6. tbl. 8. september 1994 2. árg.

EFNISYFIRLIT

  1. Frá ritstjóra.

  2. Vísindi og siðferði. Atli Harðarson

  3. Úr einu í annað. Sæmundur Bjarnason

  4. Veraldar víðs vefur. Tryggvi R. Jónsson

  5. Upplýsingaþjóðvegurinn. Sæmundur Bjarnason

  6. Tuttuguföld hraðaaukning ? Sæmundur Bjarnason

  7. Blöð og tímarit á Interneti. Sæmundur Bjarnason

  8. Ódýr símatorgsþjónusta. Sæmundur Bjarnason


FRÁ RITSTJÓRA

Ég hef að talsverðu leyti verið í fríi frá Internetinu í sumar. Kíkt á póstinn og íslensku ráðstefnurnar, en ekki mikið meira. Nú er komið haust og tímabært að hefjast handa að nýju. Margt spennandi er að gerast í tölvusamskiptamálum og margar nýjungar munu líta dagsins ljós í haust og vetur.

Þó ég viti ekki nærri eins mikið og ég vildi um þessi nýju fyrirbæri eins og slip, mosaic, lynx o.s.frv. mun ég leitast við að útskýra þessi fyrirbrigði og önnur fyrir lesendum blaðsins með hjálp góðra manna.

Ennþá nota ég nær eingöngu gamla 286 tölvu með 1 Mb í innra minni í mín Internet ferðalög og hún er svo hrum greyið að ég þori ekki einu sinni að hvísla "Windows" í námunda við hana. Ástæðan til þess að ég nefni þetta er sú að nú fer það að gerast æ algengara að notuð séu Windows forrit við tölvusamskipti. Þá þarf ekki að læra eins mikið utanað af skipunum og vitanlega verður margt auðveldara við þetta. Svo koma sjálfsagt bráðum Windows BBS og hver veit nema hlegið verði eftir örfá ár að okkur sem erum sífellt að pæla í mismunandi stafatöflum og þessháttar rugli.

Í þessu blaði er löng grein um tímarit og fréttabréf sem dreift er ókeypis um Netheima. Ég hvet alla til að lesa þessa grein og óvitlaust væri að velja sér eitt eða tvö forvitnileg blöð og prófa að gerast áskrifandi að þeim. Þarna er einvörðungu rætt um blöð á ensku enda eru það í rauninni einu blöðin sem eru fyrir alla.

Og úr því að verið er að minnast á ókeypis blöð mætti kannski nefna að hægt er að gerast áskrifandi að a.m.k. tveimur prentuðum íslenskum tímaritum án þess að borga fyrir það og bæði þessi blöð fjalla um mál sem lesendur Rafritsins ættu að hafa áhuga á.

Fyrra blaðið er Tölvuvísir sem gefið er út af Tölvu- og verk- fræðiþjónustunni Grensásvegi 16, sími: 91-688090. Ritstjóri er Halldór Kristjánsson. Blaðið fjallar um ýmislegt sem tengist tölvum og auglýsir ýmislegt sem Tölvu- og verkfræði- þjónustan býður uppá svo sem námskeið af ýmsu tagi og ráðgjöf varðandi tölvumál.

Hitt blaðið er Gagnalínan, fréttabréf Pósts og síma um tölvusamskipti. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Karl M. Bender. Þetta blað fjallar um það sem Póstur og sími er að gera varðandi tölvusaskiptamál og er þar af leiðandi dálítið takmarkað, en þarna má samt fá ýmsar upplýsingar.

Bæði blöðin eru fremur þunn og koma ekki mjög oft út, en samt sem áður er ástæða til þess fyrir áhugafólk, að vera áskrifendur að þessum blöðum.

Frá því var sagt í fréttum fyrir nokkru að stolið hefði verið skáldsögu og kvikmyndahandriti og líklega hefði það verið gert alveg óvart. Höfundinum, Þráni Bertelssyni, hafði láðst að taka öryggisafrit (backup) af skránum á tölvunni sem stolið var. Við þetta rifjaðist upp fyrir mér að einhverju sinni heyrði ég þá skilgreiningu að tölvunotnendum mætti skipta í tvo hópa. Í öðrum hópnum væru þeir sem hefðu orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að glata verðmætum tölvugögnum, en í hinum þeir sem ættu það eftir. Þeir sem eru í fyrri hópnum taki alltaf afrit, en hinir bara stundum. Og svo eru gárungarnir víst farnir að tala um að þær tölvuskrár sem langt er síðan að voru afritaðar, séu farnar að þrána!!

Í næsta blaði er ég að hugsa um að birta grein um rafræn tímarit á Íslandi. Þeir sem þekkja til slíkra blaða annarra en Rafritsins eru vinsamlega beðnir að láta mig vita.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


VÍSINDI OG SIÐFERÐI

Árið 1992 kom úr bók eftir Ólaf Halldórsson sem heitir Uppruni og þróun mannsins. Þetta er fróðleg bók og skemmti- leg. Í henni segir frá öpum og öðrum prímötum, fornum beinum úr suðuröpum og reismönnum, kenningum um hvers vegna menn eru hárlausir, hvers vegna bæði augun í þeim vísa fram og hvernig hugur okkar og hönd mótaðist í aldanna rás.

Á blaðsíðu 17 í bókinni segir frá ýmsum hæpnum ályktunum sem menn hafa dregið af þróunarkenningu Darwins. Ólafur nefnir að sumir hafi álitið hana renna stoðum undir þjóð- ernishyggju, aðrir talið hana sýna að mannlífið sé tilgangs- laust og enn aðrir litið á hana sem sönnun fyrir tilveru guðs. Síðan segir hann:

Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd um "túlkanir" á þróunarkenningunni, sem og árásir á þróunarkenninguna á grundvelli þeirra, eru ekki annað en vangaveltur byggðar á misskilningi. Þróunarkenning Darwins hefur í raun ekkert til málanna að leggja varðandi til dæmis siðferði eða trúarbögð fremur en aðrar vísinda- kenningar.

Flestir geta tekið undir með Ólafi að vangaveltur um að þróunarkenningin sanni að guð sé til eða að lífið sé tilgangslaust eru byggðar á misskilningi. En gengur hann ekki of langt þegar hann segir að vísindakenningar hafi ekkert til málanna að leggja varðandi siðferði eða trúarbrögð?

Kenningar svipaðar þessari, sem Ólafur heldur fram, voru vinsælar meðal heimspekinga á fyrri hluta þessarar aldar. Þá hafði rökfræðileg raunhyggja (logical positivism) mikil áhrif og samkvæmt kenningum flestra heimspekinga af þeim skóla eru siðferðleg viðhorf hvorki sönn né ósönn, engar staðreyndir til um gott og illt, rétt og rangt og ekkert röklegt samband milli þekkingar og siðferðis. Þeir töldu yfirleitt að gildismat manns og siðadómar lýsi eða tjái ótta hans og vonir, langanir og þrár en ekki vitneskju hans um stað- reyndir. Vísindin kváðu hins vegar snúast um staðreyndir, um það hvernig heimurinn er í raun og veru.

Kenningar í þessum dúr birtust í ýmsum myndum í ritum heimspekinga á fyrri hluta þessarar aldar. Meðal raunhyggju- manna sem héldu þeim fram, a.m.k. á tímabili, má nefna Englendingana Bertrand Russell (1872-1970) og Alfred Ayer (1910-1989), Austurríkismanninn Ludwig Wittgenstein (1889- 1951) og Þjóðverjann Rudolf Carnap (1891-1970). Svipaðra viðhorfa gætti meðal franskra heimspekinga sem aðhylltust tilverustefnu (existentialisma) eins og Jean-Paul Sartre (1905-1980) og Albert Camus (1913-1960). Þessar kenningar eiga sér töluverða forsögu. Það má t.d. lesa þær milli línanna í ritum nokkurra siðfræðinga á 18. öld eins og t.d. Bretanna David Hume (1711-1776) og Francis Hutcheson (1694- 1746).

