ÞJÓÐÓLFSÞÁTTUR


eftir Þorgils gjallanda

Mýrarnar eru grösugar og loðlendar bæði vetur og sumar, en á Ásunum er kjarnmeira land og öruggara að kostum, þegar til haga nær fyrir fannfergi. Ekki er þar fljóttekinn heyfengur og slægjulönd flestra jarða lítil og slitrótt.

Oftast er vetrarnauð mikil og snæsamt á Ásunum; þó ber það einnig við, að lítinn snjó leggur og veðurátt reynist hagstæð. Þá gefa Ásamenn sauðfé sínu lítið, því að landkostirnir bregðast aldrei.

Nú eru Mýrarnar og Ásarnir einn hreppur, þótt fyrrum væru þeir tveir, og enn gæti svo farið áður langt líður að þeim hreppinum verði aftur skipt í tvennt, því aldrei er laust við ríg og sundurlyndi meðal þeirra á Ásunum og Mýramanna.

Fyrir skömmu síðan bjó sá bóndi í Sviðholti á Ásum, er Þjóðólfur hét, ungur maður og ekki fésterkur. Þjóðólfur var knár maður og vinnugóður, skjótur á fæti og harðgjör í hvívetna. Hann fylgdi betur fé til beitar en aðrir sveitungar hans, enda er í Sviðholti talin betri vetrarbeit en á flestum öðrum jörðum á Ásunum, en engið er lítið og stopult með sprettuna.

Þá bjó Eiríkur hvíti á Rauðalæk á Mýrum, gildur bóndi að efnum og forsjáll með heyfeng sinn. Án hét bóndi í Grænumýri, fyrningamaður á hey, fjáður vel. Sveinn Nerason bjó á Svartsstöðum, auðugur af heyjum og mat; hann var kallaður féfastur nokkuð; smár maður vexti og ekki hraustur. Sveinn var af æskuskeiði.

Það þykja engin ný tíðindi hér á Íslandi þótt vorið sé kalt og sumarið óhagstætt en ávallt þykja það þó tíðindi er svo árar og þau ærið erfið.

Og svo virtist þeim einnig á Ásunum og Mýramönnum að vorið vera þrálátt með frost og hafnæðinga, sumarið kalt og votviðrasamt.

Flóarnir á Mýrunum spruttu þó nálægt meðallagi úr gamalli sinu; það var örðugt að standa á votlendinu þar, en Mýramenn voru vanir vosinu og fylgnir sér við heyaflann. Að lokum urðu heyin þar lítið eitt neðan við meðaltal. Túnin eru víðast stór og grasgefin; það varð drýgstur fengur taðan, sem hirtist best allra heyjanna.

Ásarnir reyndust miður; þar eru minni tún, frostin meiri, élin tíðari uppi við fjöllin og auðnirnar; hretin og hríðin gerðu meiri verkföll; spilltu heyjunum og lömuðu framsókn manna.

Ásamenn lágu ekki á liði sínu, þeir voru lúnir eftir sumarið en heyin voru þó að lokum óvanalega lítil og hrakin.

Haustið var þurrviðrasamt og heldur svalt. Menn vonuðu eftir góðum vetri.

Og þess þurfti.

Mýramenn þörfnuðust þess og þeim á Ásunum lá þó meira við að svo yrði.

Nú heyrðu kaupmennirnir hvað klukkan sló; þeir óku seglum eftir vindi og buðu lágt verð fyrir sauðféð. Bændur reyndust tregir að lóga, nema til þess að borga brýnustu skuldirnar, og það dróst einnig að byrgja vel búið; slátra að mun meira en vanalegt var. Féð var holdskarpt og mörlítið; frálagsrýrt venju fremur.

Fyrstu tvær vikur vetrarins voru kyrrviðri og auð jörð. Meðan tíðin var svona góð, datt engum í hug að lóga af heyjunum.

Meira að segja: það voru margir, sem tímdu ekki að drepa niður holdlítið fé, svo sem þurfti til búanna. "Það leggur ekki af í þessari tíð," sögðu menn. "Nógur tími til að drepa það þegar spillist."

Veturinn mátti góður kallast fram að jólum. Ásamenn kenndu ekki lömbum át fyrri en vika var af jólaföstu, og gáfu fullorðnu fé í fyrsta skipti þremur nóttum fyrir jól.

Féð var hraust og tapaði lítið tölunni þennan tíma.

Á nýársdag gerði kafaldshríð með norðanþyt; nóttina eftir hlóð niður lognmjöll, og annan dag ársins var þó fannfallið mest.

Það var óvenju mikil fönn komin eftir þessar hríðar og illt að koma fé í haga sökum ófærðar enda slæmt að fá það til beitar.

Þjóðólfi þótti féð sitt hafa haldist illa við þennan vetur eins og þó hafði viðrað vel; það sér fljótt á lausu og litlu holdi, hugsaði hann. Nú þurfti að lóga tíu ám og tíu lömbum ef nokkurt vit væri í ásetningi hans. - En ef hann hvessti og rifi mjöllina þá kæmi næg jörð, og með öflugri hjástöðu mætti kannski fleyta fénu á litlu. Hann langaði til að tefla við náttúruna, tefla á tvíhættuna.

Hann lógaði engu, en gekk sjálfur út með fénu sínu, rak fyrst það fullorðna, sótti svo lömbin um leið og hann át morgunverðinn.

Knár og glöggur fjármaður á léttasta skeiði getur ótrúlega mikið hjálpað níutíu fjár til beitar og fleira hafði Þjóðólfur ekki þennan veturinn.

Hrossin hans þrjú fóru líka í húsið; þau voru öll ung og í góðum holdum. Hann beitti þeim líka á daginn ef fært veður var.

En það var ekki færiveður alla daga, því var nú verr; tíðin gerðist ill og alltaf óx fönnin. Svona smá óx hún í hálfan mánuð, og loks gerði þriggja daga stórhríð.

Þá fór mönnum að lítast illa á blikuna, því nú var nærri jarðlaust, en þá komu líka staðviðri.

