GAMALT  OG  NÝTT

eftir Þorgils gjallanda
"...Æskan og sakleysið, sönn menntun og mannkostir hafa í dag tengst óslítandi böndum eilífrar ástar, í Drottins hús, frammi fyrir alsjáandi Guði. Það er fögur sjón að sjá hið hreina, góða, fagra og göfuga leggja persónulega saman hendur, vita guðsblessun lagða yfir þær, sjá elskendurna tengjast saman um tíma og eilífð. Það er í stuttu máli Paradís til vor komin, er enginn vélafullur höggormur skríður kringum."

Séra Sveinn hóf púnsglasið, renndi augunum hægt yfir mannþyrpinguna kringum borðið, hann var fremur ljúfmannlegur og ánægður á svipinn, þegar hann svo bætti við:

"Þetta sé skál hinna ástkæru ungu brúðhjóna."

Skálin var drukkin með bestu list; mannösin gekk í bylgjum kringum borðið, hver ýtti við öðrum svo það fengist rúm til að drekka úr glasinu sínu, en það fékkst ekki af því það var ekki til við púnsborðið.

"Við þökkum sameiginlega fyrir skálina og ræðuna kæri bróðir."

Séra Guðni hneigði sig svo snoturlega og kurteist, að allir sem sáu dáðust að. Það var líka prýðis laglegur og snyrtilegur maður og lipurlegur í framgöngu. Hann var hár meðalmaður, liðlega vaxinn, hvatlegur á velli og bar sig vel; ljósjarpur á hár og fremur þunnhærður, hárið fór slétt og vel, hárkamburinn yfir enninu reis snoturlega, og ævinlega eins; ennið var meðal hátt, nefið fremur stórt, víðar nasir en nokkuð mjótt á milli augnanna, þessara grábláu augna sem litu svo skýrt og hreint upp. Efrivararskeggið þunnt, mjúkt og gljástrokið, ekki snefill af uppreist orðin til í því.

Fólkinu varð ósjálfrátt að bera þá saman séra Guðna og uppgjafaprestinn hann séra Þórarin á Hamri, sem aldrei hneigði sig, aðeins beygði höfuðið ofurlítið, stöku sinnum. En það er nú meira að segja um Þórarin en það, að hann hneigði sig lítið. Hann var sonur Guðmundar á Grund. Guðmundur var vel við efni, svo hann gat kostað Þórarin í skóla. Allt gekk vel gegnum latínuskólann, pilturinn var bæði námfús og reglusamur, en þá vildi Þórarinn verða læknir, en foreldrarnir að hann yrði prestur. Foreldrarnir urðu yfirsterkari, og Þórarinn vígðist til Dalsþinga þegar hann var 28 ára; hafði annars látið sér hægt með vígsluna, en foreldrarnir ýttu að, þegar Dalsþingin losnuðu. Þórarinn fékk orð fyrir að vera skyldurækinn og góður prestur. Hann var alinn upp í dalnum, svo hann kannaðist vel við fólkið og það við hann. Tvö árin var Þórarinn prestur og bjó á Kirkjubóli, það var þá orðið prestssetrið. Allir urðu forviða, þegar Þórarinn sagði af sér prestsskap, alveg upp úr þurru. Enginn gat áttað sig á hver ástæðan væri. Menn gátu hins og þessa til, en af því engir fengust hyrningarsteinar, gátu menn aldrei byggt neina verulega byggingu. Þórarinn var vanur að segja þegar menn slæddu kringum ástæðuna, að sér hefði þótt skemmtilegra að vera bóndi en prestur og vandaminna líka.

Þegar Þórarinn sagði af sér fluttist hann að Hamri; það er góð jörð og gagnsöm, og umboðseign; þar bjó hann síðan, bjó eins og hann hefði lært til að verða gildur og nýtur bóndi. Gamall prestur fékk Dalsþingin og var þar fimm ár, þá dó hann. En Þórarinn bjó og græddi fé, húsaði bæ sinn en kvongaðist ekki; það þótti mönnum kynlegt háttalag. Var sú saga til þar í dalnum að Þórarinn hefði verið í kærleikum við kaupmannsdóttur í Reykjavík þegar hann var í latínuskólanum, en hún hefði svikið hann; þá hefði Þórarinn orðið svo reiður, að hann hefði svarið að kvongast aldrei. Enginnn vissi um upptök þessarar sögu, og enginn þorði að staðhæfa hana; þótti hún líkleg og sennileg "gátu ofboð vel trúað þessu."

Nú stóð Þórarinn frammi í horninu í veislustofunni á Bakka og talaði við Steinar á Brú. Þórarinn var hár maður og herðibreiður, allra manna vörpulegastur, dökkjarpur á hár og hrokkinhærður, höfuðmikill og hnakkabreiður og hálsdigur; ennið ekki hátt, en breitt, og bratt nokkuð; brúnamikill og nefdigur, móeygur og fasteygur, skolbrúnn og skeggjaður mjög; heldur var hann greppleitur. Ekki var hann fríður maður kallaður.

"En hvað ég vildi segja, hvernig líst þér á brúðina, er hún ekki nógu helvíti lagleg og settleg, náttúrlega dálítið prestleg líka að verða?"

Steinar talaði ekki hærra en rétt að Þórarinn heyrði það.

"Jú, lagleg er hún, - en hún þekkir mannlífið lítið, og ég held hún viti ekki hvað hún gengur út í; hún hefur verið alin upp í eftirlæti, en líka í sterkri hlýðni við foreldrana, en foreldrarnir hafa víst aldrei nefnt sjálfstæði svo hún heyrði."

"Ja, - þú þekkir Siggu, - þú, sem hefur kennt henni að skrifa og reikna og lesa dönsku. - En því í fjandanum kenndirðu henni ekki eitt enn, og það almennilega, so hún ekki sæti hjá þessari tekjuskjóðu með girndaraugun."

"Þá ertu samur við prestana enn, - en hitt datt mér ekki í hug að kenna Sigríði, - hún er barn að sumu leyti enn, þó hún sé orðin nítján ára. Ég er víst of stirður til að kenna hitt sem þú varst að dylgja um. - Eigum við so ekki að drekka hjónaskálina."

"Jú, jú, Reykjavíkurkurteisin loðir við. - Ég kemst sjálfsagt ekki að, so fellur mér ekki að láta ganga á mér, þó það séu sjálfir prestarnir sem gera mér þá æru."

*

Árin liðu tvö, prestshjónin bjuggu á Kirkjubóli. Búið var stórt hjá séra Guðna, en um skuldirnar vissu menn aðeins það, að þær voru stórmiklar. Hann hafði ótakmarkað lánstraust; því fyrst er nú það, að prestum verður vanalega vel til með lán, í öðru lagi var maðurinn laginn á að fá lánað, og svo vissu allir, að Hjálmar á Bakka tengdafaðir hans var ríkasti maðurinn í sýslunni. Það var svo sem ekki hætta á með að lána séra Guðna, því faðir hans var líka í góðum efnum.

Þó búið á Kirkjubóli væri stórt, þá var séra Guðni enginn búmaður, hann hafði of lengi verið í skóla til þess. Brandur prestur faðir hans lét hann hafa nóga peninga. Séra Guðni þekkti ekki fjárskort meðan hann var í Reykjavík. Þegar hann útskrifaðist sigldi hann til Hafnar, og ætlaði að lesa lögfræði. Það varð ekki nema eitt árið, því að séra Brandur skrifaði og sagði að hann fengi ekki einn eyri frá sér framar ef hann lifði svona menntalífi. Sonurinn hlýddi öllu sem í bréfinu stóð; kom aftur til Víkur og smaug óðara í prestaskólann. Útskrifaðist með lökum vitnisburði. Vígðist og fékk Dalsþingin. Mönnum í dalnum þótti séra Guðni tóna yndislega, bera snjallt fram ræðurnar sínar og syngja fallega. Hann var álitinn besti prestur, og þó hann tæki sér í staupinu við öll tækifæri, þá loðir sá breyskleiki oft við þessa góðu presta; mýmargir álíta líka, að það eigi að umbera þeim meira en öðrum mönnum; annað eins lítilræði og að taka sér í staupinu drepur ekki "góðan" prest.

Séra Guðni var aldrei fyrir einlífi, að skólasögurnar sögðu, og hvað sem hefur verið hæft í því, þá var hann ekki búinn að vera nema tvo mánuði í dalnum, þegar hann var sannfærður um að ríkasta og líka fallegasta stúlkan í dalnum var Sigríður á Bakka. Séra Guðni varð strax ástfanginn þegar hann var búinn að átta sig á því; fór fyrir alvöru að dreyma um "familíubás" og sveitaþægindi. Hann var hálfþreyttur eftir laganámsárið og prestaskólaáreynsluna. Það var svo notalegt að hvíla sig, gifta sig, njóta þæginda og makinda eftir erfiðið, þegar arðsvonin hló og laðaði annars vegar.

Þá fór séra Guðni að venja komur sínar að Bakka, talaði út um heima og geima við Hjálmar og Þórunni - hún var dóttir séra Sigfúsar skalla - bæði hjónin fengu besta álit á þessum unga og efnilega presti, einkum þó Þórunn. Nú fór hann að tala við Sigríði um hvað fagurt væri í dalnum, að hvergi hefði sér fundist eins skáldleg ró og unaður hvíla yfir náttúrunni og friðsælu dalsins. Um leið sýndi hann Sigríði líka, svo ótvírætt og skilmerkilega, að hann elskaði hana, að Sigríður hefði verið einfalt barn ef hún hefði ekki skilið hvað klukkan prestsins sló. En Sigríður var enginn einfeldningur, hún fann að hún dreyrroðnaði þegar séra Guðni talaði til hennar, og horfði um leið á hana þessum grábláu, hreinu, talandi augum sínum. Skáldlega lýsingin hans af dalnum fannst henni bæði sönn og fögur. Spaugið svo lipurt og hnyttilegt, presturinn hafði það ævinlega á takteini við hana. Séra Guðni var sá snotrasti og skemmtilegasti maður sem hún hafði þekkt, og Sigríður var gefin fyrir skemmtanir eins og flestar ungar stúlkur eru. Á Bakka hafði verið alvarlegt og starfsamt heimili, glaumur og spaug hafði lítið að gera þar.

Sigríður var mikið gefin fyrir bækur, hafði lesið dálítið af útlendum skáldsögum sem höfðu heillað hug hennar. Hún titraði, þegar hún las um hina fyrstu ást, skjálfandi, töfrandi og óróa, en þó svo sæla. "Hin fyrsta ást er guðleg gjöf", þessi orð hljómuðu í huga hennar bæði vakandi og sofandi. Skáldin lofuðu ástina, hver sem betur gat; kölluðu hana "himinborna", "himneska", "goðborna", "guðdómlega", "paradís jarðlífsins", "himnaríki á vorri jörð" etc.- Þetta er hin fyrsta ást, sem er að lifna og blómgast í hjarta mínu, hugsaði Sigríður, þegar blóðið þaut fram í andlitið á henni af tilliti prests og spaugi. Hvað hann var líka fríður og kurteis, og spaugið snoturt og skemmtilegt. Af því Sigríður var skáldlega hugsandi, eitt af þessum skáldum, sem vantar aðeins vængina til að geta flogið, þá skreytti hún séra Guðna og tilfinningu sína eftir eðli sínu. Hún trúði sjálf að hún væri að byrja að elska hann, enn vissari samt um ást hans, það var auðséð og auðfundið á öllu.

Svo kom bónorðið, séra Guðni talaði fyrst við föður og móður, fékk þar ákjósanleg svör; eftir það við Sigríði, ofur rólega og skynsamlega, - hann þóttist sjá hvar fiskur lá undir steini, - Sigríður stokkroðnaði og gaf jáyrði, - en það var ekki sú ást sem hún hafði lesið um og sem hún fann að eigin tilfinningar spáðu fyrir; en hún taldi sjálfsagt að eldurinn og sælan kæmi, þetta væru fyrstu neistarnir, - ekki að efast um það.

Séra Guðni lofaði að hætta að drekka, bauð það sjálfur fram, - bara fyrir hana; fullvissaði hana um að hann hefði aldrei elskað fyrri, - verið skotinn um tíma, og það var engin lygi. - Jú, það var sæla að leiða hann af götu drykkjumannsins, og skáldlegt að vera hin fyrsta, og náttúrlega eina sem hann elskaði.

Og hvað var það svo, sem þessi tvö hjónabandsár kenndu Sigríði; fyrst það að kvongaðir prestar eru vaxnir upp úr spaugi við konuna sína, því gat hún sjálf þreifað á; annað, að séra Guðni fór að drekka við tækifæri, seinni part sumarsins, eftir að þau höfðu gifst um vorið, og sagði "að maður yrði þó að gleðja sig stöku sinnum, bara að passa að drekka sig ekki fullan." Það þriðja, að ekki rættist draumurinn um ástarsæluna. Varð alltaf meir og meir sviplíkur svefndraumi.

Þau höfðu verið gift eitt ár, þá dó Þórunn, móðir Sigríðar, hún tregaði hana, og minntist þess hvað móðirin hafði verið henni ástúðug og þótt vænt um hana, ætíð viljað henni það besta, nú hafði dauðinn tekið hana. Sigríður grét og syrgði.

- Séra Guðni jarðsöng ekki sjálfur, heldur Brandur prestur faðir hans. Það var ríkulega veitt í erfinu, hvorki sparað kaffi, brauð, né vín. Séra Guðni tók sér drjúgum í staupinu; hann var ekki vanur að verða vitlaus eða ófær nokkurn tíma, en fullur var hann samt, og heldur í frekara lagi þá. Fyrst urðu prestshjónin þeim Hamarssystkinum samferða um kvöldið þegar þau fóru frá erfinu, því Þórunn var grafin á annarri þingakirkjunni sem var á Bakka. Frá Hamri riðu þau tvö heimleiðis, fyrst fóru þau spölkorn þegjandi, en svo sagði Sigríður:

"Góði minn, því drakkstu svona í dag, ég bað þig þó í morgun fyrir að gera það ekki."

"Ég ætlaði mér það heldur ekki - en, - af því mér leiddist - so - já, mér varð að taka mér ofurlitla hressingu."

"Meir en hressingu, þú ert fu --- æði mikið drukkinn."

"Nei, ég er ekki fullur, - það er andskotann ekki satt - og þó ég hressi mig stöku sinnum, er það so undarlegt? Það er ekki so skemmtilegt hérna - ."

"En prestsverkin þín góði, - geta þau -."

"Hvað þau, - það er so gaman að messa yfir sauðunum hérna í dalnum, - og so að trúa ekki, --- það gerir nú annars ekki so stórt."

"Trúa ekki?"

"Heldurðu ég trúi öllu sem ég prédika?"

"Já, víst hef ég haldið það, annars skulum við ekki tala meir' um það núna."

"Núna, -- jæja þá það. -- Pabbi kemur á morgun, og þá þurfum við að taka honum vel."

"Já."

Hjónin riðu heim hratt og þegjandi.

Þessa nótt sofnaði Sigríður seint, sorgin eftir móðurina, drykkjuskapur mannsins við jarðarförina, svör hans, allt lá það á huga hennar eins og ísköld vetrarþoka á táplitlum smala sem ekki finnur féð sitt. Úr þeirri þoku gægðust hugsanir, daufar í fyrstu en æ gleggri eftir því sem hún hugsaði lengur.

"...Hann er drykkjumaður -- og elskar mig ekki, -- að minnsta kosti ekki eins og ég hugsaði það -- og trúir ekki nema sumu af því sem hann kennir - "

Séra Guðni sofnaði fljótt þegar hann var háttaður; megnasta brennivínsþef lagði af andgufunni. Sigríður byltist til í rúminu; fleiri og beiskari hugsanir komu.

"Ég elska hann ekki heldur, -- ekki eins og ég finn að ég get elskað, -- ég var barn, -- barn, nítján ára, -- samt var ég það. - ekkert barn lengur, -- getur allt lagast? -- Ástin, hún kemur líklega ekki."

Undir morguninn sofnaði Sigríður, hana dreymdi harða og erfiða drauma og svo rammruglaða, að hún gat engum botni komið í þá; nema það að Þórarinn á Hamri var að láta séra Guðna á hestbak, en hann datt alltaf af baki aftur, hann var svo fullur og afllaus; en hún sat á leiði móður sinnar og grét, komst ekkert þaðan, því hún var ofurlítið barn, sem ekki gat gengið.

Daginn eftir kom séra Brandur, hjónin tóku alúðlega á móti honum. Séra Guðni bauð honum vín en hann drakk aldrei nema eitt eða tvö staup, séra Brandur, hann var reglumaður. Hann hafði orð á því hvað Sigríður væri föl og lasleg.

"Ég er ófrísk í dag, mér varð hálfkalt á heimleiðinni í þokunni í gærkvöld og tápið er nú ekki meira."

Frá þessum dögum var Sigríður ekki lengur barn í hugsaninni, - þó að ekki yxi búsumhyggjan, - efinn var vaknaður; nú sá hún það sem hún hafði kviðið fyrir að sjá, það að séra Guðni elskaði hana ekki, hafði helst aldrei gert það; það var auðurinn og "ég er heldur ekki svo ólagleg," hún vissi það vel. - Og svo að hann trúði ekki því sem hann kenndi; það gægðist ósjálfrátt út hjá honum við og við, einkum þegar hann var fullur.

Áður er sagt frá því, að Sigríður hafði sérlega gaman af skáldskap, nú las hún eina söguna eftir aðra; fyrst las hún eftir Spielhagen, hún var fjarska hrifin af sögum hans, þá fyrst gat hún skilið, að menn geta verið hinir heiðvirðustu borgarar mannfélagsins hversu sem trúarbrögð þeirra eru, og að vandaðir og góðir menn geta verið "trúlausir", að klerkarnir eru oft úlfar í sauðargærum. Hugsanin var til, hún aðeins lá í dái eins og konungsdóttirin í ævintýrinu. Spielhagen var konungssonurinn sem braust gegnum þyrnigerðið og leysti hana úr dvala. Ísinn var brotinn, skoðanirnar fæddust og þróuðust í kyrrþey og þögn, en þær þróuðust samt. Svo fór Sigríður að lesa eftir Björnson, Lie og Kielland, því séra Guðni átti töluvert eftir þá; nýr heimur opnaðist fyrir henni, nýjar skoðanir sem henni geðjaðist mæta vel að. Eitt af því sem Sigríður um þær mundir hugsaði mikið um var biblían, frá barnæsku var hún henni vel kunnug, og einu sinni hafði hún trúað hverju orði, sem í henni stóð, nú var efasemi vöknuð, rannsóknir byrjaðar; hún leitaði samræmis háleitrar guðsdýrkunar og fann ekki fullnægju. Sigríður fór að sjá að sumt gat ekki verið satt sem stóð í ritningunni; henni óaði við Jehova Ísraels; hryllti við tilfinningarleysi Abrahams og grimmd, að reka Ísmael og Hagar eins og flækingsrakka frá sér. Sá spillingu hjá "Guðs útvöldu þjóð", frá Benjamínítum til Davíðs konungs, frá Salómon til Fariseanna; að djöflar höfðu leyfi Guðs til að búa í mönnum, misþyrma þeim og tala fyrir munn þeirra guðlast og annað svívirði. Því meir sem hún rannsakaði þess meira hrundi af byggingunni. Sigríður las þá líka rit annarra þjóða sem einmitt sannfærðu hana og studdu í skoðunum sínum. Hún áfelldi ekki lengur séra Guðna, fyrir að hann tryði ekki öllu sem ritningin segir, en þá átti hann ekki að vera prestur, það var svo drepandi að kenna það sem helg sannindi, sem maður með sjálfum sér áleit ósatt.

Veturinn þessi leið og vorið, og þennan andlega starfa hafði Sigríður unnið. Heldur þótti hún vinnusmá húsfreyja og afskiptalítil með umsjón búsins af öllu heimilisfólki og undarlega fálát um veturinn. En slíkar skoðanir koma ekki án stríðs og baráttu, að bylta fornhelgri kenningu, sem maður í æskunni hefur trúað og tilbeðið, það kostar blóðugan bardaga við sjálfan sig og meiri áreynslu en menn almennt álíta. Ekki gátu þau hjónin komist á rekspölinn með að tala um bækur þær sem Sigríður las, til þess vantaði innileik og andlegan skyldleika. Séra Guðni las heldur ekki nema sumt af þeim bókum, sem hún las, eða þá fljótlega og rannsóknarlaust; hann var lítið gefinn fyrir rannsóknir, var of andlega latur og lúinn til þess. Hafði heldur aldrei vanist því af málvinum sínum að þeir væru að rannsaka trú og mannfélagsskipun, venjur og kreddur; talið laut vanalega að allt öðru; séra Guðni hafði enga trú á kvenfólkinu í því tilliti, hélt það hlyti að vera fordild og tildur þetta fyrir Sigríði. Þar féll það niður.

Sigríður leitaðist við, að sambúð þeirra hjónanna gæti verið góð, að minnsta kosti þægileg, en hana vantaði vakandi umhyggju til þess, af því það vantaði lifandi ást hjá henni. Og séra Guðni, hann vildi líka að allt færi slétt þegar hann var ódrukkinn - drukkinn hugsaði hann hvorki um himin né jörð, bara um að lifa og leika sér -. Þau tóku sér dag og dag, stund og stund til að vera elskandi hjón, en það er áreynsla að leika elskendur og getur stundum misheppnast; maður finnur það sjálfur og hin persónan hefur grun af því; eðlisleiðslan segir til þess. Hjónin hvíldu sig eftir áreynsluna, og þá var þögult og tómlegt í húsinu þeirra, bæði fundu það, en töluðu ekkert orð. Séra Guðni brá sér á bæi og fékk sér í staupinu, eða gerði sér gaman við vinnufólkið. Sigríður sneri sér að bókunum og hugsunum sínum; hún fann, að það er varasamt að hræsna ást; getur verið skaðlegt eins og hver önnur lygi. Vonin um að vekja ást þeirra á milli var farin að verða veik og visin.

Áður var sagt að það væru liðin tvö ár hjónabandsins og þau færa þessi tíðindi; um leið er lítillega drepið á upphaf þess. Þá var það einn sunnudag að sér Guðni messaði heima og var fullur, hálfdrafaði úr sér hitalausri ræðu um trú og eilífa sælu; tók Abraham, Ísak og Jakob, Davíð og Salómon sem háleitustu fyrirmyndir trúar og mannkosta sem allir ættu að breyta eftir. Ræðan var gersamlega saltlaus grautur, og ómögulegt að hugsa sér hvað orðið var af "sálnasaltinu". Þá var Sigríði nóg boðið; hún hætti að koma til kirkju þegar messað var.

"Góði minn, þú mátt ekki vera drukkinn þegar þú messar, ættir að minnsta kosti ekki að drekka þá dagana."

Sigríður var skjálfrödduð og lágmælt.

"Ég er ekki fullur, - bara strammaði mig ofurlítið upp í morgun. - Annars gef ég ekki um að verið sé að skólamestera mig lengur. - Verð að frábiðja mér allt þesskonar."

Séra Guðni hagræddi sér í stólnum og hvessti augun á Sigríði.

"Ó, sérðu það ekki sjálfur. -- Það er hreint hneyksli, að messa drukkinn. -- Fólk hlýtur að tapa virðingu bæði fyrir þér og því sem þú segir."

"Tapa virðingunni, pytt, - ég er held ég fullboðlegur handa þeim sauðskepnunum í dalnum þínum -- ætli þeir hafi vanist betra. -- Það er ég sem strita fyrir þá á hverjum sunnudegi, og skrúfa mig úr öllu lagi."

"Þetta segirðu þó líklega ekki við aðra en mig, góði minn?"

"Nei, það geri ég nú reyndar ekki. - Ég er ekki so dum. En mér er farið að leiðast að messa á hverjum sunnudegi -- ekki hef ég gaman af að fara með lygi af stólnum."

"Viltu annars ekki leggja þig út af um stund, góðasti?"

