ÖGMUNDAR  ÞÁTTUR  DYTTS
Í þenna tíma voru margir menn og göfgir á Íslandi þeir er í frændsemistölu voru við Ólaf konung Tryggvason. Einn af þeim var Víga-Glúmur son Eyjólfs hrúgu og Ástríðar Vigfúsdóttur hersis, sem fyrr er sagt. Helga hét systir Víga-Glúms. Hún var gift Steingrími í Sigluvík. Þorvaldur hét son þeirra er kallaður var tasaldi.

Sá maður hafði vaxið upp með Víga-Glúmi er hét Ögmundur. Hann var Hrafnsson. Hrafn var þá auðigur maður og bjó norður í Skagafirði. Hann hafði verið þræll Glúms og Ástríðar móður hans og hafði Glúmur gefið honum frelsi og var Hrafn hans leysingi. Móðir Ögmundar var Guðdælaættar og er hún eigi nefnd. Hún var skyld Víga-Glúmi að frændsemi. Ögmundur var fríður maður sýnum, mikill maður og gervilegur. Hafði hann gott yfirlæti af Glúmi frænda sínum. Glúmur var þá hniginn á efra aldur og bjó að Þverbrekku í Öxnadal er Ögmundur frændi hans var roskinn en Vigfús son Glúms var þá með Hákoni jarli í Noregi.

Á einu vori sagði Ögmundur Glúmi að hann fýstist utanferðar.

"Vildi eg," segir hann, "kaupa mér skip að Gásum. Vil eg þar til kosta fjár föður míns er nógt er til en hafa af þér ásjá og orðafullting."

Glúmur svarar: "Margir fara þeir utan er ekki eru mannvænlegri en þú ert að sjá. Nú þætti mér miklu skipta að þú fengir heldur af förinni sæmd og mannvirðing en mikið fé ef eigi er hvorstveggja kostur."

Keypti Glúmur honum skip að norrænum mönnum og bjó Ögmundur ferð sína og mikinn fjárhlut er faðir hans fékk honum. Skyldi Ögmundur vera forráðandi skips þess og manna. Voru þar á fáir menn aðrir en íslenskir þeir er ekki höfðu fyrr farið utan. Þeir létu í haf heldur síð sumars. Gaf þeim vel byri. Fengu þeir stór veður og hagstæð.

En er þá bar úr hafi sáu þeir land að áliðnum degi og var blásandi byr að landi. Mæltu þá norrænir menn þeir er leið sögðu að varlegra væri að lægja seglið og leggja skipið í rétt um nóttina en sigla til lands að ljósum degi.

Ögmundur svarar: "Ekki skulum vér ónýta byr svo góðan. Er eigi víst að slíkur byr sé á morgun en tunglsljós mikið í nótt."

Gerðu þeir sem hann mælti að þeir sigldu. En er þeir áttu skammt til lands lágu fyrir þeim langskip mörg í tengslum í eyjasundi nokkuru og sáu þeir eigi fyrr skipin en þeir sigldu eitt í kaf og svo inn að meginlandi til hafnar. Sögðu þá sumir menn þeir er voru á kaupskipinu að þeir hefðu siglt óviturlega en Ögmundur svarar að hvorir urðu sín að geyma.

En fyrir langskipum þeim átti að ráða Hákon jarl. En það skip er þeir höfðu í kaf siglt átti sá maður er Hallvarður hét. Hann var ríkur maður og hinn mesti vin jarls. Hafði þar týnst fé allt það er á var skipinu en mönnum varð borgið. Jarlinum var sagt þegar um morguninn hver svívirðing og skaði þeim var ger.

Jarl varð við þessi tíðindi mjög reiður og sagði svo: "Þessir menn munu vera snápar og hafa ekki komið fyrr í önnur lönd. Nú gef eg þér Hallvarður orlof til að refsa þeim og hefna þinnar svívirðingar því að þeir einir munu þessir menn vera að þér mun ekki ofurefli við að eiga. Skortir þig hvorki til hreysti né harðfengi að gera þeim þvílíka skömm eða meiri hverjir sem þeir eru."