Þennan hryðjukafla þóttust engir geta komið við að drepa niður féð. Það voru aðeins ráðagerðir og engin framkvæmdin.

Nú fór Þjóðólfur að moka niður féð sitt. Hafði tvo hópana, lömbin og veturgömlu ærnar sér og nær bænum, eldri ærnar og tólf sauði fjær nokkuð. Ari litli, þrettán vetra vikadrengur hjálpaði honum eftir megni. Þjóðólfur var einráðinn að tefla taflið.

Fyrst héldu nágrannarnir þetta sérvisku og vitlaust kapp Þjóðólfs, betra fyrir féð að hafa húsnæðið og litla fylli - en smátt og smátt fóru þeir þó að dæmi hans; sumir lögðu kapp við, en aðrir fóru hægra, eftir því sem þeim var þrek og kapp gefið.

Viku af þorra kom tveggja daga hláka og góð jörð á Mýrunum; minni þar efra, en þó sæmileg sauðjörð á Ásunum.

Þá hjarnaði og þá var farið í kauptúnið til að ná kornvöru, sem bæði þurfti handa mönnum og skepnum.

Enginn vildi lána Þjóðólfi verð fyrir kornvöru. Um það voru þeir samdóma í Ásunum og Mýrunum að hver hefði ærið nóg að sjá um sig. Og engir kváðu skýrar á um það en Sveinn Nerason og Án í Grænumýri.

Þjóðólfur skrifaði kaupmanni og veðsetti kúna sína gegn rúgi handa skepnunum.

Kaupmaður tók veðið gilt en reikningurinn þurfti þess með, sagði hann, þar var nógur halli fyrir beljuna. En til að gera úrlausn lét hann Þjóðólf fá 200 pund af rúgi; meira mátti ekki, sagði hann.

Ef ég tapa taflinu þá hef ég góða heilsu og ekki nema tvö börn að sjá fyrir. Ég hika ekki héðan af. En þeir sveitungar mínir leika mér enn sem fyrri lítið í hag - sumir geta ekki, aðrir vilja það ekki og þeir þriðju tíma því ekki. - Kaupmaðurinn hefur í mörg horn að líta og hann er líka kaupmaður frá hvirfli til ilja - ég þarf fátt að þakka - og ég þakka sjaldan; svo segja þeir náungarnir, hugsaði Þjóðólfur, meðan hann gaf og strauk ökuhestinum sveitugum og svöngum eftir ferðina.

Enginn hafði sett jafn djarft á hey sín og Þjóðólfur, það vissi hann vel sjálfur og það vissu þeir einnig sveitungarnir og þeir töluðu það oftar en um sinn.

"O, hann drepur féð úr hor, hann Þjóðólfur - bölvaður harðjaxlinn sá - - og þá er hann frá -- hann getur ekki búið, en hann er vel vinnandi, getur verið gott verkfæri í höndum þess sem stjórna kann," sagði Sveinn Nerason við Eirík á Rauðalæk eitt sinn á góunni, er Eiríkur kom kynnisför til hans.

"Og þú fyrnir eina níutíu hesta," sagði Eiríkur og blés við.

"O - sussu - féð er magurt, mér veitir ekki af -- veitir ekki af.... lánaðu mér eina tuttugu bagga, Eiríkur minn, þú ert sá eini hér í hreppi, sem getur það."

"Ég - nei - onei, þeir gefa upp hvert strá hjá mér, piltarnir, þeir kunna ekki að beita og halda, að aldrei þrjóti heyin hjá mér. Þeir kunna ekki að fara með hey og ég ræð ekki við þá nú orðið. Tíminn er breyttur - breyttur til hins lakara.

*

Útmánuðirnir, góa og einmánuður, höfðu verið hvassviðrasamir og rysjulir, hagjörð var nokkur en féð tapaði holdi með litla gjöf og mikla útistöðu. Ásamenn voru þó verr staddir, þar voru heyin svo lítil, og gott beitiland dugði ekki til hlítar í vorstormum og frostnæðingum. Þar voru heyþrot hjá fjórum bændum um sumarmál. Geir í Sauðafelli var sá eini maður þar efra, sem hjálpað gat og hann hafði hjálpað greiðlega þangað til heybirgðir hans voru helst til litlar ef illa voraði.

Einn dag þegar vika var af sumri kom kafaldshríð; birti um kvöldið og kyrrði, en nóttina eftir hlóð niður feikna lognmjöll og fram að miðaftni næsta dag. Þá gerði heiðríkt loft og frost eins og um hávetur.

Nú var jarðlaust á Ásunum og Mýrunum; ekki hugsandi að reka fé til beitar.

Þá átti margur bóndinn erfitt með að líkna fénaði sínum, og þá virtist fokið í flest skjól fyrir mörgum þeirra.

Þjóðólfur gaf hálfa gjöf ánum og þriðjung geldfénu þennan morgun, snæddi svo morgunverð sinn og bjóst til farar.

Veður var bjart og blés á norðan, frostnapurt og þokubakki til hafsins. Þjóðólfur stefndi svo sem leið liggur niður að Rauðalæk. Skíðin gengu illa og voru í kafi í lognmjöllinni og þó var helst að dragnast á þeim.

Hann bað Eirík hvíta um heylán og sagði sem satt var, að nú lægi mikið við að hann fengi góða úrlausn, en Þjóðólfur var óvanur lánbeiðslu og ekki orðmargur né þrábeiðinn enda taldi Eiríkur öll tormerki á nokkurri greiðslu og barmaði sér meir en Þjóðólfur. Taldi vísan fjárfelli og spáði illri veðurátt. Þjóðólfur fór þaðan með tóma pokana á bakinu og stefndi niður að Grænumýri.

Hann kom við á beitarhúsum Eiríks og hitti þar sauðamann sem var að snjóvga fénu. Þeir töluðust við og sauðamaður sýndi honum heyið í hlöðunni, og kom þeim saman að það mundi ekki minna en sextíu vættir. "Eiríkur er alveg múraður í heyjum. Það er ómögulegt að hann gefi þau upp þó inni standi þar til átta vikur eru af sumri," sagði sauðamaðurinn heldur drýgindalega.

