Sögur úr Fílabeinsturninum: Gulrætur

Gulrætur

Það sem ég segi er ekki flókið. Það er sama hvert þú ferð, allstaðar er fólkið með gulræturnar. "Gulrætur, gulrætur, fáðu þér gulrætur" hrópar það og baðar út öllum öngum. Þegar ég fer í vinnuna á morgnana hitti ég undantekningalaust einhvern sem otar að mér gulrót. Allan daginn, í vinnunni, í kaffitímanum, kemur það til mín, dinglar gulrótunum fyrir framan nefið á mér og skrækir "fáðu þér gulrót, fáðu þér gulrót!". Jafnvel ef ég yrði á laglega mey seint að kveldi sendir hún mér vorkunnsamt augnatillit og dregur gulrót upp úr smárri handtöskunni.

Gættu þín bara á einu. Segðu aldrei já við neinn sem býður þér gulrót, aldrei. Ég skal segja þér hvað gerist þá. Annaðhvort hverfur gulrótin þangað sem hún kom eða hún breytist og verður að einhverju allt öðru, stundum grænni eðlu, stundum hvítri eiturslöngu, aldrei gulrót, því gulrótin er ósnertanleg á sama hátt og regnboginn og ýmislegt annað sem maðurinn hleypur á eftir. Aldrei hefur verið til sá maður sem náði að höndla gulrótina, því að gulrótin er bæði slóttug og slæg. Hún sýnir sig, rétt handan við hornið eða næsta ljósastaur og áður en þú veist af ertu hlaupinn af stað á eftir henni. Þá hverfur hún eða felur sig eða lætur eins og fífl. "Ó gulrót!" hrópar þú og fellur grátandi í faðm hennar. Hún stjakar þér vandræðalega frá sér og segir "ha, ég? þú hefur farið mannavillt, kúturinn". Svo setur hún upp þóttafullan svip og strunsar í burtu. Gulrótin hefur bara eitt markmið í sínu auma lífi og það er að kvelja mannskepnuna. Gulrótin og maðurinn hafa alltaf verið hatrammir óvinir og munu alltaf verða. Mestu gúrúar heimsins geta reynt hvað þeir vilja en þeir munu aldrei ná sáttum milli manna og gulróta.

Ég hef reynt að sjá inn í hugskot gulrótarinnar. Ég hvessi augun og píri þau inn að rótum hennar. Ég sker hana í þunnar sneiðar, mer hana með hamri eða tæti hana í smáflísar. Hugur gulrótarinnar er svartur og það er mannskemmandi að dvelja við hann lengi eins og ég hef gert. Allt frá því að gulrótin er ekki meira en lítill appelsínugulur stautur ofaní jörðinni veit hún hver tilgangur hennar er. Það er meira en verður sagt um fórnarlömb hennar. Gulrótin er aldrei ein. Þúsundum saman liggja þær í hlýrri moldinni og halla sér hver að annarri. Þær pískra saman og hlæja. Þær gefa hverri annarri góð ráð og skiptast á brögðum og brellum, slúðra jafnvel um rófurnar. Svo vaxa þær og dafna í mjúkri moldinni þar til þær eru orðnar fallegar og sívalar. Þá flykkist gulrótarfólkið út á akrana, einn sólríkan dag, pillar þær upp úr jörðinni, setur í poka, fer heim og skolar þær í eldhúsvaskinum.

Þráin eftir gulrótinni ágerist eftir því sem ævidagarnir verða fleiri. Þær vita hvernig á að spila með þig, þær birtast hvert sem þú lítur, þú skelfur og titrar af löngun eftir að fá þér stóran bita úr einni þeirra. Þú ert andvaka að hugsa um gulrætur, um allt það góða sem gæti hlotist af því að borða gulrót eða jafnvel bara að eiga gulrót. Rétt þegar þú ert farinn að finna til unaðarins að snæða gulrót á ódáinsvöllum hugarflugsins finnur þú eins og sáran sting í síðunni og manst að þú átt enga gulrót. Jafnvel þó þú vitir vel að þú eignist aldrei gulrót geturðu ekki annað en hlaupið á eftir henni næst þegar hún birtist handan við hornið. Máttur gulrótarinnar er mikill. Í baráttunni við manninn mun gulrótin ætíð hafa betur og allir menn munu lúta henni, því gulrótin er hluti af eðli mannsins og það er maðurinn sjálfur sem fóstrar gulrótina í brjósti sér, nærir hana af blóði sínu við hjartarætur sér. Án mannsins ætti gulrótin sér ekkert líf og vegna gulrótarinn er líf mannsins eilíf þjáning.

