BORGIR

eftir Jón Trausta
1. kafli - Messufall

Anno Domini 1898, sunnudaginn hinn sjötta eftir Trinitatis, laust fyrir hádegi, sat ungi aðstoðarpresturinn á Grund í Grundarfirði, séra Gísli Jónsson, við opinn glugga í stofunni og horfði út á fjörðinn.

Hann ætlaði að leggja út af guðspjallinu um réttlæti Faríseanna um daginn og hafði ræðuna tilbúna. Hún lá skrifuð fyrir framan hann á borðinu. Hann var búinn að þaullesa hana, svo að hann var viss um, að hann mundi hvergi reka í vörðurnar. En nú var hann farinn að örvænta um, að sér mundi gefast kostur á að flytja hana að þessu sinni, því að enginn kom til kirkjunnar.

Þótt svo langt væri fram á daginn liðið sem áður er sagt og komið að algengum messutíma, sást hvergi til mannaferða, hvorki á firðinum né út með honum á bæði lönd, svo að líkur væru til, að þar væri kirkjufólk á ferð.

Það er hart fyrir ungan aðstoðarprest að sitja yfir nýsaminni ræðu um réttlæti Faríseanna og fá engan til að hlusta á hana. Meðhjálparann taldi hann ekki. Hann var landseti Torfa gamla og bjó í Grundarseli, þar lengra inni í dalnum. Hann var stöðugur heimagangur á prestssetrinu, og nú var hann kominn inn í baðstofuna til vinnufólksins og sat þar með skyrask á hnjánum. Ekki einu sinni forsöngvarinn ómakaði sig til kirkjunnar þennan dag.

Veður var undur fagurt, fjörðurinn spegilsléttur, og stóðu myndir fjallanna þar á höfði. Úti í firðinum var glaða sólskin, en þokuflókar höfðu safnast á heiðarbrúnina fyrir fjarðarbotninum, og bar skuggana af þeim yfir innri hluta dalsins.

Stofugluggarnir sneru út að firðinum, og stóð bærinn hæfilega hátt til þess, að þaðan væri hin fegursta útsýn út eftir firðinum.

Neðan við bæinn voru rennisléttar grundir, en ljósaslikjuflóar niðri við árósana. Eyjar lágu í ánni; voru þær grasi vaxnar og fríðar á að líta. Þetta voru engjar og bithagar prestssetursins. Utar rann áin út á leirur í fjarðarbotninum, sem fjaraði af; en utan við þær tók fjörðurinn við. Þar voru brattar og klettóttar fjallabrekkur, með skriðuhlaupum ofan í sjó, en engin bygð hvorugum megin. Út að næstu bæjum á fjarðarströndunum voru meðallangar bæjarleiðir og vegir ógreiðir.

Lengra úti var sem fjörðurinn lokaðist af tveim eyrum, sem gengu fram sín hvorum megin, og sá ekki lengra frá Grund. Þótt ekki stæðust eyrar þessar á, leit svo út heiman frá Grund og bar eyraoddana saman. Í raun og veru lá Stafnes nokkru innar en Gráfeldseyri, og gerðu eyrarnar bugðu á fjörðinn. Innan úr dalnum að sjá var innfjörðurinn sem stórt stöðuvatn.

Á báðum þessum eyrum var mikil bygð. Á Stafnesi var Norðmannastöð, og lágu skip þeirra í krikanum innan við nesoddann. Gráfeldseyri var miklu stærri, og var þar aðalkaupstaður fjarðarins.

Nú var með fegursta móti að líta þangað út eftir. Húsaþyrpingin á Gráfeldseyri blikaði í sólskininu, því að margir höfðu málað hús sín með ljósum litum að dæmi konsúlsins. Húsin á Stafnesi sáust skýrar, og voru þau með rauðum helluþökum. Innan við báðar eyrarnar lágu skip fyrir akkerum; var sem allþéttur runnur væri vaxinn upp yfir bygðina á báðum löndum og næði saman miðfjarða. Í gegnum runninn glitti í hvítar breiður af saltfiski, sem breiddur var til þerris á mölina fyrir framan húsin á Gráfeldseyri.

Há fjöll og hömrótt gengu fram með firðinum báðum megin og sýndust fara lækkandi eftir því, sem utar dró. Til vinstri handar frá Grund voru þau fegri og reglulegri. Þar stóð Gráfeldur og upp úr miðri fylkingunni, beint upp frá eyrinni, og gnæfði yfir öll hin fjöllin. Frá honum var tindaröðin því nær óslitin inn fyrir fjarðarbotn. Voru þar hamraflug með hvössum brúnum og láréttum stöllum, en djúp og hrikaleg gljúfur til og frá. Var sú fjallsýn bæði fögur og mikilfengleg.

En séra Gisli gaf þessari fegurð lítinn gaum. Hann gat ekki um annað hugsað en kirkjufólkið og ræðu sína um réttlæti Faríseanna. Þetta indæla veður jók á gremju hans; því minni vorkunn var mönnum á því að koma til kirkjunnar. Í slíku veðri var messufall óafsakanlegt.

Séra Gísli hafði góða sjón og góðan sjónauka, sem Torfi gamli átti, sér til aðstoðar, en alt kom fyrir ekki. Hann skimaði út með báðum löndum, en þar var ekkert kvikt á ferli, hvorki á sjó né landi. Hann leitaði nákvæmlega í skugganum undir fjarðarklettunum, hvort hvergi blikaði þar á árar; en því var ekki að heilsa. Úti við eyrarnar lágu skipin án þess að bærast og sneru skutunum inn eftir. Bátum var róið þar fram og aftur, en enginn þeirra stefndi inn á fjörðinn. Ómur af barsmíði, hrópum og háreysti barst utan eftir firðinum, - ömurlegur vottur um hið hvíldarlausa líf þar ytra, sem herjaði á helgidagsfriðinn í Grundardalnum, þar sem kirkjan stóð tóm og klukkurnar þögðu. - Alt þetta fanst séra Gísla því nær óþolandi.

Og í gremju sinni greip hann ástfóstur anda síns, ræðuna um réttlæti Faríseanna, af borðinu og stakk henni í frakkavasa sinn.

Einu sinni enn skimaði hann út eftir firðinum og stundi við. Svo stóð hann á fætur og fór að ganga um gólf.

Þá heyrði hann stigið þungt til jarðar inni í göngunum. Hann þekti fótatakið.

Torfi gamli var að koma.

- - -

Gísli prestur var hár maður vexti, rauðhærður, með rauðleitt efrivararskegg og dálítið freknóttur í andliti. Ekki var hann fríður sýnum né karlmannlegur nema í meðallagi. Yfirsvipurinn var skír og greindarlegur, en unglingslegur og óharðnaður.

Á skólaárum sínum hafði hann átt við marga mæðuna að búa. Fyrst og fremst þá, að hann var fátækur og varð að vinna baki brotnu á sumrin, til þess að geta stundað nám á veturna. Hin var þó verri, að skólabræður hans höfðu jafnan horn í síðu hans. Hann stóð flestum þeirra að baki að líkamlegri atgervi, og var því stundum níðst á honum. Þá bætti það og ekki um fyrir honum, að hann var rauðhærður og freknóttur; það varð tilefni til þess, að skólabræður hans nefndu hann "rauðkussa", og loddi það nafn við hann alla skólatíð hans. Það espaði þá einnig, að hann var þrautiðinn við nám sitt og kom sér vel við kennarana. Fyrir það var hann kallaður "skelfiskur"; átti það að réttlætast af því, hve mikið hann lokaði sig inni. Hann bar þó af skólabræðrum sínum í einu: hann var allra manna fljótastur að hlaupa. Þó var þetta ekki svo að skilja, að skólabræðrum hans væri illa við hann eða þeir hefðu sakir á hann að bera. Allir játuðu þeir, að Gísli væri mesta meinleysisskinn og vildi engum mein gera. En þeir gátu aldrei á sér setið nema stríða honum.

Gísli tók sér ertni þeirra nærri og vildi feginn koma sér vel við þá, engu síður en kennarana. Þetta vissu þeir og reyndust honum þá oft miður hollir vinir: fengu hann með blíðmælum til að gera eitthvað það, sem þeir töldu viðsjárvert; hlógu síðan að honum, þegar hann varð fyrir afleiðingunum, og létust hvergi nærri hafa komið.

Þessi sambúð við skólabræður hans gerði hann tortrygginn og einrænan í lund, en svifti hann jafnframt öllu sjálfstrausti. Hann varð kjarklítill og óákveðinn og fanst hann aldrei mega vera án stuðnings einhverra annara manna, án þess hann þyrði þó nokkrum að treysta til fulls. Í samræmi við þetta hugarástand varð hann ennþá kindarlegri og lítilmótlegri á svipinn, og skólabræðrum hans varð jafnan meira og meira uppsigað við hann.

Við stúdentsprófið réttist nokkuð úr honum, því að þá fékk hann góða einkunn og hækkaði mjög í áliti manna. Þá dreifðust þeir líka í allar áttir, sem verið höfðu bekkjarbræður hans og mest plágað hann í skólanum, og skildu þeir nú við hann með vináttu.

Þá datt af honum "rauðkussa" - nafnið og "skelfisks" titillinn, því að engum, ekki einu sinni skólabræðrum hans, þótti sæma að klína slíku á stúdent.

Árin, sem hann var í prestaskólanum, unnu nokkuð á í þá átt að gera hann mannalegri og mannblendnari, en þó fór því fjarri, að þau fengju eytt öllum þeim óheilla-afleiðingum, sem skólavistin í latínuskólanum hafði haft. Og þótt nú bæri meira á framgirni og sjálfstrausti hjá honum, var hann stöðugt hikandi, eins og hann ætti jafnan von á hlæjandi skólapiltum í humátt á eftir sér.

Nú var hann framgenginn úr allri hinni löngu og ströngu skólabaráttu, búinn að vera barnakennari tvo vetur og loks orðinn aðstoðarprestur hjá Torfa og trúlofaður Þórdísi dóttur hans. Aldrei hafði hann fundið jafnfast land undir fótum sér.

Kunningsskapur þeirra Torfa var þannig til kominn, að faðir Gísla hafði lengi verið fjármaður hjá Torfa, áður en hann fór að búa í sveit, þar skamt frá.

Síðan hafði hann komið Gísla fyrir hjá Torfa, til þess að læra undir skóla, því að Torfi tók marga unga sveina heim til sín í því skyni á þeim árum.

Þetta varð til þess, að Torfi tók eftir hæfileikum drengsins og þóttist geta ráðið það af ýmsu, að hann væri hneigður til búsýslu, en það þótti Torfa ómetanlegur kostur.

Hann lét sér því nokkru annara um Gísla en aðra drengi, sem hjá honum höfðu verið, og studdi hann með ráði og dáð að skólanáminu, og stöku sinnum var Gísli þar að sumarvinnu. Gísli varð því allkunnugur á heimili Torfa, og nokkru eftir að hann útskrifaðist, trúlofaðist hann Þórdísi. Torfi lét sér þetta vel líka, og skömmu síðar bauð hann Gísla að verða aðstoðarprestur hjá sér, á meðan hann fengi ekki annað embætti betra. Þetta þektist Gísli, og nú var hann búinn að vera á Grund í tæpar sex vikur og messa þar einu sinni.

Nú horfði vænlega á um hag séra Gísla, því að Þórdís var einbirni, en Torfi efnaður. Samt var hann ekki alls kostar ánægður.

Það var æðimikill aldursmunur á þeim hjónaefnunum, því að þótt Þórdís væri dóttir seinni konu Torfa, var hún fullum átta árum eldri en séra Gísli. Þessi mikli aldursmunur var honum áhyggjuefni. Það var því ekki laust við, að honum fyndist stundum í einrúmi, að hann hefði verið helzt til fljótráður í einkamálum sínum.

Ofan á þetta bættist, að honum fanst Torfi vera sér ofjarl í flestu og líta niður á sig sem sveinstaula, en Þórdís hafa blint traust á föður sínum, og því minna á honum.

Þó var hann ekki í efa um, að henni þætti hjartanlega vænt um hann; en honum fanst ást hennar líkjast meira ást móður en unnustu. Þetta, ásamt fleiru, sem fyrir kom smátt og smátt, gerði hann hugsandi um hagi sína og dró mjög úr innileik hans við Torfa og heimili hans.

Eins og áður er sagt, var Þórdís einkabarn Torfa. Unni hann henni mikið, enda var hún honum mjög að skapi. Hún var góð og blíðlynd stúlka og ávann sér ást og traust hvers manns, sem kyntist henni, en gaf sig lítt að ókunnugum og þótti fremur ómannblendin. Svo var hún geðstilt, að enginn þóttist hafa séð hana skifta skapi. Furðaði margan á þessu, því að faðir hennar var mjög skapmikill, þó að hann einnig væri stiltur vel.

Ekki var hún talin fríð stúlka og þótti líkjast föður sínum helzt til mikið í útliti. Töldu menn það orsökina til þess, að færri höfðu biðlarnir ómakað sig heim að Grund en við hefði mátt búast, ef litið var á tíundaskrána.

Nú var hún komin á þann aldur, að æskufegurð hennar var nokkuð farin að láta á sjá. Einkum þótti sumum það lýta andlitsfegurð hennar, að hún var mjög blóðrík, en blóðið sem storknað í kinnunum. Roðinn var að vísu nægilega mikill og jafnvel helzt til mikill; en það var ekki hinn létti, leikandi roði, sem kemur og hverfur við örlítil geðbrigði og fer mörgum ungum stúlkum svo yndislega, heldur sá í hárfínt net af rauðum æðum gegnum hörundið, sem aldrei breyttu stærð eða lit. Og ykist blóðsókn að andlitinu, sló jafnvel bláum blæ á kinnarnar.

Að öðru leyti var andlitið vel skapað; svipurinn hreinn, greindarlegur og ætíð glaðlegur.

Þórdís var fámælt, gaf sig lítið á tal við gesti, en þótti koma vel fyrir sig orði, ef á hana var yrt. Lengst af hafði hún verið heima í föðurgarði og lítið farið burtu. Þó voru menn þess fullvissir, að ekki stæði hún öðrum konum að baki að kvenlegri mentun, þó að víðar hefðu þær farið. Höfðu margar ungar stúlkur úr nágrenninu leitað til hennar til hannyrðanáms.

En það kom öllum saman um, að í bóklegri mentun stæði hún öllum stúlkum framar. Að upplagi var hún mjög hneigð til bóknáms, las mikið, en hafði afbragðs minni.

Torfi hlynti mjög að námfýsi hennar, enda var hann sjálfur bókamaður hinn mesti. Þótti það sannast, að fáir mundu þeir hlutir vera milli himins og jarðar, að Þórdís vissi ekki skil á þeim.

Af þessu var Torfi mjög hróðugur, og var það hans mesta yndi að kalla á Dísu sína og spyrja hana óviðbúna um eitthvað það, sem í fræðibókum stendur. En einu mátti gilda, hvort það var sögulegt eða náttúrufræðilegt, landfræðilegt, mannfræðilegt eða stjörnufræðilegt - eða í hverri grein, sem bækur Torfa náðu til; Þórdís gaf oftast greið svör.

Í fyrstu hafði Torfi gert þetta sér til gamans, en svo var nú komið, og það fyrir löngu, að hann reiddi sig á svör Þórdísar og sparaði sér með því margt ómak við að leita í bókum sínum að því, sem hann vildi muna, en mundi ekki í svipinn.

Oft hafði þetta verið haft í flimtingi í firðinum, og gáfu fjarðarbúar Þórdísi auknefnið: "fræðasyrpan".

Löngum hafði því verið spáð þar í firðinum, að Þórdís mundi seint giftast, og voru margar sagnir til um það, að Torfi ætlaði þeim ríflegan heimanmund, sem tæki hana að sér. Engum þótti það undarlegt að vísu, þótt Torfi hefði hug á að afla einkadóttur sinni góðs gjaforðs; en af því höfðu menn þó einhverja óljósa ánægju, að árin liðu hvert eftir annað, áður en það tækist.

Það kom því eins og skrugga úr heiðríkju yfir fjarðarbúa, að Þórdís væri trúlofuð aðstoðarprestinum; því að fyr en hann var orðinn það, var trúlofunin ekki opinberuð. Þetta var mönnum notadrjúgt umtalsefni fyrstu vikurnar.

En svo barst sú hvalsaga út eftir firðinum, sem mönnum þótti þó enn meiri matur í og ekki var sparað að auka og fegra, - að ungi presturinn vildi hvorki heyra né sjá "fræðasyrpuna".

- - -

Það var ekki trútt um, að séra Gísla yrði undarlega við, þegar hann heyrði fótatak Torfa fram eftir göngunum. Þeir hittust sjaldan, því að séra Torfi lá oftast uppi í rúmi sínu inni í baðstofu og var lítið á ferli, en aðstoðarpresturinn hélt til í stofunni.

Séra Gísla var eigi heldur ant um, að fundum þeirra bæri saman, og bezt leið honum, þegar hann vissi tengdaföður sinn tilvonandi í rúminu. Þeim kom saman um fátt.

Nú vissi hann, að Torfi mundi koma inn til hans.

Torfi þrammaði fram um endilangar bæjardyrnar og út á hlað. Þar stóð hann við stundarkorn, litaðist um og viðraði sig. Geispaði því næst og strauk sér um ennið, eins og honum væri nýnæmi á því að koma undir bert loft.

Séra Gísli horfði á hann út um stofugluggann og sá það á honum, að hann var í óvenju góðu skapi.

Þegar séra Torfi hafði viðrað sig lyst sína, gekk hann aftur til bæjarins og beint inn í stofuna.

Séra Torfi var rúmlega hálfsjötugur að aldri og mjög orðinn hvítur fyrir hærum. Hann hafði verið hið mesta hraustmenni og heilsugóður alla æfi sína. Þessari heilsu hélt hann enn að mestu. Þó var hann nú orðinn gigtveikur og kaus hvíld og næði mestan hluta dagsins.

Hann var mikill maður vexti og gekk ennþá teinréttur. Nú var hann orðinn feitlaginn mjög og því þungur á fæti; en fyr hafði hann verið léttleikamaður hinn mesti og gengið að allri vinnu. Einkum hafði það verið fárra meðfæri að fylgja honum eftir fótgangandi í ófærð eða róa á móti honum í barningi.

Ekki þótti Torfi smáfríður; var andlit hans stórfelt, en þó ekki ljótt. Munnstór var hann og nefstór, brúnamikill og kinnbeinamikill, þótt ekki væri til stórlýta. Ennið var hátt og mikið og yfirsvipurinn hreinn og djarfmannlegur. Augun voru lítil, en grá og hvöss og lágu í skútum undir brúnabrúskunum. Vangaskegg hafði hann allmikið, en rakaði varirnar og hökuna. Framan af höfðinu að ofan var hárið fallið af, en hárkraginn umhverfis oftast úfinn; greiddi Torfi einn lokkinn yfir þveran skallann, og lá hann eins og bogabrú á milli þess, sem eftir var af hárinu.

Eins og verða vill á ýmsum gömlum mönnum, hafði yfirlitur Torfa allmjög breyzt með aldrinum, þótt ekki væri hann drykkjumaður, og bar nú mjög á bláum hörundslit á nefi og kinnum. Sömuleiðis lýtti það andlitið nokkuð, að stórar tennur stóðu stakar niður úr gómnum, en á milli þeirra var gómurinn auður, og drap Torfi fast í skörðin, þegar hann mælti.

