PILTUR  OG  STÚLKA

eftir Jón Thoroddsen
Á austanverðu Íslandi liggur hérað eitt mikið og fagurt, er .....hérað heitir; þar gjörðist saga sú, er hér skal rituð. Hérað þetta er allfjölbyggt, en var þó betur bæjum skipað á dögum Síðu-Halls, og sést nú víða aðeins fyrir tóftum, þar sem sögurnar segja, að verið hafi vel hýst höfðingjasetur. Sjón er sögu ríkari, en eigi vitum vér, hvað veldur. Þeir, sem rita og ritað hafa um landsins gagn og nauðsynjar, verða ekki á eitt sáttir um það efni; ætla nokkrir, að hin fögru býli hafi lagst í eyði sakir ódugnaðar landsmanna, og hafa það til síns máls, að eins sé landið nú "fagurt og frítt" sem á fyrri öldum, þegar Norðmenn tóku sér þar bólfestu, og enn sé þar víða byggilegt, sem ekki er byggt. Þá eru aðrir, sem kenna hafísnum og timbureklunni um, að landið sé strjálbyggðara nú en á tíundu og elleftu öld; segja þeir, að um þær mundir hafi enginn hafís komið, en landið verið skógi vaxið frá fjalli til fjöru og nægur húsaviður hvervetna. Það má vel vera, að hvorirtveggja hafi að nokkru leyti satt að mæla; en ekki á mál það að dæma hér á þingi, fyrir því að annað er efni bæklings þessa.

Upp af héraði því, er vér um gátum, gengur dalur einn mikill og breiður, sem ....dalur heitir. Fram af dal þessum liggja aftur tveir minni dalir, er vér köllum Fögrudali. Fagridalur hinn eystri er allur vaxinn víði og vafinn í grasi; landskostir eru þar góðir, en vetrarríki í meira lagi. Dalurinn er þráðbeinn; fjöllin að honum ekki há; hlíðarnar iðgrænar á sumrin og nær því klettalausar; hér og hvar kvíslast smálækir og gil ofan um hjallana. Eftir miðjum dalnum fellur á mikil, það er jökulvatn lygnt og þó ekki afarbreitt. Sá, sem stendur um morgunstund við dalbotninn í björtu sumarveðri við upprás sólar, þegar skuggamyndirnar eru að þokast undan sólarbirtunni, og lítur yfir dalinn endilangan, mun ekki geta bundist þeirra orða: Fagur ertu, dalur fósturjarðar minnar, hér vil ég beinin bera.

Sex bæir eru í Fagradal eystri, og heita fremstu bæirnir Indriðahóll og Sigríðartunga og standa því nær hvor á móti öðrum, sinn hvorum megin árinnar. Litlar samgöngur voru millum bæja þessara; sinn átti hvora kirkjusókn, og sinn var í hvorum hrepp. Áin er óvíða reið þar í dalnum, og fá vöð eru þar á henni; á veturna leggur hana í mestu aftökum, en ekki fjölgaði milliferðum fyrir það, með því bændurnir voru heldur engir vinir; hvor bjó að sínu og hafði mest mök við sína sveitunga. Enginn nábúakrytur var þó með þeim bændunum; áin skar svo skýrt og greinilega úr landamerkjum hvorratveggja jarðanna, að aldrei gátu risið deilur út úr átroðningi eða slægjubletti, sem vant er að vera hneykslunarhella nágranna á Íslandi; en forlögin höfðu hagað því svo til, að bóndinn á Indriðahóli hafði hreppstjórn á hendi í sinni sveit, og í Sigríðartungu bjó og hreppstjóri. Nú þótt menn séu vænir, sem hlut eiga að málum, má það margt verða í sveitarsökum, er sitt líst hverjum; hefur það og lengi mælt verið, að fátækrastjórnin sundri hreppstjórunum, en samtengi þá ekki, og svo fór hér einnig. Í langan aldur höfðu hreppstjórar þessir gengið í friði og spekt hvor hjá öðrum á leið lífsins og hreppstjórnarinnar, þangað til steinn kom í götuna, en það var kerlingarskepna gömul og slitin; enginn maður vissi með sönnu að segja, hvar hún var í heiminn borin, og sjálf mundi hún ekki fyrir víst, hvað hún hafði heyrt um það. Nú fóru menn að rannsaka ritningarnar, það er að skilja kirkjubækurnar í Sigríðartunguhrepp og Indriðahólshrepp, en þá tók málið algjörlega að flókna; í Indriðahólssveitar kirkjubók fundu þeir nafn, og líktist fyrsti stafurinn í því upphafsstafnum í heiti kerlingar, en að öðru leyti var nafnið máð og ritað með sortubleki; þótti bændum í Hólshrepp ísjárvert að gjöra kerlingu þar sveitlæga eftir svo óljósu handriti. Í Tunguhrepps kirkjubók var hundrað ára eyða, og sögðu sveitarmenn, að eftir kirkjubókinni að dæma væri eins líklegt, að hún ætti ekki sveit þar í hrepp. Þá skyldi sýslumaður skera úr þrætunni, og var honum ritað af hreppstjórunum. Sýslumanni varð heldur ógreitt um svarið, en svo búið mátti ekki standa, og tekur hreppstjórinn í Sigríðartungu það ráð, að hann flytur kerlingu með tilstyrk sveitarmanna á Indriðahólshrepp. Hreppstjórinn þar bregður skjótt við, safnar að sér mönnum og lætur flytja hana um hæl yfir að Sigríðartungu. Bænum í Sigríðartungu var lokað, þegar sást til fararinnar, og fyrirbauð hreppstjóri nokkrum manni að vera svo djarfur að ljúka upp. Hinir skildu kerlingu eftir á hlaðinu, en ekki var bærinn opnaður, fyrr en Hólhreppingar voru farnir burtu fyrir góðri stundu. Þetta var á miðri jólaföstu, og var veður fremur kalt fyrir gamalmenni, og var farið að slá að kerlingu, þegar komið var út til hennar; sagði Bjarni hreppstjóri, að best væri að velgja dálítinn mjólksopa ofan í hana, áður en farið væri með hana aftur. - Flytjið þið mig nú hvert, sem þið viljið, skepnurnar mínar, sagði kerling; en guð fyrirgefi kónginum, nú situr hann og drekkur kaffi og brennivín og veit ekki, hvað hér gjörist. - Þetta voru síðustu orð hennar hér í heimi.

Ekki fór eins fyrir hreppstjórum þessum eins og þeim Heródes og Pílatus forðum, að þeir yrðu vinir á þeim sama degi sem kerling fór á milli þeirra; aldrei greri um heilt með þeim eftir þenna þráflutning; þeir sáust að sönnu oft á mannfundum og ypptu höttum hvor að öðrum, en ekki var það fyrir vináttu sakir, heldur af lotningu fyrir embættinu; þeir rituðu stundum hvor öðrum til um hitt og þetta, sem snerti sveitastjórnirnar, og töluðust oft við, og kallaði þá hvor annan signor í hverju orði, en ekki kom að heldur til af góðu, heldur hinu, að hvor um sig hugsaði: Sé hann ekki signor, þá getur og verið efi á um það, hvort ég sé signor eða ekki.

Hreppstjórakonurnar þekktust lítið, en ekki var það allsjaldan, að þær spyrðu gesti og gangandi hvor um aðra; ekki var það af umhyggju eða velvild sprottið, heldur af metnaði niðrí; vildi hvorug vera annarrar eftirbátur, þar eð þær hefðu jafnar mannvirðingar. Hreppstjórar þessir voru báðir góðir efnamenn; hreppstjóri Jón átti Indriðahólinn, en Sigríðartunga var konungsjörð; þar hafði hreppstjóri Bjarni búið allan sinn búskap; ekki átti hann jarðir, en vel af lausafé. Jón á Hóli átti einn son, er Indriði hét; hann var þá tíu vetra, er saga þessi gjörðist. Indriði var snemma fríður sýnum og vaxinn vel, og afbragð þótti hann jafnaldra sinna fyrir styrkleika sakir, enda lifði hann ekki á moðunum hjá móður sinni; aldrei var svo hart um mjólk á Hóli, að Indriði yrði ekki að fá pott af spenvolgri nýmjólk í hvert mál, og þetta kom mergnum í kögglana á honum; ötull var hann og framgjarn til hvers, sem gjöra var, nema að læra spurningarnar; þó var nú því starfi svo langt komið, að hann kunni þær allar vel nema sjötta kapítulann, sem flestum verður örðugur. Mesta yndi og ánægja Indriða var jafnan að vera eitthvað að tálga og því næst að sinna um fé föður síns. Hann var skyggn vel og fóthvatur og heppnaðist betur en flestum öðrum fjárgæsla og fann oft, þegar vantaði, þar sem aðrir voru frá gengnir leitinni. Eina á átti hann móbotnótta að lit, hún hafði verið gefin honum í tannfé og var allra mesta heppnisskepna; hún var tvílembd á hverju vori, og sögðu menn Indriða fésælan verða mundu; seldi Indriði lömbin á hverju hausti fyrir peninga, er móðir hans varðveitti fyrir hann. Nú var Botna orðin svo farin og lasburða, að hún mátti ekki lengur fylgja fénu eður bíta gras til holda, þó hásumar væri, en ellidauð átti hún að verða, því hafði Indriði heitið; var hún því höfð á baðstofugólfi og gefin mjólk sem barni með pípu, en studd út í hlaðbrekkuna, þegar best og blíðast var veður.

Þau Bjarni í Sigríðartungu áttu þrjú börn; Ragnheiður hét hið elsta, og var hún gefin bóndamanni þar í sveitinni; son áttu þau, er Ormur hét; hann hafði Bjarni til læringar sett, og var hann með föður sínum á sumrum, en í heimaskóla á vetrum; móðir hans unni honum mikið og vildi, að hann yrði prestur, og varla hafði Ormur numið svo mikið í latínumáli, að hann gæti sett tvö orð gallalaust saman, áður móðir hans fór að telja saman lambsfóður og preststíundir á bestu brauðunum, sem hún þekkti, og jafna öllu saman til að vita, um hvert brauðið hann Ormur sinn skyldi biðja. Yngsta barn hjónanna í Sigríðartungu hét Sigríður; það var móðurnafn bónda, og þótti honum harla vænt um hana; en ekki hafði hún jafnmikið ástríki af móður sinni; galt hún þess hjá móðurinni, sem hún naut hjá föðurnum, það er nafnsins og þess, að hana svipaði í ætt til föðurömmu sinnar; sagði Ingveldur oft við sjálfa sig, þegar hún leit framan í barnið: Er það ekki eins og ég sjái sneypuna hana tengdamóður mína þarna lifandi?

Það er nú þessu næst að segja, að þetta sumar var það ætlunarverk Indriða á Hóli, að hann skyldi smala á morgnana, en sitja hjá á daginn; beitarlandið frá Hóli er fram um dalinn, en upprekstrarland bænda og afrétti fremst í dalbotninum. Kvífénu var haldið fram um Grænuhjalla, og þar sat Indriði hjá, og varð honum aldrei vant úr hjásetunni, en örðugar gekk honum að vakna á morgnana svo snemma sem þurfti, og var í fyrstu ekki ugglaust, að faðir hans yrði að vekja hann á stundum nokkuð hvatskeytlega; líður svo fram að slætti, tekur þá féð að spekjast, en Indriði að venjast við að fara nógu snemma á fætur.

Í Sigríðartungu varð það til tíðinda einn morgun á nýbyrjuðum túnaslætti, að rekja var góð, og var Bjarni bóndi genginn heim úr slægjunni og sér, að Ormur sonur hans sefur enn; þá voru liðin dagmál; segir hann þá við Ingveldi konu sína:

Seint stígur Ormur frændi úr rekkju, og líst mér, að þú vekir hann til skattsins: hann gjörir ekki annað, hvort sem er, en matast; nú er hann þegar sextán vetra og kann þó ekki að bera ljá í gras; margur myndi mæla það, að þroski hans sé svo mikill orðinn, að hann gæti hjakkað af einhverjum þúfnakollinum, þar sem allir aðrir eru eitthvað að gjöra.

Og jæja! honum þykir gott að lúra á morgnana, rýjunni, enda mun verða önnur iðja og ákvörðun hans en að ganga út í túnið með karlmönnunum að orfinu.

Bíddu nú við! hann er ekki orðinn klerkur enn þá; mér sýnist þeir verði ekki allir prestar, sem kennt er.

Vissi ég það, að hann Ormur minn yrði ekki prestur, segir Ingveldur, þá skyldi ég ekki hafa eggjað þig á að láta kenna honum, en ég vona, að guð minn góður heyri mína bæn og láti hann verða prest og komast á eitthvert gott brauð hérna einhvers staðar nálægt okkur, og heldurðu þá, að hann þurfi að slíta sér út við orfið?

Ekki tekur til, nema þurfi, og er honum engin skömm eða skaði að kunna til verka; en það er ekki í fyrsta sinni, að þú mælir allt eftir honum.

Eins og þú eftir henni Siggu.

Þetta er nú barn enn þá, krakkinn, og er ekki von til, að hún geti miklu af kastað.

Hún gæti þó setið hjá, stelpan, á daginn; þetta varð ég að gjöra á hennar aldri, og hennar Guðrúnar þarf ég við heima við bæinn.

Um þetta kýttu þau hjónin nokkra stund, en sá varð endir málanna, að Ormur fór með föður sínum út í tún, og voru honum fengnir nokkrir þúfnakollar til að reyna sig við; en Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eftir fénu fram fjárgötur, fremur hrygg í huga, með askinn sinn í hendinni. Hún var þá á níunda árinu og heldur lítil vexti eftir aldri. Móðir hennar hvíslaði að henni, áður en hún fór á stað: Þú verður hýdd, kindin þín ef þú kemur of snemma heim í kvöld eða ef þú týnir nokkru af fénu. - Guðrún vinnukona var látin fara með henni til þess að sýna henni, hvar hún ætti að halda fénu til haga. - Vertu ekki að skæla, telpa mín, sagði Guðrún, þú þarft ekki að hræðast huldufólkið á dalnum, það gjörir þér ekkert mein. - Þessi huggunarorð voru ekki til annars en að rifja upp fyrir Sigríði allar sögurnar, sem hún hafði heyrt um Álfhól og hann Draugahvamm; það voru tvö örnefni þar á dalnum. Að lítilli stundu voru kindurnar runnar fram eftir götunum; en er þær voru komnar þar, sem grænu hjallarnir breiðast út, tóku þær að dreifa sér um börðin og lágarnar og fóru að bíta blómgresið.

Hérna áttu nú, Sigga mín, að láta féð vera, segir Guðrún, þú átt að hafa gætur á, að það hverfi ekki upp af brúninni, en fram eftir hlíðinni er óhætt að það fari; þú skalt ekki hnappsitja það, því þá dettur úr því nytin; þegar forsælan er komin ofan í slakkann þarna, þá er tími til fyrir þig að fara að hóa því saman, og gáðu að, að ekki verði eftir í lautunum; varaðu þig á henni stóru Bíldu, hún er vön að læðast upp með gilinu og hefur gjört mér það tvisvar sinnum, svo ég varð að elta hana upp á fjall, skituna þá arna; sigaðu honum Lubba ekki mikið á ærnar, honum er hætt við að hrifsa í þær, og vertu nú sæl!

Æ, farðu ekki undir eins frá mér, Gunna mín, sagði Sigríður litla hálfkjökrandi, ég dey út af úr hræðslu og leiðindum.

Vertu ekki að neinu voli, stelpan þín! sagði Guðrún og reif sig af henni og hljóp sem fætur toguðu og var horfin á svipstundu. Brjóst Sigríðar litlu þrútnaði þá af svo miklum ekka, að henni fannst það ætlaði að springa; tárin flutu niður um litlu kinnarnar; henni sortnaði fyrir augum, en fæturnir gátu ekki valdið þunga líkamans; hún hné niður, þar sem hún stóð, og grúfði sig niður að jörðinni og grét hátt; loksins varð hún svo þreytt af að gráta, að hún sofnaði út af, og þá dreymdi hana, að henni þótti koma til sín maður í hvítum klæðum, hann strauk um augum á henni og mælti: Jesús Kristur huggar góðu börnin, sem gráta. Við þetta vaknaði hún, og varð henni það fyrst, að hún þreifaði með hendinni um kinn sér og fann, að hún var ekki vot, en nokkuð sár og býsna heit; einnig fann hún til dálítils höfuðverkjar; brjóst hennar var léttara, og hjartað barðist ekki af ekka, en enn þá stirndi í bláu augun litlu. Sá, sem þá hefði komið í lautina, þar sem Sigríður sat, og litið í augu hennar, mundi hafa sagt við sjálfan sig: Hvernig stendur á því, að sólin blessuð, sem skinið hefur hér í allan dag, hefur ekki getað þerrað daggperlurnar af bláfjólunum tveimur, sem allra fallegastar eru hérna í brekkunni? - Ótti sá og skelfing, sem verið hafði í Sigríði litlu, áður en hún sofnaði, var nú að miklu leyti horfinn eða hafði ekki ráðrúm til að vinna á hana, því hún var nú að hugsa um það, sem hana hafði dreymt; hún setti sig síðan niður í brekkuna og fór að lesa bænir sínar og las þær upp aftur og aftur, og fannst henni nú sem hún fengi af því nokkra hugsvölun. En er þetta hafði gengið nokkra hríð, heyrðist henni allt í einu sem hundar geltu hins vegar í dalnum; hún reis þá á fætur og gekk upp á hæð eina, sem stóð þar nálægt brekkunni, og litaðist um; allt var kyrrt og tómt í dalnum; sólin var farin að lækka á himninum, og kvöldskuggarnir voru farnir að færast ofan eftir vestari hlíðinni og nærri því komnir ofan í slakkann. Sá þá Sigríður, að hún hafði sofið furðu lengi, og datt henni nú í hug það, sem Guðrún hafði sagt henni, að hún skyldi fara að reka féð saman, þegar forsælan væri komin ofan í slakkann; en sem hún nú var að hugsa um þetta með sér, varð henni litið yfir um ána og í hvamm einn þar á móti; þar var hóll einn í miðjum hvamminum og grár steinn efst á hólnum, og sýndist Sigríði piltur svartklæddur koma út úr honum og hverfa skjótara en auga væri rennt upp eftir hvamminum. Nú fór Sigríði ekki að lítast vel á blikuna og vildi nú sem fyrst vera komin burt úr dalnum; hjarta hennar fór að berjast um í brjóstinu af hræðslu, en í sama bili heyrir hún hóað hinum megin í dalnum svo hátt, að ómaði í báðum hlíðunum. Lubbi Sigríðar hafði legið um daginn þar í brekkunni fram á lappir sínar, ekki langt frá Sigríði, en er hann heyrði hóið bergmála í klettunum, stökk hann upp, hristi sig og bretti eyrun og tók allt í einu undir sig fætur og var horfinn Sigríði á svipstundu. Kindurnar stukku úr hlíðargeirunum og hlupu allar saman í einn hnapp rétt hjá brekkunni. Sigríður tók þá í skyndi að kasta á þær tölu, og taldist henni enga vanta. Meðan Sigríður var að telja, var forsælan komin ofan í slakkann, og fór hún þá að reka heim og kom með féð á bólið í þann mund, sem vant var að mjalta á kvöldin, og var engrar áar vant; þótti mönnum Sigríði litlu hefði tekist vel hjásetan í fyrsta sinni.

Næsta dag, er Sigríður skyldi sitja hjá, fór hún ekki eins hrygg á stað eins og hinn fyrra daginn; þó gat hún ekki gjört að sér allajafna á leiðinni fram eftir að vera að hugsa um álfafólkið á dalnum og um sauðsvarta drenginn, sem hún hafði séð daginn áður. Þegar hún kom í brekkuna, þar sem hún hafði verið daginn áður, settist hún niður, lagði að sér hendur og fór að lesa bænir sínar; en er hún hafði lesið um hríð, varð henni litið yfir ána; sér hún þá, hvar rann þéttur fjárhópur fram með ánni hinum megin, en eftir fjárhóp þessum fór piltur dálítill, á stærð við þann, sem hún hafði séð daginn áður; en pilturinn var ekki eins klæddur, hann var á hvítum brókum og svartri peysu, með röndótta húfu á höfðinu. Sigríður starði á hann um stund, en sagði síðan við sjálfa sig: Piltur þessi getur ekki verið álfabarn, það verður að vera einhver smalapiltur. - Úr brekkunni, sem Sigríður var í, var allskammt ofan að ánni; áin var þar ekki breið og féll þar fram á millum tveggja klettasnasa, er hófust lítið eitt upp. yfir árbakkana. Sigríður gekk fram á snösina sín megin og stóð þar. Kindurnar liðu hægt og hægt og smábítandi undan piltinum, en hann fór spölkorn á eftir; og er hann kemur þar móts við, sem Sigríður stóð við ána, verður honum litið yfir um og sér, að þar stendur kvenmaður ekki allstórvaxinn; hann nemur þá staðar og starir um stund á hana, en hleypur síðan fram að ánni og kallar á Sigríði og spyr hana að heiti.

Sigga Bjarnadóttir heiti ég.

Smalar þú þar í Tungu?

Ég á að sitja hjá; en hvað heitir þú?

Indriði frá Hóli heiti ég og sit hjá eins og þú.

Leiðist þér ekki að sitja hjá einn saman?

O, nei, ekki svo mikið, þegar gott er veðrið; en hvar er húsið þitt?

Ég á ekkert hús enn þá hérna fram frá; átt þú nokkuð hús?

Já, hérna inn í hvamminum, og þar sit ég á daginn og er að smíða; það er svo stórt, að við gætum verið þar bæði og staðið upprétt; en það er illt, að þú getur ekki komið yfir um til mín, þá skyldum við leika okkur saman, því ég sé, að þú ert lítil eins og ég - eða leiðist þér ekki á daginn, þar sem þú átt ekkert hús?

Jú, mér leiðist ósköp, segir Sigríður, og svo er ég svo hrædd við álfafólkið, sem kvað vera hérna á dalnum.

Hér er ekkert álfafólk, held ég, sagði Indriði, eða hefurðu séð nokkuð af því?

Já, ég sá í gær svartan strák svo ljótan skjótast þarna út úr gráa steininum, sem stendur þarna inn í hvamminum.

Þar er enginn grár steinn! Það er húsið mitt, sem stendur þarna á hólnum, kelli mín, og það hefur líklega verið ég, sem þú sást; en nú verð ég að fara og hóa kindunum dálítið lengra fram eftir, og svo kem ég aftur, því mér þykir gaman að tala við þig.

Þessar urðu fyrstar samræður þeirra Indriða og Sigríðar; en eftir það sáust þau og töluðust við þar við ána á hverjum degi, og leið ekki á löngu, áður þau yrðu mestu mátar. Á morgnana, þegar þau komu með féð í hagann, gengu þau fram á klettasnasirnar sitt hvorum megin og heilsuðust og sögðu hvort öðru tíðindi; á daginn, þegar veður var gott, sátu þau og ræddust við yfir ána, sögðu hvort öðru sögur og kváðust á; hvort hafði yndi af öðru; Sigríður grét, ef Indriði kom einhverju sinni seinna en vandi var til með féð á dalinn, en hoppaði og lék af gleði, þegar hún sá hann koma. Viðlíka fór fyrir Indriða, að honum fannst hver sú stundin leið og löng, sem hann varð að sjá af Sigríði.

Þannig leið sumarið, og var Sigríði orðið svo kært að sitja hjá, að hún nær því kunni hvergi við sig annars staðar en á dalnum og hlakkaði til á hverjum morgni að fara þangað. Einn dag um haustið sagði faðir hennar við hana, að nú ætti hún ekki lengur að sitja hjá, því hér eftir yrði féð ekki mjólkað meir en einu sinni á dag. Þessar fréttir þóttu Sigríði ekki góðar, en beiddi þó föður sinn að lofa sér um daginn að skreppa fram á dalinn að sækja hitt og þetta smálegt, er hún ætti eftir í húsinu sínu, og kveðja Indriða vin sinn, og leyfði faðir hennar henni það. Sigríður gekk að venju ofan að ánni og fram á klettasnösina og ætlaði að bíða Indriða þar, en sama dag var hætt að sitja hjá á Hóli, og kom Indriði ekki. Sigríður beið lengi, en varð loks að snúa aftur við svo búið og varð nú að skilja við dalinn nær því eins hrygg í huga eins og þá, er hún fór þangað í fyrsta sinni til hjásetunnar.

Ekki fundust þau Sigríður og Indriði þenna vetur hinn næsta, og sumarið eftir var Sigríður ekki látin sitja hjá, og var hún þó til þess ætluð; en það fórst fyrir með svofelldum hætti, að um vorið fékk hún svo illt í hægra fótinn, bólgnaði hann allur upp, og gjörðist úr því fótarmein og greri seint; lá hún í því lengi sumars. Indriði á Hóli sat og ekki hjá það sumar; hann þótti svo ötull og laglegur til allra verka, að faðir hans þóttist hafa meira gagn af að hafa hann heima við heyvinnu en að láta hann gæta fjárins, og var stúlka fengin til þess, sem liðléttari þótti. Þó smalaði Indriði sem fyrr á morgnana; leið svo af sumarið fram til rétta. Upprekstrarland bænda var, sem áður er um getið, fram í Fagradalsbotni; þar áttu Hólhreppingar og Tungusveitarmenn saman rétt mikla; skyldu hvorirtveggja hreppsmenn leggja til menn í göngur. Jón hreppstjóri átti geldfé margt, og lagði hann til þrjá menn í leitirnar; þar var Indriði sonur hans einn þeirra. Veður var gott fjallreiðardaginn; kom þar margt manna neðan úr héraðinu; þótti það mannfundur bestur þar um sveitir; höfðu menn með sér vistir og tjöld, því sjaldan entist dagur til að skilja féð leitardaginn. Að liðnu nóni voru flestir leitarmenn komnir; dreifði féð sér um dalinn, en menn tóku þá til malsekkja sinna og settust niður og snæddu og biðu þeirra, sem ókomnir voru; líður svo fram að miðjum aftni, og vantar þá engan nema Indriða hreppstjórason, og héldu menn hann hafa villst og voru farnir að tala um að leita hans; en í því heyra menn hundaglamm fyrir ofan nyrðri brúnina, og skömmu síðar bólar á fjárhóp; er þar kominn Indriði með margt fé; hann hafði átt að leita dal nokkurn, sem gengur upp úr Fagradalsdrögum, en ekki fundið þar fjár; þótti honum nú óvirðing að hverfa aftur við svo búið og koma kindalaus til réttanna; gekk hann þá upp úr dalnum vestanverðum og vestur um fjöll, uns hann kom að vatni einu miklu; þar fann hann margt fé og hélt síðan heim með það; en upp hafði hann gengið bæði sokka og skó. Nú var orðið svo áliðið daginn, að ekki þótti taka því að reka inn, og biðu menn morguns í tjöldunum. Um morguninn var veður bjart, og risu menn árla og tóku að rétta; kom þá enn fjöldi manns úr héraðinu. Þar kom Sigríður úr Tungu og móðir hennar og horfði á, á meðan verið var að draga, en var þess á millum með öðrum smámeyjum að leikjum. Indriði gekk til og frá eins og aðrir sveinar, og varð honum einhvern tíma reikað þar að, sem þær léku, meyjarnar; verður honum þá brátt litið á Sigríði og þekkir hana; Sigríður kom um sama bil auga á Indriða, og fór henni eins og honum, að hún kennir hann; hlaupa þau nú bæði jafnsnemma hvort að öðru og mætast á miðri leið og kyssast, en Indriði varð fyrri til máls og segir:

Ég þekki þig, telpa mín, þú ert frá Tungu og heitir Sigga, mér þykir ósköp vænt um þig.

Mér þykir eins ósköp vænt um þig, Indriði litli; ég þekki þig síðan í fyrra, en nú hef ég ekki séð þig svo lengi.

Þetta stutta viðtal þeirra var með svo mikilli alúð og einlægni, sem börnum einum er veitt, að auðséð var, að sálir þeirra voru enn hreinar og saklausar, og langt væri sá maður kominn á vegi spillingarinnar, er séð hefði þessi börn og ekki hefði sagt í hugskoti sínu: Ó, að ég væri aftur orðinn barn í hjarta, þá þyrfti ég ekki að dylja hugrenningar mínar fyrir mönnunum.

Indriði tók Sigríði við hönd sér, og lofaðu mér, segir hann, að sýna þig henni móður minni, því að ég hef oft sagt henni frá þér og hvað mér þykir vænt um þig.

Þau fóru síðan bæði til Ingibjargar, og kyssti hún Sigríði í krók og kring og sagði, að hún væri fallegt barn, og bað Indriða að vera henni góðan.

Um þetta leyti höfðu þeir yngri mennirnir, sem við réttina voru, tekið sig saman um að fara í bændaglímu þar á vellinum og tóku til þess hvern pilt, sem farinn var að stálpast; varð Indriði að fara með og svo Ormur frá Tungu. Síðan er öllu liðinu skipt í tvo flokka, og voru þeir Tunguhreppsmenn í öðrum, en Hólhreppingar í öðrum; völdu hvorirtveggja sér bændur, skipuðu liði og sögðu fyrir, hvernig menn skyldu að gangast; þeir skyldu glíma fyrst, er óhraustari voru, en úrvalaliðið síðast og svo bændur sjálfir. Var nú markaður glímuvöllur, og tóku menn að glíma, en konur og hinir eldri menn, sem ekki fengust við að draga úr réttinni, sátu hjá og horfðu á, og var það góð skemmtun; veitti þeim Tunguhreppingum þyngra í fyrstu. Ormur frá Tungu gekk þá fram og móti þeim manni af liði Hólhreppinga, er Bjarni hét; ekki höfðu þeir lengi glímt, áður Ormur þreif Bjarna upp á klofbragði og slengdi honum á völlinn. Tvo felldi Ormur enn af þeim Hólverjum. Þá stóð upp maður af liði þeirra Indriðahólsmanna, er Þorgrímur hét og kallaður Trölli; hann var maður stór vexti og rammur að afli; hann þrífur til Orms með mikilli reiði; kenndi þar aflsmunar, sveiflaði hann Ormi kringum sig sem snældu, en Ormur var mjúkur og fótviss og féll ekki að heldur, og gekk svo um stund, og tekur Þorgrímur að mæðast; það finnur Ormur og gjörir aðsókn hina snörpustu, en Þorgrímur stóð fast fyrir sem jarðfastur klettur, og getur Ormur ekki komið við neinum brögðum; loksins tekur Þorgrími að leiðast þauf þetta, sleppir nú tökunum á Ormi og ætlar að grípa hann hryggspennu, en Ormur verður fyrri til og hleypur inn undir hann og hefur hann upp á hnykk og kastar honum á völlinn; verður þá óp mikið af hendi þeirra Tungusveitarmanna, og lofar hver maður hreysti Orms og framgöngu. Eftir þetta gengur Ormur fram á völlinn og segir:

Mikinn garp höfum vér hér að velli lagðan, eður hvern látið þér nú fram, Hólverjar?

Ekki er maður stór eða sterkur, sögðu Hólverjar, Indriði litli frá Hóli er nú næstur til framgöngu, og mun þér ekki örðugt að brjóta hann á bak aftur. Indriði gekk fram, og takast þeir Ormur tökum; ekki hafði Indriði afl við Orm, en svo var hann liðugur, að ekki mátti Ormur hann af fótum færa, enda lúðist Ormur skjótt, er hann var móður áður. Þar var þúfa ein á glímuvellinum utanverðum; þangað færðu þeir leikinn, og sá Ormur ekki þúfuna, en Indriði stökk öfugur yfir hana, og í sama vetfangi kippir hann Ormi að sér, og urðu honum lausir fætur og fellur áfram á annað hné. Gjörðu þá Hólverjar sköll mikil og kváðu lítið hafa lagst fyrir kappann. Ormi þótti þetta hin mesta óvirðing og vildi ráðast að Indriða í annað sinn, en Hólverjar sögðu, að sá leikur væri þegar fullreyndur. Eftir þetta gengust menn að sem skipað var, og stóðu síðast engir uppi nema bændur sjálfir; glímdu þeir bæði lengi og sterklega, en svo lauk um síðir, að þeir féllu báðir í senn. Höfðu menn haft af þessu hina mestu skemmtun, en Ingveldi í Tungu sveið það mjög, að Ormur hafði fallið fyrir Indriða - eða því léstu strákóhræsið fella þig, segir hún, eða því hefndir þú þín ekki á honum? Ormur kvað það ekki sæma, að menn erfðu slíkt lengi.

Þá skal ég ekki vera búin að gleyma því í kvöld, sagði Ingveldur, enda er mér það ekki minni skömm en þér sjálfum, því það er eins og ég hafi aldrei tímt að gefa þér að éta.

Ekki töluðu þau mæðgin meira um þetta að því sinni.

Á meðan þeir sveinarnir glímdu, höfðu þeir bændurnir haldið áfram að draga úr réttinni, og var nú komið að því, að þeir þar af næstu bæjunum dragi sitt fé; drógu þeir jafnan síðastir, en þeir, sem voru lengst að, drógu fyrst. Sá maður var þar við réttina, er Ásbjörn hét, er svo var glöggur á fé, að hann þekkti hverja kind, ef hann hafði séð hana einu sinni áður; hann vissi og, hvaða mark hver maður átti í hinum tveimur næstu sýslum; hann stóð jafnan í miðjum réttardyrum og skoðaði hverja kind, sem dregin var, og sagði, hver átti, og rengdi hann enginn maður; og kæmi einhvern tíma nokkur ágreiningur milli manna um mörk, var hann látinn skera úr þrætunni, því menn vissu, að Ásbirni bar saman við markabækurnar. Gengu menn nú fast að að draga, eftir að bændaglímunni var lokið.

Þessa kind veit ég ekki, hver á, sagði Ásbjörn og þuklaði um eyrun á einni tvævetlu. Kallið þið á hreppstjórann í Tungu; það er allt undir því komið, hvort hér hefur verið biti, en eins er og þarna sé bris á eyranu, piltar, eða hvað segir þú, Jón á Lækjamóti? Yfirmarkið er hreppstjórans í Tungu, blaðstýft framan bæði og fjöður aftan vinstra, en sé þarna biti aftan hægra, þá á hann Jón á Gili hana; en metféskepna er það, hver sem hana á, hvar er hreppstjórinn?

Hér er ég, eða hvað er þér á höndum núna, Ásbjörn minn?

Eigið þér þessa tvævetlu, signor Bjarni?

Það veit ég ekki, ef að markið mitt er á henni, þá á ég hana, annars ekki.

Hér er nokkur vafi á; þarna eru blaðstýfingarnar og fjöðrin, en skoðið þér nú sjálfir! Hérna er eins og einhver ben hafi verið á eyranu, líklegast biti, en illa er hann gerðnr, og þá á hann Jón á Gili hana; því, eins og þér munið, er markið ykkar eins, nema það sem hann brá bitanum út af, þegar hann kom hérna í sveitina.

Ég þori ekki að segja neitt um það, Ásbjörn minn, það er best að kalla á fleiri til að dæma um það mál; sækið þið hann Guðmund smala og hann Jón á Gili sjálfan, því ekki vil ég mér sé eignað annað en það, sem ég á.

Þá var farið eftir þeim Guðmundi og Jóni, og kom Guðmundur fyrr.

Þekkir þú þessa tvævetlu, Gvendur? sagði Ásbjörn, á hreppstjórinn hana?

Guðmundur skoðaði tvævetluna í krók og í kring, en sagði síðan, að þar um gæti hann ekki sagt með neinni vissu.

Æ, hvaða smali er það, skrattinn sá arna, að þekkja ekki kindurnar hans húsbónda síns, sagði Ásbjörn; mér er þó næst skapi að halda, að hann eigi hana; það er eins og mér sýnist, að ég hafi séð þessa kind áður, þegar ég kom fram að húsunum þar í Tungu í vetur, en ekki þori ég að sverja það, held ég, nei, ekki þori ég að sverja það, og síðan þetta bris, sem þarna er á eyranu.

Í þessum svifunum kom Jón á Gili þar að og skoðaði markið og segir:

Mér sýnist enginn vafi þurfa að vera á um hana, markið mitt er á henni, ég á hana.

Og ekki er það nú skýrt á henni, markið þitt, en hitt er það, ef þú þekkir hana og þorir að sverja þér hana, sagði Ásbjörn.

Hvort sem heldur væri, sagði Jón, þar sem markið mitt er á henni; ég á ekki svo margt féð, að ég ætli að láta hunda draga það af mér, sem ég á.

Nær er mér þó að segja, að þú eigir ekkert í henni.

Rétt í þessu kom Sigríður litla frá Tungu hlaupandi þar að, sem þeir voru að þrefa um tvævetluna, og kallaði, áður en hún kom til þeirra:

Æ, þarna er hún Kolla mín blessuð komin af fjallinu!

Hvar sér þú hana? sagði Bjarni.

Hérna! Þetta er hún Kolla mín, ég þekki hana.

Er þetta hún Kolla þín? gall Ásbjörn við.

Já, Ásbjörn minn, hún er undan henni Forustuhníflu hennar móður minnar; en hvað er orðið af græna spottanum, sem var í eyranu á henni?

Á, heyrir þú nú, Jón góður! sagði Ásbjörn, þetta er hún Kolla hennar Sigríðar litlu, heldur þú, að barnið skrökvi? Og þarna hefur verið dregið í eyrað á henni, en rifnað út úr, og er svo gróið saman aftur, og því er þarna bríxlið á eyranu; ég vissi það líka, að ég þekkti svipinn, þó ég kæmi honum ekki fyrir mig, en nú kannast ég við það, að hún er af Hníflukyninu.

Það er eins og vant er fyrir þér, Ásbjörn sæll! sagði Jón, þú dregur þeirra taum, sem þú heldur, að geti slett í þig bita eða sopa, en í þetta sinn skaltu ekki féfletta mig, því ég á kindina með öllum guðsrétti, eins og á eyrunum má sjá.

Það lýgur þú, sagði Ásbjörn og reiddist því, er Jón sagði, að hann væri hlutdrægur.

Á, lýg ég það! sagði Jón og brá hendinni framan á nasir Ásbirni, svo úr dreyrði; Ásbjörn sleppti þá tvævetlunni og ætlar að rjúka í Jón, en hreppstjóri Bjarni hljóp í fangið á honum og hélt honum, en tveir aðrir tóku Jón og öftruðu honum að berja Ásbjörn meira. Ásbirni þótti það illt, er hann náði ekki að hlaupa að Jóni, og beiddi hreppstjóra grátandi að lofa sér að slá þrælinn dálítið - því ég er óvanur því, að mér sé gefið á nasirnar fyrir ekkert, eða þurfti hann að gefa mér á hann, þó að ég kallaði hann lygara, það er hann, og þetta var þá ekki það stóryrði.

Bjarni lét sem hann heyrði það ekki og reyndi til á allar lundir að stilla til friðar með þeim og tókst það svo um síðir, að þeir kysstu hvor annan og beiddu hvor annan fyrirgefningar; en tvævetluna skipaði hann að leiða til fjár Jóns á Gili og kvað nóg illt af henni hlotist hafa og skyldi hún ekki oftar verða þrætuefni. Þegar Sigríður litla sá, að Kolla var burtu leidd, og heyrði, að Jón á Gili ætti að eiga hana, gat hún ekki gjört að sér að fara að gráta, því henni þótti svo vænt um hana og hafði hlakkað svo lengi til að sjá hana aftur af fjallinu; hún settist þá undir annan réttarvegginn og táraðist. Indriði litli frá Hóli var staddur skammt þar frá og sá, að Sigríður fór að gráta. Æ, ég get ekki séð hana Siggu litlu gráta, sagði hann við sjálfan sig og gekk til hennar. Hvað gengur að þér, Sigga mín? Mér er svo vel við þig, að tárin koma fram í augun á mér, þegar ég sé þig gráta, sagði hann og klappaði Sigríði á herðarnar með hendinni; segðu mér, hvað gengur að þér?

Æ, mér þótti svo mikið fyrir að missa hana Kollu mína; hún er svo falleg, en nú hefur hann faðir minn látið óræstið hann Jón á Gili taka hana frá mér; þetta var sú eina kindin, sem ég átti, og það er svo gaman að eiga sjálf kind.

Vertu samt ekki að gráta út úr því, Sigga mín góð, sagði Indriði, ég á tvö lömb hérna í réttinni, og mátt þú eiga hvort þeirra, sem þú vilt; hún móðir mín hefur sagt, að ég mætti gefa þér annað, og komdu nú og skoðaðu þau.

Sigríður varð þessu ofur glöð, og fór Indriði með hana þangað, sem lömbin voru; það voru tvö gimbrarlömb ofur féleg, og bauð Indriði Sigríði að kjósa sér hvort, sem hún vildi; sagði Sigríður föður sínum frá gjöfinni, og sagði hann það fallega gjört af Indriða og sagði Sigríði að þakka Indriða fyrir með kossi. En þú, Indriði, skalt einhvern tíma koma yfir að Tungu í vetur og finna hana Siggu litlu, því vera má, að þið unga fólkið fellið meira huga saman en við feður ykkar, og vil ég ekki meina ykkur það.

Varð nú ekki fleira til tíðinda að því sinni. En um veturinn voru frost mikil og ísalög, og lagði Fagurá þar á milli bæjanna, og minntist Indriði einhvern sunnudag á, hvað Bjarni í Tungu hafði sagt við hann, og biður foreldra sína að lofa sér yfir að Tungu að finna Siggu, og játtu þau því, en segja honum að vera kominn aftur fyrir vökulok. Indriði kom að Tungu, og fagnaði Bjarni honum vel og svo Sigríður, en Ingveldur lét sér fátt um finnast. Ormur Bjarnason var þar fyrir, hafði hann fengið leyfi af kennara sínum að finna foreldra sína um helgina; urðu þeir Indriði brátt góðir vinir, eins og ekkert hefði í skorist með þeim; voru þau öll að leikjum um daginn, börnin, og bjuggu sér snjókerlingar eða renndu sér; í rökkrinu höfðu þau það að skemmtun að kveðast á; voru þeir sveinarnir báðir á móti Sigríði og veitti þó miður, því Sigríður kunni allar Úlfarsrímur spjaldanna á milli auk alls annars. Eftir að búið var að kveikja og borða, minntist Sigríður á, hvort ekki ætti að fara að spila; það þótti þeim Indriða og Ormi gott ráð, Ingveldi þótti og gaman að spila, og var hún sú fjórða, og er nú farið í alkort.

Við Indriði verðum saman, sagði Sigríður.

Spilin skulu ráða, sagði Ormur; því ekki var honum meir en svo um að vera saman við móður sína, er hann vissi, að hún var sjaldan vön að fá lýju.

Hjartakóngur er hér, sagði Indriði.

Og hérna er hjartadrottning, og þá erum við saman, Indriði minn, eins og ég vildi; og fáðu nú gott, því við eigum að vinna.

Er þá tekið til að spila, og gekk þeim Indriða betur; hver strokan og múkurinn eftir annan.

Nú skulum við einu sinni fá stroku, Ormur litli! sagði Ingveldur, í því hún rétti spilin að Indriða til að draga, en það er verst, að hún Sigga á útsláttinn.

Nei, nei, ekki held ég verði stroka í þetta sinn, segir Sigríður ofur glöð, í því hún tók upp spilin, því hérna fékk ég fjóra besefa í einum slag.

Fjóra besefa í einum slag! Þá verður að gefa upp aftur.

Æ nei, móðir mín góð, þeir voru ekki nema þrír, en þann fjórða fékk ég í öðrum slag; ég hef ekki nema níu á hendinni.

Víst voru þeir fjórir í einum slag, spilið er ónýtt.

Varð þá að vera sem Ingveldur vildi, og gefur hún upp aftur.

Það var þá ekki verra, sagði Sigríður í hálfum hljóðum og ætlar að stíga fætinum ofan á tána á Indriða, og átti það að þýða hjartatvistinn, en sté í þess stað óvart ofan á fótinn á móður sinni undir borðinu.

Þetta spil er ógilt, sagði Ingveldur, þá er hún skoðaði hjá sér spilin og sá, að stóra brúnkolla var hæsta spilið. Þú sagðir honum Indriða til og steigst ofan á fótinn á mér, stelpan þín, og svo stelur þú úr stokknum, held ég, og því fæ ég ekki roð.

Nei, það gjöri ég ekki, móðir góð!

Ætlar þú að bera á móti því, sem ég sé? Ég vil ekki spila við þig; það er best að fara í þjóf og láta hýða þig!

Þá kölluðu allir: Já, þjóf! Við skulum fara í þjóf. - En Ingveldur vildi nú ekki spila meira, og varð svo ekki úr spilamennskunni framar, enda var þá farið að líða á vökuna, og vildi Indriði fara að fara heim. Bjarni hreppstjóri skipaði einum af vinnumönnum sínum að fylgja Indriða yfir að Hóli, en bað Indriða að koma þar oftar, er hann hefði tíma til - því mér segir svo hugur um, að þú verðir gæfumaður, og eru komur þínar hingað mér kærar.

Sigríður litla beiddi föður sinn að lofa sér að fylgja Indriða á veg ofan fyrir túnið, og leyfði hann það. Þegar komið var ofan fyrir túnið, segir Sigríður við Indriða:

Hér verð ég að snúa aftur, Indriði minn. Ég má ekki fylgja þér lengra í þetta sinn, en þetta sagði hann faðir minn mér, að ég skyldi gefa þér, því hann veit, að þú ert smiðsefni; en þessir leppar eru frá mér sjálfri, ég hef prjónað þá sjálf; og vertu nú sæll og blessaður! Og komdu bráðum yfir um aftur, ef þú getur, því mér þykir svo vænt um að sjá þig og get aldrei gleymt þér.

Indriði kyssti Sigríði fyrir gjafirnar og þótti harla vænt um þær, einkum hefilinn og sögina, sem Bjarni hafði sent honum.

Ekki fundust þau Sigríður oftar þenna vetur; en nokkrum sinnum kom hann að Tungu á þeim missirum, og varð ætíð mikill fagnaðarfundur með þeim Sigríði, er þau sáust, og skildust jafnan með blíðu.

Líður svo fram til þess, að Sigríður er staðfest. Faðir hennar kenndi henni spurningarnar og að skrifa og dálítið í talnafræði; þótti presti, er hún var fermd, að hún væri afbragð annarra barna að kunnáttu og hrósaði gáfum hennar og stillingu. Ekki tók Sigríður eins miklum framförum til handanna; móðir hennar hafði hana til alls, sem gjöra þurfti á heimilinu, eins og aðrar griðkonur; nam hún að sönnu öll innanbæjarverk, sem hún sá fyrir sér, og tóvinnu, sem tíðast er í sveitum, en ekki fékkst móðir hennar við að kenna henni hannyrðir eða matreiðslu; kunni hún þó hvorttveggja vel. Bjarni hreppstjóri ámálgaði það oft við konu sína, að Sigríði væru kenndir saumar og matartilbúningur, en Ingveldur sagði jafnan, að hún vænti þess ekki, að Sigga yrði sú fyrirmannsfrúin, að hún mundi þurfa mikils við af þess háttar, og sat við sinn keip. Illa þótti Bjarna það fara, en lét þó svo standa.