Svo opnaði ég augun. Að vakna er að kveðja eina martröðina með tárum, veifandi hvítum vasaklút, meðan sú næsta hefur þegar tekið í höndina á þér og rykkir óþolinmóð í. Eftir að hafa blikkað augunum í tilskilinn tíma reyni ég að átta mig á því hvar ég er. Ég stend á gangstétt. Ég er bara enn einn af þessum sem er alltaf að leita að sjálfum sér. Daga og nætur sveifla ég daufu vasaljósinu í kringum mig, beini appelsínugulri ljóstýrunni inn í hverja holu og skot, batteríin þreytast og tæmast og á endanum stendur þú í svartamyrkri. Nema hvað þennan dag gerðist það. Ég fann sjálfan mig! Ég átti samt alls ekki von á því, en þar sem ég stend á gangstétt og horfi svefndrukknum augum yfir götuna sé ég sjálfan mig á gangi. Ég nudda augun eins og ég væri að leika í útreiknanlegri bíómynd og horfi á eftir mér. Það er ekki um að villast að þetta er ég. Sama flaksandi græna úlpan með brúnt í hálsmálinu, svartar buxur og hálfgerðir hermannaklossar. Hárið stendur beint upp í loftið undan vindi, alveg eins og á Tinna. Þetta er ekki einhver sem líkist mér, ekki týndi tvíburabróðir minn, ekki hátækniafurð skurðstofulækna, ég. Þetta er guðdómleg stund, stund sannleikans sem allar stundir biðu í biðröð eftir en misstu af. Ég rölti af stað í humátt á eftir mér en passa mig á að fara ekki of nálægt mér til að vekja ekki grunsemdir mínar. Við röltum niður Stórholtið og beygjum inn í áttina að Hlemmi. Ég stúdéra göngulag mitt af alefli. Ég bölva því að enn höfum við ekki hitt aðra vegfarendur því þá hefði ég getað rannsakað viðbrögð þeirra við mér og eftilvill orðið einhvers vísari. Göngulag mitt er ekkert sérstakt. Ég hafði allavega ímyndað mér að það væri meira spunnið í það. Svolítið tilgerðarlegt, segjum agað, eins og ég hafi spáð mikið í það, hægri, vinstri, bakið beint, líð áfram. Ég virðist ekki taka eftir mér svo ég áræði að tipla yfir götuna og geng nú beint fyrir aftan mig. Við erum komnir niður á Hlemm og göngum áfram niður Laugaveginn. Ung stúlka gengur fram hjá mér. Hjartað tekur smá aukakipp, hvað ef ég lít nú á eftir henni og sé sjálfan mig? Þá hlyti þessi mikilvæga eftirför bráðan enda. En ég lít ekki á eftir henni, er ekki svo desperat, þannig að ég geri það ekki heldur. Stúlkan þrammar framhjá mér án þess að gefa mér nokkurn gaum. Hún er með einn af þessum asnalegu höttum sem ku vera í tísku núna. Hún hlýtur að hafa misst af mér í annaðhvort skiptið því að hún tekur ekki mér tveimur. Eða kannski hélt hún að við værum eineggja tvíburar, eftilvill í fýlu út í hvorn annan eða að annar tvíburinn væri að njósna um hinn. Mér gefst ekki tími til að velta því frekar fyrir mér því nú fer ég yfir götuna. Ég hægi á mér til að nálgast mig ekki um of. Ég tek ekki eftir neinu, labba bara áfram. Ég fer að hugsa: hvernig getur þetta verið ég? Ef ég væri þessi þarna, þá myndi ég vita að þessi þarna væri að veita mér eftirför. Og ef þessi þarna væri ég, þá myndi þessi þarna vita að ég væri að veita mér eftirför. Kannski veit ég að ég er að elta mig en er alveg sama. En þá myndi ég vita að ég væri að elta mig og mér væri alveg sama líka. Ég ákveð að líta um öxl en hætti jafn skyndilega við það því þá gæti ég litið um öxl og séð mig. Þessvegna vippa ég mér bakvið næsta hús og lít til baka. Nei, það er enginn að elta mig. Það er allavega augljóst að ef þetta er ég þá er þetta fullkomin kópía af mér með algjörlega sjálfstæða og óháða tilveru. Einskonar ljósrit eða eitthvað í þá áttina. Ég gægist fyrir hornið og sé að ég er að fjarlægjast mig. Það þýðir ekki að dóla hér og glíma við tilvistarlegar þverstæður segi ég næstum upphátt við sjálfan mig. Ég bíð augnablik bakvið húshornið og lít í kringum mig til að sjá hvort ég sé einhversstaðar bakvið eitthvað annað húshorn að njósna um mig. Þegar ég hef fullvissað mig um að svo er ekki geng ég af stað aftur. Ég frýs í sporunum þegar ég uppgötva að ég hef týnt mér. Ég er horfinn sporlaust, gufaður upp, floginn á braut! Ég ríf í hár mitt í angist. Ó, grimmu örlög! Að finna sjálfan sig og tapa sér strax aftur. Ég hleyp af stað í örvæntingarfullri leit að sjálfum mér. Þessi örvænting reynist svo vera algjörlega óþörf því að nú sé ég framundan litla kráarbúllu þar sem ég fæ mér stundum ódýran kaffibolla og þykist vera að spekúlera. Þar lá að að ég færi inn á þessa uppáhaldsbúllu mína. Nú fer málið hinsvegar að vandast. Búllan er pínulítil. Ef ég valsa inn á hana í fullum herklæðum hlýt ég að koma auga á mig og hver veit hvað gæti gerst þá! Mér gæti orðið uppsigað við mig og ráðist á mig. Eða við gætum fengið tilvistarsjokk við að sjá okkur. Þverstæðan gæti líka orðið hinum skammtafræðilega raunveruleika alheimsins ofviða þannig að kráarbúllan breyttist í svarthol sem hefði afar slæm áhrif á viðskiptin og vinsældir mínar. Ég stend eins og þvara og reyni að finna skynsamlega lausn á þessu vandamáli. Auðvitað verð ég að fara inn og hitta mig. Hvað annað ætti ég að gera? Taka ellefuna upp í Breiðholt og gleyma þessu öllu saman? Auðvitað fer ég inn, til þess er leikurinn gerður. Eftilvill er þetta eitthvað sem allir lenda í, að hitta sjálfan sig, nema hvað það fylgir því sú kvöð að segja engum öðrum frá. Ég labba upp að hurðinni og gægist inn. Ég sé mig ekki. Það þýðir að ég hef sest inn í skotið við sama vegg og inngangurinn sem aftur kemur mér ekkert á óvart því þar sit ég yfirleitt. Það hentar mér líka ágætlega. Hernaðaráætlun mín er einföld, ég storma inn, nei ég geng inn á hraðan en yfirvegaðan hátt og sest við borðið í horninu á móti mér og sný baki í mig. Þá er ekki einusinni víst að ég taki eftir mér og mér gefst tími til að hugsa ráð mitt. Ég opna hurðina varlega, því að ég veit að hún ískrar, geng framhjá sjúskuðu pari og sjálfskipuðu leirskáldi, sest á afar látlausan og yfirvegaðan hátt eins og áætlun mín gerði ráð fyrir. Ég virðist ekki hafa tekið eftir neinu, annars hefði ég áreiðanlega rekið upp undrunaróp eða allavega stokkið upp til handa og fóta og heilsað upp á mig. Ég titra af spennu þar sem ég sit með bakið í mig. Mig klæjar í hrygginn af löngun til að snúa mér við og óska þess heitar en nokkurntíman fyrr að hafa augu í hnakkanum. Ég fálma við fúla bjórmottu og velti vöngum. Svo sný ég mér afar varlega við og gjóa augunum til mín. Ég virðist ekki hafa tekið eftir neinu, sit bara þarna og það sem meira er: ég er ekki einn. Ég sný mér svo snöggt að ég dett næstum úr stólnum. Á móti mér situr engin önnur en kærastan mín, Sædís. Ég stari opinmyntur á okkur í nokkrar sekúndur og finn hvernig afstæður tíminn stendur í stað. Þúsund hugsanir streyma á ljóshraða í gegnum heila minn. Hvernig getur staðið á þessu, hafði ég mælt mér mót við kærustuna mína hér? Ekki minnist ég þess. Eða hafði ég mælt mér mót við kærustuna mína? Hittumst við hér af tilviljun? Var hún að halda framhjá mér með mér? Er ég að halda framhjá sjálfum mér með kærustunni minni? Er þetta allt risavaxin tilviljun eða er einhver að atast í mér? Ég og Sædís pöntum okkur bjór. Ég sé að hún horfir á mig með tortryggnisglampa í augunum. Snýr sér svo að mér og tautar eitthvað sem ég heyri ekki. Ég tek við afganginum og segi "ha?". "Það er einhver gaur að horfa á okkur" segir hún og hnykkir höfðinu í átt að luralegum náunga á ysta borðinu við gluggann. Það er ekki um að villast, hann er að stara á okkur. Hann lítur nógu meinleysislega út, greyið, með þennan aulasvip á andlitinu svo ég vinka honum bara og brosi. Gaurinn starir á okkur eins og naut á nývirki. Ó nei, hann er að standa upp! Hann gengur til okkar, dregur sig áfram í áttina að okkur án þess að heyra eða sjá, horfir á okkur með þvílíkan svip eins og við séum ábyrg fyrir öllu því voðalega í heiminum. Nú er hann kominn alveg upp að okkur og mér líst ekki meira en svo á blikuna. Hann lyftir höndinni og bendir á mig. "Þú ..." hryglir í honum. Svo lít ég upp og á andlit mitt kemur hræðileg skelfingargretta. Ég ég gríp um lafið á leðurjakkanum mínum, strýk um sóðalegt skeggið á kjálkabörðum mínum, strýk höndinni yfir ljóst hárið og horfi í augun á gjörókunnugu andliti í speglinum.

