Sögur úr Fílabeinsturninum: Mansöngur

Mansöngur

Hráslagalegt næturregn buldi á brjóstum góðhestanna en ósýnilegar greinar slógust í andlit niðurlútra knapanna. Moldarflygsur og þúfubörð þeyttust undan fótum þeirra, drynjandi trumbusláttur sterkbyggðra hófa dundi undir niðinum af linnulausu regni. Útkeyrðir hestarnir frýstu er næturfararnir hvöttu þá sporum, stæltir vöðvar þeirra hnykluðust í myrkrinu, lungu þeirra brunnu af áreynslu í nóttinni. Ferðalangarnir grúfðu sig í makka reiðskjótanna til að verjast rigningunni, andlit þeirra dulin undir flaksandi hettum. Þeir runnu í einfaldri röð eftir einstiginu, í skammvinnum eldingarblossa brá glampa á sverð þeirra, hringabrynjur, reiðtygin og tryllingsleg augu hinna þrautpíndu hesta. Taktfastir hófaskellirnir mældu tímann, vindurinn gnauðaði, regnið helltist niður sem beljandi stórfljót. Það var á napurri nóttu sem þessari að fjórir förumenn stöðvuðu fáka sína við kumbaldslegan húskofa í útjaðri lítils þorps. Þeir bundu hestana við fallinn trjádrumb og hröðuðu sér til þess að berja að dyrum. Krónur trjánna sveigðust draumkennt og veifuðust á, sumar þeirra teygðu hramma sína í átt að mönnunum, aðrar fórnuðu höndum til himins í harmþrunginni bæn um líkn. Skammt frá lamdi snúra í sífellu á staur, hurð á útihúsi ískraði og skelltist. Mennirnir börðu fast að dyrum og hrópuðu á móti rokinu. Þeir héldu slám sínum að sér og stóðu upp í vindinn. Loks laukst hurðin upp og mennirnir ruddust í gættina.

"Hverjir eruð þér sem berjið hurðir um koldimma nótt?" hrópaði húsráðandi forviða. Einn mannanna dró niður hettuna. Grannleitt og kinnfiskasogið andlit hans var grátt af kulda og þreytu en þó ekki eins grátt og augu hans sem voru silfurgrá og grimmileg. Hafði hann stórt og hvasst nef sem endaði í mannskæðum broddi. Hár hans og þunnt skeggið var grátt sem héla. Húsráðandinn lyfti upp lukt sinni til að sjá aðkomumanninn betur.

"Ert þú sá sem þeir nefna Járngrím?" spurði sá héluskeggjaði.

"Það veltur á ýmsu, maður minn" svaraði húsráðandi byrstur.

"Við höfum engan tíma til leikja" sagði héluskeggur og hækkaði róminn. "Nóttin var köld og reiðin hörð. Ef þú þekkir til Gríms þessa þá segðu honum að hér séu menn að finna hann, ekki þó í illum erindagjörðum. Við þurfum á víðfrægri fingraleikni hans að halda og munum bæta honum ónæðið af rausn". Húsráðandi virti héluskegg fyrir sér um stund.

"Og hvaða verk vilduð þið hann ynni?" spurði hann svo.

"Það getum við átt við Grím einan" svaraði héluskeggur að bragði. Félagi hans dró niður hettu sína. Sá var mikill vexti með úfinn rauðan makka. Óttalaus var sá maður þó af honum væri dregið. Hann hélt hægri handlegg innan klæða og virtist vera særður. Hann mælti ekkert en stóð við hlið héluskeggs og mældi húsráðandann út með smáum augunum.

"Það var og" kvað húsráðandi. "Það má vera merkilegur greiði sem Járngrímur þarf að gera hettuklæddum mönnum að næturþeli. Skyldi hann vera í blóra við lög?".

"Löglegur er hann í þeim skilningi að hann er gjörður í umboði þeirrar sem ekki spyr að lögum en er langt ofar þeim" svaraði héluskeggur.

"Það var loðið svar at tarna" svaraði húsráðandi. "Hvort mun Grímur hljóta vandræði af þessum greiða er engin lög vilja hemja?". Héluskeggur glotti við.

"Það má vel vera að til séu mörg lög en það er bara til einn sannleikur" lýsti hann yfir. Í þeim töluðum orðum dró hann upp leðurpyngju, losaði af henni reimina og hellti lófa húsráðanda fulla af silfri. Augu húsráðanda þöndust út er þau litu gersemarnar og hendur hans titruðu lítið eitt. Hann leit á héluskegg og hálfgildings bros lék um varir hans.

"Tja, ef þetta á að hlotnast Járngrími get ég ekki beðist undan því að vera Járngrímur" sagði hann og renndi silfrinu í vasann. "Komið inn fyrir allir og lokið á eftir ykkur" hrópaði hann svo og benti þeim inn. Þeir trömpuðu inn og skóku sig eins og hundar, blautir sem þeir voru. Sá aftasti lokaði dyrunum.

"Reyndar erum við ekki allir allir, svo að segja" sagði einhver með hljómfagurri karlmannsröddu. Sú virtist koma frá þeim aftasta. Hann lét hettuna falla. Kom þá í ljós hinn fríðasti ungi maður sem röddinni sæmdi. Augu hans voru ljósbrún og tær undir skarplegum augabrúnum. Kjálkinn var þykkur og kinnbeinið breitt. Dökkbrúnt hár hans var eilítið hrokkið og féllu tveir lokkar fram á enni. Áður en Járngrími gafst tækifæri á að hvá lét hinn síðasti fjórmenninganna hettu sína falla. Kom þar undan hin fegursta mær. Hafði hún hár tinnusvart og sítt er féll niður á herðar. Hafblá augu hennar, fagursköpuð og stór, fönguðu aðdáun hans alla með einu bliki. Nef hennar var beint og nett, kinnin hvít og hrein, hakan sterk, hálsinn grannur og tignarlegur, varirnar rauðar og réttskapaðar, ennið slétt og hátt. Helst kom lýsing hennar saman við álfkonur þær er aldrei valda mönnum hamingju en eru allra kvenna fegurstar. Hinn fríði maður tók um hönd stúlkunnar og mælti:

"Það stoðar okkur lítt að villa á oss heimildir, af erindi voru gætir þú jafn vel giskað í eyðurnar. Ég heiti Jafet og er prins af Hríðríki en samferðamenn mínir eru þeir Líkjör og Grefill, hraustir kappar og hermenn. Mærin fríða er Una Tinnulokka, dóttir konungs þíns og prinsessa. Þrjár síðustu nætur höfum við riðið á harðaspretti áleiðis til hins snjóþunga ríkis míns á flótta undan riddurum konungs er vilja endurheimta meyna og verða mér að fjörtjóni. Ástæða brottfarar vorrar er sú að konungur vill ekki leggja blessun sína yfir ráðahag okkar heldur er honum andsnúinn. Ást okkar, einlægari og sannari en aðrar ástir, mætir litlum skilningi hjá þeim hinum harðráða kóngi, heldur vill hann gifta dóttur sína Skara hertoga sínum til að tryggja velvild hans og völd sín í ríkinu. Til einskis hefur Una úthellt heitum tárum sínum við fótskör síns hjartkalda föðurs og engu hafa stoðað fortölur mínar eða fyrirheit. Heldur vill hann ráðstafa dóttur sinni í ástlausa hjónabandsfjötra eins og hverju öðru peði í grimmlyndu valdatafli sínu. Það er því þrautalending vor að flýja föðurgarð og halda heim í ríki mitt ríðandi á glæstustu gæðingum".

