UPP  VIР FOSSA

eftir Þorgils gjallanda
1. kafli

Brandur á Efra-Fossi hafði tekið jörðina að erfð, vel húsaðan bæ og margt gangandi fé; svo heimurinn virtist láta honum í besta lagi; og margur jafnaldri hans leit löngum öfundaraugum til erfðafjárins.

En svo undarlegar, og nærri að segja vitlausar, voru ungu stúlkurnar í dalnum, að þær gátu ekki metið auðinn og gengið að eiga hann Brand á Fossi, að minnsta kosti ekki þær, sem hann bað um.

Satt að segja, vildi Brandur heldur fá sér konu af betri endanum, eins og eðlilegt var. En þær af betri endanum lágu nú ekki alveg lausar fyrir honum.

Allt í einu var hann þó svo heppinn, að ná í hamingjuhjólið og höndla hnossið.

Þegar Brandur var tuttugu og níu ára gamall, kvongaðist hann.

Enginn þurfti að bregða Brandi um, að hann hefði gengist fyrir auð eða virðingu, en hitt var satt, að konan var ung og hafði mörgum öðrum þótt hún lagleg og skemmtileg, svo aftur varð ungu mönnunum í dalnum, að líta löngum augum upp eftir til hans Brands á Fossi.

En Brandur vissi ekkert um það; hann var gleðidrukkinn þessa fáu daga tilhugalífsins; hafði aldrei fyrir alvöru þótt vænt um efnin, fyrri en þá, þegar hann gat tekið Gróu frá fátækt og þröngum kosti og sett hana á bekk með bestu húsfreyjunum í dalnum. Því allar bestu húsfreyjurnar þar voru í góðum efnum og höfðu gnótt í búi.

Brandur hafði alla jafna þessi fjögur árin, sem hann réð sjálfur fyrir búi, fundið til þess, að góð kona mundi auka unað og gæfu; það vantaði aðeins húsfreyjuna á Efra-Fossi, því engin blessun né búsdrýgindi höfðu fylgt þeim tveimur ráðskonum, sem hjá honum höfðu verið.

Nú var sól og sumar í huga Brands; hann var sæll með ungu og blómlegu húsfreyjunni, sem Guð hafði gefið honum í sumargjöf.

Steinn á Skarði, faðir Gróu, hafði verið fátækur ómagamaður, sem rétt aðeins barðist við að verja sig og sína frá hreppnum. Nú voru börnin komin sum í vinnumennsku, sum gift; Gunnar og Gróa unnu heima með foreldrum sínum; og tvö voru innan við fermingaraldur enn, af þeim Skarðsbörnum. Svona var heimilishagurinn á Skarði, þegar Brandur vakti til um bónorðið; það var ekki undarlegt, þó heldur glaðnaði yfir Steini karlinum þá og vonarbjarma brygði fyrir á andliti gömlu Ragnheiðar; en það sló þögn og fölva að Gróu sjálfri við þessi tíðindi, sem komu svo fljótt og flatt að. Foreldrunum þótti hún undarlega sein til svars, þar sem þó ekki væri um annað en sjálfsagt já að ræða; og Gróa hafði svo mörg ár horft framan í skort og fátækt, að hún var bæði fullreynd og greind til þess að sjá, hvað mikill þröskuldur efnaleysið er á lífsleið manns. Svo oft búin að gæta þess, að þeir, sem hafa góð efni, geta haft sig fram, þeir geta búið við snotur hús, átt falleg föt, fullkomin áhöld og gnægð í búi; þeir geta létt sér upp, án þess að kvíða því, að sjá hallann eða hrunið, sem ævinlega gapir við fátæka manninum, ef hann "lætur eitthvað eftir sér". Hún renndi huganum til þess, að með efnunum er svo hægt að hjálpa þeim, sem bágt eiga, og hvað það er þungt að hafa viljann til þess, en að hann sé heftur með járnhelsi örbirgðarinnar. Með því að giftast Brandi, var gengið á veg lífsþæginda og lífsstarfa, götuna til að vera með í sveitarfélaginu, þurfa ekki allan árshringinn að berjast við skortinn með hnúum og hnefum.

En hún fann líka, að það var örðugt að hvíla í faðmi Brands á Fossi, eins ástlaus og köld og hún var gagnvart honum; hann gekk ekki í augun á henni, þó hún væri af þessum endanum, og þó hann væri hvorki ljótur né heimskur, þó hann væri hvatur og ötull, til hvers sem hann tók. Hann vantaði þá hæfileika, sem gátu snortið strenginn eða strengina í hjarta hennar; í augum Gróu voru ástæðurnar álitlegar, en um Brand þoldi hún ekki að hugsa; um Brand sem eiginmann - það var svo nöturlegt og óyndislegt. -

En eftir nákvæma umhugsun fór hún eftir ráðum foreldra sinna; lét þau ráða og giftist Brandi.

Það er ekki svo mikill aldursmunur á tuttugu og níu ára gömlum bónda og nítján ára konu; en þegar auður og völd fylgja þessum tuttugu og níu ára gamla bónda, sýnast skilyrðin benda til þess, að hann þurfi naumast að óttast fyrir að geta ekki ráðið að sínum hluta. Líkurnar benda til, að hann verði húsbóndi á sínu heimili; hafi töglin og hagldirnar, bæði utanbæjar og innan.


2. kafli

Umbreytingin á högum Gróu var mikil og gagnger; fyrsta árið hafði hún unað af, að eignast fatnað, eins og hugurinn óskaði; mega fara í kaupstaðinn og gera þar úttekt eftir því, sem henni sýndist; mega fara með Fossefnin, eins og sína eign; nú var henni frjálst að fara þær smáferðir, sem hana langaði til, og alls staðar var hún miklu meira virt, en meðan hún var heima á Skarði; með einu stigi hafði Gróa náð sömu metorðum og bestu húsfreyjurnar í dalnum; það var ekki laust við, að allt þetta stigi til höfuðs henni; hreyfði blóðið líkt og hressandi vínandi.

Eftir eins árs sambúð þeirra Efra-Fosshjóna fæddi Gróa sveinbarn; það gekk erfiðlega með fæðinguna, þó bæði héldu lífi. Gróa lá átta vikur rúmföst og fékk seint heilsu og þrek aftur; en hlýleg og viðkvæm aðhjúkrun hjálpaði þó æsku og meðfæddri heilbrigði til að sigra á endanum. Í þeirri legu sýndi Brandur það best, að honum þótti sannarlega vænt um konuna; allt sem hann hafði vit á, og allt sem í hans valdi stóð, gerði hann með ljúfu geði; Brandur lagði miklar vökur á sig þann tíma, hann hefði feginn viljað mega létta krossi þjáninganna af herðum konu sinnar, ef hann hefði getað.

Gróa hafði ekki getað fest ást á manni sínum, en hún kunni þó að meta, hvað hann hafði verið henni eftirlátur og ljúfur í legunni; hún hafði ekki búist við þeirri þolinmæði af Brandi; að hann væri svona blíður og stilltur, hafði hana ekki heldur grunað. Seinustu vikurnar, sem hún lá og fyrst eftir að hún fór að klæðast, hafði Gróa nógan tíma til að hugsa um hjónabandið og sambúðar grundvöllinn; hún sakaði sjálfa sig fyrir kulda og ástleysi gagnvart honum, sem hafði hjálpað henni frá fátækt og baslinu á Skarði, og verið sér svo góður og eftirlátur; aldrei gat hún fullþakkað Brandi alla þá hjálp sem hann hafði veitt henni í veikindunum; skyldan bauð henni að elska eiginmann sinn, og þeirri helgu skyldu einsetti hún sér að fylgja.

En í djúpi tilfinninganna var samt ein hugsun, sem skynsemin varnaði að koma höfðinu upp úr, en hún sveimaði og hringsnerist samt, þessi hálfskapaða og óþroska tilfinning, og oft hafði hún raskað ró Gróu, margt hitakastið bakað henni. - Var von til þess að hún gæti fest sterka ást og ævarandi á manni sínum; hún, sem hafði gifst efnunum og jörðinni, tekið hann með, þó ekki í kaupbæti? Brandur var það eina af Fossbúinu, sem henni hafði hvorki þótt eigulegt né laðandi. Hafði hún selt sig? Nei, hún hafði ekki gert það. - Var hún of talhlýðin, of ósjálfstæð? Nei. Hún hafði aðeins þekkt hann of lítið. Aldrei hugkvæmst það um Brand - að honum dytti í hug að fella hug til sín -. Það kom of snögglega, þetta bónorð. Hefði það verið hann Friðrik í Vindási - annað mál var það; en hann þagði; ekkert annað en hringlandi hugardraumur; það sá hún svo ljóst og greinilega nú.

Og vanalega ráð Gróu var, þegar svona barátta var í brjósti hennar, að snúa sér með blíðu að blessaða, litla barninu sínu. Hvað hann líka var skemmtilegur, hann Steinn litli, og hvað pabba hans þótti vænt um hann, það var auðséð, þegar Brandur kom frá útistarfinu og fór að horfa á hann, gera við hann gælur og eigna honum kind, einhverja metfé-skepnu, sem var einkennilega lit. Gróu duldist ekki, að Brandur var þá ánægður með lífið og lífskjörin, hann sem var fæddur bóndi, og uppalinn bóndi; hafði aldrei rennt huganum til annars, en þess að vera dugandi og nýtur bóndi á erfðajörðinni sinni. Það hlaut að heppnast - blessaður, litli drengurinn batt þau saman. Þau gátu öll orðið ánægð. Sannarleg ást varð að lifna hjá henni líka.


3. kafli

Veturinn fór harðindalega að; fannkomur og frost, strax um veturnætur, algert jarðbann frá sólstöðum og fram í mið-þorra. Heyin gengu, sem vonlegt var, til þurrðar, og það svo til vandræða horfði. Nú varð líka alvara úr kvörtuninni, sem hafði örlað á frá því á jólaföstu. Þá varð Steinn á Skarði heylaus fyrir báða hestana sína, ef hann ætti að dragast með hitt í góulokin og sama tíðarfar héldist. Brandur á Fossi tók þá báða. Í fyrstu viku góu tók hann þrjátíu kindur geldar af Sigurði Steinssyni, bróður Gróu; því þá var ekki annað en hnífurinn fyrir þær, eða þá að láta þær svelta í hel, sem er þó ennþá óviðfelldnara. Um mið-góu hafði Brandur hjálpað þeim á Skarði um átta vættir af töðu, handa kúnni; en þá fór nú líka að sverfa að heyjunum hjá honum. Þó Brandur á Fossi hefði upphaflega verið vel birgur af heyjum, þá var nú svo komið um miðjan einmánuð, að auðsjáanlega mundi verða fullhart, að draga fram féð í þessum harðindum.

Svo kom hlákubloti einn dag, nógur til þess að kæmi sauðsnöp á bestu útbeitarbæjunum - og Foss var einn af þeim -. Daginn eftir var útsynningsveður; um kvöldið var komin bleytuhríð. Brandur var í óblíðu skapi, þegar hann kom inn frá að hýsa gemlingana, og honum hóf ekki brún, þó hann sæi, að Gunnar á Skarði væri kominn; hann grunaði, hvert erindið væri.

Þegar Brandur var búinn að borða, fór Gróa líka að hjálpa Gunnari að koma erindinu fram; Brandur sagði, að nú væri svo komið, að hann gæti engum hjálpað, væri sjálfur staddur í voða; Gróa hélt, að það væri ekki búmaður, sem ekki kynni að barma sér, svo hún fylgdi nokkuð þéttlega sínu máli, þangað til Brandur sagði:

"Ég er nú búinn að hjálpa foreldrum þínum, bæði um hey og mat; bræðrum þínum líka - þó dálítið. En ég hef ekki getað eða mátt hjálpa Jóni í Svartholti, - og þó er hann besti kunninginn, sem ég á."

"Hann klýfur það nú einhvern veginn, hann Jón; mínir eiga nú örðugra með það, og ég veit þeir vonast eftir, að ég rétti þeim hjálparhönd, ef ég get."

"Og þó þú getir það ekki - mig er nú farið að ráma eitthvað til þess."

"Mikið má, ef vel vill - ég vona að eitthvað væri þó hægt að líkna, ef...`

"Það er sú andskotans vitleysa að setja ævinlega svona á - setja bara á aðra." Brandur var dreyrrauður í andliti.

"Þó maður geti ekki hjálpað, ætti þó að vera hægt að komast hjá að brúka ónota orð við þá, sem bágt eiga." Gróa hafði líka tekið litaskiptum.

Samtalið varð litlu lengra og litlu innilegra milli hjónanna; en daginn eftir voru ærnar frá Skarði reknar í kafaldinu fram að Fossi, Brandur ætlaði að reyna að láta þær slóra fram á sumarmálin, þessar tuttugu "grindur frá Skarði".

Og Brandur gerði það líka; hann skilaði ekki úr fóðrinu, fyrr en kominn var sauðgróður; aldrei hafði fénaðurinn á Fossi verið eins magur og óbragðlegur og þetta vor, þó ekkert dræpist úr hor. "Það er sjálfsagt helmingi minni ull nú, en hin vorin," sögðu vinnumennirnir. "Það er nýtt að féð hérna afklæðist og standi allsbert eftir." Brandur missti líka meinlega lömbin undan ánum; en hin, sem lifðu, voru flest kyrkingsleg, og Brandur gat ekki annað en hugsað, að það ætlaði að verða sér nokkuð nærgöngult, fólkið hennar Gróu, og að hann hafði ekki búist við eins tíðum heimsóknum af því og raunin vildi verða á. Um matgjafirnar fannst honum ekki mikið til - en að setja svona heimskulega á - setja beinlínis á annarra hey; fyrir tökuféð varð hans eigið fé horað, fyrir það drápust lömbin. Slíkum hor hafði Brandur ekki vanist, og að eðlisfari var hann bæði holdvandur og vildi fóðra vel. Þetta var úr öllu hófi; að það á Skarði reytti svona fjaðrirnar af öðrum; hann var staðráðinn að gæta betur að eftirleiðis. Það getur vel verið, að Brandur hafi ekki verið sem arðvarastur um vorið, þegar hann kom inn frá að bjástra við lambærnar, og allt hafði gengið andsælis og öfugt. Gróa hefur líklega getað lesið það úr stöku orðum og milli orðanna, að Brandi væri ekkert hlýtt til tengdafólksins; en sannleikur var þó sá, að jafn örgerður og hann var í skapi, gætti hann vel orða sinna.

En Gróa varð þess vör, af samtali vinnuhjúanna, að það mundi ætla að nota sér krásina á Fossi, fólkið hennar. Auðvitað átti hún ekki að heyra þetta, en það hlerast svo margt á sveitabæjunum, sem aldrei átti að fara nema til næsta eyra; hvískrið læðist ótrúlega gegnum þykka veggi, þil og gættir, og kemst þangað, sem það aldrei átti að komast. Og einmitt fyrir þetta var Gróa miklu skarpskyggnari að draga út úr orðum Brands, var stundum of rýnin, of getspök, og öllu þessu safnaði hún saman, hugleiddi og velti fyrir sér, þar sem hún sat með drenginn sinn; þetta hafði hana ekki dreymt um, við þessu hafði hún síst búist; í huganum hafði hún glaðst yfir því, að geta hjálpað fólkinu sínu, talið sjálfsagt að hún gerði það; og enginn mundi fá sér annað eins til umtals. En svona reyndist það; takmörkin voru skýr og svo ótrúlega nærri; með þeim virtist henni verksvið sitt verða óeðlilega þröngt; framúrskarandi ófrjálst og ranglátt. Hún mundi ofur vel, hver efnin átti í fyrstunni, sá líka og fann, að nú áttu þau allt jöfnum höndum, en hér eftir hafði hún ekki skap til að biðja, sækja sífellt undir högg; ekki ætlaði hún að verða ráðrík, en svolítið af sameigninni vildi hún hafa, var henni frjálst; það vildi hún ekki biðja Brand að gefa eða veita sér af náð.

En þessar hugsanir voru engan veginn vel lagaðar til að vekja eða auka ást hennar á Brandi; miklu byrsælli fyrir þá tilfinning, sem alltaf leitaðist við að komast upp úr hugardjúpinu, komast ofar, dafnaði, þó hún ekki kæmist á yfirborðið ennþá. Gróa fann aðeins það, að ef um sekt var að ræða þá var Brandur alls ekki sekari, en hún sjálf.

Brandur hafði nú einu sinni höggvið eftir því, að Gróa hafði gengið lengra en skynsamlegt og sanngjarnt var, og eftir það fór hann líka að virða fyrir sér og leggja saman. Hvað honum mundi hafa þótt miklu vænna um Gróu, ef fólkið hennar væri ekki að troðast á milli þeirra, og alveg óstjórnlega vænt um hana, ef hún hefði svipaðar skoðanir og hann sjálfur; ef hún væri nokkuð hlýrri og innilegri. - Þó hana langaði til að bregða sér smáferðir, var það ekkert undarlegt, gat líka lagast með tímanum; og þó hún væri ekki eins vakandi og sjónhög við búsýsluna, og móðir hans hafði verið, þá gat það líka lærst og lagast með tímanum. Hann vildi hjálpa foreldrum hennar, að þau gerðu það bæði í sameiningu; en ekki að tengdafólkið neyddi sig til að hjálpa, þó hann gæti það ekki. Gunnar gat stutt búið betur, en hann gerði; nú var búið að ferma yngstu börnin - bara þau væru öll á Skarði samtaka með að hjálpa sér sjálf, starfa, halda áfram; það vildi Brandur hafa.

Það mátti heita, að Gróa væri hætt að biðja um nokkuð hagræði, þó fólkið hennar kæmi að Fossi, og Brandur hvatti oftar en einu sinni til þess þau gæfu foreldrum hennar kind eða vikju öðru því, sem hann vissi að þau vantaði, og Gróa tók því líka glaðlega, og virti það við hann; en hún gat samt ekki lagt niður venju, sem hún hafði fyrir skömmu vanist á -, hún hafði lært að gefa, sjálf, án þess að Brandur vissi, án þess að heimilisfólkið vissi; þess vegna fékk hún sting fyrir brjóstið, þegar Brandur hvatti til gjafanna; það var sárast fyrst; svo vandist hún betur við, og loks hvarf sársaukinn alveg.

Gróa var vön að hafa eina vinnukonu í vitorði með sér - þá, sem hún trúði best -, þegar hún var að gefa svona, að baki bónda síns. En þegar fram í sótti, fór hún líka að versla að baki hans; senda smjör og ull og fá aftur kaffi og sykur eða önnur þægindi í búið. Gróu var farið að þykja kaffi svo einstaklega gott og hressandi; þurfti drjúgum að halda á því; það vildi ekki hrökkva almennilega, sem Brandur tók til ársins, þó hann raunar væri ekkert smátækur á kaffikaupin, nema með því að hún drýgði það á þennan hátt, húsfreyjan.

Besti og vissasti maður til þessara vöruskipta var Einar gamli á Neðra-Fossi; það var roskinn bóndi, sem aldrei hafði getað blómgast í búskapnum, þó hann hefði unnið baki brotnu, aldrei hafði komist hærra, en að hafa fæði og heldur lítil klæði handa sér og sínum; það hafði hann líka ævinlega barist við; með þeim hætti, að draga sí og æ að búinu, bera á bakinu; standa í sífelldum aðdráttarferðum, bæði innsveitis og um nærsveitirnar; náttúrlega fór hann fjölda margar kaupstaðarferðir, einkum að vetrinum til. Einar karlinn hafði þótt fremur grannvitur, en ráðvandur og bóngóður; hann var almennt kallaður "meinleysismaður". Gróa var vön að víkja að Einari einhverju fyrir þessa smáverslun, og karlinn vissi ofur vel, að slíkt lítilfjörlegt viðskipta-bauk átti ekki að fara margra á milli.

Það er ekki langt á milli Fossbæjanna, ekki lengra en svo, að Brandur hafði oft leikið sér að því, þegar hann var ungur, að standa á Neðstahúshlöðunni á Efra-Fossi og skjóta af hrossrifsboganum sínum, svo örvarnar stæðu í þekjunni á heyinu við Efstahúsið á Neðra- Fossi. Á Neðra-Fossi hafði aldrei í manna minni verið búið vel, en á Efra-Fossi hafði þeim feðgum búnast prýðilega mann fram af manni; Neðri-Foss var með árafjöldanum orðinn hálfgerð hjáleiga frá Efra-Fossi, og algerður hjáleigusvipur lagðist yfir, þegar faðir Brands á smábandsárum sínum keypti Neðra-Foss, og tók Teiginn til sín; það var besti bletturinn úr enginu, en Einar gerði samt ekki betur en vinna upp engið, þegar best lét, svo þetta gerði hvorki til né frá fyrir Neðra-Fossbóndann.

Kona Einars hét Snjólaug og þótti miklu greindari og meiri skörungur en bóndinn; hún hafði bæði töglin og hagldirnar á heimilinu, þar hafði ekki heldur örlað á ósamþykki, þó lítil væru efnin - Einar var svo meinlaus, og góður til aðdráttanna, síeljandi og nægjusamur; hún varð að meta það, konan; hún var svo skynsöm. Börnin voru fimm, þrír drengir og tvær stúlkur, Sigurður var elstur og þá kominn í vinnumennsku, Þórunn um tvítugt, og Geirmundur átján vetra, hin tvö voru annað níu, hitt ellefu vetra. Geirmundur var bráðþroska og frískleika piltur, til hvers sem hann gekk; líkur til að laga búnaðinn hjá foreldrum sínum, því hann var líka talinn gott fjármannsefni, en það hafði gamli Einar aldrei verið; öðru nær.


4. kafli

Nú eru Efra-Fosshjónin búin að vera gift í sex ár og á þeim árum hafa þau eignast þrjú börn; þau eru búin að reyna "hjúskapinn" og "búskapinn". Brandur var orðinn slitlegur, því alltaf vann hann, og meir með kappi og ákafa, en lagni eða hagleik. Hugurinn var jafnt og stöðugt við búnaðinn, og hvergi nema þar; honum hélst vel á hjúum, hafði góðan arð af fénaðinum, og þó græddi hann ekki, safnaði heldur skuldum; það sem munaði var, að allt þverraði. - Gróa var hæg og heimilisföst, fáskiptin um heimilisstörfin og lét bónda sinn mestu ráða; það hafði komist það lag á, að hans ráð voru meira metin af vinnufólkinu og hann var líka talsvert ráðgjarn að náttúrufari. En það sem börnin þurftu að sér, og Gróu virtist að kosta til, svo þau kæmu "sómasamlega fram", því réð hún; kramvörukaup og kaffiveitingar voru að mestu í hennar höndum. Gróa kunni vel við svona góð efni og vildi njóta þeirra, en þó hafði hún aldrei fengið að lifa því lífi, sem hún hafði hugsað sér, dreymt um og þráð. Heima á Skarði hafði örbirgð og skortur hnekkt öllu lífi og fjöri, gleði og lífsþægindum; svo tók "búskapurinn" við, svona búnaður, sem aldrei hafði fært neina tilbreytingu; börnin fæddust og þurftu umsjár, henni þótti vænt um þau, eins og eðlilegt var; en hugurinn reikaði þó til þess, að hún sjálf hefði aldrei fengið að lifa lífinu, eins og hún hugsaði það, eins og svo margar konur, sem hún þekkti, höfðu lifað því; - engin sönn æskugleði, engin menntun og engin ástarsæla; ekkert sannarlega innilegt og ástúðlegt, nema börnin. Hefði hún beðið lengur ógift - drifið sig áfram, menntað sig, skemmt sér og svo elskað, gift sig þá, ekki fyrr - þá var lífið líf; en svona fór það - þetta varð hún að sætta sig við; lifa fyrir börnin, koma þeim vel fram, láta þau njóta þess lífs og fjörs og unaðar, sem hún hafði orðið að fara á mis við; til þess voru Fossefnin, og Brandur var viss, að hirða um efnin. Það var raunar hægt að vinna Brand með lagi -, hann var ákafur, en ekki þrár né þrautseigur; hann lét að orðum hennar, ef hún vildi, ef hún var nógu iðin að halda sínu máli fram. Hann hlaut að vilja það sama og hún, með börnin. Hún var búin að læra að taka réttum tökum á honum, þegar hún þurfti þess, ef henni sýndist að koma sínu fram.-

En góðum efnahag fylgja hóglífir dagar og næði; og hvorttveggja eru þægindi, sem fleirum en Gróu hafa fallist vel í geð.

Brandur var enginn skartsmaður, hafði aldrei verið það; en Gróa hafði verið skrautgjörn; langaði til að eiga skart, þegar hún var ung; heimasætan á Skarði hafði oft kvalist af því, hvað klæðnaðurinn hennar væri ósnotur og ónógur; svo, þegar efnin leyfðu, stóð þó skrautvíman ekki mörg árin; þegar hún fór að eignast börnin, virtist henni það standa á minnstu um hana sjálfa - það voru börnin, það varð að búa þau snoturlega, spara ekki við þau. Og ekki dugði að stofan á Fossi stæði svona snauð og auð og hún var, þegar Gróa kom þangað; það mátti að minnsta kosti ekki vera lakari "umgengni" eða munir hjá henni, en hinum efnakonunum í dalnum - heldur á undan þeim en á eftir. Hvað gerði það, þó hún héldi sér ekki til dags daglega? Fyrir hverju átti að halda sér til? Ekki kærði Brandur sig um það. Fyrir vinnufólkinu? Ekki var það svo skemmtilegt eða "smekklegt". Það var þægilegt að ganga í sömu fötunum dag eftir dag, vaninn gerði þau svo viðkunnanleg við allar hreyfingar; bara þau væru ekki rifin né mjög óhrein.

Einar gamli á Fossi ætlaði í kaupstaðinn snemma á túnaslættinum; um morguninn skrapp hann "heim" að Efra-Fossi og inn í búr til Gróu. Þegar hann kom út aftur, var Brandur að tinda hrífu og stóð og jafnaði tindana í smiðjudyrunum. Einar hafði eltan lambskinnsbelg undir hendinni, og hann ekki mjög mjósleginn; þegar hann kom að dyrunum, kallaði Elín gamla til hans og bað hann að finna sig; karl lagði belginn frá sér, rétt sunnan við smiðjudyrnar og þrammaði heim hlaðið. Brandi varð að forvitnast eftir belgnum og greip hann upp, án þess þó að hafa annað í huga, en hvað það gæti verið, sem karlfuglinn væri að "pinklast" með núna. - "G.S." Þetta fangamark þekkti Brandur og belginn líka; það var hveitibelgurinn. Hvaða meining var í, að karl væri að flökta með hann? Hann þreifaði um belginn. Það var ull í honum, líkast smjörböggli neðst, niður undir botninum. Hann er að snuða þetta út, flaug Brandi í hug, og í því kom Einar.

"Hvernig stendur á þessum belg, Einar minn?"

"O - ég, - hún Elín bað mig fyrir hann."

"Hún Elín?"

"Já, þær stúlkurnar, af því ég ætla að bregða mér úteftir. Vertu nú blessaður og sæll, Brandur minn."

"Vertu sæll." Brandur var ekki meir en í meðallagi raddmjúkur.

Hvar getur hún verið að láta karlhólkinn flækjast með belginn núna -. Og það sem í honum var; ekki var það frá Elínu. - Þetta var hálf undarlegt; gat varla verið alveg satt. Svo snaraðist Brandur inn í bæinn; Gróa var ein í búrinu.

"Hvað var Einar að flækjast með fullan belg? Og hvaðan hafa stúlkurnar þetta smjör?"

Gróu varð hverft við og bilt að svara:

"Stúlkur - Elín hefur líklega beðið hann fyrir eitthvert lítilræði."

"Það var hveitibelgurinn þinn, og Elín hefur ekkert smjör að senda." Brandur bar hratt á og var orðinn dreyrrauður í andliti.

"Hvað er að tala um við mig -. Það er engin hætta að karlinn tapi belgnum."

Nú var Brandur viss, að Gróa hefði átt allt saman.

"Ég er að spyrja, hver sendi þetta - annars þykist ég nú sjá, hvernig á öllu stendur..."

"Láttu ekki svona, maður; okkur vantaði ofurlítið smávegis, stúlkurnar; og ég sendi þetta ullarhár."

"Vantaði - núna rétt þegar ég er kominn úr kaupstaðnum - Þú sendir það fyrir einhvern helvítis óþarfann."

"Það er ekki fyrir neinn óþarfa. Hvað á þessi rekistefna að þýða, maður?"

"Ég hef aldrei vanist þessu - það er bara það. - Mamma hafði ekki þann sið, að senda ull og smjör með hinum og þessum flækingi, rétt eftir að farin var vöruferðin; og þú átt heldur ekkert með að gera það."

"Átti ég ekkert með það. - Kannski ég hafi stolið því?" Höndin á Gróu skalf, þó hún styddist við búrsborðið.

"Þú ferð á bak við mig -- Það hefði mig aldrei grunað, og þú skalt heldur ekki leika þér að því hér eftir. Mér sýnist úttektin mín ekki svo lítil."

"Sýnist þér! Mig vantaði nú samt léreft og fleira smávegis handa Hildi litlu og áleit frjálst..."

"Ég ansa þessu ekki -- ég skal sýna þér það." Búrhurðin slengdist aftur, svo brast við; en Brandur hljóp út og niður að Neðra-Fossi; krafði Einar að segja það sanna, og eftir nokkra undanfærslu dró karl gamalt bréfaveski upp úr brjóstvasa sínum, tók þar úr miða og rétti Brandi.


"Átta pund af vorull og fimm pund af smjöri; á að taka tvær álnir af ljósleitu lérefti í skýluklúta og kaffi og sykur fyrir afganginn.
Gróa Steinsdóttir."


Eins og hann grunaði; eins og hann vissi; eintómur bölvaður óþarfi. Hann tók þó með mesta móti af kaffi og sykri um daginn; ætlaði að það skyldi duga til ársins, þó öðruvísi hefði farið í fyrra. Engin ástæða að bæta við. Eintóm sóun og gegndarleysi. Þetta átti að vera handa Hildi litlu. Alveg rakalaus lygi. Hér eftir skyldi hann gæta betur að. - Gróa hafði aldrei hugsað eftir að efla búþroskann; aldrei fest hugann við búsýsluna; - aldrei verið sannarlega ástúðleg; hann bara vonaði að svo væri; ímyndaði sér það. Hann sá það best, hvernig hún lét að börnunum, hvað það viðmót var miklu innilegra og hlýrra; um þau þótti henni vænt, það leyndi sér ekki. Nú opnuðust á honum augun; - loksins gat hann þó séð, að hún hafði ævinlega þóst of góð handa honum, - aldrei elskað hann, aðeins hlýtt foreldrunum og gengist fyrir efnunum. Aldrei hefði hún farið svo neyðarlega á bak við hann, eins og versta svíðing og húska, ef hún hefði elskað hann. Eins og hann væri miskunnarlaus harðstjóri - hvað það gat verið særandi - -. Makalaust þótti honum samt vænt um konuna, sem bæði var greind og falleg og skemmtileg, - skemmtileg, það var nú raunar ekki nema stundum, sem henni sýndist að vera það; því var nú verr og miður.

Svo þegar blóðið fór að kyrrast, lifnaði líka vonin; vonin að geta ráðið bót á þessu; það var nærri óhugsandi annað, en hann gæti sannfært hana; ef til vill komið henni til að hugsa alvarlega um búið. Af því hún hafði sinnt því svo lítið, höfðu safnast skuldir; það var engu síður þörf á sístarfandi húsfreyju en húsbónda. Þannig hugsaði Brandur á heimleiðinni, og meðan hann var að lagfæra hrífurnar og draga ljáinn sinn; hann varð feginn að taka sér snarpan sprett við orfið sitt um kvöldið.-

Gróa var heldur ekki hugsunarlaus heima og ekki skaprótt; hún var sár-reið Brandi, illa við karl-aulann og gröm sjálfri sér. Sú þremilsins hnýsni, að snuðra í belginn; og aulalegt var, að leggja hann frá sér rétt við nefið á þeim, sem ekkert átti né mátti vita. Hún fyrirvarð sig fyrir bakferlið, fann að það var óviðurkvæmilegt og lítilmannlegt; sárnaði því meira við þá; varð alveg bálreið við Brand, hvað hann var ráðríkur og hrottalegur; hvað framferði hans benti ljóst á, hvort þeirra átti efnin í fyrstunni. Hann var svo klaufalega ber í því. Brandur var hvorki orðhagur né tilfinninganæmur; honum var næst skapi að ganga á hausnum í verstu vinnunni, sjá ekkert fyrir sífelldu annríki og eljanda. Klæddist ævinlega svo durgslega, þótti óþarfi að þvo af sér skítinn á kvöldin, nennti því ekki og fannst þesskonar vera firrur og óþarfa dekur. Nei, hún fann, að hún gat aldrei elskað hann, - hér eftir var það óhugsandi; engin meining í, að vera að strita við það lengur. Og sú hugsun, sem öll þessi ár hafði legið í hugardjúpinu, smávaxin og þroskalítil í fyrstu, en því viðgangsmeiri og áfjáðari, sem lengur leið; sem Gróa hafði barist við að kefja, og átt sérstaklega erfitt með nú seinustu tvö árin, hún skaut sér skyndilega úr kafinu, rétti úr sér með fullum þrótti og sagði skýrt og greinilega: "Seld". Já, foreldrarnir höfðu gert þetta kjara-kaup; hún hafði verið svo heimsk að selja sig; þá var ekki við öðru en ógeðfelldu að búast, gæfulausu hjónabandi. Menn höfðu notað sér æsku hennar og einfeldni, Brandur til að kaupa, og foreldrarnir til að selja og græða. En upp frá þessu skyldi hún aldrei láta af því máli, sem henni væri hugur á að koma fram. Það mundi Brandur komast að raun um; lengur lét hún ekki kúga sig. Það væri þó nokkuð kynlegt, ef hún hér eftir reyndi ekki að láta meir til sín og sinna ráða taka. - En eftir því, sem hún hugsaði lengur eftir því brá mynd Brands oftar og gleggra fyrir augu henni; eins og hann var í löngu legunni og ævinlega, þegar hún varð lasin; óneitanlega var hann þá bæði nákvæmur og umhyggjusamur. Vanalega hafði hann samt setið á henni. Þó honum kannski þætti vænt um hana á sinn hátt, þótti honum samt lang-vænst um sig og sín ráð. - Hér eftir var henni svo sem sama um allt, nema börnin; en slæm við Brand skyldi hún aldrei verða; aftur á móti var ekki nema sanngjarnt, að hann væri ekki jafn rustalegur og í dag; lofaði henni líka að ráða því fáa, sem hún hlutaðist til. Bæði áttu efnin; hún engu síður, þó hún hefði verið svo grunnhyggin að selja sig. Gróa staðréð með sjálfri sér, að reynast þétt og einbeitt við næstu samræður. - Dimmt var að líta til framtíðarinnar. Óttalega leiðinlegt á Fossi framvegis; börnin gátu ekki varpað sól né sumri yfir lífið; blessuð, litlu börnin, sem henni voru þó svo innilega kær.

Næsta samtal gat hvorugu orðið til skapléttis. Gróa hélt því fram, að það væru smámunir og nirfilsháttur að fjasa um eða fá sér til orða þó hún sendi þetta lítilræði; hún fengi sér ekki til orða um brennivínskaup eða tóbakskaup hans; væri ekki að hnýsast og rýna eftir saumnálarvirði; heimtaði líka það sama af honum, og þótti ekki til mikils mælt. Aftur virtist Brandi óþarfi að bregða sér um snuður og forvitni, síst sæti það samt á kvenfólki; en úr því hann hefði alla ábyrgðina, þætti sér nokkuð hart og ósanngjarnt, að ull og smjör væri selt fyrir óþarfa, án sinnar vitundar og sér til vanvirðu; höfð pukurskaup; hún hefði ekki ástæðu til að taka því illa, þó hann sýndi fram á það, sem aflaga færi, og benti á missmíðið. Samtalslokin urðu þau, að bæði voru gröm og reið; bæði kunnu að nota sér sex ára sambúð, til að hitta viðkvæmasta og besta höggstaðinn; leggja sverði á snögga blettinn. Þau lærðu þá list, að særa hvort annað, sem sárast og tilfinnanlegast.


5. kafli

Aldrei hafði Brandur eljað meir, en það sumar, og aldrei verið jafn þreytulegur og latur, að þvo sér á kvöldin; og aldrei hafði Gróa hirt jafnlítið, hvort hún var greidd eða ógreidd, hvort fötin hennar voru hrein eða miður hrein. - Þegar komið var fram í sextándu viku sumars, átti Brandur mikið af óþurru heyi á túninu; votviðrin að undanförnu höfðu ekki sneitt hjá Fosshnjúk eða heyinu á Fossbæjunum. Þá skein upp með glaða þurrk á mánudaginn og Brandur lagði allt heyið á túninu, og við það, undir í einu; ætlaði sér að hirða það daginn eftir, ef þurrkurinn héldist, eins og allir vonuðu; en til þess vantaði þó mannráð. Svo fékk Brandur þau Geirmund og Þórunni til að hirða með sér á þriðjudaginn; því þeir á Neðra-Fossi höfðu notað flæsur, sem komið höfðu á miðvikudaginn og fimmtudaginn, settu þá upp heyið og hirtu mest allt á mánudagskvöldið. Það þótti Brandi óverkdrjúgt, að þurrka hálfa daga og fyrir það varð hann nú seinni en þeir feðgar. Á þriðjudagsmorguninn var líka álitlegasti þurrkur og þornaði snemma af; þau systkinin komu strax um rismál; síðan var tekið til að dreifa heyinu, sumu úr sæti, sumu úr föngum og nokkru úr rifgörðum. Brandi líkaði mætavel, hvað Geirmundur gekk rösklega að verkinu; hvað hann var fjörugur og kappsamur.

Sólin var gengin í nónstað; loftið var hreint og heiðríkt; hitinn ákaflega megn; það var orðið þurrt heyið í flekkjunum, svo skrjáfaði í því, ef við það var komið. Fólkið var búið að borða miðdegismatinn og farið að ýta flekkjunum heim að lambhúsahlöðunni. Brandur tók við föngunum, jafnaði og tróð í hlöðuna, og Geirmundur annað veifið með honum; þá komu þær Gróa og Elín gamla með kaffið, Gróa leiddi Ragnhildi litlu við hönd sér. Menn hafa ekki tíma til að halda sér mjög til, þegar góður þerrir kemur eftir vætutíð, og þær báru þess líka augljós merki, að þær kæmu frá eldhússtörfum. Fólkið settist niður við hlöðudyrnar og drakk kaffið en ýtan beið á meðan. Meðan kaffið var drukkið sló léttri hafrænu yfir; fólkið var fegið svalanum og Geirmundur drakk goluna með fyllstu nautn og ánægju. Brandur stóð fyrstur á fætur, tók fang úr ýtunni og bar inn; Geirmundur greip annað, og svo tók hitt fólkið til starfa. Elín fór heim með kaffiáhöldin, en Gróa var eftir að gamni sínu með Hildi litlu, Steinn og Helgi voru að veltast við að bera inn tuggur; reyna að hjálpa pabba að koma fyrir heyinu, sem nú var komið upp á móts við baggagatið. Geirmundur stökk út úr hlöðunni, þreif hrífuna og hljóp til þeirra, sem ýttu, en Brandur studdist við hlöðuvegginn og kastaði mæðinni.

"Ég fer yfrum í kvöld og bið pabba þinn um þig; fyrst þú ert nú loksins búin að segja já, "lindin mín ljúf og trú". Geirmundur klappaði á öxlina á Siggu um leið og ýtan stöðvaðist við dyrnar; Sigga smáskríkti og hinar vinnukonurnar líka.

"Þú verður svo þreyttur í kvöld - þú nennir því ekki," sagði Brandur og fór inn með fangið. Gróa fékk sér hrífu og sótti nokkrar ýtur; stúlkunum sýndist hún geta snert á hrífu, bara ef hún vildi.

"Varaðu þig, að brjóta ekki hrífuna, Sigga mín - þó hún sé sterk, má öllu ofbjóða," hló Geirmundur. Sigga þótti fremur daufgerð, svo hinum stúlkunum var sannarlega skemmt.

"Við bregðum okkur einhverja skemmtiferð næsta sunnudag - vestur að Stað eða austur að Skógarhlíð; fáum okkur messu -; ef ekki vill betur til verðum við Sigga að tvímenna," sagði Geirmundur, þegar gengið var eftir einni ýtunni.

"Á ég að vera með? Þú segir "við" eins og allt væri ráðið."

"Ekki vantar þig nú hestinn, og sómi þætti okkur Siggu að hafa húsmóðurina með," sagði Geirmundur og leit hálf glettnislega til Gróu.

"Þú varst þá fyrri til að brjóta, en ég -, það er ekki nóg að masa og monta," sagði Sigga og var ekki laust við henni þætti betur, þegar Geirmundur braut hrífuna um leið og ýtan stöðvaðist við hlöðuvegginn.

"Nú verðum við að skilja í bráðina -, fólk kannski tekur til þess, ef við brúkum sömu hrífuna, þó okkur gæti sjálfum komið saman um það." Geirmundur fór að hjálpa Brandi; og Gróa fór heim með barnið.

Um miðaftans-skeið hélt Brandur, að nú ætti fólkið skilið að fá kaffi; vinnufrekjan hefði verið svo áköf um daginn. Kaffið væri rétt strax til, sagði Gróa, þegar hann nefndi það; að fjórðungi stundar kallaði hún til fólksins. Brandur bauð fólkinu vín í kaffið, og piltanir tóku því glaðlega; sumt af stúlkunum þáði líka "svolítið", en "ósköp lítið". Brandur lét ósvikið í bollana þeirra Geirmundar, hann vissi svo vel, hvað þeir höfðu gert um daginn.

Gróa var bæði kembd og þvegin við að veita kaffið, og Geirmundi virtist hún æði mikið sjálegust af stúlkunum; dökkjarpa hárið var vel þykkt og flétturnar, sem tóku niður að mitti, fóru svo snoturlega á þéttu, breiðu herðunum; mittisgrönn og vöxturinn hnellinn; Gróa var meðalhá, eða vel það; kringluleit og sléttleit, rjóð í kinnum, hörundið bjart, slétt og mjúklegt, rétt eins og það laðaði mann til að draga dúnlétt fingurna eftir því; varirnar rauðar, ekki mjög þunnar, tennurnar mjallhvítar; nefið beint, lítið eitt hafið upp fremst; augun stór og skær; og löng silkimjúk augnahár til að skýla þeim. Geirmundi sýndust þau djúp og hrein, eins og himinbláminn á heiðu vetrarkvöldi, þegar hann horfði í þau um leið og hann þakkaði henni fyrir kaffið.

Og Gróu hafði heldur ekki dulist, að Geirmundur var lang vasklegastur af öllum piltunum, hvað hann var skjótur og snar í hreyfingum, hvað lífið var honum létt; líkast því að hann setti sveiflu á menn og mannlíf í dag, um leið og hann sveiflaði vinnunni áfram. Geirmundur var meðalhár, en þrekinn og vöðvastæltur, herðabreiður og miðmjór, ljósjarpur á hár og þykkhærður, breiðleitur, ljóslitaður og fullur að vöngum, gráeygur og fjörleg augun, undir ljósu brúnunum, sem voru nokkuð miklar og skapsmunalegar. Ljósbleika efrivararskeggið, sem var svipað hýinu á fífilkolli að þroska og vexti, það hlaut að vera eins mjúkt og silki, eða skírnarhárið á honum Steina var. Undra ólíkir voru þeir Geirmundur og Brandur, þar sem þó báðir voru gerðir af hinum hæsta höfuðsmið. Brandur: hár og grannvaxinn, lotinn og limalangur; langleitur, magur og hrukkóttur; yfirlitsdökkur og mósvartur á hár, smáeygur og tingrá augun; aldur og erfiði höfðu sett augljós merki á manninn, sem komu svo glöggt í ljós eftir þennan steikjandi heita annríkisdag; hún gat ekki annað en séð það, húsfreyjan; og hún hafði tímann til, að virða fyrir sér fólkið við kaffidrykkjuna.


6. kafli

Gljúfurá steypist í þröngu gili ofan af heiðinni og rennur örskammt sunnan við Fossbæina norðaustur eftir; sunnan við bæina er foss í ánni og draga bæirnir nafn sitt af honum. Fossinn er hár og þverbratt bergið, sem áin fellur fram af; en af því vatnsmegin er lítið í ánni, nema í leysingum og vatnavöxtum, er fossinn aldrei mikilúðlegur, nema þá. En á vorin, þegar hlákur hafa gengið, er líka sjón að sjá. Það er afl og þrek í honum þá, þegar hann hendir ísjökunum fram af brúninni, molar þá á leiðinni og niðri í hvítfreyddri iðunni, hringsnýr mölinni, sogar hana niður og spýtir henni svo upp aftur; veltir svo öllu að lokum fram í straumröstina, þeytir með nið og glaum norðaustur gilið, niður á eyrar, austur í Breiðá, sem kemur sunnan öræfi, framan úr jöklum. Einstöku rammefldur jaki, sem er þróttugri en fjöldinn, smámolast ekki; skiptist aðeins í nokkra hluti; sumir þeirra berjast gegn ofurvaldinu, komast úr straumröstinni, að landsvifunum upp að urðinni, ná þar landi; en áin þvær þá og eyðir, og rakinn í gilinu og suddinn leggjast á eitt, að slíta þeim upp, láta þá hverfa. Á endanum skilar Gljúfurá öllum ís austur í Breiðá; hún hefur aflið og valdið. Baráttan fyrir tilveru jakanna verður að lúta; það er barátta án sigurs; en samt hólmganga, að selja lífið svo dýrt, sem unnt er, gefast ekki upp, fyrri en öll sund eru lokuð.

Á Glæsivöllum hét eitt höfuðból að Grundum og þótti reisulegur bær og hæfur fyrir stórmenni. Klerkurinn í Breiðárdal bjó á Grund, þar var aðalkirkja og þingstaður dalbúa. Prestur þessi var roskinn og ráðsvinnur, reyndur og hvíthærður öldungur, siðavandur og skyldurækinn, vel efnaður og vel metinn; hann var svo gamall, að hann gat ekki skilið æskuna, né kröfur æskumannanna til lífsins; fannst þær óstýrilátar og heimskulegar, allt dáðlausari og staðminni en fyrrum var; en þetta var meir auðkenni manns og aldurs, en þess, að hann var klerkur, því gömlu bændurnir og gömlu húsfreyjurnar höfðu engu óstrangari skoðun á æskuórum og framkvæmdum unglinganna. Piparsveinar og meykerlingar voru samt orðflest; þeirra dómar strangastir og vissastir með óskeikul sannindi og réttmæti. Það bar mest á þeirri skoðun séra Jósteins, af því hann var prestur, og af því hann hafði mest völd og mesta virðing af öllum í Breiðárdal.

Þó undarlegt megi þykja, var því líkast sem Gróa á Efra-Fossi hefði yngst upp við, að taka á hrífunni og ýta heim að hlöðunni nokkrum ýtum. Það var eins og hún fyndi ennþá þörf til, að lifa lífinu fyrir sjálfa sig, og ekki aðeins fyrir börnin. Hún fór aftur að búast betur, bæði þegar hún fór eitthvað og engu síður heima hjá sér, hún varð léttari í spori og fjölskipnari; vildi einkum auka alla heimilisgleði, láta lesa sögur á kvöldin eða kveða rímur - en sú skemmtun var ekki svo auðfengin; góðir kvæðamenn fengust varla -. Gróa var mjög gefin fyrir spil, og til þess vildi hún verja sunnudagskvöldunum; Brandur hafði líka gaman af spilum, einkum þegar hann var sestur niður við þau; þótti gaman að sögum; eins mikið gaman að riddarasögum og trölla og Íslendingasögum eða Noregs konunga. Göngu-Hrólfur, Bárður Snæfellsás, Hörður með kastalann og Húnvöru á bakinu og Ármann eða Ormur Stórólfsson, það þótti Brandi hafa verið hetjur að marki, í þeim hafi verið almennilegt lið. Hann hafði vanist sögulestri, það var bara þessi árin, sem hafði dregið deyfð yfir með það; Gróa hafði dregið heldur úr, henni geðjaðist ekki að sögunni af Sálus og Nikanor, Sigurgarði frækna eða Sigurði þögla; fussaði við Bósa og þótti miður "geðlegir" kaflar í sögu Egils og Ásmundar. En þennan vetur las Brandur stundum sjálfur, stundum Gróa. Víglundar saga þótti henni falleg, Kjartan, Gunnlaugur ormstunga, Gunnar, Hjálmar hugumstóri, Ólafur Tryggvason, það voru hennar afhaldsmenn, og Grettir, þar kom hjónunum saman um, að halda af honum.

En það bar líka nokkrum sinnum við, að Geirmundur var þar á kvöldin og las sögur; hann hafði fjarska mikið yndi af þeim og var hamhleypa að lesa; afhaldsmenn hans voru, Egill, Skarphéðinn, Gísli Súrsson, Erlingur Skjálgsson og Eiríkur Hákonarson, vinveittur var hann Haraldi Sigurðarsyni og lastaði ekki Hákon jarl. Dáðist að Gretti, og aldrei hafði hann lesið um víg þeirra bræðra í Drangey svo, að hann tæki ekki miklum litaskiptum; það var líkt og legði titranda eftir honum öllum; svífandi kölduslátt yfir hann gjörvallan; málrómurinn varð mýkri og veikari, nasirnar þöndust út og skulfu við, augun dökknuðu; þá las hann vanalega allra fljótast, eins og hann stiklaði á orðunum. Svona var það ævinlega, þar sem sögurnar hrifu hann algert á sitt vald.

Gróu þótti Geirmundur skemmtilegur lesari - óefað virtist henni, að hann bera snoturleik og gleðibragð af öllum öðrum karlmönnum þar í nágrenninu; hún hafði gleði af að tala við hann; að þau spauguðu saman; henni var ljúft að veita honum; hann átti það sannarlega skilið, fyrir að vekja heimilið til meira lífs, en áður var. Henni var kappsmál, að einmitt Geirmundur viðurkenndi, að hún væri enginn skiptingur, hvorki að viti né að sjón að sjá, að hún gæti kveikt hjá honum góðan þokka til sín, viðkvæma tilfinning og vináttu.

Það var heldur breytingalítið líf á Neðra-Fossi, og Geirmundi þótti dauflegt þar heima; hafði gaman af að bregða sér upp að Fossi og dvelja þar yfir kvöldvökuna, annaðhvort hlýða á lestur eða lesa sjálfur. Hann var samt vanur að fara heim áður en húslesturinn var lesinn - honum þótti þeir ekki neitt sérlega skemmtilegir, og hann var ekki mjög sár yfir því, þó hann missti eitthvað af húslestrinum heima líka; losaðist við að lesa það kvöldið. - Brandur og Gróa tóku honum ávallt glaðlega; stúlkurnar hlógu og flissuðu, þegar hann var að erta þær í orði, strjúka eftir bakinu á þeim, grípa um mittið eða tala um hvað ljómandi fallegar hárflétturnar væru; hann hafði það eins við þær allar, stúlkurnar þar, nema Gróu, en hann hafði samt mest gaman af að tala við hana, og hennar hárfléttur voru líka langmestar og fagrastar. Geirmundur fullyrti, að það væru söguleg sannindi, að Kjartan hefði verið "hvítur maður og huglaus" og það hefði aðeins verið af þeirri ástæðu, að Ólafssynir drápu Þorkel á Hafratindum, að þeir hefðu reiðst bermælinu, og sannleikanum, sem hann hefði einn haft þor til að segja.

"Það var nú karl í krapinu, hann Þorkell heitinn, ég man svo vel eftir honum." og Geirmundur brá grönum, strauk með þumalfingri og vísifingri, hægri handar, efrivararskeggið og leit til Gróu.

"Þetta er allt jafnsatt, að þú munir eftir Þorkeli og að Kjartan væri huglaus; þú öfundar hann bara af vinsældinni."

"Ekki varð hún honum þó að bana, eitthvað var það annað."

"Það verða ævinlega einhverjir þorpararnir til að rægja og spilla - og vega skammarvíg."