Tvær stofur voru á Grund, er báðar sneru göflum fram á hlaðið. Hét önnur Prestsstofa, en hin Þingstofa. Það var Prestsstofan, sem séra Gísli bjó nú í. Hún var traustbygð sem önnur staðarhús þar, þau er bygð höfðu verið í tíð séra Torfa, blámáluð hið neðra með hvítu lofti, og þótti hið snotrasta herbergi. Þar stóð rúm séra Gísla við stafnþilið að hurðarbaki, en við annað hliðarþilið stóð orgel-harmoníum Þórdísar prestsdóttur, allstórt og mjög vandað. Að öðru leyti voru kistur og dragkistur fram með veggjunum, en borð á milli glugganna og stólar við það.

Séra Torfi settist á kistu við endann á orgelinu, strauk höndunum um hné sér og reri fram á við. "Gott veður", mælti hann.

Séra Gísli stóð kyr og horfði út um gluggann. Hann var sem viðutan.

"O-jæja", mælti hann. "Sólskinslítið, - hérna inni frá að segja".

Svo féll samtalið niður um stund. Torfi reri og strauk hnén.

Sástu nokkuð til kirkjufólks?" spurði séra Gísli í hálfónotalegum rómi. Hann var í því skapi nú, að hann var tilbúinn að mæta Torfa á hösluðum velli.

Torfi hætti að róa og leit upp, eins og þessi spurning kæmi honum á óvart.

"Kirkjufólks -! Dettur þér í hug, að nokkur maður komi til kirkju í dag? - Nei, vertu blessaður - - ".

"Nú, því þá ekki?" spurði séra Gísli nokkuð önugur.

Torfi hristi höfuðið: "Þeir hafa um annað að hugsa hérna úti í firðinum um þessar mundir en það að sækja kirkju".

"Sækja þeir þá aldrei kirkju - á sumrin?"

"Og ekki á veturna heldur. Hér er ekki kirkjurækið fólk".

"Með öðrum orðum: aldrei?"

"Jú, þegar einhver þarf að gifta sig eða einhver deyr".

"Og þetta hefir þú - komið mönnum upp á!"

Torfi glotti: "Mér er engin þægð í, að þeir sæki kirkju".

Aftur varð þögn um stund. Torfi fór aftur að róa og strjúka hnén og smáglotti við. En séra Gísla þyngdi fremur í skapi. Honum fanst það ganga guðlasti næst af gömlum presti að tala jafnkuldalega um aðra eins hluti og þetta.

"Það er líka hlægileg heimska að hafa kirkjuna hér inni í fjarðarbotni".

"Nú, það læt ég vera! - Eða hvar viltu hafa hana?"

"Úti í kaupstaðnum, - auðvitað".

"Jæja, - svo þú vilt það?"

"Já, er það ekki sjálfsagt, að kirkjan sé flutt þangað, sem fjölmennast er?"

"Þetta hefi ég heyrt áður".

Séra Gísli leit framan í tengdaföður sinn tilvonandi, til þess að vita, hvort honum væri blá alvara. En Torfi reri og glotti sem áður.

"Hérna - inni í fjarðarbotni - hefir nú kirkjan staðið í níu aldir. Áður en hún var bygð, stóð hér goðahof; - það sér enn votta fyrir tóftinni hérna neðan við varpann. Allar þessar aldir hafa menn sótt til kirkjunnar hingað úr öllum firðinum, og trúarlíf manna þó ætíð verið miklu, miklu betra en það er nú".

Nú var séra Gísla nóg boðið. Hann roðnaði í framan og svaraði með nokkurri ákefð:

"Það er gamla sagan, - gamla viðbáran, sem er sverð og skjöldur allrar afturhaldssemi: Þannig hefir það verið og gefist vel; þess vegna á það að vera þannig um aldur og æfi, - þannig, og ekki öðruvísi. Af því að eitthvað hefir einhvern tíma átt vel við, eða menn látið sér það vel lynda, þá á auðvitað aldrei að breyta því, hvað úrelt sem það verður. Hver getur sagt um, að það hefði ekki gefist ennþá betur að haga þessu öðruvísi? Hver getur sagt um, hvernig það mundi gefast að breyta til nú? Hver getur sagt um - -".

Hann nam staðar í miðri setningu.

Séra Torfi hætti að strjúka hnén og hallaði sér upp að þilinu. Ofurlítill roði færðist um skallann að framan og nefið varð ögn blárra.

"Haltu áfram! - Það var farið að verða skemtilegt að heyra til þín".

Séra Gísla fataðist alveg við að horfa upp á þessa ósvífnis-rósemi.

Torfi beið stundarkorn eftir því, að Gísli héldi áfram. Þegar ekki varð af því, mælti hann nokkuð mildar en áður:

"Þeir hafa nú viljað fá kirkjuna út eftir. Það hefir lengi verið á dagskrá hér í firðinum".

Séra Gísli hélt nú, að Torfi ætlaði að fara að tala sanngjarnlega um þetta mál, og rann nokkuð af honum ákefðin við það.

"En hún verður nú líklega hérna á meðan ég lifi", bætti Torfi við.

Séra Gísli leit framan í hann og var alveg hissa.

"Það er þá þér að kenna - - !"

"Ekki að öllu leyti. Ég hefi gert miðlunartillögu".

"Hver er hún?" flýtti séra Gísli sér að spyrja. Hann var ekki úrkula vonar um eitthvað, sem ekki væri sem verst.

Torfi sat glottandi.

"Ég hefi boðið þeim að flytja kirkjuna á miðja leið! - Setja hana niður mitt á milli Eyrarinnar og fjarðarbotnsins, ef þeir vildu þá taka hana að sér að öllu leyti á eftir".

Séra Gísli vissi ekki, hvernig hann átti að skilja þetta.

"Mitt á milli - -? En þar er ekkert undirlendi!"

"Nei, - eintómt klungur; skriðuhlaup, snjóflóð og djöfulskapur. Ég hefi bent þeim á hamarinn við Alviðrugilið. Þar er nóg urð. Þar er hægt að urða þá alla saman og niðja þeirra í ótal liðu".

"Hefirðu boðið þeim þetta?"

"Já, og - þeir hafa snúið upp á sig".

Séra Gísli þurfti að sitja á sér að þjóta ekki upp með stóryrði, svo mjög gramdist honum þetta; en hann mælti þó stillilega:

"Þú hefir þetta alt í gamanmálum".

"En hverju gamni fylgir nokkur alvara".

Séra Gísli var alveg orðlaus. Um fátt hafði þeim komið saman, tengdafeðgunum tilvonandi, og altaf hafði séra Gísla fundist Torfi liggja á sér eins og mara. En sjaldan höfðu þó skoðanir þeirra verið jafnhjáleitar og nú. En einu mátti gilda, hvað hann tók til bragðs. Þessi gamli gigtarskrokkur var honum ofvaxinn í öllum skilningi. Hann fór að virða Torfa fyrir sér og gizka á, hve lengi hann mundi geta lifað hér eftir, og komst að þeirri niðurstöðu, að hann mundi verða níræður að minsta kosti. Tuttugu og fimm ár til! - hann mátti ekki til þess hugsa. En á meðan Torfi væri lifandi, mundi hann aldrei geta velt honum af sér. Blindur, hrumur, haltur og karlægur mundi Torfi drotna yfir honum og lama í honum hverja taug. Beztu árum æfi sinnar mundi hann eyða undir þessu fargi.

Séra Torfi byrjaði aftur og breytti nú til um framburð, - varð föðurlegri en áður:

"Þú þekkir ekki fólkið hérna í firðinum, góðurinn minn, og veizt ekki, hvað þú ert að tala um. Það fólk, sem býr hér úti á eyrunum, hefir að minni skoðun ekkert með kirkju að gera. Hitt, sem utar býr, mundi ekki fremur sækja kirkju á Eyrinni en hér. Það er ég viss um".

"Ég þekki lítið fólkið hér í firðinum. Það er satt", svaraði séra Gísli stuttlega. "En ég þekki eitt spakmæli. Það er ekki úr biblíunni, þótt mörg séu þau góð þar, heldur úr kóraninum og hljóðar svo: Ef fjallið vill ekki koma til mín, þá kem ég til þess. Í þessum orðum felst lífsregla - -".

" - sem hin yngri prestakynslóð ætlar að lifa eftir" , skaut Torfi inn í.

"Hún getur verið góð, þó að hún sé tyrknesk".

"Já, meira en svo. En hlustaðu nú á mig. Hér er ekki verið að tala um lifandi mann og dautt fjall, heldur um mann og menn. Hér er aðeins um tvent að gera: Annaðhvort verður söfnuðurinn að dansa eftir pípu prestsins eða presturinn eftir pípu safnaðarins. Hið fyrra hefir verið aðalreglan frá elztu dögum kristninnar; hið síðara er að verða aðalreglan nú á dögum. Þessi öld hefir endaskifti á öllum hlutum. - Hvort heldurðu nú, að sé affarasælla fyrir málefni það, sem okkur hefir verið trúað fyrir? Á kirkjan að vera drotning, eins og hún hefir verið, eða - ambátt lýðsins?"

"En þar sem prestur og söfnuður koma sér ekki saman, hvernig fer þar? - Þar skapast tvö skaut, sem stöðugt flýja hvort annað".

"Kristur og Belíal eru tvö skaut, sem flýja hvort annað".

Aftur var samræðan farin að hitna dálítið og hefði haldið því áfram. En þá kom Þórdís inn með kirkjusöngsbók og gekk að orgelinu.

"Trufla ég ykkur?" mælti hún. Ég verð líklega að leika á orgelið í kirkjunni í dag, ef messað verður, því að forsöngvarinn kemur ekki".

"Dettur þér í hug, að það verði messað?" spurði Torfi.

"Það er eitthvert fólk að koma núna".

Séra Gísli flýtti sér út að glugganum. Úti með firðinum vinstra megin sáust stórir jóreykir upp úr götunum. Hann lifnaði í öllum æðum og hugsaði til ræðunnar um réttlæti Faríseanna, sem hann bar í vasanum.

Torfi var staðinn á fætur. Hann greip kíkinn og skimaði út eftir.

"Þetta er ekki kirkjufólk. Ég þekki hestana konsúlsins. Þetta fólk ætlar inn á heiði til að skemta sér".

Þórdís var byrjuð að leika sálmalög. Orgelið var rómsterkt og dimmraddað mjög, svo að stofugólfið titraði við bassatóna þess.

Séra Gísli hvarflaði frá glugganum inn eftir gólfinu. Hann bjóst við, að Torfi mundi hafa satt að mæla, en það voru vonbrigði fyrir hann.

Þórdís hélt áfram að æfa sig á sálmalögunum.

"Þú hefir líklega samið einhverja góða ræðu um réttlæti Faríseanna", mælti Torfi kíminn, um leið og hann settist á stól við borðsendann. "Þér þykir sárt að fá ekki tækifæri til að halda hana. Má ég líta á hana?"

Séra Gísli rétti honum blöðin þegjandi, en hélt áfram að ganga um gólf. Torfi blaðaði í þeim nokkra stund. Á meðan gaf séra Gísli hópnum auga, sem reið geyst utan með firðinum og nálgaðist óðum.

"Nú, jæja. Ég læt ræðuna vera", mælti Torfi. "Þær gerast líklega ekki öllu betri nú á dögum. En það þarf að segja því til syndanna, fólkinu hérna ytra, þegar það er svo náðugt að veita prestinum sínum áheyrn. Þessi ræða hefði ekki unnið mikið á því".

"Er það þá svo óguðlegt?" spurði séra Gísli og tók við blöðunum.

"Óguðlegt - -!"

"Já, þú líktir því áðan við Belíal!"

Torfi glotti.

"Nú, svo að skilja! Þú ættir að kynnast því sjálfur. Þú ættir að nota stöðu þína til þess að afla þér fróðleiks um þá hluti, sem seinna getur komið sér vel fyrir þig að vita skyn á. Með þessu fólki áttu framvegis að lifa og starfa. Ég skal eftirláta þér hvert tækifæri til að umgangast það; - ekki skal ég grípa fram í fyrir þér. Þú getur látið að þér kveða á meðal þess. Þú mátt prédika fyrir því í heimahúsum eða þinghúsum, geymsluhúsum eða good-templarahúsum - já, því ekki það? Hver veit nema þú getir kristnað það? Láttu sjá, hvað þú getur. Ég skal styðja þig að öllu því, sem gagnlegt er fyrir kirkju okkar".

Séra Gísli hafði numið staðar við gluggann og horfði á ferðafólkið, sem nú var komið inn á grundirnar fyrir neðan bæinn. Karlmenn og konur riðu þar saman og reyndu gæðingana. Ljósir treflar og fagurlitaðar slæður blöktu aftur af kvenfólkinu, en fákarnir teygðu úr sér og fóru á harðastökki og hlemmiskeiði yfir grundirnar. Annar eins skeiðflötur var hvergi til á leiðinni að utan.

Á móts við bæinn tók einn karlmaður sig út úr hópnum og þeysti heim að bænum.

"En mundu eftir einu", hélt Torfi áfram og var alvörugefnari en fyr. "Þegar þér finst jörðin skríða undan fótum þér, þá leitaðu inn í fjarðarbotninn. Þar er jarðvegurinn fastari fyrir en úti á eyrunum".

Séra Gísli ætlaði að svara einhverju, en varð orðfall.

Í sama bili reið maðurinn heim á hlaðið. Það var ritstjóri "Mjölnis", blaðs þeirra Eyrarmanna, fríður maður sýnum með ljóst alskegg. Hann nam staðar við gluggann og kastaði kveðju á þá, er inni voru. Hesturinn gekk upp og niður af mæði.

"Ég var sendur hingað heim til þess að bjóða ykkur að vera með okkur í dag, þér og unnustunni. Við ætlum inn að Drangafossi. Þið þurfið ekkert að taka með ykkur; við erum vel nestuð. - Það verður víst hvort sem er ekki messað í dag".

Það var sem hressandi blæ legði af ritstjóranum inn í stofuna til séra Gísla - og inn í huga hans. Honum þótti vænt um boðið.

"Við förum af baki hérna frammi í dalnum og bíðum þar eftir ykkur. Þið komið - er ekki svo? - Jú, þú mátt til að koma. Það er alt heldra fólkið af Eyrinni með".

Þetta síðasta sagði hann í lágum rómi.

Séra Gísli leit hálfspyrjandi til þeirra feðginanna, en fékk ekkert svar. Þórdís smelti aftur kirkjusöngsbókinni og lokaði orgelinu.

"Þú lætur okkur ekki bíða lengi - ha?"

"Nei", sagði séra Gísli. "Annaðhvort komum við nú þegar eða alls ekki".

"Vertu þá sæll á meðan!" sagði ritstjórinn. Síðan spretti hann úr spori á eftir samferðafólkinu.

Séra Gísli var ennþá á báðum áttum.

"Þarna er tækifærið", sagði séra Torfi dálítið undarlegur á svipinn, um leið og hann stóð á fætur og bjóst til brottgöngu. "Láttu nú sjá, að þú kunnir að nota það".

Svo gekk hann út úr stofunni og inn göngin.

Séra Gísli gekk til Þórdísar, sem enn sat við orgelið, og strauk hendinni um vanga hennar.

"Ætlar þú ekki að koma með mér, góða mín?"

Þórdís tók atlotum hans mjúklega, en svaraði þurlega:

"Þetta boð er gert þín vegna, en ekki mín. Fram að þessu hefir það ekki boðið mér með sér til útreiða, Eyrarfólkið, og enn mun það skemta sér bezt án mín".

Svo stóð hún á fætur og gekk út á eftir föður sínum, með kirkjusöngsbókina undir hendinni.

Séra Gísli stóð eftir vandræðalegur og klóraði sér í hnakkanum. Léttúð æskunnar og alvara stöðu hans börðust um í huga hans. Honum fanst ilt og ástæðulaust að neita sér um þessa skemtun, fyrst vonlaust var um, að hægt væri að messa. Hvers vegna vildi Þórdís ekki fara með honum? Hvers vegna gat hann þá ekki farið án hennar? Átti hann að vera þræll dutlunga hennar? Nei, engan veginn.

Svo gekk hann út að glugganum og hrópaði á smaladrenginn, sem var að "flá kött" á þvertrénu yfir sáluhliðinu á kirkjugarðinum:

"Nonni, Nonni! - Sæktu hann Brún minn".


2. kafli - Grundfirðinga saga

" - - - Hallmundr hærukollr er maðr nefndr, háleyskr at ætt. Hann var afarmenni mikit, forn í skapi ok tekinn fast at eldask. Hafði hann áðr verit í víkingu. Þrjá sonu átti hann; váru þeir allir miklir menn fyrir sér ok engir jafnaðarmenn. Hét einn Grímr gráfeldr, annarr Óttarr löngubakr, þriði Steinarr enn illi. Þeir váru ok í víkingu á sumrum, enn með feðr sínum á vetrum. Þá brauzk til ríkis í Noregi Haraldr lúfa, son Halfdanar ens svarta. Þoldu þeir Hallmundarsynir eigi yfirgang (Haralds) ok bjoggusk ór landi. Hallmundr vildi eigi skiljask við sonu sína ok fór með þeim; var þó hrumr mjök. Bjoggu þeir eitt langskip allir ok héldu til Íslands, því at þaðan váru sagðir landkostir góðir. Enn áðr þeir færi af Noregi, brenndu þeir inni ármann konungs á Rogalandi, rændu hof nýtt, er konungr hafði byggja látit, ok gerðu mörg spellvirki önnur til skapraunar konungi; létu síðan í haf. Fengu þeir útivist langa ok illa ok veðr stór. Loks kvámu þeir þar at landi, sem fjöll mikil váru fyrir ok gengu alt í sjó fram. Veðr stóð af landi ok hrakði þá undan; váru lög þung; gekk sjór á langskipit, enn skipverjar stóðu at austri. Hallmundr lá í lyptingu í húðfati miklu. Spurði hann hvat títt væri; ok var hánum sagt, at óvænliga horfði með landtökuna. Gekk hann þá ór lyptingunni ok hafði með sér húðfatit. Varp hann því fyrir borð ok þuldi yfir; bað menn síðan róa eptir húðfatinu ok skeyta eigi áföllum; kvað þá ganga mundu. Síðan gekk hann aptr í lyptinguna ok breiddi á sik bjarnarfeld mikinn. Húðfatit hóf þegar fram fyrir skipit gegn veðrinu. Sóttu skipverjar eptir, og gekk þá skipit sem í logni væri, en húðfatit jafnan fyrir. Fjörður einn varð fyrir þeim, langr ok þröngr. Váru þar hlíðar viði vaxnar ok landkostir miklir. Lögðu þeir innar eptir firðinum, þar til hann þraut. Þar tóku þeir land. Fundu þeir þá húðfatit Hallmundar í fjörunni ok hafði hvergi vöknat. Enn er segja skyldi Hallmundi tíðendin, var hann örendr í lyptingunni. Grundir miklar ok fríðar váru fyrir botni fjarðarins; gáfu þeir bræðr firðinum nafn af þeim ok nefndu Grundarfjörð. Námu þeir fjörðinn allan ok skiptu með sér. Hallmundi var haugr gerr á klifi því, er fram gengr við Alviðru-gil; sá þaðan víðast um landnámit. Steinarr enn illi reisti bú á Grund. Hann var blótmaðr mikill ok reisti hof á bæ sínum. Óttarr löngubakr bjó at Stafanesi. Hann átti hrafna tvá ok lagði á trúnað; váru þeir helgaðir Þór. Eina nótt vaknaði Óttarr við þat, at hátt lét í hröfnum hans. Stóð hann upp ok vildi sjá hverju þat sætti. Sá hann þá hvar skriða hljóp ór fjallinu, niðr eptir Stafagili ok stefndi á bæ hans, en hrafnarnir sátu sinn hváru megin gilsins á stöfunum ok gullu ákafliga gegn skriðunni. Enn er skriðan kom þar í milli, er hrafnarnir sátu, stöðvaðisk hon ok varð eigi at meini; hlóðsk þar upp garðr mikill af aur ok grjóti; heita þar Hrafnagarðar. Grímr gráfeldr bjó á Gráfeldareyri ok lagði helgi á fjallit. Hann var mestr fyrir sér þeira bræðra ok skaplíkastr feðr sínum. Hann átti Álofu bót, dóttur Hjálmungauts ór Veradal, ok við henni iij sonu; er þaðan margt stórmenni komit. Ambátt átti Grímr þá er Finna hét ok var margkunnig. Hon seiddi til miða í firðinum ok brásk þar aldri fiskr er hon vísaði til. Fyrir þat gaf Grímr henni lausn ok bú í Finnudal. Í elli lagði Grímr hug á ambáttina; tryldusk þau bæði ok lögðusk út í fjallit. Þat fell sonum hans stórilla; fóru þeir at Finnu ok unnu á henni í Finnukleif. Þat varð Grími harmr svá mikill, at hann gekk fyrir hamra ok fórsk þar. Sáu menn þau Finnu síðan sitja at langeldum í fjallinu með tröllum ok landvættum, enn engum gerðu þau mein -----------"

Þannig byrjaði fyrsti kapítulinn í sögu Grundfirðinga; og eiginlega var það eini kapítulinn, sem til var.

