BJÖRN  Í  GERÐUM

eftir  Jónas Jónasson frá Hrafnagili"Úlfur rekur annars erindi."

Hann Björn gamli hafði búið í Gerðum allan sinn búskap og var nú farinn að eldast, þetta um fimmtugt; hann bjó seinustu árin orðið ekki betur eða ver en það að hann hafði, með ríflegum sveitarstyrk, sem menn segja til dags og nætur síðan krakkarnir voru farnir að verða til léttis. Þorbjörg kona hans hafði alltaf verið heldur heilsulítil, og vildi það heldur ágerast með aldrinum; þó fór hún oftast úr rúminu nema þegar hún var vita kaffilaus; þá lá oft svo illa á henni að henni fannst hún ómögulega geta klætt sig.

Börnin voru sex, fjórar dætur og tveir synir.

Það yngsta var á fjórða árinu.

Elsta barnið hét Árni; hann var 22 ára.

Árni var mannvænlegastur allra þeirra Bjarnarbarna; það var allra besta efni til í honum, hefði uppeldið verið eftir því; en það var nú þar eins og gengur með það æði víða að efni og mannkostir verða að kyrkjast og kafna undir stríði og baráttu lífsins, ólagi og vankunnáttu.

Hann var farinn að fara til sjóar fyrir föður sinn og meðan hann var í verinu lét hann sér mest um það hugað að verja öllum aukastundum sínum til að mennta sig, með öðrum orðum: læra að lesa vel og skrifa.

En heima var ekki mikið um slíkt; það var ekki mikið bókasafnið í Gerðum; þó að það hefði verið leitað með loganda ljósi innan um allan bæinn, þá skyldi enginn maður hafa fundið þar annað en gamalt rifrildi af Vídalínspostillu, Stúrmshugvekjur, gamla messusöngsbók frá Viðey, passíusálma - og Símonar smámuni.

En Björn gamli skeytti ekki mikið um það; dætur hans kunnu smámunina frá upphafi til enda og kváðu þá í rökkrunum meðan karl var að hvíla sig eftir útiverkin og gamla Þorbjörg var að hita sér á katlinum frammi í eldhúsi.

Hann var farinn að hugsa um það að best mundi vera fyrir sig að fara að hægja á sér að vinna; krakkarnir gætu nú farið að vinna fyrir sér; það var svo sem víst að Árni, sem var elstur, ætti nú að taka við stjórninni; hann var elstur og lengst búið að púla fyrir honum.

Eitt kvöld skömmu eftir Jónsmessuna kom Árni heim úr verinu; Björn gamli kom út til þess að taka ofan með syni sínum.

Það var nú sitt af hverju sem hann kom með; en fyrirferðarmestir voru þó þorskhausarnir; það var fullklyfja á tveimur hestum af þessu beinahröngli.

Þorbjörg gamla lá í rúminu þegar fréttist að sæist til Árna; hún var vita kaffilaus.

Þá fór hún að hypja sig í fötin; hún vissi að hún mundi fá eitthvað til að brenna.

Björn gamli fór að spýta í allar áttir; hann fann það á sér að hann mundi líka fá upp í sig.

Tveir hlutirnir af kaupstaðarreikningi þeirra hjóna hljóðaði jafnan upp á munntóbak og kaffi.

En þegar Björn gamli var kominn út og var búinn að taka ofan fór hann að aðgæta son sinn betur; hann var fölur eins og nár, tekinn til augnanna og allur eins og genginn út úr hömrum; hann sat þar á þrepi við bæjardyrnar og hóstaði.

Honum var erfitt um hóstann; en eftir langa hviðu kom upp úr honum vilsa með blóðdrefjum.

"Hvað gengur að þér, strákur?" sagði Björn þegar hviðan var afstaðin; "ertu kvefaður í veðrinu því arna?"

"Eg veit það ekki, ónei, ekki held eg það; eg hefi verið alltaf svona slæmur í allt vor."

"Á, svo, því ætli það sé, er þér ekki að skána aftur?"

"Nei, ekki finnst mér það."

"Nú, það verður skemmtilegt ef þú verður svona í allt sumar."

"Það er nú ekki víst það verði."

Lengra varð ekki samtalið að sinni því að Þorbjörg kom þá út úr bæjardyrunum, svo ern og hress eins og hún hefði aldrei kennt sér neins meins.

Árni heilsaði henni.

"Ekki vænti eg þú hafir neitt meðferðis handa mér?"

"Jú, það er þarna í mórauða pokanum; hann pápi er að leysa hann."

Kerling vatt sér að karli sínum og sagði svo fljótt sem unnt var að koma út úr sér orðunum:

"Æ flýtt' 'ér nú!"

Björn gamli rétti sig upp frá pokanum, teygði úr sér, lagði aðra höndina aftur fyrir bakið og sagði hægt og gætilega:

"Ætli þér liggi meira á en mér?" Hann leit til sonar síns og sagði svo við hana áfram: "Það verður skemmtilegt, hann kemur heilsulaus heim úr verinu."

"Æ, flýttu þér nú að ná kaffinu!"

"Það verður víst heyskapur hérna í sumar með því lagi."

"Æ, leystu nú pokann, maður!"

"Nú, leystu hann sjálf, skrópadósin þín; - eg sem er orðinn farinn að vinna; taktu hestana, strákur, þeir standa í túninu - sérðu það ekki?"

Árni fór að taka saman hestana úr varpanum, en þau hjónin fóru að bauka við pokann aftur; niðri í pokanum var hér um bil 2 skeppur af rúgi, stór skjóða með kaffi og önnur með "exporti" og kandíssykri; þetta tók Þorbjörg sem sína eign, og kaffiskjóðuna í hendi sér og tautaði í hálfum hljóðum: "Já, já, það munu vera tuttugu pund; betur má hann nú skammta mér, blessaður, ef vel á að fara." Síðan rölti hún með sína skjóðuna í hvorri hendi rakleiðis inn í eldhús.

Yngri krakkarnir voru nú látnir flytja hrossin; en þegar þeir feðgar voru búnir að koma fyrir dótinu úti í skemmu fóru þeir inn.

Það stóðst á endum þegar þeir komu inn að Þorbjörg var að enda við að hella upp á könnuna; hún brá könnustútnum snöggvast upp í sig og fékk sér vænan sopa til þess að vita hvort kaffið væri sæmilega bragðmikið; svo hellti hún á bolla, beit í sykurmola og drakk úr pörunum.

"Hefirðu nokkuð þurft að fara til nefndarinnar í vor, pápi?" spurði Árni er hann settist á rúmið hjá föður sínum.

"Og fann eg þá, þrisvar heldur en tvisvar, góðu menn, þó að lítið hefðist upp úr því."

"Þurftirðu þess? Mjólkuðu ekki kýrnar nokkuð?"

"Þurfti eg þess? Eg hugsa þú getir nú nokkurn veginn getið því nærri hvað eg hafi átt eftir þegar eg var búinn að pína mig til að gera þig út í vetur."

"En þú fékkst nú einhvern styrk til þess."

