HALLDÓRS  ÞÁTTUR  SNORRASONAR  HINN  FYRRI
Halldór son Snorra goða af Íslandi var með Haraldi konungi Sigurðarsyni meðan hann var utanlands og lengi síðan er hann fékk ríki í Noregi og vel virður af honum.

Það bar að eitt sinn að íslenskur maður sá er Eilífur hét varð fyrir reiði Haralds konungs en hann bað Halldór flytja mál sitt við konung og hann gerði svo. Halldór var stríðmæltur og harðorður en mjög fátalaður. Hann bað konung að Eilífur skyldi fá sætt af honum. Konungur neitti því þverlega. Halldór var þykkjumikill sem aðrir Íslendingar og þótti illa er hann fékk eigi það er hann beiddi.

Hann fer síðan brott frá hirðinni og Eilífur með honum. Þeir komu á Gimsar til Einars þambaskelfis og beiddi Halldór að hann mundi taka við Eilífi og veita honum ásjá. Einar sagðist mundu við honum taka með því móti að Halldór vildi og þar vera með honum.

Halldór mælti: "Hvar vísar þú mér til sætis?"

Einar bað hann sitja í öndvegi gegnt sér.

Einar átti þá konu er Bergljót hét. Hún var dóttir Hákonar jarls illa, Sigurðarsonar Hlaðajarls. Halldór gekk jafnan til Bergljótar og sagði henni mörg ævintýr þau sem utanlands höfðu gerst í ferðum þeirra Haralds konungs.

Maður hét Kali, ungur að aldri og nokkuð skyldur Einari, illgjarn og öfundsjúkur, háðsamur og hávaðamikill. Hann var skósveinn Einars og hafði lengi þjónað honum. Kali var hagur vel á gull og silfur. Því var hann kallaður Gyllingar-Kali. Marga menn rægði hann við Einar og var sundurgerðamaður mikill í orðum, bæði sundurlausum og samföstum. Hann hafði mjög í háði við Halldór og bað aðra menn yrkja um hann en engi varð til þess. Því fékkst Kali í að flimta hann. Halldór varð þess var.

Og einhvern dag gekk hann til skemmu Bergljótar. Og er hann kemur að dyrunum heyrir hann þar inn hámælgi mikla. Var þar inni Kali og margir menn aðrir. Þeir bera þá fram fyrir húsfreyju hróp það er Kali hafði kveðið um Halldór.

Bergljót bað þá þegja og sagði svo: "Það er illa gert að fást á ókunna menn með hrópyrðum og háðsemi og munu þér tröll toga tungu úr höfði. Hefir Halldór meir verið reyndur að frækleik en flestir menn aðrir í Noregi."

Kali mælti: "Ekki erum vér hræddir við hann mörlanda þó að hann hafi mikil metorð af þér því að vér höfum spurt að hann var settur í dýflissu út á Grikklandi og lá þar á ormshala athafnarlaus og ekki megandi."

Halldór þoldi eigi þessi atyrði og hljóp inn í herbergið að Kala og hjó hann banahögg. Og er Bergljót sá það bað hún geyma dyranna svo að engi kæmist fyrr en henni líkaði.

Þá mælti Halldór: "Biðja vil eg yður húsfreyja að þér sjáið eitthvert gott ráð fyrir mér þó að eg hafi nú eigi til þess unnið."

Hún svarar: "Eg á marga frændur náskylda þá sem lendir menn eru og veit eg víslega til hvers þeirra sem eg sendi þig að sá tekur við þér fyrir mínar sakir."

Halldór mælti: "Hugsaðu svo fyrir að með engum manni vil eg á laun vera haldinn sem illræðismenn."

Bergljót segir: "Þeir munu þó fáir menn í Noregi utan sjálfur Haraldur að dugi að halda þig fyrir Einari ef hann vill eftir þér leita því að hann mun vís verða hvar þú kemur niður. Er og til ráð annað," segir hún, "og er það þó eigi hættulaust."