Jafet gerði hér stutt hlé á frásögn sinni en greip Unu í faðm sér og kysstust þau ákaft eins og til að sanna elsku sína hvort á öðru fyrir hinum ókunna manni. Er þau höfðu lokið kossinum hóf Jafet frásögnina að nýju en hélt Unu áfram í faðmi sér.

"Flóttinn hefur gengið vel og munum við ná að landamörkum ríkis míns innan tveggja daga. Hvarvetna höfum við mætt velvild og skilningi hjá alþýðu manna enda er konungurinn óvinsæll mjög og því meira sem fjær dregur höllum hans. Það er von mín að þú takir erindi voru vel og reffilega, svo vel sem vér höfum greitt þér fyrir. Það erindi ætti að veitast þér létt í meðförum og fljótlegt, frægur smiður sem þú ert. Á hinn bóginn er það heldur neyðarlegt fyrir mig og þá sérstaklega Unu ástmær mína, því hana snertir erindið mest". Járngrím var nú farið að renna grun í sitthvað en þagði og beið þess að Jafet lyki máli sínu. Sá hafði mælt hátt og snjallt en nú tók rómur hans að lækka, hik kom á hann og hann tvísté er hann hélt áfram.

"Þannig er nefnilega mál með vexti að konungur er ekki aðeins harðráður og vélráður heldur með endemum tortrygginn og varkár. Nú með því að Una er kominn á sinn blómlegasta aldur og farin að finna í brjósti sínu þær þrár og kenndir er fylgja fullvaxta konu ....". Hér stöðvaði Jafet ræðu sína á ný og leit til ástkonu sinnar. Sú beit laust á vörina og leit upp til hans. Jafet bleytti varirnar og var vandræðalegur. "Allavega, með því að konungur er tortrygginn sem ég sagði og telur dóttur sína vera vöru er hann gæti skipt fyrir völd og vegsemd, gerði hann hvað hann gat til að tryggja að sú vara væri ... hvað á ég að segja ...". Nú brá roða á andlit bæði Jafetar og Unu og leit úr fyrir að rauðfexta hermanninum væri skemmt en héluskeggur var óþolinmóður að prinsinn kæmi sér að efninu.

"Hafðu ekki áhyggjur, göfugi prins" kvað þá Járngrímur og brosti til hans hughreystandi. "Ég skil fyrr en skellur í tönnum hvaða vanda þér eigið við að etja. Víst hafið þér greitt mér vel fyrir greiðann og eins er konungur í litlum metum hjá þessum vesæla manni og jafnvel enn minni metum en víðast hjá öðrum. Vel sé ég það að ást yðar er ung og heit og enn man ég þann tíma er ég var sjálfur ungur maður og elskaði unga konu, afar heitt. Því er það ljúfasta skylda mín að veita yður lið mitt í vandræðum yðar og getið þér verið alveg rólegir því að ég er sagður hafa gott lag á smíðajárni og tólum og ætti ekki að verða skotaskuld úr því að losa ykkur við hinn óumbeðna förunaut, ef ég má leyfa mér að taka svo til orða". Hinu unga pari létti stórum og mærin fríða hló meira að segja lágt. Prinsinn gekk til Járngríms og tók þakklátur í höndina á honum þótt að Járngrímur væri honum langtum minni að tign, svo feginn varð hann. Járngrímur lét sér vel líka hið alþýðlega fas prinsins.

"Ég biðst afsökunar herra" mælti þá Líkjör héluskeggur "en það er víst ekki við hæfi að við félagarnir gínum hér yfir aðgerðinni. Segðu mér Járngrímur smiður, er hér nokkurt húsaskjól að finna í grenndinni, hvar við gætum dvalist við á meðan?".

"Þið gætuð sem best farið hér áfram eins og hálfrar mílu reið. Þá komið þið að húsum Reyðs bónda, en sá er góður kunningi minn. Hann mun vísast til veita ykkur skjól fyrir regninu í hlöðu sinni og hans sæla húsfreyja jafnvel bera ykkur veitingar ef þið nefnið við hana nafn mitt. Eins getið þið geymt fararskjótana í hlöðunni hjá ykkur".

"Gott er að heyra" sagði Líkjör héluskeggur. Hann benti Grefli hinum rauðfexta að fylgja sér og þeir hurfu út í regnmyrkrið. Járngrímur nuddaði saman lófum og brosti við hinu ástfangna pari. "Þið getið hengt af ykkur slárnar þarna á þvertréð. Ég ætla að hlaupa hér bakatil og ná í brennifóður á eldinn til að kynda upp. Ykkur mun hlýna strax og bálið fer að loga".

"Frækni smiður, leyfðu mér að hlaupa eftir viðnum svo að ég verði þér að einhverju liði" sagði þá Jafet prins.

"Það er óþarfi, göfugi prins, en ef þú endilega vilt þá er staflinn undir dúki aftan við hjallinn" sagði Járngrímur. Prinsinn brá yfir sig hettunni og hljóp út í regnið. Mærin Una settist á koll og barði sér til hita. Járngrímur beindi orðum sínum að henni.

"Fríðasta prinsessa, víst er það sneypulegt fyrir jafn göfuga ungfrú og þig sjálfa að fletta þig klæðum í húsum ókunnugs karlfausks eins og ég er, en hjá því verður ekki komist að ég skoði gripinn ef ég á að eiga við hann. Ég vona að þú trúir mér þegar ég segi að sá er mér hinn óljúfasti hluti verksins. Bið ég þig að ímynda þér að ég sé systir þín, þjónustustúlka þín til baðathafna eða önnur sú persóna sem þú treystir vel. Ég heiti þér því að ég mun ekki misnota aðstöðu mína eða gerast um of djarfur við þig á nokkurn hátt". Una brosti dauft en var þó sem birti til í kofanum. Þegar hún tók til máls var rödd hennar allt í senn, skær, blíð og mjúk.

"Kæri Járngrímur, þú frægastur meðal smiða. Ekki stendur mér beygur af þér, ágætur maður sem þú virðist. Ekki dreg ég dul á það að helst vildi ég sleppa við gjörning þennan, en til mikils er að vinna og því læt ég mig hafa það. Fyllilega treysti ég þér fyrir höndum þínum, að þær snerti málminn en láti hörund mitt í friði eftir því sem mögulegt er".

"Stórlega léttir mér að heyra það" mælti Járngrímur. "En gleymdu því ekki heldur að þinn ágæti unnusti og prins verður þér til halds og trausts á meðan". Í þeirri svipan kom Jafet inn úr hríðinni með fangið fullt að eldiviði. Járngrímur tók við staflanum og raðaði úr honum í eldstóna. Kveikti hann með eldfærum í þunnum viðarflísum og stakk á milli kubbana og brátt tók að loga í stónni. Hvatti smiðurinn eldinn með fýsibelg. Allt þetta gerði hann fljótt og fumlaust. Innan skamms logaði glatt í stónni og fór nú að hitna í kolunum. Meðan hann vann kvað hann þessa vísu:

Glæðst þú logi, gára blíður, glitra þýður
gæddu þér á drumbum góðum
dátt þér leikt'í dýrum glóðum
dansa sem þinn herra býður.
Járngrímur tók steðjann ofan af smíðaborðinu og hreinsaði önnur tól af því. Svo sagði hann:

"Hér er best að göfugust prinsessann leggist. Mætti ég náðarsamlegast biðja hana að fara úr pilsum sínum og slá svo að ég geti lagt mat mit á smíðastykkið".

