GÍSLS  ÞÁTTUR  ILLUGASONAR 


(Úr B-gerð Jóns sögu helga)1. kafli

Eftir þetta fer hinn sæli Jóhannes sunnan af Danmörk í mikilli blíðu og góðu orlofi Sveins konungs, snúandi ferð sinni til Noregs og svo norður til Þrándheims, ætlandi að vitja með góðfýsi heilagra dóma hins blessaða Ólafs konungs, guðs píslarvotts. Í þann tíma réð fyrir Noregi Magnús konungur hinn góði, son Ólafs konungs, er kallaður var Magnús berbeinn, sonarson Haralds Sigurðarsonar.

Þenna tíma sat konungurinn í Þrándheimi. Voru þar þá margir íslenskir menn, Teitur son Ísleifs biskups og mart annað mektugra manna af Íslandi en þá hafði þar orðið ill tíðindi því að einn íslenskur maður er Gils hét hafði drepið einn hirðmann Magnúss konungs er Gjafvaldur hét. En Gísl fyrrnefndan hafði það til þessa verks rekið að hann átti hefna föður síns því að Gjafvaldur hafði vegið Illuga föður hans á Íslandi en Gísl var þann tíma barn að aldri.

Nú er þar til frásagnar að taka að bráðlega eftir víg Gjafvalds var Gísl tekinn, fjötraður og í myrkvastofu rekinn. Sem Íslendingar allir þeir er í bænum voru spyrja þetta ganga þeir án dvöl til myrkvastofunnar er Gísl sat inni harðlega höndlaður. Sem Teitur biskupsson er fyrir þeim var kemur að stofudyrunum og þrjú hundruð íslenskra manna með honum hrundu þeir upp hurðina og brast við hátt. Þá kipptist Gísl við lítt það. Þá einu sinni sáu menn það.

En áður þeir komu var Gils sagt að konungsmenn fóru. Þá kvað hann vísu:

Kátr skal eg enn þótt ætli
aldrtjón viðir skjaldar,
járn taka oss að orna,
unda teins, að beinum.
Hverr deyr seggr en, svarri,
snart er dreng skapað hjarta.
Prúðr skal eg enn í óði
eitt sinn á það minnast.

Teitur hjó af honum fjöturinn og tók hann á sitt vald og gengu síðan til mótfjala. Þá kom þar Auðun gestahöfðingi í mót þeim og ætluðu þá að taka Gísl.

Þá mælti Auðun: "Eigi voruð þér nú tómlátir einu sinni Íslendingarnir og það hygg eg að þér ætlið yður nú dóm á manninum en eigi konunginum. Væri og vel að þér rækjuð minni til hvað þér hafið gert þenna morgun og reiðst hefir Magnús konungur fyrir minna en teknir séu dauðadæmdir menn með valdi þeirra mörlendinga."

Teitur svarar: "Þegi vondur sáðbítur ella munt þú tuskaður vera."

Við þessi orð varð Auðun í brottu.


2. kafli

Nú sem þing var sett stóð upp Sigurður ullstrengur og mælti: "Það hygg eg flesta vita munu þá sem hér eru komnir að nú er veginn lögunautur vor Gjafvaldur og kom maður af Íslandi utan er sakir þóttist eiga við hann, hafandi þá atför að hann veitti honum þegar banasár en leitaði eigi eftir bótum sem öðrum mönnum er títt. Mun oss svo sýnast konungsmönnum sem lítið muni fyrir þykja að drepa hirðina ef þessa skal eigi hefna. Nú má vera að þeir láti svo ganga allt að höfðinu og þyrmi eigi heldur konunginum en öðrum mönnum. Nú eru slíkt ódáðaverk mikil og stórra hefnda fyrir vert og er eigi að bættra þó að tíu séu drepnir íslenskir fyrir einn norrænan og refsi þeim svo sína dirfð að þeir tóku mann úr konungs valdi."

Síðan þagnaði hann.

Þá stóð upp Teitur biskupsson og mælti: "Vill minn herra konungurinn gefa mér orlof til að tala?"

Konungurinn spurði þann mann er hjá honum stóð: "Hver beiddi talsins?"

"Herra," segir hann, "Teitur biskupsson."

Konungurinn mælti hátt: "Víst eigi viljum vér leyfa þér að tala því að öll orð þín munu spilla til þau er þú mælir og væri það maklegt að úr þér væri skorin tungan."

