LEIDD  Í  KIRKJU


eftir Þorgils gjallanda

Það var ágætur búmaður hann Sigmundur á Bakka, bæði þrifinn og ráðsvinnur; kunni lagið á því að kaupa til búsins, og selja úr því, svo að búþroskinn yxi og hagurinn þróaðist. Sigmundur var líka svo minnugur á mannfundum á öll skuldaskipti og hagsmunamál sín, að hann eyddi ekki fundardögunum til ónýtis, eins og svo mörgum hættir við. Nei, Sigmundur hafði svona einn og einn á tali utan og sunnan, austan og vestan við þinghúsið, meðan á fundinum stóð. Hann hélt sér aldrei fast við fundarmálin, ekki svo rígfast, að hann léti ekki búsýsluna sitja í fyrirrúmi og metti hana meir en atkvæði sitt ef á því stóð. Svo var hann líka trúmaður, hafði þessa vinsælu tilbreytingarlausu búmannstrú, sem er metin sönn blessun í búi. Sigmundur lét lesa Péturspostillu á hverjum sunnudegi allt árið í kring, og á hverjum degi frá veturnóttum til sumarmála sömu hugvekjurnar, vetur eftir vetur. Hann hélt sér stöðugt við Péturs verkin, enda ekki til þóknanlegra guðsorð fyrir búmenn en húslestrarbækur biskupsins, sem eru sniðnar svo vel og hentuglega til þess, að ríki maðurinn geti smogið í gegnum nálaraugað. Sigmundur hafði alveg sömu reglu og Sveinn faðir hans hafði haft með að lesa, breytti ekki frá venjunni, var hjartanlega ánægður með tímanlega og andlega blessun, og sjálfan sig. Og svo var hann sér til þrifnaðar, prýðilega messurækinn, jók með messuferðunum andans ánægju og hagsmuni sína. Hann var aldrei betur fallinn til að gera viðskipti við menn, en einmitt fyrir og eftir messu. Ekki þurfti heldur að finna honum til foráttu, að hann færi ekki til altaris og það "reglulega", nema bara nokkur ár núna seinast, bæði af því, að menn höfðu ekki sterka þörf til þess almennt, og svo af því Guðný einhvern veginn ekki gat verið með. Sigmundur kunni hreint ekki við að breyta frá venjunni og vera til altaris, nema konan væri það líka; hafði enga sakramentis þörf svona einsamall og konulaus.

En með hana Guðnýju konuna vék því svo óþægilega við, að hún hafði enga trú á ýmsum atriðum kirkjuvenjunnar. Gat aldrei kunnað við það, þegar presturinn "tók til bæna", fannst það hlægileg aulýsing til guðs, sem allt veit og öllu ræður. Felldi sig aldrei við loforða eiðana, sá þá alltaf brotna; Guðnýju virtust þeir tilgangslausir og skaðlegir, af því þeir yrðu til þess, að fjölga brotunum, gat ekki séð að eiðurinn einn héldi mönnum við sáttmálann, ef önnur skilyrði vantaði eða væru á móti. Hún var algjört á móti að konur væru "leiddar í kirkju", fann ónota kulda líða um sig þegar presturinn las þesskonar þakkarávörp af stólnum. Var orðið nauðsynlegt að kunngjöra guði um barnsfæðinguna og þakklæti foreldranna? Var hann farinn að gjörast gamall? Hver meining var í þessu? Og svo datt henni ævinlega í hug, það sem ritningin segir um hreinsun kvenna eftir barnburð; að konur voru bókstaflega "leiddar í kirkju" fyrir nokkrum áratugum, af því það þurfti að hreinsa þær með því að sitja utan við kirkjudyr - og skjálfa? - meðan presturinn hreinsaði þær með orði sínu. Hugurinn reis gegn þessari venju og gyðingdómi.

Þegar Guðný vann hjónabandseiðinn hafði hún verið svo föl að fólk tók eftir því, vissi ekki hvað það átti að hugsa, mönnum var þó kunnugt um, að henni var ekki óljúft að eiga Sigmund. Ekki var henni þó illt, það komust menn fyrir á eftir. Enginn hafði heyrt fyrir víst að hún játaði, en presturinn hafði afbragðsheyrn, hann hlaut eflaust að hafa heyrt það.

