 Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu,
hendur yðar vega út ofbeldi.

4 Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið,
lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.
5 Eitur þeirra er eins og höggormseitur,
þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum
6 til þess að heyra ekki raust særingamannsins
né hins slungna töframanns.
7 Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra,
mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!
8 Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt;
miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,
9 eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur,
ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.
10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum,
hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi,
feykir hann hinum illa burt.

11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina,
hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.
12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt;
það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.


59   Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.

2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn,
bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum
og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt,
hinir sterku áreita mig,
þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups.
Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð,
vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna,
þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]

7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur,
ýlfra eins og hundar
og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra,
sverð eru á vörum þeirra,
því að - "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim,
þú gjörir gys að öllum þjóðunum.

10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða,
því að Guð er háborg mín.

11 Guð kemur í móti mér með náð sinni,
Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi,
lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli,
þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra,
og lát þá verða veidda í hroka þeirra,
og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til,
og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt,
allt til endimarka jarðar. [Sela]

15 Á hverju kveldi koma þeir aftur,
ýlfra eins og hundar
og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti
og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn
og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni,
því að þú hefir gjörst háborg mín
og athvarf á degi neyðar minnar.

18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða,
því að Guð er háborg mín,
minn miskunnsami Guð.


60   Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu, 2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss,
þú reiddist oss - snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna,
gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu,
lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki,
að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss,
til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna,
ég vil skipta Síkem,
mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse,
og Efraím er hlíf höfði mínu,
Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín,
í Edóm fleygi ég skónum mínum,
yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg,
hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð,
og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum,
því að mannahjálp er ónýt.
14Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna,
og hann mun troða óvini vora fótum.


61   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

2 Heyr, ó Guð, hróp mitt,
gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín,
meðan hjarta mitt örmagnast.
Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli,
öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð,
leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín,
þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

7 Þú munt lengja lífdaga konungs,
láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði,
lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur,
og efna heit mín dag frá degi.


62   Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.

2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín,
frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði,
háborg mín - ég verð eigi valtur á fótum.

4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman
gegn einum manni til að fella hann
eins og hallan vegg,
eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans,
þeir hafa yndi af lygi,
þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]

6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín,
því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði,
háborg mín - ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd,
minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn,
úthellið hjörtum yðar fyrir honum,
Guð er vort hæli. [Sela]

10 Hégóminn einn eru mennirnir,
tál eru mannanna börn,
á metaskálunum lyftast þeir upp,
einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng
og alið eigi fánýta von til rændra muna,
þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

12 Eitt sinn hefir Guð talað,
tvisvar hefi ég heyrt það:
"Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn,
því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.


63   Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég,
sál mína þyrstir eftir þér,
hold mitt þráir þig,
í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum
til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið.
Varir mínar skulu vegsama þig.

5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi,
hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti,
og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni,
hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi,
í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig,
hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar,
munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum,
verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði,
hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa,
af því að munni lygaranna hefir verið lokað.


64   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina,
varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.
3 Skýl mér fyrir bandalagi bófanna,
fyrir óaldarflokki illvirkjanna,
4 er hvetja tungur sínar sem sverð,
leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng
5 til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda,
skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.
6 Þeir binda fastmælum með sér ill áform,
tala um að leggja leynisnörur,
þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"
7 Þeir upphugsa ranglæti:
"Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!"
því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.
8 Þá lýstur Guð þá með örinni,
allt í einu verða þeir sárir,
9 og tunga þeirra verður þeim að falli.
Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast
og kunngjöra dáðir Guðs
og gefa gætur að verkum hans.
11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni
og leita hælis hjá honum,
og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.


65   Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon,
og við þig séu heitin efnd.
3 Þú sem heyrir bænir,
til þín kemur allt hold.
4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari,
en þú fyrirgafst afbrot vor.
5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig
til þess að búa í forgörðum þínum,
að vér megum seðjast af gæðum húss þíns,
helgidómi musteris þíns.

6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti,
þú Guð hjálpræðis vors,
þú athvarf allra jarðarinnar endimarka
og fjarlægra stranda,
7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum,
gyrtur styrkleika,
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins,
brimgnýinn í bylgjum þess
og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín,
austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það,
blessað það ríkulega
með læk Guðs, fullum af vatni,
þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess,
með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni,
og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum,
og hæðirnar girðast fögnuði.
14 Hagarnir klæðast hjörðum,
og dalirnir hyljast korni.
Allt fagnar og syngur.


66   Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur.

Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn,
gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs:
Hversu óttaleg eru verk þín,
sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér,
lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs,
sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi,
þeir fóru fótgangandi yfir ána.
Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns,
augu hans gefa gætur að þjóðunum,
uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

8 Þér lýðir, lofið Guð vorn
og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið
og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð,
hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi,
lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor,
vér höfum farið gegnum eld og vatn,
en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir,
efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu
og munnur minn nefndi,
þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum,
ásamt fórnarilm af hrútum,
ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá,
hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum,
en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu,
þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt,
gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð,
er eigi vísaði bæn minni á bug
né tók miskunn sína frá mér.


67   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

2 Guð sé oss náðugur og blessi oss,
hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni
og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð,
þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar,
því að þú dæmir lýðina réttvíslega
og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð,
þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn,
Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss,
svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.


68   Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast,
þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir,
eins og vax bráðnar í eldi,
tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs
og kætast stórum.

5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans,
leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin.
Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna,
Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur,
hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju,
en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.

8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum,
þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin,
og himnarnir drupu
fyrir Guði, Drottni frá Sínaí,
fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína,
það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur,
bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.

12 Drottinn lætur orð sín rætast,
konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja,
en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna?
Vængir dúfunnar eru lagðir silfri
og fjaðrir hennar íbleiku gulli."

15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum,
þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall,
tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga
það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar,
þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?

18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir,
þúsundir á þúsundir ofan.
Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða,
hafðir á burt bandingja,
tókst við gjöfum frá mönnum,
jafnvel uppreisnarmönnum,
að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.

20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag,
Guð er hjálpráð vort. [Sela]
21 Guð er oss hjálpræðisguð,
og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.

22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna,
hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.
23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan,
flytja þá frá djúpi hafsins,
24 að þú megir troða þá til bana,
að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."

25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð,
inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar,
ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum,
lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim,
höfðingjar Júda í þyrpingu,
höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.

29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum,
þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem.
Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu,
uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna,
sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri.
Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi,
Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.

33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði,
syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð,
hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð,
yfir Ísrael er hátign hans
og máttur hans í skýjunum.
36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum,
Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin.
Lofaður sé Guð!


69   Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.

2 Hjálpa mér, ó Guð,
því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju
og hefi enga fótfestu,
ég er kominn ofan í vatnadjúp
og bylgjurnar ganga yfir mig.
4 Ég hefi æpt mig þreyttan,
er orðinn brennandi þurr í kverkunum,
augu mín eru döpruð orðin
af að þreyja eftir Guði mínum.
5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir
er hata mig að ástæðulausu,
fleiri en bein mín þeir
sem án saka eru óvinir mínir.
Því sem ég hefi eigi rænt,
hefi ég samt orðið að skila aftur.
6 Þú, Guð, þekkir heimsku mína,
og sakir mínar dyljast þér eigi.
7 Lát eigi þá, er vona á þig,
verða til skammar mín vegna,
ó Drottinn, Drottinn hersveitanna,
lát eigi þá er leita þín,
verða til svívirðingar mín vegna,
þú Guð Ísraels.
8 Þín vegna ber ég háðung,
þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.
9 Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum
og óþekktur sonum móður minnar.
10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig,
og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.
11 Ég hefi þjáð mig með föstu,
en það varð mér til háðungar.
12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum,
og ég varð þeim að orðskvið.
13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig,
og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.