Þá svaraði Vigfús Víga-Glúmsson: "Þér munuð herra vilja taka sættir af mönnum þessum og haldi þeir lífi sínu ef þeir vilja leggja sitt mál á yðvarn dóm. Nú mun eg fara að vita hvað manna þeir séu og leita um sættir ef þess er kostur."

Jarl svarar: "Mátt þú það gera en frekur get eg að þeim þyki lokar minn til fégjalda um slík stórmál."

Vigfús fór til kaupskipsins og kenndi þar Ögmund frænda sinn og fagnaði honum vel og spurði tíðinda af Íslandi frá föður sínum. Ögmundur sagði slíkt er hann spurði.

Síðan mælti Vigfús: "Yðvart mál horfir til mikilla vandræða af tilfellum þessum."

Sagði Vigfús þá hvað að var orðið og svo það að Hákon jarl hafði seinlega tekið á sættargerð við þá: "Nú er það mitt erindi hingað til þín frændi að biðja þig leggja á jarls dóm. En eg skal byrja þitt mál sem eg kann og mun þá með nokkuru móti vel af hendi fara."

Ögmundur svarar: "Það eitt frétti eg af jarli þessum að ekki legg eg allt mitt mál á hans dóm og einna síst ef hann heitir illu því að það mun hann efna. En eigi fyrirtek eg að bæta þetta tilfelli ef hann mælir lítillega til."

Vigfús svarar: "Á það mættir þú líta hvað þér hæfir því að þú átt við þann um að þér er ekki berandi hans reiði og neita hans dómi."

Vigfús fór út til skips jarls og sagði honum að þessir menn voru hans fóstbræður en sumir frændur "vilja þeir og leggja sitt mál á yðvart vald."

Þá svarar einn maður jarls: "Rangt segir þú Vigfús þínum herra. Þeir bjóða engi nýt boð fyrir sig."

Hallvarður svarar: "Þetta er sannast að mér er hæfilegt að hefna mín sjálfur og þurfa þar ekki annarra manna við."

Jarl bað hann svo gera.

Vigfús mælti: "Þess manns skal eg banamaður verða, ef eg má ráða, er drepur Ögmund frænda minn."

Hallvarður svarar: "Þó að þér séuð ofurhugar miklir Íslendingar þá er þess von hér í landi að menn vilji eigi þola skammir bótlaust heldur af yður frændum Víga-Glúms en öðrum mönnum, þeir er nokkurs þykjast verðir."

Reri Hallvarður þá til kaupskipsins en jarl lét hafa styrk varðhöld á Vigfúsi. Hallvarður kom að kaupskipinu og spurði hver þar væri formaður. Ögmundur sagði til sín.

Þá mælti Hallvarður: "Vér félagar eigum við yður stórsakir og erum nú til þess hér komnir að vita ef þér viljið bjóða fyrir yður nokkurar sæmilegar bætur."

Ögmundur svarar: "Eigi mun yður bóta synjað ef eigi er freklega til mælt."

Hallvarður mælti: "Þeir menn eiga hér í hlut að eigi vilja smáhluti þiggja fyrir stórar svívirðingar."

Ögmundur mælti: "Þá viljum vér varna bóta ef stórlega er látið í mót."

"Eg ætla það og líkast," segir Hallvarður, "að biðja yður ekki þess er þér ættuð að bjóða."

Hljóp hann þá upp á kaupskipið og laust Ögmund mikið öxarhamarshögg svo að hann féll þegar í óvit. Fór Hallvarður við það á fund jarls og sagði honum. En jarl kvað miklu minna að gert en maklegt væri.

Hallvarður svarar: "Höfðingi þeirra var mest sakbitinn hér um og sýndist mér að gera eigi meira að í þessu sinni en ljósta hann í svíma. Var það maklegt að svívirðing kæmi svívirðing í mót. En það er fyrir hendi að auka enn hefnd síðar ef sýnist."

En þegar Vigfús vissi þetta þá eirði honum stórilla og vildi vinna á Hallvarði eða drepa hann ef hann kæmist í færi. En jarl lét geyma hans svo að honum urðu engi færi á því.

Ögmundur vitkaðist og hafði þó fengið mikla ákomu og lá lengi vetrar en varð þó heill um síðir og varð af þessu efni mjög gabbaður svo að hvar sem hann kom var hann kallaður Ögmundur dyttur. En hann lét sem hann vissi eigi hvað hvergi talaði. Vigfús kom oft til hans og bað hann hefna sín.

