GRÍMUR  KAUPMAÐUR  DEYR

eftir  Gest PálssonEyrarkaupstaður lá fallega á eyri einni er gekk fram í fjörðinn skammt frá fjarðarbotninum. Undirlendið fram með firðinum var mjótt, og fjöllin fyrir ofan gnæfðu upp í loftið eyðilega ber og himinhá.

Á Eyri hafði verið kóngsverslun til forna, enda var það auðséð á húsunum hans Gríms kaupmanns; þau voru frá þeim tíma, höfðu gömlu kóngsverslunareinkennin, lága veggi og fjarska hátt þak, litlar rúður í gluggunum niðri og ótal margar skvompur og afkima uppi á loftinu sem ekkert var einkennilegt við nema myrkrið.

Grímur kaupmaður var orðinn gamall og grár fyrir hærum, á að giska rúmlega sjötugur, en sjálfur vissi hann ekki fyrir víst hvað gamall hann var; hann var fyrir löngu hættur að telja daga sína og ár, enda hafði hann haft margt annað um að hugsa um ævina sem honum þótti langtum meira undir komið.

Hann hafði verið kaupmaður á Eyri nærri því hálfa öld og mestan hluta ævinnar rakað saman fé á allar lundir; hann var líka lengst af eini kaupmaðurinn á Eyri. Þar hafði enginn annar kaupmaður sest að og enginn lausakaupmaður komið heilan mannsaldur eftir að Grímur eignaðist verslunina. Hann var þannig einn um hituna, og það átti við hann. Hann var eins og kóngur í héraðinu og réð þar bæði lögum og lofum; verðið á öllum útlendum vörum var tvöfalt og þrefalt hærra en alstaðar annarstaðar og verðið á íslensku vörunni þriðjungi lægra en hjá öllum öðrum, og svo reiknaði hann af hverjum viðskiptamanni sem hann gat komið því við og bætti ætíð inn í reikningana hlutum sem aldrei höfðu verið teknir út. Það var því engin furða þó sveitunum í kring væri alltaf að hnigna með velmegun, en það hirti Grímur lítið um; honum var nóg að hans efnahagur fór alltaf batnandi.

Vinsæll varð Grímur aldrei.

Öllum viðskiptamönnum hans var illa við hann, og verslun hans var alræmd og talin sú langversta í landsfjórðungnum. En heitastan hug báru þó fátæklingarnir í hreppnum til hans. Hann hafði verið þar hreppstjóri nærri því í mannsaldur, og aldrei hafði nokkur þurfamaður, sem leitaði hans, verið svo aumur að hann hefði ekki farið hálfu hryggari frá honum en hann kom til hans. Hans skoðun var að öll fátækt og öll bágindi kæmu af leti eða óspilunarsemi, og hann dró engar dulur á þá skoðun sína og fór með þurfamenn hreppsins samkvæmt því. Það gengu jafnvel sögur af því að hann hefði stundum barið þá sem leituðu hans svo að á þeim hefði séð. En það var langt til sýslumannsins, og enginn hafði kært; það hefði heldur ekki verið til mikils að kæra Grím kaupmann þegar hann stóð í broddi lífsins.

En dugnaðarmaður var hann, því neitaði enginn. Hann hamaðist og gekk berserksgang svo svitinn streymdi af honum. Hann var ætíð sá fyrsti sem kom í búðina á morgnana, og hann var ætíð sá seinasti sem fór úr henni á kvöldin, og um lestirnar var óhætt að fullyrða að enginn af búðarmönnunum hans var eins þreyttur að kvöldi og hann; hann gekk í öllu, mældi brennivín og vó kaffi, talaði við bændur og skrifaði í verslunarbækur sínar, en við skriftunum gaf hann sig þó einna minnst, og það af góðum og gildum ástæðum því hann var ekki meira en svo skrifandi. Best kunni hann við sig þegar hann var að vega vörur bænda, ull, tólg og þess konar, og var þá venjulega kvartað undan að rangt væri vegið, en Grímur þvertók ætíð fyrir allar slíkar kærur; við búðarmennina sína sagði hann reyndar glottandi að sér fyndist vogin sín standa sig furðanlega þegar hann stýrði henni sjálfur. Annars var hann ákaflega harður við búðarmennina, og ekki urðu þeir langgæðir hjá honum ef annars var úrkostur; atlæti hans í orðum við þá var bæði stirt og illt; viðurværið ekki betra, og svo var honum ofboð laus höndin ef eitthvað bar á milli.

Grímur var frábitinn öllum skemmtunum, og neyslugrannur var hann, nema hvað hann hafði gaman af einstöku sinnum að gleðja sig á hangikjöti og brennivíni með þangað til hann var orðinn góðglaður. Stundum bauð hann efnaðasta bóndanum í sveitinni með sér, en þá enduðu hangikjötsveislurnar ætíð í illu því bóndi fór að tala um villur í reikningnum sínum, og Grímur svaraði ætíð með skömmum, barði hann og rak hann oftast nær út á endanum.