14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar.
Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns
sakir mikillar miskunnar þinnar.
15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi,
lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.
16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig,
né djúpið svelgja mig,
og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.
17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar,
snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.
18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum,
því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.
19 Nálgast sál mína, leys hana,
frelsa mig sakir óvina minna.
20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing,
allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.
21 Háðungin kremur hjarta mitt,
svo að ég örvænti.
Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn,
og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.
22 Þeir fengu mér malurt til matar,
og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.

23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru,
og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.
24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi,
og lát lendar þeirra ávallt riða.
25 Hell þú reiði þinni yfir þá
og lát þína brennandi gremi ná þeim.
26 Búðir þeirra verði eyddar
og enginn búi í tjöldum þeirra,
27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir
og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.
28 Bæt sök við sök þeirra
og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.
29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda
og eigi skráðir með réttlátum.
30 En ég er volaður og þjáður,
hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.

31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði
og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar,
ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast,
þér sem leitið Guðs - hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku
og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð,
höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda,
og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
37 Niðjar þjóna hans munu erfa það,
og þeir er elska nafn hans, byggja þar.


70   Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.

2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig,
Drottinn, skunda mér til hjálpar.

3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða,
er sitja um líf mitt,
lát þá hverfa aftur með skömm,
er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar,
er hrópa háð og spé.

5 En allir þeir er leita þín,
skulu gleðjast og fagna yfir þér,
þeir er unna hjálpræði þínu,
skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"

6 Ég er þjáður og snauður,
hraða þér til mín, ó Guð.
Þú ert fulltingi mitt og frelsari,
dvel eigi, Drottinn!


71  

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,
lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu,
hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg,
vígi mér til hjálpar,
því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra,
undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín,
þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi,
frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt,
um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur,
en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum,
af dýrð þinni daginn allan.

9 Útskúfa mér eigi í elli minni,
yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig,
þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann.
Eltið hann og grípið hann,
því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér,
Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm,
lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.

14 En ég vil sífellt vona
og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu,
frá hjálpsemdum þínum allan daginn,
því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins,
ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku,
og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð,
þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum,
að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.

19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð,
nær til himins,
þú sem hefir framið stórvirki,
Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á
miklar nauðir og ógæfu,
þú munt láta oss lifna við að nýju
og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína
og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn,
leika á gígju fyrir þér,
þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér,
og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn,
því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða,
er óskuðu mér ógæfu.


72   Eftir Salómon.

Guð, sel konungi í hendur dóma þína
og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi
og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið
og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum,
hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín
og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland,
sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast
og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs,
frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum
og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum
skulu koma með gjafir,
konungarnir frá Saba og Seba
skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum,
allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp,
og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða,
og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá,
og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa
og menn munu gefa honum Saba-gull,
menn munu sífellt biðja fyrir honum,
blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu,
á fjallatindunum,
í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon,
og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu,
meðan sólin skín mun nafn hans gróa.
Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar,
allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð,
sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð,
og öll jörðin fyllist dýrð hans.
Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.Þriðja bók


73   Asafs-sálmur.

Vissulega er Guð góður við Ísrael,
við þá sem hjartahreinir eru.

2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu,
lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu,
þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera,
líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum,
og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra,
þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra,
girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku,
mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn,
en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá
og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita
og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir,
og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu
og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn,
og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig,
sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það,
það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs
og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð,
þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn,
líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar,
þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

21 Þegar beiskja var í hjarta mínu
og kvölin nísti hug minn,
22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert,
var sem skynlaus skepna gagnvart þér.
23 En ég er ætíð hjá þér,
þú heldur í hægri hönd mína.
24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni,
og síðan munt þú taka við mér í dýrð.

25 Hvern á ég annars að á himnum?
Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist,
er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast,
þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði,
ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu
og segi frá öllum verkum þínum.


74   Asafs-maskíl.

Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu,
hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum
og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns,
haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa:
Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum,
reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt
axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð,
mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn,
vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum."
Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.

9 Vér sjáum eigi merki vor,
þar er enginn spámaður framar,
og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.

10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða,
á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína,
hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?

12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum,
sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum,
þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans,
gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp,
þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin,
þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar,
sumar og vetur hefir þú gjört.

18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir,
og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar,
gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum,
því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing,
lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu,
minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna,
glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.


75   Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.

2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig,
og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.

3 "Þegar mér þykir tími til kominn,
dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa,
þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka!
og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum,
mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"

7 Því að hvorki frá austri né vestri
né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir,
hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins
með freyðandi víni, fullur af kryddi.
Af því skenkir hann,
já, dreggjar þess súpa og sötra
allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu,
lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin,
en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.


76   Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.

2 Guð er augljós orðinn í Júda,
í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem
og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans,
skjöld og sverð og hervopn. [Sela]

5 Þú birtist dýrlegur,
ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi,
þeir sofnuðu svefni sínum,
og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð,
hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur,
og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan,
jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms
til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig,
leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar,
allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna,
sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.


77   Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

2 Ég kalla til Guðs og hrópa,
kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins,
rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki,
sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina,
ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum,
mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég í huga fyrri daga,
ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur,
ég hugleiði í hjarta mínu,
og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð
og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð,
fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn,
byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín,
að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins,
ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar,
athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn,
hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir,
þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn,
sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð,
vötnin sáu þig og skelfdust,
og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum,
þrumuraust drundi úr skýþykkninu,
og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við,
leiftur lýstu um jarðríki,
jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið,
stígar þínir gegnum mikil vötn,
og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð
fyrir Móse og Aron.


78   Asafs-maskíl.

Hlýð þú, lýður minn, á kenning mína,
hneigið eyrun að orðum munns míns.
2 Ég vil opna munn minn með orðskviði,
mæla fram gátur frá fornum tíðum.

3 Það sem vér höfum heyrt og skilið
og feður vorir sögðu oss,
4 það viljum vér eigi dylja fyrir niðjum þeirra,
er vér segjum seinni kynslóð frá lofstír Drottins
og mætti hans og dásemdarverkum
og þeim undrum er hann gjörði.
5 Hann setti reglu í Jakob
og skipaði lögmál í Ísrael,
sem hann bauð feðrum vorum
að kunngjöra sonum þeirra,
6 til þess að seinni kynslóð mætti skilja það
og synir þeir er fæðast mundu, mættu ganga fram
og segja sonum sínum frá því,
7 og setja traust sitt á Guð
og eigi gleyma stórvirkjum Guðs,
heldur varðveita boðorð hans,
8 og eigi verða sem feður þeirra,
þrjósk og ódæl kynslóð,
kynslóð með óstöðugu hjarta
og anda sem var Guði ótrúr.

9 Niðjar Efraíms, herbúnir bogmenn,
sneru við á orustudeginum.
10 Þeir héldu eigi sáttmála Guðs
og færðust undan að fylgja lögmáli hans.
11 Þeir gleymdu stórvirkjum hans
og dásemdum hans, er hann hafði látið þá horfa á.

12 Í augsýn feðra þeirra hafði hann framið furðuverk
í Egyptalandi og Sóanhéraði.
13 Hann klauf hafið og lét þá fara yfir
og lét vatnið standa sem vegg.
14 Hann leiddi þá með skýinu um daga
og alla nóttina með eldskini.
15 Hann klauf björg í eyðimörkinni
og gaf þeim gnóttir að drekka eins og úr stórvötnum,
16 hann lét læki spretta upp úr klettinum
og vatnið streyma niður sem fljót.

17 Þó héldu þeir áfram að syndga í gegn honum,
að rísa í gegn Hinum hæsta í eyðimörkinni.
18 Þeir freistuðu Guðs í hjörtum sínum,
er þeir kröfðust matar þess er þeir girntust
19 og töluðu gegn Guði og sögðu:
"Skyldi Guð geta búið borð í eyðimörkinni?
20 Víst sló hann á klettinn, svo að vatnið vall upp
og lækir streymdu,
en skyldi hann líka geta gefið brauð
eða veitt lýð sínum kjöt?"