Bjarni átti systur, er Björg hét; hún var ekkja og auðug vel; hún bjó í Skagafirði á bæ þeim, sem heitir V...; hún hafði átt dóttur eina barna, en misst hana unga. Einu sinni kom Björg í kynnisferð til bróður síns í Tungu og dvaldist þar nokkrar nætur; það var seint á engjaslætti. Sigríður gekk að venju með griðkonum á engjar, fór snemma á stað á morgnana, en kom seint heim á kvöldin, og sá Björg hana ekki tvo fyrstu dagana, sem hún var í Tungu, enda var henni ekki fram haldið. Þriðja daginn var veður gott, og var bundið af engjunum, og fór Sigríður á milli, en Bjarni var við tóftina og tók á móti. Björg settist á garðvegginn og þótti gaman að tala við bróður sinn; og er Sigríður kemur með fyrstu ferðina, víkur hún talinu til hans og segir:

Þarna áttu laglega stelpu, Bjarni bróðir. Hvað kemur til, að þú hefur ekki sýnt mér hana?

Hún hefur aldrei verið heima, hróið.

Ég þóttist undir eins þekkja á henni ættarmótið okkar; láttu mig sjá þig, stelpa mín! Þú hefur svip af henni Steinunni minni heitinni utan á vangann og ennið ekki ólíkt heldur, en augun hefurðu úr henni móður okkar sælu.

Og eftir henni heitir hún líka, sagði Bjarni.

Það má og á sjá, að það mun vera móðurnafnið okkar og eftirlætisbarnið þitt, sagði Björg og glotti við.

Og ekki sér það nú á henni; það getur aldrei orðið maður úr henni, hróinu, meðan hún er hér; hún lærir ekki svo mikið sem að búa til utan á sig spjör eða gjöra graut í ask; ég hef oft óskað mér, að hún væri komin til þín, systir góð.

Björg þagnaði við um stund, en segir þó um síðir:

Jæja, láttu hana þá fara til mín eitt ár, stelpuna.

Bjarna þótti nú vel skipast, og er það af ráðið, að Sigríður færi þegar norður með Björgu; en ekki lét Ingveldur sér mikið um finnast og grét mikið, þegar þær skildu, mæðgurnar; sagði hún þá, að Sigríður alltaf hefði verið augasteinninn sinn og eftirlætið.

Sigríður fór að V... með föðursystur sinni; hjá henni var hún þrjá vetur; féll Björgu því betur við hana sem þær voru lengur saman; sá hún, að Sigríður var mesta konuefni, og lagði því alla alúð á að kenna henni allar þær hannyrðir og menntir, sem vel sæma göfgum konum; nam Sigríður allt fljótt og vel, því bæði hafði hún góðar gáfur og stillingu til að taka áminningum systur sinnar; kom svo að síðustu, að Björg lagði svo mikla ást á hana sem hún hefði verið dóttir hennar; gleymdi hún nú að mestu missi dóttur sinnar og þótti sem hið auða skarð væri bætt, þar sem Sigríður var. Hún arfleiddi Sigríði að öllum sínum fjármunum, föstum og lausum, og sagði, að ekkert nema dauðinn skyldi skilja þær. Þau þrjú ár, sem Sigríður var í Skagafirði, fór hún aldrei að finna foreldra sína, en faðir hennar hafði lengi haft þá venju að hitta systur sína einu sinni á ári, og þessari venju hélt hann enn; þess á millum ritaði Sigríður föður sínum við og við og svo móður sinni, en sjaldan voru bréf þau sem hún skrifaði henni, annars efnis en um veðráttufar, skepnuhöld og önnur almælt tíðindi, og þó þau jafnan væru alúðleg, gat samt hver aðgætinn maður séð, að þau bréf, sem hún skrifaði föður sínum, voru með einhverjum öðrum blæ, hýrlegri og innilegri; það leit svo út sem hún ætti hægra með að opna fyrir honum fylgsni hjarta síns en fyrir öðrum. Eitt af bréfum Sigríðar hefur borist oss í hendur, og er það ritað rúmu missiri eftir að hún fór frá Sigríðartungu, og er þetta einn kafli úr því:


Þú biður mig, faðir góður, að segja þér hreinskilnislega frá því, hvernig mér líði og hvernig ég kunni við mig hér nyrðra. Það væri stakt vanþakklæti af mér við guð, ef ég segði annað en að mér liði vel að öllu. Systir mín er mér svo ástúðleg eins og ég væri einkadóttir hennar, og oft hef ég verið að hugsa um það með sjálfri mér, að í rauninni geti það ekki verið satt, að móðurástin, það er að skilja sú hin blíða, alúðlega og umhyggjusama tilfinning, sem ég nú ekki get lýst, geti hvergi kviknað nema undir því brjóstinu, sem barnið hefur borið; hvað á ég þá að kalla þá ást, sem systir mín sýnir mér? Ég get ekki ímyndað mér móðurástina öðruvísi, og marka ég það af tilfinningu sjálfrar mín; ég elska hana eins heitt og barnslega og mér er unnt; mér finnst hver stundin löng, sem hún er ekki nærri mér; mig langar til að gjöra henni allt að geði; allt, sem hún skipar, verður mér létt, af því það er mín mesta gleði, að mér mætti takast það, sem hún vill; í stuttu máli að segja: Ég er barn; en hvernig ætti ég að vera það, nema hún væri mér móðir? Af þessu, sem ég nú hef sagt þér, faðir góður, getur þú og getið því nærri, að ég kunni vel við mig, og þar að auki eru allir vandalausir mér góðir og alúðlegir, af því þeir vita, að henni systur minni þykir vænt um mig; og hvað landslagið snertir, þá segja allir, að hér sé ofur fallegt; hér er mikið áþekkt því, sem er í Tungu. Hlíðin eins græn fyrir ofan bæinn. Vötnin eins spegilfögur eins og hún Fagurá; að minnsta kosti vantar mig orð til að gjöra þess mun, og þó finnst mér hann vera einhver; það er eitthvað, sem augað getur ekki greint, en brjóstið aðeins finnur; og hvar af kemur það? Ég veit það ekki. Er það af því tilfinning mín sé breytt og önnur nú en þegar ég var yngri? Eða er það einhver hulinn og óskiljanlegur kraftur, sem loðir við þann blett, sem maður hefur fyrst lokið upp augunum á? Hér virðist mér hver blómknappurinn öðrum hýrari, hver lautin og brekkan annarri fegri. En hvað kemur til þess, að aldrei getur mér orðið eins vel við neina þeirra eins og þá brekkuna á honum Fagradal, sem ég grét sárast í og á í flest tárin? Og þó fellur mér hér aldrei tár af augum. -


*

Þegar Sigríður hafði verið þrjá vetur í Skagafirði í góðu yfirlæti, tók systir hennar sótt, hæga í fyrstu, en jókst með degi hverjum; fylgdi þar með rænuleysi og magnleysi. Sigríður vakti yfir systur sinni nótt og dag og veitti henni alla þjónustu með hinni mestu alúð og umhyggju; grunaði hana, eins og raun varð á, að sótt þessi mundi hana til bana leiða, og var því ávallt mjög harmþrungin og beiddi guð að lengja líf systur sinnar. Það var eina nótt, að Björg var mjög þunglega haldin og talaði næstum því alla nóttina í óráði og fékk engan blund á augu fyrr en rétt undir morgun, þá rann á hana svefnhöfgi nokkur. Sigríður sat allajafna við sængurstokkinn og flaut í tárum, því hún sá þegar, að ekki mundi langt að bíða skilnaðar þeirra systra. Loksins hné hún út af úrvinda af svefni og lagði höfuðið á koddann fyrir framan systur sína, og rann á hana mók nokkuð; og vaknaði hún þá við það, að farið var hóglega með hendi um vanga hennar; það var systir hennar, sem vaknað hafði og lagt höndina á kinn hennar. Þá var kominn ljómandi dagur, og skinu fyrstu morgunsólargeislarnir inn um allt húsið. Björg var þá með öllu ráði og segir við Sigríði:

Þú svafst, elskan mín. Mér varð það óvart, að ég vakti þig, komdu nú til mín og kysstu mig. - Sigríður gjörði það. - Þetta skal vera okkar skilnaðarkoss, sagði Björg. Vertu blessuð, svo lengi þú lifir. Berðu þig að vera góð og guðelskandi, bljúg og barnsleg í huga, eins og þú nú ert; vertu foreldrum þínum hlýðin og auðsveip; en biddu nú fyrir mér, að ég megi deyja; það er svo unaðsamt, er guð sendir manni geisla sinnar sólar í andlátinu.

Eftir að Björg hafði þetta mælt, hallaðist hún aftur að svæflinum, og sé að henni hægt mók, og úr því vaknaði hún ekki aftur til þessa lífs. Allir, sem þekktu Björgu, hörmuðu mjög andlát hennar, en Sigríður þó mest; samt stóð hún fyrir greftrun hennar og leysti það vel af hendi og skörulega, og síðan annaðist hún um búið á V... það eftir var vetrarins, en byggði jörðina um vorið með ráðum og tilstyrk bestu bænda þar í sveitinni.

Ekki undi Sigríður sér norður þar eftir andlát systur sinnar; ritaði hún nú föður sínum til og bað hann að sækja sig, og fór hún þá að Tungu, og tók faðir hennar við fjárforráðum hennar.

Meðan Sigríður var í Skagafirði, ólst Indriði upp með föður sínum á Hóli; var hann nú orðinn hinn mesti atgjörvismaður til munns og handa, og þótti mönnum sem fáir væru hans jafningjar þar um sveitir, og fyrir því töluðu það margir, að mjög væri ákomið með þeim Sigríði í Tungu, því hún þótti og einhver hinn ágætasti kostur þar í héruðum. Sigríður var allra kvenna fríðust; hún var vaxin vel og meðallagi há, þéttvaxin og mittisgrönn; hún var fagurhent og fótsmá, eygð vel og allra kvenna fegurst hærð; hárið ljóst og svo mikið, að í beltisstað tók; hverri konu var hún sléttmálari; rómurinn hreinn og snjallur og tilgerðarlaus; hún var vitur kona og vel stillt.

Þegar Sigríður hafði verið einn vetur í Tungu eftir andlát systur sinnar, tók faðir hennar sótt þá, er hann leiddi til bana. Sigríður harmaði föður sinn mjög, en bar þó vel harm sinn. Ingveldur móðir hennar bjó í Sigríðartungu eftir bónda sinn og réð mann fyrir búið, og kvaðst hún ekki vilja sleppa búskap, fyrr en Ormur sonur hennar kvongaðist; hann var á þessum missirum kominn í Bessastaðaskóla, en var á sumrum með móður sinni. Ormur þótti uppivöðslumikill og ófyrirleitinn um allt, en þó raungóður. Allkært var með þeim systkinum.

Þau Indriði óg Sigríður hittust nokkrum sinnum um þessar mundir, og höfðu menn það fyrir satt, að þeim geðjaðist allvel hvort að öðru, og sannaðist að því skipti það, sem mælt er, að sjaldan lýgur almannarómur. Indriði og Sigríður voru nú á þeim aldri, sem karl og kona, er þekkjast og sjást og fellur hvort öðru vel í geð, trauðla geta vináttumálum einum bundist. Vinátta sú og ylur, sem verið hafði með þeim, á meðan þau voru börn, var nú búinn að taka aðra stefnu í hjörtum þeirra og snúinn í heita og einlæga ást, er þau báru hvort til annars. Nú þótt svo megi virðast, sem ekki þurfi mikið áræði til þess að bera það mál upp fyrir einhverjum, er maður veit áður, að honum er jafnkunnugt sem manni sjálfum, segist þó flestum svo frá, er í þá raun hafa komið, að ekki sé hið fyrsta ástarorð ætíð auðlosað á vörum þeirra, sem unnast; og svo fór fyrir Indriða, þó hann við og við sæi Sigríði, enda vildi jafnan svo illa til, að þau Sigríður næstum því aldregi urðu tvö saman í einrúmi; en eftir því tóku menn, að Indriði fór að venja þangað komur sínar, sem hann vissi, að Sigríðar var von á mannfundi, og þess á millum gjöra sér ferðir að Tungu, þó lítið væri annað erindi en að sjá Sigríði; og einu sinni sem oftar kom hann þangað, og voru þar þá fyrir aðrir gestir. Ingveldur lét vísa þeim gestunum í stofu og heita þeim kaffi, en bað Sigríði dóttur sína vera þar í stofunni og ræða við þá, er hún sjálf ætti að snúast í mörgu, sem við lá á heimilinu. Ingveldur var vön því að gefa þeim Indriða og Sigríði auga og gæta þess, að þau töluðust ekki margt við, en með því að nú voru fleiri menn við í stofunni, hirti hún ekki um, þó Sigríður ræddi við Indriða eins og hina gestina. Nú bar svo einu sinni við, að þau Indriði urðu tvö saman eftir í stofunni. Sigríður hafði alltaf haldið uppi tali við þá gestina, en er þeir voru út gengnir, þagnaði hún og leit í gaupnir sér; Indriða varð og orðfall um hríð, en bæði sátu þau sitt hvorum megin við dálítið borð, er þar var í stofunni. Svona leið dálítil stund, að þau yrtu hvorugt á annað, þangað til Sigríður allt í einu lítur upp og framan í Indriða og varð í sama bili rjóð út undir eyru. Þess háttar augnaráð og tillit stúlkna eru yngismenn vanir að skilja, og Indriði hefði orðið að vera skynskiptingur, ef hann hefði ekki ráðið í, hvað Sigríði þá flaug í huga.

Manstu, Sigríður mín, segir hann, þegar við vorum lítil, hvað okkur var vel til vina og þótti vænt hvort um annað?

Já, alltaf man ég það, Indriði minn góður, sagði Sigríður, og varð henni einhvern veginn ósjálfrátt að grípa um höndina á Indriða; en rétt í því henni slapp seinasta orðið af vörunum, var stofunni lokið upp, og fékk hún ekki tíma til að kippa aftur að sér hendinni, fyrr en móðir hennar var komin inn á mitt gólf, og hafði Ingveldur eitthvert veður af viðræðu þeirra Indriða og var nú ærið gustmikil; og varð ekki meira af viðtali þeirra Sigríðar og Indriða að því sinni. Indriði ríður síðan heim og tekur nú að íhuga svar Sigríðar og öll atvik; finnst honum þá, að Sigríður mundi sér ekki fráhverf, ef hann beiddi hennar. Hann segir þessu næst foreldrum sínum fyrirætlun sína um að leita ráðahags við Sigríði, og leist þeim vel á, en töldu þó ei ólíklegt, að Ingveldur mundi verða því mótfallin. Er þá svo ráð fyrir gjört, að Ingibjörg móðir Indriða skuli bera þetta mál upp fyrir þeim mæðgum, er hún hitti þær, og skyldi allt fara sem hljóðast fyrst um sinn.

Eitthvert skipti um haustið skyldi vera brúðkaup nokkuð á prestsetrinu í Sigríðartunguhrepp; ætlaði síra Tómas að gifta aðstoðarprestinum dóttur sína. Til þessarar veislu var þeim Tungumæðgum boðið, svo og þeim hjónunum frá Hóli og Indriða. Þau mæðgin frá Hóli riðu til boðsins, en Jón hreppstjóri var krankur og fór því ekki. Þær mæðgurnar í Tungu höfðu og ásett sér að fara, en þenna sama morgun fundust ekki hestarnir í Tungu, og var þeirra þó leitað fram undir hádegi, og fannst enginn nema klár einn gamall og staður, er kallaður var Níðhöggur, sem aldrei gekk úr túninu; honum skyldi fylgdarmaður ríða, ef eitthvað fengist fyrir þær mæðgurnar; og með því þeim þótti leitt að setjast aftur, er þær voru ferðbúnar, var það til bragðs tekið að senda á næsta bæ fyrir neðan Sigríðartungu og biðja þar um hesta. Þar var ekki mikið til um reiðskjóta; þó fengust þar tveir hestar, og var annað hryssa apalgrá; henni átti Sigríður að ríða, en aldrei hafði fyrr verið lagður söðull á hana, og tók hún þegar að snúast á hlaðinu og ausa, undir eins og Sigríður var komin á bak; gekk svo lengi, og verður hún að fara af baki aftur og reyna til að teyma hana á veg; en allt fór á sömu leið, hverjum brögðum sem beitt var við hryssuna, að jafnóðum sem Sigríður var stigin í söðulinn, tók Grána að ausa og gekk nú eins langt aftur á bak eins og hún hafði áður verið fram leidd; líður nú fram að hádegi, eru þær Sigríður og Grána þá búnar að færa leikinn út í mitt túnið, og gengur Sigríður þar af henni, og verður ekki af för hennar; en Ingveldur ríður til boðsins, og var þar fyrir margt manna, og voru menn farnir að búast til kirkjugöngu. Ingveldi var vísað í loft til kvenna; var þar komin Ingibjörg frá Hóli, og heilsar hún Ingveldi blíðlega. Flestar konur voru þar á íslenskum búningi; Ingveldur var og á íslenskum treyjufötum og hafði skuplu á höfði og nælt niður að framan. Ingibjörg á Hóli hafði krókfald ekki mjög háan, en fór vel.

Tekur þá brúður að skauta sér, og segir hún við Ingibjörgu: Ég ætla að biðja yður, Ingibjörg mín, að láta á höfuðið á mér, ég sé þér kunnið á því lagið; ég er ánægð, ef það fer eins vel á höfðinu á mér í dag eins og á höfðinu á yður, enda er faldurinn yðar fallegur og vel lagaður; það er munur að sjá blessaða krókfaldana en horngrýtis skuplurnar, sem ekki eru fyrir aðrar en afgamlar kerlingarhrotur.

Þegar prestsdóttir sagði þetta, hafði hún ekki gáð að því, að Ingveldur var þar og hafði skuplu; en það var rétt eins og öllum, sem voru í loftinu, hefði dottið hið sama í hug, og litu allir undir eins framan í Ingveldi, og þurfti ekki að segja henni, hvað til bar; hún roðnaði út undir eyru, en stillti sig þó um að svara. Ingibjörg tók nú að skauta brúðinni, en Ingveldur settist á rúm þar í loftinu hjá konu nokkurri, er Gróa hét. Þær Ingveldur og Gróa voru vinkonur. Gróa bjó á þeim bæ, sem heitir á Leiti; Hallur hét bóndi hennar, og var hans sjaldan getið að nokkru, því Gróa þótti vera þar bæði bóndinn og húsfreyjan. Lítt voru þau hjón við álnir, en Gróa var fengsöm og húsgöngul; hún var og vitur kona og svo fróð um alla hluti, að hún vissi fyrir víst, hvað skammtað var hvert mál á flestum bæjum í öllu því byggðarlagi; aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum; og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann; var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð! Ávallt vissi hún að haga svo orðum sínum, við hvern sem hún talaði, að hverjum fyrir sig virtist sem Gróa ætti engan betri vin hér á jörðu en sig og að hún væri engum trú nema sér einum. Þörfin, sem oft gjörir þá að vinum, sem ella mundu ekki vinir, hafði gjört þær Gróu og Ingveldi að aldavinkonum, og gat hvorug annarrar án verið. Ingveldi var svo varið, að hún aldrei hafði rétt góða heilsu, nema hún við og við fengi fréttir um það, hvernig mönnum liði á öðrum bæjum; aftur þurfti Gróa að eiga einhvern að, sem hugaði fyrir nefinu á henni, ella mundi það hafa orðið henni æði útdráttarsamt; en Ingveldur var jafnan vön að stinga að henni tóbakslaufi, rjólbita eða blöðkuvisk, ef vel sagðist. Brátt tóku þær Gróa og Ingveldur tal sín á milli, og var það mjög af hvíslingum, er mörg voru eyru þar í loftinu. Ingveldur þuklar nú undir svuntu sína og dregur þar upp rjólbita og laumar að Gróu, og tekur henni þá heldur að hægjast um málbeinið og hvíslingarnar að verða tíðari.

Guðsást fyrir mig, segir Gróa, og fyrir nefið á mér; það er eins og vant er; yður leiðist ekki að hugsa fyrir því.

Og ekkert að þakka, Gróa mín. Hefði ég verið heima, skyldi ég þó hafa látið það vera ögn burðugra; ég greip þenna mola með mér til vonar og vara, því ég hugsaði það gæti þó verið, að ég sæi þig hérna; en hvað kemur til, að þú kemur aldrei fram eftir núna?

Og minnist þér ekki á það, elskan mín. Ég kemst aldrei frá barnagreyjunum, og hann er svo óspakur, krakkaormanganóruskinnsgreyið yngsta, að ég má aldrei líta augunum af honum, hvað þá heldur, að ég komist út af bænum, og hefur mig þó oft langað til þess, ég segi það satt, að koma fram eftir, því hvar kemur maður á annað eins sæmdarheimili og að Tungu? En margs þarf við; ekki get ég sagt, að ég hafi séð smér í sumar; allt hefur gengið í það að kreista saman leigurnar, og þó læt ég það allt vera, ef ég á eitthvað í nefið - en nú hafið þér bætt úr því, blessaður unginn, eins og yðar var von og vísa.

Það er nú allt minna en ég vildi, Gróa mín. En hvað ég vildi segja, kemur þú aldrei fram að Hóli?

Ó nei, elskan mín, þangað kem ég ekki; og til hvers er þangað að koma? Ekki víkur hún Ingibjörg nánösin ketti sleikju eða hundi beini; ég hef mestu andstyggð á öllu því hyski, ég get ekki gjört að því. Þá er það fallegur bölvaður sláni - guð fyrirgefi mér, að ég blóta - strákurinn þeirra þar, hann Indriði!!

Hvers er von, kelli mín! sagði Ingveldur.

Það er satt; ég veit ekki, hvert hann ætti að sækja góðmennskuna; dúfan hefur aldrei komið úr hrafnsegginu enn þá; því segi ég það, ekki gæti ég trúað því, þó mér væri sagt það, að þér létuð hana Sigríði mína í þær hendur, þó sumir séu að geta þess til.

Og ekki held ég, Gróa mín, að það verði, ef ég má ráða; mér hefur aldrei verið neitt um það Hólsfólk og mun aldrei verða.

Á, það var líklegra, og það hef ég alltaf sagt. Í þessu varð Gróu litið til Ingibjargar, þar sem hún var að laga faldinn á höfðinu á prestsdóttur, og segir hún þá: Guð náði hana Valgerði mína að láta kerlingarandstyggðina vera að krumla sig; hún hefði þó getað beðið yður að láta á höfuðið á sér.

Ég var ekki eins vel fær um það kelli mín eins og sú, sem hún valdi til þess, sagði Ingveldur og saug um leið upp í nefið.

Æ, hvernig getið þér nú farið að tala, heillin góð!

Þetta mun henni þó hafa sýnst, eða heyrðir þú ekki, hvernig hún lagðaði mig áðan?

Ójú, því var nú verr og miður, að ég heyrði það; en það er ekki fyrir það, þetta er mesta trippi, stelpan, þó hún sé prestsdóttir; og vitið þér, hvers vegna hún vildi ekki láta yður skauta sér?

Ónei.

Æ, mig grunar, að hún væri hrædd um, að þér munduð sjá það, sem ekki á að sjást, en hver heilvita getur þó séð; þér munuð hafa heyrt það, sem talað er?

Ónei, ekki hef ég heyrt það.

Þá get ég sagt yður það; um hana og prestinn hérna.

Nú, nú!

Og því þau biðu ekki með brúðkaupið til vorsins, eins og fyrst var talað.

Á, já, já, nú fer ég að skilja.

En hitt er víst ekki satt, um fleiri.

Rétt í þessu kemur einhver inn í loftið og segir, að presturinn sé kominn út í kirkjuna og bíði brúðhjónanna; verður þá þys mikill í loftinu, og keppast konurnar við að komast sem fyrst ofan; verður þá ekki meira af samræðum þeirra Gróu og Ingveldar, og hvíslar Gróa að Ingveldi, rétt í því þær fóru út úr loftinu: Ég skal segja yður það allt saman seinna, sem ég hef heyrt og ólygin stúlka hérna á heimilinu hefur sagt mér, en ekki vil ég samt láta bera mig fyrir því, blessuð!

Þessu næst ganga menn til kirkju, og verður þar ekki annað til tíðinda en að hjónaefnin eru saman pússuð. Eftir að komið var úr kirkju, gengu menn undir borð; og var sætum skipað á þá leið, að Ingibjörg á Hóli sat næst síra Tómasi, en út frá henni Ingveldur frá Tungu, og þóttust menn sjá, að Ingveldur roðnaði í framan, þegar hún var til sætis leidd, og gátu þess til, að hún þættist eins vel komin til þess sætis, sem Ingibjörg hafði hlotið; gátur manna voru og ekki fjarri sanni. Ingveldur var hljóð mjög um daginn, og þótt þar væri hin dýrðlegasta veisla og steik og annar fagnaður á borðum, snerti hún samt varla á nokkrum bita. Lítið er það, sem kattartungan finnur ekki, segja menn, og svo er um þá virðingagjörnu. Síra Tómas var glaður mjög að þessari veislu og skrafhreifinn, yrti á marga og leitaðist við að skemmta, einkum þeim konunum; en hvort sem það heldur var af ásettu ráði gjört eður af tilviljun, þá bar ætíð svo við, að hann kallaði Ingibjörgu á Hóli maddömu, þegar hann ávarpaði hana; en jafnan, er hann sneri málinu til Ingveldar, sagði hann aldrei nema blátt áfram: Ingveldur mín! Ingveldi þótti sem ekki ætti að draga af sér það, sem hún ætti og guð hefði gefið henni, og var henni það verra en þó hún hefði fengið sinn undir hvorn vanga, þegar prestur talaði til hennar, en varð aftur bleik sem nár í hvert skipti, sem hann ávarpaði Ingibjörgu.

Þá er menn voru gengnir undan borðum, sýndi Ingveldur vonum bráðara á sér fararsnið, og hugðu menn hana kranka. Indriði kom þá að máli við móður sína - og vildi ég, segir hann, að þú, móðir, minntist þess, er þú hést mér, að vekja máls á bónorðinu, og mun ekki annan tíma betra færi á gefast.

Annan veg virðist mér þetta, sonur, sagði Ingibjörg, sýnist mér Ingveldur ekki hafa verið með glöðu bragði í dag, hvað sem veldur; en þó má ég gjöra það fyrir þín orð að hætta til þess.

Sætir hún þá lagi að fá færi á Ingveldi, áður en hún riði brott; og einhvern tíma stóð svo á, að þær urðu tvær saman fyrir ofan bæinn; gengur þá Ingibjörg til hennar og kveður hana blíðlega og segir:

Mig langar til að tala nokkur orð við yður, áður en þér farið; ég hef verið beðin þess af manni, og þykir mér mikið undir því, hverju þér svarið.

Mín er æran og yðar lítillætið, maddama góð, ef þér viljið tala við mig, og látið mig heyra erindi yðar, sagði Ingveldur og glotti við. Ingibjörgu grunaði nú af þessu svari, hvernig fara mundi, og þagnaði við; en með því að svo langt var komið, að illt var afturhvarfs, tekur hún aftur til máls og segir:

Það er erindi mitt, að sonur minn Indriði hefur beðið mig að koma að máli við ykkur mæðgurnar um það, hvort ykkur mundi það óskapfellt, að hann leitaði þar ráðahags, sem er Sigríður dóttir yðar; segir hann, að þar sé sú kona, er hann helst mundi kjósa sér fyrir ættar og atgjörvis sakir af þeim kvenkostum, sem hér eru nærindis.

Verður það, sem varir og ekki varir, sagði Ingveldur. Síst mundi mig hafa grunað það, að þið á Hóli leituðuð til mægða við okkur smámennin fyrir handan ána, og vil ég víst vita, hvort þetta mál er af alvöru flutt eður ekki.

Ekki er það með nokkru falsi af okkar hendi, sagði Ingibjörg; munu það og margir mæla, að ekki sé óákomið með þeim Indriða mínum og Sigríði dóttur yðar.

Það munuð þér og aðrir verða að skoða sem þeim líkar, hvert jafnræði sé með þeim; en skjótt er að svara erindi yðar, maddama góð, af minni hendi, að aldrei gef ég samþykki mitt til þess ráðahags; um vilja Sigríðar veit ég ekki; þó er mér næst að halda, að hún muni líta í aðra átt, ef hún gefur um að giftast að svo stöddu.

Síðan gekk Ingveldur burt sem skyndilegast; breytti hún nú ráði sínu um heimreiðina og var hin kátasta það eftir var dagsins.

Ingibjörg segir Indriða þessi málalok, og verða þau honum til mikillar ógleði og það þó verst, er hann þóttist mega ráða af orðum Ingveldar, að hyggja hans um vilja Sigríðar mundi hafa verið tómur hugarburður. Riðu þau mæðgin heim við svo búið, og tekur Indriði nú ógleði mikla, svo að hann nær því mátti engu sinna. Ingveldur ríður og heim frá boðinu um kvöldið og er hin kátasta. Ekki segir hún Sigríði frá viðræðum þeirra Ingibjargar.

Litlu síðar kom upp sá orðrómur þar í sveitinni, að Indriði á Hóli hefði beðið sér stúlku vestur í héruðum og þó minni háttar bóndadóttur, en ekki fengið, og því væri hann nú orðinn hálfgeðveikur. Enginn vissi gjörla að greina höfund þessara frétta; en þeir, sem lengst komust í rannsókninni, höfðu það fyrir satt, að ólyginn maður hefði sagt þær Gróu á Leiti. Ingveldur lét hvern mann, sem kom að Tungu, segja sér þessar fréttir og innti að öllu sem nákvæmast, og var ekki ugglaust um, að hún á stundum gjörði gys að, einkum ef Sigríður var við. Sigríður lét sér jafnan fátt um finnast. Líður svo veturinn og vor hið næsta, að ekki batnar Indriða ógleðin, og ekki kom hann að Sigríðartungu á þessum missirum. -

*

Nú verður að geta fleiri manna við söguna. Maður hét Bárður, hann bjó á Búrfelli, það er hálfa þingmannaleið frá Sigríðartungu og ekki í sama hrepp. Bárður var maður auðugur að gripum og gangandi fé; jarðir átti hann og margar og góðar; en ekki var hann maður vinsæll af alþýðu. Einn son átti hann, sem Brandur hét; hann var kvongaður og átti bú á Brandsstöðum; lítið ástríki hafði hann af föður sínum; líktist Brandur meira móður sinni en föðurfrændum. Bárður hafði átt þá konu, er Guðrún hét og ættuð úr Þingeyjarþingi; hún var þá önduð fyrir fám vetrum, er hér er komið sögunni; og var það almæli, að hún hefði næsta södd lífdaganna til grafar gengið; höfðu þau hjón ekki átt lund saman; hún var mild af fé, en hann nískur, en þó hæglátur og stórillindalítill hversdagslega. Þar var margt fátækra manna í nágrenninu, og hvörfluðu þeir oft á vorum heim að Búrfelli, og vildi Guðrún jafnan víkja þeim einhverju, sem svangir voru, er matur var nógur fyrir. Ekki var Bárði mikið um þær ölmusugjörðir; tók þó sjaldan af þeim það, sem Guðrún hafði vikið þeim; en, til þess að sjá við þeim leka, að ekki drægist of mikið út úr búinu á þenna hátt, lét hann ekki konu sína hafa of mikið undir höndum; sjálfur vó hann út hjúunum bæði smjör og átmeti og taldi rækilega hvern kjötbita, sem hann ætlaði til soðningar hvert skipti, sem farið var með spað. Yfir döllunum og ólekjunni hafði Guðrún ótakmarkað einvaldsdæmi; en öðru máli var að gegna um skökuna, því henni varð hún að skila manni sínum afdráttarlaust í hvert sinn, sem hún strokkaði; og með því Bárður mundi gjörla, hve margar ær og kýr hann átti, og vissi út í æsar, hvað hver mylk skepna á heimilinu mjólkaði í mál og hve mikið smjör fæst úr hverjum fjórðungi mjólkur, tókst Guðrúnu sjaldan að klípa mikið af skökunni, svo að Bárður yrði þess ekki var. Lyklaráðin hafði hún; þó var sá einn lykill, sem hann aldrei skildi við sig vakandi eða sofandi, en það var lykillinn að skemmuloftinu; og þeir, sem vissu, hvað í því var, furðuðu sig ekki á því, þó Guðrúnu væri ekki hleypt þangað: margra ára gamlar mörtöflur og gráskjöldóttir smjörbelgir áttu þar aðsetur í geysimikilli kistu um þveran gafl. Fyrir annarri hliðinni stóð afarstór kornbyrða, en hinum megin var þrísett röð af tunnum með spað og saltaða magála; þaðan féllu straumar miklir af pækli, er kvísluðust um skemmuloftið og hurfu loks inn undir fjallháan fiskahlaða, sem girti skemmuloftið að framanverðu. Eftir endilöngu húsinu lágu rær, hlaðnar enda á milli með hörðu hangikjöti; það voru föll af sauðum og ám, og enginn mundi þar uppréttur ganga mega sakir hinna langleggjuðu skammrifjabógna. Annars var, eins og lög gjöra ráð fyrir, það kjötið, sem reykja skyldi, haft í eldhúsi, og aldrei reis hin rósfingraða morgungyðja svo úr rúmi Títonar, að Bárður bóndi kannaði það ekki innvirðulega; og ekki "hné dagstjarna nokkur svo í djúpan mar", að hann ekki áður skemmti sér við sjón hinna bráðfeitu sauðarfalla, teldi þau og klipi í þau, áður en hann færi að sofa. Ekki verður glögglega skýrt frá öllu því, sem í þessu lofti var fólgið, því fáum auðnaðist það eftirlæti að koma lengra en upp í stigann og þó svo aðeins, að þeir hefðu sýnt Bárði áður nýja spesíu eður gamla krónu, sem hann langaði til að komast í kunningsskap við. Niðri í skemmunni voru margir eigulegir hlutir, þó hér séu ekki taldir; en flest var það óætt. Þó var þar einn hlutur, er vér hljótum að geta að nokkru, en það var sár einn mikill og merkilegur, fullur lundabagga og súrsaðra hrútssviða, blóðmörs og annars ágætis, er svam þar í hálfþykku súrmjólkurmauki. Ekki var það fyrir því, að Bárður hefði minni mætur á sá þessum en mörgu öðru, er uppi var í loftinu, að honum var valið óvirðulegra sæti, heldur hins vegna, að hann var of stór vexti til að komast í heilu líki upp um loftsgatið, enda var hann nú ekki fær um ferðir eða hreyfingar fyrir sakir gjarðleysis og elliburða; stóð hann því þar við loftsstigann og sparn jörðu allt upp að miðju og gamalli kúamykju mokað að utan. A syllunni rétt fyrir ofan sáinn voru tvær uglur; á annarri þeirra hékk stórt kerfi af gömlum hornhögldum, en á hinni héngu reiðtygi Guðmundar Höllusonar. Guðmundur þessi var fóstursonur Bárðar, og unni Bárður honum manna mest, enda var hann svo líkur honum að öllu skaplyndi, að ekki mundi sonur líkari föður; og fóru menn þeim orðum þar um, að fé væri jafnan fóstra líkt; en ekki vissu menn annan skyldugleika þeirra en að móðir piltsins hafði verið vinnukona Bárðar og heitið Halla. Halla hafði verið svo óheppin, þegar hún átti að feðra Guðmund, að hún gat ekki fundið honum neitt líklegra faðerni utan eða innan sveitar en vinnumannstetur eitt, sem var drukknaður rúmum níu mánuðum áður en pilturinn fæddist, og því hafði Bárður af einskærri manndyggð sinni tekið munaðarleysingjann að sér og alið hann upp eftir sinni mynd, og sögðu allir, að honum færist það vel, því auðséð væri, að hann gæti með öllu hrundið honum á sveitina. Bárður lagði með ári hverju meiri og meiri ást á svein þenna og gaf honum fjörutíu hundraða jörð eftir sig, og þar að auki hafði hann það jafnan á orði, að hann Guðmundur sinn ætti að tína flærnar úr rúminu sínu, þegar hann væri dauður. Fáir ókunnugir skildu þetta orðatiltæki; en nákunnugir þóttust vita, að Bárður miðaði til kistilkorns nokkurs, sem grafinn væri niður undir höfðalagið í rúmi Bárðar og í væru nokkrar kringlóttar. Þegar hér er komið sögunni, var Guðmundur orðinn fulltíða maður. Ekki þótti heimasætum þar í héraðinu hann fríður sýnum. Allir vissu, að hann var maður samhaldssamur og átti í vændum að eignast nokkuð, þar sem hann var uppáhaldið hans Bárðar ríka á Búrfelli, og því mundu feður gjafvaxta meyja hafa skoðað huga sinn, áður honum væri frá vísað, ef hann hefði leitað ráðahags við dætur þeirra. En Guðmundur var kenndur við kjöt og sauði, en ekki við konur eða kvonbænir, og það þóttust menn vita, að færi svo, að hann einhvern tíma ágirntist einhverja af Evudætrum, mundi hann ekki líta á fríðleikann einan í því efni og varla mundi hann vitið verði kaupa; sjálfur hafði hann gott gripsvit, og meira þurfti ekki til að búa og nurla, sem fyrir hann var aðalatriðið. Guðmundur hafði einhvern tíma lært að lesa og las reiprennandi hverja bæn, einkum ef hann kunni nokkuð í henni utanbókar áður, en sjaldan vildu menn hleypa honum á Jónsbókarlestur. Fóstri hans hafði látið kenna honum að rita nafnið sitt og sagði, að slíkt gæti oft komið sér vel í búskapnum, að menn kynnu að klóra nafnið sitt, til að mynda, ef menn seldu eða keyptu jarðarpart; en ekki var Guðmundur fastur í réttritunarreglunum, því jafnan ritaði hann fyrsta stafinn í nafninu sínu með litlu gei og eins í föðurnafninu, en essið í "son" hafði hann alltaf með stórum staf. Talnafræði hafði Guðmundur ekki numið, en furðanlega æfingu hafði hann í því að telja saman fiska og fjórðunga og taldi þá upp á grænlensku, eftir tám og fingrum, og var ákaflega fljótur að því.

Það var einhvern dag næsta sumar eftir það, að Indriði beiddi Sigríðar í Tungu, eins og áður er um getið, að Bárður karl var eitthvað að bauka sér út í skemmulofti og hafði lokið upp smjörkistunni miklu og sat nú réttum beinum á loftinu og raðaði kringum sig smjörbelgjum. Honum sýndist, að umbúðirnar á einum bögglinum væri farnar að bresta, og tók upp hjá sér nál og þráð og fór að rifa það saman og raulaði eitthvað fyrir munni sér, eins og hann jafnan var vanur, þegar hann var að fara með smjör eða peninga. En er hann hafði setið þar um hríð, heyrist honum vera gengið inn í skemmuna, og dettur honum þá í hug, að hann hafi gleymt að læsa eftir sér skemmunni, og hugsar, að svo megi vera, að einhver sé þar kominn, sem vilji skyggnast í sáinn. Bárður stekkur þá upp hart og títt og kallar ofan í skemmuna:

Hver er þarna niðri?

Það er ég, fóstri minn!

Á, ert þú það, Guðmundur minn! Ég gat ekki skilið í, hver það gæti verið; ég vissi ekki, að þið voruð komnir heim, piltarnir; og því varð mér hálfhverft við; maður má aldrei vera óhræddur innan um þetta horngrýtis hyski, því þó allir þykist vera ráðvandir hérna á heimilinu, þá skal nú enginn telja mér trú um það, að ekki hafi verið farið í sáinn; eða hvað minnir þig, Guðmundur minn, að vinstrarnar ættu að vera margar, sem eftir voru í vor?

Þær voru átján, sagði Guðmundur, já átján.

Já, mig minnti það; þú taldir þær fyrir mig?

Já, þú lést mig telja þær, og mig minnir ekki betur en þær væru átján, jú, það veit drottinn minn, þær voru, sem ég lifi, átján.

Og í dag eru þær ekki nema sextán; skoðum þá til, fjórar eru farnar, ekki hafa þær hlaupið sjálfar úr sánum; því segi ég það, það verður að hafa gát á því hérna, ef það á ekki að stela mann út á húsganginn; en nú getur það stolið fyrir mér, eins og það vill; ekki sé ég, þó það steli úr mér augunum, ég er ekki orðinn maður til að líta eftir því. En viltu ekki skreppa snöggvast upp til mín, Guðmundur minn, fyrst þú komst? Mig langar til þess að líta snöggvast ofan í fremstu kjöttunnuna hérna; ég held hún sé búin að míga niður úr sér öllum pæklinum; en ég ræð ekki við helluna ofan á henni.

Ójú, fóstri minn, ég skal koma, sagði Guðmundur og fór upp og tók helluna ofan af tunnunni; það er ekki von, að þú ráðir við þetta bjarg, fóstri minn!

Af því ég er orðinn svo dauður og farinn, að ég þoli ekkert á mig að reyna fyrir mjöðminni á mér - ónei, ekki hefur hún lekið enn til skemmda, held ég, tunnugreyið. - Því segi ég það, ég er ekki orðinn fær um að eiga lengur í þessu búskaparbasli, Guðmundur minn! Ég vildi helst, að þú værir búinn að taka við því öllu saman og ég mætti hírast hérna í kofunum; hafa skemmugreyið mitt út af fyrir mig; nokkrar kindur í heyjum og afgjaldið af þessum fáu jarðaskikum; ég vil þú farir að taka við jörðinni hérna, en ekki legg ég ofan á hana, það segi ég þér fyrir; þú verður að taka við kofunum hérna eins og þeir eru; og þeir eru líka allstæðilegir, nema hvað göngin eru farin að síga dálítið saman, en að öðru leyti getur bærinn hérna lafað uppi nokkur ár enn. Hvað segir þú um þetta, viltu ekki fara að reyna til að hokra?

Ég veit ekki, hvað ég á að segja um það, fóstri minn.

Og þá yrðir þú, vænti ég, að taka þér einhvern kvenmannsræfil.

Já, ekki treysti ég mér að búa með henni Guddu hérna.

Það lái ég þér ekki, Guðmundur minn. Ég er búinn að fullreyna mig á henni, og ekki ætla ég að ráða þér til þess að hafa hana fyrir framan; en hitt er það, ég held þú yrðir að fá þér einhverja konumynd.

Já, sagði Guðmundur og dró langan seim á jáinu. Þessi kvenþjóð! Og þessar konur!

Það hef ég þó komist að raun um, Guðmundur minn, síðan konan mín dó, að skárri eru konurnar en þessar ráðskonuskammir; og sannast er að segja um það, að þó að hún Guðrún mín heitin væri óráðsskepna í mörgu, þá dró hún þó ekki allt út úr höndunum á mér eins og skrattinn hún Gudda; en hvað ég ætlaði að segja, hefurðu ekki augastað á neinni hérna í sveitinni, sem þú vildir eiga?

Ónei, fóstri minn, ekki hef ég það; og það á heldur engin neitt hérna í sveitinni; og til hvers skollans er að taka þá, sem ekki á spjarirnar á sig?

Og satt er nú það, neyðarúrræði eru það; hér er þó ein fram á bæjunum, sem loðin er um lófana.

Á, hver er það, fóstri minn?

Hún Sigríður Bjarnadóttir í Tungu.

Á, ætli það? Ætli það eigi nokkuð til þar í Tungu? En ekki eru börnin mörg, trúi ég.

Læt ég nú það vera, ekki held ég það sé feitan gölt að flá, búið þar í Tungu, og ekki átti hann Bjarni heitinn jarðirnar; en hitt er það, hún kvað hafa fengið þrjár ef ekki fjórar jarðir eftir hana systur sína.

Nú, það var annað mál! sagði Guðmundur og neri saman lófunum.

Og því hefur mér dottið það í hug, að það væri ekki svo fjarri lagi fyrir þig, því góður stofn getur það orðið, ef vel er á haldið, með þessu litla, sem þú átt sjálfur, þó það sé nú ekki mikið; þú átt þó þenna part, sem ég hef ánafnað þér; og svo nokkra skildinga, hugsa ég.

Ég! skildinga, nei, ég á ekki peningana, ég er öldungis peningalaus.

Ekki trúi ég nú því; en þú vilt aldrei láta bera neitt á því; og hvað kemur til, að þú lofar mér aldrei að sjá skildingana þína, Gvendur?

Nú, þeir eru engir! En því fæ ég aldrei að sjá peningana þína, fóstri minn?

Annað mál er það; ég hef aldrei átt neina skildinga; þú skyldir fá að sjá þá, ef þeir væru nokkrir; eitt gripsverð, það er allt og sumt.

Heldur eignast þú þó skilding en ég.

Nú, það fer allt aftur; í sýslumanninn þarna varð ég að láta næstum því þrjár spesíur, og fjögur ríxort fóru til prestsins, því ekki er að bjóða þeim körlum annað en smjör, ull og peninga, og þótti mér þá ekki betra að láta sköfuna eða lagðinn; en verði einhver skildingur til eftir mig, þegar ég dey, þá veistu það, að þú átt að taka hann, því ekki get ég vitað, að það fari í eldinn hjá honum Brandi, þó það sé lítið; en hvað líst þér um þetta, sem við vorum um að tala, er ekki réttast fyrir þig, að þú reynir til að ná í þessa jarðarskika, sem hún Sigríður á?

Heldurðu, fóstri minn, að það gæti tekist?

Nú, það má reyna að komast eftir, hvað þær segja, mæðgurnar; ég skal reyna að staulast með þér fram eftir, ef þú vilt.

