1. tbl. 26. júní 1996 3. árg.

EFNISYFIRLIT

 1. Frá ritstjóra.

 2. Kosningar. Atli Harðarson

 3. Um höfundarrétt. Sæmundur Bjarnason

 4. Flugur eða kóngulær. Sæmundur Bjarnason

 5. EFF - Electronic Frontier Foundation. Sæmundur Bjarnason

 6. Lög um Internetið??. Sæmundur Bjarnason

 7. Sýnilegi maðurinn. Þýtt og endursagt

 8. Öðruvísi orðabók.

 9. Efnisyfirlit Rafritsins 1994


FRÁ RITSTJÓRA


Hvað er eiginlega um að vera? Síðustu vikurnar hef ég fengið 5 (segi og skrifa "ffiimmmm") beiðnir um áskrift að Rafritinu. Hefur fólk ekkert betra við tímann að gera en að dunda sér við einhverskonar fornleifarannsóknir á Vefnum? :-)

Það er meira en hálft annað ár síðan síðasta tölublað Rafritsins kom út og ég hélt að flestir væru búnir að gleyma því en núna get ég með góðri samvisku sagt að ég hafi hafið útgáfu þess aftur "vegna fjölda áskorana".

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér efni Rafritsins frá upphafi geta leitað að gömlum tölublöðum á Gopher Íslenska Menntanetsins eða haft samband við mig beint. (saemund@- ismennt.is - eða - bac@treknet.is)

Til upplýsingar fyrir þá sem ekki hafa heyrt Rafritsins getið fyrr skal það nefnt að fyrsta tölublaðið kom út 15. júlí 1993 og það 15. og síðasta (til þessa) 8. desember 1994. Stærð blaðsins er ekki talin í blaðsíðum heldur í kílóbætum eða K-um og er meðalstærð tölublaða um 73 K og samtals eru blöðin sem komið hafa út rúmlega 1,1 megabæt.

Blaðaútgáfa með þessum hætti er svolítið sérkennileg. Sem dæmi get ég nefnt að eitt sinn liðu sléttar 2 mínútur frá því að ég gekk endanlega frá blaðinu og sendi það inn í Netheima (Stöð 2 BBS) þangað til fyrsti lesandinn hafði lokið við að sækja það og var væntanlega byrjaður að lesa það. Eflaust hefur líka oft liðið stuttur tími frá því ég sendi blaðið á póstlista og þangað til farið var að lesa það. Eftir að búið var að senda blaðið á póstlistana og koma því á þá fáu staði, sem ég vildi vera viss um að hægt væri að ganga að því, þurfti ekki að hugsa um annað en að byrja á næsta blaði.

Ég stóð eitt sinn með öðrum að útgáfu héraðsfréttablaðs og þar skipti mjög í tvö horn með hve skemmtileg mér þóttu þau verk sem framkvæma þurfti. Undirbúninginn, skrifin, myndatökur og layout var skemmtilegt að fást við en dreifingin og auglýsingasöfnunin var aftur á móti svo hundleiðinleg sem mest mátti verða. Varðandi Rafritið er ég alveg laus við leiðinlegu þættina en hef auðvitað í staðinn engar tekjur af þessu brölti, bara kostnað.

Áskrifendur blaðsins voru komnir nokkuð á annað hundrað þegar flest var (og eru það að nafninu til ennþá þó ég eigi von á að fá talsverðan slatta endursendan núna vegna breyttra netfanga) og þar að auki hafa eflaust þónokkrir lesið það án þess að vera áskrifendur. Margir létu vinsamleg orð falla um þetta framtak mitt og þónokkrir urðu til þess að hjálpa mér við skrifin.

Það var svo mest vegna leti sem ég hætti útgáfunni á sínum tíma og svo gerðist þetta þar að auki í upphafi html og heimasíðubyltingarinnar og mér fannst einhvern veginn að ég þyrfti endilega að koma ritinu á Vefinn. Það var hins vegar ekki svo einfalt og margt nýtt sem þurfti að tileinka sér til þess. Ég vildi líka hafa þetta dálítið almennilegt og setja öll eldri tölublöðin á Vefinn líka. Á endanum óx mér þetta allt svo mjög í augum að ég nennti ekki að standa í þessum útgáfumálum lengur.

Núna er ég aftur á móti kominn á þá skoðun að WWW sé langt frá því að vera upphaf og endir alls. Þeir sem ekki geta hugsað sér að lesa þetta rit nema í html-formi verða annaðhvort að html-a það sjálfir eða vera án blaðsins. Enn um sinn a.m.k. ætla ég að halda mig við að gefa blaðið út í textaskrá eins og ég var vanur.

Ég er að komast á þá skoðun núna að Internet trúboðið sé farið að ganga helst til langt á sumum sviðum. Fjölmiðlar sem fyrir nokkrum árum voru ófáanlegir til að hlusta á þá sem vildu tala um Internetið virðast núna telja að hægt sé að ráða bót á flestum vandamálum heimsins í gegnum Netið. Sú dýrkun og tilbeiðsla á tölvum og tækni sem sumir virðast hafa tileinkað sér er líka á margan hátt skaðleg.

Nefna má sem dæmi notkun tölva í skólastarfi. Þar virðist skoðun margra vera sú að ef það tekst að koma nógu mörgum tölvum inn í skólana og tengja þær Internetinu þá þurfi ekki að hafa frekari áhyggjur af menntun unga fólksins. Slíkt er fjarri öllu lagi. Raunveruleg menntun er ekki á nokkurn hátt háð því hvort nemendurnir hafa betri eða verri aðgang að einhverjum gagnslausum gagnafjöllum.

Hindrunarlaus og hraðvirk samskipti við nemendur í fjarlægum löndum eru auðvitað af hinu góða, en það er óþarfi að ofmeta þann þátt, því eins og allir vita sem stundað hafa tölvusamskipti að einhverju ráði, þá eru slík samskipti alls ekki sambærileg við samskipti sem fara fram augliti til auglitis og kemur þar margt til.

Fyrir síðustu jól kom út bók eftir Atla Harðarson sem nefnist Afarkostir. (Útgefandi: Heimspekistofnun Háskóla Íslands) Þetta er greinasafn um heimspekileg málefni og nokkrar greinanna birtust upphaflega í Rafritinu eins og Atli getur um í formála bókarinnar. Í þessu blaði er grein eftir Atla um kosningar (áhugavert einmitt nú) sem birtist áður í "Hug" tímariti áhugamanna um heimspeki og mun fyrri velunnurum blaðsins áreiðanlega þykja fengur að henni, en greinar Atla voru eitthvert vinsælasta efni Rafritsins hér áður og fyrr.

Vel er mögulegt að skrif í Rafritið muni í framtíðinni einkennast eitthvað af gagnrýni á núverandi ástand í Internet-málum og tölvumálum almennt. Greinar frá lesendum eru vel þegnar og ég mun áreiðanlega reyna að argast eitthvað í þeim sem áður skrifuðu í blaðið og svo e.t.v. öðrum sem ég þykist hafa ástæðu til að ætla að væru fáanlegir til þess.

