Sögur úr Fílabeinsturninum: Kvöld, nótt, morgunn

Kvöld, nótt, morgunn

Klukkan tifar og slær og krákan hlær. Ég stend fyrir framan baðherbergisspegilinn, nýbaðaður og strokinn, kominn í brók og skyrtu, búinn að setja á mig smá rakspíra. Ég var á leiðinni út, til fundar við lífið, út á lífið. Ég var að setja á mig bindið þegar mér brást bogalistin og það hertist upp í háls. Það hertist svo fast að ég átti í erfiðleikum með að ná andanum. Ég fálmaði eftir hnútinum og rykkti í til að leysa hann en þá rothertist bindið þannig að ég sá stjörnur fyrir augunum og það brakaði í kokinu. Ég reyndi að æpa en ópið stíflaðist og varð að hryglukenndu korri. Ég sá andlit mitt í speglinum, það var eldrautt, tungan lafði langt út úr skoltinum og augun glenntust upp í skelfingargrettu. Hausinn var að springa og augun virtust ætla að spýtast úr tóttunum. Slefutaumar láku úr báðum munnvikum. Ég horfði vantrúaður á spegilmynd mína í nokkrar sekúndur. Húðin var að byrja að taka á sig fjólubláan roða. Ég tróð fingrum á milli hálsins og bindisins en því meira sem ég togaði í bindið því fastar hertist það. Á endanum hafði ég fest báðar hendurnar í bindinu og mér fannst sem bindið ætlaði að klippa af mér hausinn. Súrefnisskorturinn var líka farinn að segja til sín og einhverskonar æði rann á mig. Ég snéri mér í hálfhring, rak olnboga í hillu, tannburstum, eyrnapinnum og öðru smádóti rigndi yfir mig. Flaska brotnaði á gólfinu og rammur rakspíraþefur barst að vitum mér. Ég fann að ég var að fara að kúgast og ég sá hvíta og rauða depla hringsóla um sjónsviðið. Ég skjögraði fram á gang í átt að símanum, það var að líða yfir mig, ég missti jafnvægið og skall í gólfið án þess að geta borið fyrir mig hendurnar. Ég lenti á öðrum olnboganum og hnykkurinn á hálsinn var svo mikill að ég fann og heyrði eitthvað bresta í honum og volgur blóðstraumur rann niður eftir vélindanu því ég hafði bitið í tunguna. Um leið gáfu hálsvöðvarnir eftir svo höfuðið lagðist út á aðra hliðina. Nú sá ég ekkert nema símann, ég skreið í áttina að honum og slengdi höfðinu í hann svo hann datt niður á gólf og tólið af honum. Dúúúút. Einmitt þá kúgaðist ég aftur og brennandi nábíturinn renndi sér eins langt upp í kokið og hann komst. Þá var mér öllum lokið og ég lyppaðist niður hjá símtólinu. Ég sparkaði frá mér í nokkrar sekúndur, kipptist til og titraði.

Dúút Dúút Dúút. Hvað hafði liðið langur tími? Ég teygaði loftið af áfergju, sogaði það til mín og rak upp öskur sem varð ekki annað en hást hvæs. Ég þandi út lungun, fyllti þau af dásamlegu dýrindis lofti, kyngdi, hrækti, fann röddina aftur. Hægt og rólega fór sviðinn úr lungunum. Þá mundi ég eftir bindinu. Það var enn utan um hálsinn á mér. Ég lá kyrr í drykklanga stund og þorði ekki að hreyfa mig til að styggja ekki bindið. Ég færði fingurna rólega í áttina að bindinu. Svo kippti ég í það með báðum höndunum, sleit það af mér og kastaði því burtu. Það bærði ekki á sér. Enginn virtist hafa heyrt bröltið í mér. Ég greip í bláendann á bindinu og skreið inn á baðherbergi aftur. Ég hélt bindinu frá mér eins og það væri naðra sem gæti bitið mig þá og þegar. Svo kastaði ég því í klósettið með eldsnöggri hreyfingu og sturtaði niður í sömu andrá. Þá loks fór hjartslátturinn að róast. Ég var með snert af hausverk. Ég stóð varlega á fætur og skoðaði mig í speglinum. Það eina sem sást á mér var rautt far þar sem bindið hafði kyrkt mig. Ég fékk mér vatnsglas, skolaði framan úr mér með þvottapoka og lagaði hárið. Ég ætlaði að setja á mig þverslaufu til að hylja farið en svo gat ég ekki fengið mig til þess en setti á mig hálsklút. Ég opnaði bjölluflöskuna og saup á henni til að styrkja hjartað. Klukkan var að verða svo ég klæddi mig í frakka og rölti út í næturhúmið. Strætin voru þögul og enginn sá mig eða kom auga á mig þar sem ég gekk til móts við lífið, með báðar hendur í frakkavösum og skalf eilítið í kuldanum. Ég fetaði mig eftir hellulögðu einstiginu og furðaði mig á hve beinir og úthugsaðir drættir borgarinnar voru. Göturnar voru grafkyrrar, appelsínurauð götuljósin stóðu þögulan vörð um sofandi bíla, engir fuglar tístu á grein, tunglið óð í engum skýjum. Ég nuddaði hálsinn varlega, mig verkjaði svolítið í hann og röddin var hás ennþá. Ég skvetti í mig góðum viskísopa undir húsvegg, fékk mér ekki-að-reykja og dinglaði svo bjöllunni.