Jafet hefði við aðrar kringumstæður móðgast við beiðni smiðsins en vissi vel að ekki varð hjá þessu komist. Una fór úr slánni með hægð og lagði hana á kollinn. Jafet tók af sér slána því farið var að hitna í kofanum. Mærin Una hikaði við en fór svo úr ytra pilsinu, sokkum og skóm. Var hún nú í silkitreyju og undirpilsi einum fata. Hún horfði eilítið skelkuð á Járngrím þar sem hann stóð við smíðaborðið og horfði fjarrænum augum út í loftið. Jafet prins faðmaði hana að sér og strauk um axlir hennar og vanga.

"Svona dúfan mín ljúfa. Ekki skulum við gefast upp þó á hólminn sé komið. Hugsaðu um þær unaðsstundir sem framundan eru þegar þú ert frjáls af pyndingatæki föður þíns. Það er síðasti hlekkurinn sem þú þarft að brjóta af þér til að verða frjáls sem fuglinn. Þessi góði smiður, hann muntu aldrei sjá aftur og ég ekki heldur. Ef Líkjör fengi að ráða myndi hann drepa smiðinn að loknu verkinu til að enginn væri til frásagnar af blygðun þinni. Ég vissi hinsvegar að það myndi falla þér þungt og því bannaði ég honum það. Þessi nótt er upphafið á okkar fagra ævintýri, ástin mín, þó heldur sé hún nöturleg". Una leit djúpt í augu hans.

"Ó, hve ég ann þér" sagði hún andvarpandi. "Þó þarf ég varla hughreystinga þinna við, því ekkert vil ég frekar en vera laus við þennan bölvaða fylgifisk minn. Vertu rólegur, ástin mín, und mín og hjarta munu sleppa ósködduð frá gjörningi þessum og þá loks getum við verið saman ein".

Þau töluðu lágt en Járngrímur heyrði samt til þeirra, því eyru hans voru afar næm eftir að hafa

hlustað eftir hvini vindsins í laufguðum krónum trjánna. Hann mælti:

"Látum nú hendur standa fram úr ermum, fyrr en hófaskellir konungsmanna heyrast í hlaði. Eldurinn verður brátt heitur og tengurnar bíða þess að klípa járnið". Prinsessan Una og prinsinn Jafet kysstust að lokum og Una fór úr síðara pilsinu. Jafet og Járngrímur hjálpuðu henni að leggjast á smíðabekkinn. Var þar hart að liggja en Járngrímur lagði hálm undir höfuð hennar svo henni mætti líða betur. Þá loks gat að líta hið stálslegna skírlífsbelti er hinn harðráði konungur hafði látið festa á dóttur sína. Járngrímur fór höndum um það og var erfitt að ráða í svip hans. Jafet horfði dáleiddur á hina fríðu fætur, hné og mjaðmir unnustu sinnar. Voru þeir fagurlega sveigðir, fæturnir nettir, kálfarnir mjúkir, lærin ávöl og breið. Hafði hann ekki áður séð jafn mikið af hörundi Unu. Var hún jafn fagurlega vaxin og hún hafði fagurt höfuð. Varð Jafet skyndilega mjög heitt, jafnvel heitara en ástæða var til þó að vel væri kynt í kofanum. Gat hann ekki stillt sig um að strjúka eftir öðru lærinu en kippti að sér höndinni þegar hann sá að Unu féll það miður. Járngrímur skoðaði beltið hátt og lágt, tók hann í það og rykkti og fór með fingrunum um öll þess samskeyti. Þá mælti Járngrímur:

"Nú er illt í efni. Hafi ég látið á mér heyra að auðvelt yrði að losa um stykkið verð ég nú heldur að draga í land með það. Þannig er mál með vexti að belti þetta er engin hrákasmíði heldur er það rammgert eins og framast er unnt og hefur nú konungurinn svo sannarlega gert mér erfitt fyrir. Það sem verra er að ég kenni fangamark smiðsins, það er letrað hér með grönnum línum. Þetta er fangamark völundarsmiðsins mikla, Darralásar, en enginn er honum framar í smíði nokkurra tóla eða tækja. Hygg ég nú að verkið muni taka alla nóttina og jafnvel þá er óvíst að ég hafi betur í rimmunni við beltið".

Prinsinn Jafet reyndi ekki að leyna sárindum sínum og mikil skeifa kom á fríðan munn hinnar hárfögru Tinnulokku. Prinsinn gerðist nú tortrygginn og sagði:

"Hvar er nú þetta fangamarkið, ekki fæ ég séð það. Ertu eftilvill að falast eftir frekari greiðslu, slóttugi maður?". Járngrímur varð harður á svip og mælti hvass:

"Enga frekari greiðslu kæri ég mig um og ekki er ég að blekkja yður, ágætasti prins. Ef þú beygir þig niður og horfir skáhallt á lífbeinsflötinn sérðu greinilega stafina H og D, en þeir stafa nafn Hráreks Darraláss. Stafir þessir eru raunar dæmi um snilli þess manns og hagleik. Hefur hann gert þá þannig úr garði að þeir eru huldir auganu nema glampi á þá við ákveðið horn". Prinsinn Jafet beygði sig niður og sá þá sér til undrunar stafina skýrt og vel. Beit hann þá á jaxlinn og þagði. Járngrímur hélt áfram ræðu sinni.

"Ekki er um það deilt að Darralás þessi er færastur allra völunda í heimi hér og er óvíst að annar hans jafnmaki muni uppi verða í marga mannsaldra. Hefur hann smíðað ósökkvandi skip, sverð hverra egg verður aldrei dauf og lása sem fár þjófur getur narrað til að ljúkast upp. Sagt er að hann hafi smíðað sér fuglsvængi til að fljúga við og örvar sem ætíð hæfa marks. Segja sumir að hann sé göldróttur svo lygileg sem sköpunarverk hans eru. Hefur nú Darralás gjört konungi þetta belti sem eg ætla að seint muni undan láta".

"Hvað er þá til ráðs" mælti prinsinn Jafet hrærður og reif í hár sitt. "Mun þá mærin Una þurfa að burðast með beltið á mjöðmunum alla sína daga?".

"Æðrastu ekki, kæri prins" mælti Járngrímur. "Það er ekki á margra vitorði en ég og Hrárekur Darralás lærðum hjá sama meistara í þá fyrri daga og vorum vel kunnugir. Má segja að við höfum keppt um hylli okkar góða meistara og eftilvill veitt hvorum öðrum einhverjar skráveifur. Örlögin höguðu því þannig til að mér auðnaðist aldrei að ljúka námi mínu og komast í gildi, ætla ég ekki að rekja þá sögu hér. En Darralás gekk í þjónustu konungs og hefur stundað list sína undir verndarvæng hans síðan".

"Þetta var allnokkur saga" sagði Jafet "en hvað um beltið?". Járngrímur brosti að fávisku prinsins.

"Niðurlag sögunnar er þetta: þar eð við þessi vesæli maður og Darralás lærðum hjá sama meistara, vorum þá kallaðir jafnokar, er enginn sem veit meira um handbragð hans en einmitt ég. Því ætla ég að freista þess að losa af beltið og beita til þess allri minni kunnáttu og ráðkænsku. Má með sanni segja að framundan sé mín síðasta glíma við völundinn mikla". Ekki varð þessi yfirlýsing til að kæta þau Jafet og Unu. Jafet gekk eirðarlaus í hringi með hendur fyrir aftan bak en Una klæddi sig í pilsin þegjandi og reyndi að verjast tárum. Járngrímur tók til máls.