Það rann upp fyrir mér þegar ég var að ganga frá efnisyfirlitinu fyrir 1994 sem er aftast í blaðinu að af þeim 18 höfundum efnis sem þar eru nefndir hef ég einungis séð 3 svo ég viti (ég sjálfur meðtalinn). Og 2 eða 3 í viðbót hef ég talað við í síma. Samskipti mín við alla hina hafa eingöngu farið fram í gegnum Netið.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit


KOSNINGAR

Einu sinni var ég á vinnustaðafundi þar sem starfsmenn áttu að taka afstöðu til mikilvægrar tillögu. Stjórnandi fundarins skipti fundarmönnum í fjóra hópa og voru ýmist fjórir eða fimm í hverjum hópi. Tilviljun réð því hverjir völdust saman. Hóparnir fóru hver inn í sitt herbergið, ræddu tillöguna fram og aftur og skiluðu svo skriflegum niðurstöðum. Þrír hópar lýstu sig fylgjandi tillögunni en einn hópurinn var henni andvígur. Af þessu dró fundarstjóri þá ályktun að þorri starfsmanna væri fylgjandi tillögunni. Ekki veit ég hvað þorri starfsmanna hugsaði fyrir fundinn en mér þótti ályktun fundarstjóra dálítið hæpin og spurði sjálfan mig: Gefa þessar niðurstöður hópanna örugga vísbendingu um vilja starfsmanna?

Hugsum okkur að fyrir fundinn hafi þrír starfsmenn verið eindregið fylgjandi tillögunni og þrír eindregið á móti en hinir hafi annað hvort ekki hugsað sig um eða komist að þeirri niðurstöðu að ekki skipti máli hvort tillagan yrði samþykkt. Undir þessum kringumstæðum getur gerst að allir andstæðingar tillögunnar lendi í sama hópi en fylgismenn hennar dreifist á hópa með þeim afleiðingum að aðeins einn hópur lýsi yfir eindreginni andstöðu en hinir hallist flestir á sveif með flutningsmanni tillögunnar. Niðurstaðan getur því orðið sú sama og á fundinum sem hér er til umræðu þótt enginn munur hafi verið á fjölda andstæðinga og fylgismanna fyrir fundinn.

Höfum við tuttugu manna fund þar sem aðeins þrír eru andvígir tillögu og skiptum fundinum í fjóra fimm manna hópa af handahófi eru að vísu ekki nema um það bil 3,5% líkur á að allir andstæðingarnir lendi saman í hópi. En hugsum okkur nú að á fimmtán manna fundi séu sex atkvæðamestir og mælskastir og takist yfirleitt að sannfæra hina og af þessum sex séu þrír fylgjandi tillögu og þrír henni mótfallnir. Skiptum fundarmönnum í þrjá hópa, þá verða fimm í hverjum hópi. Nú eru líkurnar á að allir andstæðingarnir lendi í sama hópnum ekki eins litlar. Þær eru um það bil 6,6%. Það má því efast um að niðurstöður svona hópvinnu endurspegli vilja fundarmanna.

Þessi dæmi sem ég hef tekið eru einfölduð mynd af veruleikanum. Í raunverulegum hópi eru oftast nokkrir sem ekki hafa skoðun á þeim málum sem rædd eru. Nokkrir eru feimnir og hafa sig lítt í frammi og nokkrir með mikla hæfileika til að sannfæra hina og hafa sitt fram í umræðum. Það er erfitt að gefa hæfileikum fólks til að hafa áhrif á ákvarðanatöku nein ákveðin tölugildi. Því er tæpast hægt að reikna líkurnar á því að fámennur hópur fylgismanna eða andstæðinga hafi úrslitaáhrif á niðurstöðu fundar. En það má fullyrða að í mörgum tilvikum skili fundir gerólíkum niðurstöðum eftir því hvernig þeim er skipt í hópa. Þetta gefur okkur ástæðu til að efast um að hægt sé að grafast fyrir um vilja hóps með því að skipta honum í marga smærri og láta þá hvern og einn komast að niðurstöðu. En er ekki hægt að komast að því hvað hópur vill með því að beita öðrum aðferðum? Hvernig væri til dæmis að hafa atkvæðagreiðslu þar sem hver maður greiðir eitt atkvæði?

Þar sem aðeins liggur fyrir ein spurning sem ekki verður svarað öðru vísi en með "já" eða "nei" má ætla að atkvæðagreiðsla skeri úr um vilja kjósenda. En séu fleiri en tveir kostir í boði verður öllu erfiðara að ákvarða hvað hópur manna "vill".

Hugsum okkur til dæmis þingkosningar þar sem tekist er á um tvær tillögur. (Þessar tillögur geta t.d. verið aðild að Evrópusambandinu og afnám kvótakerfis í sjávarútvegi eða leyfi handa matvöruverslunum til að selja bjór og aðskilnaður ríkis og kirkju.) Köllum tillögurnar t1 og t2. Fjórir flokkar bjóða fram. Köllum þá A, B, D og G og gerum ráð fyrir að stefna þeirra í þeim málum sem tekist er á um sé eins og þessi tafla sýnir:
          A     B     D     G   

     t1   andvígur fylgjandi fylgjandi andvígur 

                            

     t2   fylgjandi andvígur fylgjandi andvígur 

                            

                            

   Nú falla atkvæði þannig:              

                            

          A     B     D     G   

    Atkvæði   9%    30%    34%    27%  Sé hver kjósandi sammála sínum flokki má af þessu ráða að 64% kjósenda séu fylgjandi t1 og 57% séu andvígir t2. Eigi að stjórna í samræmi við "vilja" kjósenda ætti því að samþykkja t1 og fella t2 eins og B listi leggur til. Nú er mynduð stjórn og við skulum hugsa okkur að A, D og G standi saman að henni. Í þingflokkum stjórnarinnar er meirihluti á móti t1 og meirihluti fylgjandi t2 svo þótt stjórnin hafi 71% atkvæða á bak við sig er stefna hennar andstæð meirihluta kjósenda í báðum málunum.

Hvaða ályktun á að draga af þessu? Margir halda að lýðræðislegar kosningar tryggi að stefna stjórnvalda sé í samræmi við vilja þjóðarinnar. En þetta dæmi sýnir að svo er ekki. Er þá engin leið að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við vilja hóps eða þjóðar? Er ekki til dæmis hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvert mál fyrir sig?

Hugsum okkur að þrír kostir komi til greina og aðeins sé hægt að velja einn þeirra. Köllum kostina x, y og z og gerum ráð fyrir að:


    25% kjósenda hafi forgangsröðina x - y - z; 

    35% kjósenda hafi forgangsröðina y - z - x; 

    40% kjósenda hafi forgangsröðina z - x - y. 

Nú gerist það að þjóðin á raunhæfan kost á hvort sem er y eða z og það er haldin þjóðaratkvæðagreiðsla til að velja á milli þeirra. 60% kjósa y. Skömmu seinna opnast möguleiki x og nú er kosið um hvort hætta eigi við y og taka x frekar. Hafi skoðanir kjósenda ekki breyst vinnur x með 65% atkvæða.

Eigum við þá að segja að þjóðin vilji x? Nei það getum við ekki því ef fyrst hefði verið kosið milli x og z hefði z orðið ofan á með 75% atkvæða. Sé svo kosið milli z og y vinnur y með 60% atkvæða.

Hefði fyrst verið kosið milli x og y hefði x unnið með 65% atkvæða. Sé þá kosið milli x og z vinnur z með 75% atkvæða.

Ef x, y og z eru til dæmis frambjóðendur í kosningum þá getur það ráðið öllu um hver kemst til valda hvort fyrst er gert upp á milli y og z í prófkjöri og svo milli x og z í kosningum eða hvort fyrst er gert upp á milli x og z í prófkjöri og svo kosið milli z og y. Röð kosninga ræður öllu um hver úrslitin verða og engin ein röð endurspeglar ,vilja" kjósenda öðrum fremur svo það er engin leið að halda því fram að úrslit svona kosninga geti sagt okkur eitt eða neitt um hvað kjósendur "vilja".