21 Fyrir því reiddist Drottinn, er hann heyrði þetta,
eldur bálaði upp gegn Jakob
og reiði steig upp gegn Ísrael,
22 af því að þeir trúðu eigi á Guð
né treystu hjálp hans.
23 Og hann bauð skýjunum að ofan
og opnaði hurðir himinsins,
24 lét manna rigna yfir þá til matar
og gaf þeim himnakorn;
25 englabrauð fengu menn að eta,
fæði sendi hann þeim til saðningar.
26 Hann lét austanvindinn taka sig upp í himninum
og leiddi sunnanvindinn að með mætti sínum.
27 Hann lét kjöti rigna yfir þá sem dufti
og vængjuðum fuglum sem sjávarsandi,
28 og hann lét þá falla niður í búðir sínar,
umhverfis bústað sinn.
29 Átu þeir og urðu vel saddir,
og græðgi þeirra sefaði hann.
30 En meðan þeir voru eigi horfnir frá græðgi sinni,
meðan fæðan enn var í munni þeirra,
31 þá steig reiði Guðs upp í gegn þeim.
Hann deyddi hina gildustu meðal þeirra
og lagði að velli æskumenn Ísraels.

32 Þrátt fyrir allt þetta héldu þeir áfram að syndga
og trúðu eigi á dásemdarverk hans.
33 Þá lét hann daga þeirra hverfa í hégóma
og ár þeirra enda í skelfingu.

34 Þegar hann deyddi þá, leituðu þeir hans,
sneru sér og spurðu eftir Guði
35 og minntust þess, að Guð var klettur þeirra
og Guð hinn hæsti frelsari þeirra.
36 Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum
og lugu að honum með tungum sínum.
37 En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum,
og þeir voru eigi trúir sáttmála hans.

38 En hann er miskunnsamur,
hann fyrirgefur misgjörðir og tortímir eigi,
hann stillir reiði sína hvað eftir annað
og hleypir eigi fram allri bræði sinni.
39 Hann minntist þess, að þeir voru hold,
andgustur, sem líður burt og snýr eigi aftur.

40 Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni,
hryggðu hann á öræfunum.
41 Og aftur freistuðu þeir Guðs
og móðguðu Hinn heilaga í Ísrael.
42 Þeir minntust eigi handar hans,
eður dags þess, er hann frelsaði þá frá fjandmönnum þeirra,
43 hann sem gjörði tákn sín í Egyptalandi
og undur sín í Sóanhéraði.
44 Hann breytti ám þeirra í blóð
og lækjum þeirra, svo að þeir fengu eigi drukkið.
45 Hann sendi flugur meðal þeirra, er bitu þá,
og froska, er eyddu þeim.
46 Hann gaf engisprettunum afurðir þeirra
og jarðvörgunum uppskeru þeirra.
47 Hann eyddi vínvið þeirra með haglhríð
og mórberjatré þeirra með frosti.
48 Hann ofurseldi haglhríðinni fénað þeirra
og eldingunni hjarðir þeirra.
49 Hann sendi heiftarreiði sína í gegn þeim,
æði, bræði og nauðir,
sveitir af sendiboðum ógæfunnar.
50 Hann ruddi braut reiði sinni,
þyrmdi eigi sálum þeirra við dauðanum
og ofurseldi drepsóttinni líf þeirra.
51 Hann laust alla frumburði í Egyptalandi,
frumgróða styrkleikans í tjöldum Kams.

52 Hann lét lýð sinn leggja af stað sem sauði
og leiddi þá eins og hjörð í eyðimörkinni.
53 Hann leiddi þá öruggt, svo að þeir óttuðust eigi,
en óvini þeirra huldi hafið.
54 Hann fór með þá til síns helga héraðs,
til fjalllendis þess, er hægri hönd hans hafði aflað.
55 Hann stökkti þjóðum undan þeim,
skipti þeim niður eins og erfðahlut
og lét kynkvíslir Ísraels setjast að í tjöldum þeirra.

56 En þeir freistuðu í þrjósku sinni Guðs hins hæsta
og gættu eigi vitnisburða hans.
57 Þeir viku af leið, rufu trúnað sinn, eins og feður þeirra,
brugðust eins og svikull bogi.
58 Þeir egndu hann til reiði með fórnarhæðum sínum,
vöktu vandlæti hans með skurðgoðum sínum.
59 Guð heyrði það og reiddist
og fékk mikla óbeit á Ísrael.
60 Hann hafnaði bústaðnum í Síló,
tjaldi því, er hann hafði reist meðal mannanna,
61 hann ofurseldi hernáminu vegsemd sína
og fjandmannshendi prýði sína.
62 Hann seldi lýð sinn undir sverðseggjar
og reiddist arfleifð sinni.
63 Æskumönnum hans eyddi eldurinn
og meyjar hans misstu brúðsöngs síns.
64 Prestar hans féllu fyrir sverðseggjum,
og ekkjur hans fengu engan líksöng flutt.
65 Þá vaknaði Drottinn eins og af svefni,
eins og hetja, sem hefir látið sigrast af víni.
66 Hann barði fjandmenn sína á bakhlutina,
lét þá sæta eilífri háðung.
67 Samt hafnaði hann tjaldi Jósefs
og útvaldi eigi kynkvísl Efraíms,
68 heldur útvaldi hann Júda kynkvísl,
Síonfjall, sem hann elskar.
69 Hann reisti helgidóm sinn sem himinhæðir,
grundvallaði hann að eilífu eins og jörðina.
70 Hann útvaldi þjón sinn Davíð
og tók hann frá fjárbyrgjunum.
71 Hann sótti hann frá lambánum
til þess að vera hirðir fyrir Jakob, lýð sinn,
og fyrir Ísrael, arfleifð sína.
72 Og Davíð var hirðir fyrir þá af heilum hug
og leiddi þá með hygginni hendi.


79   Asafs-sálmur.

Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt,
þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri
og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu
og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem,
og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum,
til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður,
á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig,
og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob
og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra,
lát miskunn þína fljótt koma í móti oss,
því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns,
frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"
Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum
hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig,
leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt
háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð,
kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.


80   Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

2 Hirðir Ísraels, hlýð á,
þú sem leiddir Jósef eins og hjörð,
þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse
og kom oss til hjálpar!

4 Guð, snú oss til þín aftur
og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

5 Drottinn, Guð hersveitanna,
hversu lengi ætlar þú að vera reiður
þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta
og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra,
og óvinir vorir gjöra gys að oss.

8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín
og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi,
stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum,
hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans
og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins
og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann,
svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann,
og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur,
lít niður af himni og sjá
og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað,
og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn,
fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd,
yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér.
Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur,
lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.


81   Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum,
látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur,
knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum,
við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael,
boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef,
þá er hann fór út í móti Egyptalandi.

Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 "Ég hefi losað herðar hans við byrðina,
hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig,
ég bænheyrði þig í þrumuskýi,
reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig,
ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín,
og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi,
opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína,
og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra,
þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig,
Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra,
og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum
og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta
og seðja þig á hunangi úr klettunum."


82   Asafs-sálmur.

Guð stendur á guðaþingi,
heldur dóm mitt á meðal guðanna:
2 "Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni
og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]
3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra,
látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,
4 bjargið bágstöddum og snauðum,
frelsið þá af hendi óguðlegra."
5 Þeir hafa eigi skyn né skilning,
þeir ráfa í myrkri,
allar undirstöður jarðarinnar riða.
6 Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir
og allir saman synir Hins hæsta,
7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn,
falla sem einn af höfðingjunum."

8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina,
því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.


