BRYNJÓLFUR  BISKUP  SVEINSSON

eftir Torfhildi Þ. Hólm
Inngangur

Þingvöllur, þessi fagri, ógleymanlegi endurminningastaður allra Íslendinga, þessi samkomustaður vitsmuna og hreysti fornaldarinnar, en undrunar- og uppgötvunarstaður seinni tíma - frá hve mörgum atburðum, sem nú eru fallnir í gleymsku, mundi hann ekki geta sagt, hversu mörgum nýlundum úr fornöldinni mundu ekki Almannagjár-vættir geta brugðið upp fyrir sjónum hins forvitna ferðamanns, er hann í þegjandi undrun þræðir götuna milli hinna hátignarlegu, en voðalegu hamragarða Almannagjár og nemur staðar, seiddur af einhverju ókenndu afli, við rústir gömlu Snorrabúðar og litast um? En sjá! Þar er ekkert orðið eftir af hinni fornu rausn og stórmennsku, ekki tangur né tötur. Til vinstri handar blasa við rústir, sem fyrir löngu eru moldu og grjóti orpnar. Þar var Grýta Snorra Sturlusonar, búðir Þorgeirs Ljósvetningagoða, Hjalta Skeggjasonar, Þorgeirs Flatnefs og Vígaskútu. Til hægri handar mótar óljóst fyrir Hlaðbúð, og hér og hvar mæta auganu mosa og grasi grónar rústir, er sýna aðeins litlar menjar þess, að einhver mannleg, en þó sterk hönd hafi fjallað um þær. Þessi þögulu, mosavöxnu, jarðföstu björg hafa betur geymt minningu feðra vorra gegn eyðingu tímans, en vanþakklátir niðjar þeirra. Þau hrópa jafnan eins hátt og sjálf Öxará til ferðamannsins, svolátandi: "Hér hafa kappar dvalið, hér eru gömul heimkynni vitsmuna og hreysti". Við þetta þögula mál rústanna hefur ferðamaðurinn upp höfuð sitt og litast um, en alls staðar ríkir hin sama gleymska og eyðilegging, niðri á hinum fornu, fögru völlum, þar sem lögréttan fyrr stóð, svo tignarleg og þýðingarmikil, og grúi hlaðbúða og virkisbúða umhverfis, þar er nú dauða-auðn ein. Hinar fornhelgu stöðvar, þar sem fyrrum voru lög sögð og dómþing háð, eru nú sundurtroðnar af hesta-, sauða- og mannafótum, og hamingjudísir horfinna göfugmenna hnípa yfir rústunum í djúpri sorg. Þær halda samkomur sínar á mánaskærum nóttum, þar sem lögréttan fyrrum stóð, og syrgja, sem goðin forðum Baldur sinn, og hinar þögulu, svipmiklu gjár, hið eldsteypta hraun og jafnvel hin herðabreiða Skjaldbreið, móðir allra þessara náttúrubýsna, eru reiðubúin til að gráta Baldur sinn úr helju, hinn forna, fagra, fræga Þingvöll, einungis að þær fái vakið hina sofandi kynslóð til að veita í verkinu þessum frægðarstað fornaldarinnar verðuga viðurkenning og prýði.

Margar aldir eru liðnar síðan, að kapparnir reistu hér tjöld sín og búðir. Aldirnar hafa nú sameinað sig allsherjar tímabilinu. Þær líða þegjandi leiðar sinnar, yfir skarkala, rangsleitni, stórmennsku og eymd mannanna. En að lokum komast allir heim. Þær eru komnar til náða. Aldarháttur fyrri tíma, hinn óþreytandi, framsækjandi kraftur, er stundum knúði til veglegustu göfugverka, stundum til hryðjulegustu vígaferla, er fyrir löngu lagztur í dá. Hin fögru musteri andans, er þá eins og nú hýstu bæði göfugar og afvegaleiddar sálir, eru nú einn hluti af þeirri jörð, er vér, afkomendurnir, göngum á með svo óhultum fótaburði, eins og dauði og eyðilegging hefðu kvatt heiminn með hinni fyrri kynslóð.

En fyrst gleymskan er ein af plágum og ásteytingarsteinum mannlífsins, þá muntu, undrandi ferðamaður, feginsamlega renna augum þínum í skuggsjá þá, sem Þingvalla-vættir bregða fyrir augu þér. Þær eru nú á heimleið frá hryggðarhátíð sinni við lögréttu, og þú ert svo heppinn að verða á vegi þeirra.

Sjá, í austri rennur upp sólin í allri sinni geisladýrð, sem vaninn aldrei getur rýrt aðdáun vora fyrir. Máninn læðist, bleikur og feiminn, fyrir birtu hennar bak við gráhvítt þokuský. Sjáðu, hversu hún skín blíðlega á gamla Lögberg, sjáðu, hversu skuggarnir virðast hoppa af einni gjá á aðra, og geislarnir fæðast og deyja, hver í annars fangi, sjáðu, hversu daggardroparnir hanga ennþá glitrandi á hverju strái, og hversu þeir hægt og hægt hverfa fyrir geislum hennar. Líttu líka fram til Skjaldbreiðar. Hversu hátignarlega gnæfir ekki í dag höfuð hennar ísperlum skreytt yfir gamla Þingvöll? Situr hún ekki þarna, óbreytt frá í fornöld, eins og verndarvættur hans? Jú, hún veit vel, að þessar geigvænlegu gjár og háu hamrar, sem hafa verið skjöldur hans, sverð og vegsemd um aldur og ævi, er hennar eigið, storkið hjartablóð. En snúðu þér, maður, frá þessari gömlu, svipmiklu mynd, og horfðu á Þingvöll eins og hann er í dag. Taktu vel eftir öllu því, er vættirnir sýna og segja þér. Þær hafa sjálfar séð alla viðburðina, þær benda þér austur að Hrafnagjá, og þar eð óvíst er, að þessi sjón mæti þér oftar en einu sinni, þá notaðu vel augu og eyru.


1. kafli

Það er árið 1638, að eftirfylgjandi saga hefur upptök sín. Eins og þegar hefur verið getið, var sólin nýrunnin upp á himinhvolfið og gekk að vanda ofurrólega leiðar sinnar. Hún fór engu óðslegar en vant var, þó að hvarvetna mætti auganu ys og þys niðri á völlunum. Á hverju andliti hvíldi alvara, sorg eða forvitni. Brúin nötraði undir manngrúanum, sem kom og fór ýmist upp Almannagjá eða yfir á vellina. Sumir klifruðu upp á búðarveggina, til að ná sem beztu víðsýni. Hurðirnar á Þingmannakirkjunni stóðu galopnar, en allir voru ekki komnir út enn. Hljómur klukknanna var ekki gjörsamlega útdauður, ómur þeirra dunaði feigðarlega í hömrunum og gjánum. Það var auðséð, að einhver sorgarathöfn var nýlega afstaðin. Hér og hvar blöstu við fánar, gammstrjónur eða önnur viðhafnarmerki. Er það skrúðganga sólarinnar þennan morgun, sem svo mjög hrífur hugi manna? Nei, engan veginn, hún hefur svo oft runnið upp í sömu sigurdýrð sem nú, hún hefur svo oft gyllt þessa snjógyrtu fjallstoppa, fléttað þetta svipmikla og fagra hérað inn í upprennandi og deyjandi geisla sína. Enda mátti glöggt sjá, að hér var engin gleði á ferðum.

Spölkorn fyrir austan Lögréttu hillir undir ríðandi mann. Hann er tignarlegur á svip, með mikið, rautt skegg, svo að nálega hylur alla bringuna. Hestur hans er grár að lit, stór og föngulegur, og kann víst vel að bera fæturna, því að maðurinn verður að beita við hann valdi til að halda honum aftur, enda er nú of fjölmennt við veginn til að láta spretta úr spori.

Maðurinn kom nær. Manngrúinn heilsaði honum með miklum virktum, en hann sýndist varla taka eftir þeim virðingaratlotum, sem honum voru sýnd, svo var hann niðursokkinn í eitthvað, er hann var að hugsa um. Síðan staldraði hann stundarkorn við, litaðist um og sagði við mann einn, er stóð og talaði við kunningja sinn úti fyrir dyrum á búð einni við veginn: "Ríddu á undan mér í Almannagjá, og bíddu mín þar. Ég þarf að finna mann hérna í tjaldinu og kem svo bráðum." Eftir það hélt komumaður að tjaldi einu spölkorn í burtu, steig af baki og gekk inn.

"Hver er þessi maður?" spurðu nú nokkrir af þeim, er viðstaddir voru, fylgdarmanninn.

"Það er hann Brynjólfur Sveinsson. Þekkið þið hann ekki?" svaraði fylgdarmaðurinn.

"Jú, jú, öldungis rétt, biskupsefnið okkar," lögðu nú nokkrir til. "Jú, það er svo, það er hann, hvað hann er þá orðinn umbreyttur! En hann ætlar að sigla héðan alfarinn í haust," sagði nú einn aðkomumaður. "Ég heyrði hann sjálfan segja það Árna lögmanni í tjaldi hans um daginn. Hann kvaðst einungis vera að taka arfa sína og ætla í síðasta sinn að kveðja vini og fósturjörð og ferðast erlendis, svo að þá verður varla af því, að hann verði biskup í Skálholti."

"Ætlar þú að fylgja Brynjólfi langt?" kölluðu nú nokkrir til fylgdarmannsins.

"Það er helzt í orði, að ég fylgi honum að Hítardal," svaraði maðurinn, og hann eins og rankaði við því, sem honum hafði verið boðið, kvaddi kunningja sína í snatri, steig á bak og hélt með lausu hestana í taumi upp í gjána. Þá var að sönnu aðalvegurinn neðan undir neðra gjábarminum, en gjáin sjaldnar riðin, en sá vegur var skemmri og víðsýni fagurt, er upp úr henni kom.

Brynjólfur Sveinsson, svo nefnum vér manninn, gekk inn í tjald Halldórs lögmanns Ólafssonar, Það var stórt, bjart og rúmgott og á allan hátt fagurlega búið eftir þeirrar aldar sið. Lögmaður lá í lokrekkju eða einhverju því líku öðrum megin veggjar. Fagurlega útsaumuð tjöld huldu nálega allan hvílustaðinn, og var að sjá sem hringar þeirra léku á járn- eða látúnsásum. Ofurlítið borð stóð frammi fyrir hvílunni, og lá á því Guðbrandarbiblía opin, með uppslegnum þessum orðum Símeons: "Drottinn, lát þú nú þjón þinn í friði fara". Sjúklingurinn, sem heyrt hafði fótatakið, ýtti rúmtjaldinu hægt til hliðar og rétti aðkomumanni vingjarnlega höndina, sem var bleik og skjálfandi, til að bjóða hann velkominn. Á andlitsdráttunum, yfirlitnum og depru augnanna gat hver glöggskyggn maður séð, að sjúklingurinn átti ekki langt eftir ólifað, því að dauðinn setur það innsigli á herfang sitt, sem sjaldan er hægt að villast á.

"Þér hafið þá ekki fylgt líki biskups vors alla leið," sagði lögmaður og reis ofurlítið upp.

"Ég reið með líkfylgdinni austur að Hrafnagjá," svaraði Brynjólfur, "en ég verð að hafa hraðann við, af því að ég á eftir að kveðja svo marga vini og vandamenn. Ég mátti því ekki vera að fara lengra, því að ég get til, að jarðarför slíks höfðingja verði fjölmenn og taki langan tíma."

"Á því er enginn efi," sagði lögmaður. "Þér munuð þá staðráðinn í að sigla?"

"Já," svarar Brynjólfur.

"Þér vitjið þó von bráðar aftur fósturjarðarinnar, hugsa ég, því að mér heyrðist á allmörgum, sem um það mál ræddu, að þér munduð standa næst biskupsembættinu. Og jafnvel á meðan herra Gísli lifði, sem jafnan var heilsutæpur, heyrði ég yður tilnefndan sem sjálfsagðan eftirmann hans."

"Það má vel vera, herra lögmaður, að nokkrir hafi hugsað svo, en ég verð hér aldrei biskup, til þess finn ég enga innri köllun hjá mér, og svo hef ég í huga mínum valið mér aðra stöðu geðfelldari mér."

"En fósturjörðin þarfnast þjónustu yðar, ungi herra," svaraði lögmaður, "og frelsari vor lét fósturjörð sína jafnan sitja í fyrirrúmi, og það hafa síðan allir góðir föðurlandssynir gjört. Já, Ísland þarfnast nú réttláts, viturs og framtakssams biskups," mælti lögmaður ennfremur, en eins og hann þættist með þessu hafa bent á galla látins vinar, bætti hann við og leit blíðlega til Brynjólfs: "Þess þarf hvert land við á öllum öldum, en þessa hæfileika hygg ég, að þér hafið, Brynjólfur. Þér munuð verða nafntogaður maður á sínum tíma, en á hvaða hátt drottni mínum þókknast að láta yður vegsama sig, það er mér óljóst, en það virðist svo sem maðurinn ekki ævinlega ráði, hvert sporin liggja, þó að hann hyggist geta það."

Brynjólfur brosti og sagði, um leið og hann stóð upp til að fara: "Góðar þykja mér heillaspár yðar, göfugmenni, en biskup í Skálholti verð ég ekki."

"Þér munuð ætla að fara að halda af stað?" spurði lögmaður. "Hvað er framorðið?"

"Nær hádegi, herra lögmaður, og ég ætla að hafa langan áfanga í dag."

"Það er nú svo, en þess bið ég yður, að fari svo sem mig grunar, að þér verðið Skálholtsbiskup, þá verið konu minni og börnum innan handar, ef þér verðið henni svo nálægur, að þér eigið hægt með."

"Ef svo skyldi til takast, sem þér spáið, herra lögmaður, mundi ég eftir kröftum vilja verða við þeirri bón yðar, en það kemur varla til þess, því að í fyrsta lagi verð ég aldrei Skálholtsbiskup, og svo vona ég, að vandamenn yðar njóti enn um hríð návistar yðar."

"Ungi vin," mælti lögmaður brosandi, "getur það verið, að þér séuð svona blindir, að sjá ekki, að ég er dauðans herfang, eða eru þetta öllu heldur hughreystingarorð? Ég segi yður satt, það er sitt hvað, að vera ungur og gamall. Yður mundi ekki dauðinn kærkominn gestur, því að þér horfið fram á bjartan og auðnuríkan feril, en ég horfi einungis fram á hrörnun líkarnans og dofnun sálarinnar. Þegar hann er orðinn óhæfilegt verkfæri eða herbergi hennar, þá hefur lífið ekki neitt töfraafl í sér fólgið. Æ nei, framliðnir vinir svífa nú í draumunum fyrir sálaraugum mínum. Þeir vita, að ég er í nánd. Ó, herra, tælandi er lífið frá sjónarmiði æskumannsins, en hversu mikla þyrna hefur það þó í sér fólgna! Hversu megn öfund eltir upphefðina! Og hversu margir nagandi ormar leynast undir hverju blómi, þótt fagurt skíni, - því fegra, því sárari þyrnar. - En, ungi vinur minn, þetta fáið þér allt sjálfir að reyna. Þér siglið, segið þér. Það er nú svo - en ég segi yður, að ég sé yður nú á biskupsstóli Skálholts. Ég sé myndast sigurboga yfir höfði yðar - en nú myrkvast hann og þér hnígið máttvana undir honum eða horfinni dýrð. - Það er horfin dýrð."

"Lögmaður er farinn að tala óráð," hvísluðust þeir á, sem voru í tjaldinu, "enda er það von, hann hefur ofreynt sig á að tala, en svaf lítið sem ekkert í nótt."

Brynjólfur sá, að nærvera sín gat orðið sjúklingnum hættuleg. Hann læddist því ofurhægt út úr tjaldinu, eftir að hafa dregið rúmtjöldin fyrir. Var þá hægur svefnhöfgi siginn á lögmann. Brynjólfur steig síðan á bak og hélt leiðar sinnar upp í Almannagjá. Ennþá einu sinni svipaðist hann um yfir héraðið fyrir neðan, sem hádegissólin uppljómaði svo dýrlega. Honum varð litið yfir á Lögberg. Þar var nú kyrrt og hljótt. Daginn áður hafði það verið vætt mörgum heitum tárum. Þá hlustaði allur þingheimur á andlátsfregn Gísla biskups Oddssonar, sem dó á því þingi á Þingmaríumessukveld, 45 ára gamall. Í dag fylgdu allir göfugustu synir landsins líki hans af þingi með sorg og söknuði til Skálholtsstaðar. Þar átti það að jarðast. Frá þeirri líkfylgd var það, að Brynjólfur Sveinsson kom, er vér sáum hann ríða að tjaldi lögmanns. Hann vildi ekki fara alla leið af ótta fyrir, að hann yrði kosinn í stað hins látna. Þá léku glæstari vonir fyrir sjónum hans en Skálholtsstóll. Ofan úr gjármunnanum sá hann ennþá tjald Halldórs lögmanns, og hann spurði sjálfan sig á þessa leið: "Mun honum auðnast að fá aftur heilsu sína? O nei, hann er brjóstveikur og tærður af blóðuppgangi, enda las ég dauðadóm hans í gær út úr tárum Árna lögmanns á Leirá, þegar hann tilkynnti á Lögbergi þingheimi hinztu skilnaðarkveðju sína í ár, sakir dauða Gísla biskups, bróður síns, og sömuleiðis í nafni Halldórs lögmanns, er þá lá fyrir dauðanum. Sú skilnaðarkveðja hljómaði eins og líkklukka í mínum eyrum. Enda hefur Árni sjálfur farið nærri um það, því að hann huldi andlit sitt og grét. Maðurinn er þó engin kveif. En hví skyldi líka ekki slíkra höfðingja saknað?" Brynjólfur sneri hesti sínum við upp í gjána. Hann tók hvorki eftir náttúrufegurðinni, birtu sólarinnar né spurningu fylgdarmanns síns, sem beið hans í gjánni. Hann var sokkin niður í að hugsa um hverfulleik mannlegrar tilveru, um hinar margvíslegu töframyndir lífsins, dýrð þess og tign, og um það, hversu allt er, þegar dýpra er litið, sem dauðra manna grafir, glæsilegt hið ytra, en hið innra dauði, eymd og rotnun. Honum flaug í hug það tímabil, er hann var áður staddur á Þingvelli, aðeins fyrir fáum árum, og hvílíkur munur! Þá hafði hamingjan fléttað blómsveiga að höfði nokkurra þeirra, sem nú annað hvort lágu lík eða á annan hátt voru sviptir hennar jarðnesku hjúkrunarhendi. Á hann þar á móti, sem þá var gleymdur og umkomulaus, reyndi nú hin hverflynda hamingja að troða heiðurskransinum, sjálfum honum þvernauðugt. Við þessa íhugun hrutu honum óvörum þessi orð af munni: "Óstöðuga hamingja, betur að ég aldrei yrði þér að bráð."

Lofum nú Brynjólfi að halda leiðar sinnar í næði og horfa til baka á hverfulleik mannlegrar tilveru, þar sem ljómandi vonarmyndir blöstu við honum, sem ýmist sveimuðu með hann í dýrlegri, en þó óljósri upphefð í útlöndum eða færðu hann í æðsta tignarsæti Íslands. Litumst heldur um í skrifstofu Þórðar prests Jónssonar í Hítardal. Þar situr inni liðlega vaxinn maður, fremur lágur vexti, en svaraði sér þó vel. Hann var önnum kafinn að skrifa við stórt borð fram við gluggann. Andlit hans var blítt, en þó alvarlegt, og úr augunum, sem voru stór og blá, skein djúpsæi, góðmennska og speki, en viðmótið þó svo einfalt og látlaust. Við og við stóð hann upp og horfði út um gluggann, eins og hann ætti von á einhverjum gesti, en jafnan tók hann aftur pennann í hönd og hélt áfram verki sínu. Í stofunni, sem var alllöng, en ekki mjög breið, var ákaflega stór bókaskápur með alls konar bókum í, norrænum, enskum, grískum, latínskum. Þær voru af öllu tagi, sumt guðfræðisrit, sumt lagabækur, eða um önnur vísindi, og allar vel bundnar. Þar voru og gömul bókfellsblöð. Af niðurröðuninni og efni bókanna var auðsætt, að eigandinn hlaut ekki einungis að vera lærður maður, og það í mörgum greinum, heldur og að hann kunni svo vel að sameina hið forna og nýja, að hvaða eina sómdi sér í annars félagi.

Innar í stofunni var ákaflega stór, járnbent kista. Hún var nefnd fangakista, og líklega hafði hún lengi átt dvöl í stofunni sakir stærðar sinnar. Það leit út eins og húsið hefði verið gjört fyrir hana, en hún ekki fyrir það, því að gafl hennar var tvöfalt breiðari en dyrnar. Það var gamall fylgigripur staðarins, sem varðveitti gamlar skruddur og skjöl fyrir Þórð prest, er annað hvort ekki sómdu sér vel að vera í skápnum eða voru of dýrmæt til að geymast í opinni hirzlu.

Frammi fyrir þessu fornaraldarþingi kraup kona, ungleg og fríð sýnum með ákaflega mikið hár. Hún var blíð og alvarleg á svip og var ekki ólík Þórði presti, enda er náið nef augum, því að konan var Kristín systir hans, og keflaði hún tröf sín við kistuna.

"Að hverju gætirðu svo mjög, bróðir?" sagði hún við prest, sem sýndist vera á glóðum við verk sitt.

"Ég á von á gesti í kveld, og honum kærum," sagði prestur, "en þarna kemur hann þá. Hamingjunni sé lof! Það var til vonar, að hann brygði ekki orð sín. Þó að varla sé hægt að ákvarða sig upp á dag, þá er samt maðurinn ekki eitt í dag en annað á morgun." Með þessum orðum spratt hann upp, svo glaður sem barn, er skundar til leika, og var horfinn út úr dyrunum, áður en Kristín fékk ráðrúm til að spyrja hann meira áhærandi gestinn.

"Hamingjunni sé lof, vinur, að þú ert kominn aftur," sagði Þórður prestur og flaug í fangið á komumanni. "Ég var orðinn hálf-vondaufur um, að þú mundir geta haldið orð þín í þetta skipti. Ég er nærri búinn að horfa úr mér augun í dag eftir þér, en ég get til, að ekki muni hafa verið svo þægilegt að rífa sig út úr alþingisgleðinni svona undir eins."

"Margt er nú þyngra en það, vinur," sagði komumaður, sem var Brynjólfur Sveinsson.

"Komdu nú inn sem fljótast, og segðu tíðindin. Hestarnir skulu vera teknir."

"Fylgdarmaðurinn nam staðar til að tala við mann hérna við garðinn, hann kemur þegar," sagði Brynjólfur.

"Jæja, látum svo vera. Gjörðu svo vel að ganga til stofu. Þú hefur víst frá mörgu að segja," mælti Þórður prestur og leiddi vin sinn til stofu. "Þessi kona er Kristín systir mín, þú hefur víst séð hana fyrr," hélt Þórður áfram, er þeir komu inn. Kristín hafði þá brotið saman tröf sín og ætlaði út.

"Hvernig læturðu, vinur? Ég hef séð hana mörgum sinnum. Frá því fyrst að ég byrjaði skólanám höfum við verið góðir kunningjar," og Brynjólfur heilsaði henni kurteislega. Hún brá ofurlítið lit, er augu þeirra mættust, og fór út, en hann sagði og var lítið eitt skjálfraddaður: "Hún líkist þér einlægt meir og meir."

"Við erum líka skyld," sagði Þórður prestur brosandi, "en hvað er nú í fréttum af Þingvelli? Ég veit ekki, hvernig því var farið, mér var hreint ómögulegt að fá mig til að ríða á þing í vor."

"Hafa þér ekki borizt neinar fregnir þaðan?" spurði Brynjólfur undrandi.

"Nei, alls engar," svaraði Þórður.

"Þá hef ég hörmulegar fréttir að færa þér. Lát Gísla biskups Oddssonar og sömuleiðis Halldórs lögmanns Ólafssonar. Hann lá þungt haldinn og rænulítill, er ég reið af Þingvelli, og síðan hef ég frétt, að hann hafi verið fluttur dauðvona á sömu kviktrjám, er lík Gísla biskups var flutt á heim í Skálholt, og hafi hann látizt þar eftir eina eða tvær nætur."

"Það eru hörmuleg tíðindi," sagði Þórður prestur. "Þeir voru báðir afbragðsmenn, hvor í sinni röð. Það hefur þá ekki verið gleðilegt alþingi, heyri ég."

"Ekki um þessar mundir. Árni lögmaður gat ekki tára bundizt, er hann sagði upp alþingissetu fyrir sig og Halldór heitinn lögmann, áður en hann fylgdi líki bróður síns til Skálholts. Hann stóð fyrir útförinni."

"Svo að líkið var flutt til Skálholts. Það fer að líkindum, þar hvíla margir hans nánustu ættmenn. Þetta er gangur lífsins, einn deyr, annar fæðist. En hvern skyldu þeir kjósa til biskups aftur?"

Brynjólfur lauk upp gylltri bréfatösku, tók upp úr henni stórt, nýlegt skjal og fékk vini sínum að lesa. Þegar Þórður hafði yfirfarið það, sagði hann um leið og hann fékk Brynjólfi það aftur: "Það eru gleðilegar fréttir, þú ert þá orðinn tilvonandi biskup okkar. Og þeim hefur sannarlega verið alvara að vilja fá þig, þar eð þeir hafa framið kosninguna rétt á eftir jarðarför Gísla biskups í Skálholti."

"Svo er að sjá," sagði Brynjólfur. "Þar á meðal eru og margir, sem við fyrri kosninguna voru mér mótfallnir, en sá, sem ekki fær, þegar hann vill, hann vill ekki, þegar hann má."

(Þegar Oddur biskup Einarsson dó, vildu nokkrir kjósa Brynjólf til biskups, hann var þá embættislaus á Íslandi, en Gísli sonur Odds varð hlutskarpari við kosninguna.)

"Já, ekki spyr ég nú," sagði Þórður prestur, "að því, að þú takir ekki við kosningunni, en það er nýtt að láta þurfa að ganga eftir sér. Skálholtsbiskupsstóll hefur aldrei nauðungarembætti verið, hann hafa jafnan fengið færri en vildu."

"Vera kann það, en mér leikur ekki hugur á honum. Vilt þú taka við kosningunni?"

"En hvað þú spyr barnalega," mælti prestur. "Fyrst er nú það, að kosningin er fyrir þig, en ekki mig, og ég veit alls ekki, hvort landsmönnum og konungi mundi geðjast að þeim höfðaskiptum, og svo er hitt, að mér er há staða móti skapi. en það er þér ekki."

"Af hverju ræður þú það," spurði Brynjólfur brosandi, "að mér sé há staða ekki óskapfelld?"

"Af eðlisfari þínu," mælti Þórður prestur, "en þú ert rétt nýkominn af þingi. Hvar hefur kosningarbréfið borizt í hendur þér?"

"Í Stafholti, þar dvaldist ég nokkrar nætur."

"Er þér alvara að taka ekki móti kosningu?" spurði Þórður prestur.

"Já, mér er það blá alvara. Ég tek ekki á móti henni, eða læt afsökunarbréf mitt fylgja köllunarbréfinu til konungs. Ég vona, að það dugi. Mig knýr heldur ekkert til þess að ganga undir okið. Eins og þú veizt, er ég konrector við dómskólann í Hróarskeldu með góðum launum. Ég er ánægður með þá stöðu fyrst um sinn. Líka hef ég í huga að ferðast ef til vill til Ítalíu og Grikklands, en slíka útúrdúra leyfir ekki Skálholtsstóll mér."

"Nei, það gjörir hann ekki, en föðurlandið þarfnast þjónustu þinnar, og það er eins og forsjónin hafi frá öndverðu sett á þig kennimanna höfðingjamerki. Manstu, þegar við Íslendingar í Höfn lékum sjónhverfingaleikinn forðum, að allir kusu þig í einu hljóði til biskups? Og þú varst sjálfur svo hrifinn yfir, hve skrúðinn sómdi þér vel, að þegar þú sást þig í stóra speglinum, hrópaðir þú frá þér numinn af gleði og undrun: "Biskup vil ég verða"."

Ég var þá slíkur galgopi," mælti Brynjólfur og brosti, er honum duttu í hug æskuleikir sínir.

"Þú varst þá í rauninni ekki meiri galgopi en þú ert nú, því að maðurinn afneitar aldrei eðli sínu, en þú hefur nú tekið á þig eins konar fullorðinslegan alvörusvip, þú munt ætla, að hann eigi betur við menntun, vizku og lærdóm. Staðan krefst líka slíkrar skrautkápu til að hylja í barnslega gleði og einfeldni, sem heimurinn annars hneykslast á, einkum hjá yfirboðurum sínum, en mig, sem þekki þig betur, uggir, að jafnan munir þú geyma undir tignarsvip og ytri rósemi barnslegt, hugumstórt og skapbrátt hjarta."

"Og dramblátt og eigingjarnt, sagðir þú á stundum," bætti Brynjólfur brosandi við.

"Það hef ég sagt, er okkur bar á milli, sem sjaldan var."

"Nei, vinur, við skulum ekki hræsna hvor fyrir öðrum, þú sagðir það oftar en einu sinni við mig í alvöru, að kæmist ég hátt í lífinu, mætti ég hafa gát á, að ég yrði ekki eins dramblátur og Neró og eigingjarn eins og Akab."

"Minnztu ekki á þetta lengur, sem meðfram var jafnan gaman," mælti prestur. "Komdu heldur út með mér, og sjáðu, hvað sveitalífið getur verið skemmtilegt. Búsmalinn er nú allur heima á stöðli, og vittu svo, hvort ættjarðarástin hvíslar ekki sömu orðum í eyra þér og Gunnari á Hlíðarenda fyrrum: "Fögur er hlíðin, og mun ég hvergi fara?" Að svo mæltu gengu báðir út.

Hver er, sem ekki finnst til um náttúrufegurðina á fögru sumarkveldi á Íslandi? Þá er sem allt keppist við að skreyta náttúruna sem mest. Það er sem ekkert vilji láta sitt eftir liggja til að töfra augað. Jafnvel það, sem í sjálfu sér virðist ekki hafa neina sérlega fegurð til að bera, verður í sameiningu blómlegra hlíða, himinhárra fjalla, jökla og silfurtærra vatna að svo tignarlegri fagurbreytni, að það hlýtur að hrífa hvern þann anda, sem nokkuð á annað borð getur fengið á. Þessa fjölbreytilegu fegurð náttúrunnar á Íslandi skemmtu þeir félagar sér við að skoða það kveld.

Tveim dögum síðar stóðu snemma morguns tveir söðlaðir gæðingar á hlaðinu í Hítardal. Það voru reiðskjótar þeirra vinanna Brynjólfs Sveinssonar og Þórðar prests, sem fylgdi gesti sínum úr garði að fornum sið. Veður var fagurt. Reið fylgdarmaðurinn á undan með lausu hestana, en Þórður prestur og Brynjólfur síðar.

"Þú fylgir mér hér inn í hvammana," tók Brynjólfur til orða, "það er rétt eins og maður fer með förukerlingar, er maður vill koma þeim af sér." Hann leit um leið brosleitur til vinar síns, eins og hann vildi sjá, hvaða áhrif þessi orð sín hefðu á hann.

"Brynjólfur," sagði Þórður prestur og horfði spyrjandi á vin sinn.

"Sjaldan er gott oflaunað nema illt komi á móti," sagði Brynjólfur, "en ég var að reyna, hvort þú þyldir eins vel gamanyrði og fyrrum, en það er enginn embættisþótti sjáanlegur á andliti þínu. Þú ert jafnan hinn sami glaði, spakláti og elskuverði Þórður," og hann rétti honum höndina og sagði með áherzlu: "Þú hefur nærri því talið mér hughvarf, hvað viðvíkur indæli sveitalífsins. Ég finn og játa, að föðurlandið er fagurt á sumardegi eins og til dæmis núna.

"Já, fagurt er það," mælti Þórður prestur viknandi, og ég óska þess innilega, að við mættum oftar endurtaka fundi vora á sama hátt og nú."

"Er systir þín lofuð?" spurði Brynjólfur í lægra rómi, eins og hann hikaði sér við að segja, hvað honum bjó í brjósti.

"Nei, hún er ennþá óbundin."

"Mundir þú vilja gifta mér hana, ef svo skyldi til takast sem þú óskar, að ég tæki kosningu og yrði Skálholtsbiskup?"

"Ég fyrir mitt leyti mundi vilja gifta þér sjálfan mig, ef ég væri ógefin kona," sagði Þórður prestur í gamansömum málrómi, "svo ástfanginn er ég í þér, en Kristín ræður sér sjálf. Mér sýndist annars henni geðjast allvel að þér. Svo virtist mér að minnsta kosti í gær, er þið sátuð og ræddust við úti á hlaði um það, hvort biskupsfrúarsessinn í Skálholti mundi verða nokkurt nauðungarsæti."

"Það held ég og, frá þeirri hlið býst ég ekki við mótspyrnu," mælti Brynjólfur. "En eftir á að hyggja, er hún af eldri eða yngri börnum móður ykkar?"

Þórður prestur horfði undrandi á hann og sagði: "Kristín er eitt hinna yngstu af börnunum." Brynjólfur svaraði ekki, og þeir riðu þegjandi hvor við annars hlið það, sem eftir var vegarins.

Skilnaðarstundin sló. Þessi stund, sem er svo alvarleg í hvers manns lífi. Hún er misjafnt sár og svíðandi, en svo lengi sem hjarta bindur sig við hjarta, hvort heldur með bandi vináttu, ásta eða öðrum tryggðaböndum, svo lengi verður skilnaðarstundin sorgum blandin.

"Ég þarf ennþá að minnast á eitt við þig, vinur, áður en ég fer," sagði Brynjólfur og gekk nokkur fet áfram við hlið Þórðar, eftir að þeir þó höfðu kvaðzt. "Það, sem ég áðan sagði, hlýtur að falla í gleymsku hjá báðum okkur. Kristín er góð og skynsöm stúlka og þar á ofan systir einhvers hins bezta vinar míns. Ég neita ekki, að hjarta mitt er veikara fyrir henni en öðrum konum, sem ég þekki, en hún er af krenktu blóði, (Guðríður Gísladóttir, lögmanns, móðir Kristínar, fékk holdsveikisnert á efri árum. Til þess lutu orð Brynjólfs.) og ekkert er líklegra en það leggist í ættir. Við verðum því að hafa þetta sem oftalað, vinur." Þórður prestur brá ofurlítið lit og sagði um leið og hann kvaddi Brynjólf og fór:

"Jú, öldungis oftalað, en eitthvað getur einnig að borið í heilbrigðum ættum."

"Sárt er, þegar syndir eða eymd foreldranna verður saklausum börnum að gæfuráni," sagði Þórður prestur við sjálfan sig á leiðinni heim. "Já, það er sárt, en þeim kjörum mega margir sæta."


2. kafli

Á ein er á Norðurlandi, sem Blanda nefnist. Hún rennur ofan Langadalinn fram til sjávar. Er hún hvítgrá að lit, og hefur hún öndverðlega fengið nafn sitt af því. Síðla um kveld þetta sama sumar riðu tveir menn fram með henni og ráku lausa hesta, suma með ferðaskrínum á. Annar maðurinn var Brynjólfur Sveinsson, sem þá hafði kvatt föður sinn í Holti og aðra kunningja og var nú á ferð norður. Hann ætlaði að fara utan af Norðurlandi, meðfram af því að í þeim landsfjórðungi voru góðkunningjar hans, sem hann langaði til að kveðja. Hann hugði, að Hofsósskipið mundi eigi vera lagt út enn og ætlaði sér að ná í það, og þá var beinasti vegurinn að ríða út Skagaströndina og svo upp Hallárdalinn, því að Höskuldstöðum vildi hann koma. Meðreiðarsveinninn var unglingspiltur. Hann var eins og örskot í öllum snúningum, ýmist í þessari átt eða hinni, að ríða fyrir hestana. Brynjólfi þótti nóg um flug hans, því að alloft varð hann að snúa hesti sínum út af götunni, þegar Ólafur, svo hét sveinninn, rak hestana á hann fram.

"Hvað hugsarðu, drengur?" kallaði Brynjólfur snögglega. Ólafur var þá farinn að sýna sig líklegan til að keyra hestana út í strengál milli klappa tveggja, er lágu hvor gagnvart annarri.

"Ég rek þá beint," svarar piltur.

"Beint, þó vaðleysa sé? Nei, drengur, farðu fyrir þá." Ólafur lét sem hann heyrði ekki. "Farðu fyrir hestana, segi ég, og það strax," hvessti Brynjólfur röddina. Ólafur hrökk við og hlýddi. Eitt skipandi orð af vörum Brynjólfs flaug jafnan sem tvíeggjað sverð í gegnum tilfinningar þess, er hann talaði við. "Svo að þú ert þá ekki kunnugri veginum en þetta, drengur, og hefur þó verið hér smali fyrr meir?" mælti Brynjólfur í spyrjandi róm.

"Ég hef sjaldan farið yfir Blöndu," svaraði pilturinn, "nema þegar óskilahross steðjuðu að okkur."

"Hvað gjörðirðu þá?"

"Ég rak náttúrlega þorparana yfir, hvar sem ég kom að."

"Á hrokbullandi sund, er ekki svo?"

"Stundum, eftir því sem á stóð á ánni. Ég lagði út í, þar sem ég kom að henni, og ég slæddist alls einu sinni upp í taglinu á klárnum, sem ég reið. Oftast hef ég þó hangið á hrossinu," mælti Ólafur og rak upp hlátur, því að hann var hreykinn með sjálfum sér yfir hetjuskap sínum og leit spyrjandi til Brynjólfs, eins og hann vildi segja: "Ætli þú hafir svo mikið hugrekki?"

"Slík fífldirfska er miklu fremur hegningarverð en lofsverð. Þú ættir að fyrirverða þig að segja nokkrum frá þessu," sagði Brynjólfur alvarlegur. "Það er enginn hetjuskapur að steypa sér fyrirhyggjulaust út í hættuna, eins og lífið sé einskis virði. Lífið er ómetanleg náðargjöf, og við höfum ekki fremur rétt til að leika með vort eigið líf en annarra. Kæruleysi, drengur minn, er viss vegur til hvers konar óhamingju. En, hver kemur þarna utan melana? Bíðum við. Vera kann, að hann sé kunnugri veginum," mælti Brynjólfur og staldraði við.

Í þessu bar manninn þar að. Hann var mikill vexti og hvatlegur og leit út fyrir að vera við öl.

"Góðan daginn, góðir hálsar," hrópaði hann. "Hví húkið þið hér við ána eins og förukerlingar? Eruð þið hræddir við hana?"

"Við erum ókunnugir veginum," varð Brynjólfur fyrir svörum og heilsaði komumanni. Þekkti þá hvor annan jafnsnemma. Þeir höfðu oft sézt og talazt við, bæði á þingi og í héraði.

"Svo það ert þú, Brynjólfur Sveinsson."

"Það ert þú þá, Hallgrímur Halldórsson," varð hvorum fyrir sig að orði. Eftir það féll hver spurningin á fætur annarri á báðar hliðar. Hallgrímur bauð kunningja sínum í staupinu, en hann neitaði kurteislega.

"Hvaða afglapa af fylgdarmanni hefurðu með þér?" spurði Hallgrímur og leit til drengsins, sem sýndist vera hálf-óánægður yfir því að hafa ekki mátt sjá, hver hestanna synti bezt yfir um.

"Ég er ekki meiri afglapi en þú, sem varla getur hangið á hestinum fyrir fylliríi," sagði drengur í hæðilegum róm.

"Farðu fyrir hestana strax," sagði Brynjólfur og leit reiðilega til hans fyrir hvassmæli hans til Hallgríms. "Víktu þeim upp með ánni, því að ég get til, að við munum ekki á sem réttustum vegi. Hvað segir þú um það, Hallgrímur?"

"Sleppum því fyrst, en hvernig stendur á því, að þú, jafn nafntogað prúðmenni, skulir hafa annan eins óvandaðan orðhák með þér og þennan strák? Er það ekki hann orðhvati Ólafur Gíslason?" mælti Hallgrímur.

"Svo hljóðar nafnið," sagði Brynjólfur brosandi, "en oft verður góður hestur úr göldum fola. Drengurinn er að öðru leyti gott mannsefni, vel greindur og hagorður. Og meira að segja, það er eins og meiri alvara sé fólgin í þessum fáu vísum hans, sem ég hef heyrt, en í sjálfum honum. Af því ræð ég, að eitthvað meira muni dyljast undir þessu óstýriláta látbragði, hvað sem verða kann."

"Má vera, að svo sé," mælti Hallgrímur og hristi efablandinn höfuðið, "en ég hef litla trú á þessum pilti, að í honum búi nokkuð verulega gott. Þið guðfræðingarnir gjörið svo oft svart úr hvítu, - hvítt úr svörtu, ætlaði ég að segja." Báðir hlógu að mismælinu.

"Það bar annars nokkuð sérstakt til, og það tvennt," sagði Brynjólfur, "að ég tók drenginn að mér. Hérna vestur frá, hjá einhverjum bæ, ég er þá búinn að gleyma, hvað hann hét, - enda er ég hér öldungis ókunnugur - datt fylgdarmaður minn af baki og snerist svo óliðlega um öklann, að hann komst ekki heim að bænum, sem þó var örskammt í burtu. Ég var því neyddur til að ríða heim til að útvega honum hjálp, en mér fylgdarmann, því að ég varð að hafa hraðann við. Þá stóð svo á, að heima fyrir stóð nokkurs konar þinghald. Það var sem sé verið að halda uppboð á nokkrum munaðarlausum börnum, sem misst höfðu föður sinn öreiga. Af þeim börnum var Ólafur þessi hinn elzti, og sýndist mér hann helzt finna til ástands síns. Ég tók hann því að mér eftirleiðis, og því er hann í för minni."

"Kynið er skröfult og þóttafullt, hann er af Vallanessætt."

"Að vísu mun sá galli loða við þá ætt, því miður," svaraði Brynjólfur, "en fluggáfuð er hún og mörgum kostum búin. Ekkert mannlegt er án galla."

"Já, sleppum nú þessu umtalsefni, en segðu mér, hvernig stendur á ferðum þínum. Hvert er förinni heitið?"

"Norður í Hofsós," svaraði Brynjólfur.

"Ekki þó til utanfarar, vænti ég?"

"Jú, svo er, sem þú getur til."

"Þá hef ég ill tíðindi að færa þér. Hofsósskipið er lagt út fyrir fáum dögum. Ég var sjálfur viðstaddur, þegar það lagði af stað. En ég á bráðlega ferð fyrir höndum norður í Eyjafjörð, og sting ég því upp á, að þú komir með mér heim til mín, og við verðum svo samferða norður."

Brynjólfur tók boðinu. Síðan héldu þeir yfir Blöndu, inn í Svartárdal og upp á Vatnsskarð. Varð engin lykkja á leið þeirra, unz þeir riðu í hlaðið á Víðimýri. Það var bújörð Hallgríms. Þar varð dvölin stutt. Ferðamaðurinn gleymir ekki takmarkinu, sem hann keppir að, þó að makindin bendi honum að hvíla sig. Brynjólfur var ófáanlegur til að vera einn dag um kyrrt, hvernig sem Hallgrímur reyndi að sýna honum fram á, hversu hentugt og jafnvel ómissandi það væri fyrir hann að hvíla sjálfan sig og vinnudýrin. Það kom fyrir ekki, hann hristi höfuð og sagði: "Áfram, áfram." Annað kom ekki til mála. Þar með var teningunum kastað. Hestarnir voru sóttir og söðlaðir, en þrír í þetta skipti fyrir tvo. Á einn var lagður forkunnar fagur, aldrifinn kvensöðull, er aðeins fyrirkonur riðu í á þeim dögum, en konan var hvergi sjáanleg. Brynjólfur furðaði sig á þessu, en spurði þó einskis. Loksins voru þeir tilbúnir að stíga á hesta sína. Kallaði Hallgrímur þá með hárri röddu: "Margrét, kemur þú ekki?" Kom þá út lágvaxin og snotur kona, en svo flýtisleg, að auðséð var, að hún hafði naumlega haft tíma til að ferðbúa sig eftir þörfum, er svo hart var rekið eftir.

"Brynjólfur, það er þér að kenna," mælti Hallgrímur og sneri sér að gestinum, "að Margrét systir gat ekki dvalizt hér nema svo stutt. Það er eins og það sé um lífið að tefla fyrir þér að komast af stað."

Brynjólfur starði sem höggdofa á stúlkuna: "Margrét," hugsaði hann, "og það er Margrét dóttir Halldórs lögmanns - og Hallgrímur, sá boljaki, fyrst að láta mig ekkert vita um nærveru systur sinnar og svo að reka hana á bak með valdi, eins og hún væri einhver förukona. Það er annars rétt eftir skapferli hans og berserksganginum, sem alltaf er á honum." Meðan hann velti þessu í huga sér, hafði konan teymt hest sinn við stéttina, en er hún sté í fótafjölina, snaraðist söðullinn fram, því að laust var gyrt á. Þar stóð hún ráðalaus. Hallgrímur rokinn eitthvað út í loftið, en Ólafur var með lausu hestana fyrir neðan túngarð. Þau Brynjólfur litu hvort framan í annað, eins og æðið á Hallgrími eða kæringarleysi hans kæmi jafnflatt upp á þau bæði. En Brynjólfur áttaði sig þegar, heilsaði konunni kurteislega og sagði um leið og hann rétti söðulinn við:

"Þér eruð þó aldrei systir Hallgríms, vænti ég?"

Hún brosti, og sagði: "Jú, ég er systir hans, en honum er á móti skapi, að ég fer svona strax um hæl aftur, og því er hann svona önugur."

"Hvenær komuð þér?"

"Í gærmorgun."

"Hallgrímur hefur þá varla haft færi á að tala við yður."

"Ég mátti ekki sleppa svo góðri ferð, einkum þar eð móðir mín var engan veginn frísk, er ég fór."

"Það var leitt, að ég vissi ekki af návist yðar, ungfrú góð," sagði Brynjólfur og hjálpaði henni upp í söðulinn. "Ég skyldi vissulega hafa beðið einn eða tvo daga eftir yður, en Hallgrímur minntist ekki á það með einu orði, að þér væruð hér."

Í þessu kom Hallgrímur út með miklu fasi og sagði: "Þú, Brynjólfur, verður að vera skjól og skjöldur Margrétar systur í dag, því að ég hef ýmis erindi að reka á bæjunum hér í kring. Ég ríð fram á ykkur áður en langt um líður hérna einhvers staðar niður frá." Að svo mæltu steig hann á bak. Í túninu námu þeir staðar, lásu ferðabænina að fornum sið og riðu síðan sem leiðir lágu.

Hallgrímur skildi sig þegar frá og fór sinna ferða. Ólafur rak lausa hestana á undan, og þau Brynjólfur og Margrét urðu ein eftir. Hér fór sem oftar, þegar tveir ókunnugir stofna kunningsskap á ljúfan eða óljúfan hátt, að veður, landslag, hlíðar og fjöll, ef slíkt þá blasir við auganu, verður inngangur til kunningsskaparins, sem svo annað hvort dofnar og deyr undir eins og þriðji maður kemur til að leysa fangabandið, eða samræðan verður fjörugri. Sá sýnilegi, lítilsverði hlutur bendir á annan æðri og meiri, og samræðan endar loks á blíðu augnaráði og vinalegum orðum. Ef vel hefur fallið á með hlutaðeigendum, verður hún von bráðar endurnýjuð á hjartnæmari hátt. Hér á nú raunar ekkert einfalt barn hlut að máli, þar sem Brynjólfur Sveinsson er. Hann þekkir of vel hæfileika sína til þess að óttast, að hann mundi falla í þær bráðræðis-snörur, sem æskan svo oft ratar í. Hann hafði fyrr verið samferða fögrum, ungum og blíðum meyjum utanlands og innan, en jafnan slitið félagsskapinn með eins köldu, hyggnu og rólegu hjarta og hann hafði hafið hann. Við og við höfðu þó þessar hugsanir gripið hann bæði í einverustundunum og í skarkala lífsins: Það er ekki gott, að maðurinn sé einn. Þegar hann kom inn í herbergi sitt og sá raðirnar af alls konar vísinda- og menntabókum og margar dýrmætar gjafir frá vinum og stórhöfðingjum, og hann skoðaði í huganum hina girnilegu stöðu sína og aðra enn veglegri í vændum, vaknaði svo þessi alþekkta og rótgróna; mannlega löngun í brjósti hans: "Ég vil eiga eitthvert hjarta, sem nýtur þessa með mér. Ég hef fyrir ekkert að lifa." Valið féll eins og náttúrlegt var á hina fríðu kynslóð. Hann lagði nú eina á fætur annarri á metaskálarnar, en byrjaði og endaði jafnan á upphefð og auði. Í því töfraríki hafði hjarta hans aðsetur á þeim dögum, en allar urðu þær of léttar á metunum, því að þó hann væri þóttafullur innst í hjarta sínu, þá geðjaðist honum þó ekki að þessum hörðu dráttum í andlitinu eins og úthöggnum í marmara, er báru vott um sjálfstraust og þótta hið innra. Nei, konan á að vera blíð og viðkvæm, hugsaði hann, en þó má hún ekki troða undir fótum virðingu og tign sína. Hann leitaði og leitaði, en árangurslaust, hina réttkjörnu hæfileika fann hann ekki, því að jafnskjótt sem eitthvað dró hann að sér, kom annað, sem hratt honum frá, og gegnum sérhverja yfirburði skein ófullkomleiki í einni eður annarri mynd. Bynjólfur sagði því við hverja eina í hjarta sínu: "Þú ert vegin og ljett fundin," og svona endaði rannsóknin, en jafnan hélt þó hjarta hans áfram að segja honum: "Það er ekki gott, að maðurinn sé einn."

Stundarkorn ríða þau Margrét þegjandi hvort við annars hlið. Loksins rauf Brynjólfur þögnina og mælti, eins og hann væri í vandræðum með umtalsefnið: "Það er óneitanlega fagurt hér í Skagafirði. Engjarnar eru svo víðlendar. Hér munu víst vera ríkir bændur. Þar sem velmegunin er, þar er líka áhyggjulaust líf. Bóndi er bústólpi, og bú er landsstólpi."

"Svo gæti það verið," svaraði Margrét, "þó á það sér ekki ævinlega stað, það er nærri því eins og fátæklingarnir séu ánægðastir allra."

"Hvað mun koma til þess?"

"Það er ekki gott að segja, en líklega mun það vera vegna þess, að auðnum fylgir svo mikil áhyggja, að hlutaðeigendur þurfa, eða þeim finnst þeir þurfa, að hafa þar allan hugann, en fátæklingarnir verða að láta sér nægja sinn deildan verð og..."

"Og helga hugann háleitari störfum," bætti Brynjólfur brosandi við, er hann heyrði, að hún ætlaði ekki að ljúka við setninguna.

"Ef fátæktin geymir göfuga sál," mælti hún og leit til hans. Hann horfði stundarkorn þegjandi í gaupnir sér og hugsaði: "Hún þekkir fátæktina í hinni réttu mynd hennar, enda var Halldór lögmaður faðir hennar jafnan í peningakröggum. Sú, sem af eigin reynslu hefur lært að þekkja, hvað mikið má með auðnum gjöra, mun kunna að fara með hann." Hann hugði þó bezt að fara ekki frekar út í þetta, en sagði og leit framan í hana:

"Býr móðir yðar nyrðra?"

"Já, hún býr fyrir norðan."

"Hana hefði ég haft gaman af að heimsækja, svo göfuga konu, hefði ég haft tíma til, enda mælti faðir yðar heitinn á þá leið, er ég síðast sá hann lífs."

Við þessi orð "faðir yðar heitinn" blikuðu tár í augum Margrétar. Varirnar bærðust, eins og hún ætti bágt með að halda tilfinningum sínum innan réttra takmarka. Brynjólfur horfði aftur á hana og hugsaði: "Vissulega er hún fögur, en hvað ég skyldi ekki sjá það fyrr, þessi augu svo djúp og blá. Í þeim speglar sig eitthvað, sem ég hef ekki séð fyrr í neins manns augum. Það er auðmýkt og blíða sameinuð vitsmunum." Hann lagði ósjálfrátt höndina á hjartað og dróst aftur úr. "Hvað mun það vera, er kona þessi hefur svo töfrandi og ómótstæðilega fagurt við sig?" endurtók hann aftur og aftur í huga sínum. Hann gat ekki ráðið gátuna, en hefði einhver glöggur áhorfandi verið við, mundi hann vafalaust hafa sagt: "Þið eruð sköpuð hvort fyrir annað. Það er hluturinn. Ástarguðinn sendir ekki örvar sínar út í bláinn, án þess að beina þeim leið. Þessi ör var þér, Brynjólfur, einum fyrirhuguð meðal þúsunda annarra."

"Yður hryggir dauði föður yðar," sagði Brynjólfur hrærður og reið samhliða henni.

"Já, það er hin fyrsta sorg, sem ég ennþá hef orðið fyrir, en ég efa ekki, að margar jafnstórar og stærri munu mæta mér, ef mér verður lífs auðið. En verði Guðs vilji", og tárin runnu óhindruð niður kinnar hennar.

Brynjólfur talaði ekkert orð. Hjá honum lagði alloft vitið niður ráðin og skyggndist út fyrir öll sjáanleg blindsker áður en varirnar bærðust til frásagna. Ástin og vitið eru tvær þjóðir, er berjast hvor við aðra, þegar svo ber undir, og þótt hin fyrnefnda gangi hjá velflestum sigrandi af vígvellinum, er mjög tvísýnt um, hversu henni hefði reitt af, en til allrar hamingju urðu þessir andstæðingar hér því nær þegar í stað beztu vinir, og ættgöfgin kastaði örlagateningunum - ættgöfgin! Þetta Brynjólfs útvalda óskabarn, grundvöllur tignar og ódauðlegs nafns. Hér var enginn blettur á: Faðirinn var tiginn höfðingi, ættgöfugur langt fram í ættir, móðirin engu ógöfgari, hún var systir frú Helgu, ekkju Odds biskups; sem menn vissu beztum kostum búna á Íslandi á sinni tíð. Í stuttu máli, ættbálkur meyjarinnar var í báðar ættir hinn göfugasti á landi hér. Dómurinn var kveðinn upp í hjartanu, en þó höfðu varirnar ekki mælt eitt orð. Reiðskjótarnir þræddu veginn hvor við annars hlið í eins miklu bróðerni og þeir, sem á þeim sátu. En engin rós er án þyrna. Rétt í þessu drundi rödd Hallgríms á eftir þeim, um leið og hann rak nokkra lausa hesta svo óþyrmilega fram á þau, að við sjálft lá, að þau dyttu af baki. Hallgrímur var orðinn talsvert ölvaður og hugsaði einungis um að komast áfram.

"Hvílík kerlingareið," mælti hann, þegar hann var kominn svo nálægt, að Brynjólfur heyrði til hans. "Ég þori að sverja, að megir þú ráða ferðinni, verðurðu ekki fyrir veturnætur kominn norður í Eyjafjörð." Við augnaráð Margrétar dóu þau orð á vörum Brynjólfs, sem hann hafði fyrirhugað Hallgrími, og vissulega fór maðurinn einskis góðs á mis fyrir það, því að útlit Brynjólfs var hart og alvarlegt. Var það jafnan fyrirboði annars meira. Eftir það segir ekki frekara af ferðum þeirra. Þau systkin vitjuðu móður sinnar, en Brynjólfur reið niður á Akureyri og með honum fylgdarsveinn hans. Degi síðar tók hann sér þaðan far utan og fékk góða ferð.

Lesaranum er, ef til vill, forvitni á að vita um hinn síðasta skilnað þeirra Margrétar, þar sem við höfum fylgt þeim á ferðinni, en um hann er ekki mikið að segja. Enginn þessara kunningja breytti hið minnsta venjulegum háttum við skilnaðinn. Margrét var stillt, kurteis, en þó með angurblíðu brosi. Brynjólfur var prúður og alvarlegur, jafnan með augun fest á takmakið. Ólafur kátur og léttlyndur, sveif á vonarvængjum kringum hestana, valdi sér þann, sem augu hans girntust mest, niður í kaupstaðinn, og orti ástarvísur til fölnuðu blómanna, klettanna, búsmalans og hvers, er auganu mætti. Hallgrímur var venju fremur svaðalegur og lét allt fjúka, sem honum datt í hug, og valdi því allt annað en hæverskan búning. Þannig var hann vanur að drekkja skilnaðarbeiskjunni. "Ég sendi þá eftir umtali til þín drenginn og reiðskjótana, til frekari ráðstöfunar," sagði Brynjólfur um leið og hann reið af stað.


3. kafli

Vér göngum hér framhjá tímabili, sem mundi verða lesaranum alltof margbrotið að fylgja fet fyrir fet öllum þeim stórhöfðingja heimboðum og heiðursatlotum, sem Brynjólfur naut í ríkum mæli þenna vetur, því að ennþá var hann hamingjunnar útvalið óskabarn, sem fáir eða engir samlendir honum.

Vér látum oss því nægja að fræða lesarann um, að hann varð nauðugur að beygja sig undir vilja konungs og landsmanna og gjörast biskup í Skálholti. Hin velorðaða, latínska afsökun hans, þar sem hann benti á Þórð prest í Hítardal og fleiri sem sér hæfari til biskupdóms, fékk svolátandi svar, "að hver góður og trúr þegn væri skyldur að takast hverja þá heiðarlegu stöðu á herðar, sem konungur byði". Þar með var teningunum kastað, honum var dæmt biskupsdæmið á herðar, sem hann nú nefndi ok og þrælkun á sér, frjálsum manni. Hann tók nú nauðugur upp á sig tign og vanda þess embættis, er hann síðar þjónaði svo vel og dyggilega í mörg hamingjusöm ár. Að dæmi engra fyrirrennara né eftirkomenda sinna lét hann þröngva sér í biskupssætið, og það er óhætt að segja, að hann þræddi þar með sannri snilld þann vandasama veg skyldunnar millum hjátrúar, hleypidóma, sjónhverfinga, galdurs og stórbokkaskapar, sem aldarandinn á þeim dögum var svo fullur af, og í þessu hafa fáir eða engir síðan fetað í fótspor hans.

Það var 27. júní ári síðar, að Brynjólfur Sveinsson, Skálholtsbiskup, hélt innreið sína í staðinn Skálholt, ekki sem sigurvegari, heldur eins og sá, sem skundar að nauðugu verki, en sem hann hefur einlæglega ásett sér að vinna að með trú og dyggð. Hann tók sér gistingu á Eyrarbakka, en afbað alla viðhöfn, er kaupmaður vildi fylgja hinu andlega háyfirvaldi úr garði. "Þessi vegur er mér kunnugur frá skólaárum mínum," sagði biskup. "Ég þarf ekki fylgd," en svo varð þó að vera, og var honum fenginn fylgdarmaður. Menn voru riðnir til þings. Biskup reið einhestis og litaðist um. Hann athugaði landslagið á báðar hliðar sér svo nákvæmlega sem hann hefði aldrei fyrr séð það. Hann reyndi að skyggnast með hugskotsaugum sínum í þessari björtu og friðsælu einveru inn fyrir hulutjald ókomna tímans, til að sjá, hvort margir svo fagrir dagar sem þessi upprennandi júnímorgunn biðu sín í nýju stöðunni. Hann sá álengdar biskupssetrið gamla í rólegri tign blasa við sér, sem nú var orðinn einvaldsherra þess. Staðurinn varð æ stærri og greinilegri, eftir því sem biskupinn kom nær, og loks kom hann allur fram, eins og hann var, með öllum hinum útskornu, rauðu og bláu þiljum sínum, er rétt eins og fæddust hvert út af öðru. Skíðgarðshliðið stóð opið, en einungis tvær geigvænlegar, gapandi gammstrjónur uppi yfir því buðu tignargestinn velkominn. Hann sá engan mann úti, og þótti honum það kynlegt. Þó talaði hann ekkert um það, en bauð fylgdarmanninum að snúa nú aftur, þar eð ferðinni væri lokið. Sjálfur steig hann af baki og litaðist um, en hvert sem hann horfði, var hvergi mann að sjá. Hann réð því af að láta hestinn sjá sjálfan ráð fyrir sér, enda valdi hesturinn sér þegar einhverja fegurstu þúfuna í túni staðarins til að gera sér gott af. Sjálfur gekk biskup upp á steintröppuna fyrir framan gömlu biskupsstofuna. Þar hafði hann staðið eins og nú fyrir nokkrum árum, án þess að nokkur veitti honum eftirtekt. En hversu ólík var ekki koma hans þá, frá því sem nú var? Þá var hann engan veginn velkominn gestur. Þá átti stóllinn að ganga í hendur Gísla Oddssyni, sem síðar varð þar biskup, því að hann átti voldugri vini og ættmenn til að styðjast við. Nú þar á móti var hann sjálfur orðinn alvaldsherra, tilfellin ruddu honum braut. Herra Gísli, sem þá varð hlutskarpari, hvíldi nú í gröf sinni eftir sex ára þjónustu. "Hvar mun fólkið vera?" hugsaði hann. Eins konar dauðaþögn hvíldi yfir öllu. Veðrið var svo stillt og blítt, að varla blakti hár á höfði. Hann barði að dyrum, en þar var steinhljóð. Hann gekk að kirkjunni, en hún var eins og bærinn harðlæst, og nýkomni biskupinn var nú neyddur til að skemmta sér einungis við útsjónina, sem fyrir hann hafði þó ekkert nýstárlegt við sig. Þar hafði hann fyrst gengið í skóla sem ungur skólasveinn og síðan komið þar oft sem fulltíða maður. Á þessu hlaði var það, að Oddur biskup forðum bægði honum frá að halda í ístað sitt og sagði, að fyrir honum lægi tignari starfi en að hjálpa sér á hestbak. Nú virðist spádómurinn hafa rætzt, því að nú var Brynjólfur kominn í sömu stöðu og Oddur biskup var í þá. Og þó var sem forvitri þessi vildi ekki rétta honum hjálparhönd, og jafnvel ekki veita honum prestakall. Allt þetta flaug í gegnum huga hans. Öll hin glöðu og áhyggjulausu skólaár, sem hann hafði eytt á þessum stað, stóðu nú lifandi uppmáluð fyrir honum. Söknuði blandin tilfinning hreif hann við íhugun alls hins liðna. Nú var allt það, sem áður var, horfið sjónum. Faðir hans orðinn karlægur, en móðir hans, hin heittelskaða móðir, dáin. Þeir feðgar, Oddur og Gísli biskup, hvíldu þarna í kirkjukórnum. Svona rann ein hugsun upp fyrir honum á fætur annarri, og þær ekki upplífgandi. Hann reif sig upp úr þessum myrku draumum og reikaði norður um tún og upp á kletta þá, er þeir Jón Arason og synir voru höggnir á. Það var sem honum rynni kalt vatn milli skinns og hörunds við þessa endurminningu. Hann sá í anda öldunginn, sem þó hann héldi fast við hinn gamla sið, engu að síður var þjóðarprýði og sómi. Hann sá hann leggjast niður á höggstokkinn, níðingana allt í kring, og böðulinn höggva á mið herðablöðin, þar eð biskup var svo lotinn og feitur. "Skyldi þá ég, niðji hans, skilja klaklaust við þenna stað?" hugsaði hann með sér, en þá var hann vakinn af leiðslu sinni við samræðu nokkra ekki alllangt frá. "Þar eru þá heimamenn komnir," hugsaði hann með sér, "það er þó afar kynlegt, að biskupssetrið skuli vera látið svona einmana. Að vísu er aumur höfuðlaus her, en ráðsmaður ætti þó ævinlega að vera við staðinn." Í þessu var hann kominn ofan af hæðinni og sá, hvar gamall maður sat neðanundir og talaði við stúlku á að gizka 8 eða 10 ára gamla. Bæði voru þau ófrýn ásýndum, maðurinn stórbeinóttur, mikill vexti og dökkur yfirlitum, mærin, sem líktist honum mjög, var sömuleiðis dökk á brún og brá, kinnbeinahá, gráeyg og óliðlega vaxin.

"Já, það voru sorgardagar, skal ég segja þér, Steinka mín," sagði maðurinn við barnið. "Ég var þá ekki fæddur, þegar það skeði, en faðir minn heitinn var hér þá undirbryti. Síðan eru, látum okkur sjá, 88 eða 89 ár. Þeir voru allir höggnir þarna uppi á hæðinni. Faðir minn var einn af þeim, sem héldu vörð síðustu nóttina, sem þeir feðgar lifðu. Hann sagði, að Ari lögmaður hefði alla þá nótt gengið um gólf og kveðið, og hefði leiftrað ljós mikið um herbergið nokkru áður en roðaði fyrir degi."

(Eldgömul sögn úr Hornafirði, er kvað hafa borizt með skólapiltum frá Skálholti á dögum Jóns biskups Arasonar.)

"Kanntu nokkuð af því, er hann kvað, faðir?" sagði barnið.

"Ég er búinn að gleyma því, en faðir minn kunni það allt saman. Það voru kaþólskir sálmar eða lofkvæði, sérlega hjartnæm og fögur."

"Vísurnar voru margar, mig minnir tuttugu, en ég hef gleymt þeim. Ari orti þær allar þá nótt, hann var skáld og varð vel við dauða sínum."

"Voru þeir ekki forkunnarvel búnir?" spurði barnið.

"Jú, forkunnarvel. Biskupinn bar rauða silki- eða floskápu, gullsaumaða frá herðum ofan í gegn, síðast er hann meðtók hið helga brauð og vín, áður en hann var höggvinn. Faðir minn sagði, að maður hefði getað freistazt til að ætla hann vera einn af höfuðenglunum, er hann kraup í síðasta sinni við drottins borð í þessum dýrðarskrúða."

"Hvað varð svo af kápunni?" spurði barnið. "Var hún látin í gröfina með honum?"

"Nei, barn. Hann lagði hana sjálfur þegjandi á altarið og handhring sinn, með stórum, rauðum steini í. (Rauður steinn var lengi í ætt minni með stöfunum J. A. Hann var eignaður handhring Jóns biskups Arasonar. Séra Jón Finnsson fékk hann frá Skálholti, sonur hans, Torfi Jónsson í Breiðabólsstað, átti hann alla ævi, en synir hans munu hafa gefið hann séra Jóni Halldórssyni á Breiðabólsstað í Fljótshlíð.) Á steininn var greypt fangamark hans, J. A. Kápan minnir mig, að hafi flutzt aftur norður að Hólum."

"Kemur hér svo aldrei biskup framar?" spurði barnið.

"Hvernig spyrðu, bjáninn þinn? Manstu ekki eftir honum herra Gísla heitnum, sem var svo góður við þig og alla? Friður veri með moldum hans. Jú, hingað kemur líka bráðum biskup, sem kvað vera óvenjulega strangur og siðavandur, og sumir segja, að hann sé stoltur líka. En barn, þarna er einhver kominn heima. Taktu hestinn úr túninu. Þú ert léttfættari en ég. Það er víst einhver herra, fyrst hann hefur riðið í gegnum fremra hliðið."

Barnið hljóp, en biskup, sem hafði heyrt alla samræðuna, gekk að gamla manninum, sem var staðinn upp, heilsaði honum vingjarnlega og spurði hann að heiti.

"Ég heiti Sveinn og er Sverrisson," svaraði heimamaður, "en hver er sá, sem ég tala við?"

"Brynjólfur heiti ég og kem frá Eyrarbakka, en hví er svo fámennt heima á staðnum? Ég barði þar að dyrum, en fann hverja hurð læsta."

"Það var gleðidagur fyrir Skálholts-heima-mönnum í gær, maður minn. Ein þjónustustúlkan giftist þá einum af staðarbúa-ráðsmönnunum. (Meðan biskupsstóllinn stóð í blóma, lágu aukabú nokkur undir staðinn.) Svo fór hver, sem vettlingi gat valdið, til boðsins, nema ég og dóttir mín. Við áttum að gæta heimilisins. Það er ekki oft, að hnífur vesalings vinnufólksins kemur í feitt. Það ásetti sér því að njóta veizlugleðinnar meira en til hálfs. Nú er líka ekki gestkvæmt, höfðingjar eru flestir farnir til þings, og bráðum er von á blessuðum nýja biskupnum, sem kvað vera strangur og harður eins og hinn kaldi dauði. Ég skal segja yður, hver sem þér eruð, að við hlökkum ekkert til skiptanna, eftir blessaða húsfrúna hana Helgu, sem hvert mannsbarn elskar, (Hún var ekkja Odds biskups og móðir Gísla biskups.) og sama er að segja um þá feðga, herra Odd minn og Gísla - hum - þó að herra Gísla mínum þætti um of góður sopinn, þá var hann mesti dánumaður. Hvert á líka barninu að bregða nema beint í ættir?"

"En hjúin eru ekkert staðar inventarium," sagði biskup, sem ekki gaf uppskátt, hver hann var.