Margt hefur verið reynt til að auka líkurnar á að kosningaúrslit verði í samræmi við "vilja" meirihlutans. Til dæmis er sums staðar kosið tvisvar, fyrst milli allra kosta og síðan, í annarri umferð, milli þeirra tveggja sem mest fylgi hlutu í fyrri umferð. Þetta dregur talsvert úr líkum á að sá sem nær kjöri sé verulega óvinsæll meðal kjósenda en tryggir þó ekki að niðurstaðan sé í samræmi við "forgangsröð meirihlutans". Hugsum okkur til dæmis að 5 frambjóðendur séu í kjöri: Ása Signý, Gísli, Eiríkur og Helgi. Gerum ráð fyrir að


    25% kjósenda hafi forgangsröðina     

       Signý, Ása, Gísli, Eiríkur, Helgi; 

    25% kjósenda hafi forgangsröðina     

       Helgi, Ása, Gísli, Eiríkur, Signý; 

    20% kjósenda hafi forgangsröðina     

       Ása, Gísli, Eiríkur, Signý, Helgi;  

    15% kjósenda hafi forgangsröðina     

       Gísli, Ása, Eiríkur, Helgi, Signý;  

    15% kjósenda hafi forgangsröðina     

       Eiríkur, Ása, Gísli, Helgi, Signý.  

Gerum ennfremur ráð fyrir að hver kjósandi telji þann sem hann setur fremst í forgangsröð sína mjög góðan, þann næsta góðan, þann þriðja ásættanlegan en tvo þá öftustu slæma. Nú er kosið og Signý og Helgi verða efst og jöfn með 25% atkvæða hvort. Í annarri umferð er því kosið milli þeirra og Helgi vinnur með 55% atkvæða. Þessi niðurstaða er ekki í samræmi við óskir meirihlutans því 75% kjósenda telja Helga slæman. Sá frambjóðandi sem flestir hefðu sætt sig við er Ása, en hún komst ekki í úrslit.

*

Sá stjórnmálafræðingur sem fyrstur fjallaði um hverjum vandkvæðum er bundið að leiða almannavilja í ljós með kosningum var franskur markgreifi sem kenndur er við greifadæmi sitt, Condorcet. Hann var uppi á árunum 1743 - 1794 og er einn af merkustu fulltrúum frönsku upplýsingarinnar. Um hans daga var mikið rætt um jafnrétti og lýðræði en Condorcet sýndi fram á að þótt lýðræðislegar aðferðir við ákvarðanatöku kunni að vera ágætar um margt þá tryggja þær ekki að niðurstaðan endurspegli neitt sem kallast getur "vilji almennings".

Síðan á 18. öld hafa ýmsir stærðfræðingar, stjórnspekingar og hagfræðingar fjallað um svipuð efni og Condorcet og velt því fyrir sér hvernig leiða megi ákvörðun fyrir hóp af gildismati eða vilja einstaklinganna. Einhver merkilegasta niðurstaðan í þessum fræðum er yfirleitt kennd við Bandaríkjamanninn Kenneth J. Arrow. Hann sannaði að séu þrír eða fleiri kostir í boði sem einstaklingar geti raðað í forgangsröð á alla mögulega vegu þá sé engin leið að ákvarða forgangsröð hópsins út frá forgangsröð einstaklinganna.

*

Arrow setti niðurstöður sínar fram í lítilli bók sem kom út árið 1951 og heitir Social Choice and Individual Values. Á íslensku gæti hún heitið Sameiginlegar ákvarðanir og gildismat einstaklinganna. Spurninguna, sem Arrow veltir fyrir sér, má orða einhvern veginn svona:


    Ef við vitum um forgangsröð sérhvers einstaklings í

    hópi getum við þá reiknað út forgangsröð hópsins, eða

    með öðrum orðum - er til fall sem reiknar forgangsröð

    hóps út frá forgangsröð einstaklinganna í honum?

Við fyrstu sýn kann svarið að virðast jákvætt. Er ekki augljóst að ef meira en helmingur einstaklinganna vill x fremur en y þá sé x ofar en y í forgangsröð hópsins og ef þeir sem taka x fram yfir y eru jafn margir og þeir sem vilja y fremur en x þá séu x og y á sama stað í forgangsröð hópsins? Jú þetta kann að virðast svona við fyrstu sýn. En eigi að vera hægt að tala um forgangsröð hóps þá hlýtur hún að uppfylla tvö lágmarksskilyrði sem Arrow kallar frumsetningar númer eitt og tvö.


  F1.  Um hverja tvo kosti x og y gildir eitt af þrennu: x

     er framan við y í forgangsröðinni, y er framan við

     x eða x og y eru jafnframarlega.
F2. Ef x er framar en y í forgangsröðinni og y er fram- ar en z þá er x framar en z.

Um þessar frumsetningar þarf tæpast að deila. Þær eru svo augljósar að fæstum dytti í hug að hafa orð á þeim. En þótt F1 og F2 séu augljóslega sannar um hvaðeina sem hægt er með réttu að kalla forgangsröð þá er allt annað en augljóst að hægt sé að uppfylla skilyrðið sem felst í F2. Hugsum okkur til dæmis að hópur þriggja manna þurfi að gera upp á milli þriggja kosta. Köllum mennina Ara, Bjarna og Ceres og kostina sem um ræðir x, y og z. Gerum nú ráð fyrir að:


   forgangsröð Ara sé    x - y - z; 

   forgangsröð Bjarna sé  y - z - x; 

   forgangsröð Ceresar sé  z - x - y. 

Í þessum hópi vill meirihluti (þe. Ari og Ceres) x fremur en y. Meirihluti (þ.e. Ari og Bjarni) vill y fremur en z og loks er meirihluti (þ.e. Bjarni og Ceres) fylgjandi því að taka z fram yfir x. Við getum því ekki haldið því fram að einn kostur sé öðrum framar í forgangsröð hóps þótt hann sé framar í forgangsröð meira en helmings þeirra einstaklinga sem mynda hópinn því þá sitjum við upp með þá fáránlegu niðurstöðu að x geti verið framar en y, y framar en z og z framar en x í forgangsröð hópsins.

Þessi niðurstaða er stundum kölluð þverstæða Condorcets. Hún ein ætti að duga til að vekja efasemdir um að til sé fall sem reiknar forgangsröð hóps út frá forgangsröð einstaklinganna í honum. Þverstæða Condorcets útilokar þó ekki að slíkt fall sé til. Afrek Arrows var að sanna að það geti ekki verið til, sem sagt að með öllu sé útilokað að setja fram reglu sem dugar til að leiða forgangsröð hóps af forgangsröð einstaklinganna í honum.

Arrow setti fram fimm skilyrði til viðbótar við frumsetningarnar tvær sem áður er getið. Framsetning hans er nokkuð stærðfræðileg en það má endursegja skilyrði hans á þessa leið:


  1) Að minnsta kosti þrem þeirra kosta sem eru í boði geta

    einstaklingarnir í hópnum raðað á hvaða veg sem er.  2) Ef einhver kostur færist ofar eða stendur í stað í

    forgangsröð sérhvers einstaklings í hópnum þá færist

    hann ekki neðar í forgangsröð hópsins.  3) Innbyrðis röð annarra kosta breytist  ekki  þótt

    óviðkomandi kostur bætist við. Hugsum okkur til dæmis

    að þrír menn Ari, Birna og Daði séu í framboði og

    kjósendur raði þeim í forgangsröð þannig að þeir vilji

    Ara helst, Birnu næsthelst og Daða síst.  Að þessu

    gefnu verður Ari áfram framan við Birnu og Birna fram-

    an við Daða í forgangsröðinni þótt enn einn frambjóð-

    andi, Einar, gefi kost á sér.

