HEIÐARBÝLIÐ  I  -  (BARNIÐ)

eftir Jón Trausta
INNGANGUR

Þeir, sem fara fram með ströndum Íslands, fá lítið að sjá af landinu.

Þeir fá að sjá hafþokuna og ef til vill hafísinn, brimrótið á blindskerjunum, fuglabreiðurnar kringum vörpin og skipin á miðunum.

Þeir sjá risavaxnar hamrahyrnur rísa úr sjónum og raða sér í fylkingar. Þær ber við himin og oft eru þær skýjum sveipaðar. Að baki þeirra bregður fyrir breiðum bungum með hjarnflákum. Á milli þeirra opnast þröngir firðir með sjóþorpum og smákauptúnum. Reykur beltar sig meðfram hlíðunum; skipasiglur ber í klettahjallana.

En innst blámar jafnan fyrir heiðarbrún, sem lokar innsýn til landsins.

Þeir fara djúpt fyrir flóa og flatar strendur. Þá liggur landið úti við sjóndeildarhringinn sem blá mön. Jöklarnir skína eins og hvelfiþök. Heiðar og láglendi renna saman í myrkblárri móðu.

Fögur er sú sjón. Mörgum verður hún torgleymd.

En að baki þessara hnarreistu strandafjalla, að baki heiðanna, sem loka fjarðarbotnunum, langt innan við breiða flóa og brimkögraða sanda, langt - langt inni í heiðblámanum liggur annar hluti Íslands, harla ólíkur þeim, sem fyrir menn ber af skipsþiljum.

Þar liggja heiðalöndin, auð og óbyggð, og eru notuð fyrir afrétti.

Þar brosa grænir hvammar og grösugir balar, fossandi lækir og fiskirík vötn.

Bylgjur líða yfir víðlend starengi, sem aldrei eru ljáborin.

Bláfjólur anga á bökkum tærra linda. Þar lifa þær og deyja án þess að gleðja nokkurt auga. Hvann-njólarnir standa teinréttir og bera höfuðin hátt. Þeir eru kórónaðir að konunga hætti. Salómón í allri sinni dýrð var ekki svo skrýddur sem einn af þeim. En enginn er til að dást að þeim.

Blómlegir reynirunnar veifa liminu í sumargolunni. Þeir eru gestrisnir að eðlisfari og bjóða skjól og unað; en enginn heimsækir þá.

Brekkurnar breiða út víða faðma. Þær eru skrúðgrænar upp á brún og ofan í skaut. En þær laða enga skepnu til sín, nema nokkrar heimskar sauðkindur.

Frjálsir fuglar svífa yfir heiðunum og eiga þar athvarf. Drifhvítir svanir fella þar fjaðrir sínar hvert sumar. Þeir eru gæfir eins og lömb; þeir hafa aldrei lært menn að óttast.

Allt er fellt í umgerðir blikandi jökla og blárra tinda, gróinna hraunstrauma og grárra eyðisanda.

Þessi hluti Íslands er heimur út af fyrir sig, með sumaryndi og vetrarríki. Hann er mikill að fegurð, mikill að svip og mikill að víðáttu.

Hvergi á hann líka sinn. -

Nú fækkar þeim árlega, sem nokkuð hafa af honum að segja.

Nú, í byrjun 20. aldar, liggur þjóðleið Íslendinga um sjóinn, fyrir utan firði og framnes. -

Áður lágu leiðir almennings um landið.

Þá þekkti hver ferðalangur landið og rataði um það þvert og endilangt. Þá voru heiðarnar hverjum manni kunnar, vöðin á ánum hverjum manni fær. Þá vöndust menn hættum og erfiðleikum landferðanna frá barnæsku og öfluðu sér orðstírs á fjallvegunum.

Jafnvel um Ódáðahraun lágu mannaspor og hesta.

Þá riðu höfðingjar landsins með sveitir sínar þær leiðir, sem nú eru torfundnir fylgdarmenn að.

Nú gróa upp hinir gömlu troðningar á heiðunum, leirrenna og sandverpast. Enginn veit með vissu, hvar sumir heiðarvegirnir hafa legið.

Hið fagra og tignarlega hálendi Íslands sígur í gleymsku og máist smátt og smátt út úr meðvitund þjóðarinnar.

Örnefnin gleymast. Oft voru þau kennd við frábæra karlmennsku eða sögulega atburði á tíð löngu liðinna forfeðra. Sum þeirra hafa þeir helgað með lífláti sínu. -

Á óbyggðum þessum skóp þjóðin sér huliðsheima. Þar létu menn hugann reika á löngum rökkurstundum.

Þá urðu óbyggðirnar kvikar og kynjaverum byggðar. Allt var þar ramheiðið, fornt í skapi og fjölviturt. Sumt var risalegt og ferlegt. Fátt var þar barna meðfæri.

En tryggt var þar allt og tvídrægnislaust, eins og þjóðin vildi sjálf vera.

Tröll bjuggu í nípum fjallanna. Þar sátu þau fyrir ferðamönnum og kváðu kviðlinga. Þau átu smalamenn á jólanóttum; en þau sprungu af harmi, ef vinir þeirra brugðust þeim.

Útilegumenn sátu þar óðul sín í afdölum, sem Skuggavaldur skýldi fyrir byggðamönnum. Þeir gerðu mönnum gerninga og villtu þá, glímdu við þá og báru af þeim. En þegar í raunirnar rak, voru þeir bræður þeirra.

Þar sveimuðu svipir dáinna manna um heiðarnar. Þeir gátu ekki legið kyrrir, því að enginn hafði kastað á þá vígðri mold. Þeir stigu vofudansinn í hörðustu mjallrokunum; - en þeir veinuðu eins og dauðsjúk börn, þegar þeir sáu fyrir slys og manntjón. -

Sæll var sá, sem víða hafði farið um landið og kunni frá mörgu að segja. Hann skorti ekki áheyrendur.

"Fjöld ek fór, fjöld freistaðak", gátu þeir sagt með rökum. Óteljandi voru þær sögur, sem menn kunnu af fjallförum sínum og annarra.

Oft var þá frá fleiru skýrt en gerst hafði. -

Þá lágu fjarlæg heiðalönd í töfraljóma ævintýranna fyrir sjónum framgjarnra æskumanna og stæltu ímyndunarafl þeirra. Þeim brann hugur í brjósti að kanna þar sjálfir nýja stigu, rata í mannraunir og afla sér ágætis.

Þá var Ísland fjölda manna nógu stórt og nógu ríkt.

Þá unnu menn landinu, en vissu það ekki. Nú þykjast fleiri unna því en gera það.

Nú eru allar kynjasögur um óbyggðirnar dauðar; traust á vaxandi þekkingu og nýr hugsunarháttur hefir ráðið þær af dögum. Þannig fara allar kynjasögur á endanum, hversu heilagar sem þær hafa verið haldnar á sinni tíð. Andagift feðranna úreldist.

En móðir þeirra, hin hrikafagra, íslenska fjallanáttúra, sem speglar sig í þeim öllum, - hún er líka að hverfa sjónum öllum þorra manna.

Nú liggja hinir fögru og björtu heiðaflákar auðir og gleymdir þúsundum Íslendinga, er sveima kringum landið með súð undir fótum.

Fáeinir fjallskilamenn leggja þangað leiðir sínar einu sinni eða tvisvar á ári.

Stöku menn neyðast til að fylgja þangað forvitnum útlendingum, sem komnir eru langar leiðir yfir lönd og höf til þess að sjá Ísland og láta sér ekki nægja strendurnar einar.

Annars koma þangað engir menn.

Þessir menn eru einir til frásagna um auðæfi þau, sem liggja ónotuð í návist og skjóli hálendisfegurðarinnar sumarsælu.

Enn færri þekkja vetrarríkið þar.


Líti menn yfir þessi heiðalönd á sumrin, ber fyrir augu þeirra ljósgula bletti til og frá, sem stinga í stúf við holtin og móana, víðirunna og birkibrekkurnar.

Það eru gömul tún.

Þar liggja heiðahýlin - í eyði.

Túnin bera enn þá valllendislit; þar, sem einu sinni hefir verið rækt í jarðveginum, er hún sein að hverfa með öllu.

Heiðabýlin hafa staðið í hvömmunum við rætur fjallanna, á

bökkum lækjanna eða nesjum veiðivatnanna - ætíð þar, sem fegurst er og bjargvænlegast.

Alls staðar eru garðabrot umhverfis túnin; sums staðar hver girðingin annarri utar. Þær sýna, að starfsamar hendur hafa þar að unnið.

En í túnunum miðjum eru vallgrónar tóftir, signar saman og sokknar í jörðina. - -

Undarlegar tilfinningar grípa flesta, sem staldra við hjá þessum eyðibýlum.

Þar hafa menn búið fyrir öldum eða áratugum. Enginn veit, hve gömul mannvirkin eru.

Hvað hefir rekið þessa menn eða dregið hingað upp í óbyggðir? Hvernig hefir búskapur þeirra gengið? Hvernig hefir honum lokið?

Spurningar eru nægar. Svör engin.

Oft veit enginn, hver búið hefir þar síðast. Stundum er bæjarnafnið glatað líka. -

Byggðamenn hafa oft haft ímugust á þessum býlum og litið á þá menn tortryggnisaugum, sem þangað hafa flutt.

Það hefir gert þeim baráttuna tvöfalt þyngri. Það hefir einnig fælt aðra frá að flytja á eftir þeim, svipt þá nágrannahjálpinni.

Almenningsálitið er máttugt - hvað vitlaust sem það er.

Stundum hefir þessi tortryggni ekki verið ástæðulaus. Oftar hefir hún þó verið því einu að kenna, að þessir menn voru einrænir í lund, sjálfstæðir og framgjarnir, hirtu ekki um leið fjöldans.

Ástæður manna geta verið margar og sundurleitar.

En hvað sem þeim líður. - Hér eru spor þeirra manna, sem reynt hafa að leggja undir sig þessi hagsælu heiðalönd. Þeir hafa barist - barist við óblíðu náttúrunnar, barist við óblíðu mannanna og beðið ósigur að lokum.

Ef til vill eru þessi eyðibýli leiði ljómandi vona, drengilegrar viðleitni, ótrauðrar orku. Ef til vill eru þau leiði þeirra manna sjálfra, sem gæddir voru þessum gáfum.

Fjallaheimurinn hefir laðað þá í faðm sér, en orðið þeim of kaldur.

Það er eins og sorglegar sögur séu grafnar í grassvörðinn við fætur manna. Hver lína, sem svip ber af mannaverkum, er dráttur í rambundinni rún, flókinni og dularfullri. Þessi vallgrónu veggjabrot gætu haft frá mörgu að segja.

Maður stendur á heilögum grafreit. Hljóðleikinn og alvaran grípa hugann og gera hann viðkvæman. Það líkist söknuði yfir ókunnugum ágætismanni, það líkist hátíðleik útfararinnar. Minningar eru á sveimi umhverfis mann. Það er eins og hugurinn finni vængjablak þeirra, en geti ekki náð þeim.

Engin tök eru á að vita neitt. Mann grunar því fleira.

Ef til vill búa þessar tóftir yfir einhverjum duldum glæpum. En þær búa líka yfir duldum góðverkum. Sumir hafa blessað þær, aðrir bölvað þeim, á meðan þær voru hús.

En þær búa yfir mörgu fleira.

Hver þekkir sælu þá og unað, sem ef til vill hefir búið í þessum kofum, þegar ungir elskendur settust þar að? Hver þekkir ást þá, von og þrá, sem lyft hefir brjóstum þeirra og gert þeim kotin konungahöllum bjartari?

Og hver þekkir öll vonbrigðin?

Hver þekkir allt það böl, allar þær sorgir, sem þessar föllnu þekjur hafa skýlt? Hver þekkir allar þær ástríður, sem þar hafa hamast í sálum mannanna?

Hver getur lýst öllum þeim hugarkvölum, allri þeirri angistartrylling, sem gripið fær mannsandann, þegar að honum þrengir frá öllum hliðum - líkt og ókleifir múrveggir ýtast saman, hægt en miskunnarlaust, til þess að kremja hann í sundur lifandi?

Hver getur lýst hugarástandi einyrkjans, þegar hann sér bræður sína, mennina, glotta að óförum hans, snúast í lið með náttúruöflunum á móti honum, stálkalda, hluttekningarlausa, hefndarglaða?

Það getur enginn.

Þá verður öll skáldleg ímyndun aflvana. -

En heilagir eru þessir grafreitir, því margir hafa grafið þar niður það besta, sem lífið hefir veitt þeim, blómaár ævinnar, göfugar hvatir og tilfinningar, starfskrafta sína, heilsu sína og loks lífið sjálft.

Beisk tár hafa fallið þar til jarðar. Brennandi bænarandvörp hafa stigið þaðan upp í ískaldan geiminn. Nístandi örvæntingarraddir hafa hrópað þaðan til mannanna, til guðs, og - enga áheyrn fengið.

Loks hefir orðið þar steinhljótt. Ekkert eftir nema tóftirnar. - -

Á þessa ljósgulu heiðabletti er skráður einn þáttur Íslendingasögu. Hann er þar skráður, en hvergi annars staðar.

Einhver verndandi völd halda við lit þeirra. Langar leiðir frá vekja þeir eftirtekt manna, eins og þeir hvísli að þeim: Komið og sjáið!

Hér hafa menn komið. Þeir voru landnámsmenn. En þið hafið gleymt nöfnum þeirra.

Landnám þeirra eru komin í eyði.

Íslendingar finna lönd og glata þeim aftur. - Vínland fundu þeir og glötuðu því. Grænland - sömuleiðis. Nú eru þeir að glata miklum hluta af Íslandi.

Lítið þið á! Þarna liggur ævistarf eins af sonum Íslands - spillt og eyðilagt.

Þarna liggur árangurinn af samanlögðu erfiði margra manna, heillar fjölskyldu, heillar ættar, lið fram af lið - allt orðið að engu.

Umhverfis ljóma heiðalöndin, auðug og gróðursæl, víðlend og ónumin.

Þannig hefir farið fyrir þessum landnámsmönnum. Hvenær koma þeir næstu?

Hvenær tekst útvörðum þjóðarinnar að leggja undir sig þessi miklu landflæmi, án þess veturinn taki þau af þeim aftur?

Eða á eyðibýlunum að fjölga enn þá?

Á allt líf að dragast ofan að sjávarsíðunni, þar sem þjóðbrautin mikla liggur fyrir framan?

Á hálendið, mikla og fagra, að leggjast í algert eyði?

Nei, nei, - aldrei! Það vill enginn Íslendingur. Og það verður ekki.

Menn, gull, samgöngur, - öfl þeirra hluta, sem gera skal, - það kemur allt með tímanum.

Þegar þjóðbrautirnar liggja um landið, en ekki utan um það, - þegar rennireiðir framtíðarinnar þjóta yfir heiðarnar milli dalbotna, þá læra menn að þekkja landið, og þá nema menn það að nýju.

Þá koma dagar heiðarbýlanna aftur, fegri og blómlegri en áður. Og þá kemur upp helgi þeirra manna, sem varið hafa þar lífi sínu til landnáms.

Þá stækkar Ísland inn á við og saga þess verður fjölskrúðugri. -

- Því miður er það eitt af heiðarbýlum fortíðarinnar en ekki framtíðarinnar, sem vér lítum hér inn í.


1. kafli

Eftir að raunir þær voru um garð gengnar, sem gifting þeirra Ólafs og Höllu hafði haft í för með sér fyrir hana, fannst henni sér létta um hjartað. Sá tími, sem þá fór í hönd, var hvíldartími eftir allar þær geðshræringar, sem á undan voru gengnar. Þá fannst henni öllu vera fyrir komið eins og það ætti að vera.

Hún var í húsmennsku þar, sem Ólafur hafði ráðið sig fyrir sauðamann þetta ár. Hann hafði ráðið sig með öðrum skilmálum en hann var vanur. Hann hafði áskilið sér rétt til þess að fá lausn frá störfum eftir þörfum, vegna undirbúnings undir búskapinn, sem byrja átti næsta vor.

Baðstofan á bænum, þar sem Halla átti nú heima, var sniðin eftir prestssetursbaðstofunni í öllu verulegu, en nokkru minni. Herbergi voru afþiljuð upp að bitum í báðum endum hennar. Annað þessara herbergja, það sem var í fremri enda baðstofunnar, fengu ungu hjónin til íbúðar út af fyrir sig.

Þar var Halla ofur lítið afskekkt og undi því vel. Þar gat hún setið ein með handavinnu sína stundum saman, þar hafði hún næði til að hugsa um örlög sín og harma í hljóði. Heimilisfólkið kom sjaldan þangað inn, nema það ætti erindi. Því fannst það ekki mega vera þar, úr því herbergið væri ætlað "húskonunni". Það líktist áníðslu við hana og var móðgun við húsbændur þess, ef það legði það í vana sinn að sitja þar inni.

Þarna leið Höllu betur en hún hafði búist við. Húsmóðirin á heimilinu gerði sér allt far um að vera henni góð. Heimilisfólkið gerði slíkt hið sama. Eiginlega fannst því Halla vera gestur á heimilinu, sem öllum bæri að sýna gestrisni. Hún var frásneidd öllu smávegis kífi og ósamlyndi, sem kom fyrir milli heimafólksins, þar eins og annars staðar. Báðir málsaðilar gátu verið kunningjar hennar. Hylli hennar varð sjaldan að misklíð eða öfundarefni. Ef til vill var það því að þakka, að Halla sýndi öllum sama viðmótið. Hún var jafnviðfelldin við alla, gerði sér engan mannamun. En raunar hélt hún öllum jafnlangt frá sér; enginn náði innilegri vináttu við hana en annar. Þó gerði hún þetta með slíkri hæversku, að menn urðu þess varla varir. Glettni þá, sem áður hafði stuðlað að því að afla henni andstæðinga, hafði hún lagt niður. Menn lærðu því að virða hana um leið og þeir fengu mætur á henni.

Utanbæjarmenn komu sjaldan að heimsækja hana. "Vinstúlkur" hennar, sem áður höfðu verið, komu fyrst, en hættu því brátt. Þær urðu varar þeirrar breytingar, sem á henni var orðin. Sumar virtust hafa gleymt henni með öllu. Þeim var það meira en nóg hefnd fyrir fornar skapraunir, að hún hafði gifst - Ólafi. Þær kærðu sig ekki um vinfengi hennar lengur og kærðu sig ekki um það heldur að storka henni með því að láta hana sjá sig. Best var, að þær væru skildar að skiptum.

Halla undi því líka best fyrir sitt leyti.

Þó gátu þær ekki að sér gert nema halda spurnum fyrir um hana við og við. Þess vegna þótti fréttafróðum konum vissara að heilsa upp á "Höllu sína, blessunina", stöku sinnum, ef ske kynni, að þær fengju eitthvað sögulegt með sér til næsta bæjar af högum hennar í hjónabandinu.

Þær fóru þó litlu fróðari en þær komu, ef ekki langtum ófróðari. Halla kunni að sjá við þeim. Enn þá gat hún villt sjónir hyggnari manneskjum en þeim.

Og nú var um það að gera fyrir hana að villa mönnum sjónir, á meðan hún væri enn þá í fjölmenni. Undir því, hvernig það tækist, var framtíð leyndarmálsins komin.

Til þess þurfti árvekni og umhyggjusemi í smáu sem stóru.

Öll viðleitni hennar hneigðist að þessu einu, að villa mönnum sjónir, dyljast, dyljast nógu lengi. Angist og kvíði fyrir því, að það kynni að mistakast, lá jafnan eins og farg á allri hugsun hennar. Henni hætti við að missa sjónar á öllu öðru.

Hún hugsaði þá jafnan til þess tíma sem léttis og lausnarstundar, þegar hún gæti flutt burtu frá þessu forvitna kunningjafólki sínu, horfið því sjónum og hætt að óttast það. Þeirrar stundar beið hún með sárri óþreyju. - -

Samfarir þeirra Höllu og Ólafs voru um þessar mundir betri en nokkur maður, og jafnvel hún sjálf hafði búist við. Ólafur gerði allt, sem hann gat, til þess að hlynna að henni og láta henni líða vel. Í þessu efni var hann hugvitssamari og nærgætnari en nokkur hafði trúað honum til að vera.

Halla gat ekki annað en virt við Ólaf þá miklu umhyggju, sem hann bar fyrir henni. Hún fann það vel, að það var engin uppgerð, heldur talandi vottur þess, að honum þótti vænt um hana. Af því þóttist hún mega ráða, að hann hefði fyrirgefið henni, og leyndarmáli hennar mundi vera vel borgið hjá honum. Þetta var meira en hún hafði eiginlega getað trúað nokkrum karlmanni til.

Umhugsunin um fall hennar og lægingu hjálpaði henni einnig til þess að yfirvinna óbeit þá, sem hún hafði haft á Ólafi. Hinir nýliðnu atburðir voru enn þá ríkari en svo í huga hennar, að hún gæti gleymt þeim vandræðum, sem hann hafði hjálpað henni fram úr. Þvert á móti urðu öll atvik, allar hættur og raunir hennar enn skýrari, þegar hún gat litið yfir það allt saman eftirá og velt því fyrir sér. Eiginlega hafði hún verið algerðri glötun miklu nær en henni hafði þá skilist. Nú komu svo mörg atvik fram í huga hennar, sem hún hafði þá sama sem stigið yfir. Þau hefðu getað ónýtt ráð hennar með öllu. Á réttri stundu höfðu atvikin látið hana rata á þennan mann, eina manninn, sem nokkrar líkur voru til, að vildi leiða menn á villustigu og gæti það. Hún gat ekki gleymt lagni hans og ófeilni, þegar hann var að telja mönnum trú um, að þau hefðu verið lengi trúlofuð. Hún hafði ekki gert það með nándarnærri öðrum eins sakleysisblæ. Ef til vill var það snilli hans mest að þakka, að menn lögðu trúnað á söguna.

Fyrir allt þetta var hún honum þakklát, og sú tilfinning hennar var innileg. Og sjálfsásakanir hennar blésu henni því í brjóst, að í raun og veru væri hún honum ekkert of góð. Fríðleiksmunurinn var þeim báðum ósjálfráður. Og hvers virði var fríðleikurinn, þegar sæmdin var farin? Þá var hann hefndargjöf.

Þó taldi hún sig allra kvenna ólánsamasta.

Þá hvarflaði henni stundum í hug, hvort hún hefði nú í raun og veru verið neydd til að giftast Ólafi, - hvort ekki hefði mátt dylja leyndarmálið án þess. En hvernig sem hún velti því fyrir sér, varð niðurstaðan ætíð sú sama. Gagnvart lögunum var það nóg, að Ólafur nefndist faðir að barninu; gagnvart almenningsálitinu stoðaði það ekkert. Menn hefðu hlegið að slíkum tilbúningi og ratað því fljótar á rétta leið. Eina ráðið til þess að gæða söguna sannfærandi magni var það að auglýsa lengi leynda trúlofun og giftast síðan manninum.

Allar þessar hugsanir leiddu til þess, að Halla ásetti sér að verða Ólafi góð kona, hlynna að kostum hans og hefja þá, draga úr ókostum hans og lýtum og bera byrðar lífsins með honum og fyrir hann. Jafnan hafði hún borið lotningu fyrir skyldum sínum og rækt þær dyggilega. Hjúskaparskylduna hafði hún álitið helgustu og dýrmætustu skyldu konunnar og hjónabandið heilagt og órjúfanlegt, hvaða atvik sem að því lægju. Enginn skyldi geta sagt það um hana, og allra síst Ólafur, að hún brygðist þessari skyldu sinni eða skoraðist undan henni. Fyrst hún hafði gengið út í þetta, skyldi hún rækja það út í ystu æsar og aldrei láta á því bera, að hún gerði það nauðug.

Enda fann hún það vel, að Ólafur átti alls kostar við hana. Ekkert var í fari hans, sem dylja þurfti, en undir þagmælsku hans var ekki einungis heiður hennar kominn, heldur annars manns til. Ekki var hætt við öðru en hann væri sér þessa valds meðvitandi. Ef til vill væri hann við því búinn að beita því, ef sambúðin spilltist. Hverju var að treysta? Þótt honum þætti vænt um hana nú, þá gat það breytst.

Á slíku kviksyndi var hjúskaparsambúðin byggð. Hrollur fór um hina ungu konu, er hún hugsaði til framtíðarinnar. Þakklátssemi og ótti voru hornsteinarnir. Ást? - Hver spurði um ást í slíku bandalagi? Hversu mörg hjónabönd voru byggð á ást? Flest voru þau stofnuð á líkan hátt og hennar. Elskendunum var oftast stíað sundur. Og þó sambúðin væri byrjuð með ást - hvað entist hún lengi?

Ef Ólafur hafði ást á henni nú, var um að gera að halda þeirri tilfinningu við meðan unnt væri. Það gerði sambúðina bærilegri en ella. Ef hann hélt, að henni þætti vænt um hann, var best að halda honum í þeirri góðu trú. Honum þurfti hún líka að villa sjónir. -

Í daglegri umgengni var hún Ólafi góð. Þegar hann lét vel að henni, tók hún því blíðlega. Hún tók það nærri sér í fyrstu, en vandist við það. Tilfinningar hennar dofnuðu og drógu sig saman innan í þessari ísköldu skylduskel. Hún gat loks fengið sig til þess að sýna honum blíðuatlot að fyrra bragði við og við, ef hún gat blekkt einhvern með því. Ekkert lét henni betur í eyrum en þegar hún heyrði út undan sér menn vera að dást að því, hve ástin gæti verið blind!

En fegnust varð hún hverri þeirri stund, sem Ólafur var ekki heima. Hún hlakkaði hálfgert til vetrarins. Þá tæki hann við sauðageymslunni og kæmi aldrei heim fyrr en á kvöldin.

Þegar hann var ekki heima og hún sat ein yfir hugleiðingum sínum, greip hana klökkvi og stundum grátur. Þá var herbergið henni ekki einhlítt; en þá kom henni vel að ráða tíma sínum sjálf. Henni fannst það þá besta ráðið að ganga burt frá bænum, eitthvað á hvarf út í skaut náttúrunnar, og gráta þar yfir kjörum sínum.

Eftir þessum ferðum hennar tók heimilisfólkið. Af þeim og af því, hvernig Halla leit út, þegar hún kom heim, þóttist það geta ráðið, að hún dyldi einhverja harma.


Ólafur var eins og annar maður eftir giftinguna. Andlitið var raunar það sama og vaxtarlagið sömuleiðis. En á öllu sást þó nokkur breyting.

Ekkert andlit er svo ófrítt, að ekki geti það orðið viðfelldið, þegar ást og ánægja skína þar út úr hverjum drætti. Ef til vill er munurinn á andlitum manna miklu minni en flestir halda. Öll eru þau steypt í líku móti. Það er sálarástandið, sem leggur á þau smiðshöggið.

Hugsum oss sama andlitið fýlt og brosandi. Hvlíkur munur! Hugsum oss skugga myrkra hugsana og skin annarra bjartra líða til skiptis yfir sama andlitið og gerbreyta því. Hugsum oss öll þau svipbrigði, sem það getur sýnt, frá sárustu sorg til sælustu gleði, frá hatri og illsku til ástar og yndis. Himnaríki og helvíti og allt, sem þar er á milli, geta andlit mannanna sýnt.

Andlitin eru eitt af meistaraverkum sköpunarverksins. Leikarar og hræsnarar kunna að meta kosti þeirra og hagnýta sér þá. Þau koma upp um oss hina. Erfitt reynist oss að dylja sorg vora eða gleði. Undir þeim eru dómar annarra manna um oss að miklu leyti komnir. Og allir munum vér kannast við það, hvernig ófríð, jafnvel fúl andlit geta orðið ástúðleg. -

Augnalokin á Ólafi voru þau sömu, en svefnsvipurinn var minni. Þegar hann gekk hugsandi og leit eigi upp, hafði verið líkast því í gamla daga, að hann ráfaði sofandi. Nú sáu allir, að hann var glaðvakandi. Bros léku um andlitið, og þegar augun sáust, ljómuðu þau af gleði. Það var eins og hann lofaði augnalokunum að síga við og við, á meðan hann sökkti sér ofan í sæla vökudrauma.

Limaburðurinn var líka orðinn annar. Ólafur var orðinn léttari í spori og hvatlegri. Beygjan á bakinu réttist, að minnsta kosti við og við. Hann bar höfuðið frjálsmannlegar, og handleggirnir slettust ekki eins læpulega.

Margar voru orsakir til þessara breytinga, en sterkust af þeim öllum var ástin. Hún lyfti mönnum upp í hærra veldi. Ástfanginn maður er bjartsýnni en ella. Hann gerir meiri kröfur til sæmdar sinnar, því nú er hún ekki lengur hans eins, heldur einnig þeirrar veru, sem hann ann hugástum.

Áður en Ólafur fékk Höllu, hafði hugarástandi hans verið annan veg farið. Þá barðist kvíðinn og efinn við ástina og vonina í brjósti hans og bar oftast hærra hlut. Þá megnaði ástin ekki að manna hann upp. Nú var þetta yfirunnið, hann var giftur þeirri konu, sem hann hafði þráð, og hjónabandssælan fyllti huga hans.

Ein orsökin var sú, að umgengni annarra manna við Ólaf var orðin önnur. Nú var hann kominn á annað heimili; það skipti þó minnstu, því alls staðar í sveitinni var hann jafnþekktur. Meira var vert um hitt, að hann var giftur. Enginn vildi skaprauna Höllu með því að erta hann og hafa hann að háði. Þeim píslum var nú létt af honum, án þess hann vissi, hvernig á því stóð. Hann fann sig tryggari fyrir þessu með hverjum degi, sem leið, og færra varð til þess að raska lyndisjafnvægi hans.

Eitt var það enn, sem átti drjúgan þátt í breytingunni á ytra útliti Ólafs, og það var beinlínis verk Höllu. Það var það, hvernig hann var til fara. Um það hafði Ólafur lítið hirt til þessa, en aðrir þó enn minna. Nú leið Halla honum ekki að koma á mannamót öðruvísi en sæmilega búnum. Daglega var hann einnig betur til fara en verið hafði. Þeim, sem þekkt höfðu Ólaf áður og vanir voru því að sjá hann óhreinan og lubbalegan sýknt og heilagt, brá í brún við, að sjá hann uppstrokinn á hverjum sunnudegi, hreinan og greiddan, með hárið og skeggið smekkvíslega klippt.

Ólafur undi því vel hag sínum fyrstu mánuði hjúskaparins. Hann var sannfærður um, að Höllu þætti vænt um hann, og bjó sér þá skoðun til, að ef til vill hefði það lengi verið svo. Hún hefði dregist út í þetta ævintýri af léttúð, en aldrei unnað neinum öðrum en honum. Á annarri eins konu og Höllu voru slík spjöll ekki teljandi; annað eins hafði marga væna stúlku hent.

Og nú hafði hann komist að raun um, að hægt var að halda guðsmanninum í bóndabeygju með þessu leyndarmáli. Það gat komið sér vel seinna. Aftur var það fjarri skapi hans að láta Höllu gjalda þess. Til þess þótti honum of vænt um hana.

Þegar Ólafur kom heim á kvöldin, settist hann inn í herbergi til Höllu sinnar. Þar skrafaði hann og hló og lék við hvern sinn fingur. Hann hafði ánægju af að bjóða öðrum heimamönnum þangað inn til skrafs og skemmtana, en láta dyrnar standa opnar, svo að fleiri gætu bætst við. Miðstöð allrar glaðværðar varð í þeim enda baðstofunnar, og þangað safnaðist fólkið í tómstundum sínum.