Báðu margir menn íslenskir sér hljóðs og orlofs og fékk enginn.


3. kafli

Síðan stóð Jón prestur upp og mælti: "Vill herra konungurinn leyfa mér að tala mitt erindi?"

Konungur spurði: "Hver mælti nú?"

Honum var sagt að Jón prestur beiddi orlofs.

Konungur mælti: "Leyfa viljum vér þér."

Þá hóf hinn heilagi Jóhannes svo sína ræðu: "Vorum herra Jesú Kristi er það að þakka er löndin eru kristin, Noregur og Ísland, en áður óð allt saman, menn og fjandi. Gengur fjandinn eigi nú svo berlega í augsýn við mennina sem áður en þó fær hann mönnunum sína limu að fylgja og fram bera sín bölvuðu erindi sem nú er skammt á að minnast að fjandinn mælti fyrir munn þeim er í fyrstu talaði svo segjandi: "Nú er veginn einn konungsmaður en maklegt væri að drepnir væru tíu íslenskir fyrir einn norrænan." En hugsið um það góður herra að svo erum vér Íslendingar yðrir menn sem þeir er hér eru innanlands og það hygg eg að slíkir menn muni mest að vinna að leysa sjálfan djöfulinn í sínum vondum fortölum. Skylduð þér að því hugsa er settir eruð í heiminum höfðingi og dómari yfir fólkinu og merking hefir þess dómara er koma mun á hinum efsta dómi að dæma alla veröldina, hvern eftir sínum verðleikum, að þér dæmið rétta dóma því að til hvers dóms og þings kemur almáttigur guð með sínum helgum mönnum og vitjar góðra manna og góðra dóma, þar kemur og fjandinn og hans árar, vitjandi vondra manna verka og rangra dóma og sá mun koma dómurinn að lyktum er hið rétta mun uppi vera. Hugsið um herra hvor eldurinn mun heitari, sá er lagður er í eikistokkinn og ger er við ofninn eða hinn er lagður er í þurrt lim. Svo og mun vera herra konungur ef þér dæmið ranga dóma að yður mun í þann eldinn orpið vera er eikistokkurinn liggur í. En ef rétt er dæmt af yður konungur þá er þó von að þér hreinsist í eldi purgatorii þeim er af þurru limi er ger."

Konungur mælti: "Stórt talar þú nú prestur en þó að líku hlýtur maðurinn að hafa hinn versta dauðdaga sem hann hefir til gert."

Var konungur hinn reiðasti og bað Auðun gestahöfðingja sækja Gísl í hendur þeim Teiti og hans sveitungum og spara öngan til þann er fyrir vildi standa.

Nú af því að Auðun var fullur af æði og með margra manna áeggjan þá verður hann skjótur til þessa og skortir eigi fjölmenni en Íslendingar í annan stað búast við vörn og eru ráðnir til að verja Gísl meðan þeir mega anda og upp standa.

En er Auðun og hans sveit koma þar að er fyrir voru Íslendingar þá hljóp Gísl í hendur konungsmönnum og mælti: "Það skal aldrei verða að hér týnist svo margur drengur góður fyrir mínar sakir því að deyja mun eg hvort sem nú er eða síðar og gerið fyrir guðs sakir" - talandi til sinna kumpána - "að þér gætið yðar sem best því að allir mega nú vita yðvarn drengskap að þér munduð fyrr falla allir en selja mig fram í vald minna óvina og hafið nú mikla þökk fyrir yðvarn góðvilja."


4. kafli

Nú taka þeir Auðun við Gísl og líkar þeim vel að Íslendingar uni illa við sig og ráða eigi eftir þeim þó því að það var ekki ráð við ofurefli liðs konungsmanna og sakir þess að sjálfur konungurinn er við. Gengur Auðun nú að geystur, lætur gera einn hávan gálga þar á þinginu og þykist þá skörulegast hefna lögunauts síns Gjafvalds en svívirða sem mest Gísl og alla þá er honum vildu lið veita og að þeir væru allir viðstaddir, þeim til skapraunar, er mikið þótti undir þó að væri fremstur af þeim þar sem var hinn heilagi Jón prestur er öllum vann gott, sem heyrast má í þessum atburð er stofnast.

