GÍSLI  HÚSMAÐUR


eftir Þorgils gjallanda

Hvammssveit er fögur og sérkennileg, þótt bændurnir þar kvarti um örðuga aðdrætti, snöggt slægjuland og vanhaldamikla afrétt.

Þaðan flytjast fáir vistferlum, séu þeir sjálfráðir um veru sína í sveitinni. Svo hefur það verið um mína daga og ennþá örlar lítið á kauptúna þránni í fólkinu þar.

Þegar ég var að alast upp þótti mörgum sveitungum mínum helst til góður sopinn. Þá var ekki tekið jafn hart á víndrykkjunni og nú er gert; minna brugðið sér við ölæði og háreysti.

En iðnastur allra þeirra var þó Gísli Bjarnason við flöskuna. Gísli húsmaður, svo sem hann var tíðast nefndur, af því hann hafði mörg ár verið húsmaður hér og þar í sveitinni og oftast á Laugum.

Lesendum sögu þessarar þykir ef til vill undarlegt, að Gísli, sem þá mun hafa verið fertugur að aldri, og ég, tólf vetra drengurinn, yrðum kærir vinir; en það er nú satt eins fyrir því hvort það þykir sennilegt eða ekki.

Ég var á þeim dögum kallaður "hestafífl", mig klæjaði ekki í eyrun fyrir því nafninu. Og enginn maður var jafn þrautgóður að tala um hesta við mig og Gísli. Hann sagði mér sögur af þeim, skoðaði þá með mér, brosti vingjarnlega að borginmannlegu dómunum mínum og lagfærði lipurlega það sem vitlaust var; beindi huga mínum að því að vera kunningi þeirra, en ekki harðhnjósku glópur, sem heimtaði allt en veitti ekkert á móti.

Gísli kom oft að Bakka þar sem ég ólst upp, og var þá vanalega ölvaður. Hann var sjaldan kófdrukkinn, bar sig vel og þótti glaðari við vín en þess utan. Hvorki var hann áleitinn né uppstökkur þótt ölvaður væri, en meinyrtur reyndist hann þeim sem á hann leituðu og miklir voru á lofti. Gísli var barngóður og sérlega laginn að gera þeim að skapi, en oflátungum var fremur kalt til hans.

Ekki safnaði Gísli auði þótt hann væri bæði mikilvirkur og góðvirkur, hagur bæði á tré og járn, vefari góður og þrifnasti fjármaður, þegar til þess tók. Menn sóttu mikið eftir vinnu Gísla og buðu hátt dagkaup, en þó græddi hann ekki fé. "Það fer margur dagurinn til ónýtis fyrir honum og mörg krónan fyrir ekkert," heyrði ég fésæla nágranna segja og glotta kaldlega við.

Gísli var ókvæntur og barnlaus; hann átti nokkuð af sauðfé, hest, klæðnað góðan, smíðatól og mikið af bókum.

Einn sunnudagsmorgun, skömmu eftir að ég kom á fætur, sá ég ríðandi mann koma norðan bakkann, hann reið hægt en hesturinn bar sig ljómandi fallega. Ég þekkti manninn fljótt, það var Gísli. Nú var heppni að vera úti staddur, hann mundi hleypa vana sprettinn sinn suður "Skeiðið", en það varð þó ekki, hann reið hóftölt og lét hestinn bera hátt höfuðið, gætti þess vel að hafa tökin á honum og að sem minnst bæri á fjöræsingunni, sem tók hann þegar "Skeiðið" blasti við.

Ég hljóp norður fyrir túngarðinn móti Gísla og hló hugur við að sjá báða kunningja mína, hann og hestinn.

Gísli fór af baki norðan við túngarðinn, spretti af hestinum, strauk hann og smeygði á hann múlbeislinu; þá kom ég, Gísli kyssti mig og klappaði á kollinn eins og vandi var til. Hann hafði auðsjáanlega verið fullur, en nú var ölvanin rokin af; máttleysi og svefnskortur með eftirköstum vínsins voru mér auðsæ.

"Nú vildi ég mega sofa um stund - en það er ekki víst að svefninn fáist - ég hef vakað í nótt og verið fullur eins og vant er --. Kollur minn, gættu fyrir mig að honum Hreggnasa meðan ég slæpist; hann fékk bölvaðan þursasprett í nótt og verður líklega feginn hvíldinni. Sko til, hérna kem ég með laglega bók; þér þætti kannski gaman að lesa Brúðardrauginn fyrst það er hvíldardagur í dag.

