3. tbl. 21. febrúar 1994 2. árg.

EFNISYFIRLIT

 1. Frá ritstjóra.

 2. Kínverska herbergið. Atli Harðarson

 3. Að komast nær tölvuástinni. Viðtal við Láru Stefánsdóttur. Sæmundur Bjarnason

 4. RFDMAIL póstritillinn. Björn Davíðsson

 5. Bíllinn reynir ekki að halda sér í 37 gráðum.Nokkur orð um vindkælingu. Halldór Björnsson

 6. Endurnýting prentborða. Sæmundur Bjarnason

 7. nn-NetNews-NoNews ráðstefnuforritið. Tryggvi R. Jónsson

 8. EARN European Academic & Research Network. Albert Svan Sigurðsson

 9. Að láta froskinn hringja í korktöflukerfi Kermit - BBS - Sæmundur Bjarnason og Björn Davíðsson

 10. Sumarferð (Auglýsing) Tryggvi R. Jónsson og Ingimar Róbertsson

 11. Fleiri fótmæli. Sæmundur Bjarnason


FRÁ RITSTJÓRA


Fyrir nokkru hafði ég samband við Einkaleyfaskrifstofuna og spurðist fyrir um hvort ég gæti fengið einkarétt á notkun orðsins "rafritið". Við fyrstu sýn sýndist starfsfólkinu þar að svo ætti að vera, en það vildi þó ekki fullyrða að svo væri enda er hlutunum þannig fyrir komið að það kostar 9500 krónur að sækja um slíka skráningu og síðan er usóknin annaðhvort samþykkt eða henni hafnað.

Þó mig langi til að eignast nefndan einkarétt, því mér finnst nafnið nokkuð gott hjá mér, þó ég segi sjálfur frá, þá er ég ekki tilbúinn til að borga 9500 krónur fyrir það. Þessvegna er það sem ég hef nú ákveðið að gefa þeim sem vilja, kost á að styrkja mig til þess að eignast þetta einkaleyfi, og stuðla jafnframt að því að ég skaðist ekki að ráði fjárhags- lega á útgáfu þessa rits, með því að leggja smáupphæð, t.d. 300-500 kr. á ári inn á sparisjóðsbók nr. 10115 við Landsbanka Íslands Árbæjarútibú.

Nú hafa verið teknir í notkun tveir póstlistar fyrir Rafritið, sá sem lengi hefur verið í notkun og annar sem heitir rafritid-gk og á hann er Rafritið sent á gk-formi sem er þannig að með því er mögulegt fyrir Íslendinga sem staddir eru erlendis að breyta blaðinu með einföldu forriti þannig að íslensku stafirnir komi aftur eftir að ég hef breytt því með sérsöku forriti í þetta svokallaða gk-form. Verið getur að einhverjir séu ennþá á báðum listunum og bið ég þá að láta mig vita svo ég geti leiðrétt það. Og þeir sem vilja komast á gk-listann þurfa endilega að láta mig vita.

Eftirtaldir hafa gerst áskrifendur að Rafritinu síðan síðast:

dg0@engr.uark.edu Daði Guðmundsson
bartels@ismennt.is Jón Bartels
thorirm@rhi.hi.is Þórir Magnússon
palmason@scf.usc.edu Gunnar Pálmason
afj@rhi.hi.is Árni Freyr Jónsson
bthor@vsys0.hac.com Brynjólfur Þórsson
gisli@cs.ucsb.edu Gísli Hjálmtýsson
halldor@atlantic.meteo.mcgill.ca Halldór Björnsson
asgeirk@rhi.hi.is Ásgeir Kröyer Antonsson
nvaldi@ismennt.is Jón Bjarni Magnússon
bjarturh@ismennt.is Sigurbjartur Helgason
gunnaha@rhi.hi.is Gunnar Ingi Halldórsson
jfk@fire.is Jón Fannar Karlsson

Nokkrir aðilar hafa flust af listanum "rafritid" á "rafritid-gk".

Meðal efnis í þessu blaði má nefna grein um vandamálið varðandi það að hafa samband við íslensk BBS með Kermit. Viðtalið við Láru Stefánsdóttur kemur nú loksins fyrir augu lesanda og grein er í blaðinu um ráðstefnuforritið "nn" eftir Tryggva R. Jónsson. Ágæt grein og stórfróðleg, en ýmislegt er þó ósagt um ráðstefnurnar ennþá svo merkilegt fyrirbrigði sem þær eru og verður reynt að skrifa meira um þær á næstunni. Breytingar virðast vera á döfinni varðandi icenet ráðstefnurnar sem hafa verið vægast sagt lítið notaðar til þessa og vonandi verður hægt að segja nánar frá því í næsta blaði.

Benda má á að undanfarið hafa verið nokkrar deilur á Usenet ráðstefnunni rec.games.chess útaf "Reykjavik open" skákmótinu sem nýlega er lokið. Þeim sem vilja kynna sér þetta er bent á að lesa allt sem merkt er "Reykjavik open" á nefndri ráðstefnu.

Geysilegt fjör hefur verið á póstlistanum island-list að undanförnu en lítillega var sagt frá honum í Rafritinu nr. 1 1994. Þetta byrjaði með því að einhver sendi inn eftirfarandi vísu:

Hagyrðinga höfum vér,
heldur betur góða,
ef oss á meðal á þeim ber,
aðra setur hljóða.

Síðan varð einhver annar til þess að benda á að eignarfallið af vér væri vor en ekki oss og þá varð allt vitlaust. Honum var bent á að ekki væri við hæfi að gagnrýna á þennan hátt en hann svaraði fullum hálsi og svo blandaðist ýmislegt fleira í málið og farið var að skrifa um hitt og þetta og er sumt af því efni bæði stórskemmtilegt og fróðlegt.

Þó mörgum finnist eðlilegt að gagnrýna opinskátt bæði málfar og stafsetningu á ráðstefnum og póstlistum er af ýmsum ástæðum ekki rétt að gera það á þann hátt að senda greinar á viðkomandi ráðstefnur eða lista með tilvitnaðri meintri villu. Ef mönnum finnst nauðsyn bera til að leiðrétta villuna er réttara að senda bréf beint til viðkomandi eða safna saman dæmum um nokkurn tíma og skrifa síðan um réttritun eða málfar á almennum nótum.

Og almennt varðandi gagnrýni í Netheimum ber að hafa sterklega í huga ráðleggingu Einars Benediktssonar: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar", því það er ótrúlega auðvelt að gleyma því þegar sest er niður við tölvuna að bak við öll skrif eru lifandi manneskjur.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


KÍNVERSKA HERBERGIÐ.

Fyrstu tölvurnar voru smíðaðar í Bretlandi og Banda- ríkjunum undir lok 5. áratugarins. Þær voru heljarmikil bákn, á stærð við hús, og þeim var ætlað að vinna alls konar talnareikning, aðallega fyrir heri þessara landa. En ekki leið á löngu áður en farið var að forrita tölvur til að vinna annars konar verk en talanreikning. Enski stærðfræðingurinn Alan Turing, sem uppi var á árunum 1912 til 1954 og er helsti upphafsmaður tölvufræðinnar, reyndi til dæmis að búa til forrit sem nota mætti til að láta tölvur tefla skák. Þetta var árið 1953. Fyrstu keyrsluhæfu skákforritin komu fram á árunum milli 1955 og 1958. Þau höfðu ekkert í æfða skákmenn að segja. En nú, árið 1993, eru til forrit sem láta tölvur tefla jafn vel og góðir skákmenn.

Á árunum upp úr 1930 vann Alan Turing að rannsóknum á eðli vélrænna aðferða. Hann sýndi fram á það með ágætum rökum að allar reikniaðferðir sé hægt að byggja úr fáeinum einföldum aðgerðum sem vél getur framkvæmt. Rök Turings tóku ekki aðeins til stærðfræði því hann sýndi líka fram á að ef hægt er að forrita vél til að vinna eftir hvaða reikniaðferð sem er þá er hún altæk í þeim skilningi að það er hægt að forrita hana til að vinna með tákn, eða munstur, eftir öllum endanlegum og ótvíræðum forskriftum og herma þannig eftir hvaða ferli sem er.

Tölvur eru altækar vélar í skilningi Turings. Þetta þýðir meðal annars að í staðinn fyrir hvaða sjálfvirknibúnað sem er má setja tölvu og forrita hana til að vinna sama verk.

Á árum seinni heimstyrjaldarinnar unnu lífeðlisfræð- ingurinn Warren McCulloch og stærðfræðingurinn Walter Pitts saman að rannsóknum á taugakerfinu. Árið 1943 birtu þeir ritgerð sem þeir nefndu "A Logical Calculus of the Ideas Immanent in Nervous Activity". Þessi ritgerð átti eftir að verða einhver helsti hugmyndabanki gervigreindarfræðinga. En gervigreindarfræði snýst um að gæða vélar viti. McCulloch og Pitts sýndu fram á að taugafrumur, sem eru tengdar saman og skiptast á rafboðum, geta unnið útreikninga svipaða þeim sem reiknivélar vinna. Af niðurstöðum þeirra leiðir meðal annars að hvaðeina sem net af taugafrumum getur reiknað er líka hægt að láta tölvu reikna og hvaðeina sem tölva getur gert er hægt að láta tauganet gera. Sé bætt við þetta þeirri forsendu að allt hugarstarf manna og dýra fari þannig fram að taugafrumur skiptast á rafboðum þá blasir sú niðurðstaða við að tölvur geti unnið sams konar hugarstarf og fólk.

Ef mannsheilinn er vél úr taugafrumum sem gera ekkert annað en rafeindabúnaður getur gert, og ef tölva getur hermt eftir hvaða vél sem er þá getur tölva hermt eftir manns- heilanum.

Auðvitað eru allar tölvur sem hingað til hafa verið smíðaðar miklu hægvirkari en mannsheilinn. Sé magn upp- lýsinga mælt í bitum, eins og títt er að gera í tölvufræði, þá er ekki fjarri lagi að öflugar tölvur geti unnið úr álíka upplýsingamagni á sekúndu eins og taugakerfi snigils. Þær vantar því mikið upp á að hafa svipaða afkastagetu og mannsheili.

Með hverju ári sem líður tvöfaldast afkastageta töl- vanna. Þetta þýðir að hún þúsundfaldast á áratug og milljón- faldast á 20 árum. Með slíku áframhaldi ná vélarnar okkur fyrr eða síðar. Skyldi þá verða hægt að forrita tölvur þannig að þær geti gert allt sem heilinn í okkur getur? Hinir róttækari úr hópi gervigreindarfræðinga, með Marvin Minsky prófessor við MIT í broddi fylkingar, svara þessari spurningu játandi og halda því fram að á endanum verði enginn munur á andlegu lífi manna og véla. Hinir hófsamari láta sér duga að halda því fram að hægt sé að láta vélar vinna öll verk sem menn geta unnið en fullyrða ekkert um að hægt sé að gæða þær skilningi, meðvitund og tilfinningum eins og fólk hefur.

Ýmsum hefur blöskrað fullyrðinar róttækra gervigreindar- sinna. Einn þeirra er John R. Searle prófessor í heimspeki við Berkeley háskóla í Kaliforníu. Í frægri ritgerð sem heitir "Minds, Brains and Programs" rökstyður Searle þá niðurstöðu að þótt einhvern tíma verði kannski til tölvur sem geta hermt eftir fólki, talað eins og fólk og unnið sömu verk og fólk, þá geti þær ekki hugsað eins og fólk.

