ÓTTARS  ÞÁTTUR  SVARTA  (eftir Bæjarbók)
Þá er Ólafur kóngur lá í Sóleyjum kom á fund kóngs Óttar svarti. Hann hafði verið með Ólafi Svíakóngi en hann hafði andast áður um veturinn og var þá Önundur Ólafsson kóngur yfir Svíþjóð. Óttar hafði ort mansöngsdrápu um Ástríði drottningu Ólafs kóngs. Og er Óttar færði kvæðið mislíkaði kónginum mjög því að honum þótti mjög á vikið í kvæðinu að honum líkaði vel til drottningarinnar og því lét hann taka Óttar og setja hann í járn og ætlaði að láta drepa hann.

Sighvatur skáld var hinn mesti vin Óttars. Hann fór um náttina til myrkvastofunnar að finna Óttar og er hann kom þangað þá spurði hann Óttar hversu honum líkaði.

Óttar kveðst verið hafa kátari "en kóngur þessi gefur mér ranga sök. Eg var með Ólafi Svíakóngi í góðu yfirlæti. Líkaði mér til allra barna hans vel. En eigi hefi eg Ástríði elskað framar en báðum okkur er það sektalaust við Ólaf kóng."

Sighvatur mælti: "Það mun satt vera en bið eg að þú kveðir mér kvæði þetta sem þú hefir kveðið um drottningina."

Óttar gerði svo.

Og er hann hafði lokið kvæðinu mælti Sighvatur: "Mjög þykir mér að vikið um ástarþokka meðal ykkar drottningar og eigi er það undarlegt þó að kónginum mislíkaði. Nú skulum við snúa þeim vísum er mest eru ortar í kvæðinu. En síðan skaltu yrkja kvæði annað um Ólaf kóng því að kóngurinn mun ekki annað vilja en þú kveðir kvæði það er þú hefir ort um drottningina áður þú sért drepinn. Og þegar þú hefir það kveðið hef upp skjótt drápu kóngsins og kveð hana djarflega meðan þú mátt og kóngurinn þolir."

Óttar gerði sem honum var boðið af Sighvati. Hann orti á þremur náttum þeim er hann var í myrkvastofunni drápu um Ólaf kóng og þá lét Ólafur kóngur leiða hann fyrir sig. Og er Óttar kom fyrir kónginn kvaddi hann hann en kóngur þagði.

Og litlu síðar mælti kóngur: "Kveð nú Óttar kvæði drottningar áður en þú sért drepinn því að drottning skal heyra hróður þann er þú hefir ort um hana."

Óttar settist niður fyrir fætur kóngi og kvað kvæðið skjótt og skiljanlega. En svo er sagt að kóngurinn roðnaði við er hann kvað en ekki lagði hann til meðan. Og er lokið var kvæðinu þá lét hann eigi niður falla kveðandina heldur hóf hann upp drápuna kóngs þá sömu sem hann hafði þá nýort um kónginn. En hirðmenn kóngs báðu flimtarann þegja.

Sighvatur skáld mælti þá: "Það mun líklegt þykja að kóngurinn eigi alls kostar við Óttar það sem hann vill að gera þó að vér þolum að hann kveði kvæði þetta. Megið þér og vita að kóngurinn hlýðir, af því hlýðum vel lofi kóngs vors því að það er gott að heyra."

Hirðmenn þögnuðu við þessi orð Sighvats en Óttar kvað út drápuna til þess er lokið var. Kóngurinn þagði meðan hann kvað. Sighvatur skáld lofaði mjög kvæðið og kallaði allgott.

Kóngurinn mælti þá: "Það mun ráð Óttar að þú þiggir höfuð þitt að sinni fyrir drápu þína."

Óttar svarar: "Sú gjöf þykir mér góð þó að höfuðið sé eigi fagurt."

Kóngurinn dró gullhring af hendi sér og gaf Óttari.

Ástríður drottning renndi fingurgulli á gólfið til Óttars og mælti: "Tak þú gneista þann til þín skáld og eig."

Kóngurinn mælti þá: "Enn máttir þú eigi bindast að sýna vinfengi þitt við Óttar."

Drottning mælti: "Eigi megið þér kunna mig herra þó að eg vilji launa mitt lof eigi síður en þér yðvart."

Kóngur mælti: "Svo skal og vera að eg mun engar sakir yður gefa fyrir þetta og skal Óttar héðan af velkominn með oss."

Og svo var að kóngurinn hélt af Óttari mikið tal og þeim Sighvati báðum.
Netútgáfan - maí 1999