"Hvað hann var vígamannlegur, þegar hann dreitti Laugamenn inni. Hafði hann ekki sextíu menn með sér, mig minnir það hálfpartinn?"

"Þeim var það rétt mátuleg skömm, þjófunum þar."

"Það sannaðist aldrei - Hrefna hefur bara gloprað niður motrinum -- Það er kvennasiður... og hitt með sverðið; þá varð það blátt áfram lygi úr Án hvíta- . Lygnari mann hef ég aldrei þekkt."

Svo hlógu bæði; og Gróu sýndist augu Geirmundar hlæja líka, en Geirmundi virtist sama um hennar augu.

Eitt kvöld í skammdeginu var verið að lesa sögu Gísla Súrssonar. Brandur hafði lesið um tíma, nú bað hann Geirmund að taka við; hann byrjaði þar, sem þeir bræður Þorkell og Gísli áttu tal saman hinsta sinni, las svo áfram; hann las atburðinn um víg Gísla, fyrst nokkkuð hart, svo fór hann að stikla á orðunum, málrómurinn varð veikari, röddin titraði við. Svona las hann kapítulann á enda; þá varð þögn. Geirmundi varð litið til Gróu, sem sat gagnvart honum og þó ekki mjög nærri; hún horfði á hann og svona störðu bæði um stund, blóðið færðist í kinnarnar; Geirmundur fór aftur að lesa, dreyrrauður, með sama flýti og sama málróm, það sem eftir var af sögunni.

Það var í fyrsta skipti, sem Gróa gat ekki dulist þess, að sér gæti verið hætta búin. Geirmundur, eins og hann var, þegar hann las um vígið; eins og hann var, þegar hann leit til hennar, gat ekki úr hug hennar gengið, þó hún skammtaði, þó hún tæki börnin og kyssti þau, þó hún reyndi að taka sem allra nákvæmlegast eftir húslestrinum. Geirmundur var alls staðar gagnvart, Geirmundur og ekkert annað; allt annað dautt og í móðu, bara þetta skýrt og lifandi.

Þegar Geirmundur kom heim, hélt hann að Þórunn gæti lesið lesturinn, hann ætlaði snemma á fætur í fyrramálið og þyrfti að fara að sofa; en þó hann háttaði, gat hann samt ekki sofnað, honum kom ekki dúr á auga lengst fram eftir nótt. Það var ekki sagan, ekki Gísli Súrsson, sem hélt vöku fyrir honum; heldur var það hún Gróa, eins og hún hafði starað á hann - Gróa, konan hans Brands á Fossi; það lagði sting fyrir brjóstið, blóðið streymdi eirðarlaust, það suðaði fyrir eyrunum - engin hjálp frá því - nema ef hann gæti sofnað og jafnað sig. Þessi tími hafði þó verið svo lifandi og skemmtilegur; fyrir hvað -- nú sá hann það -, það var bara Gróa, sem gleðin var bundin við. Þetta varð að lagast, byrgja það niðri, láta engan sjá eða vita; hann hlaut að geta það, karlmaðurinn; hvaða þróttur var það, sem ekki sigraði þessa ástríðu? Hann langaði þangað heim annað kvöld. - Nei það mátti hann ekki gera -- ef hann gerði nú alvöru úr því að koma sér fyrir einn mánaðartíma í vetur, hjá séra Jósteini, til að reikna og lesa dönsku... það mátti ekki frá fénu; allt gengi á tréfótum þann tíma, og heylausir máttu þeir ekki verða; ekki hleypa fénaðinum í hor. Hann hafði séð nóg af því fyrri, meðan hann var barn. Brjóta þvert um; gungulegt að flýja annað eins; löðurmennska að hopa á hæl. Einu sinni hafði hann orðið "skotinn", dauðskotinn að hann hélt; en svo leið það frá eftir nokkurn tíma, fyrirhafnarlítið; eins gat farið enn. ---En, fremur var það sennilegt, að Gróu hefði aldrei þótt vænt um Brand, aldrei elskað hann; honum var stundarfró að því... Svona var hann illur, ungur, og þó þetta spilltur. Sú ógæfa að fella hug til annars manns konu. Glæpur - víst var það ógæfa -. En vonandi að hann sjálfur og tíminn lagfærðu þetta.

Geirmundur kom ekki upp að Efra-Fossi í þrjár vikur; en eitt sunnudagskvöld, í húminu, kom Steini litli ofan að Efstuhúsunum til hans og bað hann að spila við sig í kvöld. Geirmundur hafði dálæti á drengnum og fékk sig ekki til að neita honum, enda taldi sér það enga hættu; nú væri hann viðbúinn. Fyrst spilaði hann "Blind-trú" og "Svarta-Pétur", svo kom Brandur, og þá var farið að spila "Vist"; Jón vinnumaður og Brandur, Gróa og Geirmundur. Brandur var ákaflega kappgjarn í spilum og þetta kvöld græddu þeir. Geirmundur spilaði ekki nákvæmlega, sló af sér oftar en einu sinni.

"Grand," sagði Geirmundur, en Jón átti útsláttinn og strokaði með tíu laufspil í röð.

"Hálf-slemm" og Brandur stokkaði spilin hlæjandi.

Gróa leit til Geirmundar, líkt og hún væri hálfgröm; Geirmundur horfði á móti og augun sættust. Svo fór Gróa að fletta spilunum. Þau héldu áfram að spila fram að vökulokum. Þegar Geirmundur fór, bauð Gróa honum að drekka mjólk, Geirmundur gekk inn í búrið og drakk, þakkaði og kvaddi með handabandi; augun mættust, hendurnar skulfu og skildu, bæði voru litverp, Gróa rauð, og Geirmundur hvítfölur. Eftir þetta varð Geirmundi tíðförulla að Efra-Fossi.


7. kafli

Um jólin átti að messa á Grund; fólkið hugði gott til að létta sér upp og gleðjast og fræðast við kirkjuna. Þá fóru Efra-Fosshjónin til messu á jóladaginn og fleira fólk þaðan; frá Neðra-Fossi fóru ekki aðrir en Geirmundur. Fólkið var margt og geðjaðist vel að messunni og prestinum; en af því dagur var stuttur, gátu ekki viðræðurnar orðið langar. Brandur vildi fara strax, en Gróa vildi vera við messu daginn eftir, þá bað Brandur Geirmund að vera fylgdarsveinn hennar daginn eftir; en Geirmundur sagðist hafa ráðgert að koma heim um kvöldið; Brandur hélt að engin hætta væri með það, hann skyldi sjá um að gera grein fyrir því; koma við á Neðra-Fossi í heimleiðinni. Geirmundur lét tilleiðast. Þau frá Fossunum voru nóttina á Grund í góðu yfirlæti.

Jósteinn prestur hafði fermt Geirmund og líkað vel kunnátta hans; hafði ávallt verið mjög vingjarnlegur við hann, og Geirmundur bar hlýjan hug til klerksins. Þetta kvöld ætlaði hann að biðja prestinn að taka sig einn mánaðartíma og veita sér tilsögn; en það varð ekki tími til þess, því Sveinbjörn Jósteinsson, jafnaldri Geirmundar, stakk upp á að spila; þau voru saman Sveinbjörn og Gróa, Geirmundur og Þuríður Jósteinsdóttir. Það var glatt á hjalla við spilin, einkum voru það unglingarnir, Gróa var hæglátust og því þögulli, sem meir leið á kvöldið; henni virtist Geirmundur vera óvanalega kátur; þeim Þuríði gekk svo afbragðs vel að spila, líkast að hvort vissi um annars spil; hlógu svo samróma, hvort framan í annað, þegar hin töpuðu. Gróu virtist þeim svipa saman, einkum var augnbragðið líkt. Þuríður var að vísu unglingslegri, andlitið smágjörvara og óþroskaðra; hún var heldur ekki nema sautján ára. Helst hefði Gróa kosið að hætta við spilin; henni leið svo illa; en það var öðru nær með Sveinbjörn; honum var orðin full alvara, að jafna spilahallann. Gróa óskaði þess líka að þau Þuríður töpuðu, gerðu eitthvert axarskaft; að stelpan fengi öll verstu roðin; heldur mundi galsinn í henni stillast við það.

"Sóló," sagði Sveinbjörn. "Nú skulum við taka drenginn svo greinilega úr skaftinu, að það þurfi að sækja Snorra smið til að festa hann aftur í því."

"Gaman verður að sjá það." Þuríður hló, leit til Geirmundar, ræskti sig og lagði undir flatt, eins og Snorri var vanur að gera. " "Sér það ekki fremur vel út?" er hann vanur að segja, karlfuglinn."

"Það er best að sjá, hvernig fer; það er ekki nóg að taka fullan gúlinn, Þura litla. Þú átt út," sagði Sveinbjörn.

Og hann féll. Þau hlógu og klöppuðu saman lófunum.

Sveinbjörn greip spilin og sló þeim á vanga Þuríðar; Gróu þótti ekkert annað að því, en að það var of meinlaust.

"Nú fer Bjössi að sækja sig, það er farið að draga í hann. Varaðu þig, Geirmundur; nú fer hann að græða, blessað ljúfmennið." En Geirmundur tók eftir því, að séra Jósteinn kom handan gólfið, hægur og alvarlegur. Líka eftir því, að það var óvanalegur glampi í augunum á Gróu; andlitið rautt, og alls ekki brosandi. Hann sagði ofur stillilega: "Það er eins og vant er, gengur svona upp og ofan í spilunum." Um leið gat hann hnippt í Sveinbjörn.

Séra Jósteinn stóð þegjandi og horfði á, hvernig þau spiluðu þessi spil; svo sagði hann:

"Ég vildi nú helst óska eftir, að þið spiluðuð ekki nema þennan hring; mér hefur aldrei verið um það gefið, að menn spiluðu mikið á stór-hátíðum. -- Nú er komið að háttatíma; og fallegast að hætta með sátt og samlyndi."

"Við skulum ekki spila lengi, elsku pabbi." Þuríður horfði ástúðlega til föður síns.

Hálfum tíma seinna var hætt við spilin. -

Daginn eftir messaði séra Jósteinn og varð, eins og ekki var undarlegt, tíðrætt um Jerúsalem, sem grýtti spámenn sína; að blóð þeirra mundi koma yfir borgina; blóð allra réttlátra, frá Abel allt til Sakaríasar Barakiasonar, sem drepinn var milli musteris og altaris. Geirmundi þótti ræðan hörð hegningarræða yfir Gyðinga; það var eins og klerkurinn væri að hirta þá fyrir mannvonsku þeirra. "Jerúsalem, Jerúsalem! þú sem líflætur spámennina." Þessi orð komu hvað eftir annað; loks fannst Geirmundi allt hverfa, annað en þau; að þau ætluðu að verða sér nokkuð þreytandi. Klerkurinn allt of bundinn við þau til þess ræðan væri vekjandi og skemmtileg. Í kirkjunni voru engir Gyðingar, heldur friðsamir og hógværir menn, sem dáðust að, hvað prestinum færist meistaralega að leggja út af guðspjallinu; ekki gat hann ráðið við, þó þá syfjaði; það var fyrir að hafa farið svo snemma á fætur. Stundum datt samt unga fólkinu í hug, að gaman væri að vita, hvort ræðan væri ekki langt komin; og svo litu ungu karlmennirnir fram í kirkjuna til ungu stúlknanna, og ungu stúlkurnar aftur inn í kórinn til þeirra. Augun leituðu sér staðar; það var ekki fráleitt, að ræðan virtist verða fremur styttri; tíminn líða fljótar.

Gróa vildi fara það allra fyrsta eftir að messu var lokið; nú varð Geirmundur að ljúka af erindinu við prestinn; þeir gengu báðir í stofu og þar bar Geirmundur upp bæn sína, þó feiminn væri.

"Í reikningi skal ég segja þér til, Geirmundur minn; það er gott fyrir hvern mann að kunna fyrstu fjórar reglurnar og margskonartölurnar; hverjum bónda nauðsynlegt -- en bæði er nú, að ég er orðinn gamall og danskan breytist mikið, enda finnst mér hún síður nauðsynleg. -- Það væri þá helst á góunni, eða finnst þér ekki svo?"

"Jú - ég held það væri einmitt heppilegt fyrir mig."

"Þú hefur talað um þetta við móður þína ...við foreldrana?"

"Það stendur víst ekki á því, við mamma höfum ofurlítið minnst á það."

"Jæja, við höfum það þá svona, Geirmundur minn."

Geirmundur rétti presti höndina og kvaddi með þakklæti fyrir velgerðirnar.

"Guð veri með þér, Geirmundur minn." Séra Jósteinn tók vinsamlega og þétt í höndina; svo horfði hann eftir Geirmundi, meðan hann gekk fram gólfið, allt þangað til hurðin lokaðist eftir honum.

Veður var gott, þegar þau Geirmundur og Gróa fóru frá Grund; þunn þokuslæða huldi það mesta af loftinu, og dró slæðurnar svo til fyrir sunnanblænum, að hér og hvar sá í heiðan himininn. Þau urðu samferða fólkinu frá Svartholti; það er næsti bær utan við Fossana, að vestanverðu í Breiðárdal. Vegurinn frá Grund og þangað fram er drjúgum langur, svo það var komið að dagsetri, þegar þau komu þangað. Þar biðu þau eftir kaffi, og að birti fyrir tunglinu.

Fyrst gengu þau þegjandi suður frá bænum - Gróa hafði verið fátöluð alla leiðina að utan-; en þegar kom suður að Gamla-stekk sagði Geirmundur:

"Kannski þú viljir þiggja að ég leiði þig?"

"Þakka þér fyrir --. Heldur verður mér léttir að því -. Þú gengur nokkuð hart."

Svo varð aftur stundar þögn.

"Þú skemmtir þér vel við spilin í gærkvöldi. Eða var ekki svo, Geirmundur?"

"Þau eru bæði kát og svo erum við hálfgerðir kunningjar."

"Ég held það --; að minnsta kosti getið þið Þuríður hlegið saman."

"O-já ---; Sveinbjörn var nú raunar ekki í essinu sínu. Ykkur gekk fremur illa, og honum þykir meira gaman að græða."

"Mér sýndist hjónasvipur með ykkur Þuríði. Þið eruð ekkert ólík. - Máske þið verðið hjón á endanum."

Gróa glotti við, og horfði svo fast framan í Geirmund, eins og hún þó óskaði eftir skýru svari.

"Hún, prestsdóttirin og ég; það dettur mér ekki í hug." Það var ekki trútt um að fát væri á Geirmundi, meðan hann talaði.

"Margt hefur nú skeð ólíklegra."

Og - ég er nú samt ekkert að hugsa um það ---. Gott er þetta blessað veður."

"Já, og fallegt."

Þau voru nú komin suður hjá Teigseyrunum; eru það grjóteyrar, sléttar, meðfram Breiðá; en ofar taka við harðvellis-grundir, grösugar, og þá dalbrekkan há og viði vaxin. Sunnan við eyrarnar fellur Gljúfurá í Breiðá, og þar liggur daldrag vestur í fjallið; í því standa Fossbæirnir, og nokkru norð-vestar hnjúkur sá, sem heitir Fosshnjúkur; eru því Fossarnir í afdal og nokkru hærra en Breiðárdalur er. En fram með Breiðá er byggðin beggja vegna árinnar, langt fram eftir. Heldur er þar langt milli bæja. Upp frá Breiðá eru brekkur nokkrar meðfram Gljúfurá upp að bæjunum, sem standa nærri á sléttu, þó hallar örlítið niður eftir; skammt er suður að ánni, eins og áður er sagt.

Loftið var heiðríkt, nema þokuslæða nyrst í sjóndeildarhringnum. Tunglið var komið upp fyrir dalfjallið og skein glatt yfir dalinn vestan ár; það glitraði á hjarnfannirnar, með iðandi gullinstjörnum. Breiðá rann auð og straumföst, niðaði hljóðlega og rótt. Máninn í suð-austri lagði breiðan geislastaf á straumvaktar öldurnar, breiðfelldan og glóandi í miðjunni, en til beggja hliða leikandi smástjörnur, sem skulfu í öldublænum; báran gjálpaði og velti sér við ísskarirnar. Fossinn kvað við í suð-vestri; stundum hærra og skærar, stundum lægra og dimmar; en ávallt ljúft og laðandi. Hamrarnir héngu svartir og stórvaxnir yfir austurhlíðinni; köstuðu löngum skuggum ofan brekkuna; það var eins og þeir segðu: "Á ég að yfirskyggja þig, hlíðin mín fríða?" En hlíðin lét sem hún tæki ekkert eftir því, og velti tunglskininu með hægð ofan eftir, niður að ánni; hún kannaðist við ölduóðinn og hafði ævinlega unað af honum.

Þeim hafði orðið orðfall um stund; náttúran hafði heillað þau; laðað þau til að samþýðast sér; hverfa í eina heild; tengja saman mannlíf, jarðlíf, vatn og loft; renna í heilagt samband; algleymi og alsælu. Þau gengu hvort við hliðina á öðru, fast saman, heyrðu og fundu æðasláttinn tíðan og titrandi; fundu ekki einungis sitt eigið hjarta slá þungt og erfitt, heldur og hvort annars hjarta stynja undir ofurmegninu.

"Er þér kalt... er þér kalt, Gróa?"

"Nei - mér er heitt -- of heitt."

Bæði stóðu kyrr og litust í augu; svo hnigu þau saman; brjóst að brjósti; vöfðu hvort annað örmum, varirnar mættust í brennandi kossi - eitt andartak, tvö eða þrjú, ef til vill lengur, því andartakið var svo stutt, munaðurinn svo þrunginn og ákafur. Þá slepptu þau faðmlögunum, stóðu hvort hjá öðru en nú litu bæði niður. Máninn stóð þegjandi og fölur, áin gjálfraði, hamrarnir héngu, fannirnar glóuðu, og geislastafurinn logaði á vatninu. Náttúran var ekkert umbreytt, aðeins fannst þeim fossinn syngja hærra og skærar en áður.

"Drottinn minn -- hvað höfum við gert?" Það var Gróa, sem fyrst náði að tala.

"Hvað höfum við gert? --- Ó, mér er ómögulegt að segja, hvað ég elska þig."

"Geirmundur, ég elska þig líka; elska þig, eins og væri um tvítugt, -- Ó, ég hef aldrei elskað fyrri..."

Svona var lífið - þetta var það vissa og sanna -. Gróa, húsfreyjan á Efra-Fossi, móðir barnanna þar, konan hans Brands. - Það var fölt, tungsljósið, en fölara var þó andlitið á Geirmundi, þar sem hann stóð og skalf af geðshræringu.

"Við verðum að bera þetta svo vel, sem við getum; láta allt vera eins og áður." Aftur var það Gróa, sem rauf þögnina.

"En þessi stund; hún verður aldrei afturtekin."

"Við getum verið vinir -- það er ekki svo langt á milli okkar --- ég þoli ekki annað, en sjá þig við og við. Mér sýndist þið Þuríður vera svo innileg. Hefði það ekki komið mér í æsingu, hefði ég verið rólegri og gætnari nú."

"Var þér ekki sama um það?"

"Ó, því var nú verr; ég þoldi það ekki -. Þú kannski skilur mig ekki ----. En nú verðum við að halda áfram. Viltu ekki leiða mig, eins og áður?"

Geirmundur rétti henni þegjandi höndina; aftur héldu þau af stað; Gróa gat komið samtalinu til að lifna. Brekkurnar upp að bæjunum voru svo óþolanlega stuttar; orðin svo innilega blíð, tillitið hjartnæmt og gleðin að leiðast og styðjast svo ljúf. Allt varð að einum örstuttum, sælum draumi; hverfandi, skáldlegum draumi, sem enginn átti, né gat átt, nema þau tvö. Stund ógleymanlegra endurminninga.


8. kafli

Geirmundur kom engu sjaldnar upp að Efra-Fossi eftir þessa messuferð, og það var engin sjáanleg breyting á framgöngu þeirra Gróu, svona í fljótu bragði að sjá; ef til vill töluðu þau heldur minna saman; gátu síður spaugað létt og fjörlega; viðmótið ekki jafn frjálst og áður; en það var ekki fyrir grunlausa menn að sjá eða taka eftir. Geirmundur gaf sig ennþá meira við Steina, eftir jólin; gaf honum píluboga og kenndi honum að fleyta sér á skíðum; kom honum á lagið, fyrst að renna sér smáhalla, svo smábrekkur; kenndi drengnum listina, að leika sér á skíðum. Steini varð æ vingjarnlegri og elskari að Geirmundi. Ef Brandur óskaði eftir, var Geirmundur strax til með að spila; gerði glens við fókið, engu síður en áður; greip í að lesa sögur, ef þess var æskt. Brandi geðjaðist vel að Geirmundi og þótti þeim góðgerðum vel varið, sem honum voru veittar.

Þó að Brandur væri hálf-tortryggur um, að Gróa færi á bak við sig með smáverslun - kannski smágjafir og honum þætti það miður, þá hélt hann að hún hefði minnkað það nú á síðkastið; honum datt ekki í hug né hjarta, að hún færi með annað meira og stærra að baki sér. Það hafði verið heldur kaldara og færra á milli hjónanna, síðan þeim var andurorða út af belgnum; en aftur hafði Gróa verið miklu glaðlegri nú um tíma, og látið miklu meira til sín taka við búsýsluna. Nú voru foreldrar hennar dánir, svo enginn ágreiningur gat risið af því, hvernig þeim var hjálpað; hvort þau væru að smávinna upp það, sem þau einu sinni höfðu gefið upp að Fossi. Gunnar og tvö yngstu systkin Gróu voru vinnuhjú á Fossi, og með því hafði húsfreyjan fengið fleiri á sinn taum. Það tók að fyrnast yfir erfðaauð Brands, og sú skoðun ruddi sér æ meir til rúms, að bæði hjónin ættu búið; og þó Gróa eyddi meiru en forðum var venja á Fossi, þá var líka miklu betur veitt og meira frjálsræði, síðan hún tók við ráðum innanstokks. Brandur einn var svo, að illa kunni breytingunni; hann þaut stundum nokkuð snögglega upp og bölvaði og ragnaði kaffieyðslunni og vinnuleysinu; vildi kippa öllu í lag aftur, og það í einum svip; en hann var hvorki nógu þrásækinn né lagsæll til að brjóta venjuna, sem búin var að taka sér sæti, á bak aftur, eða ráð konu, sem þekkti hann svo vel, og kunni að taka tökunum á honum, til þess að sigurinn yrði sér viss, en hann tapaði. Úr því hún var seld auðnum, varð hún líka að njóta hans, og úr því hægt var að koma ár sinni vel fyrir borð, var líka sjálfsagt að nota sér það. Gróa vildi að Brandur hefði "gott atlæti", kæmi "þokkalega" fyrir á mannamótum; ekki aftraði hún að hann fengi að njóta þess lífsfagnaðar, sem hann fýsti eftir. Fyrst honum þætti gott kaffi, væri auðvitað að hann léti það eftir sér. Um tóbakið talaði hún ekki að fyrra bragði - þó hann brúkaði mikið af því; en færi hann að fást um kaffieyðsluna, - nú, þá var bæði það og vínið, ekki neytti hún þess. Að hann drykki í hófi var eðlilegt, fullur mátti hann ekki vera, það var óþolandi; en því miður hætti Brandi til þess að rata ekki meðalhófið; verða blindfullur í ferðalagi; heima drakk hann ekki og gat geymt brennivín tímunum saman, án þess að smakka á því. Gróa var ævinlega skapstygg, þegar Brandur var ölvaður, svo hann reyndi að dylja hana þess sem mest; hafði hita í haldinu við hana í þeim sökum; sjálfan iðraði hann ætíð eftir, að hafa drukkið sig fullan.

Gróa var óró í skapi, þó hún reyndi að dylja það sem best; samviskan áklagaði hana harðlega; ekki átti Brandur það skilið; bæði var hann raungóður og trúlyndur; hún var alveg viss um, að hann var "henni trúr" og það mat hún; þó hún elskaði hann ekki - hefði aldrei gert það, þá hefði hún með engu móti þolað, að Brandur legði lag við aðra stúlku; hefði stór-reiðst því. Hún átti þó Brand og engin önnur. En Geirmundur var svo miklu fríðari og skemmtilegri; hún unni honum meir en börnunum. Það var ótrúlegt, en samt dagsatt, að nú var ástin orðin henni ofurefli; henni gat ekki dottið það í hug í fyrstunni, að hún mundi festa taumlausa ást á honum; hafði aðeins hugsað sér, að stytta tímann með því að tala við hann, horfa á hann, sveigja þokka hans til sín. Svo vaknaði þrá til þess að sigra hann, láta svona vasklegan pilt lúta valdi sínu -- sjálfri var henni ekki hætta búin. En þessi urðu leikslokin; hún hafði kveikt þann eld í eigin brjósti, sem var óslökkvandi; líktist Loga að því, að hann át alla hugsun, alla ró; viðkvæmu ástina til barnanna og skynsamlegar velsæmisreglur. Guðs orð gat ekki megnað að slökkva þann eld, og ekki heitustu bænir. Henni fannst hún mundi ekki lifa, ef hún fengi ekki að sjá Geirmund við og við; njóta leynilegu augnabragðs ástarsælunnar; mega svala ofurmegni elskunnar eitt andartak, svo enginn vissi - enginn lifandi maður mátti vita það. Ef Geirmundur yfirgæfi hana, festi ást á annarri stúlku; þá gæti hún ekki lifað; henti sér í fossinn - einmitt í fossinn, sem kvað og seiddi til sín. Hvað hún mundi hata Geirmund og þessa bölvaða stelpu, sem ginnti hann frá henni; þetta lausungar afhrak og skyndiskepnu - . Hún varð að breyta svo við Brand, að hann grunaði aldrei neitt; fengi aldrei minnstu átyllu. Aðal-reglan var það, að vera hyggin og kæn, með þeim hætti væri helst hugsandi að geta lifað.

Og Geirmundi var heldur ekki rótt innan rifja. Þó hann segði við Siggu, að hann mundi ekki hika við að renna sér á skíðum fram af hæstu hengihömrunum á Fosshnjúk, bara ef hún gæfi sér hýrt tillit til þess. Eða við Gunnu, að hann skyldi vaða Fossinn á blábrúninni, þegar áin væri í foráttu, ef hún aðeins bæði sig þess. Þá voru þetta ekkert nema falspeningar, sem stúlkurnar höfðu gaman af, að hann fleygði til þeirra; það var einhver ginnandi hljómur í þeim. Og þó Geirmundur glímdi við Gunnar eða þá Efra-Fosspilta, þá var það þó ekki fyrir aðra en húsfreyjuna, sem hann glímdi eða lék á als oddi fyrir, né skemmti með orðum og íþróttum. Svo hafði Geirmundur líka þörf til að hreyfa sig; þörf fjörmikils æskumanns, til að reyna sig við aðra, og prófa afl sitt og atgervi. Í sjálfu sér var gaman að því, að fella þá Fossverja, einkum Jón, sem var bæði stór og sterkur. Og er Gróa horfði á, eða ef það bærist í tal svo hún heyrði, þá þótti honum ekkert að því. Hvað forboðni ávöxturinn var sætur, og eins ginnandi og hann var í Eden forðum. Hefði Gróa verið ógift eða ekkja, þá hefði hann verið allra manna sælastur. - En það var erfiðara í efni. Þetta hafði komið eins og leiftur, án þess hann gæti nokkuð áttað sig; hann hafði verið svo óttalega gálaus; hlaupið eftir því sem tilfinningin kitlaði; strax ætt á götu syndar og spillingar. Víst var þetta stór-synd. En honum fannst samt, að hann hefði trauðlega þrek til, að slíta samband og ást þeirra. Ef Brandur skyldi nú deyja; helst var það í skapi hans, að óska þess; að hann andaðist á sóttarsæng; svo skammaðist hann sín fyrir eins óguðlegar hugsanir. Svona gæti það aldrei haldist til lengdar; annaðhvort var að skilja og hann færi eitthvað burt úr dalnum, eða þá hann hlaut að leggja allt afl og þrótt fram til að græða, græða á tá og fingri; vinna og spara; þá að einum þremur árum liðnum - margt gat skipast á þeim tíma -; að Gróa skildi við manninn; það voru dæmi til þess; hann hafði þau upp í huganum. Sumt voru nú reyndar ræflar, sem rösuðu fyrir ráð fram; en það voru líka menn, sem dugur og manntak var í; þeir höfðu sýnt, að hægt var að hafa málið fram, og vera þó nýtir menn í mannfélaginu. Hann hugsaði, að tala um það, ef þau fengju tíma til þess; það voru aldrei nema örfá orð sem þau gátu talast við. Hún var svo hrædd, að einhver kæmi -, en það hlaut að vera hægt einhvern tíma; bara nota tímann, og vita svo, hvað hún segði. Nú varð hann að hugsa mest um, að ná þroska og mannvirðing; hann skyldi fylgja sér með kappi, þennan tíma, sem hann yrði á Grund, og ekki mátti hann vanrækja fjárgeymsluna, á henni byggðist bú bóndans og velmegun.

Það dróst fyrir Geirmundi að tala um þetta mál við Gróu; var aldrei tóm til að sitja á launtali; en nú vissi hún, að hann ætlaði að vera góuna á Grund; hún reyndi að draga hann frá því, bæði vegna þess, að hún óttaðist Þuríði, og svo fannst henni, að hann vera sér því óvissari, sem hann mannaðist meir; hún vildi helst hafa hann svona, eins og hann var; engin gleði mundi henni verða að þessari Grundar-veru, aðeins til að dreifa huganum frá henni. Geirmundur hafði samt sitt fram; þótti það höfuðórar og hjartveiki af henni, að vera hrædd um sig.


9. kafli

Á Grund var glatt á hjalla, þar sló svo mörgu, ungu fólki saman. Geirmundur skrifaði og reiknaði af kappi á daginn; hafði sitt fram, að fá tilsögn í dönsku og tókst fljótt að átta sig við hana.

Á sunnudagskvöldin létti fólkið sér upp og dansaði; því þá var dansinn að færast frá kaupstöðunum til sveitanna. Sveinbjörn, Marja og Þuríður gátu unnið foreldra sína til að leyfa þeim að létta sér upp og dansa, svona einstöku sunnudagskvöld; en ekki leið á löngu áður en það varð föst venja, að dansa á hverju sunnudagskvöldi. - Marja hafði numið þá íþrótt vetrinum áður, þegar hún var hjá konu kaupmannsins á D., til að læra fatasaum og útsaum. Nýjabrumið var á dansinum, og þó unga fólkið kynni lítið, þá skemmti það sér ágætlega við að læra af Marju; greip hverja tómstund til að æfa sig og nema. Geirmundur lærði fljótlega "sporið"; fékk oft tækifæri til að láta Sveinbjörn sýna sér "sporið"; einkum var heppilegt að skjótast út með honum í húminu, þegar Sveinbjörn fór að hýsa gemlingana. Stundum tók Þuríður hann, þegar foreldrarnir voru ekki inni, hringsneri honum á gólfinu og skellihló, þegar hann hoppaði "taktlaust", og gat ekki orðið samstiga. En Geirmundur var fljótur að læra svo, að hann yrði samstiga; eftir það var það hann, sem bauð Þuríði "í einn snúning" - við tækifæri -, og hann var ekki svo lítið ánægður með sjálfan sig, þegar hann var fær um að vera fyrir í dansinum, og þegar Þuríður sagði, að nú væri hann viss með, að mega bjóða Marju í dans á sunnudagskvöldið, hann yrði sér varla til minnkunar fyrir það.

Þegar Geirmundur var búinn að vera hálfan mánuð á Grund, hljóp hann á sunnudagsmorguninn, til að gæta að fjármennskunni, og til þess líka, að vita hvernig liði á bæjunum. Heima hafði hann fataskipti og leit eftir fé og heyjum, svo brá hann sér "heim að Fossi". Brandur fór þennan dag til messu, tveir karlmenn aðrir og þrjár vinnukonur; það var því með færra móti heima, og nú gátu þau Gróa talað saman, án þess aðrir vissu. Gróu var heldur skapþungt; geðjaðist ekki að verunni þar ytra; það glaðnaði ótrúlega lítið yfir henni, þó Geirmundur segðist vona að hafa talsvert gagn af tilsögninni, ef hann héldi vel áfram, þegar heim kæmi. Við dansinn var Gróu samt verst, hún sagði, - það sem annars allt roskið og ráðið fólk í Breiðárdal sagði um hann, - að dansinn væri bara til þess, að æsa lausung í mönnum; það mundi best sjást á ávöxtunum, hvað af þessu útlenda heimsku-hoppi hefðist. Geirmundi veitti tregt að sannfæra hana og sefa; að lokum virtist þó glaðna yfir henni; þá fór Geirmundur með mestu gætni að tala um, hvernig þau ættu að snúa sér eftirleiðis; því svona samband gæti ekki staðið til lengdar. Gróu virtist ráðlegast að fara varlega, þá þyrfti enginn að vita neitt; það taldi Geirmundur efalaust að yrði fyrr eða seinna. Og hvað svo? Það skyldi hún sjá um, að Brandur tryði því aldrei; heldur að fá Gunnar í vitorð með, ef á þyrfti að halda.

"En það getur rekið svo langt að þið hjónin skiljið."

"Það kemur aldrei til þess, ég skal ábyrgjast það."

"Mörg eru nú dæmin til þess."

"Já, en svo langt megum við ekki ganga, elsku vinurinn minn besti."

"Mér hefur þó oft fundist, að það yrði takmarkið, sem við stefndum að; ekki sona allt í einu, en hafa það samt hugfast." Geirmundur vafði hana fast að sér.

Gróa horfði forviða á hann, hún gat ekki trúað því, sem hún nú heyrði.

"Nei, svo mikið megum við ekki brjóta, hvorki við Guð né menn - - Nóg er nú samt..."

"Svo þér hefur aldrei dottið þetta í hug?"

"Nei, aldrei."

"Þá hefur mér dottið það í hug..."

Hún lagði höndina blíðlega á munninn á honum, horfði fast og sorglega á hann með bláu augunum og sagði:

"Hjartað mitt; þetta máttu aldrei segja framar -; ég veit við höfum hrasað; en að henda okkur sona taumlaust út í ógæfuna ----; nei ég þoli það ekki."

"Guðrún Ósvífursdóttir þoldi þó þetta."

"Já, en þá var nú öldin önnur. Þú segir þetta ekki í alvöru."

"Jú, í fullri alvöru og sannfæring. Ég finn að í rauninni stel ég hverjum kossi, sem ég kyssi þig; að ég sé eins og þjófur. Hitt er þó opinber orusta; kannski að berjast einn við marga og bíða ósigur; ég vil það samt miklu heldur, það er miklu djarfmannlegra og hraustlegra."

Tíminn var hlaupinn; þau urðu að slíta samtalinu. Gróa bað Geirmund að muna eftir sér, sem sæti sárhrygg heima, og þráði hann einan; og Geirmundur sagði að það væri engin hætta á því; hann gæti ekki gleymt henni, þó hann vildi. Eftir þetta skildu þau.

Geirmundi var miklu skapþyngra um kvöldið en um morguninn. Á leiðinni úteftir var nógur tíminn til að hugleiða, og þær hugleiðingar voru hvorki bjartar né glæsilegar. Sitt sýndist hvoru; hann var sannfærður að hafa á betri grundvelli að byggja; en hún áleit það brotið ógurlegast að skilja; opinbera allt. Hvað átti að gera? Eyða bestu árunum svona? Það var rétt til að smádrepa hann; drepa þau bæði. Hreint var hann sá versti og ólánsamasti maður - framúrskarandi ógæfumaður. Bara það væri komið brennivín, svo hann gæti drukkið frá sér vit og minni; hann hafði samt von um að geta sannfært Gróu, ef þau ættu oft og ítarlega tal um þetta efni; en ef það heppnaðist ekki, þá var sjálfsagt að henda sér í faðminn á heiminum; drekka, drepa sig á víni; það ættu allir ógæfumenn að gera.

Þó Geirmundur hugsaði svona um vínið, þá hafði hann þó ekki drukkið nema svolítið í kaupstaðarferðum og veislum; sumpart til að vera með í félagi og gleðjast með sama hætti og aðrir; það gerði hann líka orðhvatari og fjörugri, því fylgdi unaður; stritið varð einskis virði og svefninn flúði. Aðeins einu sinni hafði hann orðið fullur í kaupstaðarferð, og það var ekkert gaman; hann hafði talað alla vitleysu; allt sem honum datt í hug; miklu gapalegar en vandi hans var til. Svo fór honum að verða flökurt, aflið og æsingin hvarf, en drungi og svefnþungi lagðist yfir; hann langaði mest til að velta sér af hestinum niður í götuna og sofna; til allrar hamingju var þá komið á áfangastað; þar fékk hann að sofa. Sá óþolandi höfuðverkur, þegar hann vaknaði; var vakinn af félögum sínum; eins og það stæði rauðglóandi járnteinn þvert í gegnum hausinn á honum, og heilinn sauð og kraumaði á þeim teini; sú kvöl og iðrun. Eftir að félagar hans höfðu ögrað honum til að súpa duglega á, og sagt hann væri skræfa, ef hann læknaði sig ekki á víninu, herti hann sig upp og saup einn mikinn sopa -, hvað það var eitur rammt og þó um leið velgjulegt; öðruvísi en áður. Hann hugsaði, að aldrei mundi hann smakka aðra eins viðurstyggð framar á ævinni; en það eyddi höfuðkvölinni og stælti hann allan; þá fór óbeitin að dvína; Geirmundur varaði sig samt bæði þá og seinna; varaðist að verða drukkinn og tapa viti og hreysti. Félagar hans sögðu, að hann kæmi til að þola slarkið í kaupstöðunum; héldu að hann yrði veltiþing "að vera með". Nú fannst Geirmundi líklegasta úrræðið að slökkva með víninu; deyfa með því, - ef allar fortölur yrðu árangurslausar.

Geirmundi sóttist fljótt vegurinn út eftir; hann gekk gríðarhart; tók annað veifið svo harða spretti, að hann ætlaði að springa af mæði; það var eins og hugarkvölin þokaðist og dofnaði við áreynsluna. Þegar Geirmundur kom út að Grund var komið að háttatíma. Unga fólkið dansaði í stofunni; gömlu hjónin voru háttuð; Geirmundur snaraðist inn í stofuna og bauð Marju í dans; það hafði hann ekki árætt fyrri. Dansinn heppnaðist vel og svo dansaði hann við hverja stúlkuna eftir aðra. Geirmundur var svo ákafur, eins og hann ætti líf sitt að leysa; hélt allra fastast fram, að nú skyldi það "tralla" fram að dagrenning og vera fjörugt.

"Makalaust dansfífl ertu að verða, Geirmundur; það er líkast þú sért drukkinn. Fékkstu vín fram á bæjunum?"

"Nei, ég hef ekki smakkað vín; en nú vil ég dansa, Þura, dansa eins og fífl. Eigum við að reyna, hvort betur endist?"

"Við förum bráðum að hætta; það er orðið framorðið. Ég býst við, að þú getir rétt til - ég hafi ekki þrek til að snúast á móti þér." Hún var alvarlegri en vant var og þurrlegri; hann kallaði Marju fullu nafni, en hana bara Þuru; það hafði aldrei snortið tilfinninguna fyrri en í kvöld -; Það var eins og hún væri barn, og það vildi hún ekki vera fremur en Marja eða hinar stúlkurnar í stofunni. Einhver óljós grunur um, að Geirmundur væri ekki með allan hugann við dansinn. Það var hún ein, yngst af öllum, sem virtist hann breyttur; eins og hugurinn væri á sveimi, dveldist annars staðar. Klukkan fjögur var hætt við dansinn; en fólkið kom sér saman um, að segja hún hefði verið eitt.

En heima á Efra-Fossi gekk Gróa inn og fram; hún eirði hvergi kyrr; ýmist sneri hún sér til barnanna, kyssti þau og talaði nokkur blíðleg orð; talaði fáein orð við einhverja vinnukonuna; fram í eldhús og búr, í stofu og stofuloft; út á hlað og inn aftur. Það var líkast því, að hún væri að flýja einhverja harða hugsun, sem hún þó ekki gæti losnað við. Kvölin bjó í hjarta hennar sjálfrar; og enginn gengur þá kvöl af sér á einum degi. Gróa settist á fatakistuna sína á loftinu. - Geirmundi gat ekki verið alvara með það, sem hann stakk upp á í dag. Hann hlaut að sjá við betri umhugsun, hvað það væri vitlaust. Það var að henda sér út í stjórnleysi og opinn mannorðsdauða. Bara hún gæti talað við hann í næði, og sannfært hann. Ekki var það samt alveg víst --. Þá að binda hann; binda hann svo, að hann gleymdi að tala um það; leggja hendurnar um hálsinn á honum, loka munninum með kossi; töfra hann svo hann gleymdi öllu, nema henni og líðandi stund; festa sér hann svo rammlega, að ekkert afl næði að taka hann frá henni. -- Og enginn mátti vita það; enginn lifandi maður; svo varlega þurfti að fara ---. Þuríður... Hún skalf í hvert sinn, sem henni datt hún í hug; og það var ekki svo sjaldan. Titraði af gremju og ótta. Það varð að leggja allt í sölurnar til að sporna við því. En aldrei mátti Brand gruna neitt --; aldrei trúa neinu. Bara hún væri dauð, stelpan; eða þá gift; komin langt út í heim. Það var til lítils, þó hún giftist þar í dalnum; þarna rétt hjá henni; við hliðina á honum -. Argvítug vitleysa var þessi dans. Og Geirmundur, að lenda í öðru eins sukki. Þaðan kæmi öll ógæfan ----. Mikið skyldi hún hjálpa þeim á Neðra-Fossi; vinna gömlu Snjólaugu alveg; það var ekki ónýtt að fá hana fyrir vinkonu. Henni datt ekki í hug að sleppa Geirmundi; heldur vildi hún missa öll börnin sín, en hann. Til þess þoldi hún ekki að hugsa. -- Ó, hvað Brandur var óskemmtilegur. Óþolandi heimska og ógæfa, að hún var seld. Hvað hún var reið við Brand fyrir það; hann var upphafsmaðurinn; svona var farið með hana, hálfgert barnið. En Brandi þótti vænt um hana, var henni raunar góður og trúr. Víst átti hann skilið, að hún væri honum notaleg; viðmótsþýð og raungóð. En aldrei gat hún elskað hann, það var ekki hugsanlegt. Mikið dauðans ólán og ógæfa var þetta. Aldrei hafði neinn maður verið eins óttalega lánlaus og hún frá því hún var barn -, en þetta var þó sárast. Brimsölt tárin runnu niður kinnarnar, fyrst með erfiði og ekka, svo streymdu þau líkt og lind, sem fellur hægt og hljóðlega niður hallanda; veitir blómunum á bakkanum líkn og fró.

Þá kom Brandur og messufólkið inn í dyrnar; Gróa heyrði harkið; hún strauk vandlega augu og kinnar, lagaði hárið, skóf smjör úr hálftunnu og lagði sköfurnar á disk; kom glaðleg og ganglétt til þeirra niður í dyrnar; spurði tíðinda; hvort margt fólk hefði verið við kirkju; "hvernig prestinum hefði sagst," og um heilbrigði manna. Brandur svaraði, meðan hann skóf af sér og lét vettlingana í vasa sinn; hjartanlega ánægður yfir því, hvað Gróa var glaðleg og málreitin.

Geirmundur fór frá Grund á sunnudag og hafði þá verið við námið einn mánuð. Þegar hann spurði séra Jóstein eftir, hvað veran kostaði, sagði prestur:

"Það getur nú ekki kostað mikið, Geirmundur minn; þú hefur sýnt svo mikla ástundun, að það er ekki nema gaman að segja þér til. -- Þú skryppir kannski fyrir mig bæjarleið eða því um líkt, ef mér lægi á; annað kostar það ekki."

"Til þess skal ég muna, og þakka yður kærlega fyrir alla velgerningana við mig."

Og Geirmundur var sannarlega þakklátur við klerkinn fyrir tilsögnina, viðmótið og drengskapinn; ef séra Jósteinn hefði þá beðið hann að hlaupa logandi eld, mundi hann undir eins hafa gert það. Séra Jósteinn horfði eftir Geirmundi, þangað til hurðin féll að stöfunum eftir honum. Það var eitthvað það við manninn, sem prestinum varð sérlega starsýnt á. Svo kvaddi Geirmundur fólkið, Sveinbjörn ætlaði að fylgja honum úr túni; en Þuríði vantaði og þótti Geirmundi ókurteist að kveðja hana ekki, eftir svo langa og góða viðkynning. En þegar þeir komu fram í dyrnar, gekk Þuríður fram úr stofunni; Geirmundur kvaddi og rétti henni höndina; þakkaði fyrir góða skemmtun; hún var svo undarlega hæg og lágmælt, dró seint að sér höndina; Geirmundur sá, að hún var dreyrrauð í andliti; um leið og hann sneri sér við, sagði Þuríður:

"Geirmundur, ég skal lána þér þessa bók, ef þú vilt."

"Þakka þér fyrir." Geirmundur sneri sér aftur við og tók móti bókinni; augun mættust; svo fóru þeir.

Þegar þeir Sveinbjörn og Geirmundur voru skildir, fór Geirmundur að hyggja að bókinni; það var "Hjörts Börneven" og eitt hefti af ævintýrum Andersens innan í. Með þessari bendingu, að halda áfram náminu, hafði Þuríður enn sýnt, hvað hún var góð; hún var honum engu síður vinveitt en Sveinbjörn. "En hvaða vinur get ég verið -, merktur maður; merktur af eigin taumleysi." Hvað mundi presturinn hafa sagt, þegar hann horfði svo vingjarnlega á hann áðan, ef hann hefði vitað, að hann, svo ungur, stóð í óleyfilegu sambandi við konuna á Efra-Fossi? Bara fyrirlitið hann; ekki viljað sjá hann fyrir sínum augum framar. Það var sjálfsagt um hann, heiðvirðan öldunginn og ljúfmennið; ekki gat honum dottið í hug, að sóknarbörnin sín væru svona spillt og ill. Geirmundur skammaðist sín fyrir, að hafa komið sér fyrir þennan tíma á prestssetrinu; hann var eins og flekkóttur kláðasauður, innan um hvíta, mjallfilda sauði; líkur ref í lambahóp þeim, sem rétt er búið að reka á afrétt. Hefði hann aldrei séð Gróu; ef hann hefði ekki verið þessi framúrskarandi léttúðar strákur; þá hefði hann mátt horfa á, og vera með Grundarbörnunum, án þess að roðna, né fölna. En hann hafði svikið sig inn á besta heimilið í dalnum; eins og Roðbert svikari eða Mörður; já hann var Mörður á Neðra-Fossi, litli Mörður í Breiðárdal. Taka sinnaskiptum -, reyna að telja um fyrir Gróu, að þau sneru af götu spillingarinnar; nú sá hann voðann, eins og hann var í raun og sannleika. Ekki þoldi hann þó að horfa á Gróu fljótandi í tárum líta á hann sömu augum og vængbrotna rjúpan, sem hann tók af honum Rakka í haust. Geirmundur tók sér langan hlaupa-sprett; sefaðist dálítið við það. Ekki var nú mikið að drekka, hjá þessu; þó margur drykki sig vitlausan hvað eftir annað - skárra var það. Svo tók hann annan sprettinn. Þeir urðu nokkuð margir, áður en hann kom heim; og móðir hans sagði líka, að það væri auðséð hann hefði ekki gengið eins og maður núna; hann væri eins og blóðstykki.

Geirmundur kunni ekki meir en svo við sig í fámenninu heima, fyrst eftir að hann kom að utan; hann varð feginn, að móðir hans spurði hann eftir ýmsu, og það þó hún kæmi oft við blóðundina, sem hafði rifnað upp á heimleiðinni. Honum var þörf á að pína sjálfan sig; álíta sig ógæfumann; það voru þeir líka Gísli Súrsson, Grettir og Skarphéðinn; en þeir voru framúrskarandi atgervismenn og þróttugir; af þeim átti hann að læra, og bera sig karlmannlega; að hinu gat hann ekki gert þá, að hugsa um ógæfuna; píska sig með henni; hafa undarlega nautn af að pína sig með henni.

Þegar hann sagði mömmu sinni frá, hvað presturinn hafði reynst sér drengilega að skilnaði, brá roða fyrir í kinnunum á henni, sem snöggvast.

"Já, það var fallega gert af honum, og ég þekki hann ef til vill betur en þú; mig grunaði þetta --, hann hefur fyrri vikið góðu að okkur."

"Þú hefur aldrei nefnt það fyrri."

"O-nei, hann hefur oftar en einu sinni gefið okkur upp gjöldin; og ekkert tók hann, þegar hann fermdi þig."

"Hann hefur víst gefið mörgum fátækum gjöldin?"

"Sjálfsagt. Annars er mér ekki svo vel kunnugt um það."

Það sló í þögn í búrinu hjá þeim; og Geimundur var engu rórri í skapi, þó hann vissi, að klerkurinn hefði gefið þeim gjafir fyrri. -


10. kafli

Hestarnir röltu í hægðum sínum suður göturnar frá kaupstaðnum; það voru tíu áburðarhestar og tveir menn með; Gunnar og Geirmundur. Fosshjónin höfðu farið inn með kaupmanninum, þegar lestin lagði af stað. Þegar lestamennirnir höfðu lagað á hestunum í Áfangatorfu, náðu hjónin þeim. Brandur var æði mikið ölvaður, því kaupmaðurinn hafði gefið svo efnuðum viðskiptamanni nokkur staup að skilnaði, og rommflösku til nestis heim. Brandur hélt þeim veitti ekki af að hressa sig, lestamönnunum, eftir upplátninginn og bauð þeim óspart úr flöskunni; en hann vildi dreypa á sjálfur og gætti þess ekki, að rommið var áfengt og gjarnt á að stíga til höfuðsins; eftir æði spöl fór Brandi að deprast sýn og förlast skýrt tungutak, en var þó hestfær og ágætlega ánægður með lífið. Gunnar og Geimundur höfðu hresst sig dálítið; Geirmundur orðinn rauður í andliti og orðhvatur. Í þetta skipti álasaði Gróa ekki bónda sínum, þó hann væri fullur; hún virtist kunna vel lífi lestamannanna. Þau Geirmundur gátu talast við; horft hvort til annars, án þess að þurfa að óttast neitt; hún sá, að Geirmundur var allur á hennar valdi, að hún og engin önnur ríkti í huga hans; nú var hann bundinn. Svona frjáls, bæði með orð og tillit, höfðu þau aldrei verið; vegurinn var margfalt styttri en nokkru sinni áður; vornóttin björt og blíð. Lóan söng um lágnættið, og spóinn vall á þúfunum rétt við veginn; það voru nokkurs konar rekkjuljóð, sem hann söng; döggin silfraði viðinn og blómin og lagði þunga angan af. Yfir allt breiddi nóttin mjúka töfrablæju með glæstri geislarós norður við sjóinn; þar sem sólin rann glóandi eftir lognöldunni; sýndist ekki stærri en svo, að hægt væri að taka hana upp, væri maður hjá henni. Hestarnir lestuðu sig vel eftir veginum gripu töðutoppana af götubökkunum, um leið og þeir gengu fram hjá; gengu svo tyggjandi með klyfjarnar og báru sig þolinmóðlega í nætursvalanum. Rauður Geirmundar stiklaði léttfættur og fótslyngur eftir lestinni; blóðið sauð og hjartað sló hart í honum, sex vetra gömlum, óþolinmóðum og gáskafullum. Geirmundur hafði unun af hestinum, þó hann væri heillaður af vorlífinu og konunni, sem reið jafnhliða honum; nærvera hennar sveif meira á hann en vínið, sem var aðeins olía á eldinn; tillitið varð tíðara og lengra, orðin þýðari, málið mýkra. Brúnskjóni lippaði lággengur og sporviljugur, auðveldur og þýður; ruggaði Gróu í afbragðs samræmi við líðandi leið og ástarleiðsluna, sem hún leið í við hliðina á honum, sem bundinn var af henni, eins óstýrilátur og sterkur, og hann þó var. Gunnar kvað og Brandur með honum, supu á og buðu Geirmundi, hann dreypti á því og ekki meir, fann að blóðið mátti ekki æsast úr því, sem var; kvað svo með þeim eina eða tvær vísur, þá voru þeir vissir að halda áfram um stund; ef þeir svo þögnuðu, bað Geirmundur þá blessaða að halda áfram og skemmta; byrjaði fyrsta erindið af einhverjum hestavísum, og þegar það var búið sneri hann að Gróu og samræðunum við hana.

