Sögur úr Fílabeinsturninum: Einræða

Einræða

Djöfull hvað fólk getur verið þreytandi maður, sífellt kvartandi og kveinandi, eilíft finnandi að öllu og röflandi, vertu svona og hinsegin, helvíti ertu leiðinlegur o.s.frv. þannig að ég er raunar búinn að þroska þann hæfileika að loka á þetta allt saman enda eins gott, ég meina það þýðir ekkert að vera að taka of mikið mark á þessu liði, fólk er svo tillitslaust, segir bara það sem því sýnist, er ekkert að hugsa um afleiðingarnar eða að hugsanlega komi þetta við einhvern viðkvæman streng heldur anar bara áfram eins og jarðýtur án þess að líta til hægri eða vinstri algjörlega eins og það eigi heiminn og ég er viss um að það heldur að einmitt fólk eins og það stjórni heiminum og eigi að ráða öllu og hafi alltaf rétt fyrir sér og trúðu mér það heldur alltaf að það hafi rétt fyrir sér, hvarflar aldrei að því að það hafi rangt fyrir sér, lifir og deyr í þeirri fullvissu að þeirra sjónarhóll sé hinn eini og sanni og er ekkert að hafa fyrir því að hlusta á rök annarra, lokar bara eyrunum þegar einhverjum dettur í hug að hafa aðra skoðun, eins og t.d. ég en ég er ekkert að hika við að láta það heyra að ég er ekki par hrifinn af þessu, ég læt það bara heyra að það er ekki meira virði en skíturinn á skónum mínum og er hundleiðinlegt þar að auki, eins og allt fólk sem er að skipta sér af öðrum virðist alltaf vera, það ætti bara að að líta í eigin barm frekar en vera að þessu röfli enda er ég eins og ég er og það er enginn vafi á því að ég hef rétt fyrir mér, ég er búinn að kanna alla möguleika og það er pottþétt að ég er búinn að fatta þetta, ef það bara vissi, það ætti bara að vera þakklátt fyrir að ég nenni að eyða tíma mínum í að uppfræða það og hjálpa því að skilja að það hefur rangt fyrir sér og ég hef rétt fyrir mér, andskoti getur þetta lið verið þrjóskt, það er eins og það neiti algjörlega að skilja að auðvitað hef ég rétt fyrir mér, það ætti að hefja mig upp til skýjanna frekar en vera með þennan kjaft, viðurkenna að ég veit betur, það væri nú bara merki um karakter að viðurkenna mistök sín en nei, það getur ekki viðurkennt neitt heldur þrætir fyrir og þykist vita betur þó að sjálfsögðu hafi það rangt fyrir sér, eins og ég segi, annað fólk er eins og börn og maður verður að hafa vit fyrir börnum annars fara þau sér bara að voða, þau átta sig ekki á því að það sem kann að virðast harðneskjulegt er það sem á endanum er þeim fyrir bestu, auðvitað getur þú ekki ætlast til þess að börn skilji af hverju þú gerir það sem þú gerir, það er ekki fyrr en seinna að þau átta sig á að ég geri það eina rétta, þetta er allt saman svo skýrt fyrir mér að ég get ekki skilið hvernig fólki tekst að flækja þetta allt saman svona rosalega, ef það bara reyndi eitt augnablik að láta svo lítið að horfa framhjá stundarsannleika, dægurþrasi og hentiskilgreiningum og eilífum ómerkilegum dæmum, lognum eða sönnum, það má einu gilda, ég gæti svoleiðis sýnt því fram á að það er hægt að skilgreina allan fjandann á mjög svo einfaldan hátt og það er ekki erfiðara en svo að horfa aðeins örlítið lengra heldur en fyrir framan tærnar á sér og reyna að sjá hlutina í örlítið víðara samengi og þá sér það að allt sem er er í ákveðnum tengslum við allt annað og að það þarf ekki nema smá meðvitaða hugsun til að ráða fram úr vandamálunum frekar en að velta sér upp úr þeim endalaust og láta eins og þau séu einhver endanlegur sannleikur sem ekki fáist ráðið við, þvílík uppgjöf að láta vandamálin stjórna sér eins og þræl eða vélmenni, ég gæti mín alltaf á því að sitja sjálfur við stýrið og láta vandamálin vera farþega sem ég get sett út þar sem mér sýnist, ég er bílstjórinn en ekki dæmin, dæmin geta ekki hneppt mig í sína takmarkandi hnappheldu og breytt tilveru minni í endalausan flótta frá framvindunni, þó að auðvitað séu til vandamál, raunsæji mitt er slíkt að ég reyni ekki að neita því að auðvitað eru til vandamál sem maður þarf að leysa úr, auðvitað nema hvað, lífið er bara biðröð af vandamálum sem þú þarft að glíma við og sum þeirra eru það viðamikil að þú þarft að spekúlera í þeim alla þína ævi og jafnvel þá er ekki víst að þú finnir neina endanlega lausn en þú verður allavega að reyna, ef þú reynir ekki ertu að gefast upp og það að gefast upp er bara fyrir aumingja, eins og ég segi, þú verður að taka á vandamálunum jafnharðan og þau birtast og glíma við þau því að ef þú glímir ekki við þau verðurðu strax undir, þú þarft að taka á