"Já, hann er búmaður og góður fyrir sig," sagði Þjóðólfur og kvaddi.

Án í Grænumýri var að taka kúahey þegar Þjóðólfur kom þar. Þjóðólfur settist í hlöðudyr og bar þegar upp erindið. Án táði heyið og púaði við þótt lítið væri ryk í sílgrænni töðunni.

"Nei, því er nú verr, ekki get ég hjálpað. Hér hefur nálega staðið inni í allan vetur. Heyin eru forskemmd og féð magurt. Ég hef ekki aflögu og færi svo að ég gæti nokkuð líknað ef fram úr sæi hef ég lofað honum séra Jóni ásjá."

"Mér væri huggun ef þú vildir lána mér, þótt ekki væri nema í pokann þann arna, og ekki sæi nú stórt á hjá þér við það."

Án þagði við og fór að rétta pokana upp í hlöðudyrnar. Þjóðólfur tók á móti og færði þá út fyrir.

"Satt er nú það, ekki er til mikils mælst, þú þiggur hjá mér kaffi og spjallar á meðan."

"Lengi má ég ekki tefja, ég þarf víða að koma eins og bónbjargamennirnir - en þakka fyrir boðið."

Þeir gengu heim, og Án vísaði gesti til stofu, gekk síðan inn, en Þjóðólfur sat einn eftir um hríð. Kalt var í stofunni og setti brátt að honum er hann var sveittur og móður af göngunni. Nú kom Án og tók þegar að ræða um veðurátt og heyleysi manna. "Þið hafið alltaf haft jarðir þar efra og þar eru landkostirnir. Ef hann hvessir - sem líklega verður bráðum þá kemur strax jörð hjá ykkur. Hér kemur hún ekki, fyrr en eftir þriggja daga hláku, og það er ekki útlit fyrir það núna. Geir getur víst hjálpað, þú ættir að reyna við hann."

"Því er verr hann getur það ekki, hann er fulltæpt staddur nú orðið."

"Ekki trúi ég því. Maðurinn, sem hefur verið að lána hey. Hann hlýtur að vera birgur fyrir sig... Ég er annars viss um að þú hefur drægju ennþá - þú hefur alltaf beitt; með þeirri beit og því lagi hefði ég nú verið góður fyrir mig."

Kaffið kom og þeir tóku bollana.

"Ég bið ekki fyrri en ég þarf; það hugsaði ég þú vissir og tryðir mér til að skýra rétt frá högum mínum. En heldurðu þú gerir svo vel að lána mér þótt ekki væri nema í þessa tvo poka?"

"Nei, það get ég ekki - nú kom maður frá séra Jóni til að biðja um hey, ég verð að líkna honum eitthvað -- en Sveinn á Svartsstöðum er hér langbirgastur; hann getur lánað - til hans skaltu fara. - Nei, nú er mér ómögulegt að leiðbeina þér nokkuð."

Þjóðólfur setti bollann á borðið heldur harkalegar en vandi er til. Hann var fölur og röddin ekki laus við að titra þegar hann sagði:

"Ekki verða allar ferðir til fjár, og ekki dugar mér að vola hér. Þú getur ekki, Án. Þú getur ekki lánað af því þig vantar viljann og þá er nóg. Þakka fyrir kaffið og vertu sæll."

"Farðu vel. Þú gast líka sett hyggilegar á, Þjóðólfur."

"Ég hef heyrt það fyrri, en nú er ekki til neins að tala um það," sagði Þjóðólfur og gekk út.

Björn Ánsson var við hesthús og hitti Þjóðólfur hann og frétti eftir hvort nokkur væri kominn og neitaði Björn því. Þar hefði enginn komið, hvorki í gær eða dag.

Þjóðólfur stefndi norðaustur að Svartsstöðum. Veður tók að þykkna og meyrnaði snjórinn eftir nónið svo skíðin gengu ekki og gerðist molluheitt enda kaffæri skíðalaust. Þjóðólfur var móður og dasaður þegar hann kom að Svartsstöðum. Þar var lokað hurð og allir búnir gegningu sauðfjár. Þjóðólfur barði að dyrum, og var ekki fyrri til hurðar gengið en hann hafði gert það þrem sinnum. Það var Rannveig Sveinsdóttir er til dyra kom. Hún bauð Þjóðólfi til baðstofu en hann kvaðst ekki mega tefja og bað föður hennar að finna sig hið skjótasta. Litlu síðar kom Sveinn og heyrði Þjóðólfur ekki hverju hann svaraði er hann heilsaði honum.

"Ég vildi fá að tala við þig, Sveinn, nokkur orð og vildi helst gera það hér frammi ef þú ert svo frískur að þola kuldann."

"Ég er lasinn og fylgi svona rétt fötum, það er þessi voðatíð sem hleypur í allan minn skrokk. Og slík fádæma tíð og þetta. - Við skulum ganga hér inn í stofuna."

Þjóðólfur bað um tíu bagga heylán. Sveini varð seint um svörin. "Ég vildi ég gæti það, en ég er hræddur um, að það sé ekki svo ástatt, - það voru ekki heyin hjá mér í haust og skemmd - ekki hálft fóður í þeim... Það er aumt ástand nú - nú verður stórfellir í vor... Þú munt vera tæpur?"

"Já, ég bæði ekki um heylán nema ég væri nauðbeygður til þess."

"Því trúi ég - en hér er ekki um aðra að tala en Eirík og Án í Grænumýri, þeir hafa heyin. - Þú hefur það hjá þeim, ekki trúi ég öðru."

"Ég hef fundið þá og fengið afsvar hjá báðum."

"Það er og - þeir geta það þó. Nei, ég hef ekki hey til aflögu, ég vildi ég hefði þau. Nú mætti selja hey, að lána þau er sama og fleygja þeim í eldinn - þau borgast aldrei með skilum heylánin - það hef ég reynt - margreynt það."

Þjóðólfur þekkti nú raunar ekki til þess að Sveinn lánaði oft hey og því síður að hann ekki fengi lánin með fullum skilum og vöxtum, en í þetta skipti vildi hann ekki spilla máli sínu með því að mæla móti honum.