Menn finna töluvert til sín, þegar þeir verða húsum ráðandi í fyrsta skipti - finna hjá sér rétt til þess að bjóða mönnum inn og reka þá út. Húsakynni Ólafs voru ekki stór, en gestrisinn var hann að eðlisfari. Þegar herbergið var orðið fullt og húsbændurnir úr hinum baðstofuendanum komnir þar í dyrnar, þegar allir skemmtu sér inni hjá honum, stundum fram á nótt, - þá var hann ánægður.

Höllu gast lítið að þessu fjölmenni, en hún lét sér það þó lynda. Það hafði þann kost, að þá sáu nógu margir, hve samrýnd þau voru, hjónin.


Þannig fannst Höllu atvikin hjálpast að því smátt og smátt að vefa ábreiðu, þykka og þunga, ofan á leyndarmál hennar. Hún var farin að verða ugglaus um, að það mundi komast upp.

Nú hlaut einnig að fara að fyrnast yfir undrun þá, sem gifting þeirra Ólafs hafði vakið hjá mönnum. Það gleymist fljótast, sem mestum tíðindum þykir sæta á meðan það er nýtt.

Henni fannst nú sem hún hlyti að vera utan skerja með hið dýrmæta leyndarmál sitt, svo henni fór að verða rórra í brjósti um það.

En eitt sinn, er hún sat hljóð og hugsaði um þetta, fann hún fóstrið hreyfast. Henni brá ekkert við það, því oft hafði hún fundið það áður. Nú var mjög liðið á meðgöngutímann.

Jafnan höfðu þessar hreyfingar barnsins gert henni hlýtt um hjartaræturnar, en í þetta skipti skaut fram í huga hennar hugsun, svo óttalegri, að henni dimmdi fyrir augum.

"Barnið!" mælti hún hálfhátt fyrir munni sér og fölnaði upp.

Aldrei hafði henni dottið þetta í hug fyrr en nú, að barnið gæti komið öllu upp, eða jafnvel hlyti að gera það.

Og hvað var þó eðlilegra, - hvað var sjálfsagðara en það, að barnið líktist föður sínum eða minnti svo mjög á hann, að allir kunnugir þekktu ættarmótið?

En að henni skyldi ekki hafa komið þetta til hugar fyrir löngu - löngu!

Nú var eins og þetta væri hrópað framan í hana með allri þeirri ósvífni, sem öfund og mannvonska geta blásið mönnum í brjóst.

"Barnið, barnið! - Þú gleymir barninu, - ha-hæ!"

Það var sem sæi hún glott vinnukonunnar fram undan sér, þeirrar, sem hrópað hafði þá frétt í eyru henni, að presturinn væri kvæntur. Nú sendi hún annað eiturskeytið í sál hennar - og hló illkvittnislega.

"Barnið líktist föður sínum - auðvitað!"

Undireins var hún sannfærð um, að þetta væri svo. Hún fann það á sér, að þannig hlyti það að vera. Sál hennar og líf hafði verið ósnortið af nokkrum öðrum karlmanni. Þessi eini maður hafði verið henni sem samgróinn; um hann hafði hún hugsað, um hann hafði hana dreymt. Aldrei hafði svipur hans horfið henni úr huga þann tíma, sem fóstrið var að skapast. Og það var hold af hans holdi, ekki síður en hennar.

Nú sá hún, hvílíkur voði var fólginn einmitt í þessu.

Gifting hennar og Ólafs var þá til einskis. Það, sem hafði knúð hana til þess að stíga jafnóljúf spor, kom þá fram samt sem áður. Allt samanlagt erfiði þeirra Ólafs, öll "snjallræðin", sem þau voru svo hróðug yfir, - allt varð til einskis. Lygin komst samt upp.

Þetta sökkti henni á ný ofan í áhyggjur og hugarvíl.

Fegin hefði hún viljað taka sig upp og flýja eitthvað langt í burtu. Hún talaði utan að því við Ólaf, hvort þau gætu ekki fengið að flytja í Heiðarhvamm þá þegar um haustið, en gat ekki um ástæðuna. Hann kvað það ógerlegt og færði margt til. Hann var vistráðinn til næsta vors. Kotið var ekki byggt honum fyrr en frá næstu fardögum. Og sjálfsagt þyrfti að hressa eitthvað við í Heiðarhvammi áður en ráðlegt væri að taka þar á móti vetrinum.

Halla sá, að hann hafði rétt að mæla, og minntist ekki framar á þetta.

Það var óumflýjanlegt, að hún yrði að dvelja þarna til vors og ala þar barn sitt.

Enn þá átti hún eftir vetrarlanga baráttu fyrir leyndarmáli sínu. Nú voru það opin augu þeirra manna, er hún umgekkst daglega, sem hún átti að verjast gegn. Það getur tekist að glepja mönnum sýn, en það getur líka mistekist.


Um haustið ól Halla sveinbarn.

Það hljóðaði hraustlega þegar eftir fæðinguna, og ljósmóðirin hafði orð á því, hve stórt það væri og fallegt.

Veik og máttfarin greip móðirin um léttann, sem hékk yfir rúminu, og lyfti sér upp af koddanum, til þess að sjá barnið í höndum ljósmóðurinnar.

"Nei, nei, nei, - þetta máttu ekki. Í guðs bænum -! Þú verður að liggja alveg kyrr," sagði ljósmóðirin skipandi.

Halla lét sig aftur síga ofan á koddann og stundi við.

Hún hafði séð nóg í bráðina. -

Þegar búið var að lauga barnið og reifa það, var það lagt í rúmið við hlið hennar.

Þá hafði hún nægan tíma til að virða það fyrir sér. Fyrsta sýn hennar hafði verið rétt, þótt stutt væri. Barnið líktist þeim báðum, foreldrum sínum, en föður sínum þó miklu meira.

Og fyrst það var sveinbarn, var hún ekki í efa um, að svipur föðurins mundi verða skýrari á andliti þess með aldrinum. --

Höllu heilsaðist vel eftir barnsburðinn, og drengnum hennar fór vel fram. Hún annaðist hann með móðurlegri alúð og elskaði hann eins og lífið í brjósti sér.

Nú fann hún til sælu við það eitt, að honum liði vel. Mesta yndið hennar var að sitja með hann vakandi í fangi sínu, gera að honum tæpitungu, leika sér við hann og horfa í augun á honum.

Og þegar hann fór að geta hjalað, jókst gleði hennar um helming. Þá fannst henni hann vera að tala við hana á tungu englanna.

Stundirnar flugu þá án þess hún vissi, hvernig þær liðu. Þá sóttu miklu sjaldnar að henni áhyggjur og þunglyndi. Barnshjalið rak það burtu frá huga hennar. Þá leið henni best, þegar hún vissi enga manneskju nálægt sér.

Ó, hvað hún þráði að komast í einveru með barnið sitt. -

Barnið var hraust og spakt; svaf mikið og grét sjaldan. Jafnvel þegar verið var að þvo því heyrðist ekkert til þess. Það lá á brjósti og saug fast, svo Höllu kenndi oft sárt til. En það launaði eldið með því að gera henni fáar stundir erfiðar.

Nú komu margir til Höllu, til þess að "óska henni til hamingju með soninn."

Einkum voru það konur úr nágrenninu, forvitnar og skrafgjarnar, sem aldrei þoldu lengi að halda kyrru fyrir heima.

Halla þekkti þær vel og vissi, hvert erindi þeirra mundi vera.

Hún lét þó ekki á því bera, hve komur þeirra voru henni ógeðfelldar, en tók þeim með allri hæversku.

Ef hún hafði þá barnið í fanginu, lét hún það grúfa sig inn að beru brjóstinu, svo lítið sæist framan í það.

En oftar lá það fyrir ofan hana í rúminu. Þar var búið upp ofur lítið rúm handa því ofan á rúmfötunum, alveg uppi við þilið. Halla sat framan á rúminu og varnaði því, að nokkur gerðist því of nærgöngull.

Þegar heimsækjendurnir báðu hana að lofa sér að sjá barnið, varð auðvitað ekki hjá því komist.

Flestar mæður hafa gleði af því að sýna kunningjakonum sínum barn sitt og heyra þær dást að því og kjassa það.

En Halla sýndi barn sitt með hangandi hendi. Þegar sveinninn svaf, bar hún það fyrir, að ekki mætti vekja hann, og lét sér nægja að lyfta sængurfötunum lítið eitt frá andliti hans. Ef hann var að sjúga, bar hún það fyrir, að nú væri hann að "bjarga sér" og vildi hafa matfrið.

Þó fengu margir að sjá hann, að minnsta kosti í svip. En ætíð hafði það sömu áhrifin.

Þeir horfðu undrandi á sveininn, meðan tími vannst til, eins og þeir sæju allt annað en þeir áttu von á. Þegar þeir loksins tóku til máls, sögðu flestir það sama: "Hann er ekkert líkur pabba sínum."

Mönnum kom það kynlega fyrir, að hins einkennilega augnasvips, sem mest lýtti andlit Ólafs, skyldi ekkert gæta á barninu. Slík einkenni þurfa oftast marga ættliði til að hverfa.

"Nei, hann er líkur mér," gegndi Halla jafnan brosandi. Enginn treysti sér til að bera á móti því. Enda kom enginn því fyrir sig, hverjum barnið líktist.

Halla var við undrun manna búin. En hún var jafnan á glóðum um, að einhver mundi nefna þann mann, þó ekki væri nema í gamni, sem barninu svipaði til.

Þá var úti um allt. Það mundi hitta hana í hjartað eins og ör. Í ráðaleysinu mundi hún segja eða gera eitthvað það, sem staðfesti gruninn að fullu. Þau yrðu endalokin á allri baráttu hennar.

Hún komst að því, að menn voru farnir að stinga saman nefjum um það, hverjum barnið væri líkt. - Nú var hún aftur orðin að umtalsefni manna á meðal.

Hún fór að telja dagana, sem eftir væru, þar til hún gæti komist burtu frá þessu hvísli, þessum undrunaraugum og þessari nærgöngulu forvitni. Þeir voru margir. Veturinn var að ganga í garð. Skammdegið syrti að.

Hvíslið dó niður, eða fjarlægðist hana að minnsta kosti; en kvíðinn og óttinn vék aldrei frá henni.

- - Hún sat með bækur yfir barni sínu og las. Aldrei hafði hún áður haft tök á að svala löngun sinni til að lesa. Nú notaði hún þá hægu daga, sem hún átti, til þess að lesa allt það, sem hún náði í.

Bókalesturinn var þá um leið eins konar athvarf, sem hún flúði til. Þegar barnið svaf og allt var kyrrt í kringum hana, ásóttu hana þungar hugsanir. Þá greip hún til bókanna. Hún las til þess að svæfa harma sína.

Bóndinn á bænum var bókamaður og lánaði Höllu fúslega alls konar skemmti- og fræðibækur. Flestar voru prentaðar, en sumar voru aðeins skrifaðar með fallegu, settu letri og rósastöfum. Það hafði móðir hans gert.

Þessar bækur fóru með hug hennar um heima og geima, bæði þá, er til voru, og hina, er mennirnir höfðu skapað sér til skemmtunar.

En hvert sem hugur hennar flögraði, eltu áhyggjurnar hann. Hvar sem hann nam staðar, beið hans óró og kvíði.


"Á ekki að fara að skíra barnið?" spurði Ólafur Höllu hálfkuldalega. Það var eitt kvöld á jólaföstunni. Þau sátu þá inni í herbergi sínu. Hitt fólkið hafði lagt sig út af í rökkrinu.

Halla svaraði svo lágt, að aðeins hann gat heyrt það:

"Nei. - Ekki á meðan við erum í þessari kirkjusókn."

Ólafur þagnaði og lét sér svarið nægja. Hann skildi, við hvað hún átti. Hann hafði ásett sér að láta hana eina ráða öllu því er þetta barn snerti. Af því vildi hann ekkert skipta sér. En ekki gat hann við það ráðið, að ætíð varð rómurinn kaldranalegur, þegar hann minntist á eitthvað, sem því kom við.

Spurning Ólafs hafði heyrst fram í baðstofuna, þar sem fólkið lá vakandi í rúmunum, en svar Höllu hafði ekki heyrst.

Fólkinu kom spurningin ekki á óvart. Oft hafði það gert hvað öðru sömu spurninguna í kyrrþey.

Margir mánuðir voru liðnir síðan barnið fæddist. Móðir þess var komin til góðrar heilsu fyrir löngu, og enn var ekki farið að fullnægja þessari kirkjulegu og lagalegu skyldu.

Hingað til hafði þó aðeins verið hvíslast á um það. Úr þessu var farið að tala um það upphátt, og ætíð hærra og hærra.

Kunningjakonur Höllu komu til hennar og spurðu hana hispurslaust, hvort hún ætlaði ekki að fara að láta skíra barnið sitt, eða hvort hún ætlaði að láta það farast fyrir.

Halla fór undan í flæmingi. Að vísu ætlaði hún að láta skíra barnið; en hún vildi láta skíra það í kirkjunni, og hvergi annars staðar. Þá ætlaði hún einnig að láta leiða sig í kirkju. Nú var svo sjaldan messað, að dráttur varð á þessu þess vegna.

Eftir jólin og nýárið gat hún afsakað sig með því, að þá hefði verið svo vont veður, að ekki hefði verið fært með ungbarn til kirkjunnar. Á þrettánda dag jóla var messað; en hún hafði ótrú á tölunni 13. Nú hlaut að verða af því einhvern tíma á langaföstunni, að minnsta kosti ekki síðar en á páskunum.

Þessi dráttur á skírn barnsins var meira en almenningur gæti þolað þegjandi.

Þegar út á leið um veturinn, var margt um þetta talað á hverjum bæ í allri sveitinni og margs til getið um orsakirnar.

Allir kenndu Höllu um það. Sumir skýrðu það á þann veg, að hún væri svo einþykk og sérvitur, að þetta væri ekki nema líkt henni. Henni væri um að gera að vera einhvern veginn öðruvísi en aðrir menn.

Líklega ætlaði hún aldrei að láta skíra barnið; hún bæri þetta fyrir í þetta skiptið og hitt í hitt skiptið. Þetta gæti vel verið einhver ný trúarbragðakredda, sem hún hefði fundið upp.

Þeir, sem fróðastir þóttust vera, höfðu þó enn meira til að tala um:

Eitthvað undarlegt var fólgið í þessu öllu saman, sem Höllu kom við. Það var ekki nóg með það, að hún vildi ekki láta skíra barnið. Hún færi með það eins og hún hefði stolið því. Varla nokkur maður fengi að sjá það. Þó var annað enn þá undarlegra. Enginn hafði nokkurn tíma séð Ólaf með barnið. Enginn gat séð, að hann hefði neinar mætur á því. Aldrei hafði hann sést leika við það, hampa því eða kjassa það. Þetta voru undarlegar föðurtilfinningar.

Enda var barnið ekki líkt honum.

Þó hafði Halla sagt einhverjum, að hún ætlaði að láta drenginn heita í höfuðið á "pabba sínum" og honum þætti undur vænt um það.

Allt þetta gerði menn hálfruglaða. Þeir, sem skarpast hugsuðu, þóttust sjá, að hér væri ekki allt með felldu. En sagan komst aldrei saman, því eina höfuðpersónuna vantaði.

Allir þeir, sem menn vissu til, að lagt hefðu hug á Höllu, voru taldir upp, og það vegið og metið, hve miklar líkur væru til, að einhver þeirra gæti verið faðir barnsins.

Um marga var að gera. Hver kom með sína getgátu.

Einhver náungi, sem þótti nóg um skrafið, var þá svo gamansamur að búa til samhengi í söguna:

Halla hlaut að vera heilluð af huldumanni, og barn hennar ættað frá undirheimum í föðurætt. Þá var ekki að undra, þótt hún hlífðist við að láta skíra það!

Orðið fékk vængi. Margir skildu sneiðina og þögnuðu.

En áköfustu skrafskjóðurnar eru aldrei þær gáfuðustu. Þær litu upp stórum augum, rétt eins og nú rynni upp ljós fyrir þeim. Hjá þeim var gamla þjóðtrúin langt frá því aldauða.

Ekki var langt síðan sögur voru á flakki þar um sveitina um ástir álfa og mennskra manna. Margir mundu eftir mönnum, sem orð lék á, að væru álfabörn eða umskiptingar.

Alls konar smáatvik voru tínd saman og tekin til greina. Það var meðal annars haft eftir heimilisfólkinu, að Halla hefði stundum horfið frá bænum á meðan hún gekk með barnið. Enginn vissi, hvert hún hefði farið. Þegar hún hefði komið aftur, hefði hún jafnan verið litverp, eins og eftir grát. - -

Fastan leið - páskarnir liðu líka, en barn Höllu var ekki skírt.

Það var alveg gengið fram af mönnum.

Sumir fóru til Ólafs og reyndu að leiða honum fyrir sjónir, hvílík óhæfa það væri af honum að láta þetta viðgangast.

Suma furðaði mest á því, að presturinn skyldi láta það afskiptalaust.

- - Halla heyrði skraf manna út undan sér og hafði mikla raun af því.

Hún þóttist sjá illkvittni manna og löngun til að vinna henni mein í öllum þessum þvættingi. Hvað komu einkamál hennar öðrum mönnum við? Hvers vegna létu menn svona?

Og með þessari ákefð gat ekki hjá því farið, að menn kæmust fyrir leyndarmál hennar.

Átti hún að láta undan? Átti hún að friða fólkið með því að láta síra Halldór skíra barnið?

Hún mundi neyðast til þess, ef hún kæmist ekki í burtu því fyrr.

Átti hún enn þá einu sinni að leggja það á sig að standa frammi fyrir þessum manni, og það á meðan hann skírði barn þeirra? Átti hún enn þá einu sinni að standa á kórgólfi, frammi fyrir öllum söfnuðinum, frammi fyrir altari guðs síns - ljúgandi, grátandi og skjálfandi, á meðan faðirinn læsi ættarmót sitt í andlitsdráttum sonarins og augum hans?

Nei, nei, - hún gat það ekki.

Annað var það, að hún ætlaði að láta drenginn heita "í höfuð pabba síns," eins og hún hafði sagt fólkinu. Þá yrði hún að hverfa frá því.

Og hann - mundi hann geta skírt þetta barn með sama jafnaðargeði og önnur? Nei, - þá kvöl og hugraun mátti hún ekki gera honum.

Þau máttu ekki sjást framar. Það var þeim báðum best.

Enn um stund varð hún að reyna að verja sig með ósannindum og undanbrögðum.

Jafnframt hafði hún gætur á öllum veðramerkjum vorsins og spurði eftir heiðunum, hvort þar væri ekki líka farið að vora.

Óþreyjan og ákefðin gerðu hana hálfsinnulausa.

"Á uppstigningardag, ef þá verður messað, læt ég skíra barnið. Annars á hvítasunnunni", sagði hún þeim, sem spurðu.

En fyrir þann tíma ætlaði hún að reka Ólaf til þess að flytja að Heiðarhvammi.

Þar átti innsiglið á gröf leyndarmáls hennar að festast til fulls.


2. kafli

Það voraði seint. Þokur og rigningar gengu dag eftir dag með litlum hlýindum, og sólarinnar naut sjaldan. Snjóinn tók seint upp, og jörðin var gljúp eins og svampur og rennvot. Til byggða fór gróðrinum lítið fram og snjór lá á heiðunum fram eftir öllu vori.

Eftir vinnuhjúaskildaga (l4.maí) fór Ólafur að búa sig undir flutninginn að Heiðarhvammi.

Annað kot var í heiðinni skammt frá Heiðarhvammi. Þar bjó ekkja sem Sesselja hét, og ráðsmaður hennar eða vinnumaður, sem hét Finnur. Hjá þeim gisti Ólafur, þegar hann var á ferð til að líta eftir leigubýli sínu og búa sig undir að flytja þangað. Loks fékk hann Finn til þess að aðstoða sig við flutninginn.

Þegar leið á mánuðinn, rak Ólafur fé sitt að Heiðarhvammi. Það þótti ekki árennilegt, og margir réðu honum frá því, en Ólafur fór sínu fram. Hann kvaðst vilja láta ærnar sínar bera þar, því að þá strykju þær síður þaðan. Svo væri það einnig vegna lambanna: allar skepnur væru þar hagspakastar, sem þær væru bornar. - Í öllu því, sem að kindum laut, treystust fáir til þess að mótmæla Ólafi.

Ólafur hafði dregið að sér allar þær kindur, sem hann átti á leigu til og frá um sveitina, og keypt allmargar í viðbót. Þegar menn fóru að verða heylitlir, fékk hann kindurnar með góðu verði, enda var þá jafnan spesían í boði. Hey hafði hann lag á að hafa út úr þeim, sem áttu það, svo allar skepnur hans voru í góðum holdum. Það þótti fríður og álitlegur fjárhópur, þegar hann rak það upp úr sveitinni.

Sesselja í Bollagörðum hafði tekið að sér að gæta fjárins í högunum, þar til Ólafur kæmi alkominn.

Þá var ekki annað eftir af flutningi Ólafs en lausafjármunir þeir, sem nauðsynlegir eru til þess að setja saman bú með. Þeim hafði hann safnað að sér seinni hluta vetrarins. Þeim ætlaði hann að koma í einni ferð, og taka þá konuna og barnið með sér.

Óárennilegt var að reka féð að Heiðarhvammi, en ekki var árennilegra að flytja þangað með konu og ungt barn, og það í þeirri veðráttu, sem þá gekk. Menn reyndu á ýmsar lundir að telja þau Ólaf og Höllu af því, sitt í hvoru lagi. Húsbændurnir buðu þeim að vera lengur, og Ólafur var því ekki fráhverfur, ef Halla vildi.

En Halla brann af löngun eftir því að komast burt úr sveitinni. Hún lét engar fortölur á sig bíta og vildi einskis manns ráð heyra. Hún kvað ekki verra fyrir sig og barnið að lifa í Heiðarhvammi en á öðrum bæjum. Allar sagnir manna um harðindi þar væru tómar grýlur.

Ólafur lét hana ráða. Hann varð þó feginn, að hún tók þennan kostinn. Fyrst fé hans var komið að Heiðarhvammi, hafði hann enga ró, fyrr en hann væri kominn þangað líka. -

Snemma morguns á uppstigningardag lagði lestin af stað. Heimilisfólkið gekk með þeim út fyrir tún og bað þau vel fara. Halla fann það, að hún var kvödd með söknuði. Sjálfri hlýnaði henni um hjartaræturnar; en hún harkaði af sér og lét ekki á því bera.

Átta hestar voru í lestinni. Á þeim voru alls konar búshlutir, og létt á flestum. Á sumum voru kaupstaðarvörur. Sumt af flutningnum var mikið fyrirferðar og illt viðfangs.

Hestana hafði Ólafur fengið lánaða til og frá í sveitinni.

Presturinn hafði lánað honum alla hesta sína og einn vinnumann sinn til fylgdar, svo þeir voru þrír saman, karlmennirnir. Finnur í Bollagörðum var hinn þriðji.

Á brúnskjóttum hesti, stórum og sterkum og ekki flasfengnum, sem Ólafi hafði verið lánaður af einum bænum í grenndinni, var búið um sveininn. Honum var búið ofurlítið rúm á milli klyfjanna aftan við klyfberabogann. Ullarþófi var undir, en sængurföt ofan á og að utan. Sjálft var barnið dúðað í fötum og svo vel um það búið sem kostur var á.

Höllu var ætlað að ganga. Hún kaus það heldur en að hafa sérstakan söðulhest. Ef hún þreyttist, átti hún að setjast ofan á milli á þeim brúnskjótta, hjá barni sínu, og hvíla sig stund og stund. Þess vegna var haft léttast á honum.

Hún var léttari í lund en hún hafði lengi verið. Morgunloftið var hressandi og henni var nýtt um hreyfinguna eftir þessar löngu kyrrsetur. Fjör og hiti færðist um hana alla. Kappið og ferðahugurinn gagntóku hana smátt og smátt.

Mesta gleðiefnið var þó það, að vera lögð á stað - frá öllum spyrjandi augum, frá öllu sveitarskrafinu.

Í Heiðarhvammi þyrfti hún ekki að fela barnið sitt fyrir neinum. Þangað var varla þeirra manna von, sem það mætti ekki líta upp á. Þar skyldu engin spurul augu spilla yndi hennar af því. Þar mundi það lýsa upp í kringum hana og gera henni bjart fyrir augum, þótt kotið væri fátæklegt. -

"Hverja leiðina eigum við að fara upp á heiðina?" kallaði Finnur til Ólafs, þegar þeir voru lagðir á stað fyrir góðri stundu.

"Upp með Hagafelli. Þar er þurrast," kallaði Ólafur á móti.

Halla hrökk upp frá hugsunum sínum við þessa frétt. Undir fellinu var bærinn, sem gamla prestsekkjan átti nú heima á.

"Í öllum bænum - farið þið nú ekki að tefja í Haga," mælti hún hálfönug. "Okkur veitir víst ekki af deginum."

"Það er alveg satt," svaraði Ólafur. "Við ætlum aðeins að laga á hestunum þar við túngarðinn." '

Nú greip kvíðinn hana aftur. Af öllum manneskjum vildi hún síst koma fyrir augu þessarar gömlu húsmóður sinnar.

Hún reyndi að hugga sig við það, að litlar líkur væru til þess, að gamla konan færi að koma til hennar út fyrir túngarð. En hún gæti aftekið að fara heim að bænum.

Samt var öll bjartsýni flúin úr huga hennar. Hljóð og döpur fylgdi hún lestinni eftir, eins og hún væri á leiðinni til rannsóknarréttarins.


Þau áðu við túngarðinn í Haga, eins og ráð var fyrir gert. Barnið var tekið ofan af hestinum og fengið Höllu. Hún settist niður með það í brekku, losaði um dúðana á því og lagði það við brjóstið.

Þá kom kona út fyrir bæjarhornið. Hún skyggði yfir augun með hendinni og horfði til ferðafólksins. Þegar hún sá þess engin merki, að það ætlaði að koma heim að bænum, gekk hún út á túnið og stefndi til þess. Hún gekk hægt, en teinrétt var hún og göfugleg á velli.

Prestsekkjan gamla hafði minnst af því heyrt, sem skrafað hafði verið um Höllu þá um veturinn. Heyrnin var farin að sljóvgast og fáir gáfu sig á tal við hana. En eftir að hún hafði komist að því, að Ólafur væri búinn að reka fé sitt að Heiðarhvammi, hafði hún haft stöðugar gætur á mannaferðum.

Rétt á eftir henni gekk karlmaður frá bænum og stefndi sömu leið. Hann bar kvensöðul í fanginu. Hann gekk hraðara en konan og kom á undan henni út að garðinum. Söðulinn lét hann á garðinn og hvarf svo heim aftur.

Halla horfði undrandi á þetta. Hún þekkti prestsekkjuna, og söðul hennar þekkti hún einnig. Það var gamall söðull með háum boga og mjög látúnsbúinn; hafði hann jafnan þótt hin mesta gersemi. "Hvert skyldi gamla konan ætla að fara að ferðast?" hugsaði hún.

Prestsekkjan staulaðist út fyrir garðinn og gekk síðan rakleiðis upp í brekkuna til Höllu. Annarri hendinni skýldi hún; undir svuntu sinni.

Lítið hafði henni farið aftur þetta ár. Þó voru ýms ellimörk nokkru skýrari. Andlitið var magrara og dekkra en það hafði verið, hrukkurnar fleiri, einkum í kringum augun. Svipurinn var hinn sami, harðlegi, en þó góðmannlegi. Hárið hafði gránað nokkuð og hún drap meira í skörðin en hún hafði gert.

Hún settist niður hjá Höllu og heilsaði henni vingjarnlega, en þó fremur þurrlega.

"Komdu sæl, Halla mín! Ég sá, að þú ætlaðir ekki að koma við og kveðja mig, þótt þú sért nú að fara svona langt í burtu frá okkur."

Halla reyndi að taka kveðju hennar blíðlega og láta sem ekkert væri að.

"Ég ræð nú ekki ferðinni," mælti hún brosandi.

"Hvernig líður þér nú, góða mín?"

"Vel," sagði Halla og leit ekki upp.

Prestsekkjan horfði hvasst á hana.

"Þetta segirðu alltaf. - Nú, jæja. Það gleður mig innilega, ef þér líður vel. Ég vildi óska, að þér liði ætíð vel. - Er Ólafur góður við þig?"

Þessu síðasta bætti hún við í lágum rómi, svo það skyldi ekki heyrast þangað, sem mennirnir voru að herða á gjörðunum á hestunum.

"Já," sagði Halla og leit upp sem snöggvast. "Hann er mér einstaklega góður og vill allt gera fyrir mig."

"Það er gott. Þá þykir honum vænt um þig og barnið."

Halla ætlaði að svara, en varir hennar skulfu, svo hún hætti við það. Augu gömlu konunnar hvíldu stöðugt á henni. Það var sem kalt vatn seytlaði niður um hana alla.

"Já, það er ég viss um," stamaði hún lágt.

Þær þögnuðu báðar litla stund. Síðan spurði gamla konan:

"Hvers vegna flytjið þið svona snemma? Það er langt til fardaga enn þá.``

Halla reyndi að brosa.

"Ég er óþolinmóð eftir húsfreyjustöðunni á eigin heimili."

Prestsekkjan lést ekki skilja gamanyrði hennar og varð jafnvel myrk á svipinn, svo Halla flýtti sér að bæta við:

"Tíminn var útrunnin á vinnuhjúaskildaga, þar sem við vorum þetta ár. Þá fannst mér réttast . . . Ég vildi ekki vera fólkinu til byrði."

"Guð gefi, að ekkert leiði illt af þessu flani, fyrir sjálfa þig eða barnið. Veistu, hvað það er að flytja fram í heiði með ungbarn? Það er ekkert sumar komið enn þá. Það er kuldi og klaki og frost á nóttunni."

Höllu fannst augnaráð hennar smjúga í gegnum sig.

"Þar er ekkert kaldara en hér," mælti hún. "Ólafur segir, að túnið sé farið að grænka. Hann segir meira að segja, að jörðin komi græn undan snjónum."

"Kvíðirðu þá ekki fyrir að setjast að í þessu heiðarbýli?"

Halla var fljót til svars.

"Nei, ég hlakka til þess. - Ég hefi hlakkað til þess lengi."

Gamla konan hristi höfuðið.

"Aumingja Halla mín. Mér líst illa á þetta ráðlag þitt. Betur að það yrði ykkur öllum til góðs!"

Samtalið féll aftur niður um stund. Halla var orðin klökk, svo henni lá við gráti, en harkaði af sér.

"En barnið þitt -?" mælti gamla konan. "Fæ ég ekki að sjá barnið þitt?"

Halla lyfti upp sænginni, sem hún hafði utan um sveininn, og sýndi henni hann.

Sveinninn sleppti brjóstinu og sneri sér móti birtunni. Hann hló og hjalaði og baðaði út höndunum af gleði, er hann fann, að hann var laus við mestu dúðana. Hann var búlduleitur af fitu, með skarð í hökuna og stóra undirhöku. Við brosin komu djúpir spébollar í kinnarnar, en tvær bláhvítar tennur skinu í rauðum góminum. Augun voru blá og skær, og hann smádeplaði þeim vegna birtunnar.