"Takk; ég þarf að bregða mér fram að Gili, ég er búinn að fá nóg af prédikunum í dag."

Jón á Gili gaf honum ævinlega brennivín, og það vissi Sigríður vel; þetta var aumi dagurinn, og séra Guðni og messan, við það var ekki verandi, Sigríður reyndi að lesa en gat það ekki; svo brá hún sér fram að Hamri, það eru þrjár bæjarleiðir, Gil, Brú og Hamar.

Sigríði var tekið báðum höndum á Hamri. Það hafði verið vingott með þeim Hjálmari og Guðmundi og með yngra fólkinu líka. Ragnheiður systir Þóararins sá um bú með honum, hún var besta vinkonan og eiginlega sú eina sem Sigríður átti. Þórarinn var að járna hest fyrir Steinar á Brú þegar Sigríður kom; Ragnheiður kom strax fram og fylgdi Sigríði inn. Litlu seinna þeir Þórarinn og Steinar, Þórarinn þó sér, og síðan drukku þau öll kaffi.

"Það hefur verið messað í dag, vænt' ég." Steinar hrærði í bollanum sínum, "fólkið er messurækið."

"Já."

"Margt fólk við kirkju?"

"Já."

"Þetta grunaði mig og því fór ég ekki -- mér leiðist að sitja undir mönnum í kirkjunni."

"Þú ert víst heldur ekki vanur við það nú í seinni tíð." Þórarinn setti bollann á borðið. "Viltu annars ekki gera so vel og vera hér í nótt, Sigríður, langt síðan þú hefur komið."

"Þakka fyrir, - annars ætlaði ég heim í kvöld og kom bara að gamni mínu."

Þær sváfu saman um nóttina vinkonurnar. Daginn eftir fylgdi Ragnheiður Sigríði út á móts við Gil. Séra Guðni hafði komið heim um nóttina og var fremur lúalegur um daginn eftir. Það bar töluvert á smáhrukkum neðan við augun, drættirnir við munninn voru slekjulegir, hann sýndist tíu árum eldri en hann var. Tvær hruflur á nefinu, og augun, rauð og döpur, yngdu hann heldur ekki upp. Hjónin forðuðust að vera mikið saman þennan dag; prestur háttaði snemma um kvöldið, en Sigríður var við ýmsa snúninga frammi við. Þegar hún svo fór að hátta, lagði hún vandlega frá sér sparifötin, tók með hægð til hversdagsfötin og lagði þau til hæfis; svo fór hún fljótt og hljóðlega upp í rúmið. Séra Guðni svaf við þil, Sigríður sneri sér fram. "Puh, puh" einhver þekktur þefur sem hún aldrei gat vanist við; hún lá kyrr um stund. Seildist síðan eftir bók á borðinu, það var "Magnhild" eftir Björnson; Sigríður hætti ekki fyrr en hún var búin með hana.

*

Sigríður sinnti miklu meir búsýslu þetta sumar en áður hafði verið; það leið fram í 25. viku sumars; Sigríður sat ein í húsinu; hafði verið að lesa, en nú sat hún hugsandi um, að nú var von til, að bráðum fjölgaði hjá henni; vonaði að þá mundi hjónabandið batna; barnið hlyti að binda saman; hvað hún skyldi elska það, og faðirinn náttúrlega líka, að hér eftir yrði hún líka að hugsa meira um búið en áður hefði verið; það einsetti hún sér að gera frá þessari stundu. Tíminn hennar Hryggju var kominn, og þó nú Sigríður hefði ekki betra vit á hvað burði leið en vinnukonan sem passaði kýrnar, var bæði eðlilegast og ásetningi hennar samkvæmast að hún liti til þess sjálf. Í göngunum var aldrei bjart en nú í rökkrinu var þar niðamyrkur; sama er að segja af fjósinu. Sigríður heyrði þegar hún kom fram undir fjósið að kýrnar voru eitthvað óróar; hurðin var aftur, en óhespuð, það þótti henni hirðulítill frágangur, "kannski fjóskonan sé að vitja um kúna;" ofboð var það sennilegt; "Er nokkur þar?" Steinhljóð, og koldimmt í fjósinu, Sigríður kveikti á tveimur eldspýtum til að gá að Hryggju. Menn voru að vísu í fjósinu, þó að enginn tæki undir; Gunna - hún var samt ekki fjóskonan, og hitt var presturinn sjálfur. Sigríður rak ekki upp neitt hljóð, sagði ekkert, greip bara í dyrastafina, fetaði svo inn göngin. Það var því líkast að slitnað hefði strengur í brjósti hennar, hún fann óminn líkt og þegar mjósti strengurinn brestur á fiðlu en hreimurinn titrar deyjandi á eftir. Einhver vakandi draumur, geigvænlegur og truflandi, og ískaldur hrollur frá hnakka til hæla. Hugsanirnar snerust í hring.

Um kvöldið veiktist Sigríður; prestur lét sækja lækni, gekk ötullega fram í því, og var óvanalega fálátur; hann sendi Brynka smala fram að Gili, en var sjálfur ýmist í húsinu hjá Sigríði og spurði hvernig henni liði, fékk ávallt sama svarið: "töluvert lasin", gekk svo fram fyrir, talaði nokkur orð við einhvern vinnumanninn, fór þá fram í stofu, út á hlað og inn aftur, á þessu gekk. Brynki kom aftur, og skömmu síðar færðist meiri kyrrð yfir klerkinn. Séra Guðni svaf frammi í stofu um nóttina en bað að láta sig vita ef Sigríði lakaðist. Læknirinn kom um nónbil daginn eftir; sagði að Sigríður mundi verða veik um tíma, en vonaði að engin hætta væri búin hvorki henni né barninu, ráðlagði ró og hóglega meðferð.

"Líklegast að það hafi komið geðbreyting að henni," sagði læknirinn.

"Hún hefur verið taugaveikluð nú um tíma - og - so -- hefur hún lesið sögur sem hafa verið spennandi, ég var ekki nærgætnari en það, að gæta ekkert að því."

Læknirinn horfði framan í prest um stund og sagði ekkert.

Veikin rénaði hægt og hægt, en Sigríður var fjarska máttvana. Séra Guðni var annað slagið hjá henni á daginn, en fann að henni leið ekkert betur fyrir það. Sjötta kvöldið eftir að hún veiktist var hún með hressasta móti, þá herti prestur upp hugann, gekk að rúminu, kraup á kné, tók blíðlega í höndina á henni og sagði:

"Elsku Sigríður, - geturðu ekki fyrirgefið mér."

Með orðunum kom vínþefurinn. Blóðið þaut fram í andlitið á Sigríði.

"Mér finnst ég þoli ekki að sjá þig eftir allt þetta, -- ég er líka so lasin, að ég þoli ekki að tala um það -- Ertu drukkinn enn -?"

Sigríður kippti að sér hendinni og sneri sér að þili; séra Guðni lötraði burtu.

Meðan Sigríður lá svaf sér Guðni alltaf frammi í stofu, Gunna færði honum morgunkaffið og þurfti oft að bíða eftir bollanum; klerkur var enginn afkastamaður á að drekka morgunkaffi um þessar mundir.

Sigríður lá rúmföst tvær vikur, þriðju vikuna hresstist hún svo, að hún að henni liðinni fór fram að Hamri, til funda við Ragnheiði; einn vinnumaðurinn fylgdi henni. Sama daginn fór séra Guðni að finna föður sinn.

Á Hamri var vel húsaður bær, þar var stofa máluð og hið vandaðasta herbergi; baðstofa alþiljuð og hús tvö í öðrum enda, svaf Þórarinn í innra húsinu og þar hafði hann bækur sínar - hann átti mikið af bókum - en í hinu Ragnheiður systir hans. Í hinum endanum var og afþiljað herbergi og bjuggu foreldrar Þórarins þar. - Ragnheiður tók Sigríði mæta vel; þær settust báðar inn í hús Þórarins og tóku að tala saman, fyrst um veður og vind, en loks sagði Sigríður henni nokkuð af högum sínum, nóg til þess að Ragnheiður varð forviða, svona veill hélt hún séra Guðni væri þó ekki, en hann hafði samt komið of oft að Hamri til þess að hún væri lengi að átta sig. Ragnheiður gerði hvað hún gat, til að dreifa áhyggjum Sigríðar, enda sýndist svo sem henni heppnaðist það. Þórarinn var ekki heima, en kom um kvöldið og sá Sigríði, brá hann lit, varð enn brúnni yfirlits en vanalega. Hann gekk til Sigríðar, rétti fram höndina og sagði:

"Komdu sæl og vertu velkomin -- hvernig er heilsan."

"Þakka þér fyrir; ég er að verða frísk, og er nú að byrja að leika mér."

"Sigga ætlar að verða hér einn vikutíma, hún er búin að lofa mér því, og ég veit hún er ekki so öflug til vinnu, að ég hef góða samvisku fyrir því; þið eruð líka so kunnug að ég vona þú hjálpir mér til að láta henni ekki leiðast."

"Það sem ég get skal ég gera, en þið vitið það báðar, að ég er enginn skemmtimaður, mér hefur aldrei látið sú list."

"Ef þú gerir það sem þú getur, er það þó betra en ekki neitt, og lesið geturðu þó."

Um kvöldið las Þórarinn "Den Fremsynte" eftir Lie, þá sögu hafði Sigríður ekki heyrt áður; bar þeim öllum saman um, að sagan væri prýðis snotur og sorgblíð.

"Fjarska munur er á þessari sögu og sögum Torfhildar; ef menn rituðu svona hérna, hlyti það þó að hafa einhver góð áhrif."

Þórarinn leit til Sigríðar; það var undrun í dökku augunum hans, Sigríður roðnaði og bætti svo við:

"Ég hef lesið dálítið eftir norsku skáldin núna upp á síðkastið, en samt ekki þessa sögu."

"Hann lýkur við hana á morgun fyrir okkur. Er ekki so?"

"Annað kvöld; fyrr get ég það ekki. --- Góða nótt."

Þær buðu báðar góða nótt líka.

"Ljómandi las Þórarinn vel söguna - bara hann hefði ekki farið með hana - annars hefði ég lokið við hana í nótt." Sigríður sofnaði og svaf vært til morguns.

Í rökkrinu daginn eftir, sátu vinkonurnar í húsi Ragnheiðar og töluðu um hagi Sigríðar, það heyrði enginn til þeirra, svo þær töluðu eins og góðar vinkonur gera, þegar önnur er sárkvalin af harmi. Hús Þórarins stóð í hálfa gátt, Ragnheiður sagði Þórarinn væri úti að gefa honum Frosta, en það var nú samt ekki, Þórarinn hafði verið kominn inn á undan þeim og hallað sér út af, en Vígi gamli sem ætíð fylgdi honum hafði skilið svona við hurðina. Þórarinn hafði rétt fest svefninn, þá hrökk hann upp við óþægilegan draum, gat ekki sofnað aftur; í huga hans brutust hugsanir er voru fráleitar að vera svefnmeðal. Þá heyrði hann að Sigríður sagði: "Mér er ómögulegt að hugsa mér, að geta verið saman við hann hér eftir, - en get heldur ekki vitað hvað ég á að gera."

"En ef maður elskar getur maður fyrirgefið mikið."

"Já ef --- Það er nokkuð heitt hér inni, vilt' ekki koma út með mér sem snöggvast."

Nú er það svona, ekki hafði ég neina hugmynd um það. - Bölvaður ræfill gat Guðni orðið. - Og Sigríður getur ekki fengið sig til að fyrirgefa. - Hvað ætli það annars sé? - Þórarinn snaraðist á fætur og fór að þvo sér.

Þórarinn lauk við söguna um kvöldið, en hugurinn fylgdi ekki eins vel efninu og kvöldið áður, nema bara þegar hann las um drukknun Súsönnu og áhrif þau sem dauði hennar hafði á Davíð Holst. Þá var hann með lífi og sál með. Sigríði varð annað slagið litið til Þórarins meðan hann las síðustu kafla sögunnar. Ósjálfrátt hvarflaði hugurinn að því, hvað hann var þroskamikill og þróttlegur, það blandaðist saman við söguna, en hún tapaði samt engu orði af henni fyrir það.

"Holst var alla ævi heilsulítill og veiklulegur en ágætlega lýsir Lie sálarstríðinu."

Þórarinn reis á fætur, augu þeirra Sigríðar mættust, Þórarinn dreyrroðnaði, og sagði svo nokkuð snögglega:

"Góða nótt."

"Góða nótt."

Ragnheiður átti von á að samtalið yrði lengra en það varð, hún gætti ekkert að því að taka undir við bróður sinn.

Sigríður sofnaði ekki svo fljótt um kvöldið, það var eitthvað svo undarlegt í augunum á Þórarni þegar hún horfði í þau áðan, sem hún ekki gat áttað sig á; og ómögulega látið vera, að hugsa um þau augu. Hún leiddi hugann að barninu sem hún vonaði bráðum að eignast. Ef það yrði nú aumingi - Bara það fengi að lifa samt. - Náttúrulega mætti fara svo vel og vandlega með það, að það fengi vöxt og framför. - En ef það yrði nú drengur; stór og fallegur drengur með bjart hár, - hrokkið. - Og það var svo undarlegt, líklega af því að hún var að sofna, - það voru einmitt dökku augun þau áðan, sem litli drengurinn hafði.

Daginn eftir töluðu þau systkin lengi saman frammi í stofu; seinna um daginn kom Steinar á Brú. Þau sátu fjögur inni í húsi Ragnheiðar og spjölluðu:

"Ég ætla að biðja þig að kaupa og ljá mér síðan einar tvær bækur."

"Hvaða bækur eru það?"

"Giftas eftir Strindberg og De Moderne Samfundslögne eftir Nordau, - ég held það séu bækur, sem krassa ofurlítið, og kunni að opna augun á mönnum fyrir hvernig mannfélagsskipunin er."

"Jú, ég skal hugsa til þess - en ætlarðu annars að brúka þær eins og morfín?"

"Því ekki það - og koma þeim so einhvern tíma í lestrarfélagið, þær hljóta að vera prýðilega lagaðar fyrir æskuna. - Skaði að ég var ekki barnakennari."

"Skárri hefði það nú verið kennarinn, og sú aðsókn."

"Á, heldurðu það Rænka; hugsaðu til með þín börn, ef ég þá verð á lífi. - Sumir prestarnir eru nú samt ekki öllu trúaðri en ég, bara munurinn að þeir kunna so prýðilega að hræsna."

"Þá ættu þeir ekki að vera prestar ef þeir trúa eins og þú."

Sigríður leit framan í Þórarin; augu þeirra mættust; svo leit hún niður á prjónana sína, það hafði fallið niður lykkja.

"Þá ættu þeir ekki að vera prestar." Þessi orð héldu vöku fyrir Sigríði fram á reginnótt. Hvað þeir voru ólíkir séra Guðni og Þórarinn. Nú vissi hún því Þórarinn var ekki prestur nema tvö árin. - Að hugsa til að búa við Guðna eftir allt saman. - Það var ómögulegt - Þessi þróttarmunur. - Henni skyldi aldrei hafa dottið það í hug fyrri. - Sigríði varð órótt því aftur komu þessi einkennilegu augu og nú höfðu bæst við stórar svartar brýr og mikið skegg, með hrokkna hárinu eins og umgerð. Hjartað sló hart og títt, en eitthvað ljúft og laðandi fylgdi þeim ótta. "Ekki er Þórarinn fríður, -- en --- hann er ófríður. -- Karlmannlegur samt, - og." --- Loksins sofnaði þó Sigríður.

Þórarinn las Problematiske Naturer á kvöldin fyrir þær; öllum kom þeim saman um að bókin væri skemmtileg og ágætlega samin. Hann lauk við hana sjötta kvöldið sem Sigríður var þar.

"Ætli menn séu nú annars almennt sona ráðgátulegir og Spielhagen lýsir þeim þarna í bókinni?" sagði Sigríður.

"Það er aðeins verið að lýsa Problematiske Naturer, og mér virðist vera ekki so lítið til af þeim. -- Ég fyrir mitt leyti held verulega af Oldenborg."

"Honum varð nú ekki so lítið á samt."

"Satt er nú það, - en ég skal segja þér nokkuð Rænka, - það eru nú einmitt þeir menn sem ég held mest af. -- Mennirnir eru ekki alfullkomnir né brestalausir. - Það er skáldskapur að menn séu það. - En að standa sem virðingarverðir menn að lokum, eins og Oldenborg, það vil ég halda sé ekki idealismus."

"Mér þykir fallegust lýsingin af skilnaði Osvalds og Helenu, - ég fyrirgef honum allt fyrir framkomu sína þá."

Sigríður leit ekki upp meðan hún talaði.

"Af því dauðinn kom strax á eftir; ef það hefði ekki verið. - Setjum svo að þau hefðu hist og þurft að sælda saman seinna í lífinu. - Það sem lifði í kolunum hefði brotist út í loga."

Nú leit Sigríður upp; augun mættust, -eitt andartak. Þórarinn náfölnaði. Sigríður var dreyrrauð; hún missti niður fingurbjörgina.

Þetta bleika andlit; þessi augu; Sigríður hvorki vildi né gat rannsakað hvað á bak við var. Hvorki gat né vildi reka sjónina úr huga sínum og ómögulega sofnað. "- Á morgun fer ég heim. -- Sjálfsagt, - en að koma heim, - hvaða líf verður það? -- Já, það er nú það eina samt sem ég er skyldug ..." - Sigríður grét, þangað til hún sofnaði.

"Þú ert so þreytulegur bróðir, hefurðu ekki sofið vel í nótt, eða ertu lasinn?"

"Ég las nokkuð lengi fram eftir í gærkvöld."

Þórarinn tók kaffibollann af bakkanum; það riðaði höndin svo að skvettist úr honum um leið og Þórarinn setti hann á borðið. Ragnheiður sá það ekki, af því hún var að bjóða Sigríði kaffi, en Sigríður sá það þar sem hún sat gagnvart við borðið.

"Takk, ég hef ekki lyst, - og held mér sé óhollt að drekka kaffi á morgnana."

Sigríður brá klútnum fyrir andlitið eins og hún ætlaði að þurrka burt roðann.

"Það er gott veðrið í dag," sagði Þórarinn.

"Og ég ætla líka að nota það, og fara heim í dag."

"Nei farðu ekki heim í dag, á morgun verður líka gott veður, láttu mig ekki þurfa að flytja rúmið þitt þennan daginn."

"Jú, ég er staðráðin í að nota veðrið, -- ef mér verður vel til með að fá fylgd."

"Það er sjálfsagt, - ég þarf að finna hann Jón á Gili annaðhvort í dag eða á morgun so fyrirhöfnin er engin."

"Ekki þó til að fá brennivín," hugsaði Sigríður en sagði:

"Þakka fyrir."

Um hádegið fóru þau af stað. Fyrst töluðu þau um hvað veðrið væri fagurt og gott. Hvað einkennilega fallegt væri í dalnum. Gátu sér hins og þessa til hvað góða tíðin stæði lengi; teygðu talið eins og þau gátu. Þegar svo það gat ekki lengur tognað þögnuðu bæði og riðu þegjandi um stund. Þórarinn rauf þögnina; sagði Sigríði að hann vissi allt um heimilishagi hennar, að hann hefði heyrt sumt af samtali þeirra um kvöldið í húsinu, hefði svo spurt Ragnheiði, þau höfðu lengi trúað hvort öðru vel; að hún hefði sagt sér svo mikið, að hann vissi, hvað lífið væri henni erfitt nú, henni væri velkomið að leita til þeirra og mætti treysta þeim báðum til að vilja henni það besta; seinast sagði hann:

"Geturðu trúað og treyst okkur Rænku?"

"Jú, ég get trúað og treyst ykkur báðum. -- En ég veit ekki - ég get ekki áttað mig enn - Bara finnst ómögulegt að búa saman."

"Reyndu fyrst hvað ykkur talast til. -- Ég get vel fundið, að það er ekki gott að greiða úr þessu, - tíminn kannski gerir það. - Allt getur máske lagast - ."

"Ég er hrædd það lagist ekki, ---- lagist aldrei."

"Getur skeð það verði -- þó. --- Ja, - Rænka sagði að sér kæmi ekki óþægilega að hafa vinnukonuskipti á Rósu gömlu og Gunnu. -- Rósu er vel trúandi fyrir búsýslu og allra vænsta kerling. Hvað sýnist þér annars um það?"

Sigríður leit til Þórarins, þakkaði ekki með orðum, en honum fannst samt sér hefði aldrei á ævinni verið þakkað fyrri.

"Það getur komið sér vel, mér hefur víst ekkert farið fram með búsýsluna; ber ekki mikið traust til mín í vetur. --- Annars er mér sama um Gunnu greyið hvar hún er."

Léttum andvara sló fyrir. Þórarni hefur líklega verið ómótt áður, því að nú fann hann sama létta aflið streyma um sig allan eins og í æsku, hann langaði beinlínis til að hoppa til í hnakknum, en sat þó kyrr og sagði aðeins:

"Þið Rænka finnist öðru hverju, og getið þá talað betur um það."

"Mér þætti vænt um ef Rænka léti verða af því að koma við og við til að finna mig."

Hvað þau eru annars lík og góð bæði, hugsaði Sigríður.

Vesalings Sigríður, ósköp á hún bágt. - Og Þórarinn fór að tala um lestrarfélagið - hann var frumkvöðull þess og forseti -, gat þess að Steinar á Brú væri besti og áhugamesti félagsmaðurinn; það væri undarlegt hvað hann gæti sífellt bent á góðar bækur, einkum þó útlendar, en það vildu ekki aðrir hafa þær í félaginu en þeir, og því yxi bókasafnið sitt, að hann keypti fyrir félagið og sæti svo með bækurnar.

"En það verða ekki mörg árin, vona ég, þangað til menn vilja hafa dönsku bækurnar líka."

"Þú stólar á yngra fólkið, -- er annars Steinar ekki sérvitur, mér hefur fundist það."

"Það er eftir því sem maður tekur það. - Ég held hann sé það nú raunar ekki. -- En - það er byltingarandi í honum og uppreist gegn ýmsu sem menn almennt álíta gott og gilt af því það er gamalt. -- Ég er hræddur að hann geti aldrei þrifist í dalamollunni hérna."

Þau stigu af baki á hlaðinu á Kirkjubóli. Séra Guðni kom út og tók glaðlega á móti þeim, fylgdi Þórarni til stofu og tóku þeir til að tala um ýmis sveitamál - báðir voru hreppsnefndarmenn og Þórarinn oddviti - svo hneigðist talið að lestrarfélaginu. - Sigríður kom með kaffið, staldraði við meðan þeir drukku það, tók síðan bakkann og gekk inn aftur. Þeir töluðu enn um stund, þá bjóst Þórarinn til að fara, það var farið að rökkva.

"Ég ætlaði annars að kveðja Sigríði áður en ég færi."

"Ég skal skila því til hennar; og vertu nú blessaður og sæll og takk fyrir alla fyrirhöfnina."

Þeir tókust í hendur.

Rétt á eftir kom Sigríður. Þórarinn rétti henni höndina og kvaddi. Augu þeirra mættust. Sigríður gleymdi að þakka fyrir fylgd og kynnisvist; Þórarinn hélt líka nokkuð þétt um höndina á henni - hann var svo sterkur, að í rauninni er ekki til þess takandi. - Svo snaraðist Þórarinn út úr stofunni; í næstu svipan glumdi í freðnu túninu, þar sem Frosti þaut með Þórarin yfir það; eldglæringarnar blossuðu suður melgötuna. Sigríður hallaðist út í stafngluggann og horfði þangað til eldneistarnir slokknuðu. Og enn starði hún út, þó ekkert sæist í húminu.