Kenningin, sem Ólafur tæpir á, dregur mjög dám af heim- spekikenningum sem nutu vinsælda á fyrri hluta aldarinnar. Þetta er svo sem ekkert undarlegt því oft er heimspeki gærdagsins 'heilbrigð skynsemi' dagsins í dag. Rökfræðileg raunhyggja hefur t.d. enn þann dag í dag veruleg áhrif á hugsunarhátt og aðferðir margra vísindamanna.

Þessar leifar af rökfræðilegri raunhyggju eru ef til vill hluti af einhvers konar vopnahlésskilmálum milli trúarbragða og siðfræði annars vegar og vísinda hins vegar. Trúarleg og siðferðileg viðhorf fá að vera í friði fyrir veruleikanum sem vísindin rannsaka og vísindamenn sleppa við áhyggjur af að kenningar þeirra hrófli við því gildismati og þeirri hugmyndafræði sem heldur samfélaginu saman. En hvaða sögulegar og félagsfræðilegar ástæður sem kunna að vera fyrir vinsældum kenningarinnar um aðskilnað vísinda og siðferðis hljótum við að spyrja hvort þessi kenning sé sönn eða ósönn.

Greinarnar sem mynda þekkingu okkar, skoðanir og viðhorf tengjast saman á ýmsa vegu. Eðlisfræðin er til dæmis nátengd stærðfræði, stjörnufræði, veðurfræði, efnafræði og mörgum öðrum greinum. Efnafræðin tengist svo á ýmsan hátt við jarðfræði, líffræði og fleiri greinar. Líffræðin er nátengd læknisfræði, sálfræði og mannfræði. Sálfræðin og mannfræðin tengjast svo ótal öðrum greinum mannvísinda, þar á meðal félagsfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og guðfræði. Þetta þýðir að uppgötvun sem er gerð í einni vísindagrein getur kallað á endurskoðun á kenningum og viðhorfum í annarri grein. Sem dæmi um þetta má nefna að uppgötvanir í stærð- fræði og eðlisfræði sem voru gerðar á fyrri hluta þessarar aldar leiddu til þess að til varð ný fræðigrein, tölvufræðin. Tölvufræði hefur síðan haft margháttuð áhrif á sálfræði og málvísindi og þaðan hafa áhrif hennar borist inn á vettvang annarra mannvísinda. Málvísindin hafa svo aftur haft ýmisleg áhrif innan tölvufræði og stærðfræði. Nýjar uppgötvanir í stærðfræði geta sem sagt kallað á endurskoðun á kenningum í félagsvísindum og nýjungar í málfræði geta haft áhrif á rannsóknaraðferðir og kenningasmíð í stærðfræði.

Flestir heimspekingar sem fjalla um þekkingarfræði nú á dögum leggja áherslu á að þekking manna, skoðanir og viðhorf myndi eina allsherjar flókabendu þannig að sé kippt í einn spotta fari allt á hreyfingu. Í samræmi við þetta telja margir þeirra að trúarleg og siðferðileg viðhorf tengist vísindalegri þekkingu á ótal vegu. Þetta virðist hreint ekki ósennilegt. Sem dæmi má taka að líffræðileg og sálfræðileg rök sýna að allt mannkynið myndar eina tegund og munur á kynþáttum er lítill miðað við einstaklingsmun innan hvers kynþáttar. Þessi líffræðilegu og sálfræðilegu rök kippa fótunum undan ýmsum gerðum kynþáttafordóma og hafa þannig siðferðilegar afleiðingar. Þróunarkenningin kveður á um að öll fremdardýr (prímatar), þ.á.m. menn og apar, eigi sér sameinginlegan forföður sem var uppi fyrir milljónum ára. Þessi kenning stangast á við bókstaflegan skilning á sköpun- arsögum Gamla Testamentisins og hefur orðið til þess að flestir kristnir söfnuðir hafa endurskoðað ýmis atriði í túlkun sinni á Biblíunni.

Er þá ekkert sannleikskorn í kenningunni um aðskilnað vísinda og siðferðis sem Ólafur Halldórsson og margir aðrir raunvísindamenn hafa þegið í arf frá heimspeki öndverðrar 20. aldar? Siðferði og siðareglur eru til þess að menn geti lifað saman í friði og haft það gott. Vísindi, eins og t.d. líffræði, læknisfræði, hagfræði, sálfræði, félagsfræði og lögfræði geta sagt okkur ýmislegt um hvernig helst megi nálgast þessi markmið. Með þessu móti geta vísindin haft áhrif á siðferði fólks og hugmyndir um hvað er til góðs og hvað er til ills, hvaða siðareglur borgar sig að halda í heiðri og hverjum ber að hafna. En engin vísindi geta sýnt fram á að það sé æskilegt að menn lifi saman í friði og hafi það gott.

Til þess að vísindin geti haft eitthvað að segja um sið- ferðisefni þurfa markmið siðferðisins að vera fyrirframgefin. En engin vísindi og engin rök geta sýnt að þessi markmið séu skynsamleg eða réttmæt. Kenningin um aðskilnað vísinda og siðferðis kann því að vera rétt að því leyti að frumforsendur siðferðisins verði hvorki studdar né hraktar með vísindalegum rökum. En um leið og þessar frumforsendur eru gefnar tengjast siðferði og vísindi saman á ótal vegu.

Ef einhver álítur að það sé betra að mannkynið deyi út en að það haldi áfram að vera til og vill þess vegna koma af stað styrjöldum og hörmungum þá verður skoðun hans ekki hrakin með því að benda á staðreyndir eða þylja vísindaleg rök. Sú skoðun að það sé betra að mannkynið haldi áfram að vera til verður heldur ekki studd neinum rökum. Hins vegar getur þróunarkenningin ef til vill útskýrt hvers vegna menn telja lífið dýrmætt því viðleitni til að verja sitt eigið líf og skyldmenna sinna eykur líkurnar á að eignast marga afkomendur. Tilfinningalíf manna og gildismat hefur væntan- lega mótast af náttúruvali rétt eins og önnur einkenni lifandi vera. Vísindi af því tagi sem fjallað er um í bókinni um uppruna og þróun mannsins geta sem sagt bæði haft ýmisleg áhrif á siðferði fólks og útskýrt að nokkru leyti hvers vegna siðir okkar og lífshættir eru svona en ekki einhvern veginn öðru vísi.

Atli Harðarson

Til baka í efnisyfirlit


ÚR EINU Í ANNAÐ

ÖNGÞVEITI Á INTERNETI Umferðin á Internetinu stöðvaðist næstum því 19. júlí s.l. því svo margir voru samtímis að leita að og sækja nýjustu myndirnar af halastjörnunni sem lenti á Júpíter.

KVIKMYNDIR Á GEISLADISKUM Í haust verður byrjað að selja kvikmyndir af fullri lengd á geisladiskum. Verðið verður á bilinu 700 til 1500 krónur. Þær verða bæði fyrir PC og Macintosh tölvur, en ekki er búist við mikilli sölu. Aðalástæðan er sú að ekki er gert ráð fyrir að margir vilji horfa á heilu kvikmyndirnar á tölvuskjá, en þeir eru sjaldan stærri en 14 tommur.

FRIÐÞJÓFAR FLÆKJAST VÍÐA Fyrirtæki eru sífellt að finna nýja notkunarmögleika fyrir símboða. Á veitingahúsum er t.d. hægt að kalla á viðskipta- vininn þegar borð er laust. Á bílaverkstæðum er kallað á bíleigandann þegar bíllinn er tilbúinn o.s.frv. Í Japan eru bændur farnir að hengja símboða utan um hálsinn á kúnum sínum og kalla á þær þegar kvöldmaturinn er til.