Forgangsröð kallast þvinguð ef hópurinn tekur einhvern kost, x, fram yfir annan kost, y, algerlega óháð því hve margir einstaklingar innan hans vilja y fremur en x.


  4) Forgangsröð er ekki þvinguð.  Þetta þýðir að  um

    sérhverja tvo kosti, x og y, gildir að hópurinn kýs x

    fremur en y ef nógu margir einstaklingar innan hans

    kjósa x fremur en y og útilokar að einhver möguleiki

    sé tekinn fram yfir annan í andstöðu við vilja allra

    einstaklinga í hópnum.

Forgangsröð kallast gerræðisleg ef val milli einhverra tveggja kosta, x og y, ræðst af forgangsröð eins manns þannig að vilji sá eini maður x fremur en y þá kjósi hópurinn x þótt allir aðrir meðlimir hans vilji y fremur.


  5) Forgangsröð er ekki gerræðisleg.

Þessi 5 skilyrði eru lágmarksskilyrði sem uppfylla þarf til að hægt sé að tala um forgangsröð, vilja eða gildismat hóps. En Arrow sannaði að þessi skilyrði séu ósamrýmanleg: hvaðeina sem uppfyllir skilyrði 1, 2 og 3 brýtur í bága við skilyrði 4 eða 5. Hann orðar niðurstöðu sína svona:

     

     Séu að minnsta kosti þrír kostir sem meðlimir hóps

     geta raðað í forgangsröð á hvaða veg sem er þá mun

     sérhvert fall sem uppfyllir skilyrði 2 og 3 og

     frumsetningar 1 og 2 leiða af sér forgangsröð sem er

     annað hvort þvinguð eða gerræðisleg.5

Þessi setning þýðir aðeins að engin regla geti útilokað að forgagnsröð verði undir einhverjum kringumstæðum þvinguð eða gerræðisleg en segir okkur ekkert um hversu líklegar þær kringumstæður eru. Það getur verið að einhverjar kosningareglur leiði í raun oftast til niðurstöðu sem flestir eru ánægðir með en setning Arrows útilokar að til séu kosningareglur sem tryggja að niðurstaðan verði alltaf, undir öllum kringumstæðum, í samræmi við "forgangsröð meirihlutans".

Sönnun Arrows á þessari setningu er nokkuð flókin og því verður hún ekki endursögð hér. En í 2. útgáfu bókar sinnar setti hann fram mun einfaldari sönnun á setningu sem segir næstum það sama. Áður en ég geri grein fyrir þessari sönnun þykir mér rétt að minna á að setningin á aðeins við þegar þrír eða fleiri kostir eru í boði. Séu aðeins tveir kostir í boði þá uppfyllir sú regla að láta einfaldan meirihluta atkvæða ráða öll skilyrðin sem hér voru sett fram. Þessi sannindi kallar Arrow röklega undirstöðu tveggja flokka kerfisins. Þótt hann segi þetta í hálfkæringi er það umhugsunarefni hvort setning hans sé ekki einmitt rök fyrir yfirburðum tveggja flokka kerfis.

*

Hin einfaldari sönnun Arrows hefst á því að hann sýnir fram á að um sérhvern hóp, H, sem uppfyllir skilyrði 2 og 4 gildir að ef gera þarf upp á milli tveggja kosta, x og y, þá er til einhver undirhópur eða partur af H sem ræður úrslitum um hvort x er tekið fram yfir y. Köllum þennan undirhóp U.

Að U ráði úrslitum þýðir að ef allir meðlimir U taka x fram yfir y og engir aðrir í H taka x fram yfir y þá velur H x fremur en y.

Ef afl atkvæða er látið ráða og öll atkvæði hafa sama vægi þá dugar að meðlimir U séu meira en helmingur meðlima H. Sé U aðeins einn maður þá er hann einvaldur og ákvörðun hópsins gerræðisleg.

Lítum nú á einhverja tvo kosti x og y og veljum hóp U sem ráðið getur úrslitum um hvort x er tekið fram yfir y og stillum svo til að enginn hópur sem er fámennari en U geti ráðið úrslitum. (Hafi öll atkvæði sama vægi mætti ætla að fjöldinn í U sé einum meira en helmingur H ef fjöldinn í H er slétt tala og hálfum meira ef fjöldinn í H er oddatala.) Tökum nú einn mann út úr U og köllum hann N.N. Nú höfum við skipt öllum meðlimum H í þrennt:


   Í 1. flokki er aðeins einn maður, nefnilega N.N.   Í 2. flokki eru allir hinir í U, þ.e. allir meðlimir U

      nema N.N.   Í 3. flokki eru allir meðlimir H sem ekki eru í U.

Lítum nú á tilvik þar sem gera þarf upp á milli x og y og einnig er kostur á þriðja möguleikanum z. Gerum ráð fyrir að


    1. flokkur, þ.e. N.N., hafi forgangsröðina x - y - z 

    2. flokkur, þ.e. allir hinir í U, hafi forgangsröðina 

     z - x - y

    3. flokkur, þ.e. allir sem ekki tilheyra U, hafi 

     forgangsröðina y - z - x

Þar sem U ræður úrslitum um að x er tekið fram yfir y þá taka allir í U (þ.e. bæði 1. og 2. flokkur) x fram yfir y en allir aðrir (þ.e. allir í 3. flokki) taka y fram yfir x.

Nú getur H ekki tekið z fram yfir y því þá ræður 2. flokkur, sem er einum manni fámennari en U, úrslitum þar sem bæði 1. og 3. flokkur taka y fram yfir z. Það gengur ekki því samkvæmt skilgreiningu er U eins fámennur og hópur má vera til að geta ráðið úrslitum.

y getur sem sagt ekki verið aftan við z í forgangsröð H og þar sem x er tekið fram yfir y hlýtur H að taka x fram yfir z og þar með er N.N. orðinn einráður því hans forgangsröð ræður úrslitum um að x er tekið fram yfir z þótt allir aðrir vilji z fremur en x. Undir þessum kringumstæðum er val milli x og z því gerræðislegt og stangast á við skilyrði númer 5.

Þessi niðurstaða er fengin með því að gera ráð fyrir að það þurfi einhvern lágmarksfjölda til að ráða úrslitum um ákvörðun hóps. Af henni leiðir að einn maður geti ráðið úrslitum. Sú afleiðing af skilyrðum 2 og 4 að það þurfi einhvern lágmarksfjölda til að ráða úrslitum stangast því á við það skilyrði að ákvörðun fyrir hópinn sé ekki gerræðisleg. Af þessu leiðir meðal annars að engin regla um val milli þriggja eða fleiri kosta getur tryggt að niðurstöður séu í samræmi við "vilja" meirihlutans.

Mér virðist augljóst að hvaðeina sem kallast getur vilji, gildismat eða forgangsröð hóps hlýtur að uppfylla skilyrði Arrows. Þar sem sannað er að ákvörðun fyrir hóp geti ekki uppfyllt þau öll þá verðum við að fallast á þá niðurstöðu að séu fleiri en þrír kostir í boði og geti meðlimir hópsins raðað þeim á alla vegu þá sé ekki til neitt sem kallast getur forgangsröð eða vilji hópsins.