Halldór mælti: "Hvert er það?"

Hún svarar: "Að þú gangir nú þegar inn í stofu sakir þess að nú eru tvö víti á hendi, annað vígsvítið en annað borðavíti því að þú komst eigi til borðs með öðrum mönnum því að nú sitja menn undir borðum. Máttu nú ganga inn fyrir Einar og segja honum tíðindi og færa honum höfuð þitt og friðast svo við hann. En ef hann vill þér eigi grið gefa við það þá mun eigi hægt að forða þér fyrir honum."

Síðan gekk Halldór inn fyrir Einar og mælti: "Eigi hefi eg oft víttur verið um borðatilgöngu. Hefir nú og svo til borið að eg hefi eigi verið sýslulaus."

Einar svarar: "Segir þú víg Kala frænda míns?"

Halldór svarar: "Þeirrar sakar em eg sannur og því vil eg nú færa þér höfuð mitt og ger af slíkt er þér líkar."

"Víg þetta er þig hefir hent er hið versta og mér nær hoggið því að Eindriði son minn mundi svo einn annar drepinn vera að mér mundi meira að þykja."

Halldór svarar: "Það manntjón væri ólíkt."

Einar mælti: "Bræður Kala munu þar sjá til sæmdar er eg em um eftirmál og vígsbætur fyrir hann. Er það og lítilmannlegt að eg láti mér svo þykja sem einn hundur hafi drepinn verið þar sem Kali var. Mun það og þá leiðast öðrum að vinna slík illvirki ef þessa er hefnt eftir maklegleikum. En þó mun hæfa að hafa heilræði Magnúss konungs Ólafssonar frænda míns að gefa upp reiðina fyrst í stað því að oft þykir þá annað sannara er hún líður af en áður hefir fram farið. Nú skaltu Halldór fyrst fá mér sverð þitt því að eg vil það hafa."

Halldór svarar: "Hvað þarf eg að láta laus vopn mín?"

"Því vil eg hafa sverð þitt," segir Einar, "að eg sé ef nokkuð er þröngt þínum kosti að þú munt verja hendur þínar meðan þú mátt ef þú hefir vopn að vega með og er þá eigi óvænt að svo fari fleiri sem Kali hefir farið og mun eg þá eigi betur við una. En það mun þó saman fara ef þú ert sóttur að þú munt hafa mann fyrir þig nema þú hafir fleiri en þó mun eg yfir þig vinna að síðustu. Gakk nú fyrst til borðs með mér en eg mun síðan upp segja víti þín en engum friði heiti eg þér álengdar."

Halldór gerði svo, át og drakk með Einari sem hann ætti ekki um að vera og af hendi fékk hann sverðið. Tók Einar með því. Vinir Halldórs báðu hann brott fara ef hann mætti.

Halldór svarar: "Ekki mun eg leynast frá Einari þar sem eg hefi áður gengið á vald hans."

Og er Halldór var mettur gekk hann fyrir Einar og spurði hvern hann vildi gera hans hlut.

Einar svarar: "Síðar muntu enn það vita."

Halldór gekk þá í brott og sagði Bergljótu hvar komið var.

Hún svarar: "Eigi vænti eg að Einar láti drepa þig. En ef hann vill níðast á þér þá heiti eg þér því að þá skal enn meirum tíðindum gegna."

Og þenna sama dag stefnir Einar fjölmennt þing.

Hann stóð upp á þinginu og sagði svo: "Eg vil nú skemmta yður og segja frá því er fyrir löngu var að eg var á Orminum langa með Ólafi konungi Tryggvasyni.

