STRANDIР Á  KOLLI


eftir Jón Trausta

Það var glaða-sólskin og hitamolla og sjórinn spegilsléttur. Við fundum varla, að báturinn hreyfðist undir okkur.

Nei, spegilsléttur er sjórinn aldrei. Það er fráleitt lýsingarorð. Hann er "perpetuum mobile" - eitt af hinum sístarfandi öflum náttúrunnar, sem aldrei ann sér fullrar hvíldar. Altaf kvikar hann og bærist. Altaf rísa hægar öldur á yfirborði hans og altaf líður hann með hægu, þungu falli í ákveðnar áttir.

En spegill er hann samt, - undraspegill og töfraspegill, dularfullur og dutlungafullur. Hann brýtur myndir sínar eins og börnin, ruglar brotunum og raðar þeim saman í nýjar myndir, eins og skáldin, leikur sér að svip allrar tilveru, eins og hún væri eintómar skýjaborgir, eintómir höfuðórar.

Í þetta skifti var hann svo lygn og sléttur sem hann gat verið. Við bárumst hægt og hægt frá kútnum, sem var dufl á lóðinni okkar. Enginn okkar hafði árar á borði.

Alstaðar umhverfis okkur voru bátar og dufl. Bátarnir móktu í logninu; á sumum þeirra sást engin lifandi hræða, á sumum sat einn maður uppi og brytjaði beituna hálfsofandi. Duflin hurfu til hálfs í öldudalina, en teygðu sig svo upp aftur eins og selshöfuð. Kúturinn okkar bar sig kyrfilega, eins og hann þættist vera ofurlítið skip.

Svo langt til hafs sem augu eygðu var hvergi golurák. Allur sjórinn var einn samfeldur lognstafaflötur, glitrandi og blikandi, sem kastaði sólargeislunum í augun á okkur eins og glóandi örvum. Við þoldum varla að líta upp.

Hvergi var skýskafa á loftinu. Inni í firðinum lá bláleit, gagnsæ hitamóða eins og slæða um fjöllin og gerði hamrabeltin mild og viðfeldin á svipinn. Nær okkur voru allir litir skírari, allir svipdrættir skarpari. Fannirnar voru bjartari, skuggarnir dimmri og brúnirnar hvassari. Það hvíldi augun að horfa á fjöllin, - annars hefði birtan verið óþolandi.

Blessað sólskinið - það getur orðið of mikið.

Við vorum í fjarðarmynninu og fast uppi við land. Fjallið slútti nærri því fram yfir okkur.

Svo var mál með vexti, að fiskihlaup mikið var gengið inn í fjarðarmynnið, svo margir höfðu tvíhlaðið undanfarna daga. Fiskurinn gekk alveg upp að landsteinum.

Þegar svo er, unna sjómenn sér ekki mikils svefns. Og þrjár nætur undanfarnar höfðum við ekki fengið að sofa nema 2-3 stundir á nóttu.

Við reyndum að bæta úr þessum svefnskorti með því að leggja okkur út af á þófturnar til skiftis, á meðan lóðin lá, og fá okkur "fuglsblund".

Við sáum, að þeir á hinum bátunum gerðu það sama, og eins og ég er lifandi, er ég viss um, að á sumum bátunum hafa þeir sofið allir í einu.

Blessað lognið gerði það áhættulítið. En því var það líka að kenna, hve erfitt var að halda sér vakandi. Þegar gola er eða stinningskaldi, þegar menn þurfa að andæfa við og við eða jafnvel altaf, þá er enginn vandi að vaka. En þegar sólskin er og sjórinn sléttur, þegar ofbirtan og glitið legst á eitt með svefnleysinu og þjáir augun, - þá er þyngri þrautin að halda sér uppi. - - -


- - - Við vorum þrír á bátnum.

Formaðurinn hafði lagt sig út af á þóftuna. Sjóklæðin sín hafði hann brotið saman og lagt undir höfuðið á sér, sjóhattinn lét hann skyggja yfir andlitið, svo lá hann með bakið á beru trénu, annan fótinn niðri í fiskinum á skutnum, en hinn niðri í austurrúminu og hraut ákaflega.