"Ég er eins fús að kaupa og skal borga svo fljótt sem mér er unnt."

"Ég hef ekki aflögu hey... Nei, ég get engu miðlað."

"Þú neitar mér þá algerlega?"

"Já, og tekur það þó sárt."

"Þá hef ég nú reynt í þremur stöðum og ekki fengið eitt strá. - Ég veit þið getið allir lánað hey, en enginn ykkar hefur skaplyndi til þess. Þið væruð maklegir þess, að heyin væru tekin hvort sem þið segðuð nei eða já."

"Það verður ekki farið að þínum vilja, Þjóðólfur. Þú gast sett hyggilegar á í haust."

"Satt er það. Og þið getið hjálpað öllum, sem nú eru í þröng ef þið vilduð. Samt gerið þið ykkur þá minnkun að tíma því ekki."

"Skárri er það ofstopinn. Nú fer ég inn, mér er orðið kalt, og ég sé enga þörf að sitja hér undir illyrðum þínum."

"Við finnumst síðar, Sveinn - nú fer ég og hirði ekki að kveðja þig mjög innvirðulega."

"Mér er alveg sama um það."

*

Það var komið að háttatíma þegar Þjóðólfur fór frá Svartsstöðum. Loftið orðið kafþykkt, og flögraði úr drífa af norðvestri. Skíðafærið var þungt líkt og um morguninn, allt heldur í fangið þar upp eftir og Þjóðólfur orðinn aðsettur eftir dagsverkið. Honum var þungt í skapi - allt benti til þess, að nú væru taflslokin komin, horfellirinn ráðinn. Skömmin og skaðinn biðu hans og það mundi ekki angra þá mjög Án í Grænumýri og Svein Nerason þótt sá yrði endirinn. En sárast alls var að horfa á hordauða þess fjár, sem hann hafði sjálfur alið upp, vanist við og fest vinarhug á, sem hann átti að ábyrgjast fyrir hor og háska. Þjóðólfur var reiður ofdirfð sinni og forsjárleysi, reiður þeim þremenningunum, sem engum vildu gagn gera með heybirgðum sínum, aðeins leggjast á þau eins og ormur á gull. Þeir bölvaðir nirflar hafa enga velvild til annarra en sín sjálfra og vandamannanna. Það væri engin synd að ræna eða stela heyi frá þeim húskunum, til þess að bjarga vesalings hungruðu skepnunum frá hordauða. Nei, það væri þeim rétt hefnd, sú hefndin sem þeim yrði sárust og sviðaþyngst.

Þjóðólfur var kominn upp að Svartsgerði, þar vottar fyrir gömlum húsatóttum og túngarði og túni sem er nú ekki ljáborið né notað til annars en þurrka og bera upp hey úr Svartsmýrinni austan við, og til torfristu og fyrirhleðslu. Þar stóð nú fimmtíu hesta hey ósnert sem Sveinn Nerason átti og brot af öðru, sem mundi sjö til átta hestar. Austur af mýrinni er Langafell og taka þar við Ásarnir.

Í sömu svipan rauk á norðvestan stormur og þyrlaði mjallkófinu yfir höfuð Þjóðólfi. Hann staðnæmdist sunnan við heykleggjann og beið eftir vissari veðurstöðu og athugun bylsins, sem nú var auðsjáanlega að bresta á. Svo laust á öskrandi blindbyl; harðviðrið og frostið var eins og um hávetur. Allt varð á svipstundu að einu æðandi snjóhafi. Það sá ekki handaskil fyrir myrkri og mjallroki.

Þjóðólfur leysti af sér pokana og bjóst um við heystálið, sem ekki hafði verið hlaðið fyrir. Hann stakk heyvisk í botn annars pokans og fór svo með báða fætur ofan í hann; hinum smeygði hann á höfuð sér og beið svo þess að staðskeflið kæmi. Og það kom, festist og hlóðst meir og meir suður af kleggjanum. Þjóðólfur hafði reist skíði og staf við heyið hjá sér, nú þurfti að taka hvort tveggja og færa það fjær, ofar, meira skáhallt og sjá um op suðaustur úr snjóhúsinu, sem nú var að myndast. Með pokanum sem hann hafði í fyrstu haft yfir sér tróð hann og þjappaði fjær sér snjónum, rýmkaði snjóbyrgið og fékk betri hentisemi, snjórinn þéttist æ meir og leyfði meir rótið. Þjóðólfur hafði smugu suðaustur úr holunni og tróð pokanum tóma þar upp í annað veifið en lét þess á milli opið vera. Ekki var kalt í snjóbyrgi þessu en ærið hráslagalegt enda þiðnaði nú fönnin úr fötum Þjóðólfs, og gerðust þau vot, með því að ekki var trútt um að læki er fönnin þiðnaði af yl mannsins. Þjóðólf sótti svo höfugur svefn er hann hafði búist um, að hann mátti trautt vaka. En það varaðist hann mest, að sofna, meðan loftið var jafn viðsjált og það reyndist öndverða nóttina.

Nú sóttu að Þjóðólfi margar ömurlegar hugsanir. Ill færð um daginn og afsvar þremenninganna hafði lúð hann og lamað, og matleysið frá því snemma um morguninn áður dró úr kjark og einbeitni en vakti óþægar minningar og kvíðvænar framtíðarhorfur.

