ÓSJÁLFRÆÐI


eftir Þorgils gjallanda

Þau elskuðust heitt og innilega Hvammshjónin. Deildu aldrei, voru samhuga í lífsstarfinu. Það var sýnilegur vottur um hvað þau unnust, að alltaf áttu þau börn saman; fylgdu því guðsboði dyggilega að "aukast og margfaldast". Hjónin eignuðust barn á hverju ári. "Hún nær sjaldan hala sínum hún Þórdís," sögðu nágrannakonurnar.

Gunnsteinn barðist vel fram með barnahópinn sinn, hafði fremur stórt bú og aflaði vel til þess; en sat í skuldasúpunni upp að mitti. Hjónin komu börnunum sæmilega fæddum og klæddum áfram, en það þarf nokkuð til þess að ala upp átta börn, enda mátti ekki neinu halla svo búið færi ekki á höfuðið. Skuldagrundvöllurinn sem margir byggja búnað sinn á er fjarska stopull, ef einn steinn hrynur úr grundvellinum, þá er vanalegast, að öll byggingin steypi kollhnísu og liggi svo í kaldakoli þaðan í frá.

Kirkjuferðir og húslestrar voru í góðu lagi í Hvammi og hvorttveggja óaðfinnanlegt ef mælt var á mælisnúru vana og viðtekta. Þórdís kenndi börnunum mesta sand af versum og bænum, strax og þau gátu farið að tala. Einar litli elsti drengurinn var ekki þrevetur þegar hann kunni "faðir vor", og las það ekki aðeins kvöld og morgna og við húslestrarbænir, heldur fléttaði hann bæn og bæn úr því, saman við vísur og hendingar - hann lærði vísur af pabba sínum og Sveinka smala -. Drengurinn var sjónæmur, og kembdi svo allt í einn lopa, "faðir vor" og vísurnar þegar hann var eitthvað að dunda sér. Foreldrarnir sögðu að þetta ætti hann ekki að gera, það væri ljótt. En þau gátu ekki varist brosi stundum, það kom svo skrýtilega fyrir það sem hann setti saman. Einar tók eftir því líka, og alltaf sótti í sama horfið með ruglið.

Það gekk erfitt þegar Þórdís átti níunda barnið. Læknirinn var sóttur, hann náði barninu með verkfærum. Þórdís barðist við dauðann og sigraði hann að lokum, en fékk samt enga heilsu; hún var orðin þreytt og slitin af barnburði og barnastriti. Föl og bleik, taugaveikluð og hjartveik var hún orðin, en eins var hjónabandið og áður. Aldrei hafði Þórdísi fundist dauðinn eins ógeðfelldur og einmitt nú, þegar hann hafði veifað nákaldri hendi til hennar. Hún vissi að það var meiri sæla hjá guði, en í Hvammi við að hirða og þrífa til börnin, en hún elskaði þau svo heitt og hjartanlega, vildi heldur vera kyrr hjá þeim sem lengst; tárin komu fram í augun þegar hún hugsaði til að þurfa að skilja við þau kornung og ósjálfbjarga. Það var líka þungt að skilja við Gunnstein, þeim hafði komið svo vel saman, gengið með gleði og ánægju undir oki og byrði lífskjaranna ánægð með að berjast fyrir eigin uppeldi og forsorgun litlu barnanna.

Gunnsteinn fann það líka hvað það hefði verið þungur og óbætanlegur harmur að missa Þórdísi, þennan besta vin í lífinu, og allur barnahópurinn móðurlaus eftir. Hann var guði þakklátur fyrir líf hennar, og hugsaði eftir hvað lífið yrði léttara fyrir sér og börnunum, með hennar tilliti og móðurlegu umsjá.

Læknirinn sagði Gunnsteini beint og blátt, að Þórdís mætti ekki eiga barn framar, dauðinn væri vís, ef út af því yrði brugðið.