Við vöktum báðir, við Eyrar-Oddur.

Eyrar-Oddur -! Það er hann, sem hefir sagt mér flestar þær sögur, sem ég kann úr Grundarfirði. Aldrei gleymi ég því, hve vænt mér þótti um þann karl. Aldrei hefi ég þekt geðbetri mann, - og þó var hann oft önugur og óþjáll. Í fyrstu átti ég bágt með að ríma þetta saman, en við nánari kynni komst ég að því, hvernig því var farið. Oddur var önugur og óþjáll við alla ókunnuga, en þegar maður kyntist honum, kom það aldrei fyrir, og því lengur, sem menn kyntust honum, því betri varð hann og skemtilegri.

Á bátnum naut hann sín aldrei, nema þegar formaðurinn svaf. Þeim kom aldrei illa saman, en formaðurinn var aðskotadýr úr öðrum landsfjórðungi, og Oddi var ekkert um hann.

En við mig hafði hann tekið sönnu ástfóstri.

Og þegar við vorum einhverstaðar einir, iðaði Oddur gamli allur af fjöri, símasandi, síhlæjandi, altaf að taka í nefið og altaf að segja sögur. - Já, þvílíkt söguhöfuð!

Og af sögunum lærði ég Odd sjálfan að kenna. Sögurnar voru af þeim mönnum, sem hann hafði mætur á, svo sem Grími á Gráfeldseyri (sem hann kallaði altaf Gráfeld), Torfa presti á Grund, Jónasi "pramma" eða einhverjum öðrum af hinum gömlu brimbrjótum fjarðarins; miklu sjaldnar af konsúlnum eða hinum yngri mönnum. Oddur var ekki annað en kotungur og háseti, sem stórmennin létu sig litlu skifta, en af sögum hans mátti sjá, hvert hugur hans stefndi.

Oddur var lágur maður vexti, en gildur og rekinn saman. Hann var grár fyrir hærum með grátt kragaskegg, en varirnar rakaðar (eða kliptar). Andlitið var hrukkótt og úfið, en þó góðmannlegt. Það leyndi sér ekki, að sitt af hverju hafði á daga hans drifið.

Eyrar-Oddur var hann kallaður af því, að hann hafði alla sína æfi verið á Gráfeldseyri. Hann var eldri en kaupstaðurinn þar. Kofinn, sem hann bjó í, var elsta hreysið á Eyrinni.

Ég gat unað við það stundum saman að virða Odd fyrir mér, þegar hann var þegjandi að vinnu sinni. Stundum raulaði hann vísuhendingar í hálfum hljóðum, stundum tautaði hann eins og hann væri að reikna, en altaf var eins og skin og skuggar liðu til skiftis yfir svip hans. Andlitið sagði frá, þótt Oddur þegði, og þegar svipbrigðin fóru að verða tíðari, mátti treysta því, að ekki liði á löngu, þar til Oddur kæmi með sögu. Og þegar hann fór að segja frá, fylgdist alt að, málið, rómurinn, svipbrigðin og hreyfingarnar. Oddur sagði frá með sál og líkama.

Í þetta skifti hafði Oddur eiginlega átt að leggja sig út af líka, en ég einn að vaka. En líklega hefir hann ekki treyst mér til þess. Mér hafði líka verið ætlað að skera niður beituna, en nú tók hann það ómak af mér líka.

"Viltu nú ekki leggja þig út af líka, hrófið mitt, á meðan lóðin liggur? Mér sýnist þér ekki veita af því".

"Nei", sagði ég allborginmannlega. "Ég er ekkert syfjaður".

Oddur leit á mig og glotti. Hann sá það vel, að ég riðaði á þóftunni eins og drukkin rotta.

"Jæja þá", mælti hann, og svo varð alllöng þögn.

Að lítilli stundu liðinni hefir hann víst séð, að ég var farinn að "draga ýsur".

Ég sá í gegnum svefninn, að bros færðist um alt andlitið á honum, og það var sem mér væri sagt það í draumi, að nú ætlaði hann að fara að segja mér sögu.