Það var eins og allur elli- og alvörusvipur viðraðist burtu af andliti gömlu konunnar, er hún sá framan i sveininn. Hýrt og hraust barnsandlit gleður ætíð og glæðir góðar tilfinningar, en hjá gömlum mæðrum vekur það einnig sælar minningar.

"Komdu sæll og blessaður, vinur minn!" sagði gamla konan í gælirómi og klappaði sveininum á vangann. Andlit hennar ljómaði af barnslegri gleði. "Komdu sæll og blessaður!"

Sveinninn skríkti af kæti. Hann kreppti lummuna sterklega um vísifingur gömlu konunnar og ætlaði að stinga honum upp í sig.

Gamla konan lék sér við sveininn stundarkorn. Svo horfði hún á hann þegjandi og virti hann fyrir sér. Loks var eins og gleði hennar breyttist í viðkvæmni. Hún signdi hann að sið gamalla, guðhræddra kvenna og bað svo Höllu að hlúa að honum aftur.

Sveinninn lét illa við því að láta vefja utan um sig sænginni aftur og gerði skeifu á munninn.

Prestsekkjan var aftur orðin alvarleg og horfði hugsandi fram fyrir sig. Halla kveið fyrir því, er hún mundi eiga ósagt.

"Þetta er fagur drengur og efnilegur, Halla mín, en - gættu að honum í guðs bænum!"

Halla andvarpaði dálítið léttar. Hún hafði óttast það mest, að gamla konan færi að tala um það, hverjum hann líktist.

"Hann er svo hraustur, að honum verður aldrei misdægurt," mælti hún.

"Hvað heitir hann?"

"Hann heitir ekkert enn þá," mælti Halla hikandi. "Það er ekki búið að skíra hann."

Leiftri brá fyrir í augum prestsekkjunnar.

"Guð fyrirgefi þér, Halla mín! Hvað ertu að hugsa? Ertu ekki kristin manneskja? Barnið þitt er meira en missiris-gamalt, og þú ert ekki enn þá farin að færa guði þínum það!"

"Það hefi ég gert fyrir löngu - í heimahúsum."

"En hvers vegna ekki í kirkjunni? Hugsaðu þér, heillin mín, ef barnið þitt veiktist og dæi óskírt -! Þú hefir þó vonandi látið leiða þig í kirkju?"

Halla ræskti sig til þess að geta svarað svo skýrt, að skildist, því gráturinn sat eins og kökkur í hálsi hennar:

"Ég hefi verið að draga þetta hvort tveggja, þar til ég kæmi í nýju sóknina."

"Í nýju sóknina? - Nú, einmitt það!"

Áherslan, sem prestsekkjan lagði á síðustu orðin, var Höllu eins og meðal löðrungur. Hún blóðroðnaði og leit ekki upp.

Gamla konan sat þungbrýn og þegjandi.

Í því bili var kallað til Höllu og spurt, hvort hún væri ekki tilbúin að leggja á stað.

Halla varð slíkri spurningu fegin.

"Ég ætlaði mér ekki annað en kveðja þig, Halla mín. Mig langaði til þess að sjá þig enn þá einu sinni, og sjálfsagt í síðasta sinn. Nú er ég hrædd um, að koma mín hafi orðið þér til ama. Ef svo er, þá bið ég þig að fyrirgefa mér. Við gamalmennin erum oftast þeim til ama, sem við helst viljum gleðja."

"Nei, nei, nei, - þetta er ekki satt -," stamaði Halla með gráthljóði.

Gamla konan brá hendinni undan svuntu sinni og stakk fjórum spesíum í lofa Höllu.

"Þetta á að vera handa drengnum þínum. Afsakaðu hvað það er lítið, því nú er ekki af miklu að taka."

Halla ætlaði að fara að þakka henni fyrir, en hún hélt áfram:

"Svo lét ég koma þarna með söðulinn minn gamla. Ég ætlaði að spyrja þig, hvort þú vildir ekki þiggja hann af mér. Dætrum mínum þykir hann víst of ellilegur. Þið, alþýðukonurnar, fylgið ekki tískunni eins fast. Þú manst, að ég vildi ekki láta hann á uppboðið. Ég vil helst vita hann hjá þér, Halla mín."

"Þetta er allt of mikill dýrgripur handa mér."

"Njóttu hans vel. Hann er gefinn þér af góðum huga."

Í því kom Ólafur að sækja sveininn. Hann var þá sofnaður uppi við brjóstið.

"Vegir forsjónarinnar eru órannsakanlegir," mælti gamla konan um leið og hún stóð á fætur. "Forlög þín, Halla mín, hafa verið mér mikið umhugsunarefni." Hún horfði á eftir Ólafi með barnið í fanginu og bætti svo við:

"Einhver undarleg atvik hafa spillt þeim. - Vertu sæl. Guð veri með þér! Leitaðu mín eða skrifaðu mér, ef þér liggur eitthvað á. Á meðan ég lifi, vil ég vera þér til góðs á einhvern hátt."

Þær kysstust innilega að skilnaði. Svo gekk prestsekkjan heim á leið, - höfðingleg og einarðleg, þrátt fyrir ellina.

Söðullinn var látinn ofan á milli á einum hestinum, Svo var lagt á stað.

Þegar á stað var komið, gaf Halla tárum sínum framrás og gekk lengi grátandi á eftir lestinni.

Aldrei hafði henni fundist vinátta þessarar gömlu, siðavöndu konu eins dýrmæt og nú. Aldrei hafði vinátta nokkurrar manneskju vermt hana eins. Og aldrei hafði hún verið þessarar vináttu ómaklegri.

Nú var hún úr öllum efa um, að gamla konan vissi leyndarmál hennar. Hvað mundi hún nú gera? Mundi hún leitast við að ná fundi hennar aftur, ganga hart að henni og láta hana segja sannleikann? Eða mundi hún láta við þetta sitja?

Hún hlaut að vera henni gröm, en mannúðlega mundi henni jafnan fara. Móðurstrangleik mundi hún ef til vill beita, en lausmælgi hennar þurfti enginn að óttast.

Hún fann óljóst til léttis við allt þetta, eins og byrði hennar hefði verið skipt. Samt fannst henni hin hvössu augu horfa enn þá í gegnum sig. Nú var hún að flýja frá þeim líka - því seinasta í sveitinni. Við hvert spor færðist hún fjær þeim.

En ef hún ætti að horfast á við þau einu sinni enn þá, mundi hún ekki afbera þá raun.

Hægt og hægt, fót fyrir fót, iðaði lestin áfram eftir lautum og dældum, brekkum og melbörðum. Umhverfis lá hrjóstrugt og nakið heiðarland, með svörtum kvistum og gulum sinustráum.

Jarðvegurinn var alls staðar meyr og gljúpur; klakinn var undir, svo vatnið gat ekki sigið niður. Melarnir voru víða ófærir vegna aura. Í brekkunum voru enn þá harðar hjarnfannir; í dældunum var klaki í hverjum skorningi, en vatn ofan á.

Yfir að líta var landið dökkt og drungalegt, með leirroknum fönnum til og frá. Hvergi var díll af sólskini. Svo langt sem augað eygði lá þokan eins og þekja yfir öllu láglendi og byrgði fjöllin ofan í miðjar hlíðar.

Framan af var allt upp á móti, en hallinn þó svo lítill, að hans gætti varla. Hver hjallinn tók við af öðrum, en breiðir móar á milli þeirra.

Af einni brúninni var góð útsýn yfir sveitina. Þar nam lestin staðar ofur litla stund. Halla leit yfir æskustöðvar sínar. Erfitt var að greina þar hvað frá öðru vegna sorta og fjarlægðar. Á einum stað kom hún auga á hvíta gufuhnykla, sem liðu í loft upp og bárust burt með golunni. Það var hverinn hjá prestssetrinu.

Út frá honum gat hún rakið sig um nágrennið. Ofur lítill hvítur díll, sem hún kannaðist ekki við, var skammt frá hvernum.

"Hvað er þetta hvíta skammt frá hvernum?" spurði hún samferðamennina.

Þeir fóru að horfa, en prestssetursmaðurinn varð fyrir svörum:

"Það er kirkjuturninn, sem verið er að smíða."

Halla spurði ekki um fleira.

"Þið eruð búnir að fá duglegan og framkvæmdasaman prest," mælti Finnur. "Hann stendur í byggingum og ýmsum stórræðum."

"Hann hefir áhuga á því að hressa við staðinn. Nú hefur hann látið rífa niður allan frambæinn og ætlar að láta byggja langhús úr timbri," sagði prestssetursmaðurinn.

Halla missti sjónar af hverju einstöku, en horfði sem utan við sig yfir sveitina. Tilfinningar hennar voru sambland saknaðar og fagnaðar. Hún var lausari og frjálsari en nokkru sinni áður, eins og hún væri nýsloppin úr áþján. En jafnframt var hún hrakin í útlegð og heimilslaus. Minningarnar, sem hún tók með sér, voru sumar sælar, en fleiri þó beiskar. -

Nú lögðu þau upp á sjálfa heiðina, upp í þokuna, og þræddu sig mestmegnis eftir snjónum.

- Löng finnst þeim leiðin og seint finnst þeim sækjast förin, sem er ókunnugur á ferð uppi á snjóþöktum, veglausum heiðarflæmum í blindþoku.

Það er líkast því að róa yfir reginhaf, þegar hvergi sér til lands. Hvert sem litið er, er hringurinn jafnvíður, alltaf eins, himinn og haf og ekkert annað. Alltaf er maður í honum miðjum. Öldugárar aftur með hliðunum, straumröst í kjölfarinu og áraför í sjónum aftur undan, sem sléttast smátt og smátt, benda á áframhald. Samt finnst manni báturinn standa kyrr eins og sker.

Óþreyja grípur mann, sár og pínandi. Ósjálfráður berserksgangur kemur á mann. Maður fer að hamast, til þess að gera enda á þetta drepandi tilbreytingarleysi. Báturinn tekur sprett áfram. Hann smýgur eins og ör og stefnið ristir sundur glæran hafflötinn. Næst þegar maður heldur uppi árunum og litast um, er allt óbreytt. Hringurinn eins og hann var og maður enn þá í honum miðjum. Hinn mikli flötur blikar með storkandi ró.

Ofþreytan eykur kvalir hugans. Spretturinn var til einskis; nú fer maður þeim mun hægra. Þolinmæðin ein getur unnið slíka þraut.

Heiðarnar eru storknuð höf. Þokan byrgir alla "landsýn". Ásar og leiti rísa eins og breiðar úthafsöldur. Allt er hvað öðru líkt. Steinar og brúnir, sem fram hjá mjakast, og slóð, sem að baki liggur, bendir á ofur lítið áframhald. Annars finnst manni allt standa kyrrt.

Menn geta æðrast, hamast, jafnvel tryllst, en með því vinnst lítið á. Þolinmæðin ein vinnur slíka þraut. -

Fátt var talað. Þögn og þreytudrungi hafði lagt sig á alla. Sveinninn svaf í "vöggu" sinni.

Hestarnir stundu og másuðu þreytulega. Þeir voru látnir skiptast á um það að vera fremstir og kafa snjóinn. Hinir stikluðu gætilega hver á eftir öðrum í spor þess fremsta.

Mennirnir gengu utan við hestaslóðina og hottuðu á þá við og við. Gönguhljóðið var hægt og þunglamalegt. Marrið í klyfjunum var eins og svefnhrotur.

Þokan var niðdimm og hráköld. Þar sem eitthvað dökkt bar fyrir, sáust örlitlir dropar á sveimi og iði í loftinu, eins og þeir vissu ekki, hvað þeir ættu af sér að gera. En alls staðar, þar sem þeir hittu fast fyrir, settust þeir að. Mennirnir, hestarnir, klyfjarnar, allt varð hélugrátt af sudda. Vætan draup af öllu og það gljáði á steinana, sem stóðu upp úr snjónum.

Halla gekk við hliðina á brúnskjótta klárnum og hlustaði eftir, ef barnið kynni að vakna. Hún varð því fegin að þurfa ekki að róta við því, á meðan þau voru á þessari leiðinlegu heiði.

Þannig héldu þau áfram margar klukkustundir, sem aldrei ætluðu að þrjóta. -

Skömmu eftir nónið strauk hlý sunnangola þokuna af heiðinni. Veðrið varð bjart og fagurt og sólin skein. Aldrei skín hún glaðar en eftir dimmviðri. Glaðværðarsvipur færðist á andlit samferðamannanna, og hestarnir urðu greiðstígari.

Þegar Halla gat litast um, sá hún, að hún var sem komin í nýjan heim. Ekkert þekkti hún af því, sem fyrir augun bar. Fjöll voru skammt frá henni, sem hún hafði aldrei séð áður. Þegar þau veltu af sér þokunni, var eins og risaleg hvalbök kæmu upp úr lygnum sjó.

"Er þetta Hagafell?" spurði hún og benti á breiða móbergsbungu að baki þeirra.

"Nei, Hagafell er víst horfið," sagði prestssetursmaðurinn og horfði fast í áttina. "Nei, nei. Þarna sést enn þá ofan á það." Hann benti á ofur litla bláa nibbu úti við sjóndeildarhringinn.

Þá skildist Höllu enn betur, hve langt þau höfðu farið í þokunni.

Þau voru þá stödd utan í öldumyndaðri hæð. Þegar þau komu upp á hana, blasti við þeim langur, skjóttur skrokkur, sem skaut upp kryppum til og frá. Það var fjallgarðurinn, sem Heiðarhvammur stóð undir.

Hann var ekki hár, fjöllin sandrunnin með stórum fönnum, og hnúkar sums staðar með svörtum, hvössum hamrabrúnum.

Beint fram undan þeim var skarð í fjallgarðinn, svo fagurt og reglulegt, að það var sem höggvið af mannahöndum.

"Nú sérðu heim að Heiðarhvammi, Halla mín," sagði Ólafur og benti á skarðið.

Halla fór að horfa betur. Beint niður undan þessu fallega skarði sá hún grænan túnblett og dökkar þústur, sem líktust bæjarhúsum.

"Það er víst fallegt þar," mælti hún. "Bærinn stendur svo hátt, að útsýnin hlýtur að vera fögur."

"Það er eitt af fallegustu bæjarstæðum á landinu," mælti Finnur. "Mér hefir hvergi litist betur á mig en þar, og sama segir Setta mín. Við höfum alltaf viljað fá það kot, en aldrei fengið það."

"Hvar er bærinn ykkar?"

"Þarna, niður undan hinu skarðinu," mælti Finnur og benti. "Hann stendur lágt og sést ekki."

Halla gat varla haft augun af Heiðarhvammi. Hann var takmark, sem hún hafði lengi þráð. Nú sá hún fyrir endann á langri baráttu, og eins konar sigurgleði greip hana.

"Hvert snúa bæjarhúsin?" spurði hún.

"Hingað út að heiðinni, - bæjardyrnar og baðstofugaflinn."

"Og baðstofugaflinn -?"

Halla var því byggingarlagi óvön, því á þeim bæjum, sem hún þekkti, voru baðstofurnar aftastar af bæjarhúsunum.

"Já, baðstofugaflinn með stórum fjögra-rúðu-glugga," mælti Finnur. "Jósef sálugi vissi, hvað hann gerði, þegar hann byggði baðstofuna þannig. Ljósið úr þeim glugga hefir mörgu mannslífi bjargað hér á heiðinni."

"Það var fallega gert af honum."

"En honum sjálfum gat það ekki bjargað, aumingja manninum."

Halla fór að spyrja frekar eftir þessum manni.

"Hann varð úti milli húsa á túninu," mælti Finnur. " Það var í öskubyl, auðvitað. Hann bjó þá aleinn í Hvamminum. Þar hafði hann búið allan sinn búskap og misst þar konu sína og börn. Hann vildi ekki flytja þaðan með neinu móti, og bar því við, að þá hyrfi ljósið sitt. Kertin steypti hann sjálfur og át heldur brauðið sitt viðbitslaust en þau vantaði. Þau loguðu á borðinu við gluggann á hverri nóttu. Kunnugir héldu, að hann hefði verið orðinn miður sín af harðrétti, þegar hann varð úti. - Þá nótt náðu þrír menn heim að Heiðarhvammi vegna ljóssins. Þeir fundu kofana tóma; en daginn eftir fundu þeir líkið á túninu."


Nú hallaði undan fæti. Lægð var á milli heiðarinnar og fjallgarðsins. Eftir henni rann á út með fjallgarðinum.

Halla veitti Finni frá Bollagörðum meiri og meiri athygli og gaf sig á tal við hann það sem eftir var leiðarinnar. Hann var væntanlegur nágranni.

Finnur var meðalmaður í hærra lagi og ekki illa vaxinn. Limaburðurinn var þreytulegur, og var sem hann slettist áfram. Andlitið var unglegt og svipurinn nokkuð tvísýnn, augun ódjörf og á stöðugum flótta. Hann var meinleysislegur og skaplítill, þægur og ósérhlífinn, en giftusamlegur var hann ekki.

Halla spurði hann ýmislegs úr byggðarlaginu. Hann gaf greið svör um allt, nema það, sem snerti hag hans sjálfs. Þar loddu jafnan einhverjar vöflur við. Þó fékk hún að vita, að hann væri ekki nema rúmlega þrítugur að aldri, að hann hefði flutt að Bollagörðum fyrir fjórum árum og væri vinnumaður hjá Sesselju. Þau væru ekki gift. Hann kallaði hana "Settu sína" af því að hún væri húsmóðir hans.

Svör Finns gerðu Höllu enn þá forvitnari um hagi hans. Þó vildi hún ekki særa hann með nærgöngulum spurningum. Hún sá, hve illa honum féllu þær. Einhver drungi mæðu og vonleysis lá að baki svaranna. Það var eins og hann væri orðinn útslitinn og þreyttur á lífinu og liti allt tortryggnisaugum. Halla hálfkenndi í brjósti um hann. -

Eftir nokkra stund komu þau að Heiðarkvísl, ánni sem áður er á minnst. Hún var allvatnsmikil, straumhörð og stórgrýtt og því ill yfirferðar.

"Væri nú ekki best, að konan settist ofan á milli klyfjanna á þeim skjótta?" mælti Finnur. "Þá er hún hjá barninu. Mér líst þannig á klárinn, að það megi treysta honum."

Höllu var lyft upp á hestinn. Þar bjóst hún um hjá barni sínu og hélt sér í klyfberabogann.

Þeir Ólafur og prestssetursmaðurinn settust sinn upp á hvorn hestinn á milli klyfjanna, en Finnur rak hestana út í ána.

"Ætlar þú að vaða, Finnur?" kallaði Ólafur til hans. "Blessaður vertu ekki að þeirri flónsku."

"Það er betra, að einn maður vaði með hestunum," mælti Finnur. "Þá er fljótlegra að hjálpa, ef eitthvað verður að. Það eru vondar klyfjar á sumum þeirra. - Ég er vanur við hana, kvíslargreyið; það er ekki í fyrsta sinn, að ég veð yfir hana. Hún er góð núna, - tæplega í mitti."

Halla leit til hans spyrjandi augum. Henni fannst þessi orð bera vott um svo rótgróið hirðuleysi um lífið og heilsuna.

Hestarnir óðu út í ána og stildruðu gætilega í grjótinu. Sleipar blágrýtishellur voru undir, en staksteinar ofan á. Straumurinn var þungur og hvítféll sums staðar, en vatnið tært, svo vel sá í botninn. Finnur óð með hestunum og studdi sig við göngustaf.

Þegar þau voru komin skammt frá landi, heyrðu þau aumkunarlegt ýlfur á bakkanum að baki sér. Ólafur hafði gleymt fjárhundi sínum, þegar hann fór á hestbak sjálfur. Seppinn hljóp skrækjandi upp og ofan með ánni og kveið fyrir köldu vatninu. Svo tók hann stökk undir sig, henti sér langt út í ána, skammt fyrir ofan hestana, og greip þegar til sunds.

Höllu svimaði, er hún leit ofan í straumvatnið. Skjóni hallaði sér upp í strauminn og óð knálega; vatnið beljaði um bógana á honum. En þegar hann kom út í miðjan strenginn, rann hann til á hálli hellu og datt á bæði framhnén.

Halla æpti upp. Hún fann ískalda vatnsgusu skella yfir sig. Í dauðans ofboði tók hún utan um barnið, en hélt sér í klyfberabogann með annarri hendinni.

Hesturinn rykkti sér upp að framan og saup hveljur við. En þá lagðist straumurinn svo þungt á klyfjarnar, að hann hafði nær hrundið honum öfugum út af brotinu.

Þeir Ólafur og prestssetursmaðurinn hljóðuðu upp af skelfingu, en Finnur var á svipstundu kominn hestinum til hjálpar.

Taumurinn hafði slitnað og önnur gjörðin dróst með straumnum. Finnur tók um taumslitrið og teymdi hestinn yfir strenginn.

Barnið hafði vaknað við það, að kalt vatnið skvettist í andlit þess, og tók að gráta. Halla kom til sjálfrar sín við hljóð þess, en gat ekki liðsinnt því. Hún horfði á bakið á Finni og undraðist, hve sterklega og fimlega hann klauf strauminn.

Í því bili kom hún auga á svartan haus, loðinn og rennvotan, sem hraktist í strengnum fram undan þeim. Módökk augu mændu dauðvona upp á mennina.

"Hundurinn er að drukkna!" kallaði Halla. Hún sá, að kraftar þessa trygga dýrs voru að þrotum komnir.

Nú var Skjóni búinn að koma vel fyrir sig fótunum. Finnur sleppti taumslitrinu, tók í hnakkann á hundinum, kippti honum upp úr vatninu og stakk honum í handarkrika sinn. Takið var óþyrmilegt og seppi skrækti; en á eftir sleikti hann hönd Finns í ákafa.

Rétt á eftir komust þau öll upp á bakkann. Áin rann að baki þeirra, straumþung og hátignarleg. Hún bað engrar afsökunar á þessum smáglettum.

"Fall er farar heill," mælti prestssetursmaðurinn. "Þú ræður þig heima hérna í hvamminum, Halla."

Halla svaraði honum engu, en bað þá að leysa barnið af hestinum og fá sér það. Það linnti ekki á hljóðum. Hún var ekki enn þá búin að ná sér eftir óttann, en þó fékk annað enn þá meira á hana. Hið forna sannmæli var ekki rétt, eins og prestssetursmaðurinn hafði það. Fall boðaði farar heill þegar heiman var farið, en ekki þegar að var komið. Nú hlaut það að boða eitthvað illt.

Hún fann mjög til þreytu, og bleytan streymdi úr fötum hennar.

Nú var skammt eftir heim að bænum. Hvammurinn var bjartur og vingjarnlegur í skini kvöldsólarinnar.

"Á ég ekki að bera fyrir þig barnið?" spurði Finnur.

Halla afþakkaði það. Aldrei hafði barnið grátið jafnsárt. Hún vildi ekki heyra það gráta í fangi ókunnugs manns.

"Ég vildi, að ég gæti einhvern tíma launað þér þann greiða, er þú hefir gert mér í dag," mælti hún við Finn.

- - Hrakin og uppgefin, með barn sitt grátandi í fanginu, náði Halla loks heim að Heiðarhvammi.


3. kafli

Bærinn Heiðarhvammur stóð á hólhjalla við fjallsræturnar. Bæjardyrnar sneru frá fjallinu. Hlaðvarpinn var brattur og neðan undir honum var uppsprettulind. Það var vatnsból bæjarins.

Miklar fjalldyngjur sköguðu fram úr fjallgarðinum beggja megin við hvamminn, ekki háar að vísu, en breiðar um sig og nokkuð klettóttar. Á milli þeirra var skarðið.

Frá bænum sá yfir miklar engjar og fagrar valllendisfitjar meðfram ánni. Á engjunum skiptust á startjarnir og ljósaslikjuflóar. Kringum þær og inn á milli þeirra voru móar og kvistlendisholt. Lengra burtu sá yfir víðlend afréttarflæmi beggja megin árinnar, með smáfellum á stangli og bláum hnúkum í fjarska.

Af skarðinu fyrir ofan bæinn var þessi sama útsýn enn meiri og fríðari. Þaðan lá heiðin flatari fyrir og fjallsýnin var skýrari.

Fjallahlíðarnar voru mjög sandrunnar, en þó lágu víða upp eftir þeim fagrir grasgeirar. Undir þeim voru sléttar grundir með stórum staksteinum til og frá, sem hrunið höfðu úr fjöllunum. Við rætur fjallanna spratt upp hver lindin við aðra. Þær voru huldar fagurgulum dýjamosa, sem sást langt að. Frá þeim runnu tærir smálækir ofan í mýrarnar og að lokum út í ána.

Landið var afbragðssauðland og gripaland. Allar skepnur höfðu þar nógan og góðan bithaga á meðan til jarðar náði. Engjarnar voru óþrotlegar.

Samt stóð kotið í eyði og allt var þar í hinni mestu niðurníðslu. Túnið var lítið annað en kragi í kringum bæjarhúsin. Einhvern tíma í fyrndinni hafði það verið stærra; það sýndu girðingarslitur, sem nú voru að hverfa í jörð langt fyrir utan túnið. Móarnir næst því báru enn þá valllendislit.

Líðandi bratti var upp á skarðið og lá gatan í sneiðingi. Efsta brekkan, undir skarðsbrúninni, var bröttust. Um það lá vegurinn ofan í byggðina. Hún var kölluð "Dalir," þótt byggðin væri víðar en í dölum.

Út af skarðinu byggðarmegin var hallinn enn þá minni, aðeins lítil brekka. Hálsar lágu að fjallgarðinum þeim megin. Við þá brekku skiptust götur. Önnur lá fram með fjallinu og var kirkjugata. Hin lá beint yfir hálsinn, ofan í Hvammsdal, meðfram stöðuvatni, er þar var, og heim að höfuðbólinu Hvammi. Á milli Hvamms og Heiðarhvamms var rúmrar stundar lestagangur.

Í Hvammi bjó Egill hreppstjóri, gildur bóndi og vel efnaður. Hann átti Hvammsdalinn hálfan og mikið land fyrir ofan fjallgarðinn. Í því stóðu hjáleigurnar tvær, sem áður eru nefndar, Heiðarhvammur og Bollagarðar. -

Ekki voru húsin háreist í Heiðarhvammi. Þó bar dálítið á bænum, þegar séð var framan á hann, en ofan af skarðinu líktist hann þyrpingu af stórum þúfum.

Þrjú hús sneru gaflinum fram á hlaðið. Þar voru bæjardyrnar í miðið. Þilið framan undir þeim var úr flettum rekavið, víða maðksmognum. Það var óplægt, en renningar negldir yfir rifurnar upp og ofan þilið. Vinstra megin við bæjardyrnar var baðstofan. Gaflinn á henni var hlaðinn upp í tvennu lagi; neðri hlutinn þykkur, upp að glugganum, og grasgróin stétt ofan á honum, efri hlutinn þynnri og sniðið úr honum fyrir glugganum. Hinum megin bæjardyranna var geymslukofi, sem kallaður var skáli. Að baki þessara húsa stóðu önnur bæjarhús, og var grafið fyrir þeim ofan í hólinn. Nokkur útihús voru á túninu.

Bæjardyraþilið hafði eitt sinn verið tjargað, en var nú orðið mjög vindblásið. Á því miðju var gat í glugga stað. Það var orðið fúið niður við hlaðið, og færðist fúinn upp eftir trénu. Þó var það helsta prýði bæjarins tilsýndar, og gaf honum bæjarsvip. - -

Þegar þau Halla komu heim að bænum, var bæjarhurðin bundin aftur með snæri, sem vafið var um nagla í dyrustafnum. Þegar það var leyst, féll hurðin sjálfkrafa upp að veggnum og lét hátt í henni; svo voru bæjardyrnar missignar, að hurðin tolldi ekki að stöfum, nema eitthvað héldi henni. Og þótt hún lægi að stöfunum, var lítið skjól í henni, því glufur voru fyrir ofan hana og neðan.

Hátt var af þröskuldinum inn á bæjardyragólfið, sem lá nokkru lægra en hlaðið. Var steinn lagður innan við þröskuldinn til að tvískipta þeim hæðarmun. Halla hugsaði með sér, hvílík tjörn þar mundi safnast, þegar snjór bráðnaði á hlaðinu.

Ekkert loft var í bæjardyrunum, en lausar fjalir lagðar ofan á bitana. Í dyrustafinn innanverðan voru reknar tvær slitnar skeifur og notaðar sem kengir fyrir bæjarlokurnar.

"Hvar er gengið inn í baðstofuna?" spurði Halla.

Karlmennirnir voru þá úti á hlaðinu að taka ofan af hestunum. Ólafur var seinn til svars að vanda, en Finnur kom þegar.

"Nú skal ég fylgja þér," mælti hann og gekk á undan henni inn í göngin.

Beygja var á göngunum rétt fyrir innan bæjardyrnar. Þar var koldimmt, og lagði kulda á móti þeim. Göngin voru þröng og lágt undir ræfrið.

Allt í einu nam Finnur staðar.

"Nú líst mér ekki á blikuna, mælti hann. "Ég kemst ekki lengra fyrir snjó."

"Fyrir snjó -?" át Halla eftir.

"Já, svei mér þá! Líttu á. Það er glerharður jökull alveg upp í rafta."

Brátt birti Höllu svo fyrir sjónum, að hún sá bláhvíta snjódyngjuna, óhreina að ofan, sem hálffyllti göngin. Hún teygði strýtuna upp í gat á þekjunni, sem líktist fari eftir fót á stórgrip.

Þau urðu bæði að snúa aftur fram í bæjardyrnar.

Halla stóð höggdofa og gat ekkert sagt. Við slíkri aðkomu hafði hún ekki búist. Nú komst hún ekki í húsaskjól með barn sitt. Það grét sárt innan í blautum dúðunum. Ef til vill grét það af hungri. En engin tök voru á að sinna því, fyrr en hún kæmist inn í baðstofuna. Hér gat hún ekki einu sinni sett sig niður.

Bærinn hafði verið fullur af snjó um veturinn. Nú var þiðnað úr bæjardyrunum, því þar náði vorvindurinn að leika um og sól skein þar inn um glufurnar nokkurn hluta dagsins.

Ólafur hafði látið farast fyrir að líta eftir bænum að innan, þegar hann var þar á ferð áður um vorið. Allur hugur hans hafði hneigst að því að koma kindunum fyrir og líta eftir högunum. Hann hafði litið inn í bæjardyrnar og inn um baðstofugluggann, og látið það nægja. Hann hafði því engin tormerki talið á því að flytja í kotið, að því er þetta snerti.

Eitt af því, sem Ólafur flutti með sér, var reka. Nú þurfti á henni að halda.

Halla varð að bíða í bæjardyrunum á meðan verið var að pjakka mesta snjóinn úr göngunum. Þá lagði hún á stað í annað sinn inn í baðstofuna.

Þegar Halla ýtti opinni hurðinni að baðstofunni, lagði á móti henni hrákaldan gust, blandinn fúaþef, eins og kæmi hann upp úr gröfum dauðra manna. Hurðin hrökklaðist eftir gólfinu og nam svo staðar. Halla þurfti að troða sér og barninu inn um gættina.