"Hæ! kvaseiiru?" sagði einhver og opnaði fyrir mér.

"Halló" svaraði ég lágt, "allt meinhægt". Innan úr húsinu heyrðust seiðandi tónar og skvaldur, ilmvatns-alkóhóls-og reykský fyllti vitin. "Gakktu í bæinn, endilega". Einhver var farinn og ég sá inn eftir parketlögðum gangi, inn í ljósið og dýrðina. Ég hengdi upp frakkann og stóð nokkra stund íhugull við fatahengið. Svo gekk ég inn eftir parketganginum í átt að kríugarginu, gluggaði inn í stofuna. Kríubjargið iðaði af lífi. Þær steyptu sér fimlega fram af klettasyllum og hnituðu gargandi hringi, kölluðust á, kra kra. Þær opnuðu gogginn upp á gátt og görguðu. Himingeimurinn ómaði í allri sinni víðáttu af bergmálum kríubjargsins, tugþúsundir kría skipuðu þennan þéttriðna óreiðukór.

"Hæ!" sagði einhver, ég kom af fjöllum, sagði "hæ", vinkaði stuttaralega. Þarna var hann og hún og þau, líka þeir og þær, jújú ég kannaðist við margt af þessu fólki. Hann var greinilega kominn vel áleiðis í drykkjunni, orðinn ákafur. Hann notaði hendurnar eins og sitt annað tungumál, dró glampandi ljósmyndir í loftið fyrir framan sig. Hann talaði hátt og lék söguna sem hann sagði með andlitinu, allt dagsatt sem hann sagði nema hvað, engar ýkjur, maður minn og þú veist og þú skilur, þannig og hinsegin, sko. Hún skælbrosti og kinkaði kolli ótt og títt, leit helst út fyrir að hafa gaman af sögunni, hallaðist frekar að honum en frá, með hvítan dömudrykk í hönd. Þeir sátu í hring og reyktu gríðarstóra vindla og kjaftaði á þeim hver tuska, hölluðu sér borginmannlega aftur í leðurstólunum, litu út fyrir að vera að tala um boltann eða bissness eða landsins gagn og nauðsynjar, drukku koníak og romm. Þeir hlógu hátt og gáfu hverjum öðrum five þegar einhver sagði eitthvað venju fremur sniðugt, einn þeirra hellti í glösin aftur úr rommtunnunni, þeir voru riddarar rommsins. Þær sátu í hornsófanum og töluðu saman um alvöru lífsins, hendur á lofti, já, einmitt, jú, ég skil, nei er það virkilega, ertu ekki að grínast? Þær voru greinilega að brjóta einhver mikilvæg mál til mergjar, íklæddar svörtum silkihempum, sátu eins og skapanornir við vefstólana, röktu upp þræði en fléttuðu aðra saman, grænum bjarma stafaði frá kraumandi nornapottinum. Skrýtið hvað þær virtust innilegar, ég vissi ekki einusinni að þær væru vinkonur, litu út fyrir að tala um allt, sjálfsagt komnar á trúnaðarstigið eftir að hafa dýft sér á kaf í pottinn. Þau voru að tala saman líka, hlógu bæði, hún flissaði með lokuð augun, hann hló góðlátlega með opin augun, var kannski að segja einhverja vandræðalega sögu af sjálfum sér. Hann hafði sérstakt lag á að gera það þannig að það kæmi bara vel út fyrir hann sjálfan. Hún hló og kastaði aftur höfðinu, langt og liðað hárið bylgjaðist um herðar og bak, í því voru perlur og gimsteinar. Svo benti hún á hann og fingurinn sagði: "nei nú ertu að gabba", hann yppti öxlum og hélt sögunni ótrauður áfram. Þau voru búin að daðra svo lengi við hvort annað að það var ekki einusinni spennandi umræðuefni lengur. Hann var fallegur karlmaður og hún var falleg kona. Á meðan voru þau skyndilega farin að dansa, tónlistin skipti snögglega um gír og suðræn sveifla dillaði sér um dansgólfið. Gat hann dansað, ekki vissi ég það, bara helvíti fimur strákurinn, hún ekkert smá sexí, einsog alltaf. Dansipörin þeyttust í hringi og hrópuðu og klöppuðu, fleiri dansipör slógust í hópinn og stofan fylltist af stappi. Hann var farinn að tala um Kerfið, kominn í ham, útskýrði þvoglumæltur skothelda lífsskoðun sína fyrir daufum eyrum svokallaðra vina, með vasana fulla af fimmauraspeki.