Svartir hundar naga ræturnar á visnuðu fjalli. Yfir þeldökkum himninum liggur djúpblá mararhula eins og slæða á slæðu. Grimmir skoltarnir glefsa í steininn, tæta úr honum hnullung eftir hnullung og horfa á slefuna drjúpa frá kjafti í kjaft. Steinrykið þyrlast yfir gróðurvana mörkina einsog sveimhuga draugur. Þeir bryðja grjótið einsog sælgæti, glefsa illilega í hvern annan og horfast í rauð augun og brosa. Lyktin af feitum feldum þeirra er kæfandi þykk og blandast steinrykinu í kolsvörtum þokubakka. Svitinn drýpur af stæltum skrokkum þeirra og lekur í skítuga polla meðan stáltennurnar grafa sig dýpra í klettinn. Stuna fjallsins ómar yfir dimmu landinu. Ef einhver hundanna sýnir á sér þreytumerki ráðast hinir samstundis á hann og rífa hann á hol. Hræið iðar á skömmum tíma af stálgráum marflóm. Þær streyma úr augunum, munninum, rassinum, steypa sér yfir hræið og gæða sér á því. Hræið iðar af stálgráum marflóm. Örsmáir fætur þeirra sprikla eins og þúsund maskínur, suðið af smáum kjálkum þeirra bergmálar í þykku loftinu. Hræið bifast og veltist um, lyftist og hnígur. Afmynduð dauðagríman starir tómum tóftum út í sortann. Marflærnar éta upp hræið þar til aðeins feldurinn er eftir. Púpur marflóanna þekja feldinn eins og sóttmenguð kýli. Úr kýlunum seytlar dimmugrár slímsafi. Gammarnir steypa sér á kýlin eins og orrustuþotur og slíta þau hranalega af úldnum feldinum. Í myrkum himingeimum sveima þeir í samfélagi við tunglið, frjálsir og grimmir. Þeir hringsóla frá skýi til skýs, gráu skýi í svart í rautt, syngja með ónáttúrulegum dauðarómi um óravíddir heimsins og staði sem þeir hafa komið á. Þeir setjast á oddhvassar nibbur og snyrta olíubrákaðar fjaðrir sínar með járnbentum goggum. Þrumunum lýstur niður í kringum þá og drunurnar hrista og skekja jörðina. Þá breiða þeir úr voldugum stálvængjunum og flýja upp í himininn sem er þeirra eina næturskjól. Útlægir hafa þeir gert himininn að konungsríki síni, landi án takmarka eða landamæra sem aldrei verður fullkannað. Fangar víðáttunnar verja þeir heimkynni sín af óþrjótandi grimmd og ótta. Öll völd eru þeim gefin í óendanlegu fangelsi sínu og þeir horfa til forboðinnar jarðar með hatri og fyrirlitningu. Jörðin eru böðuð í silfurlitu mánaskini. Regnið lemst til jarðar með hríðarfoki og kófi. Tilverulausar steinvölur hrekjast með duttlungum vindsins hvert sem þær kunna að fara. Vindurinn feykir þeim um í takmarkalausri aðdáun á mátti sínum og megin. Óvelkomið leðurstígvél treður óumbeðnu fótspori í sendna jörðina. Snýr sér snöggt við til að grípa ljósblik í hinum enda rúmsins. Af höndunum að dæma hafa þær komið víða við. Þær draga fram ellihruma skóflu og stinga henni niður. Hamar mylur grjót. Fingur þreifa á sorgbúnu grjóti. Einskisnýtu grjótinu er fleygt. Óvelkominn maður horfir á sviðna jörðina í kringum sig. Fjall, segir hann, hér hefur staðið fjall.