Hestarnir stöðvuðust í áfanganum; lestamennirnir tóku ofan klyfjarnar, beislin út úr áburðarhestunum og sprettu af reiðtygjunum; settust niður hjá klyfjunum, þar sem þær voru þéttastar, leystu upp nestið og tóku til snæðings; þau voru öll í góðu skapi og all-kát. Að því loknu var lagfært, til að hvílast um hríð; láta fara svo þægilega um sig, sem föng voru á. Fyrst sigraði svefninn Brand frá samræðunum, hann var elstur og ölvaðastur, og svo Gunnar; það var þungur þreytu- og vínsvefn, svo óhætt hefði mátt æpa í eyru þeirra, án þess þeir rumskuðust. En þau tvö, sem vöktu, létu sér ekki koma neitt þvílíkt í hug; unnu þeim mæta vel værðarinnar; töluðu hljóðlega; báðum var erfitt um andardráttinn, og hjartað sló hart og títt. Svanahópur kom norðan að og stefndi til Veiðivatns; þeir flugu í oddfylking og skiptust á um forystuna, kvökuðu við, en vængjaþyturinn fór súgandi gegnum loftið. Hestarnir dreifðu sér meðfram ánni og rifu í sig gróðurinn, hristu sig svo glamraði í beislisjárnunum og tóku aftur til að svipta grasinu af þúfunum. Stelkurinn flaug aftur og fram með rauðu, löngu fæturna lafandi og gall mjóróma; en hann gat engan gabbað til að elta sig, af allri þessari þyrpingu, hvernig sem hann flökti og herti á að gjalla, höggvandi rómnum. Grátittlingurinn skaust örsnöggt milli runnanna; honum stóð ótti af gestakomunni; rjúpan kúrði í miðjum rauðvíðisrunnanum, innan um mórauð, vetrarhrakin blöð og mosa, samlit þeim og hreyfingarlaus, nema augun, sem hún renndi eftir því, sem hún gat; naumast hún þyrði að draga andann, það var sú óttaleg hræðsla um hreiðrið og eggin; um að gera að sitja sem fastast og bæra ekki á sér, hvað sem yfir dyndi. Austurloftið varð rauðgullið fyrir bjarma upprennandi sólar; döggin glitraði á blómunum, og grasið varð silfurgrátt af vatnsmóðunni. Það sló skjálfandi óró og þrá yfir þau tvö, sem vöktu og horfðust í augu; með aftureldingunni kom knýjandi, starfandi lífið, og svefninn og munarvær vornóttin sló algleymi yfir elskendurna.

Geirmundur og Gróa sofnuðu ekki, það var nóg til að tala um; hinir tveir hrutu hvor í kapp við annan, og þetta hljóð gerði þau örugg með að vera tvö ein, að þau gætu talast við óhult og frjáls; aldrei, hvorki fyrr né síðar, lét þetta hljóð öðruvísi en illa í eyrum; en þessa morgunstund var þeim það alls ekki hvumleitt. Nú gafst Geirmundi færi að tala það, sem í brjósti bjó; hann túlkaði með eldheitum ákafa, að annaðhvort yrðu þau að herða huginn og brjótast gegnum allan farartálma, hafa það markmið að mega njótast á endanum, eða þá að slíta ástasambandið sundur; taka þvert fyrir, af fyllstu alvöru. Hann útskýrði það svo vel, sem honum var unnt, að miklu heiðarlegra væri að gera hjónaskilnað, en hitt, að læðast og svíkja nánustu tengdamenn; ganga götu falsara og þjófa. Gróa reyndi að loka munninum á honum með kossi, en það dugði ekki nema nokkur andartök, hún reyndi að töfra með föstum faðmlögum og glampandi augum; fann samt, að hún hafði ekki sama valdið og áður -, rétt eftir að svanirnir flugu suður hjá; þá reyndi hún að sýna, hvað mikil ógæfa það væri, að bæta synd á synd ofan, glæp yfir breyskleika; það, að hún færi að rífa sig burt frá manni sínum -, sem ævinlega hefði þó verið henni góður og í rauninni þótt vænt um hana; þó hún hefði aldrei getað elskað hann; það var óþolandi hneyksli; ekki gæti hún afborið að skilja við börnin - blessuð, litlu börnin sín. Og það setti að Gróu ákafan ekka og grát, þegar hún minntist barnanna. Geirmundur vafði hana að sér, bað hana innilegur og blíður, að fyrirgefa, ef hann hefði styggt hana, gert henni þungt í skapi. Ekkinn smákyrrðist og tárin þornuðu; Geirmundur fór aftur að tala sínu máli, og varð strax heitur fyrir því; tárin komu aftur fram í augu Gróu, og þegar hann sá það, fór hann líka að tala með minna afli; beygja dálítið stefnuna. Gróa sá, hvað dugði við hann; hún hugsaði sér að nota það vopn oftar. Geirmundur vann ekki annað með fortölum sínum, en að hún lofaði að hugsa eftir því, sem hann hafði túlkað og sjá hvort hún gæti samþykkt það; reyna þrekið og vita, hvað tíminn færði af úrræðum. Vonin hafði veikst hjá honum, en efinn og óttinn styrkst hjá henni.

Nú fannst Gróu kominn tími til að vekja þá félaga, það mundi komið undir dagmál.

"Ég lifi ekki, ef þú yfirgefur mig; mér verður það ómögulegt -, ég get ekki skilið við börnin. Guð hjálpi mér. Hvað ég á bágt."

"Og ég lifi ekki mannslífi, til lengdar, ef við göngum þessa götu; ég er svo órór, að ég má til með að drekkja sorginni í víni. Deyfa eldinn með því."

"Þú gerir það fyrir mig, að drekka ekki meira, en þú þolir - . Þú gerir það, þegar ég bið þig svo vel, sem ég get, elsku vinur." Hún lagði hendurnar um hálsinn á honum og kyssti hann löngum, föstum kossi.

"Ósköp sofið þið steinfast, það ætlar að verða ómögulegt að vekja ykkur." Gróa velti Brandi til í svefnrofunum og hristi hann, svo hann þó loksins glaðvaknaði. Gunnar svaf engu lausara, og Brandur var miklu lengur að koma honum á fætur, en Gróa var að vekja Geirmund.

Brandur hressti sig fljótlega á víninu, og Geirmundur var líka nokkuð sopadrjúgur, svo hinum varð að glotta við borðið, sem kom á flöskuna hjá honum. Svo ráku þeir Gunnar saman hestana, og allir tóku til að laga reiðingana og gyrða gjarðirnar. Geirmundur lét upp annars vegar, en Brandur og Gunnar á móti. Þegar eftir voru fjórir óklyfjaðir, segir Brandur:

"Þessa helvítis skömm megum við ekki láta spyrjast, að við látum tveir upp á móti einum. Farðu og teymdu saman reiðhestana, Gunnar, Gróa getur haldið í þá, og lestaðu svo hina á stað."

Þeir vörpuðu upp á hestana, síðast á Efra-Foss Hæring, sem hafði hundrað og þrjátíu pund í klyf, enda sagði Brandur, að sér færi nú að verða erfiðara, að snara upp þungu klyfjunum, en hefði verið, þegar hann var hálf-þrítugur. Geirmundur varð heldur fljótari að ná klakknum.

Þegar þeir voru komnir spölkorn suðureftir, var vínið búið að vekja þá Brand og Geirmund; Gunnar var daufastur. Lestaferðin gekk vel; hestarnir runnu svo vel á móti svalandi brúnagolunni, voru heimfúsir og sæmilega fullir eftir hvíldina í áfanganum. - Efst í efri dalbrekkunum mættu þeir lestinni frá Grund og stöldruðu við, til að hressa þá, sem að heiman komu, og svara því, hvernig verðlagið væri, hvað þeir væru vandir að ullinni, hver gæfi best fyrir hana og hvort nú mundi verða mikil ös. Á meðan riðu þær Grundar systur fram á það; Gróu virtist Geirmundur bregða litum, þegar þær komu, og Þuríður líta svo innilega til hans, eiginlega þakka honum fyrir rúsínurnar, sem hún Gróa þó veitti þeim; hún sagði, að ekki hjálpaði að hirða ekkert um lestina og reið suður göturnar. Geirmundur fór síðast, hann beið eftir flöskunni hjá Sveinbirni, en Rauður skilaði honum fyrstum fram til klyfjahestanna. Þeir Brandur voru búnir að láta upp á einn hestinn, sem hafði velt af sér, þegar hin komu. Geirmundur drakk á móti hinum báðum og var líka lestamaður á móti þeim báðum; honum var skapþungt, og vildi þó ekki láta á því bera; lét eins og hann væri hinn kátasti; eftir því, sem vínið sveif meira á hann, eftir því gleymdi hann meir öllu ógeðfelldu, lifði meir við líðandi stund, en umhugsun. En Gróa var döpur og svefnleg; hún leit angurblíðum, syrgjandi augum til Geirmundar, svo honum gekkst hugur við; fór að snúa máli sínu meir að henni, eins mikið og hann þorði, grunsins vegna. Þegar kom niður í dalinn, var allt komið í sama lag og um nóttina; Gunnar var líka vaknaður, kveðskapurinn byrjaður, og Gróa búin að taka fastatökum á Geirmundi, töfra hann algert á sitt vald. Brandur og Geirmundur komu kveðandi heim að Neðra- Fosstúninu, en meðan Geirmundur kvað með honum, horfði hann munaðaraugum á Gróu, sem reið samhliða.

Norðan við túnið kvaddist fólkið með kossi og þakkaði fyrir góða skemmtun; Geirmundur og Gróa kvöddust síðast.

"Kemurðu á morgun, eins og þú lofaðir?" hvíslaði hann.

"Já, góði; ég hef erindi;" hún hrökkti Skjóna upp götuna.

Það var höfuðverkur í Geirmundi, þegar hann vaknaði á sunnudagsmorguninn; sami glóandi teinninn, og einu sinni áður, stóð í gegnum hausinn á honum; hann hugsaði um ferðina; allt sem hann hafði sagt og gert gálauslega; iðraðist eftir sumu; einkum einu; það sló hálfköldum raka út um ennið á honum, þó honum væri brennandi heitt; hjartað barðist, honum var þungt um andardráttinn og óvanalega lágmæltur, það sem hann talaði. Hann vildi ekki lækna sig með víni, - aldrei smakka það framar -; bara Gróa kæmi nú ekki. Stefnan var voðaleg; hálf ljós grunur um, að hún mundi aldrei skilja hann, ekki vilja það; að hana skorti þrekið til þess, og að hann skorti líka þrótt, til að slíta ást þeirra sundur; mundi ekki hafa nógu fast taumhald á sjálfum sér, ekki þola sorg hennar, tárin og harmsfulla augnatillitið. Ó, hefði hann farið með þeim á Grund, þá hefði hann nú ekki setið í þessu eldbaði og kvöl --. Undarlega leit Þuríður til hans um leið og þau skildu. Var hún að vara hann við? Hafði hún grun? Það var engu minni harmur í dökku augunum, sem hún leit til hans, en öðrum augun, sem hann þekkti svo vel; engin glettni né galsi, en alvara og stilling; aldrei hafði hann tekið eftir því fyrri, og ekki heldur í bráðina þá; en á meðan Rauður hentist á stökki fram til lestarinnar, flaug það snöggvast í hugann; hvarf skyndilega fyrir öðru, sem hreif tilfinninguna með tilhjálp vínsins. Nú stóð þessi endurminning föstum fótum og krafðist sætis --. Hvað hann var fráleitur flagari; verri en allir aðrir -. Og Þuríður góð og saklaus -, hvít eins og dúfa. Höndin riðaði þar sem hann leitaði í kornpokanum eftir léreftsböggli. Bágt átti aumingja Gróa, að lenda í ástlausu hjónabandi -- og svo þetta allrahörmulegasta. Best af öllu væri að þau væru bæði dauð; dauð frá syndinni og sektinni. Hann sá í anda Brand og börnin þeirra standa við gröfina hennar og gráta höfugum saknaðartárum; það var eðlilegt fyrir hann og þau, að harma. Dauðinn hafði borið hana burt frá brestum og sekt, frá harmi og synd, yfir á land lifandi, sælla manna; þar stóð hún hvítklædd og alfrjáls.

En yfir honum grét bara móðir hans; Einari var ekki grátgjarnt - systkinin tárfelldu ofurlítið; hann hafði verið svo vondur; enginn gat sannarlega syrgt hann, nema móðir hans; og hennar tár voru beisk og brimsölt; sektin gerði þau beisk -. Sælt hefði verið, ef Þuríður hefði látið falla ein tvö tár að skilnaði, vinartár, felld af trega og meðaumkun, eins og góð systir hefði fellt þau. Með þær tvær sorgarperlur ætlaði hann að leggja út á hafið mikla; þau tár vildi hann flytja með sér yfir á ströndina hinum megin. - Geirmund var farið að dreyma yfir pokunum í skemmunni; þá var gengið um hlaðið, hann hrökk saman og roðnaði -, það var barið; Geimundur og Snjólaug komu jafnsnemma til dyranna; Gróa heilsaði henni með kossi; rétti honum höndina og þrýsti henni um leið.

"Þú hefur komist eins snemma úr rúminu og Mundi minn; hann er nú rétt kominn á flakk."

"Þeir hafa meira erfiði en við; þurfa að sjá um lestina ---. Ég er líka vel frísk eftir ferðina."

Gróa leit leiftrandi augum til hans, meðan hún talaði þessi orð; logheitan straum lagði eftir hverri taug; hann dreyrroðnaði. Konurnar gengu báðar inn í búrið; það skíðlogaði undir katlinum og meðan þær biðu eftir Þórunni, sem sá um hann og hitun á kaffinu, settust báðar á búrkistuna.

"Ég kom hérna með lítilræði, sem ég vona að þú þiggir af mér, fyrir góðan og gamlan vinskap."

Snjólaug tók við bögglinum; í honum voru átta álnir af hvítu lérefti og aðrar átta álnirnar af dökkleitu baðmullar lérefti, tvö pund af rúsínum og eitt pund af súkkulaði.

"Þakka þér kærlega fyrir -- ég skammast mín að taka við gjöfum af þér, -- aldrei get ég nú borgað þér það með öðru en hlýju hjartaþeli og vináttu;" Snjólaug kyssti Gróu löngum vinarkossi.

"Þú lætur ekki á þessu bera við neinn mann; og lofar mér að hafa ánægjuna af að miðla af því, sem mér hefur verið veitt í ríkulegri mæli en þér. Ég veit, hvað það er að eiga lítið, og hvað það er þungt --, mér er gleði að því, að geta hjálpað vinkonum mínum um lítilræði, og eins og þú veist, tel ég enga fyrr en þig, nágranna konu mína, sem á margt þarflegt hefur bent mér."

"Ástar þakkir fyrir -, o-jæja, það verða fáir vinir þess snauða; og eitt get ég, og það er að meta það sem mér er gefið af góðu hjarta --. Auðvitað eignast ég ekki mikið úr kaupstað; en þó er það stór munur, síðan Mundi minn komst upp; hann er mér svo góður og nákvæmur ---. Góða, þú leitar ekki til annars en mín, ef þú héldir ég gæti orðið þér að nokkru liði --; en það er líklegast, að aldrei komi til þess."

"Komið getur það nú fyrir; og mér finnst, að þegar við erum svona hálfgert út úr sveit settar, ætti líka að vera sem allra best vinátta milli bæjanna."

"Víst ætti það svo að vera; enda held ég líka að það sé; og því betur, sem við kynnumst meir."

Gróa var ánægð í sæti sínu á búrkistunni, og þó hún renndi augunum til dyranna í hvert sinn, sem um var gengið, var það ekki af þeirri ástæðu, að henni líkaði ekki mæta vel við gömlu konuna við hlið sér.

Þórunn kom með ketilinn; Snjólaug tók við að hagræða áhöldunum og hella á bollana.

"Biddu hann Munda að skreppa hérna inn og bæta kaffið, ef hann á eitthvað til þess."

Geirmundur kom með rommflösku og hellti í bollana þeirra fjögurra. Kaffið var ósvikið og lummurnar lostætar; Gróa kom einmitt í kaupstaðarkaffið á Neðra-Fossi. Það var líkast og teininum væri kippt burt úr höfði Geirmundar eftir þennan bolla; kaffið og vínið vakti æskufjörið; grafirnar og dauðinn hurfu út í blámann. Einar gamli og börnin komu, þau fengu hálfa bollana af kaffi og lummur og rúsínur með, og þótti munntamt góðgætið. Geirmundur hellti í bolla föður síns úr flöskunni og bauð honum að súpa á henni á eftir; gamli Einar lifnaði allur við hressinguna og augna tillit hans lýsti því, að honum þætti vænt um Geirmund og virtist hann vera líklegur til þroska og frama.

Smám saman fór fólkið að tínast burt úr búrinu; loks voru þau Gróa og Geirmundur tvö eftir.

"Góði; gerðu eina bón mína."

"Ef ég get."

"Þú getur það, og lofar að gera það."

"Já."

"Þiggðu af mér þennan klút, mér þykir svo vænt um að þú gerir það."

Það var einn af dýrustu og fallegustu hálsklútunum, sem fengust í kaupstaðnum. Geirmundur dreyrroðnaði.

"Umfram alla muni gerðu ekki þetta. Góða Gróa, gerðu það ekki aftur; ég skammast mín að þiggja gjafir."

"Og líka af séra Jósteini?"

"Ég hugsa til að borga það seinna."

"Já, það getur nú verið --; en ef þú tryðir því, hvað mér þætti vænt um að vita, að það, sem þú hefur um hálsinn, sé frá mér og vissir, hvað ég elska þig, þá hefðirðu ekki orð um það."

Tárin færðust í augun á Gróu. Geirmundur hafði aðeins tíma til að kyssa hana fyrir klútinn, eins langur og kossinn varð, áður en móðir hans kom aftur.

Gróa tafði lengi; gaf Þórunni fallegt léreft í nátttreyju; en eintal áttu þau Geirmundur ekki annað en þetta. Rétt þau gátu kvaðst í skemmunni, um leið og hún fór.

Geirmundur reið út að Svartholti um kvöldið og var þá búinn úr flöskunni. Rauður fékk að hlaupa úr sér mesta gáskann suður Teigseyrarnar aftur; allar á þanstökki og upphvatning í ofanálag; eins og það þyrfti við hann, sem var nógu óbilgjarn og harðsóttur áður; það dundi í eyrunum; götuleirinn hentist harður og þéttur úr hófunum, langt aftur frá honum. Rauður vildi líka taka brekkuna, en þá stillti Geirmundur, fór af baki og gekk upp brekkuna. Klárinn hljóp meðfram honum, hvessti augun og beit mélin, en froðan vall um stengurnar og datt svo í stykkjum niður á götubakkana, á Geirmund og sumt á brjóstin á honum sjálfum. Hann barði taglinu svo lykkjan varð harðflókin; teygði höfuðið niður að jörð og rumdi úr sér frýsstrokunni; rétti hausinn snöggt upp, sperrti eyrun og krafsaði mölina og grasrótina; hneggjaði hvellróma og hrynjandi svo ómaði í árgljúfrinu. Geirmundur snaraðist á bak á brekkubrúninni og reið hægt það sem eftir var; tilfinningin um, að hafa riðið of hart og óvægið, var vöknuð.


11. kafli

Sumarið leið og veturinn gekk í garð. Gróa varð æ vinsælli og veitulli við hjúin; en eftir því, sem hún náði meiri hylli, eftir því gáfu menn minni gaum að Brandi. Þegar hann ekki beitti harðræði fór fólkið sér hægt og hægt að verða við tilmælum hans. En af því Brandur gekk fast og stöðugt að öllum verknaði sjálfur, þá gengu öll útistörf sæmilega; við hitt gat hann ekki ráðið, að innanhússstörfin unnust tómlega; frjálsræðið óx; Gróa var ekki hörð að knýja menn til vinnunnar. Brandur var farinn að finna til þess, að þó konan að yfirvarpinu væri oftast glaðleg við hann, þá var þar tómleiki á bak við, skortur á alúð og innilegri blíðu; bara þægilegt viðmót. Ef þeim varð andurorða - og það bar ekki svo sjaldan við -, þá komu orðin heit og sár, þá fylgdi hugur máli; geigaði engin ör, sem hún skaut; henni lá allt á hraðbergi, sem gat snert hjarta hans sárast; þá var hún nógu heit, einkum ef þau voru tvö ein saman. Það voru börnin, sem glöddu hann, þegar hann kom frá útistörfunum; þau voru hraust og fjörug, en stundum nokkuð ærslamikil við hann, þreyttan og syfjaðan. Tómleiki fór að leggjast í brjóst Brandi í hvert skipti, sem hann hugsaði um hjónaástina; honum virtist, sem ósýnilegur máttur bægði sér frá yl og lífi, út á hjarn og frostnæðing, frá sælunni, til kulda og leiðinda. Slíkar hugsanir lágu í huga Brandi, en svo óljósar, að hann gat ekki rakið hugsanaferilinn né verið viss um upphafleg rök og rót að þeim. Hann varð feginn, ef einhver gestur kom, sem gerði breyting á heimilislífinu, og ósýnilegu fargi, er það lagði á hann. Enginn maður varpaði eins miklum gleðiblæ yfir heimilið og Geirmundur, sem ætíð var fjörugur og kátur, hafði sífellt eitthvað til að gera gaman að; en það var undarlegt; Geirmundur var honum ekki jafn fylgisamur ug verið hafði; skrafhreifur og þægilegur, en kom lítið í fjárhúsin með honum og talaði sjaldan um féð við hann. Það var líkast, að hitt fólkið væri búið að leiða Geirmund frá honum og leiða hann í glauminn og vinnuleysið með sér. Geirmundur var lang viðkunnanlegastur, ef Brandur gat fengið hann til að spila við sig, eða þau hjónin; þeim þótti báðum gaman að fjörugum spilamanni.

Sá fyrsti maður, sem hafði grun um "samdrátt" þeirra Geirmundar og Gróu, var Sigríður vinnukona; hún varð glöggsýnni en aðrir, af því afbrýðin hvessti sjón hennar og vakti eftirtektina. Þó Geirmundur hefði ekki gefið henni neina átyllu til vona, með öðru, en sama glensi og gáska, og hann sýndi hinum stúlkunum, hafði Sigríður tekið "falspeninga" hans fyrir rauða gull; svo þegar hún sá missýni sitt, var þráin vöknuð, og henni samfara gremjan yfir því, að tapa, vinna ekkert á. Hún sat um hann með augunum; hverjum hinna stúlknanna hann "gæfi hýrt auga", fyrst árangurslaust, en svo datt henni eitt kvöld við spil í hug um Gróu. Hún þóttist finna sporið, og hún var sannarlega iðin og þrautgóð að rýna eftir; fór hægt og gætilega, læddist og leyndist, hleraði og gægðist, hvenær sem hún sá sér færi. Þau grunuðu "Siggu" síður en aðra, hún fékk ekki orð fyrir að vera skarpvitur né framkvæmdarmikil. Um sumarið var hún fullviss, og snemma um haustið fór hún að segja vinkonum sínum frá "óstandinu og svívirðingunni" á Fossi; hún sparaði ekki svarta litinn, úr því hún var auðugust af honum. Fyrst snerist sveimurinn milli griðkvennanna, svo til vinnumannanna; einhverri þeirra varð að trúa einum þeirra fyrir þessu leyndarmáli; svo valt það ofan brekkuna og út og suður allan dalinn, smaug inn á þennan bæinn og litlu seinna hinn. Fyrir jól hafði þessi gestur gert vart við sig á flestum bæjum í Breiðárdal; gekk milli karla og kvenna, en var þó sérstaklega kvenelskur og búrgöngull; óx og dafnaði á ferðalaginu; fékk hár og hala; hafði besta viðgang af því að ganga milli góðbúanna og vera kjassaður af svo mörgum. Auðvitað vissu Brandur eða Gróa né Neðra-Foss-fólkið ekkert; engan fýsti að fræða það á fréttunum.


12. kafli

Einar gamli lagðist í lungnabólgu, þegar þrjár vikur voru af vetri; það dugðu ekki meðulin frá "hómópatanum" og engin umönnun né aðhjúkrun. Maðurinn var slitinn og heilsan biluð seinustu árin. Að draga og bera á sjálfum sér í fannfergi og illviðrum vill koma við flesta, enda þá líka, sem eru saman reknir og "mestu meinleysismenn". Á áttunda degi andaðist Einar; Snjólaug bar missi sinn vel og stillilega; harmur barnanna var auðsærri, einkum þeirra yngstu; Geirmundur var dapur og fálátur, svo móður hans þótti það næstum kynlegt, eins og þeir feðgar höfðu þó verið óskaplíkir. Séra Jósteinn hafði "þjónustað" Einar og látið í ljós við Snjólaugu, að bóndi hennar mundi naumast lifa þessa veiki af; klerkurinn gerði það með stillilegum hugsvölunarorðum, og þau orð hafa ef til vill veitt ekkjunni þrek og þollyndi til að bera harm sinn, svo vel og hún gerði. Presturinn hafði talað einslega við Snjólaugu um þetta, þau höfðu ekki hjarta til að angra börnin.

Það var ekki mannmargt við jarðarför Einars gamla; þá dagana gengu hríðardembur og gerði þunga færð; svo var Einar hvorki mannvirðingarmaður né efnaður; en þó þau væru fátæk, hjónin, vildi ekkjan samt, að jarðarförin væri "sómasamleg". Hún vildi ekki gera þá minnkun, að manni sínum væri holað í jörðina eins og umkomulausum niðursetning, eða aumingja, þess vegna hafði líka verið náð úr kaupstað kaffi og sykri og víni. Gróa hafði búið til mest af brauðinu; yfir höfuð verið sérlega hluttekningarsöm við ekkjuna í raunum sínum. Sigga vinnukona glotti kímilega til fólksins og hafði orð á því, hvað Gróu færist fallega við það á Neðra-Fossi; þeir kunnugu depluðu augunum, eða drógu annað aftur og glottu með hálfum munninum; vissu vel, hvað Sigga fór, og geðjaðist ekkert illa að því. Gróu grunaði ekkert, tók ekki eftir hvískrinu að baki sér. Geirmundi var sendiferðin í kaupstaðinn á móti skapi, en fékk sig ekki til að brjóta ráð móður sinnar á bak aftur. Hann vildi að jarðarförin hefði farið fram sem kyrrast, eins og líf föður hans hafði verið; að presti og líkmönnum yrði borgað strax, en enginn dropi af víni verið keyptur. Þorlákur í Múla lánaði Geirmundi peninga til að borga klerki og grafarmönnum; en fyrir hinum útvegunum stóð ekkjan sjálf með aðstoð hjónanna á Efra-Fossi.

Það varð nokkuð seint fyrir að koma líksöngnum á; fyrst hafði þungt færi og logndrífa aftrað mönnum og svo varð tafsamt að drekka kaffið og úr staupunum; því það var höfð föst regla á, hverjir fyrst drukku og hverjir síðast; þó fátækir ættu í hlut, var samt ekkert gert af handahófi og án mannvirðinga, það var haft alveg eins og það hefði verið presturinn sjálfur eða auðugi meðhjálparinn, sem verið var að fylgja til síðustu hvíldar.

Þegar líkið var borið út úr kirkjunni, máttu söngmennirnir syngja við ljós; þeir stóðu við glugga á suðurhlið kórsins og ljósglampa lagði út yfir gröfina, sem var rétt sunnan við. Fólkið gekk hægt og hljótt eftir kistunni, norður fyrir kirkjuna, austur fyrir og svo að gröfinni. Líkmennirnir drógu reipi í hankana og létu kistuna síga niður, drógu svo upp reipin; presturinn kastaði þremur moldarrekum á kistuna og mælti fram orðin, sem skildust og heyrðust svo sérlega glöggt, þó þau væru ekki töluð hátt. Menn röðuðu sér kringum gröfina, þeir nánustu næst og allir karlmennirnir berhöfðaðir. Moldarrekurnar skullu á kistunni og skarkið af því lét dapurlega og hljómdimmt í eyrum þeirra, sem stóðu á grafarbakkanum. Ljósbjarminn skein fölur og daufur yfir allt saman; náttmyrkrið svart og svipþungt umhverfis. Söngurinn innan úr kirkjunni rauf þögnina; snjórinn datt úr hálofti í stórum, hráslagaköldum flygsum, ein eftir aðra, niður á mannahöfuð og hendur og fætur, á bera skalla öldunganna og föt fólksins; ein flygsan eftir aðra, jafnt og stöðugt; það marraði í mjöllinni, ef einhver sté fæti til. Menn horfðu ofan í gröfina, þar sem moldin kom hærra og hærra, nú hærra við þennan barminn, nú við hinn, eftir bví sem mokaðist misjafnt til. Geirmundur stóð við hægri hlið móður sinnar og horfði niður; hann grét ekki, en andardrátturinn var þungur og erfiður; brjóstið gekk seint og mikið til; það var hjartað, sem grét, þó augun væru þurr. Þegar hann var lítill, og faðir hans kom snjóugur, þreyttur og þögull með baggann sinn, kyssti öll börnin sín; börnin, sem hann bar og ók á sjálfum sér fyrir í kafaldi og kyngifæri; hvað hann var innilegur sá koss og augun mild, sem faðir hans leit til hans. Oft hafði Geirmundur borið hann ráðum, eftir að hann óx upp; ekki verið honum hlýr né alúðlegur - enginn hafði verið honum sannarlega hlýr; það var seint séð nú. Hann mundi vel eftir föður sínum, þegar of mikið var heimtað; heimtað meira en hann gat dregið; brýrnar sigu hægt og þungt, hnefinn krepptist og andlitið varð dreyrrautt; svo stóð hann á fætur, fór að engu ótt, og gekk þegjandi burtu. Þetta bar sjaldnar við seinni árin; en frá bernsku var honum þessi sýn hugföst. Bara hann gæti nú lagt hendurnar einu sinni um hálsinn á honum og sagt: "Ég skil þig, elsku pabbi, þó þú segir ekkert." Hann - -, svona hafði faðir hans litið til hans, rauður, þungbrýnn og þegjandi, gengið burtu með kreppta hnefa; ef hann hefði vitað ... hvað voru orð hjá því, heimskuleg bræðiorð. Geirmundi fannst brjóstið þrengja að hjartanu, að hann ekki gæti náð andanum. Slíta allt sundur - -, eins og horfði --, tápleysi og skilningsleysi annars vegar, óstjórn og þróttleysi hins vegar. Hér, við gröfina ---, hann lofaði við minningu föður síns og við gröf hans, að slíta sig frá því, sem var dauðadæmt, engan lífsþrótt hafði, sem dæmdi sig sjálft til dauða og grafar. Það var lögð mjúklega hönd á öxlina á Geirmundi, honum varð hverft við og náfölnaði -; var það Gróa? Guð forði henni frá... Það var Þuríður, sem færði sig nær gröfinni og Marja við hlið hennar. Höndin lá örlítið kyrr, - þröngin var mikil -. Friður og ró, líkn og hugsvölun færðist yfir sál og líkama Geirmundar, eins og hún hefði með saklausri vinarhendi dregið af honum synd og sekt. Svo ung og saklaus, fjarri allri hugsun um brot og bresti. Gröfin var fullger. Menn gerðu bæn sína, og Geirmundur bað um eilífa sælu fyrir föður sinn, styrk og frið fyrir sig og alla þá, sem í nauðir rata. Bað fyrir Gróu, að hún fengi fyrirgefning og þolgæði; að öllum raunum yrði bægt frá Þuríði, að hún alla ævina mætti vera jafn saklaus og góð. Hann bað heitt og innilega með allri trú æskumannsins, sem ekki þekkir nokkurn efa um algæsku og almátt Guðs; með allri þeirri brennandi þrá, sem knúði hjarta hans, til að bæta misgerðirnar og komast á veg sakleysis og friðar, Geirmundi létti í skapi við bænina, hann vonaði eftir betra þreki og þollyndi; eftir bænheyrslu og harmalétti frá Drottni.

Gróa hafði tekið eftir því, þegar Þuríður lagði höndina á öxlina Geirmundar; sá hann líta við og að bæði stóðu saman við gröfina og bændu sig. Hún fór ekki dult með tilfinningar sínar, þessi stelpa. Hvað hún var fröm og frekjuleg; bara hún væri komin þarna niður í gröfina til hans Einars, í kistuna hjá honum --; ekki var fyrir fegurðinni að gangast, þó hún væri prestsdóttir. Henni skyldi samt ekki verða kápan úr því klæðinu, hvernig sem hún snerist og tildraði sér fram. - Gróa las bænir sínar við gröfina, eins og aðrir; þurfti aðeins að bera hratt á, svo hún yrði þó jafnfljót og hitt fólkið. Bænin veitti henni engan frið; hugurinn var við annað bundinn.

Eftir að komið var úr kirkju, fór veður versnandi; gerði harðviðris hríð með frosti og myrkri. Séra Jósteinn aftók, að nokkur maður færi burtu í annað eins veður, og allir samþykktu það, nema Gróa; hún vildi hiklaust fara; sagði það mætti rata frameftir dalnum af kunnugum mönnum; Brandur og Jón í Svartholti kölluðu ófært að leggja út í náttmyrkur og stórhríð með kvenfólk í eftirdragi. Gróa varð að sitja kyrr, eins og allir aðrir. Það var sest að kaffidrykkju og vínið borið ósparlega fram; menn urðu fegnir að hressast og hita sér; að nokkrum tíma liðnum fór alvörusvipurinn að hverfa af karlmönnunum. Hreppstjórinn sat og þrasaði um útsvör við Brand og Jón í Svartholti og tvo aðra; sumir deildu um göngur; hvað þær hefðu komið misjafnlega við; þeir röktu feril ónytjunganna í öllum göngum um haustið og sló í hávaða og heitingar milli þeirra að lokum. Guðmundur á Mýri fór að kveða í einu horninu og fleiri með honum; svo voru sóttar Þórðar rímur, því á þeim höfðu kvæðamennirnir mestar mætur, og Guðmundur var þeim gagnkunnugur, enda lét honum best að kveða þær, sagði almannarómurinn. Séra Jósteinn talaði stundum við ekkjuna og börnin; vék sér að þeim, sem stóðu í útsvarsþrasinu eða gangnastappinu, var ekki hávær, en fylgdi þéttlega sínu máli; beygði mótstöðumennina og sannaði þeim, að útsvörin þeirra væru réttilega metin. Klerkurinn var töluvert góðglaður af víninu og langaði lítið til að hátta snemma þetta kvöld. Konurnar voru sumar í stofunni, sumar á faraldsfæti milli baðstofu og stofu, höfðu drjúgan áfanga í búrinu, þar sem kaffið var skenkt. Inni sat fólkið og spilaði, bæði "Vist" og "Alkort". Þangað kom Gróa og leit á spilin, en festi sig ekki við að spila sjálf; henni var tíðförult inn og fram, líkt og á hana stríddi eirðarleysi og óþol. Geirmundur sat fyrst frammi í stofu hjá móður sinni og systkinum; þau voru hæg og hljóð, og geðjaðist illa að hávaðanum og þrasinu. En Snjólaug gamla þurfti nákvæmlega að gæta eftir með veitingarnar; henni var ekki til setunnar boðið. Þegar tekið var til að kveða Þórðar rímur, gekk Geirmundur inn með Sveinbirni; þeir settust inn í hjónahúsið og litlu seinna kom Þuríður inn með systur hans. Sveinbjörn fýsti fram í stofuna aftur; en Geirmundur kunni best við kyrrðina þar inni. Hann sat á stól við framhlið hússins; á borðinu logaði á lampa og þar sat Þuríður við borðsendann, milli þess og rúms foreldranna, hún blaðaði í bók. Geirmundi var starsýnt á hana, þar sem hann sat þögull og hallaði sér að þilinu. Þuríður var þreklega vaxin og heldur í hærra lagi, ljósjörp á hár og hærð kvenna best; ekki yfirlitsbjört; kringluleit og holdug nokkuð; brúnabeinin mikil og svipurinn einarðlegur; ennið ekki hátt, en breitt og jafnar hárræturnar; og nefið fremur digurt og hafið upp að framan; ekki munnfríð og lá hátt tanngarðurinn; varirnar þykkar nokkuð, rauðar og sléttar; rétttennt, og tennurnar mjallhvítar, fremur stórar; gráeyg, stóreyg og fasteyg. Það var ekki fegurðin, sem gerði Geirmundi tíðlitið yfir um, það var sakleysið og gæðin, sem hann mat mest, sem honum var hugljúfast.

"Ekki get ég fellt mig við vínveitingar við svona tækifæri; það á svo illa við, finnst mér."

Þuríður leit upp úr bókinni og til Geirmundar.

"Mér hefur heldur ekki geðjast að þeim --. Og frá þessum degi hata ég þær -. Þær eru óþolandi."

Hann fann viðkvæmnina og saklausa hluttekning, bæði í orðum og tilliti.

"Gangnaþras, rímnakveðskapur og sorgin geta ómögulega búið saman."

"Það er argasti ósiður --, ætti ekki að líðast lengur. Ef hægt hefði verið að komast heim, hefði maður losnað við þennan ófögnuð."

"Það sýndist engum í kvöld, nema mér -. Ég þekki erfidrykkjurnar og veit, hvernig þær ganga," sagði Gróa; hún hafði gengið hljóðlega inn í húsið, frá því að hyggja á spilin fyrir framan; hún vissi vel, hvað gerðist í húsinu, þó hún liti eftir þeim. Geirmundur roðnaði skyndilega.

"Það var ekki fært að fara með kvenfólk í þessu veðri -, með mömmu hefði ég aldrei lagt út í það útlit, sem var, og það um hánótt."

"Við erum ekki eins miklir aumingjar og þið látið; þið heldur ekki svo vissir á stefnunni, þegar á herðir." Gróa var eldrauð í framan.

"Með Brandi hefði ég verið viss að rata, ef hægt hefði þá verið að fara hratt og hiklaust, ekki þurft að tefjast við aðra."

"Það verður nú margt til að rugla fyrir ykkur, og eitt af því er vínið." Gróa var alltaf eins rauð, og Geirmundur brúnaþungur; Þuríður sat og horfði á bókina, en sá þar engan staf - hún sá aðeins þau - vissi allt, sá hvað gerst hafði, og hvernig í öllu lá; áður hafði hún grun, þó enginn hefði sagt henni neitt; var eins hvít í framan og pappírinn á bókinni, þar sem engin var prentsvertan á honum.

Þá kom hópurinn framan úr stofunni inn með hávaða og gani, samtalið í húsinu slitnaði í sundur.

Menn fóru sumir að leggjast til svefns; klerkurinn og fólkið hans, það frá Neðra-Fossi og fleiri aðrir. Sumir skemmtu sér við spil, sumir við vín, eða "kveðskap" og söng, nokkrir við þras og deilur. Gróa gat ekki sofnað, þó hún legði sig út af; fékk hitasteypur, reyndi að bylta sér á ýmsar hliðar, en allt árangurslaust. Hugurinn snerist að einu og gat ekki slitið sig þaðan aftur. Geirmundur var að yfirgefa hana - rífa sig burtu frá henni - og það var allt að kenna þessari stelpu, með "finnana" um gervallt andlitið, þessum gepli, sem elti hann á röndum. Hverju ætti hún að svara Geirmundi, ef hann skoraði enn á hana að skilja við manninn, húsin, börnin, eigurnar, þægilegar ástæður, vanann við góð metorð heima og á mannfundum; taka aftur við skorti og fátækt; skilja við blessuð börnin, láta slíta þau frá sér, mæta hvarvetna lítilsvirðing, miskunnarlausum dómum og slaðri. Nei, það gat hún ekki gefið milli Brands og Geirmundar, þó hún elskaði annan, eins og lífið í brjósti sínu, og hinn ekkert. Eins og vináttan var orðin góð milli Snjólaugar og hennar; búið að snúa öllu þar í besta horf -, og ekki bar á, að neinn grunaði, nema ef það kynni að vera um Siggu. En hvað gat hún? Það var auðgert, að gera það að slúðri og álygi, sem hún færi með, ef til þyrfti að taka. Geirmund sjálfan var mest að óttast, hann var svo stíflyndur; hafði skýlaust sagt, að á þessu vori yrði annaðhvort að hrökkva eða stökkva; tárin gátu ekki breytt áformi hans. Gjafir vildi hann með engu móti þiggja, og rétt að hann til málamynda smakkaði vínið, sem hún bauð honum. Það var óskiljanlegur þrái í Geirmundi með að heimta skilnað -; aldrei gat hún talið hann til að skoða ást þeirra á sama hátt og hún gerði, hversu blíð og angurvær, harmandi og tárfellandi, sem hún var. Undir þessu hlaut eitthvað að búa, þó hann þrætti þess harðlega. Það var Þuríður, engin önnur en hún; þetta gat hún unnið með að ganga alltaf eftir honum; sú var efnileg, að fara strax að elta strákana; strax um fermingu. En þau voru ekki búin að bíta úr nálinni ennþá, það skyldi hún sýna þeim seinna. Gróa hætti við, að reyna að sofa, og fór að spila "Vist" síðari hluta næturinnar.

Daginn eftir var bjart veður og frost. Fólkið át dagverð og drakk kaffi, svo lagði það heimleiðis. Framdælir urðu samferða; Jón í Svartholti og Brandur gengu á undan lengi fram dalinn; báðir voru nokkuð ölvaðir. Vínið hafði enst prýðilega. Á eftir Brandi kom hitt fólkið, karlmennirnir hjálpuðu þeim konunum, sem seinfærastar voru. Geirmundur leiddi móður sína og talaði fátt við aðra; honum var skapþungt; hiklaust ætlaði hann að efna heit sitt, og þó fannst honum ást sín til Gróu hefði aldrei verið heitari en nú; en hún gat ekki skilið þann veg, sem hann vildi ganga; það var engin furða, þó hana skorti þrek og kjark til þess stórræðis -. Hvað hann skyldi þó hafa eljað og barist til að safna efnum og áliti fyrir hana, en til þess gengi langur tími, til þess þurfti hamingju og hugrekki. Hann hafði litla von um það, að geta talið Gróu á sitt mál, síst af öllu, að hún gæti fengið traust og óbifanlega trú á slíkri framtíð. Og að hugsa til Brands og vita, hvað bölið yrði honum þungbært. Brandur, sem ætíð hafði reynst þeim vel, og sem Geirmundi allajafna var hlýtt til; fann að var hrekklaus og góður drengur; sómabóndi, þó hann væri ekki sjálegur né menntafús. Geirmundur vissi vel, hvað þung skilnaðarstundin yrði fyrir sig og Gróu, fann að hann þurfti að herða huginn, taka á alefli sínu til að standast þá þraut. En hér var ekki orðið nema um eina götu að tala, og á þá götu skyldi hann ganga. Hann hafði svarið það.

Gróa og Þórunn leiddust og nokkru fyrir utan Svartholt urðu þær jafnhliða þeim mæðginunum. Snjólaug og Gróa héldu á lofti samtalinu; Geirmundur lagði fátt til. Augu Gróu leituðu eftir hugsunum Geirmundar með svo mikilli einlægni og þrá, að hann gat ekki staðið af sér að svara henni með augunum; hann sá, hvernig hún píndist, og hann vissi, hvað brenndi hana.

Þær töluðu um líkræðuna og kom öllum saman um að lofa hana, "hún hefði verið ljómandi falleg og góð." Geirmundur játti, þegar hans álita var leitað; gat ekki fengið af sér að segja það, sem í brjósti bjó, það mundi særa þær mæðgurnar. Með sjálfum sér var hann allt annað en ánægður með ræðuna prestsins. Lofið um föður hans; hvað hann hefði verið nýtur maður í mannfélaginu og sérlega ljúft að veita öðrum. Geirmundur hafði einmitt orðið var um hitt, meðan faðir hans lifði, að hann þótti enginn atkvæðamaður, að aðrir yrðu frekar til að rétta honum hjálparhönd, en hann gæti rétt þeim hana. Þessi orð mundu hvergi töluð, nema í kirkjunni. Það var aðeins gylling, sem presturinn einn gat leyft sér að bera fram á helgum stað; gylling sem fjölda ástvina hins látna geðjaðist vel og þykir svo góð og hjartnæm. Geirmundur minntist föður síns, eins og við gröfina, og sú tilfinning var ljúfust, sönnust og harmblíðust. Við lof þeirra kvennanna yfir ræðunni og eigin hugsanir, fann Geirmundur til herpings fyrir brjóstinu, uppeftir, til munnvöðvanna, sem drógust saman, svo til augnanna. Tvö tár duttu niður; niður í fönnina. Geirmundur leit yfir til fjallsins hinum megin, horfði um stund, strauk niður andlitið með hendinni, ræskti dálítið við og sagði:

"Það er nokkuð erfitt færið, en gott má nú veðrið heita... Hefði það verið svona í gær..."

"Já, víst hefði það verið hagfelldara og betra í alla staði;" Gróa dró vettlinginn af hægri hendi, hvítri og varmri, staldraði við og varp öndinni. Hann var fagur gullbaugurinn á fingrinum, digur og rauðgljáandi; af engum vanefnum gerður.

Jón og Brandur biðu á hæðinni fyrir sunnan; ölvanin hafði ótrúlega runnið af Brandi, andlitið alvarlegt og þreytulegt; hann var nokkuð lotinn og ellilegur, þar sem hann studdist við askstafinn sinn.

"Ykkur sækist seint á eftir; þetta er líka bölvað færi --. Viltu ekki að ég leiði þig, Gróa mín; þú hlýtur að vera dauðþreytt eftir vökurnar?"

"O-jú, ég held ég yrði fegin að hvíla mig um stund í Svartholti."

Gróa fór að minnast á líkræðuna við Brand, en hann svaraði eitthvað undarlega og hugsunarlaust; hún fann að honum bjó eitthvað annað í skapi; þegar þau höfðu gengið um stund, fór hann að tala um börnin, hvað þau mundu fagna þeim vel, og hvað það væri gleðilegt að koma heim til þeirra; Gróa var alveg sama hugar og fram að Svartholti töluðu þau alltaf um börnin, og gleðina að koma heim til þeirra. Brandur var óstyrkari í máli en vandi hans var; en Gróa áttaði sig fljótt á því, að sá óstyrkur var þó ekki víninu að kenna; hana grunaði, að eitthvað það hefði komið fyrir Brand, sem ylli skapbrigðum. Best að vera við öllu búin, hugsaði hún.

Eftir að búið var að hvíla sig um stund í Svartholti og drekka þar mjólk og kaffi, hélt fólkið áfram. Aftur bauð Brandur að leiða konuna, og það um leið og þau komu út á hlaðið. Það var langt síðan hann hafði sýnt henni aðra eins umönnum, og Gróu geðjaðist ekki sérlega vel að þessari leiðslu hans, en tók því samt all-glaðlega. Brandur sá svo um, að þau gengu síðust allra. Fyrst þögðu bæði, svo fór Gróa að vekja máls á hinu og öðru, sem Brandur ekki festi hugann við. Samtalið var slitrótt, allt þangað til þau komu fram undir Teigseyrarnar; þar staðnæmdist Brandur og segir:

"Ég frétti nokkuð í þessari ferð;" hann starði niður í fönnina.

"Nú." Gróa tók í handlegg hans; þau gengu slóðina í hægðum sínum.

"Og það voru engar gleðifréttir ---; það datt mér síst í hug að heyra."

Það varð þögn. Gróa fann suðu fyrir eyrunum; blóðið streymdi til hjartans, og frá því til höfuðsins aftur, svo herti hún hugann.

"Viltu segja mér, hvað það var?"

"Að þú... Að þér þætti of vænt um hann Geirmund... hefði verið svo lengi."

"Hann Geirmund; ha, ha, ha, -- ekki nema það þó. Og þú trúir þessari lygi?"

"Það gengur staflaust um allan dalinn. Mér var sagt það núna í ferðinni."

"Hver segir það? Komdu með sögumanninn; ég skal þakka honum fyrir. Hann skal fá að éta það ofan í sig."

"Það hefur einhver á heimilinu gert það; og þó þú segir þetta lygi, geturðu varla neitað því, að þú hefur ekki farið varlega."

"Að hverju leyti? Að ég hef talað við hann og gert honum gott? Hefurðu verið á móti því?"

"Mig grunaði ekkert; trúði þér svo vel... En nú finnst mér þið hafið setið æði oft á eintali. Því er verr, ég er hræddur."

"Það er rétt eftir þér; rétt eftir annarri sannsýninni, sem þú býður mér. Þér er best að slá utan um mig virki; setja skörina almennilega upp í bekkinn... Komdu með sögumanninn. Ég skora á þig að sanna þennan áburð, þessa lygi."

"Ég segi þér bara, hvað ég hef heyrt; hver þetta hefur fyrst borið út, veit ég ekki. Þó er ég hálf hræddur, þarftu ekki að verða bálreið við mig út af því."

"Það er hægt að ljúga þig fullan, og menn vita það ofur vel... En þú getur ekkert sannað, bara hleypur með vitlaust slaður."

"Þú hefur ekki haldið í Siggu til einskis; því hún er borin fyrir því."

"Nú, gastu komið með það?... Það var mikill kóngakraftur, að þú þorðir það ---, en ég skal segja þér nokkuð; meðan ég hef nokkra heilsu, læt ég þig ekki kúga mig og allra síst með tilhæfulausri lygi. Ég get annars vel gert þér það til geðs og sóma, að fara burtu. Þú getur þá haft aðra að traðka á."

"Ég lýg þessu ekki upp. Þú hefur enga ástæðu til að ausa yfir mig ónotum og heitingum. Fyrir það, sem þú hefur farið á bak við mig, varð ég hræddur."

Brandur var heldur óeinarðari en fyrst; Gróa vissi, hvað dregið hafði úr honum beittasta þorið; hún notaði tækifærið; sýndi honum með skýrum orðum, hvað það væri heimskulegt að leggja trúnað á þvaðrið úr Siggu; eins ómerk og hún væri í alla staði. Gróa talaði svo ótt, að Brandur kom engu orði að, og á endanum, þá var hún orðin blíðmál og innileg, tókst henni að sannfæra hann um, að þetta væri rakalaust, illkvittnis slaður, sem hann gerði sig bara hlægilegan að hlaupa eftir. Þegar kom heim undir bæina, þóttist hún viss um, að hafa talið bónda sínum hughvarf. Gróa sýndi að lokum fram á, að það væri bæði vitlaust og illgirnislega til getið, þó hún spjallaði hitt og þetta við Geirmund, sem væri varla af barnsaldri ennþá, og eins og Brandur sjálfur hefði oft sagt, vandaður unglingur og hrekklaus; að því fylgdu nokkrir meinbugir, eða hún legði ást á hann, tæki Geirmund fram yfir Brand, sem hún hafði svo ótal margt við að virða og sem hún jafnan hefði vonað, að Guð varðveitti sig frá að vanvirða á svona syndsamlegan hátt. Þetta væri sannarlega að færa gott nábúasamþykki á versta veg, og óvitaháttur að leggja trúnað á slíka fjarstæðu.

Brandur hneigðist æ meir að því, að álíta allt álygi á þau Geirmund og Gróu, sem þau ræddu málið lengur. Hann vildi svo gjarna óska að svo væri; hitt var svo kveljandi og bölvað. Vildi feginn trúa konunni sinni; hún var þó bæði sjáleg og skemmtileg, þegar hún vildi það við hafa, svo angurvær og blíð við hann núna. Nærri óhugsandi, að hún væri sek. Gróa gat samt ekki til fulls rýmt tortryggninni burtu; örlítill neisti lá falinn í brjósti bóndans, þó hann vissi það ekki glöggt sjálfur; þó hann virtist sannfærður um sakleysi Gróu.

Menn kvöddust með vináttu á Neðra-Foss-hlaðinu. Gróa gat aðeins þrýst innilega og þétt hönd Geirmundar; meira þorði hún ekki að gera í það skiptið.