Gísli rétti mér bókina; hann hafði skrifað á kápuna: "Til minja, um Gísla og Nasa, fyrir litla Koll á Bakka."

Hann fékk ósvikinn koss, gefinn af barnslegum fögnuði og gleði. Svipurinn glaðnaði og brosi brá fyrir á þungbúna andlitinu, sem í dag var svo harmblítt og þreytulegt.

Gísli bar heim með sér hnakktöskuna; ég leiddi hann í stofu, útvegaði honum vatn til að drekka og þvo sér. Fóstra mín kom með kaffið, Gísli lét síðustu dreggjar flöskunnar í það og skapið glaðnaði; svo háttaði hann niður í stofurúmið en við fóstra mín bárum fötin út, hún þvoði þau og svo breiddum við þau til þerris.

Ég hafði strax tekið eftir því að Gísli var votur en kom mér ekki fyrir að spyrja hann eftir orsökinni. Þurrviðri höfðu verið þrjú næstliðin dægur, og það vissum við fóstra mín bæði, að eitthvað hafði frábreytilega stigið fyrir Gísla; mér þótti vænt um þegar hún bauð honum þurr nærföt, en um leið spurði hún hvernig stæði á því að hann væri alvotur. Svarið greiddi lítið úr spurningunni.

"Fullir menn fá sér bað bæði utan og innan, svo kemur þurrkurinn á eftir og skrælir þá og feyskir. Blessuð hlífðu mér við að segja mínar eigin slarksögur á drottinsdegi."

Þegar við komum inn í búrið sagði fóstra mín: "Undarlegt er það að Gísli skuli vera kollvotur; hann kann þó lengst fótum sínum forráð og svínar sig ekki út eins og þeim er þó flestum tamast. Var hesturinn líka sundvotur?"

"Ég veit það ekki, ég held það þó; hann var farinn að þorna hafi svo verið, en leirugur var hann í tagli og faxi."

Gísli svaf fram að nóni, þá vaknaði hann og fékk fötin sín, þau höfðu þornað fljótt í sólskini og sunnanblæ. Ég hafði gætt hestsins og lesið Brúðardrauginn og suma kafla oftar en einu sinni, svo fjöruga og fallega sögu hafði ég aldrei lesið áður.

Litlu eyddi Gísli af verði þeim sem fóstra mín bar fram, en hann þáði tvo kaffibollana og spurði oft eftir því hvort fóstri minn kæmi ekki frá kirkjunni; hann var óvenjulega dapur og orðfár.

Nokkru síðar kom fóstri minn heim og þá var fljótt tekinn tappinn úr flöskunni. Gísli lifnaði við, en létta spaugið og gamanyrðin hans vantaði og alltaf fannst mér sorgarsvipur hvíla yfir andlitinu, ég fann það þótt ég tæplega gæti skilgreint öll þau kennimerki. Þennan dag færðist hann undan að kveða eður syngja, þvert við það, sem venjan var þó til. Gísli hafði mörgum skemmt með hreimfögru röddinni sinni; ég undraðist undanfærslu hans við okkur fóstra minn.

Þá sneri Gísli sér að fóstra mínum og sagði: "Í dag get ég það ekki; þú mátt ekki misvirða það við mig. Þú gerir vel við mig eins og fyrri - en þó langar mig til að biðja um meira -, má hann ekki litli Kollur fylgja mér fram að Laugum, ég skal sjá um að hann nái háttunum heima og ekki leiða hann á neina glapstigu."

Fóstri minn játti því, ég sótti hestana og skömmu síðar fórum við af stað.

Við riðum hægt og þegjandi suður fyrir Leitið, ég fann ekkert umræðuefni og beið þess að hann yrti á mig.

Sunnan við Leitið er lækur og grösugt meðfram honum; þar steig Gísli af baki, saup á flöskunni, gaf mér rúsínur og sagði mér að dreypa örlítið á víninu; að því búnu bauð hann mér hestaskipti. "Samt ætlast ég ekki til þess, að þú ríðir eins og glópur, en hérna suður "Flötinn" skaltu hleypa honum; ég vona þú tollir í hnakknum, Toppur minn. Eða heldurðu ekki það?"

Ég var fljótur að játa því og þiggja gott boð; um leið og ég sat í hnakknum hleypti ég á hvínandi stökksprett, Gísli reið fót fyrir fót, hann dró klútinn yfir ennið og augun áður en hann náði mér, og ég sá ekki betur en að hann mundi hafa tárfellt.

"Er þér illt, Gísli minn, þú ert svo dapur í dag. Hefur nokkuð sorglegt komið fyrir?"