Baðstofan var lítil og "byggð á gólfi." Henni var skipt í fjögur stafgólf; innri stafgólfin tvö voru þiljuð upp að lausholtum og með fjalagólfi, hin tvö, þau fremri, voru óþiljuð með öllu og þar var moldargólf með glerharðri skán. Sperrurnar voru grannar, úr ruddum og hefluðum rekavið. Á milli þeirra voru langbönd úr mjóum borðum. Ofan á þessa grind var lagt tróð úr skógviðarkjarri; lágu stærstu bjálkarnir næst langböndunum, en aðrir minni þar ofan á, og loks viður, undir torfinu. Bjálkarnir voru kræklóttir, og náðu sumir þeirra lengra inn úr þekjunni en góðu hófi gegndi.

Tveir gluggar voru á baðstofunni. Annar á stafninum, hinn á þekjunni, og voru aðeins tvær rúður í honum. Um hann var búið í djúpri gluggakistu, sem stóð eins og kvistur út úr þekjunni. Út um hann var hægt að sjá upp að skarðinu.

Allar voru rúðurnar brotnar, brotin gengin á misvíxl, en opin göt á milli þeirra. Þilin voru dökk af sagga, og sums staðar stirndi á þau af hélu. Meðfram þiljunum var sitt rúmstæðið hvorum megin. Þau voru negld í þilin, en engar fjalir voru í botnunum. Á gólfinu á milli rúmanna lágu enn þá drefjar af gamalli fönn.

Í fremri enda baðstofunnar, við innganginn, var bálkur eða stétt, hlaðin úr grjóti og torfi. Á þessum bálki nam hurðin staðar, þegar hún var opnuð. Hann líktist helst undirhleðslu undir kindajötu. Þar settist Halla niður og bauð barninu brjóstið.

Eftir litla stund tróð Finnur sér inn um dyrnar með sængurfatapoka í fanginu. Hann lét pokann á gólfið og þurrkaði svitann af sér með erminni.

"Þetta er baðstofan, sem ég sagði þér frá, að Jósef sálugi hefði byggt," mælti hann við Höllu. "Þykir þér hún ekki furðugóð?"

Halla svaraði því litlu. Hún átti bágt með að skilja, að nokkur maður gæti unað sér í slíku hreysi.

"Ég vildi, að við hefðum aðra eins baðstofu í Bollagörðum," hélt Finnur áfram. "Þú ættir að sjá baðstofuna þar. Tróðið í þekjunni hérna er hátíð hjá súðinni þar. Hún bungar öll inn, og sums staðar er hún brotin, svo torfið hangir inn. Svo er hún sama sem gluggalaus; hér er þó bjart. Þeir hugsa ekki mikið um það, herrarnir, sem eiga þessi kot, hvernig fátæklingunum líður í húsum þeirra. Þeir eru ánægðir, ef þeir fá landskuldina."

Augu Finns tindruðu, er hann sagði þessi síðustu orð. Rétt á eftir var eins og hann sæi eftir að hafa sagt þau, eða væri hræddur um, að eitthvað leiddi illt af því.

"Jósef sálugi ætlaði að þilja innan á þessi langbönd," mælti hann síðan. "En honum entist ekki aldur til þess. Það er ekkert áhlaupaverk fyrir blásnauðan einyrkja að byggja sér baðstofu. Þeir, sem efnaðri eru, hliðra sér hjá því, meðan þeir geta. - En heyrðu, í hvort rúmstæðið á að láta rúmfötin?"

"Þetta," sagði Halla hálfutan við sig og benti á rúmstæðið hægra megin við gluggann.

"Já, það er rétt. Það var rúm Jósefs sáluga. Hérna á borðinu við höfðalagið brann ljósið hans. En það er botnlaust. Já, einmitt það; þeir, sem hafa verið hér á ferð í vetur, hafa auðvitað stolið úr því öllum fjölunum. Bæjarhúsin hafa staðið opin í síðustu tvo vetur og verið notuð fyrir sæluhús. Hér leita margir sér hælis, sem koma yfir heiðina."

"En hvaða steinbálkur er þetta, sem ég sit á?" spurði Halla.

Finnur hló við: "Stundum hefir það verið rúmstæði, en stundum jata. Mig minnir, að Jósef sálugi hefði þar skepnur síðustu árin, til þess að auka hlýindin í baðstofunni. Þess vegna lagði hann ekki fjalagólf nema í helminginn af henni."

Eftir sólsetrið kólnaði mikið. Halla skalf af kulda á meðan hún beið eftir því, að geta lagt frá sér barnið.

Ólafur og prestssetursmaðurinn höfðu nú sprett af hestunum og sleppt þeim á túnið. Klyfjarnar höfðu þeir borið inn í bæjardyrnar og skálann, en leyst það upp, sem nauðsynlegast þurfti á að halda.

Nú reið á að búa sig undir fyrstu nóttina. Finnur gaf þær upplýsingar, að fjalirnar, sem lágu lausar á bæjardyrabitunum; fylgdu kotinu. Egill hefði tekið þær upp í ofanálag úr dánarbúi Jósefs sáluga. Nú var tekið af þeim og sagað niður í rúmbotna.

Engin tök voru á því að kveikja upp eld. Snjódyngja, sótug að ofan, hálffyllti eldhúsið, og hlóðirnar voru í kafi. Samferðamennirnir settust að kaldri máltíð og drukku kalt lindarvatn með matnum.

Finnur gekk heim til sín um kvöldið. Þau báðu hann vel fara og þökkuðu honum góða fylgd. Hann hafði reynst hinn ötulasti og ótrauðasti samferðamaður.

Prestssetursmaðurinn sótti hey út í heystakk, sem stóð á túninu, og bjó um sig á bálkinum frammi við dyrnar. Þar lagðist hann út af í öllum fötunum. Hann ætlaði að leggja á stað heim á leið með hestana snemma morguninn eftir.

Halla gat ekki sofnað fyrir þreytuverkjum og ömurlegum hugsunum. Barnið hafði hún fyrir ofan sig í rúminu og hlúði að því sem best hún gat. Ólafur hafði sofnað undireins og hann lagði höfuðið á koddann, og prestssetursmaðurinn var farinn að hrjóta.

Aldrei hafði hún fundið jafnsárt til þess, hve einmana hún var og yfirgefin af öllum. Hver mundi hafa spáð því fyrir tveim árum, að kjör hennar yrðu slík?

Gott var það, að enginn af stallsystrum hennar gömlu átti kost á að sjá, hvernig húsakynnin voru, sem hún var flutt í. Þær mundu aumka hana.

Nóttin var hálfbjört. Hún horfði upp í baðstofuræfrið. Alltaf bar nýtt og nýtt fyrir hana, sem vakti hjá henni óhug.

Bálkarnir uppi yfir rúminu voru að grána af hélu. Þar mættust frostið úr þekjunni og ylur úr rúminu. Langar tægjur úr torfinu, sem héngu inn á milli bálkanna, og slitur úr gömlum ormavefum blöktu til í nætursúgnum. Öll þekjan var eins og höggormadyngja. Þeir hlykkjuðu sig hver um annan, eins og þeir væru að búa sig undir að teygja sig inn og bíta.

Þannig var bústöðum hinna verstu manna lýst í gömlum sögum og kvæðum, þeirra manna, sem guðir og menn höfðu flæmt í útlegð.

Nú var hún einnig flæmd í útlegð.

Hún varð klökk í skapi og augu hennar fylltust af tárum. - Loks sofnaði hún.

Eftir langan og væran dúr vaknaði hún við hjal í sveininum. Þá hvíldi hún ein hjá honum. Ólafur var kominn á fætur og prestssetursmaðurinn farinn á stað.

Sólin var hátt á himni yfir skarðinu og skein inn um þekjugluggann. Gat var á glugganum, og geislinn úr því lenti á þilinu á bak við rúmið.

Sveinninn hafði sparkað ofan af sér sængurfötunum og lá ber. Hann baðaði út öngunum og skríkti af kæti. Hann hafði ekki augun af þessum litla ljósdepli og talaði við hann barnamál sitt.

Halla breiddi ofan á hann og horfði brosandi framan í hann.

Allt í einu komu kippir í litla, feita andlitið. Loks kom stór og hraustlegur hnerri.

Annar og þriðji komu á eftir. Svo enn fleiri.

Sveinninn kærði sig kollóttan um hnerrana, en hjalaði á milli þeirra, eins og hann væri að halda ræðu og mætti ekki slá slöku við.

"Guð hjálpi þér, elskan mín!" sagði Halla og gerði sér tæpitungu. "Ertu að hnerra blessun í bæinn minn?"


4. kafli

Þegar Halla kom á fætur og leit út um stafngluggann, lá hrönn af klaka frammi á hlaðinu, eins og á hefði rutt sig upp á hlaðvarpann.

Ólafur hafði látið það verða fyrsta verk sitt um morguninn að moka snjónum út úr frambænum.

Veður var hið fegursta. Skuggar fjallanna voru að dragast saman að fótum þeirra; sums staðar voru þeir skriðnir í skúta uppi við klettabrúnirnar, þar sem þeir áttu síðasta athvarf.

Heiðargeimurinn blikaði í sólskininu, og fjöllin í fjarska stóðu í marglitum morgunskrúða. Yfir engjunum, niður undan bænum, lá gagnsæ slæða bláhvítrar móðu.

Inn um gluggann heyrðust raddir mófuglanna. Hæst lét í gauknum. Hnegg hans virtist koma úr öllum áttum í einu, svo ekki var hægt að átta sig á, hverju það spáði.

Fjárhundur Ólafs hafði valið sér stað í tóftinni fyrir utan stafngluggann. Þar hringaði hann sig saman, stakk trýninu undir löppina og svaf. Hávaði gauksins vakti hann ekki. En þegar hann heyrði ofur lítið, snöggt blísturshljóð, var eins og elding snerti hann. Þá þaut hann ofan af veggnum, ýlfrandi af ákefð, og fór á stað með húsbónda sínum.

Fram undan fjallshvarfinu seig kindahópur, ofur spaklega. Á milli kindanna skoppuðu litlir, hvítir hnoðrar; sums staðar eltu tveir af þeim sömu kindina. Á eftir kindunum gekk kvenmaður. Ólafur var genginn á stað á móti henni.

Höllu leið betur en henni hafði liðið um kvöldið. Svefninn og hvíldin höfðu hresst hana, morgunskinið gladdi hana. Hugsanir hennar voru léttari og ljósari.

Hún fann enn þá til stirðleika og sárra þreytuverkja, en gaf þeim lítinn gaum. Oft hafði hún fundið til þeirra áður, eftir þunga vinnu, og vissi af reynslu, að þeir stæla og herða, en hverfa við endurtekna áreynslu.

Hún var að greiða sér frammi fyrir spegli, sem hún hafði flutt með sér. Enn þá var hárið mikið og frítt; enn þá liðaðist það mjúklega, þegar það fékk að leika laust. Hún var rjóð í kinnum, og sveið hana ofur lítið í andlitið af sólbruna.

Hvammurinn var svo bjartur og brosandi, útsýnin svo skínandi fögur, veðrið svo vorlegt og blítt, að hún gleymdi hinni ömurlegu aðkomu kvöldið áður og fór að hugsa um bæinn í allt öðru ástandi: baðstofuna hlýja og fríða, alla þiljaða innan, bæjardyrnar með nýju þili og skálann líka með timburþili, túnið miklu stærra og allt umgirt - allt eins og það átti að verða.

Og þegar hún væri alein heima með barnið sitt, eins og núna, þá fannst henni sér mundi líða vel. Þá mundi hvammurinn uppfylla óskir hennar og vonir.

Þá mundi hún ekki sjá eftir að hafa drifið sig þangað - drifið sig frá öllu þessu, sem píndi hana á meðan hún var í sveitinni.

Kuldalega hugsaði hún til átthaganna; þar hafði allt verið henni andstætt. Eiginlega saknaði hún einskis þar. - Ekki hans heldur, sem hún hafði lagt hamingju sína í sölurnar fyrir.

En gamla prestsekkjan -? Nei, hún saknaði hennar ekki heldur. Án móðurlegrar forsjár hafði hún komist af síðan hún mundi fyrst eftir sér. Aldrei hafði hún kært sig um vini; enn gat hún komist af án þeirra.

Hún kreppti hnefana og leit á handleggsvöðvana; þeir voru hraustlegir - næstum eins og karlmannshandleggir. Með þeim skyldi hún vinna fyrir barni sínu, þótt allt, allt annað brygðist.

"Einsömul, alein!" mælti hún hálfhátt og stundi við, um leið og hún stóð á fætur.

Barnið var sofnað aftur. Roðinn í kinnum þess var óvenjumikill. Það dró andann með tíðum og óreglubundnum sogum. Smákippir komu í andlit þess, eins og hnerrar brytust á því í svefninum.

Halla horfði hugfangin á sveininn; aldrei hafði henni þótt hann jafnfagur.

Var hún þó ekki sæl, þrátt fyrir allt mótlætið, að eiga jafnyndislegt barn? Hugur hennar fylltist björtum vonum um framtíð hans.

Einhvern tíma, þegar hann væri orðinn mikill maður, - prestur eða eitthvað enn þá meira - þá ætlaði hún að segja honum trúnaðarmál sín. Enn þá heitara mundi hann elska móður sína, þegar hann fengi sannleikann að vita og þekkti til fulls alla baráttu hennar.

Hún laut ofan að sveininum og talaði við hann í hálfum hljóðum:

"Nú fer mamma fram í eldhús til þess að kveikja upp eld. Nú átt þú að vera góður, elsku vinur minn, þótt þú vaknir; ekki fara að gráta. Mamma kemur inn við og við og vitjar um þig."

Þessi gæluyrði voru henni þó aðeins á vörunum. Angurblíðar móðurtilfinningar gagntóku hana svo, að hún viknaði. Hún breiddi ofan á sveininn og hlúði að honum með sænginni, laut síðan alveg ofan að honum og kyssti hann undur gætilega.

"Guð minn góður veri hjá þér!"

Síðan gekk hún hvatlega fram úr baðstofunni til þess að byrja á heimilisstörfunum.


Næst þegar Halla kom inn í baðstofuna, heyrði hún gjallandann í Settu í Bollagörðum fyrir utan gluggann. Þau Ólafur voru að koma heim í hlaðið.

"Nei, nei, - guð minn góður!" sagði Setta og sló fast á lærið, þegar hún kom auga á klakann á hlaðinu. "Þetta grunaði mig. Svona voru kofarnir í Bollagörðum, þegar við komum þangað. Hann hirðir ekki mikið um það, blessaður hreppstjórinn - hí-hí-hí!"

Rétt á eftir komu þau inn í baðstofuna.

Setta rak rembingskoss að Höllu og bað hana vera velkomna í nágrennið. Hún hafði sokkhæð á prjónum og hnykilinn í handarkrika sínum.

Nokkuð af rúmfötum hafði verið látið í rúmstæðið gagnvart hjónarúminu um kvöldið og nokkur koffort voru komin inn í baðstofuna, svo nú var hægt að bjóða gestum sæti.

Setta tók sér sæti á gestarúminu og hélt áfram að prjóna.

Halla sat á rúminu fyrir framan barn sitt, en Ólafur á kofforti við endann á því rúmi. Hundurinn hafði tekið sér varðstöðu fyrir utan gluggann og skimaði hvasst í allar áttir. Kindurnar dreifðu sér fyrir neðan túnfótinn.

"Skelfing verð ég fegin að losna við kindurnar þínar, Ólafur," sagði Setta og deplaði augunum. "Það eru ljótu óþægðarskepnurnar! Hefði áin ekki verið fyrir þeim, væru þær allar stroknar. Ærnar hikuðu þó við að leggja í ána með lömbin sín! Ég á, svei mér, hönk upp í bakið á þér fyrir pössunina - hí-hí-hí! Er það ekki satt, Halla?"

"Jú, - þó það væri nú!" sagði Halla og brosti.

"Og svo skyldi nú Finnur minn leggjast í bólið - hí-hí."

"Er Finnur veikur?" spurði Halla alvarlega.

"Og blessuð vertu - það er þetta gamla, sem alltaf gengur að honum. Hann er mesti aumingi. Hann kom heim með kuldahroll í sér í gærkveldi og svo vaknaði hann með sting undir hægra herðablaðinu í morgun. Ja, ef hann væri ekki hjá mér, auminginn... !"

"Þetta sagði ég, þegar hann óð ána í gær," mælti Ólafur.

"Ó það er ekki af því, það er ekki af því," mælti Setta og bandaði með hendinni. "Skárri væri það nú karlmannsheilsan, að þola ekki að blotna í fæturna!"

Setta bar hratt á, þegar hún talaði. Rómurinn var mjór og ísmeygilegur; hláturinn svipaðist hneggi í folaldi.

Hún var rúmlega fertug að aldri, en leit út fyrir að vera nokkru eldri. Andlitið var dökkt og veðurbitið, dálítið orðið hrukkótt. Kinnarnar voru þunnar, ekki lausar við roða, hakan stóð fram á við, varimar voru þunnar og stór skörð á milli tannanna. Augun voru módökk, fljótleg og flóttaleg. Einhver óviðfelldinn hýrusvipur var á öllu andlitinu. Hvergi brá fyrir alvöru. Allir andlitsdrættir voru á stöðugu flögri, allar hrukkur lágu hver yfir aðra. Það var líkast því, að andlitið hefði tamist við það frá barnæsku að gráta og hlæja til skiptis. Munnvikjasvipurinn var einkennilegastur. Þar var hver dráttur ótrúlega teygjanlegur og snar í snúningum. Oftast teygðust munnvikin upp á við og hlógu; en áður en auga festi á, teygðust þau niður á við og kjökruðu.

"Skelfing þykir mér vænt um að vera búin að fá fólk í hvamminn," mælti Setta og ljómaði af gleði og hýru. "Hugsið ykkur - hvort ekki er dauflegt héma í heiðinni fyrir eitt einasta býli! Þið getið því nærri. Og það líka þetta fólk!"

"Þú þekkir okkur ekkert enn þá," mælti Halla brosandi.

"Ertu nú viss um það, heillin mín? hí-hí-hí," mælti Setta hlæjandi, "Jú, ég fer nærri um það, hvernig menn eru, þó ég hafi ekki kynnst þeim lengi. Og ég veit það, að þið eruð bæði góðar manneskjur." - Kjökursvipnum brá fyrir snöggvast, svo glaðnaði til aftur. - "Heyrðu nú, heillin mín, ég þekkti þig áður en ég sá þig. Ég var viss um, að hann Ólafur hefði valið sér góða konu og fallega konu, hí-hí-hí! Hann á líka einmitt slíka konu skilið."

Barnið vaknaði og lét til sín heyra. Halla tók það upp í fang sér.

"Og þetta er barnið ykkar," mælti Setta, um leið og hún kraup niður við hnén á Höllu og kjáði framan í sveininn.

"Komdu sæll og blessaður, lagsmaður! Velkominn í nágrennið! - Þetta kerlingarskrípi hefirðu aldrei séð áður! Er ég ekki ljót? - Heyrðu, viltu koma til mín?"

Barnið lagði vangann upp að barmi móður sinnar og horfði hljótt og alvarlegt á Settu. Það var rjótt í kinnum og augun óvanalega dökk og skær. Þegar Setta rétti út hendurnar og bauð því að koma, hjúfraði það sig upp að brjóstinu og ætlaði að fara að gráta.

Ég held hann sé að verða eitthvað lasinn," mælti Halla og vafði sveininn upp að sér.

"Þeim hefir nú aldrei litist vel á mig ungu karlmönnunum - hí-hí-hí!" mælti Setta. "En hvað barnið er fallegt - og líkt honum pabba sínum!"

"Svo? Er hann ekki líkur mér?" spurði Halla brosandi.

"Jú, en ég held hann líkist Ólafi meira, þegar hann stækkar. - Ó, mér þykir hann Ólafur þinn svo fallegur maður! - - Varaðu þig, að ég taki hann ekki frá þér - hí-hí-hí-hí-hí!"

Setta hnippti fast í Höllu og hristist öll af hlátri.

Ólafur varð kindarlegur á svipinn. Ýmislegt hafði hann heyrt um sig sagt, en aldrei það, að hann væri fallegur.

Setta lét dæluna ganga enn um stund. Hún lýsti því með mörgum og fögrum orðum, hve gott kot Heiðarhvammur væri - langbesta kotið í heiðinni, og það hefði verið eftir annarri framkomu Egils í Hvammi í hennar garð, að láta það heldur standa í eyði en byggja henni það. Aftur á móti væru Bollagarðar lélegt kot og í mestu niðurníðslu. Þar væri ljótt bæjarstæði, niðurgrafið og snjósælt. Kofarnir væru allir sligaðir og brotnir undan snjóþyngslunum. Allan veturinn væri þar haglaust. Þangað kæmi varla nokkur maður, en margir að Heiðarhvammi. Þó kvaðst hún heldur vilja hokra þar en niðri í sveitinni.

Á meðan þetta samtal hélt áfram, tóku nágrannakonurnar vel hvor eftir annarri. Setta hafði áður haft tækifæri til að kynnast Ólafi, er hann kom fyrir kindum sínum og gisti hjá henni. Höllu hafði hún aldrei séð fyrr en nú. Ekki var hún lengi að komast að því, að munur var á hjónunum og ekki yrði Halla tekin sömu tökum og Ólafur. Það var sem þetta kæmi henni nokkuð á óvart og gerði hana hálfhikandi.

Halla var að sínu leyti að reyna að lesa sig fram úr hinni ramflóknu sviprún, sem var gagnvart henni. Það var ekkert áhlaupaverk. Hvað sem undir bjó, var gríman vandlega gerð. Hún var margföld. Undir fagurgalagrímunni var hluttekningargríman, svo sakleysis- og guðræknisgríman. Hvað var enn þá innar? Hvað var innst? Henni stóð hálfgerður stuggur af því öllu saman.

Þegar Setta fór að sýna á sér ferðasnið, lagði Halla að henni að þiggja hjá sér kaffisopa. Hún kvað ketilinn standa í hlóðarvikinu, og senn mundi orðið heitt í honum.

"Þá kem ég fram í eldhús með þér, heillin mín, og sest á hlóðarsteininn hjá þér," mælti Setta. "Ólafur kemst af konulaus á meðan, hí-hí-hí."

Barnið var sofnað við brjóstið, og Halla lagði það út af. Síðan fóru konurnar fram.

"Nú ætla ég að kveikja í pípunni minni, heillin mín," mælti Setta. "Það geri ég aldrei nema í laumi, - þú skilur. Karlmennirnir mega aldrei sjá okkur konurnar reykja; þá líst þeim ekki á okkur - hí-hí-hí! Heyrðu, reykir hann Ólafur þinn ekki? Nei, það er satt, hann brúkar ekkert tóbak. Það er einstakt af karlmanni. En hann er svo indæll maður í öllu, hann Ólafur þinn."

Halla þagði og lofaði Ólafi að njóta hróssins. Setta hafði búist við, að hún færi að bera á móti því með hægð og kvarta um eitthvað, en það brást.

Setta tók stutta leirpípu upp úr vasa sínum, lét í hana glóandi viðarkol og saug hana fast, á meðan hún talaði.

Brátt hneigðist talið að landsdrottninum og heimili hans. Setta dró þá niður í sér, eins og hún væri hrædd um, að orðin kynnu að heyrast gegnum fjallgarðinn, gegnum hálsana, yfir Hvammsvatn og alla leið heim að höfuðbólinu Hvammi.

"Margt er dularfullt og óskiljanlegt í forlögum manna, blessunin mín," mælti hún, "og eitt af því er það, að hún Borghildur - prófastsdóttirin - skyldi giftast honum Agli. Það hefir líklega verið auðurinn - ólukku auðurinn . . . "

"Er ekki hreppstjórinn mesti sæmdarmaður?" spurði Halla ofurlítið kímin.

"Sæmdarmaður! - Já, sá er nú sæmdarmaður, heillin mín! Hann er sú mesta grútarsál, sem til er í hreppnum. - Menn kalla hann "Hvamms-durginn," og sumir kalla hann "Hvamms-Móra"."

"Það má öllum gera, að uppnefna þá. Hann er þó búmaður - er ekki svo?"

"Hann hefir lag á að kúga fé út úr fátæklingunum. - Nei, Halla mín, búsældin er öðrum að þakka. Hann á góða konu og hefir góðan ráðsmann.

"Hver er ráðsmaðurinn?" spurði Halla.

"Þorbjörn bróðir minn. - Egill skiptir sér sama sem ekkert af búinu. Hann er á stöðugu ferðalagi um sveitina. Aldrei tollir hann heima. Aumingja Borghildur, - hún hefir orðið margt að reyna í hjónabandinu. Guð fyrirgefi mér, ef ég tala illa um nokkurn mann. - En - " Setta hvíslaði - "það er sagt, að hann sé henni ótrúr. Hún er að minnsta kosti hrædd um hann. - Svo kemur hann stundum drukkinn heim, og þá... Já, aumingja Borghildur, að eiga annan eins durg. Ég held öllum sé illa við hann."

"Þá ætla ég að halda með honum," mælti Halla glettnislega. "Ég held ætíð með þeim, sem allir amast við."

Setta leit forviða framan í hana. Hún var ekki viss um, hvort hún ætti að láta í ljós meðhald með slíkri skoðun.

"Eiga þau ekki uppkomin börn?" spurði Halla.

"Jú-jú, Þorstein, grenjaskyttuna, - og svo telpukrakka um fermingu," svaraði Setta og glotti við. "En ég held Borghildur mín, blessunin, hrósi ekki barnaláninu heldur." Síðan bætti hún við hvíslandi: "Þorsteinn er einhvern veginn undarlegur og ómannblendinn. Menn kalla hann Þorstein þögula. Sumir halda, að hann sé ekki með öllum mjalla."

Þótt ekki legði Halla mikinn trúnað á það, sem Setta sagði um heimilisástandið í Hvammi, vakti það forvitni hennar og var henni umhugsunarefni.

Þegar þær voru komnar aftur inn í baðstofuna og ilminn lagði upp úr kaffibollunum, liðkaðist Settu um málbeinið fyrir alvöru.

"Ég heyri sagt, heillin mín," mælti hún meðal annars, "að hesturinn hafi dottið með þig í ánni í gær. Varstu ekki ósköp hrakin, blessuð manneskjan?"

"Nei," sagði Halla. "Ég vöknaði varla."

"En sú guðs mildi! - en undarlegt er það, hvað hætt er við slysum hérna í kringum Heiðarhvamm. Það er ekki einleikið. Hefurðu ekki heyrt, hvað kom fyrir, þegar Jósef sálugi var að byggja þessa baðstofu?"

"Nei."

"Hann var svo undarlega sérvitur, aumingja karlinn, og vildi einskis manns ráðum fylgja. Hér var þá kofatóft á hlaðinu, sem þau ummæli fylgdu, að ekki mætti róta við henni. Hann vildi nú samt byggja baðstofuna hér og hvergi annars staðar. En þegar hann var að grafa fyrir henni, gróf hann ofan á mannabein -."

"Mannabein!"

"Já, heillin mín. Það hefir margt skeð í þessum heiðarkotum, sem enginn þekkir. - Menn hafa oft horfið hér sviplega í fyrri daga, og sumum verið úthýst. Einhver sögn er til um það, að konu með barni hafi verið úthýst, hún skriðið inn í þennan kofa og dáið þar. Svo hafi bóndinn rifið kofann ofan yfir líkið, en morguninn eftir hafi heyrst barnsgrátur undir rofinu - ."

Halla fölnaði í framan.

Setta hélt áfram: "Hún kvað ofsækja bóndann í Heiðarhvammi síðan. - Viti menn: Þegar Jósef sálugi var að reisa baðstofuna, þá datt hann ofan í tóftina og viðbeinsbrotnaði -."

"Er þetta satt?"

"Já, og meira. Ári síðar valt tveggja ára gamalt barn, sem hann átti, fram af varpanum, ofan í lindina og drukknaði."

Þögn varð ofur litla stund. Halla horfði til Settu hálfhikandi.

"Og seinast, þegar hann var orðinn hér aleinn eftir, lét hann ljós loga yfir sér á hverri nóttu. Menn sögðu, að hann hefði verið orðinn svo hræddur. - Og svo ævilokin hans. Enginn veit, hvað á hefir gengið þá. Það segir fátt af einum."

Halla hafði vanist sögum líkum þessu frá blautu barnsbeini og efaðist ekki um, að sumar þeirra að minnsta kosti væru sannar. Margir gætnir og vandaðir menn, sem hver maður treysti, tóku mark á þeim. Enginn var algerlega laus við trú á vofur, fylgjur og fyrirburði.

Kynlegu glotti brá fyrir í svip Settu, er hún sá, hver áhrif sögur hennar höfðu. Myrkfælnin er máttug. Vel gat hún átt drjúgan þátt í, að Hvammurinn losnaði aftur innan skamms. Þá hafði hún ekki komið erindisleysu.

"Síðan eru alltaf að verða hér einhver slys eða smáóhöpp - og sumir þykjast jafnvel hafa orðið varir í bænum, á meðan hann stóð í eyði. - - - En það er ekkert mark takandi á þessu. Það getur allt verið hjátrú og vitleysa. Maður á að treysta guði; þá kemst ekkert illt að manni. Ég signi ætíð bæjardyrnar á kvöldin. - Ég verð aldrei vör við neitt óhreint og mig dreymir aldrei illa; - en það er nú kannske því að þakka, að samviskan er góð - ."

Setta réð sér varla fyrir kæti yfir því, að hafa komist að þessari veilni hjá grannkonu sinni. Eftir örlitla stund var hún komin út í allt aðra sálma.

" - Stela, stela, hí-hí-hí!" sagði hún hlæjandi. "Ég get aldrei annað en hlegið að því. Allir, sem flytja hingað í heiðina, eiga að gera það til þess að stela. Allir eiga að vera þjófar! Hvernig líst þér á? Hí-hí-hí! Það heldur, blessað fólkið niðri í sveitinni, að við getum ekki lifað hér uppi í kotunum án þess að stela fé. - - - "Margur heldur mig sig," liggur mér við að segja. Nokkrum sinnum var það sagt um Jósef sáluga, á meðan hann lifði. (Hvíslar): Það þóttu nú stundum slæmar heimtur í þá daga. (Hátt): Ég er viss um, að það hefir verið lygi. - Nokkrum sinnum hefir það verið sagt um okkur Finn. - Ég held, að Hvammsdurgurinn haldi það enn! Hí-hí-hí. Og eins og þið hafið sloppið! Ó-ekkí. Ekki voruð þið fyrr búin að biðja um Hvamminn en sagt væri, að þið ætluðuð þangað til þess að stela - hí-hí- hí - - -. En bíðum við. Þarna kemur Þorbjörn bróðir minn."

Það hafði ekki heyrst fyrir gjallandanum í Settu, að hundurinn boðaði gestakomu úti á baðstofuveggnum. Nú gekk Þorbjörn fyrir gluggann og Ólafur með honum. Rétt á eftir komu þeir inn í baðstofuna.

Þorbjörn var nokkru yngri en Setta. Ekki voru þau lík nema til augnanna; sömu módökku flóttaaugun voru í báðum. Hann var meðalmaður vexti, hálslangur og axlasiginn, munnstór nokkuð og opinmynntur. Þó var hann ekki ljótur ásýndum, en ódjarflegur og bar höfuðið lotið. Dökkt skegg, gisið, var í toppum á kjálkunum og í kringum munninn. Hann var klæddur sauðmórauðum vaðmálsfötum og hafði hellulitaðan hálstrefil bundinn um mittið. Blautur var hann og leirugur um fæturnar, með buxnaskálmarnar brotnar ofan í sokkana.