"Það gefur að skilja, en allir verða að lifa og vinna fyrir sér, en það er þó aldrei svo, að ekki bíti eitthvað heldur fyrir á þessum höfðingjasetrum en hjá kotungunum, sem svelta heilu hungri á köflum. Ég segi fyrir mig, ég vil heldur hírast hérna, ef ég má, en fara að róla manna á millum."

"Var faðir þinn hér?" spurði biskup.

"Biðjið þér fyrir yður, hann var undirbryti síðustu árin hjá séra Marteini og dó hér."

"Þá hefur hann líka verið hér, þegar Jón biskup Arason var líflátinn með sonum sínum 1550."

"Já, minnist þér ekki á þau býsn, hann var hér þá."

"Býsn," endurtók biskup, "gengu nokkur býsn á önnur en þau, sem þegar eru orðin heyrumkunn, líflát biskups og sona hans?"

"Já, mörg önnur býsn og teikn sáust áður, t. d. faðir minn sá eitt kveld í tunglsljósi árið áður, er hann rak kindur frá bænum, hvítklædda konu sitja þarna uppi á Þorlákssæti, þarna einmitt er þeir voru höggnir. Hún studdi hönd undir kinn og grét."

"En ætli það hafi ekki verið einhver kona heiman af staðnum?"

"Nei, engan veginn. Faðir minn gekk að henni, því að hann hugsaði, að einhver ætlaði að gjöra sig skelkaðan, og var þar að auki mesti fullhugi."

"Hversu brá þá við?"

"Þannig, að veran brá glóbjörtu saxi undan skikkju sinni, sem föður mínum virtist vera blóði roðið. Eftir það hvarf hún norður með túngarðinum. Og mörg fleiri teikn bæði á himni og jörðu sáu menn um þær mundir, og hví skyldi það ekki?"

"Hvað er orðið framorðið?" spurði biskup.

Sveinn leit upp í himininn og svo niður á jörðina og sagði: "Nær miðjum morgni. Þér hafið farið snemma af stað, maður minn."

"Það er eftir því sem maður skoðar það," sagði biskup, "nóttin er eins björt og dagur, en mig undrar mest, hvað svo margt fólk hefur verið snemmbúið heiman."

"Og blessaðir verið þér," sagði Sveinn og glotti við. "Veizlan hefur staðið í alla nótt. Ég sagði yður það, þau giftust í gær. Það reið allt saman af stað í gærkveldi."

"Já, hvernig læt ég. Ég er hreint búinn að gleyma íslenzku brúðkaupsveizlunum. Þeirra ánægjusól skín skærust á næturnar. En hverjir hafa mesta umsjá með stólnum, síðan biskup dó?"

"Þeir bræður, Árni og Sigurður, (Árni lögmaður á Leirá og Sigurður prófastur í Stafholti voru bræður Gísla biskups, sem dó barnlaus ekkjumaður.) sjá mest til með frú Helgu, þangað til nýi biskupinn kemur."

"Frú Helga er þá heima?" spurði biskup.

"Nei, maður, enginn er heima, en mér ferst óviturlega. Hér stend ég og masa við yður, án þess svo mikið sem að vita, hver þér eruð, eða hvert erindi yðar er."

"Erindið er fljótt sagt," sagði biskup. "Ég þarf að finna ráðsmann og það strax. Viltu kalla hann sem allra fyrst á fund minn. Leyfðu mér að ganga í kirkju, á meðan þú sækir hann."

"Ég er ekki nema einn heima með barnið og get ekki skilið staðinn eftir mannlausan," sagði Sveinn.

"Mannlausan," endurtók biskup brosandi, "er ég þá ekki maður?"

"Jú, en þér eruð gestur," segir karlinn.

"Gestir erum við allir, ég er hvorki þjófur né ræningi. Skildu bæinn eftir í minni umsjá, og sæktu ráðsmann, en hvað heitir hann?"

"Ormur Vigfússon."

"Rétt er það. Farðu svo."

"En...."

"Ekkert en, vinur minn. Við höfum skipzt helzt til of mörgum orðum um þetta lítilræði. - Þarna er reiðskjótinn," sagði biskup og benti á hest sinn, sem barnið hafði teymt í hlaðið.

Sveinn mældi biskup með augunum frá hvirfli til ilja, líklega til þess að geta séð út, hvort hann mætti ætla sér á móti honum, en honum leizt maðurinn svo gildlega vaxinn, að hann þorði ekki að hætta á, hversu fara mundi, ef hann óhlýðnaðist boðinu. Hann fékk komumanni því kirkjulykilinn og reið burtu. Þegar biskup hafði opnað kirkjuna, las hann Pater noster (Faðir vor) hátt og með heitum andvörpum og þakkaði forsjóninni fyrir, að nú var ferðinni lokið. Hann bað eins og Salomon konungur forðum um vit og þrek, til að standa í hinni erfiðu stöðu, er sér legðist nú á herðar, og sem væri sér þó í mörgu ofvaxin. Sú bæn hefur eflaust heyrð verið, því að biskupinn reyndist jafnan vitur maður, er sjaldan rasaði fyrir ráð fram í almenningsmálum. Eftir það fór hann að skoða sig um í kirkjunni. Hann nam fyrst staðar við prédikunarstólinn, sem var fagurlega útskorinn, og áttu myndirnar að tákna upprisu dauðra úr gröfunum, en gylling var máð af, og svo fúinn og forn sýndist hann vera, að biskup undraðist, að hann skyldi þola mannsþunga. Þar næst skoðaði hann altarið, það var hvítmálað, en raðirnar gylltar, og sömuleiðis gamalt og fúið. Yfir kórdyrum stóðu höggnar myndir af hinum tólf postulum með jöfnu millibili. Héldu sumir þeirra á opnum bókum, en aðrir voru með upplyftum höndum. Þær voru ærið fornfálegar, og gyllingin fyrir löngu af máð. Helgra manna myndir sáust hér og hvar á stangli í kórnum, en svo afargamlar, að varla mátti við þær koma, svo að þær féllu ekki í sundur eins og feyskið lauf. Á altarinu stóðu fjórar látúnsljósapípur með gulum vaxkertum í. Einnig ljósastikurnar út úr veggjunum, með fleiri eða færri ljósapípum í, báru merki um háan aldur. Biskupinn gekk frá einu til annars og sá, að allt minnti hér á forna dýrð. Sjálf kirkjan stóð á fúnum fótum. Hann gekk um gólf í djúpum hugsunum fyrir kórdyrum og athugaði hina vandasömu stöðu sína, sem hann nú var farinn að sjá lítið sýnishorn af. Staðurinn allur hugði hann væri í því ástandi, að hann þyrfti að endurreisast. "Áhyggjuminna væri nú að skoða listaverk Rómverja og Forn-Grikkja en standa hér," hugsaði hann, en þá minnti samvizkan hann á embættiseiðinn, og hann sagði hálf-hátt: "Það var ekki Kristján konungur fjórði, sem ég gaf þetta helga loforð, heldur sá, sem betur gætir að, hversu ég held það," og hann andvarpaði þungan og hélt áfram að ganga um gólf, einmitt á þeim sama bletti, er Oddur biskup reikaði um 1630, á meðan Skálholtsstaður var að brenna, og þarna hvíldu bein hans undir. Þannig stígur hver kynslóð í annarrar áhyggjuspor. En yfirgefum nú biskup með hugsanir sínar og skyggnumst til ferða Sveins eða réttara sagt inn til veizlugestanna. Þeir voru flestir meira eða minna ölvaðir.

"Nei, hverju sætir þetta? Kemur þar ekki gamli Sveinn skeiðríðandi neðan að, og þar á ofan á spánnýjum hesti," segir einn af staðarmönnum, er stigu dans í öðrum skálaenda. Dansinn var eins konar leifar af innlendum, gömlum vikivaka, sem nú er genginn úr gildi. "Gamli Sveinn," æptu nú allir. "Hér ber vel í veiðar! Ærum hann, ærum hann. Karlinn þolir aldrei að sjá kött, hann er fæddur með þeim ósköpum. Fljótt, fljótt, piltar! Komið þið með kött." "Hvar er kápan mín?" greip skólasveinn einn til máls. Sá hét Sæmundur og hafði sökum krankleika ekki yfirgefið staðinn ennþá. "Hvar er kápan mín? Tefjið þið fyrir honum á meðan. Heyrið þið það?"

"Þú, Sveinn minn, ert kominn," hrópaði ráðsmaður. "Velkominn, velkominn, komdu inn í dansinn strax," og hann greip í höndina á honum og annar jafnsterkur í hina, og ætluðu þeir þegar að leika með hann um gólfið, en þriðji maður rétti að honum fleytifullt vínstaup. Sveinn streittist á móti eftir megni og sagði: "Mig grunaði lengi, að hér mundi enginn griðastaður verða fyrir mig, en veitið mér aðeins stutta áheyrn, gömlum vesalingi. Ég er ekkert leikbarn lengur."

"Látið þið Svein gamla vera," sagði nú brúðguminn, knár maður, Jón að nafni, og stóð upp. "Það er mjög ódrengilegt að beinast að einu gamalmenni. Þó að gaman eigi að vera, þá er það hér á röngum stað. Ef ykkur vantar einn í dansinn, þá er ég til reiðu," og um leið og hann sagði þetta, brá hann þeim manni hælkrók, er hélt í hægri hönd Sveins, svo að hann skall endilangur á gólfið. Aðrir góðkunningjar hlupu þá á milli, svo að ekkert illt hlytist af. "Alltaf ert þú eins, Jón minn," sagði Sveinn og sneri sér að þeim, er lagði honum liðsyrði. "Trú mér til, þú verður einhvern tíma karl fyrir þig og drengur góður í tilbót. En nú ætla ég að ljúka erindinu - hum -".

"Látum okkur heyra, góður maður kemur með góðan boðskap," sagði Ormur ráðsmaður og yppti öxlum. "Einungis læt ég þig vita, að vilji einhver finna mig, má sjálfur Belzebub gjöra boð fyrir mig. Ég kem ekki fyrr en minn tími er kominn. Nei, slíka veizlu hefur maður ekki á hverjum degi. Nei, maður verður að vega hvert orð, hverja hræringu og jafnvel mæla loftið, sem maður andar, þegar þessar blessaðar náðir af meisturum og herrum eru heima. Segðu erindið fljótt, en biddu mig ekki að koma. Séu landsetar eða þess háttar smáherrar komnir, geta þeir fundið mig seinna í dag eða á morgun. Ég er þá aftur ráðsmaður Skálholtsstaðar."

"Ég er þó einmitt sendur til að sækja þig," sagði Sveinn, og sagði honum nú um komu hins ókennda manns, og hversu hann hefði strengilega boðið sér að sækja hann.

"Ég kann á þeim lagið," sagði ráðsmaður, "það er ef til vill einhver Flóamaður eða Ölvesingur, sem hefur lánað mér hest eða vikið á einhvern hátt fyrir mig hendi eða fæti og þykist svo hafa kröfu til biskupsstólsins, ef ég ætti ráð á honum. Nei, eins og ég hef sagt, ég þakka fyrir, þó að sjálfur flugnahöfðinginn kalli mig úr þessari gleði, mun ég þó sitja kyrr."

"Stendur hann þá næst þér af vinum þínum og kunningjum?" sagði Sæmundur, sem nú kom inn og bar allstóran böggul undir hendinni.

"Það er eftir því, sem maður skoðar það," svaraði Ormur, "af honum er mest ills að vænta, og maður skal heiðra skálkinn, svo skaði hann ekki."

"Já, en ég verð að fá áreiðanlegt svar, helzt svart á hvítu, ef þú kemur ekki. Ég hef enga lyst á að gjöra hingað fleiri ferðir í dag."

"Það mun vera sá eini herra þetta, að ég hræðist hann ekki, og skaltu fá hér svarið," sagði Ormur og tók um leið bréfmiða upp úr vasa sínum og ritaði þessi orð á hann:

"Þó að sjálfur Belzebub kalli mig úr þessari veizlugleði, kem ég þó ekki. - Ormur Vigfússon."

"Færðu Steinku þinni þennan böggul," sagði Sæmundur og rétti Sveini knýtilskautin. Hann rétti höndina fram, til að taka á móti, en Jón, brúðguminn, henti böggulinn á lofti og sagði:

"Svona nú, Sveinn, farðu í friði, ég skal annast um þetta lítilræði." Sveinn lét ekki segja sér það tvisvar og reið burt hið fljótasta, en yngri mennirnir héldu um hríð knattleik með böggulinn, og henti hann hver á lofti, sem betur gat, þar til kisu leiddist þóf þetta og hremmdi dauðahaldi í kinn Sæmundar, er æ síðan bar örið til endurminningar um veizluna. Félagar hans losuðu hann við óvættina, og var svo þeim leik hætt.

"Hvers konar búnaður mun þetta vera?" sagði biskup, er hann fletti sundur altarisbrík, alsettri silfurskjöldum, 17 eða 18 að tölu. (Altarisbríkin er ennþá til í Skálholti. Þegar ég sá hana fyrir nokkrum árum, voru margir skildirnir brotnir, og mér var sagt, að þeir væru af belti Þórgunnu, sem sagt er frá í Eyrbyggju.)

"Það er altarisbrík forn," segir Sveinn, sem kom að í þessu og hélt á miða Orms ráðsmanns í hendinni. "Skildirnir eru af belti Þórgunnu gömlu, sem Eyrbyggjasaga segir frá, að grafin sé hér að kórbaki, og hafði hún átt að segja, er hún var jörðuð: "Kalt á fótum Ána ljótum". Þá kom rödd upp úr gröfinni, sem sagði: "Fáir unna Þórgunnu"."

"Og trúir þú þessu?" sagði biskup, er lagði frá sér bríkina og sneri sér við.

"Hví skyldi ég ekki trúa því, sem sögurnar segja? Og víst og satt er um það, að sé sveimur nokkurs staðar í Skálholti, þá er það á kórbaki."

"Já, en síðan er víst mörgum sinnum búið að minnka og stækka kirkjuna, og ef til vill færa garðinn," segir biskup. "En er ekki ráðsmaðurinn kominn?"

"Nei, hann kemur ekki, en hann bað mig að færa yður þennan miða," sagði Sveinn og rétti hróðugur blað að biskupi, sem tók við því og las. Að því búnu hallaði hann sér fram á altarið og bað Svein að færa ráðsmanni aftur.

"Nei, nú fer ég ekki aftur," sagði Sveinn. "Hefði ekki blessaður brúðguminn hann Jón orðið mér að liði, þá hefði ég ekki sloppið ómeiddur út. Það var allt saman í gáska og leik, æskan er svo fjörug, en ég er orðinn gamall og ófær til að taka á móti slíku. Nei, ég fer ekki aftur."

"Þú hlýtur að fara, ég býð þér það," mælti biskup, og leit alvarlega til hans, "en mæti þér í þetta skipti nokkrar hindranir, þá mun ég endurborga þér hrakninginn, og svo ekki meira um það. En vertu fljótur, mér er hraði á höndum." Sveinn skundaði nauðugur út.

"Þetta er dágóður vottur um reglusama húsbændur," tautaði biskup við sjálfan sig. "Heldur vil ég vera ásakaður um hörku og vandfýsni en hýsa slík hjú. Ekki skulu þau þurfa að kvíða því að verða ellidauð hér."

"Hana nú! Kemur ekki Sveinn aftur," hrópaði ráðsmaður. "Nú skal hann þó ekki sleppa hjá dansinum. Því lofa ég honum hátíðlega. Nú, Sveinn, hvað segir svo herrann gott? Til hvers kemurðu nú?"

"Hum!" sagði Sveinn og varpaði mæðilega öndinni, "það veit ég ekki, en hér er miði þinn aftur, Ormur ráðsmaður. Ég veit ekki, hvað á honum er, ég kann ekki að lesa skrift."

"Ha, ha, ha, þá hefur herranum ekki þótt ljúffengt Belzebubsnafnið. Það gengur svo, margir eru góðir vinir hans, karlsins, en það er vinátta, sem ekki má hafa á orði, þó að hún sé á borði. Láttu mig sjá miðann," sagði Ormur. "Allar heillavættir hjálpi mér," hrópaði hann og náfölnaði, er hann hafði lesið miðann. "Sækið hestinn minn strax, biskupinn er kominn."

"Er biskupinn kominn?" endurhljómaði nú í hverju horni í veizlustofunni, og áður fjórðungur stundar var liðinn, var allur skarinn kominn af stað heimleiðis, og ráðsmaður góðan kipp á undan, til þess að verða sá fyrsti til að heilsa upp á herra biskupinn. Því að þó hann þættist fær í flestan sjó, vildi hann ekki skipta um stöðu, ef annars væri kostur.

"Hvað þókknast yður herra minn?" sagði hann og kom inn á kirkjugólfið með miklum lotningarsvip og með hattinn í hendinni. "Ég bið yður forláta mér gamanið, herra minn, ég hugði yður einn af staðarlandsetunum."

"Ef þannig er farið með landseta stólsins, þá verður mér ekki vandur eftirleikurinn."

"Með hverju get ég orðið yður til vilja?" spurði ráðsmaður að nýju og vildi fyrir hvern mun eyða umtalsefninu.

"Ég þarf að ríða til þings og fara héðan í dag," sagði biskup. "Er völ á duglegum og áreiðanlegum fylgdarmanni og óþreyttum og öflugum hestum?"

"Já, herra minn, þó að ég sé hniginn á efra aldur, þá er ég reiðubúinn til að fylgja yður ekki einungis til þings, heldur, ef þér svo viljið, yfir allt Ísland."

"Til þingsins er mér nóg að koma að þessu sinni," sagði biskup, "en þér hafið vanda og vegsemd af staðnum og megið ekki vera að heiman."

Ráðsmaður varð hljóður við og sagði: "Boði yðar skal verða hlýtt. Bjóðið þér ekkert meira?"

"Jú, að þér látið við hentugleika sækja farangur minn ofan á Eyrarbakka. Hann kemst á 10 eða 12 hesta. En sérlega aðgætinn maður verður að sækja hann, því að í flutningnum eru margir dýrir og góðir munir. Svo þegar hann er kominn, má læsa hann hér inni í Maríukapellunni, nema ef vatn skyldi móti von minni hafa komizt að einhverju, svo sem bókakössum, þá er bezt að viðra klyfjarnar tvo eða þrjá þurrkdaga, og svo geymist það þangað til ég kem, vona ég. Getið þér framkvæmt þetta fyrir mig, ráðsmaður?"

"Jú, svo sem þér skipið, herra minn, skal það vera gjört."

"Þá er vel. Þá er mér ekkert að vanbúnaði, og ég vil helzt leggja af stað sem fyrst. Kostnaðinn skal ég síðar jafna við hlutaðeigendur."

"Innan hálfrar eyktar skal allt til reiðu, en gjörið svo vel að ganga til stofu á meðan."

Biskup gekk til stofu, og kirkjunni var lokað. Áður en hálf eykt var liðin, var hann kominn áleiðis til Þingvalla.


4. kafli

Alþing þetta sótti að vanda göfugmenni landsins. Tjöldum fjölgaði óðum á gamla þingstaðnum, og hér og hvar um völlinn reikuðu vinir og vandamenn, tveir eða fleiri saman, og ræddu mál sín og annarra. Sumir lögðu niður ráðin um, hvernig haga skyldi málsvörn og lagarekstri, sumir hallmæltu dómöndum, en sumir lofuðu, og hér gekk sem oftar, að sitt sýndist hverjum. Þeir, sem nýkomnir voru, gengu búð úr búð, að heilsa vinum og kunningjum, því að hér mátti finna á einum stað flesta höfðingja landsins. Meðal þessara manna var meistari Brynjólfur Sveinsson, sem var nýkominn á Þingvöll og átti þar ærnum vinahópi að fagna. Hversu ólík var koma hans þangað nú með biskupstignina á herðum, þótt hann hefði tekið við henni nauðugur. Hversu hlaut hann nú í hjarta sínu að játa sönn að vera þessi orð Halldórs heitins lögmanns: "Maðurinn ræður ekki ævinlega ferðum sínum, þó að honum virðist svo."

Biskup ætlaði að heimsækja fyrstan allra Þórð vin sinn frá Hítardal, því að hann vissi hans þar von, en þá gengu tveir menn á undan honum í djúpri samræðu yfir Öxarárbrú og tóku ekki eftir honum. Það voru þeir bræður, Hallgrímur og Jón, synir Halldórs heitins lögmanns. Biskup þekkti þá þegar, en vildi ekki gefa sig á tveggja manna tal.

"Ertu að hugsa um að sigla?" spurði Hallgrímur Jón bróður sinn.

"Það verð ég neyddur til," svaraði hinn.

"Hvers vegna það?"

"Af því að ég hef enga viðunanlega stöðu og uni illa ekkilsstandinu. Ég nenni ekki að koma undir mig fótum með því að giftast einhverri ríkisstúlkunni, sem svo margir gjöra. Ég vil heldur reyna hamingju mína erlendis. Víðar er guð en í Görðum. Ekkert finnst mér andstyggilegra en selja sjálfan sig auðnum!"

"Þú ert sérvitur í skoðunum þínum í þessu sem öðru, bróðir" sagði Hallgrímur. "Ég sé enga sneypu í því að taka einhverja, sem loðin er um lófana, fremur en þá, sem er blásnauð."

"Já, að minnsta kosti fylgdir þú þeirri reglu." sagði Jón "og horfðir ekki í neina smágalla."

"Galla! Hvaða galla hefur konan mín, eða er hún ekki eins góð fyrir það, þó að hún segði lausu við slána, sem ekki var hennar verður?"

"Jú, jú, að vísu, en sleppum nú þessu."

"Eftir á að hyggja," greip Hallgrímur fram í. "Hversu gengur með trúlofun eða giftingu Margrétar systur?"

"Þú átt víst við trúlofun hennar og Bjarna ríka á Lundi," sagði Jón.

"Jú, jú, sá er maðurinn. Ég trúi varla, að hún eða móðir hennar slái hendinni á móti slíkum ráðahag," sagði Hallgrímur.

"Eftir þínum hugsunarhætti væri það óviturlegt, en þó er ég hræddur um, að Margréti sé ráðahagurinn ekki ljúfur. En móðir okkar er hans fremur hvetjandi, hvað sem svo verður úr," sagði Jón.

"Hver mun sá af krappakrans,
er kæran ætlar sér?
Því Björn er æðstur innanlands,
eg vil segja þér,"

sagði Hallgrímur.

"Hann er æðstur í auðnum," sagði Jón brosandi "en raunar mætti ég fremur spyrja þig um ástand Margrétar en þú mig, því að hún hefur brugðið stórum skapferli, síðan hún kom í fyrra norður með þér."

"Sama segir og móðir okkar, hún er svo miklu alvarlegri og jafnvel þunglynd við og við, og það er eins og hugur hennar sveimi í einhverju efablendnisríki."

"Hver Óðinn! Brynjólfur Sveinsson mun þó aldrei hafa ruglað heila hennar. Það datt mér þó aldrei í hug."

"Brynjólfur Sveinsson!" endurtók Jón. "Er það Skálholtsbiskupinn, sem nú er?"

"Jú, jú, sá er maðurinn."

"Er það maðurinn með mikla, rauða skeggið, sem fór af baki þarna upp í gjármunnanum í gærkveldi?" spurði Jón.

"Lát mig heyra. Hversu leit maðurinn út?" spurði Hallgrímur.

"Hann var tígulegur á svip," svaraði Jón, "heldur hærri en í meðallagi, þrekinn og karlmannlegur. Hann hafði stuttklippt hár, en rautt, afarmikið skegg, sem nálega huldi axlir hans og bringu. Berðu nú kennsl á manninn?"

"Og það held ég, en hafðu sæll sagt mér tíðindin. Ég hef fóðrað fyrir hann í vetur hinn versta landeyðustrák, níðorðan og kerskinn, og fjóra hesta að auk. Það var, segirðu, uppi í gjármunnanum, að hann fór af baki?"

"Já, þú hefur þá erindi við hann," sagði Jón, "en ég dvelst einlægt í huganum hjá vesalings Möngu. Það er illt, ef svona er farið, sem þú getur til. Ég heyrði í gær, að nokkrir voru að stinga saman nefjum um, að meistari Brynjólfur mundi ætla að eiga systur prestsins í Hítardal, hvað sem satt er í því."

"Ég gef ekki eitt tóbaksnef fyrir allar giftingar," sagði Hallgrímur. "Mér er svo gjörsamlega sama, hvort Manga verður biskupsfrú í Skálholti eða bóndakona í Lundi. En ég þarf að finna Brynjólf, fyrst hann er kominn."

Þetta var hið síðasta, er biskup heyrði af samræðu þeirra bræðra. Hann beygði út af veginum til vinstri handar, en þeir stefndu á Þingvallabæ. En samræða þeirra gaf honum alvarlega hugvekju. Fyrst áhrærandi stúlkuna. Henni buðust ríkir og góðir ráðahagir, sem hún kinokaði sér við að taka á móti, ef til vill af því, að hann gaf henni árið áður veika von. "Það var satt, mér geðjaðist vel að henni," hugsaði hann, "og hver veit, hvert sú velvild hefði leitt, hefðum við haft lengur færi á að kynnast hvort öðru? En ekki er flas til fagnaðar, ég vil sjá, hversu tíminn hagar sér." Hann lagði höndina á hjartað, eins og hann vildi minna það á að vera hyggið. "Um auð kæri ég mig ekki. Stúlkan fellur mér ágætlega í geð, og meira að segja, hjartað bendir mér helzt á hana. En einmitt þess vegna vil ég vega sem bezt það, sem mælir með og móti. Hjartað er oft óvegvís leiðtogi, en við eigum að drottna yfir því og öllum tilhneigingum þess. Það vildi annars vel til, að ég heyrði á ræðu þeirra bræðra. Jón unir illa núverandi stöðu sinni, en mig vantar ráðsmann. Orm hef ég ekki lengur en þetta árið út. Ég ræð Jón til mín. Hann er af góðum ættum og merkur maður." Biskup gekk fram hjá búð Þórðar prests og rankaði ekki við sér fyrr en klappað var á herðarnar á honum og sagt: "Líttu við, biskup." Hann leit við og sá, að þar var kominn Þórður prestur úr Hítardal. Nú heilsuðust þeir vinalega, því að heilt ár er langur tími funda á milli.

"Ég er lengi búinn að gæta að þér, vinur," mælti Þórður prestur, "og loksins hef ég þá fundið þig, en hversu umbreyttan. Þú, sem jafnan ert svo uppleitur og tígulegur á svip, að öllum stendur af þér virðingarblandin ógn, gengur nú niðurlútur með hendurnar fyrir aftan bak, eins og allar syndir heimsins hvíli á herðum þér? Víst er um það, að við prestar þínir erum margir kolsvartir syndaselir, en misstu ekki kjarkinn að óreyndu."

"Seint mun gamansemin yfirgefa þig. Það er eins og lífið komi eins lítið við þig eins og vatnið við svaninn. Jafnan hitti ég þig og kveð glaðan og ánægðan, en ég var ekki að athuga stöðu mína. Hana fer ég fyrst að íhuga, þegar ég held hinn almenna prestafund. Það var alls annars eðlis, sem hugur minn snerist að núna."

"Ójá, þess háttar leiðslu þekkir maður, hún kemur helzt yfir unga, ógifta menn, eins og t. d. þig og mig," sagði Þórður prestur brosandi, "en ég átti að bera þér kveðjur og var nærri því búinn að gleyma þeim."

"Hverra eða hvers?" mælti biskup og brá ofurlítið lit.

"Systur minnar og fleiri kunningja," kvað Þórður. Biskup beygði höfuð til þakklátrar viðurkenningar og hefði vafalaust haft gaman af að spyrja vin sinn eitthvað frekar um heimilishag hans, en hann þagði. Hvað það var, sem hélt tungu hans bundinni, vitum vér ekki, en allir dauðlegir eru veikleikanum háðir. Að vísu stóð Brynjólfur biskup frammi fyrir samtíðarmönnum sínum útbúinn ágætum hæfileikum til líkama og sálar, en þegar hann skyggndist inn í fylgsni tilfinninga sinna, fann hann glöggt, að hann var veikur og ófullkominn maður, þó að það væri öðrum hulið, og því brá hann lit. "Mun ég vera öldungis sýkn í augum þessarar konu?" hugsaði hann. "Eða jafnvel í augum Þórðar vinar míns, þó að hann láti það ekki í ljós? Nei, ég er sýkn í augum heimsins og réttvísinnar, sem tekur hegningarsverðið sér í hönd, þegar hún hefur þrjózkuna fyrir sér, en ég er ekki sýkn saka í mínu eigin hjarta, og hvers vegna ekki? Af því að það hefur verið veikt og mannlegt móti vilja sínum," og biskup varpaði mæðilega öndinni í viðurvist vinar síns, er ekkert skildi í því.

"Víslega hefur hagað því
harri sólarranna,
að viti hver hjarta annars í
enginn lifandi manna,"

segir gömul vísa.

Nú gekk biskup með Þórði presti í tjald höfuðsmannsins Pros Mundts og svo til fleiri höfðingja. Hann setti prestastefnu, eins og vant var á Þingvelli, og ályktaði með kennimönnum, að þaðan af skyldi prestafundur Skálholtsbiskupsdæmis haldast árlega á Þingvelli, og skyldi þá rætt um kosning presta o. s. frv. Hann var í öllum ræðum sínum og boðum hinn einarðlegasti.

Það var farið að líða á þingið. Flest mál voru nú ýmist rædd og útkljáð, eða þá þeim hafði verið vísað heim aftur í hérað sem ótímabærum. Höfuðsmaður hafði látið ræða og endurræða um allt fylgifé kirknanna. Í konungs nafni krafðist hann upplýsinga um hvað eina, er kirkjunum tilheyrði, af hendi andlegu stéttarinnar. Á þinginu fór fram lögmannskosning, og hlaut hana Magnús Bjarnarson á Munkaþverá, að vilja höfuðsmanns, en eigi þjóðarinnar. Þar var og ályktað, að hreppstjórar skyldu hafa umráð yfir eftirlátnum munum snauðra manna og margt fleira.

Uppi í brekkunni fyrir ofan, þar sem forðum stóð Valhöll Snorra Sturlusonar, stóð í þetta mund grátt, óálitlegt vaðmálstjald, umkringt af öðrum stærri. Í kringum það gengu tveir menn, hvor við annars hlið, og voru í djúpri samræðu. Annar maðurinn var hár og þrekinn, dökkur á brún og brá og ólánlegur álits, án þess þó væri hægt að segja hvernig. Þvert á móti, væri litið á hvern einstakan lim og drátt í andliti hans, var hann að minnsta kosti án lýta, en eigi að síður, þegar allt kom saman í ásjónunni, setti hvað ólundarsvip á annað, svo að maðurinn mátti kallast ófríður í meira lagi. Þessi maður var Illugi Bjarnason, ókvæntur og vel fjáður maður, náfrændi Þorsteins prests Bjarnarsonar á Útskálum. Það voru þeir frændur, sem töluðust við, er þeir voru á gangi í kringum tjaldið. Þorsteinn prestur tók til máls og sagði:

"Veit ég það, að jómfrú Kristín í Hítardal er góður kvenkostur, en þó held ég, að ekki grói hamingjujurt okkar frænda í þeim garði, eða hefurðu ekki grennslazt eftir skapferli konunnar og þeirra systkina?"

"Að vísu hef ég gjört það," sagði Illugi. "Ég kom þar í fyrra og átti tal við konuna úti á túninu. Þórður prestur var þá að fylgja Brynjólfi Sveinssyni, og ég gat því ekki rætt málið við hann."

"Það er nú svo, ljúfurinn minn. Hverju svaraði hún?" spurði Þorsteinn prestur?"

"Hún sagðist ennþá ekki vera farin að hugsa um giftingar og stóð upp, enda held ég, að hún hafi verið annars hugar, því að menn eru að segja, að Þórður prestur muni vilja gifta hana biskupinum."

"Slík svör þekkir maður vel, frændi. Þetta segja allar stúlkur, þó að þær gráti nótt og dag af giftingarlöngun, en þar mun þó fiskur liggja undir steini, sem þú segir. Leikur þér hugur á meyjunni?"

"Í meira lagi, held ég."

"Er Þórður prestur hér á þinginu?" spurði Þorsteinn prestur.

"Hann er hér, en leggur bráðum af stað heimleiðis," kvað Illugi.

"Það er nú svo. Það kostar það, að við verðum að finna hann áður en hann fer."

"Biskup verður mér líklega hlutskarpari," sagði Illugi og stundi við.

"Vegur mun til að vita, hvort það verður," kvað Þorsteinn prestur. "Margt hefur mér í draumum birzt, þegar ég hef alvarlega óskað þess. Við skulum ríða í nótt, þegar allir eru gengnir til hvíldar, og vita, hvers ég þá verð viss í þögn næturinnar."

Um kveldið síðla riðu þeir frændur frá tjaldi sínu og stefndu til Ármannsfells. Veður hafði verið hlýtt um daginn, en nú voru farnir að draga sig saman gráir skýbólstrar hér og hvar í loftinu. Þeir frændur stigu af hestunum fyrir neðan Meyjarsæti og klifruðu upp á það.

"Hér er víðsýnt, frændi," sagði Þorsteinn prestur, er hann stóð uppi á sætinu og renndi augunum yfir allan flötinn, glímu- og frægðarvöllinn gamla. Hann snerist á hæli og mælti: "Hér er víðsýnt, frændi." Þá mætti Jórukleif, draugakleifin gamla, augum hans. "Hér er víðsýnt, frændi," mælti hann enn, "allur Kaldidalur blasir við augum mínum. Hér eru vegamót margra vætta. Um þessar stöðvar svífa gamlar ástardísir og öfundarnornir fornaldarinnar. Nornirnar hafast við á Kaldadal, þar sem kólga og dimmviðri drottnar, en dísirnar reisa enn í dag tjöld sín á Hofmannafleti undir huluvæng tímans. Þær eru ásbornar, en hinar runnar frá Helju."

"Sitt hefur hver að kæra," segir máltækið. Ólafur Gíslason var nú kominn í smásveinsþjónustu biskups og var eins og aðrir hrifinn af náttúrufegurð Þingvalla. Hann var oft snemma á fótum á morgnana, því að á þessum stað bar margt fagurt fyrir augað um sólaruppkomu. Snemma um morguninn eftir för þeirra frænda til Ármannsfells reikaði Ólafur Gíslason til haugs Þorleifs jarlaskálds, lagðist þar endilangur á grúfu, og studdist fram á hendur sínar, teygði tunguna og kvað: "Hér liggur skáld," og vatt því á ýmsa vegu. Má vera, að hann hafi hugsað, að haugbúi hefði góðar gjafir til fyrir fleiri en Hallbjörn hala. Að pilturinn hafi verið ófrýnn í þessu ástandi er víst enginn efi á, enda hefur hesti Illuga Bjarnasonar þótt það, því að hann rammfældist og varpaði Illuga svo óþyrmilega af baki, að annar fótur hans gekk úr liði um öklann. Það vildi svo til, að þeir frændur voru þá á heimleið frá Ármannsfelli og riðu skammt frá haugnum.

"Það er ekki ólánsmaður, sem enginn hefur illt af," sagði Þorsteinn prestur, en Illugi sagði: "Þeir lifa lengst, sem með orðum eru vegnir. Taktu honum heldur tak í verkinu," og hann sendi Ólafi, sem hljóp heim að biskupstjaldi og átti fótum sínum fjör að launa, hatursfullt augnaráð.

Þorsteinn prestur stumraði fyrst yfir frænda sínum og sagði svo: "Þú munt verða stirðfær að krjúpa fyrir Þórði presti í dag, það verður þá að bíða síns tíma, en svo hafa mér draumar fallið í nótt, að ekki mun þurfa að óttast meistara Brynjólf þar. Hann hefur augun í annarri átt, og enga giftu bera ættbogar þeirra Þórðar prests saman, uggir mig, og vil ég nú sem skjótast halda af þingi, áður okkur mæta fleiri slys."

"Við hverju er líka að búast?" sagði Illugi, sem nú var með hjálp frænda síns kominn á bak. "Hádanskir föðurlandsóvinir vilja fara að færa inn í landið málma-rannsókn, brúargjörðir, sjúkrahús og hvers kyns óheyrð býsn. Mig væntir, að vættir Íslands eiri slíku illa, ef á gang kemst."

"Ójú, það gengur að vísu ennþá ekki nema í hvíslingum, en mig uggir áður en mörg alþing líða, að þeir góðu herrar vogi sér að ræða málið hátt í lögréttu," sagði Þorsteinn prestur. "Þá vildi ekki Krukkur lifa, þótt kost ætti."

Að morgni næsta dags tók meistari Brynjólfur sig upp til bnrtferðar. Hann réð til sín fyrir ráðsmann Jón Halldórsson og bað Hallgrím bera ættingjum hans kveðju, "einkum Margréti," bætti hann við brosandi. "Við vorum samferðamenn."

Eftir það reið biskup heim í Skálholt, tók á móti stað og kirkju af erfingjum Gísla biskups og hóf síðan fyrstu kirkjuvitjunarferð sína um Vesturland.

Um veturinn sat biskup heima á staðnum með mikilli rausn, og var þá með honum Torfi stúdent Jónsson, bróðurson hans frá Núpi í Dýrafirði, sem síðan varð biskupi styrkur og stoð í raunum hans á seinni árum. Með þeim Torfa og Ólafi tókst þegar góð vinátta, þó að þeir væru óskaplíkir og á ólíku menningarstigi, og hélzt hún æ síðan. Engan af staðarmönnum hafði biskup í þjónustu sinni lengur en það ár, sem þá var að líða, nema Svein gamla, og hugðu menn hann endurgyldi honum þannig bréfburðinn. Steinunn dóttir hans varð og kyrr. Biskup tók Sæmund þann, sem fyrr er getið, til að kenna Ólafi undir skóla, og byrjaði hann þá að taka fátæka pilta til kennslu, sem hann síðan hélt áfram að gjöra meðan hann lifði, og mest síðustu árin.


5. kafli

Tíminn líður með jöfnum hraða, hversu sem á stendur, hvort sem vér mannanna börn heldur óskum, að hann fari sér hraðara eða seinna. Veturinn var liðinn, og vorið með öllum sínum frjóvgandi undrakrafti er að nýju riðið í garð og hefur nú lagzt í skaut hásumarblíðunnar. Allir, sem gátu, riðu til alþingis, sumpart til að sýna sig og sjá aðra, sumpart til að hlusta á ræður manna og mál og koma svo vitrari og fróðari aftur heim í sveitirnar og segja fréttirnar af gamla alþingi, því að þar voru saman komnir ekki einungis beztu synir landsins, heldur, og ekki sjaldan, hádönsk óskabörn sjálfs konungsins, klædd pelli og purpura, ef svo mætti að orði kveða. Það var því engin furða, þó að almúginn, sem sjaldan sá nýjungar, girntist að líta skrúðgöngu innlendra og útlendra höfðingja með korða við hlið, upp á gamla Lögherg, girntist að heyra margar trumbur og útlend hljóðfæri sameina margbreyttar raddir sínar við söngva hinna rómsterku landsins sona, sem nú voru farnir að lesa úr storknuðu rúnaletri hraungjánna orðið: frelsi, er þó að vísu hlaut að fela sig í djúpi hjartnanna, því að landið var háð útlendu valdi, sem ekkert frelsisorð vildi heyra.

Meðal þeirra höfðingja, sem sóttu þetta þjóðþing, var hinn ungi, ókvænti biskup í Skálholti. Hestur hans stóð þegar söðlaður á hlaðinu innan um marga aðra söðlaða gæðinga, því að allir tignir menn í nágrenni biskups kusu heldur að ríða til þings með honum en aleinir. Meðan gestirnir tygja sig til ferðar, gengur Brynjólfur biskup mjög þungbúinn um gólf í kór Skálholtskirkju. Hann nam staðar frammi fyrir altarinu og sagði við sjálfan sig: "Ekki er allt unnið með tigninni. Ég hef verið tæpt ár biskup og hef þó ótal áhyggjur, og þær eru þó þeirra verstar, sem leggjast á hjartað." Hann tók upp bréf og las um hríð, stakk því síðan aftur í vasa sinn, um leið og hann fór aftur að ganga um gólf.

"Svo skrifar Þórður prestur. Ég get lesið út úr hverri línu þunglyndi, er hann minnist á systur sína. Ég get mér til um ástæðuna og er engan veginn sýkn saka eða kærulaus fyrir tilfinningum hennar. Og svo á hina hliðina Margrét. Ræða þeirra bræðra í fyrra kom mér svo fyrir, sem ég væri henni ekki gleymdur. Það er ekki unnt að gjöra tvo mágana úr einni dótturinni," og biskup stundi við. "Er það staðan, er það tignin, sem gjörir mig girnilegan? Ég veit það ekki. Væri svo, met ég ást þeirra að vettugi. Eða er ég sú herfa, að ég geti ekki gengið í augu kvenna að stöðunni undanþeginni?" Og biskup horfði niður um sig allan, eins og hann vildi sannfæra sjálfan sig um það gagnstæða. "Nei," sagði hann, "Kristínu hef ég þekkt og virt í mörg ár, og ég var þá engu líklegri til að verða nokkur höfðingi en hver bóndason, og hún var mér jafnan hin sama, svo blíð og einlæg. Við ræddum oft saman um skólalíf mitt, um kvenbúninga og hvað annað, sem okkur datt í hug. En," bætti hann við eins og til að þagga niður innri ásökun, "ég hef ekkert orð sagt við hana, sem gat lýst meira en virðingu. En Margréti hef ég heitari tilfinningu fyrir. Hin er líka af sýktu blóði." Biskup settist niður við altarishornið og ritaði stundarkorn, stóð upp, gekk um gólf, settist niður og ritaði svo aftur, öldungis eins og efni bréfsins ylli honum megnrar áhyggju.

"Eruð þér, herra biskup, búinn til ferðar?" sagði Jón Halldórsson, sem kom inn í þessu.

"Já, eftir svipstund," sagði biskup, "en færið þér mér ljós."

Ljósið kom. Biskup innsiglaði bréf það, sem hann hafði ritað, með handhring sínum, rétti það síðan að Jóni og sagði: "Þér farið norður á morgun. Er ekki svo?"

"Jú, herra."

"Berið þá þetta bréf fyrir mig," sagði biskup. Jón tók við bréfinu, leit utan á það og sagði:

"Það er til móður minnar, sé ég."

"Svo sýnir að minnsta kosti utanáskriftin," sagði biskup, "og ég býst við, að fá svar upp á það á Þingvelli."

"Á ég að láta þau orð fylgja, herra?" sagði Jón.

"Nei, morgundagurinn skal sjálfur bera umhyggju fyrir sér. Er nú nokkru óráðstafað áður en ég fer?"

"Ekki man ég það, herra."

"Þá er ekki eftir nema að stíga á bak, og það er fljótgjört," sagði biskup brosandi og gekk út. Voru þá allir hinir út komnir.

Alþingi var sett, eins og lög gjöra ráð fyrir. Það var vel sótt að vanda. Meistari Brynjólfur setti og prestafund, en aðeins tveir prófastar komu af þeim, sem áður voru til nefndir, og alls enga afsökun sendi hinn óhlýðni kennimannalýður biskupi sínum, og undi hann því mjög illa.

Öll mál voru fullrædd og útkljáð. Mundt höfuðsmaður bauð að vanda í heyranda hljóði að láta alla menn, bæði innlenda og útlenda, ná rétti sínum og sitja sjálfur yfir þar til þeim yrði lokið, en enginn gaf sig fram. Lögmenn sögðu upp alþingi, og eftir það gekk hver til búðar sinnar.

Hið sama kveld gengu tveir menn upp í Almannagjá í djúpri samræðu. Það voru þeir meistari Brynjólfur og Þórður prestur "Ekki þykir mér boðum mínum hafa verið hlýtt," segir Brynjólfur. "Hvað mun þá seinna, ef mér auðnast að lifa og halda embætti?"

"Þú meinar, að vér kennimennirnir höfðum óhlýðnazt boði þínu með að sækja prestastefnuna," sagði Þórður prestur. "Ég var þó betri en margir aðrir, ég kom, þótt seint væri, að sjá þig."

"Já," segir biskup, "það lítur ekki vel út."

"Kennimannalýðurinn ætlar sér einmitt hið sama og þú, nefnilega að temja þig í æsku, svo að þú verðir ekki of heimtufrekur og ráðríkur."

"Mig auðnast þeim aldrei að temja," sagði biskup.

"Ef þú einn ert þeim öllum ofurefli, hvað munu þeir þá allir þér?"

"Ég klaga þá fyrir konungi og fæ þá alla lögskyldaða til að mæta, eða ég afsala mér embættinu að öðrum kosti."

"Það er mitt ráð, að þú takir þér þetta ekki nærri," sagði Þórður prestur. "Það mun ganga betur mest, og svo jafnan betur og betur úr því, þangað til allur kennimannalýðurinn lýtur þínu boði og banni. Er ekki vert að bíða?"

"Þessa spá þína efa ég mjög, Þórður," mælti Brynjólfur og brosti við, "þó að þú segist vera forspár. En viltu ekki slá til að koma með heim til mín? Þú hefur oft verið að tala um að gjöra alvöru úr því."

"Ferðu þá rakleiðis heim til þín?" spurði Þórður prestur.

"Nei, vinur," kvað biskup. "Fyrst ríð ég suður til Bessastaða með Magnúsi lögmanni og umboðsmanni. Þar semjum við til fullnustu um staðarálagið, sem ég lét lesa upp í lögréttu, að ég krefðist af erfingjum herra Gísla, og þaðan ríð ég svo gagngjört heim í Skálholt."

"Þetta eyðir fyrir mér allt of löngum tíma," sagði Þórður prestur, "og mun ég ekki heimsækja þig að þessu sinni. En hefurðu fundið Jón ráðsmann þinn að máli? Hann reið ofan á Þingvöll í dag og kemur norðan úr Eyjafirði."

Biskupi brá undarlega við. Kvaðst hann enn ekki hafa fundið hann. "En við höfum dvalizt hér lengi, og því ætla ég að bjóða þér góðar nætur," og hann rétti Þórði presti höndina.

"Er þér slíkur hraði á höndum? Ég þyrfti enn margt við þig að tala."

"Á morgun er aftur dagur," sagði biskup.

"Að sönnu, en ekki dagur fyrir okkur að ræða saman, því að á morgun um sólaruppkomu kveð ég gamla Þingvöll. Ég sleppi því þá að sinni." Að svo mæltu kvöddust þeir með kærleikum og gengu sína leið hvor. Brynjólfur gekk til tjalds Magnúsar lögmanns og með honum í tjald hirðstjóra. Þar dvöldust þeir við öl og samræðu fram á kvöld.

"Já, já, þá er nú blessaður dagurinn á enda," sagði Brynjólfur við sjálfan sig, er hann leit í huganum yfir viðburði hans. "Þeir hafa verið margvíslegir," sagði hann. Gleðiblandið áhyggjuský sveif yfir honum, um leið og hann tók tvö bréf upp úr vasa sínum og las með sjálfum sér. Þau hafði Jón Halldórsson fært honum. Annað var frá húsfrú Halldóru, svar upp á bréf hans, og æskilegt svar var það, sem við mátti búast. Það þótti engin hneisa að mægjast við Brynjólf biskup. Hitt bréfið var frá Margréti dóttur hennar. "Ég verð þá að vitja meyjarmálanna undir eins og úttekt eða endurúttekt (Árið áður var staðurinn tekinn út, en biskup þóttist vanhaldinn og krafðist nýrrar úttektar. Fékk hann hundrað hundraða í jörðu í ofanálag.) staðarins er lokið," sagði hann hálfhátt, um leið og hann braut bréfin saman og stakk þeim í vasa sinn og stóð upp. "Hver er þar svo síðla á ferð?" sagði biskup og leit út. Það var eins og hann bæri kennsl á manninn. "Látum sjá, hann kemur hingað," og hann settist aftur í sæti sitt og beið þess, sem inn kom.

"Gott kvöld, herra," sagði komumaður, sem var fremur brúnamikill, bólugrafinn og óliðlega vaxinn.

"Hallgrímur Pétursson," var allt, sem biskup sagði, og mældi manninn með augunum. Hann tví- eða þríhristi höfuðið alveg forviða."

"Sá er maðurinn, herra."

"Já, sá er maðurinn, sé ég er," sagði biskup hrærður. "Og svona er maðurinn orðinn af sjálfskaparvítum einum."

Hallgrímur leit niður á sig, eins og hann væri að aðgæta, hvort sauðsvarta duggarabands-peysan og gráu vaðmálsbuxurnar sómdu sér svo illa. Þegar hann hafði virt sjálfan sig fyrir sér og hnyklað brýnnar, mælti hann: "Hold er mold, hverju sem það klæðist, herra."

"Hefðir þú verið kyrr á Frúarskóla, eins og ég vildi, þá hefðir þú vissulega litið öðruvísi út nú."

"Líklega, en ástin hefur dregið mig inn á þennan veg."

"Inn á þennan veg," endurtók biskup. "Hver er vegurinn, má ég spyrja?"

"Ég er nú að færa Hvalnesingum hesta sína," sagði Hallgrímur.

"Það er dýr og óþörf ást, sem umbreytir skólanum í hesthús. Hefði konan verið göfug sjálf og af göfugum ættum, var það sök sér. En með svona mörgum göllum, jafnvel ekki hrein í trúnni, hvað þá meira! Vissulega freistast ég til að óska, Hallgrímur, að ég aldrei hefði tekið þig úr járnsmiðs verksmiðjunni."

"Látið yður ekki iðra þess, herra," sagði Hallgrímur. "Gott eitt gekk yður til, má og vera, að gott af leiði. Tign og ættgöfgi er ekki einhlítt gæfu-akkeri."

"Veit ég það," sagði biskup, "en hvort sýnist þér enginn munur á kjörum göfugmenna hér á þingi og þínum?" Og biskup benti á Torfa Erlendsson, sýslumann Hvalnesinga, sem þá gekk til búðar sinnar á skínandi rauðum klæðum.

"Í yztu myrkrum enginn sér
aðgreining höfðingjanna, herra".

Biskup sneri sér undan og brosti, því að Torfi sýslumaður var enginn vin hans fremur en Hallgríms. Annars hefði málið að líkindum fengið aðra stefnu. "Það er orðið framorðið, Hallgrímur, hér eru nokkrir skildingar til ferðarinnar," sagði biskup. "Góðar nætur." Hallgrímur þakkaði og gekk leiðar sinnar. Biskup sagði við sjálfan sig um leið og hann horfði á eftir honum: "Það er ekki mitt meðfæri að leiða þennan mann á réttan veg, einþykknin er svo mikil. Ég verð að fela forsjóninni það, og þó er sorglegt að sjá jafn djúpsæjan anda og góða skáldskapargáfu verða að engu. En eitthvað verð ég að gjöra fyrir hann, ef hann á ekki að verða að.... ég veit ekki hverju. Hvalnessóknir eru ekki eftirsóttar. Vera kynni, að Hallgrímur dugi til þjóna þeim, en gefi hann Torfa sýslumanni margar vísur slíkar sem í kvöld, býð ég ekki fé við vináttu þeirra."


6. kafli

Nokkru eftir að Þórður prestur í Hítardal var heim kominn, var það eitt kveld síðla, að þrír menn riðu að garði prests. Tveir þeirra voru tígulega klæddir, og gekk annar þeirra við hækju, en einn leit út fyrir að vera fylgdarmaður. Þeir stigu af hestum sínum og gjörðu boð fyrir prest, sem þegar leiddi þá til stofu. Hóf Þorsteinn prestur máls og sagði:

"Ég mun hafa engan hetjusið og bera þegar upp erindið, en vera enginn vonbiðill þinn, Þórður prestur."

"Flestir förumenn luku erindum sínum að morgni, en ekki svo síðla sem nú er," sagði Þórður prestur. "Þó ert þú sjálfráður, en það áskil ég mér sem húsfaðir, að þið þiggið að mér beina til morguns, hversu sem fer um málin."

"Það mun þér veitt verða," sagði Þorsteinn prestur og hneppti að sér hempunni, er hann hafði riðið í um daginn.

"Þú ríður þá prestskrýddur svo langa ferð," sagði Þórður.

"Já, nema kragann vantar ennþá," og hnýtti honum þegar um háls sér. "Ég vil, að postular drottins sé auðkenndir, hvar sem er, eins og sauðir innan úr höfrum." Og um leið strauk Þorsteinn hökuskegg sitt og háls, sem bezt hann mátti, og setti andlitið, handleggi og hvað eina af líkamanum í hæfilegar skorður, áður hann tók sér sæti við gluggann.

"Þeir verða þá að bera af í fleiru en í búningnum," sagði Þórður prestur brosandi.

"Það gefur að skilja. En svo er nú mál með vexti, og hingaðkomu vorri er svo farið, að maður girnist mey að boði og vilja löggjafans, og eins og kvikfénaður vor leitar innan um græn grös og jurtir og kýs eigi ævinlega það, sem næst er, þó að kostalegt sé, þá er því svo farið, að dómsmaður Illugi frændi vor girnist yðar heiðursverðu systur Kristínu Jónsdóttur sér fyrir eiginkonu. Ekki þar fyrir, að ekki sé nóg af broshýrum, tignum og skírlífum yngismeyjum þar syðra hjá oss, en það er eins og ég sagði um fénað vorn, hann girnist eigi ævinlega þau blóm, er næst honum eru, og vil ég nú vita, bróðir, hvort þú vilt selja sveininum í hendur þennan fífil úr þínu akurlendi."

Meðan á ræðunni stóð, átti Þórður fullt í fangi með að verjast hlátri og sýnast alvarlegur. Hann svaraði síðan stillilega: "Mig minnir, bróðir, að þessar ungu jurtir hafi rætt þetta sín á milli í fyrra, og ekki hafi viljað ganga saman með þeim."

"Rétt er það, bróðir, en þú varst þá ekki heima, og konur geta ekki ráðið einar úr slíkum vandamálum, enda hafa orð þeirra upp á eigið eindæmi ekkert að þýða."

"Svo að þú hefur þá skoðun. Ég er nokkuð á öðru máli. Systir mín ræður sér gjörsamlega sjálf," sagði Þórður prestur brosandi.

"Þá er bezt að láta meyna koma inn," sagði Þorsteinn prestur. Svo var gjört. Jómfrú Kristín var sett á útskorinn bekk. Við hlið hennar sat Illugi Bjarnason. Þorsteinn prestur stóð frammi fyrir þeim og hóf bónorðið á þessa leið:

"Heiðursverða yngismey! Það er ekki gott, að maðurinn sé einsamall, ég vil útvega honum meðhjálp, er með honum sé o. s. frv. Þessa meðhjálp hef ég útvalið yður til að vera fyrir þennan göfuga yngismann, minn eigin náfrænda, hér í okkar prestanna viðurvist. Ef þér kunnið að meta tiltrú og virðingu þá, er við veitum yður, þá réttið þessum sveini ómengaða, ósvikna og hreina jómfrúhönd yðar sem heitmey hans nú, en eiginkona hans síðar." Þorsteinn hefði, ef til vill, haldið áfram enn, en þá gat Kristín ekki lengur varizt hlátri, heldur skellti upp úr og sagði:

"Nei prestur minn, ég get ekki orðið við tilmælum yðar."

"Hvað? Getið þér ekki, og viljið þér ekki verða við þessmn tilmælum?" kallaði Þorsteinn prestur með svo dynjandi rödd, að bæði hjónaleysin hrukku við. "Vitið þér, óskynsama og óþakkláta mær, hverjum þér neitið? Vitið þér, að þér neitið einhverjum hinum ættgöfugasta og tignasta Íslands syni, Illuga, frænda hins hálærða, vitra og göfuga Þorsteins prests Bjarnarsonar, sem trautt mun eiga sinn líka í lærdómi, ættgöfgi, djúpsæi, heimspeki og náttúrufræði og ýmsu fleiru?"

Þórður prestur horfði brosandi á stéttarbróður sinn, sem gaf honum óhýrt augnaráð, en brosið var einlægt að fæðast og deyja á vörum Kristínar, en svo mikið vald hafði hún yfir tilfinningum sínum, að alls einu sinni undir þessari skrýtnu ræðu og ennþá skrýtnara látbragði bar hláturinn ofurliði. Loks sagði Þórður prestur, til að gjöra enda á þessu:

"Við verðum þá, sé ég, að sleppa þessum heiðarlegu mægðum, bróðir, því að konur eru hinar erfiðustu skepnur til að láta sannfærast, þegar hjartað er ekki með í leiknum. Þá troða þær ættgöfgi og hvers konar heiður undir fótum sér eins og óþarfa glingur."

"Svo fór og fyrir Hevu móður vorri forðum," sagði Þorsteinn prestur, "en það uggir mig, að þeir tímar muni koma, að bæði meyna og þig muni þessa iðrast, þegar um seinan er orðið."

"Vér stígum sjaldan það spor hér á jörðunni, að það hefði ekki verið heppilegar stigið," sagði Þórður prestur ennþá brosandi, "en við verðum að búa við eðli vort, hversu sem það er. En nú er meir en mál komið að fara að matast."

"Nei, alls engan mat skulum við hafa, er hneisan og nóg máltíð, en hér skulum við eftir loforði mínu náttstað hafa í nótt. Eigum við að hafast hér við í stofunni?"

"Já, bróðir, ef þú álítur hana hæfilegt herbergi."

"Það er ekkert á móti því. En þá vil ég þegar bjóða góðar nætur."

"Alls engan mat, mjöð eða annað?" sagði Þórður prestur spyrjandi.

"Nei, alls engan. Góðar nætur, stéttarbróðir, góðar nætur, yngismær. Ég óska yður góðs og indæls draums," sagði Þorsteinn prestur, og hann rétti þeim höndina að skilnaði og skellti síðan í lás.

"Svona fór það þá," sagði Þorsteinn prestur, er þeir Illugi voru tveir einir. "Ég hugði aldrei, að Þórður prestur mundi svo lítilsvirða orð mín. En seinna koma sumir dagar og koma þó!"

Frá þeim Þórði presti og systur hans er það að segja, að þau voru engan veginn svo ánægð með þessa heimsókn sem þau létu. Allir vissu, að þeir frændur voru mestu viðsjálsgripir og kallaðir galdramenn, þó að lágt færi, og hafði mörgum óvinum Þorsteins hankazt á. Raunar var Þórður prestur ekki svo trúaður á það sem Kristín systir hans. Þau lögðu niður ráð sín fram á nótt. Sumarið áður hafði Illugi heitið að senda draug að Hítardal, er Kristín neitaði honum fyrir þing. Nú var ekki að búast við betra, þar eð Þorstein prestur var miklu magnaðri í galdrakukli og vonzku. Í þá daga riðu draugar görðum og grindum hér og hvar um land. Þórður prestur kvað trúna eina fóðra slíkar ímyndaðar forynjur sem drauga og sendingar, og fyrst trúin væri hér annars vegar, þá væri ekki að vita, hverju hún orkaði. Þeim systkinum kom þá saman um, að Kristín skyldi fara kynnisför norður í land og dveljast fyrst á Skriðu í Hörgárdal hjá húsfrú Halldóru, ekkju Halldórs heitins lögmanns, og svo hjá Guðrúnu móðursystur sinni, konu Magnúsar lögmanns. Þær höfðu báðar boðið henni til sín. En svo skyldi hún hverfa heim aftur fyrir jólin. Þetta gjörði Kristín, bæði sér til skemmtunar og til að forðast árásir þeirra frænda, er ekki mundu vita, hvert drauginn skyldi senda, er þeir vissu ekki, hvar hana yrði að hitta. Þetta gjörðist aðfaranótt hins 9. águústmánaðar. Eftir það lögðust þau til svefns.

Þegar Kristín var sofnuð, dreymdi hana, að hún væri á ferð einhvers staðar, þar sem hún ekki þekkti sig. Stór og mikil á var á aðra hönd, og þóttist hún lengi ríða með fram henni eftir stórgrýttum eyrum. Loksins kom hún að stórum og reisulegum bæ. Þar þóttist hún stíga af baki, og fannst henni hún vera orðin þreytt. Kom þar út öldruð kona, fríð sýnum og alvarleg á svip, og leiddi hana til stofu. Þegar hún kom þar, var Brynjólfur biskup hinn fyrsti, sem varð fyrir augum hennar. Henni þótti hann einhvern veginn verða svo undurfurðulegur og líta til jarðar, er augu þeirra mættust. Marga mikilsháttar menn þóttist hún sjá þar, er hún ekki þekkti, en þar á meðal þóttist hún þekkja þá Þorlák biskup á Hólum og Magnús lögmann á Munkaþverá. Skjal eitt stórt, ritað lá á borðinu, og sá hún Brynjólf biskup rita nafn sitt undir það. Því næst gekk fram bjartleit, snotur stúlka, sem sömuleiðis ritaði nafn sitt undir skjalið, og svo hver af öðrum þeirra, er inni voru. Hún þóttist horfa undrandi á þetta, en gamla konan, sem hafði boðið henni inn, mælti við hana: "Fáðu þér sæti, því að þú ert komin í veizlu." Hún þóttist draga sig út í horn og setjast þar, en það þótti henni verst, að allra augu horfðu á hana, nema biskups, hann var jafnan niðurlútur og eitthvað svo undarlegur. Í þessu hrökk hún upp við ræskjur Þorsteins prests, sem heimtaði með dynjandi rödd hesta sína og fylgdarmann og kvaðst einskis vilja neyta.

"Þú drekkur hestaskálina, bróðir," sagði Þórður prestur og vildi stöðva hann í dyrunum, en hinn lét sem hann heyrði ekki og vatt sér út fram hjá honum. Loft var þennan morgun sem nokkra undanfarna daga skýjað mjög og undarlegt útlits. Þorsteinn staldraði dálítið við á hlaðinu og sagði um leið og hann benti Þórði presti upp í himininn:

"Sjáðu, hversu hæðaverunum líka málalok vor!" Þórður prestur, Kristín og hinir aðrir, er úti voru, sáu riddaraflokk með skildi, sverð og hringabrynjur fara í gegnum loftið í þykkri fylkingu. Liðið var mjög harðsnúið að sjá og hestarnir hvítir, stórir og hvatlegir. Að baka til var að sjá há fjöll og foss mikinn, sem blasti fagurlega við. Sjóninni brá fyrir aðeins sem snöggvast, og hinn herklæddi flokkur leystist þegar sundur og varð að skýjamóðu. Sjón þessi hafði mjög ólík áhrif á þá, sem á horfðu. Þorsteinn prestur, sem þóttist sjá í henni hefndarengil með brugðið sverð yfir höfði þeirra systkina, lá berhöfðaður á hnjám við hestasteininn, því að þar hafði hann numið staðar, er sjóninni brá fyrir. Þórður prestur studdist upp við garðinn, og lýsti fremur undrun en hræðsla út úr andliti hans, en konur voru skelkaðar mjög.

"Nú á bak, Illugi frændi," sagði Þorsteinn prestur og stóð upp. Þórður prestur greip í ístað hans, meðan hann steig á bak. Það var gamalt og nýtt virðingarmerki. Í þessu kom Kristín út með tvo bikara fulla af freyðandi öli. Bar hún annan Illuga, en bróðir hennar bauð Þorsteini presti hinn. Illugi tók við og kvað um leið og hann tæmdi bikarinn til botns:

"Vit, þó eigi viljirðu' eiga mig,
að þér ei auðnast þar til bekks að ganga,
þitt sem hjartað mest nú eftir langar.
Sá mun bekkur setinn, uggir mig."

"Þungt er Illuga frænda nú í skapi," sagði Þorsteinn prestur, "en það hlægir mig, að mín hefnd verður á þessum stað óþörf, því að skapanornirnar taka að sér hefndina." Svo mælandi varpaði hann bikarnum með freyðandi ölinu fyrir fætur Þórði presti, og varð ekki frekara af kveðjum. Síðan riðu þeir frændur úr hlaði. En Þórður prestur gekk inn og kvaðst aldrei mundu hirða um hrakspár og álögur Þorsteins prests. Væri loftsjón þessi Fata Morgana, en enginn fyrirburður.


7. kafli

Litlu eftir þetta bjó Kristín kynnisför sína norður. Ætlaði hún að dveljast í förinni fram til jóla, en hverfa þá heim aftur, eins og áður er sagt. Alls staðar á leiðinni aðgætti hún, hvort enginn bær væri líkur þeim, er hún sá í draumnum. Brynjólfur biskup hafði gist hjá bróður hennar í Hítardal, er hann vísiteraði Vestfjörðu. Hann var þá sem fyrr ræðinn og gamansamur við Kristínu, en þá virtist henni augnatillit hans ekki eins hreint og frjálst og þá er hann sat hjá henni kveldið áður en hann sigldi. Þá hafði hann meðal annars sagt: "Bróðir yðar vill neyða upp á mig biskupstign í Skálholti, ef hann gæti. Munduð þér vilja láta hann neyða yður í frúarsæti þar?" " Augu hans töluðu meira á því augnabliki en varirnar," hugsaði Kristín. "Ég leit niður og þagði, en gat hann ekki séð, að þögn var í þessu tilfelli sama og samþykktir, og hvað átti ég líka að segja? Það getur verið, að hann hafi gleymt þessu, en hann er þó sagður mjög merkur maður og stöðugur sem bjarg í áformum sínum. Að vísu hvíla engin loforð á samvizku hans, en hvað eru loforð? Eru það þau, sem varirnar klæða í orð, eða þau, sem augu segja auga? Ég veit það ekki." Þetta var Kristín að íhuga með sjálfri sér á veginum.

Dagarnir komu og hurfu. Ferðin lá yfir vötn og dali, yfir fjöll og firnindi, og loksins kom síðasti ferðadagur hennar. Það var 30. ágúst eftir miðdegi, að þau, Kristín og fylgdarmaður hennar, sáu stóra mannahópa ríða á móti sér fram Hörgárdal og stefna að Skriðu. Það, sem mest hreif eftirtekt hennar, var flokkaskipunin, sem augljóslega sýndi, að eitthvað mikið var um að vera. Í nokkrum fjarska sá hún og blasa við mörg tjöld. Þrír og þrír riðu jafnan samhliða með jöfnu millibili, síðan tveir og tveir. Síðast riðu tveir menn mjög skrautbúnir á hvítum hestum. Þegar kom að túninu á bænum, var þessum sleppt umfram, og mynduðu hinir þétta fylkingu til beggja hliða, en þessir tveir fyrirmenn riðu í gegnum. Heilsuðu allir þeim með lotningu. Því næst sigu saman fylkingar, og allir riðu heim. Síðan tíndust menn smám saman inn, svo að ekki voru eftir úti nema reiðskjótarnir, reiðtygin og nokkrir fylgdarmenn. sem gengu ólundarlegir innan um hestagrúann, til þess að velja úr hesta húsbænda sinna, því að allt var komið í graut.

"Hvað mun hér um að vera?" sagði Kristín, og þekkti hún allt í einu sama landslagið og hún hafði séð í draumnum. Fjöllin, bærinn, eyrarnar og áin, allt virtist henni nauðakunnugt. "En hvers konar samkoma mun þetta vera?" sagði hún eins og við sjálfa sig: "Brynjólfur skyldi þó ekki vera að halda brúðkaup?" Fylgdarmaðurinn, sem heyrði spuminguna, svaraði um leið og hann reið fyrir hestana:

"Það get ég ekki sagt um, en ekki sýndist mér betur en ég þekkja í hópnum þá syni Gísla lögmanns, Vigfús og Hákon, og mér er nær að segja Magnús lögmann og Þorlák biskup, ef ég er ekki farinn að verða fjarska glámskyggn. En hér er drengur, líklega að leita að hestum, við skulum spyrja hann." "Heyrðu, drengur minn," kallaði hann, "hvað er hér um að vera?"

"Farðu heim, og vittu það, ef þig fýsir að vita," var allt það svar, sem hann fékk hjá piltinum. Hestarnir voru hver öðrum óviðráðanlegri, settu undir sig hausana og brugðu á leik víðs vegar um völlinn eins og til að skaprauna honum sem mest, enda var Ólafur Gíslason, sá var pilturinn, ekki í sem beztu geði. Hann varð sí og æ að vera á hlaupum í öllum áttum. Hallgrímur á Víðimýri var honum enginn vægur húsbóndi meðan á veizlunni stóð, því að hann var frammistöðumaður og þurfti því margra viðvika, svo að allt færi í lagi, er veizluna snerti, því að veizla er hér, eins og lesarinn mun vera farinn að ráða í.