Ég yfirgaf ballstofuna og fór inn í eldhús. "Nei, halló" sagði einhver, "sæl" sagði ég og horfði óvart á ská. Ég læt greipar sópa um eldhússkápana og finn að lokum frambærilegt viskíglas. Ég bíð eftir að klakinn bráðni og sýp á. Í eldhúsinu eru allir að maula á saltstöngum, stinga þeim í ídýfu og sleikja puttana á hverju öðru. Einhver þeirra gefast upp á saltstöngunum en smakka á tungum hinna í staðinn. Langar og liðugar tungur þeirra vefjast um hálsa og augu hinna og enda í munni af handahófi, með viðkomu í ídýfubrákinni á eldhúsborðinu. Þau skríkja og hlægja og skyndilega fá tvær þeirra móðursýkiskast og hlægja og hlægja, reyna að halda niðri í sér hlátrinum en strax og þær líta á hvora aðra springa þær aftur. Hin brosa og segja "hvað, hvað ..." en þetta er greinilega eitthvað prívatspaug.

"Nei sææææll, takk fyrir síðast" segir hún, ég kem af fjöllum og segi "ha, já, sömuleiðis". Hún hefur snúið sér að einhverjum öðrum. Ég fæ mér stóran sopa. Hann á víst að vera framapotari í réttum flokki, einhverjir vildu meina að hann væri hinsegin, mér er svosem skítsama.

Ég var í þann veginn að klára úr glasinu þegar ég fann verk í öðru lærinu eins og eitthvað þrýsti á það. Ég var næstum því búinn að missa út úr mér sársaukastunu, svo leið þetta hjá og ég hellti í glasið aftur og leit í kringum mig eftir einhverjum til að tala við. Ég var rétt farinn að hugsa mér til hreyfings þegar ég fann sársaukann aftur, tvíefldan í þetta sinn. Ég ákvað að taka viðvörunina alvarlega og dreif mig inn á klósett. Ég var varla búinn að loka og læsa þegar verkurinn heltók mig. Hægri buxnahólkurinn virtist ætla að sprengja á mér lærið. Það var eins og skálmin væri allt í einu fimm númerum of lítil, hún herptist að fætinum eins og djöfullegt skrúfstykki. Ég neitaði að æpa, beit á jaxlinn og settist á flísalagt klósettgólfið í snatri. Ég losaði um beltið eins hratt og titrandi hendurnar réðu við og reyndi svo að toga niður um mig buxurnar en það gekk ekki, þær voru blýfastar og hertust sífellt fastar að. Mér fannst eins og ég væri að rífa af mér skinnið þegar ég togaði í þær. Ég sparkaði og spriklaði í ofboði og reyndi að toga af mér brækurnar og gat loks ekki haldið aftur af sársaukaópinu heldur veinaði af lífs og sálarkröftum. Nú var sársaukinn kominn á svo fáranlegt stig að hann fór eins og kröftugur rafstraumur um mig allann. Ég fann einkennilegan hita breiðast úr fótunum upp í kviðarholið. Buxurnar lituðust svartar af blóði, blóðið bullaði út um skálmina sem rifnaði á endanum undan átakinu svo blóð og vessar fossuðu úr sundurkrömdum fætinum. Það var einmitt þarna sem ég gafst upp á að vera viðstaddur og lognaðist útaf.

Bank bank. Það var verið að banka á hurðina. Bank bank. Ég rankaði við mér. Einhver þurfti greinilega að komast að. Ég sat í miðjum blóðpolli á gólfinu og leifarnar af buxunum lágu eins og druslur utan á mér. Ég stökk til og náði mér í handklæði og byrjaði að þurrka blóðið af gólfinu en handklæðið varð gegnsósa á svipstundu. Ég sá óhreinatauskörfu og tróð blóðugu handklæðinu í hana en greip það næsta af hillunni. Bank bank bank. Ég skrúfaði frá krananum til að róa liðið. Ég var búinn að þurrka stærstu blóðpollana af gólfinu en vínrauð tuskuförin lágu út um allt gólf og upp á veggi. Ég bleytti klósettpappír og byrjaði að skrúbba. Bank bank bank bank. Þetta gekk, en það gekk hægt. "Augnablik!" hrópaði ég og hamaðist við að skrúbba. Ég fleygði pappírnum í klósettið og sturtaði niður. "Er allt í lagi þarna?" heyrði ég einhvern segja. Ég gafst upp á hreingerningunum og opnaði hurðina. Nokkrir partígestir stóðu fyrir utan og horfðu einkennilega á mig. Ég var kófsveittur.