Halla hafði heyrt Þorbjarnar getið og lítið af honum látið. Um hagi hans vissi hún það eitt, að hann hafði eitt sinn verið kvongaður og búið þá í Syðri-Krókum; síðan var hann kallaður Króka-Refur, eftir fornhetjunni, og stundum engu öðru nafni.

Þorbjörn heilsaði Höllu hálffeimnislega. Síðan settist hann á koffortið, þar sem Ólafur hafði setið, og krosslagði fæturna fram á gólfið.

"Hvern fjandann ert þú að slæpast?" sagði Setta með uppgerðarávítun.

"Ég kom framan frá Bollagörðum," svaraði Þorbjörn stuttur í spuna og gerði totu á munninn. Ég ætlaði að fá mér kaffisopa hjá þér. - Ég held manni veiti ekki af kaffisopa, þegar maður er allan guðslangan daginn að rápa á eftir helv.... rollunum karlsins."

"En svo hefirðu gripið í tómt, hróið, hí-hí-hí."

"Nei, ég hitti Finn í rúminu. Hann sagði mér, hvar þú værir. Þá datt mér í hug að bjóða ungu hjónin velkomin í Hvamminn."

"Þú - að bjóða menn velkomna! - hí-hí-hí! Það hrín víst á mönnum, þegar þú biður þeim einhverrar blessunar!"

"Það er ekki víst, að mínar bænir hrífi verr en þínar, - þær eru þó ekki meiri hræsni. Annars hefði þér verið sæmra að vera hjá Finni þínum veikum en sitja masandi á öðrum bæ. Svo hafið þið þó verið samrýmd -."

"Haltu þér saman, úrþvættið þitt, eða ég hendi hnyklinum mínum beint í ginið á þér, svo hann sitji þar fastur að eilífu, amen!" sagði Setta og skók sig alla af hlátri. "Það var allt saman þér að kenna, að við fengum ekki Hvamminn. - Þú ætlaðir að útvega okkur hann. Þú þóttist hafa hreppstjórann í vasa þínum. Þú, - svei! En það veit guð, að ég ann þessum blessuðum hjónum þess vel að fá hann."

Halla horfði á þau til skiptis. Hún var að hugsa um, hvað þessi leikur ætti að þýða.

"Þannig kemur okkur alltaf saman, systkinunum, hvenær sem við sjáumst," sagði Setta hlæjandi. "En því láta hundkvikindin svona þarna úti? Ætli einhver sé að koma?"

Hundarnir geltu ákaft upp að fjallinu. Ólafur leit út um þekjugluggann og sá mann koma í hægðum sínum ofan fjallið.

Fleiri litu út um gluggann til að "skíra gestinn."

"Egill í Hvammi," sagði Þorbjörn. "Ó, hvert í logandi --!"

"Nei, er hann að koma, bannsettur durgurinn! Þá ætla ég að hypja mig," sagði Setta og nældi saman prjónunum.

Þorbjörn var orðinn vandræðalegur.

"Hann má ekki hitta mig hér. Þá heldur hann, að ég hafi verið að svíkjast um í allan dag," mælti hann.

"Jafngott þó hann sjái það einu sinni, hí-hí!"

"Hvað á ég að gera af mér? Ég kemst ekki burtu frá bænum án þess hann sjái mig."

"Skríddu undir rúmið, - eins og hundarnir!" mælti Setta.

"Þorirðu ekki að drekka úr kaffibolla?" spurði Halla.

"Nei, nei, ekki núna. Ég ætla að fara fram í eldhús og fela mig."

Að svo mæltu hrökk hann eins og áll fram úr baðstofudyrunum.

Setta kvaddi Höllu með mörgum kossum:

"Ég kem nú bráðum aftur, heillin mín. - Guð blessi barnið!"

Ólafur fylgdi henni til dyra og ætlaði að taka á móti hreppstjóranum um leið. Setta kallaði á hund Þorbjarnar, sem hún sá þar úti við, og fór á stað með hann, svo ekki skyldi hann verða fyrir hreppstjóranum og koma upp leyndarmálinu.


5. kafli

Egill gekk ekki beint heim að bænum, heldur kom hann við hjá heystakknum á túninu, gekk kringum hann, þuklaði á honum og ýtti í hann með hnúunum. Síðan gekk hann heim að bænum.

Ólafur beið hans á hlaðinu.

"Við tókum traustataki á ofur lítilli heytuggu í gærkveldi handa manni til að liggja á, sem var hérna í nótt," mælti Ólafur, eftir að þeir höfðu heilsast.

Egill gegndi fálega og svo lágt, að varla heyrðist.

"Ekki skulum við fást um það. Þeir hafa marga tugguna tekið frá mér, sem hér fara um á veturna. Ég læt það þó vera, ef þeir gengju sæmilega frá því, sem eftir væri."

Egill gekk hægt og leit aðgætnum augum í kringum sig. Hann krosslagði hendurnar á bakinu og spýtti út úr sér tóbakslegi við og við.

"Viljið þér ekki koma inn og þiggja kaffi?" spurði Ólafur.

Egill lét sem hann heyrði það ekki. Hann aðgætti bæjarhúsin vandlega, skoðaði fúann í bæjardyraþilinu og fleira, sem ekki var eins og það átti að vera, en hafði engin orð um neitt af því. Síðan gekk hann fram á hlaðið, stóð þar þegjandi um stund og leit yfir landið.

Ólafur fylgdi honum með augunum og beið eftir svari.

"Hér mætti hafa stórbú," mælti Egill loks.

"Það getur vel verið," mælti Ólafur. "Landkostirnir eru góðir."

"Hefði ég byrjað búskapinn minn hér, þegar ég byrjaði hann í Hvammi, þá væri ég nú orðinn efnaðri."

"Erfiðleikarnir eru margir. Veturnir langir og - og -."

Ólafi fipaðist við augnaráð það, er hreppstjórinn sendi honum.

"Það þarf dugnað og hagsýni til þess að búa vel," mælti hann. "Þeir, sem hafa þá kosti, þrífast alls staðar, hinir hvergi."

Aftur varð þögn. Egill stóð eins og áður og skoðaði sig um.

Hlaðið flóði í vatni úr snjónum, sem mokað hafði verið út úr bænum og nú var farinn að bráðna. Hreppstjórinn stóð í vatni upp í skóvörp.

"Það hefir verið snjór í bænum," sagði Egill.

"Kofarnir eru lélegir," mælti Ólafur.

"Landskuldin er ekki há heldur," svaraði hreppstjórinn nokkuð hvasslega.

Ólafur þagnaði og klóraði sér í hnakkanum. Hann fann til þess, að þessi maður réð kostum þeirra beggja.

"Erindi mitt var að spyrja þig um kúgildið," sagði Egill eftir litla þögn. "Viltu kú, eða viltu heldur sex ær?"

Ólafur hugsaði sig um og kaus síðan að taka kú.

"Það er gott. - Jæja, þú varst að bjóða mér kaffisopa. Er kaffið tilbúið? Ég er að tína saman kindur til rúningar og vil ekki tefja."

Ólafur kvað það vera tilbúið. Síðan gengu þeir inn í bæinn.

Halla hafði notað tækifærið til þess að virða Egil fyrir sér í gegnum baðstofugluggann, á meðan hann stóð við á hlaðinu. Henni fannst sá maður vera verður sérstakrar athygli, sem "öllum var illa við." -

Egill var maður um fimmtugt, en sýndist nokkru eldri. Hann var stór maður vexti og sterklegur, en ekki fagurlega limaður. Í fljótu bragði virtist hann eiga "durgs"-nafnið skilið. Hann var hægfara og seinn í öllum hreyfingum, gekk lotinn og leit út undan sér. Í andliti var hann stórskorinn, kinnbeinamikill, með stórar, loðnar augabrýr og hátt nef. Andlitið var rautt og veðurtekið, augun grá og lágu innarlega. Hárið var ljósjarpt og lá í sveipum aftur með eyrunum, skeggið rauðjarpt og hrokkið um allt skeggstæðið. Hendurnar voru luralegar með stórum örum, fingurnir digrir og klumbslegir með hörðu siggi á hnúum og gómum. - Það var eins og lífið hefði steypt utan á hann hraunskorpu. Fámæltur var hann, rómurinn dimmur og ómjúkur. Hann talaði hægt og virtist hugsa sig vel um hvert orð.

Þrátt fyrir "durgs"-haminn var eitthvað í fasi Egils, sem vott bar um þreytu og dulda harma. Ef til vill var hann ekki viðkvæmur fyrir ytri áhrifum, en hann var þó ekki allur úr hrauni.

Egill heilsaði húsfreyjunni þurrlega og virti hana fyrir sér. Höllu fannst hún rýrna öll og minnka, þegar þessi hvössu augu voru að vega hana og meta.

Síðan settist hann á rúmið, þar sem Setta hafði áður setið, lagði frá sér húfuna sína og blés mæðilega.

Þegar Egill var kominn inn í baðstofuna, læddist Þorbjörn á tánum inn að baðstofudyrunum og stóð þar á hleri. Gegnum rifur á hurðinni gat hann séð um alla baðstofuna og heyrt hvert orð.

Þegar Egill var sestur niður, var enginn asi á honum. Hann fór hægt að öllu, talaði orð og orð á stangli og þagði á milli. Kyrrðin, sem komin var í baðstofuna með honum, stakk mjög í stúf við skvaldrið, sem áður hafði verið þar.

"Var þetta ekki Setta í Bollagörðum, sem var að fara héðan, þegar ég kom?" spurði Egill.

Því var svarað játandi.

"Mér sýndist það," mælti Egill. "Hefir nokkur annar komið hingað í morgun?"

Halla leit snöggvast til Ólafs og lét hann verða fyrir svörunum. Ólafi varð engin skotaskuld úr því; honum gekk svo vel að leyna augunum.

"Engin lifandi sál," mælti hann.

"Nú, hvar skyldi Þorbjörn minn vera að sveima?" mælti Egill eins og við sjálfan sig. "Ég hélt, að hann hefði farið hingað upp fyrir fjallið."

"Þorbjörn? - Ráðsmaðurinn?" mælti Ólafur eins og hann væri að átta sig á því, við hvern hreppstjórinn ætti.

"Ráðsmaðurinn," mælti Egill og glotti. "Ojæja, öllu má nafn gefa. Hann hefir nú verið hjá mér síðan hann hætti að búa og er orðinn öllum verkum kunnugur. Mér hefir fallið heldur vel við hann, skinnið það arna. Það lakasta er, að hann er alltaf með annan fótinn uppi í Bollagörðum hjá systur sinni."

Egill þagði stundarkorn, en spurði síðan:

"Nú, hvernig geðjast ykkur að nýju nágrönnunum?"

Halla þagði. Ólafur varð fyrir svörunum:

"Þau hafa viljað gera okkur allan þann greiða, sem þau hafa getað."

"Sjáum til -!"

"Finnur var með okkur yfir heiðina og reyndist okkur ágætlega," bætti Halla við.

"Finnur er gæðamaður, duglegur og ósérhlífinn. - Ég vildi feginn vita hann annars staðar," mælti Egill.

Hreppstjórinn hellti kaffinu í undirskálina og dreypti á því við og við eins og hann hefði ekki lyst á því. Höndin titraði, þegar hann bar undirskálina upp að vörunum.

Ólafur tók vel eftir honum og þóttist sjá, hvað hann vantaði.

"Ekki mundi mega bjóða yður ofur lítinn dropa út í kaffið?" spurði hann.

"Ég þakka fyrir," mælti Egill og glaðnaði í bragði.

Viðbragðið, sem Ólafur tók fram úr baðstofunni, var honum óvanalegt. Þorbjörn hafði varla tíma til að forða sér úr göngunum.

Ólafur var geyminn á brennivín, en bragðaði það varla sjálfur. Hann þekkti, hvern undramátt það hefir, þegar gera á góð kaup.

Eftir að Ólafur kom inn aftur, lagði ilminn af heitu brennivíni um alla baðstofuna og fram í göngin til Þorbjarnar.

Nú svolgraði Egill kaffið í stórum sopum og varð brátt málhreifari. Halla bætti í bollann hans hvað eftir annað.

"Já, við vorum að minnast á nágranna ykkar," mælti hann. "Það er nú skrítinn búskapur í kotinu því. Hamingjan veit, hvað þau eru að gera þarna í heiðinni, hjónaleysin. Kotið stendur stundum tómt á sumrin; þá eru þau bæði í kaupavinnu. Þau hafa enga kú, og allar ærnar þeirra ganga með dilka. Svo flytja þau í kotið undir haustið og fara að heyja fyrir skepnunum. Á veturna flakka þau stundum til skiptis um sveitina. - Já, það er skrítinn búskapur. Því hefir nú stundum verið kastað framan í mig, að ég héldi við þjófabæli í heiðinni. Þeir láta þó ógert að sanna það. Ég hefi enga ástæðu til að byggja kerlingunni út, því hún stendur prýðilega í skilum. En aldrei held ég henni sé um mig, - og mér ekki um hana."

Egill þagnaði og lauk úr bollanum, en þáði þó í hann enn þá einu sinni.

"Örlítinn dropa," mælti hann, "svona, ekki meira! Það hitar manni innan, kaffigutlið, en það er dýrt. - Þau vildu endilega fá Heiðarhvamm. Þorbjörn er víst reiður við mig enn út af því að hún fékk hann ekki. Þau vissu það, að ef þau fengju Hvamminn, mundu Bollagarðar ekki byggjast, en þau vilja vera ein í heiðinni - hvernig sem á því stendur."

Þorbjörn nísti tönnum af gremju í fylgsni sínu.

"En hvernig stendur á því, að þau giftast ekki?" spurði Halla.

"Það er nú eitt," mælti Egill. "Við prófasturinn höfum gert okkar ýtrasta til þess að koma þeim í löglega sambúð. Finnur vill það, Setta aftekur það með öllu. Jafnómögulegt er að stía þeim í sundur."

"Hvaðan er þessi Finnur?" spurði Halla.

"Hann er héðan úr sveitinni," mælti Egill. "Heldurðu ekki, að hún hafi tekið hann frá giftri konu! Setta vílar ekki fyrir sér aðra eins smámuni. Konan dó eitthvað um ári síðar. Börnin tvö eru á sveitinni. Finnur gefur ekkert með þeim, því hann fær ekkert kaup -!"

Egill hristi höfuðið.

"Það er átakanlegt, þegar myndarmenn lenda í þessu óláni," mælti hann. "En hver getur bjargað þeim, sem ekki vill bjarga sér sjálfur?"

Þau töluðu um þetta stundarkorn. Svo stóð hreppstjórinn á fætur.

"Þakkir fyrir kaffið, kona góð," mælti hann og rétti Höllu höndina. Hún var hörð eins og eikarbörkur, en handtakið hlýlegt. "Þú býrð til gott kaffi. - Bestu þakkir, Ólafur minn. Mér hefir liðið vel þessa litlu stund, sem ég hefi verið inni hjá ykkur. Ég tek mark á því, hvernig mér líður, þar sem ég kem í fyrsta skipti; eins líður manni þar oftar. Ég kom oft hingað, á meðan Jósef sálugi lifði; - ég átti ekki annað eftir en láta Settu í Bollagörðum spilla þeim minningum. Og ég kem oftar til ykkar."

Hreppstjórinn var orðinn eins og allt annar maður, síðan hann kom inn. Það var eins og "hraunskorpan" hefði bráðnað til muna - að minnsta kosti sem snöggvast. Nú var hann hýr í bragði og brosandi. Ólafur kunni sér varla læti af fögnuði.

"Ég er nú búinn að masa margt við ykkur", mælti Egill. "En ef þið viljið mínum ráðum fylgja, þá varið ykkur á Settu - þó hún tali fagurt og þykist vera góð og guðhrædd. Mín reynsla af mönnunum er sú, að þeir séu oftast viðsjálastir, sem mest smyrja varirnar með guðs nafni. Setta er hundheiðin, hvað fagurt sem hún talar. Og þið ættuð að vara ykkur á Þorbirni mínum líka."

"Viljið þér ekki dropann, sem eftir er í flöskunni?" spurði Ólafur og hélt flöskunni upp við birtuna.

Egill horfði beint framan í hann. Augun voru lítið eitt farin að sljóvgast.

"Segðu "þú", mannskratti!" sagði hann og tók í hönd hans. "Við erum engir höfðingjar, hreppstjóra-garmarnir, sem þörf sé á að þéra. - Jæja, Ólafur minn, ég sendi þér beljuna á morgun."

Þegar Egill fór, brá Ólafur honum á einmæli inn í skálann og sýndi honum það, sem enn var eftir af spesíuforðanum. Síðan gekk Ólafur á stað með honum inn með fjallinu og sýndi honum lambfé sitt.

Þegar þeir voru farnir, kom Þorbjörn inn í baðstofuna og þáði kaffi. Hann var ókyrr mjög og skalf á beinunum. Hann kvað Egil svo tortrygginn og illa lyndan, að ef hann kæmist að því, hvar hann hefði verið, þá ræki hann sig úr vistinni.

Síðan fór hann á stað og stefndi upp á skarðið. Hann hljóp allt hvað af tók, þar til hann hvarf upp fyrir fjallsbrúnina.

Niðri á hálsinum ætlaði hann að mæta Agli seinna um daginn og lýsa því fyrir honum, hver ósköp hann væri búinn að ganga og leita að "helv.... rollunum hans." Svo hefði hundskrattinn svikið sig og hlaupið heim að Bollagörðum.

Þetta sama kvöld var leyniráðstefna í búrinu í Hvammi. Þar voru þau Þorbjörn ráðsmaður og Borghildur húsfreyja. Strokkurinn var lagður upp að hurðinni að innan, svo enginn skyldi koma inn að óvörum.

Þannig var vandi húsfreyjunnar að búast um, þegar hún vildi mæla lágmæli við hjú sín eða hina óæðri gesti.

Borghildur var miðaldra kona, holdug og svipmikil, fremur fríð sýnum og gerðarleg, með stóra vörtu á vinstri kinninni.

Þorbjörn sat álútur á búrkistunni og var að gera sér gott af "sögubitanum." Hann var undirleitur og forðaðist að líta upp, en glott lék um andlitið. Í þetta skipti var bitinn óvanalega góður, enda var sagan óvanalega góð.

- Jú, jú, - hann hafði komið að Heiðarhvammi um daginn. Þangað var ekki amalegt að koma: ung og fögur húsfreyja og auðmjúkur bóndi, - nóg kaffi og nóg brennivín. Viss maður hefði unað sér þar prýðilega. Ólafi fipaðist ekki, þótt hann brygði fyrir sig smáskreytni; hann hafði séð sýnishorn af því. Fríðleiksmunur hjónanna styngi mjög í augu; mikið mætti það vera, ef mjög væri ástúðlegt með þeim. - - Svo gat hann glatt húsfreyjuna með því, að bráðum yrði einni kúnni færra í fjósinu hjá henni -.

Húsfreyjan beit saman vörunum og blánaði í framan. Vartan á kinninni þrútnaði, svo hárin úr henni stóðu beint út í loftið. Fagrar konur og brennivín var það, sem hún óskaði síst, að yrði á vegi hreppstjórans.

Þorbjörn gaut til hennar augum út undan sér. Væri nokkuð til, sem Egill hefði beyg af, þá var það þessi svipur konunnar. Og hann var ekki næsta sjaldgæfur.

"Hvað skyldu þessar manneskjur verða lengi að fara á sveitina?" var það eina, sem Borghildur gat sagt.

"Eða - í hegningarhúsið, heillin mín."

"Já, ég ætlaði að bæta því við. - Eða í hegningarhúsið!"

Halla var ein heima með barn sitt allan seinni hluta dagsins. Það hafði sofið lengst af meðan gestirnir stóðu við. En þegar það vaknaði, var það óvært og amalynt.

Þessi fyrsti dagur hennar í Heiðarhvammi lét henni margt eftir til umhugsunar. Nú hafði hún fengið lítils háttar kynni af nágrönnunum, og upp frá þessu mundu þau aukast daglega. Það var lítið tilhlökkunarefni, en engin von um að komast hjá því.

Undarlegur kvíði og óþreyja gagntóku hana. Lasleiki barnsins var henni áhyggjuefni, þótt ekki væri hún beinlínis hrædd við hann enn þá.

Ólafur hafði ekki komið heim síðan hann fór á stað með hreppstjóranum. Hann hlaut að hafa farið heim að Bollagörðum. Hann þreyttist aldrei á masinu í Settu.

Sögurnar, sem Setta hafði sagt um daginn, voru henni þó minnisstæðastar. Hrollur fór um hana við að hugsa til þeirra. Undir baðstofugólfinu, undir rúminu hennar sjálfrar, lágu mannabein, sem engrar blessunar hafði orðið auðið. Það var dulinn glæpur, sem engin hegning hafði komið fyrir. Gat það ekki vel verið, að manneskjur, sem dæju í slíkum heiftarhug, létu eftir sig svipi á jörðunni og leituðu hefnda - hefnda á öllu mannkyninu, sem hélt hendi sinni yfir svo mörgu hrópandi ranglæti? - Og svo öll slysin, sem orðið höfðu í kringum þetta afskekkta býli, - allar þær ógnir dauðastríðsins í ýmsum myndum! Það var sem loftið ómaði enn þá af örvæntingarveini, máttvana hrópum um hjálp, sem enginn heyrði nema fjöllin, sem hermdu þau eftir og hentu þeim á milli sín.

Aldrei hafði hún hugsað út í þetta fyrri.

Hún kveið fyrir því að sofna. Hún var hrædd um, að hana mundi dreyma um þetta.

Kvöldið var hljótt og fagurt, en kalt var það eins og kvöldið næst á undan.

Halla sat uppi langt fram eftir kvöldinu og beið eftir manni sínum. Barnið svaf óvært og dró þungt andann í rúminu hjá henni. Því var óvanalega heitt á öllum kroppnum, en þó svitnaði það ekki.

Hún þráði það þó ekki svo mjög, að Ólafur kæmi heim; henni stóð að mestu á sama um hann. En hún fann það, að hún gat ekki verið ein í kotinu, þegar hann var ekki heima. Hún varð að fá þangað einhverja manneskju - þó ekki væri nema niðursetning.

Loks háttaði hún. En þegar hún var nýsofnuð, dreymdi hana, að kona stæði hjá henni. Hún var ekki viss um, hvort það væri prestsekkjan gamla eða Guðrún sáluga fóstra hennar. Hún sagði við hana:

"Nú ætla ég að taka við barninu þínu; annars verður því of kalt um hjartað."


6. kafli

Halla reið til kirkju á hvítasunnudag og hafði með sér barnið til skírnar. Þá notaði hún söðulinn prestsekkjunaut í fyrsta skipti. Hann var djúpur, með háum bríkum og hárri sveif, enda gert ráð fyrir þykkri sessu og fögru söðuláklæði, sem nú vantaði. Það var því líkast því, að hún sæti í háörmuðum hægindastóli. Barnið reiddi hún í fangi sér, en hafði til léttis bundið linda utan um sig og það og aftur í söðulsveifina. Ólafur gekk með hesti hennar.

Halla hafði verið í efa um það, hvort hún ætti að leggja með barnið í þetta ferðalag. Það hafði verið veikt alla vikuna, stundum með talsverðri hitasótt, og enn var því ekkert farið að batna.

En henni fannst þó hún mega til. Skírn barnsins mátti nú ekki dragast lengur. Hún hafði samviskubit af því, hve lengi hún hefði dregist, og var hrædd við, að það væri móðgun við guð. Nú mátti til að verða af því, ef mögulegt væri.

Setta í Bollagörðum hvatti hana heldur. Hún kvað ekkert ganga að barninu; þetta væri meinlaust kvef, sem nú væri að ganga, og jafnframt væri barnið líklega að taka tönn. Ólafur tók í sama strenginn.

Og fyrst veðrið var bjart og blítt á hvítasunnumorguninn, bjó Halla sig í skyndi og lagði á stað.

Margt fólk var við kirkju þennan dag. Halla þekkti þar varla nokkra manneskju. Það var í hvítasunnufötum og hvítasunnuskapi. Unga fólkið lék sér og hoppaði, á meðan það beið eftir messunni, húsfreyjurnar sátu í hvirfingum og töluðust við í hálfum hljóðum, en bændurnir smáhurfu út fyrir vegg, tveir eða þrír saman, til þess að súpa á vasapelunum. Allir drógu það að setja upp kirkjusvipinn, að minnsta kosti þangað til samhringt yrði.

Alls staðar, þar sem Halla gekk um, hljóðnaði allt samtal. Menn horfðu á hana forvitnisaugum, og á eftir sér heyrði hún suðu af samtali um nýju húsfreyjuna í Heiðarhvammi. Einkum fannst henni húsfreyjurnar ætla að gleypa sig með augunum. Þó gaf engin þeirra sig að henni.

Halla hafði hálfgaman af því, hve mikla eftirtekt koma hennar vakti. Hún var sannfærð um það, að langmestu tíðindin, sem menn hefðu heim með sér frá kirkjunni í þetta sinn, væru þau að hafa séð hana. Enn þá mundi þó ekki vera talað illa um hana. Þetta mót mundu menn nota til þess að aðgæta hana í krók og kring. Síðar, þegar menn færu að bera saman athuganir sínar, kæmu dómarnir.

Henni var léttara í skapi en vanalega. Hér var hún öruggari, innan um alla ókunnuga, en heima í sveit sinni. Þau augu, sem hér hvíldu á henni, kitluðu ögn, en þau stungu ekki eins og augun þar. Þau festu sig mest við þau einkennin, sem mest bar á.

Höllu var boðið inn með barn sitt, þar til messan byrjaði. Flestir aðrir voru úti við. En þegar hún kom út aftur, stóð þyrping manna utan um söðulinn hennar, sem Ólafur hafði lagt á kirkjugarðsbrúnina.

Hún kom aftan að hópnum og heyrði ávæning af máli manna. Einhver kvenrödd hafði hæst: Naumast væri það, að hún bærist á, heiðarbýlisdrósin! Þeir gætu það, sem byggju í heiðinni! Þessi söðull væri sjálfsagt gamall ættargripur; einhvern tíma í fyrndinni hefði hann líklega verið búinn til handa biskupsfrú. - - - Hann væri þó vonandi vel fenginn. - -

Hinir, sem þar stóðu, hlustuðu á skrafið athugasemdalaust og hlógu að. En þegar vart varð við Höllu, hnippti hver í annan og þagnaði, og á meðan hún gekk fram hjá til sáluhliðsins, tvístraðist hópurinn. Enda var þá farið að samhringja, svo ekki mátti fresta því lengur að búa svipinn undir "gönguna í guðshús." Mörgu þurfti að rýma burtu úr honum, sem var frá "höfðingja þessa heims."

Höllu rann dálítið í skap við það, sem hún hafði heyrt. Það var þá satt, sem Setta í Bollagörðum hafði sagt henni um skoðanir byggðamanna á heiðarbúunum.

Guðþjónustan var endurtekning á því, sem hún hafði vanist frá barnæsku; hvorki verri né betri en vanalega. Lakast var það, hve illa henni gekk að þagga niður í barninu; það var svo veikt og amalynt; og eitt sinn varð hún að fara með það út úr kirkjunni, svo það glepti ekki um of kirkjufriðinn.

Eftir prédikun var sveinninn skírður inni í kórnum. Egill í Hvammi og Þorsteinn sonur hans voru skírnarvottar; Borghildur í Hvammi var ekki við kirkju þennan dag. Halla réð nafninu og lét sveininn heita Halldór - "í höfuðið á pabba sínum."

Halldórs-nafn var til í móðurætt hennar; því gat hún brugðið fyrir sig, ef einhver spyrði.


Á leiðinni heim frá kirkjunni komu þau Ólafur og Halla við á bæ þeim, er Brekka hét. Hann stóð undir hálsunum og var næstur fjallgarðinum, þegar þessi leið var farin.

Þar bjó bóndi, sem Sigvaldi hét, og Margrét kona hans. Setta í Bollagörðum hafði stundum minnst á þau hjónin og heimilisbraginn þar, svo Höllu var ekki með öllu forvitnislaust að koma þar við.

Þegar þau voru að fara heim að bænum, bar þar að Egil frá Hvammi og Þorstein son hans á leið frá kirkjunni. Þeir urðu þeim samferða þangað heim.

Þegar þau komu heim á hlaðið, kom húsfreyjan út á móti þeim, heilsaði þeim blíðlega og bauð þeim inn. Þó bað hún þau afsökunar á því, hvernig þar stæði á. Gestum væri tæplega í bæinn bjóðandi, því nú hefði "telpan eitt vitleysiskastið."

Margrét var kona um fertugt, há og beinvaxin, sviphörð og blendin á svip. Hárið var dökkjarpt og gróft, andlitsliturinn öskugrár. Hún var sæmilega búin og kvað allmikið að henni.

Út úr bænum heyrðist ómur af undarlegum hljóðum. Margrét gekk á undan þeim inn í bæinn og vísaði þeim leið í löngum, dimmum göngum. Eftir því sem innar kom í göngin, skýrðust óhljóðin og voru líkust öskrum í villidýri. Halla hélt áfram með hálfum huga, og barnið fór að gráta í fangi hennar.

Þegar inn kom í baðstofuna, varð gestunum litið á rúmflet frammi við dyrnar. Þar voru rúmföt lítil sem engin, heyrusl ofan á fjölunum og ábreiðuslitur þar ofan á. Allt var þetta í bögglum og hrúgum sitt í hverju rúmshorninu, og lagði þaðan fúaþef.

Í rúminu lá stór strigapoki, úttroðinn af einhverju, og var bundið fyrir opið. Ekki hafði hann frið, en byltist eirðarlaust endanna á milli í rúminu. Þaðan komu óhljóðin. Stundum vottaði fyrir höndum og fótum, hnjám og olnbogum í pokanum, en af öðrum gúlum, sem þar skaut út, mátti ráða, að einhvern veginn væri það kynlega skapað, sem í pokanum væri.

Heimafólkið var flest úti við, sumt ekki komið heim frá kirkjunni. Gestunum var fylgt inn í innri enda baðstofunnar. Þar sat húsbóndinn framan á rúmi sínu og var að bora göt undir spengur á brotna leirskál. Leirsvarfið lá í flekkjum á hnjánum á honum eins og mjölsáldur.

Sigvaldi var grannleitur maður með ljóst alskegg, gisið, þunnar varir og beint nef. Sviplítill var hann og fremur góðmannlegur.

"Ég er nú að vinna ofur lítið í höndunum, þó hátíðisdagur sé," sagði hann með fremur einfaldlegu brosi, þegar gestirnir höfðu heilsað honum. "Ég held mér verði ekki talið það til syndar á dómsdegi. Messutíminn er víst liðinn."

"Ég held það sé eins gott eins og að sitja auðum höndum," sagði húsfreyjan og kerrti hnakkann. "Með iðjuleysinu þjónar maður engum nema skrattanum. Og fyrst hann nennir ekki að lesa í guðsorðabók, þá . ."

Leirárgarða-sálmabókin - sem margir nefndu Leirgerði - lá þar á borðinu. Útlit var fyrir, að Sigvaldi hefði nýlega átt að velja milli hennar og skálarbrotanna, og tekið heldur skálina af tvennu illu.

Þau þurftu næstum því að kallast á, svo þau heyrðu hvort til annars fyrir óhljóðunum úr pokanum. Margrét gekk að rúmfletinu, tók óþyrmilega á stærsta gúlnum, sem stóð út úr pokanum, og mælti:

"Hættu nú þessum óhljóðum, Salka mín. Það eru komnir gestir. Þeir mega ekki heyra þessi óskaparlæti til þín."