"Ónei --- ég er ekki lasinn, nema eins og vant er, eftir bölvað fylliríið --- en í dag eru mér endurminningarnar svo átakanlega ljósar og þungbærar. Ég varð feginn að hafa þig, barnið, með mér, til þess að létta mér einveruna --- eftir samfylgd fullorðinna óska ég ekki í kvöld. Veðrið er fagurt og sveitin yndisleg, en mönnunum bregður um of til úlfanna, þeir éta hver annan þegar færið gefst... Helvíti langar mig nú mikið í dropann; svona er vaninn og spillingin; þegar ég var um tvítugt grunaði hvorki mig né aðra að ég yrði þessi drykkjurútur, sem svallaði bæði eignum og atgervi... Skömmu seinna tók þó steininn úr og síðan hefur stíflan aldrei staðið. Vínið er bölvað og viðsjált, forðastu að það nái nokkurn tíma valdi yfir þér."

Ég fullyrti að það skyldi aldrei verða og fór að tala um, að hann gæti losað sig undan þeim yfirráðum; hætt að drekka; þá mundi lífið verða léttara og bjartara; en ég var hálf-feiminn og eflaust óhagur á orðin og einurðarlítill. Ég fann að mér var það ofraun að setja svona roskinn og vasklegan mann á kné mér og umfram allt vildi ég ekki styggja hann, ég var elskari að honum en svo. Mér var kunnugt um það að Gísli hafði orðið fyrir þungum harmi, þótt ég ekki hefði heyrt þá söguna ítarlega né á einn veg sagða.

"Og því er nú verr - ég hef líklega ekki staðfestu til þess né nógu sterkan vilja, en gott eitt gengur þér til, litli Ljósjarpur minn. Þú ert barn ennþá, trúir og vonar allt; tortryggnin er ekki vöknuð hjá þér og ég bið þess og óska að hún vakni ekki við illa og ómilda drauma. Þú ert glanni á hestum og vaðalskollur en ekki ertu kjöftugur, ég veit þú getur þagað um það sem þér er trúað fyrir, betur en margir fullorðnir. Ég vil heldur segja þér atriði úr lífssögu minni, en aðrir rangfæri og mishermi hana í eyru þín. Mér er vel til þín, þú hefur verið okkur Nasa mínum einlægur og góður drengur, aldrei gert gabb að mér þegar ég hef verið fullur; fyrir einlægnina er mér hlýrra til þín en flestra annarra - hún kemur mér svo vel og betur en margur heldur ---, það er ekki víst hvenær ég held af stað -, fer alfari --, það kemur að eins og þjófur á nóttu. Fáir gráta einstæðinginn og presturinn fær varla grátstaf í hálsinn þótt hann tali nokkur orð yfir kistunni minni."

Gísli talaði síðustu orðin auðsjáanlega meir við sjálfan sig heldur en mig.

"Hér skulum við æja og kippa út úr hestunum. Vertu nákvæmur og athugull við hestinn þinn, það er skylda og borgar sig best að lokum. Ég dreypi á víninu hans fóstra þíns og svo - svo skal ég segja þér sögu, sem ég hef engum öðrum sagt. Þér, ærslakollinum, barninu og vin mínum.

Frá æsku minni segi ég fátt, ég reyndi blítt og strítt líkt og flest önnur börn, þó fannst mér sjálfum meir til um hið stríða, en ég var glaðlyndur, hraustur og vongóður svo það beit ekki svo mjög á mig. Þegar ég var nítján vetra fór ég vistferlum að Bleiksmýri. Móðir mín hafði séð um mig að öllu leyti og séð vel fyrir, að mig skorti hvorki fæði né föt; öðlingurinn hann faðir minn hirti ekki mikið um lausaleikskrakkann - nú er hann safnaður til feðra sinna vestan við hafið, sauðurinn. Mér var ekki erfitt um vinnu og sætti mig vel við hana, en ég hafði líka gaman af bókum og skemmtunum. Ég hirti 130 ær, fyrsta veturinn sem ég var á Bleiksmýri, bæði úti og inni, og fjóra hestana, þá áttum við mamma tíu ær og ég Hrímu mína fjögurra vetra; undan henni er Hreggnasi. Sex ærnar hafði ég á kaupinu mínu, fyrir hinum ánum og sex lömbunum heyjaði mamma í samvinnu um sumarið, hún var húskona hjá Halldóri og þaðan er mér komið húsmannseðlið. Hrímu mína setti ég á sextán bagga sem ég hafði heyjað á sunnudögum með tilstyrk mömmu. Þá reið ég ekki út til þess að drekka, mig langaði meir til hins að komast í efni og menntast. Fjölmennið á Bleiksmýri átti vel við mig, þar var oft kátt á kvöldin, hjónin voru engir sínöldrandi harðstjórar þó bæði vissu þau vel af miklum efnum og góðu sveitargengi. Halldór var stórlyndur og metorðagjarn en oftast viðbúðargóður; konan þótti nokkuð eigingjörn og kunni laglega að snúa snældunni sinni, dagfarshæg og hafði gaman af að segja bæjafréttir og spyrja þeirra.