Yfir höfuð vissu menn ekki til að nokkur lifandi maður hefði getað lynt við Grím um dagana. Hann hafði verið fjórgiftur, en allar konurnar voru dauðar, saddar lífdaga. Grímur var annars sami dugnaðarmaðurinn í giftingum sem öðru því hann var aldrei fullt ár ekkjumaður, fyrr en hann lét af giftingum þegar fjórða konan var dáin. Með fyrstu konunni hafði hann átt tvo syni sem báðir voru dánir. Eldri sonurinn, Jón, hafði verið lítið að manni, drykkfelldur og latur til vinnu, svo faðir hans hafði rekið hann burtu; hann var svo að flækjast í Eyrarkaupstað nokkur ár, hafði lítið að vinna og lítið fyrir sig að leggja, en var þó oftast nær kenndur; endalok hans urðu þau að hann kom eitt sinn til föður síns nokkuð ölvaður til að biðja sér bjargar, en faðir hans rak hann burtu og lokaði fyrir honum húsinu, og svo skreið Jón inn í geymsluhús föður síns sem var illa lokað, og þar fannst hann dauður um morguninn í ullarbingnum uppi á loftinu. Yngri sonurinn var aftur á móti mesti gáfu- og efnismaður, en drukknaði sama árið og hann varð stúdent, á tvítugsaldri, og þá hafði Grími fyrst brugðið á ævinni svo menn vissu til.

Allan annan ástvinamissi, kvenna- og sonardauða, hafði Grímur borið með mestu stillingu og bara stundum talað um hvað dýrt væri að grafa menn hér á landi - og hvað allir greftrunarsiðir væru heimskulegir; hann sagði að menn ættu að fara að eins og gert væri í Frakklandi; þar væru líkin saumuð í rekkjuvoðir og svo grafin í kyrrþey án þess nokkrum presti þyrfti að borga.

Síðasta kona Gríms hét Guðrún og var mjög fyrir hinum fyrri konum hans. Þegar Grímur giftist henni var honum mikið farið að förla og enda farið að ganga af honum. En þegar Guðrún kom til sögunnar var eins og nýtt líf og fjör kæmi í allt; verslunin fór að rétta við aftur, og reglan varð meiri á öllu. Hún kunni líka að líta eftir; hún fór mörgum sinnum á degi hverjum út í búð til að hafa augu með verslunarmönnunum; hún skoðaði bækurnar, talaði við skiptavini Gríms og tók töluverðan þátt í bókfærslunni því hún var prýðisvel að sér bæði til munns og handa. En Grími gamla þótti hún þurfa að hafa nokkuð mikið handa á milli, og þó var hún ekki eyðslusöm; hún var rausnarleg í lund og vildi gera fólki sínu vel, en það kallaði Grímur hreina og beina bruðlunarsemi, og það var orðið orðtak hans þegar hún bað hann um peninga: "Þú ferð til helvítis með þessar litlu reytur mínar þegar ég er dauður."

En það varð ekki sannspá.

Guðrún dó eftir tíu ára hjónaband, og Grímur lifði hana mörg ár.

Þau Guðrún höfðu ekkert barn átt, og eini niðji Gríms, sem lifði í elli hans, var sonur Jóns er Markús hét, ungur piltur fyrir innan fermingu, vel greindur, en veikfelldur og lítill fyrir sér; Grímur gamli hafði tekið hann, þegar faðir hans dó, svo hann færi ekki á sveitina.

Þegar Guðrún var dáin var eins og gæfa Gríms hverfðist að fullu og öllu. Hann fékk sér hverja ráðskonuna á fætur annarri, en allt gekk á tréfótum í húsinu; ráðskonurnar réðu ekki við neitt og þorðu engu að ráða því Grímur gamli var bæði tortrygginn og þjófhræddur. Þó var bragurinn öllu verri í búðinni; búðarmennirnir voru hættir að hafa beyg af Grími; hver tók það í búðinni sem honum leist og sleppti að skrifa það, og hver gerði það eitt sem honum þóknaðist; hitt var látið standa ógert; þegar fauk í karlinn og hann ætlaði eins og í gamla daga að leggja í þá, þá tóku þeir hann bara og héldu honum þangað til honum var runnin reiðin.

Við allt þetta bættist nú líka sá atburður sem réð Grími að fullu. Það risu upp tveir nýir kaupmenn á Eyri og verslunarmennirnir þutu hópum saman frá honum; hann lækkaði allt verð á útlendu vörunni sinni svo að það varð enn lægra en hjá nýju kaupmönnunum, og hækkaði svo mikið verð á íslensku vörunni að það varð enn hærra en hjá hinum. En það kom allt fyrir ekkert. Það var eins og traustið á Grími gamla væri svo gjörsamlega horfið að enginn bóndi vildi vinna það til ábatans að komast í klærnar á honum aftur. Og þó hélt hann versluninni áfram af einhverjum sérvisku-þráa og tapaði á henni stórfé á hverju ári.