Brandur fór fljótt að sofa, þegar heim kom, en Gróa var á ferli allt kvöldið. Aldrei hafði henni sýnst heimilið jafn ánægjulegt og nú; börnin aldrei eins skemmtileg; vel efnum búin húsfreyjustaða aldrei hafa slíka yfirburði yfir skorti og fátækt og þetta kvöld. Hún tók líka Siggu tali og hætti ekki fyrri en hún játaði, að hafa séð þau kyssast einu sinni í búrinu, Geirmund og hana; sér hefði orðið að sleppa því við hinar vinnukonurnar; svona hefðu þær farið með trúnaðarmálið, öðru hefðu þær lofað sér. Það gekk æði tími í það, að þvæla hana til þessarar játningar; hún reyndi að smjúga út úr málinu, eins og henni var framast unnt. Og enn lengri til að grafast eftir, hvað orðrómurinn væri magnaður. Gróa vissi, að Siggu var varlega trúandi; en hún fékk hana þó til að játa að hún hefði hlaupið á sig með það, að gera orð á því, þó Geirmundur þakkaði henni fyrir kaffið með kossi; þó kossarnir væru tveir var það ekkert vítavert, né til að gera orð á því og leggja það út á versta veg. Sigga gat vel skilið það, að afnotabest fyrir hana sjálfa og aðra mundi vera, ef Brandur minntist á þetta mál við hana, að vera vandlega saklaus; snúa þvaðrið frá sér, í flækju, sem enginn fyndi endann á; vita ekkert annað en marklausan sveim, sem hún sjálf hefði aldrei trúað, aldrei viljað koma nærri.

Gróa var með sjálfri sér einráðin, að láta Siggu fara burtu um vorið. Og Sigga þóttist hafa komist kænlega hjá því, að segja meira í þessu máli en þetta lítilræði. Hæ, hæ, Sigga litla vissi nú betur, hvernig í öllu lá. Vissi meira, en um þessa tvo kossa. Þarna var hún nærri komin í ljóta flágellu, en hún kunni nú svolítið að snúa snældunni sinni. Að því hafði Gróu orðið í kvöld. Skyldi hún ekki hafa fullt svo mikið metorð hjá Gróu hér eftir? Ætli það væri svo fjarri að vera kyrr næsta ár?

Nú liðu tvær vikur svo, að Geirmundur kom aldrei inn fyrir bæjarstaf á Efra-Fossi; allan þann tíma hafði Gróa vonað eftir honum, en dags daglega urðu það vonbrigði. Hún hafði hugsað sér að vera þunglynd og köld; láta hann ganga eftir; beygja þverúðina; það var hæfileg hefnd fyrir kvalirnar, sem hún leið út á Grund um daginn. Loks þoldi hún ekki þögnina og óvissuna lengur; ástarþráin knúði hana til framkvæmda. Brandur átti ferð fram í dal og gerði ráð fyrir að verða burtu um nóttina. Í rökkrinu þann dag gekk Gróa ofan að Neðra-Fossi. Hún tafði þangað til búið var að kveikja, þá bjóst hún til brottferðar. Snjólaug bað Geirmund að ganga með henni. Niðamyrkur var á og þykkt loft. Bæði höfðu hug á að nota tækifærið; tala saman og þó sitt á hvorn veg. Þau gengu inn í Efstahúsið; Gróa lagði hendur um háls honum.

"Nú er allt komið upp. Það hefur nóg að slaðra núna, fólkið."

"Við þessu var að búast," hann lagði höndina yfir mittið á Gróu.

Svo sagði hún honum alla söguna; hvernig hún hefði getað túlkað málið og vafið þau Brand og Siggu. Geirmundur varð fár við.

"Þú ert svo daufur. Það er Þuríður, sem er búin að tæla þig; ég sá það um daginn. Þú ert orðinn leiður á mér; þér er sama, þó ég líði; en ég skal segja þér, að hún er mesti gepill og þú hefur ekkert annað en bölvun af að taka saman við hana, þó þú sért svo blindur að sjá það ekki. Þér finnst kannski allt fengið fyrst hún er prestsdóttir?"

"Mér dettur það ekki í hug. Það er svo langt frá því - svo eru heldur engar líkur til þess á neina hlið. En Þuríður er enginn gepill, heldur besta stúlka; ég vil ekki heyra að henni sé hallmælt."

Svo var þögn, en síðan fór Geirmundur að minnast á framtíðarhorfur þeirra. Gróa vildi sveigja talið að Þuríði og hviklyndi hans; að því, hvað sín kjör væru miklu örðugri; sín ást heitari og staðfastari. En þangað til var Geirmundur að útskýra fyrir henni, að svona lagað ástasamband væri skaðlegt og óvirðulegt fyrir þau bæði, - annaðhvort væri að hún skildi til fulls við Brand eða hann færi burt frá Fossi í vor, - allri ást þeirra væri slitið; að Gróa hlaut að trúa og sveigja svolítið til. Andvörpin, blíðmælin, ástaratlotin og tárin dugðu ekki í það sinn; Geirmundur var fastur fyrir og þokaði ekki frá sannfæring sinni. Loksins lofaði Gróa því, að vera búin að taka ákveðna stefnu í þessu máli, áður en þrjár vikur væru liðnar. Annaðhvort að hrökkva eða stökkva.

Tíminn leið, án þess þau veittu því eftirtekt. Gróa náði rétt um háttatíma heim. Enginn lét neina undrun í ljós yfir dvöl hennar, og enginn spurði eftir því, hvort hún hefði verið ein í þessu myrkri. Geirmundur sagðist hafa farið að leita kinda, sem sig hefði vantað, og loksins fundið þær.

Gróu varð ekki svefnsamt þessa nótt; henni var ákaflega órótt í skapi; að hlaupa frá búi og börnum var jafn óhugsandi og að hlaupa fáklædd út í brunafrost og stórhríð. Það var að bíta höfuðið af skömminni. Geirmundur var svo óttalega ónærgætinn og stríður í skapi, að heimta þetta af henni; óforsjálni og æskuofsi hvöttu hann til þessarar skammsýni; hún, sem var eldri, hlaut að bera vit fyrir þeim báðum. Nú var öll von úti, að vinna hann með blíðu; sigra hann með lagi; og þó fann hún glöggt, að hann elskaði hana; hitt var ástæðulaus hugarburður, með Þuríði. En hann var svo ófyrirleitinn; hugsaði ekki um óhamingjuna, sem þau bökuðu sér. Hún sá fyrirlitninguna, heyrði slaðrið og mannlastið; stóð vopnlaus og ráðalaus, fátæk og sneydd öllum lífsþægindum; eins og úrþvætti og afhrak allra sveitarmanna. Geirmundur vó ekki á móti þessu öllu saman. En að Geirmundur færi, skildi til fulls við hana, gleymdi henni, giftist og elskaði aðra. Köldum hrolli sló yfir hana. Þungur, brennandi sviði færðist yfir brjóstið. Andþrengsli og hitasteypa. Hún svipti yfirsænginni af hálsi og brjóstum, sló frá sér höndunum. Ekkinn braust upp og svipti henni til; svo komu tárin; fyrst beisk og sölt, síðan létti farginu, andþrengslin rýmkuðu; lindin var leyst úr læðingi, framrennslið fengið. Gráturinn veitti henni stundar fró. Þá fór hún aftur að hugsa. Að sjá á bak Geirmundi var sama og taka vorsólina af himni, en yfir legðist kolsvört frostnótt; blómin fölnuðu og féllu; fuglarnir þögnuðu og hyrfu. Dauðaþögn að öðru en því, sem fossinn niðaði þungt og dimmt; seiddi í leiðslu niður í gljúfrið til sín. Aldrei hafði henni sýnst ástamunaðurinn jafn töfrandi og nú; aldrei fundið skilnaðarkvölina jafn voðalega sára og nístings dapra. Hún reyndi að finna ráð, en gat það ekki. Úrræði Geirmundar var örþrifsráð, sem hún þorði ekki taka. Ó, Guð minn! Hvað sorgin er beisk. Drottinn, veittu mér frið, sefaðu og mýktu hjarta hans. Algóði Guð! Skildu okkur ekki til fulls. Hjarta og hugur snerist til bænar; hún bað svo heitt og innilega, sem syrgjandi kona getur beðið, þegar mótlætið beygir hana að jörðu; bað til Guðs á himnum, sem hún trúði á, bað að taka þennan bikar frá sér; sveittist og táraðist í angist. Harmaði sig dauðþreytta og sofnaði loks litlu fyrir dagrenning frá bæninni, óttanum, kvíðanum og veikri von trúarinnar.

Geirmundur gat heldur ekki sofnað fljótt þetta kvöld. Nú hafði hann stigið þetta erfiða spor; stigið það eins og manni sæmir; hvort sem afleiðingarnar yrðu illar eða góðar. Eitthvað annað framvegis en að snúast kringum skilningstréð eins og þjófur; annaðhvort eplið eða þá að snúa frá; hætta við að horfa girndaraugum á það. Mundi skilnaðartreginn aldrei fyrnast, sárin aldrei gróa? Frá þessum og þvílíkum hugrenningum sofnaði Geirmundur, og svaf værra það sem eftir var næturinnar en lengi hafði verið þennan vetur.

Þessar þrjár vikur liðu jaft og tilbreytingalaust, eins og aðrar ársins vikur; mörkuðu fátt á hugarspjöld fólksins á Fossunum. Það voru aðeins þau tvö, sem hugsuðu margt; fyrir þau höfðu vikurnar mikil merki umbrota og óþols; hvorugt gat gleymt þessum tíma nokkru sinni á ævinni. Annað beið með óþoli og veikri von; hafði fastráðið stefnu sína og heitið því að víkja ekki fet frá henni. Hitt hélt sér rígfast við líðandi stund, gat ekki ákveðið né ráðið neitt staðfastlega. Vonin leið eins og stjörnuhrap ofan af há-himni; rann skyndilega, skáhallt niður eftir og hvarf bak við Fosshnjúkinn; við því gat enginn gert, að minnsta kosti ekki hún, húsfreyjan.

Stundin var stutt. Brandur gat komið heim með lömbin, þegar minnst varði. Þau stóðu við þilið hjá stofuglugganum, voru búin að átta sig á því, hvað þessi stund breytti lífi þeirra og lífsgleði mikið. Þau hlutu að skilja, slíta sambandið; kefja ástina og ástríðurnar. Þokumökkinn svifaði frá tunglinu, sem snöggvast. Þau hnigu hvort að öðru; varirnar mættust; augun störðu; drukku ást, angur og minningu; sorgfögur í skilnaðinum, saklaus og hrekklaus á því andartaki. Svo lagði móðu yfir þau. Bólstur huldi aftur tunglið, tökunum var sleppt; tvö andvörp; hægt fótatak og marrið í hurðinni. Myrkur úti og inni. Ísingin féll seint og jafnt; klakanálarnar silfruðu og svelluðu allt sem úti var, bæði menn og skepnur, barfenni, víðikjörr, kletta og haglendi. Í bænum á Fossi niðaði nóttin; súginn af hráslaga loftsins lagði inn í dyrnar, inn göngin, fast að eldinum, sem smaug titrandi milli taðflaganna og reyndi til, rauður og reykrammur, að kveikja í þeim; niðurlútur við stritið, iðinn og þrásækinn við starfann.


13. kafli

Sigurður Einarsson, bróðir Geirmundar, hafði nú í tvö ár verið ráðsmaður hjá ekkju, ungri og all-vel efnaðri, á Heiði fram í Breiðárdal; um vorið eftir, er þessi tíðindi gerðust um veturinn, sem getið er hér að framan, ætlaði hann að giftast ekkjunni, Snjólaug að fara til hans með tvö yngstu börnin. Þórunn vistaðist á Grund og hugðist að afla sér þar meiri framfara og þroska, en í öðrum vistum, þeim er völ var á þar nærsveitis. Geirmundur réð sig hvergi og buðust honum þó vistir margstaðar, er góðar voru kallaðar. Sjaldan kom hann heim að Efra-Fossi þennan vetur og tafði lítið. Brandur var ekki fálegri við hann en áður. Hann hélt allt orðasveim og álygi, sem talað var um þau Geirmund og Gróu; að hann færi því burtu frá Neðra- Fossi, að öllum væri augljóst hæfuleysi þessa umtals. Gróa hafði einu sinni beint talinu að þessu efni, þegar þau voru tvö saman, hjónin, og túlkað sem best og sennilegast aðalástæðuna til brottfarar Neðra- Fossfólksins.

Veturinn leið og voraði snemma; kaupskip komu í fyrra lagi, því enginn hafís var til farartálma. Snjólaug fluttist fram að Heiði og hafði með sér nokkuð af fé og eina kú; yngstu börnin tvö fylgdu henni. Geirmundur taldi sér vist og heimili hjá Sigfúsi í Breiðholti; sá bær er að austanverðu í dalnum, nokkru norðar en gegnt Svartholti; en raunar var hann lausamaður, þó hitt væri yfirvarpið. Hann átti tólf ær og tíu gemlinga, sex sauði þrevetra og Rauð. Engi er mikið og grösugt í Breiðholti; var Sigfús vanur að lána nokkuð af því kunningjum sínum þar í dalnum. Sigfús var miðaldra maður, ör í skapi og allvel vinsæll, sæmilega efnaður, en nokkuð vínhneigður. Geirmundur hafði verið dapur í huga þennan vetur og vor, en duldi það þó fyrir mönnum, enda gengur ungum, hraustum karlmanni það betur, en þeim, sem eru hnignir á efri árin, einkum ef það þá eru konur. Hann var oft angurvær fyrstu vikurnar í Breiðholti og oft stóð hann og horfði yfir að Fosshnjúki og að árgljúfrunum. Þar fyrir handan voru æskustöðvarnar, þar hafði hann séð skin og skúrir, heyrt fossinn kveða hátt og hvellt og fjörlega, en líka dimmt og ömurlega; þar hafði hann margs að minnast, var engu búinn að gleyma; horfði, þangað til augun fylltust af vatni og þrengdi um andardráttinn.

Það var margt talað í Breiðárdal þennan vetur og vor. Sumir sögðu, að Gróa væri ekki mönnum sinnandi af því Geirmundur færi úr nábýlinu. Aðrir vissu fyrir víst, að Brandur hefði skipað Geirmundi burtu, þegar hann komst að málavöxtunum; loksins hafði hann séð það, sem engum heilskyggnum manni gat dulist. Gróa var sögð vanfær; þá vissi Brandur fyrst, að ekki var allt með felldu. "Annað eins óstand. Þvílíkt stjórnleysi og svívirðing." Nokkrir sögðu, að Gróa hefði vélað Geirmund og aðrir, að hann hefði tælt hana til fylgilags og stokkið svo burtu, þegar hún var orðin ólétt, allt komið í ólag og úlfúð. Þegar hann var búinn að vera "hjónadjöfull" og "svala girndum sínum", þá flúði hann frá öllu saman, var kátur og reistur, skammaðist sín ekki hætis hót fyrir svikin og prettina. "Það var ekki hægt að sjá, að hann Geirmundur fyriryrði sig mikið fyrir saurlífið." En hvað Brandur bar þetta vel; mikið hafði það þó tekið á hann, eins og vonlegt var, og kvartað hafði hann við kunningja sína; samt var hann Gróu eins góður og áður. Það var Geirmundur, sem hann hafði skammað, skammað svo duglega, að hann hafði auðmýkt sig og lofað bót og betrun, lofað að koma aldrei heim að Efra-Fossi framar. Snjólaug hafði orðið hamslaus, þegar hún komst að þessu og hún hafði fyrst "tekið Geirmundi tak", ráðið öllu með vistráð þeirra; svo fór hún til Gróu og lét hana vorkennast og meðganga allar "samgöngur" þeirra; hún hafði lesið dæluna yfir Gróu og ekki kært sig mikið, þó hún gréti. Þetta krakkaði við grautarpottana, vall með kaffikorgnum, var mjakað með klárunum, þegar unnið var á túninu um vorið, rann með ullarþvættinu, hristist með heyinu. "Fýsir eyru illt að heyra," það var svo í Breiðárdal. Menn vissu, að þau höfðu hlaupið saman eins og dýr; ekki var nú um annað að tala; annað eins gat enginn þolað orðalaust; saurlífi og losti, taumlausar girndir, það var óttalegt að hugsa um annað eins. Fyrirlitning, ekkert annað en fyrirlitning ætti að sýna þeim, láta þau finna til skammarinnar, sem þau höfðu steypt yfir sig.

En hvað svo sem fólkið í Breiðárdal hjalaði hér um, þá var sannleikurinn sá, að Geirmundur hafði ráðið því, að búinu var sundrað; móður hans var það óljúft í fyrstu; hann kom Þórunni í vist á Grund og bað Sigurð að taka móður þeirra og börnin, sem nú voru að verða vinnandi og sjálffær. Annaðhvort vissi Snjólaug ekkert, eða hún lét svo, sem hún vissi ekkert; Gróa og hún voru jafn vingjarnlegar nágrannakonur á Fossunum til þess síðasta. Gestir drukku kaffið hjá Gróu með sömu ánægju og áður, spjölluðu jafn vinalega og áður; ef nokkru munaði, þá veittu menn húsfreyjunni á Fossi meiri gaum en fyrrum; karlmenn virtu hana engu síður viðlits og viðtals þrátt fyrir allt, sem á dagana hafði drifið þessi síðustu misseri. Bæði veittu því athygli, að mannfjöldanum varð starsýnna á þau, en áður hafði verið, að tillit flestra var rannsakandi, forvitnislegt og spyrjandi. Og svo voru fréttirnar, þær sem góðir vinir og vinkonur minntust á við þau; jusu engri fyrirlitning frá mannfélaginu úr sér, heldur gátu þess, hvað mönnum dytti í hug að þvaðra; fóru varlega, forðuðust að gremja og særa eftir því, sem vitsmunir og mjúklyndi leyfði; sögðu samt nóg til þess, að hún varð hrædd við umtalið og dagdómana, ímyndaði sér það hér um bil eins stórvaxið og það var í raun og sannleika. Gróa varð frábitin mannfundum fyrsta skeiðið og óeinarðari; henni ofbauð ending og þol manna við þvaðrið og lygina. Geirmundur gat líka lesið í eyðurnar; brá í fyrstu til að forðast mennina, svo reiddist hann slaðrinu; hann vissi vel, að alltaf var aukið við, fann næmt til þess, hvernig öllum tilfinningum þeirra var traðkað í saurinn, velt í sorpi og for, en enginn hafði þrek til að ganga framan að honum; skora hann á hólm fyrir siðferðisbrot; það var ekki hægt að festa hendur á orðasveimnum, það var sama og að greiða sundur þokuna; ekkert til að handfesta, ekkert til að taka fastatökum á. Hann hataði þvaðrið, eins og það var huglaust, marklaust og illgjarnt. Gremjan til mannanna hvatti hann til að bera óhallt höfuðið; lúta þeim ekki, gera þeim ekki það til geðs að beygja bakið. Aldrei að auðmýkja sig fyrir svo óhreinu félagsafli og aldrei að blikna né blöskra fyrir því. Geirmundur fór að horfa hvössum rannsóknaraugum á fólkið; höggva eftir hugleysinu og eiginelskunni, samhaldsleysi í öllu drengilegu starfi, að hver vildi hafa skóinn af náungans fæti, helst á sinn eiginn fót, en ef það lánaðist ekki, þá að hafa augnagaman af því að sjá hann ganga skólausan um tíma; best að fleiri en einn reyndu grjótið og gaddinn í heiminum. Trúin á mennina lamaðist og tortryggni gagnvart þeim óx og dafnaði; að hann var sjálfur brotamaður gegn siðferði og mannhelgisvenjum, það veikti traustið og trúna enn meir og jók honum bölsýni gegn fjöldanum, þorra mannanna; en hann trúði því fastar á einstaka menn og mannkosti þeirra; á séra Jóstein, sem eflaust hafði aldrei bugast af syndsamlegum ástríðum, alla daga verið heiðarlegur sæmdarmaður. Raunar virtist Geirmundi margar ræður prestsins daufar og andalitlar, en það áleit hann ellimörk, eðlileg og sjálfsögð af svo háöldruðum manni; sjálfur var hann, því miður, lítill trúmaður, gat ekki fest hugann nema við örfátt af "guðsorði", leiddist margt, sem aðrir lofuðu. Allir dáðust að líkræðu klerksins, þeirri, sem hann talaði eftir föður hans, allir nema hann einn; hann var bresta maður, það var óvíst hvort dómur hans væri réttur og sanngjarn um þá ræðu. Móðir hans var sæmdarkona og faðirinn skapgæfur og hrekklaus, en svona var hann, barnið þeirra, vanstilltur og rösull, ef nokkuð sté fyrir fætur honum. Ólíkt var það eða Þuríður; hún var góð, eins og faðir hennar, betri, þýðlyndari og blíðari en hann, af því hún var kona. Enginn hafði verið jafn vingjarnlegur við hann og hún. Enginn séð eins vel, hvað honum bjó í brjósti, hvað hann hugsaði. Með æskunni og fjörinu, sem á henni var, hafði hún sjálf séð brot hans, tekið sér það nærri, en aldrei viðurkennt það við aðra, mælt þeim bót, sýnt orðsveimnum fyrirlitning.

Sveinbjörn var besti vinurinn, sem Geirmundur átti; þeir höfðu margt saman talað. Sveinbjörn hafði einu sinni spurt Geirmund eftir því, hve mikið væri satt af orðsveimnum, eða hvort það væri ekki allt rakalaus lygi um ástir hans og Gróu, og honum einum manni hafði Geirmundur sagt nokkur atriði ævintýris þeirra; það var trúnaðarmál, sem Geirmundur vissi að vinur sinn mundi geyma vel, að hann mundi aldrei fylla flokk þeirra, sem köstuðu grjóti og auri að þeim - honum var enn sárara um að Gróa yrði fyrir því en sjálfur hann -. Aftur á mótir gat Sveinbjörn fullvissað Geirmund um það, að hann mundi eins falslaus vinur eftir sem áður, þó ill gálma hefði þar hlaupið á lífssnúru hans; gat þess, að Þuríður mundi vita um málavexti, þó hún segði ávallt, ef minnst var á þetta efni, að það mundi rakalaus lygi og kjaftaþvaður, sem hún tæki ekki neitt mark á; að hún mælti honum ætíð liðsyrði, þegar aðrir ámæltu honum fyrir "mont" og dramb eða spjátrungshátt. "En samt er ég viss um, að engum hefur brugðið meir við fréttirnar að framan, en henni, þó hún léti það ekki uppskátt við nokkurn mann."

Sveinbjörn sagði Geirmundi þetta einu sinni um vorið, þegar vínið var búið að leysa um málböndin og auka þorið til að tala um málefni, sem báðum var erfitt að ræða um. Það var annars ekki svo fátítt, að Geirmundur fengi sér í staupinu þetta vor; sumt keypti hann sjálfur, sumt veittu kunningjarnir honum, en þó var það drýgst og mest, sem Sigfús lét af mörkum. "Það var karl, sem hafði úrræði með að ná sér í dropa." Geirmundur drakk aldrei svo mikið, að hann yrði viti sínu fjær, var hraustur að þola drykkinn og góðlyndur við ölið. Vínið svæfði harma hans, slökkti eldinn, sem logaði í brjóstinu, þar sem blandaðist saman iðrun, sampíning og söknuður; en á eftir - þegar ölvanin var rokin burtu - þá leið honum afar illa; hann var angraður, hryggur, iðrandi og gramur; lá við að örvænta um framtíðina, leggja árar í bát og láta hann svo rekast eins og verkast vildi. Sá orðrómur fór að leggjast á, að Geirmundur væri drykkfelldur, "efni í drykkjumann og slarkara". Venslamenn Sigfúsar kenndu Geirmundi um drykkjuskap þeirra, en þeir, sem voru meir snúnir á Geirmundar sveif, spáðu því, að Sigfús mundi kenna honum listina þá, að drekka.


14. kafli

Í níundu viku sumars var brúðkaup Sigurðar á Heiði og ekkjunnar þar. Boðsfólkið var margt, nálega öll hjón úr dalnum og vaxin börn efnaðri bænda. Hjónin voru gefin saman í aukakirkjunni í Breiðárdal, á bæ þeim, sem í Sauðhaga heitir, og af því þar var miklu betur húsaður bær, en á Heiði, þá var veislan haldin þar. Boðið var vel sótt; það "hafði enginn forföll", nema konan klerksins; allir aðrir sóttu hófið. Séra Jósteinn talaði alvarlega og röksamlega um hjónaástina, sem aldrei kólnaði, aldrei brygðist; brúðurin var með heilögum ritningarorðum minnt á, að vera manni sínum undirgefin; frædd um þær hörmungar, sem hún ætti í vændum, þegar hún fæddi börnin - hún hafði alið fimm börn í fyrra hjónabandi -, og gat því vel trúað þessum mikilvæga leyndardómi, er henni var opinberaður þarna fyrir altarinu. Brúðgumanum var skýrt frá því, að hann fengi góða gjöf, og skyldi vera höfuð konu sinnar. Hjónin voru "pússuð" saman, samkvæmt venju og ritúali. Öllum geðjaðist vel að ræðunni, nema Geirmundi, sem fann ýmis vafasöm atriði í ræðunni og undra hlægilega fræðslu og skipanir ritningarinnar; hann hafði ekki orð á því við neinn mann, svo uppivöðslumikill var hann þó ekki.

Þegar komið var úr kirkju var strax farið að skipta fólkinu eftir mannvirðingu og efnum, valdir vissir og reglufastir menn til þess. Brúðhjónin og séra Jósteinn, hreppstjóri og meðhjálpari, auðugri hjón og börn þeirra, náfrændur brúðhjóna og bestu söngmenn skipuðu nýju stofuna, svo var hin stofan fyllt og loksins settur afgangurinn inn í baðstofuhús. Þótti takast heppilega að koma öllu fólki til borðs í einu, án þess að þyrfti að tvísetja eða þrísetja, eins og tíðkast hafði í flestum fjölmennari veislum þar í dalnum. Það var vanalegt þar, að sumir komu fattir og fullir frá borðhaldinu fram í bæjardyr og út á hlað til þeirra, sem stóðu þar strengdir og innantómir og biðu með óþoli og eftirvænting. Geirmundur sat á bekk framan við háborðið, þá Þuríður, svo Sveinbjörn; gagnvart Geirmundi sat Marja, þá Brandur og Gróa. Grauturinn rauk á diskunum og fólkið sat kyrrt og dauflegt á svipinn, skaut í skjálg augunum til diskanna. Klukkan var orðin sjö um kvöldið, magar mannanna engdust og urguðu. Biðin varð býsna löng, það gekk seint að fá sálmabækur og ókvefaða söngmenn, taka til borðsálminn, ræskja og syngja svo hátíðlega og seint, sem vera bar. Mennirnir urðu fölir og ósællegir, munnkirtlarnir bjuggust til starfa, margir þurftu að "draga munninn í kút og spýta", bæði tóbaksmenn og hinir, sem ekki voru það. Sálmurinn sé hægt og hægt áfram, líkt og söngmennirnir væru að benda fólkinu til föstu og bænahalds með mat og drykk rétt fyrir nefinu. Séra Jósteinn talaði nokkur orð "fyrir borðum" - og allar hendur á loft, allar skeiðar og spænir í grautinn. Hvert andlit lifnaði og roðnaði, andardrátturinn varð rýmri og léttari; farginu létti af, hver talaði við sinn sessunaut, sálmurinn leið burtu, út í loftið, hvarf og gleymdist. Með steikinni var tekið til vínsins og aftur úr því hvarf öll feimni og óframfærni.

Í hinni stofunni og baðstofunni var líka sunginn borðsálmur, en þar var ekki dreginn seimurinn við sönginn. Söngvararnir í baðstofunni báru hraðast á, þar var fólkið einbeittast að ná takmarkinu, gera graut og steik og víni full skil.

Geirmundur sneri sér að Þuríði og Sveinbirni og sagði lágt og glottandi: "Loksins er þessi langafasta liðin, nú skulum við lifa í vellystingum praktuglega í kvöld."

"Ég skal éta, sem ég þoli," sagði Sveinbjörn og hló við.

"Bara þið drekkið ekki meira en þið þolið, þá er ekki að fást um hitt," Þuríður brá litum, þegar hún sagði þetta.

"Hvað segið þið þarna fyrir handan?" sagði Sveinbjörn um leið og hann hellti á staupin fyrir hjónin frá Fossi.

"Mér líður prýðilega nú," sagði Brandur og tæmdi staupið.

Gróa bragðaði á staupinu, brosti til Sveinbjarnar, en renndi um leið augunum til Geirmundar; augu þeirra mættust, bæði dreyrroðnuðu: "Þröngt skulu sáttir sitja og hér er sannarlega þröngt, hvernig sem sættirnar verða að veislulokum," sagði Gróa og brosti aftur til Sveinbjarnar.

"Drekkið þið nú varlega piltar, svo mun friðurinn best haldast," sagði Marja.

"Varlega - þeir drekka svo, strákarnir, að það má bera þá undan borðum."

"Geirmundur, heyrirðu hvað barnið hún Þura segir?" sagði Sveinbjörn og rétti honum flöskuna.

"Já, ég heyri það og ætla að gæta þess, að hún geti rangt í eyðurnar." Geirmundur hellti ekki á staupið.

Gróa fölnaði; hún gaf þeim vandlega gætur, sessunautunum.

Brandur fór að segja þeim frá einni veislu, sem hann var í, þegar hann var á þrettánda árinu. "Þá var skurkað um nóttina; hreppstjórinn og meðhjálparinn flugust á í illu, hártoguðu og börðu eins og þeir höfðu kraftana til. Þeir, sem ætluðu að skakka leikinn, lentu sjálfir í áflogum. Það voru sex pörin þá á hlaðinu á Grund; þar hélt maður á manni, en ragnið og ósköpin bergmáluðu úr Stöplabjörgunum. Kvenfólkið grét og bað að stilla til friðar, en það var ekki hægðarleikur, eins drukknir og vitlausir og flestir voru þá. Loksins handleggsbrotnaði Friðfinnur á Læk og eftir það sljákkaði mesta kviðan. Þá kom líka presturinn og talaði þungum orðum til þeirra, svo flestir munu hafa skammast sín. Hann var ekki fyrir áflog né illindi, blessaður sauðurinn, þó honum þætti sopinn góður."

"Hvað ætli yrði sagt, ef menn létu svona nú?" sagði Sveinbjörn.

"Sagt að menn hríðversnuðu; svona hefðu þeir ekki látið, gömlu mennirnir. Það hefði nú verið meira mannsmót að þeim en svo," sagði Geirmundur.

"Hún er ekki búin, veislan sú arna; það getur farið svo, að einhverjum lendi saman, áður en lýkur." Gróa þekkti betur á veislurnar en unga fólkið.

Séra Jósteinn "sagði upp frá borðum". Fólkið dreifðist til og frá r úti og inni; flöskur og fleygar voru flutt út á tún, í fjárhús og hlöður, tóftarbrot og taðhlaða. Meðan verið var að heita vatnið í púnsið, tók unga fólkið saman ráð sín, fékk eldri stofuna til að dansa í og hóf dansinn formálalaust og óhikað.

Engin skemmtun var þá jafn vel sótt og með slíku kappi og áhuga iðkuð og dansinn; hann hafði á stuttum tíma hoppað bæ frá bæ þar í dalnum, rokið af stað með unga fólkið, hópað það saman; höfuðsvimi og nýjungavíma, gleði, hlátrar og gamanyrði seiddu og löðuðu fólkið að dansleiknum. Illar spár, óvirðuleg nöfn, harðyrði og hótanir ráðnu og rosknu mannanna dugðu ekki til að brjóta odd af oflæti nýju, erlendu gleðinnar, sem fluttist úr kauptúnum og fiskiþorpum upp til sveita og dala, fram í firði og hverfi. Púnsið var vel sætt, ljósjarpt á lit, hægfara og meinlaust; nokkuð heitt fyrst, og nokkuð væmið það síðasta úr hverri blönduskál. En þótt það væri meinlaust, púnsið, þá eirði það miður vel hjá brennivíninu og svæfði alls ekki vínþorsta hjá neinum manni né jók gætni þeirra og hóf.

Dansfólkið færði sig brátt burtu úr púnsösinni og fór yfir í stofuna sína. Marja Jósteinsdóttir átti "harmoniku" og einn ungur trésmiður þar í dalnum fiðlu; eftir hljóðfærum þessum var dansinn stiginn. Stundum fóru sendisveinar og sóttu púnsstaup á skutli, til að hressa og svala dansfólkinu; stundum hlupu þeir, sem voru þyrstir, yfir í nýju stofuna og fengu sér teyg, þeir hlupu vanalega yfir bæjardyrnar, báðar leiðir, og þurrkuðu svitann af enninu með hvíta klútnum sínum, löguðu hárið, struku efrivararskeggið. Eldra fólkið kom oft til að horfa á, hristi höfuðið, ógnaði sú heimska, að hafa gaman af því að snúast eins og vankasauðir, yfir þolinu að djöflast svona heilar nætur; mörg konan andvarpaði, þegar hún gekk aftur burt úr dansstofunni, hugsaði um það, hvað léttúðin var orðin mikil og voðalega mögnuð, hvað unga fólkið var ráðlaust og sólgið í munað og tælandi skemmtanir. Það var líka margur bóndinn, sem auðvitað kunni fótum sínum forráð og gat gengið nokkurn veginn fast og stöðugt, en sem þó var farinn að hafa óljósan grun um, að höfðahluti manna mundi þyngri en fótahluti; sem var alveg forviða yfir andskotans vitleysunni; yfir því, að menn skyldu hafa eljan til að hringsnúast svona, keppast svo við það, að svitinn streymdi og gerði sparifötin rennvot. Að hafa gaman af þessu, það var óskiljanlegt; hægra fór sumt af því við heyvinnuna, þá raknaði varla skyrtan undir höndunum, þó þurrkur væri.

Gróa kom, eins og svo margir aðrir, og horfði á dansinn; Geirmundur dansaði við Þuríði á Grund, hafði lagt aðra höndina yfir mittið, en hélt hendi hennar með þeirri vinstri; voru þau í faðmlögum; það sýndist svo - nú laut hann höfðinu, sagði eitthvað, sem Gróa heyrði ekki, sagði það brosandi og hún leit upp til hans, svaraði einhverju, var líka brosandi; bæði voru kafrjóð og ánægjuleg; lifandi gleði og fjör; sæla í augum beggja. Gróu sortnaði fyrir augum, henni fannst hjartað hætta að slá, verða blýfast, blýþungt, hún bar höndina ósjálfrátt að brjóstinu; máttleysi og óstyrk lagði um hana gjörvalla, fæturnir gátu naumast borið líkamsþungann. Þá bauð einhver henni sæti; það var Sveinbjörn; bauð henni sæti í stól, er stóð í horninu við framþil stofunnar. Gróa leit til hans, virti hann fyrir sér, þakkaði fyrir; sætið þáði hún gjarna; augun voru skær og björt. Sveinbjörn brá lit. Geirmundur og Þuríður liðu leikandi, brosandi, í dansandi faðmlögum, snerust í hringum framan við hana, eins og til að pína hana, storka, kvelja; þarna sat hún, bundin og blýföst, gat ekkert; sat í eldi og eimyrju; hjartað stiknaði. Ó, að hún gæti kvalið þau sömu kvölum; rifið hana úr faðmi hans; kæft hann í faðmi sér, fyrir augunum á Þuríði. En hún gat ekkert gert, ekki rótað minnsta fingri; hún var bundin, ráðþrota. Öll þau tár, sem hún hafði fellt síðan Geirmundur fór, þessi vakandi kvalaleiðsla, sem hún gekk alltaf í, sem bænirnar til Guðs gátu ekki læknað, ekki guðsorðabækur né heilög ritning og börnin ekki veitt, nema augnabliks fró. Henda sér í fossinn? Það var svo voðalegt; hún hafði gengið að gilinu og horft niður í iðuna, sem snerist í hvítfreyddum sveipum, sogaðist upp og niður, til og frá; hafði horft í töfra-leiðslu þangað til að hún hrökk snögglega við, hopaði frá, hljóp brott, heim - heim til barnanna, sem hún vafði að sér og kyssti, kyssti fast og lengi. Hún gat það ekki; börnin máttu ekki verða móðurlaus. Dauðinn var bæði dapur og geigvænlegur. Geirmundur var þó ekki búinn að gleyma; hún sá það við borðið, sá hvernig hann varð ýmist rauður eða bleikur --, en hugur hans og tilfinningar voru þó á hvörfum; hann vildi lækna sárin og hann hafði tækifæri og framgirni til þess; var laus í ráði og hverflyndur --, ef hún gæti vakið afbrýði hjá honum, kvalið og kveikt eldinn aftur; náð honum á vald sitt í annað sinn; þó allur heimurinn vissi það, þó allir dalbúarnir gengju af göflunum. Hvað kærði hún sig um það? Hún gat þolað allt annað en hugsunina um, að Geirmundur fengi sér aðra unnustu --, faðmaði aðra konu.

Dansinn var búinn; Geirmundur sleppti tökunum. Þuríður fékk sér sæti. Næst dansaði hann við Marju. Gróa náði ofurlítilli fró. Sveinbjörn var snoturmenni, glaður og ör í skapi. En ef hún tæki hann tali --, ef hún sýndi Geirmundi, að hún gat enn gengið í augun, að hún gat kveikt heitar tilfinningar hjá fleirum en honum einum. Hún þorði að tefla slíku tafli, fann svo vel, að nú mundi hún ekki tapa. Dansinn og dansandi æskufólkið kvaldi Gróu. Geirmundur dansaði þó langoftast við Þuríði --, hún gat ekki slitið sig frá, að horfa á og taka eftir þeim, hún vildi ganga úr skugga, sjá til fulls, hvort hugir þeirra hneigðust saman.

Þó Gróa gengi burt úr stofunni, þá kom hún fljótt aftur; Brandur var viss að una við púnsið og staupin hér eftir, og Sveinbjörn sá um, að hún héldi sætinu sínu; hann var bæði kurteis og lipur. Gróa leit hlýjum þakklætisaugum til hans; Sveinbjörn fann, að hún hafði fögur augu; hann horfði nokkuð lengi og brá litum; eftir það varð þeim tíðlitið hvoru til annars um nóttina. Sveinbjörn hirti ekki svo mjög um það, þó hann tapaði einum og öðrum dansi; það var gott að fá sér sæti og spauga við Gróu; hún var lagleg kona, enginn gat neitað því, og hún gat verið skemmtileg, og ótrúlega glaðleg og kát. Gróa gætti þess, að Geirmundur gaf þeim gaum, að hann varð órór og ýmis hugsi; hún þekkti Geirmund og hún sá það, sem hann gat dulið aðra, að hann þoldi ekki gleði og tillit þeirra í horninu; henni varð mýkra um mál, léttara fyrir brjóstinu. Hún var þó ekki aðeins glápandi áhorfandi, kunni þó að launa líku líkt. Henni var skapléttir að viðræðum Sveinbjarnar, að viðmóti hans; það var innilegt -- vínið gerði hann örari, viðkvæmnari og heitari; en best var þó, að Geirmundur fékk nú að kenna á sömu raun og hún sjálf; ekki hægt að geta sér til fyrir víst, og þó fremur líklegt, að hann fýsti að tala nokkur orð við hana, áður en þau skildu; sjá þá, hvað smíðast vildi.

Þuríður hafði líka veitt því gaum, að Gróa svaf ekki né dottaði í horninu. Skömmu síðar vildu þær systur frá Grund fara af stað; það var komið að rismálum og fleiri boðsmenn voru sömu skoðunar og þær.

Meðan hestarnir voru söðlaðir, leitað að reiðfötum og farið í þau, tóku karlmennirnir sér drjúgum í staupinu; þeir voru forsjálir og drukku við ókomnum þorsta, höfðu líka pela og flöskur, sem nestið var látið í; það var ös og aðsókn að kjallaramanninum, og hann átti marga vini og góðkunningja þennan morgun.

Séra Jósteinn var farinn fyrir löngu og roskinn bóndi, norðan úr dal, með honum; klerkurinn var góðglaður og vel birgur af víni; það amaði ekki mikið að þeim leikmanni, sem hafði slíkan samferðamann.

Ekki höfðu þeir norðan úr dalnum farið langan veg, þegar það var augljóst, að þrír menn í flokknum mundu sjóndaprir og tæplega hestfærir; það var Brandur, Jón í Svartholti og Sveinbjörn; þeir töfðu ferðina og þótti ekki liggja á að hraða sér heim. Marja hafði hörð orð við bróður sinn, en hann svaraði skætingi og lét borginmannlega. Brandur dró sig mest eftir Geirmundi, vildi fá að koma á bak á Rauð, því nú sagðist hann taka spor úr honum, ef það væri til. Geirmundur færðist undan með hægð og bað Brand að kveða, kvað sjálfur með honum; Jón í Svartholti vildi kveða fyrstu rímuna af Andrarímum og það varð úr; hann byrjaði sjálfur og kvað svo, sem raustin frekast leyfði. Sveinbjörn og Gróa riðu síðast og töluðu margt, en nú var Gróa daprari en um nóttina; bogalistin ætlaði að bregðast henni. Geirmundur sá best um Brand, og Sveinbjörn var ósnyrtimannlegri eftir að hann gerðist svona ölvaður. Fosshjónin skildu við samferðafólkið á Teigseyrunum. Brandur kyssti alla tvo kossa, jafnt karla og konur; Gróa gerði slíkt hið sama. Sveinbjörn vildi fylgja þeim heim og bíða þar eftir kaffi; Geirmundur og Þuríður báðu hann með blíðum orðum að halda áfram með sér; Marja reið norður götur og sagðist ekki bíða lengur eftir bölvuðu drykkjurabbinu og slórinu þeirra. Geirmundur varð eftir að hjálpa Brandi um vín á pelann sinn; hann hafði aðeins dreypt til málamynda á víninu þeirra, síðan farið var frá Sauðhaga; honum þótti drykkjuskapurinn keyra úr öllu hófi; engan ókunnan mundi hafa grunað að Geirmundur hefði neytt vínsins. Brandur kvaddi Geirmund, þegar hann var kominn á bak og reið upp götuna kveðandi. Geirmundur stóð og hélt í Rauð, sem snerist í kringum hann frýsandi; vildi óvægur heim að Fossi.

"Vertu sæll, góði;" Gróa kyssti hann.

"Guð veri með þér og styrki þig að bera lífið og lífssorgina --, nei við hljótum að skilja."

Gróa hafði lagt báðar hendur um háls honum, hallaði sé fram í söðlinum og vafði hann að brjósti sínu.

"Ó, ég lifi ekki af að skilja ---, bara ég mætti tala við þig, góði," hún sleppti tökunum.

"Við verðum að skilja og biðja Guð að styrkja okkur," Geirmundur stökk á bak og sneri Rauð niður á götuna.

Gróa hleypti Skjóna upp að brekkunni; það stóð heima, að þá var Brandur búinn að snúa klárnum og farinn að rýna eftir dvöl hennar.

"Það er ljóti gapinn, hann Rauður; hann ætlaði ekki að stjórna honum, verða ráðalaus að komast á bak."

"Já, hann er vitlaus í fjöri, en helvíti skyldi ég hafa gert það góðan hest ... núna skyldi ég hafa tekið honum duglegt tak."

"Ég held þú sért heldur drukkinn til þess."

"Nei, alveg mátulega hreifur; rétt passlega ör til að tæta hann sundur; taka ganginn úr honum, hvort hann vildi eða ekki ... en Jón í Svartholti var blindfullur."

Hjónin riðu heim götuna. Gróa kvartaði um vesöld, ákafan höfuðverk; hún færðist með hægð undan ástaratlotum bónda síns.

Þuríður og Sveinbjörn riðu spölkorn á eftir hinu fólkinu; hún heyrði að glumdi í melskriðunni og leit til baka. Rauður kom á þanstökki, hentist yfir skriðuna, eins og örskot fram til þeirra, fram fyrir þau; þar gat Geirmundur stillt hann.

"Nú vil ég hafa hestaskipti, Geirmundur, og komdu með flöskuna, við skulum fá okkur svolitla hressingu," sagði Sveinbjörn.

"Nei, í þetta sinn hefurðu ekki tök á Rauð ..., og flaskan er tóm, ég lét Brand hafa það, sem eftir var."

"Hver andskotinn; ég þurfti að fá svolítið bragð og stólaði á flöskuna þína. Jæja, þú verður samt að hafa hestaskiptin."

"Bjössi, góðasti Bjössi minn, gættu að, hvað þú ert drukkinn; þú mátt ekki drekka meira; það fer best að þú ríðir Grána, hann er traustur ... Við skulum hraða okkur og ná hinu fólkinu."

"Skárri eru það merkilegheitin í þér Þura. Það er ekki þar fyrir, ég er ekki upp á ykkur kominn, það er best þið séuð saman;" Sveinbjörn sló klárinn og hleypti á sprett, þau á eftir; þegar Geirmundur var að stilla, heyrði hann Þuríði kalla, sneri við og sá að eitthvað mundi hafa tálmað þeim förina. Sveinbjörn hafði farið að herða á klárnum, þegar Rauður stökk fram hjá; þar var krókur á götunni, hann þoldi ekki sveifluna, tapaði jafnvæginu og byltist af baki; þá kallaði Þuríður. Þau fóru bæði að stumra yfir honum; Sveinbjörn hafði hruflað sig á enni og nefi, hann kvartaði um svima og ógleði; Geirmundur sótti vatn, þegar hann kom aftur var Sveinbjörn farinn að stynja upp við hiksta óbænum yfir brennivíninu og sagðist aldrei framar smakka það helvítis eitur; svo fékk hann uppsölu. Geirmundur hélt hægri hendi undir enni honum, en studdi þeirri vinstri á bakið; Sveinbjörn engdist og kúgaðist, en uppsalan rauk í stórgusum út um munn og nasir. Þegar uppsalan þvarr, gaf Geirmundur honum að drekka, hann svalg stórum, ræskti sig, teygði úr sér og sneri sér á hliðina, á sama vetfangi steinsofnaði hann og fór að hrjóta. Hestarnir bitu grasið í mónum og voru spakir. Þokan, sem hafði lagst yfir síðari hluta nætur og leið yfir fram eftir morgninum, lyfti sér upp í hlíðarnar svo bjart varð í dalnum, en lá á brúnum dalshlíðanna eins og geysi langir blágráir lindar; hvikaði til fyrir sunnan andvaranum, sem kembdi hana hægt og hægt norður eftir, strauk hana af einum hamrinum á annan, þokaði henni upp úr gildrögunum, bægði henni ávallt norðar og norðar, út til hafsins, fylgdi henni blaktandi og broshreinn, heiðbjartur og hressandi. Sólin var komin hátt á loft - það var liðið fram yfir dagmál -, hún vermdi og skein á döggvotan dalinn og allur dalurinn horfði upp til hennar, horfði munaðarblíðum ástaraugum, sem tárin titruðu í, en blómin og víðihríslur skulfu af eftirvænting og stundarsælu. Löng ljósrauð ský lágu um austurloftið, það var ljósvakinn, sem freyddi fyrir sólarvagninum og eldgráðið, sem súgaði í löngum, blikandi bylgjum á eftir honum.

Geirmundur sat gagnvart Þuríði, litaðist um, hugsandi, hljóður og skapþýður; viðkvæmur af vökum og dansi, víni og ágætum stökkspretti klársins, af harmi og iðrun yfir liðinni leið; leiðinni, sem var gengin í þokunni; hann sá döggslóðina í bugðum og krókum, sína slóð og aðra slóð við hlið hennar; sporin smá, skrefin stutt, líkt og sá, er þar hefði fetað, hefði verið reikandi og óviss. Harmurinn ætlaði að verða honum ofurefli á þessari fögru morgunstund; hann gat trauðla borið hann einn; þráði að halla höfðinu að hreinu vinarbrjósti, mega hvíla það þar, vera fullviss um samrómun, fyrirgefning og samlíðun. Öll náttúran reis saklaus upp til lífs og ljóss; ó, að hann gæti risið með henni, þvegið sig hreinan í dögginni; og hann fann vel, að hann gat risið á legg með henni; ef hún mætti og vildi og gæti rétt honum saklausu, hvítu höndina sína. Ekki móðirin, ekki systkinin og ekki Sveinbjörn, besti vinurinn hans; nei, þeim gat hann ekki sagt harma sína, eins og þeir voru; frá þeim mundu koma gremjuorð og misskilningur, orð og skoðanir, sem særðu og æstu skapið.

Þuríður sat einnig hugsandi; svefnleysi og dans höfðu líka gert hana viðkvæma; drykkjuskapur og bylta Sveinbjarnar, vormorgunninn, fagur og friðarmildur og eitt enn. Hvað sorgin varð henni þungbær og sár, þegar hún sá og vissi um ástir þeirra Geirmundar og Gróu; henni var eins þelhlýtt til hans og systkinanna sinna; vildi svo fegin hvetja og efla hann til þroska og framfara. Hún gat ekki gert sér grein fyrir því, hvenær slíkar tilfinningar höfðu vaknað; helst að þær væru eins gamlar og viðkynning þeirra. Og svo þessi tvíyddi járnfleinn, sem var rekinn í brjóstið á henni, blóðið sauð á báðum álmunum; því um leið og hún var sannfróð um að Geirmundur ynni húsfreyjunni á Fossi, þá var henni og ljóst um það að hún hafði ást á honum; að það var vonlaus ást; sterk og heit og erfið að bera, erfitt að leyna. Hún heyrði sögurnar, vissi að nokkuð mundi satt; reiddist Geirmundi, gramdist ólánið, en unni honum eins heitt, þrátt fyrir allt, sem fyrir hann sté. Hún hafði engan rétt til að láta ævintýri hans til sín taka, gat ekki gert neitt, nema þola og líða. Jú, hún gat verið vinkona hans, ráðholl og innileg, eins og systir. Það mátti hann gjarna vita; það mundi hann aldrei misskilja. Hvað henni var kalt til Gróu, sem hafði heillað hann og vafið í snöruna; hún forðaðist að láta þennan kala í ljós; bar hann leyndan og áfelldi hvorugt, fann báðum málsbætur, þegar aðrir löstuðu og sakfelldu þau. Hún sá gremju og harm marka drætti á andliti Geirmundar; vissi að hann var í þungu skapi, vonaði að hann væri snúinn frá villu og óráði; væri öruggur að berjast fram til þrifnaðar og sæmdar. Hún þráði heitt og einlægt að mega rétta honum vinarhönd; eins og systir, sem bendir bróður og tekur þátt í hörmum hans; leitast við að bægja þeim frá, mýkja og létta. En í dansinum gleymdi hún öllu öðru en því drengilega og bjarta í lífi Geirmundar; svo knár og fóthvatur, sviphreinn og þreklegur, sem hann var, þegar hann sveiflaði henni um gólfið, studdi og varði; hann hlaut að vera góður drengur... Ör í lund og blóðheitur...; nú vissi hún, að hann var ölkær og hafði leiðst meir en vera skyldi að víninu; í svona raunum var ákaflega hætt við að hann leitaði þar svölunar; leiddist til ofdrykkju... Sveinbjörn drakk líka. Það var sárt að sjá hann svona fallinn... Nú datt henni þó loksins umræðuefni í hug --, hann ætlaði alltaf að þegja -- um hvað var hann að hugsa, hún þorði ekki að leiða getum að því; henni var orðið órótt að sitja þarna í návist hans þegjandi; feimni og skjálfti færðist yfir hana. Tíminn var þó ekki langur, sem þau sátu þannig; það flýgur margt í mannshugann á stuttri stundu.

Á milli þeirra hraut Sveinbjörn.

"Við megum til að vekja hann, þetta dugar ekki," það var óþol í röddinni. Geirmundur hrökk við. "Já, það má til að hafa hann á fætur," sagði hann.

Augu þeirra mættust örstutta stund, svo leit Þuríður niður.

"Þetta hefst af drykkjuskapnum. Hvað mig tekur það sárt, að sjá hann, svona ungan, liggja ósjálfbjarga... dauðadrukkinn."

"Því betur hefur það ekki komið fyrir fyrri --, það er satt, það er sárt."

"En hann er gefinn fyrir vínið og það fer honum illa ---, það er of mikið farið með það hér í dalnum, bæði af eldri og yngri."

