Völundarkviða

Völundarkviða


Frá Völundi

Níðaður hét konungur í Svíþjóð. Hann átti tvo sonu og eina dóttur. Hún hét Böðvildur. Bræður vóru þrír, synir Finnakonungs. Hét einn Slagfiður, annar Egill, þriðji Völundur. Þeir skriðu og veiddu dýr. Þeir kómu í Úlfdali og gerðu sér það hús. Þar er vatn er heitir Úlfsjár. Snemma um morgun fundu þeir á vatnsströndu konur þrjár, og spunnu lín. Þar vóru hjá þeim álftarhamir þeirra. Það vóru valkyrjur. Þar vóru tvær dætur Hlöðvés konungs, Hlaðguður svanhvít og Hervör alvitur, in þriðja var Ölrún Kjársdóttir af Vallandi. Þeir höfðu þær heim til skála með sér. Fékk Egill Ölrúnar en Slagfiður Svanhvítrar, en Völundur Alvitrar. Þau bjuggu sjö vetur. Þá flugu þær að vitja víga og kómu eigi aftur. Þá skreið Egill að leita Ölrúnar en Slagfiður leitaði Svanhvítrar en Völundur sat í Úlfdölum. Hann var hagastur maður svo að menn viti í fornum sögum. Níðuður konungur lét hann höndum taka svo sem hér er um kveðið:


 1. Meyjar flugu sunnan
  myrkvið í gögnum,
  alvitur ungar
  örlög drýgja.
  Þær á sævarströnd
  settust að hvílast,
  drósir suðrænar,
  dýrt lín spunnu.


 2. Ein nam þeirra
  Egil að verja,
  fögur mær fira,
  faðmi ljósum.
  Önnur var Svanhvít,
  svanfjaðrar dró,
  en in þriðja
  þeirra systir
  varði hvítan
  háls Völundar.


 3. Sátu síðan
  sjö vetur að það
  en inn átta
  allan þráðu
  en inn níunda
  nauður um skildi.
  Meyjar fýstust
  á myrkvan við,
  alvitur ungar,
  örlög drýgja.


 4. Kom þar af veiði
  veðureygur skyti,
  Slagfiður og Egill
  sali fundu auða,
  gengu út og inn
  og um sáust.


 5. Austur skreið Egill
  að Ölrúnu
  en suður Slagfiður
  að Svanhvítu,
  en einn Völundur
  sat í Úlfdölum.


 6. Hann slá gull rautt
  við gim fástan,
  lukti hann alla
  lind baugum vel.
  Svo beið hann
  sinnar ljóssar
  kvonar ef honum
  koma gerði.


 7. Það spyr Níðuður,
  Njára dróttinn,
  að einn Völundur
  sat í Úlfdölum.
  Nóttum fóru seggir,
  negldar vóru brynjur,
  skildir bliku þeirra
  við inn skarða mána.


 8. Stigu úr sölum
  að salar gafli,
  gengu inn þaðan
  endlangan sal;
  sáu þeir á bast
  bauga dregna,
  sjö hundruð allra,
  er sá seggur átti.


 9. Og þeir af tóku
  og þeir á létu,
  fyr einn utan,
  er þeir af létu.


 10. Kom þar af veiði
  veðureygur skyti,
  Völundur líðandi
  um langan veg.
  Gekk brúnnar
  beru hold steikja,
  ár brann hrísi
  allþurr fura,
  viður inn vindþurri,
  fyrir Völundi.


 11. Sat á berfjalli,
  bauga taldi,
  álfa ljóði,
  eins saknaði;
  hugði hann að hefði
  Hlöðvés dóttir,
  alvitur unga,
  væri hún aftur komin.


 12. Sat hann svo lengi
  að hann sofnaði;
  og hann vaknaði
  viljalaus;
  vissi sér á höndum
  höfgar nauðir
  en á fótum
  fjötur um spenntan.

  Völundur kvað:


 13. Hverjir eru jöfrar
  þeir er á lögðu
  bestibyrsíma
  og mig bundu?


 14. Kallaði nú Níðuður
  Njára dróttinn:
  Hvar gastu, Völundur,
  vísi álfa,
  vora aura
  í Úlfdölum?
  Gull var þar eigi
  á Grana leiðu,
  fjarri hugða eg vort land
  fjöllum Rínar.

  Völundur kvað:


 15. Man eg að vér meiri
  mæti áttum
  er vér heil hjú
  heima vórum:
  Hlaðguður og Hervör
  borin var Hlöðvé
  kunn var Ölrún
  Kjárs dóttir.


 16. (Úti stendur kunnig
  kvon Níðaðar),
  hún inn um gekk
  endlangan sal,
  stóð á gólfi,
  stillti röddu:
  Er-a sá nú hýr
  er úr holti fer.

  Níðuður konungur gaf dóttur sinni Böðvildi gullhring þann er hann tók af bastinu að Völundar, en hann sjálfur bar sverðið er Völundur átti. En drottning kvað:


 17. Tenn honum teygjast
  er honum er téð sverð
  og hann Böðvildar
  baug um þekkir.
  Ámun eru augu
  ormi þeim inum frána.
  Sníðið ér hann
  sina magni
  og setjið hann síðan
  í Sævarstöð.

  Svo var gert, að skornar vóru sinar í knésbótum og settur í hólm einn er þar var fyrir landi, er hét Sævarstaður. Þar smíðaði hann konungi alls kyns gersimar. Engi maður þorði að fara til hans nema konungur einn.

