EINARS  ÞÁTTUR  SKÚLASONAR
1. kafli

Einar Skúlason var með þeim bræðrum Sigurði og Eysteini og var Eysteinn konungur mikill vin hans. Og Eysteinn konungur bað hann til að yrkja Ólafsdrápu. Og hann orti og færði norður í Þrándheimi í Kristskirkju sjálfri og varð það með miklum jartegnum og kom dýrlegur ilmur í kirkjuna. Og það segja menn að þær áminningar urðu af konunginum sjálfum að honum virtist vel kvæðið. Eysteinn konungur virti Einar mikils.

Og eitt sinn er það sagt að konungurinn Eysteinn var kominn í sæti en Einar var eigi kominn. Eysteinn konungur hafði þá gert hann stallara sinn. En þetta var norður í Þrándheimi. Hafði Einar verið til nunnuseturs á Bakka.

Þá mælti konungur: "Víttur ertu nú skáld er þú kemur eigi undir borð og ert þó konungsskáld. Nú munum við eigi sáttir nema þú yrkir nú vísu áður eg drekki af kerinu."

Þá kvað Einar vísu:

Oss lét abbadissa
angri firrð um svangan
dygg þótt víf hin vígðu
Viti fyr það gyrða.
En til áts með nunnum,
ógnar rakks, á Bakka,
drós gladdit vin vísa,
varat stallarinn kallaðr.

Nú líkar konungi allvel.


2. kafli

Það er og sagt þá er Sigurður konungur var staddur í Björgyn varð sá atburður að í bænum voru leikarar og hét annar Jarlmaður. Og hann Jarlmaður tók kið eitt og át frjádag og konungur vill það refsa honum og lét taka hann og hýða.

Og er Einar kemur að þá mælti hann: "Hart viljið þér nú búa við Jarlmann félaga vorn."

Konungur mælti: "Þú munt nú ráða. Vísu skaltu yrkja og meðan þú yrkir skal hann hýða."

Einar mælti: "Það mundi hann vilja Jarlmaður að mér yrði eigi alltorfynt."

En fimm högg lustu þeir hann.

Þá mælti Einar: "Nú er vísan ort."

Austr tók illa kristinn
Jarlmaðr frá búkarli,
gráðr var kjöts á kauða,
kiðling, hinn er slær fiðlu.
Vöndr hrökk, vomr lá bundinn,
velmáll, á skip þíslar,
söng leikara lengi
lími harðan príma.


3. kafli

Það barst að eitt sumar að sú kona kom til Björgynjar er Ragnhildur hét, dýrleg kona. Hana átti Páll Skoftason. Hún hélt einu langskipi, fór svo veglega sem lendir menn, dvaldist þar í bænum.

Og er hún bjóst í brott þá sá konungur ferð hennar og mælti: "Hvað er nú skálda með oss?" segir konungur.

Þar var Snorri Bárðarson. Honum var ekki auðfynt og tók hann ekki svo skjótt til sem konungur vildi.

Þá mælti konungur: "Eigi mundi svo fara ef Einar væri hér með oss."

Hann var þá nakkvað svo fráskili orðinn konungi fyrir ógá og spyr konungur ef hann væri í bænum og mælti að fara skyldi eftir honum.

Og er hann kom á bryggjurnar mælti konungur: "Velkominn skáld. Sjá nú hversu veglega ferð konu þessar er búin. Yrk nú vísu og haf lokið áður skipið gengur út fyrir Hólm."

Einar svarar: "Eigi mun það kauplaust."

Konungur spurði: "Hverju skal kaupa?"

Einar svaraði: "Þú skalt skyldur til og hirðmenn þínir sjö að í frá að sitt orð muni hver yðar í vísunni og ef það brestur gefið mér jafnmarga aska hunangs sem þér munið eigi orðin."

Konungur játti því.

Þá kvað Einar vísu:

Hola báru rístr hlýrum
hreystisprund að sundi,
blæs élreki of ási,
Útsteins, vefi þrútna.
Varla heldr und vildra
víkmar á jarðríki,
breiðr viðr brimsgang súðum
barmr, lyftingar farmi.

Þá mælti konungur: "Það ætla eg að eg muni: "Hola báru rístr hlýrum" -já, veit guð - "barmr lyftingar farmi.""

Aldregi mundu þeir það er í milli var.

Einar var þá í konungssveit og í öllu samlagi við konungsmenn.
Netútgáfan - apríl 1998