"Ekki get ég borið á móti því... ég er engu síður vínhneigður en hann og ég finn að drykkjuskapurinn er hér mikils til of mikill."

"Geirmundur, þið ættuð að fara í bindindi, það er eina ráðið við slarkinu hérna."

"Ég veit þér gengur ekki annað en gott til, og ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan ganga í það, þó ég álíti það bara beiskt varnarmeðal gegn ofdrykkjunni, en hófsemina takmarkið sem við ættum að stefna að."

"En sem þið náið ekki."

"Við líklega ekki, en niðjar okkar, vona ég."

"Nú dugar ekki annað en bindindi."

Svo varð stundarþögn; Þuríður dró með hægri hendinni blöðin af fjalldrapanum og velti þeim í lófa sér. Geirmundur sneri ólinni utan um svipuskaftið og lét hana svo spretta sér.

"Þuríður---, ég skal lofa þér því, nú á þessari stundu, að bragða ekki vín framar, aldrei á ævinni."

"Taktu ekki ævilangt bindindi, ég er svo hrædd við það... árs bindindi, tveggja eða þriggja ára... svo þurfum við að hafa Sveinbjörn með; þið ættuð að stofna bindindisfélag."

"Hvort það heppnast eða ekki, þá heiti ég því, að bragða ekki áfengi árlangt."

Geirmundur sótti djúpt andann; þau gerðu það bæði; svo sagði hann:

"Ég veit það ---, mér hefur yfirsést, stórum yfirsést --, ég finn tillögur manna og get lesið mér til af tilliti og viðmóti þeirra, hvað hugsað er um mig og hvað talað er... Mér líður sjaldan vel... Ég er svo einn, svo sekur. Ég er ekki gæfumaður..."

"Ég veit hvað hryggir þig, hvað fyrir þig hefur komið... En þú ert ungur; þetta getur lagast."

"Þú mátt ekki misskilja mig. Ég þoli það ekki. Allir aðrir gera það."

"Ég held ég misskilji þig ekki."

"Ef þú gætir verið vina mín... Eins og systir; leiðbeint mér; hvatt mig til manndóms og framfara... Ég skyldi aldrei gleyma því."

"Ég get verið eins og systir þín. Ég áfelli þig ekki. Þú sem trúir mér svo vel. Það er langt frá því ég áfelli þig," hún horfði skæru augunum sínum hreint og alvarlega framan í hann.

Geirmundi fannst svo, sem Guðs blessun stigi niður til sín, niður á syndum spillta jörðina, til þess að hugga og hugsvala; rétta fram hönd náðar og friðar. Hann rétti fram hægri höndina; þær lukust saman; Geirmundi virtist svölun og mjúklyndi leggja upp fingurna; um hverja taug, til hjartans; það brá ánægjuroða yfir andlitið. Þuríður titraði, blóðið sauð í æðunum, hún dreyrroðnaði og gat engu orði komið upp.

"Við megum til að vekja hann, hvort hann vill eða ekki," Geirmundur reisti Sveinbjörn sofandi upp í fang sér.

En það dugði lítið; Sveinbjörn svaf sem áður; þó talað væri til hans, og þó hann væri hristur til, brá hann ekki höfuga vínsvefninurn fyrir það.

"Helltu vatninu í klútinn þann arna. Það ætlar að vera árangurslaust að hrista af honum svefninn."

Þuríður hafði setið dreyrrauð og ekki veitt starfi Geirmundar gaum, en við þessi orð greip hún til vatnsflöskunnar, hellti úr henni í klútinn, lagði hann yfir enni og andlit Sveinbjarnar; lét vatnið úr flöskunni streyma yfir hendurnar og þá vaknaði hann loksins.

"Hvaða, hvaða... Helvítis gauragangur og ófriður --, ég vil hafa frið til að sofa. Láttu mig vera, alveg kyrran."

"Hér færðu ekki að sofa lengur; blessaður reyndu að átta þig," sagði Geirmundur og hristi hann til.

Sveinbjörn rétti úr sér og geispaði löngum, þreytulegum geispa; hann fór að finna, hvernig öllu var varið; hafði svima og rífandi höfuðverk; skrokkurinn var leppafllaus; tungan seyðingsheit og límd við góminn; sneypan og þreytan hvíldu á honum, eins og rennvot heydyngja.

"Gefið þið mér að drekka, annars er mér lífsins ómögulegt að róta mér."

Svo drakk hann langan teyg; hvíldi sig og ræskti; drakk aftur og strauk ennið; loksins gátu þau komið honum á fætur og síðan á hestbak. Þau riðu norður göturnar og létu stíga hratt; Sveinbjörn hresstist dálítið og fór að bölva víninu og drykkjuslarkinu; Þuríður leit til Geirmundar; hann roðnaði og leit niður á glófaxið á hestinum, sem kastaðist til eftir fótatakinu.

Eftir stundarþögn fór Geirmundur að tala um víndrykkjur þar í dalnum; að þær færðust í vöxt síðustu árin, það þyrfti að reisa skorður gegn slíkum ófögnuði; Sveinbjörn játaði því, þá stakk Geirmundur upp á því, að þeir gengjust fyrir því að stofna bindindi; fá unga menn til að ganga í það. Sveinbjörn tók því gleðilega og svo fastréðu þau að koma málefninu á veg næsta sunnudag eftir messu; þeir áttu að gera það; Þuríði fannst hún ekki gæti starfað annað en hvetja þá; það var ekki fyrir kvenfólk, að vasast opinberlega í því að stofna félög, trana sér svo fram í karlmannahópinn. Geirmundur bauð Sveinbirni hestaskipti, hann var viss um, að nú mundi allt semjast vel milli þeirra Rauðs; Sveinbjörn lifnaði og fjörgaðist, þegar klárinn hafði dansað með hann spölkorn, svo hleypti hann á stökksprett og nú var tekið til að ríða í algleymingi; reynt að ná hinu fólkinu. Það stóð heima, um leið og þau stilltu, Geirmundur og Þuríður, þá brast Rauður aftur á sprettinn. Þau riðu neðan við túnið í Svartholti; samferðafólkið var farið þaðan. Nokkrum spöl sunnan við Grund náðu þau ferðafélögum sínum; hestarnir löðruðu í svita.

"Hvaða rækallans slór hefur verið í ykkur. Slæptust þið upp að Fossi á endanum?" Marja var stutt í máli og tók ekki öðruvísi kveðju þeirra en með þessum orðum.

"Ekki varð það nú ---. Við biðum eftir kaffi á Víðilæk, en eldurinn logaði dauflega svo biðin varð lengri en búist var við; hún bað að heilsa þér konan, og var alveg forviða yfir, að þú komst ekki við á heimleiðinni, eins og þú ráðgerðir." Það var Geirmundur, sem varð fyrir svörunum.

"Verði ykkur að góðu, kaffið þar, það hefur líklega slökkt í ykkur sárasta þrostann," Marja vissi vel að enginn bær stóð við Víðilæk, að Geirmundur svaraði í glensi. "Ég sé að Sveinbjörn hefur töluvert tekið litaskipum, hann er orðinn svo hvítur og fallegur."

"Og þú hefur greitt þér og þvegið í Svartholti; svona eiga ferðamenn að hafa það, skipta sér á bæina, það sýnir nærgætni."

"Það er líklega ekki til neins að bjóða þér kaffi eftir allar veitingarnar á Víðilæk," sagði Marja og glotti nú við.

"O-jú, þakka þér fyrir; þú ætlar að verða fyrirtaks gestrisin, það væri rangt af mér að drepa hendi við því, sem boðið er af svona heilum hug."

Geirmundur beið eftir kaffi á Grund og fékk Friðfinn vinnumann til þess að ferja þá Sigfús austur yfir ána. Sveinbjörn kvaddi strax samferðafólkið og þakkaði því fyrir góða skemmtun, svo fór hann að sofa. Geirmundur þakkaði Marju með mestu virktum fyrir kaffið, svo var búist til brottfarar og kvaðst. Geirmundur kvaddi Þuríði síðast allra og hún leit til hans hreinu, björtu augunum, sem honum virtist mundu sjá gegnum holt og hæðir, lýsa friði og heiðviðri yfir lífið, má dökku dílana burtu; hann hélt í höndina, sem lá kyrr, fullt svo lengi og títt er; horfði beint framan í sakleysið, sakleysið sem hann hafði týnt, var nú svo einráðinn að leita eftir; sannarlega var þó sakleysið til og nú mátti hann horfa á það, þurfti ekki að líta til jarðar; hann sleppti hendinni, gekk að hestinum og varpaði sér í söðulinn.

Þuríður varð ein eftir frammi í stofunni, hún hafði fataskipti og fór sér hægt að því; það var tómlegt nú í stofunni, auðn og þung þögn --, hvað hann var sviphreinn og frjálsmannlegur, þar sem hann stóð á hlaðinu og hélt í hönd hennar --, taugarnar titruðu, blóðið þaut frá hjartanu og til hjartans aftur; munarsæll leiðsluhöfgi og augnablikssæla ---; var það samræmi tveggja hjartna? --- Nei, því miður, það var aðeins hún sem þráði, hún sem elskaði --; hér var einmanalegt inni; lífið var úti, en ekki inni milli þiljanna, þar var allt eintrjáningslegt, þunglamalegt og dauft á að líta. Hún færði sig að glugganum ng horfði út; túnið var gult af fíflum og sóleyjum; baldursbráin stóð þar með fögru, mjallhvítu blöðin og gula hnappinn innan í; stóð þar og naut sólarylsins, vaxtarþroskans, hásumarsælunnar. Þrír menn riðu hvatlega suður og niður eftir grundinni - . Gullfallegur og góður var hann, ljósrauði hesturinn sem stiklaði á undan ---. Já, lífið var úti - líf blómanna, fuglanna, hestanna, sauðanna, líf hverrar skepnu, þar var heilnæmt fyrir mennina, úti í bjartviðrinu og heiðloftinu, þar sem sólin lífgaði allt, vakti til vaxtar, fegurðar, tímgunar, nautna og sælu; samtengdi og ávaxtaði, en vanmegnaði ekkert með skrælnun og ofþurrki. Þuríði langaði út, til sólar og sumars, til starfs og sælu, en þarna stóð hún innan fjögurra veggja borðin voru felld og slétthefluð, stofan traust og tvílæst; hún fékk aðeins að líta yfir vorlífið, en var varnað að njóta frelsisins, starfans og gróðurilmsins. Jú, hún gat það, ef hún vildi, ef hún hafði þrótt og kapp til þess; snúa lyklinum, lúka upp hurðinni, standa ekki aðgerðalaus og stara út í bláinn --, vinna og þroskast eins og hann --, Geirmundur var svo bjartur og skírlegur, hafði ætíð verið það --, hitt hlaut að hafa verið stundarhrösun, æskuyfirsjón þarna fremra í fámenninu; ginntur af öðrum eldri og æfðari; nú var hann snúinn frá þeirri ógæfu, búinn að pínast og angrast yfir breyskleika sínum. Það var sár og undarleg yfirsjón... Gróa var sannarlega viðsjál og slæg, en lagleg var hún, ekki var hægt að bera á móti því... Tárin komu fram í augun, stór brennheit tár. Hann elskaði hana ekki og hún gat engu hrundið úr huga sínum, ekki ráðið yfir ást sinni til hans; það var vonlaus ást; aðeins bróðurleg vinátta, ekkert meira, ekkert heitara; en ást hennar var miklu meiri og sterkari en systurelska, það var jafn ólíkt og eldur og vatn... Með tíma og einbeittum vilja mætti þó takast að stjórna og temja tilfinningarnar, dylja alla hins sanna og umfram allt hann sjálfan. Héðan af hét hún sjálfri sér að vera aðeins eins og ástríkri systur sómdi, ganga aldrei feti framar, ganga það frjálsmannlega og hiklaust. Ef framar yrði stigið skyldi það ekki verða hennar spor, aldrei að hún bæðist eftir öðru. Aldrei.


15. kafli

Bindindisfélagið var stofnsett næsta sunnudag, sem messað var á Grund; eftir tíðir hélt hópur ungra manna fund í þinghúsinu; gengu tuttugu og fimm æskumenn í vínbindindi til jafnlengdar næsta ár. Sveinbjörn og Geirmundur voru kosnir til að semja lög félagsins. Allir voru fúsir, að Sveinbjörn væri forkólfur annarra; hann var fæddur til þess; sonur prestsins var sjálfkjörinn formaður félagsins. Öðruvísi var því varið með Geirmund, þeim virtist hann trana sér helst til mikið fram, síst sitja á honum að fylgja svo fast þessu máli; sonur Einars á Neðra-Fossi sýndist ekki fæddur til að skipa sér í brodd fylkingarinnar; eftir ámælið og samband hans við Gróu, þótti það undarleg framhleypni og léttúð af honum, að tala mest á þessum fundi, hvetja mest og fylgja málinu fastast; hann hefði átt að draga sig í hlé, láta sem minnst á sér bera. En þegar Sveinbjörn stakk upp á að Geirmundur væri skrifari og féhirðir félagsins varð þó þorri atkvæða með þeirri kosningu; þeim óánægðu þótti ómak að brjótast gegn straumnum, léttara að berast með honum. Geirmundur stakk upp á að inngangseyririnn væri ein króna, það þótti of hátt og svo þokuðu þeir því tillagi niður um helming.

Rosknu mönnunum þótti sem þeir bærust nokkuð mikið á, "strákarnir", óvinir bindindisins töluðu um "merkilegheit", "gorgeir", og öllum þótti þeim það sitja verst á þeim, sem mest braust í þessu, sitja verst á Geirmundi. Konurnar, bæði giftar og ógiftar, voru í rauninni meðmæltar því, að spornað væri móti víndrykkjunni, en mörgum lá þeim þó öfugt orð til Geirmundar, bæði fyrir önnur málefni og þetta líka. Enginn sagði þetta við hann sjálfan, hvorki karl né kona; fólkið í Breiðárdal var ekki svo hrottalegt né fornt í skapi; það var farið að leitast við að feta vandgengna, mjóa stiginn kurteisinnar. Sigfúsi í Breiðholti líkaði að öllu vel við Geirmund nema því einu, "að hann skyldi taka upp á þeim skratta, að smakka ekki vín og reyna til að hafa aðra til þess."


16. kafli

Heyannir byrjuðu í fyrra lagi þetta sumar, grasspretta var góð, því hafði gefið vel til að vaxa í veðurgæðunum um vorið. Þeir í Breiðholti byrjuðu þó fyrstir allra. Geirmundur fylgdi fast verkinu, tók kaupakonu tvær fyrstu vikurnar og hugsaði sér að vera þá heldur í kaupavinnu síðari hluta sláttar, ef heybirgðir sínar væru álitlegar. Hann hætti eigin engiverkum þrem vikum fyrir göngur og var svo eina viku hjá Sigfúsi; að henni liðinni réðst hann til séra Jósteins, það sem eftir var sláttarins; þar á Grund hafði einn vinnumaðurinn fengið fótarmein og þurfti því að fá mann í skarðið.

Það var einn dag, að Geirmundur skyldi slá þar suður á grundunum og þeir Sveinbjörn báðir, en systur, Marja og Þuríður, og tvær vinnukonur rökuðu; annað fólk batt heim hey og kom því fyrir. Þeir félagar fóru snemma á fætur til að nota morgunrekjuna og slógu fram að miðdegismatartíma, þá lá nokkur ljáarblettur órakaður; mjaltakonurnar höfðu komið seint til verks um morguninn. Sólskin hafði verið um daginn og harðslægt á grundunum úr því hádegið leið. Eftir máltíð sofnaði flest fólkið og sváfu þeir félagar nokkuð lengur en þeir ætluðu til. Geirmundur vaknaði við hlátur stúlknanna; þá var ljáin nálega rökuð; þær höfðu farið hljóðlega á fætur, stúlkurnar, og keppst við að raka ljána, nú varð þeim hláturgjarnt, þegar takmarkinu var nokkurn veginn náð. Geirmundur reis skjótlega á fætur og vakti Sveinbjörn; hafði í snatri ljáa skipti í orfinu sínu og tók til sláttar. Veður hafði þykknað meðan þeir sváfu og lék á norðan andvari.

"Því vöktuð þið okkur ekki fyrri?" sagði Sveinbjörn meðan hann brýndi.

"Þið báðuð þess ekki og sváfuð svo rótt og vært, að við vildum ekki raska ró ykkar," sagði Þuríður og bandaði höfðinu brosandi til hans.

Það sá á, að fólkið hafði hvílst og hresst við miðdegisverðinn og svefninn; nú var slegið og rakað af kappi og fullum ákafa, enginn lá á liði sínu og dró heldur saman fyrst. Fólkið hafði búið sig sem léttast til verksins og þó streymdi svitinn, svo fötin urðu vot. Sveinbjörn sló hvasst og ákaft fyrstu hviðuna og var skák hans engu minni en Geirmundar, en þegar fram leið lengdi Geirmundur skárana, bar orfið tíðara og skærurnar urðu sýnilega breiðari; það hætti að ganga saman með þeim og rakstrarkonunum; Þuríður eggjaði fast til rakstursins en það dugði ekki, ljáirnir brotnuðu ekki né orfin, þó þær óskuðu þess; eggin var hvöss, þrátt fyrir forbænir kvennanna; það hvein í ljáfarinu og grundin dunaði við sláttinn. Sláttumennirnir þögðu og rakstrarkonurnar þögðu einnig; hvort tveggja hafði annað ríkara í hug en samræður og mælgi. Eftir því sem dró nær nóttunni, því meir dró sundur milli þeirra. Geirmundur sló þess ákafar, sem meir rökkvaði í lofti og náttdöggin létti betur sláttinn. Sveinbjörn fór að brýna lengur og vægja sjálfum sér meira, eftir það, að hann sá að sundur fór að draga; hann hugsaði, að Geirmundur væri sér engu miður drjúgur í skákinni en tveir hinna skussanna, sem þó vildu fá fullt kaupgjald.

"Tóta, færðu mér að drekka, þið hafið, hvort sem er, ekkert að gera fjórar eftir okkur tveimur."

"Það get ég gert, ef þú treystir þér ekki til þess að rölta að fötunni. Ertu orðinn þreyttur, Mundi?"

"Nei, ekki er ég það, þið megið ganga nær, ef þið viljið og getið," Geirmundur rétti Sveinbirni fötuna.

"Þið sváfuð góðan dúr í dag; ykkur þykir gott að sofa þegar heitt er," sagði Þuríður og horfði til þeirra.

"Rakið þið upp ljána; það er ekki heppilegt að láta slægjuna liggja yfir nóttina svona síðla sumars." Geirmundur fór að brýna.

"Þær mega herða sig betur og draga af sér slenið," sagði Sveinbjörn og gekk að orfinu.

"Þakkaðu þér það ekki, skræfan, þú ert ævinlega mestur í máli og minni í verkinu," sagði Marja, henni var þyngst í skapi af stúlkunum.

Sveinbjörn skellihló; nú var hann fullviss um að Marja var reið yfir því að ná þeim ekki.

Þegar fólkið gekk heim af engjunum um kvöldið voru þau Sveinbjörn og Marja að kýta og sneiðyrðast. Þuríður var öftust; Geirmundur hægði gönguna.

"Ertu ekki þreytt, Þuríður -- þú gekkst hart að þér með að ná okkur?"

"O-nei, - ekki mjög -- þið gerðuð það sem þið gátuð til að flæmast undan."

"Þið hugsuðuð okkur þegjandi þörfina, þó það gæti ekki lánast."

"Þórunn sagði við næðum ykkur aldrei, hún þekkti svo sláttinn þinn -- og svo vildum við þá reyna --- hefðirðu ekki rifið opin augun svona fljótt, þá..."

"Þið gátuð ekki annað en flissað og svo misheppnaðist allt saman... Þetta er annars ekki efni til neinnar þykkju, sýnist mér."

"Það sýnist mér heldur ekki -- og þó var mér fullkomin alvara að raka á hælana á ykkur."

Það var þögn, þau gengu bæði samhliða; Geirmundi virtist Þuríður draga þungt andann, líkast sem hún titraði, svo spurði hann þýtt og hlýlega:

"Ertu lasin, eða ertu annars ekki dauðþreytt?"

"Nei, ég er ekki lasin, en það er satt, ég er þreytt."

Hann gekk þegjandi fast að henni, tók undir handlegginn og studdi hana, honum var svo ljúft að létta henni gönguna, að allur hans eigin lúi hvarf í sömu svipan; honum var gleði að því, að geta stutt hana og styrkt - hjartað sló örar - ef -, vitlaus var hann að verða; bandvitlaus. Geirmundur hraðaði göngunni til þess að ná fólkinu, honum var létt um sporið nú.

Þuríður gekk eins og í leiðslu, lúinn og geðbreytingin gerðu hana magnþrota, komu henni til að titra; henni veitti örðugt, að hníga ekki að brjósti þess, sem leiddi hana, sterkur, fótviss og öruggur; gat borið hana, eins og barn. Hann var þó góður og viðkvæmur -, helst til viðkvæmur --- því hafði hann rasað -- en hann var nú búinn að ná jafnvæginu, snúinn frá yfirsjón sinni. Um leið og hún renndi huganum að yfirsjón hans, jókst henni styrkur og stæling. Þau náðu hinu fólkinu. Geirmundur dró hægt að sér handlegginn, hætti að leiða hana.

"Ég skal bera fyrir ykkur dótið, þið eruð uppgefnar, vesalingar, " sagði Geirmundur.

"Þess þarf ekki, við fylgjum ykkur fullkomlega," Marja var óvanalega þurrleg.

"O, sei, sei, þú ert fær að raka að hælunum á okkur aftur á morgun," sagði Sveinbjörn.

"Ég ansa þér ekki, Björn úr Mörk, og heyri ekki raupyrðin, sem þú aldrei þreytist á að skvaldra með."

Sveinbjörn hló og svaraði engu. Geirmundur fór að tala við Þórunni; segja henni frá því, að móðir þeirra væri frísk og kynni sæmilega við sig á Heiði; að allar líkur væru til þess, að Sigurður mundi reynast gildur og nýtur bóndi; en meðan hann ræddi þetta, sá hann um að aftra heldur göngunni; vissi glöggt að Þuríður gekk síðast allra.


17. kafli

Brandur hafði aldrei til fulls trúað því að Gróa væri sér ótrygg; en eftir veisluna um vorið hlaut hann þó að taka eftir því, hvað hún var döpur og fölleit; svaraði út í hött, þegar til hennar var talað og þá stundum napurt; honum fór að virðast þetta nokkuð grunsamlegt; það rifjaðist upp margt í huga hans, um ýmis kaup, sem hún hafði gert, án þess að hann ætti að vita um þau; þrætti og synjaði fyrir þau svo lengi, sem unnt var. Kannski það hefði verið eins með hinn áburðinn? Eitthvað væri hæft í honum? Það var einmitt þetta vor og sumar, eftir að Geirmundur fluttist frá Neðra-Fossi, sem Brandur fór að hálf-trúa því, að Gróa væri sér ótrú, að hún væri ekki öll, þar sem hún var séð; hefði brögð undir brúnum. Hann gat ekki hafið máls á þessu við konuna né aðra menn; Geirmundur kom aldrei fram eftir og Gróa fór ekki aðrar ferðir, en í veisluna um vorið; það benti lítið til þess að trúa orðasveimnum, eða þau höfðu snúið frá þessu voðalega óráði. Þó var Gróa undarlega hugsunarlaus við öll heimilisstörf, þurrari og kaldari gagnvart honum en nokkru sinni áður; því gat Brandur ekki hrundið úr huga sér, það flaug efi og ótti í huga hans, þegar minnst varði, hvarflaði frá aftur og kom svo enn til baka, settist að og hvíslaði; kom óróa og æsing í huga hans og hjarta; píndi hann, eins og ill og heimskuleg tortryggni, sem í hvorugan fótinn gat stigið, en var ótrúlega handviss, að ná sér í snaga og hanga á þeim, flaksa svo framan við hann og ónáða, bæði á nótt og degi. Um haustið var þó Brandur farinn að fyrirverða sig fyrir þessar getsakir og tortryggni, sem flögruðu suðandi í huganum. Það var ómannlegt að leggja trúnað á þvaður og róg vondra mann, þeirra sem reyndu til þess, að spilla vináttu og góðri sambúð, færðu allt til versta vegar. Hann fastréð með sjálfum sér að bæla niður tortryggnina, fyrirlíta þvaðrið og rógburðinn, sem bakaði honum aðeins gremju og skapraun.

Hjónin sváfu sitt í hvoru stafnrúmi, í afþiljuðu húsi. Steini svaf hjá föður sínum, en yngri börnin hjá Gróu. Á skilþilinu milli rúmanna var Brandur vanur að hafa vestið sitt; tóbaksdósirnar voru stundum í vasanum, en þó miklu oftar undir koddahorninu að framan; Brandur var, eins og flestir tóbaksmenn, vanstilltur í skapi, ef það var ekki við höndina, þegar hann fýsti að fá sér "tölu".

Morguninn eftir fyrstu réttir svaf Brandur óvanalega lengi fram eftir; hann hafði komið seint heim, kvöldinu fyrir, og verið kófdrukkinn. Piltarnir fóru að smala saman geldfjársafninu til rannsóknar og Gróa reis í fyrra lagi úr rekkju til þess að veita þeim kaffið. Þegar Brandur vaknaði, reis hann við olnboga, þreifaði undir sængurhornið við framstokk rekkjunnar, dró þar upp pelaglas fullt með brennivín, saup niður til miðs og fór svo að leita að dósunum. Undir koddanum voru þær ekki og í vestisvösunum var ekkert annað en tannstöngull og korktappi. Brandur fór að bylta til í rúminu og leita, en það var árangurslaust, svo smeygði hann sér í sokka og buxur, leitaði fyrst í sínu rúmi og fann ekki, þá fór hann að róta til í rúmi Gróu, reif upp undirsængina, rótaði til gæruskinninu sem var milli hennar og tréspónanna, fann ekki dósirnar - en fann þar nokkuð samt -saman vafið bréf - bréf til Gróu. Brandur hafði forvitni á að vita, frá hverjum það væri; bréfið var ekki langt, og þó var hann lengi að lesa það; stírurnar voru naumast úr augunum, stafirnir iðuðu, orðin stukku og línurnar dönsuðu - það var engin furða, þó hann væri lengi að lesa þetta bréf og vildi kynna sér vel efnið.

Þegar Gróa kom með kaffið var Brandur alklæddur og búinn að tæma glasið, hættur að leita dósanna og heldur þungur á svipinn; hann sagðist ekki vilja þetta bölvað kaffigutl og spurði hvern fjandann búið væri að flækja dósunum; um það gat Gróa ekkert sagt, en brást strax við og fór að leita í rúminu sínu.

"Þær eru ekki þarna; ég er búinn að leita þar," sagði Brandur í höstum róm.

Gróa fékk dynjandi hjartslátt og reif til tréspænina. Brandur stakk pelanum í brjóstvasa sinn, varð var um að eitthvað hart mundi í vasanum, gætti eftir hvað það væri, og þar komu dósirnar; hann beit af enda tóbaksins og skellti svo dósunum aftur.

"Að hverju ertu að leita? Ég er búinn að finna dósirnar."

"Það er gott," hún hélt áfram að leita.

"Kannski þú sért að leita að þessum skekkli?" hann rétti bréfið fast að andlitinu á henni; hún rétti snögglega úr sér og horfði til hans, bæði voru dreyrrauð; varir Gróu titruðu og nasaopið þandist út. Eitt eða tvö andartök, svo þreif hún í bréfið.

"Nei, ekki strax," hann kippti bréfinu af henni. "Ætlarðu samt að þræta?"

"Þræta - þræta fyrir hvað?"

"Fyrir ---, fyrir að þú hafir haft fram hjá, lagt lag þitt við Geirmund."

Aftur leit hún framan í hann; sömu augum og unglamb horfir á hund, sem hefur slengt því niður.

"Ég þræti ekki ---, en það var ekki von að vel færi ---, ég var seld og keypt, eins og hross. Þú gast keypt, þú áttir auðinn."

"Seld -, að þú hafir verið seld; ertu orðin bandvitlaus, kona?"

"Nei, ég er ekki vitlaus. Ég var sannarlega seld; ég fékk að smakka á því fyrstu árin, að þú áttir allt, bæði búið og mig; að ég átti ekkert, var að engu frjáls. Þú hefur ævinlega kúgað mig, eins og þér hefur verið unnt og loksins stolist í þettta bréf." Gróa var ákaflega fastmælt, það var líkt og hún biti sundur orðin. Svo gekk hún fram að hurðinni, leit fram fyrir og læsti síðan.

"Ég hef ekki stolist í neitt bréf; ég fann það, leit í það, og svo var sjálfsagt að ég læsi það til enda; eins snoturt og það nú annars er, þetta bréf."

"Jú, víst er það stuldur. Bréfið var til mín og þú átt ekkert með að lesa mín bréf - , ekkert með að stelast í þau."

"Þú ræður, hvort þú kallar það stuld eða öðrum illum nöfnum; en hér skulu þér ekki duga tóm hrakyrði; hér er óræk sönnun, sem þú skalt mega til að beygja þig fyrir; í þetta skipti skaltu þó lækka seglin."

"Brandur, fáðu mér bréfið; þú hefur engan rétt til að halda því ---; ég ber ekki á móti því sem var ofurlítinn tíma, en slaðrið sem þú hefur byggt á er fyrir það mesta haugalygi. Ég hef hrasað, en ég get svarið að allt milli okkar er nú slitið sundur. Mér hefur aldrei komið til hugar að yfirgefa þig, og ég vona og óska eftir, að sambúð okkar geti jafnast og batnað; mér er það full alvara."

"Ekki liggur nú á að fá þér bréfið, - þú gast hirt það betur, - þér dugar engin frekja; þú sérð, hvað vel þú stendur að vígi. Og ekki held ég það sé stórra þakka vert, þó þú hlypir ekki frá mér og börnunum okkar, frá búinu hérna ---, skárra hefði það verið bölvað farganið. Það er rétt passlegt fyrir þig að auðmýkjast svolítið; minna má það varla vera."

"Ég hef játað breyskleika minn og get fullvissað þig um það, að annað eins skal aldrei oftar koma fyrir; en þú ert ekki laus við galla og brot heldur; að drekka sig svínfullan er ekki hætinu betra, og drykkjuskapur þinn er ef til vill orsök til þess, að allt fór eins og það fór."

"Hérna ---, en það nær engri átt; er sú helvítis fjarstæða og viðbára; að jafna því saman, þó ég fái mér stundum í staupinu, og þessu athæfi þínu; það dytti engum í hug, nema þér. Ég verð aldrei sáttur við þig, nema þú viðurkennir brot þitt, breytir sambúðinni til batnaðar og sért betri kona, en verið hefur nú á síðkastið."

Hjónin héldu áfram að þræta og skattyrðast nokkurn tíma ennþá. Gróa brenndi bréfið; hún gat ekki annað en slakað svolítið til í þetta skiptið, gerði svo lítið úr ástum sínum og Geirmundar, sem unnt var; lofaði því, að vera þýðari í sambúðum framvegis en verið hafði og fullvissaði Brand um að hann þyrfti aldrei að óttast trúnað sinn hér eftir. Brandur sefaðist og varð skaphægara; þá færði Gróa samræðurnar að börnunum, hvað þau þyrftu bæði að vera samhuga og árvökul með að ala þau vel upp, í guðsótta og góðu framferði; spara ekkert til þess, að þau fengju sem besta fræðslu og þroska, það væri heilög skylda þeirra beggja og aðal ætlunarverk lífs þeirra; þau yrðu að lifa fyrir börnin, starfa samhuga að því verki, að manna þau sem best. Brandur fann, að þetta var fallega hugsað og skapið mýktist og mildaðist, þegar hann fór að hugsa um börnin, sælleg, glöð og uppvaxandi; sá bjartari daga blasa fram undan, en þá sem liðið höfðu, þegar þau bæði yrðu samtaka í búnaðinum, glaðari og ánægðari við heimilisheillina og óðalið á Fossi.

Gróa bauð honum kaffi, sótti fram könnuna, hellti í "bóndabollann" og bauðst til að sækja vín á pelann, ef hann vildi bæta svolítið í bollanum sínum með því. Brandur varð léttbrýnn við; þetta var óvanaleg umhyggja, sem honum þótti vænt um og vonaði að reyndist fyrirboði gleðilegri og ljósari daga.

Þegar Brandur var að drekka það síðasta úr bollanum, kom Steini litli hlaupandi inn og sagði að búið væri að reka féð í réttina, - hann hafði vaknað snemma þennan morgun, til þess að smala með vinnumönnunum og sjá féð.

"Hvað hún Hatta mín er orðin stór og falleg; ósköp hefur hún vaxið í sumar."

"Já henni hefur farið vel fram, hún verður gersemisær eins og kynið. En komdu nú til mín, lambið mitt, og kysstu hann pabba þinn."

Steini kom, lagði hendurnar um hálsinn á föður sínum og kyssti hann löngum kossi; svo til móður sinnar og kyssti hana líka; eftir það fóru feðgarnir út að réttinni.

Þegar þeir voru farnir, gekk Gróa fram á stofuloft, inn á herbergið þar, læsti hurðinni og settist á rúmið; greip báðum höndum fyrir andlitið og hallaði sér fram á borðið; það setti að henni ákafan grát; sat svona um stund og grét með þungum ekka; eftir það lagaði hún í rúminu og hallaði sér á koddann. Hún var dauðþreytt; óskaði að mega sofna langa, draumlausa, síðasta svefninum; fá frið og hvíld, losna við kvalirnar og lífsbaráttuna. Þetta kom eins og þruma úr heiðríku lofti; kom þegar hana varði minnst; þegar ástir þeirra Geirmundar voru slitnar í sundur og hún búin að sannfæra Brand um það, að allt væri slúður og álygi vondra manna; loftið svo kyrrt og mollulegt, þá skall bylurinn á, öskrandi útsynningur með hagli og hríðarfjúki. Hún gat ekki gleymt Geirmundi; hafði aldrei elskað hann eins heitt og nú, þegar þau voru skilin að samfundum. Öll ástarorð, brennandi faðmlög, titrandi hendur og algleymisnautn, sem þau höfðu notið á laun, vakti í hug hennar og hjarta; laðaði og seiddi með töfrakyngi; til þess fýsti hana, kunni engin tök á að sporna gegn þeirri ástríðu. Fossbæirnir voru svo óttalega dimmir og dapurlegir, síðan hann fór; mennirnir leiðir og ósjálegir; það lagði nákulda af Brandi, hann var svo ömurlega ófríður og óskemmtilegur ---, og þennan kulda átti hún að þíða, temja sjón sína og tilfinning svo, að henni þætti hann ánægjulegur, pynta sig til að láta svo, hræsna ást og umhyggju, það var hart lögmál, járnhörð skylda, sem ekki var hægt að forðast eða komast hjá; sem hún fastréð að hlýða svo sem kraftarnir leyfðu, þrekið orkaði, en nú var hún þreytt - gat svo lítið unnið, átti svo erfitt með að stjórna geði sínu og hugarþrá. Líða þessa kvöl ein, dylja alla menn harma sinna, sýnast glöð og ánægð; hafa engan vin né vinkonu, sem hún gæti leitað til, fengið huggun hjá, meðlíðun, svölun og traust. Það var vonleysis líf, sem nú horfði við; engin von glæðileg, nema börnin, blessuð börnin hennar; fyrir þau varð hún að lifa og vinna og hjá þeim varð hún að búast við fró og frið, ef henni nokkru sinni auðnaðist að njóta þeirrar blessunar framar, ef hún gerði sig verðuga þeirrar náðar. Og þá var að starfa, ekki dugði að leggjast í rekkju -. Gróa kipptist við, reis á fætur, þurrkaði augu og andlit vandlega, slétti hárið og lauk upp hurðinni, gekk fram loftið, ofan stigann og inn í búrið; hún fór að skammta morgunmatinn, en var alltaf líkt og í leiðslu, sá allt í leiðslu, bæði menn og málleysingja, dautt og lifandi, allt nema börnin, sem hún var sérlega ástúðug og kossmild við, og Brand; við hann var hún hálf hrædd, við hann þurfti hún að gera yfirbætur; þar dugði ekki vanstilling í geði, né kuldaleg sambúð. Hún varð að vera lagin og taka heppnum höndum á honum, svæfa bræðina og vekja trúna; en þetta var erfitt verk, þung spor, sem hún átti að ganga.


18. kafli

Vetur þessi var harður og illur. Frá því hálfum mánuði eftir veturnætur hafði alltaf verið jarðlaust á mörgum bæjum í Breiðárdal; fönnin var geysimikil; elstu menn þóttust ekki muna jafnmikil jarðbönn og harðindi, síðan fellisveturinn mikla. Það sló óhug á marga við þann samanburð, því fjárfellir er voðalega sár, bæði fyrir tilfinning manna og efnalegt sjálfstæði þeirra; með horfelli lamast sveitin, héraðið eða landsfjórðungurinn, sem fyrir honum verður, skortur og sultur, sundrung og trúleysi leggjast yfir mennina og kúga þá niður í moldarhreysin, á fletin gömlu, þar sem feður og forfeður höfðu setið og velt fyrir sér harðindunum, breytilegri veðuráttu, horfelli, hafís og hungursneyð; þar sem kjarkurinn dofnar, örvænting og trúleysi á landið, búnaðarháttu og alla jarðneska sælu lifnar og nærist; sundin lokast, allir stígar og götur fyllast af fannkyngi og hörkugaddi. Þar sem Íslendingurinn lærir tortryggni, draumóra um heimspeki og trúarmál, sveimhuga inn í óljóst andans ríki; lærir að þoka úr sessi, slaka til, beygja bakið og barma sér.

Nú var komin "mið-góa" og alltaf héldust harðindin; það varð naumast komist bæja á milli - skíðalaust - fyrir ókleifri fönn; flestir menn sátu kyrrir heima og voru samgöngur litlar og fréttir fáar. Erlenda matvaran sat í kaupstaðnum; engir höfðu brotist með hesta og sleða til þess að sækja hana um langan veg og vandfarinn; það var því lítið um kornbirgðir flestra bænda í Breiðárdal og, því miður, lítið um þær birgðir í kaupstaðnum sjálfum. Kaffi og sykur, tóbak og vín hafði verið flutt heim í dalinn, rétt fyrir jólin, og þó miklu minna en þurfa þótti; það er ekki mikill þungi, sem maður dregur á sjálfum sér í kafaldsfæri og hríðum.

Hey Dalverja höfðu að vísu verið óvanalega mikil um haustið, en nú var svo komið, að flestum var farin að miklast vetrarnauðin og heyforði þorra manna lítill orðinn. Það horfði til fóðurskorts, ef ekki batnaði veðurátta bráðlega.

Brandur á Efra-Fossi hafði margt kvikfé á gjöf, og honum þótti heyin hafa gengið fljótt til þurrðar hjá vinnumönnum sínum; ef þessi harðindi héldust til sumarmála, sá hann, að heyin mundu ekki hrökkva til að fóðra fénað sinn; að honum mundi ekki til setunnar boðið lengur. Hann fór því út í Dal til að leggja fölur á hey, annaðhvort til láns eða kaups. Veturinn hafði verið enn snjóþyngri í syðri hluta dalsins og menn þar því almennt heytæpari en Norðurdælir. Brandur leitaði fyrst til séra Jósteins; þar voru ekki hey aflögu, svo neinu munaði, en prestur ráðlagði honum að finna þá Breiðholtsmenn, þeir mundu heybirgastir allra norðanmanna; Sveinbjörn hefði rétt nýlega skoðað hey Geirmundar og sagt, að þó hann gæfi inni fimm vikur af sumri, þá mundi hann samt ekki þurfa að snerta þrjátíu bagga hey, sem hann ætti, og Sigfús stálbirgur. Hjá öðrum mundi ekki til neins að leita heyláns; þeir mundu engir hafa hey aflögu og sumir mjög tæpir. Brandi var örðugt um gönguna suður eftir, þó skíðafærið væri allgott; hann átti örðugra með að leggja fölur á hey hjá Geirmundi, en öðrum mönnum; til þess hafði Geirmundur gert of mikið á hluta hans, orðið honum Þrándur í Götu; og þó Brandur hefði fastráðið með sér, að viðurkenna ekki fyrir nokkrum manni, að neinn flugufótur væri fyrir orðræðum þeim, sem hafðar voru um þau Geirmund og Gróu, þá vissi hann vel, að hjónaástin hafði stórum kólnað og spillst fyrir hans skuld. Geirmundur hafði náð þeirri ást, sem honum bar sjálfum, bæði að lögum Guðs og manna. Vetur þessi hafði fært honum fullan sann fyrir því, að Gróa vildi ekki auðmýkjast, ekki vera honum hlý í sambúð, ekkert bæta fyrir brot sitt; að hún var afskiptalítil við búsýsluna, en bruðlunarsamari með mat og kaffi, en nokkru sinni áður; sat þrálát við sinn keip gagnvart honum, lét aldrei undan síga, seiglaðist við að toga sitt mál fram, þangað til hann sleppti hönkinni í bræði sinni; hönkinni, sem þau höfðu togast um svo oft og þrátt, stundum með hægð og gætni, stundum með kappi og fullu atfylgi. Vonin um, að hún mundi vilja bæta fyrir brot sitt, með auðsveipni og ástúð gagnvart honum, varð æ daufari og daprari, kólnaði og fölnaði, og þá kólnaði um leið ást hans og vinátta, brotið stækkaði og sortnaði; en bak við þetta lá óbeygjanleg þrá til þess, að njóta ástar hennar og ástaratlota; gat ekki óreiður hugsað hana í faðmi annars manns. Heimurinn og hjónabandið hafði svikið hann um ást, sem enginn átti rétt til, nema hann einn; fyrir þau vonbrigði varð hann vanstilltari og æstari í skapi, en áður hafði verið; hvað sem aflaga fór í búnaði og heimilishag, virtist honum stafa af þessu eina, að Gróa hafði svikið hann; hún, sem hann tók úr skortinum og volaðinum og setti í gott og rúmt húsfreyjusæti, hún launaði svona illa ást hans og umönnun. Það var ekki svo mjög ótítt, að gremjan, reiðin, ástin og fýsnin snerust á fleygiferð í huga og hjarta Brands, og ef hann skyldi þá skjótt til taka, gátu orðið mistök fyrir honum, svo að reiðin gengi fyrir ástinni eða fýsnin hoppaði við hlið gremjunnar, en þau mistök reyndust honum hvorki sigurauðug né farsælleg til unaðsbóta. Einu sinni hafði honum verið vel til Geirmundar; en þegar hann las bréfið og sá, hvað hann sagði við eiginkonu sína, þá opnuðust augu hans, sá Geirmund rétta ránshendi, hrifsa unaðinn og sæluna úr hjónabandi og samvistum þeirra; bræði og afbrýði rigndi yfir hann, líkast glóandi eldregni. Nú - þegar frá leið, og Geirmundur hafði sjálfviljugur fjarlægt og slitið þetta óheilla samband, þá var Brandur ekki jafn heiftúðugur til hans og honum hafði þótt líklegt í fyrstunni. Hann gat vel skilið og fundið, að það var ekki svo óeðlilegt, þó Geirmundi þætti Gróa falleg, felldi hug til hennar; hlypi eftir óstýrilæti æskunnar, léti sigrast af eldhita tilfinninganna --- Svo fór fyrir honum sjálfum, daginn sem hann batt með henni Þrúðu.... Langt var nú síðan, og lán var það, hvað hann slapp vel frá því öllu saman... En hitt, að Gróa hefði óðfús elskað hann; tekið hann fram yfir sig; orðið sér afhuga og óþjál - það var sárast - tilfinnanlegast. Við hana var hann gramastur; bæði hryggur og reiður hrösun hennar, sem aldrei yrði bætt fyrir.

Þegar Brandur kom fram að Breiðholti, fann hann fyrst Sigfús að máli og falaði hey frá honum; Sigfús tók öllu vel, en vildi litlu lofa; sagði að margir hefðu beðið og margir mundu nauðbeygðir að fá lán; hann gæti ekki látið hvern fá mikið, og að þverneita þætti sér ódrengilegt. Loks lofaði hann þó fimm vættum; meiru ekki, fyrr en fram úr sæi, vísaði til Geirmundar, sem bæði ætti hey aflögu og engu mundi hafa lofað ennþá. Brandur hlaut að finna Geirmund, honum var nauðugur sá einn kosturinn; hann var í lotnara lagi, þegar hann gekk í fjárhúsið til Geirmundar, og honum var erfitt að koma orðum að erindinu; það fann líka Geirmundur fljótt og liðkaði strax úr því, létti Brandi málið.

"Ég man vel eftir, að þú hjálpaðir okkur oft um heytuggu á vorin; ég tók eftir því - þó ég væri ekki gamall, að það var ævinlega gott og vel verkað; sá misjafnara úr öðrum stöðum; sérstaklega man ég eftir einu áfellisvori þá hefðu lömbin drepist undan ánum okkar, ef þú hefðir ekki hjálpað. Ég get að öllum líkindum misst eina tuttugu og fimm bagga; þá máttu fá, hvort þú vilt heldur til láns eða kaups."

"Já, ekki tel ég nú til skuldar, þó ég hafi einhvern tíma látið skroppu í poka að vorlagi; faðir þinn heitinn tók mér þá vik í staðinn. En mér kemur mæta vel að fá heyið, og ef ég má kjósa, þá óska ég helst að kaupa það - ég borga, áður en mjög langt um líður. Þessar ferðir eiga illa við mig, ég er þeim svo lítið vanur og vildi feginn vera laus við að fara þær margar."

"Það get ég ofboð vel skilið, og ég þekki þig svo vel, að ég veit þér er nær geði, að hjálpa öðrum um tuggu í poka, en að biðja þess."

Með sjálfum sér hugsaði Geirmundur: Nú er Brandur búinn að fá fulla vissu; það er ekki von honum sé ljúft að leita til mín. Hann er þó dáðadrengur í rauninni, og ég hef aldrei séð afbrot mitt, við hann eins glöggt og tilfinnanlega og nú; ég væri verri en hundur, ef ég reyndi ekki að greiða úr þessum flóka, eins og ég hef vit og krafta til.

Mesti áhyggjusvipurinn hvarf af Brandi; hann varð léttstígari og léttara um mál; fór að skoða féð og tala um, hvað það væri í ágætu holdi og bragðlegt. "Svona þarf að hirða það og svona á það að líta út; það er aumt að pína aumingja skepnurnar."

"Það er ekki margt á fóðrum hjá mér og annaðhvort væri, að ég nennti að hirða þolanlega... Þú gerir svo vel og staldrar meðan hitað er?"

"Þakka þér fyrir. Feginn verð ég að tylla mér niður um stund."

Brandur sat stundarkorn inni í baðstofu á Breiðholti, borðaði og drakk kaffi; svo fylgdi Geirmundur honum suðvestur yfir ána; þar stöldruðu þeir; Geirmundur spurði, hvernig gamli Brúnn fóðraðist; það var reiðhestur Brands, og þá orðinn átján vetra gamall.

"Hann hefur aldrei verið eins magur, aumingja klárinn; ég hefði átt að drepa hann í haust; það er skömm að fóðrinu hans seinni partinn í vetur."

"Ég skal, ef þú vilt, reyna að lofa honum að hanga með þeim rauða mínum, það sem eftir er vetrarins; ég hef aldrei borgað það, sem þú lánaðir mér vestur að Valla-kirkju hérna um sumarið."

"Mér datt aldrei í hug að selja það ---, en hitt skal ég þiggja; ég veit honum líður betur í fóðrinu hjá þér, en narningnum heima."

Eftir það kvaddi Brandur með alúðlegum kossi; í þann svipinn var hann búinn að gleyma, og fyrirgefa, öllu því, sem Geirmundur hafði gert honum móti skapi.

Ósköp gat Brandur verið nautheimskur og sljóskyggn; það var hægðarleikur að vefja honum um fingur sér; hann gat ekkert séð, engan grun fengið og ekki lagt trúnað á sannar sögur; þvílík fyrirmunun, sem yfir honum var; bandóður hefði hann orðið, ef hann hefði vitað, hvernig þau sviku hann; ausið yfir þau skömmum, eins og maklegt var. Það var einsdæmis hlægilegt, þegar Geirmundur fór að lána honum hey og taka af honum klárinn; eitthvað varð hann þó að þóknast honum fyrir konuna; það mátti varla minna vera, en að hann fóðraði reiðhestinn einn mánaðartíma; tæplega mundi það ofborgun fyrir allt og allt. Þetta og þvílíkt höfðu menn sér til dægrastyttingar í dalnum, þegar fréttist um erindi og erindislok þau, er Brandur hafði fengið í Breiðholti.

Veðurátta batnaði úr miðjum einmánuði og sauðfé og gripir lifðu af í þolanlegu holdi; Brandur keypti þrjátíu vættir heys af Geirmundi og kom með þeim hætti kvikfé sínu fram, án þess það liði tilfinnanlegan skort. Gróa lagði fátt til þeirra viðskipta; henni var sárt í geði til Geirmundar, sem hafði slitið sig alveg tilfinningarlaust burtu frá henni, til þess að draga sig eftir Þuríði, komast í daður við hana. Hann forðaðist, eins og heitan eldinn, að koma fram eftir, eins og að brenna sig á glóandi járni, að hún fengi færi á að tala einmæli við hann; honum var bláasta alvara, það mátti alveg ganga úr skugga um það. Henni fór að standa á sama, hvort hún var þvegin eða óþvegin, greidd eða ógreidd, vel eða illa til fara; þar, heima á Fossi, hirti hún ekki mjög um að skarta né búast vel; það var hver maður öðrum leiðari og óskemmtilegri; allir, nema börnin hennar og hressingin úr kaffikönnunni, sem hún trúði að létti af sér harminum og leiðindunum, væri sér flestra meina bót.


19. kafli

Fólkið í Breiðárdal sótti fjölmennt til tíða páskadaginn; færið var gott, tíðin blíð og hagstæð; harðæris- og fannarfargi létti af og vorvonin vaknaði. Alla menn fýsti út úr bæ; til að hreyfa sig í vorloftinu; hrista af sér húsrykið; rétta úr híðiskreppingnum; finna menn að máli, sýna sig og sjá aðra; skemmta sér og lyfta upp. Lífsfýsn, góðviðri, fjölmennisvon og guðrækni knúði mennina til að sækja vel kirkju þennan dag.

Sólin vermdi loftið og bræddi snjóinn; frá hverjum fannarskafli og svellglotta runnu leysingarlækir; niðandi og suðandi leituðu þeir fram; eftir götum og skorningum, niður eftir, niður að árglaumnum; þá fýsti til samkomunnar og sollsins í Breiðárálum. Sauðfé og hross fóru hægt og tómlega að því að velja það besta úr haglendinu; sumt lá og sleikti sólskinið, værugjarnt og ánægt með stundarvelgengnina. Það var ró og einskonar helgikyrrð yfir kvikfénu í dalnum; því leið vel í dag, úti í heilnæma loftinu; það varð líka fegið frelsi, ljósi og sjálfræði.

Mannþyrpingin gekk "sparibúin" innan úr bænum á Grund og af túninu þar; gekk hægt og gætilega til kirkjunnar, forðaðist að aur eða bleyta færi á sokkana sína og sem allra minnst á svörtu skóna með drifhvítu, nýsköfnu eltiskinns bryddingunum; einstöku strákar gátu þó ekki stillt sig um að stíga nærri pollunum og vatnsrennunum; þeir fengu líka flestir aurslettur yfir skóna, upp á ristina, svo sokkarnir dignuðu; en þeir ruddust eins einbeittir inn í kirkjuna fyrir því; þetta var sannur gleðidagur fyrir þá; í dag voru þeir lausir við að lesa fyrir prestinum og vonuðu eftir glímum, á hólnum, norðan við bæinn, þegar lokið væri messu. Ungu stúlkurnar hugsuðu sér líka til hreyfings í dag, að horfa á glímurnar, taka eftir ýmsu, skrafa saman og frétta margt skrítið; ef til vill komast einhvers staðar að dansgleði.