*

Fám dögum síðar áttu þau tal saman hjónin. Séra Guðni bað fyrirgefningar svo mjúkur og þýður, lofaði öllu fögru. Sigríður sagðist ekki geta gleymt, ekki mundi trúa honum eftirleiðis, og hvort tveggja þyrfti þó að vera ef sambúðin ætti að verða þolandi; sagði hann elskaði sig ekki; hefði helst aldrei gert það. Það lang réttasta væri að skilja. Prestur sagði að þetta hefði verið stundarhrösun fyrir sér sem ekki skyldi koma fyrir aftur, hún mætti reiða sig á það; ennþá elskaði hann hana þrátt fyrir allt. Minnti hana á að ef þau eignuðust barn, mundi hann verða stöðugri heima og bera þau bæði á höndum sér; hann þyldi ekki að skilja við þau, þetta yrði líka óþolandi "skandali" og slúður út um allt, og það yrðu þau bæði að forðast.

Sigríði gekkst hugur við; hann virtist svo einlægur og dapurlegur, var hálfklökkur seinast í ræðunni. Hún kenndi í brjósti um hann og hálftrúði honum. Prestur bauð að hún skyldi búa sér í herbergi, og að nú skyldi hann hætta að drekka. Sigríður féllst á það.

Prestur svaf frammi meðan þiljað var af húsið. Herbergi Sigríðar var heldur lítið en prýðis snoturt og ágæt birta frá stafnglugganum. - Vinnukonuskipti voru höfð. Rósa gamla var svo vel fær við bústörfin, og Sigríði veitti ekki af sem mestu næði, heilsan var alltaf tæp.

Sigríður átti oft bágt með að sofa á næturnar um þessar mundir, og þá byltust óþægilegar endurminningar og kvíðvænlegar hugsanir í brjósti hennar. Fyrir þrekleysi og vesaldóm varð hún nú að búa saman við Guðna, og láta fyrir öðrum eins og ekkert væri. Það var eitthvað óþolandi óeðlilegt við þessa sambúð. Hún var svo hrædd um, að barnið gæti aldrei þítt þann ís sem byrjaði að frjósa um haustið og hún fann að þykknaði með vetrinum. Hún fann fyrirboða móðurgleðinnar; víst ætti hún að geta unað við barnið. - En,- hugurinn hvarf að einu enn, - hún sneri á ýmsa vegu í rúminu og andvarpaði þungt og sárt. - Það var ekki til neins, við þetta gat hún ekki losað sig.

Um þrettánda fæddi Sigríður dreng sem var látinn heita Hjálmar; það var snotur drengur, stúlkurnar sögðu hann væri líkur pabba sínum, en hann var ófrískur og framfaralítill fyrsta tímann. Sigríði þótti framúrskarandi vænt um hann, og nú kom sér vel að hafa Rósu, sem var svo alvön að fara með börn; hún hvíldi Sigríði oft við barnið, svo hún gæti sofið eða lesið, hún gat ekki án þess verið; lesturinn var orðið hennar hálfa líf. Að upplagi var Sigríður heilsugóð og hraust, hún náði sér því fljótt eftir barnsburðinn, en var hljóð og fálát svo menn furðaði á því.

Prestinum varð það á að taka sér í staupinu þegar Hjálmar litli var skírður: "Ég var svo glaður yfir að eignast drenginn að ég gætti mín ekki af því vínskrattinn var til; þeim hefði líklega þótt lítilfjörlegt körlunum, ef það hefði ekkert verið," sagði hann við Sigríði daginn eftir. En næsta sunnudag kom hann fullur framan frá Bakka, svo var bindindið búið. Sigríður sagði ekkert nema í fyrsta sinn: "Nú er búið bindindið fyrir þér, Guðni," sagði hún.

*

Séra Guðni hafði heldur lítið gaman af hvítvoðungum og skipti sér varla neitt af Hjálmari fyrstu vikurnar, leit stöku sinnum á hann og myndaði ofurlítið bros. Hann hugsaði sér að það gæti verið gaman að leika sér við drenginn þegar hann stækkaði, svona ung börn voru varla snertandi. - En þegar prestur var ölvaður þá fann hann þó, að Sigríður var fallegasta konan í dalnum, bæði af ungum og gömlum. Skyldi ekki fara að fyrnast yfir það í haust? Það var þetta gamla í heiminum, sem menn verða að reyna að sætta sig við og fyrirgefa. Þetta hafði margan horskan hent og ekki verið gert stórt upphlaup út af. - Blóðið fór að ólga í æðunum; prestur bar sig til eins og hann var vanur að gera við stúlkurnar þegar þessi blóðhiti var í honum og oftast hafði gefist vel. Hann var lifandi, spaugsamur og mjúkmáll, kvikur í hreyfingum eins og hann léki á hjólum. Grábláu augun svo hrein og talandi, - já, þau höfðu ekki verið mjög missifeng þau augu, það vissi hann best sjálfur. - Það var nærri ómögulegt annað. --Séra Guðni var þá vanur að færa sig inn í hús til Sigríðar, þá gat hann fengið sig til að klappa á kollinn á drengnum; fór síðan að tala um, að nú væri honum loksins að fara fram, hann væri að verða bæði snotur og skemmtilegur. Fór svo að færa sig nær takmarkinu hægt og hægt, en jafnt og stöðugt nær. Sigríði grunaði hvað honum var innan rifja, gerði ýmist að roðna eða fölna, þurfti alltaf að hagræða barninu eitthvað. Það átti ekki svo illa við prestinn þessi litbreyting; honum beinlínis þótti hún skemmtileg; sagðist fús og feginn vilja bera þau bæði á höndum sér. - Það væri kominn tími til, að láta það sjást að barnið tengdi þau saman, þau gætu öll sofið í sama húsi, fyrir sitt leyti óskaði hann af hjarta eftir því. Sigríður drap á að hann væri drukkinn, minnti á bindindið. Lítil brögð voru nú að því, hann hafði rétt smakkað, ekkert öðruvísi. Sigríður vildi helst vera ein í húsi með Hjálmari litla; - svörin fóru að verða svo stutt og þurr, að sætmálin skrælnuðu á prestsvörunum. Séra Guðni fór burt úr húsinu; var í illu skapi með sjálfum sér, - fór ævinlega fram að Gili á eftir, þegar hann kom aftur var hann fullur. - Svitinn bogaði af Grána, hann hengdi niður höfuðið og gekk allur til af mæði, því klerkur fór oft lengra en að Gili og reið alltaf það sem klárinn gat þanið sig. Húsvitjunarferðir klerksins til þeirra mæðgina voru Sigríði allra þungbærastar. Hún hafði beinlínis óbeit á séra Guðna þegar hann var drukkinn, hryllti við þeirri ást er hann þá bauð henni -- Henni stóð svo lifandi fyrir augum vissan sem teygði kollinn úr kófinu um haustið. - Við þetta var ekki verandi. Hvað átti hún að gera? Búa við þetta? Það var lifandi dauði. Fara heim til föður síns? - Ómögulegt. - Fara. - Hvert átti hún að fara? - Og barnið. - blessað aumingja barnið. - Allt umtalið, ef hún skildi við prestinn. - Hún þekkti slúðrið í dalnum. -- Það voru bara tveir menn sem hún var viss um liðsinni hjá, --- og - svo var það líka, - ómögulegt.

Í annarri viku góu veiktist gamli Hjálmar á Bakka. Sigríður bjó sig strax fram eftir þegar hún frétti það. Séra Guðni sagði það væri sjálfsagt þau færu bæði. Þau komu um miðjan dag að Bakka og voru þar um daginn. Um kvöldið vildi Sigríður endilega vaka hjá föður sínum, en hann sagði þess þyrfti ekki, hann væri ekki svo veikur; séra Guðni var á sama máli, en Sigríður vissi að hann var "hreifur", þó ókunnuga kannski ekki grunaði það.

"Má ég ekki fá að vaka hjá þér í nótt, elsku pabbi - og lesa fyrir þig í ritningunni, eins og þegar ég var lítil?" Tárin stóðu í augunum á Sigríði.

"Ó jú, Sigga mín. -- Það er ekki víst ég heyri þig oft lesa hér eftir."

Séra Guðni var ekki í blíðu skapi þegar hann háttaði um kvöldið.

Sigríður las fyrir föður sinn; byrjaði á Mattheusar guðspjalli og las sjö kapítula, þá fór að færast ró og værð yfir gamla Hjálmar:

"Ég verð svo viðkvæmur þegar þú lest þetta fyrir mig. -- Mér finnst þú hafir aldrei lesið svona vel áður."

"Af því þú ert veikur. - Þá er maður ævinlega viðkvæmastur."

Svefnhöfgi færðist yfir Hjálmar gamla. Svefninn varð fljótt vær og rólegur. Hann svaf fram á morgun. Þegar hann vaknaði var hann hress og á besta batavegi.

Prestshjónin héldu heimleiðis um daginn; þau komu við á Hamri og töfðu um stund. Prestur var töluvert kenndur og Sigríður hafði verið þurrleg og fálát við hann á leiðinni, svo hann var ekki sérlega ánægður yfir öllu saman. "Hér er líklega ekki vín að fá, en reyna má það þó," hugsaði klerkur; hann var á faraldsfæti, mest frammi við - og úti.

Ragnheiður hafði haft illt í fingri, það var búið að skera í og færa út gröftinn, en kveisunaglinn sat eftir. Hún hafði höndina í fatla, en var samt annað veifið frammi við, að sjá um kaffihitun og brauðbakstur. Þórarinn og Sigríður voru tímakorn tvö ein inni. Þau höfðu ekki sést síðan um haustið.

"Þú hefur ekki komið oft út eftir í vetur."

"Einum þrisvar þó."

"En ekkert staðið við."

"Jú lestrarfélagsfundardaginn."

"Hefurðu lesið mikið í vetur? -- Hvað hefurðu af nýjum bókum núna?"

"Ég hef lesið þó nokkuð, og er núna að lesa Aandsudviklings Historie eftir Darper."

"Er það góð bók?"

"Fróðleg bók og eftirtektarverð; en ykkur stúlkunum kann að þykja hún nokkuð strembin sumstaðar".

"Getur nú verið."

"Ég hef hérna Isbrud. - Þér er velkomið að fá hana ef þú vilt."

"Takk. Er það góð bók?"

"Það þyki' mér, -- og einkennileg -- Í meira lagi það."

Sigríður fór að gá að í bókaskápnum. Þórarinn sat og tálgaði til blýantinn sinn, svo þegar hann var búinn að snotra hann eins og hægt var, fór hann að laga á sér neglurnar.

"Það er ekki hávaðinn í ykkur hérna. - En hvar er annars séra Guðni?" Ragnheiður setti bakkann á borðið.

"Hann gekk út rétt nýlega, hann þurfti að finna Þorstein gamla. -- Ég skal kalla...- ."

"Nei, - þess þarf ekki, Stjáni getur skotist út."

Ragnheiður hallaði húshurðinni að stöfum eftir sér.

"Þórarinn, áttu ekki..-- Þarftu ekki neitt út í dal..--- Færið er so gott?"

Þórarinn leit upp. Sigríður var svo einkennilega óstyrk í málrómnum.

"Einhvern tíma þarf ég út að Miðfelli..- Jú, við getum víst orðið samferða."

"Það er skemmtilegra, þegar fleiri eru."

Séra Guðni kom og þau drukku kaffið. Þórarinn sagðist ætla að slá í förina með. Prestur lét vel yfir því. Ragnheiður bauð í bollana aftur, þau þökkuðu og þáðu það; annars var séra Guðni nokkuð litbreytinn, og eins og frammivistin hefði gert hann eitthvað óróan í skapi.

Færið var glymjandi, hjarn og ísalög fyrir það mesta út dalinn. Það var gerandi fyrir kunnuga að hleypa þar sprett. Séra Guðni reið fjarska hart eins og hann var vanur, og þó Gráni væri 14 vetra gamall, var hann vel fjörugur og röskur ennþá, upphaflega hafði hann verið afbragðs klárhestur. Sigríður reið gömlum reiðhesti, rauðum, dragvökrum, heldur lötum. Prestur reið hvern sprettinn af öðrum; þegar þau náðu honum hleypti hann aftur. Þórarinn reið jafnhliða Sigríði og hvatti hest hennar, en lofaði Frosta aldrei að taka sprett. Þegar þau komu út á móts við Brú, sagði Þórarinn:

"Viltu ekki hafa hestaskipti það sem eftir er?"

"Jú, ég þakka fyrir. - Mig hefur ævinlega langað til að koma á bak Frosta; hann er sagður besti hesturinn í öllum dalnum."

"Ekki veit ég hvort það er nú. - En hann er traustur, það skal ég ábyrgjast. -- Sona, taktu taumana nokkuð upp og so er þér óhætt að lofa honum að fara."

Meðan Þórarinn talaði setti hann Sigríði á bak. Það lagði óstyrk og titring um hann allan meðan hann hélt Sigríði í faðmi sér. Hún lagði hendurnar sína á hvora öxl honum. Allt blóðið streymdi til hjartans, honum fannst það standa grafkyrrt. Undarlegt magnleysi um knjáliðina eins og þeir ætluðu að kikna af því byrðin væri of þung. Sigríður sat dreyrrauð í söðlinum. Þórarinn varpaði sér á bak. Rennslétt ísgljáin lá fyrir framan. Sigríður lofaði Frosta að fara: hann þaut á kostum út svellið, það hvein og dundi í ísnum, smáflísarnar flugu úr skaflaförunum, þær stærstu runnu spöl eftir svellinu, hægðu á sér, snerust eins og skopparakringla og voru svo kyrrar. Sigríður stillti ekki fyrr en hún náði séra Guðna. Hann rak upp stór augu:

"Ég hugsaði Frosti væri óvanur söðli. Ertu annars viss að ráða við hann ?"

"Já, hann er so auðveldur -- og traustur."

Hestarnir brustu á stað; stukku nokkra faðma jafnhliða, svo kippti Frosti sér fram úr. Sigríður tók dálítið í taumana, klárinn lagði sig á skeið; eftir það dró hvorki sundur né saman. Sigríður stillti.

"Andskoti er hesturinn góður. - Ég held ég hafi aldrei séð aðra eins vekurð." Séra Guðni stillti líka.

"Já, - góður er hann."

Hjónin riðu hægt ofurlítinn spöl, og Þórarinn náði þeim. Þau voru komin út neðan við Gil.

"Ég þarf að skreppa heim í Gil sem snöggvast, og veit þið Forsti skilið Sigríði heilli heim. -- Annars líklega næ ég ykkur, ég þarf bara að finna Jón sem snöggvast og biðja hann að járna hann Skúm á morgun."

Þórarinn og Sigríður riðu hægt áfram.

"Aldrei hef ég komið á bak á annan eins hest. Sona góður var Dreyri mömmu þó aldrei."

"Þér bregður nú við, gamli Rauður er orðinn stirður og þungur undir árum."

"Hvað það er gaman að ríða góðum hesti á ísnum, þegar tunglskin er, maður gleymir öllu öðru á sprettinum."

"Já."

Sigríður hleypti á sprett, stillti aftur, svo kom Þórarinn:

"Máske ég ríði of hart?"

"Nei."

"Hvað er Frosti orðinn gamall?"

"Tólf vetra."

"Er hann hreint ekki falur? Ég veit ekki hvað ég vildi gefa fyrir hann."

"Nei, Sigríður, - mér er ómögulegt að selja Frosta -- Biddu mig þess ekki."

Og Þórarinn hugsaði um Frosta í túrum prestsins.

"Mér er heldur ekki alvara með það. - Það er engin von þú viljir láta hann."

"Nei, - héðan af læt ég hann aldrei."

Það var líkast að Þórarinn talaði þetta við sjálfan sig. "En hvað ætli Guðni vilji fara að járna folann núna. Hann bara drepur hann ef hann fer að ríða honum."

"Hann hefur líklega átt annað erindi líka."

"Hvað?"

"Á Gili fær hann ævinlega brennivín."

"Bölvað klúður er að Jón skuli gera það. En, -- því hefurðu ekki skrifað Rænku í vetur eins og þið töluðuð um, hún hefur alltaf beðið eftir því."

"Ég ætlaði að vera búin að ráða eitthvað... vita hvað ég ætti að gera."

"Og?"

"Ég get ekkert ráðið, er alveg eins og í haust."

"Getur ekkert lagast?"

"Nei. - Ég finn að það drepur mig... að vera við þetta. - En hvað á ég að gera?"

"En barnið... ég hugsaði að þið mynduð... það mundi tengja saman."

"Mér þykir vænt um barnið, ósköp vænt, en það getur samt ekki orðið, nei... og nú ætla ég að biðja þig, að skila til Rænku, að mér þætti gaman hún kæmi."

"Já. - Viltu so ekki hleypa Frosta hérna heim tjörnina, það verður seinasti spretturinn núna, og prestur kemur ekki hvort sem er."

"Jú."

"Það verður víst seinasti spretturinn á ævinni," hugsaði Sigríður og lét klárinn fara.

Hún var komin af baki á hlaðinu, þegar Þórarinn kom. Stóð við hausinn á Frosta, klappaði honum og strauk, en klárinn kumraði og nasaði af henni.

"Því lætur hann sona?"

"Hann langar líklega í mjólk."

Sigríður hljóp inn og sótti mjólkurfötu, hér um bil hálfa með mjólk, setti fötuna fyrir Frosta. Þórarinn tók beislið út úr klárnum. Þau stóðu sitt hvoru megin við hálsinn á hestinum. Veður var kyrrt og dró ský fyrir tunglið. Tveir tíðir og titrandi andardrættir og sötrið í Frosta var allt sem heyrðist. "Það er svo ævinlega þegar maður hefur riðið góðum hesti," hugsaði Þórarinn. Skýið dró frá tunglinu. Frosti brá hausnum upp úr fötunni, mjólkin ýrðist af flipanum á honum framan á Sigríði, þegar hann þefaði af henni. Þórarinn brá beislinu upp í hann.

"Má ekki bjóða þér kaffi?"

"Takk, en ég má ekki bíða núna, ég þarf heim í kvöld."

"Heim í kvöld."

"Já."

"Þakka þér fyrir hestaskiptin og..."

"Ég bið að heilsa Guðna... og vertu nú sæl."

Þórarinn var skjálfraddaður. Þau tókust í hendur, þær luktust þétt saman og titruðu við. Eldheitan, iðandi straum lagði eftir þeim báðum. Þórarinn heyrði ekki hvað Sigríður sagði, en fannst það hefði þó verið tvö hálf orð.

Frosti steig hratt og skörulega út hlaðið. Þórarinn leit við um leið og hann fór fyrir bæjarhornið. Sigríður stóð alveg í sömu sporum og horfði eftir þeim. Svo reið Þórarinn hægt norður túnið og spölkorn út fyrir það. Allt í einu rétti hann sig á hestinum, eins og hann rankaði við hvað hann væri að fara. Nú dundi hver spretturinn eftir annan, alla leið út að Miðfelli. Þórarinn lauk erindinu og fór heimleiðis í vökulokin. Himinninn var alheiður og tunglskin bjart. Þá bar hratt yfir grundirnar fram að Kirkjubóli, það var ekki neitt undarlegt þó Þórarinn riði hægt heim túnið og lofaði hestinum að blása. Þórarinn reið vestan við bæinn; það voru allir hliðargluggar dimmir í baðstofunni. Þegar hann kom suður fyrir bæinn leit hann við og stöðvaði hestinn ofurlítið. Það var ljós í stafnglugganum, gluggatjöldin voru niðri en milli þeirra stóð einhver og starði út. Eflaust var það Sigríður því hún svaf þar ein með barnið. Þórarinn vissi ekki af fyrr en hann var búinn að banda með höfðinu, honum sýndist skugginn hneigja sig líka, það gat varla verið missýni. Frosti reis upp á afturfæturna - Þórarinn hafði lagt hælana nokkuð snöggt að síðunum - stökk það sem hann komst suður að tjörninni, brá sér þar til skeiðs, þrumaði í einni lotu yfir hana og langt suður á grund.

*

Fólk fór að stinga saman nefjum um, að hjónasambúðin á Kirkjubóli væri ekki eins góð og vera ætti; fyrst heimilisfólkið, og svo læddist það í loftinu bæ frá bæ og mann frá manni, líkt og kvefsótt eða annar hveimleiður faraldur. Sumir sögðu það væri líklega tómt slaður, en miklu fleiri héldu þó, að eitthvað kynni að vera hæft í því, voru "ansi hræddir", því væri nú verr, að einhver flugufótur væri fyrir því. Á nágrannabæjunum voru það aðeins þrír menn, sem sögðu það væri slúður og lygi, það var Steinar á Brú og Hamarssystkinin. - Almennt var álitið að ósamþykkið væri meir Sigríði að kenna, það var auðséð hvað hún var þyrrkingsleg og köld. Undarlegt, að henni skyldi ekki þykja vænt um svo laglegan og skemmtilegan mann, sem í kaupbæti var þó prestur. Menn vissu að klerkurinn var oft ölvaður og það nokkuð freklega stundum; stúlkurnar í dalnum pískruðu um, að hann væri þá nokkuð fjölþreifinn og "skrítilegur", svo hlógu þær og roðnuðu, - allar ungar stúlkur roðna, þegar þær hlæja. Meining manna varð samt sú, að þó hann yrði góðglaður við tækifæri, þá yrði að fyrirgefa honum það, úr því hann passaði embættisverkin - það er að segja gerði ekki afglöp í kirkjunni - Og þetta sem stúlkurnar pískruðu, sverti klerkinn ekkert verulega, setti aðeins einkennilega blæju yfir hann, sem fór ekki neitt óskemmtilega, þessi blæja varð nærri því til þess að vekja forvitni hjá ungu og skáldlega hugsandi fólki. "Það eru svo margir, þegar þeir eru kenndir, ekki dugs. Hann getur verið eins góður við konuna fyrir því." Þetta sögðu svo margir, og það rosknir og reyndir menn; það sögðu bæði karlar og konur. En Sigríður var svo fáskiptin og ómannblendin síðan hún varð prestskona, hún var víst orðin stolt og þóttist of góð að sælda saman við "almúgafólk". Hún var þó af bændum komin og alin upp í sveit, ekki var nú "kumprið" meira; en það voru líka prestar í ættinni, og svo allur Bakkaauðurinn, þegar hún náði þá líka í prest, "er það ekki nóg, blessuð mín." - Allur þorri sveitarmanna var meir snúinn á prestsins sveif; en það var ekki hægt að finna Sigríði neitt verulega til, svo það var bara blika sem grúfði yfir, og beið í lofti, en það gat skollið yfir illviðri þegar minnst varði, og komið eins og þjófur á nóttu eða dagur dómsins.

Ragnheiður á Hamri heimsótti Sigríði og var hjá henni þrjá daga. Það var hvorttveggja að Sigríður var eigi einráðin í hvað hún gerði framvegis, enda gat Ragnheiður ekki veitt henni þrek né einbeitni, báðum óaði við afleiðingunum og gauraganginum sem færi á stað, ef hún skildi við prestinn. Ragnheiður sagðist vona að hjónabandið lagaðist; hún sagði það fremur af því hún óskaði þess, heldur en hún hefði trú á því. Sigríður fann að þetta voru aðeins töluð orð, þau veittu henni hvorki þrek né trú. Hún fann líka eitt sem Ragnheiði grunaði ekkert um. Nei, það var ekki til að tala. Það gat aldrei lagast.

Ragnheiður bauð henni fram eftir, en Sigríður sagðist ekki mega fara frá barninu, það gæti víst ekki orðið fyrst um sinn. Svo fór Ragnheiður; þann dag var Sigríður í þungu skapi. "Það var bara einn maður sem ég hef trú á að geti ráðlagt mér og hjálpað... Og svo er það ómögulegt hér eftir." Þannig lagaðar hugsanir hringsnerust í huganum. Henni fannst að allir vegir væru ófærir fyrir sig. Sigríður vafði drenginn þétt að sér og kyssti hann svo fast, að hann beygði skeifu. Tárin féllu eitt eftir annað ofan á glóbjarta kollinn barnsins.