Svo ég tók bara ellefuna upp í Breiðholt og gleymdi þessu öllu saman. Ég vafraði inn í vagninn á þess að borga en strætóstjórinn skipti sér ekkert af því, kannski vissi hann hvernig komið var fyrir mér. Ég gekk aftast í vagninn og reyndi að sjá spegilmynd mína í sótugum gluggunum. Aftast í strætó sátu þrír smástrákar og tuggðu tyggjó og hlógu og ærsluðust. Ég sagði við þá: "strákar, farið í burtu því að ég ætla að sitja hér". Þeir horfðu á mig og hlógu og tuggðu tyggjó. Ég reyndi að gera mig stóran og illvígan og blés mig út eins og blöðru. "Strákar, fariði í burtu eða ég lem ykkur" æpti ég á þá hásri röddu. Þeir pískruðust á og hlógu og bentu á mig. "Ég meina það strákar, ég lem ykkur í klessu ef þið farið ekki úr sætinu" hrópaði ég á þann í miðjunni. Ég fann að ég var orðinn heitur í augunum og hafði ekki fullkomna stjórn á röddinni, orðin biðu í smástund í startholunum áður en þau hrökkluðust af stað. Strákarnir æstust um allan helming við að sjá að ég var að fara að gráta og hlógu svo mikið að sást ofaní vélinda á þeim. "Suss suss strákar" kallaði strætóstjórinn til okkar. Ég skynjaði að ég var að missa stjórn á framvindunni og ég kipptist til með ekkasogum og óskiljanlegum orðbútum. Strákurinn í miðjunni sparkaði í mig og hló. Félagar hans hlógu líka og spörkuðu svo í mig. Ég fór að hágráta og svo öskraði ég eins hátt og ég gat. "Suss suss strákar mínir" sagði strætóstjórinn. Ég öskraði og öskraði og öskraði þar til ég heyrði ekki í sjálfum mér lengur. Ég öskraði svo hátt að mér sortnaði fyrir augum og beinin titruðu í skrokknum mínum og lungun brunnu af áreynslu. Þegar loks raddböndin gáfu sig lá ég á gólfinu í strætó og smástrákarnir tuggðu tyggjó, hlógu, ærsluðust og spörkuðu í andlitið á mér svo blæddi úr. "Suss suss" sagði strætóstjórinn.