"Jú, tíu krónur af gjafapeningunum góðu, en það hrökk nú skammt; svo reyndi eg til að fá ögn meira, en það dugði ekkert þangað til eg særði út hjá Kristni tólf króna úttekt af gjafapeningunum um sumarmálin; eg var sárlasinn og mamma þín í rúminu; þó braust eg í kaupstað í færðinni sem þá var, og svo var þetta lítið meira en fyrir tóbak og kaffi handa okkur í bráðina."

"Fékkstu ekki líka korn hjá þeim?"

"Korn? Ekki höfðu þeir það nú á boðstólum, góðu menn, enda vildi eg nú heldur úttektina; hún er þó ekki eins óforskömmuð, nefndin hérna, eins og í Neshreppnum þarna út frá."

"Nú?"

"Þeir höfðu nú gjafapeninga út fyrir sunnan, eg veit ekki hvað mikið, eg held einar þúsund krónur; en í staðinn fyrir það að skipta því á milli þeirra sem þurftu tóku þeir upp á því að kaupa kornmat sjálfir fyrir sumt af peningunum og píra því svo í aumingjana, en hinu helltu þeir trú' eg saman við sveitarsjóðinn og sögðu svo að hver sem vildi fá styrk af því yrði að taka það sem sveitarlán."

"Mér finnst að þeir gæti ekki farið skynsamlegara að því."

"Skynsamlegara? Ætli þeir sem gáfu hafi ætlast til þess að það yrði haft í ómagameðlög? Ónei, þeir ætluðust til þess að það yrði látið til aumingjanna eins og það kom, án þess hreppsnefndin væri að sía það."

"En hvernig hafði hún það þá hérna?"

"Já, hvernig höfðu þeir það? Annað eins helvíti held eg sé nú hvergi; þeir útbýttu því nú reyndar, en eru svo að píra því í úttekt og svoleiðis til þess að geta náð peningunum sjálfir; en þegar þeir ösnuðust á fundinn og fóru að gramsa í öllu saman, þá byrjuðu þeir á því að taka sjálfir handa sér af gjöfunum."

"So?"

"Jú, víst gerðu þeir það."

"Og hreppstjórinn líka, hann Kristinn?"

"Hann Kristinn! Já, það held eg; hann hafði bæði töglin og hagldirnar, maðurinn sá, af því að hann er oddviti líka síðan Jón dó í haust; hann, sem á ein 20 hundruð í jörðum, tók 30 krónur í sinn hlut að sagt er."

"Og svo segir hann að við fátæklingarnir eigum ekki að smakka kaffi og veit þó að eg get ekki lifað kaffilaus," bætti Þorbjörg við úti í horninu; "hann er það versta kvikindi sem skríður á jarðríki."

"Það ljúga víst fáir meira til nafns en hann," sagði Björn gamli, hrækti út úr sér gömlu tuggunni, stakk upp í sig annarri og hallaði sér aftur á bak upp í rúm.

Nú kom inn matur handa Árna; var það vatnsgrautur og mjólk í hálfóþrifalegum aski og fiskur og brauð á diski; Árni hafði eigi lyst á harðætinu, hann var farinn að þreytast á því við sjóinn, en borðaði úr askinum.

Þegar hann var búinn tók Þorbjörg askinn, kallaði á Kópa sinn og setti askinn fyrir hann til þess að þvo hann innan.

Kópi gerði það trúlega.

Síðan kom hún með kaffi til þeirra feðga; það var svo vel úti látið að það skilaði bollunum jafnsvörtum og kaffið var sjálft.

Um leið fékk hún sér þriðja bollann.

Árni kvartaði um að hann væri vesall venju fremur og fór að hátta.

Það leið ekki á löngu áður en Björn gamli færi líka að afklæða sig; en einlægt var hann að kvíða fyrir því ef Árni yrði nú lengi lasinn, svo sem um sláttinn; hann væri sjálfur orðinn svo bilaður að hann væri orðinn alveg ónýtur að vinna.

Kunnugir menn í sveitinni sögðu reyndar hann hefði verið það alla sína ævi; einkanlega af því að honum hefði allténd verið þungt um það.

Þorbjörg var alltaf að blessa yfir son sinn fyrir að hann hefði komið með svona gott kaffi, og bannsyngja hreppstjóranum af því að hann hefði látið sér þá óhæfu um munn fara að segja að fátæklingar ættu að spara við sig kaffið.


Sólin stafaði ljómandi og fögur geislum sínum ofan á fjöllin og jöklana austur frá og var gengin nær dagmálastað; sláttumennirnir þöndu sig á túnunum á kotunum í kringum Gerði; það hvein svo hátt í skárunum að það heyrðist á milli bæjanna. Ærnar voru að renna úr kvíunum í langri halarófu út í móana og holtin, og unglingarnir á eftir þeim. Það var kyrrð, friður og blíða yfir öllu.

Túnaslátturinn var nýbyrjaður.

Það var eins og fólkið léki sér að vinnunni í blíðviðrinu þó að það væri nokkuð heitt; slægjublettirnir voru óðum að stækka.

Um þetta leyti var Björn að sækja sér góðan daginn og kom út á hlaðið í Gerðum. Hann geispaði fyrst lengi og rölti síðan vestur fyrir bæjarvegg.

Þegar hann var ögn búinn að jafna sig fór hann að heyra betur og heyrði þá hvininn í skárunum á kotunum í kring.

"Hvaða bölvuð læti eru í mönnunum - a, hver er þarna? Jón á Barðinu búinn að taka kaupamann; þeir eru nógu stimamjúkir við hann í hreppsnefndinni að skaffa honum kaupamann þó að eg megi hanga einn með alla mína vesöld."

Með þenna lestur fór hann inn.

Það var ekkert skemmtilegt að koma í baðstofuna. Flest af fólkinu lá í rúminu nema Þorbjörg, hún var að hita ketilinn í eldhúsinu, og tvær elstu dæturnar; þær voru að mjólka kýrnar.

Árni lá þar í rúmi fram við stafninn og hallaðist upp við dogg; hann var alltaf smáhóstandi og stundi við; hann var allur löðrandi sveittur og var mjög ómótt.

Honum hafði farið dagversnandi síðan hann kom heim; hann hafði öll einkenni hinnar svæsnustu sullaveiki, bæði í holinu og líka í lungunum.

"Ekki mun þér batna heldur en vant er, það mun ganga svo," sagði Björn þegar hann kom inn og fleygði sér um leið aftur á bak upp í rúm sitt.

"Ekki finnst mér það, hóstinn hefir verið mér með erfiðasta móti í nótt."

"Jú, og nú eru þeir farnir að ólmast í túnunum hérna í kotunum í kring."

Árni jánkaði við því.

"Eg má til með að fá mér kaupamann; hann Jón á Barði er búinn að taka kaupamann, hreppstjórinn hefir víst sent honum hann."

"Jú, hann getur nú heldur ekkert unnið sjálfur, en börnin mörg."

"Já, ekkert unnið sjálfur - en er það ekki eins um mig sem er orðinn aldeilis frá með að vinna. Gigtin er svo búin að koma við bakið á mér."

Árni svaraði engu, en hóstaði við.

"Eg sé ekki að það dugi annað en fara að sækja læknirinn ef þessu heldur svona áfram því ekkert hefir þér víst batnað af þessu gutli frá honum sem kom um daginn."