FORSTJÓRI KVARTAR UNDAN EINOKUN MICROSOFT Scott McNealy forstjóri Sun Microsystems hefur lagt til að opnir staðlar verði notaðir varðandi stýrikerfi fyrir tölvur. Hann segir að einokun Microsoft á DOS/Windows markaðnum sé óheilbrigð. "Með þessu hefur eitt fyrirtæki nánast heilt tungumál undir lás og slá. Tungumál sem er í raun orðið jafn mikilvægt fyrir viðskiptalíf heimsins eins og einhver af heimstungunum".

KVIKMYNDAHÚSAKEÐJA TEKUR UPP STAFRÆNT HLJÓÐKERFI AMC, sem er ein af stærstu kvikmyndahúsakeðjunum í Bandaríkjunum hefur ákveðið að setja átta rása Sony stafrænt hljóðkerfi í 1700 sýningarsali. Þetta er mikill sigur fyrir Sony í samkeppninni við Dolby Laboratories og Digital Theater Systems sem framleiða samsvarandi en ósamhæfð hljóðkerfi. Og við Íslendingar munum það alltaf að Ólafur Jóhann Ólafsson vinnur hjá Sony, svo þetta er líklega sigur fyrir hann líka.

AÐ KOMAST FRAMHJÁ AULASÍUNNI Fyrirtæki nokkurt í Bandaríkjunum hefur fundið nýja leið til þess að auglýsa námskeið sín í textagerð. Sagt er að þau hjálpi fólki í viðskiptalífinu til að komast fram hjá aulasíunum (Bozo-filters) sem notaðar séu til þess að útiloka ruslpóst úr rafpósthólfum.

SNIGLAPÓSTUR Á HEIMSVÍSU Hollenska póstþjónustan hefur tekið forystu á því sviði að taka að sér póstdreifingu erlendis. Bráðlega tekur hún við dreifingu á öllum pósti frá Kína til Evrópu og bróðurpartinum af þeim Evrópupósti sem kemur frá Kanada. Tilhneiging til verkaskiptingar af þessu tagi fer vaxandi, einkum vegna vaxandi samkeppni frá hraðflutningsþjónustum í einkageiranum og tækninýjungum eins og faxtækjum og rafpósti. "Öll landamæri eru að hverfa, og fólk mun sjálft taka ákvarðanir um það hvernig það vill láta dreifa póstinum sínum", segir Póst- og símamálastjóri þeirra Hollendinga.

GAMLI FORD Gamli Fordinn í símamálum, skífusíminn sem flestir þekkja, er ennþá í notkun sem aðalfjarskiptatækið á 11% heimila í Bandaríkunum. Það er ekki bara fortíðarfíknin (nostalgían) sem ræður þessu, heldur halda sumir því fram að þeir þoli bókstaflega allt og vilja halda í þá þessvegna. Einn aðdáandi minntist þess í viðtali að hann hefði einhverju sinni gert ítrekaðar tilraunir til að sprengja sinn skífusíma í loft upp með kínverjum og rakettum en það hafði ekki tekist, síminn hefði verið jafngóður á eftir.

LEIKJAFRAMLEIÐENDUR ÓSAMMÁLA UM FLOKKUNARKERFI Tvenn helstu samtök framleiðenda tölvuleikja eru ósammála um hvernig eigi að merkja tölvuleiki vegna ofbeldis, kynlífs og orðbragðs. The Interactive Digital Software Association vill taka upp kerfi sem byggir á aldri og nota merkingar eins og "fyrir börn","fyrir unglinga" og "aðeins fyrir fullorðna", en kerfið sem Software Publishers Association vill nota byggir á táknmyndum. Þannig mundi handsprengja merkja að leikurinn væri ofbeldisfullur og tala sem fylgdi mundi þá merkja hversu magnað og varhugavert ofbeldið væri.

UM INTERNET Í Internet Info er sagt frá því að meira en 17000 fyrir- tæki í Bandaríkjunum væru nú skrásett með móðurtölvur tengdar við Internet. Mest eru þetta fyrirtæki sem vinna við vopnaframleiðslu og svo símafyrirtæki. Flest eru fyrirtækin í Kaliforníu.

BEINVARPIÐ LOKSINS Á LEIÐINNI Árum saman hefur iðnaðurinn í kringum beinvarpið (Direct Broadcast Satellite eða DBS-TV) þurft að þola tafir á tafir ofan. En nú fá menn þar loksins tækifæri til að berjast við annarskonar vandamál. Hvernig á að framleiða nógu mikið af loftnetsdiskum til að mæta eftirspurn. Thomson Consumer Electronics ræður alls ekki við að afgreiða nógu hratt til verslana diskana sína sem kosta 50 til 60 þúsund krónur. Reyndar á beinvarpið eftir að sanna áreiðanleika sinn. Stórrigningar í austurhluta Bandaríkjanna hafa orðið til þess að sendingar hafa truflast hvað eftir annað að undanförnu.

MICROSOFT FYRIR MAKKA Í október næstkomandi er gert ráð fyrir að nokkur af vinsælustu forritunum frá Microsoft; Word, PowerPoint og Excel verði fáanleg fyrir Power Mac tölvurnar frá Apple. Þetta mun örva sölu þessara tölva og auka líkurnar á því að Apple nái því takmarki sínu að selja eina milljón slíkra tölva fyrir 1. apríl á næsta ári.

HVERNIG VERÐA TÖLVUR FRAMTÍÐARINNAR? Á árlegri samkeppni Apple fyrirtækisins um tölvuhönnun mátti sjá tölvu í laginu eins og handspegil, fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum til að hafa samband við lækna og leita upplýs- inga í gaganbönkum, tölvu festa á axlirnar ásamt myndavél, hljóðnemum og hátölurum til að gera fólki kleyft að fara í sýndar-gönguferðir í öðrum löndum og tölvukerfi sem kallað er "Galen" og gerir hjúkrunarfólki kleyft að tengjast gagnabönkum um læknisfræði og lesa það sem þar stendur á 26 tungumálum.

NOVELL HJÁLPAR MÖKKUM Hjá Novell er verið að þróa hugbúnað til að hægt sé að tengja makka beint við NetWare netþjóna án þess að það þurfi að keyra upp AppleTalk samskiptastaðalinn á netþjóninum. Í lok ársins kemur síðan út NetWare 4 og þá verður tengingin við makka ennþá auðveldari.

NETHJÁLLP InterNIC Information Services hefur hafið útgáfu á nýju ókeypis tímariti sem kallað er Scout Report. Þar er að finna nytsamar upplýsingar fyrir kennara og rannsóknarfólk sem hjálpar því að nota Internet með árangursríkum hætti. T.d. var nýlega útskýrt hvernig eigi að tengjast upplýsingaþjónum hjá ýmsum rannsóknarstofum og háskólum. Til að gerast áskrifandi þarf að senda rafpóst til majordomo@is.internic. net og skrifa í bréfið: subscribe scout-report. Mosaic- notendur geta tengst http://www.internic.net/info-guide. html.

TÍMI TIL KOMINN FYRIR HÓTEL AÐ KIPPA SÍMAMÁLUM Í LAG Það er alltaf að gerast að fólk tekur eftir því þegar það yfirfer hótelreikninga að skuldfært er fyrir símtöl sem aldrei hafa átt sér stað. Það er yfirleitt ekki vegna óheiðarleika hótelstarfsfólksins, heldur er tæknin svona léleg hjá þeim. Eitt vandamálið er að mikill fjöldi símakerfa sem eru í notkun á hótelum getur ekki greint á milli hvort samband næst eða ekki þegar hringt er. Við sjöttu eða sjöundu hringingu byrja þau gjaldfærslu. Hótelin græða oft á símaþjónustunni. T.d. heldur ferðamálastofnun ein því fram að hagnaður hótela af símaþjónustu hafi hækkað um 50% síðan 1990 og dæmi séu um að hótel hagnist um tugi milljóna króna á símaþjónustunni einni.