Hann byrjaði, - og ég hrökk saman. Hann talaði þó ekki hærra en í meðallagi, en það lét ótrúlega hátt í eyrunum á mér. Þau verða undarlega viðkvæm, þegar svefninn er að færast á menn.

"Hefi ég nokkurn tíma sagt þér frá því, lagsmaður, þegar Grímur heitinn Gráfeldur strandaði á Kollinum?"

Kollurinn var sker skamt frá landi og sást þaðan, sem við vorum. Það var ekki upp úr nema um fjöru, og var þá sem bólaði á dökkhærðum hvirfli upp úr sjónum.

"Þú manst eftir Grími heitnum Gráfeldi, - föður konsúlsins? Eða var hann dáinn, áður en þú komst?"

"Hann dó þá um haustið".

"Já, hann var nú orðinn skar undir það síðasta, vesalings karlinn. En lengi var það maður, sem hafði hug á að bjarga sér".

"Ég hefi heyrt svo sagt".

Oddur leit alvarlega og íbyggilega til mín.

"Alt það, sem konsúllinn á, er frá honum. Konsúllinn hefir ekki grætt fé".

"Einmitt það".

"En þú hefir ekki þekt Jónas sálaða bróður hans? - Nei, það er ekki von. Hann var dáinn löngu áður. Hann var faðir Jóns í Naustavík".

"Nei - eru þeir svona skyldir -?"

"Hann og konsúllinn - bræðrasynir - já, ég held það. Þú átt við það, að þeir ræki lítið skyldleikann. Það er satt. Jón gerir konsúlnum ýmislegt til skapraunar".

"Hann fylgir séra Torfa að málum".

"Já, af því hann veit, að konsúlnum er stríð í því. Það er baldið eðlið í ættinni, óþjált og uppvöðslugjarnt, - en góðar taugar í því samt, lagsmaður. Þetta er erfðahatur. Og nú ætlaði ég einmitt að fara að segja þér, hvernig á því stendur".

Ég fór að verða forvitinn.

"Þeir voru fjandmenn, Jónas heitinn og Grímur".

"Bræðurnir -!"

"Já, máttu ekki sjást, - alla sína æfi".

"Út af hverju var það?"

Oddur glotti.

"Það byrjaði nú ekki út af miklu. Jónas hló að bróður sínum í kirkjunni. Grímur reiddist þetta litla við hann út af því".

"Var Grímur söngmaður?"

"Þeir voru báðir raddmenn, bræðurnir, Grímur engu síður en Jónas, þótt Jónas væri forsöngvari. - Nei, í þetta skifti hló allur söfnuðurinn að Grími og Jónas líka. Grímur fór út af laginu og beljaði sálminn laglaust. Enginn gat sungið með honum; allir fóru að hlæja, - jafnvel presturinn átti bágt með sig. Grímur gat fyrirgefið öllum öðrum þetta alvöruleysi, en bróður sínum gat hann aldrei fyrirgefið það".

"Og urðu þeir óvinir út úr þessu lítilræði?"

"Hatursmenn - blessaður vertu, - hatursmenn. Grímur gat aldrei litið bróður sinn réttu auga eftir það. Jónas var þá stórlyndur líka og baðst síst vægðar. - En svo var fleira en þetta, sem skildi þá í raun og veru. Kjör þeirra voru harla ólík. Grímur var efnaður og fjáraflamaður mikill, Jónas hafði fullan bæinn af börnum og lá altaf við sveit. - Grímur var hreppstjóri og mest metinn allra bænda í sveitinni. Jónas hafði sig lítt frammi og var lítils metinn, en hvass í orðum og vægði ekki fyrir nokkrum manni. Allir kviðu fyrir því, að hann yrði hreppnum til byrði þá og þegar. - Og hefði hann einhvern tíma komið til bróður síns að leita hjálpar af sveitinni, þá efast ég ekki um, að Grímur hefði tekið honum eins og alhvítum hesti og líklega ekki hripað það í hreppsreikninginn, sem hann hefði látið hann fá. Ef til vill hefir það verið slík stund, sem Grímur hefir þráð og beðið eftir. En það gerði Jónas sálaði aldrei. Ég held, að hann

hefði heldur látið alt drepast niður í kotinu en gera það". "Jónas hefir verið dugnaðarmaður?"