"Æ, ekki finnst mér það."

"Það getur skeð, það er eins og vant er með það sullið frá honum. Atl' eg ætti ekki að reyna að fara til hans aftur?"

"Jú."

Björn reis upp við olnboga, tók til munntóbaksdósanna og brá upp í sig bita; svo stóð hann upp og gekk fram að næsta rúmi og fór að þreifa þar fyrir sér; hann kallaði: "Siggi, Siggi," hvað eftir annað þangað til loksins kom hljóð upp úr rúmfötunum: "Hvaða bölvuð læti eru þetta, Gunna?" Þá kom upp ljóslitað höfuð upp úr rúmfötunum, og átti það tíu vetra gamall drengur; hann reis upp í rúminu og neri augun.

"Farðu á fætur fljótt, strákur, og sæktu hann Faxa fyrir mig; eg ætla að bregða mér upp á bæi."

Siggi hélt áfram að núa augun, og var líkast sem hann hefði ekki heyrt skipun föður síns; eftir nokkura bið sagði hann hátt og ómjúklega:

"Mamma, er ekki kaffið mitt komið."

"Það er nú að koma, drengur minn," sagði hún um leið og hún kom inn úr baðstofudyrunum með ketilinn rjúkandi.

Hún bjó út í könnuna og hellti á og reyndi kaffið með því að súpa á könnustútnum. Síðan hellti hún sér á bolla og drakk hann; svo bætti hún aftur á könnuna úr katlinum og fór að skenkja hinum.

Svo drakk hún seinasta bollann sjálf; tvær yngstu telpurnar voru ekki vaknaðar og fengu því ekkert þá; þeim var geymt það.

Siggi fór nú að klæða sig og rölti af stað eftir hestinum með beisli á handleggnum.

"Á eg ekki að biðja hann að koma, ef hann fæst til þess?"

"Ofboð þætti mér vænt um það."

"Það er nú held eg ekki víst að hann verði tagltækur, þetta er svoddan bölvaður hrosshaus."

"Jú, hann kemur ef þú biður hann almennilega um það; eg treysti mér ekki til að lýsa því almennilega nema eg tali við hann."

"Jæja, hreppstjórinn verður að sjá um borgunina handa honum."

"Æ, þú hefir það eins og þú vilt."

Litlu síðar reið karl af stað að sækja lækninn.


Það var jöfnu báðu nóns og miðaftans þegar Björn gamli kom í hlaðið með lækninn; hlaðið var allt rennandi blautt því að það hafði komið demba um daginn.

Þeir fóru því af baki fyrir austan bæ; Siggi var úti og tók við hestunum.

Svo fór Björn inn og leiddi lækninn á eftir sér; þegar þeir komu gegnt eldhúsdyrunum leit Björn inn í dyrnar og kallaði:

"Settu upp ketilinn, Tobba, læknirinn er kominn."

"Hann er í glóðinni," var svarað fyrir innan.

Svo héldu þeir inn.

Það var ekki ófróðleg sjón fyrir lækninn að koma í baðstofudyrnar.

Baðstofan var í tveimur stafgólfum, og voru sín tvö rúmbælin undir hvorri hlið; hún var með moldargólfi; þiljum var slegið fyrir beggja megin við baðstofudyrnar og hurðarflak fyrir á leðurhjörum; fyrir framan var gólf sem svaraði hálfu stafgólfi á lengd.

Fyrir ofan rúmið var slegið tveim fjölum til að hylja veggina.

Uppi yfir voru leifar af gamalli skarsúð, en svo var hún fúin að hún bungaði inn á milli sperranna; sumstaðar voru partar af borðunum dottnir úr og héngu þar inn torfur úr þekjunni, hálfvotar og hvítar af myglu.

Gluggi var á framstafni með fjórum rúðum í; flestar voru þær sprungnar, en eina vantaði hálfa; upp í gatið var stungið gömlum barnsskyrturæfli.

Árni lá í rúminu við stafninn til hægri handar; hann snöri sér til veggjar og mókti.

Á rúminu á móti honum sátu tvær elstu systur hans; önnur var að bæta sokka, hin að hekla.

Í fremra rúminu til hægri handar voru tvær yngri systur hans; önnur þeirra var sex vetra, hin fjögra.

Þær húktu hver á móti annarri uppi í bælinu og höfðu á milli sín móstrútóttan hvolp, rúmlega hálfvaxinn.

Þær héldu höndum saman yfir hvolpinn og röru og sungu hvað af tók þessa gömlu íslensku hrakbögu með barnaframburði sínum:

Fadd' í att o' 'óu,
íddu gjájji dóu,
habbu kött fi' keji
o' keiddu úd á Eji.

Í hinu rúminu var ekkert nema flíkur og kúfort til fóta.

Á miðju gólfi var Kópi og var að sleikja innan skyrask.

Þegar Björn opnaði hurðina hleypti hann lækninum inn á undan sér; eldri stúlkurnar stóðu upp á móti honum; telpurnar í rúminu litu fyrst á hann, hvinu síðan upp með ógurlegt hljóð og byltu sér niður; hvolpurinn móstrútótti skrækti og hrökklaðist ofan á gólf.

Við þetta vaknaði Árni og snöri sér fram í rúminu.

Læknirinn heilsaði honum og stúlkunum og settist á rúmstokkinn.

En honum ógnaði daunninn í baðstofunni; þar var enginn strompur heldur en annarstaðar á Suðurlandi, og því síður vindsmugur á glugganum. Hann seildist því til skyrturæfilsins og tók hann burt úr glugganum.

Það var eins og nýtt líf streymdi inn í baðstofuna.

Svo fór hann að tala við Árna.

Samtal þeirra er ekki efni sögu þessarar; en niðurstaðan af samtali þessu varð sú að læknirinn var þess fullvís að hann var veikur af megnustu sullaveiki.

Þykktin var reyndar ekki geysilega mikil, en hvar sem hann tók á kviðarholinu urðu fyrir honum einlægir sullahnútar; hann gekk líka úr skugga um það að lungun voru líka öll spillt af því sama.

Hann þurfti ekki lengri bið til þess að sjá að Árni var gersamlega ólæknandi.

Orsakirnar gat hann farið nærri um af því sem hann sá þegar hann kom inn.

Hann fékk Árna einhver meðul, friðandi og styrkjandi meðul til þess að reyna að firra hann kvölum þann tíma sem hann ætti eftir ólifað.

Björn hafði verið frammi á meðan læknirinn talaði við Árna.

Nú kom hann inn og Þorbjörg með honum.

"Farðu og sæktu fram spón í ask handa honum pápa," sagði Þorbjörg lágt við eldri stúlkuna; hún þreif þegar askinn sem Kópi var að sleikja áður og fór fram með hann.

Þorbjörg vatt sér nú að kistlinum sem var í rúmsendanum og setti á hann ketil og könnu; svo fór hún fram aftur og kom með bollapör tvenn.

Hún fór svo að setja saman kaffið.