Það var mikill hnekkir drengskapar og mannlundar að drepa féð úr hor fyrir óforsjálni og ofurkapp. Sú ástríða að tefla þannig við guð og náttúruna var engu síður viðsjál en spilafíkn, gullleitargræðgi, vínnautn og féglæfratafl. Allt var það á tvíhættu leikið. Veitti fjör og nautn í fyrstu en gat þegar minnst varði keyrt mennina út í ógæfu og blinda ástríðu, kippt undan þeim fótunum og velt þeim í volað. Samtakaleysi hreppsbúa, sundrungin og rígurinn meðal þeirra í Ásunum og Mýramanna, helkuldi og ómannúð þeirra, sem nú gátu veitt mönnum og fénaði lið og líkn, getið sér góðan orðstír með drengilegri liðveislu, það sveif á skapið og vakti bræði og hatur, - hatur til auðs og lítilmennsku, til eigingirni, tortryggni og auvirðilegustu maura-drambsemi. Hvað þeir voru samanvaldir með að láta ekkert af hendi rakna, ekki eitt strá. Hvað þeir gerðu lítið úr sér að ljúga og vola. Hræsna, stynja og andvarpa framan í liðþurfa menn, en hugsa í hjarta um fyrningar sínar, vættatölu og fyrirtaks búmennsku - um heimsku og ráðleysi hinna. Ofmetnast og trénast eins og njóli; lifa hvorki sjálfum sér til gleði og gæfu né öðrum til heilla og liðveislu.

Nóttin leið svo dauðans hægt. Hún var voðalöng, og alltaf hvein í veðrinu, kófið suðaði, ýlustráið gólaði og blístraði hjáróma hungursöng, neyðarrödd harðinda og horkvala. Það væri Sveini sama þó ég lægi hérna dauður undir kumblinu hans. Þeir mundu keppa um að kaupa féð af ekkjunni fyrir hálfvirði, maka krókinn og flá reyturnar af börnunum, ef þeir gætu. Nei, Sveinn, ég reyni að hrasla af í nótt og þið Án skuluð fá að sjá framan í mig. Og Eiríkur hvíti - ég skal líka hugsa til þín. Geti ég nokkuð ert ykkur og egnt skal ég ekki spara það.

Ofanverða nótt lygndi veðrið. Þjóðólfur reif sig út úr fönninni. Það var frost og norðanþytur en heiðríkt loft að öðru en bakkaslæðu í norðrinu; hann reif skíði og staf úr fönninni, tók heyviskina úr pokanum og tróð henni fast að stálinu; batt á sig pokana, steig á skíðin og hélt austur á mýrina. Nú var skíðafæri, og örrifið af hæðum og hávöðum. Ferðin gekk í fyrstu fljótt en brátt frusu fötin og leðurskórnir urðu eins og gaddur. Þjóðólfur sleit þá af sér og sótti knálega upp brekkurnar. Hann mátti forða sér frá kalinu, nú var þörf á allri heilbrigði, enn gat raknað fram úr. Það var snöp, og þurfti ekki nema sólbráð til þess að kæmi jörð, og þá mátti bjarga fénu. Það var komið að rismálum.

Þjóðólfur þurfti ekki að kalla hátt á gluggann; konan vakti; hún hafði ekki sofið mikið þessa nóttina og hún var fljót til dyra, fljót að leggja hendurnar um hálsinn. Þjóðólfur vatt höfðinu við, svo kyssti hún á vangann.

"Það er ekki kyssilegur kampurinn minn núna, góða," sagði Þjóðólfur og vafði hana að sér. "Gefðu mér nú eitthvað að éta og yljaðu handa mér kaffisopa, nóg er til að gera í dag."

"Ertu óskemmdur? Eða hefurðu ekki legið úti í nótt?"

"Jú, ég var undir heykubbnum hans Sveins niðri í Svartsgerði í bylnum. Það gengur ekkert að mér."

"Guð veri lofaður. Ég hef verið svo dauðans hrædd um þig, vinur minn. Þetta var það voða-veður. Það hefur aldrei heyrst annar eins gnýr á baðstofunni í neinni hríð í vetur."

"Það er satt, þetta var feikna hríð og ólíklegt að ég hefði komist heill og óskemmdur af, nema fyrir þessa gæfu mína að vera staddur við heyið þegar brast á."

Þjóðólfur hafði fataskipti, mataðist og drakk kaffi, svo fór hann út til að vitja um fénaðinn. Hestarnir kumruðu þegar hann var að opna dyrnar og sauðféð jarmaði þegar það heyrði gengið um úti fyrir; það hafði ekki fengið neina gjöf frá því Þjóðólfur fór að heiman morguninn áður. Það var sárt að mega ekki fylla þær, vesalings skepnurnar, en hlaut þó svo að vera, þessa litlu heydrægju varð að spara til harðari daga þegar meira lá við að líkna þeim.

Veður gerðist kyrrt og skafheitt. Þjóðólfur rak fullorðna féð sitt fyrst, og það fór strax að bíta með áfergi; svo mætti hann Ara litla með gemsana, rak þá út af slóðinni og sunnan í Grashólana, þá var farið að klökkna á hnjótunum.

Þennan dag var ágætis sólbráð og allt féð var fullt um kvöldið og eftir hýsingu fór Þjóðólfur upp að Sauðafelli og átti einmæli við Geir bónda um hríð.

Og það var ólíkt léttari svipur yfir Þjóðólfi nú þegar hann strokaði á skíðunum heimleiðis aftur en deginum áður þegar hann var í heybóninni.

*

Vestur af Mýrunum er Steinárdalur, og liggur hann miklu lengra suður í öræfi en Ásarnir og Mýrarnar; dalur þessi austan Steinár er afréttur þeirra hreppsbúa og landkostir eru þar hinir bestu. Vetrarríki er þar oftast mikið en oft er þar vorgott, einkum ef norðvestan átt hefur verið tíð undanfarinn vetur. Hlíðar dalsins eru háar nokkuð og brattar, þó liggja fell en ekki fjöll að dalnum og óvíða eru þar hamrar né björg mikil. Undirlendi er heldur lítið, eyrar snögglendar meðfram ánni og spillast þær oft af vorruðningum og vexti Steinár, sem er voðaleg, þegar snjó og ísa leysir, þótt hún sé ekki mikið vatnsfall, þegar öræfi og afréttur eru auð orðin á sumrin.

Afrétturinn austan Steinár er eign kirkjujarðarinnar Múla en séra Jón sá er þar bjó nú og var klerkur þeirra Ása- og Mýramanna hafði leigt afréttinn hreppnum til átta ára og voru nú fjögur þeirra liðin. Þótti honum það vafningsminna og auðveldara, er hann var ungur og lítt ráðinn til búsýslu eða mikils straumbrots um þau mál er til framkvæmda og eftirlits horfðu.