Það var auðheyrt, að Salka skildi, hvað við hana var sagt, því hún herti á hljóðunum allt hvað af tók og tæpti á einhverjum orðum, sem ekki skildust.

"Það er annars gott, að hreppstjórinn heyri nú einu sinni sjálfur, hvernig hún lætur," sagði Margrét með beisku glotti. "Hann trúir því aldrei, hvað illt er að fást við hana. Við erum sannarlega vel að því meðlagi komin, sem við fáum með henni. En fjandinn sjálfur má hafa hana fyrir sama meðlag framvegis. Nú getur þú hirt hana sjálfur, eða komið henni annars staðar fyrir, ef þú vilt ekki hækka meðlagið."

Egill glotti í kampinn og þagði.

- Þá var enn ekki komin sú skipun á sveitamál, sem skömmu seinna komst á. Hreppstjórinn var þá eini veraldlegi valdsmaður sveitarinnar. Undir verksvið hans heyrðu öll fátækramál, öll umboðsmál og öll lögreglumál; þá eru talin helstu einkenni stöðunnar. Annars var verksviðið svo umfangsmikið og erfitt, að ekki var að furða, þótt eitthvað færi í handaskolum, enda sjaldan gerður úlfaþytur út úr því, þótt það kæmi fyrir.

Þessi sýslan hafði þreytt Egil og mætt hann meira en nokkuð annað. Það var ekki vinsælt starf að heimta af mönnum skatta og skyldugjöld, þegar illa áraði. Þó hafði hann þar landslög og yfirvöld að bakhjarli, svo ekki tjáði á móti að mæla. Verra var þó að fást við illvíga sakamenn og hvergi nærri hættulaust. En langverst af þessu öllu saman voru fátækramálin. Undir þau heyrðu allir þurfalingar sveitarinnar sjálfrar, allir flækingar, allir hreppaflumingar og allt millihreppaþrefið. Þegar Egill leit yfir það allt saman í huganum, fannst honum það vera meira en nóg til þess að gera meðalmann vitlausan á einu missiri.

Þó varð aldrei af því, að hann segði af sér hreppstjórasýslaninni. Jafnan fannst honum, þegar á átti að herða, sem hann mundi kunna illa við sig, þegar annar maður væri orðinn hreppstjóri. Staðan hafði þó ýmislegt sér til ágætis. Argsemi hennar átti hann það að þakka, að hann varð ekki uppnæmur við hvað eina. Og þótt staðan gerði hann ekki vinsælan, þá bætti hún það upp með því að gera hann voldugan. Vegna stöðu sinnar gat hann verið með nefið niðri í mörgu um alla sveitina og hlaut að komast að fleiru en mönnum þótti vænt um. Á þann hátt rekst maður á þau vopn á hvern mann, sem best bíta. Egill kunni með þau að fara. Margir áttu mikið undir honum og - allir voru hræddir við hann.

Nú var svo komið, að Egill undi sér eiginlega hvergi nema í hreppstjóra-umsvifunum. Allt annað var orðið honum hálfókunnugt. Allt líf hans var helgað þessum umsvifum; hvert atvik, hver hugsun og hvert spor stóð í beinu eða óbeinu sambandi við þau. Og frá þeim var hraunskorpan runnin. -

Halla fór að iðrast eftir því að hafa farið inn í þennan bæ. Þessi óhljóð gengu í gegnum hana, og það því fremur, sem hún vissi ekki, hvað að þessari manneskju gekk, sem var í pokanum. Barnið var hætt að gráta, en þáði ekki brjóstið. Það sat hlustandi á kjöltu móður sinnar og skimaði í allar áttir.

"Það er líklega best að leysa telpuna úr pokanum," mælti Margrét hálfönug. "Hver veit nema þá dragi niður í henni."

"Já, gæskan mín, nú skal ég undireins . . .," sagði Sigvaldi og blés leirsvarfið burtu úr gatinu, sem hann var að bora.

Aldrei var Sigvaldi stimamýkri við konu sína en þegar hreppstjórinn var þar viðstaddur, og aldrei var Margrét önugri við hann en þá. Hann vissi, hvernig á því stóð. Henni var að vísu í nöp við hreppstjórann. Samt gat hún aldrei gleymt því, að vinkona hennar, Borghildur í Hvammi, var sett skör hærra með giftingunni, þar sem Egill var hreppstjóri. Nú sátu þeir saman á hjónarúminu, bændurnir, en hún gagnvart þeim og bar þá saman.

"Þú hefir brotið kvarðann þinn einu sinni enn þá, gæskan mín," sagði Sigvaldi um leið og hann stóð á fætur. Kvarðinn lá í tveim hlutum fyrir ofan hann í rúminu. Áður hafði hann tvívegis verið spengdur.

"Ég held þú hafir ekki annað að gera en spengja hann einu sinni enn," mælti Margrét. "Mér varð skapbrátt við telpuhúðina - er það ekki von? En ég sé eftir því, að ég danglaði ekki í hana með rúmfjölinni."

"Hver er þessi aumingi?" spurði Halla.

"Hún er systurdóttir hans Sigvalda míns," svaraði Margrét háðslega. "Þess vegna er henni alltaf troðið upp á okkur. Enginn vill hafa hana. Hún er hálfviti og krypplingur - og ekkert annað en illska. Eitt af þessu væri líklega nóg til þess, að sæmilega væri gefið með henni."

"Hreppaþingið er nú bráðum," nöldraði Egill. "Það verður víst ekki um annað að gera en bjóða hana upp."

Margrét hló svo hátt, að glumdi í baðstofunni:

"Bjóða hana upp - ha-ha-hæ! Eins og nokkur fari að bjóða í þetta kvikindi! Nei, hún verður víst "úrskurðuð" hingað -."

Egill þagði og glotti.

"Hefir hún verið svona alla ævi?" spurði Halla.

"Nei. Það þyrmdi svona yfir hana, þegar hún var á þriðja árinu," mælti Margrét. "Það eru formælingarnar hennar móður hennar, sem koma fram á henni. Guð minn góður! - Ég hefi aldrei heyrt annan eins munnsöfnuð."

"Ætli það?" sagði Sigvaldi og klóraði sér í hnakkanum um leið og hann gekk fram eftir gólfinu.

"Vertu ekki að taka svari hennar, gribbunnar," sagði Margrét. Síðan bætti hún við með hátíðlegum rómi:

"Formæling illan finnur stað,
fást mega dæminn upp á það."

Sigvaldi leysti frá pokaopinu og tók svo í botninn á honum. Salka veltist í böggli út um opið og tók til að hlæja eins og verið væri að kitla hana.

Rétt á eftir fór Margrét fram úr baðstofunni og kallaði á bónda sinn með sér. Þá voru gestirnir einir inni hjá krypplingnum.

Salka hló æðislega nokkra stund. Svo hnipraði hún sig saman í einu rúmshorninu, horfði stórum augum á gestina og þagði.

Stundarkorn var ekkert talað. Gestirnir horfðu hljóðir á þessa undarlegu náttúrusmíð. Loks mælti Þorsteinn sonur Egils í hálfum hljóðum:

"Skelfing er víst farið illa með þennan vesaling."

"Hún lætur víst líka óttalega illa," mælti Ólafur.

Þau litu öll til Egils, því honum var ætlað að svara. Hann þagði fyrst, en mælti síðan:

"Það hefir líka eitthvert blessað lag á því fólkið hérna, að láta hana láta sem verst, þegar von er á gestum. Einkum þó, þegar líður að hreppaþinginu."

Síðan stóð hann á fætur og gekk fram að fletinu til krypplingsins. Salka vafði handleggjunum utan um höfuðið, eins og hún byggist við höggi, og orgaði upp.

"Komið þið hingað," mælti Egill hálfhátt.

Þau komu þegar fram að fletinu til hans. Salka sefaðist, þegar hún sá, að ekkert illt ætti að gera sér, og horfði hálffeimnislega upp á þau til skiptis.

Hún var 17 ára og enn þá barnsleg útlits. Hörundið var hvítt og smágert, kinnarnar þunnar og roðalausar. Augun voru stór og skær og lágu utarlega. Hárið var allt í flókabendu og fullt af heyi úr rúminu; þó sást, að höfuðið var eitthvað aflagað. Kryppan var út úr bakinu vinstra megin; brjóstbeinin voru öll úr lagi og það var sem höfuðið sæti á viðbeinunum. Hendurnar voru stórar og báru menjar talsverðrar vinnu. Hún var klædd lélegum flíkum og sá víða í hana bera.

Það, sem Egill vildi sýna þeim, voru bláir blettir á krypplingnum til og frá. Sumir voru gamlir og farnir að gulna, aðrir voru nýir.

"Ég kann betur við, að fleiri en ég sjái, hvernig hún lítur út," mælti Egill.

Þau hjónin og Þorsteinn horfðu aumkunaraugum á þessa hryggðarmynd mannlegrar tilveru. En Egill hafði annað fyrir stafni á meðan. Hann þuklaði gólfið með fótunum; síðan seildist hann upp í sperruna og strauk gómunum gætilega eftir henni.

"Hér var nú virki í fyrra," mælti hann. "Sjáið þið ekki grópið í gólfinu og naglaförin þarna uppi í sperrunni? Þá átti að telja mér og öðrum trú um, að hún væri svo bandóð, að slá þyrfti utan um hana. Nú er virkið farið, en pokinn kominn í staðinn."

Egill hristi höfuðið og glotti kímilega.

Þegar þau voru aftur komin til sæta sinna, spurði Halla:

"Er þessi aumingi mállaus?"

"Ekki er það með öllu," mælti Egill. "Þeir, sem venjast henni, geta talað við hana fullum fetum. Hún er afllítil í talfærunum og tæpir aðeins á orðunum. En heyrnin er góð."

Dálítilli stundu eftir að þau voru farin frá Sölku, tóku þau eftir því, að hún var hætt að horfa á þau, en skimaði um baðstofuna. Allt í einu tók hún undir sig stökk og klifraði upp á bríkina á milli rúmanna. Þaðan náði hún upp á hillu, sem var uppi yfir rúmunum. Þar stóð matur eins vinnumannsins, sem ekki var heima. Salka þreif harðan fiskhelming af diskinum og hnipraði sig með hann ofan í flet sitt.

"Hamingjan hjálpi mér! Hún er þá svöng líka," mælti Halla.

"Hvað annað?" mælti Egill. "En þetta hefði hún þó ekki þorað, hefðum við ekki verið hérna.

Skömmu seinna kom húsfreyjan inn með heitar pönnukökur handa gestunum. Hún sá, hvað Salka hafðist að og þreif af henni fiskhelminginn. Salka brá handleggjunum fyrir höfuðið og rak upp öskur. Margrét hætti þó við að berja hana, en lét sér nægja að úthúða henni fyrir þjófnað. Síðan henti hún í hana fiskinum aftur. - -

Þegar gestirnir fóru af stað, fylgdi Margrét þeim til dyra og kvaddi þau með mestu blíðu. Egil bað hún að skila kærri kveðju til "blessunarinnar hennar Borghildar sinnar."

Leið þeirra Hvammsfeðga og Heiðarhvammshjóna lá saman upp á hálsinn. Þegar þau voru komin á stað, hneig samtalið brátt að Sölku. Egill var henni kunnugastur og sagði frá.

Hann kvað stúlkuna heita Salgerði, þótt aldrei væri hún kölluð annað en Salka. Hún væri barn fátækra foreldra, sem hefðu þegið af sveit, en væru nú bæði dáin. Framan af hefði hún verið hraust barn og myndarlegt. En þegar hún hefði verið á þriðja árinu, hefði hún orðið fyrir áfalli. Það væri orsökin til eymdar hennar. Hitt, sem Margrét hefði sagt um formælingar móður hennar, vissi hann ekkert um annað en það, að hún héldi því á lofti og notaði það til þess að gera lítið úr skyldmennum Sigvalda síns. Barnið hefði dottið inn um vindauga á heyhlöðu. Það hefði verið meira en seilingarhátt fall og hart gólf undir. Hún hefði legið lengi í roti og höfuðið hefði talsvert aflagast. Mánuðum saman hefði hún legið milli heims og helju. En þegar henni hefði loks farið að batna, hefði orðið úr henni þetta veraldarviðundur.

Því færi fjarri, að hún væri örvita. En hitt væri satt, að hún hefði litla stjórn á geðsmunum sínum. Það gerði hana erfiða viðbúðar. Kæti hennar væri ofsaleg, og ef hún reiddist, réði enginn við hana, síst með illu. Því verri meðferð sem hún mætti, því óðari yrði hún.

En væri hægt að lynda við hana, mætti hafa mikil not af henni. Hún væri sterk og hraust til heilsu, þrátt fyrir þetta vaxtarlag. Þó þyrfti jafnan að hafa eftirlit með henni, og aldrei mætti senda hana langt burtu frá bænum.

Hann kvað engan hreppsómaga hafa þreytt sig eins mikið eins og Sölku. Þau Brekkuhjón væru búin að koma á hana slíku óorði, að erfitt væri að koma henni fyrir. Þau færu illa með hana og þættust aldrei fá nóg með henni. Samt vildu þau í raun og veru ekki missa hana fyrir nokkurn mun.

Á meðan Egill sagði frá þessu, leit Halla spyrjandi augum til Ólafs við og við. Ólafur réð í, hvað hún hugsaði, og fór að reikna í huganum, hve mörg kindaverð hálft annað ómagameðlag væri.

Eftir að Egill hafði lokið máli sínu, spurði Halla, hvort hann vildi láta þennan ómaga til þeirra Ólafs. Hún kvað sér leika hug á að reyna, hvort ekki mætti lynda við Sölku.

Agli kom þetta mjög á óvart. Hann leit til Höllu hálf-forviða og sá þegar, að henni var þetta bláalvara. Og þegar til Ólafs kom, var hann því fullkomlega samþykkur. Þetta var Agli mikið gleðiefni. Það var svo sjaldan, að honum var rétt hjálparhönd í sveitarmálum.

"Ég kalla þig stórhuga," mælti hann við Höllu. "En þið gerið mér mikinn greiða með því að taka Sölku að ykkur, og sjálfsagt er það gott verk. Ég hef aldrei efast um það, að mikið mætti laga hana með skynsamlegri meðferð. Ef til vill mætti takast að kenna henni svo mikið, að hægt væri að ferma hana. Á Brekku verður hún aldrei annað en villidýr."

"En ef þau Brekkuhjón vilja ekki sleppa henni með góðu -?" mælti Ólafur hálfhikandi.

"Látið mig um það," mælti Egill með drýgindabrosi. "Ég skal sækja hana sjálfur heim að Brekku og færa ykkur hana." -

Áður en þau skildu þar á hálsinum var þetta bundið fastmælum.


Daginn eftir kom Egill með Sölku ofan að Heiðarhvammi.

Hún hafði gengið alla leið, en var nú orðin þreytt, svo hún var spölkorn á eftir Agli ofan fjallið. Skár var hún til fara en daginn áður, þó ekki væri hún vel búin. Ofur lítinn klútböggul bar hún á öxlinni, sem föt voru hnýtt innan í. Það var aleiga hennar.

"Hvernig leist húsfreyjunni á Brekku á þessa ráðabreytni?" spurði Halla, þegar Egill var setstur að kaffi inni í baðstofu.

Egill svaraði og hló við:

"Eg veit það ekki. Hún sagði ekki eitt einasta orð. Ég held það hafi gengið fram af henni. Satt að segja hafði ég ekki mikil umsvif. Ég sagðist vera að sækja Sölku og hún yrði að búa hana á stað undireins. - Þó held ég, að hún hafi ekki verið í góðu skapi, því hún gleymdi alveg að biðja að heilsa Borghildi minni."

"Hún hefir þó vitað, hvert Salka átti að fara."

"Ekki sagði ég henni það. - Þó held ég, að hún hafi rennt grun í það, því þegar ég var kominn út á tún með krypplinginn, sendi hún mér tóninn og bað að heilsa Höllu í Heiðarhvammi. Svo rausaði hún eitthvað, sem ég heyrði ekki."

Á meðan Egill stóð við, sat Salka á kofforti við rúmið og datt hvorki af henni né draup. Þegar hann var farinn, fór hún að sýna af sér nokkra óþægð. Þó blíðkaðist hún nokkuð við það, að fá saðningu sína af góðum mat.

Erfiðast átti Halla með að fá að þvo henni og greiða hár hennar. Salka sparkaði, brá höndunum fyrir höfuðið og hljóðaði eins og ætti að berja hana. Þó gat Halla með lagni og blíðmælum komið fram þessu nauðsynjaverki. Þegar því var lokið, sýndi hún Sölku í spegil. Salka réð sér þá varla af kæti yfir því, hvað hún var orðin falleg. Fagnaðarlæti hennar voru lítið betri en óþekktin. Halla átti í vök að verjast fyrir klappi hennar og kossum.

Á grjótbálkinum frammi við dyrnar sló Ólafur saman rúmi handa Sölku. Nokkrum fjölum var slegið upp með veggnum á bak við rúmið, til skjóls gegn kuldanum og sagganum úr veggnum. Rúmföt voru látin þangað, og brátt gaf rúm Sölku hjónarúminu ekkert eftir.

Þegar Salka var háttuð um kvöldið, settist Halla hjá henni og lét hana hafa upp eftir sér "Faðir vor." Hún tæpti á öllum orðunum, svo Halla sannfærðist um, að hún mundi fljótt komast upp á að skilja mál hennar.

Rétt á eftir sofnaði hún. Bros lék um hið barnslega andlit hennar í svefninum. Halla horfði á hana með ánægjubrosi. Henni þótti vænt um að sjá, hve vel þessum munaðarlausa vesalingi leið fyrsta kvöldið í nýja rúminu sínu.

Henni fannst nú þegar eins og hún ætti í Sölku hvert bein. Atvikin, sem höfðu leitt þær saman, voru svo undarleg, að það var eins og þau bæru vott um hulda handleiðslu. Henni fannst sér fengið í hendur skyldustarf til þess að rækja sér til afþreyingar í einverunni - mikið og háleitt skylduverk, sem mundi auðga líf hennar með ánægjulegum árangri.

Léttilega varpaði hún öndinni, þegar hún sneri sér frá rúmi Sölku til þess að sinna öðru skyldustarfinu, henni enn þá nákomnara. Það leit ekki út fyrir mikla næturværð fyrir henni. Barnið var orðið miklu veikara en það hafði verið áður en hún fór til kirkjunnar.


7. kafli

Heiðarnar dökknuðu, hagarnir grænkuðu með hverjum líðandi degi. Nú var liðið á vorið, og sumarið fór í hönd.

Viðir tóku að laufgast. Sinan í mýrunum hringaði sig niður og hvarf, en grænum teinungum skaut upp. Sóleyjar og fíflar breiddu úr blómknöppum sínum á túnunum, lambablómin tindruðu eins og stjörnur á grundunum og grasgeirarnir í fjallahlíðunum urðu lifrauðir af blóðbergi.

Mófuglarnir kúrðu á eggjum sínum. Karlfuglinn var á varðbergi og gerði "eggjamömmu" aðvart, ef eitthvað tortryggilegt var á ferðum. Rjúpan var orðin samlit móunum, svo valnum gekk illa að koma auga á hana. Á bökkum tjarnanna stóðu andsteggjarnir bísperrtir og lituðust um. Þá var öndin auðvitað ekki langt frá. - Sumar andirnar voru komnar á flot með 5-6 örsmáa hnoðra á eftir sér, ekki fiðraða, heldur kafloðna. Þeir börðu vænglúrunum í vatnsskorpuna, til þess að reyna að fylgja móður sinni eftir. En snemma lærðu þeir að stinga sér - leggja vænglúrurnar upp að kroppnum, teygja fram álkurnar og smjúga gegnum vatnið eins og álar. Það gerði mamma gamla ekki betur.

Það var farið að lifna í heiðinni. Sveitamenn voru farnir að reka þangað geldfé. Daglega kom það ofan skarðsbrekkurnar í stórum breiðum, með hundgá og hávaða. Niðri á heiðinni, í nánd við kotin, var skilið við það; eftir það átti það með sig sjálft. Kindurnar voru hálslangar og mjóstroknar eftir rúninguna, ólíkar því, sem þær höfðu verið fám dögum áður, á meðan þær "klæddu klaufina." Þær voru léttar í spori og leikur og galsi í þeim, því nú var hið langþráða frelsi fengið. Innan um rúna féð, sem dreifði sér um heiðina, sáust nokkrar kindur órúnar eða hálfrúnar, sumar með lömb á eftir sér. Þær báru það með sér, að þær voru þangað komnar í óleyfi og sjálfsagt mestu óþökk.

Við og við heyrðust skot í heiðinni. Skothvellirnir köstuðust fjall úr fjalli með margföldu bergmáli, þar til síðasti ómurinn barst burt með golunni. Tveim mönnum brá fyrir við og við, en stundum hurfu þeir dögum saman. Það voru grenjaskytturnar. Þeir sáust reika um heiðina, hljóðir og alvarlegir, með byssurnar sínar á öxlinni og malpoka yfir þverar herðarnar. Hægt fóru þeir og lögðu leið sína um hæðir og brúnir, en þeir skimuðu hvasst eftir fagurgrænum blettum, með holuopum og moldarhaugum fyrir framan. Það voru grenin. Tófurnar höfðu sem sé tún í kringum býli sín, eins og aðrir þeir, sem vel búa. Og þeirra tún voru grasgefnari en annarra. Ekki var lágfótu þetta sjálfrátt og ekki var hún blind fyrir skaðsemi þess, því grænkan leiddi heim til hennar óvelkomna gesti. En loftið, sem gufaði út um grenismunnana, var gætt miklu næringarmagni fyrir grasið. Þess vegna lögðust hyggnar og reyndar lágfótur aldrei í gömlu grenin, sem mikil rækt var komin í; þær grófu sér heldur ný.

Aðalgrenjaskytta sveitarinnar var Þorsteinn sonur Egils í Hvammi, þótt ekki væri hann nema átján ára að aldri. Það þóttu firn mikil, þegar Egill fól honum þann starfa; en sú skoðun var nú dauð. Engum hafði fyrr né síðar tekist jafnvel. Verkið var hinum einræna, ómannblendna unglingi einkar vel að skapi. Þögull eins og svipur hvarflaði hann um heiðina og leit aðgætnum augum kringum sig. Þegar hann fann greni, settist hann um það eins og riddaraborg, vakti yfir því, leit ekki af því nótt né dag fyrr en hann var búinn að vinna það. Þá fór hann að leita að því næsta. Kuldinn beit ekkert á hann; hann lét fenna yfir sig á greninu, þegar svo bar undir. Þreytan bugaði hann aldrei, og svefn hans var oft á tíðum ekki lengri en blundur mófuglanna. Ef hann þurfti á byssunni að halda, miðaði hann fljótt og öruggt, og skeikuðu ekki skot hans. Flestir kvörtuðu undan því að fylgja honum á þessu ferðalagi, og sumir gáfust upp, en allir dáðust að hreysti hans og þolgæði. Hann gaf því engan gaum og gekk þegjandi fram hjá hverjum manni. Ef einhver mælti honum lofsyrði, blóðroðnaði hann af feimni, varð undirleitur og brosti eins og stórt barn.

- Áin niðaði með þungum og þýðum hreim fram hjá heiðarbýlunum. Lengra burtu, þar sem hún svall á hávöðum eða braust um í klettaþrengslum, heyrðust til hennar dimmar dunur. Það var gamalla manna mál, að það vissi á landátt, þegar dunur heyrðust í ánni inn með fjallgarðinum, en á hafátt, ef þær heyrðust utan með honum. Nú vissi áin alltaf á landátt; nú virtist sunnanblærinn vera einvaldur á heiðunum.

Sporðaköst sáust í árstrauminum; - léttir og fjörugir silungar, nýrunnir af hafi, þutu eins og örvar upp á móti stríðustu strengjunum. Þeir voru bládökkir á bakið, næstum samlitir vatninu, en kviðurinn var rósrauður. Mitt á milli þessara tveggja lita lá silfurbrynjan með glitrandi spöng við spöng. Þeir tókust upp úr vatninu og hentu sér í boga yfir hávaðana; þá réðu þeir ekki við fjörið. Þess á milli voru þeir latir. Þá lögðust þeir í hlé undir dimma bakka eða stóra steina, bærðu uggana til að halda sér við og hvíldu sig undir næsta sprettinn.

Menn vissu af þeim í ánni, en fáum þótti til vinnandi að eltast við þá. Þó hafði Ólafur í Heiðarhvammi undur gaman af að gægjast á eftir þeim, þegar hann var á gangi meðfram ánni. En þá átti hann ekkert veiðarfæri; en - hann hét þeim því að hugsa til þeirra seinna.

Silungarnir sáu hann á bakkanum, en hræddust hann ekkert. - En þeir sáu ekki annan óvin, miklu skæðari, sem leið áfram hátt í lofti uppi með hægum, jöfnum vængjatökum og var í veiðihug. Hann bar við himinblámann eins og lítill dökkur krossdíll. En krossdíllinn var gæddur hvössum augum og var ekki lengi að renna sér niður, þegar eitthvað bar til veiða. Og ef hann kreppti klóna um eitthvað, þá hélt hann fast. Það var ekki áhættulaust fyrir feitan urriða að liggja upp við bakkann og baka sig í sólskininu, ef örninn var nálægur. -

Yfir öllum heiðarflákunum hvelfdist vorhimininn, blár og bjartur. Nú lá ekki hríðarblikukápan ofan á fjöllin; nú var hátt undir hvelfinguna og vítt út til veggja. Hvergi er himininn hreinni og fegri en þar. - Dag eftir dag var sama veðrið, sama birtan og blíðan. Þunnar hvítar skýjaslæður liðu hægt yfir himininn, hátt yfir öllum tindum. Á milli þeirra og í gegnum þær sá í himinblámann, og fyrir sólinni gætti þeirra alls ekki.

Hin sæla sumartíð var byrjuð á heiðunum. Á meðan hún stóð yfir, var sem náttúran gerði sitt ýtrasta til þess, að öllum börnum hennar liði þar vel. Hún þurfti að bæta þessum löndum upp marga vægðarlausa vetrarhörku.

Það var þokusælla niðri í sveitinni. Þokubakkarnir frá hafinu komu við og við og fylltu dalina. En upp á heiðarnar komst þokan mjög sjaldan um þetta leyti ársins; fjallgarðurinn stóð fyrir henni eins og veggur. Fyrir ofan hann var meira sólskin og meiri andblær en svo, að hún gæti haldist þar við.

Þokustrókarnir teygðu sig upp fyrir fjallabrúnirnar, gerðu mikið úr sér, - geispuðu svo eins og vofur yfir krossmarki, hjöðnuðu og hurfu í þokuhafið að baki þeirra. - Hvítar, þéttar þokulýjur, seigar í sér eins og kvoða, teygðust inn úr fjallaskörðunum. Þar mættu þær fjallablænum, hreinum og hressandi, og drógust þá aftur að upphafi sínu. - Eða þær þoldu ekki birtuna að fjallabaki, eyddust og urðu að þunnum drefjum, vart sýnilegum, uns þær hurfu með öllu. - - - - - - - - - - - - Nei, - það voru mannahugir.

Sumir litu forvitnisaugum yfir fjallahryggina, til þess að skyggnast eftir því, hvað gerðist að fjallabaki.

Sumir steyttu hnefana upp yfir fjöllin og ógnuðu heiðarbúunum.

Og enn aðrir læddust með jörðinni eins og kvikindi - skriðu á kviðnum til þess að komast í færi, og drógu sig í hlé, ef komið var á þá auga.

Margrét á Brekku réð sér varla fyrir gremju, síðan Egill sótti til hennar krypplinginn. Við Egil var til lítils að illskast; en Höllu skyldi hún muna þennan greiða.

Þorbjörn "Króka-Refur" vann í kyrrþey, en með ákveðið mark fyrir augum. Honum hafði ekki tekist að hindra það, að þau Ólafur og Halla fengju Heiðarhvamm. Við því varð ekki gert héðan af. Nú var fyrir höndum að koma þeim burt þaðan aftur.

Ekki var vert að ganga í berhögg við þau Heiðarhvammshjón og sýna þeim fjandskap. Þá var ekki vænlegt til árangurs að reyna að telja Agli hughvarf að svo stöddu; hann virtist hafa meiri mætur en svo á þessum nýju landsetum sínum.

Þess vegna varð að reyna krókaleiðir.

Úr því afbrýði húsfreyjunnar í Hvammi var vakin, var hún sverð það, er sjálft hjó. - Nú fékk hún nýja brýningu. Egill hafði fært þeim Heiðarhvammshjónum dýrasta ómaga hreppsins, - rifið hann upp úr "besta stað" frá "besta fólki!" Það var átakanlegra en svo, að það tæki nokkrum tárum, að sjá blessunina hana Margréti á Brekku gráta af söknuði eftir þennan krossbera, sem henni hafði þótt svo undur vænt um - því grátið hafði hún, þegar hún sagði vinkonu sinni frá þessu. - Hálft annað meðlag - það munaði nú ekki um minna! - Þetta nýja goð hreppstjórans í Heiðarhvammi þurfti ekki annað en benda á, hvaða fórnir því þóknaðist að þiggja, þá - -. Hún átti engin orð til - -!

Höllu var kunnugt um margt af því, sem skrafað var um hana fyrir neðan fjallgarðinn. Setta í Bollagörðum annaðist það. Hún var annan daginn heima í Heiðarhvammi, en hinn niðri í byggðinni og bar fréttirnar á milli. Stundum var hún á báðum stöðunum sama daginn.

Ekki var Halla orðsjúk, en gaman hafði hún af að frétta, hvað um hana væri talað. Setta fræddi hana jafnframt um ýmislegt fleira, er nágrannafólkinu kom við.

Bæði af því, sem Halla hafði sjálf séð, og eins hinu, sem Setta sagði henni, þóttist hún geta gert sér nokkurn veginn ljósa grein fyrir mönnunum og samlífi þeirra í þessu nýja byggðarlagi.

Það var líkt því, sem hún hafði áður þekkt. - Gamla sagan í nýrri útgáfu.

Mennirnir voru ekki illir í raun og veru; en góðir voru þeir ekki heldur. Flestir voru mitt á milli; hvorugt höfðu þeir dug til að vera. Þeir voru lítilmenni.

Þeir höfðu margar áhyggjur og margt fyrir stafni. En þó var það eitt, sem þeir gerðu allir og gerðu það í furðanlega miklu bróðerni: það var að leita - leita hver að annars brestum, hver að annars yfirsjónum, ekki til þess að hafa það til daglegrar notkunar, heldur til þess að skýla því undir kápunni eins og hárbeittum rýtingum, og nota það þegar lá á.

Það var skilyrði fyrir valdi og vegsemd að eiga sem flesta slíka rýtinga, geyma þá vandlega og kunna að beita þeim fimlega.