Þau Kristín riðu heim á hlaðið í Skriðu. Fylgdarmaðurinn sendi Halldóru húsfreyju inn bréf það, er Þórður prestur skrifaði henni með systur sinni, og að vörmu spori kom út prúðbúin kona, nokkuð við aldur, fríð sínum og tiguleg. Þar þekkti Kristín þegar konu þá, er hún hafði séð í draumnum. Halldóra húsfreyja, því að sú var konan, tók henni tveim höndum og leiddi hana við hönd sér framhjá tveimur eða þremur langskálum, sem voru alskipaðir boðsgestum, og inn í bjartan og rúmgóðan sal með stórum glergluggum. Veggirnir voru tjaldaðir dýrindis voðum, fornum að vísu, en haglega gjörðum. Þessi stofa var og alskipuð boðsgestum, en þeim miklu skrautbúnari en skálagestirnir voru. Kristín horfði yfir veizlusalinn, til að sjá, hvort hún sæi ekkert kunnugt andlit innan um allan þennan aragrúa. Alstaðar er maðurinn útlendingur á jörðunni, en óvíðar verður hann þess fremur var en í gestasalnum, þar sem ótal forvitin augu mæna undrandi á einstaklinginn, sem inn kemur. Hversu óþreyjufullur leitar hann meðal fjöldans að einu kunnugu andliti, og hversu feginn verður hann, ef hann finnur það. En hér lítur ekki út fyrir, að slíkt happ mæti hinum aðkomanda. Skoðum til, hún rennir vonarblíðu, bláu og djúpu augunum frá andliti til andlitis á báðar hliðar sér. Allt í einu nema þau staðar í öndvegi. Hún fölnar og varð neydd til að styðja sig við arm Halldóru húsfreyju. Þetta stóð yfir aðeins eitt augnablik, enn skemmri tíma en þarf til að lesa það, því að augað er langtum fljótara en tungan, og tilfinningin er þó fljótari en augað. Húsfreyja sneri sér að gestunum:

"Ég hef fengið mjög óvæntan, en mér þó kærkominn gest. Hér er komin jómfrú Kristín Jónsdóttir frá Hítardal og ætlar að dveljast hjá okkur, ættfólki sínu, um hríð. En af því að ég er nú vant við komin, verð ég að biðja gestina að gjöra henni dvölina svo ánægjulega sem unnt er. Og svo bið ég yður, jómfrú góð, að skemmta yður sem bezt. Þér eruð okkur öllum svo hjartanlega velkomin. Þarna í öndvegi er Brynjólfur Skálholtsbiskup og Margrét dóttir mín. Þau halda brúðkaup sitt í dag. Til hægri handar situr Þorlákur Hólabiskup og húsfrú hans, til vinstri handar Magnús lögmaður og vandamenn. Þessa kveðju verða nú hlutaðeigendur að láta sér lynda, þar allir eru komnir til bekkjar." Meðan á þessari ræðu stóð litu þau Kristín og biskup hvort til annars, og hvorugt endurnýjaði það augnatillit síðar um daginn. Biskup horfði niður á bekkinn, en Kristín niður fyrir fætur sér, er henni var ruddur vegur gegnum mannþyrpinguna til sætis. Margrét Halldórsdóttir sat við hægri hlið biskups og var alltof sæl með sjálfri sér af hamingju sinni til þess að taka eftir, hve bónda hennar brá. Einungis einn af gestunum, er sat andspænis Kristínu, gaf nákvæmlega gætur að öllu, er gjörðist. Það var Sigurður Jónsson frá Einarsnesi. Hann mun þegar hafa séð, hvernig í öllu lá, því að ýmist leit hann til Kristínar, eins og hann hygðist að lesa í hjarta hennar, eða hann renndi hornauga til biskups, sem var venju fremur fálátur. Skjótt byrjaði veizlugleðin, og var hófið hið dýrlegasta, eins og slíkum höfðingja og meistara Brynjólfi sómdi. Margar skálar voru drukknar, margar heillaóskir fram bornar, sungið og leikið á hljóðfæri, og loks voru ýmsir af gestunum útleystir með gjöfum. Við það endaði veizlan, og þótti hún verið hafa hin virðulegasta. Ungu hjónin bjuggu sig þá til ferðar suður í Skálholt eftir nokkurn tíma og með þeim Halldóra, móðir frúarinnar, og dætur hennar þrjár, Helga, sem síðar átti Pál prófast í Selárdal, Valgerður, sem átti séra Guðmund á Keldum, og Sigríður, sem átti Torfa prófast í Gaulverjabæ. Þær kvöddu Norðurland nú fyrir fullt og allt. Í förinni voru margir höfðingjar, sem sótt höfðu boðið og riðu nú aftur til búa sinna, sömuleiðis margir þjónar og þjónustumeyjar. Kristín var og með í förinni. Hún hafði fengið nóg af Norðurlandi. Margrét biskupsfrú bauð henni til Skálholts, en hún þekktist það ekki, en vildi halda beint heim. Þorlákur biskup var einn í förinni, og hélt svo flokkurinn til Hóla. Þar reisti Brynjólfur biskup tjöld um kvöld. Daginn eftir var veður fagurt. Tignargestunum var þar búin virðuleg veizla, nærri því eins mikilfengleg og brúðkaupsveizlan sjálf. Fánar og bumbusláttur buðu gestina velkomna, og tóku margir heldri menn í Hjaltadal og víðar þátt í henni, því að Þorlákur biskup var mjög gestrisinn. Ekki skorti fróðlegar samræður, er jafnsnjallir vitsmunamenn áttu hlut að máli. Að aflokinni veizlu bjóst Brynjólfur biskup til burtferðar að nýju. Tjöldin voru felld, hestar söðlaðir, og allt var til reiðu. Þorlákur biskup fylgdi tignargesti sínum úr stofu berhöfðaður með hattinn í hendinni og bað þá heila síðar mætast.

"Ég á bráðum að koma hér aftur," sagði meistari Brynjólfur. "Ég hef skilið eftir hattinn minn inni í stofu."

"Veri það svo," sagði Þorlákur. Nú var leitað í stofunni, og ekki fannst hatturinn. Hér var ekki gott viðgerðar, að fara berhöfðaður var ekki tiltök, að fá hatt að láni var eitthvað óvirðulegt fyrir einhvern helzta höfðingja landsins. Þá kom meistari Brynjólfur auga á smásvein einn, sem reið tréstaf sínum niðri á túninu í leik með öðrum börnum. Hann féll um koll nálega við annað hvort fótmál, því að hattur sá, er hann hafði, náði honum á kinnar niður, og átti hann óhægt með að sjá útundan honum. Þar þekkti biskup hatt sinn. Þórði syni Þorláks biskups, sem þá var níu vetra, hafði sýnzt hatturinn girnilegur og tekið hann, án þess að hugsa frekar út í, hvað hann gjörði.

"Nei, bróðir, atyrðum ekki drenginn," sagði Brynjólfur biskup við föður hans. "Vera kann, að hér sé forboði annars meira, og mun sveinninn eiga að setjast í minn sess." Gaf hann sveininum fingurgull að skilnaði og hélt svo leiðar sinnar, sunginn úr hlaði af Þorláki biskupi og þeim, sem eftir voru. Slík viðhöfn mætti þeim hvarvetna, er þeir Brynjólfur reistu tjöld sín.

Hver er sá, er ekki kjósi að vera samferðamaður slíkra höfðingja og verða slíkrar dýrðar aðnjótandi, er hvarvetna skín í kringum þá? Þeir eru víst fáir og engir, nema sérstök atvik komi til. En hér var einmitt svo ástatt með einn í hópnum. Það var öðru nær en Kristínu Jónsdóttur væri létt innan brjósts í þessum flokki. Hún var því fegnari sem hún fyrr gæti slitið hópinn við þessa tignu ferðamenn. Hver dagleið var henni nokkurs konar krossganga, með því að hver dagur sýndi henni öðrum betur, hvílíkt afbragð annarra manna meistari Brynjólfur var, og hann var henni nú tapaður. Þetta atvik hafði líka komið henni svo alveg að óvörum, og hversu feginn varð hún því, þegar loksins vegirnir skiptust. Biskup fór suður fjöll, en hún sveitir, og Sigurður Jónsson, sem fyrr var getið, varð henni samferða. Skilnaðarstundin var komin. Allir voru alvarlegir og þögulir, því að hversu velkomin sem skilnaðarstundin í sjálfu sér kann að vera, er orðið skilnaður þó svo hátíðlegt, að hjartað fyllist ósjálfrátt við tilhugsun þess sorgblandinni alvöru. Því að hver dauðlegur maður er sá, að hann ekki renni huganum við slíkt tækifæri ósjálfrátt til hins mikla skilnaðar, sem öllum mætir fyrr eða síðar, og ekki vakni þá sú hugsun, hvort muni funda auðið hérna megin?

"Úr því sem komið er," hugsaði biskup, "er bezt að láta sem ekkert sé um að vera, enda var það aldrei mikið, aðeins einhver ónotaleg tilkenning, annað ekki. En geti ég í nokkurn hátt greitt götu Kristínar, þá skal ég ekki láta mitt eftir liggja í því efni. Verði mér það einhverra hluta vegna engan veginn auðið, þá er mér það ekki fyrirhugað. Með þessum fasta ásetningi í huga sér, kvaddi hann Kristínu án nokkurrar ásjáanlegrar geðshræringar, bað hana heilsa Þórði presti, bróður hennar, og segja honum, að nú yrði hann heima fyrst um sinn. Hann bað Sigurð Jónsson, sem átti ferð til Snæfellsnessýslu, að annast Kristínu sem bezt á ferðinni, þakkaði mönnum síðan með virktum fyrir komuna og bað alla heila mætast síðar. Eftir það skildist hópurinn, og fór hver sína leið.

Íslenzkar landferðir eru svo ófrábrugðnar hver annarri, að við sleppum hér að lýsa þeim. Að ríða vökrum hesti um hlemmisléttar götur og grundir, að klöngrast um torfærur og klettaklungur, ríða yfir straumharðar ár, koma heim á bæi, fá sér hressingu eða gistingu o. s. frv., er, að heita má, kjarni ferðalagsins, og getur, þegar veður er gott á sumardegi, verið einkar upplífgandi og skemmtilegt. Lofum því þessum vinum vorum að njóta ferðalagsins í næði, en hyggjum síðan einungis til ferða þeirra Sigurðar Jónssonar og Kristínar, er þau áttu spölkorn eftir heim til Hítardals. Það var síðla dags. Fylgdarmaðurinn reið síðar með lausu hestana, en þau Sigurður og Kristín á undan. Engir fleiri voru þá orðnir í hópnum.

"Er nú langt eftir heim að bæ bróður yðar?" spurði Sigurður.

"Svo sem hálfrar eyktar reið."

"Ekki lengra en það?"

"Nei, hafið þér aldrei farið hér um fyrr?" spurði Kristín.

"Jú, mörgum sinnum, en nú finnst mér allt vera orðið svo umbreytt."

"Við ríðum líka úr annarri átt heim að bænum en vant er," sagði Kristín.

"Á, það er líklega það, sem villir mig."

"Eruð þér kunnug meistara Brynjólfi?" spurði hann aftur eftir litla þögn.

Hún leit í fyrstu á hann með eins konar spyrjandi augnaráði, en þegar hann ítrekaði ekki spurninguna, sagði hún: "Hví spyrjið þér að þessu?"

"Eingöngu af forvitni, ungfrú mín."

"Já, við erum vel málkunnug, og það frá æskuárum. Bróðir minn er líka mikill vin biskups."

Sigurður beygði höfuðið til merkis um, að sér nægði svarið. Síðan segir hann aftur: "Fylgdarmaðurinn er nú orðinn langt á eftir. Lízt yður ekki að fara af baki og bíða hans stundarkorn?" Hún féllst á það. Þau stigu af hestunum og settust í grasið.

"Álítið þér," tók nú Sigurður til máls, "að vér, dauðlegir menn, kunnum jafnan að velja og hafna svo, að vel fari?"

"Nei, það álít ég ekki," sagði hún.

"Ef svo er," sagði hann ennfremur, "hví erum vér þá að syrgja það, sem forsjónin vill ekki láta verða hlutskipti vort?"

"Það er mannlegur veikleiki, sem því veldur," svaraði hún með sorgarblíðum róm.

"En til þess erum vér á jörðunni, að oss er ætlað að ganga til meiri fullkomnunar og þar með að afleggja fleiri og fleiri veikleika," mælti Sigurður og horfði um leið rólegu, en föstu augnaráði framan í Kristínu, eins og hann vildi sjá, hvaða áhrif orð sín hefðu.

"Það er maður því miður lengi að læra, og sumir skilja svo við heiminn, að þeir eru í þeim efnum veikir og ómáttugir sem börn," svaraði hún, "og það enda þeir, sem máttugir þykja."

"En eru þeir þá ekki í rauninni aumkunarverðir vesalingar? Er ekki aumkunarverður sjálfbyrgingsskapur að rísa öndverðir gegn hendi forsjónarinnar, er vill rétta oss góðar gjafir og segja: Fyrst ég ekki fékk það, sem ég vill, vil ég ekki það, sem þú vilt gefa mér."

"Svo óskynsamur er enginn," svaraði Kristín og roðnaði hægt.

"Að segja það, ef til vill, en að hugsa svo og sýna það í verki gjöra margir."

"Þessa ræða á að hljóða upp á mig," hugsaði Kristín, "hann hefur þá grafizt inn í innstu fylgsni hjarta míns og vill með þessu sýna mér, að ég eigi að sætta mig við orðinn hlut," og hún svaraði engu.

"Hér kemur þá fylgdarmaðurinn," sagði Sigurður, "þá er bezt að stíga á bak. Hvort viljið þér hægri eða vinstri?" mælti hann ennfremur og rétti fram hendurnar.

"Hina vinstri," svaraði hún.

"Það er rétt," sagði hann brosandi, "þeir síðustu verða hinir fyrstu. Þér kastið fjólunni, hún er líka búin að lifa sitt fegursta, en sjáið þér hér," hann opnar vinstri höndina, þar er hálf útsprunginn fífill, "takið þér hann og geymið til minningar um þessa samferð okkar."

Fylgdarmaðurinn kom nú. Þau stigu á bak hestum sínum, og næsti áfangi var heim í hlaðið á Hítardal.

"Hér hef ég bréf til þín, bróðir," mælti Kristín, er hún var komin inn, og rétti lúið og atað bréf að bróður sínum. "Ég tók það á bæ í næstu sveit innan úr blaðarusli, sem lá þar á víð og dreif."

"Já, svo er það, það verða einatt Hálfdanarheimtur á þessum bréfum," sagði prestur og opnaði það. Hann renndi augunum yfir það skyndilega og sagði og brá um leið lit: "Það er boðsbréf til mín frá meistara Brynjólfi, skrifað á Bessastöðum. Það var skaði, að það skyldi koma svona seint, því að nú mun hófið afstaðið, og það fyrir löngu."

"Já, og ég hef setið það fyrir þína hönd, bróðir," sagði Kristín og brosti blítt, en þó raunalega. "Biskup undraði stórlega, að þú skyldir ekki koma, en viljir þú finna hann, þá bað hann mig segja þér, að nú yrði hann heima fyrst um sinn."

"Ég verð líka heima fyrst um sinn," sagði Þórður prestur brosandi, lagði frá sér bréfið og fór að tala um annað.


8. kafli

Nokkur ár eru liðin frá brúðkaupi meistara Brynjólfs. Hann hefur lokið prestafundi á alþingi og í hverju einu haft sinn vilja fram, fengið helmingadóma aftekna og dregið dómsvald í þeim málum, er aðeins snertu klerka, úr höndum verslegu stéttarinnar og undir andlegu stéttina, eins og fleiri mál höfðu farið að hans vild. Þingtíminn er á þrotum. Biskup hefur að vanda dregið sig út úr Þingvallaskarkalanum og látið reisa tjöld sín austur við Hrafnagjá, til þess að gegna störfum sínum í næði, rita bréf og ræða við vini o. s. frv. Dagur var að kveldi kominn, biskup hafði lokið dagsverki sínu og reikaði úti fyrir tjalddyrum.

"Nú er þá prestafundi lokið, vinur, og því hef ég árætt að heimsækja þig til að tala um mín eigin mál," sagði Þórður prestur í Hítardal, um leið og hann nálgaðist biskup.

"Vertu velkominn, vinur," sagði biskup. "Það hefur verið æði tafsamt þing þetta. Mér finnst sem ég sé sloppinn úr einhvers konar fangelsi. Við skulum ganga inn í tjaldið. Já, það er vissulega satt, sem þú segir, við höfum haft lítinn tíma til að tala saman í sumar. Fyrstu dagarnir gengu til að heilsa kunningjum, reisa tjöld o. s. frv. Svo komu þingstörfin, og síðan hefur eitt málið rekið annað. Nú höfum við loks góðan tíma. Segðu mér nú eitthvað heiman að frá þér."

"Þú veizt, að ég lifi eins og blómi í eggi, ekki sízt síðan ég giftist hérna um árið. Hér er ég, og þú getur dæmt um, hvort mér fer fram eða aftur."

"Jafnan ertu glaðlyndur, Þórður, en hversu líður Kristínu systur þinni? Það hefur aldrei borið í tal með okkur."

"Hún er bráðum orðin sýslumannskona í Snæfellsnessýslu."

Biskup þagnaði um stund, en sagði svo: "Það er að segja, kona Sigurðar Jónssonar frá Einarsnesi. Það er góður ráðahagur, hann er merkur maður af göfugum ættum. Ég samfagna ykkur öllum. Hvenær skal brúðkaupið standa?"

"Þegar kemur heim af þingi. Má ég búast við að sjá þig þar?"

Biskup hristi höfuðið og sagði: "Nei, ég hef bús og barna að gæta."

"Það geturðu skilið eftir heima. Þú átt tvö börn, er ekki svo?"

"Jú," sagði biskup, "ég á dreng og stúlku, Ragnheiði og Halldór, sem bæði eru efnileg og vel komin á fót. Ég held, að ég vildi nú ekki skipta stöðu minni við konrektorinn í Hróarskeldu, eða við Nikephorus (Nikephorus, grískur maður, kom til Kaupmannahafnar, þegar Brynjólfur var þar. Kynntust þeir af hendingu, og opnaði sá kunningsskapur Brynjólfi veg að Hróarskeldu dómsskóla.) gríska, vin minn, sem mér einu sinni lá við að öfunda. Nei, Þórður, ég vil ekki skipta, því að hvað jafnast við ástríka konu og efnileg börn? Vísindin ein gjöra mann að sönnu lærðan, en dauðans kaldan og einstrengingslegan, ef ástin ekki er annars vegar til að gefa vísindunum líf og fjör, þá gjöra þau mann líkastan úthöggvinni steinmynd, sem, hversu prýðilega sem hún er gjörð, er þó aldrei annað en kaldur steinn, en þess vegna þarf ástina með, til að gefa öllu líf og yndi. En margt ber mér nú samt til harma, vinur, þrátt fyrir þetta allt. Jón mágur minn Halldórsson drukknaði í vetur, eins og þér er kunnugt. Og nú vill Jón bróðir minn á Núpi draga móðurarf minn úr höndum mér. Hvað lítið sem ég leita á, vill hann enga tilslökun gjöra." (Þá Jón Gissurarson á Núpi, hálfbróðir Brynjólfs biskups, greindi á um tilgjöf móður þeirra, Ragnheiðar, sem þá var dáin, en seinna sættust þeir á það, að eldri bræðurnir, Jón og Magnús, skyldu taka tilgjafarjarðirnar, en hinir yngri, Brynjólfur og Gissur, jafngildi þeirra í öðrum jörðum.)

Biskup var örr af víni, því að margir vinir höfðu drukkið með honum skilnaðarskál um daginn, og þegar svo bar undir, var hann skemmtinn og ræðinn.

"Það gengur svo, vík skyldi milli vina og fjörður milli frænda, en þetta er bræðrakrytur, sem lagast með tímanum."

"Getur verið, og getur verið ekki," sagði biskup og hleypti brúnum. En Þórður prestur vildi eyða þessu umtalsefni og sagði því:

"Ég þóttist vita, að þér mundi geðjast vel sveitalífið, og því taldi ég þig svo á að taka kosningu. Mér gekk ekki til tóm eigingirni. En það er nú komið mál fyrir mig að afljúka erindinu. Svo er mál með vexti, að ég hef gengizt undir að koma pilti einum, Illuga Bjarnasyni að nafni, í skóla, og helzt, ef kostur væri á, í frískóla. Hann er náfrændi séra Þorsteins okkar á Útskálum. Þeir frændur riðu heim til mín hérna um árið, þess erindis að biðja Kristínar systur minnar til handa Illuga, en þar eð erindið varð árangurslaust, fylltist Þorsteinn prestur reiði gegn okkur, og honum og þeim báðum til hugnunar aftur á móti hef ég lofað að koma Illuga í skóla, þó að hann sé farinn að eldast nokkuð, eða öllu heldur að mæla svo með honum við þig, að þú veittir honum móttöku, því, hvað sem það snertir, að Þorsteinn prestur er sagður viðsjálsgripur, þá vil ég, að svo miklu leyti, sem í mínu valdi stendur, hafa frið við alla menn, enda, sé pilturinn illa innrættur, er því meiri von til, að hann lagist við menntunina."

"Það gefst nú misjafnt," sagði biskup. "Sumum greiðir menntunin veg fram á lastabraut, með því þeir reka sig síður á boða og blindsker, þegar hún er stýrið. En látum svo vera, ég skal gjöra þér það að skapi að taka piltinn, fyrst í smásveinsþjónustu og síðan í frískóla, ef mér líkar vel við hann."

"Þá hefur málið fengið æskilegustu áheyrn, og mér var slíks von af þér," mælti Þórður prestur.

Eftir það settist biskup og nokkrir gestir hans undir borð. Þar á meðal var Þórður vinur hans, Hallgrímur Pétursson, Hvalsnesprestur, Sigurður sýslumaður Jónsson og enn fleiri. Fám dögum síðar riðu þessir þrír síðastnefndu menn af Þingvelli.

"Þér eruð vinur minn," sagði hiskup við Sigurð sýslumann, er þeir kvöddust. "Heitmey yðar er vinkona mín frá æskuárum, og maður og kona eru eitt."

"Ég þakka yður mikillega, herra," sagði Sigurður. "Berðu konu þinni kveðju mína," sagði biskup við Þórð prest að skilnaði, "og færðu Kristínu linda þennan frá mér að bekkjargjöf á hæfilegum tíma með heillaóskum." Það var sprotabelti úr silfri og hin mesta gersemi.

"Hafðu hugfast, Hallgrímur minn," sagði biskup við Hallgrím prest að skilnaði, "það, sem ég hef ítrekað við þig. Kirkjan þarf sinnar gæzlu, og ekki tjáir að hætta að sá, þó að ekki sjáist ávextirnir nú strax."

"Það vil ég reyna, herra," sagði Hallgrímur prestur, "en

Án guðs náðar er allt vort traust
óstöðugt, veikt og hjálparlaust."

Eftir það riðu þeir af stað. "Biskup hefur verið að gefa presti áminningu viðvíkjandi embættinu," hugsuðu hinir, "því að prestur er sagður lítill hirðumaður með muni kirkjunnar og eiga í ströngu að stríða við ýmsa stórbokka þar syðra."

Fáum dögum síðar hélt biskup einnig heimleiðis og með honum Illugi Bjarnason. Um þetta leyti tók biskup í smásveinaþjónustu Daða, son Halldórs prófasts í Hruna, er síðar kemur við sögu þessa. Hann var fríður sýnum og gjörvilegur, en flestum hugnaðist illa að honum nema biskupi. Hann unni honum mjög, og var honum sem syni, annað hvort sakir vináttu við Halldór prófast í Hruna eða sökum hæfileika sjálfs hans, því að allt var Daða vel gefið, það, er honum var ósjálfrátt, sögðu menn. Með Illuga og Daða tókst góð vinátta, enda voru þeir í frændsemi. Enginn kærleiki var á milli Ólafs og þeirra kumpána, og bar margt til þess, meðal annars það, að þeir frá fyrsta mátust um hvert vinalegt orð og augnaráð af biskupi, því að báðir voru að vissu leyti fóstursynir hans. Nú leið að því, að Ólafur nálgaðist fullorðinsárin, og varð hann útlærður í guðfræði og hugði því langt fyrir neðan virðingu sína að metast um hylli biskups við Daða, en reyndi nú þar á móti að ávinna sér hylli fósturföður síns með vísindum, bóklestri og skáldskap, en það fór einatt svo ófimlega fram, að það varð fremur til að fella hann en hefja í augum biskups, því að hann sá ekki annað í tilraunum hans en sjálfsþótta eða fíkn til að komast í álit hjá öðrum, en sú meðferð á vísindunum var fjarri skapi meistara Brynjólfs. Þótt hann vissi vel sjálfur, hver hann var og hefði þegið nægan vott samtíðarmanna sinna, bæði hærri og lægri, um það, að þeir viðurkenndu hann einhvern hinn mesta fræðimann þjóðarinnar, minntist hann þess sjálfur aldrei með einu orði, og væri sérstaklega bent á lærdóm hans eða hæfileika, t. d. þegar minni hans var drukkið eða því um líkt, vék hann jafnan ræðunni að öðru efni, og þó vissu menn, að þeir, sem slíkt gjörðu, voru vel séðir af honum. Aðferð Ólafs var honum því gjörsamlega á móti skapi, og hann misskildi hann. Það var t. d. einhverju sinni, að biskup fékk ofsaveður á ferðinni frá Flatey í Breiðafirði til lands. Ólafur studdist upp við siglu og virti fyrir sér öldurnar hvítfyssandi, sem hossuðu skipinu eins og fisi, og mælti þá:

"Byrstir sig Þór og blæs af gusti köldum,
hann berst með Mjölni upp' í skýjunum,
hvítgrænn er sær og háum kastar öldum,
og hamast Kári í blautum voðunum.
Feigðargnýr drynur, ferlegt er að sjá,
hve fast nú líf og dauði berjast á."

"Við trúum ekki á Þór og Óðin," sagði biskup þurrlega, þar sem hann sat í stafni með Flateyjarbók undir hendinni, sem var vinargjöf frá Jóni bónda Torfasyni frænda hans, er bjó í Flatey. Það er alltrúlegt, að á þeim hamingjuárum hafi dauðinn ekki verið biskupi neinn kær gestur. Svo var víst, að bæði biskupi og skipverjum fannst fátt um hugrekki Ólafs í það skipti. Lík atvik báru oft til, og var því engin furða, þó að misskilningur reisti loks þykkan múr milli svo óskaplíkra manna sem þeir biskup og Ólafur voru, einkum þar eð Daði Halldórsson gjörði allt sitt til að blása að kolunum og leggja allt út fyrir Ólafi á versta veg.

"Skáldskapur," sagði biskup einhverju sinni, er um var rætt, "er óneitanlega blóm vísindanna, en úr þeim blómum má, eins og öllum guðs gjöfum, skapa þyrna." Að þessu hnyttiyrði biskups hló Daði í sinn hóp og nefndi Ólaf síðan þyrniskáldið, og bætti það ekki vináttu þeirra.

Illugi kom sér allvel, og setti biskup hann því í frískóla, eins og hann hafði lofað, og var Illugi þar í tvo vetur, en hinn þriðja vetur kom atvik eitt fyrir, sem gjörði enda á menntunarferil hans. Sleppum vér því að sinni og hverfum að því, er gjörðist um sumarið.


9. kafli

Það var skömmu fyrir alþing, að maður nokkur reið hvatlega í hlaðið á Skálholti með tvo lausa hesta, og runnu þeir yfir völl þveran. Það líkaði biskupi illa, og staðnæmdist hann á stéttinni til að sjá, hver maðurinn væri.

"Þú fer þar, Hallgrímur mágur, og heldur geyst," mælti biskup, er hann hafði borið kennsl á manninn.

"Já, margt ber nú til þess, biskup," mælti Hallgrímur, um leið og hann vatt sér af baki og heilsaði honum. "Það er komin upp Sturlungaöld að nýju í landi voru, svo að maður er varla óhultur um líf og limu."

"Komdu inn, mágur, og segðu tíðindi, svo að skilja megi, hvað þú átt við." Þeir gengu inn.

"Svo er mál með vexti," sagði Hallgrímur, þegar inn var komið, "að ég fór suður að Bessastöðum að ræða mál mín við nýja höfusmanninn, Henrik Bjelke trúi ég hann heiti, til að hreinsa mig af áburði, er nokkrir af konungslandsetum höfðu borið á mig við hann. Mér var boðið að borða með honum, og yfir borðum bárust sakargiftirnar í tal. Þegar ég var að koma honum í skilning um málavöxtu, spretti ég rétt í hugsunarleysi fingrum að kauða. Jæja - viti menn, herrann brást stórreiður við, otaði að mér korða, og mér hefði verið forvitni á að skilja allt, sem hann þvoglaði. Satt að segja var mér næst skapi að taka duglega til hans, en þá var hlaupið á milli okkar."

"Mikið svaðilmenni ertu, Hallgrímur, og er lán, meðan uppi hangir," sagði biskup og hristi höfuðið. "Þú gefur nýja höfuðsmanninum fagran vott um ættartign þína, og drekkum við tengdamenn þínir af að líkindum, eða veiztu ekki, að Bjelke er ríkisaðmíráll, riddari og frægur að atgjörvi og ágætisverkum? Skilurðu ekki, hvílík óhæfa það er að spretta fingrum framan í slíkan mann? En hvað þú skyldir komast ómeiddur í burtu!"

"Hákon, sonur Orms, er áður var ráðsmaður hér, og fleiri slánar þar settu mig, að heita mátti, á bak og báðu mig að hverfa á braut hið skjótasta. Ég segi það satt, það er hin mesta sneypa, sem mér hefur mætt, að láta þannig skjóta mér undan. Hefði ég mátt reyna krafta við kauða, trúi ég trautt, að ekki hefði sletzt upp á gullskúfana á öxlum hans, hefði ég t. d. brugðið honum laglegan, íslenzkan hælkrók, og blautt verið undir."

Biskup hristi þegjandi höfuðið. Eftir litla þögn sagði hann. "Nú, nú, það er komið, sem komið er, og við tengdamenn þínir verðum að reyna, hvort ekki nást sættir á þingi. En hvað hefur þú gjört við Vilborgu, sem með þér átti að koma?"

"Hana skyldi ég eftir í Kalmanstungu," svaraði Hallgrímur, "því að ég sá, að það var óhentugur útúrdúr að ríða með hana suður að Bessastöðum. Þú verður að láta vitja hennar þangað."

"Já, rétt er það," sagði biskup, og slitu þeir svo talið.

Biskup reið til þings og reisti tjöld sín á Þingvelli eftir vanda. Þingið var með fjölmennasta móti, einkum venju fremur sótt af höfðingjum, því að á því þingi átti að hylla Friðrik konung þriðja. Þess vegna hafði Jens Sörensen, fógeti, þetta vor boðað til þingsins báða biskupana, Brynjólf og Þorlák, þá báða lögmenn, Árna og Magnús, alla sýslumenn, alla prófasta, 18 presta úr Skálholtsbiskupsdæmi og 20 úr nyrðra biskupsdæminu og að auki tvo nefndarmenn og tvo bændur úr hverri sýslu. Áttu allir þessir í nafni sínu og þjóðarinnar að vinna hinum unga konungi hollustueiða. Sjaldan hefur veglegra þing verið haldið á Þingvelli en þá. Í för með meistara Brynjólfi voru allir helztu menn í grennd við Skálholt, ennfremur þeir Hallgrímur, mágur hans, Torfi frændi hans Jónsson frú Núpi, sem nú var orðinn prestur, og þeir Ólafur, Daði og Illugi.

Búð mikil var reist á Öxarárhólma með bitum, sperrum og langböndum, og tjaldað yfir með vaðmálum. Hún var 14 faðma löng og svo breið að sitja mátti framan og ofan langborða á fjórum bekkjum, nær 50 manns á hverjum. Nú skyldi hyllingin fram fara. Allir formenn landsins gengu, ásamt ógrynni fólks, til búðarinnar. Þar var Gabriel Archeley, eðalmaður, sendiherra konungs, fyrir. Færði hann mönnum boðskap konungs á latínu og síðan á dönsku, þess efnis, að hann væri kominn til að taka eiða af mönnum. Þingheimur hlýddi á með lotningu. Fyrir kennimannalýðinn svöruðu biskuparnir á latínu, en lögmennirnir fyrir hönd alþýðu. Síðan hélt þingheimur til Lögréttu. Unnu þar allir konungi hollustueiða og krupu um leið á kné, Brynjólfur biskup fyrstur, þá Þorlákur biskup, síðan kennilýðurinn, þá lögmenn, þá sýslumenn, lögréttumenn, þá skattbændur tveir úr hverju héraði, er kosnir voru fyrir hönd almúgans. Þá var skotið þrem sinnum af fallbyssu, og þá var þessari hátíðlegu athöfn lokið.

Biskupinn var genginn til tjalda sinna, og með honum dómprestar hans og nokkrir vinir og kunningjar. Þá vakti háreisti úti fyrir tjaldinu athygli hans. Biskup hafði lagt ríkt á við þjóna sína að gæta allrar reglu og kurteisi, einkum á Þingvelli. Hann gekk því út til að vita, hvað um var að vera, og varð þess þá viss, hvað til kom. Hann hafði um morguninn gjört ráð fyrir, að Ólafur Gíslason sækti Vilborgu, ættsystur frú Margrétar, norður að Kalmanstungu, og ætlaði svo að senda hann með hana heim til Skálholts. En Daða Halldórssyni þótti ferðin girnileg og líklegri til ævintýra en að sitja dag eftir dag á þingi og vildi því skipta við Ólaf, sem ekkert vildi heyra um slíkt. Lá við, að þeir berðust með hnúum og hnefum, er biskup bar að.

"Það, sem ég hef sagt, það stendur," sagði biskup. "Ólafur fer ferðina, og svo ekki meir um það."

Svo varð að vera sem biskup vildi. Ólafur fór af stað í bítið daginn eftir, en Daði var hinn reiðasti og hugði á hefndir, nær sem færi gæfist.

"Hvað þarf marga daga til að ríða að Kalmanstungu?" sagði Daði annað kveld á eftir við Hallgrím á Víðimýri, sem kom hlaupandi í flasið á honum, þar sem hann stóð úti fyrir tjalddyrum.

"Ekki nema einn, ef maður er vel ríðandi," svaraði Hallgrímur.

"Það verður þá í kveld, að þau hjú ríða niður á Hofmannaflöt," tautaði Daði. "En hvað er þér á höndum, maður, fyrst þú hleypur svona?"

"Og ekki mikið. Bjelke höfuðsmaður kom auga á mig í mannþrönginni og ætlaði að láta taka mig fyrir fingrasprettuna gömlu. Biskupar báðir og aðrir góðir menn gengu á milli, og vannst sátt loks með því, að ég á að ná Guðmundi Andréssyni, sem nýlega lagði norður á Kaldadal. Það verð ég að vinna til lausnar mér. Nú er ég að hraða mér að útvega menn og hesta til ferðarinnar. Viltu vera með?"

"Gott og vel," hugsaði Daði, "þá mæti ég líklega Ólafi Gíslasyni og fæ þá að líta brúðina um leið. Ég skal vera með," sagði Daði hýrleitur, því að hann hugsaði: "Ég skal lofa því, áður en biskup veit nokkuð af, hann er sjálfur orðheldinn og lætur mig því varla svíkja gefið loforð."

Þetta kveld reið harðsnúinn hópur af Þingvelli, og í broddi fylkingar reið Hallgrímur á Víðimýri til að handsama Guðmund Andrésson, ef það mætti auðnast. Biskup hristi höfuðið, er Daði steig á bak, og mælti:

"Þú ert ekki vandur að virðingu þinni, að fara að gefa þig í slíka för." Og hann gekk inn í tjaldið og tautaði fyrir munni sér: "Hallgrímur vinnur hvert lítilmennskuverkið á fætur öðru. Að handtaka saklausan mann sér til lausnar, er ekki eftir mínu geði, því að satt er það, þó að ekki megi talast hátt, að Stóradómi er í mörgu ábótavant. Fébætur hefðu verið mun heiðarlegri en slíkar sendiferðir. Ekki mælti ég með þeirri sætt, svo mjög sem ég vildi, að sættir kæmust á."

Sólin var að hverfa bak við hnúkana. Geislar hennar slógu gullnum bjarma á skallann á gamla Langajökli. Rætur hans og slakkar hjúpuðust forsælu, en sandurinn var grár og draugalegur. Neðan úr Þingvallasveit komu nokkrir hvatlegir menn með lausa hesta og reipi og lögðu upp á Kaldadal. Þeir skiptu sér og skimuðu í allar áttir. "Já, sem ég lifi," sagði Daði Halldórsson við sjálfan sig, "þarna kemur maður og kona, það er Ólafur og Vilborg."

"Svo sannarlega sem ég lifi, þarna er Guðmundur Andrésson," hrópaði Hallgrímur, "þarna upp á hæðinni. Dugið nú, drengir!" Þeir hleyptu af stað, og náðu þeir honum um síðir.

"Gott og vel," mælti Daði við sjálfan sig, er hinir hleyptu eftir Guðmundi, "lofum þeim að fara. Mín ferð var gjörð til að hitta Ólaf, en ekki Guðmund," og hann steig af hesti sínum og beið þeirra Ólafs í hlé við hæð eina litla, svo að hann sást ekki fyrr en riðið var fram á hann.

"Hér er mjög hrjóstrugt," mælti Ólafur við Vilborgu, "enda erum við nú á Kaldadal, og er hann svo rétt nefndur. Eigi að síður þarf leið um slíkar óbyggðir ekki að vera svo óskemmtileg, þegar skemmtileg samfylgd er til að lífga leiðina upp."

"Þó að landið sé svo hrjóstrugt, þá er vegurinn ekki svo slæmur, og það er fyrir mestu."

"Það er nú svo," mælti Ólafur, "en ætlar þú alfarin til frú Margrétar?"

"Já, svo er í orði, ég er ráðin þangað sem þjónustustúlka. Móðir mín heitin og frúin voru vel til vina og skyldar."

"Frú Margrét er góð kona," tók Ólafur til orða, "nema ef að henni mætti finna, að hún væri heldur atkvæðalítil. En biskup bætir það upp, hann er sannnefndur skörungur bæði utan heimilis og á."

"Hún er prýðis-lagleg," tautaði Daði við sjálfan sig, "með mikið og fagurt, gult hár. Látum mig sjá, hún hlær, hefur spékoppa í báðum kinnum, skarð í höku, fjörug augu og varir, sem gott er að kyssa. Ég slæst í förina með þeim og lofa Hallgrími að eiga sig. Gott kvöld, Ólafur minn."

"Gott kvöld, ert þú þar Daði?" sagði Ólafur forviða.

"Hvað sýnist þér, Ólafur?"

"Raust Jakobs heyri ég hjá mér," sagði Ólafur.

"Maðurinn er líka Jakob," sagði Daði hæðilega. "En hefur ekki Stóradómsvandlætið orðið á vegi þínum?"

"Þú átt víst við Guðmund Andrésson. Jú, hann mætti mér, eða hvað viltu honum?"

"Handsama hann," svaraði Daði.

"Ó, svei, hvern skyldir þú líka handsama?" mælti Ólafur og hélt áfram götuna.

"Einhvern," sagði Daði háðslega, steig á bak og reið á eftir þeim. "Þér er vissulega ekki trúandi fyrir kvenmanni, afglapinn þinn," sagði hann, um leið og hann stökk af baki og fór að girða hjá Vilborgu, því að söðullinn var farinn að hallast fram.

"Þetta hefur þó dugað," sagði Ólafur og gaf Daða óhýrt auga. Þau héldu nú áfram veginn, komu skjótt ofan í Brunna og áðu þar. Frá því að Daði kom í hópinn, bolaði hann nær gjörsamlega Ólafi út, því að jafnskjótt sem eitthvað var að reiðtygjum Vilborgar, var Daði búinn að koma því í lag, áður en Ólafur, svo knár sem hann var, var kominn af baki. Öfundsýkin og hefndargirnin gáfu Daða hvarvetna vængi, og varð Ólafur að una við svo búið.

"Þetta er Jórukleif," segir Daði, og segir sagan, að óvættur ein, að nafni Jóra, hafi stokkið yfir hana í bræði sinni, og ber kleifin síðan nafn hennar."

"Betur, að þú lægir í botninum á henni," tautaði Ólafur í hálfum hljóðum.

Daði kinkaði kolli framan í hann glottandi og sagði við Vi)borgu: "Þessi hnúkur þarna heitir Ármannsfell, og þarna er Meyjasæti. Þar sátu yngismeyjar í fornöld og horfðu á glímur og leiki elskhuga sinna á fletinum hérna fyrir neðan. Þetta er því miður lagt niður, og engar meyjar horfa nú hér á leiki framar. Sætið er því autt nótt og dag, ár og öld," sagði Daði og bar ótt á.

"Það er sorgleg auðn," sagði Vilborg.

"Já, er það ekki sorgleg auðn?" endurtók Daði.

"Mér er hér ofaukið," hugsaði Ólafur með sér. "Gæti ég einungis sagt henni eitt orð í einrúmi." Það var eins og hann hitti á óskastundina, því að þegar komið var ofan á vellina, reið Daði lítið eitt á undan. Ólafur reið þá til hennar og sagði hálfhátt:

"Lízt þér svo vel á Daða, að þú gleymir öllu öðru?" Hún ætlaði að svara einhverju, en í því sama kom Daði Halldórsson að, svo að viðræðan varð ekki lengri. Héldu þau síðan til tjalda biskups, og var þá ferðinni lokið í bráð.

"Var nú búið að handtaka Guðmund Andrésson?" spurði biskup Daða um kveldið, er þeir voru tveir einir, "og hví beiðstu þeirra ekki?"

"Ég sá til hans álengdar, herra, og mér flugu þá í hug orð yðar í gær, að ódrengilegt væri fyrir svo marga að elta hann. Ég sneri því aftur," mælti Daði.

"Það er betra að ganga út með Pétri en dvelja inni með þjónum Kaifasar," sagði biskup. "En hversu gekk þeim Ólafi ferðalagið?"

"Allvel, herra. Það vantar víst ekki mikið á, að þau séu trúlofuð."

"Trúlofuð," endurtók biskup, "það vantar líklega það á, sem dugir. Ólafur þyrfti nú að bæta þeirri flónskunni ofan á allt annað að trúlofast áður en hann fær embætti. Þú, Daði, skalt á morgun ríða með Vilborgu til Skálholts." Daði játti og gekk út, en biskup var nokkra stund hugsandi og lagðist svo til svefns.

Að loknu þingi hélt höfuðsmaðurinn þeim mönnum, er eiðana höfðu unnið, dýrlega veizlu í búð þeirri, er áður er getið. Þar var etið og drukkið, sungið og leikið á ýmis hljóðfæri. Stóð veizlan allt til morguns, og mun hún hafa verið einhver dýrlegasta alþingisveizla á Íslandi. Eftir það sundraðist allur þingheimur, og fór hver heim til sín. Gabriel sendiherra konungs reið austur í Skálholt með meistara Brynjólfi, en Bjelke höfuðsmaður reið í kynnisför norður að Hólum í Hjaltadal með Þorláki biskupi, því að með þeim gjörðist góð vinátta um sumarið. En Guðmundur Andrésson var fluttur suður til Bessastaða, eftir að hann náðist á Kaldadal, og þaðan til Kaupmannahafnar um haustið og var settur þar í varðhald.


10. kafli

Skólinn var settur að vanda í Skálholti um haustið. Biskup mátti kallast forstöðumaður hans. Þó kennararnir hefðu mest veg og vanda af kennslu sveinanna, þá var þó biskup í og með öllu og vandaði sem mest hann mátti allt, sem til kom. Hann vissi sem var, að "það, sem ungur nemur, gamall fremur", og að sá, sem menntast vel í æsku, verður sjaldan fíflskunni að bráð í elli, ef allt fer skaplega. Veikindi gengu meðal skólasveina um veturinn. Sökum þess sváfu nokkrir af piltum í kirkjuloftinu, en fluttu jafnskjótt sem sýkinni var aflétt aftur inn í svefnhús skólans, nema þeir Daði og Illugi sváfu úti á kirkjulofti enn. Var oft búið að segja þeim að flytja inn, en það dróst. Biskup hafði þá í mörg horn að líta og gaf þessu því ekki gaum.

Eitt kveld segir Daði við Illuga: "Þú þykist vera vinur minn, en þó hefur þú enga hjálparhönd rétt mér í viðureign okkar Ólafs Gíslasonar."

"Hvað viltu, að ég gjöri fyrir þig?" kvað Illugi. "Viltu, að ég komi því í verk, að þú fáir Vilborgu fyrir konu?"

"Til þess þarf ég ekki fullting þitt," sagði Daði, "því að jafnskjótt sem ég er útlærður og bið biskup um hana, fæ ég hana. En ég elska hana ekki og kæri mig því alls ekkert um hana, enda stendur hugur hennar í aðra átt. En það, sem ég vil, er að skilja þau Ólaf fyrir fullt og allt, því að hann hata ég. Ég vil gjöra hana fráhverfa honum og helzt koma honum sem lengst í burt frá biskupi og Skálholti."

"Þá er hefnd þín nokkuð óákveðin, og eini vegurinn fyrir þig er að kynna þér hina egypsku speki, þá geturðu gjört honum, hvað sem þú vilt." Daði hugsaði sig um, honum gjörði bæði að sárna og klæja, en hefndargirnin sigraði allar efasemdir, og hann lét undan. Nú var dregið fram stórt, ljósleitt skrín, er Illugi átti, fullt af tómum skræðum með rúnaletri, og vöktu þeir í kirkjuloftinu marga eina nótt yfir skruddum sínum. Liðu svo fram stundir. Skólakennararnir fóru að taka eftir einhverjum dularfullum samdrætti meðal pilta, og jafnvel sumir af staðarmönnum heyrðu á nóttum eitthvert brauk í kirkjunni og sáu ljósan loga þar, en þorðu ekki að hafa orð á sakir hjátrúar. Skólakennararnir þóttust sjá tómlæti hjá piltum við lestur og nám. Þeir veittu piltum áminningar fyrir, en þögðu að öðru leyti, og allt fór kyrrlátlega fram um hríð. Þá bar það við eitt kveld, að Ólafur sat í herbergi þjónustumeyja við hlið Vilborgar og gjörði að gamni sínu, sem siður hans var til. Hún óf spjaldabönd á fæti sér og taldi sporin. Ólafur taldi hátt á eftir til að glepja fyrir henni talninguna. Kemur Daði þá þar að og segir í því hann stingur hendinni undir koddann í rúmi Vilborgar, sem stóð öðrum megin veggjar:

"Þú ert smart Ólafur, þú vefur bönd."

"Já," svaraði Ólafur kímileitur.

"Ég er smart, og ég kann garters vefa
og ótal margt, sem mjög er þarft,
minn ég vart á líka í art.

(Smart: röskur, garter: sokkaband, art: íþrótt.)

Daði fór út og sagði um leið: "Já, þú ert smart, en vertu nú líka smart í að lækna Vilborgu, ef henni skyldi eitthvað bregða til krankleika." Voðalegt glott lék um varir hans um leið, svo að Vilborgu hraus hugur við. Nokkuð í ensku höfðu þeir piltar numið af íslenzkum Englandsförum, sem oft dvöldust tímum saman í Skálholti, og köstuðu þeir einatt enskum orðum á milli sín eins og þessu sinni.

Eftir þetta brá svo við, að svefnleysi mikið ásótti Vilborgu. Henni kom varla blundur á auga, og gat henni ekki batnað af meðölum né öðru, er reynt var við hana. Alla undraði þetta mjög, en Ólafi datt einhverju sinni í hug: "Skyldi Daði þá ekki hafa laumað einhverjum ólukkanum undir höfðalag hennar hérna um kvöldið? Einhver geigur stendur henni af Daða síðan þetta kveld. Við skulum sjá." Hann skyggndist um við höfðalagið og fann þar eikarspjald með tveimur svörtum galdrastöfum á. "Þetta skal hann fá borgað," hugsaði Ólafur og þaut út. Kirkjan stóð opin, og hann hélt rakleitt upp í kirkjuloftið. Þar var þá Daði fyrir með einhverjar skruddur.

"Vondur vissi ég, að þú varst, Daði," mælti Ólafur, "en djöfladýrkara hugði ég þig aldrei vera. Hér er galdraspjald þitt aftur, og hættir þú ekki þessum brellum, skal ég klaga þig fyrir biskupi."

"Gjörðu það, ef þú þorir," sagði Daði.

Ólafur gekk út. Ljós brann í stofu biskups, og sá Ólafur, að hann sat einsamall við borð og ritaði. "Ég skal segja honum allt," hugsaði Ólafur og gekk inn. Biskup hélt áfram að skrifa og tók ekki eftir, að hurðinni var lokið upp. "En er ég ekki níðingur?" hugsaði Ólafur með sjálfum sér. "Hér stend ég sem rógberi, og hver veit hverjar afleiðingarnar verða, ef ég segi frá? Vera má, að biskup setji þá undir brennudóm í reiði sinni, og þetta er, ef til vill, augnablikshrösun. Ég skal þegja."

Hann bjó sig til að ganga aftur út, en í því kom biskup á hann auga.

"Hvað vilt þú, Ólafur, og hví ertu svo fölur?" segir biskup.

Ólafi varð fyrst orðfátt, en sagði svo, að hann hefði villzt á hurðum og bað biskup fyrirgefningar, að hann gjörði honum ónæði og gekk út.

"Einungis að þú hafir ekkert illt fyrir stafni," tautaði biskup og fór aftur að rita.

"Hafirðu dirfzku að segja nokkurt orð um spjaldið við biskup, þá ertu glataður maður," sagði Daði, sem mætti Ólafi.

"Ekki hræðist ég þig, þó að þú getir skelkað hjartveikt kvenfólk," sagði Ólafur og gekk leiðar sinnar.

"Hvað gekk að Ólafi?" spurði biskup Daða, sem kom inn. "Hann stóð hér fölur sem nár."

"Sagði hann yður ekkert, herra?" spurði Daði.

"Nei," sagði biskup, og lagði frá sér pennann. "Hvað er um að vera? Segðu það fljótt."

"Ólafur hefur látið galdrastafi undir kodda Vilborgar, líklega til þess með því að vinna ást hennar. Og þar af mun svefnleysi hennar stafa. Hér eru stafirnir," sagði Daði og lagði eikarspjaldið á borðið.

Biskup spratt upp fokreiður og sagði: "Burt með djöful þennan."

"Herra," sagði Daði, "ég hef margt að segja yður, sem yður er nauðsynlegt að vita. En því verðið þér líka að lofa mér að láta ekki reiði yðar bitna opinberlega á Ólafi. Hann hefur ætlað að varpa sér fyrir fætur yðar áðan, en hefur vantað kjark."

"Svo mun verið hafa, og segðu mér nú afdráttarlaust allt, ég skal ekki láta þín getið."

"Allur skólinn er farinn að nema galdur. Piltar halda leynisamkomur á næturnar í kirkjunni, og í nótt á að láta skríða til skarar og vekja upp draug." Þessum orðum fylgdi voðaleg þögn á báðar hliðar.

"Að vekja upp draug," endurtók biskup loksins, "ekkert minna. Og við lifum og hrærumst í þessu djöflaríki nú á seytjándu öld," og biskup gekk steinþegjandi um gólf. Loksins nam hann staðar frammi fyrir Daða, og var svipur hans svo voðalegur, að hárin risu á höfði Daða, og hann varð að styðja sig við vegginn, og mælti: "Þér hefur farizt vel, Daði. Það skal ég muna þér, en farðu nú, og láttu sem ekkert sé. Vertu helzt mitt á meðal þeirra, svo að engan gruni neitt. Slíkir bófar svífast einskis, ef þú verður uppvís sem sögumaður." Daði gekk út. Biskup mataðist ekki um kvöldið, en engan grunaði enn neitt. Það var kominn háttatími. Öllum hurðum staðarins var lokað, og menn lögðust til svefns. Nær miðnætti voru skólapiltar á ferli. Illugi lauk hægt upp hliðunum með launlykli, og skarinn gekk hljóðlaust í kirkju. Að henni höfðu þeir lykilinn. Þeir kveiktu ljós, og fundurinn var byrjaður. Þá gengur biskupinn inn með skólakennurum, kirkjupresti, báðum brytum og ráðsmanni. Undrun og ótta þann, sem greip alla þá, er inni voru, er hægara að ímynda sér en lýsa með orðum. Sumir urðu náfölir og gripu höndum fyrir andlit sér. Það voru þeir, sem voru nýkomnir í félagið og höfðu búizt við einhverri yfirnáttúrlegri sjón. Sumir rifu klæði sín eins og yfirprestar Gyðinga til forna. Sumir horfðu hálftrylltir í kringum sig, sumir grétu, og sumir tóku á sig kaldan hæðnissvip. Meðal þeirra var Illugi. Sá eini, sem ekki brá hið minnsta, var Daði Halldórsson. Ólafur var þar ekki, enda var hann útlærður stúdent. Hann hefur líklega iðrazt og séð að sér," hugsaði biskup, "og þess vegna skal ég hlífa honum við opinberri hneisu."

Allur skarinn var kallaður í kórinn. Þar stóðu þeir skriftir til dags í allra þessara votta viðurvist. Afdrifin urðu, að þrettán reyndust sekir og voru gjörðir skólarækir, og þar á meðal var Illugi. Hann var kennari hinna og þar af leiðandi hinn sekasti. Allir skyldu þeir rýma skólann um veturinn og líða þunga refsing áður. Hinum öðrum voru gefnar upp sakir, bæði sakir æsku og annarra gildra ástæðna. Meðal þeirra var Daði, en Ólafur komst aldrei inn í málið. Illugi flýði á móðurarma Sæmundar þess, sem áður er getið í veizlunni. Hann var góður vinur Illuga og bjó nú sem ókvæntur stúdent í tvíbýli við prestinn á Torfastöðum og vegnaði vel.

Það var hinn sama dag, að allir þessir þrettán villingar riðu úr hlaðinu í Skálholti. Biskup gekk í þungu skapi til og frá um kirkjugólfið. "Hversu illur hirðir er ég," hugsaði hann, "að missa þrettán sauði í einu." Þessi hugsun varð honum of þungbær, honum fannst kirkjan verða sér of þröng, og hann reikaði út í kirkjugarðinn. Sá hann þá, að Ólafur Gíslason horfði kalt og rólega á eftir burtfarendum. Biskup hvessti á hann augun stundarkorn og sagði svo: "En hver ert þú?"

Ólafur sneri sér við og svaraði með hægð:

"Ég er hégómi, hismi og mold,
ég er hey til að kastast á bál."

"Það er satt," sagði biskup.

"En ég er meira, herra," mælti Ólafur:

"Ég er musteri ágætt á fold,
ég er neisti af Guðs lifandi sál."

Biskup hristi þegjandi höfuðið og gekk burt. "Hver finnur botn í þessum manni?" hugsaði hann. "Kuldi, kæruleysi, blíða og viðkvæmni skiptist hvað á við annað. Í sannleika, ég freistast til að halda, að hann sé sýkn. En það getur þó ekki verið." Biskup gekk inn og Ólafur líka, og atburður þessi tók smám saman að gleymast. Ekki er annars getið, en Vilborgu batnaði svefnleysið.


11. kafli

Biskup var kominn heim af þingi fyrir nokkrum tíma og var farinn að búast við heimsókn af Hinrik Bjelke, höfuðsmanni, sem ennþá einu sinni hafði farið norður kynnisför til Þorláks Hólabiskups. Hann hafði lofað meistara Brynjólfi að heimsækja hann, þegar hann kæmi að norðan. En svo leið einn dagurinn á fætur öðrum, að ekki kom höfuðsmaður, enda kann heilan margt að hindra, þar sem bæði eru ár, fjöll og firnindi á veginum, og maðurinn lítt vanur íslenzku ferðalagi.

Það var eitt kveld um þessar mundir, að meistari Brynjólfur var inni í skrifstofu sinni og ræddi við mann um kaup og sölu á jörð einni, sem biskup fýsti að eiga. Á borðinu logaði dauft kertaljós, sem dagsbirtan bar ofurliði. Við það setti biskup innsigli sitt undir kaupbréfið, en hann gaf sér ekki tíma til að taka af skarið, sem þegar mændi aumkunarlega upp yfir sjálfan logann, eins og það væri orðið leitt á að minna á sig.

"Ég vil vita af eða á um jarðasöluna," sagði biskup, um leið og hann stóð upp og fór að ganga um gólf. Sá, er hann átti tal við, var Jón sá, er var að gifta sig, er biskup hélt innreið sína í Skálholt. Gæfan hafði gjörzt honum fráhverf. Hann hafði fellt gripi sína hinn svonefnda Glerungs- eða Rolluvetur, flosnað upp af jörðunni og misst litlu síðar konu sína frá ungum syni, er Jón hét. Jón átti hluta í jörðunni Dvergasteini eystra, og þann hluta var nú biskup að fala.

"Ég get ekki aflokið kaupunum í kveld," sagði bóndi, "parturinn er veðsettur öðrum manni, og verð ég að fá leyfi hjá honum til að selja hann."

"Hverjum er þá parturinn veðsettur?" spurði biskup.

"Ég hef lofað að segja engum frá því," sagði bóndi.

"Þá hef eg ekkert frekar við þig að ræða, hvað jarðakaupin snertir," sagði biskup og lauk upp hurðinni. "Ég kaupi ekki jarðir, þó að ég geti, sem aðrir eiga smáparta í." Jón sá, að biskup var reiður og gekk út hnugginn og niðurlútur, en biskup settist aftur í sæti sitt og fór að skrifa. Að litlum tíma liðnum kom ennþá maður á skrifstofuna, sem ræddi um jarðasölu, og svo þriðji maður, og féll allt í ljúfa löð með þeim biskupi. Þeir gjörðu upp reikninga, lögðu saman rentur og renturentur o. s. frv., og svo lauk, að kaupsamningur fyrir tveimur góðum jörðum í Borgarfirði var saminn og undirritaður. Biskup taldi út féð og greiddi báðum bændunum kaupbætur. Fóru þeir síðan glaðir og ánægðir yfir rausn biskups heim til sín, en biskup settist niður og ritaði samningana og söluskilmálana inn í stóra bók, er lá frammi fyrir honum á borðinu. Allt í einu lukust upp dyrnar, og inn kom frú Margrét og börn þeirra tvö, Halldór og Ragnheiður, sem bæði voru þá nokkuð stálpuð.

"Þú hefur átt annríkt í kveld, elskan mín," mælti hún og settist hjá bónda sínum.

"Já, og það í meira lagi. Ég hef nærri því ekki gjört annað í allan dag en kaupa jarðir og telja út peninga. Ég hef keypt sex jarðir. Viltu heyra hvað þær heita?"

"Æ, nei, góði, hlífðu mér við því," greip frúin fram í. "

"Ég keypti líka í dag jörð handa þér, ef þú lifir mig," hélt biskup áfram.

"Ég sé, að þú ætlar að fæla mig út með þessu tali, þú veizt, hvað mér fellur illa, þegar þú ert að ráðstafa eftir þig," sagði frúin og andvarpaði þungt.

Hann þrýsti henni upp að brjósti sér og sagði: "Allir hyggnir menn ráðstafa húsi sínu. Æ, því verr," sagði hann síðan í lægri róm, "lífið er stuttur draumur. Ragnheiður mín, komdu upp á hnéð á mér, eins og þú ert vön. Mamma er ekki svo þung, að ég ekki valdi ykkur báðum." Ragnheiður klifraði upp í fangið á föður sínum, en Halldór litli stóð þegjandi og horfði á. "Dóri minn," sagði nú biskup, "þú ert alltaf svo stilltur og góður drengur, einungis að þú verðir líka gáfaður piltur, svo að pabbi og mamma geti haft gleði af þér. Ragnheiður les miklu betur en þú, hún er líka ári eldri."

"En ég er nærri því búin að gleyma erindinu," sagði frúin "og hví skyldi það ekki, þegar þú ferð að tala um dauðann?"

"Hann kemur þó ekki fyrr fyrir það, þó að við tölum um hann. En hvert var erindi þitt?" spurði biskup.

"Helga í Bræðratungu lét segja mér, að annað kvöld mættum við eiga von á höfuðsmanni að norðan."

"Og hvaðan hefur hún þær fréttir?"

"Eftir ferðamönnum, sem skildu við höfuðsmann fyrir ofan Þingvöll. Hafði hann ætlað að ná hingað annað kveld."

"Þá verð ég að gjöra sveitarmönnum aðvart," mælti biskup, "því að marga langar til að sjá höfuðsmanninn, og svo vildi ég líka, að viðtakan yrði sem slíkum gesti sómir."

Eftir þessa samræðu gekk frúin og börn þeirra út. Biskup fylgdi þeim til dyra, lokaði síðan aftur dyrunum og gekk um gólf. Nýlega var hann rétt í Paradís ánægjunnar í örmum ástúðlegrar konu, átti velgefin og mannvænleg börn. Það var nú unun hans að búa vel í haginn fyrir þessi börn sín, og hann sáði daglega einhverju frækorni, sem gróa átti síðar hamingjusamlega á götu þeirra. Maðurinn sáir, en guð gefur ávöxtinn, segir ritningin. Maðurinn er skyldugur að sá góðu sæði, vilji hann vænta góðrar uppskeru, og Brynjólfur hugðist einnig gjöra það. En þeir njóta ekki ævinlega uppskerunnar, sem það er ætlað.


12. kafli

Nú víkur sögunni til Jóns Árnasonar, þess sem biskup synjaði jarðarkaupsins. Hann reið þegar af stað, er biskup opnaði fyrir honum dyrnar og nam ekki staðar fyrr en hann steig af baki við prestssetrið Torfastaði. Hann heimti þegar Illuga á tal.

"Ég hef dyggilega haldið loforð mitt," sagði hann við hann, "ég hef neitað öllum kostaboðum biskups, heldur en gjöra uppskátt, hverjum parturinn er veðsettur."

"Þú hefur þá aðeins haldið gefið loforð," sagði Illugi, "og er það ei þakkar vert, þótt mér komi það vel. Biskup má eigi vita, að ég hafi peningaráð. Hann kallar þá til skuldar við mig fyrir skólaveruna góðu. Því hótaði hann mér, þegar ég var rekinn burtu. En þú mátt selja biskupi jarðarhundruðin, fái ég útgreidda peninga mína með rentum og renturentum, og þú lætur mín ekki getið, það er annað skilyrðið."

"Ég geng að því," segir bóndi, "því að ég neyðist til að selja vegna drengsins míns, mig langar svo mjög til að láta hann læra í skóla. Þótt hann sé ennþá ungur, þá er þó námið sjaldan of snemma byrjað."

"Mig varðar ekkert um, hvað knýr þig til sölunnar, ég vil einungis hafa peningana mína og engar refjar," sagði Illugi og skellti í lás.

Daginn eftir sjáum vér biskup sitja aleinan í skrifstofu sinni og endurrita skjal eitt gamalt, er lá frammi fyrir honum á borðinu. Átti hann allerfitt með að uppgötva hina daufu og næstum máðu stafi á bókfellinu. Allt í einu lukust upp dyrnar, og inn kom maður, gjörvilegur og fríður sýnum. Hann nam staðar við dyrnar, er hann sá, að biskup var í önnum.

"Hvað vilt þú, Daði?" sagði biskup og leit við.

"Hér er maður, herra, sem biður yður að veita sér áheyrn," sagði Daði auðmjúkur.

"Láttu hann koma inn," sagði biskup og hélt áfram að skrifa. Daði gekk út, en inn kom maður, lítill vexti, larfalega til fara og með skotthúfu sína í hendinni. Það var Jón bóndi, sá er var þar kveldinu áður. Biskup spratt upp reiðilegur og mælti:

"Hvað viltu aftur á fund minn, Jón?"

"Ég ætlaði, herra, að afgjöra um jarðakaupin, því að nú eru þær skorður úr vegi, sem í gær hömluðu mér frá að selja," sagði maðurinn með skjálfandi röddu.

"En nú eru aðrar nýjar komnar í veginn," sagði biskup, "ég vil öldungis ekki eiga jörðina. Sá, sem ekki vill, þegar hann má, fær ekki þegar vill."

"En herra, ég gat ekki annað," sagði maðurinn.

"Og ég get heldur ekki með neinu móti keypt hundruðin, því að ég vil það ekki," og hann lauk síðan eins og daginn áður upp hurðinni fyrir Jóni, settist síðan aftur niður og fór að skrifa, en maðurinn reikaði út í garðinn og grét.

"Hví berðu þig svona illa, Jón minn Árnason?" sagði Staðar-Sveinn gamli, sem kom að í því.

"Nokkrir munu kalla mig gráta af brekum einum, karl minn," sagði Jón, "en kennir hver sín, þótt klækjóttur sé. Mig langar svo mikið til að koma honum Nonna mínum í skóla. Afi hans var prestur, og ég vildi ekki láta hann kafna undir nafni, en efnin eru engin."

"Hefurðu beðið biskup ásjár?" spurði Sveinn gamli.

"Ójá, ég bað hann að kaupa af mér jörðina, sem ég á, en hann rak mig út."

"Ó, harður er hann sauðurinn," sagði Sveinn gamli, "en betur, að ég nú gæti launað þér liðveizluna, er þú veittir mér forðum. Ég ætla að finna Daða Halldórsson að máli. Tillögur hans mega mikils við biskup." Jón huggaðist lítið, en gamli Sveinn gekk til Daða og sagði honum frá vandræðum Jóns.

"Hví grætur þú, maður?" spurði Daði Halldórsson, sem litlu síðar kom þar að.

"Af því að biskup vill ekki kaupa af mér partinn minn í Dvergasteini, en ég þarf að koma Jóni syni mínum í skóla, og svo er Illugi Bjarnason jafnan að krefja mig um skuld."

Daði hugsaði með sjálfum sér: "Ef ég get komið piltinum í frískóla hjá biskupi, þá fæ ég jörðina fyrir ekki neitt, eins og Sveinn gamli sagði. Skuldina við Illuga get ég tekið upp á mig, ég mun komast létt út af henni. Það er bezt að grípa gæsina, meðan hún gefst. Heyrðu, Jón minn," sagði nú Daði hátt, "ég skal á mánudaginn eiga kaup við þig heima hjá Illuga. Hittu mig þar þá."

Bóndi leit undrandi til hans, eins og hann vildi spyrja: "Hvaða kaup skyldir þú geta átt við mig? Ég er vissulega of fátækur til þess, að slíkur herra sem þú ert finni nokkuð nýtilegt hjá mér." Samt lofaði hann að mæta þar.

Daði gekk þar að, sem tvö börn léku sér úti í garðinum. Stúlkan var á að geta um níu ára gömul, með mikið og bjart hár, með dökk, skarpleg augu, og tíguleg á svip. Pilturinn var á að gizka átta vetra, dökkur á hár, blíður og stillilegur. Þetta voru þau Halldór og Ragnheiður, börn meistara Brynjólfs. Þau hentu knetti á milli sín og höfðu mikið gaman af að grípa hann á lofti.

"Nú er ég búinn að ná knettinum fjórum sinnum hvað eftir annað, en þú aldrei," sagði drengurinn við systur sína, um leið og hann kastaði honum til hennar í fimmta skipti. Þessa eggjun stóðst ekki Ragnheiður, og þegar knötturinn flaug yfir höfuð henni, greip hún báðum höndum eftir honum, svo ófimlega, að hún datt endilöng aftur á bak og missti hans.

"Stattu upp, og vertu glöð, ég skal grípa hann fyrir þig," sagði Daði Halldórsson, sem kom að í þessu. Hann tók knöttinn og kastaði honum á vanga Halldórs svo fast, að drengurinn fór að gráta.

"Mikið óbermi ertu, Daði, að meiða svona barnið," hrópaði Ólafur Gíslason að baki honum með drynjandi rödd.

"Ég skal hefna fyrir þig, Dóri minn," sagði hann um leið og hann þreif knöttinn báðum höndum og varpaði honum svo fast á enni Daða, að sprakk fyrir. Þessu reiddist Daði og rauk á hann, komu þá nokkrir piltar að, til að skilja þá. Ragnheiður hafði nú fengið nóg af leiknum, og ætlaði hún inn til móður sinnar, en þá varð Jón bóndi á vegi hennar, og sá hún, að hann var mjög hnugginn.

"Hví liggur svo illa á þér?" spurði hún og hvessti á ókunna manninn stóru, dökku augun sín.

"Það liggur illa á mér, barnið mitt," sagði maðurinn, "af því að hann faðir þinn vill ekki kaupa af mér partinn, sem ég á í Dvergasteini. Ég á dreng, sem er lítið stærri en þú og sem langar til að læra eitthvað fallegt, og þess vegna vil ég selja hann."

"Ég skal biðja hann pabba að kaupa jörðina," sagði Ragnheiður og hljóp frá honum.

"Ó, að faðir þinn væri eins hjartagóður og viðkvæmur og þú ert, barnið mitt. Þá mundu ekki eins margir ganga andvarpandi frá garði hans," sagði maðurinn í hjarta sínu, þótt hann ekki talaði það hátt.

"Hví ferðu svo geyst, barn?" sagði biskup, er Ragnheiður litla vatt sér inn úr dyrunum og í fangið á föður sínum. "Þú varst nærri búin að velta um koll fyrir mér blekbyttunni með ofboðinu. Hef ég ekki sagt þér að vera hæg og kurteis. Það er ljótt, þegar stúlkur eru ókvenlegar. Viltu muna það framvegis?"