Að áliti Searle getur tölva sem hermir eftir hugsun ekki hugsað neitt frekar en tölva sem hermir eftir flugvél getur flutt okkur milli landa.

Rökfærsla Searle er barnslega einföld. Hann byrjar á að minna á að tölvur gera ekkert annað en að vinna með munstur og tákn eftir forriti, þ.e.a.s. reglu eða forskrift. Þetta geta menn líka gert og þannig leikið allar sömu kúnstir og tölvur. Síðan segir Searle að hann geti hugsað sér að hann sitji inni í herbegi með leiðbeiningar eða forrit á sínu móðurmáli og helling af litlum miðum með undarlegum myndum eða táknum. Hann sér blað með skrýtnum myndum koma inn um rifu og flettir upp í leiðbeiningunum hvernig brugðist skuli við og sér að þar stendur að hann skuli stinga miðum númer 1007 og 456 út um sömu rifu. Þannig líða dagarnir og Searle veit ekkert hverjir setja þessa miða inn eða hvers vegna hann er þarna. Hann hlýðir bara leiðbeiningunum.

Fólkið utan við herbergið er kínverjar og á blöðunum sem það stingur inn eru spurningar á kínversku. Forritið sem Searle vinnur eftir lætur hann stinga út miðum með réttum og eðlilega orðuðum svörum við þessum spurningum. Kínverjunum virðist sem herbergið, eða sá sem í því er, skilji kínversku. En Searle skilur ekki neitt. Veit ekki einu sinni að táknin á blöðunum sem hann fær eru spurningar og miðarnir sem hann réttir út eru svör.

Af þessari sögu dregur Searle þá ályktun að fyrst hann skilur ekki kínversku þótt hann fylgi svona leiðbeiningum þá muni forrit sem lætur tölvu haga sér eins og hún skilji mál og geti spjallað um alla heima og geima ekki gæða hana neinum raunverulegum skilningi.

Þessi rök Searle hafa valdið heimspekingum og gervi- greindarfræðingum miklum heilabrotum og menn eru alls ekki á eitt sáttir um hvað þau sanna.

Rök Turings fyrir því að tölva sé altæk vél eru nánast hafin yfir allan vafa. Það er engin ástæða til að efast um að starfsemi mannsheilans sé í því fólgin að taugar skiptast á rafboðum. Enginn hefur heldur bent á neitt sem er líklegt til að skipta máli og tauganet í mannsheila getur gert en rökrásir, af því tagi sem tölvur eru smíðaðar úr, geta ekki. Searle er sammála flestum sálfræðingum og lífeðlisfræðingum um það að allt hugarstarf fari fram í heilanum en samt benda rök hans til þess að sumt hugarstarf manna sé af öðru tagi en þau verk sem tölvur geta unnið. Hér er því einhver vitleysa á ferðinni. Ef rök Searle eru gild þá er annað hvort eitthvað bogið við undirstöður tölvufræðinnar eða ríkjandi hugmyndir um mannsheilann og mannlegt hugarstarf.

Atli Harðarson

Til baka í efnisyfirlit.


AÐ KOMAST NÆR TÖLVUÁSTINNI


viðtal við Láru Stefánsdóttur.

Það var snemma árs 1986 sem skólastjóri Grunnskólans á Kópaskeri, Pétur Þorsteinsson fékk áhuga á tölvusamskiptum og þeim möguleikum sem þau gætu haft fyrir íslenska kennara.

Fyrst reyndi hann að tengjast tölvukerfi Háskóla Íslands en sá fljótlega að það var alltof dýrt, ekki bara fyrir hann heldur mundi það verða of dýrt fyrir flesta skóla landsins. Hann byrjaði því að athuga hvernig hann gæti sjálfur komið upp tölvuneti fyrir íslenska skóla.

Hann keypti sér UNIX tölvu og byrjaði að undirbúa tölvusamskiptaþjónustu fyrir skólana. Fyrstu grunnskólarnir tengdust tölvukerfi hans árið 1990 og nú er svo komið að nær allir skólar landsins eru tengdir Íslenska Menntanetinu.

Þegar upphaflega tölvunetið sem Pétur kom upp var sumarið 1992 gert að Íslenska menntanetinu með miðstöðvar á þremur stöðum á landinu, á Kópaskeri, á Akureyri og í Reykjavík voru það einkum eftirtalin sjö atriði sem höfð voru að leiðarljósi:

1. Kerfið yrði byggt á UNIX og tengt Interneti.

2. Skólarnir þyrftu að geta notað þann vélbúnað sem fyrir hendi væri. Þjónusta yrði jöfn fyrir allar tegundir vélbúnaðar sem þar væri.

3. Notendaviðmót yrði sem vingjarnlegast og notendur þyrftu ekki að þekkja eina einustu UNIX skipun til að geta notað kerfið.

4. Leiðbeinendur mundu heimsækja hvern einasta skóla sem tengdist netinu og hjálpa fólki þar að tengjast og ganga úr skugga um að allt væri í lagi.

5. Notendur þyrftu að geta hringt í umsjónarmenn netsins svo að segja hvenær sem væri.

6. Kostnaður yrði að vera lágur og óháður notkun og tengitíma.

7. Andrúmsloft samvinnu og samhjálpar yrði ráðandi innan notendahópsins.

Haustið 1992 komu þrjár nýjar tölvur til menntanetsins og þrír nýir starfsmenn hófu störf þar. Það voru Björn Þór Jónsson áður á Akureyri nú í framhaldsnámi í Bandaríkjunum, Lára Stefánsdóttir Reykjavík og Jón Eyfjörð Grindavík. Ásamt með Pétri Þorsteinssyni eru þessir upphaflegu starfsmenn menntanetsins jafnframt eigendur þess.

Eins og sjá má af framansögðu er Íslenska Menntanetið ekki enn orðið tveggja ára en er þó greinilega leiðandi og mótandi afl í tölvusamskiptum á Íslandi. Þangað hafa BBS- sysoppar og aðrir tölvusamskiptafíklar flykkst og sennilega er svo komið núna að vinsældir netsins eru að verða helsta vandamál þess svo öfugsnúið sem það nú er.

Rafritið er eitt þeirra fyrirbrigða sem sprottið hafa upp úr þeim frjóa jarðvegi sem menntanetið hefur skapað og hefði tæpast getað orðið til nema vegna þess.

Það var þessvegna ekki að ófyrirsynju að ég bað einn starfsmanna netsins, Láru Stefánsdóttur um viðtal.

Lára tók þessu af mestu ljúfmennsku og tilhögunin var þannig að undirritaður sendi henni spurningalista sem hún svaraði og síðan spruttu af því fleiri spurningar og þannig gengu bréfin fram og aftur milli okkar þar til ég áleit nóg komið.

Þetta var í fyrri hluta desember s.l. og til stóð að vinna viðtalið fljótlega en sakir anna hefur það sífellt dregist, en nú verður ekki lengur undan því vikist.

RR.: Segðu mér eitthvað um sjálfa þig. T.d. hvaða nám þú stundaðir, hvar þú hefur unnið og hve lengi þú hefur verið hjá menntanetinu.

L.S.: Ég tók Samvinnuskólann á sínum tíma og gerðist bisnissmann, flutti inn raflagnaefni í 7 ár fyrir Landssamband Íslenskra Rafverktaka. Kynntist tölvum 1981 sem var ást við fyrstu sýn enda öll forrit sem með henni komu handónýt svo allt þurfti að skrifa upp á nýtt, laga og breyta. Að vísu héldu yfirmenn mínir að ég héldi við forritarann en ekki að forritun tæki svo langan tíma og vildu að ég gerði það án þess að heimta kaup fyrir ;-)

Nú til þess að komast nær tölvuástinni las ég utanskóla 3. og 4. bekk í Samvinnuskólanum með fullri vinnu. Byrjaði haustið 1983 og kláraði vorið 1985. Dinglaði svo í skemmtilegum kúrsum í HÍ og setti upp tölvukerfi fyrir Microtölvuna og forritaði síðar í skólakerfinu Axel.

Fór síðan að kenna 1989 og kláraði Tölvuháskóla VÍ með, síðan tók ég Uppeldis- og Kennslufræði, líka utanskóla og síðast kúrs í Online Education and Training í Open University í London í gegnum tölvusamskipti.

Ég tók síðan til starfa við menntanetið haustið 1992 þegar nýju tölvurnar 3 komu og um leið tóku til starfa þar einnig Jón Eyfjörð og Björn Þór Jónsson.

RR.: Þið hjá menntanetinu hafið ekki sóst eftir almennum áskrifendum hefur mér sýnst, en ekki heldur neitað mönnum um aðgang. Hver er framtíðin að þessu leyti? Á nokkuð að fara að auglýsa?

L.S.: Nei, við önnum einungis skólakerfinu eins og er og eigum erfitt með að taka inn einkanotendur. Þeir hafa einnig reynst talsvert "þyngri" notendur en kennarar og því hefur gjaldskráin á þeim verið of lág.

RR.: Þetta á eftir að vekja athygli. Stendur til að hækka afnotagjaldið? Er alveg hætt að taka einkanotendur inn? Væri ekki kannski betra að taka sem flesta inn og sjá til hvort þeir nýju eru ekki "léttari" en hinir? "Þyngjast" ekki bara þeir sem fyrir eru ef þið hættið að bæta við?

L.S.: Fyrst og fremst þjónar menntanetið menntastofnunum þ.e. skólum o.fl. Þegar það gerist að netið annar ekki notkuninni eru einkanotendur ekki teknir inn eins og gerðist t.d. nú í október og nóvember. Það er ekki hægt að segja núna að við séum alveg hætt að taka einkanotendur en í bili förum við varlega í það. Þá fer það auðvitað eftir því hvernig menn ætla að nota netið. Ég held ekki að þeir sem fyrir eru "þyngist" nema auðvitað menn séu að misnota netið og hleypa öðrum í hólfin sín sem má alls ekki.

RR.: Hvaða stofnanir s.s. menntamálaráðuneyti, fræðsluskrifstofur, námsgagnastofnun, bókasöfn og þ.h. nota netið?

L.S.: Menntamálaráðuneyti og fræðsluskrifstofur nota netið. Þó er þetta afar mismunandi eftir deildum í ráðuneytinu og fræðsluskrifstofa um landið. Ég held að án þess að kasta rýrð á einn né neinn megi segja að Fræðsluskrifstofa Norðurlands Eystra hafi verið einna duglegust af þessum stofnunum að nota netið, leggja inn efni í gopher o.fl.

Öflugsta bókasafnið á netinu er án efa bókasafn KHÍ en þar er netið notað gríðarlega. Bókasafnsfræðingar í menntastofnunum eru líka að velta fyrir sér aukinni notkun og upplýsingaveitu á netinu.

Gegnir er þó líklega besta dæmið um bókasafnsnotkun núna en við veitum einmitt aðgang að því. Ýmislegt er þó á döfinni í þessum efnu.

RR.: Eru Færeyingar með tengingu við Internet? Ég spyr aðallega af því að það hefur verið bollalagt mikið um þetta á soc.culture.nordic að undanförnu.

L.S.: Nei, ég talaði einmitt um þetta við Steen Weidemann sem vinnur hjá SkoleKom í Danmörku. SkoleKom er í menntamálaráðuneytinu og þar af leiðandi menntanetið þeirra.