Svo tók hún bollapörin og fór að fægja þau á svuntuhorninu sínu; þar sem ekki vildi ganga vel af þeim brá hún á tungunni og vætti þannig; svo þegar það var búið tók hún stóran sykurmola upp úr vasa sínum, rétti Birni hann og sagði:

"Eg treysti mér ekki til að bíta þetta."

Það bar þá tvennt að í einu: kona hans rétti honum sykurmolann, og dóttir hans kom með ask að framan. Hann tók fyrst við askinum og setti hann á rúmshornið hjá sér; svo tók hann við molanum, tók hníf upp úr vasa sínum og lagði molann á rúmbríkina; síðan setti hann hnífinn á molann og sló á með hnefanum svo að annar parturinn hraut ofan á gólf, en bitinn ofan með bríkinni í rúmið.

Svo tók hann upp molana og fékk kerlingu.

Hún réð nú við að bíta þá og muldi þá ofan á undirbolla.

Karl fór að fást við askinn.

Þetta stóð á styttri tíma en þarf til að lesa þessi orð.

Læknirinn horfði þegjandi á.

"Hvernig líst yður á Árna minn?" spurði karl er hann var búinn að fá sér nokkra spæni úr askinum.

"Hann er ekkert álitlegur, og það sem mér þykir leiðinlegra að sjá, að þessi veikindi hans munu vera æði mikið ykkur að kenna!"

"Okkur!" sögðu bæði hjónin í einu og litu stórum augum á lækninn.

"Já, ykkur, eg sá það strax og eg kom inn, og því betur núna, og það er satt."

"Hvernig svo sem ætti það að vera?"

"Eg sé þið látið hundana sleikja innan hjá ykkur askana."

"Ó já, það hefir nú lengst verið vani hjá okkur að eg hefi lofað hundinum mínum að þrífa askinn minn."

"Og fyrir það er nú Árni litli líklega svona veikur; það er sullaveiki sem að honum gengur."

"So?"

"Hafið þér ekki séð kverið um sullaveikina?"

"Eg man það ekki."

"Jú, jú," tók kerling fram í um leið og hún saup á könnustútnum til þess að reyna kaffið; "það kom hérna einhvern tíma frá honum Kristinn á Skeiðum; við lásum það."

"Jú, eg man það núna, það er trú eg sagt þar að hundarnir búi til sullina."

"Og það er heldur aldrei nema satt; það fara bandormaegg úr þeim í matinn og fötin á fólki og hingað og þangað og berast svoleiðis ofan í það."

Rétt er það."

Rétt í þessu stökk móstrútótti hvolpurinn upp í rúmið til barnanna aftur og fór að sleikja aðra þeirra í framan.

"Þegar hundarnir eru látnir láta svona við börnin, þá er ekki von að vel fari," sagði læknirinn, stóð upp og benti í rúmið.

"Og ekki sér nú á þeim hinum börnunum okkar, heilsuna hafa þau, og hafa þau ekki síður leikið sér að aumingja hundunum en hann," sagði Þorbjörg brosandi og klappaði þeim strútótta í rúminu.

"Jæja, það getur verið," svaraði læknirinn stuttlega og tók hattinn sinn.

"Það átti að bjóða yður kaffibolla, það er alveg búið," sagði Björn þá og lét frá sér askinn og stóð upp líka.

"Nei, þakk' yður fyrir, eg hefi ekki lyst á kaffi núna."

"Ekki lyst á kaffi!" kallaði Þorbjörg upp yfir sig og leit upp á hann stórum augum; það gekk alveg fram af henni að nokkur maður í heiminum skyldi nokkurn tíma geta haft ólyst á kaffi.

"Nei, ekki núna," svaraði læknirinn, "verið þér sælir."

Svo kvaddi hann í baðstofunni.

Hann kastaði kveðju á telpurnar og hvolpinn í rúminu, en þær svöruðu með því einu að hrína hátt upp yfir sig og bylta sér upp í hornið eins og áður.

En rétt í því að læknirinn var að fara fram úr baðstofudyrunum sagði Björn:

"Eg held það sé þá fífa aftan á lækninum, eg ætla að taka hana," og svo tíndi hann nokkura gráa smáhnoðra aftan af kápunni hans.

Það var oft svo í Gerðum þegar heldri gestir komu, t. d. þegar presturinn var að húsvitja, að það þurfti að tína af þeim fifuhnoðra um leið og þeir fóru.

Um leið og læknirinn kvaddi spurði Björn hann að hvort Árni mundi ekki koma svo fljótt til að hann gæti slegið eitthvað í sumar.

"Það er ómögulegt," svaraði læknirinn.

"Hvað kostar þá ferðin og meðulin?"

"Fjórar krónur og fimmtíu aura."

"Það er svo; hreppstjórinn borgar það víst."

"Eg bjóst líka við að leita þess þar."

"Jæja."

Svo kvaddi læknirinn og reið burt.

Þegar Björn kom inn var hann í illu skapi.

"Það er skárri læknirinn, andskotinn svarna; það er eins og vant er að leita til þeirra, og svo ónot og stolt í tilbót."

"Og vilja ekki kaffið hjá okkur!" sagði Þorbjörg; hún var að enda við úr bollanum læknisins; bollinn stóð þar tómur, módökkur á litinn.

"Hann sagði Árni gæti ekkert slegið í sumar - eg má ríða út á morgun að útvega mér kaupamann."

Lengra komst hann ekki því að þá kom kaffibollinn.

Þá voru ekki börnin í rúminu heldur sett hjá.

Árni var enn við sama um höfuðdag, eða öllu heldur þó lakari eins og vonlegt var. Meðulin frá lækninum deyfðu mestu þrautirnar, en ekki heldur meira.

Hann var orðinn sannfærður um að hann mundi deyja.

Björn gamli fékk kaupamanninn og þurfti því ekki að berja sér um það að heyskapurinn gengi ekki svona nokkurn veginn; hann var líka stundum sjálfur við hann þó að hann væri farinn að bila.

- Um þetta leyti fréttist það um sveitina að nýtt hjálpræði væri að ferðast um sveitina.

Það fór eins og logi yfir akur að Ásmundur homopati væri á leið um sveitina að lækna meinsemdir manna.

Hann hafði verið alinn upp þar í næstu sveit; þegar hann var unglingur flæktist hann suður að sjó og var alþekktur þar í flestum veiðistöðum.

Hann var sendur í kaupavinnu á sumrin og látinn róa á vetrum.

En innan skamms fór honum að þykja þetta líf of erfitt og stríðsamt; hann vildi geta komist af með léttara móti. Hann vildi komast upp á það lag að lifa á annarra sveita.

En hann var svo hygginn að hann fann að til þess að komast laglega af með það varð hann að koma því svo fyrir að það liti svo út sem það væri annarra þága að hann lifði á þeim.

Eftir nokkura umhugsun fann hann að hann gat komist nokkuð á rekspölinn með það.

Hann varð "kóngsins lausamaður".

Þegar hann var einu sinni á ferð einhverstaðar upp í sveit sá hann þar af tilviljun bók uppi á hillu.

Hann fór að skoða bókina, fremur af hégómaskap en af því að hann væri hneigður fyrir bækur.

Það var homopatisk lækningabók.

Þá opnaðist fyrir honum allt í einu hvernig hann gæti best komist af.