"Ég ætla að biðja þig, góði pabbi, að kaupa Dvergastein af vesalings manninum hérna úti. Mér sýndist hann vera að gráta," sagði Ragnheiður niðurlút, því að hún hafði misst kjarkinn við átölur föður síns.

"Þú átt aldrei að biðja neinna hégómlegra bæna, barn," sagði biskup. "Ég hef neitað manninum um að kaupa jörðina, og heldurðu, að ég hafi ekki mínar ástæður fyrir því?"

Við þessi orð flaug sorgarský yfir hið glaða og fagra andlit Ragnheiðar. Hún renndi sér niður á gólfið og gekk út eins niðurlút og hrygg og hún hafði hoppað inn vonglöð og ánægð yfir að geta bráðum unnið gott verk og huggað vesalings manninn, er hún kenndi svo mjög í brjósti um. Vesalings barn, hvort mun þig í sakleysi þínu hafa dreymt inn í þá daga, sem síðar áttu þér að mæta, þótt enn lægju langt í burtu?

Jafnvel þótt Brynjólfur biskup væri fastlyndur maður og lítt sveigjanlegur, þegar því var að skipta, komst hann þó við í hjarta sínu við bæn barnsins, og þó honum ekki dytti í hug að veita hana, sagði samvizkan, þessi árvakra guðs rödd í manninum, að hann gjörði ekki rétt. En hin kalda rödd sjáifsþóttans talaði hærra og sagði: "Mun heimurinn geta borið virðingu fyrir því yfirvaldi, sem játar og neitar sama hlut í sama augnabliki, og ekki þarf nema eitt tár eða átakanlegt orð til að snúa því á hvern veg sem er? Nei, það sem ég hef sagt, það stendur."

En máltækið segir: Nokkuð ber jafnan til alls. Mundi Dvergasteinn síðar hafa fallið í þann hlut, sem hann féll, hefði biskup í þetta sinn gefið gaum að bænum dóttur sinnar? Það er vandi að segja. Tíminn málar hendingarnar á yfirborð sitt. Þar standa þær fyrir allra augum, að svo miklu leyti sem þær eru sjáanlegar, en hvað þar hefði staðið, hefði svona eða öðruvísi farið, getur ekkert mannlegt hyggjuvit leyst úr.

Biskup gekk um gólf, niðursokkinn í hugsanir sínar, þegar háreisti sveinanna úti í garðinum vakti eftirtekt hans. Hann leit út um gluggann og sá, að Ólafur, útlærður stúdentinn, og Daði Halldórsson voru í handalögmáli, og hafði Daði báðar hendur í hári Ólafs. Þessa sjón stóðst biskup ekki, en fór út. Hann gekk ofur rólega fram með annarri hlið skíðgarðsins, svo að þeir piltar sáu hann ekki. Án þess að hann ætlaði sér að hlusta á orðarskipti þeirra, heyrði hann, að Ólafur sagði:

"Þú ætlar þér vafalaust að mægjast við biskupinn, ekkert minna. Það er skaði, að Ragnheiður er ekki nema níu ára gömul. Þú gjörir að minnsta kosti þitt til. Þú hangir utan í barninu, þegar biskup er ekki nálægur, en fyrir honum skríðurðu í duftinu." Biskup leit til Ólafs reiðilega, en sagði með harðri, en hátíðlegri röddu:

"Þú ferð inn í herbergi þitt, Ólafur, og bíður þar, unz við finnumst. Og þú, Daði, mætir inn á skrifstofu minni samstundis." Við þetta varð dauðaþögn, og hver fór þangað, sem honum var boðið. Biskup sjálfur lokaði dyrunum á eftir Ólafi og gekk svo til skrifstofunnar að hitta Daða.

"Hvernig byrjaði ófriðurinn?" spurði biskup og nam staðar frammi fyrir Daða, sem alls enga hræðslu var að sjá á. Daði sagði honum frá knattleik þeirra systkinanna, og hversu hann rétt í gamni hafði hlaupið undir bagga með Ragnheiði. Þá hefði Ólafur komið út úr kvennabaðstofu og varpað knettinum á enni sér svo óþyrmilega, sem hann sjálfur bæri vott um. Nú voru sjónarvottar til kallaðir og síðast börnin, og bar öllum saman. Biskup kvað upp dóminn svohljóðandi: Daði skyldi bera vatn í eldaskála til jafnlengdar næsta dag, börnin skyldu vera daginn eftir í herbergjum sínum og hvorki ganga í kirkju né vera á mannamótum, en dóm Ólafs heyrði enginn. Biskup gekk einn inn til hans, lokaði dyrunum á eftir sér og sagði:

"Ólafur!"

"Hér er ég, herra," sagði Ólafur og sneri sér hægt frá glugganum. Hann hafði horft á Daða, þar sem hann gekk sneyptur og niðurlútur til eldaskála, að taka við embættinu.

"Fyrirverður þú þig ekki fyrir að vera settur í varðhald eins og einhver óknyttaseggur?" sagði biskup og leit reiðilega til hans.

"Ég hef ekki unnið til þeirrar hegningar, herra. Ég ætlaði einungis að hjálpa Halldóri litla. Það var allt mitt brot."

"Ég veit helzt til of margt um þig. Þér er ekki til neins að vera að afsaka þig. Þú hefur svívirt menntun þína, þú hefur svívirt bæði þig og mig, svo að þú ert óhæfilegur til að ganga í þá stöðu, sem ég ætlaði þér."

"Með hverju hef ég svívirt yður, herra?" stamaði Ólafur fram náfölur.

"Þykistu ekki muna, hvaða orð þú hafðir við Daða um dóttur mína?" sagði biskup fast, en stillilega, og með svo geigvænlegu augnaráði, að Ólafur hrökk undan og varð að styðjast upp við gluggakistuna.

"Kunnir þú ekki að skammast þín fyrir vanþakklæti þitt, á ég enga hegningu til að leggja á þig framar. En nú ertu frjáls," sagði biskup og gekk út.


13. kafli

Daginn eftir var veður hið fegursta. Skálholtsdómkirkja var nýreist, og ekkert sparað til að gjöra hana sem veglegasta. Úti í garðinum, þar sem orrustan hafði verið háð daginn áður, sat ungmenni eitt, sem ekki hafði fyllt tvítugs aldur, og hélt á stækkunargleri í hendinni. Hann skoðaði í gegnum það blóm og grös, er hann hafði safnað allt í kringum sig. Hann aðgætti nákvæmlega hverja línu, hverja taug og hvern blómbikar, og mátti sjá, að hann var frá sér numinn af aðdáun yfir því, hve haglega allt var gjört. Hinn ungi maður var Þórður, sonur Þorláks Hólabiskups, sem hafði komið kveldið áður að norðan með Bjelke höfuðsmanni. Hann var fríður sýnum og hið gervilegasta ungmenni. Hann sat stundarkorn sokkinn niður í að skoða blóm sín. Við glugga þar rétt uppi yfir sat Ragnheiður litla, dóttir biskups, og horfði ofan á náttúruskoðarann með mikilli forvitni. Þegar minnst varði, leit Þórður upp til að skoða bygginguna og hefur líklega í huganum borið hana saman við bygginguna á Hólum. Kom hann þá auga á Ragnheiði litlu uppi í glugganum.

"Ó, hvílík fegurð." hugsaði hann, "þetta er engilsmynd. Skyldi það vera biskupsdóttirin?" Til þess að ganga úr skugga um það, kallaði hann til hennar og sagði:

"Ert þú Ragnheiður Brynjólfsdóttir?"

"Já," svaraði mærin.

"Komdu hérna ofan til mín, og ég skal sýna þér í stækkunarglerið mitt. Blómin eru svo ljómandi falleg, þegar maður skoðar þau í gegnum það. Í því sést líka margt, sem við sjáum ekki með berum augum."

"Ég má ekki fara út í dag," sagði Ragnheiður, "pabbi hefur bannað mér það."

"Ég skal þá leggja stigann þarna upp að glugganum og koma svo og sýna þér blómin," sagði Þórður. Stiginn var fluttur, og Þórður sat í efstu riminni með blómahrúgu og stækkunargler sitt, en Ragnheiður leit í gegnum rúðuna, því að hún gat ekki opnað gluggann, og hafði hún mikið gaman af að skoða blómin í gegnum stækkunarglerið, þó að rúðan yrði að vera sem þröskuldur á milli.

"Ég ætla að koma inn til þín í dag, þegar pabbi þinn er með höfuðsmanninum. Það er svo leiðinlegt fyrir þig að vera þarna ein í allan dag. Þá geturðu sýnt mér öll gullin þín. Þú átt víst mörg gull. Er ekki svo?"

"Jú, ég á mörg, knött gylltan, þrjár brúður, sína á hverjum búningi, grænlenzkum, tyrkneskum og íslenzkum."

"En áttu engan dreng?" spurði Þórður.

"Nei, engan," svaraði hún.

"Þá skal ég senda þér trédreng, sem ég hef smíðað, þegar ég kem norður." Við þetta gladdist hún mjög, og þau voru þegar orðnir mestu mátar, án þess þó að mæla til vináttu með sér, eins og margir eldri gjöra. Hjá börnum er það hjartað, en ekki varirnar, sem ræður mestu. Raunar var Þórður Þorláksson ekkert barn, 19 ára gamall, en hann var saklaust og blítt ungmenni, miklu nær æsku en fullorðins árum. Ragnheiður hreif tilfinningar hans, og til þess að geta notið nokkurra sælla augnablika í félagsskap hennar, varð hann að hugsa og tala sem barn.

Ólafur stóð við gluggann á herbergi sínu búinn eins og stúdentum hæfði. Hann hafði greitt sér og strokið sig, því að hvenær skyldi skarta, ef ekki þegar höfuðsmaður var kominn? Hann stóð þegjandi með spegilinn í hendi sér og virti nákvæmlega fyrir sér, hversu hver spjör færi. "Æskumaðurinn rennur upp eins og vallarlilja," hugsaði hann og velti höfðinu á ýmsa vegu frammi fyrir skuggsjánni, til að fá fullkomna vissu um, að hann engan blett eða hrukku hefði. Ef til vill hefur hann hugsað svo, að hann væri heldur laglegur maður, og að fáar í Skálholtssókn mundu neita sér, ef hann leitaði þar ráðahags. Rétt í þessu varð honum litið út um gluggann á Daða Halldórsson, er rogaðist þar með vatnsskjólur sínar til eldaskála.

"Daði, þrjóturinn Daði," hrópaði hann. "Ég skal reyna að hræra ofurlítið upp í hroka þínum." Að svo mæltu varpaði hann spegli, greiðu og því öðru, sem hann hafði handa á milli, frá sér og skundaði ofan vindingsstiga, alla krókaganga og tröppur eins og kólfi væri skotið og stóð svona uppstrokinn með hendur í vösum fyrir miðjum eldaskáladyrum, er Daði ætlaði inn með skjólurnar, og kvað með lágri rödd, því að rétt í því sá hann til biskups og höfuðsmanns:

Daði minn, Daði minn, hvað dugir þér,
að dramba hátt, hlæja dátt og hóta mér?
Þín er dýrðin, sem þú sér,
að sækja vatn og öskuker
og Steinku faðma fast að þér, fast að þér."

Daði beit á jaxlinn og bölvaði í hljóði. Meira gat hann ekki, því að í því sá hann, að biskup og höfuðsmann bar þar að, og hafði hann naumlega sett frá sér skjólurnar, því að Ólafur varði honum inngöngu, þegar höfuðsmaður sagði:

"Séra Halldór í Hruna kvað vera hinn geðugasti maður, hann á mörg efnileg börn, trúi ég."

"Já, hann er mjög geðugur maður," mælti biskup, "þarna er einn sonur hans, Daði að nafni." Höfuðsmaður nam staðar og leit til Daða, sem breiddi sig sem bezt hann gat yfir vatnsföturnar, því að hann fyrirvarð sig fyrir auvirðilegan starfa sinn. Það hefur líka fleirum viljað til, þótt óviturlegt sé.

"Það er snoturt ungmenni," sagði höfuðsmaður, "er hann í þjónustu yðar, herra biskup?" Daði hefði feginn viljað troða sér inn úr veggnum, hefði kostur verið á, og engin vinaraugu voru það, sem hann gaf Ólafi fyrir að hafa varnað sér inngöngu. En Ólafur glotti um tönn yfir vandræðum Daða.

"Já, herra höfuðsmaður, hann hefur lengi verið í þjónustu minni og er nú við skólanám. Ég ven sveina mína við ýmsa starfa."

"Það er rétt, ungir menn hafa gott af að vera heima í sem flestum störfum, er fyrir koma," sagði höfuðsmaður. Síðan gengu þeir fyrir biskupsstofu og töluðust við. En Daði gætti þess að missa ekki sjónar af Ólafi, svo að hann ekki slyppi undan hefndinni, er hann hafði hugað honum, jafnskjótt sem biskup hyrfi fyrir stofuhornið, en Ólafur hafði sömuleiðis gát á, hvað leið, en þeir biskup sneru aftur við og námu staðar frammi fyrir kirkjunni. Biskup benti á hana, líklega til að sýna höfuðsmanni þessa stórkostlegu byggingu, er hann auðsjáanlega gladdist af að hafa reist. Hann hefði naumast trúað á þessu augnabliki, þótt einhver hvíslaði í eyra honum: "Hér mun svo skammt líða, að þessi bygging gangi til grunna." Mikil hamingja er það, að enginn getur skyggnzt inn í ókomna tímann. Að líkindum hefði hið hugumstóra hjarta Brynjólfs biskups ekki getað borið þá raun, að sjá í anda Skálholtsstað eins auvirðilega til reika og hann varð nokkrum áratugum seinna. En eins og öll guðs ráðstöfun er einber vizka og náð, þá er ekki hvað minnst miskunnsemin falin í þeirri huldu, sem hvílir yfir hinu ókomna og einatt felur æðandi storma fyrir sjónum vorum, svo að vér njótum glaðir lífsins, sem líður.

"Þetta verður tígulegt smíði," sagði höfuðsmaðnr og virti kirkjuna fyrir sér í mátulegri fjarlægð, "í tvær eða þrjár aldir er líklegt, að hún standi."

"Það mætti hugsast," sagði biskup ánægjulegur á svipinn, "en hamingjan má vita, hvort eftirmenn mínir geyma hennar svo vel. En margt er nú ennþá eftir ófullgjört, kórinn og framkirkjan til dæmis, en ég vona, að ekki líði mörg ár, þangað til hún stendur albúin."

"Það er mælt, að Mosturskirkja í Noregi sé byggð af Ólafi Tryggvasyni árið 999 eða 1000, og sé hún komin svo mjög til ára sinna, er ekki ólíklegt, að þessi kirkja geti staðið í full 300 ár. En hvað haldið þér, að kostnaðurinn við smíðið verði mikill?"

"Hann er nú þegar orðinn afarmikill. Ég man nú ekki áætlunina svo rétt, en það situr allt ritað inni á skrifstofu minni. Þókknast yður ekki að koma inn?" Biskup renndi ennþá einu sinni augunum, sem ánægjan skein út úr, yfir þessa voldugu byggingu, sem verða átti minnisvarði hans meðal ókominna kynslóða, og gekk svo með tignargesti sínum til stofu.

Ólafur sá, að sinn griðatími var á enda, ef biskup kæmist inn fyrr en hann. Hann vildi því gjarnan fara að hafa sig inn, en gefa þó Daða dálitla hugnun áður og segir því: "Þú mátt þakka mér fyrir, Daði, að höfuðsmaður sá þig. Hver veit nema þú verðir einhvern tíma dýrlingur hans eins og biskups, því að hvorki vantar þig kænsku eða undirferli til að smjaðra þig inn á fólk?"

"Bíddu aðeins," sagði Daði í lægri róm, "þangað til biskup er kominn inn."

"Nú er einmitt minn tími að fara," sagði Ólafur og gekk burtu brosandi með hendurnar í vösunum, en Daði skákaði vatnsfötunum inn á gólfið. Eftir það fór hann að leita að Ólafi.

"Hvaða ólukkans assa er þarna?" hrópaði Daði, um leið og hann hljóp eftir garðinum og sá Þórð Þorláksson sitja uppi í stiganum og ræða við Ragnheiði biskupsdóttur. Hann var jafnskjótt kominn að stiganum og hristi hann svo ótt, að Þórður sá sitt ráð vænst að vega sig niður.

"Skyldi þá ævinlega verða gler á milli okkar Ragnheiðar?" sagði hann um leið og hann fór.

"Vonandi er það," sagði Daði.

"Hvað þú getur verið ósvífinn, Daði," kallaði Ragnheiður, í því er Þórður fór út úr garðinum, "að fara svona með biskupssoninn."

Ég hirði ekki hót um þessa biskupssyni," mælti Daði. "Þeir eru í mínum augum ekki bauninni betri eða tignari en förukarla synir, nema hvað þeir eru betur klæddir og dramblátari, en það er þó næsta lítill kostur. Og þú, Ranka mín, þú ert ekki hótinu betri en hún Steinka Sveinsdóttir, nema þú ert fallegri."

"Ég skal klaga þig fyrir honum pabba," sagði Ragnheiður.

"Gjörðu það, ef þú þorir. Ætli honum þyki betra að heyra, að þú sitjir út í glugga á tali við pilta? Þú mættir þakka mér fyrir, ef ég þegi." Eftir það fór Daði burt, og hún sneri frá glugganum hrygg og reið yfir ósvífni hans.

Nú víkur sögunni inn í stofu til biskups og höfuðsmanns. Þeir höfðu verið að yfirfara áætlunina um kirkjubygginguna og reikninga þar að lútandi.

"Það er víst, að byggingin er mikil," mælti höfuðsmaður, "enda verður kostnaðurinn mikill, um það lýkur. Fjögur hundruð hundraða er meir en lítil upphæð, eftir því sem hér á landi gjörist."

"Já, ég vona, að hún verði líka veglegt hús," mælti biskup. "En, herra höfuðsmaður, þókknast yður að lesa þetta?" mælti biskup ennfremur, þungur á svip og lagði fram á borðið stórt skjal.

Höfuðsmaður tók það og las hátt eftirfylgjandi greinar:

Að útvega gras til að ljúka upp öllum lásum.

"Hvers konar jurt er það?" spurði höfuðsmaður undrandi og leit framan í biskup, en hann hristi alvarlega höfuðið og svaraði engu. Höfuðsmaður hélt áfram að lesa:

Að forða stórfiskum frá að granda. -

Að vita, hver frá sér stelur. -

Að smíða kvikasilfur. -

Að hafa sigur í öllum málum. -

Að stefna djöfli, Þór, Óðni og öllum vættum til heilla sér. -

"Já, já, minna má nú gagn gjöra, að hafa sigur í öllum málum. Það væri líka fróðlegur lærdómur, eða hversu skal maður útvega sér óskastein? Hvar er hans að leita?" Höfuðsmaður leit spyrjandi til biskups. Hann svaraði: "Eftir gömlum galdrakronikum á tindur einn að finnast á Vesturlandi. Uppi á honum á tjörn ein að vera, og á sumardagsnóttina fyrstu eiga að synda þar alls konar náttúrusteinar. Þeir, sem hafa versta náttúru, synda næst landi. Verður því sá, sem þá vill afla sér óskasteins, að hafa bát við höndina til að róa út á vatnið. Þar kvað vera sá steinn, er óskasteinn nefnist. Hafi maður þann stein undir tungurótum, á maður að vita alla hluti í jörð og á og geta óskað sér alls."

"Það er náttúrlegt, að slík gersemi liggi ekki á víðavangi", sagði höfuðsmaður brosandi og hélt áfram að lesa:

Móti stuldi er særður Hrímþurs og Grímþurs og allra trölla faðir með 29 galdrastöfum. -

"Já, já, hafast þessar vættir við hér uppi á Íslandi?" spurði höfuðsmaður.

"Svo lítur út fyrir," sagði biskup. "Fornsögurnar tala víða um vætti í gljúfrum, sem liggi á gulli og gersemum og vinni mönnum og fénaði tjón, og er þessi átrúnaður eins konar leifar af heiðni eða endurminningar hinna fornu land- og gljúfravætta, sem dýrkaðar voru í heiðni. En sem betur fer, er þó slík trú að deyja út, þó að ennþá ríki víða hjátrú, og mér liggur við að segja afguðadýrkun með ýmsu móti."

"Hver er eiginlega tilgangur greina þessara?" spurði höfuðsmaður, "og hver hefur samið þær?"

"Svo stendur á, herra höfuðsmaður," tók biskup til orða, "að allmargir af skólasveinum vorum fóru að halda leynilegar samkomur í kirkjunni á næturna. Daði Halldórsson gjörði mér aðvart. Ég lét rannsaka málið leynilega, því að undir opinberan brennudóm vildi ég ekki selja svo marga góðra manna syni. Svo fór, að allt galdrabrugg þeirra varð uppvíst. Höfuðlærdómsgreinarnar, sem hlutaðeigandi lærisveinar áttu að nema, voru 80, og lásuð þér áðan nokkrar þeirra. Þeir skiptu sér niður í bekki, allt eftir námsgáfum, iðni og skilningi, rétt eins og gjört er í skólum nú á dögum, og aðal-þrekvirkið átti að vera að vekja upp draug, sem væri fullgildur til allra innanlands sendiferða."

"Þeir hafa hlotið að hafa einhvern rektor til að stjórna öllu," svaraði höfuðsmaður, "því að aumur er höfuðlaus her."

"Það höfðu þeir líka," sagði biskup, "sá sveinn var ættaður að vestan og heitir Illugi. Mér var falinn hann á hendur af bezta vini mínum, Þórði presti í Hítardal. Sökum þess hef ég ekki viljað gefa alþingi þann bófa í hendur. Hann einn er frumkvöðull allrar þessarar óhæfu, en þess bið ég konung, eins og þér sjáið á fylgiskjali mínu, að aldrei eigi hann hér afturkvæmt til skólans."

"En hvað gagna þessi fræði þeim?" sagði höfuðsmaður ennfremur.

"Þau gagna þeim náttúrlega til einskis," sagði biskup, "nema til að tortíma sálu þeirra. En það er skoðun fólks sums staðar á landi hér, að það sé öldungis ómissandi að vita jafnlangt nefi sínu, sem þeir svo nefna, eða að vera vel að sér í hinni egypzku speki, til þess að vera viðbúinn, ef aðrir leita á þá. Þeir ætla með þessu að brynja sig gegn alls konar ofsóknum og aðköstum í lífinu, því að hlekkist kú eða hesti á, að ég ekki tali um, verði maður bráðkvaddur eða deyi voveiflega á einhvern hátt, þá er svo sem auðvitað, hvaðan aldan er risin. Þeir óttast og dýrka djöfulinn meira eða jafnframt höfundi allra hluta, eins og tvö jafnsterk öfl séu til, sem berjist sín á milli eða öllu heldur starfi samhliða. Svona gengur það á þessum síðustu og verstu tímum."

"Þessu lík djöflatrú er líka mjög útbreidd í Danmörku og víðar á Norðurlöndum," mælti höfuðsmaður. "En ætlið þér þá, herra biskup, að slíkir myrkra-andar eigi sér stað, eða hrærist sjáanlega í vorum sjóndeildarhring? Sumir halda, að það geti komið fyrir undir ýmsum atvikum, sem oss eru óskiljanleg, og bera fyrir sig sjón Sáls konungs og verk ýmissa töframanna í ritningunni."

"Ég held," kvað biskup, "að þjóðtrúin sé sú olía, sem þessir draugar og djöflar alast á, og þar sem hrein og örugg trú á drottin er annars vegar, orka þeir öldungis ekkert, eins og þegar töframenn Egyptalands fóru halloka fyrir þeim Móses og Aroni, og urðu sjálfir undirorpnir kýlum og kaunum eins og hinir aðrir, og eins og postular drottins buðu spásagnaranda hins illa að víkja frá konu þeirri, er elti þá. Þjóðtrúin er olía sú, sem drýpur á möndul þessara djöfullegu hjóla, til þess að þau séu í sífelldri, starfandi hræringu til ills," sagði biskup og andvarpaði. Síðan rétti hann að höfuðsmanni stórt skjal og bað hann lesa. Það var viðlagsskjal, er biskup sjálfur hafði ritað til konungs. Þar sagði hann skýrt og skorinort frá broti skólasveina og bað þeim uppreisnar. Kvað þá meir hafa ratað í þetta af vangá og vondra eftirdæmum en ásetnings-illvilja o. s. frv. Bréfið bar ljósan vott um sannleiksást og hreinskilni, en þó jafnframt um réttlæti og strangleika biskups.

Höfuðsmaður las bréfið með athygli, rétti það síðan aftur að biskupi og sagði: "Þér eruð góður hirðir."

"Það vildi ég vera," sagði biskup. "Andinn er reiðubúinn, en holdið er veikt."

"Viljið þér, herra höfuðsmaður, bera þessa frávilltu sauði á bænarörmum fram við konung vorn í haust, er þér farið utan?"

"Það skal ég gjarnan gjöra," sagði höfuðsmaður.

"Þá er skjalið hérna," sagði biskup og rétti það aftur að honum.

Höfuðsmaður braut það saman, lagði það niður í bréfatösku sína og sagði svo, eftir nokkra þögn: "Þetta eru undarlegir hlutir. Hversu margt er allt í kringum oss, sem vér skiljum ekki? Hversu undarlega slapp Guðmundur Andrésson út úr Bláturni í fyrra? Hvernig skyldi það hafa getað verið, að hann hafi dottið þar úr glugganum með sterkum járngrindum fyrir, og þó nú hefði svo verið, hversu skyldi hann þá hafa getað komið lifandi og ómeiddur niður á steinhellurnar þar fyrir neðan, - ofan alla þá hæð? Um nokkra mögulega útgöngu um dyrnar var ekki að tala. Það er þá eftir þessu þjóðtrúin, sem viðheldur og elur þetta eitthvað?"

"Já, það er mín skoðun," svaraði biskup, "og ég vona, að hjátrú þessi eigi sér ekki langan aldur. Hinar upprennandi kynslóðir munu taka hinum eldri fram að þekking, og villan þá gjöreyðast. Þá mun galdur ekki þekkjast nema að nafninu til, sem enginn gjörir þá annað en hæðast að og fyrirlíta."

"Þér spáið vel, herra biskup, en hverju spáið þér þá um, hvernig takist með vegabætur þær og brúargjörðir, sem konungur sendi alþingi bréf um í fyrra?"

"Illa," sagði biskup. "Ekki þar fyrir, að næg er þörf fyrir slíkt á landi hér."

"Hvers vegna þá?" spurði höfuðsmaður.

"Það er fyrst og fremst peningaleysi, sem hamlar," sagði biskup, "og svo ógeð og andstyggð landsmanna á öllum nýbreytingum. Jafnvel sumir mundu kenna slíkum nýmælum um hverja þá landplágu, sem kynni að bera að höndum, eftir að eitthvert slíkt nývirki væri unnið. Þeir halda, eins og þingheimur forðum, að goðin reiðist hinum nýja sið."

"Eru landsmenn þá ennþá heiðnir?" spurði höfuðsmaður.

"Ekki heiðnir, þeir eru þvert á móti að vissu leyti mjög trúræknir, en þegar heiðni lagðist niður, hafa ýmsar kreddur orðið eftir í þjóðtrúnni, sem kennimenn þeirra tíma hafa annað hvort ekki verið færir um að útrýma, eða ekki kært sig um það. Ég á við þessa forynju- og vættatrú, sem ríkir svo mjög meðal landsmanna. Þeir halda, að vættirnar hafist við hér og hvar í tjörnum, klettum, hömrum o. s. frv. Þessi gömlu óðul þeirra mega ekki snertast, þótt líf manns liggi við. Annars verða vættirnir reiðar og vinna mönnum og skepnum tjón. Séu það tjarnir grasi vaxnar, fellir búandi fyrr bjargræðisgrip sinn en hann noti sér þvílíkt gras."

"Hafið þér, herra biskup, séð slíkar álfastöðvar?" spurði höfuðsmaður.

"Já, margoft," kvað biskup. "Það hefur jafnvel borið við á vísitazíuferðum, að hinir og aðrir hafa í bezta skyni varað mig við að reisa tjöld mín, þar sem slík hjátrú lá á."

"Og hafið þér þá hlýtt viðvörunum þeim?" spurði höfuðsmaður.

"Ekki nema þegar þær hafa verið ferðaáætlun minni samhljóða," sagði biskup.

"Hefur yður þá aldrei orðið hált á óhlýðni yðar?" spurði höfuðsmaður.

"Svo sögðu sveinar mínir," mælti biskup. "Einhverju sinni áði ég í slíkri álfabrekku móti góðra manna ráði. Féll hesturinn þá undir mér, er ég var kominn yfir Fagradalsskarð, svo að hægri hönd mín vatzt um liðinn, og ég lá hálfa aðra viku í Berunesi, þar til verkinn dró úr."

"Þessir ósýnilegu landsbúar gjalda víst ekki konungi sínum skatt," sagði höfuðsmaður og hló.

"Það er minna um það," sagði biskup og hló sömuleiðis, "enda hafa þeir líklega áskilið sér lönd sín laus við alla þegnskyldu, áður en landið kom undir konung. Þeir halda síðan rétti sínum betur en landsmenn sjálfir hafa gjört."

Í sama bili gullu hátt við kirkjuklukkurnar, og minntu allar á helgi sunnudagsins.

Hópar af kirkjugestum streymdu að úr öllum áttum, því að kveldinu áður var fólki gjört viðvart, að höfuðsmaður sæti messuna þann dag. Hver, sem gat, reið því til kirkjunnar, börn og gamalmenni, hvað þá aðrir. Allir vildu sjá höfuðsmann landsins í hinum gullsaumuðu, dönsku einkennisfötum, með korða við hlið og krossa á brjósti. Slíkt bar sjaldan fyrir augu almúgans. Biskup var að vísu skrúðbúinn, er hann vígði presta, en ekki þannig, og alls engan korða bar hann, enda er drottins kirkja heldur ekki neinn vígvöllur veraldlegrar sigurdýrðar, og þurfti því ekki korðans við. Mennirnir hafa nægan tíma til að dást að hinum glæstu hjörtum og tign eigandans annars staðar en í guðs helgidómi, einmitt þar sem maðurinn á að leggja niður sína rotnu dýrð.

Eins og goðin forðum svifu létt og ljómaskreytt um hina himinbláu Bifröst, þannig sveif nú tignarskari Skálholts með biskup og höfuðsmann í broddi fylkingar, ekki um hæðahvolfin heldur á jörðu niðri, því að hér er manna-, en ekki goðaför. Bæði karlar og konur difu sér upp undir predikunarstólnum eins og svanir af sundi. Þar enduðu undirgöngin við háar tröppur, er lágu upp í kirkjuna. Allir gengu til sæta sinna, frúin með hefðarkonur sínar inn í stúku sína, en biskup og höfuðsmaður tóku hvor sitt tignarsæti við altarishornin. lotningin skein út úr andlitum allra. Biskupsstóllinn var í fyrri daga eins konar jarlsdæmi, sem lægri klerkar og alþýða veittu nærri guðlega lotningu, jafnvel bein nokkur af gömlu, kaþólsku biskupunum voru lengi fram eftir öldum haldin heilög og tilbeðin, og víða um land voru ennþá sýnilegar menjar af krafti þeirra góðu manna, til dæmis brunnar, er þeir höfðu vígt, og fleira sem þá fékk lækningakraft. Að sönnu var vatn þeirra nú ekki allra meina bót eins og á þeirri tíð, en heilnæmara var það þó heldur en annað vatn, enda höfðu þeir mjög hyggilega valið hreinar og tærar uppsprettur til slíkra hluta, sem jafnan hafa heilnæmar verkanir, þótt ekki komi vígsla til. Nú var slík trú farin að falla í fyrnsku, að minnsta kosti átti ekkert slíkt heima hjá meistara Brynjólfi, en þó var hann engan veginn laus við trú á teikn, fyrirboða og þess konar smábendingar úr ímyndunarveröldinni, enda stóð trú sumra móðurfrænda hans í þá átt. Til skamms tíma hafa einnig mörg smá hindurvitni loðað við jafnvel gáfaða og menntaða menn, því að menntunin gengur eins og allt í mannlífinu aðeins fet fyrir fet áfram, og því er ekki að búast við, að snillingar fyrri tíma standi frammi fyrir samtíðar- og seinni tíma mönnum sem alfullkomnar verur. Það auðnast heldur ekki vorra tíma spekingum, sem vísindin hafa síðan í svo marga áratugi verið að ryðja veg. Nei, þeir standa jafnmörgum göllum hlaðnir, þrátt fyrir hina vaxandi menntun, eins og hinir eldri án menntunar þessara tíma.

Báðum megin í kórnum stóðu söngmenn og reyndu ágæti barka sinna, svo vel sem kostur var á við svo hátíðlegt tækifæri. Meðal þeirra voru þeir Ólafur stúdent Gíslason og Daði Halldórsson, sem báðir sungu forkunnarvel. En svo undarlega vildi til, að andstæðingar þessir stóðu hér hvor við annars hlið. Þegar Daði sá sér fært, gaf hann Ólafi svo tilfinnanleg olnbogaskot, sem afstaðan og þrengslin leyfðu, en Ólafur aftur á móti tvísteig og hagaði þá jafnan svo til, að jafnan urðu tær Daða undir fótum hans. Þetta sá meistari Brynjólfur, þar sem hann sat við altarishornið, en hann sá ekki hnippingar Daða. Hann gaf Ólafi því vísbendingu að dveljast það, sem eftir var messunnar, frammi í krókbekk. Þar höfðust við eftir vanda förukarlar, utansveitarmenn og aðrir, er hvergi áttu sæti. Bekkjarnautur þeirra skyldi nú Ólafur Gíslason vera og það vegna Daða Halldórssonar. Hvað var að setjast þar fyrir messu? Ekkert í samanburði við það að vera rekinn þangað í ónáð. Ólafur fann glöggt þýðinguna, og það voru engin ástaraugu, sem þeir Daði og hann gáfu hvor öðrum, er Ólafur fór úr kórnum. En biskup var jafnan siðavandur maður og hlífði engum lesti, í hvaða mynd, sem hann birtist, eða hver sem í hlut átti, og kenndu margir lærðir og leikir á því. Sjálfur kappkostaði hann að ganga lýtalaus fram fyrir augsýn manna. En að hve miklu leyti honum hefur heppnazt það, voru margbreyttar skoðanir um. Messugjörðin fór fram á venjulegan hátt, og hélt prestur skörulega og gagnorða ræðu um tilgang lífsins, um hverfulleik þess og réttan undirbúning undir hið ókomna og endaði með blessunarorðum. Þar eftir fór prestur aftur fyrir altarið. En eins og gengur, girntust ekki allir hið sama. Sumir voru komnir í þenna helga stað af forvitni, sumir af vana, aðrir af löngun eftir að fræða andann, og enn tveir elskendur til að innganga ævinlegan hjúskap. Það var einn af stóls-landsetunum, sem hafði fundið, að það er ekki gott, að maðurinn sé einn. Hann valdi sér konu eftir höfði og hjarta, og þau áttu nú í viðurvist safnaðarins að vígjast þann dag. Brúðarbekkurinn með glitofinni ábreiðu var settur fram, hjónaefnin voru látin setjast á hann, og þau svo gefin saman. Að því loknu blessaði prestur yfir þau og söfnuðinn. söngmenn sungu útgöngusálminn, klukkum var hringt, og messugjörðin var úti.

Meðan hinir fullorðnu binda tryggðabönd úti í kirkjunni, bindur æskan þau á annan hátt heima á staðnum. Ragnheiður sýndi Þórði Þorlákssyni öll gull sín og allar brúður sínar, en hann sýndi henni aftur í stækkunargleri sínu alls konar fagra hluti, sem hún dáðist að. Áður en guðsþjónustugjörðin var úti, höfðu þau heitið að skrifa hvort öðru til. Honum þótti bjarta hárið hennar fallegt. Hún klippti þá stóran, hringaðan lokk framan úr höfðinu og gaf honum, gekk svo spéskorin hálft ár og fékk átölur fyrir hjá móður sinni, en henni sýndist hún mega nokkuð missa, og sá hárlokkur féll líka í góða jörð.

Fólkið var aftur komið úr kirkju. Þegar biskup og gestir hans höfðu matazt, gengu þeir inn í skrifstofu og ræddust við um landsins gagn og nauðsynjar, um frjálsa verzlun o. s. frv. Höfuðsmaður var mjög á móti henni og kvað hana auka sjálfræði og uppreisnaranda landsmanna. Væri þeir nógu stæltir og óstýrilátir áður. En biskup var á öðru máli og kvað landinu einskis verulegs frama auðið fyrr en hún fengist, en smátt og smátt hugði hann bezt að koma henni á. Meðan þeir ræddu þetta, var kallað úti fyrir dyrunum með nokkuð dimmri rödd:

"Er meistari Brynjólfur svo nær, að hann megi heyra mál mitt?"

"Ert það þú, Björn?" sagði biskup og opnaði dyrnar og sá brúðgumann standa frammi fyrir sér og hneigja sig. Hann var prúðbúinn á stuttbuxum, hnepptum hátt upp á lær með sex silfurhnöppum, og í mosuðum sokkum. Féllu bæði sokkar og buxur svo vel að fótleggjum, að mótaði fyrir liðamótum. Maðurinn var þreklega vaxinn og kálfamikill. Að ofan var hann í sortulitaðri, rauðbryddri síðtreyju, er hneppa mátti ofan úr gegn. Féll hún vel að. Brjóstadúkurinn var allur útprjónaður með rósum og hringum og hnepptur undir hönd og á öxl. Svona búinn stóð brúðguminn frammi fyrir biskupi með skotthúfu sína í hendinni.

"Hvert er erindi þitt, Björn minn?" sagði biskup, því að hann var jafnan viðmótsþýður við landseta sína og þá aðra, er hann átti við að sælda, þegar þeir voru honum ekki of nærgöngulir.

"Ég ætla, herra, að bjóða yður í veizluna mína og honum herra Bjálka líka, ef hann vill koma," sagði bóndi. Höfuðsmaður stóð álengdar og virti manninn fyrir sér sem vandlegast.

"Ég er vant við kominn, Björn minn. Höfuðsmaðurinn er gestur minn, og get ég því ekki komið. Ég óska ykkur beztu skemmtunar," sagði biskup og ætlaði að loka hurðinni. En bóndi kvaðst vilja vita, hvort Bjálki ekki vildi þá koma. Biskup brosti og gekk inn.

"Þetta var einkennilegur maður," sagði höfuðsmaður við biskup, er hann kom inn, "og ekki svo kjarklaus sýnist mér."

"Svo er," sagði biskup, "hann er einkennilegur, allveg hygginn í verklegum störfum, en kemur þó hálf einfeldningslega fram."

Höfuðsmaður brosti og sagði: "Ég hef stundum gaman af að virða fyrir mér fólk, enda þarf ég þess með. Ég er hér útlendingur og hef í erfiðri stöðu að standa og er ekki vel fær í málinu. Þér, biskup, sem þekkið hér svo vel til, skýrið þér mér frá skapferli nokkurra samverkamanna minna."

"Það er mér ofvaxinn vandi," kvað biskup, "því að maðurinn verður að bræðast í meira en einum eldi áður en hann er fullþekktur. Svo margar hvatir og tilhneigingar, sem hann hefur til að bera, svo margar sams konar eldraunir verður hann að ganga í gegnum, áður en maður þekkir hann til fullnustu. Þér, herra höfuðsmaður, eruð víst sjálfur miklu betri mannþekkjari en ég."

"Af hverju ráðið þér það?"

"Af því, hvað þér veljið yður góða vini, t. d. herra Þorlák."

"Já, þar hafið þér rétt. Herra Þorlákur er ágætismaður, hreinhjartað prúðmenni, sem elskar konunginn og fósturjörðina," sagði höfuðsmaður hrærður og mjakaði höfðinu ánægjulega niður á milli línfellinganna, sem héngu lauslega niður um brjóstið.

Í þessu drundi rödd bónda fyrir framan dyrnar: "Vill Bjálki þá ekki koma?"

"Ég var nærri búinn að gleyma, herra höfuðsmaður," sagði biskup, "að bóndi sá, er giftur var í dag, býður yðar að sitja veizlu sína í kvöld. Hann stendur fyrir utan dyrnar og bíður eftir svari."

"Ætlið þér að fara, herra biskup?"

"Það er undir atvikum komið. Reyndar sit ég sjaldan veizlur, mest sökum annríkis, en ég get brugðið vana."

"Ég hefði gaman af að fara," sagði höfuðsmaður, "og sitja einu sinni íslenzka bóndaveizlu. Ég hef séð brúðkaupssiði ýmissa þjóða á ferðum mínum, og það er gaman að finna, hversu andi alþýðunnar speglar sig í þeim. Er þá ekki bezt, að við förum?"

"Eins og þér viljið," svaraði biskup, "ég er til." Bónda var nú sögð koma þeirra biskups og höfuðsmanns og fleiri manna af staðnum, og fór hann glaður af stað með þau tíðindi.

Á biskupssetrinu gaf þessi veizluferð kvenfólkinu nóg að hugsa um. Höfuðsmaður var gestur biskups, og var því blettur á heiðri hans, ef honum yrði ekki gjörð dvölin svo skemmtileg sem unnt var. Sömuleiðis var það hneisa fyrir landið, ef höfuðsmaður bæri íslenzkum veizlum illa söguna meðal hærri stéttar manna erlendis, því að meðal þeirra var Brynjólfur biskup þekktur og virtur. Voru því matreiðslukonur sendar til að undirbúa mat og annað, er þurfti. Sömuleiðis var sent frá staðnum vín og áhöld.

"Þú ríður til veizlunnar með, Þórður minn," sagði biskup og klappaði á herðarnar á Þórði Þorlákssyni. "Já, herra," svaraði Þórður stillt.

"Þú varst ekki í kirkjunni í dag?" spurði biskup ennfremur.

"Ég lék mér við börnin," sagði Þórður feiminn og vafði um leið hárlokk Ragnheiðar um fingur sér.

Biskup sá það og sagði brosandi: "Manstu, þegar þú rændir mig forðum höfuðfatinu heima á Hólum?"

"Nei, já, herra!"

"Roðnaðu ekki af því. Hver veit, nema við eigum eitthvað meira saman að sælda seinna? En komum nú af stað."

Síðan var riðið af stað til veizlunnar. Þegar gestirnir voru komnir þangað, settust allir að veizlunni, og fór allt prýðilega fram.

"Þess bið ég alla," kvað höfuðsmaður, "að skemmta sér eins og þeim bezt þókknast, þótt ég sé hér, og breyta í engu siðum sínum, svo að ég geti hér af gjört mér í hugarlund, hvernig íslenzkar almúgaveizlur fara fram." Allir glöddust við orð höfuðsmanns, og tókst nú hin bezta skemmtun. Skál brúðhjónanna var drukkin, og hljómuðu margar heillaríkar óskir frá hærri sem lægri. Og þó að ekki hefði hrinið meira en tíundi hluti þeirra á brúðhjónunum, þá hefðu þau ekki staðið að baki Salomoni konungi að gæfu, en það er hvort tveggja, að ekki fylgir ævinlega hugur máli, enda virðist svo, sem óskirnar falli ekki ævinlega í góða jörð.

Brúðguminn kvað mikið gæfulega hafa tekizt til með veðrið, því að það yrði sannreynt, að hagurinn yrði sem dagurinn. Væri þoka brúðkaupsdaginn, yrði hjónabandið meinlaust og gagnslaust, væri ofveður, yrði samlífið stirt, væri döggfall mikið, væri það órækt merki upp á marga afkomendur. Svo hafði verið þennan morgun. Þannig taldi hann upp grúa af gömlum bágbiljum um veður og margt annað. Höfuðsmaður ritaði eftir sem mest hann mátti. Kæmist hann í vandræði með að skilja, var skrifari hans til hjálpar, sem var íslenzkur, en Bjelke var sjálfur skarpur og lagði töluverða stund á málið, en við biskup og aðra lærða menn talaði hann dönsku og kryddaði hana ekki allsjaldan með latínu, eins og þá tíðkaðist, þegar um vísindaleg málefni var að ræða. Biskup lagði fátt til og var auðsjáanlega minna hreykinn af þjóðtrú landsmanna en bóndi, sem oft sagði upp úr miðri ræðu: "Er það ekki svo, meistari Brynjólfur?"

Loksins fór höfuðsmaður að fá nóg af sögum bónda, sem bar óðar á en skilningur hans þoldi. Hann sneri sér því að biskupi og sagði, um leið og hann virti fyrir sér vínstaup mikið, er stóð á háborðinu:

"Hér er þá kominn læknisguð Forn-Grikkja, Æskulap." Neðri hluti staupsins var nefnilega síðskeggjaður, eldri maður og studdist við höggormi vafinn staf. "Ekki bjóst ég við að sjá slíkan grip í íslenzkri almúgaveizlu."

"Staupið gaf mér grískur ferðamaður, er ég þekkti í Kaupmannahöfn," mælti biskup. "Hann hét Nikephorus, af ætt miðalda söguritaranna, ágætur og fluggáfaður maður," bætti biskup við, gramur með sjálfum sér yfir, að staupið skyldi þannig koma því upp, að munirnir væru úr biskups- en eigi bóndagarði.

Meðan þessari ræðu fór fram, höfðu yngri mennirnir skemmt sér við leiki í óæðri stofunni, fyrst við gamlan, aflagðan stígdans og svo við kappræður, sem þá tíðkuðust mjög, og var þá ekki ævinlega valinn góður málstaður. Þvert á móti. Sá, sem gat bezt varið einhvern löst fyrir árásum mótstöðumannsins, hann þótti vera góður vitsmunamaður. Þannig urðu til nokkrar útgáfur af "vörn lyginnar" og fleirum þess konar ritum. Úr þessu húsi var innangengt í veizluskálann, og mátti þaðan sjá inn um allt húsið, hvað hver tók sér fyrir hendur. Höfuðsmaður gaf öllu nákvæmlega gaum. Meðal ungu mannanna voru þeir Daði Halldórsson og Ólafur Gíslason, og mættust þeir þarna fyrst eftir það, sem undangengið var í kirkjunni, og með engri blíðu, sem nærri má geta.

En þó að allar veizlur séu í raun og veru hver annarri líkar, að því leyti sem tilgangurinn er, að gleðja sig og aðra, og að njóta sem bezt þeirra fáu augnablika, sem veizlugleðin lætur í té, þá skulum vér þó renna ímyndunaraugum vorum yfir þennan forna veizlusal, sem nú er fyrir löngu hruninn niður í grunn, þegar borð voru tekin burtu, og hver var farinn að skemmta sér eftir eigin geðþótta.

Til hægri handar situr brúðguminn ennþá og heldur báðum höndum konu sinnar á milli sinna breiðu og sterklegu lófa. Þau horfast í augu, og augun spá happasælum dögum í vændum. Að vísu skilur enginn óviðkomandi málið, en af unaðsbrosinu, sem leikur um varir þeirra, má ráða gátnna á þann veg. Biskup sat við skáktafl og tefldi við Torfa prófast, frænda sinn. Það var taflborð biskups, flutt þangað um kveldið í því augnamiði.

"Drottning þín er í hættu, frændi" sagði biskup. "Gættu þess, að ég krói hana ekki inn í hornið. Látir þú hana svona ganga úr greipum þér, ertu ekki fær um að hafa Gaulverjaprestakall á hendi."

"Ekki er kálið sopið, þótt í ausuna sé komið, herra," sagði Torfi prófastur og skákaði riddara fram á borðið.

"Hana þá, nú er frúin mín í veði," sagði biskup, "ætíð er mér illa við krókavegina."

Skammt frá þeim sat höfuðsmaður og ræddi við Staðar-Svein gamla. Hann var lítið eitt ölvaður og þess vegna í meira lagi ræðinn, og sagði hann höfuðsmanni sem greinilegast frá aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans og um öll þam teikn, er sézt hefðu áður, bæði á himni og jörðu.

"Það sáust loftsjónir, svipir dauðra manna og jafnvel himininn grét blóði," sagði hann, "áður en þau býsn urðu."

"Hversu atvikaðist það?" spurði höfuðsmaður.

"Það var snemma vorið áður, að margir blóðdropar duttu úr loftinu og lituðu steinana, þar sem þeir feðgar voru höggnir tæpu ári síðar."

"Nei, það er ormur einn," tók höfuðsmaður til orða, "sem þrisvar skiptir um hann, og síðast verður hann að vængjuðu fiðrildi, en við þá umbreytingu kemur þessi vökvi fram, sem líkist blóði og fellur til jarðar."

"Nei, herra höfuðsmaður! Það var eins vissulega blóð og blóð rennur í æðum mínum," sagði Sveinn, "faðir minn sá það með eigin augum. Ég sá það ekki, því að ég fæddist miklu síðar."

"Ég rengi þig ekki um, að fólki hafi sýnzt það vera svo," sagði höfuðsmaður, "því að 1608 rigndi sams konar blóði kringum bæ einn á Suður-Frakklandi, og hugðu klerkar og munkar það fyrirboða illra tíðinda. Sömuleiðis árið 1296 komu þess konar blettir á oblátu hjá Gyðingi einum, og tók fólk það sem merki upp á reiði guðs yfir Gyðingaþjóðinni, og var fyrir það myrtur grúi af Gyðingum, til að fullnægja þessu ímyndaða réttlæti, svo að fleiri hafa villzt á þessu teikni, en það er allt gjörsamlega náttúrlegt."

Sveinn hristi höfuðið alveg forviða og sagði við og við: "Nei, hver óvenja! Hreint er ég hissa!"

Eins og áður var á vikið, sátu nokkrir ungir menn í óæðra gestahúsinu og kappræddu. Lenti þeim Daða og Ólafi helzt saman við þetta tækifæri, og varði hvor sitt mál framar með kappi en forsjá, eins og ungum og óreyndum mönnum er svo gjarnt til. Höfðu margir, bæði karlar og konur, dregið sig í hópinn, og það roskið og ráðsett fólk. Þangað gekk nú líka höfuðsmaður, hann var orðinn góðglaður af víni og búinn að fá nóg af rausi gamla Sveins. Umtals- eða þrætuefni þeirra Ólafs og Daða var mannlífið - þetta mikla umtalsefni voldugra sem vesalla - þessi gáta, sem gengur óráðin frá einni öld til annarrar, það er að segja, óráðin af jarðnesku hyggjuviti. Daði færði því allt til gildis, en Ólafur allt til ógildis, án efa báðir á móti sannfæringu sinni. Ólafur horfði þá framan í Vilborgu. Það voru jafnan hans mestu unaðarstundir, en Daði sá augu margra hvíla á mótstöðumanni sínum með velþókknun. Það voru jafnan hans verstu stundir. Ræðan fór að hitna á báðar hliðar, og þar eð þetta var efni, sem mátti sækja og verja fram í það endalausa, þá stakk höfuðsmaður upp á, að sá þeirra, sem væri færari, skyldi verja mál sitt í ljóðum, og helzt leika undir á hljóðfæri. Skyldi þetta vera nokkurs konar sjónarleikur til umbreytingar. Þess konar skemmtanir tíðkuðust þá mjög í öðrum löndum.

"Hver ykkar sveina vill þannig verja skoðanir sínar?" spurði höfuðsmaður og leit á víxl til þeirra Ólafs og Daða.

"Frá þeim leik gef ég mig, herra höfuðsmaður," sagði Daði óánægjulegur á svipinn.

"Ég vil reyna að gjöra eins og þér stunguð upp á, herra," sagði Ólafur, "þó að ég finni mig lítt færan til þess."

Þessari nýbreytni var tekið af öllum með fögnuði, og Ólafur fór þegar að búa undir leikinn, en Daði varð nauðugur viljugur að draga sig í hlé. Eins og áður er áminnzt, var Ólafur fljóthagorður, og lék hann einnig mæta vel á fiðlu. Hann hugsaði sér að hafa leikinn þannig: Sjálfur skyldi hann vera Bragi og sitja inn við vegg í brúðarhúsinu með gígju sína. Nokkrar ungar konur, sem voru þar viðstaddar á skautbúningi sínum, skyldu vera gyðjur, og var græni möttullinn, hvíta skautið og allt kvensilfrið einkar hæfilegur gyðjubúningur. Skyldi hver þeirra koma fram fyrir Braga, annað hvort sem dyggð eða ódyggð, og skyldi hann þá finna þeim öllum eitthvað til lasts. Þetta átti hann að gjöra hinni fyrrnefndu áfellisræðu sinni til staðfestingar. Ekki hlutaðist Ólafur til um það, hversu leikendur skiptu með sér hlutverkum að öðru leyti en því, að hann kvað Daða einkar hæfan til að leika Fávizkudísina, en þeirri uppástungu hans gaf enginn gaum nema Daði sjálfur, sem kinkaði til hans kollinum eins og vildi hann segja: "Ég skal muna þig."

Nú byrjaði leikurinn. Bragi settist á stól með fiðlu sína. Upphefðin komin inn og bað Braga að telja sér eitthvað til hróss. Krýndi hún kotung sem konung, án tillits til allra dyggða og hæfileika. "Lát gjalla fiðlu þína, Bragi, til dýrðar mér," sagði hún.

Bragi kvað:

"Upphefðin til ofmetnaðar leiðir,
ofmetnaður hégóma- fæðir dýrð,
hún öllum löstum öðrum faðminn breiðir,
"Er með hvers kyns nöfnum verða skírð,"
"Er með hvers kyns nöfnum verða skírð,"

endurtók Upphefðin sorgbitin og hvarf.

Næst henni kom inn Auðlegðin. Kvaðst hún auka mönnum heillir og veita allsnægtir og bað Braga að kveða sér lofkvæði á gígju sína.

Hann kvað:

"Auðlegð verkar ágirndina fyrstu,
ágirndin svo spinnur véla-þráð.
Öfund síðan svalar hjarta þyrstu
með svívirðingu, harðýðgi og bráð."
"Öfund síðan svalar hjarta þyrstu
með svívirðingu, harðýðgi að bráð,"

endurtók Auðsældin hrygg og hvarf.

Eftir hana kom Vizkan. Hún kvaðst lána mönnum góðar gjafir og gjöra þá hyggna og skynuga, og sökum þess bað hún Braga að kveða sér lof.

Hann kvað:

"Göfugar þó að gáfur mættu vera,
þær glepja manninn ofmetnaðar til,
úr honum síðan asna kann að gera,
er þá fallsins stuttur vegur til."
"Er þá fallsins stuttur vegur til",

endurtók dísin sorgmædd og hvarf.

Þar næst kom inn Nægtadísin. Taldi hún sér til gildis hin fjölbreyttu gæði sín og allsnægtir þær, er hún léti mönnum hlotnast.

Bragi kvað:

"Allsnægtir til óhófs vilja teygja,
óhófinu svívirðingin nær,
er þá hatti hallað, það má segja,
og háðungin mun ekki standa fjær."
"Háðungin mun ekki standa fjær",

söng dísin og hvarf.

Næst kom inn Fegurðin, og bað hún Braga að kveða sér lof, því að hún skreytti allt, sem fagurt og dýrlegt væri.

Bragi kvað:

"Fegurð völt ei vitið bezta hefur,
að vefjast með um þótta-möndulinn,
og hún hneyksli af sér tíðum gefur,
er svo farinn þessi kosturinn."
"Er svo farinn þessi kosturinn",

endurtók dísin angurbitin og hvarf.

Eftir hana kom Heilbrigðin og bað Braga um að kveða sér lof. Væri hún gæfudís manna, því að hún gæfi þeim heilsu og hreysti.

Bragi kvað:

"Heilbrigðin oft orsakar það líka,
að andvaraleysis svefninn fellur á,
fyrir henni viðkvæmni má víkja,
sá veit ei eymd, hann líkn ei kann að tjá."
"Sá veit ei eymd, hann líkn ei kann að tjá",

endurtók dísin og hvarf.

Bragi lék á fiðluna sína:

"Svona falla hin svokölluðu gæði
svívirðing og hneyksli oft að bráð,
og það bága að öðrum reynist þræði
ótal snörum freistinganna háð."

Kom þá inn Niðurlægingin og bað Braga að kveða sér lof, því að hún bældi niður ofmetnaðinn og leiddi mennina á brautir auðmýktarinnar.

Bragi kvað:

"Niðurlæging einatt angri veldur,
örvænting til freistni hvetur spor,
í myrkur svona maðurinn er felldur,
magnlaust hnípir fjör og sálar þor."
"Magnlaust hnípir fjör og sálar þor,"

endurtók dísin andvarpandi og hvarf.

Nú kom inn Fátæktin og bað Braga að kveða sér eitthvað til lofs og dýrðar, því að hún temdi mannanna börn með skorti, svo að þau kynnu að meta gæðin, og hún bægði þeim frá óhófi og glysi.

Bragi kvað:

"Skortur færir með sér möglun líka
og margvíslegar syndafreistingar,
og hann drottins efar gæzku ríka,
allt svo snýst til sannrar glötunar."
"Allt svo snýst til sannrar glötunar",

endurkvað dísin, hristi höfuðið þung á svipinn og hvarf.

Næst á eftir henni kom Fávizkan. Bað hún Braga að kveða sér lof, því að engan tældi hún út á villigötur of hárrar rannsóknar, sem afvegaleiddi andann.

Bragi kvað:

"Fávizkan til flónsku og hroka skreiðist
og fæðir verk, sem líkjast henni bezt,
að sjálfs áliti síðan hiklaust leiðist,
unz svívirðingin upp á tróninn sezt."
"Unz svívirðingin upp á tróninn sezt",

endurtók dísin dauf á svipinn og hvarf.

Þá kom inn ófrýnileg vættur, er Ljótunn nefndist, og bað Braga að kveða sér lofkvæði nokkurt, því að engan tældi hún eða ginnti á fegurð sinni.

Bragi kvað:

"Því ljóta allir amast við, sem líta,
andstyggðin því fylgir hvar sem er,
vanheilir og volaðir æ sýta,
hvað verður óhult svo á jörðu hér?"
"Hvað verður óhult svo á jörðu hér?"

heyrðist nú gyðjuskarinn syngja eins og með einum munni.

Bragi kvað:

"Engu, engu er á jörð að treysta,
illa ef brúkum það, sem gefið er,
þá mun sorg og sæla jafnvel freista,
það sýna ótal liðnar aldir mér."

Og enn kvað hann:

"Því í heimi hvergi má ég finna
það, hamingju er sanna veiti mér,
ég skal trúr og ánægður samt vinna,
í eftirvænting þess, er síðar sker."
"Í eftirvænting þess, er síðar sker",

endurtók nú allur söngskarinn, og gamanleikurinn var búinn.

Allir hældu Ólafi fyrir, hve fimlega honum óviðbúnum hefði tekizt þessi leikur, og þó einkanlega höfuðsmaður. Hann sagði við biskup, að Ólafur væri gott efni í leikara.

"Það getur verið, að svo sé," sagði biskup, "en Ólafur hefur verið ætlaður fyrir prestsstöðuna," og biskup gaf því ekki frekar gaum, því að hann var ennþá að tefla, en Ólafur settist út í horn og hlustaði á samræður manna.

"Þetta," sagði Daði Halldórsson og brá um leið kristalsskál fyrir augu gamla Sveins, "er steinninn karbunkulus. - Er hann ekki fagur?"

"Jú, hann er óvenjulega fagur," sagði Sveinn. "Það er víst sagt um hann þetta:

Karbunkulus sem gull er skær o. s. frv."

Að þessu fóru allir, sem við voru, að hlæja, því að karlinn var orðinn ölvaður og steig ekki áður í vitið, að fólki þótti. Ólafur Gíslason lék þá hátt og söng að vanda á fiðlu sína, svo að allir máttu vel heyra, þeir er inni voru:

"Smáðu, vinur, allt hvað aumt þú sér,
öllum heiðri troð þú á þig sjálfan,
seð þú þann, sem saddur fyrir er,
en svívirtu og hrektu frá þér bjálfann.

Ekki skaltu ætla mig neinn glóp,
eða halda', að ráð þetta sé galið,
í náttúru þinnar löngu lagabók
ég les það, en ég man ei blaðsíðutalið."

Úr þessu varð ennþá nýr hlátur á meðal gárunganna, en biskup vék frá sér taflinu og kvað nú bezt að halda heim, væri og komin nótt, og hefði hann sjaldan setið veizlu svo lengi. "Hefur þú, Ólafur, útlærður stúdent, hagað þér eins og hirðfífl og staðið frammi fyrir fólki til að láta það hlæja að þér. Við tölumst betur við seinna."

Þessa samræðu heyrði Daði Halldórsson og nokkrir aðrir, en biskup gekk til höfuðsmanns, er var staðinn upp.

"Syngdu, kunningi, eina vísu ennþá, ef þú þorir," hvíslaði Daði að Ólafi, "ella ber æ síðan bleyðunafn."

Ólafur lék og söng undir nú sem jafnan:

"Ég þekki herra háttvirtan,
sem helgar lygi svarta
og hræsnisorminn eitraðan
elur í sínu hjarta."

"Þetta er sannnefnd Davíðsharpa," sagði Daði og leit með þýðingarfullu augnaráði til biskups, eins og vildi hann spyrja: "Skiljið þér sneiðina?" en biskup lét eins og hann hefði ekki tekið eftir neinu.

Engir voru í þá daga herrar nefndir, nema herraðir menn, en í þessari veizlu voru einungis tveir slíkir herrar, nefnilega þeir höfuðsmaður og biskup, þess vegna var vísan misskilningi undirorpin. Hún var raunar í bræði kveðin til Daða Halldórssonar, en sökum bituryrða þeirra, sem biskup lét falla um háttalag Ólafs, héldu menn, að hún væri kveðin til hans.

Á þessum tíma var það siðvenja á Íslandi, að brúðhjónin eða vandamenn þeirra leiddu gesti sína út með góðum gjöfum, en þeim sið var hér snúið við, því að höfuðsmaður gaf brúðhjónunum 10 spesíur, en biskup gaf þeim tvö hundruð í jörðu, sem hann litlu áður hafði gjört sér mikið far um að fá keypt, og hugðu margir, að honum þætti vænna um þau en svo, að hann gæfi viku síðar einhverjum og einhverjum, en meistari Brynjólfur var í flestu ólíkur öðrum mönnum. Hann yfirborgaði, ef til vildi, einhvern hlut í dag, en gaf hann aftur í burtu á morgun. Hann gat séð eftir skildingnum einn daginn, en gefið aftur tugi dala hinn, allt eftir því sem hugarsegl hans þá blöktuðu fyrir byr kaupanautsins eða þurfamannsins. Hjá honum var nýnæmi og fastheldni svo nákvæmlega samfléttuð, að ekki var gott að lesa það í sundur, eða vega af hvoru var meira. Tryggð og fastheldni hafði hann og nóg af, og aldrei rauf hann vináttu við neinn að fyrra bragði, en betur kom honum, að ráð sín væru rækt, enda stóðu þau sjaldan á fúnum fótum. Ekki tjáði og annað, ef vel átti að fara, en veita honum það, er hann bað um, eða láta að orðum hans. Þess háttar tilhliðrunarsemi virti hann líka og endurgalt vel, en erfði, var sagt, ef ekki var veitt. Þótt hann hefði eigi mörg orð um, þá bar útlit hans jafnan vott um, hversu honum var innan brjósts. - Eftir þetta endaði veizlan, og staðarbúar bjuggust til heimferðar.

"Eigum við ekki að verða samferða heim, Vilborg?" sagði Ólafur, þegar biskup og höfuðsmaður voru riðnir af stað. "Ég hef margt að tala við þig um, og nú er góður tími."

"Það getur þó ekki orðið, ég verð að annast um ýmsa muni frá staðnum, sem hingað voru fluttir í gærkveldi," sagði Vilborg, "frú Margrét bað mig þess."

"Jæja þá, enginn kann tveimur herrum að þjóna," sagði Ólafur, "og vert þú sæl á meðan."

"Vertu sæll, ég bið að heilsa."

"Hverjum þá? Daða Halldórssyni?" spurði Ólafur og snerist á hæli.

"Eru engir til á staðnum nema Daði? En viljirðu heilsa honum frá mér, þá mátt þú það gjarnan."

"Ég skal minnast þess, Vilborg mín!" sagði Ólafur og fór, hálfgramur yfir kuldasvörum unnustu sinnar. Hún horfði á eftir honum og hugsaði: "Hann var að sneiða mig fyrir, að ég sat hjá Daða í kveld."

Einn á fætur öðrum kvöddu og fóru, og síðast urðu brúðhjónin einsömul eftir. Þau reistu seinna bú á Apavatni og urðu stórrík. Veizla þessi varð hið fyrsta gæfustig þeirra, og eins og spáð hafði verið, áttu þau mörg börn og urðu nærri því eins kynsæl og Ormur gamli í Eyjum, fyrrum ráðsmaður. Afkomendur þeirra bjuggu lengi í Laugardalnum, og eru þau svo úr sögunni.


14. kafli

Á leiðinni heim sagði biskup við höfuðsmann: "Þér sögðuð, herra minn, að Ólafur Gíslason væri gott efni í leikara."

"Já, herra biskup! Mér virðist svo," svaraði höfuðsmaður.

"Það virðist mér líka," kvað biskup, "og ég hef nú athugað málið og er kominn að þeirri niðurstöðu, að bezt muni vera að lofa honum að fylgja tilhneigingu sinni og nema þá íþrótt. Hann sýnist ekki vera gefinn fyrir prestskapinn, og það væri til dæmis miður tilhlýðilegt, þegar klerkur væri kallaður til að skíra, þjónusta, eða til annarra skylduverka, ef hann þá í stað þess að gjöra þau, eins og góðum kennimanni bæri, tæki þá til að leika alls konar sjónarleiki."

"Við þess konar misgripum er ekki hætt, herra biskup," sagði höfuðsmaður brosandi.

"Við hverju er ekki að búast, þegar náttúran er annars vegar og þar á ofan síbreytanlegt skapferli? Ég er að hugsa um að biðja yður fyrir Ólaf, fyrst þér siglið í haust, að lofa honum að verða yður samferða og vera honum innan handar í ráðum og dáðum, því að þess mun hann við þurfa. Siglingarkostnaðinn borga ég."

"Ef þér hafið ráðið þetta við yður nú þegar, þá er hann velkominn með mér," sagði höfuðsmaður forviða. Raunar gat hann sér til, að einhver önnur orsök mundi eiga hér hlut að máli en sú að seðja þessa löngun Ólafs. "Það hefur líklega verið síðasta vísan, sem Ólafur kvað í veizlunni," hugsaði höfuðsmaður. "Hún hefur þannig espað biskup, því að þó ég sé ekki vel heima í íslenzkri tungu, sá ég þó á svip margra viðstaddra, að hún snerti eitthvað biskup. Gott og vel, leikurinn var saminn fyrir mig, ég skal líka reynast honum vel, hafi ég þannig óviljandi bakað honum óvild biskups." Svona hugsaði höfuðsmaður með sjálfum sér, en biskup og Ólafur ræddust við annars staðar.

"Þá er nú komið svo, Ólafur minn," sagði biskup þungur í skapi, "að þú getur fengið að seðja sjónarleika-löngun þína. Þú siglir með höfuðsmanni og leggur héðan af stað á morgun. Ég hef talað um það við hann. Hér eru 60 ríkisdalir, er ég gef þér auk siglingakostnaðar, og vona ég, að þér endist þeir nokkuð með sparnaði. Ég þarf ekki að segja þér, að ég ætlast ekki til, að þú víkir aftur hingað til mín, enda hef ég komið þér svo til manns, að þú ættir héðan af að geta haft ofan af fyrir þér með einhverju móti."

"Hví skal ég svo fljótt fara, herra?" spurði Ólafur og brá lit.

"Til þess ber margt," sagði biskup. "Ég hef nú um hríð umborið þig þolinmóðlega, en nú er mér farið að leiðast að þurfa á hverri stundu að standa óttasleginn fyrir að heyra ný og ný heimskupör af þér og sjá fólk benda á þig og segja: "Þarna er fóstursonur Brynjólfs biskups!" Það kemur helzt til of vel fram, sem bæði Hallgrímur mágur minn og aðrir spáðu um þig."

Á meðan á ræðu þessari stóð, var Ólafur hreyfingarlaus, með hendurnar fyrir aftan bak. Hann studdist við vegginn og horfði á biskup með tilfinningu, sem var blönduð angri og gremju.

"En, herra," sagði hann, "Daði Halldórsson hefur rægt mig við yður."

"Ég hef sagt þér órjúfandi ákvörðun mína," sagði biskup. "Á morgun verðurðu að vera ferðbúinn. Þá fer höfuðsmaður, og ég þarf engar afsakanir frekara að heyra. Þú verður að fara að sjá fyrir þér sjálfur, því að ekki óvirði ég prestastöðuna með slíkum manni og þú ert, sí-yrkjandi og ruglandi, eins og þú værir fæddur og uppalinn til þeirrar iðju."

