STÚFS  ÞÁTTUR  HINN  MEIRI
Maður hét Stúfur. Hann var sonur Þórðar kattar en hann var sonur Þórðar Ingunnarsonar og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Stúfur var mikill maður og sjónfríður og manna sterkastur. Hann var skáld gott og djarfmæltur.

Hann fór utan því að hann átti að heimta dánarfé norður í Noregi. Þeir komu við Noreg um haustið. Síðan fór hann austur sundaleiði og fékk sér faraskjóta þar sem hann gat.

Það var einn dag að hann kom til bónda nokkurs og tók sér þar herbergi. Þar var vel við honum tekið. Sat hann í gegn bónda.

Og er menn bjuggust til matar þá var bónda sagt að menn margir riðu að bænum og væri borið merki fyrir einum manni.

Bóndi stóð upp og mælti: "Göngum út allir því að hér mun kominn vera Haraldur konungur."

Allir menn gengu út nema Stúfur einn. Hann sat eftir. Og þá er þeir komu út brunaði merkið að þeim og þar með konungur sjálfur.

Bóndi fagnaði vel konungi og mælti: "Eigi mun nú herra verða við yður tekið sem vera ætti. Mundi þá verða með lítilli kunnandi við yður tekið ef vér hefðum vitað fyrir yðra komu en þó nú með miklu minna móti er þér komið á óvart."

Konungur svarar: "Ekki mun eg yður nú það svo vant gera þá er vér förum hleypiferðir slíkar sem þá er vér förum að veislum þeim er menn skulu gera í móti oss. Skulu nú vorir menn starfa fyrir sér sjálfir en við munum ganga inn bóndi."

Þeir gera nú svo.

Þá mælti bóndi við Stúf: "Nú muntu verða félagi að þoka fyrir þeim er kominn er."

"Eg ætla mér það skammlaust þó að eg sitji utar en konungur," segir Stúfur, "eða menn hans. En þarfleysa þótti mér þér að hafa það að öngu er þú mæltir."

Haraldur konungur mælti: "Og hér er kominn íslenskur maður. Það horfir til gamans og sit í rúmi þínu Íslendingur."

Stúfur svarar: "Það mun eg þiggja og þykir mér miklu meiri sæmd að þiggja af yður en af bónda."

Konungur mælti: "Nú vil eg láta taka borð og fari menn að matast en menn mínir skulu ganga undir borð sem þeir verða til búnir."

Nú var svo gert sem konungur vildi. En svo reyndist að bóndi átti gnótt drykkjar og urðu menn vel kátir.

Konungur spyr: "Hvað heitir maður sjá er mér situr gagnvert?"

Hann svarar: "Stúfur heiti eg."

Konungur mælti: "Kynlegt nafn eða hvers son ertu?"

Stúfur svarar: "Kattarson em eg."

Konungur spyr: "Hvor var sá kötturinn er faðir þinn var, hinn hvati eða hinn blauði?"

Þá skellti Stúfur saman höndunum og hló og svaraði öngvu.

Konungur spyr: "Að hverju hlærð þú nú Íslendingur?"

Stúfur svarar: "Getið þér til herra."

"Svo skal vera," segir konungur, "þér mundi eg þykja spyrja ófróðlega er eg spurði hvor sá væri kötturinn er faðir þinn var, hinn hvati eða hinn blauði, því að sá mátti eigi faðir vera er blauður var."

Stúfur mælti: "Rétt getið þér herra."

Þá setti enn hlátur að Stúf.

Konungur spurði: "Hví hlærð þú nú Stúfur?"

"Getið þér enn til herra."

"Svo skal vera," segir konungur, "þess get eg að þú mundir því ætla að svara mér að faðir minn var eigi svín þó að hann væri sýr kallaður en eg mundi því leita þessa dæma að eg ætlaði að þú mundir eigi djörfung til hafa að svara mér þessu alls eg mátti það vita að faðir þinn mundi eigi köttur vera þó að hann væri svo kallaður."

Stúfur kvað hann rétt geta.

Þá mælti konungur: "Sit heill Íslendingur."

Stúfur svarar: "Sit allra konunga heilastur."

Síðan drakk konungur og talar við þá menn er sátu á tvær hendur honum.

Og er á leið kveldið mælti konungur: "Ertu nokkur fræðimaður Stúfur?"

"Svo er víst herra," segir hann.

Konungur mælti: "Þá ber vel til. Vil eg þá bóndi snemma ganga að sofa og lát Íslending í því herbergi hvíla sem eg sef í."

Nú var svo gert.

Og er konungur var afklæddur mælti hann: "Nú skaltu kveða kvæði Stúfur ef þú ert fræðimaður."

Stúfur kvað kvæði og er lokið var mælti konungur: "Kveddu enn."

Svo fór lengi að konungur bað hann kveða þegar hann þagnaði og allt þar til er allir menn voru sofnaðir í herberginu nema þeir tveir og lengi síðan.

Þá mælti konungur: "Veistu hversu mörg kvæði þú hefir kveðið Stúfur?"

"Því fer fjarri," segir Stúfur, "og ætlaði eg yður það að telja herra."