Honum datt þá í hug að hann hafði heyrt þess getið að margir nýtir og góðir menn hefðu fengist við homopatiskar lækningar og gefist það vel og verið álitnir með bestu læknum lands vors.

En hann vissi líka til þess að sumir þeirra höfðu verið fljótir að læra sem fást við hana.

Hann var á svipstundu orðinn allra besti homopati.

Hann reið þegar til Reykjavíkur, keypti bókina í bókasölubúð og kynnti sér hana í viku.

Svo keypti hann sér meðul, spiritus, sykur og smáglös og fór að lækna.

Um sumarið fór hann í kaupavinnu norður í sveitir og læknaði þar mikið og gerði marga góða sem héraðslæknarnir voru gengnir frá.

Um veturinn var hann við róðra, en kom sér líka dálítið niður í dönsku.

Svo vildi til um veturinn að það var stórt bókauppboð í Reykjavík; þar keypti hann sér nokkrar danskar og þýskar skræður; þar á meðal var af tilviljun eitt bindi úr lyfjafræði Hahnemanns.

Sumt af skræðum þessum hafði hann svo með sér, ef hans var eitthvað vitjað, og sagði það væri lækningabækur.

Næsta sumar - það sem saga vor fer fram á - réð hann af að fara ekki í kaupavinnu; hann hafði orðið þess var að sumir homopatar tóku sér ferð á hendur um sveitir á sumrum til að lækna og fengi þannig mat og peninga fyrir lítið.

Hann réð af að hafa það eins; vermenn höfðu borið kraftaverkasögur af honum upp um sveitirnar svo að hann átti sér vísa aðsóknina hvar sem hann færi um.

Hann keypti því reyklituð gleraugu og bjó sig til ferðar.

En hann var ekki einn; í fylgd með honum réðist búðarmaður sunnan úr Keflavík sem hafði verið rekinn þaðan fyrir ofdrykkju.

Þeir lögðu báðir af stað austur yfir heiði.

- Óðara en það fréttist að slíkur maður væri á ferð flykktust menn saman til þess að leita hjá honum ráða og bóta.

Hreppstjórinn og oddvitinn sjálfur, Kristinn á Skeiðum, var eitthvað lasinn um þetta leyti, og hafði lækninum ekki getað tekist að lækna hann að fullu; hann gat varla hrært sig fyrir bakverk.

Hann kom þangað, lét meðul, og Kristinn komst á fætur eftir þrjá daga.

Honum dvaldist nokkura daga þar uppi um bæina, en þegar hann fór ofan hjá aftur var setið fyrir honum einhverstaðar til að fá hann til að koma við í Gerðum.

Þegar þangað kom var Björn gamli úti að leggja á ljáinn sinn. Hann gekk út á móti homopatanum.

Þeir höfðu þekkst vel fyrir fáum árum; eigi að síður kastaði Ásmundur kveðju á hann þannig:

"Sælir verið þér nú, Björn minn."

Björn bjóst ekki við þéringum af Ásmundi og varð því að orði:

"Kondu - sælir!"

Svo bauð hann þeim inn.

Hann vísaði fylgdarmanninum til sætis hjá sér á bólið, en Ásmundur taldi sér sjálfsagt að setjast hjá sjúklingnum.

"Mikið er Árni minn lasinn alltaf, og fer sýnist mér heldur versnandi; eg er búinn að fara tvisvar til læknisins, og sótti hann í öðru sinni, og það gerir ekkert að."

Árni hallaðist upp við dogg í rúminu; honum var þungt um að anda og suðaði hrygla fyrir brjóstinu; við og við kom hægur hóstakjöltur.

Hann var ekki orðinn nema skinin beinin.

"Já, eg sé það," svaraði homopatinn; hann horfði á hann í gegnum reyklituðu gleraugun.

Hann fór nú að spyrja Árna ýmsum spurningum og fara höndum um hann.

"Já, hann er fjarskalega veikur, mér líst illa á hann."

"Hvað haldið þér gangi nú að honum?"

"Ja . . . það er mikið - mikið sjaldgæf veiki hér á landi; það er líklegast að fáir læknar þekki hana."

"Ja, það er rétt; læknirinn okkar sagði nú það væri sullaveiki og kenndi hundunum hérna um það, trúi eg."

Ásmundur hristi höfuðið eins og honum ofbyði slík fáviska og sagði hægt og eins og hann vægi orðin:

"Nei, það er svo langt frá því eins og eg veit ekki hvað; eg þekki vel þessa veiki."

"Rétt er það, ja það veit eg."

"Ja, sei sei já; það er eins konar langvinn, sem þeir kalla, kronisk taugafeber sem kemur svona fram; það koma bólguhnútar í allt holdið, og andardrátturinn verður allur öfugur og óeðlilegur; það safnast saman kolsýruloft í lungunum í stórum belgjum sem ekki getur komist burt; það orsakar hóstann og svitann."

Björn var alveg forviða á þessari þekkingu.

"Og hálærður læknirinn sagði þetta væri sullaveiki og kenndi hundunum um; hann hefir víst hugsað það af því að hann sá hund sleikja ask hérna."

"Já, eg hefi heyrt þetta; þeir breiða þessa kenningu út í Reykjavík; en eg verð að álíta að það sé tóm vitleysa; það mælir allt á móti því, bæði vísindalega og verklega."

"En er þá nokkuð óhollt að láta hunda sleikja innan askinn sinn?"

"Ja, eg verð að segja, eftir því sem mér finnst væri það þokkalegra að minnsta kosti að þvo upp ílátið á eftir."

"Ójá, við höfum nú ekki hentugleika á því hérna, fátæklingarnir, að standa í óþarfaþvottum; við höfum nú annað við tímann að gera."

"Ojæja, það gengur nú svo. - En hvað þessa vesöld Árna snertir, þá er það nú kannski vorkunn þó að læknirinn þekkti hana ekki; hún er mjög fátíð hér á landi; eg er þó búinn að sjá æðimarga sjúkdóma hér á landi, en þenna sé eg hér í fyrsta sinn."

"En þér hafið þó séð hann áður?"

"Já, eg sá hann í fyrra í Noregi þegar eg var þar."

"Nú, þér hafið þá siglt!"

"Já, eg brá mér til Noregs í fyrravetur til þess að fullkomna mig í læknisfræðinni; þar var eg um tíma við homopatiskan spítala, og þar var einn maður veikur af þessari taugafeber."

"Og batnaði honum?"

"Þeim ætlaði ekki að ganga greitt með hann, spítalalæknurunum; eg hafði með mér gamla þýska lækningabók sem mér var send frá Þýskalandi í hitteðfyrra, sem þeir héldu þar við spítalann að væri komin úr gildi; mér hafði oft reynst hún vel svo eg fór að blaða í henni og fann meðal sem mér leist vel á; eg fór svo til yfirlæknisins við spítalann og sýndi honum, hvað þarna stóð og sagði honum að mér litist nú helst að reyna þetta meðal; hann virti mig fyrst varla svars, en eg var þangað til að nauða við hann að hann sagði loksins hálfbyrstur: "Nú jæja, farðu þá og gefðu honum það inn." Eg lét ekki segja mér það tvisvar, eins og þið kannski getið nærri, og fór til og gaf manninum inn og hafði einn af undirlæknurunum með mér; svo gaf eg honum inn aftur; svo kom yfirlæknirinn og spurði hálf glottaralega hvort honum væri ekki farið að batna; eg sagði honum hann skyldi geyma að hlæja þangað til í kvöld og gaf honum inn í þriðja sinn, og þá fór að hrífa; honum létti svo stórum, og eftir viku var hann kominn á fætur."