Þorsteinn Gylfason dregur þá ályktun af niðurstöðum Arrows að lýðræði sé ómögulegt: "það sé ekkert lýðræði til og verði aldrei til." (ÞG 1992 bls. 100) Þetta er að minni hyggju nokkuð glannaleg ályktun. Sannanir Arrows útiloka ekki að lýðræðislegar aðferðir leiði oftar til skynsamlegrar niðurstöðu en aðrar aðferðir. Þær útiloka heldur ekki að sumar kosningaaðferðir séu öðrum betri að því leyti að þær leiði sjaldnar til niðurstöðu sem margir eru óánægðir með né heldur hrekja þær þá speki að lýðræði sé eina skipulagið sem geri fólki mögulegt að losna við ómögulega valdhafa án þess að skjóta þá. Lýðræðið kann að hafa ýmislegt til síns ágætis þó það geti ekki tryggt að ákvarðanir séu í samræmi við neitt sem kalla má "vilja eða forgangsröð meirihlutans".

Vissulega setja rök Arrows lýðræðissinna í varnarstöðu en þau þýða ekki að vörn þeirra sé vonlaus. Þessi rök sýna hins vegar að þegar þrír eða fleiri kostir eru í boði og einstaklingar raða þeim í forgangsröð á marga ólíka vegu þá er vonlaust að fá nokkurn botn í tal um vilja hóps, almannavilja eða þjóðarvilja. Þetta ætti kannski ekki að koma á óvart því yfirleitt er slíkt tal lítið annað en innantómt orðagjálfur.

Rit

   

   Arrow, Kenneth J. 1963. Social Choice and Individual

    Values, Second edition. Yale University Press.   Þorsteinn  Gylfason.  1992.  Tilraun  um  heiminn.

    Heimskringla - Háskólaforlag Máls og menningar

Atli Harðarson

Til baka í efnisyfirlit


UM HÖFUNDARRÉTT

Höfundarréttur á hugverkum allskonar er nokkuð sem í vaxandi mæli á eftir að verða til umræðu í sambandi við Veraldar- vefinn og tölvusamskipti hverskonar. Sú nýja tækni sem farin er að verða algeng í sambandi við dreifingu upplýsinga og efnis af öllu tagi veldur því að óhjákvæmilegt verður að endurskoða ýmislegt varðandi höfundarrétt og eignarrétt hugverka á allra næstu árum.

Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að engin höfundarlög ættu að gilda á Veraldarvefnum. Á Vesturlöndum er höfundar- rétturinn orðinn svo samgróinn allri menningarstarfsemi og þjóðlífinu yfirleitt að óhugsandi er að þessi hugmynd geti orðið að veruleika þar. Hinsvegar er það á margan hátt í andstöðu við viðtekinn hugsunarhátt fólks víða annars staðar í heiminum að hægt sé að selja hugverk.

Framkvæmd höfundarréttarlaga hlýtur þó að verða með allt öðrum hætti í Netheimum en tíðkast hefur utan hans.

Eins og nú er, þá eru höfundarréttargreiðslur oft misjafnar eftir því hvaða neytendur eiga í hlut. Lítum t.d. á hvernig kjör rithöfunda eru að þessu leyti. Sé farið á bókasafn og bók fengin að láni þar fær höfundurinn sáralítið í sinn hlut miðað við það sem hann fær af bók sem seld er einstaklingi og í flestum tilfellum er aðeins lesin af örfáum aðilum.

Á margan hátt má líta svo á að Internetið geti orðið einskonar bókasafn. Tvímælalaust ber að stuðla að því að bækur og önnur hugverk sé hægt að nálgast á Internetinu á svipaðan hátt og um bókasafn væri að ræða. Við núverandi aðstæður er það alls ekki gerlegt vegna höfundarréttar. Þetta er eitt svið höfundarréttar sem þarf að endurskoða.

Þeir sem finna núverandi höfundarréttarlögum flest til foráttu benda oft á að höfundarréttur er oft misnotaður herfilega. Um það má nefna dæmi.

Þau ríki sem nýlega gengu í Evrópubandalagið (Svíþjóð, Finnland og Austurríki) eru nú skylduð til þess að lengja höfundarréttarvernd úr því að standa í 50 ár eftir dauða höfundar í 70 ár. Þetta er með öllu ástæðulaust og gengur greinilega þvert gegn hagsmunum almennings en þó hafa ekki sést nein mótmæli gegn þessari lengingu. Í þýskalandi hefur 70 ára reglan verið við lýði í nokkurn tíma og nú hafa Þjóðverjar krafist þess að önnur Evrópubandalagsríki taki þessa reglu upp til samræmis. Illar tungur segja að þetta sé til þess að þýsk stjórnvöld geti haldið áfram í 20 ár í viðbót að koma í veg fyrir að rit Adolfs Hitlers séu gefin út. Þetta sel ég ekki dýrara en ég keypti það.

Oft og iðulega þegar stjórnvöld í ýmsum löndum reyna að koma í veg fyrir að upplýsingar af einhverju viðkvæmu tagi komi fyrir almenningssjónir þá er þrautalendingin sú að banna útgáfu þeirra á grundvelli höfundarlaga. Stundum er hægt að komast framhjá slíku með því að endursegja efni viðkomandi skýrslna en ekki alltaf.

Fyrirtækið Póstur og sími skákar enn, eftir því sem ég best veit, í skjóli höfundarréttar þegar það bannar útgáfu á símaskrám sem eru svæðisbundnar eða sértækar á annan hátt. Innanhússsímaskrár fyrirtækja er þó ekki reynt að stöðva útgáfu á, en oftar en einu sinni hefur P+S tekið í hnakkadrambið á björgunarsveitum og líknarfélögum sem hafa ætlað að gefa út rit af þessu tagi í fjáröflunarskyni.

Fyrir nokkrum árum hóf P+S útgáfu símaskrár á tölvutæku formi og seldi á 40 eða 50 þúsund krónur. Þessi útgáfa var hrein himnasending fyrir blinda og sjóndapra því með einföldum búnaði gátu þeir nýtt sér slíka símaskrá til þess að verða mun sjálfstæðari í ýmsum störfum og daglegri önn. Einn forsvarsmaður Blindrafélags Íslands fór opinberlega fram á það við P+S að blindir gætu fengið keyptar tölvutækar símaskrár með helmings afslætti. Við því var ekki orðið og líklegt er að þessi "heimtufrekja" hafi orðið til þess að útgáfu þessarar símaskrár var hætt. Einhverju kann þar líka að hafa valdið að forráðamenn P+S töldu sig hafa sannfrétt að dæmi væru um að tölvuþrjótar afrituðu símaskrá þessa og beinlínis "stælu" þannig þessum höfundarréttarvernduðu upplýsingum um sjálfa sig og fleiri.

Þetta telur einokunarfyrirtækið P+S sig geta gert í skjóli höfundarréttar. Auðvitað á það að vera innifalið í því gjaldi sem allir símnotendur greiða P+S að fá til afnota endur- gjaldslaust símaskrá hvort sem hún er prentuð eða í tölvutæku formi. Meira að segja ættu þeir að eiga rétt á því að skráin væri að mestu leyti villulaus.

Í framtíðinni verður auðvelt að selja alls kyns hugverk svo sem bækur á Internetinu. Menn þurfa bara að endurskoða dálítið verðhugmyndir sínar. Prentaðar bækur sem gefnar eru út nú um þessar mundir færa höfundi sínum, að ég held svona 10-12 hundraðshluta af útsöluverðinu, afgangurinn fer til útgáfufyrirtækjanna, bóksala og ríkisins. Ef bækur væru gefnar út á netinu og seldar þar gæti höfundurinn sem hægast fengið svona 95% af söluverðinu í sinn hlut því útgáfan er svo einföld og ódýr. Vert er líka að athuga að ef bókin væri höfð sem ódýrust mundi hún seljast í miklu meiri eintakafjölda og minni ásókn yrði í að afrita hana ólöglega. Af þessu sést að jafnvel frumsamdar bækur þyrftu ekki að vera mjög dýrar í netútgáfu.