Með þessum orðum fór biskup út, skellti hurðinni í lás, en skildi Ólaf eftir, hissa, hryggan og graman.

Morgundagurinn rann upp, fagur og dýrlegur. Það var mikill ævintýradagur fyrir Ólaf Gíslason. Á honum átti hann að kveðja vini og vandamenn, og þar af leiðandi föðurlandið. Hver eymdin býður annarri heim. Hver gaf honum vissu fyrir, að honum auðnaðist nokkurn tíma aftur að vitja fósturjarðar og vina? Enginn. Og það, sem gjörði skilnaðinn þó enn sárari, var, að Vilborg, sem nú var unnusta hans, þótt leynt færi (því að biskup vildi ekki heyra nefnda trúlofun á undan stöðu), var ekki heima. Tíminn var naumur, hestarnir þegar komnir á hlaðið og söðlaðir. Hann hafði því engan tíma að kveðja hana með fáeinum línum. Nei, það varð hann að geyma til betri hentugleika og búa sig í skyndi. Nú var ekki til setunnar boðið. Hann horfði út um gluggann á herbergi sínu og sá, að höfuðsmaður og sveit hans var ferðbúin, sömuleiðis biskupinn, sem fylgdi heiðursgesti sínum úr garði með fríðu föruneyti. Ferðaskrínur Ólafs voru komnar af stað fyrir góðri stundu með farangri höfuðsmannsins. Hann hafði kvatt þá af heimamönnum, sem hugur hans stóð til, og allt var til reiðu, en einungis lá bænakver og nokkur samanbundin bréf á borðinu, því að þeim ætlaði hann að stinga í kápuvasa sinn, þegar kallað yrði til hans. Þessir munir voru honum kærastir allra, og því vildi hann hafa þá sem næst sér. En rétt í þessari andrá kom Daði Halldórsson hlaupandi inn til hans og sagði, að biskup og höfuðsmaður væru riðnir úr hlaði, og biskup hefði sagt sér að herða á honum. Um leið og Daði sagði þetta, þreif hann bréfaböggulinn, er lá á borðinu, og var á svipstundu horfinn eins og snæljós út úr dyrunum, áður en Ólafur gat áttað sig. Hann hljóp þegar, sem nærri má geta, á eftir honum, en Daði vatt sér þá upp margra mannhæða háan stiga, er lá á utanverðri Skálholtskirkju, því að hún var þá í smíðum, og hann settist eins og örn í efstu rim hans. Þaðan veifaði hann bréfabögglinum með hæðnissvip og storkunarorðum hátt upp yfir höfði flóttamannsins, sem nú fór miklu nauðugri af stað en hann annars hefði gjört.

"Mun þér nú," kallaði Daði, "vera mikið rórra innan brjósts, en mér var í gærdag, þegar þú varnaðir mér inngöngu með vatnsskjólurnar? Og er þér það skjótt frá að segja, að hvað sem í bréfum þessum er, hvort heldur missir þeirra tætir hamingju og hjörtu í sundur eða hvort tveggja, þá skulu þau aldrei framar koma í hendur þínar."

"Er þá alls enginn vegur til að fá þau?" spurði Ólafur, sem sá, að biskup var farinn að horfa heim eftir sér.

"Nei, alls enginn," kallaði Daði, "þó að þú yrðir þarna að glerhörðum saltstólpa, þá mundi ég fyrr lofa þér það en skila þér aftur bréfunum. Ég er undireins farinn að hlakka til að lesa þau, því að séu þau eftir þig, ímynda ég mér, að jafngott skáld sem þú ert, munir hafa ritað þar í margar snotrar vísur."

"Þá vildi ég óska," kallaði Ólafur, "að þú sætir skör lægra í vináttu biskups, þegar fundum vorum ber næst saman."

"Það fer sem má," kvað Daði og glotti háðslega.

Í þessu kom smásveinn biskups, og kallaði hann tafarlaust á Ólaf, sem barði örvæntingarfullur á brjóstið og tautaði fyrir munni sér í því hann reið í burtu:

"Í hjartanu er háreist mjög,
þar hamast ótal girndir,
hér gengur hamar, hefill, sög,
hér eru smíðaðar syndir."

"Á ég að heilsa Vilborgu frá þér?" kallaði Daði á eftir honum, en Ólafur anzaði ekki, og skildi þar með þeim að sinni.

Ólafur reið með höfuðsmanni, fyrst til Bessastaða, og sigldi svo þaðan með honum til Kaupmannahafnar. Þangað vitjum vér hans síðar.


15. kafli

Litlu eftir burtför Ólafs sjáum vér mann ríða úr Skálholtsstað. Hann var tígulegur og fríður sýnum og stefndi að prestsetrinu Torfastöðum. Veður var blítt og fagurt, þótt nokkuð væri farið að hausta. Maðurinn er Daði Halldórsson. Hann nam staðar á hlaðinu á Torfastöðum, batt hestinn sinn við steininn og laust tvö högg á þilið. Litlu síðar kom út hár og þrekinn maður, dökkur á brún og brá. Það er Illugi Bjarnason, náfrændi Þorsteins prests á Útskálum, sem fyrr hefur verið getið. Illugi er hvorki klerkur né kennimaður, þótt hann búi á prestsetri, en hann skortir ekki fé, og hann situr á Torfastöðum í skjóli Sæmundar stúdents, vinar síns, sem synjar honum einskis.

"Það lá að, að einhver góður væri kominn," sagði Illugi og hló svo, að allur tanngarðurinn sást vel.

"Af hverju réðir þú það?" spurði Daði brosleitur.

"Af því," sagði Illugi, "að allir nema Kölski og þú berja þrjú högg á þil."

"Heimsækir Kölski þig oft?" spurði Daði kíminn.

"Og því miður aldrei," sagði Illugi. "Það væri þó fróðlegt að fá heimsókn af honum. Ég skyldi eins og Sæmundur fróði hafa nóg handa honum að gjöra."

"Er ekki Jón bóndi Árnason, skuldunautur þinn, hér?" spurði Daði. "Við hann er eiginlega erindið, og svo meðfram við þig."

"Jú, hann hefur beðið hér góðan tíma eftir þér," sagði Illugi.

"Hefur hann þá ekki sagt þér," spurði Daði, "að ég ætla að kaupa af honum jarðarhundruð hans undir yfirskyni föður míns? Mér er eins og þér ekki gefið um að láta biskup vita, að ég sé jarðeigandi, eða hvað ég gef fyrir jörðina."

"Já, hann hefur sagt mér það, sem hann vissi, að þú ætlaðir að eiga einhver kaup við sig hér í dag," sagði Illugi. "En hefurðu heyrt hverja skilmála Jón setur?"

"Já, það er satt, ég hef ennþá ekki sagt Jóni neitt ákvarðað um kaupin. Ég hef einungis afráðið þau í hjartanu," sagði Daði, "en ég veit vel, hverjir skilmálarnir eru, þeir nefnilega, að koma syni hans í skóla."

"Það eru nú engir smámunir," kvað Illugi.

"Fyrir mig eru það smámunir," sagði Daði. "Ég er þegar búinn að vekja meðaumkun biskups fyrir sveininum og mála hæfileika hans með svo fögrum litum, að hann hefur heitið mér að taka hann í smásveinsþjónustu sína í haust, og biskup hættir sjaldan við hálfgjört verk."

"Allir vegir eru þér færir, Daði," sagði Illugi og hristi höfuðið.

"Fyrst biskup vildi ekki sjálfur kaupa hundruðin," sagði Daði kíminn, "þá er bezt, að hann gjöri það upp á þennan hátt. Biskup er einlægt að taka fátæka pilta í frískóla, og því þá ekki eins vel þennan og hvern annan?"

"En það er meira en þetta, sem hvílir á jörðinni," kvað Illugi.

"Veit ég það," sagði Daði, "skuldakrafa þín."

"Já, einmitt hún."

"Þú þiggur líklega mína ábyrgð fyrir henni - hérna okkur um að tala?"

"Það verður svo að vera," sagði Illugi og lét brýnnar síga.

"Ég geng þá inn til Jóns og afgjöri kaupin," sagði Daði, "en þú bíður mín hér á meðan." Með þessum orðum gekk hann burtu, en Illugi tautaði fyrir munni sér:

"Ekki er mér neitt gefið um að eiga peninga mína undir þér, þó að svo verði að vera."

Daði kom út aftur, og kaupin voru afgjörð. "Ég er þá orðinn skuldunautur þinn, Illugi," sagði hann, "því að erindinu er nú lokið, en komdu með mér inn, ég ætla að segja þér nokkuð í fréttum og fá líka liðveizlu þína." Þeir gengu inn og skelltu hurðinni í lás á eftir sér.

"Ég ætla þá að segja þér nokkuð, sem þig hefur lengi fýst að vita," tók Daði til máls, "og það er viðvíkjandi burtrekstri þínum úr skólanum, nefnilega hver það var, sem ljóstraði galdratilraunum okkar upp við biskup. Það var Ólafur Gíslason. Sama kvöldið, sem allt varð uppvíst, mætti ég honum sjálfur, náfölum af geðshræringu, inni í skrifstofu biskups."

"Þá hef ég verið illa svikinn, of illa svikinn," sagði Illugi. "Áreiðanlegir menn hafa þó sagt mér, að þú hafir borið það í biskup."

"Ég borið það í biskup!" mælti Daði og hló kaldahlátur. "Það var satt, að biskup gekk á mig, hvort ég vissi ekkert, og þú þekkir víst hvílíkan kraft augu hans hafa, þegar hann hvessir þau spyrjandi á einhvern. Má ég spyrja, er nokkur sá maður, lærður eða leikur, að hann standi af sér slíkt augnaráð?"

"Hann hefur þá spurt þig?" mælti Illugi og einblíndi á Daða, eins og hann ætlaði sér að horfa inn í djúp sálar hans.

"Já, hann spurði mig, og ég gat ekki þrætt fyrir, að ég vissi, hvað gjörðist meðal skólasveina, þegar Ólafur á annað borð hafði vakið grun hans."

Illugi þagði um hríð, og sömuleiðis Daði. Honum hafði heppnazt að skjóta þeirri ör í hjarta Illuga, sem hann vissi, að trauðla mundi verða þaðan burtu kippt, þeirri nefnilega, að Ólafi væri burtrekstur sinn úr skólanum að kenna, og þar af leiðandi mörg önnur ónot, óvinfengi biskups og margt fleira. Það var líka gagn fyrir Daða, því að Illugi var farinn að gefa honum illt auga, því að hann trúði fyrri fregninni, og við hverju mátti ekki búast af slíkum ref? með þessari upplýsingu hélt Daði, að hann gæti helzt upptendrað reiði Illuga gegn Ólafi, einkum þar sem honum var kunnugt, að jafnan hafði verið grunnt á hinu góða á milli þeirra, síðan forðum daga, að Illugi snerist um öklann af völdum Ólafs.

"Ólafur hefur verið mér óþarfur," sagði Illugi. Hann rétti fram fót sinn, sem jafnan var snúinn. "Með hverju móti get ég orðið honum að óliði? Ég skal ekkert til spara, geti ég gjört honum mein."

"Um það skal ég fræða þig," sagði Daði. "Hefndarsverðið hangir nú yfir höfði Ólafs, og þú getur skorið á þann veika þráð, sem heldur því uppi, nær sem þú vilt."

"Láttu mig heyra. Á ég að gjöra að honum seið í hafi, svo að hann týnist? Er hann ekki sigldur?" spurði Illugi.

"Ekki er það mitt ráð," kvað Daði, "því að höfuðsmaður er með í förinni og fleiri góðir drengir, enda munu þeir sitja ennþá á Bessastöðum."

"Aldrei hirði ég um slíkt," kvað Illugi, "því betur er, sem fleiri blóðsugur rýma landið."

"Önnur blóðsugan kemur í hennar stað, og ef til vill miklu verri," sagði Daði, "en fyrst þú þykist hafa þetta vald, því hefur þú þá ekki klekkt á biskupi? Hann er þó enginn vinur þinn."

"Nei, biskup er enginn vinur minn," sagði Illugi, "því fer fjarri, en það eru svo geigvænlegir kraftar til, að við orkum ekki á móti þeim. Það eru svo björt ljós til, að við þolum ekki að horfa í þau. Það eru svo tignarlegar ásjónur til, að þær skelfa eins vel djöfla sem menn, og meistari Brynjólfur er einn af slíkum mönnum. Galdur verður að finna fyrir sér góðan jarðveg, ef hann á að geta hrifið, en hér er ekki að tala um slíkt akurlendi. Séra Þorsteinn frændi minn segir, að meistari Brynjólfur muni verða mikill mæðumaður, og muni einhver í ætt Þórðar prests í Hítardal eiga þar engan góðan hlut að máli. Honum skjátlast sjaldan spár sínar. Og verði harma minna hefnt á einhvern hátt, er ég ánægður. Og Daði! Þorsteinn prestur sagði mér einhverju sinni, er hann sá þig með biskupi á þingi: "Sá mun verða meistara Brynjólfi óþarfur, frændi"."

"Hvað skyldi ég geta gjört biskupi til meins?" sagði Daði og glotti. "En sleppum þessu og víkjum aftur að efninu. Ólafur er farinn, alfarinn frá Skálholti. Það hygg ég, að hann eigi þangað aldrei afturkvæmt. Hann er fyllilega kominn í ónáð biskups, sem því betur er ekki eitt í dag og annað á morgun."

"Hvað hefur svo mjög upptendrað reiði biskups gegn Ólafi?" spurði Illugi.

"Margt hefur orðið til þess," svaraði Daði, "en þó einkanlega vísa ein, er Ólafur orti í veizlu Bjarnar bónda. Hún var kveðin til mín, en klaufalega orðuð. Þar kallar hann mig herra í skopi. Ég gat vel unnt Ólafi ávaxtanna. - En svo er mál með vexti, að Ólafur ann heimulega Vilborgu, frændstúlku frú Margrétar, og hún honum líka, en svo lengi sem það samband stendur óhaggað, bíta hann engin járn. Það er því aðaltilgangur ferðar minnar hingað til þín að fá góð ráð og liðsinni þitt."

"Til þess að hún segi honum upp?" greip Illugi fram í.

"Já, einmitt, það var hugsun mín," sagði Daði, "ef það gæti laglega tekizt."

"Það er ekki svo auðvelt að leika með hjörtu kvenna," sagði Illugi.

"Ekki ef þráðbeint er að farið," sagði Daði, "en svona hef ég hugsað ráðið. Heyrðu nú! Ólafur er mesti gárungi, eins og allir vita, og sjálfur höfusmaður sagði biskupi, að hann væri gott efni í leikara. Gætum við nú komið svo ár vorri fyrir borð, að Vilborg héldi, að hann hefði verið að leika með tilfinningar hennar, þá þekki ég svo hennar fastlynda og viðkvæma geð, að ég veit, að hún vill hvorki heyra hann né sjá eftir það."

"Já, gætum við einungis gjört það," sagði Illugi.

"Leggjum hönd á plóginn, og horfum eigi aftur. Hérna eru öll bréfin hennar til hans, eitt á fætur öðru, og til allrar hamingju er óskrifaður partur á hverju einu og einasta, mátulega stór fyrir ritdóm, eða eitthvað þess konar. Gætum við nú einungis haft Sæmund stúdent í höndum vorum svo sem einn klukkutíma, þá skal ég veðja, að spilið vinnst, því að rithönd þeirra Ólafs og hans þekkist ekki hvor frá annarri. Sæmundur var kennari hans."

"En ég skal veðja," sagði Illugi, "að Sæmundur lætur aldrei hafa sig til slíks."

"Og ég skal veðja á móti," sagði Daði, "að verði kænlega farið að, gengur hann í snöruna."

"Ég skal þá veðja því, sem þú skuldar mér í jörðinni, að hann gjörir það ekki," sagði Illugi.

"Og ég skal veðja jafnmiklu fé, að hann gjörir það," sagði Daði.

"En eftir á að hyggja," sagði Illugi, "þó að þetta takist allt saman, þá skrifar Ólafur Vilborgu von bráðar um, hversu þú ert kominn að bréfunum, og hvernig fer þá?"

"Ég kvíði aldrei komandi degi. Hjálpaðu mér aðeins í því, sem nú er fyrir höndum að gjöra. Ég skal eftir efnum taka á móti ókomna tímanum."

"Jæja, látum svo vera," sagði Illugi.

Þeir bundu nú veðmál þetta fastmælum. Eftir það settust þeir innan fjögra veggja að víndrykkju og buðu þeir Sæmundi stúdent að taka þátt í gleðinni. Hann þekktist það. Daði hellti óspart á staupin og einkum þó fyrir Sæmund, og loksins fór vínið að svífa á hann. Er Daða þótti tími til, tók hann svo til orða:

"Það þykir mér skorta á rausn þína, Sæmundur minn, að þú ert enn ókvæntur."

"Það eykur einmitt rausn mína," sagði Sæmundur, "því að væri ég giftur, þá sætum við þrír ekki hér nú."

"Og hvers vegna það ekki?" spurði nú Illugi, sem lítið gaf sig að samtalinu í fyrstu.

"Af því að ég get til," svaraði Sæmundur, "að konan myndi ekki álíta ykkur af því rétta sauðahúsi, eða vera nógu góða lagsbræður fyrir mig."

"Nú, nú, á þann hátt meinar þú," sagði Illugi og hló, "en hún mætti víst og myndi líka gjöra sig ánægða með vini bónda síns."

"Það gæti þó verið bundið efa," sagði Sæmundur, "og það er eitt með öðru ástæðan fyrir því, að ég kvongast ekki, að ég vil nauðugur skilja við Illuga vin minn. Enginn kann tveimur herrum að þjóna."

Nú varð ofurlítil þögn, því að hver þessara þriggja hafði sitt að kæra. Sæmundur var orðinn syfjaður af ölinu og hitanum í þessu loftlitla herbergi, og var hann farinn að dotta upp við vegginn, þegar Daði Halldórsson leit upp og sagði:

"Þú ert þá alveg frá með að hugsa um giftingu, Sæmundur minn?"

"Já, með öllu frá því," sagði Sæmundur og hristi höfuðið.

"En setjum nú svo," hélt Daði áfram, "að einhver yngismærin hérna, til dæmis Vilborg í Skálholti, fengi ástarþokka til þín. Hvað segðir þú þá?"

"Ég segði, að öll ást væri "hégómi einber", væri ekkert nema sjónhverfing hjartveikra kvenna, sem við karlmennirnir einungis lékum okkur að."

"Það var ágæt hugmynd, Sæmundur," hrópaði Daði, "ágæt hugmynd í sannleika - ritaðu hana niður, hér er miði. Ykkur lærðu mönnunum tekst ævinlega bezt, þegar þið hafið blöð til að rita á."

"Það er velkomið," sagði Sæmundur og skrifaði.

"En setjum svo, að konan setti þér fyrir sjónir, hversu léttara lífið sé, þegar tveir, í staðinn fyrir einn, bera sameiginlega byrði þess," sagði Daði.

"Gott og vel, ekki verð ég orðlaus að heldur. Þá segi ég, að þegar tveir kjánar slái vitleysu sinni saman, þá auki hvor þeirra á annars vitfirring, og þau bæði í sameiningu dragi þá villumökk heimsku og hégóma yfir þjóðfélagið, og gefi með því skaðlegt eftirdæmi. Ég segi henni, að betra sé að bera byrði sína einn en bindast konu - hégómadýrðinni og veikleikanum í konumynd. Svona yrði þá skoðun mín á þeim hlut."

"Ágæt hugmynd," sagði Daði, "ritaðu það."

Sæmundur gjörði svo, og nú héldu þeir áfram, þar til allir kvenlegir kostir voru afmyndaðir í hæsta máta, svo af dómnum mátti sjá, að sá, sem tæki sér konu, fengi allt annað en góðan grip. Á síðasta blaðið - en blöð þessi voru ástabréf Vilborgar til Ólafs - ritaði Sæmundur eftir áeggjan Daða þessi orð með snoturri hendi: "Allt hið illa kom í heiminn með konu, og allt hið illa kemur á hvert heimili með konunni. Heimskur er sá, sem gjörir sér far um að spilla friði og gæfu sinni, með því að bindast henni", o. s. frv.

"Á ég svo að setja nafn mitt undir vitnisburðinn?" spurði hann.

"Nei," svaraði Daði og flýtti sér að stinga bréfunum á sig, "þessi ræða verður ekki lesin á Lögbergi, þetta er einungis gaman í heimahúsum, sem ekki er vert að hafa á orði. Ég get til, að konum falli slíkt ekki sem bezt í geð, og hamingjan náði þá, sem ávinna sér óvináttu kvenna. Þær eru bæði þær blíðustu og beztu skepnur á jörðunni, en líka þær grimmustu og verstu, þegar því er að skipta."

Svona sátu þeir, drukku og ræddu meiri hluta dagsins, og um kvöldið reið Daði heim, ánægður yfir málalyktum. Hann klappaði á herðarnar á Illuga að skilnaði og sagði:

"Svona fór það, vinur. Nú eru hundruðin mín."

Illugi svaraði engu, heldur hnyklaði brýnnar og gekk inn. Honum þótti að vísu hefndin sæt, en helzt til dýr.

Þegar Daði reið í hlaðið á Skálholti, var biskup ekki kominn heim, og þegar hann var ekki heima né ráðsmaður, lifði hver og lét sem hann vildi. Frúin var góð kona, en atkvæðalítil.

"Sælar verið þið, stúlkur mínar," sagði Daði, er hann gekk inn í vinnukvennabaðstofu. "Hvar er Vilborg?"

Þær bentu á afþiljað hús í öðrum enda, og gekk hann þangað. Þar lá Vilborg upp í rúmi og huldi andlit sitt, svo að hann sá ekki framan í hana.

"Ertu þar, Daði?" sagði hún og reis upp á handlegg sér. "Ég er komin fyrir rúmlega hálfri eykt. Ég var syfjuð eftir næturvökuna og lagði mig því til svefns."

"Ólafur ætlar að sigla, þú veizt það?"

"Já, ég trúi það."

"Hann kemur ekki hingað aftur svo fljótt," sagði Daði.

"Af hverju veiztu það?" spurði hún.

"Af orðum biskups. Hann sigldi til að nema sjónarleikaraíþrótt, hugur hans hneigðist svo mjög að henni, en sú námsgrein verður aldrei til hlítar lærð," sagði Daði

"Kemur þú með þessa herjans vitleysu ennþá," sagði Vilborg, "Ólafur var ekki fremur hneigður fyrir sjónarleiki heldur en þú og ég."

"Nei, ekki vænti ég það. Hér geturðu þó séð þess ljósan vott. Þessi bréf hef ég tínt saman upp á herbergi hans, eftir að hann var farinn. Gættu að, kæra, hvort þú ber kennsli á þau," sagði Daði hæðilega um leið og hann varpaði bréfunum til hennar og fór út, án þess að hún gæfi höfðinglega og fallega manninum, honum Daða Halldórssyni, eitt augnaráð að skilnaði. Svo var hún sokkin ofan í hugsanir sínar. Hann gekk raulandi út og gjörði öllum þeim, er urðu á vegi hans, einhvern óskunda. Fyrir einni stúlkunni sleit hann lippuna sundur, hjá annarri sveiflaði hann snældunni svo ótt, að hún gleypti kembuna eins og hún var, úr hendi hinnar þriðju reif hann skó, er hún gjörði, og öllum var hann eitthvað til ills, og allar báðu þær hann illa fara, og skildi svo með þeim að því sinni, en slíka hrekki ítrekaði hann oft, og væri hann klagaður fyrir biskupi, kom hann einhvern veginn sökinni af sér, og þótti mörgum sem skarpskyggni biskups strandaði á Daða.

Vilborg skoðaði bréfin, þegar hún var orðin ein, og þekkti hún þar sín eigin bréf, er hún smátt og smátt hafði ritað Ólafi. Hún las athugasemdirnar neðan við, og þær sýndust svo greinilega dregnar út úr innihaldi bréfanna, að henni datt ekki í hug að efa, að hún hefði í allan þennan tíma einungis verið leiksoppur fyrir leikarafýsn hans. Þetta með hans eigin hendi ritað var líka næg sönnun fyrir því, og að hann hafði skilið bréfin eftir, eins og þann hlut, sem þegar er búinn að gera gagn sitt. Hann hafði heldur ekkert sagt henni um burtför sína, sem hann þó hafði hlotið að vita fyrir, en einungis haft ónot í frammi við hana, er þau skildu. Það var bert. Hann hafði leikið sér að helgustu tilfinningum hjarta hennar, einungis til að sjá og læra á því hræringar mannlegs hjarta í hinu ýmiss konar ástandi þess. "Það er grimmdarlegur leikur af Ólafi," hugsaði hún. "Nú hefur hann siglt til að leita sér að nýrri bráð, þegar hann þóttist vera búinn að gjörskoða allar tilfinningar mínar. Hann skal fá að vera einn mín vegna. Með mér skal ekki bölvunin koma í hans hús, því skal ég lofa," sagði Vilborg, huldi andlitið í höndum sér og grét sárt.

En nú er það frá Daða að segja, að hann gekk frá Vilborgu hróðugur í huga yfir því, hve vel ör sín hafði hitt. En eins og Illugi hafði sagt, lá það í augum uppi, að Ólafur mundi skrifa Vilborgu, og þá var allt tapað, næði hann ekki því bréfi einnig. Hann hafði því vakandi auga á öllum gestum, er komu að Skálholti, og var sífellt á reiki um öll gatnamót.

Nú liðu tveir dagar, að hann varð einskis vísari. Á þriðja degi sér hann mann stefna heim og þykist þar þekkja Orm Vigfússon, fyrrverandi ráðsmann. Svo var og. Hann reið heim á hlaðið, steig af baki og heilsaði Daða.

"Komdu sæll, Ormur gamli, hvaðan ber þig nú að?"

"Ég kem frá Bessastöðum og þarf að hitta biskup að máli. Er hann ekki heima?"

"Nei, þau hjón riðu í gær að Bræðratungu."

"Það var mér einkar meinlegt, en ég verð þó að ríða í veg fyrir biskup og bíða hans einhvers staðar. En get ég þá sem fljótast fengið að finna Vilborgu Jónsdóttur? Ég hef hér bréf til hennar."

"Vilborg er heldur ekki heima. Þú verður að ríða eina bæjarleið til baka, viljir þú finna hana," sagði Daði.

"Það tefur mig of lengi. Viltu ekki taka við miðanum fyrir mig og koma honum til hennar með skilum? Ég var að vísu búinn að lofa að afhenda hann sjálfur, en það er svona þetta unga fólk, það gjörir allt að leyndarmálum."

Að svo mæltu rétti Ormur bréfið að Daða, sem stakk því í vasa sinn. Eftir það þeysti Ormur gamli í burtu, en Daði gekk upp að skólavörðunni, og sagði við sjálfan sig:

"Það var heppilegt, að biskupinn var ekki heima, þó að ég þyrfti að ljúga um Vilborgu. Nú er gaman að sjá, hvað Ólafur skrifar henni um. Ég er hvort sem er kominn of langt til að snúa aftur."

Hann las bréfið hátt. Þar stóð meðal annars:

"Daði hreif öll bréfin úr höndunum á mér, þegar ég var að fara. Reyndu með einhverju móti að komast yfir þau."

"Bænin er heyrð, Ólafur! Vilborg hefur öll bréfin," sagði Daði upp úr lestrinum, og hann las áfram:

"Fyrirgefðu mér, kæra vina, hvað ég kvaddi þig kuldalega síðast. Mig grunaði ekki, að skilnaðurinn væri svona nærri. Biskup vildi hafa það svo."

"Ég skal túlka málið fyrir þig, vinur," sagði Daði upp úr lestrinum, og fór svo aftur að lesa:

"Varaðu þig á Daða Halldórssyni, hann er úlfur í sauðargæru."

"Ekki veldur sá, sem varir, þó að verr fari," sagði Daði, um leið og hann stakk bréfinu í vasa sinn og skundaði heim.


16. kafli

Ólafur sigldi eins og til stóð með Hinrik Bjelke, höfuðsmanni, sem var í mörgu hinn ágætasti maður og reyndist honum einkar vel. Útsiglingin gekk æskilega. Fyrsta misserinu varði Ólafur að miklu leyti til að seðja forvitni sína, skoða borgina Kaupmannahöfn og ýmislegt merkilegt og svo til að kynna sér landa sína, sem þá voru þar. Margir merkismenn voru honum innan handar, og er ekki ólíklegt, að hann hafi notið, en eigi goldið, meistara Brynjólfs, fóstra síns, því að á fárra viti var sundurlyndi þeirra. Biskup var jafnan vanur að draga sem mest dulur á misþókknun sína, þegar minni háttar menn áttu í hlut og um smærri mál var að gjöra. Hann vissi sem var, að óvild sín mundi draga annarra á eftir sér, og þó hann væri skapþungur sem síðar reyndist, var hann jafnan göfuglyndur og vildi eigi leggja tign sína niður við lága hefnd.

Sumarið eftir komu bréf frá Ólafi heim að Skálholti. Á meðal þeirra var eitt til biskups. Hann fór skyndilega yfir það með augunum, kveikti síðan í því og sagði við höfuðsmann, sem var nærstaddur:

"Skal Ólafur þá vera orðinn góður leikari?"

"Ég held, herra biskup," kvað höfuðsmaður, "að hann stundi ekki þá iðn. Hann lifir af líkneskjusmíði, sem ég bæði hvatti og studdi hann til að nema, því að hann er prýðilega laghentur, og hann hefur nú þegar höggvið út nokkrar líkneskjur framan í skip og fleira þess konar, og hæla kennarar hans honum. Hann hefur helzt um orð að koma heim í haust eða vor komandi."

"Því ætti hann að sleppa," svaraði biskup, og hann byrjaði á öðru umtalsefni.

Eitt bréfið frá Ólafi var til Torfa prófasts í Gaulverjabæ. Honum trúði hann manna bezt og lagði því innan í bréf til unnustunnar, sem hann bað prófastinn að sjá farborða og koma aftur til sín svarinu. Hann sagði, að heimkoma sín væri gjörsamlega bundin við tvennt, fyrst sátt og hylli biskups, sem hann ynni heitt, og svo stöðuglyndi Vilborgar. "Ég lifi á milli vonar og ótta til haustsins," sagði hann í enda bréfsins.

Sumarið leið með öllum sínum atvikum, gögnum og gæðum. Villusauðirnar, sem voru viðriðnir galdramálið, höfðu fengið uppreisn fyrir bænastað biskups og milligöngu höfuðsmanns, nema Illugi. Hann var gjörsamlega útilokaður frá öllu námi við Skálholtsskóla, enda var hann nú farinn að ryðga í latínu og öðrum vísindagreinum og var því og sjálfur orðinn annars hugar.

Um haustið ritaði Torfi prófastur Ólafi bréf og lagði annað innan í það með svörtu lakki. Það var frá Vilborgu, en biskup sagðist ekkert hafa að rita Ólafi um, nema hvað hann vissi áður, að til sín ætti hann ekkert erindi, og gæti hann svo hagað ferðum sínum eftir eigin geðþótta. Um þessi málalok gat Torfi prófastur í bréfi sínu til hans. Það kveld, sem bréfin fóru, lék Daði Halldórsson við hvern sinn fingur, því að hann vissi, að Vilborg ritaði Ólafi uppsagnarbréf, og að því takmarki hafði hann lengi keppt.

Það var eitt kvöld síðla þetta haust, að Ólafur Gíslason sat inni á loftherbergi því, er hann hafðist við á. Nú voru peningar hans á þrotum, og líkneskjusmíðið þreytti hann, því að hann hafði meira vanizt andlegu en líkamlegu starfi. Hann tók því fiðlu sína og lék á hana mörg raunalög. Hann bjóst við bréfum frá Íslandi, því að fyrstu haustskip voru komin, en eftirvæntingin getur bæði verið súr og sæt. Hann vissi, að þó að unnusta hans stæði föst og stöðug sem bjarg í tryggð og hollustu, þá var þó á milli þeirra mikill þröskuldur, þar sem bæði var hauður og haf, og svo sjálfur meistari Brynjólfur, sem ekki vissi, hvað það var að láta undan og beygja sig, þvert á móti, allt hlaut að lúta hans stálharða vilja. Hugur Ólafs flaug ósjálfrátt til Daða Halldórssonar, og hann bar saman í huganum, hversu kjör þeirra væru ólík í allan máta - og hann lék og söng undir á fiðlu sína vísur þessar:

"Mæta kjörin mjög ólík
mönnum alla vega,
miðlar auðnumundin rík
mörgum breytilega.

Upp á gæfu æðstu fell
eru sumir hafðir,
og sjöfaldlega í silki og pell
sitja þar inn vafðir.

Aðrir hnípa ár og síð
eymda nið'r í skorum,
mótlætinga hraktir hríð
og hrærast hvergi úr sporum.

Þó að lokum allt er eitt,
eftir sungna messu,
mold þú fær og meira' ei neitt,
maður, gáðu að þessu."

"Hver kveður svo dauðans sorglega?" sagði einhver að baki Ólafs. Hann leit um öxl sér og sá þá, að komumaðurinn var Guðmundur Andrésson. "Það segi ég satt," sagði hann og leit framan í Ólaf, "að ekki var ég svona hnugginn, þegar ég var settur saklaus inn í Bláturn í fyrra."

"Þú hefur ekki ætlað þér að verða þar lengi," sagði Ólafur og lagði frá sér fiðluna, "en segðu mér nú satt og rétt frá, með hvaða kynjum komstu út þaðan?"

"Ég datt út um gluggann, maður," sagði Guðmundur, "þó að enginn trúi því."

"Það er vissulega ótrúlegt," sagði Ólafur, "englarnir hafa þá borið þig á örmum sér."

"Vera kann, að svo hafi verið. Þeir bera alla saklausa menn á örmum sínum. En hér hef ég annars bréf til þín frá Fróni. Hristu nú utan af þér sorgina, og sjáðu, hvað bréfið hefur gott að færa. Miklir rauna-bjálfar eruð þið skáldin. Þaö er sönn gamla sögnin, er svo hljóðar:

"Oft eru skáldin auðnurýr".

"Af hverju hyggur þú þá ógæfu sprottna?" spurði Ólafur.

"Líklega af vanbrúkun gáfunnar," sagði Guðmundur.

"Ég er því miður ekkert skáld," sagði Ólafur, en ógæfa þeirra er að mínum dómi ekki fólgin í vanbrúkun skáldskapargáfunnar, svo margar aðrar gáfur eru einnig vanbrúkaðar, heldur af því, að andi skáldsins starfar svo mikið í ímyndunarheiminum, að hann lætur nauðsynjar líkamans sitja á hakanum, og svo í staðinn fyrir að aðrar þjóðir, sumar að minnsta kosti, bera umhyggju fyrir skáldum sínum, þá skjóta Íslendingar á þau hæðnisörvum sínum og nefna þá vitfirringa. Skáldið getur þess vegna ekki notið hæfileika sinna og verður mannfélaginu gjörsamlega gagnslaust. Má ég spyrja, má ekki með slíkri meðferð gjöra hvern, sem vera skal, að ógæfumanni?"

"Lestu bréfið," sagði Guðmundur, "og segðu mér fréttirnar."

"Viltu koma með mér heim til Íslands í vor?" spurði Ólafur.

"Nei, til þess er mér Kaldadals-eftirreiðin helzt til minnisstæð, enda er ég nú feigur maður, en fyrst þú fæst ekki til að lesa bréfið, þá ætla ég að fara núna, en koma aftur til þín seinna. Vertu sæll á meðan, Ólafur."

"Vertu sæll, Guðmundur."

Fáum mun einveran óljúf, sem hefur bréf að lesa frá fjarlægum vinum. Ólafur braut fyrst innsigli ytra bréfsins og svo þess innra, sem var frá Vilborgu. Það var stutt og hafði einungis þessi fáu orð að innihalda:

"Þegar tveir kjánar slá vitleysu sinni saman, þá verður úr þeim báðum eitt stórt fífl, og til þess að draga ekki þjóðfélagið inn í villimökk heimsku og hégómadýrðar, þá er bezt að láta hvert einstakt fífl vera fífl út af fyrir sig, og segi ég þá hér með upphafinn sjónarleikinn á milli Ólafs og Vilborgar í Skálholti."

Það gekk hér sem oftar, að þegar eitthvað stærra kemur fyrir en orðum eða tárum taki, þá kemur þögn, þögnin - þessi spekinnar og heimskunnar forni og nýi hjálparengill.

"Hver hefur nokkru sinni séð þvílíkt uppsagnarbréf?" Með þessum undrunarorðum rauf Ólafur loksins þögnina. Hún er sjálfsagt gengin af vitinu, og þó - er vit í því, eftir óðan mann er bréfið ekki. Og Ólafur, sem jafnan hafði opið auga og eyra fyrir öllu skrítnu og frábrugðnu, gjörði bæði að gráta og hlæja yfir bréfinu og vissi lengi vel ekki, hver tilfinning var sterkust í brjósti hans. Sorgin sigraði þó. Hann varpaði sér á legubekkinn og grét af hjarta yfir svikinni tryggð og týndri von, eins og svo mörgum hefur orðið fyrr og síðar. Því næst las hann bréf Torfa prófasts. Það var líkt sjálfum honum, gott og vinsamlegt. Hann sagði honum, að biskup réði honum frá að koma inn og endaði með, að Daði Halldórsson gjörðist efnilegur maður og bæði að heilsa honum.

"Þá er þetta af hans toga spunnið," sagði Ólafur. "Hefði mér liðið vel, þá hefði mér ekki borizt kveðja úr þeirri átt, einungis hinn vondi og hans liðsmenn senda hæðniskveðjur, þegar öðrum gengur illa."

Ólafur hét nú í gremju sinni að vitja aldrei framar fósturjarðarinnar og koma aldrei fyrir augu Rauða-Þórs - né Svika-Freyju. Svo nefndi hann þau biskup og Vilborgu. En næsta dag var sá ásetningur farinn, og hann orti þá og söng sorgarljóð um sviknar vonir og ótrygga vini. Hann var gæddur hinu létta og barnslega hugarfari, sem finnur jafn sætt til unaðarins eins og hann sé óblandaður og ævarandi, á meðan hann nýtur hans, og svo sárt til sorgarinnar, meðan hún varir, eins og enginn upplífgandi sólarbjarmi nokkru sinni lýsi hann upp. Hver getur borið um sælu eða vansælu svo breytilegs hjarta?

Veturnir liðu, og vor upp runnu. Tíminn - læknirinn allra meina - var búinn að draga sárasta sviðann úr hjartasorg Ólafs. Það var eins og hvert blóm, hver daggardropi og hver hrísla færði honum vorkveðju fjarlægra vina.

"Hver veit nú, hvort allt er eins og út lítur heima?" hugsaði hann. "Ég skal koma mér á skip, sem fer til Keflavíkur, ríða síðan þaðan til alþingis og hitta biskup að máli." Og Ólafur gjörði sem hann hugsaði sér. Hann fékk sér far, tók land í Keflavík, reið síðan þaðan til alþingis og kom þangað nokkru eftir að þing var sett. Hann svipaðist um og sá, að biskup var genginn frá tjaldi með sveit sína og til Lögbergs. Þangað gekk og Ólafur og nam staðar í mannþrönginni. "Hver er þessi hái og tígulegi maður, sem gengur næst biskupi?" sagði hann hálf-hátt við sjálfan sig.

"Furðu aulalegur ertu, Ólafur Gíslason, eða hefur Danskurinn svo ruglað í þér,heilann, að þú þekkir nú ekki lengur Daða Halldórsson frá Hruna?" sagði einhver sterkraddaður að baki honum.

"Ólafur leit um öxl sér og sá, að sá, sem talaði, var Hallgrímur á Víðimýri. "Hver skyldi líka betur brúka málbeinið?" hugsaði Ólafur og svaraði ekki.

"Og viljir þú vita meira, danski landi minn," hélt Hallgrímur áfram, "þá er það Sæmundur stúdent á Torfastöðum, sem gengur biskupi til vinstri handar. Fólk er að segja, að hann ætli að eiga Vilborgu, frændstúlku frú Margrétar, sem hefur nýlega erft stórfé nyrðra. Og þarna eru þeir líka mágar biskups, Páll prófastur í Selárdal, Torfi prófastur í Gaulverjabæ og Keldnaklerkurinn Guðmundur."

"Það er nú svo," var allt, sem Ólafur svaraði upplýsingum Hallgríms. Þeir voru aldrei neinir tryggðavinir, og hann hafði nú heyrt meira en nóg. Þessi orð: "Hversu líður Vilborgu?" höfðu þó allan daginn svifið á vörum hans, er hann mætti einhverjum Flóa- eða Ölfusmanni, en tungan sat jafnan föst í gómnum. "Þarna hef ég þá fengið vissuna," hugsaði hann. "Ég get þá farið alfarinn, ég get nú kvatt hvern stein og strá á Íslandi. Vilborg hefur svikið mig til að eiga Sæmund. Höggið er riðið að höfði mér. Það er bezt að bera það karlmannlega. En þarna hefur þá Torfi prófastur rofið fylkinguna. Ég skal hafa tal af honum."

Litlu síðar leiddust þeir Torfi prófastur og Ólafur til tjalda biskups. Þau stóðu ennþá á sjálfum Þingvelli, því að kirkjumálum var eigi lokið.

"Ég held, að koma þín verði árangurslaus," sagði Torfi prófastur, "biskup er þungur í skapi enn sem fyrr, og ævinlega þegar ég vek máls á því, eyðir hann því. En ekki veit ég neinar sönnur á trúlofun Vilborgar og Sæmundar, aðrar en orðróm fólks, og hann kemur oft að Skálholti, og biskupi er fremur vel til hans. En það þykist ég vita með vissu, að Vilborg vill hvorki heyra þig né sjá."

"Þá kæri ég mig ekki um að vita meira," sagði Ólafur. "Ég fer og vitja aldrei framar fósturjarðarinnar."

"Þú fer þó aldrei svo, að þú hafir ei tal af biskupi?" spurði Torfi prófastur.

"Nei, það mun líta betur út," sagði Ólafur.

"Já, og þú átt honum margt gott upp að unna, Ólafur. Þarna í miðið stendur tjald biskups. Góða nótt."

"Góða nótt," sagði Ólafur og gekk til tjaldsins.

"Ólafur Gíslason!" kallaði biskup, er Ólafur staðnæmdist á gólfinu fyrir framan hann. "Ertu kominn hér lifandi eða dauður?"

"Lifandi er ég, herra," svaraði Ólafur.

"Og hvað viltu hingað, maður?" sagði biskup eftir litla þögn.

Ólafi varð orðfátt. Loksins sagði hann:

"Til að sýna mig og sjá aðra."

"Ertu jafn frjáls í anda og síðast er við skildum?" sagði biskup og hló kuldahlátur.

"Já, herra minn, ég er frjáls og vil einskis þræll vera," sagði Ólafur, "því:

Þrælkun deyðir, þrælkun tærir,
þrælkun er hið versta skarn,
en frelsi lífgar, frelsi nærir,
frelsi er lífsins óskabarn."

"Ég heyri," sagði biskup, "að þú ert með lífi og sál gamli Ólafur Gíslason! Það er því bezt, að þú leitir gæfu þinnar þar, sem hana er að finna. Hún þrífst líklega annars staðar betur en hér á Íslandi. - Liggi þér á peningum, getur þú komið og fundið mig á morgun. Nú er kvöld, og svo hef ég ekkert frekara að tala við þig um."

"Góða nótt, herra!" sagði Ólafur og gekk út úr tjaldinu.

Þannig skildu þeir að því sinni, því að daginn eftir reið Ólafur af Þingvelli og var svo heppinn litlu síðar að ná í vöruskip, sem fór til Englands. Og alls enga peninga bað hann biskup um. Hann hét nú enn á ný í huga sínum að koma ekki framar til Íslands, því að þar hefði hann einskis góðs að vænta framar.


17. kafli

Síðan höfuðsmaður Hinrik Bjelke sat brúðkaupsveizluna forðum í heimsókn sinni hjá meistara Brynjólfi eru sex ár. Síðan er margt umbreytt, bæði á biskupssetrinu sjálfu og víðar, og margt til batnaðar, því að einlægt er tíminn að leiða nýjar og nýjar uppgötvanir í ljós og færa menntunina einu og einu feti framar. Ennþá eru gestir komnir að Skálholti, og þeir langt að komnir. Gesturinn er Þórður Þorláksson frá Hólum með fylgdarmanni. Hann hefur meðfram í huga að sigla til háskólans.

"Þér hafið, Þórður minn, orðið fyrir miklum harmi, þar sem faðir yðar er látinn, ég samhryggist yður," sagði biskup og rétti Þórði höndina. Þeir sátu báðir á bekk úti í garðinum og ræddu um tilvonandi utanför hans. "Að fæðast og deyja er gangur lífsins".

Í þessu bar Ragnheiði Brynjólfsdóttur þar að.

"Þessi mær er Ragnheiður dóttir mín," sagði biskup og benti henni að koma nær.

Hún kom og heilsaði gestinum hæversklega. Raunar höfðu þau sézt áður um daginn, en hvorugt þó vegna feimni gefið sig fram. Ragnheiður var nú orðin fimmtán ára gömul og bæði fríð sýnum og kurteis. Hún var nú ekki lengur hið glaða og fjöruga barn, sem lék sér að brúðum og gullum. Hann hafði heldur ekki núna neitt stækkunargler að sýna henni í. Síðan þeir tímar voru, hafði alvarlegu stækkunargleri verið brugðið fyrir augu hans. Göfugmennið Þorlákur biskup, faðir hans, var síðan dáinn, og móðir hans, Kristín Gísladóttir, ætlaði að fara að flytja sig búferlum að Víðivöllum. Að vísu var Gísli Þorláksson, bróðir hans, nefndur líklegastur til að verða eftirmaður föður þeirra, en það var þó ekki orðið, og enginn, vissi, hvort konungur mundi samþykkja kosning landsmanna.

"Þér eruð að hugsa um eitthvað dauðans alvarlegt, Þórður minn," sagði biskup, "en geymið ellinni það. Þykir yður ekki, að Ragnheiður hafa stækkað, síðar þér voruð hér síðast?"

"Jú, mikið, herra," sagði Þórður, og þau roðnuðu bæði.

"Hvað eruð þér nú gamlar?" spurði Þórður og sneri sér að Ragnheiði.

"Hafið þið ekki ævinlega þúast í bréfum ykkar?" greip biskup fram í. "Mig minnir, að svo hafi verið, og þá sýnist mér engin ástæða sé fyrir ykkur að breyta því," sagði biskup og gekk burtu.

"Það er satt, það er vissulega engin ástæða til þess," sagði Þórður. "Við skulum segja þú hvort við annað, eins og við höfum ævinlega gjört. Ég veit ekki hvers vegna, en ég er einhvern veginn svo feiminn við föður þinn."

"Það er ástæðulaust, Þórður," sagði Ragnheiður, "hann hefur mætur á þér. En ég er líka feimin við þig, þú ert orðinn svo stór og ólíkur því, sem þú varst, að mér finnst þú vera orðinn fullorðinn maður."

"Það sama sýnist mér um þig," sagði Þórður, "þú ert orðin svo fullorðinsleg, og hár þitt er orðið svo miklu dekkra, - en svo stór líka! Látum okkur sjá, hvort okkar er hærra."

Þau mældu sig.

"Það er lítill karlmaður, sem ekki er hærri en kona," sagði biskup brosandi, er hann kom að í þessu. "Þér, Þórður minn, eruð hærri."

Talið féll nú niður, og eftir það gekk biskup til stofu og Þórður með honum.

Nóttin leið, og morguninn rann upp, skær og fagur. Þórður Þorláksson lagði af stað áleiðis til Bessastaða, og fylgdu honum úr hlaði biskup og börn hans bæði, Halldór og Ragnlueiður.

En áður en á bak var stigið, mættust þau Þórður og Ragnheiður í stofunni. Þau voru tvö ein, því að biskup og Halldór voru gengnir út. Þórður þrýsti Ragnheiði upp að brjósti sínu og sagði um leið og hann lagði hökuna ofan á hið fagurhærða höfuð hennar:

"Hvað ætlar þú að verða stór, þegar ég heimsæki þig næst? Nú hef ég höfuðið yfir þig."

"Ég veit ekki," sagði hún niðurlút.

"Nei, þú veizt það ekki. Það er komið undir heilsufari og svo mörgu öðru. En þú mátt ekki gleyma mér í fjarverunni. Við skulum skrifast á, eins og við höfum alltaf gjört í seinni tíð. Við skiljum hvort annað betur, þegar við tölumst við með pennanum. En komdu nú út," sagði Þórður og tók í hönd hennar.

Þau gengu út og riðu af stað með þeim feðgum, biskupi og Halldóri.

"Mér flaug í hug, Þórður, þegar þér forðum rænduð mig hattinum, að það mundi tákna það, að þér yrðuð eftirmaður minn í Skálholti," sagði biskup brosandi við Þórð um leið og þeir kvöddust.

"Minnist þér ekki á þá ókurteisi, herra," sagði Þórður, "hún hefur oft síðan verið höfð fyrir svipu á mig, einkum í æskunni."

"Það var góðs viti, Þórður minn," sagði biskup. "Enginn veit, hvað hinn ungi verður. Í guðs friði."

"Í guðs friði," sagði Þórður og renndi ennþá einu sinni saknaðaraugum á eftir biskupi og börnum hans, sem sneru aftur heim.

"Hvenær skyldi okkur Ragnheiði þá auðnast að sjást og vera Lengur saman en núna?" hugsaði Þórður og sendi biskupsdótturinni ennþá hlýtt augnaráð, þar til leiti bar á milli. Hann varpaði mæðilega öndinni, og spurði sjálfan sig sífelldlega á veginum: "Hvenær?" En þeirri spurningu varð að því sinni, sem betur fór, ósvarað. Hefði honum þá auðnazt að sjá næsta fund þeirra uppmálaðan í rykskýi því, sem nú huldi hana sjónum hans, þá hefði hann örvæntingarfullur aftur haldið heim að Skálholti og reynt að snúa kjörunum á annan veg.


18. kafli

Nú hafði Ólafur Gíslason dvalizt átta löng ár fjarri fósturjörðu sinni, ýmist í Englandi með íslenzkum Englandsförum, eða þá í Kaupmannahöfn við starfa sinn, líkneskjusmíði, og hafði hann oft átt fullt í fangi með að hafa ofan af fyrir sér, hefðu landar hans ekki hlaupið undir bagga með honum, til dæmis Þormóður Torfason, sem þá var konunglegur fornfræðingur utanlands. Hann var jafnan föðurlandsvinur, þótt hann harðlyndur væri, þegar því var að skipta.

"Ennþá einu sinni vil ég þó vitja fósturjarðar minnar og sjá, hversu þar er nú umhorfs," hugsaði Ólafur, og hann var ekki lengi að leggja niður í huganum, hvað mælti með eða móti áformum sínum. Að hann vildi, það var nóg, hvaða öldur, sem þar ýfðu sig á móti. "Það stendur mér á litlu, hvort ferðin á að vera mér til tjóns eða ekki, ég fer samt," hugsaði hann.

Hann fór, fékk hæga útivist og kom á þing nógu snemma til að finna þá, er hann girntist. Biskup og hann sáust og horfðust í augu. Ólafur beið eftir, að hann ávarpaði sig, en þegar það varð ekki, og biskup gekk eins rólegur til tjalda sinna og hann hefði engan fornkunningja séð, þá fylgdi Ólafur dæmi hans og gekk sömuleiðis á burtu.

Um kvöldið reikaði hann víðs vegar um Þingvöll. Hann var nú fastráðinn í að koma þangað aldrei aftur, og vöknuðu við þá hugsun margar blíðar endurminningar frá sælli æsku í sálu hans, blíðar - en æ, hve sárar samt nú, þá er allt var horfið. Hann litaðist um og sá, að enn var margt manna á fótum, enda breiddi kvöldsólin ennþá ljómandi geisla sínum yfir þingstaðinn forna. "Það þori ég að segja," hugsaði Ólafur, "að andar allra hinna burtsofnuðu, sem hér hafa verið á jafnfögru kvöldi og þessu, svífa nú í glaðri endurminningu yfir þessum friðsama styrjaldarstað." Hann gekk fram hjá tjaldi biskups, og varð honum óvart að líta inn. Hann sá, að biskup las mjög alvarlegur á svip í litlu kveri, en fyrir framan hann sat Hallgrímur Pétursson, Saurbæjarprestur, og studdi þegjandi hönd undir kinn. Biskup lagði bókina frá sér og sagði:

"Sálmarnir eru snilldarverk, ég bjóst ekki við, Hallgrímur, að slíkt sæist eftir þig."

"Þeir eru líka tíu ára verk mitt, herra, og vættir mörgum tárum.

"Sá, sem sáir með tárum, skal uppskera með fögnuði," sagði biskup. "Þú tileinkar þá dóttur minni. Það gleður mig. Guð veit, hvílíkan bautastein hún kann sjálf að reisa sér. Þeir verða bautasteinn hennar fyrir eftirkomandi aldir."

"Án yðar margítrekuðu hjálpar, herra, hefði þetta verk ekki legið eftir mig," sagði prestur.

"Ég hef gjört mörgum meira gott en þér, sem verr hafa þakkað það," sagði biskup um leið og hann leit fram til dyranna.

Ólafur blóðroðnaði og gekk burtu. "Hann meinti mig," sagði hann við sjálfan sig, "það las ég út úr augum hans, þegar hann festi þau á mig í dyrunum, en skyldi sá, sem þarna gengur, verða honum miklu þakklátari?" Ólafur staldraði við fyrir ofan tjaldið, meðan Daði Halldórsson gekk snúðugt framhjá honum. Ólafur lagði aftur augun, eins og hann vildi ekki sjá.

"Er þyrniskáldið blint orðið?" sagði Daði, er hann bar þar að.

"Einungis á meðan þyrnarnir fjúka framhjá. Ég vil ekki fá í augun," sagði Ólafur. Daði gekk inn í tjald biskups, en Ólafur stóð kyrr í sömu sporum.

Í þessu bili gekk biskup út í tjalddyr sínar á eftir hrumum stafkarli, er tveir leiddu, og heyrði Ólafur, að biskup sagði:

"Það eru syndir til, séra Þorsteinn minn, sem guð getur fyrirgefið, en menn ekki. Ég verð að breyta samkvæmt fyrirskipun laganna."

Að svo mæltu hvarf biskup aftur inn í tjaldið, en stafkarlinn bauð þeim, er með honum voru, að leiða sig, eða öllu heldur að bera sig - þrisvar sinnum rangsælis umhverfis tjald biskups, og gjörðu þeir svo. "Hverju sætir þetta, frændi?" spurði annar maðurinn, og þekkti Ólafur þar Illuga Bjarnason.

"Þannig helga ég brennifórn hverja," sagði stafkarlinn, "og taktu eftir, frændi, að áður en tvær árssólir eru af himni runnar, verður þessi drambsfulli biskup engu glaðari innanbrjósts en ég er nú."

Eftir það lögðu þeir karlinn á kviktré og fóru burtu með hann til kirkjunnar. Þar báru þeir hann inn.

"Þrífstu aldrei, þú armi karl," hugsaði Ólafur með sér og ætlaði nú að fara að leita sér að náttstað. Gekk þá þreklegur maður á móti honum, og þekkti hann þegar, að þar var Illugi aftur kominn. Hafði hann komið Þorsteini presti, frænda sínum, fyrir um nóttina og ætlaði síðan að litast um á gamla Þingvelli, eins og Ólafur fornkunningi hans og aðrir góðir menn.

"Gott kvöld, kunningi," kallaði Ólafur.

Illugi nam staðar, leit upp og sagði: "Ert þú þar, Ólafur Gíslason, eins og örn á kletti?"

"Svo er sem þér sýnist, en hvaðan úr veröldinni kemur þú, gamli syndaselurinn?" spurði Ólafur.

"Frá öðrum syndaselnum til, séra Þorsteini frænda mínum," sagði Illugi og glotti.

"Hvað vill hann hingað á þing, maðurinn karlægur, fluttur á kviktrjám?"

"Hann hefur átt króga í meinum, blessaður sauðurinn, og leitaði á náðir biskups, en miskunnin á ekki heima hjá honum."

"Það er nú svo, hann lætur þá af hendi stað og kirkju, skil ég?" spurði Ólafur.

"Auðvitað, en áður en það er orðið, verður eitthvað fleira fram komið," sagði Illugi og ranghvolfdi augunum.

Ólafur sá, að hann græddi ekkert á þessari ræðu, né komst nær því, er hann vildi heyra úr átthögum sínum, og fór hann því að brjóta upp á öðru efni.

"Býr þú ennþá í grennd við meistara Brynjólf?" spurði hann.

"Nei, ég er allur á burtu þaðan og kominn í nánd við Þorstein frænda."

"Kvæntur, vænti ég?" spurði Ólafur ennfremur.

"Nei, ekki heldur það. Ég er einn af þeim mönnum, sem elska aðeins einu sinni."

"Og nær var það?" spurði Ólafur.

"Það var hérna um árið, þegar hundarnir fengu fárið, en sem þig varðar ekki meira um, góðurinn minn."

"Nei, öldungis ekkert. En hvernig líður Sæmundi stúdent á Torfastöðum? Það má ég þó vita."

"Honum vegnar vel, það ég til veit. Fólk sagði, að hann hefði verið að biðla til gömlu unnustunnar þinnar, Vilborgar, og leit helzt út fyrir, að vel ætlaði að fara á með þeim. Til að skerpa kærleikann samdi hann langa og snilldarlega varnargrein um hæfileika konunnar og hefur líklega með því unnið hylli hennar, og að líkindum gefur biskup sitt samþykki, því að maðurinn er prúðmenni. Raunar er ég nú orðinn nokkuð ókunnugur um þær stöðvar. Ég flýði, skal ég segja þér, hérna um árið, þegar Þorkell Arngrímsson fór að bora í hvern klett til að leita að málmum. Mér gaf illan grun um, að vættir gömlu Kötlu mundu lengi láta slíkrar fúlmennsku óhegnt, mundu láta raska rósemi sín og sinna fyrir þann tíma án allra launa, og ég vildi verða kominn að austan fyrir þann tíma, hann er, trúðu mér, í nánd."

Illugi fór nærri um skapferli vættanna, því að 3. nóvember sama ár spjó Katla ösku og eldflóði og lagði í auðn marga bæi.

Ólafur hristi þegjandi höfuðið og spurði eftir litla þögn: "En hversu vegnar Daða Halldórssyni?"

"Honum vegnar vel, og máttu vel finna hann hér á þingi. Hann er í miklum kærleikum við biskup, og hann hatar þig það get ég frætt þig um, og það gjöri ég sömuleiðis. Ég er ekki ennþá búinn að gleyma, hverjum ég á að launa fyrir þann arna," sagði Illugi og rétti fram undna fótinn. "En það skal ég segja þér, Ólafur Gíslason, að nema ég leysi þig úr útlegðarböndum þínum, verður þú aldrei leystur."

"Ég mun enga hamingju sækja til annars eins fóla og þú ert. Hún býr ekki í þínum garði," sagði Ólafur.

Í þessari svipan gekk fagurhærð og tíguleg kona framhjá, og leit hún til Illuga.

"Hver er kona þessi?" spurði Ólafur.

"Sigríður heitir hún, kona Benedikts Pálssonar á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hún er af gárungum kölluð "hin stórráða" og er mesti skörungur. Ég verð að finna hana. - Góða nótt." Með þeim orðum tók Illugi undir sig stökk mikið og hvarf.

"Hér kennir margra grasa," sagði Ólafur forviða á öllu því, sem hann sá og heyrði. "Hér má sjá bæði náttúrulífið og mannlífið á sínu hæsta og lægsta stigi. Í dag sá ég Árna lögmann hvítan fyrir hærum standa frammi fyrir lýðnum á Lögbergi, eins og Móses forðum frammi fyrir Ísraels-lýð. Hann er jafnan blíður og auðveldur sem barn. Í dag sá ég meistara Brynjólf eins járnharðan og tilfinningarlausan eins og margra alda gamlan steingerving. Í dag sá ég Hallgrím prest Pétursson eins andlegan og auðmjúkan og hann hefði setið hundrað ár í hreinsunareldi. Í dag sá ég gamla séra Þorstein eins magnaðan í forneskjunni og illskunni og hann væri nýútskrifaður úr Svartaskóla. Illugi og Daði standa langt fyrir ofan og neðan allt, sem ég þekki af hégómasemi, heimsku og sjálfbyrgingsskap, og ég veit ekki hverju. Í dag hef ég þá loksins mettað auga mitt á gamla Þingvelli. Ég býð honum hér með ævinlegar góðar nætur!" Og að svo mæltu stökk Ólafur ofan af steini þeim, er hann stóð á, og hvarf inn á milli tjaldanna.

Litlu eftir þetta tók hann sér fari utan og var lengi síðan erlendis, stundum í Höfn og stundum með þeim Sigurði og Bjarna Englandsförum.


19. kafli

Bærinn Hítardalur kom öndverðlega fyrir í sögu vorri. Þar bjó og býr enn hið prúða göfugmenni Þórður prestur Jónsson. Kristín systir hans hefur lengi verið gift Sigurði Jónssyni, hinum sama, er fylgdist með henni úr veizlu meistara Brynjólfs. Hann er nú sýslumaður í Þverárþingum, en steig ári síðar en hér var komið upp í sæti Árna Oddssonar, lögmanns, sem þá afsalaði sér stöðu þeirri, er hann svo lengi og heiðarlega hafði borið. Þau Sigurður og Kristín bjuggu í Einarsnesi og áttu fjögur börn, en aðeins eitt þeirra kemur við sögu þessa, nefnilega Jón son þeirra. Þórður prestur, móðurbróðir hans, hafði haft hann til kennslu og var nú kominn með hann, ásamt þeim foreldrum hans, að ríða með hann til Skálholts, því að biskup hafði lofað að taka við honum.

"Ég hef borið sveininn á bænarörmum fram við biskup," sagði Þórður prestur við sýslumann, "en satt að segja var hann ekki vel viljugur til þess í fyrstu, ekki sökum ykkar foreldranna, því að hann biður mig að bera ykkur kveðju í hverju bréfi, heldur vegna hins, að ég var hérna um árið svo óheppinn að koma til hans í sveinsþjónustu og síðan frískóla Illuga Bjarnasyni, - þú þekkir hann, systir," sagði Þórður prestur brosandi, "en eins og þegar er kunnugt, reyndist pilturinn ekki vel og var rekinn úr skóla fyrir galdrakennslu. Meistari Brynjólfur er ekki laus við hleypidóma og teiknatrú. Hann heldur nú statt og stöðugt, að ég, þrátt fyrir minn góða vilja, verði eigi að síður verkfæri til að færa enn á ný einhvern óhappasegginn í garð sinn. Segist hann oft hafa tekið eftir slíkum bendingum, en hann getur ekki neitað mér um neitt. - Ég vildi óska, Jón minn," sagði prestur og klappaði á kollinn á systursyni sínum, "að þú yrðir ekki biskupi að óhappaþúfu."

"Þess vildi ég óska," sagði Sigurður sýslumaður.

"Og ég segi sama," sagði kona hans.

"Raunar er ég ekki eins hjátrúarfullur og biskup í þessum efnum," hélt prestur áfram. "Hann hefur erft ýmsar hégiljur úr móðurætt sinni og aðhyllist í mörgu skoðanir Jóns gamla Arasonar, forföður síns. Jón heitinn á Núpi, hálfbróðir hans, þótt hann væri mesti lærdóms- og vísindamaður, var hann þó mjög einskorðaður í hugsunarhætti og ekki laus við hjátrú. Það er sagt, að meistari Brynjólfur hafi mjög samið sig í æsku að hans háttum og annarra móðurfrænda sinna. Sama er að segja um Magnús hálfbróður hans á Lokinhömrum. Hann, skáldið og listamaðurinn, er með sama gallanum."

"Já, ekki vildi ég, að börn mín yrðu meistara Brynjólfi að meini," sagði Sigurður sýslumaður aftur, "og vissi ég það fyrir, skyldi ég ekki láta Jón fara, heldur hætti við allt."

"Við skulum ekki gefa okkur að slíku, mágur," sagði Þórður prestur, "enda gjöri ég meira úr þessu en þörf er á. Ég er kominn upp á ferðina, og við stöndum svo að segja albúin. Og svo er ekki annað eftir en að biðja vel fyrir sér, leggja af stað og búast við stríðu sem blíðu, þar sem veturinn er annars vegar."

"Já, það mun vera bezt. Það var annars óviturlegt af mér að bíða ekki vorsins," sagði Sigurður sýslumaður, "einkum þegar konan mín er með í förinni."

"Það hefði, ef til vill, verið heppilegra," sagði Þórður prestur, "en nú er ekki að tala um það. Ég hef ritað biskupi um, að mín sé þangað von bráðum, og hann vonast eftir mér og okkur öllum. Svo er eitt gott við ferðina líka: Þormóður Torfason dvelst í vetur með meistara Brynjólfi, og hann verður gaman að hitta, en ég býst við, að hann sigli snemma í vor, og er þá ekki seinna betra."

Hvort sem þeir mágar ræddu þetta mál lengur eða skemur, var þó förinni heitið að Skálholti, og þau lögðu af stað.


20. kafli

Að Hólum í Hjaltadal, biskupssetrinu nyrðra, snúum vér nú athygli voru. Þar er vetur eins og annars staðar og engu mjúkhendari, því að staðurinn er svo að segja innibyrgður á milli heiða og hamra. Hvergi sést á dökkan díl, allt er hjarn - glerhart hjarn, og veðrið er drungalegt og dimmt um hádaginn. Það er sunnudagur, og kirkjufólkið streymir að úr öllum áttum á skaflajárnuðum jóum og finnur ekki til norðangolunnar, sem við og við feykir hélukornum í andlit þess. Klukkur dómkirkjunnar gjalla hátt, og hver á fætur öðrum gengur til kirkju, og seinast allra Gísli biskup Þorláksson og flokkur hans. Þórður Þorláksson, bróðir biskups, sem var fyrir löngu útlærður og kominn sem skólakennari að Hólum, sat nú við gluggann á herbergi sínu og las bréf og fylgdi við og við kirkjugestunum með augunum. Um morguninn hafði komið sendimaður frá Skálholti og færði hann Þórði meðal annars þrjú bréf, eitt frá meistara Brynjólfi, annað frá Þormóði Torfasyni og þriðja frá Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Fyrst las hann bréf Þormóðs. Það var mest um landsins gagn og nauðsynjar, og seinast segir hann meðal annars:

"Ég uni hér vel hag mínum. Meistari Brynjólfur, gamli lærifaðir minn, er, eins og þér er kunnugt, einkar lærður og skemmtilegur maður. Það er sönn nautn að dveljast í hans félagsskap. Ungfrú Ragnheiði svipar mjög til hans, hún er kurteis og skörp, en Halldór bróðir hennar er fremur gáfnatregur. Heimilislífið er hið ánægjulegasta. Ég er önnum kafinn með að skrifa mína Danmerkur konungasögu, því að ég hef í huga að fara snemma utan, ef föng verða á. En hversu sem það fer, þá rakaðu saman fyrir mig af ýtrustu kröftum alls konar gömlum blöðum og bókfellum, því eldra, því betra."

Þegar Þórður hafði lesið bréf Þormóðs, lauk hann upp ljósbláu og háfættu skáborði og tók upp úr því fornlegan, samanbundinn bréfaböggul. Í honum voru öll þau bréf, er Ragnheiður Brynjólfsdóttir hafði ritað honum, frá því að þau hittust fyrst í Skálholti, árið 1650, og þangað til nú, 1662. Hann leysti bréfin sundur og tók að lesa þau hátt. Það fyrsta hljóðaði svo:

"Ég þakka þér, Þórður minn, fyrir trédrenginn, sem þú sendir mér, mér þykir svo vænt um hann, og ég hef kallað hann Þórð í höfuðið á þér. Hann er nú giftur fallegustu brúðunni minni. Hann faðir minn sagði, að ég skyldi senda þér bréfaveski, sem ég hef saumað sjálf. Í því getur þú geymt gullin þín, það er svo stórt."

Þórður brosti yfir hinni barnslegu einfeldni, sem lýsti sér í hverju orði, tók svo næsta bréfið og las hátt:

"Ég þakka þér fyrir fallega ennikoffrið svarta með gylltu knipplingunum, sem þú sendir mér í vetur. Það er langtum of stórt á allar brúðurnar mínar, og mamma segir, að ég skuli eiga það í minningu þína og brúka sjálf, þegar ég sé orðin stór."

Hann lagði þetta bréf til hliðar og las hið næsta svohljóðandi:

"Hafðu beztu þakkir mínar fyrir allar bækurnar, sem þú ert einlægt að senda mér. En hvað gott þið eigið þó norður á Hólum, að hafa prentsmiðju og geta prentað svo margt fallegt og nytsamlegt."

Eftir það las hann mörg önnur frá henni, og mátti sjá af bréfafjöldanum, að þau hefðu einlægt skrifazt á í mörg ár.