Allir í baðstofunni störðu agndofa á Ásmund meðan hann sagði þessa sögu; hann sagði hana ofur hægt og gætilega eins og honum kæmi síst til hugar að telja sér þetta meistaraverk til gildis. Hann hallaði bara einstöku sinnum á og horfði svolítið spekingslega út undan gleraugunum. Það var auðséð hann vissi við hverja hann átti.

Það varð fyrst ofurlítil þögn; svo sagði Björn:

"Já, það er svo."

"Þá kom nú samt spítalalæknirinn til mín og var þá heldur þægilegri en áður; hann bað mig fyrir alla muni að selja sér þessa bók, en það sagðist eg aldrei gera; hann gæti "bestilt" hana ef hann vildi; svo bauð hann mér og enda bað mig að verða undirlæknir við spítalann hjá sér og bauð mér 1200 króna laun og allt frítt, en eg vildi það ekki; eg vissi þetta sem var, að það voru svo margir á Íslandi sem líða og líða, en fá enga hjálp meina sinna, svo eg hélt að eg gerði betur í að fara til Íslands aftur og reyna að hjálpa þar einhverjum veikum."

"Borgaði hann yður ekki vel, þessi maður?"

"Jú, honum fórst vel við mig: hann gaf mér 50 krónur þegar eg fór."

"Var hann nú eins veikur eins og Árni er núna?"

"Nei, ekki nærri því, en ef hann hefði ekki fengið þessi meðul í tíma hefði hann sjálfsagt farið eins."

"Haldið þér að þér getið bætt Árna mínum eins vel og honum?"

Homopatinn horfði á Árna um stund og sagði síðan íbyggilega:

"Já - hefði eg komið svo sem fyrir mánuði, þá hefði eg skulað gera hann góðan á viku, en nú verður verra viðureignar; bæði er það orðið seint og svo hefir það víst skemmt sem læknirinn hefir verið að káka við hann; má eg sjá meðulin frá honum?"

Björn gamli stóð upp og seildist upp á hillu uppi yfir glugganum og kom með tvö glös: annað þeirra var nærri tómt, en hitt framt að því hálft.

Ásmundur tók við glösunum, hélt þeim upp við gluggann og hristi; hann hristi höfuðið nokkrum sinnum og skoðaði vandlega á milli; loksins sagði hann:

"Ekki skal mig kynja þó að seint gengi með batann; þvílíkur dæmalaus bjánaskapur."

"Þekkið þér þessi meðul?"

"Ojá, eg held það."

"Og þau hafa náttúrlega ekki átt við!"

"Eg held síður; mig stansar á því að hann skuli ekki hafa drepið hann á þessum fjanda."

"Mér linaði þó oftast þrautin af þessum dropum," stamaði Árni í rúminu.

"Það get eg vel ímyndað mér; þau lina oft í bráð það sem þau skemma því meira þegar frá líður."

Svo lét hann glösin út í gluggann og sagði um leið:

"Það er ekki vert að taka oftar úr þeim tappann."

Svo leit hann til fylgdarmannsins og sagði:

"Hefirðu töskuna mína nokkurstaðar þarna hjá þér?"

Hinn játti því; hann tók upp stóra hnakktösku úr rúmshorninu og rétti Ásmundi.

Hann leysir upp töskuna og tekur upp úr henni bók eina litla; hann blaðar í henni um stund, kinkar síðan kolli og leggur hana svo hjá sér; síðan tekur hann aðra bók, fremur ellilega, í alskinni, upp úr töskunni; hann blaðaði í henni um stund og gerir ýmist að skjóta gleraugunum upp á ennið eða niður á nefið aftur. Loksins eftir nokkura stund segir hann:

"Hérna mun það koma."

Þetta var lækningabókin ágæta; seinna báru málugir og illkvittnir menn það út að þetta hefði verið þýsk landafræði, prentuð 1790, nærfellt 10 árum áður en Hahnemann kom upp með hina nafnkunnu lækningaaðferð sína.

Síðan tók hann upp úr töskunni stokk allstóran svo að vel fyllti hana hálfa; það var lyfjabúrið.

"Jú, eg vonast eftir að geta gert hann góðan, en það verður ekki nema með löngum tíma héðan af; hérna kemur það," sagði hann og tók upp glas lítið og leit á yfirbindinguna; þar var nafn meðalsins skrifað; "eg þarf að fá þrjú tóm glös."

Fylgdarmaðurinn tók þá til hliðartösku mikillar af selskinni; var töluvert í henni af smáum meðalaglösum; voru þau fléttuð í hálmfléttur á stútunum, og höfðu verið 25 í hverri fléttu.

"Hvað stór?" spurði sá sem var með.

"Við skulum hafa það miðsortina," svaraði Ásmundur og tók önnur tvö glös upp úr stokknum hjá sér.

Fylgdarmaðurinn rétti honum þrjú tíu gramma glös.

Ásmundur tók nú vínandaflösku upp úr töskunni og hellti í litlu glösin svo að þau voru nákvæmlega mitt á milli hálfs og fulls; síðan lét hann í eitt þeirra tvo dropa af lyfinni úr einu glasinu, en sinn dropann úr hverju glasi í hvort hinna.

Fylgdarmaðurinn rétti honum þrjá tappa; hann stakk þeim í glösin og skrifaði "a" á einn þeirra, "b" á annan og "c" á hinn þriðja.

"Þið munuð ekki geta léð mér blek og penna og gefið mér pappírsmiða?"

Það var farið að leita, en ekkert af þessu var til.

Þeir félagar höfðu þá blýant þegar til kom, og annar þeirra reif blað upp úr vasakveri sínu. Á það var forskriftin skrifuð.

Hún hljóðaði þannig:

"Fyrsta daginn skal Árni taka inn 4 dropa kvöld og morgna úr a, annan daginn 3 dropa þrisvar á dag úr b og þriðja daginn 3 dropa þrisvar á dag úr c; fjórða daginn brúki hann ekkert; og svo eins aftur; takist inn í hvítasykri; finnist honum inntökurnar of sterkar skal minnka þær um einn dropa. Svona skal þetta brúkast þar til búið er.

Rétt í þessu kom kaffið; það hafði gengið heldur seint með það af því að Þorbjörg hafði verið beðin þar úr næsta koti að láta sig vita þegar læknirinn kæmi; en er hún fór gat hún ómögulega staðið af sér að bíða ekki eftir kaffi af því að það bauðst.

Ekki bar á öðru en þeir félagar gæti drukkið það, og var það þó í sterkara lagi.