Nú þá er hinn heilagi Jón sá konungsmenn leiða Gísl til gálgans þá stóð hann upp og mælti til konungs: "Viljið þér herra konungur leyfa mér að eg geri það sem eg vil af kápu þeirri er þér gáfuð mér í vetur?"

Konungur leit við honum heldur reiðuglega og skildi hvað hann ætlaði að gera af og mælti þó: "Ger af hvað er þér líkar en vit hversu margar er þú þiggur héðan af konungsgjafirnar ef þú sérð svo fyrir þessari."

Hinn heilagi Jón kveðst ekki það hirða og gekk þegar þar til er þeir styrmdu yfir Gísl, steypti þá yfir hann kápunni konungsnaut.

Þá mælti Auðun gestahöfðingi: "Ekki gefur mörlandanum þetta grið og vitum hvort hann hangir að síður á gálganum."

Og síðan festu þeir Gísl upp sem þjóf og gerðu allt að sem svívirðlegast nema hann hékk í kápunni konungsnaut og gekk þeim eigi gott til þess heldur hinum er yfir hann lét. Hinn heilagi Jón prestur gekk þá í brott með huggæðistárum og til kirkju, verandi þar það sem eftir var dagsins.


5. kafli

Eftir þetta er slitið þinginu og fer konungur til hallar og hirðin með honum og er það sagt að konungurinn iðraðist mjög með sjálfum sér þegar litlu síðar en þessi atburður hafði orðið þó að menn fyndu það eigi mjög á honum er hann hafði lítils virt tillögur Jóns prests.

Það var þann tíma lög í Noregi um þá menn er hengdir voru að þeir skyldu hanga þar til er þeir féllu ofan. Nú hafa fróðir menn svo sagt að þá er miðvikudagur kom þá gengur hinn heilagi Jón prestur frá kirkju með hinn níunda mann þar til er Gísl hékk á gálganum og kveðst vilja sækja kápu sína. Hinn heilagi Jón gekk þrisvar um gálgann réttsælis en síðan féll hann á kné þrisvar og baðst fyrir og er hann stóð upp þá bað hann þá höggva virgilinn fyrir ofan höfuð honum. Þeir gerðu svo. Þá varð dásamlegur atburður. Er Gísli féll ofan kom hann standandi niður á jörð. Þá gekk hinn heilagi Jón að honum, tók af honum kápuna og heilsaði honum með nafni en Gísl svaraði honum blíðlega, viljandi ganga að honum og mátti eigi. Jón prestur spurði hverju gegndi um hans hag.

Gísl svarar: "Það kann eg helst af segja að mér var sem eg sæti í hægum stað síðan þú lagðir yfir mig kápuna fyrir utan það að fæturnir eru mér stirðir er undan tóku kápunni og því má eg enn eigi ganga."

Þá lofuðu allir guð almáttkan fyrir þetta háleita stórmerki sem verðugt var er hann hafði varðveitt þessa manns líf fyrir bænir og verðleika síns ástvinar, hins heilaga Johannis, þar sem maðurinn hékk frá mánadegi og til miðvikudags í harðri þjófsnöru og hélt þó lífinu sem fyrr segir. Segja svo sumar bækur að Gísl fyrrnefndur hafi ei verið hengdur og náð griðum og fullum sættum og allir þeir íslenskir menn er í sögðu framhleypi voru fyrir fullting og bænarstað hins heilaga Johannis.

En eftir þetta þreifaði Jón prestur sínum höndum um fætur Gísla þar til er hann fékk göngu sína og fór með þeim. Nú fara þeir Jón prestur heimleiðis og komu fyrir loft eitt.

Maður einn gekk út og mælti við Jón prest: "Gakk inn í húsið. Sigurður ullstrengur, lendur maður konungs, og Auðun gestahöfðingi eru hér inni svo dauðasjúkir að þeir mega eigi óæpandi þola og biðja þig með miklu lítillæti og sannri iðran að þú komir til þeirra og leggir hendur yfir höfuð þeim með heilögu bænahaldi."

Hann gerði svo.

Sigurður mælti: "Eigi mundi eg vita prestur góði nema orð þau er þú talaðir á mótfjölunum mundu hafa bitið okkur kumpána því að við erum sjúkir mjög. Vil eg nú gera mína játning fyrir þér, biðjandi að þú lesir nú betra og mjúkara yfir okkur kumpánum en í sinn á þinginu."