En allt þetta tók upp á Grím gamla og það mikið. Það var eins og allir þessir peningar, sem hann tapaði á versluninni, væru hold af hans holdi og blóð af hans blóði. Kraftar líkamans þverruðu óðum, og einhver hjárænusljóleiki lagðist yfir allan hans innri mann. Hann fékk sér tvo nýja verslunarstjóra eða yfirbókhaldara, hvern eftir annan, til þess að líta eftir versluninni fyrir sig um háverslunartímann, en það varð bara til þess að viðskiptamönnunum fækkaði enn meir og óreglan og vitleysurnar uxu drjúgum í verslunarbókunum. Þessir nýju bókhaldarar létu sér líka annara um annað en að kippa verslunarbókunum í lag; þeir vörðu mestum tímanum til að spjalla við karlinn og koma sér í mjúkinn hjá honum; þeir hældu honum fyrir alla skapaða hluti, skjölluðu hann á allar lundir, þangað til hann trúði þeim eins og nýju neti þó hann væri tortrygginn við alla aðra. Þeir kölluðu hann líka alltaf í öðru hvoru orði "Minn kæri Magnúsen" eða "Elsku Magnúsen minn". Og það var almennt álitið að þeir alls og alls hefðu borið furðanlega úr býtum fyrir veruna hjá Grími og töluvert meira en þeir höfðu sjálfir skrifað í verslunarbækurnar.

Loksins fékk Grímur gamli ráðskonu sem var að hans skapi. Hún hét María, var komin langt yfir fimmtugt og búin að vera ráðskona hjá mörgum mönnum. Það sem gerði, að Grími gast svo vel að henni, var einkum það að hún var alveg frábitin öllu því sem Grímur kallaði tepruskap; hún þvoði aldrei gólf nema fyrir stórhátíðir, sópaði aldrei herbergin nema á sunnudagsmorgnana og sleppti alveg að þvo sjálfri sér; allir fataburstar og þess kyns hreinlætis-þjónustulið fékk að halda hvíldardag alla þá stund sem hún var í húsinu. Grími gamla var hún líka auðsveip og hlýðin, bar í hann allt sem hún heyrði talað um hann eða honum viðvíkjandi utan húss og innan, í búðinni, sveitinni og hvervetna, og margt sem hún aldrei hafði heyrt; hún sveigði að öllum þeim sem Grímur hafði haft einna minnsta ótrú á, bar honum orð þeirra ranghermd eða svo á huldu að þau mátti misskilja, og svo lét hún hann skilja á sér að allir ætluðu að stela frá honum hvenær sem hún væri ekki við til að líta eftir. Þetta þótti Grími svo sennilegt að hann varð hálfu tortryggnari en áður, hugði að allir vildu véla sig og féfletta nema María; henni trúði hann og treysti. Hún var heldur ekki eyðslusöm, að minnsta kosti ekki í þeim skilningi að hún bæri mikið í mat og annan viðurgjörning á heimilinu. Það mátti svo að orði kveða að sulturinn sæti í öndvegi í húsinu frá þeim degi að hún kom þar inn. Hún hafði líka eitthvert dásamlegt lag á að skemma allan mat, og inni í stofunni, sem Grímur gamli sat í á daginn þegar hann var ekki að rangla úti í búðinni, ægði einhvernveginn saman ódaun af úldnu keti og morkinni skötu svo að þar inni var lítt verandi fyrir þá sem ekki voru slíku vanir.

En yfir höfuð kom María sér ekki illa; hún var óvenju blíð í máli og mjúk á manninn við hvern sem hún talaði, og fjarskalega barngóð. Hún hafði líka furðanlegt lag á því að telja hverjum manni á heimilinu, sem hún talaði við, trú um að hún talaði máli hans við Grím og reyndi hvervetna að koma fram til góðs.

En alltaf gekk af Grími; þrátt fyrir nýju ráðskonuna hríðgekk af honum. Hann átti skatthol, fornt og úr mahognyviði, sem stóð inni í stofunni hans; þar geymdi hann peninga sína. Á velgengnisárunum fornu höfðu allar skúffurnar undir skattholslokinu verið fullar með gull- og silfurpeninga, og fyrir framan skúffurnar höfðu legið pokar margir, misstórir, fullir og hálfir með peninga. En þessi árin hafði þeim fækkað svo smátt og smátt að þar kom að enginn var eftir; það fór líka að smálækka í skúffunum, og sumar fóru að tæmast. -

Svo var það einn dag um haustið skömmu eftir réttirnar, þegar hinir kaupmennirnir á Eyri höfðu haft mikla haustverslun við bændur, en Grímur alls enga, að hann fékk slag úti í búðinni og datt niður eins og dauður. Hann var strax borinn inn í húsið og lagður upp í rúmið sitt, og svo var sent eftir lækninum.

Læknirinn var ungur maður, nýkominn til embættis síns frá háskólanum. Embættisbústaður hans var á verslunarstaðnum Eyri svo það var ekki langt að vitja hans.

Þegar læknirinn kom lá Grímur rænu- og meðvitundarlaus; læknirinn sat yfir honum alla nóttina, og með morgninum fór hann að lifna við.

Grímur lá fjarskalega lengi, en loksins fór hann þó að skríða í fötin og staulast fram í stofuna sína og sitja þar stundarkorn á degi hverjum.

Læknirinn stundaði hann með mestu alúð, enda fékk hann besta orð þó ýmsir bæru lítið traust til hans af því að hann var talinn lítill trúmaður.

Grímur gamli hafði aldrei haft mikið traust á læknum, enda hafði hann ekki þurft á þeim að halda um dagana því hann hafði verið hinn heilsuhraustasti. En á Þórði lækni fékk hann brátt mikið traust, og í hvert skipti sem læknirinn kom inn lagði einhvern hýran yl yfir gamla, skorpna og hrukkótta andlitið á Grími.