Eg var þá átján vetra og fyrir lög fram tekinn á Orminn því að engi skyldi á honum vera yngri maður en tvítugur og engi eldri en sextugur. Kolbirni hinum upplenska var þá skipað hjá mér og öðrum manni er Björn hét og var kallaður Flesmu-Björn. Hann var gamall maður og þó hraustur. Níu voru þeir menn er brott komust af Orminum en frá oss þremur kumpánum vil eg nokkuð segja að vér hljópum fyrir borð af Orminum síðan konungurinn var horfinn með ljósi því er yfir honum skein. En Danir, menn Sveins konungs, tóku oss og færðu konungi en hann flutti oss til Jótlands og vorum þar upp leiddir og settir á eina lág og þar fjötraðir. En sá er oss varðveitti vildi selja oss í þrældóm. Hann hét oss afarkostum og limaláti ef vér vildum eigi þjást og í þeim skógi sátum vér þrjár nætur. Þessi maður er oss varðveitti lét móts kveðja og þangað kom mikið fjölmenni og á því móti sást einn mikill maður svo búinn sem munkur í blám kufli og hafði grímu fyrir andliti.

Þessi maður gekk að oss kumpánum og mælti til meistara vors: "Viltu selja mér þann hinn gamla þrælinn?"

Hann svarar: "Hvað skal þér gamall þræll og nenningarlaus?"

Grímumaður svarar: "Hann mun þá ódýrastur af öllum þrælunum?"

"Já," segir meistari vor, "hann skal víst ódýrastur."

"Met hann þá," segir grímumaður.

Meistari mat hann fyrir tólf aura silfurs.

Grímumaður svarar: "Dýr þykir mér þá þrællinn með því að eg sé hann mjög gamlan og forverkslítinn. Er og eigi ólíkt að hann lifi skamma stund. Mun eg gefa fyrir hann mörk silfurs ef þú vilt því kaupa."

Þá gekk grímumaður að mér," segir Einar, "og spurði hver mig hefði keyptan.

"Ekki hefi eg seldan hann," segir meistari, "en þó má hann seljast."

"Hversu dýr skal hann?" segir grímumaður.

Meistari svarar: "Helsti mun þér hann dýr þykja. Kaup hann fyrir þrjár merkur silfurs ef þér líkar."

"Alldýr mun þá vera," segir kuflmaður, "en sjá þykist eg að frændur hans og vinir mundu gjarna kaupa hann við þvílíku verði ef hann væri í sínu landi."

"Eg vissi það," segir meistari, "að þér mundi ægja að kaupa hann svo dýrt sem eg mat."

Síðan sneri kuflmaður í brott og fór víða um torgið ýmsa gripi falandi og með því að hann fékk enga keypt fór hann aftur til vor svo segjandi: "Nú var eg á torgi og því að mér var ekki kauplegt kom eg enn hingað. Vil eg nú fala þann þrælinn er eg hefi áður eigi orði á komið því að eg sé, svo miklir menn og styrkir sem þeir eru, að þeir munu vinna þrír ekki svo lítið ef þeir vilja. Sýnist mér því ráð að kaupa þá alla."

Geymari vor svarar: "Þó þarftu mikils við um mannsman ef þú kaupir einn þrjá þræla."

"Það skaltu þó vita," segir kuflmaður, "að eg hefi haft eigi færri húskarla."

Kolbjörn var metinn fyrir tvær merkur.

"Dýrir eru þrælarnir," segir kuflmaður, "og veit eg eigi gjörla hvað fram fer um peninga mína hvort þeir munu vinnast til verðs þeirra."

Hann steypir þá silfrinu í kyrtilskaut hans og mælti: "Hafðu nú þetta fyrir tölu þína og vænti eg að eigi muni þetta minna."

Og síðan lætur kuflmaður leysa oss og þótti oss þá batna um vorn kost. Grímumaður gekk þá í brott í skóginn og bað oss fylgja sér. Og er vér komum fram í eitt rjóður spurði eg hann að nafni.

Hann svarar: "Ekki varðar þig að vita nafn mitt. En það kann eg þér segja að eg hefi séð þig eitt sinn fyrr og alla yður."