Grundfirðingar höfðu miklar mætur á honum. Þeir höfðu hann til kvöldlestra í heimahúsum, engu síður en hugvekjurnar. Þeir ortu rímur út af honum og síðan kvæði, sömdu um hann vísindalegar ritgerðir og teygðu hann á allar lundir eins og hrátt skinn. Enginn efaðist um það, að hann væri sú eina heilsusamlega andlega næring, sem til væri, önnur en "guðsorðabækurnar". Kynslóð eftir kynslóð hafði hann varpað frægðarljóma sínum yfir fjörðinn og sýnt mönnum þann mikla og óbrigðula sannleika, að einhvern tíma hefði fjörðurinn verið numinn!

Skáldin ortu himinkljúfandi lofsöngva um frækni og frelsisþrá hinna fyrstu Grundfirðinga. Í ljóðum þeirra endurlifnuðu landnámsmennirnir og urðu að verndarvættum fjarðarins. Örnefnin fornu urðu sannhelgir staðir, og haugur Hallmundar á Alviðruklifi var rofinn hátíðlega af sprenglærðum fornfræðingum, en þar fundust engin mannabein. Annaðhvort hefir Hallmundur verið beinlaus eða hann hvílir annarstaðar.

Framhaldið af þessum kapítula var fult af mannvígum og blóðhefndum, svikum, níðingsverkum, vígabrennum og gerningum. Það varpaði björtum roða yfir söguna, eins og eldbjarmi brytist gegnum blóðsvælu. En í því var frægð og heiður Grundarfjarðar fólginn. Ekkert höfðu Grundfirðingar sér til ágætis annað en minning þessara frægu feðra. Á hana einblíndu þeir og ekkert annað veraldlegt. Altaf hljómaði það í eyrunum á þeim, að verða ekki ættlerar, - muna eftir frægð og frelsi feðranna og gera ekki minningu þeirra minkun. Það var eina andlega næringin, sem menn fengu þar. Ef einhver efaðist um, að hún væri holl og einhlít til allra þrifa, þá var hann auðvitað ekki sannur Grundfirðingur.

Svo var auðn og tóm. Allir hinir kapítularnir, alt framhald Grundfirðingasögu lá falið í þreifandi myrkri gleymskunnar. Allir horfðu að vísu aftur fyrir sig, til liðinna alda, enginn fram fyrir sig til komandi alda. En fornaldarljóminn varpaði ofbirtu í augu manna, svo að alt sýndist ennþá svartara, sem á milli lá.

Grundfirðingar höfðu engar mætur á þeim kapítulunum og það var ekkert þakklátt verk að rifja þá upp. Enginn hafði orðið vísindamaður þeirra vegna. Enginn hafði látið frægð þeirra og orðstír ríða mönnum að hlustum í dýrum ljóðum. Enginn hafði einu sinni fengist til að rita þá. Þeir áttu að gleymast.

Það lítið, sem sást, grilti þar í harðæri og hörmungar, ófrelsi, áþján og amlóðaskap. Þaðan lagði ódaun af drepsóttum - rotnun, andlegri og líkamlegri, siðspillingu, hjátrú og heimsku. Við fyrstu sýn hlaut mönnum að blöskra það, að nokkur Grundfirðingur skyldi hafa komist lífs yfir þær ógöngur. Og engum, sem þangað leit, kom það á óvart, þótt blóð hinna fornu Grundfirðinga væri farið að úrkynjast, því að mörgu höfðu kynslóðirnar andað að sér, sem ekki var sem hollast. Grundfirðingum var því full vorkunn, þótt þeir vildu heldur láta telja sig syni þeirra feðranna, sem í ljómanum lágu, en hinna, sem á milli hvíldu.

Þó voru til einstöku menn, sem höfðu áræði til þess að fikra sig fram um þennan kafla sögunnar - fálma fyrir sér í svartnættinu og reyna að ná inn undir barðið á fornaldarljómanum og skeyta hann orsakasambandi við nútíðina. Það var illur vegur og ógreiðfær, sem þeir lögðu út á, og engar blessunarbænir fylgdu þeim, en alla leið vildu þeir komast og öll sporin vildu þeir finna.

Einn af þessum mönnum var ritstjóri "Mjölnis", - eini ritstjórinn, sem fjörðurinn hafði ennþá eignast. Hann tók sér fyrir hendur að skýra fyrir Grundfirðingum sögu þeirra ajálfra og ætlaði að birta yfirlit yfir hana í blaðinu, þó að aldrei yrði af því.

Til er uppkast af ritgerð hans, eða brot af því, sem rétt þykir að vernda frá glötun. Þó ber að skoða það sem óruddan efnivið eða árangur af fyrstu leit, en ekki fullsamið. Það hljóðar svo:

- - - - - Í heiðni stóð goðahof inni í fjarðarbotninum. Þangað sóttu menn til blóta og þar bjó goðinn.

Þegar sá siður lagðist niður, reis upp önnur stofnun í fjarðarbotninum og drotnaði þaðan yfir firðinum.

Það var kirkjan.

Hún hefir verið þaulsætin þar innra og er það ennþá.

Saga Grundfirðinga er í raun og veru eintóm kirkjusaga.

Allir hlutir í Grundarfirði hafa tekið breytingum á síðustu 1000 árum. Skógarnir hafa eyðst, skriður hlaupið úr fjöllunum, eyrarnar lengst, fjörðurinn styzt. Landskjálftar og eldgos hafa bylt til jörðinni, kirkjan ein hefir ekki bifast og ekki breyzt til neinna muna.

Og hún hefir verndað Grundfirðinga frá því að breytast.

Alla krafta fjarðarbúa tjóðraði hún við altari sitt þegar frá byrjun. Engan svíra átti fjörðurinn svo sterkan, að ekki bognaði hann undir oki hennar.

Hún kendi mönnum að deyja, - en hún kendi þeim aldrei að lifa. öll starfsemi hennar var undirbúningur undir dauðann.

Hún kendi þeim að verjast gegn andskotanum, svo að hann tæki þá ekki dauða eða jafnvel hálfkvika.

Alstaðar var hann. Hann læddist að þeim í allra kvikinda líki. Stundum kom hann til þeirra sem ljóssins engill. Hann óð um jörðina eins og grenjandi ljón; hann skreið um hana eins og lævís refur. Hann fór í dauða skrokkana og vakti þá upp, og hann sendi sálir þeirra manna, sem hann fékk, til þess að reka erindi sín.

Hvergi var friður fyrir honum.

Ár eftir ár, öld eftir öld, kynslóð eftir kynslóð börðust Grundfirðingar við andskotann. Þeir lögðu á sig píslir og pyndingar, sveltu sig vikum saman, kystu myndir og helga dóma, kingdu hverjum þeim óþverra, andlegum eða líkamlegum, sem kirkjan rétti þeim; krupu, skriðu flatir, æptu, báðu, þuldu særingar á latínu, sungu leirburð á íslenzku og héldu sér dauðahaldi í hina vísu, heilögu móður í fjarðarbotninum.

Samt fékk andskotinn sinn hluta af þeim, því að ef þeir voru nokkuð óþægir, þá rak hin heilaga móðir þá sjálf með svipu bannfæringarinnar norður og niður og hirti reyturnar þeirra.

Þannig liðu margar aldir.

Þá fór einu sinni fram ofurlítil endurskoðun á stórbúi kirkjunnar einhverstaðar langt úti í löndum. Það kom þá upp, að hin vísa forsjón, sem yfir henni vakti bæði á himni og jörðu, hafði búið illa.

Það var henni mikill hnekkir og hryggilegt að vita til þess, hvernig henni leið á meðan. Hún gugnaði í knjáliðunum eins og gamalkýr, sem er að geispa úr sér golunni. Dýrlingarnir voru reyttir af henni eins og sníkjudýr og þeim fleygt í ruslið. Krossa- og helgidómaverzlunin varð gjaldþrota, bannfæringar-þrumufleygurinn var tekinn af henni og biblían fengin í hendur sauðsvörtum almúga, - biblían, sem kom upp öllum lygum hennar, ekki sannsögulli en hún er þó sjálf.

Þó var ekki gert alveg út af við hana. Kóngurinn tók hana að sér, hresti hana við og gerði hana að ambátt sinni.

Eftir það malaði hún gull handa kónginum og hélt þegnum hans í skák. Raunar hafði hún nú enga bannfæringu lengur, en hún fékk þá gapastokk í staðinn. Svo gat hún kveikt upp eld, ef á lá. Það rauk stundum vel upp úr Alviðrugilinu, því að þar voru galdramenn brendir.

Umskiftin urðu ekki mikil fyrir Grundfirðinga. Þeir urðu þeirra tæpast varir. Einhverjar sagnir kvað vera til um það, að sendimaður Jóns biskups Arasonar hafi komið þangað í liðsbón, en enga áheyrn fengið. Hin "endurbætta" kirkja kendi þeim líka að deyja og berjast gegn andskotanum, en hún kendi þeim aldrei að lifa og bjarga sér.

Eftir sem áður var heimurinn eymda- og táradalur, lífið útlegð og reynslutími, föðurlandið á himnum!

Þeir, sem hneigðust að gæðum þessa heims, þjónuðu djöflinum. Þeir, sem dirfðust að leita sér bjargar með dugnaði og ráðsnild, vantreystu forsjón guðs. Þeir létu sér ekki nægja "deildan verð". Þeir, sem komust í álnir voru vistaðir fyrirfram. Hægra var úlfaldanum - o.s.frv..

Innan skamms reis upp önnur konungleg stofnun í firðinum. Það var einokunarverzlunin á Gráfeldseyri.

Þessar tvær kóngsgersemar studdu hvor aðra og voru dyggilega samtaka.

Önnur seldi mönnum skemt mjöl; hin seldi mönnum skemdar hugsanir; báðar verðlögðu vöru sína sjálfar.

Önnur kendi mönnum að deyja; hin hjálpaði þeim til þess.

Þetta stóð einnig í margar aldir.

Alt moraði í deyfð og dáðleysi. Allur þorri Grundfirðinga teygði sig í fletunum og bað hátt og í hljóði: Gef oss í dag-!

Loks hrökk einokunarverzlunin einhvern veginn upp af; Grundfirðingum var lítið kunnugt um það, úr hverju hún dó.

Þá lagðist verzlunin niður á Eyrinni og Grundfirðingar urðu að sækja alt til hinna fjarðanna.

En kirkjan skrölti eftir; henni datt ekki í hug að þoka, meðan einhver lifandi vera var til í firðinum, sem hún gæti kent að deyja.

Hagur manna fór heldur versnandi en batnandi og hallærisárunum fjölgaði. Bújarðirnar fóru í niðurníðslu, sumar í eyði.

Menn höfðu stundum "í soðið"; en oftast ekki; enginn reri lengra en í fjörðinn, annað var að "freista guðs". Enginn átti viðunandi bát; enginn þekti viðunandi veiðarfæri.

Bjargálnamennirnir, sem sátu beztu jarðirnar í miðjum firðinum, voru líka að verða að öreigum. Þeir urðu fyrir vægðarlausum átroðningi af þeim, sem sóttu til kirkjunnar inn í fjarðarbotn.

Fátæklingarnir úti í firðinum fóru nefnilega á hreinan og beinan verðgang á útmánuðunum hvert ár, undir yfirskini kirkjurækni og guðhræðslu. Þeir fóru að heiman á föstudaginn, gistu næstu nótt í miðjum firðinum, en sunnudagsnóttina á prestssetrinu; voru svo jafnlengi eða lengur á heimleiðinni.

Þangað til Grímur gamli á Gráfeldseyri, faðir konsúlsins, gerði þeim þann óleik að heimta, að þeir ynnu af sér greiðann eða borguðu hann í einhverri mynt. Annars úthýsti hann þeim.

Honum var úthúðað fyrir þetta um allan fjörðinn, og presturinn tók hann fyrir af stólnum. Samt tóku fleiri þetta eftir Grími.

Þá fór að draga úr kirkjuferðum Útfirðinga, en kirkjan að standa tóm í fjarðarbotninum. -

- - -

En einn dag fyrir rúmum mannsaldri sáu Grundfirðingar sér til mikillar undrunar, hvar rautt stálstefni risti sundur sjóinn inn eftir miðjum firðinum.

Það voru Norðmenn.

Þeir voru að leita að síld - og fundu hana.

Fjörðurinn var fullur af síld. - Þó var hann alveg eins og hann hafði verið um ómuna aldur.

Hann var hrein og bein náma.

Norðmenn jusu síldinni lifandi á land upp. Hún spriklaði, henti sér í loft upp og glitraði eins og silfur.

Stórar kasir, stórar breiður af - silfri.

- - -

Hér þrýtur uppkast ritstjórans; en á lausu blaði aftan við það hefir hann verið byrjaður á framhaldi, en dregið yfir það tvö löng strik í kross. En ef það skyldi fela í sér upplýsingar, þykir rétt að taka það með hinu.

" - - Sú tilfinning, sem vaknaði hjá Grundfirðingum við að horfa upp á allar þessar aðfarir, var í raun og veru ofur mannleg og eðlileg.

Það var græðgin.

Nú var eins og þeir fyndu til þess alt í einu, að þeir höfðu fastað í níu eða tíu aldir og voru orðnir glorhungraðir.

Þá gleymdu þeir öllum móðurlegum áminningum kirkjunnar í fjarðarbotninum, gleymdu öllum loforðunum um gæði á himnum, gleymdu að búa sig undir dauðann og fóru að hugsa um að lifa, - fóru að bjarga sér.

Í mörg, mörg ár voru þeir óseðjandi. Þeir gengu í vinnu hjá Norðmönnum og lærðu af þeim. Svo fóru þeir að reyna sjálfir, þótt smátt væri, og tókst vel.

Þá komust þeir einnig að því, að þorskinum þótti góð síldin. Svo góð, að hann gleypti hana, þó að öngull væri í henni.

Innan skamms voru þeir búnir að finna miðin, sem ambáttin á Gráfeldseyri hafði seitt til. -

Þá bygðust strendurnar beggja megin fjarðarins af nýju, og að miklu leyti nýjum mönnum.

Og þá reis upp kaupstaður á Gráfeldseyri".

- - -

Ætíð hafði verið fátt með þeim séra Torfa á Grund og Grími á Gráfeldseyri. En eftir að Norðmenn komu, snerist það upp í fullan fjandskap.

Grímur var þá miðaldra maður. Torfi var nýbúinn að fá brauðið. Þeir voru gildustu menn fjarðarins, og vægði hvorugur fyrir öðrum.

Grímur hóf verzlun niðri á eyrinni. Brátt þaut upp kaupstaður á landareign hans.

Honum græddist vel fé, og varð hann snemma auðugasti maður í firðinum.

Það var hagnaðurinn af Norðmönnum, sem þeir toguðust á um. Grímur vildi fá þá til þess að setjast að á landareign sinni, því að mikið dró um landshlutinn af aflanum. Torfi vildi feginn, að eitthvað af þessum höppum bæri upp á reka kirkjunnar.

Grímur stóð betur að vígi að því leyti, að hann bjó utar í firðinum og gat náð tali af Norðmönnum á undan Torfa, sem bjó inni í botni. Aftur átti kirkjan jarðir og ítök út með öllum firðinum beggja megin, og það bætti Torfa upp fjarvistina.

Og svo fór, að mesti síldarkóngurinn, Jónas prammi, settist að á Stafnesi, en það var kirkjujörð.

Jónas "prammi" hét Jonas Prahm, en var aldrei kallaður annað en "prammi" í firðinum. Hann var hverjum manni duglegri og hepnari, hafði mörg gufuskip í förum, veitti fjölda manna atvinnu, tefldi mörg hundruð þúsundum króna í tvísýnu á ári, en græddi þó altaf.

- - -

Fjarðarlífið gerbreyttist á fám árum.

Fólk dreif þangað úr öllum fjórðungum landsins til þess að græða fé.

Kyrðin og sinnuleysið, sem drotnað hafði þar um margar aldir, var farið veg allrar veraldar. Guðsóttinn og kirkjuræknin fóru líka, og þá gekk talsvert af hinum gömlu, gjaldgengu dygðum úr vistinni.

Fjarðarlífið varð hávært og sukksamt. Menn og konur, sem enginn vissi deili á, settu svip sinn á það. Aðskotafólkið og hitt, sem fyrir var, rann alt saman í einn graut. Öll ættfræði ruglaðist. Börn fæddust, sem áttu foreldri sitt af hverju landshorninu, eða jafnvel frá Noregi. Sum voru hjónabandsbörn, fædd til fjár og réttinda; fleiri voru þó fædd án slíkra gæða.

Miðfjarða bar mest á hinum nýja sið. Svo færðist hann út eftir báðum ströndum, út á yztu tanga. Inn í fjarðarbotninn hafði hann ekki náð ennþá.

Hinir gömlu fjarðarbúar urðu brátt efnamenn. Þeim féll svo margur hagnaður í skaut. Þeir fóru þá að gera sér aðskotadýrin háð, láta þau vinna fyrir sig og græða á þeim. Jafnframt hlífðu þeir sjálfur sér við lökustu áreynslunni, fóru að njóta lífsins og finna til þess, að þeir voru orðnir ofurlitlir höfðingjar - þessa heims.

Hinir, sem að voru komnir, urðu líka smátt og smátt höfðingjar.