Fyrsta daginn sem Grímur staulaðist fram í stofuna settist hann í forna hægindastólinn sinn og sat þar steinþegjandi dálitla stund; hann var líka afllaus í munninum öðrumegin svo það var örðugt að skilja hann þó hann talaði ekki nema einstöku orð og hálfar setningar á stangli og með hvíldum.

Loksins bað hann Maríu að lesa fyrir sig einhvern lesturinn í Jónsbók, og María tók Jónsbók upp úr kommóðuskúffunni sinni og fór að lesa; það hittist einhvernveginn svo á að þar var ekki annað nefnt á nafn en guðs reiði og djöfull og helvíti, og María var ekki komin fram í miðjan lesturinn þegar Grímur skipaði henni að hætta.

"Bölvað illmenni - þessi meistari Jón - trana framan í mann helvíti sem ekki er til," og svo leit Grímur svo reiðulega til Maríu gömlu að hún vissi ekki hvað hún átti af sér að gera.

Og auðmýktin og hræðslan við Grím gamla, sem horfði á hana byrstum augum, og iðrunin eftir að hafa hitt á þennan lestrarkafla um helvíti lagðist svo þungt á hana að hún beygðist saman og varð eins og hrúga á stólnum fram við gluggann, þar sem hún sat og var að prjóna sokk sem hún hafði gripið í fátinu sem á hana kom þegar Grímur skipaði henni að hætta að lesa.

En Grímur gamli sagði ekki meira; hann sat grafkyrr, nema hvað drættir komu endrum og eins í andlitið eins og skelfing gripi hann; hann skimaði þá í kringum sig og fálmaði með höndunum eins og til að banda einhverju frá sér.

Svefnherbergi Gríms var inn úr stofunni, og þar í herberginu svaf María ráðskona líka.

Þegar María fór að afklæða Grím um kvöldið fannst henni hann vera enn óstyrkari en um morguninn.

Grímur sofnaði seint þetta kvöld; það var eins og hann ætlaði aldrei að geta látið aftur augun; hann renndi þeim til og frá um herbergið ofboð órólegur á svipinn, bylti sér af einni hlið á aðra hvíldarlaus, stundi lágt við á milli og tautaði eitthvað í hálfum hljóðum.

Fyrir framan rúm Gríms stóð borð lítið, og þar brann ljós hverja nótt síðan Grímur varð veikur, en María skrúfaði ætíð ljósið svo langt niður á kvöldin til þess að spara olíuna, að ljósið varð ekki nema ofurlítil týra.

Það var eins og Grími þætti týran lítil þessa nótt því hann var alltaf að fáta við lampann og skrúfa ljósið upp; stundum var þó eins og honum ofbyði eyðslusemin, og hann fór að smáskrúfa niður aftur, en fór þó von bráðar að skrúfa ljósið upp á ný.

María hafði ætlað að halda sér vakandi þangað til Grímur væri sofnaður eins og hún var vön, en í þetta sinn varð biðin svo löng að hún gat ekki ráðið við sig og var rétt að festa svefninn þegar Grímur sagði:

"Marja, Marja."

"Já"

"Heldurðu ég - deyi úr þessu?"

"Þér deyið, nei, yður er alltaf að batna, þér verðið bráðum alveg frískur."

"Já, mér er að batna - ég verð bráðum frískur - ég dey ekki."

Svo þagnaði Grímur, og María ætlaði að fara að sofa aftur þegar hann kallaði á ný til hennar:

"Marja, Marja."

"Já."

"Heldurðu ég - fari illa - ef ég skyldi deyja?"

"Þér fara illa. Guð fyrirgefi yður að hugsa svona. Nei, ég held það sé ekki hætt við að þér farið illa."

"Nei - ég fer ekki illa."

Svo þagði Grímur langa hríð, en var alltaf að skrúfa upp í lampanum.

"Marja, Marja."

"Já."

"Hef ég gert nokkuð illt - drýgt svona nokkra synd - stóra synd?"

"Nei, nei, nei. Þér, blessaður öðlingurinn, sem aldrei hafið gert nokkrum manni mein. Það eru aðrir sem hafa syndgað við yður, viljað féfletta yður og véla á allan hátt."

"Já - aðrir stórsyndgað við mig - allt bölvaðir prakkarar."

Svo varð þögn aftur.

"Heldurðu ekki - þeir fari til helvítis - sem hafa svikið mig?"

"Það má mikið vera ef einhverjir þeirra fara ekki illa."

"Það er sjálfsagt - segðu það sé sjálfsagt - guð verður að hefna mín - hann hlýtur að sjá að ég get það ekki sjálfur - annars væri ekkert réttlæti til."

Svo fór María á flakk og fór að hagræða Grími í rúminu; hún lét kodda tvo undir herðarnar á honum svo hann sat upp við herðadýnu og sá yfir allt herbergið; þegar hún var búin að því fór hún upp í rúmið sitt aftur, og Grímur lét aftur augun og lá nokkra stund kyrr svo hún hélt að hann væri sofnaður.

En allt í einu rak hann upp augun og einblíndi út í hornið á herberginu fram við gluggann og hrópaði:

"Hvað er þarna í horninu? Ljós - ljós - kveiktu ljós - hjálpaðu mér."

Og María stökk á fætur og kveikti á öðrum lampa til svo það var eins bjart í herberginu eins og um albjartan dag.