Þá heyrði ég mjúka rödd og smástrákarnir hættu að hlægja og það eina sem ég heyrði var mjúk röddin og niðurinn í sjálfskiptingunni í strætó. "Ljúfurinn minn, dúfan mín" sagði röddin. Ég lá í fanginu á stúlku sem ég hafði aldrei séð áður. Hún var hlý og góð og ég treysti henni fullkomlega fyrir mér. "Litli selurinn minn" sagði hún eins og hún væri að tala við smábarn. Ég hjúfraði mig upp að barmi hennar og lokaði augunum og fann hvernig algleymisró færðist yfir mig. Hún studdi mig úr strætó og fór með mig inn í lyftu og lagði mig á rúmið sitt. Hún sat hjá mér og hjalaði og strauk mér yfir hárið. Það var svo góð lykt af henni og hún var svo hlý og góð. Svo breiddi hún yfir mig sængina sína og kyssti mig á augabrýrnar. Áður en ég vissi af var ég sofnaður. Í draumi mínum birtist hún mér sem engill, umvafin glitrandi ljósi. Í hári hennar voru frostrósir og augun voru gimsteinar. Hún söng um hvítan snjó og skínandi skýjaperlur. Hún söng með dimmbláum seimi hafsins um freyðandi skartdjásn bárunnar. Söngur hennar bar mig frá hásæti skynseminnar yfir óravegu gleymdra hugsjóna að móðunni miklu sem hylur Tilganginn og aftur að óstöðvandi hjóli tímaleysisins. Þótt að innst inni fyndi ég fyrir sargi ísnálanna lét ég það eftir mér að renna fingurgómunum mjúklega yfir sléttustu marmarsteina og baða mig í hvítasta sandi. Ég laugaði mig í bláasta gleri og blés dúnfjöðrum af höndum mínum. Ég stóð nakinn frammi fyrir sólgoðinu og teygði hendur mínar upp til stjarnanna. Fagurblár himininn beygði sig undir vilja minn og lét skýin renna sér í boga fyrir augum mér. Söngur dísarinnar lokkaði mig til hennar aftur. Ég heyrði pottaglamur í eldhúsinu. Ein og ein vöknuðu vitundin og raunveruleikinn tók við mér á nýjan leik. Ég staulaðist fram í eldhús og hlammaði mér á koll við eldhúsborðið. Út um risavaxinn eldhúsgluggann mátti sjá yfir alla borgina. Ég leit til hennar og brosti. Hún var með norska tröllasvuntu og hafði bundið hárið upp í hnút.