Eg vildi þó vita hvers þræll eg skyldi vera "en ef þú vilt gefa oss frelsi þá vildum vér og vita hverjum vér eigum það að launa."

"Eigi muntu þess vís verða þenna dag," segir hann, "hvað eg heiti."

Þá svara eg," segir Einar: ""Verið mundi það þó hafa að eg mundi ráðið hafa við einn mann og aðrir tveir með mér þó að Danir ætli það eigi."

Kuflmaðurinn svarar og kippti upp líttað hettinum: "Sjá má að eg þjái yður ekki enda mun eg í engu vera yðvar nauðungarmaður þó að þér séuð þrír en eg sé einn. Nú liggur hér stígur er eg mun vísa yður til skips þess er Norðmenn eiga og munu þeir taka við yður og flytja yður til Noregs. En þú Björn," segir hann, "skipt fjárhlut þínum og gef hann svo sem þú hyggur sálu þinni hjálpvænlegast því að þú munt eigi hálfum mánuði lengur lifa síðan þú kemur heim til bús þíns. En þú Kolbjörn munt koma heim á Upplönd og munt þykja merkilegur maður hvar sem þú ert. En þú Einar," segir hann, "munt verða yðvar mestur maður og elstur og vera um fram flesta menn aðra í mörgu lagi. Muntu og fá Bergljótar dóttur Hákonar Hlaðajarls og búa á Gimsum og halda virðingu til dauðadags. En af þér einum vil eg laun hafa fyrir lífgjöfina og frelsið því að þér einum hygg eg að mest þyki vert ef þú ert eigi þræll."

Eg svaraði að óhægra væri að launa er eg vissi eigi hverjum að gjalda var eða hverju launa skyldi.

Hann svarar: "Því skaltu launa ef nokkur maður gerir svo mjög í móti þér að fyrir víst viljir þú hafa hans líf og hefir þú vald yfir honum þá skaltu eigi minna frelsi gefa honum en eg gef þér nú. En það mun inndælt því að fáir munu gera í móti þér sakir ríkdóms þíns og vinsælda."

Og svo talandi lyfti kuflmaðurinn grímunni frá andliti sér og mælti: "Hvað hyggið þér hverjir hér ríða um skóginn og munu ætla að grípa oss?"

En er vér litum allir til og vildum sjá mennina. En er vér litum aftur var grímumaður horfinn og síðan sáum vér hann aldrei. En þenna mann kenndum vér allir fullgjörla að þar var Ólafur konungur Tryggvason því að þegar fyrra sinn er hann kippti kuflshettinum kenndi eg hann fyrir víst. En síðan hann lyfti upp grímunni og sýndi oss sína ásjónu kenndum vér hann allir og töluðum vor í milli að oss hafði mjög óhyggilega til tekist er vér höfðum eigi hendur á honum en þó tjáði oss þá ekki að sakast um orðinn hlut. Síðan gengum vér þann stíg til sjóvar sem hann vísaði oss og fundum þar Norðmanna skip og fór allt eftir því sem hann hafði oss fyrir sagt um vora ævi.

Nú em eg skyldur," segir Einar, "að gera það er Ólafur konungur bað mig. Sýnist mér nú og eigi annað líkara en hann hafi fyrir þér beðið Halldór því að þú ert nú á mínu valdi."

Og áður Einar hafði lokið sögu sinni var Bergljót kona hans komin á þingið með mikla sveit manna. Ætlaði hún að þeir menn skyldu berjast við Einar og verja Halldór ef hann vildi honum eigi grið gefa. Síðan bætti Einar víg Kala frændum hans en hélt vináttu við Halldór. En Eilíf sendi Halldór til Íslands og sætti hann áður við Harald konung og var Halldór með konungi lengi síðan. En sú var sök Eilífs að hann hafði drepið hirðmann Haralds konungs og hafði hann því reiði á honum.
Netútgáfan - janúar 2000