Í fyrstu viku einmánaðar var hreppsnefndarfundur á Kirkjubóli, að honum loknum fór séra Guðni yfir að Gunnarsstöðum að skíra barn, og allir hreppsnefndarmennirnir heim til sín, nema Þórarinn sem var að skrifa bréf fyrir nefndina, það var svar gegn sveitarstyrkskröfu úr Fellshverfi með Teiti tunglmeini sem þeir sögðu ekki sjálfbjarga lengur. Það beið maður eftir bréfinu sem átti heima vestur í Hverfi. - Þegar Þórarinn var búinn með bréfið gekk hann inn í hús til Sigríðar, hann ætlaði bara að kveðja hana. Það atvikaðist nú samt svo að hann settist á stólinn við borðið. Sigríður afhenti honum Isbrud og þakkaði fyrir lánið.

"Það eru ljómandi gáfulega samdar sögur þetta. -- Lýsingin af Tilbagefald Páls og Önnu er svo eðlileg og sönn og svo skýrt máluð, að ég hef fyrir víst lesið hana einum þrisvar sinnum."

"Hún er eflaust sönn. - Það er einkennilegur höfundur Strindberg, og lítill vinur ykkar stúlknanna. -- Einkum hefur mér fundist ástarjátning Emilés ágæt, sumt í henni er það besta, sem ég hef séð um þess konar."

"So."

Sigríður dreyrroðnaði; því henni fannst einmitt það sama, en hafði ekki einurð til að segja það.

"Hjálmar litli er að verða stór og efnilegur, sýnist mér."

Þórarinn stóð á fætur og klappaði á kollinn á drengnum.

"Já - heilsan er nú að verða allgóð."

Þórarinn kvaddi og rétti Sigríði höndina.

"Má svo ekki Rænka búast við þú komir bráðum?"

"Ég held ekki fyrst um sinn, -- ég hef verið lasin um tíma og so drengurinn..."

Augun mættust, - ofurlitla stund. Þórarinn sleppti hendinni sem hann hafði haldið utan um. Húsið dansaði í lausu lofti með þau bæði, að honum virtist, en Þórarinn dansaði ekki út á hlaðið, þessi einkennilegi óstyrkur um knjáliðina rétt eins og fæturnir ekki gætu borið líkamann, lömuðu allt dansafl úr honum.

Þórarinn hafði aldrei starfað eins hvíldarlaust og þennan vetur. Hann hirti sjálfur lömbin sín inni og alla hestana, leit eftir allri fjárhirðing, og var vandur að með þrifnað og reglu bæði með fjárhirðing og annað. Á kvöldin las hann eða skrifaði, og var vanur að lesa jafnaðarlega lengst fram á nótt. Klukkan sex fór hann á fætur. Svefninn var því oft ekki nema 3-4 tímar, enda var ekki laust við hann væri stundum þreytulegur, það vottaði fyrir að hann væri að verða vikóttur, fáein hvít hár sáust á vöngunum; enda segja þau fljótt til sín í dökku hári. Af litlum atvikum gat það komið fyrir að honum yrði snögglega skapfátt; að öðru leyti virtist hann ekki vera breyttur. Steinar á Brú og Ragnheiður sögðu að vísu við hann, að nú væri hann að byrja að verða ráðríkur, þau sögðu það í spaugi, en það var þó alvara á bak við það.

Séra Guðni og Þórarinn urðu samferða úr kaupstað rétt fyrir sumarmálin. Það er hæg dagleið þegar dagur er orðinn svo langur og færið má heita gott eins og þá var, og menn eru eins vel ríðandi og þeir voru. Loftið var þykkt og grámórauður þokubakki í hafinu, sem ýmist þyrlaði upp strýtumynduðum kúfum hér og þar eða sléttaði þá aftur. Veður var kyrrt og milt og þó ekki tryggilegt. Þeir riðu ákaflega, prestur var fullur og í óróu skapi; vildi að Þórarinn drykki með sér, en hann var aldrei mikið fyrir vín og allra síst þá. Hann hafði aldrei séð prest eins fullan; rétt að hann gat setið á hestinum:

"Sona hart megum við ekki ríða, við drepum hestana."

"Mér er helvítis sama, hestinum má líða eins og mér."

"Eins og þér."

"Já eins og mér. - Heldurðu kannski mér líði so vel hérna. - Nei, ég sæki í burtu ef ég get fengið alminnilegt brauð..-- Tímirðu ekki að ríða djöflinum gráa, hann hefur þó öll beinin til að bera þig. Sko, sá grái minn batnar alltaf. Hann er ævinlega bestur seinast."

"Ég vil ekki drepa Frosta að gamni mínu."

Séra Guðni hleypti á roksprett. Sækja burt... ætli honum gangi svo vel að verða kjörprestur... jú, það getur lukkast... En að kjósa annað eins svín.- Þórarinn hleypti á hvínandi stökki á eftir, reið fram fyrir prest og linaði ekki fyrr en prestur kallaði:

"Ætlarðu að drepa hestana. Þú ríður eins og djöfullinn; við erum rétt komnir heim -- Ekkert liggur á, þú hefur nógan dag heim, held ég."

"Þeir stilltu, prestur saup greinilega á flöskunni, og í þetta sinn var Þórarinn með. Spölinn sem eftir var heim að Kirkjubóli riðu þeir hægt. Prestur bauð Þórarni að þiggja kaffi og fá hey handa hestinum. Þórarinn fann að réttast var að halda strax heim. En Frosti þurfti þó að fá hey. Ekki var nú svo langt fram að Brú. Hvað um það Þórarinn þakkaði og þáði boðið. Hestarnir voru látnir inn og gefið. Þórarinn áminnti um að kemba þá vel og brynna þeim ekki fyrr en að ofurlítilli stundu liðinni.

"Hvaða bölvaðar firrur. - Sá grái minn stendur sig ekki verr þó ég brúki ekki þessa sérvisku og kenjar."

"Jæja."

Báðir gengu til baðstofu, það var ekki laust við að séra Guðni reikaði þegar hann gekk inn í húsið til Sigríðar. Hann heilsaði báðum með kossi. Þórarinn klappaði á kollinn á drengnum og rétti Sigríði höndina. Hún náfölnaði við komu þeirra, og gekk strax fram til að sjá um kaffið. Það var sterkur hiti í húsinu prestsins. Þórarinn sat á stól, prestur hallaði sér upp í rúm þegar búið var að draga af honum reiðfötin. Hann drabbaði um hitt og þetta, svo fór að drafa í honum.

Þegar Sigríður kom með kaffið var prestur steinsofnaður og Þórarinn búinn að hagræða um hann í rúminu. Sigríður setti kaffið á borðið og bað Þórarin að gera svo vel og drekka fyrir þá báða. Sjálf tók hún við barninu af stúlkunni, sem hafði passað það. Þórarinn drakk kaffið. Prestur svaf og hraut og skar hrúta nokkuð stórkostlega. Þegar Þórarinn var búinn gekk hann í innra húsið, þakkaði fyrir kaffið. Sigríður leit upp, andlitið var þrútið og augun rauð og döpur:

"Þér líður ekki vel."

"Finnst þér von til þess?"

"Nei.... Get ég nokkuð hjálpað þér?"

Þórarinn laut niður að henni, líklega svo að hún heyrði betur, því hann var heldur lágmæltur og ekki skýrmáll. Barnið var sofnað, Sigríður lagði það í vögguna.

"Hjálpaðu mér til að losast, -- ég get ekki lifað við þetta."

Þórarinn settist á stólinn.

"Ertu staðráðin í því að .... - getur ekkert lagast?"

"Þú getur séð það sjálfur."

"Það, sem ég get... ég vonaði að það mundi lagast. - Þið hafið barnið.. er það ómögulegt?"

"Að sitja í þessari lygi.. Áttu við það?"

Sigríður hvessti augun á hann. Þórarni varð rýmra um málið, hvað sem til þess kom.

"Skrifaðu þá Rænku og segðu það sem þér finnst, við skulum gera eins og við getum."

"Þakka þér fyrir."

Sigríður var svo óskýrmælt að Þórarinn skildi ekki fyrir víst hvað hún sagði. Hún gekk út að glugganum og horfði út. Þórarinn tók loðhúfuna sína, sneri henni milli handa sér. Það var grafarkyrrð í húsinu.

"Það er komin mokandi hríð og kóf."

Þórarinn gekk út að glugganum; þau stóðu hvort fast hjá öðru, handleggur og hönd hans komu við bakið á henni; rétt kom við. Þórarinn fann andardrátt hennar heitan og titrandi strjúkast við háls og kinn.

"É-g r-a-t-a h-e-i-m."

"Farðu ekki.. Það kemur stórhríð í nótt."

"Ég er viss, og Frosti þó vissari og færið so..."

"Ó! f-a-r-ð'-e-k-k-i."

Sigríður lagði sem snöggvast höndina á handlegginn sem hann studdi í gluggakarminn ofboð létt og laust. Húfan datt úr hinni hendinni. Það suðaði fyrir eyrunum, - og gegnum niðinn þessi töfrandi ómur. Og. -

"Sigríður."

Þórarinn lagði höndina yfir mittið á henni og dró hana að sér, fyrst gaf hún ekki eftir. Allt í einu kastaði hún sér að brjóstinu á honum. Þórarni lá við að rasa. Eitt andartak, fast og logandi. Enginn heimur nema húsið sem leið með þau í loftinu.

"Í-hi, Íhi."

Barnið hrein og fálmaði höndunum.

"Guð almáttugur."

Sigríður sleit sig lausa.

"Má ég so ekki far-a-a. - Í Guðs bænum lofaðu mér að fara."

"J-a-á. O-g Guð h-j-a-á-l-p-i- o-o-k-k-u-r."

Þórarinn beygði sig eftir húfunni, rétti Sigríði höndina. Ekkert orð, bara marrið í tönnunum á honum. Svo tók hann snöggt að sér höndina.

Barnið þagnaði fljótlega, Sigríður stóð við gluggann og horfði út. Líkt og vængjastórum fugli bregður fyrir í ljósbjarma seinustu dagsbirtu brá þeim Þórarni fyrir í hríðarkófinu, grádimmt og iðandi að líta út. Sigríður hneig niður á stólinn.

Hríðin hvein og suðaði, iðaði og bylgjaði til eins og reykur úr eldhússtrompi þegar golan þyrlar honum um leið og hann smýgur út. Það reif rétt ofan fyrir hestfæturna og glórði í stein eða þúfu eða svellglotta um leið og þeir fóru á það. Þórarinn lét klárinn fara allt hvað af tók. Var óhræddur að þeir mundu hafa sig heim undan veðrinu. Varð var um að hann fór um túnið á Brú og ætlaði nú að stefna vetrarleiðina heim. Nokkur lausamjöll hafði verið áður þar fram í dalnum. Það var farið að draga svo í skafla sums staðar, að klárinn hafði umbrot. Svo lentu þeir í einum skaflinum; Þórarinn stökk af baki og teymdi yfir hann; þá tók við melur. Þórarinn fór að gæta að; honum fannst það mundi vera Hrafnhóll; hann er nokkuð nær Brú en Hamri og rétt við vetrarveginn. Um leið og hann steig í ístaðið, heyrðist honum vera kallað, hann stóð við og hlustaði, aftur var kallað, nú var það víst, og helst í norðvestri fannst honum. Frosti barði framfótunum á víxl niður í frosinn melinn, rak hausinn í Þórarin og hratt honum til. Um leið og Þórarinn snaraðist á bak rauk klárinn á stað, það var aflraun að stöðva hann, en lukkaðist þó. En Frosti vildi ekki fara afleiðis á móti hríðinni. Tvisvar hvatti Þórarinn hann, en hann fór ekkert; svo rak hann svipuólina á hann; hesturinn reis á afturfæturna, saup hregg og þaut beint í bylinn. Það rumdi í klárnum þegar hann stökk snjóskaflinn sem tók upp á síður; svona gekk spretturinn um stund. Þá gat Þórarinn stillt, fór af baki og kallaði nokkrum sinnum; ekkert svar nema öskrið í veðrinu. Hann fór annan spölinn, kallaði aftur, þá var tekið undir, hann hélt áfram að kalla og reið á hljóðið; litlu seinna rakst hann á mann sem stóð undir stórum steini. Það var Björn í Brekkukoti; það stendur austanvert í dalnum og er næsti bær sunnan við Brekku, en hún stendur gegnt Brú, Brekkukot stendur nokkru sunnar en Hamar sem er líka að vestanverðu. Björn var þá átján ára, heldur óhraustur og ekki harðnaður enn; fötin voru ekki sem skjólbest; hann var vaxinn upp úr þeim. Þennan dag hafði Björn komið vestan yfir heiði og ofan að Gili; skammt fyrir sunnan Gil brast hríðin á hann. Fyrst hélt hann undan veðrinu og ætlaði að ná Brú, en misheppnaðist það; fór þá að snúast og leita að bænum, við það tapaði hann áttunum og kjarkinum. Þá rakst hann að þessum steini og settist þar að, nú það fyrsta fór hann að kalla. Hann var orðinn gegnkalsa og ætlaði að fara að leggja sig niður undir steininum, þegar hann heyrði köllin. Þórarinn klæddi sig úr yfirfrakkanum og dreif Björn í hann, setti upp á hann sína vettlinga, en hafði sjálfur vettlinga sem voru í vasa hans. Eftir það dró hann pelaglas með spíritus í, úr jakkavasa sínum, tók tappann úr, rak stútinn upp í Björn og sagði honum að súpa dálítið á. Setti á höfuðið á Birni loðhúfuna sína en lét sjálfur upp pottlokið hans. Með annarri hendi teymdi Þórarinn Frosta en með vinstri hendi leiddi hann Björn; fyrst þurfti hann að hálfdraga hann, svo fór að liðkast um ganginn, Þórarinn píndi hann til að hlaupa. Litlu seinna sagðist Björn ætla að springa af mæði. Þórarinn skipaði honum að halda í ístaðið og styðja sig við hestinn. Svona fóru þeir um stund þangað til þeir komu að svelli; þar datt Björn; hann sagði þegar Þórarinn reisti hann á fætur að sér væri að verða illt af mæði. Þórarinn kastaði honum á lendina á Frosta en settist sjálfur í hnakkinn. Það hlaut að vera Kvíamýrin þetta, þeir voru þá bara heldur ofarlega. Frosti fékk að ráða, hann fór í einum spretti suður í holtin, þeir vissu ekki fyrr en klárinn fór að hoppa, til að geta haft sig áfram í skaflinum, þá valt Björn af. Eftir það mátti Þórarinn halda honum við á hestinum með annarri hendi en aftra Frosta frá að rjúka á sprett með hinni og hlaupa það sem hann gat. Þeir rákust á hesthúsið sem Frosti var hýstur í. Þórarinn keyrði hestinn inn með öllum reiðtygjum en Björn varð hann að bera heim. Allir voru sofnaðir á bænum. Þórarinn fór upp á glugga og kallaði til Rænku. Rétt eftir kom hún fram; Þórarinn bað hana að mjólka kýrnar handa þeim; sjálfur fór hann með Björn inn í hús sitt, klæddi hann úr og lét hann hátta í rúminu sínu. Ragnheiður kom með mjólkina, Björn drakk teyg af henni, og þau hlúðu sem best að honum að þau gátu.

Þórarinn fór með mjólkursopa í fötu og aðra með vatni í. Snjókornin stungu hann í andlitið, og frost og veður bitu í nefið, eyrun og kinnbeinin, ertu skapið svo hársárt, að það var ómögulegt að hafa hemil á þolinmæðinni, Þórarni varð því skapfátt þegar hann rak sig greinilega á hesthúsvegginn; það voru engin blessunarorð sem hrutu fram úr honum í það skiptið. Frosti kumraði við og drakk mjólkina. Þórarinn spretti af og lét reiðtygin upp í hlöðu, og það var ætileg töðutugga sem klárinn fékk innan við þvertréð í húsinu. Þórarinn kembdi og neri, strauk og klappaði. Taðan svarraði undir tönnunum; hesturinn velti til höfðinu og renndi tuggunum niður einni eftir aðra; teygði sig við stallinn, og frýsaði, saup svo á vatninu, rétti hátt höfuðið, sveigði niður hrygginn, teygði úr sér sem best og hristi sig, svo drundi í skrokknum.

"Aumingja Frosti minn... Blessuð skepnan... Fallega skilaðirðu mér heim ennþá... Það var engin hætta á því... - Bölvað svín er Guðni... Of fast kembt, aumingja karlinn.... og ég sjálfur... hleyp eftir því sem tilfinningin bendir.... Veslings, elsku... Hægur! Hægur, nú, nú, klártetur, ég vil ekki gera þér neitt illt... hæ! hæ!.. vil ekki." - Þórarinn skellti aftur hurðinni svo hrikti í dyrabúnaðinum, hespaði og byrgði vandlega dyrnar.

Þegar þeir fyrstu fóru á fætur um morguninn kom Þórarinn sunnan og neðan túnið, hann hafði hlaupið yfir að Brekkukoti þegar veðrið lægði klukkan að ganga fimm. Það var norðvestan stormur með frosti og dró renningsskrið eftir fönnunum, en bjart veður og heiðríkt að öðru en þokuflókum hér og þar í norðrinu. - Eftir skatttíma sendi Þórarinn einn vinnumanninn út að Kirkjubóli eftir hnakktöskunni sem eflaust var á bita í bæjardyrunum, hann hafði alveg gleymt að binda hana við hnakkinn í gærkvöld. Vinnumaðurinn fór líka með forsiglaðar bækur til Sigríðar. hún bauð manninum inn, flýtti sér inn í húsið sitt og braut upp bækurnar. Jú, það var ein póstpappírsörk saman brotin í "Paa Guds Veje" og þar stóð:


"Fyrirgefðu. Ó, fyrirgefðu. Lestu bækurnar með ró, og hugsaðu vandlega hvað í þeim er.

                    Þórarinn."


Hin bókin var "En Malström" eftir Lie. - Barnið og Sigríður sváfu um daginn líkt og tveir erfiðismenn eftir þerridag á sumri, þegar skín upp eftir kólgur og rigningar.

Björn í Brekkukoti var lasinn eftir ferðavolkið. Hann var skinnkalinn á eyrum, kinnum og nefi, og á úlnliðunum; þrekaður og laminn af hríðinni. Vikutíma var hann á Hamri, þá var hann orðinn nokkuð frískur. Þórarinn fylgdi honum heim. Upp frá þessu, hélt Björn af engum manni eins og honum; hélt ótvírætt að Þórarinn ætti ekki sinn líka með dáð og drenglyndi. Bókstaflega trúði á hann.

Sigríður skrifaði ekki Ragnheiði. En þegar bækurnar komu aftur frá henni, braut Þórarinn þær upp í snatri; og las titrandi af geðshræringu:


"Vinur minn!

Ég hef ekki meira að fyrirgefa en þú, og ég vona, að þú verðir eins fyrirgefningarfús og ég er. - En við þurfum bæði að gæta okkar betur framvegis. Bækurnar hafa verið mér til yndis og dægrastyttingar. Ég held ég skilji báða höfundana, og hef reynt að vera svo róleg sem ég get þegar ég hef lesið og hugsað um þær. Ekki að ég taki "En Malström" framyfir, en það er nú samt svo, að ég get ekki varist tárum þegar ég les um lífsraunir þeirra Marianne Borg og Ferdinand Wieses; skilnaður þeirra læsir sig eins og eldur um mig. Það er þessi skilnaður, Þórarinn, sem mér sýnist þurfa.

Þú hefur reynst mér eins og besti bróðir þegar ég átti bágt. Getur það ekki orðið framvegis? Besti bróðir minn, það eru svo fáir að leiðbeina mér og hjálpa, ég sé enga nema ykkur systkin, og kannski ekki nema þig.

                   Þín systir

                   Sigríður."

Þórarinn hafði nóg að hugsa dagana á eftir. Það var við að búast að Sigríður tæki það svona. Hvað átti hann svo að gera. Hvað lá fyrir Sigríði ef hann færi burtu - eitthvað langt burtu - til Ameríku? Nei, það var ekki til að hugsa, að flýja eins og bleyða, eða.... Svefninn vildi ekki koma, og ef það sé að honum, voru draumórarnir geigvænlegri en vakan. Þriðju nóttina skrifaði hann:

"Elsku Sigríður.

Ég hef einsett mér að segja í þessu bréfi sannleikann, - hvað sem á eftir kann að koma. Ég treysti mér hreint ekki að vera bróðir þinn; er búinn að velta því svo fyrir mér og skoða það; ég verð að lokum að játa, að ég er ekki sá garpur að þora að ganga á hólm við eigin tilfinningu, eins sjóðandi og hún er.

Það var nú svo, að ég elskaði þig þegar þú varst að læra hjá mér, ég fann að þér datt það ekki í hug, - hefur líklega aldrei grunað það, - ég vonaði samt að ná ást þinni með tímanum; ætlaði að bíða og vera þolinmóður. Svo fór allt eins og þú veist - Ég gat ekki gleymt þér og baráttan við sjálfan mig hefur slitið meir kröftum mínum, en ég hélt; nú það fyrsta rek ég augun í það. Ógæfan steyptist yfir þig, og þegar ég fann að ýmsar skoðanir sem hjá mér höfðu þróast og vaxið í einveru og kyrrð að heita mátti, vöktu í huga þínum líka, - ég átti varla von á því, en ég fann það samt -. Og svo, að það sem ég hafði einu sinni þráð með brennandi blóði, en nú bæði þráði og hræddist, það var þó ef til vildi ekki draumur né hugarburður. Þá varð tilfinningin sterkari en skynsemin. Þú veist sjálf, hvernig fór, ég gat ekki stjórnað mér. Það er hart að tala um svona sannleika, en ég er þó skyldugur að játa hann. Góða Sigríður, ég elska þig með öllu afli tilfinninga minna, þú getur ekki trúað hvað blóðið í mér er brennandi heitt; hvað ég á oft mikið stríð að ráða við sjálfan mig. - Og enn eitt, - ég get ekki minna sagt - ég er fríþenkjari. Ef þú treystir þér til, þá finnst mér þú verðir að skilja við manninn, mig óar við að þú lifir í þessu hjónabandi; hræðist það fyrir okkur bæði. Umfram allt máttu ekki láta skáldlega meðaumkunardrauma villa þér sjónir. Það sem þú hefur þrek til, og það sem þú þráir sjálf, verður að ráða öllu um stefnu þína. Ef til vill blandar eigingirni sér ósjálfrátt með hjá mér, þó ég ætlaði að forðast það.

Mér finnst við gætum bæði barist og þolað sár og mannraunir, með þeirri von að ná sigri og friði á endanum, hvar sem friðlandið svo yrði. Ég treysti aðeins tveimur mönnum. Steinari og Ragnheiði systur minni; allir aðrir bera víst vopn á okkur; samt vita þau ekkert ennþá.

Ég vona eftir svari frá þér bráðum. Treysti mér ómögulega til að vera sem bróðir; mér verður fallhætt ef ég reyni að ganga þá götu. Mér finnst ég geti aldrei lifað rólega stund ef ég má ekki vera þinn elskandi "

                   Þórarinn.


*

Vorsólin björt og brennandi vakti sumargróðann af svefni og dái. Blómin lyftu döggvotum kollinum á móti morgungeislunum, rugguðu sér í andvaranum ánægð og sæl, uxu og þróuðust daglega. Barrknappar hnöttóttir og smáir komu á fjalldrapann, svo eftir eina rigningarskúrina breiddust blöðin út á móti sumarblænum, dimmgræn, heilbrigð og æskukát, rugguðu sér á hríslunum eins og þau væru að leggja á stað út í heiminn til að skemmta sér og njóta lífsins. Hlíðarnar urðu þann dag grænflekkóttar með ýmislega litar stjörnur, gular, rauðar, brúnar, grænar, hvítar, bláar, og allar fóru þær svo vel í skrúðábreiðu dalshlíðarinnar; það var náttúran á vordegi, þrungin af frjósemi og lífi.