"Buxurnar ..." byrjaði ég og benti á buxurnar mínar. Þær voru svolítið krumpaðar en að öðru leyti í ágætu lagi. Ég snéri mér við. Það var ekkert blóð á gólfinu.

"Er ekki allt í lagi, viltu skreppa út?" sagði einhver væn manneskja.

"Nei, engin þörf á því" sagði ég og þerraði svitann af enninu með jakkaerminni. "Það er í góðu lagi með mig" bætti ég við frekar ósannfærandi. Ég ráfaði frammi á parketgangi í smástund en fór svo til baka. Partíið var í fullum gangi. Hvert sem ég leit var fólk að tala. Munnarnir á því gengu sundur og saman, varir þess mynduðu hin fjölbreytilegustu form. Augu opnuðust og lokuðust, blikkuðu, þöndust út og drógust saman og svifu á braut, stundum á ská. Andlit brostu og andlit grétu, andlit skörtuðu sínu fegursta, hendur sveimuðu um loftið eins og maurildi, fingur bentu, mjaðmir sveifluðust, barmar lyftust og hnigu, fætur tvístigu í vænginn sitt á hvað. Eyru mín fylltust af framandlegum röddum og orðum.

Ég átti í nokkrum vandræðum með hendur mínar. Átti ég að hafa þær í vösunum, fyrir aftan bak, á maganum eða kannski krossleggja þær? Hendurnar á mér voru eins og illa gerðir hlutir sem ég gat hvergi komið fyrir svo vel væri. Ég afréð að fá mér annan drykk til að hafa eitthvað að gera við hendurnar. Hendur sem halda á glasi, eða kannski rettu, það eru virðingarverðar hendur. Ég átti í vandræðum með að staðsetja sjálfan mig. Ekki gat ég staðið í dyrunum eða á miðju gólfinu, þar væri ég fyrir. Það kom ekki til greina að standa úti í horni eins og álka. Hvergi laust sæti, hvílík hugdetta það. Ég átti líka í vandæðum með augun mín, hvar átti ég að koma þeim fyrir? Ég gat ekki horft á eina manneskju eingöngu, sérstaklega ekki í augun, það gæti misskilist, enn síður á aðra staði, þá liti ég út fyrir að vera öfuguggi. Ég gat ekki horft á alla til skiptis, þá liti ég úr fyrir að vera með aðsóknarkennd. Ég gat ekki horft niður, þá myndu allir halda að ég væri dapur. Það var útilokað að horfa upp, þá liti ég út fyrir að vera hrokafullur. Að horfa beint fram kom ekki til álita, þá liti ég út fyrir að vera stífur og stressaður. Ég átti með öðrum orðum í þónokkrum vandræðum með fyrirkomulagið á persónu minni. Eina lausnin var að gera sig ósýnilegan og það var einmitt það sem ég gerði. Ég lygndi aftur augunum, dró djúpt andann og leyfði ljósgeislunum að smjúga í gegnum mig. Ég lét mig hverfa og stóð í miðjum mannfjöldanum án þess að nokkur yrði mín var. Athygli mín hvarf frá staðnum og skilningarvitin hættu að eltast við stundina. Vitundin maraði í hálfu kafi, ekki sofandi eða blind en án nokkurrar ákveðinnar stefnu. Augun sáu framhjá rúminu og litu um stund óravegu innskynjunarinnar. Maskínan gengur og slær sem fyrr en hún gerir það hljóðlaust. Þegar ég kom úr kafi var farið að fækka í teitinu. Ég ráfaði um og leitaði að gestgjafanum til að þakka honum boðið en fann hann ekki. Þá fór ég í trausta frakkann og gekk í áttina að hringiðunni, þangað sem allar leiðir liggja.