Svokallað vestnorrænt samstarf hefur tekist um tölvusamskipti. Færeyingar hafa fengið fjárveitingu í að setja upp net hjá sér og munum við hjá menntanetinu vinna með þeim í að setja það upp. Pétur fer til Færeyja fljótlega til að aðstoða við uppsetningu á vél þar. Samstarf við Grænlendinga er skemmra á veg komið en þeir munu einnig verða með. Annars eru Færeyingar inni hjá okkur á menntanetinu núna.

RR.: Hvernig tengjast þeir? Hringja bara frá Færeyjum?

L.S.: X.25 og hringja ef ég man rétt.

RR.: Um það bil 600 af skráðum notendum menntanetsins virðast aldrei hafa loggað sig inn á kerfið. Af hverju?

L.S.: Við breyttum kerfinu þannig að þeir sem hafa ekki loggað sig inn í nokkuð marga mánuði koma fram þannig að þeir hafi aldrei tengst. Hinsvegar má réttilega benda á að þessir 600 (ég tékkaði töluna ekki af) eru ekki virkir notendur. Talsvert er um það að menn fái verknúmer, byrji pínulítið en hætti síðan. Ástæðurnar geta verið margar t.d. að menn yfirstigi ekki þann þröskuld að læra á netið, ætli sér að gera eitthvað en geri það ekki. Sjái ekki tilgang o.s.fr. Hinsvegar eru margir notendur afar virkir sem sést á því að toppurinn á innhringingum í nóvember var 1500 upphringingar á dag, en meðaltalið var um 1000.

RR.: Námskeiðin sem hafa staðið yfir að undanförnu virðast einkum vera fyrir kennara. Eru einhver námskeið fyrir aðra? Hvernig? Hvað kosta þau?

L.S.: Tja, það hafa verið þreifingar í gangi. Einstaklingum hefur verið kennt og nú eftir áramót verður kennt milli framhaldsskóla, þ.e. framhaldsskólanemum. síðan má ekki gleyma Farskóla KHÍ þó það sé kennaranám. Fullt af hugmyndum er í gangi en enginn hefur enn verið svo áræðinn að hrinda þeim í gang.

RR.: Hvaða skólar nota ÍM mest? Grunnskólarnir, framhaldsskólar, sérskólar?

L.S.: Ég veit ekki hvort á að tala um skóla í þessu sambandi. Mér finnst sem kennarar sem eru drífandi séu þeir sem birtast fyrst á netinu. Margir grunnskólakennarar eru frábærir og duglegir að nota netið með nemendum. Framhaldsskólakennarar hafa ekki verið eins liprir við að nota netið með nemendum en nota það gríðarlega varðandi sínar faggreinar.

RR.: Er ekki "umferðin" á þeim "upplýsingaþjóðvegi" sem Internet vissulega er, að verða svo mikil að búast megi við vaxandi umferðaröngþveiti?

L.S.: Jú, ef spár um vöxt Internet eru eitthvað nærri lagi þá má búast við því að einhverjar tölvur sem eru opnar öllum núna loki eða takmarki aðgang.

RR.: Eru mikil samskipti í gegnum netið við erlenda skóla?

L.S.: Já, fjölmörg. Til að nefna nokkur:

KIDLINK: Allmörg börn hafa tekið þátt í KIDLINK t.d. bréfaskriftum, þemaverkefnum og stærri verkefnum. Toppurinn er líklega KIDLINK hátíðin í maí þegar á annað hundrað börn á aldrinum 10-15 ára töluðu við börn víða um heim á IRC, með tölvupósti og talk.

Í þemaverkefnum KIDLINK þ.e. KIDFORUM sem ég sé um hafa íslensk börn tekið þátt t.d. í þemaverkefnunum "Hátíðir", "Þjóðlegar bókmenntir", "Ímyndað ferðalag um heiminn" og nú "Stríð og friður" en þar eru þau með börnum frá Ureguay, Argentínu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Slóveníu, telpu sem er flóttamaður frá Bosníu, Ísrael og mörgum fleiri.

Síðan má telja verkefni í "Haiku" ljóðagerð þar sem 10 ára börn í Ölduselsskóla ortu ljóð í ljóðabók ásamt börnum í Bandaríkjunum en sú bók fer brátt að koma út.

Eldfjallaverkefni milli barna í Villingaholti og nemenda á Hawaii.

Verkefni fyrir 6-8 ára börn ásamt börnum frá Tasmaníu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Perú.

Innanlandsverkefni hafa verið fá í vetur en það voru a.m.k. tvö góð í fyrravetur þ.e. landafræðiverkefnið "Ferðast um Ísland" og "Fuglatalning". Bæði gengu ágætlega.

Nú síðan má nefna að kennarar á Endurmenntunarnámskeiði í KHÍ eru í verkefni með kennaranemum í York University í Toronto Kanada.

Nemendur í tölvufræði í Fjölbrautaskólanum við Ármúla hafa tekið þátt í fjölmörgum verkefnum t.d. við Frakkland um tölvunotkun í námi, viðtöl og fleira.

Og haug í viðbót gæti ég nefnt.

Verkefnin hafa alla jafnan gengið vel en þó þarf að skipuleggja vel. Helst hrjáir Íslendinga að svara ekki bréfum sem þeir fá eða þá að þeir lenda á móti fólki sem svarar ekki. Þá er best að vera með í skipulögðum verkefnum.

RR.: Hvað eru notendur að gera inni á netinu?

L.S.: Það er afar misjafnt. Oft gerist það að kennarar fá sér pósthólf og bíða síðan eftir því að bréf frá vinum og kunningjum þyrpist í hólfið þeirra. Þetta gerist ekki þannig heldur með því að hver skilgreini fyrir sig hvað hann ætlar að gera og vinni að því með aðstoð menntanetsins.

Margir eru að leita að efni (gopher/ftp/póstlistar) aðrir eru að taka þátt í hugðarefnum sínum eða leita að efni tengdu kennslu. Menn eru allt frá því að stunda nám í Ástralíu með aðstoð samskiptanna í það að tala við pabba og mömmu sem eru úti á landi.

Ég held að þú fáir einhverja mynd af þessu með samskiptaverkefnunum sem ég minntist á en einnig má nefna nokkur dæmi:

Alkohólisti tekur þátt í umræðum og vettvangi annarra alkohólista.

Faðir einhverfs barns tekur þátt í umræðum um einhverfu og starfar með því móti í félagsmálum.

Veikt barn hefur samskipti við kennarann sinn og aðra.

Sjómaður lærir forritun.

Aldraður faðir hefur samskipti við börnin sín búsett í útlöndum.

Fræðimaður vinnur að fræðigrein sinni með fremsta fólki á þessu sviði víða um heim.

Litlir 7 ára drengir í Perú og á Íslandi bera saman leikföngin sín.

RR.: Eru margir ferðamenn sem hafa samband og vilja upplýsingar um land og þjóð? Er algengt að notuð sé sama aðferð og Brasilíumaðurinn notaði sem skrifaði yfir 900 bréf inn á menntanetið?

L.S.: Það er talsvert um, að ferðamenn hafi samband en ekki með jafn öflugum hætti og þessi Brasilíumaður, sem reyndar heimsótti marga þeirra sem skrifuðu honum þegar hann kom ;-)

Ég hef farið nokkrar ferðir og leitað að bæklingum, leita að fólki, finna horfna vini, tékka á hvar gististaðir eru, senda póstkort. Sýnishorn af íslenskri mynt (Seðlabankinn gaf sýnishornin) og margt fleira. Stundum vildi ég gjarnan hafa beint samband við ferðaskrifstofu sem sendi bæklinga ;-)

RR.: Hversu langt eru Íslendingar komnir í tölvusamskiptum í skólastarfi miðað við hin Norðurlöndin? En miðað við Bandaríkin?

L.S.: Miðað við hin Norðurlöndin erum við komin lengst. Bæði hvað varðar útbreiðslu og tækni sem notendur fá aðgang að. Svo má einnig segja um skóla í flestum fylkjum Bandaríkjanna. Auðvitað er þar til miklu meira en við erum með en oftast eru þeir með talsvert minna. Stundum hef ég skrifað bréf til að styðja kennara í ákveðnum fræðsluumdæmum í Bandaríkjunum til að leggja fyrir stjórnir o.þ.h.

RR.: Hefur menntanetið verið kynnt erlendis og hvernig hafa viðtökur verið?

L.S.: Ég hef haldið erindi um menntanetið víða á Norðurlöndum og Pétur og Björn Þór hafa einnig haldið erindi í Finnlandi og Svíþjóð. Viðtökur hafa allsstaðar verið mjög góðar og við erum t.d. fremst í flokki á Norðurlöndum með hlutfall þeirra skóla sem hafa aðgang. Einnig erum við talin hafa notað einfaldar og ódýrar lausnir á uppsetningum sem aðrir hafa bent á að séu afar hagkvæmar.

Við erum beðin um að halda erindi víðar en við getum sinnt. M.a. hafa virtir menn á þessu sviði bent á milljónasparnað í sínu landi ef okkar aðferðir hefðu verið notaðar. Oft hafa menn farið út í að skrifa forrit sem eru "vingjarnlegri" en þau sem við notum en undantekningarlítið hefur það kostað mikið. Má t.d. nefna nýlegt dæmi frá Noregi um Winix forritið sem var smart til tölvusamskipta. Nú hefur menntamálaráðuneytið þar eytt 120 norskum milljónum í kerfið og gefist upp, því það er ekki tilbúið. Það er vægt til orða tekið að segja að hrikt hafi í menntamálaráðuneytinu þegar þetta mál kom upp. Því má að mörgu leyti segja að þeir hafi aftur færst á byrjunarreit.

RR.: Hvaða norræna samvinna er í gangi í tengslum við tölvusamskipti?

L.S.: Tveir hópar eru í gangi núna:

Norrænt upplýsinganet, þar á að vera hægt að fletta upp á upplýsingum um stofnanir og einstaklinga milli Norðurlandanna sem eru í samskiptum og eru t.d. að auglýsa verkefni eða eftir pennavinum.

Annar hópur varðandi Norrænt net. Þar eiga að vera allar norrænar upplýsingar (í gopher) um norrænar stofnarir, verkefni, styrki o.fl. Norræna ráðherranefndin samþykkti í Mariehamn í nóvember að vandamál með að senda sérnorræna bókstafi milli Norðurlandanna yrði að leysa fyrir vorið. Einnig val á hentugum samskiptahugbúnaði. Fyrsti fundur nefndarinnar verður í janúar.

Einnig má nefna vestnorræna samstarfið um tölvusamskipti í Færeyjum, á Grænlandi og hér á Íslandi.

RR.: Er fjarkennsla á tölvunetum komin langt á Norðurlöndum?

L.S.: Já, Norðmenn eru líklega lengst komnir og hafa m.a. haldið námskeið í því hvernig á að kenna á neti. Framhaldsskólar í Norður Noregi hafa einnig með sér samstarf um kennslu milli skólanna. Í Danmörku er líka margt að gerast og hefur Kennaraháskólinn þar verið brautryðjandi í því starfi.

Finnar hafa verið virkir með sitt kerfi þar sem þeir tvinna saman myndir og hljóð. Þeir buðu okkur Íslendingum að taka þátt í einu tilraunaverkefni á því sviði. Ég veit ekki hvort verður eitthvað úr því.