En svitinn streymdi í bogum niður eftir andlitinu á Grími; hann reyndi til að þurrka framan úr sér með handarbakinu og skyrtuerminni, en nýtt svitaflóð streymdi jafnharðan fram aftur; hann renndi augunum um allt herbergið hátt og lágt, fram og aftur og aftur og fram. Hárið hékk snjóhvítt í votum druslum fram á ennið, og fyrir neðan svitakleprana í augabrúnunum skinu augun hvöss og ókyrr eins og af undarlegri flótta-angist.

"Marja, Marja."

"Já."

"Heldurðu annars - að helvíti sé til?"

"Að helvíti sé til! Það er til eins og guð er til."

"Þá ferð þú þangað líka - bölvaður bjáninn - þangað fara allir menn - ómögulegt að forðast það - ef það er til."

"Nei, það er kannski ekki til."

"Nei, víst er það ekki til - það er ekki til."

Svo sneri Grímur sér upp og lagði aftur augun.

"Þú mátt til að vaka - í alla nótt - passa upp á lampann - láta loga - loga."

Grímur gamli hrökk upp nokkrum sinnum, skimaði í kringum sig, og þegar hann sá að María sat uppi og vel logaði á lömpunum báðum, þá varð hann smátt og smátt rólegri og sofnaði loksins.

Hann svaf langt fram á dag.

Þegar hann var kominn á fætur og kominn fram í stólinn sinn í stofunni kom læknirinn.

Hann spurði hvernig Grími liði og talaði svo um hitt og þetta, en það var eins og Grímur væri alls annars hugar því hann sagði ekki nema já og nei. Loks varð hlé á ræðunni, og Grímur leit upp á lækninn og reyndi til að brosa með því munnvikinu sem heilbrigt var:

"Þeir segja að þér séuð - trúlaus."

"Trúlaus, það er enginn maður alveg trúlaus, Grímur minn."

"Ég meina - að þér trúið ekki á - ekki á - djöfulinn."

"Á djöfulinn, nei, á djöfulinn trúi ég ekki," sagði Þórður læknir og glotti við.

"Eg meina - meina - hvort þér trúið því að hann sé til."

"Nei, ég trúi því fastlega að hann sé ekki til."

"Ekki til - já - ekki til."

Svo reyndi hann til að rísa upp í stólnum og þreif í handlegginn á lækninum sem sat við hliðina á honum:

"Ég vissi það - hann er ekki til, og - helvíti þá ekki heldur."

"Nei, djöfull og helvíti eru ekki til; það er ég sannfærður um."

"Ja, þér megið vita það - þér sem eruð svo inni í vísindunum."

"Ja, vísindin þekkja ekki neitt til þess að til sé djöfull eða helvíti."

"Fyrst vísindin segja það - þá er það víst."

Svo hallaðist Grímur gamli aftur á bak í stólnum, lagði aftur augun, og það var eins og gleði-yl legði á allt skorpna andlitið; hann tautaði við sjálfan sig svo lágt að tæplega var hægt að greina orðin:

"Ekki til - vísindin segja það - vísindin segja það - ekki til - ekki til."

Svo opnaði hann augun aftur, horfði á lækninn dálitla stund einhverjum vandræða-augum, eins og hann væri að fálma eftir einhverri hugsun sem hann gæti ekki fundið, og ætlaðist til að læknirinn hjálpaði sér.

En læknirinn steinþagði og horfði á Grím. Það var eins og hann langaði til að lesa á þessu andliti, sem ekkert gat dulið fremur heldur en barnið, hvern einasta snefil af hugsun sem enn þá væri að villast þar inni á bak við þessi þoku-augu.

Loksins var eins og ljós rynni upp fyrir Grími gamla; hann greip aftur í handlegginn á lækninum og sagði:

"Það er náttúrlega - ekkert annað líf til - hvað segja vísindin?"

"Ja, vísindin geta ekki sannað að til sé annað líf; það er eingöngu komið undir trúnni."

"Trúið þér á annað líf?"

"Nei."

"Nei, náttúrlega - ekkert til - vísindin segja það - ekkert til."

Svo sat Grímur gamli þegjandi dálitla stund, riðaði með höfuðið til beggja hliða, opnaði munninn hvað eftir annað, en lokaði honum jafnharðan aftur. Loksins fóru að koma undarlega kátlegir drættir í andlitið eins og hann ætlaði að hlæja með heilbrigða munnvikinu, en gæti það ekki fyrir aflleysinu í andlitinu.

"Hlægilegt - hlægileg vitleysa - þetta með reikningsskapinn - reikningsskapinn."

"Eigið þér við þessi orð um að maður eigi að standa reikning á öllum sínum orðum og gjörðum? Mér fyrir mitt leyti finnst það ekki hlægilegt. Ég hef alltaf haldið að þessi orð væru sprottin af þeirri meðvitund hjá hverjum einstökum manni og mannfélaginu í heild sinni að lífið sjálft gefi reikning fyrir orð og gjörðir fyrr eða síðar."

"Nú skil ég ekki - skil ekki - ekkert orð."

"Þér skiljið þó ef ég segi yður að það sé trú mín að hver einstakur maður fái öll sín verk og orð endurborguð í þessu lífi, laun fyrir gott og hegningu fyrir illt."

"Í þessu lífi - í þessu lífi - það er ómögulegt - ómögulegt."