Þegar Ásmundur var búinn að skila bollanum, sagði hann:

"Ekki býst eg við að Árni komist á fætur fyrri en eftir mánuð, en ef eg reikna rétt út, sem mér hefir reyndar sjaldan fatast, hafi eg lagt mig til eins og núna, og ef þið haldið reglulega áfram með meðulin, þá vonast eg eftir að hann verði albata um jólaföstubyrjun."

"Ætli það sé munur eða hin ósköpin sem kom í sumar, sem gaf litlar vonir og slettur í tilbót," sagði Þorbjörg um leið og hún saup út af úr bollanum sínum.

Í þessu komu boð inn að það væri fólk úti sem vildi tala við lækninn.

"Já, því liggur ekki svo á, farðu út og segðu því að eg skuli koma strax," sagði hann við þann er boðin bar og snöri sér síðan til Bjarnar; "er það þá nokkuð meira?"

"Nei, en hvað kostar nú þetta allt saman?"

"Já, það er nú nokkuð alls: ferð mín hingað og fyrirhöfn kostar 3 krónur, og 1 krónu fyrir fylgdarmanninn, og svo kosta meðulin 4 krónur; það er ómögulegt fyrir mig að selja það billegra; það eru alls 8 krónur."

"Já."

"Meðulin verða mér fjarska dýr; eg vil nefnilega ekki sjá þessi meðul sem fást í Reykjavík, það er allt margsvikinn og forleginn rækalli; eg bestilti þau beina leið sunnan úr Þýskalandi, og stundum hefi eg fengið þau frá París; það má geta því nærri hvort þau eru ekki góð og vönduð því að þau eru meira en helmingi dýrari þar í innkaupinu en þau eru í Reykjavík."

"Já, það er rétt, þá eru þau víst ekki kraftlaus."

"Nei," svaraði hann og hristi höfuðið ögn við, "í þessum stokk eru mörg þau meðul sem einn dropi væri nógur til að drepa sterkasta mann með; en stokkurinn kostaði líka 170 krónur."

"Já, 170 krónur, já, það er víst meira en vatnið tómt."

"Ætlið þér að borga þetta hérna eða hvað?"

"Eg hefi það ekki til; nefndi ekki hreppstjórinn, hann Kristinn á Skeiðum, eitthvað um það ef yðar væri leitað héðan?"

"Jú, það mun hafa verið, en haldið þér að eg fari að sækja það upp til hans? Minn tími er alltof dýrmætur til þess."

"Nei, það er engin von; en þér verðið hérna einhverstaðar í hverfinu í nótt, það koma svo margir til að finna yður hérna; hér eru einir tveir sveitarlimir veikir, og það verður víst sent til hans upp á borgun fyrir meðul handa þeim."

"Já, það er gott, þá sendi eg honum reikning með; en hvað eg vildi segja - er hann ekki Jón í Efragerðiskoti einna efnaðastur hérna - er ekki stofa til hjá honum?"

"Jú, eg held hann sé efnaður, hann Jón - múraður af öllu," sagði Björn með auðsærri öfund í málrómnum.

"Það verður best fyrir yður að fá þar að vera í nótt og fá að taka á móti fólki í stofunni þar."

"Eg var einmitt að hugsa um það; komið þér ekki út?"

"Jú."

Ásmundur tók meðalatöskuna og hatt sinn og kvaddi þá er inni voru; Björn tók glasatöskuna í hönd sér, tíndi fífuhnoðrana gömlu af kápu Ásmundar og gekk svo út.

Það voru einir sjö eða átta sem biðu homopatans úti; en hann kvaðst ætla upp að Koti, og þar yrði þeir að finna sig.

Þeir riðu svo af stað félagar og öll sjúklingahalarófan gangandi á eftir.

- Daginn eftir fór hann af stað úr hverfinu; hann hafði heyrt á raunatölur 14 sjúklinga og líknað þeim öllum, lesið tvisvar upp söguna um spítalann í Noregi, nema sjúkdómsnafnið breyttist eftir ástæðum; hann fór þaðan með 64 krónur í vasanum.

- Það er sorglegt til þess að vita að slíkir menn skuli ekki þurfa annað en nóg gort og nóga bíræfni til þess að fá flesta til að trúa sér fyrir lífi og heilsu.

Lækningalyf eru eins og voði í óvita höndum hjá þeim; þeir vita ekki hvað þeir fara með.

Þeir hafa enga hugmynd um byggingu mannlegs líkama, enga hugmynd um eðli og verkanir lyfja, enga hugmynd um eðli sjúkdóma.

En þeir vita að þeir geta tælt fáfræðinga til að trúa sér; þeir raka saman fé af annarra heimsku.

Þess er síst að synja að þeir rekist á að láta rétt lyf við einhverjum sjúkdómi og hann batni.

En hvað margir hafa haft illt af þeim, hvað margir dauða?

Því eru engin lög og enginn dómur til að stemma stigu fyrir slíku?

Hvar er það að finna sem geti varnað því?

Það þarf meira en gort og meðulin í glösunum til þess að heyja vel hólmgönguna við dauðann.

Það er þekking og menntun - og náttúra!


Að hálfum mánuði liðnum var Árni dáinn.


Það má geta því nærri að Björn í Gerðum átti ekki vel gott með það að komast af eftir það að Árni var dáinn, eins farinn og slitinn eins og hann kvaðst vera orðinn.

Hann fór því að finna hreppstjórann um haustið eftir göngurnar til þess að fá hjá honum eitthvað að lifa af.

"Mér sýnist þú nú ekki vera orðinn svo sérlega afturfararlegur, Björn, að minnsta kosti ertu í bærilegum holdum," sagði Kristinn hreppstjóri við hann þegar Björn var kominn inn í stofuna til hans; "eg er hræddur um þú gætir haldið þig betur að en þú gerir."

"Eg held að þér ætti að vera kunnugast um það að eg hefi unnið baki brotnu fyrir þessum hóp mínum með heilsulausa konuna; fyrir það er eg nú orðinn eins og eg er."

En mér þykir þú verða heldur dýr sveitinni: þú ert þyngstur allra þetta árið."

"Já já ætl' það sé mikið meira en þessi úttekt og krónurnar í vor af gjafapeningunum sælu sem hvergi sjást, og svo styrkur handa kaupamanninum í sumar, og svo meðulin handa honum Árna sáluga."

"Já, er þetta nú ekki allt nokkuð?"

"Eg kemst ómögulega af með það, þú sér það sjálfur."

"Þú ert nú búinn að fá framt að 40 krónur af gjafafé og í meðalakostnað og svo 240 fiska handa kaupamanninum; þetta finnst mér nú vera allt nokkuð."

"Já, hvað sem því nú líður, þá annaðhvort verð eg nú að drepast eða fá allt að tveim tunnum af kornmat í haust, og svo ögn af kaffi og tóbaki þegar eg fæ ekkert úr sjó í vetur."

"Eg held þú gætir nú róið sjálfur í vetur, eg held það væri ekki ofverkið stelpnanna að gegna þessum fáu skepnum."

"Þið eigið bágt með að trúa því að eg sé ekki fær um alla vinnu, nei, mér er orðið ómögulegt að róa, hvað feginn sem eg vildi."

"Þú hefir nú aldrei nennt því um þína daga."