Við þetta felldu þeir fóstrar talið, en næsta dag voru hestar heim reknir að Búrfelli. Ekki voru reiðskjótar þeirra fóstra ásjálegir, meiddir í miðju baki og næsta grannir á síðu, því ekki var kostnaður gjörður eldishesta á Búrfelli, enda voru hestar þar oftar hafðir til áburðar en útreiða. Engir skrautmenn voru þeir fóstrar í klæðum, en þó var nú tjaldað því, sem til var. Guðmundur var í bláum treyjufötum af skarlati. Þessi föt höfðu í fyrstu verið keypt af Þjóðum og fóru því Guðmundi ekki sem best; Guðmundur var maður hár vexti, en treyjan var af meðalmanni, og skrolli hún upp á herðarblöðum að aftanverðu, en barmarnir héngu mjög niður að framanverðu. Guðmundur var allra manna skrefhæstur, en brækurnar stuttar, og féllu fötin lítt saman um miðjuna, og sá þar í gula skyrtuna; af þessu var Guðmundur til að sjá líkastur röndóttum jötunuxa. Bolurinn var af góðum kostum gjörður og glæsilegur; en svo óheppilega hafði til tekist einhvern tíma í kaupstaðarferð, þegar Guðmundur var að láta upp bagga, að nokkrar tölurnar höfðu hrunið af öðrum barminum; en með því að þess háttar tölur, sem á bolnum voru, ekki voru fáanlegar, hafði Guðmundur látið fylla skörðin með ósamkynja tölum. Þeir, sem ekki unna sundurgerð eða margbreytni í klæðum, mundu því líkast til hafa fundið það að bolnum Guðmundar, að tölurnar voru ekki allar af sama tagi. Stígvél átti Guðmundur, það voru vatnsstígvél. Þau hafði hann einhvern tíma orðið að taka upp í skuld af dönskum farmanni og ekki getað selt þau aftur, en nú komu þau að góðu haldi, því hvenær skyldi slíka gripi við hafa, ef þeir skyldu nú heima liggja? Guðmundur hafði og farið í stígvélin; en með því honum virtist hvor fóturinn öðrum líkur, tók hann það stígvélið á hægra fótinn, sem þeir, sem vanari eru þess konar skófatnaði, mundu hafa látið á hinn vinstra. Ekki urðu þeir fóstrar snemmbúnir, því þeir voru óvanir þessu dekri; þó komst biðillinn út á hlaðið um hádegisbilið með svipu og hatt í hendi; hatturinn var allásjálegur og "Einar Hákonarson vatnsheldur" í kollinum. Um sama mund sem þeir fóstrar stíga á bak, kemur Fjósa-Rauðka þar út á hlaðið, setur hönd fyrir auga, glápir á Guðmund um hríð og stingur síðan nefinu að Smala-Gunnu og segir:

Nú þykir mér Guðmundur okkar vera orðinn uppdubbaður; hvert ætlar hann að fara, blessuð mín?

Hvað ætli ég viti af því, kelli mín? En það lítur svo út sem hann ætli að fara að biðja sér stúlku.

Skrattinn fjarri mér! sagði Rauðka og steypti úr því, sem hún hélt á. Þá þykir mér flestir sótraftar á sjó dregnir, ef hann Gvendur fer að biðja sér stúlku.

Þeir fóstrar komu að Sigríðartungu á áliðnum degi og berja þar að dyrum, og fór það eins og segir í vísunni, að "þar kom út einn digur dóni" og litast um; þeir fóstrar heilsa honum með kossi, og spyr hann þá almæltra tíðinda, en þeir kváðust fá vita - en er húsbóndinn heima? sagði Guðmundur.

Já, hjá guði, því hann er dauður, sagði heimamaður, en ég á að heita ráðsmaður hérna, og allt, sem utanbæjar snertir, þá er það eins og þið talið við hana Ingveldi mína sjálfa, það sem þið talið við mig; annars heiti ég Árni, sem lengi var hjá honum síra Torfa, ég veit ekki, hvort þið kannist við það; en heitið þér ekki Bárður á Búrfelli?

Jú, Bárður heiti ég.

Já, ég þóttist hálfvegis þekkja yður, þó langt sé síðan ég sá yður; ég sótti til yðar smér hérna um árið, sem þó ekki vóst, þegar heim kom.

Og ekki kannast ég við það, að það hafi ekki vegist; en er maddaman heima? Mér er þökk á að fá að tala við hana.

Árni fór þá inn, og kom Ingveldur brátt fram og leiddi þá fóstra í stofu. Stofan var hús fyrir sig, og var gengið í hana vinstra megin úr bæjardyrum; hún var í þremur stafgólfum og ekki ólaglegt hús, eftir því sem gjöra er í sveitum; á þeim gaflinum, sem sneri út til bæjarhlaðsins, voru tveir glergluggar, og rétt undir þeim stóð dálítið, grænleitt borð og sinn stóll hvorum megin. Í fremsta stafgólfinu, næst dyrum, var gestarúmið og glitábreiða yfir; hinum megin og á móti rúminu stóð rauðlituð kista með fangamarki Ingveldar á hliðinni, sem fram sneri; það var fatakista hennar; en við endann á þessari kistu stóð önnur kista nokkuð minni, en nýlegri; hana átti Sigríður. Ingveldur leiddi Bárð til sætis við borðið og tók að spyrja hann tíðinda; en Guðmundur settist á kistu Sigríðar og sat þar með hattinn á hnjánum og hélt sinni hendi um hvort barðið, og datt ekki né draup af honum. Ekki leið á löngu, áður þar kom í stofuna stúlka með bjart hár, húfu á höfði og dökkvan skúf, á bláu pilsi, með röndótta vefnaðarsvuntu og í blárri peysu, nokkuð nærskorinni. Það var Sigríður Bjarnadóttir. Hún gekk hæversklega, en þó ófeimnislega inn gólfið og rétti að móður sinni kaffiketil, sem hún bar í hendinni; en gestirnir risu upp á móti henni og heilsuðu henni með kossi. Ingveldur tók við katlinum, brá svuntuhorninu neðan undir botninn á honum, blés í stútinn og setti hann á borðið og tók að skenkja kaffið; setti fyrst fyrir Bárð og benti Sigríði að koma og færa Guðmundi, þar sem hann sat á kistunni. Sigríður bar Guðmundi kaffibollann í annarri hendi, en sykurskál í annarri. Guðmundur þrífur með annarri hendinni einhvern álitlegasta sykurmolann úr skálinni, en með hinni hendinni tekur hann um kaffibollann, en lætur Sigríði standa eftir með undirskálina, því ekki var hann svo fróður í þess háttar efnum, að hann vissi, að hún átti að fylgja bollanum, og bar Sigríður skálina brosandi aftur á borðið. Guðmundur stýfði sykrið úr hnefa sínum, jafnóðum og hann sötraði kaffið, en stakk síðan afganginum í vestisvasa sinn. Um það leyti, sem Guðmundur var búinn að drekka kaffið, víkur Ingveldur talinu til Bárðar og segir:

Meðal annarra orða, ætlið þér langt að ferðast, Bárður minn?

Og ekki lengra, maddama góð, ég dróst hingað fram eftir með honum Guðmundi mínum, rétt að gamni mínu, og svo langaði mig til að tala við yður fáein orð einhvern tíma.

Ég vona til, að þér verðið hjá mér í nótt, Bárður minn, það er ekki svo oft, að þér komið hingað.

Satt segið þér það, heillin góð, ekki gjöri ég óþarfa útreiðirnar með öllum jafnaði; samt sem áður held ég, að ég verði að dragnast heim í kvöld, þegar erindinu er af lokið, og það vildi ég helst gjöra einhvers staðar í einrúmi, ef þér gætuð komið því við.

Ég verð þá að biðja yður að koma innar í baðstofu með mér; en Sigríður mín, ég vona til, að þú látir ekki honum Guðmundi mínum leiðast hjá þér á meðan.

Þau Bárður gengu úr stofunni, en Sigríður varð þar eftir og vænti þess, að Guðmundur mundi hefja samtalið með einhverju skemmtilegu efni; en Guðmundur gat einhvern veginn ekki fundið á því lagið og sat þar þegjandi á kistunni og barði hælunum í hliðina og gaut við og við augunum ámótlega til Sigríðar. Sigríði fannst það lítið yndi að sitja svona eins og mállaus og horfa á Guðmund, og væri því ekki annað fyrir en að yrða á hann að fyrra bragði. Hún vissi það, að oft getur lítilfjörleg byrjun orðið að löngu og skemmtilegu samtali, ef sá kann vel að haga orðum sínum, sem við er rætt; hún segir því blátt áfram:

Er ekkert að frétta neðan úr sveitinni?

Þakka yður fyrir! sagði Guðmundur; nei, ég verst allra frétta, nema það hefur verið stolið skammrifjum þar á Hamri, ég veit ekki, hvort þér hafið heyrt það.

Jú, ég trúi við heyrðum það hérna um daginn; vita menn nokkuð um það, hver það muni hafa gjört?

Ónei, sagði Guðmundur og þagnaði; Sigríður sá, að þetta samtal gat ekki loðað saman, enda þótti henni það ekki svo skemmtilegt, að hún gæti verið að halda lengur lífinu í því; þegir nú um stund, en segir síðan:

Þið fenguð í fyrravor nýjan prest þar niðri í sókninni, hvernig líkar ykkur við hann?

Og ég held hann sé afskiptalítill og meinhægur, karlinn, og sannast er að segja um það, ekki drekkur hann eins og hin skepnan, sem drakk frá sér vitið og alla blessun.

Það er vel farið; honum mun þá ganga betur búskapurinn en sagt var um hinn.

Já, það vænti ég eigi að heita; ekki er hann eins dauður; og það væri þá heldur engin furða, þó hann hefði eitthvað að éta með öllu því smjörgjaldi, maður guðs og lifandi, það mætti eitthvað verða úr því; en það er eins og einhver skrattans óblessun fylgi þessum prestum, hvað mikið sem berst að þeim; og með öllu saman held ég þó, að hann leggi ekki stórt fyrir, svo sem þar þó er borið heim af öllum sköpuðum hlutum; ég treysti mér til að verða stórríkur, ef ég hefði aðrar eins tekjur á hverju ári.

Já, það er nú ekki að ætlast til þess, að allir geti haft hagsýnina og sparnaðinn ykkar fóstranna á Búrfelli.

Og ekki má það nú kalla, að ég sé sparsamur; ég ét alltaf, og það heldur mikið en lítið; en hitt er satt, hann fóstri minn er sparsemdarmaður; því það segi ég yður satt, hann getur verið svo vikunum saman, að hann smakki ekki feitmeti, og er það ekki af því, að hann eigi það ekki til.

Það giska ég nú á, sagði Sigríður hálfbrosandi, heldur mun það vera af því, að hann vill koma því í skildinga; en hvað ég vildi segja, hvernig kennimaður þykir ykkur hann vera, presturinn ykkar?

Og ég veit það ekki, ég heyri, að sumir hæla honum; þó skömm sé frá að segja, hef ég ekki komið nema einu sinni til kirkju, síðan hann kom, og heyrði ég þó ekki nema seinni partinn af ræðunni, því það stóð svo á, að ég var að tala við mann, sem ég átti lítilræði hjá, úti undir kirkjuvegg.

Hvernig fannst yður þetta, sem þér heyrðuð?

Og ég held það hafi verið allgott; mér fannst það svona viðlíka og Strumshugvekjur.

Lengri gátu ekki viðræður þeirra Guðmundar og Sigríðar orðið að þessu sinni, fyrir því að þau Ingveldur og Bárður komu þá aftur í stofuna; en þó samtal þetta væri ekki langt, fékk Sigríður nokkra hugmynd um kunnáttu Guðmundar og hugarfar.

Skömmu eftir það býst Bárður til heimferðar, og segir Ingveldur við hann, þegar þau kvöddust:

Jæja, Bárður minn, nú látum við þetta vera svona fyrst um sinn; en fari allt eins og ég vil, skal ég undir eins láta ykkur vita það, fóstrana.

Sá hafði orðið endir samtals þeirra Ingveldar og Bárðar, að hún hét að gefa Guðmundi Sigríði dóttur sína, ef hún ekki með öllu þverneitaði þeim ráðahag. Ríða þeir nú heim, fóstrar, og líða svo nokkrir dagar, að Ingveldur vekur ekki máls á þessu við Sigríði, en var jafnan venju fremur blíð í viðmóti við hana og kallar hana elskuna sína í hverju orði, og þykir Sigríði það vel. Það var um þessar mundir eins og Ingveldur ætti í nokkurri baráttu við sjálfa sig um það, hvort hún ætti að eggja dóttur sína á að eiga Guðmund eða hún ætti að bregða því heiti, sem hún hafði gjört þeim fóstrum, og kom hún sér ekki einhvern veginn að því að nefna þetta við Sigríði; en einn morgun herðir hún upp hugann og vindur sér að Sigríði og segir ofur blíðlega:

Ekki ber ég á móti því, gæskan mín, að nokkuð hefur verið kaldara millum okkar hingað til en vera ætti; það getur verið, að það sé eins mikið mín sök og þín, en nokkuð er það þér að kenna; og það skaltu vita, að ekki elska ég þig minna en hin börnin mín; þið eruð öll undir sama brjóstinu borin, og því þykir mér í rauninni eins vænt um ykkur öll; en ekki væri þess öll ólíkindi, þó ég væri alúðlegri við það barnið, sem sýnir mér meira ástríki og alúð og vill gjöra allt að mínu skapi. Nú hef ég í fyrsta sinni sagt þér, hvað mér er innan brjósts, og vona ég, að allt verði betra millum okkar eftirleiðis; en að geði mínu átt þú að láta, það er þín skylda.

Sigríði fannst, að þessi orð móður sinnar kæmu frá hjartanu, og varð þeim grátfegin; hún hljóp um hálsinn á móður sinni og sagði:

Já, elsku móðir góð, í öllu vil ég ástunda það að gjöra yðar vilja, og það hryggir mig, hafi ég í einhverju móðgað yður, og fyrirgefið þér mér það!

Ójá, góða mín, sagði Ingveldur og kyssti Sigríði. Þú skalt þá sjá það, að ég verð þér góð móðir; en nú giska ég á, að það verði ekki svo lengi, sem mér helst á ykkur, börnunum mínum; það er vant að fara svo fyrir okkur foreldra veslingunum, þegar við erum búin að koma ykkur á fætur og sá tími er kominn, sem við mættum hafa mest yndi og stoð af ykkur, þá hverfið þið út í veröldina frá okkur, og eins mun fara um þig; þú ferð nú að giftast, býst ég við, þegar þér býðst gott gjaforð, og það væri synd fyrir mig að líta svo á minn hag að sitja þér í ljósi fyrir því, sem guð vill veita þér. - Og nú fór Ingveldur að hálfkjökra.

Ekki skuluð þér kvíða því, móðir mín, sagði Sigríður, ég giftist varla svo fljótt, held ég.

Og því skyldir þú ekki gjöra það, elskan mín! Þetta liggur fyrir þér, og á þá leið dreymdi mig manninn minn heitinn í nótt, sem þess verði ekki langt að bíða; og sá eini biður þín, sem vandi er frá að vísa, og hver heldur þú, að það sé?

Ég hef lítið hugsað um það enn, móðir mín, sagði Sigríður og roðnaði við.

Guðmundur á Búrfelli verður maðurinn þinn, taktu nú eftir, ef það er guðs vilji, og enginn annar.

Æ, ekki held ég það, móðir mín! Ég vona til þess, að hann biðji mín ekki.

Það var þó erindið þeirra fóstranna hingað fram eftir hérna um daginn.

Og hvað sögðuð þér þeim, móðir mín?

Ég lofaði þeim því, að svo miklu leyti sem mig snerti, og hét þeim að nefna það við þig, því mér gat ekki dottið annað í hug en að þú mundir þakka guði fyrir að fá slíkan mann, efnilegan og ríkan.

Sigríður varð hljóð við þessi tíðindi; og áttu þær mæðgur langa viðræðu um þetta efni, og fannst það mjög á Sigríði, þó hún færi hægt, að henni virtist á annan veg en móður hennar; fann hún það til, að maðurinn væri óálitlegur; en Ingveldur kvað fegurðina ekki til frambúðar; hefði og föður Sigríðar verið allt annað betur gefið en fríðleikurinn, og hefði hann þó verið sæmdarmaður í sveit, en taldi Guðmundi það til gildis, að hann væri ráðdeildarmaður, stilltur og efnaður vel, og mundi fóstri hans búa svo í garð fyrir hann, að hann yrði þess mest aðnjótandi, sem til væri á Búrfelli. Sigríður fann það og að Guðmundi, að hann væri mjög svo fákunnandi; en Ingveldur hafði orð fyrir því og kvað ekki bókvitið í askana látið, þegar farið væri að búa. Að svo búnu skildu þær mæðgur að því sinni; en nær því á hverjum degi flutti Ingveldur mál Guðmundar, en fór þó að öllu sem hægast við Sigríði. Sigríður vildi fyrir hvern mun ekki giftast Guðmundi, en þótti nú sem hún mætti ekki gleyma Indriða. Hafði hún það fyrir satt öðru veifinu, að hann mundi hafa huga til sín, og hefði hann sýnt henni það oft í viðmóti, þó ekki hefði hann talað margt; en einkum þóttist hún að fullu hafa ráðið það af orðum hans, þá er þau voru saman þar í stofunni. Aftur annað veifið efaðist hún um, að þetta væri annað en tómur hugarburður sinn, og væri hugsun sú einungis sprottin af því, að hún óskaði, að svo væri. Hún gat heldur ekki skilið í því, hvernig á því stæði, að Indriði hefði beðið sér stúlku annars staðar, eins og þá var altalað, ef hann nokkurn tíma hefði haft huga til sín. Það var og annað, er henni þótti undarlegt, að Indriði ekki hafði komið þar eða séð hana allan þann vetur og ekki komið á þá mannfundi, sem hún kom á, eins og hann hafði áður verið vanur. Aftur á hinn bóginn fann hún, að móður sinni mundi stórum mislíka, ef hún vildi ekki fylgja ráðum hennar og eiga Guðmund. Út úr öllu þessu var hún oftlega mjög angurvær og grét í einrúmi, en bar sig þó að láta ekki fleiri menn sjá; því við engan var að tala, er hún gæti trúað fyrir hörmum sínum.

Það var eina nótt sem oftar, að hún gat ekki sofnað fram eftir allri nótt fyrir tómri umhugsun um hagi sína og grét sáran; en nokkru eftir miðnæturbilið sofnaði hún loks út af, og dreymdi hana þá, að hún þóttist vera stödd þar úti á hlaðinu; þar var og móðir hennar hjá henni og hélt á húfu nokkurri gamalli, og þótti henni þó líkara lambhúshettu, og ætlaði móðir hennar að setja hana á höfuðið á Sigríði; en í því bili þótti henni Björg systir sín koma þar að og segja: Ekki veit ég, hvað þú hugsar, Ingveldur sæl, að setja skrattans pottlokið að tarna á höfuðið á barninu! - og sló við hettunni, svo að hún hraut ofan í skyrdall, sem stóð þar skammt frá; en síðan brá hún upp faldi einum fögrum, og þóttist hún vita í svefninum, að hún ætlaði að setja hann á höfuðið á sér, en í því vaknaði hún. Sigríður varð ofurfegin þessum draumi og réð hann eins og henni var geðfelldast, að Guðmundur væri lambhúshettan, en Indriði faldurinn, og þótti henni það eitt vanta í drauminn, að systir hennar lét ekki faldinn á höfuðið á henni. Um þetta var hún að hugsa nokkra stund og gat ekki sofnað aftur; kom henni það þá í hug, að hún læddist upp úr rúminu og klæddist og fór fram í dyraloft, er þar var. Þá var orðið svo ljóst, að vel mátti sjá til að skrifa. Hún tók sér þá penna og blek og skrifaði bréf og var búin að brjóta það og skrifa utan á, áður en heimilisfólkið kom á fætur. Bréf þetta var til Ingibjargar móður Indriða og var svona:


Göfuga höfðingskona!

Að vísu veit ég það, að það er ekki siður, að konur tali að því að fyrra bragði við karlmenn, sem til ásta lýtur eða bónorðs, og líkast er til, að þessi siður sé eðli okkar samkvæmur, því guð hefur búið oss svo úr garði, að ekki þarf orðanna við, til þess að vér með stillingu og siðsemi getum sýnt þeim sál vora, eins og hún er; en hvort sem þessi siður er réttur í sjálfu sér eða ekki, finnst mér, eins og nú stendur á fyrir mér, að hjarta mitt ekki veiti mér neina ró, nema ég opinberi einhverjum það, sem mér býr í brjósti og á hverri stundu pínir mig; og væri ég nær þeim hinum sama manni, sem ég aldrei get látið af að hugsa um, mundi ég ekki skeyta um, hvort menn kalla slíkt reglur eða óreglur, en gjöra það, sem saklaus tilfinning hjarta míns byði mér, og auglýsa honum það, sem í því er leynt, ef hann ekki sjálfur sæi það. En eitthvað, líkast til óhamingja mín, bannar mér að þessu sinni og hefur allt of lengi bannað mér að sjá hann, og hverjum á ég þá að auglýsa það, sem ég get ekki lengur dulið? Ég ræðst í að segja yður það, af því að þér eruð kona eins og ég og verðið því að hafa sál, sem að minnsta kosti getur skilið og ímyndað sér, hvaða tilfinning þeirrar konu hjarta verður að hafa, sem kremst af harmi og efa um það, hvort hennar kærasta hugsun sé eintómur hugarburður og reykur eða ekki; verðið að hafa svo viðkvæmt hjarta, að ef þér sjáið, að hugsun mín er ekki annað en draumur, sem aldrei á sér uppfyllingu, ósk án vonar, að þér aumkið mig og að minnsta kosti ekki kastið því, sem yður er falið á hendur í trúnaði, út í heiminn til að hlæja að því. En þetta, sem ég ætla að trúa yður fyrir, er það, að mig langar til að vita, hvort nokkuð sé til í því, sem ég lengi hef gjört mér í hugarlund, að sonur yðar I.... mundi hafa rennt huga sínum í þá átt, sem mig snertir. Ef svo væri, munduð þér gjöra syni yðar þægt verk og mér sannan velgjörning að komast eftir því og í kyrrþey láta mig vita það hið bráðasta. Sé þetta tómur hugarburður minn, sprottinn af því, að það mæla börn jafnan sem vilja, gjörið þér vel í að vekja mig úr þeirri saklausu vonarleiðslu, sem ég nú er í, því þá ætti ég hægra með að fylla þá skyldu, sem ég veit, að hlýðni við móður mína heimtar af mér. Fyrirgefið mér dirfsku mína, og verið með öllum yðar ævinlega blessaðar! Þess óskar yðar elskandi

Sigríður Bjarnadóttir.


Bréf þetta var skrifað í mesta flýti og, eins og á því má sjá, meira af tilfinningu en eftir föstum hugsunarreglum, eins og konum er títt; hingað og þangað var það sett blekblettum; verður það oft á þess háttar bréfum, því höndin er ekki alltaf jafnstillt, er hjartað kemst við; kalla menn þá bletti ástardropa, og þykja þeir engi lýti vera.

En nú var eftir það, sem mest á reið, og það var að koma bréfinu til Ingibjargar, svo lítið bæri á, og var Sigríður í stökustu vandræðum með það, því engan átti hún þann trúnaðarmann þar á bæ, að hún þyrði að trúa fyrir því. Þenna sama dag kom Gróa á Leiti að Tungu. Ingveldur hafði lagst að sofa um daginn, þá er Gróa kom, og vildi Gróa ekki vekja hana, en tók nú að tala við Sigríði. Sigríður var venju fremur hljóð; og verður Gróa þess brátt vör, og ávarpar hún hana blíðlega og segir:

Það gengur eitthvað að þér í dag, gæskan mín!

Ónei, Gróa mín, segir Sigríður, það er svona hinsegin.

Ekki þarf ég að spyrja að því; það liggur eitthvað illa á þér, því ekki ertu vön að vera svona fálát með öllum jafnaði; en mig skal nú ekki furða það, þó það kynni að liggja illa á þér út úr hansvítis slaðrinu, sem gengur staflaust hérna í sveitinni; því þú munt varla hafa getað komist hjá að heyra það sjálf.

Hvað er það, Gróa mín?

Nú, þú hefur þá ekki heyrt það, elskan mín, hvað það talar um þig?

Nei, ekki hef ég heyrt það; hvað er það?

Og minnstu ekki á það, ég get varla talað um það, ekki nema það að það er verið að bendla þig við þremilinn hann Gvend á Búrfelli.

Hver gjörir það?

Á, það var líklegra, að það væri ekki meiri hæfa fyrir því en mörgu öðru, sem það fer með; en guði sé lof, að það er ekki satt, þar færi illa góður biti í hundskjaft, hafði ég nærri sagt; ég var búin að heita því fyrir mér, að ekki skyldi ég koma í veisluna þína, gæskan mín, ef þú ættir þann kúalubba; en mikið er, hvað bölvað hyskið - guð fyrirgefi mér, að ég blóta - getur logið, ég segi það satt, tilhæfulaust; þetta er altalað út um alla sveit, en ég ber á móti því og segi, að það skuli ekki vera að fara með þetta slaður, því hún Sigríður mín ætti ekki fremur strákinn hann Gvend en strákurinn hann Gvendur færi ofan í mig.

Þetta gat þó vel staðist, sagði Sigríður og stundi við; það mundi þykja nógu gott gjaforð fyrir mig.

Æ, það er von þig hrylli við því, blessaður unginn, að hugsa til þess, hvað þá heldur -

Þetta hefur þó komið til orða, Gróa mín, og er mörgu skrökvað, sem minna er hæft í.

Æ, nú held ég mér verði flökurt, elskan mín, það hefði ég svarið fyrir; og hvað ætlar hann að gjöra með konu, þumbarinn sá! Ég segi fyrir mig, ég vildi heldur sofa hjá einhverjum rekaviðardrumb en honum Gvendi.

Sigríður þagði og gat þó ekki gjört að sér að brosa; en Gróa lét dæluna ganga:

Ég þykist vita, að hún Ingveldur mín hefur fljótt gefið honum góð svör og gegnileg?

Ég veit þó ekki, sagði Sigríður, hvort henni þykir það svo mikið óráð; hann er vel efnaður.

En þó, elskan mín! Hvað hefur konan gagn af því, þegar hún fær ekki að ráða svo miklu sem að gefa hundi bein? Eða ætli hann verði ekki líkur honum Bárði í því eins og öðru? Og hverju réði hún Guðrún heitin veslingurinn þar á Búrfelli? Hún varð að fara stelandi að því, ef hún vildi víkja einhverjum svöngum bita, en af óætu hafði hún ekki svo mikið undir sinni hendi sem vefja má um mannsfingur eða stungið verður upp í nös á ketti. Ekki get ég trúað því, að hún Ingveldur mín sé svo blind að láta barnið sitt í þær hendur; og aldrei hefði það við gengist, ef hann faðir þinn, hann Bjarni minn heitinn blessað ljósið, hefði lifað.

Það held ég nú og, sagði Sigríður.

En það sést nú hérna á mörgu - þó ég eigi ekki að segja annað en það, sem gott er, um hana Ingveldi mína, sauðinn - síðan hann dó, öðlingurinn.

Þetta sagði Gróa hálfkjökrandi og brá um leið svuntuhorninu upp að augunum á sér. Sigríður, er alltaf saknaði föður síns og var jafnan hlýlegt til allra, sem töluðu vel um hann, komst þá við og strauk með hendinni um vangann á Gróu og sagði:

Við skulum ekki minnast á hann, góða mín!

En Gróa hélt áfram kjökrandi og sagði:

Ég get ekki gjört að því, að mér vöknar ætíð um augu, þegar ég minnist á hann blessað ljúfmennið; en það skal ekki verða, þó ég sé í pilsi, að barnið hans Bjarna míns fari í þær hendur; ég verð að taka henni móður þinni tak, svo hún stofni ekki sér eða sínum í þá vitleysu.

Og ekki held ég það sé vert, Gróa mín, að þú minnist neitt á það við hana; en annað lítilræði gætir þú gjört fyrir mig, ef þú vilt mér vel, sagði Sigríður og leit framan í Gróu, eins og hún ætlaði að sjá inn í brjóstið á henni, en gat ekki séð þar annað en einskæra trúmennsku og einlægni.

Þú mátt reiða þig upp á mig, góða mín, því þó aldrei hefðir þú hlynnt neinu góðu að mér, sem þú oft og margfaldlega hefur gjört, þá á hann, sem nú liggur í gröfinni, það að mér, að ég reyndist þér ekki verr en aðrir í því litla, sem ég megna, eða hvað er það, gæskan mín?

Það er að koma bréfinu því arna yfir að Hóli, svo lítið á beri, og taka við svarinu aftur, og hérna er skildingur undir það. - Sigríður rétti þá að henni bréfið og spesíu með.

Það er svo lítið, og sér er nú hver ósköpin! Þú hefur það af einhverjum þínum að vera svo smátæk, elskan mín! Þetta er nú of mikið, sagði Gróa og kyssti Sigríði stundarlöngum kossi.

Ég þarf ekki að minna þig á að geta ekki um það við neinn hérna á heimilinu, Gróa mín.

Ég! óekkí; ekki hún Gróa litla; vertu öldungis óhrædd um það, gæskan mín! Ég er enginn skynskiptingur, og það, sem einu sinni er komið í hendurnar á mér, það skal enginn þaðan draga, þó það væri kóngurinn; og þagað get ég yfir því, sem mér er trúað fyrir, þó ég sé kjöftug; ég held það varði engan um það, þó eitthvað meinleysi sé á millum ykkar Indriða, held ég; en þar er maðurinn.

Í þessu kom Ingveldur inn, og var Gróa fljót að stinga bréfinu á sig og sneri ræðunni allt í einu, eins og þær hefðu verið að tala um eitthvað annað. Gróa dvaldi í Sigríðartungu fram eftir deginum, en þó skemur en hún átti venju til. Sigríður þóttist hafa komið vel ár sinni fyrir borð um bréfsendinguna; en svo liðu margir dagar, að ekkert svar fékk hún frá Ingibjörgu. Loksins kom Gróa aftur fram að Tungu, og spurði Sigríður hana, hvernig farið hefði um bréfið; kvaðst Gróa hafa farið með það daginn eftir og fengið Ingibjörgu það sjálfri í einrúmi; hefði hún lesið það og skellihlegið upp yfir sig og kastað því þar á búrhilluna, rétt eins og hún skeytti ekkert um það; og ekki hefði hún beðið sig að taka aftur neitt svar; sagðist hún þó hafa ámálgað það við hana. Þessar fréttir sagði Gróa Sigríði hálfgrátandi, og hafði Sigríður enga orsök til að efast um, að þær væru sannar; en óhlutvandir menn, sem lögðu það í vana sinn að færa allt á verri veg fyrir Gróu, mæltu það, að hún einhvern tíma löngu síðar hefði átt að sleppa því við góða kunningjakonu sína, að þegar þeir, sem bréf sendu, væru búnir að borga undir þau, gætu þeir ekki gjört að því, hvað síðar yrði um þau.

Eftir þetta virtist Sigríði öll von úti, og gjörðist hún nú jafnan harmþrungin mjög, en móðir hennar hætti ekki að gylla fyrir henni, hve girnilegt það væri að eiga Guðmund; og einn dag, er Sigríður sat fálát mjög fram í stofu, kemur móðir hennar þangað til hennar og klappar henni hálfhlæjandi utan á vangann og segir:

Á ég nú ekki bráðum að fara að skrifa þeim til og segja þeim, að nú sé björninn unninn? Eða er þér ekki farið að sýnast, elskan mín, eins og mér, að vandi sé velboðnu að neita?

Þér ráðið því, móðir mín, hvað þér gjörið; ég veit það, að þér getið ekki eggjað mig á annað en það, sem þér haldið, að mér sé til hins besta; og þó ég ekki geti fellt mig við það, veit ég samt, að það er skylda mín að hlýða yður, sagði Sigríður, og hrutu nokkur tár um leið ofan um kinnarnar á henni.

Það er öll von til þess, og ég get ekki láð þér það, góða mín, sagði Ingveldur og klappaði Sigríði aftur á kinnina, þó þú finnir í fyrstu hjá þér nokkurn efa; en ég er sannfærð um það, að eftir á muntu þakka guði fyrir, að þú lést mig ráða.

Sigríður gat þá ekki bundist tára, en með því að hún vildi ekki láta móður sína sjá, að hún gréti, stóð hún upp og gekk út úr stofunni, og töluðust þær ekki meira við, mæðgurnar; en Ingveldur tók orð Sigríðar fyrir fullt jáyrði og ritaði síðan þeim fóstrum til og sagði, hvar komið var. Komu þeir fóstrar þá fram að Tungu, og festi Ingveldur þá Guðmundi Sigríði dóttur sína. Eftir það kom Guðmundur nokkrum sinnum fram að Tungu; en jafnan var Sigríður mjög fálát við hann, og fékkst Guðmundur ekki um það. Er nú svo ráð fyrir gjört, að brúðkaupið skyldi standa að afliðnum réttum að þeim bæ, er Hvoll heitir; það var annexía prestsins í Sigríðartunguhrepp; þar voru húsakynni stærri og rúmbetri en í Tungu. Síðan fóru lýsingar fram tvo sunnudaga, hvorn eftir annan, og seinna sunnudaginn var lýst á tveimur kirkjum undir eins. Það hafa lögfróðir sagt oss, að ekki sé sú aðferð rétt; aftur höfum vér heyrt greinda presta segja, að svo megi þó vel vera, ef einhver gild ástæða sé til þess að flýta brúðkaupinu; og þannig stóð á að þessu skipti. Hrútar þeir, sem Bárður hafði ætlað til veislunnar, voru komnir af fjallinu, og hafði Bárður hlaupið til að skera þá, svo þeir legðu ekki of mikið af á mörinn, en skotið því að presti, að ef lengi stæði á lýsingunum, gæti svo farið, að farið yrði að slá í kjötið, þegar veislan yrði haldin. Daginn áður en veislan skyldi standa höfðu þeir fóstrar mikið annríki í að koma öllu fyrir. Á Hvoli var stofuhús fram í bænum, þar voru borð reist eftir endilöngu húsinu og bekkir á tvær hliðar. Hér skyldi allt fyrirfólkið sitja; brúðhjónum var ætlað sæti fyrir miðjum gafli, og voru sæti þeirra auðkennileg af tveimur stórum flossessum, sem lagðar voru á bekkinn fyrir miðjum borðsenda. Á aðra hlið brúðar skyldi sóknarprestur og kona hans sitja og út frá honum aðrir aðkomuprestar, þá hreppstjórar og aðrir valinkunnir bændur. Á aðra hlið brúðguma átti Ingveldur að sitja og hver af öðrum eftir skyldugleika og mannvirðingum. Úti á hlaðinu var stór skemma; hún var rudd og tjölduð vaðmálum á báða veggi; þar áttu að sitja hinir smærri bændurnir og meðreiðarmenn fyrirmannanna. Skemman var tvísett borðum og borðin reist á þann hátt, að eftir skemmunni endilangri voru settar kistur í röð og tómar hálftunnur og þar á ofan reft sléttum fjölum eða hurðarflekum og síðan hulið dúkum eða ábreiðum. Þetta var hin óæðri stofan. Vistir og drykkur skyldi vera eins í hvorritveggja stofunni, en sá var aðeins munurinn, að tjöld og borðbúnaður voru glæsilegri í fyrirmannastofunni en í hinni óæðri stofu. Kona var til fengin þar úr sveitinni að annast um matartilbúninginn og frammistöðumenn ákveðnir; en sjálfur ætlaði Bárður að hafa umsjón yfir vínföngunum. Þriðjudaginn í tuttugustu og þriðju viku sumars var allt tilbúið til veislunnar, og skyldi hún standa að morgni; en Bárður karl sat út við bæjarlæk og jós með trésleif vatni á 10 potta tunnu, er stóð hjá honum á lækjarbakkanum; kemur þá Guðmundur þar að og segir:

Hvað ertu nú að gjöra, fóstri minn?

Og ég er að þynna dálítið mjaðarskömmina þá arna; mér sýnist hún vera svo þykk; ég held hún sé svikin!

Nú! Ég hélt hinsegin, að þú værir að drýgja hana ögn, fóstri minn!

Ónei, ég held hún drýgist lítið á þessu, þó ég láti nokkur spónblöð hérna á kútholuna. En er nú allt tilbúið hjá þér í skemmunni, og heldurðu hún taki það allt, sem hérna kemur á morgun?

Og ég veit það ekki, þetta er svoddan sægur, sem búið er að bjóða; ég veit nú ekki, hvað það á að safna að sér öllu því hyski.

Það veit ég ekki heldur, en hún Ingveldur vill hafa það svo, og ég læt hana ráða því, og hún skal fá að borga það, sem til þess gengur; ekki ætla ég að gefa henni það, það máttu reiða þig upp á.

Nei, það sýnist mér ekki þú þurfir, og hvað selur þú henni brennivínspottinn?

Ég læt hana fá hann fyrir sama verð eins og ég hefði getað fengið fyrir hann í vetur; er það ósanngjarnt?

Nei; og mjöðina, hvað tekur þú fyrir hana?

Já, það er nú eftir að mæla hana, það var vel þú minntir mig á það; ég get ekki fært pottinn fram um meira en fjóra skildinga, vænti ég, og ég ætlast til, að það verði 10 pottar hérna á kútnum; - en nú vænti ég, að þú farir að fara fram eftir; þú verður að vera þar í nótt, til þess þið getið fylgst öll hingað á morgun.

Ójá, sagði Guðmundur og fór.

Brúðkaupsdaginn var veður fagurt, og voru menn snemma á fótum á Hvoli. Að liðnum dagmálum tók boðsfólkið að ríða í garð. Á Hvoli var fagurt heimreiðar, og létu þeir hinir ungu menn hestana fara á kostum heim traðirnar; og höfðu menn mikla skemmtun af að horfa á, hvernig gæðingarnir runnu.

Þarna kemur presturinn á rauðum og tveir með, sagði einhver, sem stóð á hlaðinu; allténd hefur hann eitthvað, góði maður, sem fallega ber fótinn.

Bárður stóð fyrir miðjum bæjardyrum og heyrði það, setur nú hönd fyrir auga og segir:

Ójá, það er víst hann á honum Rauð sínum - snýr sér síðan við og kallar hátt inn í bæjardyrnar: Helga mín! hafðu nú til í litla katlinum, nú sést til prestsins! En hver þeysir þarna á ljósum, hérna megin við kvíarnar?

Það getur ekki verið neinn annar en hann Þorsteinn kaupi eða matgoggur, sem sumir kalla; já, líkt er það honum og henni Hlíðar-Ljósku.

Já, ekki er honum boðið, sagði Bárður í hálfum hljóðum, en það stendur ætíð svo á, að hann á þar ferð um, sem veisla er haldin; og ég vænti ég verði að bjóða honnm, fyrst hann á annað borð er kominn; en hvað verður af brúðhjónunum, piltar, sjáið þið ekkert til þeirra enn?

Þau eru rétt að segja komin að túninu.

Þá var nær hádegi en dagmálum, er hjónaefnin riðu í hlað. Guðmundur ætlar ekki að láta standa á sér og stekkur af baki til að taka konuefnið af baki, en laust var á klárnum, og snarast reiðverið út í aðra hliðina, og verður Guðmundi fastur annar fóturinn í ístaðinu, en maðurinn var ekki liðugur, og fellur hann á bak aftur ofan í bleytuna, og flekkuðust nokkuð fötin Guðmundar; hlupu þá nokkrir af þeim, sem þar voru á hlaðinu, til að hjálpa Sigríði af baki; en aðrir gripu til sjálfskeiðinganna og tóku að skafa bleytuna úr brókum Guðmundar, og var ekki ugglaust, að þeir hinir yngri menn hefðu ófarir Guðmundar í flimtingi. Sigríður gekk til stofu, og þóttust menn ekki hafa séð konu fegri yfirlitum eða rösklegri á velli en Sigríði; og töluðu það margir sín á milli, að mikið gæfuleysi legðist fyrir jafnvæna konu að eiga svo óliðlegan mann sem Guðmundur var. Sigríður var mjög fálát um daginn, og tók enginn til þess; brúðkaupsdagurinn er svo mikilvægur dagur á mannsævinni, að eftir líkindum þykir fara, þó nokkur alvörusvipur sé á brúðinni. Er nú gengið í kirkju og undan vígslu sunginn 309. sálmurinn í Nýju bókinni, og þegar komið er í seinasta versið, leiðir djákninn brúðhjónin til bekkjar; en að því búnu tekur prestur að þylja vígsluræðuna, og hafði hann tekið sér til umtalsefnis: "Efndanna er vant, þó heitin sé góð!" Ekki þóttust menn vita þess nokkur dæmi, að heilagur andi hefði nokkurn tíma áður talað með þvílíkum krafti og áhrifum fyrir munn þjónustumanns síns, Tómasar prests; öll framkirkjan að norðanverðu flaut í tárum; í kórnum var þurrt og framkirkjunni sunnanverðri, en þó var þar margur hraustur drengur, sem hitnaði um hjarta. Sigríður sat með samanlagðar hendur á brúðarbekknum, og virtist mönnum hún harla föl útlitum og áhyggjumikil; en af Guðmundi datt ekki né draup; ekki táraðist hann, en endur og sinnum sáu menn varir hans bærast, en fingur kvika; þeir, sem þekktu lundarfar Guðmundar, gátu þess síðar til, að fremur mundi honum hafa það skipti flogið í hug að telja saman jarðarhundruð Sigríðar og landskuldavættir en að hann væri að hugfesta það, sem prestur sagði um kristilegt hjúskaparhald. Að lokinni ræðu tekur prestur, eins og vant er, að spyrja brúðhjónin lögspurninga þeirra, sem standa í handbókinni. Guðmundur svaraði þeim öllum vel og einarðlega, enda er það lítill vandi að svara þeim rétt; því reglan er sú að segja allajafna já til hvers, sem að er spurt. Að svo búnu snýr prestur sér til brúðarinnar og segir:

Sömuleiðis aðspyr ég yður, virðulega yngisstúlka jómfrú Sigríður Bjarnadóttir, hvort þér hafið ráðfært yður við guð í himninum, þar næst við yðar eigið hjartalag og svo þar eftir við náunga yðar og vini að taka þennan virðulega yngismann, monsér Guðmund Hansson, sem hjá yður stendur, yður til ektamanns?

Þessari spurningu játti Sigríður og þó nokkuð lágt.

Þá spyr prestur hana í annað sinn, og játti Sigríður enn.

Í þriðja máta aðspyr ég yður, hvort þér vitið yður fría fyrir að bafa gefið nokkurri mannspersónu, sem nú lifir, yðar ektatrú, sem þetta hjónaband hindra kunni?

Þá var eins og Sigríður allt í einu vaknaði af svefni. Nei, segir hún og svo hátt, að nær því heyrðist um alla kirkjuna. Prestur var óvanur slíkum svörum og varð nokkuð bilt við. Allir urðu öldungis forviða. Djákninn var maður forn og fastur í embættisverkunum; hann hugsaði með sér eins og segir í málshættinum: Slíkt verður oft á sæ, kvað selur, var skotinn í auga - stúlkunni hefði orðið mismælt, en ætti þó leiðrétting orða sinna; hann sat ekki langt frá Sigríði og hnippar í hana með handleggnum og segir: Segið þér já, blessuð! - Sigríður þagði eins og steinn og hallaði sér á bak aftur upp að hjónastólsbríkinni; en prestur rankar við sér aftur og hefur nú upp aftur hátt og skýrt sömu orðin sem fyrr. Sigríður þagði. Prestur starir á hana um hríð, snýr sér síðan til fólksins og segir: Hinn kristlegi söfnuður hefur heyrt, að brúðurin, jómfrú Sigríður Bjarnadóttir, hefur neitað spurningum kirkjunnar; rítúalið leyfir mér ekki að halda lengra út í það, piltar! Getur og verið, að stúlkunni hafi orðið snögglega illt. - Eftir það gengur prestur út úr kirkjunni; en allir þyrpast í eina bendu utan að Sigríði, en hún er náföl og talar ekki orð; halda flestir hana mállausa eða vitfirrta eða hvorttveggja, og er hún studd inn í bæinn, og stumra menn þar yfir henni um hríð. Boðsmenn sáu það á öllum lotum, að ekki mundi verða neitt úr veislunni þann dag, og fóru smátt og smátt að tínast í burtu, þegar á daginn leið. Sigríður komst um kvöldið fram að Tungu; og urðu menn þess nú varir, að hún var hvorki mállaus eða vitskert, en aftók nú með öllu að setjast í annað sinn á brúðarbekkinn hjá Guðmundi; og flýgur þessi atburður um öll héruð, og var álit manna allmisjafnt; sögðu sumir, að þetta væri orðið mjög að líkindum og væri betur seint séð en aldrei; hinir voru þó fleiri, er lýttu Sigríði fyrir og töldu þess öll líkindi, að þessi atburður hefði ekki verið að öllu tilviljun; en Þorsteinn matgoggur lagði aldrei annað til þeirra mála en að hann fór að kjammsa með munninum og sagði: Hver ætli hafi þá étið alla steikina þar? Það kemur allténd vatnið fram í munninn á mér, þegar ég hugsa um hana. - Margir eggjuðu þá fóstra að höfða sök á hendur þeim mæðgum og töldu, að ekki hefði allt verið brigðalaust af þeirra hendi; þó fórst það fyrir, og varð sá endir málanna, að þær mæðgur hétu að gjalda Guðmundi 6 ær loðnar og lembdar í fardögum auk veislukostnaðarins, og létu þeir fóstrar sér það lynda úr því, sem komið var. Ekki sýndi Ingveldur Sigríði miklar ástir um þetta leyti, og var við sjálft búið, að Sigríður yrði að hrökkva burt frá Tungu; þó bar Sigríður þetta mótlæti með stillingu, en var heldur óglöð og fálát; og leið svo fram veturinn. -

*

Þenna sama vetur var Ormur Bjarnason bróðir Sigríðar efstur í neðri bekk í Bessastaðaskóla; átti sæti í borðstofu í króknum við Brúnku á óæðrabekk og var í fati og kúpu með efribekkjar stórmennum; og var það eitt af réttindum Skrælingjakonungs, sem mest kvað að, fyrir því að þar voru vistir betri og mjólk minna blandin en þegar aftur eftir Brúnku sótti. Í skóla sat Ormur jafnan fyrir ofan litla borðið næst ofni; það sæti hafði hann sjálfur tekið sér, og báru margir hlutir til þess, en sá einkum, að þar var vígi gott og betra fyrir einn að verjast en þrjá að sækja, en land Skrælingja herskátt mjög um þær mundir. Ekki hafði Ormur neinar kvaðir af hendi kennaranna, og ekki hafði hann önnur stjórnarstörf í ríki sínu en herstjórn; var hann og hinn mesti fullhugi og reyndur í orustum. - Það var einn dag skömmu eftir miðjan vetur, að Ormur sat í sæti sínu og var að rita latínu í bók þá, er kompa heitir; ekki voru þar fleiri piltar í skólanum, því þeir voru að snæðing en Ormur hafði því ekki gengið til borðunar, að óvinurinn Sparta var á borðum. Raunar þótti það ósiður að ganga ekki til borðunar, og flestir voru svo leiðitamir að ganga í borðstofu og að minnsta kosti gína yfir kjötbollunum, þó þeir ætu ekki. Sumum gekk ekki góðmennskan ein til, heldur hitt, að þeir annaðhvort vildu vera öllum þóknanlegir, sem hlut áttu að Spörtu, eður og að þeir hugðu, að kennarinn, sem stóð yfir piltakindunum, mundi koma auga á sæti þeirra og rita það í minnisblöðin, að þeir kæmu ekki til borðunar. En Ormur skeytti lítið um þess konar hégiljur og hugsaði með sér: Riti þeir í guðs nafni, blessaðir, allt jafnar sig. Ormur hafði alltaf nógan starfa, þegar piltar voru inni, og því varð hann að nota þann tímann, sem nokkur kyrrð var á, til að bóka latínuna, ella mundi kompa hans síðbúin, þegar þjónustusveinn kennarans tók að heimta saman kompurnar. En kyrrðin varð ekki löng; allt í einu heyrast sköll og glumragangur, sem þá er margir lausir hestar eru reknir hart yfir stórgrýti; þá voru piltar að hlaupa út úr borðstofu sinn í hverja átt; og í sama vetfangi var skólahurðinni svipt upp, en maður hvatlegur hleypur inn; sá hét Vigfús og var Oddsson. Hann átti oft sökótt við Orm, og sama morguninn hafði Ormur í miðjum tíma beðið um útgönguleyfi, en þó ekki átt brýnt erindi. Vigfús sat fremstur fyrir framan stóra borðið, og rétt í því Ormur gekk út, en kennarinn sagði við Vigfús: Taktu þarna við, seqvens - lagði Ormur þvílíkan pústur utan á vangann á Vigfúsi, að enginn þóttist áður slíkan heyrt hafa, og tók undir í öllum skólanum. Ormur skrapp út; en svo var snoppungurinn laglega réttur að Vigfúsi, að fáir gátu séð með vissu, hvaðan hann kom. Vigfúsi varð ógreitt um lesturinn og ruglaðist í að snúa latínunni, því hann varð heitur við tilræðið og missti sín. Þetta var Vigfúsi ekki úr minni liðið og segir nú, í því hann kemur inn í skólann: Nú skal minnast forns fjandskapar og gjalda þér kinnhestinn þann í morgun - og tvíhendir í sama bili gamlan Kleyfsa og miðar á nasirnar á Ormi, en missir hans, og kemur Kleyfsi í blekbyttu þar á borðinu, og veltur hún yfir kompu Orms. Ormur hugsar sig ekki lengi um og snarast eins og kólfi væri skotið fram yfir borðið, hleypur að Vigfúsi og vill hafa hann undir. Verður þeirra aðgangur bæði harður og langur, en svo lauk um síðir, að Vigfús getur brotið Orm á bak aftur um skólabekkinn, grípur síðan tveim höndum um hnésbætur honum og dregur hann undir sig niður á gólfið. Tekur þá Ormur að emja og heitir á Skrælingja að þeir dugi sér og dragi illmenni það ofan af sér, en ekki var Ormur svo vinsæll meðal þeirra Neðribekkjarmanna, að nokkur vildi þá til verða að veita honum; en betur var hann þokkaður hjá Efribekkingum; og vill þá svo heppilega til, að einn þeirra, sem Þórarinn hét, kemur þar að, sem þeir lékust við.