STAÐARNET Á KAPALKERFI Sparisjóðurinn á Long Island (Savings Bank) er búinn að losa sig við stórtölvuskrímslin og í staðinn hefur verið tekið í notkun 16 Mbps (Megabytes per second) ljósleiðara tókahrings staðarnetskerfi (token-ring client-server network) sem tekið er á leigu hjá sjónvarpskapalkerfi á staðnum. Talsmenn sparisjóðsins eru ánægðir með árangurinn. "Vandamál varðandi gagnaöryggið hafa verið leyst og við höfum getað bætt þjónustu okkar við viðskiptavinina", segir yfirmaður tölvudeildarinnar. Fjórðungur kapalkerfa í Bandaríkjunum hefur komið sér upp ljósleiðurum til að geta boðið uppá afgreiðslu á kvikmyndasýningum að eigin vali um kapalkerfin þegar sú tækni kemst í gagnið og fyrirtæki eru í vaxandi mæli farin að notfæra sér þessa stöðu til að ná hagstæðum samningum um gagnaflutninga.

SALA Á GEISLADRIFUM EYKST EN NOTKUNIN MINNKAR Geisladrif fyrir PC tölvur seljast um þessar mundir sem aldrei fyrr, en oft á tíðum virðast þau ekki gera annað en safna ryki þegar kaupendurnir hafa komið þeim heim til sín. Athugun sem fyrirtækið Dataquest gerði sýnir að 40 % aðspurðra geisladrifseiganda sögðust ekki nota geisladrifið neitt og 54 % gera ekki ráð fyrir að kaupa meira af hugbúnaði fyrir það.

ÞRÍVÍDDARSJÓNVARP? Sanyo Electric Co. mun innan skamms setja á markaðinn Video-skjái sem sýnt geta þrívíddarmyndir án þess að notuð séu sérstök gleraugu. Flatur skjárinn er með fíngerðum rákum og þegar myndlamparnir á bak við skjáinn sýna myndina samtímis frá hægri og vinstri myndast þrívíddaráhrif. Hægt er að sýna venjulegar sjónvarpsmyndir á skjánum en til að þrívíddaráhrifin náist þarf að nota sérstakar myndavélar og annan sérútbúnað við upptökur.

MERKILEGUSTU TÆKNIUNDRIN Í könnun sem gerð var í Bandaríkjunum fyrir skömmu var fólk spurt hvaða nýtísku tæki hefðu haft mest áhrif á líf þeirra. Úrslitin? Jú, örbylgjuofnar og fjarstýringar fyrir sjónvörp fengu flest aðkvæðin. Í sjónvarpsviðtali hér uppi á Íslandi var öldruð kona spurð hvaða nýjung á hennar ævi hefði haft mest áhrif á líf fólks. Gervitennurnar, sagði hún. Og aldraður bóndi var spurður hvaða nýjung varðandi vinnu við landbúnað hefði valdið mestum straumhvörfum á Íslandi á þessari öld. Stígvélin, var svarið.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


VERALDAR VÍÐS VEGUR

Veraldar Víðs Vefur (þýðing sem ég heyrði fyrst hjá Richard Allen, kerfisstjóra hjá Orkustofnun) er ný leið til að komast í samband við gagnabanka um allan heim. VVV er á 'hypertext' formi, það er að segja í textanum geta verið 'uppljómanir' (orð eða setningar) sem benda á aðra VVV síðu og þú getur þannig rakið þig áfram og líka í hringi og algerlega villst :)

Þetta er samt sem áður þægilegur máti til að setja upp gögn. T.d. ert þú að skoða teikningu af skrifstofuhúsi og klikkar með músinni á eina skrifstofuna og þá kemur upp nafn þess sem vinnur þar, mynd af starfsmanninum og e.t.v. listi yfir það sem hann er að vinna að.

Upphringinotendur hjá Íslenska Menntanetinu geta notað VVV-þjón sem heitir 'lynx'. Hann gefur kost á því að leita og skoða ALLAR VVV-síður sem hægt er að finna, en er með þeim ANNMARKA að ekkert sem flokkast undir myndræna framsetningu og hljóð kemur þar fram. Þó er hægt að sækja þær myndir sem fylgja síðunni og setja á heimasvæðið (sjá 'man lynx').

Til að ræsa upp lynx þarf að fara í skelina og slá inn 'lynx' Þá kemur upp 'heimasíða Íslenska Menntanetsins'. Þar sem hægt að komast í nn (Usenet), póst, skel, og ýmsar 'aðrar lindir' Mjög einfalt og þægilegt er að komast í gegnum síðurnar en allt sem þarf að gera er að fara með bendilinn (með örvatökkunum) á það sem þú vilt 'opna'/kalla fram og slá á ENTER. Einning er hægt að fara 'neðar' og 'ofar' í gagnasafninu með hliðarörvunum (vinstri = ofar, hægri = neðar). Það er hægt að tengjast með VVV á nokkrar tölvur innan lands jafnt og utan. Svipar það mjög til FTP en í stað þess að segja t.d. ftp.os.is er hægt segja www.os.is (ekki er ennþá til www.ismennt.is).

Staðallinn sem notaður er kallast http (HyperText Transfer Protocol) og eru addressur gefnar á því formi t.d. http://www.os.is/

á eftir síðasta /-inu má gefa upp 'heimasíðu' sem nota á.

Á Vefnum er hægt að komast í kynni við nokkrar skrárgerðir. T.d.:

au hljóðskrá (SUN audio).
gif skönnuð mynd.
Machintosh QuickTime hreyfimynd (animation) með hljóði. mpeg hreyfimynd ÁN hljóðs.

Þó að vefurinn sé tiltölulega nýr þá er hann orðinn gríðarlega stór. Í mars 1994 voru 1.200 'site' með VVV-síður. Um miðjan maí fann annar maður 3.800 'site'. Þarna koma ekki fram þeir Vefir sem eru faldir á bak við 'fireball' og þeir sem eru ekki tengdir Internet. Óhætt er að telja að í maí 1994 séu u.þ.b. 4.500 'site' sem hafa einhverskonar HyperText þjónustu.

Hvað er þá Mosaic?
Löngu eftir að CERN kom fram með 'vefinn' hóf NCSA (National Center for Supercomputing Application) að skrifa notendaviðmót við vefinn. Mosaic varð samstundis afar vinsælt. Það veitti auðvelt viðmót á 'hefðbundna' hluti eins og Gopher, telnet, NNTP, WAIS og FTP, nú varð nóg að klikka með mús á hlutina. Mosaic er bara hægt að nota á TCP/IP sambandi (þ.m.t. SLIP).

Hvað er á Vefnum?
ALLT sem er á Gopher
ALLT sem er á WAIS (Wide-Area Information Servers)
ALLT sem er á FTP (File Transfer Protcol)
ALLT á UseNet (netnews)
ALLT á Telnet
Archie þjónusta (leita á FTP)
Veronica (leita á Gopher)
CSO, X.500 og whois þjónusta (leit að notendum)
ALLT sem er á HyperText formi

Að lokum.
Þeir sem kunna vel við Gopher kunna BETUR við VVV! Nú er bara að skoða :-)

Tryggvi R. Jónsson

trigger@ismennt.is

Til baka í efnisyfirlit.


UPPLÝSINGAÞJÓÐVEGURINN

Upplýsingaþjóðvegurinn (The Information Superhighway) og upplýsingabyltingin eru tómt rugl, segja sumir. Þetta verður aldrei að veruleika því kvikmyndafyrirtæki og sjónvarps- stöðvar leggja þetta allt undir sig fylla það af drasli. Við skulum athuga málið svolítið nánar.

Það eru nú um þrjú ár síðan ég fékk óslökkvandi áhuga á tölvusamskiptum. Fyrst í stað voru það BBS, síðan Íslenska menntanetið og Internet og í framhaldi af því ýmislegt fleira.