vandamálunum um leið og þau birtast, fara frá vandamáli til vandamáls og ganga frá þeim í eitt skipti fyrir öll, að lifa er bara að glíma við vandamálin og þau koma bara í þeirri röð sem þeim sýnist, auðvitað getur þú aldrei ákveðið fyrirfram hvaða vandamál þú þarft að glíma við eða í hvaða röð þau koma, þú þvælist bara frá vandamáli til vandamáls og mátt ekki guggna á að takast á við þau, þetta er allt saman augljóst eins og þú veist en ekki gleyma því að milli þess sem þú glímir við vandamál gefst þér tækifæri til að skapa og búa til, og það, vinur minn, er enginn smá gjöf, að skapa er nefnilega að búa til eitthvað úr engu og það er gjöf sem engum nema mannfólkinu er gefið, það er það sem gerir okkur að manneskjum, að skapa, annars værum við bara eins og hver önnur maskína sem tekur eitthvað inntak og skilar einhverju fyrirsjáanlegu úttaki án þess að detti af henni eða drjúpi, við erum ekki maskínur heldur lifandi, andandi, særandi, elskandi verur sem verðum að skapa eitthvað smávegis í lífinu bara til að skilja eitthvað eftur okkur sem komandi kynslóðir geta notið ef þær kæra sig um, án sköpunargáfunnar og hæfileikans til að galdra fram eitthvað ófyrirsjáanlegt úr engu öðru en okkur sjálfum værum við ekki manneskjur, það að skapa er kraftaverk þess að vera manneskja, þó að sjálfsögðu hljóti allt sem við gerum að vera háð því hverskonar lífi við höfum lifað og raunar öllu sem við höfum upplifað, andlegu eða líkamlegu og að það sem við sköpum nýtt sé ekkert annað en gamalt í nýjum keisarans fötum, því að nýtt eins og við skiljum það er ekkert annað en ákveðinn sjónarhóll einnar kynslóðar til alls þess sem kynslóðirnar á undan hafa leitt af sér og sköpunin sem slík sé ekkert annað en ný leið á að túlka það sem fyrri kynslóðir hafa skilið eftir sig, eins og ég segi, það er ekkert nýtt undir sólinni og allt sem við gerum er ekkert nema tilbrigði við það sem hefur verið gert einhverntíman áður, en það snertir okkur ekki af því að við höfum náttúrulega bara takmarkaðan skilning á því sem áður hefur gengið á, allt sem er er ekkert nema afleiðingin af því sem áður var o.s.frv., þannig að það er þannig séð ekkert nýtt og manneskjan kemur aldrei með neitt nýtt heldur bara enn eitt afbrigðið af öllu öðru sem enginn hefur séð eða enginn mann eftir, af því að þekkingin færist frá kynslóð til kynslóðar á hinn furðulegasta máta og er því háð að minni og líf einnar einstakrar manneskju endist ekki nema ákveðið mörg ár og ekkert getur færst úr þekkingarsjóði einnar manneskju í þekkingarsjóð annarrar án breytinga og þannig umverpist þekkingin og raunar skilningurinn á öllu heila klabbinu frá kynslóð til kynslóðar þó að ákveðin atriði virðist alltaf vera við sama heygarðshornið og taki sáralitlum breytingum, þetta eru þeir þættir manneskjunnar sem við fáum lítið ráðið við og virðast alltaf skjóta upp kollinum óháð tíma eða þekkingu, þættir eins og girnd, græðgi og þörfin fyrir viðurkenningu náungans, grunnþættir sem við fáum ekki með nokkru móti umflúið þó að auðvitað reynum við og trúðu mér, flestir láta stjórnast af þessum eðlisþáttum án þess að vita af því og spyrja því eins og aular af hverju líður mér eins og mér líður og hversvegna er ég ánægð eða ekki ánægð, hvað gæti valdið því að mér líður eins og mér líður?" og rennir varla grun í að auðvitað eru þeir ekki nema strengjabrúður síns innsta eðlis sem enginn finnur undankomuleið frá, nema kannski menn eins og ég sem skilja sitt innsta eðli og eru með allt á hreinu og þurfa ekki að eyða tíma í slíkar heimskuspurningar, vitandi að með nægum viljastyrk er hægt að yfirvinna veikleika sína og tilhneigingar án of mikillar fyrirhafnar og ég er einmitt dæmi um slíkt, hafandi skilgreint eðli mitt og áttað mig á gerð þess get ég stjórnað því og beygt það undir æðri vilja minn, sem er náttúrulega það sem allir menn ættu að stefna að, að sigrast á frumeðli sínu og vera eins og aðrir vilja að þú sért og aðrir geta meðtekið þig og viðurkennt sem einn af sínum, sem er nema hvað lokatakmark alls sem við tökum okkur fyrir hendur, án þess að við beinlínis séum að eltast við þarfir eða væntingar annarra, síður en svo, þannig myndum við gera okkur að hórum vinsældanna sem eru augljóslega verstu örlög sem til eru, en líka það sem við sækjumst eftir og veitir okkur fró. Allavega. Mér líður bara bærilega og bið voða vel að heilsa. Ég vona að þú hafir það jafn gott og allt virðist gefa til kynna.


Netútgáfan - janúar 1997