"Mér virðist það heillavænlegast að reyna að klippa á stykkið og jaga það í sundur. Ekki líst mér að glíma við lásinn því hann er hin mesta dvergasmíð. Mun ég brýna klippur mínar og tengur og láta reyna á hve hart er kóngs stál". Mærin Una og Jafet féllust þögul í faðma. Smiðurinn Járngrímur tíndi til tengur sínar, liðkaði þær og brýndi. Kvað hann þá þessa vísu.

Dýr er smíði Darralásar, dágott stálið
deig er töngin, sterkur áður
gamall armur, gigtarþjáður
geiglaus samt eg kyndi bálið.
Þegar hann þóttist reiðubúinn benti hann Unu hinni fögru að leggjast á ný, en hún lá í faðmi Jafetar. Mælti þá mærin til hins ungfríða unnusta síns:

"Sökum ráðstafana föður míns höfum við aldrei notist og mun svo ekki verða fyrr en af mér er stálbeltið. Hvorki hef ég notið þín né nokkurs karlmanns annars, en vil þó engan hafa annan en þig. Aldrei hafa fagrar hendur þínar eða hendur annarra manna leikið um mitt hvíta hörund, aldrei hafa ljósbrún augu þín eða augu annarra manna litið mína blygðunarstaði. Finnst mér því réttast að standa dyggan vörð um sakleysi mitt og hreinleika þar til sú stund kemur að við verðum eitt, prinsinn minn. Vil ég því helst að þú víkir úr húsum Járngríms smiðs meðan hann losar af mér beltið, því um leið og beltið er af myndi nekt mín opinberast þér á ótímabæran hátt. Mér stendur á sama um hinn aldna smið því að ekki munu leiðir vorar skerast á ný og ekki stendur hann mér nær sem þú. Ekki geri ég þetta af andúð við þig eða ótuktarskap heldur geri ég þetta til að fegra enn þá stund er við eigum fyrsta saman tvö. Gjarnan vil ég að þú berjir að dyrum endrum og eins í nótt. Mun ég þá kasta hulu yfir mig en Járngrímur ljúka upp fyrir þér. Vona ég að þú verðir sáttur við þetta ráð mitt, ástin mín eina, og sért mér ekki reiður fyrir framhleypnina". Jafet prins svaraði henni á þessa leið:

"Ekki kemur mér til hugar að reiðast svo ágætu ráði. Víst mun það auka á sælu vora á hinum fyrsta fundi að hafa aldregi fyrr snert hvors annars hörund eða séð. Mun ég þegar hverfa úr kofa þessum og dvelja hjá riddurum mínum í hlöðu Reyðs bónda. Mun ég líta til þín með reglulegum hætti og gaumgæfa að þér sé óhætt og líði vel". Er hann hafði mælt þetta kysstust þau snöggt og hvarf hann svo út í náttmyrkrið með hettuna yfir sér. Mærin Unda felldi pilsin og Járngrímur hjálpaði henni upp á smíðabekkinn. Var henni rórra að unnusti hennar sæi hana ekki svo fáklædda. Smiðurinn Járngrímur þreifaði fyrir sér á beltinu og mælti:

"Ekki mun það verða þér til skemmtunar, tignasta prinsessa, þegar ég hef átökin við hið rammgjöra belti. Heldur mun ég taka á og skekja tengurnar og eins hita þær áður en þær merja stálið. Mun ég klemma beltið fast á milli þessara þvingukjafta til að halda því kyrru en smeygja rökum segldúki milli hörunds og beltis svo að þú brennist ekki af hitanum. Láttu mig vita ef þér verður of heitt og mun ég þá slökkva vatni á dúkinn. Eins get ég slökkt vatni á treyju þína og brjóst ef þér gerist of heitt". Una jánkaði þessu. Stundi hún við þegar Járngrímur smeygði dúknum milli læra hennar, kviðs og beltis. Slökkti hann vatni þar á. Tók hann svo sjóðandi töng, herti hana í tunnu fullri af vatni svo gufan streymdi af og hóf að klippa á beltið. Gerðist nú mjög heitt og gufumettað í skálanum. Járngrími fór vísa um munn þá hann kleip:

Gufustrókar gjósa heitir, grástál óma
gramur mjög ég málminn elti
skek og hristi skírlífsbelti
skal nú frelsa meyjarblóma.
Beitti hann töngum sínum á beltið dágóða stund. Hafði hann sjö tengur við höndina, hitaði sex þeirra í eldi en herti þá sjöundu og skar með stálið. Gekk honum seint og illa að merja málminn því hann var úr hvítastáli er hafði verið hert tuttuguogtvisvar við glóandi kolaeimyrju, en það er besta leiðin til að verka óvinnandi stál. Svitinn bograði af smiðnum og hann stundi þungan undan átökunum og blés. Var nú orðið sjóðandi heitt í kofanum því að Járngrímur hvatti eldinn í sífellu til að herða tól sín betur. Slökkti hann vatni á sjálfan sig og meyna Unu en var þeim þó báðum funheitt. Skorsteinninn hafði ekki undan svo að sótreykur blandaðist gufumettuðu loftinu í kofanum. Var næstum orðið ólíft af brækju er Járngrímur lagði frá sér tengurnar. Mærin Una hóstaði og stundi og bar sig aumlega. Leysti Járngrímur þá af henni þvingurnar, deyfði eldinn og opnaði út. Var smiðurinn þá orðinn allmóður af látunum. Settustu hann og mærin Una í dyragættina og horfðu út í náttmyrkrið en hlustuðu á samfelldan nið regnsins, snarkið í hinum firnaheita eldi og andardrátt hvors annars. Lét Járngrímur smiður sér vísu um munn fara:
Beit og kramdi, breiðust klippan, bruddi huguð
barðist snarpt við stálið fróða
tapaði þar töngin góða
tannlaus, skökk og yfirbuguð.
Lengi sátu þau og mæltu ekki orð af munni. Kom þá prinsinn Jafet þar að í fylgd með hinum rauðfexta risa Grefli. Una dró til sín slá og lagði yfir fótleggi sína..

"Hví sitjið þið þar?" mælti prinsinn hissa.

"Við sitjum og hvílum lúin bein" svaraði Járngrímur.

"En árans beltið, er það af?" spurði prinsinn.

"Beltið situr sem fastast" svaraði Járngrímur með hægð.

"Og hverju má það sæta?" kallaði prinsinn æstur. Járngrímur dró í nokkra stund að svara honum. Svo mælti hann og var dimmur blær á rödd hans.

"Beltið at tarna er í senn hart sem grjót og seigt sem leður. Hef ég nú eyðilagt mínar bestu tengur til einskis. Megnuðu kraftar mínir og kjaftar tanganna aðeins að gera dæld í beltið þar sem önnur járn hefðu undan látið. Er það trú mín að ekkert geti unnið á þessu stáli". Þegar Tinnulokkan heyrði þetta fór hún að hristast með ekkasogum en prinsinn Jafet strauk tárin af hvörmum hennar og faðmaði hana að sér.

"Gefstu þá upp við svo búið?" spurði hann.

"Síður en svo, háttvísi prins" svaraði Járngrímur. "Þó að orrustan sé töpuð er stríðið í algleymingi. Ljóst þykir mér að beltið verður ekki sigrað með aflsmunum en aðrar leiðir standa til boða. Verður næsta úrræði mitt að reyna að spenna upp lásinn með lagni og opna þannig beltið. Samt verð ég að fara afar varlega til að eyðileggja ekki lásinn. Ef hann skemmist er útilokað að beita örþrifaráðinu, en það er að reyna að ljúka honum upp með lykkjum og lagni".

