Sögur úr Fílabeinsturninum: Til sölu

Til sölu

Svo höfum við hérna þessa gullfallegu hundaklóru.
Er það ekki dásamlegt að geta launað besta vini mannsins
með því að klóra honum svolítið?
klóran er úr endingargóðu harðplasti og fæst í ýmsum litum.
Ef þú kaupir tvær færðu þá þriðju ókeypis
(við erum við símann núna, frí heimsendingarjónusta)

frelsið er yndislegt
en þú nýtur þess betur ef þú drekkur Horkóla
þegar þessi frískandi og bragðgóði svaladrykkur skolast niður um kverkar þínar muntu finna til stórkostlegs unaðar og hamingjubros mun breiðast út á rjóðu andliti þínu - þú munt hlægja og gleðjast með vinum þínum í sólinni - sýndu þorstanum í tvo heimana, drekktu Horkóla
(nú getur þú keypt Horkóla á hagstæðan hátt í tíulítrapakkningum)

en þessi ótrúlega þunnu og rakadrægu
bindi geta drukkið í sig tuttugufalda þyngd
sína af af blárri vætu - aldrei aftur rök,
ógeðsleg og óhrein óhamingja, þessi bindi
eru ekki þykk og klunnaleg heldur þunn
vængjuð og mjúk eins og þú sjálf

þú verður frjáls, skemmtileg, falleg og örugg - sönn kona
(munt sveifla mjöðmunum)
og allir munu renna aðdáunaraugum á eftir þér á þessum
glæsilega
og
skemmtilega
skutbíl þar sem þú geysist hjá í sólinni og reykspólar í snjónum,
þú og hin ódáinsfagra fjölskylda þín er í stöðugri lífshættu án hans
- þessi bíll er betri en aðrir bílar, treystu fjölskylduböndin
og stuðlaðu að hamingju þinna nánustu - sýndu heiminum
mátt þinn og megin
- taktu þátt í skemmtilegum leik, hringdu og svaraðu
þremur
laufléttum
spurningum
og þú getur unnið tíu tíma kort í
fullkomnustu sólbekkjum
landsins - koparbrún húð þín mun geisla af heilbrigði og krafti og þinn innri maður styrkjast
við að spegla sig í öfundaraugum náhvítra samferðamanna þinna - vanræktu ekki þinn innri mann,
fáðu þér ferska
og hressilega
16 eða 18 tommu pítsu með þremur áleggstegundum
eins og þessi kynæsandi unga stúlka sem gerir stút á varirnar
þegar hún drekkur gosdrykkinn sinn (stúlkan fylgir ekki með í kaupunum)

- þessar pítsur eru betri en aðrar pítsur og með hverri pítsu fylgir afsláttarmiði á
Helvíti, heitasta staðinn í bænum í dag, þar sem hundruðir hálfnakinna
lostafullra
og
þrýstinna kvenna bíða þess að láta táldragast
af þér
og aðeins þér (sjáðu hvernig þær horfa á þig)
- dúndurtónlist og djamm og djús frameftir morgni,
þú munt skemmta þér sem aldrei fyrr,
allar sorgir og sút fyrir bí, garantí
- í flottustu flíkunum í bænum, guðdómlega smört pils í öllum stærðum.
það er sama hver þú ert
þú getur alltaf gert betur með því að klæða þig upp
í fötunum frá okkur,
fegurð þín nýtur sín ekki til fulls í druslum
- þessi föt eru fallegri en önnur föt, sjáðu bara þetta laglega par hérna, hún í léttri blárri dragt
en hann í sportlegum ljósum aðskornum jakkafötum: þetta gæti verið þú,
svo eftir hverju ertu að bíða? þú einfaldlega æfir þig með nýja
VöðvaStöðva
tækinu í 3 mínútur á dag og björgunarhringirnir hverfa á einum mánuði
- hvað ertu að hugsa, heldurðu að ístrur æsi þær upp?
- VöðvaStöðva tækið, ekkert
puð, engin sársauki,
engin hlandvolgur daunillur sviti,
engar harðsperrur,
engin þreyta, í stuttu máli:
engin fyrirhöfn

ítarlegar rannsóknir virtra rannsóknastofa hafa leitt í ljós að
LjósHvítt Extra er betra en önnur þvottaefni - læturðu það fréttast að það séu blettir í tauinu þínu? en nú er raunum þínum lokið og björt, frískleg og blettafrí tilvera framundan, í LjósHvítt Extra eru ensím, sýrur, basar og lífræn efni frá sjálfri náttúrunni sem láta alla bletti hverfa eins og dögg fyrir sólu: LjósHvítt Extra - hættu að vera
feit og
ljót og
ógeðslega
skvapkennd og
óspennandi, éttu reiðinnar býsn af
Grönnmjósæt megrunarpillum og
þú getur orðið
þvengmjó og súpersexí
á örskömmum tíma
(gerið verðsamaburð)
líf þitt verður ekki samt á eftir, lífsgleði þín og hamingja munu blómstra þegar þú borðar Grönnmjósæt og valsar dillandi þér niður Bankastræti með gaurana blístrandi á eftir þér, umvafin áður óþekktri fegurðar-og kynþokkaáru
(hringdu núna) - ef hárið þitt er stríttt, feitt eða slitið og á annan hátt óviðsættanlega gallað
skaltu nota nýja náttúrulega
Últra-glanspróteinensímhylkja Ph 66 Súper Extra Future Plús improved formula sjampóið
- þetta sjampó er betra en önnur sjampó,
frísklegt og heilbrigt roðagullsglansandi mittissítt
slegið hár þitt mun bylgjast í slow-motion eins og
sjá má á þessari mynd (hárið á henni var ömurlegt)
og allir vita að fallegt hár ber fögrum innra manni fagurt vitni
(það finnst í þ.m. þessum stórmyndarlega unga manni sem kyssir hana létt á vangann)

- safnaðu hundrað miðum og þú getur hringt í Heimskulínuna og svarað nokkrum
laufléttum og skemmtilegum spurningum
um Smartkóla, t.d.
"Hvað er Smartkóla?",
"Er Smartkóla gott?" og
"Er hamingjan í Smartkóla?"
(aðeins þrjátíuogníuognítíuogníu mínútan) - í hverri viku verður dreginn út heppinn þáttakandi í þessum hressilega leik sem fær að launum ársbirgðir af Smartkóla - svo hættu að skrúbba!
þessi uppþvottalögur er betri en aðrir uppþvottalegir, hann beinlínis bræðir burtu
fitu og
óhreinindi með
ferskri og
hressilegri angan, eitt handtak og
sóðaskapurinn og ojbjakkið flýtur í burtu eins og það hafi aldrei verið til
- uppþvotturinn verður bæði léttur og skemmtilegur og hnífapörin og diskarnir glansa og gljá
BossaBleiur eru betri en aðrar bleiur og barnið þitt verður heilbrigt og fallegt með BossaBleiu á bossanum, ekki neitarðu barninu þínu um gleði og hamingju? - BossaBleiur eru með
sérstöku sniði og
náttúrulegu rakadrægu efni
sem gerir þessar bleiur algjörlega einstakar í sinni röð
- taktu þátt í frískum og fjörugum leik, hringdu í Bjánalínuna með með sögu af skemmtilegustu bleiuskiptum á barninu þínu
(starfsfólk okkar tekur við pöntunum núna)
- já, það er erfitt að höndla hamingjuna en við leggjum okkur fram um að bjóða aðeins bestu gæði og þjónustu - dragðu því upp veskið og sýndu viljann í verki


Netútgáfan - janúar 1997