Nauðulega ert þú nú staddur, Ormur frændi! segir hann, og með því þú hálfvegis hefur heitið mér Sigríði systur þinni, þá mun það ómannlegt að duga þér ekki.

Hún er gift dóna fyrir austan, gall einhver við af Neðribekkingum.

Þá er að snúa hann úr hálsliðnum, sagði Þórarinn og þrífur annarri hendi til Vigfúsar og hnykkir honum aftur á bak ofan af Ormi. Þetta sjá vinir Vigfúsar og ráðast þegar fjórir eða fimm á Þórarin, en hann verst með hinni mestu prýði; og verður þetta upphaf hinnar snörpustu orustu; þustu þar að bæði Efri- og Neðribekkingar, og veittu ýmsir ýmsum, en Efribekkingar þó mest Þórarni og Neðribekkingar Vigfúsi, og varð sú hríð bæði löng og skæð, og urðu þá margir atburðir jafnsnemma, og verður ekki greinilega sagt frá vopnaviðskiptum. Skólabækur flugu þá sem þykkasta drífa, heilar eða í pörtum; sumir tóku bekki og hófu í höfuð mönnum; sumir stukku upp á borðin og börðust þaðan; þá tóku nokkrir Litlaborðið, sneru því við og hlupu síðan ofan í hólfið og hlífðu sér þar fyrir skotum; en blöndukannan hin mikla valt þar á vígvellinum, og féllu úr henni lækir um allt gólfið. Neðribekkingar vildu færa leikinn upp í Efribekk, og hlupu þá fjórir hinir hraustustu af EfribekkinÐum fyrir dyrnar og vörðu þeim það. Umsjónarmaður skóla var upp í Amtmannssonarlofti er honum bárust þau tíðindi, að allur skóli berjist, svo til mikilla vandræða horfi. Hann bregður skjótt við og aflar sér liðs og gengur á milli þeirra, og fyrir viturlegar fortölur hans voru grið sett og sættum á komið; skyldu áverkar allir niður falla og svo klæðaspjöll. Þar var nýsveinn einn, sem Þórir hét; hann var stór maður og sterkur og hafði verið í liði þeirra Neðribekkinga í bardaganum og gengið vel fram. Ekki vildu Efribekkingar taka sættum, nema hann fengi nokkra ráðningu; þótti þeim ekki sæma, að busi sá sýndi sig beran að fjandskap við gamla og göfuga Efribekkinga; ekki þótti Neðribekkingum það rétt, en þó varð nú svo að vera, og áskildi Ormur sér að bera hönd að höfði honum. Er nú Þórir leiddur fram á mitt gólf, skjálfandi sem laufblað í skógi; en forsöngvarinn þrífur rifrildi af Skrifilíus, sem þar var að flækjast á gólfinu eftir bardagann, og segir: Sálmurinn er að venju 101. í bókinni: Þá Ísraelslýður einkafríður af Egiptó. - En í sama bili sem menn ætluðu að byrja sálminn, kemur einn af piltum hlaupandi inn og segir, að þar sé úti maður með bréf og vilji fá fljótt að tala við Orm.

Þá verð ég að fela þér á hendur, Þórarinn frændi, að styðja að höfðinu á busanum fyrir mig; en það getur verið, að hér sé komið bréf að austan og sendimaður frá henni móður minni; hann getur sagt henni frá, hvað ég sé vel á vegi staddur með hversdagsfötin, sagði Ormur og hljóp út og dró eftir sér aðra buxnaskálmina, sem nærri því var rifin af lítið fyrir neðan hnésbótina.

Ormur kennir brátt manninn, og eru þar komin tvö bréf að austan úr Sigríðartungu, og sest Ormur inn í borðstofu og tekur að lesa þau. Annað bréfið var frá móður hans, en hitt frá Sigríði systur hans. Bréfi móður hans fylgdu tvennir sokkar og nýsaumaðar vaðmálsbuxur, og þótti honum þær koma í góðar þarfir. Bréf Sigríðar systur hans var þannig:


Kæri bróðir!

Ég skrifa þér þenna miða í mesta flýti með manni, sem suður fer héðan úr sveitinni, og er það efnið að biðja þig að koma mér fyrir einhvers staðar þar syðra í góðum samastað; því nú er svo kamið, að mig langar til að komast sem fyrst héðan úr sveitinni; og með því að þú oft hefur talið mér trú um það, hvað skemmtilegt sé á Suðurlandi tek ég nú þetta ráð úr óyndisúrræðum og vona það, að þú reynist mér sem góður bróðir. Síðan hann faðir okkar dó, hef ég engan, sem ég get treyst, nema þig; og þó að þú sért nokkuð unggæðislegur enn, þekki ég það samt, að þú ert raungóður. Hér hefur borið svo margt og mikið til tíðinda, síðan þú fórst í haust, að fádæmum þykir sæta; en ekki ætla ég að segja þér frá því, fyrr en við finnumst, enda held ég, að nógir aðrir verði til þess að skrifa þér ávæning um það. Vertu blessaður og sæll!

Þess óskar þín elskandi systir

Sigríður Bjarnadóttir.


Ormur varð venju fremur hljóður við bréf systur sinnar; sat hann þá nokkra stund og studdist fram á borðið með hönd undir kinn. Í þessum svifum kemur Þórarinn vinur hans þar að og sér brátt, að Ormur býr yfir einhverju; hann kastar þá glaðlega orðum á Orm og segir:

Hvað gengur að þér, lagsmaður? Mér sýnist þú vera daufur, allt eins og þú hefðir fengið bréf frá henni móður þinni og hún hefði húðsneypt þig fyrir leti, slark og hirðuleysi.

Þú heldur sem sé, sagði Ormur, að það mundi koma út á mér tárunum? Ég segi þér satt, annaðhvort læsi ég ekki þess háttar bréf, eða ef ég á annað borð læsi þau, mundi ég leggja höndina á brjóstið og segja með sálmaskáldinu: Hvar samviskan er glöð og góð. En það er öðru nær en ég fái þess konar bréf frá henni mömmu, enda get ég ekki skilið í öðru en að hún megi vera ánægð með mig; um siðferðið vita allir, hversu heiðarlegt það er, og iðnina og ástundunina geta allir séð af því, að ég er þó alltaf að færast upp á við.

Þeir verða hærri í lofti, sem hlaðið er undir, og svo er um þig, lagsmaður! Það koma ætíð einhverjir nýir á haustin, sem ýta þér upp á við, en ekki hefur þú hingað til lyft þér hátt sjálfur.

Ég hef átt við ramman reip að draga, lagsmaður, þar sem mér alltaf hefur verið að förla með gáfurnar, síðan ég kom í skóla; haustið, sem ég kom hingað og settist efstur af busunum, var ég ágætlega gáfaður, en síðan hrapaði ég um miðjan veturinn og skemmdi svo í mér gáfurnar, að þær hafa aldrei náð sér aftur; lengi varð ég að láta mér lynda að vera sæmilega gáfaður, og nú er ég fyrst ögn farinn að rétta við aftur, og er það ef til vill meira að þakka sætinu, sem ég sit í, en sjálfum mér, því nú trúi ég, að ég sé orðinn vel gáfaður.

Nú, þá máttu vera ánægður, sýnist mér, sagði Þórarinn.

Nei, til þess, sem ég á nú að gjöra og úr að ráða, finnst mér þurfa meira en að vera vel gáfaður.

Hvaða vandaverk er það?

Ekki annað en það að útvega henni Sigríði systur minni góðan samastað einhvers staðar í Reykjavík.

Er hún skilin við manninn?

Nei, það er saga að segja frá því; hún sagði skilið við mannsefnið, og nú skilst mér, að svo liggi í því, að hún eigi varla vært þar eystra út úr öllu klórinu, og af því verð ég að drekka; vandanum er hrundið á mig.

Mér sýnist vandinn ekki stór; viljir þú ekki láta hana fara til hennar maddömu Ó., þá komdu henni fyrir hjá henni maddömu Á.; og ég skal, ef þú vilt, leiða það í tal við hana.

Ormur spurði þá, hvort Sigríði væri þar gott að vera, en Þórarinn játti því og kvaðst þekkja maddömu Á. að góðu; og hvort er þeir ræddu þetta mál lengur eða skemur, þá varð það, að Þórarinn tókst það á hendur að útvega vistina hjá maddömu Á., og varð það með því skilyrði, að Sigríður skyldi hafa meira frjálsræði en griðkonur eru vanar að hafa og ekki ganga í slitvinnu, heldur vera húsmóður til aðstoðar í allri innanhússþjónustu; en ekki skyldi hún hafa þar kaup.

Nú er skjótt yfir sögu að fara, að Sigríður fór til Reykjavíkur um vorið. Maddama Á. var íslensk að ætt og uppruna; hún var væn kona yfirlitum og þá á besta aldri; bóndi hennar var verslunarmaður í Reykjavík; hann var danskur maður og nær því fertugur að aldri. Hann hafði komið út hingað með kaupmanni nokkrum dönskum, er vendi aftur til Danmerkur eftir nokkur ár, en setti Á. sem trúnaðarmann sinn fyrir verslunina; var hann þá ókvæntur um hríð, og græddist honum brátt fé; en um þær mundir voru kaupmenn í Reykjavík ekki mjög samlyndir og því síður hver öðrum hollir afheyris, og rægði einhver af þeim hann svo við lánardrottin sinn, að hann setti hann frá ráðsmennskunni; en Á. lét þá gjöra sér hús rétt við hliðina á honum og tók að versla fyrir sjálfan sig. Þá þótti Þóra, er síðar varð kona hans, einhver hin laglegasta kona þar í Víkinni, og réði hann hana til sín, en gjörði skömmu síðar brúðkaup til hennar. Vinir hans álösuðu honum fyrir það, að hann hefði ekki leitað sér ríkara og göfugra kvonfangs; en hann lét sem hann heyrði það ekki og svaraði sjaldan öðru en því: Hvað átti ég þá að gjöra? - eða: Hvað munduð þið hafa gjört í mínum sporum? Enda þarf ég ekki að iðrast þess - og var það sannmæli, því Þóra var fríð kona og vel að sér um marga hluti; en aftur var það ekki að furða, þó vinum hans virtist þessi ráðahagur smávaxinn. Reykjavík samdi sig mjög um þær mundir að siðum Dana og "annarra stórmakta", þar sem lendir menn gengu sjaldan að eiga dætur ótiginna manna. Á Íslandi hafa aldrei vaxið upp greifar eða barúnar af innlendum rótum, og hvaðan áttu menn þá að fá þá nema þaðan, sem flest annað ágæti kom? Þeir, sem sakir jarðnæðisleysis gátu ekki orðið jarlar í Danmörku, en sendir voru til Íslands að vega saltfisk, stika léreft og mæla brennivín, þóttu ágætir barúnar, er þeir komu til Reykjavíkur, og sögðu menn, að ekki mundu kvistir verri en aðaltré. Af þessu kom það, að það þótti lítið jafnræði, að danskur kaupmaður gengi að eiga íslenska bóndadóttur. Einkum gátu hinar tiginbornu barúnafrúr lengi ekki gleymt því eður brotið svo odd af oflæti sínu að taka Þóru til jafnrar virðingar við sig; en maddama Á. gaf sig lítið að því; hún sinnti búi sínu og börnum, átti fáar vinkonur, en góðar, og vandi ekki komur sínar þangað, er hún vissi, að hún var ekki jafnt metin þeim, sem fyrir voru.

Það má nærri geta, að Sigríði varð í fyrstu margt nýstárlegt þar, sem hún nú var komin; siðir og búnaðarhættir voru þar allir aðrir en þar, sem hún hafði verið áður. Hún var svo vel viti borin, að hún fann fljótt, að margt varð hún að nema það, sem hún hafði ekki áður numið, en vera varð og betur fór að kunna; sagði og maddama Þóra henni til með alúð og hvatti hana til þess, sem henni þótti Sigríði vel sæma. Tvennt var það, sem Sigríði virtist engin nauðsyn til bera, að hún breytti, og ásetti sér jafnan að varðveita, en það var málið og klæðabúningurinn. Danska tungu hafði hún að sönnu lært af Ormi bróður sínum, og skildi hún hana allvel; en aldrei hafði hún mælt á það mál, og þótti henni betra að tala það óbjagað, sem hún kunni, en rammbjagaða dönsku; annars var þar í húsi, eins og hvervetna annars staðar í Reykjavík, danska og íslenska í svörnu fóstbræðralagi, og enginn maður nema Sigríður ein mælti þar svo orð einu atkvæði lengra, að ekki væri annaðhvort með dönskum hala eða höfði, en að öðru leyti íslenskt. Danskan hafði í Reykjavík það einkaleyfi fram yfir íslenskuna, að best þótti fara á því að kenna börnunum hana fyrri en íslenskuna; ella, sögðu menn, gæti aldrei orðið lag á errinu; á efra aldri tækist mönnum sjaldan að þröngva því svo niður í kverkarnar sem vera ætti, og því væri eina ráðið að byrja nógu snemma á því. Þetta er upphaf Reykjavíkurerrsins, sem um þær mundir auðkenndi marga Reykjavíkurbúa, hvar sem þeir komu fram í veröldu, eins og málið Galileumenn á Gyðingalandi. Kvenbúnaðurinn í Reykjavík virtist Sigríði svo hjákátlega lagaður, að hún vissi ekki, að hverju sniði hún helst skyldi semja sig, ef hún breytti því, sem hún hafði. Sumar voru þar hádanskar frá hvirfli til ilja, og þótti henni það vel sæma þeim, sem danskar voru. Aftur voru aðrar danskar að ofan til og niður að miðju, en íslenskar úr því, eða þá svo fornar að ofan sem efri hlutinn væri frá Sturlungatíð, en neðri parturinn svo nýgjörvingslegur sem hann hefði verið nýtekinn út úr glysmangarabúð í Kaupmannahöfn. Sigríður hélt því uppteknum hætti með búnaðinn, að hún var hversdagslega á peysu og pilsi, með bláa skotthúfu á höfði, sem fór henni fata best; en skrautklæði hennar voru treyjuföt vönduð, sem systir hennar hafði gefið henni. En þótt að Sigríði yrði nú margt nýstárlegt í kaupstaðnum, þá var það ekki síður, að kaupstaðarlýðnum yrði starsýnt á hana. Í litlum bæ, sem Reykjavík þá var, eru það ekki alllítil tíðindi, þegar nýr innbúi tekur sér þar bólfestu, hvort sem hann heldur kemur frá útlöndum eða úr sveitinni; það eru meiri tíðindi, ef hann er kvenmaður, en stórtíðindi má það kalla, ef hinn nýkomni kvenmaður er afbragðs fríður, því þá er eins og þar stendur, "Allra augu vona til þín".

Þó var það einkum þeim sveinum bæjarins, sem þótti koma Sigríðar mestum tíðinum sæta; kvenþjóðinni þótti að sönnu ofur mikið gaman að því að skoða hana í krók og í kring og stinga svo saman nefjum um hitt og þetta og gjöra athugasemdir um það, sem ábóta væri vant, án þess að þeim þætti mikill fagnaðarauki í henni; öðruvísi var háttað um hina ungu mennina; þeir vissu, að þar var, ef til vildi, einum steini meira en áður til skjóls og athvarfs. Hinn fyrsta hálfan mánuð, sem Sigríður var í Víkinni, mátti svo að orði komast, að ekki gengju svo eða sætu tveir saman, að annar hvor ekki vekti þannig máls: Segðu mér, lagsmaður, hvaða stúlka er það, sem nýlega er komin þar í húsið hjá henni maddömu Á., meðallagi há, þrekleg og hnellin, ljóshærð og lagleg, með efnileg augu og hefur íslenska búninginn, en kemur, held ég, aldrei út?

Það var og dagsanna, að Sigríður gjörði ekki margförult þar um Víkina og fór sjaldan út nema að erindum, enda átti hún þar enga kunningja nema þá, sem voru þar í húsinu, og einna helst stúlku eina, sem Guðrún hét og var Gísladóttir. Guðrún þessi var eitthvað í ætt við maddömu Á. og þó ekki nákomin; faðir hennar bjó upp á Kjalarnesi og var kallaður bjargálnamaður. Guðrún þótti vera tilhaldsrófa, og undi hún ekki í föðurgarði; og með því að hún var lagvirk til handanna, þótti henni það betri atvinnuvegur að ráðast til Reykjavíkur en að vinna að heyi eða tóvinnu heima. Sat hún þar við sauma og tók vinnu af konum þar í Víkinni, en saumaði þess á millum föt fyrir þá Bessastaðasveina og hafði jafnan nóg að starfa, er lítið var um klæðasmiði. Maddama Á. léði henni húsnæði, og hafði hún loftherbergi eitt lítið, en sat oftast um daga niðri hjá frændkonu sinni. Hún hafði nokkrum sinnum verið í giftingabralli, sem ekki gat lánast, en nú virtist svo sem hún hefði snúið huga sínum frá þess háttar efnum og léti nú flakka lausu við um hríð, þar til betur byrjaði, enda var allur dagur til stefnu fyrir henni, er hún naumast hafði enn náð tvítugsaldrinum. Guðrún var kona vænleg, nokkuð há vexti og réttvaxin, herðabreið eftir hæð, mittismjó og útlimafögur, andlitið fremur langt en breitt, munnurinn lítill og nefið rétt, en tennurnar svo hvítar sem skírt silfur væri. Hún var ekki rjóð í andliti eða þykkleit, en kinnarnar þó sléttar og hörundsliturinn hreinn og hörundið smágjört; hún var hárfögur, en hárið þó ekki mikið; augun voru svört og smá og svo tindrandi sem í hrafntinnu sæi. Hún var hæglát hversdagslega og skemmtin, og þó að hún hefði ekki notið neinnar framúrskarandi uppfræðingar í uppvexti sínum, þá var hún þó allvel að sér og kunni vel að haga orðum sínum, hver sem í hlut átti. Vel var maddama Á. til hennar, en líkaði þó ekki í öllu við hana. Brátt tókst góð vinátta með þeim Guðrúnu og Sigríði; var það bæði, að Sigríður átti ekki völ að sinni á öðrum vinkonum, enda var Guðrún hvern daginn öðrum betri við hana og vildi ekki sitja eða standa öðruvísi en Sigríði mætti best líka, og ekki mátti Guðrún neitt fara svo, að Sigríður væri ekki með. Maddömu Á. líkaði það vel, að kært var með þeim Guðrúnu og Sigríði, en segir þó einhvern tíma einslega við Sigríði:

Ef þú vilt mínum ráðum fylgja, Sigríður mín, þá ræð ég þér til þess, að þú festir aldregi svo fasta vináttu við nokkurn mann, að þú treystir ekki betur skynsemi þinni og aðgætni en þeirra ráðum, einkum á ókenndum stað, og skal lengi manninn reyna; og segi ég þetta ekki í því skyni að spilla þér við nokkurn, heldur til þess, að þú hafir jafnan varúð þína vakandi.

Sigríður þakkar henni fyrir einlægni sína og kvaðst hennar ráðum fylgja vilja. Hélst nú vinfengi þeirra Guðrúnar engu að síður.

Það var einn dag snemma um sumarið, að Guðrún kom að máli við Sigríði og segir:

Viltu ekki, Sigríður mín, koma í dag dálítið út með mér? Mér er í hug að fara að skoða varninginn hjá þeim kaupmönnunum; skipin eru flestöll komin, og senn byrja lestirnar; maður verður að flýta sér að taka það, sem maður ætlar og nýtilegt er, áður en það er allt saman hrifsað upp og kauptíðin byrjar, því þá er friðurinn úti; en nú er fátt um þessa dagana.

Það líst mér vel á, sagði Sigríður, ég hef ekkert nauðsynlegt að gjöra í dag.

Þá fer ég snöggvast upp að laga mig dálítið til, og vertu þá tilbúin, er ég kem aftur.

Þessu játti Sigríður, og fór Guðrún að búa sig, en kom síðan aftur að lítilli stundu liðinni, og var þá Sigríður ferðbúin. Á leiðinni víkur Guðrún sér að Sigríði og segir:

Eitt verð ég að segja þér, góða mín, af því þú ert ókunnug hérna í Víkinni og nýkomin úr sveitinni, þú verður að afklæðast hinum gamla manninum og vera ekki svo þyrrkingsleg eins og þér hættir við stundum, þegar þú kemur í búðirnar; við kaupmennina kemur það sér vel að vera heldur glöð í bragði og gefa þeim undir fótinn; það er saklaust.

Þeir munu sjá um sig samt, vænti ég, sagði Sigríður, að gefa ekki of góð kaupin.

Ef ekki níðist neitt úr þeim með því mótinu, þá fæst það ekki með hinu verra; ég er farin að þekkja á þeim lagið, góða mín! Húða þeim út í öðru orðinu og láta eins og maður finni allt að öllu, en fleða þá í öðru orðinu, það er aðferðin, ef maður á að hafa eitthvað gagn af þeim.

Maður getur þó ekki verið að tala þvert um huga sinn, sagði Sigríður.

Ójú, saklaust er það, Sigríður mín; þú ert barn í lögum enn þá, heyri ég, en bráðum munt þú verða betur að þér, ef þú verður hér lengi, og svona var ég fyrst; en hér skulum við þá byrja.

Þær fóru nú lengi dags úr einni búð í aðra og skoðuðu varninginn. Guðrún fór að öllu sem kunnuglegast, óð inn fyrir borð í hverri búð, reif niður úr hillunum og skoðaði; stundum fann hún sitt að hverju og öllu nokkuð; aftur, þegar henni þótti svo við eiga, gjörði hún langar og snjallar lofræður og lét aldrei munninn standa við.

Fátt ætlar okkur að fénast í dag, sagði Guðrún, í því hún sté út úr einhverri búð, sem þær höfðu dvalið í um stund. Þessu laumaði þó skinnið að mér, það eru gild tvö lóð af góðum silkitvinna.

Ekki sá ég það, sagði Sigríður.

Það var ekki von, að þú sæir það, því hann húsbóndi hans, sem augun hefur alls staðar, sá það ekki heldur.

Gaf hann þér það?

Og ekki hugsa ég hann skrifi það í bókina; hann er greiðugur, garmurinn, ef hann ætti nokkuð; en þetta á ekkert nema það, sem hann - og nú förum við í búðina hans Möllers, það hefur lengi verið féþúfan mín.

Möller sá, er átti búð þessa, var maður danskur og fór á milli landa, átti aðsetur í Kaupmannahöfn, en var hér á sumrum. Hann var ungur maður og fríður maður. Viðsjáll þótti bændum hann í kaupum, og sjaldan hafði hann mikið af nauðsynjavörum, en jafnan hafði hann nægtir af klútum og öðrum óþarfa og sá ávallt svo um, að hann hefði það, sem aðrir höfðu ekki af þess háttar, og því varð sjaldan snúið sér í búð hans fyrir kvenfólki. Þá er þær Sigríður komu þar í búðina, hittist svo á, að þar voru engir nema kaupmaður og búðarmaður hans, er Kristján hét, og nokkrir róðrarmenn sunnan af Álftanesi, er vöktu þar yfir, hvort ekki mætti hlotnast dálítið í staupinu. En er þær komu inn í búðina, segir Guðrún við Sigríði:

Nú er illt, að þú kannt ekki dálítið að snakka dönskuna, því Möller kann betur við það.

Já, ekki held ég læri það í dag, sagði Sigríður.

Þú getur þó allténd sagt, "gú moren", góðan mín! Það er betra en ekkert að byrja með.

Í því þær gengu inn eftir búðinni, sagði Guðrún:

Hérna skaltu sjá klúta og glingur, góða mín, sem er nokkuð öðruvísi en hjá hinum bjánunum.

Þetta sagði Guðrún nokkurn veginn hátt, og var auðheyrt, að hana gilti einu, þó það heyrðist. Kaupmaður Möller var að grúfa ofan í búðarbók sína, er þær komu inn; en er hann heyrir meyjarraustina fram í búðinni, lítur hann upp og gengur á móti þeim og biður þær koma heilar - eða hver er þessi fallega stúlka, sem þér nú færið mér, jómfrú góð? segir hann við Guðrúnu.

Á, þekkið þér hana ekki? Hún er þó búin að vera hérna í Víkinni meir en tvo mánuði; hún heitir jómfrú Sigríður Bjarnadóttir og kom í vor að austan til hennar maddömu Á.

Ég hef heyrt þess getið, að þangað væri komin einhver falleg stúlka, en ég hef aldrei haft þá ánægju að sjá hana fyrri; maður er svo sokkinn niður í þetta búðarvastur, að maður fær ekki einu sinni tíma til að kynna sér, hverju fjölgað hefur hérna í Víkinni, síðan ég fór í fyrra.

En nú er að gjöra vel við gesti sína og tilvonandi skiptavini.

Það er ekki orðamál, sagði kaupmaður, og allt er nú til, vona ég, og gjörið þið svo vel að koma inn fyrir og sjá það, sem ég hef; Kristján, sæktu okkur eina flösku af víni, ég verð að drekka velkomandaminni gestanna og tilvonandi skiptavina; gjörið þið svo vel að koma inn fyrir.

Þær stöllur gengu inn fyrir borðið; skenkti kaupmaður þeim fyrst sitt staup af víni hvorri; en eftir það fóru þær að blaða í klútunum, og var kaupmaður ofur stimamjúkur við þær; var það auðséð, að honum fannst mikið um Sigríði, en var þó allt fátalaðri við hana en Guðrúnu; og er þær höfðu skoðað klútana um hríð, segir Guðrún:

Ekki þykir mér klútarnir hjá yður núna eins fallegir eins og þeir, sem þér höfðuð í fyrra; léreftin og klæðin hjá yður eru afbragð, kjólaefnin eru yndislegri en ég nokkurn tíma hef séð áður, en sjölin sé ég hvergi. Hafið þér gleymt þeim, herra Möller?

Kaupmaður sagði, að hann væri ekki búinn að taka allt upp hjá sér enn og lægju fallegustu herðaklútarnir í kistu upp á búðarlofti, og skipaði búðarmanni sínum að fylgja þeim stöllum þangað upp, ef þær vildu. Sigríður kvaðst halda, að þær mundu ekki hafa tíma til þess að því skipti, er þær nú yrðu að fara að halda heim aftur, en Guðrún sagðist þó vilja sjá eitthvað af þeim, og fór hún með búðarmanni; en Sigríður varð þar eftir niðri í búðinni, og mældi kaupmaður henni léreft, er hún var búin að biðja um. En er því var lokið, var Guðrún enn ekki aftur komin úr loftinu, og beið Sigríður hennar þar í búðinni, og ræddi kaupmaður við hana og spurði hana um hitt og þetta, sem honum datt í hug, og var hinn blíðasti í öllu viðmóti. Loksins tók Sigríði að lengjast biðin og fór að sýna á sér ferðasnið, er hún ekki gat komið sér að biðja kaupmann að kalla á hana; en í því kom Guðrún og Kristján aftur, og varð Sigríður þess vör, að hann talaði nokkuð hljóðlega við kaupmann, en leiddi síðan Guðrúnu að hillunni og lét hana velja sér þar silkiklút; og var þá ekki tekinn sá lakasti. Eftir það gengu þær stöllur úr búðinni. En ekki leið á löngu, áður vísur nokkrar komu upp suður á Álftanesi og eignaðar útróðrarmanni norðlenskum, er verið hafði þar í búðinni, og þóttust menn vita, að þær lytu eitthvað til þess, er Guðrúnu dvaldist svo lengi í loftinu hjá búðarlokunni. Vísurnar eru svona:

Búðar- í loftið hún Gunna upp gekk,
gráfíkjur nógar og sætabrauð fékk;
Sigríður niðri í búðinni beið,
bylti við ströngum og léreftið sneið.

Fagurt er loftið, og fullt er það ull,
fáséð mun Kristján sýna þér gull;
og lengi var Gunna í loftsölum há,
og litverp í framan hún kemur þeim frá.

Síðan tók Kristján silki ágætt
(selja þeir þess háttar öðrum á vætt)
og hvíslar að Gunnu: Á herðarnar þín
hafðu hann, fallegur stúlkurinn mín!

Missæl er þjóðin, oss dónunum dýr
dropinn oft gjörist og varningur nýr;
en ókeypis stúlkurnar fallegu fá
fyrirtaksklútana Danskinum hjá.

Skömmu eftir þessa búðarferð kom Guðrún einu sinni að máli við Sigríði og segir:

Mér þykir vera orðinn vandi að lifa hérna í henni Reykjavík, ef maður getur ekki gengið svo tvö fet ein saman með karlmanni, að maður sé ekki orðuð við hann.

Það hef ég ætíð haldið, sagði Sigríður, að það væri nokkuð vandasamt.

Það má nú fyrr vera, eða veistu, hvað því verður nú taldrjúgast um hérna í Víkinni?

Nei, ég tala við svo fáa.

Og ekki nema það, að það er búið að koma okkur Kristjáni, sem er hjá honum Möller, saman; og það hélt ég þó, að því gæti síst dottið í hug, blessuðu, því orsök verður að vera til alls.

Ekki held ég það sé; það er víst ekki nema hugarburður þinn, og ekki hef ég heyrt neitt talað um það.

Það veit ég; það forðast að láta þig heyra það, af því að það hugsar, að þú segir mér það aftur; en ég trúi, að það sé komin út einhver drápa suður á Álftanesi út úr því, að ég fór með honum hérna um daginn upp í loftið að sjá klútana, eins og þú vissir.

Ég hugsaði það og, að það væri varlegra að fara þangað ekki, og því sagði ég það við þig; en hvernig veistu þetta?

Ég hef heyrt sagt, að þær hafi verið þrjár að stinga saman nefjunum um það inni hjá henni maddömu ...; þær tala ekki um sjóferðirnar sínar samt; en það er ekki þar fyrir, mig gildir einu, hvað þær þvaðra.

Það hefur spillt fyrir, að hann lét alla, sem voru í búðinni, sjá, að hann gaf þér klútinn.

Og ekki var, þó hann gæfi mér klútbleðilinn þann arna, ég held ég hafi þá gjört svo margt fyrir hann, sem ekki hefur allt komið til reiknings; en látum það þvaðra, ég kippi mér ekki upp við það, sem hlaupið er með hérna á milli húsanna; mér þykir verra, ef það lætur þig ekki vera í friði og fer að bendla ykkur kaupmann Möller saman.

Það þykir mér þó líklegt, að menn láti það vera.

Það væru þó eins mikil líkindi til þess eins og um okkur Kristján.

Það veit ég ekki, hvernig þú getur farið að segja; þú veist þó, að ég hef varla séð hann nema þarna í búðinni um daginn.

Þú heldur þá, að enginn hafi tekið eftir þessum litlu augum, sem hann skotraði til þín; þú þekkir, vænti ég, ekki þess háttar augu?

Ónei, sagði Sigríður og skipti nokkuð litum við svarið.

Og það mátti heldur ekki heyra þessi smáræðis andartök, þegar hann var að tala við þig; svei mér, ef það suðar ekki fyrir eyrunum á mér enn, þegar ég hugsa til þeirra; þú heldur enginn hafi heyrt það nema ég; og seinast kyssti hann á fingurna á sér, þegar þú fórst, sástu það ekki?

Jú, það sá ég, en ég vissi ekki, hvað það átti að þýða.

Á, góða mín, þá skal ég segja þér það; þeir hérna kunna ýmisleg piparalæti, sem þeir bera ekki skynbragð á í sveitinni, og svo mikið veit ég, að honum líst vel á þig; ég talaði við hann í fyrradag, því ég kom þar snöggvast inn í búðina, og þá fór hann undir eins að tala um þig og spyrja mig að þér, og seinast bað hann mig að bera þér kveðju sína og það með, að hann vonaði til að fá að sjá þig einhvern tíma bráðum aftur.

Æ, ekki held ég, að ég fari að gjöra mér ferðirnar til hans, og ég vona til þín, að þú verðir ekki fyrst til þess að koma þess háttar umtali á loft.

Það getur þú reitt þig á, að ekki skal ég tala um það við nokkurn, nema hvað ég segi þetta í trúnaði við þig; en hitt er það, mér þykir vænt um fyrir þína hönd, að honum líst á þig; hver veit, nema það fari svo á endanum, að þú verðir konan hans? Og þá held ég megi segja um það, að þú hafir ekki farið til einskis hingað suður, ef þér auðnast að ná í mann, flugríkan og fallegan mann og þar að auki kaupmann.

Það er ekki víst, að menn þurfi að fara hingað suður á land til þess að giftast, góða mín!

Og hvað getur maður þá fengið, Sigríður mín, upp til sveitanna? Prest, ef vel tekst, og tekurðu það saman við það að vera kaupmanns maddama hérna?

Æ, það hæfir okkur best, held ég, bóndadætrunum, að eiga bónda; ég fyrir mitt leyti hugsa mér ekki hærra en eignast bónda, ef það á annað borð liggur fyrir mér að giftast.

Já, ekki sýnist mér þeir girnilegir núna, blessaðir sveitabændurnir, og sannast er að segja um það, skárri er hún í því, Víkurskömmin, að skemmtilegra er að horfa á þá hérna, og ekki ganga þeir þó í ótal hlykkjum og bugðum eins og blessaðir sveitapiltarnir okkar; því þó þeir hafi ekki staðið nema svo sem hálfan mánuð í búð hérna í Víkinni, þá kemur undir eins eitthvað viðfelldnara látbragð á þá en dónana.

Það er svoddan gáski í þér núna, Guðrún mín! Ekki þoli ég að heyra piltunum mínum í sveitinni mikið lasprað, sagði Sigríður og gekk burt; og varð samtal þeirra stallsystra ekki lengra að því sinni.

Líður svo fram sumarið, og ber ekki neitt til tíðinda, og kemur að því, að skip taka að sigla; verður það þá kunnugt, að kaupmaður Möller ætlar ekki að fara utan um haustið, og býr hann skip sitt og lætur það fara til Kaupmannahafnar; hefur hann nú lítið að starfa, er verslun var úti, og tekur hann þá að fjölga komum sínum í hús kaupmanns Á. og situr þar löngum um daga á tali við kaupmann Á.

Þessu næst taka skólapiltar að koma suður, og kom Ormur bróðir Sigríðar með þeim fyrstu, og varð þar mikill fagnaðarfundur með þeim systkinum; færði hann henni bréf frá móður þeirra Ingveldi, og var það allástúðlegt; segir Ingveldur þar, að hún sakni hennar mikið, og er það ekki ólíklegt, því sumir menn eru svo gjörðir, að þeir sakna þeirra manna hvað mest, er þeir aldrei gátu litið réttu auga, meðan þeir áttu saman við þá að sælda. Ormur dvaldist nokkra daga í Reykjavík, en fór síðan suður að Bessastöðum ag ætlar að bíða þar, þangað til skóli væri settur. Kaupmaður Á. og kona hans báðu hann að vera velkominn hjá sér svo oft sem hann vildi og ætti hægt með að finna systur sína.

Það var einn dag um þetta leyti og skömmu eftir að Ormur var suður kominn, að veður var fagurt, en vegir þurrir, og var réttað upp í Kollafjarðarrétt, og reið margt fólk úr Víkinni sér til skemmtunar upp í réttirnar, bæði konur og flestar gervistúlkur bæjarins, svo og margir karlmenn, sem við voru látnir. Gjörðist þá mikill skortur reiðskjóta í bænum, og urðu margir að setjast aftur, sem höfðu ætlað að fara. Kaupmaður Á. og kona hans fóru. Guðrún hafði einhvers staðar getað aflað sér hests, en Sigríði vantaði reiðskjóta, og leit út fyrir, að hún yrði heima að sitja, en þó langaði hana til að fara, því hún hafði aldrei komið þar upp eftir. Möller átti hest gráan, það var gæðingur, norðlenskur að kyni, af Bleikáluætt úr Skagafirði, er þá var mest orðlögð um landið. Hesturinn var stríðalinn á hverjum vetri, en lítið riðið á sumrin, því sjaldan kom nokkur annar maður honum á bak en eigandi, og ekki hlýddi nokkrum að biðja um hann til láns, hvað sem við lá. Líður nú fram að hádegi, og ríða allir á stað, sem hesta höfðu fengið, en ekki hafði Sigríður enn getað útvegað sér neinn reiðskjóta, en Guðrún beið hennar þó, ef verða mætti, að eitthvað réttist úr fyrir henni.

Nú er hvergi fyrir sér að leita, Sigríður mín! Ég býst við, að þú verðir að sitja kyrr, nema þú viljir biðja hann kaupmann Möller um hann Grána hans; ég held það sé eini hesturinn, sem til er hérna eftir í Víkinni, sagði Guðrún.

Það gjöri ég ekki, og ég get ekki ætlast til þess, að hann ljái mér hann, þar sem hann vill ekki ljá nokkrum öðrum hann.

Veit ég það, að hann hefur afsagt þeim þremur eða fjórum hérna í morgun um hann, en hvar kemur það þá fram, sem hann segir um þig, ef hann gjörir sér ekki mannamun? Og farðu, Sveinki litli, og skilaðu við hann kaupmann Möller, að hún Sigríður, sem er hjá honum kaupmanni Á., biðji hann að ljá sér hann Grána sinn upp að réttunum í dag.

Sveinn litli fór og kom aftur að lítilli stundu liðinni og teymdi þá Grána og sagði, að kaupmaður hefði beðið sig að skila, að hann hefði ekki vitað, að hún ætlaði að fara, ella mundi hann hafa boðið henni hann að fyrra bragði.

Sér þú nú, góða mín, sagði Guðrún, hvernig Möller er, þar sem hann tekur því, enda vissi ég það, hvernig fara mundi, ef hann fengi boð frá þér, en ekki hefði hann gjört það fyrir aðrar hérna í Víkinni; því það er eins og ég segi þér, þó þú trúir því ekki.

Ekki trúi ég því nú heldur fyrir að tarna, sagði Sigríður, en nú er þá best að ríða á stað, fyrst reiðhesturinn er fenginn.

Síðan ríða þær stöllur, og með því hestarnir voru góðir, náðu þær flokknum, sem á undan var riðinn, skammt fyrir innan Hellisárnar; og brá þá mörgum í brún, er þeir sáu Sigríði koma þeysandi á Grána Möllers og varð mönnum harla fjölrætt um það, hverju það sætti, að Sigríður hefði orðið fyrir þeirri mildi að fá hann. Um daginn skemmtu menn sér við réttirnar, en sneru heim um kvöldið, og var þá komið fram á nótt, er menn komu aftur til Reykjavíkur.

*

Nú er þar til máls að taka, sem áður var frá horfið, sem Indriði Jónsson situr heima að Hóli og harmar Sigríði, og var það lengi, að hann sinnti ekki störfum. Þótti föður hans og frændum það illt og báðu hann hyggja af Sigríði og leita sér annars kvonfangs; sögðu þeir, að ekki mundi hann lengi þurfa að krjúpa fyrir knjám bændadætra þeirra, er þar voru í héraðinu. Indriði tók því þunglega, en ekki hitti hann Sigríði þann vetur, er næstur var eftir samtal þeirra Ingibjargar og Ingveldar, og hafði hann það fyrir satt, sem Ingveldur hafði sagt, að Sigríður hefði ekki huga til hans felldan; og er það fréttist, að Sigríður ætlaði að eiga Guðmund Hölluson, virtust honum öll tvímæli af um það mál. Indriði var smiður góður á járn og tré, svo að þjóðhaga mátti kalla, og var hann alkenndur fyrir smíðar sínar þar eystra og víða í Norðurlandi. Maður hét Snorri, hann bjó á Barði, það er í Þingeyjaþingi; hann var ríkur maður og búsýslumaður mikill. Hann gjörði Indriða orð að koma norður og smíða fyrir sig stofu. Foreldrar Indriða hvöttu hann mjög þessarar ferðar, er þau hugðu, að þannig mætti helst af honum létta, ef hann tækist starfa nokkurn mikinn á hendur; og réðst Indriði að Barði; það var mjög jafnsnemma sem lýsingar fóru fram með þeim Guðmundi og Sigríði. Indriði var þar um veturinn og fram á vorið, og á þeim vetri breyttist svo skapferli hans, að hann var nú jafnan fremur glaðlegur og ræðinn, er hann talaði við menn, en það þóttust menn finna, að hann byggi yfir einhverjum duldum harmi. Að lokinni stofusmíðinni sneri hann aftur heim að Hóli og kom þar skömmu eftir það, að Sigríður var suður farin. Frétti hann þá, hvernig farið hafði um skilnað þeirra Sigríðar og Guðmundar, og þóttu honum það mikil tíðindi. Fór hann þá að gruna margt, og álasar hann nú sjálfum sér fyrir það, að hann hafi ekki sjálfur talað við Sigríði, og vill nú fyrir hvern mun ná hennar fundi. Foreldrar hans töldu Sigríði sloppna úr greipnm hans, er hún væri suður komin. Indriði lét ekki letjast og bjóst suður til Reykjavíkur seint á engjaslætti; og segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kemur í Borgarfjörð; þar hitti hann mann sunnlenskan, er verið hafði í kaupavinnu fyrir norðan um sumarið; verða þeir Indriði samferða. Sunnlendingurinn var kunnugur veginum, en Indriði hafði ekki farið þar um áður, og varð Indriði honum feginn; og þótt hann væri mjög áhyggjufullur og óglaður, hafði hann þó mikla skemmtun af honum, því hann var kátur maður og vissi jafnan að finna eitthvað gleðiefni til að hafa af fyrir Indriða, þegar hann þóttist finna, að eitthvað lægi illa á honum. Segir nú ekki af ferðum þeirra, fyrr en þeir koma í Gullbringusýslu; þá var það einhvern tíma, að þeir riðu út úr túninu á bæ nokkrum, sem þeir höfðu farið heim á; og tekur Indriði til máls og segir:

Er nú langt eftir til Reykjavíkur, Sigurður minn?

Sástu það ekki á mjólkinni, sem við fengum að drekka?

Nei, ég skil heldur ekki í, hvernig slíkt má af mjólkinni ráða.

Ójú, hún þynnist, góðurinn minn, eins og íslenskan, eftir því sem sunnar dregur, og svo hefur mér reynst það, og hef ég þó nokkrum sinnum farið hérna um.

Þá skal þetta síðar marka, sagði Indriði. Ríða þeir nú sem leiðir liggja niður um Mosfellssveit, og gjörist Indriði enn móður af reiðinni og vill skreppa heim á einhvern bæ og fá sér að drekka.

Láttu það bíða fyrst, sagði Sigurður, því nú erum við rétt við Hellisárnar.

Er það bær? sagði Indriði.

Nei, það eru kýr.

Kýr?

Já, kýrnar okkar ferðamannanna, sem aldrei verða geldar; og nú held ég hvort sem heldur er, að mjólkin og íslenskan séu nokkurn veginn svo þunnar sem þeim verður auðið, og hérna eru Hellisárnar.

Stíga þeir þá af baki og leggjast niður að drekka; sýpur Sigurður stórum og stendur seint upp, en bregður síðan hendinni fyrir brjóstið, eins og hann ætli að æla.

Þú hefur belgt of mikið af vatninu, lagsmaður, sagði Indriði.

Annað er verra, sagði Sigurður, mér fannst einhver stór skepna fara ofan í mig, og býst ég við, að það hafi verið lax.

Jæja, láttu þér það vel líka, ef svo er, sagði Indriði hálfbrosandi; það er sjaldan, að guðsblessun kemur úr sjónum upp í munninn á mönnum fyrirhafnarlaust.

Hlæðu ekki að ósköpunum! Veistu, hver átti fiskinn? Kóngurinn átti fiskinn, og það er bágt að giska á það, hvað stjórnin segir um það, því maður á aldrei að gjöra neitt, nema maður viti áður, hvernig kónginum muni líka það; en svei mér, ef ég gat gjört að því.

Eftir þetta stíga þeir Indriði á bak aftur, og er þá farið að rökkva af degi; ríða þeir nú ofan melana, en ekki tók Sigurður aftur gleði sína, en hafði aftur og aftur fyrir munni sér: Sér er nú hvað! Hefði ég bara verið búinn að skrifa stjórninni til um það, hvort fiskurinn mætti fara ofan í mig. - Þó var hann alltaf á undan og réði ferðinni þegjandi, þangað til Indriði segir við hann:

Hvar ætlar þú okkur að hafa náttstað, lagsmaður?

Við ríðum heim að Rauðará og verðum þar í nótt, því ég vil ekki koma æði seint í Víkina.