"Vil eg þar til," sagði hann, "veita þér mitt liðsinni að þú rekir þinnar svívirðingar."

Ögmundur svarar: "Þetta mál veit eigi svo við frændi. Sýnist mér að eg sé eigi meir vanvirður í þessu máli en Hallvarður og er varla von að minna mundi við koma svo harðlega sem vér höfðum vora sök til búið í fyrstu. Er það óráð að hefna þessa svo sem Hallvarður er mikill vin Hákonar jarls en þú kominn hér á hans vald. Á eg annað að gjalda Glúmi föður þínum en hafa þig í þeirri hættu að þér sé vís von meiðsla eða bana af minni tilstýringu."

Vigfús svarar: "Fyrir það kann eg þér enga þökk og eigi mun faðir minn kunna að þú látir sem þú skulir sjá fyrir mínum kosti þar um er eg vil eigi sjálfur. Ætla eg þér heldur ganga til þess hugleysi en varhygð og er illt að fylgja þeim manni er hérahjarta hefir í brjósti. Er það og líkast að þér bregði meir í þrælaættina en Þveræinga."

Skildu þeir við það að Vigfús var hinn reiðasti.

Leið af veturinn og vorið. Bjó þá Ögmundur skip sitt og fór út til Íslands um sumarið og hafði aflað mikils fjár í ferð þessi. Kom hann skipi sínu í Eyjafjörð. Glúmur frétti skjótt skipkomuna. Var honum og þegar sagt hverja svívirðing Ögmundur hafði fengið. En er Ögmundur hafði gert ráð fyrir skipi sínu og fé þá fór hann til Þverbrekku og dvaldist með Glúmi um hríð. Var Glúmur við hann fálátur og fannst það á að honum var engi þökk á hans komu. Ögmundur var hinn kátasti og barst á mikið. Hann fór til allra mannfunda er þar voru í sveit og var heldur hlutsamur um mál manna. Og ef nokkura menn greindi á þá þótti engi maður skjótlegri til stórræða en Ögmundur. Hann var og tiltakasamur um allt það er Glúmur þurfti við um bústilskipan eða aðflutningar og lét yfir sér hið vænlegasta. En það var lengi að Glúmur vildi ekki við hann mæla.

Og einn dag mælti Glúmur til hans: "Vita skaltu það Ögmundur að eg kann þér enga þökk fyrir starfa þinn og undarlegt þykir mér hví þú ert svo framgjarn eða íhlutunarmikill um mál manna þar sem engi dáð fylgir þér og hefir herfileg orðið þín hin fyrsta ferð, svo að eg vildi gjarna aldrei sjá þig, er þú vildir verða sjálfum þér að skömm og brigsli öllum frændum þínum og bera ævinlegt klækisnafn að þora eigi að hefna sín."

Ögmundur svarar: "Á það mátt þú líta frændi hvað mér gekk til er hefndin fórst fyrir. Mér þótti mikið í hættu þar sem Vigfús var son þinn."

"Þar máttir þú," sagði Glúmur, "ekki fyrir sjá er hann vildi eigi sjálfur. Þætti mér það til vinnanda að þið væruð báðir dauðir og hefðir þú sýnt af þér hugprýði um hefndina. Nú er það annaðhvort að þú ert frá því þróttigur og þolinn sem flestir menn aðrir og muntu sýna af þér karlmennsku þó að síðar sé því að í annan stað værir þú eigi svo bleyðimannlegur í bragði. Ella ert þú með öllu ónýtur og verður það þá ríkara sem verr gegnir að oft verður ódrjúg til drengskaparins hin ófrjálsa ættin. En ekki vil eg þig lengur hafa með mér."

Fór Ögmundur þá til föður síns.

En er Ögmundur hafði verið tvo vetur á Íslandi þá bjó hann skip sitt um sumarið og fékk manna til og sigldi til Noregs, kom af hafi norður við Þrándheim og hélt inn á fjörðinn. Hann lagði skipi sínu síð dags undir Niðarhólm.