"Hve langan tíma hyggur þú það taki?" spurði prinsinn.

"Drykklanga stund og hálfu betur" svaraði Járngrímur annarshugar. Prinsinum geðjaðist ekki að svarinu en þótti sýnt að smiðurinn hefði sagt sitt síðasta um það mál. Kyssti hann unnustu sína létt á ennið og fór af stað aftur. Fann hún af honum súran þef því hann hafði sest að drykkju með lífvörðum sínum. Smiðurinn Járngrímur stóð upp og hjálpaði Unu að rísa á fætur. Setti að henni beyg er hún leit smíðabekkinn en lagðist þó á hann. Járngrímur festi á hana þvingurnar og grandskoðaði beltið í nokkurn tíma. Milli þess sem hann rannsakaði smíðagripinn hvatti hann eldinn með fýsibelg. Tók hann nú hamar, fleyga og spennur hönd sér og reyndi að hagga hnoðum þeim er héldu beltislæsingunni saman. Erfiðaði hann í langan tíma við hnoðin og tókst að lokum að losa eitt þeirra en gat ekki náð því úr þó hann hamaðist af alefli. Var hann orðinn kófsveittur og fór úr treyjunni til að kæla sig. Undraðist Una hve hann var stæltur og þróttmikill. Hafði hann breiðar og sterklegar axlir, þykka brjóstvöðva og harðan kvið. Virtist henni nú smiðurinn mun yngri en hún hafði áður talið. Sá hún líka það sem olli henni svo mikilli angist að hún hljóðaði hátt: en það var að yfir brjóst hans og bak voru ótal svört svipuför og flekkir áþekkir brunasárum. Virtist henni sem hörund hans allt væri alsett gömlum hrufum og skeinum. Er Grímur heyrði kvein hennar bjóst hann til að fara í treyjuna aftur en Una brá skjótt við og sagði:

"Frekar en að hylja lýti þín klæðum, veittu mér þá auðmjúku bón að segja mér hvaða maður eða menn hafa farið svo illa með þig. Undrast ég slíka illsku að einn maður geti veitt öðrum svo hræðilega áverka".

"Fús vildi ég veita þér bón þína, kinnfagra hátign" sagði Járngrímur "en hygg ég að betur sé borgið sálarró þinni að vita það ekki".

"Kvel mig ekki með óvissunni, kænlegasti smiður" sagði þá prinsessan "því ég verð að fá að vita hvaða dári í mannsmynd hefur sært þig svo illa. Ég grátbið þig að segja mér það. Þér er engin þörf á að halda hlífiskildi fáviskunnar yfir mér því mig þyrstir í að fræðast um veröldina, líka þá veröld sem mér hefur verið hulin fram að þessu. Hafðu í huga þér að ég hef lifað alla mína daga í lítilli veröld innan í veröldinni, girtri voldugum veggjum, og aðeins fengið að heyra það og sjá sem aðrir vildu að mér bæri fyrir augu og eyru. Það var hinn ljúfi Jafet prins sem sýndi mér út fyrir veggi hallarinnar og fræddi mig um heiminn og kann ég honum ævinlega þökk fyrir það".

"Fyrst þú gengur svo hart á eftir mér skal ég segja þér það, hugprúða mær, þótt þér muni óljúft þykja. Voru það riddarar konungs föður þíns, að undirlagi hans sjálfs, sem veittu mér þessi sár". Prinsessan Una andvarpaði, beit á jaxlinn og var þögul. Svo sagði hún ákveðin:

"Sárt er mér að heyra þetta, þó að mig hafi grunað það. Sannleikurinn er sá að allt frá frumbernsku hef ég talið föður minn vera allra manna mestan og mætastan en nú á síðustu misserum hefur hver blekkingin afhjúpað aðra. Veit ég nú að hann er bæði miskunnarlaus, grimmur og gráðugur meira en sæmir í fjármuni, metorð og meiðingar. Er óvíst að jafn slæmur konungur hafi ríkt yfir landinu áður og eg em dóttir hans. En segðu mér nú söguna alla, aðdragandann að henni og ástæður og dragðu ekkert undan. Því sjálfsagt er saga þín samhljóða sögum ótal annarra manna er hafa mátt þjást í ríki föður míns og fýsir mig nú að heyra eina slíka. Ég bið þig ágætasti smiður að veita mér þetta litla sem ég bið. Er það minna að þú opinberir mér lítið brot úr fortíð þinni en að ég opinberi þér saklausa meyjarnekt mína alla". Járngrímur leit til prinsessunnar og var ekki laust við að velþóknunarblik kæmi í augu hans.

"Sem þú biður svo vel skal ég segja þér þá ómerkilegu sögu. Hitt þykir mér merkilegra hve skörunglega þú tekur til máls. Eru það augljóslega ljótir kvittir lyginna tungna að prinsessur þær er í kóngshöllum dafna séu leiðar og lítt fyrir ræður". Brosti hann til Unu en hún tók orðum hans ekki illa því að henni féll dável við hann. Kvað þá Járngrímur:

Mælti til mín mærin unga, mjúkum rómi
"mætti ég um sár þín heyra
fýsir mitt að frétta eyra
fátt það heyrð'í konungsdómi".
"Eins og ég sagði enum fríða prinsi" hélt Járngrímur áfram um leið og hann vann við beltið "vorum við Darralás í læri hjá sama meistaranum. Nafn meistarans skiptir ekki máli en hitt get ég sagt þér að hann var mikilsvirtur og dáður fyrir smíðakúnst sína og efnaður vel. Get ég vel leyft mér að halda því fram að hann hafi verið hinn ágætasti maður, enda er fátt sem gleður dauða meira en þegar þeim er hrósað. Það sem eg hermdi hinum hágöfga prinsi ekki var að við Darralás felldum hugi til sömu stúlkunnar. Er þetta hin elsta harmsaga er mannkyni er kunn, þá er tveir sveinar unna sömu meynni. Silfrinhærð var hún og sólbjörtum augum skartaði hennar fríða andlit. Góðhjörtuð var hún og brosmild og allra kvenna hugljúfust. Var hún dóttir óðalseiganda skammt fyrir utan bæinn. Var það lítil von fyrir lærlingsstráka eins og okkur að geta beðið hennar. Því var hinsvegar þannig farið að hinn aldni meistari okkar var barnlaus og óvíst hvernig hann ráðstafaði arfi sínum. Vissum við báðir að sá okkar er ynni hylli hans og yrði hans hægri hönd myndi í raun ganga honum í sonar stað og hljóta arf hans, stöðu og virðingu. Jók þetta enn á kapp vort sem var ærið nóg fyrir. Eins og ég tók fram vorum við nokkurnveginn jafnvígir á smíðalist og hallaði frekar á mig en hitt. Hitt var og satt að Darralás var verr skapi farinn en ég og minni maður á ýmsan hátt. Átti hann það til að taka illskuköst og kasta hlutum og brjóta eða þá sitja þögull uppi á herbergi sínu svo dögum skipti út af einhverjum smámunum. Eins var hann lyginn og undirförull þegar honum þótti það henta. Þetta vissi hinn aldni meistari okkar mætavel og var hann því elskari að mér en Darralási. Þegar líða tók að því að við þreyttum lokaprófið fór Darralás heldur að óttast um hag sinn því hann var óvitlaus og sá að meistarinn var mér hlynntur. Tók hann þá til bragðs eitt óþverraráð sem ég skal nú segja þér frá". Er Grímur mælti þetta var dyrunum hrundið upp og stóð þar prinsinn Jafet með manndrápssvip. Voru augu hans rauð og reikult sporið. Stormaði hann inn og Líkjör héluskeggur skammt þar á eftir, troðandi sér í pípu.