Geir í Sauðafelli var þá oddviti og réði mestu í hreppsnefndinni. Eiríkur hvíti var óánægðastur með ráð hans og framkvæmdir allra hreppsnefndarmanna en hann var miklu eldri maður og fégleggri, hafði því minna traust annarra útí frá, þótt auðugri væri.

Þjóðólfur hafði tekið til morgungjöf fénaðar síns þennan dag, sem hann fór upp að Sauðafelli. Hann sagði konu sinni fyrir um hvernig Ari litli skyldi haga útiverkum næsta dag og bað að vinnukonan hjálpaði honum til; svo lagðist hann til hvíldar um stund en konan gerði skó, hagræddi plöggum og tók til nestisbita. Klukkan fjögur um nóttina vakti hún bónda sinn og kvað veður bjart og heiðríkt; hann bjóst af skyndingu. Þegar hann hafði matast var kaffið tilbúið, þau drukku það og síðan skildi hann við konu sína og fór.

Um dagverðarskeið þrem dögum síðar kom Björn Ánsson inn til föður síns og sagði þau tíðindi, að stór fjárhópur væri rekinn austan mýrina og stefndi vestur sunnan við túnið, og fylgdu þrír menn hópnum.

"Hverjir ætli það geti verið að reka fé núna?" sagði Án og stóð á fætur og gekk út með Birni og fólkið flest á eftir.

Fjárhópurinn rann laust sunnan við túnið og fylgdi maður fararbroddinum en tveir gengu á eftir hópnum og drógu sleða með nokkru á.

"Ég þekki þessa tvo sem á undan skálma; sá fyrri er SviðholtsHrammur og hitt Sauðafells-Golti og maðurinn sem bandar þeim suður er enginn annar en Þjóðólfur," sagði Björn.

"Og þeir tveir sem sleðann hafa eru Finnur og Þórður frá Sauðafelli," sagði vinnumaður einn.

"Hvert ætla þeir að fara?" Það var ung vinnukona sem spurði og strauk nýgreidda hárið frá enninu.

"Þeir koma ekki heim, Fríða, þeir eiga erindi eitthvað annað."

Björn leit glottandi til hennar.

"Það er auma svarið og þér líkast," sagði hún, leit til hans og roðnaði við.

Fólkið gat hins og þessa til meðan féð rann suðvestur Rindana. Án einn þagði og horfði stöðugt eftir ferðamönnunum og fénu.

"Þeir hirða ekki um að koma heim," sagði hann loksins og dró andann líkast því sem byrði létti af honum.

"Komdu með mér upp í sauðhúsið, Bjössi minn."

Án tók á sauðunum - þeir voru fjörutíu og fimm og átta ær geldar með þeim; þagði á meðan, fór svo ofan í lambhúsin og þuklaði gemlingana. Þegar það var búið, settist hann á garðahöfuðið og sagði:

"Þeir eru að reka féð vestur á dal. Þaðan hefur Þjóðólfur komið um kvöldið þegar Geiri fann hann og gat ekki togað úr honum hvaðan hann kæmi. Það voru ær í hópnum, ég sá það fyrir víst og þá er þar jörð eins og líklegt er eftir norðvestanáttina í vetur. Og við megum gefa geldfénu inni í bestu holdum - . Það var úrræði; ef féð er passað ---. Væri ég yngri, léti ég ekki fylla dalinn með annarra fé, sæti ekki heima við að gaufa í húsum og eyða heyjum að óþörfu."

"Við skulum bíða eftir fréttunum að vestan, þeir koma bráðum aftur."

"Dalurinn verður fylltur. Það þarf ekki nema eitt fífl í hverja veiðistöð. Þeir fara strax á eftir heylausu ræflarnir."

Þórður kom aftur að tveimur dögum liðnum og lét vel af jörð og vorveðri þar að vestan; sagði dalinn meir en hálfauðan og frægustu sólbráð á daginn. Nyrðra var norðankul, og klökknaði lítið á daginn þar á gaddinum. Nú ráku allir menn úr Múlahreppi, þeir sem í heyþröng voru, geldféð vestur í Steinárdal. Og þeir Án svarti og Eiríkur hvíti létu fara með sitt fé líka.

Sveinn Nerason lét hvergi fara; honum var illa við þessa nýlundu, spáði að fjárskaði og stórtjón hlytist af þessu Þjóðólfs flani.

*

Þjóðólfur og Finnur höfðu tjald sitt við Beljanda, það er þverlækur sem kemur austan af heiði, steypist niður dalbrekkuna og fellur síðan í Steiná. Hann er ekki meir en vænn bæjarlækur nema í leysingum, þá er hann ófær sökum vatnsmegins og straumhörku, þótt niðri á eyrum sé. Þeir þokuðu æ lengra suður eftir því sem fjölgaði fénu í dalnum. Flestir ráku í dalinn, þar sem heitir Geirstaðahlíð. Þar er mest undirlendi og bestur hagi talinn í þeirri hlíð í öllum dalnum og þar höfðu þeir Þjóðólfur og Finnur í fyrstu tekið sér stöðu og reist þar tjald sitt en þeir sem síðar ráku bjuggust engir við lengri dvöl en vikutíma, ef bærileg tíð yrði. Það þótti Þjóðólfi of skammur hjásetutími og færðu þeir félagar sig þá suður að Beljanda, hinir bjuggust um nyrðra og höfðu tvö tjöld og voru sex saman. Eftir viku liðna fóru þeir heim, en hinir sátu kyrrir.