Og þegar einhver ný manneskja kom í byggðarlagið, vantaði vopn á hana. Það vopn þurfti að finna fyrir hvern mun; margir þurftu á því að halda, og margir leituðu að því. -

Flest fólkið hafði hún séð við kirkjuna. Var það ekki líkt eins og hinum megin heiðarinnar? Til dæmis aðalþáttur kirkjurækninnar? Menn hópuðust saman til þess að heyja málþing og hafa hvern annan að umtalsefni, frétta sveitarnýjungar og fiska hneykslissögur, sem lágt höfðu farið. Undir kirkjuveggjunum, á leiðum hinna framliðnu, eða í kringum fágætan söðul, söfnuðust menn saman með hljóðskraf sitt. Fyrir þessa skemmtun unnu menn það til að sitja í kirkjunni nokkrar stundir, hlusta þar á leiðinlegan söng, leiðinlegt tón og leiðinlega ræðu í ofanálag.

Trúræknin var sjaldgæf, en trúarhræsnin almenn. Það var gamall siður að sýnast guðhræddur; enginn þorði að rísa á móti honum. Allir áttu helgigrímu, sem þeir settu upp í kirkjunni og við húslestrana. Hún kom sér líka vel við ýms önnur tækifæri, til dæmis ef leita þurfti með lagni að einhverri veilni náungans.

Þessi almenna hræsni og tvöfeldni spillti öllu samlífi og gerði það mergfúið. Enginn treysti öðrum, og hver ól á annars tortryggni. Allir hugsuðu hver um sig - að hafa vopn á hvern mann.

Heimilislífið var gagnsýrt af úlfúð og eigingirni. - Þar stóðu sviptingar í kyrrþey á milli húsbændanna sjálfra um völdin. Það hjónanna, sem náði yfirtökunum, beitti þeim sleitulaust til þess að koma hinu á kné. Húsfreyjurnar höfðu oft betur, voru óvandari að vopnum og grimmari, ef þær náðu yfirhönd. Þær höfðu erft svo marga gremju frá mæðrum sínum og ömmum. Enn létu þær sér nægja heimilin, en þeim stjórnuðu þær með harðri hendi. Bændur þeirra voru friðsamari að eðlisfari og undu illa heimilisófriðinum. Og þeir höfðu fleiri ávirðingar í fari sínu, sem kipptu úr þeim kjarki.

Þannig var heimilishagurinn á Brekku, og eins var hann víða annars staðar.

Egill í Hvammi var í raun og veru flúinn frá heimili sínu og flakkaði um sveitina í hreppstjóraumsvifum. Hann var svo sjaldan heima sem hann gat, en lét ráðsmann stunda búið með húsfreyjunni, - augnaþjón, sem var á veiðum eftir hverju atviki, sem gæti orðið húsfreyjunni að barefli á bónda hennar.

Og á slíkum heimilum sem þessum ólust upp börn -!

Þannig kom henni lífið fyrir sjónir í nýju sveitinni. Ó, - hvað hún hataði það.

Hana langaði til að segja því öllu stríð á hendur, kaghýða það, sjá það engjast sundur og saman, biðjast friðar og lofa bót og betrun.

Það gat hún ekki. En hún gat staðið framan í því, storkað því og skapraunað. Til þess var heiðarbýlið ágætlega fallið.

Ofur lítið spor í þá áttina var það, að taka við krypplingnum. - -

Setta í Bollagörðum hafði nú komist að því fyrir löngu, hvernig Höllu var gjarnast að líta á lífið og heiminn, og sparaði ekki að blása að bölsýni hennar og mannhatri. Að þessu leyti voru skoðanir þeirra skyldar. En sá var munurinn á eðli þeirra, að Setta gat leikið innilegustu vináttu við allt það, sem henni var í nöp við, en það treysti Halla sér ekki til. Setta var hreykin af þessum eiginleika og þóttist vilja kenna Höllu hann.

"Ég og tófan," mælti hún einhverju sinni, - "við erum ekki í náðinni hjá þeim niðri á bæjunum, hí-hí-hí! Þeir hafa löngum líkt okkur saman, og samlíkingin er góð að ýmsu leyti. Við búum báðar í grenjum í landi hreppstjórans, - ég held nú samt, að grenið tófunnar sé skárra en mitt, hí-hí-hí! - Við björgum okkur samt. Það hrín ekki á okkur, þótt þeir bölvi okkur við og við; þeir eru ekki bænheitir. Og við eigum báðar guð uppi yfir okkur engu síður en þeir - eða til hvers skyldi hann hafa skapað okkur? - (Hvíslar): Ég hefi stundum skotið henni undan, svona í kyrrþey - þó að Þorsteinn í Hvammi sé aðgætinn. Ég segi það aðeins við þig, heillin mín, - ég hefi vitað um eitt grenið vor eftir vor, þar sem hún hefir klakið upp öllum hvolpunum í friði! Mér dettur ekki í hug að segja til þess. - (Hátt): Ég held hún megi narta í einhverja rolluna hreppstjórans. - Hann rekur þó ekki fjárhópinn með sér inn í himnaríki! (Lágt): Ef hann fer þangað! - - Tófuskömmin má lifa. Hún stelur ekki meiru en aðrir!"

Áður en varði hafði brosið á Settu breytst í kjökur:

"Það er guðsblessun yfir reytunum mínum samt, þótt hreppstjórinn segi, að ég sé "hundheiðin." - (Hlæjandi): Eða var það ekki það, sem hann sagði hérna inni?"

Halla varð hljóð við þessa spurningu. Hún sýndi henni afleiðingar þess að leyna Þorbirni í bænum.

"Hann hefir sagt þetta og meira, blessaður," mælti Setta. "Honum leiðist ekki að minnast á mig. En ég veit þó ekki, hvort hann rækir trú sína betur en ég."

Helgisvipurinn var kominn aftur. Setta lýsti því með mörgum fögrum orðum og átakanlegum, hve oft hún færi til kirkju, og ævinlega læsu þau hugvekju á hverju kvöldi allan veturinn, hún og Finnur til skiptis, og syngju sálmavers með.

" - - En gaman hefi ég að því að koma ofan í sveitina við og við," mælti hún nokkru síðar og glotti ísmeygilega, " og vera eina nótt eða tvær á sumum bæjunum. Það borgar sig. - Þá kemst maður að mörgu skrítnu! - Ég er ekkert vel séð, heillin mín, hí-hí-hí! Stundum er það rétt með skömm, að ég fæ að vera. Ó, þú ættir að sjá þann ólundarsvip á blessuðum húsbændunum! Blessunin mín! Gestrisnin þeirra er eins og allt annað - tómt yfirskin. Þeir kvarta ekki um átroðninginn, þegar sýslumaðurinn er á ferð! Þeir hýsa þá ríku með allri alúð. (Hvíslar): Skyldu þeir hýsa Krist, ef hann kæmi til þeirra fátækur? - hí-hí- hí! - - Ég fæ nú samt að vera. Ef enginn fæst til að tala við mig, þá tala ég við börnin og segi þeim sögur. Þá kemur fullorðna fólkið líka smátt og smátt. Næsta dag er mér marg-boðið að vera. Þegar ég fer af stað, fylgja húsfreyjurnar mér úr garði, - stundum er fullerfitt að komast frá þeim! hí-hí! - - Þær þurfa að létta hjartað stöku sinnum, blessaðar! Það amar margt að þeim; - stundum eru það bændurnir, stundum krakkarnir, stundum vinnuhjúin. - Þær vita það, að óhætt er að trúa mér fyrir leyndarmáli; ég segi ekki frá því. - (Deplar augunum íbyggilega): En svo vita þær, heillin mín, bvað ég veit. ---"

Halla horfði á Settu hálfundrandi, á meðan hún lét dæluna ganga. Nú fyrst var þessi kynlega manneskja að skýrast fyrir henni.

"Borghildur mín í Hvammi," hélt Setta áfram. "Hún hefir trúað mér fyrir mörgu, blessunin. - En heyrðu, - ég verð að koma þér í kynni við hana. Komdu einhvern tíma með mér ofan að Hvammi. - - Við þurfum að halda saman, nábýliskonurnar - "

Halla brosti, en svaraði engu. Bros hennar spáði litlu góðu um framtíð samheldninnar.


Barninu þyngdi með degi hverjum.

Það, sem byrjað hafði með kvefi og magaveiki, var nú orðið eitthvað miklu verra.

Það gat engrar fæðu neytt og megraðist óðum. Hið litla barnsandlit, sem verið hafði svo yndislega bjart og brosandi, að svo var sem geislar stæðu af því, - var nú orðið afmyndað af sótt og kvöl og sönn hryggðarmynd.

Á næturnar lét það ekki af sárum gráti. Halla varð að fara ofan úr rúminu og ganga um gólf með það í fanginu, til þess að reyna að þagga niður í því. Oft var það þó árangurslaust. Stundum var sem það fengi fát upp úr gráthviðunum. Þá sparkaði það í mömmu sína, barði hana eða klóraði, svo hún réð varla við það. Hún vissi ekki, hverjum brögðum hún ætti að beita til þess að lina þjáningar þess og sefa það.

Helst var það seinni hluta næturinnar, að það gat sofið. Þó var svefninn aldrei annað en óvært mók, og oft rak það upp sár óp í svefninum.

Þær stundirnar, sem barnið svaf, voru einu hvíldarstundir Höllu. Allar aðrar stundir varð hún að bera það í fanginu. Öll heimastörf varð hún að vinna með það á handleggnum, meðal annars það, að standa gestum fyrir beina.

Ólafur var að verða leiður í lund út af þessu og var stundum hálfönugur við Höllu. Hann sagði ekki margt að vísu, en það fannst á, að honum þótti henni verða lítið að verki heima fyrir. Enn lægju öll vorverkin óunnin.

Mest kvartaði hann þó um ónæðið, sem hann yrði fyrir á nóttunni. Besti svefntími hans var fyrri hluta næturinnar. Hann kvað Höllu venja barnið á keipa og óþekkt með þessu dekri. Þó að það væri veikt, væri engin ástæða til þess að ganga um gólf með það á nóttunni.

Halla svaraði þessu litlu. En hún tók það nærri sér að vita þau verk ógerð, sem henni voru ætluð; það var henni nýtt.

-Ólafur hafði breytst nokkuð þann stutta tíma, sem hann var búinn að vera í Heiðarhvammi. Mannrænusvipur sá, sem á hann hafði færst um giftingarleytið, var nú að smárenna af honum aftur. Þær tilfinnigar voru heldur farnar að dofna, sem lyft höfðu honum upp og mannað hann um stund. Í einverunni og fásinninu í þessu heiðarbýli var lítil ástæða til tilhalds og fátt, sem hvatti til metnaðar.

Áhyggjur einyrkjabúskaparins voru einnig farnar að gera vart við sig og erfiðleikarnir að vaxa honum í augum. Og, það sem lakast var af öllu, honum leiddist í Hvamminum.

Þau Halla og hann fjarlægðust smátt og smátt hvort annað í daglegum störfum og hugsunum. Sjaldan var hann heima, og Halla komst að því, að hann fór oft heim á aðra bæi, án þess að orða það við hana, stundum heim að Bollagörðum, stundum ofan í sveit. Halla spurði aldrei um ferðir hans. Hún undi sér best, þegar hann var ekki heima.

Annars gaf Halla Ólafi lítinn gaum um þessar mundir. Barnið dró að sér alla athygli hennar. Von og ótti börðust stöðugt um völdin í brjósti hennar, og enn þá sigraði vonin að jafnaði eftir langa og harða baráttu. Hún gat ekki trúað öðru en barnið, sem hafði verið svo hraust og efnilegt, mundi lifa af þessi veikindi. Og þegar hún hafði nokkurn frið til umhugsunar, var hún að útmála það fyrir sér, hve vel þeim mundi líða báðum og allt verða yndislegt, þegar barninu væri batnað.

Salka reyndist miklu betur en hún hafði gert sér von um. Hún hafði fengið ást á Höllu og vildi allt fyrir hana gera. Hún létti ekki látum að fá að sitja með barnið og leika við það, og Halla var búin að heita henni því, að það skyldi hún fá, þegar barninu væri batnað. Salka hlakkaði því ekki minna til þess, að barninu batnaði, en Halla sjálf.

En það dróst jafnan, að þessar batavonir rættust, og kvíðanum óx afl með degi hverjum. Marga stund barðist Halla hálfgrátandi við þessar raunir sínar. Þó gaf hún aldrei tilfinningum sínum vald yfir sér, en gerði allt, sem hún gat upp hugsað, til þess að hlynna að barninu og sefa grát þess.

Móðurástin er sterk. Hún eykur andlegt og líkamlegt þrek, þegar mest liggur á. Allan aldur mannkynsins hafa mæðurnar vanist því að þurfa að afbera ótrúlega mikið vegna barna sinna.

Halla gaf sér ekkert tóm til þess að líta yfir það í huganum, hversu mikið hún væri búin að leggja á sig vegna veikinda barnsins. Hún fann það aðeins, að hún var orðin þreytt, - svo þreytt, að bráðum hlaut að koma að því, að hún þyldi ekki meira.

Það var henni eins og líkn í þraut, að heldur dró úr gráti barnsins. Hann varð hásari og linari og nísti hana ekki eins sárt og áður. Hún reyndi að telja sér trú um, að það væri batavottur.

Setta hughreysti hana og fullyrti, að barnið væri ekki hættulega veikt. Lasleiki af þessu tagi væri algengur á börnum. Þó bætti hún því jafnan við, að óheilnæmt væri í þessum heiðarkotum, og síðan hún myndi fyrst eftir sér, hefðu jafnan verið einhver veikindi í Heiðarhvammi og margir hefðu dáið þar.

Borghildur í Hvammi hafði lært ljósmóðurfræði á yngri árum sínum og stundað það starf um tíma. Setta ráðlagði Höllu að leita til hennar og var mjög umhugað um, að hún gerði það sem allra fyrst.

Í raun og veru lagði Halla fastan trúnað á fátt, sem Setta sagði, nema það, að barnið væri ekki hættulega veikt. Því trúði hún og treysti. Þess vegna dró hún það dag frá degi að leita ráða til Borghildar í Hvammi. Henni var það ógeðfellt. Af því litla, sem hún hafði heyrt um þá konu, hafði hún fengið ímugust á henni. - -

- Eina nótt var barnið svo óvanalegt, að Halla skildi ekkert í, hvernig því var farið.

Það lá glaðvakandi og sofnaði ekki nokkurn dúr. Það hljóðaði ekki og hóstaði ekki, en dró andann veikt með ofur litlu hrygluhljóði. Það lá grafkyrrt með opin augun og einblíndi út í loftið. Einu hreyfingar þess voru undarlegir kippir og skjálfti, sem stundum fór um allan líkamann.

Halla gaf nákvæmar gætur að barninu. Fyrst greip hana sú gleðiríka hugsun, að þetta væri merki batans; nú væru þjáningarnar á enda og sjúkdómurinn að breytast til batnaðar.

En hvers vegna gat barnið ekki sofið? Hún hafði þó ætíð heyrt, að eitt af öruggustu einkennum batans í þungum sjúkdómi væri langur og vær svefn.

Og þegar kippir fóru um líkama barnsins að nýju snarpari en þeir höfðu áður verið, breyttist von hennar í skelfingu.

Þetta hörmulega óvissuástand mátti ekki halda áfram til lengdar. Barnið mátti til að sofna, og hún varð að fá fulla vitneskju um, hvernig því liði í raun og veru.

Hún tók barnið upp í fang sér og fór með það fram úr rúminu. Þar ætlaði hún að ganga um gólf með það nokkra stund, eins og hún hafði oft gert áður.

Sólin var á bak við fjallgarðinn og skuggsýnt í baðstofunni, þótt nóttin væri björt.

Þegar hún kom fram á gólfið, þangað sem birtan var meiri, sá hún, hve aumlega var ástatt. Þetta voru ekki merki batans.

Barnið var allt máttlaust og hálfstirt. Varirnar voru bláhvítar og klemmdar fast saman. Undarlegir kippir voru í andlitinu og augun sljó og starandi, eins og lífið væri að kulna þar út.

Höllu fannst blóðið storkna í æðum sér. Lágt ofboðsóp leið henni af vörum og hún horfði stöðugt á barnið, eins og hún efaðist um, að hún sæi rétt. Ískulda úr röku gólfinu lagði um hana alla, en hún skeytti því ekkert. Oft hafði hún áður gengið þar berfætt um miðjar nætur og var orðin því vön.

"Halldór minn, - elsku litli Halldór minn," mælti hún angurblítt. "Þekkirðu nú ekki móður þína lengur?"

Barnið var eins og áður og leit ekki við.

"Dauðinn-?" mælti hún lágt fyrir munni sér. Nei, það gat ekki verið, - það mátti ekki vera. Enn þá var von. Hún lét hugann leita í allar áttir. Var hvergi hjálpar að vænta? - Jú, Borghildur í Hvammi.

"Ólafur, Ólafur!" kallaði hún með grátstaf í kverkunum. Ólafur rumskaði og leit upp:

"Ertu nú enn þá farin að ganga um gólf með krakkann!" mælti hann hálfönugur og velti sér yfir á hina hliðina.

"Ólafur! - Þú mátt til að fara fyrir mig ofan að Hvammi og biðja Borghildi um ráð eða meðul handa barninu. Heyrirðu það? - Þú mátt til að gera það."

"Ofan að Hvammi - núna, um miðja nótt!" nöldraði Ólafur og togaði sængina upp á höfuð.

"Barnið er að deyja. Ólafur, Ólafur, - í guðs bænum hjálpaðu mér!"

"Láttu ekki svona óstillingarlega, kona. Barnið er miklu rórra en það hefir verið. Því er að batna."

Síðan byrgði hann sig niður. Rétt á eftir var hann farinn að hrjóta.

"Ólafur, Ólafur!" kallaði hún enn, og röddin skalf af gráti. En svo hætti hún. Hvað sem yfir dyndi, skyldi hún ekki biðja hann oftar.

Nú sá hún það til fulls í fyrsta sinni, hvílíkt hyldýpi var á milli þeirra. Og hvernig átti það öðruvísi að vera?

Hvernig hafði hún búist við öðru? Hvernig hafði hún getað verið svo heimsk að halda, að honum þætti vænt um þetta barn - að hann vildi nokkuð fyrir það vinna, hann -? Nei, líklega hataði hann það.

Stundum hafði hún hugsað, að honum þætti vænt um barnið hennar vegna. Nú sá hún, að svo var ekki. Þá var það ímyndun líka, að honum þætti vænt um hana, - ímyndun, að hann hefði fyrirgefið henni.

Aldrei höfðu þau verið fjarlægari hvort öðru en nú, - nú, þegar henni lá mest á.

Það var eins og eitthvað, sem hún hafði treyst og reitt sig á, hefði brugðist skyndilega.

Einsömul átti hún að standa og stríða - einsömul, án svo mikils sem hluttekningar nokkurrar mannlegrar veru. Enginn heyrði kveinstafi hennar, engum rann sársauki hennar til rifja, enginn var til, sem hafði hug á að létta henni þessa þungu stund. -

En nú var ekki tími fyrir hugarvíl og harmatölur. Barnið fékk flog í fanginu á henni, meira og skæðara en það hafði áður fengið. Það reigðist aftur á bak, sparkaði og barði frá sér og blánaði í framan.

Höllu sortnaði fyrir augum. Kaldur angistarsviti hljóp út um hana frá hvirfli til ilja. Henni fannst snöggvast eins og dauðateygjur barnsins ætluðu að grípa hana sjálfa. Undarleg tilfinning byrjaði aftan í höfðinu og las sig á svipstundu um hana alla; henni farmst hún vera að dofna upp og hníga niður. Þetta leið þó frá aftur; viljinn sigraði. Hún þurfti að taka á allri hörku sinni til þess að afbera þessa hryggilegu sjón og miklu af afli sínu til að halda barninu. - Nú mátti hún ekki láta bugast.

Á eftir var sem ómegin sigi á þau bæði. Halla titraði eins og laufblað, og barnið hvíldi máttlaust og meðvitundarlaust í fangi hennar.

Nú var síðasta úrræðið eitt eftir, - að biðja, biðja til guðs.

Hann gat hjálpað, því hann var almáttugur. Og hann hlaut að vilja það, því hann var algóður.

Hægt og varlega lagði hún barnið ofan á rúmið, fyrir framan Ólaf. Síðan lét hún fallast á kné framan við rúmið, fórnaði höndunum og renndi tárvotum augum til himins.

Sál hennar var svo þreytt og magnþrota af þessari baráttu, að hún gat ekki safnað hugsunum sínum saman og fundið þeim orð. Hún fann það sjálf, að bæn hennar var aflvana fát. Eins og manneskja, sem berst við dauðann, ákallaði hún hina heilögu veru og bað um frelsi barninu sínu til handa.

En mitt í angistinni vöknuðu hjá henni efasemdir. Var þetta hin rétta bæn? Með "frelsi" átti hún við það, að barninu batnaði og hún fengi það aftur heilbrigt og hraust.

Og skilyrði bænheyrslunnar var það, að guði væri bænin þóknanleg. Ef menn báðu um annað en hann vildi veita, var engrar bænheyrslu að vænta. Þetta stóð í guðsorðabókunum.

Bænin veitti henni enga hugsvölun.

Hún fann, að hana brast styrk og traust til að geta beðið og gafst því upp. Tilfinningarnar urðu henni yfirsterkari, og henni lá við sturlun af örvæntingu.

Allt fannst henni bregðast sér. Það var sem hefði hún misst fótfestu og svifi í lausu lofti yfir gapandi gjá.

Viljalaus og sinnulaus af sorg lét hún höfuðið hníga ofan á hendur sínar, við hlið barnsins, og grét eins og hún ætlaði að springa. Hryglan í andardrætti barnsins rann saman við kveinstafi hennar.

En mitt í ekkanum stundi hún við og við svo lágt, að varla heyrðist:

"Drottinn minn, drottinn minn - verði þinn vilji, verði þinn vilji!" --

Ólafur fór snemma á fætur um morguninn, kallaði á hund sinn og gekk til kindanna. Hann kom þó óvanalega fljótt heim aftur.

Þá spurði hann Höllu, hvort hún vildi nú, að hann færi ofan að Hvammi. Hún gegndi því engu.

Hann réð þó af að fara. Ef til vill var það ekki vonlaust. -

Þegar hann lýsti sjúkdómi barnsins fyrir Borghildi, varð henni það eitt að orði, að fulllengi mundi hafa verið dregið að leita hennar.

Hún varð fremur fálega við bón Ólafs, en fékk honum þó meðal í glasi, sem hún sagði, að væri "ágætt við ýmsum barnasjúkdómum."

Loks lagði hún honum ýms góð ráð og kvað reynandi að leita til sín aftur, ef þess þyrfti við.

En þess þurfti ekki við. Góðu ráðin og "ágæta" meðalið kom að engu haldi, því þegar Ólafur kom upp að Heiðarhvammi, var barnið dáið.


8. kafli

Daga og nætur veitti vorið geislaflóði sínu yfir húsin í Heiðarhvammi, en inni þar var dimmt og dapurlegt, kyrrt og kalt.

Bjartasti vorgeisli heimilisins var horfinn.

Barnslíkið stóð uppi frammi í skála. Þar var lögð fjöl ofan á tunnulaup, en annar endi hennar hvíldi á söðlinum frá prestsekkjunni, sem stóð þar á kistu. Ofan á þessa fjöl var líkið lagt og hvítu líni sveipað utan um það.

Halla bar sorg sína með stillingu. Hljóð og alvarleg gekk hún um bæinn svo létt, að varla heyrðist til hennar. Hún talaði lítið, en andvarpaði við og við.

Hún grét mikið, en lét lítið á því bera. Tárin svöluðu henni um stundarsakir. Eftir hverja gráthviðu var sinnisjafnvægi hennar meira en áður.

Sorgin hafði mýkt skap hennar. Tilfinningar hennar voru angurblíðari, og söknuðurinn gerði hana barnslega bljúga í lund, svo henni var létt um grátinn.

Henni fannst sem barnið svæfi - og því hefði verið mál á svefninum eftir hið langa og harða stríð. Svefninn var langur og vær og fyllti allan bæinn heilögum friði. Þess vegna átti hljóðleikinn einn að drottna þar. Ekkert féll henni verr en hvers konar hávaði.

Þó var kyrrðin svo dapurleg, tómleikinn svo átakanlegur. Viðbrigðin voru svo mikil frá því, sem nýlega hafði verið. Það var sem heyrði hún hinn sára barnsgrát fjarlægjast smátt og smátt út í geiminn.

Allar minningar voru enn þá svo ferskar og skýrar. Hvert sem hún leit í baðstofunni, bar jafnan eitthvað fyrir hana, sem minnti á barnið. Fötin þess voru enn þá til og frá; hún tók þau saman smátt og smátt, eftir því sem þau urðu fyrir henni, kyssti þau, grét yfir þeim, braut þau síðan saman og geymdi þau eins og sannan helgidóm.

Litla rúmið, sem því hafði verið búið ofan á rúmfötunum til að hvíla í á daginn, var þar enn þá. Hún bjó það upp á hverjum morgni, þótt nú stæði það tómt. Hún gat ekki unað við, að það vantaði, - ekki fyrst um sinn.

Á sama hátt bjó hún um það á nóttunni, þótt holan þess væri nú alltaf köld. Ofur lítill svæfill lá á koddanum fyrir ofan hana og minnti á glóhært barnshöfuð, sem áður hafði bælt hann.

Hvern morgun leið geislinn úr þekjuglugganum eftir þilinu á bak við rúmið. Nú leið hann neðar en áður, því sólin hafði hækkað á braut sinni. Það var eins og hann væri að leita að einhverju í rúminu. Nú var enginn til að brosa við honum, hjala við hann og baða út höndunum af fögnuði við komu hans. Hvern morgun kom hann erindisleysu. Eina manneskjan, sem tók eindreginn þátt í sorg Höllu, var Salka.

Daginn, sem barnið dó, furðaði hana á því, hve lengi það svæfi. Loks undir kvöldið skildist henni, að það væri dáið.

Það fékk svo á hana, að Halla ætlaði varla að geta sefað hana. Það var eins og Egill hafði sagt um hana. Hún gat ekki stjórnað tilfinningum sínum. Sorg hennar var eins og æði. Hún sinnti engu, sem við hana var sagt, en hrein í ákafa - hljóðaði og skalf af harmi.

Höllu var það mikil raun að þurfa að vera yfir henni á slíkri stundu. Þó gafst hún ekki upp, fyrr en hún gat huggað hana.

Hún taldi henni trú um, að nú væri barnið í dýrðinni hjá guði föður á himnum. Þar liði því miklu, miklu betur en hér. Englar guðs lékju við það og liðu með það um himininn. Nú amaði ekkert að því annað en það, að sjá vini sína gráta niðri á jörðinni. Þess vegna mættu þær ekki gráta.

Halla sagði þetta með skjálfandi rödd og átti bágt með að verjast grátinum. Samt höfðu orð hennar eitthvert undravald yfir Sölku, þegar hún fékkst til að hlusta á þau. Salka horfði á hana stórum, skærum augum, og tárin glitruðu á hvörmunum.

Loks lét hún sér nægja þessa skýringu. Þótt hún hefði litla hugmynd um eðli dauðans og trúnað á annað líf, þá skildist henni þó, að það væri dæmalaust gott að vera hjá guði.

Eftir það grét hún ekki, en sat tímunum saman hljóð og hnuggin. Halla kveið fyrir því, að hún kynni að fá annað eins kast aftur. -

Halla varð þess vör, að Ólafur iðraðist eftir því að hafa ekki brugðið við um nóttina og farið ofan að Hvammi. Þó hafði hann lítið orð á því, enda sagði Halla, að það hefði engan árangur getað haft.

Framkoma hans við Höllu var nokkuð breytt. Hann var meira heima við en áður hafði verið og vildi gera henni allt til þægðar, sem hann gat. En Halla sneiddi hjá honum. Nú hafði hún miklu meiri óbeit á honum en hún hafði haft.

Einn daginn fór Ólafur ofan að Hvammi og bað Egil að smíða utan um líkið. Egill var hagur á tré og járn, svo sem þörf var á til heimilisnota, og smíðaði utan um alla þurfalinga hreppsins sjálfur. -

Halla reyndi að dreifa hugsunum sínum við næga vinnu. Nú lá svo margt fyrir ógert, sem kallaði að. Allan daginn gat hún unnið, og hvert verkið tók við af öðru. Vinnan sefaði harm hennar, sólskinið þerraði tárin af kinnum hennar og fjallablærinn styrkti hana. Á kvöldin var hún oftast þreytt.

Þó gekk henni illa að sofa. Þegar allt var orðið hljótt umhverfis hana, gat hún ekki haldið hörmum sínum frá sér. Þá komu minningarnar. Hvert augnablik hinnar stuttu ævi barnsins, hver gleðistund, sem hún hafði haft af því, hvert bros þess og hjal, og einnig hver mæðustund, hver sársauka- og kvíðastund, - allt leið þetta fram hjá huga hennar, ljóst og eðlilegt, eins og hún lifði það allt upp að nýju.

Þessar minningar voru það kærasta, sem hún átti. Hugur hennar teygaði þær eins og veigar lífs og sælu. Samt grét hún yfir þeim; en sá grátur var léttur og laus við beiskju, svo hann nálgaðist stundum gleðigrát.

Aftur kom það fyrir á slíkum kyrrðarstundum, að henni fannst sem myrkrið lykjast saman yfir höfði hennar. Þá greip hana einhver undarleg angist, sem hún gat ekki gert sér grein fyrir, einhver ótti - hún vissi ekki við hvað. Það var eins og hann kæmi frá einhverju, sem byggi í henni sjálfri, en leyndi sér. Svo tók hann á sig ýmsar myndir.

Stundum voru það sögurnar, sem Setta hafði sagt henni um reimleikann í bænum og slysin í kringum hann, sem gerðu hana hrædda. Myrkfælnin frá æskuárunum kom þá aftur, þótt nú væru bjartar nætur. Svartálfar íslenskrar hjátrúar settust að veikri og þreyttri sál hennar, sem nú gat ekkert viðnám veitt. - Dauðateygjur barnsins undir andlátið stóðu henni fyrir hugskotssjónum með öllum þeim kvalaógnum, sem ímyndunarafl hennar setti í samband við þær.

Stundum kom þessi ótti fram í efasemdum um það, að hún hefði gert skyldu sína, - gert allt, sem hún gat, til þess að bjarga barninu. Hún renndi huganum yfir allt það stríð, sem hún hafði háð, á meðan barnið var veikt, - allar vökunæturnar, sem hún hafði lagt á sig, alla þá móðurumhyggju, sem hún hafði sýnt því, og alla þá þreytu, sem hún hafði þolað þess vegna. Hafði hún getað gert meira?

Fegin hefði hún viljað gera meira, hefði þess þurft við. Þreytt var hún orðin, en þó mundi hún ekki hafa gefist upp að svo stöddu. Fegin hefði hún látið líf sitt, hefði það getað orðið barninu til bjargar.

Og það var sannfæringin um það, að hún hefði gert allt, sem hún gat, í veikindum barnsins, sem gerði hana rólega.


Einn daginn, á meðan barnið stóð uppi, kom maður yfir heiðina og færði Höllu bréf. Það var frá prestsekkjunni gömlu og hljóðaði svo:


"Kæra Halla mín!

Með þessum manni, sem hér er á ferð úr sveit þinni, frétti ég þá miklu sorg, sem komið hefir fyrir þig, að þú hefir misst barnið þitt. Og þótt ég eigi nú bágt með að skrifa vegna sjóndeyfðar, eins og þér er kunnugt, þá get ég ekki látið þessa góðu ferð sleppa án þess að senda þér fáeinar línur, ef ske kynni, að það yrði þér til huggunar eða einhvers góðs.