Síðasta hálfa árið eða svo hafa tölvublöð og ýmsir fleiri fjölmiðlar fjallað mikið um þessi mál og nú er Internet mikið í tísku og ólíklegustu menn eru farnir að slá um sig með því orði.

Clinton bandaríkjaforseti og Al Gore varaforseti eru með raf- póstföng og segjast hafa mikinn áhuga á að koma á margnefndum upplýsingaþjóðvegi. Síðan étur hver eftir öðrum alls kyns yfirlýsingar um hversu dásamlegur þessi upplýsingaþjóðvegur verði.

Margt af því sem sagt er um þessi mál er að sjálfsögðu satt og rétt, en margt af því er líka tómt bull. Muna menn til dæmis ekki hversu dásamlegt sjónvarpið átti að vera. Kennslusjónvarp átti að mennta þjóðina í hendingskasti og hvers kyns endurmenntun og símenntun yrði svo auðveld og einföld að það tæki því varla að koma henni af stað. Og hvernig er ástandið í þessum málum núna? Sorglegt, svo ekki sé meira sagt.

Sannleikurinn um Upplýsingaþjóðveginn er sá, að það er engin leið að vita hvernig hann verður. Hvort það sem um hann rennur verður bara sívaxandi straumur auglýsingaefnis, afþreyingarsjónvarps og annarrar froðu eða hvort það verður eitthvað sem þroskar neytendur og auðar í andanum. Auk þess er alls ekki vitað hvort almenningur vill nokkuð kaupa allt þetta drasl sem til þarf svo hægt sé að bruna um á Upplýsingaþjóðveginum og taka þátt í því sem fram fer í Alheimsþorpinu. Jú, fólk keypti sjónvarpstækin á sínum tíma á endanum, en kannski var það mest vegna ruslsins sem úr þeim fékkst. Ef til vill er það vítahringur sem engin leið er að komast úr, að til þess að ná mikilli útbreiðslu þurfi það sem boðið er uppá að vera svo lélegt að það sé í raun nánast einskis virði.

Er þetta allt saman ekki bara gamla sagan um myndsímann og undraveröldina þar sem maður talar við eldavélina sína og skammar hana ef það sýður uppúr, en bara í svolítið breyttu og trúlegra formi?

Af hverju ætti þessi upplýsingaþjóðvegur að vera allra meina bót? Hvað er svona merkilegt við það að geta tengst öðrum tölvum í gegnum símalínur og kapla? Þetta hefur verið mögulegt árum saman og sáralítið breytt heiminum.

Hvað er svo þessi upplýsingaþjóðvegur? Hópur símafyrirtækja í Kanada er að setja upp kerfi sem býður upp á myndbandasýningar eftir pöntun, rafpóst í gegnum sjónvarp og verðlistakaup með hjálp fjarstýringarinnar. Er það þetta sem okkur vantar? Hefur einhver beðið um þetta?

Væri það ekki agalegt ef Jón Jónsson mundi bara horfa á endursýningar á Dallas, nota eldgamalt og ófullkomið rit- vinnsluforrit og hringja í mömmu sína úr venjulegum gamaldags skífusíma -- bara vegna þess að allir eru alltaf að keppast við að finna upp eitthvað nýtt og mega ekki vera að því að ganga úr skugga um hvort einhverjir vilja nota það sem fundið var upp í gær. Og svo verður allt þetta fínerí svo dýrt og flókið að enginn getur notað það.

Er einhver ástæða til að gera ráð fyrir að síma- og tölvufyrirtækin viti hvað neytendur vilja og hvað kemur þeim best? Er hægt að láta þau um að stjórna þróuninni? Á ekki almenningur að láta í sér heyra um þessi mál?

Auðvitað er ég ekki á móti upplýsingabyltingunni, en með framansögðu er ég bara að leggja áherslu á hve auðvelt er að gagnrýna ýmsa þætti hennar og það er engan vegin ljóst, að allt sem gert er í nafni hennar, verði til góðs.

Reynum alltaf að sýna fram á hvaða gagn má hafa af nýjungunum og dettum ekki í þá gryfju að lofsynja breytingar breytinganna vegna. Vörum okkur líka á því að það eru miklir hagsmunir sem geta legið í því að draga úr frelsinu sem nú ríkir á Internetinu og ýmsir aðilar svo sem stjórnvöld og stórfyrirtæki bíða eftir tækifæri til að leggja það undir sig. Og þetta vil ég undirstrika. Það er enginn vafi í mínum huga á því, að áður en langt um líður verða stjórnvöld og stórfyrirtæki farin að reyna að segja okkur hvað má og hvað má ekki á Internetinu.

Margir sem vanist hafa Internetinu í háskóla halda að það kosti ekki neitt. Það er að vísu erfitt að fullyrða um hvert er sannvirði þeirrar þjónustu sem Internet býður upp á, meðal annars vegna þess að þjónustan er svo fjölbreytt og ýmsa hluta kerfisins styrkja opinberir aðilar.

Við megum heldur ekki láta okkur koma á óvart þó þeir aðilar sem styrkja Netið vilji hafa hönd í bagga varðandi þróun þess. Samt skulum við aldrei sætta okkur mótmælalaust við að frelsi þess verði frá okkur tekið, en það má búast við einhverjum takmörkunum.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfilrit.


TUTTUGUFÖLD HRAÐAAUKNING

Eins og allir tölvuáhugamenn vita er verið að leggja ljósleiðara yfir Atlantshafið og til Íslands. Gert er ráð fyrir því að fyrstu samböndin verði tengd í nóvember næstkomandi.

Eins og nú er fara öll tölvusamskipti við útlönd fram um gervihnetti. Ef við lítum bara á vegalengdirnar sem þessi merki fara sést strax að mikill hagnaður er að því, fyrir þá sem mikið hafa saman við útlendar tölvur að sælda, að fá þau niður á jörðina. T.d. þekkja allir þeir sem prófað hafa að tefla á útlendu skákserverunum "lag-ið" sem þar er oftast. Gerfihnettirnir eru það hátt á lofti að vegalengdir til útlanda eru aldrei undir 72000 kílómetrum þegar farið er um þá.

Í Gagnalínunni, fréttabréfi Pósts og síma um tölvusamskipti segir: "Á samböndum til útlanda bætist við að töf eða seinkun (við tilkomu ljósleiðarans) er mun minni. Þetta þýðir að öll tölvusamskipti sem krefjast einhverskonar staðfestingar á viðtöku frá fjarenda ganga mun hraðar fyrir sig, enda styttist leiðin rúmlega tuttugufalt. Gervihnettir eru venjulega í um 36.000 kílómetra hæð sem þýðir að heildarleiðin frá til dæmis Íslandi til Danmerkur er um 72.000 kílómetar. Því er seinkun um 0,25 sekúndur hvora leið. En leiðin um ljósleiðarann er um 2.000 kílómetrar, sem þýðir að seinkunin er aðeins tæplega 0,01 sekúnda."

Auk hraðaaukningarinnar bætir tilkoma ljósleiðarans mjög sambandið, svo villum á að fækka og flutningsgeta eykst einnig mikið. Það verður síðan væntanlega til þess að við Internetfíklar getum vænst þess að fá allar alt. ráðstefnurnar til viðbótar við þær ráðstefnur sem hingað til hafa komið og þurfum við þá ekki lengur að vera að flækjast út um allan heim í leit að Gopherum sem hægt er að tengjast og eru með safn af ráðstefnum. Oftast nær verður nefnilega fljótt svo mikil aðsókn að slíkum Gopherum að það er ekki hægt að ná sambandi við þá nema endrum og eins.

Ég hef lengi efast um, að það sé rétt stefna að taka ekki heim allar ráðstefnurnar, því það hlýtur að hafa einhver áhrif á heildarflutningsgetuna ef fjöldi manna þarf að eyða mörgum klukkutímum í að leita að því út um allan heim sem hægt væri að sækja á tölvur innanlands á nokkrum sekúndum. En Póstur og Sími græða að sjálfsögðu á því.