Norðmenn hálffyltu fjörðinn um eitt skeið. Í hverri lending áttu þeir hús og veiðistöð. Hinir mestu fjárglæframenn léku þar loddarabrögð sín, jusu út hlutafé og voru stórmenni. En af því að síldin rennur ekki á loddarasnild og þorskurinn ekki heldur, þá gekk veiðin illa og alt endaði með stóru uppboði. Þar fengu fjarðarbúar hús, báta og veiðarfæri fyrir lítið verð.

Loks voru nálega allir Norðmenn farnir úr firðinum nema Jónas prammi. Hann kunni tökin á síldinni og hann kunni að gera sér mat úr óförum keppinauta sinna.

Þegar menn verða alt í einu höfðingjar, þótt smáir séu, fara menn að finna til mannréttinda sinna betur en áður. Ilt er það að bera þungar álögur, en eiga engan þátt í almennum málum. Almenn mannréttindi voru orðin lög, en hingað til höfðu Grundfirðingar lítið skeytt þeim.

Nú fóru þeir að vakna og hugsa sig um.

Það fyrsta, sem þeir fundu þá til, var það, að þeir botnuðu ekkert í neinum málum. Fáar raddir höfðu náð til þeirra áður en Norðmennirnir komu. Og fyrstu árin, á meðan þeir voru að græða, - svala mesta sultinum, - höfðu þeir ekki litið upp úr fiskkösunum. Nú, er þeir vildu fara að láta til sín taka, voru þeir grátlega illa undirbúnir.

Þá var að reyna að bæta úr því.

Grundfirðingar fóru að lesa blöðin, til þess að komast inn í almennu málin. Blöðin voru lesin með einstakri áfergju. Öll blöðin þutu upp til að hæla Grundfirðingum fyrir dugnað og framtakssemi, því að þau fengu svo marga nýja kaupendur þar! Grundfirðingar kunnu sér ekki læti af fögnuði. Þeir lásu blöðin, og ekkert annað, blíndu á blöðin, og ekkert annað.

Af blöðunum lærðu þeir ósköpin öll um almætti félagsskaparins. Svo þutu upp allskonar félög í firðinum. Enginn var svo fróður að muna, hvað þau hétu öll saman.

Öll blaðamálin voru rædd í öllum félögunum, og allir ræðumennirnir tugðu upp það, sem staðið hafði í blöðunum um þau. En af því að blöðin voru aldrei sammála um neitt, þá voru félagarnir aldrei sammála um neitt heldur.

Loks eignuðust þeir blað sjálfir. Það var konsúlnum að þakka, eins og margir aðrir góðir hlutir þar í firðinum. Hann var mestur framkvæmdamaðurinn.

Mikill var fögnuðurinn! Nú gátu Grundfirðingar látið landsmenn í öðrum bygðum heyra, hvað þeim sýndist um þetta og hitt. Nærri mátti geta, hvort það hefði ekki áhrif á málin!

Og ritstjórinn var candidutus philosophiae frá háskólanum í Kaupmannahöfn. Það var eins og hressandi háskólagustur kæmi með honum í fjörðinn.

- - -

Torfi skifti sér lítið af lífinu úti í firðinum. Hann hirti tekjur sínar og kirkjunnar, ef hann gat fengið þær illindalaust, en gekk ekki ríkt eftir þeim, ef tregða var á um greiðsluna. Þeir skulduðu því Torfa margir, einkum Útfirðingar.

Miðfjarða var konsúllinn lífið og sálin í öllu. Hann var stærsti og auðugasti kaupmaðurinn á Eyrinni. Hinir minni kaupmenn og útgerðarmenn þar og í grendinni stóðu utan um hann í hvirfingu og fylgdu honum að málum.

Vinátta var allmikil með honum og Jónasi pramma, þótt Jónas væri landseti Torfa. Oft hafði konsúlnum tekist að fá Jónas til að fylgja því fast fram, sem hann vildi að fram gengi. En mikið lið var að Norðmanninum vegna auðmagns hans.

Konsúllinn hafði erft óvildina til Torfa frá föður sínum. Torfi gerði ekki margt til að mýkja skap hans, og ekki leið á löngu, þar til þeir urðu andstæðingar út af eigin málum.

Síðustu árin var Grímur gamli farinn að hafa lítið um sig, en konsúllinn því meira. Hann var stálfjöðrin í öllum félagsstofnunum þeirra Grundfirðinga og réð flestu, sem hann vildi, í öllum félögunum, einkum þeim, er Eyrarmenn voru fjölmennir í. Útfirðingar höfðu það fremur til að vera honum óþjálir. Þó var það undir árferði komið, hve mikil brögð voru að því. Ef illa áraði, svo að Útfirðingar þurftu mikið á konsúlnum að halda, voru þeir bónþægari en ella.

Stöku sinnum lenti þeim saman út af almennum málum, konsúlnum og Torfa, og varð sá atgangur jafnan bæði harður og langur. Þó álitu flestir, að oftar færi konsúllinn halloka.

Aldrei fylgdust þeir að málum og minst af öllu í safnaðarmálum.

Þar þótti konsúlnum og fleirum úti í firðinum Torfi of einráður og vildu því fegnir hnekkja valdi hans.

Eitt af því, og ekki það sízta, sem þeim fanst þeir hafa rétt til að hlutast til um, voru kirkjumálin. Og einu sinni urðu þeir konsúlsmenn, og jafnvel fleiri, sammála um það, að við svo búið mætti ekki standa. Þeir yrðu að láta þar til sín taka.

Það þótti þeim verst, að kirkjan skyldi standa inni í fjarðarbotni og Torfi hafa öll umráð yfir henni.

Málið var rætt í öllum félögum fjarðarins og síðan stofnað til safnaðarfundar á Eyrinni.

Þar var samþykt að skora á kirkjuvöldin að flytja kirkjuna út á Eyrina. Fimm menn voru kosnir til þess að tala við Torfa um þetta mál. Á meðal þeirra voru konsúllinn og Jónas prammi.

Torfi tók sendimönnum sæmilega, en erindinu þunglega. Þeir sögðu, að hann hefði skopast að því. Jónas prammi var öskuvondur yfir erindislokunum og sótbölvaði á norsku. - Þá skrifuðu þeir til stiftsyfirvaldanna og báru allþungar sakir á Torfa. Þau sendu Torfa bréfið til umsagnar. Hann bar af sér sakirnar, lagði á móti erindi þeirra Eyrarmanna og var bæði harðorður og napur.

Stiftsyfirvöldin svöruðu þá Eyrarmönnum og sendu þeim eftirrit af bréfi Torfa.

Þytur mikill varð í firðinum út af bréfinu. Aftur var haldinn fjölmennur safnaðarfundur á Eyrinni og Torfa ekki hlíft í orðum. Sjálfur kom Torfi ekki á fundinn.

Aftur var skrifað til biskupsins. Þá svarrði hann því einu, að hann skyldi íhuga þetta mál.

Hann sá, að eldur var kviknaður í Grundarfirði, sem erfiður gæti orðið viðfangs, ef hann næði að magnast. Þess vegna væru góð orð og litlar efndir mesta heillaráð.

Í heilt ár biðu Grundfirðingar eftir svarinu. En þegar þeim þótti biskupinn vera lengi að "íhuga" það, skrifuðu þeir aftur, en fengu þá ekkert svar.

Þá sendu þeir málið til alþingis í áskorunarformi. Þar lá það á lestrarsalsborðinu alt þingið út, og enginn þingmaðurinn leit við því.

Konsúllinn og menn hans kendu Torfa um þetta alt saman og voru honum afarreiðir. Þeir þóttust einnig skilja handleiðslu hans á meðferð málsins á þinginu, því að hann hafði átt mestan þátt í því að koma þeim manni að, sem nú var þingmaður, þvert á móti tillögum konsúlsins.

Þeir þóttust því verða fyrir ofríki og ranglæti af hans hendi og höfðu allan hug á að hefna sín á þessum gamla afturhaldssegg.

Þetta varð mest til þess, að blaðið "Mjölnir" var stofnað.

3. kafli - Hjá Drangafossi

Séra Gísli fór á stað skömmu á eftir ritstjóranum. Þegar hann var að fara úr hlaðinu, reið maður með koffortahest í taumi fyrir neðan túnið. Það var Einar póstur af Eyrinni. Hann flutti nesti þeirra, sem voru í skemtireiðinni. Séra Gísli hleypti framhjá honum, og þegar hann kom spölkorn inn eftir dalnum, sá hann, hvar hópurinn beið. Allir höfðu farið af baki, og hestarnir með reiðtygjunum voru þar á beit í kringum fólkið.

Að lítilli stundu liðinni var séra Gísli kominn til þeirra.

Þótt séra Gísli væri búinn að vera þennan tíma í firðinum, sem áður er frá skýrt, og hefði stundum verið þar áður, var hann lítið kunnugur Eyrarbúum. Og að fornu fari þekti hann engan þar ytra nema ritstjórann. Hann var skólabróðir hans og bekkjarbróðir, einn af þeim, sem hafði mest amað honum á skólaárunum. Nú fanst báðum réttast að gleyma gömlum skólabrekum og hittast eins og gamlir góðkunningjar, fyrst leiðir þeirra höfðu legið saman aftur.

Og undir niðri þótti séra Gísla vænt um, að ritstjórinn varð fyrri til að endurnýja kunningsskapinn. Honum fanst í því felast viðurkenning og jafnvel játning um það, að áður hefði hann gert honum rangt til.

Glatt var á hjalla í hópnum, og lagði óminn af hlátrum og hjali á móti prestinum, þegar hann nálgaðist. En þegar hann stökk af baki og heilsaði, urðu menn hljóðir og hæverskir. Ritstjórinn stóð upp á móti honum og bauð hann velkominn. Fyrstu augnablikin gengu til að nafngreina fyrir honum hina og aðra, sem í förinni voru. Allir heilsuðu honum hæversklega, en þó glaðlega, og báðu hann vera velkominn. En að baki kveðjanna lá einhver undarlegur hátíðleiki, sem kom af því, að ókunnugur maður var kominn í hópinn.

Séra Gísli var hálffeiminn fyrst í stað, einkum þegar hann sá, hver áhrif koma hans hafði, og það lá við, að hann sæi eftir að hafa farið. Hann huggaði sig þó við það, að þetta fálæti mundi bráðum fara af og menn skemta sér eftir beztu föngum, hvað sem honum liði.

"Það má víst ekki bjóða prestinum confect með okkur hinum?" var sagt rétt hjá honum með þýðri kvenmannsrödd. Hann leit við; það var Hildur ungfreyja Svendsen, dóttir konsúlsins, sem rétt í þessu hafði verið nafngreind fyrir honum.

"Við höfum nú ekkert annað til að gæða okkur á hérna", mælti hún ennfremur og brosti við. "Karlinn drattast aldrei með koffortaklárinn - ".

"Ég þakka yður fyrir", sagði presturinn glaðlega. Augu þeirra mættust um leið og hann stakk fingrunum ofan í bréfpokann, sem hún hélt á, til þess að ná í þessa dísætu mola, sem meðal þeirra voru kallaðir confect.

Hildur leit undan og roðnaði. Presturinn varð ofurlítið skjálfhentur.

"Koffortaklárinn!" gall í ritstjóranum. "Heldurðu kannske, að þú fáir að opna koffortin fyr en inn hjá Drangafossi? - Nei, ljúfan mín!"

"Æ, það er alveg satt; því var ég búin að gleyma", mælti Hildur og hló við.

En í sömu svipan fengu þau annað til að hugsa um. Presturinn hafði hvolft confect-pokanum úr hendi Hildar ofan í grasið. Hinir munntömu molar skoppuðu yfir ristar þeirra, sem hjá stóðu.

Presturinn varð sneypulegur og blóðroðnaði, en Hildur hló hátt og skært. Undir eins á eftir voru þau bæði komin á hnén til að tína saman molana. Margir aðrir voru boðnir og búnir til að hjálpa þeim til.

"Við skulum gera gott úr þessu", sagði kona barnakennarans um leið og hún þreif einn molann af jörðinni og stakk honum upp í sig. Fleiri gerðu það sama.

"Burt með ykkur! Látið okkur nú í friði!" kallaði Hildur hlæjandi.

Það kemur sér stundum vel að hafa langa fingur. Séra Gísli hrifsaði saman molana í hrúgu, en Hildur tíndi einungis þá, sem ekkert höfðu óhreinkast, upp í pokann aftur. Hina fengu hestarnir. Þegar þau stóðu á fætur aftur, voru þau bæði kafrjóð í framan.

Þetta atvik gerði tvent í einu. Það endurvakti glaðværðina til fulls á svipstundu og það kom prestinum í furðu náin kynni við "söfnuðinn". Eftir þetta var hann ekki annað en "einn af hópnum", sem óþarfi var að vera hátíðlegur við. Hann gat bæði þegið sætindi og verið klaufi, án þess að láta það á sig fá.

Og það varð efni í mörg gamanyrði, að hafa séð þau bæði á hnjánum, Hildi og hann, yfir bréfpokanum og confect-hrúgunni, og þó einkum það, að hafa séð prestinn krafsa saman mold og confect eins og hænsni. Enginn hló meira að því en þau bæði; og þó voru prestinum þessi skeyti furðu sár.

Rétt á eftir voru hestarnir teknir og lagt á stað í næsta áfanga. Þegar allir voru komnir á bak, sást til Einars pósts með koffortaklárinn niðri í dalnum. Ritstjórinn setti báðar hendurnar fyrir munninn eins og lúður og kallaði til hans af öllum kröftum:

"Flýttu þér, - sili!"

Það heyrðist urga í Einari eins og kaffikvörn, en ekki orðaskil; en það var auðheyrt á rómnum, að hann sagði eitthvað ljótt.

Svo var riðið á stað.

Þeir presturinn og ritstjórinn voru aftarlega í hópnum. Riðu þeir samsíða og töluðust við.

En presturinn gat ekki haft augun af Hildi Svendsen, sem reið skamt á undan þeim. Oftast sá hann aðeins aftan á hana og fram með öðrum vanganum, en það var meira en nóg til þess að vera augum hans til yndis. Hún sat keik á hestinum og bar sig sæmilega. Reiðfötin voru aðskorin um mittið og sýndu vel þéttvaxnar og beinar herðar. Hárið var dökkjarpt að lit, þykt og mikið. Því var brugðið í tvær fléttur, og léku þær lausar niður um bakið. Rauð silkibönd voru hnýtt um flétturnar neðarlega, en hárbroddarnir raknaðir úr fléttunum og námu við söðulsveifina. Á höfðinu hafði hún rauðan hatt úr linum flóka, og var barðið nælt upp í kollinn uppi yfir öðrum vanganum. Undir hattbarðinu var hárið úfið, og léku nokkrir lausir lokkar um vangana. Smáger slæða var bundin yfir hattbörðin og ofan fyrir hökuna, en endarnir blöktu aftur af hnakkanum. Löngum trefli úr hvítum kniplingum var varpað lauslega á ská yfir herðarnar, en endarnir léku lausir niður með pilsskautinu. Hún reið rauðum skeiðhesti, og var auðséð, að hún var orðin því vön að sitja á hestbaki; enda þótti henni aldrei nógu hart farið.

Baksvipur þessarar ungu stúlku var séra Gísla ærið umhugsunarefni. Þar sá hann ekkert annað en fegurð og frjálsræði, æsku og glaðlyndi. Hún bar af öllum stúlkum í hópnum, - og líklega öllum firðinum, - og þó voru hinar stúlkurnar, sem héldu sér í nánd við hana, allar fremur snotrar. Hún var borin til þess að vera drotning fararinnar og hún var sjálfkjörin til þess vegna fjörs og fegurðar. Séra Gísli hafði enga stúlku séð, sem betur fullnægði fegurðarkröfum hans.

Hildur var nítján ára að aldri. Að yfirlitum var hún raunar ekki fríð, en bauð góðan þokka. Augabrýrnar voru dökkar og bogadregnar, ennið lágt og nefið dálítið hátt að framan. Varirnar voru hæfilega þykkar og munnurinn fríður. Pétursspor var í hökuna og spébollar í kinnunum. Augun voru módökk og hýrleg. Hún var ekki mjög há vexti, en þéttvaxin og nokkuð feitlagin. Þegar ofan á þetta bættist hin frjálslega og yndislega framkoma hennar, varð hún fljótt eftirlæti hvers manns. En jafnframt hætti mönnum við að gera sér dælt við hana eins og telpukrakka. Því að alvöru vissi enginn til, að Hildur litla ætti í eigu sinni.

Séra Gísli mundi það vel, hverjum böndum hann var bundinn, og hafði það fast í huga að nálgast hvorki þessa stúlku né aðrar meira en sæmilegt væri fyrir hann, bæði sem heitbundinn mann og prest. Samt gat hann ekki að því gert, að honum var ánægja að því að horfa á Hildi. Samtalið á milli þeirra fornkunningjanna, hans og ritstjórans, gekk mjög slitrótt. Presturinn hafði lítinn hug á því.

Ritstjórinn hafði ráðið mestu um það, að séra Gísla var boðið með í för þessa. Þótt margt væri um manninn úti á Eyrinni, var þar fátt af lærðum mönnum, og enginn á sama aldursreki og hann. Hann varð því feginn að endurnýja kunningsskap sinn við Gísla prest, þótt lítið hefði honum getist að honum á meðan þeir voru skólabræður. Nú var ekki um marga lagsbræður að velja. Hann hafði þá gert það fyrir siða sakir að bjóða unnustu hans með, en gert fastlega ráð fyrir því, að hún þægi ekki boðið. Honum var ekkert um Grundarfólkið, ekki þó af því, að hann þekti Torfa gamla og dóttur hans neitt öðruvísi en af afspurn, heldur miklu fremur af hinu, að hann hafði þegar eftir komu sína orðið Torfa andstæður í opinberum málum, og gerði því ráð fyrir, að hann mundi litlar mætur á sér hafa.

Ritstjórinn, sem hét Bjarni, hafði verið talinn afbragð annara sveina, bæði að gáfum og atgervi, þegar hann var í skóla. Höfðu því skólabræður hans hinar mestu mætur á honum og báru á hann mikið hrós. Hann varð því snemma einráður og uppvöðslumikill í skólanum og undi illa skólaaganum. Stór hópur skólabræðra hans fylgdi honum jafnan að málum. Af þessu leiddi, að hann þótti ódæll og kom sér ekki vel við kennara sína, og þótt hann kynni allvel við burtfararpróf, fékk hann ekki eins góðan vitnisburð og menn höfðu vænt, og var hegðun hans um kent.

Þegar til háskólans kom, naut hann frelsis síns í fullum mæli, en lagði ekki hart á sig við námið; var hann mjög fyrir stúdentum og safnaði flokki um sig, einkum af þeim mönnum, sem mikinn áhuga höfðu á landsmálum og vildu láta að sér kveða. Þó tók hann heimspekipróf með lofi, og var þess atburðar getið í öllum blöðum landsins. Eftir það hélt hann enn áfram námi og stundaði lögfræði.

Innan skamms var hann orðinn kunnur fyrir ritsmíðar og blaðagreinar; en á meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn varð hann jafnframt kunnur að öðru, sem lakara var, sem sé því, hve mikið fé hann þyrfti.