Póstur og Sími í Noregi hefur einnig þróað tölvur sem eru myndsími í leiðinni og sýndu þetta grimmt á ráðstefnunni Teleteaching 93 í Þrándheimi í ágúst. Það var nokkuð sniðugt fyrirbæri. Hinsvegar er mikilvægt að tvinna saman þá tækni sem stendur til boða innan þess sem kalla má tölvusamskipti s.s. myndráðstefnur (video conferencing) og venjuleg samskipti eins og við þekkjum þau á þessu neti.

RR.: En er einhver samvinna á vegum Evrópubandalagsins á þessu sviði?

L.S.: Líklega er "græna skýrslan" einna þekktust um hvað er verið að gera. Nú eru fjöldi nefnda að störfum við útfærslu þess sem í skýrslunni er talað um og þar á meðal tölvusamskiptum. Mér sýnist samt að erfitt sé fyrir Evrópu að vinna mikið saman þar sem mikið er um hlið (gateways) og misjöfn net milli landanna og má þá sérstaklega benda á Frakkland í því sambandi.

RR.: Telur þú að "allir" kennarar ættu og geti tileinkað sér tölvusamskipti og hver væri tilgangurinn með þvi?

L.S.: Ég held að allir sem vilja geti það, en ég held ekkert að allir ættu endilega að gera það. Eftir því sem að fleiri kennarar koma inn á netið því öflugra verður það sem verkfæri til samskipta í skólastarfi. Margir kennarar eru einangraðir í sínu starfi t.d. með því að vera eini fagkennarinn í sínum skóla. Síðan tel ég að með frekari þróun megi gera ráð fyrir að kennarar geti frekar útfært notkun tölvusamskipta í skólastarfi. Þá á ég helst við fyrir nemendur sína.

RR.: Er hægt að kenna hvað sem er með aðstoð tölvusamskipta?

L.S.: Kannski ekki allt af því að það er óþarfi að alhæfa en flest er hægt að útfæra á einn eða annan hátt með aðstoð tölvusamskipta. Þá á ég auðvitað við ef nemendur eru það áhugasamir að þeir yfirstigi þann þröskuld sem tæknin reynist flestum.

Til þess að sjá hvernig kennsla fer fram má t.d. lesa námskeiðsráðstefnur menntanetsins. Þar kemur fram hvað nemendur eru að læra og hvernig þeim gengur. Við höfum haft 400 kennara á námskeiðum nú í haust. Afföll virðast nokkur í fjarkennslu yfirleitt og eins á námskeiðum með þessu sniði. Þess vegna má búast við því að af þeim sem innritast á námskeið með þessu sniði ljúki einungis 60% þeim eftir því sem reynsla segir til um.

Ég hef séð dæmi um ótrúlega mergt sem kennt er með þessum hætti s.s. tölvufræði, tungumál, bókmenntir og fleira.

RR.: Getur ekki hætta fylgt því að börn og unglingar séu eftirlitslaust að flækjast í Netheimum (Cyberspace)? Kannski ekki svo mjög á Íslandi ennþá (nektar og klámmyndum er þó dreift hér á BBS-um), en sumar ráðstefnurnar á Usenet eru nú ekki par geðslegar og svo er áreiðanlega margt á ircinu ekki heppðilegt fyrir börn.

L.S.: Ég held að Internet sé eins og lífið sjálft, bæði með góða og miður góða hluti. Það er alltaf óheppilegt að börn þvælist um án þess að forsjáraðilar hafi glóru um hvað þau eru að gera. Því miður er það oft að foreldrar eru svo uppfullir af aðdáun á börnum sem ánetjast tölvum og gá sjaldan hvað þau eru að gera. Gott dæmi er móðurmálskennari sem taldi syni sínum til tekna að vera tölvusnillingur og nefndi sem dæmi að hann hefði leyst Leisure Suit Larry III.

Alltof oft fær maður líka strákamontprik í tölvufræði sem eru uppfullir af grobbi hvað þeir kunna í "tölvum" til þess eins að uppgötva að þeir eru meðaljónar þegar í alvöruna kemur.

RR.: Finnst þér ekki ókunnugleiki og vanþekking á menntanetinu og Netheimum yfirleitt vera ótrúlega mikil víða, ekki síst hjá fjölmiðlafólki (sbr. furðugreinina um ókeypis aðgang að Interneti í Morgunblaðinu fyrir nokkru)?

L.S.: Tja, hvað á fólk að "vita". Greinin í Mogganum sýndi fyrst og fremst hvað getur gerst þegar blaðamenn þýða blint erlent efni. Ég hef oft velt fyrir mér hvað eru "fréttir" undanfarið þegar ég sé efni sem tengist Íslenska menntanetinu. Fjölmiðlar gera sér enga grein fyrir hversu víðtækt og öflugt menntanetið er. Við höfum heldur ekkert verið að trana því fram. Ég hef líka metið það svo að ágætt sé að vinna dálítið í friði, við önnum varla því fólki sem þegar er komið inn þannig að auglýsingar myndu einungis auka vandann. hvað svo verður í framtíðinni er ekki vitað.

RR.: Vantar ekki einhverskonar handbók eða FAQ-lista á íslensku fyrir menntanetið og Netheima almennt? Mér hefur dottið í hug að hægt væri að vinna að þess háttar FAQ-lista með notendum kerfisins með þvi að hafa sérstaka ráðstefnu um það. Að mínum dómi yrði þar tvímælalaust þörf fyrir ritstjóra. Til að byrja með gæti þessi listi einfaldlega verið orðalisti sem hægt væri að prjóna sífellt við og endurbæta.

L.S.: Jú, auðvitað. Hingað til hefur mesta vinnan verið fólgin í því að hjálpa fólki inn á netið og kenna grundvallaratriði en þetta er óðum að breytast með auknaum fjölda sjóaðra notenda.

Fyrsta skrefið í endurskipulagningu hjá okkur er sú að ég hef verið ráðin sem kennslustjóri Íslenska menntanetsins og undir það heyrir öll kennsla og þess háttar. Ég er nú að endurskipuleggja námskeið og skoða hvernig námskeið er hentugt að hafa og hvernig er best að kenna þau. Námsefni eða ítarefni er auðvitað eitthvað sem tengist því. Okkar aðal vandamál er það að við komumst ekki úr viðjum hins daglega amsturs til að fara í vinnu sem tengist FAQ-listum og þess háttar ég hef þó skrifað nokkuð efni sem þú getur fundið undir gopher á "Fundir og námskeið" og þá sérstaklega undir námskeiðum II fyrir grunn- og framhaldsskóla.

RR.: Þá er komið að lokum þessa viðtals. Ég sendi þér þetta svo áður en ég birti það. Líklega verður sá gagnrýnistónn sem ég þykist vita að þér hefur fundist vera í sumum spurningunum að mestu horfinn þá, því áreiðanlega kem ég ekki til með að nota nærri allt það efni sem ég hef viðað að mér í sambandi við þetta viðtal.

L.S.: Tja, mér finnst allt í lagi að gagnrýna menntanetið en ég held að það sé afar mikilvægt að hafa í huga hver tilgangur netsins er í grundvallaratriðum. Því er gagnrýni varðandi notkun "allra" á netinu ekki rökrétt þar sem tilgangur menntanetsins hefur aldrei verið að þjónusta alla í landinu. Kannski breytist þetta ef okkur vex fiskur um hrygg en eins og staðan er varðandi tækjabúnað og fjármál þá er það ekki raunhæft.

RR.: Þakka þér kærlega fyrir viðtalið.

L.S.: Ekkert að þakka.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


R-F-D-M-A-I-L PÓSTRITILLINN

Jæja, netlendingar. Ég ætla að segja ykkur frá forriti sem ég fann á netinu fyrir áramót. Þetta forrit er eitt það þægilegasta sem ég hef séð til að nota í samskiptum með rafpóst, ef maður notar á annað borð Windows. Forritið er skrifað fyrir Windows. Raunar virkaði það alls ekki eins og skyldi fyrst þegar ég prófaði það. Ég ætla að byrja á að rekja raunasöguna fyrst ;-)

Það vakti athygli mína að þetta forrit var gert til að vinna eftir svokölluðum "script"-fyrirmælaskrám, en þannig getur maður lagað forritið að því kerfi sem tengjast skal. Mér datt í hug að reyna að skrifa "script" fyrir menntanetið þannig að hægt væri að nota forritið til að sækja póstinn sinn á Ísmennt og einnig að skrifa bréfin heima í rólegheitunum en ekki inni í Elm. Bæði er það þægilegra og svo auðvitað ódýrara að vera ekki að pikka þetta í Elm og þurfa að vera tengdur um leið. Sama gildir um lestur póstsins. Maður sækir bunkann í einu lagi og les hann síðan eftir að sambandið við ÍM hefur verið rofið. Minna álag á módemin hjá Ísmennt líka, auðveldara að komast að og allir verða ánægðari.

Heilmikill vandræðagangur auðkenndi byrjunina á þessum tilraunum. Útgáfan sem ég fann var nr. 1.11 og hún neitaði alveg að vinna. Fyrir það fyrsta þá þekkti hún ekki muninn á [CR] og [CR/LF] línuendingum og textinn úr pósthólfinu kom meira og minna brenglaður inn í forritið, auk þess sem það þekkti ekki "header"-inn eða hausinn á bréfinu þannig að öll bréf voru frá Óskari Nafnleyndar, eða "Unknown" upp á enskuna. Forritið var hinsvegar það skemmtilegt í notkun að ekki var hægt að gefa það upp á bátinn. Ég fór að pæla í Unixísku í þeirri von að ég gæti látið skriptið geyma póstinn í bráðabirgðaskrá á meðan ég léti einhverja ".BAT"-skrá í Unix (heitir raunar "awk") sjá um að breyta öllum [CR] merkjum í skránni í [CR/LF]-merki, þannig að textinn kæmi þá réttur til mín yfir módemið. Fræðin voru nokkuð snúin, þannig að ég sneri mér til tölvugúrus nokkurs, er státað hefur sig af Unix-þekkingu sinni hér á sektorum Rafritsins, sem er "trigger" eða Tryggvi R. Jónsson á Akureyri.

Tryggvi varð mjög áhugasamur og hreinlega rændi af mér "prójektinu", tók sig til og skrifaði lítið C-forrit og setti það upp á Huppu. Forritið klikkaði fyrst, en vann svo óaðfinnanlega. Þetta þýðir það að ég á eitthvað meira ólært í sambandi við Unix en trigger. :-)

Gallinn var hinsvegar sá að ég fór að finna fleiri villur í RFDmail. Til dæmis það að íslensku stafirnir komu vitlausir í gegn þegar ég sótti póst, en þegar ég sendi bréf sem skrifuð voru í RFDmail, þá var allt í fína. Nú voru góð ráð dýr. Ég tók mig til og fór að athuga hvort ekki væri til nýrri útgáfa af þessu forriti á netinu. Jú, viti menn. Ég fann nýrri útgáfu (1.12) og ýmsir hlutar af skriptinu mínu fóru að vinna eins og til var ætlast. Enn voru þó íslensku stafirnir vitlausir og ýmsar fleiri smávillur voru að hrekkja.