83   Ljóð. Asafs-sálmur.

2 Guð, ver eigi hljóður,
ver eigi þögull og hald eigi kyrru fyrir, ó Guð!
3 Því sjá, óvinir þínir gjöra hark,
og hatursmenn þínir hefja höfuðið,
4 þeir bregða á slæg ráð gegn lýð þínum,
bera ráð sín saman gegn þeim er þú geymir.
5 Þeir segja: "Komið, látum oss uppræta þá, svo
að þeir séu ekki þjóð framar,
og nafns Ísraels verði eigi framar minnst!"
6 Því að þeir hafa einhuga borið saman ráð sín,
gegn þér hafa þeir gjört bandalag:
7 Edómtjöld og Ísmaelítar,
Móab og Hagrítar,
8 Gebal, Ammon og Amalek,
Filistea ásamt Týrusbúum.
9 Assúr hefir einnig gjört bandalag við þá
og ljær armlegg sinn Lots-sonum. [Sela]
10 Far með þá eins og Midían,
eins og Sísera, eins og Jabín við Kísonlæk,
11 þeim var útrýmt hjá Endór,
urðu að áburði á jörðina.
12 Gjör þá, göfugmenni þeirra, eins og Óreb og Seeb,
og alla höfðingja þeirra eins og Seba og Salmúna,
13 þá er sögðu: "Vér viljum kasta eign vorri á vengi Guðs."
14 Guð vor, gjör þá sem rykmökk,
sem hálmleggi fyrir vindi.
15 Eins og eldur, sem brennir skóginn,
eins og logi, sem bálast upp um fjöllin,
16 svo skalt þú elta þá með ofviðri þínu,
skelfa þá með fellibyl þínum.
17 Lát andlit þeirra fyllast sneypu,
að þeir megi leita nafns þíns, Drottinn!
18 Lát þá verða til skammar og skelfast um aldur,
lát þá sæta háðung og tortímast,
19 að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir Drottinn,
Hinn hæsti yfir allri jörðunni.


84   Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir,
Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði
forgarða Drottins,
nú fagnar hjarta mitt og hold
fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús,
og svalan á sér hreiður,
þar sem hún leggur unga sína:
ölturu þín, Drottinn hersveitanna,
konungur minn og Guð minn!

5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu,
þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér,
er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn,
umbreyta þeir honum í vatnsríka vin,
og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni
og fá að líta Guð á Síon.

9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína,
hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá
og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri
en þúsund aðrir,
heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns
en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur,
náð og vegsemd veitir Drottinn.
Hann synjar þeim engra gæða,
er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.


85   Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

2 Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn,
snúið við hag Jakobs,
3 þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns,
hulið allar syndir þeirra. [Sela]
4 Þú hefir dregið að þér alla bræði þína,
látið af heiftarreiði þinni.

5 Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors,
og lát af gremju þinni í gegn oss.
6 Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð,
láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?
7 Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur,
svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?
8 Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína
og veit oss hjálpræði þitt!

9 Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar.
Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna
og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.
10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann,
og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni,
og réttlæti lítur niður af himni.
13 Þá gefur og Drottinn gæði,
og land vort veitir afurðir sínar.
14 Réttlæti fer fyrir honum,
og friður fylgir skrefum hans.


86   Davíðs-bæn.

Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig,
því að ég er hrjáður og snauður.
2 Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér,
hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér.
3 Ver mér náðugur, Drottinn,
því þig ákalla ég allan daginn.
4 Gleð þú sál þjóns þíns,
því að til þín, Drottinn, hef ég sál mína.
5 Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa,
gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig.
6 Hlýð, Drottinn, á bæn mína
og gef gaum grátbeiðni minni.
7 Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig,
því að þú bænheyrir mig.

8 Enginn er sem þú meðal guðanna, Drottinn,
og ekkert er sem þín verk.
9 Allar þjóðir, er þú hefir skapað,
munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn,
og tigna nafn þitt.
10 Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk,
þú einn, ó Guð!

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, lát mig ganga í sannleika þínum,
gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
12 Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta
og heiðra nafn þitt að eilífu,
13 því að miskunn þín er mikil við mig,
og þú hefir frelsað sál mína frá djúpi Heljar.

14 Ofstopamenn hefjast gegn mér, ó Guð,
og hópur ofríkismanna sækist eftir lífi mínu,
eigi hafa þeir þig fyrir augum.
15 En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð,
þolinmóður og gæskuríkur og harla trúfastur.
16 Snú þér að mér og ver mér náðugur,
veit þjóni þínum kraft þinn
og hjálpa syni ambáttar þinnar.
17 Gjör þú tákn til góðs fyrir mig,
að hatursmenn mínir megi horfa á það sneyptir,
að þú, Drottinn, hjálpar mér og huggar mig.


87   Kóraíta-sálmur. Ljóð.

2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum,
hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig,
þú borg Guðs. [Sela]

4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar,
hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi,
einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin,
hver þeirra er fæddur í henni,
og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum,
einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans:
"Allar uppsprettur mínar eru í þér."


88   Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga,
um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig,
hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli,
og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar,
ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum,
eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni,
er þú minnist eigi framar,
því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima,
í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér,
og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína,
gjört mig að andstyggð í augum þeirra.
Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd.
Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern,
breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna,
eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni,
frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu
eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn,
og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni,
hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku,
ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig,
ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn,
lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga
og gjört myrkrið að kunningja mínum.


89   Etans-maskíl Esraíta.

2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu,
kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,
3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu,
á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda,
unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu,
reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn,
og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni,
hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra,
mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú?
Þú ert voldugur, Drottinn,
og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins,
þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann,
með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin,
þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið,
Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg,
hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns,
miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið,
sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga
og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði,
og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor,
konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns
og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa,
ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn,
smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan
og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum,
og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi,
og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum,
og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið
og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn,
Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning,
að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu,
og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur
og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu
og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín
og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum
og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka
og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn
og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn
og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur
og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið,
svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]

39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað
og reiðst þínum smurða.
40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn,
vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.
41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans
og lagt virki hans í eyði.
42 Allir vegfarendur ræna hann,
hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.
43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans,
glatt alla óvini hans.
44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan
og eigi látið hann standast í bardaganum.
45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans
og hrundið hásæti hans til jarðar.
46 Þú hefir stytt æskudaga hans
og hulið hann skömm. [Sela]

47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast,
á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?
48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er,
til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.
49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann,
sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]

50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn,
þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?
51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna,
að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,
52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með,
smána fótspor þíns smurða.

53 Lofaður sé Drottinn að eilífu.
Amen. Amen.Fjórða bók


90   Bæn guðsmannsins Móse.

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni,
þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær,
að kveldi fölnar það og visnar.

7 Vér hverfum fyrir reiði þinni,
skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér,
vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.

9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni,
ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár
og þegar best lætur áttatíu ár,
og dýrsta hnossið er mæða og hégómi,
því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar
og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?

12 Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða,
að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss,
ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum
og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss,
styrk þú verk handa vorra.


91  

Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta,
sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á!"

3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar,
eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni,
eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið
og tíu þúsund þér til hægri handar,
þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum,
sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

9 Þitt hæli er Drottinn,
þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig,
og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum
til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér,
til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur,
troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann,
ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann,
ég er hjá honum í neyðinni,
ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga
og læt hann sjá hjálpræði mitt."


92   Sálmur. Hvíldardagsljóð.

2 Gott er að lofa Drottin
og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
3 að kunngjöra miskunn þína að morgni
og trúfesti þína um nætur
4 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu
með strengjaleik gígjunnar.

5 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni,
yfir handaverkum þínum fagna ég.
6 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn,
harla djúpar hugsanir þínar.
7 Fíflið eitt skilur eigi,
og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
8 Þegar óguðlegir greru sem gras
og allir illgjörðamennirnir blómguðust,
þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
9 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
10 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn,
því sjá, óvinir þínir farast,
allir illgjörðamennirnir tvístrast.
11 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn,
mig hressir þú með ferskri olíu.
12 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína,
eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
13 Hinir réttlátu gróa sem pálminn,
vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
14 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins,
gróa í forgörðum Guðs vors.
15 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt,
þeir eru safamiklir og grænir.
16 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur,
klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.