Svo var það einn sunnudag um sumarið tveim mánuðum eftir að Guðný fæddi Fúsa litla, að þau hjónin fóru til messu. Það var langt síðan Guðný hafði komið í kirkju. Fyrst var hún ófrísk meðan hún gekk með barnið, og svo þegar hún komst á fætur aftur, þótti henni svo fjarska vænt um Fúsa litla, að hún sagðist ekki geta farið neitt frá honum, þetta var líka fyrsta barnið, og öllum mæðrum þykir sérstaklega vænt um það, þreytast aldrei að gera gælur og hagræða því. Um nónbil á laugardaginn frétti Guðný lát móður sinnar, hún hafði bæði elskað hana og virt, sorgin varð þung og sár. Sigmundur vildi hún færi eitthvað sér til afbráunar. Það talaðist svo til að hún fór til messu þennan sunnudagsmorgun, en hugurinn var allur hjá móðurinni og Fúsa litla. Henni var illt í höfði og hugsanirnar voru slærri en vanalega. Einhver dimm ógagnsæ blæja lá yfir sálarsjón Guðnýjar, það er vanalegt um menn sem sakna ástvina og sofa lítið.

Sólin skein hlýtt og bjart inn um suðurgluggana í kirkjunni og lýsti hana hátíðlega. Fólkið var hljótt og guðrækilegt, að sjá, nema fáein börn sem voru að biðja um brauð og sykur, þau sem fengu það urðu spök og ánægð, en þau sem ekkert fengu af því mæðurnar höfðu verið óforsjálar og ekki hugsað þeim fyrir neinu góðgæti, hrinu og skældu, svo mæðurnar máttu fara út með þau, þar fundu þær einhver ráð til að hugga og hafa af fyrir þeim. Prestinum tókst vel að lesa ræðuna sína. Guðný sat og hugsaði um hvað móðir sín hefði verið sér blíð og eftirlát, einmitt eins ætlaði hún að verða við Fúsa, hún tók lítið eftir ræðunni, að minnsta kosti samhengislaust. Þá hóf presturinn svo einkennilega röddina, bað svo sætt, þakkaði með svo auðmjúkum rómi góðum guði fyrir hvað hann hefði verið móðurinni, barninu og föðurnum líknsamur á tíma neyðarinnar og hættunnar, hann minntist þakklætis foreldranna fyrir hina miskunnsömu varðveislu. Sérstaklega tók hann fram hvað móðurinni væri ljúft að tjá guði þannig þakklæti sitt og ást. Þakkarávarpið var viðkvæmt og auðmjúkt, umfram allt auðmjúkt, prestinum tókst vel upp.

Það var eins og jökulvatn rynni eftir bakinu á Guðnýju, hún bliknaði við. Presturinn var einmitt að leiða hana sjálfa í kirkju. Hvað hún hafði verið heimsk að sjá það ekki fyrirfram, að svona mundi það verða haft; hún hafði verið andlega blind. Það var rétt eftir Sigmundi, að fara til prestsins og biðja hann að leiða hana í kirkju, en minnast ekkert á það við hana sjálfa; honum hafði ekki einu sinni dottið það í hug. Sigmundur hélt svo búmannlega fast trúarvenjuna, leiddi aldrei hugann að öðru en þessum þægilega sáluhjálparvegi föður síns og afa - faðir hans hafði sagt honum margt af afa sínum. En að geta ekki séð þetta fyrri, það var auma hugsunarleysið. Hún leit til Sigmundar þar sem hann sat gagnvart henni í kirkjunni. Hann var eins og hann var vanur að vera í guðshúsi; andlitið var ævinlega eins, ofboð rólegt og slétt, næstum þreytulegt og svefnlegt. En Guðný hafði aldrei tekið eftir að það væri kindarsvipur á honum, en nú sýndist henni það: "hann er á svipinn eins og ær sem liggur og jórtrar," hugsaði hún, og um leið fór titringur um hana alla.