"En hvar er það, sem ég fékk í morgun frá henni?" sagði Þórður við sjálfan sig, og hann fór að leita á meðal bréfanna. "Hérna kemur það þá," og hann las eftirfylgjandi kafla:

"Ég vil ekki, kæri vinur minn, bregða svo löngum og skemmtilegum vana að rita þér, einkum þegar svona bein ferð fellur, en ég er þó einhvern veginn ekki vel fær um það núna, því að ég sakna mjög mikið Halldórs bróður míns, sem faðir okkar setur til menningar á Englandi. Hann á að dveljast þar nokkur ár. Við höfum alltaf leikið okkur saman, og mér þykir svo vænt um hann. Raunar hafa foreldrar mínir tekið til fósturs nöfnu mína, ofur skemmtilega stúlku, dóttur Torfa frænda míns í Gaulverjabæ, en hún orkar ekki að bæta mér bróðurmissinn. Ég er að hugsa um að dveljast tímakorn hjá Helgu Magnúsdóttur í Bræðratungu mér til gamans", o. s. frv.

Í eftirskrift við bréfið stóð þetta:

"Þú spyrð mig, hvað sé orðið af Daða Halldórssyni, sem forðum hristi þig úr stiganum. Hann er nýlega vígður föður sínum, séra Halldóri í Hruna, til aðstoðar."

Hér höfðu nokkur fleiri orð verið skrifuð, en svo vandlega var strikað yfir þau, að aðeins mátti geta sér til nokkurra stafa. hér og hvar voru blettir á bréfinu, er auðsjáanlega voru eftir tár.

Þórður andvarpaði í því hann lagði bréfin saman og sagði:

"Ó, Ragnheiður elskulega, guð gæfi, að ég mætti bæta þér til fulls bróðurmissinn."

Eftir það las hann nokkur bréf, er hann hafði fengið samtíða frá Brynjólfi biskupi, og meðan á lestrinum stóð, sveif áhyggjuský eða gleðibros yfir hið sviphreina andlit hans. Þegar hann hafði nægilega kynnt sér innihald bréfanna, sagði hann við sjálfan sig um leið og hann stóð upp:

"Meistari Brynjólfur mundi ekki hafa leyft dóttur sinni að halda svo nánum kunningsskap við mig, já, ég þori að segja vináttu, ef hann ætlaði sér ekki að gefa okkur í sjálfsvald, hve langt við vildum halda áfram. Jafnvel hann sjálfur hefur sýnt mér mörg virðingarmerki, boðið mér heim, gefið mér vísindabækur og ritað nafn sitt með heillaósk framan á þær o. s. frv. "Vogun vinnur, og vogun tapar". Mörg smáatvik frá hendi föður og dóttur gefa mér kjark. Ég hef þá fyrst tækifæri til að skyggnast af eigin reynslu inn í hugsunarhátt meistara Brynjólfs, sem svo margt misjafnt er sagt um."

Að svo mæltu settist Þórður við borðið og fór að rita bréf suður aftur með sendimanninum, sem ætlaði að fara að morgni, og vissi enginn um efni þeirra.


21. kafli

Nú víkur sögunni til Skálholts. Stór og rúmgóð stofa verður fyrst fyrir augum vorum. Hún er þiljuð í hólf og gólf og ber vott um þrifnað og reglusemi. Glóandi ofn stendur í einu horninu, og gólfið er horna á milli klætt grænni glitvefnaðarábreiðu. Tveir eru gluggar á stofunni, og liggja djúpar gluggakistur inn á við. Við annan gluggann stendur fagurbúinn bókaskápur með mörgum hillum, þétt skipuðum bókum í gylltu bandi, er allt voru vísinda- og guðfræðirit eftir forna og nýja, nafnfræga rithöfunda. Skáphurðin var úr gleri með tréumgjörð, en nú stóð skápurinn opinn, og við hann sat meistari Brynjólfur niðursokkinn í brjefalestur, því að um morguninn hafði sendimaður hans komið frá Hólum, og á svip biskup mátti sjá, að eitthvað hafði honum fallið í vil, og það var meira en minna, því að allan seinni part dagsins hafði hann leikið við hvern sinn fingur, svo að smásveinar hans og þjónar héldu, að hann væri aftur orðinn að barni. Hann, sem venjulega öllum stóð óttablandin virðing af, hann, sem sjaldan gaf sig á tal við vinnufólkið, nema þegar hann þurfti að skipa því eitthvað, nam nú staðar hjá hverjum einstökum, er varð á vegi hans, spurði hann um ætt hans og aldur, æsku og foreldra og endaði vanalega samræðuna með þessum orðum: "Það er mikið gott, stúlka mín. - Það er rétt, drengur minn." Sumum hafði hann og gefið skilding, annað hvort fyrir eitthvert handarvik eða þá, fyrir alls ekki neitt. Fyrir sams konar láni urðu tveir stólslandsetar, sem guldu þann dag skuld, en þar eð ráðsmaður var ekki við, kom biskup til, og gaf þeim upp alla skuldina. Þessi dagur var því sannnefndur hamingjudagur fyrir staðarbúa. Allt hefur sitt hæsta og lægsta stig í lífinu, og eins og helfró gengur á undan dauðanum, og sá veiki tekur hana fyrir bata, þannig gengur oft annars konar helfró undan hruni langvinnrar hamingju - eins konar töfraleiðsla, er maðurinn sér sig í anda fljúgandi til einhverrar óþekktrar gæfu, einmitt þegar hún er að búa sig til að varpa óskabarninu fyrir fullt og allt fyrir fætur ómjúkra örlaga. Vel sé þeim, sem á góðu dögunum hafa verið bljúgir og þekkir í fangi hennar. Hamingjan, þessi ágæta guðs náðargjöf, hversu mörg göfug og í sjálfu sér elskuverð hjörtu hefur hún afvegaleitt til ofmetnaðar, hégómadýrðar og harðýðgi, hjörtu, sem hafa skinið eins og leiftrandi stjörnur, mitt í eymd, fátækt og fyrirlitningu, hafa orðið í fangi hennar að miskunnarlausum harðstjórum og hrokafullum sjálfbyrgingum. "Það þarf vissulega sterk bein til að þola góða daga."

Meistari Brynjólfur sat, sem áður er á minnzt, inni í fyrrgreindu herbergi og las bréf eitt víst í þriðja eða fjórða skipti. Það var biðilsbréf til Ragnheiðar dóttur hans frá Þórði Þorlákssyni, skólakennara á Hólum, sem næstur stóð til að verða eftirmaður Brynjólfs biskups í Skálholti, því að bæði var það, að maðurinn var ættstór, lærður og gáfaður, og svo hitt, að hann hafði vináttu margra málsmetandi manna til að styðja sig við. Þormóður Torfason sat við annað borð og las og ritaði, því að einnig hann hafði fengið bréf, en hann var kaldari fyrir efni þeirra en biskup.

"Hversu geðjast yður að Þórði skólakennara Þorlákssyni á Hólum?" sagði nú meistari Brynjólfur upp úr eins manns hljóði.

"Hverjum skyldi geðjast öðruvísi en vel að Þórði frænda?" svaraði Þormóður. "Hann er hið mesta göfugmenni og verður líklega á sínum tíma biskup."

"Ég vona það, en ég vildi, að ég hefði verið uppi á þeim tímum, sem fornu sögurnar segja, að maður hefði getað óskað sér hvers maður vildi," sagði biskup brosandi.

"Og, herra biskup, má ég vera svo djarfur að spyrja, hvers þér þá mynduð óska yður?" spurði Þormóður sömuleiðis brosandi.

"Ég skyldi óska til mín í kvöld nokkrum góðum vinum og skemmta mér svo með þeim fram á nótt."

"Og til dæmis hverjum?" spurði Þórður.

"Fyrst og fremst Þórði presti, vini mínum í Hítardal," sagði biskup, "síðan Þórði skólakennara á Hólum, og svo Ragnheiði dóttur minni frá Bræðratungu."

"Ég óska líka alvarlega eftir Þórði presti frá Hítardal og hinum Þórðinum líka," sagði Þormóður. "Þeir hafa gefið mér von um eitthvað af fornritum þeim, sem þér gáfuð Sjálandsdómara Jörgen Seefeld, og sem ég hef hvergi hingað til getað grafið upp. Ég segi það satt, þau rit hafa oft gjört mér þungt í skapi, einkum síðan þau með Seefelds 26,000 binda bókhlöðu lentu í klóm Svía."

"Já," endurtók biskup, "það var hörmulegur missir, og öll þau sjaldgæfu og merkilegu handrit og skjöl, sem þar voru innan um."

"Jú, meira en hörmulegt, - en það eru líka þung kjör, að ég skuli einmitt í kvöld vera neyddur til að fara af stað áleiðis til Bessastaða," sagði Þormóður, "því að þarna sé ég ríða í hlaðið fjóra eða fimm menn, og eitt er söðulkvenmaður. Það eru gestir langt að, sé ég, en fara verð ég eigi að síður."

Biskup gekk út að glugganum og sagði í því hanm flýtti sér út:

"Það er sannarlega séra Þórður vinur minn frá Hítardal, Sigurður sýslumaður Jónsson og húsfrú Kristín. Þau koma rétt eins og þau væru kölluð. Ég átti líka jafnvel von á þeim."

Gestunum, sem við þegar vitum hverjir eru, var einkar vel fagnað af biskupi og staðarmönnum, en Þormóður reið um kvöldið með fylgdarmanni áleiðis til Bessastaða, eins og hann hafði ætlað sér, en hann kvaðst von bráðar skyldi finna þau þar aftur.

Eftir að gestirnir höfðu hvílt sig, sagt tíðindin og matazt, settust þau hjón, Sigurður og Kristín, að tafli, er biskup hafði fengið þeim, en sjálfur sat hann í sæti sínu við bókaskápinn. Þórður prestur sat við annan gluggann og las í bók; er lá opin á borðinu, og gagnvart honum við hinn borðsendann sat Jón sonur þeirra hjóna aðgjörðalaus og horfði á allt umhverfis bæði með forvitni og feimni. Stofa þessi var bæði fögur og einkar viðkunnanleg. Eldurinn logaði vel í ofninum, og tvö vaxljós, sem brunnu á borðinu, gáfu og góða birtu. Hér og hvar stóðu uppi á skápum og hillum úthöggnar marmara- og gipsmyndir, bæði ný og gömul olíu-málverk héngu á veggjunum, og hvarvetna mættu auganu einhverjir fagrir og merkir munir. Á skáp þeim, sem biskup las við, hékk forn línábreiða, snilldarlega gjörð, en upplituð. Í hornum hennar voru saumaðir með gullvír tveir einhyrningar, og það svo haglega sem lifandi væru.

Biskup var ennþá að lesa bréf sín, og rétti hann nú eitt þeirra að Þórði presti til að lesa og sagði um leið:

"Ég vildi, að Ragnheiður mín væri nú komin frá Bræðratungu, svo að ég gæti sagt henni fréttirnar. Því skyldi Þórður líka efa um samþykki mitt? Ég hef lengi óskað, að þessi ráðahagur tækist."

"Nafni minn er ágætt höfðingjaefni," sagði Þórður prestur, og rétti biskupi aftur bréfið, þegar hann hafði lesið það. "Hann verður líklega eftirmaður herra Gísla, bróður síns, ef hann lifir hann."

"Eða minn," sagði biskup, um leið og hann stóð upp og leit yfir öxl Þórðar vinar síns á það, sem hann var að lesa. "Þú lest þá í trúarbragða handbókinni, ("Epitome systematis Theologiae.") vinur. Hversu geðjast þér að henni?"

"Ágætlega, sem von er, þar hún er eftir annan eins snilling og Doctor Cespar Brochmann er," sagði Þórður.

"Þá skaltu eiga hana," sagði biskup.

"Hún er vinargjöf frá höfundinum," sagði Þórður prestur.

"Og verður aftur vinargjöf," sagði biskup brosandi og ritaði framan á fyrirsagnarblaðið þessi orð:

"Til vinar míns, Þórðar Jónssonar, frá

Brynjólfi R. Sveinssyni."

Síðan rétti biskup bókina aftur að Þórði presti og sagði brosandi:

"Einu sinni hugsaði ég ekki, að Dr. Brochmann mundi senda mér heiðursgjafir upp til Íslands, en tímarnir breytast og við með. En hversu gengur taflið?" spurði hann og sneri sér að þeim hjónum.

"Konu minni," kvað sýslumaður, "gengur að því skapi betur, að þetta er í þriðja sinnið, að hún hefur mátað mig."

"Það er ófært að láta hana sleppa svo vel. Við skulum tefla eina skák, húsfrú Kristín," sagði biskup og settist í sæti manns hennar og tók að reisa upp taflið. Sama gjörði hún.

"Nú urðuð þér fyrri til að setja upp, og það þótti gömlum mönnum merki upp á ósigur. Hvort kjósið þér hægri eða vinstri hönd?" sagði hann og rétti fram hendurnar.

"Hægri," sagði Kristín. - Jú, þá hægri hafði hún viljað þiggja fyrir mörgum árum, en hann bauð henni hana ekki fyrr en nú, og það í leik, en lífið er líka leikur - ýmist gleði- eða sorgarleikur, eftir því sem maður tekur það.

"Það lítur ekki út fyrir, að ég hafi lukkuna með mér í kvöld, og þó hugsaði ég það," sagði biskup brosandi um leið og hann opnaði höndina og rétti húsfrú Kristínu hvíta peðið. "Þér eigið leikinn." Þau tefldu nú þegjandi um hríð.

"Hvað segir þú mér annars í fréttum, Þórður?" sagði biskup upp úr taflinu. "Hversu líður séra Hallgrími Péturssyni?"

"Eftir öllum vonum, hann hefur fyrir góðra manna styrk séð sig færan til að endurreisa staðinn," svaraði Þórður prestur.

"Já, það er satt, það brann hjá honum," sagði biskup, "og gengur ekki fjöllum hærra, að hér eigi galdrar hlut að máli, er ekki svo?"

"Sumir eru að segja það," mælti prestur brosandi.

"Já, mikil villa er á fólkinu að halda slíkt," sagði biskup. "Nei, það, sem ég trúi á, er ekki galdur, heldur að andar framliðinna, góðra manna vilji okkur jarðarbúum vel og gefi okkur bendingar við ýmis tækifæri, en sem við því miður gefum svo sjaldan gaum."

Meðan á þessari ræðu stóð, hafði húsfrú Kristín komið svo ár sinni fyrir borð, að þegar biskup fór aftur að veita taflinu eftirtekt, var konungur hans kominn í svo mikla klípu, að hann varð mát í næsta leik. Biskup stóð upp og sagði:

"Síðan ég var drengur á Holti í Önundarfirði hef ég alls einu sinni verið mátaður, og það var núna af yður, húsfrú Kristín, og þegar maður verður sigraður í íþrótt sinni að eins einu sinni á ævinni, gef ég mig ekki út á húsgang, þó að ég leggi undir taflfé. Það er bezt, að þér hafið bæði motur og mey," sagði hann og ýtti til hennar taflinu.

"Eigið þér við, að ég taki taflið, herra?" spurði Kristín og horfði hissa á biskup, eins og hún gæti ekki trúað augum og eyrum sínum, því að taflið var hin mesta gersemi og afardýrt.

"Já, taflið, húsfrú," sagði biskup brosandi. "Með þessu tafli hafið þér sigrað Brynjólf Sveinsson, mér er óhætt að segja taflmann í góðu meðallagi. Eigið það svo í minningu um sigur yðar og til minningar um mig, og tölum svo ekki meira um það."

Þórður prestur sat þegjandi við borðið og blaðaði í bókinni. "Mun biskup ekki eins vel lóga taflinu af þeirri ástæðu, að héðan af hangir óþægileg endurminning við djásnið, því að maðurinn er ekki gefinn fyrir að láta sigrast, eða ef til vill heldur hann, að nú sé hamingjan vikin frá því, og vill hann því ekki eiga það?" Og Þórður prestur brosti að hugsun sinni. Biskup sá það og sagði:

"Hvað er þér til gleði, vinur minn? Þú lest brosandi."

Þórður brá ofurlítið lit og sagði:

"Ber ekki ærið margt það til í garði yðar, herra, sem vakið geti bros á vörum jafnmikils æringja og ég er?"

"Allt er þá þrennt er," sagði biskup. "Tvennt óvanalegt hefur borið hér við í kvöld. Hvað mundi hið þriðja verða? Hið fyrsta er, að ég hef verið sigraður í tafli, og það af konu, og annað, að þú hefur kallað mig herra og þérað mig, það hefur þú ekki fyrr gjört. Hið þriðja er án efa ókomið, því að þrjár eru óhappaöldur jafnan, og þrjú eru happa-atvik oft. Ég legg mikla þýðingu í töluna 3 eða 7, enda voru það merkistölur í ritningunni. En sleppum þessu. Þér, húsfrú Kristín, gangið inn til konu minnar og skemmtið ykkur eftir mætti, en við karlmennirnir ætlum að skemmta okkur við gamanræður og ölteiti, það sem eftir er kvöldsins. Það ber sjaldan við, að við drekkum saman, til þess er of breiður bekkur á milli okkar."

Um leið og hann sagði þetta, klappaði hann á herðarnar á Þórði presti og sagði: "Nú, Þórður, skaltu ekki kalla mig rauða hófsemdarmanninn í kvöld, því skal ég lofa þér. Við skulum drekka og vera glaðir. En þú, Jón minn, komdu, og lofaðu mér að sjá þig, þú ert gervilegur vexti og líklegur til náms og lærdóms, en hvaða gæfu skyldum við bera saman? En farðu nú ferða þinna, þú ert enn of ungur til að taka þátt í samræðu okkar eldri mannanna."

Jón varð frelsinu feginn, að sleppa úr þessari prísund, og lét hann því ekki tvisvar segja sér að fara, en gekk út.

"Veiztu, hvert mamma fór?" sagði hann við Ragnheiði litlu Torfadóttur, er hann mætti í anddyrinu. Þau voru áður búin að sjást og heilsast.

"Já, og ég skal fylgja þér til hennar, ef þú vilt," sagði Ragnheiður.

Jón þekktist það, og gengu nú bæði börnin inn í herbergi frú Margrétar og tóku að skemmta sér þar, meðan þær konurnar héldu áfram samræðu sinni.

"Það var leiðinlegt, að Ragnheiður dóttir mín var ekki heima," sagði frúin. "Hún hefði víst haft gaman af að sjá ykkur."

"Við hjónin ætlum að koma í Bræðratungu," sagði Kristín, "og þá höfum við gott tækifæri til að sjá hana. Hún er sögð afbragðs efnileg stúlka."

Frúin brosti ánægjulega og sagði: "Hún er vel gefin. Halldór minn er það líka, en hann er tornæmari."

"Hægar og stilltar gáfur gefast oft eins vel og skarpar," sagði Kristín. "Þér eruð gæfusamar að eiga svo efnileg börn."

"Já, það er ég," sagði frúin, "en mér rennur stundum til rifja, þegar ég sé ekki hjá mér nema Ragnheiði, og stundum heldur ekki hana, eins og til dæmis nú, og hafa átt sjö börn, og mér flýgur þá í hug, hversu hamingjusöm ég hefði verið, hefði allur hópurinn lifað og verið eins vel gefinn og þessi tvö eru," og við þessa hugsun varpaði frú Margrét mæðilega öndinni.

"Svona hugsa ég ekki, frú Margrét," sagði Kristín, "og kemur það líklega til af því, að ég er kaldlyndari. Ég á fjögur börn á lífi fremur vel gefin, en mér finnst þau vera of mörg."

Frú Margrét horfði forviða á hana og sagði um leið og hún hristi höfuðið:

"Er það mögulegt?"

"Misskiljið þér mig ekki, frú mín góð," hélt Kristín áfram. "Ég elska börnin mín og finn vel, hve gjöfin er góð, en þegar ég athuga allar þær snörur, sem til eru í lífinu, og sé, hversu skapferli barnanna er móttækilegt fyrir hvaða áhrif sem eru, þá flýgur oft í huga minn, hversu óhultari og betur geymd þau væru hjá guði, en ég sé þá einnig, hve fávísleg þessi hugsun er, eins og guð stjórni ekki öllu bezt."

"Ég hugsa ekki, kæra Kristín, svo langt fram í tímann," sagði frú Margrét. "Mér finnst, ef við höfum gefið börnum okkar gott og kristilegt uppeldi, að við þurfum engan kvíðboga að bera fyrir, að þau gæti ekki sóma síns, þegar þau koma til vits og ára."

Kristín ætlaði að segja eitthvað meira, en þá vakti þræta á milli þeirra Ragnheiðar og Jóns athygli þeirra. Þau toguðust á um signet, sem Jón Gissurarson á Núpi, afi Ragnheiðar, hafði átt, og var grafinn á það einhyrningur. Jón sagði, að dýr þetta væri öldungis eins og þau, er saumuð væru í línábreiðu þá, er héngi yfir skáp biskups í stofunni, en hún setti þar þvert nei fyrir, væru þau heil og á hlaupum, en á þessu sæist ekki nema höfuðið og framfætur. Jón sagði, að þau skyldu þá vita, hvort þeirra hefði á réttara að standa, og hlupu þau burt. En þær konurnar virtu ungmenni þessi fyrir sér með innri ánægju, því að bæði voru þau fögur og gjörvileg. Má og vera, að þeim í hjarta sínu hafi þótt þau hæfileg hjónaefni, þó að hvorug segði neitt í þá átt.

Nú víkur aftur sögunni til biskups og gesta hans. Eftir að húsfrú Kristín var farin, hringdi hann á smásvein sinn og skipaði honum að færa sér þrjú staup og bezta vínið, sem til væri í kjallaranum. Pilturinn hlýddi, og lítilli stundu síðar sátu allir vinirnir kringum stóra borðið fyrir framan bókaskápinn.

Biskup stóð upp, hellti á staupin og sagði um leið og hann hóf upp glas sitt og hringdi við hina:

"Þið eruð mér hjartanlega velkomnir, og ég óska, að þessi skemmtilega stund megi hér í híbýlum vorum bráðum endurnýjast. Ég óska, að okkur þremur auðnist að hringja á happasælli stundu staupum vorum saman við fleiri góða vini!"

"Lengi lifi meistari Brynjólfur og heill með þeirri ósk!" hrópuðu gestirnir þrisvar sinnum.

Síðan settust þeir allir niður, en biskup hellti enn á ný á staupin, og nú byrjaði samræða, glaðvær og fjörug. Það kom vissulega margt djúpviturt og fyndið orð af vörum biskups það kvöld. Þeir Þórður prestur rifjuðu upp hverja gleðistund, er hafði mætt þeim utanlands og innan, og biskup minntist móti vana sínum á ýmis atvik úr æskulífi sínu á Holti og frá skólaárum sínum í Skálholti og erlendis. Hann talaði um forspá Odds biskups, er hann hefði spáð sér biskupstólnum, meðan hann var enn ófæddur, og að hann hefði bægt sér frá að halda í ístað sitt einhverju sinni, af þeirri ástæðu, að fyrir sér mundi liggja æðri starfi.

"Og þó vildi sá góði maður," sagði biskup, "alls enga hjálpandi hönd rétta mér til að komast að takmarkinu, ekki svo mikið sem veita mér viðunanlegt prestakall, en það varð mér til góðs, þá fór ég fyrst alvarlega að leggja mig eftir grískunni, og hún opnaði mér veg að Hróarskeldudómskóla, og dómskólinn aftur að biskupsstólnum hérna."

"Hversu gat dómskólinn áorkað slíku?" spurði Þórður prestur.

"Jú, óbeinlínis, eins og ég hef sagt þér. Ég var í svo góðri stöðu, að ég var hreint frábitinn að takast þennan heiðarlega, en erfiða starfa á hendur. Nú, mótþrói minn vakti ásókn landsmanna minna, eins og enginn annar Íslendingur hefði verið fær fyrir embætti þessu nema ég, einmitt af því að flestir vildu það, nema ég einn."

"En, hvað þú ferð nú villt," greip Þórður prestur fram í.

"Villt? Vinur, lofaðu mér að tala út. Var ekki einmitt svona með Norðlinga, er þeir ætluðu að kjósa séra Arngrím lærða á Melstað eftirmann Guðbrandar biskups, - hann, sem var störfunum langkunnugastur, sem hafði verið nokkurs konar varabiskup í veikindum herra Guðbrandar, - nú, nú - þegar hæst stóð í stönginni með valið, þóttust þeir geta lesið úr viðbárum öldungsins, að hann girntist embættið. Þeir sneru því við blaðinu og kusu Þorlák, ungan og óreyndan."

"En, herra, mun það ekki hafa komið af því, að þeim þótti hann of ráðríkur?" sagði Sigurður.

"Nei, sýslumaður, af þrá var það, og þannig var og með mig, þegar konungur heyrði, að ég vildi hafa mig undanþeginn köllunarbréfinu og nefndi til aðra jafnsnjalla mér eða snjallari, til dæmis þig, Þórður, þá hélt konungurinn ráð með stórhöfðingjum og ráðuneyti sínu um, hvort mér bæri að vera undanþeginn kvöð landsmanna minna, því að nú var Skálholtsstóll skoðaður sem ánauðarok, en engin náðargjöf, sem fyrr meir var, og líklega verður eftir mig, og mér var síðan sem hollum þegni konungs og þakklátum föðurlandssyni skipað að takast embættið á hendur. En ég efa mikillega, að hefði ég sótt um það sem íslenzkur klerkur, sömu hæfileikum búinn, að ég hefði fengið það. Nei, maðurinn eltir fyrr skuggann en verulegu myndina, ef honum er synjað hennar. En ennþá eina skál, bræður! Ég iðrast ekkert eftir, að ég lét þröngva mér til þess. Á vegi mínum hafa verið margar fagrar rósir, sem ef til vill ekki hefðu vaxið á útlendum brautum, og mér að minnsta kosti eru kærari rósir föðurlandsins en annarra landa. Fyrir þá sök afsalaði ég mér þeim heiðri að gjörast sagnameistari konungs, að föðurlandið er mér kært, og ég finn, að starfi minn er bezt helgaður í þjónustu þess."

"En, hvað er þetta?" hrópaði biskup og stökk upp úr sæti sínu, grár af ryki, um leið og línábreiðan, sem var á skápnum, datt niður fyrir fætur honum og dró með sér tvær postulínsdósir, sem brotnuðu í smámola.

Svo var nefnilega mál með vexti, að þau börnin, Jón og Ragnheiður, höfðu komið inn, án þess þeir vinirnir veittu þeim eftirtekt, og voru þau nú, samkvæmt fyrirætlun sinni, að gæta að, hvort þeirra hefði á réttara að standa með einhyrningsmyndina á dúknum, og hafði Jón tekið í horn hans og óvart dregið hann til, og má því nærri geta, hvað bilt honum varð við, er hann féll niður, og dósirnar tvístruðust um gólfið.

En yrði Jóni bilt við, varð biskupi það eigi síður. Svo stóð á dósum þessum, að þær voru langfeðgaarfur hans, helgidómur Jóns biskups Arasonar. Hafði hann brúkað þær til ýmissa þarfa. Hann geymdi í þeim vígt brauð, er hann var á herferðum sínum um landið, og voru englamyndir á loki þeirra og hliðum. Þessa gripi hafði Ragnheiður Pálsdóttir, móðir Brynjólfs, gefið honum í síðasta sinni, er hann kvaddi hana, og mælti svo um, að hann skyldi geyma þeirra vel. Sagði hún að þessu fylgdi gæfa. Jón biskup Arason hefði skilið þær eftir heima, er hann fór óhappaförina að Sauðafelli, og Páll faðir sinn hefði og fargað þeim áður en gæfu hans hnignaði.

Brynjólfur biskup geymdi jafnan dósanna vel, og hafði hann bannað þjónum sínum og þjónustumeyjum að hreyfa nokkuð við því, sem stóð á ofanverðum skápnum, þegar stofan var sópuð eða þvegin, og hafði þeirri skipun ætíð verið hlýtt í öll þessi ár, en í seinni tíð var settur til prýðis undir djásnin líndúkur útsaumaður eftir Halldóru Guðbrandsdóttur á Hólum. En það fór hér sem oftar fyrir Brynjólfi biskupi, að það var eins og sömu ásteytingarsteinar yrðu honum og ættmönnum hans að grandi, enda var það trú hans, því að ekki varð göfugkvendið Halldóra svo mjög Staðarhóls-Páli, afa hans, að gleði, sem hún varð öðrum æðri og lægri í Hjaltadal og víðar um land.

Fyrst gat biskup engu orði upp komið annað hvort af söknuði eða undrun, en stóð sem þrumulostinn yfir brotunum.

"Þar kom hið þriðja," sagði hann, þreif síðan dúkinn og varpaði honum í ofninn. "Hví skyldi þessi endemis-dula hafa heillir í för með sér? Farðu út, drengur, það má mikið vera, ef þú verður mér heillaþúfa," sagði hann í lægri róm.

Hann lauk upp dyrunum fyrir Jóni, sem skundaði út með höfuðið niðri á bringu og þakkaði fyrir að sleppa, því að hann sá vel, hversu biskupi brá. En hversu dýrmætir munirnir voru í augum eigandans, vissi hann þó ekki, og heldur ekki gestirnir. Þeir gátu með engu móti skilið í, hversu hann tók sér svo lítinn missi nærri. Biskup skoðaði brotin, tók síðan að lesa í eins konar almanaki og ritaði svo eitthvað inn í aðra bók. Þórður prestur leit yfir öxl honum og sá, að hann skrifaði það, sem við hafði horið, í hamingjubók sína, því að svo var bókin nefnd af vinum hans, sökum þess að hann ritaði inn í hana allt það, er honum gekk með eða móti á helgra manna messum, sem voru margar í þá daga, og var allt þess konar mikillar þýðingar fyrir hann.

Nú voru dósabrotin tekin og borin burtu af einum af smásveinum biskups. Skápnum var lokað, og aftur sátu vinirnir við ölteiti og samræður sem fyrr, en við og við breiddi sig þó áhyggjuský yfir andlit biskups, eins og eitthvað óþægilegt ásækti huga hans, sem hann reyndi að útrýma, eða það var sem eitthvað, honum gjörsamlega ósjálfrátt, biti á hann. Hvað eftir annað hnyklaði hann brýnnar, og svo á næsta augnabliki varð hann léttbrýnn sem áhyggjulaust ungmenni, sem hefur glæsilegustu töfradrauma fyrir augum sér.

"Voru dósirnar nokkur helgur dómur?" spurði Þórður prestur brosandi.

"Ég veit ekki, hvað þú kallar helga dóma," sagði biskup, "en dósirnar hafa lengi verið í ætt minni og happasælar í tilbót."

"En slíkt hefur ekkert að þýða, vinur," sagði Þórður, "gæfan fellur ekki, þó að gler brotni, hún snýst í traustari höndum en svo."

"Veit ég það, en ég hef þráfaldlega tekið eftir, að það er eins og litlir hlutir bendi á aðra stærri, eins og að einhverjar ósýnilegar verur vilji með smámunum vekja eftirtekt vora á alvöru lífsins. Hví til dæmis þurfti dómklukka Þingvalla að rifna síðasta sumarið, er Gísli Hákonarson í Bræðratungu sat þar í lögmannssæti? Mun henni aldrei hafa verið hringt jafn hart og þá?"

Rétt í þessari svipan gekk Torfi prófastur frá Gaulverjabæ inn í stofuna, og féll við það þessi ræða niður.

"Þú kemur sem þú værir kallaður, frændi," sagði biskup. "Hér er auður stóll. Hvaðan kemurðu í kvöld?"

"Frá Bræðratungu," sagði Torfi prófastur. Hann var náfölur og skalf rödd hans mjög.

"Frá Bræðratungu," sagði biskup. "Seztu þá niður og segðu tíðindin, því að þú kemur úr vina húsum."

"Tíðindin mun ég segja yður, herra, en undir fjögur augu," sagði Torfi, sem enn hafði ekki setzt.

Biskup stóð þegjandi upp, fylgdi frænda sínum inn í annað herbergi og sagði:

"Nú erum við tveir einir. Hvert er erindi þitt?"

Torfi andvarpaði þungt og sagði:

"Meistari Brynjólfur! Þér hafið verið nafntogaðir fyrir kjark og sálarþrek. Takið nú á kröftunum, því að alls mun við þurfa."

Biskup fölnaði, en svaraði ekki. Torfi prófastur bélt áfram og sagði:

"Ragnheiður dóttir yðar hefur alið son í Bræðratungu, sem hún segir Daða Halldórsson föður að."

Nú varð þung og löng þögn á báðar hliðar. Hvorugur þeirra átti nokkur hæfileg orð yfir tilfinningar sínar.

Loksins rauf þó biskup þögnina með þessum orðum Psammetíkuss Egyptalandskonungs:

"Mala domestica majora sunt lacrimis" (þ. e. Heimilisböl er þyngra en tárum taki).


22. kafli

Vikur og mánuðir eru liðnir síðan að meistari Brynjólfur sagði: "Heimilsböl er þyngra en tárum taki". Vikur og mánuðir eru liðnir síðan hann sá blómkrónu ættar sinnar troðna niður í saur og svívirðingu. Hann er nú orðinn sannfærður um, að hrösun getur eins orðið á vegi voldugra sem vesalla, og leggur ekki hvað minnst sjálfsbyrginginn í einelti, eins og vildi hún segja: "Þarna stendur þú nú berskjaldaður og fyrirlitinn, þrátt fyrir alla tign þína, eins og lítilmagninn, engin jarðnesk hönd getur numið hneisuna frá þér, og hvers vegna? Af því að þú þekkir ekki þinn vitjunartíma. Þú hugðir, að há staða og heiðarlegt nafn mundi hefja þig upp yfir hrösunina í staðinn fyrir að segja í hjartans auðmýkt: "Vér stöndum ekki nema vér séum studdir". "Reynslan er hinn harðasti lærimeistari, en undir eins hinn bezti", segir máltækið. Fyrir hennar rödd eru öll eyru opin."

Óeirðir höfðu staðið milli aðalsins og borgaralýðsins í Kaupmannahöfn, sem endaði með því, að Friðriki konungi þriðja var fengið einveldi í hendur, en áður var stjórn hans mjög takmörkuð af aðalsmönnum. Fyrir það voru honum unnir að nýju hollustueiðar á Íslandi eins og í Danmörku, og fór sú hylling fram í Kópavogi skammt frá Reykjavík.

Meistari Brynjólfur var hinn fyrsti hér á landi, er vann hollustueiðinn, eins og hann var jafnan hinn fyrsti til allra framkvæmda og stórvirkja. Veizlan var gjörð með veg og sóma, þrumur og eldingar fallbyssnanna, hljómur hljóðfæranna, gleðiraddir og hlátrar veizlugestanna blönduðust saman við bergmál hæðanna og fjallanna á þeirri fögru júlímánaðarnótt, er veizlan stóð. En mitt innan um glaðar sálir og glaðlega náttúru sat maður einn á hægri hönd höfuðsmanns Bjelke og horfði þegjandi á allt, sem fyrir augun bar, án undrunar og án gleði. Hið mikla rauða skegg, sem náði ofan á bringu hans, var farið að grána, og brjóst hans hóf sig hátt, en þunglega, meðan annarra augu hvíldu á viðhöfninni umhverfis. Það var eins og hann vaknaði af óþægilegum draumi, þegar allt í einu ótölulegur grúi af bikurum með freyðandi víni voru hafnir á loft og orðin: "Lengi lifi meistari Brynjólfur, hinn ógleymanlegi skjöldur kennimannalýðsins!" náðu eyrum hans. Hann stóð upp, þakkaði með tígulegri stillingu, hringdi staupi sínu og drakk eins og ekkert væri, og þó vissi hann vel, að allur þingheimur aumkaði sig, það er að segja þeir, sem ekki glöddust yfir hörmum hans, og hann skynjaði vel í hinu hyggna hjarta sínu, hversu meðaumkun og fyrirlitning eru náskyldar. Hann mundi vel eftir, hve léttlyndislega hann áður renndi augum til fallinna manna, eins og ekkert hærra, hreinna eða veglegra en hrösunin hefði þeim verið fyrirhugað frá öndverðu, eins og kjaranna faðir hefði sett merki tignar á eitt barn sitt, en merki háðungar á annað, og heimurinn síðan kallað þau höfðingja og lánleysingja. Biskup mætti í veizlunni mörgum vinum sínum, en ekkert gaman- eða gleðiorð kom fram yfir varir nokkurs þeirra, einungis lýstu augu þeirra þegjandi hluttekningu og hryggð.

Þingsetu var lokið, hollustueiðarnir unnir, og hver og einn var riðinn heim til búa sinna. Úti var kalt og hrjóstrugt, jörðin hafði hjúpað sig fölri feigðarblæju, og sólin var farin að stytta göngu sína og hafði því minni áhrif á deyjandi náttúrufegurðina. Meistari Brynjólfur var setztur að heima í Skálholti, og inni í biskupsstofunni heimsækjum við öldunginn, sitjandi við stórt borð nálægt glugganum. Hann blaðaði í bók með annarri hendi, en studdi höfuðið fram á hina, eins og að hugurinn væri annars staðar en við bókina, enda var orðið svo framorðið dags, að ekki var lesljóst. Andlit hans var mjög alvarlegt, og var eins og hver dráttur þess gjörði sitt til að auka áhyggjusvip biskups. Hár og skegg var að mun farið að grána, allt benti á návist ævihaustsins. Aðeins ein hélunótt hafði þannig útleikið biskup. Hann var þó engin suðræn jurt, en hann hafði vaxið við sumarhita hamingjunnar allt að þessu og var óvanur kuldagjósti, þess vegna lét hann svo á sjá. Inn í stofuna gekk föl og grannvaxin kona, dökkklædd frá hvirfli til ilja - sönn ímynd hins rólega engils dauðans, þegar hann bregður sigð sinni til að uppræta fótumtroðin blóm. Úr augun hennar skein hátíðleg, sorgblönduð rósemi.

"Ragnheiður, hér er náðarbréf þitt," sagði biskup með hörðu og alvarlegu yfirbragði, og hann rétti henni stórt skjal með konunglegu innsigli neðan undir.

Hún gekk nær, lagði hendurnar um hálsinn á föður sínum og sagði, í því heit tár runnu um kinnar hennar og ofan á axlir biskups: "Hvað hirði ég um fyrirgefningu allrar veraldarinnar, ef þú, elsku faðir, getur ekki fyrirgefið mér?"

Biskup festi á hana augun, og föðurástin sigraði svo í svipinn allar aðrar tilfinningar í brjósti hans, að hann breiddi út faðminn og þrýsti hinu fallna og iðrandi barni að hjarta sínu í fyrsta skipti eftir hrösunina.

"Viltu miskunna þig yfir barnið?" sagði Ragnheiður. "Það er saklaust."

Varla hafði hún sleppt orðinu "barnið" fyrr en biskup hratt henni frá sér og sagði:

"Nei, aldrei, barn Daða Halldórssonar vil ég ekki sjá, minntu mig ekki frekar á harma mína."

Ragnheiður leit grátandi til föður síns og gekk út, en hann stóð upp og fór að ganga um gólf.

Vér höfum þegar heyrt, að bréf það, sem biskup fékk forðum, var frá Þórði Þorlákssyni, sömuleiðis hvert innihald þess var og hvílíka bænheyrslu það hefði öðlazt, hefði hamingjan verið málinu hlynnt. "Maðurinn ályktar, en guð ræður", segir máltækið. Að sjá Íslandsbiskupaættir sameinast í börnum sínum var sameiginleg ósk beggja biskupa, og horfðu þeir með ánægjuaugum á margra ára innilega velvild og kærleika þessara ungmenna, er svo jafnt var komið á með, bæði að ætt og útliti, og biðu þeir þess, að þeim auðnaðist að drekka brúðhjónaskál þeirra á hæfilegum tíma. En hinn hæfilegi tími rann ekki upp á þessari jörðu. Göfugmennið Þorlákur biskup hafði, þegar hér var komið, hvílt sjö vetur í gröf sinni, en sonur hans Gísli sat á stóli. Meistari Brynjólfur, sem varð þrumulostinn af óhamingjufregninni, svaraði aldrei bréfi Þórðar, því að nú var því sjálf-svarað. Dóttir hans var nú orðinn auvirðilegur ráðahagur fyrir biskupsefnið, og meistari Brynjólfur var ekki sá maður, er barmaði sér fyrir heiminum, hann hóf upp höfuð sitt, sem ekkert væri, gagnvart honum. Ennþá var ekki heldur öll von úti. Halldór sonur hans lifði ennþá. Í æðum hans flaut tigið blóð. Að vísu var hann ekki búinn miklum hæfileikum, en sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Auð hafði hann nógan, og hvað getur ekki ungur maður orðið? Á þennan ættkvist festi nú hinn hugumstóri biskup von sína. Þórður þar á móti var ekki rólegur innan brjósts, ekki svo mjög vegna sjálfs sín, - þó að harmafregnin gengi honum nær um trega - heldur sökum Ragnheiðar, er hann unni heitt, já heitara nú, er óhamingjan barði að dyrum, því að á því sést bezt, hvort ástin er verulega sönn, að hún er þá heitust, er mest reynir á. Þar á bættist og fyrir Þórði, að hann fékk nú alls ekkert bréf, hvorki frá fornvinu sinni né frá föður hennar. Brynjólfur biskup skrifaði herra Gísla aðeins stutt embættisbréf, en minntist nú mót venju ekkert á heimilislíf sitt. Svona liðu fram tímar, þar til síðla um veturinn, að Þórður Þorláksson ásetti sér að ríða suður að Skálholti og Bræðratungu, því að þar var frændfólk hans, og þaðan svo að Bessastöðum og bíða þar eftir fyrstu skipum, er búast mátti við snemma sökum veðurblíðunnar, eða þá að öðrum kosti að ríða norður aftur og sigla svo þaðan. Á útmánuðum brá tíðinni til votviðra, svo að snjór sást ekki á jörðu. Vegir urðu við það illir, aurbleyta nóg og vatnavextir, er snjórinn þiðnaði svo snemma í fjöllum, og ultu árnar kolmórauðar í sæ fram. En þó að ferðamönnum þætti tíðin óþægileg, voru sveitabændur vel ánægðir yfir, að fénaður fór snemma af heyjum.

Einn þessara blíðu vordaga riðu tveir menn með nokkra lausa hesta heim til Skálholts. Annar hafði yfir sér kápu mjög vandaða, líka þeim, er heldri menn báru í þá daga. Þeir sáu til ferða meistara Brynjólfs, er þá reið að heiman með mikla sveit manna, en þar eð hann hélt í aðra átt, fórust þeir hjá. Mennirnir héldu inn á staðinn og báðust gistingar, og var fyrirmanninum fylgt til stofu, en hinn, sem var fylgdarmaður hans, tók við hestunum. Það varð brátt hljóðbært, að þar var kominn Þórður Þorláksson frá Hólum, og þar eð hann varð í tvo daga að bíða eftir biskupi, gjörðu bæði skólakennararnir og aðrir fyrirmenn staðarins sér að skyldu að skemmta sem bezt svo tignum gesti. Sjálf biskupsfrúin sat og ræddi við hann, spurði um ættingja sína og vini nyrðra og ýmislegt fleira. Það, sem Þórð fýsti helzt að vita, var, hversu Ragnheiði liði, en þó orkuðu varir hans ekki að bera fram spurninguna einhverra orsaka vegna. Samræðan varð heldur slitrótt, hvert umtalsefni sem þau völdu sér, því að bæði voru þau annars hugar. Loksins brutust þessi orð fram af vörum Þórðar:

"Er dóttir yðar ekki heima?"

"Jú," svaraði frú Margrét, "en hún er lítið á mannamótum í seinni tíð. Þér viljið ef til vill heilsa henni?"

"Já svo gjarnan, ef ég má," sagði hann.

"Við höfum mætt þungum raunum í seinni tíð," sagði frúin og varpaði mæðilega öndinni um leið og hún gekk út.

"Frú Margrét grefur þá ekki svo djúpt tilfinningar sínar undir þögninni og bóndi hennar gjörir," hugsaði Þórður.

Seinna um daginn lítum vér inn í hina sömu stofu, sem biskup sat í kvöldið góða hjá vinum sínum við víndrykkju. Þar er nú aðeins inni ein kona, sem gengur um gólf í herberginu í rólegri eftirvæntingu einhvers, sem veldur henni bæði sorgar og gleði. Konan er Ragnheiður Brynjólfsdóttir, en hversu ólík því, er áður var? - Einungis liðar hárið sig ennþá fagurlega niður um brjóst og herðar hennar, og augun djúpu og viturlegu eru hin sömu, en í stað barnslegrar gleði, sem áður skein út úr þeim, býr þar nú dimm og þung alvara. Brosið um varirnar, spékopparnir, og jafnvel hver dráttur, sem áður prýddi einhverja fegurstu blómarós í aldingarði æskunnar, standa nú eins og ótímabærar helrúnir á þessu fórnarlambi, sem sýnist helgað hel og dauða. - Allt í einu heyrðist fótatak fyrir utan, og þessi konusvipur sveif að hurðarbaki og beið þannig þess, er inn kom. En hver var það? Það var hár og tígulegur, ungur maður með hátt og kúpt enni, jarpt hár, liðað fagurlega, og falleg, blá augu, sem auðsjáanlega bentu á blítt, viðkvæmt og göfugt hjarta. Að öðru leyti hafði og náttúran ríkulega skreytt vöxt og látbragð ungmennisins, sem litaðist órólegur um til allra hliða, því að einnig hann bjóst hér við að hitta vin, sem hann nálgaðist með hálfum huga. Þessi maður er skólakennari Þórður Þorláksson, tilvonandi Skálholtsbiskup.

Þegar hann sá engan inni, gekk hann að glugganum og leit út. Hulin rödd hvíslaði í eyra syndarans á hurðarbaki: "Gakktu fram! Menn eru ekki meiri en guð. Fyrir honum felur þú þig ekki. Þessi maður hefur sömu freistingar, sömu mannlegar tilfinningar í brjósti sínu sem þú, þó að freistingin hafi ekki ennþá bent honum, og hrösunin ennþá ekki yfirfallið hann. Á morgun eruð þið, ef til vill, jöfn - á morgun, ef til vill, ertu undir vængjum miklu miskunnsamari föður en meistara Brynjólfs. Ó, á morgun! Guð gæfi, að svo yrði!" sagði hún og gekk að baki Þórðar, lagði höndina á öxlina á honum og sagði:

"Það var óvæntur sólarbjarmi, að sjá framan í þig í dag, Þórður."

"Ragnheiður!" var það eina orð, er Þórður kom upp, svo afar torkennileg virtist honum hún.

Eftir það töluðust þau þó við um hríð, áður en hún gekk til herbergja sinna.

Um nóttina kom Þórði seint dúr á auga, mynd Ragnheiðar stóð honum svo lifandi fyrir hugskotssjónum. "Ó, hvað þessi þunglyndi, föli yfirlitur fór henni vel," hugsaði hann. "Hún er eins og lilja kjörin fyrir egg sláttumannsins á æskumorgni. Hún er óumræðilega fögur. Ó, mætti ég ennþá einu sinni sjá og tala við hana, áður en ég fer burtu. Ó, hversu glaður vildi ég ekki leggja af mér biskupstignina, ef hún annars bíður mín, við fangelsisdyrnar og fylgja Ragnheiði þangað inn, mætti ég þá kalla hana mína. En nú verð ég að byrgja tilfinningu mína fyrir henni, þar til sá rétti tími kemur. En þess strengi ég heit í helgi þessarar þögulu náttar, að svo lengi sem Ragnheiður lifir, skal engin önnur kona verða mín. Ó, hvað fögur, bljúg og yndisleg er hún einmitt nú! Fegurri en ég nokkru sinni áður hef séð hana!" Með þessa hugsun í hjartanu lokaði svefnengillinn augum hins unga manns, einmitt á þeim sama stað, er dauðans engill löngu síðar veitti honum nábjargirnar, aldurhnignum og söddum lífdaga.

Sakleysið og æskan eru á stundum skarpskyggn, og svo var hér. Ragnheiður var fögur. Hrösunin leiðir oft hið óstýriláta barn hamingjunnar aftur fram á leiksvið lífsins íklætt sannri tign, einmitt þá, þegar það er orðið að afhraki veraldar, af því að dómar guðs og heimsins eru svo ólíkir. Áður, meðan það var augnayndi hégómadýrðarinnar, var það íklætt skrúða dramblætisins, sem guði er fráhverfast. Síðan, þegar hrösunin hefur yfirfallið það, kemur það fram auðmjúkt, bljúgt, iðrandi og guði þókknanlegt. Því að jafnvel hrösunin - sé hún vætt iðrunartárum - getur verið meðal í hendi hans til að leiða manninn til helgunar.

Næsti dagur brunaði fram bjartur og fagur, og himininn eins og brosti í gegnum tár. Tvöfaldur regnbogi teygði sig yfir suðurloftið, og sáust aðeins allir endar hans fagurlega litum skreyttir. Það hafði ekki fyrr sézt á vetrinum. Þá er leið að kveldi, fóru menn að vonast eftir biskupi heim.

Í sama herbergi og áður sátu þau Þórður og Ragnheiður, er sólin var farin að ganga undir um kvöldið. Ragnheiður huldi andlit í höndum sér, og Þórður sá, að heit tár féllu eins og regn niður á gólfið, jafnvel þó að hún ræddi um landsins gagn og nauðsynjar eins skörulega og ekkert þrengdi að hjarta hennar. Ennþá hafði hvorugt með einu orði minnzt á liðnar stundir. Þórður spratt upp og fór að ganga um gólf. Þau úrræði grípa oft geðríkir menn. Hræringin jafnar blóðið. Loks nam hann staðar frammi fyrir henni og sagði:

"Ragnheiður, hefurðu engrar bænar að biðja mig um, áður ég sigli, eða heldurðu, að -".

Hann endaði ekki setninguna, en hún leit upp og sagði ofur rólega:

"Jú, Þórður, ég hef stóra bæn að biðja þig um. Ég hef ráðið við mig að biðja þig einan hennar. Ég veit ekki hvers vegna, en þegar í ógæfuna er komið, verður stærilætið að lúta í lægra haldi. Það má gjarnan missa sig."

Hún grét. - Hann stóð eins og negldur fyrir framan hana.

"Talaðu, ég heyri," sagði hann.

"Ég á barn," sagði hún með skjálfandi röddu. "Kröfur þess til lífsins vakna einmitt, þegar mínar deyja. - Ég finn, að ég nálægist gröfina, en hjarta mitt blæðir, þegar ég hugsa til þess, að sá eini arfur, sem ég eftirlæt því, er munaðarleysi og, hneisa."

Þórður studdist upp við gluggakistuna, og tárin runnu nú eins niður um kinnar hans og hennar, en hún sá það ekki.

"Talaðu ekki svona, Ragnheiður," sagði hann eftir litla þögn. "Faðir þinn lætur vissulega ekki dótturson sinn fara á vonarvöl, til þess er hann of ríkur og vandur að virðingu sinni."

"Nei, það gjörir hann heldur ekki, en hann borgar með sveininum eins og hann borgar landsetunum með reiðhestum sínum, tilfinningarlaust, og það þoli ég ekki, þegar barnið kemst til vits og ára. Hann segir jafnan, er ég bið hann fyrir það: "Nei, aldrei tek ég hann heim." Ég tala allt, sem mér býr innan brjósts við þig, Þórður. Ég er búin að leggja niður allt sjálfsálit og sérþótta, það fer mér mjög illa, er ég er svo djúpt fallin. Þú munt vita, að skömmu eftir að Þórður litli fæddist, ól vinnukona ein hér á staðnum tvíbura, er hún nefndi Daða Halldórsson föður að, og því segir faðir minn ennfremur: "Ég tek ekki barnið heim. Ég þoli ekki, að hálfbræður hans kalli Svein gamla afa og Steinku dóttur hans mömmu, og að Þórður samfeðrungur þeirra Brynjólf biskup afa og Ragnheiði dóttur hans mömmu. Nei, ég gef með barninu, en ég vil ekki sjá það." Þetta segir faðir minn jafnan, og ég er orðin þreytt á að biðja hann frekara, enda veit ég, að það er mikil ofraun."

"Hvað get ég gjört fyrir þig, Ragnheiður?" sagði Þórður.

"Það," sagði hún, "að ef hamingjan opnar þér nokkurn veg, að þú takir barnið svo undir vernd þína, að það finni ekki til munaðarleysis síns - að svo miklu leyti sem hægt er."

"Því lofa ég þér hátíðlega," sagði Þórður og þrýsti heitum kossi á hönd þá, sem hún rétti honum loforðinu til staðfestingar, og vætti hana með tárum sínum, sem hann gat nú ekki lengur dulið.

"Ég vonaði," sagði hún, "að þú mundir reynast mér vel, og því gaf ég barninu þitt nafn."

"Reynast vel," endurtók hann, "mér er þetta kærari starfi en þú getur ímyndað þér. Trúðu mér, ég skal verða honum faðir, hann skal ekki sakna föður meðan ég lifi."

"Jæja, guði sé lof, þá dey ég ánægð. Ekkert bindur mig nú við lífið."

"En veittu mér þá aðra bæn á móti," sagði Þórður og færði hönd hennar aftur upp að vörum sínum.

"Og hvaða bón skyldi ég framar geta veitt?" sagði hún.

"Þá," sagði hann, "að tala ekki framar meðan ég er hér um dauðann, en um líf. Við skulum vona eftir góðum dögum að þessum andviðris stormum liðnum."

"Nei, ekki ég framar. Þú þar á móti átt glæsta gæfubraut fyrir höndum," sagði Ragnheiður.

"Þá braut, sem þú nú sagðir, göngum við annað hvort bæði eða hvorugt," sagði Þórður.

Hann ætlaði að segja fleira, en þá reið biskup í hlaðið með föruneyti sínu, og slitnaði við það samræða æsku- og tryggðavinanna, til þess aldrei framar að endurtakast.

Biskup tók gesti sínum mætavel, þótt hann væri venju fremur svipþungur, enda var hann ekki kominn úr neinni skemmtiferð.

"Þér eruð á siglingarferð, Þórður minn," sagði biskup, er þeir voru orðnir tveir einir.

"Svo er til ætlazt, herra, en þó er eins víst, að ég ríði norður aftur og sigli svo þaðan, en ég vildi fyrst finna yður að máli, því að vel getur verið, að ég dveljist þar nokkur ár."

Biskup, sem var að ganga um gólf, staðnæmdist frammi fyrir Þórði og horfði spyrjandi á hann.

"Þér hafið ennþá ekki, herra biskup," hélt Þórður áfram, "svarað mér upp á bréf það, sem ég ritaði yður í fyrravetur?"

"Og hverju hef ég nú upp á það að svara?" spurði biskup og viknaði við.

"Því sama og þér hefðuð svarað fyrir tveimur árum síðan, ef ég hefði þá farið hins sama á leit."

"Þórður," sagði biskup og horfði fast og alvarlega á hið blíða og sviphreina ungmenni, "gjörið þér gabb að mér, eða vitið þér ekki, hver hanki nú er orðinn á högum vorum?"

"Meistari Brynjólfur," sagði Þórður með skjálfandi röddu, "þar er enginn hanki á í mínum augum. Ég hef talað við dóttur yðar og fundið hjá henni þá sönnu tign, þá tign, sem ég vil lúta til minnar hinztu stundar. Ég á við tigið hjarta, því að hvað er hin ytri vegsemd án þess? Fagurt tré á fúnum stofni. Ég hef elskað og virt Ragnheiði, en aldrei eins og nú, er ég hef fengið tækifæri til að sjá hana í eldrauninni, og ég hafði sízt búizt við, að þér, biskup, vilduð veita þessum tilfinningum mínum banahöggið."

"Það skal heldur ekki verða, göfuglyndi, ungi maður," sagði biskup innilega hræður, og í langan tíma lýsti gleðin út úr andliti hans.

Eftir það gekk biskup út og inn í svefnstofu dóttur sinnar. Ragnheiður studdist þegjandi fram á borðið, og sá biskup, að hún hafði grátið.

"Ragnheiður mín," sagði hann, "stór sár þurfa mikla græðslu, en - það eru engin sár svo stór til, að þau eigi ekki lækningu. Ég hef fengið náðarbréf fyrir þig, og Þórður Þorláksson elskar þig ennþá. Það eru mjög mikil líkindi til, að hann verði eftirmaður minn og sem Skálholtsbiskup virtur og heiðraður eins og hann er, og mun hann verða fær um að breiða yfir þau spjöll, sem nú eru á hag þínum."

"Ég giftist hvorki Þórði né nokkrum öðrum manni, faðir," sagði Ragnheiður og hóf sig upp úr sætinu.

"Hvað," sagði biskup, "neitar þú mér um uppreisn ættar minnar?"

"Ég neita þér ekki um uppreisn, heldur mér. Ég elska Þórð, en ekki skal ég leggja á herðar hans vanheiður minn. Ég vil ekki nota mér veglyndisboð hans. Ég óska ekki að fá uppreisn hjá heiminum, heldur fyrirgefningu hjá þér, og líka hjá guði."

Biskup þekkti dóttur sína of vel til þess, að hann færi um þetta fleiri orðum. Hann hristi höfuðið og sagði eflaust ennþá einu sinni í hjarta sínu: "Heimilisböl er þyngra en tárum taki". Hann gekk burtu til að kæla blóðið úti í kvöldloftinu. Síðan gekk hann inn til Margrétar konu sinnar. Hún sat í fóðruðum hægindastól öðrum megin við gluggann í svefnherbergi þeirra hjóna og hallaðist upp við vegginn. Í því biskup bar þar að, sluppu þessi orð fram af vörum hennar:

"Það er gott, að barnið verður þá ekki munaðarlaust, hvernig sem allt annað snýst."

Þessi orð voru töluð til Ragnheiðar dóttur hennar, sem sat gagnvart móður sinni og ræddi hljótt. Að líkindum hefur hún verið að segja henni samræðu þeirra Þórðar. En við orðið "barn" umbreyttist allt útlit biskups, eins og þegar þrumuský dregur sig saman á regnfullu lofti og vekur ógn mönnum og skepnum. Hann settist á fótskör, sem Ragnheiður Torfadóttir, frænka og fósturdóttir hans, var að enda við að fóðra. Hann dró hana til sín með slíkri ákefð, að hún skelfdist, og setti hana á kné sér, strauk hár hennar frá augunum og sagði:

"Mun þá þessi Ragnheiður vera ætluð til að smíða naglana í líkkistu mína?"

"Nógir munu verða smiðir í Skálholti til þess starfa, þótt Ragnheiður Torfadóttir gangi undan," sagði frú Margrét og brá lit.

"Mun fósturbarninu vera vandara en eiginbarninu?" sagði biskup og stóð upp.

Ragnheiður dóttir hans stóð upp úr sæti sínu, leit með angurbitnu augnaráði til föður síns og gekk út, náföl og titrandi, en enginn gaf því gaum. Það þótti eðlileg afleiðing þess, er undan var gengið, og sívaxandi vanheilsu hennar.

"Brynjólfur!" var allt, sem frúin sagði.

"Margrét!" sagði hann aftur á móti kalt og rólega.

"Heldurðu þá, að vesalings fallið barn þoli sí og æ þannig að vera minnt á yfirsjón sína, sem það hefur tekið næga iðrun fyrir?" sagði frúin og táraðist.

"Um það hirði ég aldrei. Hver hefur gefið okkur fullvissu fyrir, að hún hafi tekið næga iðrun? Hver hefur sett innsigli á skuldalúkninguna?"

"Guð," sagði frúin, "og þú ættir að gjöra það líka."

"Nei, Margrét, Ragnheiði hef ég hlíft við að standa opinberar skriftir á kirkjugólfi, eins og hverrar konu hlutfall er, sem fellur á sama hátt og hún. Er ekki brot hennar hið sama og annarra, og meira að því leyti, sem hún hefur fengið betra uppeldi og betri þekking á réttu og röngu? Á ég þá einnig að loka munninum í mínu eigin húsi og láta hana svo halda, að brotið hafi verið einskis vert?"

"Nei, vinur," sagði frúin, "en þú getur haft vægari orð við hana. Sérðu ekki, hvernig líf hennar hangir á þræði?"

Biskup hló kuldahlátur og sagði: "Hegningin er engin gleðileikur, en hún aflar oss eftir á fagnaðar."

En hvað kom til, að jafnstrangur og réttvís maður og meistari Brynjólfur var, hlífði dóttur sinni við opinberum skriftum? Var það föðurástin, sem þar talaði? Vér þorum nærri að segja nei til þess, því að af henni sýndi hann lítið um þessar mundir. Mun það ekki heldur hafa verið hans eigin sómatilfinning, sem leið óbætanlegt sár við að sjá barn sitt standa á kirkjugólfi og biðja söfnuðinn fyrirgefningar - þann söfnuð, er enn átti hann fyrir höfuð og andlegan hirði og hafði átt hann margt hamingjusamt ár? Biskup gekk stundarkorn þegjandi um gólf í herberginu. Við og við tók hann upp gulldósir sínar, sló á lokið, eins og hann ætlaði að taka í nefið, en stakk þeim svo aftur í vasa sinn, án þess að hafa notið svo mikils sem eins korns af því, er þær höfðu að geyma. Við og við nam hann staðar fyrir framan konu sína, eins og hann vildi mæla. Varirnar bærðust, en þar kom ekkert orð fram. Hann hefur fyllilega skilið þýðingu orðanna: "Heimilisböl er þyngra en tárum taki". Konubrjóstið er veikara fyrir, enda flutu tár frú Margrétar ótt og títt, en Brynjólfur gaf þeim aðeins hornauga. Loksins nam hann staðar á miðju gólfi og sagði:

"Torfi frændi vill, að ég sættist heilum sáttum við Daða. Getur vinur talað þannig? Ég hef verið að leggja fyrir mig þá spurningu. Ég gæti ekki ráðlagt vini mínum slíkt -" .

"Torfi prófastur er vel kristinn maður og þar af leiðandi sáttgjarn," sagði frúin.

"Ég hélt að minnsta kosti, að ég mætti líka kallast kristinn, en hér skal mikil sáttgirni til. Ég segi þér satt: ég hefði heldur viljað ganga sams konar spor með Daða Halldórssyni hérna upp á klettana og þau, er Jón biskup Arason, forfaðir minn, gekk með Daða Guðmundssyni í Snóksdal heldur en að líða þvílíka ættarhneisu af honum. Hann gjörði dóttur mína jafna hinni auvirðilegustu ambátt staðarins."

Biskup þagnaði og gekk um gólf.

"Hversu lyktaði fundinum?" sagði frúin.

"Stefnunni, viltu sagt hafa," greip biskup fram í. "Henni lyktaði í rauninni engan veginn. Það var ekkert útkljáð, en rætt um, að Daði skyldi láta úti 60 hundruð í fasteign og 60 hundruð í lausafé í sektir og ráðspjöll, skulu þar fyrir koma Dvergasteinn og Ás eystra, sem ég síðan ætla mér að gefa fyrir benficium, því að ekki skulu peningar þeir auðga ætt mína."

"Þið eruð þá sáttir," sagði frúin.

"Sáttir eftir því, sem maður kallar það. Ég er sáttur við ættingja Daða, og jafnan verður mér vel til gamla séra Halldórs í Hruna, hann er ekki sök í þessu. Daði sjálfur var ekki á fundinum og skal hvergi verða héðan af á vegi mínum meðan ég lifi. Ég vil aldrei sjá hann. Daði verður minn og allra vina minna útlagi, og ég á marga mikilsháttar vini bæði utan lands og innan."

"En barnið, hver ráðstöfun var gjörð fyrir því?"

"Alls engin. Það kemur aldrei til ættingja Daða undir neinum kringumstæðum. Ég sé fyrir því. Helga í Bræðratungu elur það upp, en á heimili mitt skal það aldrei koma. Ærnar eru skapraunir mínar fyrir því, þó að ekki stöndum við afar barna Daða báðir hérna á staðnum, gamli Sveinn og ég, og hann hefur of lengi unnið mér og formönnum mínum með trú og dyggð, til þess að rekast í burtu nú á efri árum sínum," sagði biskup og tók nú loksins í nefið.

En allt í einu heyrðist ys og þys úti fyrir dyrunum, og þessi orð: "Ragnheiður er látin", náðu eyrum þeirra, er inni voru. Þau settu hverja taug í hjarta móðurinnar í hreyfingu, og hún fremur flaug en gekk út úr herberginu, en biskup gekk hægt um gólf, eins og hann ekkert hefði heyrt, enda heyrði hann óljóst orðin: "Ragnheiður er látin". Væru nokkur sannindi í þeim, hlaut það að vera Ragnheiður dóttir hans, sem þau bentu til. Ragnheiður Torfadóttir lék sér þar inni, og hann gaf þessu glaða barni við og við hýr augu. Hann hefur ef til vill hugsað: "Þú ert þó minnar ættar. Hver veit, nema þú einhvern tíma bætir mér dótturmissinn?" - Mærin hristi svörtu lokkana, sem hömluðu henni að sjá, frá augunum og skildi hvorki hugsanir né orð fósturföður síns, enda varð hún ekki til að strá blómum á götu öldungsins, þótt gjörvileg væri.

Ennþá bergmáluðu orðin "Ragnheiður er látin" hærra og grimmilegar en í fyrra skiptið fyrir eyrum biskups. Hann opnaði því hurðina og fór út og inn í svefnstofu dóttur sinnar. Stofan var troðfull af fólki, og ekkert heyrðist nema grátur og andvörp. "Hún er látin og hefur liðið út af sem ljós," sögðu sumir. "Hún hefur krosslagt hendurnar áður en hún lézt," sagði annar.

Biskup tróð sér inn og sá, að svo var sem fólk sagði. Dóttir hans var látin. Uppi yfir líkinu stóð móðir hennar, öll fljótandi í tárum, Þórður Þorláksson stóð þar og. Biskupi virtist hann gráta. Biskup horfði aðeins stutta stund á þessa sorgarsjón og gekk síðan þegjandi ofan á skrifstofu sína, meðan verið var að veita dóttur hans nábjargirnar. Hann grét líka í einverunni. Hann felldi þar tár yfir sviknum vonum, yfir fótum troðinni rós, en sem dauðinn gjörði miskunnarverk á að afmá. Hún átti nú bráðum að hverfa ofan í hina köldu, þögulu gröf, þaðan sem enginn er aftur kominn til að segja tíðindin. En hylur þá gröfin hneisu ættarinnar? Gröfin hylur ekki allt. Hún hylur aðeins hinn líkamlega part tilverunnar, hina jarðnesku ímynd, en minningin og mannorðið lifir. Mun biskup við dauða dóttur sinnar sjaldnar verða minntur á harma sína? Það má vel vera, - að minnsta kosti hefur nú dauðinn breitt friðarvængi sína yfir hið fallna barn.

Nokkru síðar var flokkur syrgjandi fólks saman kominn í herbergi því, er líkið stóð uppi í, og þar á meðal voru nokkrir langt að komnir, ættingjar og vinir, sem ætluðu að taka þátt í sorgarathöfninni. Líkið var klætt í svartan hátíðabúning. Höfuð hinnar látnu bar hvítt skaut, hjúpað svartri blæju. Um ennið hafði hún svart silkiflos-koffur, lagt gylltum knipplingum, það hið sama, er Þórður Þorláksson sendi henni forðum. Hún átti að bera það, þegar hún væri orðin stór, en hún varð aldrei stór fyrr en nú. Þykku og fögru hárlokkarnir lágu nú hreyfingarlausir niður með fölum kinnum hennar og breiddu sig yfir það brjóst, sem bærðist ekki framar, hvorki fyrir andbyr hamingjunnar eða fyrir nokkurs konar lífsnautn. Það var dautt og stirðnað. Ættingjarnir þrýstu heitum kossi á andlit þeirrar látnu, það gjörði biskup líka. Lokið var neglt yfir líkkistuna og henni síðan sökkt ofan í hina dimmu gröf, og öllu var lokið.

Á 19. öld sýndi jörðin aftur leifar af höfuðbúnaði Ragnheiðar Brynjólfsdóttur.

(Þegar séra Guðmundur Torfason þjónaði Skálholtsprestakalli, kom upp úr grafreit meistara Brynjólfs kvenmanns-höfuðbúnaður, og af ungri konu hugðu menn. Hún hafði borið hvítt skaut, áþekkt því, er nú tíðkast. Blæjan var svört, en enniskoffrið úr svörtu silkiflosi með gullknipplingum. Það eitt var ófúið og hárið, sem var mikið. Hitt annað var sem reykur. Gamalt fólk sagði það vera höfuðbúning Ragnheiðar Brynjólfsdóttur.)

Enniskoffrið var þá enn ófúið. Þá er Þórður síðast kyssti fornvinu sína, hrundu eldheit elskutár ofan á það, og því hefur það ei fúnað. - Þannig lauk ævi hinnar tignustu meyjar, sem þá var uppi á Íslandi.