Þá mælti Ögmundur: "Nú skal skjóta báti. Mun eg róa inn í ána og vil eg vita tíðindi af landinu."

Ögmundur tók yfir sig feld hálfskiptan og hlöðum búinn um handveginn. Var það ágæta gripur. Gekk Ögmundur á bát við þriðja mann. Það var um morguninn snemma. Reru þeir inn að bryggjunum.

Þá gekk maður ofan úr bænum. Sá var í heklu. Hún var ger af skarlati og saumuð öll brögðum. Heklumaðurinn gekk ofan á bryggjurnar og spurði hver fyrir bátinum réði. Ögmundur sagði til sín.

Bæjarmaðurinn mælti: "Ert þú Ögmundur dyttur?"

"Kalla svo sumir menn," sagði hann, "eða hvað heitir þú?"

Hann svarar: "Eg heiti Gunnar helmingur. En eg er því svo kallaður að mér þykir gaman að hafa hálflit klæði."

Ögmundur mælti: "Hvað er tíðinda hér í landi?"

Gunnar svarar: "Þau þykja nú stærst tíðindi að Hákon jarl er dauður en kominn til ríkis ágætur konungur, Ólafur Tryggvason."

Ögmundur mælti: "Hvað veist þú til hvar sá maður er er Hallvarður heitir, þrænskur maður, ættstór og auðigur?"

Gunnar svarar: "Það er eigi undarlegt þó að þú spyrjir að honum. Hann er nú kallaður Hallvarður háls því að hann var í Jómsvíkingabardaga í fyrra vetur með Hákoni jarli og fékk þar sár mikið á hálsinn fyrir aftan eyrað og ber hann síðan hallt höfuðið. En nú er hann hér í bænum með Ólafi konungi og hefir fengið af honum góðar virðingar. En feld hefir þú góðan Ögmundur og vel litan er tvískiptur er. Viltu selja mér feldinn?"

Ögmundur svarar: "Eigi vil eg selja þér feldinn. En ef þér líst vel á hann þá vil eg gefa þér."

"Gef þú manna heilastur," sagði Gunnar, "og vildi eg geta launað þér þessa gjöf. En heklu þessa skaltu fyrst hafa. Má vera að þér verði að henni gagn."

Gekk Gunnar þá upp nokkru innar í bæinn og var í feldinum. En Ögmundur fór í hekluna.

Hann mælti til manna sinna: "Nú skuluð þið festa bátinn við bakkann lítt það að skutstafninum svo að eigi svífi frá meðan eg geng upp en þið skuluð sitja í rúmunum og hafa búnar árar til róðrar."

Síðan gekk Ögmundur upp í garðinn og varð lítt við menn var. Hann sá opnar dyr á einu herbergi og stóðu þar nokkurir menn við handlaugar og var einn mestur og fríðastur sýnum. Sá bar hallt höfuðið og kenndi Ögmundur að frásögn Gunnars að þar mundi vera Hallvarður. Gekk Ögmundur að durunum og þóttust allir þar kenna Gunnar helming þeir er inni voru. Hann var heldur lágtalaður.

Bað hann Hallvarð ganga út til sín um litla muni "því að eg á skylt og skjótt erindi við þig," sagði hann.

Sneri hann þá annan veg frá durunum og brá sverðinu er hann hafði í hendi. Gunnar helmingur var þar öllum mönnum málkunnigur og gekk Hallvarður út einn saman en Ögmundur hjó hann þegar banahögg er hann kom að honum. Hljóp Ögmundur þá ofan til bátsins. Kastaði hann af sér heklunni, lét koma stein í höttinn og fleygði út á ána og sökk hún til grunna. Ögmundur gekk á bátinn og bað þá róa út úr ánni.

En er þeir komu til kaupskipsins mælti hann til sinna manna: "Hér er ófriður mikill í landi en nú kastar vindi innan eftir firðinum. Munum vér vinda segl vort og sigla út aftur til Íslands."

Þeir kölluðu hann heldur hræddan er hann þorði eigi að koma á land þó að þarlenskir menn ættust illt við. Þeir gerðu þó sem hann mælti fyrir, komu aftur til Íslands og tóku Eyjafjörð.