Allsstaðar heyrðust köll og læti. Borgarbörnin streymdu út á göturnar og hituðu upp fyrir ævintýri næturinnar. Ungir menn með sólgleraugu í svörtum leðurfrökkum, glaseygar stelpur í litríkum sokkabuxum með gullkeðjur, unglingar í útvíðum buxum á hjólaskautum með jójó, háværir og æstir en um leið sljólegir og fávísir, skutluðu landaflöskunni á milli sín. Köllin og ópin bergmáluðu milli húsagatnanna, menn ráku upp aðdáunaróp eða létu andstyggileg styggðaryrði flakka. Ég fylgdi straumnum eða kannski mætti segja að straumurinn fylgdi mér því tugir frakkaklæddra manna þrömmuðu í breiðfylkingu inn að hringiðunni. Allir höfðu þeir hendur í vösum og horfðu fram fyrir sig með eftirvæntingu og efa í augum. Úr hverri hverri hliðargötu bættust við nýjir frakkar, straumur mannhafsins jókst, tugir urðu að hundruðum, hundruð að þúsundum manna íklæddum svörtum frökkum sem þrömmuðu í átt að hringiðunni án þess að taka eftir hverjum öðrum eða veita því athygli að þeir gengu allir í takt. Á þökunum söngluðu skrautlegir fjöllistamenn og skræktu, hver með sínu nefi. Á höfðinu báru þeir túrbana eða pípuhatta, kápur þeirra voru gylltar og silfraðar. Þeir köstuðu boltum á milli sín, kínverjum, gjörðum og logandi kyndlum, gengu á höndum eða töfruðu snáka upp úr bastkörfum með flautuleik. Aparnir þeirra hlupu manna á milli með falska lírukassa og sníktu brennivín og sælgæti. Lævísir lútutónar, flauelsmjúkar fiðlustrokur, klingjandi klukkuspil, grátklökkir gítarhljómar, himinhvolfið var baðað í annarsheims flugeldaljósum, vindgráar álftir skutust yfir næturhimininn. Ofan úr hæðunum gat ég nú séð niður í hringiðuna, niður á ólgandi brim mannhafsins. Sveittir þrælar börðu bumbur sleitulaust. Múgurinn steig hamslausan dans, munkur steig við ábóta, bakari við smið, ári við dís. Dansararnir fórnuðu höndum, knéféllu, sveigðu sig fimlega og fettu, það stirndi á svitann á nöktum líkömum þeirra, gullhringar og men hringluðu á fingrum og tám. Vínbyrlarar gengu um með skaftker og helltu á glös og skálar hraðar en þær tæmdust. Á einum stað dönsuðu léttfættar marmaragyðjur í hvítum silkislám, teiknuðu hringi í loftið með fíngerðum höndunum, lömuðu viðstadda með fríðleika sínum og yndisþokka. Á næstu grösum stigu koparrauðir villimenn trylltan dans til heiðurs mánanum, slógu saman spjótum sínum og handöxum, börðu jörðina með hnúunum og dásömuðu styrk sinn. Steinsnar frá ólmuðust ljósgulir pappadrekar og hringsnérust, veifuðu í kringum sig skrautborðum meðan áhorfendur sáldruðu stjörnuregni yfir þá. Flauelsskrýddir aðalsmenn völsuðu við háfextar unnustur sínar við ljúfan undirleik brosandi strengjasveitar. Kaupmenn falbuðu heilsteikta fasana, sykurhjúpaðar villidúfur og salöt úr tungum sjaldgæfra söngfugla. Ég fann ilminn af olíum, smyrslum og reykelsum. Leðurbrynjuð ofurmenni með keðjur í kross á bak og brjóst, satínklæddar konur sem drógu þig á tálar með syndandi augunum, prúðbúinn tindáti með blúndulagða brúði sína undir arminum, akfeitar kerlingar í regnkápum veltust um skrækjandi af hlátri yfir öllum hinum. Ölóð jakkaföt fleygðu fúkyrðum á milli sín, daufeygðar ládeyður supu landagutl, öskugrár maður ældi utan í vegg. Ég stóð í þvögunni miðri og litaðist um. Fyrir mér urðu þrjár ungar stúlkur, klæddar í skærgræna larfa. "Við erum öðruvísi" grenjuðu þær saman í einum kór. "Ég er spes", sagði ein, "ég er týpa", sagði önnur, "ég er sérstök" sagði sú þriðja. "Ég er guðsvolaður aumingi" hrópaði guðsvolaður aumingi. "Ertu með partí?" sagði ungur maður og tók í hálsmálið á mér. "Ég elska partí" bætti hann við og hvarf á braut. Fjórir smápattar sátu uppi á vegg og spáðu í nóttina. Skammt frá brutu tveir menn rúður með hausunum á hvorum öðrum. Piltur og stúlka stóðu við strætóskýli, stúlkan grét sáran en pilturinn sló hana utanundir í sífellu og kallaði hana "helvítis stelputussu". Öllu hamingjusamara par samsamaði sig náttúrunni bakvið dósakúlu. "Nóttin er ung, nóttin er heit" sagði kona og strauk mér um kinn. Samferðamaður hennar dró hana burt með sér.