"Já, ég held það - og einstakur sjósóknarmaður. Hann var ætíð sívinnandi á landi og sjó, - og hann hlífði sér ekki. En honum hélst ekki á því, sem hann aflaði. Það var annað en gaman að ala upp barnahópinn. Ég þekti Jónas sáluga vel. Ég vann hjá honum í mörg ár og reri jafnan með honum".

Oddur þagnaði ofurlitla stund. Ég sá það á honum, að nú var hann að sækja í sig veðrið, áður en hann byrjaði á sögunni. Það brást heldur ekki.


"Svo var það eitt sumar, skömmu eftir þetta "kirkjuhneyksli", að fiskur gekk hér inn í fjarðarmynnið - alveg eins og núna. Fisktorfurnar voru alveg upp í landsteinum. Menn tví- og þríhlóðu á dag. - Ég reri þá með Jónasi sáluga".

Það var auðséð á andlitinu á Oddi, að gamlar minningar voru að rakna upp í huga hans, minningar, sem honum voru kærar og líklega hafa gert honum marga gleðistund í kyrþey. Hann laut yfir beituna, sem hann var að brytja, svo ég sá ekki í augun á honum. En andlitið ljómaði af ánægju.

"Veðrið var alveg eins og núna, blæjalogn og sólskin.

Grímur heitinn var frekur til fengsins í þá daga. Hann lét auðvitað alla báta sína moka upp aflanum, þá er annars gengu til fiskjar. En honum nægði það ekki. Heldur tekur hann bát, sem uppi hefir staðið, mannar hann með tveim drengjum og sjálfum sér og rær hér út í fjarðarmynnið.

Jónas hafði lagt lóðina sína næst landi, því að þar var þá fiskurinn bestur; þar brást varla fiskur á hverju járni. Fyrir utan okkur var krökt af bátum og lóðum.

En þegar við erum nýbúnir að leggja lóðina, kemur bátur innan með landinu. Það er Grímur og drengirnir. Og viti menn! Hann leggur lóðina sína fyrir ofan okkur, - alveg uppi í landsteinum.

"Nú leggur hann yfir Kollinn", sagði Jónas sálaði og brosti við.

"Eigum við að kalla til þeirra?" spurði ég.

"Nei, nei, - við skulum lofa þeim að leggja hvar sem þeir vilja. Það er engin hætta".

Og það gerðum við.

Alt gekk vel. Grímur hafði ekki lagt yfir Kollinn. Hann tók upp lóðina og hálffylti bátinn af fiski. Svo beitti hann og lagði lóðina aftur á sömu stöðvum.

Það gerðum við líka.

Það var dálítill straumur, en einstök ládeyða, - alveg eins og núna. Og á meðan við liggjum yfir, tökum við eftir því, að Grím er hætt að reka.

"Nú eru þeir komnir upp á Kollinn", sagði Jónas sálaði.

"Ætli það?" segjum við hásetarnir og trúðum því ekki.

"Jú, svei mér þá!"

Þetta reyndist satt. Litlu seinna tók Grímur eftir því sjálfur, að hann stóð á grunni. Drengirnir stóðu uppi á þóftunum með árar í höndunum og ætluðu að reyna að stjaka sér á flot. Báturinn ruggaði og kastaðist til, en losnaði ekki.

"Við skulum róa til þeirra", sagði Jónas sálaði, - og það gerðum við.

Þegar við komum í nánd við þá, kallar Jónas til bróður síns og býður honum að draga hann út af skerinu.

Ég hefi aldrei séð Grím heitinn ljótari í framan en þegar hann leit yfir um til okkar. Það var sem eldur tindraði úr augunum á honum. Og sú kveðja! - Hann blés eins og köttur, ólukku karlinn.

Hann hélt, að Jónasi væri nær að hugsa um að gogga upp fáeina fiska "í kjaftana á krökkunum sínum" - eins og hann kvað á - en ætla að bjarga sér. Hann þyrfti hans ekki við. Hann hótaði að berja okkur í kaf með árunum eða siglutrénu, ef við kæmum nálægt sér.