Þá var það einn vetur, að Svendsen konsúll úr Grundarfirði dvaldi í Kaupmannahöfn ásamt Önnu dóttur sinni. Hún var þá á líkum aldri og Hildur nú, og henni engu síðri að fegurð. Nærri mátti því geta, að margir ungir menn litu þangað hýrum augum. Konsúllinn dró sig þá ekki heldur í hlé, en kom með dóttur sína á samkomur Íslendinga. Þar var Bjarni flestum yngri mönnum álitlegri og hafði fulla einurð á að láta á sér bera. Hugir þeirra Önnu og hans hneigðust saman, og konsúllinn lét sér það dável líka. Áður en þau fóru heim aftur, var trúlofunin auglýst.

Kaupmenn í Höfn óskuðu Svendsen konsúl mikillega til hamingju með það, að hafa náð í þann, sem efnilegastur þótti stúdenta, fyrir tengdason, svo að konsúllinn varð seinast mjög upp með sér af ráðahagnum. - Þá létu stúdentar ekki heldur undan ganga að óska Bjarna til heilla. Stúlkan hafði komið þeim þannig fyrir sjónir, að ekki mundi hana biðla skorta. Þar að auki var það á allra manna vitorði, að konsúllinn væri vel efnaður kaupmaður.

Konsúllinn taldi sér nú bæði ljúft og skylt að styrkja tengdason sinn tilvonandi til námsins, og það því fremur, sem efni föður hans voru þá farin að ganga svo til þurðar, að hann átti óhægt með að veita syni sínum þann styrk, sem hann þurfti. En nú átti Bjarni erfiðara með að sinna náminu en nokkru sinni áður. Hamingja sú, sem honum hafði fallið í skaut, fylti svo huga hans, að engin lögfræði komst þar að. Og á meðan séra Gísli þuldi guðfræði í gráa kumbaldanum við Austurstræti í Reykjavík, og á meðan hann kendi börnum uppi í sveit, fékk skólabróðir hans hverja peningasendinguna eftir aðra frá tengdaföður sínwm tilvonandi, og var alkunnur gestur á fegurstu skemtistöðum Kaupmannahafnar, stundum með unnustuna við hönd sér, en oftar án hennar.

En loks fór konsúlnum að leiðast eftir prófi tengdasonarefnisins og áminti hann með föðurlegri hógværð um iðni við námið. Bjarni svaraði ómjúkum orðum og kvað ekkert liggja á. Þegar prófið fékst ekki næsta ár heldur, hóf konsúllinn áminningu sína með nokkru meiri myndugleik en áður, en fékk það óvænta svar, að Bjarni væri hættur náminu og mundi aldrei halda því áfram. Við þetta reiddist konsúllinn ákaflega og þóttist verða fyrir illum vonbrigðum. Því að ætíð hafði hann séð tengdason sinn í anda sem gullborðalagðan sýslumann að minsta kosti, en hafði óljósa hugmynd um það, að ekki væri það efnilegt til valda og vegsemdar á Íslandi að vera cand. phil. Ætlaði hann þá að rjúfa einkamálin; en þegar til Önnu kom, aftók hún það með öllu. Konsúlinn setti hljóðan við þessa stífni dóttur sinnar, en sá það brátt, að ekki tjáði ofstopi. Þá fór hann að frétta Bjarna betur eftir því, hvað hann vildi taka sér fyrir hendur. Hann kvaðst vilja verða ritstjóri og bað hann að kosta útgáfu blaðs fyrir sig, að minsta kosti fyrst í stað. Konsúllinn varð þungbrýnn í fyrstu við þá kröfu, en hafði engin orð um. Og áður en hann færi heim til Íslands aftur að því sinni, keypti hann prentsmiðju og réð til sín prentara. Síðan flutti hann Bjarna og dóttur sína með sér heim til Grundarfjarðar og gerði brúðkaup þeirra með miklum skjótleik og mikilli rausn.

Svo byrjaði blaðið að koma út. Það hét "Mjölnir" og lofaði því þegar eftir fæðinguna að "berja á tröllum heimsku og hleypidóma". Það var herskátt í skoðunum og óvægið í orðum, en lét margt til sín taka. Grundfirðingar höfðu aldrei fyrri átt þeirri sæmd að fagna, að blað væri gefið út hjá þeim. Mikið orð fór þegar af blaðinu, og kom það óþægilega við kaun sumra. Kaupendur þess urðu því snemma margir þar í firðinum, og fór þeim fjölgandi með hverju tölublaði. Eftir nokkrar vikur var enginn jafnáhrifamikill í firðinum og ritstjórinn.

Konsúllinn sá þetta og líkaði það vel. Hann var ráðríkur, vildi láta mikið að sér kveða, en þó hafa alþýðuhylli. Nú sá hann, að tengdasonur hans hafði ágæta hæfileika til blaðamensku, og batnaði því brátt um vinfengi þeirra. Enda lét ritstjórinn ekki á sér standa að tala máli konsúlsins, vekja eftirtekt manna á yfirburðum hans, en taka andstæðinga hans ómjúkum tökum. Aftur á móti fékst konsúllinn ekki um það, þótt honum þætti tengdasonur sinn hneigður til drykkju meira en góðu hófi gegndi. Vegna hinna góðu hæfileika hans gat hann fyrirgefið honum mikið.

En Bjarni undi æfi sinni illa á Eyrinni. Hann saknaði frelsis þess og glaðværðar, sem hann hafði áður notið. Þau hjónin bjuggu sér í húsi við heldur þröngan kost. Þeim hélzt illa á umsömdum launum, svo að oft urðu þau að leita til konsúlsins. Heimilið var Bjarna til lítillar gleði, og hann þyrsti nú meira en nokkru sinni áður eftir góðum lagsbræðrum og gamanmálum. Þess vegna sat hann oft í veitingahúsinu og fékk þá, sem inn komu, til samtals, og var þá stundum ekki vandur að samneytismönnum. Eða hann fór út á skip, þegar þau komu á höfnina, í sama skyni. Sjaldan var hann heima og sjaldan kom hann ódrukkinn heim. Þetta vissi hann, að konsúlnum líkaði illa, og til þess að komast hjá umvöndunum hans og áminningum, varð hann að beita blaðinu honum til þægðar meira en honum sjálfum þótti vert. Við þetta varð hann smám saman kærulausari um sjálfan sig og blaðið, en jafnframt undirgefnari tengdaföður sínum.

Þetta var nú orðið úr hinum efnilega námsmanni. Og á meðan hann var á skemtiferð með ungu fólki af Eyrinni inn að Drangafossi, sat konan hans heima yfir kornungu barni þeirra. Hún hafði enga vinnukonu, sem hún gæti trúað fyrir börnunum, og átti engin reiðföt, þó að hún hefði viljað fara með; en var of skapstór til að biðja að lána sér.

Bjarni sá vel, til hvílíkrar lægingar þetta stefndi, og fékk það honum mikillar áhyggju. En jafnan lifði í honum von um að geta einhvern tíma hrist þetta alt af sér og tekið eitthvað það fyrir, sem hann gæti notið sín við, orðið sjálfstæður maður og aflað sér sannrar virðingar. Nú lá við, að hann legði óvirðingu á sjálfan sig, svo að honum fanst jafnvel "rauðkussi" vera sér langtum fremri, bæði að hamingju og heiðri. Þess vegna leitaði hann nú samlags við hann, - meðfram að minsta kosti. Því að undir niðri lifði hjá honum löngun til þess að vinna hann úr höndum Torfa. Fyrir það var hann viss um, að konsúllinn mundi verða honum lengi þakklátur.

- - -

Eftir nokkra stund var hópurinn kominn fram að Drangafossi.

Fossinn var í heiðarbrúninni, og voru þar grösugir hvammar í kring, en klettóttar brúnir fyrir ofan. Áin beljaði fram hvítfyssandi í djúpu gljúfri. Fossinn var ekki hár og steyptist hvergi þverbeint niður. Vatnið hentist stall af stalli af heiðarbrúninni ofan í gljúfrið; alt var samfeld, fannhvít breiða. Víða voru í fossinum stór björg og klungur, en þess gætti hvergi, nema hvað vatnshnyklarnir urðu þar enn risalegri. Neðst í gljúfrinu féll vatnið niður í þröngan farveg á milli þverhnýptra stuðlabergskletta. Þar stóðu drangarnir. Það voru grágrýtisklettar af harðara efni en bergið umhverfis, og hafði því vatnið unnið seinna á þeim. Þeir stóðu með nokkru millibili og enginn gagnvart öðrum. Einn stóð í miðri ánni, og var hann hæstur. Hann var þverhnýptur öllum megin, en slútti þó dálítið neðst þeim megin, sem að fossinum vissi, því að þar hafði straumurinn mest unnið á honum. Uppi á honum var grasi vaxin þúfa og skál ofan í hana miðja. Sögðu menn, að það væri gamalt arnarhreiður; en eitt sinn hefði örninn verið skotinn af gljúfurbarminum, gagnvart dranginum, þar sem hann sat á eggjum sínum, og síðan hafði örn aldrei orpið á dranginum. Engum var fært út á dranginn nema fljúgandi fugli; var einnig til saga um það, að eitt sinn hefði vinnumaður frá Grund, ofláti mikill, synt út að dranginum og klifrað upp á hann, en ekki treyst sér til lands aftur. Hafði hann verið þar marga daga og liðið bæði kulda og hungur. Loks hafði hann í örvæntingu sinni reynt að komast til lands, en farist í ánni. Beggja megin drangsins rann áin, blágræn af froðunni úr fossinum, og var sem vatnið syði í klettaþrengslunum. Litlu neðar byrjuðu aftur smáfossar og harðir straumstrengir, þótt enginn þeirra væri eins fagur og tignarlegur eins og Drangafoss.

Hópurinn tók sér stöð í einum hvamminum, þar sem fegurst var og grösugast, rétt við fossinn. Þaðan var útsýn hin fegursta ofan eftir dalnum og út á fjörðinn, alt þangað, er eyrarnar lokuðu honum. Uppi yfir þeim var heiðarbrúnin með hvern klettastallinn upp af öðrum, og vegurinn í endalausum krókum og sneiðingum. Til beggja handa voru hinir miklu fjallgarðar, sem gengu fram beggja megin fjarðarins. Þokuflókar grúfðu á tindunum, og skein ekki sól nema stöku sinnum.

Nú var sprett af hestunum og þeim slept lausum. Þeir voru allir svitastorknir eftir sprettinn. Nú hristu þeir skrokkana, teygðu úr sér og veltu sér. Þeir urðu fegnir frelsinu og hvíldinni, og hvammarnir við Drangafoss höfðu mikið af sælgæti handa þeim. Grundirnar og brekkurnar voru dúðaðar í kjarnmiklum hagagrösum.

Nú vantaði Einar póst með koffortaklárinn, en við og við sá honum bregða fyrir niðri á veginum. Á meðan fóru menn að búa sig undir það, sem gera þurfti. - Karlmennirnir rifu við til eldsneytis og báru saman í föngum sínum, en sumir sóttu steina upp í klettabrúnirnar og gerðu hlóðir. Kvenfólkið kveikti upp eld, og eftir örlitla stund var farið að rjúka allálitlega.

Þá var Einar póstur kominn svo langt, að bölvið í honum heyrðist. Hann var mæddur yfir því, hvað koffortaklárinn væri illur í taumi.

- - -

Hildur geymdi lyklana að koffortunum, og þegar búið var að taka þau ofan, lauk hún þeim upp, tók upp úr þeim varninginn og fór með aðstoð annara kvenna að búa undir dögurð, sem halda átti þar í hvamminum.

Borðdúkurinn var breiddur á græna jörð, og brátt urðu margar hendur á lofti til hjálpar við það, sem gera þurfti. Sumir lögðu hnífa og gaffla á dúkinn með hæfilegu millibili og smádiska hjá. Aðrir opnuðu bauka, sem niðursoðinn matur var í, og skáru sig til blóðs á blikkröðunum, og enn aðrir drógu tappa úr flöskum, sem skrautbúnir miðar voru límdir á. Allir vildu hjálpa til og hver varð fyrir öðrum.

"Farið þið nú burtu, karlmennirnir!" sagði Hildur hálfergileg. Hún var kafrjóð í frarman af ákafanum og af því að lúta yfir matnum.

"Já, farið þið, farið þið! Burt með ykkur!" hrópaði alt kvenfólkið einum munni. Sumar stúlkurnar skeltu saman lófunum, til þess að gefa orðunum enn meiri áherzlu.

"Við, sem erum að hjálpa ykkur!" sagði ritstjórinn og saug blóð úr flumbru á fingrinum á sér. Hann hafði verið að opna bauk, fullan af niðursoðnum laxi, og skorið sig.

"Látið okkur fást við þetta. Þið gerið ekkert annað en tefja fyrir okkur!" gegndi Hildur rösklega. "Eins og það sé ykkar meðfæri að fást við mat!"

Hinar stúlkurnar tóku undir þetta og endurnýjuðu burtreksturinn.

Karlmennirnir létu sér segjast og löbbuðu burtu, en hreyttu mörgum gamanyrðum um leið og þeir fóru.

Ritstjórinn hrifsaði eina flöskuna og stakk henni í barm sinn um leið og hann fór.

"Bjarni!" kallaði Hildur og leit alvarlega til hans.

"Hvað er nú?" spurði ritstjórinn og nam staðar.

Hildur steytti að honum hnefann:

"Mundu nú eftir - henni Önnu systur minni!"

Hann skildi áminninguna og hló við:

"Áttu við flöskuna þá arna? Hún á að vera hand - handa hestunum!"

"Handa hestunum, - var betra en alt annað!" gall í konu barnakennarans. Henni þótti fyndnin góð, og fleiri hlógu að henni.

En ritstjórinn gekk með flöskuna upp á hamrabrúnina, þangað sem hann varð ekki séður neðan úr hvamminum, og stakk henni inn í bergskoru. Síðan reikaði hann fram á gljúfurbrúnina. Þar hitti hann prestinn og fleiri karlmenn; þeir stóðu þar og horfðu hugfangnir á hinar fannhvítu öldur, sem veltust hver á aðra ofan, yfir klungur og klettastalla, ofan í gljúfrið.

Presturinn hafði ekki þorað að koma þar nærri, sem verið var að taka upp úr koffortunum og breiða á "borðið". Hann átti engan hlut í þessum gæðum, og það hefði gengið ósvífni næst af honum að skifta sér af þeim. Hann var gestur þessa skemtifélags. - Þess vegna hafði hann gengið afsíðis fram á brúnina. Þangað komu hinir á eftir honum.

Þar talaði enginn orð frá vörum. Flesta setur hljóða, er þeir standa gagnvart jafnfagurri og háleitri sjón sem vatnsmiklum, brimhvítum fossi. Tign og máttur náttúrunnar heldur huganum föstum og vekur alvöru og aðdáun, sem nálgast lotningu. Mönnum finst alt, sem þeir hafa áður þekt, verða smátt og hversdagslegt hjá hinni hrikalegu, ósnortnu og einföldu fegurð, sem þar ber fyrir mann, - óbrotinni og yfirlætislausri, en þó voldugri, nærri því guðdómlegri.

Úðinn úr fossinum ýrðist í andlit þeirra, og loftið skalf af þungum, þjótandi gný. Jafnvel klöppin undir fótum þeirra stundi, eins og hún hefði þungan ekka. Það var eins og þessi jötunefldi niður læsti sig gegnum þá, lamaði vilja þeirra og tilfinningar, heillaði þá í hálfgerðan draum og væri þess albúinn að seiða þá ofan í hnykla hinna mjallhvítu hranna, sem hentust niður um gljúfrið.

Það var sem séra Gísli rankaði við sér við það, að hönd var lögð á öxl honum. Það var ritstjórinn.

"Líttu á þennan!" hrópaði hann fast við eyrað á honum, og þó heyrði presturinn varla annað en óminn af orðunum.

Ritstjórinn benti á dranginn niðri í gljúfrinu. Presturinn hafði ekki tekið eftir honum fyrri.

Drangurinn var hvass á móti straumnum eins og stefni á bryndreka. Straumstrengurinn úr fossinum beljaði um hann að neðan og skvettist upp með klettunum. Vegna flughraðans, sem var á vatninu framhjá honum, var líkast því, sem drangurinn sjálfur hreyfðist og kæmi öslandi upp í fossinn.

Þeir sneru frá fossinum ofan á móts við dranginn til að skoða hann betur.

En þegar þeir voru komnir svo langt frá fossinum, að ögn dró úr niðinum, heyrðu þeir hrópin og köllin í kvenfólkinu og sáu, að það veifaði að þeim klútum sínum.

Dögurðurinn var tilbúinn.

- - -

Rúm séra Gísla við dögurðinn var á milli ritstjórans og Hildar. Það var heiðurssætið eins og nú stóð á. Betra var ekki til.

Sæti voru auðvitað engin. Menn lágu í kringum borðdúkinn eða sátu þar flötum beinum, bröltu og botnveltust og hlógu hver að öðrum, þegar eitthvað tókst ófimlega.

Hver kepti við annan að segja gamanyrði og allir fundu sér skylt að hlæja að þeim, jafnvel þó að þau tækjust ekki sem bezt. Barnakennarinn var seigur að koma mönnum til að hlæja. En ritstjórinn var sá bezti. Loks fór séra Gísli að reyna sig líka. Honum tókst vel. Raunar var það, sem hann sagði, ekki fyndnara en það, sem aðrir sögðu. En hann læddi því fram úr sér svo ástúðlega-kindarlega, að mönnum var ekki unt að verjast hlátri. Við það óx honum hugur, og innan skamms var hann orðinn þeim báðum, barnakennaranum og ritstjóranum, hættulegur keppinautur.

En þótt séra Gísli virtist vera með óskiftum huga við samsætisfagnaðinn, var ekki svo. Hann hafði augun hjá sér og leit þeim víða. Það var ekki trútt um, að hann væri feiminn, einkum af því, að hann sat við hliðina á Hildi. Þess vegna skotraði hann augunum til allra hliða, til þess að gæta að, hvort nokkur hefði nokkuð við það að athuga. Og ef hann sá einhverja kasta á milli sín kynlegu tilliti, var sem væri hann stunginn hnífsoddi. Hann hélt þá, að verið væri að draga dár að sér.

Framan í Hildi þorði hann aldrei að líta; en nú voru það hendurnar á henni, sem vöktu eftirtekt hans. Þær voru hvítar og mjúkar, nettar og nokkuð holdugar, svo að lautir komu yfir hnúfunum, þegar hún rétti úr fingrunum. Á einum fingrinum glóði hringur með skínandi gimsteini. En - græðifingurinn á hægri hendi var hringlaus.

Hann gat ekki haft augun af þessum yndislegu höndum. Og svo voru þessir nettu, fimu fingur á stöðugu iði fyrir hann! Þeir voru að seilast eftir því, sem átti að bjóða honum, laga til dúkinn undir diskinum hans, þegar hann var kominn í hrukkur, hella í vínglasið hans o. s. frv. Að lokum færðu þeir honum bolla með brennheitu kaffi. Aldrei hafði honum þótt jafnvænt um neina fingur.

Eftir dögurðinn tók ritstjórinn undir hönd séra Gísla og leiddi hann burtu frá hópnum.

Þeir voru báðir orðnir ofurlítið örir af víni, en ritstjórinn þó meira. Presturinn hafði verið varkárari við máltíðina.

Ritstjórinn leiddi hann upp í klettabrúnina, á hvarf frá hópnum. Þar dró hann flöskuna út úr klettaskorunni og bauð prestinum að setjast niður hjá sér. Sjálfur settist hann einnig og dró tappann úr flöskunni.