Nú var nóttin svört eins og hún verður svörtust, svo kolsvört að varla sáust handa skil. Mér varð frekar þungt fyrir brjósti og ég átti erfitt um andardrátt. Ég átti erfitt með að þenja út lungun. Ég fann jakkann þrengja að öxlunum, handleggjunum, mittinu, skreppa saman og þrengja að mér öllum á alla kanta. Ég skildi strax hvað var að gerast svo ég hélt niðri í mér andanum til að missa ekki úr mér loftið en jakkinn kreisti mig þá enn fastar. Það heyrðist hvinur þegar síðasta loftgusan þrýstist upp úr mér og lungun féllu endanlega saman. Velgjulegt járnbragð fyllti vitin. Það heyrðist smellur þegar rifbrein brotnaði. Ég lá á jörðinni, það blæddi úr munni og nefi. Annars smellur, annað rifbein og svo brotnuðu þau hvert á fætur öðru. Það var svo dimmt að ég tók ekki eftir því að mér hafði sortnað fyrir augum.

Heyrðu vinur. Halló. Heyrðu kunningi. Einhver bankaði í hausinn á mér. Vaknaðu maður, vaknaðu. Ég rumska hálfpartinn. Hjálpaðu honum á fætur. Hendur hefja mig á loft og hægt og rólega fæ ég sjónina aftur.

"Varstu sofnaður, greyið?"

"Hvar er ég?"

"Þú fékkst þér soldið mikið að drekka" segir einhver og hlær.

"Alls ekki" mótmæli ég en drafa þó eins og dauðadrukkinn maður.

"Heyrðu þú bjargar þér, ég þarf að þjóta". Skömmu seinna þreifa ég á brjóstkassanum og öll rifin virðast vera á sínum stað. Ys og þys næturlífsins berst mér að eyrum eins og úr fjarska. Skammt frá blikka blágræn neonljós yfir kráardyrum. Þegar ég hef fengið þrótt í fæturnar skjögra ég þangað inn. Þetta var lítil og lágreist krá. Veggirnir voru þiljaðir með eik og á þeim héngu svarthvítar ljósmyndir af gömlum skútum og gufuskipum. Yfirbragð kráarinnar var allt hið rólegasta, tónlistin var lágt stillt, borðin voru hólfuð af og kráargestirnir virtust vera saman komnir til að drekka og kjafta en ekki til að ærslast, dansa eða slást. Það voru meira að segja stólar við barinn. Ég settist þunglamalega á einn þeirra og pantaði öl hjá þykkum og þrifalegum barþjóni. Það var spegill við barinn og ég virti sjálfan mig fyrir mér í honum stundarkorn. Ég hugsaði ekkert. Höfuðið var tómt eins og glas frá kvöldinu áður. Engar hugsanir, frumlegar eða öðruvísi, reyndu að brjóta sér leið í gegnum þykka þunglyndisviði hugans. Ég sat og horfði í ölkrúsina og hafði varla rænu á að drekka úr henni. Á þarnæsta stól frá mér sat svartklædd mannvera. Ég tók ekki eftir henni fyrr en hún var skyndilega komin á næsta stól við hliðina á mínum og horfði værðarlega á mig. Þetta var svartklædd stúlka, nei kona, nei kerling. Nei, þetta var algjörlega aldurslaus kvenvera í svörtum kjól. Hún hafði á höfði sínu dimmbláan hatt með neti, eins og hún væri að koma úr jarðarför. Hún var fríð en á andliti hennar voru margir skuggar. Í hendi hennar var glas með grænu hanastéli. Ég horfði sljólega á hana og hún á móti. Svo snéri ég mér aftur að ölkrúsinni.

"Hæ", sagði svartklædda konan. Ég leit ekki upp.

"Mig langar ekki að tala" sagði ég við ölkrúsina.

"Víst langar þig að tala" sagði konan. Ég svaraði engu en saup ekki á krúsinni til að ölið kláraðist ekki, eftilvill vegna þess að þrátt fyrir allt vildi ég ekki að þessu lyki svona.

"Ég er álfkona" sagði hún. Ég sýndi engin svipbrigði enda útilokað að koma mér frekar á óvart. Ég skoðaði hana.

"Og hvað heitir þú?" spurði ég.

"Við heitum ekki neitt, við þurfum engin nöfn".

"Þú þarft nú ekkert að segja mér hver þú ert" sagði ég þá, "ég veit ágætlega hver þú ert. Þú ert þessi dæmigerða kvenpersóna sem skýtur upp kollinum í svona sögum. Þú ert rómantíska elementið, holdtekja kynferðislegrar bælingar ófrumlegs höfundar. Þú er óljós og þokukennd draumsýn hans um hina fullkomnu konu sem birtist utan úr blámanum, nafnlaus og dularfull. Þú ert bara blöff, svo farðu".

"Þér skjátlast" sagði álfkonan "og segðu nú frá".