Jónas heitinn glotti við tönn og stilti sig. En brýrnar á honum sýndu, að honum þyknaði í skapi.

"Ég ætla nú samt að vera hérna nærstaddur, ef á okkur skyldi þurfa að halda", sagði hann storkandi.

Grímur svaraði engu, en laut ofan að þóftunni og skar beitu í hægðum sínum.

Drengirnir sátu frammi á þóftunum með árar á borðum og skulfu af hræðslu.

Við héldum okkur í nánd við skerið og vorum við öllu búnir.

Þeir á hinum bátunum sáu auðvitað, að Grímur var strandaður, og sáu það líka, að við vorum komnir á vettvang. Það fanst þeim mundi nægja, svo að þeir hreyfðu sig ekki. En Grímur var við og við að gefa þeim auga.

Kollurinn er kollóttur klettur, sem stendur upp í sjávarborðið á æðimiklu dýpi. Hann er varla stærri en botn á bát. Það var því skiljanlegt, að drengirnir gætu ekki stjakað sér á flot. Þeir hitta ekkert fyrir árunum annað en hálar, afsleppar hliðarnar á skerinu.

"Veistu það, að það er að fjara ?" kallaði Jónas gletnislega til bróður síns.

Grímur leit upp.

"Fjara - ha! Altaf ertu gáfaður, - bölvaður asninn þinn!"

"Það er alveg satt. Það er að fjara", kjökruðu drengirnir.

"Haldið þið kjafti! - Það er að flæða", sagði Grímur styggur og hélt áfram beituskurðinum.

Jónas sálaði gat ekki að sér gert að hlæja hátt.

Það var sýnilegt, hvernig fara mundi, þegar meira félli út.

Báturinn var farinn að hallast dálítið. Hann lagðist á súðina ofan í mjúkt þang, en líklega hefir kjölurinn verið fastur í sprungu á klettinum.

Við sáum skerið undir botninum á bátnum. Það var til að sjá eins og mórauður ullarflóki, sem maraði í hálfu kafi, en hvítur sandbotn með miklum þara alt umhverfis og 4-6 faðma dýpi. Það mátti jafnvel sjá fiskinn við botninn.

Grímur og drengirnir færðu sig til á þóftunum eftir því, sem báturinn hallaðist. Þeim fanst þeir mundu geta setið af honum hallann.

Grímur raulaði fyrir munni sér og var í illu skapi.

"Fiskurinn er farinn að renna út hjá þér", kallaði Jónas til bróður síns og dró ekki úr hæðninni.

Það var auðvitað satt, því að nú var báturinn farinn að hallast svo mikið.

Grímur svaraði engu, en fór í mesta flýti að krafla fiskinum inn í bátinn aftur. Mér er það fyrir minni, hvað hann gat glent sundur greiparnar til þess að ná til sem flestra fiska í einu.

En við þetta hallaðist báturinn enn meira. Á móti hverjum tveim fiskum, sem Grímur náði inn, runnu að minsta kosti tuttugu út.

Báturinn lá alveg á borðstokknum. Nú fór fiskurinn í barkanum líka að renna út.

"Ætlið þið að láta fiskinn taka út, bölvaðir ormarnir ykkar!," kallaði Grímur til drengjanna og var ekki blíður í máli.

Drengirnir skreiddust fram á þóftuna og seildust í fiskana, sem voru að renna út.

Þá var bátnum ofboðið. Hann sökti upp í sér um miðjuna, hvolfdist út af skerinu - og fór í kolgræna-kaf -


Oddur þagnaði og lét mig njóta þess, sem komið var. Ég hafði látið hann segja frá í næði, án þess að grípa fram í fyrir honum. Nú naut hann þess með stakri ánægju að sjá mig bíða með óþreyju eftir framhaldinu.

Af svip Odds réð ég þó dálítið í framhaldið. Það gat varla verið mjög sorglegt, fyrst hann var allur brosandi út undir eyru.