Nú voru þeir tveir einir og voru innilegri og alvarlegri en meðan þeir voru hjá fjölmenninu. Eftir að þeir höfðu báðir dreypt á flöskunni, byrjaði ritstjórinn með dálítinn keim af gletni í röddinni:

"Nú-nú, lagsmaður! Hvernig unirðu þér hjá Torfa gamla?"

Séra Gísli varð hljóður við þessa spurningu.

"Allvel", sagði hann dræmt.

"Ég þarf auðvitað ekki að spyrja að því. Þú, sem ert trúlofaður dóttur hans! Þér er hann auðvitað sem bezti faðir".

Séra Gísli þagði.

"Jæja, við erum nú gamlir skólabræður og getum talað hispurslaust. Ég skal ekki stríða þér á Torfa. Þú veizt, að við Torfi gamli erum engir vinir. Við gerðum það honum til ills að bjóða þér með okkur. Ég vona, að þú afsakir það. Og mig furðar á því, að þú skyldir fá að fara".

"Ég spurði alls ekki um leyfi", sagði séra Gísli án þess að líta upp.

"Heldurðu þá ekki, að þú verðir látinn gjalda þess síðar?"

Ritstjórinn horfði fast framan í prestinn, til þess að sjá, hvernig honum væri við þetta.

"Getur vel verið. En ég tek því þá, þegar þar að kemur. Ekki skuluð þið hafa áhyggjur af því. Ég fer mínu fram og tek afleiðingarnar á mig".

Ritstjórinn klappaði á herðarnar á honum.

"Bravó, bravó! Þú ert orðinn mesta hetja!"

Nú varð þögn og á meðan réttu þeir flöskuna á milli sín.

Ritstjórinn þóttist nú kominn að raun um, hvernig í prestinum lægi, og nú byrjaði hann að segja honum alla viðskiftasögu séra Torfa og safnaðarins, - alt það, sem hér að framan er sagt, - og bar það undir hann að lokum, hvort honum þætti nú þetta prestslegt eða sanngjarnt, og hvort honum þætti það nokkur furða, þótt ýmsum þar ytra þætti Torfi óþarflega þver og þeim væri sárt í skapi til hans.

Séra Gísli dró enga dul á það, að hann væri tengdaföður sínum tilvonandi ósamþykkur um þetta atriði, þótt engu gæti hann um þokað. Síðast í morgun kvaðst hann hafa látið hann heyra það, að honum fyndist heimska að láta kirkjuna standa inni í fjarðarbotni.

Þetta þótti ritstjóranum heldur en ekki vænt um að heyra. Hann hlakkaði til að geta sagt konsúlnum þessi tíðindi.

"En hvers vegna í ósköpunum stofnið þið ekki fríkirkju?" sagði séra Gísli eftir ofurlitla þögn.

Ritstjórinn glápti á hann um stund, eins og hann tryði ekki augum sínum og eyrum. Þetta kom svo flatt upp á hann.

"Þú segir dálítið, lagsmaður!" sagði hann.

Presturinn hálfsá eftir að hafa slept þessu fram úr sér, þegar hann sá, hvernig ritstjóranum varð við það. Þetta hafði hrotið honum af vörum í hugsunarleysi.

"Fríkirkju!" hélt ritstjórinn áfram. "Já, það væri Torfa gamla sannarlega mátulegt! Heyrðu -! Ert þú til með að verða fríkirkjuprestur?"

"Hver veit".

"Fríkirkju, ha-hæ! - Þú ert hreint og beint afbragð! Hvað heldurðu, að hún - "fræðasyrpan", - segði um það?"

Séra Gísli leit hvast framan í ritstjórann. Nú var honum nóg boðið.

"Já, fyrirgefðu, elsku vinur. Þetta glappaðist fram úr mér. Ég átti auðvitað við unnustuna þína elskulega. Ég man aldrei, hvað hún heitir. - Fríkirkju, - já! Hún er gáfuð stúlka; hún er vís til að fylgja þér að málum".

Ritstjórinn var svo fljótur að stýra undan, að séra Gísli gat ekki annað en brosað að honum í stað þess að reiðast.

Ritstjórinn þagnaði og horfði brosandi beint fram undan sér, eins og hann væri að hugsa um eitthvað kynlegt. Loks mælti hann:

"Og Torfi, - hvað heldurðu, að Torfi segði? - Það er annars undarlegt, hvað mér lízt skolli vel á þann karl. Ég hefi nú ekki séð hann nema einu sinni og aldrei talað við hann. En sá karl, það er eitthvað út í hann varið; það bregzt mér ekki. En mér er sem ég sjái framan í hann, þegar hann - - !"

Hann gat ekki lokið við setninguna fyrir hlátri. Presturinn vissi varla, hvaðan á sig stóð veðrið.

"Bjarni, Bjarni!" var hrópað niðri í hvamminum. Það var Hildur, sem kallaði.

"Já", svaraði ritstjórinn.

"Hvað verður af ykkur? - Komdu!"

"Undir eins!" kallaði hann og stóð á fætur. "Komdu með!" sagði hann við prestinn, og um leið stakk hann flöskunni inn í bergskoruna.

"Bráðum", sagði séra Gísli dræmt og var hugsi.

En ritstjórinn stökk á stað ofan í hvamminn. Stígvélahælarnir hans ristu löng, djúp spor í gljúpa, grösuga brekkuna.

Presturinn sat þar einn eftir.

- - -

Rétt á eftir heyrðist margraddaður söngur neðan úr hvamminum. Barnakennarinn var söngkennari á Eyrinni og lék á fiðlu. Margir af þeim, sem í förinni voru, voru meðlimir í söngfélagi hans; allar raddir áttu þar fulltrúa. Og fiðluna hafði kennarinn reitt með sér.

Ritstjórinn var raddmaður mikill. Þess vegna var kallað á hann, áður en byrjað væri á söngnum. Presturinn þekti hina miklu bassarödd hans úr öllum hinum röddunum. Háu raddirnar söng kvenfólkið.

Séra Gísli hlustaði á sönginn og hugsaði hugsanir sínar jafnframt. Í fyrstu var ekki laust við, að hann fyndi sig móðgaðan, þar sem ritstjórinn hafði haft óvirðandi orð um unnustu hans; vegna Torfa gamla þyktist hann ekkert. Honum datt því í hug að sækja hest sinn og ríða heim, - þótt stuttar yrðu kveðjur. En frá þessu féll hann bráðlega aftur. Með því léti hann saklausa gjalda hins seka, þar á meðal Hildi, sem þó hafði verið honum svo góð og ástúðleg. Henni vildi hann þó ekki gera gramt í skapi.

Svo hugsaði hann einnig lítið eitt um það, sem síðast hafði borið á góma á milli þeirra kunningjanna. Það gat leitt út á alvarlega braut, og víst hafði það verið léttúðugt af honum að sleppa slíkum orðum. En hann huggaði sig við það, að fráleitt mundi þetta koma honum í nokkurn vanda. Báðir höfðu þeir verið dálítið "hýrir", og þá eru ekki öll orð vegin á gullvog. Þegar af þeim rynni, mundu þeir báðir skoða þetta sem markleysuhjal, ef þeir þá mintust nokkurn tíma á þetta framar.

En hann fann það, að nú mátti hann ekki drekka meira; hann fann allmikið á sér, og honum var illa við það, að aðrir sæju á honum drykkjuvímu.

Söngurinn neðan úr hvamminum gerði hugsanir hans glaðværari og niðurinn úr fossinum hafði mildandi áhrif á skap hans. Í raun og veru leið honum vel, - óvanalega vel. Langt var síðan hann hafði verið með jafnglaðværu fólki, langt síðan hann hafði orðið jafnfrjáls og óháður öllum og öllu. Nú gat hann tekið þátt í glaðværðinni, þegar hann vildi, og verið einn og afsíðis þegar hann vildi.

Og hann mátti til að taka þátt í þessari glaðværð, þótt ekki væri nema í þakklætisskyni fyrir alúð hins fólksins. Hann mátti ekki sýnast fýldur eða láta það halda, að hann þættist of góður til að leggja sitt til skemtananna, - nú mundi verða farið að halda ræður og drekka minni. Þá átti vel við, að hann héldi þar eina ræðu.

Síðan fór hann að taka saman ræðu í huganum. Hún átti að verða um náttúrufegurðina. En jafnframt átti að felast í henni líking um lífið, - fögur lífsskoðun og háleit siðferðiskenning, sem presti væri samboðin.

Hann ætlaði að byrja á fossinum, sem byltist fram af heiðarbrúninni, ljómandi og glitrandi í sólskininu og braut það í regnbogaliti. Það var hin ólma og óstýriláta æska, sem þó bar í sér endurskin himneskrar fegurðar og sakleysis. Neðar í gljúfrinu brauzt áin um í klettakreppunni, eins og andi stórhuga æskumanns, sem brennur af frelsisþorsta og finst öll löggjöf lífsins og þjóðanna, skráð og óskráð, kreppa að sér. Síðar leið sama áin með lygnum straumi milli grænna bakka og liðaðist um skrúðfagra hólma. Það voru manndómsárin, sem liðu fram í ást og heimilisunaði. Og að lokum rann hún blíðlygn og spegilslétt fram á leiruna og út í fjarðarbotninn, eins og ellin, sem líður ljúfstreym og unaðssæl út í haf eilífðarinnar, upphaf og endi alls, - eilífðarinnar, sem rynni saman við sálirnar, jafnvel hér í lífi, eins og sjórinn flæddi inn í árósinn. - -

Hann mátti til að skrifa upp nokkur orð úr þessu sér til minnis. En í vasa sínum fann hann ekkert annað til að skrifa á en ræðuna um réttlæti Faríseanna. En seinasta blaðsíðan á henni var ekki heldur nema hálfskrifuð. Þar mátti koma allmiklu fyrir.

Hann var niðursokkinn í þetta, þegar hann heyrði kallað með kvenmannsrödd skamt frá sér:

"Séra Gísli!"

Hann leit upp. Hildur var rétt að segja komin til hans. Hún stóð á öndinni af mæði og var blóðrjóð í framan.

"Skelfing heyrið þér illa, séra Gísli!" másaði hún og hló við. "Ég átti að sækja yður til að syngja eitt lag með okkur. Viljið þér ekki gera það?"

"Yðar vegna, með ánægju!" sagði presturinn um leið og hann spratt á fætur og stakk "réttlæti Faríseanna" í frakkavasa sinn.

Svo fylgdust þau að ofan í hvamminn til hins fólksins.

En þá var búið að samþykkja nýja uppástungu. Allir áttu að fylla glösin sín af bezta víninu, sem til væri, ganga síðan með þau fram að fossinum og drekka skál hans.

Hildur og presturinn slógust í förina.

Frammi við fossinn hafði ritstjórinn orð fyrir þeim. Hann brýndi röddina eins og þaulæfður magister bibendi; samt heyrðist ekki nema slitringur úr því, sem hann sagði. Fossinn hafði miklu hærra.

Ræðan varð ekki löng. Þegar ræðumanni þótti tími til kominn, gaf hann merki um, að drekka skyldi skál fossins og hrópa húrra fyrir honum. Sjálfur drakk hann helminginn úr glasinu en skvetti hinu í fossinn. Það kallaði hann að drekka honum til.

Þaðan gekk allur hópurinn ofan með gljúfrinu á móts við dranginn. Ritstjórinn vildi mæla fyrir minni hans líka. Þar heyrðist betur, hvað hann sagði.

Hann lagði út af hinum andstæðu öflum, sem hér ættust við. Drangurinn, sagði hann, væri ímynd hins tröllaukna mótþróa, sem aldrei léti undan síga. Hann léti ána belja um sig og bryti brimlöður fossandans á hinni sterku, breiðu bringu sinni. Ekki væri hann á því að láta skola sér burtu sem fisi eða fánýtu hjómi. Á meðan hann stæði þarna, yrði áin, með öllum sínum beljanda og gauragangi, að gera sér það að góðu að víkja úr vegi, ef hún vildi komast framhjá honum. Skvettur hennar ynnu lítið á honum, og hann svimaði við að hugsa til þess, hvílíku ógrynni af afli áin þyrfti að eyða, þangað til þessi karl væri ekki framar fyrir henni.

Að þessu var gerður góður rómur og menn drukku skál drangsins með miklu fjöri.

Nú tók presturinn til máls.

Hann tók ekki upp "réttlæti Faríseanna", heldur ætlaði hann að reyna að "slabba blaðalaust" að þessu sinni. Hann byrjaði á fossinum og æskunni og komst ofurlítið ofan í gljúfrið og frelsisþorstann. Þá fanst honum ræðan vera orðin svo löng, að hann lét þar við lenda. Alt hitt, um hólmana og heimilisunaðinn og ósinn og ellina og eilífðina, féll aftan af. Á eftir þessari ræðu var drukkin skál - æskunnar!

Að því búnu kyrjaði barnakennarinn upp af öllum kröftum:

"Þar sem aldrei á grjóti gráu".

Hann gaut hvítum augunum umhverfis sig til að sjá, hvort enginn ætlaði að taka undir með sér. Það dróst fyrst; en þegar menn sáu, að honum var full alvara, fóru þeir smátt og smátt að syngja með.

Síðan reikuðu menn nokkra stund meðfram gljúfrinu og skoðuðu sig um. En að lokum tíndust menn upp í hvamminn aftur og fóru að efna til nýrra skemtana.

Þá tók ritstjórinn kennarann við hönd sér og skauzt með hann upp í brúnirnar, þar sem flaskan var fólgin. Kennarinn var bindindismaður og hafði ekki bragðað annað en gosdrykki um daginn.

Á meðan var presturinn hjá hópnum og tók þátt í pantaleik.

Þegar þeir komu aftur, ritstjórinn og kennarinn, ljómaði kennarinn af fjöri og ánægju. Greip hann þá fiðluna og lék fagurt danslag. Menn létu ekki segja sér það tvisvar, í hverju skyni það væri gert. Innan skamms voru allir farnir að dansa, þar sem sléttast var í hvamminum.

Nú þurfti ekki að sakast um skort á glaðværð. Þegar menn fóru að mæðast á dansinum, hófu menn ýmsa aðra leiki. Þar var "ofið vaðmál" og dansaðir gamlir þjóðdansar, bæði útlendir og innlendir. Til tilbreytingar var farið í ýmsa íslenzka leiki. Og galsinn náði hámarki sínu með því, að farið var í "skessuleik".

Séra Gísli var nú kominn inn í glauminn og galsann með lífi og sál og lét sér ekki fyrir brjósti brenna að taka þátt í hverjum leik með hinu fólkinu. Sama gerði ritstjórinn.

Tveir staðir voru afmarkaðir, sinn hvorum megin grundarinnar, og nefndir "borgir". Á milli þeirra var æðisprettur, hæfilegt hlaupskeið.

Nú kom það sér vel fyrir séra Gísla, að hann var manna fóthvatastur. Ef hann var "skessan", náði hann öllum undir eins. Ef hann var eitt af "kóngsbörnunum", náði enginn honum - nema Hildur.

Hann löðraði allur í svita, var eldrauður í framan og másaði af mæði.

En þannig voru allir hinir líka. Og margir voru feitari og þyngri á sér en hann, og lögðu meira að sér, án þess að gefast upp. Svo bætti það úr skák, að hann náði æfinlega "í borg", en þar gat hann staðið við stundarkorn og hvílt sig.

En þegar hann var á hlaupum á milli "borganna", leit Eyrarfólkið kynlega hvað til annars og glotti í kyrþey. Presturinn var skreflangur og lagði undir sig landið í stórum stökkum. Frakkalöfin flöksuðust langt aftur af honum, og það var eins og allur prestslegur heilagleiki viðraðist af honum á hlaupunum.

- - Um miðaftansleytið þéttust flókarnir yfir heiðinni og skúrir rak með fjallabrúnunum. Dálítil skúr dundi á skemtifararfólkinu og gerði hvamminn votan.

Þá lá Einar gamli póstur sofandi uppi í brekkunni og hraut fast; hann var rauður í framan eins og nýsoðinn krabbi. Nú vaknaði hann við það, að það rigndi beint ofan í andlitið á honum.

Kvenfólkið nöldraði undan regninu, því að það vildi skemta sér lengur. Þó varð það ofan á að taka nú hestana og halda heim á leið.

Á meðan Einar gamli var að tína saman hestana, gengu menn saman fram að fossinum, til þess að sjá hann ennþá einu sinni og - kveðja hann.

- - -

Skúrin stóð ekki lengi, og aftur kom bezta veður. En þá var hópurinn kominn á heimleið; enda var þá dagur að kvöldi kominn.

Aftur var klárunum hleypt út eftir dalnum, ekki síður en inn eftir honum um morguninn. Þau séra Gísli og Hildur voru jafnan með þeim fremstu og samsíða, því að Brúnn prestsins gaf ekki eftir hestum þeirra Eyrarmanna.

Þegar þau riðu yfir grundirnar fyrir neðan túnið á prestssetrinu, stóð séra Torfi úti á hlaði og reykti úr langri pípu. Stóð hann kyr og horfði á skemtifararfólkið.

Séra Gísli hafði verið leikandi fjörugur og gamansamur á leiðinni framan dalinn. En þegar hann sá Torfa standa þarna, dró nokkuð úr glaðværð hans, þó að lítið bæri á. Hann hefði heldur viljað vita tengdaföður sinn tilvonandi inni í bólinu, þar sem hann var vanur að vera, en vita augu hans hvíla á sér á meðan hann reið þar fyrir neðan garðinn með þeim Eyrarmönnum.

En Hildur hélt glaðværð sinni og hló hátt og skært, svo að undir tók í fjöllunum, að hverju gamanyrði, sem sagt var.

Ritstjórinn var spölkorn á eftir þeim. Hann hafði tekist það nauðsynjaverk á hendur að sjá um, að Einar gamli drægist ekki alt of langt aftur úr með koffortaklárinn. Reið hann því jafnan á eftir Einari og barði klárana áfram, bæði þann, sem Einar reið, og hinn, sem bar koffortin. Einar undi þessu illa og var svo reiður, að við sjálft lá, að hann berði ritstjórann til skemda með svipunni, hvenær sem hann sá sér færi. Þó sat oftast við ómjúk orð og illar fyrirbænir. En ekki undu klárarnir þessu betur, því að þeir voru því vanastir í þjónustu Einars að ráða sjálfir fararhraðanum.

"Ætlarðu að drepa mig, helvítis fanturinn þinn!" öskraði Einar eitt sinn, hálfkjökrandi af reiði og sársauka. Koffortaklárinn hafði þá fengið vel úti látið svipuhögg yfir þvera lendina og ruddist áfram, en við það rakst annað koffortið í lærið á Einari og var ómjúkt viðkomu.

Ritstjórinn bætti úr bessu með því að láta klárinn, sem Einar reið, taka viðbragð af sömu ástæðu.

Einar hélt við hestana af öllum kröftum og jagaðist í sífellu, en ekkert hjálpaði. Ritstjórinn keyrði klárana til skiftis, svo að þeir þustu á harðastökki út eftir grundunum og framhjá prestssetrinu. Lét þá stundum hátt í diskum og öðrum munum í koffortunum, sem farið var að losna um.

Fyrir þetta verk, þótt ilt væri, var allur hópurinn ritstjóranum þakklátur. Nú reið á, að Einar póstur kæmist áfram með nestið, því að við Alviðru átti að fara af baki og drekka skilnaðarskálina. Þar ætlaði presturinn að snúa heim aftur.