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


Blöð og tímarit á interneti

Eitt af því skemmtilegasta sem er að finna á Internetinu eru alls kyns tímarit og fréttabréf um hin fjölbreytilegustu málefni. Mörg þeirra eru prýðilega skrifuð og gefa rándýrum blöðum sem keypt eru í verslunum lítið eftir, nema þá helst að myndirnar vantar.

John M. Higgins hefur tekið saman lista yfir nokkur ágætis tímarit sem hægt er fá fyrir ekki neitt á Netinu. Hér fer á eftir úrdráttur úr þessum lista.

Höfundurinn kallar lista þennan NET-LETTER GUIDE og í honum er aðeins getið um tímarit sem eru almenns eðlis og vönduð að allri gerð. Sleppt er að minnast á hinn mikla fjölda tæknirita sem aðeins eru í rauninni fyrir innvígða.

Blöð um fjölmiðlun

FITZ'S SHOPTALK: Daglegar fréttir um Sjónvarpsmál, bæði á landsvísu og staðbundnar (Bandaríkin). Úrdráttur úr fréttum helstu fréttastofa og stundum eru birtar lengri frásagnir. Sendið beiðni um áskrift til: shoptalk-request@gremlin.clark.net, SUBSCRIBE YOUR@ADDRESS.

LATE SHOW NEWS: Náungi einn í Chicago sem augljóslega vakir of lengi frameftir gefur út þetta vikublað um það sem gerist í stríði viðtalsþáttanna (late-night talk show). Hann er aðdáandi Lettermans en birtir þó furðu góðar kjaftasögur um hina og þessa. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@mcs.net; SUBSCRIBE LATE-SHOW-NEWS. Einnig að finna á Usenet ráðstefnunum "alt.fan.letterman og "rec.arts.tv". Hægt að ftp-a frá: ftp.mcs.net:/mcsnet.users/barnhart/letterman. WWW http://www.cen.uiuc.edu/jl8287/late.news.html.

BONG: Opinbert fréttabréf "Burned-Out Newspapercreatures Guild" sem virðist vera einhver fyndinn og kaldhæðinn blaðamaður. við Dayton Daily News. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@netcom.com; SUBSCRIBE BONG-L YOUR NAME.

ARTNEWS: Frásagnir af umfjöllun prentmiðla um listaheiminn, safnara söfn, listamenn og listir og stjórnvöld. Lítur vel út en hefur átt í ýmsum byrjunarörðugleikum. Beiðni um áskrift sendist til: artnews-request@arttrak.metronet.com; SUBSCRIBE.

CABLE REGULATION DIGEST: Vikuleg samantekt um reglur og reglugerðir um kapalsjónvarp gefið út af Multichannel News. Sendið beiðni um áskrift til: listserver@relay.adp.wisc.edu, SUBSCRIBE TELECOMREG YOUR NAME. Hægt að ftp-a frá: ftp.vortex.com:pub/tv-film-video/cable-reg Einnig hægt að nálgast á Gopher (gopher.vortex.com)

CYBER-SLEAZE: Yfirdrifið og heldur leiðinlegt. Mestmegnis lágkúrulegt slúður og er gefið úr af Adam Curry, áður hjá MTV. Sendið beiðni um áskrift til: sleaze@metaverse.com.

Blöð um upplýsingatækni

EDUPAGE: Ágætis fréttabréf um upplýsingatækni og fjölmiðlun gefið út þrisvar í viku. Stuttir úrdrættir aðallega úr blaðagreinum. Mjög gott blað. Sendið beiðni um áskrift til listproc@educom.edu; SUB EDUPAGE YOUR NAME.

CYBERWIRE DISPATCH: Vönduð umfjöllun um Internet og netheima. Ritstjóri er Brock Meeks (blaðamaður við Communications Daily) en hann varð frægur þegar honum var stefnt fyrir meiðyrði af keðjubréfasmið ("make.money.fast"-type). Sendið beiðni um áskrift til: majordomo@cyberwerks.com; SUBSCRIBE CWD-L YOUR@ADDRESS. Einnig hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunni comp.society.privacy og á Gopher (cyberwerks.com)

NSF NETWORK NEWS: Kemur út annan hvern mánuð og fjallar um allt sem snertir Netið. Talsvert tæknilegt, en í einu tölublaði var gott yfirlit yfir væntanlega löggjöf um símamál. Hægt að nálgast á Gopher (is.internic.net: About InterNIC Information Services/NSF Network News) og á WWW (http://www.internic. net/newsletter)

META MAGAZINE: Mánaðarrit sem fjallar einkum um Netmálefni. Ekki slæmt, en mætti vera efnismeira. Sjálfsagt að prófa fyrir þá sem geta náð í það, en því er eingöngu dreift um: WWW ftp://ftp.netcom.com/pub/ mlinksva/meta.html

BITS AND BYTES: Ágætis tölvublað. Eitt og annað smálegt um tölvur. Hvernig stendur annars á því að svona mörg blöð taka efni úr Edupage? Svolítið í lengra lagi. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@acad1.dana.edu; SUBSCRIBE BITS-N-BYTES Einnig hægt að ftp-a frá ftp.dana.edu: /periodic og nálgast á Gopher (gopher.dana.edu: Electronic Journals).

THE NETWORK OBSERVER: Mánaðarrit með umfjöllun um Netið. Langdregið. Sendið beiðni um áskrift til: rre-request@weber.ucsd.edu; Subject: SUBSCRIBE YOUR NAME.

NETWORKS & COMMUNITY: Áherslan er á "samfélginu" í Internet-landi. Ekki eins tæknilegt og ætla mætti. Of mikið vitnað í aðrar net-útgáfur eins og Edupage. Sendið beiðni um áskrift til: cvington@netcom.com SUBSCRIBE YOUR NAME. Einnig hægt að nálgast á Gopher (gopher.well.sf.ca.us eða gopher.nlc-bnc.ca).

COM NET NEWS: Nýtt blað um samfélagslega netnotkun og aðgang almennings að Upplýsingaþjóðveginum. Gefið út af manni sem fæst við markaðsrannsóknir. Ekki mikið um fréttir, en vel skrifað. Sendið beiðni um áskrift til: rbryant@hydra.unm.edu.

PRIVACY FORUM: Sagt frá ýmsu sem ógnar einkalífi fólks frá ýmsum aðilum allt frá stjórnvöldum til greiðslukortafyrirtækja. Góðar greinar. Sendið beiðni um áskrift til: privacy-request@vortex.com. Einnig hægt að ftp-a frá ftp.vortex.com og nálgast á Gopher (gopher.vortex.com).

COMPUTER PRIVACY DIGEST: Meira um einkalífið, en einskorðar sig við tölvur. Vikublað. Sendið beiðnir um áskrift til: comp-privacy-request@uwm.edu Einnig á Usenet ráðstefnunni comp.society.privacy og hægt að ftp-a frá ftp.cs.uwm.edu og nálgast á Gopher (gopher.cs.uwm.edu).

COMPUTER UNDERGROUND DIGEST: Nýjustu fréttirnar um Netheima-mál. Blaðið er best þegar það hefur hátt um síðustu BBS hreinsunina og gott þegar það rífur í sig stefnuskrár stjórnvalda. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@vmd.cso.uiuc.edu, SUB CUDIGEST YOUR NAME. Einnig á Usenet ráðstefnunni comp.society.cu-digest og hægt að ftp-a frá etext.archive.umich.edu: /pub/CuD/ eða ftp.eff.org: pub/Publications/CuD).

EFFECTOR: Félagsblað meðlima í The Electronic Frontier Foundation (EFF). Prýðileg umfjöllun um símamál. Sendið beiðni um áskrift til: brown@eff.org; Einnig á Usenet ráðstefnunni comp.org.eff og á Gopher (gopher.eff.org) og hæt að ftp-a frá ftp.eff.org.