Fuglarnir sungu og kvökuðu allan liðlangan daginn og mest af nóttinni líka, elskuðu einungis eftir eðli sínu, án þess að hugsa um annað en sælu og munað líðandi tíma. Náttúran var lögmál þeirra, og enginn fjötur né farg hvíldi yfir þeim sem fastur arfur, né viðtekin prýði framan úr fornaldar tímum; engar kreddur með kúgandi afli myrkvuðu heiminn fyrir þeim, þeir voru sælir og heilbrigðir, ástfangnir og ánægðir, frjósamir og saklausir. Hestarnir reistu höfuðið; vorgróðinn svall í þeim með óstöðvandi fjöri, þeir brokkuðu hástígir og léttfættir nokkra faðma, brugðu undir sig höfðinu og þutu stökkvandi á stað, skutu afturfótunum snöggt og hart afturundan sér nokkrum sinnum; brokkuðu aftur svo hófadynurinn dundi í grundinni, stóðu kyrrir, hnarreistir og hýreygir, sperrtu eyrun, veltu snöggt til höfðinu, teygðu það fram og blésu frá sér hvínandi stroku nokkrum sinnum með nösunum. Kýrnar renndu hægt augunum mildum og dreymandi, dingluðu til eyrunum og slöfruðu grængresið. Lambið kraup á knjánum, saug móðurina og dillaði rófunni, ærin stóð jórtrandi, þefaði af því öðru hvoru, nasaði svo út í loftið eftir gróðuranganinni; var hjartanlega ánægð yfir lífinu og lambinu sínu, hafði enga óuppfyllta þrá sem hjó skarð í lífsnautnina.

En Þórarinn á Hamri var ekki í rólegu skapi þar sem hann stritaði í kálgarðinum sínum; svitinn rann eftir honum, andardrátturinn var tíður og þungur af áreynslunni. Hugurinn snerist sífellt um það sama, hann sundlaði við hringsólið kringum þennan sama miðdepil; gat engin úrræði fundið sem friðuðu hann, svo sem hann þó langaði til þess. Hvað hann var líka orðinn heimskur....: "Þetta ár finnst mér ég varla geta byrjað stríðið, og þó er lífið hér alveg dautt og rotið... ég er þér alveg samdóma en vantar kjarkinn... Mig sundlar við að hugsa um lífið eins og mér sýnist það horfa við. Viðtektirnar liggja á hálsi mér eins og myllusteinn... Ég elska þig samt, Þórarinn, og hef aldrei elskað fyrri, bara ímyndaði mér það... Þó það sé óviðkunnanlegt þá er það satt, að hugurinn er ævinlega hjá þér og ég get ekki bundið hann við barnið nema stund og stund. Ætli ég sé kaldari en aðrar mæður? Eru mínar tilfinningar óstjórnlegri en annarra?... Móðurástin er látin sigra allt; annaðhvort er ég þá undantekning frá reglunni, eða kenningin er eitthvað bogin..." Jú, Þórarinn kunni það allt. Það fer beint á höfuðið og við bæði.. ég get ekki snúið aftur, er búinn að tapa sterkasta aflinu... Bara ég mætti berjast við einn eftir annan, ganga opinberlega á hólm við slendríanið og tálmanirnar.. Fyrir okkur bæði.. Eins og það sé hægt... Það drepur molluloftið að tarna... Verðum samferða öðrum lygurum... Fallegt að vera með í lestinni.. Nei, það geri ég aldrei, þá er þó skárra að...

"Dreptu þig ekki, Þórarinn, mig langar ekki so mikið að fá séra Guðna fyrir forseta í staðinn, og það verður þó ef þú djöflast sona."

"Engin hætta á því, ég ætla mér af."

Þeir heilsuðust.

"Ég kem strax aftur, við skulum flatmaga okkur hérna á vellinum meðan heitt er."

"Gaman hef ég af að liggja þegar veðrið er þægilega hlýtt, eins og lati Hrólfur sagði."

Þeir lögðust á hól í túninu, Þórarinn stakk upp á því. Spjölluðu fyrst um hesta, það teygðist furðanlega úr talinu, því báðir höfðu gaman af þeim, og Steinar átti stríðfola brúnan, efnilegan. Þórarinn gat alltaf verið að spyrja eftir honum. Rænka kallaði og sagði að kaffið væri til.

"Kondu með það til okkar, ég hef meira gaman af að drekka það hér."

Hún kom með kaffið og brosti við þegar hún sagði:

"Skárri eru það nú keiparnir í ykkur."

"Þórarinn er að verða fullur með kenjar, hefði hann verið hestur skyldi ég hafa þaulriðið hann, nú er ég í standandi vandræðum hvað ég á að gera."

"Drífa búskapinn."

Blóðið stökk fram í andlitið á Steinari.

"Eins og vant er, Rænka;- sá veit gjörst er reynir."

Þeir drukku kaffið. Steinar þakkaði báðum fyrir. Litlu seinna fór Ragnheiður. Samtalið vildi ekki loða saman.

"Hvað so Þórarinn? Hvað vildurðu annars segja?"

"Ekkert sérstaklega."

"Jú. það er þó. - Heldurðu að ég þekki þig ekki neitt."

"Ekki ofan í kjölinn."

"Nei -- en Sigríður, er það ekki nærri kjölnum?"

"Hvað.-- Því segirðu það?"

"Litaraft gott,- svo að ég þó strái orðum úr fornsögunum með."

"Já, það var líka einmitt það sem ég ætlaði að tala um við þig...

"En gast ekki fengið þig til?"

"Ekki almennilega."

Þórarinn sagði Steinari ágrip af högum þeirra, ekki mjög ýtarlega samt;- það gerir enginn maður - en nóg fyrir Steinar.

"Látið þið nú sjá að þið séuð menn og drífið það áfram."

"Það er ekki so hægt."

"Ég veit það, það er ekki eins hægt og að drekka nýmjólk; ekki þarf nú heldur að eggja menn mjög fast til þess."

"Mér finnst það erfitt og Sigríði þó meir."

"Kvenfólkið er so ónýtt, allur þróttur og sjálfstæði hefur verið drepinn hjá þeim frá ómuna tíð. - Það er orðið meðfætt eðli þeirra að hræðast allt."

"Ég er nú á því líka, að kvenfólkið sé lamað, en það bætir ekkert úr."

"Hérna í dalnum eru það bara þær Rænka og Sigríður sem hafa grun um þessi andlegu umbrot sem ganga um heiminn, og loksins eru farin að snerta við stöku manni hér. Þeim verður hætt við að kippast við, en betra en ekki er það samt."

"Er það ekki von?"

"J-u--ú. En ég skal segja þér; Sigríður hefur þó lesið so mikið um þess konar, að hún hlýtur að finna, að þú tekur með elskunnar rétti frá prestinum, það, sem hann hefur ekki metið að neinu og líklega í rauninni hefur aldrei átt. Og að þú stelur því ekki eins og huglaus þjófur."

"Ekki er nú trútt með það."

"Is-s. Þar hefur aldrei verið annað en band sem eiginelska og fals hnýttu utan um einfeldni og barnaskap, til að hafa í togi alla ævina; gerðu það náttúrlega í Guðs nafni eins og tilheyrði. En þegar einfeldni og hugardraumar æskunnar breytast til skoðunar og sjálfsvilja. - Blessaður expastor minn, kubbaðu þá bandið um þvert, og vert' ekki að skjálfa og fölna."

"Við getum ekki gengið hreint til verks samt."

"Nei, nei. -- En hvað er so orðið eftir af því hjónabandi þegar líklega bæði þrá annað, - hann að minnsta kosti girnist, það leynir sér ekki... jú, hættan og hrösunin, og kunnáttan að stelast að því forboðna, ljúga og drepa sinn eigin manndóm. - Ég þyrði að staðhæfa, að hann er, að Guðs og manna lögum, búinn að splundra því. Þá er að hjálpa þeim, sem óréttinn þolir."

"Það getur verið, en ekki er hægt að sanna það.. Og við erum ekki hvítari fyrir það þó við sýnum hann sé svartur."

"Lengi getur vont versnað, - ég er hræddur um að þið hafið ekki ábata á biðinni eða að láta líða sona um dal og hól. Þegar blóðið í þér er komið í suðu ábyrgist ég þig ekki; og það er ekki jökulvatn í æðunum á henni Sigríði; það veistu sjálfur."

"Fara þó að róa undir, og reka Sigríði í orustuna, hafa sjálfur ánægjuna af að horfa aðgerðarlaus á."

"Þið hlaupið ekki hvort sem er hlæjandi frá því. -- Hún berst fyrir sig og þú getur gefið henni styrk og stoð og að lokum friðland og sæla hvíld."

"En að slíta nú allt saman."

"Og þú farir langt, langt í burtu, það hefur heyrst fyrri."

"Já."

"Hefurðu hugsað hvernig Sigríði mundi þá líða. Hvað fyrir hana getur stigið.. Ef hún nú lenti á villigötum bæði með prestinum sínum og...."

"Haltu kjafti eða ég skal...."

"Þórarinn, við skulum ekki berjast eins og þegar við vorum strákar, ég ber aftur, ég finn það á mér. Og ekki víst að við sættumst með brauði og sykri, af því við erum hættir að vera börn. - Það hefur margur góður maður farið sona í hundana. - Hvað mörg tár heldurðu að Sigríður felldi áður en so væri komið?"

"Ég get ekki hugsað... þoli það með engu móti, síst að heyra aðra segja það.- Ég hef líka litið á þetta allt.- En ég er so hræddur að Sigríður þoli það ekki."

"Fyrr er dapur en dauður. - Menn deyja ekki síður í baðstofureyk en striti og baráttu. - Hvað er annars híbýlaglatt hjá henni núna?"

"Veit það, hefði sjálfsagt þurft að tala við hana. - So kemur umtalið, við þekkjum, að það er ennþá meir drepandi fyrir þær en okkur."

"Af því þær eru veikari, það er ævinlega léttara að ráðast þar á. Þær hafa af skáldunum verið settar í hugsjónina eins og englar. Þvert ofan í lífsreynsluna, en hvað dugar hún móti sona fallegri lygi. En það má ekki sviðna fjöður á þessum englavængjum, þá reytir hver sem getur hverja mannorðsfjöður af. Gera þær að föllnum englum, að djöflum. - Okkur líka, en við spörkum á móti, það hjálpar ekki so lítið.-- En ég hugsaði þú værir ekki orðsjúkur."

"Ég vildi forða Sigríði frá því."

"En ég er hræddur þú getir það ekki."

"Bíður sona fyrst."

"Veit Rænka þetta?"

"Nei, - ég get ekki fengið mig til að segja henni það."

"Hún étur þig þó ekki."

"Það er nú aðgönguhart samt."

Þeir töluðu ennþá um stund. Þá rétti Steinar Þórarni höndina og fór. Hann gekk í hægðum sínum út fyrir ofan göturnar. - Það dugar ekki annað en herða á honum... Þegar svona er komið, er það þó það eina... Ég hef aldrei vitað Þórarin vanta kjark fyrri... Sigríður dregur hann úr honum ef allt lognast... Annaðhvort að hrökkva eða stökkva... Náttúrlega á Þórarinn að stökkva... Gæti ég þetta sjálfur.. ég er so huglaus, - helvíti huglaus - og á rassinum... já, greinilega á rassinum... Það er ekki nema það eina strik en það er líka bæði langt og feitt.. Alveg nóg... En Þórarinn er ekki á rassinum í neinu tilliti; hann verður að geta það... Hann má ekki fara í hundana... Ég þoli það ekki. Steinar kastaði sér niður á þúfurnar og lá þar um stund; þegar hann stóð á fætur aftur var hann skjálfandi, eins og það væri vetrarnepja úti, og tekinn til augnanna. Hann gekk hægt og hægt heimleiðis. Þegar hann kom út hjá Hrafnhól fór hann að raula með lágum, drynjandi bassaróm ferskeytta vísu; það heyrðust lítið orðaskil; aðeins þetta: "Manna vin, merðu hið arma þussakyn."

Sumarið leið fram í 16. viku sumars. Þau Þórarinn og Sigríður höfðu sést tvisvar á mannfundum en ekki talast neitt við og heldur sneitt hvort hjá öðru. En séra Guðni kom ævinlega við á Hamri þegar hann messaði fram á Bakka, var vanalega kenndur eða þá fullur þegar hann kom að framan. Þórarinn varð að sætta sig við að hann tefði tímunum saman og skeggræddi við hann, eða þá spaugaði við Ragnheiði og gæfi henni hýrt auga. Blóðið sauð í Þórarni, og þó sá hann að systir hans var svo sérlega skilningslítil og óbrosmild við klerkinn; Þórarinn sagði heldur ekkert orð í þá áttina, var bara nokkuð fár í viðmóti. Vanalega fór svo séra Guðni að slá sér á ról fram um bæinn; að finna gamla Þórstein og vita hvað flöskunni hans liði; spjallaði við vinnufólkið út um heima og geima þar sem hann hitti það; var bæði gamansamur og viðkunnanlegur að því þótti. Séra Guðni hafði gaman af að tefja á Hamri en var þar þó ekki nema stöku sinnum náttlangt, og aldrei að sumrinu til.

Heyverkin gengu vel um sumarið, tíðin var sérlega hagstæð; heyaflinn varð mikill á Hamri, fólkið var margt og skörulega fyrir verkum sagt. Þórarinn var vanur að ganga sjálfur til sláttar og allrar heyvinnu, hann hafði vanist því í uppvextinum og kunni ekki við sig heima við bæ aðgerðarlaus, þegar aðrir unnu heyverk. Það sást svo lítið þótt einn maður væri lítið eitt ófrískari en vant var, Þórarinn gat ekki gefið því neinn sérstakan gaum; svo Ragnheiður varð loksins til að segja honum frá því að Gunna gæti ekki gengið út eins og hinar stúlkurnar.

"Já, hún er víst eitthvað lasin í sumar, þó hún beri á móti því."

"Sérðu það ekki maður, hvað er?"

"Nei."

"Nú, hún er vanfær, og það dugar ekki, að hún gangi sona á engið."

Þórarinn varð hissa.

"Það er satt, ég ætlast til, að þú ráðir sjálf úr því."

Systkinin slitu talinu, bæði hugsuðu það sama en hvorugt sagði nokkuð.

Sigríður fór fram á Bakka á laugardaginn, að finna föður sinn; hann var oft búinn að ítreka það við hana að koma; hún kom ekki við á Hamri á frameftirleiðinni, en þegar hún fór til baka á sunnudaginn reið hún heim, Ragnheiður var úti og bauð henni inn, vildi helst hún yrði nóttina, en Sigríður sagðist lítið mega tefja. Hjálmari litla færi að verða mál á að hún kæmi heim, hún var eitthvað undarlega óró og fölleit, leit hvað eftir annað framan í Ragnheiði eins og hún væri að gæta að hvort hún væri nokkuð breytt - Þær höfðu heldur ekki sést um sumarið; svo það var ekki til að furða sig á því. Ragnheiður fylgdi henni inn í hús sitt; Þórarinn sat þar og var að blaða í bók, en spratt upp af stólnum þegar þær komu inn; þau heilsuðust en hvorugt leit framan í annað, svo tóku þau sér öll sæti, Ragnheiður fór að spyrja hins og þessa, samtalið komst á stað.

"Ég þarf annars að gæta að hvað kaffinu líður."

Ragnheiður fór fram. - Þórarinn stóð á fætur, gekk að hurðinni og læsti, svo gekk hann nokkrar ferðir um húsgólfið, settist aftur á stólinn og reyndi að blaða í bókinni, hætti við það, tók hnífinn úr vasa sínum, lagði hann bara á borðið, tók hann ekki einu sinni opinn. Þau sátu sitt hvoru megin borðsins; það heyrðist ekkert nema tveir tíðir og titrandi andardrættir; eins og þeir væru að reyna hvor þeirra væri fljótari. - Svo hreyfði Þórarinn sig örlítið á stólnum, Sigríður hrökk við, bæði litu upp, þau störðu hvort á annað, hvorugt gat slitið augun burtu, þau teyguðu augnamunaðinn, eins og þyrstur maður svaladrykk; gerðu sér ekki grein fyrir öðru en andartakinu og sjóninni; svona liðu nokkur andartök, þá rétti Þórarinn fram báðar hendurnar:

"Sigríður -

"J-a-á."

Hún rétti líka báðar sínar hendur á móti; litlu hvítu hendurnar hennar luktust titrandi í stóru sterklegu höndunum hans; gráu augun með móleita kembingnum í dökknuðu við að stara í móbrúnu augun sem sýndust svört þá stundina.

"Elskarðu mig?"

"J-a-á."

"Geturðu þá kysst mig?"

Bæði stóðu hljóðlega á fætur. Einn brennandi koss, langur og ekkert hljóð.

"Á ég svo virkilega þessar hendur, er það áreiðanlegt?"

"J-a-á."

"Við skulum koma upp í mitt hús."

Þórarinn lagði vinstri handlegginn yfir mittið á henni og hallaði henni að sér, en hélt með hægri hendi þétt um hægri hönd hennar; Sigríður lét hann alveg ráða; þau settust á hvílubekkinn hvort hjá öðru. Allt í einu lagði hún báðar hendur utan um hann, þrýsti sér að brjósti hans og hvíslaði; rétt að hann gat heyrt það:

"Þórarinn, elsku góði."

"Ég get ekki lifað án þín, elsku vina - Og þú?"

"Ekki heldur,- hjartans vinur."

"Þá byrjum við stríðið í vor."

"Ég -- þú getur ekki barist við hlið mér -- það er ómögulegt."

"Mín barátta verður nú samt ekki léttari -- ég get þó gefið þér huggun og hjálp, og hjá mér áttu víst friðland."

"Ó, að við mættum deyja sona."

"Það væri sæll og léttur dauði -- en það verður ekki."

"Nei -- en hvað ég hræðist að hugsa um stríðið; allir verða á móti okkur."

"Ekki Rænka og Steinar."

"Það er nú lítið -- og so pabbi og foreldrarnir þínir."

"Ég veit það -- eigum við þá að skilja og sjást aldrei framar?"

"Mér finnst ég geti ekki lifað það --- en ég hef ekki þrekið þitt."

"Það fer nú ekki svo mikið fyrir því. - Hvað ég skal elska þig, Sigríður; eftir stríðið kemur friðurinn."

"En ef Guðni gefur ekki eftir?"

"Hann skal mega til."

"So."

"Já, þú hefur sök á honum sem er fullgild."

"En hvað það er drepandi að þurfa þess, eins og við stöndum að vígi."

"Satt er það, en þó það eina sem við getum gert -- Elskunnar réttur er þó með okkur - ."

"En siðferðið á móti."

"Siðferðið - siðferðið sem alltaf hefur verið brotið og það so lúalega og lítilmannlega -- svíkja hjónabandið, en þora ekki að slíta það greinilega, það er gamla vísan. -- Við megum ekki guggna."

"En sú ógæfa samt sem fyrir okkur þurfti að leggjast."

"Þín ógæfa kvelur mig mest - bara ég gæti létt henni af þér."

Þau töluðu enn um stund og ráðgerðu, Sigríður varð rórri og ákveðnari. Þá var komið við fremri húshurðina; bæði hrukku við og stóðu á fætur, þau hröðuðu sér fram fyrir eins og þau gátu. Ragnheiður kom frá eldinum og var heit og þrútin og rauðeygð; enda er eldhúsreykur illur í augun.

"Gerið þið so vel, ég ætla að drekka með og vona okkur verði gott af."

Bæði litu til hennar og Sigríður svo innilega að Ragnheiði vöknaði um augu.

Eftir litla stund kvaddi Sigríður Þórarin þar inni, og það sem alltaf stóð lifandi fyrir augum hans voru augu hennar fljótandi í tárum. Hann gekk um gólfið í húsinu sínu, settist niður og á fætur aftur; en í hvert sinn sem hann settist á bekkinn, mændi gamli Vígi augunum á hann og sleikti á honum höndina, Þórarinn klappaði í hvert sinn, en Vígi var samt forviða og gat ekki áttað sig. Svo þegar Þórarinn settist niður og hallaði sér að bekkbakinu, þá stökk Vígi með framlappirnar upp á kné honum, stakk fast trýninu niður í hægri handarlófa hans og dillaði skottinu. Þórarinn klappaði og klóraði. "Aumingja Vígi minn, þú ert ævinlega eins tryggur. Okkur skilur ekkert nema dauðinn." Vígi brá sér leikandi fram á gólfið.

Ragnheiður fylgdi Sigríði og reið Frosta, þær riðu hægt fyrst og töluðu hljótt, þó þær væru tvær einar. Mitt á milli Brúar og Gils bauð Ragnheiður hestaskipti. Sigríður tók því fegins hendi, eftir það riðu þær sprettótt heim. Ragnheiður tafði um stund, gerði gælur við Hjálmar litla og sagði honum færi prýðilega fram. Sigríði rann líkt og kalt vatn milli skinns og hörunds þegar hún hugsaði um framtíðina og barnið. Seint um kvöldið fór Ragnheiður heim; og Steinar á Brú sagði við Þórarinn næst þegar hann kom, "að fyrst væri presturinn og so Rænka, með að ríða eins og djöfullinn," hann leit um leið hálfglottandi til hennar og kinkaði ljósjarpa höfðinu til, svo sveipurinn yfir enninu snerist hálfhring.

*

Veturnæturnar komu. Sigríður ætlaði sér á hverjum degi að tala við séra Guðna á morgun og svona dróst það dag frá degi, þangað til einn dag - prestur var í góðu skapi - þá fór hún að tala við hann. Leiddi honum fyrir sjónir að hjónaband þeirra væri svo dautt og rotið, það væri skylda þeirra að slíta það. Fyrst varð séra Guðna bilt við, en þegar Sigríður var búin að ná sér á að tala, jafnaðist blóðið - öllu var óhætt; það gat heldur varla verið. - Hann fór að tala um að hvað sig snerti þráði hann einlægt að hjónabandið gæti verið gott; hún væri svo dæmalaust þurr og köld, gæti aldrei fyrirgefið. Sigríður sagði það vantaði ást á báðar hliðar, hann yrði að játa það líka; nei, honum þótti alltaf vænt um hana. Því gat hann þá ekki hætt að drekka, fór ekkert eftir því sem hún óskaði. Hann var svo óánægður með lífið og hjúskaparólagið. Það gat vel verið satt að sumu leyti, en hann hafði brugðið loforð sín, hún gat ekki trúað honum lengur. Prestur vildi heldur búa svona saman, heldur en gera þann óþolandi "skandala að skilja," leiddi henni fyrir sjónir hvernig feðrum þeirra mundi líka það og þau væru bæði skyldug að gera þeim til geðs, báðir væru komnir á grafarbakkann, og gætu ekki þolað slíka raun. Sigríður var búin að hugsa um það allt, það var þungt, en hitt var þó enn verra, að halda við dauðu og ósælu hjónabandi, bara af þróttleysi og gunguskap við annarra dóma, láta umtalið halda þeim í lygi og hræsni, leyfa þeim að éta með sínagandi tönnum rætur manndómsins sundur og eyðileggja bæði. Það sagðist hún aldrei samþykkja. - Þau þæfðu um þetta daginn fram yfir nón, þangað til séra Guðni sagði:

"Fyrir stundarhrösun, sem ég svo oft er búinn að biðja fyrirgefningar á, viltu óvæg skilja við mig; það getur komið fyrir þig þegar minnst varir að þú skeikir líka, og þá finnurðu best hvað þrá og köld þú hefur verið við mig."

Sigríður hvessti á hann augun, hún dreyrroðnaði; ætlaði tvisvar að segja eitthvað, en stillti sig og sagði:

"Ég ætlaði ekki að lenda í illyrðum eða hrakspám, en þú finnur best sjálfur hvað þú stendur vel að vígi."

Presturinn bliknaði; en fór svo að smá slaka til, með allra mestu varkárni, vildi helst láta bíða svona fyrst óumtalað.

"Ég vona að fá að hafa barnið, það verður móðurinni eðlilegra að sjá um það, og so er hann so makalaust elskur að mér."

"Fyrst meðan hann er barn, þegar hann kemur til vits og ára, þá sleppi ég ekki mínum rétti. - En ég vona, að ekki þurfi til þess að koma, tíminn getur lagað þetta allt saman."