En langt á eftir þeim Einari og ritstjóranum heyrðist söngur í barnakennaranum. Kona hans vildi ekki ríða frá honum, og einhverjir fleiri af kunningjum hans voru þar einnig í för með. Var það haft fyrir satt á eftir, að þeir hefðu þurft að styðja barnakennarann á hestinum, og þess vegna hefði þeim gengið seint. "Syngjandi ári" var nú seztur að í barnakennaranum; var hann nú sísyngjandi.

Á hamrinum utan við Alviðrugilið var farið af baki. Brátt var þar mestallur hópurinn saman kominn. Þá var kipt ofan af koffortaklárnum til að ná í drykkjarföng.

Þegar glösin voru fylt, kvaddi ritstjórinn sér hljóðs og mælti fyrir minni séra Gísla. Hann kvað það vera öllum þeim, sem í förinni hefðu verið, hið mesta gleðiefni, að hafa kynst jafnástúðlegum manni og þessi ungi guðfræðingur væri. Það gerði líka gleði manna tvöfalt meiri og innilegri að sjá það og finna, að prestur þeirra teldi sig ekki upp úr því vaxinn að taka þátt í saklausum fögnuði safnaðarbarna sinna. Hlutverk prestsins væri engu síður það, að gleðjast með glöðum en hryggjast með hryggum. Síðan fór hann allómjúkum orðum um þá presta, sem væru þurlyndir, sífelt súrir á manninn og einstrengingslegir, og taldi þá gera ilt eitt, bæði kirkju sinni og mannfélagi. Á presta, sem væru ráðríkir ribbaldar og þverlyndir þursar, vildi hann alls ekki minnast. Í dag hefði séra Gísli gert sig kunnan að ljúfmensku, aukið glaðværðina, en hvergi dregið úr henni, og áunnið sér samúð hvers manns. Að lokum benti hann prestinum út eftir firðinum. Þar kvað hann starfsvið hans mundu verða framvegis. Þar væri fjöldi góðra manna, sem þreyttir væru orðnir á stífni og úlfúð milli prests og safnaðar og þráðu mjög þann prest, sem liti með sanngirni á ástæður þeirra og reyndi að mæta þeim á miðri leið.

Á meðan ritstjórinn mælti þetta, hlustuðu menn á með mikilli athygli og oft var hrópað "heyr" fram í ræðuna. Að lokum var skál prestsins drukkin með mjög almennri hluttekningu.

Séra Gísli þakkaði fyrir þennan heiður og þessi vel völdu orð með stuttri ræðu. Hann var hrifinn af þeim innileik, sem honum var sýndur, en vildi sem minst láta á tilfinningum sínum bera. Það hafði sjaldan komið fyrir, að skál hans væri drukkin, og aldrei með slíkum innileik.

Þegar Hildur hringdi við hann glasi sínu, kvaðst hún vona, að hann kæmi og heimsækti föður hennar, og það helzt sem fyrst. Þetta sagði hún svo barnslega alúðlega, að séra Gísli gat ekki að sér gert nema líta framan í hana. Augu þeirra mættust snöggvast. Þau litu bæði undan og hann drap höfði orðum hennar til samþykkis.

Á meðan menn voru að taka hesta sína og búa sig á bak, vék ritstjórinn séra Gísla afsíðis og mælti við hann:

"Það, sem við mintumst á þarna uppi á brekkubrúninni, verður okkar tveggja í milli fyrst um sinn. Ég skal undirbúa konsúlinn, - þú skilur. Svo verður "Mjölnir" okkur kannske að einhverju liði út á við. En komdu út eftir til okkar, helzt núna í vikunni. Ég þarf að koma þér í kynni við konsúlinn. Það er maður, sem þú hefir gott af að kynnast".

Við þessi síðustu orð deplaði ritstjórinn augunum íbyggilega.

Séra Gísli var svo ruglaður af öllu þessu, að hann sá og heyrði líkt og í draumi. Hann ætlaði að fara að biðja ritstjórann að taka þetta tal þeirra sem markleysu og láta það niður falla. En áður en hann gæti sagt nokkuð, var ritstjórinn farinn frá honum og kominn inn í hóp hinna.

Séra Gísli kvaddi alla með handabandi og þakkaði þeim fyrir skemtunina um daginn. Svo tók hann hest sinn og steig á bak.

Þegar hann var kominn yfir gljúfrið og upp hinum megin, leit hann við. Þá voru samferðamennirnir einnig komnir á bak og þeir fyrstu voru að hverfa ofan fyrir hamarinn.

Hildur var ekki farin á stað. Hún sat á hestbaki, og þegar hún sá, að séra Gísli leit við, veifaði hún til hans með trefilenda sínum og kallaði:

"Munið þér nú eftir að heimsækja okkur, næst þegar þér komið á Eyrina!"

"Þakka fyrir! Skal ekki gleyma því", kallaði hann á móti.

Hún kinkaði til hans kolli og brosti hýrlega um leið og hún reið á stað og hvarf niður fyrir hamarinn.

Brúnn stóð kyr og beið eftir bendingu frá húsbónda sínum um að halda áfram. Séra Gísli sat niðursokkinn í hugsanir sínar.

Þá heyrði hann sönginn í barnakennaranum, sem nú var loks að koma.

Við það rankaði hann við sér.


4. kafli - Heimsókn á Eyrinni

Heima á Grundarprestssetri var hver dagurinn öðrum líkur og ekkert bar til tíðinda fram eftir vikunni. Því að ekki gat það með tíðindum talist, þótt sveitamenn kæmu þar daglega við í kaupstaðarferðum sínum og oft væri þar gestaþröng og annríki.

En aðstoðarpresturinn var breyttur, þó að lítið bæri á því.

Að ytra útliti var alt samlíf hans og heimafólksins óbreytt. Torfi fór á fætur á undan öllum öðrum, eins og hann var vanur. Hann gáði þá til veðurs og leit eftir verkum manna. Svo lagðist hann fyrir aftur og lá við bókalestur í rúmi sínu mestallan daginn. Fundum þeirra prestanna bar ekki oftar saman nú en áður, og ef þeir töluðust eitthvað við, þá var það um daginn eða veðrið. Aldrei mintist Torfi á skemtiferðina eða það, sem þeim hafði á góma borið í stofunni á sunnudaginn, og einskis spurði hann séra Gísla viðvíkjandi þessu. Hann lét að öllu leyti sem honum kæmi það ekkert við.

Annars dvaldi aðstoðarpresturinn lengst af í stofu sinni og stytti sér stundir við bókalestur eða skriftir. Úti fanst honum tómlegt og einmanalegt, enda var fátt af vinnufólkinu að verkum sínum heima við bæinn. Fáeinar stundir gat hann stytt sér með því að kynna sér hitt og þetta í búskap séra Torfa og tala við ráðsmann hans, en aldrei lengi í einu. Þá fór hann aftur heim í stofuna. Og ef honum leiddist alt of mikið, gat hann dreift hugsunum sínum stundarkorn með því að leika á orgelið, sem stóð þar í stofunni.

Þannig höfðu dagarnir liðið, síðan hann kom að Grund, og þannig liðu þeir enn. Munurinn, sem á var orðinn, sást ekki í fljótu bragði.

Þórdís var önnum kafin mestallan daginn. Hún hafði alla búsýslu á hendi inni við. Auk þess þurfti hún að skifta sér á milli föður síns inni í rúmi hans og unnusta síns í stofunni og bæta úr beggja þörfum. Torfi mátti aldrei sjá af dóttur sinni lengi í einu. Hún þurfti að láta tóbak í pípuna hans, rétta honum alt, sem hann vantaði, leita að bókum fyrir hann, skrifa fyrir hann bréf, fága gleraugun hans o. s. frv. Enginn mátti gera neitt af þessu nema hún. Ef ekkert af þessu var fyrir hendi, þurfti hann að láta kalla á hana, þegar minstum vonum varði og spyrja hana um eitthvað, sem hann mundi ekki.

Hún annaðist föður sinn með einstakri alúð. Glöð og ljúf gerði hún hvert viðvik og aldrei hraut henni möglunaryrði af munni undan kvabbi hans. Ef Torfi var önugur og geðstirður, svaraði hún honum aldrei öðru en góðu. Og þegar hann stundi undan gigtarverkjunum eða kveinkaði sér, lét hún blíðlega að honum og spurði hann í meðaumkunarrómi, hvað hún gæti gert fyrir hann.

En öllum tómstundum sínum varði Þórdís í stofunni hjá unnusta sínum. Það voru hennar kærustu og sælustu stundir. Þangað kom hún ætíð með bros á vörunum. Hún lézt aldrei sjá það, þó að séra Gísli væri stundum þurlegur og tæki dræmt blíðuatlotum hennar. Og ætíð endaði heimsókn hennar svo, að hann var orðinn innilegur og þau undu saman við sælar framtíðarhugleiðingar furðu langa stund, án þess að vita, hvernig hún hefði liðið.

Eftir þessa helgi voru komur Þórdísar í stofuna ekki sjaldnari en áður, og hún var jafnglaðleg og háttprúð sem áður, jafnvel glaðlegri. Þó var sem séra Gísli fyndi það óljóst, að þessi hljóðláta glaðværð hennar væri ekki eins eðlileg og áður.

Hann þóttist hafa tekið eftir því, að hún var dálítið ókyrrari en hún var vön, stóð skemur við, þegar hún kom, að henni fanst hún altaf vera önnum kafin og hvarflaði frá einu til annars. Stundum, þegar hún lét vel að honum, fann hann, að hún var óstyrk og titraði lítið eitt. Það var eins og hún gengi með einhvern innibyrgðan kvíða, eitthvað, sem þungt lægi á henni, en hún gerði sér alt far um að dylja.

Hann hugsaði dálítið um þetta og gat ekki fundið neina ráðningu á gátunni, sem hann gerði sig fyllilega ánægðan með. Stundum datt honum í hug, að Þórdís væri veik, en vildi ekki kvarta. Útlit hennar bar þess þó engin merki. - Þá hallaðist hugur hans helzt að því, að þetta væri því að kenna, að hann fór í þessa skemtiför með Eyrarfólkinu. Ef til vill hafði hún séð til hans úr stofuglugganum, þegar hann reið þar fyrir neðan túnið um kvöldið við hlið Hildar ungfreyju Svendsen. Ef til vill var það, sem að henni gekk, ekkert annað en afbrýði.

Þetta sárnaði honum, því að hann þóttist ekki hafa unnið til tortrygni af hennar hálfu. Stundum datt honum í hug að spyrja hana um það, hvað að henni gengi. En hann hætti við það. Hann var hræddur um, að hann fengi ekkert svar.

Þess vegna gat hann ekki annað en tekið dræmt blíðuatlotum hennar, og saknaði þess ekkert, þótt það drægist, að hún kæmi inn til hans.

En sjálfur var hann einhvern veginn undarlegur og vissi varla, hvernig sér væri farið. Kynleg óró var sezt að í huga hans, og það var sem festi hann ekki yndi við neitt eða neinstaðar til lengdar. Ráð hans var alt á reiki og hugur hans vafðist milli ósjálfráðs beygs og óljósra unaðsdrauma. Honum voru fáar hugsanir og tilfinningar fullljósar.

Eftir skemtiförina fanst honum ennþá tómlegra heima, og það, sem hann hafði heyrt þar um sambúð prestsins og safnaðarins, tróð hann eins og mara dag og nótt. Þetta fólk, sem hann hafði kynst í skemtiförinni, hafði verið svo ástúðlegt, að hann gat ekki trúað því, að sökin í þessu máli lægi hjá því eingöngu.

Endurminningarnar frá sunnudeginum voru honum kær stundastytting. En þær kærustu af þeim öllum voru þó tengdar við Hildi. Hann gat ekki gleymt fjöri hennar og frjálsleik, eða hve sakleysisleg og barnsleg hún var. Og bezt mundi hann eftir henni þar sem hún sat á Rauð sínum og veifaði trefilendanum sínum til hans yfir Alviðrugljúfrið um leið og hún bað hann að koma.

Hann hugsaði til þess með bros á vörunum. Blessuð stúlkan, hve barnsleg hún var! Það var naumast hægt að taka eitt orð alvarlega, sem hún sagði. Og þó fór henni þetta svo dæmalaust vel.

Stundum var sem hann hlakkaði til þess að koma út á Eyrina og heilsa þar upp á kunningjana úr skemtiförinni, einkum ritstjórann og Hildi. - Stundum var aftur á móti ekki trútt um, að hann kviði fyrir því; ef það ætti að verða orsök til tortrygni og missættis milli hans og unnustunnar.

En eftir á að hyggja, - hann mátti til að láta sjá sig þar, og það við fyrsta tækifæri. Það var kurteisisskylda hans að þakka Hildi fyrir síðast, og hann þurfti að finna ritstjórann, til þess að kveða niður þetta fríkirkjuskraf þeirra.

Þegar því væri lokið, gerði hann ráð fyrir, að hann gengi um Eyrina álíka ókunnugur mönnum þar eins og hann hafði áður verið.

Laugardaginn næstan á eftir fékk hann tækifærið. Þá átti hann að gefa saman hjón í heimahúsum úti á Eyrinni, og ásetti sér að fara þá ofurlítið fyr á stað en hann þurfti.

- - -

Viðhafnarstofan hjá Svendsen konsúl var glæsileg og mikið þar inni af vönduðum húsbúnaði. Stólar og legubekkir voru klæddir rósrauðu silkiflosi og dúnmjúkir stálgormar undir sætum. Aðrir stofumunir voru úr vandaðasta tré og spegilskygðir, en stórar og skrautofnar Brusseler-ábreiður á gólfinu. Í gluggakisturnar var raðað skrautblómum og gluggatjöld voru kögruð kniplingum. Í einu horninu stóð fortepíanó; en á dragkistu, sem stóð við einn vegginn, var, á meðal margra annara skrautlegra muna, kassi einn, nokkuð einkennilegur að gerð, og út úr einni hlið hans geysistór látúnstrekt, sem ljómaði svo, að geisla bar af henni um stofuna.

Séra Gísli hafði hitt vin sinn, ritstjórann, í veitingahúsinu, þó ekki svo drukkinn, að orð væri á því gerandi. Ritstjórinn hafði þegar staðið upp og fylgt prestinum heim til konsúlsins án nokkurra frekari umsvifa.

Konsúllinn var úti í skrifstofu sinni, þegar þeir komu, en ungfrú Hildur mætti þeim í stofudyrunum. Bauð hún prestinn innilega velkominn og þakkaði honum fyrir síðast.

Síðan gerði hún föður sínum orð, hver kominn væri. Vegna ritstjórans þurfti ekkert ómak að gera; hann var heimagangur þar í húsinu.

Séra Gísli var hljóður og hálffeiminn, er hann litaðist um í þessari skrautlegu stofu, og var í fyrstu líkast því, að hann vissi ekki vel, hvað hann ætti af sér að gera. Hildur var glaðvær og ófeimin, eins og hún hafði verið í skemtiförinni, og hélt uppi samtalinu með fjöri og kæti, á meðan þeir biðu eftir föður hennar. Þetta gerði prestinn ennþá feimnari. Hann var hræddur um, að sér mundi fipast eitthvað í þessum eldskjótu orðaviðskiftum, og hann þá kynni að segja einhverja heimsku, sem Hildur færi að skellihlæja að. Hann þekti nú orðið, hversu skært og innilega hún gat hlegið. Þess vegna kaus hann að tala fátt og vanda það því betur. Ritstjórinn varð því mest fyrir svörunum. Hann var svo vanur skvaldri Hildar, að honum fipaðist ekki að gefa greið svör.

"Heyrðu, ritstjóri!" sagði Hildur meðal annars. "Ég á hjá þér tvær öskjur af vindlingum".

"Hjá mér -? Ertu - -?"

"Jú, svei mér þá! Þú veðjaðir við mig um það, hvort presturinn mundi koma með okkur upp að Drangafossi - og tapaðir. Jú-jú, karl minn. - Gerðu svo vel að borga!"

Ritstjórinn leit kímilega til séra Gísla. Auðvitað var ekkert undanfæri um borgunina. Hitt var lakara, að þarna komst upp leyndarmál, sem prestinum hafði ekki verið ætlað að frétta.

"Jæja, komdu með vindlingana!" sagði Hildur sigurdrjúg, þegar hún sá vandræðasvipinn á ritstjóranum.

"Ég er peningalaus".

"O-o, þú hefir lánstraust hjá pabba, - að minsta kosti út á arfinn hennar Önnu".

Séra Gísli stalst til að virða Hildi fyrir sér, á meðan hún og mágur hennar skiftust á gamanyrðum. Ekkert fór henni betur í hans augum en gletnin.

Nú var hún öðruvísi búin en hún hafði verið um daginn. Hárið var undið saman í hnakkanum að útlendum sið, en nokkrir lokkar, sem gerðir höfðu verið hrokknir með heitu járni, hrundu frjálsir niður um ennið. Hún var í dökkgráum kjól, lögðum skrautböndum utan um hálsmálið. Þetta fat var einfalt að sniði og yfirlætislaust, en fór henni vel og sýndi ágætlega vöxt hennar og limalag, án þess þó að þrengja að henni.

Þau voru nú orðin svo kunnug, Hildur og ritstjórinn, að þau umgengust eins og þau væru uppeldissystkini og þektu út í æsar hvort annars dutlunga.

Aftur á móti lá við, að presturinn væri hræddur við Hildi. Og á meðan hún sat gagnvart þeim við borðið og ruggaði sér á stólnum - þótt ekki væri hann til þess ætlaður - á meðan hún hló og masaði, var hann að hugsa um það, hvað úr sér mundi verða, ef hann ætti að vera einn með slíkri stúlku og vera henni til skemtunar.

Eftir dálitla stund kom konsúllinn í stofuna.

- - -

Konsúllinn var maður á efra aldri og nokkuð grár fyrir hærum. Hann var meðalmaður vexti og þó í lægra lagi, hvatlegur á velli og þéttvaxinn. Að yfirlitum var hann fríður sýnum. Ennið hátt og kúpt, augabrýrnar bogadregnar og hæfilega loðnar, nefið dálítið bjúgt að framan, en bogarnir undir augunum helzt til skýrir. Varirnar voru þunnar og sú neðri stóð of langt fram, en efrivararskeggið skýldi þeim lýtum að mestu. Augun voru dökk og lítil, en snarleg og hvöss. Djúp hrukka var á milli augnanna og andlitsdrættirnir á niðurandlitinu nokkuð harðlegir. Þó var svipurinn fremur góðmannlegur og dálítið gletnislegur. Seinmæltur var hann og heldur stirðmæltur og drap í skörðin milli framtannanna, þegar hann talaði.

Nafnið Svendsen var dregið af nafni Sveins gamla Grundarprests, afa konsúlsins. Grímur faðir konsúlsins hafði séð það í tíma, að illa kom það sér og átti hvergi nærri við, að íslenzkur kaupmaður, sem skifti við dönsk verzlunarfélög og danska kaupmenn, héti íslenzku nafni. Það var eins og maðurinn kynni ekki þá sjálfsögðu kaupmannsskyldu að gera hinum dönsku samþegnum sínum nafn sitt munntamt og meðfærilegt. Svo gerði það ilt verra, hvernig Danir báru föðurnafn hans fram, þegar það kom þeim fyrir augu á íslenzku, því að erfitt var þá að þekkja það frá þýzka orðinu Schwein eða enska orðinu swine, sem hvorttveggja er framborið "svæn" og þýðir svín.