"Ég skal segja þér frá ef ekkert annað getur hrakið þig í burtu" svaraði ég. "Í kvöld hafa birst mér þrjár sýnir, allar úr ókominni framtíð minni. Hver þeirra var hinum verri og ljótari". Ég kláraði krúsina og bað barþjóninn um aðra. Ég benti honum af höfðingsskap mínum á að fylla á eina krús fyrir álfkonuna en hún afþakkaði boðið með handarhreyfingu, kannski drekka álfar ekki öl. Ég hélt áfram.

"Í fyrstu sýninni var ég ungur maður. Ég átti tvö ung börn með unnustu minni. Við höfðum elskast mikið en nú var áhuginn að dvína og bálið óðum að kulna. Við lögðum okkur fram við að sýna hvoru öðru vinsemd og virðingu en innra með okkur kenndum við hinu um hvernig komið var og beiskjan hreiðraði um sig. Við fundum að þó að funinn væri horfinn gátum við ekki snúið við og lagt upp frá sama stað, frelsi okkar hafði skerst. Þú talar ekki við mig eins og áður. Þú ert alltaf fjarlægur þegar ég er nálægt. Þú vilt aldrei gera neitt með mér lengur. Svona hugsuðum við í hljóði, bæði þráðum við þessar fyrstu vikur og mánuði af óendanlegum losta og ást. Við óskuðum þess að geta lifað í þeim sælu augnablikum alla ævina en við áttuðum okkur ekki á því að tíminn stendur ekki í stað heldur er sífellt á hreyfingu. Þú verður að vera með í stundinni til að geta nýtt þér hana, annars glatast hún. Við lifðum í fortíðinni og á meðan rann núið okkur úr greipum. Í græðgi okkar kunnum við ekki að meta það góða sem við þó höfðum, við vildum ekkert nema rjómann, við kunnum ekki að fara með mjólkina. Í stað þess að byggja það upp og hlúa að því létum við það visna meðan hugurinn var þungt haldinn af fortíðarþrá. Við gátum engan vegin staðið undir kröfunum sem við gerðum hvort til annars, kröfunni um fullkomleika. Ég eyddi sífellt meiri tíma í vinnunni, samverustundunum fækkaði óðum. Ég fjarlægðist hana, gott og vel, en um leið fjarlægðist ég börnin mín án þess að hafa ætlað mér það. Við vorum lokuð saman í búri, tíminn leið og rimlarnir þrengdu sífellt meira að okkur og stundum gripum við í þá og hristum þá og öskruðum. Við létum samt á engu bera. Við æfðum okkur í því að blekkja hvort annað, þessa þjálfun notuðum við til að blekkja börnin og að lokum létum við reyna á að blekkja allan heiminn".

Ég saup á ölinu og hugsaði mig um smástund. Álfkonan studdi hönd undir höku og beið eftir framhaldinu.

"Í annarri sýninni var ég miðaldra maður. Ég átti tvö hálfstálpuð börn með eiginkonu minni. Einhverntíman höfðum við elskast en nú rak hvorugt okkar minni til þess. Við bjuggum undir sama þaki og lögðum fæð hvort á annað. Það eina sem hélt okkur saman var óttinn við breytingar og álit annarra því bæði vorum við orðin samdauna hatrinu sem við hrærðumst í. Við lékum rullur eiginkonu og eiginmanns í Stóra Samfélagsleiknum en strax og baksviðs var komið sýndum við okkar réttu andlit. Við hötuðum hvort annað fyrir að hafa eyðilagt ástina fyrir hinu. Við kenndum hinu um allt sem úrskeðis fór. Við þráðum liðnar stundir, nema hvað brenglað ástand okkar hafði ritskoðað minninguna, nú þráðum við hina fornu ást en höfðum þurrkað þá staðreynd úr hugum okkar að hitt hafi komið þar nokkuð nærri. Um leið og við lugum þessu að okkur töpuðum við hæfileikanum til að finna til ástar, ástin var okkur týnd. Við leituðum hennar ákaft hjá öðrum, ég hélt linnulaust framhjá og það hefur hún sjálfsagt gert líka. Hún hugsaði ekki um annað en húsgögn og parket og kristalsglös. Ég sótti í sakleysi annarra kvenna og reyndi að finna hjá þeim gamla brímann en hann entist aldrei lengi því ég var ástlaus. Um leið og ég yljaði mér við loga þeirra kæfði ég eldinn. Þó við héldum í fávisku okkar að við gætum sent eitruð skeytin á milli okkar og hatast í kyrrþey kom þetta alltsaman niður á börnunum. Ósjálfrátt beittum við þeim fyrir okkur sem peðum í sjúkri og siðlausri refskák okkar. Þau drukku í sig angist okkar og hatur. Við vorum ófær um að veita þeim þá hlýju og þann stuðning sem þau þörfnuðust því allt snérist um okkur og eigingirni okkar var takmarkalaus. Við reyndum að sækja styrk í að telja öllum öðrum trú um að við værum með allt á hreinu. Þegar sýninni lýkur eru komnir djúpir brestir í þá blekkingu".