Eftir þetta samtal hætti séra Guðni að drekka eins ört og tímann á undan; hann veiktist líka og lá rúmfastur, að minnsta kosti einn dag, ef hann varð fullur. Eins áheyrilegur klerkur í kirkjunni og hann hafði verið fyrst, var hann ennþá, og aldrei liprari í framgöngu en nú. Fólkinu í dalnum þótti yfir höfuð að tala vænt um svona "góðan prest"; hann var auðvitað breyskur, en prestarnir eru líka menn, það má ekki heimta of mikið af þeim. Og svo var heimilishagurinn ekki sem þægilegastur; það var ekki að kynja þó honum yrði að fá sér hressingu við og við. Ekki fóru embættisverkin í ólagi fyrir það. Þess gætti sem ekkert þótt nokkrir menn í dalnum hefðu aðra skoðun á prestinum, þeir töluðu vanalega lítið um það og voru líka svo örfáir í samanburði við hina. Séra Guðni var nú hættur að tala nokkuð, sem benti til "trúleysis", það hafði ekki verið nema ungæðisháttur fyrir honum, engin alvara verið með það; menn voru hárvissir með að hann tryði eins og hann kenndi, fundu það svo glöggt á framburðinum og ræðunum og öllum prestsverkum sem hann gerði.

*

Rétt fyrir jólin fæddi Gunna á Hamri barn, það var vænn og efnilegur drengur og vel frískur. Menn voru lengi búnir að stinga saman nefjum hver faðirinn mundi vera. Steinunn á Gili og "bæjarstrokurnar" í dalnum, héldu að Þórarinn gæti átt það, "það er ekki betri sú músin sem læðist en hin, sem stekkur." Þær kunnu málsháttinn utan að og kunnu að beita honum. Steinunn á Gili var kona nokkuð feitlagin, greiðakona góð, og málreitin vel, bæði roskin og reynd. Séra Guðni átti eins víst brennivín á Gili þó Jón væri ekki heima, þau voru svo prýðilega sammála þau hjón, og Steinunn hafði fullt jafnrétti við bónda sinn í ráðagerðum og framkvæmdum. - Séra Guðni skírði drenginn, sem var látinn heita Sigurður, eftir afa sínum. Klerkurinn var ofurlítið vínhreifur um daginn, prúður og lipur í besta lagi. Þórarinn var nokkuð brúnaþungur og sagnafár; prestur gat ekki spunnið langar samræður við hann um daginn, Þórarinn setti bláþráð á fyrir honum með jáum og neium svo þurrum að þráðurinn hrökk. Séra Guðni tafði lítið eftir skírnarathöfnina, kom við á Gili og fór heim um kvöldið. Daginn eftir vissu menn, hver faðirinn var, það var Björn í Brekkukoti, ekki hafði samt farið hátt með samband þeirra Gunnu, og mörgum þótti ólán stíga fyrir fætur henni, að eiga "krakka" með Birni eins þroskaseinum og hann þótti, en Gunna hafði komið sér vel í vistum, var dugleg og fylgin við vinnu og verklagin; hafði verið kát og fjörug, nú hafði hún einn um tvítugt og fjör og gleði virtist vera komin á elliskeið. - Máske Björn hafi verið fenginn til að gangast við barninu; það læddist um dalinn eins og móða, undur hægt og kyrrt og meinlaust, menn depluðu augunum hver framan í annan til merkis um að þeir skildu, bæði þeir sem höfðu grun, og hinir sem engan höfðu, það var þó eitthvað skynsamlegra hugsuðu þeir.

Það er áður sagt að séra Guðni var lítill búsýslumaður, en þennan vetur hirti hann hestana sína þegar hann var heima, og hann fór lítið burtu; gerði það ofboð snoturlega og vel; fékkst líka dálítið við smíðar og var auðséð að maðurinn var vel hagur. Hann fór að líta eftir búnaðinum, sérstaklega um sauðfé. Þetta þótti allt benda til að hann færi að gefa sig meir að heimili og búi en áður og sýndist góðs viti.

Eina atrennu gerði séra Guðni enn með að telja Sigríði af fyrirætlun sinni; hann gat ekki fengið sig til þess nema að hressa sig áður; hann var ölhreifur en ekki fullur, byrjaði eins og hann var vanur fyrri, með drenginn, hvað hann væri að verða skemmtilegur og fallegur; föðurhjartað sló tíðar, blóðið rann hraðar, einhver viðkvæm, góð tilfinning streymdi með ró og ánægju um hann allan. Þegar honum fyrst fór að þykja vænt um drenginn, að sleppa honum þá, nei, fráleitt, ef það yrði svo. Hann spurði Sigríði hvort hún væri ófáanleg að hætta við skilnaðinn; sér hefði aldrei fundist hann eins sár og erfiður fyrir sig og einmitt nú; hann vildi mikið leggja í sölurnar til sátta og samkomulags. Sigríður fann þessa lykt, sem hún hataði; fyrri heimsóknir stóðu lifandi fyrir augum hennar; hún stóð snögglega á fætur og horfði fast framan í séra Guðna.

"Já, mér er alvara, ég þekki þig nú svo, að þessar kúnstir eru ekki til neins."

Þó prestinum hefði verið þvegið úr blóði hefði hann naumast orðið rauðari í andliti. Hann leit til Sigríðar, svona falleg og girnileg hafði honum aldrei sýnst hún. Tvö öfl börðust í blóðinu, hann varð í svipinn eins og um tvítugt.

"Jú, ég skil þig, það er enginn vandi -- þú bara hatar og fyirlítur mig --- og vilt ekki skilja, --- ég skal aldrei gleyma því."

"Þú - þú ert nú loksins farinn að fá uppskeruna."

"Og hún skal heldur ekki bregðast þér, vertu bara róleg um það."

"Viltu ekki gera svo vel."

Sigríður benti á dyrnar; séra Guðni hneigði sig hæðnislega.

"Takk! paa gjensyn."

Sigríður gat ekki lesið; geigvænar hugsanir, dimmur fyrirburður ókomins tíma hringsnerist í huganum, orð prestsins suðuðu fyrir eyrunum, hún skoðaði sjálfa sig og fann ekki frið; skalf þegar hún renndi huganum til framtíðarinnar. Sigríður vafði barnið að sér og það starði bláu augunum stöðugt á hana. Kynspillingarskoðun Björnsons flaug eins og elding í hjarta hennar. - Ó, þessi arfur - en séra Brandur hefur verið reglumaður, og pabbi svo hraustur og kjarkmikill -- en hvað verður lífið fyrir hann - svona líf. Eitt tár, tvö höfug tár, og tárin streymdu. Barnið sofnaði, og Sigríður grét enn um stund, henni létti fyrir hjartanu og svefninn sigraði hana um síðir.

Eitthvað meira grunar hana - séra Guðni hætti að ganga um gólf meðan hann saup á flöskunni - Djöfullinn hafi það - að misskilja mig svona - hvað mér þótti gaman að drengnum - fyrirlítur mig - bara ég geti borgað henni það aftur - falleg var hún samt -í faðmi á öðrum - Sjálfur andskotinn - prestinn þyrsti aftur - má líklega til - bölvað klúður það - hann tíndi af sér fötin og fór í rúmið, gat ekki sofnað og sneri sér á ýmsar hliðar. - Það voru varasamar kringumstæður ef allt kæmist á fartina, - hvað æskan hafði verið betri og sælli heima hjá föður hans, það brá fyrir morgunroða vorsólar lífsins - en hrímköld þokan þaut yfir dalinn og færði með sér kulda og hroll og dimma ísing - Það var best að fara varlega, gæta vel að sér - jú, fólkið í dalnum; það gat heppnast ef maður kunni að taka tökum á því. Séra Guðni geispaði, sneri sér hægt í rúminu og steinsofnaði.

Forsjón, forlög, tilviljun, hvað sem menn nú helst vilja kalla það. Presturinn sem talaði milli hjónanna var einmitt séra Sveinn; hann tók á allri sinni prestlegu mælsku og kennimannlegu andagift til að sýna þeim að það eina rétta og samkvæma Guðs og manna lögum, væri að þau byggju saman í hjónabandi; ólíkar skoðanir ættu aldrei að slíta hið helga hjúskaparband, sem væri tilskipað og blessað af Drottni allsherjar. Hann sneri sér alltaf meir til Sigríðar með áminningarnar af því honum fannst hún einbeittari og ákafari með skilnaðinn. Séra Guðni sagði sem allra minnst svo Sigríður hlaut að svara; hún sagði að eins ólíkar og þeirra skoðanir væru og allur hugsunarháttur, þá gerði það skilnaðinn sjálfsagðan; séra Guðni talaði gætilega um, að fyrir sitt leyti hefði hann von að þau gætu búið saman og hann óskaði þess helst, en gat þess um leið að það væri fjærri sér að hefta frelsi annarra. Séra Sveinn leit vinaraugum til hans og svo spyrjandi til Sigríðar; hún stóð kafrjóð á fætur, röddin skalf þegar hún byrjaði að tala, hún var fastmælt og seinmælt venju fremur og handlék á ýmsa vegu hvíta vasaklútinn sinn. Reynslan var búin að sýna þeim báðum áþreifanlega, að sambúð þeirra gat ekki þrifist; skilnaður, algjör skilnaður var það sannasta og réttasta eins og til hagaði fyrir þeim; hún hélt því fast fram að hvað sem Guðs og manna lög segðu þar um, áliti hún þau bæði sjálfum sér skyld að skilja; af sinni hálfu fylgdi hún því hiklaust fram. Séra Guðni sagðist ekki mundi hefta vilja hennar, úr því hún fylgdi því með svona miklu kappi, hann yrði einnig að æskja skilnaðar, eins og allt áhorfðist nú.

Sáttatilraunin var árangurslaus; ritningartilvitnanir og klerklegar áminningar séra Sveins báru engan sýnilegan ávöxt. Hann var svo kaldur og alvarlegur þegar hann rétti Sigríði höndina að skilnaði, að þó hann tæki lítið og lauslega um fingur hennar, lagði samt ískaldan straum upp fingurna, alla leið inn að hjartanu, og köldum svita sló út á enni og gagnaugum.

Daginn eftir kom gamli Hjálmar á Bakka - séra Sveinn hafði gist hjá honum um nóttina -; hvað þau Sigríður töluðu fengu menn ekki að vita; þau sátu lengi dags á grundinni ofan við túnið. Sigríður kom grátin og föl, og faðir hennar rauður og þrútinn. Eftir það átti hann tal við séra Guðna, rétti honum að skilnaði höndina vinsamlega og fékk það tvíborgað og meira til hjá klerkinum. Sigríður hafði gengið upp í brekkur; þau kvöddust ekki feðginin.

Sáttartilraun sýslumannsins varð árangurslaus líka, og hjónin komu sviplíkt fram og áður; skilnaðarkrafan varð ofan á að lokum.

Sigvaldi á Hálsi og Þórsteinn á Miðfelli skiptu fjárhlut milli hjónanna; þeim virtist klerkurinn dapur og viðkvæmur, en húsfreyjan köld og þurrleg, hún sagði sem allra minnst að orðið gat um daginn. Þau urðu öll samþykk við skiptin; kom hjónunum saman um að Hjálmar væri hjá móðurinni ein tvö eða þrjú ár, þá yrðu þau að koma sér saman hjá hvoru þeirra hann væri þar eftir. Nær komst ekki með þykkju þeirra með barnið.

Þau voru skilin að borði og sæng Kirkjubólshjónin.

Sigríður flutti að Brú um vorið og fékk húsmennsku hjá Steinari, hún lét byggja snoturt hús við suðurenda baðstofunnar, borgaði verkamönnunum kaupið undir eins; það álitu margir búvanir menn að upp mundi ganga að miklu eigur Sigríðar í þann kostnað, því Kirkjubólsbúið var stórskuldugt svo eigur Sigríðar voru fremur litlar, og það grunaði menn að hvorki mundi Hjálmar bjóða dóttur sinni fé, né hún beiðast þess að svo komnu.

Skilnaðurinn reyndist Sigríði torsóttur og erfiður. Opinberlega hafði hún barist ein, fundið alla sem við málið voru riðnir, vera sér andstæða í framkomu sinni, alla nema Þórstein í Miðfelli, sem var alveg blátt áfram við þau bæði. Hún var þreytt úr bardaganum við séra Guðna og þá sem um skilnaðinn fjölluðu, og við sjálfa sig átti hún í sífelldu stríði sem ekki sleit minnst þreki hennar. Hún hvíldi sig fyrstu dagana á Brú og hugurinn dvaldi við hjónaband og skilnað hjóna. Menn ætluðu að ganga af göflunum ef hjón skildu; gerðu meira veður af því, en þó hjón byggju saman með kulda og úflúð, og ekki tekið eins hart á, þó svikið væri hjónaband á allar lundir. Bara að lafa saman að yfirvarpinu, þá gat fjölin flotið. Var ekki hjónavígslan kirkjukredda og hjónabandið eins og það nú er mein á mannfélaginu? Að maðurinn ætti konuna, rétt eins og kúna í fjósinu og konan manninn eins og rokkinn sinn? Hjónabandið var band, fjötur, óeðlilegt frelsishaft, og orðið band benti á bandingja, tjóðraða skepnu. Var ekki nær að gera hjónasamning fyrir svo og svo langan tíma, 3-5 ár, vita hvernig það gæfist, alltaf mátti lengja samninginn ef vel gekk og skilyrðin voru fyrir því, að væri báðum hugleikið að lengja sambúðina, færi hvorugt með annað líkt og rokk eða kú. Sambúð margra hjóna var þjóðlygi, og rétt til að drepa manndóminn úr báðum. Og sú lygi sem gekk af að hjónin elskuðust til dauðans alltaf jafnheitt og innilega yfir dauðann, inn í eilíft líf og þar byrjaði hjónabandið á ný. Hvað sýndu dæmin? Að ást margra hjóna fölnar á skömmum tíma, hugsjónin hjaðnaði af því hún hafði verið "reykur, bóla, vindaský". Margur villtist í hjónabandið af því hann hélt hann elskaði; skáldadraumar höfðu hillt hann með ginnandi lygi. Þar sat hann bundinn með opin augun fyrir missýni sínu, og - jú, það var ekki í fyrsta sinn að svona hafði farið. Hjónabandið, - hvað þráði hjarta hennar? -- Nei, það var engin skýjaborg, hún fann að hér mátti vona og þrá. - En ég þoli samt ekki slaðrið og lygina og fyrirlitninguna þegar aldrei er hægt að taka tökum á því. -- Sný samt ekki aftur, og það má rifna fólkið ef það vill fyrir mér. Bréfin hans Þórarins, hún kunni þau utan að, liðu eitt eftir annað í huga hennar. Hún var viss um að honum hafði verið brennandi pínsl í því að sitja aðgerðalaus hjá og láta hana berjast fyrir sig, taka herfangið og hafa ekki komið á vígvöllinn sjálfur; það mátti lesa það úr orðunum og á milli línanna í hverju bréfi; og hún hefði aldrei haft þrek til skilnaðarins ef annar þróttugri hefði ekki staðið á bak við og stutt hana með sterkum og heilbrigðum sönnunum sem veittu henni þor og hugrekki; hvað það var gremjandi, að þau máttu ekki ganga með upprétt höfuð fyrir allra sjónum, nei, fólkið gat ekki skilið þau og mundi gera úr þeim skrímsl og ófreski, sem forðast ætti eins og svartadauða.

*

Blikan sem grúfði í loftinu varð að dimmviðriskólgu, fyrstu hríðarkornunum lamdi niður. Nú var hægt að finna Sigríði sakir, og þær nógu stórar; að skilja við manninn, slíta sig frá svo góðum og skemmtilegum presti, var það ekki dæmalaust. Þó hann tæki sér í staupinu við tækifæri; var kannski rétt að skilja við hann fyrir það; nei, það var ekki hugsanlegt; eitthvað annað hlaut það að vera. Var hún ekki hætt að hlýða messu, og las "romana" um húslestra; og svo sumt sem hún talaði um að trúlausir menn gætu verið heiðvirðir og þjóðnýtir engu síður en aðrir. Það væri ekki óræk sönnun fyrir að Lútherstrú væri sú besta og sannasta trú, þó játendur hennar héldu það. Hún var víst "geggjuð í trúnni", það gat ekki hjá því farið. Menn spáðu að það sæist bráðum hvað hún hefði í huga með að vera friðlaus að skilja, og hvað úr henni yrði. Og fara svo í Brú til Steinars, sem til margra ára hefði ekki lesið húslestur, var gjörsamlega hættur að vera við messu; skaut kaldyrðum til prestanna, og var illa til þeirra, en hélt með trúleysingjum, brigslaði mönnum um hræsni og sagði menn væru á kafi í kreddum og hégiljum; gætu ekki heitið kristnir nema að nafninu, til þess vantaði mannúð og mildi. Það var sama hver í hlut átti, þegar svo lá á honum, skaut hann meinlegum sneiðyrðum og ónotalegum hnýflum til hægri og vinstri. Svo sérvitur og harðlyndur og einráður að menn þekktu ekki annað eins. En sá baslarabúskapur sem hjá honum var, ekki lifði hann á bókalestrinum, bara skemmdi sig á honum; hvað gerði hann vanalega á fundum, það var ekki mikið sem hann sagði þá, og þó gat hann talað fyrir sig mannskrattinn, enginn neitaði því. Þó hann baslaði fyrir sig með þrjú börn og ætti fullörðugt með, þá gat hann ekkert hjálpað öðrum eða lagfært stein í vegg.

"Hann bara flær reyturnar af Sigríði, svo hún má verða fegin, að skríða heim til föður síns ef hún þá getur það." Það voru vanalega ályktunarorðin.

Heyverkin gengu nú vel á Brú samt, hvað sem menn spáðu í eyðurnar. Steinar sótti knálega heyskapinn eins og hann var vanur; Sigríður hafði vinnukonuna sína í samvinnu við hann, og gekk part úr hverjum veðurfærum degi sjálf á engið, sem lá nærri túninu og var þurrengi. Hún sagðist vilja reyna að heyja handa honum Skúm, það sem hún gæti; það þótti ekki mikið vit, að hún skyldi kosta reiðhest og samsvara öðru ráðlagi hennar. Um það var minna getið, að faðir hennar gaf henni folann þegar hann var þrevetur, og að séra Guðni fór að temja hann á fjórða vetri, kvikusleit hann á hægra framfæti og nokkru seinna, þegar það fór að batna, sté folinn sig einu sinni í Gils bæjardyrum á vinstra framfæti, svo fór skítur í stigið og sumarið eftir var hann varla snertur.

"Það var lán fyrir Skúm hvernig prestur blessaði yfir framfæturna á honum."

Steinar leit glottandi til Jóns í Gili.

"Já, ég held það; þetta er svoddan skálkur á hesti, hann hefði drepið hann alveg."

Og Jón á Gili hló, þegar hann var búinn að segja þetta, framan í Steinar.

Þetta sumar fór Sigríður ekkert nema tvisvar vestur í Seldal; þar er enginn bær, en landslag fagurt, lækir margir og hvannstóð með sumum þeirra, hávaxinn víðir og kafgras er þar á ýmsum stöðum. Vegurinn vestur í dalinn er víðast góður og eitthvað rúmlega míla vestur að Lambakvísl, þar er fegurst í dalnum. Þórarinn Steinarsson var með í fyrra sinn, hann var þá 10 vetra gamall, efnilegur og eldfjörugur strákur sem ekki hikaði sér við að hleypa hestinum á hvað sem fyrir var. Í seinna skiptið var Ragnheiður á Hamri með henni. Einu sinni fór hún með Steinari fram að Hamri á sunnudag, hann var oft búinn að stinga upp á því við hana áður, en hún dró það viku eftir viku, þangað til nú.

"Mér sýnist þér veiti ekki af að hreyfa þig á hesti við og við, þú ert að verða so ansi mögur og kerlingarleg."

"Er það?"

"Ekkert í hættunni með það samt, vertu alveg óhrædd. - Ekki er Þórarinn á Hamri sýnilegri."

"Og þó þykir þér vænt um hann."

"Víst þykir mér það, og ég hef líka ástæðu til þess. Okkur verður víst ekki sundurorða út af honum."

"Þú heldur það."

Þau sátu fjögur í fremra húsinu og spjölluðu um hitt og þetta, og voru glöð og létt um málið; Steinar þóttist þurfa að gæta að hestunum, þeir væru vísir að hlaupa heim. Ragnheiður sagði það væri vissara að gæta að hvort hann færi lengra en í eldhús til gömlu Rósu; bæði fóru fram.

Þórarinn og Sigríður gengu í innra húsið, settust bæði í hvílubekkinn hvort hjá öðru; hvort sagði frá tilfinningum sínum og högum. Sigríður sagðist oft vera svo táplaus að sér fyndist hún verða að hætta við allt saman.

"Ég duga ekki til að standa í trássi við mannfélagið, og pínist af að hugsa, hvað setti smiðshöggið á að ég gerði það."

"Það er bara "tilbagefald", fyrir viðtektir gamallar siðafræði og vana og kynfestu getum við ekki gengið óhikað áfram; þurfum alltaf að standa við og horfa til baka - En einhverjir verða að brjóta ísinn."

"Hvað sem það kostar?"

"Hvað var annað betra eftir því sem til hagaði -- Var lifandi í bandinu fyrir þig?"

"Nei, ég finn að þetta var það eina; en ég er so hrædd um mig þegar allt er komið í uppnám."

"Ég skal reka hverjum þeim löðrung sem ég veit að álasar þér."

"Þú nærð ekki tökum á slúðrinu."

"Jú, stundum og þá skal ég hefna fyrir þig -- Annars verðum við að fyrirlíta þvaðrið og bullið. Læra að standa ofan við það."

"Pabbi fyrirgefur mér aldrei."

Sigríður hallaði höfðinu að brjóstinu á Þórarni, reyndi til að fela þrekleysi sitt á einhvern hátt.

"Hann hefur engan rétt til þess og ég vona alltaf að geta með tímanum sannfært hann."

Þórarinn kyssti á hárið á henni.

"Og foreldrar þínir?"

"Verða að láta undan í þetta sinn, ég hef á réttara máli að standa en þau, ég má ekki lofa þeim að taka af mér ráðin í annað sinn."

"En þau verða sannfærð um sinn rétt."

"Við verðum að lifa fyrir okkur og sú sannfæring að við breytum svo rétt sem við höfum vit á gefur okkur þrekið -- og með þolinmæði og fylgi að sannfæra svo foreldrana og aðra á endanum. - Ertu ekki samdóma um það?"

"Jú -- Hvað þú ert þrekmikill, elsku vinur minn -- það er oft að ég efast um að þú getir elskað mig, til lengdar eins duglaus og ég er."

"Vertu alveg óhrædd, þú hefur starfað svo mikið fyrir mig, að þú gerir sjálfri þér verulega rangt til að ásaka þig um þrekleysi. -Hjartans elsku vina mín."

Þau horfðu hvort á annað um stund, hvorugt hreyfði legg né lið; það hefði hlotið að heyrast ef það hefði dottið dúnfjöður.

Steinar og Ragnheiður komu inn og voru að þræta um hvort þær Gunna gætu rakað eftir honum í Kvíamýrinni.

"Fari bölvað sem þið takið mig. -- Þú ert að verða so feit og letileg líka - nei, ég veit þú ert orðin ónýt að raka."

"Þú ert alltaf eins montinn -- Þó þú verðir hundrað ára endist það."

Sigríður og Þórarinn komu fram fyrir. Kaffið var drukkið; samtalið gat ekki náð neinu verulegu lífi eða samhengi. Það misheppnaðist fyrir Steinari að spauga, hann var rauður í andliti og sagði Rænka kynni ekki að búa til kaffi sem hressti, það bara slægi fólk með þunglyndi, það væri réttast að fara og láta hestana hafa úr manni drungann. Ragnheiður glotti við, en sagði ekkert, Sigríður var Steinari sammála að fara. Steinar fór svo að söðla hestana. Sigríður kom skömmu seinna og þau kvöddu og riðu heim.