Ég skrifaði loks náunganum sem samdi forritið og sagði honum frá erfiðleikum mínum og hvað ég hafði gert (trigger öllu heldur) til að laga gallana. Hann brást skjótt við og sendi mér svar úr Ameríkunni tæpum tveimur tímum eftir að ég póstaði til hans bréfið. Sagði að það væri rétt hjá mér að þessar vitleysur væru fyrir hendi og lofaði að athuga málið "innan fárra vikna". Sagði samt að forritið hans triggers væri óþarft í útgáfu 1.12, því að þá vitleysu hefði hann þegar lagað.

Æi. Voðalega eru menn uppteknir. Ég gat ekkert annað gert en að bíða fram yfir áramót en þetta var í byrjun desember. Ég sagði þó trigger frá málavöxtum og það að forritið hans væri gott en óþarft úr þessu og hann mætti henda því. ,,Nehei, sagði trigger," ,,Rúnar Júlíusson er að kenna mér í skólanum og ég nota þetta sem verkefni til að sýna honum hvað ég er ofboðslega klár!"

Svona í millitíðinni.. Nafnið RFDmail er tilkomið vegna þess að höfundurinn David Yon bjó úti á landi og í Ameríkunni er hugtakið "Rural Free Delivery" notað yfir póstdreifingu í dreifbýlinu. Eða RFD. Þetta forrit er fínt fyrir dreifbýlinga eins og t.d. mig, vegna eðlis þess og þaðan hefur höfundurinn hugmyndina að nafninu að því er hann segir.

Um miðjan janúar hafði síðan David samband við mig og bað mig að prófa "beta"-útgáfu af forritinu. Ég hélt það nú og með smáklækjum náði ég því til mín, því að ekki mátti það liggja á lausu á stóru ftp-unum úti í heimi. Viti menn. Íslensku stafirnir voru í lagi! Þó voru þarna einhverjir smáböggar ennþá (les villur). Ég gerði athugasemdir til höfundarins og núna fyrir helgina barst mér forritið leiðrétt í hendur.

Og það sem meira er. Í pakkanum er skriptið mitt. Það heitir náttúrulega ISMENNT.SCR en vegna þess að ég sendi honum það með rafpósti á host (tölvu) sem er ekki með ISO 8859/1 stafasettið uppi, þá klúðraðist í því ein lína. Þessa línu þarf að leiðrétta með því að opna Notepad í Windows, ná í skrána ISMENNT.SCR og breyta línunni ofarlega í skriptinu, þar sem stendur "Apalvalmynd" yfir í "valmynd". Ekki nota stórt "v" í valmynd. Geyma síðan skriptið aftur á disk. Þetta átti náttúrulega að vera "Aðalvalmynd", en nægilegt er fyrir skriptið að hafa tiltækan hluta orðsins. Þeir notendur ÍM sem ekki logga sig inn á Huppu, þurfa einnig að breyta "akureyri" í "rvik" eða "kopasker", eftir því hvaða vél þeir nota. Einungis þarf að breyta þessu á einum stað í skriptinu.

Og hvar á svo að verða sér úti um eintak? Á Unu! Búið er að koma fyrir eintaki á lítt þekktum ftp-server Unu og heitir það RFDML120.ZIP og liggur í pub/utils. Gættu að því að nota stóra stafi þegar þú sækir það, Unix gerir greinarmun á stórum og litlum stöfum. Ég læt hér fylgja hvernig maður ftp-ar á Unu og skiptir ekki máli hvar í heiminum maður er staddur.

Þú ferð í skelina og...

[akureyri]/sarpur/users/snerpa[55]> ftp rvik.ismennt.is
Connected to rvik.ismennt.is.
220 rvik FTP server (Version 16.2 Wed Oct 16 23:04:42 GMT 1991) ready.
Name (rvik.ismennt.is:snerpa): ftp <---þú slærð inn "ftp"
331 Guest login ok, send ident as password.
Password: <--- hérna seturðu netnafnið þitt
230 Guest login ok, access restrictions apply. (EKKI LYKILORÐIÐ ÞITT!)
Remote system type is UNIX.
Using binary mode to transfer files.
ftp> cd pub/utils <--- þú slærð inn "cd pub/utils"
250 CWD command successful.
ftp> ls <--- "ls" er sama og "dir"
200 PORT command successful.
150 Opening ASCII mode data connection for /bin/ls.
total 990
-rw-r--r-- 1 0 sys 457842 Feb 17 14:23 RFDML120.ZIP
-rw-r--r-- 1 0 sys 39855 Jan 21 18:42 gktools.tar.Z
226 Transfer complete.
ftp> get RFDML120.ZIP <--- skipun um að sækja RFDMAIL
150 Opening BINARY mode data connection for RFDML120.ZIP (457842 bytes)
(hérna bíðurðu eftir að flutningi ljúki, nema þú sért á Unu, þá er biðin engin, því að Una kópíerar einfaldlega skrána á sekúndubroti)

Að þessu loknu færðu kvittun um að flutningi sé lokið og þú slærð inn "bye" til að komast aftur í heimasvæðið þitt. Síðan tekurðu skrána heim með Zmodem eða Kermit.

Fyrir þá sem vilja gera hlutina á nýstárlegri hátt má sækja þetta sama forrit á Irc. Trigger er nefnilega búinn að koma upp DCC sendimöguleika í TRIG-bot, en fyrir þá sem ekki þekkja til er það róbotinn hans sem sér um að þjónusta rásirnar #Iceland og #Ísland. Og hvernig fær maður Rfdmail hjá TRIG-bot? Það gerir maður með því að fara á Irc og jóna rásina #Iceland (/JOIN #Iceland) og síðan fær maður aðstoð hjá TRIG-bot með því að segja /MSG TRIG-BOT HELP og sendir TRIG-bot manni þá hjálp. Til að sjá lista yfir þær skrár sem TRIG-bot getur sent þér geturðu slegið inn "!dcc list" og þá færðu lista yfir þær skrár sem í boði eru. Þeir sem lenda í vandræðum einhverra hluta vegna ættu að skrifa til "trigger@ismennt.is" og hann mun aðstoða þá. Svo er líka mynd af greinarhöfundi á .GIF formi fáanleg hjá TRIG-bot!

Hm. Og BBS-notendur geta líka tekið skrána á Snerpu BBS (94-4417).

Forritið er nokkuð blátt áfram, þannig að maður sér strax hvernig maður notar það. Ég ætla samt að gera hér grein fyrir hvernig maður á að stilla það á Ísmennt í fyrstu. Pakkinn með forritinu heitir RFDML120.ZIP eins og áður segir og best er að stofna fyrir hann sérstakt skráarsvæði á tölvunni sinni, t.d. C:\RFDMAIL\ - Setja pakkann þar inn og sprengja hann upp með:

PKUNZIP RFDML120

Maður þarf náttúrulega að hafa forritið PKUNZIP tiltækt til að sprengja upp pakkann. Næst er að henda RFDML120.ZIP, þar sem óþarfi er að hafa pakkann eftir að skrárnar hafa verið sprengdar upp úr honum. En það er kannski ágætt að taka afrit af honum yfir á diskling fyrst, svona til að eiga í safninu uppi á hillu.

Næst er Windows ræst, farið í "File", þar er valið "New", smellt á "Program item" og "OK". Þá kemur upp gluggi. Í "Description" setur maður t.d. "RFDmail", í "Command line" kemur efnisskráin og "RFDMAIL.EXE", t.d. "C:\RFDMAIL\RFDMAIL.EXE". Í "Working directory" setur maður þá "C:\RFDMAIL". Nú er smellt á "OK" og birtist þá íkonið fyrir RFDmail. Settu RFDmail í gang og tvísmelltu á "Post Office" íkonið. Veldu "New" í glugganum sem birtist. Í reitinn "Name" í næsta glugga sem birtist, seturðu "Ismennt" eða "Menntanetid", allt eftir smekk. Í "mail-address" seturðu þitt eigið netfang (með @ismennt.is fyrir aftan) en í "username" seturðu netnafnið eingöngu (án @ismennt.is). Næsti reitur er "password". Þar seturðu lykilorðið þitt en það sést ekki, heldur birtast bara stjörnur í stað þess til að hindra að það beri fyrir augu annarra. Í "Phone"-reitinn seturðu uppáhalds-símanúmerið hjá Ísmennt. Seinna meir verður hægt að setja inn fleiri símanúmer eftir því sem höfundurinn hefur sagt mér. Í "Script file" seturðu svo "ISMENNT.SCR" og í "Your name" seturðu nafnið þitt. Einnig skiptir máli á hvaða "porti" módemið þitt er. Það stillirðu þarna líka í "Port". Annað í glugganum ætti að vera rétt stillt.

Núna á allt að vera tilbúið til tenginga, lesturs og skrifta. Prófaðu þig bara áfram. Forritið er einstaklega einfalt í notkun.

Einn sniðugur eiginleiki er "folders" eða möppur, sem þú getur smalað bréfunum þínum í. Þannig geturðu haft sér möppu undir send bréf, aðra undir ákveðin verkefni og þá þriðju undir persónuleg bréf.

Ein ábending til: Ef þú smellir á íkonið sem kemur þegar RFDmail er að tengja sig við Ísmennt (táknmynd af módemi), þá kemur upp "terminal" gluggi þar sem þú getur séð hvað er að gerast á hinum endanum. Íslensku stafirnir þar koma að vísu sem punktar, en það kemur ekkert að sök. Það mun verða lagfært í næstu útgáfu forritsins, til að þessi gluggi verði snyrtilegri.

Og hvað kostar forritið? Auðvitað. Ekkert er ókeypis. Forritið er svokallað deiliforrit, "Shareware" upp á enskuna. Þetta þýðir að ef þú ætlar þér að nota það að liðnum reynslutíma sem er mánuður, þá sendir þú höfundinum greiðslu sem er 30 dollarar (raunar 29.95) og færð í staðinn lykilnúmer sem tekur af þær "bæklanir" sem settar eru á sýnieintakið. Bæklanirnar felast m.a. í því að ekki er hægt að hafa mörg bréf eða margar möppur í gangi auk ýmislegs smálegs, s.s. "Carbon copy" eða sending á afritum sem ekki virkar nema forritið sé skráð.

Nánar um þetta í upplýsingunum sen fylgja forritinu. Eins er þó vert að geta sérstaklega. Þú getur skráð forritið með því að gefa upp kortnúmerið á kreditkortinu og forritið kóðar númerið á dulmál, þannig að það komist ekki í hendur óviðkomandi á leið sinni um internetið. Þetta er þægilegasta leiðin og þú færð lykilnúmerið sent um hæl með rafpósti.

Gangi þér vel með RFDmail.

P.S. Hægt er að búa til skript til tenginga yfir Gagnanetið en þar sem kostnaðurinn af Gagnanetinu er jafnvel meiri en af langlínusamtali hefur mér ekki þótt taka því. ég ræð mönnum frá að nota upphringisamband á Gagna- netinu, nema e.t.v. til að lesa ráðstefnupóst á meðan dagtaxti er í gildi. Með RFDmail er þó líklega skynsamlegast að moka ráðstefnupósti bara í póst- hólfið sitt og taka hann svo bara heim til lestrar.

Björn Davíðsson -

snerpa@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


BÍLLINN REYNIR EKKI AÐ HALDA SÉR Í 37° GRÁÐUM

nokkur orð um vindkælingu

Ég hef undanfarið orðið var við áhuga á svokölluðu "Wind-Chill" hitastigi sem mikið er notað hér vestanhafs í veðurfréttum. Bæði hef ég séð vitnað í þennan hitakvarða á íslenska tölvupóstlistanum, og eins í Morgunblaðinu. Hér að neðan vil ég leitast við að útskýra hvernig þessi kvarði er hugsaður, og hvað ber að varast í notkun hans.