"Jæja mannfýla" skyrpti prinsinn út úr sér "ertu þá loks búinn að losa bévítans beltið?"

"Því miður gengur það seint" svaraði Járngrímur.

"Já gengur það seint" sagði prinsinn háðskur, vagaði til Unu og beygði sig yfir hana. "Hvað segir þú, ástin mín?" sagði hann við hana sætri röddu eins og móðir sem talar við ómálga barn sitt.

"Ég hef það þolanlegt, ljúfi prins, eins gott og hægt er við þessar aðstæður" svaraði Una og reyndi að láta ekki ramman þefinn af prinsinum slá sig út af laginu. "Hitt þætti mér betra að þú teygðir þig eftir slánni þarna og hyldir með henni nekt mína, sem við töluðum um". Prinsinn reisti sig snögglega upp og fyrtist við.

"Ekki fæ ég skilið það" galaði hann "að þú viljir fela þig fyrir þeim er þú ætlar að helga líf þitt og limi en sé sama þó bláókunnugur gamall dóni fari um þig höndum löngum stundum, hálfnakinn". Er hann sagði þetta greip hann þéttingsfast um annað brjóst Unu svo hún kveinkaði sér við. "Kalla ég þetta óeðli hið mesta og tek ekki þátt í þessu lengur. Líkjör! Kallaðu á Grefil og seg honum að hafa hestana til reiðu. Nú ríðum við á braut en leysum beltið af seinna. Þú þarna smiður. Leystu þegar klemmurnar af heitmey minni og hjálpa henni að rísa á fætur". Grímur skoðaði prinsinn örstutta stund en leit svo til prinsessunnar Unu hvar hún lá. Mátti sjá angistardrætti í andliti hennar og var hún greinilega á báðum áttum hvað skyldi gera. Kappinn Líkjör hafði kveikt í pípu sinni. Hann dró að sér og blés út bláu reykskýji og hafði ekki kænskuleg augun af Járngrími á meðan.

"Ég bið þig auðmjúklegast afsökunar á að blanda mér í ákvarðanatöku þína, hátign" sagði hann og enginn auðmýkt var í rödd hans "en það fól mér faðir þinn að reyna að ráða þér heilt þegar ég gæti og vilji hans er jú verksvið mitt. Virðist mér smiður þessi vera ærlegur maður og ólyginn og hygg ég það vera satt sem hann segir að belti þetta sé hin besta smíð gjörð af Darralási, hvers nafn er kunnugt jafnvel útlendingnum mér. Vel gæti ég trúað því að Járngrímur væri eini maðurinn í allri veröldinni sem gæti losað um beltið, því hann er kunnugari handbragði Darralásar en nokkur annar. Þú tækir því mikla áhættu ef þú færir nú á braut með beltið enn spennt á ena fögru unnustu þína, því aldrei getum við fæti stigið í þetta land aftur. Eða hvað skal hún gagnast þér svona?". Jafet var óður af bræði en skynjaði samt að héluskeggur hafði nokkuð til síns máls. Mælti hann þá:

"Gott og vel, ég verð þá kyrr enn um sinn". Nú beindi hann orðum sínum að Járngrími og var hastur við hann.

"Haltú afram verki þínu og vinn það af elju. En varastu að gerast nærgöngull við ástkonu mína hina Tinnulokkuðu því ella mun ég drepa þig og fleygja hræi þínu fyrir úlfa. Heyrir þú það, Járngrímur smiður?". Járngrímur drúpti höfði. Héluskeggur glotti, kláraði pípuna og fór. Jafet kyssti létt á hönd Unu og hvarf sömu leið.

"Ekki er nú prinsinn minn sjálfum sér líkur núna" sagði Una titrandi röddu en Járngrímur lokaði hurðinni. "Hef ég ekki séð hann svona áður" bætti hún við. Járngrímur kvað:

Hver einn sína drykkju hefur hýr og glaður
harma sína seinna gráta
aðrir meðan óðast láta
ölið er hans innri maður.
Barðist hann nú dágóða stund við beltið og þögðu þau bæði. Þá sagði Tinnulokka:

"Hvaða óþokkabragð var það sem Darralás beitti þig? Leyfðu mér nú að heyra hvernig sagan endar". Járngrímur þerraði svita af enninu og brosti dauft.

"Ekki veit ég hvernig sagan endar, stúlkan mín. En hitt get ég sagt þér hvernig Darralás brá fyrir mig fæti. Réttast er að ég reyni að vera óvilhallur og segja frómt frá og þá einnig frá mínum eigin glappaskotum. Því að skömmu áður en þessu bar við hafði ég hafið að hitta stúlkuna á laun er hún fór í skógarferðir, en hún hafði mikið yndi af útreiðum. Ræddum við margt saman og leist báðum hitt vel. Saklausir voru þessir fundir okkar því hvorugt þorði að gerast frekt. En einhvernveginn hefur Darralás orðið þessa áskynja, þó ekki væri nema af fasi mínu, því ég var í senn utan við mig og alsæll þessa viku. Tók hann nú eitt af sínum víðfrægu brjálæðisköstum og grenjaði hátt, því að nú virtist honum öll von úti, hjarta stúlkunnar unnið og arfur meistarans fyrir bí. Hugsaði hann ráð sitt alla þá viku". Járngrímur jós vatni á sjálfan sig og meyna Unu og hélt svo áfram. "Meistari vor hafði þá í smíðum reiðtygi handa föður þínum. Voru það gullfalleg reiðtygi og glæsilegur hnakkur í stíl. Beislið var af silfri, fagurlega útskorið með myndum af refaveiðum og skreytt dýrum rúbínum. Taumurinn var fléttaður úr fíngerðum gullþráðum. Hnakkurinn var skreyttur með skínandi fögru skjaldarmerki, lýsigullsröndum og glóandi skrautsteinum. Voru þetta hin fegurstu reiðtygi er gerð hafa verið. Voru þau nær tilbúin er hér var komið sögu, því að krýna átti föður þinn til konungs seinna í vikunni. Hafði meistarinn lagt mikið fé og metnað í gripina enda voru þeir mikilvægur þáttur í krýningarathöfninni. Einn daginn voru þeir svo horfnir. Þetta var daginn fyrir krýninguna. Sem þú getur gert þér í hugarlund komst allt á annan endann. Vorum við Darralás báðir grunaðir en jafnvel mér kom ekki til hugar að stuldurinn væri verk hans, svo lágt datt mér ekki í hug að hann legðist. Máttum við báðir sæta þungum yfirheyrslum þann dag og öllum var þungt í skapi". Smiðurinn Járngrímur hætti nú að baksa við beltið en virtist hverfa um stund til endurfunda við minningarnar og mál hans var stirt. Una rak ekki á eftir honum heldur fylgdist með honum og hjartað barðist í brjósti hennar. Var hún forvitin og eftirvæntingarfull að heyra enda sögunnar en líka óttaðist hún að hafa vakið upp þá fortíðardrauga er betur mættu kyrrir liggja. Járngrímur kom skyndilega til baka úr draumkenndri þoku fortíðarinnar og brosti til Unu. Í eitt örstutt augnablik mættust augu þeirra og sáu þau langt inn í hvors annars sálir. Járngrímur lagði frá sér tólin og hélt áfram frásögninni.