Fór Ögmundur á fund Víga-Glúms og sagði honum sína ferð, kvað þá hefndina komna fram þó að frestin væri löng. Glúmur lét þá vel yfir, kallaði það og verið hafa sitt hugboð að hann mundi verða nýtur maður um síðir. Var Ögmundur þá með Glúmi um veturinn í góðu yfirlæti.

En nú er þar til að taka að þá er mönnum Hallvarðs þótti seinkast innkoma hans gengu þeir út og fundu hann liggja dauðan í blóði sínu. Voru þá sögð þessi tíðindi Ólafi konungi og það með að menn hugðu að Gunnar helmingur hefði drepið Hallvarð.

Konungur svarar: "Hann mundi eg eigi í heldra lagi til kjósa en þó skal nú þegar í stað leita að honum og festa hann upp ef hann er þessa valdur."

Gunnar helmingur átti sér bróður er hét Sigurður. Hann var auðigur og hirðmaður Ólafs konungs og honum kær mjög. Var Sigurður þar í bænum. En þegar hann varð var við að bróður hans var ætlaður dauði þá leitar hann að honum og finnur hann. Spurði Sigurður hann ef hann væri sannur verks þessa er honum var kennt. Gunnar kvað það fjarri vera.

Sigurður mælti: "Það hafa menn þó fyrir satt og seg þú mér hvað þú veist til um atburð þenna."

Gunnar svarar: "Það segi eg að sinni hvorki þér né öðrum."

Sigurður mælti: "Forða þér þá."

Gunnar gerði svo og komst hann til skógar og varð eigi fundinn. Fór hann síðan austur um fjall og um Upplönd, allt huldu höfði. Létti hann sinni ferð eigi fyrr en hann kom fram austur í Svíþjóð.

Þar voru blót stór í þann tíma og hafði Freyr þar verið mest blótaður lengi og svo var mjög magnað líkneski Freyrs að fjandinn mælti við menn úr skurðgoðinu og Frey var fengin til þjónustu kona ung og fríð sýnum. Var það átrúnaður landsmanna að Freyr væri lifandi sem sýndist í sumu lagi og ætluðu að hann mundi þurfa að eiga hjúskaparfar við konu sína. Skyldi hún mest ráða með Frey fyrir hofstaðnum og öllu því er þar lá til.

Gunnar helmingur kom þar fram um síðir og bað konu Freyrs hjálpa sér og beiddi að hún mundi hann láta þar vera. Hún leit við honum og spurði hver hann væri. Hann kveðst vera brautingi einn lítils háttar og útlendur.

Hún mælti: "Eigi muntu vera í alla staði gæfumaður því að Freyr lítur eigi vinaraugum til þín. Nú hvíl þig hér fyrst þrjár nætur og vita þá hversu Frey þóknist til þín."

Gunnar svarar: "Miklu þykir mér betra að þiggja þína hjálp og hollustu en Freyrs."

Gunnar var glaður og skemmtanarmaður mikill. En er þrjár nætur voru liðnar spurði Gunnar konu Freyrs hversu þá skyldi vera um þarvist hans.

"Eigi veit eg það gjörla," sagði hún, "þú ert maður félaus og kann þó vera að þú sért góðra manna og væri mér um það meira að veita þér nokkura ásjá. En Frey er lítið um þig og uggi eg að hans reiði liggi á. Nú ver þú hér hálfan mánuð og sjáum þá hvað í gerist."

Gunnar mælti: "Svo skiptir hér til sem eg mundi kjósa að Freyr hatar mig en þú hjálpar mér því að eg ætla hann eigi meðalfjanda vera."

Gunnar þóknaðist mönnum því betur sem hann hafði þar lengur verið fyrir skemmtan sína og annan vaskleik. Kom hann enn að máli við konu Freyrs og spurði um sína hagi.

Hún svarar: "Vel líkar mönnum til þín og þykir mér ráð að þú sért hér í vetur og farir á veislur með okkur Frey þá er hann skal gera mönnum árbót. En þó er honum illa við þig."

Gunnar þakkaði henni vel.