Samt var ég óþolinmóður og varð fyrri til að rjúfa þögnina.

"Þið hafið þó getað bjargað þeim?"

Oddur varð alt í einu alvarlegur á svipinn, svo að ég fór að verða smeykur. Hann snýtti sér vandlega, tók svo í nefið og svaraði síðan:

"Það lá við skömm, lagsmaður, það lá við bölvaðri skömm. -

Drengirnir héldu sér í bátinn og flutu eins og korkar. Þeim náðum við undir eins.

En Grímur. - Hann hafði gripið í þöngul í skerinu. - Þar hélt hann sér dauðahaldi og komst ekki upp.

Við urðum að setja í hann ífæru og rífa þöngulinn úr botni með honum. - Þá var hann rétt að segja dauður.

Við lögðum hann með kviðinn þversum yfir þóftuna og létum sjóinn renna upp úr honum. Hann hafði drukkið skollans mikið.

Jónas heitinn var ekkert mjúkhentur, þegar hann var að lífga hann við. En ekki hætti hann fyr en Grímur var farinn að anda.

Þá komu líka aðrir bátar okkur til hjálpar. Þeir tóku að sér drengina og bátinn, og einn þeirra dró inn lóðina fyrir Grím.

Grímur var rækalli dasaður. Við bjuggum um hann í barkarúminu hjá okkur ofan á fiskinum. Sólin skein á skrokkinn á honum, svo það þurfti ekki að óttast, að honum yrði kalt.

Þar lá hann um stund í hálfgerðu móki og hóstaði upp sjó við og við. En við fórum að taka lóðina okkar". -

Oddur þagnaði snöggvast og fékk sér aftur í nefið. Hann var svo kíminn á svipinn, að það leyndi sér ekki, að eitthvað var eftir af sögunni.

Ég beið með þolinmæði, þar til hann byrjaði aftur.

"Við andæfðum í hægðum okkar, hásetarnir, en Jónas sálaði innbyrti lóðina. Við ætluðum í land, svo að við beittum hana ekki að því sinni.

Fiskinum fleygði hann í róðrarrúmin. Hann vildi ekki fleygja fram í barkarúmið, til þess að ónáða ekki bróður sinn.

Báturinn var orðinn allvel hlaðinn. -

En alt í einu vitum við ekki fyrri til en Grímur rýkur upp í barkarúminu, styður sig við herðarnar á okkur, stekkur aftur eftir bátnum, þóftu af þóftu, aftur á til bróður síns og - flýgur á hann.

Já, það er ekki gaman að því, lagsmaður. Mér datt ekki annað í hug en hann væri orðinn vitlaus.

Hinn hásetinn sagði mér seinna, að hann hefði hugsað, að Grímur hefði skilið við í barkarúminu - og væri nú genginn aftur.

Það er ekki hlæjandi að því. Djöfullinn getur farið í hálfdauða menn. Og þeir draugar eru verstir, sem ganga aftur hálfkvikir. Þeir hafa altaf hálfgert mannseðli, - þurfa t. d. altaf að éta".

Oddur sagði þetta með slíkri trúaralvöru, að mér fanst sannfæringarmagn orðanna gagntaka mig.

"Nei, - til allrar hamingju var Grímur lifandi.

Jónas sálaði var illa við þessari árás búinn. Grímur kom honum undir sig ofan í skutinn og tók að lúberja hann.

Við komumst í fullhart að skilja þá. Þá voru þeir báðir búnir að flækja sig í lóðinni og stinga í sig önglunum. Og Jónas heitinn var orðinn hamstola af reiði, engu betri en Grímur.

En að bátnum skyldi ekki hvolfa við þessar stimpingar! Því er ég enn hissa á.

Við hnoðuðum Grími með ofbeldi fram í barkarúmið aftur og hótuðum að binda hann, ef hann hefði ekki frið.

Jónas stilti sig, - en skalf þó af geðshræringu. Aldrei sá ég hann jafnreiðan.

Skömmu seinna heyrðum við snökt frammi í barkarúminu að baki okkar. - Þá var Grímur farinn að gráta.