Hver býr á Rauðará?

Ekki veit ég, hvað hann heitir; ég kalla hvern, sem þar býr, Eirek, þó þar verði húsbóndaskipti á hverju ári.

Og hvað ber til þess?

Það, að hann alltaf rekur hesta, og lasta ég ekki manninn fyrir það.

Þeir ríða heim að Rauðará; enginn var þar úti, og knýja þeir á dyr, og kemur þar út kona ein, og kveðja þeir hana og spyrja um bónda, en hún kvað hann vera að hestum.

Skjótt er frá erindum að segja, sagði Sigurður, að við kumpánar ætlum að biðja hér húsaskjóls fyrir oss í nótt, en haga fyrir hesta okkar.

Fáir kunnugir biðja hér gistingar, eða ertu maður svo ókunnugur, að þú vitir ekki, að vér eigi höfum margar sængur hérna á Suðurnesjum? Og hér á bæ er ekki nema ein, og sofum við í henni, heimilisfólkið, og er ekki ábætandi, því við erum fimm og tveir krakkar að auki; en hesta ykkar veit ég, að húsbóndinn hirðir, ef þið hafið höftin, og 4 skildingar eru undir hestinn um daginn.

Vandast tekur nú málið, sagði Sigurður, og ekki vil ég vera þar við níunda mann; en hrossin verðum við að skilja hér eftir, Indriði minn!

Þarna hillir undir bæ út á nesinu, segir Indriði.

Og ekki er það bær, blessaður minn, það er biskupsstofan.

Hvað er annað en ríða þangað, mig langar hvort sem er að koma á biskupssetrið.

Þá mun það skilja félagsskap okkar, því þó ekki virðist langt þangað, þá er það sá annar vegur en Ódáðahraun, að ég vil síst fara á öllu Íslandi í náttmyrkri, og bágt gengur heilögum anda að flytja biskupinn yfir það, þó vegabótafélagið hafi ætlað honum það; við verðum heldur að koma af okkur klárunum og fara svo á göngu til Reykjavíkur.

Indriði kvaðst vilja fylgja hans forsjá; og skilja þeir eftir hesta sína og varnað á Rauðará og ganga til Víkur. Er þá orðið koldimmt og komið undir háttatíma, er þeir koma í bæinn; og er þeir gengu ofan eftir stignum, sem liggur ofan í Víkina fram hjá stiftamtmannshúsinu, hleypa þar fram hjá þeim margir menn og konur og þeysa ofan í bæinn, og sáu þeir Indriði, að það fólk mundi eiga þar heima í bænum, er það fór með glensi miklu og háværni.

Hvaðan ætli þetta fólk komi? sagði Indriði.

Það veit ég ekki; þó þykir mér líkast til, að það hafi riðið í dag sér til skemmtunar, og getur verið, að það komi ofan úr réttum, því það er eitthvað um þetta leyti, sem þeir rétta þar upp í Kollafirðinum, og þangað er það vant að fara að gamni sínu hérna úr Víkinni.

Og mér heyrist það allt tala dönsku, er þá ekki töluð íslenska hérna í bænum?

Það er þó sannast um ykkur Austfirðingana, að þið eruð misvitrir, og hyggnari var Hornfirðingurinn um árið; hann gat þó séð, að það var ekki Hornafjarðartunglið, sem kom upp í kaupstaðnum.

Satt er það, sagði Indriði, vitrari hefur hann verið; en hvert ertu nú að fara með mig, lagsmaður?

Ég ætlaði að fara með þig til hans Staupa-Jóns, ef hann er ekki dauður, svo við gætum fengið okkur þar einhverja hressingu, en ekki hefur hann á boðstólum annað en brennuvín.

Ekki langar mig svo mikið í það; ég vildi helst fá mér rúm og fara að sofa; hér mun vera nóg um gestaherbergi, hugsa ég.

Og heldur en ekki, og nú erum við þegar hjá tveimur, það er hvort sem þú vilt heldur hérna undir skipsíðunni eða við búðargaflinn þarna; þó get ég ekki ábyrgst, að það sé ekki nein óværa í rekkjuvoðunum, af því hér koma svo margir.

Já, ekki ligg ég þar; en án gamans að tala, getum við hvergi fengið að liggja inni?

Ekki er það allra, en hitt er það, að ég á hér einn kunningja, og þar skulum við reyna fyrir okkur.

Sigurður átti kunnugt þar í húsi nokkru ekki langt frá skytningi; þar átti heima íslenskur maður, sem L. hét og var eitthvað riðinn við verslunarstörf. Þangað fóru þeir Indriði og voru þar um nóttina. Ekki voru húsakynni þar stór, og voru gestir látnir sofa í sama herbergi sem þau sváfu í, hjónin, og sváfu þau í rúmi, sem stóð nær gluggunum, en gestir báðir í einu rúmi ekki langt frá dyrum. Um morguninn vaknar Indriði snemma og lítur upp; sér hann þá, að húsmóðir er staðin úr rekkju og situr naumlega hálfklædd við gluggann, sem til strætis vissi, og togaði með annarri hendinni sokkinn upp á hægra fótinn, en með hinni hendinni lyftir hún upp gluggaskýlunni og lítur út. Indriði vildi ekki, að konan yrði vör við, að hann væri vaknaður, meðan hún klæddist, og togaði hægt yfirsængina upp yfir höfuðið á sér; en í sama bili æpir húsfreyja upp yfir sig ámótlega og svo hátt, að nötraði í hverjum rafti, sem var í húsinu. Sigurður svaf fast og vaknaði ekki, en Indriða þótti best ráð að bæla sig betur í fötunum, því hann hugsaði hálfvegis, að sú væri orsökin, að konan mundi hafa orðið vör við, að hann leit upp. Bóndi húsfreyju lá allsber í rúminu og var ekki farinn að hreyfa sér, en vaknaði nú við skrækinn og hrökk með andfælum fram á stokk, en rankaði þó bráðum við sér og gaut augunum á konu sína og mælti:

Guð náði þig, kona! Hvað gengur að þér?

Húsfreyja varpaði mæðilega öndinni og sagði:

Söde L.! Vil du bare se, vilt þú bara sjá!

Hvað á ég að sjá?

Hvorledes det styrter ned, hvernig það sturtar niður.

Guði almáttugum sé lof og dýrð fyrir það! sagði bóndi og fór að hnyssa aftur að sér rúmfötunum, sem hann í fáti hafði kastað ofan af sér, þegar hann tók viðbragðið, en við þau orð, sem honum urðu síðast af munni, brá húsmóður svo, að hún æpir í annað sinn:

Ih! Þú frelsins guð! Tal dog kristelig, menneske! Talaðu þó kristilega, maður! - Þannig mælti hún og lyfti um leið augunum tárvotum upp í loftið, rétt eins og hún vænti þess, að guðs réttlætandi reiði mundi þá og þegar koma í þrumum og eldingum og slysa bóndakindina í rúminu.

Já, já, má ég ekki lofa guð fyrir regnið? sagði bóndi, kemur það ekki frá honum eins og hvert annað veður? Er það ekki betra en harkan og kuldinn? Eða ætli við hérna í henni Vík getum síður verið án þess en aðrar skepnur og kvikindi, sem lifa og skríða á jörðunni? Og eitt veit ég gott, sem því fylgir, og það er, að þú verður þá heima í dag, hjartað mitt, og gjörir við buxurnar mínar.

Buxene þínar! So þú formóðar, at jeg har lejlighed, lélegheit að befatta mig með dem í dag, með þeim í dag?

Já, það er ég að halda, eða á ég lengi að vera að nudda á þér um það, sem þarf að gjöra? Og ætli þú hafir það erindi út núna, að þú þurfir að hlaupa út í ósköpin?

Om jeg har ærende! Hvort ég hef erindi!

Ætli það sé þá ekki erindið!!!

Þú getur þó innséð, að ég verð að móra Stínu lítt með den historie -

Húsmóðirin fékk ekki talað allt, sem hún ætlaði að segja, því bóndi greip fyrr málinu fram í:

Mér er sama, hvern skrattann þú þykist verða að hlaupa með og þvaðra, segir hann og bylti sér um leið við í rúminu; en í sama bili, sem hann sleppti seinasta orðinu, var hurðinni að herberginu snögglega lokið upp, og kemur þar inn kona nokkur; og er þær komu auga hvor á aðra, húsmóðir og aðkomukona, tóku báðar undir sig skeið mikið og hlupu hvor á móti annarri og æptu upp yfir sig og svo jafnsnemma, að ekki mátti annað heyra en að hljóðið kæmi úr einum barka. Bóndi blimskakaði fyrst augunum á gestinn, en stakk síðan undir sig höfðinu og hnipraði sig niður í mitt rúm; en húsmóðir og aðkomukona stóðu þar á gólfinu um hríð og föðmuðu hvor aðra með slíkum vinalátum og fögnuði, eins og að þær hefðu ekki sést í mörg ár, en önnur hvor væri nýkomin af skipbroti. Lengi gat ekki Indriði heyrt nein orðaskil á því, sem þær sögðu, en loksins heyrir hann, að húsmóðir tekur svo til orða:

Gud, Stine! Þú kannt ekki þenkja þér, þú getur ekki þenkt þér, hvað ég lengdist eftir, hvað mig langaði eftir að snakka með þig, tala við þig; þú mátt þó, þú verður þó að heyra þá historíu, þenk bara! Möller er forlofaður.

Það kann þó aldrei vera mögulegt? sagði aðkomukona og tók um leið þvílíkt viðbragð, að hverjum, sem við hefði verið, mundi helst hafa dottið í hug, að hún hefði verið stungin undir síðuna með hnífi.

Jú, það skal þó vera aldeilis víst; ég heyrði það fortalt sem ganski bestemt hos Larsens í gaar, í gær.

Og með hverri?

O! það er fortreffiligt! Með henni Sigríður Bjarnadattir.

Nei, virkilega! Nú kann ég ekki annað en stúðsa! Með barnapíunni hjá henni maddama Á.? Ég kann þó aldrei foristilla mér, að það geti hangið rétt saman!

Ég forsikra þig! Það skal þó vera ganske afgjört, aldeilis afgjört.

Men Gud! Hann má jú vera hreint tossaður! Nú get ég fyrst begripið, hvers vegna hann hefur verið að renna þangað í húsið upp á hvern einasta dag; en hvað segir þú? Trúir þú ekki, að hann er tossaður að forlova sig með soddan einni taus; hún er jú ekki annað en hrein og simpil barnapía?

Það er ogso nokkuð af því besta, sem ég hef heyrt, og teink bara, i gaar, í gær lét hann hende ride paa hann Graane, Grána sín, op í réttene, upp í réttirnar.

So má það þó endilega vera satt, því annars pleiir hann ekki að lána hann Grána sinn til nokkurs; - en hvað þenkirðu, að sú gamla maddame B. vil segja til þetta, trúir þú ekki, að hún skal blíva hreint tossuð?

Dú kannt trúa, Stíne, þú getur trúað það vill móra henni, ha! ha!

Við megum þá endilega til hennar til að fortelja henni þá historíu.

Jú, en veistu hvað? Sýnist þú ekki, að við gjörum best í að ganga til jómfrú Kílsens í forveginn, for hana skulum við þá endilega fá með til den gamle, þeirrar gömlu, því hún kann þá slaðra, svo það er fortreffilegt, ha! ha!

Jú, hana megum við endilega hafa með, ó, það er guðdómlegt!

Þetta var seinasta orðið, sem Indriði heyrði af viðræðum þeirra húsmóður og aðkomukonunnar, því að svo mæltu stukku þær báðar út úr herberginu með miklum ys og fataþyti. Þegar Indriði heyrði nafn Sigríðar nefnt í samræðu þeirra kvennanna, hafði hann þokað dálítið yfirsænginni ofan af höfðinu á sér, svo að hann gæti heyrt betur og komist að umtalsefninu, og þó málfæri þeirra ekki væri allskiljanlegt fyrir þá, sem óvanir eru Reykjavíkurmálinu, komst hann þó að því, að það mundi þá þykja mestum tíðindum sæta þar í Víkinni, að einhver kaupmaður Möller ætlaði sér að eiga einhverja stúlku, sem Sigríður héti Bjarnadóttir; og þó Indriði hefði mátt geta því nærri, að fleiri gætu verið með því nafni þar í Víkinni en Sigríður frá Tungu, varð honum það þó helst fyrir að giska á, að þetta mundi vera hin sama og sú, er hann ætlaði að hitta, og brá honum ei alllítið við þessi tíðindi. Skömmu eftir þetta vaknar Sigurður og vill þegar fara að fara á fætur. Taka þeir Indriði þá að klæðast og svo bóndi. Allir voru þeir kumpánar nokkuð daufir og fátalaðir, og bar sitt til fyrir hverjum. Indriði þóttist hafa orðið áheyrandi þeirra frétta, er hann vildi helst aldrei heyrt hafa; bóndi brá buxunum upp við gluggann, áður en hann fór í þær, og roðnaði við; en Sigurður geispaði og ók sér og sagði, að sig hefði dreymt á þá leið um morguninn, rétt áður en hann vaknaði, að þann vetur mundi ekki aflast þar á Nesjunum annar fiskur en skötur og hámerar. Bóndi sagði við gestina, að svo væri ástatt í kotinu, að ekki yrði neitt greitt fyrir þeim, fyrr en konan sín kæmi aftur heim, og væri þeim best, ef þeir ættu nokkur erindi þar í bænum, að ljúka þeim af og koma þar að stundu liðinni, og skyldi þá verða eitthvað hlynnt að þeim. Gengu þeir Indriði þá út, og var nú regninu upp stytt og komið bjart veður; og stakk Sigurður upp á því, að þeir skyldu ganga upp að Skólavörðu, svo að hann gæti sýnt Indriða landslagið þar syðra; á það féllst Indriði, og gengu þeir norður úr bænum og upp Skólastig; en er þeir voru komnir svo langt upp eftir stignum, að skammt var að vörðunni, sjá þeir ganga spölkorn á undan sér tvo kvenmenn, og leiddi annar barn.

Við skulum ganga ögn hraðara, segir Indriði, svo við komumst fram hjá þessum stúlkum; hún er svo lík á baksvipinn stúlku, sem ég þekkti fyrir austan, þessi sem gengur hérna á vinstri hönd; ég held ég þekki hana.

Ekki held ég, að ég geti verið að elta þær, það er víst einhver hérna úr Víkinni, sagði Sigurður; þó greiddu þeir nú sporið, en af því svo skammt var eftir til vörðunnar, þá stóðst það á, að þær voru gengnar fram hjá vörðunni, þegar þeir Indriði komu þangað.

Þær ganga hér um bráðum aftur, hugsa ég, og þá geturðu séð hana; en nú skulum við litast um hérna upp á vörðunni.

Þeir gengu upp á vörðuna, en Sigurður þegir um hríð og skyggnist í allar áttir, en tekur síðan til orða og segir:

Hingað hefði fjandinn átt að fara með Krist hérna um árið, fyrst hann á annað borð vildi sýna honum öll ríki veraldarinnar og þeirra dýrð; og hingað mun Jörgensen okkar hafa orðið gengið, þegar skollinn hvíslaði því að honum að ryðjast hér til ríkis, taka sér hirð og setjast um Reykjavík og þröngva Dönum til að gefa upp borgina. En ekki veit ég hvað þú ert að gæta að þarna inn á melunum, og tekur svo ekki eftir því, sem ég er að segja þér.

Ójú, Sigurður minn.

Það er nú Keilirinn, sem þú sér þarna, fjallið að tarna til suðurs, uppmjótt, einstakt og strýtumyndað; þú getur reitt þig á það, að á honum er hádegi, hvaðan sem þú sér hann; þetta er Hafnarfjörður, en kaupstaðinn sjálfan sérðu ekki; hraunin skyggja á; og undir hæðinni, sem ég bendi núna á, standa Garðar; og þetta er Álftanesið, sem Álftnesingurinn er á. En ég held þú heyrir ekkert af því, sem ég er að segja þér; þú hefur alltaf augun inn á melum.

Jú, ég tek eftir öllu, Sigurður minn, sem þú segir.

Það eru Bessastaðir, sem þarna standa á eiðinu millum voganna; en Lambhús ber í kirkjuna; og þetta er Grásteinn, mikið merkilegur steinn, á grandanum; þetta er Skerjafjörður, og nú komum við hingað á Seltjarnarnesið, hvernig líst þér á það?

Indriði þagði, en Sigurður horfði framan í hann og sagði:

Ég held ég geti giskað á, hvað þú hugsar, lagsmaður! Þér dettur líkt í hug eins og mér, þegar ég kom hingað í fyrsta sinn; ég sagði við sjálfan mig: Margt hefur guð minn góður smíðað betur en nesið að tarna. En mikil eru verkin mannanna, og heldur en ekki er það staðarlegt að líta yfir Víkina; en ekki get ég sagt þér mikið til húsanna; ég þekki fæst af þeim, nema þetta er dómkirkjan, sem stendur þarna rétt við tjörnina, og garður jarlsins hérna megin við lækinn, og sannast er um það, að margt skipast á mannsævinni; þetta var "tugthús" í mínu ungdæmi, þá sat Jóhann stríðsmaður og Jóhannes limur þar við lítinn kost, og hélt enginn, að það mundi verða aðsetur landshöfðingjans. Hérna til hægri handar sér þú fyrst móhraukana, sem þeir tönglast og tyggjast um sem gaddhestar um illt fóður; en það eru laugarnar, sem þarna rýkur upp úr; haganlega er þeim fyrir komið, þar getur maður þvegið af íslenskuna; og nú man ég ekki meira að sýna þér hérna megin við fjörðinn nema Laugarnes og Viðey, eyjuna þarna stóru; fjallið að tarna, það er Esjan, hún er enn þá eins og guð hefur gjört hana; og þetta er hann Bárður karlinn Snæfellsás, sem blasir þarna við hafið, en ekki skaltu hneykslast á því, þó hann fari aftan að siðunum og snúi hingað bakinu að höfðingjunum; en settu þig nú niður, lagsmaður, hérna á bekkinn, ég á eftir að segja þér nokkuð, sem ég veit, en þú veist ekki, af því þú ert ókunnugur hérna syðra; settu þig niður!

Æ, segðu mér það einhvern tíma seinna, sagði Indriði og horfði upp eftir melunum og sá, að stúlkurnar, sem þeir höfðu séð áður, voru snúnar aftur og voru þegar komnar að vörðunni; ég vil, að við göngum nú heim aftur og vitum, hvort ekki er búið að bera á borð fyrir okkur morgunverðinn.

Það er og satt, ég er orðinn matlystugur aftur, þó ég gleypti laxinn í gær, sagði Sigurður og stóð upp aftur, en þarna eru stúlkurnar þínar komnar aftur; ég vissi það, að þær mundu fara hér um aftur; en hvaða lafalúði er það, sem kominn er í fylgi með þeim? Láttu mig sjá! Það er líkt honum kaupmanni Möller, já, það er enginn annar en hann!

Nú, er þetta kaupmaður Möller? sagði Indriði og brá nokkuð við, svo að Sigurður tók eftir því og lítur framan í hann og segir:

Þekkir þú kaupmann Möller?

Nei, en ég hef heyrt hans getið, sagði Indriði og leit aftur til þeirra Sigríðar, rétt í því þær gengu fram hjá vörðunni. Indriði þekkti þá glöggt, að annar kvenmaðurinn var Sigríður.

Þekkir þú kvenmanninn, lagsmaður?

Hvernig getur þú hugsað, að ég þekki hana? sagði Indriði. Ég þekki engan mann hérna syðra.

Ég spyr þig að því, af því mér heyrðist þú segja áðan, að hún væri lík stúlku, sem þú hefðir þekkt fyrir austan.

Já, en nú sé ég, að það er ekki sem ég hélt.

Það var líklegra, en hitt sé ég, að kaupmaðurinn þekkir hana. Guð gæfi, að ég væri danskur eins og hann. Sérðu ekki, hvernig hann hoppar og skoppar kringum þær, eins og hann sé á hjólum? Þetta kemur sér nú vel við stúlkurnar, að tarna.

Æ, hvað varðar mig um það, sagði Indriði fremur önuglegur í svari.

Það getur verið, lagsmaður. En hvað kemur til, að mér sýnist þú lítir eins illilega til hans eins og þig sárlangaði til að berja hann?

Hvers vegna ætti mér að geta dottið það í hug? sagði Indriði. Hann hefur ekki gjört mér neitt illt, manntötrið, það ég viti.

Meðan þeir ræddust þetta við, höfðu þeir gengið ofan af vörðunni og héldu nú beina leið heim eftir stignum. Þær stöllur og Möller fóru spölkorn fyrir og þó svo langt, að ekki máttu þeir heyra orðaskil á því, sem þau ræddust við. Sigríður hafði tekið barnið á handlegg sér, því það var orðið þreytt af ganginum; en kaupmaður gekk rétt við hliðina á henni og ræddi við hana, og það sá Indriði, að hún einu sinni leit um öxl, og sýndist honum hún festa snöggvast augun á sér, en leit aftur af honum, og þótti honum sem tillit hennar væri á þann hátt sem þá er menn líta á einhvern, er þeir þykjast þekkja, en geta þó ekki komið fyrir sig. Ekki töluðust þeir félagar meira við, og gengu þeir þannig niður í bæinn, að jafnan voru þær Sigríður góðan kipp á undan. Loks koma þær að húsi einu, og þar fara þær inn, en kaupmaður kveður þær, og sér Indriði, að hann tekur um leið í höndina á Sigríði. Þeir Indriði gengu heim, og var Indriði mjög svo daufur og fátalaður það eftir var dagsins; þóttist hann nú sjálfur hafa séð þess nokkur deili, sem hann af hendingu heyrði um getið um morguninn. Hann vill fyrir hvern mun hitta Sigríði; vissi hann nú og, hvar hún átti heima, og ásetur sér að ganga á fund hennar daginn eftir. En sem hann er að hugsa um þetta mál, dettur honum það í hug, að svo megi fara, að hann annaðhvort ekki hitti Sigríði heima, eða þó að hann finni hana, að hann þá geti ekki talað einslega við hana; virðist honum það því ráðlegast, að hann skrifi henni til bréf og hafi það með sér til vonar og vara, að hann geti skilið það eftir þar í húsinu. Þetta gjörir hann og gengur síðan niður í bæinn og til húss Á. kaupmanns. Litlu fyrr en Indriði kom þar, var maddama Á. farin út. Hún átti kunningjakonu fram á Nesi og var stundum vön að ganga þangað, þegar gott var veður, með börn sín, og þetta sinn var hún þangað farin og Sigríður með henni, og leiddi hún börnin. Kaupmaður Á. var í búð, og var enginn heima nema Guðrún ein. Indriði ber þar að dyrum, og kom Guðrún þegar til dyranna. Indriði var svo klæddur, að hann var á bláum treyjufötum úr vaðmáli; Guðrúnu grunaði helst, að gestur mundi vera einhver útróðrarmaður; henni þótti því réttast að hafa vaðið fyrir neðan sig og lauk stofunni ekki upp nema til hálfs og stóð svo á þrepskildinum og hélt annarri hendinni um snerilinn, eins og hún vildi láta hann skilja, að þess konar menn væru menn vanir að láta afleysa erindi sín fyrir utan stofudyrnar, án þess að þeir væru leiddir í stofu. Indriði heilsar Guðrúnu hæversklega og tekur síðan til orða:

Er ekki hérna í húsinu stúlka, sem Sigríður heitir?

Ójú, sagði Guðrún nokkuð þurrlega, heldur tvær en ein, ég veit ekki, við hvora þeirra þú átt.

Hún, sagði Indriði og þreif af ólíkindalátum hendinni ofan í vestisvasa sinn og tók þar upp bréfið, hún á að vera Bjarnadóttir, trúi ég, já, Bjarnadóttir; viljið þér ekki gjöra svo vel fyrir mig að segja henni, að hér sé maður með bréf til hennar að austan?

Hún er ekki heima sem stendur, en ég skal taka við bréfinu.

Mér hefði þótt vænt um að tala við hana sjálfa, sagði Indriði og roðnaði við, ég var beðinn að skila lítilræði með því.

Þá geturðu komið hingað á morgun; en það er best, að hún fái bréfið sem fljótast; það getur verið, að það sé eitthvað, sem þarf að svara.

Já, það getur verið, sagði Indriði, og segið þér henni fyrir mig, að ég verði ekki lengur hérna í Víkinni en í dag og á morgun, svo hún hafi svarið til, þegar ég kem í fyrramálið.

Ég skal segja henni það; en er nokkuð að frétta að austan?

Indriði ætlaði að fara að svara Guðrúnu einhverju, en í því gengur maður snúðuglega fram hjá honum og kastar blíðlega kveðju á Guðrúnu, en lætur sem hann sjái ekki Indriða. Guðrún tekur vel kveðju komumanns og biður hann inn ganga, en læsir síðan stofunni, og gengur Indriði þá burt. Maður sá, sem heilsaði Guðrúnu, var kaupmaður Möller. Guðrún verður fyrri til máls og segir:

Hér er ofur fámennt heima, eins og þér sjáið, herra Möller. Það er ekki heima, fólkið.

Fólkið! sagði kaupmaður, allténd nokkuð af því, ég hef þó þá ánægju að sjá yður heima.

Já, sagði Guðrún og kinkaði brosandi kollinum framan í Möller, ég á við fólkið, sem þér ætluðuð að finna; það er allt fram á Nesi; ekki eru allar ferðir til fjár, herra Möller!

Nei, ég sé það, að það muni bregðast stundum; en hvaða maður var það, sem þér voruð að tala við áðan?

Það veit ég ekki, hvað hann heitir; það var einhver dónsi að austan, sem kom með bréfið að tarna til hennar Sigríðar og vildi fá að tala við hana; það er líkast til frá henni móður hennar.

Guðrún kastaði bréfinu á borðið þar í stofunni, og leit kaupmaður utan á það og sá, að var á því karlmannshönd; síðan snýr hann því við og starir um stund á lakkið, en segir síðan:

Frá henni móður hennar! Það kvenmannsnafn hef ég aldrei heyrt fyrr, heitir konan Indriði?

Nei, nú get ég ekki að mér gjört að hlæja að yður; hvernig getur yður dottið það í hug, að hún heiti Indriði? Ha! ha! ha! Þér eruð ekki orðinn útlærður í íslenskunni enn þá, herra Möller, ha! ha!

Nú, verið þér ekki að hlæja að mér, jómfrú góð! Gat það ekki vel verið, að hún héti Indriði? Þessi íslensku kvenmannsnöfn enda bæði með "dí og dúr", og hér stendur á lakkinu Indriði, sjáið þér, In-drí-dí.

Ójú, það er sem þér segið; en þá er annaðhvort um það, að það er ekki frá henni, eða hún hefur lakkað það með signeti einhvers annars. Bíðið þér við, nú dettur mér nokkuð í hug; hver skollinn má vita, nema þetta bréf sé frá einhverjum pilti, herra Möller! Hún hefur stundum verið að segja mér frá einhverjum strák fyrir austan, sem Indriði heitir; það gæti þó ekki verið frá honum, sagði Guðrún og skyggndist um leið inn undir brotið á bréfinu: 'staddur í Reykjavík`, það get ég lesið; þetta er víst eitthvað kátlegt, ég fer að verða forvitin; hver sem nú hefði lykilinn að þessu bréfi.

Hann hef ég, sagði kaupmaður og rétti fram vísifingurinn, þessi karl gengur að hverju bréfi, sýnið þér mér, á ég að ljúka því upp fyrir yður?

Hvaða vitleysa! sagði Guðrún og sló með hendinni á fingurinn á Möller. Það er ljótt að brjóta upp bréf, eða haldið þér, að þér vilduð láta fara svo með bréfin yðar?

Þér eigið víst við, að það sé ljótt, ef manni tekst ekki að læsa því aftur, svo ekki sjáist; sýnið mér bréfgreyið!

Nei, þér fáið ekki að eiga neitt við það.

Nú, ekki skal ég - en þarna skrapp það upp, bréfskömmin, af sjálfu sér.

Hvað á nú þetta, nú rifuð þér það upp, sagði Guðrún og lét sem henni þætti heldur fyrir.

Nei, ég segi yður satt, það skrapp upp sjálft; en nú er ekki annað fyrir, jómfrú góð, en að bera sig að læsa því aftur, sagði kaupmaður og brosti við, við getum þá svarið fyrir að hafa lesið það.

Því verður nú ekki læst aftur, svo það sjáist ekki.

Það læt ég vera, jómfrú góð, eða hvað haldið þér, að hún geti vitað um það, með hvaða signeti því hefur verið læst austur á landi?

Og það er nú satt, sagði Guðrún.

Og hver ætli geti þá séð á því, hvort það hefur verið lesið eða ekki? En ekki er það fyrir það, ekki langar mig til að sjá nema frá hverjum það er.

Það langar mig líka hálfvegis til, og nú er búið að rífa það upp, hvort sem heldur er; látum oss nú sjá, hér stendur 'þínum til dauðans elskandi Indriða Jónssyni`, átti ég ekki kollgátuna; nú held ég maður verði að lesa meira.

Já, en lesið þér nú hægt, svo ég geti vel skilið, en ekki mjög hátt, ef einhver stendur hér í nándinni.

Það er þá fyrst, sagði Guðrún og fór að lesa:


Staddur í Reykjavík

Ástkæra Sigríður mín góð!

Guð gefi þér allar stundir gleðilegar!

Ég skrifa þér þetta bréf í því skyni, að það gæti komist til þín, svo lítið á bæri, ef svo óheppilega tekst til fyrir mér, að ég annaðhvort get ekki fundið þig heima eða ekki fengið að tala við þig einslega um það, sem mig langar til að nefna við þig og er eina erindið mitt hingað suður. En bréfsefnið er það að biðja þig að finna mig, ef þú getur, í dag eða á morgun. Ég á sem stendur heima í húsinu hjá honum L. og verð þar allan daginn í dag og á morgun og bíð þín, því ég vona til þess, Sigríður mín góð, að þú sért ekki svo búin að gleyma því, að við einu sinni vorum málkunnug, að þú veitir mér ekki þá gleði að sjá þig og lofa mér að tala við þig nokkur orð. Og þó það væri satt, sem ég hef heyrt fleygt, síðan ég kom hingað, bið ég þig samt að láta það ekki aftra þér frá að finna mig, því þú veist, að um ekkert hef ég að ásaka þig; og það skaltu vita fyrir víst, Sigríður mín, að aldrei getur mér orðið illa við þig fyrir það, þó svo væri, að ógæfa mín hefði vakið í huga mínum ástæðulausa von; og að vísu þætti mér það léttbærara, að þú sjálf segðir mér, að nú væri það fram komið, sem þú einhvern tíma sagðir við mig, þegar við vorum yngri, að ekki mundi fram koma, að þú gleymdir mér, en sá efi, sem lengi hefur pínt mig, þar sem ég veit ekki, hvort hugsun mín um þig hefur nokkurn tíma verið annað en tilefnislaus hugarburður og ímyndun sjálfs mín.

Vertu alla tíma blessuð og sæl! Og neitaðu ekki um þessa einu bæn

þínum til dauðans elskandi

Indriða Jónssyni.


Eftir að Guðrún var búin að lesa bréfið, sló nokkurri þögn á þau, en síðan tekur kaupmaður til orða og segir:

Nú hefur þetta mál tekið aðra stefnu en ég hugsaði; fáið þér mér þetta bréf, það er best geymt hjá mér; þér sjáið, hvernig í öllu liggur, það vantar ekki mikið á, að þetta sé biðilsbréf, og manninum er annað en gaman; og hver veit hvað úr því má verða, ef hann fær að finna Sigríði, eins og hann ætlast til í bréfinu? En mér er annt um hagi Sigríðar; ég hef einhvern tíma sleppt því við yður í trúnaði, að mér er orðið hlýlegt við hana, og því sýnist mér hún einhvers annars betra verð en að fara í hendurnar á einhverjum óvöldum sveitamanni.

Það er nú ekki svo ónýtt fyrir hana, sagði Guðrún og leit í gaupnir sér, ef þér ætlið yður það með hana, sem sumir hérna eru að geta til.

Hvað er það?

Að þér ætlið yður að eiga hana.

Það eru ekki mín orð; en maður hugsar svo margt, og yður í einlægni að segja, þá hef ég hugsað mér það svona: Sigríður ætti að komast í góðra manna hendur, menntast og lagast; hún er á margan hátt efnileg stúlka; meðan ég er hér á sumrin, get ég ekki verið án þess að hafa einhverja stúlku til þess að þjóna mér og sjá eftir innan húss fyrir mig; ég veit ekki, hvort hún hefði illt af því að fara til mín og vera fyrir framan hjá mér eitt eða tvö missiri fyrst; annað mál er það, að margt getur lagast með tímanum og þegar kringumstæðurnar breytast. En þér ættuð að verða kaupmannskona eða "faktors"-kona hérna í Víkinni.

Ég að verða kaupmannskona, það veit ég ekki, hvernig það ætti til að bera!

Margt hefur eins ólíklegt orðið. Gjörum til að mynda ráð fyrir, að ég yrði leiður á því að vera lengur í þessu blessaða landi og setti hann Kristján, sem hjá mér er, með 7 eða 8 hundruð dala launum fyrir verslunina mína, þá gæti hann nú farið að kvongast.

Já, sagði Guðrún nokkuð undirfurðuleg, ég skil ekki í, að ég væri nær maddömudæminu fyrir það.

Nú, ykkur er líka meinlítið hvort við annað, ef mig grunar rétt, og svo benti maður þá Kristjáni til þess, að hann gæti ekki fengið verslunina nema með því eina skilyrði, að hann ætti þá stúlku, sem maður tiltæki, svo hafa menn stundum verið vanir að koma því í kring.

Þetta er ekki nema gaman fyrir yður, kaupmaður góður, sagði Guðrún og leit hlæjandi framan í kaupmann.

Það er full alvara, sagði kaupmaður og greip um leið höndina á Guðrúnu, full alvara og ásetningur minn; en ekki er vert að láta bera á því; en þegar ég fer héðan alfarinn, þá gildir mig einu, þó það sjáist, hverjir hafa verið vinir mínir og að ég hef munað eftir þeim - en bréfið að tarna verður að fara líkan veg sem önnur þess konar, er villast út af réttri leið.

En heyrið þér, kaupmaður góður! Mannskömmin kemur hingað á morgun í fyrra málið, eins og hann sagði, og hvað á þá að segja um bréfið?

Látið þér mig ráða; menn verða að sjá svo um, að hann gjöri sér engar ferðir að finna hana; og verið þér nú sælar. Þetta fer ekki lengra en millum okkar.

Eftir það gekk kaupmaður burt.

Það er að segja af Indriða, að hann þóttist hafa komið vel ár sinni fyrir borð, er hann hefði getað komið bréfi sínu laglega til Sigríðar, og vænti hann, að Sigríður mundi koma til fundar og viðtals við sig daginn eftir, eins og til var mælst í bréfinu; var honum fremur venju létt í geði, því hann smíðaði sér ýmsar hugmyndir, sem allar lutu að einu, að það gæti ekki verið satt, sem sagt var um Sigríði og kaupmann Möller, því Sigríður væri svo stillt og gætin stúlka, að hún mundi ekki flasa að slíku vandamáli, en verið aðeins skamma stund í Reykjavík; aftur gæti það verið, að kaupmanni litist vel á hana og vildi koma sér í mjúkinn hjá henni, og þetta mætti vera nóg til þess, að það væri fullyrt, sem þó ekki væri. Þannig leið dagurinn, og svaf Indriði af nóttina; en morguninn eftir var hann að venju snemma á ferli og sat við borð, sem var þar í stofunni, og snæddi árbita með húsbónda og Sigurði, og ræddu þeir um hitt og þetta; en sem þeir höfðu matast, kemur þar piltur nokkur í stofuna og spyr, hvort ekki sé þar aðkomumaður nokkur, sem Indriði heiti og að austan. Indriði sagði til sín, en pilturinn fær honum bréf og gengur út síðan. Indriði leit utan á bréfið og sá, að á því var kvenmannshönd. Hann stakk bréfinu á sig og gekk skömmu síðar út. Hann efaðist ekki um það, að bréfið væri frá Sigríði, og vildi því helst lesa það í einrúmi, til þess að enginn skyldi sjá, hvernig honum yrði við, hvort heldur það færði honum gleði- eður sorgarfréttir. Hann gekk út úr bænum og suður með tjörninni að austanverðu, því hann hugsaði, að þar mundi vera minnstar mannaferðir á; leitaði sér síðan uppi grasbala einn ekki langt frá tjörninni, þar sem dálítið barð bar af, svo hann sást ekki úr bænum, og tekur síðan upp bréfið og les það, og var það svona:


Heiðarlegi yngismaður!

Mér brá ekki lítið við að fá bréf frá yður í gær; en meira brá mér þó við að sjá, að það var skrifað hér í Reykjavík. Nú þó að ég gjörði réttast í að svara því ekki, virðist mér samt, að mér sé nauðugur einn kostur að senda yður þenna miða til þess að taka af öll tvímæli. Ég ætla þá ekki að álasa yður fyrir það, að þér hafið verið helst til óaðgætinn, er þér senduð mér þess konar bréf, án þess að þér áður kæmust að því, hvort nú stæði svo á högum mínum, að yður væri til nokkurs að fara því á flot, sem þér hálfvegis minnist á í því, og hefðuð þér þó mátt geta því nærri, að margt má skipast á skemmri tíma en þeim, sem liðinn er, síðan við sáumst síðast. Hitt verð ég að láta yður vita, að kringumstæður mínar eru þannig lagaðar, að það gæti ekki orðið yður til neinnar gleði, að ég talaði við yður, ef það er eina erindið við mig, sem ég þykist ráða af bréfi yðar; sömuleiðis vona ég, að þér sjáið sjálfur, að þarfleysa er að skrifa mér fleiri bréf um þetta efni; og á hinn bóginn gæti slíkt orðið mér að baga, ef þess háttar kæmist í hendur þeim mönnum, sem ég vil ekki hafi verri hugmynd um mig en ég verðskulda. Að endingu óska ég yður allra heilla, og verið sannfærður um, að það mundi vera mér mikil ánægja bráðlega að frétta það, að þér hafið snúið huga yðar til einhverrar annarrar, sem er yðar verðugri en

yðar Sigríður Bjarnadóttir.


Þeir, sem einhvern tíma hafa reynt það að fylgja kærum ástvini til moldar og hafa séð yndi augna sinna og trúfastan leiðtoga allt í einu hverfa ofan í hið myrkva skaut jarðarinnar, þaðan sem hans er aldrei aftur von til þessa lífs, munu geta ímyndað sér, hvernig Indriða varð við, er hann las þetta bréf, sem flutti alla von hans, þenna trúa leiðtoga æskumannsins, til grafarinnar. Indriði sat þegjandi og starði á bréfið og las það oft upp aftur og aftur, eins og hann gæti ekki trúað sjálfum sér, að hann sæi það rétt, sem hann sá og las. Sólin blessuð leið frá austri til suðurs og frá suðri í vesturátt; fuglarnir þutu í loftinu kringum Indriða, þar sem hann sat eins og jarðfastur steinn, og skuggarnir þokuðust upp eftir balanum og upp á fætur honum; en Indriði vissi ekki, hverju fram fór, og tárin, sem eru fylgisveinar harmsins og einverunnar og menn ekki skammast sín fyrir, þegar enginn sér til, styttu honum svo stundir, að hann gáði þess ekki, hvað tímanum leið. Loksins stóð hann upp og ætlaði líkast til að snúa aftur heim til bæjarins; en með því að hugur hans var í einhverri leiðslu og svima, gáði hann ekki að, hvað hann gekk, og stefnir austur með tjörn; þannig gekk hann um hríð, og verður hann þá ekki fyrr var við en slegið er með hendi á herðarnar á honum, og er þar kominn Sigurður félagi hans; hafði hann lengi um daginn leitað hans alls staðar þar, sem honum gat til hugar komið, og nú gengið þenna veg, ef svo líklega sem ólíklega mætti til bera, að Indriði hefði gengið þangað. Indriði hrökk við, þegar slegið var á herðarnar á honum, en Sigurður leit hálfhlæjandi framan í hann og sagði:

Hvað ertu nú að hérvillast, lagsmaður?

Ég gekk hingað að gamni mínu, sagði Indriði, og nú ætlaði ég heim aftur.

Á! Þá þykir mér þú ekki fara skemmstu leiðina, ef þú ætlar að ganga í austur, þangað til þú kemur til vestursins, því hérna er Reykjavík! En hvað er að sjá þig, maður! Það er eins og þú hafir sveitst blóðinu í allan dag; manni getur dottið margt í hug, þegar maður sér þig; skollinn hefur þó, vænti ég, ekki skotið sömu flugunni í munninn á þér sem honum Jörgensen heitnum, að vilja fara að stjórna landinu? Þú hefur tekið þeim stakkaskiptum síðan í gær, að við gengum upp að vörðunni, að ég þekki þig ekki, og svo þykir mér þú orðinn þungur undir brúnina sem þaðan mundi bráðum koma það veður, sem ekki léti neinn stein óhrærðan í þessu landi.

Æ, það getur þú verið óhræddur um, að ekki ætla ég að steypa konungum eða keisurum, enda tek ég það ekki illa upp, þó þú gjörir að gamni þínu; en hitt mátt þú vita, að margt getur aflað manni áhyggju og ógleði, sem maður gefur ekki um að ræða um við alla.

Æ, guði sé lof fyrir, að það eru engin stjórnarumbrot í höfðinu á þér, annars hefði ég sagt, að þér væri hollast að koma heim með mér að borða miðdagsmatinn; því þess háttar menn eru vanir að verða svo hægir og blíðir eins og lamb, undir eins og þeir fá eitthvað gott að kasta á svanginn, þó þeir áður væru sem glefsandi vargar; og látum oss nú ganga heim til vonar og vara, því maturinn bíður okkar.

Því næst gengu þeir heim, og segir nú ekki annað frá Indriða en að hann dvaldi í Reykjavík einn eða tvo daga, en réði ekki aftur til austurferðar; var það og hvorttveggja, að farið var að líða á haust og allra veðra þegar að von, enda hafði harmur sá, er hann nú átti við að þreyta, unnið svo á heilsufar hans, að hann treysti sér ekki til að takast svo langa og örðuga ferð á hendur, og réði hann það af, að hann kom hestum sínum á fóður upp í Mosfellssveit, en fór með Sigurði suður í Garðahverfi og hafðist þar við framan af vetrinum, ýmist við smíðar eða fiskiróðra, og nefndist Þorleifur og kvaðst vera norðlenskur að kyni og bað Sigurð ekki geta þess, hver hann væri.

Af því, sem sagt er hér að undanförnu, mun lesarinn geta ráðið, að nokkur tilhæfa var í því, að kaupmaður Möller legði um þær mundir meiri hug á Sigríði en nokkra aðra stúlku þar í Víkinni; en eins og það er satt, að almannarómurinn styðst oftast nær við einhverja átyllu, eins víst er það, að hann gjörir oft úlfalda úr mýflugunni. Þannig var það og um það, er menn nú töluðu sín á milli í Reykjavík, að þau Sigríður væru þegar trúlofuð, þó lítið ætti á að bera. Möller hafði aldrei enn þá vikið orði að því við Sigríði sjálfa, sem til ásta lyti, enda hafði hann ekki fengið færi á því að tala einslega við hana. Þegar hann kom þar í húsið, var hann jafnan glaðlegur í viðmóti og ræðinn við þær stallsystur. Hann sá það, að lundarfari Sigríðar var svo varið, að glens átti ekki við hana, og því forðaðist hann jafnan allt þess háttar; sjaldan hældi hann Sigríði mikið upp í eyrun, en þegar hann gat hennar við aðra út í frá, talaði hann fremur hlýlega um hana, einkum er hann ræddi við þá, sem hann hugði að mundu flytja henni það aftur. Ekki gaf hann henni stórvægis gjafir, sem margir hylla að sér konur með, en stundum vék hann henni hinu og þessu smávegis, sem lítið var í varið; en hvernig sem á því stóð, hittist jafnan svo á, að það var það, sem Sigríði í þann svipinn vanhagaði mest um.

Af þessu kom það, að Sigríði var fremur þelgott við kaupmann Möller, og var það að líkindum, því á ókenndum stað, þar sem menn ekki eiga frændur eða vini, fá menn jafnan góðan þokka á þeim, er verða til þess heldur að víkja að manni góðu en illu. Nú þótt Sigríði væri hlýlegt við Möller af þessum orsökum, sem nú höfum vér talið, þá er hitt þó víst, að ekki hafði Sigríður enn hneigt ástarhug til Möllers eða nokkurs manns þar syðra. Sigríður var kona stöðuglynd; en svo er varið um þær konur, er svo eru skapi farnar, að hjarta þeirra snýst sjaldan fljótt til ásta, ef þær einhvern tíma hafa lagt hreinan og einlægan huga til einhvers manns, sem þær hljóta á bak að sjá.

Það var einhvern tíma skömmu fyrir jól, að Ormur bróðir Sigríðar kom sem oftar inn til Reykjavíkur að finna systur sína og var þar í Víkinni fram eftir deginum, og varð það kunnugt þar í bænum, að piltar væru þar. Ormur ætlaði með skólabátnum yfir um aftur um kvöldið; beiddi hann þá systur sína að fylgja sér á veg suður á Skildinganesmela, svo að þau gætu því lengur talað og masað saman. Þetta gjörði Sigríður, og hafði kaupmaður Möller einhvern snefil af, er þau fóru suður um bæinn, og skömmu síðar tekur hann hatt og vettlinga og gengur upp í gegnum bæinn, eins og hann ætlaði á þá leið, sem liggur norður úr bænum; en er hann kemur að læknum, skotrar hann til hliðar og yfir Austurvöll og þaðan að tjörninni og gengur með henni og fylgir jafnan börðunum; og er hann þykist vera kominn svo langt, að ekki megi sjá til ferða hans úr bænum, snýr hann upp á Skildinganesmela og litast þar um, en sér ekki til þeirra systkina; heldur hann þá áfram og allt þangað til, er hann kemur að hól þeim, sem er Reykjavíkur megin við mýrina; þaðan, vissi hann, að sjá mátti allar mannaferðir um melana; þar nemur hann staðar og sér þá bráðum, hvar kvenmaður kemur sunnan yfir stillurnar og stefnir til Víkur. Möller stefnir þá ofan af hólnum og í veginn fyrir hana. Sigríður sér manninn og kennir hann þegar, en lætur þó sem hún taki ekki eftir honum og greiðir heldur sporið í því skyni, að hann skuli ekki ná sér; en Möller var drjúgstígari, og nær hann henni góðan kipp frá hæðinni og heilsar henni blíðlega og ávarpar hana þessum orðum:

Vitið þér, jómfrú Sigríður, hvers ég óskaði mér rétt í sama bili sem ég náði yður núna?