Líður nú að þeirri stundu er þau búast heiman og skyldu þau Freyr og kona hans sitja í vagni en þjónustumenn þeirra skyldu ganga fyrir. Þau áttu langt að fara yfir fjallveg nokkurn. Þá gerði að þeim hríð mikla. Gerðist þá færðin þung en Gunnar var til ætlaður að fylgja vagninum og leiða eykinn. En um síðir kom svo að allt fólkið dreif frá þeim svo að Gunnar einn varð eftir og þau Freyr í vagninum. Tók Gunnar þá að mæðast mjög er hann gekk fyrir og leiddi eykinn. Og er svo hafði farið um stund þá gefur hann upp fyrirgönguna og sest í vagninn en lætur eykinn ráða leiðinni.

Litlu síðar mælti hún til Gunnars: "Dugi þú enn og leið hestinn ella mun Freyr standa að þér."

Hann gerir svo um hríð.

En er hann mæddist enn mjög mælti hann: "Til mun eg nú hætta að taka í móti Frey ef hann ræður á mig."

Freyr réðst þá úr vagninum og taka þeir fang og verður Gunnar mjög aflvani. Hann sér að eigi mun svo búið duga. Hugsar hann þá fyrir sér ef hann getur yfirkomið þenna fjanda og verði honum auðið að koma aftur til Noregs að hann skal hverfa aftur til réttrar trúar og sættast við Ólaf konung ef hann vill við honum taka. Og þegar eftir þessa hugsan tekur Freyr að hrata fyrir honum og því næst fellur hann. Hleypur þá úr líkneskinu sá fjandi er þar hafði í leynst og var þá tréstokkur einn tómur eftir. Braut hann það allt í sundur. Síðan gerði hann konunni tvo kosti, að hann mun hlaupa frá henni og leita fyrir sér ella skal hún segja er þau koma til byggða að hann sé Freyr. Hún kvaðst það vilja gjarna segja heldur. Fór hann þá í búnað skurðgoðsins.

En veðrið tók að birta. Komu þau um síðir til veislu þeirrar er þeim var búin. Var þar fyrir mart þeirra manna er þeim skyldu fylgt hafa. Þótti fólkinu nú mikils um vert hversu Freyr sýndi mátt sinn er hann skyldi komast til byggða með konu sína í veðri slíku þar sem allir menn höfðu hlaupið frá þeim og það með að hann mátti nú ganga með öðrum mönnum og át og drakk sem aðrir menn.

Fóru þau að veislum um veturinn. Var Freyr jafnan fátalaður við aðra menn en konu sína og eigi vill hann láta kvikvendi sæfa fyrir sér sem fyrr og engi blót vill hann þiggja og engar fórnir eða offur utan gull og silfurklæði góð eða aðrar gersemar.

En er stundir líða fram þykjast menn finna að kona Freyrs er með barni. Það verður mönnum allágætt og þótti Svíum nú allvænt um þenna guð sinn. Var og veðrátta blíð og allir hlutir svo árvænir að engi maður mundi slíkt. Spyrjast þessi tíðindi víða um lönd hversu blótguð Svía er máttugur. Kemur þetta og fyrir Ólaf konung Tryggvason og grunar hann um hverju gegna mun.

Og einn dag um vorið kallaði Ólafur konungur til tals við sig Sigurð bróður Gunnars helmings. Konungur spurði ef hann frétti nokkuð til Gunnars bróður síns. Sigurður kvaðst ekki til hans frétta.

Konungur mælti: "Það hefir hugur minn að þessi blótguð Svía er nú ganga mestar sögur frá og þeir kalla Frey að þar muni vera reyndar Gunnar bróðir þinn því að þau blót verða römmust er lifandi menn eru blótaðir. Nú vil eg senda þig austur þangað eftir honum því að það er herfilegt að vita ef kristins manns sála skal svo sárlega fyrirfarast. Vil eg gefa honum upp reiði mína ef hann vill auðveldlega koma á minn fund því að eg veit nú að Ögmundur dyttur hefir drepið Hallvarð en eigi Gunnar."

Sigurður brá við skjótt og fór til fundar við Frey þenna og kenndi þar Gunnar bróður sinn. Bar hann honum erindi og orð Ólafs konungs.

Gunnar svarar: "Fús væri eg að fara og sættast við Ólaf konung. En ef Svíar verða varir við hvað um er þá munu þeir vilja taka mig af lífi."