Ég vistaðist strax um haustið til næsta árs; mér lék hugur á því að auka efnin og álit mitt. Að vísu er það ekki talið gróðavænlegt fyrir vinnumann að eiga eldishross, en það var eina óhófið sem ég lét eftir mér og Grána var fallega frísk og léttstíg um vorið. Mamma hafði nóg í sjálfsmennskunni og trippinu var drjúgur fóðurbætir að því sem hún bugaði því með því sem ég oft gat dregið af mat mínum.

Yngsta dóttir hjónanna hét Guðný, fríð og skemmtileg stúlka, bjarthærð, blómleg, fjörug og góðlynd; hún var árinu yngri en ég og gefin fyrir glaðværðina eins og þeim aldri er eðlilegast. Það er ekki að orðlengja það, hugir okkar hneigðust saman. Vordagarnir voru bjartir þá, kvöldin ljúf og gróðurilmurinn angansætur. Við vorum ung og vonin hló í huga okkar; báðum fannst þessi leynda ást allra sælust, um hana átti enginn að vita, fyrst um sinn, ég þurfti að ná fastara áliti, meiri mannþroska og geðþokka foreldra hennar: biðin var hvorugu þungbær, við nutum samvistanna og duldum vel leyndarmálið; ég var varkár og Guðný þó ennþá gætnari, svo fjörug sem hún var hafði hún þó lært að fara kænlega; hún unni foreldrunum, virti þá og óttaðist, eins og þá var títt, þó nú sé það á hverfanda hveli og fari æ minnkandi. Bleiksmýrarhjónin heimtuðu líka stranga hlýðni af börnum sínum og gættu nákvæmlega heimilisvalda sinna.

Sumarið eftir er það bjartasta sem ég hef lifað. Guðný gekk stöðugt að heyvinnunni og engan grunaði neitt nema mömmu; við vissum að það var óhætt. Áður en okkur varði var sumarið liðið. Haustið kom og leið, og veturinn fram að jólum, en þá fór að draga bliku í loft og geigvænn grunur að færast í huga okkar. Þá fór hann að venja komur sínar að Bleiksmýri prestssonurinn og hjónunum þótti ekki margt að þeirri gestkomunni; ég þagði og sat á gremju minni, mér duldist ekki til hvers förin var stofnuð. Hann var að draga sig eftir Guðnýju; ég treysti henni en vissi einnig hitt, hvað foreldrunum mundi best að skapi. Jón prestssonur var sjálegur maður, vanur eftirlæti og sjálfræði, laus í ráði og vínhneigður; hann hafði verið einn vetur í latínuskólanum en orðið að hætta námi sökum augnveiki að sagt var. Ég held hann hafi meir sveigt huga sínum að munaði og víni en bóknámi því hann hefur aldrei verið gefinn fyrir það. Á góunni komu þeir feðgar í bónorðsför, ég fékk að hirða hestana meðan bónorðið var flutt þétt og kænlega; hjónin urðu glöð við og nú var kallað á Guðnýju til þess að festar gætu farið fram, en þá brást auðsveipnin; hún neitaði einarðlega. Þann dag vannst ekkert á, það varð að bíða betra dagráðs; eftir það sóttu hjónin þrásækilega sitt mál og unnu þó lítið. Nú þurftum við Guðný að tala saman og þá vaknaði grunurinn og skömmu síðar sagði hún foreldrunum frá trúlofun okkar, bæði urðu fokreið, skipuðu henni að hætta við mig, og lofast Jóni, þar væri mannamunur, annars vegar umkomulaus vinnupiltur, hins vegar velættaður og efnilegur maður sem traustar stoðir styddu. Guðný hélt fast við sitt mál en hún fór að verða döpur og föl; nú kom til minna kasta. Samtal okkar Halldórs endaði ekki vingjarnlega; ég reyndi að stilla vel orðum mínum en hann jós yfir mig harðyrðum og lítilsvirðing; brá vistráðunum - því ég var ráðinn til næsta árs -, skipaði mér að slíta trúlofuninni, að ég legði þar við drengskap minn, en því gat ég ekki lofað. Hvorki fyrr né síðar hef ég kunnað að biðja auðmjúklega og lengi en þá gerði ég það. Ég bað fyrir lífsgæfu okkar beggja og mér fórust svo orð, að ég get aldrei ásakað mig fyrir vanstilli né klaufaskap. En karlinn varð því æfari, sem ég bað betur.