"Og lýgurðu það, eg röri sjö vertíðir meðan eg þoldi.

"Ætl' þú hefðir ekki þolað þá áttundu?" svaraði hreppstjórinn, stóð upp og tók bók og leit í hana. "En hvað sem því líður nú, þá verðum við að taka þig upp og setja stelpurnar í vinnumennsku og kerlinguna og krakkana á hreppinn og láta þig sjá fyrir þér sjálfan."

"Eg held eg reyni að búa á meðan eg get; líklega verður hitt ekki léttara fyrir ykkur, góðu menn; en þið gerið ykkar vísu við okkur fátæklingana eins og þið eruð mennirnir til."

"Nú - hvernig á að fara að því þegar þið eyðið heilu ómagaframfæri í kaffi og tóbak?"

"Við höfum enga heilsu ef við höfum það ekki; við megum til."

"Þú hefir nú lengi verið og verður líklega lengst versti kletturinn sem á okkur liggur hérna í sveitinni, það á ekki af okkur að ganga."

"Það er nú ekki til neins að tala um það; en skyldi eg eiga von á að fá eitthvað?"

"Ætl' við megum ekki til? Það er eftir nokkuð af gjafapeningunum; við ætlum nú að kaupa fyrir það kornmat, og svo verður því skipt á milli þeirra sem helst þurfa; þú færð líklega eitthvað af því."

"Og ekki annað?"

"Hvað svo sem annað?"

"Eg má til að fá dálítið í úttekt eða peningum."

"Nei, þú tókst tóman óþarfa í vor."

"Já, við komumst ómögulega af; eg vildi þú værir orðinn eins fátækur eins og eg svo sem eitt ár til þess að reyna hvernig það er."

"Að minnsta kosti skyldi eg ekki þá liggja í leti og ómennsku og byrja á því að taka út eintóman bölvaðan óþarfa."

"Ætl' þú ynnir mikið með bakverkinn sem þú hafðir í sumar?"

"Þú hefir nú ekki heldur haft af honum að segja; en þú getur ekki fengið meira en komið er og svo sem hálftunnu eða svo af kornmat; það er svo þungt á sveitinni hérna."

"Jæja, það tekur því þá ekki að tala um það, og vertu sæll."

Og áður en Kristinn vissi hvaðan á sig stóð veðrið var Björn rokinn út úr stofunni og kominn á bak hesti sínum og riðinn burt.


Daginn eftir lagði Björn af stað að finna sýslumanninn.

Hann útlistaði það fyrir honum hvílíkum ókjörum hann yrði að sæta af sveitarstjórninni heima; hann bar fátækt sína, vesöld, missi, börn og bágindi svo fram eins og sá sem hefir orðið fyrir hinu sárgrætilegasta ranglæti af guði og mönnum.

Sýslumanninum fannst hann hafa á réttu máli að standa og lofaði honum góðu um það að skrifa sveitarnefndinni til áður en niðurseta færi fram og niðurjöfnun.

Björn reið heim með þessi skil og var hinn kátasti með sjálfum sér; nú vissi hann hvar hann ætti að leita réttar síns ef hann þyrfti.

Hann reið hægt heim um kveldið, og var orðið framorðið er hann kom heim; tungl óð í skýjum og veður var hið fegursta. Hann spretti af Faxa sínum, fleygði hnakknum á bæjarkampinn og hleypti svo Faxa út á túnið.

En þegar hann kom inn kom hann ekki að tómum kofunum.

Þar voru tveir menn komnir, og sátu báðir að sláturdiskum inni á rúmi.

Á móti þeim sátu þrjár af mæðgunum; tvær hinar yngri sátu undir litlu systrum sínum.

Siggi, Kópi og móstrútótti hvolpurinn lágu allir uppi í fremra rúminu.

"Er ekki kaffið ósköp ódýrt þar?" spurði Þorbjörg.

"Og nefndu ekki ósköpin," svaraði annar þeirra er við sláturdiskana sat, "það kostar þar þetta 10-12 aura pundið ef maður nennir ekki að sækja það sjálfur; það sprettur þar um hagann eins og berin heima á Íslandi, og það er auðgert svona seinni part sumars að tína þar 20 pund á dag."

"Ó, það er mikið blessað land, þangað vildi' eg væri komin - Siggi, hlauptu fram og gáðu að katlinum."

"Guð hefir blessað þetta land með gjöfum sínum vegna sinna trúuðu."

"Já, það er munur eða hérna þar sem maður hefir ekki bita eða sopa ofan í sig nema með eftirgangsmunum og illdeilum þegar heilsan er farin."

"Já, guð hefir líka straffað þetta land sakir þess óguðlegleika, og þeir sem ekki vilja verða hans trúuðu og skírast, þeirra forlög munu verða eins og segir hjá Jóhannem í hans opinberunarbók: og það fór eldur af himnum ofan og eyddi þeim, og þeim var kastað lifandi í elddíkið sem er helvíti sem logar af eldi og brennisteini."

"Og," sagði hann til viðbótar, "þá mun verða, eins og Páll segir í öðru Tessalonikas, þriðja, ætl' eg, heldur en fimmta: þeim mun drottinn tortíma með anda síns munns og að engu gjöra af því að þeir veittu ekki sannleikanum viðtöku, sem við berum fram, þrátt fyrir það þó að Guð hafi látið ganga boð á undan okkur og látið skipa fólkinu í Lúkas sextánda: hlýðið þið þeim."

Mæðgurnar hlustuðu orðlausar á þennan biblíuvaðal.

Lesarinn hefir víst þegar séð hverjir voru komnir.

Svona stóð þegar Björn kom inn; hann heyrði þetta samtal í baðstofudyrunum.

- Að viku liðinni var allt hans heimafólk skírðir mormónar og báðar eldri dætur hans mormónaprestsmaddömur.


Það kvað svo rammt að að Kristinn á Skeiðum varð feginn er hann frétti þessi tíðindi. Hann fann hvað það mundi létta á hreppnum þegar frá liði.

- Um vorið eftir keypti Jón í Efragerðiskoti búið í Gerðum; og það sem til vantaði til þess að þetta fólk kæmist til "Gósenlandsins", þar sem má tína kaffið eins og ber, lagði Kristinn til af sveitarsjóði; sú framlaga sagði hann að væri sá mesti gróði sem sveitinni hefði áskotnast í 20 ár; það hefði á endanum orðið tilvinnandi að sýslumaðurinn hefði skipað sér að ala þetta hyski í vetur.

- Þegar "Camoens" létti akkerum með þessa byrði, ásamt fleirum öðrum af sama tagi, sungu litlu telpurnar í ákafa: "Fadd' í att og óu," en Björn gamli leit til lands og hristi höfuðið og sagði:

"Þetta er bölvað land, hvar innbúarnir eta brauð sitt með hugarangri og drekka sitt vatn með hryllingi."

En Þorbjörg hallaði sér að dætrum sínum og sagði með mesta ánægjusvip:

"Þið tínið náttúrlega með mér."

En þær snöru sér undan og sögðu í skyndingu:

"Við maddömurnar, nei takk."

Síðan hefir ekkert frést af Birni í Gerðum og hyski hans.
Netútgáfan - júní 1998