Kirkjan var full af fólki; í kórnum sat hver undir öðrum og krókbekkurinn var fullskipaður í dag. Menn sátu alvörugefnir og hátíðlegir. Séra Jósteinn lagði svo nákvæmlega út af guðspjallinu, sem nokkrum presti var unnt; boðaði mönnum fagnaðarboðskap upprisu frelsarans með mörgum orðum; dreifði ritningartilvitnunum með klerklegri snilld hér og þar um alla ræðuna, sem var skrifuð og gulnuð og máð nokkuð, en hjartnæm og dýrðleg, líkt og hún hafði verið í eyrum safnaðarins nokkrum sinnum áður. Margur roskinn maður var sá, er fann höfuga ró færast yfir sig, hvíld og værð og megnan hita; andlit fjölda margra urðu þunglamaleg og drátta slök; augnalokin sigu niður, hægt og hægt; höfuðin hnigu niður; samviskuró og helgifriður löðuðu til sígandi svefns. Gamall bóndi tók upp "pontuna" sína, snýtti sér og tók rækilegan nefdrátt, rétti hana að sessunaut sínum, sem gerði slíkt hið sama, og nú komu baukar, dósir og "pontur" á loft; nú var snýtt sér og tekið í nefið í bróðerni og sameiginlegu félagi; hnerrað af viðvaningum, sem voru ekki fullnuma í siðunum og hnerrað aftur, hnerrað í þriðja skipti. Margir voru þeir líka, sem lituðust um, horfðu fram í sætin, horfðu í djúp eða glampandi augu, gáfu og þáðu hlýlegt tillit, sem hreyfði blóðið, vakti af mókinu, lífgaði og hressti í kófhitanum.

Gróu virtist Geirmundi verða tíðlitið til Þuríðar, eins og hana grunaði lengi; hún sat dreyrrauð og kófheit, tapaði huganum frá ræðunni til hins allra heimslegasta hringsóls; þröngdi honum að ræðunni aftur, vildi taka vel eftir og gat það ofur litla stund, tapaði honum í gönur aftur, óskaði að hafa setið heima, óskaði margs annars; færði sig til í sætinu og þurrkaði sér með hvíta trafinu; hlýddi með kostgæfni eftir því, sem presturinn sagði um fögnuð kvennanna forðum; Marju frá Magdölum, Salóme og Marju móður Jakobs; datt Marja Jósteinsdóttir í hug og Þuðríður, leit til Geirmundar - víst glápti hann á hana núna - þau tóku víst ekki mikið eftir guðsorði, höfðu annað að hugsa; Gróa varp mæðilega öndinni; héðan af var ekki til neins að halda sér að ræðunni, hún gat það ekki, hugurinn stefndi í aðra átt.

Þröngin var geysimikil í kirkjudyrunum; menn streymdu út úr þeim svo ört, sem unnt var; gleyptu í sig hreina loftið og veðurblíðuna, lífið glæddist, andlit og svipir manna fjörguðust; úti var nóg rúm, nægt loft og frelsi; leggir og liðir liðkuðust, vöðvarnir stæltust og fjaðurmagnið óx. Tveir og tveir ræddu saman, gengu út í túnið spjallandi; í öðrum stöðum hjalandi hópar, hlæjandi fólk, sem var í kappi að fræðast og fræða, frétta og segja tíðindi. Nú fann enginn maður til svefns né sígandi drunga. Hér var vorloft, nú var vorið komið, ógnin og hríðin hætt að lemja þekjuna á hverju húsi, hætt að hræða allt kvikt með löngum, seigpínandi dauða.

Geirmundur og Sveinbjörn gengu út í hesthús, þar sem Rauður stóð, snögghærður, selfeitur, hvasseygur og vöðvastæltur. Sveinbjörn dáðist að því, hvað hann væri spikaður - hann hafði gert það líka um morguninn.

"Hann er fær um sprett núna, sá rauði þinn, sýnist mér."

"Já, og nú náði ég góðum vekurðarspretti úr honum í morgun; í kvöld skal hann mega láta hana til betur."

"Þú ferð ekkert heim í kvöld; við verðum að lyfta okkur upp, það er svo langt síðan tækifæri hefur fengist til þess."

"Auðvitað bráðliggur mér ekki á, að fara heim -, þú hefur upp á mörgu stungið, sem vitlausara hefur verið, en þetta."

"En við verðum að drífa upp nokkuð marga; það sem stofan rúmar af danspörum."

"Það verður óþarfa átroðningur; það hjálpar varla."

"Iss; vertu óhræddur; þú skalt fá fylli þína bæði mál og það er meira en flestar skepnur hafa átt að fagna nú um tíma."

"Satt er nú það, en við skulum ekki híma hér fram á kvöld -- kannski þeir fari að glíma."

Þegar þeir komu upp á hólinn voru nokkrir ungir drengir farnir að glíma og hópur jafnaldra stúlkna stóð þar hjá broshýr og smáhlæjandi. Þeir staðnæmdust og horfðu á um stund.

"Það hefði átt að fara í eina reglulega bændaglímu," sagði Geirmundur.

"Langar þig til að reyna við Bjarna í Felli? Hann er hér í dag og langar víst til að sýna frækleik sinn."

"Það getur ekki farið verr en í fyrra --; hann er helvíti sterkur - það líklega er ekki til neins."

"Satt er það; sterkur er hann --, hann hefur hælst um að leggja þig í fyrra."

"Svo ---. Það er þá réttast að lofa honum að hafa ánægjuna af því að raupa aftur yfir sigrinum næsta ár."

Tveir elstu og þrekmestu drengirnir voru sendir til þess að smala mönnum til glímunnar. Skömmu síðar byrjaði regluleg bændaglíma og var kosið á hnöppum; Sveinbjörn og Bjarni á Felli voru bændur; Bjarni var fengsæll á knárra liðið. Sveinbjörn varð að treysta á Geirmund, ef sigurs yrði auðið. Jafnframt og glímumannahópurinn stækkaði, að því skapi fjölgaði áhorfendum. Gróa valdi sér stöðu í mannhringnum, er stóð umhverfis glímuflötinn, gagnvart þeim Jósteinsdætrum og þó lítið eitt skáhallt við.

Glíman var sótt með fjöri og kappi; fækkaði skjótt drengjum og hinu óknárra liði, sem glímdi fyrst. Þá sendi Bjarni Svein bróður sinn fram og réðst Geirmundur móti honum. Sveinn snaraði sér úr treyjunni, en Geirmundur fór ekki af fötum. Sveinn brá leggjarbragði og rasaði Geirmundur við, en féll þó ekki; á sömu svipan, og hann réttist við, hvarf glímuriðan og um leið vó hann Svein upp á klofbragði og kom höfuð hans og herðar fyrst niður. Bjarni fölnaði og sendi Guðmund Ásbjarnarson móti Geirmundi og féll hann á sveiflu. Þá sendi hann Þórð í Grundarkoti og glímdi Sveinbjörn við hann og féll Þórður á öfugu leggjarbragði. Eftir það glímdi Geirmundur við bræður tvo frá Sléttabakka og felldi báða, var þó annar þeirra rammur að afli og furðu torveldur. Þá varð óp mikið og hlátur í liði Sveinbjarnar; þótti mörgum Geirmundur hafa ekið liði Bjarna drjúgum á bug. Nú gengur Bjarni fram á glímuvöllinn, snaraði frá sér treyjunni og mælti:

"Nú verð ég að fara; það er ekki öðrum til að skipa; þó til lítils sé fyrir mig; býst ég við, að reyna til að hefna Ingólfs á Sléttabakka."

"Geirmundur verður að blása mæðinni áður," sagði Sveinbjörn; honum skalf rómur.

"Best er illu aflokið. Það er réttast að láta Bjarna ekki þurfa að bíða mín þarna lengi."

"Varaðu þig á króknum," hvíslaði Sveinbjörn í eyra Geirmundar um leið og hann gekk fram á móti Bjarna.

Og um leið og þeir tóku glímutökunum lagði Bjarni hælkrókinn innanfótar; Geirmundur kiknaði við, en gat þó með hörkubrögðum snarað sér svo til, að Bjarna slapp bragðið, Gróa gætti einskis annars, þessa stundina, en horfa á Geirmund; hana langaði til, að hann bæri sigurinn frá borði. Þá sveiflaði Geirmundur Bjarna snöggt til og brá honum til sniðglímu með svo skjótri svipan, að Bjarni rauk þegar á hnakkann og dunkaði í hólnum við fallið.

Gróu var litið af Geirmundi og til Þuríðar, sá að hún var föl og horfði - horfði sem snöggvast í augu Geirmundar um leið og hann gekk til félaga sinna, og að Þuríður dreyrroðnaði við.

Bjarni bauð Geirmundi í aðra glímu, en Sveinbjörn sagði, að núna væri þessari bændaglímu lokið, það yrði þá að kjósa í annað skipti.

"Eða glíma svona eins og hvern lystir til," sagði Bjarni. "Viltu ekki koma í aðra, Geirmundur?"

"O-jú, það er ég til með."

Um leið og þeir gengu til glímunnar, heyrðu þeir að Brandur á Fossi sagði: "Helvíti var það fallegt bragð og snarlega fylgt."

Bjarni náði fljótlega króknum, en Geirmundur kiknaði nú ekkert við; hvorugur vildi sleppa bragðinu; það var aflið, snarræðið og harkan, sem hér hlaut að ráða leikslokum. Geirmundur var lægri vexti og jafnsterkari, Bjarni hærri, meiri á riðunum, sterkari í herðunum, með lotinn háls og herðabungu. Báðir spyrntu fast, mjökuðu sér til á öðrum fæti og reyndu að sveigja hinn aftur á bak. Þá gerði Geirmundur snöggt viðbragð; Bjarni tapaði bolmagninu, rauk aftur á bak og Geirmundur á hann ofan. Bjarni stóð seint á fætur.

"Eitthvert ljótasta og nautslegasta bragð er krókurinn," aftur var það Brandur á Fossi, sem talaði.

"Helvíti er Geirmundur orðinn knár og ágætlega snar," sagði Jón í Svartholti.

"Við skulum fara í þá þriðju," sagði Bjarni.

"Það er best að fara heldur í aðra bændaglímuna til."

"Rétt í eina... Þorirðu ekki í eina enn, Grómundur? ... Geirmundur ætlaði ég að segja."

Geirmundur varpaði sér þegjandi fram á völlinn; báðir gripu tökunum; í sömu svipan hljóp Geirmundur undir Bjarna, lagði á hann mjaðmarhnykk og renndi honum fram af sér.

"Allt er þá þrennt er, Bjarni minn," sagði Geirmundur; hann var náfölur í andliti.

Bjarni gekk þegjandi til Sveins bróður síns og tók treyjuna sína, en blóðbogar stóðu úr báðum nösum. Geirmundi varð hverft við og spurði, hvort hann hefði meitt sig mikið.

"Ég meiddi mig ekki það teljandi sé og á vanda fyrir nasadreyra. Það þarf ekki að stumra neitt yfir mér--, þú hefur annað þarflegra að gera með tímann núna, býst ég við."

Geirmundur gekk þegjandi burtu. Sveinn og Bjarni fóru niður að læknum. Margir gengu burtu frá glímunum og margir voru eftir við þær, einkum unglingar, sem nú gátu komist betur að. Ingólfur frá Sléttabakka bað Geirmund að kenna sér mjaðmarhnykkinn, og svo glímdu þeir um stund og Geirmundur sagði hann mundi sigursælli með klofbragðinu en hnykknum, þar þyrfti hann ekki annað en litla æfingu, til að verða slyngur, enda mundi það bragðið honum tamara og eðlilegra.

Skömmu síðar gengu þeir Sveinbjörn og Geirmundur saman niður eftir túninu.

"Nú hefur Bjarni ekki mikið til að hælast um," sagði Sveinbjörn.

"Nei, það held ég nú varla; en hann þoldi ekki mátið; hann var blóðreiður og lét allt of mikið á því bera í viðurvist svo margra manna."

"Þér hefur farið drjúgt fram árið að tarna."

"Eða Bjarni hefur verið illa fyrir kallaður, sem ég held helst að hafi verið."

"Heldur þótti mér það betur, að þú gast lagt hann - og það svona greinilega."

"Mér þótti það nú líka; en þar fyrir er ekki víst, að ég eigi ævinlega sigurinn vísan; Bjarna getur gengið betur í annað skiptið."

"Veistu að hann er að draga sig eftir Þuríði?"

"Nei, ekki hef ég tekið eftir því." Geirmundur hafði nú samt með sjálfum sér grun um, að svo væri.

"Hann stendur til að verða efnaður og hefur orð fyrir að vera álitlegt búmannsefni."

"Það er líklegt að svo sé."

"Hvað --, er líklegt að hún gangist fyrir auðnum og kistlinum hans, áttu við það?"

"Ég á við það, að flestum þyki Bjarni líklegur til góðrar forstöðu; hann er af því bergi brotinn og hefur ágæta stoð með efnahaginn."

"Ekki sýnist mér það neitt fýsilegur ráðahagur og ég held henni sýnist það ekki heldur. Bjarni er heimskur og fremur hranalegur."

"Hann er ekkert heimskur - en það er satt, hann er ekki laus við hitt; annað slagið getur hann verið það."

"Hann gengur ekki í augun á kvenfólkinu."

"Það er varla von til þess."

"Varla von --- hæ, hæ, ho, ho. Þér virðist það; en það væri nú hugsanlegt, að þú kynnir að vera rangsýnn í því tilliti."

Geirmundur roðnaði. "Verður ekki ótækt ónæði og vafstur við að eiga við dansinn? Ég er helst að hugsa um að fara heim."

"Foreldrar mínir eru hættir við, að skipta sér nokkuð af honum. Það er ekki um annað að tala, en létta sér duglega upp í kvöld."

"Þá verð ég að finna Sigfús og biðja hann fyrir verkin mín; ég reyni til þess, að leika mér í lengstu lög, segja sveitungar mínir."

Eftir að þorri fólks var farinn heimleiðis frá messunni, byrjaði dansinn hjá æskumönnunum í Grundarstofunni. Geirmundi virtist það deginum ljósara, að Bjarni í Felli felldi hug til Þuríðar; hann leitaðist við að dansa við hana svo oft, sem færi gafst, og varð tíðlitið til hennar í meira lagi; meir en góðu hófi gegndi, fannst Geirmundi; honum geðjaðist illa að Bjarna, þótti hann frekur í lund og ofláti - það væri tilfinnanleg ógæfa, ef hann fengi bestu stúlkuna í Breiðárdal; ógæfa fyrir hana og ógæfulegt, að þurfa að horfa þegjandi á önnur eins mistök mannlífsins. Þuríður var rjóð og broshýr; það sýndist svo, sem henni þætti gaman að dansa við Bjarna; geðjaðist maðurinn vel. Hvað kom Geirmundi það við, þó hún felldi hug til Bjarna - ? Hún stóð svo miklu hærra en hann, var of góð handa jafn heimskum og hranalegum manni. Hún var of einlæg og auðtrúa; það var líklegt, að Bjarna tækist áform sitt; sigursæll er góður vilji, og ekki skorti vilja og viðleitni hjá Bjarna. En hvað var hann sjálfur að hugsa ---? Gat hann engum unnt þess, að njóta Þuríðar --? Var honum óbærileg kvöl, að hún giftist? Við það varð hann að venja hugann, temja tilfinninguna. Fyrr eða seinna hlaut svo efnileg stúlka að giftast. Og fyrir hann, sekan og merktan, var þögn og þolgæði einu og réttu úrræðin -. En hann var ekki þollyndur -, systurástin var honum ekki nóg; að minnsta kosti ólgaði blóðið, ef hann hugsaði til þess, að Bjarni héldi henni í faðmi sér; hvorki Bjarni né nokkur annar maður ---. Nú varð hann að líða fyrir glöp sín og afbrot; því, ef hann hefði ekki sokkið svona djúpt; verið hreinn og góður og atorkusamur; hvað var það þá undarlegt eða óhugsandi, að hann hefði náð meiru en systurást, að hann hefði með tímanum og ástundun góðra mannkosta unnið til svo góðs kvonfangs?

Bara hann gæti varað Þuríði við Bjarna... En við hverju að vara? Því fór hann ekki heim þetta kvöld? Það var þetta gamla ósjálfstæði, gleðilöngun og kvenelska, sem réði málalokum. En ef Þuríði væri nú eins heitt um hjartaræturnar og honum? - Ekki var tillit hennar í dag og kvöld ólíkt því; hún hafði fyrri litið til hans þeim augum, sem gátu gefið von... Mikil voða óstjórn braust um í brjósti hans; - þessi voru laun brjóstgæða hennar, blíðlyndis saklausrar vináttu; hún kenndi í brjósti um hann, vildi leiða hann frá myrkrinu til ljóssins og þá hugsaði hann svona illa og syndsamlega. Nei, svo djúpt var hann þó ekki sokkinn ennþá, að hann tæki ekki í taumana við aðra eins óstjórn, slíka fjarstæðis heimsku. Honum flaug í hug að steypa Bjarna á hausinn, hlaupa burtu úr stofunni, söðla Rauð og ríða honum á rokspretti heim; burtu úr dalnum, frá öllum ástríðunum, sem þyrmdu yfir hann hér í átthögum hans. Rétt búinn að slíta sig frá Gróu og hlaupa svo taumlaust með hug og hjarta til bestu og göfugustu stúlkunnar í dalnum; reyna að sigra hana, svíkja sig út, eins og gallaklár í hestakaupum. En var Gróa ekki sek í að svona fór, svona var gengið? -- Að einhverju leyti kannski --- Kenna henni um, velta sökinni af sér og yfir á hana?... Nei, nú var ekki lengur sitjandi yfir slíkum hugrenningum; hann var að verða ær og örvita. Þá var nær að dansa og hafa þó gát á sjálfum sér.

Geirmundur spratt á fætur, greip Þórunni systur sína og snerist fram á gólfið; næsta par í hringnum var Bjarni og Þuríður. Hann ætlaði aftur að dansa við Þórunni næsta dans, en Sveinbjörn varð fljótari; þau stigu fyrst fram á gólfið, þá Bjarni og Þuríður og svo hin önnur á eftir. Marja greip í handlegg hans.

"Það verður að taka þig, annars siturðu eða hangir einn eftir úti í horni. Það væri efnilegt með skemmtunina hérna í kvöld, ef þeir væru eins hengilmænulegir hinir," hún hló framan við hann.

"Þú ert samarítinn, eins og vant er. Því segi ég: Margir reyna að breyta eftir honum, en enginn getur það svo orð sé á gerandi, nema bara hún Marja litla á Grund; hún er til þess fædd og í heiminn komin." Svo tók hann danstökunum og þaut með hana í loftinu fyrstu snúningana. Marju flaug í hug, að hann væri drukkinn, en sá strax, að það var þó ekki.

"Við skulum ná sporinu, Örskiptinn; láttu nú ekki eins og fjörvilltur hestur."

"Hún talaði og það varð. Sko, er þetta ekki að verða samstiga og dansa eftir hljóðfallinu?"

Marja þagði; hún gat ekki neitað því, að Geirmundur dansaði betur en hinir karlmennirnir.

Geirmundur tók eftir því, að Guðrún frá Felli dansaði varla neitt; hann gekk næst til hennar og bauð henni í dans.

"En ég er svo óvön, kann varla sporið," sagði Guðrún og roðnaði.

"Og við skulum sjá, hvort það tekst ekki; þetta er ekki neinn galdur, sem torvelt er að læra. Þú ert ung og mátt ekki sitja og horfa á; þeir læra allir hótfyndni og leiðinlegar hártoganir gjörða annarra, sem venja sig á hornseturnar," sagði Geirmundur brosandi.

Geirmundur fann að Guðrún mundi lítt vön dansinum; fann einnig, að hún mundi gjarna vilja læra og geta fylgst með gleðinni. Ég geri ekki annað betra í kvöld, en koma henni í stöfun þessarar nýtísku íþróttar, sem allir unglingar sækjast eftir, hugsaði hann.

Og Geirmundur efndi það loforð sitt. Guðrún var fús námsins og lærðist því furðu fljótt að geta dansað svo sæmilega, sem kröfur manna þá heimtuðu. Hún hafði séð Geirmund dansa áður, og hún vissi, að ekki voru þar aðrir slyngari en hann; henni leiddist að sitja aðgerðarlaus og horfa á aðra dansa, þráði að fylgja með, eins og hinar stúlkurnar. Og Geirmundur spjallaði og spaugaði, svo hún gleymdi að vera feimin, fannst þau strax vera orðin kunnug, og hann gerði það, sem Bjarni bróðir hennar hirti ekki um, að koma sér á framfæri við dansinn. Geirmundur var þó víst í rauninni lipur og góður. Guðrún var sautján vetra gömul og eðlilega næm, bæði fyrir þýðlegu viðmóti og því, að fram hjá sér væri gengið, eins og hún væri brúða, sem aðeins gæti setið.

Sveinbjörn vildi breyta til; hvíla sig frá dansinum og fara í "Pantaleik". Bjarni studdi það mál, en Geirmundur var þvert á móti því og systur, Marja og Þuríður, fylgdu honum.

"Spilaðu fyrir dansinum, Marja, og þá skal ég sjá um, að nógu margir verði á gólfinu," sagði Geirmundur.

"Og þú með Guðrúnu Fellssól, vænti ég," hvíslaði Marja og byrjaði að spila.

Geirmundur gekk til Þuríðar og bauð henni dans; fann að hún titraði um leið og hann tók í höndina og lagði hina yfir mitti hennar; dró hana nær sér, þrýsti ofurlítið hvítu, smáu hendinni, og bæði snerust vakurlega á dansgólfið; engin minnsta hreyfing tapaði samræmi; hjörtun slógu hart og títt, fótatakið var sviflétt; stundarmunaðurinn sté þeim til höfuðsins, líkt og vínölvan; töfraði allt í einu líðandi vikivaka, brennandi Jörfagleði; nokkur algleymis andartök; þá þagnaði "harmonikan" eftir langan "vals", augun mættust; blóðið dunaði logheitt í æðunum; hvorugt talaði nokkurt orð; en á þeirri stundu varð von beggja að augnabliks vissu, sterkri og alsælli sigurgleði.

Geirmundur tók hvern vekurðarsprettinn öðrum betri úr þeim rauða sínum, daginn eftir, þegar hann reið heim; tók með meira valdi, en vandi hans var til, og var óspar á klárnum. Í brjósti hans óx vonin, lík rósarknapp, áður en blöðin breiðast út; drakk næring og þroska af hjartablóði hans. Það var langt frá því, að hún felldi hug til Bjarna. Tillit Þuríðar og hin djúpu talandi augu, stóðu honum stöðugt fyrir hugarsjónum; augu, sem kunnu ekki tál né fals, sem litu til hans, meðan hann hélt í glóðheita höndina, hrein, spyrjandi og frán. Roðinn rann yfir andlitið, litsterkur og æskuheitur, svo laut hún höfðinu mild og blíð; lík hávaxinni fjólu, sem hallar sér að beinvöxnum, dimmgrænum skógviðarstofni. Nú þorði hann að líta upp í heiðloftið; þorði að ganga til fangs við lífið; brjóta sér braut; stíga yfir torfærurnar; styðja hana; skýla henni og bægja öllum háska burtu. Vonin gaf honum þor og afl; áhyggjurnar og skuggarnir viku fjær og fjær; sárið, sem hann hugði ólæknandi, greri; örið varð að vísu eftir, það varð hann að bera til banastundar. Frá þessari stundu var hans helgasta skylda að safna fé, staðlyndi og mannsæmd.

En heima á Grund sat Þuríður í leiðslu og draumi; vonin skalf í hverjum blóðdropa, titraði í hverri taug. Hún sá Geirmund varpa Bjarna flötum, sá hann gera það þrem sinnum. Þar var enginn maður jafn vasklegur og knár; enginn jafn fótmjúkur né snöfurmannlegur. Hvað hann dansaði vel, gat borið hana og varið, án þess að mæðast nokkuð; með honum væri lífið gleði og dans. Ljómandi sterkleg og falleg var höndin, sem geymdi hennar hönd svo mjúklega í lófa sínum, stundin stutt, sem hún titraði þar. En glampinn í augunum? Hann var undarlegur; sterkur og óskiljanlegur; hún þoldi ekki að horfa á hann, nema sem snöggvast; það var eins og hún ætlaði að hníga niður; halla sér að honum, sem stóð fastur og beinvaxinn; tók ró og sjálfsvilja frá henni; að honum, sem sigraði önd og líkama með augunum. Því dansaði hann ekki nema þennan eina dans við hana, en svo langmest við Guðrúnu í Felli --? Var það af því hún sjálf dansaði tíðast við Bjarna? Leist honum Guðrún sjáleg? Eða var það af því að hinir piltarnir dönsuðu varla neitt við hana? Miklu var Guðrún laglegri en Bjarni; hann var óttalega hrottalegur maður; henni stóð stuggur af Bjarna, óttaðist bónorð og ást hans. Ég neita bara. Neita, hvað sem pabbi og mamma segja. Ég er svo ung, segi ég. Ung, og þó elska ég, elska mann, sem hefur í þungar raunir komið. Ó! það var svo sárt, svo helsárt --; því er öllu lokið nú, og hann hefur liðið ótrúlega mikið... Og hann getur ekki.. þorir ekki að segja neitt. Svona svipur, þessi augu... Ég veit það; finn það. Hann er enginn falsari. Honum er hjartans alvara.


20. kafli

Heyvinna var sótt fast og kappsamlega í Breiðárdal þetta sumar. Fóðurþröngin var flestum í fersku minni, og fýsti fáa til að reyna slíkt aftur, ef annars væri úrkosta. Brandur á Fossi hafði meira lið en undanfarin sumur, og þótti heldur vinnuharðari en áður. Gróa kvartaði um það við vinkonu sína, hvað Brandur heimtaði mikla vinnu af sér og væri ónærgætinn með matreiðslu og búverk; hún hefði aldrei verið jafn lúin og svefnlaus og þetta sumar.

Geirmundur var húsmaður í Breiðholti og fjölgaði sauðfénu. Keypti ær fyrir heyverðið frá Brandi og verslaði öllu, sem hann komst yfir, til fjárkaupa. Kappið óx, til að safna sem fljótast efnum og auð; hann vann eins og hamhleypa, sögðu Breiðholtsmenn og nábúarnir; þeir vissu ekki, hvað það var, sem gaf honum eljan, þrek og ákafa til þess að vinna og safna. Þó hann sæi Gróu, ólgaði ekki blóðið; hann gat vel stjórnað sjálfum sér. Viðkvæm hluttekning með hörmum hennar og iðrun yfir því, að hafa aukið þá, sært hjarta hennar og svert sæmdina, var komin í stað ástarinnar. Honum var ennþá hlýtt í þeli til hennar og áleit skyldu sína að sýna henni aldrei annað en vinsamlegt viðmót; en hann forðaðist, að þau væru tvö ein, forðaðist að koma að Fossi eða tefja þar nokkuð.

Bjarni í Felli vanrækti ekki messuferðir þetta sumar, og Geirmundur var líka kirkjurækinn, engu miður en áður hafði verið. Þuríður hefði mátt vera tornæmari, en konur almennt eru, ef hún hefði ekki skilið, hvað Bjarna bjó í skapi; hann hafði að vísu ekki látið ást sína í ljós með ákveðnum orðum, en sá sig aldrei úr færi að gefa henni í skyn, hvað mikils hann virti hana, hve fögur hún væri, og þvílík fagurmæli, sem oft láta vel í eyrum, en stundum geta verið leiðinleg og þreytandi. Svo virtist Þuríði; hún vildi ekki skilja Bjarna og dauðleiddist komur hans og vinfengi; en Bjarni var þrár í skapi og þolinmóður að fá þessu máli framgengt; hann fór til móður sinnar og hún til prestskonunnar og þannig fluttist bónorðið, enda tók prestskonan málinu vel og líklega; minntist á það við Þuríði, sem veik öllu frá sér og bað móður sína að sækja ekki það mál, sér léki ekki hugur á giftingu og hún mundi aldrei verða Bjarna unnandi; móðir hennar beið betra dagsráðs og vonaði eftir sigri, þegar fram liðu tímar, og þau næðu að kynnast betur.

Öðruvísi var því varið með Geirmund; hann var alúðarvinur Sveinbjarnar og kunningi þeirra systra; séra Jósteinn var alúðlegur og vinsamlegur gagnvart honum, en húsfreyjunni var fátt um hann gefið og fálát í viðmóti; þótti hann smárrar ættar og helst til framgjarn, ef til vill eitt enn, sem hún þó aldrei nefndi á nafn. Þuríður gerðist alvarlegri en áður, engu miður en Marja, sem þó var nokkru eldri og fjörminni að eðlisfari. Hún óttaðist bónorð Bjarna, og að það mundi fá meðmæli beggja foreldranna; hann var sonur efnabónda og talinn líklegur til góðrar fjárgæslu. Og Geirmundur virtist eitthvað breyttur; var litverpur, ef þau hittust tvö ein, stirt um mál og hugsunarreikull. Það var líkast því, sem þau væru að fjarlægjast, því hún kunni heldur ekki lag á líflegu samtali, né jafn eðlilegu og áður hafði verið. Vináttan, systurleg og innileg vinátta, var ekki nóg, ekki nógu heit; hjartað þráði meira - og svo hafði sú vinátta fengið annan blæ, eftir páskana þetta vor, þyngri, dulari, óljósari og hverfulli. Vonin, óttinn um vonbrigðin, ástarþrá og feimni breyttu lund Þuríðar, gerðu hana dulari, alvarlegri og viðkvæmari.

Mörgum þótti undarlegt vinfengi það, sem Geirmundur hafi fengið hjá "prestsfólkinu". Hann hafði lag á að smjaðra sig inn á það, rétt sloppinn úr óstjórninni og lausunginni á Efra-Fossi. - Það þekkti hann ekki nógu vel; vissi ekki, hvern mann hann geymdi; hann kunni að dyljast, og séra Jósteinn var of hrekklaus og vandaður maður, til þess að gruna aðra um undirferli, og svo var hann gamall og ókunnur háttsemi sóknarbarna sinna; var tæplega fær um að þjóna brauðinu. En konan, sem var svo ern og frísk og skarpskyggn, að hún skyldi líða að börnin - sérstaklega Sveinbjörn - hefðu svona mikla vináttu við þennan strák. Það var ótrúlegt og ergilegt; þó þau sjálf væru gálaus og óvarkár, þá átti hún að bera vit fyrir þeim, benda þeim og stjórna til hins betra. Og mæðurnar báðu dætur sínar þess, að forðast Geirmund sem best; hann væri flár og lauslyndur; allar dæturnar svöruðu á þá leið; að það væri engin hætta um sig, þær væru ekki svo blindar; roðnuðu og hugsuðu með sjálfum sér, að enginn maður í dalnum væri þó knálegri, hvatari og skemmtilegri í samkvæmum og dansleikjum, en þessi strákur, sem var blómlegur, sviphreinn og bjartur yfirlitum, broshýr og spaugsamur og viðfelldinn, hvert sinn, sem hann var tekinn tali. Ævintýrið frá Fossi var ljótt; en það hvarf undarlega fljótt, það soralegasta af því, þegar þær hugsuðu það í einrúmi, með sjálfum sér og í sambandi við hann, og eftir varð skáldlegur töfrandi, sem jafnan fylgir ástinni, ef ungt, heilbrigt fólk veltir þeim ævintýrum í eigin huga.

Vonin, veik að vísu, en þó lífsglæðileg og fögur; hún hvatti Geirmund fram; ennþá var þó vor æskunnar, enn var hægt að lifa, þroskast, gera yfirbætur vanhyggjunnar; vinna sjálfum sér til frama og öðrum til gagns. Þá dugði ekki að liggja á liði sínu; nú varð að neyta kraftanna, safna fé, bæta jafnt og stöðugt við; þeim fylgdi afl til framkvæmda og þor til úrræða - og þekking og mannvit er líka ómissandi hjálp og vegvísir; Geirmundur gleymdi engu, sem hann hafði numið, rifjaði upp og jók við. Bending Þuríðar var ljós, sem lýsti veginn, hvatti fram; enda reyndust honum góðar bækur bestu og tryggustu vinir á öllum einmana stundum sínum. Hugurinn hvarflaði víða; með söknuði og angri fram að Fossum, til barnslegra minninga, sumra ljúfra, sumra biturra; til annarra minninga, sem meinbugir fylgdu og vörpuðu skugga yfir og þó voru þar sólskinsblettir, hreinir og heiðir. Yfir að Grund, þar var fegurst og bjartast; til Bjarna í Felli og þá flaug honum jafnan í hug, að fella hann á sniðglímu, eins og á hólnum; láta hann aldrei varna sér veginn, stemma stiguna. Láta hann aldrei grípa sigurvonina úr höndum sér. Bíða ekki aðgerðarlaus, meðan Bjarni berðist til sigurs. En hvenær sem tækifæri gafst, dóu orðin á vörunum, brutust um í brjóstinu, en komust ekki lengra. Brotið hefti og lamaði; vináttan tafði og óttinn fyrir málalokunum, sem voru svo fjarska óviss, vafði honum ástarorðin um tungu. Þó hann sakaði sig um þróttleysi á eftir, fyndi orð, sem táknuðu að mestu tilfinningarnar, þá gleymdust þau, þegar hann hafði næst færi á að tala við Þuríði.


21. kafli

Afmæli Bjarna á Felli var um haust; hann var nokkru elstur, þá Sveinn, og Guðrún var sex árum yngri en hann. Bjarni var augasteinn og eftirlæti móður sinnar; það hafði ætíð verið vandi, að bjóða nánustu ættingjum í afmælisveislu hans; en þetta haust var boðið fjölmennara, en nokkru sinni áður, prestshjónunum frá Grund og börnum þeirra, ættingjum nokkrum, eins og vant var, og ungu fólki til gleði og skemmtana. Þá átti og að nota í fyrsta skipti nýþiljaða stofu, allrisulega, sem Bjarni hafði verið forgöngumaður, að byggð yrði.

Hjónin frá Grund sóttu boðið. Sveinbjörn og Marja voru fús fararinnar, en Þuríði var ekki ljúft að fara, þó hún fylgdist með skyldmennum sínum; hugsaði um Bjarna og örugga vörn - um Geirmund, sem sat heima, og móður sína; hvað Sveinbjörn var ólíkur föður sínum og breytilegur, að sækja svona fast eftir að gefa Bjarna gott tækifæri; vilja fara með sig til hans og þeirra í Felli - um hugardrauma, sem ekki vildu rætast; hún hefði átt að leggjast veik þennan morgun, en sá það of seint eða fékk of seint þrek til framkvæmda; slá því ryki í augu móður sinnar og systkina.

Geirmundur vissi vel um þetta boð, sem var stofnað Bjarna til byrs og gleði, en honum sjálfum til óróa og kvalar. Þó hann væri að lagfæra veggi og bæta húsið hans Rauðs, og þótt þörf væri, að gera mikið við suðurvegginn, þá gat hann ekki ráðið við hugann; sem alltaf þaut út að Felli, hratt Bjarna og tók Þuríði fastatökum. Svitinn spratt í stórum dropum af enninu; verkið gekk seint og dapurlega, þó veðrið væri fagurt og jörðin, þíð og haustþögul, benti til kyrrðar og friðar. Hafði Þuríður farið? Hafði hún verið glöð og fús til þeirrar farar? Eða, var hún lasin og sat heima? Auðvitað höfðu þau farið öll frá Grund og ekkert var eðlilegra en það, að hún færi með glöðu geði. Nú var þá Bjarni loksins búinn að nota sér góða afstöðu, og hvað hann stóð vel að vígi. Sjálfur hlaut hann að standa aðgerðarlaus og láta hendurnar í vasana. Bjarni gat starfað og Bjarni hafði þrek til að rétta hendurnar eftir hnossinu, sem báðir þráðu, en hann þorði aldrei að rétta fingur eftir. Þessi voru gjöld yfirsjóna hans og afbrota. Makleg gjöld, en svo afar þung og þreytandi; hugurinn og ástríðurnar gerðu honum heimaveruna og vegghleðsluna óbærilega; í dag eirði hann illa við moldarstörf og heimameltu.

Skömmu síðar reið Geirmundur út eftir grundunum; hann ætlaði út að Bröttuhlíð, sem var ysti bær í Breiðárdal, austanverðum; þangað átti hann erindi, og gerði ekki ráð fyrir heimkomu sinni um kvöldið.

Boðsfólkið í Felli hafði gengið út, til þess að draga að sér hressandi útiloft; því hafði orðið hlýtt við snæðing steikarinnar og kaffidrykkjuna. Þuríður og Marja stóðu saman - Þuríður hélt sér fast að systur sinni þennan dag -, horfðu austur fyrir ána, yfir í fellið, sem stóð dimmblátt upp í urðum og hömrum, bleikt neðar, skógkjarrið stóð lauffölt og þögult í kyrrviðrinu og neðst móleit mýrsund og gráir harðvellisbakkar með ánni.

"Hér er víst fallegt, þegar allt er í blóma," sagði Marja.

"O-já, það er líklega fremur það;" Þuríður þekkti ofur vel þennan hest, sem þaut eins og elding norður bakkann; kom á harða stökki sunnan fyrir Ennið og hélt sprettinn langt út fyrir bæ. Hún þekkti líka fullglöggt mann þann, er á hestinum sat, og gráa hundinn, sem teygði úr sér rétt aftan við hestinn; hún fann blóðið streyma á flugaferð, eins og þeir voru á.

"Þetta er enginn annar, en Geirmundur á Rauð sínum," sagði Sveinbjörn.

"Hann er að búa hann undir veturinn; skárri er það bölvuð reiðin." Bjarni leit til Þuríðar, en hún horfði norðaustur á bakkann og þagði.

"Geirmundur sér um, að Rauður þurfi ekki að standa á gaddinum í vetur; það er klár, sem hefur fallegt fóður."

"En það er dýrt, að eiga hest, bara til að stássa og stæra sig af."

Þuríði virtist Sveinbjörn óþolandi seinn til svars fyrir vin sinn.

"Það er ekki stærilæti né mont; honum þykir fjarska vænt um hestinn, sem vonlegt er; en hann brúkar hann ekki svo lítið," sagði Sveinbjörn.

Bjarna leist ekki ráðlegt að ræða meira um Geirmund að sinni; hann tók eftir litbrigðum Þuríðar.

Þegar hálfrokkið var, vildu prestshjónin halda heim, og ekki dugði að letja þau, en Þuríður vildi með engu móti, að þau væru ein á ferð; sagði það væri réttast, þau héldu öll hópinn. Bjarni bauð mann til að fylgja hjónunum, en vonaðist eftir, að systkinin yrðu eftir til að dansa og gleðja sig. Sveinbjörn tók því glaðlega, en systurnar fýsti heldur heimferðar; þá lagði móðir þeirra orð til styrkingar máli Bjarna; fannst eðlilegt, að unga fólkið létti sér upp í sakleysi, svona endur og sinnum; í nótt yrði blítt veður; þau gætu glatt sig lengi og haldið heim, hvenær sem þeim sýndist; það rækju engar annir eftir mönnum núna, og mætti vel taka sér svolitla frelsisstund. Þuríði var hverft við; svona hafði móðir hennar aldrei talað um dans og gleði þeirra áður. Hér liggur fiskur undir steini, hugsaði hún, en ég læt, sem ég hafi engan grun um það. Úrslit málsins urðu þau, að prestshjónin héldu heim, en unga fólkið hélt áfram dansgleðinni. Aldrei hafði Bjarni látið tilfinningar sínar jafn skýrt og ákveðið í ljós koma; vínið gerði hann kjarkbetri og djarfari; aldrei hafði Þuríði þótt hann eins leiður og ógeðfelldur og nú; þess berorðari sem hann varð, því orðstyttri gerðist hún. Bjarni hafði fastráðið með sjálfum sér, að koma fram bónorðinu áður en afmælisgestirnir færu heimleiðis, en fékk ekki tækifæri og engin tákn sér í vil; varð því æstari í skapi og þrásæknari. Nú gat hvert barn séð, hvað honum bjó innan rifja.

Rétt eftir háttatíma varð Þuríður þess vísari, að Sveinbjörn var orðinn vínhreifur; sá jafnskjótt, að Bjarni mundi hafa veitt honum það; varð gramt í geði til beggja; náði í Sveinbjörn og sagði honum ótvírætt til bindindisbrotsins; skoraði á hann að fara strax heim. Sveinbjörn þrætti fyrst, en það dugði ekki; svo áttaði hann sig og fann, að hollast mundi að hætta þessum leik, meðan allt fór slétt og vel. Bjarni varð fár við, þegar Sveinbjörn tók að búast til heimfarar; en honum tókst ekki að telja þeim systkinum hughvarf, því Marja var líka búin að sjá ölvan Sveinbjarnar og sótti fast það mál, að fara heim. Bjarni söðlaði hest sinn og fylgdi þeim á leið; enginn mótmælti því, og nú gat hann talað einmæli við Þuríði, eins og hann hafði lengi ásett sér.

Nokkru síðar reið Bjarni einn saman norður götuna, og hann gleymdi, að búa sokkótta klárinn, sem hann sat á, undir útigang og gadd. Bjarni hlaut að láta gremjuna bitna á einhverju og því keyrði hann hestinn og linaði aldrei á sprettinum. Ótvírætt afsvar Þuríðar þyrmdi bæði yfir reiðmann og reiðskjóta; Bjarni hafði drukkið ósleitilega úr flöskunni eftir það, að hann skildi við þau systkinin á miðri leið milli Fells og Grundar; drukkið til að sefa sorg og gremju; en hvort tveggja svall þess meir, sem vínið sveif meir á hann. Rétt fyrir sunnan Fell mætti hann Geirmundi, sem hafði riðið fyrir ofan túngarð í Felli; aldrei ætlað sér, að koma þar heim; frá hinu gat hann ekki aftrað sér, að ríða vestan ár heimleiðis; hann hafði mætt boðsfólkinu norðan af bæjunum og frétt, að veislunni væri lokið; þá var Rauð ekki aftrað hlaupanna eftir það. Geirmundur heilsaði Bjarna stillilega og spurði tíðinda.

"Ég hef engar fréttir að segja; þú ættir heldur eitthvað að geta frætt menn úr slangrinu þínu."

"O-nei, ekkert nýtt; enda spurði ég ekki margs."

"Það er nú svo - -. Viltu selja mér þann rauða þinn, eða hafa hestakaup?"

"Ég nenni ekki að farga honum; hann er ekki falur."

"Heldurðu að ég færi svo illa með hann; gæti ekki gefið honum eða tímdi ekki að borga hann?"

"Ég er ekkert að óttast það; en ég get ekki fengið mig til að selja hann, þykir svo vænt um hann."

"Hann er menjagripur frá Fossi; það er von þú sért fastheldinn á allar menjarnar þaðan. En eigum við að koma í eina röndótta; vita hvor nú ber sigurinn úr býtum?"

"Nei. Mér er skratti illt í annarri hendinni og get ekki glímt."

"Og hefur heldur ekki nógu marga áhorfendur."

"Vertu sæll, Bjarni." Rauður þaut suður göturnar.

Hefðu kveðjuorð Bjarna orðið að áhrínsorðum og bænir Bjarna náð áheyrslu, mundi Geirmundur aldrei hafa séð sól né tungl framar og hvorugur þeirra Rauðs farið svona óðfúsir og hraustlegir eftir veginum fram að Grund.

Rétt fyrir norðan túnið á Grund heyrði Þuríður, sem reið öftust, jódyn í götunni; heyrði hest frýsa og hund gelta; svo kom hrynjandi hnegg; þau litu öll til baka. Hjarta Þuríðar barðist hart og títt; hana grunaði hver sá mundi, er á eftir kom. Dyninn bar brátt að; Geirmundur stillti og heilsaði. Rauður greip stöngina, stiklaði og blés; barði sig með leirugu taglinu og ætlaði að æða fram hjá hestunum. Vaskur kom strokandi, með lafandi tunguna, rennvotur og saurugur allur; þefaði af Geirmundi, sló skottinu og horfði upp til hans. Nóttin var myrk og kyrrt veður; hátignarleg haustþögn hvíldi yfir allri náttúrunni umhverfis; en hjörtu þeirra þriggja, sem síðast komu, börðust í brjóstum af áreynslu og óró, skjálfandi róleysi, sem færðist frá hjarta til hjarta.

"Hvaðan kemurðu, Geirmundur, og hvert skal halda í kvöld sagði Sveinbjörn og sneri sér til í hnakknum.

"Utan úr Bröttuhlíð ---, ég var að kaupa þar hrút; nú ætla ég heim í nótt, þó ég líklega nái ekki háttunum."

"Nei, þeim nærðu nú ekki; þú ferð ekki lengra í kvöld, getur hreiðrað þig í stofurúminu hjá mér í nótt."

"En ég hef ásett mér, að dytta betur að húsinu hans Rauðs á morgun; nú fer að frjósa jörð, svo það getur verið óþarft að slæpast."

"Geirmundur þarf að hraða sér heim til bús og barna," sagði Marja.

"Þér verður tíðrætt um börn og bú, nú í seinni tíð, - það er fyrirboði komandi tíma. Hvað sagði Bjarni um það?"

"Bjarni sagði margt fallegt í dag; hann er skemmtilegur maður, þó fátt sé ykkar á milli síðan í vor. Hann var ekki með neitt Bröttuhlíðarbekra-mas, eins og sumir aðrir."

"Þú hefur þá notið góðrar gleði í dag og alúðar þeirra mæðginanna."

"Satt er það, og Bjarni fylgdi okkur vel á veg."

"Fylgdi þér sérstaklega, grunar mig; var ekki svo?"

"Ef til vill Þuríði líka. En Guðrún sat prúðbúin og beið eftir einhverjum glófaxa úr norðurátt."

"Rétt er nú það. Og góð var fylgdin hans Bjarna, enda lá vel á honum, þegar ég hitti hann, og átti að færa þér ástarkveðjur hans."

"Hvaða ósköp ertu þögul, Þura; saknarðu fólksins á Felli?" Sveinbjörn sté af baki um leið og hann sagði þetta.

"Ekki hef ég tunguhaft þess vegna, en Bjarni hefur lag á að losa um málbeinið á þér; óþarflega gott lag, sýnist mér."

"Já, Bjarni er efnilegur maður; við verðum samdóma um það --- Þú ferð ekki fetinu lengra í nótt, Geirmundur," sagði Sveinbjörn og fór að spretta af hestunum.

"Vandi er vel boðnu að neita. Enginn verður hræddur um mig; það þori ég að fullyrða;" Geirmundur fór líka að spretta af og bera inn reiðverin.

Svo fóru þeir með Rauð út í hesthús, hýstu hann og gáfu honum; Geirmundur bar stóra vatnsfötu með sér; honum kom til hugar, að klárinn mundi þyrsta. Á meðan þeir voru að þessu, kveiktu systur ljós og báru á borð í stofunni; Geirmundur þakkaði fyrir snæðingsboð þeirra, en sagðist ekki matarþurfi; hann hefði borðað í Bröttuhlíð; leit um leið til Þuríðar; bæði roðnuðu.

"Einn hring og annan til, Marja; þið sundruðuð dansinum ytra óþarflega fljótt."

Marja hló hálf hæðilega, en tók þó strax sporið með Sveinbirni.

"Eigum við ekki að fylgjast með?" sagði Geirmundur; honum skalf röddin.

Þuríður leit snöggvast til hans, en hann heyrði ekki, hvað hún sagði.

Ljósið á borðinu hóf sig upp, leið hærra og hærra, bjart eins og stjarna, sem vísar vegfarendum leið í myrkri næturinnar, og Geirmundur dansaði eftir því, beint inn í sjöunda himin með Þuríði ástljúfa og samhuga við brjóst sér, örugga, sæla og munartitrandi; eldhitann úr hendinni, sem hann hélt þétt um, lagði eftir taugunum; hún tók þéttara taki, án þess að vita af því, gleymdi himni og jörðu, öllu öðru en honum, sem sté dansinn með henni, knár og fótviss. Aftur tóku þau fastar saman höndunum; dansinn var búinn, augun mættust, töluðu á andartaki, það sem tungan ekki gat talað, misskildu ekkert, játuðu, leiftrandi og ástfögur, að þessi dans tengdi þau saman, var inngangur til samlífs þeirra beggja.

Geirmundi varð ekki svefnsamt frammi í stofunni og Þuríði ekki inni í baðstofunni. Hugardraumar beggja voru nú að breytast til fullkominnar vissu, verða að lífsþróttugum sannindum. Sveinbjörn gat ekkert tal átt við Geirmund um morguninn; hann sagðist vera dauðsyfjaður og tók varla undir það, sem yrt var á hann. Sveinbjörn klæddi sig og fór út, til að gefa Rauð, og fór heldur tómlega í góðviðrinu.

Þuríður kom með kaffið þeirra stofubúanna - hún fór óvanalega snemma á fætur þennan morgun; Geirmundur leit upp, þegar hún opnaði hurðina; hún bauð góðan dag; sá að Sveinbjörn var horfinn úr rúminu og stokkroðnaði; það skvettist úr bollanum um leið og hún setti skutulinn á litla borðið við rúmið og sagði lágt og óskýrt: "Gerðu svo vel," stóð og horfði niður á gólfið; ætlaði að snúa sér við og ganga burtu; en þá var tekið með hlýrri hendi um úlnlið hægri handar; blóðið suðaði fyrir eyrunum, máttinn dró úr knjáliðunum. Geirmundur sat uppi og Þuríður hvíldi við brjóst hans --; bæði horfðu lengi og fast, hvort í annars augu; faðmlögin voru lausari, blóðið lítið eitt rórra.

"Þuríður, er það hugsanlegt, er það virkilega satt, að þú getir elskað mig?...Ég finn það, sé það, en get þó varla trúað annarri eins gæfu."

"Já, það er satt, dagsatt. Og þú?"

"Elsku hjartans besta... ég elska þig meir, en ég gæti orðum að því komið... Þú hefur frelsað mig, gefið mér lífið og trúna á lífið."

"Og þú ert fyrsta og eina ástin mín; í lífi og dauða ann ég þér einum."

Langur, heitur, fastur koss; fyrsti koss ungra elskenda, innsigli lífssáttmála, heilags samnings tveggja falslausra hjartna. Hvað kossarnir voru margir, hvað mörg slög hjörtun slógu saman, hvað langan teyg hvort þeirra drakk af munarsælu elskandi augna, eða um tölu blíðra ástarorða vissu þau ekkert; en að stundin var afarstutt, að Sveinbjörn kom helst til sviplega og það, að fát var á þeim báðum, var eins satt og víst og hitt, að kaffið var kalt og að Sveinbjörn leit rannsóknaraugum til þeirra beggja; að hann las tilfinningar þeirra eins og skýrt letur á bók. það varð stundarþögn; Þuríður tók skutulinn og gekk burtu, drukkin af ást og unaði, rjóð, feimin og nokkuð undirleit.

"Sveinbjörn, ertu ekki vinur minn?"

"Þú þarft ekki að spyrja, þú veist, að ég er það."

"Og verður trúnaðarmaður og hollvinur okkar systur þinnar; samþykkir trúlofun okkar?"

"Já, mína litlu aðstoð eigið þið vísa; ef engir yrðu erfiðari eða andstæðari en ég; og þó átti ég ekki von á þessu, síst svona fljótt."

"Snertir það þig illa --? Það er við því að búast --- en ég skal ekki liggja á liði mínu; vinna dag og nótt til að ná takmarkinu, þvo með svita mínum þá bletti, sem, því miður, hafa fallið á mig; jafna misfellurnar og vinna til Þuríðar á endanum; bera hana á höndunum, eins og hún á sannarlega skilið; hún hefur bjargað mér, gert mig aftur að manni; vísað mér veginn til manndóms og sjálfstæðis."

"Já, hún er engill; syndlaus og alfullkomin -- ég þekki bæn þeirra, sem ekki vita sitt rjúkandi ráð fyrir ástarvímunni. En hvað um það, mína aðstoð og samþykki eigið þið víst, og megið óhætt treysta mér, að því leyti, sem ég get í té látið."