"Að hún Guðný mín bíði og við sjáum hvaða maður úr þér verður. Nei, og hundraðfalt nei. Úr þér verður aldrei annað en vinnumanns grey. Þú ert ekki af því berginu brotinn að staðfesta né ráðdeild verði í þér. Dettur þér í hug að ég gefi þér barnið mitt, vafagimbillinn þinn, sem hefur flækst öll þín lífsár eins og hundur um sveitina.... og svo er eitt enn - ég veit hvernig óhófs eldið hennar Gránu er fengið - -, ég hef þagað þó mér sé kunnugt um það þokkabragðið þitt. Hjá þér vil ég ekki vita barnið mitt, ég bíð ekki eftir atorkunni þinni né manndómi, pútusonurinn."

Svo hratt hann mér frá stofuborðinu og þá brast mig þollyndið. Ég kom fyrst engu orði upp, bara hélt um báða úlnliðina á honum, sá hann fölna og þagna, þá gætti ég mín og sleppti tökunum.

"Mamma er heiðvirð kona - það veistu sjálfur, ómennið þitt, að hún er það. Stattu við hitt, þorparinn þinn, að fóðrið hennar Hrímu sé stolið. Stattu við það ef þú þorir."

"Hefirðu vitni?.. Þú rennir víst grun í það hverjum hollast sé að fara ekki í hámæli með þann manndómsvottinn þinn", sagði karlskrattinn og hló kaldahlátri.

Mér lá við að missa valdið yfir reiði minni og taka fyrir kverkarnar á honum, en hamingjan forðaði mér frá slysi - því slys hefði það orðið ef ég hefði þá tekið fastatökum á karlbeygjunni. Ég vildi ekki lengra viðtal og gekk burtu; það leit ekki byrvænlega út fyrir okkur Guðnýju.

Ég hafði sömu verk á höndum fram að skildaganum og gerði þau engu miður en áður. Mér datt ekki í hug að gera þeim það til geðs, að hlaupa úr vistinni en það var ömurlegt þetta vor. Við hjónin gat ég ekkert talað, þau létu sem þau sæju mig ekki og um Guðnýu var setið rækilega; þó náðum við stöku sinnum að talast við - örfá orð. "Tekst þá tveir vilja". Ég var einbeittur í því að vinna málið um síðir, bíða ár eftir ár og sigra með dugnaði og fyrirhyggju hleypidóma og ofstæki foreldranna. En Guðný - aumingja Guðný, hún átti bágt, hana vantaði þrekið; hún elskaði mig og var alls ekki laus í skapi, en til þess að brjótast undan ráðum þeirra, var hún ekki nógu sterk. Hún var blíðlynd og auðsveip dóttir, vön að hlýðnast foreldrunum frá blautu barnsbeini; það óttaðist ég, þó ég aldrei hefði orð á því við hana.

Um krossmessuna fluttum við mamma að Skörðum; það var ekki langt í vinarhúsin á Bleiksmýri. Ég náði við og við fundum Guðnýjar um sumarið og haustið - átti þá sem oftast vini meðal óvina. Þá um veturnæturnar fann ég að þrek hennar var að bila; hún vildi ekki hætta til launfundanna lengur; þeir æstu aðeins skap foreldra sinna, sem hefðu grun um þá. Heldur væri að skipta bréfum, um það mundu þau síður vita; ég lét hana ráða; kunningi minn, sem þá var á Bleiksmýri, kom þeim á milli; hennar voru stutt, raunaleg og viðkvæm, svo tók fyrir þau síðari hluta vetrarins, hún hafði ekkert frelsi til skrifta.

Bónorð Jóns var nú flutt allra fastast.

Um sumarmálin fékk ég síðasta bréfið frá henni - uppsagnarbréf -, það er ekki von þú skiljir það, drengur minn, hvað sárt er að fá svona bréf; bréf sem lýsti sorg og vonleysi, ást og þó uppgjöf. Hún var buguð, hnigin að velli. Þetta eina ástarævintýr mitt var búið.