Berðu sorg þína með kristilegri stillingu, kæra Halla mín, og biddu hann að styrkja þig til þess, sem er máttugur í veikleikanum. Hann sendir okkur mótlætið af vísdómi sínum og gæsku. Sorgin opnar mönnum himin sannleikans og kærleikans; hún gerir sálir vorar barnslega hreinar og viðkvæmar fyrir góðum áhrifum. Ég veit, að sorg þín muni vera þung og sár; barnið þitt var svo efnilegt og yndislegt, og auðvitað hefir þér þótt vænt um það. En hugsaðu til allra þeirra mæðra, sem hafa orðið að reyna þetta sama. Þær hafa afborið það, og sumum hefir orðið það til góðs. Ég á fjögur leiði í kirkjugarðinum okkar gamla, og þar liggur einnig fyrsta barnið min. Þú ert ung og heilsugóð, Halla mín, þú án vonandi eftir að verða móðir oftar.

Ég tek innilegan þátt í sorg þinni, og þú veist, að ég segði það ekki, ef það væri ekki satt. Eftir því, sem við höfum kynnst nánar, hefir mér þótt vænna um þig. Eins og þú veist líka, hefir mér ekki lynt við dætur mínar; þess vegna hefi ég ekki viljað flytja til þeirra í ellinni, en ég hefi smátt og smátt vanist á að hugsa um þig sem dóttur mína. Ég veit ekki, hvort ég á líku hugarfari að mæta frá þinni hálfu, en ég vildi óska, að svo væri.

En mér finnst nú ég mega til að tala við þig um alvarlegt efni, þótt ég viti, að þú sért illa fyrir það kölluð. En það er þín vegna, sem mér finnst ekki verða hjá því komist.

Góða Halla mín! Ertu nú viss um, að engin sök liggi hjá þér á þessu, sem orðið er? Hvers vegna fórstu svona snemma á stað með barnið, og það í óhagstæðri veðráttu? Manstu, hvað ég sagði við þig hérna fyrir ofan túngarðinn? Ég sé eftir því, að ég aftók það ekki með öllu, að þú færir lengra; ég hefði getað lánað þér rúmið mitt í nokkrar nætur. Mér kom því þessi frétt í raun og veru ekki á óvart. Þessi býli, sem standa í eyði öðru hvoru, eru ill og óholl. Það eru mikil viðbrigði fyrir ungbarn að koma þangað úr hlýrri baðstofu. Hinum, sem venjast þessum kofum frá fæðingunni, er minni hætta búin.

Ekki vil ég dæma þig, elsku Halla mín, en ég veit, að þetta hefir verið þér að kenna; ég hefi spurt mig fyrir um það og sannfrétt það. Hvers vegna gerðirðu þetta? Lá þér svona mikið á að komast burtu frá okkur, gömlum vinum þínum og kunningjum, sem allt vildum fyrir þig gera? Ef þú hefir unað þér illa hjá okkur, þá er það sjálfri þér að kenna. Þú hefir ekki verið okkur sönn og einlæg, eins og góð manneskja á að vera. Þú hefir dulið eitthvað fyrir okkur og sýnt okkur óverðskuldað vantraust. Guð fyrirgefi þér, Halla mín, ef þú hefir skrökvað að mér og öðrum, sem vildum þér vel. Þá er von, að eitthvað farnist þér illa. Ein af höfuðsyndum mannkynsins er það, að víkja frá vegi sannleikans. Lygin er elsta syndin, móðir annarra synda, móðir dauðans. Ef þér hefir orðið eitthvað á, þá hefðirðu átt að játa það, að minnsta kosti fyrir vinum þínum og trúnaðarmönnum. Ef til vill hefði þá einhverju óláni orðið afstýrt. Ég hefi þá skoðun, að hjörtu okkar mannanna séu viðkvæm fyrir bágindum annarra, þegar við vitum allar ástæður. Sá, sem dylur sannleikann, hafnar kærleikanum.

Það er algeng yfirsjón og eðlileg í sjálfu sér að vilja skjóta vini sínum eða elskhuga undan hegnandi hendi laganna. En það er ekki rétt. Sá maður, sem bætt hefir brot sín að fullu, er sælli en hinn, sem á þau óbætt yfir höfði sér. Það er hægt að villa mönnum sjónir og blekkja þá á ýmsan hátt, en það er þeim verst, sem gera það. Sektarmeðvitundin situr í brjósti hins seka. Hún veiklar hann út á við og spillir honum inn á við.

Ég veit ekkert með sannindum um hagi þína, Halla mín, en margar líkur styðja þó grun minn. Ef hann er réttur, þá er sorg þín kærleiksrík bending um það, hvað guði þínum er þóknanlegt. Lærðu af henni að vera hreinlynd og einlæg og unna sannleikanum umfram allt. Þá þarftu ekki að flýja aðra menn, þá færðu styrk og kjark til þess að horfast í augu við hvern sem er, og manngildi það, sem allir hafa mætur á.

'Ég frétti um leið, að þið hefðuð tekið niðursetning, aumingja, sem erfitt væri að fást við og enginn vildi hafa. Það þótti mér vænt um að heyra, því ég veit, að þú verður honum góð, en þá hefirðu líka gleði af honum. Ég hefi oft haft meiri gleði af vesalingum, sem orðið hafa á vegi mínum, en börnum mínum. -

- - - - - - - - -


Í niðurlagi bréfsins minntist gamla konan á ýmsa menn, sem Halla þekkti, og gat almennra tíðinda. Loks voru heillaóskir og fyrirbænir og síðast nafn hennar. Bréfið var skrifað með skjálfandi hendi og víða hlykkir á stöfunum; þó var skriftin yfirleitt nett og áferðarfögur.

Þegar Halla hafði lesið bréfið til enda, fór hún yfir það aftur og marglas suma kaflana.

Í fyrstu gat hún varla áttað sig á því, en smám saman var eins og skýla félli frá augum hennar og hún sæi, hvað þar stóð og hvernig ætti að skilja það. Hún starði á bréfið þangað til það hvarf henni og hún sá hvorki það né annað nema í móðu. Tilfinningar hennar voru bundnar; hún fann hvorki til sorgar né gleði. Henni fannst gamla konan standa uppi yfir sér; hún þorði ekki að líta upp á hana. Augu hennar hvíldu á henni, móðurlega ströng og ásakandi. Hún engdist saman fyrir því augnaráði.

Loks vaknaði hún til fullrar meðvitundar. Hin skelfilega ásökun stóð skýr fyrir henni. Hún byrgði andlitið í höndum sínum, eins og eitthvað ferlegt bæri fyrir hana.

Hún hafði sjálf orðið barninu sínu að bana.

Þetta var það, sem óljóst hafði vakað fyrir henni og ógnað henni í ýmsum myndum.

Þegar hún hafði verið að líta yfir það, sem hún hafði lagt á sig fyrir barnið, þá hafði hugurinn dvalið eingöngu við veikindi þess. Nú sá hún einnig út yfir orsök þeirra.

" - Guð fyrirgefi þér, Halla mín, ef þú hefir skrökvað . . .," stóð í bréfinu. "Þá er von, að eitthvað farnist þér illa." - - "Ef þú hefir unað þér illa hjá okkur, þá er það sjálfri þér að kenna. Þú hefir ekki verið okkur sönn og einlæg, eins og góð manneskja á að vera . ."

Með ósannindunum hafði hún grandað barninu sínu. -

Frá því hún sór óheillaeiðinn uppi við hverinn um nóttina, sællrar minningar, þar sem hún hét að taka alla sökina á sig og lagði við líf sitt, - hafði allt líf hennar verið barátta fyrir ósannindum þeim, sem hún hafði orðið að grípa til, til þess að standa við heit sín.

Lygin mátti ekki komast upp, því þá stóð leyndarmálið berskjaldað.

Síðan leiddi hverja lygina af annarri. Loks flúði hún í blindri ákefð undan öllum lygunum.

Vegna þessarar lygi hafði hún gifst Ólafi, vegna hennar hafði hún látist unna honum, - hvert orð hennar og atvik þetta síðasta ár var fyrir hana, henni til stuðnings og áréttingar.

Hennar vegna hafði hún farið með barnið óskírt úr sveitinni og því orðið að fara með það veikt til kirkjunnar.

Það var svo margt, að hún sá ekki út yfir það í svip. Allt, allt líf hennar var gerspillt af lygi og óeinlægni.

Svo hafði hún lagt fæð á aðra menn, hatað þá og fundist þeir ofsækja sig. Hvað höfðu menn gert henni? Þeir höfðu leitað vitneskju um það, sem þeir áttu heimtingu á að fá að vita. Nei, það var óviðráðanleg rödd í henni sjálfri, sem hafði ofsótt hana.

Nú skildi hún þetta allt saman.

Fyrst greip hana ákafur grátur; en nú megnaði hann ekki að svala henni. Iðrun sú og kvöl, sem braust fram í huga hennar, var meiri en svo, að tár ynnu á henni. Hvað var sorgin og söknuðurinn eftir barnið hjá þessari ásökun? Harmur hennar gekk óviti næst.

Eftir nokkra stund hætti hún að gráta, en hugarstríði hennar létti ekki fyrir það.

Allar hinar kæru minningar hennar um barnið urðu að ásökunum og vitnuðu á móti henni.

Allt, sem hún mundi, hrópaði um spillingu, lygi og óheilindi. - Fyrsta daginn, sem hún hafði verið í Hvamminum, hafði hún stuðlað að ósannindum. Besti maðurinn, sem hún hafði kynnst í þessu nýja byggðarlagi, enn sem komið var, hafði þá trúað henni og látið orð falla, sem þeim einum var ætlað að heyra.

Þannig hafði hún reynst honum, - þannig reyndist hún öllum, sem trúðu henni. Eða vissi hún ekki lengur, hvenær hún sagði satt eða ósatt?

Kali hennar til annarra manna í þessari nýju sveit var af sömu rótum runninn. Vel gat það verið, að hugsanir hennar um annað fólk væru sannar og réttar. En hún sjálf -? Hvern rétt hafði hún til að sakfella það?

Nú fann hún það, hvernig hún hafði dregist Settu í Bollagörðum nær og nær í lífsskoðunum, - manneskjunni, sem ef til vill leitaði tækifæris til þess að gera henni illt.

Svo djúpt var hún sokkin. Svo djúpt hafði lygi hennar sjálfrar dregið hana.

Hún fyrirleit sjálfa sig.

Eirðarlaus og yfirbuguð af sorg og sálarstríði reikaði hún um bæinn og gat ekkert fundið sér til afþreyingar. Hana langaði til að biðja, en hún gat það ekki, því hugur hennar var sem lamaður. Hana langaði til að gráta, en hún gat það ekki heldur. Kverkarnar voru þurrar, augun heit og þrútin. Það var sem eitur brynni í æðum hennar; lengi hafði það legið þar og unnið í kyrrþey. Nú fann hún loks til þess. Það eitur var lygin.

Loks gekk hún hljótt og varlega inn í skálann, þar sem líkið stóð uppi.

"Blessað elsku litla barnið, sem ert dáið fyrir syndir móður þinnar!" stundi hún upp, eins og hún væri að biðja það fyrirgefningar.

Hún forðaðist að snerta líkið, eins og hún væri þess óverðug, en þrýsti brennheitu enninu ofan að fjölinni við fætur þess og skalf af ekka.


Þær hugsanir, sem bréf prestsekkjunnar höfðu vakið hjá Höllu, fengu meira á hana en nokkuð annað, sem fyrir hana hafði komið. Dag og nótt gat hún ekki um annað hugsað og einskis svefns notið fyrir því. Vinnan var nú líka árangurslaus til að dreifa þessu frá huga hennar. Henni fannst hún vera að vanmegnast undir byrði sinni, og ofan á annað bættist kvíði fyrir því, að hún missti heilsuna.

Um miðjan dag á laugardag kom Egill í Hvammi með stokkinn utan um barnið.

Hann var sterklegur og skrautlaus, eins og smíðisgripir Egils voru flestir, litaður svartur og hvítmálaður trékross negldur á lokið.

Setta í Bollagörðum var þá stödd í Heiðarhvammi, því enn hélt hún komum sínum áfram. Í þetta skipti "hypjaði" hún sig ekki, þótt hreppstjórinn kæmi, en var við kistulagninguna.

Halla stóð og studdi sig við fjölina á meðan líkið var tekið upp og lagt ofan í stokkinn. Hún kyssti hið nákalda enni að skilnaði; en svo biluðu kraftar hennar. Hún hneig ofan á kistuna, við hliðina á söðlinum, og byrgði andlitið í höndum sínum.

Aldrei hafði hana langað meira til að geta grátið, en augun voru þurr, eins og uppsprettur táranna væru þornaðar. Hún tók andköf af ekka, og hjartað barðist um í brjósti hennar.

Hún leit ekki upp, en heyrði það, sem fram fór, eins og það væri álengdar.

Egill las "Faðir vor" í hálfum hljóðum yfir líkinu og gerði síðan krossmark yfir því. Sama gerðu þau Ólafur og Setta, en Halla treysti sér ekki til að standa á fætur og fullnægja þessum algenga helgisið. Setta byrjaði á sálmaversi; Ólafur tók undir, en var hjáróma og hætti brátt. Hreppstjórinn lagði aldrei út í sálmasöng, svo Setta varð að syngja versið til enda einsömul.

Því næst byrjaði Egill að negla lokið ofan á stokkinn. Það buldi dimmt í honum, þegar naglarnir voru reknir, og Halla hrökk saman við hvert hamarshögg, eins og þau hittu hana sjálfa.

Þegar farið var að negla aftur stokkinn, heyrðust sár og átakanleg hljóð innan úr bænum. Salka hafði staðið í hálfopnum skáladyrunum og horft undrunaraugum á það, sem fram fór. En þegar hún sá, að farið var að negla lokið á stokkinn, var henni of mikið boðið.

Hún hafði getað unað því, að barnið svæfi frammi í skála fyrst það var hjá guði og englarnir léku við það. En að sjá það látið ofan í svartan kassa og hann negldan aftur - það þoldi hún ekki. Þá greip sorgin hana, og með sorginni kom vitfirringin. Nú var hún inni í eldhúsi og hrein svo hátt, að heyrðist um allan bæinn.

Höllu tók það sárt að heyra til krypplingsins og geta ekki huggað hana. Hinum hefir víst fundist þetta trufla kyrrðina, sem átti að vera yfir líkinu, því Setta gekk að hurðinni og lét hana aftur.

"Það er sárt að missa blessuð börnin," mælti Egill með síðustu naglana á milli varanna, "en þó mættu sumir foreldrar þakka sínum sæla fyrir, að hann tæki þau til sín. Ómegðin er það oftast nær, sem steypir fátæklingunum á sveitina."

Hann fór að öllu eins og maður sá, sem verki þessu er vanur og ekki bregður sér við tár eða harmatölur. Þó leit hann hluttekningaraugum til Höllu, sem skalf eins og laufblað af harmi. Setta var hljóð og alvarleg, en Ólafur forðaðist að líta til konu sinnar, því honum lá við gráti.

"Jæja, Ólafur minn," sagði Egill um leið og hann rétti úr sér og strauk af sér svitann. "Svo skal ég láta mann frá mér koma til þín á kirkjustaðnum seint í kvöld. Þá getið þið tekið gröfina í nótt, svo prófasturinn geti kastað rekunum á stokkinn eftir messu á morgun." - -

- Seint um kvöldið fylgdi Halla líkinu að heiman upp í skarðið.

Ólafur bar stokkinn á bakinu; striga var vafið utan um miðjuna á honum, svo böndin skyldu ekki nudda svertuna af trénu.

Þau gengu bæði hljóð upp skarðsbrekkuna, og Halla var náföl í framan. Hún treysti sér ekki til þess að fylgja líkinu alla leið til kirkjunnar; enda mátti heimilið ekki vera mannlaust með öllu, því ekki var að vita hvað krypplingurinn tæki fyrir.

Þegar þau voru komin upp í skarðið, leysti Ólafur af sér stokkinn, en Halla kraup niður hjá honum og gerði yfir honum bæn sína.

Þegar hún var kropin niður, fannst henni sorgin ætla að taka sig aftur öðrum eins tökum og við kistulagninguna. Það var sem einhver bjargþungi legðist á herðarnar á henni og klemmdi brjóstið ofan að stokknum. Hún varð að flýta sér að standa upp aftur, því að ef lengur liði, mundi hún ekki geta það.

Hún óskaði, að hún fengi að deyja. -

Eftir litla stund batt Ólafur aftur á sig stokkinn og hélt áfram. Halla sat eftir í skarðinu.


Kvöldið var bjart og fagurt. Hressandi vindblær andaði um skarðið ofan af landi. Sólin var gengin ofan að heiðunum og átti skammt eftir ofan að sjóndeildarhringnum. Hún sýndist stærri og rauðari en um miðjan daginn, en var þó enn of björt til þess að horfandi væri beint á hana.

Fagur litblær var yfir heiðunum. Blámi og roði skiptust þar á og runnu saman með óteljandi litbrigðum. Á fjöllunum skiptu litirinir sér skýrast og sýndu lögun þeirra greinilega, svo jafnvel hið minnsta, sem einkenndi vöxt þeirra og svip, fékk að njóta sín.

Vötnin sáust til og frá um heiðina, undir sól að sjá, og var sem á gull sæi. Eftir lægðinni, milli heiðarinnar og fjallgarðsins, liðaðist áin eins og silfurlindi. Mjúkur niður heyrðist til hennar uppi í skarðið, og þaðan að ofan skyggði ekkert á hana. Engjarnar lágu beggja megin við hana eins og grænir flosdúkar, tjarnirnar héngu við festi hennar eins og blikandi nisti.

Hinum megin við fjallgarðinn var yfir annað að líta. Þar andaði hafgola og bar hinn tíða og þráláta gest, hafþokuna, inn í dalinn. Hvammsdalur var orðinn fullur, og hinir voru að fyllast. Núpurinn upp af Hvammsbænum stóð upp úr þokunni eins og eyja og klauf hana með hvössum brúnum. Út frá honum bólaði á lægri hæðum eins og blindskerjum, en lengra burtu lá úfinn, snjóhvítur þokusjórinn svo langt sem augað eygði, glitrandi og blikandi af skini kvöldsólarinnar.

Smalar heyrðust hóa niðri í þokunni í dalahlíðunum. Sum hóin voru dimm og karlmannleg; en önnur voru mjó og veikluleg, næstum með gráthljóði. Það voru unglingar, sem urðu hræddir um, að þeir mundu ekki hafa saman féð sitt, fyrst þokan væri komin. Á eftir hóunum kváðu fjöllin við af hundgá. -

Á fallegasta staðnum, þar sem hin fríða og mikla útsýn breiddi sig best fyrir augun, sat Halla andvarpandi af söknuði eftir barn sitt, af sorg yfir einstæðingsskap sínum, af iðrun yfir ávirðingum sínum og þreytu eftir langvinna baráttu, andlega og líkamlega. Hún leit ekki við hinum fögru og björtu myndum, sem blöstu við henni allt í kring. Hún var föl og veikluleg og kipptist til, hvenær sem blærinn herti á sér. Samt hafði birtan og fegurðin áhrif á hana. Án þess hún vissi af, leituðu geislar umheimsins fast á myrkrið í sál hennar. Þess vegna fann hún óljóst til léttis við að sitja þarna.

Þegar hún fór á stað, fór hún aðra leið ofan af fjallinu en hún hafði komið. Hún ætlaði að ganga í kringum féð og víkja því heim undir bæinn.

Niðri í fjallshlíðinni gekk hún fram á mann, sem sat þar á steini, með hendur undir kinnum, og sneri baki við henni. Hún þekkti manninn; það var Finnur í Bollagörðum. Undarlegir kippir fóru um herðarnar á honum; annaðhvort var hann að hósta eða - gráta.

Hún gekk til hans og kastaði á hann kveðju. Finni varð hverft við, og leit upp; sér til undrunar sá Halla, að hann hafði verið að gráta.

"Ég þakka þér fyrir síðast!" sagði Halla og reyndi að gera sig glaðlega.

"Síðast -?" át Finnur eftir, eins og hann vissi hvorki upp né niður. Svo rankaði hann við sér og brosti: " - að ég bjargaði hundinum?"

"Þú bjargaðir mér -."

"Nei, það var nú Skjóni, sem bjargaði þér," mælti Finnur og brosti raunalega. "Hann þurfti mín ekki við. En seppaskinninu bjargaði ég. Jæja, það er alltaf gott að hugsa til þess eftir á, þegar manni auðnast að gera einhverjum þægð - þó ekki sé nema það, að bjarga hundkvikindi."

"En hvernig líður þér? Ég hefi heyrt, að þú hafir verið veikur."

"O-jæja, stingskrattinn! Hann er nú að fara," mælti Finnur og teygði hendina aftur fyrir bakið.

Halla horfði á hann spyrjandi augum, en Finnur lent undan og var eins og hann vildi fara í felur.

"Það gengur eitthvað meira að þér, Finnur minn," mælti hún lágt. "Viltu ekki trúa mér fyrir því, hvað það er?"

Finnur leit ekki upp, og það var sem svarið heyrðist langt neðan út jörðinni: "Ekkert. - það gengur ekkert að mér. Mér líður ágætlega."

"Það er gamla svarið - gömlu ósannindin," mælti Halla og stundi við. "En það svar hefnir sín grimmilega. Þyngstar eru þær sorgir, sem við dyljum fyrir öllum. Þá getur enginn hjálpað okkur, því menn vita ekki, hvað að okkur gengur."

Finnur var aftur farinn að gráta, en reyndi að leyna því.

"Það er eitthvað í sambúð ykkar Settu, sem . . ."

Halla hætti við setninguna hálfsagða, því Finnur leit upp og framan í hana. Aldrei hafði hún séð meiri vonleysissársauka, meiri hugarmyrkur en í þessu augnaráði. Hún hopaði á hæl fyrir því.

"Þei-þei!" hvíslaði Finnur. "Hún er að læðast hér einhvers staðar niðri í móunum. Hún má ekki sjá okkur saman."

"Hvers vegna?"

"Ég veit það ekki. Hún hefir bannað mér að koma að Heiðarhvammi, - bannað mér að tala við þig nokkurt orð, síðan hún fór að kynnast þér. Ég held hún sé hrædd við þig."

"Hrædd við mig -?" tók Halla upp eftir honum, en áttaði sig þó á því, að þetta gæti verið. Hún minntist þess, sem hreppstjórinn hafði sagt um búskapinn þar, og alls konar illar grunsemdir flugu henni í hug. "Aumingja Finnur!" sagði hún lágt.

Hún fann, að honum var ami að því, að hún stæði lengur við hjá honum. Hún var ekki heldur fær um það nú að ganga hart eftir leyndarmáli hans. Þeim var báðum best að skilja í þetta sinn.

Hún horfði á Finn aumkunaraugum. Hann var ekki eini maðurinn, sem tærðist upp af duldum hörmum, án þess að hafa kjark til þess að rífa sig frá þeim eða leita hjálpar annarra manna. Svo vissu menn ekki annað en honum liði vel. Þannig lugu menn hver að öðrum, og mest að vinum sínum, en lyginnar guldu þeir sjálfir.

Þegar Halla var í þann veginn að fara, mælti Finnur og benti ofan í Hvamminn:

"Er hann ekki bjartur og fagur núna, þegar sólin skín í hann?"

Halla samsinnti því. Hún hafði tekið eftir því áður, hve kvöldfagurt var í Hvamminum.

"Veistu, hvers ég var að óska mér, þegar þú komst? Nei, það er ekki von. Ég var að óska, að við hefðum fengið Hvamminn. Einhvern tíma hefði þá kannski komið að því, að ég lifði þar einn eftir. Þá hefði ég getað látið ljós loga við gluggann á nóttunni, til þess að leiðbeina ferðamönnum af heiðinni. Hvert mannslíf, sem ég hefði getað bjargað, hefði friðað samvisku mína og bætt mér upp lífið að nokkru - sem ég hefi sóað burt í synd og illverkum -."

Við síðustu orðin rann út í fyrir Finni. Halla þoldi ekki að horfa á hann og klökknaði. Hún kvaddi hann því og hélt áfram.

En þegar hún var orðin ein, réðust sorgir hennar sjálfrar á hana með endurnýjuðu afli. Og nú gat hún grátið, - grátinn hafði hún lengi þráð og lengi saknað hans. Nú varð hann henni of þungur; hún ætlaði varla að komast heim að bænum.

Þegar þungar raunir eða áhyggjur leggja þannig hald á alla sjálfráða hugsun vora, vakir annar hluti sálarinnar, sem nefndur er undirvitund, og starfar því betur sem hún er einráðari. Hún leggur undir sig skilningarvitin, tekur við kveðjum þeirra og gefur skipanir út á við, sem nægja í bráðina. Áhrif umheimsins geymir hún vandlega, þar til hugurinn er látinn og veitir henni áheyrn. - Halla gaf því lítinn gaum, sem fyrir hana bar á þessu fagra kvöldi. Það leið fram hjá henni, kom og hvarf eins og það, sem menn sjá í draumi.

Á meðal þessara draumsjóna var Finni og því, sem stóð í sambandi við hann, skipað að þessu sinni. Sá fundur var geymdur, en ekki gleymdur.

Þegar Halla kom heim, var Salka hætt að hrína og varð komu hennar fegin. En það var sem hún viknaði við að sjá húsmóður sína bólgna af gráti. Hún gerði sér allt far um að vera henni góð, án þess þó að vera henni of nærgöngul.

Ekki var Halla nema nýkomin inn í baðstofuna, þegar hún sá út um gluggann, hvar Setta í Bollagörðum kom röltandi heim að bænum, með prjónana í höndunum, - eins og hún hefði veitt henni eftirför.

"Æ, hamingjan hjálpi mér! - Nú er mér ómögulegt ...," andvarpaði Halla.

"E` `oga, `oga -!" kvakaði Salka, eins og hún hefði lesið hugsun hennar. Síðan þaut hún eins og hnykli væri kastað fram úr baðstofunni, og Halla heyrði hana reka báðar lokurnar fyrir bæjardyrahurðina.

Þegar Salka kom inn aftur, veltist hún um sjálfa sig af hlátri að þessu snjallræði.

Setta barði og lamdi hvað eftir annað, svo hrikti í bænum. Loks fór hún á stað, en gaut um leið illu auga til baðstofugluggans.

"Hún kemur ekki á morgun," hugsaði Halla.

- Krypplingurinn háttaði og sofnaði brátt.

Halla lagðist upp í rúmið í öllum fötunum, en losaði til um hálsinn og brjóstið. Hún var svo yfirkomin af þreytu, andvökum og gráti, - svo lémagna, að hún treysti sér ekki til að hátta, fyrr en hún væri búin að hvíla sig. Hitaverki lagði um hana alla, og slagæðin bak við eyrað þaut með þungum og tíðum slögum. Stundarkorn lá hún vakandi og starði stirðum augum út í baðstofuna. Næturskinið lék um "ormadyngjuna" uppi yfir henni. Hún gat ekki hugsað með neinu samhengi. Það, sem hún vildi helst hugsa um, kom fram í slitrum í huga hennar, eins og minnið dreymdi. -

Allt í einu sýndust henni "ormarnir" í þekjunni vera famir að iða og engjast. Eða - hvað var þetta? Var þekjan að verða gagnsæ?

Dreymdi hana? Nei, hún var glaðvakandi. Þekjan var horfin af baðstofunni; gaflhlöðin stóðu eftir. Hún sá út og upp til fjallsins. Næturroði var á því; en það var einhvern veginn svo kynlegt. Fjallsbrúnin hreyfðist, gekk upp og ofan, með hólum og skörðum, eins og öldukambur. - Nei, það var risavaxin holskefla af eldi, sem kom brunandi og var að brotna yfir bæinn.

En á gaflhlaðinu uppi yfir krypplingnum stóð barnið hennar, fagurt og brosandi. Það rétti fram hendurnar og ætlaði að steypa sér inn í tóftina.

Halla stökk á fætur, greip báðum höndum fyrir augun og hrópaði svo hátt, að krypplingurinn hrökk upp:

"Guð minn almáttugur! - Ég er að verða brjáluð." -


- "Mikit er at hyggja, ef þetta allt skal eftir ganga," mælti Guðrún Ósvífursdóttir, þá er Gestur Oddleifsson hafði ráðið drauma hennar.

Líkt mundi fleirum mælast, ef þeir sæju fyrir forlög sín.

En trúlega er bundið fyrir augu vor, er líta skal inn í framtíðina. Þó grisjar jafnan í gegnum bindið frá einhverju björtu, sem búa virðist í heimi Skuldar.

Það eru vonirnar, - tál og sjónhverfingar að vísu, en þó einkenni lífs og uppspretta gleði.

- Halla lá veik nokkra daga. Þá hafði hún stundum höfuðóra og sá ofsjónir. Þó styrktist hún fljótt, einkum eftir að hún gat farið að vinna úti.

Þá fannst henni sjálfri líkast því, að hún væri að byrja nýtt líf, - á líkan hátt og sakamaðurinn, sem þolað hefir hegningu sína, fagnar því að vera aftur kominn í sátt við guð og menn.

Hún hafði líka drýgt glæp, og henni fannst sem guð hefði lagt á hana þunga hegningu.

"Snjallræðið" hennar hafði verið lygi. Hún hafði orðið að illu meini í sál hennar og eitrað hana alla. Nú var þetta mein sprungið; sárið stóð opið og var viðkvæmt fyrir kuli lífsins. En það átti fyrir sér að gróa, og þá varð hún aftur heil heilsu.

En breytt var hún orðin. Léttúð og gáski æskunnar hafði brunnið burt úr fari hennar í raununum. Hún var orðin reynd og þroskuð fyrir ár fram. Hún hafði vaxið.

Jafnvel sorgirnar urðu að sælum minningum, sem hún vildi ekki missa. Mitt á meðal þeirra var brosandi barnsandlit. Nú var það ekki ásakandi, nú vitnaði það ekki á móti henni. Nú sá enginn það nema hún.

Starfsþróttur sá, sem vér eigum umfram það, er skyldustörfin krefja á bestu árum ævinnar, leitar sér verkefnis. Yfir honum ráðum vér sjálfir og einir, óháðir, hver sem staða vor er. Hann krýnir oft líf vort bestu blómunum.

Þegar Halla var búin að ná sér aftur eftir raunir sínar, fann hún til krafta í sjálfri sér, vilja og hugrekkis, sem jafnan eru hinu innra samræmi samfara. Skyldustörfin hennar voru þung og umfangsrík, og heiðarbýlið þurfti á miklu að halda. Samt átti hún afl afgangs. Það vildi hún láta einhverjum verða að liði, sem liðs þyrfti.

Hún sneiddi hjá mönnum, jafnvel meira en hún hafði gert, og lét fátt til sín taka. En ef hún legði einhverjum lið, vildi hún gera það svo um munaði.

Verkefnin voru næg, og á meðan svo er, leiðist mönnum ekki lífið.

Salka hélt sér í hana dauðahaldi og mátti ekki af henni sjá. Hún var erfitt barn, en ekki var vonlaust um, að henni færi fram.

Á næsta bæ við hana var maður, sem hún vissi nú að leið illa, þótt ekki vissi hún glöggt, hvað að honum gengi. Honum vildi hún hjálpa.

Og neðan við fjallgarðinn voru eflaust einhverjir, sem þurftu hennar við.

Það sýndi sig. -
Netútgáfan - júní 1998