93

Drottinn er konungur orðinn!
Hann hefir íklæðst hátign,
Drottinn hefir skrýðst,
hann hefir spennt sig belti styrkleika síns
og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu,
frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn,
straumarnir hófu upp raust sína,
straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri
en gnýr mikilla, tignarlegra vatna,
tignarlegri en boðar hafsins.

5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir,
húsi þínu hæfir heilagleiki,
ó Drottinn, um allar aldir.


94

Drottinn, Guð hefndarinnar,
Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar,
endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn,
hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum,
allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn,
þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi
og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki,
Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins,
og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað,
mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna,
hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins,
að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn,
og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum,
uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum
og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta,
og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum,
hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi,
þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur,"
þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt,
hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig,
hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta
og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg
og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra
og afmáir þá í illsku þeirra,
Drottinn, Guð vor, afmáir þá.


95

Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin,
og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það,
og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður,
beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð,
og vér erum gæslulýður hans
og hjörð sú, er hann leiðir.

Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba,
eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín,
reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð,
og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður
og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni:
"Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."


96

Syngið Drottni nýjan söng,
syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans,
kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna,
frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir,
en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans,
máttur og prýði í helgidómi hans.

7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða,
tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir,
færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða,
titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn!
Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki,
hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni,
hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er,
öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur,
hann kemur til þess að dæma jörðina.
Hann mun dæma heiminn með réttlæti
og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.


97

Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni,
eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann,
réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum
og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki,
jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni,
fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans,
og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar,
þeir er stæra sig af falsguðunum.
Allir guðir falla fram fyrir honum.

8 Síon heyrir það og gleðst,
Júdadætur fagna
sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni,
þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa,
hann verndar sálir dýrkenda sinna,
frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum
og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni,
vegsamið hans heilaga nafn.


98   Sálmur.

Syngið Drottni nýjan söng,
því að hann hefir gjört dásemdarverk,
hægri hönd hans hjálpaði honum
og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt,
fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob
og trúfesti sinnar við Ísraels ætt.
Öll endimörk jarðar sáu
hjálpræði Guðs vors.

4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd,
hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju,
á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi,
látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er,
heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa,
fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur
til að dæma jörðina.
Hann dæmir heiminn með réttlæti
og þjóðirnar með réttvísi.


99

Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi.
Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon
og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega.
Heilagur er hann!

4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn,
þú hefir staðfest réttvísina,
rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn,
og fallið fram fyrir fótskör hans.
Heilagur er hann!

6 Móse og Aron eru meðal presta hans,
Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans,
þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum,
því að þeir gæta vitnisburða hans
og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá,
þú reynist þeim fyrirgefandi Guð
og sýknar þá af gjörðum þeirra.

9 Tignið Drottin Guð vorn,
og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli,
því að heilagur er Drottinn, Guð vor.


100   Þakkarfórnar-sálmur.

Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð,
hann hefir skapað oss, og hans erum vér,
lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng,
í forgarða hans með sálmum,
lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns.


101   Davíðssálmur.

Ég vil syngja um miskunn og rétt,
lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda -
hvenær kemur þú til mín?
Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um
í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma
neitt níðingsverk.
Ég hata þá sem illa breyta,
þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja,
ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni,
þagga ég niður í honum.
Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta,
hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu,
að þeir megi búa hjá mér.
Sá sem gengur grandvarleikans vegu,
hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu,
er svik fremur.
Sá er lygar mælir stenst eigi
fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu.
Ég útrými úr borg Drottins
öllum illgjörðamönnum.


102   Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.

2 Drottinn, heyr þú bæn mína
og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér,
þegar ég er í nauðum staddur,
hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla,
flýt þér að bænheyra mig.

4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur,
bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras,
því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna
er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni,
er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn
eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig,
fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð
og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði,
af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi,
og ég visna sem gras.

13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon,
því að tími er kominn til þess að líkna henni,
já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar
og harma yfir öskuhrúgum hennar.

16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins
og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon
og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu
og fyrirlítur eigi bæn þeirra.

19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð,
og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum,
horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna
og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon
og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman
og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.

24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni,
stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni.
Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina,
og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir.
Þeir fyrnast sem fat,
þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami,
og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir
og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.


103   Davíðssálmur.

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.

6 Drottinn fremur réttlæti
og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna
og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur
og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum
og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni,
svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu,
svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,
eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort,
minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið,
hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn,
og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar,
og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans
og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum,
og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans,
þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans,
er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.


104  

Lofa þú Drottin, sála mín!
Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill.

Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju,
þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum,
gjörir ský að vagni þínum,
og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum,
bálandi eld að þjónum þínum.

5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar,
svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði,
vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau,
fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina,
þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir,
þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina,
þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar,
villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins,
láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum,
jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum
og jurtir, sem maðurinn ræktar,
til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins,
olíu, sem gjörir andlitið gljáandi,
og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast,
sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður,
storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum,
klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar,
sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt,
og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð
og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé
og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna,
til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu,
þar er óteljandi grúi,
smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um
og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig,
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til,
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu,
Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar,
sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð!
Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni
og óguðlegir eigi vera til framar.
Vegsama þú Drottin, sála mín.
Halelúja.


105

Þakkið Drottni, ákallið nafn hans,
gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum,
talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni,
hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans,
stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði,
tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans,
þér synir Jakobs, hans útvöldu.

7 Hann er Drottinn, vor Guð,
um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns,
orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham,
og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob,
eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland
sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur,
örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar
og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá
og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu
og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið,
braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim,
Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum,
hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust,
og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan,
drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu
og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild
og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands,
Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan
og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn,
til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn,
og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim
og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið,
en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð
og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum,
alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur,
mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn,
bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré
og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur
og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra
og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra,
frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli,
enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra,
því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf
og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma
og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp,
rann sem fljót um eyðimörkina.

42 Hann minntist síns heilaga heits
við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði,
sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna,
það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans
og varðveita lögmál hans.
Halelúja.


106

Halelúja!
Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.

2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins,
kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins,
sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum,
vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu,
gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar,
fagna með eignarlýð þínum.

6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum,
höfum breytt illa og óguðlega.

7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum,
minntust eigi þinnar miklu miskunnar
og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns
til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp,
og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra
og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra,
ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans,
sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans,
treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni
og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra
og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum,
við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan
og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra,
loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb
og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum
fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum,
þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams,
óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim,
ef Móse, hans útvaldi,
hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið,
til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land
og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum
og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór
að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna
og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór
og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu,
og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr,
og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis,
frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum,
þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans,
og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum,
er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana
og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra,
og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína
og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði,
blóði sona sinna og dætra,
er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans,
svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum
og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans,
og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum,
og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá,
og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim,
en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu
og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra,
er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá
og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn
hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor,
og safna oss saman frá þjóðunum,
að vér megum lofa þitt heilaga nafn,
víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð,
frá eilífð til eilífðar.
Og allur lýðurinn segi: Amen!
Halelúja.Fimmta bók


107  

Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum,
frá austri og vestri,
frá norðri og suðri.

4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin,
og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti,
sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni,
hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið,
svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál
og fyllti hungraða sál gæðum.

10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu,
bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs
og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu,
þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni,
hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni
og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin
og mölvaði járnslárnar.

17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni
og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu
og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni,
hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir
og kunngjöra verk hans með fögnuði.

23 Þeir sem fóru um hafið á skipum,
ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins
og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri,
sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið,
þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður,
og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni,
og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ,
svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust,
og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni
og lofa hann í hóp öldunganna.

33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk
og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu
sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum
og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar,
að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða
og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum
og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður
sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn
og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni
og gjörir ættirnar sem hjarðir.

42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast,
og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu,
og menn taki eftir náðarverkum Drottins.