Hversu kalt okkur finnst vera fer eftir því hversu hratt við töpum varma. Ef við stöndum utandyra í frosti tapar líkaminn varma. Þetta varmatap eykst til muna ef það hreyfir vind. Fyrir vikið finnst okkur þá kaldara utandyra. Það er allavega þannig, að þegar það er kalt hér vestan hafs (ég veit ekki hversu víða þetta er til siðs) gefa veðurfréttir gjarnan upp tvö hitastig. Annað er það hitastig sem mælist á hitamæli og hitt er hitastig m.t.t. vindkælingar. Það síðarnefnda kallast "Windchill Equivalent Temperature" sem má þýða "vindkælingar hitastig". Þannig er til dæmis -10 øC og 25 hnúta vindur jafngilt -34 øC á vindkælingar hitakvarðanum. Þetta þýðir í raun að nakinn líkami tapar varma jafnhratt í 10 gráðu frosti og 25 hnúta vindi og hann myndi tapa í logni og 34 gráðu frosti. (1 hnútur er ein sjómíla á klukkustund, rúmur 0.5 m/s eða tæplega 1.9 km/klst)

Þetta hitastig er fyrst og fremst gefið upp til að vara fólk við svo það ani ekki léttklætt út í 10 gráðu frost og 25 hnúta vind. Oft er talað um vindkælingar hitastig sem það hitastig sem "mönnum finnist vera".

Þetta er allt gott og blessað, og í raun sjálfsagt að veita fólki svona upplýsingar. Hinsvegar verða menn að hafa í huga hvaða forsendur eru notaðar þegar kvarðinn er reiknaður út. Miðað er við hvað nakinn "standard" kroppur tapar miklum hita. Gert er ráð fyrir að kroppurinn haldi sér í eðlilegum líkamshita, eða 37 gráðum.

Nýlega sá ég sagt frá því að vindkælingar hitastig á einhverju skíðasvæði hefði verið um -100 øC . Í slíku frosti mundi nakinn maður frjósa í hel á örskotsstundu. Ef vindhraðinn er 60 hnútar, þarf tæplega 50 stiga frost til að ná þessari vindkælingu. Manneskja sem er klædd í vindþétt og hlý föt getur hinsvegar komist ágætlega af í þessu veðri, enda finnur sá sem er vel klæddur ekki nærri því jafnmikið fyrir vindkælingunni. Það er því misskilningur að vel klædd manneskja myndi finna fyrir kælingu sem samsvarar 100 gráðu frosti.

Í þessu frosti myndi bíll sem ekki er í gangi kólna niður í tæplega -50 øC. Hitastig bílsins hefur nefnilega ekkert með þennan vindkælingarkvarða að gera, enda reynir bíllinn ekki að halda sér í 37 gráðum. Það er algengt að heyra fólk tala um að bíllinn sinn hafi ekki startað enda vindkælingin svo og svo mikil. Hvort bíllinn startar eða ekki kemur vindkælingunni einfaldlega ekkert við. Sá sem að situr inn í bílnum finnur heldur ekki fyrir vindkælingunni, a.m.k. ekki ef bíllinn er sæmilega vel loftþéttur.

Þessi kvarði tekur heldur ekki tillit til rakainnihalds loftsins. Eftir því sem rakara er þeim mun hraðar tapar líkaminn hita, og því finnst okkur kaldara ef loftið er rakt. (Í miklum hita getur rakamettað loft að vísu hægt á varmatapi og þar með finnst okkur heitara en i raun er, - en það er önnur saga) Í því kuldakasti sem nú gengur yfir hluta Kanada og Bandaríkjanna, er hið kalda loft mjög þurrt. Á Íslandi er loftið yfirleitt mun rakara. Þetta þýðir að ekki er hægt að taka vindkælingartöflur frá Bandaríkjunum beint upp, því þær myndu vanmeta hitatapið eitthvað. Aukinheldur hafa margir fundið að þeirri aðferð sem notuð er til að reikna þennan kvarða út.

Tæknilega eru vankantar á að mæla áreiðanlega samband varmataps og vindhraða, og flestar þær reynslulíkingar sem menn hafa fundið sértækar og gildissvið þeirra takmarkað.

Það eru því ýmsir meinbugir á þessum vindkælingar hitakvarða, og menn skyldu varast að taka hann of bókstaflega. Hitt er annað mál að það er sjálfsagt að taka fram hvort vindkæling sé veruleg svo menn geti klætt sig i samræmi vid það. Það vafasama er hinsvegar að reikna kælinguna út í einhver viðmiðunar hitastig. Kannski er helsta ástæða þess að það er gert sú að vindkælingar hitatölurnar gefa mönnum kærkomna ástæðu til að segja: "Já ég vissi að það er kaldara en mælirinn sýnir".

Halldór Björnsson

Montreal, Kanada.

Til baka í efnisyfirlit.


ENDURNÝTING PRENTBORÐA

Fyrir nokkrum árum átti ég þátt í að stjórna tölvuklúbb sem naut nokkurra vinsælda. Ég skrifaði lýsingar á forritum og ýmislegt fleira á alla diska sem klúbburinn dreifði til sinna félaga og kallaði þetta rit "Fréttabréf PC-tölvuklúbbsins". Um daginn datt mér í hug að safna öllum þessum fréttabréfum í eina skrá (313 k) og fór að lesa smávegis í þessu. Þar rakst ég meðal annars á þetta:

Prentaraborðar eru dýrir eins og allir vita. Nýlega höfum við prófað með allgóðum árangri að lífga við gamla prentaraborða sem búið var að henda til hliðar vegna þess hve daufir þeir voru orðnir. Þetta er gert með því að sprauta á þá olíutegund sem heitir WD-40 og fæst í spraybrúsum á flestum bensín- stöðvum. Taka þarf hylkið utanum borðann í sundur og sprauta yfir brúnina á borðanum þar sem hann liggur samanvafinn inni í hylkinu. Síðan er hylkið sett saman aftur og látið bíða í viku en að þeim tíma liðnum hefur olían sigið niður og óhætt er að nota borðann. Prentunin getur orðið lítið eitt ójöfn fyrst í stað en ef sæmilega hefur til tekist á borðinn að vera vel nothæfur. Þessa aðgerð má endurtaka nokkrum sinnum en á endanum dettur borðinn í sundur og er þá ónýtur.

Ég veit ekki betur en þetta sé í fullu gildi ennþá og þarna má spara nokkrar krónur ef mikið er prentað. Fleiri gullkorn úr þessu ágæta riti verða ef til vill birt síðar.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfilrit.


NN - NetNews - NoNews.

NN (NetNews, eða NoNews :-) er mikið notað forrit á Íslenska Menntanetinu sem og víðar. Lauslega hefur verið fjallað um það áður hvað sé hægt að lesa með nn, en ekki hefur komið grein um þá mörgu kosti sem leynast á bak við.

Í NN eru tveir hamir. Leshamur og valhamur. Fyrst kemur upp valhamur þar sem notandinn verður að velja sér greinar til að lesa (sjá skipanir síðar) og þegar búið er að skoða alla ráðstefnuna (þá sést BOT neðst á skjánum) er farið yfir í lesham og innihald fyrstu greinarinnar sem valin var er sýnt á skjá. ATH: greinar 'hverfa' þegar búið er að lesa þær, nema annað sé sérstaklega tekið fram (sjá síðar).

Skýr greinarmunur er gerður á STÓRUM stöfum (eða upphafsstöfum eins og sumir kalla þá) og litlum stöfum. Vont er að vera í nn með CAPS-LOCK á :-) og muna ekki eftir því.

Ég merki þær skipanir sem eru sérstaklega hentugar með ** fyrir aftan síðustu línu til 'undirstrikunar', ekki til að gera minna úr hinum heldur eru þetta þær skipanir sem ég nota langoftast í nn.

Fyrst þarf að vera auðvelt að flakka á milli ráðstefna í valham:

B Sendir þig eina ráðstefnu aftur á bak. Í stafröfsröð. Hægt er að gera þetta oft til að fara t.d. tvær eða þrjár ráðstefnur aftur á bak.

A Sendir þig eina ráðstefnu fram á við. Eins og B er hægt að gera þetta oft til að fara margar áfram.

G Fara á ákveðna ráðstefnu. Það má gefa brot úr ** nafni og þá stingur kerfið upp á ráðstefnu t.d. ef slegið er inn 'wanted' kemur t.d.: comp.sys.ibm.pc.binaries.wanted ? ef slegið er á n(o) kemur næsta ráðstefna sem heitir 'wanted' eitthvað og svo koll af kolli, y er síðan slegið á þegar rétta ráðstefnan er fundin.

N Fara í næstu ráðstefnu. Merkir ekki greinar sem lesnar **

Val greina í valham:

a.z0.9 Velur grein eftir auðkenni hennar lengst til vinstri.

Halda áfram að velja, oft eru ráðstefnur meira en ein skjásíða. Allar greinar merktar sem lesnar og sjást því ekki aftur nema eftir krókaleiðum, sjá síðar.

Sama og bil nema merkir ekki greinar sem lesnar.

@ (at-merki) Snýr vali við, afvelur valdar greinar og öfugt.

- Afvelur allar greinar í ráðstefnu

. Velur grein sem notandi er staddur í burt séð frá auðkenni hennar

* Velja allar greinar um sama efni. **

< Fara aftur á bak um eina síðu innan ráðstefnu.

> Fara fram á við um eina síðu innan ráðstefnu.

$ Fara á öftustu síðu.

^ Fara á fremstu síðu.

X Hoppar í lesham og sýnir greinar sem búið er að velja. Skilar þér síðan í NÆSTU ráðstefnu á eftir. **

Z Hoppar í lesham og sýnir greinar sem búið er að velja. Skilar þér síðan í SÖMU ráðstefnu og þú valdir úr.

Síðan er nauðsynlegt að geta skotist fram og til baka inni í grein:

Næsta síða. Ef greinin er búinn þá næstu grein.

Fara til baka um eina síðu.

Eina línu áfram.

t Fara fremst í grein sem verið er að lesa.

h Sýna haus (uppl. um sendanda o.fl.) og lesa síðan.

D Setja á/taka af Rot13 dulmálið sem er mikið notað til að senda viðkvæmt efni t.d. um stjórnmál.

c Afþjappar efni greinar t.d. forrit og annað pláss- frekt efni sem dreift er á ráðstefnum.

n Fara í næstu grein.

P Fara í síðustu grein.

k Sleppa grein sem verið er að lesa og öllum greinum um sama efni

N Fara í næstu ráðstefnu. Ólesnar greinar ekki merktar ** sem lesnar

X Sama og N nema allar greinar merktar sem lesnar. **

Að svara grein í nn:

F Sendir grein inn á sömu ráðstefnu og upphaflega ** greinin var á. Fær sömu dreifingu.

R Svara höfundi greinar í rafpósti.

M Sendir bréf inn úr nn, svipuð aðferð og í elm.

:post Sendir grein á ráðstefnu. Þó er oftast notað ** forrit sem heitir 'postnews' en þetta er hentugt líka.