"Hvað ertu að gera" spurði ég.

"Það er leyndarmál" svaraði hún brosandi og hrærði í potti.

"Hver ert þú?" spurði ég.

"Það er leyndarmál" flissaði hún og skellti loki á pönnu. Ég virti hana fyrir mér nokkra stund. Það var erfitt að átta sig á því hvað hún var gömul. Líklega var hún eldri en ég en hún gæti líka hafa verið yngri, jafnvel mun yngri.

"Hver er ég?" spurði ég. Hún hnykkti höfðinu til mín og horfði reið og særð á mig.

"Veistu það ekki?" spurði hún. Ég velti þessu fyrir mér svolitla stund. Fyrir ekki svo löngu síðan vissi ég nákvæmlega var. Ég var einhver persóna en nú get ég ekki komið henni fyrir mig lengur. Ég tók eftir því að ég var farinn að hugsa um mig í þátíð. Ég sá fyrir mér persónu en ég gat ekki tekið ábyrgð á því að hún væri ég. Ég hafði eitthvað sjálf en ég vissi ekki hverjum það tilheyrði. Einhvernveginn var ég ekki ákveðinn í því hvort ég ætti að gangast við þessari tilveru, þessu lífi og þessum eldhúskolli. Ef ég var ekki ég hafði ég enga ástæðu til að haga mér skynsamlega. Kannski ætti ég að leita að mér. Bara meðan ég sat í eldhúsinu í ókunnugri blokk og reyndi að koma skikk á hugsanir mínar dofnaði minningin um þessa persónu sem átti að vera ég. Ókunnuga stúlkan horfði á mig og ég skynjaði að nú átti eitthvað að gerast.

"Ertu tilbúinn?" spurði hún.

"Tilbúinn fyrir hvað?" spurði ég á móti.

"Ekki vera svona mikill aumingi!" hrópaði hún á mig og hafði greinilega orðið fyrir vonbrigðum með þetta svar. Ég þagði skömmustulega og ákvað að láta framvinduna sjá um sig sjálfa. Hún brosti aftur.

"Sérréttur dagsins" sagði hún og rétti mér disk. "... er á leiðinni, hérna taktu gaffal og hníf, hér er mjólkurglas". Hún strauk mér um vangann. Svo teygði hún sig eftir einum pottanna.

"Þú mátt fá að smakka þó að þetta sé ekki alveg tilbúið" sagði hún. "Bara smá". Ég þagði. Hún setti pottamottu á borðið og lagði pottinn á hana.