  Völundur kvað:


 18. Skín Níðaði
  sverð á linda,
  það er eg hvessta
  sem eg hagast kunna
  og eg herðag
  sem mér hægst þótti.
  Sá er mér fránn mækir
  æ fjarri borinn,
  Sékk-a eg þann Völundi
  til smiðju borinn
  Nú ber Böðvildur
  brúðar minnar
  bíðk-a eg þess bót
  bauga rauða.


 19. Sat hann, né hann svaf, ávallt
  og hann sló hamri;
  vél gerði hann heldur
  hvatt Níðaði.
  Drifu ungir tveir
  á dýr sjá,
  synir Níðaðar,
  í Sævarstöð.


 20. Kómu þeir til kistu,
  kröfðu lukla,
  opin var illúð
  er þeir í sáu.
  Fjöld var þar menja
  er þeim mögum sýndist
  að væri gull rautt
  og gersimar.

  Völundur kvað:


 21. Komið einir tveir,
  komið annars dags;
  ykkur læt eg það gull
  um gefið verða.
  Segið-a meyjum
  né salþjóðum,
  manni öngum,
  að ið mig fyndið.


 22. Snemma kallaði
  seggur [á] annan,
  bróðir á bróður:
  Göngum baug sjá!


 23. Kómu til kistu,
  kröfðu lukla,
  opin var illúð
  er þeir í litu.


 24. Sneið af höfuð
  húna þeirra
  og undir fen fjöturs
  fætur um lagði
  en þær skálar,
  er und skörum vóru,
  sveip hann utan silfri,
  seldi Níðaði.


 25. En úr augum
  jarknasteina
  sendi hann kunnigri
  kván Níðaðar,
  en úr tönnum
  tveggja þeirra
  sló hann brjóstkringlur
  sendi Böðvildi.


 26. Þá nam Böðvildur
  baugi að hrósa
  - - -
  - - -
  er brotið hafði:
  Þorig-a eg að segja
  nema þér einum.

  Völundur kvað:


 27. Eg bæti svo
  brest á gulli
  að feður þínum
  fegri þykir
  og mæður þinni
  miklu betri
  og sjálfri þér
  að sama hófi.


 28. Bar hann hana bjóri
  því að hann betur kunni
  svo að hún í sessi
  um sofnaði.
  Nú hefi eg hefnt
  harma minna
  allra nema einna
  íviðgjarna.


 29. Vel eg, kvað Völundur,
  verða eg á fitjum
  þeim er mig Níðaðar
  námu rekkar.
  Hlæjandi Völundur
  hófst að lofti,
  grátandi Böðvildur
  gekk úr eyju,
  tregði för friðils
  og föður reiði.


 30. Úti stendur kunnig
  kvon Níðaðar
  og hún inn um gekk
  endlangan sal.
  En hann á salgarð
  settist að hvílast.
  Vakir þú, Níðuður
  Njára dróttinn?

  Níðuður kvað:


 31. Vaki eg ávallt
  viljalaus,
  sofna eg minnst
  síst mína sonu dauða;
  kell mig í höfuð,
  köld eru mér ráð þín,
  vilnumk eg þess nú
  að eg við Völund dæma.


 32. Seg þú mér það, Völundur,
  vísi álfa,
  af heilum hvað varð
  húnum mínum.

  Völundur kvað:


 33. Eiða skaltu mér áður
  alla vinna,
  að skips borði
  og að skjaldar rönd,
  að mars bægi
  og að mækis egg
  að þú kvelj-at
  kvon Völundar
  né brúði minni
  að bana verðir,
  þótt vér kvon eigim,
  þá er þér kunnið,
  eða jóð eigim
  innan hallar.


 34. Gakk þú til smiðju
  þeirrar er þú gerðir,
  þar finnur þú belgi
  blóði stokkna;
  sneið eg af höfuð
  húna þinna
  og und fen fjöturs
  fætur um lagðag.


 35. En þær skálar,
  er und skörum vóru,
  sveip eg utan silfri,
  senda eg Níðaði;
  en úr augum
  jarknasteina
  senda eg kunnigri
  kvon Níðaðar,
  en úr tönnum
  tveggja þeirra
  sló eg brjóstkringlur,
  senda eg Böðvildi.


 36. Nú gengur Böðvildur
  barni aukin,
  einkadóttir
  ykkur beggja.

  Níðuður kvað:


 37. Mæltir-a þú það mál
  er mig meir tregi
  né eg þig vilja, Völundur,
  verr um níta.
  Er-at svo maður hár
  að þig af hesti taki
  né svo öflugur
  að þig neðan skjóti
  þar er þú skollir
  við ský uppi.


 38. Hlæjandi Völundur
  hófst að lofti
  en ókátur Níðuður
  sat þá eftir.

  Níðuður kvað:


 39. Upp rístu, Þakkráður,
  þræll minn besti
  bið þú Böðvildi,
  meyna bráhvítu,
  ganga fagurvarin
  við föður ræða.


 40. Er það satt, Böðvildur,
  er sögðu mér.
  Sátuð ið Völundur
  saman í hólmi?

  Böðvildur kvað:


 41. Satt er það, Níðuður,
  er sagði þér.
  Sátum við Völundur
  saman í hólmi
  eina ögurstund,
  æva skyldi.
  Eg vætur honum
  vinna kunnag,
  eg vætur honum
  vinna máttag.


Netútgáfan ágúst 1996


Völundarkviða er frá Runeberg samtökunum í Svíþjóð.
(http://www.runeberg.lysator.liu.se)