Konsúllinn tók því nafnið að erfðum, og hann ásetti sér að grafa það djúpt og skýrt í almenna meðvitund og sögu Grundfirðinga, svo að lengi stæði það ómáð. Nú hafði honum fyrir allmörgum árum tekist að lengja það með nafnbót, sem jafnvel bar af nafninu sjálfu. Það var konsúlsnafnið. Konsúlsmerkið framan á húsi hans og flaggið á stönginni minti menn einnig daglega á þetta hávirðulega nafn, ásamt vanda þeim og vegsemd, sem því fylgdi. Nú voru allir Eyrarbúar, þeir sem teljast vildu menn með mönnum, búnir að læra að ávarpa konsúlinn réttilega. En úti í firðinum og inni í fjarðardalnum voru ennþá "dónar", sem ómögulegt var að kenna mannasiði. Þeir kölluðu konsúlinn "Sveinka", og ekkert annað. Það gerðu þeir, þótt í margmenni væri. Og ef konsúllinn heyrði ótrúlega illa, þá hrópuðu þeir nafnið því hærra.

Ekki lét konsúllinn slíka smámuni á sig fá, heldur hafði hann allan hug á því að láta mikið að sér kveða í firðinum, sýna þar öllum, "dónunum" líka, að hann væri maður á móti þeim mörgum til samans. Ekki taldi hann það eftir sér að vera hæsti gjaldandi sveitarinnar og gjalda tvöfalt hærra útsvar en sá næsti fyrir neðan hann. Í öllum vandamálum sveitarinnar var hann ötull og ósérhlífinn, enda þótti aldrei neinum ráðum ráðið nema hann væri þar til kvaddur. Í mörgum eða flestum félagsfyrirtækjum fjarðarins var hann lífið og sálin. Framfarafélagið hafði hann stofnað og jafnan verið formaður þess. Hann var meðstofnandi búnaðarfélagsins, skotfélagsins og lestrarfélagsins, en heiðursfélagi skíðafélagsins, söngfélagsins, málfundafélagsins og kvenfélagsins. Eini félagsskapurinn í firðinum, sem hann var ekkert við riðinn, var bindindisfélagið. Þó hafði hann gefið gamla bindindisfélaginu 500 kr. í samkomuhúsi, sem það hafði komið sér upp á Eyrinni. En við good-templarafélagið vildi hann ekkert eiga. Honum stóð stuggur af því; því var alt of mikil alvara.

Nú var good-templarafélagið orðið eigandi að þessu húsi, því að bindindisfélagið hafði lognast út af.

Konsúllinn hafði verið giftur danskri konu. Nú var hann skilinn við hana að lögum og hún gift öðrum manni. Börn þeirra hafði hann alið upp, og var Hildur yngst þeirra.

Á afskifti konsúlsins af safnaðarmálum er áður minst, en eitt af stærstu framfarafyrirtækjum hans er ennþá ótalið að mestu. Það var prentsmiðjan og stofnun "Mjölnis". Það tiltæki gátu þeir af fjarðarbúum, sem bezt höfðu augun opin fyrir "framförum" fjarðarins, aldrei fullþakkað honum. Með því var Grundarfirði skipað í röð hinna stærri kaupstaða, sem einir höfðu sín eigin blöð, og nafn hans ruddi sér til rúms í meðvitund þjóðarinnar. Þeim fanst slíkt málgagn bera skoðanir þeirra á landsmálum til fjarlægra eyrna, og fregnir flutti það af þeim og athöfnum þeirra bæði um landið og til annara landa. Oft höfðu þeim verið óljósar óskir sínar firðinum til frama, en eftir að blaðið kom, sáu þeir æ betur og betur, að það var einmitt þetta, sem þá hafði vantað mest af öllu.

Konsúllinn lét sér vel líka það fylgi, sem blaðið hafði í firðinum, en þegar á það var minst og framtíð þess, blés hann mæðilega.

Ritstjórinn hafði hreyft fríkirkjumálinu við konsúlinn í einrúmi. Hann hafði þá tekið því seinlega, litist illa á þann vanda, sem það mundi binda bæði honum og öðrum. En þegar hann hugsaði sig betur um, sá hann það, að ekkert mundi verða Torfa gamla meira til ills, og gaman væri að geta sýnt honum það, að þeir Eyrarmenn stæðu ekki ráðalausir, þótt honum hefði tekist að spilla málum þeirra. Það var þá jafnframt makleg skapraun handa stiftsyfirvöldunum og landsstjórninni fyrir íhlutunarleysi þeirra. Vegna alls þessa var mikið leggjandi í sölurnar. Það leið því ekki á löngu, þar til hann var búinn að taka ákveðna stefnu í þessu máli, og þegar hann tók sér eitthvað fyrir hendur, fylgdi hann því fram heill og óskiftur. Koma séra Gísla þangað út eftir gat því ekki verið betur undirbúin.

- - -

Konsúllinn bað prestinn að afsaka, að sökum annríkis hefði hann orðið að láta hann bíða, og bætti því við brosandi, að langt væri nú síðan prestur hefði setið undir sínu þaki.

Séra Gísli skildi, við hvað hann átti, og svaraði þar fáu um. Að svo stöddu vildi hann vera hlutlaus um það, sem þeim Eyrarmönnum og Torfa fór á milli.

"Hildur mín, þú verður að sækja okkur eitthvað til að væta með varirnar", mælti konsúllinn. "Presturinn er þó - vonandi - ekki good-templari. Þér hljótið að vera þyrstur eftir ferðina". Síðan hvíslaði hann að Hildi: "Sæktu Jóhannesberger, heyrirðu það!"

Séra Gísli tók þessu þakksamlega, og Hildur færði þeim það, sem um var beðið. Síðan fór hún burt úr stofunni. Hún þóttist vita, að eitthvað mundu þeir vilja ræða, sem þeir kærðu sig ekki um, að fleiri væru heyrnarvottar að.

Fyrst hneigðist samtalið að daglegum hlutum: afla, útvegi og horfum til lands og sjávar. Konsúllinn var því öllu manna kunnugastur. Hér á landi sem annarstaðar þurfa kaupmenn að hafa vakandi auga á árferði og útliti í viðskiftalífinu alt í kringum sig. Þeir þurfa að gá til veðurs í viðskiftaheiminum, ekki síður en sjómaðurinn á hafinu, og læra að sjá fyrir veðrabrigði. Þau eru viðsjál þar eins og annarstaðar, ef þau koma að óvörum. Konsúllinn var einn af þessum veðurglöggu kaupmönnum og hafði nú nærri því mannsaldurs reynslu í því efni. Þess vegna varð honum flest að féþúfu, sem hann tók sér fyrir, og þess vegna var óhætt að treysta því, að horfurnar væru ekki sem verstar, ef hann lastaði þær ekki. Þetta var orðin almenn skoðun þar í firðinum.

Konsúllinn dvaldi góða stund við þessar "almennu horfur". Á meðan bætti hann hvað eftir annað í glös þeirra ritstjórans og prestsins, en drakk sjálfur dræmt.

Loks tók samtalið aðra stefnu. Konsúllinn lét í ljós gleði sína og innilegustu ánægju yfir því, að séra Gísli hefði gert sér þann heiður að heimsækja hann, og endurtók það, sem hann hafði áður sagt, að prestar træðu sér ekki oft um tær. Þetta væri sér því kærara, sem hann vissi, að séra Gísli væri aðstoðarprestur séra Torfa og tengdasonarefni hans, en lengi hefði verið fremur fátt með þeim Torfa. Séra Gísli mundi því fremur hafa heyrt hans að illu en góðu getið þar innra. Það sýndi valmensku hans og sannleiksást, að hann léti ekki baktal á sér festa, heldur gerði sér far um að kynnast sóknarbörnum sínum sjálfur. Hann bað nú séra Gísla að vera jafnan velkominn í hús sitt og kvaðst vonast þess fastlega, að þeir létu ekki væringar við Torfa prest spilla vinfengi sínu. Þessu til staðfestu hringdu þeir glösum.

Séra Gísla fór að hitna um hjartaræturnar. Vínið átti dálítinn þátt í því, en ræða konsúlsins þó enn meiri. Hann roðnaði í framan og augun urðu nokkuð vot og starandi. En nú var hann upplitsdjarfari en áður. Feimnin færðist af honum og hann fann til ánægjunnar af því að sitja meðal góðra vina.

Konsúllinn hélt áfram. Nú sagði hann séra Gísla lauslega af því, hvað þeim Torfa hefði á milli farið í safnaðarmálum, og bar það undir hans dóm, hvort honum þætti þetta eða hitt sanngjarnt eða prestslegt. Séra Gísli var honum samdóma um það alt saman, eða kinkaði kolli þegjandi til samþykkis. Að vísu voru stöku atriði, sem hann hefði langað til að gera athugasemdir við, en hann hætti við það. Var það bæði vegna þess, að hann komst ekki að, því að konsúllinn lét dæluna ganga, og ekki síður vegna hins, að hann vildi sneiða hjá því að vekja stælur um þessi mál þar inni. Enda var hann hræddur um, að þá mundi kólna um vinfengið. En hann vildi fyrir hvern mun varast að gefa tilefni til þess. Þetta var þeim mun léttara, sem hann fjelst á ástæður konsúlsins í öllum aðalatriðum.

Þessa leið færðist konsúllinn smátt og smátt nær aðalkjarna samræðunnar. Hann sagði, að nú hefði það um tíma vakað fyrir sér og fleiri góðum mönnum þar ytra að segja sig úr þjóðkirkjunni og stofna fríkirkju. Hugmyndin væri nú nokkurra missira gömul og því farin að þroskast. Nú hefði tengdasyni sínum, ritstjóranum, - þeim öllum til mikils fagnaðar, - heyrst það á prestinum uppi við Drangafoss um daginn, að hann væri hlyntur þessu máli og jafnvel ekki fráhverfur því að leggja fram lið sitt því til stuðnings.

Konsúlnum þótti hyggilegra að kalla hugmyndina nokkurra missira gamla en nokkurra daga. Og eins hitt, að láta sem hér væri um nokkurn flokk manna að ræða. Slík smálygi gat engan skaða gert.

Það var sem séra Gísli fengi sting í brjóstið, þegar samtalið hneigðist að þessu, og í fyrstunni svaraði hann vöflum einum. En orð þau, sem hann hafði talað við Drangafoss, urðu ekki aftur tekin. Að vísu datt honum í hug að segja það hreinskilnislega, að honum hefði engin alvara verið með þeim, en honum fanst hann gera sig að minni manni með því, og þess vegna hætti hann við það. Hann lét því í veðri vaka, að fríkirkju-fyrirkomulagið væri einmitt það, sem hann teldi það eina rétta og eðlilega, en taldi nokkur tormerki á því að byrja á því og hugmyndina ennþá í bernsku. Þess vegna vildi hann hugsa sig vel um, áður en hann gæfi bindandi svör í þessu máli.

Konsúllinn bætti í glasið hans. Hann þakkaði honum hlýlegar undirtektir; kvað það aldrei hafa verið tilgang sinn að fá hann til að gefa ákveðin svör að þessu sinni. En fyrst hann hefði ekki gefið afsvör, gerði hann þá þó ekki vonlausa um það, að þeim auðnaðist að njóta hans, ef þetta fyrirtæki kæmist á fót. Hann kvað því fjarri fara, að þeim stæði á sama, hvaða prest þeir fengju. Nú væru menn farnir að kynnast séra Gísla, og það að góðu einu. Að vísu hefðu fáir heyrt hann messa, en önnur embættisverk hefði hann gert og getið sér fyrir þau góðan orðstír. Vonin um það að fá að njóta hans sem prests framvegis mundi mjög greiða götu fríkirkju-hugmyndarinnar.

Aftur andaði hlýjum hrósyrðum um eyru séra Gísla, svo að honum ylnaði í brjósti og blóðið hljóp fram í kinnarnar. Slíkum blíðyrðum var hann ekki vanur, og heima á Grund voru þau sjaldgæf. Hann bar þessi ummæli í huganum saman við það, sem séra Torfi hafði sagt um ræðuna hans út af réttlæti Faríseanna fyrir viku síðan. Munurinn var mikill.

Ritstjórinn sat hljóður og hélt sér utan við þessar samræður fyrst framan af. En þegar tengdafaðir hans var sem mjúkorðastur í garð séra Gísla, var ekki trútt um, að hann glotti í kampinn. Ekki þorði hann að líta framan í konsúlinn, því að ekki var honum ugglaust um, að séra Gísli mundi þá geta ráðið eitthvað af augnaráði þeirra, sem illa kæmi sér eins og nú stæði á. Hann leit því í gaupnir sér og beit á vörina, eins og hann væri niðursokkinn í eigin hugleiðingar. Þó skotraði hann augunum til séra Gísla við og við. Loks, þegar hvíld varð á samræðunni, greip hann fram í.

Hann kvaðst nú vera farinn að kynnast skoðunum manna þar í firðinum allrækilega og taldi engin tvímæli á því, að fríkirkju-hugmyndin væri orðin almennari en nokkurn grunaði. Þar væri líka ágætur jarðvegur fyrir slíka hreyfingu. Allur þorri búandi manna í firðinum væri nú orðinn vel efnaður. Á meðal þeirra væru nú margir ungir menn og ótrauðir, sem reynsla undanfarinna ára hefði kent að leggja út á nýjar brautir og gaman hefðu af því að láta að sér kveða. Önnur eins nýjung og fríkirkja mundi verða þeim vel að skapi. Þeim mundi og hafa sárnað það, þó að lítið bæri á, hve lítinn gaum kirkjuvöldin gáfu erindum þeim, er þeir rituðu nöfn sín undir. Sjómenn og daglaunamenn væru skapstórir og vildu ekki láta virða sig að vettugi. Væri nú þessi tilfinning glædd, og þó farið að öllu með gætni, mundi hún reynast sönn og haldgóð, og þá væri fríkirkjumálið vel statt. Þetta væri hlutverk "Mjölnis"; enda mundi það nú sýna sig, hvílík áhrif hann gæti haft þar í firðinum.

Séra Gísli fór nú að verða fjölorðari. Vínið og vinahótin juku honum hug til að segja það, sem honum bjó í brjósti. Hann sagði þeim nú í mestu einlægni margt um sambúð þeirra Torfa og samband þeirra sín á milli. Hann var ekki ánægður með það alt, og honum leið í raun og veru ekki vel við þær ástæður, sem hann átti við að búa. Um fæsta hluti var hann Torfa samdóma. Þeir hugsuðu hvor á sína vísu. En heima á Grund voru allar skoðanir hans til dauða dæmdar, því að Torfi hafði ímugust á öllu skoðanafrelsi. Nú væri hann þessum manni svo nákominn vegna tengdanna, sem til stæðu, að honum þætti ilt að lifa þar við ýfingar og orðasennur, og kysi því heldur að byrgja hugsanir sínar inni. Þetta líf væri honum hin mesta kvöl, en því yrði hann þó að una enn um mörg ár, því að engin breyting væri þar fyrirsjáanleg á meðan Torfi lifði. Það gerði hann kvíðafullan að hugsa til þessa. Aftur var hann þess fullviss, að alt samband við andstæðinga Torfa þar úti á Eyrinni mundi verða skoðað sem uppreisn gegn honum. Meðal ókunnugra, sem litu á það eitt, hvernig Torfi hafði stutt hann á námsárum hans, og á tengdirnar, sem í vændum væru, mundi þetta mælast illa fyrir. Þó mundi hann nú ekki setja það svo mjög fyrir sig, því að andstæðingar Torfa voru væntanleg sóknarbörn hans, þar sem allir vissu, að honum væri ætlað brauðið eftir dag Torfa. Og enginn skynsamur maður mundi lá honum það, þótt hann vildi ekki taka óvild og úlfúð við söfnuðinn að erfðum eftir Torfa. En gerðist hann fríkirkjuprestur, bryti hann brýrnar niður að baki sér. Þá væri ekki framar um samkomulag að ræða milli hans og Torfa, og mjög óvíst, hvort kirkjuvöldin fyrirgæfu honum annað eins tiltæki. Hann ætti því mikið á hættu og þyrfti mikið á fulltingi og drengskap þeirra fríkirkjumanna að treysta, ef hann ætti að reisa merki þeirra.

Konsúllinn lét sér þessa tölu vel líka og lofaði öllu fögru. Og séra Gísla leizt svo á manninn, að ekki mundi hann lofa meiru en hann ætlaði sér að efna.

Það var nú bundið fastmælum, að þessi ráðagerð væri látin fara mjög hljótt fram eftir sumrinu, á meðan mesta annríkið væri. En "Mjölnir" átti að undirbúa menn með greinum um fríkirkjumálið við og við. Á meðan átti séra Gísli að halda andlega kvöldsöngva með ræðum og bænahaldi í good-templarahúsinu á sunnudögum. Þeir áttu að kenna mönnum að safnast saman til guðsþjónustu þar á Eyrinni og venja þá af því með öllu að sækja messu inn í fjarðarbotninn. Og þegar þeir tæmdu glösin síðast, drukku þeir minni hinnar ungu fríkirkju, sem þeir töldu - sama sem stofnaða.

Að lokum bað konsúllinn séra Gísla að gera sér þá ánægju að borða hjá sér miðdegisverð.

Presturinn þáði boðið með þökkum.

- - -

Seinna um daginn sátu þau í þessari sömu stofu konsúllinn og Hildur og séra Gísli. Ritstjórinn var þar ekki.

Þeir konsúllinn og séra Gísli reyktu vindla sína og ræddu um alla heima og geima. Nú var öll feimni farin af prestinum og honum geðjaðist með hverri stundu betur og betur að konsúlnum.

Hildur var hæglátari en hann hafði séð hana áður. Návist konsúlsins hélt mestu kátínu hennar í skefjum. Og þótt hún legði við og við orð í belg, eða hlægi að því, sem þeir sögðu, átti hún bágt með að leyna því, að henni leiddist. Hún hvarflaði frá einu til annars og fitlaði við ýmislegt. Hún vissi ekki, hvað hún átti að taka sér fyrir hendur.

Séra Gísli gaf henni stöðugt auga. Nú kom hún honum enn öðruvísi fyrir en í hin skiftin tvö, sem hann hafði séð hana. Þetta hæglæti fór henni yndislega, engu síður en fjörið og glaðværðin. Það gerði hana kvenlegri, - húsfreyjulegri, langaði prestinn til að kalla það.

"Hildur, - ætlarðu ekki að leika eitt lag fyrir okkur?" spurði konsúllinn eitt sinn, eftir að hlé hafði orðið á samræðunni.

Hildur færðist undan.

"Æ, ég kann svo fátt ennþá. Presturinn hefir ekkert gaman af að heyra mig leika á hljóðfæri. Hann hefir svo oft heyrt vel leikið".

"Hvaða bull!" svaraði konsúllinn. "Hann virðir það á betra veg".

Nú lagði séra Gísli að henni líka og sárbað hana að lofa sér að heyra eitt lag.

Það var ekki laust við, að Hildi þætti gaman að láta þá báða ganga eftir sér.

"Þér verðið þá að lofa mér einu í staðinn, séra Gísli", mælti hún gletnislega um leið og hún tók söngbækur ofan af hljóðfærin