Það var nærri því eins og Grímur gamli yrði utan við sig af skelfingu; hann greip báðum höndum dauðahaldi í stólbríkurnar og renndi óttaslegnum augum á lækninn.

"Nei - nei - þér segið ekki satt - þér takið það aftur - hvað segja vísindin um það? - Vísindin geta ekki sagt það - þér skrökvið upp á vísindin."

"Þetta kemur ekkert vísindum við; þetta er einungis trú mín sem ekkert hefur við að styðjast nema mína eigin reynslu og mína eigin skoðun á lífinu," sagði Þórður læknir eins og til að mýkja orð sín; hann var sýnilega orðinn hræddur við áhrif þau sem orð hans höfðu á sjúklinginn því Grímur gamli var lagstur aftur á bak, augun stóðu hálf opin og skimuðu felmtsfull til og frá í stofunni, andlitið var enn þá gulbleikara en vant var, og handleggirnir héngu afllausir niður með stólbríkunum.

"Yðar trú - yðar trú."

"Já, bara mín trú; það er bara mín trú að maður fái allt endurgoldið í þessu lífi með rentum og renturentum."

Grímur gamli opnaði augun alveg og einblíndi á lækninn eins og til að ganga úr skugga um að það væri hann sem segði þetta:

"Með rentum og renturentum - renturentum - ljót trú - ljóta trúin," og svo hristi Grímur gamli höfuðið.

Læknirinn sá að þetta samtal væri ekki gott fyrir sjúklinginn svo hann fór að búast til að fara til þess að slíta ræðunni.

"Þér verðið, Grímur minn, umfram allt að reyna til að varast allar geðshræringar, reyna til að hugsa ekki um neitt nema að láta fara svo vel um yður sem unnt er svo yður batni sem fyrst."

"Já - já."

Læknirinn kvaddi og fór.

Grímur gamli sat eftir í stofunni. Hann horfði dálitla stund á eftir lækninum út úr dyrunum, svo fór hann að skima kringum sig; hann reyndi til að hagræða sér svo í stólnum að hann gæti séð yfir alla stofuna.

Svo kom María ráðskona inn.

"Kallaðu á hann Malkus - mér leiðist - leiðist."

Svo kallaði María á Markús litla; hann bjó eiginlega í dálitlu herbergi uppi á loftinu. Hann var farinn að læra undir skóla og var að kúgast yfir latínsku grammatíkinni sem presturinn á Eyri hlýddi honum yfir annanhvorn dag.

Markús fór niður til afa síns með grammatíkina og settist þar úti í horni.

Þegar Grímur sá hann var eins og hann yrði dálítið rólegri, hann lagði aftur augun og reyndi til að blunda, en hvað eftir annað hrökk hann saman og kallaði:

"Malkus, Malkus, ertu hérna.

"Já, afi minn, ég er hérna."

Eftir það settist Markús litli að í stofunni hjá afa sínum á daginn.

Grími gamla versnaði ekki, en honum batnaði ekki heldur.

Svo liðu nokkrir dagar.

Læknirinn kom á hverjum degi til að vitja Gríms; honum þótti Grími ganga seint að réttast við, en talaði þó ekkert um það við Grím. Um trúarefni töluðu þeir aldrei framar. Grímur hafði ætlað nokkrum sinnum að fara að brjóta upp á því, en læknirinn sneri ræðunni alltaf í aðra átt.

Hann sat annars venjulega grafkyrr í stólnum sínum. Einstöku sinnum ranglaði hann út í búðina sem innangengt var í úr húsinu, en skipti sér svo sem ekki af neinu þar, nema hvað reiðisvipnum gamla brá allrasnöggvast á andlitið á honum þegar honum sýndist búðarmennirnir ofmæla eða ofvega eitthvað sem þeir létu úti.

Hann reyndi þá stundum til að vingsa til þeirra hendinni eins og til að leggja í þá og sagði alltaf um leið:

"Minna - mældu minna - minna."

Og stundum ráfaði hann fram og aftur í búðinni eins og í leiðslu og talaði ekki við nokkurn mann, nema hvað hann stundum tautaði í sífellu: "Minna, minna," þó ekkert væri verið að vega eða mæla.

En aldrei stóð hann lengi við í búðinni; hann kunni einhvernveginn best við sig inni í stofunni sinni. Þar ranglaði hann fram og aftur um gólfið í forna yfirfrakkanum sínum sem allur var gleraður á börmunum og ermunum, með forna lambskinnshúfu á höfðinu, belgvettlinga á höndunum sem hann þó alltaf hélt niðri í vösunum, og með fjarska-stóra rauða morgunskó á fótunum sem drógust á eftir honum svo að skrjáfaði í þegar hann gekk um gólfið.

Stundum staðnæmdist hann á miðju gólfi, tvísteig þar ef til vill nærri því klukkustund í einu, einblíndi út í gluggann, riðaði með höfuðið til beggja hliða, oftast þegjandi, en stundum var hann að tauta við sjálfan sig nærri því í hálfum hljóðum:

"Með rentum og renturentum - rentum og renturentum," og svo hristi hann höfuðið og settist niður í stólinn sinn, lagði aftur augun og sofnaði.

Það bar líka við að hann stóð strax upp aftur eins og fjarskaleg ókyrrð þjáði hann, og svo fór hann að tvístíga aftur og einblína eins og áður út um sama gluggann og halda áfram að tauta.