Þetta skipti lá vel á Sigríði, og tók hún glaðlega undir ræðu Möllers og sagði:

Hvernig á ég að vita um það? En ætti ég að geta einhvers um það, mundi ég helst geta þess, að þér óskuðuð yður, að ullin yðar og fiskurinn seldist vel í Kaupmannahöfn í vetur, því er það ekki sagt um ykkur kaupmennina: Þar sem yðar fjársjóðir eru, þar eru og yðar hjörtu?

Ekki veit ég það, hvort þessi grein á fremur við okkur kaupmennina en aðra menn, sagði kaupmaður og tók með meiri alvöru undir svarið en Sigríður hafði vænt, og ég segi fyrir mig, að ekki hef ég fest svo hugann við fjársjóðuna, að ég ekki hugsi tíðara um annað; en fyrst að þér gátuð ekki undir eins í kollinn, þá ætla ég að segja yður það, hvers ég óskaði mér.

Nú, það er gaman að heyra það, sagði Sigríður og leit framan í Möller, af því hún furðaði sig á því, með hvílíkri alvörugefni hann talaði.

Þér megið ekki hlæja að ósk minni, þó yður í fyrstu virðist hún kátleg; ég óskaði mér, að melarnir þeir arna væru orðnir fjórum sinnum lengri en þeir eru.

Nei, ekki held ég, að ég geti gjört það fyrir yður að láta vera að hlæja að henni, og til þess munuð þér og hafa ætlast, því hvað gæti yður gengið til þess að óska þessarar heimsku? Væru þeir allir saman sléttur og fagur grasvöllur, þá gæti ég skilið í því, hvers vegna þér vilduð, að þeir væru stærri, en eins og þeir eru, gilti mig að minnsta kosti einu, þó þeir væru talsvert styttri.

Mér er sama, hvort heldur þeir væru langir eða skammir endrarnær, ef þeir aðeins væru núna fjórum sinnum lengri en þeir eru; því, skoðið þér til, væru þeir fjórum sinnum lengri, hefði ég fjórum sinnum lengri ánægjustund.

Það mun vera svo að skilja, að þér eruð eins og börnin, sem hafa gaman af að vasla pollana; yður þykir gaman að vaða aurinn og krapið upp í ökla, sagði Sigríður og brosti við; en kaupmaður svaraði allt að einu alvörugefinn eins sem áður:

Nei, ekki þykir mér nú það, en hitt er það, að ég væri glaður og ánægður, þótt ég ætti alla mína ævi að vaða eld og fara yfir ófærur, ef ég ætti að vinna það til þess að geta notið yðar fylgdar.

Sigríður leit enn þá einu sinni framan í Möller, eins og hún ætlaði að komast eftir, hvernig stæði á því, að hann hagaði svo kátlega orðum sínum fremur venju. Hún sá þá, að honum stökk ekki bros, en hengdi niður höfuðið, eins og honum byggi einhver mikil áhyggja í skapi; hugsaði hún þá, að ekki tjáði að taka orðum hans með gamni einu, og segir:

Ég hef aldrei heyrt yður tala svo undarlega eins og núna, herra Möller.

Ég hef heldur aldrei getað komið mér að eða fengið tækifæri til þess að tala við yður einslega, þó mig hafi oft langað til þess.

Þegar Sigríður heyrði, að kaupmaður sneri svona orðum sínum, tók hún að greiða sporið, allt eins og henni væri um og ó, að samtalið lengdist mikið, og hún yrði því fegnust að komast sem fyrst heim í bæinn; kaupmaður varð þess fljótt var og lítur ofur angurværum augum til hennar og segir:

Æ, ég hélt þér ætluðuð, jómfrú góð, að lofa mér að verða yður samferða þenna, litla spotta, sem er eftir til bæjarins, en nú eruð þér farin að ganga svo hratt, að -

Það kemur til af því, að ég held, að þér hafið hitt óskastundina áðan og melarnir þeir arna ætli aldrei að þrjóta; en hitt vitið þér, að mér þykir ætíð skemmtilegt að tala við yður.

Og því er nú miður, að ég held, að sú ætli að verða raunin á um melana, að ósk mín ekki muni rætast, því nú eigum við ekki langt að garðinum, og líkast til verð ég ekki heppnari með þá óskina, sem ég ætlaði að bera fram fyrir yður, mín e-.

Það er bágt á það að giska, hvaða orð það var, sem Möller tæpti á og ætlaði að segja, og eins óvíst er það og örðugt fyrir oss, er ekki þekkjum hugrenningar Möllers, að skera úr því, hvað til þess kom, að hann talaði ekki orðið út til fulls; hvort það var heldur, að honum í sama bili varð litið framan í Sigríði og sá, að hún var blóðrauð út undir eyru, eða hitt, að rétt um sama mund gekk fram hjá þeim maður nokkur þar úr Víkinni, sem Möller þekkti; en það vitum vér, að hann þagnaði á e-inu og þagði litla stund, en þó ekki svo lengi, að hann gæfi Sigríði ráðrúm til að svara; byrjar hann þá aftur og segir:

Ég mælist ekki til mikils. Bónin, sem ég ætlaði að bera fram fyrir yður, er sú, að ég ætla að biðja yður að fara til mín í vor eð kemur.

Sigríði hafði orðið hálfvegis hverft við, þegar Möller fór að ympra á orðinu, sem ekki varð lengra en e, og skipti mjög litum, en er hún nú heyrði, að ekki varð annað úr en þetta, hefur hún ef til vill hugsað með sér: Það fór betur, að hér fæddist mús, en ekki önnur stærri skepna. Roðinn fór aftur að þynnast á kinnunum á henni, og hún svaraði kaupmanni einarðlega:

Hvernig getur yður dottið í hug að biðja mig þess? Þér vitið, að ég er vistuð eftirleiðis hjá henni maddömu Á., og ég á þar svo gott sem ég gæti átt nokkurs staðar hér syðra; eða ætlið þér að fara að búa?

Ekki veit ég, hvort ég á að kalla það svo, en ég hef ásett mér eftirleiðis að taka mér kvenmann til að vera hjá mér í húsinu og búa til fyrir mig matinn; ég er orðinn harla leiður af því að þurfa að sækja allt til annarra, sem ég þarf með; en ekki skuluð þér, jómfrú góð, þurfa að kvíða því, að þér þyrftuð að ganga í allt; það er sjálfsagt, að ég tæki einhverja griðkonu yður til aðstoðar; og hvað kaup og atlæti snertir, vildi ég sjá svo um, að þér hefðuð hvorugt betra nokkurs staðar annars staðar.

Þó þetta kynni að vera allt saman vel boðið, þá er fyrst að segja þar um, að ég er mjög svo fákunnandi í öllum búnaðarhætti hér; ég er vönust sveitabúnaðinum, og um fram allt er á það að líta, að ég er vistuð; eða því reynið þér eigi að útvega yður aðra bústýru, sem bæði væri betur við yðar hæfi og óvistuð?

Ekki fer ég þessu á flot, sagði Möller, nema svo aðeins, að bæði maddama Á. og aðrir, sem hlut eiga að máli, séu því ekki mótfallnir; en því ber ég þetta mál fremur fyrir yður en aðrar, að ég tek yður fram yfir allar, sem ég þekki hér, og getið þér ekki láð mér, að ég helst kýs að hafa þann kvenmann mér við hönd, sem ég veit að er ráðvönd, trú og mér er þelbetra við en nokkra aðra stúlku.

Þessi seinustu orð í ræðu sinni sagði kaupmaður á þann hátt sem hann vildi, að Sigríði skyldi verða þau minnistæð; en ekki gat hann rætt fleira um þetta efni að því skipti, því nú voru þau komin inn í bæ, og skildi kaupmaður þar við Sigríði og gekk nú aftur nefsneiðing ofan að tjörn og sama veg, sem hann hafði áður farið. Sigríður íhugaði orð Möllers, og þótti henni allundarlega borin fram tilmæli hans um vistarráðin, ef ekkert byggi meira undir, og hafði þó ekki orð á um viðtal þeirra við fleiri menn. En ekki leið á löngu, áður það varð augljóst, að Möller hafði verið full alvara og gjörði þetta mál uppskátt fyrir kaupmanni Á. og konu hans og skoraði fast á þau að gefa Sigríði upp vistarráðin, en lagði jafnframt mikið að Sigríði um að fara til sín. Sigríður leitaði ráða hjá maddömu Þóru. Hún lét sér fátt um finnast, en sagði þó, að kaupmaður Möller mundi virða það svo sem þau hjón stæðu á móti, að þessi ráð tækjust, og lettu hana, ef hún neitaði að fara til hans. Leið nú svo fram eftir vetrinum, að Sigríður hvorki aftók það með öllu eða hét því og kvaðst verða að ráðgast betur um það við huga sinn og bera það undir Orm bróður sinn; en eftir því þóttist Guðrún taka, að Sigríði brygði einhvern veginn kátlegar en áður við í hvert skipti, sem Möller kom þar í húsið og heilsaði henni, og komst Guðrún svo að orði um það, að hún sagði, að Sigríður væri farin að segja eftir.

Það var eitt kvöld nokkru eftir miðjan vetur, að þær Sigríður og Guðrún sátu tvær einar í stofu. Veður var fagurt, sólin var að setjast, og kvöldroðanum kastaði á gluggana og inn um stofuna. Guðrún sat á stóli út við gluggann og var að sauma og þagði; sá, sem þá hefði séð hana og tekið eftir brosunum, sem voru að smáflögra um munnvikin á henni, og séð hvernig spékopparnir á kinnunum á henni ýmist voru að myndast eða hverfa, mundi hafa hugsað: Annaðhvort er um það, stúlka mín, að þú ert sokkin niður í einhverja skemmtilega hugsun, eða hitt, að einhver fallegur piltur er hér í nánd og gefur þér auga; þú hefur veður af honum, en Iæst ekki sjá hann, slær því augunum niður og þykist ekki gæta að öðru en saumunum, en getur þó ekki með öllu dulið það, sem dulið á að vera; hugrenningar þínar læðast á vörum þér.

Sigríður sat allskammt frá Guðrúnu í legubekk einum og hafði í fangi sér dálitla meyju, ofur fallega. Það var dóttir þeirra hjónanna, sem Sigrún hét og Sigríður unni mikið. Sigríður svæfði meyjuna í kjöltu sér og kvað þetta við hana:

Ljóshærð og litfríð
og létt undir brún,
handsmá og hýreyg
og heitir Sigrún.

Viska með vexti
æ vaxi þér hjá!
Veraldar vélráð
ei vinni þig á!

Svíkur hún seggi
og svæfir við glaum,
óvörum ýtir
í örlaga straum.

Veikur er viljinn,
og veik eru börn;
alvaldur, alvaldur
æ sé þeim vörn!

Sofðu, mín Sigrún,
og sofðu nú rótt;
guð faðir gefi
góða þér nótt!

Þessar vísur raulaði Sigríður aftur og aftur og þess á millum þessar alkenndu hendingar:

Bí bí og blaka,
álftirnar kvaka;
ég læt sem ég sofi,
en samt mun ég vaka.

En er Sigrún litla var sofnuð, lagði hún hana hægt í legubekkinn og lítinn kodda undir höfuðið og breiddi svuntuna sína ofan á hana, en settist sjálf út við gluggann allskammt frá Guðrúnu og horfði um hríð út. Allt var kyrrt á strætum bæjarins; dálítill snjófölvi var yfir jörðunni; veðrið var hreint og heiðríkt, og sólin var þegar sigin, og sló blóðrauðum geislum um allan vestursjóinn; jökulinn hillti upp; fiskibátarnir voru að koma að, sumir að lenda, en sumir voru komnir inn fyrir eyjarnar og skriðu fagurlega í logninu. Sigríður horfði stundarkorn þegjandi á blíðu og fegurð náttúrunnar, og var auðséð, að henni fannst mikið um, en síðan segir hún við Guðrúnu:

Alls staðar er guð minn mönnunum góður, og mikið er blessað veðrið að tarna fagurt, og mikið yndislegt er að horfa út núna; það er eins og ég sjái blessuð fjöllin mín fyrir austan, þegar ég lít upp til Esjunnar.

Já, segir Guðrún hálfhlæjandi; veðrið er gott, góða mín, en það hefur verið svo oft, það sem af er vetrinum, eða sér þú nokkur nýsmíði á sjónum eða fjöllunum?

Nei, en ég sé blessaða bátana, sem eru að koma hlaðnir að landi; og aldrei hef ég séð jökulinn svo tignarlegan eins og mér virðist hann vera núna.

Æ, Sigríður mín! Okkur bregður nú ekki við það hérna á Suðurnesjunum að sjá þessar slorsleifar; það er lítil fegurð í þeim, sýnist mér; og um fjöllin þín, góða mín, er það að segja, að mér virðast þau núna eins og þau eru vön.

Ó, þú skilur mig ekki, sagði Sigríður og stundi dálítið við, mér þykir svo vænt um fjöllin, ég er upp alin við fjöll, og því er það eins og það glaðni yfir mér í hvert skipti, sem ég lít hérna upp til fjallanna, og mig langi til að vera komin mitt á milli fjallanna minna aftur.

Ég held þú sért alltaf að hugsa um þau og sjóinn og bátana og grasið á jörðunni, sagði Guðrún hálfhlæjandi; ég lái þér það ekki, en maður getur hugsað um fleira; og veistu, hvað ég er að velta fyrir mér í huganum?

Nei, en ég þykist vita, að það sé ekki um fjöllin eða bátana.

Þar áttu kollgátuna, Sigríður mín! Ég er að hugsa um það, hvernig við munum skemmta okkur, ef guð lofar, á sunnudaginn, sem kemur.

Það held ég verði líkt eins og núna, ef við lifum og verðum heilbrigðar.

Þá skyldi rækallinn fara í minn stað til dansleikanna, ef maður skemmti sér ekki betur við þá en þegar maður meltist heima; nei, góða mín; þá kemur nú fyrst hátíðabragurinn á hérna í Víkurgreyinu, þegar menn geta loksins komið sér saman um að hoppa úr sér ólundina; og veistu það, á sunnudaginn, sem kemur, á að verða dansleikur? Því hefur verið skotið að mér, og þar að auki hefur mig dreymt fyrir því, að við komum þar báðar; en með hverjum atvikum það verður, er enn óljóst fyrir mér, því lítil líkindi eru um mig, sem kann að dansa, en minni um þig aumingjann, sem ekki kannt annað en þetta, sem ég hef verið að kenna þér.

Vertu ekki að aumka mig fyrir það, góða mín, sagði Sigríður, ég get ekki sagt, að mig langi svo mikið til þess og allra síst til þess að dansa, því það yrði til hneykslis; ég hefði aðeins gaman af að horfa á.

Já, þú getur farið, þó þú dansir ekki; þetta fer hún systir mín, og dansar hún ekki; og á ég ekki að skjóta því að honum kaupmanni Möller, að þig langi hálfvegis til að fara?

Nei, góða mín, það ætla ég að biðja þig fyrir alla muni að láta vera, sagði Sigríður og skipti um leið litum.

Það er þá réttast, að ég gjöri það ekki, því ef honum þykir eins vænt um þig og hann segir, þá mun ekki þurfa að minna hann á það.

Vertu nú ekki að fara með þessa heimsku allajafna; hvað ætli honum geti þótt vænt um mig? Það er engin orsök til þess.

Það veit ég, ekki önnur en sú, sem er vön að vera, þegar pilti líst á stúlku og ætlar sér að eiga hana; eða ertu svo einföld, elskan mín, að þú sjáir ekki, hvað býr undir því, að hann er að biðja þig að fara til sín í vor? Ekkert annað en að hann sér það fyrir, sem líklegast á fram að koma, að það dregur saman með ykkur, en vill gefa þér færi á að kynnast sér fyrst; svona var um hana systur mína og manninn hennar; það byrjaði svo á millum þeirra, að hún fór fyrst til hans.

Þó ég fari til hans, sem ekki er víst enn þá, skaltu sanna það, að ég verð ekki lengi hjá honum; því ef ég gjöri það, þá er það einasta þess vegna, að hjónin hérna hafa heldur mælst til þess, að ég væri þar rétt í sumar.

Og síðan?

Fer ég hingað aftur eða eitthvað; ég veit það nú ekki.

Nei, þá verður allt komið í kring og þú orðin maddama Möller; mikil gæfa er það, sem sumum mönnum fylgir, það er eins og lánið sæki eftir þeim, hvernig sem þeir reyna til að flýja undan því; og ekki hefði það verið haldið, þegar þú komst hingað, að þú ættir að sækja hingað að verða kaupmanns maddama.

Ég held við verðum það líka líkt báðar, sagði Sigríður; en það var auðséð, að Guðrúnu líkaði ekki þetta svar, því hún fann, að í því lá, að Sigríður vantreysti því, að hún gæti Iíka náð í kaupmann, og svaraði heldur þurrlega:

Það er þá ekki fyrir það, þó þeim þyki það sumum ólíklegt núna, þá getur drottinn minn á einhvern hátt séð fyrir mér; þeir eru ekki allir farnir burtu héðan, sem nú eru hérna í Víkinni.

Að svo mæltu felldu þær Guðrún talið; en svo fór, að spár Guðrúnar áttu sér ekki langan aldur, því daginn eftir að þær stallsystur ræddust þetta við, kom Möller þar og bar það upp fyrir Sigríði, að hann hefði ásett sér að bjóða henni að fara með sér, eður, sem hann komst að orði, biðja hana að gjöra sér þá ánægju að lofa sér að hafa hana fyrir fylgistúlku á dansleiknum. Sigríður svarar tilmælum hans hæversklega, en bar það þó fyrir, að hún væri harla fákunnandi í þess háttar efnum og óvön að koma á slíka gleðifundi. Möller sagði um það, að hinum fallegu stúlkunum fyrirgæfist mikið í því efni, þó þær bæri ekki ævinlega sem kunnáttulegast fótinn í dansinum. Nú þótt að Sigríði væri um og ó að fara með Möller, þótti henni það réttast að neita ekki svo siðsömum tilmælum orsakalaust, og bar hún þetta mál undir maddömu Á., og sagði hún, að raunar hefðu þau hjónin verið búin að ásetja sér að láta hana fara með sér til dansleiksins, en þar eð Möller hefði boðið henni, gæti og farið vel á því, að hún tæki því boði, og skyldi hún þó engu að síður vera þeim hjónum mest fylgisöm. Er þetta því næst afráðið, og leið nú svo fram eftir vikunni, að ekki er Guðrúnu boðið, en engu að síður hafði hún mikinn starfa alla þá viku í því að laga og snotra föt sín og kjóla, og á hverri nóttu dreymdi hana drauma nokkra, er allir hnigu að því, að þar mundi koma einhver fríður og fagur yngismaður og leiða hana í dansinn.

Þetta rættist og á laugardaginn, og er þar kominn Kristján, búðarmaður kaupmanns Möllers; en því hafði hann ekki boðið henni fyrri, að nokkur ágreiningur hafði verið millum þeirra dansstjóranna, hvort Guðrún væri nógu göfug til þess að geta komið á það mannamót, sem jafntignar konur væru fyrir sem á þessum mannfundi. Á sunnudaginn kemur Guðrún að máli við Sigríði og segir:

Ekki veit ég, hvað þú hugsar, Sigríður mín, að vera ekki farin að búa þig neitt undir með fötin, sem þú ætlar þér að hafa í kvöld.

Það er nú gott við íslenska búninginn minn, sagði Sigríður, að hann þarf ekki langs undirbúnings við; maður þarf ekki annað en taka hann upp úr kistunni og fara í hann.

Hugsar þú þér að vera á íslenska búningnum í kvöld, góða mín?

Það er hvorttveggja, að ég á ekki önnur föt að vera í, enda vil ég ekki vera öðruvísi búin.

Með hvíta strókinn þinn á höfðinu, vænti ég, er ekki svo?

Þú átt við faldinn minn? Ég á rétt að segja spánýjan fald; ég held þú hafir ekki séð hann.

Nei, og guð almáttugur forði mér frá að sjá hann nokkurn tíma á höfðinu á þér.

Því þá? Það var þó sagt fyrir austan, að mér færi hann ekki sem verst.

Fyrir austan! Því get ég trúað; en hérna, góða mín, verður þú til hneykslis og aðhláturs að hafa það á höfðinu; gjörðu mér það ekki, elskan mín, til raunar og armæðu að hafa óhræsis íslenska búninginn í kvöld; það er annað mál, þó þú skjótist með hann í kirkjuna, þar er ekki tekið svo mikið eftir því, hvernig maður er klæddur; en við dansleikinn, góða mín, verður maður þó að minnsta kosti að vera ekki svo afkáralega klæddur, að aðrir hlæi að manni og bendi á mann, undir eins og maður snýr að þeim bakinu.

Ég er nú ekki svo spéhrædd, Guðrún mín. En hitt er það, ég sé það á eftir, að ég átti aldrei að lofa því að fara, því mér verður svo hvort sem er ofaukið þar.

Segðu nú ekki að tarna, elskan mín! Ég er sannfærð um, að þú skemmtir þér vel; en gættu nú að, í því, sem í sjálfu sér er lítið í varið eins og þetta, hvernig maður er klæddur, á maður að laga sig eftir því, sem öðrum er geðþekkast, og ég efast ekki um, að honum kaupmanni Möller líki það betur, ef þú ert á dönskum fötum, og líst þá betur á þig, sagði Guðrún og kinkaði kolli að Sigríði.

Sigríður hljóðnaði við og segir: Þú veist það, að ég gjöri mér ekki svo mikið far um að láta honum lítast á mig.

Seinna koma sumir dagar og koma þó, sagði Guðrún, og áttu þær stallsystur nokkuð lengri ræðu um þetta efni; sagði Guðrún, að það væri réttast, að þær bæru þetta mál undir álit Möllers og heyrðu, hvað hann segði; ekki vildi Sigríður það, og fór svo, að Sigríður lét Guðrúnu ráða, og útvegaði Guðrún henni danskan búning hjá stúlku nokkurri þar í Víkinni, sem var veik og gat því ekki farið. Um kvöldið komu þeir Möller og Kristján að sækja stúlkur sínar, og fylgdust þau nú öll þar úr húsinu og gengu til skytnings, því þar skyldi dansleikurinn standa. En ekki ætlum vér að fylgja Sigríði lengra en þar til dyranna og tökum þar aftur til sögunnar, sem stjarnan var gengin nær miðaftansstað en nónstað og ljósin í kertahjálminum í danssalnum voru sum slokknuð og sum nær dauða en lífi og gusu við og við blágráum loga upp úr kertapípunum, en enn þá lifði á nokkrum kertisstubbum, sem innsigluðu með logandi feiti kjóla og treyjur yngismanna, er fram hjá gengu, svo að þeir gætu haft það til jarteikna daginn eftir, að þeir hefðu "komið" í danssalinn, "séð og sigrað". Manntötrið, er fenginn hafði verið til þess að snúa sveifinni á hljóðfærinu, sem dansinn var stiginn eftir, var genginn úr salnum, lúinn og laraður í hendinni, og dansinn var hættur. Þegar dansinum var hætt, tóku menn að ganga heim. Þeir fylgdust allir, kaupmaður Möller, kaupmaður Á. og Kristján, og leiddi hver sína stúlku. Veðri var svo varið, að tungl var í fyllingu og himinninn heiðríkur og norðurljós sem mest má verða; snjór var nokkur á jörðu og gangfæri gott, frost lítið, en logn og blíða.

Þegar þau komu út, tekur kaupmaður Á. svo til orða við þá Möller og Kristján:

Ég veit ekki, hvað ykkur líst, en hitt veit ég, hvað mér þætti best; mig langar til að rétta mig ögn upp, áður en við förum heim; veðrið er svo blessað og blítt, að ég held það væri réttast að ganga sér dálítinn kipp, til að mynda hérna suður með tjörninni; það er heldur ekki illa til fallið að fylgja skólapiltunum á veg, sem verið hafa gestir okkar í kvöld og nú eru að fara á stað; heyrið þið til, þarna byrja þeir að syngja; það er svo sjaldan, að menn heyra hér falleg hljóð og vel sungið, og látum okkur ganga í humáttina eftir þeim.

Allir féllust á það, sem kaupmaður sagði, og gengu suður með tjörn; en skólapiltar sneru út á miðja tjörnina og fóru eftir ísnum skemmstu leið og sungu siðsamlega og fagurt ýmsar vísur, er þeir kunnu, og var þetta eitt af því, sem þeir fóru með:

Ó, fögur er vor fósturjörð
um fríða sumardaga,
er laufin grænu litka börð
og leikur hjörð í haga,
en dalur lyftir blárri brún
mót blíðum sólar loga
og glitrar flötur, glóir tún
og gyllir sunna voga.

Og vegleg jörð vor áa er
með ísi þakta tinda,
um heiðrík kvöld að höfði sér
nær hnýtir gullna linda
og logagneistum stjörnur strá
um strindi, hulið svellum,
en hoppa álfar hjarni á,
svo heyrist dun í fellum.

Þú, fósturjörðin fríð og kær!
sem feðra hlúar beinum
og lífið ungu frjóvi fær
hjá fornum bautasteinum;
ó, blessuð vertu, fagra fold,
og fjöldinn þinna barna,
á meðan gróa grös í mold
og glóir nokkur stjarna.

Þessar vísur sungu þeir piltar tvisvar eða þrisvar sinnum, og var það auðséð, að þeir einkum völdu þær fremur en aðrar vísur, er skólapiltar voru vanir að syngja, af því að þeim þóttu þær helst lýsa tilfinningu sinni það skipti, en ekki fyrir því, að þær séu eins vel gjörðar og margt annað, er kveðið hefur verið um fósturjörð vora. Á meðan þeir sungu, gengu þau Möller öll hægt fram með tjörninni og hlustuðu þegjandi á, en piltar stefndu, sem áður segir, suður eftir miðri tjörn, og smám saman miðaði þeim svo áfram og fjarlægðust, að loksins heyrðu þau ekki annað en eiminn í loftinu af söngnum, og um síðir dó hann og með öllu. Snúa þau þá öll saman aftur á leið til bæjarins og gengu þannig, að kaupmaður Á. og kona hans foru kippkorn á undan, þar á eftir gengu þau Kristján og Guðrún, og Möller og Sigríður lengst á eftir og góðan spöl eftir þeim Kristjáni og Guðrúnu. Á meðan þau fylgdust öll og hlustuðu á sönginn, töluðu þau Möller og Sigríður lítið saman; en er þau nú sneru heim til bæjarins, tekur Möller þannig til orða ofurlega blíður:

Það er mér sönn ánægja og gleði, að ég þykist sjá það á yður, besta Sigríður, að þér hafið skemmt yður vel í kvöld, og ræð ég það af útliti yðar, því þér eruð eins hýr eins og rós á vordegi.

Það, sem Möller sagði, voru heldur engar ýkjur. Sigríður hafði um kvöldið skemmt sér við dansleikinn betur en hún nokkurn tíma áður hafði getað ímyndað sér; hún var óvön þess konar gleði og glaumi; en öll sú gleði og glaumur, er maður er óvanur, hrífur hvern mest. Möller hafði við hvert atvik leitast við að sýna, hversu annt honum væri um hana, svo að Sigríður gat ekki fundið annað en vild og vináttu í hverju tilviki hans. Hún hafði um kvöldið, ásamt öðrum konum, notið dálítils af víni, sem jafnan hefur þau áhrif, að tilfinningar manna verða þar af örari. Þegar hún kom út frá dansleiknum, var blíða og fegurð veðursins á þann hátt, að ekki gat hjá því farið, að það yrði að fylla hverja viðkvæma sál með undrun. Af þessu kom það, að Sigríður í þetta skipti var eins og í einhverjum gleðidvala, eða, ef vér mættum svo að orði kveða, það var eins og sál hennar hefði sökkt sér niður í eitthvað óskiljanlegt djúp ununar og gleði. Þegar Möller ávarpaði hana þessum orðum, sem vér fyrir skömmu gátum um, svaraði hún:

Hverjum á ég að þakka nema yður, herra Möller, fyrir þá ánægjustund, sem ég hef lifað í kvöld? Mér finnst á þessari stundu sem ég sé búin að gleyma öllu, sem mér hefur verið mótdrægt hingað til.

Þér getið því ekki nærri, hversu mikil gleði mér er að heyra það, að ég hef getað einu sinni verið yður að geði; en lengi ætlið þér að neita mér um þessa einu bón, sem ég hef beðið yður, eða haldið þér, að þér munuð hafa nokkra ógæfu af því að fara til mín?

Ónei, ég vona til, að þér viljið mér vel, og mér finnst, að ég nú geti ekki annað en orðið við þeim tilmælum yðar, fyrst yður þykir nokkru um það varða.

Í því bili, að Sigríður sagði þetta, bar svo við, að Kristján og Guðrún, er gengu spölkorn á undan, sveigðu fyrir húsgafl einn, svo að dálítið bar af millum þeirra og Möllers og Sigríðar, er þau gengu fram með húshliðinni; tunglið skein í heiði, en hefði það þá getað mælt, mundi það þá líkast til hafa sagt: einn, tveir, þrír, og sá seinasti ögn lengri en sá fyrsti, og ekki kalla ég það að kyssast, börn, einhvern tíma hef ég nú séð annað eins. En er þau Möller voru gengin fram með húshliðinni, stóðst það á, að kaupmaður Á. var kominn að dyrunum á húsinu sínu og staldraði þar við, þar til þeir Kristján og Möller voru komnir. Þar skildu þeir Möller og Kristján við þær stúlkur sínar. Sigríður var orðin örþreytt og úrvinda af svefni og féll undir eins í svefn, þegar hún var komin í rúmið, og svaf fast og draumlaust alla nóttina og fram á bjartan dag, fór síðan á fætur, en var mjög svo óglöð um daginn. En Guðrún lék als oddi og talaði varla svo eitt orð, að það lyti ekki eitthvað að því, er gjörst hafði á dansleiknum, og hversu vel hún hefði skemmt sér þar; og ekki gat hún ímyndað sér neina aðra orsök til ógleði Sigríðar en þá, að hún mundi hafa fengið höfuðverk af dansi og missvefni. En það var þó í rauninni ekki tilefnið, heldur hitt, að Sigríður sá það eftir á, að hún hafði verið helst til fljót á sér um það, er hún þegar hafði heitið Möller, og um leið sýnt honum þau atlot, er hún ekki mundi hafa gjört, ef hún hefði gætt sín.

Sigríður tók mikið mark á draumum, en síðan hún kom til Reykjavíkur, hafði hana sjaldan dreymt neitt, er hún þættist geta tekið mark á; en undarlega virtist henni nú bregða við eftir dansleikinn, er hún aftur fór að hafa drauma á hverri nóttu; þó voru það einkum tveir draumar, er hana dreymdi um þetta leyti, sem henni þótti mest í varið. Sá var annar draumur hennar, að henni þótti, að Björg systir sín koma til sín, og þótti henni hún vera fremur dauf og döpur í bragði og tala heldur stygglega við sig og segja: Nú ætla ég að fara norður aftur, Sigríður mín, og fáðu mér aftur silfurbeltið, sem ég gaf þér, þú hefur hvort sem er ekki að gjöra með það; það á ekki við danska búninginn. - Þessi draumur var ekki lengri, en svo mikillar ógleði aflaði hann Sigríði, að hún gat ekki tára bundist, þegar hún hugsaði um það, hversu raunalega systir sín hefði litið út; og þýddi hún svo þenna draum, að henni mundi hafa mislíkað það við sig, ef hún hefði lifað, er hún hefði látið það að orðum Guðrúnar að taka upp annan búning. - Sá var hinn annar draumur, er Sigríði dreymdi, að hún þóttist einu sinni vera komin austur og vera stödd fram á Fagradal og í sömu brekkunni, sem hún var oftast í, þegar hún var lítil og sat þar hjá fénu; henni þótti veðrið vera fagurt og hún sæi yfir allan dalinn; hún þekkti hvert örnefni, og hvert gil og hlíðargeiri blasti á móti henni, en sólin skein í heiði; þá varð henni litið þar í brekkuna, og þóttist hún koma auga á dálítinn topp af blágresi, sem hún mundi eftir, að henni hafði oft þótt gaman að horfa á á morgnana, þegar sólin skein sem glaðast og þau glóðu af dögginni. En allt í einu þótti henni, að hún sæi draga upp skýhnoðra einn norðan til í dalnum, og úr honum kom bylur mikill og þaut yfir brekkuna, og virtist henni sem hún sæi, þegar vindurinn fór yfir blágresið, svo það fölnaði, og í sama bili heyrði hún sagt: Ef ég fer hér um aftur, þá skulu þessi dalablóm deyja til fulls. Ekki vissi Sigríður að ráða þenna draum, en svo mikils angurs hafði hann aflað henni í svefninum, að ekki gat hún gleymt honum eða látið vera að hugsa um hann, og hvert skipti, sem hún íhugaði hann, rifjaðist upp fyrir henni endurminning umliðins tíma og æskuáranna, og fannst henni þá sem aldrei hefði hugur sinn verið eins fastur við það, er hún unni mest og hafði yndi af, á meðan hún var yngri, og óskaði sér að vera komin aftur austur; einnig virtist henni svo sem hún sæi fram á það, að ekki mundi hún lifa ánægjusömu lífi, þó svo færi, að saman drægi með þeim Möller. Út úr þessu var hún mjög svo hugsjúk; en aftur á hinn bóginn, þegar Möller talaði við hana og sýndi henni hýrlegt viðmót, gat hún ekki fengið af sér að segja honum það, sem henni í brjósti bjó, að hún iðraðist eftir, að hún hefði gefið honum nokkurn ádrátt; það var eins fyrir henni og mörgum, er komnir eru á villigötuna, að þeir ganga hana, þó þeir vilji það ekki og við hvert fótmál sjái, að hún færir þá nær og nær ófærunni. En nú hættum vér hér að segja frá Sigríði um stund.

*

Þess er getið hér að framan, að Indriði hafðist við framan af vetrinum suður í Garðahverfi og nefndist Þorleifur. Kaupmaður L. átti þá verslun í Hafnarfirði; hann var danskur maður og þótti afbragð flestra útlendra manna, er hérlendir voru um þær mundir, fyrir sakir hreinskilni og velvildar við landsmenn. Hann var maður roskinn og átti heimili í Kaupmannahöfn, en kom hingað á hverju sumri til að sjá eftir, hvernig verslunin færi fram. Þetta sama haust var hann sjúkur, er skip sigldu, og treystist ekki að fara tvívegis, en batnaði aftur, skömmu eftir að skip voru farin. Einhvern tíma um veturinn bar svo við, að hann sneri skegg af lykli þeim, er gekk að svefnherbergi hans; en með því fátt var um góða smiði í Firðinum, gat einhver þess, að þar í Garðahverfinu væri maður norðlenskur, sem væri besti smiður. Lét þá kaupmaður sækja Þorleif, og stakk hann upp skrána og gjörði síðan nýjan lykil að. Kaupmaður leit á lykilinn og þóttist ekki hér á landi hafa séð fagurlegar gengið frá nokkurri smíð. Þetta varð upphaf kunningskapar þeirra kaupmanns og Þorleifs, og fann kaupmaður skjótt, að hann var eigi aðeins mesti þjóðhagi, heldur og, að hann var vel að sér um marga hluti og maður hinn vitrasti. Bað nú kaupmaður hann að ráðast til sín og vera hjá sér við smíðar það eftir var vetrarins, og var Þorleifur þess fús. Ekki leið á löngu, áður kaupmaður lagði vináttu við Þorleif og lét hann matast með sér sjálfum og hafði skemmtun af viðræðum hans. Það þóttist kaupmaður finna, að Þorleifur byggi yfir nokkrum þungum harmi, er hann færi leynt með, þótt hann væri glaður og viðfelldinn við þá, sem yrtu á hann. Þorleifur var um veturinn nokkra hríð að gjöra við skipsbát fyrir kaupmann, og stóð báturinn inni í timburhúsi einu, og fór hann jafnan fyrri til smíða en nokkur annar maður væri kominn á fætur þar í kaupstaðnum. Kaupmaður kom oft til Þorleifs á daginn og ræddi við hann; en eftir einu tók hann, er honum virtist mjög svo kátlegt, að svo snemma sem Þorleifur fór til smíðanna, voru þó morgunverk hans harla lítil í samanburði við það, sem hann afkastaði á jafnlöngum tíma á daginn. Fór hann þá betur að taka eftir þessu og gætti að smíðinni á kvöldin og leit síðan á á morgnana, er hann kom á fætur; sá hann þá stundum, að litlu sem engu var við bætt, þó Þorleifur hefði farið fyrir allar aldir til smíðahúss. Hann ásetti sér að verða þess vísari, hverju það sætti, og einn morgun lætur hann í kyrrþey vekja sig, áður en Þorleifur er upp staðinn, og gengur til smíðahúss. Húsið var þiljað sundur í miðju; í öðrum endanum var Þorleifur að bátssmíðinni, en hinn endinn var hafður fyrir varningsbúr, og þangað fór kaupmaður og settist við rifu eina, sem á var þilinu. Þorleifur kom skjótt með ljós, eins og hann var vanur; en ekki tekur hann til smíðanna, en sest þar á tré eitt, styður hönd undir kinn og starir fram fyrir sig um hríð, en síðan tekur hann úr vasa sínum bréf nokkurt og les, og virðist kaupmanni sem Þorleifur æ byrji að lesa það, er hann hefur endað það, og sýnist honum hann við og við þerra tár nokkur af augum sér; fer svo langa hríð, uns kaupmaður heyrir mannamál fyrir utan húsið, þá stekkur Þorleifur upp og grípur til smíðanna. Eftir þetta þóttist kaupmaður hins sanna vís um lundarfar Þorleifs, gengur burt og fæst eigi um við fleiri menn; en einhverju sinni, er þeir Þorleifur voru tveir saman í stofu, tekur kaupmaður svo til orða og segir:

Það er þó satt, sem mælt er um yður Íslendinga, að þér eruð menn dulir og ekki allir þar, sem þér eruð séðir, og segi ég þetta ekki til ámælis.

Svo þykir mér, sagði Þorleifur, sem þetta sé meira sannmæli um hina fornu Íslendinga en samtíðamenn vora; mér virðist nú flestir menn vera svo, að þeir beri utan á sér það, sem þeir eru; en hinir gömlu Íslendingar báru kjarnann innan í sér, og því varð tíðum að brjóta hnotina til kjarnans; nú þykir mér réttast að láta hana vera óbrotna, eður því mælið þér þetta, kaupmaður góður?

Mér datt það svona í hug, af því ég þóttist nýlega hafa komist að raun um, að dómar manna um suma menn eru mjög svo fjarri réttu.

Ekki veit ég það, sagði Þorleifur, hvort þeir eru svo oft skakkir; þeir styðjast við það, sem ég sagði áðan, að flestir bera kostina utan á sér og að annað er eigi inni fyrir en að utan má sjá; er það þá ekki rétt að dæma þá eftir því, sem sést? Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

Ekki er ég svo fróður í ritningunni, að ég viti með vissu, hvort þessi grein er venjulega rétt skilin; hitt veit ég, að til er og önnur grein, sem svo er: 'Guð er sá, sem hjörtun og nýrun rannsakar'; og ekki tek ég það aftur, sem ég sagði um það, að oft væru dómar manna fjarri sönnu, og má vera, að það sé oftast aðalgallinn á þeim, að þeir eru skorðaðir við hið ytra; ég þekki til að mynda einn mann, sem eftir hinu ytra að dæma er glaður og ánægður, og það hygg ég flesta mæla, að ekki sé lífið honum þungbært, og þó er ég sannfærður um, að þessi hinn sami maður hefur einhvern þann harm í brjósti að bera, sem ekki liggur svo létt á honum sem mönnum virðist.

Þorleifur þagnaði dálítið við, en svaraði síðan glaðlega:

Það verður þá að koma af því, að í honum er einhver kjarni, sem þeir sjá ekki, er aðeins glápa á hið ytra.

En þá kemur aftur að því, sem ég sagði áðan, að ekki eru allir þar, sem þeir eru séðir; en nú hef ég talað svo bert við yður, að ekki getur hjá því farið, að yður gruni, við hvern ég á; ég veit, að þér búið yfir einhverjum duldum harmi, og mætti ég telja mig meðal vina yðar, mundi ég biðja yður að segja mér, hvert tilefni er til harma yðar, og þess mundi ég helst til geta, að það væri annaðhvort sorg eftir góðan vin eða sprottið af ástum.

Þorleifur þagði þá aftur nokkra hríð og leit í gaupnir sér, en tekur síðan svo til máls:

Allt er vini sínum vel segjandi, og að vísu þykist ég hafa þess raun, að þér séuð minn vinur og enginn flysjungi, og fyrir því ætla ég að segja yður það, er ég hef flesta aðra um dulda; og er þar þá fyrst til máls að taka, að nafn mitt er Indriði - en Þorleif hef ég kallað mig hér syðra fyrir því, að ég hef viljað dyljast. Faðir minn heitir Jón og býr á Indriðahóli fyrir austan, og er ætt mín öll þar eystra. Sönn er gáta yðar um það, að ógleði sú, er mér er nú orðin næsta hjartgróin, er af ástum sprottin; en stúlka sú, er ég harma, var dóttir nágranna föður míns og heitir Sigríður, og leika engin tvímæli á um það, að hún er flestum konum fremri að fegurð og viturleika. Sá varð fyrstur kunningskapur okkar, að við áttum bæði að gæta fjár á eyðidal nokkrum, og eins og orðtækið segir: maður er manns gaman, höfðum við yndi hvort af öðru; en þá vorum við börn að aldri. Forlögin skildu okkur um stund, og sáumst við ekki fyrr aftur en við vorum orðin fullvaxin; þá var sá ylur, er ég bar í brjósti mínu til Sigríðar, snúinn í hreina ást, og hið sama þóttist ég sjá, að henni mundi innan brjósts, ef augum kvenna er að trúa. Að svo búnu beiddi móðir mín Sigríðar mér til handa, en móðir hennar synjaði, að þau ráð mættu takast; leikur mér þó grunur á, að ekki hafi hún sjálf verið að spurð. Litlu síðar fastnaði móðir hennar hana manni þar í sveitinni, en Sigríður sleit því heiti, áður brúðkaup færi fram; en um þær mundir var ég í Norðurlandi, en Sigríður réðist hingað til Reykjavíkur og er nú, að sögn manna, heitin manni þar í Víkinni. Þannig er von mín með öllu horfin, var hún og á veikum grundvelli gjör, þar sem var staðfesti einnar konu; hefur það og lengi mælt verið, að henni sé varlega trúandi; virðist mér sá maður, er henni treystir, fari eins sönnu fjarri og sá, sem er alinn upp í fjalldölum og í fyrsta sinni kæmi að sjávarströndu í fögru veðri, logni og ládeyðu, og horfði út á hinn víða sæ og segði í huga sínum: Þessi sjór er sléttur sem fagur völlur og bærist ekki, aldrei getur hann skipi grandað. Nú þótt að þessi hugarburður æsku minnar og von sé að öllu horfinn, er hann þó nægur til þess að valda mér ógleði, því ástinni er öðruvísi varið en þeim hlutum, sem eyðast í eldi og verða að reyk, að þeir fljúga í ósjáanlegum ögnum út í hið víða loft og hverfa með reyknum; en ástin, sem brennur út, getur aldrei horfið að öllu eða þyrlast burt út í ósýni tíðarinnar, því að reykur hennar verður eftir í minningu þess, sem einu sinni var.

Kaupmaður hlýddi með athygli sögu Indriða, en er hann þagnaði, tekur hann svo til orða:

Nú hafið þér gjört vel, er þér hafið sagt mér af hið sanna um hagi yðar og sýnt mér í því mikið vináttumark, og kann ég yður þökk fyrir það; má og vera, að nú berið þér léttara harma yðar eftir en áður, er þér hafið við nokkurn um rætt, því dulinn harm hygg ég hverjum þyngstan. Ekki mun ég þykjast þurfa að spyrja yður um það, hver sú Sigríður sé, er þér hafið um getið, því enga hygg ég vera aðra en þá, sem fór til kaupmanns Á. í vor eð var; en hitt er mér forvitni á að vita, hverjum hún er heitin þar í Víkinni.

Hann heitir Möller, sagði Indriði, og er kaupmaður í Reykjavík.

Kaupmaður Möller! sagði L. og brosti við.

Já, það er víst, að hann heitir Möller, og ég hef ekki aðeins ástæðu, heldur vissu fyrir, að það er satt, sem ég segi, að hún ætlar að eiga hann.

Þá eru þar fleiri kaupmenn en ég þekki með því nafni; eða getið þér sagt mér, hvar hann á heima?

Það er svo eitt hús í Reykjavík, að ég þekki glöggt og kann að lýsa; það eru þrjú hús á millum þess og hússins, sem hann kaupmaður B. er í, og í þeim endanum, sem snýr að læknum, er sölubúðin, og er gengið í hana frá húsendanum; aðrar dyr ganga frá strætinu inn í mitt húsið, og listarnir á gluggunum, sem snúa til strætisins, eru grænir.

Þá er það sami maðurinn, sem við eigum báðir við; en þá þykir mér líkast til, Þorleifur minn - æ, mér er orðið svo tamt að kalla yður Þorleif, Indriði minn, ætlaði ég að segja - að þetta fari eitthvað milli mála; eða hver er sú vissa, sem þér þykist hafa um þetta?

Indriði sagði honum þá frá hið sanna; fyrst, hvers hann hafði orðið áheyrandi, er hann var nóttina hjá L. í Reykjavík, þá að hann sá Möller á gangi með henni upp hjá Skólavörðunni og að honum sýndist hann þá láta svo að henni sem þau væru gagnkunnug; og loksins tók hann upp bréfið Sigríðar og sýndi kaupmanni, og las hann það, en sagði síðan:

Að vísu er það satt, að svo lítur út sem Sigríður sé riðin við einhvern mann þar í Víkinni; en ekki er Möller nefndur, og get ég ekki séð af því, að sá maður, sem hún ætlar að eiga, sé Möller fremur en einhver annar, enda getur það ekki verið.

Indriði sagði þá enn til stuðnings ætlun sinni um þetta mál, að hann um veturinn hefði á laun látið kunningja sinn, er hann ætti þar syðra og Sigurður héti, halda spurnum um hagi Sigríðar, og hefði hann þá fyrir skömmu flutt honum þær fréttir, að það væri af ráðið, að Sigríður færi til Möllers um vorið, og væri það talað, að það væri í því skyni, að hann ætlaði að eiga hana.

Allar ástæður yðar, sagði kaupmaður, í þessu máli sannfæra mig ekki að heldur, því ég veit, að það væri óhæfa að hugsa það. Möller er maður kvongaður, þó fáir viti það hér á landi, og þegar ég vissi seinast til í sumar, var konan hans á lífi. Hún var áður ekkja, og átti Möller hana sér til fjár, því hún var flugrík, en hann snauður. Ég þekkti fyrri manninn hennar betur en ég þekki yður.