"Einmitt uppáhaldið þitt" tísti í henni og kætin leyndi sér ekki. Ég horfði á hana, pottinn, stúlkuna, pottinn, stúlkuna.

"Ætlarðu ekki að kíkja?" spurði stúlkan. Ég tók lokið af pottinum. Í pottinum voru gulrætur. Stórar, feitar, sjálflýsandi appelsínugular gulrætur. Sneiddar í snyrtilegar sneiðar, með grænum hringjum í miðjunni. Ég rak upp þögult óp. Stúlkan brosti.

"Já ég veit að þetta er ekki tilbúið ennþá" sagði hún, "þú getur annaðhvort fengið þér að smakka eða beðið í smástund í viðbót. Þú veist að það þarf að sjóða þær vel svo þær verði mjúkar og gómsætar. Okkur langar ekki að borða harðar og ólseigar gulrætur, er það? Best er að roðfletta þær og beinhreinsa svo". Hún fláði gulræturnar lifandi, tíndi úr þeim beinin á augabragði og flakaði á sömu stundu. Svo velti hún þeim upp úr hveiti og kryddaði með gulrótarextrakt og Season All. Hún smellti gulrótarflökunum á pönnu.

"Það er best að steikja þær upp úr fiftí fiftí blöndu af smjörlíki og gulrótarolíu" útskýrði hún. "Það á að steikja þær í svona eina mínútu á hvorri hlið". Svo hellti hún rjóma á pönnuna og skreytti flökin með litlum útskornum gulrótum. Að lokum stráði hún örlitlu gulrótarmjöli yfir. Ég horfði vantrúaður á gullinbrún gulrótarflökin og maginn tók undir ógleði mína.

"Það jafnast ekkert á við glóðarsteiktar marineraðar gulrætur" sagði stúlkan einkennilega hressilega. "Fyrst sker maður gulræturnar í hæfilega bita. Það er betra að hafa stóru gulræturnar og litlu gulræturnar ekki saman á pinna svo þær verði ekki missteiktar". Hún þræddi gulrótarbita og skífur upp á pinna og setti gulrótarblóm á endana. Áður en hún steikti pinnana yfir opnum eldi penslaði hún þá með gulrótarsafa.

"Þetta er nú eiginlega uppáhaldið mitt" sagði hún og dró upp nokkrar búlduleitar gulrætur. "Ég pensla eldfasta skál að innan með gulrótarsmjöri og strái söxuðum gulrótum á botninn. Svo raða ég stórum gulrótum og gulrótarbitum ofaná". Hún kryddaði með salti og gulrótarpipar og hellti gulrótarsoði yfir. Þá huldi hún skálina með álpappír og bakaði í korter við 200 gráður. Næst hitaði hún gulrótarfeiti og djúpsteikti sex reyktar gulrætur í snarhasti.

"Ekki má gleyma eftirréttinum, gulrótum fylltum með sinnepssósu" brosti hún. Hún saxaði nokkrar gulrætur og brúnaði á pönnu. Því næst skar hún innanúr nokkrum gulrótum og setti gulrótarmaukið og sinnepssósuna inn í. Þvínæst lokaði hún fyrir með tannstönglum og steikti á pönnu ásamt sveppum og sérríi. Ég fann til vaxandi klígju. Lyktin af sundurtættum, bökuðum, steiktum, hengdum og skornum gulrótum lá í loftinu. Ég hafði ekki orku til að standa upp og fara þó mig dauðlangaði til þess.

"Engin máltíð án gulrótarsúpu" sagði stúlkan. Hún skar bæði ferskar og grafnar gulrætur smátt. Þetta sauð hún hún ásamt hvítvíni og gulrótardufti. Hún bragðbætti súpuna með gulrótarkrafti. "Nú útbý ég villigulrótasósu" sagði hún svo. Hún tók nokkra desilítra af soði af villtum gulrótum og hrærði saman við hveiti og gulrótarsmjörlíki. Hún bætti gráðosti og rjóma út í og lét malla í nokkrar mínútur. Eldhúsið hringsnérist og fylltist af gulrótum sem flugu um og rákust á mig. Stúlkan hló og snéri sér í hringi með eldhúsinu. Gulræturnar flugu í kringum hana eins og fiðrildi. Staflinn af gulrótarréttum náðu nú upp undir rjáfur. Þar mátti sjá innbakaðar gulrætur með túnfíflasósu, pipargulrótasteikur af stærstu gerð, gulrótalundir og hnakka með gulrrótarrjóma og hrærðum gulrótum, gulrótarhakk í ítalskri sósu, heilsteiktar gulrætur með epli í kjaftinum, smjörsoðnar gulrætur með sveppum, grillsteiktar gulrætur með sítrónusósu, heilbakaðar gulrætur með lauk og camembertosti, hangigulrætur með gulrótarsalati og hráar gulrætur tartar. Með þessu var boðið uppá gulrótarsafa, gulrótargos og ýmsa gulrótarkokteila. Í eftirmat var gulrótarfrómas og heimalagaður gulrótarís. Stúlkan hengdi á mig smekk og klappaði mér á kollinn.