Sigurður mælti: "Vér skulum leynilega leita héðan á braut og hafa á því traust sem vera mun að meira megi gæfa og góðvilji Ólafs konungs með guðs miskunn en illvilji og eftirleitan Svía."

Gunnar býr sig og konu sína og höfðu með sér lausafé slíkt er þau máttu með komast, réðu síðan til ferðar leynilega um nótt. En er Svíar verða þessa varir þá þykjast þeir allt sjá hversu farið mun hafa og sendu þegar menn eftir þeim. En er þeir voru skammt komnir þá villtust þeir vegar og fundu þau eigi. Fóru Svíar við það aftur. En þau Sigurður léttu eigi sinni ferð fyrr en þau fundu Ólaf konung. Tók hann Gunnar aftur í sætt við sig en lét skíra konu hans og héldu þau síðan rétta trú.


(Í slitróttu broti úr Vatnshyrnu, AM 564a 4to, er upphaf þáttarins varðveitt og fylgir það hér.)


Sá maður óx upp með Glúmi er Ögmundur hét og var Hrafnsson. Sá hafði verið foringi þræla þeirra er Þorkell hinn hávi kærði. Móðir hans var Goðdælaættar og var hún gift til peninga honum Hrafni og bjó hann vestur í Héraði og var maður mjög auðigur. En Ögmundur var nokkuð skyldur Glúmi í móðurætt sína. Þá var Vigfús Glúmsson utan í það mund. Ögmundur var vænn maður og gervilegur, mikill og sterkur, hafði gott yfirlæti af Glúmi og ... virðing minni en peninga meiri.

Nú býst Ögmundur utan með fé mikið og á hann einn skipið. En þar voru frumferlar einir á skipinu, ungir menn og röskvir. Ögmundur skyldi hafa forráð fyrir þeim, koma um haustið að Eyrum en byr var hraður að landi og vildu sumir kasta akkerum og liggja þar um nóttina en Ögmundur segir að nýta skyldi góðan byr.

Og fullur skriður er nú á skipinu en í Eyrasundum voru mörg langskip í tengslum. Og er mikill skriður var á skipinu máttu þeir eigi skjótt að gera og sigla þeir á flotann er fyrir þeim var og í kaf eitt langskipið og svo inn að meginlandinu og svo í höfn. Og þá ræddu menn um að óviturlega væri farið en Ögmundur segir að þar yrðu hvorir að gæta sín er komnir væru.

En forráðandi skipanna var Hákon jarl hinn ríki. En um morgun var honum sagt þetta tilfelli að Íslendingar höfðu gert honum mikla sneypu og svívirðing en fé mikið hafði þar týnst en menn höfðu haldist. En sá maður réð fyrir skipinu er Hallvarður hét og var hinn mesti vinur jarls og mikils virður.

En jarl verður mjög reiður og segir að þessir menn munu vera miklir vitleysingar og meiri von að þeir hafi eigi fyrr komið í önnur lönd en lét maklegt að þeir væru drepnir og kvað Hallvarður mega refsa þeim. Hann sagði sig eigi og til vanta að launa þeim ef hann gefi þá upp.

Þá segir Vigfús Glúmsson: "Þetta er eigi vel orðið. Menn þessir eru frændur mínir og vinir og mun eg láta yður dæma sjálfa."

Jarl segir: "Frekur mun þeim eg þykja á fén."

Vigfús fer nú til fundar við þá en Ögmundur fagnar honum vel og spyrjast tíðinda. Vigfús spyr að föður sínum en Ögmundur segir að hans sæmd og virðing vaxi einart en þverri aldrei.

Vigfús segir: "Yður óför hefir staðið til mikillar ógiftu en erindi mitt er það að biðja yður að þér leggið á dóm jarls fyrir þetta vandræði er þér hafið í ratað en eg mun flytja mál yðvart."

Ögmundur segir: "Það eitt er mér sagt af jarli þessum að eg mun eigi mitt mál undir hann leggja, einkanlega er hann heitir illu, en fyrirtaka eigi að bæta ef hann mælir vel til en ekki ellegar."


(Niðurlag brotsins er slitrótt.)
Netútgáfan - maí 1999