Þeir sem flakka um á veraldarvefnum gera sér oft ekki grein fyrir því að nánast allt efni þar er strangt til tekið háð höfundarréttarlögum. Framkvæmd mála er þó með þeim hætti að fólk þarf tæpast að gera ráð fyrir vandamálum nema ef það fer að nota verk annarra í hagnaðarskyni.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit


FLUGUR EÐA KÓNGULÆR

Stjórnum við Vefnum eða erum við föst í honum?

Þetta er áhugaverð spurning. Og hægt er að verða fimm þúsund dollurum ríkari með því að svara henni. Bandaríska fyrirtækið O'Reilly & Associates ætlar að gefa út besta svarið við þessari spurningu og verðlauna það með nefndri upphæð. Nánari upplýsingar er að fá á

Mín skoðun er sú að á Veraldarvefnum séu bæði flugur og kóngulær, flugurnar þó stórum fleiri. Öll þau fjölmörgu fyrirtæki sem hafa trúað því að á Vefnum væri hægt að stunda umtalsverð viðskipti og hagnast á þeim og hafa lagt í kostnað til þess að koma sér á framfæri þar eru flest sem flugur fastar í neti.

Þó sú tíð komi áður en langt um líður að hægt verði með árangri að stunda allskyns viðskipti á Vefnum er svo alls ekki ennþá. Í dag er Veraldarvefurinn eingöngu nýtanlegur fyrirtækjum í kynningarskyni og í nokkrum tilfellum geta fyrirtæki notað hann til þess að bæta þjónustuna við viðskiptavini sína. Notendur Vefsins eru nefnilega ennþá of fáir og langflestir of hikandi við að eyða peningum þar til þess að hægt sé að selja þar vörur að nokkru marki.

Margir einkanotendur eru sem flugur í neti ef þekkingu þeirra á tölvum og tölvusamskiptum er áfátt. Þeir eru alltaf að bíða eftir því að fá ný, betri og notendavinsamlegri forrit til þess að geta nýtt sér öll þau undur og stórmerki sem sífellt er verið að segja þeim frá og borga á meðan allhá áskriftargjöld án þess að nota að nokkru marki þá þjónustu sem í boði er.

Kóngulærnar á Vefnum eru hinsvegar fáein tölvufyrirtæki sem hafa kunnað að notfæra sér forvitni manna og nýjungagirni, svo sem Netscape og Microsoft, svo og með nokkuð óbeinum hætti ýmis fyrirtæki sem framleiða tölvur og tölvubúnað og svo auðvitað Póstur og sími sem tekur sinn okurtoll af öllu sem um netið fer.

Margir virðast álíta að Internetið sé bara Netscape og Eudora, en auðvitað er það einnig margt fleira. Netscape hentar ágætlega til netskruns, þ.e.a.s. að æða fram og aftur um Veraldarvefinn og klikka á allt sem áhuga vekur, og þegar það er orðið leiðigjarnt, þá að senda Webcrawler eða annað leitarforrit í leit að tengingum við eitthvert áhugavert orð.

Vel getur verið að Eudora auðveldi einhverjum póstsamskipti á Internetinu en mér hefur fundist það forrit fremur flækja málin þar en einfalda. Fjölmargir kunna svo illa á það forrit að ævinlega þegar þeir senda eitthvað frá sér á íslensku þá koma tákn og tölur í staðinn fyrir íslensku stafina. Þetta er svo algengt að mig grunar að forritið geri ekki vart við þetta og því haldi menn jafnvel að allt sé í lagi með sendingar þeirra.

Svo eru aðrir sem virðast halda að Internetið sé bara til vegna IRCs-ins. Þeir fá gjarnan dellu fyrir því og sú della minnir mjög á talstöðvardelluna sem margir voru helteknir af fyrir nokkrum áratugum.

En þetta með flugurnar og kóngulærnar er áhugaverð spurning. Líklega vita margar flugurnar ekki af því að þær eru flugur og halda að þær séu kóngulær. Það gerir reyndar ekkert til því kóngulærnar á Netinu eru að því leyti frábrugðnar þeim í náttúrunni að þær drepa ekki flugurnar sem þær ná tangarhaldi á heldur sjúga bara úr þeim blóðið (peningana).

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit


EFF - Electronic Frontier Foundation

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á tölvusamskiptum af öllu tagi. Þetta byrjaði um 1990 en þá kynntist ég svolítið BBS heiminum hér á Íslandi og setti síðan upp BBS sjálfur í framhaldi af því. Internetinu kynntist ég svo síðla árs 1992 og hef fylgst með flestu því sem þar gerist síðan. Framan af voru ekki mjög margir sem deildu þessum áhuga með mér, en skilningur á tölvusamskiptum og hinum fjölbreyttu möguleikum þeirra hefur farið hraðvaxandi að undanförnu og á allra síðustu árum má segja að um byltingu hafi verið að ræða.

Þó mönnum sjáist stundum yfir það er enginn vafi á því að Internetið er fjölmiðill. Varast þarf þó að flokka það með hinum hefðbundnu fjölmiðlum; blöðum, bókum, útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum því það er í grundvallaratriðum frábrugðið.

Spakur maður sagði einhverntíma að málfrelsi fjölmiðla væri ágætt fyrir þá sem ættu fjölmiðla. Nú er það um það bil að verða að veruleika, sem honum hefur líklega ekki dottið í hug, að svotil allir þeir sem á annað borð kæra sig um, geta eignast sinn eigin fjölmiðil.

Auðvitað er ekki auðvelt að láta taka eftir sér í því upplýsingaflóði sem yfir Netverja steypist daglega. Þeir sem hafa eitthvað fram að færa ættu þó að láta í sér heyra, því jafnvel þó sá hópur sem til næst sé lítill þá skiptir hann máli. Það má láta til sína taka með ýmsu móti. Heimasíður eru ein leiðin, skrif á ráðstefnur eða í Net-rit af ýmsu tagi er önnur og margt fleira mætti nefna.

Í Bandaríkjunum er til félagsskapur sem kallaður er EFF (Electronic Frontier Foundation). Þetta eru hagsmunasamtök allra þeirra em fást við og hafa áhuga á tölvufjarskiptum. Líklega er ekki vanþörf á að stofna hliðstæð samtök hér á landi. Ef einhverjir hafa áhuga á því máli mundi ég mjög gjarnan vilja birta greinar um slíkt hér í blaðinu.

EFF-samtökin í Bandaríkjunum eru mjög öflug samtök og hafa mikil áhrif. Með tíð og tíma gætu slík samtök einnig orðið öflug hér á landi. Það er ekki vanþörf á því að einhver aðili geti tekið sér fyrir hendur að verja Netið fyrir alls kyns misskilningi og fordómum sem oft verður vart í öðrum fjölmiðlum og manna á meðal. Þegar leitað er til einhverra með áleitnar spurningar um þessi mál er gjarnan leitað til Internet-söluaðila en þeirra sýn er oft dálítið lituð af sérhagsmunum og tekur ekki nægilegt tillit til hins almenna notanda.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit


Lög um Internetið ??