Þegar frú Margrét reikaði síðast frá legstað dóttur sinnar, flaug henni í hug samræða þeirra húsfrú Kristínar, og hún sagði í hjarta sínu: "Guð geymdi þau börn mín óspillt, sem hjá honum voru, en ég gat ekki geymt þau tvö, er hann trúði mér fyrir, og vildi þó geyma fleiri." Og hún möglaði ekki yfir því, að guð hafði bætt þessu barni hennar við hjörð sína.


23. kafli

Ferð Þórðar Þorlákssonar að Skálholti hafði ekki orðið honum ánægjuleg, og þó vildi hann ekki hafa farið á mis við hana. Fékk hann ekki að sjá Ragnheiði í sinni niðurlægingu og upphefðarástandi? Fékk hann ekki vissu fyrir, að hún elskaði hann? Fékk hann ekki að létta af henni áhyggju hennar, með því að lofa að annast barnið? Og að lokum, fékk hann ekki að sjá hana framliðna í dauðans fríða faðmi og fórna henni þar tárum sínum? Hann fór skömmu eftir útför hennar, yfirkominn af sorg og söknuði, og sigldi eins og hann hafði ætlað sér þetta ár. Hann fór víða um lönd og varð hinn lærðasti og ágætasti maður.

Það var einhverju sinni litlu eftir, að Þórður sigldi, að hann sat hjá Þormóði Torfasyni heima á garði hans við Karmsund. Þormóður las í bók við stóran glugga, er sneri út að aldingarðinum, og var einlægt við og við að horfa út, en Þórður studdist fram á handlegginn, og lá opin bók á borðinu fyrir framan hann, sem hann var að lesa í, eða svo leit út fyrir, því að hann laut með mesta athygli yfir hana. Loksins rauf Þormóður þögnina með þessum orðum:

"Ég hef nú í meira en klukkutíma, jafnframt því sem ég hef verið að líta eftir ferðum konungs, haft augun á þér, Þórður, og ég er þó engu nær, þú hefur ekki snúið einu blaði, svo að ég hefi séð. Segðu mér, hvað hefurðu verið að hugsa um allan þennan tíma?"

Þórður hrökk saman, eins og hann vaknaði af draumi og sagði brosandi:

"Ég held, að ég hafi sofið, að minnsta kosti var mig að dreyma í Skálholts-kirkjugarð."

"Nú svoleiðis, frændi," sagði Þórður og klappaði á herðarnar á honum. "Reyndu að hrinda frá þér sorginni og að hugfesta það, að þinn missir var Ragnheiðar ábati. Eigum við ekki að ríða á móti konungi? Raunar lítur veðrið ekki sem bezt út, en hvað gjörir það? Kyrrsetan er okkur í öllu falli ekki hollari."

Þórður beygði höfuð sitt til samþykkis og stóð upp. Sama gjörði Þormóður.

Um morguninn og miðjan daginn hafði verið hiti mikill, en nú var himininn farinn að sortna. Því sagði Þormóður við Þórð, er þeir ætluðu að stíga á bak:

"Er ekki, ef til vill, betra, frændi, að bíða konungs heima, en hætta sér út í regn og þrumuveður?"

"Enginn er verri, þótt hann vökni," sagði Þórður og steig á bak hesti sínum.

"Þar kemur herra konungurinn," sagði Þormóðvr, er þeir höfðu riðið kippkorn. "Sjáðu, þarna hillir undir rauðklædda vagnstjóra, hvíta hesta og hóp af mönnum, það er konungur. Sprettum nú úr spori, ég vil ætíð taka sem bezt á móti slíkum herra."

"Ég er því miður ekki gefinn fyrir konunga núna," sagði Þórður, "og ég ætla því að hvíla mig hérna undir eikinni og hlusta álengdar á hljóðfærasláttinn og gleðiópin. Það er eitthvað svo skemmtilegt að heyra lúðraþyt, þrumugný og fallbyssnaskot undir eins. Ég ætla að verða eftir núna, en kem seinna."

"Hafðu það eins og þú vilt, frændi," sagði Þormóður og þeysti af stað.

Þórður steig af baki, batt hestinn við eikina og settist síðan niður. Hann fékk ósk sína uppfyllta, því að nú heyrði hann bæði öskur þrumanna og óp konungsmanna. En hann hafði skamma stund setið þarna, er hann sá hávaxinn og gjörvilegan mann, en göngumóðan og þreytulegan, nálgast sig. Hann heilsaði Þórði á dönsku og spurði eftir Þormóði Torfasyni. Þórður sagði honum það.

"Hver eruð þér?" spurði hann.

"Daði heiti ég og er Halldórsson," hljóðaði svar komumanns.

Þórður spratt upp sem ljón, og augu hans tindruðu allt í einu sem eldur brynni úr þeim.

"En, hver eruð þér, maður minn?" sagði Daði og horfði forviða á Þórð.

"Það skiptir yður litlu, hver ég er," sagði Þórður á íslenzku, en hvert er erindi yðar hingað? Þó" - bætti hann við - "það skiptir mig heldur engu."

Daða setti dreyrrauðan og sagði:

"Þér munuð vera Þórður Þorláksson, og er yður illa í ætt skotið, ef þér ekki viljið gagnast nauðstöddum landsmanni yðar."

"Hvert er þá erindið?" spurði Þórður aftur.

"Ég er kominn hingað til að sækja um uppreisn hjá konungi, og hefur mér verið ráðlagt að leita milligöngu Þormóðs, og það einmitt þegar konungur er heima á garði hans eins og nú er," sagði Daði.

Þórður þagði og byrgði andlit sitt. Hefndargirnin hvíslaði að honum: "Stígðu á bak, ríddu sem snarast heim, og komdu í veg fyrir liðveizlu Þormóðs í þessu máli."

Þórður spratt upp, lagði taumana upp á makkann og ætlaði á bak, en í því reið stórkostleg þruma, svo að hann staldraði við.

"Búið þið hér við slík náttúrubýsn?" spurði Daði og brá við.

Þórður svaraði ekki, en studdi sig fram á makkann á hestinum. Hin góða röddin í brjósti hans hafði nú fengið ráðrúm til að tala, og henni hlýddi Þórður jafnan. Hann hóf upp höfuð sitt og sagði, stilltur og hóglátur sem barn:

"Þér eruð vegmóður, Daði. Takið hest minn og ríðið honum heim, og finnið Þormóð að máli. Vegurinn liggur beint inn í Forsæluveginn, og úr því er ekki unnt að villast."

Daði þakkaði honum hjálpina, og reið í burtu, en Þórður fór fótgangandi heim á leið með hendurnar fyrir aftan bakið. Hann gekk hægt, svo hægt, að aðeins sást, að honum miðaði áfram, og herti hann ekki gönguna, hversu sem regnið skall um andlit honum. Hann hefur eflaust viljað gefa Daða tíma til að tala út. En svo undarlega brá við, að eftir þetta hafði hann aldrei hvatan gang og gekk aldrei harðara í eitt skiptið en annað.

Það var farið að skyggja, og Þórður var ennþá ókominn heim. Hann heyrði hófatak allnærri sér og leit upp. Var þar þá kominn Þormóður ríðandi, og hafði hann hest Þórðar í taumi. Þormóður kastaði á hann kveðju og sagði:

"Ertu genginn af vitinu, maður? Þú lánar öðrum hestinn þinn í húðarrigningu, en fetar sjálfur veginn sem værirðu landmælingamaður. Komdu á bak hið fljótasta."

"Nei, vinur, í dag brúka ég einungis hesta postulanna," sagði Þórður brosandi.

"Það er þá bezt, að hver hirði hestinn, sem vill og þarf," sagði Þormóður, skildi hann eftir á götunni og var í einni svipan horfinn Þórði, sem breytti í engu gangi sínum.

"Nú, frændi góður," sagði Þormóður við hann um kvöldið, "mér rann í skap við þig, ég hef heldur aldrei þekkt þig svo þverlyndan. Vissir þú, hverjum þú léðir hestinn?"

"Daða Halldórssyni," sagði Þórður rólega. "Hefði ég ekki léð honum hann, þá hefði ég brúkað hann sjálfur. En hver hafa orðið málalok fyrir Daða?"

"Þau, er við mátti búast," sagði Þormóður. "Hann fær enga uppreisn af konungi. Biskup hefur áður skrifað á móti honum. En klæddu þig nú í þurr og vönduð föt, og gakktu fyrir konung, ég hef sagt honum um þig, og hann vill sjá þig."

Þórður varpaði yfir sig mjög vandaðri og síðri kápu án þess að mæla.

"Þú munt þó aldrei ætla þér að ganga þannig fyrir konung?" spurði Þormóður.

"Svo var ég að hugsa."

"Holdvotur?"

"Það gjörir ekkert til saka, skrautkápan hylur lýtin," sagði Þórður.

"Þú ert mjög sérvizkulegur í kvöld, frændi, og ólíkur sjálfum þér," sagði Þormóður, og eftir það gengu þeir fyrir konung.

Tveim dögum síðar lagðist Þórður í sóttveiki, sem hélt honum við rúmið í nokkrar vikur, en að þeim veikindum afstöðnum yfirgaf hann Þormóð frænda sinn og tók að ferðast víða um lönd.

Eins og Þormóður sagði Þórði, fékk Daði Halldórsson enga uppreisn, og hafði hann farið illa för. Í Kaupmannahöfn átti hann enga vini. Þó var þar Ólafur Gíslason. Hann þekkti hann frá æskuárum og fékk að vita, hvar hann átti heima. Daði reikaði um stræti borgarinnar, hryggur og niðurlútur og með húsnúmer Ólafs í hendinni, ritað á miða. "Númer 24 í Regngötunni," sagði hann við sjálfan sig, og hann aðgætti vandlega hvert hús, er hann gekk fram hjá. "Ó, að ég hefði verið Ólafi betri," hugsaði hann, "þá ætti ég að minnsta kosti einn vin á meðal svo margra óvina," og hann leit enn á miðann. "Númer 24 í Regngötu. Er það hér?" sagði hann, og hann horfði á húsnúmerið, þar var 24, og gatan var hin rétta. "Það er bezt að ganga inn," hugsaði hann. "En, nei, ég get það ekki," og hann lagði höndina á lykilinn og stóð svo í langan tíma, að hann ýmist lauk hurðinni upp eða læsti henni aftur, því að samvizkan ásakaði hann harðara eða vægara. Allt í einu heyrði Daði, að einhver kom að innan, og hann sleppti handfanginu og skundaði burtu, svo að ekki varð frekara af fundi þeirra Ólafs að því sinni.

Daði dvaldizt skamma stund erlendis. Hann tók far heim til Íslands og átti lengi mjög erfitt uppdráttar. Um síðir, fyrir góðra manna tillögur, einkum Páls prófasts í Selárdal, vinar og mágs biskups, veitti meistari Brynjólfur honum uppreisn og Steinsholt í Hreppum, en vildi þó hvorki heyra hann né sjá.


24. kafli

Það er nú um hásumarsleytið, að vér stöndum á vegamótum tímans og skyggnumst á ný heim að biskupssetrinu Skálholti, til að sjá, hversu þar fer fram. Meistari Brynjólfur er nýkominn heim af þingi, ferðalúinn og svo hnugginn á yfirbragð, að allir furða sig stórum á því, með því að engir nýir harmar hafa borið að höndum, svo að menn viti. Ár eru liðin síðan Ragnheiður dó, og tíminn er mikið búinn að draga úr hinu liðna, og þótt biskup sé farinn að hníga á efra aldur, ber hann þó hærur og harma sína með sóma og sálarþreki. En þennan morgun reikar hann niðursokkinn í hugsanir sínar um kletta þá, er Jón biskup Arason endaði ævi sína á með svo sorglegu móti. Biskup hafði gengið frá bænum, er hann að vanda hafði lesið sitt "faðir vor" um morguninn í Maríukapellunni, og inn á skrifstofu sína. Frú Margrét var þar fyrir glöð á yfirbragð og beið auðsjáanlega eftir manni sínum.

"Hefurðu heyrt, Brynjólfur minn," sagði hún og tók í höndina á biskupi, "að Sigurður Englandsfari er væntanlegur hingað í dag?"

Við þessi orð brá biskupi undarlega, svo að hann hvítnaði upp og var skjálfhentur, en því var eigi vant, þótt mikið bæri til. Frúin varð óttaslegin við útlit hans og sagði:

"Er þér að verða illt, maður?"

"Nei, Margrét mín, mér er ekki illt, en einhver geðshræring greip mig óviðbúinn."

"Hefur nokkuð óvanalegt borið við, Brynjólfur?"

"Öldungis ekkert óvanalegt, það kemur ekkert fram við okkur, nema það sem milljónir manna hafa reynt áður og reyna daglega."

"Gakktu inn í svefnstofu," sagði hann og klappaði á kinnina á henni, "ég hef þar nokkuð að tala við þig."

Frú Margrét gekk forviða út, en biskup settist á legubekkinn og huldi andlitið í höndunum. Rétt í þessu vetfangi gekk Torfi prófastur í Gaulverjabæ í stofu og nam staðar fyrir framan biskup. Hann hefur líklega staðið þannig hreyfingarlaus, af því að hann sá nokkur tár falla undan hendi hiskups og ofan á gólfið. Torfi virti manninn fyrir sér. "Er það meistari Brynjólfur?" hugsaði hann. "Já, svo er, hann er þá líklega búinn að fá fregnina um dauða Halldórs sonar síns, sem ég kom til að segja honum, og ég hef þó ekki fyrr séð biskup gráta, jafnvel ekki þegar ég færði honum harmafregnina um árið."

Í þessu leit biskup upp og sagði brosandi um leið og hann þerraði af sér tárin. "Tvisvar verður gamall maður barn, frændi, það sannast á mér. Ertu hér einn?"

"Já, aleinn herra," sagði Torfi prófastur stúrinn á svipinn en Sigurður Englandsfari varð mér samferða. Hann bíður nú inni í gestastofu."

"Láttu hann engar fréttir segja konunni minni eða öðrum heimamönnum," sagði biskup og stóð upp, "en ég, frændi minn, ég er nú ekki eins óviðbúinn og forðum, þegar þú færðir mér fregnina um...."

"Ég hef," greip Torfi prófastur fram í, "búið svo mm hnútana, sem þér óskið herra."

"Þá skal ég fyrst verða til að segja þér fréttirnar," sagði biskup í gegnum tár, "en ég ætla að biðja þig að halda mig enga bleyðu, þó að ég hafi grátið. Vér jarðarbörn erum svo mjög undirorpin áhrifum tímans, meðan við drögum þetta dauðans duft, líkamann, eftir oss. Fyrir skömmu frétti ég á alþingi með héraðsmönnum, eftir Bjarna frá Hesti í Önundarfirði, að Halldór sonur minn væri genginn til hinnar eilífu hvíldar í Járnamóðu á Englandi. Síðan hefur mér verið varnað svefns, og þegar hann neitar liðsinnis síns, verður jafnvel hinn sterki veikur. Mér féll þetta nær um trega að vísu, því að Halldór var nú orðinn mitt einasta barn, en þó er ég ekki svo hnugginn sökum sjálfs míns sem konu minnar. Hún lifir hvern dag í hlökkun hjarta síns yfir að fá bráðum að faðma að sér son sinn, einmitt þegar hjarta hans liggur kalt og stirðnað í moldinni. Áðan sagði hún mér með fögnuði um komu Sigurðar, sem vissulega sker vonarblóm hennar upp með rótum. Ég var þar á móti engan veginn svo óviðbúinn, því að 16. október í fyrra dreymdi mig, að ég sá Halldór og Ragnheiði mína sálugu fljúga saman upp í loftinu, en ég sagði konu minni aldrei drauminn, því að síðan að Ragnheiður dó, hefur svo að segja líf Halldórs og hennar gróið saman í eitt. Þú skilur nú, frændi, hví ég er svo hugfallinn, og þó hef ég aldrei verið álitinn kjarklaus. Ekki hefur ein taug hrærzt í andliti mínu af ótta eða undrun, þegar á fyrstu vísitazíuferðum mínum, að Aðalvíkur-stórbokkar ætluðu að beita mig brögðum sínum, djöflarúnum og þess konar. Ég gæti sagt þér margar svaðilfarir frá þeim árum, þegar ég var að endurreisa kirkjueignirnar og hrífa þær margar hverjar, sökum hirðuleysis formanna minna, úr klóm óstýrilátra og ómenntaðra leikmanna, er hétust við þann, er kippti málinu aftur í liðinn. Já, Torfi frændi, ég hef sannarlega orðið að bera hita og þunga dagsins, áður en ég nyti þeirrar almennu virðingar, dirfist ég að segja, yfir- og undirmanna minna, sem ég nýt nú. En guði sé lof - vegurinn er ruddur fyrir eftirmann minn. Ég hugsaði, að hann mundi standa nær ætt minni en tilfellið verður. Mér hafa verið boðnar margar mútur til að vilna í og halla málum, en á þann krók hef ég aldrei bitið, og þó hef ég fégjarn verið, ef til vill um of. Hver nýtur nú fjárins? Þetta segi ég mér ekki til hróss, heldur til að sannfæra þig um, að ég er ekki kjarklaus bleyða, þrátt fyrir það, sem þú nú hefur verið sjónarvottur að. Nei, þetta allt hef ég getað borið og meira til, en ég finn glöggt, að ég get ekki sagt konu minni lát Halldórs sonar okkar. Hún bíður inni í svefnstofu eftir harmafregninni. Viltu létta þessari byrði af mér? Viltu segja henni það?"

"Já, herra," sagði Torfi prófastur og andvarpaði þungt. Hann fann fyllilega, hve óútmálanlega þungur sá starfi var, að færa móðurhjartanu fregn um lát einkasonar síns, en hann gjörði það þó, með allri þeirri blíðu, viðkvæmni og röksemdafærslu, sem forsjónin hafði svo ríkulega útbúið hann með, og sem bæði hér og endranær kom í góðar þarfir.

Sigurður Englandsfari sagði nú tíðindin, eftir að Torfi prófastur hafði undirbúið móðurina, og hún felldi mörg heit tár yfir fötum Halldórs, sem Sigurður færði þeim heim.

Dagurinn var að þrotum kominn. Sólin gekk undir, og lóurnar kváðu kvöldsálma sína, þegar tveir karlmenn og kona námu staðar í hlaðinu á Bræðratungu. Það voru þau meistari Brynjólfur, Margrét frú hans og Torfi prófastur frá Gaulverjabæ. Slíkum gestum var vel fagnað, sem nærri má geta. Frúin hafði ekki komið þar lengi, en biskupinn oft. Húsfrú Helga var vin- og frændkona hans, dóttir Magnúsar ríka, lögmanns á Munkaþverá.

Gestirnir voru leiddir til stofu, en biskup ræddi áður hljótt við húsfreyju. Hann var stilltur og alvarlegur sem jafnan, og var ekki að merkja á yfirbragði hans, að þung sorg væri nýlega riðin að höfði honum. Frú Margrét þar á móti bar harma sína lakar, sem líklegt var. Þó höfðu þessi huggunarorð Torfa prófasts grafið sig djúpt og þægilega í hjarta hennar: "Guð hefur ekki látið yður eina, frú góð, ennþá lifir sjáanleg ímynd Ragnheiðar dóttur yðar - hennar eigið hold og blóð. Takið þér munaðarlausa sveininn að hjarta yðar, fyrst kjarafaðirinn hefur tekið yðar barn að sínu." Þessa fróun hafði biskup leyft Torfa að veita hinu særða móðurhjarta. Hann vissi, hver áhrif þau myndu hafa, og þess vegna voru þau nú öll komin að Bræðratungu.

Borð voru reist, og gestirnir höfðu þegar matazt og tekið handlaugar, er sveinn, á að geta 4-5 ára, álitlegur og mikill vexti, kom óvörum inn í stofuna. Hann hafði verið að leikum úti við og vissi eigi gesta von, né hverjir þeir voru, því að aldrei var hann á vegi biskups, er hann var kominn þar, og hugðu menn, að biskup hefði svo fyrir mælt. Þeim hjónum varð starsýnt á sveininn, einkum þó frúnni, sem ekki hafði af honum augun, er hann að boði Helgu húsfreyju heilsaði gestunurn virðulega. Biskup lék með fingurgull sitt á borðinu og gaf honum við og við hornauga. Allt í einu rétti hann sig upp, dró hringinn aftur á fingur sér og sagði við piltinn:

"Hvað heitir þú, drengur minn?"

"Ég heiti Þórður," svaraði hann.

"Og hvers son ertu?" spurði biskup ennfremur.

"Ragnheiðarson," svaraði barnið.

Við þessi orð sveif gleðibros yfir andlit biskups, hann hóf sveininn upp á kné sér og sagði:

"Hver hefur kennt þér að feðra þig á þann hátt?"

"Fólkið hefur sagt mér, að Ragnheiður hafi heitið móðir mín, en ég mætti aldrei nefna það," sagði barnið blátt áfram.

"Bannið hefur þó komið þér til að snúa faðerninu á þennan hátt," sagði biskup. "Alls staðar, jafnvel hjá börnunum, finnur maður þrá eftir forboðna eplinu, en," bætti hann við brosandi, "ég átti líka Ragnheiði fyrir móður og rita jafnan R aftan við nafn mitt, sem tákna skal Ragnheiðarson. Ég kann þessu nafni þínu vel, drengur minn. Ég er faðir móður þinnar, og þessi kona er móðir hennar, en þar eð móðir þín er dáin, ætlum við, afi þinn og amma, að ganga þér í foreldra stað héðan af. Viltu koma með okkur?"

Pilturinn sagði já, og eftir það faðmaði frú Margrét upp að sér dótturson sinn, og hennar dæmi fylgdi meistari Brynjólfur. Allir voru hrærðir, en þó einkum séra Torfi. Hann var glaður yfir að hafa kippt þessari gömlu svignun í liðinn, eftir svo lengi að hafa verið vonlaus um, að það heppnaðist.

Þessi sveinn var nú hinn eini lifandi af afkomendum meistara Brynjólfs, og því vildi hann af fremsta megni hlúa að honum, ef verða mætti, að hann endurreisti það, sem fallið var af ættartign hans, því að sveinninn var all-mannvænlegur, má og vera, að aðrar æðri tilfinningar hafi og hér átt hlut að máli.

Næsta dag riðu fimm menn í stað þriggja heim að Skálholti, því að húsfrú Helga fylgdi fóstursyni sínum úr garði. Ennþá lágu föt Halldórs Brynjólfssonar, þau er Sigurður hafði fært heim, útbreidd á legubekknum, þegar þau komu inn, því að foreldrarnir höfðu um morguninn áður en þau fóru svalað hjarta sínu með því að skoða þau spjör fyrir spjör. Nú var sá kominn, sem skyldi bera þau, sem skyldi njóta alls þess mikla auðs, er meistari Brynjólfur hafði rakað saman handa börnum sínum. En það fór á annan veg.


25. kafli

Veturinn var liðinn, þessi voðalegi freravetur, 1669, sem strádrap niður fénað manna, einkum hross. Var hann því kallaður "Hestabani". Ísinn, var leystur af ám og fjörðum, - ísinn, sem margir héldu, að geislar hásumarssólarinnar orkuðu ekki að þíða.

Seint um kveld snemma í júní studdist gamall maður, lotinn og kaunum hlaðinn, við hækju sína í bæjardyrunum á prestssetrinu Saurbæ, og horfir hann fram á Hvalfjörð, sem kveldsólin uppljómaði. Maðurinn er séra Hallgrímur Pétursson, og þá þarf ekki frekara að lýsa honum, því að allir þekkja þjóðskáldið mikla og höfund Passíusálmanna. Séra Hallgrímur studdist, eins og sagt hefur verið, fram á hækju sína, boginn og niðurlútur undir byrði lífsins. Hann rennir tárvotum augum, fyrst á kveldsólina og síðan út á fjörðinn. Geislarnir léku sér á hverri öldu, sem reis og féll. Skáldið sagði í hjarta sínu: "Svona upplýsist hver mótlætingaalda af guðs miskunnarsól." Eftir það staulaðist hann út í kirkjugarðinn, settist á eitt leiðið og renndi augunum yfir blómafjöldann, sem voru farin að búa sig undir næturhvíldina. "Ég bíð líka eftir hvíldinni, hér í þessum helga reit," sagði skáldið og andvarpaði, "en þangað til hún kemur, þarf líkaminn endurnæringar við, alveg eins og blómin. Hvað á ég að gjöra? Þessi vaxandi líkþrá gjörir mig óhæfan verkamann í víngarði drottins. Ég hef og selt hann í hendur þeirra, sem yrktu hann betur en ég var orðinn fær um. Hvað á ég að gjöra? Beiðast ölmusu? Það er þungt, þó að ég hafi oft notið velgjörða, þá er þó sælla að gefa en þiggja." Svona hugsaði skáldið meðan sólin var að ganga undir, og lóan kvað ánægð "dýrðin - dýrðin", og kvöldskuggarnir breiddu friðarblæju sína yfir dal og grund. En æ - enginn jarðneskur kveldskuggi orkar að friða áhyggjufullt hjarta.

"Ríðið þér ekki til alþingis í sumar, prestur minn?" sagði einhver að baki honum.

Hallgrímur prestur leit upp og sá, að maðurinn var Sigurður lögmaður Jónsson. Prestur hristi þegjandi höfuðið.

"Já, ríðið þér til alþingis," endurtók lögmaður, "þar mætið þér vinum, sem kunna að rétta yður hjálparhönd."

"Velgjörðamönnum, herra lögmaður, mæti ég þar ef til vill, en fáir eru vinir hins snauða."

"Sálmar yðar, séra Hallgrímur minn, hafa útvegað yður marga vini, eða viljið þér ekki ríða með mér og kennimannalýðnum hérna úr sýslunni til þingsins? Við erum að hugsa um að semja bænaskrá til meistara Brynjólfs um að vera lengur við sinn heiðarlega starfa. Hann er að hugsa um að segja af sér eins og þér, ef til vill, hafið heyrt?"

"Sjáið manninn, herra lögmaður," sagði öldungurinn, "og dæmið svo um, hvort ég er tiginna manna félagi. En þess bið ég yður, að verði bænarskrá samin á þingi til meistara Brynjólfs, og verði ég þar ekki, að þér þá látið setja nafn mitt undir skjalið, því að engum mun vera kærari stjórn hans en mér."

"Já, sjáið manninn!" sagði lögmaður í hjarta sínu og andvarpaði þungt. Hann svaraði:

"Ég sé yður samt á þingi, vona ég?"

"Já, herra lögmaður, ef guð lofar."

Einn fagran sunnudagsmorgun þetta sumar sjáum vér tvo ríðandi menn lötra ofurhægt ofan Kárastaðaveginn, sem liggur ofan í Almannagjá. Annar maðurinn er unglingspiltur, en hinn aldraður maður með síðan hött á höfði, og renndi hann út undan honum hornauga til beggja hliða. Sólin skein skært, en augu ferðamannsins þoldu ekki birtu hennar, þess vegna lét hann höttinn slúta svo mjög. Öldungurinn, sem var enginn annar en Hallgrímur Pétursson, nam staðar og litaðist um. "Hér blasa við Þingvellir," hugsaði hann. "Hér blasir við Þingvallavatn, og sólargeislarnir rita á rísandi og deyjandi boða þess spásagnarorð um framkvæmd og frelsi ókominna kynslóða. Hér blasir við fögur, já næstum töfrandi sjón." Kirkjuklukkurnar kváðu við hátt, og hamravættirnir endurtóku öflugum rómi. "Þær hafa líklega skrifað sig undir lög þau, er Þorgeir Ljósvetningagoði gaf þar forðum, annars væru þær ekki svo snjallar í rómi." Á Almannagjárbarmi færði séra Hallgrímur höttinn niður fyrir augun, eins og hann væri að gjöra bæn sína. Hvers mun líkþráa skáldið hafa beðið á þessum söguríka stað? Það er eigi auðvelt að segja. Mun hann þarna hafa rennt huganum yfir horfna gleðidaga, er hann fyrr meir, meðan fjör og heilsa entust, reið um þessar stöðvar? Eða mun hann hafa hugsað fram í ókomnar aldir og beðið föður lífsins að rétta sínu sárþjáða, yfirgefna föðurlandi hjálparhönd? Þetta er hið líklegasta, því að hann var jafnan föðurlandsvinur.

Hann ýtti nú hettinum aftur upp, og pilturinn teymdi undir honum ofan í gjána.

Hellurnar voru sleipar, því að nýlega hafði rignt, og gamli maðurinn, sem reiddi hækju sína fyrir framan sig, studdi sig fram á makkann og hélt sér í faxið á hestinum.

Gjárnar, Lögberg hið forna, fornmannaþingið mikla og Öxará, sem þeytti endurminningaröli sínu niður um skrúðgræna völluna fyrir neðan, blöstu við auga ferðamannsins. en augað var dapurt og brjóstið þungt.

Lítilli stundu síðar ruddi séra Hallgrímur sér braut inn í þingmannakirkjuna, og fékk hann mörg olnbogaskot og hnippingar áður en hann næði sæti í krókbekk, því að æðra sæti girntist hann ekki, þó að þar að vanda sætu ölmusumenn og liðleskjur, sem lifðu af rausn höfðingja. "Hér heyri ég þá rödd þína í síðasta sinni, minn andlegi hirðir, meistari Brynjólfur," sagði skáldið í huga sínum. "Þú hefur þá hrærzt við bænir okkar og gegnt starfanum ennþá eitt ár, guði sé lof. Ekki er til einskis barizt. Ég hef flýtt ferðinni í dag, eins og ég ætti að keppa að einhverju takmarki, og takmarkinu er náð, er ég fékk að heyra til hans."

"Þér verðið þá, herra, við yðar heiðraða embætti fyrst um sinn, og ég vona, meðan ég lifi," sagði séra Hallgrímur við meistara Brynjólf sama kvöldið í tjaldi hans.

"Ég veit ekki, séra Hallgrímur minn," sagði biskup og virti manninn fyrir sér, "hvað guði þókknast að láta starfstíma minn verða langan héðan af, en ólíklegt er, að þú eigir langt eftir ólifað."

"Svo, sýnist yður það, herra?" sagði Hallgrímur prestur, og gleðibros lék um hinar bólgnu varir hans við þessa hamingjuspá. "En ég hef bæði kjark til að lifa og deyja."

"Svo ber manni og," sagði biskup og brosti þunglyndislega, enda var hann fyllilega búinn að gleðjast og hryggjast í lífsins margháttaða skóla, og báðir voru þessir miklu menn, Brynjólfur og Hallgrímur, almennt aumkaðir, hvor upp á sinn máta.

Í þessu kallaði borðklukkan biskup og sveit hans til snæðings.

"Kvöldverður er til reiðu, góðir menn og bræður," sagði biskup, "látum oss ganga til matar."

Hann stóð upp, og svo gjörðu hinir. Hann virti þegjandi séra Hallgrím fyrir sér eitt augnablik og svo hina, er í kringum hann stóðu, en úr augum þeirra lýsti sér viðbjóður og meðaumkun.

"Fylgdu séra Hallgrími niður til Þingvalla," sagði biskup við smásvein sinn, "og bið Þórð prest frá mér að veita honum beina og annast hann meðan hann dvelst á Þingvelli."

"Ég þakka yður, herra," var allt, sem Hallgrímur prestur sagði, og tár komu fram í hin hálfblindu augu. Biskup sá það, andvarpaði og sagði í hjartanu: "Já, það er sárt að hrekja hann frá borði mínu, en ég þori ekki að bjóða gestum mínum slíkt. Hve viðbjóðslegur getur þó líkaminn ekki orðið!" Hann sagði við gesti sína:

"Hafið mig afsakaðan, vinir, og gangið til snæðings, ég hef ekki matarlyst."

Þeir mötuðust, en biskup gekk út.

"Hjartanlega hefur mig langað til að neyta þessarar kvöldmáltíðar með honum, áður en ég dey," sagði séra Hallgrímur við sjálfan sig, er hann gekk út úr tjaldi biskups, "því að héðan af munum við tveir líklega ekki mætast á Þingvelli."

Veður var hið fegursta, og varla blakti hár á höfði eða sáust skýjaflókar á lofti. Þennan dag, sem var í enda þingtíma, ætlaði séra Hallgrímur að nota til að ganga í tjöld og búðir höfðingja og kveðja - til að kveðja, því að engan bað hann ölmusu. En eigi að síður vissu allir, að hann var þurfamaður. Jafningi kveður jafningja, það þykir skyldug kurteisi, en hver setur upp ólundarsvip, þó að hann fari á mis við kveðju aumingjans? Kurteisi þeirra kærir sig enginn um. Hann var nú í síðasta skipti að skoða Þingvöll. Hann hafði staulazt upp á Lögberg meðan hann dvaldist á þingi og hlustað á mál manna, verðgangskvartanir og annað, sem þá var fyrir höndum. Til lögréttu kom hann og. Þar heyrði hann á ræður, sektalýsingar, frændsemisspell, stefnur og þess konar, og nú í síðasta sinn stóð hann meðal grúans og hlustaði á, að þingi var sagt upp.

"Hví áræðið þér, Hallgrímur prestur, að leggja út í svo mikla mannþröng, sjúkur og gamall maður?" sagði einhver að baki honum. Það var Torfi prófastur í Gaulverjabæ.

Prestur sneri sér á hækjunni og sagði:

"Ég elska hvern stein og hvern blett á þessu gamla endurminninganna svæði. Ég er að kveðja í dag, eins og þingið, og hví skyldi ég þá ekki kveðja Lögberg og lögréttu, gamla kunningja mína? Ég mun ekki sjá þau oftar."

"Ég skal leiða yður til tjalda biskups," kvað Torfi prófastur og tók í handlegg öldungsins.

Þeir gengu upp á Þingvöll og biðu þess, er höfðingjar vitjuðu búða sinna og tjalda.

"Sálmar mínir eru prentaðir og hafa unnið hylli manna," hugsaði Hallgrímur prestur. "Hver veit nema einhverjir verði til að rétta mér hjálparhönd. En ég hef tvisvar áður riðið til þings í sama tilgangi, og leiðir verða að lokum langþurfamenn."

Hóparnir gengu framhjá. Brynjólfur biskup og umboðsmaður gengu hvor við annars hlið, lögmenn, sömuleiðis prestar, sýslumenn, bændur. Hver hafði valið sér félaga á skemmtigöngu. Sumir gengu í tjöld sín til snæðings, sumir til lögréttu, sumir til Lögbergs eða upp í gjána. Aftur aðrir bjuggu sig sem hraðast til brottferðar o. s. frv., eftir því sem hverjum bezt þókknaðist. Meðal þeirra, sem kvöddu, var séra Hallgrímur Pétursson, og gekk Torfi prófastur með honum í tjöld og búðir. Þeir höfðu hvergi langa dvöl, en margir urðu þó til að gefa honum. Flestir, sem mættu þessum ferðamönnum, annað hvort námu staðar og horfðu á holdsveika manninn í þegjandi undrun, eða þá gutu til hans forvitnu hornauga. Hví þá það? Höfðu aldrei fyrr holdsveikir menn og snauðir heimsótt Þingvöll, meðan á þingtíma stóð? Ójú, því að þar sem annars staðar sást mismunur á fátækum og ríkum, sjúkum og heilbrigðum, en flestir vissu, að þessi maður var Hallgrímur Pétursson, höfundur Passíusálmanna, sem þá voru fyrir nokkru komnir fyrir almenningsaugu og lofaðir mjög. Að svo fögur blóm yxi upp af svo fúnum og rotnum grundvelli, áttu ókunnugir bágt með að gjöra sér skiljanlegt. Ímyndunaraflið hafði málað sér manninn fagran og álitlegan hið ytra, en hér var öðru nær.

Þeir námu staðar frammi fyrir tjaldi biskups og ætluðu inn.

"Er þetta Hallgrímur Saurbæjarprestur?" sagði maður nokkur, sem þá gekk á móti þeim. Hann var stór og ólaglegur. Það var Illugi Bjarnason.

Prestur sagði svo vera.

"Þá vil ég, prestur minn, biðja yður um að veita mér sem snöggvast viðræðu í einrúmi."

"Það er velkomið," sagði prestur.

Torfi gekk inn í tjald biskups, en þeir gengu út fyrir það og settust niður.

"Svo er mál með vexti," tók Illugi til orða, "að á óhappastundu veðjaði ég um talsverða peningaupphæð við Daða Halldórsson. Ég tapaði veðmálinu, en ég skoðaði það og það mál allt einungis sem gaman, er ég bjóst við að geta leiðrétt nær sem ég vildi, en í millibili átti Daði barn -".

"Já, Illugi minn, hlaupum yfir það, ég veit það allt saman," sagði prestur.

"En í millibili galt Daði biskupi part þann, sem peningar mínir stóðu í, upp í sektir, að mér fornspurðum. Ég hef síðan á tveimur þingum kært þetta fyrir biskupi og enn enga uppreisn fengið, og málið er svo lagað, að ég get ekki vikið því til dómsatkvæða. En af Daða er ekkert að hafa nema húðina. Nú var ég að hugsa um að biðja yður, séra Hallgrímur, að mæla máli mínu við biskup, að hann, sem er svo ríkur maður, skili mér aftur þessu lítilræði."

"Hvers máli skyldi ég geta mælt, Illugi minn? Sjá, hversu mikill aumingi ég er orðinn!"

"En biskup metur orð yðar mikils," sagði Illugi.

"Það hefur hann oft gjört, en ég hef þá aldrei borið fyrir hann nema rétt mál. Biskup geldur yður aldrei annarlegt sektarfé aftur."

"Aldrei aftur," sagði Illugi og gnísti tönnum, "og þessi níðingur, Daði, hefur haft mig til að hylma með sér lygar og rangindi af ýmsu tagi, og honum er það að kenna, að Ólafur Gíslason er í mörg ár útlagi. Ólafur er þó miklu skárri en Daði, þótt vondur sé."

"Það, sem þér hafið borið ranglega á meðbróður yðar, það ber yður að kalla aftur," sagði prestur, "það er skylda hvers kristins manns."

Illugi fól andlitið í höndum sér og þagði. Hann hugsaði sem svo: "Biskup er stórgjöfull, ég hef marga óhæfu að segja honum af Daða, margt, sem hann þarf að vita. Má vera, að hann borgi mér sögulaunin vel, og ég fái þannig jarðarpartinn borgaðan frá Daða, þótt óbeinlínis sé." Hann reisti sig upp og sagði:

"En, séra Hallgrímur! Meistari Brynjólfur rak mig út úr tjaldi sínu í dag, með þeim ummælum, að ég skyldi aldrei framar koma fyrir augu sín, og ég þarf þó að létta á samvizkunni."

"Ég skal biðja biskup að hlusta á syndajátningu yðar, það er allt og sumt, sem ég get gjört fyrir yður, Illugi minn. Fæturnir gjörast nú stirðir. Fylgið mér til tjalds biskups." Illugi gjörði svo.

"Hér kom ég fyrst, og hér kveð ég síðast," sagði Hallgrímur prestur, þegar hann var kominn í tjald biskups. "En ég hef einnar bænar að biðja yður um, herra, og hún er sú, að þér veitið þessum manni, sem með mér er, nokkurra augnablika áheyrn, hann ætlar að segja yður áríðandi mál."

"Fyrst þú biður mig um það að skilnaði, séra Hallgrímur minn, má ég ei neita því, en hvaða áríðandi mál skyldi Illugi Bjarnason hafa að segja mér?" Þeir gengu afsíðis og dvöldust þar stundarkorn á eintali.

Eftir það kom biskup út aftur og rak hann Illuga á undan sér út og sagði um leið:

"Það eru allt saman svika- og undirferlis-flækjur frá upphafi til enda, sem hafa skemmt framtíð eins eða fleiri manna, og eruð þið báðir jafnsekir. En, séra Hallgrímur minn, hefur þú nú notið góðrar hjúkrunar hjá Þórði presti?"

"Já, herra, einkar góðrar, ég þakka yður auðmjúklegast fyrir. Ég er nú kominn til að kveðja yður, herra."

"Svo er nú það, svo seint á degi?"

"Ójá, herra, ég hef stutta áfanga, er veikur og stirður, en vegurinn langur."

"Hér eru fáeinir skildingar til ferðarinnar," sagði biskup og rétti honum nokkrar spesíur.

Öldungurinn hristi höfuðið, og kyssti ölmusugjafar-höndina - hönd þá, sem svo oft áður hafði á þyrnibraut ævinnar verið honum hjálpleg. Varir hans voru þreyttar, og tárin voru heit, sem lauguðu hana. Biskup horfði á hryggðarmynd þá, er frammi fyrir honum stóð, og ósjálfrátt komu tárin fram í augu hans, er hann fylgdi öldungnum til dyra.

Hallgrímur prestur gekk út, en biskup sagði, er hann var aftur kominn inn:

"Ég fór þó ekki svo villt í því að styrkja Hallgrím til lærdóms. Ég sá, að nægar voru gáfur fyrir, og gáfum, hvar sem voru, hef ég jafnan viljað beina á réttan veg. Sálmar hans eru þess vottur, að fræið hefur ekki fallið í grýtta jörð, hversu sem ytra ástandið hefur verið. En Torfi frændi, hvílíka höggorma hef ég ekki fóstrað í barmi mínum! Þú hefðir átt að heyra á öll þau svikabrögð, sem þeir Daði og Illugi hafa bruggað á móti Ólafi Gíslasyni."

"Svo er það," sagði Torfi prófastur, "mig hefur lengi grunað, að allt væri ekki með felldu um orðstír Ólafs. En þér sögðust, herra, ætla að fylgja lögmönnum spölkorn hérna upp fyrir, hestarnir standa þegar söðlaðir."

"Kemur þú ekki með, frændi?" spurði biskup.

"Nei, herra, ég ætla að horfa á skrúðgöngu þingheims upp í gjána, því að það er þegar búið að fylkja þar söngmönnum."

"Er það þegar búið?" sagði biskup, "en hérna koma þeir herrar þá að tjöldum vorum. Göngum út á móti þeim."

Þeir gjörðu svo.

Nokkuð fyrir neðan einstigið upp í Almannagjá lá gamall maður á jörðunni og raðaði smáum og stórum peningum í ofurlitla stöpla í skikkjuskauti sínu, eins og hann væri að telja þá saman. Loksins leit hann upp og sagði við drenginn, sem sat við hliðina á honum og hélt í tvo hesta:

"Ég hef, eins og sagt er um draugana, gaman af peningunum."

Drengurinn brosti og sagði, í því að hann benti á spesíu, er lá sérstök, vafin innan í óhreinan bréfmiða: "Því þykir yður vænna um þennan pening en hina aðra? Þér geymið hann svo vel."

"Af því að mér var gefinn hann af fátækum manni í þakklætisskyni fyrir sálmana mína," sagði séra Hallgrímur, því að hann var maðurinn. "Þegar þú eldist, muntu finna mismuninn á vina- og ölmusugjöfum. Þessi eini peningur gat laðað gleðibros fram af þessum bólgnu og viðbjóðslegu vörum, sem ekki gátu snert svo hönd velgjörðaföðurins, að kossinn gagntaki hann eigi með hryllingi, eins og höggormsbit, og ekki var það þó Júdasarkoss. - Þessir peningar endast mér og mínum með sparnaði eitt ár, og ég þurfti þeirra með, en þreytuverk er að rétta fram höndina út eftir ölmusum, drengur minn."

"Já, því trúi ég, þegar margir gefa," sagði drengur.

Hallgrímur prestur brosti að skilningsleysi æskunnar, en sagði ekkert.

Í þessu reið stór hópur manna skrautbúinn og vel ríðandi upp í gjána.

"Hverjir fara þar?" spurði séra Hallgrímur og brá hönd fyrir auga.

"Lögmenn ríða af þingi, og fylgir þeim hópur af lærðum og leikum, og þar á meðal meistari Brynjólfur," sagði drengur.

"Guð blessi hann," sagði prestur og stakk á sig fénu.

Jafnskjótt gall við hljóðfærasöngur neðan úr gjánni.

"Hver syngur mig svona úr hlaði?" sagði séra Hallgrímur og renndi augunum til himins. Þar vissi hann, að fyrir voru æfðir söngskarar. Skáldið helgar sér sönginn, af því að skáld- og söngvadísirnar eru systur.

Hópurinn hvarf upp í gjána, söngurinn þagnaði, og meðreiðarsveinninn stakk reifuðu fótunum holdsveika skáldsins í hornístöðin, fór sjálfur á bak og teymdi síðan undir honum. Heyrðist þá þetta vers úr Passíusálmunum sungið margraddað rétt fyrir neðan þá í gjánni:

"Gefðu, að móðurmálið mitt" o. s. frv., og nú var bergmálið hljómfegra en í fyrra skiptið, því að þetta voru skærar barnaraddir.

Hallgrímur prestur mændi til himins meðan á söngnum stóð, og heit tár streymdu niður um kinnar hans. Hann tók ekki eftir, hversu hesturinn hossaði honum, er hann klöngraðist upp einstigið á milli blágrýtishamra Almannagjár. Loksins blasti blár himininn við, og gjáin var þrotin.

"Styddu mig nú af baki," sagði séra Hallgrímur, "þetta er blessaður dagur. Andinn hvíslaði í eyra mér, er ég hlustaði þegjandi á söng barnanna, að þannig mundi sálmar mínir verða fyrsta lofkvæði barnanna og andlátsbæn öldungsins. Leiddu mig fram á gjárbarminn. Ég vil ennþá einu sinni renna hálfblindum augum mínum yfir gamla Þingvöll. Ég vil blessa hann og börnin hans um aldur og ævi, eins og Jakob blessaði börn sín."

Unglingurinn leiddi Hallgrím prest fram á gjárbrúnina, þar sem allar töframyndir Þingvalla blöstu við auganu og deyjandi geislar kvöldsólarinnar, er var að ganga undir. Það eru til svo fögur og svo unaðsrík augnablik hér í þessum dauðans dal, að tungan á ekki orð, og hjartað eins og lokar sér fyrir útmálun tilfinninganna, og þetta augnablik hefur verið eitt af þeim fyrir séra Hallgrími.

"Guð blessi ykkur, Íslands-börn! Guð blessi þig, Þingvöllur," sagði skáldið klökkur og steig á bak.

"Svona nú, börn, þið hafið sungið prýðilega og kunnuð flest versið," sagði Torfi prófastur. "Skiptið þið þessu á milli ykkar," sagði hann og kastaði til þeirra spánnýrri spesíu og gekk svo til tjalda biskups. Börnin voru við leika sína uppi í gjánni, og fékk hann þau til að læra og syngja versið, hvort heldur til heiðurs skáldinu, til heiðurs lögmönnum, sem að vissu leyti voru verndarar landsins tungumáls, eða sjálfum sér til skemmtunar, er óvíst.


26. kafli

Heim að Skálholti snúum vér ennþá athygli vorri. Þar hefur ýmislegt borið við þessi árin og margt, sem mætt hefur meistara Brynjólfi. Þar á meðal má telja það, að Ragnheiður Torfadóttir, fósturdóttir hans og frændkona, varð að þrætuefni milli þeirra Lopts kirkjuprests Jósefssonar og fyrrgreinds Jóns Sigurðssonar, lögmanns frá Einarsnesi, sem þá var skólasveinn. Biskupi féll það mjög þungt, einkum þegar Ragnheiður nokkru seinna átti barn með Jóni. Jón fór við það frá Skálholti, því að biskup vildi engum sáttum taka, og þótti honum sem var, að þeir Daði vera sér óþarfir.

Þennan dag, er vér komum þangað, er veðrið blítt og fagurt. Dómkirkjan stendur opin, og dyrnar eru fullar af fólki, sem ekki kemst fyrir inni í henni, sömuleiðis fyrir utan hvern glugga standa þrír eða fleiri menn að hlusta, og margir eru grátbólgnir. Fyrir altarinu stendur Brynjólfur biskup, náfölur og hvítur fyrir hærum. Frammi fyrir honum standa þrír menn skrýddir prestsskrúða. Biskup er að vígja þá til prestsstöðunnar.

"Vertu trúr til dauðans, þá skal ég gefa þér lífsins kórónu. Já, dauðann getur borið að bráðara en varir," sagði hann og renndi um leið augunum fram í kirkjuna, þar sem stóð vönduð líkkista á miðju gólfi. Biskup greip um gráturnar til að styðja sig og hélt áfram: "Ég vígi yður í dag fyrir verkamenn í drottins víngarði í allra þessara votta viðurvist. Á síðan munum vér allir mætast í æðra heimi, og þar opinberast, hversu trúlega vér verjum því pundi, sem oss hér var trúað fyrir," o. s. frv. Prestaeiðurinn var unninn, og þrír nýir hirðar áttu að ganga út í hinn villugjarna og víðlenda heim til að safna saman. Einn þeirra var Jón fósturson biskups, sá er Daði Halldórsson kom forðum í smásveins-þjónustu hans.

Þessum parti af guðsþjónustunni var nú skörulega lokið, og biskup fór úr skrúða þeim, er hann bar við vígsluna, en jafnframt honum lagði hann af sér þrek það, sem starfi hans útheimti. Hann settist á stól frammi fyrir grátunum með krosslagðar hendur og hlustaði á líkræðurnar, sem lesnar voru yfir frú Margréti, konu hans framliðinni. Torfi prófastur hélt snjalla ræðu, fagra og hjartnæma. Biskup hlýddi víst á hana með athygli, um leið og hann lét höfuðið hníga niður á bringuna. Þar eftir hélt kirkjupresturinn ræðu, en Torfi prófastur gekk þar að, sem biskup sat, og sagði, er hann sá ekki bæra á honum:

"Er yður illt, herra?"

Ekkert svar kom frá biskupi, og Torfi laut niður að honum og sá þá, að hann var að líða í ómegin. Þeir, sem næstir voru, dreyptu á hann víni, sem stóð á altarinu. Presturinn þagnaði um stund. Loksins lauk biskup upp augunum og sagði:

"Er búið að jarðsetja?"

"Nei, herra, en yður er illt," sagði Torfi.

"Það er ekkert að ráði, það er ekkert, ég var einungis þreyttur," sagði biskup og hóf upp höfuðið og hlýddi á ræðuna, þar til henni var lokið.

Klukkurnar gullu við hátt, og líkið var borið til grafarinnar. Biskup gekk og út á eftir því og nam staðar þar, sem hann sjálfur fimm árum síðar lagðist til sinnar síðustu hvíldar. Hann sá gröfina hylja kistuna, og hann hné aftur snöggvast í ómegin. Gröfin var fyllt, og líkfylgdin gekk til kirkju og sömuleiðis biskup. Þar var sorgarathöfnin enduð með latínskum söng, og allir gengu inn á staðinn.

Þar beið gestanna tvöföld veizla, erfisdrykkja og vígsluveizla, og tók biskup þátt í henni með kjarki og hugrekki og sömuleiðis í samræðum gestanna. Já, hann var þann dag venju fremur blíður og léttur í máli við hvern mann, en ekki var hann þó fastur í sæti sínu, sem sýndi, að innri maðurinn var ekki svo rólegur sem hinn ytri. ·

Úti í garðinum lék Þórður Daðason sér við önnur börn, sem komið höfðu til kirkjunnar með foreldrum sínum. Biskup bar þar að, hallaði sér fram á garðinn og horfði á leikinn, því að þá voru borð upp tekin. Þórði rann í skap við eitt leiksystkini sitt og sagði:

"Og þú, fátækur kotadrengur, þykist vera ofgóður til að vera sendisveinn okkar?"

"Komdu hingað, drengur," sagði biskup, "ég ætla að segja þér nokkuð, sem þú ekki veizt, og leiksystkinum þínum líka, yngri og eldri."

Sveinninn kom.

"Há staða, drengur minn," sagði biskup með áherzlu, "hefur ekkert verulegt fram yfir lægri stéttina, hún er enginn hlífðarskjöldur fyrir hrösun og óhamingju, heldur er það auðmjúkur og sundurkraminn andi, sem er sér meðvitandi um vanmátt sinn og sívakandi yfir holdsins girndum og ástríðum. Vér erum einungis veik leirker, og auðurinn sömuleiðis valtastur vina. Það er ekki auðvelt að segja, fyrir hvern vér erum að draga saman, ef til vill fyrir letingjann, sem ekki nennir að vinna sér brauð, ef til vill fyrir óhófsbelginn, sem út sýgur hús ekkna og föðurlausra, til þess síðan að geta notið góðra daga, ef til vill fyrir óvini vora, sem stráð hafa þyrnum á götu vora, og hver veit fyrir hvern? Ég segi með séra Hallgrími mínum: "Holdið þá jörðin hylur rauð, hlotnast má ýmsum féð". Brúkaðu því auðinn til að hjálpa þeim, sem þarf hans með í dag, á morgun er hann, ef til vill, herfang annarra. Og svona nú, Þórður minn, farðu nú aftur að leika þér, en taktu eftir því, sem ég hef sagt þér og þið öll, hinir gömlu eru reyndastir. Og þú, óþekki sendimaður," sagði biskup við sveininn, sem Þórður hafði atyrt, "hérna hefurðu skilding fyrir að vera póstur þeirra," og biskup kastaði til hans hálfri spesíu. "Þið eigið að vera hver annars þjónar. Munið, að guð vill einungis taka við okkur, ef við erum auðmjúkir og lítillátir." Og biskup klappaði á kollinn á Þórði dóttursyni sínum og gekk í burtu, en Torfi prófastur hugsaði með sér: "Biskup verður aldrei í betra skapi til að hlusta á bæn mína en nú," og hann gekk inn á eftir honum.

"Nú er biskup orðinn annars hugar en í öndverðu," hugsuðu hinir eldri, sem viðstaddir voru og heyrðu á ræðu hans til barnanna, "enda er maðurinn orðinn mæddur. Það er sem hver mæðan ofan á aðra leggi hann í einelti, en hvert gott foreldri er það líka, sem ekki refsar barni sínu fyrir þá bresti, sem það hefur orðið brotlegt í? Meistari Brynjólfur var á yngri árum sínum dramblátur og fégjarn, enda hafa þær ástríður hans nú þolað heita eldskírn." Þetta hugsuðu hinir eldri, en börnin gleymdu áminningunum, sem voru of þungar fyrir þeirra skilning, og fóru aftur að leika sér.

"Þetta hefur verið þungur dagur, frændi," sagði biskup um kvöldið við Torfa prófast. Þeir voru þá tveir einir.

"Já, mjög þungur, herra," sagði Torfi.

"Mest þungur af því, að þó dauðinn sé jafnan á hælum vorum, er sem vér aldrei búumst við honum. En ég vona, að ekki verði mjög langt á milli okkar Margrétar minnar."

"Þér eruð farinn að hníga á efra aldur, herra."

"Já, Torfi minn, sálin vill nú fara að brjóta utan af sér fjötrana og fljúga heim."

"Nú er hinn rétti tími," hugsaði Torfi, "nú skal ég bera fram bænina," og hann sagði:

"Jón Sigurðsson hefur beðið mig að bera sig fram á bænarörmum við yður, herra."

"Hvaða Jón Sigurðsson?" spurði biskup.

"Jón sonur Sigurðar lögmanns," sagði Torfi prófastur.

"Jú, jú, þá þekki ég því miður manninn," sagði biskup og spratt upp úr sæti sínu. "Hvað hefur hann beðið þig að bera fram við mig?"

"Að þér viljið gefa honum samþykki yðar til að hann fái að eiga Ragnheiði dóttur mína og fósturdóttur yðar, herra."

"Og þú, Torfi," sagði biskup og hnyklaði brýnnar og horfði fast á hann, "berð fram slíka bæn við mig, eftir að Jón fyrst hefur komizt í galdramál við Loft kirkjuprest og síðan átt barn við Ragnheiði."

"Það var ekki Jón, herra, sem var sekur í göldrunum, heldur Loftur prestur. Mig grunar og, að Jón muni á sínum tíma verða afbragðsmaður. Ekki vantar hann gáfurnar, og ég vil ævinlega reyna að breiða yfir brotin, að svo miklu leyti sem mögulegt er."

"Ég vil ævinlega," sagði biskup, "láta skömmina skella þar, sem hún á að skella. Jón hefur svívirt Ragnheiði og þó að hann yrði jarl yfir öllu Íslandi, skyldi hún aldrei, að mér lifandi, verða kona hans. Máltækið segir: "Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni", en það get ég sagt þér, frændi, að þú fellur að sumu leyti langt frá þeim stofni, sem þú ert sprottinn af. Ekki hefði Jón Gissurarson á Núpi, faðir þinn, gefið þeim manni dóttur sína, sem áður hefði verið búinn að svívirða hana."

"Þér skuluð ráða þessu, herra," sagði séra Torfi og gekk út. Hann mætti Ragnheiði dóttur sinni í göngunum og sagði:

"Hafðu þolinmæði, Ragnheiður mín, biskup er ósveigjanlegur. - Enn koma tímar, og koma ráð."


27. kafli

Það var eitt fagurt kvöld, að margir menn riðu út Hvalfjarðarströndina. Fremstur í flokki reið þrekinn maður með sítt og grátt skegg, hér og hvar ýrt með rauðum hárum, sem benti á, að sá muni hafa verið upprunalegi liturinn. Við hlið hans reið unglegur maður fríður sýnum. Þessir menn eru þeir meistari Brynjólfur, sem nú vísiterar Vestfjörðu í sjöunda og síðasta skipti, og skjalavörður konungs, Þormóður Torfason, sem kominn er heim til að selja fasteignir forfeðra sinna, og voru nokkrir menn í fylgd með Þormóði og þar á meðal Loftur prestur Jósefsson.

"Því er þessi maður í för með yður, Þormóður?" sagði biskup og leit til Lofts.

"Hann er, eins og þér vitið, dæmdur á konungs náðir, og þar eð ég hef hylli konungs, þá áleit ég bezt, að hann verði mér samferða," sagði Þormóður.

Biskup þagði um hríð og sagði svo:

"Engin gæfa mun verða í þeirri för, sem Loftur prestur er með í."

Í þessu bili kom maður ríðandi að biskupi og fékk honum bréf. Biskup las það með sjálfum sér og sagði við Þormóð og rétti honum höndina:

"Verið þér sælir í bráð. Séra Hallgrímur Pétursson sendir mér sálm, og sé ég af því, að hann muni langa að finna mig." Síðan bauð biskup að reisa þar tjöld sín, en reið sjálfur með nokkrum mönnum á fund prests. Þormóður reið leiðar sinnar með sína menn.

Inn í ofur hrörlegum skála með moldarveggjum, torfgólfi og kringlóttum skjáglugga, fylgjum vér nú meistara Brynjólfi. Göngin voru dimm og lág, svo að biskup varð að beygja sig mjög, er hann gekk inn. Fylgdarmaðurinn leiddi hann að rúmfleti til hægri handar. Þar hvíldi gamall maður með hendur og fætur reifaðar. Maðurinn var séra Hallgrímur Pétursson, sem þá var altekinn af líkþrá, en alloftast á róli. Biskup nam staðar á gólfinu frammi fyrir þessari hryggðarmynd og gleymdi að heilsa. Fylgdarmaðurinn gekk að séra Hallgrími og sagði:

"Meistari Brynjólfur er kominn."

Við orðin "meistari Brynjólfur" reis sjúklingurinn upp, reyndi að stíga á fætur og ná hækju sinni, en biskup benti honum að vera kyrrum, gekk að glugganum, tók skjáinn úr, svo að hreina loftið kæmist inn, og settist svo fyrir framan rúmfletið.

"Nú er ég orðinn aumur, herra," sagði séra Hallgrímur eftir langa þögn, því að andþrengslin voru orðin svo mikil.

Biskup hristi þegjandi höfuðið.

"Já, herra, ég er orðinn aumur og vænti nú bráðum eftir hvíldinni, en mig langaði svo eftir að finna yður, áður en ég dey."

"Það er ekki auðvelt að segja, hver annan grefur; séra Hallgrímur minn. Ég er farinn að færast nær gröfinni líka, þó að heilsan sé ekki farin mjög að bila."

"Ég dey vissulega saddur lífdaga, herra. Líf mitt hefur verið mæðusamt, og nú skil ég eftir konu mína og börn, fátæk og munaðarlaus. - Og börnin mín, ég óttast, að þau taki í arf eftir mig þessa voðalegu líkþrá. Það er allur sá arfur, sem ég eftirskil þeim," sagði öldungurinn og tárfelldi.

"Einu sinni datt mér það sama í hug, séra Hallgrímur. Ég þorði ekki að eiga stúlku, af því að móðir hennar hafði holdsveikissnert, en ekki fórust börn mín af þeim sjúkdómi," sagði biskup, og tár komu einnig fram í augu hans. "Ég ræð þér til," sagði hann ennfremur, "að setja það ekki fyrir þig og leggjast rólegur í gröfina sökum þess. Sjúkdómurinn er að vísu voðalegur, en hann er þér ósjálfráður, og guð getur vel snúið honum frá ætt þinni, ef honum svo þókknast, þó að ytra álitið sé á móti því. Og séra Hallgrímur minn, það eru til sjúkdómar, sem eru verri en holdsveikin."

"Konan mín liggur mér þó þyngra á hjarta," hélt prestur áfram.

"Ekkjustand hennar?" spurði biskup.

"Nei, ekki það, herra, heldur annað þyngra. Hún hefur aldrei getað aðhyllzt hina sönnu, sáluhjálplegu trú, síðan hún kom frá Tyrkjum, og ég hef oft og iðulega grátandi beðið guð fyrir henni, ég hef oft beðið hann að lofa mér að sjá ávöxt tára minna og andvarpana gegnum mörg og mæðusöm ár, áður en ég dey, en þá bón hef ég ekki fengið uppfyllta."

"Þú getur ennþá fengið hana," sagði biskup, "vertu öruggur og vonaðu. Vonin svíkur ekki."

"Ég vona líka, herra. Það koma einungis að mér veikleika augnablik, er mér liggur við að efa. Ó, það er svo þungt að standa, þegar líkaminn er orðinn svona óhæfilegt sálarherbergi."

"Já, það er þungt," sagði biskup og stóð upp.

"Eruð þér nú að fara, herra?"

"Já, fylgdarmennirnir eru farnir að vonast eftir mér."

Séra Hallgrímur stóð upp og fylgdi biskupi fram að göngunum og sagði með hvíldum:

"Enn langar mig, herra, að biðja yður einnar bænar að skilnaði."

"Láttu mig heyra hana," sagði biskup.

"Ég bið yður, herra, að fyrirgefa Daða Halldórssyni og þeim öðrum, sem hafa gjört á hluta yðar," sagði Hallgrímur prestur.

Biskup brá ofurlítið lit og sagði:

"Biður þú þessarar bænar sökum óvina minna?"

"Nei, herra, ég bið hennar einungis sem kristinn maður, sem maður, er stendur við takmark lífsins og langar til að mæta yður sem fullkomnustum frammi fyrir dómara alls holds."

"Ég hef veitt Daða uppreisn og Steinsholt í Hreppum," sagði biskup.

"Það var vel gjört, herra, og eins veit ég, að þér eftir megni leitizt við að fyrirgefa af hjarta mótstöðumönnum yðar og sættast við þá heilum sáttum."

"Þú berð fram rétt mál, séra Hallgrímur, og ég veit, að þú vilt mér vel," sagði biskup og rétti honum höndina, "vertu nú í guðs friði."

"Guð fylgi yður, göfugi herra," mælti prestur. "Næsti fundur okkar verður hjá honum, sem einn getur læknað eynd mína og launað yður fyrir mig."

"Það verður líklega ekki langt á milli okkar," sagði biskup, "og sálmurinn, sem þú sendir mér, skal fyrst verða sunginn yfir gröf minni. Hann verður á sínum tíma eins nafntogaður og Passíusálmarnir. Vertu í guðs friði," sagði biskup, en prestur bograðist inn göngin og kom ekki upp einu orði fyrir mæði.

"Svona nú, maður," sagði biskup, er hann aftur sá dagsins ljós, við þann, sem fylgdi honum, "við erum kunnugir veginum. Þú þarft ekki að fylgja mér til tjaldanna, hér bíða fylgdarmenn mínir. En, vel á minnzt. Færðu séra Hallgrími þetta frá mér, ég var nærri búinn að gleyma því. Hverjum skyldi líka detta peningar í hug í þvílíkum hryggðar-heimkynnum?"

Maðurinn gekk inn, en biskup reið burtu með mönnum sínum.


28. kafli

Það er vetur. Ólafur Gíslason situr einmana á herbergi sínu í Kaupmannahöfn, þreyttur eftir endað dagsverk, því að nú var einn á fætur öðrum af vinum hans horfinn honum, sumir niður í skaut grafarinnar, en suma höfðu byltingar tímans skilið frá honum, og sumir voru flognir í fang nýrra vina, bæði sökum nauðsynja lífsins, sem jafnhliða hnýta og leysa ásta- og vinaböndin, eða þá hverflyndis, sem finnur allt leitt, sem lengi er. Guðmundur Andrésson var dáinn úr bólunni, Þormóður sagnaritari var heima á Íslandi að taka arfa sína og var fyrir löngu orðin von á honum. Alls staðar var einhver umbreyting. Heiman af fósturjörðunni hafði hann ekkert heyrt um sumarið. Hún hafði heldur ekki látið að honum, en engu að síður hvarflaði þó hugur hans þangað oft með eftirþrá, - þó ekki til Rauða-Þórs, hann hafði gjört honum rangt til, ekki til Svika-Freyju, hún hafði fótum troðið tilfinningar hans, ekki til Daða Halldórssonar, hann hafði lokað fyrir honum friðar-Eden hans, og til hvers eða hverra stóð þá hugurinn? - Til föðurlandsins samt. Fjöllin himinháu, fossarnir hvítu og dalirnir skrúðgrænu höfðu ekkert gert á hluta hans. Þar hafði hann varið hinum unaðarríkustu ævidögum sínum. Og hann tók fiðlu sína, stillti strengina, strauk boganum yfir þá, til að kanna, hvort samhljómur þeirra væri réttur, og að því búnu lék hann og söng vísur þessar:

Ég heima man á fornu fósturlandi,
að fögrum jurtum lék ég tíðum þar
í æsku, er skriðu undan vetrarbandi
alblómguðu, grænu hlíðarnar.

Þar lækir slógu hulda hörpustrengi,
og hamravættir endurkváðu við,
ég söng, og björgin bergmáluðu lengi.
Þar bjuggu saman hreysti' og sakleysið.

Og einatt hugsa ég til minna dala,
þann æ skal muna friðarsælu rann.
Þar hvítfreyðandi háir fossar tala
og hátíðlega, stóra náttúran.

Þú, kristillshjálmi krýnd mn daga og ævi,
hin konungborna, sögufróða dís,
þú, eyjan gamla, umvafin af sævi,
þér ást er jafnan barna þinna vís.

Þú situr hátt við heimskaut Norðurlanda,
með hvítan fald í græna möttlinum,
með rúnakefli rist á milli handa
og réttir það að öllum heiminum.

Í þinni kjöltu horfði' ég fyrst til hæða,
þar helgu trúarljósi fyrir brá,
í þinni kjöltu kenndi eg margra gæða,
sem kóngur hæða stráði friði á.

Í þinni kjöltu hef ég að litlu lotið,
þar lífs og dauða skuggsjá fyrir brá,
í þinni kjöltu hef ég bætt og brotið,
þar byrjaði mitt hjarta fyrst að slá.

Í þinni kjöltu þanki' óminnishlekki
í þungri fæðing utan af sér braut.
Ég feginn vildi, að ég þyrfti ekki
í annarlegrar móður hníga skaut.

Í Íslands kjöltu guð fyrst lét mig gráta,
og gráta vil ég þar í hinnzta sinn.
Í kjöltu þess ég kýs mitt fjör að láta,
úr kjöltu þess að fara í himininn.

Í þessu var drepið á dyr. Ólafur kastaði fiðlunni og gekk til dyra. Þar stóð þrekinn maður, sem hann bar ekki kennsl á.

"Komið þér inn, maður minn," sagði Ólafur, "ég þekki yður ekki."

Maðurinn gekk inn og tók sér sæti.

"Ég þekki yður heldur ekki, en mér var sagt, að Ólafur stúdent Gíslason byggi hér," sagði maðurinn og tók upp bréf og rétti að Ólafi.

Hann tók við því, leit á utanáskriftina og sagði:

"Ójá, bréfið er frá Íslandi, og frá Torfa prófasti, sýnist mér. Hvað heitið þér, maður?"

"Loftur heiti ég og er Jósefsson," sagði aðkomumaður.

"Ekki þó séra Loftur, sonur Jósefs prests sterka á Ólafsvöllum?" spurði Ólafur.

"Jú, jú, sá er maðurinn."

"Og séra Torfi hefur skrifað mér, að þér væruð kirkjuprestur í Skálholti," sagði Ólafur ennfremur.