Forða (vista) grein í skrá:

S Sendir valda grein(ar) í skrá á heimasvæðinu. Allir hausar fylgja.

O Sama og S nema geymir bara helstu hausa. **

W Sama og O nema ENGIR hausar fylgja.

Nokkrir hlutir sem ekki eiga heima annars staðar:

Kannist þið við það að lesa nokkrar alþjóðlegar ráðstefnur auk staðbundinna ráðstefna? Og vandræðin við að flakka á milli? Málið er leyst! Hægt er að breyta skrá sem á að heita $HOME/.nn/init (það er í undirskráasafni sem heitir .nn undir notendasvæði hvers og eins) til að breyta í hvaða röð nn fer í gegnum ráðstefnur. Farið í skel og gerið 'em .nn/init' Neðst í þeirri góðu skrá er sequence kafli sem hægt er að breyta og bæta við. Hjá mér var hann svona: **

ismennt

Eftir nokkrar breytingar er hann svona:

ismennt
comp.sys.ibm.pc
bit.listserv.novell
alt.bbs

Þá vinnur nn þannig að þegar ég er búinn að lesa ismennt ráðstefnur fer ég beint í comp.sys.ibm.pc (þar með taldar allar undirráðstefnur) og svo niður eftir listanum. Þetta gengur ekki innan úr valmyndunum á ÍM, þegar valdar eru Staðbundnar ráðstefnur, þá hættir nn vinnslu þegar búið er að lesa ismennt og síðan ekki sögunar meir. Öruggast er að ræsa nn úr skel með 'nn' til að fara algerlega eftir sequencenum.

: er nokkurs konar 'skipana-skipun' sem leyfir notanda að slá inn skipanir eins og t.d. post, set og fleiri.

:help gefur hjálp

:man gefur ítarlegri hjálp

:set gefur lista yfir ýmsar breytur sem nn notar t.d áður nefndan 'sequnce' sem hægt er að finna í .nn/init skránni.

Að hætta:

Hægt er að hætta með tvennum hætti:

Q Hættir en merkir ekki greinarnar sem verið er að lesa sem lesnar.

X Hættir en merkir greinar sem verið er að lesa sem lesnar.

Dreifing:

local Dreifir grein bara milli þinnar vélar og mjög nátengdra véla (t.d. akureyri.ismennt.is til rvik.ismennt.is og kopasker.ismennt.is ...)

eunet Bara til Evrópu.

world Er allur 'netheimurinn' eins og hann leggur sig. (usenet)

icenet Bara til íslands (sennilega er til samsvarandi fyrir önnur lönd).

Með von um að þetta komi ykkur að notum og þið verðið 'áfjáðari' í að nota NN og skrifið grimmt á ráðstefnur!!

Tryggvi R. Jónsson

trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


EARN

European Academic & Research Network

Ég hef hér í höndum tvo bæklinga sem fjalla um EARN og þjónustu þess. Mér datt í hug að þýða það helsta úr þessum bæklingum, en ég sleppi þó að mestu öllu tæknilegu blaðri. Þeir sem kunna að nota Internet sjá ekki margt nýtt í þessari grein, þar sem EARN og Internet virka á sama hátt og engin leið er að greina á milli þeirra. Það má þó segja að þegar maður tengist tölvum sem staðsettar eru í Evrópu, þá er maður tengdur EARN og þegar maður er tengdur Amerískum tölvum er maður á Internet. Annars er landafræði algjörlega gangslaus þegar ferðast er um netkerfi heimsins, og virðist sem allt heila klabbið sé eitt stórt land fullt af forritum, fólki, gögnum og upplýsingum. Oft virðist sem þetta 'land' sé kallað Internet, það er þó bara heiti Bandaríska hluta kerfisins. Til að ná yfir öll samtengdu netin í heiminum hafa menn notað orðið Cyberspace eða Cybernet sem við Íslendingar (sem af gömlum vana þurfum að finna Íslensk orð yfir allt mögulegt) getum kallað 'Sýndarheim', 'Heimsnet' eða eitthvað slíkt. EARN og Internet eru bara hlutar af 'Heimsnetinu'. Á svipaðan hátt er Íslenska Menntanetið og Ísnet hluti af Nordunet, sem síðan er hluti af EARN.

"Evrópska Akademíska Rannsóknar Netkerfið".

EARN er stærsta tölvunet Evrópu, ætlað háskólum og rannsókna- stofnunum um alla Evrópu, Afríku og Mið-Austurlönd. EARN er samansett af yfir 600 stofnunum þ.a.m. háskólum, rannsóknar- stofnunum einstakra landa og öðrum Evrópskum stofnunum. EARN er náskylt öðrum eldri netkerfum eins og BITNET og NetNorth, og er byggt á sömu tækni.

EARN netkerfið er ekki einsleitt samansafn nettengdra tölva, heldur skiptist það niður í mörg smærri netkerfi sem funkera saman sem eitt. Nokkur stærstu netin sem mynda EARN eru: BITNET, NetNorth, RIPE, IXI, WIN og svo er ákveðinn hluti netsins hreinlega kallaður EARN (ég kalla það litla-EARN) sem samanstendur af ákveðnum fyrirtækjum og stofnunum. Menn gerast áskrifendur að litla-EARN og aðrir fá ekki að nota þær línur.

EARN er ekki bara netkerfi, heldur er á bak við það stofnunin EARN Association. Öll tölvukerfi og miðtölvur (servers) sem tengjast EARN eru meðlimir að þessari stofnun. Stjórn EARN Association er í höndum yfirráðs sem fundar tvisvar á ári. Dagleg stjórn er í höndum kosinnar framkvæmdanefndar.

Háhraða tengingar tengja EARN við netkerfi Bandaríkjanna, ásamt flestum ef ekki öllum öðrum netkerfum í heiminum. M.a. eru þar INTERNET, CSNET, EUNET, HEPNET og svæðanet eins og JANET í Englandi, DFN í Þýskalandi og NORDUNET á Norður- löndunum. Öll þessi kerfi nota sama tölvupóststaðalinn, Internet Mail (RFC822).

Þessi samsteypa netkerfa kemur notendum fyrir sjónir sem einsleitt alþjóðlegt tölvunetkerfi. Tölvupóstföng innan EARN netsins fylgja venjulegum Internet staðli, fyrir utan sérstakar EARN-endingar eins og '.BITNET' eða '.UUCP', t.d. nafn@EARNCC.BITNET þar sem '.BITNET' kemur oft í staðinn fyrir endingar eins og t.d. '.KTH.SE' (Konunglegi Tækni- háskólinn í Svíþjóð).

Þar sem móðurtölvur tengdar EARN eru yfir 600 þá er ómögulegt að birta nöfn þeirra allra, en hér eru nokkur dæmi:

SEARN - Svíþjóð, Konunglegi Tækniháskólinn í Stokkhólmi
PTEARN - Portúgal,
GREARN - Grikkland,
DEARN - Þýskaland, GMD í Bonn
HEARN - Holland, Kaþólski Háskólinn í Nímeigen
TREARN - Tyrkland, Ege Háskólinn í Bornova, Ísmír
PLEARN - Pólland, Háskólinn í Varsjá
EARNCC - Aðalskrifstofa EARN í Frakklandi
SAKFU00 - Saudi Arabía, Háskóli Faisal Konungs í Hofúf

Helsta þjónusta sem EARN bíður upp á eru samskiptaforrit og forrit til að hafa upp á gögnum og upplýsingum, og koma þeim til notenda. Helstu forrit sem EARN hefur á sínum vegum eru: ARCHIE, ASTRA, BITFTP, GOPHER, LISTSERV, NETNEWS, RELAY, TRICKLE, WAIS, WHOIS OG WWW. Það má þó ekki skiljast svo að EARN eigi eða hafi umsjón með þessum forritum, heldur eru þetta helstu forritin sem notuð eru til að finna og sækja upplýsingar á þær miðtölvur sem tilheyra EARN. Þessum forritum er öllum (að ég held) dreift frítt og eru staðsett á flestum BBS-kerfum (korktöflukerfum). Fleiri forrit eru til sem geta nálgast gögn og annað á hinum ýmsu korktöflukerfum.

Sum þessara forritum hafa þegar verið útskýrð lítillega hér í blaðinu. Til að fá frekari útskýringar og leiðbeiningar um notkun á þessum helstu net-forritum er hægt að fá sendan bæklinginn 'Guide to Network Resource Tools' (60 bls.). Bæklingurinn, sem er á Ensku, er fáanlegur með því að senda tölvupóst til LISTSERV@EARNCC.BITNET. Senda þarf skipunina 'GET NETTOOLS PS' eða 'GET NETTOOLS MEMO' eftir því hvort þœ vilt fá textann í póstscript eða venjulegu textaformi. Skipunin þarf að vera staðsett í textadálknum, en Subject dálkurinn á að vera auður.

Albert Sigurðsson

SIGURDSSON@katk.helsinki.fi

Til baka í efnisyfirlit.


LÁTA FROSKINN HRINGJA Í KORKTÖFLUKERFI.

Eins og ég hef oft skrifað um í RR þá eiga þeir notendur menntanetsins sem ekki hafa annað samskiptaforrit en kermit erfitt með að nota sér þjónustu BBS-kerfa á landinu. Þetta stafar af því þau kermit forrit sem menntanetið hefur dreift eru sniðin að stafatöflu menntanetsins (ISO 8859/1) en flestöll BBS-kerfi landsins nota töfluna IBM 861.

Þetta mál er nú leyst. Björn Davíðsson á Ísafirði hefur útbúið lítið forrit sem nota má til að láta Kermit forrit frá menntanetinu hafa samskipti við BBS. Taka þarf síðari hluta þessarar greinar (milli línanna sem byrja þannig ---(klippa hér)---) og gera sérstaka skrá úr honum og láta hana heita BBS.INI

Þessi skrá er síðan sett á sama stað og kermitskrárnar eru og eftir að komið er inn í kermit forritið er gefin skipunin: take bbs.ini

Þá breytist kermit forritið þannig að það þýðir ekkert á milli stafasetta og flytur rétta íslenska stafi milli BBS-kerfisins og PC tölvunnar sem notar kermit forritið.

Raunar er þetta ekki nema helmingur vandans sem kermit-eigendur eiga við að stríða í samskiptum sínum við BBS. Hinn hlutinn er flutningsaðferðirnar. Kermit getur einungis notað kermit-staðalinn (held ég) en fæst BBS-in eru með hann. Þau eiga þó að geta sett hann upp án mikilla vandræða og ef einhverjir sýna þessu máli áhuga þá erum við Björn tilbúnir að aðstoða við að koma skráarflutningum í lag.

---(klippa hér)---
; BBS.INI
;
; Stilling á Kermit 3.13 til þess að tengjast BBS-kerfum.
; Til að stilla Kermit: TAKE BBS.INI [ENTER]
;
; Höfundur: (c) Björn Davíðsson, Ísafirði.
; Síðast breytt: Jan. 1994.
; Dreifing leyfð - sala bönnuð.
;
echo Stilli fyrir BBS-kerfi...
;
; Eftirfarandi skipanir stilla Kermit til þess að nota
; RTS/CTS flæðistýringu 8 bita stafi, liti sem hvíta stafi á svörtum grunni ; og tekur af allar þýðingar þar sem stafrófið sem BBS-in nota er það sama ; og í PC-tölvum. ArcBBS á Ísafirði notar þó sama stafróf og Menntanetið ; þannig að nota má Menntanets stillingar á það.
;
set flow RTS/CTS
set terminal bytesize 8
set parity none
set terminal type none
set terminal display 8
set terminal color 0 40 37
set translation keyboard off
set term code-page CP861
set term controls 8-bit
set printer NUL

; - Stillingar á skráaflutningum.
;
;;; Breytið eftir þörfum.
;
set block 3 ; Block check 3 = 16-bit CRC.
set window 2 ; 2 Window slots.
set receive packet-length 2000 ; Packet length is governed by receiver.