Sem Sigurður hefir gert skriftamálin mælti Jón prestur: "Með því að þú hefir mart og stórt guði móti gert þá verður þú það með stórum hlutum bæta ef þú vilt algerlega sættast við þinn skapara."

Sigurður sagðist eftir hans ráðum vilja fram fara. Segja svo merkilegir menn að hinn heilagi Jón hafi það til lagt með honum eða beðið hann í skrift að hann skyldi reisa af sínu góssi svartmunkaklaustur í Niðarhólmi og gefa þar til svo mikið góss að guðs þjónustumenn mættu vel og sæmilega við vera. Er það mörgum mönnum kunnigt að Sigurður ullstrengur hefir þegið af Magnúsi konungi hólminn og fyrstur manna fyndi að gera sagt klaustur og gefið þar til sína föðurleifð og margar aðrar stórlendur. En svo trúist vera til komið sem nú var sagt.

Og er Sigurður hafði beðið sér líknar fyrir sín meinlæti las hinn heilagi Jóhannes yfir þeim kumpánum helgar bænir og gaf þeim sína blessan.

Þá mælti Sigurður: "Mikið mega orð þín hörð og góð prestur því að nú er mér gott."

Sagði Auðun og slíkt hið sama. Gáfu þeir Jóni presti sæmilegar gjafir og skildust góðir vinir.


6. kafli

Nú er það að segja að Jón kom til konungshallar. Þá sat konungur yfir borðum. Hinn heilagi Jón gekk inn höllina. Eru þeir tíu saman.

Og er konungurinn sá Jón prest rétti hann báðar hendur blíðlega mót honum og mælti: "Gakk hér undir borð hjá oss Jón prestur, hinn kærasti vin guðs. Og svo vildi eg að þú værir minn hinn besti vin því að eg veit víst að saman fer guðs vilji og þinn og því vildi eg að saman færi okkar vilji."

Hinn heilagi Jón svarar: "Þá munduð þér og vilja gera vel til Íslendinga kumpána minna því að það þykir mér allmiklu varða."

Konungur mælti: "Það munt þú oft sýna að þú vilt öllum gott og það mun þér oft veitast bæði fyrir guði og góðum mönnum. Er það nú ljóst fyrir þenna atburð er hefir gerst allan samt eða eigi síður að kalla stórtíðindi. Er það nú og allt á þínu valdi Jón er þú vilt af oss þiggja og væri þó fyrr sæmra."

Hinn heilagi Jón tók þetta konungsins boð þakksamlega og steig undir borð hjá sjálfum herra konunginum og var þar dýrðleg veisla.

Nú sem Jón prestur var undir borð kominn þá gekk Gísl að konungi og kvaddi hann. Konungur tók vel kveðju hans.

Gísl mælti: "Grið vildi eg nú þiggja af yður herra minn."

Konungurinn svarar: "Gjarna viljum vér nú gefa þér grið og gakk til sætis Gjafvalds og haf þvílíka virðing af oss sem hann hafði um sína daga."

Gísl þakkaði konungi herralega velgerð við sig. Fór hann með Magnúsi konungi til Írlands og var hann formaður fyrir gíslunum er Magnús konungur sendi Mýrkjartan Írakonungi í Kunnöktum. En þar var einn norrænn maður í förum með þeim, kveðst kunna vel írsku og bauðst til að kveðja konunginn en Gísli lofaði honum.

Síðan mælti hann til konungs: "Male diarik." En það er á vora tungu "bölvaður sért þú konungur."

Þá svaraði einn konungsmaður: "Herra," segir hann, "þessi maður mun vera þræll allra Norðmanna."

Konungur svarar: "Olgeira ragall." Það er á vora tungu "ókunnig er myrk gata."

Konungurinn var vel við þá. Magnús konungur herjaði síðan á Írland.

Konungur mælti: "Nú eruð þér allir forveðjaðir en ei viljum vér drepa yður þó að Magnús konungur hafi til þess unnið og farið hvert er yður líkar."

Fór Gísli til Íslands og þótti mikils háttar maður og var þar til elli. Einar hét son hans og var frá honum mikil saga.

Hinn heilagi Jón prestur var eigi lengi með Magnúsi konungi eftir þessi tíðindi. Fal konungurinn sig undir bænir hans, gefandi honum sæmilegar gjafir og skildust með hinni mestu vináttu.
Netútgáfan - janúar 2000