"Það er nógu stór barnahópurinn, ef guð lofar honum að lifa, þó við ekki bætum við, ég held við þurfum ekki að vera hrædd um það," voru seinustu orð Gunnsteins þegar hann sagði konu sinni frá viðvörun læknisins.

"Það vona ég líka, við höfum nóg að hugsa, að koma sómasamlega upp blessuðum litla hópnum okkar, og vísa honum á guðs veg; ég er ekki svo hrædd að hitt komi fyrir."

Svo leið eitt ár, þá tók Þórdís í Hvammi jóðsótt. Læknirinn kom aðeins til að sjá lík Þórdísar, því hún var dáin áður en hann fór að heiman frá sér.

Gunnsteinn og börnin grétu þungum og beiskum tárum yfir líkinu. Gunnsteinn skalf og titraði af ekka, hann vafði börnin að sér eitt eftir annað. Og þó var Gunnsteini ekki fisjað saman; hann var enginn nýmóðins heigull sem ekki gat þolað lífsnæðing án þess að skjálfa. En þennan harm þoldi hann þó ekki, án þess að blikna. Það sló engum vonarbjarma yfir ógengna ævibraut hans, hann var einmani mitt í barnahópnum, gat eigi fundið annað en skort og auðn í öllu hér í heimi. Gunnsteinn bað guð um hjálp og huggun fyrir sig og börnin, bað svo heitt sem hann gat; en söknuðurinn var eins þungur og áður. Þórdís blandaðist innan um bænirnar, hann vissi að nú var hún í sælu hjá guði, en hjarta hans var ekki búið að átta sig á skilnaðinum. Honum fannst ósjálfrátt, að hún eiga heima hjá sér enn, og þrífa til og hagræða börnunum; meðan hann bað til guðs var Þórdís á himnum, mitt í bæninni og við búsýsluna í Hvammi, allt í einni óleysanlegri bendu. En eitt stóð fast og stöðugt, eins og klettur í straumiðu, og það var, að dauðinn hafði gengið um garð í Hvammi, og önnur hugsun við hliðina á dauðanum, alltaf við hægri hlið hans; óskiljanleg frá honum, líkust skugga hins dimma dauða. Ekkinn varð þyngri, tárin beiskari. Gunnsteini rann kalt vatn milli holds og hörunds. En um þá hugsun talaði hann aldrei við nokkurn.

Læknirinn átti nú samt erindi í sveitina, hann var fenginn til að bjarga Rögnu á Brekku úr barnsnauð; það var vinnukona þar, sem ól stúlku - hún var eðlilega látin heita Þórdís. - En bóndinn á Brekku, hann Rútur, var pabbi litlu stúlkunnar.

Steinar á Brú fylgdi lækninum heim aftur, þeir urðu málkunnugir á leiðinni. Einu sinni sagði svo læknirinn upp úr þögn:

"Mönnunum er ekki sjálfrátt með æxlunarfýsnina, það duga engin höft eða ráð við henni."

"Á, sýnist yður það, - það er alveg sama sjóðandi aflið sem hljóp með þau Gunnstein og Þórdísi þó opinn dauðinn stæði álengdar, og með Rút og Rögnu svo þau gáfu heiminum mann í manns stað, öllum siðgæðisreglum til ergelsis og ásteytingar. Það kemst enginn reikningur að þegar svona hiti er í fólki. - Bara náttúran - beint áfram hún."

"Já, hún starfar alltaf áfram hvað sem menn reyna að hefta hana. - Óþægilegar afleiðingar, - mikið erfiðar."

Læknirinn ræskti sig, tók tóbakshönk úr vasa sínum, beit eina tölu af endanum og tuggði hana strax í graut.

Svo riðu þeir lengi steinþegjandi; það var eins og hvorugur fyndi orð til að byrja samtalið aftur, en báðir hugsuðu þeir þess meira. Því mennirnir eru ekki hugsunarlausir eins og skepnur. Nei, mennirnir eru ekki líkir dýrunum í því fremur en öðru.
Netútgáfan - janúar 2000