108   Ljóð. Davíðssálmur.

2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð,
ég vil syngja og leika,
vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja,
ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn,
vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri,
og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð,
og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.

8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna,
ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse,
og Efraím er hlíf höfði mínu,
Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín,
í Edóm fleygi ég skónum mínum,
yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg,
hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð,
og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum,
því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna,
og hann mun troða óvini vora fótum.


109   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,
2 því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér,
tala við mig með ljúgandi tungu.
3 Með hatursorðum umkringja þeir mig
og áreita mig að ástæðulausu.
4 Þeir launa mér elsku mína með ofsókn,
en ég gjöri ekki annað en biðja.
5 Þeir launa mér gott með illu
og elsku mína með hatri.
6 Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn,
og ákærandinn standi honum til hægri handar.
7 Hann gangi sekur frá dómi
og bæn hans verði til syndar.
8 Dagar hans verði fáir,
og annar hljóti embætti hans.
9 Börn hans verði föðurlaus
og kona hans ekkja.
10 Börn hans fari á flæking og vergang,
þau verði rekin burt úr rústum sínum.
11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans,
og útlendir fjandmenn ræni afla hans.
12 Enginn sýni honum líkn,
og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.
13 Niðjar hans verði afmáðir,
nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.
14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni
og synd móður hans eigi afmáð,
15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins
og hann afmái minningu þeirra af jörðunni
16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku,
heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða
og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.
17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum,
hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.
18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli,
hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn
og í bein hans sem olía,
19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig,
og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni
og þeirra, er tala illt í gegn mér.
21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar,
frelsa mig sakir nafns þíns,
22 því að ég er hrjáður og snauður,
hjartað berst ákaft í brjósti mér.
23 Ég hverf sem hallur skuggi,
ég er hristur út eins og jarðvargar.
24 Kné mín skjögra af föstu,
og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.
25 Ég er orðinn þeim að spotti,
þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.
26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn,
hjálpa mér eftir miskunn þinni,
27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd,
að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.
28 Bölvi þeir, þú munt blessa,
verði þeir til skammar, er rísa gegn mér,
en þjónn þinn gleðjist.
29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing,
sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum,
meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,
31 því að hann stendur hinum snauða til hægri handar
til þess að hjálpa honum gegn þeim er sakfella hann.


110   Davíðssálmur.

Svo segir Drottinn við herra minn:
"Sest þú mér til hægri handar,
þá mun ég leggja óvini þína
sem fótskör að fótum þér."

2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon,
drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum.
Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans
kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi:
"Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

5 Drottinn er þér til hægri handar,
hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum,
hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum,
þess vegna ber hann höfuðið hátt.


111

Halelúja.

Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta,
í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins,
verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans
og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða,
náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann,
hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna,
með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi,
öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi,
framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum,
skipað sáttmála sinn að eilífu,
heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins,
hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann.
Lofstír hans stendur um eilífð.


112

Halelúja.

Sæll er sá maður, sem óttast Drottin
og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni,
ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans,
og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu,
mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána,
sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu,
hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi,
hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi,
og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum,
réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu,
horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst,
nístir tönnum og tortímist.
Ósk óguðlegra verður að engu.


113

Halelúja.

Þjónar Drottins, lofið,
lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað
héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags
sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir
og dýrð hans yfir himnana.

5 Hver er sem Drottinn, Guð vor?
Hann situr hátt
6 og horfir djúpt
á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu,
lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum,
hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði
sem glaða barnamóður.
Halelúja.


114

Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi,
Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans,
Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði,
Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar,
hæðirnar sem lömb.

5 Hvað er þér, haf, er þú flýr,
Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar,
þér hæðir sem lömb?

7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins,
fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn,
tinnusteininn að vatnslind.


115

Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss,
heldur þínu nafni dýrðina
sakir miskunnar þinnar og trúfesti.
2 Hví eiga heiðingjarnir að segja:
"Hvar er Guð þeirra?"
3 En vor Guð er í himninum,
allt sem honum þóknast, það gjörir hann.
4 Skurðgoð þeirra eru silfur og gull,
handaverk manna.
5 Þau hafa munn, en tala ekki,
augu, en sjá ekki,
6 þau hafa eyru, en heyra ekki,
nef, en finna engan þef.
7 Þau hafa hendur, en þreifa ekki,
fætur, en ganga ekki,
þau tala eigi með barka sínum.
8 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra,
allir þeir er á þau treysta.

9 En Ísrael treystir Drottni,
hann er hjálp þeirra og skjöldur.
10 Arons ætt treystir Drottni,
hann er hjálp þeirra og skjöldur.
11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni,
hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa,
hann mun blessa Ísraels ætt,
hann mun blessa Arons ætt,
13 hann mun blessa þá er óttast Drottin,
yngri sem eldri.
14 Drottinn mun fjölga yður,
sjálfum yður og börnum yðar.
15 Þér eruð blessaðir af Drottni,
skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins,
en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.
17 Eigi lofa andaðir menn Drottin,
né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,
18 en vér viljum lofa Drottin,
héðan í frá og að eilífu.
Halelúja.


116

Ég elska Drottin,
af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
2 Hann hefir hneigt eyra sitt að mér,
og alla ævi vil ég ákalla hann.

3 Snörur dauðans umkringdu mig,
angist Heljar mætti mér,
ég mætti nauðum og harmi.
4 Þá ákallaði ég nafn Drottins:
"Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

5 Náðugur er Drottinn og réttlátur,
og vor Guð er miskunnsamur.
6 Drottinn varðveitir varnarlausa,
þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
7 Verð þú aftur róleg, sála mín,
því að Drottinn gjörir vel til þín.
8 Já, þú hreifst sál mína frá dauða,
auga mitt frá gráti,
fót minn frá hrösun.
9 Ég geng frammi fyrir Drottni
á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði:
"Ég er mjög beygður."
11 Ég sagði í angist minni:
"Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni
fyrir allar velgjörðir hans við mig?
13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins
og ákalla nafn Drottins.
14 Ég greiði Drottni heit mín,
og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins
dauði dýrkenda hans.
16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn,
ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar,
þú leystir fjötra mína.
17 Þér færi ég þakkarfórn
og ákalla nafn Drottins.
18 Ég greiði Drottni heit mín,
og það í augsýn alls lýðs hans,
19 í forgörðum húss Drottins,
í þér, Jerúsalem.
Halelúja.


117

Lofið Drottin, allar þjóðir,
vegsamið hann, allir lýðir,
2 því að miskunn hans er voldug yfir oss,
og trúfesti Drottins varir að eilífu.
Halelúja.


118

Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael:
"Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt:
"Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin:
"Því að miskunn hans varir að eilífu!"

5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin,
hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi,
hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína,
og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni
en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni
en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig,
en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu,
en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax,
brunnu sem eldur í þyrnum,
en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla,
en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp
kveður við í tjöldum réttlátra:
Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa
og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega,
en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins,
að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins,
réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig
og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið,
það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört,
fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú,
Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós.
Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum,
allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér,
Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.


119

Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega,
þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans,
þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti,
en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar,
til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst,
svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða,
er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta,
er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna,
þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

2
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?
Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta,
lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu,
til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn,
kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp
öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég
eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga
og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum,
gleymi eigi orði þínu.

3
17 Veit þjóni þínum að lifa,
að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða
dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni,
dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá
eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum,
bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm,
því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér,
þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín,
boð þín eru ráðgjafar mínir.

4
25 Sál mín loðir við duftið,
lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig,
kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna,
að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega,
reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér
og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans,
sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar,
Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna,
því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

5
33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna,
að ég megi halda þau allt til enda.
34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt
og varðveita það af öllu hjarta.
35 Leið mig götu boða þinna,
því að af henni hefi ég yndi.
36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum,
en eigi að ranglátum ávinningi.
37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma,
lífga mig á vegum þínum.
38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum,
sem gefið er þeim er þig óttast.
39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við,
því að ákvæði þín eru góð.
40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín,
lífga mig með réttlæti þínu.

