BERGBÚA  ÞÁTTUR
Fjörður sá gengur af Kollafirði er heitir Djúpafjörður. Þórður hét maður er bjó í þeim firði fyrir vestan Hallsteinsnes er kennt er við þann Hallstein er þrælana átti þá er kallaðir voru Hallsteinsþrælar. Þórður var þá á góðum aldri og hafði vel fé.

Það bar til einn vetur er hann vildi fara til tíða fyrir einhvern hátíðardag. Hann kvaddi til ferðar með sér húskarl sinn. Til tíða var langt að fara svo að það var mikill hluti dagleiðar og fóru þeir snemma. Þeir fóru þar til er á leið daginn. Þá gerði á drífu mikla.

Þórður sagði að þeir fóru rangt og kvaðst eigi vilja ganga í myrkri en kvað þá skammt af veginum enn farið hafa: "Þykir mér hættlegt í náttmyrkri að vér göngum fyrir hamra ofan."

Þeir leituðu sér þá skjóls og gengu undir hamar einn brattan þann er engi var snjór undir. Þeir hittu þar loksins hellimunna þann er Þórður vissi eigi von til. Þar reist Þórður krossmark með broddum stæltum er hann hafði í hendi í hellisdyrunum. Síðan gengu þeir þar inn og settust niður á steina tvo hjá hellisdyrum því að þeir vildu eigi innar lengra.

En á fyrsta þriðjungi nætur þá höfðu þeir heyrt að nokkuð fór innar eftir hellinum og utar að þeim.

Húskarl Þórðar hræddist og hljóp út en Þórður bað hann sitja kyrran "og skaltu biðjast fyrir því að það er hætt við villu og kann það verða ef menn hlaupa út um nætur að þá sýnist annan veg en er."

Þá signdu þeir sig og báðu guð miskunnar sér því að þeim þóttu læti mikilfengleg innar í hellinum og varð þeim litið inn í myrkrið. Þeir sáu þá það er þeim þótti því líkast sem tungl tvö full eða törgur stórar og var á millum arn ... sn ein mikil. Ekki annað heldur ætluðu þeir en það væru augu tvö og mundi sá ekki mjóleitur er þau skriðljós bar. Því næst heyrðu þeir kveðandi harðla ógurlega með mikilli raust.

Var þar hafið upp kvæði og kveðinn tólf vísna flokkur og kvað sá ávallt tvisvar niðurlagið:

Hrynr af heiða fenri.
Höll taka björg að falla.
Fátt mun að fornu setri
fríðs aldjötuns hríðar.
Gnýr þá er gengr hinn hári
gramr um dökkva hamra.
Hátt stígr höllum fæti
Hallmundr í gný fjalla,
Hallmundr í gný fjalla.

Hrýtr, áðr hauga brjóti
harðvirkr megingarða,
gnýr er of seima særi
sáman, eldrinn kámi.
Eimyrju læt eg áma
upp skjótlega hrjóta.
Verðr um Hrungnis hurðir
hljóðsamt við fok glóða,
hljóðsamt við fok glóða.

Laugast lyftidraugar
liðbáls að það síðan,
vötn koma heldr um hölda
heit, í foldar sveita.
Það sprettr upp und epla
aur þjóð, vitu, jóða.
Hyr munat höldum særi
heitr, þar er fyrða teitir,
heitr, þar er fyrða teitir.

Springa björg og bungur
berg, vinnast þá, stinnar,
stór, og hörga hrærir
hjaldrborg, firar margir.
Þytr er um Þundar glitni.
Þramma eg á fyrir skömmu,
en magna þys þegnar
þeir hvívetna fleiri,
þeir hvívetna fleiri.

Þýtr í þungu grjóti
þrír eskimars svíra.
Undr líta þar ýtar
enn er jöklar brenna.
Þó mun stórum mun meira
morðlundr á Snjógrundu
undr, það er æ mun standa,
annað fyrr um kannast
annað fyrr um kannast.

Spretta kámir klettar.
Knýr víðis böl hríðir.
Aur tekr upp að færast
undarlegr úr grundu.
Hörgs munu höldar margir,
himinn rifnar þá, lifna.
Rignir mest. Að regni
rökkr, áðr heimrinn slökkvist,
rökkr, áðr heimrinn slökkvist.

Stíg eg fjall af fjalli,
fer eg oft litum, þoftum,
dást fer eg norðr hið nyrðra
niðr í heiminn þriðja.
Skegg beri oft, sá er uggir,
ámr, við minni kvámu,
brýt eg við bjarga gæti
bág, í Elivága,
bág, í Elivága.

Vorum húms í heimi,
hugði eg því, svo er dugði,
vér nutum verka þeira,
vallbingr, saman allir.
Undr er, hví örva mundi
eitr hríðin mér heita,
þó ef eg þangað kæmi,
þrekrammr við hlynglamma,
þrekrammr við hlynglamma.

Dauðan mér frá morði,
mun von ara kvonar,
handan Hrímnis kindar
hárskeggjaðan báru.
En steinnökkva styrkvan
stafns plóglimum gröfnum,
járni fáðan Aurni,
auðkenndan, réð eg senda,
auðkenndan, réð eg senda.

Sterkr, kveða illt að einu
oss við þann að senna,
Þór veldr flotna fári.
Felldr er sá er jöklum eldir.
Þverrðr áttbogi urðar.
Eg fer gneppr af nökkvi
niðr til Surts hins svarta
sveit, í eldinn heita,
sveit, í eldinn heita.

Veð eg sem mjöll í milli,
mart er einmyrklegt, heima.
Springr jörð því að þangað
Þór einn kveð eg svo fóru.
Breitt er und brún að líta
bjargálfa, mér sjálfum.
Heldr skek eg hvarma skjöldu.
Harmstríð, er eg fer víða,
harmstríð, er eg fer víða.

Einn á eg hús í hrauni.
Heim sóttu mig beimar,
fimr var eg fyrðum gamna
fyrr aldregi, Sjaldan.
Flokk nemið þið eða ykkað,
élherðar, mun verða,
enn er að Aurnis brunni
ónyt, mikið víti,
ónyt, mikið víti.

Þessi tíðindi bar fyrir þá þrem sinnum og þetta var kveðið á hverjum þriðjungi nætur og sáu þeir ávallt tunglin meðan kveðið var en ella eigi.

En þá er kvæðinu var lokið hið þriðja sinn þá leið frá þeim innar í hellinn allt saman enda sáu þeir þá lýsa af degi og hvötuðu þeir þá út úr hellinum. En áður þeir gengju á brott brá Þórður fæti sínum á krossmarkið er hann hafði í hellisdyrum gert.

Síðan fóru þeir og komu til kirkju og var þá lokið tíðum. Síðan fóru þeir heim og komu þar til er þeir þóttust verið hafa um nóttina og fundu engan þá hellinn og þótti það undur mikil. Síðan gengu þeir heim. Þórður mundi flokk þenna allan en húskarl mundi ekki orð í.

En ári síðar eftir þetta þá færði Þórður byggð sína nær kirkju en að jafnlengd þessa atburðar önnur misseri þá andaðist húskarl, förunautur Þórðar. En hann lifði lengi síðan og urðu honum engir hlutir kynlegar en áður en þó eru slíkt fáheyrðir hlutir.
Netútgáfan - mars 1998