"Það er líka satt," sagði aðkomumaður, "en svo stóð á, að ég lagði ástarhug á frændstúlku og fósturdóttur biskups, Ragnheiði, dóttur Torfa prófasts í Gaulverjabæ, og glettist ég, eða þó öllu heldur Skafti bróðir minn, ofurlítið við Jón nokkurn Sigurðsson, sem líka vildi eiga Ragnheiði, en þessar smáglettingar voru mér gefnar að sök sem galdrabrugg. Ég átti til dæmis að hafa valdið Jóni þessum svefnleysi og öðrum meinum. Biskup stofnaði til prestastefnu í málinu, og ég átti að hreinsa mig af áburðinum með tylftareiði, en, satt að segja, þótti mér þessi ákæra ekki eiðsverð, og ég gaf henni lítinn gaum, en afdrifin urðu, að ég varð að hætta við prestskap og er nú kominn hér, dæmdur á konungsnáð."

"Já, já, ekki er mæða biskups þrotin, þó að ég færi," sagði Ólafur, "en hvað kunnið þér að segja mér um Þormóð sagnaritara? Varð hann eftir á Íslandi?"

"Nei, við urðum samferða. Þormóður er bezti drengur. Hann lofaði að bera mig fram við konung, en okkur vildi slys til á leiðinni. Við sigldum fyrst til Hollands, en þegar við héldum þaðan, brutum við skipið við Sámsey. Mönnum og nokkrum fjárhlut var bjargað, en þá kom það fyrir, að skipssláni danskur og íslenzkur maður, Sigurður nokkur Ásgeirsson, sem með okkur var, lentu drukknir saman í rifrildi og áflogum. Þormóður ætlaði að skilja þá, en það tókst svo óhönduglega, að hann drap þann danska, og voru þeir því báðir, Sigurður og hann, settir í varðhald, og ég heyri fólk vera að spá, að Þormóður missi fyrir þetta óhapp embætti sitt, þó að konungur líklega náði hann."

"Já, ljótar svaðilfarir eru þetta," sagði Ólafur.

"Já, víst er um það, enda held ég, að biskup hafi svo tilætlazt," sagði Loftur. "Hann reið fram á okkur Þormóð í sumar á Hvalfjarðarströndinni og sagði Þormóði, að engin gæfa mundi verða í þeirri för, sem ég væri með í."

"Og það hefur rætzt," sagði Ólafur, "en komið þér aftur til mín á morgun. Ég skal þá gjöra það fyrir yður, sem í mínu valdi stendur, en nú ætla ég að lesa bréf mitt."

Loftur prestur stóð upp og kvaddi, og Ólafur vísaði honum á gestgjafahús til næsta dags.

Ólafur tók nú upp bréf sitt og las. Það var frá séra Torfa, eins og hann hafði getið til, og hafði Þormóður haft það til varðveizlu, en sökum varðhaldsins beðið séra Loft fyrir að koma því áfram.

Bréfið frá Torfa prófasti var ástúðlegt og gott. Hann sagði honum um harma biskups, og hversu hann væri farinn að snúa huganum frá jörðunni, og á meðal annars stóð þessi kafli í bréfinu:

"Kom þú nú bráðum heim, Ólafur. Illugi er búinn svo gjörsamlega að snúa hjarta biskups til þín, þótt ótrúlegt sé. - Hver skyldi ætla, að vínber yrðu lesin af þyrnum? Engir vinir eru þeir, því að ekki hefur Illugi breytzt til batnaðar í seinni tíð. Í meðfylgjandi bréfi Vilborgar heyrir þú eflaust, hvernig í öllu liggur. Vilborg er að vísu farin að hærast, en hjarta hennar er eins heitt og það var til forna, enda býst ég við, að þú sért líka orðinn karlalegur. En ég vík að því aftur, sem ég hvarf frá. Þú veizt, að Þórður, sonur Daða Halldórssonar, er nú hjá biskupi, og er hann búinn að arfleiða hann að öllum eigum sínum og ann honum mjög, enda er Þórður bezta mannsefni, en Daða prest föður hans vill biskup hvorki heyra né sjá. Þó er Daði búinn að fá veitingu fyrir Núpi, og skil ég þó ekki í því, en biskup var hreint annars hugar, þegar hann kom úr kirkjuvitjunarferð sinni. Sömuleiðis er biskup tekinn til að selja allar fasteignir sínar í Borgarfirði og kaupa aðrar eystra, og fleiri stórar umbreytingar að gjöra. Ég held, að honum sé farið að segja fyrir. Margar eru fleiri fréttir héðan, dauði, fæðingar, tjón og margt þess konar, en það skal ég allt segja þér, þegar við finnumst, því að koma verðurðu. Ég leggst ekki rólegur fyrir í gröf mína, fyrr en þið biskup eruð sáttir, og fyrr en biskup að minnsta kosti getur litið þá Daða og Jón réttum augum.

Þeir hafa brotið mikið, en oss er líka boðið að fyrirgefa mikið. Við Páll prófastur í Selárdal og Þórður prestur í Hítardal, sem nú er látinn, höfum í öll þessi ár reynt að mýkja geð biskups og erum þó ekki komnir lengra en þetta ennþá, en ekki fellur tréð við fyrsta högg."

Ólafur las bréfið undrandi og hryggur. Hversu margar þungar mæðubárur höfðu riðið að höfði öldungsins síðan hann var síðast heima! Hann var nú sviptur ástvinum, konu og börnum, og það sem þyngst var, að sumir harmar hans voru á einhvern hátt bundnir við hneisu.

Bréf Vilborgar var gott og ástúðlegt. Hún bað hann að fyrirgefa sér trúgirni sína og framhleypni: "En," sagði hún, "bréfin voru svo snilldarlega afbökuð og dregin sundur í háði, að ég er viss um, að þegar þú sérð, hvað rithöndin er lík þinni, kastar þú ekki þungum steini á mig. Þú mundir aldrei geta trúað slíkri varmennsku um nokkurn mann, sem þeir Daði og Illugi hafa haft í frammi. Fyrst fyrir skömmu barst mér í hendur bréf, sem þú skrifaðir mér frá Bessastöðum 1650. Hefði ég fengið það fyrr, þá hefði allt farið öðruvísi. Þar getur þú um hvarf bréfanna. Ég get eigi tára bundizt, þegar ég hugsa um það allt saman."

Ólafur var sem frá sér numinn, þegar hann hafði lesið bréf fornvinu sinnar. Það datt úr höndum hans ofan á gólfið, án þess að hann tæki eftir því. Allar tilfinningar sálar og líkama hans lágu í dvala þetta augnablik, en brátt rankaði hann þó við sér og sagði við sjálfan sig: "Er ég þá eftir meira en tuttugu ár kominn svona nálægt takmarkinu? - Og Vilborg elskar mig ennþá? - Er þá mögulegt, að þessi ófullkomna jörð geti geymt ást, sem ekki er endurnærð á von, óumbreytta í svo mörg ár? Já, það er mögulegt, en slík ást er verðug gleðitára. - Og þó hef ég á köflum verið ekki einungis reiður við Vilborgu, heldur jafnvel hatað minningu hennar, og einmitt þá hef ég elskað hana heitast."

"Hver skilur djúp mannlegs hjarta? En víst er það, að sé nokkurt akurlendi móttækilegt fyrir eymd og hrösun af öllu tagi, þá er það einmitt það hjarta, sem af miskunnarlausum höndum var hrakið út úr Eden saklausrar og hreinnar ástar." Eftir að Ólafur þannig hafði svalað tilfinningum sínum, fór hann að hugsa um það, sem séra Torfi hafði skrifað honum. Við það rann honum svo reiðin við Rauða-Þór, að hann fylgdi ráðum prófasts og ritaði biskupi langt og auðmjúkt bréf. Og annað til Vilborgar, gott og hjartnæmt, og sagði þar meðal annars:

"Mér dettur ekki í hug að ásaka þig. Þetta hefur allt saman verið illur draumur. Góði draumurinn kemur á eftir. Og þú hefur aldrei verið lofuð Sæmundi."

Bréf það, er Ólafur ritaði biskupi, fann náð fyrir augum hans. Hann sagði við Torfa prófast, sem var viðstaddur:

"Það hygg ég nú komi fram, sem ég sagði við Hallgrím mág minn forðum, að oft yrði góður hestur úr göldum fola. Ólaf langar heim til mín, og er ég hjartanlega fús á að leyfa honum það. Ég hef verið helzt til of strangur við hann. Má vera hann sé orðinn mýktur í skóla mótlætinganna."

Biskup ritaði Ólafi aftur gott og vinsamlegt bréf og kvað sér vera gleði að sjá hann eftir svo langan aðskilnað.


29. kafli

Eins og vera Ólafs í Kaupmannahöfn hafði oft verið tárum blandin, þannig var og burtför hans, það er að segja himininn grét. Þegar Ólafur hafði læst niður og gengið frá munum sínum, sem ekki voru miklir, lét hann flytja þá til skips, en sjálfur bar hann fiðlu sína á bakinu burt úr herbergi því, er hann hafði svo lengi búið í við misjöfn kjör. "Hún skal fylgja mér," hugsaði hann, "hún hefur létt mér marga raunastund, er vinirnir hurfu mér. Hún skal fylgja mér héðan af." Hann renndi ennþá einu sinni angurblíðum augum yfir herbergi sitt, skellti síðan hurðinni í lás og hljóp ofan á götuna. Hún var blaut, og regnið dundi ákaft úr loftinu. Á undan honum gengu þrír menn, tveir þeirra voru hvatir í spori, en hinn þriðji gekk hægt eins og brúður, og tjáði ekki, þótt förunautar hans væru að segja honum að flýta sér að næsta anddyri til að standa af sér skúrina, hann fór sér engu harðara. Ólafur vildi áfram og gaf sig ekki að mönnunum. Allt í einu heyrði hann einn þeirra segja:

"Svona nú, biskupsefni, hvettu sporið eða stattu við. Sérðu ekki, að endinn á fiðlunni, sem maðurinn ber, rekst á herðarnar á þér. Lofaðu honum áfram."

Ólafur vék sér við. Hann þekkti málróminn. Það var Þormóður sagnaritari og þeir Loftur prestur og meistari Þórður Þorláksson, sem þá var orðinn varabiskup Skálholts, en gekk hægt eftir vanda.

Hvorir þekktu aðra jafnsnemma, heilsuðust og gengu inn í anddyrið til að standa af sér skúrina.

"Hvert er nú förinni heitið, sveinar?" spurði Ólafur. Þormóður varð fyrir svörunum og sagði:

"Niður til sjávar, við erum að fylgja Skálholtsbiskupsefni til skips. Hann fer nú heim til Íslands. En hvert ætlið þér?"

"Til Íslands sömuleiðis."

"Og inn á hvaða höfn?" spurði meistari Þórður.

"Eyrarbakka, herra biskupsefni."

"Nógur er tíminn að brúka titlana, þegar ég er setztur í biskupssæti, því að fyrst verð ég líklega klerkur," sagði Þórður, "en hér eru tvö bréf, sem ég bið yður að bera heim að Skálholti. Annað er til Þórðar Daðasonar, og fylgja því tvær bækur, en hitt er til meistara Brynjólfs."

"Ég bið að heilsa Ragnheiði Torfadóttur," sagði Loftur brosandi.

"Ég bið að heilsa biskupi," sagði Þormóður.

"Og ég bið heilsa einhverjum og öllum," sagði Þórður. Síðan kvöddust þeir vinsamlega, og hver fór sína leið. Eftir það steig Ólafur á skip, fékk góða ferð og kom inn á Eyrarbakka. Þaðan ætlaði hann rakleiðis að ríða til Skálholts, en þá varð maður á vegi hans, sem hann hafði ekki séð í mörg ár. Það var Daði Halldórsson, og þó að hann væri ennþá ungur, var hann þó farinn að hærast. "Svo að lífið hefur þá komið við hann," hugsaði Ólafur og ætlaði að flýta sér sem mest hann mátti burtu, en Daði gekk þá í veg fyrir hann. Ólafur krosslagði hendurnar og lét aftur augun sem til forna á Þingvöllum. Daði sagði:

"Því lokar þú augunum við komu mína, Ólafur Gíslason? Ef auga þitt hneykslar þig, þá sting það út, stendur að vísu skrifað, en á öðrum stað stendur líka: Lát ekki hið illa yfirbuga þig, heldur sigra þú hið illa með góðu."

"Er þetta Daði sjálfur?" hugsaði Ólafur og hálflauk upp augunum. "Jú, svo er sem mér sýnist, sá er maðurinn." Hann svaraði:

"Af því að ég hef ekkert gott af að sjá þig."

"En hafi ég gott af að sjá þig," hélt Daði áfram, "þá hefur þú engan rétt til að byrgja augun fyrir mér, eða heldur þú, að þú sért hreinni í guðs augum en ég er í þínum? Og ekki byrgir hann auglit sitt fyrir þér. Gakktu heldur með mér hérna inn fjörurnar, og hlustaðu á játningu mína, og svo getur þú annað hvort snúið við mér bakinu með fyrirlitningu eða umgengizt mig eins og mann."

Ólafur varð forviða á orðum og atferli Daða, sem var svo mjög ólíkt því, sem hann áður hafði þekkt. Hann svaraði ekki, en gekk þegjandi við hlið hans.

"Ég er kominn á þá skoðun í lífinu," hélt Daði áfram, "að það sé langtum meiri ógæfa í sjálfu sér að vera vondur en verða fyrir vonzkunni. Sá, sem móðgaður er, hefur miklu fremur ástæðu til að aumka óvin sinn en til að hata hann -- eða viltu nú, Ólafur Gíslason, standa í mínum sporum?"

"Nei," sagði Ólafur og hristi höfuðið, "það vildi ég þó ekki."

"Nei, ég vænti þess," sagði Daði, "ég er alls staðar eins og flóttamaður á jörðunni. Ég sigldi til að fá uppreisn, en fékk ekki. Ég man, að ég stóð hálfan eða heilan klukkutíma fyrir framan dyr þínar og áræddi ekki inn. Síðan kom ég heim aftur, og hvílík heimkoma! Jafnvel systkini mín vilja ekki líta mig í stuttu máli er ég afhrak allra. - Reyndar hef ég fengið uppreisn hjá biskupi að nafninu til. Ég hef fengið tvö prestaköll, hvort eftir annað, og í því tilliti uni ég vel hag mínum, en náðinni fylgdi sú skýlausa skipun biskups, að Daði komi aldrei fyrir augu hans. Í dag hef ég vogað mér í kaupstaðinn, af því að ég veit, að biskup er á ferð suður að Bessastöðum og kemur heim fyrst í nótt. Það fékk ég að vita hjá ættingjum mínum, sem ég var að sækja heim. Er nú unaðslegt að lifa slíku lífi?"

"Nei," sagði Ólafur, "þú ert brjóstumkennanlegur."

"Já, það er ég í sannleika," hélt Daði áfram. "Þórður sonur minn er sagður efnilegur piltur, það ber öllum saman um, sem minnast á hann, en sjálfur þori ég ekki að sjá hann. - Svona er allt, og ég finn, að ég nýt ávaxtanna af verkum mínum. Jón Jónsson, sem einu sinni kom í smásveinsþjónustu biskups og frískóla, hefur verið þetta árið nábúaprestur minn, eða aðstoðarprestur nábúa míns. Hann vill ekkert við mig eiga heldur en aðrir, og honum hafði ég þó ekkert illt gjört. Illugi Bjarnason hefur gjört mér allt til ills. Það var ekki nóg með það, að hann segði biskupi öll óþverra-æskupör mín, heldur laug hann miklu við, í von um að fá því ríflegri sögulaun hjá biskupi. Það brást þó."

"En hversu líður séra Þorsteini frænda hans?" spurði Ólafur. "Ég sá hann á þingi, minnir mig, 1660, en síðan hef ég ekkert heyrt frá honum."

"Og hann drekkur nú eins og ég af verkum sínum," sagði Daði. "Hann missti prestinn og var nauðugur fluttur frá Útskálum og býr nú á Setbergi í Garðasókn, blindur og líkþrár. Séra Jón föðurbróðir minn, sem var við burtflutninginn, sagði, að hann hefði viljað láta teyma hestinn undir sér kringum Útskálabæ áður en hann fór, en séra Jón lét teyma undir honum kringum útiskemmuna, og brann hún síðan til kaldra kola."

"Það eru aumu frændurnir þetta," sagði Ólafur.

"Já, það eru þeir," endurtók Daði, "og hefði ég aldrei látið Illuga leiða mig inn í galdramálið gamla, hefði margt verið öðruvísi nú fyrir mér."

"Er Illugi ókvæntur?" spurði Ólafur.

"Já, það held ég hann sé," sagði Daði. "Fólk segir, að hann hafi viljað eiga Sigríði nokkra stórráðu, sem kölluð er. Hún var ekkja eftir Benedikt nokkurn Pálsson á Möðruvöllum í Hörgárdal. Meira veit ég ekki um hana, en sá ráðahagur tókst ekki, og kvað hann hafa tekið sér það nærri. Að öðru leyti veit ég ekki, hvort hann er nú dauður eða lifandi."

"En ert þú þá ekki giftur?" spurði Ólafur.

"Giftur?" endurtók Daði og hristi höfuðið. "Spurðu mig ekki um slíkt. En hvort viltu nú heldur, að ég skrifti fyrir þér hér út af öllu því, er ég hef gjört þér á móti, eða viltu fyrirgefa mér eða fyrirlíta mig svona óheyrðan?"

"Já, Daði," sagði Ólafur, "ég þarf engan skriftamála að heyra því að:

Ef maðurinn er syndum seldur
og sakleysið af vegi leitt,
hvort falli heift eða heimska veldur,
ég held það komi fyrir eitt.

Allt, sem þú hefur gjört mér, hefur orðið mér að góðu, og skal það vera gleymt, og tölum svo ekki meira um það. Hér er hönd mín," sagði Ólafur og rétti honum höndina.

Daði tók í hana hrærður, þakkaði honum og spurði ennfremur:

"Hefur þú nokkra von um, að hægt muni verða að fá fyrirgefningu biskups mér til handa?"

"Það skal ég láta þig síðar fá að vita, "kvað Ólafur. "Ég skal gjöra mitt bezta til, því lofa ég þér, og sama veit ég, að Torfi prófastur og séra Páll í Selárdal gjöra, og nú góða nótt, Daði, það er farið að skyggja, og ég hef hraðann á höndum."

"Góða nótt, Ólafur," sagði Daði og veifaði til hans hattinum að skilnaði.

Ólafur reið burtu, en Daði gekk ofan að sjónum og hugsaði með sér: "Sérhver syndsamleg fullnægja bendir á réttlætisins fullnægju á síðan, og þess þrumuský eru einmitt að draga sig saman yfir höfðum vorum, á meðan fávíst hjarta þykist sem óhultast njóta sætleika hefndarinnar. Það hef ég nú reynt sjálfur."

Ólafur reið heim að Skálholti og fann gamla velgjörðaföður sinn heima, ernan að vísu, en gráhærðan öldung, sviptan börnum og konu sinni, og orðinn einstæðing í heiminum.

"Nei, ég er þó ennþá ekki einstæðingur," sagði hann við Ólaf, rétt eins og hann hefði getað lesið í huga hans. "Þarna er Þórður dóttursonur minn. Hann er afa sínum til mikillar gleði og er nú farinn að lesa latínska málfræði," sagði biskup og dró sveininn að sér og kyssti hann.

Ólafur vísiteraði nú hvern krók og kima á staðnum. Allir hlutir sýndust honum bæði svo líkir og ólíkir því, er áður var. Hann gat ekki sjálfur gjört sér grein fyrir í hverju það lá. En mun hann ekki einnig sjálfur hafa verið umbreyttur? Ekkert stendur í stað, hvorki dautt né lifandi, dropinn holar bergið, og skyldi eigi tímans tönn vinna að því, sem linara er en það? Tíminn og tízkan gjörir það að verkum, að vér lítum ekki ætíð sömu augum á sama hlut. Tökum til dæmis stólinn, þar sem forðum sat elskaður vinur, sem nú er horfinn. Augað þekkir nú ekki stólinn fyrir sama stól og áður. Svona eða á líkan hátt getur hver hlutur verið bundinn við fljúgandi atvik, ýmist blíð eða stríð. Hver undur eru það þá, þó að augað finni allt umbreytt?

Inni í stúlknabaðstofu svo nefndri mætti Ólafur roskinni konu. Hún hafði fölan yfirlit og mikið hár hæruskotið. Svipurinn virtist honum kunnugur, og hann fann, að við hann loddu einhverjar djúpar endurminningar, en hann kom honum þó ekki fyrir sig í fyrstu. Biskup var viðstaddur og sagði:

"Ólafur, þekkir þú ekki Vilborgu?"

"Ó, Vilborg, ert það þú? Hvað þú ert orðin kerlingarleg," sagði Ólafur og flaug í fangið á henni.

"Og hvað þú ert orðinn karlalegur," sagði hún, og bæði hlógu og grétu undir eins.

"Sjáðu einungis, hvort ég segi ekki satt," sagði hún og brá fyrir hann skuggsjá, þeirri sömu, sem hann fyrir löngu síðan speglaði sig í, er Daði Halldórsson bar vatnsföturnar.

"Já, það satt, ég er orðinn karlalegur," sagði hann og varpaði speglinum frá sér. "Ég get ekki sagt, að ég hafi litið í spegil síðan ég var hér. Fyrir hverjum átti ég líka að halda mér til? Fyrir fiðlunni minni, hún hefur öll þessi löngu einstæðingsár verið unnustan mín."

"Hefurðu þá aldrei stundað leikara-íþróttina?" spurði Vilborg brosandi.

"Ekki nema þá, sem mér var meðfædd og sprottin er af hinu létta og umbreytanlega geði mínu, og hún fylgir mér til grafar."

Eftir það settust þau niður og ræddu hljótt saman lengi um kvöldið.

Þennan vetur sat Ólafur í Skálholti til að nema að nýju forn fræði, því að hann var farinn að ryðga í þeim, sem vonlegt var, en biskup vildi hafa klerka sína vel lærða, og urðu allir að kunna fræðin sín vel, meðan hann sat að stóli.

"Nú ertu orðinn útlærður stúdent í annað sinn," sagði biskup einhverju sinni við hann um vorið, "og gættu þess nú, Ólafur minn, að sleppa þér ekki út í léttlyndi aftur. Hærur mínar bera nú ekki fleiri sorgir að sinni. Varaðu þig á að beita skáldskapargáfunni, ef þú hefur hana, ranglega. Hún er andlegrar ættar og má ekki vanbrúkast í heimsins þjónustu. Áræddu aldrei að hefna óréttar þíns með skammavísu. Það er betra að gjöra það með hnefahöggi, þó að óheiðarlegt sé, einkum fyrir presta. Þótt sumum þyki gaman að slíku, þá vega þó lofsorð hundrað heimskingja ekki á móti fyrirlitningu eins spekings. En þetta ítreka ég því við þig nú, að ég þóttist verða var við náttúru hjá þér til níðkvæða. Ef mig minnir rétt, kastaðir þú fram þess konar vísum í veizlu Björns bónda, þá er höfuðsmaður Bjelke var hér."

"Ég skal leggja orð yðar mér á hjarta, herra," sagði Ólafur. Biskup klappaði á herðarnar á honum og gekk út, ánægður yfir sauðnum týnda og aftur fundna.

Þetta sumar var Ólafur vígður og giftur sama daginn fornunnustu sinni, Vilborgu.

Meistari Brynjólfur hélt sjálfur brúðkaup þeirra með mikilli rausn og gjörði þau síðan vel úr garði, sem hans vandi var, þegar ráðahagurinn var að hans geði. Biskup skipaði hinn æðsta sess í brúðkaupssalnum, og við hægri hlið hans sat sveinninn Þórður, sem var augasteinn afa síns og hvers manns hugljúfi. Þarna sat þá ennþá einu sinni hinn aldurhnigni, raunamæddi biskup í tignarsæti sínu. Ennþá einu sinni auðnaðist honum að hringja fagnaðar- og vinaskálinni við marga góða vini. En þessi gleðifundur var líka síðasta gleðibros í lífi meistara Brynjólfs, því að undir borðum kenndi Þórður Daðason verkjar, sem síðar leiddi hann til bana, og eftir dauða hans sneri hugur og hjarta biskups sér gjörsamlega frá jörðunni og jarðneskum hlutum.


30. kafli

Einnþá einu sinni, í síðasta sinni, skulum vér renna augum yfir þingstaðinn forna. Ennþá hóf júlí-morgunsólin sig í allri sinni tign upp yfir Þingvöll. Ennþá glitruðu blómknapparnir aldöggvaðir í sólargeislunum umhverfis búðatóttir forfeðranna. Blómin vakna þó í seinni lagi af næturdvala sínum þennan morgun. Hvað mun koma til? Eru geislar þínir, gamla og tignarlega eygló, ekki eins heitir nú sem endranær? Ójú, en hryggðartár Íslands vætta hafa eflaust hrotið of þungt á blómkollana í nótt, því að þeir hafa vitað, að þennan dag yrði mikill sorgarboðskapur boðaður á gamla Lögbergi. Í dag afsalar Brynjólfur biskup, einn af landsins vitrustu og skylduræknustu sonum, sér stað og embætti, er hann hafði með sóma haft í 35 ár. Nær skyldu heillavættir Þingvallar hryggjast, ef ekki nú? Jafnvel þótt völdin leggist í hendur á prúðmenninu Þórði Þorlákssyni.

Þessi þýðingarmikli dagur er nú að þrotum kominn, og kvöldsólin stráir geislum sínum yfir grúa tjalda og tjaldbúða, sem standa umhverfis tjöld biskups á Þingvelli, eins og plánetur kringum sólina. En sú sól gengur nú til viðar í síðasta sinni. Á morgun stendur tjaldbúð meistara Brynjólfs ekki í miðri skjaldborginni eins og nú. En hver öld á sína þjóðskörunga. Þótt þessir líði undir lok með sínum fræðimönnum og mannvinum, þá geymir hinn komandi tími í sér nýja krafta, nýjar uppgötvanir og ný mikilmenni, sem koma upp eftir óþekktum lögum, eins af ættum kotunganna sem höfðingjanna. Hinir gömlu hverfa smátt og smátt, stundum án þess að aðrir gefi því gaum, og smám saman brunar nýja kynslóðin fram á leiksviðið með unga krafta til þess á sínum tíma að mæta sömu kjörum. Hvað eina á sitt haust og vor.

Menn tíndust nú einn á fætur öðrum inn í tjöld sín, eftir að hafa tekið á móti síðustu blessun hins gamla, ógleymanlega, andlega yfirmanns og þakkað honum af innstu hjartarótum fyrir svo margra ára gleðiríka sambúð, vináttu og uppfræðingu, því að vissulega komu fáir á Þingvöll af hinum menntaðri mönnum, einkanlega úr Skálholts-biskupsdæmi, sem ekkert höfðu af honum þegið. Hann var ekki eingöngu kennimannahöfðingi, heldur og hafði hann öll embættisár sín stuðlað að skólavísindum og vandaðri kennslu skólasveina í Skálholti, og margir þeirra minntust þess nú með klökku hjarta. Menn gengu þegjandi til hvíldar, því að bæði var sál og líkami þreytt. Biskup gat ekki tekið á sig náðir, heldur reikaði hann um völlinn, niðursokkinn í hugsanir sínar. Á þessum Þingvelli hafði hann á hinni löngu embættistíð sinni unnið margan dýrlegan sigur, og nú í síðasta skiptið sá hann nokkra kæra vini hverfa sjónum upp í Almannagjá. Þeir vitjuðu nú heimila sinna eftir langa útivist og kusu helzt næturþögnina fyrir burtfararstund. Hverjum þeirra hafði biskup eitthvert uppörvunar- eða gamanyrði að segja að skilnaði. "Gamli, góði vinur," sagði hann við séra Pál í Selárdal, er hann steig á bak hesti sínmn og reið í burtu, "hversu ólíkt er nú ástatt fyrir mér og þegar ég á þessum bletti kvaddi Halldór lögmann, tengdaföður okkar! Nú er ég gamall og grár. En eru ekki kvöldgeislarnir fagrir?" sagði hann og benti á sólarbjarmann.

"Jú, herra, en ég ætla betur að dást að fegurð sólarinnar heima í Skálholti. Í guðs friði," sagði séra Páll og hvarf upp í gjána.

Við séra Ólaf Gíslason sagði hann:

"Ég gjörist nú gamall og ann hörpuslætti eins og Sál konungur, þótt ég þjáist ekki af illum anda. Kveddu við tækifæri á fiðlu þína eitt lag heima hjá mér í Skálholti."

"Hvenær skal það vera, herra?" spurði Ólafur og sneri hestinum við.

"Aftur að sumri um þetta leyti, eða litlu síðar. Ég vona, að ég lifi svo lengi."

"Í guðsfriði, herra," sagði Ólafur, tók ofan hattinn og hvarf sömuleiðis upp í Almannagjá.

"Berið kveðju mína suður," sagði biskup við Sigurð lögmann, er hann reið í burtu.

"Á næsta alþingi sjáum við yður hér aftur, vona ég," sagði Sigurður.

"Hvort ég verð hér líkamlega nálægur, veit ég ekki," sagði biskup brosandi, "en andi minn svífur eflaust í glaðri endurminningu yfir þessar stöðvar annað hvort í líkmanum eða án hans."

Svipað þessu talaði hann við hvern og einn kunningja og vin, er hann kvaddi þarna.

Morguninn eftir riðu báðir biskuparnir, Brynjólfur og Þórður, burt af Þingvelli, og múgurinn kvaddi þá með söng. Menn höfðu raðað sér við gjármunnann og sendu öldungnum þaðan skilnaðarkveðju og þakklætisávarp í nafni þjóðar og Þingvallar.

Þetta ár sátu biskupar báðir í Skálholti með veg og sóma, og virti meistari Þórður öldunginn sem heittelskaðan föður og leitaði ráða hans í öllu.

En einatt klifaði meistari Brynjólfur á því við unga biskupinn, að ekki væri gott, að maðurinn væri einn. Þórður biskup fór þá jafnan að brjóta upp á öðru efni, en svo oft ítrekaði öldungurinn þetta, að meistari Þórður fór seinast að leggja eyrað við, og einu sinni sagði hann bæði í gamni og alvöru:

"En, kæri faðir, hvar leitið þér til kvonfangs handa mér?"

"Á morgun, ungi vinur minn, en ekki í kvöld, skal ég segja yður það. Það er vandasamt mál að velja sér konu."

Daginn eftir hafði verið hæg rigning, en var nú stytt upp. Tvöfaldur regnbogi sást á suðurloftinu. Hann minnti unga biskupinn á liðna sorgardaga, þegar þau Ragnheiður Brynjólfsdóttir ræddust við í síðasta sinni, og hann reikaði út í kirkjugarðinn og að leiði Ragnheiðar. Nú vildi ég sízt af öllu heyra þessi orð: "Það er ekki gott, að maðurinn sé einn," hugsaði hann, en þau voru þó hin fyrstu, er meistari Brynjólfur talaði til hans, er hann kom inn. Hægur roði flaug yfir kinnar hans, og hann brosti angurblítt og sagði:

"Hverja hafið þér þá útvalið mér, kæri faðir?"

"Guðríði Gísladóttur á Hlíðarenda," kvað öldungurinn.

"Það er rík kona," var allt sem meistari Þórður svaraði, því að eitthvað varð hann að segja.

"Já, rík kona, vinur minn, og af göfugum ættum fram í langfeðgaætt," sagði öldungurinn stillilega. "Það er gott með öðru góðu."

Eftir litla þögn sagði Þórður biskup og leit upp:

"Ég skal yfirvega málið, ráðahagurinn er í alla staði góður. En," sagði hann og hikaði ögn við, "ætlið þér ekki að setja legstein yfir Ragnheiði dóttur yðar? Leiðið er svo sigið niður, að ég hrasaði ofan í það áðan, er ég reikaði um garðinn."

Sorgarský sveif allra snöggvast yfir andlit öldungsins, og hann sagði eftir litla þögn:

"Hví skyldi ég reisa henni minnisvarða? Þar hvíla auk hennar konan mín, Þórður minn og fimm börn, og þar hvílast bein mín innan skamms."

Hann leit upp og sá, að einhver bæn bærðist á vörum meistara Þórðar, sem hann vildi deyða, áður hún yrði klædd í orð, og sagði því með áherzlu:

"Nei, engan legstað skal reisa. Moldir Ragnheiðar minnar skulu gleymast, moldir mínar og annarra ástvina minna sömuleiðis. Guð hefur afmáð ætt mína af jörðunni, og því skal ekki minna ókomnar kynslóðir á hana með dýrlegum bautasteinum. Þér eruð ennþá ungur, vinur minn, neitið því ekki guði og mannfélaginu um atdráttarlausa þjónustu yðar, en látið hina dauðu grafa sína dauðu."

Eftir þessa umræðu minntist hvorugur þeirra framar á minnisvarða Ragnheiðar né giftingu Þórðar. En litlu síðar fylgdi þó meistari Þórður ráðum hins föðurlega vinar síns og flutti Guðríði Gísladóttur heim að Skálholti sem eiginkonu sína og þá dýrmæta brúðargjöf af öldungnum.


31. kafli

Ennþá kom atvik fyrir í Skálholti þetta ár, og er það einstakt í sögu landsins, nefnilega að meistari Brynjólfur fékk konungsbréf þess efnis að vígja til biskups sýslumann Jón Vigfússon á Leirá. Hann átti að vera biskup á Hólum og taka við eftir Gísla biskup. Það hafði aldrei fyrr borið við á Íslandi, að sýslumaður yrði biskup, heldur aldrei fyrr, að fjórir biskupar sætu í einu á landinu, og að nokkur væri hér á landi vígður biskupsvígslu. Þetta voru allt miklar nýjungar. Meistari Brynjólfur fann það sjálfur og brosti að. Eigi að síður stofnaði hann til dýrlegrar veizlu, því að með þessari vígslu var verkahringur hans innsiglaður, og innsiglið var stórt og konunglegt. Allir ættmenn hans voru látnir. Biskup var að heita mátti horfinn frá jarðneskum hlutum. Staðinn hafði hann afhent meistara Þórði, en ætlaði nú í síðasta sinni að halda vinum sínum og vandamönnum veizlu. "Það er erfisdrykkja mín," sagði hann, hrærður í anda.

Þessi skapferlisbreyting biskups vakti athygli séra Torfa og Ólafs Gíslasonar, prests, og þeir hugsuðu: "Ef biskup við þetta tækifæri vinnst ekki til að fyrirgefa Daða Halldórssyni, þá gjörir hann það aldrei," og þeir rituðu Daða fáeinar línur og sögðu meðal annars: "Hagaðu svo ferðum þínum til, að þú verðir kominn að Skálholti að kvöldi veizludagsins, og hittu okkur fyrsta manna."

Dagurinn kom. Regn var úti og stormur. Meistari Brynjólfur vígði Hólabiskupsefnið, sem síðar fékk auknefnið Bauka-Jón, og sómdi hann sér vel í kennimannaskrúðanum í síðasta sinni. Gleðiblönduð alvara skein út úr andliti öldungsins við þetta tækifæri, sem von var. Hann renndi huganum yfir liðna tíð, jafnframt því sem hann leit fram á ókomna tímann, og vinahóparnir í kringum hann minntu hann á þá, sem á undan honum voru gengnir.

Vígslan var afstaðin. Tugir af mönnum streymdu inn á staðinn til að setjast að víni og vistum, meðan aðrir tugir riðu aftur til heimila sinna. Biskup sat í tignarsæti í gömlu gestastofunni, sem vér höfum oft litið inn í. Í þetta skipti var hann glaður og fjörugur og drakk meira en vandi hans var til.

Torfi prófastur og séra Ólafur voru og venju fremur glaðir.

Jón biskup Vigfússon tók nú til orða og sagði:

"Skálholt er mikill og sorgarlegur endurminningarstaður fyrir okkur báða, meistari Brynjólfur."

"Og hví fremur fyrir okkur báða en aðra menn?" spurði biskup.

"Af því að á þessum stað var okkar göfugi forfaðir Jón biskup Arason líflátinn saklaus."

"Um það hafa verið deildar skoðanir, meistari Jón," sagði biskup. "Líflát hans er og verður óafmáanleg svívirðing um aldur og ævi, beggja þjóðanna, Íslands og Danmerkur. Saklaus held ég þó, að hann hafi ekki verið framar en dauðasekur."

"Hvern þátt átti íslenzka þjóðin í aftöku hans?" spurði meistari Jón.

"Voru ekki Marteinn biskup, Daði í Snóksdal og Jón prestur Bjarnason eins Íslendingar eins og Kristján umboðsmaður var danskur?" spurði meistari Brynjólfur.

"Jú, að vísu, en ég skal sýna yður, herra, og yður öllum hér samankomnum, að Jón biskup Arason var líflátinn saklaus," sagði meistari Jón, um leið og hann tók í hönd sér logandi vaxkerti og hélt því upp yfir höfuðið á sér. "Heyrið þér," sagði hann, "hversu stormurinn og regnið lætur úti fyrir?"

Allir játtu því.

"Nú," sagði hann ennfremur, "ef ég get borið þetta ljós í kringum Skálholtsstað í þessu veðri, svo að það slokkni ekki, þá hefur Jón biskup og synir hans allir saman verið myrtir saklausir. Viljið þér taka það trúanlegt teikn?"

"Já," sögðu allir, "því að nú lifir ekki ljós í anddyrinu, hvað þá úti."

Jón biskup gekk út með ljósið og með honum margir af gestunum, en meistari Brynjólfur einn stóð í dyrunum og beið. Í þessu gekk hár og þrekinn maður hægt inn í anddyrið og var hann í stórri kápu. Biskup gaf honum ekki gaum.

"Svona, nú hef ég fært sönnur á mál mitt," sagði Jón biskup, er hann kom aftur með ljósið logandi. "Þeir hafa verið myrtir saklausir."

Um leið og hann sagði þetta, fór komumaður úr kápunni og sló með öðru lafi hennar ljósið úr höndum biskups, svo að það datt ofan á gólfið, og ljósið slokknaði.

"Þetta hefur verið andi Daða gamla í Snóksdal, það þori ég að segja," sagði Jón biskup, því að hann sá ekki manninn, er læddist um hinar dyrnar, sem voru fullar af fólki.

"Jú, þetta mun verið hafa andi Daða, hann lætur okkur niðja Jóns gamla Arasonar aldrei hlutlausa," sagði meistari Brynjólfur og gekk síðan inn í svefnherbergi sitt og vildi ekki frekara taka þátt í veizlugleðinni.

"Því," sagði hann við þá Torfa prófast og séra Ólaf Gíslason, "ég veit ekki, hvort það var svo, en þá hef ég aldrei þekkt mann, ef þessi var ekki Daði Halldórsson, sem inn kom, og fyrr en ég sannfærist um hið gagnstæða, yfirgef ég ekki herbergið."

Við þessi orð biskups gáfu þeir Torfi og Ólafur frá sér allar frekari sáttatilraunir. Um kvöldið veittu þeir Daða þar á laun, því að hann var komumaðurinn, og sögðu eins og með einum munni:

"Það er ómögulegt, Daði, þetta var okkar síðasta von."

"Og ég gef upp mína," sagði Daði hryggur og reið einsamall út í næturþögnina.

Þetta var síðasti fundur þeirra meistara Brynjólfs og hans í þessum heimi.

Næsta sumar reið Brynjólfur biskup ekki á þing, eins og sumir höfðu þó búizt við. Hann sat heima og mátti láta sér lynda að hlusta á frásögur unga biskupsins, eins og þegar afi hlustar á sögur barnabarna sinna. Meistari Þórður sat fyrir framan hné hans og taldi upp fyrir honum skýrt og skorinort í röð öll þau mál, sem þingið hafði meðferðis, allar tillögur og mótbárur valdsmanna o. s. frv. Öldungurinn brosti, hristi höfuðið, lét í ljós álit sitt í fám, en þýðingarmiklum orðum.

"En, ungi vinur minn," sagði hann upp úr eins manns hljóði, "þér ætlið nú á kirkjuvitjunarferð um Vestfjörðu, en mér segir svo hugur um, að við munum ekki sjást aftur lifandi, og ef svo verður, vil ég vera búinn að gjöra mínar ráðstafanir við yður. Ég vil ekki láta grafa mig innan kirkju, heldur austur í kirkjugarðinum, suður undan Þorlákskirkju, þar hef ég látið grafa ástvini mína."

Þessi skjótu skipti á umtalsefni fengu meistara Þórði bæði hryggðar og undrunar. Hann tók vingjarnlega í hönd öldungsins og sagði:

"Þér eruð ennþá svo ern, kæri faðir, að við hjónin gleðjum okkur við þá von, að fá ennþá lengi að njóta yðar fræðandi, föðurlegu návistar, og það gjöra líka aðrir vinir yðar."

Biskup brosti og sagði:

"Nei, Þórður minn, æskan horfir fram á lífið, en ellin fram á dauðann, og enginn aldur vill missa töfraafl sitt, því, vinur, ellin er engan veginn örvæntingarár mannlífsins, eins og sumir kalla hana. Hún er vonarár eilífrar æsku. En nóg um það. Ég skal á morgun gefa yður þær upplýsingar viðvíkjandi ferð yðar, kirkjueignum o. s. frv., sem þér þurfið að fá." Eftir það slitu þeir þessa sorgarlegu samræðu, og hver gekk til starfa sinna, því að þó meistari Brynjólfur væri nærri því sjötugur að aldri, var hann enn starfs- og iðjumaður.


32. kafli

Vér höfum nú um hríð dvalizt við ýmis æviatriði í lífi þjóðmæringsins, meistara Brynjólfs Sveinssonar, og viljum vér nú vitja hans í síðasta sinni, er hann kvaddi Torfa prófast litlu fyrir dauða sinn. Einar kirkjuprestur og séra Torfi sátu fyrir framan rúm öldungsins, sem ráðstafaði útför sinni með miklum skörungskap.

"Ég vil hvíla fyrir sunnan Þórð minn, svo nálægt honum sem mögulegt er," sagði hann. "Engan, alls engan legstein vil ég láta reisa moldum mínum. Heyrir þú það, Torfi frændi?"

"Já, herra biskup," sagði Torfi hrærður.

Biskup hélt áfram og sagði um leið og hann benti á biblíuna, sem lá á borðinu fyrir framan hann:

"Hér, Torfi frændi, er sálmur, sem séra Hallgrímur Pétursson sendi á eftir mér, þegar ég reið síðast framhjá bæ hans. Sálmurinn skal syngjast yfir moldum mínum. Nú er séra Hallgrímur látinn. Það verður ekki langt á milli okkar. Skyldi hann þá hafa fengið bæn sína veitta áður en hann lézt?"

"Hver var bænin, herra?" spurði séra Torfi.

"Að kona hans snerist til sannkristinnar trúar, var hans einasta hjartans bæn til guðs. Mun honum hafa veitzt hún?"

"Ekki beinlínis, herra," sagði séra Torfi, "en almæli er vestra, og það á meðal sannorðra manna, að Guðríður hafi eftir beiðni hans setið inni hjá honum, þegar hann lézt, og hafi hún átt að sjá hurðina opnast og inn koma hvítklæddar verur, sem námu staðar við höfðalag hans. (Gömul munnmælasaga vestra, höfð eftir Karitas Einarsdóttur, Ketilssonar, sýslumanns.) Þóttist hún vita, að það væri Kristur og englar með honum. Hún sá þá aftur hverfa út, en gat ekki sökum ótta hrært sig, því að ljós mikið leiftraði um herbergið. Þegar fólk kom inn, var prestur látinn, og víst er það, að við þetta snerist Guðríður algjörlega."

"Hver svo sem sjónin hefur verið," sagði biskup, "þá hefur hún haft blessunarríkar afleiðingar, og séra Hallgrímur var trúaður maður. Trúuðum er allt mögulegt. Hversu var ekki vitrun Páls postula?"

Daginn áður en biskup lézt, sagði hann við Einar kirkjuprest, sem jafnan sat hjá honum: "Þórður biskup er nú fyrir vestan á kirkjuvitjunarferð sinni. Ég bið innilega að heilsa honum. Ég finn, að dauði minn nálægist, enda er ég nú þegar búinn að ráðstafa öllu því, sem mest er um vert, við Torfa frænda. Á morgun er ég, ef til vill, ekki á meðal hinna lifenda. Tíminn á milli miðnættis og miðsmorguns er sá hættulegasti. Þá er jafnan svefninn fastastur og dauða líkastur. Hvaða dagur er í dag?"

"Það er miðvikudagur, herra," sagði Einar prestur.

"Það er þá fimmtudagur á morgun," sagði biskup", á fimmtudag um sólar uppkomu kom ég til stólsins, og mig skyldi ekki furða, þótt dauða minn bæri að á fimmtudegi. Fimmtudagar og föstudagar hafa verið mínir merkisdagar í lífinu." Þannig ræddi biskupinn langt fram á kvöld, því að hann var þá venju fremur hress. Síðan bauð hann presti góða nótt, því að svefn var farinn að síga á augu hans, og hann sofnaði.

Um afturbirtingu var biskups aftur vitjað, en hann lá örendur á koddanum með hönd undir kinn og með rólegt yfirbragð. Dauðinn hafði ekkert afmyndað andlitsdrættina, þvert á móti hvíldi friður yfir ásjónunni. Svefninn verður hinum þreyttu vær, og há staða og tign eru öldungis eins þreytunni undirorpin og volæðisskapurinn. Einn stynur undir metorðum, smjaðri og margs konar andstreymi, sem tigninni er samfara, en hinn undir fyrirlitningu og eymd, en þreytan er hin sama, og andvörpin eru sprottin frá mæddu hjarta í báðum tilfellum.

Nokkru síðar stóð stór og fagurlega gjörð líkkista í Skálholtsdómkirkju. Útskornir englar með blaktandi vængjum mættust á miðju kistuloki. Það voru handaverk séra Ólafs Gíslasonar, sem setti þá á kistulok fósturföður síns og velgjörðarmanns. Við jarðarförina var ógrynni fólks úr öllum áttum, svo að jafn fjölmenn og virðuleg jarðarför hefur sjaldan verið á Íslandi, enda hefur þar og sjaldan jafn þjóðkunnur og vitur höfðingi verið lagður til hvíldar í gröfina og í það skipti. Ræðutextinn er nú gleymdur, en ræðurnar voru snjallar, fagurorðar og átakanlegar, fluttar af ræðuskörungum. Kistan var hafin út til hins síðasta legrúms síns, og nú bergmálaði í Skálholts stóru dómkirkju frá hjarta og munni snjallra söngmanna í fyrsta sinni þessi fagri líksálmur, sem hverjum Íslendingi er svo vel kunnur: "Allt eins og blómstrið eina" o. s. frv.

Líkfylgdin gekk niðurlút til grafarinnar. Líkinu var sökkt niður í hið geigvænlega og þögula djúp hennar. Og flokkurinn söng ennfremur meðan mokað var yfir gröfina: "Dauðinn má svo með sanni" o. s. frv. Sálmurinn, sem er 13 vers, var endaður, gröfin fyllt, og vinir og vandamenn sneru hryggir heim aftur. Legstað biskups og ættmanna hans merktu þeir aðeins um 30 ára tíma, og veit nú enginn með vissu, hvar bein hans hvíla. En nóttin leggur hvað eina á sinn stað. Dagurinn gengur að öllu vísu.


Hér skiljum vér þá við mikilmennið, saddan lífdaga í ró og næði, þeirri ró og þeim friði, sem lífið - þrátt fyrir allar sínar unaðssemdir - ekki gat veitt honum né nokkrum öðrum manni. Sitt hefur hver að kæra, og hver sitt böl að bera, einn þetta, annar hitt, og allir þykjast hafa meir en nóg. Hinn ríki og mikilsmetni þykist hafa meiri kröfur til lífsins unaðar og munaðar en hinn umkomulausi, og því fellur honum nær að trega það, sem hinn mundi kalla lítilræði, hégóma, ekki neitt. En þar eð sorg og sæla nærast og fæðast í ólíkum ímyndunar og tilfinningarheimi, getur engin mannleg speki lagt réttlátan dóm á það, hvað hver hefur að bera, hvað sé léttast og hvað sé þyngst. Akur mannlífsins framleiðir að vísu mörg fögur blóm kærleikans og blóm vísindanna, sem ber af flestum öðrum jurtum, en öll hafa þau þó smáa eða stóra þyrna, og afdrif þeirra allra verða, að þau falla fölnuð og dauð, fyrr eða síðar, í fang tímans. Hinn hægi og rólegi tími, hann hleður stórum valköstum að baki sér, þegar hann fer þegjandi leiðar sinnar. Svipastu um, gamli maður, og sjáðu, hann hefur lagt alla æskuvini þína að velli, hann hefur fellt stórbokka, sem þúsundir manna hafa staðið skjálfandi fyrir. Þess vegna, maður, þegar þú bindur heittelskaðan ástvin eða maka að hjarta þér, þá athugaðu, að öll jarðnesk gleði er fallvölt. Renndu augunum frá henni og til grafarinnar. Þar hvíla innan fárra augnablika bein þín og vinar þíns. Renndu augum þínum, gæðingur heimsins, frá gullskúfunum á öxlum þér. Þeir blikna von bráðar, og frá krossunum og heiðursmerkjunum á brjósti þínu, því að þetta eru mannleg heiðursmerki, sem innan skamms skreyta brjóst vina þinna eða óvina þinna eða þeirra, sem nú hvíla í óskapnaði, en rísa þá upp til jarðneskrar tignar, þegar þú hefur lagt þína tign niður í skaut jarðarinnar. Horfðu því, maður, út yfir takmörk tímans áður en þau yfirfalla þig. Mændu rólegur yfir alla þessa mannlegu rotnun og eymd. þangað sem ástvinaböndin verða endurknýtt, því að dauðans fölnun vofir yfir hverju einasta spori sínu meðan þú dvelst hér. Leiðin er að vísu hrjóstrug, en á henni dyljast þó mörg gullkorn, sem oss er ætlað að tína úr sandinum, það er að segja, draga einhverja andlega nytsemi út úr hverri þraut, svo að vér ekki göngum öldungis ómenntaðir út úr skóla lífsins, sem er svo snilldarlega lagaður til að temja anda vorn, þar sem hver ein tilhneiging hefur í sér fólginn hulinn hirtingarvönd, nógu sáran til þess að vér leggjum af brotin, ef vér einungis viljum skilja tilgang skólameistarans,


Yfirlit efnisins

Að endingu skulum vér líta sem snöggvast yfir söguvini vora, einkum þá, sem hafa horfið oss sjónum, án þess að lífsferli þeirra hafi nægilega verið fylgt.

Ólafur prestur Gíslason var orðinn allt annar maður, enda hafði hann nú slitið barnaskóm sínum. Þau hjónin voru komin til ára, þegar þau giftust, en það stóð ekki í vegi fyrir hamingju þeirra. Í staðinn fyrir ungdómskærleikann, sem ásta heitastur er sagður, unnust þau nú gegnum alvarlega reynslu margra ára, og var því hjónaband þeirra einungis innileg vinátta. En vinátta er líka nytsamur ávöxtur, meðan æskuástin einungis er ásjálegt blómstur. Börn áttu þau engin, en þau fóstruðu mörg munaðarlaus börn, og meðal þeirra nutu þau gleði og ánægju á ellidögunum. Ólafur prestur fékk seinna prestakall á Austurlandi. Einskis manns óvin var hann orðinn og kvað engar skopvísur, enda fór skáldskapur hans minnkandi, þegar hugurinn fór að snúast að búsýslu. Ein sérvizka loddi þó jafnan við hann, sú nefnilega, að hann var ófáanlegur til að skíra nokkurt barn í sókn sinni undir Daða nafni, og kvað hann það vera hið ljótasta nafn, sem hann heyrði, og vissi enginn, hvað til kom. Hann var þó enginn óvin orðinn Daða Halldórssonar. Þau Ólafur og Vilborg kona hans dóu í góðri elli.

Torfi prófastur Jónsson í Gaulverjabæ erfði mestallar eigur meistara Brynjólfs: fjögur hundruð hundraða í jörðum, og fémæta muni á sextíu hestum. Hann lézt í góðri elli 1689 og heiðraður af öllum, sem þekktu hann. Kona hans var Sigríður dóttir Halldórs lögmanns Ólafssonar. Á efri árum sínum þjáðist séra Torfi af geðveiki, og töldu sumir þá óblessun stafa af heitum hug fátækra ættingja meistara Brynjólfs, sem fóru á mis við féð, enda brann talsvert af lausafénu hjá séra Torfa.

Daði Halldórsson, sem svo víða er getið, var jafnan auðnulítill á meðan hann lifði. Hann var um tíma nálega hvergi óhultur um sig fyrir vinum meistara Brynjólfs. Eins og áður er sagt, sigldi hann til að sækja um uppreisn, en hann fékk hana ekki. Óhamingjan elti hann alls staðar, og flest misheppnaðist fyrir honum. Jafnvel gæfumenn vildu sem minnst við hann eiga. Illugi varð hans versti óvinur og gjörði honum allt til skapraunar. Hugðu margir óbænir hans orsök í ógæfu Daða, hvað sem í því hefur hæft verið. Daði kvongaðist og átti þrjár dætur, en lifði við örbirgð og alls konar basl, þar til á seinni árum batnaði nokkuð hagur hans. Daði dó á Núpi 1721, fjörgamall og blindur, og var kallaður Daði gamli. Hann varð elztur allra ættmenna sinna og aðþrengdur mjög, enda hafði hann af miklum burðum, þreki og óstýrilæti að láta.

Þórður prestur í Hítardal, vinur meistara Brynjólfs, lézt 1670, sárt saknaður af öllum. Hafði hann jafnan staðið sem andleg hetja í byltingum lífsins, gæddur liprum hæfileikum bæði til sálar og líkama. Hann átti Helgu dóttur Árna Oddssonar, lögmanns. Þeirra dóttir var Guðríður, kona meistara Jóns Vigfússonar á Hólum, sem minnzt hefur verið á.

Sigurður lögmaður Jónsson, hið mesta prúðmenni, varð lögmaður eftir Árna Oddsson á Leirá. Hann dó á Hvítárvöllum 1677. Kona hans var Kristín, systir Þórðar prests í Hítardal, sem vér vitum, að var hin ágætasta kona. Voru þau bæði jafnmiklir vinir biskups, og hugðu margir sprottið af fornri velvild þeirra á milli, því að biskup var trúfastur vinum sínum.

Jón - sem kallaður var - yngri sonur þeirra hjóna, fékk að biskupi látnum Ragnheiðar Torfadóttur, er hann lengi hafði unnað. Hann varð síðar mesti maður og sýslumaður í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu. Hann dó 1730.

Páll prófastur í Selárdal lifði meistara Brynjólf mörg ár. Með þeim var jafnan góð vinátta. Hann átti Helgu dóttur Halldórs lögmanns og var talinn þriðji mesti lærdóms- og menntamaður Íslands á sinni tíð. Hann var dótturson séra Arngríms lærða og dó 1706.

Frá séra Þorsteini Bjarnarsyni er ekki margt að segja. Hann lifði lengi við líkþrá mikla, en hann lifði lítið í betrun lífernisins, því að hann var jafnan sagður drambsfullur og göldróttur. Hann bjó á eignarjörð sinni, Setbergi í Garðasókn, til dauðadags, og setti hann sér sjálfur eftirfylgjandi grafskrift á latínu:

"Hér liggur Þorsteinn Bjarnarson. Blómstur sinnar fornu fósturjarðar - mikill í fornsögum föðurlandsins. Hann lifði 63 ár. Dó 1675. Hvíli hann í friði."

Illugi frændi hans var látinn, þegar hér er komið sögunni. Hann hét að senda Daða Halldórssyni draug fyrir allt og allt, en honum entist ekki aldur til þess, því að hann varð bráðkvaddur nokkru síðar en Sigríður stórráða giftist í öðru sinni. Illugi fékk slíkan ástarþokka til hennar, að hann sagði Þorsteini frænda sínum, að fengi hann ekki þeirrar konu, mundi hann ekki lifa lengi, því að þar hefði fyrst kærleiki sinn komið niður fyrir alvöru. En Þorsteinn prestur var þá orðinn ryðgaður í öllum dýpri galdragreinum, einkum sökum veikinda sinna, og gat ei hjálpað honum. En það sögðu sumir, að þeir frændur hefðu ekki bezt beðið fyrir seinni manni Sigríðar, Jóni Eggertssyni. Eins og seinna sýndi sig, varð Jón enginn hamingjumaður og fór lengi landa á milli til að klaga og rægja höfðingja. Illugi dó ókvæntur og varð fáum harmdauði.

Um bóndann, sem forðum vildi selja biskupi part sinn í Dvergasteini, er ekkert frekara að segja. Hann dó nokkrum árum síðar í Skálholtssókn, en Jón son hans, sem Daði Halldórsson kom í smásveinsþjónustu biskups að Skálholti, lét biskup hafa frían skólagang og vígði hann síðan til prests. Seinna fékk hann jörðina Dvergastein til ábúðar og varð auðsæll.

Hallgrímur á Víðimýri flutti síðar að Vík í Sæmundarhlíð. Hann var þá búinn að missa Ólöfu konu sína, en jafnan var hann glaður og hispurslaus sem til forna. "Svo er lengi sinnið sem skinnið", segir máltækið.

Sveinn gamli Sverrisson, staðarsmiður, lézt heima í Skálholti löngu áður en meistari Brynjólfur og var þá orðinn karlægur og elliær. Hann sagði biskupi frá mörgum fornum atriðum, er gjörðust í tíð forfeðra hans, og ritaði biskup margt upp eftir honum, því að Sveinn var sannorður og minnugur, þó að hann væri fávís.

Sæmundar stúdents mun verða getið að nokkru. Hann varð ekki gamall maður, en það varð fljótt um hann litlu eftir brúðkaup Ólafs og Vilborgar, og sögðu sumir það mundi hafa verið af söknuði út af missi hennar, en aðrir báru á móti, því að hún hefði aldrei gefið honum neina von, svo að líklegra er, að dagar hans hafi verið taldir, er dauðann bar að, en hann hafi þannig hnigið fyrir örlög fram. Hann ritaði margar smærri ritgjörðir, og voru þær snoturlega orðaðar, en að öðru leyti ekki merkilegar.

Halldór Ólafsson, lögmaður, sem fyrst kemur fyrir í sögunni, var göfugur höfðingi, en þegar saga þessi byrjar, endaði hinn starfsami verkahringur hans. Kona hans var Halldóra, systir Helgu, konu Odds biskups Einarssonar í Skálholti. Þær voru sonardætur Jóns biskups Arasonar. Halldór lögmaður var faðir Margrétar konu meistara Brynjólfs. Hann dó í Skálholti 1638.

Halldóra ekkja hans, sem vér kynntumst við í brúðkaupsveizlunni á Skriðu, var göfug kona. Hún fór með meistara Brynjólfi til Skálholts með þrjár dætur sínar: Helgu, sem átti Páll prófastur í Selárdal, Sigríði, sem átti Torfi prófastur í Gaulverjabæ, og Valgerði, sem átti séra Guðmundur á Keldum. Halldóra dó í Skálholti, svo að meistari Brynjólfur uppfyllti vel síðustu bæn Halldórs lögmanns, þegar hann bað hann að reynast konu sinni og börnum vel.

Omur Vigfússon, ráðsmaður, hafði haldið hálfa Borgarfjarðarsýslu áður en hann gjörðist Skálholtsráðsmaður. Hann var mikilmenni og ófyrirleitinn á æskuárum og eldi lengi eftir af, því að þegar hans getur í veizlunni, var hann mjög hniginn á efra aldur. Hann dó í Eyjum í Kjós 1675, 90 ára gamall. Frá honum er mikil ætt komin.

Jón Halldórsson, mágur biskups, sat stutta stund að ráðsmennskunni í Skálholti. Hann drukknaði í Brúará fáum árum síðar og harmaður mjög af biskupi og ættingjum sínum, því að hann var merkilegur maður. Seinni konu hans, Ingibjörgu, átti síðar Þorleifur lögmaður Kortsson.

Guðmundur Andrésson hefur og lítið eitt komið við söguna. Verður því að geta hans að nokkru. Hann var, svo sem áður er sagt, sakfelldur fyrir skriflega útásetninga um hinn svonefnda Stóradóm, en hann hafði jafnframt samið kímnirit um Þorlák biskup út af þeirra sökum, og ákærði biskup hann á þingi fyrir höfuðsmanni Henrik Bjelke um Stóradómsritið. Guðmundur var tekinn og settur í Bláturn, fangelsi í Kaupmannahöfn. En eina nótt um veturinn kom hann inn í herbergi það, sem fóstrur konungsbarna voru fyrir í, og var þá mjög óðamála og á íslenzkum bóndabúningi. Konurnar urðu ákaflega hræddar, og óp og háreysti heyrðust víðs vegar um borgina, og þusti þangað múgur og margmenni til að sjá, hvað um væri að vera. Guðmundur varð einnig forviða og bað að láta sig inn aftur, kvaðst hafa hrapað ofan úr glugganum, þegar hann að vanda hefði verið að skoða himintunglin. En hversu það var mögulegt, eða hversu hann komst þaðan, er óleyst gáta enn í dag. Út úr þessu var að konungsboði mál hans rannsakað. Var ritið lagt út á dönsku, og Guðmundur látinn laus. Hann dó 1654 úr bólunni, sem þá gekk í Kaupmannahöfn og seinna kom til Íslands.

Ævi Hallgríms Péturssonar er öllum kunn. Hann dó 1674. Ekki er þess getið, að börn hans, þau er lifðu, hafi tekið holdsveikina í arf. Guðríður kona hans dó fjörgömul í Saurbæ og var þá orðin trúrækniskona hin mesta.

Loftur prestur Jósefsson, sem dæmdur var á konungs náð og fór utan með sagnaritara Þormóði Torfasyni, var lengi síðan erlendis, en kom aftur inn gamall, og hafði Jón biskup Vídalín hann fyrir kirkjuprest. Voru í millibili liðin 37 ár, og ellefu prestar höfðu þjónað Skálholtskirkju frá því að hann fór í útlegðina og til þess hann kom þar aftur. Loftur dó 1724.

Sagnaritari Þormóður Torfason sigldi utan með arfa sína, 18 hundruð ríkisdali, en varð á þeirri ferð, sem áður er á vikið, dönskum manni óvart að bana, og missti hann við það embætti sitt, en var að öðru leyti náðaður af konungi. Eftir það bjó hann lengi í Kaupmannahöfn. Hann var tvígiftur, en átti engin börn á lífi. Hann dó 1719. - Þormóður var hinn mesti lærdóms- og vísindamaður og sómi þjóðar sinnar. Hann kom fornsögum Norðurlanda mjög í álit og útlagði þær allar á latínu í eina bók og kom Íslendingum fyrstur í það álit, að þeir vissu allar norðlenzkar sögur í forneskju sannastar.

Jón biskup Vigfússon, kallaður Bauka-Jón, af því að hann fyrr meir seldi tóbak í baukum, varð biskup að Hólum 1684, að Gísla biskupi Þorlákssyni látnum, og dó 1690 í fyllsta máta saddur lífdaga, því að Norðlendingar undu illa við að hafa sýslumann - og hann veraldlega sinnaðan - fyrir andlegt yfirvald. Kona meistara Jóns var, eins og fyrr er sagt, Guðríður Þórðardóttir frá Hítardal. Þeirra börn voru Þórður prófastur á Staðarstað og Sigríður, kona Jóns biskups Vídalíns, og fleiri.

Henrik Bjelke var mikils virtur af Friðriki 3., enda dró hann hans taum í flokkastríðinu milli aðals og konungs. Hann var af mörgum vel þokkaður á Íslandi, þótt hann fégjarn þætti, enda var Ísland í þá daga féþúfa Dana. Bjelke var frægur af hreystiverkum og ættgöfgi. Varð riddari af elefantsorðunni, ríkisaðmíráll o. fl. Hann dó 1683. - Á seinni árum sínum, er hann gjörðist gamall og feitur, sat hann heima í Danmörku, en hafði umboðsmenn sína uppi á Íslandi, og gáfust þeir misjafnlega.

Meistari Þórður Þorláksson varð Skálholtsbiskup 1670. Hann var vel liðinn og vitur, þótt ekki væri hann þvílíkur sem formaður hans. Hann dó 1697 í Skálholti eftir langvinnan heilsulasleika. Gröf sína og líkkistu hafði hann tilbúna löngu áður en hann dó. Hugðu menn hann þess vegna gjöra það, að hann hefði frá æskuárum þráð dauða sinn, og kenndu um fornum hörmum. Þórður biskup var lipurt prúðmenni, spakur í lund, vel að sér í mörgu og stjörnufróður. Hafði hann ferðazt meira í útlöndum en flestir aðrir og var einhver hinna bezt menntuðu manna, sem voru uppi á Íslandi. Kona hans, Guðríður Gísladóttir, dó að Hlíðarenda, þegar Jón biskup Vídalín sat að stóli. Hún var jörðuð í Skálholti. Þau áttu einn son á lífi, sem Brynjólfur hét, eftir meistara Brynjólfi. Hann var sýslumaður og bjó lengi á Hlíðarenda. Allir sonarsynir Þorláks biskups á Hólum tóku sér viðurnefnið Thorlacius. - Og er þá flestra þeirra manna getið, er komið hafa fyrir í sögunni, sem vér hér með segjum lokið.


Eftirmáli

Í sögu þeirri, sem hér kemur fyrir almennings sjónir, hef ég drepið á hin helztu lífsatriði Brynjólfs biskups Sveinssonar og fleiri manna, er honum við koma, sem mér eru kunn, og bið ég hér með lesarann að virða á hægra veg, þótt í mörgu kunni að vera of eða van hjá mér sem öðrum. Sagan er bæði sönn og ósönn. Þótt ég hafi valið henni þau nöfn, sem einu sinni stóðu á lista hinna lifanda, eru þó mörg atvikin sköpuð. Ég hef farið sem næst þeirri mynd, sem ímyndunarafl mitt hefur gefið þessum mönnum. En þar eð það er ónógur kraftur og hvarflandi ljós, þá gefur að skilja, að það í mörgu víkur frá hinu rétta, eða frummyndinni, og er það mikil vorkunn, þar sem ekkert verulegt, sem augað eða eyrað getur óhult stutt sig við, er fáanlegt, því að gamlar lýsingar og myndir ganga engu nær hinni verulegu mynd, sálargáfum og eiginleikum þess, er færa skal fram á leiksviðið heldur en liðið lík lifandi manni eða rituð málsgrein hljómfagurri ræðu.

Sömuleiðis vonast ég eftir vægum dómi, þótt ég hér hafi valið mér fyrir söguefni lífskjör þeirra manna, sem töluvert hefur kveðið að í þjóðfélaginu. Þótt það að ýmsu leyti kunni að vera vandasamara verk, þá eru þeir þó öllum sömu tilhneigingum undirorpnir sem smælingjarnir og standa, eins og þeir, hvorki fyrir ofan né neðan umtal annarra manna. Lífsferill hvers einstaks manns samanstendur af margvíslegum ytri atvikum og innri tilfinningum, sem enginn fær rakið til hlítar. Vér lítum einungis yfir ferilinn í heild sinni, þegar hann er liðinn, og þá kemur hann fram fyrir sljóum augum vorum ýmist aðdáanlega merkilegur eða fyrirlitlega ómerkilegur. En mun hann í raun og veru vera svo? Mun nokkur sá snillingur hafa lifað á þessari ófullkomnu jörð, sem ætíð var sjálfum sér samþykkur, sem ætíð, hversu sem hamingjuhjól hans snerist, kom fram í orðum og verkum sem sannur spekingur? Eða að hinu leytinu, munu ekki margir þeir leynast meðal fjöldans, að í fótsporum þeirra finna mætti mörg gullkorn, marga sannkallaða tigna athöfn, sem fátækt, lítilfjörlegt ættarnafn og ófullkomin menntun skyggir á? Ég hygg svo.

En þyki lesaranum ég hafa dregið skapferli svo mikilsháttar manna, til dæmis Brynjólfs biskups, ósamhljóða og of auvirðilega fram fyrir augu almennings, þá stendur öllum ennþá opið að gjöra betur, og væri vel, ef blöð þessi yrðu til að minna þá, sem mér eru færari, á gleymda fjársjóðu margra alda, sem mig vantar ekki vilja heldur hæfileika til að leiða fram í fullkominni frummynd sinni.

Þyki ennfremur einhverjum ég vera of berorð um ýmis miður heiðarleg málefni, get ég ekki svarað þar til öðru en því, að þessi sönnu atriði voru hirtingarvöndur söguhetjunnar og máttu því ekki missa sig, ef sagan átti að vera líking hins sanna. Sömuleiðis á og má hver yfirsjón dragast fram í hinni réttu mynd sinni. Það er ósönn og skökk kurteisi að hlaupa yfir þær eða hjúpa þær sakleysisblæju í augum almennings.

Að endingu skal ég geta þess, að þau rit, sem ég hef haft til stuðnings sögu þessari, eru eingöngu Árbækur Jóns Espólíns og lýsing Sigurðar málara Guðmundssonar á Þingvelli. Kirkjusögu Finns biskups hef ég því miður ekki getað náð til.


T. Þ. H.
Netútgáfan - febrúar 2001