Geir sá um alla vistaflutninga vestur yfir til þeirra og hafði mannaskipti tvo daga meðan hinir skruppu heim. Þjóðólfur hafði skilið eftir átta ær og tvo gemlinga sem hann treysti síst að þola útivistina. Ari og Helga húsfreyja sáu um hirðingu gripa og kinda þessara, og höfðu nóg fóður fyrir það. Geir kom við og við til að vita hvernig liði í Sviðholti. Þeir félagar höfðu verið tvær vikur vestra, er þeir skruppu heim, sögðu dalinn runninn og auðan en Þjóðólfi þótti óráð að sleppa fénu fyrri en hættur minnkuðu í Kvíslarbotnum og Kaldaflóa sem eru á heiðinni milli Mýra og Steinárdals og var þar enn gaddur allmikill. Tíðin þar eystra hafði verið köld, þurr og þeylítil, gekk erfitt með að ær kæmu upp lömbum er jörð var að koma undan gaddi og ávallt voru næturfrost. Sveinn lét geldfé sitt liggja úti upp við Langafell og gekk það mest í landi Þjóðólfs. Geir hafði vandað um það en Sveinn fór sínu fram eftir sem áður.

Þeir Þjóðólfur og Finnur fóru nú með sinn hestinn hvor vestur eftir og fluttu á þeim nesti sitt og aðrar nauðsynjar.

Svo leið vikan fram á laugardagskvöld. Veður hafði verið kyrrt um daginn og skein sól í heiði fram að nóni, þá tók að draga teina í loft og því næst að þykkna og gerðist skúralegt með kvöldinu. Tjald þeirra félaga stóð sunnan undir Smyrlabjargi, það er einstakur hamar og þó ekki hár lítið norðan við Beljanda, þar neðan við er hvammur grösugur og lind í hvamminum, sunnan við eru eyrar grasivaxnar; en næst ánni eru ruðningar og grjótskriður sem Beljandi hefur í vorvöxtum brotið svörð af og fært grjót yfir.

Þar sem mættust svörður og urð stóð fjárrétt er þeir félagar höfðu hlaðið og mundi taka sextíu fjár, þar geymdu þeir nokkurn hluta nætur ær þær er þeim þótti líkastar að bera að nóttu til eða rásgjarnar voru. Geldféð var norðar út við Hrafnslæk sem kemur austan úr Kaldaflóa, fellur niður hlíðina og rennur í Steiná.

Lambærnar voru á beit neðan við Smyrlabjarg og norður með ánni, bjartar á lagð og frjálslegar. Þær tíndu nýgræðinginn og fóru hægt og makráðlega að öllu, elstu lömbin hópuðust saman hér og þar og hlupu leikandi út og suður eftir eyrunum. Þau yngri lágu og bökuðu sig í góðviðrinu. Dreyra gamla hafði sitt lamb á hvorum spena, þefaði af þeim á víxl og renndi öðru hvoru augum upp að tjaldinu.

"Sko til, Finnur, hún á von á einhverju frá okkur útilegumönnunum, ég ætla að færa henni brauðbita, hún á það skilið fyrir að koma þeim upp tveimur og hafa þó haft svona harða aðbúð."

"Satt er það, en veldur hver á heldur - og aldrei hefði ég trúað því, að hér væri jafngott að vera og reyndin hefur á orðið. Hér skuli vera kominn nógur sauðgróður en heima er jörð dauð og ekki komin öll undan gaddi."

"Já, dalurinn hefur reynst okkur ágætlega í vor og hann hefði reynst það fyrri ef mennirnir væru ekki svo latir og skammsýnir. Það þarf að vekja okkur með harðindum, heyleysi og öðrum eins mönnum og Sveini Nerasyni og félögum hans, til að nota þessi gæði. Mér hugkvæmdist þetta fyrst síðari hluta næturinnar sem ég kúrði við heyið hans Sveins. Undirtektir þeirra knúðu mig til að leita sjálfur til náttúrunnar. Þegar norðvestan askan stóð megin næturinnar datt mér í hug: Nú rífur og kemur snöp, og vestur í Steinárdal hlýtur að vera góð jörð eftir þessa veðurstöðu, sem oftast hefur verið í vetur. En líttu! það er fyrst núna í vikunni sem fé ætti gott að vestanverðu, svona örskiptur er þessi mjói dalur."

"Þú og Geir frændi hafið nú reynst hreppnum bestu bjargvættirnir í harðindunum og neyðinni í vor."

"Já, hann hjálpaði svo sómi var að - en líttu hérna yfir dalinn og sjáðu hvort hann er ekki fegurri og fjölbreyttari en þú áttir von á þegar við rákum vestur fyrir Fannarheiðina."

Báðir lituðust um - þögðu og horfðu yfir eyðidalinn sem þeim var orðið hlýtt til eftir þriggja vikna útivist og verðursælda raun þá sem hann gaf í þetta skiptið. Steiná kom dunandi sunnan dalinn með stríðu straumfalli og gnúði fast grjót og klappir; hún bylgjaði og hoppaði framhjá, móleit af leysingum og hvítfext þar sem straumurinn var strangastur; kastaði sér yfir hnöllungssteinana og ruggaði þeim til eða færði úr stað, en dimmur niður heyrðist eins og þruma í fjarska þar sem grjótið svarraði og straumfallið þrumdi. Hún var ekki jafn geigvæn nú og um daginn þegar hún braut af sér ís og hjarn og spúði yfir eyrar og hlíðarrætur aur og grjóti, ís og hjarnjökum; hún var kyrrari, mildari og spakari nú í vorblíðunni, en hún var þung og mikið vatnsfall sem engri skepnu leist að leggja í leik við. Beljandi kom stökkvandi stall af stalli og æddi ofan melskriðuna, skar sig fram í Steiná líkt og hvít röst er ætlaði að þjóta yfir hana þvera. Hún umdi við og tók Beljanda eins og barn, flutti hann með sér og brá að engu hætti sínum. Roði var á vesturloftinu dimmbláu, og bjarmaði af á dalbrekkuna er blasti beint á móti. Rauðvíðirinn stóð dökkgrænn og barraður, blöð fjalldrapans lukust sundur ljós og smágjör. Humlar grávíðisins gljáðu, litlir vöxtum, með fagra silkilitnum sínum, sem svo margt barnið hefur dáðst að og svo oft hefur glatt fullorðna þegar þeir hafa fundið "góibeitlana", vorboðann, sem kemur brosandi úr snjógaddinum. Runnar skógarkjarrsins hófu sig hæst þótt kræklóttir væru eftir vetrarnauð og snjóþunga, ilmþungir með brúna börkinn og þrungnir af vorlönguninni, nýgræðingsstráin gægðust upp með viði og steinum, vonandi eftir vætu eða dögg. Rjúpkerri flaug vængtíður og bústinn að leita sér unnustu, sá hana og beitti raustinni, þaut sigurglaður til hennar, en hún var feimin og flúði, hann á eftir og aðrir, sem líka voru fúsir á ástarævintýrin, sentust af stað. Hver vildi sigrinum ná. Rjúpan fleygði sér niður við viðarrunna, oflátarnir gættu einskis fyrir afbrýði og ofsa, þutu á nýjar veiðar, gnótt var til; allir nema einn, sem settist á stein skammt frá, teygði úr sér og litaðist um í allar áttir. Rjúpan vissi af honum þótt hún kúrði undir runninum, hún sá vel og hjartað barðist. En hann var ekki jafn glöggur, vissi ekki hót hvar hún var; eftir litla stund rétti rjúpan betur úr sér, svo æmti í henni einu sinni, tvisvar, þrem sinnum. Kerrinn heyrði og þá kom hann eins og örskot. Rjúpan þaut líka af stað, en nú var hann einn, og færið gott, hún barðist ekki mjög við undankomuna. Sigurinn var fenginn, ástarbandið bundið. Ungu elskendurnir bjuggust við búi, sælu og samvinnu.