Svei mér þá, ef ég lýg. Hann grét eins og barn.

Svo nærri sér hafði hann tekið það, að bróðir hans skyldi verða til þess að bjarga lífi hans.

Svo þungt féll honum að auðmýkja sig - án þess að geta hefnt sín. - -

En heyrðu nú, lagsmaður, við erum komnir æðilangt frá duflinu okkar. Viltu nú ekki gutla þangað, á meðan ég lýk við að skera beituna?"

Ég lagði út árar og reri í hægðum mínum að kútnum. Mér fanst ég hafa Grím í barkanum að baki mér og heyra í honum snöktið.

En fram undan mér hafði ég andlitið á Oddi. Hann þagði. En ég sá það á honum, að hann átti eftir að segja fleira.

"Sættust þeir þá ekki upp frá þessu?" spurði ég.

"Sættust! - Biddu guð fyrir þér! Nei, þá byrjaði fyrst fjandskapurinn í fullri alvöru. Nei, þeir sættust ekki í þessu lífi".

Oddur þagnaði, en var svo undarlega kímileitur, að það var eins og hann væri að líta yfir heila æfi, heilar raðir af ýmislegum atburðum, ýmislegum minningum, sumum skoplegum, en sumum alvarlegum. Loks mælti hann:

"Ég er nú samt á því, að fjandskapurinn hafi ekki átt djúpar rætur, þótt hann væri óvinnandi á yfirborðinu.

Það furðaði margan, hvernig Jónas sálaði komst af með alt sitt skyldulið. Það hefði varla farið svo, hefði ekki einhver staðið honum nálægur.

Ekki svo að skilja, að Grímur rétti honum hjálparhönd! Nei, mikil ósköp! Til þess mátti hvorugur þeirra hugsa.

En það eru til margar krókaleiðir.

Alstaðar barst Jónasi einhver hjálp að, jafnvel þaðan, sem hann átti síst von á henni. Hann var að vísu vinsæll sjálfur, en þó voru menn honum ótrúlega greiðviknir.

Það var nú í þá daga talað margt um leyniþræði milli þeirra, sem mesta þægð gerðu Jónasi, og Gráfeldseyrar.

Og skuldirnar hans. - Það vissi enginn, hvað um þær varð. Þær hurfu, - gleymdust, voru "strikaðar út" eða týndust.

Og hver heldurðu, að hafi tekið börnin, hvert eftir annað, jafnóðum og þau komust upp, og stutt þau til menningar? Konsúllinn gerði það. Það var frábær ættrækni! - Eða hvað finst þér?

Konsúllinn kostaði dætur Jónasar í kvennaskóla, hann hjálpaði Þórarni syni hans til þess að komast í stýrimannaskóla í Noregi, hann hjálpaði Sveini til þess að eignast jörð, hann kostaði Jón, sem nú er í Naustavík, til þess að læra á orgel. - En alt saman í mesta pukri. Því að ekki mátti Grímur fyrir nokkurn mun komast að því!

Jónas grunaði aldrei, hvernig í öllu lá.

Og síðast, þegar Jónas heitinn lá banaleguna, - það var ekki nurlað við neglur, sem þá var hjálpað upp á heimilið. Og þegar hann var dáinn, gerði Grímur sér ferð yfir um til ekkjunnar, en - það var auðvitað í hreppstjóraerindum!

Nei, lagsmaður! - Það þarf sjaldgæft lundarfar til þess að halda við óbætanlegum fjandskap á yfirborðinu, beygja sig aldrei, sættast aldrei, kannast aldrei við það, sem menn hafa ofgert, - en vera óvini sínum jafnan ósýnilega nálægur, leita uppi allar þarfir hans til þess að bæta úr þeim, vaka yfir velferð allrar fjölskyldu hans, en hafna gersamlega þakklæti hans, - uppskera aldrei annað en fjandskap og illindi frá hans hálfu.

Slíka menn langar ekki til þess að sýnast betri en þeir eru. - - -

En nú skulum við ýta við formanninum okkar, lagsmaður. Ég vona, að nú sé eitthvað skriðið á lóðina okkar".
Netútgáfan - október 1999