Skilnaðarkossarnir brunnu á beggja vörum; heitorðin greiptust í hug og hjarta, að vinna bæði kappsamlega að sama marki, bíða þolinmóð og þola stríð og mótspyrnu, án þess að bugast, fara leynt með ástina og rjúfa hana aldrei. Vonin, broshýr og sólbjört, gerði þeim lífið að unaðslegum ljúflingsmálum. En Geirmundi fannst þó, að lífið mundi aldrei geta orðið svona heiðbjart alla ævina; hann hafði reynt beiskjuna og remmuna svo oft. Honum datt Gróa í hug; hvað þau höfðu ratað í þungar raunir; hvað hún hafði borið sig sárlega við skilnaðinn; hvað dagarnir mundi henni langir og dapurlegir. Geirmundur fékk samviskubit; enn einu sinni kveljandi hugarböl fyrir brot sitt og óstýrilæti. Hann var alls ekki samboðinn Þuríði; hann, sem var flekkóttur og syndugur, en hún mjallhvít og saklaus. Aldrei hafði hann unnið til þess um dagana, að ná og njóta ástar jafn góðrar stúlku; honum flaug ekki í hug neinn efi um staðlyndi Þuríðar; en þessi sæla var svo ótrúleg og draumkynjuð, að hann gat naumast trúað henni. Kátlegur heigulsháttur og hjartveiki var það nú samt í rauninni, að efast um það, sem hann sá og fann og heyrði. Skýinu sveipaði frá vonarsól hans, og Geirmundur rifjaði aftur í huganum sælustundir fyrstu faðmlaga Þuríðar, fyrstu ástarorð hennar, heit og staðföst, einlæg og sönn. Nú kvaldi engin samviskukvöl hann, eins og áður var. Hitt var syndarinnar ginnandi, en forboðni ávöxtur. Þetta himintær lind lífsþroskans. Geirmundur hét því í huga sínum, að vinna stöðugt og kappsamlega fyrir þroska, efnum og góðu áliti bestu manna; vinna svo, að hann væri verður Þuríðar, svo henni yrði lífið létt við hlið sér; yrði ánægð og óbeygð af fátækt og féleysi. Hann fann sér vaxa megin við heitið. Með sakleysið við hægri hönd, hlaut hann að verða nýtur og dugandi maður; fyrir hennar umsjá og tilstilli gat hann nú horft björtum sjónum fram á lífsveginn.


22. kafli

Veturinn kom og leið, hægfara, veðurstilltur og jarðsæll. Geirmundur og Þuríður duldu ást sína svo vel, sem þau gátu; en með vorinu fór þó lítill sveimur að læðast um bæina; "að það væri ef til vill samdráttur í þeim;" menn höfðu tekið eftir ýmsu, sem benti til þess; augnatilliti, litbrigðum og öðru því lítilræði, sem elskendur vara sig síst á og geta síst við gert. Það er hugsanlegt, að Marju og Þórunni hafi verið grunurinn ljósari en öðrum, þó báðar þegðu og létu, sem ekkert væri. Um jólin og nýárið, við danssamkomurnar, höfðu þau getað haft bréfaskipti, talað nokkur orð saman; orð, sem voru hvísluð með þýðu óskýru tungutaki; glampandi augnatillit, heitir kossar, kysstir í flýti, titrandi handaband; alls þessa höfðu þau að minnast frá þeim vetri, og yfir því öllu hvíldi leynileg unun, töfrandi tvíhættu sæla, sveimhuga samrómur ungra elskenda.

Geirmundur leit með ánægju yfir lambærnar sínar um vorið; þær voru feitar og frjálslegar, lömbin björt og bústin; fénu hafði fjölgað að mun, þessi árin í Breiðholti, og nú voru sjö ærnar tvílembdar; hann hafði sérstaklega gaman af að færa þeim deigbita, fiskroð og ugga, þegar hann gekk til þeirra, og þær voru vissar að þekkja hann; komu rásandi móti honum, teygðu fram álkuna og réttu sig hátt eftir matnum; lömbin stóðu ofurlítið frá, störðu á manninn og móðurina á víxl, hrædd og undrandi, sperrtu fram eyrun, stóðu í hálfgerðu hnipri hvort hjá öðru, viðbúin að hlaupa, ef háska bæri að, ef nokkuð óttaði þeim. Dálítinn spöl frá lá Vaskur milli þúfna, starði á Geirmund og stökk undireins til hans, þegar hann bandaði hendinni og gekk burtu frá ánum; flaðraði og stökk upp um hann og reyndi að sleikja á honum hendurnar.

Ef svona færi fram og fjölgaði fénu ein tvö árin enn, þá var hann ekki hræddur að byrja búskapinn; það var að vísu enginn auður, en það var góð undirstaða, sem hann átti og hafði sjálfur unnið fyrir; með öruggri heilsu, traustu áræði og sterkri löngun, til starfa og söfnunar sjálfstæðra fjármuna, var hann viss um að hafa skuldlaust og ekki óeigulegt bú, til að bjóða Þuríði að setjast í; bú, sem skyldi vaxa og stækka í höndum þeirra beggja. Það voru líkur til þess, að Sigfús mundi ekki ófús að minnka búið og byggja part af jörðinni, hálflenduna ef til vill, eða hætta alveg búnaði. Honum var farinn að leiðast búerillinn; þau hjón áttu engin börn; konan nokkuð svo stygglynd, ef hann drakk, og Sigfús þoldi það kvonríki illa; drakk engu miður, þótt þessi ágreiningur yrði. Sigfús sagði oft við Geirmund, þegar hann var við öl, að sér væri kærast að geta verið í húsmennsku, þar sem hann kynni vel við sig; máske færi hann vestur í Hverfi - hann var ættaður þaðan, eða þeir hefðu nú skipti, Geirmundur yrði bóndinn, Sigfús húsmaður. "En þá verðurðu að gifta þig, og hafa nóg vín í veislunni; bragða svolítið sjálfur, þú hefur ekkert illt af því," sagði Sigfús og hló við. Og Geirmundi lék einmitt hugur á, að fá Breiðholt; vinfengi þeirra Sigfúsar var gott; hann hafði jörðina í eignarhaldi, þó skuldir lægju á nokkrar; tók því öllu vel, en sagðist mundu bíða ókvæntur ein tvö eða þrjú árin ennþá; bað hann samt að lofa sér fyrstum manna að vita um ráðabreytni sína, ef nokkur yrði, og óskaði eftir að mega kaupa jörðina, ef hann seldi. Sigfús lofaði því.

Þau Geirmundur og Þuríður fengu aldrei færi á að tala saman, nema örfá orð í einrúmi, en þess lengur sem leið, þess meir þráðu bæði að mega njóta lengra samtals; því meiri hugur varð þeim á því, að njóta ástarmunaðarins um lengri tíma. Fyrir fráfærurnar var Geirmundur fjóra daga við veggjahleðslu á Grund og þá gátu þau, með umsjá Sveinbjarnar, talast nokkuð við. Geirmundur sagði frá vonum sínum um Breiðholtið, og Þuríði leist mætavel á ráðagerðir hans.

"Þú ert svo hraustur og starfsamur góði minn," sagði hún. "Þú safnar fé og býrð allt undir búskapinn, en ég geri ekkert; ég kem bara tómhent til þín, gott ef ég kann að sauma fötin þín og matreiða. Og þráirðu samt að ég komi?"

"Segðu ekki þetta, elskan mín; fyrir þig, þín orð og ást er ég maður með mönnum. Þú mátt gjarna koma tómhent; ég elska þig og gæðin þín, en ekki auð né metorð; þú ert nú samt betur ættuð en ég, og ég get aldrei þakkað þér, eins og ber, ást þína, svo hreina og óeigingjarna eins og hún er."

"Ég veit ekki, hvort hún er óeigingjörn; ég veit bara, að ég elska þig, gat ekki annað, hlaut að gera það; mér var það sama og ljósið, heilsan og lífið."

"Vertu blessuð, margblessuð fyrir þessi orð; þau skulu gefa mér styrk og þol í lífsbaráttunni; nú er ég sæll og óttast hvorki rangsleitni mannanna né erfiði af náttúrunnar völdum."

En eftir þessa fjóra daga, óx orðrómurinn að mun; það var lagt saman og getið til; talað um, að Geirmundur væri nógu ári slunginn og gengi ótrúlega í augun á kvenfólkinu; hann væri trúlofaður prestsdótturinni, þó foreldrarnir líklega hefðu vit á, að sporna við annarri eins ráðleysu, og taka ráðin af dóttur sinni. Geirmund grunaði þetta af tilliti og rannsóknarviðleitni fólksins, en Þuríði ekki; svo gat hann þess í bréfi til hennar og bæði fóru varlega með launungarmál sitt eftir það um sumarið.


23. kafli

Fólkið í Breiðárdal var vant að sækja fjölmennt til réttarinnar; þangað sóttu bæði karlar og konur; réttardagurinn var einn af helstu skemmtidögum Dalbúa. Þetta haust fór Geirmundur í fyrstu göngur og reið Rauð sínum; leitarmaður Jóns í Svartholti og hann, höfðu í samlögum hest, til að flytja á nesti og annan farangur, sem gangnamönnum er nauðsynlegur. Var venja að vera fjóra daga úr byggð í fyrstu göngum, og þótti unglingum og æskumönnum fýsilegt að fara fram um fjallaauðnir í leitirnar og reyna fráleik sinn og áræði við svo karlmannlega för.

Það fékk margur sér í staupinu, réttardaginn og réttardagskvöldið. Bindindið var orðið þunnskipað; nálega engir sóttu fundinn um vorið. Sveinbjörn áleit bindindið liðið undir lok og alla lausa þeirra mála, og líka skoðun höfðu flestir hinna félaganna; Geirmundur sagði, að úr því engir hefðu sagt sig úr bindindi á aðalfundi, eins og lögin mæltu fyrir, þá væru allir enn skyldir að vera í bindindi, þetta árið. Hann smakkaði ekki vín þennan dag, en sá, að Sveinbjörn og margir aðrir neyttu þess, og vissi, að bindindið var dauðadæmt og fallið í dá um lengri eða skemmri tíma; en hann vildi ekki drekka og var óánægður yfir hirðuleysi og dofinskap félaga sinna, þótti Sveinbjörn helst til laus á velli og lítill áhugamaður í þessu máli; hefði gjarnan kosið, að hann væri staðbetri og fylgnari maður, en líkurnar bentu á.

Um miðjan aftan var búið að draga sundur féð og Sigfús bauð Geirmundi að láta vinnumenn sína reka safnið heim, en þeir skyldu bregða sér á bæina og hitta kunningja sína; Geirmundur þáði boðið, og þeir fóru að ná hestum sínum og söðla þá. Á meðan þeir voru að því, reið hópur karla og kvenna norður frá réttinni; þar voru þau systkin frá Grund, Brandur á Fossi og margir aðrir norðan úr dalnum, og var gleðibragur yfir því liði. Nokkru síðar riðu þeir Sigfús og Geirmundur burtu, og þegar þeir höfðu farið spölkorn, náði Bjarni í Felli og Ásmundur í Bröttuhlíð þeim; þeir komu framan frá Urðum, sem er næsti bær sunnan við réttina og eigi langt á milli; báðir voru dálítið ölvaðir og höfðu riðið hart. Bjarni reið gráum hesti, sem hann hafði keypt um vorið; það var stór hestur, grannvaxinn og hlaupalegur, sjö vetra gamall, bráðfjörugur, vakur en gangtregur nokkuð, liðlegur og fríður sýnum; þann hest hafði Bjarni keypt til þess, að vera þó engu miður ríðandi, en Geirmundur; við hann vildi Bjarni keppa í flestu, til hans var honum þungt í skapi; það voru bylturnar þrjár, fregnin um góðan þokka milli Þuríðar og Geirmundar, sem vöktu þá óvild. Það var hart og óþolandi, að sonur Einars gamla á Neðra-Fossi drægi úr höndum honum; héldi sér til jafns við hann, og reyndi að bægja honum á nokkurn hátt.

Rauður ókyrrðist strax og hann sá þann gráa, reiðan og ólman eftir reiðina; Geirmund langaði til að sjá hann hlaupa einn sprett, áður en hann legði Rauð móti honum; sjá, hvað fljótur og snarráður hann væri; hann heyrði alla hæla hestinum, en hafði aldrei séð honum riðið hart, og vissi því ekkert um flýti hans, né gæði. Vissi að Bjarni mundi vilja reyna hestana og fann, að Bjarni var óvinur sinn; grunaði um aðalástæðuna og hugsaði sér, að vera stilltur og gætinn, en fann samt blóðið æsast, um leið og Bjarni náði þeim.

Þeir riðu hægt nokkra stund, en gátu lítið vakið samræðurnar.

"Þessari déskotans kerlingareið uni ég ekki til lengdar," sagði Sigfús og hleypti á sprett og Ásmundur á eftir; þeir höfðu enga gæðinga.

"Eigum við ekki að hleypa líka?" sagði Bjarni, hann reið samhliða Geirmundi.

"Það er ekki svo heppilegt fyrir mig; ég reið undan þeim rauða í gær og hann er vís að brjóta hófinn upp í kviku hérna á eyrunum."

"Ekki spyr ég að," Svanur rauk á sprettinn um leið og Bjarni talaði.

Rauður tók líka viðbragð á eftir; náði Svani strax og svo héldu þeir samhliða út eyrina, en þegar smámórinn tók við utan og ofan við, var Rauður snarráðari, harðsterkari og betur beitt; þar sleit hann Svan af sér og tók götuna.

Sunnan við Heiði er grund slétt og hörð, geysilangur skeiðsprettur; en uppi á hæð nokkurri stendur bærinn og hallar túninu jafnt niður að grundinni. Fólksþyrpingin stóð á hlaðinu og varpanum; hestarnir gengu söðlaðir um túnið og kroppuðu þána í ákafa. Það var kyrrt og bjart veður; fannhvítar fjárbreiðurnar runnu sunnan eyrarnar með litlu millibili; hundarnir geltu og voru sumir hásróma eftir göngurnar. Reykurinn úr elhússtrompunum á Heiði breiddi sig út uppi í loftinu; greindist sundur, snerist í hálfhringum og örlitlum bólstrum, blánaði og rann saman við loftið.

"Því hleypa þeir ekki?" sagði Jón í Svartholti.

"Þeim er um og ó," sagði Sveinbjörn.

Marja og Þuríður stóðu frammi á varpanum og Guðrún frá Felli hjá þeim.

"Helvítis hlaupagikkur má hann vera, sá grái, ef hann tekur af þeim rauða," sagði Brandur; hann var rétt kominn út úr stofunni frá Sigurði og flöskunni.

Hestarnir þutu samhliða af stað; Svanur tapaði viðbragðinu. Bjarni var laus í söðli og riðamikill, en Geirmundur sat, eins og væri hann samgróinn hestinum; ekkert mistak né slangur; stefnan og stökkið þráðbeint. Geirmundur hallaði sér meir fram á hestinum, þegar upp í túnið kom, og linaði ekki á sprettinum; hann vildi, að engin tvímæli léki á kappreið þessari, ekki aka höllum fæti fyrir Bjarna; sveigði Rauð neðan við fólksþyrpinguna, greip fast í hægri tauminn og um leið greip klárinn vekurð og þrumaði norðvestur fyrir bæjarhornið. Svanur var svo sem svarar þremur hestlengdum aftar og stefndi lítið eitt sunnar, stökk beint í hlaðið; fólkið hrökk frá og Bjarni stillti við þilin; hesturinn var stífur og ákaflega reiður, en Bjarni, þótt handsterkur væri, hvorki taumslyngur né reiðkænn. Sigfús og Ásmundur komu á eftir. Geirmundur stóð dreyrrauður og hélt í Rauð, sem neri höfðinu við hann og ataði fötin út í gulhvítri froðu.

Þuríður hafði horft náföl á sprettinn, en um leið og Geirmundur teymdi hestinn ofan fyrir varpann og spretti af, mættust augu þeirra; Marja sá tillitið og Bjarni sá það líka og andlitið var dimmrautt.

"Fallega gerði Rauður það ennþá," sagði Sigurður lágt við bróður sinn.

"Heldur vasklega. Svan vantar þrekið, en hann er skapaður ágætishestur, hvað sem úr honum verður. Geturðu annars ekki gefið mér mjólkursopa handa klárnum?"

"Það held ég; ærnar mjólka drjúgt í haust og hann á það sannarlega skilið, að fá hressingu."

Ásmundur og Bjarni gengu að húsabaki; það hlunkaði í flöskunni og svo sagði Bjarni:

"Það skal verða betur reynt seinna, og þá skal ég passa, að verða eins fljótur til og hann."

Ásmundur samsinnti með löngu já-i; hann hafði séð mæta vel seinni sprettinn, en vildi samt vera vini sínum, flöskueigandanum, samdóma.

Það var orðið hálfdimmt, þegar menn fóru frá Heiði og karlmennirnir flestir nokkuð ölvaðir. Bjarni fylgdi svo vel hesti Þuríðar, sem Svanur leyfði; Geirmundur spurði Sveinbjörn eftir bindindinu og bað hann að gæta sín vel, að minnsta kosti til vorsins; Sveinbjörn sagðist álíta bindindinu lokið, það væri ekki hægt að halda því lengur lifandi; heldur meiningarlítið, að einn eða tveir væru að bisa við að vera í því.

"En þú gætir þín samt, vinur minn, að drekka ekki mikið; ekki öllu meira en komið er."

"Ég skal gera það; þér gengur gott eitt til að biðja."

Bjarni hafði drukkið til þess, að hafa fullt þor að berjast gegn Geirmundi og túlka enn mál sitt við Þuríði; en vínið reyndist honum helst til áfengt, eins og því er gjarnast til. Það var ekki að sjá svo, sem Geirmundur gæfi því neinn gaum, þótt Bjarni ræddi við Þuríði, en svör hennar voru stutt og köld, svo skap Bjarna varð æ gramara og æstara eftir því, sem lengra varð talið. Veður var gluggaþykkt og sá öðru hvoru föla tunglsglætu, en þá var myrkt þess á milli; kyrrviðrið, þögnin og sumarhlýindin ríktu yfir dalnum.

Brandur skildi við samferðamenn sína við vegamótin; Steini kyssti Geirmund innilegum kossi og þakkaði fyrir það, sem hann hefði fengið að ríða Rauð um tíma; hann var auðveldur, mætti hann vera fremstur, og reiðin hafði verið hæg alla leið sunnan frá Heiði.

"Þú hefðir átt að fylgja þeim feðgum heim upp á gamlan kunningsskap; það eru vísast einhverjir á ferli þar heima, sem hefðu viljað gefa þér kaffi," sagði Bjarni og sneri sér að Geirmundi.

Skýslæðuna greiddi frá hálf-mánanum, og Geirmundur svaraði stillilega:

"Þess þarf ekki, þeim er alveg óhætt hérna heim."

"Brandur var fullur, augafullur; þau áttu það skilið, þau hjón, að þú gerðir þeim svolítinn greiða. Á ég að fara með þér?"

"Það hefur enga þýðingu; hér eru líka til menn, sem eru ekki minna drukknir en Brandur."

"Hverjir svo sem? Þú manst líklega frá fyrri tíð, hvað Brandur er glöggur og gætinn."

"Þér hentar að minnsta kosti ekki vel, að vera fylgdarmaður Brands í kvöld."

"Vertu nú ekki með þennan helvítis hroka ---, þú veist líklega, hvernig þú hefur notað þér glöggþekkni Brands, og hvernig þú launaðir honum að firra ykkur frá hreppnum."

"Ég vil ekki eiga neitt við þig, fullan af víni og ósanngirni." Geirmundur sneri hestinum áleiðis.

"Svo, ég mana þig þá að reyna, hver betur dugir, flagarinn þinn; þú hérna, Dal-Bósi."

Geirmundur snaraðist af baki og að Bjarna, þar sem hann stóð upp við Svan; vissi ekkert af því, að kvenhönd var lögð, mjúkt og þétt á handlegg hans. Þeir tóku fastatökum og Bjarni rauk öfugur niður í leirgötuna; um leið og hann reis á fætur, sló hann Geirmund rokna kinnhest; aftur lá Bjarni endilangur; vínið gerði honum þungt höfuðið.

Sigfús og Sveinbjörn hlupu á milli þeirra; Guðrún greip utan um Bjarna, og þau leiddu hann til hestsins, sem hafði hlaupið þvers frá götunni. Geirmundur gekk burtu með Jóni í Svartholti og Grundarsystrum; hjálpaði þeim á bak og var skjálfradda, það lítið hann talaði; lagði tauminn upp á makkann og stökk svo á bak, án þess að taka ístaðið og reið á hlið við Þuríði, sem var fremst í hópnum.

"Svona er það, fár bregður hinu betra, ef hann veit hið verra - Ó, Þuríður, ég veit hvað þú hefur tekið út af þessu rifrildi - -; elskan mín, geturðu fyrirgefið mér?"

"Ég þarf ekkert að fyrirgefa; Bjarni hafði unnið til þess, sem hann fékk." Mjúk hönd, brísheit, lagðist í lófa hans; það dró mökk fyrir tunglið; orðin liðu milli þeirra, þýð og ekki töluð hærra en svo, að þau sjálf námu orðaskil. Samferðafólkið kom á eftir og Bjarni þveitti fram hjá og svo hver af öðrum; nú urðu þau öftust.

Þeir Sigfús og Geirmundur skildu við ferðafélaga sína hjá vaðinu norðan við Breiðholt; Bjarni og Ásmundur voru horfnir norður og niður, sagði Sigfús. Fólkið kvaddist vingjarnlega, með þakklætisorðum fyrir góða samfylgd. Þuríður og Geirmundur sátu á hestbaki, hvort við annars hlið.

"Má ég finna þig í nótt, elsku góða mín?" Geirmundur hvíslaði rétt við eyra henni; það var enginn tími til umhugsunar; röddin óstyrk og biðjandi; hennar eigin þrá var sú sama og hans; einu sinni hlaut hún að njóta ástar hans meir en örfá andartök; hjartað heimtaði með þungum slögum að fá rétt sinn og þrá, en Þuríður þagði þó.

"Við suður hliðið?" sagði Geirmundur lítið eitt hærra.

"Já." Hún rétti honum höndina, og Geirmundur fann, hvernig hún skalf. Þuríður reið norður götuna, en Geirmundur fór að kveðja hina aðra. Guðrún á Felli tók innilega í hönd hans, að skilnaði, með þykku, mjúku hendinni sinni. Geirmundi virtist svo, sem hún mundi engan kala bera til sín, þótt hún væri systir Bjarna, og þótt hann hefði gert honum nokkuð harðleikið fyrir skömmu. Hann fann það á handabandinu; Guðrún hélt lengur og þéttar í hönd hans, en nokkur annar, lengur en venja er til, og Geirmundi var enginn skapléttir að því; hún var of góð og efnileg stúlka til þess, að kasta fyrstu ástartilfinningum sínum þannig á glæ.


24. kafli

Systurnar háttuðu saman í herberginu á stofuloftinu, þar sem þær höfðu sofið um sumarið. Marja sofnaði strax; Þuríður vissi að hún var fastsvæf að eðlisfari og þreytt eftir ferðalagið; hún mundi trauðlega vakna fyrr en albjart yrði um morguninn. Eftir stundarbið settist Þuríður upp, fór hljóðlega ofan úr rúminu; hjartað ætlaði að sprengja brjóstið; hún skalf, svo hún hlaut að bíta fast saman tönnunum; klæddi sig og læddist ofan stigann. Það var eins og hún væri seidd af ofurmegni, sem hún ekki fékk spornað á móti; iðraðist að hafa lofað því, sem hlaut að bíða bjartari daga, meira frjálsræðis; óttaðist launfundina og náttmyrkrið, en hraðaði þó göngunni suður túnið, reikaði á fótum og skalf; hún var svo veik og hann sterkur og blóðheitur; elskaði, og hræddist þó yfirburði þróttar hans; fann magnleysi og svima, vildi snúa heim og skundaði þó að garðshliðinu.

Faðmlögin voru föst, andvörpin þung og tíð; hálftöluð blíðmæli og ástarorð, kossarnir langir og heitir; þannig leið stundarkorn.

"Þér verður kalt hér úti, góða."

"Ekki mjög," og Þuríður skalf af hrolli.

"Er nokkur í þinghúsinu?"

"Nei, ég kom þar áður en ég háttaði."

"Við skulum heldur sitja þar."

Geirmundur bar hana meir en leiddi heim túnið og skeikaði ekki fótur - hún hafði aldrei lifað slíka sælustund; hann var hvort tveggja blíður og fótviss; öruggur og innilegur. Þau settust bæði í hvílubekkinn í þinghúsinu; hún hallaðist að brjósti hans; þau hvísluðu og kysstu, eldheita, ástþrungna kossa; varir hennar stóðu hálfopnar; það var líkt og hún fengi andþrengsli og ætlaði að kafna; losaði til með titrandi fingrum, rýmkaði um brjóstið; svo kyssti Geirmundur á brjóstið bert, hálsinn, bæði brjóstin; orðin dóu á vörum beggja. Geirmundur fann að öll réttindi ástarinnar voru með þeim, að þau voru bæði ölvuð og þrungin af ofurmegni byrgðrar elsku; kyssti aftur brjóstin; tapaði allri skynsamlegri hyggju og athugun; vafði Þuríði að sér og setti hana á kné sér.

Örstutt stund hafði liðið; aftur sátu þau bæði á bekknum; hann vafði yfirsængina að herðum hennar og hlúði að henni, en hún hvíldi höfuðið við bert brjóst honum; hún kipptist til; það lagði köldudrætti eftir henni allri; og þó - samt, var hún eins sæl og trygg og Lazarus í skauti Abrahams.

"Þessa fundi þurfum við að varast framvegis; við erum bæði of veik," hvíslaði hún í eyra hans og faldi svo höfuðið aftur við brjóstið.

"Hjartað mitt ---, ég er óstýrilátur, það er satt ---, en órjúfandi lögmál ástarinnar höfum við þó með okkur; fyrr eða seinna hljóta allir heilbrigðir menn að fylgja því."

Hún fann, að það var satt; en annað lögmál, lögmál vana og viðtekinnar skynsemi, var líka í huga hennar, brjósti þeirra beggja, hvorugt gat gengið fram hjá því, eins og það væri ekki til.

"Við skulum bæði vaka framvegis, vera þollynd og gætin, elsku vinurinn minn."

"Þú ert svo góð, svo blíð og tilfinningafín; allt það góða, allt græðandi og göfugt verður að koma frá þér."

"Ég vildi satt væri, að ég gæti það, að reynslan yrði sú, að ég yrði þér góður og göfugur lífsfélagi; aflið og áræðið er séreign þín, en þú ert líka blíður og ástríkur, trúðu mér til þess; treystu sjálfum þér, þú mátt það, þér er það óhætt."

"Með þér fæ ég traustið og trúna; án þín gæti ég aldrei verið öruggur né trúaður í sjálfum mér."

Svona snerust viðræðurnar að framtíðarhorfunum; að því, að Geirmundur færi að búa með vorinu; fengi Þórunni fyrsta árið fyrir ráðskonu; að því búnu skyldu þau bæði, í sameiningu, leita leyfis og samþykkis foreldra hennar; þegar hann væri búinn að sýna ótvíræðan vott um dug og ráðhyggni, bæði væru samhuga, einörð og þollynd, þá hlutu þau að sigra, vinna jafn dýrmætt mál og þeim var þetta. Bjuggust við erfiðu, en voru þó viss um ákjósanleg málalok.

"Þú veist það, að ég bregð aldrei heiti mínu við þig; ég slít aldrei ást okkar, aldrei; þú ert mér allt, faðir og móðir, systir og bróðir - og eiginmaður;" hún hvíslaði síðustu tveim orðunum. Þá fann hún eldheit tár renna niður eftir kinnum hans, að brjóstið gekk með erfiði upp og niður.

"Ég elska þig, eins og þú ert, elsku vinurinn minn; minnstu ekki þess liðna; ég veit, hvað pínir þig -, ég elska þig, Geirmundur; trúðu því, góði."

"Ó, hvað þú ert góð, unnusta mín --, góði engillinn minn; ég hef ekki unnið til þessara gæða; ég er ekki góður maður; óstýrilátur og geðríkur, hrösull og þollítill; en ég vona, þú getir gert mig betri og blíðari; að göfugra manni, en verið hefur."

"Þú ert rangsleitinn við sjálfan þig. Þú ert miklu betri maður, en þú heldur. Ég trúi þér; finn, hvað þú berst duglega fyrir sjálfstæði okkar beggja; hvað þú leggur hart að þér og vinnur stöðugt að því takmarki sem við bæði þráum. Sjálf geri ég ekkert."

"Ekkert? Kallaðu það þá einskis virði, að þín vegna er ég nú maður með mönnum að þú hefur leitt mig úr þokunni og einmana þverhömrunum, til sólarylsins, fram á blómagrundir mannlífsins?"

Geirmundur var rétt sofnaður heima, þegar þeir fyrstu risu úr rekkju; en hann var þó fóthvatur, glaður í bragði og handviss við rannsókn geldfjárins um daginn.

"Vonin gefur þér stælinguna, Geirmundur minn; þú ert léttari undir brún núna, en fyrsta vorið, sem þú varst hérna. Það fer allt vel, spái ég." Sigfús klappaði á öxl hans um leið og hann talaði.

Geirmundur brosti. "Við skulum ævinlega vera vongóðir; og ég veit, þú ert þagmælskur maður nú, eins og að undanförnu."

Þuríður var svefndrukkin og munarölvuð þennan dag. Hún lifði við minningar og fagra framtíðardrauma; mennirnir liðu eins og þögulir skuggar fram hjá henni; stundum roðnaði hún skyndilega, en var þó óvanalega föl og fálát; hún hafði margt að hugsa, sem engir máttu hafa grun um.


25. kafli

Sigurlaug, móðir Bjarna á Felli, átti langt einmæli við prestskonuna um haustið; hún flutti fast bónorð Bjarna, og var létt um mál við vinkonu sína. Það var raun fyrir Þuríði, að standa móti móður sinni, sem bað og túlkaði, byrsti sig og skipaði; en allt kom í einn stað niður; Þuríður lét ekki bugast; hún felldi sig ekki við Bjarna, gat ekki elskað hann, og án ástar gifti hún sig engum manni. Þegar móðirin talaði um auðinn í Felli og gervileik Bjarna, bar hún ekkert á móti því, en sat samt föst við sinn keip og sína skoðun. Svo talaði faðir hennar við hana og allt fór á sömu leið, enda fylgdi hann málinu minna, og vildi ekki þröngva henni til gjaforðsins, ef henni væri það þvert um geð.

Jósteinn prestur var trauðla fær um að þjóna svo erfiðu kalli lengur; hann gerðist kulvís og fóthrumur og heldur sjóndapur. Egill sonur hans, af fyrra hjónabandi, sat á góðri bújörð, suður á landi, og hafði góðar tekjur af "brauðinu" sínu; þeir voru ekki lyndislíkir frændur, og höfðu um lengri tíma ekki fundist. Sveinbjörn hafði ekki viljað "læra til prests", svo það var ekki um neinn skyldan að tala; hér varð að taka vandalausan aðstoðarprest, þó það væri aðgönguþyngra.

Vorið eftir kom nývígður og ungur aðstoðarprestur að Grund. Séra Sveinn var sjálegur maður, og gleðimaður mikill, sem ekki drap hendi við þessa heims fagnaði, hvort heldur hann bauðst á sabbatsdegi, eða öðrum dögum. Þeir Sveinbjörn og hann urðu fljótt góðir lagsbræður. Húsfreyjan tók honum forkunnar vel; vonin um fastari bönd og heitara vinfengi lifnaði skjótt í brjósti hinnar forsjálu móður. Hún lét dætur sínar þjóna honum til skiptis; sagði, sem satt var, að þær hefðu gott af því, að venjast þriflegri og vandaðri þjónustu og umsjá um föt snyrtimanna. Séra Sveinn var glaður og málhreifur við þjónusturnar; sérstaklega þótti honum gaman að spjalla við Þuríði, um vorið; hún svaraði blátt áfram og var heldur fálát, enda þurrleg í viðmóti, þegar hann var sem alúðlegastur. Þegar fram að slætti dró, gerðist meira um viðræður Marju og klerksins; þau áttu betur skap saman, og Þuríður gladdist, þegar hún þóttist sjá, að góður þokki gerðist milli þeirra; nú þurfti hún engan kvíðboga að bera fyrir því, að klerkurinn yrði á götu þeirra Geirmundar.

Þetta sama vor tók Geirmundur hálft Breiðholt til ábúðar; Þórunn var fyrir búráðum með honum; þangað réðst og unglingspiltur sextán vetra gamall; ekki var fleira hjúa. Geirmundur var starfsmaður mikill, þrifinn og aðgætinn; hagur nokkuð, bæði á tré og járn; sá orðrómur lagðist á, að hann mundi féglöggur verða og heldur aðsjáll; líklegur til að verða efnabóndi og forsjáll í ráðum. Þetta var talað á Grund eins og annars staðar, og Þuríður roðnaði ætíð, þegar Geirmundur var nefndur á nafn; traustið og vonin hlógu í hjarta hennar, þegar hún heyrði föður sinn tala um dugnað og atorku hans; spá því, að hann yrði efnabóndi og hugsunarsamur um búnaðinn; sá, að hann tók honum vingjarnlega, í hvert skipti og hann kom og ræddi við fáa, unga menn, jafn mikið og Geirmund. Móðir hennar var miklu fálegri og kaldari gagnvart honum, líkt og hana grunaði eitthvað; þar bjóst Þuríður við meiri mótspyrnu og erfiðari svörum.

Þau höfðu að vísu ætlað sér, að hafa fáa launfundi, Geirmundur og Þuríður, en efndanna verður oft helst til vant, þegar æskufjörið er í blóma sínum; ástin freistar til munaðar og sælu og köld skynsemi lýtur í lægra haldi fyrir kröfum tveggja, samhuga hjartna. Bréfin dugðu ekki, nema tíma og tíma; margt þurfti að ræða og margs að minnast, sem þau ekki höfðu tóm eða löngun til að skrifa um; þau hlutu að finnast endur og sinnum.

Og þessir fundir juku gruninn og gerðu hann að fullvissu; það voru ekki svo fáir heimamenn á Grund, sem höfðu gaman af, að leggja saman líkurnar; voru viljugir að rölta og skyggnast eftir, og höfðu gaman af, að hjala um nýmælin við kunningja sína. Einhver hvíslaði því að húsfreyjunni, og hún var fljót að átta sig, líta eftir og sjá. Litlu síðar - rétt fyrir jólin, áttu þær mæðgur tal saman, og frá þeim samræðum kom móðirin dökkrauð og brúnaþung, en dóttirin föl og dapureyg.

Daginn eftir kom Sveinbjörn með bréf til Geirmundar.

Næsta dag bjóst Geirmundur út að Grund; kvíðinn og vonin börðust í brjósti hans, og vonin hélt velli og settist sigurglöð að völdum. Þau hlutu að láta að bænum þeirra, gömlu hjónin; fyrr eða síðar mundi það verða. Þuríður var svo góð dóttir; hún hlaut að sigra foreldrana; aldrei yrði hún heitrofi; það var hann viss um.

Norður á túninu í Breiðholti, mætti Siggi litli á Grund Geirmundi, og fékk honum bréf; hann þekkti höndina á því, og braut það upp með skjálfandi fingrum og las:


"Geirmundur minn! Bréf það, sem hér er innan í, bið ég þig fyrir, að koma í dag til viðtakanda, ef þér er það mögulegt. Ég vona, þú gerir þessa bón mína; mér ríður það á miklu.
Jósteinn Sveinbjarnarson."


Ósköp er hann að verða skálfhentur, aumingja karlinn --- Og hvað skyldi hann vera að skrifa mömmu? Það gerir hvorki til né frá með það; ég fer fram eftir fyrst -; gott var að Rauður var nýjárnaður og færið afbragð, á hvoru tveggja þurfti nú að halda. Svo hljóp hann heim, hripaði Sveinbirni nokkur orð og gat um, hvað hefti för sína í dag; sagðist koma í fyrramálið; bað drenginn fyrir bréfið; tók Rauð og söðlaði hann og reið suður túnið.

Geirmundur var ókvíðinn og léttur í lund; séra Jósteinn hafði ætíð verið honum góður og vingjarnlegur, mundi trauðla setja þvert nei fyrir ráðahaginn. Máske þau gætu sigrað í vetur, og Þuríður settist í búið hans í vor. Vera bæði einbeitt og stillt; þá var það enda líklegt, að svo gæti farið... Rauður þaut yfir svell og hjarn og auðar grundir, hafði aldrei verið jafn gangauðveldur og nú; Geirmundur fann, að með vorinu mátti trúa honum fyrir Þuríði; hann mundi ekki verða svo gangtregur né ofsafjörugur að hún réði ekki vel við hann; hún var gefin fyrir hesta og sat þá ágætlega, eina barnið, sem líktist föðurnum að því. Þennan vetur skyldi Rauður venjast svo skeiðinu, að hann gleymdi því aldrei framar á ævinni.

Móðir hans tók honum feginshendi og bað hann að vera hjá sér um nóttina. Þau settust bæði í stofu; hún kveikti ljós, því það var orðið hálf dimmt og fór svo að lesa bréfið. Geirmundur sat og hugsaði um, að móðir sín mundi gera bústörfin léttari fyrir Þuríði, hún mundi gjarna vilja fara til sín; það hafði hún sagt honum í haust; var ern og hraust ennþá. Um það varð að tala síðar. Hann sat hugsandi og horfði niður fyrir sig; dreymdi ljúfa drauma um framtíð og framfarir.

En svo heyrðist eitt sárt, veinandi andvarp, annað og þriðja; Geirmundur leit skyndilega til móður sinnar; hún hallaði sér að þilinu, föl og ellileg, svo náföl eins og liðið lík; starði á bréfið og tárin hrundu niður kinnarnar.

"Elsku mamma, hvað gengur að þér? Ertu veik?"

Hann gekk til hennar, settist hjá henni og hallaði henni að sér. Hún lagði hendur um háls honum og grét.

"Mamma, hvað er þetta? Ertu mikið veik?"

"Guð almáttugur hjálpi mér. Drottinn fyrirgefi mér og honum alla syndina og rangsleitnina við þig."

"Hvað; ég skil ekki."

Hún stundi upp með gráti; þurfti að slíta orðin úr brjósti sínu; píndist af því að rífa það hjarta sundur, sem hún unni mest; hana langaði til að hljóða eins hrynjandi gjallt og valurinn, þegar hann kemur að hjarta systur sinnar; en hún talaði þó lágt, hálf hvíslaði sundurslitnum orðum og leit aldrei framan í Geirmund á meðan. Hún þorði það ekki.

"Ó, fyrirgefðu mér, elsku barnið mitt --, hjartans Mundi minn," sagði hún síðast og vafði höndunum aftur um háls honum.

Geirmundur sagði ekkert, stóð fyrst á öndinni; fölnaði og kólnaði, fékk lamandi kuldanísting, líkt og skriðjökull hefði hlaupið ofan frá hvirfli, runnið hægt og deyðandi niður bakið, svellað alla tilfinning og lamað dómgreindina. Hann starði beint í ljósið og glöggvaði þó ekkert ljós; fingurnir krepptust í lófana, svo neglurnar gengu inn í holdið, en hann fann það ekki. Það varð stundar þögn.

"Segðu eitthvað, elsku barnið mitt," hún titraði af ótta.

"Mamma - ég skal --, ég get fyrirgefið þér ---, en að segja mér þetta aldrei. Því sagðirðu mér það ekki? Lofaðu mér heim ---, ég þoli ekki að tala við neinn, ekki að sjá neinn heldur."

"Guð huggi þig og styrki -, en ég þori ekki að þú farir einn og það í þessu myrkri. Láttu Sigurð bróður þinn fylgja þér."

"Mér er óhætt, en ég get gert það fyrir þig, að biðja hann að ríða með mér út að Vaði. Þú þarft ekkert að vera hrædd --. Lífið er ekki þess vert, að maður leggi hönd á það --, en gefðu mér bréfið og kysstu mig svo; kysstu sorgar- og syndarsoninn þinn." Hann laut að henni og kyssti hana.

"Guð varðveiti þig og gefi okkur að sjást aftur heil á húfi."

"Við sjáumst aftur; ég skil við þig hryggur en ekki reiður; en ég þoli ekki að vera kyrr, ég verð að fara."

"Gættu að orðum þínum og verkum. Blessaður stilltu þig. Guð veri með þér."

"Ég er rólegur." Hann stóð á gólfinu, beinn og nábleikur, með herpingsdrætti við munninn, nasirnar útþandar og titrandi; en í miðju enninu stóð æðin blá og þrútin, augun glóðu þurr og starandi.

Sigurður kom inn í stofuna og vildi að Geirmundur kæmi inn og væri nóttina. Geirmundur þakkaði boðið, en sagðist þurfa heim í nótt og bað Sigurð að ríða með sér út að Vaði. Sigurður bjóst skjótlega og bauð Geirmundi vín; hann drakk niður til miðs úr flöskunni og sagði svo:

"Fylltu hana aftur og hafði hana með þér, það er gott að hressa sig á því núna í kuldanum."

Geirmundur reið hart út eftir, en talaði fátt. Sigurði virtist honum brugðið frá því, sem vant var.

Hjá Vaði skildu þeir og Geirmundur bað að heilsa heim. Hann stakk flöskunni í tösku sína.

Þegar Sigfús kom út, í hálfbirtingunni, morguninn eftir; reið Geirmundur sunnan túnið; hesturinn löðraði í svita. Sigfús spurði, hvar hann hefði verið í nótt, og Geirmundur sagðist hafa verið á ferðinni; farið eftir háttatíma frá Heiði, og riðið hægt, mestalla leiðina. Sigfús spurði ekki um meira; sá, að Geirmundur var undarlega fár og þrútinn, fann af honum vínþefinn, og virtist, sem hann mundi drukkinn. Geirmundur gat þess ekki, að hann hafði verið lengst af nóttinni í beitarhúsunum frá Breiðholti; hafði gengið þar um gólf, eða legið í garðanum og starað í svartmyrkrið, engst af kvöl og óskað eftir, að geta grátið, en verið varnað þess; ekkert séð, nema frost og vonleysi, kvöl sína og harm hennar; að þau voru bæði dæmd til dauða, á mesta fjörs og þroska aldri - og, hvað var þó dauðinn hjá þessari seigpínandi prísund; Hann kipptist til - að hugsa til hennar, sem vonaði og dreymdi um líf og starfa, um sælu og ást. Þetta var vonin, sem honum fylgdi; þessi styrkurinn, sem hún þráði; að merja hjarta hennar, kreista úr því hvern blóðdropa og fylla það aftur með gremju og vonleysi, eitri og hvæsandi brennisteinsloga. Höndin, sem Vaskur sleikti, krepptist; hann hlaut að mola höfuðið á honum, hvíta, heiðvirða höfuðið. Það, sem áður hafði verið göfugast og æðst, lá nú saurugt og svívirt niðri í sorpinu. Þetta var það; svona voru ávextir hugleysis og hræsni. Vaskur ýlfraði af sársauka og undrun; Geirmundur hafði rekið hnefann í hausinn á honum; rann aftur til sjálfs sín, klappaði og kjassaði hundinn og lét hann flaðra og sleikja; kyssti á vangann á Rauð, hugsaði um fláræði og vesalmennsku mannanna og tryggð hundsins, þolinmæði hestsins. Við þrír, við svíkjum ekki hver annan, höldum saman, eins og vinir, og -, svo komu tárin, mörg og stór, brimsölt; hann fékk stundarfró við þau; varð ofurlítið rórri og hugsanaskýrri.

Frá húsunum fékk Rauður að hlaupa, í sprettinum, heim undir túnið. Vínið hvorki sefaði né huggaði; hafði lítil áhrif, og allra síst blíðkandi. Aftur og aftur datt Geirmundi í hug, að hverfa burt úr allri bölvan mannfélgasins. Þarna í ánni voru margir álar; straumur og dýpi nægilega mikið; en hann átti annað verk fyrir höndum, og það var lítilmannlegt, að renna úr orustu, flýja í felur.


26. kafli

Þuríður bar glöggt kennsl á þá alla, sem ruku upp eftir svellaðri grundinni; nú var henni borgið; með honum kom þrekið og sigursældin; við hlið hans hlaut stríðið að verða háskalaust, enda með sátt og samlyndi. Roðinn rann vonarvarmur yfir andlitið; það var dagsbirta úti og inni; hún varð deginum fegin; hann var svo bjartur eftir löngu, niðdimmu skammdegisnóttina.

Sveinbjörn kom neðan úr lambhúsunum; þau heilsuðust á hlaðinu. Þuríður sá undir eins, að ógnir og ógæfa höfðu merkt Geirmund; hún kunni svo vel að lesa lífsrúnirnar og skapbreytingarnar á því andliti; hún fölnaði og skalf fyrir geigvænlegum fyrirboða þungra rauna.

"Sveinbjörn, get ég fengið að tala við föður þinn?"

"Það er sjálfsagt;" hann gekk inn.

"Ég skal fyrst tala einn við föður þinn;" hann horfði stöðugt niður í hlaðið.

"Guð almáttugur styrki þig og okkur bæði;" hún gekk inn í þinghúsið.

Þessi orð veittu honum líkn og styrk; þau einu líknarorð, sem töluð höfðu verið til hans, um langan - langan tíma.

Geirmundur gat aldrei glöggvað fyrir sér, hvernig hann heilsaði séra Jósteini, eða á hvern hátt þeir komust inn í stofuna, en það vissi hann, að þeir tóku ekki höndum saman. Presturinn hné niður á legubekkinn og Geirmundur hvessti á hann reiðiglampandi augum. Var það ekki lík, sem hallaðist þarna að hægindunum? Nei; hann leit biðjandi augum til Geirmundar, en varð strax að líta niður aftur. Óttalega löng þögn, að því þeim virtist báðum.

Svo slöngdi Geirmundur þrjátíu dölum á borðið. Séra Jósteinn hrökk við og leit forviða á hann.

"Þetta er borgun fyrir veru mína um veturinn og fyrir ferminguna."

"Geirmundur;" presturinn rétti fram báðar hendurnar um leið og hann talaði, en þær sigu aftur aflvana niður á hnén.

"Er það eftir Guðs boði, að geta börn í meinum og synd -, bara til að gera þau og aðra ófarsæla, þessa heims og annars? Þú hefur ekki aðeins steypt mér í algerða glötun - mér, sem þér var sama um, hvar flæktist; og þó ég hafi lifað argasta hundalífi, þá mundirðu aldrei hafa hreyft legg né lið; sem fæddist til svívirðingar og skammar hempunni þinni --- en þú drepur hana líka -- drepur Þuríði -, hana, sem var sakleysið sjálft, svo langbest og göfugust allra manna, sem ég hef þekkt... Ó, hvað ég hata þig og bölvaða hempuna, sem þú elskaðir svo vitlaust, sem knúði þig til þessarar varmennsku. Hata hræsnina og hræsnarana, sem hylja sig í henni, og standa friðhelgir við altarið."

Geirmundur þagnaði; honum lá við andköfum; stóð dökkrauður og þrútinn, með leiftrandi augun, sem þrotlaust störðu á hvíta öldungshöfuðið.

Séra Jósteinn leit upp, rétti sig í sætinu og lifnaði allur við. Heift Geirmundar hvatti hann til varnar, vakti lífsþróttinn og metnaðinn af dvalanum.

"Guð einn veit, hvað ég hef liðið, fyrr og síðar, fyrir yfirsjón mína og brot - en þú ekki -; í gær og nótt, og í morgun hef ég kvalist og grátið blóðugum iðrunartárum. Ég elskaði Þuríði, heitast allra minna barna, og ég veit, hvernig hún elskar... Mér þótti líka vænt um þig, sonur minn, þó ég þyrði ekkert að segja, eða gera fyrir þig. Ég veit vel, hvaða reiðarslag þetta er fyrir ykkur bæði og vildi gjarna fórna lífi mínu, til að bæta úr böli ykkar; en ég get það ekki - það er allt of seint nú. Ég er gamall og saddur lífdaganna. Þú ert harður og grimmur, að kalla eld af himni yfir höfuð mitt. Seinna muntu sjá, að yfirsjón mín, þó stór sé, getur afplánast með iðrun og bæn frá sundurkrömdu hjarta. Davíð braut og iðraðist og Guð fyrirgaf honum; Guð er miskunnsamur, og fyrir Jesú dýra dreyra má hver og einn syndari, sem iðrun gerir, vona fyrirgefningar og friðar á himnum."

"Davíð lét drepa Úría, en hann drap ekki Betsabe, né barnið sitt. Og hvaða raun er það, að falla á vígvelli, með blóðugt sverðið í nágreipum, fyrir ofurefli liðs og hraustum mönnum, geta sýnt karlmennsku sína, frjáls og sýkn í orustunni? Hvað er það á móti því, að vera steiktur svona hægt og hægt, brenndur til dauðs, fella sektina svona á sjálfan sig? - - Og hún, hún sem var betri, en allir aðrir -- fyrir böl hennar og píslir hata ég þig og krefst dóms yfir þér."

"Dómurinn heyrir Drottni til...

"Og prestunum?"

"Drottni til, og þó þú sért blindur af sorg og gremju nú, þá munu þeir dagar koma, að þú trúir mér til þess, að ég unni þér líka, eins og hinum börnunum, en var rígbundinn af stöðu minni, og hlaut að þegja. Ég vildi gjarna verða þér að liði, og sá, með gleði, að þú mundir verða nytjamaður. Hélt stundum, að móðir þín hefði sagt þér launungarmálið. Þessi sorg datt mér aldrei til hugar --, að það yrði farið svona á bak við mig, grunaði mig ekkert um. En allt fór svona, svona dauðans hryggilega. Mín gráu hár leggjast með sorg í gröfina."

"Þú ætlar að fara að áfella aðra og þvo saurinn af þínum eigin höndum... Þá þarf þetta tal ekki að verða öllu lengra. Ég þoli það ekki, get, ef til vill, ekki stjórnað mér. Það gildir einu, hvað af mér verður -. En fyrir hennar hönd krefst ég þess, að þú viðurkennir mig fyrir Sveinbirni og Marju, og áður en þú deyrð, opinberlega fyrir mönnum. Hempuna ferðu þó, hvort sem er, ekki með til dómsins; hún yrði þér þar að litlu liði, grunar mig."

"Fyrir þeim get ég gert það, og skal gera það strax. Meira máttu ekki heimta;" hann horfði bænaraugum til hans.

"Jú, það geri ég. Ef þú ekki lofar því, geri ég það sjálfur... Og af mér, en ekki þér, skal Þuríður frétta þessi sorgartíðindi. Ég geng þessi þungu spor, en þú talar við þau hin á meðan."

"Geirmundur, vertu mildari þá, en þú ert núna."

"Mildi. Kenndu sjálfum þér veginn fyrst, og svo öðrum, en ekki öfugt, eins og verið hefur."

Þilið skalf við, er hurðin féll aftur; en þegar Geirmundur kom fram í dyrnar, hvarf bræðin og gremjan; nú var það aðeins sorg og söknuður, sem bjó í brjósti hans. Hann klappaði hægt á þinghúshurðina; Þuríður gekk fram að dyrunum og opnaði; þá sneri hann við og fór þegjandi á undan upp á stofuloft og inn á herbergið þar; hún fylgdist með.

"Guð minn góður; hvað gengur að þér, elsku vinur minn?"

Hann setti hana á rúmið og settist sjálfur á stól, rétt hjá henni.

"Það - það -. Þú, sem hefur frelsað mig, vakið hjá mér lífsþrek og mannrænu, sem ég elska með heilagri virðingu --- Ó, Þuríður! Við erum systkin." Hann greip báðar hendur hennar, óafvitandi, og hélt þeim í lófum sér.

Þuríður starði beint framan í hann; trúði og skynjaði þó ekki; fann að fullvissan og sannindin slitu hana sundur, og gat hvorki játað né skilið þau. Hún var náföl, og stráið, sem vindsvalinn sveipaði með svellaðri rúðunni, var ekki framar einmana né þreklamað en hún. Geirmundur þoldi ekki að horfa gegn þessum undrandi, starandi augum. Svo dró hún að sér hendurnar, neri þeim saman, líkast sem hún mundu vilja snúa fingurna úr liði. Horfði stöðugt og þagði stöðugt.

"Í guðsbænum, segðu eitthvað;" hann hélt aftur um hendurnar hennar náköldu.