"Þrátt fyrir ringulreiðina þennan dag fór ég til fundar við bjarteygu stúlkuna mína. Hjá henni gleymdi ég öllum vanda og hugsaði ekki um annað og sá ekki annað en hana. Töluðum við lengi saman þennan dag og kysstumstum og föðmuðumst. Þessum eftirmiðdegi og þessum kossi mun ég aldrei gleyma og ef ég gleymi honum þá vil ég heldur deyja. Er ég yfirgaf hana um síðdegið, með miklum trega, hitti ég mér til mikillar undrunar hinn aldna meistara minn í skóginum. Mér féll allur ketill í eld, meistari, sagði ég, hvað ert þú að vilja hingað? Hann var mjög þungbrýndur og mæddur að sjá. Járngrímur, minn kæri sonur, sagði hann við mig klökkur. Darralás hefur fundið reiðtygin og bent riddurum konungs á þau þar sem þau liggja, í kistlinum í herbergi þínu. Leita nú riddarar konungs að þér með logandi ljósi um allt héraðið. Ég fylgdi þér hingað því ég vissi af hyggjuviti mínu um leynilega fundi þína við dóttur óðalsbónda. Ég fæ ekki trúað því að þú sért sekur um stuldinn heldur hygg ég að hér sé um vélar Darralásar að ræða. Hinsvegar get ég ekkert sannað og ekkert veitt þér lið. Ég get aðeins varað þig við hættunni og fært þér þessa silfurpyngju að skilnaði. Flýðu sonur, sagði hann, flýðu eins hratt og fætur toga úr ríkinu. Keyptu þér hest fyrir silfrið og komdu þér héðan á brott eins fljótt og þú framast getur. Annars munu þeir klófesta þig og guð einn má vita hvaða meinsemdir þeir hafa í hyggju fyrir þig. Hann faðmaði mig að lokum og sagði: vertu ávallt lærlingur minn og sonur, þrátt fyrir að námi þínu hjá mér sé nú lokið fyrr en eg hefði kosið. Vertu góður maður og gegn, hvar í heiminum sem örlagadísirnar láta þig hreppa höfn. Gerðu þann mann stoltan, er vildi gjarnan hafa verið þinn faðir". Járngrímur andvarpaði og leið inn í fortíðarlandið á ný. Una þorði tæpast að anda. Svo sagði hann:

"En auðvitað hafði ég ekki það vit, ungur maðurinn, að fylgja fyrirmælum míns spaka læriföður, blindaður af ást sem ég var. Strax og við höfðum kvaðst hljóp ég eins og vindurinn til bjarteygar minnar og náði henni skammt frá læknum sem rennur frá lindinni fyrir ofan bæinn". Járngrímur andvarpaði aftur og mátti ekki mæla. Svo sagði hann:

"Kæra mín, ég get ekki lokið þessari sögu, ég get bara sagt þér að hún endar illa. Gleymum nú öllum sögum og horfnum hörmum, einbeitum okkur að beltinu at tarna, það er öllu mikilvægara þessa stundina. Hefi ég nú með litlum árangri reynt að klippa það í sundur og spenna það upp. Á ég þá bara eitt ráð eftir og það er að reyna að ljúka upp lásnum með þjölum, lykkjum og vírum. Ef lásinn smellur opinn er raunum þínum lokið. Ef ekki smellur hann í harðlás og mun þá enginn mannlegur máttur getað opnað hann, ekki einusinni Darralás sjálfur. Ég spyr þig sjálfa, því að hér er um líf þitt að tefla: viltu að ég reyni mig við lásinn eða viltu frekar treysta því að finna annan smið, mér fremri, í enu kalda Hríðríki?". Una svaraði engu. Járngrímur sagði: "lokaúrræði þitt er að aflýsa flóttanum og snúa heim í höllu föður þíns. Þegar sá tími kemur að þú verður gift mun hann fá eiginmanni þínum lykilinn". Skelfingarsvipur kom á andlit Unu og hún hristi höfuðið svo hinir tinnusvörtu lokkar hrundu henni um axlir.

"Nei, fyrir alla muni, reyndu heldur að opna lásinn. Aldrei mun ég snúa aftur, aldrei nokkurntíman. Allt skal ég þola nema það að játast á ný undir vald föður míns. Frekar skal ég ráfa um strætin í tötrum og biðja mér ölmusu. Reyndu nú að opna lásinn og megi réttlátur guð stýra hönd þinni við verkið". Járngrímur kinkaði hægt kolli.

"Gott og vel, Þú hefur tekið þína ákvörðun. Ég er ekki trúfastur maður, en ef það er til nokkur guð, þá heiti ég á hann núna að hann veiti mér lið, en hverfi að endingu úr bænum mínum ella". Grímur sá að prinsessunni var mjög heitt og loddi svitastorkin silkitreyjan við hana. Hann losaði þvinguna, reisti Unu við, hneppti frá tölunum á baki treyjunnar og færði hana úr henni. Var þá mærin íklædd engu nema lífstykkinu. Tók hann svo smáar tengur, þjalir grannar, brugðnar lykkjur og víra sem höfðu verið beygðir á hinn furðulegasta máta. Dreypti hann þunnri olíu í lásinn og blés í hann á eftir. Hagræddi hann mjöðmum Unu í þvingunni og kveikti á fjölmörgum kertum og stillti upp allt í kringum þau svo vel varð bjart og sló rauðum bjarma á andlit þeirra. Settist hann loks á koll við hlið hennar og hóf gætilega að þreifa fyrir sér á lásnum með vírunum. Garfaði hann í lásnum góða stund. Una sagði þá skjálfrödduð:

"Ó elskulegi Grímur, segðu mér hvað gerðist hjá læknum og þar á eftir, ekki gera mér þann óleik að æsa mig upp á sögum en hætta svo í miðju kafi. Ég bið þig, gerðu það fyrir mig". Járngrímur svaraði henni engu. Sagði þá Una grátklökk og mátti sjá glitra á tár á hvörmum hennar: "Segðu mér í nafni ástarinnar, sem hefur leikið mig svo grátt á nýliðnum misserum, segðu mér í nafni hennar sem ekki spyr að lögum en stendur langt ofar þeim, eins og þú ættir að vita manna best, segðu mér þetta eitt þó þú yrðir aldrei á mig aftur: hvað gerðist við ána og hvernig lýkur sögunni?". Járngrímur horfði til hennar og var heldur brúnaþungur. Una horfði á hann fögrum bónaraugum, andaði ótt og títt og bil var á milli rósrauðra vara hennar. Tveir silfurlækir runnu úr augunum niður á kinnar. Fingur Járngríms léku af öryggi í lásnum án þess að hann virtist gefa þeim nokkurn gaum. Hann kvað með dáleiðandi röddu:

Upp við lind er unaðsreitur einihlíða
ávöl vötn við sólu skína
leit ég augum ljúfu mína
las úr blómum mærin fríða.

Leit hún mig og lyftist brún á ljósum augum
lifnaði í bjóstum þráin
meðan lék sér málfríð áin
merlaði í bláum laugum.

Blítt ég tók um báðar hennar bleiku hendur
brast mín rödd en sveið mitt hjarta
"sjáumst við nú síðast bjarta
sækja að mér grimmir fjendur".

Grét hún sárt og gróf í lófum glóheitt tárið
gerðist votur rjóður vangi
mjúkt hún lá í mínu fangi
mæddur strauk ég silfurhárið.

Varir saltar varlega ég vætti kossi
vék þá hennar fár að sinni
ör hún brást við alúð minni
ágerðist vor girndarblossi.

Léku munnar ljúft um hins og liðu tungur
lét hún aftur augun fríðu
undi sér við ástarblíðu
ágerðist vort kossahungur.