Steinar hleypti strax fyrir utan túnið og Sigríður á eftir. Hann lét líða skammt á milli sprettanna; eftir þann þriðja sagði Sigríður.

"Ríðurðu vanalega sona hart?"

"Oftast ríð ég nú nokkuð greitt en er samt duttlungaskratti með það eins og annað."

"Gott er blessað veðrið."

"Satt er það -- og því ergilegra er að menn skuli ekki geta sætt sig við lífið og ekki fundið veðurgæðin og fegurðina nema með vörunum."

"Þú ert víst pessimisti."

"Frekar það en optimisti - Þið eruð heldur ekki ánægð með lífskjörin, ég sá það áðan og fann það á loftinu --- Af þessum fjórum þarna í húsinu hafði hver sinn djöful að draga, en þau hafa þrek, systkinin."

"Ég veit nú ekki hvort þú ert so þreklaus heldur."

"Ég er skal ég segja þér - bara helvítis heigull og ekkert meira."

"Það er nú ekki satt."

"Þú ræður hverju þú trúir, en --- ég þurfti ekki meira áðan en hugsa um að það hefur verið í hangandi hári að þið Þórarinn hefðuð dug að ganga eins og þið þráðuð og áttuð að ganga, ég verð so argur í skapi þegar ég fer að hugsa um lygi hjónabandsins."

"Það getur verið nokkuð erfitt."

"Já. - Dýrið í manninum er sterkt, menn hafa aldrei fundið lagið á að temja það -- En ósjálfrátt hafa menn frá ómunatíð fundið að það var til, og að fjöturinn þyrfti sterkur á það, það braust út þó það væri bundið, og þá loksins fengu menn guðlega tygilinn mjúkan og mjóan og teyggóðan eins og silkiræmu, þessi Gleipnir átti nú að halda vonargandi hvers manns bundnum - Það er nú dagsatt að þanþolið er fjarska mikið í fjötrinum; dýrið hefur ekki legið aðgerðarlaust eða í dái síðan; í rökkrinu og myrkrinu hefur það gengið og fengið sér bráð, svona teyggott er nú guðlega bandið..."

"Það getur verið háskalegt það dýr þegar það kemur sér við."

"Ég er nú hræddur um það -- En nú þola sumir menn engin bönd sem aðrir leggja á þá, það er sama hvort þeir halda, að Guð eða menn geri það - Þeir reynast býsna margir svo - Þeir brjótast um í fjötrunum, slíta kröftunum, tygillinn gengur inn að beini, blóðið streymir; mörgum hefur auk heldur blætt út af sárum þeim er Gleipnir skar, aðrir hafa borið sár og örkuml til dauðans."

"Og þau geta sviðið þau sár."

"Menn hefðu nú reyndar aldrei getað komið tyglinum á dýrið, ef ekki hefði verið hægt að nota sér mannlega tilfinning - viðkomuafl mannkynsins, þetta öfluga, eilífa frjómagn; til að kom Gleipni á, eiginlega mennina sjálfa; þar skaust nú á skjal fyrir spekingunum -."

"Mönnum yfirsést þráfalt þó þeir vilji gera það besta, það má ekki heimta of mikið."

"Það er annar galli á gjöf Njarðar og hann ekki mjög lítill, fjöturinn sleppir öllum sem nokkurt vit og lag hafa á að brjótast úr honum, og ekki eru alveg duglausir; en kyrkir alla lítilmagna. - Eitt er nú eftir enn; dýrið í manninum sem upphaflega var fjörmikið og kraftasælt, sem tók með hervaldi það sem það rændi, hitt var mest sem gekk viljugt á vald þess - dýrið hefur ekki verið ljótt né viðbjóðslegt þá - það hefur bara verið of kátt og brútalt. En í fjötrinum er það orðið lymskt og ljúgandi, stelandi, síhungraður blóðdrekkur, sem ævinlega er á ferð í myrkrinu. Það er hálfu verra í fjötrinum en áður og tíu sinnum ljótara og viðbjóðslegra."

"Nú er þó heimurinn ekki mjög bjartur í þínum augum; ég held þú gangir of langt."

"Eins og eitt kálfskinn -- En ef manni gefur sýn, og það er til, að bæði mér og öðrum , gefur sýn -- Hvað sjá menn þá? Refi og orma; hoppandi hrafna og vængjuð naut, eiturorma með seiðmagn í augum, óvættina Sphinx, Medúsuhöfuð, Gullregnið og Danáe, graðunginn fagurhyrnda og Jo er klappar honum, Zemiramis og Kleópötru, Alexander páfa og Cæsar Borgia. Allt í smáum stíl en sístarfandi; hvíldarlaust eitthvað í áttina. Þetta sjá allir, sem skyggnir eru."

"Með hverju á að ráða bót við þessu, ég sé ekkert ráð er víst sé að dugi."

"Frelsi; sem allra mest frelsi; öll ánauð bara spillir og fordjarfar; það er nú gefið. Taka Gleipni burt so ekki kyrki hann lengur; með guðlegum ljóma og glansa, hann verður nú annars bráðum að hrævareldi held ég. - Samningar, eða "republik" til reynslu, verra verður það hreint ekki, ég hef trú á samningunum, þeir finnast mér so eðlilegir á þessari samninga öld - bara fara varlega, ekkert ævilangt samningsband, og þá geta náttúrlega fjöldamargir samningar staðið til dauðans."

"Á þeim hef ég líka trú."

"Hvað er so að hvika yfir ykkur - ekki parið minnsta - þið takið þau einu úrræði sem hægt er að komast með þolandi samvisku út úr. Það heiðarlegasta sem hægt er í sona kringumstæðum. Með þessari mannfélagsskipun er það þorunarraun að brjóta ísinn; en þið hafið þó so mörg skilyrði að geta það og vera nýt og gagnleg mannfélaginu samt, að ég bæði óska og vona, að þið gefist ekki upp."

"Með honum, er það hægt; ef ég ekki gefst upp; ég geri það sem ég hef kraftana til."

*

Séra Guðni hélt áfram að búa og fékk sér ráðskonu; það var stúlka um þrítugt, sem hafði verið í kaupstað fjögur árin næstu, náttúrlega til að mennta sig; varð vistlaus um vorið og langaði þá allt í einu heim í dalinn sinn aftur. Hún var starfskona mikil og ómyrk í máli, hámælt og hvöt á fæti; lét mikið til sín taka á heimilinu og svaf í húsi Sigríðar. Þessi stúlka hét Jónína og átti mikið af fallegum klæðisfötum. Klerkurinn fór lítið af óþarfaferðum um sumarið, hugsaði töluvert um búnaðinn og lét sjaldan verða messufall. Á lestunum fékk hann sér kútholu, en var að verða búmaður með vínið líka. Mátti heldur ekki verða fullur, hann var orðinn svo vondur við drykkinn og veikur á eftir.

Hann reið ætíð um túnið á Brú, þegar hann fór um, og kom aldrei heim. Honum hafði aldrei verið vingott til Steinars, var nokkurn veginn viss um að hann leit í spilin hjá honum, geðjaðist ekki að því sem Steinar sagði um blessunina hans yfir framfótunum á Skúm. Þeir voru svo andstæðir að eðli og skoðun, að það var ekki neitt kynlegt þó fátt væri milli þeirra. Að hann léði Sigríði húsmennsku bætti heldur ekki vináttuna af prestsins hálfu.

Um nýárið veturinn eftir skilnaðinn, kom séra Guðni einu sinni kenndur að Gili, Jón var ekki heima, svo Steinunn fór til hans fram í stofu og lét á flöskuna, það gekk býsna langur tími til þess fyrir þeim, það er líka óþægilegt að láta vín úr kút á flösku, ef "trektina" vantar. Klerkurinn kom blindfullur og vondur heim um kvöldið. Næsta skipti þegar hann kom frá að messa á Bakka, kom hann ekki við á Hamri, eins og hann var vanur; en fór heim að Brú og gerði orð eftur Sigríði. Klappaði á kollinn á Hjálmari litla og kastaði þurrlegri kveðju til hennar. Stúlkan tók við barninu eftir að prestur hafði kysst hann, og Sigríður gekk með honum út á túnið. Veður var þykkt og þítt, hálf rauð jörð og farið að rökkva. Sigríður var óróleg, eins og hestur, sem veit á sig illviðri.

"Það var um drenginn sem ég vildi tala við þig."

Hann var loðmæltur af víni og skjálfradda af gremju; hugurinn var heldur ekki nema í hálfu tré.

"Hvað?"

Hennar rödd titraði líka.

"Að ég vil nú helst fá hann í vor."

"Í vor -- ég hélt hann fengi að vera hjá mér - mér er ómögulegt að skilja hann við mig."

"En nú vil ég fá hann --- fá hann heim til mín."

"Því þá? -- Móðurhöndin verður honum þó hollust."

"Nú fer Hjálmar að komast á þann aldur, að ég finn skyldu mína, að gæta hans sjálfur -- og vil hreint ekki að hann alist upp hjá þér lengur."

"Fyrir hvað? Talaðu almennilega út, maður."

"Ég - ég vil ekki að þið Þórarinn á Hamri leggið trúar og siðferðis grundvöllinn hjá honum -- eða hann læri af Steinari. - Það geta fengist önnur börn til þess með tímanum."

Sigríður bliknaði við; hún studdi sig með annarri hendinni við lendina á Grána. Séra Guðni stóð hinum megin við hausinn á klárnum og hélt í tauminn.

"Ég get sjálf kennt honum meiri sannindi en þú -- ef barnið fær að lifa --- og Þórarinn kemur þessu ekki við."

"Rétt er nú það --- og ekki þó þú skiljir við mig hans vegna. -- Þið hafið nógu lengi gengið á bak við mig - lengur dugar það djöfulinn ekki."

Öll særð eiginelska og lítilsvirt drambsemi prestsins braust út í logandi báli; svipuólin fór að ókyrrast líkt og hún væri einn af hans eigin limum.

"Þú veist hvar upphafið er --- þú - þú bara vélaðir mig eins og aðrar stúlkur -- og færð ekki barnið meðan ég lifi."

"Jú, ég skal fá það -- samkvæmt Guðs og manna lögum tek ég það - skilmálalaust - ég skal nú vera eins eftirlátur og þú varst við mig - Geturðu munað það --- Öll sveitin veit að Þórarinn á Hamri er friðillinn þinn -- uppgjafaþrotið á Hamri - heyrirðu það."

"Þú lýgur -- Taktu heldur barnið hennar Gunnu - það er eins líkt þér og Hjálmar og líkara."

"S-l-ú-d-u-r-r-r."

Svipuólin blaut af aur og götuleðju, small yfir hægri öxlina, vafðist á ská ofan að mitti og kastaði sér svo til hálfs yfir það; Sigríður rykktist til, lendin á Grána hlífði henni við falli. Jódynur þrumdi norðan túnið; Steinar kom utan úr dal.

"Komið þið sæl."

Hvorugt gáði að taka kveðju hans. Steinar stökk af baki.

"Þér er best að fara heim nú, séra Guðni -- Þú áttir sannarlega erindið."

Sigríður tók handlegginn burt af lendinni á Grána. Steinar áttaði sig, benti norður á göturnar og sagði.

"Geri þér svo vel að fara --- Ég bið að heilsa að Gili."

"Við sjáumst aftur Sigríður - vona ég."

Séra Guðni sté á bak og sló í klárinn sem rauk á stað.

"Þér getur orðið vel til að sníkja á Hamri á morgun, fattig Per."

Steinar var kominn í söðulinn um leið.

"Gerðu það ekki, Steinar. Góði Steinar gættu að hvað þú gerir."

"Ég næði honum strax, mig langar so til að lúberja hann, -- berja úr honum hræsnina og lygina, - helvítis svekklingnum þeim arna."

Steinar fór af baki, brúnaþungur og svipdimmur; Sigríður gekk við hliðina á Blæng og handlék ístaðsólina eða hélt í hana; hvorugt talaði orð.

Um kvöldið gerði Sigríður ýmist að taka Hjálmar litla á kjöltu sér og láta blítt að honum, eða lesa í Fortuna. Hún háttaði með fyrra móti um kvöldið. Daginn eftir lá hún; Hjálmar litli var í rúminu hjá henni.

"Tva'ttu' b'ettu' mamma."

Hann hafði togað fötin út af öxlinni á henni.

"Kyssa mömmu, elsku minn."

"Dí e' 'ann?"

"Klappa líka -- undur vel."

"Dí e' b'ettinn?"

"Litur úr hyrnunni minni."

"'Otu' b'ettinn 'd'o 'ann."

"Ég skal do 'ann -- elsku minn, leggja þig út af hjá mér og vera góður."

Sigríður var lasin nokkra daga, en lá ekki nema þennan eina. "Tannpína og höfuðverkur," sagði hún, ef hún var spurð.

*

Björn í Brekkukoti dó um sumarmálin; hann var grafinn í kirkjugarðinum að Bakka hjá afa sínum og ömmu. Þórður faðir hans vildi hafa útförina "sómasamlega" þó hann væri fátækur og lægi við að þurfa styrks annarra, og hafði því bæði kaffi og brauð, og nokkuð af víni, "Það var lagleg útför þó fátækir ættu í hlut," sagði fólkið hvað við annað þegar það reið heim um kvöldið.

Séra Guðni hélt "ofboð laglega líkræðu" og sagði á einum stað í henni: "Björn sálugi var eftir minni litlu viðkynningu mesta góðmenni, vildi hvervetna efla og styðja hið góða, ryðja sannleikanum braut af öllu megni, efla friðinn, styrkja band friðar og einingar." Svo kom kafli um hver stoð hann hefði verið foreldrunum og öllum sem kynntust honum.

Þórður gamli laumaði þriggjapelaflösku til prestsins, að húsabaki, rétt áður en hann fór. Þeir urðu samferða Þórarinn á Hamri og Steinar, frá jarðarförinni; þeim varð skrafdrjúgt um framtíðina og hvernig best yrði greitt úr fyrir Sigríði; þeir riðu hægt og gættu einskis fyrri en þeir heyrðu að dunaði í götunni aftan við þá. Það var Jón á Gili og séra Guðni fullur, sem komu á eftir; prestur var ekki á því að ríða löturhægt, og Jón var með í því sem öðru, hann stóð aldrei upp í hárinu á prestinum sínum.

"Við verðum so samferða."

Jón leit hálfbrosandi til þeirra félaga um leið og hann talaði.

"Það er samleiðin."

"Orðin komu nokkuð snubbaralega frá Steinari. Séra Guðni var ýmist rauður eða fölur. Þórarinn dimmrauður og klappaði með titrandi hendi á hálsinn á Frosta sem ókyrrðist við hófadyninn og vildi óvægur áfram.

Þeir riðu spölkorn þegjandi allir saman.

"Ég þarf að tala nokkuð við þig einhvern tíma -- og þætti best að gera það nú - annars kannski gleymi ég því."

Þórarinn leit svörtu augunum sínum til séra Guðna. Þeir riðu samhliða á eftir.

"J-æ-ja."

"Björn heitinn vísaði mér á 30 krónur sem hann sagði þú ættir að borga sér, vildi ég helst óska að þú gerðir það við fyrsta tækifæri ef þú átt hægt með."

Þórarinn var óvanalega mildur í máli.

"Ég borga þær sjálfsagt áður en langt um líður."

"Takk! - og svo hefur hann mælt svo fyrir við mig að þú borgaðir árlega til mín 30 krónur -- undir vissum kringumstæðum."

"Björn átti raunar ekki meira hjá mér -- Ég borga þér einar þrjátíu; og so vil ég vera laus við meira tilkall og þar með "basta"."

"Björn vildi ætíð ryðja sannleikanum veg og efla friðinn; ég held tilkallið rétt og mun fylgja því fram."

"Og --- þú ættir hreint að sleppa því, það er víst best að við förum ekki að rifja upp það sem liðið er. Það er sjálfsagt heppilegast."

"Ég skil þig, og það aftrar mér ekki það allra minnsta."

"Hugsaðu þig vel um áður en þú ferð lengra og vertu ekki að gera þig neitt merkilegan."

"Þú skalt gefa með barninu eins sannarlega og þú átt það."

Séra Guðni stundi af gremju.

"Það er ekki neðan við þig að slúðra heldur. - Þér fer það nú líka allra best..."

"Rakalaus lygi og þú skalt mega renna því niður aftur..."

"Þú hefur slaðrað um það við Sigríði; það er þín borgun fyrir það sem þú hefur forfært hana..."

"Þú sleist sjálfur hjónabandið spillingarvæskillinn þinn....

Séra Guðni hugsaði ekki hót um hvað Þórarinn var kraftamikill. Svipuskaftið reið um herðarnar á honum af öllu afli og í sömu svipan veltist séra Guðni í þúfunum vestan við götuna. Hann æddi á fætur aftur og að Þórarni sem var stokkinn af baki, ætlaði sér að reka á hann löðrung; Þórarinn greip um höndina ofan við úlnlið og hristi til handlegginn:

"Sestu bara á rassinn."

Frosti hljóp fram götuna til þeirra Steinars og Jóns. Þegar þeir komu til baka sat séra Guðni skjálfandi af heift og kvöl á þúfu; Þórarinn hélt sama takinu.

"Leggurðu hendur á prestinn, Þórarinn, gættu hvað þú gerir."

"Þórarinn er nú raunar prestur líka, gættu að því, Jón minn og hann bara heldur honum eins og hundi." Og Steinar hneggjaði við framan í Jón.

"Við jöfnum okkur, lofið okkur að vera."

Þórarinn sleppti takinu um leið. Jón lötraði til hestanna á eftir Steinari.

"Það er skömm að berjast eins og graðhestar ---- en annahvort skaltu gefa með barninu eða sleppa hempunni. ---- Heyrirðu það."

"J-a-á -- peningana skaltu fá þó þú líklega eigir krakkann sjálfur."

"Þú ert ódrengur - út í æsar, þorparinn þinn."

Þórarinn blés þessum orðum framan í klerkinn fiskbleikan og skjálfandi.

Eftir það fóru þeir allir á bak og riðu samtalslítið út neðan við Hamar; þar skildi Þórarinn við þá, tók fast og innilega í höndina á Steinari að skilnaði um leið og hann sagði:

"Í þetta sinn býð ég þér ekki heim - ég finn þig bráðum; vertu viss um það."

"Við Jón ætluðum að reyna þá Blæng og Fálka í kvöld; báðir þykjast vel ríðandi; ég verð með heim."

Á meðan riðu hinir hratt áfram, það voru kveðjurnar.

Þegar þeir skildu hjá Brú sagði Jón:

"Það er best að við látum það ekki fara fleiri á milli."

"Ekki skal ég verða fyrstur að hlaupa með það -- og þá er öllu óhætt."

Prestur þagði. Jón rétti Steinari höndina.

"Vertu nú sæll, Steinar minn."

Þórarinn var reiður sjálfum sér, fyrir að hafa ekki gætt betur skapsmuna sinna; að geta ekki lokið erindinu án þess að lenda í illindum, það var til skammar fyrir fullorðna menn. Hann var svo fálátur, að systur hans þótti nóg um.

Allt sumarið gekk sveimurinn um dalinn; að Sigríður skildi við prestinn af því það hefði verið daður milli Þórarins og hennar og væri enn; því hefði Þórarinn barið séra Guðna um vorið, að hann var svo tregur með skilnaðinn. Þetta lá í honum þó hann væri vanalega stilltur; það var sannarlega að bæta gráu á svart; fólk hefði ekki trúað þessu á Þórarin en raunin var ólygnust. Hann hafði verið mesti framkvæmdarmaðurinn í dalnum og bæði verið vinsæll og virtur; prestlegi ljóminn var ekki heldur gjörsamlega slitinn af, það var bara þetta eina, og það var heldur ekkert smáræði; en að hugsa um hvað Sigríður gat spillst fljótt og komið miklu illu til leiðar. Óttalega voru menn hræddir um að séra Guðni færi nú að drekka út úr öllu því mótlæti sem Sigríður hafði bakað honum. - En þetta var nú ekki nema sveimur um sláttinn, sem er vanalega sá tími, sem bæjarhjalið á örðugast með að dafna og þroskast.

*

Hreppstjórinn var ungur í embættinu; og hvort það nú var af því að "nýir, vendir sópa best" eða annarri sérvisku, er ekki gott að segja. En svo mikið er víst að þegar hann tók manntalið spurði hann rækilega eftir trú manna; allir voru "Lútherstrúar" nema Steinar og Sigríður á Brú og Þórarinn á Hamri; þau voru "fríþenkjarar". Ragnheiður lét ekkert uppskátt með trú sína, og þar við sat á skýrslunni. Þetta var snemma um veturinn að manntalið var tekið.

Nú kom fyrir alvöru hríð úr blikunni; þessir "fríþenkjarar" sem engu trúa, skeyta ekki heldur Guðs eða manna lögum, fara bara eftir eigin sérþótta og girndum. Fyrst Sigríður var svona spillt með trúna, þá var ekki von, að hún virti hjónabandið að neinu, horfði ekki mikið í að skilja við manninn, kynni ekki að meta góðan prest. Það var jafnt á komið með þeim Þórarni hvað trúna snerti, en Sigríður var þó miklu dýpra sokkin; var búin að sleppa allri sómatilfinningu, svo henni var sama þó barnið ælist upp við trúleysi og slæm eftirdæmi. Það var líka hægðarleikur að sjá að ræðurnar hans Þórarins höfðu haft svo lítil áhrif á fólkið af því hann trúði ekki því sem hann kenndi; framburðurinn lýsti því best hvað kaldur hann var. Hann hafði þó séð að það var skömm að vera prestur og trúa ekki. Það var vont að vera trúlaus og alveg óþolandi að láta það opinberlega í ljósi. Líklega hafði Steinar spanað allt guðleysið á stað, það mátti trúa honum til þess. Hamarssystkinin voru kölluð trúlaus, Steinar og Sigríður guðníðingar.

Sigríður var hætt að fara nokkuð á bæi eða eiga skipti við menn, aðra en heimafólkið og Hamarssystkin; þau komu þar við og við og Ragnheiður nokkuð oft. Þær gátu oft hlegið að Steinari þegar hann var að gera gys að ýmsu í mannfélagsskipuninni, eða það sauð úr honum rokan yfir rotnun og lygi í mannfélaginu, sem alltaf gæti þó gengið með hvítu húfuna sannleikans á höfðinu. En sumt sem hann sagði var ekki til að brosa að því og ekkert þeirra gerði það heldur, það var hreint alvörumál og þær gátu ekki neitað því, að þær voru sammála í meginatriðunum. Stundum töluðu þau um sögur; Steinar hafði oftast fyrir að byrja samtalið og hann var ekkert harðglettulegur þegar hann talaði um skáldsögur sem hann var hrifinn af. En það gat líka komið fyrir að þeim þætti hann vilja kollvarpa öllu skipulagi nokkuð snögglega. Sigríður var sístarfandi, og las alltaf mikið; hún sagði til í dönsku og reikningi börnum Steinars um veturinn; hann var latur við það sjálfur. "Mig vantar bæði kunnáttu og lag til þess," var hann vanur að segja; en sjálfur kenndi hann þeim að skrifa. Sigríður fann að hún mátti ekki vera iðjulaus, því þunglyndið tók þá til síns starfa. En heilsan var ekki eins góð og verið hafði; hún fann oft til þreytu og einhvers köldu drunga sem lagðist yfir hana, líkt og hrímþoka frá hafísnum sem leggur fram dalina og fellur á vorgróðann og gerir döggina að frostperlum. Hvít hár gægðust eitt og eitt fram í vöngunum, en þeirra gætti ekki svo mjög í ljósjarpa hárinu þykku og hálfhrokknu. Þegar Sigríður var lúin eða lasin sýndist hún nokkuð tekin til augnanna, það sást votta fyrir fíngerðum hrukkum neðan við þau, og brá bláleitum lit við; hún hrökk oft snögglega við ef eitthvað datt sem small í eða húshurðinni var snögglega skellt til. Hún bar sig svo vel sem hún gat og þeir sem sáu hana ekki nema annað veifið tóku varla eftir neinni breytingu á henni. Steinari stóð samt stuggur af því, en tímdi ekki að pína Þórarin með neinum hugargrýlum, og vorkenndi Ragnheiði ekki að sjá það sjálfri. Sannleikurinn var nú samt sá, að í þess konar rannsóknum var hann lang skarpskyggnastur af þeim.