6
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn,
hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig,
því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum,
því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt,
um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi,
því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum,
og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum,
þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum,
þeim er ég elska,
og íhuga lög þín.

7
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn,
sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni,
að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega,
en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn,
og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig,
við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna
á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn,
og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín,
að halda fyrirmæli þín.

8
57 Drottinn er hlutskipti mitt,
ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta,
ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína
og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið
að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig,
en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig
og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn,
kenn mér lög þín.

9
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns
eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu,
því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég,
en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel,
kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér,
en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri,
en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður,
til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara
en þúsundir af gulli og silfri.

10
73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað,
veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.
74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast,
því að ég vona á orð þitt.
75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir
og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.
76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar,
eins og þú hefir heitið þjóni þínum.
77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa,
því að lögmál þitt er unun mín.
78 Lát ofstopamennina verða til skammar,
af því að þeir kúga mig með rangsleitni,
en ég íhuga fyrirmæli þín.
79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig
og þeir er þekkja reglur þínar.
80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum,
svo að ég verði eigi til skammar.

11
81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu,
ég bíð eftir orði þínu.
82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu:
Hvenær munt þú hugga mig?
83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi,
en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.
84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns?
Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?
85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir,
menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.
86 Öll boð þín eru trúfesti.
Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.
87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni,
og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.
88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar,
að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

12
89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu,
það stendur stöðugt á himnum.
90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín,
þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.
91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag,
því að allt lýtur þér.
92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín,
þá hefði ég farist í eymd minni.
93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu,
því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.
94 Þinn er ég, hjálpa þú mér,
því að ég leita fyrirmæla þinna.
95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér,
en ég gef gætur að reglum þínum.
96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi,
en þín boð eiga sér engin takmörk.

13
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt,
allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru,
því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir,
því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar,
því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi
til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið,
því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum,
hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn,
fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

14
105 Þitt orð er lampi fóta minna
og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það
að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn,
lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn,
og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu,
en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig,
en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur,
því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum,
um aldur og allt til enda.

15
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða,
en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur,
ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn,
að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa,
og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast
og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum,
því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu,
þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér,
og dóma þína óttast ég.

16
121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti,
sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla,
lát eigi ofstopamennina kúga mig.
123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu
og eftir þínu réttláta fyrirheiti.
124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni
og kenn mér lög þín.
125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn,
að ég megi þekkja reglur þínar.
126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana,
þeir hafa rofið lögmál þitt.
127 Þess vegna elska ég boð þín
framar en gull og skíragull.
128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum,
ég hata sérhvern lygaveg.

17
129 Reglur þínar eru dásamlegar,
þess vegna heldur sál mín þær.
130 Útskýring orðs þíns upplýsir,
gjörir fávísa vitra.
131 Ég opna munninn af ílöngun,
því ég þrái boð þín.
132 Snú þér til mín og ver mér náðugur,
eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.
133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu
og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.
134 Leys mig undan kúgun manna,
að ég megi varðveita fyrirmæli þín.
135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn
og kenn mér lög þín.
136 Augu mín fljóta í tárum,
af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

18
137 Réttlátur ert þú, Drottinn,
og réttvísir dómar þínir.
138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti
og mikilli trúfesti.
139 Ákefð mín eyðir mér,
því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
140 Orð þitt er mjög hreint,
og þjónn þinn elskar það.
141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn,
en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.
142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti
og lögmál þitt trúfesti.
143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið,
en boð þín eru unun mín.
144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð,
veit mér skyn, að ég megi lifa.

19
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn,
ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér,
að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa
og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul
til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni,
lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði,
þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn,
og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar,
að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

20
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig,
því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig,
lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum,
því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn,
lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur,
en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs,
þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín,
lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti,
og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

21
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu,
en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu
eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni,
en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig
sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt,
og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn,
og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar,
og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur,
allir mínir vegir eru þér augljósir.

22
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn,
veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt,
frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum,
því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt,
því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið,
því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn,
og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig
og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður,
leita þú þjóns þíns,
því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.


120   Helgigönguljóð.

Ég ákalla Drottin í nauðum mínum,
og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum,
frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar,
þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar
með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek,
bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið
hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega,
vilja þeir ófrið.


121   Helgigönguljóð

Ég hef augu mín til fjallanna:
Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.

3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein,
né heldur tunglið um nætur.

7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.


122   Helgigönguljóð. Eftir Davíð.

Ég varð glaður, er menn sögðu við mig:
"Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa
í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista,
borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara,
kynkvíslir Drottins -
það er regla fyrir Ísrael -
til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar,
stólar fyrir Davíðs ætt.

6 Biðjið Jerúsalem friðar,
hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína,
heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina
óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors,
vil ég leita þér hamingju.


123   Helgigönguljóð.

Til þín hef ég augu mín,
þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns,
eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar,
svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn,
uns hann líknar oss.

3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss,
því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra,
af spotti dramblátra.


124   Helgigönguljóð. Eftir Davíð.

Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss,
- skal Ísrael segja -
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss,
þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi,
þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss,
elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss
hin beljandi vötn.

6 Lofaður sé Drottinn,
er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans.
Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins,
skapara himins og jarðar.


125   Helgigönguljóð.

Þeir sem treysta Drottni
eru sem Síonfjall, er eigi bifast,
sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem,
og Drottinn er kringum lýð sinn
héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins
mun eigi hvíla á landi réttlátra,
til þess að hinir réttlátu
skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn,
og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir
mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum.
Friður sé yfir Ísrael!


126   Helgigönguljóð.

Þegar Drottinn sneri við hag Síonar,
þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri,
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
"Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.

4 Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum,
munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn
og bera sæðið til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.


127   Helgigönguljóð. Eftir Salómon.

Ef Drottinn byggir ekki húsið,
erfiða smiðirnir til ónýtis.
Ef Drottinn verndar eigi borgina,
vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður,
þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar
og etið brauð, sem aflað er með striti:
Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni,
ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans,
svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim,
þeir verða eigi til skammar,
er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.


128   Helgigönguljóð.

Sæll er hver sá, er óttast Drottin,
er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta,
sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður
innst í húsi þínu,
synir þínir sem teinungar olíutrésins
umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður,
er óttast Drottin.

5 Drottinn blessi þig frá Síon,
þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna.
Friður sé yfir Ísrael!


129   Helgigönguljóð.

Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku,
- skal Ísrael segja -
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku,
en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér,
gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur
reipi óguðlegra.

5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa,
allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju,
er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína
né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja:
"Blessun Drottins sé með yður."

Vér blessum yður í nafni Drottins!


130   Helgigönguljóð.

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á
grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning,
svo að menn óttist þig.

5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar,
og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins,
því að hjá Drottni er miskunn,
og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.


131   Helgigönguljóð. Eftir Davíð.

Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt
né augu mín hrokafull.
Ég fæst eigi við mikil málefni,
né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína
og þaggað niður í henni.
Eins og afvanið barn hjá móður sinni,
svo er sál mín í mér.

3 Vona, Ísrael, á Drottin,
héðan í frá og að eilífu.


132   Helgigönguljóð.

Drottinn, mun þú Davíð
allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni,
gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt,
eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns
né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin,
bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata,
fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs,
falla fram á fótskör hans.

8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn,
þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti
og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns
vísa þú þínum smurða eigi frá.

11 Drottinn hefir svarið Davíð
óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa:
"Af ávexti kviðar þíns
mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn
og reglur mínar, þær er ég kenni þeim,
þá skulu og þeirra synir um aldur
sitja í hásæti þínu."

13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon,
þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur,
hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa,
og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði,
hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa,
þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm,
en á honum skal kóróna hans ljóma."