Leysti ég með leikni reim á lofnar klæði
losaði um andvörp meyju
af mér dró hún óðar treyju
ágerðist vort lostaæði.

Kyssti ég á hvítann háls og hvelfdar varir
kossaflaumur fljóðið æsti
örmum sínum um mig læsti

um mig fóru fingur snarir.

Gróf ég hönd í Gerðar hár og greip um hnakka
gætilega lögðumst niður
flaug um loftið fuglakliður
fagurt kveld við lækjarbakka.

Færði ég þá fríða dís úr fínni skyrtu
fiðurmjúkt á brjóstin kyssti
vindurinn í vötnin risti
vafurloga rauðrar birtu.

Mælti til mín mærin unga, mjúkum rómi
"mitt er þitt, það votti sunna
aldrei mun ég öðrum unna
aðeins þér, minn ljúfi frómi".

Svaraði ég samstundis af sönnum huga
"sannlega ég ann þér einni
engin þrá er okkar hreinni
eilíflega mun hún duga".

Fórum bæði fljótlega úr flíkum öllum
funi brann í beggja skauti
allt um kring var orpið skrauti
ilmaði á rósavöllum.

Nutumst við í næði undir næturskýlu
nærðumst hvort á annars eldi
sameinuð á sefsins feldi
sofnuðum í þeirri hvílu.

Um leið og síðasta erindið flaut af vörum Járngríms small hátt í lásnum og skírlífsbeltið opnaðist. Á sömu stundu leiftraði elding og húsið skalf af geysilega öflugri þrumu. Járngrímur skrúfaði þvinguna af á augabragði og losaði beltið af Unu. Hann strauk höndunum yfir skapahár hennar og kyssti svo varlega á þau. Hann hvíslaði:
Líkust ertu ljúfri minni lokkafríðri
ljós er bráin, silkibarmur
sæll er nú minn sári harmur
sveipa ég þig ástúð blíðri.
Una teygði upp til hans hendurnar. Hann tók um þær og dró hana að sér svo að hún sat andspænis honum uppi á smíðabekknum. Munnar þeirrar mættust í óskaplegum kossi, tryllt hjörtun dældu sjóðandi blóði um líkami þeirra. Önnur þruma lét að sér kveða og í kjölfar hennar kom hellidemba. Regnið fossaði niður úr himninum sem aldrei fyrr. Una Tinnulokka og Járngrímur kysstust, föðmuðust og frýstu eins og lafmóðir hestar. Hún sökkti fingrum sínum stynjandi í bak Járngríms en hann strauk henni ákaflega frá lærum, mjöðmum og upp á hnakka. Hann sleit reimarnar á lífstykki hennar eins og þær væru grasstrá og fleygði því út í horn. Una kyssti og beit herðar hans og brjóst og losaði um buxnastrenginn. Enn ein þruman skók húsið og hver eldingarblossinn elti annan. Niður regnsins hafði nú breyst í háværan gný. Járngrímur fór varlega höndum um brjóst hennar, saug geirvörturnar og lét tunguna leika um þær. Hvorugt mátti mæla orð af munni fyrir frygð. Járngrímur ýtti sundur lærum Unu og stýrði getnaðarlim sínum að skauti hennar. Hún kveinaði lágt þegar hann þrýsti sér inn í hana. Svo spennti hún fæturnar fyrir aftan bak hans og gaf sig unaðinum á vald. Takturinn í samförum þeirra var hægur í byrjun en jókst jafnt og þétt. Járngrímur rumdi en Una gaf frá sér hálfkæfðar stunur og andvörp. Hljómfallið hækkaði, blóðhitinn nálgaðist suðumark, hjörtun slógu eins og hamrar í brjóstum þeirra, andlit Járngríms afmyndaðist í lostafullri grettu en svitinn draup af honum, Una stundi hátt og kallaði upp yfir sig af nautn, loftið lyktaði af holdi og girnd. Hver þeirra taug titraði og skalf af unaðssæld og vellíðan, þar til líkamir þeirra kipptust til og hristust í algleymi og óminnissælu. Ærandi þruma glumdi við og snörp vindhviða feykti hurðinni opinni. Þau ultu niður á gólf og lágu þar eins og slytti og börðust við að ná andanum. Regnið hrundi yfir þau og eldingarblossar gerðu kynjamynd úr nöktum líkömum þeirra. Þrátt fyrir lætin og hamaganginn færðist yfir þau friður þar sem þau lágu. Una skreið til Jángríms og lagði höfuð sitt á brjóst hans. Þau lágu lengi á kofagólfinu án þess að hafa ráð eða rænu á að loka hurðinni. Þrumuhríðinni linnti brátt og aftur hljómaði mildur regnniður. Járngrímur reis upp og tíndi saman föt Unu. Hann færði hana í rifið lífstykkið og skyrtuna eins og hún væri brothætt dúkka. Svo klæddi hann hana í pilsin og setti skó á fætur hennar. Að lokum klæddi hann sjálfan sig og lokaði hurðinni. Hann lyfti Unu léttilega upp, lagði hana við smíðabekkinn og breiddi slána yfir hana. Svo settist hann á koll hinumegun á kofanum og horfði á hana sofa. Eftir nokkra stund barði Líkjör að dyrum og gekk svo inn. Hann leit á Járngrím, sofandi Tinnulokkuna og stálgrátt skírlífsbeltið sem lá úti í horni. Hann brosti, strauk um skegg sitt og sagði:

"Þú hefur staðið þig vel, Járngrímur smiður. Nú morgnar senn og tími er til kominn að halda af stað. Ég þarf ekki að útskýra fyrir þér að við komum hingað ekki og þú sást okkur aldrei. Er það nokkuð?".

"Ég er ekki heimskur maður" svaraði Járngrímur. Líkjör beygði sig niður að Unu og strauk henni um vangann. Hún vaknaði og tók nokkra stund að átta sig á því hvar hún væri.

"Erum við að fara?" spurði hún.

"Prinsinn góði sofnaði með stútinn á vör" sagði Líkjör. "Hann er að vakna núna. Við skulum haska okkur". Hann studdi hana á fætur. Hún batt viðutan um sig slánna og virtist ekki taka eftir því að Járngrímur væri viðstaddur. Líkjör gekk út og Una fylgdi á eftir honum. Rétt í þann mund sem hún var að ganga um dyrnar snéri hún sér við og leit til Járngríms. Járngrími fannst hún fallegri en nokkurntíman fyrr.

"En hvað varð um stúlkuna?" spurði hún. "Sástu hana einhverntíman aftur?". Járngrímur brosti þreytulega.

"Nei, aldrei. En Darralás fékk hennar ekki heldur, þó hann þráði hana heitt. Örlögin höfðu ráðið ráðum sínum á annan veg".

"Veistu þá hvað varð um hana?" spurði Una. Járngrímur glotti nú harðneskjulega og í augum hans var áður óséð blik. Una vissi ekki hvernig hún átti að skilja viðmót hans.

"Hún var öðrum gefin, miklu voldugri og meiri manni".

"Voldugri manni?" sagði Una spyrjandi. Líkjör togaði létt í ermi hennar til að fá hana með sér.

"Þeim allra voldugasta" sagði Járngrímur og á andliti hans var beisk brosgretta. Skyndilega fannst Unu Járngrímur vera sá ljótasti maður sem hún hafði nokkurntíman séð. Hægt og rólega fór hún að skilja. Það var um leið og Líkjör dró hana óþolinmóður út í morgunskímuna.


Netútgáfan - janúar 1997