Næsta vetur, á þorranum, giftist hún Jóni. Það árið gerbreytti mér - -, enginn sér lífsvon sína og heitustu þrá ganga til moldar svo hann komist alheill úr þeirri eldrauninni... Og sjaldan er ein bára stök. Guðný var grátin og föl og brosið dáið, það var mér allra viðkvæmast að vita eyðilegging hennar. Sama veturinn fór ég líka að frétta það, sem búið var að sveima um sveitina, milli allra kjaftakerlinga; að ég hefði stolið heyi og mat til þess að ala Hrímu veturna sem ég var á Bleiksmýri, sumir trúðu og aðrir efuðu en skuggi lagðist yfir mannorð mitt, sem ekki var svo fljótur til að hverfa. Ekki var von til þess, að þau gæfu mér Guðnýju, gömlu hjónin, þegar ég gaf svona raun; það var þetta, sem festi rætur um all-langan tíma.

Að berjast við róg og slef er óðs manns æði, á því er ekki hægt að festa hendur frekar en uppvakningunum. Það þarf að drepa það með góðri breytni; vinna sér tiltrú manna, en stundum þarf nokkuð langan tíma til þess. Ég er sannfærður um að Bleiksmýrarhjónin höfðu vakið upp þessa Skottu og húsfreyjunni mátti best trúa til að koma henni á lappirnar. Guðný hefur aldrei trúað þessu, það komst mamma fyrir; þá gat ég betur þolað þögnina og biðina.

Þau bjuggu tvö árin í Mýrarseli ungu hjónin; því miður reyndist bóndinn nenningarlítill og gjálífur, drykkfelldur og vondur við vínið.. Þú þekkir hann Jón í Seli svo ég þarf ekki að lýsa honum fyrir þér. Guðný hefur alla tíma síðan hún giftist verið hljóðlynd og fáskiptin; hugsaði um börnin og búsýsluna og friðinn á heimilinu; þó hefur það ekki lánast. Ástina skorti, og virðingar á Jón erfitt með að afla sér.

Þegar ég sá hvernig ævi Guðný átti, þá brast boginn, þá fór ég að drekka. Ég sætti lagi, fjórum árum eftir að þau giftust Jón og Guðný, einn sunnudag, þegar Bleiksmýrarhjónin komu frá messu tvö ein, og svalaði gremju minni, fyrir róg og lygi og meðferðina á okkur Guðnýju, konan grét af heift og Halldór skalf af hræðslu og bræði... Það var það þarfasta verk og réttlátasta sem ég hef gert... þau áttu það svo hjartanlega skilið af mér og fyrir meðferðina á henni var mér þó þyngst til þeirra.

Síðan hafa efni mín og vinna gengið á tréfótum. Auðvitað sá ég um það, að mömmu skorti ekkert, liði bærilega meðan hún lifði, og svo fyrir hesta, vín og vitlaust drabb. Einu sinni ætlaði ég að drepa mig á því en hætti þó við það, af því að .... ja, það er nú sama, fyrir hvað það var."

Gísli þagnaði. Hvorugur talaði orð nokkra stund; þá reis hann á fætur og sagði:

"Nú hef ég fleiprað helst til margt -- meira en vandi er til; það er mál að halda af stað. Þú færir þetta ekki í hámæli fyrst um sinn; lofar mér að hátta í rólegu rekkjuna mína áður. Ekki þar fyrir, margar sögur hafa gengið af mér meir úr lagi færðar en þessi."

"Ó, hvað þú hefur átt bágt, Gísli minn," sagði ég með grátstaf í kverkunum.

Hann lagði hægri höndina á höfuð mér og kvað stundarhátt.

Þegar óhryggur heimi frá
héðan Siggi gengur;
fjöllin skyggja ekki á
alvalds bygging lengur.

Gísli var venju fremur skjálfraddaður, en - hvorki fyrr né síðar hefur mér þótt nein karlmannsrödd jafn fögur og angurblíð.

Ég fylgdi Gísla suður að Laugum, þar kvöddumst við og föla andlitið hans gengur mér seint úr huga; hann var fyrsti vinurinn minn. Klárinn fékk að hlaupa margan sprett á heimleiðinni; ég þurfti að ná háttunum, en - alltaf hugsaði ég um raunir þeirra Gísla og Guðnýjar, nú voru mér þær skýrar og fullljósar, áður hafði ég ekki þekkt nema brot og mola, sem vantaði rök og samhengi. Ég hataði Bleiksmýrarhjónin í gröfinni, og hefði gjarna viljað vera svo að manni að ég gæti barið Jón í Mýrarseli fyrir að ræna lífsgleði beggja og kunna svo aldrei fótum sínum forráð. Þarna blöstu húsaþilin á Bleiksmýri móti mér austan árinnar, reisuleg og dökk af bráðinni; dimm eins og metnaður þeirra hjónanna var þegar þau slitu elskendurna sundur og kveiktu róginn. Nokkru norðar Mýrarselið með úr sér gengnu húsin og óræktartúnið, líkt og vottur um takmörkun kaldrar skynsemi og skammsýni hégómans.