RISKS FORUM: Ýmislegt um þær hættur sem stafað geta af tölvum. Í einu tbl. var fjallað um iðnaðarnjósnir, gagnaflótta úr fangelsum og undarleg saga um eltingarleik gegnum rafpóst. Sendið beiðni um áskrift til: risks-request@csl.sri.com Einnig á Usenet ráðstefnunni comp.risks og hægt að ftp-a frá crvax.sri.com.

CURRENT CITES: Mánaðarrit um bókasafnstækni. Sagt frá greinum í tímaritum. Þurrlegt. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@library.berkeley.edu; SUB CITES YOUR NAME); Einnig hægt að ftp-a frá ftp.lib.berkeley.edu: /pub/Current.Cites).

HOTT: (Hot Off The Tree) Blaðið byrjaði að koma út aftur nýlega. Góðar greinar um nýjustu tölvutækni, tölvusamskipti og rafeindatækni almennt. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@ucsd.edu; SUBSCRIBE YOUR@ADDRESS HOTT-LIST. p Blöð um stefnumál (policy)

LEGAL BYTES: Vandað rit um lögfræðileg efni sem varða tölvumál. Gallinn er sá að það kemur bara út fjórum sinnum á ári og þess vegna er ekki hægt að búast við nýjustu fréttum. Langt. Sendið beiðni um áskrift til: gdf@well.sf.ca.us.

RACHEL'S HAZARDOUS WASTE NEWS: Ágætt en dálítið langdregið vikurit frá Umhverfisrannsóknarstofnuninni (Environmental Research Foundation). Gárungarnir segja að RACHEL sé skammstöfun fyrir Random Access Chemical Hazards Electronic Library. Sendið beiðni um áskrift til: erf@igc.apc.org og tilgreinið nafn, símanúmer og heimilisfang og rafpóstfang. Vafalaust verður reynt að sníkja peninga seinna. Hægt að ftp-a frá ftp.std.com: /periodicals/rachel og nálgast á Gopher (gopher.std.com)

DAILY REPORT CARD: Ágætur úrdráttur úr fréttum um skólastarf. Kemur út þrisvar í viku. (þrátt fyrir nafnið) Gefið út af "the National Education Goals Panel". Sendið beiðni um áskrift til: listserv@gwuvm.gwu.edu; SUBSCRIBE RPTCRD YOUR NAME).

EDUCATION POLICY DIGEST: Um stefnumörkun í skólastarfi. Einkum fyrir kennara. Sendið beiðni um áskrift til: listproc@scholastic.com; SUBSCRIBE EDPOL-D YOUR NAME.

CHOICE-NET REPORT: Þetta vikublað (sort of) er gefið út af "the California Abortion and Reproductive Rights Action League-North". (Aðgerðahópur Kaliforníu um réttinn til fjölgunar og fóstureyðinga). Úrklippur, auglýsingar og fréttir. Lítið um predikanir. Sendið beiðni um áskrift til: dtv@well.com; SUBSCRIBE CHOICE-NET. Hægt að nálgast á Gopher (gopher.well.sf.ca.us) og á Usenet ráðstefnunum alt.activism, talk.abortion og soc.women.

INFORMATION POLICY ONLINE: Í andstöðu við þá sem berjast fyrir auknu frelsi á Netinu. Blaðið er gefið út af "Information Industry Association" og fjallar um löggjöf varðandi takmarkanir stjórnvalda á dreifingu upplýsinga. Ágætt innlegg í einkamálaumræðuna sem oft er talsvert einhliða. Sendið beiðni um áskrift til: iiaipo-request@his.com; SUBSCRIBE YOUR NAME.

NAVNEWS: Fréttabréf frá bandaríska sjóhernum. Ýmsar fréttir sniðnar til og hreinsaðar fyrir sjóliðana. Eitt tölublaðið fjallaði um mögulega 2,6 % launahækkun, þjálfunaráætlun fyrir sjóliða til að geta orðið aðmírálar og sagt frá því þegar loksins voru settir tíkallasímar í fyrsta herskipið. Sendið beiðni um áskrift til: navnews@opnav-emh.navy.mil; SUBSCRIBE YOUR@ADDRESS. Einnig hægt að nálgast á Gopher (marvel.loc.gov; Government Information/Federal Information Resources /Information by Agency/Military Agencies).

Tímarit um viðskipti og fjármál

WEEKLY FUTURES MARKET: Ágætis vikublað um verðbréfa og gengismál. Meira um fréttir en áskoranir og leiðbeiningar um kaup. Gefið út af ráðgjafa um verðbréfamál í Taipei. Sendið beiðni um áskrift til: cyhuang@tpts1.seed.net.tw.

TRADE WEEK: Úrval af blaðagreinum og frásögnum um alþjóðaverslun. Fjallar einnig um NAFTA. Gefið út af "the Institute for Agriculture and Trade Policy". Sendið beiðni um áskrift til: kmander@igc.apc.org; SUBSCRIBE TRADE-WEEK YOUR@ADDRESS.

Tímarit um læknisfræði og önnur vísindi

PHYSICS NEWS UPDATE: Fréttabréf um Eðlisfræði. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@aip.org; SUBSCRIB YOUR NAME.

WHAT'S NEW: Fréttir einkum um hvert opinberir rannsóknastyrkir fara. Tekið saman af "The American Physical Society". Sendið beiðni um áskrift til: whatsnew@apsedoff.bitnet

PATENT NEWS SERVICE: Fréttabréf um einkaleyfi. Sendið beiðni um áskrift til: patents@world.std.com; HELP.

AIDS DAILY SUMMARY: Ágætis úrklippuþjónusta frá "the Center for Disease Control". Blað sem Internet-aðdáendur vilja oft sýna öðrum, því það fjallar um efni sem snertir alla, en er ekki bara eitthvert innanfélagsblað úr Netheimum. Sendið beiðni um áskrift til: ben@maggadu.queernet.org; SUBSCRIBE DAILY SUMMARY YOUR@ADDRESS. Einnig hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunnni sci.med.aids.

AIDS INFORMATION NEWSLETTER: Langt og tæknilegt hálfsmánaðarrit gefið út af "the U.S. Department of Veterans Affairs AIDS Information Center í San Fransisco. Þekkt á Usenet undir nafninu VAMC fréttabréfið. Vandað blað. Hægt að nálgast á Gopher (gopher.niaid.nih.gov; VA AIDS Information Newsletter og á Usenet ráðstefnunni sci.med.aids.

HICNet MEDICAL NEWS DIGEST: Sársaukalaust frá tannlækni! Yfirgripsmikið hálfsmánaðarrit um læknisfræði frá "Health Info-Com Network" sett saman af tannlækninum David Dodell. Mikið af ráðstefnukynningum. Sendið beiðni um áskrift til: mednews@stat.com. Einnig hægt að ftp-a frá vm1.nodak.edu.

RSI NETWORK NEWSLETTER: Um og fyrir þá sem þjást af álagsmeiðslum (repetitive stress injury) eins og t.d. sinaskeiðabólgu. Sendið beiðni um áskrift til: majordomo@world.std.com; SUBSCRIBE RSI. Hægt að ftp-a og nálgast á gopher frá world.std.com:/pub/rsi.

CFS-NEWS: Fyrir þá sem þjást af síþreytu. (Chronic fatigue syndrome) Sendið beiðni um áskrift til: listserv@list.nih.gov; SUB CFS-NEWS YOUR NAME.

LYMENET: Þetta blað fjallar um rannsóknir og meðferð á hinum dularfulla sjúkdómi sem nefndur hefur verið Lyme. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@Lehigh.edu; SUBSCRIBE LYMENET-L YOUR NAME. Hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunni sci.med og ftp-a frá ftp.Lehigh.edu: /pub/listserv/lymenet-l/Newsletters.