Þá heyrði hún ekka á bak við sig, þungan kvalinn ekka, sem braust fram svo sárt og tilfinnanlega. Guðný leit við. Það var Helga á Landi sem grét og stundi svo einmanalega. Guðný horfði á hana sem snöggvast, þar sem hún grét með klútinn fyrir augunum. Guðný skildi það allt undir eins; hún þekkti Helgu svo vel, það var tápmikil en góðlynd stúlka, sem hafði frá barnsbeini trúað og treyst á bænir, allar bænir til guðs, ævinlega álitið prestinn sannan meðalgangara milli guðs og manna, borið djúpa lotningu fyrir öllum prestum og öllu guðsorði. Helga hafði líka alla daga verið heilsulítil og þunglynd.

Svo fengu þau ást hvort á öðru Þórsteinn sonur ríka Árna á Mýrum og Helga; þessa vitlausu ást sem hleypur með menn rétt eins og engin skynsemi sé til, ekki getur sundurgreint né rannsakað af hverju hún sprettur, engin ráð kann til að snúa á hyggindabrautina aftur. Þau bara elskuðu hvort annað og aldrei eins brennandi og óstöðvanlega, og þegar gamli Árni varð bálvondur yfir öllu saman, hann hafði opin augun, gat skynsamlega skoðað fátækt Helgu og hvað fátækt er slæm og óhafandi. Karl svo reyndur og roskinn tók snjallasta ráðið, náttúrlega það, að passa Þórstein, hafði líka hjálp hinna barnanna sinna - um móðurina var ekki að tala því hún var dáin; svona liðu tvö ár, þá náði Þórsteinn tali af Helgu svo enginn var við. Tuttugu vikum seinna drukknaði Þórsteinn í Sauðá, átján vikum eftir það ól Helga dreng sem var látinn heita Þórsteinn, hann var ófrískur og veiklulegur, en bláu augun drengsins minntu Helgu á pabba hans. Hún elskaði barnið eins og þeir elska, sem setja alla von og ást á einn mann og hugsa lítið um aðra menn eða tilburði í heiminum. Barnið, trúin og vonin voru eini harmaléttir Helgu, og barnið létti langmest söknuðinn, eins lítið og lasið það var.

Þetta var í fyrsta sinn, að Helga kom til kirkju eftir að hún átti barnið. Allt þetta flaug í einni svipan í huga Guðnýjar, hún fann svo glöggt hvað Helga hefði fegin óskað að presturinn þakkaði guði fyrir vernd og handleiðslu hans á sér, fyrir þá miskunn að barnið fékk að lifa. Nú kvaldi saknaður, sorg, einstæðingskjör og lítilsvirðing mannanna hana, tárin flóðu, ekkinn hristi hana líkt og stormur feykir til strái.

Guðný leiddi Helgu með sér út úr kirkjunni, og hefur aldrei síðan verið við messu. Hún er svo undarleg hún Guðný. Hjónabandið er orðið kalt, segir fólk, en það getur verið lygi, því það eru margir sem segja hitt og þetta, sér til dægradvalar og öðrum til skemmtunar. Hitt er vissara, að um haustið eftir fór Helga til Guðnýjar með barnið sitt. Þeir hafa báðir sama atlæti hjá Guðnýju Fúsi og Steini. Helga dó á góunni veturinn eftir; þeim sem voru við jarðarförina þótti ræðan prestsins ljómandi falleg; einkum sá kaflinn, þegar hann talaði um sorgina. Benti á hver væri munur á sorg hins trúaða, hvað hún væri mjúksár og mild í samanburði við sorg hinna vantrúuðu sem ætíð væri dimm, meginsár, sterk og lamandi. Að því dáðust allir nema Guðný, hún sagði sér hefði fundist að þessi kafli hefði ekki átt heppilega við. En hún stóð ein gagnvart almenningsálitinu, svo það er víst minna að marka hennar orð, af því hún var líka svo sérlynd og hætt við að fara til messu.
Netútgáfan - janúar 2000