; Makróar fyrir skráaflutninga. Engar stafatöfluþýðingar eru gerðar þannig ; að nota má SEND og GET fyrir allar skrár. ;
define send set file type binary, send \%1 \%2 ; SEND binary-skrár
define get remote set file type binary, get \%1 ; GET binary-skrár

; Stafatöflur og þýðingar.
;
set terminal character-set transparent ; Stafasett BBS-kerfis
set transfer character-set transparent ; Stafasett til þýðinga
set file character-set CP861 ; Stafasett notanda
set terminal character transparent ; Sama og að ofan (fyrir eldri útg.)
set transfer character transparent ; Sama og að ofan (fyrir eldri útg.)
echo
echo BBS.INI - Höf.: Björn Davíðsson 1/94 - Snerpa BBS = ATDT94-4417
echo Hugmynd: Sæmundur Bjarnason - Stöð 2 BBS = ATDT91-673251.
echo
echo Kermit er nú stilltur fyrir samskipti við BBS-kerfi!
echo Notið C [ENTER] til að tengjast módemi - Alt-F10 til að fara aftur í Kermit
; Endir
---(klippa hér)---

Björn Davíðsson

- snerpa@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


SUMARFERÐ

Auglýsing.

Fyrirhugað er, af nokkrum notendum Íslenska Menntanetsins, að hittast (augliti til auglitis) einhvern tíma í sumar. Hugmyndin er í einhverskonar útilegustíl og mun þetta sennilega verða ein helgi u.þ.b. frá föstudagskvöldi til sunnudagseftirmiðdags, og vegna þess hve langt er á milli okkar þá er staðsetning nokkuð óljós. Þess vegna viljum við athuga hvaða hljómgrunn þessi hugmynd fær hjá notendum netsins. Mun þá staðsetning ráðast að miklu leyti hvaðan fólk kemur t.d. ef margir verða af Austurlandi þá verður Ásbyrgi kannski fyrir valinu en ef meirihlutinn er frá Reykjavík og Akureyri verða Húnavatnssýslurnar sennilegar fyrir valinu. Reynt verður eins og hægt er að vera miðsvæðis. Vissulega er langt til sumars (því miður!) en vegna vegalengda og fjölda þá er góður tími mikilvægur til að geta sæst á stað og stund.

Ferðaáætlun
p> Þessi ferðaáætlun getur breyst, enda nógur tími til stefnu. En okkur þótti betra að setja hana fram til að hægt sé að gagnrýna hana :-)

_Áætluð_ dagssetning er Júlí 15da til 17da, hins vegar ætlum við að hafa helgina 22an til 24ða upp á að hlaupa ef veður skyldi verða allvont. Gott væri ef sem flestir væru komnir að kvöldi föstudagsins en þeir sem eiga langt að verða ekkert reknir í burtu þó þeir komi að laugardagsmorgni :-) Sennilega þarf að slíta samkvæminu á sunnudegseftirmiðdegi. *NEMA* auðvitað einhver sé svo heppinn að vera í sínu lögbundna sumarfríi

_Áætlaður_ staður er Ásbyrgi í Kelduhverfi. Þetta kemur kannski sumum furðulega fyrir sjónir en svo virðist vera sem það sé mjög almennt, einkum kom það okkur á óvart með R-víkinga, að það sé kjörinn staður. Þó hann sé þónokkuð langt frá R-vík. Svo útleggst að frá R-vík séu um 550Km í Ásbyrgi EF farinn er hringvegurinn til Akureyrar, þaðan austur til Húsavíkur og síðan í Kelduhverfi. Er þetta að mestu leyti góður vegur og fljótfarinn. Þó auðvitað skulum við virða lög um hámarkshraða á vegum :-) við viljum hittast heil!

Í Ásbyrgi er fyrsta flokks aðstaða fyrir tjaldmenningu í þjóðgarðinum. Í Ásbyrgi eru tvö tjaldstæði. Við það fremra er öll aðstaða _mjög_ góð og skjólbelti (runnar) skipta tjaldstæðinu í átta eða tíu hólf með göngustígum á milli og akvegi fyrir framan. Í hverju hólfi geta verið með _góðu_ móti sex tjöld. Innra tjaldstæðið er náttúrulegra ef svo má segja en þar er notast við rjóður í skóginum innar í 'skeifunni', er það einnig mjög gott tjaldstæði en ekki er farið jafn strangt eftir reglum um að ró sé komin á kl. XX:XX (man ekki alveg klukkan hvað, held þó að það sé annað hvort 1:00 eða 12:00). Hér fyrir neðan er smá eyðufyllingarverkefni sem ætti að koma öllum í gott skap og segja okkur hvað _þið_ viljið.

Enn sem komið er er nóg af bílferðum frá R-vík og ástandið á Akureyri er nokkuð gott líka. Nóg virðist vera til af tjöldum og allt gott um það að segja. Ennþá virðast ekki vera nein vandamál sem gætu komið upp með það að einhver fái ekki ferð eða tjald.

_Skemmtilegheit_ verða í ALGERU fyrirrúmi! og hlutir eins og söngvabækur, kassagítarar og fleira svoleiðis er velkomið.

Til að spara okkur öllum mikið erfiði er fyrirhugað að klína nafnspjöldum á hvern mann, því fáir þekkjast í sjón. Er trigger búinn að gera uppkast að slíku í PageMaker og eru það hin snotrustu nafnspjöld! Verður það prentað á hans eigin prentara svo kostnaður við það verður jafn og enginn. Á þessum spjöldum verða nöfn, netföng, starfsheiti og búseta.

Einnig kom fram sú hugmynd að búa til (eins og allir gera við svona tækifæri eins og mannanót) boli með mynd, jafnvel einhverjum merkjum og texta, hönnun á þessu er ekki lokið ennþá. Við eigum IRC merkið og höfum í huga að nota það ásamt einhverju öðru. HUGMYNDIR ÓSKAST.

Jæja þá er að líta aðeins á nokkrar laufléttar spurningar til að kannna hug þeirra sem vilja fara með. ATH: 'munnleg' tilkynning t.d. á irc er ávísun á að það gleymist :-) Þeir sem eru búnir að senda inn upphaflega blaðið þurfa bara að svara því sem er með * við. Hinir sem eru nýjir þurfa að svara öllu nema því sem er innan sviga.

Ekki er nauðsynlegt að vera harðákveðinn í því að fara, nóg er að hafa áhuga á því til að senda okkur eyðublaðið sem er hér fyrir neðan. Takið það bara fram einhversstaðar hvort þú sért: í hugleiðingum eða ákveðin(n).

Síðar verða birtir listar yfir þá sem ætla með tjalda eign og farartæki.

Með kærri kveðju

Ingimar Róbertsson Tryggvi R. Jónsson
ingimarr@ismennt.is trigger@ismennt.is

-- Sumarferð --
! Ég vil vera með !

* Nafn: _____________________________________________
Netfang: _____________________________________________
Heimilisfang: _____________________________________________
Sveitarfélag: _____________________________________________
Símanúmer: __-______
Aldur: ______

Áttu:
Tjald: Já/Nei Svefnpoka: Já/Nei
Hve margra manna tjald:
Ertu:
Akandi: Já/Nei Hrædd(ur) við skordýr Já/Nei :-)
Hve marga getur þú tekið með í bíl: __

* Hefur þú eitthvað á móti þeim stað sem stungið er upp á:
_____________________________________________
(Hvers vegna:)
_____________________________________________
_____________________________________________

* Ef Ásbyrgi er í lagi hvort tjaldstæðið líst þér á betur á:
fremmra/innra

* Er fyrirhugaður tími algerlega óaðgengilegur fyrir þig:
_____________________________________________
(Hvers vegna:)
_____________________________________________
_____________________________________________

* Hvernig lýst þér á að kalla þetta "Landsmót irkara '94":
vel/illa
(ef illa hvað þá):
_____________________________________________
* Hvaða aðrar upplýsingar eða starfsheiti viltu að sett verði á nafnspjaldið þitt:
_____________________________________________

* Ef þú hefur einhverja góða hugmynd að bolaskreytingu endilega láttu okkur vita.
Er það einhver sem þú veist að vill koma með (en hefur ekki lesið þetta, sem t.d. lesa ekki ráðstefnur):
Já/Nei
(ef já, hverjir:)
_____________________________________________
_____________________________________________

Sendist til trigger@ismennt.is og/eða ingimarr@ismennt.is Gott er ef þeir sem hafa áhuga væru búnir að senda þetta inn fyrir mánaðarmótin feb - mars.

Til baka í efnisyfirlit.


FLEIRI FÓTMÆLI

Hér er smá viðbót við fótmælalistann sem birst hefur tvívegis áður í blaðinu:

Á 2400 bps langar mann að fara út og ýta.

:.:: ::..: ::.::. :: ..::.. Fótmæli á blindraletri.

<< - - - - - Þetta svæði er til sölu - - - - - >>

Nefnd er með sex fætur eða fleiri en engan heila.

AAAAA American Association Against Acronym Abuse.

Del *.* = 100 % þjöppun.

Afmælistertan hennar var eins og sléttueldur.

Macintosh: Tölva með æfingahjólum sem er ekki hægt að taka af.

Ekkert er 100 % öruggt, eða villulaust, eða IBM samhæft.

Bad command or file name - Go stand in the corner.

Vertu góður við óvini þína - þá verða þeir alveg vitlausir.

Gættu þín á forriturum með skrúfjárn í vasanum.

Heili: Tæki sem fær okkur til að halda að við hugsum.

CONgress er andstæðan við PROgress.

Ef þú getur ekki lært að gera það vel, lærðu þá að njóta þess að gera það illa.

Völvufundinum frestað vegna ófyrirsjáanlegra atvika.

Coming Soon. Mouse Support for Turbo Edlin!

Allt sem ekki er skylda er bannað.

Þegar ég gerði það vissi ég ekki að það var ómögulegt.

Ég var vanur að horfa á sjónvarp, en svo keypti ég mér mótald...

I wish life had a scroll-back buffer...

Ég bjó til mitt eigið prófunarkerfi og nú er tölvan mín 500 MHz.

Ég vildi gjarnan vera fátækur en eiga nóg af peningum.

Ég er á horninu á Walk og Don't Walk.

Ég hef átt við minnisleysi að stríða eins lengi og ég man.

Lestu vandlega yfir allt sem þú skrifar svo þú ekki orðum.

Ég er ekki villtur. Ég á bara við staðsetningarvanda að stríða.

Fyrirgefðu, þetta fótmæli er ekki afsökun.

Af skattatæknilegum ástæðum ætla ég að vera dauður í eitt ár.

Ég er að skrifa bók. Ég er búinn með blaðsíðutölin.

Ég verð að fara að hætta því ég er orðinn rámur í fingrunum.

Sæmundur Bjarnason

Til baka i efnisyfirlit