"Eg hefi nú og svo gert," segir konungur, "þú hefir nú kveðið sex tigu flokka eða kanntu eigi kvæði utan flokka eina?"

Stúfur svarar: "Eigi er svo herra. Eg hefi eigi hálfkveðið flokkana en eg kann þó hálfu fleiri drápurnar en flokkana."

Konungur spyr: "Hverjum ætlar þú að kveða drápurnar er þú kveður mér flokkana eina?"

Stúfur svarar: "Fyrir yður herra ætla eg að kveða."

"Nær þá?" sagði konungur.

"Öðru sinni er við finnumst," segir Stúfur.

"Hví þá heldur en nú?" sagði konungur.

Stúfur svarar: "Því þá herra að þetta sem allt annað reyndist yður því meira háttar um mig sem þér vitið gerr."

Konungur mælti: "Stór orð hittir þú til að mæla hver sem raun verður á þínu máli en sofa vil eg nú fyrst."

Og svo var.

En um morguninn er konungur var klæddur og gekk ofan eftir riðinu gekk Stúfur í mót honum og kvaddi hann: "Haf góðan dag herra."

Konungur svarar: "Vel mælir þú Íslendingur og vel skemmtir þú í gærkveld."

Stúfur mælti: "Þér þáguð vel herra. En biðja mun eg yður nú bænar og vildi eg að þér veittuð mér."

Konungur svarar: "Hvers viltu biðja?"

Stúfur svarar: "Það þykir mér hallkvæmra að þér játið áður."

Konungur svarar: "Ekki em eg því vanur að veita það er eg veit eigi hvers beðið er."

Stúfur mælti: "Segja mun þá verða. Eg vil að þér leyfið mér að kveða um yður kvæði."

Konungur spyr: "Ertu skáld?"

Stúfur svarar: "Eg em gott skáld."

Konungur spyr: "Er nokkuð skáldakyn að þér?"

Stúfur svarar: "Glúmur Geirason var föðurfaðir föður míns og mörg önnur góð skáld hafa verið í minni ætt."

Konungur mælti: "Ef þú ert slíkt skáld sem Glúmur Geirason var þá mun eg lofa þér að kveða um mig."

Stúfur svarar: "Miklu kveð eg betur en Glúmur."

Konungur mælti: "Yrk þú þá eða hefir þú nokkuð kvæði ort fyrri um tigna menn?"

Stúfur svarar: "Að síður hefi eg kvæði ort um tigna menn að eg hefi öngvan tiginn mann séð fyrr en yður."

Konungur mælti: "Það munu sumir menn mæla að þú reynir framarlega til um frumsmíðina ef þú kveður um mig fyrstan."

"Þar mun eg þó á hætta," segir Stúfur, "en þó vil eg enn biðja yður fleira."

"Hvers viltu nú biðja?"

Stúfur mælti: "Eg vil biðja yður að þér gerið mig hirðmann yðarn."

Konungur svarar: "Það má ekki svo skjótt gerast því að þar verð eg að hafa við ráð og samþykki hirðmanna minna en heldur mun eg flytja mál þitt."

Stúfur mælti: "Biðja vil eg enn fleira herra eða hvort viljið þér nú veita mér það er eg bið nú?"

Konungur spyr: "Hvers viltu nú biðja?"

Stúfur svarar: "Að þér látið gera mér bréf undir yðru innsigli að eg nái dánarfé mínu er eg á norður í landi."

Konungur spurði: "Hví baðstu mig þessa síðast er þér var nauðsynlegast að þiggja? Og mun eg þetta veita þér."

Stúfur svarar: "Hér þótti mér minnst við liggja."

Síðan skildu þeir og fór konungurinn leiðar sinnar en Stúfur fór sinna erinda.

Og eigi liðu langar stundir áður Stúfur hitti Harald konung norður í Kaupangi. Hann gekk inn í drykkjustofuna þar sem Haraldur konungur sat inni og mart annað dýrra manna hjá honum.

Stúfur kvaddi konunginn en hann svarar: "Er Stúfur þar kominn vinur vor?"

"Svo er herra," segir hann, "og nú hefi eg kvæðið að færa yður og vil eg nú hafa hljóð."

Konungur segir: "Svo skal nú og vera. En ætla máttu að eg mun eigi óvandur vera að kvæði þínu því að eg kann allglöggt til að heyra. Hefir þú áður borið mikið hól á um kveðskap þinn og talað um framarlega."

Stúfur svarar: "Því vænna horfir mér herra sem þér kunnið gerr að heyra."

Síðan kvað hann kvæðið.

Og er lokið var þá mælti konungur: "Satt er það að kvæðið er allvel kveðið og eg skil nú hver efni í eru um þitt mál, að þú munt eiga mikið undir þér um vitsmuni en þú hefir gert til gamans þér að eiga tal við mig. Skal þér og kostur hirðvistar og að vera með oss ef þú vilt."

Síðan gerðist Stúfur hirðmaður Haralds konungs og var með honum lengi og þótti hann vera vitur maður og vinsæll. Drápa þessi er Stúfur kvað og orti um konung var kölluð Stúfsdrápa.

Og hverfum vér þar frá þessi ræðu að guð gæti vor allra. Þetta er klókt ævintýr.
Netútgáfan - maí 1999