"Ó, að ég hafi aldrei fæðst! - aldrei fæðst!"

"Systir mín besta, þolirðu ekki að sjá mig?"

Þegar hann nefndi systur, fór titrandi um hana alla og augun hálflukust.

"Jú, bróðir minn; en þú hefur lesið dauðadóm okkar beggja. Ég vildi við hvíldum bæði í gröfinni."

Geirmundur dró yfirsængina til í rúminu og sveipaði henni utan um Þuríði, vermdi hendurnar og hlúði sem best og nákvæmast að henni; hún lét hann öllu ráða, var eins og sjúkt barn; eftir litla stund leit hún upp aftur og sá tárin hrökkva niður kinnarnar á honum; þá náði hún líka grátinum. Skömmu síðar reisti hún höfuðið frá brjósti hans, tók klútinn af borðinu og fór að þurrka sér.

"Í Guðs nafni skulum við nú bæði reyna að stilla okkur. Vertu varkár og stilltur, hjartans sorgarbróðir minn; reynstu nú þolinn og hraustur, eins og Gísli var, uppáhaldsmaðurinn okkar beggja."

"Ég skal bera mótlætið ef -- ef ég finn að þú treystir mér til dáða ennþá og ég sé, að lífið verður þér ekki eintóm kvalaprísund."

Svo lagfærði hann til í rúminu og hallaði henni út af, breiddi sængina yfir hana og sagði henni frá, hverjar kröfur hann hefði gert til föður þeirra. Hún rétti honum hægri höndina, sem hann kyssti, og settist svo niður á stólinn.

"Nú verðurðu að fara bráðum; sárt er að hugsa til þess, sem fram við okkur hefur komið; sárt að hugsa um framtíðina, en sárast er þó..."

"Drottinn veit, að við erum þó saklaus; við skulum treysta honum."

"Núna er ég þó varla fær um að tala rólega. Misskildu mig ekki, en ég þoli varla að við séum hér tvö saman; en þér fylgir þó virðing mín og heitasta vinátta."

Það var klappað á loftshurðina; Geirmundur lauk upp; Sveinbjörn og Marja komu inn.

"Bróðir minn góður," sagði Marja og kyssti hann.

"Ég vil ekki reynast þér lakari bróðir, en ég var áður vinur." Sveinbjörn tók fast í höndina á honum.

"Annist þið hana svo vel, sem þið getið; hún er svo veik!" Geirmundur hvíslaði því að Marju.

"Vertu viss um það, bróðir." Marja gekk inn í herbergið.

"Nú fer ég, ég get ekkert gert hér annað, en vekja harm og auka sorgina."

"Ég fylgi þér á leið, bróðir minn."

Geirmundur rétti Marju höndina; hún dró hann nær sér og þau kysstust. Þuríður starði á þau þurrum, leiftrandi augum.

Geirmundur laut niður og rétti henni höndina; hvorugt gat komið sér fyrir með að kveðjast með kossi; en hendurnar voru luktar saman fast og lengi.

"Guð gæti þín og hugsvali þér."

"Góður Guð veri með þér og gefi þér styrkinn."

Sveinbjörn gat varla fylgst með niður að hesthúsinu; þeir söðluðu hestana og riðu báðir yfir að Breiðholti; Sveinbjörn tafði þar fram í myrkur.


27. kafli

Séra Jósteinn var ekki heill maður, það sem eftir var vetrarins. Hann messaði aldrei framar á ævinni. Sárin gátu ekki gróið, sorgin ekki sefast. Honum stóð ótti af geðríki Geirmundar, og þráði þó að mega kalla hann son, breyta við hann eins og faðir. Hvað hann gat verið líkur því, sem hann var sjálfur á skólaárum sínum, meðan hann var ungur og óheftur, meðan hann hafði frelsið; báðir geðríkir og sjálfræðisgjarnir, báðir blóðheitir og gjarnir á að tefla á tvíhættuna. Hann hafði aldrei séð ættarbragðið glöggt fyrri en nú; honum hafði verið þelhlýtt til Geirmundar áður, en bælt allar föðurlegar tilfinningar niður, verið gætinn og varkár. Nú vöknuðu þær; löngunin til sátta og yfirbóta glæddist og dafnaði; þráin til þess, að mega faðma að sér þennan efnilega, syrgjandi launson óx; óx engu síður fyrir þá mótspyrnu, sem henni var veitt, því Geirmundur var þver og stríður, forðaðist að tala nokkurt orð við hann; var auðsjáanlega reiður honum alla tíð. Ef til vill hefði hann sjálfur breytt eins í Geirmundar sporum; það var langt um líkast að svo hefði verið. Hann hafði átt erfitt með að brjóta odd af oflæti og áköfu eðli á yngri árum; fyrri hluta embættisára sinna; meðan hann var að temja sig við kirkjulega siði; læra prestlega alvöru og hóglyndi sálusorgarans; oft hafði hann staðið tæpt með prúðmennsku þá, sem embættinu sómdi; en vaninn varð með tímanum að hálfgerðu eðli; hann vandist á, að fara gætilega með vínið, bera ölvanina með alvöru og stillingu - og þó kom það fyrir, og það ekki sjaldan, lengi fram eftir ævinni, að hann missti taumhaldið í hópi kunningja sinna og varð fjörmestur og ófyrirleitnastur þeirra allra - hafði raun af því eftir á og var þá lengi prúðasti prestur; tapaði aftur taumunum og gerði yfirbætur á ný. Með roskins árunum sléttaðist og jafnaðist háttsemin betur og betur, dagfarið varð yfirborðs-þétt og prúðmannlegt.

En það, sem mest kvaldi hann og olli honum lang-mestrar áhyggju, var þetta, sem þau Snjólaug vissu best um. Óttinn að allt yrði uppvíst og að hann missti virðingu og sæmd; bæði yrðu fyrir þvaðri og ómildum dómum; óstjórnleg löngun eftir syndinni; löngun og ástríða, sem varð honum og skynsemi hans of sterk, sem hann lét bugast af og tefldi oftar, en um sinn, á tvíhættuna. Og blómleg og fönguleg var Snjólaug á yngri árum; hraustleg, yfirlitsbjört - var ástríðan ekki skilin við hann ennþá - átti hann ekki að losna við hana fyrr en helkaldur. Því kom hún svo títt í huga hans á þessum sorgar- og iðrunardögum; birtist hugarsjón hans rjóð og brosandi, eins og hún var fyrir fullum tveim tugum ára? Því minntist hann hennar mitt í fyrirgefningarbænum sínum, sá glampandi augun svo oft horfa til sín, þar sem hann bað auðmjúkur og sundurkraminn um fyrirgefning þeirrar syndar, sem raunar var ávallt þungt að hugsa um, en nú að síðustu pínandi, eins og helvítis kvalir? Hvað munaðurinn var illur og spilltur alla sína ævi. Hvað hann hafði steypt mikilli bölvun yfir börnin. Hvað það var sárt, að sjá Þuríði ganga um bæinn eins og svip liðins manns; sjá hana líta með ótta og hræðslu til sín; forðast allar viðræður við sig, gæta þess vandlega, að þau væru aldrei tvö saman; sjá hana berjast gegn veikinni í fimm daga og svo þessa ströngu mánaðarlegu. Heyra móður hennar gráta og andvarpa, sjá systkinin döpur og rauðeygð; vita um gestinn, sem kom hvern dag allan þann tíma, talaði litla stund einmæli við Sveinbjörn og Marju, stökk svo á bak og þeysti suður og niður að ánni. Honum varð orðfall, þegar konan sagði við hann eitt sinn, meðan Þuríður lá, að þau hlytu að samþykkja þennan ráðahag, Þuríður væri ekki fær um að bera þessa sorg og Geirmundur mundi reynast dugandi og atorkusamur bóndi, sem ekki þyrfti að óttast fyrir, að vanrækti skyldu sína. Þegar ást beggja væri svona sterk, mundi ábyrgðarhluti fyrir þau, að slíta hana sundur og spilla að líkindum með því gæfu og lífsláni þeirra. Þá varð hann að vera þrár og fastur fyrir; ljúga að móðurinni. Dauðans þungur syndabaggi var hún orðin öll sú lygi, sem hann hafði logið um dagana. Jafnmiklu hefði hann aldrei þurft að ljúga, ef hann hefði verið bóndi. Já, það var satt, hempan gat legið þungt á öxlunum og lúð þá, sem þurftu að bera hana.

Oft, þegar hann gekk þögull og lútur um gólf í fram-baðstofunni, heyrði hann fólkið tala um, hvað Geirmundur drykki oft og væri á sífelldu slangri frá heimilinu. Riði ævinlega í sprettinum milli bæjanna. Hyrfi stundum að heiman á vökunni og svo heyrðist reiðdynurinn, hófaskellir og hundgeltið, ýmist fram hjá beitarhúsum eða norður undir Gíslastöðum - þeir standa austan ár, gegnt Grund -, hann dræpi hestinn og sig með þessu háttalagi. Fólkið talaði lágt og sín á milli, en séra Jósteinn heyrði og skildi, lagði saman og gleymdi engu. Vissi, hvernig Geirmundi mundi innan rifja, og létti lítið í skapi við það. Sá þverlyndið og gremjuna svo skýrlega merkt á andlit Geirmundar, sá hann verða brúnaþungan og hvassan í augum, ef þeir hittust í svip eða gengust hjá. Vita, að hann kom aldrei inn fyrir bæjarstaf á Grund og þáði þar aldrei svo mikið, sem einn vatnsdrykk. Vita einnig, hvernig hann hafði svarað bréfinu, því um daginn - innilegu, friðgjarnlegu og biðjandi bréfi -, svara aðeins þessu:

"Úr því svo lengi var þagað, mörgum til böls og sorgar, þá er engin von til, að meira né betra verði gert nú."

Og engu öðru en þessum harðhnjósku orðum. Á grafarbakkanum varð það að komast í hámæli um hann, sem fáir eða engir höfðu vitað áður, sem aldrei hafði komist við veðri. Nú hlaut það að verða í hvers manns munni. Hans gráu hár mundu fara með óvirðingu í gröfina. Bara gröfin, hvíldin og vonin um miskunn Guðs, til að halla sér að, treysta á og styðjast við.


28. kafli

Nýr sveimur fór um dalinn; kærkomið og margbrotið umtalsefni fyrir allan þorra manna.

Aftur var Geirmundur á ferðinni; aftur hafði hann komið fram til ills og óláns. Vélað Þuríði, notað sér barnslega einfeldni hennar. Hefði bæði Gróu og hana í takinu; en eins og maklegt var, fékk hann sjálfur að súpa af því seyðinu - loksins hefndist honum þá. Nú var hann frá; viss að rísa aldrei á ærlegan legg framar; ofurseldur slarkinu og spillingunni, rækur úr félagsskap allra góðra manna.

Hann hafði líka getað spillt heimilisfriðnum og samlyndinu á Grund. Líklega færi hann nú að venja komur sínar að Efra-Fossi aftur, því inn fyrir bæjarstaf á Grund mátti hann aldrei stíga framar. Það var helst Sveinbjörn, sem hélt tryggð við hann, þó undarlegt væri. Þuríður var utan við sig af harmi; þegar unnt var að opna á henni augun, veiktist hún og mátti hvorki sjá né heyra Geirmund framar. Hún grét trúgirni sína og iðraðist fljótfærnislegrar stundarvillu.

Svona var orðrómur flestra. Nokkrir trúðu honum trauðlega, og grunaði að hér mundu aðrir málavextir sannari, þótt enn væru þeir á huldu.

Lítill neisti, gamall og óglæðilegur raunar; neisti, sem aldrei hafði kviknað í og aldrei dáið út alveg, hann glæddist nú. Ef Geirmundur væri nú kannski sonur prestsins, þá var von til, að skapbrigðin yrðu svipleg hjá Grundarfólkinu. Svip hafði hann til þess að vera af ættinni; ættarbragðið milli séra Jósteins og hans virtist koma ljósast fram síðari hluta vetrar. Það var talað hljóðlega, þetta, að séra Jósteinn mundi vera hinn rétti faðir Geirmundur; en ef svo væri, þá hefði Snjólaug ginnt hann; presturinn hefði eflaust verið drukkinn og hún sætt því laginu; brellin hafði hún verið um dagana; aldrei þótt vænt um Einar bónda sinn; látið hann strita og elja, en engu ráða; þóst standa miklu hærra en hann, bæði að sálar og líkams atgervi; var ráðrík og drottnunargjörn og laus í skapi. Það var afsakanleg stundarhrösun fyir honum; þó honum yfirsæist drukknum, einu sinni, þá var það afsakanlegt, honum gátu menn fyrirgefið; hann var heiðursmaður, sómaprestur og háttprúðasti heimilisfaðir. En Snjólaug; hún var eins og dýrið; henni var það líkast, að ginna og lokka með víninu, tæla prestinn með því, til þess að geta fengið færi á því, að svala fýsnum sínum og holdlegum munaði; Geirmundur hafði getað náð lauslyndinu og hrokanum af móður sinni; hvert átti barninu að bregða, nema beint í kynið? Hjá slíkri móður var ekki að vænta fræðslu, siðgæða né góðrar háttprýði. Á Fossunum hafði lengi verið lifað í sukki og svakki, og Geirmundur kom þaðan með spilltan hugsunarhátt og lævíst framferði.


29. kafli

Það var að vísu satt, að Geirmundur fór oft burtu af heimili sínu en hann vanrækti þó ekki fjárhirðinguna fyrir það og Rauð hafði hann aldrei gefið eins mikinn mat og þennan vetur. Hann var örsjaldan burtu, nema nokkurn hluta dagsins, og valdi helst til þess kvöldvökurnar; þá þoldi hann verst möruna, sem trað hann þar heima. Besta fróin var þá að söðla Rauð og láta hann þjóta með sig eftir grundunum, hjarninu og ísunum; reyna við Vask, sem vanalega tók til að gelta, þegar Geirmundur miðaði til kapphlaupsins. Vonaði stundum eftir þeim atburði, að Rauður dytti og dræpi þá alla þrjá með fallinu, en sat þó fastur og öruggur við taumstjórnina og beitti hestinum sem kænlegast, yfir allar torfærur. Eða að hlaupa á skautum og reyna sig við Vask; ganga svo hart, að blóðbragð kæmi í munninn; þreyta sig á hlaupunum; æfa sig svo vel, að enginn dalbúanna þyrfti að reyna þá íþrótt við hann framar. Þeim skyldi ekki ganga svo auðvelt að hælast um að sigra hann, hvorki í þeirri íþrótt né annarri, að minnsta kosti verða sigurinn harðkeyptur. Og nú hneigðist hann fyrir alvöru að víninu. Bakkus bandaði vínviðarstafnum og töfraði hann til sín; seiddi með algleymi og deyfing meinanna ---; fara helst í eitthvert kauptún og drekka, drekka í einni lotu, meðan lífið ynnist; setja hart mót hörðu, illt mót illu; vægja aldrei til við mennina. En þá fann hann fyrst til þess, fyrir alvöru, hve heitt hann elskaði dalinn sinn - ekki mennina þar -. Hann elskaði ána og grundirnar, grös og víði, hamrana, gilin og lækina, hlíðarnar, hólana og lautirnar; hestana og sauðféð; sérstaklega það, sem hann hafði hjúkrað og fóstrað, sem aldrei hafði vísvitandi gert neitt á hluta hans. Að fleygja því frá sér, til hinna og þessara kvalaranna, eða brytja það niður sjálfur; það var ótrúlega erfitt. Hugurinn var á hvörfum, ætlanirnar tvíbentar. Aflið til að halda uppi manndáð og sjálfstæði sínu lifði, þótt hann héldi það dautt. Hann elskaði gjörvallan dalinn; allt þar, nema mennina; í þá vildi hann sparka, í flest alla þeirra; hann vissi dóma og tillögur sveitunganna; þeir voru maklegir hrakninganna; svölun að því að brjóta heiglana á bak aftur, vefja peysurnar saman; láta þá hopa og hörfa undan; ef þeir stóðu og horfðu framan í hann, þá varð linur í þeim bakfiskurinn og jákvæði þeirra falt fyrir eitt puntstrá.

Gremjan og sorgin - syndin -, sem þau steyptu yfir sig, án þess að vita af því, hún var beisk; fyrir bölvaða mannfélagsvillu og kúgaðan hugsunarhátt, fyrir heimskulegan ótta og hræsni, var hann hryggur og reiður; reiður fyrir þau bæði og þó miklu sárbeittari fyrir hennar hönd. Hún mundi aldrei lifa glaðan dag framar, sem óafvitandi brot hafði lagt með tvíeggjuðu sverði til hjartans. Svo sem hún hafði verið betri og blíðari en aðrir menn, þess daprari og geigvænni mundi skugginn, sem hafði lagst yfir þau, hvíla á sálu hennar; ósjálfrátt mundi hún stækka hann og slíta kröftum sínum við iðrun og angur.

Trúin á séra Jóstein var fallin í kalda kol; trúin á prestana féll með honum; hann las mannkynssöguna og leitaði og rannsakaði; Sturlungasögu og Árbækur Espólíns; hann þóttist finna, að stéttin hefði alla tíð verið eigingjörn, hræsnisfull, ófrjálslynd og skinhelg. Við trúleysið á yfirburði prestanna og nytsemi þeirra fyrir mannfélagið vaknaði löngun til að lesa ritninguna með prófandi augum. Hann var kallaður biblíufróður vel, en hann hafði aldrei lesið hana með eftirrýning né leitandi rannsókn; hafði lesið hana eins og flestir aðrir, með vissu um helgi og óskeikulleik, og þó hnotið um ýmislegt, sem honum geðjaðist ekki að og virtist hvorki gott né göfugt; hélt þá, að sig skorti trú og greind og hið veraldlega og breyska eðli sitt skildi ekki rétt, gjálífið truflaði sig og reyndi því til að láta slíkt liggja sem mest í þagnargildi. Nú las hann á nóttunum - því andvökur lögðust ríkt á -, og Gamla-testamentið varð að orðmargri, fróðlegri sögu, með kynjum og hindurvitnum, prettum og ágirnd, grimmd og yfirgangi, sem blandaðist saman við það fagra og skáldlega. Bókin tapaði helgi sinni og mörg stórmenni hennar ljóma sínum. Margt vafasamt og viðsjárvert í Nýja-testamentinu líka. Kristur gat ekki verið eingetinn sonur guðs hins hæsta, heldur framúrskarandi vitur og góður maður, einarður og eldheitur siðameistari, sem prestarnir heimtuðu krossfestan fyrir hina nýju kenningu sína, sem þeim var bæði óhagstæð og óvinveitt; þeir þoldu ekki að hann drægi skýluna af gjörðum þeirra, né rótaði við völdum hræsni stéttarinnar. Alveg eins, ef Kristur kæmi nú; prestarnir, dómurinn og krossinn; krossinn og klerkarnir, sem æptu um krossfestingu, æstu fáfróðan múginn, til að rísa gegn fagnaðarerindi hins nýja frelsis og jafnréttis.

Geirmundur var fálátur þann vetur ofanverðan, og trúmálum hreyfði hann ekki við nokkurn mann, heldur bjó vandlega yfir þeim sjálfur. Hatrið til prestanna komst betur við veðri; ef hann var ölvaður fékk stéttin harða dóma, beitta hæðni og hvassa árás frá hans hálfu. Hann nefndi aldrei séra Jóstein á nafn né dæmdi hann sérstaklega fyrir starf sitt, en dreyrroðnaði ætíð, ef hans var getið.


30. kafli

Sjöunda sunnudag í sumri messaði séra Sveinn heima á Grund. Menn komu fjölmennt til tíða í fögru vorveðrinu. Fosshjónin komu með börnin; Gróu fýsti til, að fá færi að sjá Geirmund og Þuríði saman; líkurnar voru nokkrar, að það gæti heppnast þennan dag. Hún gat aldrei gleymt Geirmundi, til hans stefndi hugurinn ávallt, ástarþráin og hjartans löngunin. Til Þuríðar var henni illa og gladdist yfir, að hún hefði þó ekki fengið að njóta hans til lengdar, frekar en hún sjálf. Það var heimskuleg von - það fann hún ofurvel - en hún bar hana þó í brjósti sínu samt og gat ekki spornað gegn því, að hún mætti hvíla eina, örstutta stund í faðmi hans, njóta augnablikssælunnar við hjarta þess manns, sem hún hafði unnað langheitast allra. Gróa hafði strax trúað, að Geirmundur væri Jósteinsson; annars hefði hann aldrei látið af sínu máli og þau aldrei slitið sundur ást sína. Nú var henni ættarbragðið full-ljóst; það sem áður hafði svipað fyrir, varð að óyggjandi sannindum; gremjan og ástarþokkinn börðust í brjósti hennar um Geirmund, og sæi hún hann, hvarf gremjan, en ástríðan tendraðist.

Gróa var orðin nokkuð holdug, og ekki jafn yfirbragðsfögur og áður; andlitið lífminna og kyrrlegra; einhver daladrungi og einverudeyfð hvíldi yfir henni; sérstaklega bar á því heima, en enginn skyldi trúa þeirri ró til fullnaðar; glampinn, sem kom stundum í augun, bar vott um, að löngun til lífs og unaðsnautna svæfi lausum svefni og gæti vaknað, þegar minnst varði.

Séra Sveinn var raddfagur og skemmtilegur, bæði fyrir altari og í stólnum; ræðan var söfnuðinum vel að geði. Marju varð tíðlitið til prestsins og roðnaði í hvert sinn og augu hans hvörfluðu yfir söfnuðinn og staðnæmdust hjá henni. Séra Jósteinn sat fyrir stafni, næst altarinu, dapurlegur og hnípinn. Geirmundur hafði sæti fyrir stafni, hinum megin altaris, og þó ekki næstur því; hann var rauður og þrútinn í andliti og hvasseygari en fyrrum; sá Þuríði sitja föla og framúrlega við hlið systur sinnar. Einu sinni hafði hún litið til hans angurblíðum, aðgætandi augum, roðnaði og drúpti svo aftur höfðinu. Geirmundur þoldi ekki að sitja kyrr alla messugerðina; sorgin og útlit Þuríðar knúðu hann út úr kirkjunni, og hann hugsaði, að það mundi líða á löngu, áður hann sæti innan um þennan söfnuð aftur.

Geirmundur kvaddi nokkra kunningja sína, þegar eftir messu. Fosshjónin stóðu norðan við bæ með börnin sín; hann kvaddi Gróu og börnin með kossi, brá Brandi á einmæli norður fyrir hlöðuna, tók fast í höndina á honum og mælti:

"Ég kveð hér fáa og biðst ekki friðar af neinum, nema þér Brandur; þér launaði ég góðan kunningsskap ódrengilega. Geturðu fyrirgefið mér og kvatt mig eins og hálf-kunningja?"

"Tölum ekki um liðna tíð. Guð fylgi þér, syrgjandi vinur minn. Þú hefur kannski ekki liðið minnst sjálfur við það..." Brandur þagnaði og þeir kysstust.

Gróa hafði horft sárum vonleysis augum eftir Geirmundi. Snjólaug sat grátandi norðan undir kirkjunni og Guðrún í Felli hjá henni. Hún hafði gengið á eftir henni þangað; hún fann vel, hve þungt móðurinni mundi, að sjá bak Geirmundi, um lengri eða skemmri tíma, og leitaðist við að hugga hana eftir megni. Séra Jósteinn sat í hægindastól í húsi sínu og starði niður í Vallinsprédikanir, en sá engan staf; tárin hrundu svo títt og féllu í sífellu niður í opna bókina. Geirmundur hafði aldrei talað orð til hans, síðan um veturinn, og ekki kvaddi hann, þó hann ætlaði burtu; sama reiðileiftrið var enn í augunum þegar þeir gengust hjá áðan, og var í stofunni forðum. Þungur var krossinn, þung sonar heiftin og dóttur sorgin.

Sveinbjörn og systur hans gengu með Geirmundi norður fyrir túnið. Fólkið horfði eftir þeim; nú vissu allir um skyldleikann og í dag töluðu menn fátt um það mál. Þegar kom í hvarf frá bænum og hóllinn skyggði á mannfólkið, þar heima, stóð Geirmundur við.

"Hérna ætla ég nú að kveðja ykkur; þið hafið nú fylgt mér nóg á götu... En ósköp langar mig til að fá bréf, við og við," hann horfði til Sveinbjarnar.

"Já, og þú skrifar líka; gerðu það, mundu það," sagði Sveinbjörn.

"Viltu skrifa mér, bróðir minn, og treysta á, hvað skilvís ég er í skiptunum?" sagði Marja og lagði höndina á öxl honum.

"Mundu það þá; láttu það ekki gleymast fyrir öðru, sem kemur oftar og ljúflegar í hugann."

Hún roðnaði og játti því; en þetta daufa spaug skar sundur hjarta Þuríðar; hún sá að hugarkvölin þjáði hann, þó hann reyndi að bera sig karlmannlega. Svo kvaddi Geirmundur Marju og Sveinbjörn með kossi, neitaði, enn á ný, fylgd hans nokkuð lengra og sneri sér að Þuríði; sá hugarangrið, samviskubölið og vonleysið beygja hana til jarðar, líkt og blómgaða skógviðargrein, sem stormurinn brýtur af stofninum; vissi að hún var einmana og huggunarsnauð, því svona harm megnar enginn ástvinur að hugga; í slíkri sorg var hún einmana, mitt meðal skyldmennanna. Þau kvöddust löngum kossi; Þuríður sneri heimleiðis eftir systkinum sínu; Geirmundur stóð og horfði; sá snögga drætta kippa henni til, höfuðið hníga niður.

"Þuríður!"

Hún leit við honum, en kom engu orði upp; í sömu svipan lá hann á knjám fyrir henni.

"Ó, fyrirgefðu mér---, láttu mig ekki fara með dauðann í hjartanu frá þér."

"Þú ert í engu sekur, ég hef ekkert að fyrirgefa þér... Ég hef elskað þig heitast allra manna og mun elska þig svo meðan ég lifi-- bróðir minn; ég er bara svo voðalega hrædd um, að þú getir ekki borið lífið;" hún tók í hendur honum, og svo óstyrk, sem hún var, reisti hún hann þó á fætur.

"Skrifaðu mér, besti bróðir, og varaðu þig á víninu."

"Er það satt, má ég skrifa - og vona eftir svari?"

"Já." Sama bjarta hughreystingartillitinu brá fyrir, sem svo oft hafði áður svalað sálu hans og veitt honum styrkinn. Systkinin stóðu og horfðu til þeirra.

Hann vafði hana að sér og kyssti hana.

"Í Guðs friði."

"Í Guðs friði."

Systkinin leiddu Þuríði milli sín heimleiðis.

Geirmundur stökk á bak.


31. kafli

Það var drukkið fast í veitingakránni í ...firði þetta kvöld. Krepjan lamdi þakið og norðanbylurinn hristi gömlu, hrjálegu hurðirnar í ganginum, svo þær skröltu til; ef opnað var, hvein snjórokan inn ganginn og sletti sér niður í gólfið, sem slampaði í; en dragsúgurinn þaut eftir húsinu, svipti í hurðirnar og hristi rúðurnar; vildi reyna, hvort ekki væri hægt að ryðja sér þar braut. Lemjandi rigning og organdi brim hafði verið þrotlaust í fjóra sólarhringa. Illviðriskólgan lá dimmgrá yfir sjó og landi; skiptist endur og sinnum sundur, svo að sá í ljósbleikan glotta milli skýjaklakkanna, sem sneru sér í toppmyndaða hnjúka og tindótta, kolbláa rana, hrundu svo skyndilega saman og sama loftmyrkrið lagðist aftur niður að hvítfextum brimboðunum, sem veltust grenjandi upp í fjöruna, freyddu fossandi hæst upp í malarkambinn og skoluðu sandinum, grjótinu og mölinni með sér í útsoginu; sífelldur dynjandi og sjávarorg kvað við og jörð nötraði ofan við kambinn; en krepjan þaut upp eftir landinu, fram til dalanna og sveitanna og rótaði upp aurnum; leirlöðrið rann eftir götum og dældum og krapslepjan vall grámórauð yfir jörðina.

Dagarnir voru gráir, birtan óskír og drungalega dauf; himinninn lafði yggldur niður, en nóttin, svört eins og líkkista, fór nötrandi og dynsuðandi yfir húsþökin, skók þau til og andaði svipandi nágusti með hverri rifu; smaug inn og fyllti húsin með hráslaga, hrolli og rekju. Menn drógu rúmfötin upp fyrir höfuð og hnipruðu sig niður í ylinn; ósjálfráður ótti fylgdi illviðrisniðnum, brakinu í þaksperrunum, lekanum og súgandanum. Milli húsanna varð að vaða leðjuna í ökkla og mjóalegg; gorið og blóðið frá sláturvellinum blandaðist við krap og saur, skolaðist í graut, sem fyllti loftið með daunrammri fýlu.

En inni í kránni reyndu menn að drekka úr sér hroll og illveðurs leiðindi; það voru þurrabúðarmenn úr ...firði, sjóróðramenn og nokkrir sveitamenn, sem illviðrið hamlaði frá að komast burtu þetta kvöld.

"Er ég mestur í kjaftinum og huglaus, eins og sveitungar mínir? Þorirðu að standa við, að þeir séu það?-- Ég skal venja þig af því, að ljúga upp á þá og sýna þér, hvort einn landhlaupari, eins og þú, munir skjóta þeim skelk í bringu."

"Ætli það verði nema stóryrðin og raupið, frekar en vant er?"

"Sko, hvað kallarðu þá þetta?" Geirmundur greip annarri hendi í brjóstið og hinni í vinstra lærið á Guttormi ferðalang, hóf hann hátt á loft og henti honum á hurðina lokaða og Guttormur fór með hrjálegu hurðina, svipta af hjörunum, öfugur fram í ganginn; þar lá hann og stundi; þeir gætnustu fóru að stumra yfir honum og koma honum í rúmið. Guttormur var óbrotinn og örkumlalaus, en ölæðið og fallið höfðu gert hann ósjálfbjarga. Tveir góðir félagar Guttorms réðust á Geirmund, sem lét hnefana ganga á þeim, svo þeir hopuðu út í hyrninguna. Þá leist veitingasalanum ekki á blikuna, hljóp til Geirmundar, klappaði á öxl honum og bað hann með mörgum fögrum orðum að stilla sig og hætta; Eilífur smiður kom rambandi, til að ganga í lið með honum.

"Ég skal sýna þeim það, helvítis dónunum, hver best bítur frá sér-, hvort ég þori ekki að hafa í fullu tré fyrir þeim, og látið þá venjast af að slást upp á saklausa menn."

"Þú ert búinn að dusta þá nóg; þeir þora varla að eiga við þig meira í nótt -- það er líka kominn háttatími og þarf að fara að setjast að; klukkan er orðin tólf," sagði veitingasalinn.

"Ég fer ekki að sofa strax, og vil hafa Eilíf með mér og tvær vínflöskur."

Veitingasalinn vildi ekki styggja svo góðan viðskiptamann og Geirmundur var; þótti, ef til vill, ekki árennilegt að eiga annað en gott við hann, þegar vínið var annars vegar.

Þeir sváfu saman á loftherbergi, Geirmundur og Eilífur smiður; Geirmundur borgaði öll ölföng, sem þeir höfðu drukkið liðna viku; hafði á hverju kvöldi lent í hreðum við einhvern; hann var svo fljótur að taka höndum á þeim og svipta þeim niður. Þegar hann var búinn að slátra og koma Rauð fyrir í góðum stað, tók hann til að drekka; drakk bæði nótt og dag; hafði Eilíf smið hjá sér, þegar aðrir fóru að sofa - á hann lagði hann aldrei hendur; skrafaði við hann, eða þagði og horfði niður fyrir sig og lét hann rabba; segja sér frá einhverju, sem hann þó tók alls ekkert eftir. Hugurinn rann til liðins tíma; heim í Breiðárdal, til minninganna þar.

Þegar þeir félagar komu upp á herbergið, hellti Geirmundur á staupin; báðir tæmdu þau og settust við borðið. Sátu um hríð og Eilífur sagði frá námsárum sínum í Reykjavík; um þau varð honum tíðrætt og Geirmundur þekkti frásögnina mæta vel; það fór að draga niður í honum og tungan að drafa; smiðurinn var orðinn blindfullur. Nú losnaði um tunguhaftið á Geirmundi.

"Af ótal mörgu er lygin og hræsnin verst; skinhelgi, hræsni og hugleysi-, enginn áræðir neitt, sem djörfung þarf til--. Prestarnir, þessir þaulriðnu kirkjuklárar, eru þó voldugastir og æðstir allra lygara -- . Hverjir hrópuðu: Krossfestu, krossfestu hann! ? Það gerðu þeir, það gera þeir ennþá...Ég þekki einn prestaöldung - Drottinn varðveiti hann - sem er samt laus við hræsni, yfirdrepskap og lygi; það er mesti Guðs dýrlingur. Magnús Eyjajarl upprisinn -- . Sko - þegar ég er búinn að hressa svona fallega upp á mig, þá geng ég á prestaskólann og læri til prests; get orðið besti prestur; ég er svo mátulega hreinn til þess; hreinn, eins og þeir, dagfarsvandaður og háttahreinn, eins og þeir... Þá tek ég Gutta til altaris, og ef hann deyr, og hann er vís til að deyja bráðum - þetta er útlifaður drykkjuhundur -, þá gef ég honum passa yfir um; smelli honum inn fyrir himnaríkishurðir, rétt í faðm góða prestsins - sem, því miður, er nú búinn að binda upp helskóna og verður þá sestur hjá Jakob; einmitt hjá dyggum Jakob Ísrael; þeim svipaði saman í mörgu, og hann, dýri presturinn, tók hann sífellt sem besta dæmi fyrir framferði safnaðarins. Þar líður þér vel, Gutti minn, og þá er ferðalangur búinn að fá trygga höfn og heilaga sessunauta... O-jæja, það er nú svo, og svo er nú það. Á morgun fer ég heim; bara fá mér nýjan hatt fyrst; duglegan blýhatt... Jú, ég fer heim. Fyrr en síðar fer ég heim. Ég er búinn að vinna gott dagsverk og er orðinn saddur sælla ævidaga; hef lifað fljótt og eldist fljótt... En þú getur margt lært af mér, vinur minn; fyrst það, að unna engum manni - þeir eru of góðir handa öðrum eins fyllisvínum og okkur; við verðum að hænast að hundum og hestum - þér finnst það óvirðing; en ég segi þér satt, þeir eru tryggir; aldrei svíkur Vaskur mig og ég ekki hann... Guð minn, hvað það var langt frá öllu falsi - hvað hún var góð og saklaus, góð og blíðlynd --- hún Eva, áður en Adam lét hana éta af eplinu með sér. Nú, nú, farðu að kúra þig niður í rúmið, Eilífur, og dreymi þig um afturhvarf og sakramenti, falsleysi, drenglyndi og erfðalög; ekki um erfðasynd - þó hún sé raunar til - erfðasynd og gjöld í fjórða lið; ekki er það miskunnarríkt né algott, ekki samboðið algóðum, almáttugum Guði; á þann hátt trúi ég henni ekki; en til er hún; það hef ég reynt... Ertu sofnaður, karl minn? Megnarðu ekki að vaka með mér? Það sýnist svo. Vesalingur, hann er dauðadrukkinn; einu sinni hefur þetta verið vel gefinn og góður drengur; nú er hann skipbrotsmaður; fallinn fyrir víninu. Og ég fer sömu götuna, öllum óvinum mínum til eftirlætis. Nei, ég geri það ekki; geri þeim það ekki til geðs."

Geirmundur hló kuldahlátur, drakk teyg úr flöskunni, hnykkti Eilífi til, þar sem hann svaf fram á borðið, en hann rumskaði ekki, aðeins urraði svolítið við hristinginn og svaf svo, eins og steinn. Geirmundur tók hann og bar hann í annað rúmið, leysti af honum skóna, klæddi úr sokkum og ytri fötum, lagði höfuðið á koddann og breiddi vandlega á hann yfirsængina.

Eilífur hraut og skar hrúta í sífellu.

Svona hafði það farið undanfarnar nætur; hann hafði fyrr eða síðar þurft að koma Eilífi í rúmið; en þegar hann var fullur mátti tala við hann, það sem manni datt í hug; Eilífur mundi ekki eitt orð af því, þegar hann vaknaði. Það var þó heldur betra að hafa hann, þó fullur væri, og þó hann svæfi, heldur en að vaka aleinn þarna í herberginu, heyra brimduninn og krepjustorminn úti, finna kvölina nísta hjartað og bægja allri ró og svefni burtu. Að drekka sig í hel, fá algleymisfrið og fró, hafði fyrst teygt hann að kránni og víninu; hann var ekki hræddur við helvíti né helvítispíslir; þeim gat hann á engan hátt trúað; en hann gat engu gleymt, þó hann drykki og enga nautn né frið fengið með ölvaninni---, það var skömm að leggja árar í bát, gefast upp; lifa í svalli og sóun, láta eins og vitlaus maður ---; drepa sig. Slíkt neyðarúrræði var aðeins hægt að grípa af merglausum mönnum, óreiðubjálfum og þeim, sem glæp höfðu drýgt. Ekki samboðið þeim, sem nokkur þróttur var gefinn. Verjast og berjast. Það gerðu allir, sem höfðu krafta í kögglum. Það gerði Gísli Súrsson, afhaldsmaður þeirra beggja, og á hann minnti hún hann forðum, til þess, að hann skyldi, eins og Gísli, drýgja dáð til dauða, vera hraustur karlmaður til æviloka. Og hvað hafði hann gert? Hafði hann farið að ráðum hennar og eftir hugheilum óskum? Nei, hann hafði verið óstjórnlega vanstilltur, eins og svo oft áður; örskiptamaður og ofsi í skapi. Þuríður mundi harma enn meir, þegar hún vissi um þessi lítilmannlegu glöp hans; hann fann stingandi farg leggjast á brjóstið, líkt og hrufóttur hellusteinn legðist á það og merði það sundur. Á harm hennar mátti hann engu auka; hún leið allt of þungar þrautir áður, þó þetta bættist ekki við. Og móðir hans; hún hafði líka orðið fyrir ógæfu og raunum; hann mátti ekki þjá hana með neinni skelfingu á síðustu árunum. Systkinin - öll systkinin mundu angrast af ógæfu og óvirðing hans - Gróa - hún hafði einnig bergt af remmijurt lífsins; honum var alla jafna hlýtt í þeli til hennar; hana vantaði þrekið; og skorti ekki alla það? karlmennina líka, þó þeir hreyktu sér hátt og hrósuðu sér líkt og Þórður huglausi? En fyrst og síðast og langinnilegast hugsaði hann þó til Þuríðar; hún sem hafði verið góði engillinn á lífsleið hans, ljósálfurinn, sem rétti honum líknarhönd, þar sem hann lá fallinn. Strauk lyfsteini um sárin, græddi og hvatti til dáða og frama, gaf honum það, sem hún átti helgast og dýrast. Þegar flestir aðrir þóttust fullvissir um, að hann væri dottinn í sorp og saur og spyrntu fæti til hans, þá kom hún til bjargar og fulltingis. Á saklausa bjarta lífsskeiðið hennar hafði hann varpað helmyrkri og hraungrýtisurð. Ólánið elti hann alla daga --, en nú hlaut hann að hætta slarkinu, bæði Þuríðar og sjálfs sín vegna. Hætta að drekka eins og svín - berjast þangað til hann hnigi að velli; félli fyrir ofurefli og aðsókn mannanna; þeirra, sem vildu leggja hann til jarðar. Ef hann vildi, var óvíst að þeim heppnaðist það; ef hann var sjálfum sér trúr og öruggur, yrði ódrengjunum og óvinum hans aldrei auðið, að standa yfir höfuðsvörðum hans... Hvað það var vitlaust að flýja burt úr dalnum - þeim til eftirlætis -, vestur í Gilssveit, þar sem hann var öllum ókunnur og gat aldrei fest yndi. Heima átti hann þó nokkra vini, meðal óvinanna. Dalurinn hans heillaði hug og hjarta til sín; brekkurnar brostu, grundirnar titruðu fyrir hófadun, grasið bylgjaði til í andvaranum, áin niðaði. Þar var allt fagurt, bæði sumar og vetur; allt, nema þorri mannanna. Fara heim í dalinn aftur; slaka aldrei til; berja frá sér, ryðja sér til rúms og láta skeika að sköpuðu.

Geirmundur drakk teyg úr flöskunni; barði hnefanum í borðið svo staupin og tóma flaskan stukku til og ljósastjakinn á borðröndinni steyptist niður í gólfið.

Morguninn eftir var bjart veður, heiðríkt loft og frost ekkert; kyrrt og lygnt, eins og oft verður eftir storma og úrfelli; mönnum finnst svo mikið til um kyrrðina og friðinn eftir harkið og ofsann á undan. Geirmundur vaknaði ekki fyrri en eftir hádegi; veitingasalinn fann hann sofandi í rúminu um morgunina og fötin lágu í hrúgu á gólfinu, líkast að þeim hefði verið fleygt þangað í bræði. Geirmundur þvoði sér, lét bursta fötin, drakk kaffi og borðaði; átti einmæli við Eilíf, sem nú var ódrukkinn og dapur; Eilífur tók upp tómu pyngjuna sína og stakk þar niður tuttugu krónum, sem Geirmundur bauð honum að láni; svo kvöddust þeir og Eilífur fór til smíða sinna. Geirmundur borgaði veitingasalanum reikninginn og sendi dreng eftir Rauð.

Rétt fyrir húmið riðu tveir menn hvatlega suður frá ...firði; það var maður framan úr Gilssveit, sem hafði komið um morguninn eftir meðulum til læknisins, og Geirmundur. Sunnan við kauptúnið hleyptu báðir á stökksprett og Geirmundi datt í hug á sprettinum, að þess mundi langt að bíða, að hann kæmi aftur þar í ...fjörðinn, eða dveldi þar nokkuð; hann var töluvert ölvaður og viðkvæmur fyrir ógæfu allra kvikinda; stillti og bað samferðamann sinn að ríða vægilega, fyrst ekki lægi líf við að koma meðulunum. Bauð félaga sínum að dreypa á flöskunni og kveið fyrir að koma heim að Engiteig; kveið vetrinum og lífinu þar; sökkti sér enn á ný niður við að hugsa um drauminn, sem hann hafði dreymt rétt áður en hann vaknaði.

Hann þóttist staddur í stóru, fornfálegu húsi; það var nótt; ljósin loguðu dauft. Eilífur smiður og séra Jósteinn sátu við langt borð, fyrir stafni, og drukku "púns"; þar var helst birta; í hinum endanum var nálega dimmt. Þá komu fimm menn og vörpuðu þeim báðum niður á gólfið, og settust sjálfir við drykkju. Séra Jósteinn komst á fætur, þó þeir spörkuðu, en Eilífur ekki; þeir létu fæturna ganga á honum, hlógu og hvolfdu í sig úr glösunum. Verstur allra var þó Guttormur ferðalangur. Klerkurinn réðist á þá, og reyndi að hjálpa Eilífi, en þeir hlógu því meir og skvettu úr glösunum framan í hann og Guttormur sagði: "Er góð sjónin þín í kvöld, prestur? Þvoðu þig hreinan, prestur minn."

Geirmundur þoldi ekki kyrr lengur; réðst á þann, sem næstur sat og henti honum á gólfið. "Sjáðu bölvaðan drykkjuseppann," sagði Bjarni í Felli; hann vill ennþá fara í illt. Geirmundur sló hann með flöskunni, svo Bjarni hné eins og dauður á gólfið; greip í Eilíf og reisti hann á fætur. Nú varð bardagi milli þeirra þriggja og hinna fjögurra. Bjarni hreyfðist ekki. Geirmundur lét höggin ríða hart og títt og séra Jósteinn sparaði það heldur ekki; Eilífur gat lítið; hann var augafullur. Þá flýðu hinir allt í einu; liðu einn eftir annan út gegnum stafninn; séra Jósteinn fór að stumra yfir Bjarna; Geirmundur varð skelfdur; ef hann væri nú dauður; hann laut líka niður. Þá stökk Bjarni á fætur og hrópaði: "Rektu helvítis hóruungann út! Rektu helvítis hóruungann út!"

"Þegiðu eins og steinn," sagði prestur og rétti Geirmundi hægri höndina; hann lét, sem hann sæi það ekki. Bjarni hoppaði og hló, svo kvað við í húsinu. Presturinn hné niður á stólinn.

Þá var hvíslað í eyra honum:

"Réttu fram höndina, elsku vinur. Sættist þið áður en ég dey."

Þuríður var í hvítum kyrtli, dragsíðum, náföl með slegið hár.

Geirmundur rétti fram höndina; þeir tóku þeim fast og innilega saman. Bjarni og Eilífur voru horfnir.

Þuríður lagði hönd á öxl Geirmundi og hvíslaði: "Nú getur pabbi dáið í friði. Guð blessi þig, elsku vinur. En ég get ekki lifað, ef þú drekkur svona voðalega. Komdu heim aftur; komdu heim í dalinn okkar aftur."

Séra Jósteinn var horfinn, Þuríður horfin og húsið horfið; hann stóð þarna aleinn og hlustaði:

"Komdu heim; komdu heim aftur, elsku vinur.

Draumurinn var eins lifandi og þetta hefði verið í vöku. Geirmundur fékk hvað eftir annað tár í augu; klökknaði og angraðist; hét að skipta um háttu, og þótti betur, að náttmyrkrið huldi tárin fyrir félaga sínum.

Fylgdarmaðurinn hleypti suður Háamel; Rauður tók stökksprett fram fyrir hann; Geirmundur svipti honum til skeiðs; gneistarnir blossuðu og leiftruðu líkt og hrælog; ruku út í svartnættið og hurfu.


32. kafli

Á Grund í Breiðárdal sat Þuríður eitt kvöld og skrifaði. Ljósið logaði dauft; brunnið skarið hneigðist niður, svo tólgin rann í mjórri línu niður kertið, staðnæmdist á pípufætinum og bólgnaði þar upp í dálitlum krömum skildi. Hún sat með pennastöngina milli fingranna og starði; ekki á bréfið, ekki í ljósið né þilið gagnvart, heldur aðeins út í bláinn. Fólkið svaf og hraut í frambaðstofunni og Marja dvaldist í stofunni; var lengi að búa um séra Svein, mátti líka vera lengi að því; allir vildu, að hann hefði mjúka rekkju; hann sjálfur, Marja og foreldrarnir. Það var engin torfæra né meinbugir á leið þeirra.

Þuríður var fölleit og skarpleit; beygði höfuðið dálítið niður og meir út á aðra hliðina, en við ljósbirtuna glitruðu nokkur silfurhvít hár í vinstri vanganum, líkt og hrímperlur á hávaxinni hrafnaklukku, sem stendur grönn og veikbyggð í gróandanum; en frostsvalur náttvindurinn varpaði sér niður brekkuna í morgunsárinu, rann skáhallt frá norðvestri, jafnt áfram; blés á hana og hélt svo leiðar sinnar, jafn napur og jafn stilltur og áður, leit hvorki til hægri né vinstri. Vindsvali þessi var sendisveinn hafíssins norðan frá Greipum, og gaf ekki gaum að smáblómum né dalliljum; hann hugsaði um sjálfan sig og erindi sitt; laut aðeins hinum máttuga fornhelga drottni sínum, en hirti ekkert um veiklega smámuni né gaf gaum að þeim.

Þuríður var búinn með fyrstu blaðsíðuna af bréfinu og sat nú í leiðslu og sorglegum starfsleysisdvala; en það sem hún var búin að skrifa, hljóðaði þannig:


"Elskulegi bróðir minn!

Það er svo dauðans langt að bíða eftir bréfinu þínu - þessar örfáu línur í vor, sögðu sama sem ekkert -; sumarið hefur liðið með sínum löngu dögum og haustið með sínum löngu nóttum, en aldrei kemur bréfið þitt. Ég vonaði, að þú skrifaðir fyrri; hef þráð svo mikið að vita, hvernig þér liði, og þó aldrei fengið þá þrá uppfyllta í allt sumar; bréfið mitt er því að sumu leyti skrifað til þess að minna þig á loforð þitt og einnig til þess, að færa þér fréttir frá þeim mönnum hér heima, sem þig langar til að vita, hvernig líður.

Það fréttist ýmislegt vestan úr sveitinni, sem ég ekki vil trúa, en gerir mig þó svo hrædda og órólega; það er sagt, að þú drekkir mikið og sért ófriðargjarn; að þú sért aldrei glaður og unir engu verki að staðaldri; fleygist frá einu til annars. Ég trúi aldrei kviksögum til fulls, og síst af öllu, ef þær eru þér til hnjóðs, enda heyri ég þetta bara undir væng og hef því við lítið að styðjast - en ég er þó svo hrædd, einkum við vínið. Góði, besti bróðir minn, gættu að þér, bættu ekki böli á raunirnar okkar og sorgina; láttu ekki öfundarmenn þína fá tækifæri á að gleðjast yfir, að þú látir reka á reiðanum og leggir árar í bát. Gerðu það fyrir mín orð og innilegustu bænir, að bera lífið eins og hetja. Þú, sem átt bæði krafta og þrek, sem ég hef svo oft glaðst yfir og dáðst að; þú mátt ekki uppgefast. Manstu eftir Gretti og Herði, Birni og Gísla? Þeir voru líka raunamenn og þó mikilmenni í raunum sínum. Þú hefur sjálfur svo oft dáðst að þeim og lofað þá. Vertu mikill og hraustur, eins og þeir. Mig langar mest af öllu til þess, að sjá þig vera hraustan fullhuga, eins og þeir voru; ekkert mundi gleðja mig jafn mikið og það. Vertu ætíð dáðadrengur og þollyndur, þó hart blási, elsku bróðir; ég veit þú getur það og ég trúi þér til þess, að reynast ætíð mestur þegar mest reynir á.

Heilsa mín hefur farið batnandi í sumar, og ég vona eftir, að styrkjast betur og betur og lifa sæmilega ánægð lífinu, með góðum mönnum."


Lengra var Þuríður ekki komin; hún gat ekki fengið sig til þess, að ljúga því að honum, að sér liði vel, að hún væri hraust og heilbrigð. Þorði ekki að segja, eins og satt var; það mundi hann ekki þola; þá mundi hann drekka því stórfelldar og verða miklu æstari í skapi.

Hún vildi dylja hann þess, svo sem unnt var, að sorgin lamaði hana ennþá, að hún hafði enga von aðra, en hvíld dauðans. Þoldi ekki að starfa og gat ekki fest hugann við verknaðinn; hafði sífelldar ásakanir og samviskuangur í hjartanu; hugsaði og harmaði jafnan yfir ást þeirra, svo hrein og sæl og vonglöð, sem hún var. Og mitt í gleðinni, þegar sælan og sólskinið var sem bjartast, draumurinn að fá festu og uppfylling lífsstarfans, þá kom fregnin; þá hrapaði hamarinn yfir þau, muldi beinin, marði holdið og sleit taugarnar; þar lá hún undir hrufóttum harðsteini og moldardyngju, með fullri tilfinning og óskertri vitund, angist og vonleysi; gat ekki hreyft sig né risið á fætur. Sumarsólin hneig til viðar og hvarf bak við dalfellið. Þokan kom rjúkandi að norðan, grá og köld, ömurleg og myrk.

Svipuð þessu var lífsbreytingin og svipað þessu hugsaði Þuríður, þar sem hún sat og starði.

Skarið hneig niður í tólgina og bræddi hana; logið gaus upp snarkandi; einu sinni, tvisvar, þrem sinnum; logaglæringarnar kvísluðust sindrandi í afar smáar leiftrandi glæringsstjörnur; svo dó það.

Þuríður kipptist til, þegar ljósið dó, en sat síðan hreyfingarlaus á stólnum, studdi olnboganum niður á borðið og hvíldi höfuðið á höndum sér; nokkur þung andvörp rufu þögnina og niðdimm nóttin hvíldi yfir herberginu.

Svona leið löng stund.

Þá kom Marja með ljós í hendi; rjóð, léttstíg og fagureyg. Þuríður leit upp og Marja setti ljósið á borðið, lagði hendurnar utan um hana og dró hana fast að brjósti sínu eins og barn.

Stundarklukkan sló þrjú högg.
Netútgáfan - maí 1998