Fyrir nokkru staðfesti Bill Clinton Bandaríkjaforseti ný fjarskiptalög. Þessi fjarskiptalög gilda að sjálfsögðu einungis í Bandaríkjunum en munu samt sem áður hafa mikil áhrif um allan heim. Velsæmisgreinin sem í þessum lögum er hefur vakið harðar deilur. Þar er lagt bann við því að dreifa (eða gera öðrum kleift að dreifa) ósiðlegu efni um tölvunet sem börn og unglingar hafa aðgang að. Ósiðlegt telst: "any comment, request, suggestion, proposal, image or other communication that, in context, depicts or describes, in terms patently offensive as measured by contemporary community starards, sexual or excretory activities or organs."

Af þessu tilefni skoruðu ýmis samtök um mannréttindamál og prentfrelsi á sem flesta Netverja að hafa heimasíðubakrunna sína svarta í 48 klukkustundir. Þetta gerði margir og m.a. einhverjar Internet-þjónustur hér á landi.

Deilt er hart um það hvort fremur beri að líta á Netið sem útvarpsmiðil eða prentmiðil, þ.e.a.s. hvort það sem gerist á Netinu líkist meir útvarpi og sjónvarpi en útgáfu bóka og tímarita. Mannréttindasamtök hafa haldið því fram að fremur beri að hafa hliðsjón af prentmiðlum í þessu efni, en símafyrirtæki hafa stutt hið gagnstæða. Auðvitað eru þessar líkingar báðar jafnfráleitar því Netið er í raun alveg nýr samskiptaháttur og ný tegund fjölmiðlunar. Þess vegna er nauðsynlegt að setja reglur um þessi mál því oft á tíðum er afar erfitt að heimfæra gildandi lög um prentmiðla og ljósvakamiðla upp á það sem gerist í Netheimum og alveg ómögulegt að yfirvöld komist upp með að láta eigin hag eða jafnvel tilviljanir ráða því eftir hvorri skilgreiningunni er farið.

Einnig er það nær ómögulegt í framkvæmd að þeir sem selja aðgang að Internetinu beri fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllu sem viðskiptavinir þeirra kunna að taka sér fyrir hendur á Netinu. Þess vegna þurfa þeir aðilar sem reka Internet-þjónustur að gæta sín á því að vera ekki að skipta sér of mikið af því hvað viðskiptavinirnir gera, því það auðveldar yfirvöldum þann leik síðar að velta allri ábyrgð á þá.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit


SÝNILEGI MAÐURINN

Fyrir nokkrum árum var morðingi tekinn af lífi í Texas í Bandaríkjunum. Nú er líkami hans orðinn að kennslutæki fyrir allan heiminn með aðgangi í gegnum Internetið að fyrsta þrívíða tölvutæka líkinu.

"Sýnilegi maðurinn" er nákvæmt kort af mannslíkamanum með þúsundum röntgen- segul- og ljósmynda af þversniðum úr líkinu.

"Þetta er í fyrsta skipti sem slíkar nákvæmar upplýsingar um allan mannslíkamann hafa verið settar saman", sagði Donald A.B. Lindberg stjórnandi bandaríska læknabókasafnsins.

Aðgangur að þessu stafræna líki verður öllum opinn sem fá til þess leyfi bókasafnsins. En gögnin eru svo mikil að vöxtum að það tæki langan tíma að sækja þau á Vefnum og um 15 gígabæti af diskplássi þyrfti til að geyma þau.

Gert er ráð fyrir að gagnasafn þetta muni fyrst og fremst verða notað af læknaskólum og rannsóknarstofum.

"Sýnilegi maðurinn" verður mikilvægt kennslutæki fyrir læknanema og í framtíðinni kynni að verða hægt að gera með hjálp hans skurðarborðsherma, í líkingu við flugherma, þar sem læknar sem eru að læra skurðlækningar eða aðrar lækningar gætu æft sig.

"Þetta er dæmi um að í framtíðinni verður heilsugæsla meir og meir myndræn í staðinn fyrir að byggjast á texta", sagði Michael Ackerman tövlufræðingur við læknabókasafnið.

Viðskiptaaðilar gera sér líka vonir um að hagnast á þessum gagnagrunni. Ein hugmyndin er að gera leikinn "Stórkostlegt ferðalag (Fantastic Voyage: The Game) sem væri byggður á samnefndri sögu eftir Isaac Asimov, sem kvikmynd hefur einnig verið gerð eftir. Í þeirri bók er sagt frá hópi vísindamanna sem eru minnkaðir og þeim sprautað inn í blóðrás deyjandi manns.

Mikill kostnaður fylgir þessu verkefni bandaríska læknabókasafnsins, sem læknadeild Coloradoháskóla í Denver tók að sér að framkvæma.

Verkið hófst 5. ágúst 1993 nokkrum klukktímum eftir að 39 ára gamall fyrrverandi bifvélavirki að nafni Joseph Paul Jernigan var tekinn af lífi í Texas. Hann hafði ánafnað vísindunum líkama sinn og eftir að flogið hafði verið með líkið til Denver var það ljósmyndað og skannað eftir kúnstarinnar reglum.

Þvínæst var það sagað i fjóra hluta og fryst í gelatíni. Hver hluti fyrir sig var síðan settur á sérstakt borð og þar var það sneitt niður með hníf. Hnífur þessi er séstaklega gerður til þess að hluta sundur lík. Sagaðar eða ristar voru síðan úr líkinu 1870 eins millimetra þykkar sneiðar allt frá iljum til hvirfils. Hver einasta sneið var síðan mynduð með stafrænni myndavél og sett í tölvu.

Sérstakt tölvuforrit raðaði síðan myndunum saman og bjó til þrívíða eftirmynd af líkinu. Vísindamenn voru mjög ánægðir með árangurinn. "Sýnilegi maðurinn" á eflaust eftir að nýtast best skurðlæknum og öðrum læknum sem leita nýrra lausna á gömlum vandamálum. Sú ofgnótt upplýsinga sem þarna er að fá kann hins vegar að virka hálf yfirþyrmandi fyrir venjulega læknanema.

Þýtt og endursagt

Til baka í efnisyfirlit


ÖÐRUVÍSI ORÐABÓK

Sum íslensk orð og orðasambönd geta haft óvænta aukamerkingu og stundum er hægt að láta sér detta í hug furðulega hluti í því sambandi. Hér eru nokkur dæmi og fáein nýyrði að auki.

að þykkna upp = verða ólétt
afhenda = höggva af hönd
aftansöngur = mikill viðrekstur
afturvirkni = samkynhneigð karla
almanak = nektarnýlenda
arfakóngur = garðyrkjumaður
baktería = hommabar
búðingur = verslunarmaður
dráttarkúla = eista
dráttarvextir = meðlag, barnabætur
dráttarvél = titrari
eigi má sköpum renna = fær ekki að ríða
féhirðir = þjófur
fjölskita = magaveiki í heimahúsi
flygill = flugmaður
formælandi = sá sem blótar mikið
forhertur = maður með harðlífi
frygðarumleitanir = að gefa undir fótinn
frumvarp = maríuegg fugla. (fyrsta egg)
glasabarn = barn getið á fylleríi
grunnstingull = maður með lítið tippi
handrið = sjálfsfróun
hangikjöt = afslappað tippi
heimskautafari = tryggur heimilisfaðir
herðakistill = bakpoki
hleypa brúnum = kúka
iðrun = niðurgangur og uppköst
kóngsvörn = forhúð
kúlulegur = feitur
kviðlingur = fóstur
líkhús = raðhús
loðnutorfa = lífbeinshæð konu
lóðarí = lyftingar
maki = sminka
meinloka = plástur<
myndastytta = kvikmyndaklippari
nábýli = kirkjugarður
nágreni = gröf
náungi = maður sem deyr ungur
neitandi = bankastjóri
penisilín = nærbuxur karlmanna
pottormar = spaghetti
riðvörn = skírlífisbelti
rolukast = íþrótt, lík dvergakasti
sambúð = kaupfélag
samdráttur = grúppusex
sífliss = óstöðvandi hlátur
skautahlaupari = fjöllyndur karlmaður
skautbúningur = nærbuxur kvenna
tíðaskarð = skaut konu
tylfingur = sá sem vinnur við tölvu
undandráttur = ótímabært sáðlát
undaneldi = brunarústir
upphlutur = brjóstahaldari
uppskafningur = veghefilsstjóri
úrhellir = kanna
úrslit = bilun í úri
útsinningur = sendiherra
varpstöð = kasthringur
veiðivatn = rakspíri
vindlingur = veðurfræðingur
vökustaur = hlandsprengur að morgni
þorstaheftur = óvirkur alki
öryrki = kraftaskáld, sá sem er fljótur að yrkja