*

Séra Guðni lá þrjá daga eftir að hann jarðsöng Björn. Hann var sárlasinn af vínslarkinu og allri áreynslunni sem hann þá mætti; greinilega óánægður með lífskjörin og hamingjuhjólið sem var svo hverfult og valt. Í rauninni hafði honum aldrei þótt vænt um Sigríði öðruvísi en um hverja aðra fallega stúlku sem hann hafði komist í kunningsskap við, en efnin voru ljómandi álitleg og Sigríður upphaflega svo eftirlát og góð, að hann gat ekki átt von á eins þægilegu lífi þar í dalnum; hann grunaði upphaflega ekki að hún mundi taka sér svo nærri þó hann tæki sér í staupinu, eða hún færi að gera sér far um að segja honum til hvað betur færi og vera ætti. Allt sýndist upphaflega benda til að hún væri ánægð með hann, skólagenginn og háskólafágaðan, í svörtu prestshempunni úr gljáfagra klæðinu, og færi ekki að þreifa neitt nákvæmlega eftir hverju smáræði, allra síst gera veður af því. En þegar hún sagði honum sannleikann í opin augun, leist honum miður á blikuna. Og að taka eins þvert og stíft þetta sem kom fyrir um haustið; halda því stöðugt til lengdar, þá fór það að verða nokkuð óþægilegt. Að bæta því svo við, að fara að tala um hjónabandið eins einbeitt og strangt og hún gerði; á því átti hann enga von. Reka smiðshöggið á með því að hætta að elska hann og segjast aldrei hafa gert það; bara villst á tilfinningunum. Með ákveðnum orðum gerði hún það aldrei, en þar var séra Guðni nógu tilfinninganæmur, svo hann gat fundið það á andanum. Heimta skilnað og leiða rök að því að hún hefði rétt fyrir sér; þá vaknaði þrá hjá honum að sigra hana, ná ást hennar eða að minnsta kosti valdi yfir henni; allt misheppnaðist það svo hrapallega að hún náði yfirráðunum en hann tapaði. Hann ásakaði sjálfan sig fyrir klaufaskap og axarsköft í sambúðinni; hafði oft einsett sér að hætta að drekka og drífa búið áfram en skorti til þess þrótt og eljan. Vonaði í öðru veifinu, að Sigríður mundi guggna, ekki hafa kjark til að slíta að fullu bandið. En það gekk öðruvísi; hún fór og með henni drengurinn sem honum var farið að þykja svo gaman að, þykja vænt um; já fyrir alvöru að honum fannst. - Og allur Bakkaauðurinn. Tómar hillingar. Ekkert annað.

Svo fékk hann að vita, að Sigríður elskaði annan; kvaldist af afbrýði og gremju; drambsemin og eiginelskan hoppuðu á glóandi járnteinum. Honum fannst enginn ógeðfelldari geta valist til þess en einmitt Þórarinn á Hamri, sem hafði í rauninni haft eins mikið vald í dalnum og hann; í öllum opinberum málum gekk hann á undan honum. Ótal sinnum hafði hann heitið, að í næsta sinn skyldi hann vera svo útbúinn að hausavíxl yrðu á því, einsetti sér að setja sig vel inn í sveitarstjórn og þau málefni sem fyrir komu í dalnum og vera einbeittur og fastur í stefnu. En næst varð hann að horfa á þetta þreklega bak, starði þangað til á breiða hnakkann hrokkinhærða, að honum varð illa til hans; óskaði honum eitthvað langt í burtu, sama hvert, bara hann væri ekki þar í dalnum. Hann gat aldrei verið fremstur, nema í kirkjunni. Allir mannfundir lyktuðu með því að fyrst var Þórarinn og svo hann; var það ekki ergilegt. Með drengnum gat hann kannske kúgað þau, Sigríður þyldi varla að skilja við hann. - Fólkið var á hans sveif, á móti Sigríði, aukheldur faðir hennar; að því varð hann líka að gæta framvegis. Þó allt annað brygðist þá skyldi hann þó taka drenginn og hefna sín svo, - og eitt enn; það var handvisst, gat ómögulega brugðist.

*

Umtalið kolsvart og skitið, af því að velkjast mann frá manni í dalnum komst til Sigríðar að lokum, læddist og gufaði inn, lítið að ummáli í einu, en safnast þegar saman kemur og kornið fyllir mælinn; þegar Sigríður var við jarðarfarir tók hún eftir því, að fólk sneiddi með allra mestu varúð hjá að eiga nema það allra minnsta viðtal við hana, það var eitthvað í viðmóti og svip manna sem særði hana, það var ekki hægt að taka höndum á neinu, bara tilfinningin og ekkert annað, það var eins og það legði jökulblæ, læðandi og napran frá mönnum, en ekkert svipað stormi eða veðri, nei, fráleitt því. Kom líka í Hamar; eins og sagt er frá sendingunum fyrrum, gufaði inn um hverja smárifu og, - draugurinn stóð risavaxinn og ófrýnn, velti til hausnum og skældi kjaftinn, svo að sá í svart hyldýpið - í húsinu gömlu hjónanna á Hamri.

Foreldrar Þórarins töluðu bæði í sameiningu við hann; spurðu hvað satt væri í þessu, og hann sagði eins og satt var um áform þeirra. Einu sinni hafði þeim þótt vænt um Sigríði; en nú - ellin er þröngsýn og þrálát - þau skipuðu og báðu hann að hætta, hann færðist undan með gætni; þau hertu því fastar að honum, þá minnti hann þau á að hann hefði einu sinni lofað þeim að ráða, og bað þau að fara ekki fram á að hann léti af ætlun sinni; bað þau svo innilega sem hann gat. Beiskyrðin fékk hann ómæld og gremjuna, en öllu því saurugasta og fyrirlitlegasta köstuðu þau á Sigríði. Þórarinn þoldi ekki lengur að hlusta á.

"Ég læt ekki telja mér hughvarf - Það er ekki til neins - hvað sem það kostar."

Hurðin skall hart á eftir honum, svo þilið nötraði við.

Þórarinn sagði ekkert orð, bara henti sér niður í hvílubekkinn í húsinu sínu, fast hjá Ragnheiði, og stundi eins og verið væri að flá hann kvikan.

"Elsku bróðir minn, ég sé og veit hvernig farið hefur."

Hún tók í höndina á honum. Þórarinn kastaði sér eins og barn að brjóstinu á henni og grét, brjóstið gekk út og inn þungt og erfitt eins og á því lægi gríðarfarg. Þau vöfðu hvort annað og grétu. - Gráturinn þverraði, ekkinn stilltist, þau gátu farið að tala saman.

Næsta dag fór Þórarinn út að Brú. Sigríði varð bilt við að sjá hann; blóðið streymdi til hjartans. Þau settust bæði; Þórarinn gat ekki fundið orð sem hægt var að koma að tilfinningunni; svo tók hann höndina á Sigríði og lagði hana á ennið á sér.

"Ó!- hvað þér er brennandi heitt, elsku vinur --- nú hefurðu talað við foreldrana; ég sé það."

"Og -- þau eru búin að dæma..."

Hann dró hana að sér. Sigríður lagaði varirnar, hreyfði þær nokkrum sinnum til, en ekkert orð heyrðist; svo færði hún sig nær eyranu á honum, brennandi smugu orðin inn í eyrað, andgufan kitlaði mjúksárt og svimandi, Þórarin snarsundlaði.

"Elsku besti hjálpaðu mér til Ameríku -- við verðum að skilja -- til fulls."

"Sigríður!"

"Ég er oft búin að hugsa um það --- Ég eyðilegg þig."

"Eyðileggur mig -- já ef þú skilur við mig..."

"Þú þolir skilnaðinn - Þú ert so sterkur..."

"Nei - nei - ég þoli hann ekki - Og - hvaða líf verður fyrir þig?"

"Mér finnst ég geti lifað - bara ekki hérna í dalnum -- allt hjálpast að hér."

"Að geta aldrei náð fasta tökum á þessum helvítis draug, það er það..."

"Það pínir sárast."

"Já - og þegar foreldrar mínir fóru að tala við mig - ég varð að taka á öllu afli að stjórna mér -- en ég geri það ekki í annað sinn."

"Góðasti, þú mátt til með það."

"Nei - þegar þau fara með lygi um þig - Nei, ég geri það ekki."

*

Lagaskilnaðurinn stóð fyrir dyrum, árin voru liðin þrjú. Hjónin vildu bæði hafa barnið. Séra Guðni sagðist breyta eftir bestu samvisku og skyldu, að láta hann ekki alast upp hjá móðurinni, hjá trúlausum mönnum, sem opinberlega játuðu það. Það væri ekki við að búast að það kæmist nokkurn tíma í kristinna tölu hjá þeim. Sigríður sagðist treysta sér til að ala hann upp, svo hann yrði nýtur maður og heilbrigður og óheftur; það væri aðalskilyrðið; til þess treysti hún ekki föðurnum; og eins og Hjálmar var elskur að henni, var hættulegt fyrir hann að fara til ókunnugra; það gat lamað hann fyrir alla ævina. Þau gátu ekki komið sér saman um hvort barnið hefði; og presturinn hafði almennings álitið hiklaust með sér.

Gamli Hjálmar á Bakka fór að finna dóttur sína aftur, hann var búinn að fá meira en nóg af sögunum um hana. Þau töluðu lengi saman, en sannfæringin bifaðist hjá hvorugu.

"Guð hjálpi þér, aumingja afvegaleidda barn, einhvern tíma vona ég þú sjáir villu þína, og þá ertu velkomin til mín, ef ég verð á lífi. Og Guð forði því að við Þórarinn hittumst að svo komnu til að talast nokkuð við." Sigríður stóð framan við hann með tárin í augunum, greip í höndina á honum og hélt í hana um stund; allt í einu kyssti hún á munninn á honum fast og innilega. Hjálmar lagði sem snöggvast aðra höndina yfir herðarnar á henni og þrýsti henni að sér; greip svo snögglega til að laga gleraugun sín, og var æði lengi að því. Strax eftir fór hann heim.

Þetta kvöld kom Þórarinn og daginn eftir reið hann snemma út að Kirkjubóli; þeir töluðu lengi dags séra Guðni og hann. Á heimleiðinni kom hann við á Brú og tafði þar fram að háttatíma; Steinar gekk á götu með honum þegar hann fór.

"Hvað gengur nú fyrir ykkur?"

"Guðni gaf eftir á endanum - en eins lúalegan dag hef ég aldrei lifað."

"Að vega með þeirra vopnum, það er passlegt handa séra Guðna - en bölvaðar grélur eru það nú raunar."

"Satt er nú það - en - hér get ég ekki búið lengur."

"Þig vantar þá þrek eins og aðra - þú - þið getið víst búið hérna í dalnum og brotið slúðrið og hleypidómana á bak aftur."

"Nei, við getum það ekki."

"Sigríður getur það varla - það er nú satt -- Já, so má ég drepast að sjá alla springa - Það er gefið, fyrst þau gátu það ekki."

Hann talaði það seinasta við sjálfan sig fremur en við Þórarin.

"Viltu so vera með?"

"Vestur - nei ég get það ekki, ég er so fátækur."

"Ég get lánað þér það sem til vantar - og það verður ekki mikið, þegar við erum búin að borga þér alla fyrirhöfnina."

"Ég hef engu tapað við veru Sigríðar - ég sé um mig eins og þeir halda hérna í dalnum."

"Þú þarft ekkert að segja mér um það."

"Mér hefur liðið betur þessi árin, og bara óar við framtíðinni."

"Farðu þá með."

"Ég hef ekki þrek til þess. Ég er búinn að sitja of lengi - og hata sjálfan mig fyrir - það er helvítis gunguskapurinn sem drepur allt."

"Of svart -- eins og vant er."

"Eins og ég sé það - en hugsaðu til barnanna minna ef ég fatlast á einhvern hátt."

"Trúðu mér til þess - en þú ferð með á endanum."

"Drepst líklega hérna á Brú."

*

Séra Guðni og Sigríður voru skilin að lögum; og það sem menn undruðust mest var að hann leyfði henni að hafa barnið; að vera svona eftirlátur eftir allt sem hún var búin að klappa við hann, - mikið fjarska vænt hafði honum víst þótt um hana; alltaf gat hann látið eftir henni, og hún skammaðist sín aldrei að heimta meira; eins og við var að búast með hana trúlausa, einlægt að sökkva dýpra og dýpra, ná svo í Þórarin og steypa honum líka, fara eins með hann - Ef til vill hafði séra Guðni hrasað nokkuð. Fyrir hvað ætli það hefði verið annað en heimilishaginn. Aldrei hafði hann viljað skilja; hann var of góður og samviskusamur til þess. Það var bara að óttast að hann eyðilegðist út úr öllu saman; hann hafði drukkið svo mikið um tíma.

Þórarinn lógaði flestu fénu um haustið; það var gefið svo ágætlega fyrir það. Grunur lék á að hann mundi ætla að breyta til með búnaðinn en engir vissu það áreiðanlega. Sigríður var kyrr á Brú og Þórarni varð nokkuð tíðförult út þangað um veturinn - Það sótti heldur fast að henni þunglyndi í skammdeginu, og hún talaði oft um við hann, að hún hefði orðið honum til ógæfu; hann sýndi og sannaði skilmerkilega, að hjá henni hefði hann lifað sælustu lífsstundir sínar; efinn hvarf, það lifnaði gleði og fögnuður hjá henni í það sinn; Þórarinn varð svo sæll að sjá hana yngjast upp og kafroðna í faðmi sínum. En í næsta sinn bólaði á því sama.

Börn Steinars voru eins elsk að henni og sjálfri móðurinni; hún hafði aldrei skilið Sigríði, skoðanir þeirra voru svo gagnstæðar, en þær töluðu aldrei um þann skoðanamun; hræddust aðeins hvor annarrar áhrif á börnin, en þögðu um það og lofuðu þeim að vera sjálfráðum, hvar þau voru. Hjálmar litli var fjörugur og vel frískur. Sigríði sýndist hann þroskavænlegri eftir því sem árin færðust yfir hann; að vísu líktist hann föðurnum töluvert mikið ennþá; en sýndist mundi verða þreklegri og stórskornari en hann var, bara það kæmist enginn kyrkingur í hann, hvorki á sál né líkama.

Um nýárið voru systkinin ytra, og Sigríður var með glöðu og léttu bragði þá; samtalið milli þeirra fjögurra var lifandi og skemmtilegt. Sigríður og Þórarinn sátu annað veifið tvö ein og hjöluðu eftir því sem hugurinn bauð:

"Góða mín; þetta er nú seinasti tíminn sem við þurfum að vera aðskilin; með vorinu getum við verið saman."

"Og upp frá því -- en þú mátt ekki gera þér háar vonir um dugnaðinn minn - heilsan er ekki vel traust orðin - elsku vinur minn."

"Ég hræðist ekki það minnsta þrekleysið sem þú svo oft kvíðir fyrir -- þú gerir of lítið úr sjálfri þér - eða ertu nokkuð sérstaklega lasin?"

"Það hefur oft hvílt yfir mér eitthvert undarlegt magnleysi og drungi, sem ég get ekki almennilega lýst."

"Það lagast með vorinu, þegar hlýnar, elskan mín."

"Ég er líka að vona það, góði minn."

Sigríður vafði sig fast að honum og hvíldi höfuðið við breiða bungandi brjóstið hans sem gekk bylgjandi til, og vaggaði henni svo ljúft og töfrandi til hvíldar og blíðrar rósemi.

*

Þennan vetur á jólaföstunni hafði komið kvefsótt í dalinn, það var illkennd landfarsótt og fylgdi henni á nokkrum mönnum lungnabólga sem sló sér að, helst á þeim sem eitthvað voru lasnir fyrir eða höfðu verið drykkjumenn; hún reyndist þeim varasamur gestur. Séra Guðni lagðist fram á Bakka næsta sunnudag eftir þrettánda í kvefveiki, lá þar einn viku tíma, en skánaði þá svo hann fór heim; nóttina eftir fékk hann lungnabólgu og var kominn að bana; læknirinn var sóttur til hans; og lífið vann sigur á dauðanum, með læknis tilhjálp. Séra Guðni var kominn heldur á bataveg og sóknarfólkið hafði góða von með að fá að njóta hans lengi ennþá.

Í þorrabyrjun lagðist Sigríður. Steinar reið strax eftir lækninum; þegar hann kom, leist honum raunar þunglega á veikina, hann vissi líka að hún hafði verið lasin af kvefi áður en hún fékk lungnabólguna. Og þá var það eina nótt, að Sigríður átti talsvert mikið af fatnaði til þerris úti; rétt eftir háttatíma gekk veðrið upp svo hvein á baðstofunni. Sigríður vakti og var að lesa; hún varð hrædd um, að þvotturinn fyki og vakti vinnukonuna og bað hana að gæta að honum, en hún var svo myrkfælin, að hún þorði ekki ein fram; svo þær fóru báðar og þegar fram kom, þótti Sigríði kveifarlegt að standa í bæjardyrunum meðan stúlkan sækti þvottinn. Hún var fremur fáklædd og varð kalt við útivistina; um nóttina veiktist hún. Læknirinn var hjá henni einn sólarhring; sagði Þórarni fyrir um hjúkrun og meðul: "Ég hræðist nú ekki svo mjög veikina eftir því sem ég get séð, og ég veit þið hjúkrið henni eins vel og unnt er - Mest af öllu þarf að gæta þess að engin breyting mæti henni, né mikil umskipti á neinn hátt."

Systkinin vöktu yfir henni, og Steinar var þar að öðru hvoru. Veikin fór heldur þverrandi. Þórarinn sat á stól við rúmið og talaði blíður og innilegur við hana; um að smá liði á veturinn og að með vorinu væru þrautirnar á enda; vorið færði þeim líf og gleði, og friðinn sem þau hefðu lengi þráð. Sigríður starði stöðugt á hann meðan hann talaði og augun hennar höfðu aldrei verið fegurri en þá:

"Ó, hvað ég elska þig -- það er ómögulegt við fáum að njótast lengi."

"Við skulum þó bæði vona það --- góðasta mín."

Hann laut niður að henni og kyssti hana.

Sjötta morguninn var Sigríður með hressasta móti. Þórarinn hafði lesið fyrir hana Arne eftir Björnson; hún hafði lesið söguna fyrir nokkrum árum síðan; það var það fyrsta sem hún hafði séð eftir höfundinn á frummálinu, og hún dáðist sérstaklega að henni. Svo sofnaði hún væran blund eftir fótaferðartímann. Ragnheiður hafði lagt sig út af yfir í húsi Steinars. Þórarinn lagfærði stólana framan við rúmið, lagði yfirfrakkann sinn yfir þá og lagði sig þar niður. Hann hafði höfuðið á koddanum sem lá fram á rúmbríkina og steinsofnaði.

Sigríður vaknaði eftir að hún hafði sofið um hríð, hún lá hreyfingarlaus og starði á Þórarin; og fannst sér líða með langbesta móti; hún lagði varlega aðra höndina á ennið á honum sem var svo heitt, og léta hana hvíla á því.

Það var gengið hljóðlega um baðstofudyrnar. Sigríður hafði þessa næmu heyrn sem einkennir marga sjúka.

"Er Sigríður ósköp veik?"

Það var Steinunn á Gili sem kom framan úr Brekku frá Guðbjörgu systur sinni; hún talaði í hálfum hljóðum við Guðrúnu gömlu, um leið og hún settist hjá henni á rúmið, sem var með húsþilinu að framan.

"Hún hefur legið við dauðann --- en nú var hún betri í morgun - þau sofa nú víst bæði."

"Hefur Þórarinn alltaf verið hjá henni?"

"Þau bæði, og stundum Steinar líka."

"Hvað sagði læknirinn um það?"

"Ég held hann hafi verið hræddur."

"Það væri nú það besta fyrir alla - Guði er ekkert ómáttugt - ég er fullviss um það -- Aumingja Hjálmar -- honum færi nú að verða hollast, að vera hjá föðurnum -- menn vona nú, að fá að njóta hans lengur en áhorfðist um tíma. -- h-m-m - o-j-æ-j-a."

Þórarinn vaknaði við stunur. Sigríði hafði slegið niður -- Systkinin stóðu við rúmið um daginn og nóttina og gerðu allt sem þeim hugkvæmdist til að lina þrautirnar. Steinar hafði farið óðara eftir lækni; færðin var ill og þótti óálitlegt að koma við hestum, en hann fór með Blæng og Frosta; um daginn hafði verið betra færið norður frá.

Klukkan fjögur um morguninn fékk Sigríður fró, áður hafði hún ekkert getað talað samfast fyrir þjáningunum. Hún rétti höndina að Þórarni, og hann hélt henni milli handa sinna:

"Góði --- elskarðu mig eins heitt og -- og við - fyrst...

"Elskan mín - þú hlýtur að finna það sjálf -- ég hef aldrei elskað þig eins heitt og nú."

"Jú, ég finn það -- en það er so sælt að heyra þig segja það ------ Þú ert so sterkur. ---- Nú verðum við að skilja....

"Læknirinn kemur bráðum."

"Hjartans vinur."

"Elsku...."

Þau þurftu ekki að tala með orðum, tilfinningin ein talaði huliðsmáli. Augun horfðu stöðugt þangað til þau flutu í vatni. --- Sigríður bað, að fá að sjá Hjálmar. Ragnheiður sótti hann; og Þórarinn hjálpaði til, að hún gæti kysst hann, eftir það bar Ragnheiður hann burt aftur; drengurinn var alltaf sofandi.

"Hvað ég er hrædd um hann."

"Það sem er hægt, skal verða gert."

Aftur horfðust augun stöðugt --- Það komu drættir í munnvöðvana á Þórarni.

"Ég hef fró nú --- Rænka - góða komdu og kysstu mig -- hafðu þökk fyrir allt, elsku systir."

Rænka læddist hljóðlaust burt úr húsinu.

"Kysstu Steinar -- so -- so er best fyrir alla -- ég -- fari..."

"Elsku...."

Sigríður fékk andþrengsli; Þórarinn laut niður að henni, tók utan um hana og færði hana ofar á koddanum -- hún lagði höndina aflvana yfir hálsinn á honum -- Það var hið síðasta.

Þegar læknirinn og Steinar komu voru liðnir tveir tímar frá því. -


Sigríður Hjálmarsdóttir frá Brú verður grafin að Bakka kl. 12 næstkomandi þriðjudag.

                   Hamri þann.......

                   Þórarinn Guðmundsson


Séra Sigurður á Gunnsteinsstöðum, skólabróðir Þórarins, jarðsöng Sigríði. Nóttina áður var hann á Hamri.

Í dalnum hafði aldrei heyrst nein líkræða sem var lík þessari. Fólkið sagði það hefði eiginlega ekki verið Guðs orð; heldur um, að menn væru svo oft misskildir í lífinu og dæmdir öðruvísi en ætti að vera. Þeir sem sannleikans leituðu væru ætíð virðingarverðir ef rétt væri aðgætt. Um þyrna á lífsbrautinni, - hugsanafrelsi og mannúðlega mildi. - Kristur hefði kennt um ást og miskunn; það væri ekki nóg, að menn þættust kristnir; menn ættu að vera það. Vera líkir Jesú í mannkærleika, frjálsri mannúð og miskunnsemi, en fjarlægjast meir og meir Farísea og Jesúíta. -- Farísea og Jesúíta, það var það, sem fólkinu í dalnum þótti óviðkunnanlegast.
Netútgáfan - maí 2000