Ég varð að stöðva hér stundarkorn og þurrka tár af annarri kinninni. Álfkonan sýndi engin viðbrögð en hlustaði grannt.

"Þriðja sýnin er verst. Þá er ég gamall maður. Ég á engin börn og enga konu. Einhverntíman elskaði ég og á síðustu árunum rifjast það upp fyrir mér hvað það er að elska og ég finn ástina loga í brjóstinu. En nú er ég ónýtur gamall maður og eyði dögunum í að bíða eftir að dauðinn veiti mér líkn. Ást mín fær enga útrás, nú kemur enginn að sækja gull í sjóði visku minnar. Þá sjaldan að ég hitti börnin mín eru þau fjarlæg og köld. Þannig launa þau mér kuldann sem þau sjálf máttu alast upp við. Eina ljósið í skammdeginu eru litlu barnabörnin mín sem leika sér við mig grunlaus um syndir mínar. Það sárasta er þó að vera gagnslaus baggi á öðrum, ósjálfbjarga og aumur. Starfsfólk elliheimilisins sinnir mér af faglegri kurteisi og talar við mig eins og ég væri barn. Ég horfi á það og hef ekki orku til að mótmæla. Það hefði bara átt að sjá mig þegar ég var upp á mitt besta. Þá myndi ég fá þá virðingu sem ég á skilið. Ég þrái æskustyrk minn, dug og þor. Jafnvel verstu stundir æsku minna þrái ég því þá gat ég allavega eitthvað. Nú get ég ekkert, er ekkert. Tíminn er óendanlega lengi að líða. Á hverjum morgni hrylli ég mig við því að eiga heilan langan dag framundan, sama daginn og í gær, sama dag og daginn þar áður. Nú sé ég þetta allt í skýru ljósi, ég sit og fer yfir mistökin sem ég hef gert í lífi mínu, reyni að átta mig á því hvernig ég endaði þar sem ég er. Ég undrast það hvernig mér ég hef hagað vali mínu. Ég hneykslast á því vanþakklæti sem ég á árum áður sýndi lífinu þegar ég hélt enn um stjórnvölinn á því og réði för minni en lét reka á reiðanum. Ég sofna á kvöldin grátbiðjandi um annað tækifæri, um að mega reyna aftur og gera betur. Kvöldi lífsins er að ljúka. Þetta var eina lífið sem ég fékk og nú hef ég klúðrað því".

Krúsin er tóm, kráin er að loka. Álfkonan mín tekur um hönd mína.

"Þú málar þetta of dökkum litum" segir hún.

"Bjargaðu mér" segi ég við hana. "Bjargaðu mér frá þessu ömurlega lífi. Taktu mig með þér, einhvert í burtu". Hún brosir dauflega.

"Það kemur enginn að bjarga þér. Þú verður að bjarga þér. Hafðu ekki áhyggjur, eins og þú sagðir sjálfur, nú er stundin og þú verður að vera í henni". Hún opnar lófa sinn og í honum liggur fallegur glitsteinn. Hún réttir höndina til mín og ég tek við steininum.

"Þetta er lukkusteinn" segir hún. "Hann gerir ekki nokkurt gagn en er mjög fallegur". Hún brosir við mér, svo er hún farin.

Ég hneppi að mér trausta frakkanum og yfirgef krána. Ég geng í gegnum bæinn og hugsa um kvöldið, nóttina, morguninn og árin framundan. Sólin hefur sig varlega upp yfir fjöllin. Í hjarta mínu er morgunkyrrð, í huga mínum er morgunbirta. Strætin eru auð og ég nota tækifærið til að eiga stutt eintal við borgina. Ég flýti mér hægt og stefni heim. Í nálægum garði situr lítill strákur og leikur sér að því að rífa myndir úr glanstímariti. Ég tylli mér niður hjá honum.

"Hæ, hvað ert þú að gera?" segi ég.

"Rífa kallinn í tætlur" segir stráksi. Ég rétti honum glitsteininn.

"Hérna, þú mátt eiga þennan. Stingdu honum í vasann". Hann tekur við honum og skoðar hann brosandi, finnst hann fallegur.

"Hvað er þetta?" spyr hann.

"Þetta er lukkusteinn" svara ég. "Hann gerir ekki nokkurt gagn en er mjög fallegur".


Netútgáfan - janúar 1997