Til baka í efnisyfirlit


EFNISYFIRLIT RAFRITSINS 1994

+------------------------+
| 1. tbl. 3. janúar 1994 |
+------------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Er eitthvað bogið við veröldina? .............. Atli Harðarson

3. Fáein orð um tölvuleiki ................ Salvör Gissurardóttir

4. Harmsaga mótaldsfíkilsins ................. Sæmundur Bjarnason

5. island-list og gk-frettir ........... Guðbjartur Kristófersson

6. Nýir notendur á Internet ....................... John December

7. Sýndarveruleiki - Virtual Reality ......... Sæmundur Bjarnason

8. Að hringja í BBS-kerfi .................... Sæmundur Bjarnason

9. Ýmislegt um .bat skrár ........... Aðalsteinn Bjarni Bjarnason

10. Lönd á Internet .............................................

11. Bréf til blaðsins ...........................................

12. Efnisyfirlit Rafritsins 1993 ................................+-------------------------+
| 2. tbl. 17. janúar 1994 |
+-------------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Dæmisaga Poincaré ............................. Atli Harðarson

3. Alheimsþorpið er hér nú þegar ............. Sæmundur Bjarnason

4. Rafritið er komið á Gopher ................ Sæmundur Bjarnason

5. Bækur á Interneti ......................... Sæmundur Bjarnason

6. Hvað er BBS? ................................. Björn Davíðsson

7. MPEG ...................................... Tryggvi R. Jónsson

8. Internet á Íslandi ........................ Sæmundur Bjarnason

9. Sjónvarp - sími - tölvur .................. Sæmundur Bjarnason

10. Ýmislegt um tölvur ............... Aðalsteinn Bjarni Bjarnason

11. Bréf til blaðsins ...........................................

12. Óopinbera broskarla orðabókin ...............................+--------------------------+
| 3. tbl. 21. febrúar 1994 |
+--------------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Kínverska herbergið ........................... Atli Harðarson

3. Að komast nær tölvuástinni. Viðtal við Láru Stefánsdóttur ............. Sæmundur Bjarnason

4. RFDMAIL póstritillinn ........................ Björn Davíðsson

5. Bíllinn reynir ekki að halda sér í 37 gráðum. Nokkur orð um vindkælingu .................. Halldór Björnsson

6. Endurnýting prentborða .................... Sæmundur Bjarnason

7. nn-NetNews-NoNews ráðstefnuforritið ....... Tryggvi R. Jónsson

8. EARN European Academic & Research Network
.............................. Albert Svan Sigurðsson

9. Að láta froskinn hringja í korktöflukerfi. Kermit - BBS ........... Sæmundur Bjarnason og Björn Davíðsson

10. Sumarferð (Auglýsing) .................... Tryggvi R. Jónsson og Ingimar Róbertsson

11. Fleiri fótmæli ............................ Sæmundur Bjarnason+-----------------------+
| 4. tbl. 21. mars 1994 |
+-----------------------+

1. Frá ritstjóra...............................................

2. Einn dauður hermaður í Bandaríkjahreppi - Um útþenslustefnu Bandaríkjamanna á 19. öld ... Baldur Pálsson

3. Ógöngur fanganna .............................. Atli Harðarson

4. Hvað á ég að lesa? - Að finna bækur á Interneti ................ Sæmundur Bjarnason

5. Ísrael .................................... Jónas Gunnlaugsson

6. Nýjar ráðstefnur .......................... Sæmundur Bjarnason

7. Eitt gjaldsvæði er ekkert mál - Um lækkun símakostnaðar landsmanna...........Björn Davíðsson

8. Nýtt úr Netheimi - Þrjár fréttir úr Morgunblaðinu ............ Sæmundur Bjarnason

9. Faxmodem í stað faxtækis .............. Lárus Rafn Halldórsson

10. Gáfaða húsið .............................. Sæmundur Bjarnason

11. Bréf til blaðsins - Athugasemdir við grein um EARN ............... Maríus Ólafsson

12. Tölvubrandarar............................Sæmundur Bjarnason+----------------------+
| 5. tbl. 9. júní 1994 |
+----------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Samstaða og sjálfsbjargarviðleitni ............ Atli Harðarson

3. Tölvurnar tefla ............................... Einar Karlsson

4. Algengir nafnaukar í DOS .................. Sæmundur Bjarnason

5. Nokkur orð um IRC 2.2.9 .................. Ingimar Róbertsson

6. Kreppan 1930 .............................. Jónas Gunnlaugsson

7. Stöð 2 BBS - In Memoriam .................. Sæmundur Bjarnason

8. Algengar skammstafanir og styttingar ...... Sæmundur Bjarnason+---------------------------+
| 6. tbl. 8. september 1994 |
+---------------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Vísindi og siðferði ........................... Atli Harðarson

3. Úr einu í annað ........................... Sæmundur Bjarnason

4. Veraldar víðs vefur ....................... Tryggvi R. Jónsson

5. Upplýsingaþjóðvegurinn .................... Sæmundur Bjarnason

6. Tuttuguföld hraðaaukning ? ................ Sæmundur Bjarnason

7. Blöð og tímarit á Interneti ............... Sæmundur Bjarnason

8. Ódýr símatorgsþjónusta .................... Sæmundur Bjarnason+--------------------------+
| 7. tbl. 8. desember 1994 |
+--------------------------+

1. Frá ritstjóra ...............................................

2. Altæk vél ..................................... Atli Harðarson

3. Tölvusamskipti - flutningsreglur ............. Björn Davíðsson

4. Fjarkennsla á Netinu ........................ Haukur Ágústsson

5. Aukatekjur .................................. Andri Haraldsson

6. Nokkur fersk fótmæli ...................... Sæmundur Bjarnason

Höfundar efnis:

Sæmundur Bjarnason
Atli Harðarson
Salvör Gissurardóttir
Guðbjartur Kristjánsson
John December
Aðalsteinn Bjarni Bjarnason
Björn Davíðsson
Tryggvi R. Jónsson
Halldór Björnsson
Albert Svan Sigurðsson
Ingimar Róbertsson
Baldur Pálsson
Jónas Gunnlaugsson
Lárus Rafn Halldórsson
Maríus Ólafsson
Einar Karlsson
Haukur Ágústsson
Andri Haraldsson

Netfanginu saemund@ismennt.is verður að líkindum lokað á næstunni svo þeir sem vilja hafa samband við mig með rafpósti geta í bili notað netfangið bac@treknet.is til að koma pósti til mín.

Nýtt netfang verður svo vonandi kynnt fljótlega.

Ritstjóri.


Til baka í efnisyfirlit