En stundum var hann þó allt annað en mjúkur í skapi.

Það var helst Markús litli sem fékk að kenna á því að skapið var í raun og veru það sama í Grími gamla þó hann væri mikið breyttur.

Þegar hann sat hugsi, annaðhvort þegjandi eða tautandi við sjálfan sig, þá hafði hann það til þegar minnst vonum varði að hrópa:

"Malkus, Malkus, hvar ertu, strákur?"

"Ég er hérna, afi minn," sagði Markús litli og þaut hálf-skjálfandi fram úr skotinu sínu til karls.

"Ertu nokkuð að gera, slóðinn þinn?"

"Eg er að lesa grammatíkina, afi minn."

"Glammadíkina - glammadíkina - hver hefur sagt þér það - alltaf iðjulaus - iðjulaus - mældu púðursykur," og svo kastaði hann til hans hendinni eins og hann ætlaði að berja hann á kinnina, en Markús litli hélt báðum höndum fyrir eyrunum svo lítið varð úr högginu.

Og svo þaut Markús litli eins og kólfi væri skotið yfir í búð, rogaðist svo inn í stofu aftur með fulla fötu af púðursykri og bréfpoka og fór að láta í þá og vega á dálítilli vog sem stóð á borðinu.

"Mældu ekki of mikið, strákur - láttu vanta á - vanta á."

"Já, afi minn."

Og svo kom leiðslu-rökkrið aftur yfir Grím gamla.

En það gat komið fyrir eftir dálitla stund, að hann kallaði aftur:

"Kusi, Malkus, hvar ertu, fíflið þitt?"

Og Markús kom aftur, stökkvandi, hálf-skjálfandi, með hendurnar fyrir eyrunum.

"Ég er hérna, hérna er ég, afi minn."

"Hvað ertu að gera?"

"Ég er að mæla púðursykur."

"Púðursykur - púðursykur - hver hefur sagt þér það - þú átt að lesa - hvar er glammadíkin - bölvaður letinginn - þykist vilja læra - letinginn - ekkert nema letin."

Og svo rogaðist Markús litli út í búð með púðursykrið og settist við grammatíkina aftur.

Þetta gat gengið koll af kolli.

Hjá Grími gamla toguðust púðursykur og grammatíkin á um Markús litla, og það var engum skynsemisreglum bundið hvort betur hafði.

Einstöku sinnum þegar Grímur gamli var sem hressastur, þá rak hann Markús litla út og lokaði vandlega hurðinni á eftir honum.

Svo fór hann ofan í vasa sinn og tók þar upp dálitla lyklakippu; það voru lyklarnir að skattholinu stóra; þá skildi hann aldrei við sig; hvað litla rænu sem hann hafði, þá mundi hann ætíð eftir því að skipa að taka þá úr vasa sínum á kvöldin og leggja þá undir höfðalagið sitt.

Síðan gekk hann að skattholinu, lauk því upp, opnaði skúffurnar undir lokinu og dró þær út hverja á fætur annarri; þær voru flestar tómar, en í sumum hringlaði þó dálítið af skildingum; hann leit ofan í þær allar, lét þær svo inn aftur og tautaði í sífellu við sjálfan sig:

"Ekkert eftir - allt farið - allt farið."

Loksins lauk hann upp stórri skúffu sem var undir öllum peningaskúffunum og dró hana út.

Í henni var ekkert nema ein bók, fremur þunn.

Hann stóð dálitla stund tvístígandi fyrir framan skattholið og horfði á bókina.

Svo tók hann af sér vettlingana, tók bókina upp ógnarlega varlega, fór fram að glugganum, tók þar af sér lambskinnshúfuna og lagði á borðið og lauk svo upp bókinni. Hann opnaði hana ekki til þess að lesa í henni, hann leit ekki einu sinni á titilblaðið; það hefði heldur ekki verið til mikils fyrir hann. Bókin var "Cæsar de bello Gallico" sem Jón, yngri sonur hans, hafði lært á undir skóla.

Nei, hann las ekki í henni; hann fletti bara spjaldinu við og leit á saurblaðið. Þar stóð skrifað með viðvaningshönd: "Jón Grímsson".

Hann hélt lengi á bókinni og einblíndi á nafnið þangað til hann sá ekki lengur stafaskil því tárin hrundu hvert á fætur öðru, þung og stór, niður á nafnið og saurblaðið, og svo strauk hann þau jafnóðum burt með gleruðu erminni á yfirfrakkagarminum sínum.

Og svo lét hann bókina aftur og lagði hana ofur hægt niður í skúffuna aftur og lokaði svo skattholinu, setti upp lambskinnshúfuna sína og vettlingana og ranglaði nokkra stund fram og aftur í stofunni svo skrjáfaði í rauðu morgunskónum, staðnæmdist við og við tvístígandi út við gluggann, einblíndi út og var alltaf öðru hvoru að tauta við sjálfan sig:

"Með rentum og renturentum - rentu-rentum - kannski satt - kannski satt," og svo sló undarlega sárum raunasvip á úfna, harðneskjulega andlitið hans.

En svo varð það eitt kvöld seint um haustið að Markús litli kom háskælandi út í eldhús til Maríu og sagði að hann afi sinn væri dáinn í stólnum.