Sólskríkjuhjón flögruðu til og frá rétt neðan við tjaldið; þau voru í óða önn að safna til búsins en gleymdu þó ekki að syngja gleðisöng vorgæðanna. Lóan söng "dirrindí" og var í annríki. Spóarnir stikuðu stóreygir og háfættir; þeim fannst lítið koma til prýði né söngfegurðar annarra fugla, þeir flugu upp, skemmtu sér og öllum sem eyrun höfðu með sífelldum söng og spöruðu ekki leiknóturnar. Hrossagaukur steypti sér úr hálofti niður í hlíðina ofan við þá, og hneggjaði æsilega.

"Auðsmannsgaukur í austri," sagði Þjóðólfur, "við verðum auðugir báðir og þá líklega ágjarnir. En sýndist þér ekki dalurinn fagur, félagi, eins og mér, ástin lifir hér, þó í óbyggð sé, eins og heima í sveitinni."

"Jú, svona kvöld er fallegt og þú hefur opnað augu mín til þess að sjá það og gera mér grein fyrir því."

"Bráðum verður okkar vitjað, og báðir erum við fúsir heim en vera okkar hér mun reynast góð til endurminninga, veita okkur ánægju yfir því að hafa gætt skyldunnar. Þetta kvöld og fleiri stundir hér verða sólskinsblettir á lífsleið minni."

"Ég fór hingað kvíðandi, mér hugkvæmdist ekki að ég yndi þessari útlegð eins vel og raun hefur á orðið."

"Tóttin sú arna," sagði Þjóðólfur og benti suður í hvamminn, "hún getur orðið fullgerð í haust í fyrstu göngunum og það verður betra að eiga hér kofa til að búa í. Hingað verður oftar leitað í vorharðindum, spái ég."

Sunnudagskvöldið eftir kom Geir í Sauðafelli með tvo hesta lausa, til þess að sækja þá félaga. Sagði aurótt á heiðinni, sem nú var að koma undan gaddinum.

"Rigndi ekki mikið hér í nótt?" sagði Geir. "Heima kom nú fyrsta gróðrarskúrin."

"Jú hér rigndi mikið í nótt og fram yfir dagmálin, það var bærilegt, að fá svo sunnanblæ og sólskin á eftir," svaraði Þjóðólfur.

"Nú er vorið komið, vona ég, og nú er óhætt að fara frá fénu; við skulum taka til dótið."

"Við skulum yla kaffið handa gestinum, Finnur, á meðan borðum við. Það hafa ekki heimsótt okkur svo margir í búskapnum hérna, að við verðum að sýna einhvern lit á að greiða fyrir þessum kunningja, sem nú er hér."

Morguninn eftir þegar Án svarti kom út skömmu fyrir rismál riðu þrír menn austur götuna sunnan við túnið og bar brátt yfir. Án þekkti þá fullgerla og tautaði fyrir munni sér: "Þeir láta ekki svo lítið að koma við; það hefði þó verið gaman að frétta hvernig fénu liði. Þjóðólfur veit af því, að hann gat draslað því fram þetta vorið."

*

Það var þingað í síðara lagi í Mýra- og Ásaþinghá þetta vorið og á því þingi gerðist ekkert sögulegt nema ef telja skyldi það að Þjóðólfur kvaddi sér hljóðs að þinglausnum og sagði söguna af heybónaför sinni til þeirra Eiríks á Rauðalæk, Áns svarta og Sveins Nerasonar. Sagði sem satt var, að þeir hefðu búið þar langbest allra hreppsmanna með hey, hefðu allir fyrnt mikið. Eiríkur hefði hjálpað Erlendi mági sínum um átta vættir heys, Án prestinum um þrjár vættir og Sveinn engum manni miðlað einum fjórðungi. Svona ættu bændur að vera, hugsa um sig, búa að sínu og kenna óforsjálum glópum að duga eða drepast. Læra af reynslunni að setja með skynsemd á heyin, eða þá að horfella að öðrum kosti.

Frásögnin var ekki hrakin, þrátt fyrir stóryrði Eiríks og vífilengjur Sveins. Án svarti svaraði fáu, glotti við og sagði það hverju orði sannara, að hver ætti að búa að sínu, þeir að fyrna sem skap hefðu til þess og hinir að betla um heyin sem settu vitlaust á og gæfu allt á gaddinn á útmánuðum, létu kylfu ráða kasti hvort féð slórði af eða ekki.

Sýslumaðurinn var heldur beiskorður við þá búhöldana og ýmsir óvingjarnlegir bitlingar bárust nú til eyrna þeirra frá sveitungunum, sem nú óx heldur þrek þegar svona stóð blærinn. Sumarið var komið og langur tími til vetrar og fannfergis.
Netútgáfan - janúar 2000