133   Helgigönguljóð. Eftir Davíð.

Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er,
þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu,
er rennur niður í skeggið, skegg Arons,
er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli,
er fellur niður á Síonfjöll.
Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun,
lífi að eilífu.


134   Helgigönguljóð.

Já, lofið Drottin,
allir þjónar Drottins,
þér er standið í húsi Drottins um nætur.

2 Fórnið höndum til helgidómsins
og lofið Drottin.

3 Drottinn blessi þig frá Síon,
hann sem er skapari himins og jarðar.


135  

Halelúja.
Lofið nafn Drottins,
lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins,
í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður,
leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.

4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob,
gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill
og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.

6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann,
á himni og jörðu,
í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar,
gjörir eldingarnar til að búa rás regninu,
hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.

8 Hann laust frumburði Egyptalands,
bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland,
gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir
og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung,
og Óg, konung í Basan,
og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð,
að erfð Ísrael, lýð sínum.

13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu,
minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar
og aumkast yfir þjóna sína.

15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull,
handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki,
augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki,
og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra,
allir þeir, er á þau treysta.

19 Ísraels ætt, lofið Drottin,
Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin,
þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon,
hann sem býr í Jerúsalem!
Halelúja.


136

Þakkið Drottni, því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna,
því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna,
því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk,
því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki,
því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum,
því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin,
því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum,
því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni,
því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna,
því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim,
því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg,
því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur,
því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það,
því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið,
því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina,
því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga,
því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga,
því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung,
því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan,
því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð,
því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum,
því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri,
því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum,
því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi,
því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna,
því að miskunn hans varir að eilífu.


137

Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum,
er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar
hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu
söngljóð af oss
og kúgarar vorir kæti:
"Syngið oss Síonarkvæði!"

4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð
í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem,
þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm,
ef ég man eigi til þín,
ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn,
óheilladag Jerúsalem,
þegar þeir æptu: "Rífið, rífið
allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir!
Heill þeim, er geldur þér
fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín
og slær þeim niður við stein.


138   Eftir Davíð.

Ég vil lofa þig af öllu hjarta,
lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri
og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti,
því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig,
þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn,
er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins,
því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu
og þekkir hinn drambláta í fjarska.

7 Þótt ég sé staddur í þrengingu,
lætur þú mig lífi halda,
þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna,
og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig,
Drottinn, miskunn þín varir að eilífu.
Yfirgef eigi verk handa þinna.


139   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni,
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst,
og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

7 Hvert get ég farið frá anda þínum
og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig
og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt
og nóttin lýsa eins og dagur,
myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín,
ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður,
undursamleg eru verk þín,
það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin,
þegar ég var gjörður í leyni,
myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni,
ævidagar voru ákveðnir
og allir skráðir í bók þína,
áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð,
hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin,
ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana.
Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum
og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig,
og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri,
þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
24 og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi,
og leið mig hinn eilífa veg.


140   Til söngstjórans. Davíðssálmur.

2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum,
vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu
og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar,
nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra,
vernda mig fyrir ofríkismönnum,
er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig
og þanið út snörur eins og net,
hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn,
ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp,
þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega,
lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig,
ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum,
hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu,
ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra,
rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt,
hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.


141   Davíðssálmur.

Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín,
ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt,
upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn,
gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu,
að því að fremja óguðleg verk
með illvirkjum,
og lát mig eigi eta krásir þeirra.

5 Þótt réttlátur maður slái mig
og trúaður hirti mig,
mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum.
Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti,
munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu,
svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín,
hjá þér leita ég hælis,
sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig,
og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net,
en ég sleppi heill á húfi.


142   Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

2 Ég hrópa hátt til Drottins,
hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum,
tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér,
þekkir þú götu mína.

Á leið þeirri er ég geng
hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um,
en enginn kannast við mig.
Mér er varnað sérhvers hælis,
enginn spyr eftir mér.

6 Ég hrópa til þín, Drottinn,
ég segi: Þú ert hæli mitt,
hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu,
því að ég er mjög þjakaður,
bjarga mér frá ofsækjendum mínum,
því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni,
að ég megi lofa nafn þitt,
hinir réttlátu skipast í kringum mig,
þegar þú gjörir vel til mín.


143   Davíðssálmur.

Drottinn, heyr þú bæn mína,
ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni,
bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn,
því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína,
slær líf mitt til jarðar,
lætur mig búa í myrkri
eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér,
hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

5 Ég minnist fornra daga,
íhuga allar gjörðir þínar,
ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér,
sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn,
andi minn örmagnast,
byrg eigi auglit þitt fyrir mér,
svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags,
því að þér treysti ég.
Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga,
því að til þín hef ég sál mína.

9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn,
ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn,
því að þú ert minn Guð.
Þinn góði andi leiði mig
um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns,
leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar,
ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja,
því að ég er þjónn þinn.


144   Eftir Davíð.

Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt,
sem æfir hendur mínar til bardaga,
fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi,
háborg mín og hjálpari,
skjöldur minn og athvarf,
hann leggur þjóðir undir mig.

3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann,
mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær,
dagar hans sem hverfandi skuggi.

5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður,
snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum,
skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum,
hríf mig burt og bjarga mér
úr hinum miklu vötnum,
af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál,
og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng,
ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur,
hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér
af hendi útlendinganna.
Munnur þeirra mælir tál,
og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni,
dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund,
fénaður vor getur af sér þúsundir,
verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir,
ekkert skarð og engir hernumdir
og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir,
sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.


145   Davíðs-lofsöngur.

Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur,
og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri
og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar:
"Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær:
"Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku
og fagna yfir réttlæti þínu.

8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður,
og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn,
og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns,
segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt,
hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir
og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.
Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum
og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga,
og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig,
og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni
og seður allt sem lifir með blessun.

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum
og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann,
öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann,
og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann,
en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins,
allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.


146  

Halelúja.
Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

3 Treystið eigi tignarmennum,
mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu,
á þeim degi verða áform þeirra að engu.

5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar,
sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð,
hafið og allt sem í því er,
hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra
og veitir brauð hungruðum.

Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana,
hann annast ekkjur og föðurlausa,
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu,
hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Halelúja.


147

Halelúja.
Það er gott að leika fyrir Guði vorum,
því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta,
og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna,
kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi,
speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða,
en óguðlega lægir hann að jörðu.

7 Syngið Drottni með þakklæti,
leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum,
býr regn handa jörðinni,
lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra,
hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins,
eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann,
þeim er bíða miskunnar hans.

12 Vegsama Drottin, Jerúsalem,
lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum,
blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið,
seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar,
boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola,
hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna,
lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt,
Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð,
þeim kennir hann ekki ákvæði sín.
Halelúja.


148

Halelúja.
Lofið Drottin af himnum,
lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans,
lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl,
lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna
og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins,
því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi,
hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu,
þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur,
stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir,
ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður,
skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir,
höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar,
öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins,
því að hans nafn eitt er hátt upp hafið,
tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn,
lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans,
hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum.
Halelúja.


149

Halelúja.
Syngið Drottni nýjan söng,
lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.
2 Ísrael gleðjist yfir skapara sínum,
synir Síonar fagni yfir konungi sínum.
3 Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi,
leika fyrir honum á bumbur og gígjur.
4 Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum,
hann skrýðir hrjáða með sigri.
5 Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd,
syngja fagnandi í hvílum sínum
6 með lofgjörð Guðs á tungu
og tvíeggjað sverð í höndum
7 til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum,
hirtingu á lýðunum,
8 til þess að binda konunga þeirra með fjötrum,
þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,
9 til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi.
Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans.
Halelúja.


150

Halelúja.
Lofið Guð í helgidómi hans,
lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans,
lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi,
lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi,
lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum,
lofið hann með hvellum skálabumbum!
6 Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin!
Halelúja!


Netútgáfan og Hið Íslenska Biblíufélag - ágúst 1997