"Vertu nú duglegur að borða svo þú verðir stór og sterkur" sagði hún ákveðið. Hún settist til borðs með mér en snerti ekki á matnum sínum. Ég leit á matinn og fann skærgulan nábítinn skjótast upp í kok. Ég var þvalur í lófunum og andaði ótt og títt. Á enni mínu perlaði svitinn og sló á hann appelsínugulum blæ af öllum kræsingunum. Á disknum mínum lá marineruð glóðarsteikt gulrót og titraði og skalf af angist yfir örlögum sínum. Ég reiddi hnífinn hægt á loft og bjó mig undir að saxa hana í tvennt. Gulrótin hnipraði sig saman og horfði bænaraugum á mig. "Ekki drepa mig náðugi herra" sagði hún. "Ég er bara lítil gulrót og hef ekkert gert af mér". Það glitti í tár í augnkróknum á öðru gulrótarauga hennar. Ég horfði á ókunnugu stúlkuna.

"Þú ætlast þó ekki til þess að ég fari að skera gulrótina?" spurði ég.

"Auðvitað" svaraði stúlkan. Ég leit aftur á gulrótina og mundaði hnífinn. Gulrótin kreisti aftur augun og þuldi gulrótarbænir. Ég hélt hnífnum yfir gulrótarbúknum og reyndi að fá mig til að skera í hana en höndin hlýddi mér ekki.

"Ég get þetta ekki" sagði ég. "Ég bara get ekki vegið þessa gulrót". Stúlkan horfði í annað sinn á þessum degi til mín, særð og reið.

"Þú ert og verður aldrei neitt annað en aumingi" sagði hún og lagði spádómsáherslu á orð sín. Svo þreif hún hnífinn af mér og sneiddi gulrótina í tvennt í einu höggi. Hún þræddi annan helminginn upp á gaffal og potaði upp í mig. Ég horfði á hana og tuggði. Svo kyngdi ég. Svo át ég hinn helminginn af gulrótinni. Ég fann að ég var enn og aftur að missa stjórn á framvindunni. Ef ég hætti ekki núna myndi ég aldrei hætta. Því þreif ég næstu gulrót og tróð henni í andlitið á mér. Og aðra. Og þá næstu. Ég lét eins og ég heyrði ekki óp gulrótanna þegar ég bruddi þær uppí mér. Ég hafði jafnvel gaman að því. Svo ég tók góðan slurk úr gulrótarsafaglasinu og fann hitann af safanum streyma um æðar mér. Ég óð í smjörsoðnu gulræturnar, sporðrenndi sinnepsfylltu gulrótunum með áfergju, hámaði í mig gulrótarhakkið, tætti í mig heilbökuðu gulræturnar. Gulrótarblóðið rann úr munnvikum mínum og hendur mínar voru útataðar í gulrótardreyra. Ég nennti ekki að nota hnífapörin mín lengur heldur skóflaði gulrótarveigunum upp í mig með báðum höndum. Lyst mín í gulrætur var óseðjandi. Þegar ég var skriðinn upp á borðið og byrjaður að éta af diskunum eins og hundur gat stúlkan ekki stillt sig um að klappa saman höndunum og hrópa og hlægja. Ég át af hamslausri græðgi og varð því svangari sem ég át meira. Ég var byrjaður að þenjast út af ofáti en gat ekki hætt. Á endanum rúllaði ég fram af borðinu og lá afvelta á gólfinu. "Meira.." náði ég að stynja upp. Svo opnaði ég augun.


Netútgáfan - janúar 1997