NASA DAILY: Fréttir um NASA og geimferðir almennt. Sendið beiðni um áskrift til: pds-listserver@space.mit.edu; SUBSCRIBE YOUR NAME. Hægt að nálgast á Gopher (world.std.com:News) og WWW (http://delcano.mit.edu/

Erlendar fréttir (miðað við Bandaríkin)

ASIAINFO HEADLINE DAILY NEWS: Birtir daglega 30-40 fyrirsagnir frá Asíu og 3-5 stuttar greinar. Ætlað til þess að fá fólk til að gerast borgandi áskrifendur að stóru fréttablaði. Ókeypis útgáfan er ágæt sem sýnishorn en ekkert sérstök sem fréttabréf. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@asiainfo.com; SUB HEADLINE Your Name

RFE/RL DAILY REPORT: Fréttir frá Austur Evrópu frá Radio Free Europe/ Radio Liberty. Ágætis blað en ansi stórt. Sendið beiðni um áskrift til: listserv@ubvm.cc.buffalo.edu; SUBSCRIBE RFERL-L YOUR NAME.

CHINA NEWS DIGEST: Ágætis fréttaþjónusta frá Kína. Gefið út í mismunandi útgáfum. Heimurinn (daglega) Bandaríkin, Kanada, Evrópa og Kyrrahafið. Sendið beiðni um áskrift til: cnd-info@cnd.org; INFO.

Blöð um gervihnattasjónvarp

SKYGUIDE: Þetta mánaðarrit er frá Breta sem áreiðanlega horfir alltof mikið á sjónvarp. Um kapalsjónvarp og gervihnattasjónvarp í Evrópu. Einkum um BSkyB en fjallar lítillega um fleiri stöðvar. Sendið beiðni um áskrift til: bignoise@cix.compulink.co.uk; SUBSCRIBE SKYGUIDE OUR@ADDRESS. Einnig hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunni alt.satellite.tv.europe.

SATNEWS: Hálfsmánaðarblað um gervihnattasjónvarp um allan heim. Sendið beiðni um áskrift til: satnews-request@mrrl.lut.ac.uk; SUBSCRIBE YOUR-NAME. Einnig á Usenet ráðstefnunni rec.video.satellite.

SATELLITE JOURNAL INTERNATIONAL: Í einu tölublaðinu var fyrir utan venjulegar gervihnattafréttir sagt frá tilskipun frá klerkunum í Íran um bann við gervihnattadiskum og hvernig Pakistanir komast fram hjá ritskoðun stjórnvalda á sjónvarpi frá fegurðarsamkeppni. Hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunni rec.video.satellite og ftp-a frá itre.uncecs.edu:/pub/satellite/sj og á WWW (http://itre.uncecs.edu /misc/sj/sj.html).

TELE SATELLIT: Ensk þýðing á þýsku gervihnattablaði. Hægt að nálgast á Usenet ráðstefnunni alt.satellite.tv.europe.

SATELLITE NEWS DESK: Enn eitt blaðið um gervihnattasjónvarp. Það merkilega er að þau eru öll frekar vönduð. Fréttir úr breska fréttablaðinu Transponder. Sendið beiðni um áskrift til: editor@trponder.win-uk.net.

Óflokkanlegt

THIS JUST IN: Skemmtilegt safn af óvenjulegum fréttum. Í einu tbl. var sagt frá manni í New York sem var sektaður fyrir ónauðsynlegt dráp á dýri - og dýrið var rotta! Líka er sagt frá táningi í Venezuela sem þurfti að fara á afvikinn stað til að sinna kalli náttúrunnar, en fór inn í ljónabúr. "Perez reyndi bæði að bjarga lífinu og hysja upp um sig buxurnar; vinur hans hjálpaði honum með því að taka múrstein og kasta í ljónið, en hvaðan kom múrsteinninn??" Sendið beiðni um áskrift til: listserv@netcom.com; SUBSCRIBE THIS-JUST-IN

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.


ÓDÝR SÍMAÞJÓNUSTA

Fyrirtækið Spectrum Online í Los Angeles í Bandaríkjunum tilkynnti um daginn að það ætlaði að bjóða upp á ýmsa þjónustu ókeypis fyrir alla þá sem eiga tónvalssíma.

Þeir sem hringja geta hlustað á persónulegar smáauglýsingar víða að, tekið þátt í umræðum í ýmsum hópum og sent skilaboð til ýmissa BBS-kerfa sem byggja á hljóði. Einnig verður hægt að taka þátt í alls kyns spurningaleikjum og samkeppnisleikjum og afbrigði af spilinu 21 sem hefur verið aðlagað að tónvalssímum.

Eftir því sem talsmaður fyrirtækisins segir er þjónustan sniðin eftir vinsælum BBS-kerfum sem tengd eru Interneti, nema hvað ekki þarf að hafa yfir tölvu að ráða til að geta nýtt sér þjónustuna. Allir sem hafa tónvalssíma geta nú ferðast um Upplýsingaþjóðveginn, sagði talsmaðurinn.

Forstjóri Spectrum Online, Richard De A'Morelli er frumkvöðull margra þeirra hluta sem hægt er að gera með tónvalssíma. Hann gerði fyrstu stefnumótsforritin uppúr 1980 og hann gerði verðlaunafræðsluforrit eins og "Tónvals-skólabekkinn", sem gerir nemendum kleyft að fá upplýsingar um heimanám, einkunnir, og skýrslur um mætingar hvenær sem er sólarhringsins. Nemendurnir geta einnig notað símann til að taka þátt í umræðum í bekknum, hlusta á upptökur af fyrirlestrum, vinna að verkefnum og taka próf.

Um þessar mundir eru forritarar fyrirtækisins einmitt að vinna að ýmsum atriðum sem snerta viðskiptaleg forrit eins og talaðar smáauglýsingar, en einnig er unnið að ýmiss konar fræðsluþjónustu.

Við erum að þróa forrit sem hjálpa nemendum sem verða að vera heima að læra, enskukennslu fyrir nemendur sem eiga ensku ekki að móðurmáli og fjölmörg önnur forrit, en vandamálið er fjármögnun, sagði De A'Morelli.

Hugbúnaðurinn sem stjórnar þessum kerfum hefur verið í þróun í sex ár, upphaflega var þetta aðeins fyrir eina línu í einu og ekki nema fáeinir áskrifendur. Þróunarkostnaðurinn er kominn í 75.000 dali og mest af því hefur komið frá De A'Morelli.

TILKYNNT UM ÓKEYPIS ÞJÓNUSTU

Í sögulegum aðskilnaði frá þeim sem bjóða þjónustu af þessu tagi á þeim grundvelli að greitt sé fyrir hvert einstakt símtal, hefur fyrirtækið Spectrum Online nú tilkynnt að þjónusta þess sé ókeypis fyrir allan almenning. Þeir sem hringja verða að gefa upp nafn sitt og heimilisfang og þeir fá ókeypis pósthólf fyrir hljóðskilaboð og 30 mínútna tengitíma á mánuði án þess að greiða nokkuð fyrir það.

Þeir sem vilja meiri tengitíma geta gerst áskrifendur. Fyrir tæpa 10 dali á mánuði fá notendur 2 klukkutíma tengingu og ýmsa aðra þjónustu. Viðbótartími kostar 5 sent á mínútuna.

De A'Morelli viðurkennir að þessi ákvörðun fyrirtækisins muni áreiðanlega valda miklum titringi hjá samkeppnisaðilunum þar sem venjulegt gjald er 4 dalir á mínútu fyrir samsvarandi þjónustu.

Á síðasta ári eyddu Bandaríkjamenn samtals 700 milljónum dala í stefnumótalínur og aðra símatorgsþjónustu.

Fyrirtækið afgreiðir um þessar mundir meira en 3000 símtöl á dag. Þeir sem vilja sækja um ókeypis skráningu hjá fyrirtækinu geta sent beiðni til Spectrum Online: spectrum@kaiwan.com

Sæmundur Bjarnason

Til baka í efnisyfirlit.