Indriða brá svo við þessar fréttir, að hann setti dreyrrauðan og þagði um stund, en sagði síðan:

Nú, sé ég, hvernig í öllu liggur. Sigríður er einlæg og hreinskilin, og hjarta hennar er svo laust við hrekki, að hún getur ekki ímyndað sér þá hjá öðrum, og því er hægt að leggja snörur fyrir hana; en ekki læt ég þá skömm eftir mig liggja að vara hana ekki við svikunum, þar sem ég er þess hins sanna vís orðinn.

Að svo mæltu stóð Indriði upp og gekk skjótlega fram eftir gólfinu og tók að hneppa að sér treyjunni, eins og hann ætlaði þegar að snarast út; kaupmaður L. stóð þá upp og gekk í veginn fyrir hann og mælti með mikilli stillingu:

Flas er ekki til fagnaðar, Indriði minn! Eða hvað ætlið þér fyrir yður? Ekki er til neins að hlaupa svona út í vitleysuna; ekkert vandamál fer vel úr hendi, ef ekki eru viturleg ráð við höfð, enda virðist mér ekki nauðsyn til bera að hrapa svo að þessu, að þér megið ekki bíða til morguns; þá á ég ferð inn í Reykjavík, og þætti mér ráð, að þér færuð með mér og sæjuð svo, hvernig skipaðist; og sé það annað en munnmæli um Sigríði og Möller og einhver brögð eru í tafli af hans hálfu, mun það eigi örðugt að kippa því í liðinn aftur.

Við þessar umræður sefaðist Indriði, og er það því næst af ráðið, að Indriði skuli fara með kaupmanni daginn eftir til Reykjavíkur. Þenna dag átti kaupmaður að sækja boð nokkurt hjá kaupmanni einum þar í Víkinni, er B. hét; það var afmælisdagur hans. Segir nú ekki af ferðum þeirra kaupmanns og Indriða, fyrr en þeir komu til Reykjavíkur; það var nær miðjum degi; sté kaupmaður af hesti sínum í koti einu fyrir austan bæinn og lét geyma hann þar, en biður Indriða að hafast þar við öðru hverju, þar til að hann gjöri honum nokkra vísbendingu. Til kaupmanns B. kom L. kaupmaður um það leyti, sem menn átu dagverð, og var þar fyrir margt manna þar úr Víkinni og svo úr Hafnarfirði; ekki var kaupmaður Möller þar meðal annarra gesta, og hafði hann skorast undan að koma og beðið kaupmann B. eigi virða það svo, sem honum væri það til óvirðingar gjört. Þar var veisla góð um daginn, og voru þau þar bæði hjón, kaupmaður Á. og kona hans. Húsakynni voru fremur lítil hjá B., og þótti honum því betra að bjóða gestum sínum til skytnings, þegar staðið var undan borðum og drykkja skyldi byrja um kvöldið; en þær urðu þar eftir, konurnar, hjá maddömu B. -

*

Þetta sama kvöld sátu þær stallsystur Sigríður og Guðrún heima, og líður fram undir rökkrið, og ber ekkert öðru nýrra til tíðinda annað en það, að á Guðrúnu sóttu venju fremur geispar og leiðindi, og tekur þá Sigríður svo til orða:

Það væri sagt, Guðrún mín, ef þú værir núna á einhverjum bæ upp í sveit, að það mundi koma hér einhver ókunnugur og sækti að þér.

Ég vildi satt væri, Sigríður mín, sagði Guðrún, að hér kæmi einhver að rabba við okkur til skemmtunar í kvöld í leiðindunum. Allt eins á hún nú systir mín skemmtilegt að vera boðin þar hjá honum kaupmanni B. eins og við að meltast hér heima; og því segi ég það, ekki veit ég, hvað maður getur óskað sér betra en að vera kaupmannskona og vera alls staðar boðin og velkomin í hverju samkvæmi og lifa við glaum og gleði og þurfa ekki að taka hendinni til neins nema þess, sem manni má best líka; og ekki trúi ég öðru en að ég mundi minnast einhvern tíma á mína fyrri ævi, ef það ætti fyrir mér að liggja að komast í einhverja skárri stöðu en þá, sem ég er núna í, sagði Guðrún og teygði sig upp í sætinu, eins og hún fyndi það á sér, að maddömublóðið væri þegar farið að renna í æðunum á sér.

Ójá, Guðrún mín, sagði Sigríður, maður veit oft, hverju maður sleppir, en ekki, hvað maður hreppir - en þei, þei, þarna trúi ég sé barið; hann lætur ekki lengi bíða sín, sá sem að þér sækir.

Það var kaupmaður Möller, sem þar var kominn, og heilsar hann þeim blíðlega, en Guðrún verður fyrri til máls og segir:

Nú, hvernig stendur á, að þér sneiðið yður hjá að taka þátt í gleðinni og glaumnum í kvöld?

Og ég veit það ekki, sagði Möller, mér fannst, að ég hefði enga löngun til þess í kvöld; ég hélt, að mér mundi leiðast þar, og því var ég heima; en nú hefur það komið fram á mér, sem ég ætlaði að varast, mér tók að leiðast, og því kom ég hingað.

Og hér voru sumir, sagði Guðrún og leit brosandi til Sigríðar, að óska þess, að þér væruð komnir, svo að allt saman fer nú eftir óskum.

Sigríður þagði og roðnaði við, því hún vissi, hvað Guðrún átti við; en kaupmaður sneri málinu til Sigríðar og segir:

En einkum var það þó yður, bústýruefnið mitt, sem ég þurfti að tala við í kvöld; ég þarf að ráðgast um hitt og þetta við yður, áður en við flytjum saman; það er nú til að mynda eitt, húsakynnunum þarf að umbreyta, mig vantar bæði búrið og eldhúsið fyrir yður; smiðirnir koma til mín á morgun, og því þætti mér best að heyra, hvað þér leggið til um það, hvernig við eigum að haga því öllu saman; ætli þér vilduð ekki gjöra svo vel og bregða yður yfir um snöggvast núna?

Ég hef lítið vit á því, kaupmaður góður, sagði Sigríður, og í kvöld er það orðið of seint.

Það er nú satt, jómfrú góð, en skoðið þér til, ég vildi heyra, hvað yður litist, áður en farið er að hreyfa við nokkru, og nú flanaði ég til að segja þeim að koma undir eins á morgun, og því væri það, ef þér hefðuð tíma og tækifæri í kvöld.

En þér viljið nú líklegast ekki hafa mig með, herra Möller, að leggja á ráðin með ykkur, sagði Guðrún og kinkaði kolli framan í kaupmann.

Jú, það er því betra sem fleiri eru, og ég hef líka mikla trú á, að þér munduð gefa einhver góð ráð; og látum okkur þá halda af stað, eða má ég ekki vænta þess, að þér veitið mér þá ánægju?

Það sýnist mér, sagði Guðrún og hvíslaði um leið að Sigríði: Æ, hvað á nú þessi tepruskapur lengur að þýða, að láta hann vera allajafna að ganga á eftir sér um svo lítið?

Er það nú skjótt af að segja, að þær stallsystur gengu af stað með Möller.

Hús það, sem Möller átti heima í, var ekki mjög stórt, en allsnoturt, að því sem gjöra var í Reykjavík. Því var skipt í tvo hluti; í öðrum endanum var sölubúðin, það var allur nyrðri helmingur hússins. Á nyrðri húshliðinni voru dyr og anddyri inn af, næstum því svo langt sem húsið var breitt til. Til hægri handar úr anddyrinu var gengið til gestastofu Möllers; stofan var ekki breiðari en svaraði hálfri breidd hússins, en svo löng sem vestari húsendinn var til. Aðrar dyr lágu úr anddyrinu, samsíðis við stofudyrnar; þessar dyr voru að skrifstofu Möllers. Innar af skrifstofunni var aftur herbergi það, sem Möller svaf í, og mátti úr því bæði ganga í skrifstofuna og fram í gestastofuna, og sneru gluggarnir á því og skrifstofunni út að dálitlum kálgarði, er lá baka til við húsið og skildur frá strætinu austanverðu með rimagarði. Yfir þessum enda hússins var og loft og nokkur herbergi í, en ekki voru þau notuð til annars en að Kristján búðarmaður Möllers svaf í einu þeirra og piltur einn, sem Möller hafði sér við hönd til smávika og ekki voru þar fleiri í húsinu en þeir þrír því Möller fékk að mat og alla þjónustu. Möller leiddi þær stallsystur inn í stofuna, og stóð þar ljós á borði.

Hérna sjáið þér nú híbýlin, jómfrú góð! Ég vildi óska þess, að yður litist vel á yður; sjáið þér, þetta er gestastofan; hérna innar af er herbergi, sem ég hef haft til að sofa í; en nú hef ég hugsað mér það svona: Hérna á hliðinni, sem snýr út til kálgarðsins, læt ég gjöra dyr og setja þar fram af dálítið trébyrgi og læt svo gjöra eldhús þar, sem skrifstofan nú er; en hvernig líst yður á þessa ráðagjörð?

Ég hef lítið vit á því, sagði Sigríður, þér ráðið því öllu og sjáið, hvað haganlegast er, betur en ég get séð; en ég get ekki séð annað en þetta megi fara vel.

Það er mest undir því komið, hvernig yður þykir best fara, því þegar þér eruð setstar hérna að hjá mér, eiga allir hlutir að lúta yður og vera eftir yðar vilja, rétt eins og þér væruð húsfreyjan í húsinu. Hér er að sönnu allt viðhafnarlítið, en ef til vill eins viðkunnanlegt eins og í baðstofunum í sveitinni; hérna á vegginn hef ég hugsað mér að hengja spegil, sem ég á; því í þessum, sem þarna er rétt fyrir ofan legubekkinn, getið þér ekki séð yður, þegar þér vaknið með rósunum á morgnana.

Nei, þess ætla ég að biðja yður, herra Möller, að hafa ekki fyrir því að fjölga speglunum fyrir mínar sakir, sagði Sigríður hálfhlæjandi, eða hvað ætlið þér þá að gera af myndaspjöldunum, sem þar hanga núna?

Þau mega, held ég, missa sig; þetta er myndin af honum Napóleon, mér er farið að leiðast að horfa lengur þarna á hana; og þetta er myndin konunnar minnar.

Þegar Sigríður heyrði þessi orð, varð henni eins við eins og hún hefði verið rekin í gegn og roðnaði út undir eyru, en svaraði engu. Það fór eins fyrir Möller þessu skipti eins og mönnum verður oft, að þeir tala stundum það í athugaleysi, sem þeir mundu hvað helst láta ótalað, ef þeir hefðu gáð að kringumstæðunum, og á þann hátt kemur margt upp, sem fæsta mundi gruna. En af því að Möller gáði ekki að, hvað hann sagði, varð hann þess heldur ekki var, að honum hafði orðið mismælt, eður réttara sagt, að hann hafði sagt það, sem hann ætlaði ekki að segja; það var því eins og hann vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið, er hann leit framan í Sigríði og sá, að hún allt í einu varð blóðrauð í framan. Guðrún hafði tekið eftir, hvað fleipraðist fram úr Möller, og segir:

Ég þykist skilja, að þér hafið ekki tekið eftir því, sem þér sögðuð, herra Möller!

Hvað sagði ég?

Þér sögðuð, að þetta væri myndin konunnar yðar; varð yður þá ekki mismæli?

Á, sagði ég það? Ha! ha! Ónei, mér varð ekki háskalega mismæli. Skoðið þið! Ég gjöri það að gamni mínu, að ég kalla hana konuna mína, af því það er sú eina konumyndin, sem ég hef að búa við og hérna er til í húsinu; ég býð henni góðan dag á hverjum morgni og góðar nætur á kveldin, en ekki þori ég að hafa hana í svefnherberginu, því þá held ég, að ég yrði myrkfælinn; það er einhver gömul kerlingarmynd, eins og þið sjáið, ljót og leiðinleg, en það vill til, að það er ekki hætt við, að nokkur mundi trúa því, að önnur eins skepna væri konan mín; og látum okkur ekki tala meira um það, stúlkur. En líst ykkur ekki, að við drekkum nokkur staup af víni, áður en þið farið heim aftur, og röbbum dálítið saman og setjumst hérna inn í svefnherbergið mitt, því ef ljósið sést hérna í glugganum út til strætisins, er ekki að búast við öðru en að þeir streymi hér inn, undir eins og þeir koma frá skytningnum, og við fáum þá enga ró að tala og skemmta okkur. En nú læsum við stofunni, og hérna er lykillinn, jómfrú Gíslasen, þér skuluð ráða, hvað lengi við sitjum að drykkjunni, sagði Möller og rétti hann að henni brosandi. En þér, jómfrú Sigríður, ég ætla að biðja yður að láta sem þér séuð þegar orðin bústýra hjá mér, og setjist þér hérna í bekkinn, og ég ætla að leyfa mér að tylla mér við hliðina á yður. -

*

Nú víkur sögunni aftur þangað, sem B. situr með gesti sína á skytningi; þeir drekka þar fast um kvöldið; þó voru þar enn allir vel sjáandi, enda voru aðeins þrjár drykkjarskálir að öllu tæmdar, og hin fjórða var á ferðinni, en enginn mundi þar sá vera inni, að ekki mætti þurrum augum þora að sjá þær sex. Þar var heitt nokkuð inni um kvöldið, og gjörðist kaupmanni L. nokkuð ómótt, og gekk hann út að fá sér svölun, og verður honum reikað niður eftir bænum; dettur honum þá í hug, að hann hefði ekki séð kaupmann Möller meðal annarra gesta um daginn, og þótti það undarlegt, því Möller var ekki vanur að sneiða sig hjá þess háttar samkvæmum; hugsar hann nú að grennslast eftir, hvort hann væri heima, og gengur þangað og ber að dyrum, en enginn kom út, og snýr þá aftur sama veg; en í því hann fer fram hjá húshliðinni, verður honum litið til glugganna, og sér hann þá, að gluggatjöldunum er niður hleypt, en ljósi brá fyrir í stofunni, og sýnist honum sem tveimur eða þremur skuggum bregði þar fyrir, en allt í einu hverfur ljósið, eins og það annaðhvort hefði verið slökkt eða borið í annað herbergi. Kaupmanni L. var kunnugt þar um húsakynni og vissi, að svefnherbergi Möllers sneri út til kálgarðsins og annars staðar en þangað hefði ekki getað verið farið með ljósið, og var honum forvitni á að vita, hvort ekki hefði svo verið; hann gengur því fram fyrir húsgaflinn og þar um, sem sund nokkuð skildi hús Möllers frá næsta húsi; og er hann kemur fyrir hornið, sér hann undir eins ljósið í þeim gluggunum, sem sneru út að garðinum; en á glugganum öðrum utanverðum sýnist honum einhver svört flygsa, eins og þar væru hengd föt til þerris. Kaupmaður stígur þá yfir rimagarðinn og læðist að glugganum; verður hann þess nú var, að honum hafði missýnst og að þar voru ekki föt, er hann sá sortann, heldur að þar var maður, sem lá þétt upp að glugganum og hafði læst hvorritveggja hendinni utan að tréveggnum og límdi sig svo fast upp við hann og lagði eyrað vendilega við glerið og hlustaði eftir, hvort hann mætti heyra það, sem talað væri inni í húsinu, og varð ekki var við kaupmann, fyrr en hann stingur hendinni við honum, þá hrekkur hann við og lítur upp og bendir kaupmanni að hafa ei hátt um sig. Það var Indriði, sem fyrir var. Kaupmaður verður fyrri til máls, en talar þó hljóðlega:

Hvernig stendur á því, að þú ert hér, Indriði minn?

Minnist þér ekki á það, sagði Indriði, ég fór hingað niður í bæinn í rökkrinu, og þá sá ég álengdar, hvar Möller leiddi tvær stúlkur hingað inn, og var önnur þeirra Sigríður; ég ætlaði að ganga til þeirra og hafa tal af þeim, en áður en ég náði þeim, voru þau öll komin inn og lokuðu á eftir sér; síðan gekk ég hingað, og er ég þess nú vís orðinn, að þau sitja í þessu herbergi við glaum og gleði mikla; en ekki get ég nein orðaskil heyrt, þó ég hafi verið að bera mig að hlusta, og er það í fyrsta sinni, sem ég hef haft þá iðju að standa á hleri.

Og hversu lengi ætlar þú hér að standa?

Þangað til Sigríður fer héðan úr húsinu aftur, þó það verði ekki fyrr en á morgun.

Jæja, bíddu hérna fyrst; nú ætla ég að vita, hvort ég get ekki fundið Möller, því ég sé, að hann er þó heima; mér þykir líklegt, að hann ljúki upp.

Að svo mæltu gekk kaupmaður sama veg, sem hann hafði komið, og er hann gekk aftur fram hjá veggnum á húsinu, varð hann var við, að þar stóð maður við húsvegginn og fálmaði fyrir sér með höndunum, og sýndist honum hann líta svo út sem hann væri ekki með öllu létt gáður. Kaupmaður gekk til hans, en undir eins og maðurinn kom auga á kaupmann, tekur hann þannig til orða:

Hver ert þú, rýjan mín?

Kaupmaður sagði til sín. Hann þekkti þegar manninn og sagði:

Nú, það ert þú, Jón minn! Hvernig stendur á ferðum þínum?

Ég skal segja yður, sagði Jón hálfdrafandi, af því þér eruð dánumaður og vænn maður, ég skal segja yður, ég er ofurlítið kenndur, ég skal segja þér, eða réttara sagt yður, hvernig var, ég fékk nokkur staup hjá garminum honum Gvendi, og því er ég ögn hýr, en ekki er ég drukkinn, fari það bölvað.

Já, ögn hýr, mátulega hýr, hélt Jón áfram.

Ég sé það, að þú ert kenndur; en ég spurði að því, hvert þú værir að fara.

Já, nú skil ég, nú, ég skal segja þér það, greyið mitt, yður, ætlaði ég að segja, þér fyrirgefið mér það, kaupmaður góður! Ég skal segja yður eins og var, ég ætlaði að gefa honum Möller hérna á hann; þetta er fantur, en þér eruð dánumaður, og það hef ég alltaf sagt; skoðið þér nú til, hann hefur skrifað, skrattinn sá arni, fjóra potta af estras í reikninginn minn, en fari ég í sjóðbullandi, ef ég hef tekið nema þrjá og einn kvart; já, það er nú það.

Rétt í því Jón sagði þetta, var stofudyrum Möllers lokið upp, og kom þar út kvenmaður, það var Guðrún; en er hún verður vör við mennina þar fyrir utan, verður henni hverft við og tekur til fótanna og skýst fram hjá þeim. Jón kom auga á hana, en með því að hann var nokkuð voteygður af brennivíni og sá ekki nema í þoku, gat hann ekki greint, hvort það var karl eða kona, sem skrapp fram hjá honum, og líkast til hugsaði hann það vera Möller, sem út kom, og þýtur sem elding á eftir Guðrúnu út í myrkrið, blótandi og ragnandi.

Kaupmaður L. skipti sér ekki af Jóni, en gekk til stofudyra og fann, að þær voru ólæstar, því Guðrún hafði verið svo flumusa, að hún gætti ekki að loka á eftir sér. Kaupmaður gjörir sig heimakominn og gengur inn og allt innar að svefnhúsdyrunum; hann ber hægt á dyrnar og lýkur þeim síðan upp, áður en honum væri gegnt; sér hann þá í herberginu, að staup standa þar á borði, en Sigríður situr náföl í legubekknum, og kaupmaður Möller stendur þar ekki alllangt frá á gólfinu með hönd á brjósti sér og á öðru hné álíkt því, þá er heiðnir menn forðum féllu fram fyrir blótstöllum sínum og lutu goðum sínum. Möller varð, sem nærri má geta hverft við er inn var komið en kaupmaður L. lét sér ekki bilt við verða og kastar kveðju á Möller og segir síðan hálfhlæjandi á danska tungu:

Nú furðar mig ekki á því, að þú hefur ekki fyllt flokk okkar á skytningi í kvöld; en varaðu þig á því, að ég segi ekki konunni þinni eftir þér, þegar ég finn hana.

Möller áttaði sig fljótt, en brást reiður við orð L. kaupmanns og kvað það fjarri góðum siðum að læðast inn í hús manna sem þjófur og koma flatt upp á menn.

Ekki grunaði mig það, sagði kaupmaður L., að þú mundir taka svo illa gamanyrðum mínum; en fyrir því, að þú hefur snúist þannig undir þetta mál, þá skaltu og vita, að ekki þykir mér það sóma sér vel fyrir þig, sem ert maður kvongaður, að draga á tálar einfalda og saklausa stúlku, sem er óvitandi um hagi þína; en að öðru leyti virðist mér réttast að láta þetta mál niður falla. En yður, jómfrú Sigríður, sýnist mér sæmra að ganga út héðan og tala við Indriða fornvin yðar, sem hér er kominn og stendur hér fyrir utan, en að taka ástarhjali kvongaðra manna.

Sigríður stóð upp þegjandi og gekk út í skyndi, en kaupmenn urðu þar eftir og kýttu um þetta. Þegar Sigríður kom út fyrir anddyrið á stofunni, kemur Indriði þar hlaupandi í flasið á henni, og verður þeim báðum í fyrstu svo bilt við, er þau þekktu hvort annað, að hvorugt gat um stund komið upp nokkru orði; en þegar Sigríður loks mátti mæla nokkuð, segir hún:

Hvernig stendur á, að ég sé þig hérna, Indriði minn? Guði sé lof, að ég fékk núna að sjá þig; ég held hann hafi sent þig til að hjálpa mér, hann hefur ætíð veitt mér lið, þegar mér hefur legið mest á; en segðu mér, hvaðan ertu kominn?

Ég hef verið hérna fyrir sunnan í vetur, síðan ég fékk frá þér bréfið í haust.

Hvaða bréf? Ég hef aldrei sent þér neitt bréf; og hvernig átti ég að þora það að skrifa þér til? En ekki ber ég á móti því, að einu sinni var það, að mig langaði til þess, að þú hefðir viljað tala við mig; en þá hafa líkast til þeir, sem þér voru næst skyldir, ekki hvatt þig til þess.

Þú segist aldrei hafa skrifað mér til? sagði Indriði. Segðu mér þá, Sigríður mín, hvernig stendur á þessu bréfi? - Hann rétti þá að henni bréfið.

Það veit ég ekki, svaraði Sigríður, en þú mátt trúa mér til þess, Indriði að ég hef aldrei skrifað þér eina línu eða séð neinn bókstaf frá þér.

Þegar Indriði heyrði þetta, datt í fyrstu ofan yfir hann og þagnaði við, eins og hann gæti ekki komið því fyrir sig, hvernig á þessu stæði; en síðan greip hann höndina á Sigríði og segir:

Ég er sannfærður um, Sigríður mín góð, að þú getur ekki skrökvað að mér; og þó að ég ekki að þessu sinni geti áttað mig á því, hvernig á því getur staðið, að forlögin alltaf hafa verið að flytja okkur hvort frá öðru og skilja okkur meir og meir, hef ég þó aldrei getað trúað því, að þú vildir ekki oftar sjá mig, eins og þarna stendur í bréfinu.

Sigríður greip þá þegjandi um hönd Indriða og starði á hann, og sá hann, að tárin komu fram í augun á henni; en ekki gat hún komið upp neinu orði; og enginn, sem þá hefði séð Sigríði, mundi hafa getað misskilið Sigríði og séð, hvað hana langaði til að segja. Indriði tók þá aftur til orða, um leið og hann leit framan í hana:

Sigríður mín góð! Ég sé nú, hvað þú hugsar; guði sé lof fyrir það, að ég er hér á þessari stundu; ég sé, að þú lítur mig með hinum sömu ástaraugum sem fyrri; og sé það svo, að hér hafi verið lagðar fyrir þig þær snörur af vondum mönnum, er þú skyldir í falla, þá er ég nú sannfærður um, að guð hefur opnað augu þín svo, að þú sér hættu þá, er þér var búin.

Það getur þú verið sannfærður um, sagði Sigríður, að á þessu kvöldi hef ég séð, hver ráð voru lögð af þeim, sem voru mér illviljaðir, og er það ekki mín forsjá, heldur þess, sem styður veikan vilja, að ég hef hjá þeim komist; en látum okkur ekki eyða fleiri orðum um það. Vegur sá, sem liggur frá freistingum heimsins og glaumsins til hrösunarinnar og lastanna, er skammur; guði sé lof fyrir það, að ég bar gæfu til þess að sjá, hvar ég var stödd, þegar ég var komin á hann; en þá er það og best að rífa sig frá glaumnum og sollinum, er máttinn vantar að standa fyrir strauminum; ég fer burt héðan; ég vona til þess, að þú hjálpir mér til að komast austur og skiljir ekki fyrr við mig.

Nei, sagði Indriði, guð gefi, að ég þurfi aldrei að skilja við þig, fyrr en dauðinn aðskilur okkur.

Ó, guð gefi það, sagði Sigríður; og þessi orð staðfestu þau Sigríður og Indriði með heitum kossi.

Eftir það gekk Sigríður heim og ræddi ekki um, hvað gjörst hafði; en Indriði fann kaupmann L. að máli um kvöldið, og sagði þá hvor öðrum frá öllum atburðum, er gjörst höfðu; en daginn eftir kom kaupmaður L. að máli við þau húsbændur Sigríðar og sagði þeim á laun frá, hvernig á stæði, og bað þau leyfa, að Sigríður færi þegar til hans, og brugðust þau vel undir; en ekki kom Möller að máli við Sigríði eftir þetta, og fór Sigríður svo úr Víkinni, að kveðjur þeirra Guðrúnar og Sigríðar urðu fáar.

Þau Indriði og Sigríður voru í Hafnarfirði, það sem eftir var vetrarins; en um vorið, þegar vegir voru orðnir færir, bjuggust þau til austurferðar. Þeir Indriði og kaupmaður L. skildu með vináttu. Fylgdust þau nú öll austur, Indriði, Sigríður og Ormur; og segir ekki af ferðum þeirra, fyrr en þau komu einn dag síðla að Indriðahóli, og var þar tekið á móti þeim með mesta fögnuði. Það fréttu þau á Hóli, er gjörst hafði í héraðinu og mestum tíðindum þótti sæta og fjölræddast manna á milli, og var það eitt, að Búrfells Guðmundur var kvongaður og hafði fengið ríkt kvonfang og gott, að því sem flestir menn sögðu þar um sveitir. Þetta hafði atvikast svo, að hið sama sumar, er Indriði fór að leita unnustu sinnar Sigríðar, fór Guðmundur að ráði Bárðar fóstra síns í kaupstað á Vopnafjörð með smjör, ull og tólg, er skyldi seljast fyrir skildinga. Guðmundi farnaðist vel ferðin, uns hann kom að kauptúninu. Hann reið hesti meinfælnum, og þá er hann átti skammt til bæjarins, lá leiðin yfir trébrú eina litla; en er hesturinn kom á brúna, ærðist hann undir Guðmundi, svo hann féll af baki og fótbrotnaði. Fylgdarmenn hans fluttu hann til kaupstaðar og komu honum þar fyrir hjá verslunarstjóra einum, sem Egill hét. Greri fóturinn seint, og lá Guðmundur lengi í sárum. Egill var maður álnaður vel. Hann átti dætur tvær, og hét hin eldri Rósa; hún var þá gjafvaxta og þótti vera svarri mikill. Hún hafði getið barn við manni einum þar í sveitinni, þó lítils háttar. Faðir hennar undi því allilla og vildi fyrir hvern mun gefa hana góðum búhöld. Egill lét Rósu stunda Guðmund í legunni, og fórst henni það vel. Réðist það þá með þeim Agli, Rósu og Guðmundi, að Guðmundur skyldi fá Rósu, og hét Egill að gjöra dóttur sína vel úr garði. Hvataði hann nú svo mjög að þessu ráði, að þegar voru lýsingar úti, áður Guðmundur var algróinn sára sinna. Brúðkaup þeirra Guðmundar og Rósu var haldið á Vopnafirði í góðu gengi, en síðan riðu þau heim til Búrfells, og tókust ástir þeirra eigi ólíklega í fyrstu. Bárður lét sér fátt um finnast; þótti honum sem var, að ekki hefði hans ráða verið leitað, þar til Guðmundur sagði Bárði, að Rósa ætti í vændum þrjú eða fjögur kot og mál manna væri það, að Egill ætti skildinga og hefði heitið dóttur sinni heiðarlegum heimanmundi.

A Hóli fréttu þau systkin einnig, að Ingveldur móðir þeirra hafði fyrir þrem vikum tekið sótt og var mjög þungt haldin. Ormur reið þegar um kvöldið yfir að Sigríðartungu, en Sigríður var orðin svo þreytt af ferðinni, að hún treystist ekki að fara með honum um kvöldið, en bað hann að segja, að hennar væri þangað von snemma morguninn eftir. Þegar Ormur kom að Tungu, var móðir hans mjög svo máttfarin, en hafði alla rænu, og glaðnaði mikið yfir henni við komu Orms sonar hennar. Ormur sagði henni frá, hvað tíðinda hafði orðið um þau Indriða og Sigríði um veturinn og að þau væru austur komin. Ingveldur spurði undir eins að, hvort hún mundi ekki eiga von að sjá þau, og sagði þá Ormur sem var, að þau hefðu gjört ráð fyrir að koma þar næsta dag. Líður svo nóttin, en um morguninn, skömmu fyrir dagmál, sást til þeirra Indriða og Sigríðar; og er Ingveldi var sagt það, skipar hún stúlku þeirri, sem hjá henni var og veitti henni þjónustu, að taka tvo kistla, er þar voru í sængurherberginu, og setja fyrir framan rúmstokkinn hjá sér; síðan lét hún hana hjálpa sér til að færast ofar í rúminu og reis svo upp við höfðalagið og beið þeirra svo. Þegar þau Indriði komu, gengu þau að sænginni og heilsuðu Ingveldi með kossi, en hún benti þeim að setjast á kistlana, og gjörðu þau það. Það var eins og þeim yrði öllum orðfall dálitla stund; Sigríður sá, að veikindin höfðu gengið svo hart að móður hennar, að hún var orðin harla torkennileg í andliti og nærri því ekkert nema beinin, augun döpur og hendurnar magrar og æðaberar. Sigríður starði um hríð á móður sína, en klappar síðan með hendinni á höndina á henni, sem hún hafði lagt fram á stokkinn út undan fötunum, og segir:

Ósköp er að sjá, hvað þér eruð orðnar óþekkjanlegar, móðir mín góð!

Ójá, elskan mín, það má nú nærri geta eftir allt, sem ég hef tekið út, og guð veit, hvað ég á nú eftir ólifað; en hamingjunni sé lof, að ég fékk að sjá þig; ég segi þér það satt, Sigríður mín, ég átti ekki aðra ósk eftir óuppfyllta í þessum heimi en þá að tala við þig, áður en ég dæi, og þá aðra, að guð vildi bæta úr því, sem ég hafði gjört þér rangt. Maður trúir því ekki, meðan maður er heilbrigður; en sá tími kemur, þegar maður veit, að maður á ekki annað eftir en að stíga ofan í gröfina, að maður getur ekki látið vera að líta á það, sem maður hefur gjört, og það er vel, þegar guð gefur manni rænu til þess; og þá vildi maður, að margt væri ógjört, sem gjört var, en að maður mætti skilja hér við sáttur við alla menn. Guð hefur nú upfyllt báðar óskir mínar, og ég skammast mín ekki að biðja þig fyrirgefningar á því, að ég var þér ekki, eins og ég skyldi vera, góð móðir.

Sigríður gat ekki svarað neinu fyrir tárum, en hallaði sér þegjandi ofan að hendi móður sinnar og kyssti hana; en Ingveldur tók aftur til orða og sagði:

Þreifaðu hérna undir koddann minn að framanverðu, þar finnur þú lyklana mína; ljúktu síðan upp skorna kistlinum mínum, þú þekkir hann.

Sigríður gjörði eins og móðir hennar bauð henni.

Þarna í handraðanum eiga að vera nokkur bréf, bundin saman með rauðum borðaspotta; þar er bréfið, sem þú sendir með henni Gróu, og láttu hana ekki gjalda þess, sem er að kenna henni móður þinni.

Ef ég get, móðir mín, skal ég heldur gjöra henni gott en illt; guð hefur snúið þessu öllu okkur til hins besta, og er ekki vert að minnast á það framar, sagði Sigríður og kyssti aftur móður sína.

Já, sagði Ingveldur, það verður að koma fram, sem hann hefur ákvarðað, en við mennirnir sjáum skammt, og okkar ráð mega sín lítils.

Af samtali þessu, er var nokkuð lengra en hér er ritað, má það sjá, hvaða breytingu hugarfar Ingveldar hafði tekið. Hún var nú þess hvað mest fýsandi, er hún áður hafði með öllum brögðum reynt að sporna á móti, og ekki lét hún sér annað líka en að þau Indriði og Sigríður færu undir eins að láta lýsa með sér, og var nú ákveðið, að fyrsta lýsing skyldi fram fara hinn næsta sunnudag eftir; en ekki auðnaðist Ingveldi að lifa þangað til, því hún andaðist einum eða tveimur dögum síðar en samtal þetta varð; var þá frestað lýsingunum og Ingveldur jörðuð, og gjörði Indriði útför hennar virðulega.

Eftir andlát Ingveldar tók Sigríður við búsforráðum í Tungu, og var Ormur bróðir hennar þar um sumarið. Indriði var þar og löngum og gætti til með þeim systkinum um utanbæjarstörf, en stundum var hann og að Hóli með föður sínum og þiljaði þar stofu allmikla. En er stofusmíðinu var lokið og slætti hallaði, fóru fram lýsingar með þeim Indriða og Sigríði, og var svo til ætlað, að brúðkaupið stæði að Hóli, og vildu þau hvata brúðkaupinu, áður Ormur færi til skóla, svo hann gæti setið veisluna. Fám dögum eftir að lýsingar voru úti var það einhverju sinni, að Indriði söðlar hest sinn snemma morguns og reið til Tungu. Taka þau Sigríður þá tal saman, og segir Indriði, að hann muni ríða í hérað þann dag og bjóða mönnum til brúðkaups - eða hversu mörgum viltu bjóða?

Því skaltu ráða, sagði Sigríður, en þó mundi ég svo á kjósa, að þetta boð yrði eigi óvirðulegra eða fámennara en veisla okkar Guðmundar míns heitins var um árið; eða hversu margir menn geta setið í hinni nýsmíðuðu stofu á Hóli?

Því nær 50 manns, sagði Indriði, og svo er skemma til á hlaði, og þar vil ég, að hinn óæðri lýðurinn og minni manna börn séu, en fyrirmenn í stofunni.

Þú og foreldrar þínir munu þegar hafa ráðið, hverjum bjóða skal af hvorumtveggja, vorum frændum og vinum og heldri bændum hér úr sveitum, og þarf ég ekki þar um að hlutast, sagði Sigríður, en þó eru þeir nokkrir menn, er ég vildi boðið hafa; en ekki veit ég, hvort þú hefur því við búist.

Indriði spurði, hverjir þeir væru, og svaraði þá Sigríður og brosti við:

Það er þá fyrst til að greina, að Gróu minni á Leiti vil ég láta bjóða; þó langt sé á að minnast, hygg ég, að ég hafi einhvern tíma heitið henni því, að hún skyldi vera í brúðkaupi mínu; og svo eru þeir Búrfellsfeðgar þess verðir, að ég bjóði þeim, þó eigi væri til annars en að þeir reyndu, hvort mjöðin væri svikin eða ekki.

Indriði hló og segir: Gróa vor er oss velkomin; en óvíst er, hvort þeir Búrfellsfeðgar þiggja boðið, og þau ein hafa viðskipti ykkar verið, að ég efast um, að þeir vilji sitja brullaup þitt.

Á það mál er sætst og bætt að fullu, svo að þeir mega vel við una, sagði Sigríður; þeir fengu 6 ær loðnar og lembdar, og eru það full manngjöld að fornu lagi, enda hygg ég, að það baksárið, er hann héðan fékk, sé nú fullgróið, þar sem hann nú er kvongaður og það hæfilega; ekki hef ég séð konu Guðmundar, en það mæla margir, að hún sé skörungur mikill og gersemi á mannfundum, og grunar mig, að henni muni fýsilegt að sækja boðið, og mun þá Guðmundur ekki mega heima sitja, og kemur þá að því, sem mælt er, að leppurinn verður að fylgja goðinu.

Indriði kvað sér það vel líka að hafa Búrfellsfeðga í boði sínu, ef þeir vildu þekkjast það.

Indriði dvaldi skamma stund í Tungu; ríður hann síðan um héraðið, sem ráð var fyrir gjört, og býður hann nú mönnum, og heita allir förinni. Hann kemur að Leiti og býður Gróu og Halli bónda hennar, og kvaðst Gróa ekki mundi láta þá för undir höfuð leggjast, en vart mundi Hallur bóndi hennar geta komið því við að sækja veisluna, enda væri þá enginn heima að gæta krakkanna, ef hún færi, annar en hann, og yrði þá annaðhvort þeirra heima að sitja. Þaðan ríður Indriði til Búrfells, og kemur hann þar á áliðnum degi; ekki sá hann þar manna úti; stígur Indriði þá af baki og bindur hest sinn á hlaði við hestasteininn og drepur síðan á dyr, og kom enginn til dyra. Grunar Indriða, að annaðhvort muni fátt manna heima eður að menn sitji í baðstofu og heyri ekki, þótt hann knýi á dyrnar, og vissi hann, að göng voru löng til baðstofu. Hann tekur nú það ráð, að hann gengur í bæinn allt að baðstofudyrum og guðar þar. Í miðjum göngum gengu á hægri hönd, þegar inn var komið, dyr að búri, og kom þar út kona ein ung, hvatleg og allmannvænleg; hún var svo búin, að hún var á klæðistreyju blárri, flauelsbryddri á börmum og ermum, og voru bryddingarnar svo breiðar, að nema mundi kvartili; hún var og í dökku klæðispilsi dragsíðu og hafði nýja léreftssvuntu röndótta, og voru á tvö göt ekki alllítil, er auðsjáanlega voru brunnin á af óhöppum; pilsið var að ofan óslitið, en faldurinn að neðan var því líkastur sem sæi í egg á langviðarsög. Treyjan var ógölluð og klæðið með slikjunni, eins og það hafði komið úr kaupstaðnum. Á öðrum handleggnum sá í hvíta skyrtuna, og stóð olboginn ber út úr henni, og hefur þar líklega sprottið saumur, en ekki hafði verið að gjört. Á hægri hendi bar konan hring og gull í eyrum, það voru nistishringir, og vantaði þó nistið í annan hringinn. Þessi kona var Rósa Egilsdóttir. Indriði hafði áður verið að smíðum í Vopnafjarðarkaupstað, og þekkti hann Rósu og var henni málkunnugur; kennir hann hana og heilsar henni, og tekur hún blíðlega kveðju hans og biður hann að ganga til stofu; gjörir Indriði það; sér hann þá, að nokkur vegsummerki höfðu orðið þar á Búrfelli um húsaskipan, síðan hann kom þar síðast, þó ekki væri alllangt síðan; áður hafði þar verið baðstofa hrörleg í 2 stafgólfum, en nú var hún 12 álna löng og undir súð og stofuhús lítið undir lofti, sem ekkert var áður. Rósa leiddi Indriða þangað og biður hann að taka sér sæti; en síðan tekur húsfreyja til máls og segir allskrafhreifingslega:

Það er langt síðan við höfum sést, Indriði minn! Þykir yður ekki furða að sjá mig hér í þessum paufum og í þessu greni? Kallið þér það ekki forlög að vera komin hingað upp í afdali?

Ójú, sagði Indriði, ekki ber ég á móti því, að ég hélt það ekki síðast, þegar ég sá yður á Vopnafirði, að ég mundi hitta yður hér. En hvernig kunnið þér við yður?

Æ, minnist þér ekki á það. Hafið þér litið hérna á grenið, og þá getið þér heldur ímyndað yður, hvernig ég, sem er borin og barnfædd í timburhúsum, muni kunna við mig niðri í jörðunni. Hafið þér nokkurn tíma á yðar lífsfæddri ævi séð aðra eins lundaholu?

Ég hef nú lengi vitað það, sagði Indriði, að hér á Búrfelli hefur peningum verið varið til annars heldur en húsabygginga; en þó sýnist mér nú orðin ærið mikil stakkaskipti á baðstofunni, síðan ég kom hér, og það er ekki út af eins óhræsislegt.

Hvað kom til þess, Indriði minn, sagði Rósa, nema að þegar ég kom hér og sá béað bælið, þá afsagði ég manninum mínum að skríða inn í það, ef ekki væri gjört að því. Mér sýndist líka, að Búrfellsmaurunum væri ekki betur varið til annars en að klöngra upp einhverri baðstofukofamynd, og þó hún sé ekki burðug, þá er hún þó skárri en háðungin hin, því það segi ég yður satt, að það var hér hætta að fara inn í hana. Þarna héngu raftarnir inn úr þekjunni ofan yfir rúmin fólksins, og moldarstykkin voru að hrynja ofan í bólið hans gamla Bárðar; lyktina og ódauninn tala ég ekki um, því það segi ég yður satt, það leið yfir mig hvað eftir annað, þegar ég kom upp á loftið og fann fýluna; en frambærinn er eins og hann var enn þá. Ég get ekki sagt yður frá því, hvað ég hef tekið út af því að snúast innan um þá hansvítis ranghala, en nú hef ég loksins nuddað manninum mínum af stað að útvega sér menn til þess að rífa niður þessa óhræsis kofa; ég vona, að enginn lái mér það. Ég sagði honum, að hann yrði að skaffa mér forsvaranlegt kokkhús og spísskammers, og það verður hann að gjöra.

Ég finn hann þá ekki heima, vænti ég, sagði Indriði.

Nei, sagði Rósa, honum dugði ekki annað en fara í morgun, því ég sagði honum það skýrt og skorinort, að ég yrði hér ekki einni nóttu lengur nema hann bætti úr brestunum. Þér hafið eitthvað, vænti ég, ætlað að finna manninn minn?

Lítið var nú erindið, sagði Indriði, það var einasta það, að ég ætlaði að biðja ykkur hjónin að sýna mér þá ánægju að koma fram að Hóli á laugardaginn kemur, því það er ásett, að þá verði þar brúðkaup okkar Sigríðar Bjarnadóttur frá Tungu.

Já, ég hef heyrt þess getið, að það sé búið að lýsa með ykkur, og ég fyrir mitt leyti þakka fyrir boðið og skal geta þess við hann, þegar hann kemur heim. Ég segi yður það, þér megið búast við mér, hvort sem hann eða aðrir koma hér af heimilinu. Þér gjörið svo vel og þiggið hjá mér kaffibolla, Indriði minn!

Indriði þakkaði fyrir gott boð. Gekk þá húsfreyja fram og kom aftur að stundu liðinni og færði Indriða kaffibolla, og drekkur Indriði, og fæst húsfreyja mest um það, að hvorki sé staðurinn svo ríkur, að það sé til "bakki" að bera bolla á fyrir mann auk heldur tvíbökur til að bjóða með.

Síðan spyr Indriði húsfreyju, hvort Bárður gamli sé heima. Segir hún, að svo muni vera og muni hann að venju sitja í skemmu sinni. Kveður hann Rósu og gengur til skemmu og hyggst að hitta þar Bárð Búrfellsás. Skemman var opin, og sat Bárður á þrepskildi og fléttaði linda eður bandspotta einn, er hann hafði bundið í dyrustafskenginn.

Indriði heilsar Bárði, og tekur hann kveðju hans og þó heldur seinlega, og finnur Indriði það, að Bárður er ekki í sem bestu skapi. Tekur hann þá til máls og segir:

Svona eru iðjumennirnir, þeir eru ætíð eitthvað að starfa. Hvað eruð þér að flétta núna, Bárður minn?

Það er nú svona þarfaband fyrir mig, Indriði minn; ég held manni veiti ekki af, þó maður ætti það, þó ekki væri til annars en að hengja sig í. En hvað ertu nú að ferðast, Indriði sæll?

Ég er nú kominn áfram, sagði Indriði. Ég ætlaði að tala nokkur orð við þig, Bárður minn.

Já, já, settu þig þá hérna inn, ef þú vilt, á meðan; tylltu þér þarna á kistuna, ef þú ert svo lítillátur; ég hef ekki marga stólana að bjóða eins og þessi nýkomna frú, ég hef aldrei átt þá í búskapnum; ellegar ef þú vilt heldur, þá settu þig þarna á fletið mitt, það er ekki lús í því. Þú ert ef til vill ekki eins hræddur við lúsina eins og frúin hérna inni. Margt hefur nú skipst um, síðan þú komst hér síðast. Slíkt og þvílíkt ástand - sýnist þér það ekki? Sérðu ekki, að ég er kominn hingað með bólið mitt?

Jú, sagði Indriði. Sefur þú hérna úti, Bárður minn?

Ójá, ég flutti hingað rúmfataleppana mína í vor; mér leist að hrökklast hingað, þegar mér var ekki vært lengur í bæjarkofunum. Þær eru heldur ekki fyrir mig, þessar nýmóðins baðstofur; ég hef lengst ævinnar verið í moldarkofum; ég kann ekki að haga mér í þessum súðhúsum, þar sem ekki má hrækja frá sér, þó líf liggi við. Þú hefur víst komið hér inn og séð, að hér er allt orðið spánýtt, síðan þessi fallega kona kom hingað, sem þeir nörruðu hann Gvend minn til að glæpast á til þess að eyða og spenna þessum fáu álnum, sem hérna voru til. Komstu ekki í stássstofuna?

Jú, sagði Indriði, hún bauð mér inn í húsið.

Húsið! Já, það er nú meir en hús! sagði Bárður og hristi höfuðið, fjögra álna löng stofa með stólum og borði og sex rúðna glugga, ekki nægðu fjórar. Já, guð hjálpi mér, nú er sem sé komin stofa á Búrfelli. Hver mundi hafa trúað því? Nýir siðir koma með nýjum herrum. Ekki veit ég til, að hér hafi verið stofa áður á Búrfelli, en flestir hafa átt eitthvað ofan í sig, sem hérna hafa hokrað á undan mér; og nýtt er það, Indriði minn, að eiga enga sköfu undan sumri og enga lúsarögn af skyri nema lapþunna ólekju í einu keraldskríli; en hvað er um að tala, það er eldur, eilífur eldur í öllu, sem hún fer með, þessi Rósa; það sór hann Gvendur sig um við mig hérna um daginn - ég segi þér það svo sem til dæmis - að ekki gat hann eignast einn skilding úr kaupstað í sumar út á þetta litla, sem hann hafði meðferðis; það var sjálfsagt ekki annað en það, sem gjörist, reyturnar af gemlingunum og nokkrir tólgarmolar; þá var ekki tekið annað út en tómur béaður óþarfi, klútaskræpur og léreftsbætur. Ekki man ég, hvað ég heyrði um það, hvað margir klútarnir voru; það voru býsn. Síðan er þessu bruðlað sínu í hvern, sem er í vinfenginu hjá henni, en sumt liggur í kökum hingað og þangað um bæinn; og þó er einna sárgrætilegast að vita, hvernig fer um feitmetisögnina. Þarna ganga allir í, boðnir og óboðnir, hundar og menn, og gott, hafi ekki einhver séð, að hnefastórum tólgarstykkjunum væri stungið undir pottinn, þegar gerseminu hans Gvendar hefur ekki þótt nógu vel loga í hlóðunum. Já, svona er það, Indriði minn, hvað skal hér um tala? Það er eins um smjörmeðferðina þessarar nýju konu eins og hann meistari Jón segir um ólán barnanna, að það er stærra en það taki nokkrum tárum.