Ég kom heim þreyttur af hita dagsins og meiri áhyggjum en vant var, þó sofnaði ég ekki jafn fljótt og mér var títt, sorgarsagan bjó í brjósti mínu og gerði mér þungt um andardráttinn.

Fóstra mín vakti mig klukkan tíu morguninn eftir.

"Ósköp þykir þér gott að sofa á morgnana, drengur minn."

"Ég var svo dauðlúinn í gærkvöld."

"Fréttirðu ekkert þar fram á bæjunum í gær?"

"Nei - ég kom hvergi nema á hlaðið á Laugum."

"Var Gísli ósköp dapur á leiðinni?"

"Ég hef aldrei séð hann eins þungbúinn."

"Það var til vonar - -, það lá við slysi hjá þeim út á Leiti í fyrrinótt, þó betur rættist úr en á horfðist. Svona er fjandans drykkjuskapurinn."

Ég spratt á fætur: "Hvernig var það? Var Gísli þar viðriðinn?"

"Hann var það - en það var ekki hans skuld... Gísli var við smíði úti á Leiti á föstudaginn og laugardaginn, hann ætlaði heim það kvöldið; rétt áður komu þeir þrír utan af Ósnum, Gunnar í Holti, Bjarni á Brekku og Jón á Seli, hann var hálf-fullur. Þeir Gunnar og Gísli eru góðkunningjar og meðan þeir töfðu fór Gunnar að gefa honum vín, Jón var að raga um kaffi inn í bæ og Gísli sneiddi hjá honum, eins og ætíð þegar svo stendur á fyrir Jóni. Síðar hafði Gunnar Jón með sér niður til klyfjanna, þeir fóru að laga á hestunum og ætluðu að fara að láta upp, þá reið Gísli suður götuna rétt neðan við, Gunnar kallaði til hans og bað hann að láta upp með þeim, Gísli er aldrei vikastirður og kom strax til þeirra, vínið var farið að svífa á hann, en hann ber það oftast vel og verður þá skrafdrjúgt - þeir fóru að engu óðslega. Jón var að slangra þar og fór svo eftir venju að leita á Gísla, sem svaraði fáu og færðist undan; þess fastar sótti Jón á; félögum sínum sagði hann að halda kjafti ef þeir vildu þagga niður í honum rostann. Loksins fór Gísli að fölna og svara sneiðyrðum: Jón hljóp í brigslyrði, þá þagnaði Gísli um stund, sneri sér að Gunnari og sagði: "Kanntu ekki erindið að tarna - ég man ekki fyrri partinn - "um sumarið dára seggi vann og setti skára á túnhalann"; það hefði átt við að raula það núna."

Um leið og hann sleppti orðinu rauk Jón á hann: "Þetta skaltu fá borgað, helvítis hundurinn," sagði hann og beit á jaxlinn. Jón er sterkur nokkuð en stirður, það var til lítils að fara í hendurnar á Gísla sem er mjúkur eins og tág, snarráður og glíminn. Gísli lagði hann undir eins niður milli þúfna og sagði: "Takið þið nú félagann, piltar, annars kann ég að gleyma því að hann er prestssonur."

Þeir tóku Jón, sem var fokvondur, og reyndu að sefa hann en Gísli gekk fyrir hestana. Loksins heppnaðist það, og þá fóru hinir að láta upp; Jón gekk að lindinni og fékk sér að drekka.

"Hó! Hó!" Það var Jón sem kominn var á bak Hreggnasa, og þveitti niður á bakkann.

"Hann drepur sig á honum, glópurinn sá arna; þið verðið að koma fyrir hann vitinu," sagði Gísli, en það var ekki til neins, svo gripu þeir ofan og hlupu allir þrír niður hallið, ofan á bakkann. Jón reið aftur og fram um bakkann; hann tolldi á hestinum.

Gunnar og Bjarni báðu Jón á alla vegu að hætta þessari vitleysu en hann þverneitaði, hló og sagðist þurfa að ríða hestinn fyrir vin sinn; Gísli ætti það meir en skilið af sér þetta lítilræðið - og þó meira væri. Jón var ekki svo vitlaus, sem hann hafði látið.