"Hvað ætli að hann sé dáinn, karlgarmurinn; maður á víst marga stundina eftir að bisa við hann enn," tautaði María við sjálfa sig á leiðinni inn í stofuna.

Grímur gamli lá á gólfinu, hafði auðsjáanlega fengið nýja tilkenningu af slagi og oltið fram úr stólnum sínum, en María sá strax að hann var ekki alveg örendur og lét nú bera hann inn í rúm og senda síðan eftir lækninum.

Læknirinn kom að vörmu spori.

Grímur gamli lá alveg meðvitundarlaus í stóra rúminu sínu, með lokuð augu og gat ekki hreyft legg eða lið.

Það var mikill alvörusvipur á lækninum, og þegar María spurði hann hvort nokkur lífs von væri með Grím gamla svaraði hann engu.

Hann lét leggja vota dúka um höfuð Grími, og svo tók hann honum blóð.

En Grímur lá hreyfingar- og meðvitundarlaus alla nóttina og allan næsta dag.

Að kvöldi dags daginn eftir fór hann að opna augun dálítið, renna þeim til og líta í kringum sig.

Markús litli sat á kistli við fótagaflinn á rúmi Gríms og horfði með tárin í augunum á afa sinn í rúminu.

María stóð við borð fram við gluggann og var að taka þar til.

Grímur gamli opnaði varirnar eins og hann vildi tala og tautaði svo eitthvað, en engin orðaskil heyrðust nema:

"Rent - rentur."

Svo lagði hann augun aftur og lá svo nokkra stund.

En allt í einu opnaði hann þau aftur og starði á Markús litla við fótagaflinn sinn:

"Ku-Ku-Kusi-Malkus."

Markús litli stökk upp:

"Ég er hérna, afi minn."

"Hv-Hv-Hvað-ge-ge-gera?"

"Ekkert, afi minn, ég er ekkert að gera."

Það var eins og augun á Grími gamla ætluðu út úr höfðinu, andlitið sótroðnaði, og hann öskraði þó orðaskilin væru óskýr:

"Bölv - let -"

Svo var eins og hann tæki á öllu því lífsafli sem eftir var í honum, opnaði varirnar eins og til að segja meira og reis á einu augabragði upp í rúminu. En hann datt allt í einu magnlaus aftur á bak.

María og Markús stukku bæði að rúminu.

"Hana nú - þar er hann dáinn," sagði María.

Markús litli fleygði sér aftur niður á kistilinn, grúfði höfuðið í höndum sér og fór að hágráta eins og hann ætlaði að springa af ekka.

María stóð dálitla stund og horfði á líkið eins og til að ganga úr skugga um að Grímur gamli væri dauður.

Svo smeygði hún hendinni inn undir höfðalagið og dró fram lyklakippuna að skattholinu.

Síðan fór hún fram í stofuna og lét vandlega aftur dyrnar milli stofunnar og svefnherbergisins, gekk að skattholinu og opnaði það. Hún var lengi að opna skúffurnar; hún þurfti oft að reyna fyrir sér af því að hún þekkti ekki lyklana.

Svo dró hún fram hverja skúffuna á fætur annarri, en þær voru flestar tómar.

"Tómt, tómt, hver déskotinn, allt tómt," sagði María við sjálfa sig um leið og hún tíndi saman skildingana, sem lágu á botninum í sumum skúffunum, og stakk þeim í snatri í vasa sinn.

Loksins ætlaði hún að fara að loka aftur, en þá tók hún eftir stóru skúffunni neðstu.

Það kom ánægjusvipur á Maríu:

"Ein eftir enn, sú stærsta og sú neðsta."

Hún var lengi að finna lykilinn að henni því riða var töluverð á höndunum.

Loks fann hún réttan lykil og opnaði skúffuna. Þar var ekkert nema Cæsar gamli.

"Bók, skrudduræfill, sér er hver sérviskan að geyma skruddu í neðstu skúffunni."

Og í bræði sinni tók hún Cæsar og fleygði honum inn í ofninn, og þar tók að skíðloga á Cæsar gamla.

Svo lokaði hún vandlega skattholinu og gekk inn í svefnherbergið aftur.

Þar lá Markús litli á koffortinu skælandi eins og áður.

Hún lét lyklakippuna hægt inn undir kodda Gríms, fór svo út aftur og skildi dyrnar eftir opnar.

Hún fór yfir í búð, kallaði á búðarmennina, sagði þeim kjökrandi að Grímur gamli væri sálaður og bað þá að koma og leggja hann til.

Svo fylgdi hún búðarmönnunum inn í svefnherbergið, gekk að Markúsi litla, beygði sig ofur blíðlega niður að honum og leiddi hann svo út með sér.

"Þú mátt ekki gráta, blessað barnið mitt, ekki gráta," og svo strauk hún mjúklega um kinnina á Markúsi, og Markús litli lagði höndina um hálsinn á henni.

"Nú er hann dáinn, blessaður öðlingurinn okkar," sagði María gamla með gráthljóðum. "Við höfum bæði mikið misst, aumingja Markús minn. En við fáum að sjá hann aftur; guð er góður, hann lofar okkur að sjá hann aftur ef við lifum ráðvandlega og honum þóknanlega, blessuðum. - Blessaður öðlingurinn okkar gamli! Honum líður vel. Nú er hann með útvöldum í paradís."
Netútgáfan - maí 1998