Það sá Indriði, að Bárður karl glúpnaði mjög, þá er hann minntist á smjörið, og þagnaði við. Varð þá hvíld á samtalinu um stund, þar til Indriði ávarpar Bárð og segir:

Ég ætla þetta lagist, Bárður minn; þér hafið hönd í bagga með þeim; það orð hefur farið af fóstursyni yðar Guðmundi, að hann kunni að fara með efni sín eins og þér, og held ég, að þetta jafnist smátt og smátt.

Aldrei, aldrei, Indriði minn, sagði Bárður og hristi höfuðið. Það er komin hingað að Búrfelli sú kaupstaðarrotta, sem aldrei seðst og öllu eyðir, og ég hef sleppt fram af því beislinu öllu saman. Ég hélt það þó, að hann Guðmundur yrði samhaldssamur ekki síður en ég, en hann er satt að segja orðinn rétt forblindaður maður, auminginn, og sér það ekki; hann trúir á þetta goð og þorir ekki að draga andann öðruvísi en hún vill; enda er honum ekki annað fært, því annars rífur hún hann og tætir, svo honum er ekki við vært. Já, svona er það. Flestir kjósa firðar líf, og friðurinn er fyrir öllu, segir gamalt máltæki. Ég vildi helst vera frá því öllu saman, því hrökklaðist ég hérna út í skemmuskriflið með rúmbólið mitt og reyturnar mínar, sem eru orðnar litlar, því skepnurnar og hin fáu búsáhöld, sem til voru, fékk ég honum Gvendi mínum í vor, þegar hann byrjaði þenna merkilega búskap; og hér held ég láti fyrirberast, meðan ég tóri, og vildi deyja hérna, ef ég hefði frið til þess.

Þegar Bárður karl hafði flutt þessa tölu, stendur hann upp, tekur lyklakippu úr vasa sínum og gengur síðan að kúfforti einu, er stóð gagnvart rúmi hans og ekki langt frá sánum mikla, lýkur því upp og baukar í því um stund, dregur síðan upp úr því gamalt kjallaraglas og tinstaup; sýpur hann sjálfur á glasinu, og skenkir hann síðan á staupið og býður Indriða að bergja á. Indriði tekur við staupinu og sýpur á; tekur Bárður við því aftur og lætur niður í koffortið og sest á, en segir:

Svona er nú það, og svona er nú það. Ætlaðir þú nokkuð að finna mig, Indriði sæll?

Já, lítilfjörlega, sagði Indriði, en þó fór ég hingað til þess að bjóða þér, Bárður minn, að koma á laugardaginn, sem kemur, fram að Hóli, því þá er svo til ætlað, að við Sigríður Bjarnadóttir höldum brúðkaup okkar.

Já, það var gæfumunurinn. Ég hef frétt, að búið sé að lýsa með ykkur. Fara þau hjónin héðan?

Svo er til ætlað, sagði Indriði.

Nei, sagði Bárður, ekki fer ég þangað. Ég hírist heima í kofahróinu mínu, ef ég verð ekki dauður. Ég þakka þér samt fyrir tilboðið; ég er ekki fyrir útreiðarnar; en hún Rósa þiggur það, vona ég.

Eftir það stendur Bárður upp, tekur aftur hrosshársfléttuna, er áður var um getið, bregður henni aftur í kenginn og sönglar og tekur að flétta og hnykkir fast á við hvert bragð og tautar: Ég held ég fari ekki héðan af í veislurnar.

Indriði sér, að ekki muni verða meira af erindunum, og kveður hann Bárð.

Svo gefur hverjum sem hann er góður til, sögðu boðsmenn Indriða og Sigríðar, er þeir léttu blundi og litu út um gluggana laugardagsmorguninn í 21. viku sumars og sáu sól roða á fjöllum og heiðskíran himininn tjalda bláum dúki yfir héraðið, grösin og hin nývöknuðu haustblóm, en árdags andvarann leika sér að því að vefja hverja fjallahyrnuna eftir aðra með léttum þokulindum og sveifla þeim burt aftur. Allt var á tjá og tundri; konur klæddust, þvoðu sér og greiddu; reiðhestar voru heim reknir og tygjaðir, þá var stigið á bak, síðan þeyst sem klárarnir dugðu til að Hvoli; þar átti að pússa þau Indriða og Sigríði um daginn. Allan morguninn til dagmála var bærinn og kirkjan á Hvoli hulin í jóreyk og rykmekki, sem lagði upp úr bæjartröðunum. Skilaði smátt og smátt jóreykurinn öllum, sem komu, aftur: prestinum, brúðhjónunum og boðsfólkinu, en reiðskjótarnir stóðu sveittir og másandi, sumir bundnir á hlaði, en sumir í hestarétt. Þegar allt liðið var komið, það er að segja brúðkaupsskarinn, urðu menn þess vísari, að ekki vantaði aðra boðsmenn en þau Gróu á Leiti og þau Búrfellshjón, og fóru sumir að tala um það, að ekki mundi þurfa að bíða eftir þeim, sem enn væru ókomnir; en er menn töluðu þetta með sér, varð einhverjum litið út á melana fyrir neðan túnið og sagði, að þar væri eitthvað kvikt á ferð; sáu nú fleiri til og urðu í fyrstu ekki ásáttir um, hvað vera mundi, er þeir sáu eigi annað en hrúgald eitt, sem hægt og hægt mjakaðist eftir melunum og fór eigi harðara en skip undir skreiðarfarmi, er sígur í árartogum í andviðrisblábarningi. Gátu sumir þess, að 3 eða 4 menn riðu saman í þyrpingu og létu lötra; þeir, er skarpskyggnastir voru, sögðu, að ekki þyrfti á að líta, það væri gangandi maður, hefði hest í togi og reiddi 2 súrmjólkurkvartil eða annað skran, er hrúgaldaðist á hestinum. Ræddu boðsmenn þetta um hríð; en bráðum urðu þeir vísari hins sanna, er hrúgaldið færðist nær og leið heim að túninu. Sást þá, að þetta var Gróa og reið brúnum; gekk Hallur bóndi hennar fyrir og teymdi undir henni og bar barn á handlegg sér, en Gróa sat á hestbaki og þrímennti. Reiddi hún annað barnið í kjöltu sér, en annað reið að baki hennar, og var það þung byrði fyrir Brún gamla. Gróa steig af baki við túngarð og leiddi krakka sína til bæjar, og var henni þar vel fagnað. En Hallur bóndi hennar tjóðraði hestinn hjá túnhala.

Ekki komu þau Guðmundur og Rósa, og leið svo fram til jafnt báðum hádegis og miðmunda, að ekki sást neitt til þeirra; en um þetta leyti kom að Hvoli ferðamaður einn, er átti heima á næsta bæ við Búrfell. Kvaðst hann hafa riðið þar um og haft tal af griðkonum; höfðu þær getið þess, að maddama Rósa og Guðmundur ætluðu að ríða til brúðkaupsins, en vart mundu þau fyrr ferðbúin en um nónbil; hafði margt orðið tafsamt um morguninn; það fyrst, að hestarnir voru ójárnaðir; það annað, að þegar farið var að gæta að söðli Rósu, var hann móttakalaus og svo lamaður, að allir, sem á litu, sögðu hann að öllu óhafandi fyrir slíka konu. Sagði þá Rósa: Þú ræður því, Guðmundur, hvort þú lætur mig ríða á þófa sem aðra herkerlingu. - Var þá skotið hesti undir einn af heimamönnum, er snarfarastur var, og skyldi hann leita um byggðina, hvort ekki fengist söðull; en sá vandi var á, að söðullinn átti að vera með enska laginu, því Rósa fortók, að hún gæti látið það spyrjast um sig, að hún riði á mannfundi í íslenskum söðli. Guðmundi þótti í fyrstu sem það nægði, að það væri einhver laglegur kvensöðull, en ekki tjáði Guðmundi að klifa á því; svo varð að vera sem húsfreyja lagði fyrir. Þar var yngisstúlka á næsta bæ við Búrfell, er Sólrún hét; hún var skrautkona mikil og samdi sig mest í búningi eftir kaupstaðarbúum. Hún átti utanhafnarklút einn fagran. Hann var djásn mikið og dýru verði keyptur. Rósa hafði frétt, að þar um sveitir væri ekki til önnur meiri gersemi, og með því að fyrirtaksklútar maddömu Rósu fundust eigi allir, þó leitað væri um morguninn með logandi ljósi, tekur hún það ráð, að hún biður bónda sinn Guðmund að finna Sólrúnu og freista, hvort klúturinn hinn góði fáist eigi að láni til brúðkaupsferðarinnar. Guðmundur tók fátt á því í fyrstu, og vissu menn þau lok málanna, að þau hjón áttu tal um það einslega; en það heyrðu menn síðast, að Rósa sagði: Jæja, þú ræður því þá, Guðmundur, hvort ég sest aftur í dag. Þér mun þykja ég eiga svo skemmtilegt hérna á Búrfelli, að ég þurfi aldrei að fá að sjá almennilegan mann. - Við þetta labbaði Guðmundur þegjandi úr búrinu og gengur á hlað út, settist berhöfðaður á klár einn beislaðan, er þar stóð, og reið af stað og var ekki kominn aftur, þá er ferðamaður reið um á Búrfelli, og ekki heldur sá, sem sækja átti söðulinn.

Þegar það nú kvisaðist, að ekki mundi svo bráðlega að vænta þeirra Búrfellshjóna, tóku boðsmenn að knurra og kváðu, að best mundi að ganga til kirkju, því dagurinn liði, en það dragi í tímann að ríða fram að Hóli, og áður en allir verði setstir, verði komið undir miðaftan. Prestur varð var við knurr þenna; hann skrýddi sig í skyndi og skipaði djáknanum að kalla fólkið til kirkju og svo brúðhjónin.

Hann talaði, og það varð.

Á svipstundu þusti allt boðsfólkið inn í bæinn á Hvoli, og frammistöðumennirnir, er sögðu öllum fyrir siðum, skipuðu fyrir um brúðarganginn. Prestur stóð skrýddur fyrir altari með handbókina í annarri hendi og blöðin í hempuvasanum, en djákninn gekk aftur og fram í kórnum, spennti greipar og vissi, hvað hann var og hvað hann átti að gjöra, skara ljósin og hafa alla lögreglustjórn, þegar í kirkjuna var komið.

Þá hófst brúðargangurinn; var honum svo skipað, að fyrst gengu sex meyjar, og leiddust tvær og tvær saman; þá kom brúður, og leiddi prestskonan hana; þá brúðguminn, og leiddi hreppstjóri hann. Þar eftir leiddust yngismenn og yngismeyjar, tvö og tvö, eftir því sem kosningar höfðu orðið. Þá leiddu bændur konur sínar, en úlfshalinn varð á eftir, og í honum voru allir einstaklingar. Frá bæjardyrum að kirkju voru á að giska 30 faðmar, en brúðargangurinn - og því heitir hann brúðargangur - fer jafnan hægt og stillt, og eins var í þetta skipti. Meðan boðsfólkið var að komast út í kirkjuna á Hvoli, mundi herlið hafa farið 2 rastir vegar. Þegar komið var í kirkjuna, settist hver í sitt sæti. Þjónustugjörðin fór vel fram; síra Tómas og djákninn, sem báðir voru bogavarir, eftir það Sigríður síðast sást á brúðarbekknum, gættu að öllu sem best; en ekkert varð nú að fundið. Úr kirkjunni gengu menn aftur brúðargang sem áður til kirkju, nema að nú leiddi Indriði konu sína.

Þá er vígslunni og brúðarganginum var lokið, tvístraðist boðsfólkið; fóru boðsmenn að leggja á hesta sína, því nú skyldi ríða fram að Hóli til brúðkaupsins. Brúður settist á pall hjá öðrum konum og beið þar þess, er hestur hennar var söðlaður, og tók sér sæti á rúmi einu, og var fátt manna inni, er allir voru í burtbúnaði. Gróa á Leiti kom þar til hennar og var nú með alla ungana að baki sér. Kveður hún Sigríði blíðlega, og tók Sigríður vel kveðju hennar. Síðan tekur Gróa til máls og lætur hvað reka annað:

Heilsaðu konunni, Gunna, þú Sigga, og þú líka, komdu Jónsi, heilsaðu konunni, þú ert alltaf svoddan heimótt! Þetta er hún Tigga þín, sem þú hefur verið allajafna að stagast á og gaf þér sykur. Hann mundi það, púttinn sá arni, Sigríður mín, að þú tróðst upp í hann stóreflis sykurmola einhvern tíma hérna við kirkjuna. Já, þarna sérðu nú, Sigríður mín, öll króaskinnin. Það verður örðugt að klekja þeim upp, ormunum þeim arna. Einn anginn varð að vera eftir heima, og gekk þó ekki á góðu, en þessa angana ætla ég ekki að tala um; þeir héngu á mér í allan morgun, þegar þeir vissu ég ætlaði að fara. Þeir eru svo hornvítis skynugir, greyskammirnar þær arna, að ég gat með engu mögulegu móti slitið þá frá mér. Þeir eltu mig, hvað sem ég fór, og varð ég svo að hnosa þeim með mér hingað fram eftir.

Þau eru alls staðar velkomin, blessuð börnin, sagði Sigríður.

Ég vissi það nú ætíð, sagði Gróa, að þú mundir ekki amast við, þó ég tæki þau með mér. Æ, ég held ég verði að setja mig hérna á kistilinn hjá þér. Já, nú hefur margt drifið á dagana, síðan við sáumst seinast. Ég held það hafi verið hérna við kirkju; en ekki kom ég hérna í hitt hið fyrra, þegar tilstandið sællrar minningar var, og sagði hún Ingveldur mín heitin mér þó að koma. Það gilti líka einu; ekki var það þar fyrir, en það lagðist einhvern veginn í hömina á mér, að það ætti ekki að fara svo, sem betur fór, að hann Gvendur á Búrfelli yrði maðurinn þinn, elskan mín; en nú er hann kominn í sessinn. Ég skal segja þér frá því síðar, Sigríður mín. Þú hefur, vænti ég, ekki heyrt mikið af því? Já, slíkt og þvílíkt! Fátt er best um flest. Ég tala ekki neitt og læt ekki hafa neitt eftir mér, en þar fékk hann hnapphelduna, sem heldur. Ég skal segja þér það allt saman, þegar við höfum tóm til. Guði sé lof, að þú fórst aldrei að Búrfelli, elskan mín. Það réðist eins og það réðist og ég einhvern tíma sagði henni Ingveldi minni heitinni; guð hvíldi hana skepnuna; margur má þess sakna og ekki síst ég.

Við þessi orð kom kjökurhljóð í Gróu, og mátti hún þá varla vatni halda heldur en hirðmenn Magnúsar konungs góða, er hann var jarðaður.

Það held ég hana hefði gilt einu, þó hún hefði lifað núna og verið hérna í dag, sagði Gróa, en hvað skulum við hér um tala, segir hann meistari Jón, allrar veraldar vegur víkur að sama punkt.

Við skulum ekki tala meira um þetta, sagði Sigríður, þú kemur einhvern tíma eftir helgina fram að Tungu. Hún móðir mín ætlaðist svo til, að ég greiddi eitthvað fyrir þér. Það var seinasta bónin hennar, og hana ætti ég að gjöra.

Gróa blóðroðnaði og þagnaði um hríð, en roðinn hvarf smátt og smátt, og er það haft í mæli, að hún hafi síðar sagt vinum sínum, að svarið hefði verið til, en þá hefði hún ekki þurft á því að halda. Í því bili kom Indriði að pallinum, þar sem konurnar sátu, og segir konu sinni, að nú séu hestar þeirra söðlaðir og mál sé að ríða. Sigríður stendur þá upp og segir um leið brosandi:

Ég ætla að biðja þig, Indriði minn, að segja svo fyrir, að vel fari um hana Gróu okkar og krakkana hennar; þú lætur hann Hall vera hjá henni.

Frá Hvoli og að Hóli er góð bæjarleið og sléttir melar. Þangað skyldi nú boðsfólkið sækja veisluna, og var hún búin eftir bestu föngum. Reið nú hver, sem búinn var, til boðsins að Hóli. Sprettu menn drjúgum úr spori og reyndu gæðingana, og var það hin mesta skemmtun. Þegar að Hóli kom, var allt tilbúið, grauturinn kraumdi í pottinum, steikarefnið var soðið, og lummurnar lágu á diskum á búrhillunum og margt annað sælgæti. Bekkir og borð voru reist í veislustofunni og skemma tjölduð. Matreiðslukonurnar önnuðust um allt innanbæjar, en Ormur Bjarnason hafði séð um tilreiðsluna í veislusölunum, og var hann því ekki við hjónavígsluna á Hvoli, enda kvað hann sér enga nauðsyn til bera að hlusta á hana; hann vissi textann fyrir fram; hann mundi vera, eins og vant væri, eitthvað um kærleikann, trúfestina og hjúskaparhaldið, og kvaðst hann vita fullt svo vel skyn á því öllu sem síra Tómas, sem alltaf efaðist um allt, en engu treysti, eftir 6. kapítulanum, Fogtmanni og sálarparagraffinum.

Þá er menn höfðu sprett af hestum sínum og tekið sér hressingu, fóru frammistöðumenn að stinga saman nefjum um það, hvernig þeir skyldu skipa til sæta, og var það eigi alllítið vandaverk. Brúðhjónum var þegar vísað til sætis og svo presti og prestskonu. og svo nokkrum öðrum, er náskyldastir voru brúðhjónum. Í þessu berst sú fregn, að þau Búrfellshjón riði í hlaðið. Varð þá allmikil umræða meðal frammistöðumanna um það, hvar þeim skyldi til sætis vísa. Sögðu nokkrir, að þeim væri boðlegt að sitja innst og efst fyrir miðju borði í skemmunni, en í stofuna kæmist ekki fleiri en þar hefði verið til ætlað. Aftur sögðu nokkrir, að það væri ekki sæmandi að láta konu úr kaupstað og ekki uppalda í sveit, á léreftskjól, sitja innan um ruslaralýðinn í skemmunni. Enda þekktu þeir svo skaplyndi Rósu, að hún mundi eiga sammerkt við Hallgerði, að hún vildi engin hornreka vera. Um þetta efni greindi þá mjög á, frammistöðumennina, og urðu ekki á eitt sáttir. Orm Bjarnason bar þar að, er þeir áttu talið. Spurði hann þá að, hvað þá greindi á um. Sögðu þeir honum það, og mælti þá Ormur:

Hér skal ég skjótt úr skera. Signor Guðmundur og maddama Rósa skulu sitja í stofunni. Það er ekki orðavert. Ég skal sjá þeim fyrir sæti, líklega nálægt mér; hugsið þið ekki um það.

Þriðji maður hafði verið í förinni með þeim Búrfellshjónum, og kenndu hann allir og sögðu: Þar er þá Þorsteinn matgoggur kominn; sá er þó lengi seigur í sóknum.

Ormur var staddur á hlaðinu og hleypur til og tekur Rósu af baki, og var það allt um garð gengið, áður Guðmundur bóndi hennar hafði litið við og komið gömlu stígvélunum úr ístöðunum. Ormur heilsaði Guðmundi virðulega, en glotti þó við; það sá Guðmundur ekki. Leiðir hann síðan hjónin til stofu, og er Rósa hin kátasta.

Nú eru menn til sætis leiddir, og hlaut Gróa frá Leiti sæti í stofu, yst á hinum óæðra bekk, og líkaði henni það allvel, og hafa ólygnir menn síðan frá því sagt eftir Gróu, að það hafi hún séð mest vinskapsbragð Sigríðar sinnar, að hún var sett í stofuna. Þegar búið var að koma öllu boðsfólkinu fyrir, bæði í stofu og skemmu, sáu frammistöðumennirnir, að eitt sæti var þar í skemmunni afgangs næst dyrum. Var þá talað um, að Þorsteinn matgoggur gæti tyllt sér þar, þó ekki væri honum boðið.

Þorsteinn þáði sætið með þökkum, og kvaðst hann ekki vera betra vanur. En með því ekki voru fleiri borðfæri til en boðsmenn þurftu á að halda, sögðu frammistöðumenn, að hann yrði að reyna að nota sér hornspón og sjálfskeiðing, en ekki skyldi hann þurfa að deila vistum við aðra menn, því einn skyldi hann hafa fat og disk fyrir sig. Þorsteinn kvað sér það allvel líka, og sætið sagðist hann hafa hið besta, er þar væri gott aðdrátta; kvaðst hann mundi leggja toll á allan vistaflutning innar í skemmu. Voru nú vistir á borð bornar, og var fyrst grjónagrautur. Settu frammistöðumenn grautarskál eina mikla fyrir Þorstein; hún mundi hafa tekið vel mældar 10 merkur. Leist honum harla vel á og hreyfði því þegar, að best mundi fara að segja fyrir siðum og syngja borðsálminn. En frammistöðumenn sögðu, að svo mætti ekki vera, fyrr en búið væri að koma öllu í lag í hinni æðri stofunni, og féllust skemmubúar á það. Það stóðst líka á endum. Í því menn mæltu þetta, hóf síra Tómas sönginn í stofunni, og er forsöngvarinn í skemmunni heyrði það, stóð hann upp í sæti sínu, setti í skyndi gleraugun á nefið og kyrjaði borðsálminn.

Söngurinn fór vel fram og siðsamlega, og eftir það tóku menn til matar og ekki síst Þorsteinn matgoggur. Hann var ávallt einn um hituna og réðst á grautarskálina hina miklu; segir ekki af viðskiptum þeirra, en svo fóru leikar þeirra um síðir, að þeir sögðu, að hún hefði farið halloka fyrir Þorsteini. Því næst var steik fram reidd. Þorsteini var borið trog eigi alllítið, fullt af kjöti, og flæddi feitin yfir barmana eins og stórstraumsflóð á fjöru. Allir, sem sáu aðfarir Þorsteins, mæltu, að honum tækist aðsóknin allkarlmannlega. Fékkst hann við kjöttrogið alllíkt sem víkingar Norðmanna, er þeir réðu til uppgöngu á dreka blámanna, hjuggu á báðar hendur og hruðu skipið.

Matgoggur vo alla kjötbitana, fyrst hina feitustu, svo hina mögru, uns trogið var hroðið og hnútur og leggir voru gengnir fyrir borð sem Búaliðar forðum. Það fór samt líkt fyrir Þorsteini og Þorkeli þunna, sem kvæðið er um gjört. Þorsteinn sprakk á útgönguversinu, sem sé lummunum.

Eins og áður er greint, hafði Þorsteinn matgoggur áskilið sér rétt til að taka toll af öllum matarbirgðum, er fluttar væru til skemmunnar, og ekki síst af kornvörunni. Á lummurnar lagði hann mest. Hver lummudiskur, sagði hann, er fram hjá fer og inn í skemmuna, skal gjalda 6 bleðla með sírópi og sykri á. Það er lagaleiga hjá kaupmönnum.

Allir skemmubúar gjörðu góðan róm að máli Þorsteins. Matgoggur tók og tollana greinilega, og varð það svo mikill forði, að hann nauðugur gekk frá leifðu.

Þegar borðsálmurinn var sunginn, hné hetjan og hallaðist að skemmugaflinum, þar sem hann hafði setið um daginn, lét augun aftur og sofnaði; en þess hafa greindir menn getið, er við voru, að kvöldbæn hans hafi verið þannig: Guð gæfi, að ég væri kominn í rúmið, háttaður, sofnaður, vaknaður aftur og farinn að éta. - Það höfum vér frétt með sönnu, að Þorsteinn komst til hvílu með góðra manna tilstyrk í makindum og allvel saddur, en hvort hann hefur fengið ósk sína uppfyllta næsta morgun, vitum vér eigi, og er hann úr sögunni eins og aðrir skemmubúar.

Nú víkur því frásögninni til stofunnar, þar sem heldra fólkið og brúðhjónin sátu. Þar fór allt vel fram og lystilega. Síra Tómas stýrði söngnum og öllum siðum vel og vandlega. Þar var fyrst grautur á borð borinn, eigi almennur grautur, heldur hrísingrjónagrautur. Meðan menn skeiðuðu grautinn, var alþjóðleg þögn í stofunni; svo var grauturinn góður og spakmáll. Nú varð nokkuð vopnahlé, og fóru menn að taka sér neðan í því, því nóg var fram reitt af öllum ölföngum. Gjörðist þá glaumur mikill í veislusalnum, og getum vér ekki talið allt, sem talað var, meðan staupin og steikin og pönnukökurnar - því þar voru engar lummur sem í skemmunni - fóru í kringum borðið. - Brúðhjónin, sátu á brúðarbekki með alvörusvip, eins og vera ber, er menn koma í þann sess, er í skal sitja alla ævi, þar til dauðinn skilur; en auðséð var af augum beggja brúðhjónanna og ekki síst Sigríðar, að hún og Indriði höfðu ekki verið brösuð saman af höndum Völundar veraldarinnar.

Hinn góði og guðhræddi postuli síra Tómas, er sat næstur brúðhjónunum, sá það án alls efa og vantrausts og svo, að hann ekki þurfti að þreifa fyrir sér, að ást og ánægja höfðu fyrir löngu 'byggt sér sterkan stað` í brjóstum nývígðu hjónanna.

Nú eru þau Indriði og Sigríður þetta kvöld því nær úr sögunni; aðeins glöddu þau sig af því að veita boðsmönnum sínum vel og ríkmannlega og horfa á gleði þeirra og siðsama skemmtun, síðan af því að fara að sofa og láta frammistöðumenn ráða öllum eftirdrykkjum, eftir því sem hverjum geðjaðist að. Síra Tómas söng sálminn og sagði fyrir brúðhjónabollanum.

Indriði vék honum afsíðis einhverju sinni og velti í vasa sínum einhverju af því, sem meistari Jón kallar hinn þétta leir, og rétti að síra Tómasi. Vér vitum ekki, hvað það var mikið. Prestur tók við fénu, en mælti um leið: Þetta eru ósköpin öll, Indriði minn! Það er gjöf, en ekki gjald.

Nú mun flestum fýsilegt að heyra, hvernig Guðmundur Hölluson sat brúðkaup Sigríðar, sem eitt sinn var á árunum konuefni hans. Guðmundur og maddama Rósa hlutu einhver hin fremstu sæti í veislusalnum, eins og áður er á drepið. Ormur hélt öll heit sín vel og drengilega, eins og þegar Ásgrímur Elliðagrímsson tók við Njáli; lét hann tvo menn styðja Guðmund til sætis í stofu, fyrir því að Guðmundur hafði fengið riðu af reiðinni eins og Njáll af elli. Ormur leiddi Rósu til bekkjar í stofu, og féll viðtal þeirra létt og liðugt; sat Rósa þar mitt á milli lærifeðranna, Guðmundar bónda síns og Orms, og voru þeir að flestu ólíkir. Það er áður greint, að borðsálmurinn og grauturinn gjörðu þögn á þingi og að sálmurinn var góður og grauturinn spakur við alla, og var þar ekkert þóf, nema skeiðarnar glömruðu dálítið við bræður sína djúpu diskana. Í þann tíma varð fátt til tíðinda með þeim sessunautunum, maddömu Rósu, Guðmundi og Ormi, utan það Guðmundur gjörði grautnum góð skil og sagði sem Halli, að hann væri góður matur; og er hann gjörðist heldur heitur, tók Guðmundur bakföll mikil og spyrndi fast í borðstólpana sem bestu ræðarar, og var eigi örgrannt um, að hann kæmi óþægilega við klæðafald konu sinnar; orsakaðist hún til að segja, eins og venjulegt lagamál er til:

Hvað hugsarðu, maður? Ætlarðu, Guðmundur, að eyðileggja kjólinn minn með þessu béuðu fótasparki? Kanntu ekki að sitja í samkvæmi? Veistu ekki, að hér eru siðaðir menn og það aðrir eins og hann Ormur, sem hefur séð allt svo pent á Suðurlandi og er þar að auki stúdent?

Hún hnippar þá í sama bili í bónda sinn, og var það varúðarregla. Bóndinn hét bót og betrun og mælti fátt, er í frásögur sé færandi, en hætti að éta grautinn, þó sárnauðugur, af því sem varð séð af svip hans og öllu útliti.

Fyrir glaumnum í veislusalnum heyrðist ekki manns mál og því síður Búrfellshjónanna; en Ormur Bjarnason, sem var sessunautur þeirra, hlustaði og íhugaði allt það, er hann varð áskynja um hjónabandslífið, með svo mikilli athygli sem hinn goðumlíki Odysseifur, þá er hann kom úr leiðangri frá Trójuborg, settist á þrepskjöldinn og leit hóp biðla Penelópu konu sinnar, er sátu í salnum og átu mat hans og drukku af hans dýrasta víni, en hann ætlaði að vega þá næstu nótt.

Nú kom steikin í brúðarsalinn. Það er annar þáttur borðsögunnar. Hinn sami leikur gjörðist hjá systrum, bræðrum og svo öllum sessunautum. Frammistöðumenn gengu um kring og framreiddu fæðuna.

Guðmundur frá Búrfelli gleymdi því ekki að taka álitlegustu kjötbitana; en samt var eftir að vinna þá, svo hann fengi fullan sigur yfir þeim. Hann var vopnaður vel, því hann hafði sverð gott, spjót og skjöld steindan. En vopnin voru hnífur, matkvísl og diskur. Guðmundur var ekki nærri því eins fimur sem Gunnar á Hlíðarenda, að hann gæti kastað vopnum í loft upp og gripið þau síðan, áður en niður kæmi. Guðmundur vill þá reyna íþrótt sína; tekur hann þá matkvíslina tveim höndum og hóf hana mjög hátt; kom hún á diskinn og klauf hann að endilöngu; mörgum þótti það ekki rétt, að Guðmundur skífði svo hlífar sínar, en Rósu varð ekki annað að orðum en að gefa Guðmundi bónda sínum ílagsgott olbogaskot og segir um leið:

Hvað hugsarðu, Guðmundur? Hvaða rustíkus eða dónsi ertu? Gjörðu mér þetta ekki aftur, svo menn sjái.

Hvað þá! sagði Guðmundur. Mér varð þetta óvart; en þetta eru allt einber svik úr kaupmanninum.

Er það kaupmanninum að kenna, þó þú sért aulabárður? sagði Rósa.

Guðmundur ætlaði að svara einhverju, en kona hans hnippaði í hann og mælti svo: Berðu þig að þegja, góðasti, ef þú getur.

Ormur heyrði viðtalið. Gat hann þá ekki orða bundist og sagði hálfbrosandi: Með leyfi, maddama Rósa, má ég ekki leggja orð í tveggja manna tal?

Með mestu ánægju, herra stúdent Ormur.

Mér virðist þá, að þér séuð nokkuð ströng við manninn yðar. Signor Guðmundur segir það satt, þetta er allt sprunginn og fúinn fjandi, leirruslið, sem blessaður kaupmaðurinn flytur oss að framan. Þetta þolir ekkert. Mundi það ekki betra að afla sér trédiska úr Trékyllisvík eða Hornströndum, vel rennda úr rekavið? Þér sjáið, maddama Rósa, að ég get orðið prestur og prédikað nokkurn veginn, þó ekki sé ég stúdent enn.

Rósa þagnar um stund, en segir síðan: Ég er nú svo dönnuð, að ég skil, fyrri en skellur í tönnunum.

Ormur ansaði engu, en bað frammistöðumenn hljóðlega að færa Guðmundi annan disk, fullan vistum, úr tini eða tré; hlýddu þeir því, og gjörðist nú ekki neitt sögulegt, þar til borð voru upp tekin.

Pönnukökum og öðru sælgæti gjörði Guðmundur bestu þegnskyldu, og var það ráðið með þeim Rósu og Ormi, að hann þyrfti eigi annarra vopna við en þeirra, sem eru á hvers manns hægri hendi, og tókst honum vel að beita þeim. Nú stóðu menn upp frá borðum, en þá var eftirdrykkjan eftir. Þá er síra Tómas hafði vel og guðrækilega sagt fyrir brúðhjónabollanum og brúðhjónin voru farin til hvílu, eins og áður er á drepið, skemmti hver sér og sínum vinum, og enginn varð vínskortur. Rósa reis nú úr sæti sínu og sagði hljóðlega:

Ósköp er það leiðinlegt, að menn skuli ekki geta dálítið lyft sér upp og dansað.

Þá sagði Ormur: Þér kunnið, maddama góð, að dansa, það veit ég fyrir víst, þar sem þér eruð upp alin í kaupstað. Á Bessastöðum lærum við ekki þess háttar, en ég hef við og við skotist til Reykjavíkur, og þar hef ég numið fyrstu aðferðina, og væri yður, maddama Rósa, skemmtun í því, að við færum að reyna einn snúning, þá skulum við koma á gólfið.

Maddama Rósa neitaði ekki góðu tilboði, og dönsuðu þau Ormur og Rósa saman um hríð, en aðrir gláptu á það sem tröll á heiðríkju, því slíkt hafði ekki sést áður í héruðum Austurlands. Þau Ormur og Rósa dönsuðu lengi, og fór þá yngra fólkið einnig að hoppa að dæmi þeirra, og varð þar af hin mesta skemmtun. Loks leiddi Ormur Rósu aftur til sætis, og þakkaði hún Ormi innvirðulega, en um leið og hún settist, sagði hún og stundi við:

Hvaða kvalræði haldið þér, Ormur, að mér sé ekki í því, að maðurinn minn kann enga agnarögn að dansa? Það hefur verið hugsað oftar um annað hjá honum Bárði gamla en að kenna dansleiki eða eitthvað, sem maður getur haft gaman af.

Hér er mikil bót í máli, maddama góð, svaraði Ormur; þér kunnið sjálf ágætlega að dansa, og þá getið þér smátt og smátt kennt honum það í heimahúsum.

Haldið þér virkilega, að það sé mögulegt, Ormur?

Sem ég er lifandi er það mögulegt fyrir yður, því ætli ekki það! Ég hef þekkt marga, sem lært hafa ýmsar listir, þó þeir væru eldri en signor Guðmundur, hvað sem máltækið gamla segir um þau efni.

Heyrðu nú, Guðmundur! sagði Rósa; hann Ormur, sem er útlærður að sunnan, segir, að ég geti kennt þér að dansa.

Guðmundur hafði setið grafkyrr, á meðan á dansinum stóð, og eins og aðrir gestir furðast feikilega og tekið ótal bakföll og bikara af víni. Hann gjörðist ölvaður, og er það ekki tiltökumál í samkvæmi. Hann svaraði spursmáli konu sinnar svo: Æ, ég held, að ég geti aldrei lært.

Vissulega, sagði Ormur, ég skal nú kenna yður, signor Guðmundur, fyrstu sporin, sem allir byrja á, það er galoppade á dönsku; konan yðar kennir yður hitt heima, það er að segja sagtevalsinn.

Í þessu bili grípur Ormur Guðmund og dregur hann fram á stofugólfið og hringsnýr honum, þar til hann sundlaði og féll. Ormur reisti hann upp frá dauðum og færði hann að skauti Rósu og gat þess með mörgum fögrum orðum, að Guðmundur bóndi hennar væri efnilegur til dansleika; að sönnu hefði hann sundlað nokkuð á gólfinu, en þetta kvað hann ekki vera neinar nýjungar, því svo færi jafnan um þá menn, er fátt hefðu numið í æskunni, en síðan kæmust til hárra valda eða í góðan skóla. Rósa gat ekki hrundið ástæðum Orms og sór þann eið, að annaðhvort mundi hún segja skilið við Guðmund ellegar hann skyldi læra að dansa. Guðmundur hlýddi á eiðspjall konu sinnar og þagði, en sagði í hálfum hljóðum:

Hvað ætli hann Bárður fóstri minn segi, þegar ég fer að dansa á Búrfelli, en engin er til smjörskafan og allt er farið úr sánum?

Menn skemmtu sér vel og lengi fram á reginnótt við samtal og samdrykkju, og fór allt vel fram; en af því tunglsljós var, riðu flestir boðsgestir heim um nóttina. Einstöku maður, sem hafði tekið sér nóg eða næsta mikið neðan í því, hallaðist á hestinum eða féll í arma móður sinnar; samt var það allt slysalaust.

Gróa varð kyrr með angana sína á Hóli og svo Þorsteinn, sem sálaðist um sinn í skemmunni af saðningu, eins og áður er um getið. Þau Búrfellshjón riðu einnig heim. Ormur leiddi þau til hesta, greiddi Guðmundi góða leið til ístaðanna og setti maddömu Rósu í söðulinn og minntist við hana, og var síðasta viðtal þeirra svo:

Rósa segir: Haldið þér, að ég geti kennt manninum mínum að dansa?

Já, sannarlega segi ég yður það, svaraði Ormur.

Þér verðið þó ekki svo óartugur að koma ekki við hjá mér, áður en þér farið suður?

Það er sjálfsagt, að ég kem við á Búrfelli; það er í leiðinni; ég fer ekki svo um.

Morguninn eftir reis Gróa úr rúmi, fyrr en Sigríður var komin á fætur, því Sigríður var í þetta skipti mjög morgunsvæf, venju fremur. En er þær höfðu tekið tali, sagði Sigríður:

Þú manst eftir því, sem ég sagði þér í gær, Gróa mín, að þú ættir að koma til mín einhvern tíma bráðum, og afsagði ég ekki að greiða eitthvað fyrir þér.

Já, það er nú eins og allt annað, elskan mín, tryggðin og trúfestin við mig; en ég veit ekki, hvenær ég get staulast fram eftir með krakkana, því ekki er búið á Leiti betra en svo, að við eigum eina meri fylfulla, sem varla getur gengið bæjarleið; svona er nú búskapurinn; það þekkir enginn, sem ekki hefur reynt það að vera fátækur.

Ég veit það, sagði Sigríður; þú getur ætíð fengið málsverð hjá okkur Indriða mínum, þegar þér liggur á, en hann annast núna svo sem vikuforða fyrir ykkur; hann Indriði minn afhendir það; en svo er hérna skildingur, Gróa mín - það var spesía - sem ég skulda þér, síðan þú barst fyrir mig bréfið forðum. Taktu við honum, og svo erum við sáttar.

Gróa tók við peningnum og kyssti Sigríði um leið. - Æ, ég skammast mín að taka á móti þessu öllu saman. - Hún strauk síðan dúki um augun - engir vita, hvort hann var drifhvítur eða flekkóttur - kvaddi síðan Sigríði sína og hét því að hitta hana og segja henni margt fornt og nýtt, er enginn skyldi hafa eftir sér, en ólygnir menn hefðu sagt henni.

Nú var brúðkaupi þeirra Indriða og Sigríðar lokið.

Um veturinn eftir voru þau Indriði og Sigríður að Hóli í góðum fagnaði, og tókust þeirra ástir góðar. Einu sinni, er á leið veturinn, kemur Indriði að máli við konu sína:

Það er ætlun mín, segir hann, að best muni vera fyrir okkur að fara að reyna búskapinn. Víst er um það, að hér erum við í góðra foreldra húsum; en réttast álít ég þó fyrir hvern ungan mann, sem hefur nokkur efni, að ráðast í eitthvað það, sem megi verða honum til gagns og sæmdar og fósturjörð hans til nota; og hver er þá vegurinn fegri og skemmtilegri en að reisa bú? `Því vænt er að kunna vel að búa, vel að fara með herrans gjöf`, og það eigum við að nema, og getum við þá treyst því, að jörð gefur arð eftir atburðum.

Ég fellst á það, sem þú segir, elskan mín! sagði Sigríður og klappaði með hendinni á vangann á manni sínum; en hvar ætlar þú okkur að fara að búa?

Margur mundi mæla það, að við þyrftum ekki að vera jarðnæðislaus, þar sem við eigum fjórar jarðir og allar vænar, sagði Indriði.

Ekki eru þær lausar sem stendur, og þó svo væri, mundi ég ekki hvetja þig til að taka nokkra af þeim, og lengi hefur mig langað til að vera hérna í sveitinni; en nú er hér ekkert jarðnæði laust.

Þá förum við að Fagrahvammi, sagði Indriði og brosti við.

Hvar er hann, heillin mín? sagði Sigríður. Þá jörð, man ég ekki til, að ég hafi heyrt nefnda.

Þú skalt fá að sjá hana einhvern tíma bráðum; við ríðum þangað einhvern tíma eftir sumarmálin.

Meira vildi Indriði ekki segja henni að því skipti; en einu sinni um vorið, þá er snjór var úr hlíðum leystur, en geirar grænir, lætur Indriði söðla tvo hesta og biður konu sína að búast til ferðar. Skulum við nú fara að sjá Fagrahvamminn, segir hann. Sigríður bjó sig sem hún ætlaði í kirkju, og brosti bóndi hennar að því, en segir henni þó ekki meira um áfangastaðinn. Stíga þau nú á bak, hjónin. En er komið var út úr túninu, þar sem gatan beygist ofan með túngarðinum og liggur ofan í héraðið, snýr Indriði hestinum á fjárgötur og fram í dal. Kátlegt þótti Sigríði þetta, en hugsaði, að þetta væri leikur einn af Indriða og til þess gjörður að fá hana með sér á skemmtireið, er veður var fagurt. Þau ríða nú fram dalinn, og var hann þá orðinn algrænn og næsta fagur um að líta. Loksins komu þau í hvamm einn fagran; það var fremst í landareign Indriðahóls; ekki hafði Sigríður þar fyrr komið, en þó kannaðist hún glöggt við sig, er henni varð litið yfir ána; blasti þar við Álfhóll og hlíðin, sem hún hafði setið hjá í forðum. Í miðjum hvamminum sté Indriði af baki og tók konu sína úr söðlinum. Landslaginu er svo varið, að hvammur þessi myndast af tveimur lágum grasbörðum, er girða hann á þrjár hliðar og skýla fyrir öllum vindum nema landsuðri. Fyrir neðan hvamminn liggja sléttar grundir, er í við hallar ofan að ánni. Áin rennur þar um sléttan farveg og er lygn, en nokkuð breið. Á þessa hliðina blasti við iðgræn hlíð, en tvö gil steypast þar hvítfossandi ofan af brúninni og falla saman lítið eitt fyrir neðan miðja hlíðina og mynda dálitla tungu. Eftir miðjum hvamminum rennur lækur, er sprettur upp undan stórum steini þar í hlíðinni fyrir ofan, en upp með læknum og upp úr sjálfum hvammsbotninum ganga smádældir, sem eru vaxnar aðalbláberjalyngi, eini og víðirunnum. Hvammurinn millum barðanna er rennisléttur, nema ofurlítill ávalur bali eður hóll í honum miðjum, fremra megin við lækinn. Hvammurinn er svo víður, að vel mætti búa þar til tíu kúa tún eða meira. Grasið í hvamminum var eins og á öllu harðvelli, sem vantar rækt og áburð, harla lágvaxið en kringum steinana og þar, sem kindurnar hingað og þangað voru vanar að bæla sig, stóðu upp fagrir og þéttir grastoppar, grænir sem smaragð. Þar af mátti sjá, hvílíkur frjóvgunarkraftur lá þar dulinn í jörðunni.

Veðrið var blítt og hvammurinn ofur hýr, og því var ekki að furða, að blíða og fegurð náttúrunnar yrði að fá á hvern þann, er guð hafði gefið athugasöm augu og viðkvæmt brjóst til að skoða og dást að hans handaverkum. Indriði víkur sér þá að konu sinni og segir:

Elskan mín! Ég sé, að þér líst hér vel á þig. Þenna hvamm hefur guð ætlað til þess, að einhver skyldi búa í honum og gjöra grundina þá arna að túni, eða heldurðu ekki það? Þetta er nú Fagrihvammur, sem ég hef talað um við þig, og hvergi vil ég búa annars staðar en hér; skoðaðu, hérna á balanum sést enn fyrir tóftinni af húsinu mínu; nú verður að reisa það við og stækka það, svo við getum bæði verið í því, því nú skilur áin okkur ekki lengur.

Ónei, hjartað mitt, sagði Sigríður og hljóp í fangið á manni sínum og lagði báðar hendur um hálsinn á honum; þökkum við guði fyrir, að hann hefur látið æskuóskir okkar rætast.

Þau hjónin skemmtu sér um hríð og skoðuðu landið í og umhverfis hvamminn og riðu síðan heim, og sagði nú Indriði konu sinni greinilegar frá fyrirætlun sinni, að reisa þar bæ í hvamminum, og að faðir hans hefði gefið honum land þar fram um dalinn, og hefði þó Indriðahóll ærið landrými eftir. Sigríður féllst á þessa ráðagjörð; og þegar um vorið lét Indriði efna til bæjargjörðar og hafði að þeim starfa marga menn, og sjálfur telgdi hann viðu alla; en til þess að koma sem fyrst rækt í túnstæðið og afla sér áburðar til næsta vors, fékk hann af föður sínum að hafa selstöðu í Fagrahvammi um sumarið og hafði þar færikvíar á vellinum, en lét kýrnar liggja inni um nætur.

Um haustið var Indriði búinn að koma upp flestöllum bæjarhúsum, en ekki fluttu þau hjón þangað það haust, en höfðu þar um veturinn nokkra menn og allan þann pening, er þau áttu; og næsta vor eftir fór Indriði frá Tungu alfarinn, og var þá bæjarsmíðinni að öllu lokið.

Fyrstu tvö árin, sem þau Indriði og Sigríður bjuggu í Fagrahvammi, gátu þau ekki haft þar nema tvær kýr, en sauðfé höfðu þau þar margt. Indriði lagði mesta stund á að koma góðri rækt í túnið, og tókst honum það smátt og smátt; segja þeir svo frá, er komið hafa að Fagrahvammi, að þar sé einhver hinn snotrasti töðuvöllur, enda sé það auðséð á öllu utan og innan bæjar í Fagrahvammi, að þar búi góður efnamaður og þrifnaðarbóndi. En óskandi væri, að margur vildi gjöra það að dæmi Indriða og forfeðra vorra að nema þar land og reisa þar bú, sem enn er óbyggt á Íslandi; og víst er um það, að enn þá er þar margur fagur blettur óræktaður, sem drottinn hefur ætlað mönnum til blessunar og nota. Og ljúkum vér hér að segja frá þeim Indriða og Sigríði.
Netútgáfan - desember 1997