"Við skulum kreppa að honum suður við kílinn; ekki vil ég láta hann sprengja hestinn fyrir mér."

Bakkinn er harður og góður skeiðsprettur, um 200 faðma langur frá túnfætinum og suður að "Bana", það er kíll, sem kemur ofan úr flóanum, hann er djúpur og holbekktur, óvíða stökkvandi og hvergi vað á. Trébrú er á læknum niður við ána með handriði og hespaðri grind, sem oftast var aftur og svo var nú. Bakkinn er mjór og mýrarflóinn ofan við ófær ríðandi manni. Jón hleypti enn suður bakkann og hinir hlupu á eftir, svo stillti hann og leit til þeirra. Hann grunaði hvað þeir ætluðu sér, en þrákelknin í honum æstist bara við það; hann rak hælana í hestinn og ætlaði að hleypa norður hjá þeim, efaði sig og sneri hestinum við, rétt sunnan við þá; varð tæpt staddur og rak svipuna á hestinn. Því var Hreggnasi óvanur og varð óður við -, nú tók hann við völdunum, þaut suður bakkann og kom að kílnum rétt austan við brúna; hóf sig til stökks en Jóni varð bilt við og kippti í taumana. Það er ekki að orðlengja það, báðir lentu í kílnum. Hinir hlupu eins og fætur toguðu. Gísli varð nokkru fljótastur. Hreggnasi lamdi framfótunum í suðurbakkann, Jóni skaut upp í miðjum kílnum.

"Taktu í tauminn á klárnum, Bjarni. Gunnar gættu að okkur hinum," með það stökk Gísli á kaf. Eins og þú veist, er hann talinn hér bestur sundmaður; hann var lengi í kafinu og kom einn upp; þegar hann ætlaði í kafið aftur skaut Jóni upp rétt neðan við. Gísli þreif í hnakka honum; vatt honum öfugum í fang sér og tók til björgunartakanna. Gunnar dró báða úr pollinum. Jón var búinn að drekka mikið og var nærri meðvitundarlaus, þeir hagræddu honum, hlupu svo suður fyrir og drógu Hreggnasa upp úr. Gísli og Gunnar sátu yfir Jóni og hjúkruðu honum, Bjarni var sendur heim að Leiti; hann fór heldur að hressast, þó þurfti að bera hann í fjórum skautum heim og þar var honum hlynnt sem best. Gísli vildi engin fataskipti hafa, sagði að það væri þarflaust í blíðviðrinu. Hann fékk sér í staupinu en vék annars lítið frá Jóni þangað til hann var málhress orðinn. Gunnar, sem talaði við fóstra þinn í gær, sagðist hafa heyrt Jón segja við Gísla, rétt áður en þeir kvöddust:

"Því léstu mig ekki drepast í kílnum, ég átti ekki skilið að þú bjargaðir mér. Það var mér mátulegt, að drepast þarna ---, ég hef verið gálaus og ómenni og... og ég hef gert Guðnýju og börnin ógæfusöm. Það var best eins og allt var komið -, að ég hefði dáið; góðir menn hefðu litið til með henni og þeim."

"Berðu þig karlmannlega, Jón -- þú lítur öðrum augum á lífið og horfurnar þegar frá líður og þú hressist. Lærðu af þessu. Mannaðu þig upp, þú getur það... Ég vonast eftir því, að við deilum ekki framvegis; það samir best."

"Ég skammast mín svo óttalega fyrir þér, Gísli, þó ég sé þrot, get ég þó fullyrt það, að ég er ekki svo hundslegur að gleyma því sem fyrir hefur komið í dag."

Jón liggur víst ennþá ytra. Nú - eða aldrei verður hann að manna sig upp. Það var varla von til þess, að Gísli væri fús á að kveða fyrir ykkur í gær og ekki undarlegt þó hann væri dapur og fálátur. Hann hefur orðið fyrir þungum raunum áður fyrri."

Ég spurði ekki um meira; hafði mig það hraðasta burtu. Til þess að vita um mjaltirnar og rekstur ánna, sagði ég. Þó dvaldist mér um stund bak við ærhúsahlöðuna og hefði þótt miður ef einhver hefði rekist þar á mig.

Árin hafa liðið. Vinátta okkar Gísla hefur haldist og þróast. Annað brot úr ævisögu hans býr í brjósti mínu, hvort sem ég hef nokkru sinni tóm til þess að rita það.

Nú er ég nálega fimmtugur maður og hef fylgt honum til hinstu hvílunnar. Þangað eru ekki svo fáir gengnir af leikbræðrum og góðkunningjum mínum.
Netútgáfan - janúar 2000