STÚFS  ÞÁTTUR  HINN  SKEMMRI
Stúfur hét maður. Hann var sonur Þórðar kattar er Snorri goði fóstraði. Þórður köttur var sonur Þórðar Glúmssonar, Geirasonar. Móðir Þórðar kattar var Guðrún Ósvífursdóttir. Stúfur Þórðarson var blindur, vitur maður og skáld gott.

Stúfur fór utan af Íslandi og kom til Noregs á dögum Haralds konungs Sigurðarsonar. Stúfur tók sér vist með einum góðum bónda á Upplöndum. Bóndi var vel til hans.

Það var einn dag er menn voru úti staddir að þeir sáu ríða að bænum marga menn skrautlega búna.

Bóndi mælti: "Ekki veit eg vonir hingað Haralds konungs en mér þykir eigi því ólíkast lið þetta að hann muni vera."

Og er liðið nálgaðist bæinn kenndu þeir að þar var konungur.

Bóndi fagnaði konungi og mælti síðan: "Beinleiki herra mun eigi verða yður veittur svo sæmilega sem skyldi því að menn vissu nú ekki vonir yðvarrar hérkomu."

Konungur svarar: "Það mun þér nú óvant gert. Vér förum erinda vorra um land. Skulu menn mínir sjálfir geyma hesta sinna og sjá fyrir reiðingi en eg mun ganga inn."

Konungur var hinn glaðasti og fylgdi bóndi honum í stofu til sætis.

Þá mælti konungur: "Gakk þú þangað bóndi sem þú vilt og ger allt í dælleikum við oss."

"Þess mun nú neytt verða," segir bóndi.

Gekk hann í brott en konungur leit á bekkina og sá mikinn mann sitja utar á bekkinn og spurði hver sá væri.

"Eg heiti Stúfur," segir hann.

Konungur mælti: "Þó varð ónafnlegt eða hvers son ert þú?"

"Eg em Kattarson," segir hann.

"Enn fer allt að einu," segir konungur, "eða hvor var sá kötturinn?"

"Get þú til konungur," segir Stúfur og hló við.

"Hví hlóstu nú?" segir konungur.

"Get þú til," segir Stúfur.

Konungur mælti: "Vant þykir mér að geta í hug þér en það ætla eg helst að þú mundir vilja spyrja hvort svínið faðir minn var en því mundir þú hlæja er þú þorðir þess eigi að spyrja."

"Rétt getur þú," segir Stúfur.

Konungur mælti: "Sittu innar meir á bekkinn og tölumst við."

Hann gerði svo. Fann konungur að hann var óheimskur maður og þótti konungi gott að eiga ræður við hann. Kom þá bóndi í stofu og sagði að konungur mundi dauflegt eiga.

"Það er eigi," segir konungur, "því að þessi veturgestur þinn skemmtir mér vel og skal hann sitja fyrir ádrykkju minni í kveld."

Og svo var. Konungur talaði mart við Stúf og veitti hann viturleg andsvör.

Og er menn gengu að sofa þá bað konungur Stúf vera í því herbergi sem hann skyldi sofa að skemmta sér. Stúfur gerði svo. En er konungur var í sæng kominn skemmti Stúfur og kvað flokk einn. Og er lokið var bað konungur hann enn kveða. Konungur vakti lengi en Stúfur skemmti.

Og um síðir mælti konungur: "Hversu mörg hefir þú nú kvæðin kveðið?"

Stúfur svarar: "Það ætlaði eg yður að telja eftir."

"Eg hefi og svo gert," segir konungur, "og eru nú þrír tigir eða hví kveður þú flokka eina? Kanntu og engar drápur?"

Stúfur svarar: "Eigi kann eg drápurnar færri en flokkana og eru þeir þó enn margir ókveðnir."

Konungur mælti: "Þú munt vera að því mikill fræðimaður á kvæði eða hverjum skalt þú skemmta með drápunum þínum er þú kveður mér flokkana eina?"

"Þér sjálfum," segir Stúfur.

"Hvenær þá?" segir konungur.

"Þá er við finnumst næst," segir hann.

"Hví þá heldur en nú?" segir konungur.

Stúfur mælti: "Því að eg vildi um skemmtan og allt annað það er mér heyrir til að yður virðist því betur sem þér kynnist lengur og vitið gerr."

"Sofa skulum við nú fyrst," segir konungur.

En um myrgininn er þeir bjuggust brott þá mælti Stúfur til konungs: "Munt þú veita mér konungur það er eg bið þig?"

"Hvað er það?" segir konungur.

"Heit þú mér áður en eg segi," segir hann.

"Ekki em eg því mjög vanur," segir konungur, "en fyrir skemmtan þína munum við til þess hætta."

Stúfur mælti: "Þannig stenst af um ferð mína að eg skal heimta dánarfé nokkuð í Vík austur og vildi eg að þér fengjuð mér bréf yðvart og innsigli að eg næði fénu."

"Það vil eg gera," segir konungur.

Þá mælti Stúfur: "Munt þú veita mér það er eg bið þig?"

"Hvað er það nú?" segir konungur.

"Heit þú mér áður en eg segi."

Konungur mælti: "Undarlegur maður ert þú og engi hefir fyrr þannig málum breytt við mig en þó skal enn til þess hætta."

Stúfur mælti: "Eg vildi yrkja kvæði um yður."

Konungur mælti: "Ert þú nokkuð frá skáldum kynjaður?"

Stúfur svarar: "Verið hafa skáld í ætt minni. Glúmur Geirason var föðurfaðir föður míns."

Konungur mælti: "Gott skáld ert þú ef þú yrkir eigi verr en Glúmur."

"Eigi kveð eg verr en hann," segir Stúfur.

"Ekki er það ólíklegt að þú kunnir yrkja, ert þú svo kvæðafróður maður, og vil eg leyfa þér að yrkja um mig."

Stúfur mælti: "Munt þú veita mér það er eg bið þig?"

"Hvers viltu nú biðja?" segir konungur.

"Heit þú mér áður en eg segi."

"Það skal nú eigi," segir konungur, "helsti lengi hefir þú svo farið og seg mér nú."

Stúfur mælti: "Eg vildi gerast hirðmaður þinn."

Konungur mælti: "Nú var vel að eg hét þér eigi því að eg verð þar við að hafa ráð hirðmanna minna. Kom þú til mín norður í Niðarósi."

Stúfur fór austur í Vík og greiddist honum vel arfur sá er hann heimti sem orðsending og jartegnir konungs komu til. Sótti Stúfur síðan norður til Kaupangs á konungs fund og tók konungur vel við honum og með samþykki hirðmanna gerðist Stúfur handgenginn konungi og var með honum nokkura hríð. Hann hefir ort erfidrápu um Harald konung er kölluð er Stúfsdrápa eða Stúfa.
Netútgáfan - júní 1999